Árið 1997 (fyrri hluti)


Á þrettándanum


Hef verið að kynna mér Tíbezku bókina um líf og dauða. Það er harla athyglisverð lesning. Það er margt fallegt í Búddatrú, hún er mér að mörgu leyti mjög að skapi. Hún er einhvers konar kristindómur án Krists, án fyrirheita hans um eilíft himneskt líf hvers og eins.
Siddharta hefur verið merkilegur maður. Mér skilst  hann hafi verið uppi í Asíu um svipað leyti og Sókrates var á dögum í Aþenu.
Það er mjög fallegt hvernig búddatrúarmenn eiga að hugsa um dauðann og þá sem farnir eru. Þeir eiga að hjálpa þeim að deyja, hugsa vel og hlýlega til þeirra og láta hlýjar og góðar hugsanir fylgja þeim inn í eilífðina.
Búddafræði hika ekkert við að nefna helvíti sem hugarástand ef ég skil boðskapinn rétt. Annars er hann víst helzt fólginn í því að losa menn undan hatri og reiði og því sem þeir girnast en hafa enga þörf fyrir.
Þetta þykir mér góður boðskapur. Að líkamsdauða loknum hefst nýtt líf og er engu líkara en búddatrúarmenn telji sig hafa rannsakað það mjög nákvæmlega. Eftir dauðastundina upplifir hinn látni einhvers konar framhaldslíf, hið góða sem hann geymir úr lífinu og hið illa eða helvíti. Það rennur hægt upp fyrir honum að hann er dáinn, sporlaust gengur hann um milli dauðra og lifenda en getur ekki gert vart við sig; engin spor, enginn skuggi. Þá rennur upp fyrir honum ljós, jarðvistinni er lokið og hin eilífa eða himneska för er hafin. Senn hefst darmata eða chong ji eins og Tíbetar kalla það víst. Hugarorkan tekur við af líkamsorkunni. Fram að því skilst mér að hinn framliðni telji að hann hafi jarðsneskan líkama þótt svo sé ekki.
Smám saman fæðist hann inn í þennan andlega líkama og eftir darmata hefst fæðing úr einu lífi í annað sem er einskonar hugarlíkami og minnir á þann líkama sem hinn látni skilur eftir hérna meginn grafar. Án þessarar upplifunar er hann í einhvers konar tómarúmi. Síðan hefst dómurinn yfir honum og hann er sjálfur í senn hinn dæmdi og dómarinn.
Það er góðs viti!

Það má segja að þessar hugleiðingar mínar hafi orðið neistinn að nokkuð löngu kvæði sem ég lauk við á afmælinu mínu 3. janúar og heitir Samtal við Siddharta.

Samtal við Siddharta

 

Dauðinn er fullvissa um það
sem við vitum ekki, dauðinn er kveðja
og við skiljum allt eftir, dauðinn er fornsala

og við skiljum einnig eftir þennan guðlega
líkama sem við höfum notað til að elska
en hverfur með öðru dufti til jarðar, hverfur
með reyknum til himins,

við vitum það eitt að við eigum að deyja
en ekki hvenær, vitum ekki hvenær við kveðjum
þennan skýjaða himin yfir höfði okkar,
en ský er ekki himinn,

vitum samt að við munum kveðja
þennan áleitna huga sem geymir líf okkar
eins og himinn hugsanir guðs við ljósbrigði
ótal stjarna,

þannig hverfum við frá fullvissu okkar
án þess að vita hvenær himinn slokknar
og hugsanir okkar deyja eins og stjörnur
inn í rísandi morgunroða.

Dúfan býr sig undir nóttina en ósofin
upplifir hún nýjan dag, nýtt mustarðskorn
í húsgarði dauðans.

Og við sem höfum svo mikið að gera
að við megum ekki vera að því að lifa, við
sem erum önnum kafin að telja stjörnurnar
á myrkum himni hugans, önnum kafin
upplifum við fullvissu þess sem við vitum ekki,
ekki frekar en vatnið skynji
flöktandi fyrirmyndir sínar á himnum
ekki frekar en hafið skynji eigin endurtekningu,
rísandi falda og fallandi hvítfyssandi öldu,

fellur ein af annarri allar af sömu hreyfingu, hver
annarri háð og þó frjáls eins og vængur fugls
við klettþung brimin

eins og ein hugsun fæðist af annarri
og hríslist við ask undir himni og stjörnum.

Eins og tréð er bundið jörðinni, rótfast í svörtu
húmi moldar og þagnar, eins og laufið
hvíslast á við skímuhvítt myrkur
á himni, þannig erum við fastbundin nafnkunnu
umhverfi, við sem erum af sama toga
og tréð, laufið og nærandi rætur asksins, við
sem leitum upphafs í endalausri fullvissu
dauðans, lifum í fullvissu þess sem við þekkjum ekki.

Brenni þeir villta skóga Amasons, höggvi þeir
ilmandi ráðgátur myrkviðarins
fer brestur deyjandi jarðar um titrandi himin
og hvert eitt strá,


ó, jörð,
hvernig við öndum að okkur ilmi af vindmjúku hári
og böðum okkur í döggsvölu grasi
morgunsólarinnar, hvernig við hlustum
á deyjandi fótatak dagsins við ilgóða skugga
rísandi kvölds

og niður af fossköldum úða sem andvarp
við slokknandi sól.

Í netstórum geislum glitra demantar og perlur
þar sem guð er á ferð um hraðfleyga
hugarveröld sína.

Getum við tamið himin og stjörnur, getum við
tamið villtar hugsanir, getum við
mýlt sól og tungl,

ó, jörð,
þú sem ferð óbeizluð úr einu hugarfylgsni
í annað, hvernig getum við fylgt þér eftir
inn í fullvissu þess sem við vitum ekki, hvernig
getum við fylgt þér eftir inn í fullkomna
óvissu þess sem var og verður aldrei, verður
og hefur aldrei orðið?

Að loknum erfiðum degi sitjum við eins og áður
og vermum verklúnar hendur
við hálfdauða elda, að loknum erfiðum degi

og ég segi við þig sem situr með mér
við hálfdauða elda, Ég elska þig, þú ert
í mér og ég í þér eins og sól er í laufi
og vindum og tungl og stjörnur í kvöldhlýjum
vötnum

og himinn faðmar marglúna jörðina að sér
eins og hádegisgeisli fari syngjandi skóga
hikandi fingrum,
og við öndum að okkur
öndum
eins og lauf og grös og gamlaður mosi
við storknandi hraun.



Og svo sem í skuggsjá sé ég jörðina sindra
eins og stjörnuljós í hendi þinni
ó, guð

og loghvítir eldar og áramótabrennur
í þessums snarkandi köstum, villir hann
stillir hann, ég var liljurós og rauður loginn
brann
og blíðan lagði byrinn undan björgunum fram
hvítnar dökkbrýndur himinn við hugans
elda, hvítnar stjörnubjört nótt
á leiftrandi himni.

Af skotpalli geimskips sem kannar
himinstjörnur og flöktandi skugga hugans
förum við alheim innra manns
spyrjandi augum, hverfum frá markaðstorgi
hagkaupanna, förum væntingarfull
í þessa löngu ferð um sólkerfi eigin
hugsunar, siglum væntingarfull
skipi okkar
inn í fullvissu þess sem við þekkjum ekki, burt

burt frá torghrópum hlutabréfamarkaðarins
inn í ókannaðar víddir eigin
vetrarbrauta,

illa búin illa varin inn í himalæjahæðir bænsterkra
fyrirheita, inn í himinbláar þagnir
blikandi stjarna

burt burt frá þér, ó ilmandi
jörð
sem hrópar á mold af eigin mold, hrópar á
upprisu efnis þar sem himinn hverfur
að fjallháu augliti guðs,

undir regnboga hans tekur þögnin til máls
eins og dagsbrún við sólroðna tinda.

Hvernig við höfum elskað hvort annað, hvernig
við höfum elskað tré og fugla

og hvernig þeir hafa fylgt okkur eftir
á þessari löngu ferð
eins og hrafnar leiti nýrra landa
og strandrekinna öndvegissúlna,

ó þessir fuglar sem flögra í hugsun okkar,
þessir vængjuðu himnar sem fylgja geimskipinu
um ókunnar víddir vetrarbrautanna.

Við sem höfum aldrei séð andlit okkar, við
sem höfum aldrei horft í lognhvítan spegil
hugans, við sem höfum aldrei haft tíma
til að lifa og megum ekki vera að því að deyja

leitum að eigin ímynd á þessari löngu
ferð um stjörnubjartan himin
innra manns,

við, ó við
sem erum hert í hrauneldum allra tíma

við sem leitum að andliti okkar
í ósýnilegum spegli mikilla elda, sjáum við
himininn, heyrum við
hundgá í fjarska, heyrum við
ýlfur blæðandi rakka á næsta horni,

hvort sjáum við jörðina fæða
hafgula sól inn í morgunsárið, hvort sjáum við
hornóttan hálfmána etjast við rauða dulu
næturinnar,

spyrjum augu okkar, svefnlúin
augu í andliti deyjandi
elda.

Hef einnig verið að lesa stutta skáldsögu Arthurs Millers, Plain Girl sem ég keypti í London í nóvember síðastliðnum. Fín saga og eftirminnileg. Fjallar um tilvistarvanda ungrar vinstri sinnaðrar konu sem verður fyrir margvíslegum vonbrigðum, kannski vegna þess að hún hefur aldrei tekið afstöðu, valið sjálf, heldur flotið með straumnum. Og hún er óánægð, finnur ekki hamingju. Undir lok sögunnar kynnist hún blindum tónlistarmanni sem veitir henni þessa hamingju. Hún er gift honum í 14 ár, eða þangað til hann deyr. Og í samfylgd hans verður lífið sú fullnægja sem hún þráir. Samt hefur þessi maður aldrei séð hana en hann upplifði hana með tilfinningum sínum og hún valdi hann sjálf.
Hún tók þessari blindu áskorun, hún var ekki nein tilviljun, engin uppákoma eins og fyrri maður hennar hafði verið. Undir lokin hugsaði hún um þá gæfu að hafa fengið tækifæri til að lifa inn í fegurð eins og segir í lok sögunnar.
Minnir á Oscar Wild.
Skemmtileg fyndni í þessari litlu sögu Millers.
Aðalpersónan Janice og bróðir hennar týna krukkunni með ösku föður þeirra þegar þau lenda á knæpu í New York. Og askan finnst aldrei.
“Svo pabbi var horfinn!”
Hann var horfinn að eilífu í bókstaflegri merkingu.
Það er merkilegt að lesa þessa litlu sögu Millers. Lausnin er ekki sósíalismi, heldur áskorun, val, í anda tilvistarstefnunnar
“Það er stórkostlegt að eiga enga framtíð”.
Ennfremur:
“Ég veit það er hægt að finna leið til að verða hamingjusöm en ég hef ekki fundið hana.” Ekki fyrr en hún tekur af skarið sjálf og ákveður að verða augu manns sem hefur aldrei séð hana.
Þessi stutta saga er einhvers konar meistaraverk eins og Innansveitarkronika.

Ég orti samtal við Siddharta inn á auðar síður þessarar bókar. Þar er uppkastið að þessu kvæði sem fjallar um stöðu okkar og umhverfi; ást okkar og væntingar.
Fannst það við hæfi.

Það er talað um hin blindu örlög. Stundum geta þau tekið í hönd okkar og leitt okkur inn í hamingjuna. Örlögin koma í margvíslegu gervi, eða eigum við frekar að segja: við veljum okkur örlög í misjöfnu gervi.

Hef verið að kynna mér fleiri bækur, allar erlendar. Hef sem sagt verið að reyna að mennta mig; upplifa það sem bezt hefur verið gert í heiminum. Las Dr. Jekyll and Mr. Hyde. Annað meistaraverk. Hafði að vísu þekkt það en kynnti mér nú þessa sérkennilegu sögu til hlítar. Hún fjallar um það hvernig skepnan í manninum nær yfirhöndinni yfir því jákvæða, góða sem okkur hefur einnig verið gefið. Og til þess er notuð vísindaleg aðferð. En skepnan í okkur nær sér einatt á strik án þess að vera framkölluð í rannsóknarstofu. Dr. Jekyll and Mr. Hyde er ávallt á næstu grösum.
Það er enginn maður einn maður, heldur tveir eða fleiri.

Erlendir skáldsagnarhöfundar hafa yfirleitt samtölin fram yfir okkur. Þetta er augljóst þegar maður les bækur eins og Endurreisn eða Siðbót eftir Pat Barker sem hlaut hin eftirsóttu Booker-verðlaun í Bretlandi 1995. Þetta er mikið verk og að mörgu leyti ágætt þótt ég hafi ekki mikinn áhuga á efninu. Sprengjuáföll og alls kyns sálarflækjur tengdar þeim eru okkur heldur framandi söguefni. Það er varla nokkur nýtilegur kvenmaður í þessu verki og karlarnir heldur ómerkilegir. Hef þannig engan sérstakan áhuga á þeirri veröld sem höfundur skapar.
En samtölin í bókinni eru framúrskarandi vel gerð. Sum raunar eftirminnileg. Það er styrkur hennar. Boðskapurinn er að sjálfsögðu ágætur; stríð eyðileggur mannssálina. En það eru engin ný sannindi.
Þetta er raunar mjög “ensk” bók, kannski engin tilviljun að orðið englishness kemur fyrir í sögunni.

Hef þá enn nýlesið Gullströnd Elmore Leonards sem er talinn einn helzti sakamálahöfundur Bandaríkjanna um þessar mundir og bók sem talin er einhver bezti vestri sem skrifaður hefur verið, Lonesome Dove eftir Larry McMurtry.
Samtölin í þessari bók eru stryrkur hennar þótt ég hafi engan sérstakan áhuga á efninu. En þeir kunna að skrifa samtöl í skáldverkum þessir höfundar.Finnst skemmtilegra andrúm og meiri spenna í sögum L’Amour.

Las Bertrand Russel eins og ég hef víst áður minnzt á, Hvers vegna ég er ekki kristinn. Russel gerir athugasemdir við Krist sjálfan eins og hann birtist í guðspjöllunum, til að mynda að hann tali um helvíti, að hann tali um hafra og sauði og geri upp á milli manna, að hann tali um nöðrukyn og formæli syndurum.
Kristur er enginn hlutleysingi, hann talar enga tæpitungu. Hann talar eins og sá sem valdið hefur. Hann veit. Hann formælir engum, en hann varar við, oft með sterkum og ávítandi orðum. Það gerir hann til að hreyfa við sljóum áheyrendum; til að koma í veg fyrir að þeir hafni í helvíti, að þeir fljóti sofandi að feigðarósi, þ.e. tortímingu og glötun. Helvíti er honum engin launung og hann tekst á við djöfulinn. En það er auðvitað hverjum manni í sjálfsvald sett hvernig hann túlkar orð hans. Er helvíti einskonar myndhvörf um hugsun mannsins, framkomu og líðan? Er hann að tala um helvíti í hverjum manni? Eða um Satan í hverjum manni? Kristur er myndrænasta skáld sem lifað hefur. Er hann að tala við okkur á líkingamáli skáldsins? Ég skil það svo, að minnsta kosti oft.
Og af þessari ástæðu tel ég að Bertrand Russel fari villur vegar í afstöðu sinni. Hann tekur Krist of bókstaflega, í stað þess að upplifa orð hans sem líkingamál. Þegar hann talar um himnaríki er það áþreifanleg staðreynd í aðra röndina, því hann segir m.a. að ræninginn skuli vera með honum í himnaríki. En hann segist aldrei ætla að vera með okkur í helvíti, samt þekkir hann það af eigin raun. Eða fór hann þangað í það sinn um okkar innri mann, hver veit?
Himnaríki og helvíti er í okkur öllum, það fer ekki á milli mála.
En Kristur er að reyna að leysa okkur undan helvítinu. Hann er að leiða okkur út úr helvíti inn í dýrðina; leiða okkur úr synd inn í frelsið og innri gleði. Þá hættum við kannski að vera tveir menn eða fleiri og verðum eins og járnið þegar það kemur úr eldinum.
Kristur segir líka Lúk., 17,20-22; “Guðsríki er hið innra með yður.” Það fer ekki á milli mála hvað þessi orð merkja; þessi líking.

Hef verið að gramsa í gömlu dóti. Fann athyglisvert bréf frá Kristjáni Albertssyni, dagsett í París 16. des. 1978. Þetta bréf sýnir svo ekki verður um villzt, við hvaða erfiðleika við höfum átt að etja þegar við á síðustu áratugum höfum reynt að leiða Morgunblaðið inn í nýjan tíma án þess að gamli moggi glataði einkennum sínum í öllu fjölmiðlafárinu.
Kristján Albertsson segir meðal annars:
“Ég sárbið ykkur að taka til endurskoðunar ykkar nýja frjálslyndi - sem kommúnistar eru ráðnir í að misnota - og glotta að háðuglega í hjarta sínu.
Ég sárbið ykkur að skipuleggja rannsókn á framferði kommúnista í skólum landsins - frá barnaskólum til háskóla. Jóhanna Bessadóttir sagði í viðtali við Mbl. fyrir bæjarstjórnarkosningar að kennsla Ólafs Ragnars Grímssonar í félagsvísindum, sem hún hafði notið, hefði verið “kommúnistískur heilaþvottur”. Og hvað með Silju?
Ég les í síðustu blöðum að menntaskólanemendur í boði hjá skólasystur hefði lagt heimili hennar í rústir, gengið berserksgang og brotið og bramlað uns ekki stóð steinn yfir steini - af því að þeim fannst heimilið of “borgaralegt”. Mætti ekki reyna að komast að því hvort þessi bekkur hafi ekki verið að lesa Atómstöðina í skólaútgáfu Njarðar Njarðvík og hjá kommúnistiskum kennara - þessa útgáfu sem Mbl. með þögn sinni heldur verndarhendi yfir - Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn?

Sverrir Hermannsson, einn ágætasti maður á Alþingi, hélt í fyrra ræðu um að auka þyrfti kennslu í íslenzkum bókmenntum, og líka þeim nýrri, t.d. Laxness og Þórbergi - samkvæmt þingfréttum Mbl. nefndi hann ekki aðra, ekki Gunnar, Kamban, Hagalín, Tómas - nei, aðeisn þá tvo sem á blómaskeiði æfinnar höfðu verið argvítugir kommúnistar.
Með öllu þessu meinleysi af hálfu stærsta flokksins og stærsta blaðsins, blaðsins sem fremur öllum öðrum gæti ráðið miklu um vitþroska þjóðarinnar, er ekki furða þó að kosningar tapist - og maður óttist að svo verði áfram.+

En - allt stendur til bóta! Og þess vegna er ég að reyna að þjarma að ykkur!
Um fram allt látið t.d. Heimdall skipuleggja rannsókn á kennslu kommúnista í skólum, með aðstoð greindra og heiðarlegra nemenda - og birtið síðan skýrslurnar með tilhlýðilegum athugasemdum og tillögum til yfirvalda. Það nær engri átt að láta þessum herrum haldast uppi að stinga á sig launum frá ríkinu fyrir að grafa undan ríki, mannfrelsi og menningu.
Þó að tónninn í bréfi mínu sé með herskárra móti þá skilaðu samt minni blíðustu kveðju til frú Hönnu með beztu óskum til ykkar beggja um gleðileg jól.
Þinn Kristján Albertsson.

Þá hef ég fundið ljóð sem ég orti til móður minnar á sínum tíma, það er skrifað með hennar eigin hendi og heitir Fórn hennar.

Fórn hennar

Ég sé þig ávallt, ó móðir mín,
og mynd þín er varðveitt á helgum stað.
Með bænum þú kallaðir Krist til þín
og kenndir mér einnig að gera það.

Ég eignaðist snemma þann eld sem var
þín örugga trú á styrk hans og mátt.
Þú spurðir og hann var þín svölun, þitt svar
þín sól og þitt haf, og landið svo blátt

þitt norðlæga land í brjósti sem bar
hans blessuðu orð inn í draum þessa ljóðs.
Og þú gafst mér hlutdeild í veröld sem var
þessi vængjaða þögn í niði míns blóðs.

Ég sé þig ávallt, ó móðir mín,
og mynd þín er varðveitt í bæn minni og þrá,
á kvöldin ég kem til Krists og þín
og krýp við hans skör, eitt visið strá.

Þá finn ég aftur þann eld sem var
þín örugga trú á bæn hans og náð,
þá sé ég að fórn þín var blessun sem bar
sín blóm og sitt líf eins og til var sáð.


Ennfremur kvæði sem heitir Móðir mín, svohljóðandi:

 

Móðir mín

Ég finn hann í hjarta þér, móðir mín
og mynd hans er varðveitt á helgum stað,
með bænum þú kallaðir Krist til þín
og kenndir mér einnig að gera það.

Ég eignaðist snemma þann eld sem var
þín örugga trú á fyrirheit hans.
Við spurningum þínum var þögnin svar
eins og þrastakliður úr brjósti vors lands.

Af öræfum tímans kom blærinn sem ber
hans blessuðu orð inn í draum þessa ljóðs.
Og þú gafst mér hlutdeild í heimi sem er
þessi himneska þögn í niði þíns blóðs.

Ég finn hann í hjarta þér, móðir mín,
og mynd hans er varðveitt í bæn minni og þrá,
á kvöldin ég hugsa til Krists og þín
og krýp eins og barn þar sem vegur hans lá.

Þá finn ég aftur þann eld sem var
þín örugga trú á vernd hans og náð,
þá sé ég að fórn þín var blessun sem bar
sín blóm og sitt líf eins og til var sáð.

Ennfremur kvæði sem ég hef gefið móður minni á sínum tíma og heitir Kristur, ort 17. febrúar 1976, eða á afmælisdegi Ingólfs. Á handritinu stendur Til mömmu.

Kristur


Ég á einn vin og vorið gaf mér hann.
Í vetrarskafli grasið smugu fann,
það óx til ljóss í leit að nýjum degi.
Þú leiðir Kristur mig á dimmum vegi.

Ég leita þín og þú ert vinur minn,
í þöglu brjósti mínu þig ég finn
er þræsuvindar vitja kvíða míns
og visnuð stráin leita upphafs síns.

Þá birtir aftur, blær af þinni strönd
hann ber mér vor í drottins mildu hönd.
Ég finn þú bræðir kvíðakviku þá
sem kæfði næstum júníbjarta þrá.

Ég á einn vin, á fund við hann ég fer
ef frostköld nepja sezt að hjarta mér,
hann kemur eins og vitji sól á vori
þess veika blóms sem grær í hennar spori.


Og loks Sólhjartarljóð, ljóð sem Jón Nordal samdi sína miklu tónlist við.

Sólhjartarljóð


Sólar hjört
leit eg sunnan fara,
hann teymdu tveir saman;
fætur hans
stóðu foldu á,
en tóku horn til himins.
Sólarljóð, 55. erindi.

Sól ég sá
sólarhjört
tóku horn til himins
og heiðra stjarna,
úr nýstignu spori
spruttu lindir
og blár himinn
breiddi vængi
arna
yfir land sjó og vötn
á vori: myndir
sem augu vor sakna

en sárfættur tími
gjálpar við báru
og skel
þar sem hafið
vaknar, komst þú
lognhvíta strönd
skoraðir tíma og hel
á hólm, komst þú

Kristur,
fylgdir landi voru:
sáum vér
sól fylgja ám
að sandi, sáum
hjört fara hraun
tún og engi, fylgja
landi og bláum
geislum, tóku
horn til himins
er daginn lengir
blóm spruttu
úr spori, fuglar
sungu á kornbleikum
akri
en tunga vor
var til trés metin.

Enn fylgir
fólki og landi
sólhjartarvor, enn leggur
það þjóð vorri
orð lífs á tungu, enn
sem forðum daga
er fjalla vötn
luktust fyrir þeim
saman og hallaði
degi í ljósbrostnum
augum, kvöddu
ferðbúin andlit
sín,

þó fylgir enn
fólki og landi
sólhjartar -
vor fram á veginn, taka
horn til himins, vex
ný sól úr spori, ný
sól á korngulum
akri.

Þá var þarna einnig frásögn af fundi með Hafsteini miðli, dags. marz 1974, svohljóðandi:
“Fór á fund hjá Hafsteini klukkan 9.30 í kvöld 23.3. og var kona Hafsteins til aðstoðar. Auk annarra kom fram Ragna (Bjarnad.), Rúnki og Magnús læknir.
Rúnki sagði m.a. að ég væri eins og tíueyringur sem aldrei stöðvaðist - og líkaði ekki ef ég stöðvaðist. En ég gæti verið rólegur. Hann hrósaði mjög Brynhildi konu Haralds og fólki hennar, nefndi Rögnu og Helga og “Inga”. Sagði að þau Halli mundu giftast.
Rúnki sagði að ég væri með tvær bækur í smíðum, önnur væri “sögulegs” eðlis, sýndist honum - þá mundi ég gefa út bók “með dómum og ritgerðum” fyrir jólin, sú ákvörðun kæmi skyndilega.
Hann sagðist sjá okkur Hönnu á ferðalagi, í Sviss á suðurleið, við færum til Napólí, Pompei, Róm, Sorrento, Feneyja og komum við í Lyon í Frakklandi á heimleið. Sýndist við bæði koma við í Kaupmannahöfn og á Englandi, “þið farið ekki vestur”, sagði hann í upphafi - og átti við Ameríku. Hann sagði að þetta yrði mjög skemmtilegt ferðalag. Þegar ég spurði hvort Hanna yrði með sagði hann: “Auðvitað, ætli þú getir farið án hennar?” Hann sagði að við myndum fara 1975 og þó heldur 1976, í apríl eða september, hann sæi það ekki nákvæmlega. Á þessu ári færi ég ekkert, ég hefði nóg að gera í þjóðhátíðarnefndinni og myndi allt fara vel úr hendi af minni hálfu, sagði hann.
Ragna sem hefur aldrei komið inn í sambandið að mér viðstöddum, kom eins og engilfagur huggari. Hún sagði ekkert alvarlegt væri að Hönnu og ég þyrfti ekki að óttast niðurstöðu rannsóknarinnar. “Það er ekki krabbamein”, sagði hún. Það sagði Magnús læknir líka, svo og Matthías læknir Einarsson, en hann sagði ákveðið þegar ég innti hann nánar eftir því, “Heldurðu kannski að ég þekki ekki krabbamein?” - og eins og honum þætti sér misboðið. Hann kallaði mig frænda og spurði hvort mér væri nokkuð illa við það? Auðvitað var mér það ekki.
Magnús læknir sagði eins og Ragna að Hanna þyrfti á hvíld að halda en hún gæti ekki séð að neitt slæmt væri að henni. Hann sagði þó að hann vildi fá hana á fund eftir viku til tíu daga, því að hann vildi lækna hana af kvíða (m.a. vegna mín) og fullyrti að hún væri miklu ver farin á taugum en við gerðum okkur grein fyrir. Ég sagði að ég mundi reyna að hjálpa henni til að ná sér og líkaði honum það vel. Hann sagði að blóðið væri í fullkomnu lagi og markaði hann það mest, en Hanna væri með “bólgur” innvortis eins og hann kallaði það. Hann og Matthías læknir óskuðu eftir því að við minntumst þeirra. Ragna sagði að svo mikið ljós væri í kringum mig að hún gæti fullyrt að ekkert yrði að Hönnu eða drengjunum né mér - og kvaðst hafa leyfi til að segja mér það. Þyrfti ég ekkert að óttast, en ég mætti vera meira heima og víkja hlýjum orðum að Hönnu. Rúnki tók undir þetta og nefndi einnig hvað bjart væri í kringum mig. Oft væri myrkrið svo mikið í kringum manneskjuna að ómögulegt væri að komast í gegn um það. En ljós mitt og birta væri einnig birta Hönnu og hún gæti ekki verið svo sterk, ef eitthvað illt væri að. Ragna er sérstæð og persónuleg og smámælt, þau einkenni komu öll til skila. Ástæðan er sú að hún hefur ekki fullt vald á tungu og barka Hafsteins, sagði kona hans mér og tók Ragna undir það. Hún er fimm árum eldri en ég og féll í hver í Borgarfirði 1936. Kona Hafsteins segist aldrei vita til að ekki hafi mátt treysta orðum hennar. Hún kemur aðeins þegar viðstaddir þurfa á mikilli huggun að halda, eða þegar mikil sorg ríkir. Mér fannst strax að hún hefði verið mér send sérstaklega eins og sál mín var sundurkramin af kvíða og veitti hún mér ótrúlega huggun. Ég hef sjaldan heyrt göfugri veru en Magnús læknir er það líka, en hann er mjög varkár ævinlega og vantreystir læknum hérna megin. Segist hafa ástæða til þess. Hann er einnig mjög þroskuð og göfug vera en hyggur að læknisfræðilegum atriðum og er mótaður af varfærni læknisins. Ekki hafði hann áhyggjur nema af sálarlífi og taugum Hönnu og taldi nauðsynlegt að lækna hana af spennu.
Rúnki sagði að hann vissi að ekkert væri að óttast, ég gæti slappað af, fyrir það fyrsta væri birtan í kringum mig og í öðru lagi hefði hann ekki séð okkur saman á ferðalagi á Ítalíu og víðar, ef eitthvað alvarlegt væri að.
Fleiri komu auðvitað í sambandið, meðal annars pabbi sem sagðist bíða eftir mömmu “hún var mér allt”, sagði hann. Ég gagnrýndi hann þá fyrir að hafa ekki alltaf sýnt það í verki, en hann spurði hvort ég hefði alltaf verið við Hönnu eins og ég hefði viljað eða átt. Ég varð að viðurkenna að svo var ekki. Hann sagði að hann væri ekkert sérlega ánægður hinu megin og “þetta er svo miklu hversdagslegra en ég hélt”. En þó fullkomnara en á jörðinni. Ég sagði honum að mamma væri ekkert að koma til hans strax, hann gæti beðið. Hann sagði að ég væri eigingjarn, í gríni þó. Hann sagðist geta fylgzt með okkur, einkum á morgnana þegar kyrrð ríkti og á kvöldin en ekki á daginn. Hann kvaðst ekki vita nákvæmlega hvers vegna. “Ég þekki ekki lögmálið”. Hann sagðist aldrei hafa hugsað um dauða sinn og það hefði hjálpað sér mest. Hann sagðist hafa sofnað þegar hann dó og ekki vaknað fyrr en undir morgun. Þá hefði honum sýnzt allt miklu hversdagslegra en hann átti von á. Hann hefði lítið hugsað um líf eftir dauðann, haft lítið af trúmálum að segja, látið þau að mestu afskiptalaus. Hann sagði að hann hefði oft verið hlýr við mömmu, einkum þegar þau hefðu verið tvö ein. Hann sagði að hann fylgdist með okkur og hann ætti gott fólk.
Ragna sagði að Jósefína amma væri þarna á næstu grösum, hún væri mjög heilsteypt kona. Mér þótti merkilegt hvað hún talaði mikið um hana. Henni þykir augsýnilega mikið til hennar koma. Hún lýsti henni, eða var það Rúnki - ég man það ekki: svarthærð, skipti hárinu í miðju, sveipur öðru megin (ég man ekki hvoru megin), kúpt augu sem stóðu út og eru aðaleinkenni hennar.
Rúnki sagði að Ingólfur tengdafaðir minn væri þarna (aldrei hef ég heyrt minnzt á hann áður í samtölunum) og fór góðum orðum um hann. Hann var með Sigurði á Hólsseli og reyndi að hjálpa Jóni í Möðrudal “til að vera hann sjálfur”. Hann er eitthvað að hreykja sér. Svo nefndi hann Björn eða einhvern á Víðirhóli og annan til sem ég man ekki hvað heitir (Þorsteinn?).
Ellen föðursystur minni var einnig lýst, hún vildi augsýnilega vera fín þarna hinu megin og lýsingin á henni var eins og hún væri hérna megin! Hún var m.a. með Guðrúnu Ragnars, sem ég hef ekki heyrt nefnda áður, en þá var sagt að hún væri kona föður Sverris Ragnars (nafn hans var nefnt en ég man það ekki lengur, “hann var kaupmaður eða einhvers konar faktor”, sagði Rúnki og mun það nærri lagi).
Pétur Benediktsson kom einu sinni eða tvisvar áður, “það gerir embætti þitt” sagði Rúnki. Hann hefur alltaf sama áhugann á pólitík og finnst við eiga eitthvað sameiginlegt í því. Hann talaði um Mörtu og Ingibjörgu Thors og börn sín. Sagði að ætt Ingibjargar væri langlíf, þegar ég kvaðst ekki halda að hún væri á leið yfir strax. En Pétur sagði að Ólaf væri farið að lengja eftir henni (innskot: þegar ég sagði við pabba að mamma væri ekkert að flýta sér til hans, svaraði hann: “Hún hefur alltaf verið lengi að búa sig” - og er það harla líkt honum!)
Pétur sagði að Bjarni og Sigríður hefðu dáið af slysförum það væri alrangt að það hefði verið kveikt í. “Það var meðal annars veðrið, en þó ekki olíukyndingin”. Vegna kulda hefðu þau hitað vel upp - og gleymt kósangasinu. Það hefði verið orsökin, en olían hjálpað til. Bjarni hefði verið úrvinda og sofnað strax, Sigríður ekki viljað ónáða hann og því lagt sig á sófann í barnaherberginu - og sofnað.
Bjarni væri ekki alltaf ánægður hinu megin en djúpt í honum hefði verið trúartilfinning, það væri einnig í Sveini og skyldi ég tala við hann um trúmál og kæmist ég þá að raun um það ef Sveinn væri hræddur.
Loks má geta þess að Rúnki talaði um pólitík, þingrof yrði, héldi hann fyrr en síðar og nýjar kosningar. Hann sagði að mikið yrði að gera hjá okkur kringum þær, en það mundi ganga okkur í hag. Þið munuð svo stjórna næstu fjögur til fimm árin, sagði hann. En ég hafði lítinn áhuga á því, ég var kominn í öðrum erindagjörðum en tala um stjórnmál. Megi guð blessa þessa dýrmætu stund og láta það fara eftir sem þar kom fram. “Þá kvíði ég engu, en hlakka til að starfa - og lifa. Í bjarma þess ljóss sem Ragna og Rúnki lýstu - og bindur okkur Hönnu um eilífð.”
Svona er nú þetta uppkast.

Hvað á maður að segja um svona frásögn? Ég veit það ekki. Hitt man ég að mér leið alltaf betur eftir fundi með Hafsteini, hann var einstakur og ég held að hann hafi verið miðill á heimsmælikvarða - ef miðlar eru til á annað borð(!)
Ég skrifaði 1969 samtal við Hafstein Björnsson sem var síðar birt í Samtöl - M,5,Dauði er ekki til nema sem fæðing, og þetta sama ár birti ég einnig grein í Lesbók, um Hafstein og Rúnka, Samtal við Hafstein Björnsson, miðil. Breytti því svo lítillega.

8. janúar, miðvikudagur

 

Vaknaði einkennilega í morgun. Vissi lengi af mér en gat ekki leyst svefn, hékk milli svefns og vöku langa hríð að mér fannst, reyndi að vakna en gat ekki. Þetta voru mikil umbrot. Mig var að dreyma jarðelda og þurfti ég að einbeita mér að því að komast undan þeim og virtist mér það takast í lokin en þó ekki fyrr en eftir mikið hugarangur og margar tilraunir til að komast undan hörmungunum. Svo þegar ég loksins vaknaði var eins og einhverjir fjötrar brystu, eða ég hefði brotizt út úr fangelsi þessara óra eða - kannski fremur að ég hefði brotið eggskurn svefnsins og fæðzt enn einu sinni inn í þetta einkennilega líf sem bíður okkar eins og unga utan við skurnina. Kannski við endurfæðumst með einhverjum svipuðum hætti úr holdlegum inn í andlegan líkama - og þá eins og því er lýst í Tíbezku bókinni um líf og dauða sem ég hef verið að reyna að kynna mér en upp úr þeirri íhugun hófst kvæði sem ég hefði ekki að óreyndu haldið ég gæti ort, Samtal viðSiddharta. Það kom nánast fullgert eins og það nú er og ég lauk því á tveimur dögum kringum afmælið mitt eins og ég hef víst nefnt áður.

En kannski dreymdi mig þessa martröð vegna þess að ég hef verið lesa Dr. Jekyll and Mr. Hyde. Ég er sammála Borges, Stevenson er engum líkur. Kannski hafði ég verið að berjast við hinn manninn í sjálfum mér, þann sem stjórnar eldi innra mannsins, hver veit? Skyldi ég óttast einhvern óhugnað hans vegna, óafvitandi? Ekki var það meðvitaður óhugur eins og Dr. Jekyll þjáðist af, hann vissi af Mr. Hyde í sjálfum sér en réð ekkert við hann. Þegar skepnan er laus í okkur komum við engum vörnum við. Ef skepnan blundaði ekki í okkur þyrftum við ekki að hafa neinar áhyggjur af syndafallinu, en þá væri líka enginn Kristur, hans væri ekki þörf. Það er Mr. Hyde í hverjum manni sem kallar Krist til sögunnar.

Á Rotary-fundi í dag töluðu nokkrir félagar um bækur sem þeir höfðu lesið um jólin. Björn Bjarnason meðal annars um dr. Benjamín en Þorsteinn Pálsson m.a. um Vötn þín og vængur; af miklum skilningi og tilfinningu fyrir efni ljóðanna.

Jólaljóð Davíðs Oddssonar er nú sungið við nýtt lag eftir Jón Þórarinsson. Mér er sagt að hann hafi farið til hans og pantað lagið og síðan til Jónasar Ingimundarsonar fyrir tónleika hans og Gunnars Guðbjörnssonar og var það sungið á tónleikunum. Það var einnig sungið í sjónvarp við annað lag, en ég veit ekki eftir hvern.

Ég sagði við Styrmi eftir áramót að ég nennti ekki að þvarga meira um kvótann í bili, ég er orðinn hundleiður á því.
Það halda líka allir að ég sé engill en þú púkinn á kvótabitanum, sagði ég.
Þú svarar áramótagrein Davíðs Oddssonar. Í þessari grein segir forsætisráðherra að við höfum flúið í síðasta vígið, réttlætið. Það séu að vísu einu rökin sem hægt sé að skilja í þessu máli. Réttlætið voru höfuðrök okkar í upphafi og ég skil ekkert í Davíð að segja að nú hafi verið flúið þangað! Pólitíkusar búa alltaf til handa sér þá vígstöðu sem þeir telja sér henta.
Ég sagði við Styrmi að hann brynni í skinninu að svara Davíð.
Nei, sagði hann en ég skal skrifa þetta Reykjavíkurbréf og það gerði hann ágætlega í fyrsta bréfi eftir áramót.
En ég endurprentaði sögu mína úr Konunginum af Aragon í Helgispjalli, Það er tími ástarinnar!

Hef verið að lesa Myndina afDorian Gray eftir Oscar Wilde. Formálinn er einstakur, fjallar um fegurðina, listina. Endar með því að listin sé vita gagnslaus. Það sagði Auden líka. Enginn listamaður hefur löngun til að sanna eitt né neitt, segir Wilde. Annaðhvort eru bækur vel eða illa skrifaðar, það er allt og sumt. Listamaðurinn er skapari fegurðar. Jónas var á sömu skoðun. Það eru allir sem eru fæddir með einhverja mennsku í brjóstinu. Guð ætlaði að skapa fagran heim. Það var fallegt í Eden en svo fór þessu að hraka(!)
Myndin af Dorian Gray minnir mjög á leikritin sem ég hef nefnt á þessum blöðum áður; persónurnar hinar sömu, lafðirnar jafn skemmtilega snobbaðar og í leikritunum, en eldklárar.
Þráin eftir eilífri æsku er þráin eftir fegurð. En það getur líka verið fallegt að eldast. Fólk getur verið fallegt að utan en ljótt að innan. Fallegt fólk að innan er fallegra en þeir sem eru fallegir í útliti. Það vissi Oscar Wilde einnig.

Það eru margar setningar í þessari sögu sem enginn hefði getað skrifað nema hann. Tómas kunni sumar þeirra utanbókar og notaði þær stundum.

Dæmi um setningar úr sögunni:

Það er aðeins eitt verra í veröldinni en að vera umtalaður, það er að vera ekki umtalaður,
sérhvert portrett sem málað er af tilfinningu er mynd af listamanninum, ekki fyrirmyndinni,
hlátur er ekki slæm byrjun á vináttu en það er langt frá því að hann sé bezti endirinn,
enginn getur verið of varkár í vali á óvinum,
þeir sem eru trúir þekkja aðeins smáatriði ástarinnar, það eru hinir ótrúu sem þekkja harma hennar (eins og tekið út úr leikriti eftir Wilde),
það er ekkert sem heitir góð áhrif: að hafa áhrif á aðra persónu er sama og að gefa henni eigin sál,
eina leiðin til að losna við freistingu er að láta freistast,
ungir menn vilja vera trúir og eru ekki, gamlir menn vilja vera ótrúir en geta ekki,
(hann var) tekinn upp á þeim ósið að þegja, eftir, eins og hann skýrði fyrir lafði Agötu, að hafa sagt allt sem segja þurfti þegar hann var þrítugur,
þverstæður eru sannleikur,
ég vil ekki breyta neinu í Englandi nema veðrinu,
til þess að endurheimta æskuna verður maður bara að endurtaka bernskubrekin,
stundvísi er tímaþjófur,
um Lohengren: Mér líkar betur við tónlist Wagners en nokkurs manns annars, hún er svo hávær að maður getur talað allan tímann án þess að nokkur maður heyri orð af því sem sagt er,
... ég tala aldrei undir tónlist, að minnsta kosti ekki undir góðri tónlist. Ef maður hlustar á slæma tónlist er það skylda manns að drekkja henni í samtali,
karlmenn kvænast af því að þeir eru þreyttir, konur giftast
vegna þess að þær eru forvitnar; og allir verða fyrir vonbrigðum (eins og út úr leikriti),
(eins og út úr samtímanum): allir þekkja verðlagið á öllu en enginn verðmæti (þess sem keypt er),
svo lengi sem kona lítur út eins og hún sé tíu árum yngri en dóttir hennar er hún fullkomlega ánægð,
nú á dögum lifa allir eiginmenn eins og piparsveinar og allir piparsveinar eins og eiginmenn.
Nei, svona krosssaum í stíl og hugsun leikur enginn eftir Oscar Wilde.

Það er gaman að líta í ævisögu Wildes eftir Hesketh Pearson. Um Myndina af Dorian Gray segir hann m.a. þetta:                “Óskari Wilde var það óskiljanlegt, hvernig menn gátu setið dag eftir dag og unnið að sömu bókinni, jafnvel árum saman. Þegar ég byrja á einhverju, verð ég að skrifa nótt og nýtan dag, unz verkinu er lokið. Annars missi ég áhugann á því, og fyrsti strætisvagninn, sem fer framhjá, dregur athyglina burt frá því,” sagði hann við Vincent O. Sullivan. Dorian Gray var sennilega hið eina, sem hann vann að lengur en fáeinar vikur, þó að hann hefði verk oft lengur með höndum til að fága þau. Í fyrstu var Dorian Gray aðeins smásaga svipuð og Peau de Chargrin eftir Balzac eða William Wilson eftir Poe. Við hana bætti hann síðan annarri smásögu um leikkonu, sem verður ástfangin og missir við það leikhæfileikana. Svo þeirri þriðju um fund líkama Jesús frá Nazaret í grafhelli nálægt Jerúsalem, en erfitt er að sjá, hvernig hún var felld inn í frásögnina. Aðalþráð sögunnar má rekja til atviks í vinnustofu málarans Basils Wards. Árið 1884 kom Óskar oft í vinnustofu hans, en meðal fyrirmynda málarans var fádæmafríður ungur maður. Þegar Ward hafði lokið við myndina af piltinum, varð Óskari að orði:
“Það er hörmuleg tilhugsun að svona falleg vera eigi eftir að eldast og hrörna.”
Málarinn samsinnti því og bætti við: “Dásamlegt væri ef hann gæti haldizt ungur en myndin elzt og hrörnað í staðinn.”

Óskar sýndi honum þakklæti sitt með því að kalla málarann í Dorian Gray, Basil Hallward.

Nokkur óköruð atriði til minnis:

Sagan er einstæð. Hún er fjarri því að vera raunsæ, en hefur þó fremur yfirbragð veruleikans en önnur verk hans. Henry Wotton lávarður er sjálfsmynd. Samtöl lávarðarins gefa góða hugmynd um leikni Óskars í samræðum. Ýmsar skarplegustu athuganir hans er að finna í sögunni, en honum bregzt bogalistin þar sem endranær er hann reynir að tjá tilfinningalíf manna. Hinn sjúklegi þáttur skapgerðar hans afhjúpast algerlega. Hver einasta málsgrein ber órækan svip höfundarins. Dorian Gray er, eins og önnur verk hans, að miklu leyti sjálfsöguleg. Hann er djúpskyggn sem gagnrýnandi, en ristir grunnt sem skapandi listamaður. Fyrir fangelsisvist sína skynjaði hann veruleikann aðeins með skynseminni, aldrei með tilfinningum.
Hann skildi manna bezt þessar takarmakanir sínar. Þegar hann talaði um raunsæisstefnuna í bókmenntum, sagði hann: “Ég vil ekkert hafa við sannleikann að skipta. Ef hann heimsækti mig, segði hann: “Þú ert of einþykkur,” segi ég: “Þú ert of augljós.” Og ég mundi umsvifalaust henda honum út um gluggann.”
“Milli mín og lífsins er orðamistur, sem byrgir mér útsýnið yfir tilveruna. Ég varpa líkindunum fyrir borð aðeins til að skrifa fallega setningu, en sannleikanum til þess eins að segja hnyttiyrði. Samt leitast ég við að skapa listaverk,” sagði Óskar við Conan Doyle um Dorian Gray. Orðamistrið varð að svartaþoku í níunda kapítulanum af lýsingum á ilmefnum, gimsteinum, í saumi, klerkaskarti og fleira. Frásögnin úr fátækrahverfunum er sízt raunsærri en í Lord Arthur Savile’s Crime. “Hrjúfraddað kvenfólk hló hásum hlátri og hrópaði á eftir honum. Fylliraftar, skjögrandi og ragnandi, tautandi í barm sér, líktust ferlegum mannöpum. Hann sá kyrkingsleg börn híma í dyragættum og heyrði blót og óp úr skuggalegum húsagörðum... út úr krám barst tryllingslegur hlátur, en í öðrum var ölæði og ryskingar.”
Allar hliðar skapgerðar Óskars koma skýrt í ljós í frásögninni: skarpur skilningur, leikni í samtölum, leikhúsviðhorf til lífsins, uppgerð tilfinningasemi, ást á fegurð, yndi af málskrúði og þversögnum, nautn af öllum munaði, dálæti á yfirstéttunum og ánægja af að hneyksla borgarana.
The Picture of Dorian Gray (Myndina af Dorian Gray) birtist fyrst í júlíhefti Lippincott’s Magazine 1891. Sex kapítulum hafði þá verið bætt við skáldsöguna, þriðja, fimmta, fimmtánda, sextánda, sautjánda og átjánda, og mörgum málsgreinum, en aðrar höfðu verið felldar niður og fleiri breytingar gerðar...
Hér koma nokkrar tilvitnanir í gagnrýnina. “Dulspekikláði” - “heimskuleg og ruddaleg” - “fjörlaus og klúr” - “viðbjóðsleg” - “ýldufýla” - “smjattað á óþverra” - “ætti að vera kastað á eld” - “fágaður dónaskapur” - “óhefluð og klúrfengin” - “óhreinkar alla unga hugi, sem snerta hana” - “velzt um í mykjuhaug” - “ókarlmannleg, sjúkleg, lostafengin... og leiðinleg”.
“Ókunnugt er, hvort valdstjórnin eða siðverndunarfélagið meta bókina svo mikils að hefja mál gegn höfundi og útgefendum hennar” - St. James’s Gazette.
“Bókin ber öll einkenni líkþrárra skáldsagna úrkynjaðra franskra rithöfunda... ódaun siðferðilegrar og andlegrar rotnunar leggur af þessari eitruðu sögu.” Daily Chronicle.
“Skortir siðferðilega einurð, - þar eð aldrei er gert fullljóst, hvort höfundur kýs heldur að lifað væri í óeðlilegum misgerðum en í andlegu og líkamlegu heilbrigði. Efni sögunnar  er aðeins við hæfi glæpamálalögreglunnar eða skriftapontunnar og höfundi og útgefendum til skammar. Efnismeðferðin ber vitni um gáfur, stíl og list Óskars Wildes. En ef honum er aðeins gefið að skrifa fyrir landflótta aðalsmenn og spillta símsendla, því betra er það fyrir mannorð hans og siðferði almennings því fyrr sem hann gerist skraddari eða gegn handiðnaðarmaður í annarri nýtri iðn.” - Scots Observer.
Nú mundu ritdómar sem þessir þykja ákjósanlegir. Mörg upplög mundu seljast á örskömmum tíma. En þessu var á annan veg farið á Viktoríutímabilinu. Siðavendni var þá skilyrði þess, að bækur seldust. Walter Pater skrifaði reyndar vel um bókina í The Bookman, en greinin var of hógvær og óákveðin til að vekja áhuga á henni.
Í svari Óskars við gagnrýninni stóð meðal annars: “Sagan er ritgerð í skreytingarlist, andsvar við ruddalegri og óheflaðri raunsæishyggju. Hún kann að vera eitruð, en hún er óneitanlega fullkomin, og fullkomnunin er takmark okkar listamannanna... svið listarinnar og svið siðgæðisins eru óháð og aðskilin... Já, ógurlegt siðferði er boðað í Dorian Gray, siðferði, sem er lostafullum hulið sjónum, en augljós öllum andlega heilbrigðum. Er það galli frá sjónarmiði skáldskapar? Ég er hræddur um að svo sé. En það er eina misfellan á sögunni.
Ég hef yndi af að skrifa, þessvegna skrifa ég. Og ef verk mín eru hinum fáu geðþekk, fagna ég því, en ef þau eru það ekki, harma ég það. Hvað skrílinn snertir, þá langar mig ekki til að vera skemmtisagnahöfundur. Það er allt of auðvelt.” (Leturbr. M.J.)
Formálinn að Dorian Gray birtist í The Fortnightly Review og var síðar prentaður með sögunni. Hann var gagnrýnendum sjálfsagt enginn skemmtilestur.
“Þeir sem leggja ljótar merkingar í fallega hluti, eru spilltir án þess að vera skemmtilegir. Það er lýti.”
“Óbeit nítjándu aldarinnar á raunsæisstefnunni er reiði villimannsins, sem sér andlit sitt í spegli.”
“Óbeit nítjándu aldarinnar á rómantísku stefnunni er reiði villimannsins, sem sér ekki andlit sitt í spegli.”
“Áhorfandinn, en ekki lífið, speglast í listinni.”
“Þegar gagnrýnendurnir eru sjálfum sér sundurþykkir, er listasmaðurinn sjálfum sér samkvæmur.”
Snemma sumars 1891 var Óskar Wilde í kvöldverðarboði ásamt Asquith-hjónunum, Trees-hjónunum og fleiru kunnu fólki. Eftir að menn höfðu skemmt sér við að semja þakkarbréf konu til karlmanns fyrir blóm, sem hún var samt ekki viss um að hann hefði sent henni, hæddist Asquith að skáletri Óskars og sagði, að það minnti sig á mann, sem hefur upp röddina í samræðum til að allir heyrðu til hans.

“Það er fallega gert af yður, Asquith, að taka eftir þessu,” samsinnti Óskar. “Snjöll orð, líkt og gott vín, þarfnast engrar áherzlu. En rétt eins og ræðumaðurinn vekur athygli á því mikilsverða í ræðu sinni með látbragði, þögn eða með því að hefja röddina, einkennir rithöfundurinn hið bezta í ritum sínum með skáletri, áþekkt og þegar gimsteinar eru felldir í men, vegna ástar á list sinni, ekki hégóma, að ég hygg.”

Ein heiftúðugasta árásin á Dorian Gray, birtist í blaðinu Scots Observer. Ritstjóri þess var W.E. Henley, krypplingur, sem tilbað allt líkamlegt atgerfi, dáði heimsvaldastefnuna, lofsöng Kipling, en var svarinn andstæðingur allra, sem mátu listina meira en baráttu og hernað. Þeir Frank Harris þóttu tveir beztu ritstjórar Bretlands um það leyti. Henley safnaði um sig hópi ungra aðdáenda, er töldu hann einn merkasta mann aldarinnar. Ummæli hans um Óskar Wilde voru ekki eftir hafandi. En þegar þeir hittust, gerbreyttist álit hans á Óskari. Þeir reyndu sig í rökræðum og fyndni, og þótt Óskar hefði miklu betur, fór hann viðurkenningarorðum um fyndni Henleys og leikni í viðræðum. Henley sagði á eftir við Yeats:
“Nei, Óskar Wilde er enginn fagurkeri. Hann er fræðimaður og fyrirmaður. Það heyrist undir eins og hann fer að tala.”

Dorian Gray varð Óskari mikill hnekkir í augum almennings og honum skaðlegur, er fram liðu stundir. Menn hötuðu bókina, einkum þeir, sem ekki höfðu lesið hana, og lögðu jafnframt fæð á höfundinn. Blaðamenn urðu eftir útkomu hennar nær undantekningarlaust meðal svæsnustu óvina hans. Sagan var og notuð sem vitnisburður gegn honum í Queensberry-málaferlunum. Skýrslurnar af yfirheyrslum Óskars Wildes eru meðal almerkilegustu réttarskjala Englands. Saksóknari ríkisins var Edward Carson, gamall skólabróðir hans frá Trinity College í Dyflinni.
Carson: Þér eruð þeirrar skoðunar, hygg ég, að ekki sé til neitt, sem kallazt geti ósiðsamlegar bækur?
Wilde: Já.
Carson: Er það rétt, að þér hugsið ekki um afleiðingar þess að skrifa siðsamleg eða ósiðsamleg rit?
Wilde: Vitanlega geri ég það ekki.
Carson: Þér látizt ekki hirða um siðsemi eða ósiðsemi, hvað verk yðar snertir?
Wilde: Ég veit ekki, hvort þér notið orðið látast í sérstakri merkingu.
Carson: Það er eftirlætisorð yðar.
Wilde: Er það? Ég læzt ekkert í þeim efnum. Við samningu bóka eða leikrita er mér aðeins umhugað um bókmenntir. Það er að segja listina. Ég reyni ekki að gera gott eða illt, aðeins verk, sem búa yfir fegurð eða andríki.
Carson: Eftir gagnrýnina, sem Dorian Gray fékk, breyttuð þér þá sögunni verulega?
Wilde: Nei, engar breytingar voru gerðar. En mér var bent á, - ekki af dagblaði eða neinu þess háttar, heldur af eina gagnrýnanda aldarinnar, er ég met mikils, Walter Pater, að einni málsgreininni væri ábótavant, svo að ég bætti við hana.
Óskar játaði daginn eftir, þegar hann var yfirheyrður af Sir Edmond Clarke, að Walter Pater hefði skrifað honum nokkur bréf um bókina og “fyrir orð hans breytti ég einni málsgreininni.”
Carson: Þetta er úr formálanum að Dorian Gray: “Ekkert er til, sem heitið getur siðsamleg eða ósiðsamleg bók. Bækur eru vel skrifaðar eða illa skrifaðar. Það er allt og sumt.” Er þetta skoðun yðar?
Wilde: Skoðun mín á list, já.
Carson: Mér skilst þá, að hversu ósiðsamleg, sem bók kann að vera, sé hún góð að yðar áliti, ef hún er vel skrifuð?
Wilde: Ef hún er vel skrifuð, skynja menn fegurðina við lestur hennar, en það er æðsta tilfinning, sem menn geta fundið til. Ef hún væri illa skrifuð, fengju menn andúð á henni.
Carson: Þá getur vel skrifuð bók, sem heldur fram ósiðsamlegum skoðunum, verið góð bók?
Wilde: Listaverk halda ekki fram neinum skoðunum. Skoðanir tilheyra aðeins mönnum, sem ekki eru listamenn.
Carson: Spillt skáldsaga getur verið góð bók?
Wilde: Ég veit ekki hvað þér eigið við með spilltri skáldsögu.
Carson: Þá vil ég benda á, að Dorian Gray, gæti talizt vera það.
Wilde: Aðeins af fávísum og ósiðlegum. Og skoðanir hræsnara á listum eru óendanlega heimskulegar.
Carson: Fávíst fólk, er læsi Dorian Gray, gæti talið hana slíka bók?
Wilde: Skoðanir fávísra á listum eru órannsakanlegar. Aðeins mínar eigin skoðanir á listum koma mér við. Ég gef ekki grænan eyri fyrir skoðanir annarra á þeim. (Leturbr. M.J.)
Carson: Allur þorri manna heyrir undir skilgreiningu yðar á hræsnurum og fávísum?
Wilde: Ég hef fundið dásamlegar undantekningar.
Carson: Uppfyllir þorri manna kröfur yðar í þessum efnum?
Wilde: Ég er hræddur um, að þá skorti til þess menntun.
Carson: Skorti menntun til að kunna skil á góðri og slæmri bók?
Wilde: Já, hiklaust.
Carson: Venjulegum einstaklingi gæti þótt ást málarans á Dorian Gray benda til óeðlilegra tilhneiginga?
Wilde: Ég veit ekkert um skoðanir venjulegra einstaklinga.
Carson: Þér komuð þó ekki í veg fyrir að venjulegir einstaklingar keyptu bókina?
Wilde: Ég latti þá ekki...”

Helgispjall 12. janúar

GULLNA HLIÐIÐ var frumsýnt í Iðnó annan dag jóla 1941 og var sýningin einhver reisulegasta varða íslenzkrar leiklistarsögu og einn af hápunktunum í langri sögu Leikfélags Reykjavíkur, ekki vegna vinsældanna, heldur vegna þess að þá varð til hagleiksverk sem býr yfir töfrum mikillar listar, ef vel er að verki staðið (ég hef séð afleita sýningu á Gullna hliðinu, hægt er að eyðileggja það eins og annað).

Á hundrað ára afmæli félagsins er ekki úr vegi að leiða hugann að samtali sem ég átti við Arndísi Björnsdóttur á 40 ára leikafmæli hennar 1958, en þá sagði hún m.a.:

“Ég lék í fyrsta skipti hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1922. Einn leikaranna hafði dottið úr skaftinu og var nauðsynlegt að fá annan í staðinn. Óskar Borg kom til mín og bað mig um að taka við hlutverkinu. Ég var því mjög mótfallin en sagði honum að ég skyldi gera það ef þeir fengju enga aðra. Næsta dag kom hann svo aftur - og þar með voru örlög mín ráðin. Að vísu viðurkenndi hann síðar að hann hefði ekki reynt neitt til þess að útvega annan leikara, en ég er búin að fyrirgefa honum það fyrir löngu.

Jú, ætli ég hafi ekki verið taugaóstyrk til að byrja með. En ég er miklu taugaóstyrkari nú en áður fyrr. Eftir því sem aldurinn færist yfir eykst þessi kennd. Meiri þroski og reynsla kennir manni að leikstarfinu fylgir ábyrgð. Þetta gera ungir, óreyndir leikarar sér ekki alltaf ljóst. Þegar við erum ung hugsum við ekki alltaf sem skyldi um ábyrgðina. Annars mætti segja um mína leikstarfsemi að hún hafi byrjað sem leikur. Svo varð þetta ást."

“Fjörutíu ár eru langur tími. Hvað er yður minnisstæðast frá þessum árum?”
“Það er svo margt, svo margt. Hvernig á ég að muna það allt, þegar þér komið mér svona að óvörum? - Ég man sérstaklega eftir því, þegar við lékum Á útleið. Eins og þér vitið fjallar það um förina yfir ”haf dauðans”. Við lögðum mikla rækt við leikritið, en leikstjórinn var ekki fullkomlega ánægður með aðalæfinguna. Við höfðum því aukaæfingu næsta morgun, og um kvöldið var leikritið svo frumsýnt. Við vorum mjög spennt, þegar tjaldið var dregið frá enda orðin þreytt og slæpt eftir mikið erfiði. Í upphafi leiks var spiluð Ófullgerða sinfónían eftir Schubert. Við stóðum öll þögul á sviðinu og hlustuðum á músíkina, og ég held við höfum öll beðið. Þetta greip okkur svona sterkt, ekki sízt þegar við fundum þessa yndislegu þögn hjá áhorfendum sem hélzt til leiksloka. Þegar tjaldið féll eftir síðasta þátt biðum við í ofvæni eftir því að klappað yrði. Tjaldið var komið fyrir og nokkur stund leið svo ekkert gerðist. Við vorum með öndina í hálsinum. En þá allt í einu upphófst dynjandi lófaklapp. Já, yndisleg stund, ógleymanleg. Ég man líka vel eftir því þegar Gullna hliðið var frumsýnt í Iðnó 1941. Þá lá við borð að kviknaði í húsinu: Yfir rúmi Jóns hékk lýsislampi eins og þeir gerðust í gamla daga. Ég var auðvitað ókunnug slíkum lömpum og fannst vera farið að loga svo mikið á honum að ég hvíslaði að Brynjólfi: “Er þetta í lagi, á ljósið að vera svona?” Hann svaraði: “Taktu svuntuna þína og slökktu fljótt.” Ég setti svuntuna yfir lampann og ætlaði að kæfa logann, en þá datt lampinn ofan í rúmið til aumingja mannsins. Til allrar guðslukku tókst mér að slökkva, en þó ekki fyrr en nokkrir gestanna höfðu tekið eftir að hætta var á ferðum, Guðbrandur Jónsson prófessor var t.d. staðinn upp og ætlaði að hringja á slökkviliðið. En þess þurfti ekki. Eftir þetta var alltaf notazt við rafmagnsljós. - Hrædd? Ég var svo hrædd að ég varð alveg máttlaus og náði mér ekki allt kvöldið. En það var mitt leyndarmál sem engum kom við, allra sízt gagnrýnendum. Ég get sagt yður að ég er ákaflega eldhrædd,” bætti Arndís Björnsdóttir við og kveikti í De Reszke.

“En Brynjólfur, haldið þér ekki að hann hafi líka orðið hræddur?”
“Jú, sjálfsagt, en hann mátti ekki undir neinum kringumstæðum láta á því bera, svona alveg í dauðanum! - Annars skil ég ekki hvernig við fórum að því að tóra í gömlu Iðnó, ég tala nú ekki um áður en hitaveitan kom. Þá urðum við oft að vera í vetrarkápunum á æfingum langt fram á nótt. Sennilega eru engar lungnabólgubakteríur í leikhúsum. Eða kannski við leikararnir séum næmari fyrir öðrum bakteríum!”

18. janúar, laugardagur

 

Úrskurður Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands
Hér fer á eftir greinargerð og úrskurður Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands vegna kæru Sverris Ólafsson á hendur ritstjórum Morgunblaðsins.
Kærandi Sverrir Ólafsson. Kærðir Matthías Johannessen og Styrmir
Gunnarsson ritstjórar Morgunblaðsins. Kæruefni Athugasemd ritstjóra við bréf Björns V. Ólasonar í Morgunblaðinu 28. ágúst 1996.
Málið var kært með bréfi dagsettu 27. september 1996. Dráttur varð á því að Morgunblaðið brygðist við kærunni vegna fjarveru annars ritstjóra blaðsins. Morgunblaðið rakti sína hlið á málinu í greinargerð dagsettri 24. október 1996, og tilkynnti jafnframt að lögmaður Árvakurs hf. hefði óskað lögreglurannsóknar á þeim þætti málsins hver væri hinn rétti höfundur að greininni “Hafnfirðingar krefjast meirihluta jafnaðarmanna” sem birtist í blaðinu 21. ágúst 1996, undirrituð af Birni V. Ólasyni. Í þessari fyrri lotu fjallaði Siðanefnd um málið á fundum sínum 21. október og 4. nóvember 1996.
Siðanefnd ákvað þá, að höfðu samráði við lögmann Blaðamannafélagsins, að fresta umfjöllun um málið þar til svar Rannsóknarlögreglunnar við málaleitan Morgunblaðsins lægi fyrir. Þegar Rannsóknarlögreglan hafði synjað lögmanni Árvakurs hf. um rannsókn áfrýjaði hann synjuninni til Ríkissaksóknara. Bæði Rannsóknarlögreglan og Morgunblaðið greindu Siðanefnd frá framvindu málsins, og Siðanefnd Sverri Ólafssyni. Ríkissaksóknari synjaði um rannsókn hinn 17. desember 1996, og tilkynnti hann Siðanefnd það með bréfi samdægurs.
Siðanefnd tók málið fyrir að nýju á fundi sínum 6. janúar 1997. Hún hefur síðan fjallað um það 9., 14., 16. og 17. janúar. Á fundi nefndarinnar hafa komið Björn V. Ólason, Sverrir Ólafsson (tvisvar), Matthías Johannessen og Styrmir Gunnarsson og loks þeir Magnús Hafsteinsson, Sigurgeir Ólafsson og Erlingur Kristensson sem birt höfðu grein um málið í Morgunblaðinu hinn 1. september 1996.

Málavextir
Greinin “Hafnfirðingar krefjast meirihluta jafnaðarmanna” birtist í bréfadálki Morgunblaðsins 21. ágúst 1996 undir nafni Björns V. Ólasonar. Hún var rituð gegn samstarfi alþýðuflokksmanna við Ellert Borgar Þorvaldsson og Jóhann Gunnar Bergþórsson í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og var þar farið hörðum orðum um þá Ellert Borgar og Jóhann. Viku síðar, hinn 28. ágúst 1996, birtist á sama stað í Morgunblaðinu greinin “Ellert Borgar Þorvaldsson og Jóhann Gunnar Bergþórsson beðnir afsökunar” eftir Björn V. Ólason. Þar biður Björn afsökunar á ýmsum ummælum í fyrri greininni. Hann segir líka að hann hafi ekki samið hana, heldur Sverrir Ólafsson. Hann kveðst þó hafa haft “vitneskju um innihald” hennar, og hafa “lánað” Sverri nafn sitt. Hann segist einnig hafa óskað þess, eftir að greinin var komin í hendur Morgunblaðsins, að hún yrði ekki birt, og hafi sá sem hann talaði við “tekið . . . jákvætt undir það”.
Afsökunarbeiðni Björns V. Ólasonar fylgdi svohljóðandi athugasemd frá ritstjórum Morgunblaðsins:
Efni þessa bréfs er sem betur fer einsdæmi í fjölmiðlun okkar og sýnir að höfundur þess, og sá sem hann lánaði nafn sitt, Sverrir Ólafsson, hafa notað aðferðir við greinarskrif hér í blaðinu, sem telja má til nýmæla og eru í raun siðlausar. Blaðið varaði sig hvorki á rangfærslunum í grein Sverris undir nafni Björns né “dulnefninu”.
Þessi aðferð þeirra félaga heyrir til fádæma.
Blaðið frábiður sér efni af þessu tagi og með þessum aðferðum.
Þess skal að lokum geta, að ritstjórn Morgunblaðsins kannast ekki við ósk Björns þess efnis, að grein Sverris undir hans nafni yrði ekki birt.
Tveimur dögum síðar, hinn 30. ágúst 1996, birti Morgunblaðið í bréfadálki sínum “Athugasemd frá Sverri Ólafssyni”. Þar segir hann um skrif Björns V. Ólasonar:
mér eru greinaskrif þessa manns, sem ég er varla málkunnugur, með öllu óviðkomandi.
Hann kvartar yfir því
að svo virðist sem ritstjórar Mbl. hafi séð ástæðu til að taka orð Björns V. Ólasonar fullgild, án þess að hafa fyrir því að leita eftir viðhorfi mínu til málsins eða rökum fyrir fullyrðingum sínum.
Síðar segir:
Ég hef efnislega ekkert sérstakt við grein Björns eða innihald hennar að athuga . . . Ég hlýt hins vegar að krefja ristjóra Mbl. um sannanir fyrir fullyrðingum þeirra í minn garð eða að þeir biðjist ella afsökunar á síðum Morgunblaðsins, á ummælum sínum um mig í tengslum við þetta mál.
Loks birtist tveimur dögum eftir þetta, hinn 1. september 1996, “Athugasemd vegna yfirlýsingar” undirrituð af þeim Magnúsi Hafsteinssyni, Sigurgeiri Ólafssyni og Erlingi Kristenssyni. Þar segir að Björn V. Ólason hafi hinn 7. ágúst 1996 í viðurvist þeirra þriggja hinn 7. ágúst “veifað umræddri blaðagrein undir fyrirsögninni “Hafnfirðingar krefjast meirihluta jafnaðarmanna”.” Jafnframt undirstrika þeir að greinin hljóti að teljast vera á ábyrgð Björns. Loks eru orð Björns borin fyrir því að afsökunarbeiðni hans frá 28. ágúst sé
ekki rituð af honum sjálfum, heldur er undirritun hans fengin með þvingunum og þrýstingi ráðagóðra hagsmunaaðila.
Björn V. Ólason ber fyrir Siðanefnd að þessi ummæli þremenninganna séu tilhæfulaus.

Umfjöllun
Um það hver samdi texta greinarinnar “Hafnfirðingar krefjast meirihluta jafnaðarmanna” stendur fullyrðing Björns V. Ólasonar þvert gegn fullyrðingu Sverris Ólafssonar, bæði í Morgunblaðinu og í framburði fyrir Siðanefnd. Það er ekki útilokað að báðir segi rétt frá þegar þeir afneita greininni og að þriðji aðili sé höfundurinn. Yfirlýsing þremenninganna tekur ekki af nein tvímæli í þessu efni. Og Rannsóknarlögreglan synjaði Morgunblaðinu um rannsókn eins og fram er komið.
Það er ekki í verkahring Siðanefndar að skera úr um það hver skrifaði greinina og jafnvel ekki að reyna að mynda sér rökstudda skoðun á því með því að þaulprófa framburð málsaðilja eins og lögreglan hefði væntanlega gert. Þar með tekur nefndin enga afstöðu til þeirra atriða í kæru Sverris Ólafssonar sem eiga að sýna að hann eigi enga hlutdeild í greininni. Nefndin tekur ekki heldur afstöðu til þeirra atriða í kærunni sem lúta að stjórnmálabaráttunni í Hafnarfirði og afstöðu Morgunblaðsins til hennar.
Það var Björn V. Ólason sem staðhæfði fyrstur í Morgunblaðinu að Sverrir Ólafsson hefði samið hina umdeildu grein, en yfir honum hefur Siðanefnd enga lögsögu. Kjarni málsins, eins og hann snýr að Siðanefnd, er sá sem Sverrir Ólafsson orðar svo í “Athugasemd frá Sverri Ólafssyni” að
ritstjórar Mbl. hafi séð ástæðu til að taka orð Björns V. Ólasonar fullgild, án þess að hafa fyrir því að leita eftir viðhorfi mínu til málsins eða rökum fyrir fullyrðingum sínum.
Meginkröfur hans í þessari “Athugasemd”, sem eru ítrekaðar í kæru hans, eru þær að ritstjórarnir færi sönnur á að hann hafi skrifað greinina umdeildu eða biðji hann afsökunar á því að hafa kennt honum hana og kallað athæfi þeirra Björns V. Ólasonar siðlaust.
Ritstjórar Morgunblaðsins segja í greinargerð sinni til Siðanefndar eftir að hafa kannast við að blaðið hafi á síðari árum varann á um að rétt sé skýrt frá höfundum skrifa sem berast blaðinu:
Engu að síður trúðu ritstjórar Morgunblaðsins þeirri fullyrðingu Björns V. Ólasonar, að hann hefði lánað nafn sitt með þeim hætti, sem hann sjálfur sagði í bréfi sem birt var hinn 28. ágúst sl. Ein ástæða fyrir því, að sú fullyrðing var tekin trúanleg er sú, að þess eru dæmi úr pólitískri baráttu undanfarna áratugi, að slíkt hafi verið gert. Þótt stjórnmálabaráttan hafi breytzt umtalsvert eimir þó enn eftir af gamaldags vinnubrögðum. Af þessum sökum var efni þeirrar athugasemdar, sem blaðið gerði við bréf Björns V. Ólasonar á þann veg, sem raun ber vitni. Spyrja má, hvers vegna blaðið hafi ekki haft samband við Sverri Ólafsson fyrir birtingu og borið þessa staðhæfingu undir hann. Svarið er að Morgunblaðið lítur á aðsent efni sem trúnaðarmál á milli blaðsins og höfundarins þar til það hefur birzt.
Nú má spyrja hvort það hafi verið réttlætanlegt af ritstjórunum að leggja umsvifalaust trú á fullyrðingu Björns og taka undir hana í athugasemd sinni. Var eitthvað í bréfi hans sjálfu, eða í kringumstæðunum, sem gaf tilefni til að ætla að þegar hann bæði afsökunar á fyrri greininni notaði hann tækifæri til að koma nýjum ósannindum á framfæri? Bréfið virðist ekki gefa neitt tilefni til slíkrar tortryggni. Það virðast kringumstæðurnar ­ stjórnmáladeilur í Hafnarfirði ­ ekki gera heldur. Þótt stjórnmálabarátta gerist áköf nær hún naumast því marki að sá siður afleggist að fólk segi fremur satt en ósatt. Fyrsta regla blaðamanna sem annarra hlýtur að vera sú að hver sem þeir eiga skipti við sé líklegri til að segja satt en ósátt, nema sérstök ástæða sé til að ætla annað. Niðurstaðan verður því sú að ritstjórar Morgunblaðsins hafi haft rétt til að trúa orðum Björns V. Ólasonar, hvort sem þau mundu reynast sönn eða ósönn við frekari vandlega rannsókn.
Áttu ritstjórarnir þá að birta skoðun sína á sannleiksgildi orða Björns án þess að bera hana fyrst undir Sverri Ólafsson? Það virðist vera hæpin krafa. Ef blaðamaður hefur enga ástæðu til að telja heimild tortryggilega virðist honum frjálst að birta það sem hann sækir til hennar án þess að bera það undir þá sem málið varðar. Og ef heimildin reynist völt er við hana að sakast en ekki blaðamanninn. Í máli Sverris Ólafssonar og Morgunblaðsins kemur að vísu annað til, og það er að blaðið segir aðferð Sverris og Björns siðlausa. Á blaðamaður að kanna sérstaklega sannleiksgildi heimildar, sem hann hefur enga sérstaka ástæðu til að rengja, ef hann notar hana til að fella siðferðilegan dóm um nafngreint fólk? Hér er erfiðara að fóta sig. Meðal þess sem málið skiptir er hver ásökunin er og hversu harður dómurinn er. Ef ástæður til efasemda um gildi trúverðugrar heimildar vakna síðar ber blaðamanni hiklaust að skýra frá þeim.
Dómur Morgunblaðsins er allþungur áfellisdómur, og þess vegna er athugasemd ritstjóranna of afdráttarlaus þótt dómurinn sé felldur í góðri trú. Þar hefði átt að hafa fyrirvara á borð við “ef rétt er frá sagt”. Annar kostur hefði verið að bíða með athugasemdina þar til Sverri hefði verið gefinn kostur á að bregðast við frásögn Björns. Enn einn kostur hefði verið að gera þá athugasemd við grein Sverris Ólafssonar að blaðið treysti sér ekki lengur til að fullyrða fortakslaust um höfund hinnar umdeildu greinar. Þetta segir Matthías Johannessen raunar í viðtali við Alþýðublaðið 30. ágúst 1996, sama dag og “Athugasemd frá Sverri Ólafssyni” birtist í Morgunblaðinu:
Við Sverrir höfum átt ágæt samtöl og við hér á Morgunblaðinu viljum að hann njóti fulls réttlætis hér á blaðinu. Við birtum hans athugasemd. Við erum ekki dómarar í svona málum.
Einhver slík ummæli hefðu átt að birtast í Morgunblaðinu.
Hafi yfirsjónir ritstjóranna varðað við siðareglur eru einar málsbætur þeirra yfirlýsing Matthíasar Johannessen í Alþýðublaðinu. Við þær bætist að Sverrir Ólafsson, og þeir Magnús Hafsteinsson, Sigurgeir Ólafsson og Erlingur Kristensson, fengu greinar sínar, þar sem þeir röktu sína hlið á málinu, birtar í Morgunblaðinu án tafar og höfðu þeir síðustu orð í málinu í blaðinu. Þess ber að geta að ritstjórar Morgunblaðsins hafa lagt fyrir Siðanefnd bréf frá Sverri Ólafssyni til Matthíasar Johannessen, dagsett 28. ágúst 1996, sem fylgdi handriti hans að “Athugasemd frá Sverri Ólafssyni”. Þar þakkar Sverrir fyrir símtal og segir að von sé á, til viðbótar við grein sína, yfirlýsingu þremenninganna. Þar segir síðan: “Ég treysti orðum þínum um að bæði plöggin muni fá forgangs afgreiðslu í blaðið, svo að komast megi hjá frekari leiðindum.”
Meðal annars vegna þessara málsbóta hrökkva yfirsjónir ritstjóra Morgunblaðsins ekki til að þeir séu brotlegir við 3. grein siðareglna sem segir:

Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.

Úrskurður
Matthías Johannessen og Styrmir Gunnarsson teljast ekki hafa brotið siðareglur Blaðamannafélags Íslands.
Reykjavík 17. janúar 1997,
Þorsteinn Gylfason,
Sigurveig Jónsdóttir,
Mörður Árnason,
Hrólfur Ölvisson,
Róbert Haraldsson.

 

Helgispjall 19. janúar

"ENN ÚR SAMTALI mínu við Arndísi Björnsdóttur leikkonu:

“Finnst yður áhorfendur hafa breytzt mikið á þessum fjörutíu árum?”
“Onei, ekki held ég. Þeir hafa alltaf haft meiri áhuga á því að hlæja en hugsa. Mér hefur fundizt það ósköp leiðinlegt. Beztu leikritin sem við höfum sýnt hafa alltaf verið verst sótt. Auðvitað er nauðsynlegt að hlæja ? í hófi. En leikhúsið á að vera skóli. Þaðan eiga menn að koma reynslunni ríkari. Ég get tekið dæmi svoað þér skiljið betur hvað ég á við: Fyrir nokkrum árum sýndum við Konu ofaukið eftir danska skáldið Knud Söderby. Margir lögðust gegn því að þetta leikrit yrði fært upp og bentu á að það fjallaði um geðveika móður. Sumir sögðu jafnvel að það væri árás á móðurina. Ég var ekki sérlega hrifin af þessu verki, en það féll samt í minn hlut að leika móðurina. Það var vandasamt. Og hræðileg kvöl. Móðurinni finnst hún eiga líf barna sinni, já líf þeirra og ást, en þau vilja lifa sínu lífi. Hún verður smám saman geðveik og svo fer að hún fremur sjálfsmorð. Þetta er svo sem enginn gamanleikur. Og sumir sögðu að þetta væri ekki heldur sorgarleikur, til þess væri það of afkáralegt. Margir voru þeirrar skoðunar að það ætti ekkert erindi hingað. En það var rangt, auðvitað átti leikritið erindi hingað, það er gott verk og leikhúsum okkar ætti ekki að vera neitt mannlegt óviðkomandi. Ég sagði áðan að mér hefði ekki fallið hlutverk móðurinnar, en síðar var ég mjög glöð yfir því að ég skyldi hafa tekið það að mér. Ég hef aldrei fengið betri borgun fyrir neitt hlutverk ? eða ætti ég kannski frekar að segja: Ég hef aldrei fengið kvöl mína betur borgaða. Morguninn eftir að leikritið var sýnt í síðasta sinn fékk ég bréf frá ungum manni. Það er eitthvert yndislegasta bréf sem ég hef fengið. Hann þakkaði mér fyrir og sagði að ég hefði komið sér í skilning um við hvaða sjúkdóm móðir hans þurfti að glíma síðustu árin. Það er að vísu þremur árum of seint, bætti hann við, því að móðir mín er dáin, en nú skil ég hana loksins og get aftur hugsað til hennar með hlýju. Nú veit ég að leiklistin er það mesta í heimi. Þetta sagði ungi maðurinn. Ég sveif í skýjum, þegar ég fékk bréfið, svo ánægð var ég. Já, leikhúsið á að vera svona skóli. Sú stofnun hlýtur að vera merkileg þar sem móðir getur endurheimt son sinn.”
Að lokum spurði ég Arndísi Björnsdóttur um kerlinguna í Gullna hliðinu. Hún sagði að sér hefði alltaf fundizt hún góð. “Hún leynir á sér,” bætti hún við, “það má finna ýmislegt í henni. Þess vegna held ég að ég hafi aldrei leikið hana vélrænt, þótt ég hafi séð um hlutverk hennar í 170 skipti.”
“En segið mér þá að lokum: Getur ekki hlutverkið haft einhver áhrif á leikarann, ég tala nú ekki um þegar það er leikið svona oft?”
“Jú, ætli það ekki. Það mótar hann í svipinn, enda er ekki hugsað um annað dögum saman. Ég á kannski ekki að vera að segja yður frá því, en eitt sinn sagði ágæt vinkona mín við mig: “Hvað er þetta manneskja, nú hlýturðu að vera að leika skass!”

Allt leiðir þetta hugann að nýútkominni ævisögu Samuels Becketts, Dæmdur til frama eftir James Knowlson. Í gagnrýni um þessa bók segir J.D. O'Hara í The New York Times Book Review 24. nóvember síðastliðinn að slæm geðheilsa Becketts hafi átt rætur að rekja til hinnar ástríðufullu umhyggju móður hans fyrir honum og hins stormasama sambands þeirra mæðginanna. Beckett taldi sjálfur að hann væri það sem þessi ástríðufulla móðurást hefði gert hann. Beckett forðaðist móður sína, flýði hana og Írland, en undir lokin fékk hann mikið samvizkubit vegna framkomu sinnar við hana og svo virðist sem þetta samvizkubit hafi kvalið hann síðustu mánuðina sem hann lifði. Hann hafði samskonar sektartilfinningu vegna framkomunnar við konu sína, sem dó nokkrum mánuðum á undan honum, og sá eftir því. Hann hafði þurft á geðlæknishjálp að halda vegna þessara tilfinningatruflana en þess hafði hann einnig þurft eftir dauða föður síns 1933. Þá skilst mér hann hafi verið mjög hætt kominn vegna skertrar geðheilsu.
Fyrrnefnt leikrit fjallar semsagt um vandamál sem frægt fólk einsog nóbelsskáldið Samuel Beckett hefur þurft við að stríða án þess alltaf að finna þá lausn sem leiðir til jafnvægis og andlegrar rósemdar. En ef Beckett hefði læknazt til fulls þá hefði hann að öllum líkindum ekki skrifað þau ritverk sem hann nú er frægastur fyrir.

22. janúar, miðvikudagur


Orti þetta í svefnrofanum. Ástæðan: Ung heilaskemmd stúlka sem ráðizt var á í miðbænum og sást í sjónvarpi í gærkvöldi.





Golgata


Ófrjáls
og án þess koma upp orði

stafar sig frá einni hugsun
til annarrar
eins og hvert tákn
sé loftskurður milli rimla

hví

ó hví eru hausaskeljar
fangelsi mitt?


Mætti einnig breyta: ó, hví er fangelsi mitt ranglæti? með tilliti til smáklausna undanfarið frá Jónasi H. Haralz í Bréfi til blaðsins!

 

24. janúar, föstudagur

 

Dálítið skrítinn en dæmigerður dagur í gær. Hitti Sigurð A. Magnússon í Nausti þar sem við borðuðum saman hádegisverð, einhverja beztu rauðsprettu sem ég hef fengið og drukkum aldrei þessu vant óáfengan þýskan bjór, Claussteiler; ágætan bjór með réttu bragði; upplagður drykkur þegar vinnudagur er fyrir höndum.
SAM hafði hringt til mín fyrir nokkrum dögum og óskað eftir því að hann fengi ljóðabók mína Vötn þín og vængur, það væri vegna bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir næsta ár. Ég spurði einskis en sagði að það væri sjálfsagðasti hlutur í heimi að hann fengi bókina þótt ég hafi haldið að dómnefndarmenn fengju allar frambærilegar bækur frá forlögunum sjálfum.
En sem sagt, ég lét hann fá bókina, ásamt nokkrum línum sem ég hafði skrifað um efni hennar, auk þess fékk hann Árstíðaferð um innri mann sem hann hafði ekki séð áður. Hann hafði aftur á móti fengið Hvíldarlaus ferð inní drauminnog Land mitt og jörð.
Það var gaman að hitta SAM, minnti á gamla daga. Hann er afslappaður og í ágætu formi. Ég finn að hann er hamingjusamur í hinu nýja umhverfi ástar sinnar og ég held að Sigríður, hin unga kona hans, hafi góð áhrif á hann. Við töluðum saman um alla heima og geima, rifjuðum margt upp frá fyrri árum, og engu líkara en öll leiðindi okkar í millum séu að baki. Vona svo sannarlega að svo sé. Finnst margt benda til þess. Sagði Jóhanni Hjálmarssyni frá því að SAM hefði óskað eftir ljóðabókinni því þeir eru saman í þessari úthlutunarnefnd og þótti Jóhanni það góðs viti því að hann telur að Vötn þín og vængur  sé álitlegasta ljóðabók síðastliðins árs. Hef ekki reynt að mótmæla því!! Sé til hvaða stefnu málið tekur, mun svo gera upp hug minn ef til kæmi…..
SAM minntist eitthvað á Lesbókina í samtali okkar og sagði þá, “Þegar ég var með Lesbókina”, það snart mig og ég fann að hann var undir niðri stoltur af þeim tíma sem hann var á Lesbókinni og stjórnaði henni að eigin mati. Þegar ég heyrði hvernig hann tók til orða hugsaði ég með sjálfum mér að það mætti ekki taka frá honum þessa morgunblaðsrós sem hefði vaxið úr gömlu sári.
En hann var aldrei ritstjóri Lesbókar,það er blekking.En hann var  um skeið umsjónamaður hennar.


Við skildum svo með virktum og ætlum að hittast aftur innan tíðar.
Við sjáum hvað setur,er ekki lengur viss um einlægni Sigurðar og veit það eru tvær hliðar á öllum málum,einnig hans kvennamálum.Sigurður er svo sem enginn engill!Og ekki hef ég á tilfinningunni að hann muni standa með minni bók í norrænu verðlaunanefndinni.
En hvaða máli skiptir það !

Ég fór og sótti gleraugun mín í Linsuna því að þau brotnuðu og ég þarf að sjálfsögðu að halda hégómanum við með því að fá þessi forláta Mikli-gleraugu aftur á nefnið á mér. Í þessari gleraugnaferð rakst ég á tvífara minn og átti við hann nokkurt samtal en af því spratt kvæði sem ég orti í gærkvöldi og lauk við í morgun og heitir Hún er sæluhús.

Fór síðan upp á Morgunblað að halda daglegan fund minn sem einkum átti að fjalla um mæðgurnar bandarísku sem eiga í forræðismáli vegna dóttur þeirrar yngri sem amman nam á brott frá Bandaríkjunum og hefur haft hjá sér hér heima á Íslandi í fimmtán mánuði en eftir þeim var lýst í Óráðnum gátum,  bandarískum sakamálaþætti, og þá könnuðust mormónar á Íslandi við fólk þetta sem einnig eru mormónar og benti á hvar það dveldi. Móðirin kom svo heim og fékk dótturina frá ömmunni og mér skilst þær mæðgur haldi til Bandaríkjanna í dag en amman og maður hennar verði hér eitthvað áfram eða þangað til þau verða svipt landvistarleyfi. Fékk nóg að gera þegar ég kom upp á Morgunblað enda var þar allt í pati og þurfti að taka til hendi. Það sem gerðist er gott dæmi um erilinn í blaðamennsku: Við höfðum ekki náð sambandi við móðurina, hún var í bandaríska sendiráðinu, aðgangur bannaður! Sindri Freysson blaðamaður var með Kristni ljósmyndara okkar fyrir framan húsið en þeir komust ekki inn. Við vissum að barnið hafði verið flutt til sendiráðsins þar sem móðirin tók við því. En það virtist vita vonlaust að ná samandi við þær mæðgur. Það fauk í mig. Lundberg upplýsingafulltrúi Bandaríkjanna hafði ýtt öllum blaðamönnum frá móðurinni þegar hún hafði komið til Keflavíkur um morguninn en DV fékk þó að taka mynd af henni. Morgunblaðið sem hafði birt fréttina fyrst af þessum harmleik eða þessu barnsráni ef hægt er að taka svo til orða var sett til hliðar. Amman sem hafði numið stúlkubarnið á brott hafði áður fengið forræði þess en misst það í hendurnar á dóttur sinni. Þá námu þau hjón barnið á brott og héldu með það til Íslands.
Ég sá í hendi mér að eina leiðin til að okkur yrði eitthvað ágengt var sú að skírskota til þess að Morgunblaðið væri óánægt með afstöðu sendiráðsmanna. Til þess að koma þessu á framfæri varð ég að fá símanúmer inn í sendiráðsbygginguna. Ég fann það út að Örn Clausen vinur minn hafði verið skipaður lögfræðingur móðurinnar, hringdi í hann og sagði honum frá óánægju okkar. Hann sagði að það yrði vita vonlaust að komast inn í sendiráðið fyrr en daginn eftir. Ég spurði hann hvort hann gæti ekki útvegað mér eitthvert símanúmer inn í sendiráðið og þá sagði hann,
Þú getur fengið símanúmer hjá Michel Hammer, pólitískum stjórnmálafulltrúa sendiráðsins. Hann lét mig svo fá númerið og ég hringdi. Hammer svaraði og ég fann að hann varð meira en lítið hissa þegar hann heyrði að ritstjóri Morgunblaðsins var í símanum. Ég sagði honum frá því hvernig við litum á málið. Hann var kurteis, sagði að bezt væri að ég talaði við Lundberg sem væri þarna skammt frá. Svo leið og beið og enginn kom í símann. Loks kom Hammer aftur og sagði að sendiherrann væri hjá sér, ég gæti talað við hann. Ég hafði aldrei hitt sendiherrann sem heitir Day Mount. Hann var ósköp kurteis, allt að því alúðlegur, kvaðst skilja vandamálið, sagðist einungis vilja segja að Bandaríkjamenn væru mjög ánægðir með samstarfsvilja íslenzkra stjórnvalda, það væri rétt að barnið væri komið í sendiráðið og þeir fögnuðu því hvernig íslenzk stjórnvöld hefðu tekið á málinu. Hann sagði að það væri tilfinningaþrungið andrúmsloft í kringum þær mæðgur, enda væri málið mjög viðkvæmt. Ég sagði að við vildum fá að hitta móðurina. Hann sagði að það væri ekki hægt. Við fengjum allar upplýsingar daginn eftir. Ég sagði þá við sendiherrann,
Herra sendiherra, Morgunblaðið er dag-blað! Við óskum eftir samtali við móðurina.
Hann bað mig um að bíða, var drjúga stund í burtu, kom síðan í símann og sagði, Munduð þið sætta ykkur við að taka mynd af móðurinni, en ekkert samtal.
Ég sagði að við mundum sætta okkur við það. Þá sagðist hann þurfa að ráðfæra sig við hana og samstarfsmenn sína í sendiráðinu, kom síðan að vörmu spori og sagði að það væri samþykkt. Hann spurði hvar ljósmyndari okkar væri. Ég sagði að hann væri fyrir utan húsið. Hann sagði að þeir mundu bjóða honum inn, bað mig um að bíða, mínútu síðar eða svo kom Kristinn ljósmyndari inn úr rigningunni, sendiherrann afhenti honum símtólið, hann vissi ekkert við hvern hann átti að tala og trúði ekki sínum eigin eyrum þegar hann heyrði að ég var í símanum.
Ég sagði við hann,
Þú getur tekið ljósmyndir af móðurinni, þú verður eins nærgætinn og kurteis og þú getur, segðu Sindra að það verði ekkert samtal.
Þannig fengum við þessa stórgóðu mynd sem er á baksíðu Morgunblaðsins í dag af móðurinni, Kelly Helton og dóttur hennar Zenith Elaine en þær fóru til Bandaríkjanna í dag. Amman og maður hennar, þ.e. Hanes-hjónin, vissu ekkert um þessa þróun mála fyrr en Morgunblaðið hringdi til þeirra í gærkvöldi. Amman, Connie Jean, kvað þau vera algjörlega miður sín og full af reiði eins og segir í Morgunblaðinu í morgun.
Þær mæðgur Kelly Helton og Connie Jean hittust ekki hér á Íslandi en Hanes-hjónin bíða þess nú að þeim verði vísað úr landi og þá ef til vill framseld bandarískum stjórnvöldum.
Allt er þetta mál með ólíkindum, augljós harmsaga og ég sé ekki betur en lífi Hanes-hjónanna sé lokið. Hennar bíður fangelsisvist og hans einnig að mér skilst fyrir að hafa orðið manni að bana ölvaður undir stýri.

Þegar Styrmir frétti af þessari axjón sagði hann einungis: The old Lion roaras! Það var gott hjá honum!



Það er ekki alltaf nauðsynlegt að vera á vettvangi til þess að afla sér beztu heimilda eða beztu frétta. Aðalatriðið er að láta sér detta í hug hvernig unnt er að komast í samband við heimildir eða fá þá sem kunna skil á fréttunum.
Mér er það afar minnisstætt hvernig einn þekktasti blaðamður AP-fréttastofunnar á sínum tíma vann fréttir sínar af þorskastríðinu hér heima.
Hann var aldrei í hópi blaðamanna fyrir utan brezka sendiráðið, samt var hann sá eini sem gat á forsíðu Washington Post sagt frá því hvernig umhorfs var í sendiráðinu þegar múgurinn gerði aðsúg að því, æpti, kastaði grjóti og lét öllum illum látum fyrir utan. Þá var leikið á píanóið í stofu Gilchrist sendiherra og Ed Gilmore gat meira að segja skýrt frá því að þar hefðu verið leikin verk eftir Chopin.
Hann bjó á Hótel Borg og fór ekki út fyrir hússins dyr. Hann kunni að nota símann, hafði rétt sambönd og notaði heimildir sem hann gat treyst. Hinir sem voru með múgnum fyrir utan sendiráðið vissu ekkert, sumir bjuggu til fréttir fyrir erlend blöð sín, aðrir urðu að láta sér nægja þann þunna þrettánda sem þeir höfðu uppá að bjóða.Þeir gátu sagt eitthvað af æstum múgnum utan dyra!

Það var gaman í gamla daga þegar við áttum samstarf við fréttamenn AP. Einn þeirra var Ed Shanke. Við fórum saman í Stóru-Laxá í Hreppum ásamt Hönnu og Flory, konu hans, en það var svo mikið flóð í ánni að við urðum frá að hverfa.
Ed og Flory voru frábært fólk en við misstum sjónar á þeim. Veit ekki hvort þau eru lífs eða liðin. Ed var Bandaríkjamaður en sá um AP-skrifstofuna á Norðurlöndum. Hann fluttist til Stokkhólms. Flory var af finnskum ættum. Við heimsóttum þau í Lundúnum á sínum tíma. Þá vorum við einnig í miklum boðum hjá yfirmönnum AP-fréttastofunnar þar. Það voru ógleymanlegar stundir.
Þá kynntist ég einnig Heinzerlink sem var einhver frægasti blaðamaður heims á þeim tíma. Hann hlaut Pulitzer-verðlaunin í blaðamennsku fyrir greinaflokk sinn um Gíneu. Hann hafði verið í Berlín eftir stríðið en þá varð hann fyrir þeirri miklu sorg að húsarústir hrundu yfir son hans og hann lézt.
Þessir menn voru stórmenni andans og eftirminnilegir. Það var gaman að kynnast slíkum blaðamönnum og vinna með þeim. Slíkir menn eru nú fágætir.


Hef verið að hugsa um nýja kvikmynd um Ríkharð þriðja. Hún er byggð á nýstárlegri uppfærslu í Lundúnum ekki alls fyrir löngu. Myndin er látin gerast á þessari öld og fjallar um einræðissegg eins og Hitler eða Stalín eða Perón eða hvað þeir heita allir þessir lúsablesar sem eyðilagt hafa fyrri hluta aldarinnar. Ef Shakespeare hefði verið lifandi, hefði verið óhugsandi að nokkrum manni hefði dottið slík uppfærsla í hug. Forsendan fyrir nýstárlegum uppfærslum á leikritum er sú að höfundurinn sé dauður og helzt að hann hafi legið í gröf sinni um nokkurra alda skeið!¨


Hef verið að kynna mér nýja skáldsögu Anne Tyler, Ladder of Years. Ég er lítt hrifinn af þessari skáldsögu. Hún er afar ósennileg. Það er eins og höfundurinn standi við vatn og fleyti kerlingar en steinninn sekkur.Hef lesið betri sögu eftir hana.
Var að lesa í The Week að metsöluhöfundurinn Frederick Forsyth sé hættur að skrifa, hann nenni því ekki lengur, segir að sér leiðist að sitja við skriftir
“Mér hefur aldrei líkað það”, “það er óskaplega einmannaleg iðja, mjög leiðinleg og einungis eins og hvert annað starf, mér er það óskiljanlegt með öllu hvernig maður sem hefur slíka óbeit á skrifum skuli hafa notið þeirra, svo ég tali nú ekki um að hann skuli hafa haft erindi sem erfiði”!
Svona fór um sjóferð þá! En ég trúi Forsyth ekki almennilega. Ætli þetta sé ekki eitt af brögðum metsöluhöfundar til að selja næstu bók sína?! Þeir eru til alls vísir.Og hugsa mest um peninga eins og nú er tízka.

Hef fengið í hendur nýja bók um stúdentaráð á liðnum áratugum. Stúdentsárin, saga stúdentaráðs eftir Jón Ólaf Bergsson. Sé þar að ég hef átt þátt í því, ásamt Ólafi Hauki Ólafssyni læknanemi og Haraldi Bessasyni stúd.mag., að koma á vinsælum bókmenntakynningum við Háskólann skömmu eftir að ég var formaður stúdentaráðs (des. 1952-’53). Hef verið að blaða í þessu riti og er ekki viss um að þar sé tekið á hlutunum eins og nauðsynlegt hefði verið. Þar er til að mynda ekki fjallað um stórátök vegna aðildar okkar að hinum alþjóðlegu kommúnistasamtökum IUS, en þau tóku lýsistunnur sem við söfnuðum handa indverskum stúdentum og merktu sér gjöfina.
Kommarnir í háskólanum voru algjörlega undir þessi alþjóðasamtök seldir og þótti mér á sínum tíma í raun og veru ömurlegt að horfa upp á þjónkun þeirra við útsendara alþjóðlegs kommúnisma en það vantar ekki að það séu birtar myndir af þessum fulltrúum kommúnistasamtakanna í bókinni og þeir eru kallaðir til vitnis en ekki við hinir sem þurftum að súpa seyðið af þessari þjónkun.
“Fyrsta beiðni um lýsi berst frá World Students Relief 17.1. 1946, sbr. Fundargerðabók Stúdentaráðs, sjá annars Fundagerðabækur og skýrslur ráðsins, t.d. 1953 og 1955, ár hvert í Vettvangi stúdentaráðs. Almennt neita þeir sem voru fulltrúar róttækra þessum tengslum en nokkrir benda þó á að oft hafi sömu mennirnir verið “allt í öllu” og megi skýra tengslin á þann hátt. Jón Böðvarsson, viðtal. Árni Björnsson, viðtal.” Þetta er athugasemd no. 433 við svofellda klausu á blaðsíðu 197: “Miklar deilur urðu út af söfnun og sendingu lýsisins til Indlands. Ljóst er af þeim deilum og öðru að sumir fulltrúar róttækra í Stúdentaráði á þessum árum gerðu ekki skýran greinarmun á erindrekstri fyrir ráðið, Félag róttækra stúdenta, Sósíalistaflokkinn eða nefnda, ráða eða erlendra “bræðrafélaga” á vegum hans”.
Ég tel að höfundur hefði átt að spyrja okkur sem vorum fulltrúar Vöku í þessum hasar öllum en sé ekki merki þess. Samkvæmt heimildaskrá hefur ekki verið talað við neinn fulltrúa Vöku í stúdentaráði 1952-’53 en þá voru átökin milli okkar og kommúnista hvað hörðust. Þau voru svo sannarlega ekki bundin við Háskólann heldur urðu þau að þjóðmáladeilum í fjölmiðlum. Þessar deilur voru svo persónulegar og magnaðar að ég sagði við sjálfan mig að ég skyldi ekki fara út í pólitík eins og sagt er því það væri vísasti vegurinn til að láta ofstopafulla andstæðinga kalla fram í sér allt það skítlegasta sem maður ætti til. Blaðamennska á kaldastríðsárum nægði í þeim efnum - og meira en það!! Þessi stúdentapólitík var at í pólitísku flagi og því grimmari sem við vorum yngri. Þessu var svo fjarstýrt frá pólitískum flokkum, hvað sem hver segir, nema hvað við vildum, margir forystumenn Vöku, einangra herstöðina á Keflavíkurflugvelli og loka útvarpinu þar. Það fékk engan hljómgrunn hjá forystu Sjálfstæðisflokksins nema síður væri.
Ég hafði samband við Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, út af þessari bók, bað hann kynna sér hana og segja mér hvað honum fyndist um efni hennar; hvort hlutdrægni gætti eða ekki. Það þarf líka að fá einhvern kunnáttumann til að skrifa um verkið. Ég sagði við Kjartan,
Það er helvíti hart ef hinn góði málstaður okkar er borinn fyrir borð í slíku riti, nú þegar við höfum sögulega staðfestingu á því að við höfðum á réttu að standa.

Á miðstjórnarfundi Alþýðubandalagsins í dag talaði formaður þess, Margrét

Frímannsdóttir, heldur hlýlega um hlutverk NATO í þeim samtíma sem við nú lifum.
Það hefði þótt saga til næsta bæjar þegar átökin milli okkar, kommúnista og hernámsandstæðinga stóðu sem hæst upp úr miðri öldinni.

Hef verið boðinn með dómnefnd Norðurlandaráðs í bókmenntum til forstjóra Norræna hússins á sunnudagskvöld. Efast um ég fari. Hlédrægnin háir mér, ég hef hægt um mig. Þórbergur kallaði slík boð  sopagilli eða bjóð. Ég reikna sem sagt ekki með því að vera í þessu bjóði!

Fékk í dag bréf frá Harbourfront Reading Series um að koma í júní til Toronto og lesa þar upp. Mjög merkilegt boð. Held ég standist ekki freistinguna. Mér skilst þetta sé ein flottasta bókmenntahátíð sem um getur þar vestra og það vilja víst margir rithöfundar fá slíkt boð. Ég er orðinn þreyttur á að fara til útlanda og lesa upp en þetta agn er of girnilegt til þess ég sleppi því. Mér skilst 24 norrænum rithöfundur sé boðið, bæði ljóðskáldum og skáldsagnahöfundum og þykir mér mjög til þess koma að vera í þeirra hópi. Minnir mig á þegar mér var boðið að lesa upp í New York í hitteðfyrra.

Janúar, ódagsett


Þegar ég leiði hugann að Antígonu kemur Kristrún í Hamravík í hugann, þessi einstæða saga Hagalíns og kvenpersóna hennar.
Hvað sagði hann aftur um þetta verk?
Ég gróf upp samtal okkar frá 1957 til að átta mig á því, en þar segir hann m.a.:
“Ég fór snemma að undrast það, hvernig íslenzka þjóðin hefði lifað af þær hörmungar, sem yfir hana höfðu dunið, og ég fékk tiltölulega snemma á tilfinninguna, að andlegir hlutir hefðu átt þar meiri þátt í en í rauninni væri hægt að gera sér grein fyrir. Án þess að ég gæti sem unglingur skýrt það fyrir mér, fannst mér, að mótstöðuafl hennar væri spunnið úr tveimur þáttum: Trúnni á æðri máttarvöld og eigin manndóm. Annað nátengt biblíu og kristindómi, hitt manndómsanda fornbókmennta. Eins og við vitum, hafa landið og þjóðin birzt skáldunum í mynd fjallkonunnar. Ég gat einhvern veginn aldrei fellt mig við þessa mynd af þjóðinni: prúðbúna konu á skauti. Ég sá hana oftast fyrir mér sem gamla konu, er situr og starir í glæðurnar með barn við hné sér.
Svo var það einhvern tíma á árunum milli 1930 og 40, að ég sá málverkasýningu eftir Gunnlaug Scheving. Þar var mynd, sem dró að sér athygli mína fremur öllum öðrum: Ríðandi kona á ferð yfir hjarn um vetur, alein, loft skýjað og augsýnilega allra veðra von. Í svip hennar var mörkuð seigla og einhver undarlegur þróttur, yfirlætislaus en ógleymanlegur. Þetta fannst mér vera íslenzka þjóðin á ferð sinni yfir hjarn nauðaldanna. Núúú, hvað sem þessu líður, þá varð ég þess snemma var að ég hafði sitthvað að sækja til gamalla kvenna - sem sumar þóttu jafnvel lítilfjörlegar á veraldar vísu - sitthvað, sem ég gæti ekki sótt til karlmannanna. Og mér fannst, að þessar konur hefðu unnið úr lífreynslu sinni, þeirri fátæklegu fræðslu, sem þær höfðu fengið og úr fábreyttum kvæðum og sögum, sem þeir höfðu heyrt og lært, einhver þau verðmæti, sem veittu þeim allt í senn: festu, ró og yfirsýn, sem gerði þær að sérstæðum persónuleikum. Þegar karlmennirnir hafa fengið útlausn í öllu baslinu við svaðilfarir á sjó og landi, samfundi við félaga sína á ferðalögum og í baráttu  fyrir lífinu, þá hafa konurnar setið heima og hutverk þeirra hefur verið að halda lífinu í börnunum, oft í mikilli örbirgð, sjá um heimilið að mörgu öðru leyti, miðla börnunum fyrstu hugmyndum um æðri máttarvöld og fyrsta menningararfinum í formi sagnabrota og kvæða, veita þeim öryggi og vernd og leiðbeina þeim, þegar þau reyndu í æsku að gera sér grein fyrir umhverfi sínu og hinni furðulegustu veröld. Þessi mikla raun hefur reynt á þolrifin, en ótrúlega margar konurnar hafa staðizt hana. Þær trúa á guð, strika ekki yfir hann, ef hann kemur óþægilega við þær, en þær lúta honum ekki nema að vissu marki, gera það ekki, ef þær þurfa að fórna því sem þær elska mest, þá neita þær að hlýða og gera uppreisn, hvað sem það kostar: þá það, segja þær, og skepnan rís gegn skapara sínum, en innst inni hafa þær trú á, að hann kannske ekki fyrirgefi þeim, en a.m.k. meti þetta við þær.
“Núúú, þá erum við komnir að Kristrúnu í Hamravík.”
“Já, mér datt það í hug.”
“Hefurðu lesið smásögu, sem heitir “Konan að austan” og er í síðasta smásagnakveri mínu; hún er náskyld Kristrúnu.”
Og Hagalín heldur áfram:
“Ýmsir hafa spurt mig, hvers vegna ég hafi ekki skrifað um húsfreyju á stórbýli með mikil ráð og möguleika til umsvifa. Ég tók einmitt einangraða ekkju á Ströndum til þess að þeir eiginleikar, sem ég vildi leiða í ljós hjá íslenzkum konum gegnum aldirnar gætu sem bezt notið sín, svona án allra umbúða. En það var fleira, sem beindi huganum norður á Strandir. Vestfirzkir sjómenn komu á Strandirnar og sögðu þaðan margt frá lifnaðarháttum í baráttu við brim og björg, sögðu sérkennilegar sögur af fólkinu þar, hermdu ýmisleg orðtæki og gerðu Strandirnar í mínum augum að eins konar furðuströndum. Seinna sigldi ég sjálfur fyrir Strandirnar á skútum, sem ég var á, sá þessar hamravíkur, meira og minna snævidrifnar komið fram á sumar, og undraðist mjög, þó ég væri sjálfur uppalinn í hrikalegu umhverfi, að þarna skyldi búa fólk. Eitt vorið gerðist atburður, sem hafði allmikil áhrif á söguna. Skip sem ég var á, sigldi í austan stórhríðarbyl inn á Hornvík og lagðist þar fyrir akkeri ásamt fleiri skipum. Þegar við höfðum legið þarna um hríð, gekk vindur til útnorðurs. Inn á víkina dreif hafís, og bjuggust nú allir við, að ísinn mundi reka skipin upp á sandinn fyrir víkurbotninum. - Við drógum upp akkeri og fluttum okkur innst í víkina, og þá gerðist það, að hafísinn var svo djúpskreiður, að skipin flutu fyrir innan hann, þegar ísinn tók botn. Svo drógum við upp akkerin og fluttum þau upp á skörina á ísnum. Daginn eftir var komið logn og sólskin, og þannig hélzt veðrið í nokkra daga, snjóinn leysti úr hlíðunum, og grasið virtist koma grænt undan honum, en á aðra hönd höfðum við ísinn. Þessar andstæður höfðu ævintýraleg áhrif á hug minn og urðu mér á einhvern undursamlegan hátt ímynd þess, sem fólkið hefur þurft að búa við þarna á hjara veraldar, strítt og blítt, ís og gróður. Þetta verður svo umgjörðin um Kristrúnu í Hamravík og skapgerð hennar. Nokkurn þátt átti það og í staðarvalinu, hvað Strandir voru fjarlægar umheiminum - eins og margt af því, sem kemur fram hjá Kristrúnu, virtist fjarlægt þeim tíma, sem bókin var skrifuð á.
Mér var strax ljóst, þegar ég fór að glíma við Kristrúnu í Hamravík, að ég yrði að nota sérstakt málfar í sögunni, en mér gekk illa að finna það, sem við átti. Þá er það í Alþingiskosningunum 1931, að ég er byrjaður að vinna að öflun atkvæða og heyri þá um gamla konu, sem mér var sagt, að mundi ekki hafa neina sérstaka skoðun á stjórnmálum, en fylgdi ákveðnum manni, sem hún hefði uppáhald á. Mér hafði gefizt vel að kynnast slíku fólki persónulega og fór til fundar við gömlu konuna. En fljótt var pólitíkin gleymd og olli því orðfæri þeirrar gömlu. Hún hét Lovísa Sturludóttir og átti heima á Ísafirði. Hún sagði t.d. alltaf, hún ég, o það held ég, og það skyldi maður ætla o.s.frv. Við samtalið vaknaði upp hjá mér slíkt orðfæri eldri kvenna, sem ég hafði þekkt, og nefndi ég þar til þá konu sem sagði mér flestar sögur í æsku og ég tileinkaði bókina “Veður öll válynd” - hún hét Guðbjörg Bjarnadóttir og var hjá foreldrum mínum öll bernskuár mín - ennfremur ömmu mína, Sigríði Ólafsdóttur, sem var mjög sérkennileg kona og fór sínar eigin leiðir, og loks konu úr Grímsey, sem hafði flutzt vestur á Ísafjörð og hét Kristrún. Hún var sérkennileg í fasi og ekki síður í orðfæri, og minnist ég þess, að þegar hún var að segja móður minni frá dauða Kristjáns sonar síns, lét hún falla þessi orð, sem ég nota í sögunni: “O, það held ég maður muni, þegar hann Kristján minn hrapaði úr bjarginu og blóð- og heilasletturnar útum allt.” - Hún var hörkuleg á svipinn og þá var eins og hrykki hagl af augum hennar, og þó ég væri ungur, varð hún mér ógleymanleg. Þar með var bæði nafn sögunnar komið og uppistaðan í stílinn. Ég byrjaði svo á því að láta þennan stíl aðeins vera á tilsvörunum, skrifaði aftur og aftur, en aldrei líkaði mér, fyrr en ég samræmdi að miklu leyti það sem ég segi sjálfur í sögunni og tilsvör persónanna. Ég var í 3 ár að baksa við þetta. Mörgum hefur þótt orðaforði sögunnar sérkennilegur, og skal ég ekki mæla á móti því. Meginforða orðanna hafði ég heyrt fyrir vestan og munað - en ekki af munni neins eins manns, karls eða konu. Nokkur orð flugu mér í hug, meðan ég skrifaði bókina, og fannst eins og þau hefðu sprottið af munni Kristrúnar í Hamravík. En það eru ekki orðin, sem eru af erlendum stofni, það eru hin, t.d. orð eins og nánasaródýr og því um líkt.
Sumum hefur virzt, að trúboðinn í sögunni eigi ekki erindi í hana, hann sé ekki sérkennandi fyrir íslenzkt þjóðlíf og menningu og eigi í rauninni ekki heima í þessari bók. En hann er þarna fulltrúi hins uppflosnaða og rótlausa - og um leið einstrengingslegra trúarbragða, sem eru í algeru ósamræmi við þann kristindóm, sem hefur verið stoð og stytta alþýðunnar í þessu landi um aldaraðir. Hann er alger andstæða þeirra kotunga, sem hugsuðu eins og höfðingjar, en þeir voru margir - svo var anda fornra sagna fyrir að þakka - og það var einmitt sá andi, sem bjargaði þjóðinni og menningu hennar.
Niðurstaða bókarinnar, jú, niðurstaða bókarinnar er sú, að það sem mest er um vert, er ekki það, að yfirborðið sé glæsilegt, heldur að kjarninn sé heill og sterkur. Glæsileikinn er því aðeins æskilegur, að hið innra sé að sama skapi frjótt og veigamikið. Gildi Kristrúnar er það, að hún er persónugervingur seiglunnar, viðnámsins, lífstrúarinnar og hinnar ódrepandi hörku íslenzkrar alþýðu, sem barðist, stundum á hnjám, við örbirgð, kúgun og óblíða náttúru, en endurnærðist á sögusögnum og rímum og biblíulegum vísdómi.”
(1957)

Hagalín - minning


Skógurinn fellir laufið á hausti. Það er hvorki atburður né jarteikn, það er náttúrulögmál.
Þegar góði hirðirinn í samnefndri sögu Guðmundar G. Hagalíns, Hörður á Hömrum, gekk á fund herra síns reis hann skyndilega upp í rúminu, studdi niður hnúum og sneri sér fram. Andlitið ljómaði af fögnuði, augun glömpuðu. Hann sagði við konu sína eins og hann væri að búa sig undir enn eina ferð á heiðina: “Elskan mín, nú verð ég að biðja þig að vera fljóta að ná í sexbrodduðu járnin mín og stafinn. Hann ætlar nú ekki nema að lofa mér að skreppa með sér upp í Himinfjöllin.”
Þannig finnst mér endilega að dauðinn hafi einnig klappað að dyrum hjá Guðmundi G. Hagalín. Sjálfur dró hann að sér mikil veður, stundum válynd pólitísk veður eins og slíkir gerningar geta verstir orðið á þessum landskekli okkar. En nú þegar þessi góði hirðir er kominn í himinfjöllin sín og persóna hans er ekki lengur til að draga athyglina frá verkum hans og umsvifum er kyrrt í kringum minninguna. Það er lögmál dauðans.
Við upplifum logn veðurs í lífi Guðmundar G. Hagalíns og þá er margs að minnast og margt að þakka.
Sá góði gripur, hjarta Guðmundar G. Hagalíns, er hætt að slá, svo að vitnað sé í orð hans sjálfs í Góða hirðinum. En enginn þarf að ganga að því gruflandi hver verða örlög beztu skáldverka hans. Ég hygg þau verði endingabetri en flest það sem skrifað hefur verið á íslenzka tungu um okkar daga. Og á meðan við heyrum hjartslátt þeirrar þjóðar sem hann unni og ætlaði verk sín verður hann nálægari og nákomnari en flestir sem fylgja henni með sexbrodduð járnin sín. En það sem meira er: þessi hjartsláttur er í öllu því bezta sem hann skráði á bækur. Íslenzkari höfundur í þeim skilningi að skrifa samtíð sína og samfyldarmenn inní verk sín og sögupersónur er ekki til. Þar lifir þetta fólk í tungutaki sem það átti sjálft og var því eiginlegt.
Sagt er að móðurbræðrum séu menn líkastir en föðursystrum fljóð. Guðmundur G. Hagalín sagðist vera líkastur Oddi Guðmundssyni, móðurbróður sínum, og hann væri fyrirmynd aðalpersónunnar í Góða hirðinum. Hörður á Hömrum var kunnur af hörkudugnaði og fágætu kappi, segir í sögunni. Það voru þau einkenni Guðmundar G. Hagalíns sjálfs sem þjóðin þekkti hvað bezt.
Góði hirðirinn, Hörður á Hömrum, sem mátti ekki til þess hugsa að vera fjarri þegar hann gat orðið mönnum og skepnum að liði er einn athyglisverðasti tákngervingur skáldsins sjálfs í sögum hans. Þannig tók Hagalín unga rithöfunda upp á arma sína, agaði þá og hvatti til dáða. Þótt hann væri harður í sókn og vörn fyrir þann málstað sem hann trúði á, kafaði klofófærð og sporaði mannbroddum svell og klaka fyrir hugsjónir sínar um frelsi á válegri ójafnaðaröld, voru honum hlýja og mannúð í blóð borin. Og hjarta hans sannarlega valinn gripur í meira en einni merkingu; glaður og glettinn eins og Hörður á Hömrum, sérlegur í orði og minnugur á margt bæði lifað og lesið - allt á þetta við um Hagalín sjálfan. Það er engin tilviljun þegar skáldið tekur það fram í undirtitli ævisögu sinnar að þar sé bæði sagt frá því sem var séð og heyrt, lifað og lesið. Og það er ekki heldur tilviljun þegar Guðmundur G. Hagalín lýsir Herði á Hömrum, eða Oddi Guðmundssyni móðurbróður sínum, með þessum orðum: fylgdist óvenjuvel með öllu sem gerðist með þjóðinni og í umheiminum, en auk þess var hann afbrigða greiðamaður og var að sumu leyti fær um að leysa úr fyrir nágrönnum sínum, þar sem mikið lá við og aðrir gátu ekkert að gert.
Með þessi orð í minni hugsa margir rithöfundar nú til Hagalíns. Sæti hans verður ekki skipað. Hann var öðrum mönnum bókskyggnari og aldrei stærri en svo að hann teldi eftir sér að víkja að okkur hinum hlýju orði en sagði þó aldrei annað en það sem hann meinti.
Hagalín minnir á Ketil byskupsson Pálsson fremur en Loft bróður hans. Sturla Þórðarson hefur eftir Þorvaldi Gizurarsyni að sonum byskups væri ólíkt farið - kvað Ketil vilja mönnum hvatvetna gott, en Loft kvað hann mæla til manna hvatvetna gott. Á þessu er meira en brekkumunur.
Ég hef skrifað ýmislegt um Guðmund G. Hagalín og verk hans. Honum þótti sérlega vænt um áhuga minn á skáldskap hans, ekki sízt Kristrúnu í Hamravík, og var þakklátur fyrir að ég skyldi bjóðast til að gefa hana út á vegum Ríkisútgáfu námsbóka þegar Jón Emil vildi, svo hún yrði skólaæskunni tiltæk og auðveld lesning. Þá valdi ég einnig úr Kristrúnu í afmælisrit Skuggsjár, Íslendingur sögufróði, sem var gefið út þegar Hagalín varð sjötugur, 10. október 1968, en þar er úrval úr verkum skáldsins valið af aðdáendum hans og vinum. Þetta úrval er ekki sízt skemmtilegt vegna þess það lýsir þeim sem efni völdu ekki síður en Hagalín og verkum hans. Sjálfur valdi hann kafla úr Gróðri og sandfoki - og lýsir það honum betur en mörg orð að leiðarlokum.
Ég þykist vita að það hefði verið Guðmundi G. Hagalín að skapi að ég vitna í formála minn fyrir skólaútgáfunni af Kristrúnu, svo miklar mætur sem hann hafði sjálfur á þessu sérstæða listaverki. Eins og Flaubert sagði: Madame Bovary, það er ég, þannig gat Hagalín einnig sagt með sanni: Kristrún í Hamravík, það er ég - og lét stundum að því liggja.
“Kristrún í Hamravík, sú góða gamla kona, hefur litlar áhyggjur af syndinni, sem var sr. Hallgrími í senn innblástur og örlagaþraut, og a.m.k. minni áhyggjur af freistingunni en guðsmennirnir, enda hefur hún vafalaust ónáðað þá meira. Trú hennar var sízt af öllu byggð á ótta, hvorki vegna sjálfrar sín né annarra. Orðið sálarháski var t.a.m. ekki í orðasafni hennar, heldur frí og frívilji. Hún gerir upp við guð sinn, sættist við hann með þessum orðum í sögulok: “Og þar sem þú lézt mig nú, fría og óhindraða, greiða þessa flækjuna eftir beztu getu, og hefur kveikt nýtt líf í þessu baðstofukorni, þá mundi geta svo heitið, að við værum nú loksins fyrir alvöru klár og kvitt. Minnsta kosti mun hún ég ekki setja í mig neinn hofmóð, þegar hlutaskiptin eiga fram að fara. Og þó ...Yrðir þú með eitthvert rex eða vesen út af mínu áralagi, þá er hætt við, að ég legði kolhúfur...” Hún frelsaðist ekki vegna iðrunar, þrælsótta, ofstækis né hræsni, heldur vegna eigin gerða og þess hjartalags, sem var aðal hennar og óðal.”
Mbl. 9. marz ‘85.


 

 


1. febrúar, laugardagur

Gylfi Þ. Gíslason sem verður áttræður næsta föstudag sagði mér um daginn að það hefði ekki verið Vilmundur landlæknir sem gerði hann að krata, heldur Bertrand Russel. Þá var hann að byrja í MR og las heimspeki Russels, en hafði ekki kynnzt konu sinni sem síðar varð, Guðrúnu Vilmundardóttur.



6. febrúar, fimmtudagur

Hitti Jón Sigurðsson bankastjóra í Helsingfors. Við borðuðum saman í Nausti. Töluðum um landsins gagn og nauðsynjar. Hann fór með kvæði eftir finnska skáldið Huldén um Bessastaði og einmannaleikann þar. Þá varð þetta til:

Skuggalaus
varpar sólin
skugga
yfir sólarlaust
nesið.

 


 



11. febrúar, þriðjudagur

Sendi Kristjáni Karlssyni ljóðasyrpu fyrir helgi. Fékk þetta bréf í dag, ásamt þessu skemmtilega ljóði, sem fylgir.
9. febrúar ‘97
Kæri vinur.
Beztu þakkir fyrir kvæðin, bréf og boð í lunch. 14. er alveg prýðilegur dagur; ég er þessvegna að hugsa um að gera hann að opinberum afmælisdegi mínum framvegis.
Kvæðin þín vóru glæsileg; sum þau styttri hefðu glatt hjarta imagistanna sem vóru vissulega kröfuharðir karlar - og enginn stíll af því kjarnsækna tagi úreldist, þegar ort er vel. Meira þegar við sjáumst.
Ég þykist finna (óljóst) að þér hafi þótt ég fullgleiðyrtur um Jón úr Vör. En það er erfitt að skilgreina mál sitt þegar maður er spurður í síma (ég hefi ekki séð þetta Alþ.bl. þar sem talað var um Jón - af mér og fleirum; og í öðru lagi er ekki hægt að skera orð sín við nögl í afmæliskveðjum.
Ég veit að við erum sammála um að Jón er tímamótaskáld; hann snýr við blaði í ljóðagerð okkar; fer yfir í prósa eða lesmál um hversdagslegt líf. Hann á einskonar fyrirrennara í miklu síðri höfundum hér hvað sem erl. fyrirmyndum líður. Theódór Fr.syni (í smásögum Theódórs úr þorpum, ekki ævisögunni góðu), Davíð Þorvaldssyni; kannski Einari H. Kvaran, sem er auðvitað góður. En tímamótaverk eru ekki alltaf mjög góður skáldskapur, þó að öll góð kvæði séu hinsvegar tímamótaskáldskapur. Með nýju góðu kvæði verðum við nefnilega að hugsa um skáldskap að einhverju leyti upp á nýtt - byrja aftur. Þessu leyfi ég mér hérmeð að halda blákalt fram - og veit reyndar að þín skoðun fer ekki mjög fjarri þessari.
Ég skal án þess að hiksta eða hika “færa rök fyrir því” að Fagra veröld og ekki síður Stjörnur vorsins séu tímamótaverk, að nokkru leyti sögulega, en að sögulegt gildi þeirra sé ófrágreinanlegt skáldskapargildi þeirra, o.s.frv.
En ég er ekki mjög hrifinn af Þorpinu og leiðist að geta ekki verið það, því að ég skynja sögulega þýðingu þess. - Sama máli gegnir fyrir mig um Tímann og vatnið. Það er líka tímamótaverk - en ég er svolítið skeptískur gagnvart því, og þú mátt til að sýna mér umburðarlyndi með þetta, a.m.k. þangað til við hittumst, en þá býst ég við því versta!
Þakka þér svo fyrir merkilegar greinar í Helgispjalli sem ég las með mikilli athygli. Meira um þær. Og ég held þú hafir síðsta orðið um Alsnjóa.
Þinn Kristján.

Sendi þér svolítið kvæði sem snertir óljóst það sem að framan segir(?)

Ah, tíminn og þorpið
- vatnið og hann.
Dagarnir grynnast
kringum mann.

Vitum við lengur
hver er hvur?
Le communisme
se denature.

Er okkur ljóst
hvort tíminn flýr?
Þekkjum við sundur
fljót og brýr?

Segjum við lengur
“búin í stakk?”
Vonandi ekki.
Mange Tak.

Tölum við ekki
dönsku? Nei.
On parle l’anglais
á þessari ey.

Í sekúndulítrum
er áin dýr.
Nóttin kemur
og vatnið flýr.


Samkenndarþjóðfélagið

               
Í athyglisverðri grein Þrastar Helgasonar um Gunnar Gunnarsson og verk hans, sem birtist í Menningarblaði Lesbókar 8. febrúar síðastliðinn segir hann “að hinn forna arf” sé ekki einungis að finna í skáldsögunni Jörð heldur sé hann rauði þráðurinn í verkum Gunnars. Og hann bætir við: “Eining og sundrung er grunnþema í flestum verka hans og hugsjónin um samræmi, um hinn heila mann, er ríkjandi: Ormarr Örlygsson, séra Sturla, Fjalla-Bensi, Þorsteinn Ingólfsson, allir eru þeir stef við þetta sama grunnþema.”
Þetta er í senn merkileg niðurstaða og eftirminnileg athugasemd við þann mikla skáldskap sem Gunnar Gunnarsson lét eftir sig. Og í þessari grein Þrastar er harla mikilvæg skírskotun í það samkenndarþjóðfélag sem Gunnar Gunnarsson boðaði í skáldverkum sínum. Þóað einstaklingurinn í þessari veröld Gunnars væri að öðru jöfnu sterkur og minnisstæður sótti hann ekki endilega kraft sinn í það einstaklingseðli sem Kierkegaard boðaði heldur í þá samfélagslegu einingu sem var hluti heildarinnar. Einstaklingurinn var ekki einungis hluti af heildinni heldur einnig - og ekki síður - af því umhverfi, eða náttúrunni, sem hann lifði  í og hafði áhrif á umhverfissamúð hans ef svo mætti að orði komast.
Í Jörð sem Þröstur Helgason bendir með sannfærandi hætti á að sé skrifuð með hliðsjón af kenningum danska fjölfræðingsins Vilhelms Grønbechs (1873-1948), er fyrst og síðast fjallað um Þorstein Ingólfsson, son fyrsta landnámsmannsins, og baráttu hans fyrir því að koma skikkan á nýtt samfélag fólks úr ýmsum áttum.
“Sá hópur sameinast um síðir innan vébanda eins þings, Alþingis, sem öðru fremur gerir hann að þjóð, jafnframt er hún saga um samskipti manna innan sterkra banda ættartengsla og um sambúð manns og náttúru, manns og jarðar."
Og Þröstur leggur áherzlu á að persónurnar í skáldsögu þessari séu “bundnar hver annarri traustum en stundum óljósum böndum heildarhyggjunnar sem birtast hvað skýrast í sterkum ættartengslum.
” En það kemur og þráfaldlega fram að Þorsteinn á í innri baráttu við sjálfsku sína, í honum togast á einstaklingshyggja og heildarhyggja. Hann verður að “gleyma sínum eigin erfiðleikum; láta sem þeir séu ekki til” (49) til að geta unnið að málum þjóðarinnar í heild og sameinað hana; eigingirnin má ekki taka yfir í sál hans og slæva dómgreindina” (51).
Og ennfremur:
“Heildarhyggjan er þó iðulega sérdrægninni yfirsterkari og nær raunar út yfir ættartengslin. Arnarhváls-feðgar finna til samkenndar með þjóðinni allri sem endurspeglast skýrlega í hugsjón þeirra um að sameina hana í friði að einum lögum, einu allsherjarþingi, heiðna sem kristna.”
Og Þröstur bætir við:
“Samkvæmt Grønbech ríkti ávallt friður á milli frænda og á honum grundvallaðist ættarsamfélagið. Þessi friður var hins vegar ekki sá sami og var táknaður með orðinu “pax” á latínu og þýddi að vopn voru lögð niður". Hér gat þvert á móti verið um að ræða frið sem studdist við spjótsodda, þ.e. er frið germana þegar stríðandi öfl tóku höndum saman án þess að óróaöflin væru fjarlægð úr samkenndarþjóðfélaginu.
" Slíkum friði vilja Arnarhválsfeðgar koma á í landi sínu, friðarkrafti sem bindur saman hina ólíku hópa sem það byggja og gerir þá sterka. Sameinuð getur þjóðin varist utanaðkomandi áreitni, sundruð er hún varnarlaus; í Jörð segir:
“Nú er það hlutverk Þorsteins að byggja áfram í landi föður síns, þó með öðrum hætti sé, tryggja bólfestu sína og sinna; forða ísmeygjunni við brögðum Haralds konungs og annarra, sem kynnu að vilja hafa hana fyrir féþúfu; safna saman bændum og búaliði í friði og sátt, þannig að hér megi verða lífvænt, hver maður starfa óhultur að degi, sofa öruggur að nóttu” (60).
Þannig er lögð áherzla á það í skáldsögu Gunnars Gunnarssonar að sundurþykkar fylkingar sameinist í eina þjóð sem gæti lifað af með þeim hætti einum.
Hann hafði einsog Þröstur Helgason bendir á boðað slíkt samkenndarþjóðfélag með Norðurlöndum og þegar ég á sínum tíma spurði hann um þær ásakanir sem hann hafði orðið fyrir vegna dálætis á Þýzkalandi og þýzkri menningu benti hann á að þessi  afstaða hans væri angi af þeirri norrænu hugsjón sem hann hefði heillazt af og ævinlega barizt fyrir. Hann leit á Norðurlönd sem einskonar samkenndarsamfélag norrænna þjóða sem ættu sameiginlegar rætur og litu svipuðum  augum á stöðu sína, arfleifð og umhverfi.
Þröstur bendir á að þetta sjónarmið Gunnars hafi komið mjög skýrt fram í ræðu sem hann flutti 15. júní 1926 og nefnist Örlög Norðurlanda en þar segir hann meðal annars að Norðurlönd séu ein þjóð sem þjóðarmismunur jafnt sem andlegur mismunur sneiði hjá. Þar ríki norrænt andlegt líf og þótt það eigi sér ólíka tóna þá sé andinn einn:
“Einn - en sundraður” einsog segir í ræðunni.
Sundrungin leiði til tortímingar og það eigi jafnt við um einstakling og þjóð.
Grønbech var svipaðrar skoðunar enda var hugmyndafræði hans “mörkuð af einingarþrá og heildarhyggju; eining átti að ríkja meðal manna innra sem ytra, en menn og náttúra voru ein heild”, eins og Þröstur tekur enn til orða. Og hann  bendir á að Grønbech og Kierkegaard hafi átt það sammerkt “að hafa miklar efasemdir um hina borgaralegu siðmenningu”, þótt Grønbeck hafi verið mótfallinn  tilvistarhyggju Kierkegaards.
Það má einnig finna rök fyrir því í verkum Gunnars Gunnarssonar að hann hafi haft efasemdir um þessa sömu siðmenningu enda þótt hann hafi verið harla borgaralegt skáld og andvígur þeim marxisma sem þá var í tízku. Hann lagði höfuðáherzlu á einingu andspænis sundrungaröflum í þjóðfélaginu og taldi að slík eining ein gæti leitt til farsældar.
“Heilhuga maður var hamingjumaður því í sál hans ríkti jafnvægi, en sá sem var óheill og sundraður var níðingur” (116).
Þessi heilhugur Gunnars Gunnarssonar á ekki einungis rætur í drengskaparhyggju fornaldar heldur einnig - og ekki síður - í þeirri kristnu  afstöðu sem við kynnumst í Opinberunarbók Jóhannesar þar sem talað er um þessa sömu heilhyggju og ráðizt er gegn allri hálfvelgju, en þessi afstaða er skýrð með tilvitnun í Krist sjálfan; menn eiga annaðhvort að vera heitir eða kaldir einsog komizt er að orði í Opinberuninni, menn verða að taka afstöðu; heilhugur en ekki hálfvelgja, er það sem máli skiptir.
Og þá erum við komin í næsta nágrenni við tilvistarhugsjón Kierkegaards og þær siðferðilegu kröfur sem  hann gerði til kristinna einstaklinga - og þá að sjálfsögðu einnig til þess samkenndarþjóðfélags sem reist er á kristinni kenningu. Menn verða jafnvel að axla krossinn ef heilhyggjan krefst þess. Þeir mega ekki flýja Golgata og búa um sig í hálfvelgju sannleiksvitnisins sem tekur enga áhættu og notar kristnina sér og hégóma sínum til framdráttar frekar en rækta hana með sjálfum sér.
Gunnar Gunnarsson og aðrir mikilvægir boðberar samkenndarþjóðfélagsins hafa aldrei prédikað samkenndarþjóðfélag hálfvelgjunnar, heldur þann heilhug sem einstaklingum og samfélagi þeirra er sæmandi.
Hið forna íslenzka samkenndarþjóðfélag studdist lengi vel við spjótsodda. Það átti sitt Alþingi og sína kaþólsku kirkju, eða móður, eins og Sturla Þórðarson nefnir hana í Íslendinga bók. En þegar sundrungin magnaðist á 13. öld fór þessari móður að blæða einsog Sturla getur í heldur dapurlegum kafla sögu sinnar. Sundrungin magnast þegar samfélagið leysist upp í fjandsamlegar fylkingar. Samkenndin er ekki bundin við heildina, heldur einstaka forystumenn, hvortsem þeir heita Kolbeinn ungi, Gizur, Sturla Sighvatsson eða Hrafn Oddsson. Og það er að sjálfsögðu í þessum hildarleik sundrungarinnar sem Íslendingar glata sjálfsforræði sínu í hendur norskra konunga. Átökin milli einstakra héraðshöfðingja verða svo mögnuð á sturlungaöld að Sturlu Þórðarsyni blöskrar einatt í sögu sinni og þess verður einnig vart að fram af höfundum gangi í öðrum þáttum Sturlungu.
Þjóðríkið sem var stofnað á Alþingi árið 930 er að kafna í eigin blóði. Og að því kemur að höfundur þeirrar Íslendinga sögu sem listrænust þykir og áhrifamest skáldverk um átök þessarar aldar, að vísu með hliðsjón af söguöld og köppum sem att var saman í kringum kristnitöku, blöskrar svo siðleysi þessara kaþólsku villimanna að hann varar við þeim í verki sínu með þeim hætti að boðskapur Njáls sögu verður skýr og öllum ljós einsog hann stendur í sögunni: Sjaldan verður hönd höggi fegin og Eigi skal vega í knérum.
Þetta er boðskapur Njálu.
Og með því að minna kirfilega á að Kolbeinn ungi er afkomandi níðingsins Marðar Valgarðssonar og þeirra illmenna sem að honum stóðu er einsýnt að höfundur Njálu lítur svo á að rætur sundrungarinnar megi rekja til þessa ættboga og þeirra höfðingja sem voru brjóst hans og forysta. Enginn maður  var líklegri til að hafa slíkar hugmyndir um samfélag sitt en sturlunginn Sturla skáld Þórðarson. Í Njálu blæddi móðurinni ekkisíður en í Sturlungu þvíað Mörður Valgarðsson var sannkristinn níðingur einsog þeir höfðingjar sem stjórnuðu blóðbaðinu í umhverfi Njáluhöfundar sjálfs.
Í níðingsskap var hann öllum heiðingjum fremri. Það hljóta að vera mikilvæg og athyglisverð skilaboð úr því samfélagi sem er einskonar andi sögunnar.
Hið íslenzka samkenndarþjóðfélag á rætur í kristninni, tungunni og náttúru landsins. Þessir eru þeir frumþættir samkenndarinnar og þjóðfélagsins sem sköpum skipta.
Það mætti því segja að kristin trú sé mikilvægari forsenda þessa þjóðfélags en virzt gæti í fljótu bragði, svoað ekki sé talað um tunguna og landið sjálft. Ef ein þessara forsenda brygðist gæti það leitt til nýrrar sundrungar og upplausnar í því samkenndarþjóðfélagi sem við lifum. Ræktun tungu og lands - og þá ekkisízt íslenzkrar náttúru - eru þannig harla mikilvægar forsendur þess að þjóðríkið standi og styðjist við þann heilhug sem boðaður er í Opinberunarbókinni. Þannig verður umhverfisvernd og ræktun náttúrunnar ekkisízt mikilvæg forsenda friðar og samkenndar í þjóðfélaginu og ætti fremur að leiða til samstarfs en sundrungar þótt á því vilji verða misbrestur.
Íslenzkt þjóðfélag styðst ekki lengur við spjótsodda. Það styðst við þær sögulegu forsendur sem ég hef nefnt og af þeim sökum engin furða hve mikla áherzlu forystumenn sjálfstæðisbaráttunnar  lögðu á þessar forsendur, bæði Eggert Ólafsson og fjölnismenn, en landið og arfleifðin voru þeir leiðarsteinar  sem sigla átti eftir inní glæsilega framtíð einingar og hagsældar. Ísland farsældar frón var komið undir því hvernig við ræktuðum það sem yki með okkur samkennd og samúð fremur en þá sundrung sem leysti upp þjóðríkið á 13. öld.
Sjálfstæðisbaráttan fyrr á þessari öld var harður skóli og þá var einatt tekizt á með orðfæri sem fremur minnti á vopnaburð sturlungaaldar en það friðarríki sjálfstæðis og einhugar sem að var stefnt. En með Sambandslagasáttmálanum 1918 var sundrunginni bægt frá og samkenndarþjóðfélagið hóf göngu sína inní nýja framtíð.
En það voru ljón á veginum.
Kalda stríðið og átökin um heimskommúnismann var að sjálfsögðu hættulegsta ljónið og mátti litlu muna að samkenndarþjóðfélagið sundraðist enn á ný í þeim hildarleik þegar tekizt var á um hugmyndafræði heimskommúnismans. Þjóðin átti ekki lengur öll einn vilja. Hún leystist upp í tvær harla fjandsamlegar fylkingar. Það voru mikil átök og erfið. Það var barizt með orðum og hugmyndum en ekki vopnum.
En heimskommúnisminn hrundi fyrir augum okkar, marxismi kalda stríðsins var lýstur gjaldþrota og sárin tóku að gróa. Sundurlyndisfjandinn var á hröðum flótta þegar átökin um auðlindina hófust fyrir alvöru en þau gætu orðið samkenndarþjóðfélaginu skeinuhætt þegar fram í sækir, þótt þessi átök snerti ekki forsendur slíks þjóðfélags, trú, tungu og náttúruna í kringum okkur, heldur eignarrétt og veraldlegan hlut hvers og eins í þessu samfélagi. Slík átök hafa orðið á öllum öldum og verða áfram svo lengi sem maðurinn býr við takmarkaðar auðlindir.
En Buckminster Fuller hélt því eindregið fram í samtölum okkar sem birt eru í
Félaga orði að auðlindir heimsins séu ótakmarkaðar vegna þess að orkan sé takmarkalaus þótt við höfum ekki enn uppgötvað svo augljósa staðreynd.
Samfélagsleg átök munu þó enn og ávallt setja mark sitt á samkenndarþjóðfélagið, ekkisíður en þau samfélög sem eiga sér aðrar forsendur og hafa blómgazt af annarri samkennd en okkar þjóðfélag; Sviss og Bandaríkin svoað dæmi séu tekin. Og þá væntanlega einnig Evrópusambandið ef það þróast í átt til þjóðríkis - og heldur velli.
Utanríkisráðherrar Norðurlanda voru á einu máli um það í sjónvarpsþætti í febrúar að samstarfið í Norðurlandaráði væri nú meira og betra en nokkru sinni fyrr. Það má vel vera. Enginn þarf að ganga í grafgötur um vináttu þessara þjóða og þá ríku samúð sem þær hafa hver með annarri. Stofninn er á sínum stað og vex upp af gömlum rótum en greinarnar kvíslast hver frá annarri. Eikin hefur þó næringu úr sama jarðvegi og hún vex undir sama himni. En forsendur samkenndarinnar eru nú aðrar en áður. Þær eru arfleifðin ein og fjölbreyttni hennar.
Sú var tíðin að Íslendingar og Norðmenn áttu allt sameiginlegt, jafnvel  hafið og landið. Nú er það ekki lengur. En þegar maður ferðast um Noreg minnir önnurhver þúfa á þennan sameiginlega arf, þennan sameiginlega uppruna. Og þóað slettist með köflum uppá vinskapinn einsog við höfum orðið vitni að lifir enn í gömlum glæðum.
Þegar ég var á ferð um vesturströnd Noregs ekki fyrir mörgum árum, las upp og flutti ræður, var mér fagnað einsog samlanda. Margir töluðu einsog Færeyingar en ekki eins og Oslóarbúar. Ég gat talað íslenzku við þetta fólk ef útí það fór og ég hef hvergi fundið aðra eins samkennd með þjóð okkar einsog þarna á vesturströnd Noregs.
Minnti mig á Færeyjar.
Arfleifðin leynir sér ekki heldur í sænskum örnefnum og einstökum orðum. Þannig erum við einnig minnt á sameiginlegan uppruna, þegar við erum á ferð um Svíþjóð og sækjum heim sömu slóðir og Sighvatur skáld forðum þegar hann orti Austurfararvísur. Það er þá ekki minnst um vert hve oft er minnt á sameiginlega arfleifð okkar og Norðurlandaþjóða í norrænum bókmenntum, ekkisízt í bókmenntum síðustu aldar. Þar hefur þessi samkennd lifað góðu lífi og borið arfleifðinni fagurt vitni. Þótt ekki væri fyrir annað væru bókmenntir Norðurlandaþjóða einhver traustasti bakhjarl þess samstarfs og þeirrar vináttu sem utanríkisráðherrar þjóðanna lögðu áherzlu á í fyrrnefndum sjónvarpsþætti.


13. febrúar, fimmtudagur

Rakst á grein eftir Valtý Stefánsson í afmælisblaði Morgunblaðsins 1953 þar sem þessi úttekt er á mannskapnum:
“Ýmsir hafa unnið við ritstjórnina um lengri eða skemmri tíma á þessum árum, m.a. þessir:
Guðmundur Ásmundsson cand. jur., frk. Margrét Indriðadóttir, er nú starfar að fréttaöflun útvarpsins, Gísli J. Ástþórsson frá Vestmannaeyjum, en hann hafði m.a. lagt stund á blaðamennskunám í Vesturheimi, Ásgeir Pétursson cand. jur., Stefán Hilmarsson cand. jur, og á síðustu árum Bjarni Sigurðsson guðfræðinemi og á síðustu misserum Gunnar Schram stud. jur. Eftir að Bjarni hafði samfleytt í nokkur ár unnið við ritstjórnina, hefir hann síðustu sumur unnið við blaðið fjölþætt störf, m.a. ritað greinar um guðfræðileg efni er sérstaka eftirtekt hafa vakið, skrifað fyrir Víkverja og erlendar fréttir o.fl. En Gunnar Schram hefir haft umsjón með æskulýðssíðunni, ritað um stjórnmál, þingfréttir o.fl. Hann er meðal efnilegustu ungra manna í Sjálfstæðisflokknum.
Að sjálfsögðu hefur starfstilhögunin við ritstjórnina orðið smátt og smátt allt önnur en hún var á þeim tíma, er aðeins þrír til fjórir menn höfðu ritstjórnina á hendi. Hefur hún enn tekið miklum breytingum síðan það tókst að stækka blaðið í núverandi stærð þess. Breyttir og bættir starfshættir við ritstjórnina eiga líka, að nokkru leyti, rót sína að rekja til þess, að á undanförnum árum hefur myndast sérstök starfstétt með þjóðinni, þar sem eru þeir menn sem starfa við blöðin og fréttasöfnun útvarpsins. Gera þessir menn að sjálfsöðgu meiri kröfur til afmarkaðs vinnutíma heldur en þeir fáu menn sem á undanförnum áratugum unnu að ritstjórn Morgunblaðsins oft á tíðum nótt með degi, allan ársins hring, til að koma blaðinu út, eftir því sem þáverandi kringumstæður frekast leyfðu.
Stjórnmálaritstjórar Ísafoldar voru m.a. þessir á starfsárum Jóns Kjartanssonar við blaðið: Árni Jónsson frá Múla frá ársbyrjun 1930, en hann hafði þá um hríð verið ritstjóri Varðar. Nokkru síðar hvarf hann til Seyðisfjarðar, stofnaði þar blaðið Austurland, er hann gaf út næstu árin. Við ritstjórn Ísafoldar tók Sigurður Kristjánsson 1931 og starfaði að henni næstu tvö ár. Árni Jónsson frá Múla kom nokkru síðar aftur að ritstjórn Morgunblaðsins og Ísafoldar, og vann þar ásamt erindrekastörfum við Samband íslenzkra fiskframleiðenda á árunum 1936 til 1939. Jón Pálmason, alþingismaður og meðritstjóri Ísafoldar og Varðar frá 2. október 1943 til s.l. vors.
Sigurður Bjarnason frá Vigur vann í ígripum við Morgunblaðið á námsárum sínum, en gerðist fastur starfsmaður ritstjórnarinnar árið 1947. Hefur hann að mestu haft stjórnmálaritstjórnina á hendi síðan Jón Kjartansson tók við sýslumannsembætti Skaftafellssýslu og fram á þennan dag. Væri óskandi að Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn fengi að njóta starfskrafta Sigurðar sem lengst í þessari stöðu hans.
Síðan Ívar Guðmundsson hvarf frá blaðinu, hefur Þorbjörn Guðmundsson, sem þá var nýútskrifaður stúdent frá Akureyrarskóla, haft á hendi umsjón með fréttasöfnun ritstjórnarinnar og niðurröðun efnis. Er hann frábær að reglusemi og áreiðanleik í hvívetna. Áður hafði hann aðallega starfað að íþróttafréttum og öðru skyldu efni.
Sverrir Þórðarson gerðist starfsmaður ritstjórnarinnar fyrir 10 árum, en áður hafði hann um skeið verið starfsmaður Landsbankans. Vinnur hann aðallega að öflun og ritstjórn innlendra frétta og er, sem kunnugt er, afkastamikill starfsmaður, áhugasamur og árvakur.
Erlendu fréttirnar hafa þeir nú á hendi Þorsteinn Thorarensen cand. jur., Atli Steinarsson og Matthías Johannessen stud. mag. Þorsteinn kom fyrst að ritstjórninni í júní 1947, en lauk lögfræðinámi sínu samhliða ritstjórnarstörfum árið 1952. Hefur hann af miklum dugnaði aflað sér víðtækrar þekkingar á þróun heimsmálanna og er fjölfróður maður með afbrigðum.
Atli Steinarsson kom að ritstjórninni í júlí 1959 að afloknu stúdentsprófi. Skömmu síðar tók hann að sér íþróttafréttirnar og hefur haft þær á hendi síðan. Auk þess vinnur hann við erlendu fréttirnar og hefur lagt mikla vinnu í ritstjórn “Daglega lífsins”.
Á síðasta ári bættist ritstjórninni nýr starfsmaður, Matthías Johannessen stud. mag. er bæði hefur unnið við erlendu fréttirnar og annast, meðal annars, að verulegu leyti þá erlendu bókmenntaþætti, sem birzt hafa í blaðinu við og við, skrifað “Daglega lífið” með Atla af lipurð og smekkvísi o.fl. Hugþekkur samstarfsmaður er má vænta mikils af í framtíðinni.
Sigurlaug Bjarnadóttir, cand. mag., hefur á síðasta ári lagt stund á viðtöl í blaðinu og tekizt vel. Hefur hún auk þess aðalumsjón með kvennasíðunni. Nýtur hún þar aðstoðar Önnu Bjarnason, er auk þess vinnur við bæjarfréttir og ýmis önnur störf til léttis við ritstjórnina. Hefur hún verið við blaðið frá því í ágúst 1951.
Að sjálfsögðu er ritstjórnin svo fámenn, enn sem komið er, að starfsskiptingin getur aldrei orðið nákvæm. - Menn verða iðulega að hlaupa í skarðið fyrir félaga sína, eftir því sem henta þykir á hverjum degi. Þá reynir á að samvinna sé hin bezta. Því án góðrar samvinnu og án einlægs samstarfs verða hin daglegu störf naumast unnin sem skyldi. Enda hefur, sem betur fer, sá andi ráðið í ritstjórninni alla tíð og störfin fyrir það unnist léttar og ánægjulegar.
Frá því á árinu 1941 hefur blaðið haft í þjónustu sinni loftskeytamann, er vinnur að upptöku frétta. Fjórir hafa þeir alls verið, er hafa haft þau störf á hendi. Fyrsta misserið Kjartan Steinback, þá tók við Haukur Jóhannesson, þá Halldór Jónsson, síðar ritstjóri Sjómannablaðsins.
Frá því 1. apríl 1946 hefur Guðmundur Eyþórsson haft það starf á hendi. Er það veigamikið fyrir erl. fréttaþjónustuna. Þá starfar hann einnig við fréttaritstjórnina á kvöldin o.fl.”
Nú eru allir löngu hættir á blaðinu nema undirritaður. Þetta er ekki sami Moggi og ég réðst til, heldur gerbreytt blað. Merkilegt að hugsa til baka og sjá þessar breytingar. Gamli Moggi var eins og árabátur miðað við Brúarfoss nútímans. Síðastur hvarf Sverrir af blaðinu, nei Ólafur K. Magnússon vinur minn sem Valtýr nefnir ekki í þessari upptalningu. Hann hefur verið betri en enginn. Tók frábærar fréttamyndir af atburðum sem annars væru ekki til. Gunnar Rúnar var einnig liðtækur ljósmyndari, einnig Vignir Guðmundsson. En hann fór illa í viðskiptum við Bakkus. Einsog margir aðrir vinir mínir á blaðinu. Ég vann aldrei með Margréti, Guðmundi Ásmundssyni eða Ásgeiri Péturssyni, en endurréð Gísla Ástþórsson að blaðinu á sínum tíma. Við Bjarni Sigurðsson vorum í sama herbergi í Ísafoldarhúsinu við Austurstræti, hann sótti síðar um Mosfellsprestakall og var ég þá fulltrúi hans á kjörstað! Ég kynnti hann fyrir Stardalsheimilinu sem studdi hann. Gunnar G. Schram átti þátt í því að ég fór að starfa fyrir blaðið með námi, það var 1951, eftir að ég hafði verið þingskrifari ásamt Þorsteini skáldi Valdimarssyni og Gísla Jónssyni. Þá þýddi ég ýmislegt fyrir blaðið sem einskonar lausamaður, mætti segja. Allt hefur maður nú prófað!

En hvað skyldi Valtýr segja ef hann mætti nú augum líta þennan gamla starfsvettvang sinn?
Held hann yrði harla ánægður.

Sé á samtali við Þorstein vin minn Gylfason í Alþýðublaðinu í gær að hann lærði ensku af ritum Bertrands Russels og metur hann enn öðrum fremur, sýnist mér. Þorsteinn segist ekki trúa á annað líf. Það er ekki arfur frá Gylfa, en líklega Russel og Vilmundi landlækni, ætli það ekki?


Kvöldið


Sigfús Jónsson framkvæmdastjóri Morgunblaðsins kenndi mér orðtakið: að róa e-n útaf gærunni. Styrmir var í hádegisverði hjá Sverri Hermannssyni um daginn ásamt Matthíasi Bjarnasyni og Mathiesen, þá gekk Sverrir útað glugganum, horfir yfir Sundin og sagði: Það er aldeilis gæran, þ.e. vindgæra; einnig sauðskinn með ull; sbr. gári; skinnaköst á sjó (oftast: gærur í flt.).

13. febrúar, fimmtudagur - Kvöldið


Kjartan Helgason skrifar í dag bréf til mín sem birt er í Morgunblaðinu. Sumt skemmtilegt, annað ekki. Karlinn lætur vaða á súðum, einkum um þjóðmál. Einkennileg þessi tegund af samfélagsíslendingum. Þeir eru í öllum flokkum. Sumir þurfa að skipta sér af öllum málum. Aldrei mundi ég skipta mér af neinu ef ég þyrfti þess ekki. Kjartan segir að verst sé hvað það er að verða reimt á Bessastöðum! Gott hjá karli! Í lokin kemst hann svo að orði:
“Það er svo ósk mín til þín, kæri Matthías, að þú minnist skáldbróður þíns, sem skrifaði bókina um Eymd heimspekinnar og Heimspeki eymdarinnar og fékk eiginlega aldrei botn í. Reynir að kryfja þetta til mergjar og senda frá þér þó ekki væri nema ljóð til útskýringar.
Ég sendi þér svo eina, sem sögð er eftir Jón Rafnsson á velmektardögum þeirra fyrir austan:

Ástandið er hér ei til hags, andlegur dvínar þroski.
Ástin er köld í anda Marx, Engels og Zapotosky.
Stenst ekki neitt í stormi dags, Stalín er verri en Trotski.
Sölumiðstöðin sendi strax sjö hundruð tonn af þorski.”

Hafði gaman af þessu og þá ekki síður skírskotuninni í Þórberg.


Það eru fleiri en Kjartan Helgason sem eru farnir á stúfana. Margir þögnuðu fyrir jól og höfðu hægt um sig yfir áramót. En á þrettándanum æruðust ýmsir og þá var ekki að sökum að spyrja. Setuliðið hóf nýja innrás í fjölmiðlana og síðan hefur ekki verið stundlegur friður. Sumir eru eins og flugur, þeir hverfa með öllu en taka svo skyndilega að suða í fjölmiðlum og enginn stundlegur friður fyrir suðinu.
Nú er Steingrímur vinur minn Sigurðsson kominn á stúfana. Það er að vísu nokkuð gott hjá honum því hann er að rétta Hauki vini mínum Jónassyni lækni hjálparhönd en að honum var ráðizt grimmilega í DV um daginn. Það er manneskja í Steingrími en hann getur verið ágengur. Stundum þreytir hann mig eins og óþekkur krakki á dagvistarheimili. En þá er að dusta hann til og gengur oftast ágætlega.


Anna litla sonardóttir mín fékk skarlatsótt um helgina. Nú er þessi gamla drepsótt ekki verri en svo að hún mátti fara í skólann í dag, fimmtudag. Hún er sex ára. Ég var annað hvort fimm eða sex ára þegar ég fékk skarlatsóttina, þá var hún drepsótt. Þá bjuggum við í ÍR-húsinu. Þá var ég settur í sóttkví og móðir mín hjúkraði mér. Hún vildi ekki að ég færi á farsóttarhúsið, hún vildi heldur að ég dæi heima. Þegar upp komst um veikina greip um sig ótti. Það var eins og ég hefði fengið holdsveiki eða svarta dauða. Allir yfirgáfu íbúðina nema við mamma. Stundum var ég með óráð, stundum bráði af mér. Af einhverjum ástæðum vissi ég að ég gæti dáið. En á þeim árum var ég óhræddur við dauðann. Ég óttaðist sársauka. Gröfturinn lak úr eyrum mínum og ég var að ærast af kvölum. Það var mikil áraun fyrir lítinn dreng. Ekkert pensilín, engin lyf. Einungis nærvera góðrar móður og hennar hlýju hendur. Hún hafði áður setið yfir fósturbróður sínum, Ólafi, þegar hann fékk skarlatsóttina í Þórshamri við Tjörnina. Móðir mín var óeigingjarnasta manneskja sem ég hef kynnzt.
Hún var eins og líknandi engill sem breiðir vængina yfir smælingjann.

Þetta var annað hvort sumarið 1935 eða 36, ég man það ekki gerla. En ég veit það var að sumarlagi því ég veiktist í laxveiðiferð með Lárusi móðurbróður mínum en hann tók okkur Guðjón frænda minn, nú lækni, með sér og við fórum í leigubíl upp að Elliðaám. Ég veiktist á leiðinni, mér varð óglatt og þegar Lárus sótti gosdrykki inn í verzlun á horninu á Barónsstíg og Hverfisgötu lá mér við uppköstum. Ég hristi samt af mér og lét á engu bera. Lárus borgaði bílstjóranum og hann fór aftur í bæinn. Hann setti veiðistöngina saman. Þá var ég orðinn veikur og þoldi ekki við. Þá sagði Lárus við Guðjón,
Þið verðið að taka strætisvagn og þú verður að fara með hann heim.
Þetta var þunnur þrettándi en ekki um annað að gera. Strætisvagnar gengu einungis á klukkustundar fresti svo við urðum að bíða eftir næsta vagni. Mér elnaði sóttin á leiðinni í bæinn. Og þegar við komum á áfangastað var ég búinn að fá óráð en man samt vel það sem gerðist. Faðir minn var einn helzti forystumaður ÍR og þetta sumar bjuggu foreldrar mínir til bráðabirgða í tveimur herbergjum uppi á lofti í ÍR-húsinu við Túngötu. Við vorum að bíða eftir því að flytjast inn í nýtt hús við Hávallagötu 49 svo þetta átti einungis að vera stutt áning á þeirri leið.

Við Guðjón gengum upp Túngötuna og ég talaði allan tímann um einhvern nagla, ég veit ekki hvers vegna en mér hefur dottið í hug síðar að það hafi verið áhrif frá kristindómsfræðslu móður minnar sem var alltaf að lesa með okkur bænirnar, fara með erindi úr Passíusálmunum, segja okkur frá holdsveiki Hallgríms Péturssonar en þó fyrst og síðast krossfestingu Krists.
Það var ekki hægt að upplifa neitt hryllilegra en vera festur upp á krossspýtur með nöglum sem stóðu í gegnum lófana og ristarnar.
Skarlatsóttin og óráðið sem henni fylgdi var mín Golgata. Guðjóni leizt ekki á blikuna þegar hann sá hve veikur ég var orðinn en hann var hálfu öðru ári eldri en ég og bar ábyrgðina. Hann skilaði mér heim í ÍR-hús þar sem móðir mín tók á móti okkur, háttaði mig niður í rúm, hringdi í föður minn og náði í lækna. Þeir komu báðir, Matthías Einarsson, mágur, föður míns og Bergsveinn Ólafsson, mágur móður minnar, og voru sammála um að ég væri með skarlatsótt.
Í þá daga var hún talin til drepsótta og allir sem hana fengu, en þeir voru ekki margir, voru settir í sóttkví. Ég var eina “tilfellið” í Reykjavík þetta ár. Það var talað um að flytja mig upp á Farsóttarhús en móðir mín tók það ekki í mál. Hún hafði hjúkrað Ólafi, fósturbróður sínum, þegar hann lá í sömu veiki í Þórshamri og hann hafði lifað af, þó einungis til að deyja nokkrum árum síðar eða skömmu áður en hann var fermdur. Hann dó úr einhverjum beinmergssjúkdómi. Ég man ekki eftir honum en hann var fjölskyldunni harmdauði. Ég var bara smábarn þegar hann stóð uppi í stofunni í Suðurgötu 4 þar sem Jósefína, amma mín ,og Jóhannes bæjarfógeti, afi minn, bjuggu og syrgðu hann mjög.
Það hafði verið afráðið að hann yrði ættleiddur þegar hann yrði fermdur og þá yrði hann Jóhannesson. Hann var fyrst nefndur Ólafur Jóhannesson í dánartilkynningunni.
Móðir mín hafði hjúkrað börnum sem fengu spænsku veikina 1918 og lágu munaðarlaus í Miðbæjarskólanum. Ólafur var eitt þessara barna og hún tók hann að sér. Faðir hans varð þá ekkjumaður og drykkfelldur mjög. Hann tók því mjög vel að þau ættleiddu Ólaf.
Móðir mín hafði ekki smitazt af skarlatsótt en hún fékk ígerð í fingur meðan hún hjúkraði Ólafi í Þórsharmri. En hún hristi af sér þessa ígerð og varð ekki meint af.
Nú var komið að mér. Ég var á svipuðum aldri og Óli sálugi, eins og hann var alltaf kallaður, þegar hann fékk skarlatsóttina. Og fyrir móður minni lá nú þriggja til fimm vikna erfið sóttkví. Ég kvaldist mjög vegna ígerða í eyrum og gröfturinn rann úr eyrunum og ég grét allar nætur. Hún þurfti að halda á mér og það er auðvelt að ímynda sér hvílík áraun þetta var fyrir hana.
Jens Jóhannesson var þá háls-, nef- og eyrnalæknir í Reykjavík. Hann var sá eini sem kom í heimsókn allan þann tíma sem sóttkvíin stóð yfir. Hann fylgdist með eyrunum og barðist við sjúkdóminn með þeim fábreyttu lyfjum sem þá voru til. Þá var ekkert pensilín og fátt um fína drætti en ég tel að Jens læknir hafi komið í veg fyrir að ég yrði heyrnarlaus. Ég á þessum góða manni heyrn mína að þakka. Og eftir að ég náði heilsu fylgdist hann með mér og sleppti raunar aldrei hendinni af mér. Ég var heppinn að fá skarlatsóttina í eyrun en ekki í hjartalokurnar eða liðina eða annars staðar þar sem hún gat gert meiri usla. Og ég hef aldrei borið hennar nein merki.
En ég hef stundum sagt við sjálfan mig að það hafi litlu munað að ég dæi í kirkju.
ÍR-húsið var gömul kaþólsk kirkja og við höfum sem sagt búið í kirkju. Þegar Kristkirkja í Landakoti var vígð gerði faðir minn samning við Meulenberg byskup þess efnis að ÍR fengi gömlu kirkjuna. Það ríkti ávallt góður hugur milli föður míns og þeirra kaþólsku manna sem sátu í Landakoti.
Á þessum árum var ekki hægt að fá ferska ávexti í Reykjavík en byskupinn í Landakoti átti plómur sem hann fékk sendar að utan og meðan við vorum í sóttkvínni lá á hverjum morgni brúnn pappírspoki utan við dyrnar og í honum voru plómur sem byskupinn sendi þessum litla dreng sem þar barðist fyrir lífi sínu.
Þetta eru fyrstu samskipti mín og kaþólsku kirkjunnar og þau hafa ævinlega verið með þeim hætti sem til var stofnað. Ég hef hvergi notið mín eins vel og í Landakotsskóla.Og ef ég hef lært eitthvað í íslenzku var það ekki sízt í þessum alþjóðlega skóla.


Ég var eins og veikur fugl í búri. Það var oft dregið fyrir gluggana í upphafi veikinda minna og dapurlegt umhverfi. Svo jókst birtan, veggirnir voru skreyttir með vatnslitamyndum af jólasveinum og öðru ævintýrafólki sem Louisa Matthíasdóttir sendi þessum veika frænda sínum til að stytta honum stundir. Þetta voru fallegar myndir og öðruvísi en allt sem ég hafði séð áður. Þær glöddu mig og juku löngun mína til að upplifa þessi ævintýri. En til þess þurfti ég að lifa.
Ég minnist þess ekki að ég hafi hugsað um dauðann. Ég vissi ekkert um hann og líklega enn minna um lífið. En mig langaði til að lifa, langaði til að losna við kvalirnar , mig langaði til að hitta föður minn og systur og ég hlakkaði til þess þegar búrið yrði opnað og fuglinn gæti flogið út og viðrað sig í sumarsólinni.
Og það var mikill dagur í lífi mínu þegar búrið var opnað og við gengum út í sólina. Ég var heldur valtur á fótum og foreldrar mínir styrktu mig með göngutúrum um Vesturbæinn. En viðnámsþrótturinn var ekki upp á það bezta.
Þegar ég var kominn út úr búrinu þurfti ég endilega að fá kíghósta ofaní allt annað og í honum átti ég einnig um nokkurra vikna skeið.
Þegar ég hafði einnig hrist hann af mér var löng leið til fullrar heilsu en hún kom hægt og bítandi, vængir fuglsins styrktust.
Herbergin í ÍR-húsinu voru sótthreinsuð, sumu brennt til að koma í veg fyrir smithættu, ævintýramyndir Úllu frænku lentu á þessu báli,
Það var bættur skaðinn sagði hún löngu síðar af alkunnri hógværð.

14.febrúar,föstudagur.


...........Þess hefur verið óskað við mig að síðasta ljóðabók mín Vötn þín og vængur verði send í bókmenntakeppni Norðurlandaráðs. Það yrði þá í þriðja sinn sem ég ætti bók í þessum andlega körfuboltaleik. Nefndarmenn eru Sigurður A. Magnússon og Jóhann Hjálmarsson, ásamt Þórði Helgasyni sem er víst til vara en tekur fullan þátt í nefndarstörfum. Þeir voru að mér skilst einhuga um þessa afstöðu. Jóhann Hjálmarsson sagði mér að bók Árna Bergmanns, Þorvaldur víðförli , yrði einnig send í keppnina því að Sigurður A. Magnússon hefði svo mikið uppáhald á þessari skáldsögu vinar síns.. Ég hef ekkert á móti því að vera í slagtogi með Árna, síður en svo. Leiðir okkar hafa oft legið saman, stundum var það heldur óskemmtilegt samkrunk þegar verst gegndi í kalda stríðinu og hann var blaðamaður eða ritstjóri Þjóðviljans. Annars hefur allt verið meinalaust í okkar samskiptum og stundum höfum við átt ágæt samtöl. Mér hefur líkað Árni að mörgu leyti vel, hann er heldur mjúkur maður og enginn ofstopi í honum. Ég hef verið að lesa skáldsögu hans að þessu gefna tilefni og raunar undrazt. Hún er ágætlega skrifuð og það er fornsögulegt andrúm í henni, minnti mig stundum á Gerplu. Ég veit ekki hvað hún þykir eiga mikið erindi inn í samtímann. Það kemur í ljós. En í henni eru mikil klofbrögð og með köflum svo að hrikta tekur í “anda” sögunnar og gæti það allt verið bókinni til hins mesta framdráttar. Hefði aldrei haldið að Árni væri slíkur klofbragðahöfundur sem raun ber vitni. En í þessu verki er hann að fjalla um heimssöguleg átök síns tíma og gæti ég ímyndað mér að í þeim ætti að vera skírskotun í samtímann og þá stöðu sem hann hefur sjálfur verið í.
Ég lét slag standa og hef sagt að ég tæki boðinu um að Vötn þín og vængur yrði send til keppninnar; þó með hálfum hug. Ég hef verið þarna áður tvisvar sinnum og hafði enga sérstaka ánægju af því. Hef ekki mikla trú á slíkum andlegum körfubolta eins og ég sagði en finnst annað að keppa með íslenzkan fána á brjóstinu eins og ég nefndi við Silju Aðalsteinsdóttur í samtalinu í tímariti Máls og menningar en standa í þessum slag hér heima og breytast í einhvers konar bolta sem bókmenntaklíkurnar kasta á milli sín. Heiðurslaunin hafa nægt mér eins og ég sagði í samtalinu - og þá einkum vegna þeirrar samstöðu sem krafizt er í þinginu við afgreiðslu þeirra. En það eru jákvæð atriði tengd þessu norrænu bókmenntakapphlaupi, bókin verður þýdd til fulls en hluti hennar kom út á norsku í hitteðfyrra og var mjög vel tekið austan hafs.


Einóðir menn eru á hverju strái í umhverfinu. Þannig er doktor Benjamín enn einu sinni á ferðinni og nú með árásir á Vigdísi Finnbogadóttur fyrir það að hún skuli ekki segja amen eftir hvern lestur á Passíusálmunum. Með því sé hún að minna á að þeir séu einkum bókmenntaverk en ekki bænakvak. Það er heldur langsótt!
Halldór Halldórsson sem fór líklega eins og ýmsir aðrir eitthvað geyst í Hafskipsmálinu á sínum tíma skrifar grein í Helgarpóstinn og ræðst m.a. að Morgunblaðinu, að mér er sagt. Segir víst að við getum ekki verið heiðarlegir vegna þess að við eigum svo mikilla hagsmuna að gæta, ekki sízt peningahagsmuna. Við förum því ekki ofan í mikilvæg mál, látum þau liggja, sinnum þeim ekki. Maður hefur svo sem heyrt þennan söng áður og ástæðulaust að leggja við hlustirnar. Allt er þetta ósatt. Við höfum engra hagsmuna að gæta sem koma í veg fyrir þá blaðamennsku sem við viljum stunda. Forsendur hennar eru heiðarleiki en ekki einæði.
Ég hitti Halldór Halldórsson í Vesturbæjarapóteki fyrir nokkrum vikum og þá ætlaði hann að ámálga það við mig hvort ekki vantaði mann á Morgunblaðið. Ég sagði honum að faðir hans hefði verið góður kennari og ég héldi upp á hann og bað að heilsa honum frá mér.
Við það sat!

(Síðar aths.Halldór átti löngu síðar samtal við mig í Mannlífi,eða þegar ég var hættur ritstjórn.og vann það vel og samvizkulega ,þjarmaði að vísiu að mér vegna yfirsjóna Árna Johnsens sem þá voru á dagskrá  og þótti mér það óþægilegt ,en sjálfum féll mér ágætlega við Halldór. Guðmundur bróðir hans var lengi einn helzti sérfræðingur Morgunbl.í erlendum málefnum,nú látinn um aldur fram)

Um daginn fékk ég bréf frá Þorgeiri Þorgeirssyni í tilefni af frétt í Morgunblaðinu um lát tékkneska rithöfundarins Hrabals. Þorgeir er að agnúast við mig persónulega vegna þessarar fréttar og gerir það á heldur ruddalegan hátt, þ.e.a.s að hætti hans sjálfs. Hann sagði að ég ætti að reyna að koma því til skila sem fyrir mér (þ.e. Morgunblaðinu) vekti og skilst mér að það sé að geta þess að Þorgeir Þorgeirsson hafi þýtt eitthvað eftir Hrabal. Morgunblaðið var ekki að koma neinu öðru til skila en að þetta þekkta tékkneska skáld væri látið. Ég reif fréttina út úr blaðinu, setti ör á heimildina þar sem stóð AP, Reuter og sendi Þorgeiri aftur með kveðju frá M! Þorgeir er heldur ofstopafullur þegar hann á sjálfur í hlut og mér dettur ekki í hug að munnhöggvast við hann. Við réttum honum oft hjálparhönd þegar hann var í herferð gegn hinu opinbera á sínum tíma og ég held hann hafi kunnað að meta það eitthvað. En hann kvaðst ekki mundu skrifað meira í Morgunblaðið þegar greinar þess fóru á almennan netmarkað. Fréttin sem Þorgeir var að amast við studdist við erlendar fréttastofur og engin von til þess að þær væru að vitna í þýðingar Þorgeirs Þorgeirssonar. Ég las þessa frétt eins og hver annar í blaðinu og hafði ekkert með hana að gera að öðru leyti. En ég hefði ekki haldið að óreyndu að Þorgeir teldi sig svo frægan að erlendar fréttastofur vitnuðu til íslenzkra þýðinga hans á þessum tékkneska höfundi. En svo lengi lærir sem lifir!
Þá var mér sagt að eitthvert samtal hefði verið við Hannes Hólmstein Gissurarson í sjónvarpi í gærkvöldi þar sem hann hefði talað um yfirtöku Frjálsrar fjölmiðlunum á Alþýðublaðinu. Mér skilst hann hafi sagt að nú væri Alþýðublaðið komið undir stjórn hins vonda fjölmiðlamógúls Jóns Ólafssonar og hinn vondi kratamógúll Styrmir Gunnarsson stjórnaði umferðinni í Morgunblaðinu svo nú væri ekki hægt annað en snúa sér að Ríkisútvarpinu!
Það er annars merkilegt hvað ofstopafullir menn eiga auðvelt með að koma fordómum
sínum á framfæri við íslenzka fjölmiðla. Ekki trúi ég því að í útlöndum þar sem alvörufjölmiðlar hafa einhvern metnað og gera kröfur til þess að menn vinni með staðreyndir en ekki fixídeur séu svona opingátt fyrir einæðinga. En við þetta hafa Íslendingar þurft að búa og ég sé raunar ekki fyrir endann á því. Við höfum reynt, morgunblaðsmenn, að stemma stigu við þessu en höfum svo sannarlega átt undir högg að sækja. Hávaðasamfélagið er alltaf reiðubúið að hlusta á órökstuddar fullyrðingar einæðinga og gefur þá skít í staðreyndir og það sem hverjum manni ætti að vera ljóst.
En svo eru náttúrulega þeir sem hugsa sitt , láta ekki blekkjast, en þegja þunnu hljóði.
Og þeir eru flestir.

Sú var tíðin að við vorum gagnrýndir fyrir að fara varlega í Geirfinnsmálinu og Hafskipsmálinu. Allt sem Morgunblaðið skrifaði þá þolir sögulega gagnrýni. Það er meira en hægt er að segja um ýmis önnur skrif, fullyrðingar og ofstæki á sínum tíma. Það er stutt á milli trúarsannfæringar og galdrabrenna og betra að fara varlega í þeim efnum.
Mér er það einkar minnisstætt þegar fullyrt var að Ingólfur Margeirsson sem hafði víst verið að gagnrýna stjórnendur Hafskips var sagður hafa fengið hlunnindi frá fyrirtækinu. En þá hringdi hann til mín daginn áður en við Hanna og Ingólfur fórum til Orlandó þar sem við vorum í fríi næstu þrjá mánuði í Melbourne. Þetta var að mig minnir í desemberbyrjun 1986. Ingólfur sendi mér yfirlýsingu þess efnis að hann væri alsaklaus af öllum þeim atriðum sem hann var sakaður um, þ.e.a.s. að hann hefði flutt búslóð með skipi frá Hafskipum, sér að kostnaðarlausu. Hann mótmælti þessu einarðlega og kvaðst saklaust af öllum ávirðingum.
Ég sagði við Ingólf, Það er sjálfsagt að birta þessa athugasemd þína en þú verður að minnast þess að ef hún er ekki rétt og einhver plögg koma í leitirnar sem afsanna hana og sýna fram á að þú hefur notað þér af þessum hlunnindum í samskiptum þínum við Hafskip, þá ertu ærulaus maður.
Hann sagði að til þess kæmi aldrei, ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að slík plögg kæmu í leitirnar.
Ég birti athugasemd Ingólfs.
Það liðu ekki margir dagar þar til ég frétti til Flórída að plögg hefðu komið í leitirnar um það að Ingólfur hefði notað sér af þessum hlunnindum og flutt búslóð milli landa sér að kostnaðarlausu.
Sem sagt, æra Ingólfs var ekki einnar athugasemdar virði.
En hann er ekki sá eini sem hefur búið um sig í glerhúsi. Þeir eru margir. Og þeir eru margir einóðir. Og þeir láta margir mikið til sín taka í fjölmiðlum þar sem þeir stunda tvískinnung og skinhelgi af miklum móð.

Ég er stundum undrandi á því hvað fólk getur látið sér um munn fara þegar það fjallar um Morgunblaðið og okkur starfsmenn þess. Það er eins og það geti aldrei ímyndað sér að það sé að vega að starfi okkar og starfsheiðri. Þegar menn lýsa því yfir á prenti eða segja í ljósvökum að við sinnum ekki störfum okkar, og ýmiskonar hagsmunir komi í veg fyrir heiðarleg vinnubrögð af okkar hendi þá eru þeir ekki að vega að þeim sem gera blaðið út og eiga það heldur okkur sem störfum þar og berum ábyrgð á heiðarlegri vinnu og þeim metnaði sem er Morgunblaðinu að sjálfsögðu eiginlegur.
Og mikilvægur.
Og þegar látið er að því liggja að annar ritstjóri blaðsins sé samskonar ævintýramaður eða fjölmiðlabraskari og Jón Ólafsson án þess þó að segja það heldur dylgja með það og láta fólk sjálft ráða í hvað raunverulega hafi verið sagt þá er ekki einungis verið að vega að honum heldur okkur samstarfsmönnum hans og það með þeim hætti að enginn getur verið þekktur fyrir slíkt nema sá sem veit að hann er dæmdur úr leik sem ofstopafullur kjaftaskur og fær að vera í friði af þeim sökum einum að öllum er sama.
Mér er raunar óskiljanlegt hvernig menn sem titla sig skáld, blaðamenn eða jafnvel prófessor geta verið þekktir fyrir aðför að heiðri og æru annars fólks með svo lúalegum hætti sem raun ber vitni oft og tíðum.
En menn yppta bara öxlum, brosa, hafa fullyrðingarsama einæðinga í flimtingum eða sem einskonar skemmtikrafta og láta þar við sitja.
Ruddalegar aðfinnslur Þorgeirs Þorgeirssonar í einkabréfi til mín hafa að vísu ekki verið settar á prent og á því er eðlismunur. En hann væri vís til þess að fíflast með þetta í einhverri greininni í Helgarpóstinum því hann er einn þeirra manna á Íslandi nú um stundir sem alltaf hafa rétt fyrir sér og eiga ævinlega högg í annars garði. En þeir eru þó sumir aðrir miklu verri og hef ég átt heldur auðvelt með að komast af við Þorgeir. Við höfum að mestu látið hvor annan í frið á opinberum vettvangi enda á hann Morgunblaðinu margt upp að unna frá því hann stóð í stríðinu við kerfið á sínum tíma. Það er ekkert á móti því að amast við kerfinu og hann náði  einhverju taki á því  vegna tengsla okkar við erlent réttarkerfi án þess ég telji hann neina frelsishetju þess vegna!


Hef verið að hlusta á Donovan, lesa ævintýrasögur Hermanns Hesse, gefið út af Audio Literature, og haft mikla ánægju af þessum dramatíska upplestri og sérstæðu ævintýrum. Stíll þeirra og andrúm minna mig talsvert á Siddharta eftir sama höfund en þá sögu las ég í Melbourne, Flórída, veturinn 1986-87. Hef haft sérstaka ánægju af ævintýrasögunni Dvergurinn, en það er mjög góð saga og eftirminnileg greining á hatrinu og hefnd þess. Ég þekki tvær einstæðar sögur með þessu nafni því að saga Pär Lagerkvist, Dvergurinn, er einhver fínasta skáldsaga sem ég hef lesið fyrr og síðar en hana las ég þegar við Hanna bjuggum í Kaupmannahöfn veturinn 1955-56. Þá skrifaði ég leikritið Sólmyrkva og las mikið, hlustaði m.a. á Ungfrúna góðu og húsið eftir Halldór Laxness í upplestri Helle Virkner og  las Svartfugl á dönsku, Buddenbrook allan, einnig á dönsku og fjöldan allan af skáldverkum sem ég hef ekki gleymt.
Pär Lagerkvist skrifaði einnig stutta skáldsögu sem er mikið listaverk, Mariamna sem Menningarsjóður gaf út á sínum tíma. Ingólfur sonur minn skrifaði góða ritgerð um hana þegar hann var í menntaskóla og þykir mér vænt um hvað þeir bræður hafa haft miklar taugar til góðra bókmennta þótt þeir hafi verið á öðrum sviðum, annar lögfræðingur en hinn læknir. Ég er ánægður með það að hvorugur skyldi feta í fótspor föður síns og velja sér blaðamennsku eða bókmenntir að starfi, það er alltaf hálfvandræðalegt
En kannski er þetta allt með eðlilegum hætti, ég veit það ekki, kannski á þetta rætur að rekja til þess ónæmis sem ég get stundum fengið fyrir umhverfi mínu. Ég hef velt því fyrir mér hvort Ólafur Jóhann Ólafsson hefur notið eða goldið Ólafs Jóhanns Sigurðssonar,, föður síns , og veit það ekki. En allt bramboltið í kringum hann, öll sú sölumennska sem upphefst ævinlega í kringum verk hans er fremur til þess fallin að vekja andúð  mína fremur en samúð en hún gerir höfundinn jafnframt heldur hnýsilegan í saumaklúbbunum og selur bækurnar. Ég hef kynnzt Ólafi og kann vel við hann, hann er greindarpiltur, kurteis og kemur vel fyrir en ég þekki ekki verkin hans til að dæma þau.
Hvers vegna? Ofnæmi fyrir sölumennsku?
Ég veit það ekki.


Ég hef áður varpað fram þeirri skoðun að fjalla vötn í Sólarljóðum merki augu; þ.e.a.s. þau lokist þegar komið er að dánarstundinni eins og vötn myrkvist undir næturhimni. Augu og vötn taka ljósið í sig og þau slokkna þegar birtu bregður. Engin myndhvörf eru eftirminnilegri en fjalla vötn í hrjóstugu andliti deyjandi gamalmennis, ekki sízt þegar þau slokkna eða lokast á dauðastundinni. Fáir eða engir hafa tekið undir þessa skýringu mína og er það að vonum. Mér þótti því harla mikilvægt þegar ég rakst á svipuð myndhvörf í einni af þessum ævintýrasögum Hermanns Hesse en þar talar skáldið um að augun, þessi bláu vötn, hafi myrkvast í andlitinu á viðkomandi persónu. Það er áreiðanlega menningarsöguleg tenging milli þessara vatna Hermanns Hesse og fjalla vatnanna í hinu íslenzka helgikvæði um þann heim sem býr bak við slokknuð augu.

Við Kristján Karlsson töluðum um margt í Naustinu í dag en þó einkum  Þorpið og Tímann og vatnið. Þorpið sem Jón úr Vör yrkir um er allt annað en bærinn sem Kristján Karlsson ólst upp í, Húsavík. Þorpið er einn af fjöruborðsbæjunum sem Kristján kallar svo, þ.e. bæirnir sem liggja alfarið að fjörunni. Það er um slíka bæi sem Hagalín, Theodór Friðriksson og Jón úr Vör yrkja um. Kristján er aftur á móti alinn upp í verzlunarbæ. Slíkir bæir eru allt öðruvísi en verstöðvarbærinn sem Þorp Jóns úr Vör er vaxið úr. Fjöruborðsbæirnir eru verstöðvar allt árið en verzlunarbæirnir sóttu efni og áhrif til annarra landa eins og Hansa-bæirnir á sínum tíma. Verzlunarbæirnir á Íslandi voru stórborgir í sínu umhverfi, Húsavík, Seyðisfjörður, Stykkishólmur. Fjöruborðsbæirnir voru athafnasvæði þeirra sem sóttu allt sitt á miðin. Þar var lífsbjörgin. Það eru útlínur slíkra bæja sem Jón úr Vör dregur upp í kvæðaflokki sínum. En þær verða áhrifamiklar og raunar eftirminnilegar þótt þær sæki ekki orku né innihald í djúpar tilfinningar eða ástríðumiklar andstæður. Jóni úr Vör tókst að gera þessar útlínur að merkilegum skáldskap og breyta þeim í minnisstæð tímamót. Það er ekki heiglum hent. Og Steinn vissi að sjálfsögðu að það var mikið í Jón spunnið þótt hann talaði stundum niður til hans. En þeir áttu sameiginlegan bakhjarl, komu úr svipuðu umhverfi þótt annar ælist upp við fjöruborðið en hinn í nábýlinu við Jóhannes úr Kötlum og Stefán frá Hvítadal og þá sveitamenningu sem ríkti í Saurbænum.

Það var gaman að hlusta á Kristján brjóta Tímann og vatnið til mergjar. Hann hefur ekki mikið dálæti á þessum ljóðaflokki og telur hann í aðra röndina húmbúkk eins og hann komst að orði. Hann er þeirrar skoðunar að ljóðaflokkurinn leysist upp í einhvers konar háspekilegt rugl og það minnti mig á ummæli Magnúsar Ásgeirssonar í frægum ritdómi um þetta verk þegar hann segir að það sé háspekileg tómhyggja. Kristján segir að ljóðaflokkurinn fjalli um tvær konur. Hin fyrri birtist í öðru ljóði, hún er hin milda, ljúfa og eftirsóknarverða ást sem hverfur; die ferne Geliebte  eins og Beethoven komst að orði. Þetta er grannvaxin kona á gulum skóm og hún “var hjá mér” eins og sólin. Og ást skáldsins var í tvítugu djúpi eins og tvílitt blóm en sólin gekk yfir þetta blóm og stúlkan hverfur úr lífi mælandans.
Hin konan kemur við söguna í þriðja ljóði. Hún er tákngerð með myndum sem eiga sér fyrirmyndir í málverkum þess tíma, t.a.m. verkum eftir Nínu Tryggvadóttur og Þorvald Skúlason. Hið hvíta blóm dauðans vex á hornréttum fleti milli hringsins og keilunnar. Orðið hornréttur er afar neikvætt, boginn er hin mjúka, milda lína lífsins. En það sem er hornrétt vekur andúð; það brotnar. Kristján telur að Steinn hafi fengið andúð á Nínu eftir kynni þeirra og hann sé í þessu kvæði að skírskota í þessa andúð. Steinn sagði um samfarir þeirra Nínu, Það er eins og að sofa hjá karlmanni!
En konan sem hann saknar, die ferne Geliebte er Louisa Matthíasdóttir sem hverfur til Bandaríkjanna og þannig einnig með öllu úr lífi Steins Steinars. En listin á hinum hornrétta fleti endar með eins konar gjaldþroti og fylgir þannig tilfinningalegum farvegi þessa háspekilega ástarkvæðis sem lýkur með þögninni í 20. ljóði. Þetta er þögn listarinnar, hin algjöra þögn ljóðsins; þögn dauðans. Og þá ekki sízt þögn hins hvíta blóms sem skáldið teflir gegn ást sinni og hinu tvílita blómi sem er tákn hennar og kannski einnig fyrirheit. Og skáldið hafnar í þessari raddlausu nótt sem býr þrátt fyrir allt yfir risbláum degi og hann finnur sér hvílu í hálfluktu auga eilífðarinnar meðan hún horfir óræðum draumi úr auga sínu. Í slíkum kvæðum getur auga verið tákn vizkunnar, samanber auga Óðins, kannski er skáldið að minna á að hún tekur við af hvítum blómum dauðans og tvílitu blómi trúar og ástar, ég veit það ekki.
Kristján  nefndi ljóð sem Steinn hafði ort sem undanfara að Tímanum og vatninu. Mig minnir að þau hafi verið birt í tímariti Máls og menningar og hann hafi kallað þau Við hin lygnu vötn eða eitthvað slíkt. Kristjáni finnst þau betri en ljóðin í Tímanum og vatninu, að mér skildist. En þau hafa aldrei verið prentuð í bók.

Þegar ég huga nánar að Tímanum og vatninu og Þorpi Jóns úr Vör sé ég í hendi mér að síðar nefndi ljóðaflokkurinn er eins og verstöðin sjálf eða fjöruborðsbærinn með fábrotnu mannlífi sem er nánast allt á yfirborðinu og engin ástæða til að leita þessa mannlífs með því að kafa djúpt en Tíminn og vatnið  er tilraun til að leita ástar og trúar undir því yfirborði hversdagslegra hugsana sem kalla á heilabrot án fyrirheita. Því að líf okkar og dauði og eilífðin sjálf verða aldrei skýrð, hvorki með ljóðrænum vísunum eða raunvísindalegum niðurstöðum. Það næsta sem við getum komizt Guði og eilífðinni er sú ályktun sem við drögum af grunsemdum okkar, þrám og vísbendingum og Steinn afgreiðir með týndum sporum “undir kvöldsnjó efans”.
Hvað sem öðru líður beinir þessi efahyggja skáldsins athyglinni að guði; eða Guði. Og þrátt fyrir tregafull vonbrigði er hin góða dís í fylgd með honum þótt hið hvíta blóm dauðans sé einnig ávallt í næsta nágrenni. Þessi Beatrísa Steins Steinars verður harla áþreifanleg í tíunda ljóði þar sem vitund skáldsins leitar ástkonunnar um veglaust haf og falin sorg hans nær fundi hennar eins og firðblátt haf; einnig í fimmtánda ljóði þar sem svipur hennar býr í sólhvítu ljósi og tár hennar falla yfir trega hans og fjarlægð hennar sefur í faðmi hans í fyrsta sinn; og enn í sautjánda ljóði þegar hvít birta harmsins fellur á hvarm dísarinnar góðu og hann lætur huga sinn reika til hennar og getur jafnvel nefnt orðið hamingja því að hún á hvíta birtu þess harms og saknaðar sem hann ber í brjósti. Og hann skilur við hana í nítjánda ljóði þegar skuggi hennar hverfur honum inn í nýja ókunna veröld milli svefns og draums og svipur hennar inn í algjöra þögn sem rennur í tuttugasta ljóði í þreföldum hring í kringum þögn sína.

Annars hef ég rætt lítillega um Tímann og vatnið í ritgerðinni Á bylgjum hafsins  í Helgispjöllum, sbr. Fjötrar okkar og takmark, 25. þáttur og áfram.

17. febrúar, mánudagur

Ingólfur sonur okkar er 33ja ára í dag. Það var gleði, kærleikur og ást þegar hann fæddist. Allt þetta hefur fylgt honum.


Ég er alltaf að sjá það æ betur að ég er orðinn hálfleiður á löngum skáldsögum. Finnst þær flestar í sama farinu. Þær eru eiginlega segin saga.
Nú síðast hef ég verið að kynna mér A suitable Boy eftir Vikran Seth sem var bæði metsölu- og verðlaunabók í Bretlandi fyrir tveimur eða þremur árum. Ágæt saga og mun betur sögð en til að mynda Síðasta andvarp márans eftir Rushdie en ég hef engan sérstakan áhuga á þessum tilbúnu persónum. Áhugi minn snýst aftur á móti um hugmyndir. Ég hef áhuga á því hvort hindúanum Lata tekst að elska múslimann sinn í friði.
Ég hef að vísu engan sérstakan áhuga á þeim út af fyrir sig en því meiri á hugmyndinni: hindúi elskar múslima. Það er hnýsilegt!



18. febrúar, þriðjudagur

Breytti þessu kvæði, það er betra svona:

Golgata

 

Ófrjáls
og án þess koma upp orði

stafar sig frá einni hugsun
til annarrar
eins og hvert tákn
sé loftskurður milli rimla

hví
ó hví eru hausaskeljar
fangelsi mitt?









19. febrúar, miðvikudagur

Hitti Svein Einarsson á sunnudag. Hann fer líka á listahátíðina í Toronto í júní, ég held með Amlóða. Hann sagði það yrði skemmtilegt, við mundum hitta margt spennandi fólk.
Ég svaraði,
Eftir því sem ég eldist finnst mér allt þetta spennandi fólk minna spennandi(!)



20. febrúar, fimmtudagur

Úlla er áttræð í dag. Bragi Ásgeirsson sagði í síðustu Lesbók að hún málaði á íslenzku.
Gott hjá Braga.
A suitable Boy, niðurstaða:
Yfirvegun nær tökum á ástríðu. Lata giftist ekki Kabir. Ástin er neydd til að taka tillit til þjóðfélagsaðstæðna.
Þetta er Indland í dag.
Íhugunarefni í gjörbreyttum heimi sem hefur ekkert breytzt í raun og veru.


22. febrúar, laugardagur

Á baksíðu Morgunblaðsins á morgun, sunnudag 23. febrúar, er þriggja dálka frétt með fyrirsögninni: Viðræður standa yfir um sameiningu. Og er þá átt við Stöð 2 og Stöð 3. Meira getum við ekki sagt í blaðinu á morgun því ekki er frá þessu gengið en mér heyrðist á Hallgrími Geirssyni þegar ég talaði við hann seint í gærkvöldi að Jón Ólafsson á Stöð 2 og fulltrúi Eimskipafélagsins, Þorkell Sigurlaugsson, hefðu undirritað eins konar samkomulag um þessa sameiningu - og þá fyrir hönd kolkrabbans sem á aðild að Stöð 3 - en án þess að láta fulltrúa Árvakurs, Japis og Árna Samúelssonar sem er í Los Angeles fylgjast með framvindu mála og fengu þeir ekkert að vita fyrr en að samningi loknum.
Mér skilst hann hafi verið undirritaður á fundi Jóns og Þorkels klukkan 5 að morgni föstudags.
Mér datt í hug, án þess segja það, að allt minnti þetta á ræðu Ciceros í rómverska senatinu þegar hann lýsti ófyrirleitni Catilinu í frægri ræðu:
“Hve lengi ætlar þú Catilina, að níðast á þolinmæði vorri? Hve lengi á þetta æði þitt að gabba oss? Hve lengi ætlar þessi hamslausa ofdirfska þín að skekja sig? ...Hver af oss vissi ekki hvað þú gjörðir, hvar þú varst, hverja þú kallaðir saman, og hver ráð þú tókst nóttina sem leið og í fyrrinótt. Ó, tímar, ó siðir, ráðið veit þetta, ræðismaðurinn veit þetta, og samt lifir þessi maður.
Lifir hann?
Já, og hvað meira er, hann kemur í ráðið, hann tekur þátt í opinberum ráðagjörðum... Því hvað er það sem þú bíður svo lengi eftir, fyrst hvorki nóttin með myrkri sínu getur hulið þínar svívirðilegu samkundu né einstaks manns hús getur haldið innangátta umræðu samsæris þíns. Fyrst allt er augljóst og allt brýzt út, þá taktu nú sinnaskiptum...”

Ó, tímar, ó siðir...
Fréttin í Morgunblaðinu á morgun, sunnudag, er svohljóðandi: “Síðustu daga hafa staðið yfir viðræður á milli fulltrúa eigenda Stöðvar 2 og Sýnar og Stöðvar 3 um sameiningu fyrirtækjanna. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur í þeim viðræðum verið rætt um að Íslenska útvarpsfélagið hf., sem rekur Stöð 2 og Sýn, kaupi allt hlutafé Íslenskrar margmiðlunar hf., sem rekur Stöð 3, gegn 10% eignarhlut hluthafa Íslenskrar margmiðlunar hf. í hinu sameinaða félagi, auk Sýnar.
Jafnframt mun í þessum viðræðum rætt um að hluthafar í Íslenskri margmiðlun hf. hafi kauprétt á frekari hlut í Íslenska útvarpsfélaginu hf. að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
Morgunblaðið hefur einnig heimildir fyrir því að gert sé ráð fyrir að nýir hluthafar í Íslenska útvarpsfélaginu hf. tilnefni varaformann stjórnar félagsins og að ráðinn verði framkvæmdastjóri með samkomulagi beggja aðila. Sá framkvæmdastjóri skipi sérstaka framkvæmdastjórn hins sameinað fyrirtækis ásamt formanni og varaformanni stjórnar Íslenska útvarpsfélagsins hf.
Þá mun ennfremur rætt um í þessum viðræðum, að hlutabréf í Íslenska útvarpsfélaginu hf. verði skráð á almennum hlutabréfamarkaði.”

Það er sagt að stjórnendur Eimskips og Sjóvá kvíði fyrir því að halda aðalfund vegna gagnrýni á þá út af rekstri Stöðvar 3 og þess vegna hafi þeir gripið til þessara ráða en ég hef ekki trú á því. Stjórnendur Eimskips þurfa engu að kvíða. Þeir stjórna félaginu mótmælalaust eins og allir vita enda koma hinir fjölmörgu eigendur félagsins aldrei á aðalfundi þess. Stjórnin hefur félagið í hendi sér með svipuðum hætti og Stalín stjórnaði rússneska kommúnistaflokknum.
Ég sé engin merki þess að þessu sé öðruvísi háttað á aðalfundum Sjóvá.
Þessi afsökun er ágæt uppfynding til að komast hjá því að standa við endurreisn Stöðvar 3. Það má vel vera að hluthafar óttist tap og sjái að það fjármagn sem þeir hafa lagt í stöðina gæti glatazt.
En þetta er ekki stórmannleg afstaða og aðferðin lítilmannleg, að mínu viti.
Hallgrímur sagði við mig að hann gæti vel skilið þessa afstöðu en hann vonaðist til þess að hann þyrfti aldrei aftur að sætta sig við slíka hluti. Morgunblaðið á u.þ.b. 10% í Stöð 3, hafði lagt 50-60 milljónir til hennar. Það hefur vel efni á því að tapa þessu fjármagni, blaðið hagnaðist ágætlega á síðastliðnu ári, eða um 90 milljónir króna og engar tiltakanlegar skuldir. Það gæti þess vegna kvatt kóng og prest en er þó ástæðulaust; úr því sem komið er er bezt að rugga ekki bátnum frekar þótt Árni Sam. og Japis mundu vilja það.
En aðferðin mætti vera öllum ljós og kemur etv. að einhverju leyti í ljós í fréttaskýringum Mbl.
Leiðari okkar um málið verður snaggarleg afgreiðsla.
Það verður mikill gróði á sameiginlegum stöðvum þegar fram í sækir og þessir peningar munu endurheimtast. En það er hálfsúrt í broti að það skuli nú vera einhvers konar hagsmunamál Árvakurs að hin sameiginlega stöð skili góðum árangri og hækki hlutaféð í verði. 10% hlutafé Stöðvar 2 er víst metið á um 300 milljónir og af því á Morgunblaðið 1%, eða um 3 milljónir. Það er allt og sumt! En kannski eiga þessar 3 milljónir einhvern tíma eftir að standa fyrir sínu, ég veit það ekki.
En hvað sem því líður var aðferðin við sameininguna með þeim hætti sem gerist að ég hygg einna helzt í undirheimum.
Það eru allir að reyna að græða. Og það er hart til þess að hugsa að mestu bröskurunum gengur bezt. Sigurvegarinn í þessari atrennu er Jón Ólafsson og enginn annar.
Hið sama var uppi á teningnum í forsetakosningunum. Mesti tækifærissinninn í íslenzkri pólitík til margra ára fór með sigur af hólmi og á áreiðanlega eftir að þenja sig út á Bessastöðum , ef Davíðs nýtur ekki við..
Og þó,hann á eftir að reka Davíð og Halldóri langt nef-og þá auðvitað í nafni þjóðarinnar!
Við sjáum til.

Þegar ég hugsa um þau siðlausu náttúrulögmál sem virðast einkenna samfélag okkar hef ég það að leiðarljósi að maðurinn eigi frjálsan vilja og ekkert af þessu komi forsjóninni við. Ef það væri ekki yrði maður trúlaus á stuttum tíma! En guð ræður ekki þessari ferð, svo mikið er víst. Það er annað afl sem ræður.
Styrmir segir að rótgróin og sterk félög ráði ekki við Jón Ólafsson. Það virðist vera rétt. Þetta hefði verið snilldarbragð hjá honum. Ég tók ekki undir það,
Þetta er ekki snilld sagði ég.
Hvað þá,? spurði Styrmir, klókindi?
Nei sagði ég, ófyrirleitni.
Það nær þessu ekki, sagði Styrmir.
Og það má vel vera.
Ég ber enga sérstaka virðingu fyrir þeim sem kunna að græða. Ég ber ekki virðingu fyrir Ford vegna þess að hann kunni að græða heldur vegna þess að hann var höfundur bílsins.
En nú þykjast einhverjir alvitringar vera búnir að finna það út að Ford hafi verið hinn mesti gyðingahatari!
Fjölmiðlakóngurinn Murdoc er enginn sérstakur snillingur að mínum dómi en hann virðist hafa kunnað að taka áhættu og spilað vel úr því sem hann hafði á hendi. En hann virðist ekki vera geðfelldur maður. Hann er ófyrirleitinn og ekki hefði ég viljað vinna fyrir hann.
Það er gaman að vinna fyrir eigendur Morgunblaðsins. Í stjórn Árvakurs eru heiðarlegir kapítalistar með mikla sjálfsvirðingu. Þeir eru sanngjarnir og vilja stuðla að því að hver og einn njóti sín. Þeir geta verið örlátir en umfram allt skipta þeir sér ekki af því sem þeir hafa trúað öðrum fyrir.
Það gerir Murdoc ekki og að því er mér skilst ekki heldur Jón Ólafsson.
Mig hefur aldrei langað til að græða en ég vil fá gott kaup fyrir störf mín. Ég vil að þau séu metin og það hefur verið gert. Ég hef líka lagt mig fram og ég vona að eigendur Morgunblaðsins séu eitthvað betur stæðir en ella vegna þess að ég hef eytt starfsævi minni í uppbyggingu blaðs allra landsmanna.
Það hefur verið spennandi, það hefur verið skemmtileg áskorun og kannski það hafi skilað einhverjum verðmætum, hver veit?
Starfið hefur oft reynt á þolrifin,stundum hefur það verið glóðir elds,stundum-og líklega oftast-skemmtilegt og uppörvandi,fróðlegt.
Og ég hef skrifað margar bækur vegna tengsla Morgunblaðsins við samtíðina og umhverfið.

Stundum er lítið á rafgeymi skáldsins.Þá er gott að fá þessa hleðslu úr umhverfinu.
Ég tel að enginn eigi neitt nema það sem hann er sjálfur.Og ef hann er ekkert af sjálfum sér,þá á hann ekkert,hversu ríkur sem hann er.
Og nú er að horfa fram á veginn og efla Morgunblaðið eins og efni standa til.

24.febrúar,mánudagur.

 

               Égspurði Kristin  Briem sem er talsvert ánægður með kolkrabbann,enda viðskiptafræðingur að mennt og upplagi-hann skrifar fréttaskýringuna um ljósvakafárið-hvernig honum litist á aðferðina við sameininguna.
Hann svaraði,
Þessir menn vinna svona(!)
Lýsir öllu upphlaupinu eins og það leggur sig!

               Hef verið að hugsa um tækni og fjölmiðlun.Engar tölvur höfðu Platon eða Aristoteles eða Sókrates og Kristur ekkert sjónvarp.Samt hefur aldrei verið hugsað betur né skrifað en á þessum tímum.Ætli Sókrates eða Shakespeare hefðu skrifað betri vek , ef þeir hefðu haft í höndunum leikföng Murdoc og Jóns Ólafssonar?

28.febrúar,föstudagur.

 

Borðaði með Kristjáni Karlssyni í dag á Hótel Holti.Ágætt að venju.
Sonur Péturs Magnússonar,búnaðarfrömuðar og fyrrum þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Borgarfirði,sagði mér um daginn að Magnús Guðmundsson,ráðherra,afi hans,hefði verið í talsverðu uppáhaldi hjá ýmsum framsóknarmönnum á sínum tíma,þótt Jónaas frá Hriflu hefði gert atlögu að honum.Hann átti góða vini í Framsóknarflokknum.
Jónas skrifaði árásargrein um Magnús,sendi hana Jónasi Þorbergssyni,ritstjóra Dags eða Tímans,ég man ekki hvort heldur.Líklega var hann ritstjóri Tímans þegar þetta var.
Jónas hefur samband við Hriflu-Jónas vin sinn og segir honum að Magnús sé það vinsæll, ekki sízt meðal ýmissa framsóknarmanna, að enginn þeirra muni trúa því sem standi í þessari atlögu að einum helzta forystumanni Sjálfstæðisflokksins.
En þá svarar Jónas, að hann skuli birta greinina hvað sem efninu líði,
Það loðir við hann(!) bætti hann við.
Ég bar þetta undir Kristján Karlsson, vin Jónasar á Hriflu, og spurði hvort hann teldi að þessi setning væri sennileg og rétt eftir höfð. Kristján var ekki í nokkrum vafa um að þetta væri jónasarleg setning og dæmigerð fyrir baráttuaðferðir hans. Hann hefði verið sérfræðingur í svona setningum en þó hafi þær oftast verið með kímilegu ívafi þótt þessi setning sé það líklega ekki - og þó.
Kannski hefur Jónas talið að það væri dáldið fyndið að segja að efni greinarinnar mundi loða við Magnús Guðmundsson þótt hann væri vel metinn innan Framsóknarflokksins!
Kristján minnti í framhaldi af þessu á að Jörundur Brynjólfsson, sem ég átti á sínum tíma samtal við og líkaði vel en samtalið er birt í Klofningi Sjálfstæðisflokksins gamla 1915, hefði flutzt að Skálholti og gerzt bóndi og mundi ég það að vísu þegar ég leiddi að því hugann. Hann hafði áður verið einhvers konar verkalýðsforingi í Reykjavík og atkvæðamikill talsmaður krata. En þegar hann var setztur að í Skálholti sagði Jónas við hann ,
Þú skalt snúa, en snúðu hægt!
Átti við það að hann ætti að snúa sér að Framsóknarflokknum og losa sig við Alþýðuflokkinn úr því sem komið væri.
Það gerði Jörundur og varð síðar einarður þingmaður Framsóknarflokksins!

Töluðum dálítið um skáldskap. Kristján  tók fyrir feministana og nefndi Lindu Vilhjálmsdóttir,vinkonu mína,sem dæmi,líklega vegna þess hún er í tízku sem stendur; telur hún  sé stórlega ofmetin.

Það sé ekkert skrítið hvað hún hafi komizt áfram,að áliti Kristjáns. Feministar ráði ferðinni í menningarmálum, þær hugsi lítið sem ekkert um smekk eða skáldskapargildi, heldur einungis um einhvers konar kvennapólitík. Linda falli inn í slíka pólitík. Það sé lítið að marka hvað þessar konur segi um bókmenntir , þær séu að hugsa um allt annað en estetík og heilaþvoi karlana!
Þær séu í einhvers konar pólitísku menningarstríði..

Ég veit ekkert um þetta. Kann vel við Lindu en  hef heyrt svipað sjónarmið hjá ýmsum konum sem lítið láta á sér bera.Hanna er t.a.m. einatt undrandi á því,hvað henni finnst margar  gælubækur gagnrýnenda lítils virði.Kannski er ég það einnig, ég veit það ekki. Það er ekkert að marka mig í svona stöðu, samúð og andúð geta haft of mikil áhrif á afstöðu mína.
.
Linda var með okkur í Edenkopen, Þýzkalandi, ásamt Ingibjörgu Haraldsdóttur og fleiri og fór vel á með okkur. Edenkopen-hópurinn var samrýndur, jákvæður og skemmtilegur. Hanna er sammála því, En hún hefur sínar skoðanir, það er annað mál..
En ég hef stundum undrazt sumt í ljóðum Lindu  án þess komast til botns í því..
Annars eru hvorki Hanna né Kristján dómhörð þegar annað fólk á í hlut, eða skáldskapur þess. Miklu frekar sanngjörn og generös, rétt eins og ég!!
Kristján talaði t.a.m. mjög fallega um Hannes Sigfússon og sagði að Steinn hefði stundum talað niður til hans. Hann telur ekki alveg fráleitt að Steinn hafi öfundazt við Hannes vegna Dymbilvöku.
Við Kristján erum báðir mjög ánægðir með þennan ljóðaflokk sem var einstæður á sínum tíma. Við erum einnig sammála um að hann sé betri skáldskapur en Imbrudagar eftir Hannes. En Kristján telur að Hannes hafi lagt mikinn metnað í Imbrudaga sem kom út eftir Dymbilvöku og slíkur metnaður geti villt um fyrir skáldum. Ég er sammála því. Hannes var ágætur félagi í Edenkopen-hópnum og fór alltaf vel á með okkur.
Kristján spurði hvort ég þekkti tímaritið Andblæ. Ég svaraði því neitandi en sagði að Þorvarður Hjálmarsson, bróðir Jóhanns skálds, hefði hringt í mig og beðið mig um að láta sig fá kvæði í vorhefti tímaritsins. Ég sagðist mundu gera það. Kristján sagði þá að hann hefði einnig hringt í sig og hann hefði sagzt mundu láta hann fá kvæði í þetta sama hefti. Ég hringdi svo seinnipartinn í Kristján og bað hann um að velja kvæði fyrir mig í Andblæ, þá þyrfti það ekki að vefjast fyrir mér og ég væri laus allra mála. Það ætlar Kristján að gera.
Kristján sagði að Hannes Pétursson hefði hringt í sig ekki alls fyrir löngu. Það var gott hljóð í Hannesi. Hann var kenndur. Hann var eitthvað að gagnrýna Kristján fyrir að hann hefði aldrei sagt honum að hann væri kaþólskur þegar þeir ræddu trúmál á sínum tíma. Mér skilst að Hannes hafi þá sagt  hann tryði ekki á persónulegt vitundarlíf hvers og eins eftir dauðann eins og kristnin boðaði, heldur mundi sálin hverfa inn í einhverja alheimssál og samlagast henni.
Hver veit?
En við Kristján erum sammála um að það væri ennþá ósennilegra en persónulegt líf eftir dauðann.
Held að Kristjáni hafi þótt vænt um að Hannes hringdi til hans af tilefnislausu. Hefur alltaf góðar taugar til Hannesar þótt hann kunni ekki að meta skáldskap hans með þeim hætti sem Hannes hefði helzt kosið,ef ég skil Kristján rétt.

Kvöldið

Þeir eru margir skrýtnir finnst mér, þessir karlar sem ég hef verið að tala við. Þegar ég las samtalið við Einar ríka fór ég að hugsa um samskipti okkar og bætti við kaflanum um húsakaup mín og sameiginlega útgerð okkar um Örninn. Það var dálítið skemmtilegt ævintýri sem ég hafði gaman af.
En þessir karlar, sem maður kynntist upp úr miðri öldinni, voru hver öðrum ólíkir en þó flestir allmiklir fyrir sér og sumir ótrúlega fyrirferðarmiklir eins og Sveinn Benediktsson.
Þegar ég átti samtal við hann, sem birtist í Morgunblaðinu 1962 og er að ég hygg dálítið fróðlegt, sátum við í bókaherberginu á heimili þeirra hjóna, en hann stóð upp, gekk um gólf og því hraðar sem á samtalið leið.
Er eitthvað að þér? spurði ég.
Nei, nei, sagði Sveinn.
Nú af hverju gengurðu þá svona hratt um gólf? spurði ég.
Nú, það er vegna þess að ég er að pissa í mig
Jæja, sagði ég, en af hverju ferðu þá ekki og léttir á þér?
Hann stanzaði, horfði rannsakandi á mig þar sem ég sat og punktaði hjá mér minnisatriði, og sagði,
Hvað áttu við, og skilja þig eftir einan með bókunum?
Ha, sagði ég. Treysturðu mér ekki fyrir bókunum?
Er einhver ástæða til þess, sagði hann, þetta eru dýrgripir!.
Heyrðu Sveinn sagði ég, slappaðu af og láttu ekki svona. Ég hef engan áhuga á dýrmætum bókum þótt ég hafi gaman af að lesa góðar bækur.
Á ég þá að treysta þér fyrir freistingunni? sagði hann.
Ég brosti og hann skrapp fram og létti á sér.
Kom síðan inn aftur, settist og var eins og nýr maður.
Hann hvarflaði ekki einu sinni auga að bókaskápunum. En ég hef stundum hugsað um það síðar hvort þetta hafi verið látalæti eða raunverulegar áhyggjur.

Hafði Sveinn Benediktsson ástæðu til að vantreysta fólki?
Hafði hann kannski ekki staðizt freistingar sjálfur?
Var nokkur ástæða til að treysta nokkrum manni fyrir nokkrum hlut?
Samtal okkar snerist ekki um það. En kannski hefði þessi djúpsálarfræðilegi leyndardómur átt að vera uppistaðan í samtalinu sem fjallaði um framkvæmdir, stjórnmál og, að sjálfsögðu, fjármál.
Kannski er peningalykt af þessu samtali. Eins og SR-verksmiðjunum.


2. marz, sunnudagur

Ég minntist á Bertrand Russel um daginn, rakst svo á ritdóm um ævisögu hans eftir Ray Monk, The Spirit of Solitude, 1872-1921. Ritdómurinn birtist í The New York Times Book Review og þar er meðal annars komizt svo að orði:

“Monk er hvottveggja í senn, heimspekingur og frábær ævisöguritari, eins og bókin hans um Wittgenstein sýnir bezt. Góð ævisaga krefst innsæis sálfræðingsins, fundvísi sagnfræðingsins og tilfinningar rithöfundarins fyrir frásögninni. Ævisagan er með nokkrum hætti þrautskipulagt slúður og því betur sem höfundinum tekst að fletta ofan af einkalífinu _ einkum hinum dökku hliðum þess _ því betri verður bókin. Monk er snillingur á öllum þessum sviðum. Hann hefur afargóð tök á viðfangsefni sínu og þau koma meðal annars fram í því hvernig hann les í heimildir og hvernig hann nýtir sér þær. Útkoman er mikil bók, sem færir okkur Russell ljóslifandi.
Russel birtist okkur raunar ekki í mjög ljósum litum, heldur litverpur í meira lagi, því það kemur fljótlega í ljós _ og það er einmitt mergurinn málsins _ að Monk hefur megnustu skömm á Russell. Sú staðreynd hefur mótandi áhrif á verkið. Vegna þessarar óbeitar túlkar Monk margt af því, sem Russell lét sér um munn fara í einkasamtölum sem dæmi um fádæma grimmd, sem, að því er Monk segir, eyðilagði líf margra þeirra, sem hann umgekkst. Hann lýsir Russell sem verulega brengluðum manni, ekki aðeins sjálfselskum og kaldlyndum, heldur beinlínis morðóðum að upplagi _ manni, sem varð að beita sig hörku til að taka ekki fyrir kverkar fólki þegar hann reiddist; var blindur á þjáningar annarra og alltaf tilbúinn til að fórna þeim á altari eigin óöryggis og langana; manni, sem sleit út ástkonum sínum með þráhyggju sinni og ofsa áður en hann kastaði þeim frá sér fyrir næsta fórnarlamb; og manni, svona til að kóróna allt saman, sem þjáðist öðru hverju af andremmu og getuleysi.”
A.C. Grayling

Þetta er meiri lýsingin. Ég er ósammála því að dökku hliðarnar  geri ævisögu betri; ekki endilega. Það er ævintýri að uppgötva ljósu hliðarnar og sannfærast um að viðfangsefið sé verðugra en maður óttaðist innst inni. Þannig upplifði ég t.a.m. Ólaf Thors. En það er betri markaðssetning í dökku hliðunum! Boswell skrifaði ævisögu dr. Johnsons, ekki af aðdáun, heldur lotningu. Hann dýrkaði viðfangsefnið.

Hef verið að fara yfir verðlaunabók bandarísku skáldkonunnar Edith Wharton, The Age of Innocence. Hafði mikla ánægju af því. Las mér á sínum tíma til mikillar ánægju skáldsögu hennar The House of Mirth. Ethan Frome bíður. Í sama eintaki af the The New York Times Book Review og ritdómurinn um Russel birtist eftir Grayling sem einnig hefur skrifað bókina Russel í ritröð sem Oxford-háskóli hefur gefið út, er dálítil grein um Wharton eftir Andrea Barnet og finnst mér þessi athugasemd jafn hnýsileg og raunar skemmtileg og fyrrnefnd tilvitnun í ritdóm Graylings:

“Það versta við góðverkin er, að þau koma manni til að gleyma öllu því, sem er svo miklu skemmtilegra," sagði Edith Wharton í heldur kaldhæðnislegum tón í upphafi fyrri heimsstyrjaldar.
Hún starfaði í París í fjögur erfið ár við að skipuleggja og reka nokkrar stórar hjálparstofnanir: Kom á fót saumastofum fyrir konur, sem misstu atvinnuna vegna hervæðingarinnar, hælum fyrir munaðarlaus börn og síðar hressingarhælum fyrir berklaveika, franska hermenn. Þar fyrir utan fór hún oft á vígvöllinn þar sem hún útdeildi sjúkragögnum og viðaði að sér efni í eldheitar ritgerðir um stríðið, sem birtust mánaðarlega í Scribner's Magazine. Hún var líka upptekin við ýmiss konar fjársöfnun, t.a.m. merkustu útgáfu myndskreyttrar sýnisbókar eða safnrits með skrifum um stríðið eftir kunnustu rithöfunda og listamenn þess tíma. Þótt hjálparstarf Whartons hafi verið metið að verðleikum, hafa skrif hennar um stríðið löngum verið afgreidd sem yfirgengilegur áróður _ að minnsta kosti er það niðurstaða Alans Price í “The End of the Age of Innocence”, ágætri úttekt á störfum Whartons í stríðinu.
Þótt sögusviðið sé kannski of  þröngt fyrir almenna lesendur og nákvæm upptalning á athöfnum Whartons oft leiðinleg, þá tekst Price, sem kennir ensku og amerísk fræði við Pennsylvaníuháskóla, að skýra með sannfærandi hætti hvers vegna kunnur rithöfundur beitti hæfileikum sínum í pólitísku skyni. Eins og vinur hennar, Henry James, var Wharton sannfærð um, að ynnu Þjóðverjar stríðið, myndi það tákna endalok siðmenningarinnar. Af þessum sökum, segir Price, sleppti hún fram af sér beizlinu og tileinkaði sér um stundarsakir bókmenntir og afstöðu, sem hún hafði áður fordæmt.”
Ég stend mig að því að rugla saman þessum frábæru bandarísku kvenrithöfundum, Willu Cather (1873-1974) og Edith Wharton. Hin fyrrnefnda er einnig afbragðsljóðskáld.

Kvöldið


Hef verið að kynna mér smásagnasafn Hemingways, In Our Time. Þessar smásögur eru að mér finnst einkum merkilegar fyrir samtölin. Þau eru framúrskarandi vel gerð og vísa fram á veginn. In Our Time, The Torrents of Spring og Men Without Women eru frumraun Hemingways í sagnagerð og vöktu sögurnar verulega athygli á sínum tíma. Það var þegar í upphafi augljóst að samtölin yrðu ekki sízt styrkur höfundar og átti það eftir að ásannast.
Í  The Torrents of Spring er athyglisverð frásögn af því hvernig Henry James skildi við en hann var einna frægastur bandarískra rifhöfunda um sína daga. Fluttist til Bretlands og gerðist brezkur þegn undir lokin:
“ Heyrðu, hef ég nokkurn tíma sagt þér hver voru síðustu orð Henry James?... Jæja, Henry James varð brezkur ríkisborgari á banasænginni. Um leið og konungurinn frétti af þessum sinnaskiptum hans var hann sæmdur æðstu orðu sem völ var á, OM.
... Henry James lá í rúminu og beið dauða síns, með lokuð augu. Það logaði kerti á náttborðinu við rúmið. Þeim var leyft að ganga að rúminu og þeir settu borðann um hálsinn á honum og orðan lá á líninu sem huldi brjóst hans.... Henry James opnaði aldrei augun. Hjúkrunarkonan sagði þeim að þeir yrðu að yfirgefa herbergið. Þeir fóru allir út. Henry James opnaði ekki augun en sagði við hjúkrunarkonuna:
“Hjúkrunarkona”, sagði Henry James, “viljið þér slökkva á kertinu og hlífa okkur við því hvernig ég roðna”.
Þetta voru síðustu orð Henry James, segir Hemingway.

P.S.
Tengdafaðir Jóhannesar úr Kötlum hét Einar Þorkelsson. Hann bjó að Hróðnýjarstöðum í Laxárdal. Vel hagmæltur. Einhverju sinni þegar þeir voru við skál kastaði Jóhannes fram þessum fyrriparti:

Meður slyngum sláttuhjör
slær í bingjum mokið (slægja).

Einar bætir við:

Vírið (misvindað, snurðótt) lyng og ljósastör (blástör)
og líka hringabrokið (bogið gras),( blöð á klófífu).

Mok merkir mikið af e-u, víriviður getur merkt gulvíðir, runni.

Enn:

Heyrði ég í hamrinum
hátt var þar látið
sárt var þar grátið.
Búkonan dillaði börnunum öllum.


Og loks:

Gústi tók mánann á grúfu,
gaf út og eignaði sér,
Davíð hann flýgur á fjöðrum
sem fuku úr stélinu á mér.
(Delluvísa úr Dölum).



13. marz, fimmtudagur

Gylfi Gröndal hringdi til mín um daginn og sagði að Ríkisútvarpið  hygðist hefja þáttaröð um rithöfunda, nokkurs konar svipmynd, og væri þess óskað að fyrsti þátturinn fjallaði um mig, en hann yrði fluttur á páskum. Ég tók þessu vel. Gylfi er gott skáld. Hann hefur verið blaðamaður og skrifað ágætar ævisögur og samtalsbækur og ég treysti honum. Ég kynntist honum ungum þegar ég var ritstjóri Stefnis og við birtum ljóð eftir hann en þá var hann eitt helzta ungskáld landsins. Mér hefur alltaf fundizt hann jafn geðfelldur. Við töluðum saman í u.þ.b. tvo klukkutíma og var það allt tekið upp á segulband. Mér skilst slík samtöl séu varðveitt í Ríkisútvarpinu þótt einungis brot séu notuð.
Gylfi spurði mig um það, hvernig ég liti á skáldskap og sagnfræði, hvort ég væri þeirrar skoðunar, að það væri ekki eins mikið bil og af væri látið milli samtala sem væru vel unnin og bókmennta eða skáldskapar. Ég hef náttúrulega verið þeirrar skoðunar alla tíð að góð samtöl séu ekki síður bókmenntir en blaðamennska, þótt samtöl og samtalsbækur séu mismunandi en það er skáldskapur einnig. Goethe vissi að það er stutt bil milli drauma og veruleika, skáldskapar og sanninda, ævisaga hans heitir Skáldskapur og sannindi. Þetta má sjá í mörgum frægum ævisögum, t.a.m. ævisögu Sean O’Caycys sem John Ford notaði í eina af stórmyndum sínum. Ég sagði við Gylfa að ég hefði fengið þá hugmynd að 50 rithöfundar ættu samtöl við sömu persónuna og vissi enginn af öðrum, en þá kæmu 50 persónur í ljós. Niðurstaðan yrði hin sama og þegar listmálarar hefðu Esjuna að fyrirmynd. Það væri ekki til nein ein Esja. Esja Kjarvals væri önnur en Esja allra annarra listamanna. Hið sama gilti um samtöl og þau beztu gætu orðið jafn persónuleg sem list góðs rithöfundar og málverk merks listmálara.
Um sannfræði og skáldskap hafði ég það að segja að landamærin þar á milli væru einatt lítt sjáanleg. Ég sagði við Gylfa að gott dæmi um þetta væru Íslendinga sögur annars vegar og sagnfræði Sturlu Þórðarsonar eða Sturlungu frá sama tíma. Þessar bókmenntir væru um sama eða svipað efni, þær væru skrifaðar í sama stíl, efnistök hin sömu og ég sæi í raun og veru lítinn sem engan mun á Sturlungu eða Íslendinga bók Sturlu Þórðarsonar og Njáls sögu eða þeim sögum öðrum sem væru sprottnar úr Snorrungagoðorði og ættu rætur í Dölum vestur; voru e.k. ættarsögur sturlunga. Það væri augljóst að þessi rit væru sprottin úr umhverfi sturlunga og þá ekki sízt Njála. Höfundur nefnir Kolbein unga Ásbirning einan samtímamanna til þess að sverta nafn hans; hann hafi verið afkomandi Marðar Valgarðssonar og þeirra feðga. Mörður var slægur og illgjarn. Kolbeinn ungi var einn helzti andstæðingur sturlunga og enginn vafi á því að nafn hans er sett inn í Njálu af ásettu ráði.
Þessar sögur, hvort sem við erum að tala um Íslendinga sögur eða Sturlungu - og þá ekki sízt Þorgils sögu skarða - fjalla í raun og veru allar um samtíð höfundanna, þ.e. 13. öld, þótt Íslendinga sögur eigi að gerast tveimur til þremur öldum áður, og hafa öll hin sömu einkenni og t.a.m. Njála; ekki sízt Þorgils saga. Mörkin milli skáldskapar og sannfræði eru þarna harla óglögg og mér er nær að halda að Íslendinga bók og raunar Sturlunga öll séu miklu nær heimildaskáldsögu en menn hafa hingað til viljað vera láta. Augljóst má vera hverjir eru að skrifa þessar sögur. Það sér maður af því að það er engin saga til af höfuðpaurnum á 13. öld, Gissuri jarli. Ástæðan er einföld. Hann var ekki af sturlungaætt og höfuðandstæðingur þeirra frænda og þeir höfu engan áhuga á því að halda nafni hans á lofti með öðrum hætti en gert er í Sturlungu. En af honum er engin sérstök saga eins og Hvamms-Sturlu, Þórði kakala eða Þorgilsi skarða og Noregskonungum.
Þegar við höfum allt þetta í huga er augljóst að skil skáldskapar og sannfræði eru oft og tíðum harla óljós.
Snorri sagði að allt væri gert af einhverju efni. Það á ekki sízt við um sagnfræði og þá ekki síður sagnfræðiskáldskap eða heimildaskáldsögur. Efniviður ævisögunnar leynist jafnvel í mystískri ljóðlist og táknrænni, eða harla ópersónulegri ljóðlist eins og kvæðum Pounds og Eliots, þótt þeir - og þá einkum Eliot - hafi hafnað allri persónulegri reynslu í ljóðlist. En hann notar hana samt, ekki síður en aðrir, þ.e.a.s. að í skáldskap hans eru lýsingar umhverfis hans, samtíma og þess sem á hann leitar. Allt þetta má einnig heimfæra upp á samtöl. Hráefni þeirra er persónan sjálf, en menn upplifa allt með misjöfnum hætti og enginn lýsir staðreyndum  eða reynslu sinni eins og aðrir. En samtöl eru ekki sízt upplifun þess sem skrifar. Það minnir á ummæli Óskars Wildes: Dagbækur ættu að vera skrifaðar af öðrum. Sem sagt, allt er afstætt.
Listræn tök ráða úrslitum um það hvort samtöl eru góð eða vond, hvort þau eru bókmenntir eða blaður. Úrvinnsla hráefnisins skiptir sköpum. Það gildir um alla ritlist, án landamæra. Alla list.

Um kvöldið


Hef velt því fyrir mér hvernig samtíminn hefði tekið Njáls sögu ef hún hefði verið gefin út á 13. öld og gagnrýnendur átt að meta hana með sama hætti og bækur eru metnar nú á dögum. Einhverjir hefðu að öllum líkindum skrifað þokkalega um hana en aðrir haft ýmislegt við hana að athuga. Ritdómur hefði t.a.m getað litið út með þessum hætti:
Þessi nýútkomna saga um samtíð okkar, nefnd Njáls saga, er látin gerast á söguöld. Höfundur hefur enga burði til að lýsa atburðum á þeim tíma enda þekkir hann þá ekki nema af afspurn og heimildir einungis munnleg geymd. Það er að vísu virðingarvert að færa samtímasöguna í dulargervi fyrri alda en tekst misjafnlega. Öllum er ljóst að brennan á rætur í Flugumýrarbrennu og öðrum brennum sem við samtímamenn þekkjum af eigin raun. Reynt er að koma höggi á minningu Kolbeins unga Arnórssonar og þeirra frænda með því að minna á að hann hafi verið afkomandi Marðar Valgarðssonar og Valgarðs, föður hans, en þeir eru samkvæmt þessari alligórísku sögu hin mestu hrakmenni og djöfullegt hreyfiafl sögunnar. Samt er látið í veðri vaka að Mörður sé kristinn og er það augsýnilega áminning til þeirra höfðingja sem gengið hafa gegn siðfræði kirkjunnar á okkar dögum. Víst má ætla að Mörður og faðir hans hafi, eða einhverjir í gervi þeirra, riðið um héruð á sínum tíma, en þó vitum við það ekki fyrir víst og bendir margt til þess að Mörður sögunnar sé annar en fyrirmyndin, enda var hún mikillar ættar og í nánum skyldleikatengslum við Gissur hvíta á Mosfelli og Ísleif byskup son hans sem voru vitrir menn og framsýnir og höfðingjar miklir, Gissur einn helzti forystumaður kristnitöku hér á landi (Gissur tengdafaðir Marðar og Ísleifur mágur hans?!). Árásin á Mörð er því hið argasta níð og sómakærum höfundi ekki sæmandi. Svipaða sögu má segja um Hallgerði sem kölluð er langbrók í sögunni, stórættaða höfðingjadóttur, ef marka má heimildir. Hún á að minna lesendur á að köld eru kvennaráð og má vera að höfundur hafi einhverja kvenpersónu nú á dögum sér til fyrirmyndar án þess hér verði reynt að rekja það. Hitt verður þá ekki heldur tíundað hver hin raunverulega fyrirmynd Marðar Valgarðssonar er í samtíma okkar, en innskotið um Kolbein unga er áleitin vísbending og átti hann þó til frændsemi að telja við sturlunga.
Margt í þessari sögu er sótt í samtímarit, bæði sögu Sturlu Þórðarsonar um samtímaatburði en hún er eins og allir vita, sem lesið hafa, einhvers konar heimildaskáldsaga. Þótt reynt sé að telja lesendum trú um að höfundur sé óhlutdrægur í frásögn sinni vita allir sem reynt hafa, að svo er ekki, og má lesa það milli línanna. Það er þá einnig augljóst að höfundur sækir mannlýsingar oft og tíðum í þær samtímasögur sem nú eru alkunnar, bæði sögu Sturlu og önnur ritverk hans og annarra og augljóst að fyrirmynd Gunnars á Hlíðarenda, sem hefur auðvitað aldrei verið til og ónefndur í Landnámu en er ímynduð hetja, er sótt í samtímalýsingu á Oddi Þórarinssyni eins og hvert mannsbarn sér sem til þekkir. Ýmsar aðrar mannlýsingar eru með sama hætti gerðar og má varpa fram þeirri spurningu hversu smekklegt það sé.
Allt eru þetta miklir annmarkar á sögu þessari sem reynt er að telja mönnum trú um að sé sannferðug og eigi rætur í raunveruleikanum. En hún á að sjálfsögðu hvergi rætur nema í hugarburði höfundar og umhverfi okkar sem nú lifum og tengslin augljós, þegar að er gáð. Þau eru oftar en ekki heldur ósmekkleg, og raunar ósæmandi þegar verst gengir. Sómakær höfundur hefði skrifað sögu þessa með öðrum hætti og á þetta raunar við um ýmsar þær sögur aðrar sem sprottið hafa úr umhverfi sturlunga í Dölum vestur. Þær eru með ýmsum hætti dulbúin aðför að velþekktum og gegnum samtímamönnum sem hafa að mestu látið þeim ósvarað. Lái þeim hver sem vill.
Ýmsir annmarkar fleiri eru á þessari allt of löngu sögu, til að mynda er Mörður Valgarðsson tvisvar nefndur til hennar og sýnir það eitt út af fyrir sig fljótfærni og flumbruskap, tönnlazt er á því að menn skuli ekki vega í knérunn og ætti hver maður að þekkja svo alkunn sannindi, svo að ekki geta þau talizt frumleg nýjung í heimildasagnagerð okkar. Ýmsar lýsingar eru með ólíkindum og margar  athugasemdir mætti gera við frásögnina af kristniboði og kristnitöku. En í þeim efnum hefur höfundur notazt við eigið ritverk um sama efni, en á því eru ýmsir annmarkar að því er fróðir menn telja og ástæðulaust að endurtaka þá í þessu riti.
Málaflækjan eftir brennuna er alltof langdregin og sýnir, svo að hverjum leikmanni ætti að vera ljóst, að höfundur fer þar eigin leiðir, en hafnar hefðbundnum lögskýringum. Þó hefur hann sjálfur átt þátt í samningu nýrrar lögbókar og jafnvel gegnt lögsögumannsembætti um skeið. En hann notar sömu aðferðir og frændi hans Snorri í Reykjaholti, velur úr sögulegum staðreyndum að eigin geðþótta og hugsar þá fremur um spennu og skáldleg tilþrif en lagalegar forsendur. Má vera að slík efnistök séu nauðsynleg í slíkri spennusögu, en vart eru þau til fyrirmyndar.
Það fer ekki framhjá neinum að Mörður og Hallgerður lifa bæði söguna af, en hinar þóknanlegu persónur hennar, hinar sönnu hetjur, hverfa hver af annarri bak við það fortjald sem skilur að líf og dauða. Þetta er mannfjandsamlegt rit ef í saumana er farið og nánar að gætt. Það er því óholl lesning og varpar hvorki ljósi á fortíð né samtíð, þótt sumt sé haganlega ritað og þá einkum þeir kaflar og þau samtöl sem minna á frásagnir Þorgils sögu eða sannfræði Sturlu Þórðarsonar sjálfs. Honum hefur tekizt mun betur upp í sinni ódulbúnu samtímasögu um öld okkar og aldarfar en í þessari dularklæddu dæmisögu úr fortíðinni. Jafnvel ýmsar vísurnar eru ortar inn í frásögnina og sagðar gamalgrónar, þótt nýjar séu og augljós tilbúningur.
Þegar upp er staðið hvarflar að manni að hér sé á ferðinni rit harla andstætt kristinni boðun og því heldur ókirkjulegt eins og frá því er gengið. Verstu illmennin ganga á guðs vegum en þeir sem vitrastir eru og hafa til að bera mestan siðferðilegan þroska blendnir í trúnni og styðjast við átrúnað sem ól á hefndum og hryðjuverkum. Það verður að vísu að viðurkennast að okkar eigin öld er blóðugri að þessu leyti en efni standa til, svo mikil ítök sem móðurkirkjan hefur í umhverfi okkar, en þessi tilhneiging höfundarins, að gera sem minnst úr kristnum boðskap í örlagavef söguhetjanna hlýtur að vekja geistlega menn til umhugsunar um það, hvert stefnir í sagnfræði okkar og ritmennsku. Í raun og veru er það íhugunarvert að kirkjan skuli leyfa að slík óhróðursverk séu rituð og þeim dreift eins og hverjum þóknast, án eftirlits og íhlutunar. Það sýnir ekki sízt að móðurkirkjan stendur nú um stundir völtum fótum og ekki tekið það tillit til hennar sem krefjast ætti. Það er að vísu þörf áminning og að því leyti má ætla að rit þetta, nefnt Njáls saga, geti orðið víti til varnaðar. Engar fregnir hafa borizt af slíkum ritum í þeim löndum sem við þekkjum til og næst okkur standa, enda yrðu slík rit ekki leyfð þar sem siðmenning er annað og meira en orðin tóm og guðskristni það leiðarljós sem vera ætti.


15. marz, laugardagur


Orti þetta kvæði í gær:


Marz ‘97

Halaklippt
fer
halastjarnan
tunglslausan
norðausturhimin,

í norðvestri
deplar
sólgyðjan
tunglgulu auga.

Það er kyrrt
og nóttin þögul.

Frostnakin trén
í garðinum
bíða nýs halastjörnulauss
dags.

Og þögnin marzhvítur
snjór
við marrandi skó-
sóla.


Breytti því svo í dag:

Mars ‘97


Halaklippt
fer
stjarnan
hundlausan
norðvesturhimin,

deplar
sólgyðjan
tunglgulu auga.


Það er kyrrt

nóttin þögn
við hlustandi auga.

Frostnakin bíða
trén
í garðinum,

hundgá
í fjarska.

Þögnin marzhvítur
snjór
við marrandi skó-
sóla.

Einnig þetta:

Þögn


Og sólin bráðnar
í kvöldgulan loðfeld
tungls
við sofandi
jökla.

Sem varð að lokum svohljóðandi:

Þögn


Land mitt

kvöldgulur loðfeldur
tungls
við sofandi
jökul.


Sigling

Ég er hættur
á sjónum
sagði hann ,

fer á minn túr
í landi.

Varð svo:

Sigling


Ég er hættur
á sjónum
sagði hann,

fer mína túra
í landi.


Og loks:

Ferð


Hverfur
gamall hugur
að sólroðnum
gárum

hljótt
eins og hafið

hverfur
að ísbláum vötnum.


16. marz, sunnudagur


Inn í veröld

skugganna

Skuggar
á ferð
um vængjaðan
skóg,

skordýr
velta apasaur
í rótfúna
birgðageymslu,


maurar
dragast að sætleika
fiðrildalirfanna,

rauðeygðir froskar
kallast á
í vatni
sem speglar hljóðan
himin
í kvöldlúnum
augum þeirra,

efniviður í ævintýri
um prinsa
í álögum.


Hlé

Þegar ég er farinn og finn þig ekki meir
og fegurð þín er minning og lífið brotinn reyr
þá skaltu ekki ímynda þér annað en ég sé
einhvers konar leikrit og nú sé bara hlé.



Eyjólfur Konráð Jónsson - minningargreinar

14. marz, föstudagur


Það var engin tilviljun að ég óskaði eftir því í apríl 1960 að Eyjólfur Konráð Jónsson kæmi að Morgunblaðinu og tæki við ritstjórastörfum þar. Nýr tími fór í hönd og ég treysti engum betur til samstarfs en honum í þeim átökum sem framundan voru. Við höfðum kynnzt í harðri og óvæginni stúdentapólitík í Háskólanum og þar hafði ég beitt mér fyrir því að hann tæki við af mér sem forystumaður Vöku í stúdentaráði. Í þeim barningi var vinátta okkar innsigluð og bar aldrei skugga á, hvorki fyrr né síðar. Í átakamiklum ritstjórastörfum á Morgunblaðinu reyndi oft mikið á þessa samstarfsvináttu og varð hún heilli og sterkari við hverja eldraun. Þessi einarða samstaða hélzt alla tíð sem Eyjólfur starfaði við blaðið og vinátta okkar einnig ávallt og því ástæða til þakklætis á kveðjustund. Mér er vel kunnugt um það að Eyjólfur Konráð, eða Eykon eins og við vinir hans kölluðum hann, taldi það fagnaðarefni að þessi arfleifð einarðrar samstöðu og gagnkvæms trausts skyldi vera það mótandi afl sem úrslitum ræður um þróun og farsæld Morgunblaðsins. Það er ekki sjálfgefið veganesti en dýrmætt á jafn rótlausum umbrotatímum og við nú lifum. Um stefnu og afstöðu Morgunblaðsins hefur ávallt ríkt einörð samstaða með ritstjórum blaðsins og útgefendum og svo var einnig þann hálfan annan áratug sem Eyjólfur Konráð starfaði við ritstjórnina, eða þar til hann var kosinn á þing og hætti á blaðinu í lok þjóðhátíðarársins '74.
Nafn Eyjólfs Konráðs er ávallt tengt við fjármál og athafnalíf. Hann nefndi þetta sjálfur í samtali okkar sem birt var í blaði sjálfstæðismanna í Norðurlandskjördæmi vestra, Norðanfara, 1971, en þá skipaði hann þriðja sætið á lista flokks síns en hafði ekki erindi sem erfiði í kosningunum og ég hygg það hafi valdið honum miklum vonbrigðum. Hann hélt því áfram störfum við Morgunblaðið fram að næstu kosningum en þá var björninn unninn og hann hætti ritstjórastörfum og settist á Alþingi. Það hafði verið ákveðið af stjórn Árvakurs og að lokum í samráði við okkur ritstjórana að ritstjórastörf á Morgunblaðinu og pólitísk afskipti á Alþingi gætu ekki farið saman þótt svo hefði verið fram að þeim tíma. Eyjólfur Konráð var ekki sízt þeirr ar skoðunar og hélt fast við þá ákvörðun sína að hætta ritstjórastörfum. En í fyrrnefndu samtali segir hann m.a.: “Þótt ýmsir segi, og þar á meðal þú, að ég hafi mestan áhuga á fjármálum og atvinnumálum, sem má vera rétt, tel ég hitt þó meginatriði, að framfarir á þessum sviðum leiði til þess, að lýðræðið styrkist í landinu og þjóðin eflist að manndómi og menningu.” Þessi síðustu orð voru ekki sögð út í bláinn því að Eyjólfur hafði átt þátt í stofnun Almenna bókafélagsins og var fyrsti forstjóri þess, ekki sízt að ósk Bjarna Benediktssonar sem hann kallar í þessu samtali “okkar látna foringja”. Almenna bókafélagið varð lífakkeri borgaralegrar menningar á erfiðum og viðsjárverðum tímum og útgáfusaga þess stórglæsileg enda tengd ýmsum helztu skáldum þjóðarinnar á þeim tíma. Afdrif AB undir lokin voru sársaukafull starfslok.
Eyjólfur Konráð fylgdist vel með bókmenntum á þessum árum en gat haft atómskáldskapinn í flimtingum ef því var að skipta. Mörgum árum eftir að Jörð úr ægi kom út sagði hann við mig einn góðan veðurdaginn, Ég las alla Jörð úr ægi upphátt í gærkvöldi, hún er ágæt með vodka!
Það fer ekki milli mála að Einar Benediktsson var það skáld sem hafði mest áhrif á Eyjólf Konráð í uppvexti hans. “En kannski fundust mér fyrirætlanir hans um stórvirkjanir í Þjórsá og Sætersmoen-skýrslan, þar sem gert er ráð fyrir átta sinnum stærri virkjunum í Þjórsá en nú eru orðnar, einna stórfenglegastar. Þær urðu að vísu bara skáldskapur, á blaði. En allur skáldskapur hefur áhrif. Og að verkinu hafði verið staðið þannig, að fyrirætlanirnar gátu orðið að veruleika, ef skammsýnir menn hefðu ekki hindrað þær. Og þær verða að veruleika eins og aðrar sýnir Einars Benediktssonar.” Hvað sem öðru leið áttu þeir það sameiginlegt, Einar Benediktsson og Eyjólfur Konráð Jónsson, að þeim leið aldrei vel þegar ekkert gerðist. Eyjólfur Konráð taldi að án hreyfingar, framkvæmda sem spretta af miklum hugsjónum geti þessi litla þjóð ekki þrifizt. Henni sé nauðsynlegt að finna að fram sé sótt; að eitthvað gerist. Þá - og því aðeins - geti hún öðlazt meira traust á sjálfri sér og landi sínu. Og ritstjórar Morgunblaðsins voru sammála um að stóriðja til landsnytja en ekki landspjalla gæti orðið þjóðinni örvandi lyftistöng. Um þetta snerist hugur Eyjólfs einkum í upphafi ritstjóraferils hans og að því kom að andstæðingar okkar höfðu það í flimtingum að Eyjólfur vildi helzt reisa tuttugu stór álver á næstu árum! Í umræðum um stóriðjuna var honum eitt sinn á fundi líkt við Einar Benediktsson. Ég held að hann hafi gengizt upp við það en ég sagði við hann: “Aldrei hef ég náð svo langt, mér hefur ekki einu sinni verið líkt við Úlfar Þormóðsson!” Það þótti Eykon góð athugasemd og minnti mig stundum á hana eins og þegar Rómverjar hvísluðu í eyru stríðshetja sinna: Mundu að þú ert maður!
Eyjólfur Konráð hafði miklar hugmyndir og stórar um uppbyggingu og atvinnulíf og þá ekki sízt velmegun fólksins í landinu. Fólkið sjálft á að eiga atvinnufyrirtækin, það var hin mikla hugsjón um almenningshlutafélög. Eyjólfur fjallar um þau í þeirri einu bók sem hann skrifaði og engin tilviljun að hún heitir Alþýða og athafnalíf, 1968. Þessar hugmyndir kallaði hann auðstjórn almennings. Hann hafði meiri áhuga á þessari alþýðu en höfðingjum. Hann taldi að fólkið sjálft ætti þann guðlega innblástur að gera allt af engu eins og stórbóndinn austur á Eyrarbakka komst að orði um Guð á sínum tíma en í opinberum rekstri væri allt gert að engu. Þá þyrfti að leita í vasa skattborgarans í stað þess að draga úr útgjöldum og lækka skattana. Í einu af fjölmörgum samtölum okkar við Geir Hallgrímsson þegar hann var orðinn forsætisráðherra var fjallað um efnahagsmál og ég spurði Geir hví ekki mætti athuga tillögu Eyjólfs betur um afnám óbeinna skatta, söluskatts og vörugjalds. Geir sagði það kæmi til greina en tollalækkanir og lækkanir á fyrrnefndum sköttum þýddu stórhalla á fjárlögum. Undir þau sjónarmið Geirs tók Þorsteinn Pálsson. En Eykon sat við sinn keip og sagðist hvergi hafa séð ábyrgar tölur um þennan halla. Hann afgreiddi málið með því að einfalt væri að selja skuldabréf upp í væntanlegan halla. Sú leið hefur verið farin að greiða fjárlagahalla með spariskírteinum.
Þessa auðstjórn almennings kölluðum við okkar í milli auðjöfnun uppá við og notaði Sigurður Bjarnason það hugtak einhverju sinni í eldhúsdagsumræðum. Þá var okkur skemmt. Í fyrrnefndu riti, Alþýða og athafnalíf, er komizt svo að orði: “Enginn má þó skilja orð mín svo, að ég vanmeti framtak einstakra manna, sem leggja út í atvinnurekstur, smáan og stóran. Þvert á móti tel ég, að örva beri sem allra flesta til þess að gerast sjálfstæðir atvinnurekendur, hvort heldur þeir taka sér fyrir hendur að reka trillubát eða iðjuver.
En mergurinn málsins er sá, að íslenzka þjóðin vill ekki, að örfáir auðmenn ráði yfir öllum hennar atvinnurekstri. Auðjöfnun er hér meiri en annars staðar, og þess vegna geta ekki fáir menn komið á fót öflugustu atvinnufyrirtækjunum, en hins vegar er fjármagn til í höndum fjöldans. Ef það er virkjað með sameiginlegu átaki í atvinnurekstri, má lyfta Grettistaki.”
Það var þessi sjálfstæðisstefna sem batt okkur Eyjólf Konráð traustum böndum í háskóla, en á þeim árum var heimskommúnisminn í óða önn að gera alla jafnfátæka. En nú höfum við reynslu af því að það þarf meira en kenningar til að bæta kjör fólks. Mér skilst að í allri velmeguninni nú um stundir búi tvær þjóðir í landinu. Enginn hafði af því meiri áhyggjur en frjálshyggjumaðurinn Eyjólfur Konráð Jónsson. Auðjöfnun uppá við á langt í land, áður en lokatakmarkinu er náð.
Ég sagði að það hefði verið langur aðdragandi að þingsetu Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Mér er nær að halda að hann hafi haft þingmetnað þegar hann kom að Morgunblaðinu og ávallt haft í hyggju að bjóða sig fram á vegum Sjálfstæðisflokksins. Að því kom að sjálfsögðu og voru þeir þá báðir í framboði, Sigurður Bjarnason og Eyjólfur Konráð, og dvöldust langdvölum í fyrirheitna landinu, þ.e. kjördæminu. Þeir ræktuðu báðir kjördæmi sín vel og lengi og var það harla drjúgt og annasamt starf. Það er svo annað mál að Morgunblaðið var á þeim árum einnig eins og eitt af kjördæm­unum. Nú er það fyrst og síðast dagblað með eigin flokkslausa hagsmuni og sjálfstæðar hugmyndir um þjóðfélagið og velferð þegnanna. Tímarnir hafa breytzt og nú er blaðinu stjórnað eins og til var stofnað í upphafi.
Föstudaginn langa 1967 hef ég hripað hjá mér að ég hafi ekki séð Eykon dögum saman því hann sé í kosningaferðalagi fyrir norðan. Við studdum hann eftir megni ? og þá ekki sízt Bjarni Benediktsson sem lagði að Eyjólfi að fara í framboð. Ljón voru á veginum en hann vílaði það ekki fyrir sér. Og þegar Gunnar í Glaumbæ sættist á framboð Eyjólfs og Magnús Jónsson ráðherra kvaðst styðja hann, þó án mikilla afskipta, átti Eyjólfur góðu fylgi að fagna í uppstillinganefnd kjördæmisins þótt ekki væru allir á eitt sáttir. Á fyrrnefndan minn­ismiða hef ég skrifað 1. október: “Ekki er enn ákveðið hvort Eykon fer í framboð eða ekki en að því unnið. Hann á að komast á þing nú, annars er ég hræddur um að hann yrði fyrir einhverju áfalli." Eyjólfur lagði sig fram og fékk góðan stuðning sem hann mat mikils. Ég sagði við Gunnar í Glaumbæ
þegar hann spurði mig um Eykon að hann legði mikið upp úr vináttu en mest upp úr drengskap. Gunnar hafði haft fyrirvara á framboði Eyjólfs, taldi að hann gæti orðið of fyrirferðarmikill og sæist ekki alltaf fyrir en studdi hann af hlýju og einurð við nánari kynni. Gunnar spurði mig hvort ég vildi taka pólitíska ábyrgð á Eyjólfi. Það er auðvelt, sagði ég, sá víxill fellur á engan mann.
Eyjólfur átti viðkvæmt og hlýtt hjarta og í samskiptum okkar mat hann mest einlægni og hreinskiptni. Ég held það hafi einnig einkennt hann sem stjórnmálamann en á þeim slóðum féll hann ekki auðveldlega inní samfélag hagsmunavináttunnar. Hann gat haft allt á hornum sér og skammað vini sína fyrir afstöðu þeirra. Eitt sinn var ég viðstaddur slíkt samtal og sagði þá við hann, Ég held ég skilji betur pólitíska samstarfsmenn og vini Jónasar frá Hriflu nú þegar ég hef heyrt þetta samtal. Ég held hann hafi stundum tekið þá til bæna með svipuðum hætti! Eykon horfði agndofa á mig, Matti minn,
sagði hann, þú skilur þetta ekki, þú ert af norskum ættum!
Ágreiningsefnið hafði fjallað um Jan Mayen. En þessi athugasemd hygg ég að lýsi vel pólitískum gálgahúm­or Eykons þegar svo bar undir. Pólitískur gálgahúmor gat komið í góðar þarfir, Eyjólfur Konráð átti til óþolinmæði, engu líkara stundum en hann væri að frelsa heiminn og engan tíma mætti missa í því amstri. Slíkur áhugi getur gengið nærri heilsunni. Eftir slysið á Þingvöllum 1970 vildi hann að Geir Hallgrímsson tæki þá þegar við Sjálfstæðisflokknum. Samt mat hann Jóhann Hafstein mikils. En tími Geirs var ekki kominn. Það hefði verið óráð að þvinga hann í sæti Bjarna, enda vildi hann það ekki sjálfur. Að því kom að Eyjólfur áttaði sig á því. Og hann sætti sig um síðir við þá atburðarás sem varð.
Eyjólfur Konráð Jónsson var lengi með annan fótinn í Norðurlandskjördæmi vestra. Eftir kosningarnar 1967 hef ég punktað hjá mér að hann sé, þrátt fyrir vonbrigðin með úrslitin, fyrsti varamaður landskjörinna og tveggja kjördæmakjörinna þingmanna, svo hann verður með annan fótinn á þingi. Honum var kjördæmið kært. Hann átti ættir að rekja til Húnavatns- og Skagafjarðarsýslna og þar hafði hann dvalizt hjá vinum og ættingjum í æsku en þá ekki sízt í Siglufirði sem hann taldi að hefði alla burði til “að vera Vestmannaeyjar Norðurlandsins”, eins og hann komst sjálfur að orði. Þar naut hann Þormóðs Eyjólfssonar föðurbróður síns og Guðrúnar Björnsdóttur frá Kornsá sem tóku hann til sín til náms. Þá er ekki síður ástæða til að nefna séra Helga Konráðsson móðurbróður hans en af honum keypti hann síðar hið mikla bókasafn sem var bæði stolt hans og yndi. En þó var hann mest með hugann við Eyjólf Jónasson sem þekktur er af arfsögnum og sagnaþáttum, t.a.m. um fjárdrápsmálið í Húnaþingi, skemmtilegri og sérkennilegri frásögn eftir Gísla Konráðsson. Eyjólfur var fjórði maður frá nafna sínum Jónassyni og var stoltur af því. Hann sagði mér að hann stöðvaði bílinn á Stóra-Vatnsskarði þegar hann færi um þær slóðir, stigi út úr honum, liti til heiða og fjalla þar sem Valadalshnjúk ber við himin og ætti stundarspjall við Eyjólf nafna sinn. En þessar hugrenningar fjölluðu venjulega um velferð alþýðunnar og auðsöfnun hennar. Yfirvöldum og höfðingjum var ekki boðið til þessa tveggja manna tals. Þetta var einskonar sellufundur þeirra nafnanna!
“Sem betur fer er fólkið hamingjusamara nú en fyrrum var”, sagði Eyjólfur í fyrrnefndu samtali okkar í Norðanfara. “Mér finnst að ég hafi skilið það nú síðustu árin, þegar ís hefur legið við land, kal verið í túnum, óþurrkar og jafnvel öskufall, hvers vegna ýmsir, sem mestur dugur var í brutust hart um og fóru jafnvel á snið við lögin fyrr á árum. Ég held, að einnig þeir dugmestu nú á dögum mundu reyna að berjast við ofureflið og sigra. Úr því að Meingrundar-Eyjólfur er nú kominn inn á Alþingi Íslendinga, kemst ég ekki hjá því að játa, að ég finn oft til með karlinum. Og ekki er laust við að mér þyki sem hann sé á næstu grösum, þegar ég ferðast um byggðir Austur-Húnavatnssýslu, þar sem hann átti í erjum og átökum við sýslunga og yfirvald.”
Eyjólfur Konráð var mikill tilfinningamaður. Sumir héldu að hann væri raunsæismaðurinn á Morgunblaðinu en ég sæi um hina skáldlegu loftkastala; að hann væri fulltrúi hins jarðbundna athafnalífs en ég sæi um tilfinningarnar. En þetta var ekki svo. Það var í ófá skiptin sem ég þurfti að tosa hann niður á jörðina enda var hann í nánara tilfinningasambandi við Einar Benediktsson og skáldskap hans en atómskáldið sem hafði valizt til ritstjórastarfa á blaðinu.
Eyjólfur Konráð kunni vel að meta Hans G. Andersen og þá ekki sízt þegar hugur hans snerist að mestu um hafréttarmál. En hann sótti þá ekki síður hugsjónaeldinn í hugmyndir Svend-Aage Malmberg um hafsbotninn og landgrunnið. Þær höfðu birzt bæði í Morgunblaðinu og annars staðar og höfðu mikil áhrif á afstöðu okkar á þeim tíma. Og þá skyldi helzt gera ýtrustu kröfur í hafréttarmálum, byggðar á vísindalegum niðurstöðum og alþjóðarétti um hafið. Sumum fannst að Eyjólfur væri stundum of ærslafenginn í afstöðu sinni til landgrunnsmála. Hann vildi ganga lengra en raunsætt væri. Þegar Rockall komst á dagskrá brostu ýmsir í kampinn. En Eyjólfur Konráð afgreiddi úrtölumenn með þeim hætti að sumum var nóg boðið og töldu að hann færi offari og gæti minnt á stjórnleysingja. Ef farið yrði að tillögum hans ættum við nánast allt Atlantshafið, auk hafsbotnsins!! En við þurfum ekki annað en líta á kortið til að læknast af þessari bábilju. Það eru Norðmenn en ekki við sem hafa helgað sér Atlantshafið. Við hefðum mátt herða baráttuna fremur en draga úr henni. Ísland er eins og drottning Atlantshafsins og hún á að njóta þessa ríkis síns til fulls. En það gerir hún ekki, að minnsta kosti ekki ef miðað er við frændur okkar í austri.
Eyjólfur Konráð gerði ekki mikið úr sagnfræðilegum útlistunum. Hann átti það til að blása á þær. Hann taldi þær ævinlega tortryggilegar. Hann var sannfærður um að það mætti teljast til undantekninga ef þær leiddu annað í ljós en afstæðan sannleika um pólitísk átök og hugsjónabaráttu einstakra forystumanna. Sögunni væri oftast hagrætt, viljandi eða óviljandi _ og þá vegna vanþekkingar. Hann var ekki endilega umburðarlyndur gagnvart hugmyndum eða skoðunum sem hann kunni ekki að meta. Samt átti hann það til að vera svo pragmatískur í samtölum við pólitíska andstæðinga að sumum þótti nóg um! En hann var þeim mun strangari við vini sína og samherja. Við þá var hann kröfuharður og stundum um of. Það má vel vera að kröfur hans hafi verið meiri en svo að unnt hafi verið að uppfylla þær í harðri baráttu líðandi stundar og pólitísku návígi. Barátta hans var eins og hann var sjálfur, vafningalaus og án útúrdúra. Hann hneigðist að ég hygg helzt að því að það væri einungis ein hlið á hverju máli, gat því virzt einstrengingslegur við fyrstu kynni en hafði þó ekki síður þörf fyrir að sýna þeim tillitssemi sem virtu skoðanir hans en höfnuðu þeim ekki eins og hverri annarri útópíu. En raunsæi án skýjaborga var honum þó ekki endilega að skapi. Af þeim sökum gat hann verið misskilinn af “nærsýnni skepnu” og þeim “moldvörpuanda” sem Bjarni Thorarensen yrkir um í erfiljóðinu um Sæmund Magnússon Hólm.
Eyjólfur Konráð Jónsson batt ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn. En hvað sem því líður er eitt víst að hann unni móður okkar, Íslandi, öðru fremur. Það áttu þeir Sæmundur saman. Og hugsjónir Eyjólfs Konráðs voru engar skýjaborgir eða loftkastalar, heldur raunsætt mat á því sem hægt er að gera ef menn festast ekki í venjubundnum hugsunum og hefðarþrælkun. Það var þetta frelsi sem gerði Eykon ólíkan öðrum og eftirminnilegri en ýmsa þá sem Bjarni yrkir um með þessum hætti:

Hrósar margur hins vegar
þeim hatar sjálfur,
ef hann þann vinsælan veit.

***
Ég flyt Guðbjörgu konu Eyjólfs Konráðs og börnum þeirra og ættingjum öllum innilegar samúðarkveðjur og fagna því að hann hefur nú endurheimt reisn sína gagnvart því umhverfi sem hann helgaði krafta sína en átti ekki ávallt því láni að fagna að skilja hann eins og efni stóðu til. Minning hans, þessa góða vinar og drengskaparmanns, er og verður örvandi hvatning á vegferð Morgunblaðsins inn í nýja áskorun og nýja öld.

Matthías Johannessen.


Barátta hugsjónamanns


Eyjólf Konráð Jónsson þekkti ég lítið þar til dag einn fyrir tæpum fjórum áratugum, að æskuvinur minn, Hörður Einarsson hrl., sem leiddi mig til starfa á vettvangi Sjálfstæðisflokksins, bað mig fara á fund Eykons, eins og hann var jafnan kallaður, hann ætti við mig erindi. Sá fundur var upphafið að ævarandi vináttu, sem aldrei bar skugga á, þótt stundum væri skoðanamunur mikill.
Þetta var á þeim árum, þegar gífurleg harka var í kalda stríðinu á milli hins frjálsa heims, undir forystu Bandaríkjanna, og Sovétríkjanna, sem höfðu raðað í kringum sig leppríkjum í Austur-Evrópu og víðar. Þeir sem ekki upplifðu kalda stríðið eins og það var harðast munu aldrei skilja þau viðhorf, sem réðu gerðum manna á þeim árum.
Í þessu samtali fékk ég örlitla innsýn í veröld, sem ég vissi ekki að væri til á Íslandi en tengdist þessum alheimsátökum. Eykon bað mig um að taka að mér verkefni, sem ég gerði, en ekki fyrr en að lokinni alvarlegri umhugsun. Því sinnti ég á hans vegum fram eftir Viðreisnaráratugnum. Það starf hafði margvísleg áhrif á pólitíska vígstöðu flokkanna á þessum árum en eins og margt af því, sem gerðist á tímum kalda stríðsins, bíður frásögn af því síðari tíma. Mér varð hins vegar ljóst hve víðtæk og djúp tengsl Eyjólfur Konráð hafði, þá tæplega hálffertugur.
Upp úr þessu hitti ég hann a.m.k. vikulega en oft daglega. Við skiptumst á upplýsingum. Ég sagði honum hvaða umbrot væru í Sjálfstæðisflokknum. Hann upplýsti mig um hvað væri að gerast á hinu æðra plani stjórnmálanna. Þetta var í árdaga Viðreisnarinnar. Vinir Eykons voru alls staðar í lykilstöðum í valdakerfi Sjálfstæðisflokksins. Tengsl hans við Bjarna Benediktsson voru ennþá sterk og höfðu að því er mér skildist verið mjög náin frá því á sjötta áratugnum. Einkavinur hans, Geir Hallgrímsson, var orðinn borgarstjóri í Reykjavík, Baldvin Tryggvason hafði tekið við Almenna bókafélaginu af Eykon og var jafnframt formaður Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sem var lykillinn að yfirráðum yfir flokknum í höfuðborginni, Höskuldur Ólafsson stjórnaði Verzlunarbankanum, Ásgeir Pétursson var að brjótast til valda í Vesturlandskjördæmi, sr. Jónas Gíslason var fulltrúi þeirra í Þjóðkirkjunni. Ágúst Hafberg og Már Elísson voru til staðar, þegar á þurfti að halda. Þetta var Eykonsklíkan. Við Hörður Einarsson vorum teknir inn í hana, eins konar ungliðadeild. Jóhannes Nordal, sem þá var orðinn Seðlabankastjóri, var ekki víðs fjarri, auk þess, sem Matthías vinur hans hafði orðið ritstjóri Morgunblaðsins 1959.
Eykon var hugsjónamaður. Alla ævi var hann að berjast fyrir umbótum. Ég komst fljótt að raun um, að hann hafði meiri áhuga á málefnum en pólitískum átökum á milli manna innan Sjálfstæðisflokksins, þótt hann léti sig þau einnig nokkru skipta.
Framan af Viðreisnaráratugnum skrifaði hann mikið í Morgunblaðið um almenningshlutafélög og opinn verðbréfamarkað. Veigamikið framlag hans til þeirra umræðna var bókin Alþýða og athafnalíf, sem hann gaf út árið 1968 og kaflar voru birtir úr í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sl. sunnudag. Þessum skrifum var misjafnlega tekið. Ungir áhugamenn um stjórnmál fylgdu honum, almenningur taldi þetta draumóra og forystumenn í viðskipta- og atvinnulífi sýndu hugmyndum hans takmarkaðan áhuga. Það var töluvert neistaflug á milli Morgunblaðsins og forystumanna Eimskipafélagsins á þessum árum. Eykon taldi Eimskipafélagið ekki standa undir nafni sem almenningshlutafélag. Um málefnaleg rök hans fyrir þeirri skoðun má lesa í fyrrnefndri bók en athyglisvert er að þar kallaði hann til liðs við sig dr. Valtý Guðmundsson, sem hafði lýst sömu skoðunum nokkrum árum eftir stofnun fyrirtækisins. Hugsjónir Eyjólfs Konráðs um almenningshlutafélög og opinn verðbréfamarkað urðu að veruleika tveimur áratugum síðar.
Þegar leið á sjöunda áratuginn tók annað mál þessu skylt hug hans allan. Hann vildi stofna félag, sem hefði því hlutverki að gegna að hafa frumkvæði að stofnun fyrirtækja og leggja í þau áhættufé. Þegar rekstur fyrirtækjanna væri kominn á rekspöl átti að selja hlutabréfin í þeim og leggja andvirði þeirra í ný áhættufyrirtæki. Hér var Eyjólfur Konráð mjög snemma á ferðinni með hugmyndir, sem í Bandaríkjunum hafa verið nefndar “venture capitalism” og áttu þátt í uppbyggingu margra fyrirtækja þar í landi, sem orðið hafa að stórfyrirtækjum. Frægasta dæmið er sennilega Apple tölvufyrirtækið. Hann lét ekki sitja við orðin tóm heldur lagði fram útfærðar hugmyndir um stofnun fyrirtækis, sem hlaut nafnið Fjárfestingarfélag Íslands hf. og fékk til liðs við sig fjölmarga aðila, lífeyrissjóði, banka, einkafyrirtæki o.fl.
Fjárfestingarfélag Íslands hf. var starfrækt í u.þ.b. tvo áratugi. Á vegum þess varð til fyrsti vísir að hlutabréfamarkaði hér á landi og opnum markaði með skuldabréf. Fyrirtækið lagði einnig áhættufé í önnur fyrirtæki en aldrei í þeim mæli, sem Eykon sá fyrir sér. Ég hygg að hann hafi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með starfsemi þess, en þegar horft er um öxl er ljóst, að þrátt fyrir allt ruddi þetta fyrirtæki brautina að þeim markmiðum, sem Eykon barðist hvað mest fyrir á fyrstu ritstjóraárum sínum.
Samhliða baráttu fyrir nýjungum í viðskipta- og atvinnulífi tók Eykon virkan þátt í dægurbaráttu þessara ára. Morgunblaðið var í eldlínu átakanna um byggingu álversins í Straumsvík og fyrstu stórvirkjunar landsmanna við Búrfell. Það er löngu gleymt að á þeim árum voru ekki allir á einu máli um Búrfellsvirkjun. Alþýðubandalagið vildi t.d. byggja smávirkjun í hennar stað. Eykon kom í sjónvarp og sagði að það ætti að byggja 20 álver á Íslandi. Hann meinti það ekki bókstaflega en slíkur var hugur hans á þeim árum.
Forvitnilegur kapítuli í stjórnmálaskrifum Morgunblaðsins á fyrstu árum Viðreisnarinnar voru gælur blaðsins við aðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu. Það var ekki hægt að skilja leiðaraskrifin á annan veg en þann, að ritstjórar þess teldu aðild okkar að Efnahagsbandalaginu koma til greina. Mér og öðrum ungum Sjálfstæðismönnum á þessum árum datt ekki annað í hug en að þessi skrif túlkuðu sjónarmið forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Ég komst að öðru í kvöldverðarboði hjá þeim hjónum Ragnhildi Helgadóttur og Þór Vilhjálmssyni, þar sem meðal gesta voru Bjarni Benediktsson, Jóhann Hafstein og Birgir Kjaran. Þar lýsti Bjarni afdráttarlausri andstöðu við þessi skrif Morgunblaðsins, sem hann eignaði Eykon öðrum fremur. Tæpum þremur áratugum síðar var Eyjólfur Konráð sem formaður utanríkismálanefndar Alþingis fullur efasemda jafnvel um aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu.
Vorið 1965 var mér boðið starf á Morgunblaðinu, þegar ég var að ljúka lagaprófi. Ég átti einkum að skrifa um stjórnmál í blaðið , ritstjórnargreinar og aðrar greinar.
Eyjólfur Konráð var einstakur yfirmaður, opinn og víðsýnn, tilbúinn til þess að gefa ungu fólki tækifæri. Hann hafði sérstaka hæfileika til þess að laða að sér ungt fólk. Samt þótti mér nóg um, þegar ég var rúmlega þrítugur og hann sagði við mig að ég væri orðinn of gamall og yrði að finna yngri mann til þess að skrifa með okkur pólitíkina í Morgunblaðið. Ég fór niður í Bókaverzlun Lárusar Blöndals, sem þá var á fyrstu hæð í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti og náði í Þorstein Pálsson, nú sjávarútvegsráðherra, sem þar var að afgreiða bækur og ég hafði veitt eftirtekt í hópi ungra Sjálfstæðismanna nokkrum misserum áður. Ritstjórar Morgunblaðsins réðu hann á stundinni og þar með hófst blaðamanns- og stjórnmálaferill Þorsteins Pálssonar.
Þegar ég kynntist Eykon var samband þeirra Bjarna bersýnilega mjög náið en þegar leið á Viðreisnaráratuginn fór ekki á milli mála, að þar var ekki allt sem skyldi og síðustu árin, sem Bjarni lifði, var það áreiðanlega mjög takmarkað. Ég skildi það ekki þá en skildi þeim mun betur síðar hvað getur borið við í samskiptum formanna Sjálfstæðisflokksins og ritstjóra Morgunblaðsins. Ég þykist vita, að þetta hafi verið sársaukafullt fyrir Eykon en hann talaði aldrei um það. Bjarni sagði eitt sinn við okkur Hörð Einarsson og Eykon að við ættum eftir að verða óvinir. Hann reyndist ekki sannspár en þessi orð féllu áreiðanlega vegna langrar reynslu hans sjálfs af mannlegum samskiptum, ekki sízt á vettvangi stjórnmálanna. Það er ein bitrasta reynsla þeirra, sem setið hafa á ritstjórastól Morgunblaðsins, að gömul vináttutengsl rofna og óvinátta verður til, stundum með nánast ótrúlegum hætti.
Geir Hallgrímsson var nánasti samstarfsmaður Eyjólfs Konráðs í stjórnmálabaráttunni. Þeir voru afar ólíkir en á milli þeirra var djúp vinátta. Þegar Gunnar Thoroddsen ákvað að hverfa til sendiherrastarfa í Kaupmannahöfn árið 1965 vildi Eykon að Geir yrði kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Geir var þá á hátindi valda sinna sem vinsæll borgarstjóri en sat ekki á þingi. Í nokkrar vikur urðu mikil átök innan Sjálfstæðisflokksins um þetta mál og ég fékk daglegar skýrslur hjá Eykon. Framan af var útlit fyrir, að það mundi takast að tryggja Geir varaformennskuna á þessum tíma enda var Bjarni því hlynntur og hafði fengið samþykki Jóhanns Hafsteins fyrir því. Skyndilega urðu veðrabrigði og niðurstaðan varð sú, að Jóhann Hafstein yrði í framboði til varaformanns í stað Gunnars. Allmargir þingmenn undir forystu Jónasar G. Rafnar og Matthíasar Á. Mathiesen höfðu orðið þess varir, að Jóhann var ekki sáttur við þessi málalok, þótt hann léti kyrrt liggja. Jónas fór við annan mann til Bjarna og í kjölfarið á því samtali ræddi Bjarni við alla þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Að þeim samtölum loknum var ákveðið að Jóhann Hafstein yrði í kjöri til varaformanns.
Við lát Bjarna sumarið 1970 var Eykon mjög ákveðið þeirrar skoðunar, að Geir Hallgrímsson ætti að taka við formennsku Sjálfstæðisflokksins. Hann barðist fyrir því fram eftir sumri og Morgunblaðið hélt að sér höndum og gaf ekkert til kynna, hvern forystumanna flokksins blaðið mundi styðja til formennsku. Mér er minnisstætt, að morgun einn, þegar við Eykon sátum saman á skrifstofu hans og bárum saman bækur okkar að venju um stjórnmálaskrif næsta dags, opnaðist hurðin skyndilega með nokkrum fyrirgangi og Matthías Johannessen kom inn og sagði: Við verðum með forsíðuviðtal við Jóhann Hafstein á morgun. Eykon leit á hann og sagði: “Jæja, Matti minn, þá er síðasta vígið fallið.”
Í orðum Matthíasar fólst tillaga - ekki ákvörðun. En þegar Eykon sá, hvernig samstarfsmanni hans var innanbrjósts lét hann gott heita. Þannig var samstarf þeirra. Byggt á vináttu, trausti og tillitssemi. Næsta dag birti Morgunblaðið viðtal við Jóhann Hafstein efst á forsíðu með fimm dálka fyrirsögn og eftir það gat enginn efast um eindreginn stuðning blaðsins við Jóhann sem eftirmann Bjarna.
Í samtali, sem við Matthías Johannessen áttum við Geir Hallgrímsson 1. desember 1989 á skrifstofu hans í Seðlabankanum, þar sem litið var yfir farinn veg, spurði ég hann um þessa atburði sumars ins 1970 og skrifaði hjá mér frásögn af ummælum hans. Hún var svohljóðandi:
“Í framhaldi af þessu beindum við tali okkar að sumrinu 1970 eftir lát Bjarna. Við spurðum Geir, hvernig samskiptum forystumanna Sjálfstæðisflokksins hefði þá verið háttað, þegar þeir réðu ráðum sínum um framtíð flokksins. Geir sagði, að Jóhann Hafstein hefði verið mjög beygður eftir þessa atburði og þá hefði ekki verið í hans huga að taka að sér forystu flokksins. Hann sagði, að þeir hefðu rætt saman fjórir, hann og Jóhann, Ingólfur og Magnús og það hefði komið skýrt fram hjá Magnúsi og Ingólfi, að þeir væru ekki tilbúnir að taka að sér þetta verkefni.
Matthías skaut hér inn í frásögn af samtali við Ingólf á heimili hans þetta sumar um framtíðarforystu flokksins og hefði Eva, kona Ingólfs, þá komið fram úr eldhúsinu, bersýnilega verið að hlusta á þá og sagt: Ingólfur verður ekki formaður Sjálfstæðisflokksins.
Geir sagði það rétt, að ýmsir yngri menn í flokknum með Eykon í fararbroddi hefðu haft mikinn áhuga á því, að hann tæki að sér formennsku flokksins, en hann kvaðst ekki hafa haft áhuga á því. Jafnframt hefði það gerzt eftir að Jóhann tók að sér embætti forsætisráðherra að smátt og smátt hefði byggzt upp í honum metnaður til þess að taka að sér formennskuna. Það væri rétt hjá mér, að hann hefði farið til útlanda í september og kvöldið áður hefði Jóhann hringt í sig bersýnilega til þess að fá það á hreint, að hann, Geir, væri tilbúinn til að styðja Jóhann sem formann. Hann kvaðst í því samtali hafa sagt honum að svo væri. Hann hefði sagt Eykon frá þessu samtali og Eykon reiðzt mjög.”
Eykon sagði mér frá þessu samtali morguninn eftir og var bersýnilega mjög þungt í honum yfir því. Þótt hann væri þessarar skoðunar var samstarf þeirra Jóhanns Hafstein mjög gott og Eykon mat hann mikils.
Pólitískur metnaður Eyjólfs Konráðs var mikill. Hann hafði hug á þingmennsku og sat á þingi í 21 ár. Hann var fyrst orðaður við framboð til Alþingis vorið 1963, svo mér sé kunnugt um, en þá skipaði hann 11. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Við Baldvin Tryggvason áttum þá sæti í kjörnefnd flokksins vegna þeirra kosninga en prófkjör voru þá ekki komin til sögunnar í þeim mæli, sem nú tíðkast. Baldvin var formaður nefndarinnar og lagði mikla áherzlu á að tryggja Eykon sæti ofar á listanum. Aðstæður voru ekki til þess, en Eykon var ekki sáttur við niðurstöðuna.
Fjórum árum síðar var hann valinn til þess að skipa þriðja sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra. Bakgrunnur þess var sá, að Eykon hafði á unga aldri verið búsettur um skeið á Siglufirði og tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins þar. Nú voru komnir til áhrifa í Sjálfstæðisflokknum í kjördæminu gamlir félagar hans frá þeim árum og hann var kjörinn á listann sem fulltrúi Siglfirðinga. Hann sat á þingi sem varamaður af og til frá 1967 til 1974 en þá var hann kjörinn á þing og sat á Alþingi fyrir það kjördæmi til 1987 og síðan fyrir Reykjavík til 1995.
Þegar Eykon hafði verið kjörinn á þing vöknuðu spurningar um stöðu hans á Morgunblaðinu. Hann hafði sjálfur sagt árum saman, að þingmennska og ritstjórastarf færu ekki saman enda væri það eitt í samræmi við þróun blaðsins, sem þegar hér var komið sögu hafði staðið í einn og hálfan áratug. Smátt og smátt hafði blaðið verið opnað og stjórnmálaskrif þess breytzt en tengslin við forystu Sjálfstæðisflokksins enn mjög sterk.
Við ráðningu mína sem aðstoðarritstjóra 1971 og ritstjóra 1972 ásamt þeim Eykon og Matthíasi hafði það skilyrði verið sett af stjórnendum Árvakurs hf., útgáfufélags Morgunblaðsins, að ég gegndi engum trúnaðarstöðum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Á þeim mátti heyra, að þeir teldu tímabært, að starfsmenn blaðsins helguðu því einu starfskrafta sína. Sigurður Bjarnason frá Vigur hafði verið blaðamaður, stjórnmálaritstjóri og síðar ritstjóri ásamt þingmennsku og Eykon hafði verið varaþingmaður frá 1967 fyrir landsbyggðarkjördæmi.
Við Matthías vorum hins vegar þeirrar skoðunar, að æskilegt væri að Eykon héldi áfram enn um skeið, sem ritstjóri blaðsins, þótt hann tæki sæti á þingi. Þótt það hefði verið óhugsandi áratug síðar var það að okkur mati ennþá styrkur fyrir blaðið, þegar hér var komið sögu.
Eykon hugsaði sitt mál en í desember 1974 var haldið sameiginlegt hóf fyrir stjórnarmenn í Árvakri hf. og ritstjóra Morgunblaðsins. Daginn eftir sagði Eykon okkur að hann mundi hætta um áramót. Kvöldið áður hafði hann hvarvetna mætt spurningum um það hvenær hann mundi hætta með tilvísun til yfirlýsinga hans sjálfs um að þingmennska og ritstjórastarf færu ekki saman.
Ég held, að Eykon hafi alltaf séð eftir Morgunblaðinu. Þar leið honum vel. Hins vegar leið honum aldrei vel á þingi. Þótt sú vegferð Morgunblaðsins, sem hófst á fyrstu ritstjóraárum þeirra Matthíasar, væri tæpast hálfnuð, þegar Eykon lét af störfum á blaðinu, studdi hann okkur dyggilega í þeirri baráttu og lét aldrei neinn bilbug á sér finna í þeim efnum, þótt hann væri orðinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann hélt jafnan sambandi við blaðið og starfsmenn þess, kom reglulega í heimsókn og sjaldan leið vika án þess að við töluðum saman. Hann gat átt það til að hringja í mig og demba sér yfir mig með skömmum og skella jafnvel á mig en kom svo næsta morgun brosandi, eins og ekkert hefði í skorizt. Ég held, að þeim starfsmönnum Morgunblaðsins, sem kynntust honum, hafi alltaf þótt vænt um hann.
Með kjöri á löggjafarþingið hafði Eyjólfur Konráð fengið nýjan vettvang til þess að heyja á baráttu sína fyrir margvíslegum þjóðfélagslegum umbótum. Þar eins og annars staðar, þar sem hann hafði komið við sögu, bryddaði hann upp á nýjum hugmyndum, sem ógnuðu stundum ríkjandi ástandi og var því oft illa tekið af þeim sem stóðu vörð um óbreytt ástand.
Í desember 1976 lagði hann fram þingsályktunartillögu á Alþingi, sem átti síðar eftir að valda straumhvörfum í íslenzkum landbúnaði, eða öllu heldur sú hugsun, sem að baki lá. Tillagan var svohljóðandi: “Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að viðskiptabankar greiði rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins beint til bænda.”
Í ítarlegri framsöguræðu fyrir þessari tillögu sagði Eykon m.a.: “Í umræðum um landbúnaðarmálin hefur talsverðrar gagnrýni gætt í garð verzlunarfyrirtækja á sviði landbúnaðarins, en sá háttur er á hafður að bæði rekstrar- og afurðalán ganga yfirleitt í gegnum verzlunarfyrirtæki og sláturleyfishafa en ekki beint til bændanna, sem eru þó þeir, sem í raun eiga að njóta lánanna.”
Síðan sagði hann: “Sumir halda því fram, að niðurgreiðslurnar séu ákveðnar vegna bændastéttarinnar. Sönnu nær er þó, að þær séu hagstjórnartæki, til þeirra sé gripið í glímunni við verðbólguna. En hvað sem því líður, þá virðist alveg ástæðulaust og raunar líka alveg óeðlilegt að velta miklum fjármunum, sem frá skattborgurunum koma, í gegnum verzlunarfyrirtæki. Úr því að ríkisvaldið ákveður að greiða vöruverð niður á greiðslan að renna til eigenda vörunnar, þ.e.a.s. bænda.”
Þessum hugmyndum Eyjólfs Konráðs var tekið afar illa á þingi og af hálfu talsmanna bændasamtaka. En einum og hálfum áratug síðar urðu þær að veruleika. Árið 1991 var samið um það að niðurgreiðsluféð yrði greitt beint til bænda.
Þótt Eykon beitti sér fyrir margvíslegum hagsmunamálum kjósenda sinna í Norðurlandskjördæmi vestra eins og beinum greiðslum til bænda lagði hann á þingferli sínum höfuðáherzlu á utanríkismál en þó alveg sérstaklega hafréttarmál. Og þar gerðist hið sama. Hann setti fram nýjar og oft frumlegar hugmyndir og ábendingar, sem var yfirleitt illa tekið af öðrum stjórnmálamönnum og embættismönnum - í byrjun.
Viðreisnarstjórnin féll í þingkosningunum sumarið 1971 ekki sízt vegna rangrar stefnu í landhelgismálinu. Á sama tíma og vinstri flokkarnir hvöttu til útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 sjómílur lögðu Viðreisnarflokkarnir til að miðað yrði við 400 metra dýptarlínu. Þá stefnumörkun skildi almenningur ekki.
Forystumenn Sjálfstæðisflokksins voru staðráðnir í að endurtaka ekki þessi mistök og í kosningabaráttunni vegna þingkosninganna 1974 var stefna flokksins skýr: fiskveiðilögsagan skyldi færð út í 200 sjómílur. Að þessu sinni voru það vinstri flokkarnir, sem fylgdu í kjölfarið. Eykon mótaði ekki þessa stefnu en átti mikinn þátt í henni. Eftir að fullur sigur var unninn í síðasta þorskastríðinu við Breta sneri hann sér að öðrum hafréttarmálum.
Haustið 1978 fluttu átta þingmenn Sjálfstæðisflokksins undir forystu Eyjólfs Konráðs og Matthíasar Bjarnasonar þrjár þingsályktunartillögur um hafréttarmál. Ein þeirra gerði ráð fyrir ítarlegum rannsóknum á landgrunni Íslands, önnur að mótmælt yrði tilraunum Breta til að slá eign sinni á klettinn Rockall og sú þriðja að teknar yrðu upp samningaviðræður við Norðmenn um fiskveiðiréttindi og hagnýtingu auðæfa landgrunnsins utan 200 mílna efnahagslögsögu um hverfis Jan Mayen.
Eins og fyrri daginn var þessum tillöguflutningi illa tekið og í umræðum á Alþingi nokkrum mánuðum seinna sagði Geir Hallgrímsson, að þingmenn hefðu ekki tekið þessar tillögur alvarlegar en svo, þegar þær voru lagðar fram, að þær hefðu verið hafðar í flimtingum.
Eftir harðvítug átök og stöðugan eftirrekstur voru hins vegar teknar upp samningaviðræður við Norðmenn og lauk þeim með samningum, sem hafa tryggt okkur Íslendingum mikilvæg réttindi á þessu hafsvæði, bæði í sambandi við loðnuveiðar o.fl. Í umræðum um drög að samkomulagi, sem fram fóru á Alþingi 16. maí 1979, flutti Eykon magnaða ræðu, þar sem hann rakti gang málsins af snilld og sýndi jafnframt yfirburða þekkingu á þessum málaflokki.
Þessi tillöguflutningur sýndi framsýni Eykons. Þegar málefnabarátta hans á hinum pólitíska vettvangi er skoðuð í ljósi þess, sem síðar gerðist fer ekki á milli mála, að hvað eftir annað var hann langt á undan sinni samtíð. Það liðu kannski áratugir frá því að hann hóf baráttu fyrir málum og þar til þau komust í höfn en niðurstaðan sýndi að hann hafði haft rétt fyrir sér.
Það getur verið erfitt að synda stöðugt á móti straumnum. Eyjólfur Konráð hafði yfirleitt mótbyr í stjórnmálum. Hann hafði metnað til þess að verða ráðherra. Stöku sinnum kom fram, að hann vonaðist til stuðnings Geirs Hallgrímssonar í þeim efnum. Ráðherrar voru valdir í atkvæðagreiðslu innan þingflokksins. Afstaða Geirs var sú, að Eykon yrði að skapa sér stöðu sjálfur innan þingflokksins til ráðherradóms en hann gæti auðveldað honum síðustu skrefin að því marki. Eftir að Geir var hættur afskiptur af stjórnmálum kannaði Eykon jarðveginn en í ljós kom að hann naut ekki til þess stuðnings í þingflokki og forystu Sjálfstæðismanna. Formennska í utanríkismálanefnd Alþingis var honum mikilvæg. Þegar ljóst var orðið á síðustu árum hans á þingi að hann hafði ekki stuðning þingflokks og flokksforystu til þess að gegna því starfi áfram hafði ég orð á því við hann, að ef til vill væri rétt að hann drægi sig í hlé án kosningar. Það vildi hann ekki. Hann kaus að formleg niðurstaða þingflokksins lægi fyrir.
Þótt hann færi ótroðnar slóðir kom í ljós í tveimur prófkjörum í Reykjavík að hann naut mikils stuðnings meðal almennra kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Það kom sumum gömlum vinum hans á óvart, sem höfðu af því áhyggjur, að Eykon væri stjórnmálamaður, sem nyti sín ekki í prófkjörsbaráttu. Annað kom á daginn.
Samhliða stjórnmálabaráttunni barðist hann fyrir áhugamálum sínum á öðrum vettvangi. Hann var einn af frumkvöðlum fiskiræktar á Íslandi. Ég hygg að fátt hafi hann tekið nær sér en endalok þeirrar baráttu.
Eyjólfur Konráð átti við erfið veikindi að stríða síðustu árin. Hann kom síðast í heimsókn á Morgunblaðið skömmu fyrir jól 1995. Þá áttum við nokkrir gamlir samstarfsmenn saman góða stund, við Eykon, Matthías, Sigurður frá Vigur, Haraldur Sveinsson, stjórnarformaður Árvakurs hf. og Hallgrímur B. Geirsson, sem þá var nýtekinn við sem framkvæmdastjóri blaðsins.
Það er sannfæring mín, að þegar fram líða stundir og dægurmálin byrgja mönnum ekki sýn, verði Eyjólfur Konráð Jónsson metinn sem einn merkasti stjórnmálamaður sinnar samtíðar.
Styrmir Gunnarsson.

Eyjólfur Konráð Jónsson

Kveðja frá Sjálfstæðisflokknum


Eyjólfur Konráð Jónsson var einn af öflugustu forystumönnum Sjálfstæðisflokksins um langa hríð. Þegar á háskólaárunum var hann í fremstu röð lýðræðissinnaðra stúdenta, einbeittur baráttuvilji hans kom þá þegar í ljós, útsjónarsemi og frábær skipulagsgáfa. Stjórnmálabarátta þess tíma var upp á líf og dauða, framtíð þjóðar og frelsi hennar þótti í húfi í hverri baráttunni á fætur annarri. Eyjólfur, útsjónarsamur, ódeigur og hugsjónaþrunginn, lagði þá mikið af mörkum. Hann var sjálfstæðismaður í besta skilningi þess orðs. Fyrir honum var flokkurinn þó ekki einhlít formúla, sem hann varð að fella alla sína hugsun að. Hann áskildi sér rétt til þess að fara eigin leiðir, boða eigin hugmyndir og halda þeim fast fram. Félagar hans og flokksforysta skrifuðu ekki undir þær hugmyndir allar, en flokknum og sjálfstæðisstefnunni brást hann aldrei. Hún var runnin honum í merg og bein. Ég starfaði um stund undir stjórn Eyjólfs Konráðs og samritstjóra hans á Morgunblaðinu. Það var góður skóli og gott samfélag og samheldni ritstjóranna þriggja, sem forystuna mynduðu á staðnum var öllum mönnum augljós, þótt þar færu afar ólíkir menn. Eyjólfur var harðskeyttur stjórnmálamaður og sætti af þeim sökum oft hörðum árásum andstæðinganna. En hann var um leið vel virtur af þeim enda átti hann blítt hjarta og var afar trúr og traustur þeim sem hann hafði tekið vinfesti við. Síðustu árin urðu Eyjólfi erfið, þar sem heilsu hans tók að hraka, langt um aldur fram. Starfsdagur hans var orðinn langur, afköstin mikil og áhrifin drjúg. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ærnar ástæður til að þakka Eyjólfi Konráði Jónssyni baráttu hans og forystu í flokksins þágu og sendir fjölskyldu hans hlýjar kveðjur á skilnaðarstundu.
Davíð Oddsson.


 

26. marz, miðvikudagur


Þorsteinn Pálsson kom upp á Morgunblað í gær og við borðuðum saman hádegisverð. Styrmir er fjarverandi. Hann er á IPI-fundi á Spáni. Gott að hitta Þorstein. Mér er alltaf afar hlýtt til hans. Hann hefur hlýtt og gott hjartalag. Við nefndum það í samtali okkar að okkur hefði ævinlega getað greint á, t.a.m. um veiðileyfagjaldið, án þess það hefði minnstu áhrif á vináttu okkar. Vorum sammála um það.
Þorsteinn segir að Davíð verði áfram formaður Sjálfstæðisflokksins, að því er hann telur. Hann staðfesti að Davíð hefði haft lítið samband við Geir Haarde en því meira við Björn Bjarnason. Hann útilokað ekki að Björn hefði áhuga á því að taka við Sjálfstæðisflokknum þótt Davíð hafi verið á annarri skoðun í samtali við Styrmi ekki alls fyrir löngu.
Við erum að ég held sammála um að alþýðubandalagsmenn hafi lítinn áhuga á vinstra samstarfi, eða samstarfi félagshyggjufólks eins og það heitir víst á fínu máli; án skilgreiningar og án þess nokkur viti í raun og veru hvað það merkir.
Ég sagði Þorsteini að ég teldi að Svavar Gestsson vildi helzt eiga samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, þá mundi hann njóta sín betur en í vinstra samkrullinu. Þorsteinn tók undir það. Þessir menn hugsa um sjálfa sig fyrst og síðast - og ég er ekkert að lá þeim það. Menn eru í stjórnmálum til þess þótt oft sé talað um hugsjónir og störf að velferðarmálum. Flestir stjórnmálamenn sem ég þekki eru með sjálfan sig fyrst og síðast í huga hvað sem hver segir. En Svavar hefur eitthvað breytzt, hann er viðræðubetri en áður og ég kann ágætlega við hann. Þorsteinn tók undir það. Hann sagðist einnig kunna vel við Margréti Frímannsdóttur og þyrfti ekkert að kvarta undan henni þótt þau tækjust á í Suðurlandskjördæmi.  Við vorum sammála um að Ólafur Ragnar Grímsson væri mesti tækifærissinni sem tekið hefði þátt í íslenzkum stjórnmálum á síðustu áratugum. Hann hefði ævinlega haft eitt markmið, Ólaf Ragnar Grímsson. Hann minnir kannski eitthvað á Ásgeir vin minn Ásgeirsson, ég veit það ekki. Við Þorsteinn erum sammála um að það sé ekkert sérstaklega skemmtilegt að slíkur tækifærissinni komist á toppinn í íslenzku þjóðfélagi. En Þorsteini fannst það verst að augljóst væri að flestum væri sama!
“Það er enginn að velta því fyrir sér - nema kannski við tveir!!”
Hann taldi þó að Davíð og fleiri ættu erfitt með að sætta sig við þessa niðurstöðu en við henni væri ekkert að gera. Ólafur Ragnar hefði fært sér tómarúmið í nyt og hann kynni til verka að því leyti. Þorsteini fannst hálf ömurlegt að sjá þennan fulltrúa alþýðunnar velta sér upp úr formlegum stellingum kóngaþjóðfélagsins, ég tók undir það að sjálfsögðu; minntist á það í þættinum með Gylfa Gröndal á páskadag.

Við Þorsteinn vorum sammála um að forsetaembættið væri vandræðaembætti og bezt væri að fella það niður en á því yrði áreiðanlega bið, fólk vildi augsýnilega hafa þetta embætti og það réði. Bezt færi á því að forseti þingsins sem gegndi elzta og virðulegasta embætti í Evrópu, þ.e. lögsögumannsembættinu hinu forna, hefði þetta embætti á hendi og það væri auðvelt. Slík stjórnskipan gæti styrkt Alþingi. Mér fannst á Þorsteini að hann teldi það yrði til bóta ef betur væri greint á milli framkvæmdavalds og löggjafavalds. Ég er sammála því. Það mætti e.t.v. kjósa framkvæmdavaldið beinni kosningu. Færa valdið nær fólkinu. Það  gæti styrkt lýðræðið.
R.C.S. Walker í Oxford segir í nýlegri TLS-grein að Kant hefði kallað brezkt stjórnkerfi lýðræðislega harðstjórn.

Margt fleira bar á góma. Þorsteinn vill að tekið verði til hendi við stjórnun lögreglunnar í Reykjavík og ég skildi hann svo að hann treysti Haraldi syni okkar Hönnu vel til þess að færa það til betri vegar sem hægt væri. Hann hefði sýnt það sem fangelsismálastjóri. Og nú þyrfti að taka til hendi og Böðvar lögreglustjóri yrði að átta sig á því. Þorsteinn sagðist hafa skipað þriggja manna nefnd til að fara yfir stjórnun lögreglunnar í Reykjavík og skipurit hennar og þegar niðurstöður lægju fyrir mundi hann taka af skarið. Haraldur er í þessari nefnd. Hann sagði mér í gær að Böðvar lögreglustjóri væri eitthvað órólegur vegna þessarar nefndar og get ég vel skilið það. Stjórnun hans hefur verið gagnrýnd víða og ég held að hann eigi erfitt með að horfast í augu við vandamál og taka af skarið. Þorsteinn lagði á það þunga áherzlu í samtali okkar að það væri ekki á hverjum degi sem dómsmálaráðherra óskaði eftir sérstakri rannsókn á störfum opinberra aðila og Böðvar yrði að taka það alvarlega þegar Alþingi Íslendinga hefði rætt um embætti hans og fíkniefnalögreglunnar og rannsóknardómari settur í málið. Ég held að Þorsteinn telji það alvarlegast að Böðvar skuli ekki taka málið nógu alvarlega; þ.e. hann virðist ekki gera sér grein fyrir því að það dugar ekki úr því sem komið er að segja að allt sé í himnalagi, heldur verður að sannfæra fólk um það. Lögreglan í Reykjavík verður að hafa áfram þann orðstír sem hún hefur haft og á því má engin breyting verða. Ég heyri á Þorsteini að hann tekur þetta mál afar alvarlega og hyggst komast til botns í því.

Bjarni Benedikt, sonur Rutar og Björns Bjarnasonar, er afskaplega geðfelldur ungur maður. Hann gladdi mig mikið þegar hann kom til mín um daginn með ágæta ritgerð sína í MH um Jörð úr Ægi . Hann hyggst leggja stund á íslenzku og frönsku og lízt mér vel á það. Hann er mikið mannsefni og aðlaðandi með afbrigðum. Hann hefur lagt mikla vinnu í þessa ritsmíð sína, skilning og tilfinningar. Hitti hann í Rótary í dag. Þar var hann ásamt Sigríði systur sinni og Birni föður þeirra. Mun svo tala við hann seinna.
Það hafa einungis fáir kaflar úr Jörð úr Ægi  verið þýddir á erlendar tungur, því miður. Þó eru til ágæt þýðingarbrot, bæði á ensku og norðurlandamálum að mig minnir. En nú eru Sálmar á atómöld komnir út í þýzkri þýðingu dr. Wilhelms Friese prófessors í Tübingen. Af 65 sálmum í síðari útgáfu okkar hér heima eru 46 í þessari bók. Ég fór yfir þýðingarnar með dr. Friese í fyrra og mér sýnist þær vera ortar á mjög fallegri og ljóðrænni þýzku. Hann segir líka í Morgunblaðinu í dag að það sé “ekki á hverjum degi sem erlend bókaforlög sjái ástæðu til að leggja í útgáfu á íslenzkri ljóðlist”. Ég þekki þetta forlag að vísu ekki en það er í Köln og heitir Seltmann & Hein. Bókin er tvítyngd, ljóðin eru bæði birt á íslenzku og þýzku. Aftast er stutt ritgerð dr. Wilhelms Friese um sálmana og höfund þeirra. Bókin er prentuð á mjög góðan pappír og fallega gerð að öllu leyti. Ég er stoltur af henni og mér þykir vænt um að sálmarnir eru nú komnir út á tungu Lúthers.

Hef hlustað mikið á tónlist undanfarið. Hef m.a. kynnzt enska tónskáldinu Gustav Holst (1874-1934). Ég hlustaði á geisladisk sem heitir Composers’ Letters, eftirminnilegan disk með fínni tónlist og góðum upplestri á völdum köflum úr bréfum tónskáldanna. Þarna er birt bréf frá Haydn sem er fínn ljóðrænn prósi. Bréf Mendelssohns frá Lundúnum jafnast á við hvaða umhverfisskáldskap sem er. Mér er nær að halda að lýsingar hans á Lundúnaborg gefi Dickens ekkert eftir. Bréf Berlioz eru einnig eftirminnileg enda er ævisaga hans miklu merkilegri skáldskapur úr ævintýrinu líf og veruleiki heldur en mestur hluti þess skáldskapar sem ég þekki. Holst kom til Þessalóníku skömmu eftir að þar hafði farið fram heiftarleg orrusta í fyrri heimsstyrjöld. Líkin höfðu verið fjarlægð af vígvellinum og bændurnir plægðu jörðina. Það þótti honum eftirminnilegt. Einnig mér. Ég orti um þessi áhrif ljóð sem heitir Vígvöllur norður af Þessalóníku, 1919. Það fylgir hér á eftir, ásamt nokkrum ljóðum öðrum sem ég hef verið að yrkja undanfarið að gamni mínu, þ. á m. um Zenobíu Sýrlandsdrottningu sem Gibbon fjallar um í Decline and Fall of the Roman Empire. Honum verður aldrei þessu vant tíðrætt um fegurð hennar og yndisþokka og gefur henni einhverja beztu einkunn sem nokkur maður fær í þessu mikla verki.

Ég hef hlustað á mörg verk eftir Gustav Holst eftir að fyrrnefndur geisladiskur komst í mínar hendur. Þetta er mjög skemmtileg og blæbrigðarík tónlist; gáskafull með köflum eins og í The Wandering Scholar. En aðalverk hans er The Plantets, stórfenglegt og áhrifamikið. Ég hlustaði á það í túlkun Berlínarfílharmoníunnar undir stjórn Herberts von Karajans. Þá hef ég einnig verið að fara yfir Rómarverk Gibbons og stanza við það hvernig Róm komst í hendur barbaranna á dögum Honoríusar keisara (384-423) en leiðtogi þeirra var Alarik, konungur vísgota. Ég hefði ekki viljað vera í Rómaborg um það leyti sem vísgotar komu inn í borgina. Gibbon segir að áður hafi menn ekki hugsað um neitt annað en skemmtanir og uppákomur; rétt einsog nú. Fólkið safnaðist saman á morgnana til þess að komast í hringleikahúsin og horfa á margskonar leiki fram eftir kvöldi en þó segir Gibbon að áhrif kristninnar hafi orðið til þess að afleggja bardaga við villidýr og þau manndráp sem tíðkuðust á þessum skemmtunum áður fyrr. Þeódosíus, faðir Honoríusar, var fyrsti skírði keisari rómverska ríkisins en hann kembdi ekki hærurnar. Einhver eftirminnilegasti kaflinn í þessu mikla ritverki Gibbons eru andlátsorð Julíanusar keisara (d. 363). Þau bera þessum sérstæða manni fagurt vitni. Hann var mikill bókmenntamaður. Ég hef ort um hann í Veður ræður akri. Hann virðist hafa verið einn örfárra óspilltra keisara rómverska ríkisins síðustu tvö til þrjú hundruð árin sem það stóð. En í fjörbrotum þess var tryllingurinn svo mikill að minnir einna helzt á okkar  tíma. Gibbon segir að stundum hafi verið 400 þúsund manns í opna leikhúsinu í Róm - og þá líklega Koloseum. Mundi það ekki vera dæmigert ástand og einkenni upplausnar og lélegs gildismats? Samt var margt af þessu fólki við hungurmörk, ótrúlegt(!)
Barbararnir í norðri og persarnir í austri gengu af þessu mikla og endingargóða heimsveldi dauðu undir lokin.

Hef einnig verið að lesa Samuel Johnson eftir Boswell. Hafði lesið hann talsvert áður en sé nú í hendi mér að þetta er fjörlegri ævisaga en mig minnti. Þetta er ekki samtalsbók,  heldur ævisaga. Sérstæð ævisaga, skrifuð af lotningu. Dr. Johnson sagði einhverju sinni að það væri betra að vera ríkur í lífinu en deyja ríkur.
Gott hjá karli!
Lífið er hart og það er betra að eiga einhverja peninga í þeirri baráttu. Wilde sagði að lífið væri tiger, það má til sanns vegar færa. Minnir á ljóð Blakes, Tiger, tiger!

Nú er vinur minn Björn Thors látinn. Hann var lengi samstarfsmaður minn á Morgunblaðinu eða frá því ég réð hann þangað haustið 1959. Mér líkaði alltaf vel við Björn. Hann var hreinskiptinn og vel verki farinn. Mjög góður í ensku. Hann var mér trúr allan tímann sem við störfuðum saman, fór þó með Birni Jóhannssyni yfir á Mynd 1961, en það blað var dauðadæmt. Dó sem sagt í fæðingu. Björn Thors studdi mig mjög vel í því að gera Björn Jóhannsson að fréttastjóra Morgunblaðsins á sínum tíma. Faðir hans var ekki jafn hrifinn, hélt að Björn sonur hans ætti að verða fréttastjóri og voru samskipti okkar því nokkuð stirð um skeið en við hittumst í Rotary þar sem Kjartan Thors var einnig félagi. En Björn eyddi þessum misskilningi hans og sagði föður sínum að hann hefði verið eindreginn stuðningsmaður þess að nafni hans yrði fréttastjóri  við Morgunblaðið. Þá féll allt í ljúfa löð.
Björn Jóhannsson skrifaði ágæta minningagrein um Björn Thors og að ósk minni kveðjur frá gömlum samstarfsmönnum.
Björn Thors var mikill spíritisti. Ég held hann hafi verið einhver trúaðasti maður á framhaldslíf sem ég hef kynnzt. Það var arfur frá móður hans, Ágústu.

Framhaldslíf, æ já, stundum efast ég(!) Langar ekkert sérstaklega til að hírast á öðru plani um alla eilífð.
Og þó, hver veit nema það gæti verið skemmtilegt?(!
Ef maður losnaði við englasönginn og freistingarnar væru jafn kræsilegar og hér á jörðinni væri þetta framhaldslíf kannski ómaksins vert.
Þetta minnir mig á þau ummæli Sókratesar að það væri tilhlökkunarefni að deyja því þá mundi hann hitta ýmsa skemmtilega menn sem hann taldi upp ef ég man rétt. Hómer var meðal þeirra. Hann sagði að það væri ástæða til að deyja margoft ef maður mundi hitta Hómer hinu megin. Það mætti kannski taka undir það(!)
Sérstaklega ef Hómer hefur aldrei verið til,ekki frekar en aðrar goðsagnir!

Og nú er Eykon vinur minn einnig kominn á æðri plön . Ætli það sé mikið um almenningshlutafélög þar? Eða verðbréfaþing? Ætli hann geti verið að atast í pólitík þarna hinu megin, ég vona það, annars gæti þetta orðið einhvers konar helvítiskvöl þarna í sælunni.

Eykon kvartaði oft yfir þvi síðustu misserin  á þingi að forysta Sjálfstæðisflokksins sýndi sér og hugðarefnum sínum lítinn skilning .Og enn minni samúð.Var því ómyrkur í máli,þegar hann minntist á “strákana”.


Í dagbókum Kristjáns Eldjárns stendur þegar hann ræðir um að Jóhann Hafstein taki við forsætisráðherraembættinu, Guði hjálpi okkur!
Þetta sagði Gylfi Gröndal mér um daginn og ég segi það einnig nú, guð hjálpi okkur. Barbararnir eru á norðurlandamærunum, persarnir í austurvegi og Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum!

Ég er farinn að skilja Jón Eiríksson þegar hann skellti sér í dönsku síkin af áhyggjum af Íslandi og þó eru þessar áhyggjur mínar kannski allar á misskilningi byggðar. Kannski hef ég aldrei skilið Ólaf Ragnar Grímsson rétt. Ég hef aldrei átt neitt sökótt við hann. Og það hefur verið allt ágætt milli okkar. Við höfum stundum talað saman og farið vel á með okkur. En mér hugnast ekki egó-tripp hans á harla fjölskrúðugum pólitískum ferli. Hann sveifst einskis í pólitík, það vita bæði guð og menn. Kannski þroskast hann í forsetaembætti, hver veit. Þeir sem guð gefur embætti gefur hann einnig vit til að fara með það, er stundum sagt. Ólafur Ragnar Grímsson hefur nóg af viti og kannski hefur hann vit á því að nota það rétt. Við sjáum hvað setur.

Við Hanna fórum um daginn að sjá Fögru veröld, leiksýningu sem byggist á ljóðum Tómasar Guðmundssonar. Brynja Benediktsdóttir bauð okkur en hún er leikstjóri sýningarinnar. Þetta er ekki frumleg eða átakamikil sýning en mér þótti hún vinaleg og ég held ekki að Tómas hefði haft neitt á móti henni. Höfundurinn hefur verið við nám í Bandaríkjunum og augsýnilega orðið fyrir miklum áhrifum af Thorton Wilder, höfundi Our Town, en enginn leikgagnrýnandi virðist hafa komið auga á þetta mikilvæga atriði.
Til hvers ætli þeir séu eiginlega?
Þetta leikrit hefur hlotið nafnið Bærinn okkar og mig minnir að ég hafi séð það í Iðnó á sínum tíma. Ég hef einnig séð það í kvikmynd. Stórmerkilegt leikrit og vel gert. Kennt í leiklistardeildum flestra háskóla í  Bandaríkjunum. Talið meistaraverk af mönnum eins og Mamet. Ég gæti vel tekið undir það.
Ég sé það er komin út bók með bréfaskrifum Wilders og Gertrud Stein, hef í hyggju að næla í þessa bók við gott tækifæri. Það hlýtur að vera hnýsilegt að kynnast því hvernig tveir snillingar bókmenntanna skrifast á. Það er ekki oft sem slíkar kræsingar eru á boðstólum. Stein hefur skrifað frábærar sögur. Og hún er sérstætt ljóðskáld.

Kvæðin sem ég nefndi áðan eru svohljóðandi:


Þögn

Land mitt

kvöldgulur loðfeldur
tungls
við sofandi
jökul.


Á Skúlagötu


1.
Hvítsvart
er hafið
í vængjum kollunnar

hvítsvartar
mætast hendur okkar
undir boðaföllum
tímans.

2.
Lítill skafl
á auðri jörð
við gangstíginn,

þannig sér guð
Vatnajökul.

3.
Hver steinn
í hleðslunni
grettistak
nýrrar veraldar.

4.
Viðeyjargrænt auga
Óðins
í hrukkóttu andliti
hafsins

milli Höfða
og Esju.

5.
Man Engey
fífil sinn
fegri

undir vængdauðri brimöldu
tímans.

6.
Hverfa eyjar
til himins

fljúgandi diskar
hverfa eyjar
til himins

hverfa eyjar
í stjörnulaus höf

og hugsun í jarðneskum
fjötrum.


 

Í hellinum


Hjarta þitt er klofið í tvennt, það tekur í sárið,
þitt tvöfalda líf var dýrkeypt reynsla annars manns
sem ungur gekk Kristi kvíðafullur á hönd
en keppist við að hlaupa undan fyrirmælum hans.

Því lífið er hart og höggormstungan klofin
við hikandi freisting þína og allt sem þér var kært,
þú veizt að þessu lýkur með lágum andartökum
og leitar inn í helli eins og bjarndýr illa sært.

Þú bíður þar og hugsar og saknar eins og sólin
sem sér á eftir skuggunum við hellismunnann þinn,
þú nýtur þess að fylgjast með flökti þeirra og vilt ekki
fálma eftir hverjum þeim sem eltir skuggann sinn.

Því lífið fyrir utan er andstætt vitund þinni
um allt sem skiptir máli og guð í hjarta þér,
og seinna þegar kvöldsólin kular á skuggana
þá kviknar ljós dauðans og hann tekur þig með sér.

Og hellirinn er myrkur og tómur eins og tvísýn
tækifæri þeirra sem nota þau ekki rétt,
það var ekki aðeins þitt viðkvæma ofstóra hjarta
sem vandist aldrei lífinu og sló svo illa sett.


 

 

Í leit að glötuðum tíma

Hugur þinn þægileg íbúð
með fuglsmyndum
eftir ólíka málara,
það er gestkvæmt í stofunni
þegar hugmyndir okkar
safnast saman
og minningarnar freyða
eins og kampavín
í sjaldnotuðum kristalsglösum,
einkum minningin um unga
ekkju
sem klæddist sorgarbúningi
þar til yfir lauk,

enn lifir hún í augum þínum
og hvellri rödd

en hlátur þinn bergmál
af marglitum hljómi
kristalsins

og þið hlæið saman
inní kampavínshvítan
dag
þegar fuglarnir taka til vængjanna
og fljúga út úr málverkunum
í leit að glötuðum tíma.


Ei leyna augu

Fellur hár þitt að hári
og hálshvítri
hönd eins og falli
alda við rísandi klett

horfumst i augu og hvísla
fuglar á orðlausum vörum
fljúga til himins og hverfa
orð að eilífri stund

hlý strýkur hönd eins og strjúkist
vængur við hrynjandi öldu
orðhlý snerting, ei leyna
ei leyna augu ef ann.

Ferð


Hverfur
gamall hugur
að sólroðnum
gárum


hljótt
eins og hafið

hverfur
að ísbláum vötnum.


Halaveðrið


1.

Ung sat hún með börn þeirra í þröngum fjarðarbotni og
beið hans. Það var vindgærulaus sjór þegar hann kom syndandi
að landi,gekk til þeirra,strauk börnunum á koll og kinn og
kyssti hana án þess segja orð, Stefán,hvíslaði hún, en hann
anzaði ekki, gekk aftur hægum skrefum niður að
fjöruborðinu, hiklaust og án þess líta við óð hann útí
og synti útí hafsauga.
Hvarf einsog sjófugl sem stingur sér inní ókunna
veröld.

Ein situr hún eftir með börnum sínum unz fjörðurinn
lokast ínni draumlausan veruleika.


2.

Sömu nótt vaknaði gömul ekkja á loftinu, lúin og lóslitin
einsog húsgögnin, horfði framá skörina þar sem hann stóð
og starði sjóblautur inní hrollkalt myrkrið, Stefán, hvíslaði
hún, en myrkrið svaraði ekki.

Þegar presturinn kom upp traðirnar morguninn
eftir, gekk hún til móts við hann, lagði hönd á handlegg hans og
sagði inní útmánaðaþögnina, Ég veit...ég veit.

(Stefán Magnússon var móðurbróðir Hönnu. Hann fórst með Leifi heppna í Halaveðrinu.)


Hlé

Þegar ég er farinn og finn þig ekki meir
og fegurð þín er minning og lífið brotinn reyr
þá skaltu ekki ímynda þér annað en ég sé
einhvers konar leikrit og nú sé bara hlé.

Vígvöllur norður af Þessaloníku, 1919

(Holst, í bréfi heim til Englands)

En stríðinu lauk og líkin fjarlægð og grafin,
þeir lituðust um og augun til skýjanna hafin,
hvort mundi hann birtast og bera því vitni að senn
yrði betri tíð og sól færi jörðina enn ?

Þeir héldu um plóginn og græddu upp grýttan svörðinn
og geislarnir sólarstafir , en kvíðafull jörðin
steig eins og hann af krossi og kvaddi sinn
kalkaða tíma rétt eins og drottinn minn.

En bændurnir plægðu ógróna akrana sína
og öllum var ljóst að sólin hætti ekki að skína
en geislarnir lögðu líkn með þraut yfir allt
sem lifir og berst og geldur þess þúsundfalt.

En tónskáldið hóf til himins von sína alla
og hlustaði agndofa á sólskinstónana falla,
þá var eins og stríðshrjáð jörðin hvíslaði hljótt
við himin sem lýsti af degi um albjarta nótt.

Hann birtist þá sjálfur með sól í hikandi spori
og syngjandi vængur fór hjarta þitt óvæntu vori
en drottinn lagði líknandi hönd sína á það
sem líf og dauði kröfðust á þessum stað.



Inn í veröld skugganna

Skuggar
á ferð
um vængjaðan
skóg,

skordýr
velta apasaur
í rótfúna
birgðageymslu,

maurar
dragast að sætleika
fiðrildalirfanna,


rauðeygir froskar
kallast á
í vatni
sem speglar hljóðan
himin
í kvöldlúnum
augum þeirra,


efniviður í ævintýri
um prinsa
í álögum



Land mitt


Fjall
sem er himinn
sem er haf.


Marz ‘97


Halaklippt
fer
stjarnan
hundlausan
norðvesturhimin,

deplar
sólgyðjan
tunglgulu auga.

Það er kyrrt

nóttin þögn
við hlustandi auga.

Frostnakin bíða
trén
í garðinum,


hundgá
í fjarska.


Þögnin marzhvítur
snjór
við marrandi skó-
sóla.




Málsháttur


Vindhvítt hverfur
hafið
undir gærur
og skinnakast

í fjörunni netakúla
brotin og gul
eins og páskasól :

Og þér munuð lifa.




 

Sigling


Ég er hættur
á sjónum
sagði hann,

fer mína túra
í landi.



 

Zenobia

Stundum sé ég i augum annarrar konu
augu þín,þau skína líkt og stjörnur
í svörtu myrkri löngu liðins tíma
og líf þitt allt var birta horfinnar sögu,
hún leitar eins og glæta gegnum myrkrið
sem Gibbon lýsir hrærður vegna þín,
minnist jafnvel eins og utan dagskrár
á undarlega fegurð þína, segir
að tennur þínar glitri eins og glampi
á gimsteina og perlur og þú sér engri lík.

Hver hafði áður hrært með slíkri fegurð
hjarta þess manns sem gekk að sínu verki
með harðri lund og hörku æðsta dóms?

Þú féllst að vísu ein og yfirgefin
að  yfirmennsku valdi gömlu Róms,
en sigraðir í hjarta þess sem hefur
í höndum sínum vald til þess að segja,
Zenobia, á sögu þína stirnir
og sindur dreifist enn af fegurð þinni

og augu þín, svo undarlegar stjörnur,
í eilífu myrkri tímalausrar sögu
þau tindra enn þín augu og deyja
ekki.

27. marz, fimmtudagur


Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 25. marz sl. er fréttagrein um bandarískt flugfélag, Rich-leiguflugfélagið, þar sem vitnað er í bandaríska sjónvarpsþáttinn 60 mínútur, en þar var fjallað um kæru og dóm vegna brota á reglum um flugöryggi. Þess er getið í Morgunblaðinu að Flugleiðir hafi leigt vél frá þessu félagi í ársbyrjun 1991 vegna einnar eða tveggja ferða milli Bandaríkjanna og Evrópu eins og komizt er að orði í Morgunblaðinu. Lýsingarnar á flugfélaginu og öryggismálum þess eru hroðalegar en kannski hefur það verið í lagi þegar Flugleiðir notuðu það því að þá var stofnandinn og þáverandi aðaleigandi lifandi en 1991 dó þessi eigandi og eftirlifandi eiginmaður hennar tók við félaginu. Stjúpbörn hans hafa kært öryggismál félagsins og vilja ekki að fjölskyldunafnið sé á stéli flugvéla þess:
“Einn af eigendum Rich, Linda Rich Harrington, kærir félagið til flugmálastofnunar Bandaríkjanna, FAA, en það var móðir hennar sem stofnaði félagið. Sagði hún í þættinum að deild stofnunarinnar í Miami hefði jafnan litið undan þegar bent var á að öryggismálum flugfélagsins væri áfátt. Sagði hún yfirmenn félagsins ekki heldur hafa hlustað á ábendingar hennar og kvað hún öll öryggismál félagsins í ólestri eftir að stofnandi félagsins féll frá fyrir þremur árum og stjúpi hennar tók við sem forstjóri. Sagðist hún ekki vilja sjá vélar með Rich-ættarnafninu farast og því kærði hún félagið í fyrra. Var það dæmt til greiðslu 2,6 milljóna dollara sektar fyrir að fara ekki að reglum um öryggismál”.
Í fréttinni segir ennfremur: “Einar Sigurðsson sagði að þegar Flugleiðir þyrftu að leigja erlendar flugvélar, sem væri örsjaldan, helst þegar áætlun gengi úr skorðum, t.d. vegna stórviðra, væri aðeins skipt við félög sem hefðu viðurkenningu flugmálayfirvalda, JAA, sem eru evrópusamtök flugmálstjóra eða FAA, flugmálastjórn Bandaríkjanna. Þar fyrir utan hefði félagið aðgang að víðtækari upplýsingabanka varðandi öryggismál flugfélaga sem FAA hefur komið upp.”
“Það voru engin spurningamerki við Rich-flugfélagið þegar við leigðum af því vél einu sinni eða tvisvar”, sagði Einar en það var um mánaðamótin janúar -febrúar  árið 1991 og var mikið hvassviðri og snjókoma þegar vélin lenti í Keflavík. “Ef einhver vafi er á ferðinni taka menn enga áhættu og fara annað því það eru mörg félög sem leigja út vélar. Við leigjum ekki vélar af erlendum flugfélögum nema búið sé að ganga úr skugga um að fyrir liggi vottun um rekstur og öryggismál frá þessum viðurkenndu aðilum”
.

Svo mörg voru þau orð.

Ástæða þess að ég rifja þetta upp á þessum blöðum er sú að Ingólfur sonur okkar Hönnu var í Bandaríkjunum þegar þetta var og ég frétti af því að leigja ætti DC-8-þotu til að koma honum og öðrum farþegum heim. Þetta var í miðju Flóa-stríðinu og miklar ráðstafanir gerðar á flugvöllum í Bandaríkjunum til að koma í veg fyrir hryðjuverk. Ég hafði þungar áhyggjur af þessu og talaði við Sigurð Helgason en hann sagði að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur, þetta væri gott flugfélag, eigandinn stjórnaði því sjálfur og legði áherzlu á öryggi véla sinna. Ég var samt ekki sannfærður og ég held að Sigurður hafi talið að ég væri hálfmóðursjúkur en ég beit á jaxlinn, gat ekki annað. Ég sá að flugfélagið var skrásett í Florida og leizt ekki á blikuna að flugmenn flygju hingað í því veðri sem spáð var sem væru ekki vanir Atlantshafinu og þekktu helzt til sólarstranda.
Ingólfur sagði mér þegar hann kom heim að honum hefði ekki heldur litizt á blikuna þegar hann kom um borð. Vélin hefði verið mjög dimm og drungaleg. Hann hafi verið að hugsa um að fara aftur í land en mér skilst að flugfreyjurnar hafi talað um fyrir honum svo að hann og Helga , vinkona hans, létu til leiðast.
Við Hanna fórum suður á Keflavíkurflugvöll að taka á móti honum mánudaginn 4. febrúar 1991. Þá var komið vitlaust veður í Keflavík og mér leizt ekki á blikuna. Hafði þungar áhyggjur af því hvernig syni okkar reiddi af í þessu fáránlega leiguflugi að okkur fannst. Þegar við komum til Keflavíkur fór Hanna inn í móttökuna en ég gekk fram í ganga og hugði að því hvort vélin sæist nokkur staðar. Hún var ókomin.  Gekk svo út í veðrið. En þá allt í einu sé ég stórt þotustél blasa við í veðurofsanum og get lesið stafina R-i-c-h. Ég fylgdist með vélinni og hún kom upp að landganginum og sá ég þá í hendi mér að þetta mundi vera vélin sem drengurinn var með. Létti mér þá meir en orð fá lýst.
Ingólfur kom heim sunnudaginn 3. febrúar en í Morgunblaðinu þriðjudaginn 5.
febrúar er þessu veðri lýst með svofelldri fyrirsögn á forsíðu blaðsins:

“Mannskaðalaust fárviðri reið yfir - mesti vindhraði sem mælst hefur - eignatjón talið nema á 2 milljarð króna.
Mikið efni um þetta óveður í blaðinu og undir veðurkorti segir að um 3-leytið á sunnudag hafi lægðarmiðjan við Vestfirði verið um 943 millibör. Í forsíðufréttinni segir að veðrið hafi byrjað “á sunnanverðu landinu á tíunda tímanum (á sunnudag) og fór norður. Meðalvindhraði á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist 110 hnútar og hefur Veðurstofan aldrei mælt meiri vindhraða hér á landi.
Það er ekki skrýtið þótt ég hafi haft áhyggjur af þessu flugi sonar okkar því að auðvitað fylgdist ég með veðurspám og vissi vel hvað í aðsigi var.
En Ingólfur sagði að flugið hefði verið mjög gott og vélin vart haggast í lendingu á Keflavíkurflugvelli. Það þótti mér merkilegt. Fólkið í vélinn vissi auðvitað ekkert um í hvers konar óveðri það var að lenda en því mátti að sumu leyti líkja við fellibyl:
“Þetta sem mældist í Vestmannaeyjum”, sagði Trausti Jónsson veðurfræðingur í Morgunblaðinu, “er ekkert ósvipað því sem mælist gjarnan í fellibyljum, en þeir geta orðið ennþá verri”.

Kvöldið


Borðaði með fimm-menningaklíkunni hjá Sverri Hermannssyni miðvikudag. Margt bar á góma Gylfi er mjög kátur eftir áttræðisafmælið enda má hann vera það. Afmælistónleikarnir í Óperunni voru skemmtilegir og eftirminnilegir. Þeir voru honum til sóma. Ágæt erindi flutt. Birni Bjarnasyni var vandi á höndum að flytja sitt ávarp. En hann gerði það mjög vel. Allir sammála um það. Gylfi þakkaði fyrir með ávarpi, það var athyglisvert. Burtséð frá pólitík eru helztu einkenni Gylfi Þ. Gíslasonar guðstrú, ást á listinni og ást á ástinni. Hann fjallaði um guðstrúna þegar kapella séra Friðriks var vígð á sínum tíma. Við vitnum í það erindi í páskaleiðara nú um helgina. Í ávarpinu í Óperunni sagði hann m.a. að hagfræðin gæti stuðlað að því að styrkja framfarir, auka tekjur og bæta lífskjör. En hún leysti ekki allan þann vanda sem við væri að etja í þjóðfélaginu, ekki frekar en önnur vísindi. Þótt vizka allra vísinda væri sameinuð leysti það ekki þann djúpa vanda sem í því fælist að vera maður.
Og hann hélt áfram:
“En stjórnmálin? Hlutverk góðra stjórnmála er að vernda frelsi, auka réttlæti. En þó að allir vitrir vísindamenn og allir sanngjarnir stjórnmálamenn tækju höndum saman og gerðu sitt bezta, væri það ekki trygging fyrir því, að maðurinn yrði hamingjusamur.
Hvað mundi vanta?         
Það, sem vantaði, væri listin og systir hennar, ástin. Skynsemi og vísindi auka velmegun mannsins, vilji og kjarkur gera hann frjálsan, en aðeins listin og ástin megna að gera hann hamingjusaman.
Ástin er göfugasta tilfinning mannshjartans. En hún er ekki ávöxtur neinnar skynsemi, neins vilja. Hún er eins og fegurðin: Gjöf frá guði.
Og hamingjan á sér fleiri forsendur. Án listar verður lífið tómlegt. Öll list gerir mannin gjöfugri, betri og þá um leið hamingjusamari á annan og æðri hátt en afrek vísinda og stjórnmála.”
Gylfi sagði að það væri hinn undursamlegi leyndardómur tónlistarinnar eins og hann komst að orði að hún túlkaði það sem hvorki yrði sagt né heldur þagað um.

“Hún er ekki framleidd eins og gull og gersemar. Hún er sköpunarverk mannsandans. Hún á það sameiginlegt með ástinni og fegurðinni, að hún færir hamingju, þótt hún verði ekki skilin með aðferðum vísinda eða með hjálp hugsjóna. Fylling lífsins er ekki fólgin í því einu, sem hægt er að framleiða æ meira af með vaxandi þekkingu og bættri tækni, heldur ekki síður í hinu, sem alls ekki verður framleitt: liljum vallarins, fegurð himinsins, brosi barnsins, hlýju hjartans”.
Og Gylfi lauk ávarpi sínu með því að minna listamennina á að þeir gegndu mikilvægu hlutverki; að gera einstaklingnum kleift að leita hamingju - og finna hana.

Gylfi nefndi fegurð himinsins. Það minnti mig á að ég hafði strákur í Stardal lært utan bókar frægustu málsgrein Halldórs Laxness sem fjallar einmitt um fegurð himinsins og er í Ljósvíkingnum, eða Heimsljósi.
Það er skrítið hvernig heilinn vinnur. Hann slípar, hann tálgar, hann vinnur úr. Ég hef líklega lært þessa setningu ungur vegna þess að ég hef verið sammála Ljósvíkingnum þegar hann segir: “En líklega er það fegurðin sem ég elska”, eins og segir í 11. kaflanum í Höll sumarlandsins. Að festa augun á því fagra og góða en gleyma því illa eins og Ljósvíkingurinn kemst einnig að orði - það hefur mér þótt gott veganesti. Ég hef aldrei getað tekið undir með Erni Úlfari að ekki sé unnt að viðurkenna fegurð” - meðan mannlífið er einn óslitinn glæpur”.
Mannlífið er ekkert öðruvísi en maðurinn sjálfur, það er allt og sumt. Og hann hefur sótt margvíslega fegurð í umhverfi sitt og sjálfan sig. Svo er guði fyrir að þakka og þá getur verið ágætt að vera einn með sinni fegurð. “
Að vera einn, það er að vera skáld”.
Þetta er einskonar aðdragandi að frægustu ræðu í íslenzkum skáldskap þegar Ljósvíkingurinn stendur upp í þriðja kaflanum í Húsi skáldsins  og talar um skáldið og tilfinning heimsins og það sé í skáldinu sem allir aðrir menn eigi bágt.
Í þessari ræðu drepur skáldið Ólafur Kárason ljósvíkingur á svipuð atriði og Gylfi Þ. Gíslason í fyrrnefndu ávarpi: “Skáldið er kvikan í þessum hrosshófi og það er ekkert einstakt happ, hvorki hækkað kaup né betri veiði sem getur læknað skáldið af sársaukanum, ekkert nema betri heimur. Þann dag sem heimurinn er orðinn góður, hættir skáldið að finna til, en fyrr ekki. En um leið hættir hann líka að vera skáld.” Og skáldið er gestur á fjarlægri strönd. Þessi strönd er ekki endilega hversdagslegt líf okkar og umhverfi heldur sú strönd þar sem “skáldskapurinn er endurlausnari okkar allra”.
Þessi síðustu orð standa í 9. kaflanum í Fegurð himinsins sem Gylfi nefndi í ávarpi sínu. Fyrsti kaflinn í Fegurð himinsins hefst á þessum orðum:
“Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.”
Þetta hafði ég lært strákur í Stardal en þegar ég rifja þetta upp nú mörgum árum síðar hefur heilinn unnið úr þessum orðum þessa útgáfu af Fegurð himinsins:
“Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt en fær hlutdeild í himninum. Þar ríkja ekki framar neinar sorgir og þess vegna er gleðin óþörf. Þar ríkir fegurðin ein ofar hverri kröfu.”
Þetta er hin tálgaða útgáfa tímans.

Fimm-menningaklíkan talaði um allt þetta og margt fleira; m.a. Ólaf Ragnar forseta,auðvitað!! Og hvernig hann virðist elta uppi flest það sem er að gerast í samtímanum. Ég held klíkan eigi það sameiginlegt að vera lítt hrifin af forseta sínum enda þekkir hún kannski öðrum betur í hvaða stellingum hann var sem stjórnmálamaður. En kannski þurfum við að venjast honum. Það er svo margt sem við þurfum að venjast á langri ævi; svo margt sem við þurfum að sætta okkur við.
Það minnir mig á söguna af frú Láru, eiginkonu Steingríms rafmagnsstjóra, og Kjarvalsmálverkinu. Gylfi rifjaði það upp fyrir okkur.
Vinir Steingríms gáfu honum þetta Kjarvalsmálverk á sextugs afmæli hans og var það af honum sjálfum. Þeir sem sáu málverkið undruðust og töldu það varla við hæfi. Málverkið var sett upp á virðulegasta stað heimilisins í borðstofunni.
Þar stóð meðal annarra Kristján Albertsson og virti það fyrir sér.
Hann spurði frú Láru hvort þetta væri ekki of virðulegur staður fyrir þetta málverk sem hann kunni ekki að meta.
Gylfi heyrði svar frú Láru en hún sagði af bragði,
Málverkið er eins og Steingrímur, maður venst því!
Ég hafði áður heyrt þessa sögu hjá Gylfa og heilinn í mér hafði tálgað hana með þeim hætti að setning frú Láru var svohljóðandi:
“Málverkið er eins og Steingrímur, það venst!”
Ég sagði félögum mínum að ég hefði heyrt að Ólafur Ragnar væri mjög formlegur sem forseti. Hann hefur hrósað Davíð fyrir formlegheit í samtölum þeirra og hvað hann kunni vel að umgangast forsetann. Hann skilur ekki að Davíð gerir þetta af ásettu ráði og hefur þannig fundið leið til þess að vernda þá fjarlægð sem hann vill að sé milli þeirra. Um það er ég sannfærður hvað sem öðru líður.
Styrmir hefur heimsótt forsetann. Þeir hafa borðað saman tveir einir. Ólafur Ragnar hefur haft orð á því hvað Davíð Oddsson kunni sig vel í samskiptum þeirra. Og hann hefur nefnt önnur formlegheit, til að mynda þá hefð að forsetinn sé alltaf uppvartaður fyrstur við matarborðið. Þess vegna fékk hann á diskinn á undan Styrmi!! Í hans sporum hefði ég tekið mig til og breytt þessari hefð!!
Þorsteinn Pálsson sagði mér að Ólafur Ragnar hefði sent sér til baka lög sem hann hefði skrifað undir með ósk um að hann skrifaði annars staðar á blaðið. Nafn Þorsteins var ekki á réttum stað og forsetinn vildi færa það neðar á blaðinu svo að hans nafn kæmist betur fyrir undir lögunum. Þorsteinn brosti að þessu enda ekki furða. Forsetinn getur ekkert gert nema í umboði ráðherra. Nafn ráðherra undir lögum er stimpill valdsins, en nafn forsetans er uppáskrift hinnar hátíðlegu stellingar.

Klíkan talaði um ýmislegt fleira. Þeir voru þeirrar skoðunar félagar mínir að Halldór Laxness hefði verið mikill tækifærissinni í lífi sínu og má það líklega til sanns vegar færa. Jóhannes Nordal talaði um hvað hann hefði breytzt mikið frá því hann skrifaði Vefarann sem Jóhannes kann mjög vel að meta. Vefarinn er merkileg bók og hún hefur verið stórkostleg uppákoma á sínum tíma. En það sem kom mér á óvart var sú skoðun klíkunnar að Halldór hefði alltaf hugsað mikið um peninga. Hann hefði viljað vera ofaná eins og sagt er. Og þeir höfðu orð Ragnars í Smára fyrir því. Ég veit það ekki, en held að Halldór hafi þurft að vígbúa hjarta sitt til að lifa af. Hann komst upp á kant við borgarastéttina og þurfti að finna sér annað skjól og það má vel vera að hann hafi talið sér nauðsynlegt að vera ekki á flæðiskeri staddur í þessari baráttu. Ég sá hann fyrst þegar ég var í fimmta eða sjötta bekk Menntaskólans í Reykjavík. Þá bjuggum við að Nökkvavogi 41. Ég hafði misst af strætisvagninum sem þá gekk einungis á klukkustundar fresti að mig minnir og ákvað að fara á puttanum til Reykjavíkur. Þá kom þar að eitthvert fínasta dollaragrín sem ég hafði séð, stanzaði og ökumaðurinn bauð mér far til Reykjavíkur.
Það var Halldór Laxness,en ég hafði aldrei séð hann áður.

Við töluðum lítið saman. Hann spurði hvar ég vildi fara úr og sagði ég honum það. Hann var vinsamlegur og hefði vel getað látið það vera að taka mig uppí. En mér fannst hann og bíllinn vera í sama stíl og mér þótti fara vel á því.
Nokkrum árum síðar tókst mér að skrifa Halldór Laxness inn í Morgunblaðið. Þótt ég hefði ekki gert annað um ævina tel ég að starf mitt þar hafa borið þó nokkurn árangur(!)

Gylfi sagði að guðstrú hans væri arfur frá séra Friðrik. Hann sagði að Þorsteinn Gíslason, faðir hans, og séra Friðrik hefðu verið óaðskiljanlegir vinir. Séra Friðrik hefði komið á æskuheimili Gylfa og lesið fyrir föður hans. Það hafi verið  eftirminnilegt. Hann sagði að Þorsteinn Gíslason hefði verið brandesarmaður en það hefði ekki skyggt á vináttu þeirra Friðriks. Guðstrú Gylfa er arfur frá séra Friðrik sem mótaði hana í æsku hans.
Ég sagði við Gylfa að ég hefði spurt Þorstein son hans að því þegar við sátum síðast saman í Nausti hvort hann tryði á framhaldslíf eða hefði einhverja von um það.


Þorsteinn svaraði því afdráttarlaust neitandi. Hann hefur þannig ekki erft þessa guðstrú föður síns. Ég spurði Gylfa hvort afstaða Þorsteins væri arfleifð frá Vilmundi landlækni, afa hans. Gylfi taldi það ekki vera.
Þetta væru miklu fremur áhrif frá Bertrand Russel  og heimspekinni.
Þessi afstaða er mjög rík í heimspekingum, sagði Gylfi.
Við áttum skemmtilega stund saman þarna í boði Sverris Hermannssonar þetta kvöld, borðuðum andasteik og töluðum eins og Boswell við doktor Samúel Johnson á sínum tíma. Indriði G. Þorsteinsson er farinn að líkjast honum með aldrinum og gengur nú við krómaðan staf. Það fer honum vel en ég held að handfangið sé hvalur. Það er vel við hæfi. Indriði hefur alltaf kallað fram í mönnum blendnar tilfinningar eins og hvalurinn! Það er rifizt um það hvort það megi veiða hann eða ekki. En svo mikið er víst að Indriði G. hefur aldrei verið friðaður! Og hann getur blásið eins og hvalur. En nú er hann farinn að eldast.

28. marz, föstudagurinn langi


Ég fylgdist í upphafi vikunnar með úthlutun Óskarsverðlauna. Leizt mér ekki alltaf á blikuna. Bezta leikkonan sat í salnum og fékk ekki verðlaun. Man ekki hvað hún heitir, en hún leikur aðalhlutverkið í Lygum og leyndarmálum. En ég er sáttur við að aðalleikarinn í Shine fékk Óskarinn fyrir bezta karlhlutverkið. Helfgott var mættur og lék á píanó, það var eftirminnilegt. Bezta myndin Lygar og leyndarmál hlaut ekki verðlaun; auðvitað ekki. Ekki heldur Arthur Miller fyrir eigið handrit af Deiglunni; auðvitað ekki. Handritið var að sjálfsögðu eins gott og eitt handrit getur verið en það skortir líklega það sem ríður baggamuninn nú á tímum, hina smekklausu upphafningu! Annars eru víst misjafnari skoðanir um þessa kvikmynd en ég átti von á. Gagnrýnandi Observer telur að leikritið hafi ekki misst neitt af krafti sínum í kvikmyndinni, verkið sé sígild dæmisaga. Gagnrýnandi Daily Telegraph er aftur á móti ekki sannfærður þrátt fyrir góðan leik á köflum, telur að verkið snerti ekki áhorfandann, m.a. vegna þess að handritið sé “frábært en holt, fremur mælska en drama” Einkennileg afstaða(!) En gagnrýnandi Sunday Times hefur sagt að kvikmyndin sé “dálítið meistaraverk”.
Ég hallast helzt að því.
Afhendingarhátíð Óskarsverðlauna er yfirgengileg plasthátíð. Yfirborð hennar sýnir raunar hvað menn eru að eltast við undir þessu yfirborði; svo að ekki sé nú talað um þessa dulbúnu upphafningu sem er einhvers konar attríbút uppákomunnar. En það situr víst ekki á mér.
Til hvers er ég að skrifa þessi minnisblöð?
Til að muna?
Til að geta flett upp í þessum blöðum eins og ég hef gert og stytt mér leið þegar ég hef þurft að skrifa greinar?
Til að geta horft á sjálfan mig í vatninu eins og Narkissus?
Hvað skal segja?
Ég hef gaman af því, það er allt og sumt. Líf okkar og tími eru of dýrmæt til að glutra því niður jafnóðum. Ég held kvæði séu einskonar tilraun til að ganga á hólm við þessa tortímingu. Segja henni stríð á hendur. Reyna að sigra hana, án vopna.
Í nýlegum ritdómi um dagbækur Isherwoods segir að rithöfundurinn sé í sporum Narkissusar og viti vel að hann hafi ólæknandi áhuga á sjálfum sér. En hann viti einnig vel af þeim erfiðleikum sem við blasi.

Nú er föstudagurinn langi. Í öðrum ritdómi sem ég hef einnig lesið nýlega og fjallar um síðustu ár rússneska skáldsins Isaac Babeles sem ég þekki lítið sem ekkert, því miður, enda er hann heldur lítið þekktur á vesturlöndum, er minnt á þessi orð sem eitt sinn voru um hann sögð:
“Hann er einungis frægur af dauða sínum”.
Kristur er frægur af dauða sínum, en ekki einungis honum sem betur fer. Upprisa hans er frægari.

29. febrúar, laugardagur fyrir páska


Babel virðist minna talsvert á Stein. Hann vildi helzt aldrei tala um sinn eigin skáldskap. Þegar hann var einhverju sinni spurður í samtali hvað hann hygðist fyrir í þeim efnum, svaraði hann
“Ég er alvarlega að hugsa um að kaupa geit”.
Þetta er steinskt tilsvar.
Skil vel svona afgreiðslu. Einhverju sinni þegar Babel var að telja upp hvað menn ættu að lesa af bókmenntum tók hann með rit sem heitir Eðlishvöt og siðferði skordýra.
Skáld eru ekki öll þar sem þau eru séð.

30. mars, páskadagur


Gylfi Þ. Gíslason minntist á hamingjuna í afmælisávarpi sínu. Minnir á það sem Óscar Wilde sagði í greininni Sál einstaklingsins: Þegar maður er hamingjusamur er hann í sátt við sjálfan sig og umhverfi sitt.
Hann segir ennfremur að það séu þrjár tegundir einvalda; sá sem beitir líkamann ofbeldi, sálina, og sá sem beitir hvort tveggja ofbeldi.
Hinn fyrstnefndi er kallaður prins, hinn síðarnefndi páfi og sá þriðji fólkið, eða þjóðin. Prinsinn getur verið menningarlega vel ræktaður, það hafa margir prinsar verið. Samt fylgir honum hætta. Páfinn getur einnig verið vel ræktaður, það hafa margir páfar verið. Samt getur enginn listamaður unað við páfana. Og það getur enginn listamaður lifað í sátt við fólkið. Allir harðstjórar múta. Fólkið mútar, afsiðar og sviptir menn mannlegum tilfinningum.
Sjálfselska er ekki fólgin í því, segir Wilde, að lifa eins og maður æskir, heldur að óska þess að aðrir lifi eins og maður sjálfur. Óeigingirni er að leyfa öðru fólki að huga að sínu án þess að skipta sér af því. Það er sérgæzka eða eigingirni að krefjast þess af nágrannanum  að hann hugsi eins og maður sjálfur og hafi sömu skoðanir. Það er ekki sérgæzka eða síngirni að hugsa eins og manni er eiginlegt. Sá sem gerir það ekki hefur aldrei hugsað ærlega hugsun.

Hef farið í langar göngur um páskana, ort nokkur kvæði á þessum göngum. Gekk í gær framhjá glugga fornbókasölu Braga Kristjónssonar við Vesturgötu. Þar var ljósrit af Maríukvæði eftir Halldór Kiljan Laxness.  Hef reynt að finna það í Kvæðakverinu frá 1949 en finn það ekki þar. Það er fallegt kvæði og barnslega einlægt; að sjálfsögðu kaþólskt. Ávarp til Maríu, að hún verndi skáldið eins og son sinn forðum. Ég þarf að verða mér úti um þetta kvæði því ég veit það lýsir betur en allt annað sem ég hef séð trúartilfinningu skáldsins. Hann sagði mér í fúlustu alvöru: einu sinni kaþólskur alltaf kaþólskur. Og hann sagðist að sjálfsögðu vera kaþólskrar trúar. Guðsmóðir var honum vernd og vísbending og hann fór ekki í launkofa með það í samtölum okkar ef slík efni komu til tals.
En hvers vegna skyldi þetta kvæði ekki vera í ljóðabók skáldsins frá 1949? Ég hygg að ástæðan sé sú að bókin kom út á þeim tíma þegar hann var að basla við að vera marxisti. Trú var svo sannarlega ekki í tízku. Það var bara páfinn í Róm sem lýsti því yfir að hann ætlaði að sigra Stalín og efnishyggju marxismans með sínum himnesku hersveitum. Halldór Laxness skipaði sér af einhverjum ástæðum ekki í þann flokk á þeim tíma. Hann var þá í óða önn að reyna að eignast nýja trú, en það misheppnaðist. Hann hefur aðeins eignazt trú á Maríu og son hennar. Fyrrnefnt kvæði ber því vitni, svo og samtöl okkar án þess ég væri að tíunda það í Skeggræðunum enda ræddum við ekki sérstaklega um trúartilfinningu skáldsins. Við gerðum það okkar í milli og Halldór fór ekki í launkofa með sína kaþólsku afstöðu.
Ég þarf að fá þetta Maríukvæði ljósritað. Það er merkilegur vitnisburður og ég tel eftir á að hyggja að það sé bezta grafskrift um Halldór sem ég þekki.

Ég hef skrifað smásögur um heilann. Hann er ólíkindatól. Ég hef aldrei skilið hann. Ég hef aldrei stjórnað honum, hann hefur ávallt stjórnað mér. Ég hef lent í stríði við hann, ég hef lent upp á kant við hann. Ég hef reynt að sigra hann, en aldrei tekizt. Hvers vegna lætur hann mann gleyma sumu en ekki öðru? Hvers vegna nýtur hann þess að pína mann? Hvers vegna sviptir hann mann vitinu og gerir atlögu að minningu? Það er einungis vegna þess að hann er ólíkindatól.

Um daginn var ég að hugsa um ritgerð Bjarna Benedikts, Án einlægni, enginn skáldskapur, sem fjallar um Jörð úr ægi. Góð ritgerð eftir sérstæðan ungan mann. Það kom mér á óvart að höfundurinn vitnar í þessari ritgerð í hlýleg ummæli um Jörð úr ægi eftir Ólaf Jónsson sem ég hafði líklega ekki séð og mundi að minnsta kosti ekki eftir. Einkennilegt, því þessi ummæli hafa verið í yfirlitsritgerð um ljóðlist  1962 og birtust í Félagsbréfi AB 27. hefti, eða í október það ár. Mér þótti vænt um að rekast á þessi ummæli Ólafs, ég veit ekki af hverju. Kannski vegna þess að ég vil helzt ekki að minningar séu eins og skinnakast á sjó, heldur logn og kyrrð. Bjarni Benedikt vitnar í þessi orð Ólafs - þau eru hin einu sem ég þekki úr þessari grein:
“Hér (um ástarsögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur og Daða) nýtur sín vel ljóðmál hans sem að eðli er einfalt og óbrotið en með eftirsókn eftir djörfum og óvenjulegum samlíkingum og myndum”.
Ég hélt ekki að gamlir ritdómar gætu verið óvænt uppákoma, en maður verður víst að sætta sig við það eins og annað!!
Ég ætlaði að muna þessa tilvitnun í ritgerð Bjarna Benedikts en steingleymdi henni. Reyndi margoft að knýja heilann til að segja mér hvað það var sem ég ætlaði að muna, en án árangurs. Svo þegar ég var að hugsa um það í gær að gaman væri að skrifa ritdóm sem hefði getað birzt í Sunnanpóstinum ef ljóðabók Jónasar hefði komið út meðan hann lifði, en ekki 1847, þá var eins og heilinn opnaði fyrir allar gáttir og ummæli Ólafs Jónssonar komu eins og vorflóð eftir frosthörkur. Ég get ekki ímyndað mér hvað olli því að heilinn tók allt í einu uppá því að veita mér þessa lausn, en honum þóknaðist það af einhverjum ástæðum.
Heilinn er hinn mesti harðstjóri, hann lætur ekkert hafa áhrif á sig, hann fer sínu fram og hann ræður því alfarið hvort maður man eða gleymir. En kannski býr hann yfir einhverjum lögmálum sem eru okkur mikilvæg án þess við vitum. Það skyldi þó ekki vera?!

En hvernig hefði þá ritdómur um Jónas verið í Sunnanpóstinum, ef ljóðabók hans hefði komið út í kringum 1838, eða um það bil sem Sunnanpósturinn hætti að koma út? Jónas hafði komið við kauninn á ritstjóra hans, Árna Helgasyni stiftsprófasti í Görðum, og gagnrýnt þýðingu hans á Móðurást. Hann fór hörðum orðum um þýðinguna og orti hana upp. Minnir á gagnrýni Gríms Thomsens síðar þegar hann gerði atlögu að Shakespareþýðingu Eiríks Magnússonar í Cambridge en hann svaraði fyrir sig síðar með rækilegum skömmum um ljóðlist Gríms. Jónas gagnrýnir það helzt að það vanti fegurðartilfinningu í þýðingu séra Árna.

En lítum þá á dóminn í Sunnanpóstinum ef hann hefði verið skrifaður:

Það eru mörg strákapör í smáljóðum Jónasar Hallgrímssonar og ekki ástæða til að tíunda þau í þessum orðum. Þýðingar hans eru einnig harla einkennilegur samsetningu því að þær minna sízt af öllu á þann sem verið er að þýða eftir, t.a.m. þýzka skáldið Heinrich Heine, en þær eru allar eins og frumsamdar eftir Jónas sjálfan og eru það mikil lýti. Þýðingar eiga að túlka þann sem verið er að þýða en helzt af öllu að leyna þeim sem þýðir. En Jónas Hallgrímsson tranar sér fram í öllum sínum þýðingum og þá með þeim hætti að þýðingar hans verða einskonar eftiröpun á frumtextanum.
Meðferð höfundar á lýsingarorðum er ekki til fyrirmyndar, svo að ekki sé meira sagt. Þar ríður smekkleysan ekki við einteyming; t.a.m. elfur ísbláar í kvæði til Alberts Thorvaldsens, en annars staðar talað um ísgráa kinn. Þá er talað um grænt lauf sem eyru í einu kvæðanna eftir frumtexta Heines! Hvers á þetta þýzka góðskáld eiginlega að gjalda?
Ýmsar aðrar uppákomur eru harla undarlegar í þessari bók. Sem dæmi um það mætti vitna í kvæði sem heitir Sólhvörf en þar segir m.a.:


Hvað er glatt sem hið góða
guðsauga? Kemur úr suðri
harri hárrar kerru,
hjarðarlíkn og jarðar.

Hvað skyldi nú þetta merkja? Svari hver sem veit. Þetta er auðvitað ekkert annað en smekkleysa og þá harla torskilin smekkleysa. Guðsauga, hvað er það? Er það eitthvert sérstakt auga sem skáldið þekkir, en aðrir ekki? Þetta minnir á annað orð sem kemur fyrir í kvæði sem heitir Ég veit það eitt að enginn átti, það er orðið alaugu. Hvað er það? Vér höfum eigi séð það fyrr.
Það er ýmislegt í þessari bók sem kemur á óvart og verkar illa og enginn hefur séð áður. Þetta eru uppákomur sem særa fegurðartilfinningu og skáldskaparskyn flestra ljóðaunnenda. Þó koma fyrir frambærilegar línur og eitt og eitt erindi og líklega er ástæða til að fagna trúarhita skáldsins þótt þar sé einatt farið með himinskautum og dregur það úr áhrifunum. Það þarf enginn að ganga í grafgötur um að Jónas Hallgrímsson er vel lesinn í tveimur íslenzkum góðskáldum, Bjarna Thorarensen og Jóni Þorlákssyni. Áhrif þeirra eru augljós á víð og dreif í kveri þessu sem fjallar einna helzt um landið í konulíki og fer misjafnlega vel á því. En þó kastar tólfunum þegar skáldið ætlar að verða sem skáldlegast, til að mynda í Sláttuvísu, en henni lýkur á þessum orðum: Grundin þýtur undir. Grundir þjóta ekki. Það er raunar með ólíkindum að láta sér detta slíkt í hug. En slíkar uppákomur eru víða í kverinu og skemma skáldskapinn. Þetta má ekki sízt sjá í annars heldur athyglisverðu kvæði, Gunnarshólma, en þar er þó einnig vegið að heilbrigðri skynsemi þegar sagt er að Markarfljót duni á eyrum og heiðavötnin falli niður Rangárvöll svo að ekki sé nú talað um setninguna:

Blikar í laufi birkiþrastasveimur/
og skógar glymja...

Sveimur getur ekki blikað í laufi og skógar glymja ekki.
Þannig má víða rekast á smekkleysur í þessu kvæði og eru þær líklega eftirminnilegastar að bókarlestri loknum.
Það er ekki lítil ábyrgð að gefa út slíkt rit sem gengur svo víða gegn heilbrigðri skynsemi og virðist eiga það erindi helzt að hafa lesandann að háði og spotti. Á því bera engir ábyrgð aðrir en útgefendur. Hitt er svo annað mál að unnt hefði verið að færa þetta kver til betra vegar og búa til úr því litla bók með því sem þar er bitastæðast. Þá hefði þurft smekkmann til að lagfæra, skera niður og ritstýra. Og að sjálfsögðu hefði skáldið að skaðlausu mátt liggja betur yfir ljóðum sínum og fullyrkja þau áður en þau birtust á prenti.





Þegar ég lít á ljóðaeintak mitt af ritverkum Jónasar Hallgrímssonar, fyrsta bindi í útgáfu Hauks Hannessonar, Páls Valssonar og Sveins Ingva Egilssonar þá sé ég að ég hef gert tvær athyglisverðar athugasemdir við textann. Önnur er við Alsnjóa þar sem útgefendur fylgja ekki fyrirrennurum sínum sem gáfu út ljóðasafn Jónas 1847 en þeir voru öllum hnútum kunnugir og þekktu betur en allir aðrir hvernig Jónas Hallgrímsson vildi að ljóðin yrðu prentuð. Þeir birta umdeilda setningu svo:

Dauðinn er hreinn og hvítur snjór,

en fyrrnefndir þremenningar breyta þessu í:

Dauðinn er hreinn og hvítur er snjór

 - og eyðileggja kvæðið með þeim hætti. En svo fara þeir á öðrum stöðum eftir útgáfunni frá 1847 og yfirgefa handritið, t.a.m. í kvæðinu til herra Páls Gaimard en þar segir í öðru erindi:

Hjarðir á beit með lagði síðum,

en í handriti Jónasar stendur kátar, þ.e. hjarðir kátar með lagði síðum. Hér er Brynjólfi og Konráð treyst, en ekki í Alsnjóa. Hvers vegna skyldi það nú vera, sérvizka? fordómar? eða tilfinning fyrir því sem betur má fara? Skýringar þeirra í IV bindi taka ekki af öll tvímæli í þessum efnum og segja ekki hvers vegna þeir trúa vinum Jónasar fyrir þessari breytingu, en ekki fyrrnefndri línu í Alsnjóa.

 

Undir kvöld

Gott veður, kyrrt og bjart. Þegar ég hafði hlustað á samtöl okkar Gylfa Gröndals í útvarpinu fékk ég mér göngutúr og kom við hjá Braga Kristjónssyni á Vesturgötu. Hann var eitthvað að bardúsa í verzlun sinni og ég tók hús á honum. Spurði hvort hann gæti ekki útvegað mér Maríukvæðið góða eftir Kiljan sem væri til sýnis í glugganum. Hann sagði að það væri sjálfsagt hann ætti frumritið og gæti alltaf tekið ljósrit af kvæðinu. Hann sagði að ég mætti fá ljósritið í glugganum. Hann sagði að Halldór hefði skrifað nafn kvæðisins með grænu bleki. Ég sagði honum að ég teldi að trúartilfinning þessa kvæðis hefði fylgt skáldinu alla leið inn í frumskóginn. Það gengi eiginlega ekki að birta neitt annað en þetta kvæði þegar hann væri jarðaður. Bragi rúllaði kvæðinu inn í gamla Lesbók og rétti mér. Á ljósritinu segir að kvæðið hafi verið ort á tímabilinu 1946-’56. En handritið hafi fundizt í Kaupmannahöfn 1994 eins og upplýst var víst í Morgunblaðinu á sínum tíma. Það skyldi þó ekki vera að Halldór hafi ekki verið búinn að yrkja kvæðið þegar hann gaf út Kvæðakver sitt 1949, hver veit?
Kvæðið er svohljóðandi:

Maríukvæði


Hjálpa þú mér helg og væn,
himnamóðirin bjarta!
legðu mína bljúgu bæn
barninu þínu að hjarta!
þá munu ávallt grösin græn
í garðinum skarta,
í garðinum mínum skarta.

Bænheit rödd mín biður þín,
blessuð meðal fljóða;
vertu æ unz ævin dvín
inntak minna ljóða;
móðir Krists sé móðir mín
og móðir allra þjóð,
móðir allra þjóða.

Kenn mér að feta för þín ein,
feta að himnaborðum,
leiddu þennan litla svein,
líkt og Jesúm forðum.
Líkt og Krists sé heyrn mín hrein
að hlýða orðum,
hlýða þínum orðum.
Halldór Kiljan Laxness.


31. marz, annar í páskum


Hef verið að fara yfir smásögur Tobiasar Wolff. Nokkuð góðar, einkum samtölin.
Hef einnig verið að líta á nóvemberhefti TLS þar sem ýmsir spekingar eru að tjá sig um bækur síðastliðins árs. John Ashbery sem er eitt þekktasta ljóðskáld Bandaríkjanna nú um stundir nefnir ritgerðar- og stuttgreinasafn  eftir pólskt skáld sem ég þekki ekki, Adam Zagajevski, Two Cities, þyrfti að verða mér úti um þessa bók og kynna mér efni hennar. Af tilvitnun Ashberys sýnist mér þetta vera ævisögulegt efni. Gæti verið hnýsilegt.
Yndisleg bók, segir Ashbury.
Doris Lessing nefnir úrval ljóða eftir Coleridege sem hún segir að hafi komið sér skemmtilega á óvart. Róbert Conquest sem skrifaði á sínum tíma stórmerka bók um ógnina miklu, stalínismann, og kom hingað í fyrirlestrarferð í kalda stríðinu minnist á rit Vladimir Búkovskís sem hann byggir á skjölum sem hann náði úr söfnum í Moskvu eftir fall Sovétríkjanna. Ég hitti hann á sínum tíma og átti samtal við hann sem birtist í Morgunblaðinu og síðar í Félaga orð. Búkoskí var engum líkur. Hann lifði í Gúlaginu samkvæmt formúlunni: illt skal með illu út reka - og kerfið losaði sig við hann. Hef pantað þessa bók ef Morgunblaðið gæti notið góðs af henni. Conquest segir að í henni séu einhverjar yfirgengilegustu upplýsingar úr sovézkum heimildum sem enn hafi á þrykk út gengið.
Joackim Fest sem ég man ekki hver er nefnir síðasta bindið af dagbókum Tómasar Manns, 1953 fram að dauða hans tveimur árum síðar. Hann segir að það veki undrun að Mann skuli hafa leyft að birta þessar dagbækur aldarfjórðungi eftir dauða sinn. Þær splundri öllum hugmyndum um líf hans, opinberi kuldalegt viðmót hans í einkalífi, miklar kynferðislegar freistingar, tilhneigingu hans til vanþakklætis, mannfyrirlitningar “og jafnvel fyrirlitningar á hverjum og einum”. Sums staðar megi sjá að hann viti hvað hann kalli yfir sig með þessum dagbókarskrifum. Þau sýni litla virðingu fyrir almenningsáliti.
Þegar Mann var að skrifa þessar dagbækur stóð hann á hátindi frægðar sinnar, umvafinn hlýju og aðdáun og marghylltur þar sem hann var á tindinum. Hann hafði verið gerður að heiðursdoktor í Cambridge, einnig Oxford; hann hafði fengið heiðursorðuna frönsku, hann hafði fengið áheyrn hjá páfa - og hann virtist kunna að meta þetta allt. En það lá fiskur undir steini. Óttinn við að rithöfundarferli hans væri lokið var honum mikil raun. Hann virðist hafa þjáðst undir þessu fargi. Hann langaði til að semja óforgengilegt lokaverk eins og Gothe með Fást og Wagner með Parsifal. Hann var að fást við Felix Krull sem hann talar aldrei um í dagbókum sínum nema með einhvers konar fyrirlitningu. Hann virðist einna helzt hafa sótt huggun í tónlist sem hafði fylgt honum alla tíð; Wagner, Schubert, Brahms, Mahler og fleiri; einkum Wagner. Með honum óx efi um eigin verk og nagaði hann.
“Ég er svo sannarlega ekki stór” játar hann á einhverjum stað, hann ætti einungis “ræktaða meðalmennsku”. Hann sætti sig í lokin við það að hann hafi gert sitt bezta. Og þó gat hann ekki sætt sig við það. Undir lokin las hann Mozart eftir Einstein.
Fest segir að Mann hætti miklu með því að leyfa prentun þessarar dagbókar, en ávinningurinn sé einnig mikill. Ástæðan sé sú að þetta rit sem kemur út eftir dauða þessa mikla rithöfundar sé líklega manneskjulegasta bókmenntaverk hans og snerti lesendur meira en allt annað sem hann skrifaði. En dagbókin sé án þess hann hafi gert sér grein fyrir því það stórkostlega lokaverk sem hann þráði að skrifa áður en hann dæi.
Allt er þetta harla merkilegt, ekki sízt með tilliti til þess að Campbell fjallar um Mann á sömu forsendum og Joyce; að hann sé einn mesti rithöfundur sem um getur. Og hann fjallar um goðsagnirnar í verkum hans með engu áhrifaminni hætti en Mann sjálfur um persónur sínar.

Kvöldið

 

Nú leysir ísa af öskugráu vatni
en allt er hvítt af snjó þótt tíðin batni
hægt og eins og hönd þín drottinn strjúki
burt hrollinn svo að þessum vetri ljúki,
þá brosir sólin enn og kastar kossi
á kalið land með útigönguhrossi
sem fagnar sífellt ennþá betri árum
og endar loks með því að fara úr hárum.
Það hendir einnig oss að vísu, en þá
er ekki nokkurt strá
sjáanlegt á sólskinsskalla várum.

 

Horfði um stund á sjónvarpið í gærkvöldi. Sannfærðist um að heimurinn er einn allsherjar kækur. Og David Latterman er alvörutrúðurinn í þessari forkostulegu heimssýningu. Allt endurtekið, einhver þarf að láta á sér bera, hann þarf að selja eitthvað; ekki sízt ef hann er einhvers konar listamaður. Einhver er með þátt, hann þarf að láta á sér kræla. Kannski þarf hann að lifa á einhverju. Hann er með sófa og stól í sjónvarpssal. Fólk sezt í sófann og er spurt heimskulegra spurninga, það reynir að vera fyndið. Rithöfundur kemur inn í salinn, les upp og kveikir í bókinni. Það er kallaður gjörningur. Síðan er bullað um  sjúkdóma eða ástina eða önnur “einkamál”. Flissað og hlegið. Og áður en varir veit enginn hvort hann er að horfa á sjónvarpsþátt í NBC, hjá Larry King, CBS  eða RÚV- allsstaðar sama sölumennskan, allsstaðar sama skvaldrið, allsstaðar sami kækurinn. Þetta er svona eins og ef maður færi á milli sjónvarpsstöðva og sæi alla spyrðlana snýta sér eins , og spyrlarnir reyndu undir drep að taka þátt í þessari óvæntu uppákomu. Ég hef kallað þetta einsmenningu. Hún hefur að vísu alltaf loðað við heiminn en nú er hún að ganga af honum dauðum.
Sjónvarpið er kassi, maður ýtir á hnapp og þá spretta upp trúðar og sprellikarlar á gormum. Þeir eru allir eins og það er nákvæmlega sama hvort þeir eru í CNN, NBC eða íslenzka sjónvarpinu - þeir koma upp úr kassanum af sömu ástæðu, eða á ég að segja af sömu ástríðu: að skemmta sjálfum sér!
En þetta eru sem sagt hinir nýju sófistar. Og þessi vélmenni eru að leggja undir sig heiminn.
Í þessum þætti var talað við Sigríði og Sigurð Á. Magnússon um hjónaband þeirra og ást. Sigurður sagði lítið. Mér sýnist hann sé orðinn  þreyttur að tala um þessa sífelldu endurtekningu í lífi hans. Sigríður hafði orð fyrir þeim báðum. Valgerður Matthíasdóttir minntist á ást og afbrýðissemi og vitnaði í Pál Skúlason, hann telur víst að afbrýðissemi sé eðlilegur fylgikvilli ástarinnar. Það má svo sem vera. En ég held  hún komi trausti ekkert við, heldur sé hún einhvers konar varðstaða um sjálfsvitund; eða öllu heldur sjálfsvirðingu. Ástin ætti að vera umburðarlynd, en hún er það ekki. En kærleikur gengur ekki fyrir líkamlegri ástríðu, hann er umburðarlyndur. Það vita allir. Við þurfum ekki að láta Biblíuna segja okkur það; að hann leiti ekki síns eigin. En hann er þá einnig sambland af góðvild, umhyggju - og eigingirni.
Maðurinn er harla ófullkomin skepna og henni er eiginlegt að verja umráðasvæði sitt. Það er allt og sumt(!) Þegar ég var ungur var ég brjálæðislega afbrýðissamur; líklega óþolandi í aðra röndina.
Hanna mátti varla snúa sér við. Ég held hún hafi stundum tekið það nærri sér en hún hafði ekki minni ást á mér en ég á henni, þótt afbrýðissemi hennar væri ekki sjúklegt vandamál; hvorki mér né henni sjálfri. En ég átti við þetta vandamál að stríða, það stafaði af óöryggi í æsku og tilraun til að vernda særðan metnað. Kannski einnig af því að sá sem treystir ekki sjálfum sér, treystir ekki öðrum. Ég hef gert mér þetta ljóst eftir því sem árin hafa liðið. Ég er ekki laus við afbrýðissemina en hún er ekki sjúkleg lengur,
Ást á tvö brúðkaup eins og Campell segir,hið síðara byggist á virðingu,vináttu og umfram allt kærleika.


Þröstur Helgason

Erindi í þátt um MJ á RÚV, páskadag

“Það sem er fallegt er líka rétt og satt.“ Í þessum orðum felst fagurfræði Matthíasar Johannessen en þau lét hann falla í viðtali við Silju Aðalsteinsdóttur í Tímariti Máls og menningar á síðasta ári.
Það sem er fallegt er líka rétt og satt. Þetta er rómantísk fagurfræði, sú skoðun að fegurðin sé grundvöllur heimsins, forsenda alls samhengis og samræmis, ytra sem innra; þetta er rómantísk hugsun, heimssýn Schillers, Schelling, Goethe og auðvitað Fjölnismanna, eins og Matthías bendir á í viðtalinu.
En er Matthías þá ekki rómantískt skáld?
Jú, í vissum skilningi er hann það og kannski miklu frekar en mörg skáldsystkin hans af sömu kynslóð; það gera bæði hugmyndir hans um samband manns og náttúru, tíð notkun hans á goðsögulegum vísunum og á stundum rómantísk úrvinnsla þeirra, og umfram allt ljóðstíll hans sem sækir afl sitt og eigind í hina ljóðrænu hugljómun — allur skáldskapur Matthíasar er í ímyndunarinnar veldi.
Þótt ég kalli Matthías rómantískt skáld mega áheyrendur ekki skilja það svo að hann sé gamaldags skáld. Matthías kemur þvert á móti fram sem hefðarbrjótur í íslenskum skáldskap á síðari hluta sjötta áratugarins; hann heldur ekki aðeins áfram þeirri formbyltingu sem hófst með atómskáldunum, heldur hefur verið óþreytandi við að kanna útmörk ljóðsins, og þá ekki aðeins formsins heldur einnig efnisins og efnistakana. Ljóð hans hafa verið andríkar stemningar, ljóðræn upphafning á hversdagsleikanum, innblásnar prósaískar ræður um pólitík og menningarástand, skáldlegar predikanir, sálmar um atómöld, svo eitthvað sé nefnt. En um leið og Matthías hefur kannað landamærin hefur hann leitað inn á við, til hefðarinnar, stuðlanna, rímsins, kvæðisins, rómantíkurinnar.
Sé höfundarverk Matthíasar skoðað í heild líkist það raunar helst æðisgenginni leit, leit að sannleika, samveru, friði og ekki síst aðferð, aðferð til að lifa og yrkja. Kristján Karlsson, skáld og bókmenntafræðingur, hefur sagt að Matthías hafi “haldið uppi merki frjálsræðis í stíl skáldskapar“. Og það er rétt því að Matthías hefur verið mjög áræðin í leit sinni að aðferð. En leit  hans hefur líka verið háskaleg því að hann hefur verið ágengur, hann hefur gengið á hólm við samtímann og umhverfið. Matthías var mjög virkur höfundur á sjöunda áratugnum þegar kalda stríðið var í algleymingi og maðurinn lifði, hugsaði og talaði í tákni sprengjunnar, eins og sagt hefur verið. Að minni hyggju gerðu fá íslensk skáld, ef nokkuð þeirra, jafn ótrauða atlögu að þeirri vargöld sem þá var. Ég á við að fá íslensk skáld voru jafn ófeimin við að fjalla um þann pólitíska veruleika sem blasti við á þessum árum og þær trúarlegu og tilvistarlegu spurningar sem hann kveikti. Matthías var mjög afdráttarlaus í umfjöllun sinni og í því liggur háskinn sem ég talaði um áðan.
Á þessum árum skrifaði Matthías margar sinna bestu bóka, svo sem Hólmgönguljóð, Jörð úr ægi og Fagur er dalur sem inniheldur meðal annars ljóðabálkinn “Sálmar á atómöld“. 
Þrátt fyrir víðsjárverða tíma eru þessar bækur fullar af von og trú en hvort tveggja eru einkennandi fyrir allan skáldskap Matthíasar:

eftir þetta langa stríð
kemur ótamið vor

hleypur ausandi folald inn í ljóð okkar.

segir í Jörð úr ægi.
Nafnið á þeirri bók er vísun í Völuspá og þá iðjagrænu veröld sem varð til eftir ragnarök en markviss notkun goðsögulegra vísana er einmitt annað megineinkenni á skáldskap Matthíasar. Goðsöguna hefur hann notað sem nokkurs konar frammíkall í samtíma heimspeki og þankagang eða sem eins konar boðun og leiðbeiningu. Goðsagan geymir ákveðinn sannleika þótt hún sé lygi, rétt eins og skáldskapurinn, eða eins og skáldið segir sjálft:

skáldskapur er lygi
sem segir satt
eins og goðsögn.

Það er og bjargföst trú Matthíasar að við séum afurð fortíðarinnar; rætur samtímans hljóta að vera í fortíðinni, í sögunni. Þessi sannfæring endurspeglast skýrt í skáldskapnum þar sem hugsun og orð dansa við liðna tíð; hún er þannig ekki eitthvað sem þarf að yrkja sig frá heldur eitthvað sem þarf að vera í stöðugu samneyti við. Í skáldskap sínum hefur Matthías líka verið óþreytandi við að benda samtímanum á þörfina á að halda samræðunni við söguna lifandi; þegar skilning og orð tímans brestur skal leitað svara í fortíðinni, í atburðunum, sögunum, þjóðsögunum, í sporum genginna. Í ljóðinu “Við“ í bókinni Mörg eru dags augu fjallar Matthías um týnda leyndardóma, glataðan sannleika horfinna tíma og segir:

Hví hlustum við ekki?
Hví leitum við ekki spora þeirra
undir malbikinu
þar sem eitt sinn runnu
kyrlátir bæjarlækir
og sóleyjar spruttu í varpa?

En við
sem heyrum ekki lengur
rödd þeirra í brjóstinu
horfum til himins
þar sem nú er eina von
óvæntra tíðinda.
Og allt hefur breyst:
rúm, tími, sannleikur
hafa týnt merkingu sinni
og jafnvel skolpið
er ekki hið sama og áður:
það hefur breytt um farveg
og rennur óhindrað
um æðar okkar,
okkar sem gleymdum
ævintýri þjóðsögunnar
í skvaldri hversdagslegra skrautsýninga.

Svo ég haldi áfram að tíunda skáldskapareinkenni Matthíasar þá er þessi berorði stíll eitt þeirra, ljóðið verður nánast eins og innblásin predikun eða reiðilestur. Þetta er hið prósaíska og opna form ljóða hans. En andstæða þess er einnig algeng, hið ljóðræna og innhverfa form þar sem ljóðið hefur sinn eiginn rökheim og sönnunarbyrðin hvílir á myndmálinu. Ljóðið verður nánast eins og sjötta skilningarvitið; hin ljóðræna, myndhverfða skynjun heimsins. Ljóð eiga að lýsa áhrifum, ekki sannfæringu, sagði Thomas Hardy en þetta eru einkunnarorð ljóðs Matthíasar í einni af sínum heildstæðustu og bestu bókum, Árstíðarferð um innri mann:

Mávur
í morgunsól

skuggi
á skafheiðum kletti

svartur vængur
á himni

og kletturinn hreyfir
dulbúinn fugl

við flöktandi snertingu
augans

 

slær tíminn
vængjum.

Hér hafa vitanlega ekki öll einkenni skáldskapar Matthíasar verið talin, en summuna af bráðum fjörutíu ára höfundarferli hans má, að minni hyggju, líta í nýjustu bók hans, Vötn þín og vængur, sem kom út á síðasta ári. Í þessari bók birtist líka glögglega sá þáttur skáldskapar hans sem tengir hann einna best hinni rómantísku hefð, það er að segja hin meðvitaða uppreisn gegn skynsemishyggju upplýsingarinnar, gegn takmörkuðum aðferðum hennar til að lýsa heiminum og manninum. Þessi uppreisn birtist með skýrum hætti í ljóðstílnum, sem ég fjallaði um áðan. Og af sama meiði er það bókmenntalega eða skáldlega  — frekar en heimspekilega  — viðhorf að maðurinn skapar sér sífelldlega nýjan heim (og um leið sjálfan sig að nýju), að heimurinn sé skáldskapur. Sökum þessa var vonin í Jörð úr ægi ávallt bundin við skáldskapinn, orðið; þar var þess beðið eftir langa nótt að kveikt yrðu “orð nýs vors / í kalgráu túni.“ Og hér vex hugmynd okkar um nýja jörð “inní vængjaðan draum / um veröld sólar / í deiglu.“


6. apríl, sunnudagur

Í kvöld var sérstök dagskrá um sjónvarpsleikrit í Stöð eitt. Þar komu við sögu þrjú leikrit eftir mig, auk gamals samtals. Steinunn Sigurðardóttir benti sérstaklega á Glerbrot Kristínar Jóhannsdóttur sem er unnið upp úr Fjaðrafoki. Þótti vænt um það. Hilmar Oddsson lagði áherzlu á leikritið um Sjóarann o.s.frv. og þá miklu þýðingu sem það hefði haft fyrir hann sem leikstjóra. Þótti einnig vænt um það. Jón gamli var kvikmyndað eins og Þjóðleikhúsið sýndi verkið og varð þannig fyrsta íslenzka leikritið í sjónvarpi. Sýnt brot úr því. Auk þess sýndi sjónvarpið Ofelíu á sínum tíma, en ekki minnzt á það í þessum þætti. Mér þótti vænt um að á fyrrnefnd verk skyldi minnzt. Það er sem sagt ekki allt ort í öskuna(!)

Sjá Helgispjall (Alsnjóa)

Til Matthíasar.
Sól skín um borð og bekki
bjartari en ég þekki.
Annars er myrkur
manninum styrkur
meðan hann lagast ekki.

K. K.

7. apríl, mánudagur


Hef enn ort nokkur smákvæði:


Að lifa

Heyrast úr hjarta
þínu

hólmgöngu-
höggin.



Hugsjónamaður

Hugur minn
vígvöllur,
sagði ræðumaður.

Fallnar hugmyndir
rísa upp
eins og einherjar.


Ilmur


Öndum sólgulum
ilmi
við suðandi
skordýr,

bera ilm
frá einu blómi
til annars.


Kveðja


Blómin á gröf hennar
fjúka burtu

eins og líf okkar.


Leit


Himinn
í huga þínum

tungl,

hvenær verður fyrsta
sporið stigið ?


Tvö nöfn


Syngjandi lauf
á leið
til himna

á stofninum
hjarta
með tveimur
nöfnum

tvö nöfn
á leið til himna.



Tölvuguð

Tölvuleikur
í draumi þínum,

hugmynd um guð.


Þegar hárið fellur


Þegar indra
deyr
fellur hár
á loðnu
brjósti þínu

þannig höfum við
skilið eftir
marga guði
á ólíklegustu stöðum.


10. apríl, fimmtudagur


Héldum upp á 100 ára afmæli föður míns 5. apríl sl. Hittumst í Hótel Holti og borðuðum kvöldverð. Það var ágætt. Faðir minn var eins og Njáll á Bergþórshvoli: Maður með andstæðum sínum. Stundum naut hann sjálfur þessara andstæðna. Stundum nutum við þeirra. En oft þurfti hann að gjalda þeirra og oft þurftum við einnig að gjalda þeirra. Það sem var bezt í fari hans minnti á slípaðan demant. Það sem var verst í fari hans og hann réð ekki við, skaplyndi sem gat lent á heimili hans, tilhneiging til þunglyndis og freistingar sem hann réð ekki við eða öllu heldur sem hann hafði engan áhuga á að ráða við, minnti á grjótið í næsta nágrenni við demantinn og enginn getur unnið úr skartgripi eða dýrmæta steina. En þessi þáttur umhverfisins er kannski mikilvægari heldur en litlu gimsteinarnir sem þarf að slípa. Ef skortur væri á verðlausu grjóti en gnægð af gimsteinum fengi grjótið meira gildi, en verðfall yrði á demöntum.
Það var í þessu hversdagslega umhverfi sem faðir minn naut sín bezt. Hann hafði lítinn áhuga á hátíðlegum stellingum. Það áttu foreldrar mínir sameiginlegt. Samt var móðir mín alin upp á sýslumanns- og bæjarfógetaheimili, bæði austur á Seyðisfirði og einnig í Reykjavík.Auk embættis alþingisforseta. Viðhöfn og hátíðlegar stellingar voru umhverfi hennar, en hún var alltaf söm og jöfn.

Ég var spurður um það í útvarpsþættinum á páskadag hver væri boðskapur Sálma á atómöld.
Boðskapur,af hverju endilega boðskapur?
Ég veit ekkert um boðskap þeirra en ef hann er einhver þá er hann áminning um það að líf mannsins á jörðinni er fegurst í hversdagsleikanum. Það er í daglegu lífi sínu sem maðurinn ber tiginni mennsku sinni fegurst vitni. Það skyldi þó ekki vera að ég sé sósíalrealisti?! Að ég hafi einhverja tilhneigingu til þess sem kommúnisminn hampaði hvað mest í bókmenntum?!
Hvað sem því líður, þá gæti ég trúað því  að ég hafi sótt þessa hversdagslegu afstöðu í æskuumhverfi mitt; í þau daglegu átök sem voru hlutskipti okkar. Eini hátíðleikinn í bernsku minni og æsku var sá að við systkin fórum með foreldrum okkar að halda jólin í Suðurgötu 4 þar sem Jóhannes afi minn og Jósefína amma mín bjuggu. Þar kom fjölskyldan saman á jólum. Elín móðursystir mín saumaði okkur strákunum indíánabúninga og við tókum okkur vel út í indíánaleik þarna í Suðurgötunni á jólunum, Guðjón Lárusson læknir og Jóhannes geðlæknir Bergsveinsson.
Og svo frímúraraballið,því pabbi var einn æðsti frímúrari landsins.

Nei, ég man eiginlega ekki eftir öðrum hátíðarstundum á þessum árum, en það var oft hátíð hjá afa mínum og ömmu því Jóhannes bæjarfógeti var forseti Sameinaðs þings og bæjarfógeti í Reykjavík um langt skeið, en það var eitt helzta embætti í landinu á þeim árum. Þetta var sem sagt  veizluvant hús, þótt við kæmum ekki þar við sögu að jafnaði. Ég man mjög vel eftir mér á þessum slóðum, það var milli stríða, eða á 4. áratugnum. Engar áhyggjur, þær komu í lok þessa áratugar - eins og heimsstyrjöldin.
Jóhannes afi var bókstafstrúarmaður og hélt sig við barnatrúna eins og faðir minn. Talaði þó aldrei um trúmál,ekki frekar en hann. Þeir áttu það sameiginlegt. En gamall ekkjumaður fór hann í kirkju hvern einasta sunnudag og átti raunar eigið sæti í Dómkirkjunni.
Hanna hefur svipaða stöðu í Neskirkju,enda varaformaður sóknarinnar.

Móðir mín og Jósefína amma voru spíritistar. Þær fóru í Fríkirkjuna þegar Haraldur Níelsson prédikaði þar. Annars var séra Bjarni Jónsson heimilispresturinn. Ég orti um hann dálítið kvæði þegar hann lézt. Skrifaði auk þess langt samtal við hann á sínum tíma. Það var skemmtilegt. Þeir faðir minn voru miklir mátar. Það var óskaplega gaman að hlusta á þá reita af sér brandarana þegar þeir hittust. Það er til skemmtileg mynd af þeim saman.
Jóhannes afi spilaði stundum bridds við Lárus son sinn og tengdasynina, Bergsvein Ólafsson lækni og föður minn. Þeir voru allir tapsárir, gátu rifizt og gagnrýnt hver annan fyrir spilamennskuna. Líklega hefur hún verið heldur grátbrosleg, en ég man það þó ekki því að við strákarnir höfðum öðrum hnöppum að hneppa en að fylgjast með þessum átökum, eða ætti ég að segja heimiliserjum?
Afi gat æst sig við spilamennskuna, sagði annars fátt.Hann var einstakt ljúfmenni. Nærvera hans var eins og eitthvert lögmál, hann stjórnaði með þögn og nærveru.
Jólin voru tekin mjög alvarlega, einnig páskarnir en þó ekki með sama hætti. Það var líka skemmtilegt þegar fjölskyldan safnaðist saman á altaninu á gamlárskvöld, hlustaði á skipsflauturnar og fylgdist með flugeldasýningunni.
Þetta var í raun sannkristin fjölskylda og tók trú sína alvarlega.
Móðir mín trúði á Krist og framhaldslíf án helvítis, það var hérna megin grafar.
Ég er alinn upp í Kriststrú og ég hef oft hugsað um hann. Ég hugsa ekki sízt um hann þegar slys verða; þegar aðrir eiga bágt. Mér er til efs það sé hægt að eiga bágt nema í honum. Hugsunin um hann veitir líkn og frið. Það hafa orðið mörg slys undanfarið; ótrúleg slys.
Ung kona keyrði á staur í Borgarfirði og 6 ára gömul einkadóttir hennar dó í slysinu. Hún hafði misst mann sinn þegar telpan var þriggja ára.
Hvernig getur þetta gerzt?
Hvernig má þetta vera?
Hjón með lítið barn sitt í bílnum lenda í hörkuárekstri í hálku á veginum milli Vífilsstaða og Hafnarfjarðar. Hjónin liggja enn meðvitundarlaus í sjúkrahúsi, að ég held, en barnið er eitthvað að braggast.
Hvernig getur þetta gerzt?
Hvernig má þetta vera?
Hugur minn hverfur til Krists, þar hvílist hann þegar hann ýfist eins og hafrót andspænis slíkum ósköpum.
Ung stúlka, 21 árs gömul, fer hjálmlaus í útreiðartúr, hesturinn fælist, hún fær höfuðhögg og deyr.
Falleg, ung kona, ef marka má mynd í Morgunblaðinu í morgun.
Hvernig má þetta vera?
Ég hvíli huga minn í Kristi vegna þess að ég get ekki fengið nein svör við spurningum mínum; get ekki látið þessu syrgjandi fólki neina aðstoð í té.
Tveir flugmenn á bezta aldri skreppa í klukkustundar listflug, en vélin hverfur í hafið út af Straumsvík. Enn hefur flakinu ekki verið náð upp, veðurguðirnir leyfa það ekki.  Syrgjandi fólkið verður að bíða enn um stund áður en það heimtir ástvini sína úr þessu hrollkalda hafi.
En hvernig getur þetta gerzt?
Hvernig má þetta vera?
Ég veit það ekki, skil það ekki. Enginn skilur það. Eina leiðin að hvíla hugann í Kristi.

Hver var hann þessi maður, þessi guðssonur, hver var hann þessi Kristur?
Var hann ljós heimsins? eins og hann sagði sjálfur.
Það eitt er víst að þetta ljós hefur ekki slokknað í 2000 ár. Það segir líklega allt sem segja þarf. Þessi maður var ekki guð hégómans og hátíðahaldanna.
Hann var guð hversdagsleikans.
Þó að hann hefði aldrei verið til eins og Nýja testamentið lýsir honum, þá hefðum við búið hann til af þeirri einföldu ástæðu að við höfum þurft á honum að halda í þögninni miklu milli okkar og Guðs.
Ég leita ekki líknar í upprisu hans og fyrirheitinu um eilíft líf, heldur miskunnsemi hans og kærleika.
Eins og ormur bý ég um mig í grænu laufi og veit að það þolir þetta nábýli illa, en tréð á nóg af laufi og það vex ár hvert undir sólbláum himni og ég bíð spenntur eftir myndbreytingu ormsins án þess hugsa um hverju tréð fórnar.
Í þessu sambýli laufs og orms verður myndbreyting sem sækir forsendur sínar í andstæður sem hljóta að eiga sér einhvern tilgang.
Þannig erum við lifandi vitnisburður um andstæðurnar í eðli okkar, en þær eru helzta vísbendingin um sálræn átök og innra líf.
Það er í þessum eldi sem maðurinn fæðist, herðist.
Og Kristur hefur tekið að sér að skila þessum eldi á ólympíuleikvang annars heims. Og í honum mun ormurinn brenna. Og af honum mun ormurinn rísa með sína glitrandi vængi.

Eður hvat?

Já, afbrýðissemi, ég var eitthvað að minnast á hana.
Ég sé að ég hef punktað niður nokkur atriðu um þetta efni í Discovery  sem hefur legið á gólfinu við rúmið mitt. Athugasemdirnar eru skrifaðar á blöð með heilsíðuauglýsingum sem eru með auðu plássi og því upplagðar fyrir svona minnisatriði:
Þegar ég hugsa um afbrýðissemi minnist ég miðaldariddara sem verða vegna stolts síns og metnaðar að sigrast á andstæðingi sínum þótt þeim sé vel til hans, með þeim hætti sem rándýrið sleikir bráð sína.
Campbell segir í fyrirlestri að miðaldariddari sem lenti í útistöðum við keppinaut sinn hafi oftar en ekki borið til hans hlýjan hug.
Hitt er einnig athyglisvert sem Campbell minnist á, að goðsögnin er hinn mikli innblástur og raunar hreyfiafl allrar æðri menningar. Hún á rætur í náttúrunni. Maðurinn líkir eftir henni, dregur ályktanir af henni. Hún eflir með honum nýjar hugmyndir. Og af henni vex ný menning. Fyrir 2-3000 árum líktu menn jafnvel eftir himintunglunum og hurfu inn í grafir og dauða eins og þegar tunglið hverfur af himni og stjörnur falla í valinn. Slíkar fjöldagrafir fólks sem kaus dauðann til þess að geta vaknað aftur til nýs lífs eins og himintunglin hafa meðal annars fundizt í Úr þar sem Abraham bjó um skeið.

Frummaðurinn fékk óttablandinn áhuga á nágrönnum sínum, dýrunum, og líkti eftir þeim í buffalódansi og fleiri uppákomum. Og hann át þessa nágranna sína. En það gerði hann í þeirri trú að þeir mundu lifa í nýjum dýrum eða rísa upp í þeim?
Mannfórnir voru einnig tíðkaðar eins og á eyjum Kyrrahafsins þar sem ungir menn urðu hausaveiðarar af einfaldri ástæðu: þeir fengu ekki konu fyrr en þeir gátu lagt með sér höfuð af manni sem síðar endurfæddist í nýju barni.

Kvöldið


Hátíðleikinn og hversdagsleikinn, já.

Það var hátíðlegt þegar við fermdumst. Það voru að vísu mikil átök þegar Jósefína systir mín fermdist í Dómkirkjunni vegna þess að faðir minn var ekki á heimilinu og þá tíðkaðist að aðstandendur stóðu upp um leið og presturinn fermdi barnið. 
Móðir mín og systir óttuðust það versta sem fyrir gæti komið, að faðir minn stæði upp á einum stað í kirkjunni og við annars staðar og þannig yrði öllum ljóst, hvernig ástatt var á heimili okkar
Þetta var einmitt það sem gerðist.
Ég man að vísu ekki alltof mikið eftir þessari athöfn enda hef ég ekki verið meira en átta eða níu ára gamall.
Þegar ég fermdist var faðir minn aftur kominn heim og allt fallið í ljúfa löð. Það var því engin ástæða til að kvíða minni fermingu enda var hún bæði ánægjuleg og viðburðarlaus.
Í raun og veru man ég harla lítið eftir þessum hátíðlegu stellingum þarna í Dómkirkjunni en þó þykist ég nokkurn veginn viss um að séra Bjarni fór með þessi orð þegar hann fermdi mig:
Vertu trúr allt til dauðans og þú munt öðlast kórónu lífsins.
Ég hef reynt að vera eins trúr og ég hef getað. En það getur enginn verið alltaf trúr, eða öllum trúr. Auk þess getum við verið trú okkur sjálfum en ótrú öðrum. Ég tel mikilvægast að vera trúr sjálfum sér; fylgja hjarta sínu. Þá ætti maður að fá eitthvað fyrir viðleitni.

11. apríl, föstudagur


Svohljóðandi klausa birtist í Velvakanda um daginn:
“Við heitum Atli og Védís 9 og 6 ára. Við erum á móti því að það sé verið að gera grín að biblíusögum, að síðustu kvöldmáltíðinni og svoleiðis vegna þess að Jesús er heilagur og góður maður og grínið, það er sýnt á almannafæri úr Spaugstofunni. Grín að Jesú er yfirleitt rangt. Okkur fannst þetta ekkert fyndið”
Skemmtilegt!

Svofelld klausa birtist í Alþýðublaðinu í morgun undir fyrirsögninni
“Mogginn kærður fyrir guðlast”
“Ríkissaksóknara hefur borist kæra vegna greinar í Morgunblaðinu frá árinu 1995. Í bréfi kærandans, Sigurðar Þórðarsonar ásatrúarmanns, til Hallvarðar Einvarðssonar ríkissaksóknara segir:
“Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum landsins hafið þér gengið óhikað fram fyrir skjöldu gegn guðlasti eftir fund yðar með biskupi Íslands í einu af baðhúsum borgarinnar. Öllu réttsýnu fólki er ljós nauðsyn þess að sporna við guðlasti og hvet ég yður til að láta ekki deigan síga.”

Sigurður segir um að ræða grófasta guðlast sem hann hefur séð, og hann vitnar orðrétt í Morgunblaðið frá 29. júlí 1995, en þá var eftirfarandi texti í Orði dagsins:
“Þeir sem búa til goðalíkneski, eru hver með öðrum hégóminn einber, og dýrindissmíðar þeirra eru að engu liði. Vottar slíkra guða sjá eigi og vita eigi, til þess að þeir verði sér til skammar.” (Jesaja 44, 9)
Sigurður segir þessi orð hafa sært trúartilfinningu sína og að á heimili hans séu mörg goðalíkneski. Í niðurlagi bréfsins segir:
“Til að auðvelda embættinu að setja sig í spor þeirra er undir ámælinu sitja getið þér sett orðið kristlíkneski í stað goðalíkneski og guð í stað slíkra guða og er þá augljóst að ákært hefur verið og dæmt af minna tilefni.”

Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari sagðist kannast við að málið hefði borist embættinu.”
Óskemmtilegt!Virðing mín fyrir arfleifð ásatrúar er mikil og ég vil hlú að henni og rækta.En gleymum því ekki það voru  kaþólskir rithöfundar sem varðveittu hana í skrifum sínum.Og við eigum að vernda hana,því að hún er rótlægt upphaf íslenzkrar menningar.

Ég er viss um að skurðgoðadýrkun Íslendinga er svo komið að við yrðum kærðir fyrir guðlast ef hallað væri á forsetann í Morgunblaðinu! Það eru margir íslenzkir skurðgoðadýrkendur.
Og enn fleiri manndýrkendur, því miður.


Kvöldið


Borðaði með Kristjáni Karlssyni í dag. Ágætt að venju. Hann sagði mér frá því að hann hefði kynnzt heimili Ólafs Thors og Ingibjargar á sínum tíma. Þá bjó Pétur Benediktsson,, tengdasonur þeirra ,á heimilinu. Ingibjörg tók Kristjáni vel. Hún bauð honum til stofu þegar hann kom í heimsókn og þeir Pétur fengu sitt viský. Ólafur rak inn nefið og sagði þá gjarna,
Þið eruð að drekka viskýið mitt! Einstaka sinnum fékk hann sér slurk - og lét
þar við sitja.
Þetta lýsir Ólafi vel. Hann var maður hversdagsleikans en ekki hátíðahaldanna. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur. Hann átti öðrum fremur til að bera hversdagslega einlægni. Með henni gat hann aðlagað sig umhverfinu eins og kamelljón.


13. apríl, sunnudagur

Helvíti er á jörðinni. Því er rækilega lýst í bók rússneska rithöfundarins Edvard Radzinskys, Stalín. Hann byggir hana á skjalarannsóknum eftir fall Sovétríkjanna. Hann kann vel til verka enda vinsælasti leikritahöfundur Rússa, að Chekhov einum undanskildum. Hann er einnig þekkur sagnfræðingur. Hann vann í aldarfjórðung að hinu mikla riti sínu Síðasti Zarinn .

 Radzinsky vitnar m.a. í þessi orð Leníns,
Haldið þið að það sé hægt að framkvæma byltingu án þess að drepa fólk(!)

Bókin um Stalín er mögnuð. Og hún staðfestir það sem vitað er: það var ekki hægt að framkvæma kommúnisma án daglegrar ógnar. Þetta skildi Búkharin ekki, en Stalín kunni góð skil á þessum sannindum. Terror  var undirstaða stjórnsýslu hans og valds. Hann kunni skil á stjórnmálum en lagði litla sem enga áherzlu á efnahagsmál.


Stundum er sagt að peningar séu afl þeirra hluta sem gera skal. Stalín leit ekki svo á. Aflið sem hann notaði var ógn. Og fólkið fékk daglegan skammt af þessari ógn. Hún var eins og fíkniefni, brenglaði dómgreind og veruleikaskyn.

Þykir athyglisvert það sem Radzinsky segir um dauða eiginkonu Stalíns. Hann hefur séð í gömlum skýrslum að hún hafi þjáðst af innvortis meini. Hann varpar því fram hvort hún hafi stytt sér aldur af þeim sökum. Hann er þess fullviss að Stalín hafi ekki átt hlut að dauða hennar. En daður hans hefur ef til vill flýtt fyrir henni. Það veit samt enginn.
Þess vegna finnst mér ég hafi haft leyfi til þess að drepa á það í Spunnið um Stalín eins og þar er gert ;með skáldlegu ívafi.
Ást og afbrýðssemi eru alltaf jafn kraftmikið hreyfiafl í skáldskap. Minnir á ógnarstjórn Stalíns sem var hreyfiafl sovézkrar sögu.

Kvöldið


Var um daginn að horfa á heldur lausbeizlað leikrit um eitthvert tilbúið fólk sem mér leiddist. Dottaði. Minnir á söguna um bandaríska skáldið Carl Sandburg. Ungt leikritaskáld bað hann um að koma á æfingu á leikriti eftir hann. Sandburg varð við þeirri ósk. En hann sofnaði á sýningunni. Ungi leikritahöfundurinn reiddist og sagði, Hvernig gastu sofnað fyrst ég bað þig um að koma og segja skoðun þína á sýningunni.
Ungi maður, svaraði Sandburg, svefn er skoðun.

Útópíur eiga heima á leiksviði og eru skemmtilegar ef vel er að verki staðið. En það er óskemmtilegt þegar þær breytast í ógnlegan veruleika eins og í Sovétríkjunum.

Í dag var haldið hátíðlegt 40 ára vígsluafmæli Neskirkju. Fórum þangað. Þorsteinn Pálsson prédikaði. Hann flutti mjög góða ræðu. Hann minnti meðal annars á að gildi alls starfs, bæði í söfnuði og annars staðar, færi ekki sízt eftir því hvað fólk legði sjálft upp úr því; þetta ætti einnig við um samfélagið því þetta er að sjálflsögðu alveg rétt. Og af þessum sökum er mikilvægt að leggja mikið upp úr arfleifð okkar og þjóðerni; og þá ekki sízt arfleifð kirkjunnar. Hún hefur átt þátt í að vernda menningu okkar og tungu. Þorsteinn minnti á ritgerð eftir Guðmund Finnbogason þar sem hann talar um fjölskrúðugt jurtalíf í Öxarhólma í Soginu. Þar væri hið fullkomna samræmi vegna þess að náttúran hefði verið látin í friði. Þar hefði náttúran sjálf fengið frið til þess að flétta gróðurinn inn í umhverfið svo að eftirminnilegt er. Það væri einnig hlutverk kirkjunnar að leita þessa samræmis og flétta inn í sinn umhverfisveruleika það sem ýtir undir þetta samræmi og varðveitir það.
Sem sagt, góð ræða hjá kirkjumálaráðherra. Og ég þarf endilega að koma mér með einhverju móti útí Öxarhólma. Það verður ef til vill hægt ef við förum einn dag í Sogið í sumar, hver veit?

Prestfrúin sagði mér að hún saknaði hálfpartinn Hruna. En þar voru þau sr. Halldór Reynisson í 9 ár ef ég man rétt. Ég sagði henni að ég hefði komið þangað drengur með móður minni því að Sigríður kona sr. Kjartans í Hruna hefði verið föðursystir hennar. Ég man afar vel eftir þessari ömmusystur minni. Hún var eins og þetta fólk allt, einhvers konar ljós. Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, sonur hennar var einnig með því marki brenndur, en honum kynntist ég nokkuð vel og einnig Elínu systur hans. Mig rámar í þessar ferðir okkar í Hruna þótt ég hafi ekki verið nema fimm sex ára gamall, eða svo. Við fórum einnig síðar í Hruna. Þá fórum við Hanna með Margréti og Þórbergi Þórðarsyni að heimsækja Ölmu og sr. Sveinbjörn í Hruna. Alma er bróðurdóttir Mömmugöggu. Það var eftirminnilegt ferðalag. Ragnar lánaði okkur jeppann sinn. Frægasta jeppa landsins fyrr og síðar. Hann var svosem ekkert nýnæmi og þegar við ókum upp Hreppa fór að sjóða á honum. Það gaus mikill reykur úr vélarrúminu og ég stöðvaði bílinn. Þórbergur fékk hálfgert sjokk, opnaði dyrnar og rauk út úr bílnum. Ég kannaði málið, sá hvernig komið var og sótti vatn í næsta skurð. Þórbergur náði sér og við héldum áfram. Okkur var tekið með kostum og kynjum í Hruna og þar skemmtum við okkur fram undir morgun og þá ekki sízt með því að blóta Bakkus konung undir drep. Það var á þeim árum þegar maður varð ekki timbraður og þoldi nokkuð mikið án þess það syði á vélinni!! Við fórum svo í bæinn næsta dag og gekk allt vel.
Það var gaman að kynnast sr. Sveinbirni. En ég sá hann ekki nema tvisvar eða þrisvar eftir þetta. Svo var það einhvern tíma í vetur að sjúkrabíll kemur að húsi Þórhalls bankastjóri Tryggvasonar um miðja nótt. Þórhallur býr handan götunnar á Reynimel. Við vissum ekki hvað hafði gerzt en það er ævinlega dramatískt að upplifa lögreglubíla og sjúkrabíla við íbúðarhús um miðjar nætur. Það höfðum við einnig gert þegar Jóhannes sýslumaður Barðstrendinga lézt í íbúð sinni, einnig handan götunnar. Það var svo ekki fyrr en tveimur dögum síðar sem ég fékk að vita hvað hafði gerzt. Bekkjarfélagar Þórhalls höfðu komið saman að gera sér dagamun og taka í spil. Ég held þeir séu allir komnir undir áttrætt, en ernir vel og get ég vart séð neinn mun á Þórhalli frá því við fluttumst hingað í götuna fyrir þriðjungi aldar. Í miðri spilamennskunni segir sr. Sveinbjörn, Grand - og fellur svo örendur fram á borðið. Það er varla hægt að deyja með meiri reisn(!) Það er ekki á hverjum degi sem menn spila við dauðann með grand á hendi.


Miðnætti


Fór að hugsa um ástina og órannsakanlega vegi hennar. Hún ræður yfir okkur, en við ekki yfir henni. Hún stjórnar. Hún er örlögin sjálf í öllu sínu veldi. Ég las Kristínu Lavransdóttur eftir Sigrid Undset í fyrra og hef fylgzt með norskum sjónvarpsþáttum sem hafa verið samdir upp úr þessari athyglisverðu skáldsögu. Hún er fallega skrifuð, ljóðræn og breið eins og lygn á. En það er brotalöm í Kransinum.  Kannski gerir það ekkert til. Það er oft brotalöm í lífinu. Það kemur okkur í opna skjöldu, spyr einskis en ræður. Í Kransinum segir,
Ástin semur ekki lög, hún brýtur þau(!)
En það eru takmörk - og þó(!)
Hvað skyldi ástin og ástríðan bera ábyrgð á mörgum óhæfuverkum? Jafnvel morðum? Svo að ekki sé nú talað um alla þá ógæfu sem hún hefur oft haft í för með sér. Samt er hún sætleikinn sjálfur. Ávöxturinn forboðni, höggormurinn sem braut lög og reglur í Garðinum forðum daga.
Guð ræður ekki við hana, jafnvel ekki hann. Ótemjuna miklu sem enginn ræður við. Fljótið breiða sem fellur í ljóðrænni kyrrð að þögn og kærleika.

Ódagsett, apríl


Flutti svofelldan fyrirlestur um Laxness í Norræna húsinu í tilefni af 95 ára afmæli hans.


Halldór Laxness,fyrirlestur

Á minnisblöðum mínum segir svo, 10. október 1971: “Halldór Laxness er samþykkur því að ég skrifi "snotra bók" úr greinum mínum og samtölum við hann. Laxness býðst til að fara yfir handritið, "-því að menn gætu hugsað eftir 100 ár að maður hafi verið alveg óskaplega heimskur, ef höggstaður væri". Hann virðist hugsa um það hvernig menn líti á hann eftir 100 ár - eða jafnvel 1000 ár(!)”
Hinn 9. janúar 1972 bæti ég við þessum athugasemdum: “Halldór Laxness hringdi til mín í dag og lék á als oddi. Hann sagðist hafa farið yfir síðasta handritið að samtalsbók okkar í dag og gær og þetta "væri alveg ágæt bók". Við þyrftum að reisa okkur bautastein fyrir framtíðina!! Ég sagði, Þú ert búinn að reisa þér þinn, ég á minn eftir. Þá hló hann. Hann sagðist ætla að gera nokkrar breytingar á handritinu, lagfæra það svolítið, því að maður hugsar öðruvísi og betur á prenti en í samtölum, sagði hann. En þetta er að verða alveg ágætt, bætti hann við. Bókin verður að vera klassískt verk, sagði hann enn. Hann talaði um að hún væri mátulega stór. Ég var sammála því. Ég bað hann fyrir alla muni um að lagfæra það sem þyrfti. Ég hef skrifað suma kaflana þrisvar, aðra fimm sinnum. Sumir hafa birzt á prenti. Laxness var sammála mér í því að textinn þyrfti að nálgast gott talmál eins mikið og unnt væri, eða "fljótandi talmál" einsog hann komst víst að orði. Hann sagði að slíkt talmál gæti verið bókmenntalegra en sumt bókmál - og er ég honum alveg sammála um það. Þetta sér maður á góðum replikum í leikritum.

Jæja, en sem sagt: Laxness lék á als oddi. Hann hefur geysilegan áhuga á bókinni og við höfum lagt báðir eins mikla vinnu í hana og unnt hefur verið. Undirstaða hennar hefur verið lögð á mörgum árum en nú þarf að pússa húsið að utan og innan og leggja síðustu hönd á það.”

Og enn segi ég á minnispunktum mínum 12. febrúar 1972: “Skilaði annarri próförk af Skeggræðum gegnum tíðina í gær. Líklega verður þetta nokkuð snotur bók enda mikil vinna á bakvið hana af beggja hálfu. Fyrst er sumt skrifað þrisvar, fjórum sinnum og loks birt í Morgunblaðinu (Barn náttúrunnar, Gerpla, Logaritmi og Innansveitarkronika) en nú endurskoðað og dálítið breytt. Þá eru einnig hafðir til hliðsjónar kjarnarnir úr samtölum okkar í útvarpi og sjónvarpi, en auðvitað breytt, endurskoðað og margskrifað. Samtöl af segulbandi eru versta hráefni sem hægt er að fá til að vinna sæmilegan talmálstexta á bók. Nú, ég vona að styrkur bókarinnar sé meðal annars sá að hún sé vel saman sett, þ.e. kompóneruð, og svo auðvitað það hvernig Laxness kemur til dyranna, ef svo mætti segja. “

Í apríl 1982 er ég enn að hugsa um samtöl okkar Halldórs og punkta þá hjá mér svofelld minnisatriði um samstarf okkar: “Ég var að reyna að segja eitthvað við þá í símann og þeir voru eitthvað að spyrja mig um þau þáttaskil sem urðu 1952 í samskiptum Halldórs og Morgunblaðsins þegar ég fékk viðtal við skáldið um Gerplu sem þá var nýkomin út. Ég sagði þeim að ég hefði verið stoltur yfir því að hafa átt þátt í að Halldór varð sjálfsagður gestur í sínu gamla blaði og Valtýr Stefánsson fagnaði því þegar þetta samtal birtist og múrinn milli Halldórs Laxness og Morgunblaðsins var brotinn niður. Síðar átti ég mikil samskipti við Halldór, m.a. meðan Bjarni Benediktsson var ritstjóri Morgunblaðsins á árunum 1956-59. Bjarni var mjög ánægður með að Halldór væri aftur kominn í Morgunblaðið en mér þótti dálítið skemmtilegt að eitt sinn þegar ég sagðist ætla að hitta Halldór, sagði hann og brosti, Berðu þig vel, Matthías minn, og farðu ekki skríðandi. Hef skrifað fjölmörg samtöl við Halldór og unnið að Skeggræðum gegnum tíðina með honum. Það var harður skóli fyrir ungan mann en að mínu viti nauðsynlegur og ég hef aldrei haft annað en ánægju af samstarfi við Halldór. Hann hefur alltaf tekið mér vingjarnlega og viljað úr öllu greiða. Og ekki hefur Auður spillt fyrir eins og hún hefur alltaf tekið mér og okkur Hönnu báðum. Halldór hefur að sjálfsögðu verið aðhaldssamur og nokkuð harður leiðbeinandi enda sagðist hann ekki vilja að Skeggræðurnar yrðu þannig að framtíðin héldi að tveir vitleysingar hefðu verið að tala saman. Ég sagði víst einnig að það væri nauðsynlegt ungu fólki að gera sér grein fyrir því hvernig menn eins og Halldór vinna og það fer ekki hjá því að slík vinnubrögð síist inn í þá sem kynnast þeim. Ég hef auðvitað alltaf kviðið fyrir að skrifa samtöl við Halldór; kviðið fyrir því hvernig ég gæti skilað þeim svo honum mislíkaði ekki. Ég hef þurft að bíta á jaxlinn, hef þurft að herðast í eldi, en samstarf okkar hefur borið árangur og það eitt skiptir máli.”

Svo mörg voru þau orð. Ég hef áður komizt að orði eitthvað á þá leið að þegar tveir ráðríkir og fyrirferðarmiklir menn eiga í hlut geta orðið allmiklar sviptingar í samtölum og hvílir þá allur þunginn á þeim sem skrifar, að hann skili sannfærandi samtali sem viðmælandi tekur þátt í af lífi og sál unz textinn er frambærileg niðurstaða af miklu starfi - og helzt einhverjum innblæstri. Í þessu nána samstarfi er hætta á mistökum sem leyna sér ekki í textanum, jafnvel einhverjum árekstri. Spyrillinn verður að vera kurteislega ýtinn, en umfram allt nærgætinn. Hann verður jafnvel að tileinka sér auðmýkt, og vera reiðubúinn að fórna sér og leyfa spyrðlinum að blómstra, enda er til þess ætlazt, þó að engin ástæða sé til þess endilega að spyrillinn skrifi sig út úr samtalinu því hlutverk hans sem söguritara getur verið harla mikilvægt í verkinu sjálfu, ef hann skiptir þá einhverju máli á annað borð. Uppkastið á aldrei að vera lokaorðin; heldur upphaf langrar torsóttrar leiðar.

Í samtölum ber að forðast feilnótur. Það verður ekki gert með djöfullegri tækni segulbandsins. Það verður ekki gert með hraðritun eins og sumir skrifarar Alþingis puðuðu við í gamla daga. Það er heldur ólistrænn texti sem frá þeim kom, enda ekki tilefni til neinna afreka í ritlist. Sem þingskrifari lærði ég aldrei þessa kúnst. Þingmenn þurfa svo sannarlega á vandaðri vinnubrögðum að halda.
Eina ráðið til að forðast feilnótur í samtölum er upplifun sem nálgast æði eins og þegar listmálari festir fyrirmynd á léreft. Handbragð og innlifun listamannsins skiptir öllu máli. Og svo vinnan sem er
Guðs dýrð, eins og segir í mikilli bók.

Halldór Laxness hefur sagt að orð séu dýr, ég kynntist þessu vel í samtölum okkar og ekki síður því hvernig hann ætlaðist til að töluðu máli væri breytt í frambærilegan texta þegar það væri prentað. En öðru máli gengdi að sjálfsögðu þegar samtal færi fram í útvarpi eða sjónvarpi þá yrði að láta sitja við orðin tóm, ef svo mætti segja, og ástæðulaust að reyna að þurrka út málkæki fólks. En þeir færu illa á prenti. Væru raunar óprenthæfir.
Þegar ég átti fyrsta sinn samtal við Halldór, ungur blaðamaður, hafði ég tilhneigingu til þess að líkja sem mest eftir orðalagi hans og orðfæri og hafði m.a. sett nokkur sko á víð og dreif í samtalið, eða þar sem mér þótti fara vel á því til að auka á eðlilegan blæ þess. Þegar ég kom með handritið til Halldórs hrökk hann við. Hann var ekki á því að málkækir ættu að vera á prenti og flutti yfir mér langa ræðu þess efnis. Við sátum í skrifstofu hans á 2. hæð í Gljúfrasteini og þar fóru fram öll þau samtöl okkar sem birt hafa verið í Morgunblaðinu, Skeggræðunum í gegnum tíðina og  ritgerðarsöfnunum Bókmenntaþættir og Félagi orð. Halldór leiddi mér fyrir sjónir að íslenzka sko-ið væri dönsk sletta sem helzt ætti að forbjóða  eða banna eða banna í íslenzku ritmáli þótt bæði hann og aðrir notuðu það til uppfyllingar í talmáli og sagði raunar að á prenti nálgaðist orðið danskan uppruna sinn en á því máli væri sgu einskonar blótsyrði eða þaðan af verra (svei mér eða svei þér!)
Halldór tók mér ávallt hlýlega og við áttum einlæg og góð samtöl en hann gat verið hornóttur ef honum mislíkaði og lá ekki á skoðunum sínum ef spyrillinn var með einhverjar æfingar sem honum líkaði ekki. En hann var samfélagsgóður eins og hann segir um Pétiuir Jakobsson, fasteignasala og hagyrðing, sem hann talar um í einni minningarskáldsagna sinna,en við hann hafði ég skrifað langt  skringilegt samtal,þar sem skáldið kemur við sögu.
. Mér er sérstaklega minnisstætt hvað hann talaði mikið og lengi um íslenzka orðið tilvik, einnig annað orð sem hann taldi vera norskt og kæmi íslensku helzt ekki við; það var orðið forvitnilegur. Hann vildi nota í þess stað íslenska orðið hnýsilegur. Hann var þess fullviss að forvitnilegur ætti ekki heima í íslenzku vegna síns norska þjóðernis sem hann taldi að væri einkenni þess. Mér er ekki kunnugt um hvers vegna Halldór hafði ofnæmi fyrir þessu orði, tel þó að honum hafi ekki fundizt það fara vel í íslenzku, a.m.k. ekki í prentuðu máli. Þá vildi hann nota orðið tilfelli í staðinn fyrir tilvik og var svo hatrammur gegn þessu orði að hann kallaði notkun þess tilviks- íslenzku og óskaði eftir því við mig að ég notaði það ekki í samtölum okkar.

Þegar ég var að skrifa ritgerðina Málþing um Guðsgjafaþulu sem birtist í Bókmenntaþáttum 1985 sagði Halldór Laxness m.a. í löngum samtölum okkar um þessa sérstæðu skáldsögu: “Tilvik kemur aðeins einu sinni fyrir í fornum ritum samkvæmt Fritzner, svo og hjá Hallgrími Péturssyni, en hjá honum virðist það tákna hrekk. Tilvik merkir líka hrekk í nútímamáli, sbr.: Hann ætti skilið að fá kinnhest fyrir tilvikið”.
Þegar við töluðum nánar um tilviks-íslenzku, sagði Halldór Laxness að einkenni hennar væri það, að “íslenzkt orðskrípi er búið til, fornyrði grafið upp, í því skyni að forðast dönskuslettu þó að “dönskuslettan” sé jafn gömul íslandsbyggð eins og orðið “tilfelli”.” “Hann bætti því við að “tilvik” kæmi einungis fyrir í Konungsskuggsjá og Fritzner þýddi það með “tilfelli”. Eins og kunnugt er var Konungsskuggsjá rituð í Noregi á 13. öld. Orðið “forvitnilegur” var tekið upp úr nýnorsku fyrir um 25 árum. “Hyperkorrekt mál (tilviks-íslenzka) er áþreifanlegt dæmi þess þegar menn ætla að gera betur en vel, þá fer oft verr en illa”, sagði skáldið.
Halldór bætti því við að hyperkorrekt orðalag væri mjög tíðkað af blaðamönnum eins og hann komst að orði, en þeir væru sérfræðingar í tilviks-íslenzku. Lengst væri líklega hægt að ganga í þessari tegund texta með því að tala um “forvitnilegt tilvik.” Enginn vissi aftur á móti hvort það væri norska eða nútímaíslenzka! En líklega stæði það í einhverjum tengslum við “hreintúngustefnu”.

Þýðingar eru sérlega viðkvæmar og hverjum blaðamanni íhugunarefni. Ég minnist þess að hafa fengið til afgreiðslu grein á ensku sem fór um hendur Halldórs Laxness vegna tengsla hans við höfundinn. En þýðandi Morgunblaðsins snaraði henni á íslenzku og fékk skáldið þá gerð í hendur áður en greinin birtist. Hún var ágætlega þýdd og raunar betur en gengur og gerist en skáldið lagaði þó ýmsar setningar og gerði það gæfumuninn. Í þýðingunni stóð t.a.m.: Faðir hans var drykkfeldur og erfiður á heimili, en þegar ég fékk greinina aftur hafði Halldór breytt þessu svo: Faðir hans var drykkjumaður og erfiður á heimili. Önnur dæmi: Oft var naumt til hnífs og skeiðar... varð: Höfðu naumast til hnífs og skeiðar... Móðirin var fíngerð kona og var ekki sköpuð til að lifa slíku lífi.... breyttist í: Móðirin var fíngerð kona og ekki löguð til slíkra ævikjara... í meðferð skáldsins. Hún féll algerlega saman og varð óvinnufær... varð: Hún þoldi algert niðurbrot og varð ófær til vinnu. Hún hafði ekki efni á að taka drenginn einnig... varð: Hún hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að bæta drengnum á sig að auki. Hluti sem hann hafði af glöggskyggni sinni bjargað úr þakherberginu og úr kjöllurum... breytti skáldið í: ofanaf hanabjálkum og kjöllurum, en þó með þessari athugasemd: “Hanabjálki” er að vísu danskkynjað orð, betra væri hið íslenzka “ofanaf þverbitum” en vafasamt það skiljist.
Augljóst er að allar eru breytingarnar til batnaðar. Íslenzk tunga er mikill og vandmeðfarinn  galdur.

Ég þurfti að sjálfsögðu, eins og ég get um á fyrrnefndum minnisblöðum, að bíta á jaxlinn þegar ég hitti Halldór Laxness fyrsta sinn og átti við hann samtal fyrir Morgunblaðið. Þá hafði hann um nokkurt skeið verið á öndverðum meiði við blaðið og tekizt á við ritstjóra þess. Ungur hafði hann aftur á móti skrifað mikið í Morgunblaðið og Lesbók þess og átt gott samstarf við forráðamenn þess. En það slóst upp á vinskapinn í upphafi kaldastríðsins. Þá var hatrömm pólitík einkenni allrar umræðu á Íslandi eins og kunnugt er og leiðir Halldórs og Morgunblaðsins skildu. Ungum blaðamanni var mér því vandi á höndum að reyna að skrifa Halldór Laxness aftur inn í blaðið á fyrra hluta sjötta áratugarins enda var það ekki vanzalaust að þessi mikli rithöfundur ætti þess ekki lengur kost að vera gistivinur síns gamla blaðs. En þegar ég kom í Gljúfrastein og hitti Halldór að máli varð mér þegar ljóst að ég þurfti engar áhyggjur að hafa af væntanlegu samstarfi okkar. Hann tók mér ljúfmannlega og við áttum vinalegt og hlýtt samtal sem var upphaf þeirra fjömörgu stunda sem við áttum saman og höfnuðu sumar hverjar í Skeggræðum gegnum tíðina,  eins og kunnugt er. Þau samtöl eru unnin upp úr því sem ég hafði áður skrifað um Halldór í Morgunblaðið en þar er einnig stuðzt við samtöl okkar bæði í útvarpi og sjónvarpi, eins og ég gat um áðan. Það var því mikil vinna fyrir höndum þegar Ragnar í Smára ákvað að Helgafell gæfi út þessa bók með samtölum okkar  gegnum tíðina en nafnið á henni er uppástunga Halldórs sjálfs og þá hafði hann engar áhyggjur af tengslunum við danska tungu þegar nafnið var ákveðið.

Halldór Laxness hefur sjálfur lagt mikið upp úr samtölum í ritverkum sínum. Ég hef reyndar haldið því fram annars staðar að það afrek hans sé ekki sízt mikilvægt að nota listrænan galdur sinn til að semja samtöl í skáldverkum sem eru sérstakt tungumál og líklega hvergi til nema í þessum verkum. Það mætti í raun og veru kalla þessi samtöl kiljönsku því í þessum verkum talar fólk þá sérstæðu og eftirminnilegu íslenzku sem að minni hyggju hefur hvergi verið töluð annars staðar en í  þessum miklu bókmenntum. Það eitt út af fyrir sig sýnir ekki sízt þau listrænu tök sem Halldór Laxness hefur öðrum fremur á tungu okkar. Það hefur því ekki verið lítil áskorun að vinna með honum þann texta sem stendur svart á hvítu í Skeggræðunum. En auk þeirra samtala sem þar eru skrifaði ég einskonar samtals-esseyur til að gera frekari grein fyrir ritstýrðum skáldsögum hans, Innansveitarkroniku og Guðsgjafaþulu,  og þá jafnframt hvernig tengslum þeirra væri háttað við forna íslenska sagnagerð. Halldóri líkaði það allt ágætlega og lagði blessun sína yfir þessar athuganir mínar enda var hann sjálfur þeirrar skoðunar að fornsögur okkar væru með sama marki brenndar og þær sögur sem ég nefndi og taldi þær ritstýrða sagnfræði úr umhverfi höfundanna.
List Halldórs sjálfs er af sömu rótum runnin. Það er því óhætt að skyggnast um í verkum hans með því hugarfari að um sé að ræða svipaðar skáldsagnatækilegar aðferðir í ýmsum ritum hans og við þekkjum af fornsögunum. Tilgátan stenzt ef farið er í saumana á þessum verkum. Sögurnar eru augljóslega skrifaðar útúr arfsögnum og umhverfi með sama hætti og Halldór skrifaði Innansveitarkroniku og Guðsgjafaþulu.  En í þulunni segir að Íslands-Bersi hafi verið hetja eins og Grettir sterki.
Ég hef því af þessum ástæðum öllum gert mér far um að kynna mér sérstaklega dæmigerðar “fornsögur” Halldórs Laxness og þá með aðstoð skáldsins sjálfs eins og sjá má af þeim ritgerðum sem ég hef skrifað um þær. Í ljós hefur komið að margt í þeim á við rök að styðjast en annað er frumsamið frá rótum og skrifað inn í söguna eins og það styddist við sögulegar heimildir eða upplifun skáldsins sjálfs. En það færi enginn að leita sagnfræðilegra heimilda um 10. og 11. öldina í fornum ritum okkar þótt þau lýsi ýmsu sem þá einkenndi mannlífið - og þá einkum þjóðfélag höfundanna sjálfra á 13. öld, ekki frekar en sagnfræðingar framtíðarinnar leiti heimilda um sögu Mosfellshrepps í Innansveitarkroniku eða sannleikans um Óskar Halldórsson og atvinnusögu hans í Guðsgjafaþulu. Til þess væri hið ágæta rit Ásgeirs Jakobssonar betur fallið. Ritstýrð sagnfræði Halldórs Laxness fjallar ekki um sannfræði. En þessar skáldsögur eru aftur á móti ómetanleg heimild um persónurnar sem um er fjallað og lýsa þeim skrýtnu og þverstæðufullu, en oft og einatt gamansömu örlögum sem þeim eru búin. Þessi rit eru sem sagt heimild um manninn; mann allra tíma, svo lítið sem mannskepnan breytist þótt umbúðirnar um líf hennar séu aðrar en áður. En eins og við getum séð sjálf okkur í skáldsagnapersónum Halldórs Laxness, þannig þekkjum við margt í fari okkar og örlögum í fornum, ritstýrðum sögum; og þá jafnvel einnig í fornum grískum hetju- og goðsögnum, enda eru þær skrifaðar af venjulegu fólki; en hvorki hetjum né guðum. Og þegar upp er staðið er öllu svo vel fyrir komið í þessum listrænu verkum að engu er líkara en örlögin sjálf hafi skrifað þau; eða eins og Schopenhauer benti á, að líf okkar væri svo rökrétt og úthugsað þegar við litum um öxl á gamals aldri að engu væri líkara en það hafi verið fyrirfram ákveðið. En að dómi hans hefur þó allt stjórnazt af blindum vilja okkar sjálfra, eða eins og skáldsverki er stjórnað af höfundi sínum. Um þetta segir Halldór Laxness í samtölum okkar um Innansveitarkroniku - og þarf vart annarra vitna við: “Skáldsaga er ritstýrð sagnfræði og eftirlíkt sagnfræði. Maður þykist vera að tala um veruleikann, en það er sá veruleiki þar sem höfundurinn skipar hlutunum sjálfur í röð, “rétta” röð, a.m.k. eftir sinni beztu samvizku. Það er tilraun til að fá lesandann til að trúa sagnfræði, sem maður hefur ritstýrt sjálfur eða búið til. En skáldsaga er samt að því leyti raunveruleg, að höfundurinn getur aðeins sagt frá atburðum, mönnum, hugmyndum, flækjum og árekstrum, sem hann hefur sjálfur lifað. Hann hefur fólkið í handraða, a.m.k. í bútum, setur síðan bútana saman. Höfundurinn getur ekki farið út fyrir sína eigin reynslu; en hann ritstýrir henni... Maður er andsvar við þeim áhrifum, sem hann verður fyrir í lífinu.”
Í fyrrnefndri samtalsritgerð um Guðsgjafaþulu segir m.a. svo: “Guðsgjafaþula er aldarspegill í skáldsöguformi. Eins konar Skáldatími þar sem erfitt er að skilja á milli veruleika, draums og ævintýris, skops og ádeilu, skáldskapar og sannfræði. Í því ekki sízt felst styrkur sögunnar og endurnýjunargildi.
Í Íslendinga sögum er m.a. stuðzt við ljóð og ljóðabrot. Það hefur Halldór Laxness einnig gert í Guðsgjafaþulu og yrkir upp gömul stef ef honum þykir stíll og efni krefjast þess.
Ætli vinnubrögð skáldsins í þessari samtímaíslendingasögu sýni okkur ekki betur en flest annað hvernig íslenzk fornrit voru saman sett. Guðsgjafaþula er að mínu viti ein merkasta “heimild” okkar tíma um efnismeðferð og vinnubrögð fornra sagnaritara og er því ómetanlegt framlag til skilnings á því sem nefnt hefur verið samhengi íslenzkra bókmennta. Eftir allrækilega könnun á vinnubrögðum Halldórs Laxness við ritun Innansveitarkroniku og Guðsgjafaþulu þykist ég fara nærri um það hvernig Íslendinga sögurnar urðu til, enda vafalaust a.m.k. öðrum þræði tilgangur Nóbelskáldsins með síðustu skáldverkum sínum að efla lesendum sínum skilning á þeim efnum sem öðrum...”
Þegar Halldór Laxness las yfir þessa grein lagði hann blessun sína á þessi ummæli mín um þá skáldsagnatæknilegu aðferð sem hann hefði m.a. notað í verkum sínum.

Allnokkru eftir að Kompaníið við allífið kom út fjallaði Halldór Laxness um þessa fyrstu íslenzku samtalsbók af vinsemd og skilningi sem var þó blandin furðu yfir því hvernig þetta verk varð til. Ég fagnaði að sjálfsögðu þessari dagblaðsgrein skáldsins á sínum tíma og þótti mikið til um áhuga Halldórs á verkinu. Mér er nær að halda að Halldór hafi þá þegar getað hugsað sér slíka samtalsbók með sinni þátttöku og það eitt er víst að hann hafði mikinn áhuga á því að við hittumst og ræddum saman, tók því ævinlega vel en dró aldrei úr því. Hann lagði sig fram í samtölum okkar og ég fékk að tefja hann frá verki eins og nauðsyn krafði. Hann gat haldið smáfyrirlestra um einstakar athugasemdir sem hann þurfti að koma á framfæri við mig þegar hann las handritin yfir. Það var augljóst að hann taldi hvert orð dýrt og hafði áhyggjur af því ef lopinn var spunninn. Þegar ég var beðinn um að skrifa formála fyrir Ríkisútgáfu námsbóka að Syrpu úr verkum Halldórs Laxness, 1974-75, átti ég löng og hvetjandi samtöl við hann um líf hans og skáldskap, og þá ekki sízt það umhverfi sem list hans er sprottin úr. Ég skrifaði svo eins rækilegt uppkast að þessum inngangi og ég gat. Þegar yfir lauk var hann orðinn 59 vélritaðar síður að lengd! Ég vissi að sjálfsögðu alltaf að ég þyrfti að stytta verkið, en þegar Halldór fékk uppkastið í hendur talaði hann við mig um það að sjálfsögðu að formálinn væri allt of langur og sagði að ég yrði að stytta hann. Ég tók undir það en þá bætti hann við, Ef þú gerir það ekki  þá er bókin ónýt! Og engu líkara en hann hefði af því þó nokkrar áhyggjur. Ég sagði að hann þyrfti ekki að óttast það, formálinn yrði tekinn til bæna, styttur og ekki annað notað en kjarni uppkastsins. Fór síðan með handritið til útlanda, ásamt athugasemdum Halldórs, vann úr því eins og til stóð og nú er formálinn fyrir þessari Syrpu Halldórs átta og hálf blaðsíða undir fyrirsögninni: Nokkur orð um fjallræðufólk og fleira í skáldskap Halldórs Laxness. Honum líkaði það mætavel og lét þau orð falla að hann hefði ekki gert sér grein fyrir því” að Matthías gæti verið svona stringent”! Það merkir samkvæmt ensk-íslenzkri orðabók: Strangur, harður; þröngur, naumur. Og það sem bezt er: sannfærandi.
Halldór Laxness sagði að þetta langa uppkast mitt væri fremur upphaf að “lítilli bók um Halldór Laxness” en efniviður í inngang að bók handa börnum. Ef þessi bók væri skrifuð þyrfti að athuga ýmislegt. Það þóttist ég vita manna bezt enda átti uppkastið aldrei að vera annað en frumriss. Um þetta uppkast hef ég skrifað dálitla ritgerð sem birtist í bókmenntaþáttum með leyfi hans og heitir þar Um uppkast.

Ég hef einhvers staðar sagt að prentaður talmálstexti ætti að vera einhvers konar brú milli venjulegs talmáls og þessa hallærislega bókmáls sem var svo langt frá eðlilegu tungutaki í íslenzkum skáldverkum - og er raunar enn oft á tíðum. Ég hef talið að þetta yrði helzt gert með því að rækta þetta sama talmál í kröfuhörðu umhverfi bókmennta. Bilið milli bókmáls og talmáls er lengra í íslenzku en flestum tungum öðrum. Þetta er löng leið. Ég hef reyndar haldið því fram að lengsta leið sem ég þekki sé af vörum eins manns á blaðið hjá öðrum. Það þarf að varða hana vel. Ég notaði aldrei segulbönd í samtölum okkar Halldórs sem áttu að birtast á prenti. En hann var ólíkur, t.a.m. Jóhannesi Kjarval, í því að maður mátti nota öll þau tól og tæki sem hugsazt gat í samtölum við skáldið. Kjarval leyfði enga minnispunkta. Það gerði Þórbergur aftur á móti. Og ég notaði þá aðferð einnig í samtölum okkar Halldórs, að punkta niður það sem ekki mátti fara forgörðum. Þegar heim hófst ritun samtalsins. Mér þótti bezt að handskrifa slík samtöl en vinna þau svo á ritvél. Hráefnið kallaði á form og “fljótandi talmál”, ef textinn ætti að vera prenthæfur að mati skáldsins, en umfram allt sannfærandi.
Halldór var þeirrar skoðunar að samtöl færu eftir spyrlinum en síður spyrðlinum. Það væri spyrillinn sem ætti að leiða samtalið og bera ábyrgð á eftirtekjunni. Hann sagði einhverju sinni við mig, Som man råber i skogen får man svar. Hann sagði að fréttamenn gætu stundum spurt með þeim hætti að hann færi allur í baklás, æstist upp og segði alls konar hluti sem hann sæi svo eftir. Verst þætti honum þó þegar fréttamenn spyrðu um það sem þeir þekktu ekki, þá stæðist hann ekki mátið en hefði allt samtalsefnið í flimtingum. Eitt sinn þegar ég var fjarstaddur hafði sú frumlega hugmynd fæðzt á Morgunblaðinu að upplagt væri að hringja í Halldór Laxness og spyrja hann um það hvort hann aflaði þjóðinni ekki mikilla gjaldeyristekna með þýddum verkum sínum. Ég þakka guði fyrir að ég var ekki viðstaddur þetta símtal og veit ekki hvernig það fór fram, né hvernig því lauk. En Halldór hafði samband við mig samdægurs og bað mig þess lengstra orða að sjá til þess að hann fengi aldrei aftur slíka upphringingu frá blaðamanni Morgunblaðisins. Hann sagðist ekki muna nafn mannsins, hann hefði aldrei heyrt það hvorki fyrr né síðar en það væri aftur á móti augljóst að hann væri idíót og raunar stórhættulegur á þeim vettvangi sem hann starfaði. Hann hefði spurt sig spurninga sem fremur hefði átt að leggja fyrir nýsköpunartogara eða einhvern dall sem legði upp í Hull eða Grimsby. Hann væri augsýnilega þeirrar skoðunar að Halldór Laxness væri einhvers konar trollari eða botnvörpungur sem væri sendur á miðin í því skyni að afla þjóðinni gjaldeyristekna og svo væri reynt að fylgjast með því hvort þessar tekjur skiluðu sér í þjóðarbúið. Aflinn væri seldur á uppboði í einhverri hafnarborg í Evrópu og togarinn Halldór Laxness síðan aftur sendur heim til að stunda rányrkju á íslenzkum fiskimiðum. Ég yrði að sjá til þess að honum yrði hlíft við svona uppákomum sem yrðu aldrei til annars en þess að koma honum úr jafnvægi og í versta falli væru svona samtöl spiluð í útvarp öllum landslýð til mikillar undrunar og sjálfum honum til ama og leiðinda. Ég sagði honum að hann þyrfti ekki að óttast að fá slíkar upphringingar í framtíðinni frá Morgunblaðinu og fann að honum þótti vænt um það. Ég geri ráð fyrir því að honum hafi þótt slík samtöl eins og fóru fram um “botnvörpunginn Halldór Laxness” jafn niðurlægjandi og ómerkileg og honum hefur þótt þau samtöl mikilvæg og kannski einnig skemmtileg sem hafa skipt máli og fjallað um grundvallaratriði í list hans og lífi.


23. apríl, miðvikudagur

Birtist í Morgunblaðinu 23. apríl:
Fyrsta desember 1995 hélt Matthías Johannessen ritstjóri hátíðarræðu á stofnfundi hollvinasamtaka háskólans. Hann ræddi þar einkum um íslenskan menningararf og þá gæfu sem Íslendingar hefðu borið til að velja góð áhrif úr erlendri menningu þótt varast bæri að láta hana gleypa sig.
Ekki leið á löngu áður en birtist blaðagrein þar sem Matthíasi var úthúðað fyrir þjóðrembu. (Alþýðublaðið 30. jan. og 1. feb. 1996). Getur einhver útskýrt fyrir mér orsakir þvílíkrar ofurviðkvæmni?
Árni Björnsson.

25. apríl, föstudagur


Forsetalánið
Ég veit ekki hvort Íslendingar hafa átt barnaláni að fagna eftir að kýrin, lambið, sóleyjar og hornsílin hættu að sjá um uppeldi þeirra. Ekki máttu mæður vera að því. Þær höfðu nóg að gera við það að böðlast í heyinu. Feður gerðu fátt annað en að koma þeim árlega á steypirinn og gá svo til veðurs af alkunnri spádómsgáfu íslenskra karlmanna.
Forsetalán frá fyrstu tíð
Aftur á móti er alkunna, að við höfum átt forsetaláni að fagna frá fyrstu tíð. Í nafni þess síðasta gáfu helstu rithöfundar þjóðarinnar út bókina Yrkja til þess að lúpínuvæða landið. Úr því þjóðin flutti ekki á sínum tíma búferlum til Alaska, fluttum við Alaska til okkar í lúpínulíki.
Ísland varð mesta lúpínuland í heimi, en þannig að núverandi forseti segir að “Ísland sækjum það heim” sé stærsta eyðimörk í Evrópu, aðeins frjósamt fyrir filmur myndavéla sem auka úrval ferðapésa með myndum af ljósaskiptunum í Kvígindisdal.
Bílakirkjugarður Bessastaða?
Í framhaldi af þessu fetar hann ekki í fótspor hinnar yrkjuvænu heldur forsetans á undan henni, fornleifafræðingsins. Nú vantar hann próf í greininni og gerir sig þá að fornleifafræðingi á bíla sem er ný fræðigrein á Íslandi. Þá vaknar spurningin: Grefur hann bara í bílakirkjugarð Bessastaða og gerir þannig greinarmun á því hvort í amerísku druslunum hafi ekið Jón eða séra Jón?
Þjófótta Helena
Í tengslum við forseta og bíla minnist ég bifreiðar Ceausescus, forseta Rúmeníu. Hann átti forláta bíl og tók með sér í opinberar heimsóknir til útlanda. Eitt sinn kom hann til Spánar og auðvitað með bílinn. Helena, forsetafrúin, var þjófótt og stal öllu steini léttara þar sem þau gistu.
Gestgjöfunum sárnaði að missa gripina. Eina nóttina tóku þeir þýfið úr töskum hennar og allt smávægilegt í stofunum. Frúin varð æf þegar hún vaknaði og spurði: Er ég komin aftur í sama þjófa- og fátæktrarbæli og þegar ég var krakki?
Doktor í bílameðferð
Reynt var að gera gott úr öllu og Ceausescu gefinn bíll. Þú færð allt, ég ekkert, sagði frúin eðlilega fúl.
Þá voru gerðar eftirlíkingar af dýrindis gripum sem hún fékk að stela. Nú höfðu þau fengið sitt  og ákváðu að fara strax heim með góssið. Ekki gat heiðarlegur forseti farið gegnum tollinn með tvo bíla, svo hann gaf Carillo, formanni kommúnistaflokks Spánar, þann ameríska en tók hinn heim til viðgerðar. Það gladdi mjög rúmenska stráka á verkstæðum. En Ceausescu féll, þótt frúin kallaði fram í fyrir réttinum: Ræflar, dæmið þið forseta sem ég sæmdi doktorsnafnbót í meðferð á bílum?
Örlög bílsins á Spáni urðu harmsöguleg en verða ekki rakin hér.
Guðbergur Bergsson.

Þessi grein um forsetann birtist í DV í dag. Hvað væri sagt ef ég hefði skrifað hana; ef hún hefði birzt í Morgunblaðinu? Þá hefði allt ætlað af göflunum að ganga. En hún er í DV og enginn segir neitt. Öllum er sama! Nema forsetanum, auðvitað. Að líkja honum við mesta glæpahyski aldarinnar! Fyrr má nú vera !! Og þá með mynd af forsetahjónunum! Miðlar og fréttamennska eru afstæð fyrirbrigði í lífinu eins og allt annað.


26. apríl, laugardagur

Hef verið að kynna mér Persastríðin eftir Herodótus. Í lýsingu hans á herliði Leonídasar sem stjórnaði her Spartverja við Þermópíl, en var drepinn og héldu Spartverjar þó velli og sigruðu Persa, segir njósnari Xerxesar Persakonungs frá því hvað Spartverjar höfðust að fyrir orrustuna. Hann segir að þeir hafi m.a. snyrt hár sitt. Þegar konungur grennslast fyrir um það hvernig á slíku geti staðið, var honum svarað því til, að Spartverjar hefðu þann sið að snyrta hár sitt andspænis dauðanum.
Þetta minni kemur einnig fyrir í Sturlungu og ég hef reyndar notað það í ljóði. Það getur varla verið tilviljun að höfundur Sturlungu tekur sérstaklega fram að menn hafi þvegið hár sitt áður en þeir voru leiddir á höggstokkinn. Íslenzkar fornbókmenntir eru sprottnar af miklum og ólíkum rótum.
Því er einnig lýst að örvadrífan í orrustunni sé svo mikil, að hún taki fyrir sólu. En þá er þessu svarað til,
Við berjumst þá í skugganum.
Þessar lýsingar í hinu mikla riti Herodótusar leiða hugann að fornum sögum okkar og áhrifum grískrar og rómverskrar menningar á arfleifðina. Ekkert af þessu er tilviljun. Kviður Hómers eru á margan hátt fyrirmynd fornrar íslenzkrar ritlistar. Á það hef ég minnzt í einni af greinunum í Helgispjalli, en hún hefur ekki birzt ennþá í Morgunblaðinu þótt ég hafi sett hana í Eintal á alneti sem út kom fyrir síðustu jól.

Kristín Þorsteinsdóttir segir í svari til Vésteins Ólasonar sem birtist í Morgunblaðinu í morgun að skilgreiningin á því hvað sé frétt sé þessi:
“Frétt er frávik frá hinu venjulega”.
Ég efast um að þetta sé nein alhliða skilgreining á hugtakinu frétt. Frétt getur verið frávik frá hinu venjulega, að vísu, en hún getur einnig verið frekari upplýsingar; fróðleikur. Hún getur fjallað um útgáfu bókar, afmæli, leiksýningu; en hún getur líka fjallað um það ef maður bítur hund. Það væri náttúrulega frávik frá hinu venjulega!
Ég held að Kristín sé ágæt kona en af grein hennar sé ég þann mun sem er á ýmsum blaðamönnum á öðrum fjölmiðlum og þeim sem starfa við Morgunblaðið. Við lítum svo á að “það venjulega” eigi erindi til fólks, ekki síður en hið óvenjulega. Það er margt annað sem gerist í lífinu en nauðganir, morð og það hráefni sem notað er í æsifréttamennsku; þ.e. frávikin. Þau eru að sjálfsögðu einnig fréttnæm, en ástæðulaust að gera meira úr þeim en efni standa til. Lífið er dýrlegt í hversdagsleika sínum, hinni venjulegu uppákomu. Nýtt skip getur verið fréttnæmt, aðalfundur Granda er oft fréttnæmari heldur en kynferðisníðingur - og þá að sjálfsögðu hnýsilegri til fróðleiks.

Nei, það er margt annað fréttnæmt en frávikið, svo er guði fyrir að þakka. En frávik geta að sjálfsögðu verið mikilvæg; alvarleg slys, vísindauppgötvanir, listaverk. En þetta eru frávik innan hversdagslegrar venju. Hin sjúklegu frávik eru annað; spilling; meiðingar, morð. En mér er því miður nær að halda að margir fréttamenn telji það fyrst og síðast hlutverk blaða- og fréttamiðla að koma þessum frávikum á framfæri.

Í dag kemur út með sunnudagsblaði Morgunblaðsins einskonar kálfur um ævi og störf Baldvins vinar míns Tryggvasonar og er það góð viðbót við sunnudagsblað okkar. Stefnum að því að fjölga slíkum greinum í framtíðinni. Jónína Mikaelsdóttir skrifar um Baldvin en Árni Jörgensen hefur hannað blaðið sem er bæði virðulegt og líflegt með öllum myndunum.
Ég held Styrmi og ýmsum öðrum þyki merkilegust frásögn Baldvins af veikindum Júlíu, fyrri konu sinnar, en hún dó úr krabbameini eftir langa baráttu við þennan sjúkdómsdjöful. Við hittum hana stundum veika og upplifðum hetjulega baráttu hennar við dauðann. Hún var bekkjarsystir mín í menntaskóla, greind stúlka og viðfelldin. Þetta er að vísu merkileg lýsing en ég hafði, þegar ég las hana, verið nýbúinn að kynna mér samskonar lýsingu í ævisögu Neil Simons, bandaríska gamanleikaskáldsins, (Amman með staf, vel gerð kvikmynd um stórskrítið fólk) sem segir frá baráttu konu sinnar og dauða, en hún var 38 ára þegar sjúkdómurinn var uppgötvaður. Baráttan stóð í þrjú, fjögur misseri, miklu skemur en stríð Júlíu sem stóð yfir í mörg ár. Á þeim árum var fólki helzt ekki sagt hver sjúkdómurinn væri og farið eins varlega með það leyndarmál og unnt var. En niðurstaðan var oftast hin sama.
Andspænis dauðanum erum við öll í einum báti.
Og nú er Sveinn vinur minn Björnsson að deyja á Landspítalanum. Hann hefur lifað á morfíni undanfarin misseri. Við Hanna hittum hann sl. þriðjudag og skoðuðum með honum málverkasýningu hans í Gerðarsafninu í Kópavogi. Það er fín sýning. Það er meiri ákveðni í verkunum en áður og sagði Sveinn, þegar ég minntist á það, að hann teldi þetta rétta athugasemd. Sveinn hefur nú náð fullum þroska sem listmálari.
Og þá fellur eplið af trénu.
Daginn eftir að við heimsóttum hann í Gerðarsafni datt hann niður stigann heima hjá sér í Köldukinn 12 og fékk höfuðhögg. Hann hefur verið ákaflega valtur á fótum vegna sjúkdóms síns sem er kominn í beinin, en morfínið hefur hann tekið til að lina þjáningar sínar. Þegar við kvöddum hann þarna í Gerðarsafni var hann bæði sveittur og kaldur og nánast augljóst að hverju stefndi.
En aftur að Baldvin Tryggvasyni.
Það sem mér þykir merkilegast eru lýsingar Baldvins á baráttunni við kommúnista, en hún stóð sem hæst í kalda stríðinu þegar hann var forstjóri Almenna bókafélagsins. Hann segir að Jóhannes úr Kötlum hafi haft orð á því við sig á sínum tíma að hann hafi séð í gegnum hina kommúnistísku blekkingu og hefði helzt viljað yfirgefa hana, en ekki treyst sér til vegna vina sinna og gamalla samherja; vildi sem sagt ekki yfirgefa þá þarna í fljótinu miðju. Ég hef svipaða sögu að segja. Þegar Jóhannes úr Kötlum samþykkti að Ríkisútvarpið birti sjónvarpssamtal við hann, óskaði hann þess sérstaklega að ég væri spyrillinn. Hann lagði fast að mér og ég fann að ég gæti vart komizt undan því. Ég hafði þó fyrirvara á því vegna þess að við Tómas vorum svo miklir vinir og Jóhannes hafði ráðizt á hann og hina borgaralegu afstöðu hans í Stjörnum vorsins  og Fögru veröld og Tómas hafði ekki talað vel um hann í mín eyru. Ég vildi ekki styggja Tómas eða láta reyna á vináttu okkar með þessum hætti. Eftir samtalið við Jóhannes úr Kötlum hittumst við Tómas á Hótel Borg; ég spurði hvort ég ætti að eiga samtal við Jóhannes, hvort Tómasi væri sama. Hann svaraði,
Já blessaður gerðu það(!)
Mér finnst ágætt að hann skuli biðja þig um að tala við sig. Það segir sína sögu.
Þessi viðbrögð Tómasar glöddu mig. Ég hafði samband við Jóhannes og sagði honum að ég mundi taka verkið að mér. Hann var augsýnilega ánægður með það og þakklátur. Við hófumst handa við undirbúning, hittumst, lögðum plön að því um hvað við töluðum, hvernig ég spyrði og hvernig hann  mundi svara.  Mér er nær að halda að hann hafi fundið eitthvað af sjálfum sér í mér - og þá einkum sem ljóðskáldi og hvernig ég hafði þurft að berjast fyrir ljóðum mínum eins og hann þurfti á stundum að hafa fyrir sínum kveðskap. Hann var að vísu orðinn einhvers konar þjóðskáld en þó með fyrirvara vegna þess að borgarastéttin hafði ekki tekið hann alfarið upp á arma sína, þótt hún hafi kunnað að meta ljóð hans öðrum þræði. En þarna hittumst við sem sagt í Sjónvarpinu og fór vel á með okkur. Ég kynntist heimili Jóhannesar og konu og féll vel við allt sem ég upplifði í samstarfi okkar. Jóhannes var ákveðnari en ég hafði gert mér grein fyrir. Hann hafði sterka afstöðu og var augsýnilega óhræddur við umhverfið. En hann var vaklandi í pólitískri trúarafstöðu sinni þegar hér var komið. Eitt virtist honum öðru mikilvægara, það var að koma því á framfæri að hann væri sjálfur milli steins og sleggju eins og hann hafði fjallað um í einu ljóða sinna löngu áður. Það segir meira um afstöðu hans og innri átök en flest annað sem hann lét frá sér fara:


Frumsmiðurinn
stendur við lúbarið grettistak
- reiðir til höggs.

Í lausu lofti
titrum við ósjálfbjarga
milli steins og sleggju.
(Milli steins og sleggju,Tregaslagur, 1964)

Þetta smáljóð er endurprentað í Ný og nið, 1970. Eða hvaða sögu skildu þessi orð segja í sömu bók:


Hægt og hægt smátt og smátt
týnirðu gullunum þínum.

Hægt og hægt smátt og smátt
verður blómið þitt illgresi.

Hægt og hægt smátt og smátt
veslast barnið í þér upp.

Hægt og hægt smátt og smátt
fylgirðu sjálfum þér til grafar.
(Með tíð og tíma)

Eða þessi orð í Sá bær heitir í Tungu:

Vér heiglar
sem þorum hvorki að lifa né deyja:
móðir vor blygðast sín fyrir oss bræður.


27. apríl, sunnudagur

Er enn að kynna mér Persastríðin eftir Herodótus. Ennfremur Svo mælti Zaraþústra eftir Nietzsche, í ágætri þýðingu Jóns Árna Jónssonar, en við birtum brot úr henni í Lesbók fyrir nokkrum misserum; ennfremur Vettvang mannsins eftir Canetti. Það hreyfði við mér og ég hef ort talsvert af því tilefni.
Canetti er merkilegur hugsuður. Hann kallaði af einhverjum ástæðum á Pascal svo að ég fór að lesa hann enn einu sinni. Hugsanir hans eru eitthvert magnaðasta aðdráttarafl heimsbókmenntanna. Án þeirra væri hvorki Nietzsche né Canetti.
Og ekki heldur Kirkegaard.

Kvöldið


Pascal varð fyrir miklum áhrifum af jansenítum sem voru allfyrirferðarmiklir í París um hans daga. Þeir hugðust hervæða kirkjuna gegn óhollustu heiðni og skynsemistrúar og töldu sig byggja á arfinum frá heilögum Ágústínusi. En þeir lentu á villigötum og Pascal náði áttum. Hann var frægasti stærðfræðingur síns tíma, snillingur á því sviði en fékk opinberun og gerðist einskonar stríðsmaður Guðs. Hann hafði saknað Guðs þegar hann lá yfir geometríunni. Nú tók hann sig til og sagði hinu verslega lífi stríð á hendur. Hann hafði að vísu kynnzt því sjálfur, þótt heilsutæpur væri, og minnir þannig á glaumgleði Ágústínusar þegar hann var ungur maður. En þeir sáu sig báðir um hönd.
Jansenítar boðuðu að náðin væri handa þeim útvöldu. Niðurstaðan svipuð trúarbrögðum helvítiskenningarmanna nútímans: að sumir séu fæddir til helvítis, aðrir til Guðsríkis. Þessi villutrú hefur lengi loðað við manninn, en Pascal losaði sig við hana áður en snilld hans opinberaðist enn á ný í því mikla riti, Hugsunum. Jansenítar töldu t.a.m. að óskírt ungbarn færi beina leið til helvítis. Séra Jón Auðuns sagði mér á sínum tíma, eða þegar ég skrifaði greinaflokkinn um hann í Morgunblaðið (undanfari að ævisögu hans), að það væri sér erfitt að starfa með Einari Sigurbjörnssyni við Háskólann. Af lýsingu sr. Jóns Auðuns sé ég í hendi mér að prófessor Einar Sigurbjörnsson hefur haft ríka tilhneigingu til jansenisma því að Jón Auðuns sagðist hafa þurft að mótmæla þeim skilningi hans í einhverju prófi í Guðfræðideild Háskólans  að óskírð ungbörn færu til helvítis.
Jón Auðuns gat ekki sætt sig við það.


Jansenítarnir höfnuðu frjálsum vilja og lentu í útistöðum við Jesúíta. Það ber Jesúítum fegurra vitni en maður á að venjast. Kaþólska kirkjan vildi sjá í gegnum fingur við fólk. Hún gat fallizt á að verknaður sem er slæmur í sjálfum sér en framinn í góðri trú, þ.e. án þess viðkomandi viti að hann sé slæmur eða siðlaus, leiði ekki endilega til syndar. Náðin er bundin við Krist, hún er yfirnátturuleg. En við erum Guðsbörn eftir syndafallið, ekki síður en fyrir það. Þannig geta heiðingjar einnig notið náðar. Kirkjan neitaði því að þeir hlytu að vera dæmdir eins og útskúfaðir syndarar. Það var henni til sóma.
Tvíhyggjan milli trúar og skynsemi varð auðvitað til þess að raunvísindalega sinnað fólk fjarlægðist kirkjuna. Þannig leiddi jansenisminn til allt annarrar niðurstöðu en að var stefnt í upphafi. Hann gleymdi því að trúin er ekki endilega byggð á skynsemi, því síður á raunvísindum, heldur á hún rætur í mystík. Án þessarar dulhyggju væru engin trúarbrögð en vegna hennar er kaþólska kirkjan - og þá ekki sízt Orþódoxkirkjan - það afl sem raun ber vitni. Hún spyr ekki um staðreyndir. Grundvöllur hennar, afl og áhrif spretta af mystísku flæði. Og það var í þetta flæði sem Pascal sótti endurfæðingu sína þegar hann upplifði nærveru Guðs í tvo klukkutíma hinn 23. nóvember 1654, frá hálfellefu um kvöldið til hálfeitt. Þessari upplifun hefur hann sjálfur lýst í stuttri frásögn sem fannst að honum látnum í treyjufóðri. Hann hafði aldrei í hyggju að stofna til illdeilna við kaþólsku kirkjuna eða páfadóminn. Hann var sannkaþólskur maður og Hugsanir hans sýna að hann leit ekki á náðina eins og einhver forréttindi handa fáum. Hann sagði jafnvel að Platon hafi búið í haginn fyrir kristindóminn. Platon var að sjálfsögðu heiðingi. Hann taldi að við ættum að horfast í augu við dauðann; horfast í augu við Guð; sjá okkur; sálina.
Eins og Kristur sýndi trúlausum enga miskunn, þannig fordæmdi Pascal þá sem höfðu engan áhuga á því hvort líf væri eftir dauðann eða ekki; hvort Guð væri til; hvað biði okkar. Hann sagði raunar að í hverjum manni byggi þrá til að leita svara við þessum spurningum þótt menn reyndu að afneita því. Við horfum upp á samfylgdarmennina deyja. Við vitum að þessi örlög bíða okkar sjálfra. Samt lifum við fyrir smámuni. Höfum áhyggjur af því sem skiptir litlu eða engu. Höfum áhyggjur af því ef við glötum öllu. Samt hugsum við ekki um dauðann; um það að kastað sé nokkrum rekum á kistuna og öllu sé lokið! Pascal sagði að vísu að ekkert væri eins skelfilegt umhugsunarefni og eilífðin. Og hvað er maðurinn í náttúrunni? Ekkert í samanburði við það sem er endalaust, allt í samanburði við ekkert; eitthvað á milli alls og einskis
.
Það er maðurinn.

Og andspænis þessu endalausa er allt að lokum jafn smátt. En hvað sem því líður þá setjum við alla hluti í tengsl við sjálf okkur.
Og niðurstaðan?
Fluga með mannshuga.

Á þessum forsendum höfum við mesta löngun til að breyta umhverfinu í gamaldags berklahæli. Reynt að gleyma dauðanum. Lífinu lifað eins og hver setning sé síðasta andvarpið.
Æði.
Allir reyndu að skemmta sér eins og unnt er.
Það var þetta æði sem jansenítar voru að berjast gegn en flöskuðu á aðstæðum mannsins og afstöðu hvers og eins til umhverfisins. Í okkur öllum býr löngun  til að fullnægja mannlegri eigingirni og ástríðu án þess það sé ásetningur að fremja alvarlega synd; án þess gera okkur grein fyrir því að þessi fullnæging sé syndsamleg.
Það eru margir jansenítar nú á dögum. En sem betur fer þá er syndin afstætt hugtak. Kaþólska kirkjan gerði sér blessunarlega grein fyrir því, það er henni til sóma. Fyrirgefning syndanna er að minnsta kosti jafn mikilvægur boðskapur og upprisan sjálf.

Heyrði um skoðanakönnun sem gerð hefur verið í Bandaríkjunum um virðingu stéttanna þar vestra. Niðurstaðan dæmigerð fyrir hið kapitalíska markaðsþjóðfélag. Pascal hefði ekki verið hátt á hrygginn reistur í bandarísku þjóðfélagi; ekki heldur Nietzsche; því síður Canetti.
Og alls ekki Kirkegaard.

28. apríl, mánudagur


Sveinn Björnsson listmálari lézt á Landspítalanum uppúr kl. 21.00 í kvöld. Síðasta sýning hans í Gerðarsafni var dramatískt exit. Og nú er hann farinn. En hvert? Kemur aldrei aftur, hringir ekki oftar! Ég sakna hans eins og ég sagði Erlendi syni hans þegar hann hringdi í mig á Mogga í kvöld og sagði mér fréttirnar. Ætla að skrifa um hann.

Eftirfarandi greinar um “frávikið” hafa birtzt í Morgunblaðinu:

Frávik frá kjarna máls

 

Frétt er frávik frá hinu venjulega, segir Kristín fiorsteinsdóttir fréttamaður í „svari“ sínu í Mbl. 26. apríl, og er góð byrjun á skilgreiningu. fiað telst því miður ekki frétt þótt sumir fréttamenn sjónvarps víki sér hjá kjarna þeirra mála sem þeir taka til umræðu og búi til nýjan. Með því eru þeir auðvitað, eins og þeir væru litlir guðir, að skapa nýjan veruleika handa þeim sem treysta á sjónvarpsfréttir. fieir eru að staðfesta þá skoðun margra að sjónvarpið sé óhæft til að miðla upplýsingum um heiminn og það sem þar er að gerast og geti ekki gert annað en erta taugar fólks. Ég held að þetta sé vanmat á  sjónvarpinu og margir fréttamenn reyni í einlægni að komast að kjarna málanna. Nú er auðvitað ekki víst að kjarni máls sé sá sem viðmælandi fréttamanns vill koma á framfæri, en málsgögnin skera oft úr um hver hann er. En þegar fréttamenn skeyta búta úr viðtölum við menn inn í eigin sögu, gefur það þeim kost á að hagræða sögunni, finna nýjan kjarna. Enn meira er frelsi þeirra ef menn eru ekki tilbúnir að koma á teppið þegar litlaguði þóknast.
egar umboðsmaður alþingis telur að lögmenn og lögfræðingar opinberrar stofnunar og ráðuneytis hafi túlkað lögin rangt, gæti kjarni málsins verið áhugaverð frétt fyrir almenning í landinu, en fréttamaður ákveður í yfirlæti sínu að almenningur hafi ekki áhuga á lögfræði heldur á gamalli sögu um vondan kall og fórnarlömb. fiað skal verða kjarni málsins. Málsgögnin verða þá átylla en ekki tilefni fréttarinnar.
Skýringar á því að fréttamenn nota gögn sem átyllu til að búa til frétt eða dusta rykið af gamalli geta verið fleiri en ein, og algengust er sjálfsagt viðleitni til að koma við hjartað í fólki með tilfinningaríkum sögum eða vekja þórðargleði. fiegar sá sem krafinn er svara, er í viðkvæmri stöðu vegna óskyldra mála og fólk segir honum að persónulegur kunningsskapur eða vinfengi sé milli „fórnarlambsins“ í sögunni og fréttamannsins, vakna hjá honum lágkúrulegar hugsanir. Fréttamenn ættu að varast að koma sér í slíkar aðstæður.
Vésteinn Ólason


Um fréttamat og skilning á fréttamennsku

Aðalfrétt  Ríkissjónvarpsins að kvöldi 16. Apríl sl. um að Rannsóknarráð Íslands hefði veitt Jóhannesi Nordal meira en tvöfalt hærri styrk en reglur segi til um fyrir heildarútgáfu á ritverkum Sigurðar Nordals var ósönn. Fréttamaðurinn hafði þó sér til málsbóta mjög villandi upplýsingar framkvæmdastjóra Rannsóknarráðs. Hið sanna er að Hið íslenzka bókmenntafélag hlaut styrkinn og af honum hefur ekki einn einasti eyrir runnið til Jóhannesar. Þetta hefur allt verið leiðrétt bæði í fréttum Ríkissjónvarpsins og blöðum.
Nú hefði mátt ætla að málinu væri lokið og ekki höfð um frekari orðræða. En hvað gerist? Þrátt fyrir þessa leiðréttingu ítrekar Kristín Þorsteinsdóttir fréttamaður sem segist greina frá “staðreyndum og leita skýringa á þeim” ósannindin í Morgunblaðinu 26. apríl sl. þegar hún talar um “styrkveitingu Rannsóknarráðs Íslands til Jóhannesar Nordals, vegna útgáfu á verkum föður styrkþegans hjá Hinu íslenzka bókmenntafélagi […]” og endurtekur skýringar framkvæmdastjórans sem hún veit að eru á misskilningi reistar. Styrkþeginn var Hið íslenzka bókmenntafélag eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á og fjárhæðin helgaðist bersýnilega af því að verkefnið var óvenju viðamikið eins og nánar var útlistað í grein minni hér í blaðinu 23. apríl sl. Málflutningur af þessu tagi ber vitni um forherðingu þess sem hefur hann uppi “og er þá ásigkomulag hans hið háskalegasta, sem hugsazt getur” svo að vitnað sé í barnalærdómskver Helga Hálfdánarsonar, sbr. 63. gr.
Skilningi mínum á fréttamennsku er að dómi fréttamannsins ábótavant. Um fréttamat megi deila, en almennasta skilgreiningin sé “frávik frá hinu venjulega.”
Samkvæmt þessu hefur að mati fréttamannsins ekkert slíkt “frávik” komið í ljós á ársfundi Rannsóknarráðs nema þessi styrkur til Bókmenntafélagsins og þurfti þó að hagræða sannleikanum. Það merkir að allt annað hefur hjakkað í sama farinu og ekkert gerzt í vísinda- og fræðastarfsemi í landinu. Mér finnst það raunar nokkrum tíðindum sæta og vera heldur ískyggilegt afspurnar - og því frétt.
Útgáfulok 12 binda ritsafns eins snjallasta og áhrifamesta fræðimanns þessarar aldar telst augljóslega ekki heldur til slíkra “frávika”. Það efni sem verið er að koma á framfæri við Íslendinga skiptir greinilega engu máli að mati fréttamannsins. Ég er þó sannfærður um að þeir sem kynna sér ritsafnið og bera hag íslenzkrar menningar fyrir brjósti eru á öðru máli, telji útgáfuna til tíðinda og fjármunum sem til hennar hafa gengið vel varið.
Sigurður Líndal.

Báðar þessar greinar eru harla athyglisverðar og túlka svipaða afsstöðu og ég hafði gert á minnispunktum mínum. Fréttamennska frávikanna er hin mikla forsenda svokallaðrar æsiblaðamennsku. Þau hafa það varla að leiðarljósi á RÚV
Eða hvað?.

30. apríl, miðvikudagur

Apropó:
“Ungskáldið á Morgunblaðinu, með síkvikan huga, skarplegar athugasemdir og heitar kenndir, er einn þeirra sem minnisstæðir eru frá þessum árum. Þegar hann og Tómas komust á flug saman eins og oft gerðist, var gaman að vera viðstaddur. Það var ekkert hversdagsspjall. Matthías var einlægt að benda á ung skáld og höfunda og vildi að við gerðum meira fyrir þá.”
Úr sunnudagssamtalinu við Baldvin Tryggvason.

Úr ritdómi um Nei eftir Ara Jósefsson sem birtist í Morgunblaðinu 30. apríl:
“Árið 1960 kemst Jóhannes úr Kötlum svo að orði í greininni Flett tveim nýjum bókum sem hann birti í Tímariti Máls og menningar að íslensk ljóðlist standi nú í “einkennilegum blóma”, ekki síst vegna þess “hversu mörg barnung skáld sækja fram... af miklum þrótti og alvöru”. Greinin var að vísu umsögn um nýútkomnar bækur Þorsteins frá Hamri og Dags Sigurðarsonar. En ljóst má vera af samhenginu að tilefnið er stærra. Um þetta leyti voru sporgöngumenn atómskáldanna að kveðja sér hljóðs af miklum krafti. Frá því 1955 hafði hvert ungskáldið á fætur öðru vakið athygli með stórgóðum byrjendabókum, Hannes Pétursson gefur út Kvæðabók sína 1955, Jóhann Hjálmarsson Aungul í tímann 1956; bækurnar Borgin hló eftir Matthías Johannessen, Í svörtum kufli eftir Þorstein frá Hamri og Hlutabréf í sólarlaginu eftir Dag Sigurðarson koma út 1958.
Á þessum tíma vissu menn líka vel af ljóðum Ara Jósefssonar þótt eina ljóðabók hans, Nei, kæmi ekki út fyrr en árið eftir. Hún sætti því tíðindum þegar hún kom út. Hér var komið fram á sjónarsviðið ungt skáld sem orti skorinorð ljóð og var oftast nær ómyrkt í máli...” “Sömuleiðis á erótískt ljóð, Ást, sem á skilið að njóta meiri athygli en hingað til, margt sammerkt með þeirri dirfsku í kynferðismálum á þess tíma mælikvarða sem skáld á borð við Dag Sigurðarson og Matthías Johannessen leyfa sér!!

Kvöldið


Höfum verið að horfa á Orfeus decending eftir Tennessee William í annað sinn. Frábært leikrit. Ætli það hafi verið gerð betri kvikmynd eftir listrænu handriti en þetta snilldarverk með Vanessu Redgrave?
Efst um það.


1. maí, fimmtudagur

Birtist í Morgunblaðinu í dag, 1. maí:

“Þegar ég varð þess vís að Sjónvarpið ætlaði ekki að minnast 1. maí hátíðisdags verkalýðsins og Útvarpið sýndi engan áhuga á því að láta keflið ganga hönd í hendi og flytja þátt, sem fjallaði um einn merkasta atburð í sögu reykvískrar verkalýðsbaráttu, Kolagarðsbardagann eða Blöndalsslaginn sumarið 1923, kom í hugann að nú væru liðin 60 ár frá því að Maístjarnan, ljóð Halldórs Laxness birtist á prenti. Morgunblaðið væri kjörinn vettvangur til þess að minnast þeirra tímamóta. Þar væri á vísan að róa. Mér hefði jafnan reynst happadrjúgt að leita til ritstjóra þess. Gilti einu hvort um væri að ræða Matthías skáld Johannessen eða Styrmi hinn fróða Gunnarsson. Þeir höfðu jafnan tekið vel beiðni minni um rúm í blaði sínu þótt viðfangsefnin væru með ýmsum hætti andstæð stefnu þeirra. Þeir félagar eiga heiður skilinn fyrir frjálslyndi sitt og víðsýni í ritstjórnarstefnu. Þess vegna dafnar Morgunblaðið.
Pétur Pétursson.

 

3. maí, laugardagur


Flutti svofellt ávarp á ársfundi okkar manna í dag,óbreytt:

Ávarp á aðalfundi Okkar manna,
þ.e. fréttamanna Morgunblaðsins úti á landi

Ágætu fréttaritarar.
Ég ætla ekki að fara að tala um mikilvægi ykkar fyrir Morgunblaðið og þjóðlífið í landinu. Ég ætla ekki heldur að minnast á mikilvægi Morgunblaðsins. Allt þetta þekkjum við og þurfum vart um að ræða. En ég hef áhuga á því að nefna hér í örfáum orðum það sem hefur leitað á huga minn síðustu daga og þá að sjálfsögðu í sérstökum tengslum við starf okkar allra.
Við Styrmir kollegi minn vorum eitthvað að tala um það í vikunni að Íslendingar væru nokkuð sérkennilegt fólk. Það hegðaði sér raunar ævinlega eins og í kaupstaðarferð. Ef maður heyrir hávaða á flugvöllum erlendis er ljóst að þar eru Íslendingar á ferð. Ef maður er á skemmtunum er engin leið að komast undan fólki sem sífellt er að abbast upp á mann, spyrja þessa og hins og má þakka fyrir ef maður losnar við þessa óboðnu gesti með lagni og fortölum. Ég var í hádegismat með Kristjáni Karlssyni fyrir nokkrum mánuðum, þá kom ungur sjómaður að borðinu okkar, settist og hóf samtal sem var í því fólgið að hann talaði einn næsta klukkutímann; hvíldi sig aðeins meðan hann kveikti sér í nýrri sígarettu. Hann vissi allt um sjómennsku, allt um fíkniefnasölu, allt um bókmenntir og listir en þá fyrst fóru að renna á okkur tvær grímur þegar í ljós kom að hann vissi allt um indíánamenningu Suður-Ameríku og var sérfræðingur í búddatrú. Hann var að vísu ekki íslenzka þjóðin, veit ég vel, en hann var einskonar tákngervingur þeirra sem nú ber mest á í fjölmiðlum og ætla sér ekki af í sjálfsdekri og sjálfsmyndarbrengli. Og þeir eru æði margir á þvísa landi, Íslandi, nú um stundir. Eða, ættum við kannski frekar að segja, það ber æði mikið á þessu fólki sem er hávaðasamt, veit allt, talar mikið um sjálft sig og skemmtir sér eins og í kaupstaðarferð. Steinn Steinarr sagði á sínum tíma í samtölum okkar að líf okkar væri með þeim hætti að við værum á leið í kaupstað en hefðum gleymt því hvað við ætluðum að kaupa. Mér er nær að halda að þetta sé einkennandi fyrir það poppaða umhverfi sem þrýstir sér inn á okkur og gerir háværar kröfur um það að helzt séu engin verðmæti önnur en þau sem hægt er að kaupa fyrir peninga og þá öllu fremur að þau verðmæti séu öðru eftirsóknarverðari sem hægt er að öðlast með uppákomum og sjónvarpslífi. Það er yfirborðið sem gildir. En kannski hefur þetta ævinlega verið svona, ég veit það ekki.
Pascal segir að enginn tali um annan með sama hætti við hann sjálfan og aðra. Enginn vinátta væri til ef menn vissu hvað um þá væri sagt að þeim fjarstöddum. Þá væru ekki til fjórir vinir í veröldinni, segir Pascal. Sjálfselskan sé einkenni okkar og við höfum tekið hana í þjónustu okkar með ágætum árangri. En hann bætir því við að hún sé ekkert annað en hin falska ímynd kærleikans. Um þetta hugsar enginn nú á dögum, ekki frekar en á tímum þessa mikla vísindamanns og heimspekings. Og hann fer ekki fallegum orðum um hégómann. Sem sagt, maðurinn hefur ekkert breytzt og engu líkara en Pascal sé enn á meðal okkar.
Ég minntist á samtal okkar Styrmis í vikunni og þegar við höfðum afgreitt kaupstaðamynstur Íslendinga leit hann á mig og sagði, En þeir kaupa samt Morgunblaðið! Ég hef hugsað um þessa setningu. Hún skiptir máli en svarið við henni er mikilvægur þáttur í starfi okkar og afstöðu.
Áður en ég kem að því sem hefur leitað á hugann vegna samtals okkar kolleganna vil ég minna á þau orð Pascals sem er að finna í Hugsunum hans, að ástæðan til þess að við viljum helzt vita allt, afla okkur upplýsinga, frétta eitthvað, sé oftast einungis sú að við þörfnumst einhvers til að tala um. Það færi enginn í neitt ferðalag ef hann ætti að þegja um það, segir Pascal. Ánægjan af því sem við upplifum eða sjáum er ekki nóg, ef við fáum ekki tækifæri til að segja frá því.
Það má vel vera. En ég hygg þó að ferðalöngun okkar sé flóknari en svo því að við erum auðvitað að sækjast eftir upplifun, nýrri reynslu, ánægju; fróðleik. Því sem er frásagnarvert. Og þá erum við komin að kjarna blaðamennskunnar; kjarna þess sem hefur leitað á hug minn undanfarna daga.
Hvers vegna skyldi Morgunblaðið nú vera prentað í nær 60 þúsund eintökum um hverja helgi? Hvers vegna sækist fólkið í landinu, bæði þeir sem lifa kaupstaðalífi, og hinir, eftir því að fá Morgunblaðið í hendur og lesa það? Þrátt fyrir  allt og allt hefur íslenzka þjóðin löngun til þess að kynnast því sem er markvert; afla sér fróðleiks. Og þá helzt í því blaði sem bezt er treyst til þess að fara rétt með staðreyndir. Það er að minni hyggju sú einfalda ástæða þess að vettvangur okkar heitir samkvæmt almannarómi “blað allra landsmanna”. Þangað er sótt þegar menn vilja vera nokkurn veginn vissir í sinni sök. Það er ekki sízt af þessum sökum sem starf ykkar og okkar allra er mikilvægt, þótt ég telji enga ástæða til þess að tíunda það enn einu sinni. Og hvers vegna treysta menn Morgunblaðinu. Jú, það er vegna þess að það er ekki blað frávikanna. Frávikanna? spyrjið þið, hvað á hann eiginlega við? Og þá kem ég að kjarna málsins og því sem hefur leitað á huga minn.
Nú í vikunni hafa birzt fréttir í ríkissjónvarpinu sem hafa orðið tilefni til nokkuð harðvítugra deilna því að tveir háskólaprófessorar hafa talið að sér vegið í umfjöllun hins opinbera sjónvarps. Ég ætla ekki að tíunda efni þessara deilna eða fjalla um það sem þeim hefur valdið enda hafa prófessorarnir báðir, Vésteinn Ólason og Sigurður Líndal flutt mál sitt í Morgunblaðinu, svo og viðkomandi fréttamaður, og sýnist sitt hverjum. En það er eins og venjulega, allt þjóðlífið hafnar á þessu mikla torgi sem ég hef kallað svo, vettvangi Morgunblaðsins, og er það í senn ánægjulegt og umhugsunarvert. Það sem vakti athygli mína var málsvörn fréttamannsins sem heldur því fram í grein sinni í blaði allra landsmanna, að frétt sé frávik frá hinu venjulega eins og komizt er að orði. Mér er til efs að þetta sé einhver alhliða skilgreining á hugtakinu frétt. Frávik frá hinu venjulega getur að sjálfsögðu verið hnýsileg frétt. En hitt er miklu mikilvægara að frétt getur einnig verið frekari upplýsingar; fróðleikur. Frétt þarf alls ekki að vera frávik, síður en svo. Hún getur fjallað um útgáfu bókar, afmæli, leiksýningu og að lóan sé komin. En hún getur svo auðvitað einnig fjallað um frávik frá hinni hversdagslegu venju, t.a.m. ef einhver tæki uppá því að bíta hund. En vel að merkja, það getur einnig verið frétt ef hundur bítur mann. Spyrjið bréfberann í Kópavogi sem neitaði að bera út póstinn í ákveðið hús þar í bæ vegna hundsins sem ógnaði honum og glefsaði í hann.
Af málsvörn fréttamanns Stöðvar 1 sé ég í hendi mér þann mun sem getur verið á blaðamönnum á öðrum fjölmiðlum og þeim sem starfa við Morgunblaðið. Við lítum svo á að “það venjulega” eigi skilyrðislaust erindi við fólk ef það er fréttnæmt á annað borð, þótt það sé ekki frávik eins og nauðganir eða morð, heldur einungis hversdagsleg atvik sem eru forvitnileg af ýmsum ástæðum. Ég tel aftur á móti að frávik sé einatt efniviður í svokallaða æsifréttamennsku og oftar en ekki afsökun fyrir henni þótt ég sé ekki að saka fréttamann sjónvarps um slík vinnubrögð. Og þótt frávikin teljist fréttnæm er alltaf ástæða til að fara varlega í sakirnar og aldrei nauðsynlegt að gera meira úr þeim en efni standa til þótt slík vinnubrögð séu oft og tíðum freisting þeirra sem þurfa að hafa söluna í huga þegar þeir sitja við tölvuna. Ef fjölmiðill á að vera trúverðugur spegill umhverfis og samtíma verður hann að sýna alla myndina, en ekki einungis þá afskræmingu sem frávikið fjallar oftast um.
Lífið er dýrlegast í hversdagsleika sínum, hinni venjulegu uppákomu. Nýtt skip getur verið fréttnæmt, aflabrögð og aðalfundur Granda, hvalablástur og margvísleg atvik úr hversdagslífinu. Fréttamennska þarf ekki, svo er guði fyrir að þakka, að vera svartur galdur; hún er ekki síður hvítur galdur eins og það sem er jákvætt, fróðlegt, uppbyggilegt og ástæða til að fagna. Hneykslin eru þó gómsætust, veit ég vel. Ávirðingar annarra sem sætta okkur betur við sjálf okkur, þær eru einatt frávik. Ef Pascal væri á meðal okkar gætum við ekki svarað honum með þeim, til að réttlæta starf okkar, en við gætum gert það með því að tala um margt í hversdagslegri reynslu hvers og eins. Það er margt í þessari reynslu fróðlegt og uppörvandi og fréttnæmt af þeim sökum.
Hitt er svo annað mál að frávik innan hversdagslegrar venju eru oft og tíðum mestu fréttirnar. Alvarleg slys, óvæntar vísindauppgötvanir, geimferðir; fyrsta sporið á tunglinu. Hin sjúklegu frávik eru annað og alvarlegra efni; morð, meiðingar, ofbeldi. Ég óttast því miður að of margir fréttamenn nú um stundir telji sér einna skyldast að koma þessum frávikum til skila og þá ekki sízt þeim mistökum og víxlsporum sem geta eyðilagt líf þeirra sem létu freistast, og því miður, einnig líf saklauss fólks sem tengist ógæfufólki með ýmsum hætti. Fréttamaður sem tekur slíkar fréttir ekki nærri sér er á rangri hillu. Hann ætti að starfa á öðrum vettvangi en þeim sem er hverjum aðgátsmiklum og varfærnum blaðamanni dýrkeypt reynsla í hvert skipti sem starf hans krefst þess að vegið sé að æru og lífshamingju þeirra sem í ógæfu lenda, og þá ekki síður aðstandendum þeirra. Þeir eiga ævinlega um sárt að binda, þessi saklausu fórnarlömb frávikanna.
Það eru að vísu margar skýringar á óvenjulegri útbreiðslu Morgunblaðsins. En það sem ég hef nú sagt eru fyrsta, annað og þriðja boðorð blaðsins. Og ég er þess fullviss að útbreiðsla þess er ekki sízt með þeim hætti sem raun ber vitni, vegna þess að fólkið í landinu hefur, þrátt fyrir allt og allt, meiri áhuga á því sem er jákvætt og uppbyggilegt en hinu sem er hráefni eymdar og ógæfu.


4. maí, sunnudagur

Orti þessi tvö hversdagsljóð í dag. Þarf eitthvað að bæta.

Spennið beltin(!)

Á leiðinni úr Garðinum til Keflavíkur
er lítið timburhús við golfvöllinn
og veit til hafs, en áður en komið er
að honum afleggjari að kirkjugarðinum, þar
endar Garðahreppur og á vegamótunum
er stórt skilti með áletrun
sem skiptir öllu máli á krossgötum lífs
og dauða:

Góða ferð(!)

Fjölmiðlalíf


Í stjórnmálum verður
að gæta þess vandlega
að koma ekki til dyranna eins og maður er
klæddur, til að mynda ógreiddur og á
náttkjólnum
ef maður er þriggja barna móðir
og forsætisráðherrafrú
í Downingstreet 10, þá er
óráðlegt að sækja mjólkina
við útidyrnar að morgni dags vegna blaða-
ljósmyndara.

Þeir verða einng að sjá sér
farboða

og sínum þremur börnum.

Yrki þessi kvæði inní Canetti/Pascal flokkinn.


8. maí, fimmtudagur

Sveinn Björnsson,til minnis:


Leiðir okkar Sveins Björnssonar lágu fyrst saman þegar við sigldum heim á Gullfossi, ásamt fjölskyldum okkar, í vitlausu veðri haustið 1966 ef ég man rétt. Við fórum frá Leith og fengum skaplegt veður fyrsta sólarhringinn, en þá brast hann á með vitlausu veðri og veðurofsninn jókst við Færeyjar og lítill bati þegar nær dró Íslandi. Ráðgert hafði verið að efna til samkomu í skipinu þegar við sigldum framhjá nýjasta barni móður Jarðar, Surtsey. En veðurofsinn þá svo mikill að samkoman var blásin af. Sveinn kunni vel að stíga ölduna og betur en ég því hann hafði lengi verið á sjó, en ég einungis skamman tíma á Brúarfossi, sællar minningar. En sem sagt, þarna lágu leiðir okkar saman og við þekktumst upp frá því. En kynni okkar hófust fyrir alvöru þegar ég skrifaði samtal við hann sem birtist í Samtöl M, V bindi 1985, Ég hef reynt að láta ekki fang á mér fá. Það var gaman að kynnast Sveini og gott að vera vinur hans. Hann var einhver vinfastasti maður sem ég hef kynnzt, einstaklega þakklátur fyrir allt sem fyrir hann var gert, hreinskiptinn, opinskár, einlægur. Og af þessum eiginleikum óx list hans sem var eðlislæg, barnsleg, og einlæg. Hún hefur náð fullum blóma í síðustu verkum hans og sýningin í Gerðarsafni í Kópavogi er bautasteinn sem mun þola verri veður en við upplifðum á Gullfossi.
Ég hef endurskrifað samtalið við Svein, lagfært misfellur og gert það betur úr garði og mun það, að ég held, verða birt í bók um listmálara sem kemur út á þessu ári eða því næsta, en þar er talað við mann sem lifði fremur sjómannslífi en sjónvarpslífi, og öll list hans ber þess einhver merki sem betur fer.
Ég hef ekki í hyggju að tíunda hér samstarf okkar Sveins og vináttu. Þess sér stað víða annars og þá ekki sízt í nokkrum fallegum og eftirminnilegum myndum sem hann gerði við nokkur ljóða minna og Jón Karlsson í Iðunni var svo elskulegur að gefa út 1989, ef það mætti gleðja nokkrar haustkaldar sálir hér norður á hjaranum. En að leiðarlokum langar mig miklu fremur til að vitna í nokkur bréf, ritstýrð, sem Sveinn sendi mér vegna vináttu okkar og áhuga á þeim hulduheimum sem eru ævintýri okkar og umhverfi.

23.2. 1985, Kanaríeyjum.
Fullkomnun er ekki æskileg; að vera eitthvað, er númer eitt. Hvenær nær maður því? Það er gaman að kynnast mönnum sem eru ekki að hugsa um aukaatriði. Stórkostlegt; að til séu þannig menn, sannir og fínir. Fólk verður að trúa á lífið það er ekki nóg að trúa á lífið eftir dauðann.
Vinna fyrir sínu brauði, vera duglegur, þó maður sjái aðra hafa lítið fyrir því. Verst er að á Íslandi er mönnum hegnt fyrir það eitt að vera duglegir og jafnvel eru duglegir menn og vel gefnir öfundaðir. Það hefur kannski alltaf verið svo. En það er mörgu hægt að breyta.
Skáldin vinna þegar aðrir sofa. Ég held að fólk viti ekki hvernig list verður til.

 

4.3. 1985.
Það er nú meira hvað þetta blessaða land okkar er gott. Þó maður sé í hita og sumarsól, með pálma á báðar hendur, þá verð ég klökkur þegar ég hugsa um þetta skóglausa land og steinana mína. Eitt er þó skemmtilegt hérna. Það er byggingarstíllinn. Fallegur arkitektúr. Þeir gætu lært mikið af honum heima.
Fór um daginn upp í fjöll að skoða hella sem fólk býr í. Laust við öll þægindi og munað. Hefur eina geit og eina belju. Virðist vera ánægt með lífið. Menn reykja sína pípu. Allir glaðir og syngjandi. Þetta er fallegt fólk. Það var talið til skammar fyrir spönsku þjóðina fyrir nokkrum árum og byggðar blokkir niðri í bæ. Allt fólkið horfið úr blokkunum eftir nokkra daga. Það var farið heim.

Krýsuvík 24.7. 1985.
Nú finnst mér orðið langt síðan við hittumst. Hef haft mikið að gera og þú líka. Í dag hringdi ég á Moggann og var sagt af blíðri röddu, að þú hefðir farið út á land í nokkra daga. Tók mér líka frí í dag og næstu daga. Það er svo gott veður. Er að mála þakið á húsinu, ekki myndir nema í huganum. Það kom kunningi minn úr  RLR (Rannsóknarlögreglu ríkisins) og vildi hjálpa til. Svona vini á ég þó ég vissi það ekki. Það er gaman og hann sagðist koma aftur á morgun. Það er ýmislegt sem maður veit ekki. Það er mjög gott. Ég hef verið að reyna að komast í gegnum skriftina þína á ljóðunum. Lesa oft og leggja minn skilning í þau. Gera formyndir og skrifa þá ljóðin upp í sama hlutfalli og þú hefur gert. Einmitt í bókina sem ég sýndi þér. Það eru svipuð hlutföll og á pappírnum sem þú skrifaðir á. Þetta er gaman. Þetta hef ég ekki gert áður og þótt þú eða aðrir verði ekki ánægðir með þessi verk, þá hef ég og á eftir að fá mikið út úr þessu.  Hefi nú þegar gert sex myndir.
Mikið var gaman að Morgunblaðið skyldi hafa viðtal við Vigni Jóhannsson. Þú veizt að ég sagði þér í bréfi fyrir nokkru (margt löngu eins og skáldin segja) að mér litist einna bezt á hann af ungum listamönnum.
Vignir kom til mín hingað upp í Krýsó sl. mánudag. Sáu myndir mínar í Öldutúnsskóla. Hrifnæmur ungur maður. Hann var mjög hrifinn, held ég, af myndunum mínum. Sagði að pensilstriksskriftin væri svo lífleg. Hann orðar hlutina skemmtileg.
Ég tek nú, vinur, allt með fyrirvara. Búið að ljúga því (svo lengi) að ég kunni ekki að teikna og mála. Það er samt allt að lagast, held ég. Gerir ekkert til. Ég fer nákvæmlega þá stefnu sem mér sýnist. Kannski er það í norð-suður eins og strákurinn sagði í Vestmannaeyjum, þegar hann var spurður um, hvaða stefnu skipstjórinn hefði fyrirskipað til að komast á fengsæl mið.
Las í Morgunblaðinu sl. sunnudag nokkurs konar leiðara (Reykjavíkurbréf) um Vestmannaeyjar sem ég veit að þú hefur skrifað. Það var helvíti gott. Gaman að einhver getur skrifað svona fallega. Og allt satt. Ég held nefnilega að fólk í dag hafi ekki skilið hvað í Vestmannaeyjum var fínt fólk, eiginlega sérþjóðflokkur af allri gerð. Þetta er kannski að verða nú eins og það var fyrir gos, en þó varla, held ég ennþá. Þetta var alveg sérstök grein og vel skrifuð, þú hlýtur að hafa gert hana. Mig minnir að þú hafir farið til Eyja nýlega. Annars hefðir þú ekki getað skrifað þetta.

Gran Canaria, Playa del Ingles, 5.2. 1986.
Svona er ég nú, að allt í einu langar mig að tala við þig og þá er skrifað. Ég vona bara að þú sért traustur og hafir eitthvað getað ort. Ég er búinn að mála á allan pappír sem ég fór með. Það er dálítið skrítið að nenna ekki út að borða með ágætu fólki. Vil heldur vera einn og teikna og mála. Það heldur áreiðanlega að ég sé eitthvað klikkaður og kannski er ég það?
Hef ekki löngun til að setja mig niður eins og í gamla daga og teikna það sem augað sér. Þarf að sýna þér einhvern tíma húsamyndir frá því í gamla daga. Ég geng ekki aftur fyrr en ég er dauður. Ég hefði þurft að mála þær betur eins og allt. Ekki vilt þú, Matthías minn, fara að búa til kvæði eins og þú gerðir í gamla daga.
Þú fyrirgefur þetta rövl í mér, en þetta hjá Spánverjunum, að hafa hús uppi á fjöllunum er dálítið skemmtilegt. Einnig þessi tré sem vaxa upp af grjóti, að manni finnst.

19.7. 1987.
Hvernig skyldi þér líka kápurnar. Ég fer auðvitað ekki langt frá sjálfum mér. Þetta er kærkomin æfing. Ykkar vinur, SB.
(Hann er byrjaður að teikna kápurnar á bók Iðunnar sem kom út rúmu ári síðar og hlaut nafnið Veröld þín.)

Krýsuvík 18.12. 1987.
Nú fékk ég löngun að skrifa þér á svona kápu. Það er miklu erfiðara en að mála hana. Það er mitt leyndarmál. En að skrifa þér er anzi erfitt, af því að ég veit að þú lest svo margt athyglisvert. Ég er ekki svo vitlaus að ég viti ekki að bók okkar er mest fyrir mig, en þó lítilsháttar fyrir þig. Ég lagði mig allan fram til að gera þessar myndir og sumir telja þær jafnvel það bezt sem ég hefi gert. Það er þeirra skoðun! Þú veizt að ég get nú ýmislegt, er það ekki?
Það eru ekki margir sem sjá mig, kannski er það þeirra feill!
P.S. Er búinn að setja upp jólatré hér sem er úr náttúrunni, eins og var á Skálum á Langanesi. Ætla að hafa heima nýmóðins, en líka lifandi jólatré. Gaman væri að sjá ykkur hér eða heima um jólin, vinir mínir.
Gerði fjórar kápur í kvöld.

Krýsuvík 3.11. 1988.
Ég þakka kærlega fyrir síðast. Það var skemmtilegur sunnudagur og gaman að sjá vini sína í reynd. Nú hef ég ekki, vinur minn, heyrt í þér síðan og leiðist það. Veit reyndar að þú hefur í mörgu að snúast, þ.e.a.s. 75 ára afmæli Morgunblaðsins. Mér fannst það stórkostlegt að þið skylduð gefa bækluðum íþróttamönnum 1 milljón, svo og ungum skáldum tækifæri. Þessa verður minnzt, vona ég. Það hlýtur að vera eftirtektarvert hvað Morgunblaðið er menningarlegt í hugsun og verki.
Ég hefi verið að reyna að mála, sem er mitt líf. Alltaf að reyna að gera betur. Mér finnst ég vera að þroskast. Líklega er ég frekar seinþroska.
Örlög sem maður getur ekki flúið og reynir ekki.
Það var mjög fagurt þegar ég kom hér í dag. Allt svo tært og hljótt, undurkyrrt.
Þegar ég kom úr göngutúr kl. 17.00 fékk ég löngun til að skrifa þér. Kannski vegna þess að ég held þú þurfir að komast í kyrrð öðru hverju. Þú mátt ekki útkeyra þig meira en orðið er. Heilsan er allt og skáldskapurinn. Ég hlakka til að sjá nýju ljóðabókina þín.
Lifið heil.

24.2. 1989.
Það er ómetanlegt að vita að maður á tryggan vin. Þakka ykkur fyrir að nenna að koma til mín 19. febrúar sl. Góðir vinir eru Guðs gjöf.
Veiztu það, Matthías minn, að ég gleymdi vatnslitakassanum heima. Hvort þetta veit á eitthvað vont, að ég eigi ekki að mála, veit ég ekki, en ég notaði svamp sem ætlaður er í eldhúsið. Málaði bara með honum og viskustykkinu þar sem þörfin var mikil. Ég hugsa að ég myndi mála með fótunum ef ég hefði ekkert annað.

Ódagsett.
Ég álít að Guðmundur (Daníelsson) hafi verið gott skáld. Hann þurfti að vinna með skáldskapnum og náði langt. Lengra en menn kannski halda í dag. Þetta var maður sem lifði og skrifaði mikið með sinni vinnu eins og við og fleiri.
Það er enginn efi að hann var skáld, en þeir sem eru að bjástra við að setja menn í flokka í skáldskap, vissu ekki hver hann var. Hann skrifaði gott og fallegt mál; það mál sem ég skil. Mér fannst það fallegt sem þú skrifaðir um hann látinn. Ég veit ekki hvort hann var minna skáld en Þórbergur. Ekki eins fastur í pólitík og Þórbergur sem mér finnst gott. Skáld eiga að vera frjáls. Kommúnisminn hefur ráðið of miklu í listum eins og þú auðvitað veizt. Gáfaðir, en höfðu ranga hugmynd um lífið.
Það er gott að vera burtu frá þessu. Heyra ekki neitt í fjölmiðlum. Og sjá ekkert í sjónvarpi.

Þannig var Sveinn Björnsson. Þannig minnumst við hans og þannig söknum við hans.

Það er ekki langt síðan Sveinn sagði,
Ég má ekki vera að því að deyja, ég á svo margt ógert.
Og nú er hann farinn, meira að starfa guðs um geim.
Það var bjargföst sannfæring hans sjálfs, að svo yrði.


8. maí, uppstigningardagur

Hef verið að lesa The Human Province eftir Elias Canetti. Hann segir í formála fyrir þessum hugleiðingum sínum að þær njóti frelsis hins óvænta; að þær séu einungis til vegna þeirra sjálfra og hafi engan annan tilgang; því síður að hann ætli nokkru sinni að lesa þær aftur eða breyta þeim með nokkrum hætti; “björguðu mér frá banvænni lömun”! Stöðvaði við þessi orð því að þau lýsa svipuðum ástæðum fyrir því að ég hef verið að skrifa þessa dagbók, mér til hugarhægðar. En þó, andstætt Canetti, einnig til að muna. Neanderdals-maðurinn kunni ekki að tala. Þess vegna gat hann ekki munað. Kynslóðirnar gleymdu reynslu sinni. Þess vegna er talið að þessi frummaður hafi dáið út. Hann átti enga reynslu og engar minningar. Minningar eru hvað mikilvægastar í lífi mannsins, hvað sem hver segir. Og það er eitt hið fáa sem skilur okkur frá dýrunum að við getum tjáð þær; geymt þær. Það er ekki lítils virði.
Eitt af því sem við getum munað vegna þess að við getum tjáð okkur er sú ömurlega staðreynd að það var betra að vera svín Heródesar en barnið hans, eins og Pascal nefnir á einum stað í Hugsunum sínum. En hann segir einnig að maðurinn hafi átt eins konar fyrirheit um að vera guð í sköpun, en hafi fyrirgert því með lífi sínu. Syndin helltist yfir hann og hann varð dýrum líkur. En minningin og reynslan segir okkur líka það sem Pascal leggur höfuðáherzlu á, að vegna náðarinnar getur maðurinn verið guðum líkur, “en án náðar er maðurinn eins og ómælandi dýr”.
Það er minningin sem gefur okkur fortíð; og reyndar einnig framtíð. Og Pascal heldur því fram að við höfum meiri áhuga á þessari fortíð og framtíðinni heldur en nútíðinni; það má vel vera, ég veit það ekki. Það er svo margt sem ég veit ekki, því miður. En ég veit aftur á móti að nútíminn er í endalausum tófuspreng á eftir hérum sem engu máli skipta, rétt eins og enskir aðalsmenn. Líf þeirra var nú ekki alltaf hátt á hrygginn reist!
Það er svo margt sem við vitum vegna þess að við munum; svo margt sem við munum vegna þess að við getum tjáð okkur. Og af þessu getum við dregið ályktanir; lært. Við getum t.a.m. íhugað þau orð Pascals að sá sem sér ekki tómleika heimsins er sjálfur tómur. Einnig, að það var lítið sandkort í þvagfærum Cromwells sem olli dauða hans, að mér skilst, og þannig var brezka konungsdæmið endurreist. Það var sem sagt byggt á sandkorni. Ég hef svo sem alltaf vitað þetta(!)
Pascal segir að manneskjan sé augsýnilega sköpuð fyrir hugsunina; í henni sé fólginn mikilleiki okkar og allt okkar gildi. Og það sé skylda okkar að nota hana vel.
En hvað er það svo sem mennirnir eru að hugsa um?

 Það sama og á dögum Pascals; dans, söng, skemmtanir, slagsmál og þrá eftir einhvers konar bessastaðaglysi. Einkennilegt, að maðurinn skuli aldrei breytast neitt; þrátt fyrir framfarir, þrátt fyrir aukna þekkingu; vísindi og meiri reynslu. Hann er áreiðanlega alvarlegasta prentvillan í lífsins bók!
Í kafla sem ber yfirskriftina 1963 í hugleiðingum Canettis lætur hann einhvern P. tala. Hann er á móti hinum dauðu. Hann vill að jörðin sé fyrir okkur sem enn lifum. Hann vill gera tunglið að einhvers konar sorphaug og kirkjugarði. Mér datt í hug að það væri hægt að afgreiða þessar hugleiðingar Canettis með þessum hætti:

Jörðin er fyrir okkur sem lifum.
Gleymum hinum dauðu.
Bönnum minningarorð og dánartilkynningar.
Burt með minningar, þær drepa á dreif.

Sendum hina dauðu til tunglsins.
Slökkvum á þessu ljósi sem vex til einskis
inn í nótt og myrkur.
Við þurfum á kirkjugörðum og sorphaugum að halda.
Breytum tunglinu í legsteinslausan kirkjugarð.

Eða Sorpu.

Jörðin er fyrir okkur
sem lifum, tunglið
fyrir hina dauðu; þá
sem við bönnum eins og minningu.
Þá sem deyja í minningunni.

Án upprisu.

Las grein eftir Mario Vargas Llosa sem birtist í nýju tímariti, Prospect, þar sem hann segist varla hitta nokkurn mann sem trúi því að bókmenntir þjóni öðrum tilgangi en drepa á dreif leiðindum í strætisvögnum og neðanjarðarbrautum. Gagnrýnendur eins og George Steiner séu farnir að trúa því að bókmenntir séu nú þegar dauðar og Naipaul hafi lýst því yfir að hann muni ekki skrifa fleiri skáldsögur vegna þess að greinin fylli hann einhvers konar ógeði! Þrátt fyrir allt þetta séu víða um heim menn sem óttast rithöfunda, bæði í Nígeríu, Bangaladesh, Alsír þar sem múslimskir bókstafstrúarmenn drepa rithöfunda, Kairó, Norður-Kóreu, Kúbu, Kína, Laos, Burma og víðar. Það sé einungis í hinum alfrjálsu lýðræðisríkjum sem bókmenntirnar séu að verða einhvers konar hjástund og metsöluglens á sama tíma og þær séu taldar lífshættulegar í einræðisríkjum.
Ætli þetta hafi ekki alltaf verið svona, ég veit það ekki.
Llosa segir:
Auðvitað hefur þetta verið svo og mun ekki breytast hvað sem ljósvökum líður.
En það er rétt hjá Llosa að bókmenntir deyja ef þær eiga einungis að keppa við uppákomurnar í sjónvarpi; ef þær eiga einungis að vera til dægrastyttingar; til skemmtunar. Hann segist sjá tvær til þrjár kvikmyndir í viku hverri og oft horfa á sjónvarp. Hann hafi ekkert á móti þessum miðlum, síður en svo.
Ég tek undir það og mér finnst einnig hitt íhugunarvert sem hann bætir við að góð bók skilur eftir sig varanleg merki. Góðar bókmenntir fylgja okkur alla tíð. En þær þurfa ekki að vera leiðinlegar, þær eru oftast einnig skemmtilegar. Llosa heldur því fram að skemmtanir í kvikmyndahúsum og sjónvörpum sé uppákoma sem gleymist fljótlega. Það á vafalaust við í flestum tilfellum, en ekki öllum. Það eru til góðar undantekningar sem betur fer. Kvikmyndalistin er mikilvæg nýjung, ef vel tekst til. Að öðrum kosti heldur þunnur þrettándi. Það er ritað mál einnig, þótt ég efist ekki um að það sé rétt sem Llosa segir að bækurnar sem hann hefur lesið hafi mótað hann og hann væri annar maður, ef hann hefði ekki kynnzt þeim. “Þessar bækur sem sköpuðu mig, breyttu mér, bjuggu mig til og þær halda áfram að breyta mér... það er ekkert sem gerir okkur eins góða grein fyrir því hverju mannleg grimmd getur komið af stað eins og bókmenntir”. En áhrifamikil kvikmynd getur einnig stuggað við okkur.
Lýðræði er bezta stjórnarfar sem maðurinn á völ á. Það er náttúrulega óþolandi í aðra röndina eins og allt sem heyrir manninum til. Það er t.a.m. yfirgengilegt hvernig meirihlutinn getur kúgað minnihlutann hér heima á Íslandi. Við sitjum uppi með alls kyns síkópata í mikilvægum embættum vegna þess að meirihlutinn hefur kosið þá til að gegna þessum embættum. Minnihlutinn, allt þetta fólk sem notar hugsunina í þeim tilgangi sem Pascal nefnir, situr uppi með þessi sjálfumglöðu sýndarmenni í alls kyns embættum og segir lítið sem ekkert; fyrirverður sig fyrir glámskyggni þessa heilaga meirihluta. En við eigum ekki annan mælikvarða, því miður. Lýðræði skilar einnig merkilegu fólki í mikilvæg störf, svo er guði fyrir að þakka. Ég veit raunar ekki hvort frumskógurinn nálgast okkur, eða við séum á leiðinni til hans. Það veit kannski enginn. En bilið milli hans og okkar er ótrúlega stutt, þrátt fyrir allar framfarir, alla tækni; alla þekkingu. Eða - kannski ekki endilega þrátt fyrir þekkinguna, heldur einmitt vegna hennar; eða var það ekki hún sem leysti óargadýr atómsprengjunnar úr læðingi? Var það ekki hún sem opnaði atómbúrið?
Andspænis atómófreskjunni mænum við bænaraugum til guðs sem leyfði þessi ósköp; gaf okkur frjálsan vilja og samt veit hann eins og Pascal að maðurinn er ekki bara dýr, heldur frumstætt dýr sem hefur hlotið náðargjöf frá skapara sínum. Þeir vitru tala aldrei um sjálfa sig, segir Canetti, en versta fólkið, segir hann einnig, eru þeir sem vita allt og trúa því að þeir viti allt. Kannski er það rétt hjá Canetti að það séu ormarnir sem hafi öll völdin; hver veit? Kannski veitti ekki af að endurbæta guð, ætli honum sé farið að förlast? Það skyldi þó ekki vera að hann sé orðinn deisti! Að hann hafi yfirgefið jörðina og látið lögmálin ráða sér sjálf; og mennina. Að hann sé hættur að vera sá verndandi faðir og allsvaldandi sem Jónas trúði á, vinur og faðir alls sem er. Óðalsbóndinn sem veit skil á öllum hlutum, ræktar jörðina með sínum grænu fingrum og verndar fólkið sitt. Það skyldi þó ekki vera(!) En ef svo væri og við neyddumst til að hætta að trúa á guð eða búa hann til - og þá í okkar mynd eins og gyðingar þá yrðum við jafnframt að axla það nýja verkefni sem biði okkar og Canetti lýsir þessum orðum: “Sá sem trúir ekki á Guð tekur á sig allar sakir veraldarinnar”.
Sem sagt, þetta er ekki einfalt mál! Það er kannski ekkert undarlegt þótt Canetti hafi komizt að þessari niðurstöðu: “Mér fellur bezt við Guð sem Tolstoy”!
Canetti segir einhvers staðar að Sagan sé risastór ormur sem hefi fangað heiminn. Hann skyldi þó ekki vera ásatrúarmaður án þess vita það! Og trúa á Fenrisúlf?

Já, sjónvarp. Auberon Waugh segir í Littery Review að þeim hafi tekizt að gera það svo leiðinlegt, að fólk sé farið að snúa sér aftur að bókinni. Ég var að glugga í The Week sem er blessunarlega ólíkt öðrum tímaritum. Þar er m.a. fjallað um sjónvarp. Þar segir að Bretar glápi að meðaltali í 3,5 klst. á dag; helzt á sápur. Talsmaður ITV segir að ekki sé unnt að breyta dagskránni því þeir mundu eyðileggja hana með því að troða upp á áhorfendur efni sem þeir vildu ekki. Sem sagt, markaðslögmálið í allri sinni dýrð. Í greininni segir að sjónvarpið hafi verið upp á sitt bezta þegar við bjuggum í einsþjóðfélagi en nú sé það liðinn tími og við búum í flóknu og margbrotnu þjóðfélagi og eina sem fólk eigi nú sameiginlegt sé hræðilegur ótti, eins og komizt er að orði. En þessir breyttu tímar muni laða fjölda fólks að alnetinu þar sem það getur valið það efni sem það hefur raunverulegan áhuga á. “Hið heimilislega áhorf” er deyjandi þáttur í samfélaginu, segja sérfræðingar sem allt vita. En þeir bæta því við að sá tími muni koma að við hörmum þetta “saklausa og ágæta” fjölskyldumynstur sem kallaði saman ólíkt fólk til heimilislegrar skemmtunar fyrir framan skjáinn.
Ekkert ætti að koma manni á óvart, en aldrei hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir að lesa upplýsingar um minnkandi sjónvarpsáhorf, eins og sagt er. Líf mannsins er á fleygiferð. Hraðinn hefur aldrei verið jafn mikill. Það er ekki stöðvazt við neitt. Þetta er eins og á berklahæli í gamla daga. Allt snýst um það að nota sem allra bezt hverja mínútu sem gefst. Tíminn stuttur, dauðinn á næstu grösum. Og að því kemur að sjálfsögðu að við gerum hann útlægan með einhverjum hætti, flytjum hann til tunglsins. Ætli það sé ekki nokkuð góð og hentug hugmynd?

Las grein í Newsweek, Er guð að hlusta? Þar segir að 54% Bandaríkjamanna biðji bænar á hverjum degi og 29% oftar en einu sinni á dag. 87% trúa því að Guð svari bænum þeirra, að minnsta kosti stundum. 85% segja að þeir sætti sig við að Guð verði ekki alltaf við bænum þeirra. Guð er víst ekki sjálfsali og fólk á ekki að nota hann sér til framdráttar, eða í eiginhagsmunaskyni, enda kom í ljós í fyrrnefndri könnun  að 36% biðja Guð aldrei að hjálpa sér í efnahagserfiðleikum eða til að komast áfram í lífinu. Og 51% telja að Guð sé ekkert að skipta sér af íþróttaúrslitum, hvað sem þeir segja heimsmeistararnir í boxi sem ýmist ákalla Alla eða Guð. Skyldi annars vera einhver munur á þeim? Það er áreiðanlega rétt sem einhver segir í þessari grein að heimurinn er ekki brúðuleikhús Guðs. Þessi setning er einnig ágæt: “Ef þú trúir eru sannanir óþarfar; ef þú trúir ekki, nægja engar sannanir”. Annars þurfa menn víst að æfa sig á bænum, rétt eins og á píanó og við skulum ekki gleyma því að jafnvel Kristur fékk ekki öllum bænum sínum framgengt. Undir lokin hrópaði hann til Guðs, hvers vegna hann hefði yfirgefið sig og hann bað um að bikarinn yrði tekinn frá sér, en Faðirinn gat ekki orðið við því. Og hlýðinn fór Kristur á krossinn. Hann drakk bikarinn í botn svo við gætum eignazt náðina; fyrirgefningu syndanna. Ef hann hefði verið bænheyrður, hefðum við glatazt. Mér lízt nokkuð vel á það að 82% Bandaríkjamanna snúa ekki baki við Guði, þótt hann verði ekki við bænum þeirra. Það sýnir þó nokkurn þroska. Samt er það eðlislægt í manninum að vilja þreifa á.
Það er sagt að Carl Sagan hafi engu trúað og hann hafi ekki viljað trúa. Hann hafi einungis viljað vita. Ég skil þetta vel. En er hægt að vita,  hver getur vitað? Er hægt að eyðileggja mesta leyndardóm lífsins með því að afhjúpa dauðann?

Í samtölum okkar séra Bjarna er talað um próferssor sem spurði vantrúaðan, hvort hann tryði á skynsemina. Hinn vantrúaði svaraði því játandi, en prófessorinn spurði þá hvort við gætum séð skynsemina. Hvar væri skynsemi hins vantrúaða fyrst við gætum ekki séð hana? Í fyrrnefndri grein er sagt frá því að Sagan hafi einungis viljað fást við “sannanir”. Trúaður vinur hans spurði, Carl trúirðu á ástina? Og Sagan svaraði, Auðvitað trúi ég á hana. Þá var hann spurður, Geturðu sannað að til sé ást? Auðvitað, svaraði Carl Sagan, en viðurkenndi svo síðar að ástin væri eins og trúin; það væri ekki hægt að sanna hana, en það merkti ekki endilega að hún væri ekki til.
Mér hefur alltaf þótt merkilegar rannsóknir vísindamanna um reynslu þeirra sem upplifa dauðann í veikindum eða slysum en koma aftur inn í líkamann og geta lýst því sem fyrir ber. Við höfum ekki komizt nær því að sanna framhaldslífið. Nú les ég í U.S. News & World Report, marz-heftinu, að 80% Bandaríkjamanna trúi á framhaldslíf og eigi það við um fólk af öllum trúarbrögðum. Margir telja sig hafa orðið fyrir  reynslu sem sanni að líf sé eftir líkamsdauðann. Ég hef talað við margt slíkt fólk og skrifað samtöl þar sem slíkri reynslu er lýst. Haft er eftir konu sem upplifði eitthvað svipað að hún héldi ekki að Guð væri til, heldur vissi hún það. Aðrir segjast hafa komið til baka fullvissir um andlega reynslu af öðrum heimi. Allt þetta hafði ég heyrt, margoft. En ég stöðvaði við fullyrðingar taugasérfræðings við háskóla í Ontario, Persingers, sem heldur því fram að unnt sé að framkalla með rafmagnsstuði fyrir ofan hægra eyrað svipaða reynslu og þeir upplifa sem deyja líkamsdauða, en koma aftur og segjast hafa upplifað ljósið mikla eða göngin sem margir tala um. Þá sé einnig til lyf sem framkalli reynslu utan líkamans, svipaða þeirri sem fólk lýsir eftir ferðalag inn í eilífðina. Heilinn framkalli þessa reynslu til að lina þjáningar þeirra sem kveljast og eru langt leiddir. Ég skal að vísu ekkert um þetta segja. En þessar upplýsingar koma þvert á þær “sannanir” sem ég hef hingað til talið haldbærastar um væntanlegt líf mannsins á astralplaninu. En það gerir víst ekkert til, því að þessi leyndardómur verður líklega aldrei afhjúpaður hvort eð er.

Mér fannst nokkuð athyglisvert það sem Norman Mailer sagði í samtali við fréttamann NBC nú í vikunni. Hann hefur skrifað einskonar sjálfsævisögu Krists sem styðst við guðspjöllin, en Mailer notar skáldaleyfið og fer víst sínar eigin leiðir, ef honum býður svo við að horfa. Af samtalinu við fréttamanninn mátti ætla að hann virti þennan kristna grundvöll og, að mér skildist, því meir sem hann eltist. Hann sagði m.a.: Annað hvort er Guð alvaldur og þá ekki algóður, eða hann er algóður en þá ekki alvaldur. Og Norman Mailer kveðst hallast að því síðar nefnda. Um þetta hef ég oft hugsað og get vel sætt mig við skilgreiningu Mailers; að minnsta kosti í bili!

Nokkur atriði eftir lestur bókmenntagagnrýni í síðasta hefti Literary Review:

Ég hafði dálítið gaman af að lesa Anais Nin og nú er verið að gefa út dagbækur hennar ómengaðar. Gagnrýnandinn hefur ýmislegt við þær að athuga; telur að hún hafi aldrei getað borið heitar tilfinningar til neins, nema sjálfs síns. Get vel ímyndað mér að það sé rétt. Annars segir hún í þessum dagbókum: “Ég bý til gerviparadís”. Og hún segist aldrei ljúga í dagbókum: “Ég lýg aðeins að öðrum”. Þetta er víst tilvitnun í Maeterlinck sem Tómas vitnaði í þegar við áttum samtölin í Svo kvað Tómas.

Ég hef lesið margar bækur eftir Raymond Chandler. Ég vissi ekki að aðalsöguhetjan væri skírð eftir Marlowe House, en Chandler var lengi í Bretlandi og hlaut menntun sína þar. Hann var víst í einhverjum tengslum við Bloomsbury-fólkið, hlaut hvatningu Steinbecks og Maughams og Evelyn Waugh kallaði hann “bezta rithöfund Bandaríkjanna”. Samtöl hans eru mjög góð og hann hefur auga fyrir smáatriðum. En andrúm er styrkur hans sem rithöfundar. Og það er andrúmið sem öllu ræður, ekki sízt í glæpasögum.

Las grein um nýtt ljóðaúrval sem þeir félagar hafa gefið út, Heaney og Hughes, og heitir The School Bag. Höfundurinn segir að af þessari bók mætti helzt ráða að flest ljóð séu ort af dauðu fólki um dautt fólk; að efnið sé oftast sótt í skóga, akra og smáþorp, aldrei til bæja eða borga; að aldrei sé nefnt neitt sem gangi fyrir rafmagni, bensíni eða olíu og komist hraða en 10 mílur á klukkutíma. Sem sagt, að ljóðin komi þessu unga skólafólki ekkert við!!
Íhugunarefni, eða hvað?

Hef verið að líta á ljóð eftir Neruda. Góðar líkingar á víð og dreif:
Særir svörð þinn (um samfarir karls og konu); gin vindsins; vindurinn hremmir laufin; leggja net sín í útsæ augna þinna; útsævaraugu (fínar líkingar); brjóstin líkjast hvítum kuðungsskeljum (nokkuð gott); eyjarnar líkjast ungum mjöðmum (ómögulegt).
Orð eru vandmeðfarin. Líkingar eru eins og jarðsprengjubelti. Eitt skref - og allt springur í loft upp(!)

 

9. maí, föstudagur

Sveinn  Björnsson jarðsettur í dag.

Það er norðangarri.
Samt fært
í kirkjugarðinn í Krýsuvík.

En það leikur enginn
á maíhörpuna.
Laufið ófæddur dagur
á bognum nöktum greinum.

Framundan löng
ferð
en vonandi greiðfært.

Grein mín um Svein var birt á miðsíðu Morgunblaðsins í gær.

Kvöldið


Rakst á punkta sem ég hafði skrifað á laust blað í Pascal, Tanker. Hef augsýnilega verið að lesa þessa bók á sínum tíma þótt ég muni það ekki gjörla. Á þessum gleymdu minnisblöðum segir m.a.: “Pascal fullyrðir að það væru ekki fjórir vinir í heiminum ef við vissum hvernig fólk talar hvert um annað. Þessa ályktun megi draga af bæjarslúðrinu.
Sturlungaaldarmenn  vissu ekki sízt hvernig fólk talaði hvert um annað, heldur einnig hvernig það hugsaði hvert um annað - þess vegna er enginn alltaf annars vinur í Sturlungu. Það er eitt helzta einkenni hennar.
Snorri yrkir vísu til Þórðar kakala þegar hann fréttir að frændur þeirra margir hafi verið drepnir á Örlygsstöðum. Af sex bræðrum séu nú aðeins tveir eftir  og ætt þeirra verði að venjast afarkostum. Úlfar þjappi nú svínunum saman, segir hann. Skyldi hann hafa haft þau orð Ágústusar í huga, þegar hann frétti að sonur Heródesar hefði einnig verið drepinn í barnamorðunum, að það hafi verið betra að vera svín konungsins en sonur?
Hvað sem því líður er þetta eina erindið sem ég hef lesið eftir Snorra sem er sannfærandi vitnisburður um ljóðskáldstök á efninu.


Mitt, þitt - “þetta er hundurinn minn”, sögðu fátæku börnin. “Ég á þetta pláss í sólinni.” Þetta er upphafið að eignarréttinum og því hvernig maðurinn tileinkaði sér jörðina.

Af hverju voru þessir gömlu kappar að skrifa þetta allt um sjálfa sig og umhverfi sitt? Pascal á svar við því eins og öðru. Hégóminn er svo rótfastur í okkur öllum að við viljum hafa aðdáendur, hvort sem við erum hermenn, kokkar, stjórnmálamenn, já heimspekingar og þá ekki sízt skáld og listamenn(!) og við þurfum að koma öllu á framfæri eins og hverju öðru bæjarslúðri.
En getur  verið að við sækjumst eftir þekkingu eingöngu til að blaðra tungunni, eins og segir í heilagra manna sögum? Getur verið að við höfum leitað nýrra ókunnra landa í þeim tilgangi einum að segja frá þeim? Pascal fullyrðir það. En ég trúi því ekki... Ekki frekar en það sé eitthvað athugavert að fjalla um sjálfan sig eins og Pascal gagnrýnir Montaigne fyrir. Við hefðum verið nokkrum meistaraverkum fátækari ef við hefðum tekið hann alvarlega. Samt á að taka hann alvarlega, svo fyndin sem alvara hans er. Án hans enginn Kirkegaard. Jónas frá Hriflu er óhugsandi án Hannesar Þorsteinssonar og Magnús Kjartansson án þeirra beggja. Samanburðurinn er að vísu út í hött, veit ég vel. En hann á þó rétt á sér sem gáskafull afskræming mikilvægra tíðinda í smápistli um bæjarslúður, offors og tortryggni sturlungaaldar.
Allar aldir hafa með einhverjum hætti verið sturlungaöld. Og allar eiga þær einhverja íslendinga sögu.

Það er kannski ekki sanngjarnt að tala um endurtekninguna í leiklistinni, ekki frekar en sú athugasemd Pascals er sanngjörn að málaralistin sé hégómaleg. Hún vekur aðdáun okkar með því að líkja eftir því sem við dáumst ekki að í sjálfu sér. En sanngirni er ekki sá kostur sem fyrst blasir við, þegar við hugsum um mannfólkið.

Þessi orð Pascals um ástina þykja mér athyglisverð: Hann elskar ekki lengur þá sem hann elskaði fyrir áratug. Það er auðskilið  - hún er ekki lengur sú sem hún var og hann ekki heldur. Þá var hann ungur og hún einnig. Nú hefur hún gjörbreytzt. Kannski elskaði hann hana enn, ef hún hefði ekkert breytzt.
Svo mörg eru þau orð(!) Einkennilegt að ég skuli hafa verið búinn að gleyma þessum athugasemdum; gleyma því að ég hef fyrir mörgum árum lesið Pascal á norsku miklu betur en mig hefur minnt. En það er þá kannski þess vegna sem hann gægist úr dulinni minningu, svo oft sem raun ber vitni; svo oft sem ég hef löngun til að leita í verk hans. Það hlaut að vera einhver skýring á því. En það er eins og hann segir einhvers staðar, að það sé skemmtilegra að vita eitthvað um ýmislegt, en allt um eitt efni. Og það er áreiðanlega rétt sem hann segir um hugsunina og skynsemina og vesaldóminn eða þjáninguna; hugsunin er mikilvægasta eign mannsins, í henni liggur verðleiki hans. Hugsunin hefur sagt manninum að hann eigi eftir að deyja og alheimurinn sé honum yfirsterkari, en það veit alheimurinn ekki. Það er hugsunin sem ræður úrslitum um mikilleika mannsins. Og skynsemin er sterkari stjórnandi en nokkur annar. En það er einnig merki um mikilleik mannsins, að hann þekkir vesaldóm sinn og þjáningar.
“Tréð þekkir ekki vesaldóm sinn”.
Hugsunin breytist eftir þeim orðum sem við klæðum hana í. Hugsunin sækir verðleika sinn í orðin í staðinn fyrir að gefa þeim gildi, segir Pascal. Það er ekki alltaf ástæða til að tala um París sem “hjarta landsins”. Stundum er nóg að hún heiti París. Það dregur úr merkingu og áherzlu orða að ofhlaða þau. En verst er þegar tómir frasar eiga að lýsa fegurð skáldskapar.
Er hægt annað en laðast  að svo mikilvægum hugsunum; þessu aðhaldi; þessari örgrun; þessu mikilvæga uppeldi.

11. maí, sunnudagur


Ég er ekkert hissa á frétt sem birtist í Morgunblaðinu í dag, en þar segir: “Barátta forsvarsmanna stærstu bresku bókmenntaverðlaunanna verður æ hatrammari og nýlega sakaði einn þeirra enska rithöfunda um að standa bandarískum starfsbræðrum sínum langt að baki. Það var Lisa Jardine, formaður dómnefndar Orange-bókmenntaverðlaunanna, sem falla eingöngu konum í skaut, en hún sagði alltof marga enska rithöfunda vera “sjálfumglaða og einstrengislega”, að bækur þeirra bæru vitni “þröngsýni” og að þær ættu ekkert erindi á erlendan markað.
Meðal þeirra sem Jardine telur falla undir þessa skilgreiningu eru Martin Amis, Graham Swift, sem hlaut Booker-verðlaunin fyrr á þessu ári, Pat Barker, sem hlaut þau í fyrra og Julian Barnes.
Dómnefndin sem Jardine er í forsæti fyrir, birti fyrir skemmstu lista yfir þær bækur sem komust í úrslit. Á þeim lista eru tvær bandarískar skáldkonur, tvær kanadískar, ein skosk og ein frá Norður-Írlandi. Enginn Englendingur er í hópnum.
Jardine, sem er prófessor í ensku og deildarstjóri heimspekideildar Queen Mary og Westfieldskólans í London, segir England vera lítið land og að sjóndeildarhringur of margra rithöfunda sé of þröngur. “Enskir höfundar ættu að horfa lengra fram á veg, leita alþjóðlegra vísana í tengslum við umfjöllunarefni sitt. Og til að byrja með ættu þeir að lesa bandarískar skáldsögur.”
Jardine segir að bandarískar nútímabókmenntir, hvort heldur er eftir karla eða konur, standi enskum verkum svo miklu framar, að hún efist um að Englendingur geti unnið til breskra bókmenntaverðlauna sem séu opin Bandaríkjamönnum. Þeir séu alþjóðlegir í skrifum sínum; þau hafi vísan til fólks um allan heim. Þeir séu metnaðarfyllri og hristi upp í fólki. Þar sem bandarískir höfundar megi keppa til Orange-bókmenntaverðlaunanna, megi ganga út frá því vísu að betri bók muni hljóta þau en Booker-og Whitebread-verðlaunin, sem eru lokuð rithöfundum utan breska samveldisins.
Því fer fjarri að Orange-verðlaunin séu hafin yfir alla gagnrýni en þau voru veitt í fyrsta sinn í fyrra. Gagnrýnin hefur einkum beinst að því að þau falli einungis konum í skaut, í fyrra neitaði skáldkonan Anita Brookner, að senda verk í keppnina, þar sem hún byggðist á “jákvæðri mismunun” með því að útiloka karlmenn og í slíku vildi hún ekki taka þátt.
Í fyrra gerðist það að tveir úr dómnefndinni gátu ekki orða bundist yfir þeim verkum sem bárust í keppnina. Sögðu þeir mörg þeirra gróf, dónaleg, leiðinleg og full af niðurdrepandi vandamálum, t.d. hjónaskilnaði. Jardine hefur tekið undir þetta og segist ekki hafa trú á svokölluðum kvennabókmenntum. Kveðst hún hafa orðið fyrir vonbrigðum með þau verk sem send voru í keppnina. Sagði hún ekki eingöngu við rithöfunda að sakast, heldur einnig þær kröfur sem útgefendur gerðu til rithöfunda, en þeir neyddu konur til að skrifa um tilfinningavanda ýmiskonar.
Hvað sem þessu líður, verða Orange-verðlaunin veitt 4. júní og eru skáldkonurnar sem tilnefndar eru: Margaret Atwood, fyrir “Alias Grace” og Anne Michaels fyrir “Fugitive Pieces”, en þær eru báðar kanadískar, Bandaríkjakonurnar Jane Mendelsohn fyrir “I was Amelia Earheart” og E. Annie Proulx fyrir “Accordion Crimes”, hin norður-írska Deirdre Madden fyrir “One by One in the Darkness” og Manda Scott frá Skotlandi fyrir “Teeth”.”

12. maí, mánudagur

 

Sveinn jarðsettur

í Krýsuvík

Huldan og ættingjar álfa
í öllum nálægum klettum en blómið eina
á sléttri grund.

Sinugráir þúfnakollar við sárið, hrossagaukur
leikur á maíhörpuna, lögreglukórinn syngur ...kom þú sæll
þá þú vilt og tónarnir deyja í þagnir
sem segja allt, stjórnandinn einnig í búningi og fellur
inn í umhverfið eins og litskipt rjúpa, gömul strá hneigja höfuð
og krjúpa í grasinu, annar grafarinn beygir sig eftir einhverju
í moldinni, stingur því í vasann, minningu? gömlum tíma? gýtur
auga til himins, heldur áfram að moka, hægt hverfur
lokið undir tímalausa jörð, torf hylur svörð
og svarta und,

hver hugsar sitt, kona með grænan flauelshatt krossar með
hendi sem áður fór holdmjúkar lendar varfærnum
silkifingrum, hikar, lítur til himins en engir hrafnar
í augsýn, tjörulyktin í kirkjunni vekur upp gamlar minningar eins og angan
af olíulitum, presturinn talar um anda guðs í altaristöflunni
og land vors föður á himni,

moldbrún þögn við lúna fætur, sinukollar, haf og nálæg fjöll,
hvít rennur kistan eins og vorskafl
í eftirvæntingarfulla jörðina, skiptir litum eins og tíminn, Vituð
ér enn? þar sem leiðið hleðst upp
og lóan syngur einsöng með kórnum brúnn kross úr tré
og hrossgaukurinn leikur undir á þeymjúkar
fjaðrir golunnar.

9.-12. maí ‘97

 

Í framhaldi af því sem ég sagði um frávikin sem fréttir er þessi athugasemd í DV harla athyglisverð:
 “Ég hef aldrei nokkru sinni þegið dagpeninga frá Seðlabankanum, vinnustað eiginmanns míns, og aldrei þýðir aldrei,” segir Rósa Guðmundsdóttir, eiginkona Bjarna Braga Jónssonar, fyrrverandi aðsstoðarbankastjóra í Seðlabankanum.
Í  frétt DV þann 28. apríl af fríðindum bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ríkisbankanna voru nefnd nöfn eiginkvenna nokkurra þeirra sem samkvæmt reglum bankanna geta þegið dagpeninga á ferðum erlendis, fylgi þær mökum sínum á ferðalögum erlendis á vegum bankanna og var Rósa ein þessara kvenna. Rósa segir að hún hafi aldrei notið neinna fríðinda af hálfu vinnustaðar manns síns, en fréttin hafi orðið henni til ýmissa óþæginda í starfi hennar sem kennari.
“Kennarar eru afar viðkvæm stétt og illa launuð og niðurlæging mín í þeirra hópi stafar af því,” segir Rósa. Hún segir að hún hafi orðið vör við breytt viðmót af hálfu ýmissa samstarfsmanna sinna eftir að frétt DV birtist og þurft ítrekað að sitja undir glósum um sitt ljúfa líf í skjóli Seðlabankans. Þeir sem þannig hefðu tekið sig fram um að misbjóða sómatilfinningu hennar og virðingu á þennan hátt hafi síðan ekki viljað hlusta á, hvað þá trúa því, að hún hefði aldrei nokkru sinni ferðast á kostnað annarra en sjálfrar sín.”
(Dagblaðið, föstudaginn 9. maí)

13. maí, þriðjudagur

Gömul brot


Skógurinn brennur,
samt er enginn eldur,

minnir á ást þína.

- - -

Augu þín
eins og jörð rísi
af regni.

Síðdegis


Fór með Viktori Aðalsteinssyni flugstjóra til Huldu og Garðars Svavarssonar. Hann lítur vel út og er andlega hress. En mér skilst að hvítblæðið hafi tekið sig upp með einhverjum hætti, en vonandi hristir hann það af sér.
Viktor sagði okkur þessa sögu: Þegar Þorsteinn Jónsson flugstjóri var á höttunum eftir Möbbu Thors, skólasystur minni, fór hann einhverju sinni sem oftar á fiskirí með Jóhannesi flugstjóra Snorrasyni. Steini hafði ætlað að hitta Möbbu um kvöldið en var eitthvað seinn fyrir, svo að hann kom í veiðigallanum upp í Garðastræti, hringdi á bjölluna, Ólafur Thors kom til dyra og Steini spurði hvort Mabba væri heima? Nei, sagði Ólafur, hún fór út með öðrum róna!!


Goðsögn
hugmynda

 

                Ná tökum á tungumáli
                Neanderdals

Elias Canetti :
Vettvangur mannsins


Tungulaus hlustaði
síðhærður maður
á þögult bergmál
dalsins

tengslalaus við uppruna sinn
og áform.

Maðurinn deyr
eins og glæringar
úr sjúkum augnbotni en ekki
þrumuskýinu
ef hann glatar
munnlegri geymd
arfsögunnar.

Í minnislausu umhverfi
hellis og þagnar
glatar hann sjálfum sér.


 

Enginn neyðir mig til að

lifa. Þess vegna elska ég lífið

svo mikið

Canetti

Sólgular margfætlur
háma beltisdýrin í sig regngrænan                                                               
skóg,

dvergurinn gengur sporlaust
í skrjáfandi laufi.

Enn brenna eldar
í Amason,enn fækkar
skuggum trjánna,enn
styttist leiðin að ljósfælnu
framandi myrkri,

snarkandi eldar og reykdimmur
óglaður himinn.

Hugsaðu þér,segir hún,
hvernig þeir fara með jörðina.

Og við eigum ekki aðra.


Áður en þeir héldu í stríð

tóku þeir steina og köstuðu í hrúguna

Canetti

Enginn þaggar niður
í hafinu

vofur fallinna stríðsmanna
slæðast tómhentar
að minnisvörðum
úr steini

dauðir sækja ekki
þá steina
sem þeir köstuðu
í hrúguna
við upphaf stríðsins

þokast hægt
eins og öldur af úfnu hafi

minna á hikandi orð

einmanna vofur
og deyjandi brimhljóð
við kletta.

Sólin er eins konar innblástur; maður

ætti því ekki að njóta hennar

öllum stundum

Canetti

Land mitt
er ekki sól sem kemur
óboðinn þaulsetinn gestur,

hún vitjar okkar eins og farfuglar.

Regn og svalir vindar
gera heimsóknina kærkomna.


 

Jafnvel hundarnir þeirra

eru aðskildir og þora ekki

að hittast.

Canetti


Napoleon, þessi stóri svipfasti
bernharðshundur var felldur
þegar afturfæturnir brugðust honum
á tólfta ári, sorgin eftir hann er út-
synningssvart hríðarkóf en það gengur yfir
og Napoleon festist í minninguna
eins og fjöll sem lyftast til himins
feldmjúk og blá þegar hann styttir upp.

Við sem höfum verið að markaðssetja
Hlíðina svo notað sé nútímalegt
tungutak erum jafnhreykin af þessum
fjöllum og feldmjúkri minningunni
um Napoleon
og getum sagt með skáldinu, stolt
og fagnandi,

Fögur er hlíðin.


Týnast í öðrum

Canetti

Týnumst í öðru fólki

náum ekki
áttum,
hjálparsveitarlaust.


Og þótt þeir hafi kosið jörðina

að grafreit

Canetti

Í skugga sprengjunnar
munu ljósorkuverur
annarra sólkerfa
skyggnast um
af everest
þessarar demantshvítu
jarðar

ó jörð
þú sem ert grafreitur okkar
og aska.

 

Allt sem sjötíu og fimm ára gömul

músin man er rangt

Canetti

Tungulaus tjáir Neanderdalsmaðurinn
enga reynslu, enga minningu,
þagnar inn í svarta skóga eins og elding
við klofið tré, kjálkabein
augntóttir; eitt sinn horfðu þær
til himins þar sem guðirnir öskruðu
í þrumuskýjum

eins og rándýr,

nú tómar eins og minnislausir hellar
í myrkvuðum augntóttum timans.

Og jökullinn breiðir líknsama blæju
yfir þögnina.


Fólk eins og skip

og farmurinn

viðbjóður

Canetti


Okkur er stjórnað
sagði Páll Ísólfsson,

Við erum skip
sagði Canetti,

guðirnir standa í brúnni
og þeyta
þokulúðrana.


Allt verður betra. Hvenær? Þegar

hundarnir taka við stjórninni

Canetti


Það er kínverskt að hugsa
í þúsundum ára, kannski

vegna þess tala þeir svona mikið
um himininn.

Skyldu þeir tala jafnmikið
um himininn
á ári hundsins?

Spyrjum þá næst þegar við
hittumst á Torgi hins himneska
friðar.


Hann er með skáld

i maganum

Canetti


Skáldið er einskonar
bréfdúfa.

Segir tíðindi frá vígvellinum.

Flytur skilaboð
úr stríðinu.

Undir rós.


Að finna ástinni

sterkari orð

Canetti


Vatn sem er ekki
vatn
leiftrandi eldur
sem logar ekki
gult útblásið tungl
og gagnsær himinn
í augum þínum,

blinduð horfa þau
í sólina.


Sagðist ekki geta

iðrast neins.Guð ? Steinn ?

Canetti:

Kjarval sagði það væri gott
að vera sleginn út

faðir minn sagðist aldrei
iðrast neins

Guð hjálpi honum, sagði
móðir mín.

Hvernig steingeitin getur
fótað sig
við þverhnípið.


Hinar dýrmætu setningar

fíflanna

Canetti

Flóin
er förunautur hundsins,

það er hugmynd okkar
um markaðssetningu.


Þeir skrifa eins og stríðið

hafi verið draumur,

draumur annarra

Canetti

Að ástin sé óskiljanleg?

Að hún sé eins og vegir
guðs,

órannsakanleg?

Að hún leiti síns eigin?

Þú veizt allt um það(!)



Sá sem hefur skorið af sér eigið höfuð

finnur ekki til sársauka

Canetti

Dungal sagði: Það sem gerist
er ævinlega sársaukaminna
en kvíðinn. Sá sem velur hann
og hafnar fuglum himinsins
og liljum vallarins gengur inn í líf sitt
eins og spjótsoddur í Akkilesarhæl
hetjunnar, Ó þessi sársauki
sem fylgir okkur úr martröð
draumsins inn í hversdagsleika
tildurs og smámuna, hvernig
getum við bægt honum frá
eins og hvimleiðu flugnasuði

við sem finnum fyrir honum
eins og einfættur maður
fyrir aflimuðum fæti

við sem erum viðkvæmasta taug
jarðar

og kveinkum okkur eins og hún
þegar Sesar stingur torfljánum
í opna kviku.


Tao er trúarbrögð skálda

Canetti

Þar sem vegirnir skerast stöndum við
á krossgötum
virðum fyrir okkur vegaskiltin,

Jötunheimar

þar sem við höfum slegið upp
tjöldum á langri vegferð inn í þéttriðna
möskva alnetsins.


 

Tunglið sem sorphaugur

og kirkjugarður

Canetti

Jörðin er fyrir okkur
sem lifum.
Bönnum minningarorð
og dánartilkynningar.
Burt með minningar, þær
drepa á dreif.
Sendum hina dauðu
til tunglsins.
Slökkvum á þessu ljósi
sem vex til einskis
inn í nótt og myrkur.
Við þurfum á að halda
kirkjugörðunum og sorp-
haugunum, breytum þeim
í knattspyrnuvelli og úti-
vistarsvæði.
Breytum tunglinu í legsteins-
lausan kirkjugarð.

Eða Sorpu.

Hve lengi þetta tvíræða
bros karlsins í tunglinu
hefur vafizt fyrir okkur (!)
Slökkvum þetta bros
eins og sinuelda.

Jörðin er fyrir okkur
sem lifum, tunglið
fyrir hina dauðu; hina
óupprisnu; þá sem við bönnum
eins og minninguna.

Þá sem deyja í minningunni.
Án upprisu.


Gunga,hin sanna gunga,

sá sem óttast minningar sínar

Canetti

Mergðin er í okkur sjálfum
eins og frumskógurinn í gulum
augum rándýrsins,

heyrið öskrið í fjarlægð, það
nálgast

mergðin nálgast úr minningunni.



Það er alltaf eitthvað fjarlægt

við fegurðina

Canetti

Er tunglið fjarlægt
og fagurt?

tunglið
undir þykkum skó-            
sólum okkar?

fagurt
eins og nálægð þín
sem skildir ekki eftir þig far
á fölu tungli,
heldur djúp spor í viðkvæmu
einmana hjarta,

þú
sem skildir eftir þig
ósýnilega slóð
eins og endurskin sólar
á auðnum tunglsins.

Sá sem deyr tekur hjarta

einhvers með sér í gröfina

en skilur hjarta sitt eftir

í brjósti hans

Canetti


Á leið úr Jötunheimum, með öræfahvítt
austrið í baksýn, stöldrum við undir veðruðum
vegskiltum,

Hades, Ásgarður

stöldrum við þar sem leiðirnar skerast
í langþreyttum huga og hjarta sem slær í brjósti
annars þar til yfir lýkur,

stöldrum við á nýjum krossgötum, við ófærð
og nýstorknað hraun, lítum á
vegskiltið, þræðum gamla slóð
Virgils og Dantes,

stöldrum við þar sem skilti vísar á Víti, kveðjum
Virgil og höldum áfram gamlan troðning,

hlustum

hlustum á hjartsláttinn
í eigin brjósti , hlustum á hana
sem varð eftir hlustum á hana sem er í för
með okkur, hlustum á hana sem bíður við
síðasta vegskiltið.

Þríein bíður hún í brjósti okkar
og keppir við guðina.



Þótt það væri líf eftir dauðann

hefði hann ekki löngun til að

taka neitt með sér

Canetti

Þegar við eldumst og hugum betur
að fjárhagnum skýtur orði oftar upp
í hugann sem áður var jafnfjarlægt
og regnboginn,lífeyrir; marglitt orð og
gagnsætt eins og sólúði; ellilífeyrir.

Orð verða aldrei of gömul, en fólk sem notar
þau oft eldist of fljótt.

Já,við skulum arfleiða elzta mann Evrópu
að öllum eigum okkar.


 

Jafnvel Pascal var ekki

nógu alvarlegur

Canetti

Það er hlé, við
þvoum hár okkar,
snyrtum það eins og spartverjar,

göngum út á vígvöllinn
glöð og reif eins og til fagnaðar.

Ef örvahríðin verður svo þétt
að hún skyggir á sólina

berjumst við í skugganum.



Eilíf þögnin í þessu endalausa rúmi

skelfir mig

Pascal: Hugsanir


Hvalbak heitir klettur
við Nauthólsvík; jökul-
rákuð klöpp,

heimkynni huldunnar
sem beið þess
að vera leyst úr álögum.



Með þessum tómu frösum

lýsum við fegurð

skáldskapar

Pascal


Ef hugsunin
væri kona, hvernig
ætti hún að klæðast?

Eins og madam Pompadúr, eða
Elísabet Taylor?

Eða konan
í næsta húsi?

Eða Eva
fyrir syndafallið?

Ætli færi ekki
bezt á því?



Andspænis því endalausa

er allt jafnlítið

Pascal

Drekahöfuð ber við himin.
Víkingaskipið siglir
mót skugga sínum.

Senn fellur sól
í vestri.




Maðurinn deyr einn

Pascal

Við
sem deyjum ein, hvers vegna
lifum við ekki ein?

Við
sem horfum á aðra hverfa
eins og flugnaryk inní tóm
og gagnsæja þögn, hvers vegna
lifum við í smáatriðum og upp-
lifum skvaldrið eins og stórviðburði?

Við
sem vitum ekki, en vonum
það bezta, hvers vegna lifum við
eins og rekunum verði aldrei
kastað á kistulokið ?


Því hvað er manneskjan

í náttúrunni..

Pascal

Ein í sól
og svölum norðangusti

svo kviknar hunangsfluga
í sólinni
eins og eldur af neista.

Og önnur
af nýjum neista.

Þrjú í sól
og svölum norðangusti.

 

Viðstöðulaust eirðarleysi tígursins við

búrrimlana í því skyni að missa ekki

af hugsanlegu tækifæri til frelsis

Canetti


Líkami þinn
fangelsi,

þú dýr í búri.

Hvenær kemur einhver
og opnar búrið?



Maður sagði við konu sína,

Það rignir

Canetti

Það rignir
og þig mun dreyma vel,

illur guð mun vitja þín
í draumi,

þú reynir að bæta hann
þegar sólúðarfólkið kemur
í heimsókn
og regnið lemur naktar
greinar draumsins

tekur laufið til
vængja sinna

flýgur úr martröð
draumsins

burt burt
inní yfirgefna veröld
hvalfiskanna

og spámenn munu túlka hótanir
guðsins
alvarlegar en hann sjálfur.

 

 

 

Hitler hefur breytt

Þjóðverjum í gyðinga

á örfáum árum

Canetti, Vettvangur
mannsins, 1945

Canetti minnir á að hann sé gyðingur.
Það var framlag hans til stríðsins. Öll
erum við afkomendur bókar og án þess
ég hafi leitt hugann að því skilst mér
það megi rekja ættir okkar til danskra
forfeðra sem ráku verzlun fyrir norðan

Hofsósdropi

úr hafinu mikla sem niðar eins og brimhljóð
í þröngum æðum, senn piprum við og æðarnar
fyllast fitu og kalki

en hvað skyldi það koma hafinu við
þótt bergvatnið hvítni hægt og markvisst
í niðandi jökulflaumi sem deyr
við brimósana eins og hver annar dropi
í hafið,

við

eins og bergvatn hverfi
hægt og markvisst
í hvítan jökul

hægt og markvisst

þagnar niður fljótsins
við brimhljóð tímans.


Hann fór þangað kvöld eftir kvöld. Hún tók

hlýlega á móti honum. Hann dvaldi þar

klukkustundum saman. Skildi hana eftir á

eyðimörk ónýtra leyndarmála

Canetti

Á mjúkum þófum
rándýrsins

ást ykkar

ósýnilegur hlébarði
í frumskógargrænu myrkviði.


Það var eins og að koma á reglu

í geðsjúkrahúsi að skrifa um

stjórnmál

Pascal

Í stjórnmálum verður að gæta þess vandlega
að koma ekki til dyranna eins og maður er
klæddur, til að mynda ógreiddur og í
náttkjólnum
ef maður er þriggja barna móðir
og forsætisráðherrafrú
í Downingstræti 10, þá er
óráðlegt að sækja mjólkina
við útidyrnar að morgni dags vegna blaða-
ljósmyndara.

Þeir verða einnig að sjá sér
farboða

og sínum þremur börnum.

Óttastu dauðann óhultur

Pascal

Á leiðinni úr Garðinum til Keflavíkur
lítið timburhús við golfvöllinn
og veit til hafs, en áður en komið er
að afleggjaranum við kirkjugarðinn
þar sem Garðahreppur endar
stórt skilti á vegamótunum með áletrun
sem skiptir öllu á krossgötum lífs
og dauða:

Góða ferð(!)

25. maí, sunnudagur

Flutti fyrirlesturinn um samtöl okkar Halldórs Laxness á fimmtudagskvöldið. Fullur salur. Góðar móttökur og mér leið vel. Mikið klappað, þakklæti að lokum. Auður Laxness  þakkaði mér sérstaklega, það gladdi mig.
Þetta var fallegt, sagði hún við Hönnu. Hafði kviðið fyrir þessari uppákomu en leið vel og er glaður að henni lokinni.

Björg Ellingsen var jarðsett í vikunni. Við komum stundum á heimili þeirra Ragnars, ávallt vel tekið. Held hún hafi verið Ragnari í Smára góður bakhjarl en mér fannst hún ekki mannblendin, heldur hlédræg, fannst mér. En hún hafði ákveðnar skoðanir og var yfirleitt jákvæð. Þetta fólk sem maður þekkti í eina tíð týnist nú burtu eins og fölnað lauf í haustvindum. Ný reynsla og sérkennileg að horfa upp á þetta haust.
Jóhann Pétursson (vitavörður, fyrirmynd Sesars í Brimhendu, sagði Gunnar Gunnarsson Kristjáni Karlssyni) skrifar um Björgu í Morgunblaðið, segir m.a. þessa sögu: “Í einu af ferðalögum okkar Ragnars austur í sumarbústað, komum við að stöðvuðum bíl neðst í Kömbunum og við hann stóðu hjón með tvö börn. Ragnar vatt sér út úr jeppanum, gekk til þeirra og spurði hvort eitthvað væri að og á hvaða leið þau væru? Jú, þau voru á leið til Reykjavíkur en bíllinn bilaður. Í jeppanum var ávallt kaðalspotti. Umtalslaust vorum við komin á leið til Reykjavíkur með bílinn í togi, allt að Kjartansgötu. Þar spurði maðurinn fullur af þakklæti hvað hann ætti að borga?
Ragnar leit framan í manninn og sagði: “Ekkert, þetta var í leiðinni.””
Ragnari líkt(!)
Jóhann segir einnig eftirfarandi sögu: “Að lokinni kaffidrykkju  daginn áður en hann (Olav Kielland) fór af landi, stóð hann upp, hneigði sig brosandi fyrir Björgu, og sagði: “Ef það er nokkuð frá Íslandi er ég vildi hafa með mér til Noregs, þá væri það frú Björg.”

Atli Heimir Sveinsson skrifar harða gagnrýni á tónlistargagnrýnendur eftir að ópera hans Tunglskinseyjan var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu. Atli er hinn versti út í gagnrýnendur. Ræðst hörðum orðum á þá flesta sem um óperuna hafa skrifað en þó fer Ragnar Björnsson morgunblaðsgagnrýnandi líklega bezt út úr hamförunum. Ég hafði gaman af þessari grein. Gagnrýnendur hafa gott af því að fá orð í eyra. Þeir gera sér ekki alltaf grein fyrir því valdi sem þeir hafa. Með það þarf að fara af skynsemi, heiðarleika og umfram allt af mannúðlegri nærfærni. Á því er oft þverbrestur. Hef sjálfur kynnst því í gegnum tíðina. Það hefur stundum verið erfitt. Mér hefur stundum sárnað eins og Atla án þess ég hafi látið mér detta í hug að gera gagnárás. Hefði ekki heldur komizt upp með það. Sumir komast upp með það sem aðrir gera ekki. Atli er reiður. Talar um “dellugrein í DV” eftir Sigfríði Björnsdóttur sem ég þekki ekki. Vitnar í orð hennar sem ég á erfitt með að skilja. “Allt er þetta rangt” segir Atli og slátrar gagnrýnandanum! “Sigfríður er ólæs á ljóð og líberettó”. Ennfremur: “Sigríður þyrfti að skólast árum saman í bókmenntum. Ennfremur: “Hún gagnrýnir flest nýtt með andúð. Hið gamla, þekkta, útjaskaða hefur hún oftast meðtekið gagnrýnislaust. Sigfríður er þröngsýn, og þess vegna vondur gagnrýnandi”. Ennfremur: “Sigfríður virðist skopast að óperu minni. Það snertir mig ekki...” Loks: “Þegar ég var ungur skrifaði einhver kona í Tímann um tónverkaflutning eftir mig. Sagði að hún hefði verið glöð að komast að því að Esjan væri enn á sínum stað eftir þau ósköp. Og svipað virðist Sigfríði vera innanbrjóst nú. Afturhaldið er enn á sínum stað og ekki er andríkinu fyrir að fara.”
Þá snýr Atli Heimir sér að Ævari Kjartanssyni í útvarpinu:
“Hann las upp það neikvæðasta úr skrifum Ragnars og Sigfríðar, tók þó fram að eitthvað jákvætt hefði fylgt með líka og er það allt í lagi. En hann sagði verkið vera langdregið og drungalegt, fimbulfambar að ég geti kannski sett saman lítil lög, en það sé annað en 120 mínútna ópera. Hann eiginlega varaði þjóðina við þessu verki. Sleggjudómar Ævars snerta mig ekki. En mér finnst það lítilsvirðing við þjóðina, listamenn og alla, þegar RÚV lætur ekki hæfa menn fjalla um flóknar og fagmannlegar óperusýningar. Þess í stað er þjóðinni ætlað að hlýða á ruglaða meinfýsni atvinnufúskara.”
Í lokin snýr Atli Heimir sér að Ríkharði A. Pálssyni tónlistargagnrýnanda við Morgunblaðið og talar um bullið í honum, “kannski meinlaust, stundum skondið, en oftst fremur hvimleitt. Á þessu stigi er tónlistargagnrýni hér.”
“Ríkharður veit ekkert hvað orðaleppar hans merkja. Sama er að segja um Ævar og Sigfríði. En þjóðin tekur ekkert mark á þessum gagnrýnendum. Hún lætur ekki illa ritfær merkikerti plata sig” .
Ég held nú samt að hún hafi mikla tilhneigingu til þess.
Gagnrýnendur hugsa sig líklega um næst þegar þeir fjalla um verk eftir Atla Heimi, gæti ég trúað! En sem gamall rithöfundur á ég auðvelt með að skilja afstöðu hans. Ég hef oft haft ástæðu til að skrifa svona grein en ekki lagt í það. Þá hefðu allir sagt: Sjáið þið morgunblaðsritstjórann, hann þolir enga gagnrýni! Og svo væri hýjað á morgunblaðsritstjórann og kallað: Þau eru súr!!
Atli er merkilegt tónskáld og sérstæður maður. Ég hef alltaf kunnað vel við hann. Hann er vesturbæingur eins og ég, sprottinn úr sama umhverfi; sama jarðvegi. Ég þekkti Svein föður hans. Hann fór iðulega á hjóli í vinnuna. Hann var ljúfmenni. Þeir voru samstarfsmen í banka faðir minn og Sveinn; annar í Búnaðarbankanum, hinn í Landsbankanum. Þekktust nokkuð vel, held ég. Annar bjó á Hávallagötu, hinn á Túngötu. Sveinn kom stundum til mín upp á Morgunblað og átti þá eitthvert lítið erindi. Hann var alltaf jafn kurteis og alúðlegur. Ég kunni vel við hann. Sonurinn hefur fengið meira skap. Skaplaus listamaður kemst víst ekki langt. En Atli Heimir minnir meir á Jón Leifs en ég vissi áður. Þessi grein í Morgunblaðinu, Vitlausir gagnrýnendur, er staðfesting á því að andi Jóns Leifs lifir ágætu lífi í landinu. Arftakarnir eru harðir í horn að taka. Það er gott. Þá er kannski von til þess að við lifum gagnrýnendurna af; að tónlistin lifi af samtíð okkar.

Fengum fyrir helgi fax frá Sigrúnu Davíðsdóttur sem hefur verið í Svíþjóð og skrifað um heimsókn Davíðs Oddssonar þangað. Hún er lítið hrifin af Göran Persson, forsætisráðherra Svía.
“Mér finnst hann hreinlega virka eins og hann stígi ekki í vitið. Hann er auðvitað enginn intelektúal stjórnmálamaður, það veit ég vel, en ég á ekki bara við það, heldur virkar hann doldið tregur og einfaldur á sálinni, en alveg vænsti maður”. Segir enn að hann hafi vísast “eitthvað grundvallar stjórnmálavit og það þá heldur af frumstæðari gerðinni” svona eitthvað svipað því og sumir hafa bisnessvit - en ekkert annað! Svona fjölmiðlafígúrur ná langt í pólitík um þessar mundir. Allt annarrar gerðar en miklir stjórnmálamenn áður fyrr. Ömurleg þróun. En stjórnmálamennirnir endurspegla einungis sjónvarpsþjóðfélagið svo það er ekki við neina að sakast nema þetta auma þjóðfélag og það hefur kannski stundum verið verra, ég hef verið að horfa á heimildamyndaflokka um nánustu samstarfsmenn Hitlers í Discovery. Hvílíkur söfnuður, ó guð minn góður! Og ekki voru þeir betri í Kreml. En þeir voru þó ekki kosnir í almennum þingkosningum eins og þegar Hilter komst til valda.
En snúum okkur þá að faxinu góða frá Sigrúnu Davíðsdóttur:             “Var á fyrirlestri í hádeginu hjá William Wallace breskum prófessor og þingmanni Lib. Dem., sem talaði um “What is Britain for?” og gerði úttekt á stöðunni nú eftir kosningar (og þar sem ég er búin að semja við Steingrím um að skrifa um það þarf ég ekki að reita það í þig hér...)
Hið skondna var að hann vitnaði tvisvar í Íslendinga. Fyrst þegar hann talaði um hve Yorkshire hefði sterka tilfinningu fyrir sögulegum rótum og tengslum við Norðurlönd. Í mállýskunni væri ýmis norræn orð og til dæmis skildi kona hans, sem er þaðan, svolítið í íslensku út af þessu. Svo talaði hann um að Bretar ættu erindi í ESB, því margt sem þjóðríkið hefði séð um áður, gæti það ekki gert almennilega lengur, til dæmis varnir. Í Falklandseyjastríðinu hefði rétt verið hægt að skrapa saman mannskap í þetta bresk-argentínska stríð. Nú væri breski herinn þannig að þeir gætu kannski í mesta lagi farið í stríð við Ísland... og síðasta stríðinu við þá hefðu þeir reyndar tapað.
Ég spurði spurningar á eftir og sagði þá að ég væri íslensk, svo ég hefði tekið eftir ummælum hans um Ísland. Þá sagði hann hlæjandi að hann hefði alltaf tekið Íslendinga mjög alvarlega... en það gæti hann ekki lengur eftir að þeir hefðu kosið fyrsta íslenska nemanda hans sem forseta!!! - Góð meðmæli með nemandanum ekki satt?”


Las stutta frétt í Morgunblaðinu í síðustu viku um methagnað hjá British Airways. Ég er ekki hissa á þessari niðurstöðu þegar horft er til þess hvernig félagið umgengst starfsfólk sitt. 58.210  starfsmenn félagsins hafa fengið 10 ókeypis hlutabréf hver í kaupauka auk 89 milljóna punda af hagnaðinum.
Slíku fyrirtæki hlýtur að vegna vel.

Kvöldið


Hundurinn  Máni er gulur eins og máninn og dregur nafn sitt af honum. Móðir hans hét Venus og þegar hún var svæfð um veturinn gleymdi hann henni samstundis. Enginn tár, engin sorg. En þegar þau fóru í sumarhúsið um vorið fann Máni  lyktina af móður sinni og leitaði hennar hvarvetna. Hún vaknaði í minni hans og öðlaðist nýtt óvænt líf vegna lyktar sem hún skildi eftir og kallaði fram löngu liðinn veruleika. Óáþreifanleg lyktin var nú eini áþreifanlegi veruleikinn.
Umhverfi hundsins er annað en veruleiki okkar og upprisan með öðrum hætti.
--------------


Þrír gengu Íslendingarnir á Everest, Björn og Einar og Hallgrímur. Fáninn blakti í hvössum vindi og heiðríkju, útsýn til himins og jarðar. Komumst því miður ekki hærra, sögðu þeir í kalltækið.

Upphiminn ósigraður.
Sneru við og hurfu aftur til þröngra dala.

Jörðin er heimkynni okkar.
Það er einungis af Everest dauðans sem við getum haldið ferðinni áfram.
En hvert... hvert?

Ósköp er það ónærgætið af guði, sagði hann, að skilja ekki eftir sig teikn á himni eins og þotur. Ósýnilegar varða þær leið sína á himni. Það er hinn skýlausi veruleiki sem skiptir öllu máli.

Yfirgefið hreiður
hjarta mitt

og saknar vængja þinna.

 

 

27. maí, þriðjudagur

Landakotsskóli átti aldarafmæli um helgina. Talaði við sr. Georg. Sagði honum að ég hefði áhuga á að gefa væntanlegu bókasafni skólans nokkrar bækur eftir mig. Hann tók því vel. Sendi þeim 30-40 bækur eftir mig, sumar áritaðar. Sr. Georg tók þakksamlega við gjöfinni.
Mér leið vel í Landakotsskóla, fór í hann úr Miðbæjarskólanum. Þar var ég í 10 ára bekk B. Lenti upp á kant við kennarann, Jóhannes gamla Líndal, og var ekki vært í skólanum eftir það. Faðir minn kom mér þá fyrir í Landakoti. Það voru mikil viðbrigði. Þar naut ég mín. Var meira að segja dúx á jólaprófi 1941 eða 2, man það ekki. En Jakobína bekkjardúx hljóp grátandi heim. Þá ákvað ég að verða aldrei dúx aftur. Þurfti ekkert að leggja á mig til þess að svo yrði! En ég stóð mig alltaf vel í Landakotsskóla. Þar var okkur raðað niður eftir einkunnum og var ég yfirleitt meðal 5 efstu. Ég tók gagnfræðapróf úr Landakotsskóla. Stóð mig vel. Veganestið úr þessum kaþólska skóla hefur komið sér vel, ekki sízt kennslan í íslenzkunni. Andrúm skólans hefur einnig fylgt mér með sérstökum hætti. Landakotstún var Miðjarðarhaf æsku minnar. Landakotsskóli var Svarti skóli æsku minnar. Vona að bækurnar mínar í væntanlegu bókasafni séu verðugur þakklætisvottur um góðar minningar. Kennarar mínir auk frönken Guðrúnar sem kenndi okkur íslenzku voru sr. Ibaks, sr. Boots, systir Lioba sem kenndi okkur þýzku, systir Henrietta sem kenndi okkur dönsku og systir Clementina, íslenzk systir glöð og kát og kenndi handavinnu, þ.e.a.s. hún kenndi okkur strákunum smíðar. Hjá henni smíðaði ég skútu sem hefði getað siglt þöndum seglum inn í hvaða draum sem var.
Ég hugsa stundum um þá sem hafa sýnt mér hlýhug. Ég hef ævinlega gert mér far um að launa það með einhverjum hætti. Ég tel að það sé ekki sjálfsagður hlutur að maður mæti hlýju og skilningi. Ég hugsa aldrei um fólk sem hefur sýnt mér andúð eða misskilning. Það hefur ekki verið mitt vandamál. Ég hef stundum beðið fyrir því með góðum árangri.
Einn þeirra sem sýndu mér ungum hlýhug var Þórður Einarsson sem var jarðsettur í síðustu viku. Hann var að mig minnir sendiherra Íslands í Svíþjóð. Hann var giftur Karólínu ,dóttur Guðmundar Hlíðdals. Ég held hún hafi verið hálfsystir eiginkonu Björns Gunnlaugssonar, en þau hjón bjuggu ásamt þremur sonum sínum gegnt okkur á Hávallagötu 42. Björn var læknir og lézt á bezta aldri. Hann var bróðir Geirs Gunnlaugssonar í Eskihlíð. Ég kynntist honum. Hann var ákaflega vel hagmæltur. Hann er hráefnið í sögu sem ég skrifaði á sínum tíma og birtist í Nítján smáþáttum. Sagan heitir Kynni Magnúsar fréttamanns af Birni í Birkihlíð (á örlagastundu).
Þórður Einarsson vann fyrr á árum hjá upplýsingaþjónustu bandaríska sendiráðsins. Upp úr 1950 tók ég mikinn þátt í stúdentapólitíkinni og má segja að ég hafi verið í þeim armi  Vöku-liðsins sem vildi einangra varnarstöð Bandaríkjanna sem mest, jafnvel draga úr áhrifum bandaríska útvarpsins með einhverjum hætti. Þetta var forystu Sjálfstæðisflokksins ekki þóknanlegt. Við höfðum beðið Bandaríkjamenn að koma til landsins og vernda okkur og ástæðulaust annað en koma fram við þá af fullri reisn. Ég hef aldrei talið mig neinn einangrunarsinna en hafði eins og svo margir aðrir áhyggjur af áhrifum herstöðvarinnar á íslenzkt þjóðlíf á sínum tíma. Þessar áhyggjur reyndust sem betur fer ástæðulausar. Það sem við þurfum að hafa áhyggjur af er allt það útlenda sjónvarpsmoð sem flæðir yfir landið. Sem sagt: Við þurfum að hafa áhyggjur af okkur sjálfum. Þar leynist óvinurinn. En þetta vissum við ekki þá.
Bandaríkjamenn ákváðu að bjóða fimm forystumönnum stúdenta í heimsókn til Bandaríkjanna og tilkynntu mér að ég hefði orðið fyrir valinu enda var ég þá kominn í forystusveit Vöku. Þetta var 1954. Aðrir sem boðið var í þessa ferð voru Sveinn Skorri Höskuldsson nú prófessor, Magnús Sigurðsson nú læknir, Kristján Búason nú guðfræðilektor við Háskólann,frændi minn, og Magnús R. Gíslason, bekkjarbróðir minn úr MR og tannlæknir. Við höfðum þekkzt úr Vesturbænum, auk þess sem við vorum saman í vegavinnu á Vatnsskarði en verkstjóri þar var Jóhann Hjörleifsson, sérstæður maður og góður við okkur strákana, faðir Sigurðar vegamálastjóra og Dóru sem Magnús R. Gíslason kvæntist síðar.
Þegar Bjarni Benediktsson frétti að mér hafði verið boðið sem forystumanni Vöku lagðist hann gegn því að ég færi til Bandaríkjanna. Við þekktumst þá ekki þótt ég hefði afgreitt hann eitthvað sem blaðamaður á Morgunblaðinu, hafði t.a.m. skrifað frásögn af Varðarferð þar sem hann flutti ræðu sem ég endursagði, mig minnir að hún hafi verið flutt í Þingvallaferð. Bjarni hafði að sjálfsögðu haft pata af því að ég væri einn þeirra sem vildi að varnarliðið hefði strangt aðhald eins og fyrr getur og tortryggði mig eitthvað á þeim árum.  Tók alla gagnrýni nærri sér vegna heiftarlegra árása vinstrimanna á utanríkisstefnu hans. Þessi viðkvæmni hvarf þegar frá leið. Hann sagði kananum að hann vildi heldur að Eyjólfur Konráð Jónsson færi til Bandaríkjanna sem fulltrúi Vökumanna í Háskólanum. Þá hafði Þórður Einarsson samband við mig. Hann bað mig um að hitta sig í kaffi á Laugavegi 11. Þegar þangað kom sagði hann mér að Bjarni legðist gegn því að mér yrði boðið til Bandaríkjanna, hann hefði krafizt þess að Eyjólfur Konráð Jónsson sem hann tortryggði ekki þá en þekkti betur en mig yrði fulltrúi okkar Vökumanna. Ég spurði Þórð hvað kaninn segði um þetta. Þórður svaraði því til að Bjarni yrði ekki spurður. Það kæmi ekki til mála að hann hefði nein áhrif á það hvaða Vökumaður færi í þessa ferð. Mér hefði verið boðið og við það yrði staðið. Mér þótti að sjálfsögðu vænt um það og datt ekki í hug að hverfa frá ferðinni þrátt fyrir þessa afstöðu hins sterka forystumanns Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum. Við Eykon þekktumst vel enda höfðum við starfað saman í Vöku um nokkurt skeið. Milli okkar myndaðist góð vinátta. Eykon talaði við mig og sagðist hafa heyrt að Bjarni vildi að hann færi til Bandaríkjanna, en ekki ég. Ég sagði að það væri rétt. Þá tók Eykon af skarið og sagðist mundu hvergi fara, ég ætti að fara þessa ferð hvað sem Bjarni segði, eða aðrir forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Hann stæði með mér á hverju sem á gengi. Þannig hófst vinátta okkar Eyjólfs Konráðs Jónssonar og féll aldrei skuggi á hana meðan báðir lifðu.

En vinátta okkar Bjarna Benediktssonar óx úr þessum grýtta jarðvegi kalda stríðsins og efldist til mikilla muna þegar við störfuðum báðir á Morgunblaðinu. Eftir það var vinátta okkar innsigluð með einstæðum hætti og bar aldrei skugga á hana á hverju sem gekk. Við Hanna teljum vináttu Bjarna og Sigríðar einhverja dýrmætustu gjöf sem við höfum eignazt á langri ævi.


Las frétt um sænskan vísindamann sem heldur því fram að fjórðungur Svía sé óhæfur vegna heimsku og geti ekki þrifizt í tækniþjóðfélagi nútímans. Það jafngilti um 60 þús. Íslendingum! Hann er að sjálfsögðu ásakaður fyrir mannhatur. En hver veit nema þetta endurspeglist í kosningum? Og svo náttúrulega í fjölmiðlum, einkum sjónvarpi.
Eða hvað segja metsölulistarnir?


Talaði við Styrmi í morgun um geðheilsu, næmi og trú; einkum framhaldslíf. Hann á að halda fyrirlestur á 90 ára afmæli Kleppsspítala í dag; ágætan fyrirlestur og persónulegan. Hann getur ekki ímyndað sér að ég trúi á líf eftir dauðann. Telur að orð Krists hafi verið misskilin; eða mistúlkuð. Trúir ekki öðru en öllu sé lokið við líkamsdauðann. Það væri auðvitað ágæt lausn, en margt bendir þó til annars.
Sjáum hvað setur(!)

Styrmir er með hugann við skinhelgi kirkjunnar manna – og ekki að ástæðulausu. En kirkja Krists hefur hrist allt slíkt af sér í 2000 ár.

 



 



4. febrúar, miðvikudagur

Nú þegar Haraldur hefur verið skipaður ríkislögreglustjóri er að honum veitzt úr ýmsum áttum, en aðförin hófst í sjónvarpinu þar sem fullyrt var að skipun Þorsteins Pálssonar hefði verið pólitísk. Það var svo sem ekki við öðru að búast úr þeirri átt. Helgi H. Jónsson er fréttastjóri á þessu ríkisfyrirtæki - og hann kann sér ekki hóf andspænis pólitískum freistingum sínum; eða hvað?
Haraldur hefur starfað mun lengur en aðrir umsækjendur að afbrota- og lögreglumálum - að Þóri Oddssyni undan skyldum - og meðal annars haft á hendi eitt erfiðasta ermbætti hérlendis í afbrotamálum sem fangelsismálastjóri. Hann tók við þeirri stofnun nýrri, byggði hana upp, hafði meira að segja sem slíkur forystu fyrir því að nýtt fangelsi var byggt á Litla-Hrauni. Allur aðbúnaður hefur þannig gjörbreytzt til batnaðar í hans tíð. Þá hefur hann einnig verið varalögreglustjóri í Reykjavík og fengið það hlutverk að hreinsa til innan stofnunarinnar, ef svo mætti segja. Hann hefur séð um að nýir, færir yfirlögregluþjónar hafa tekið við störfum og meiri kröfur eru gerðar en áður. Nú hefur hann skilað tillögum sínum til breytinga. Böðvar Bragason lögreglustjóri og yfirmann lögreglunnar kvöddu hann fallega og þótti honum vænt um það.
Franklín Steiner-málið hefur sett blett á störf lögreglunnar í Reykjavík, en það mál er utan verksviðs Halla, því var löngu lokið þegar hann kom að nýju starfi sem varalögreglustjóri. Dómgreind hans var óbrigðul því hann neitaði sem fangelsismálastjóri að veita Steinar reynslulausn á sínum tíma þótt annað yrði ofaná.
Þorsteinn Pálsson hefur sagt við mig, að Haraldur hafi staðið sig mjög vel í sínum störfum og ég veit að hann treystir honum fyrir embætti ríkislögreglustjóra vegna þess að hann hefur langa og mikla reynslu af erfiðri stjórnun. Það má vera að einhverjir aðrir hafi hærri lögfræðipróf en hann frá þeirri tíð er lagadeild Háskólans þótti ekki erfið yfirferðar, en það var gott sem Þórhallur Ólafsson, aðstoðarmaður Þorsteins og vinur Halla, sagði þegar á það var minnzt við hann, að einhverjir hefðu e.t.v. hærri einkunnir, Við vorum ekki að leita að fræðimanni! Ef einkunnir hefðu átt að ráða, þá hefði átt að skipa Jónatan Þórmundsson prófessor þegar hann sótti gegn Boga Nílssyni um þetta embætti fyrir rúmu ári.
En sem sagt, nú stendur yfir aðför að Haraldi. Málið hefur verið tekið upp hvað eftir annað í ríkissjónvarpinu, en Þorsteinn Pálsson svaraði vel fyrir sig. Sagði m.a. það sæmdi ekki að dómarar felldu sleggjudóma og hafnaði því fast og ákveðið að hann hefði skipað Harald af pólitískum ástæðum. Halli
hefur aldrei tekið þátt í pólitík og af þeim sökum er þetta út í bláinn. En ég sé auðvitað í hendi mér að það er verið að reyna að höggva eins nærri mér og unnt er - og þá að sjálfsögðu Þorsteini Pálssyni.
Halli veit að það á að gera úttekt á þessu í Dagblaðinu á morgun og honum skildist á blaðamanninum að þá yrði honum engin miskunn sýnd. Það kemur mér ekki heldur á óvart úr þeirri átt. Dagblaðið er auðvitað alveg hlutlaust, þar ráða bara kratar ríkjum ef út í það fer!! Össur Skarphéðinsson ritstjóri er ævinlega eins saklaus og nýþveginn barnsrass og Jónas Kristjánsson hefur svo sem ekki sýnt hvorki mér né Haraldi neinn hlýhug - nema síður væri! Ég veit að vísu ekki hver ástæðan er, en það helzt líklega í hendur við þá trú hans, að hann sé einhvers konar opinber saksóknari, jafnvel spámaður! Að mínum dómi er hann auðvitað fyrsti sleggjudómarinn eins og hann hefur vaðið elginn í leiðurum sínum.
En hvenær linnir þessu?
Það er sárt að sjá að syni sínum vegið með þessum hætti. En þetta er mikið embætti og ég hef sagt við Harald að menn þurfi að fara í gegnum marga elda áður en þeir fá slíkt embætti. Hann segist gera sér grein fyrir því. Og hann hefur vaðið marga elda sem fangelsismálastjóri. En það hefði verið skemmtilegra að hefja þetta starf í betra andrúmslofti. Honum hefði aftur á móti verið mjög vel tekið hjá embætti ríkislögreglustjóra. Hann hefur að vísu átt erfitt samtal við Þóri Oddsson, vararíkislögreglustjóra, en það hefur þó farið ágætlega á með þeim. Böðvar Bragason, lögreglustjóri, og yfirmenn lögreglunnar kvöddu hann með fallegum hætti í gær og þótti honum mjög vænt um það.
Það kostar að vera karlmaður, segir í þekktri skáldsögu. Haraldur hefur oft mátt þola það. Og hann hefur sýnt það og sannað að hann getur farið óbrenndur gegnum sína elda. Samt er þetta óþægilegt. Við getum ekki varið hann á Morgunblaðinu, þetta er eins og nýtt fjaðrafok, maður stendur á miðjum vellinum, vopnlaus. Þetta eru þá öll völdin sem alltaf er verið að tönnlast á! Og guð, jú við biðjum bænirnar okkar og hann er áreiðanlega á næstu grösum. En það er eins og Anna litla dóttir Haraldar sagði við Hönnu ömmu sína um jólin að það væri merkilegt þetta með hann guð, hún hefði ekki séð hann, ekki einu sinni á jólunum!

Ég var að lesa um úthlutun norðurlandaverðlaunanna í Aftenposten. Blaðið segir að þessi keppni sé ekki talin til stórviðburða í norrænni menningu. Það heldur því auðvitað fram að norska ljóðskáldið, sem ég man ekki hvað heitir, hafi verið bezt og hefði átt að hreppa hnossið. Blaðið vitnar í sænska rithöfundinn Kjell Johansson og bollaleggingar hans um það hver mundi fá verðlaunin: Noregur er nýbúinn að fá þau, það var ekki enn komið að Svíþjóð aftur, en Finnar höfðu ekki fengið verðlaunin frá 1985. Það var því að þeim komið, auk þess félli ljóðlist í kramið og síðan var þetta allt kórónað með því að kona átti í hlut.
Enginn skyldi keppa við konu nú á dögum!
Mér finnst einhvern veginn þegar talað er um þessi verðlaun að þá vanti virðinguna. Það er talað um þau eins og þau byggist öll á einhverjum kvóta og það má vel vera, ég veit það ekki. En allt er þetta heldur athyglisvert og raunar lærdómsríkt. Enginn skyldi þó taka slík verðlaun of alvarlega, en þau eru góð að því leyti að viðkomandi skáld fær fúlgu af peningum og svo er hægt að selja verðlaunabókina eins og heitar lummur á þessum allsráðandi markaði.

Ég hef verið að hugsa um klíkuskap. Það eru t.a.m. mikil vísindi, í hvern má vitna; eða öllu heldur, í hvern má ekki vitna! Það hefur helzt aldrei mátt vitna í ágæta bók Jóhanns Hjálmarssonar um íslenzka ljóðlist. Páll Valsson sem á sínum tíma skrifaði heldur skaplegan ritdóm í Þjóðviljann um Konunginn af Aragon, leggur lykkju á leið sína til að vitna í Guðmund Andra Thorsson þegar hann skrifar um Jónas Hallgrímsson í íslenzku bókmenntasögunni, en hann þarf ekki á minni bók um Jónas að halda - og kemur engum á óvart.
Það eru einnig mikil fræði, þegar rithöfundar eru nefndir til sögunnar, hverjir eru í tízku og hverja má ekki nefna. Indriði G. Þorsteinsson er varla nokkurn tíma nefndur, né Kristján Karlsson og þannig mætti lengi telja. Ég er ekki nefndur, ef hægt er að sleppa mér. Þó hafa ýmsir vinstri menn sýnt mér hlýhug og sanngirni upp á síðkastið og hef ég metið það mikils. Jóhann Hjálmarsson sagði í gamans skyni á sínum tíma, að við tveir ættum enga aðdáendur, nema nokkra gamla stalínista! Nú hefur fjölgað eitthvað í þessum hópi.

Kvöldið

Margt gerist óvænt og án þess gera boð á undan sér. Brynhildur, kona Haralds, datt á hálkunni í morgun og sleit liðbönd í öðrum fæti. Hún á víst samt að geta komið með okkur til London því hún ætlar einnig að vera við doktorsútskrift Ingólfs. Ósköp leiðinlegt óhapp. En við sjáum til.
Góður Rótarý-fundur. Páll Bergþórsson flutti athyglisvert erindi um sögurnar og Vínland, sýndi plöntur að vestan og merkileg kort. Ég er sammála Páli um að við getum treyst sögunum um vesturfarir víkinga betur en margur hyggur. Þeir fundu álfuna, það er enginn vafi á því, hafa farið nokkuð vítt um, til Nýfundnalands, Kvíbekk, Boston og líklega einnig New York. Vínviður og hrís sem lýst er í sögunum finnast t.a.m.við Kvíbekk. Ef nokkur fjörður ætti að heita Straumsfjörður, þá er þetta sá eini rétti. Þar er munur sjávarfalla meiri en nokkurs staðar annars á jörðinni. Þar setja menn enn net á staura á fjöru svo fiskarnir festist í þau á flóði. Munur sjávarfalla getur orðið 16-17 metrar. Svo tína þeir fiskinn úr netunum á útfalli.
Erindi Páls var afar sannfærandi.

Hitti Þorstein Pálsson  í Rótarý. Gekk til hans, þegar hann var að fara og heilsaði upp á hann í forstofunni.

Ég hlýt að mega taka í höndina á þér, sagði ég.
Hann heilsaði mér hlýlega, tók þéttingsfast í hönd mína báðum sínum höndum.
Ég sagði, Við höfum áhyggjur af því að skipan Haralds geti skaðað þig eitthvað, en ég vona þó ekki.
Það gengur yfir, sagði hann,við höfum gert allt rétt, annars hefði það ekki verið gert.
Þá kom Björn Bjarnason þar að. Hann var brosandi, vinalegur og mjög hlýr, hlýrri en ég hef séð hann misserum saman.
Hann heilsaði og óskaði mér til hamingju með Halla, bætti svo við:

Fyrsta verkið hans verður að handtaka nokkra dómara!!
Þá hlógu þeir báðir og skemmtu sér hið bezta,en mér leið vel þarna í kompaníi við þá.
Ég sagði við Björn,
Við sjáumst í sendiráðinu í London.
Það getur verið, sagði hann, en ég þarf að fara heim um hádegi þann 23. febrúar.
Við sjáum til, sagði ég, en þeir kvöddu og fóru saman út, glaðir í bragði.
Ég fór aftur inn að hlusta á Pál.
Mér hafði létt.
Það var gott að hitta þessa gömlu vini mína og samstarfsmenn við þessar aðstæður. Ég merki að þetta er vinátta sem heldur. Það gleður mig ósegjanlega eftir litlu ísöldina sem nú hefur staðið yfir um nokkurt skeið.

Sagði Halla frá þessu. Það gladdi hann. Annars hafði hann ekki mikinn tíma til skrafs í síma, því hann var uppi á Borgarspítala að bíða eftir röntgenmyndum af Brynhildi. Hann sagði mér þó að yfirlögregluþjónn á Akureyri hefði hringt í hann, óskað honum til hamingju og sagt að hann hefði fullan stuðning lögreglumanna þar nyrðra. Sýslumaðurinn í Borgarnesi hringdi einnig svipaðra erinda.

Ódagsett.

 

Hitti Jóhann Hjálmarsson í morgun, nýkominn frá Stokkhólmi. Hann sagði að íslenzku bækurnar hefðu fengið góðar viðtökur í fyrstu atkvæðagreiðslu, en þó ekki verið efstar og réð það auðvitað úrslitum. Hann sagði jafnframt að Sigurður A. Magnússon hefði lagt sérstaka áherzlu á bók Árna vinar síns Bergmanns. Það er alltaf einhver kengur í honum gagnvart mér, samt samþykkti hann að leggja mína bók fram og var það huggulegt af honum. Jóhanni finnst ekki við hæfi að SAM, sem var formaður nefndarinnar, skyldi hafa verið á kennderíi með dómnefndarkonum nóttina fyrir atkvæðagreiðslu. Ég sé að hann er við hestaheilsu þó að hann hafi áreiðanlega staðið sig betur þegar við vorum saman og upp á það bezta!

Jóhann gaf Tómasi Tranströmer mína bók. Hann las strax nokkur kvæði, leit á Jóhann og sagði: Mycket bra(!) Það gladdi mig.

Hef verið boðinn í upplestrarferð til Stokkhólms. Nenni ekki að fara.

 

Síðdegis

Netútgáfa Morgunblaðsins hefur farið vel af stað og er mikil og góð viðbót við útgáfu blaðsins að öðru leyti. Sýnir styrk og samheldni þegar mikið er í húfi.

8. febrúar, sunnudagur

1.
Er að hugsa um þau orð Snorra Sturlusonar að allt sé gert af einhverju efni. Þannig varð jörðin til, sólkerfin; tilveran.
Hið sama má víst segja um listaverk. Þau verða öll til af einhverju efni. Við getum því sagt að forsenda allrar listar sé upplifun tilfinninga; og eitthvert hráefni. Einu sinni var ég þeirrar skoðunar að Íslendinga sögur væru fyrstu skáldsögur sem skrifaðar hafa verið, en það er víst ekki rétt. Þó má ætla að þær séu fyrstu skáldsögurnar sem hafa orðið til af því sama efni og flestar nútímaskáldsögur; þ.e. umhverfinu, lífinu í kringum okkar. En aðrar sögur hafa einnig orðið til úr þessu sama efni, en hráefni þeirra er fremur höfundurinn en umhverfið. Þær minna á ritverk Þórbergs Þórðarsonar fremur en skáldsögur annarra íslenzkra höfunda. Aðrir halda því fram að fyrsta skáldsagan sem skrifuð hefur verið sé Satyrikon eftir Petróníus sem var rómverskur höfundur við hirð Nerós keisara á 1. öld e.Kr. Hann fjallar um umhverfi tveggja ferðafélaga og umturnar þessum efnivið í einhvers konar grallarasögur sem eru harla ólíkar því söguefni sem við þekkjum í Íslendinga sögum.
Aðrir halda því fram að fyrsta skáldsagan sem skrifuð hefur verið sé Sagan af Genjí eftir Murasaki Shikibu (970-1026) sem er talin einn helzti rithöfundur Japana þótt lítið sé um hana vitað. Hún þekkti hirðlífið af eigin raun, hélt dagbók og skrifaði upp úr henni söguna af Genjí prinsi og konunum í lífi hans. Hún þykir gera hirðlífinu góð skil án þess ég viti það þó, því ég hef ekki lesið þessa sögu. Hún lýsir konunum í lífi prinsins að mér skilst á viðfelldinn hátt, gáfum þeirra og listrænum áhuga, en þær gengust upp bæði í tónlist, myndlist og ljóðlist. Þá þykja náttúrulífsmyndir hennar með ágætum, en Íslendinga sögur fóru að mestu á mis við slíkar lýsingar. Þar er öll áherzlan á dramatískar persónur, afdrif þeirra og örlög; líf þeirra, en þó einkum dauða. Það væri þá helzt lýsingin á Hlíðinni í Njáls sögu sem við getum kallað til vitnis um áhuga höfundar á náttúrunni umhverfis persónurnar.
En þannig getur upplifun höfundar verið það hráefni í skáldskap sem er öllum skáldskap hnýsilegri. Upplifunin getur verið nálægt reynslu höfundar, en hún getur einnig verið eins og gagnsær himinn sem kallar fram stjörnunar við sérstakar aðstæður. Það er mikill vandi að breyta slíkum efnivið í skáldskap. En Þórbergi varð ekki skotaskuld úr því. Hann fjallar um sjálfan sig í öllum verkum sínum, jafnvel þegar hann skrifar um ævi séra Árna Þórarinssonar.
Hann er eins og skilvinda, við fáum rjómann en sleppum við undanrennuna.
Það getur verið hnýsilegt að huga að því hráefni sem skáld og listamenn nota. Debussy samdi sitt merkilega tónverk um hafið upp úr kvæði eftir franska skáldið og symbolistann Mallarmé. Hann hafði það takmark að yrkja helzt án þess áþreifanlega efnis sem skáld nota í verk sín og Debussy tók hann á orðinu með þeim afleiðingum að einn helzti tónlistargagnrýnandi þess tíma, Louis Elson, fullyrti að hann gæti ekki merkt nein áhrif frá hafinu í þessu tónverki:
“Ég hvorki heyri, sé, né finn hafið”, sagði hann.
Og honum þótti óttalegt að sitja undir þessum óskapnaði!! Þannig upplifum við hráefnið með ýmsum hætti.

Ég hefði ekki viljað sitja uppi með þá dóma sem Elson hefur hlotið fyrir gagnrýni sína á Hafinu eftir Debussy. En þetta er hans haf - og það skiptir öllu máli. Og þá kannski einnig hitt, að það getur enginn gagnrýnandi þaggað niður brimhljóð mikilla listamanna.
2.
Ég minntist á það einhvern tíma í fyrra að sr. Sveinbjörn í Hruna hefði verið að spila bridds við samstúdenta sína á heimili Þórhalls Tryggvasonar handan götunnar hér við Reynimel og þá hafi hann eftir háa sögn hnigið niður örendur við borðið. Það eru ekki allir sem segja skilið við lífið með þremur hjörtum eða fjórum spöðum á hendi. Það er stíll yfir slíkri kveðju.

Ef einhver hefði skrifað smásögu um þetta atvik hefði okkur að öllum líkindum þótt hún færð í stílinn. En lífið sjálft tekur ekki mark á slíkum fyrirvara, eða eigum við fremur að segja dauðinn. Hann spyr ekki hvar við erum stödd í rúbertunni og kærir sig kollóttan um það hvort hann stjórnar líklegum eða ólíklegum atvikum í lífi okkar.

En það kastaði þó fyrst tólfunum þegar Guðjón Guðnason yfirlæknir var nokkrum mánuðum síðar heima hjá Birni Tryggvasyni, bróður Þórhalls, og spilaði bridds við bekkjarfélaga sína, en þá lék dauðinn sama leik og áður.

Björn Tryggvason segir um þetta atvik í minningargrein í Morgunblaðinu fimmtudaginn 5. febrúar 1998:
“Það var 28. janúar sl. þegar spilaklúbbur okkar kom saman hér hjá mér í Laufási. Guðjón átti sögn í lokaspili kvöldsins og meldaði fjóra spaða, sem var doblað. Hann vann spilið með tveimur umframslögum. Hann var sigri hrósandi yfir þessu, þegar kallið kom. Greinilegt var að Guðjón fór inn í algleymið án sársauka á sigurstundu í íþrótt sem við félagarnir höfum stundað með honum í áratugi”.
Sem sagt, dauðinn hikar ekki við að vega í knérunn. Samt er það helzti boðskapur Njáls sögu að það skyldu menn forðast öðru fremur. En það gilda ekki sömu reglur um okkur og manninn með ljáinn. Hann slær allt hvað fyrir er án þess spyrja kóng eða prest.
Ég get ekki ímyndað mér ótrúlegra en jafnframt mikilvægara og athyglisverðara efni í sögu en þau atvik sem ég nú hef minnzt á. Þau væru svo merkileg í listræna frásögn að það er vart hægt að skila þeim í skáldskap á jafn áhrifamikinn hátt og lífið sjálf hefur gert. Það fer bezt á því að fjalla um slíkt í minningargrein, en ekki smásögu. Samt er ég í aðra röndina með þessum orðum og svona upprifjun að skrifa einhvers konar smásögu úr lífinu og nota til þess efnivið sem ég þekki einungis af afspurn og ekki fremur af eigin raun en Debussy þegar hann hlustaði á nið hafsins án þess hafa glímt við það.

 

Í annarri minningargrein, sunnudaginn 8. febrúar, er fjallað um ungan mann, Þorstein Þorsteinsson, sem lézt í blóma lífsins af ólæknandi fíkn sem leiddi hann til dauða. Ég sé að fólkið hans reynir, svo mannlegt sem það er, að leita einhverra skýringa eins og til huggunar, en greinin er í senn rituð af átakanlegu raunsæi og tilraun til að sefa versta sársaukann:
“Eftir seinni meðferðina hóf Steini sjálfboðaliðsstarf fyrir Krísuvíkursamtökin. Einnig miðlaði hann reynslu sinni og hörmungum til ungra fíkla sem höfðu villst af leið svo þeir mættu bjargast. Eftir áralangt, árangursríkt hjálparstarf, varð hann fyrir miklu áfalli. Hann hafði átt 6 mánaða dóm á sér fyrir að ganga með tvö frosin lambalæri út úr Hagkaup án þess að greiða fyrir. Honum hafði verið lofað þegnskylduvinnu og hjálparstarfi sem kæmi til frádráttar fangelsisvist. Það reyndist ekki standa. Eftir að hann kom út af Hrauninu með aleiguna í plastpoka, félaus og vinalaus, var lítið annað en köld gatan framundan. Hann svaf þá í tvær nætur hjá Gunnari í Krossinum en líkaði ekki, eina nótt í grjótinu, tvær nætur á götunni og tvær nætur meðvitundarlaus á gjörgæslu Landspítalans, en þá var allri hans píslargöngu lokið.”
Um þetta eru skrifaðar heilu skáldsögurnar, áhrifaminni en þessi frásögn föðurins, Þorsteins Smára Þorsteinssonar. Þrátt fyrir allt og allt, allan sársaukann, alla kvölina, allt vonleysið, kveður hann son sinn með “þökk fyrir öll árin sem þú lifðir og öll brosin sem þú gafst mér”.
Enginn saga kemst í hálfkvisti við þessa lýsingu. Söknuðurinn, sársaukinn breytist í mikinn skáldskap sem getur verið efniviður í hlýja og góða minningu, þegar fram líða stundir. Þetta er fallegur og gerðarlegur piltur að sjá af myndinni sem fylgir minningargreininni, fæddur í Keflavík 22. apríl 1968. Þessi mynd verður eftir og “brosin sem þú gafst mér”, þegar allt annað verður gleymt og enginn þarf að svara því að enginn spyr lengur þess sem foreldrarnir spurðu í miskunnarlausum eldi líðandi stundar:
Sonur minn. Þú flýtur sofandi að feigðarósi, og vilt ekki vakna.
Ég stend álengdar og næ ekki til þín. Þó elska ég þig svo mikið. Ég kalla til þín með hjartanu, en þú heyrir ekki. Ég kalla til þín með skynseminni, en þú skilur ekki.
Ég kalla til þín með örvæntingu, en þú flýtur framhjá.
Hvað á ég að gera?
Ég gat ekki varið þig fyrir áföllum, ekki hlíft þér við miskunnarleysi mannanna.
Drottinn frelsar þig.
Ég elska þig.
Kveðja mamma og pabbi.
Eins og faðirinn bendir á í  upphafi þessarar minningargreinar um son sinn er sitthvað gæfa eða gjörvuleiki. Og á sama hátt og sigrarnir koma innanfrá, þannig bíðum við einnig ósigrana innra með okkur. Þar fer orrustan fram, þar er vígvöllurinn. Það vissi Þorgeir Kr. Magnússon sem ég hef áður minnzt á og notaði á sínum tíma sem efnivið í tvær eða þrjár litlar sögur. Í sinni fínu minningargrein um Þorgeir segir Björn Sigurðsson, lögregluvarðstjóri, að Þorgeir hafi tekið kúrsinn á það sem hann hélt að væri markmiðið hverju sinni, en gleymdi því svo og tók annan pól í hæðina eins og hann kemst að orði.
“Svo nærri er freisting og fall hverri manneskju að þess vegna stígur fólk yfir þann er þversum liggur. Stynur í hryllingi og segir í hljóði: Aumingja maðurinn.”

Og enn:
“Víst fór ungur drengur á Grímsstaðaholtinu vel af stað. Stór og meiri að burðum en venjulegt gat talist. Augun án hrekks og svika. Þannig lifði hann og dó. Suma vantar eitthvert lítilræði upp á fulla stærð. Látum vera sérsinni o.þ.u.l. Hitt er verra að gleyma vinnunni því þá fer samfélagið að urra.
Einfarinn lét þó ekki eitt niður falla. Í þröngu herbergi sínu skrifaði hann greinar um gengið fólk af Holtinu og þá er honum fannst nærri sér standa í þjóðfélaginu. Stíllinn er einn sá knappasti er sést í blöðum.”

Þorgeir glataði æskuumhverfi, þar sem grasið var feitara en á öðrum stöðum því fiskur var borinn á túnblettina og jörð kom græn undan svelli. Eftir það átti einfarinn “frekar innhlaup og skjól en fastan bústað og heimili”.

Hvað var að?
Það veit enginn.
Í lærðu umhverfi væru menn vísir til að tala um samfélagsfælni eða samfélagsflótta eins og nefnt er í minningargreininni.
Og þarna gekk hann einn síns liðs í bláum samfestingi, arkandi, kjagandi og óstöðugur ef hann var drukkinn, en styrkari þegar betur stóð á. Hann drakk illa en með stórum stönzum. Aldrei datt honum í hug að amast við öðrum. Bað kannski um aur fyrir pilsner eða grammófónplötu, það var allt og sumt. Unz göngunni lauk á gangbraut yfir Hverfisgötu, framan við lögreglustöðina.
Ég sé hann fyrir mér í bláum samfesting, hendur standa út af hliðunum, gildur og þykkur undir hönd. Hann er eitthvað að flýta sér. Þó er hann í fullum rétti. Það var hann ævinlega með einhverjum hætti. Bílstjórinn varar sig ekki á þessum flóttamanni. Bíllinn skellur á honum og hann liggur í blóði sínu við sebrótta götuna.
Einfarinn kominn í slagtog með eilífðinni.
Einnig hann, að lokum.
Það er sumarlegt á Grímsstaðaholtinu. Sólin hossast á haffletinum, eins og minningargreinarhöfundur kemst að orði, og fólk man ekki lengur mun dags og nætur. Bátum ýtt úr vör og ráðið til hlunns. Útilegumaðurinn þarf ekki lengur að heita á hurðir ókunnugra. Kaupstaðalyktin er honum ekki lengur til trafala. Nú gerir enginn lengur kröfu til húsaga. Nú þarf ekki einu sinni að ganga yfir götuna og biðjast gistingar hjá lögreglunni. Engu líkara en öll vandamál séu leyst. Einhvers staðar er spilaður Beethoven eða Schubert. Og einhvers staðar stendur undarlegur maður og öðrum ólíkur á bláum samfestingi og spyr Lykla-Pétur, hvort hann megi sjá af nokkrum aurum fyrir pylsu og kók.
Annað var það nú ekki.
Það er Þorgeir Kr. Magnússon sem hafði týnt niður öllu því sem telst verðmæti “á leið venjulegs fólks gegnum kerfi fyrirgreiðslu og afborgana”. Og hann sem var nú í rétti. Nú átti hann svo sannarlega heimtingu á skaðabótum. Nú hefði hann í fyrsta sinn getað séð sér farborða – en þá þarf hann endilega að verða fyrir bíl(!) Getur ekki einu sinni notið þess að vera keyrður niður á gangbraut og heimtað þær bætur sem hann hefur unnið fyrir og allir vita að hann á rétt á.
Nú loksins frjáls og öllum óháður. Það hefði getað verið bjart framundan hvað sem göngunum miklu leið.
Og hann hefði getað keypt sér margar plötur.
Og margar pilsur.
3.
Þetta er ekki efniviður í skáldskap. Þetta er skáldskapur sem veruleikinn er ofinn úr; skáldskapur kaldhæðninnar. Og við vitum ekki hvort við eigum heldur að gráta eða hlæja. En það gerir ekkert fyrst Schubert er á næstu grösum.

 

9. febrúar, mánudagur

Vaknaði í morgun við það að Styrmir hringdi og sagði okkur lát Halldórs Kiljans Laxness. Hraðaði mér niður á Morgunblað þar sem við héldum fund um blaðið á morgun og hvernig við ættum að minnast skáldsins. Það gekk vel fyrir sig. Þröstur Helgason hefur skrifað yfirlitsgrein um Halldór, en ákveðið að grein sem ég skrifaði fyrir tveimur árum í því skyni að hún yrði birt við andlát hans yrði á forsíðu, með framhaldi á miðsíðu. Fórum yfir önnur atriði einnig eins og blaðið ber vott um.
Ég var ekki fyrr kominn niður á Morgunblað en hringt var frá Bylgjunni og ég beðinn um að minnast skáldsins í tólf fréttum. Ég gerði það og hafði til hliðsjónar það sem ég sagði í Þjóðleikhúsinu á 85 ára afmæli Halldórs, Boðskapur mikillar listar.
Þá var ég beðinn um að minnast skáldsins í fréttatíma Stöðvar 2 og varð ég við því. Þar minntist ég hans með þessum orðum:
Ég sagði eitt sinn við Halldór:
“Innansveitarkronika er perlan í skáldskap þínum.” Þetta kom honum á óvart og hann varð hugsi, enda verður slíkt ekki sannað. Og sitt sýnist hverjum þegar um er að ræða svo mikla höfundarævi. En ég held honum hafi samt þótt gaman að þessari athugasemd. Ljóðskáldið nýtur sín enn betur í Sjálfstæðu fólki og Ljósvíkingnum en helsti arftaki íslendingasagnahöfunda stendur þeim næst í Inannsveitarkorniku og hef ég reynt að færa rök að því. En þar er einnig mikið ljóðskáld á ferð. Það var í þessu skáldi sem fólkið átti bágt. Því sem manni er trúað fyrir, segir Guðrún Jónsdóttir í Innansveitarkroniku, því er manni trúað fyrir.
Halldóri Kiljan Laxness var trúað fyrir miklu. Honum var trúað fyrir arfleifðinni, silfurþræðinum í lífi íslenzku þjóðarinnar.
Halldór hefur aldrei skrifað brúkunarlist. Það er inngróið, upprunalegt veganesti úr Laxnesi, en engin tillærð tízka, sem við köllum til vitnis um snilld og yfirburði skáldverka hans, sem einatt eru svo fínlega fléttuð að þeim verður ekki við annað líkt en tónlist gömlu meistaranna, og þá helzt verk eins og fimmtu Seneröðu Haydns, þar sem mikil list á stefnumót við óskilgreinda og lítt höndlanlega fegurð. Þannig list er eins og fuglarnir blístri hver á annan, svo skírskotað sé til Kristnihaldsins.”

Mér var ákaflega vel tekið þegar ég kom upp á Stöð 2, ekki sízt af Páli Magnússyni sem ég hef átt erfitt með að skilja en sé nú að offors hans gegn Morgunblaðinu stafar ekki endilega af neinni sérstakri mannvonzku, heldur þeirri morgunblaðsfælni sem margir eru enn haldnir, ekki sízt samkeppnisaðilar okkar. En mér þótti vænt um viðtökurnar og starfsfólkið reyndi að flikka upp á mig eins og unnt var, ég var smurður og púðraður eins og gert er við lík í Bandaríkjunum, síðan kyrrsettur fyrir framan myndavélina og las orð mín af skjánum. Held það hafi gengið bærilega. Í fréttaútsendingunni var þessum þætti sýnd sérstök virðing með því að setja hann á eftir umræðuþætti Jóns Ársæls og Helgu Johnson, en þátttakendur voru Vigdís Finnbogadóttir og Guðbergur Bergsson.
Það kom mér á óvart að Guðbergur sagðist ekki hafa þekkt Halldór. Ég hélt þeir hefðu kynnzt, en þeir hafa sem sagt  farizt á mis í lífinu. Guðbergur var spurður um ljóðlist Halldórs. Hann svaraði því til að hún hefði ekki haft sérstök áhrif á hann. Hin einfalda ljóðlist Jóns úr Vör hefði átt greiðari aðgang að Guðbergi Bergssyni og haft meiri áhrif á hann en ljóðlist Halldórs. Þetta kom mér svo sem ekkert á óvart en þó var athyglisvert að heyra þetta af vörum Guðbergs sjálfs. Hitt er svo annað mál að hann miðar allt við sjálfan sig. Listamönnum hættir til þess. Guðbergur var spurður um ljóðlist Halldórs, en ekki hvaða áhrif hún hefði haft  á hann sjálfan. Ég kann að mörgu leyti vel við Guðberg, ekki sízt vegna þessa að hann er alltaf að reyna að segja það sem hann meinar en skáld eiga sjaldnast auðvelt með að koma skoðunum sínum til skila, þeim hættir til að ofleika. Mest hafði ég þó gaman af því sem Guðbergur sagði um stöðu Halldórs Laxness í framtíðinni. Framtíðin vissi ekki einu sinni hver hún yrði - og er það áreiðanlega sönnu nær.
Loks bað Kolbrún Bergþórsdóttir mig um að minnast Halldórs nokkrum orðum í Degi og gerði ég það með þessum orðum:

Dáið er alt án drauma
og dapur heimurinn.

Það er í skáldskap sem veruleikinn birtist. Þeim skáldum sem mark hafa tekið á þessum draumi hefur auðnazt að renna stoðum undir fyrirheit mikilla hugsjóna. Íslenzkur veruleiki er sprottinn úr kunnuglegri undirstöðu þessa garralega umhverfis okkar. En vegna draumsýnar og skáldlegrar reynslu gerði það umhverfi sem er vettvangur skáldskapar Halldórs Laxness sér lítið fyrir og togaði himneska Jórsali niður á þetta plan, sem er daglegt viðfangsefni okkar; hversdagsleg þjáning og þrá eins og Steinn sagði. En hann sagði líka eins og alþýðuskáldið að litlir karlar ættu að þegja þegar miklir atburðir gerast. Það er víst ekki hægt að verða við því.
Í Innansveitarkroniku segir svo:
“Hann séra Jóhann sagði bara gef oss í dag vort daglegt brauð og gaf hrossunum brauðið. Segi ég sisona við séra Jóhann, Það var þá vitið meira eða hitt heldur að vera að gefa ræflinum henni stóru Gunnu gullpeníng, hvað á hún mókolla mín sosum að gera við gullpeníng!”
Það er ekki úr vegi að minna á þessi litlu atvik, þegar við leiðum hugann að verkum Halldórs Laxness. Þau segja mikið um vinnubrögð og aðferð skáldsins og hvernig hann hefur komið mannúðarstefnu sinni til skila í skáldskap sínum. Fólk á borð við séra Jóhann hefur verið honum hugleikið yrkisefni. Það er kvikan í skáldskap hans. Með aðstoð þessa fólks hefur honum öðrum fremur tekizt að benda á bágindi heimsins án þess úr yrði vella eða skinhelgi.
Síðari hlutinn var tilvitnun í Félaga orð.
Svo þurftum við auðvitað að koma fréttinni á morgunblaðsnetið og held ég að það hafi tekizt nokkuð vel til. Við getum byggt upp góðan gagnabanka um Halldór Laxness, líf hans og list, og verður nú unnið að því ásamt öðru.
Þannig leið nú þessi dagur, en þó er þess enn ógetið sem kannski var mikilvægast. Ég hringdi í Auði um morguninn og vottaði henni samúð okkar. Það var gott að tala við Auði eins og ávallt. Hún sagði mér að Halldór hefði veikzt fyrir viku. Hún hefði verið hjá honum öllum stundum en henni hefði verið boðið í þorrablót fyrir helgina og þangað hefði hún farið, ég held með dætrum sínum. Þegar þær voru á leiðinni heim sagðist hún vilja koma að Reykjalundi því að hún ætlaði að gista hjá Halldóri. Þær vildu að hún kæmi heim í Gljúfrastein en þar sem hún hafði sofið ágætlega heima nóttina áður tók hún þá ákvörðun að fara heldur að Reykjalundi. Hún sagði að sr. Jakob í Landakoti hefði veitt skáldinu sakramenti, sjálf hefði hún tekið svefntöflu til þess að hún gæti sofið um nóttina. En hún vaknaði um tíuleytið við það að Halldór var hættur að anda í rúminu við hliðina á henni. Hann fékk hægt andlát, sagði hún, og ég fann að það skipti hana miklu máli.
Nú má segja að 20. öldin sé að baki. Persónugervingur hennar er allur. Ný öld rís við dagsbrún; öld þeirra sem eiga annaðhvort eftir að lifa áfram með verkum skáldsins eða deyja með þeim inn í þá arfleifðarlausu óvissu sem ógnar okkur úr öllum áttum.
Vonandi verður það íslenzk sól sem nú rís og fylgir okkur inn í það alþjóðlega samfélag sem bíður okkar óhjákvæmilega.
Ég hef verið spurður um það, hvernig ég teldi að verk Halldórs Laxness eigi eftir að endast í útlöndum, ég hef svarað,
Skáld deyja heim. Ekki sízt skáld lítilla þjóða. Og þar munu þau lifa(!)

12. febrúar, fimmtudagur

Auður Laxness hringdi til mín í morgun. Hún spurði hvort við vildum fá samúðarskeyti frá Kohl. Ég þakkaði fyrir. Hún sendi mér skeytið á faxi, ásamt jarðarfarartilkynningu. Skeytið frá Kohl er stórbrotið. Tengsl okkar við umheiminn liggja ekki í gegnum Norðurlönd, heldur Þýzkaland. Menn fara kannski að gera sér grein fyrir því innan tíðar.
Auður sagði að þau hefðu ætlað að biðja mig og einhverja aðra að bera kistuna úr Kristskirkju, en Einar Laxness hefði viljað að niðjar sínir bæru kistuna úr kirkju og hafi hún þá ákveðið að hið sama gilti um hennar börn. Ásamt þeim bera kistuna Ólafur Ragnarsson, útgefandi Halldórs, Hjálmar H. Ragnarsson, formaður Bandalags íslenzkra listamanna, og Ingibjörg Haraldsdóttir, formaður Rithöfundarsambands Íslands, nema Thor Vilhjálmsson komi í hennar stað.
Hann var svo mikið hjá Halldóri, sagði Auður - og mér fannst einhver afsökun í þessum orðum.
Ég sagði henni að mér hefði þótt afar vænt um að hún skyldi segja mér þetta. Mér fyndist þetta allt harla eðlilegt. Mér hefði einnig þótt vænt um að þau hefðu hugsað til mín með þessum hætti, en teldi þetta ágæta lausn og þá var eins og henni létti dálítið og hún sagði mjög hlýlega, Jæja, elskan, það er gott.
Kristján Karlsson kom með sína grein um Halldór í morgun og við borðuðum saman. Ég ákvað að hún yrði fyrsta greinin í minningarblaðinu um Halldór á laugardag. Þetta er mjög flott grein og auðvitað réttur tónn sleginn eins og Kristjáns er von og vísa. Hann segir m.a.:
“Nú vildi ég kveðja hann með því að reyna þetta (þ.e. að skrifa “eitthvað persónulegra” um verk Halldórs), að vísu í allt of fáum orðum, og lýsa því hvernig ég sé hann og heyri “persónulegast”, án verulegs tillits til fjölbreyttninnar í sögum hans (sem kannske er ekki eins mikil og stundum er sagt) eða fræðilegra sjónarmiða, semsé þannig: hann er fyrst og fremst ljóðskáld, þó að hann legði ekki mjög mikla rækt við venjulega kvæðagerð - ljóðskáld með geysilega hneigð til hreinnar tónlistar í máli og byggingu verks; rómantískur tónsnillingur máls sem vinnur gegn sjálfum sér með ýmsum tegundum raunsæis, raunsæilegum eftirlíkingum og skopstælingum, hálf-raunsæilegri tvíræðni eða t.d. þjóðlegum fáránleik sem er ein hefð raunsæis”.
Og ennfremur:
“Sögurnar eru til vitnis um afburða ljóðskáld. Raunsæið er aftur aukageta sem gefur sögunum spennu með því að takast á við ljóðrænan uppruna þeirra. En ég leyfi mér að fullyrða að án tónlistar málsins burtséð frá eiginlegri merkingu þess yrði veröld sagnanna óraunveruleg. Við myndum ekki kannast við hana nema fyrir yfirþyrmandi gáfur ljóðskáldsins í sögunum.”
Þetta er auðvitað hárrétt og kjarni málsins. Kemur nákvæmlega heim og saman við það sem ég hef sagt, t.a.m. í Stöð 2 um daginn. Það er þessi tónlist sem er kjarni málsins og gerir gæfumuninn.
Við Kristján veltum fyrir okkur þessari ljóðrænu tónlist í prósaverkum annarra íslenzkra rithöfunda, en eigum erfitt með að koma auga á hana. Thor hefur reynt, en hann er alltaf að stilla hljóðfærin! Guðberg skortir þessa óskiljanlegu músík. Hans styrkur liggur í öðru. Þegar  Tómas metsölubók kom út var Ragnar í Smára að springa af kátínu.
Hann sagði við mig:
Þessi saga er eins og fullur hlandkoppur - og maður drekkur hann í einum teyg!
Kristján minntist þess að Halldór hefði einhvern tíma talað við hann um Guðberg Bergsson.
Hann hefði enga ánægju haft af að lesa bækur hans. Hann hefur engan stíl, sagði Laxness, en stelpurnar mínar hakka þetta í sig!
Mér er nær að halda að Guðbergur hafi einhvern tíma heyrt eitthvað svipað eftir Halldóri haft. Ég held ekki að hann hafi borið neinn sérstakan hlýhug til hans. Hann hefur haft á tilfinningunni að Halldór kynni ekki að meta hann.
Þegar ég hugsa um samtalið við Auði sagðist ég hafa hitt Einar Laxneess á hollvinafundi í Háskólanum nú í vikunni.
Það var gott að hitta hann, sagði ég, mér finnst hann orðinn blíðari með árunum.
Já, sagði Auður, það er líklega rétt, en hann er ákveðnari. Hann er sonur Halldórs og það á ekkert að ganga framhjá því, bætti hún við

Ég sagði við Kristján Karlsson að mér hefði líkað vel, hvernig Hannes Pétursson minntist Halldórs í Morgunblaðinu.
Hann er hlýrri en áður, sagði ég.
Eiginlega fannst mér þessi orð ekkert sérstaklega hannesarleg, mér fannst hann áður eitthvað kaldranalegri þegar hann talaði um fólk.
Já, sagði Kristján, það má vel vera. En síðast þegar ég átti símtal við Hannes, sagði hann,
Ég er breyttur frá því sem var(!)

P.s. Í tilefni af ummælum mínum um Halldór í Degi þegar ég hafði eftir Steini: Þegar stórir atburðir gerast eiga litlir karlar að þegja. (en hann hafði þetta víst eftir Símoni Dalaskáldi), gaf Kristján Karlsson mér þessa vísu Tómasar Guðmundsonar sem hann orti eftir lát Einars Benediktssonar, en mér skilst að kvæði sem Jón Magnússon orti af því tilefni, vont kvæði að dómi Tómasar, hafi verið kveikja vísunnar, en hún er svohljóðandi:

Þegar strengir stærsta skáldsins brustu,
er stoltast kvað og orti af mestum krafti,
öllum nema landsins lélegustu
leirskáldum fannst rétt að halda kjafti.

 

14. febrúar, laugardagur

Útför Halldórs Kiljans Laxness fór fram frá Kristskirkju í Landakoti í dag. Það var falleg athöfn. Þegar hún var að hefjast brauzt sólin fram og lýsti upp kirkjuna, minnti á guðs auga í hugarveröld Jónasar. Í lok minningarorða sr. Gunnars Kristjánssonar vísaði hann til fegurðarinnar og sagði:
“Barn hafði hann staðið í fjörunni við Ljósuvík og horft á landölduna sogast að og frá, en nú stefndi hann burt frá sjónum. Hugsaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini. Bráðum skín sól upprisudagsins yfir hinar björtu leiðir þar sem hún bíður skálds síns. Og fegurðin mun ríkja ein”.
Þetta eru orð að sönnu.
Fegurðin er eitt helzta leiðsögustefið í skáldskap Halldórs Kiljans. Og hún lýsir sér í miklum breytileika. Hún birtist ekki sízt í hjartalagi fjallræðufólksins sem ber umhverfi sínu vitni hvar sem skáldið er á ferð, en sjálfur er hann einskonar farvegur fyrir þessa fegurð, hvort sem hún lýsir bágindum fólks eða draumum. Og það er ekki sízt í draumum sem væntingar geta rætzt.
Kaþólski presturinn, Jakob Rolland, minntist mannsins í skáldskap Halldórs Kiljans og sagði að í augum hans væri maðurinn heilagur.
“Í honum sá hann eitthvað göfugt, eitthvað hreint, eitthvað aðdáunarvert, eitthvað heilagt; eitthvað guðdómlegt; hann sá í lokin skaparann, hann sá í manninum mynd skaparans og trúði á hann. Hann opnaði augu sín og trúði. Þessa trú fékk hann á sínum tíma áreiðanlega frá ömmu sinni; hann staðfesti hana þegar hann gerðist kaþólskur hjá munkunum í Clervaux. Hann játaði hana hér í þessari kirkju, sat á þessum bekkjum og kraup hér í bænum sínum. Þessi sama trú veitti honum styrk og huggun á efri árum og þessi trú er gjöf hans til íslensku þjóðarinnar, sem var honum svo hugleikin.”

Kaþólski presturinn bætti við þessari tilvitnun í verk Halldórs Kiljans:
Eitt faðirvor beðið á næturþeli þegar aðrir sofa er miklu voldugri atburður en allir sigrar Rómaveldis samanlagðir, og eitt andvarp hrelldrar sálar sem þráir Guð sinn eru miklu stórfenglegri tíðindi á himnum en byltingin í Rússlandi eða pólitík Breta í Asíu. Því himinn og jörð munu farast og allt er blekking nema Guð”.
En var Halldór Kiljan Laxness trúaður? Presturinn svaraði því þessum orðum:
“Ég veit að sumir munu undrast það að ég muni tala um trú Halldórs Laxness. Og sumir munu jafnvel hneykslast á því að hann sé jarðsunginn frá kaþólskri kirkju. Var hann trúaður? Á hann í raun og veru samleið með Jesú Kristi? Eða hafði hann ekki fyrir löngu varpað af sér oki kristindómsins? Ég veit að maður getur lesið ýmislegt í ritum hans, sem kemur ekki heim og saman við boðskap kirkjunnar. Efasemdir í trúmálum voru honum yfirsterkari um tíma. En eigum við sjálf að þykjast sterkari í trúnni? Eigum við að þykjast betri en lærisveinarnir á veginum til Emmaus. Betri en þeir Tómas og Pétur, sem glötuðu um tíma trúnni á meistara sinn? Þrátt fyrir það gerði Jesús þá að grundvelli kirkju sinnar og sagði við Pétur: “Styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við”. Eitt veit ég, að þrátt fyrir allar efasemdir missti Halldór aldrei trú á þessa undraveru sem maðurinn sjálfur er. Einmitt í því riti sem hann gaf frá sér til að kveðja endanlega kristindóminn, Alþýðubókinni, fer hann í niðurlagi með játningu, sem segir allt um hann:
“En sterkust alls er þó ást mín á manninum og trú mín á ákvörðun hans. Maðurinn er fagnaðarboðskapur hinnar nýju menningar, maðurinn sem hinn fullkomnasta líffræðileg tegund, maðurinn sem félagsleg eining, maðurinn sem lífstákn og hugsjón, hinn eini sanni maður, - Þú”.
“Þetta er trúarjátning”.
Mér er nær að halda Halldór hafi kallað manninn til vitnis um sköpunarverkið þegar hann var að tileinka sér boðskap marxismans um bræðralag, en þeirri trú, ef trú skyldi kalla, varpaði hann fyrir róða síðar og talaði um Janusarhöfuð marxismans og nasizmans. Þetta uppgjör í Skáldatíma var engin hálfvelgja, heldur svíðandi vonbrigði og sársauki vegna þeirrar blekkingar sem hann hafði ánetjazt. En þrátt fyrir sinnaskipti Halldórs yfirgaf hann ekki manninn; manneskjuna. Hann var kannski ekki eins hallur undir mergðina og áður fyrr þegar hann var talsmaður fjöldahreyfingar menntamanna og fátæks fólks, en hann hvarf aldrei frá manninum, hverjum einum, Þér, þvert á móti lagði hann áherzlu á sáluhjálp hvers og eins, en hún átti rætur í hjartalaginu.
Þrátt fyrir margs konar bágindi á maðurinn sér dýrmæta von, ekki endilega maðurinn í hjörðinni, heldur maðurinn einn og út af fyrir sig og þá helzt í sterkum tengslum við umhverfi sitt; ekki sízt náttúruna. Hann er hluti af sköpunarverkinu og skáldið bar mikla lotningu fyrir höfundi þess. Fegurðin birtist ekki sízt í hinu smáa, sólskríkjunni, snjótittlingnum. Þar er einnig styrkurinn.
Vésteinn Ólason prófessor minnti á þetta í hnitmiðaðri minningargrein í Kiljans-blaði Morgunblaðsins sem út kom í dag við mikinn fögnuð og þakklæti margra, en hann segir í lok þessarar litlu greinar sinnar: “
Að nóttu þegar sól er affjalla verður jökullinn að kyrrlátri skuggamynd sem hvílir í sjálfri sér og andar á menn og skepnur orðinu aldrei sem eftilvill merkir einlægt. Kom dauðans blær.”
Ég hafði ekki ætlað mér að troðast í kirkjuna því að ég hélt þar yrði ekki þverfótað fyrir mannfjölda en þá hringdi Ólafur Ragnarsson í Vöku-Helgafelli til mín, það var snemma í morgun og sagði að tekin hefðu verið frá sæti handa okkur Hönnu. Ég sagði honum sem satt var að ég hefði haft í hyggju að fylgjast með athöfninni í sjónvarpi á Morgunblaðinu og hafa hönd í bagga með frásögn blaðsins, þótt ég vissi það væri í góðum höndum frábærra samstarfsmanna. En mér hafi þótt vænt um að hann skyldi hafa hringt og hvatt okkur til að taka þátt í athöfninni.
Hann tók svo á móti okkur þegar við komum í Kristskirkju og fylgdi okkur til sætis.
Ég sagði við hann í einu símtali okkar að það væri aðdáunarvert hvernig hann hefði umgengizt skáld sitt og þá ekki sízt nú undir lokin því að hann hefur lagt sig fram um að útförin yrði sem eftirminnilegust. Hann hefur talað við kaþólska um aðild lúthersks prests að athöfninni og samþykktu þeir það, þó heldur tregir að mér skilst, enda er byskupinn harður íhaldsmaður í kaþólskum siðum. En sr. Gunnari var hleypt að eins og til þess að gæta sálar hins framliðna svo að kaþólskir hremmdu hana ekki alveg. Þetta er dálítið fyndið og hefði Halldór haft gaman af uppákomunni, því að hún hefði vel getað verið í Kristnihaldinu!
Kaþólskir vernda sál hins framliðna fyrir satan og árum hans, ekki sízt með reykelsi , hreinsa loftið og gæta þess að heilagur andi komist að, en lútherskir reyna nú að vernda sál nóbelskáldsins fyrir kaþólskum, svo að þeir hremmi hana ekki alfarið. Eitthvað verður að vera eftir handa okkur!
Þetta minnir mig á útför Þórbergs á sínum tíma. Þá vorum við í slagtogi með Mömmu-Göggu í Fossvogi. Þar voru saman komnir margir maóistar og héldu á rauðum flöggum. Þegar að gröfunni kom sagði ég við Mömmu-Göggu,
Þú verður að signa yfir kistuna.
Nei, hvíslaði hún, ekki hérna, ekki núna.
Nú, af hverju ekki? sagði ég.
Þeir geta séð það! sagði hún.
Það gerir ekkert, sagði ég. Þú verður að signa, Þórbergur var alltaf sísignandi!
Ég ýtti henni að gröfinni. Hún gekk eitt skref fram og signdi með ljóshraða.
Mér var sagt síðar að þá hefðu maóistar andvarpað og sagt,
Nú stal Matthías líkinu!
Ég er ekki að segja að lútherskir hafi ætlað að ræna Halldóri Kiljan þarna við nefið á kaþólskum en mér skilst að Auði hafi þótt nóg um hvað þeir lögðu sig fram undir lokin. En þeim er víst fyrirlagt að vernda börn sín fyrir hinu illa og ganga fram í því með slíkri ákveðni að okkur lútherskum getur þótt nóg um!

Þegar forseti Íslands minntist Halldórs Kiljan Laxness líkti hann honum við Snorra Sturluson. Dagný Kristjánsdóttir,prófessor, tekur undir þetta í grein í minningarblaði Morgunblaðsins í dag og segir:
“Forseti Íslands líkti Halldóri við Snorra Sturluson og það var góð samlíking”.
Ég er ekki viss um að Halldór hafi verið samþykkur því. Hann var alfarið á móti slíkum mannjöfnuði. Mér er nær að halda að slíkt hefði farið í fínu taugarnar á honum. Það er augljóst að hvorki forseti Íslands né Dagný Kristjánsdóttir hafa lesið grein mína Um uppkast sem birtist í Bókmenntaþáttum því þar er þetta mál afgreitt. Þar segir m.a. svo:
“En við athugasemdina um þá Snorra Sturluson skrifar hann (þ.e. Halldór Kiljan) litla ritgerð, sem er svohljóðandi:
“Ég hygg það sé ekki klókt að rekja upp samanburð á útbreiðslu skáldskapar míns og Heimskringlu Snorra. Það gæti vakið upp meiri misskilning en sem svarar því fróðleiksgildi sem þessi staðhæfing inniheldur. Allur svona samjöfnuður vinnur mót tilgangi sínum. Konungasögufræði frá miðöldum( Snorri á ekkert skylt við nútíma rómana; utan Skandinavíu er Snorri þýddur á ensku og þýsku og slík bók aðeins lesin af spesíalistum. Mínar bækur eru skemmtilestur handa nútíma almenningi og hafa verið þýddar á 47 túngur samkvæmt amerískum heimildum, þ. á m. hvert einasta túngumál í Evrópu)”.
Þannig er þetta mál afgreitt - og vonandi fyrir fullt og allt! Ég á raunar erfitt með að skilja að Dagný skuli ekki hafa gert sér grein fyrir þessu.
Hún segir enn:
“Eins og Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson hafa bent á fylgdi Halldór Kiljan Laxness kenningum Sigurðar Nordals um að íslendingasögurnar væru skáldverk, ekki sagnfræði.”
Halldór Laxness þurfti ekki að fara í neinn skóla til að gera sér grein fyrir þessu. Sjálfur nefndi hann þetta stundum og fór ekki í grafgötur um að Íslendinga sögurnar væru skáldskapur en um þær er m.a. fjallað allrækilega í kaflanum um Innansveitarkroniku í Skeggræðunum, en þennan kafla skrifaði ég eftir mikil samtöl við Halldór sjálfan og samþykki hans. Þar segir hann að Innansveitarkronika sé skrifuð eins og Íslendinga sögurnar eru saman settar, þ.e. hún er ritstýrð sagnfræði.
Dagný segir í grein sinni að það sé erfitt “fyrir þær kynslóðir sem fæddar eru eftir stríð að nálgast menningararfinn öðru vísi en túlkaðan af Halldóri Laxness”.
Menningararfur okkar er eins konar galdur. Halldór Kiljan gerði sér rækilega grein fyrir því. Hann horfði á þennan galdur fullur aðdáunar og varaði við því að hann væri borinn saman við ósambærilega hluti. Það mætti miklu fremur segja  að hin ritstýrða sagnfræði arfleifðarinnar gæti varpað ljósi á skáldskap Halldórs Kiljans sjálfs því það er engum vafa undirorpið að hann var í Íslendinga sagna stellingum þegar hann skrifaði t.a.m. Innansveitarkroniku og Guðsgjafaþulu. Þessar bækur eru sem sagt ritaðar eins og hann taldi að Íslendinga sögurnar hafi verið saman settar á sínum tíma.

Ég sagði við Ólaf Ragnarsson að nú væri ég búinn að koma mér upp góðu forlagi. Ég sæi hvernig hann umgengist skáld sín af tryggð og nærfærni alveg að grafarbakkanum. Um þetta hefði ég mikið hugsað og nú væri ég eiginlega farinn að hlakka til að deyja!
Nei, nei, sagði Ólafur, ekki strax, ekki strax, við eigum eftir að gefa út nokkrar bækur eftir þig áður en að því kemur!

Við hittum Auði í erfidrykkju ríkisstjórnarinnar að Hótel Sögu. Hún var allhress eftir mikið álag en þó sá ég á henni mikla þreytu. Það var gott að heilsa upp á hana eins og alltaf. Hún var í fylgd með Davíð Oddssyni og þau voru á leið inn í salinn þegar ég tók hana tali. Áður hafði ég hitt Davíð og hann hafði haft sérstakt orð á Morgunblaðinu, sagði að það hefði jafnvel slegið ljósvökunum við í umfjöllun um Halldór Kiljan - það ómögulega hafi sem sagt orðið mögulegt!
Ég þakkaði honum fyrir það, minnugur þess að mér hafði verið sagt fyrr um daginn að Mörður Árnason hefði haldið því fram að Morgunblaðið eins og hann komst að orði hefði undir forystu Matthíasar sýnt og sannað við andlát Halldórs Kiljans að það væri blað allra landsmanna.
Ég gat þess við Davíð hvað mér hefði þótt gaman í afmælinu hans.
Já, sagði hann, ég sá að þér leið vel, þú lékst við hvern þinn fingur.
Já, sagði ég alla ellefu.
Sá að honum þótti vænt um það.
Ég hrósaði honum fyrir minningarræðuna um Halldór Kiljan á Alþingi þar sem hann talaði m.a. um stórveldadraum íslenzku þjóðarinnar holdgerðan í persónu skáldsins.
Já, ég sá að þið lögðuð sérstaka áherzlu á það, sagði hann.
Ekkert slíkt fer framhjá Davíð Oddssyni.

15. febrúar, sunnudagur

Um þessar mundir er sýning á Passíusálma-verkum Sveins vinar míns Björnssonar á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju og eru myndirnar sýndar í forstofu kirkjunnar. Af því tilefni var efnt til samkomu í hliðarsal kirkjunnar. Þar var margt manna. Þar flutti Erlendur Sveinsson inngangsorð og ég las nokkur ljóð. Það var gott andrúmsloft við þessa athöfn og mér leið vel. Meðal gesta var sr. Sigurbjörn Einarsson sem þakkaði mér af hlýhug. Þar var Veturliði Gunnarsson listmálari og hef ég ekki séð hann árum saman. Þar var Ásta, ekkja Svavars Guðnasonar, jafnhlý og ávallt og margir aðrir. Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur sá um þessa samkomu og gerði það með prýði. Í lokin var sýnd samantekt úr kvikmynd Erlends um föður hans, þar á meðal samtal okkar Sveins um Passíusálmana. Ég hafði kviðið fyrir að sjá þessa mynd, en mér leið ekki illa meðan á samtalinu stóð, og taugarnar róuðust eftir því sem á það leið.
Þannig var þessi samkoma í senn til ánægju og upplyftingar. Þakklæti mikið hjá viðstöddum. Erlendur Sveinsson hafði orð á Kiljans-blöðum okkar og fór lofsorði um þau eins og allir aðrir. Enginn texti með forsíðumyndinni, sagði hann. Það fór ekki framhjá kvikmyndargerðarmanninum, en þetta var hugmynd Árna Jörgensens sem aldrei bregzt á úrslitastund.

Hanna sagði við mig þegar sólin sýndi sig í dag,
Maður heldur að allir gluggar séu hreinir, svo kemur sólin og afsannar þetta allt.
Ég fór að hugsa um að einnig svona er mannlífið.

 

16. febrúar, mánudagur

Silja Aðalsteinsdóttir skrifar fallega um Morgunblaðið í DV í dag og hrósar því fyrir Kiljans-blöðin. Ég braut odd af oflæti mínu, hringdi í hana og sagði,
Það er altalað hér í Morgunblaðshúsinu að þú hafir stækkað af þessari grein. Ég hringi sjaldan að þakka fyrir okkur og vil helzt ekkert um þetta ræða frekar en þú hefðir getað látið þetta vera.
Ég fann að Silja var þakklát fyrir þessa hringingu og hún sagði,
Ég var græn af öfund.

 

17. febrúar, þriðjudagur

Guðmundur Andri Thorsson skrifar í Dag, þriðjudaginn 17. febrúar:
“Sem sagt: gott. En kannski reyndist Morgunblaðið sá fjölmiðill sem best stóð sig í því að sýna minningu hans verðugan sóma. Og það var ekki vegna þess að blaðið hafi bolmagn og mannafla til að sinna slíkum skrifum svo sem vera ber - eins og það vissulega hefur - heldur bar öll umfjöllunin um Halldór merki um alúð og virðingu fyrir efninu og sjálfum sér. Þetta var ekki spurning um peninga heldur tilfinningu fyrir stórum atburðum.
Hér var blað allra landsmanna að minnast þjóðskáldsins. Karp sjómanna og útvegsmanna og aðrir slíkir viðburðir sem móta umgjörð okkar daglega lífs mátti þoka, enda ákváðu sjómenn að fresta verkfalli þangað til betur stæði á úr því að þeir sætu ekki lengur einir að sviðsljósinu. Maður var minntur á það mikla starf sem Matthías Johannes(s)en ritstjóri blaðsins hefur unnið til að gera Morgunblaðið að raunverulegu þjóðarblaði, því vitaskuld hefur það ekki verið sjálfsagður hlutur á sínum tíma þegar hann tók að opna blaðið fyrir vinstri mönnum á borð við Halldór eða Þórberg, tók að byggja brýr milli steinrunninna stólpa kalda stríðsins hér á landi. Í þeim efnum er framlag Matthíasar ómetanlegt og hefur áreiðanlega ekki verið þakkað sem skyldi.”

Guðmundur Andri vill áreiðanlega vera sanngjarn maður, en hann hefur sína fordóma eins og aðrir. Ekkert háir okkur meir en gamlir fordómar. Þá er ekki um annað að gera en þvo augu sín. Það hefur Guðmundur Andri gert áður en hann skrifaði þessa grein.

Talaði við Halldór Ásgrímsson í morgun því hann ætlar að hitta okkur Styrmi. Sagði honum að ég væri að fara til útlanda, hann sagðist einnig þurfa að skreppa til útlanda. Ákváðum að hittast föstudaginn 20. marz. Töluðum einnig um aðför vinstri manna að ráðherrum en Halldór er ósköp rólegur yfir þessu upphlaupi. Rifjuðum upp aðförina að Ólafi Jóhannssyni vegna Geirfinnsmálsins því við upplifðum hana hvor með sínum hætti.
Halldór sagði,
Ólafur náði sér aldrei eftir þetta.

Björn Bjarman  rithöfundur hringdi til mín í morgun. Kveðst þurfa að tala við mig út af samstarfi okkar í Rithöfundasambandinu á sínum tíma. Sagði að þá hafi grundvöllurinn verið lagður að sameiningu rithöfundafélaganna tveggja. Undir forystu Einars Braga var ég skammaður fyrir minn þátt, sagt ég væri undirtylla þín og settur til hliðar, sagði Björn. Ég hafði verið varaformaður og gat ekki túlkað þetta öðruvísi en svo að ég stæði ekki undir rithöfundarheitinu. Þetta hafði svo mikil áhrif á mig að ég hef ekki skrifað stafkrók síðan, bætti hann við.
Björn ætlar að segja sig úr Rithöfundasambandinu á aðalfundi í vor með tilvísun í sögulega aðild okkar að sameiningunni en nú er reynt með öllum ráðum að strika yfir þetta starf. Eyða því gjörsamlega.
Ég sagði að hann skyldi kanna málið í fundargerðabókum og öðrum heimildum og byggja mál sitt á traustum, sögulegum grunni. Það ætlar hann að gera og það verður fróðlegt að sjá úttekt hans.
En staðreyndir komast sjaldnast til skila í íslenzku samtímamoldviðri.

21. febrúar, laugardagur

Komum til Lundúna á fimmtudag. Vorum ásamt Halla og Brynhildi viðstödd í hátíðarsal London University þegar Ingó tók á móti doktorsnafnbót sinni. Fjöldi manns viðstaddur. Kennarar og prófessorar gengu í salinn í skrautlegum skykkjum með hatta á höfði, engu líkara en miðaldirnar væru komnar í heimsókn.
Þá komu M.Sc. nemendur en loks doktorarnir. Ingólfur gekk fyrir þeim. Þeir voru í rauðum skykkjum, skrautlegum. Það var merkilegt að heyra nafn hans kallað upp í þessu alþjóðlega umhverfi þessa mikla skóla. Mér er til efs að íslenzkur læknir hafi hlotið doktorsnafnbót frá honum, veit það þó ekki. Einn kennaranna sagði mér að hún vissi ekki til þess að annar Íslendingur hefði hlotið þessa nafnbót úr þessum skóla. Áður hafði hann tekið M.Sc.-próf sitt, svo hann er bæði M.Sc. og Ph.d. frá London University. Mér finnst það mikill frami. Hann hefur sýnt óvenjulegan dugnað og klárheit sem ég skil ekki. Hvað sem því líður, þá var þetta mikil stund í lífi okkar. Vonandi verður framtíð hans sama marki brennd og þessi eftirminnilega athöfn. Hún stóð yfir fram yfir hádegi en að því loknu var öllum boðið í hádegisverð í bókasafni skólans. Það var mikil samkoma, nokkur hundruð manns. Síðan hélt Ingólfur kaffiboð á Landmark-hótelinu þar sem við gistum og komu þangað ýmsir vinir hans. Það var einnig góð stund. Fórum svo á Ástardrykk Donizettis um kvöldið í Þjóðaróperunni. Tanzína Haque, vinkona Ingólfs frá Bangladesh, var einnig með okkur. Við Hanna höfðum kvefazt illa og ég var með hósta, kveið því fyrir að fara í óperuna en það gekk ágætlega eins og allt annað þennan eftirminnilega dag.

22. febrúar, sunnudagur

Höfum haft það gott í London. Farið á ýmsa staði, skemmt okkur vel. Halli og Brynhildur fóru heim í kvöld. Ingó og Tanzína fara til Edinborgar á morgun. Þá verðum við Hanna ein eftir hér í Lundúnum. Ég á að lesa upp ljóð í sendiráðinu einhvern næsta dag, auk þess á tveimur eða þremur stöðum öðrum. Bernard Scudder og Joe Allard sem þýddu ljóð mín í nýrri útgáfu sjá um skipulagið. Vona að ég geti lesið þótt ég sé kvefaður. Allt með kyrrum kjörum og ég bíð eftir nánari fréttum af upplestrinum. Ég er eiginlega búinn að fá nóg af að lesa upp ljóð eftir mig erlendis. Það er ekki sama tilhlökkun og áður. Geri einungis það sem mér ber að gera, annað ekki.
Seinna í vikunni förum við til Edinborgar og verðum hjá Ingó í nokkra daga áður en við höldum heim 9. marz næstkomandi. Hlakka til að sjá umhverfi hans í Edinborg. Hún er fyrsta stórborgin sem ég barði augum þegar ég fór til Evrópu á Brúarfossi sumarið 1946. Hún var eins og hvert annað ævintýi. Höfum oft komið þangað síðan. En Ingólfur er ekki alls kostar ánægður með að dveljast í svo lítilli borg! Hann vill heldur vera í Lundúnum, þar er hann hagvanur. Veit ekki hvað úr því verður.
Hef keypt nokkrar bækur, einnig nokkrar spólur með upplestri. Bókabúðir eru helzta freisting mín í útlöndum. Þær freista mín aftur á móti ekki heima á Íslandi. Ég veit ekki af hverju. Ég fer eiginlega aldrei í bókabúðir heima. Nú orðið fer ég einnig afar sjaldan í leikhús. En í London hangi ég í bókaverzlunum og reyni að koma mér í leikhús, einkennilegt. Það er svo margt einkennilegt. En það eru skýringar á öllu því sem er einkennilegt. Nánast öllu einhverjar skýringar, ætli það ekki?

24. febrúar, þriðjudagur

Boð í sendiráðinu vegna útgáfu ljóðabókar okkar Kristjáns Karlssonar, Voices across yhe water. Benedikt Ásgeirsson sendiherra, sem ég hef aldrei hitt áður, flutti nokkur inngangsorð og mæltist ágætlega. Síðan lásu þýðendurnir ,Bernard Scudder og Joe Allard sitt hvort ljóðið.Bernard las eftir Kristján, Joe Haustið er hugmynd um dauðann.
Ég sá ekki betur en það félli í góðan jarðveg. Fólkið var þakklátt og vinalegt. Ég þekkti raunar fæsta og veit ekki hvaða fólk þetta var. Held helzt að þarna hafi verið samankomin einhver menningarkjarni sem þeir félagar völdu, ásamt sendiherranum. Mér líkar vel við sendiherrann. Hann talar af skynsamlegu viti. Hann er mjög grannur og hár vexti og þegar okkur var stillt upp til myndatöku sagði ég við hann að mér líkaði heldur illa að standa við hliðina á honum, hann gerði okkur hina svo litla. Það er víst margs að gæta í henni versu!! Þarna hittum við meðal annarra Jakob Frímann og Ragnhildi Gísladóttur sem okkur finnst einstök kona. Einnig Sigríði Ellu og mann hennar. Við rifjuðum það upp þegar hún á sínum tíma söng í Barbican Center, en ég las upp. Það var víst fyrir 10 árum í tilefni af útgáfu The Naked Machine.

25. febrúar, miðvikudagur

Hádegisverður með Pamelu Ross, útgefanda íslenzkra bóka í London. Hún var einnig í sendiráðinu. Hún hrósar bókinni okkar á hvert reipi, það fer vel í mig! Annars held ég að Voices across the water, eða Raddir handan vatnsins, sé vel heppnuð og ég fæ ekki betur séð en hún falli í góðan jarðveg hjá þeim sem tala við mig um hana á þessum slóðum. Þarf að muna að senda brezka skáldinu Adam Thorp bókina, hann skrifaði svo vel um The Naked Machine á sínum tíma. Þekki hann samt ekki, hef aldrei séð hann. En hann er með þekktari skáldum af sinni kynslóð í Bretlandi. Það væri gaman að hitta hann einhvern tíma, hver veit?
Keypti ljóðabók eftir brezka ljóðskáldið James Fenton sem Pamela Sanders Brement mælti svo eindregið með þegar við vorum hjá þeim Marchall í Garmisch-Partenkirchen í fyrra. Fín ljóð og í þeim anda sem ég tel að yrkja eigi nú um stundir þegar reynt er að brjóta upp hefðina en halda jafnframt trúnaði við hana að einhverju leyti. Næstsíðasta ljóðið, Nothing, er afar vel gert. Mér fannst ég vera á heimaslóðum í þessu ágæta kvæði.
Viktoriu Hamsuns meðal metsölubóka í einni verzluninni. Kom mér á óvart. Hef raunar aldrei fyrr séð bók eftir Hamsun, hvorki hér né í Bandaríkjunum, en nú er Viktoria komin út í nýrri þýðingu og Bretar virðast hafa uppgötvað Hamsun. Kominn tími til(!) Hef ekki enn rekizt á bók eftir Kiljan. Kannski verður það einhvern tíma, ég veit ekki. Það er auðveldara að þýða Hamsun. Samt verður hann ekki þýddur, ekki frekar en andblær á vori.

Ódagsett

Fórum til Norwich. Þar er merkileg þýðingamiðstöð og þar lásum við upp úr þýðingum Joe’s og Bernards. Háskólinn heitir The East Anglian University. Mjög vel tekið á móti okkur. Fyrri hluti dagskrárinnar upplesturinn á ljóðunum en síðari hlutinn fjallaði um Íslendingasögur. Örnólfur Thorsson var þar einnig til að vekja athygli á nýrri heimsútgáfu Íslendingasagna. Ágætur piltur og geðfelldur. Allt gekk vel. Fólkið hefur augsýnilega gaman af því að hlusta á íslenzku. Ég er dálítið feiminn við að lesa löng ljóð á íslenzku en áheyrendur eru ekki bangnir og vilja meira. Eftir lestur okkar var ég spurður margra spurninga. Þetta var ágætur hópur, áhugasamur, hlustaði vel og spurði ágætlega. Fólkið hefur mikinn áhuga á Íslandi og íslenzkri menningu en þó held ég umfram allt íslenzkri tungu. Það spurði um tengsl íslenzkunnar við tungu víkinga og Norðmanna og svaraði ég því eftir beztu getu, reyndi samt dálítið að stríða konu sem kennir norsku við háskólann, sagði m.a. þegar ég var spurður um ástæður þess að Íslendingar héldu tungunni en ekki Norðmenn, að þeir hefðu lesið of mikið af dönskum biblíum! Við lásum aftur á móti einungis íslenzkar biblíur. Þetta er að vísu hárrétt og réð kannski úrslitum um það að við héldum tungu okkar, ásamt einangruninni. Bretarnir skemmtu sér mjög yfir því að ég skyldi halda því fram að stóri bróðir í Noregi væri miklu erfiðari viðureignar í þorskastríðum en Bretarnir. Þeir væru illvígari en fjandinn sjálfur!
Allt gekk þetta að óskum en við Hanna gátum ekki verið síðari hluta dagskrárinnar því við þurftum að taka lestina til London.
Norwish er 300 þúsund manna bær, vinalegur. Fólkið virtist áhugasamt um ýmislegt. Ég hef t.a.m. aldrei lent í því fyrr að leigubílstjóri bæði mig um eiginhandaráritun vegna þess að ég átti að lesa upp í háskólanum. Hann hafði áhuga á ljóðlist og sagðist safna eiginhandaráritunum rithöfunda.
Joe og Bernard lesa ágætlega saman. Þeir skiptust á að lesa kvæði mitt um Olnbogaskotið, byggt á heimsmynd Moby Dick, úr því verður skáldleg samræða um lífið og tilveruna (einnig birt í Svíþjóð).
Held samt Joe hafi mesta ánægju af að lesa Haustið er hugmynd um dauðann. Þeir lesa einnig ágætlega ljóð Kristjáns og koma þau vel út, ekki sízt Day by day.

26. febrúar, fimmtudagur

Fórum til Colchester. Þar talaði ég við stúdenta og kennara um íslenzkar bókmenntir og arfleifð. Bernard fjallaði einnig um þetta efni, ásamt mér. Hann fór yfir nokkrar þýðingar sínar á ljóðum mínum og útskýrði þær. Mér þótti það bæði fróðlegt og skemmtilegt. Við vorum spurðir margra spurninga um íslenzka menningu, sögu og tungu. Einnig um landið. Ég held þessu fólki þyki einna merkilegast að Íslendingar skuli hafa varðveitt tungu sína allan þennan tíma; að þeir geti lesið bókmenntir sem urðu til á víkingatímum og næstu öldum.
 Þessi staðreynd er stóra rósin í hnappagati okkar.
Á því er enginn efi.
Joe Allard sagði frá því að áhrif þýzku og ensku væru svo mikil á japanska tungu að nú væri talið að fjórðungur allra orða í japönsku væri komin úr þessum tveimur tungumálum og reynt að aðlaga þau japönsku. Það kom mér mjög á óvart þegar hann sagði að japanskan breyttist svo ört að nú væri svo komið, að foreldrar skildu varla börn sín þegar þau töluðu mál ungs fólks. Yfirleitt skildu menn ekki þá japönsku sem hefði verið töluð fyrir 100 árum og raunar þyrfti að þýða allar bókmenntir sem væru eldri en hálfrar aldar gamlar.
Þetta kom mér á óvart en það sýnir betur en flest ef ekki allt annað hvað íslensk tunga á sér í raun og veru mikið innra þrek. Hún er þess eðlis að hún hafnar að mestu þessum erlendu áhrifum. Bernard benti þó á að það væru ekki einstök orð sem hefðu gert atlögu að tungu okkar heldur miklu fremur sú tilhneiging að þýða enskan texta á íslenzku með þeim hætti að enskan væri augljós og gagnsæ. Ég er þessu alveg sammála og höfum við oft haft áhyggjur af þessu í störfum blaðamanna.
Sem sagt, ágæt samkoma í háskólanum um íslenzkan veruleika fyrr og síðar.
Um kvöldið lásum við upp í bjórstofunni Grayhound og gekk eins og venjulega á slíkum samkomum. Fólkið áhugasamt og tekur manni vel. Fórum svo aftur með Pamelu Ross til London um ellefuleytið.
Áður en við fórum til Colchester lentum við Hanna í dálítið sérkennilegu ævintýri á Hótel Cumberland. Þar lentum við í sprengjuhótun og lýsti ég því með þessum hætti í fréttaklausu sem hefur væntanlega verið í Morgunblaðinu í dag:

“Oxford-stræti lokað vegna sprengjuhótunar

OXFORD-stræti, helstu verslunargötu London, var lokað í nær tvær klukkustundir í gær í kjölfar þess að lögreglu barst sprengjuhótun í gegnum síma, segir í fréttaskeyti frá Reuter.
Lögreglumenn og sérþjálfaðir hundar gerðu ítarlega leit á svæðinu en fundu ekkert grunsamlegt, að sögn talsmanns lögreglunnar. Sagði talsmaðurinn að um gabb hefði verið að ræða.
Hanna og Matthías Johannessen ritstjóri voru stödd á Cumberland-hótelinu
er sprengjuhótunin barst. Hann lýsir þessu svo í samtali við blaðið: “Þetta var dálítið sérstök reynsla og leiddi hugann að stríðsárunum. Ég var nýbúinn að hlusta á Tony Blair í einkasamtali við ITV-sjónvarpsstöðina þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði andstæðar hugmyndir við þá sem teldu að það ætti að hætta samningaviðræðum vegna sprengjuhótana. Hann væri þeirrar skoðunar að sprengjuhótanir sýndu frekar en nokkuð annað að ná yrði samkomulagi.
Ég var að undirbúa mig undir að fara til Essex University í Colchester, þar sem ég talaði um íslenskar bókmenntir og las ljóð. Við vorum að labba út þegar öryggisvörður kom hlaupandi, kallaði á okkur og sagði neyðarástand ríkja á hótelinu. Við yrðum að fylgja honum, allir væru farnir niður í byrgi hótelsins samkvæmt skipun lögreglunnar. Hann sagði það vera vegna sprengjuhótunar og hefði Oxford-stræti verið lokað og verið væri að rýma öll hús þar. Ég vildi fara út til að ná lestinni, en fékk ekki leyfi til þess. Better safe than sorry, sagði vörðurinn. Við fórum niður í kjallara þar sem starfsfólk og allir gestir, sem eftir voru, voru samankomnir í stórum svörtum sal. Þar biðum við í tæpan klukkutíma og máttum ekki hreyfa okkur fyrr en þessu hættuástandi var aflýst.
Að því búnu gátum við farið og haldið áfram ferð okkar og talað um íslenska arfleifð og nútímabókmenntir og flutt kvæði. Þetta var sérstök reynsla því að þegar við sátum niðri í kjallaranum, þar sem voru um 300 manns, minnti það mig á að svona hlyti það að hafa verið í stríðinu í neðanjarðarbyrgjunum. En það leið öllum vel og allir héldu ró sinni,” sagði Matthías.”

27. febrúar, föstudagur

Fórum uppúr hádegi með lest til Ingós í Edinborg.

Ég las ljóð James Fentons í lestinni. Ég sé æ betur að við eigum margt sameiginlegt. Hann er óhræddur við hefðina. Það er galsi í honum. Svo er hann mjög alvarlegur þess í milli. En umfram allt finnst mér hann eiga skemmtileg tök á módernisma sem sækir styrk í gamla hefð; hrynjandi, rím. Ég hef ánægju af að lesa kvæðin hans, þau eru öðruvísi en þessi akademísku ljóð sem eru orðin eins og kækur í nútíma bókmenntum.
Lestinni seiknaði um nær tvo tíma vegna þess að hún þurfti að hægja ferðina. Það var víst mikill vindur á leiðinni til Edinborgar. Við höfðum því nægan tíma. Ég kynnti mér Jung á leiðinni, eða eins og segir á hulstrinu um segulböndin: Jung for Beginners. Á þetta hlustaði ég af mikilli áfergju. Ég er ekki viss um að allar hugmyndir hans um drauma hafi verið réttar. Þyrfti að minna á draumreynslu Hönnu til að mynda eins oft og hún hefur komið mér í opna skjöldu, þó ekki alltaf, guði sé lof! Það er líka ýmislegt í reynslu minni af Hafsteini miðli sem ég er ekki viss um að Jung hefði kunnað að meta. En þessi  gamla frásögn í Lesbók er byggð á staðreyndum - og engu öðru (birti hana hér þótt ég sé nú hættur öllu kukli!) :

“Samtal við Hafstein Björnsson,, miðil

I. Móseslög. Allir í Steininn.

“Mikið hlýtur guð að elska hann Hafstein”, sagði kona ein um Hafstein Björnsson, miðil. Svo mikið þótti henni koma til þess hlutverks, sem hann hefur innt af hendi í kyrrþey, sorgmæddu fólki til styrktar og huggunar, vantrúðuðu til sálubótar. Verra er það nú ekki, sem hann hefur á samvizkunni í þeim efnum.
Og vízt er um það, að þeir verða hvorki taldir á fingrum annarrar né beggja handa, sem Hafsteinn hefur veitt andlegt þrek í sorg og söknuði.
Sumir hafa tilhneigingu til að ætla að einungis vissir hlutir séu frá guði, eins og sagt er, annað eigi ekki þegnrétt í hans ríki. Og svo er tíundað það sem útvalið er, hinu forkastað oft af yfirgengilegri óbilgirni. Í Boston hitti ég t.d. fyrir merkan söfnuð christian-scientista, sem kváðust banna að sóttur væri læknir til sjúkra, bænin dygði. Auðvitað er bænin tryggastur vina, en hví skyldu t.d. fúkkalyf draga úr áhrifamætti hennar? Mundu þau ekki geta verið bæn í framkvæmd? spurði ég. Það þótti kjánalega spurt. Þetta fólk hafði sannfæringu fyrir sínum trúarbrögðum, en ég gat engan veginn fellt mig við að undralyf nútímans þyrftu endilega að vera frá djöflinum. Nei, þeir sátu við sinn keip. Og ekki laust við að ég þætti ekki nógu sterkur í trúnni, a.m.k. að “guðfræði” mín væri ekki upp á marga fiska. Þetta hef ég svo sem heyrt endurtekið hér heima!
Eða hvað um spíritismann? Það er eins og sumt fólk fái andlega uppþembu af einni saman tilhugsuninni um svo óguðlegt fyrirbæri: Andatrú svokölluð hefur verið skammaryrði í íslenzku, og allt sett hugsunarlaust undir sama hatt, hvort sem það eru tætingslegar fullyrðingar svikamiðla eða leiftrandi bókmenntir ábyrgra manna eins og Haralds Níelssonar og Einars H. Kvarans um vísindalegar sálarrannsóknir.
Vegna fordóma af ýmsu tagi þurfti ég að hleypa í mig nokkrum kjarki til að byrja þessa grein, enda stendur það öðrum nær en mér að blanda sér í misjafnlega séða “andatrú”, svo gjörsneyddur öllum dulrænum krafti og hæfileikum sem raun ber vitni. En þar sem ég tel að okkur sé ekkert óviðkomandi og einkennileg reynsla þurfi ekki undantekningarlaust að vera svik og prettir eða af hinu illa sprottin, tók ég til við þetta greinarkorn - og ekki sízt vegna þess að ég hef stundum velt því fyrir mér, hvort rétt sé eða leyfilegt að leita frétta af framliðnum, eins og sagt er. Spurningin um það, hvort líf er eftir þetta, er áleitnari en svo að hún verði afgreidd með því undarlega, en jafnframt yfirborðslega tómlæti sem nú er einatt eina svarið við henni. Enginn vill “blotta sig”, allra sízt þeir, sem hæfastir eru til að kanna málið vegna menntunar og vísindaáhuga. Og svo hafa allir nóg á sinni könnu: við erum á leið til tunglsins! En - ætli við séum bara á leið út í geiminn? Skyldum við ekki einnig - og ekki síður - vera á leið inn að kjarna tilverunnar, a.m.k.  eru líkurnar fyrir því yfirþyrmandi. Og ekki ómerkari maður en sjálfur Jung hefur bent á nauðsyn þess að við vitum, hvert ferðinni er heitið: “Örlagaspurning mannsins er: Er hann hluti af eilífðinni eða ekki?... Með því eina móti að við vitum að óendanleikinn er hið eina sem máli skiptir, komumst við hjá að einbeita okkur að einskisverðum hlutum”, segir hann m.a. í “Líf eftir dauðann”, sem er kafli í riti hans: “Minningar, draumar og íhuganir”.
Harald Schjelderup segir m.a. í bók sinni “Furður sálarlífsins”: “En samtímis verðum við að reyna að forðast kreddufestuna. Hún hefur verið ærið mörgum vísindamönnum til vansæmdar í þessum málum. Í eðli sínu á hún hins vegar ekkert skylt við vísindi.” Og ennfremur: “Miðilsdá og ósjálfrátt athæfi má gera sér upp, og það er oft leikur einn að afla sér fyrirfram vitneskju um fólk, sem sækir spíritistafundi. “Miðilsstarf” er víða atvinnuvegur, og trúgirni syrgjandi manna höfð að féþúfu... En - samt er það ekki nema hluti hinna svonefndu andafunda, þar sem brögð eru í tafli. Verulegur hluti fyrirbæranna er sálfræðilega sannur. Megnið af “boðum” þeim sem fram koma á ósviknum fundum eru aftur á móti marklaus og fánýt, og óþarft að gera ráð fyrir dulrænum hæfileikum hjá þeim, sem “þjónar” sem miðill. Hér er um náttúrulega utanmarka starfsemi að ræða. En dæmi má tiltaka, sem ekki eru jafn auðskýrð.”
William James, sem kallaður hefur verið “faðir nútímasálfræði” segir í “Principles:” “Ég er sannfærður um, að nákvæm rannsókn á miðils-fyrirbærum þessum er með brýnustu viðfangsefnum sálfræðinnar”. Og ennfremur komst hann svo að orði: “Ef þig langar að kollvarpa því lögmáli, að allir hrafnar séu svartir... þá nægir að sanna að einn hrafn sé hvítur. “Hvíti hrafninn” minn er frú Piper” - en hún er líklega frægasti hugmiðill sem uppi hefur verið. Þess má geta að William James var enginn auðtrúa veifiskati, heldur tortrygginn rannsóknarmaður þegar miðlar og miðilsstarfsemi voru annars vegar.
Og satt er það. Margs er að gæta, ekki sízt á miðilsfundum. Sr. Hacking, umburðarlyndur kaþólskur prestur hér í bæ, nú látinn, sagði mér eitt sinn, þegar við ræddum um sálarrannsóknir, að kaþólska kirkjan hefði ekkert á móti þeim, þvert á móti störfuðu á hennar vegum færustu vísindamenn og rannsökuðu svokölluð dularfull fyrirbrigði, “- en þú myndir ekki láta barnið þitt eiga við innstunguna, ef hún væri biluð”, sagði hann, “það gæti fengið í sig straum. Þannig lítum við á sálarrannsóknir, það verður að hafa vit fyrir fólkinu, svo að það fari sér ekki að voða.”
Sömu afstöðu höfðu brautryðjendur sálarrannsókna hérlendis, Einar H. Kvartan og Haraldur Níelsson og arftaki þeirra, séra Jón Auðuns, dómprófastur, hefur einnig tileinkað sér þetta viðhorf. Hann hefur verið óþreytandi að vara menn við að skýra öll svokölluð dulræn fyrirbrigði með aðferð spíritista og hefur oft gagnrýnt það fólk, “sem lætur trúgirnina ráða og dregur oft fáranlegar ályktanir af þeim fyrirbænum, sem það telur sig vera að fást við,” eins og hann hefur komizt að orði.
Auðvitað ætti, eins og ég hef áður bent á í Hugleiðingum og viðtölum, að flytja sálarrannsóknir, eða öllu heldur rannsóknir á dulrænum fyrirbrigðum hérlendis inn í Háskólann og gefa vísindamönnum okkar færi á að fást við þá einu spurningu, sem sérhvert mannsbarn á jörðinni kysi helzt að fá svar við. Það hafa þeir reynt með stórmerkilegum árangri í háskólanum í Utrecht, einni elztu og virðulegustu menntastofnun hér í álfu. Þeir hafa rannsakað Croiset árum saman. Og Páll Kolka hefur bent á það, að “á síðari árum hafa þessar rannsóknir verið stundaðar við ýmsa háskóla, einkum fyrir forgöngu prófessors Rhine við Duke háskólann í Bandaríkjunum”. Þá hefur einnig verið sett á stofn prófessorsembætti í dularsálfræði við háskólann í Freiburg og háskólarnir í London, Oxford og Cambridge hafa veitt doktorsgráðu fyrir ritgerðir í dularsálfræði. En okkur brestur kjarkinn, þótt dularfull fyrirbrigði ýmis konar séu frá fornu fari helzta umhugsunarefni Íslendinga og hafi fylgt bókmenntum okkar og menningu frá fyrstu tíð. Auðvitað ætti enginn vísindamaður að láta leikmenn daga úr sér kjarkinn og þora ekki að koma nálægt merkri fræðigrein af ótta við, að einhverjir bögubósar hafi komið óorði á hana af vankunnáttu eða trúgirni. Þá væri fullkomin ástæða til að snerta ekki við ýmsum öðrum vísindagreinum, t.d. þeim sem fjalla um ritun íslenzkra fornsagna, eftir allt það syndaflóð af ofstæki og fullyrðingum, sem hefur skollið yfir þjóðina frá heimatrúboðsmönnum af ýmsu tagi. En engan þekki ég sem hefur hætt við rannsóknir sínar á fornbókmenntum af þeim sökum. Eina ráðið er að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði. Hugrekki ætti að vera fyrsta boðorð vísindamannsins. Hann á að virkja áhuga almennings, en ekki óttast.
Frá því þetta var ritað hefur áhugi á þessu málefni stóraukizt innan heimspekideildar Háskóla Íslands; Sigurjón Björnsson, sálfræðiprófessor, hefur sýnt málinu áhuga og tók m.a. þátt í rannsóknum á hæfileikum Hafsteins Björnssonar, en þó hefur Erlendur Haraldsson verið helzti forvígsmaður í þeim efnum og skrifað margt athyglisvert um rannsóknir sínar.
Einhverju sinni, ekki löngu áður en sr. Bjarni lézt, færði ég sálarrannsóknir í tal við hann. Ég sagði honum að þær hefðu aukið mér trú á líf eftir dauðann. Það skipti kannski engu máli, en mér væri það nokkurs virði, þótt ekki þætti mér líf eftir dauðann endilega eftirsóknarverðasta lausnin á rökum tilverunnar.  Eilífur svefn, án hversdagsþreytu, strefs og streitu, væri að sumu leyti æskilegri. Reynsla sr. Bjarna og þroski stjórnuðu svari hans, þegar hann leit á mig og sagði fast og ákveðið um spíritismann: “Ég hef ekki þurft á honum að halda.”
Síðan hélt hann áfram eins og ekkert hefði í skorizt að efla vináttu við þennan lítt þroskaða tómas, sem hann hafði eitt sinn fermt með tiltölulega litlum árangri.
Svar sr. Bjarna er enn merkilegra, þegar haft er í huga það sem Einar H. Kvaran segir í einum fyrirlestra sinna: að sr. Friðrik hafi í ræðu veturinn 1916-17 fullyrt, “að um þessar mundir væri verið að heyja hálfu ægilegri og hræðilegri hildarleik en Norðurálfuófriðurinn er. Það sé ríki Krists og ríki Satans, sem nú hafi lent í stórkostlegri baráttu en nokkru sinni áður. Og eitt af þeim öflum, sem sérstaklega er sagt, að berjist Satans megin og alvarlegastan varhuga verði að gjalda við, er spíritisminn. Hann sé miklu verri en beinn fjandskapur við kristindóminn”, hefur Einar H. Kvaran eftir sr. Friðrik. En séra Friðrik var sannarlega vorkunn. Hann mátti ekki hugsa til þess að nafn guðs væri lagt við hágóma. Þá eins og nú voru margir “sálarrannsóknarmenn” kallaðir - en fáir útvaldir, þá eins og nú skorti ekki skottulækna og alls kyns kuklara. Annars þykir mér þessi lýsing á sr. Friðrik næsta ólík því, sem ég upplifði í návist hans. Hann var goðum líkur, ofstækislaus og húmoristi af guðs náð. Kynni af honum urðu mér ógleymanleg. Í bókinni um sr. Friðrik, Man ég þann mann, er þáttur, sem ég skrifaði um hann níræðan, Nú er ég alveg á toppinum.
Hvað sem um áhuga minn á sálarrannsóknum má segja, þarf ekki að óttast að ég sé í vondum félagsskap, þó að Sigurður Nordal hafi í sjónvarpssamtali haft eftir hinni strangtrúuðu skáldkonu, Sigrid Undset, að 99 prs. af því sem fram kemur við könnun svokallaðra dularfullra fyrirbrigða sé svindl, en 1 prs. frá djöflinum. Væri illt til þess að vita, ef hann einn væri hinumegin og satt að segja freistandi að taka þá undir með Níelsi Dungal, þegar hann sagði eitt sinn við mig að meðvitundarleysið væri eftirsóknarverðasta hlutskiptið eftir þetta líf. Kannski það hafi hvarflað að Dungal að djöfsi einn væri hinumegin!
Þegar við Dungal töluðum saman, barst talið oftast að lífi eftir dauðann. En vísindamaðurinn í honum hafnaði hugmyndinni um það, meðan sannanirnar birtust ekki sem blákaldar staðreyndir - undir smásjánni. Heilinn er undratæki, sagði hann gjarna, en læknisfræðin þekkir hann minna en önnur líffæri. Meðan svo er, þótti honum ekki ástæða til að skýra dulræn fyrirbrigði með, að hans dómi,  þeim óvísindalegu tilgátum sem kirkjan og spíritisminn höfðu á takteinum. En - hann var einnig of raunsær til að halda því fram að maðurinn hlyti að vera æðsta vera sköpunarverksins.
Um þá syndsamlegu forvitni að leita frétta af framliðnum segir Einar H. Kvaran m.a. í fyrirlestri sínum “Mótþróinn gegn rannsókn dularfullra fyrirbrigða”, sem fluttur var 1916 og prentaður í “Líf og dauði”:
“Ef ég á að vera alveg hreinskilinn við ykkur, þá verð ég að kannast við það, að þessi viðkvæmni fyrir Móseslögum hefur mér alltaf fundist dálítið skringileg. Ég hef aldrei orðið var við, að menn hneykslist neitt verulega á því, þó að brotið sé á móti lögmáli Jesú Krists. Ég hefi margsinnis heyrt menn stæra sig af því, að þeir hati suma menn, og að það væri þeim mikil ánægja að gera þeim hitt og annað til meins. Menn hlusta á slíkt einstaklega rólega og þeim finnst það ekki nema eðlilegt og sjálfsagt. Kristur bauð mönnum þó að elska alla menn, líka óvini sína. Langfæstir telja það nokkura synd að brjóta á móti þessu boðorði. Það er ekki talin svo mikil synd að hata. En ef til dæmis að taka harmþrungin móðir elskar framliðið barnið sitt svo heitt, að hún vill fyrir hvern mun fá alla vitneskju um það í öðrum heimi, sem henni er unnt, hvað sem Móseslögum líður, leitar sambands við það, og finnur ómetanlega hugsvölun í því að komast að raun um, að barnið heldur áfram að unna henni, engu minna en hér í heimi - þá er þetta talið mjög viðsjárverð synd. Ekkert er það látið bæta fyrir móðurinni, þó að guðsjöllin sýni mönnum skýlaust, að Jesús Kristur hafi sjálfur leitað sambands við framliðna menn á undan burtför sinni úr þessum heimi, og þó að kristnin sjálf sé grundvölluð á því sambandi, sem hann fékk komið á við jarðneska menn, eftir að hann var sjálfur kominn til æðri heima. Finnst ykkur ekki eitthvað vera bogið við þetta? Finnst ykkur ekki þetta benda á, að hugmyndir sumra manna um andlegt og siðferðilegt verðmæti muni ekki vera í sem beztu lagi? Og finnst ykkur ekki, að það muni geta verið neitt ísjárvert frá kristilegu sjónarmiði að setja Móseslög langt fyrir ofan breytni Jesú Krists sjálfs?
Þetta kynni að verða ofurlítið skiljanlegra, ef við værum nokkuð að reyna að halda Móseslög að öðru leyti. En þið vitið öll, að það reynum við ekki. Við brjótum daglega, undantekningarlaust allir, gegn fyrirmælum í Móseslögum, sem og bannið gegn því að leita frétta af framliðnum. Við mötumst varla svo, Íslendingar, að við brjótum ekki gegn Móseslögunum. Og öllu okkar lífi högum við alt annan veg en Móseslög mæla fyrir. Ef einhver okkar færi að lifa eftir sumum fyrirmælum Móseslaga, þá fengi hann að minnsta kosti æfilangt betrunarhús, og líklegast yrði hann hálshögginn - ef hann yrði ekki látinn njóta þess, að hann væri talinn brjálaður.”
Á þessum árum var tekið eftir orðum Einars H. Kvarans, ekki síður en nú. Hann var ekki aðeins einn helzti rithöfundur þjóðarinnar og áhrifamesti blaðamaður, heldur einnig einn harðskeyttasti forystu- og baráttumaður sálarrannsókna hér á landi. Um hann segir Tómas skáld Guðmundsson m.a. (Mannlýsingar eftir E.H.K., Almenna bókafél., 1959):
“Einar H. Kvaran mun fyrst hafa kynnzt rannsóknum svonefndra dularfullra fyrirbrigða laust eftir aldamótin, og upp frá því snerist hugur hans æ meir um sannanir fyrir persónulegu framhaldslífi eftir dauðann. Þetta varð honum “mikilvægasta málið í heimi.” Í þágu þess beitti hann hálfa ævi ótrúlega miklu af orku, þrautseigju og vitsmunum, og um langt byrjunarskeið lagði hann, svo að segja, allt í sölurnar fyrir það, vinsældir, bókmenntalegan heiður og borgaralega aðstöðu. Á meðan hann vann við stjórnmálablöð, þótti ýmsum andstæðingum hentugt að efla gegn honum grunsemdir um “kukl og andasæringar” og jafnvel sumir “kirkjunnar menn” höfðu í frammi viðburði til að ræna hann, í nafni kristinnar trúar, allri mannlegri sæmd fyrir það eitt, að hann reyndi að renna stoðum undir það, sem  þeir voru sjálfir að prédika. En ekki er auðvelt að finna fráleitari staðhæfingu en þá, að hann hafi verið fjandmaður kirkju og kristinsdóms...
En hins vegar fann hann kirkjunni til foráttu, hve treg hún væri til viðtöku nýrra sanninda, og hann gat ekki sætt sig við, að ekki væri annað heimtað af kennimönnum hennar, “en það - auk almenns velsæmis - að þeir haldi fast við gamlar skoðanir, að þeir varist allan nýjan sannleik”, eins og hann lætur eina sögupersónu sína í Ofurefli komast að orði. “Jafnvel úthafið mundi verða að stöðupolli og að lokum þorna upp, ef ár og lækir jarðarinnar og regn himinsins streymdi ekki í það” segir hann um sama efni á öðrum stað.
Þessi óslökkvandi þorsti eftir nýjum sannleik um rök mannlegrar tilveru varð Einari H. Kvaran ævi-ástríða. Í flestra augum var hann umfram allt mestur skáldsagnahöfundur íslenzkur um sína daga, en sjálfur mun hann undir lokin hafa litið svo á, að barátta hans fyrir framgangi spíritismans væri þýðingarmesti þátturinn í lífsstarfi hans. Víst er um það, að þar vann hann stærstan sigur sjálfum sér til handa, því að þangað sótti hann þá skýlausu eilífðarvissu, sem ein gat svalað til fullnustu hamingjuþörf þessa trúhneigða efasemdarmanns. En einnig lifði hann að sjá málstað sinn vinna bug á fornum fjandskap og tregðu, og nú mun kirkja landsins fús til viðurkenningar á því, að  kristnin hafi átt í honum hollan vin. “Líklega hefur enginn maður gert Krist öllu vinsælli á Íslandi,” hefur Halldór Kiljan Laxness sagt um hann.”
Haraldur Níelsson segir í fyrirlestri sínum Kirkja og sálarrannsóknir, sem hann flutti á Trúmálaviku Stúdentafélagsins 1922:
“Þarf ég að minnast á, hvort rannsóknirnar séu leyfilegar frá sjónarmiði kristindómsins?
Sumir eru enn að vitna í fyrirmæli Móselaga um, að eigi skuli “leita frétta af framliðnum”. Fyrst af öllu minnum vér sálarrannsóknarmenn á, að vel gat verið vit í að ráða frá slíku mörgum öldum fyrir Krists burð. Ekki er víst, að Ísraelsþjóðin hafi verið því vaxin í þá daga. Þekking manna var skemmra komin þá og þjóðirnar óþroskaðri. Auk þess má nota samband við framliðna menn sér og öðrum til tjóns, ef til dæmis á að fara að leita frétta um framtíð sína hjá þeim, sem farnir eru af þessum heimi.
En eigi að nota þetta fyrirmæli til þess að hefta leit vora og banna oss að afla oss þekkingar á lögum tilverunnar og sannana fyrir framhaldslífi manna eftir dauða líkamans, þá lýsum vér hiklaust yfir, að vér metum það einskis.
Mörg önnur fyrirmæli eru í Mósebókunum, sem engum yðar dettur í hug að halda. Þar er margbannað að taka vexti af fé. Ef fara á eftir fyrirmælum Móselaga, þá verðið þér að láta Alþingi afnema sem skjótast bæði Landsbanka og Íslandsbanka. Síra Eiríkur Briem hefur þá haft óguðlegt verk í frammi með því að koma upp söfnunarsjóðnum. Jafnvel svo guðhræddir útibústjórar sem Árni Jóhannsson hafa þá árum saman verið að baka sér sekt með starfi sínu. Ég fullyrði og skal sanna ómótmælanlega, verði þess krafist, að til eru þau fyrirmæli í Gamla testamenntinu, sem mundu koma oss inn í hegningarhúsið, ef vér færum eftir þeim nú á dögum. Ég hirði ekki um að nefna þau dæmi hér.
Þegar menn því eru enn að klifa á þessu, að eigi megi leita frétta af framliðnum vegna Móselaga, þá ber það annað hvort vitni um frámunalegan skilningsskort eða fáfræði eða þá vísvitandi hræsni.”
Hvorki óskhyggja né tízka eiga að hafa úrslitaáhrif á skoðanir okkar. Gott væri að geta tekið undir með Epikúrusi: “Dauðinn er okkur ekkert. Hann er ekki til meðan við lifum, og þegar hann kemur, hættum við að vera til.” Allar líkur - og margvíslega reynsla - benda þó til, að þessi orð séu ekki reist á traustum grunni.
En ef efinn er nauðsynlegt aðhald.
Meðan Haraldur Níelsson fékkst við biblíuþýðingar sínar, færðist efasemdin yfir hann. Hver hefur ekki orðið fyrir því að finna til efasemdar andspænis miskunnarleysi þess heims, sem forngyðingar lifðu og hrærðust í, þessi guðsútvalda þjóð, sem átti þó ekki frekar guð í okkar skilningi en fólkið í Njálu, átti ekki annað en þann guð sem hún hafði skapað í sinni mynd. Á þennan guð refsingarsamrar þjóðar er okkur ætlað að trúa. Það er því ekki undarlegt, þótt ýmsir hafi hrokkið úr bókstafstrúarliðnum, þegar verst gegndi - og sumir aldrei náð sér.
En á efasemdarskeiðinu, þegar barnatrú sr. Haralds var hrunin, stóð tvennt óhaggað: “trúin á ódauðleikann og ást mín á Kristi eins og Nýja testamentið lýsir honum.” Nýguðfræðin gat eins og að líkum lætur ekki sannfært kjarkmenni eins og Harald Níelsson, hún byggði á málamiðlun, lét efnishyggjuna hrekja sig úr höfuðvíginu, afneitaði kraftaverkunum. Hvernig var hægt að tefla í þá tvísýnu undrinu mikla - upprisunni? Hvað mundi verða eftir af húsinu, þegar undirstaðan er hrunin? Nei, nýguðfræðin hentaði ekki skapsmunum og sannleiksþreki Haralds Níelssonar.
Um upprisuna segir séra Haraldur m.a.: “Kristur reis auðvitað upp í andlegum líkama. En fyrir því getur frásögnin um, að gröfin hafi verið tóm, verið sönn. Sálarrannsóknarmönnum hlýtur að finnast tilgáta sumra nýguðfræðinga... fáránleg, að andaður líkami Krists hafi verið fluttur úr gröfinni og falinn svo vel, að það hafi aldrei komizt upp... Nýguðfræðingar misskilja upprisu hans margir, af því þeim er ókunnugt um fyrirbrigðin á vorum dögum... Vér rísum allir upp með sama hætti og Jesús, þó að oss takist ekki að birtast hér á jörð með dásamlegum hætti eins og hann...”
Og hann vill að kirkjan striki út kenninguna um “upprisu holdsins”. Það var erfiður biti að kyngja. Nú er talað um upprisu mannsins - og geta allir vel við unað.
En þannig varð undrið, kraftaverkið að lifandi veruleika í kenningu Haralds Níelssonar, en hvorki hjátrú né óskiljanleg kynjasaga, sem nauðsynlegt var að losna við. Þannig gat hann boðað eilífðartrúna með óhagganlegum rökum, eins og Gunnar Benediktsson bendir á í skarpri grein í Þjóðviljanum (1969). Og hann segir enn fremur: “Séra Haraldur var snarlifandi andans maður og aflaði sér þeirrar lífshugsjónar að vera óháður hverri kenningu, sem hann ekki sannfærðist um fyrir eigin leit, að hefði við rök að styðjast.”
Haraldur Níelsson hafði, eins og Frederic Myers segir, reynslu fyrir því að “vitneskjan, sem rannsókn dularfullra fyrirbrigða hafi fært mönnunum, sé svo mikilvæg, að ef hún hefði ekki komið, mundi enginn skynsamur maður hafa trúað upprisu Krists eftir 100 ár, en vegna hinnar nýju vitneskju muni enginn skynsamur maður véfengja hana eftir 10 ár.” (Líf og dauði, 25. bls.)
Sálarrannsóknirnar fullvissuðu sr. Harald að lokum um að kraftaverkið væri að gerast allt í kringum okkur. Upprisunni var borgið.
Ekki var nú starfsemi hans og Einars H. Kvarans óguðlegri en þetta.
Eða hvað skyldu margir hafa hlotið huggun fyrir þeirra tilstilli?
Einu bréfa sinna lýkur Haraldur Níelsson með þessum orðum:
“Fyrirgefðu nú þetta langa bréf. Ég ætlaði að rita fáeinar línur, en þetta tognaði úr því. Svona er að vera nývaknaður eftir fastan svefn, þar sem glugginn hefur staðið opinn alla nóttina. En konan mín kvartar um, að litli Björn okkar hafi orðið kvefaður fyrir bragðið. En rjóðari í kinnum er hann en vanalegast. Hættir oss ekki um of að forðast hreina, nýja loftið, af því að vér höldum að smælingjarnir verði kvefaðir, ef það blási á þá?”
Hann segir einnig að kirkjan verði að hafa stóra glugga, hún eigi að fyllast af birtu. Og ekki nóg með það, heldur eigi einnig að vera hægt að opna gluggana. Hann bar kirkjuna meira fyrir brjósti en svo að hann gæti hugsað sér að segja skilið við hana. En - ef hann þyrfti að velja milli hennar og sannleikans, yrði valið honum auðvelt.
Og víkur nú sögunni aftur að Hafsteini Björnssyni.

II. Sá hvíti fugl - Runólfur Runólfsson

Í lok ágústmánaðar í haust (1969), var mér boðið á miðilsfund hjá Hafsteini. Ég hafði stundum áður farið á slíka fundi og þótt margt athyglisvert, en fátt um óhyggjandi “sannanir”, eins og sagt er. Hef ég alltaf farið varlega í sakirnar í mati á þeim upplýsingum, sem fram koma, en óneitanlega hefur sumt verið með ólíkindum og varla ætlandi venjulegum manni eins og Hafsteini að kunna skil á því öllu, ef ekki kæmu til dulrænir hæfileikar hans. Hann væri þá ekki aðeins gáfaðasti maður sem nú er uppi - heldur einnig mesti leikari allra tíma. Ekki held ég að gagnrýnendur hans mundu óðfúsir að viðurkenna það.
En þá er til önnur skýring, að hér sé um huglestur eða hugsunaflutning að ræða. Óneitanlega hefur sú hugsun hvarflað að mér eins og öðrum. Mikill meirihluti þess sem fram kemur á miðilsfundum gæti verið til kominn vegna hugsanaflutnings, eða einhvers konar fjarskyggni, sem þyrfti ekki að standa í sambandi við framliðið fólk. En hvernig mætti  það þá vera? Hefur einhver svar á reiðum höndum?
En á þeim fundi sem hér um ræðir fékk ég loks óhyggjandi reynslu fyrir því að Hafsteinn þarf a.m.k. ekki á hugsanaflutningi að halda í sínu miðilsstarfi. Hef ég orð mér fremri manna fyrir því að hann sé einn  mesti “sannana”-miðill sem nú er uppi og þætti mér það ekki ósennilegt, ef marka má það sem á fundinum gerðist. Er ekki úr vegi að minna hér á eftirfarandi orð Schjelderups: “Þeir miðlar eru ekki margir, sem um langan tíma, og við öruggar varúðarráðstafanir, hafa sýnt  og sannað hæfni sína til að skila boðum, er veita upplýsingar, sem miðillinn, hefur engan veginn getað aflað sér á venjulegan hátt.” “Afburðamiðlar” - segir Rosalind Heywood í bók sinni The Sixth Sense (1959) - “eru fátíðari en miklir listamenn, og það er sannarlegt fagnaðartefni, ef hálfur tugur kemur fram á sjónarsviðið á einni öld.”
(Þess má geta, að R. Heywood hefur nýlega ritað fróðlega grein um sálfarir í Man’s Concern with Death, þar sem einnig eru m.a. fimm greinar eftir Arnold Toynbee. Er bókin hin athyglisverðasta).
Snemma á fundinum kemur “Runki” í gegnum miðilinn, sama tungutakið, fasið og hreyfingarnar sem ég þekkti af öðrum fundum. Er hann raunar svo sérstæður og litríkur persónuleiki, að þeir eru harla fáir hérmegin grafar, sem gætu keppt við hann um eftirminnilegt tungutak og markviss tilsvör.
Á miðjum fundinum segir “Runki” að ég sé að fara utan - til Danmerkur, og rekur síðan ferðina heim aftur um Þýzkaland og Bretland, enda gerði ég mig sekan um að knýja á um upplýsingar, þrátt fyrir aðsvörun Haralds Níelssonar, sem vitnað er til hér að framan. Ekki þótti mér þetta tiltakanlega merkilegt, því að ferðin var ráðin og áætlun gerð. En þá segir “Runki” allt í einu: “Þú ferð til Fjóns”. “Ne-i”, segi ég, “nú skjátlast þér heldur betur”.
En hann heldur fast við þá fullyrðingu sína að við munum fara út á Fjón, ég malda í móinn og við körpum þarna nokkra stund, þangað til hann segist ætla að skreppa sem snöggvast frá og líta betur á þetta. Stanzlaus trafik var í gegnum miðilinn, meðan “Runki” var í burtu, en ekki hirði ég að skýra frá henni. Svo kemur karlinn aftur að vörmu spori og er nú heldur betur viss í sinni sök: Jú, ég muni aldeilis fara út á Fjón, og ekki nóg með það, heldur út á Jótland líka. Síðan tekur hann að dásama Jótland og hæla því á hvert reipi, nefnir tvær borgir þar með nafni, en snýr sér svo aftur að ferðinni til Fjóns og lýsir henni í smáatriðum: Á meðan ég sé í Kaupmannahöfn komi til mín “gamall maður” með staf og alskegg og bjóði okkur út á Fjón. Lýsir síðan ferðinni með lestinni til Korsör og ferjunni til Nýborgar, en þá leið hafði ég aldrei farið og þekkti ekki. Síðan lýsir hann bílferðinni um Fjón með “gamla manninum”, nefndi fjölda borga og bæja, sem við færum til og skýrði frá ýmsu öðru, sem fyrir mundi koma. Að lýsingu hans lokinni var hann sigri hrósandi, og hlustaði ekki á nein andmæli frá minni hendi. En ég hugsaði með mér: Sá veður nú reyk!
“Nú  er allt undir lær og maga”, sagði Guðmundur Jörundsson eftir fundinn og hafði þungar áhyggjur af lýsingum “Runka”. “Ég skil ekkert í karlinum að taka svona mikið upp í sig”, sagði hann. “Nú missirðu allan áhuga á þessu starfi okkar, ef ekkert af þessu kemur fram.” Mér var engin launung á að svo kynni að fara, ef ég sæi að allt væri þetta á sandi byggt. Eftir fundinn spurði Hafsteinn, hvað gerzt hefði.
Hann hafði engar áhyggjur af “Runka”.
Svo leið að utanlandsförinni.
Næst gerðist það allöngu síðar að til mín kemur í Kaupmannahöfn “gamall maður” með alskegg og staf og bíður okkur út á Fjón. Hann heitir Chr. Bönding, blaðamaður og áhugamaður um Ísland, en sízt af öllu var hann í huga mínum. Bönding, sem varð fyrir slysi fyrir nokkrum árum, er með alskegg og staf, eins og “Runki” lýsti honum, og lotlegur í þokkabót, þótt enn sé hann á miðjum aldri.
Ég þekkti hann að vísu frá dvöl hans hér, en óskaði sízt  af öllu eftir samskiptum við hann, því að mér þótti maðurinn ekki skapfellilegur, en ágengur og grunaði að starf hans og áhugi á Íslandi væri ekkert annað en loftkastali.
“Ég sá í blaði í morgun að þú værir kominn til Kaupmannahafnar”, sagði hann, þar sem við hittumst fyrir utan hótel Hebron. Ég var víst eitthvað snakillur og þurr á manninn, en þá bíður hann okkur til Fjóns. Þegar ég var búinn að jafna mig, sagði ég: “Ég hef síður en svo gert neitt til að þú sýnir mér þessa gestrisni”. “Nei, þú hefur ekki verið beinlínis vingjarnlegur”, segir hann þá, “en það skiptir engu máli. Nú vil ég sýna þér hvernig ég bý og þið verðið að kynnast Fjóni. Ég vil að þú sjáir að áhugi minn á Íslandi er einlægur. Sá áhugi hefur ekki haft í för með sér gróða, miklu frekar hef ég þurft að borga með honum”.
Síðan lýsti hann því hvernig við ættum að fara út á Fjón, fyrst með lest til Korsör, síðan með ferjunni og muni hann taka  á móti okkur í Nýborg og aka okkur heim til sín í Ringe.
Ég neita því ekki að “Runki” var orðinn mér ærið umhugsunarefni, þegar hér var komið í samtali okkar Böndings, en í sem systztu máli er þess að geta að allt kom það heim og saman sem “Runki” hafði sagt. Nema eitt: Við fórum aldrei út á Jótland(!)
Þegar ég síðar hef spurt “Runka” að því, hvers vegna hann hefði flaskað á Jótlandi, segir hann eins og saklaust barn að strákurinn hafi komið upp í sér, eins og hann kemst að orði, og hann hafi brugðið á leik. Það sé sér stundum  mikil freisting að draga ályktanir: “Mér datt ekki í hug annað en þú færir út á Jótland fyrst þér var boðið til Fjóns”, sagði hann. “Jótland er fallegasti hluti Danmerkur og ekki steinsnar þangað. Og kannski hefur mig langað til að ýta undir að þú færir þangað.” Svo ekki eru þeir alfullkomnir hinumegin - sem betur fer!
En hvað sem Jótlandi líður og hvernig sem menn taka afsakanir “Runka”, stendur hitt óhagað, að hann sagði mér fyrirfram í smáatriðum ferðalag, er hvorki ég né aðrir höfðu hugmynd um að ég ætti eftuir að fara, tildrög þess og tilgang - og lýsti þessu öllu með svo mikilli nákvæmni að undrun sætir, en ekki hirði ég að rekja það allt hér. Nú var a.m.k. huglestri ekki til að dreifa, hvort sem skýringuna er að finna í boðskap sálarrannsóknarmanna eða ekki. Þetta er framskyggni, segir vafalaust einhver, og heldur að málið sé afgreitt. En mér er spurn: Hvað er það? Þetta er persónuklofningur, segja kannski aðrir. En ég spyr aftur: Hverjar eru þá ástæðurnar fyrir því að þessi “hinn” Hafsteinn, sem fram kemur í dásvefninum og kallaður er Runki, hefur til að bera svo skarpskyggna spádómsgáfu? Væri ekki ástæða til að kanna það? Annað eins hefur þótt tíðindum sæta meðal raunvísindamanna. En - eins og Schjelderup segir, svo að ég vitni til bókar hans enn einu sinni: “Vísindin eru auðmjúk frammi fyrir staðreyndum. En vísindamennirnir eru það ekki ávallt - ef staðreyndirnar fara í bága við rótgróna hugsunarvenju þeirra. Framfarabraut vísaindanna hefur oft legið þvert á fordóma vísindamannanna sjálfra... Frá vísindalegu sjónarmiði erum við að ganga fyrstu skrefin. Framundan er löng leið, og þörf er á rannsókn, rannsókn og aftur rannsókn”. Og hann minnir á að andstæðingar Galíleis hafi neitað að hrofa í sjónauka hans “til þess að verða ekki vitni að þeirri hneykslanlegu sjón, sem ekki hafði rétt til að vera til samkvæmt opinberlega viðurkenndum vísindum þeirra tíma.”
Þeir eru enn margir sem neita að horfa í sjónaukann!
Og kona Rhines, Louisa E. Rhine, sem hefur lagt fram stóran skerf til rannsókna manns síns við Dukeháskóla segir í bók sinni Dulskynjanir og dulreynsla, sem er krökk af merkilegum dæmum um yfirskilvitnlega reynslu ýmisskonar, en veitir engar haldgóðar skýringar á fyrirbærunum þrátt fyrir allmiklar rannsóknir þeirra hjóna: “Andi mannsins er ekki takmarkaður við getu skynfæranna einna. Svo langt er rannsóknunum a.m.k. komið, að öruggt er með öllu, að persónuleikinn nær yfir miklu víðtækara svið... Af þessum dæmum öllum er ljóst, hve erfitt er að fullyrða hvað sé hið rétta. Sum þeirra benda eindregið til áhrifa frá framliðnum, en hvergi er það þó með öllu útilokað að um ESP fyrirbæri (skynjun án skynfæra) í mismunandi myndum geti verið að ræða... Nokkrir miðlar hafa verið rannsakaðir vísindalega og með ströngu eftirliti þar sem unnt var að útiloka ekki aðeins blekkingar, heldur og það, að miðillinn gæti með eðlilegum hætti vitað það, sem hann sagði, varðandi hinn látna...”
En frú Rhine bendir á að úrslitatilraunir og rannsóknir um framhaldslíf vanti. Öll er hugsun hennar opin og texti hennar með þeim hætti að vekur traust. Hvað hafa þau lagt af mörkum “Rhine-hjónin” í heimspekideild Háskóla Íslands - eða öðrum deildum sem málið er skylt?
Mundi ekki vera kominn tími til að færustu vísindamenn könnuðu bæði “Runka” og Hafstein með aðstoð innlendra sérfræðinga. (Það var gert síðar að ég held af veikum mætti). Svo gætu þeir haldið ráðstefnu um niðurstöðurnar. Maðurinn lifir ekki af einu saman brauði, er sagt þegar mikið liggur við. Gott er að kalla saman ráðstefnu um þorsk og hafís - en hvernig væri að fjalla einu sinni um “sálina”. Slík rannsókn á  “Runka” og Hafsteini þyrfti ekki að verða ómerkari en meðaltunglferð, auk þess sem hún mundi ekki stinga í stúf við þessa þjóðlegu menningu okkar Íslendinga, sem oft er talað um.
En hvað viðkemur allt að því smásmugulegum upplýsingum “Runka” um ferðina til Fjóns, mundi ég, úr því sem komið er, hallast að skýringum spíritismans, þ.e. að ég hafi fengið þær úr heimi framliðinna í gegnum Hafstein miðil. Mun ég halda mig við þá skoðun, þar til annað kemur í ljós. “Runki” er minn “hvíti hrafn”.
Þess má loks geta að gestrisni Böndings og konu hans var frábær, og sannfærðist ég um að ágengni hans á rætur að rekja til einlægs áhuga á Íslandi og málefnum þess. Ennfremur að tengsl hans og samstarf við blaðamenn á Fjóni og víðar eru með þeim hætti, að Ísland á hauk í horni, þar sem Chr. Bönding er. Ekki datt mér í hug að ég ætti eftir að sannfærast um það. En - það sem helzt hann varast vann varð þó að koma yfir hann!
En hvort þetta ferðalag hefur haft annan tilgang en þann að lækna mig af kenningunni um hugsunaflutning með því að láta mig “þreifa á” eins og Tómas forðum, veit ég ekki. Ferð á æskustöðvar H.C. Andersens veitti mér aftur á móti nýjan skilning á verkum hans, þó að ekki væri annað. Fjón var því enginn útúrdúr, þótt svo hafi virzt að þessu sinni. Ég hlakka til að fara þangað aftur.

Eftirmáli um mann Mannsson og lærlegginn hans

En er nú furða þótt einhver spyrji: Hver er “Runki”? Hann hefur, að mér skilst, komið oftar “í gegnum” Hafstein miðil en flestir aðrir. En heldur byrjaði hann óbjörgulega. Orðbragðið var svo óheflað og hann bölvaði svo rækilega að viðstaddir, einkum konur, fóru hjá sér í viðurvist þessarar óguðlegu eilífðarveru. Nú hefur hann slípazt með árum og þroska, en þó er persóna hans enn þá með svo alþýðlegu og upprunalegu marki, að ekki hefur hann enn sem komið er breytzt mikið á astralplaninu, enda skemmtir hann sér konunglega síðan hann komst í kynni við Hafstein!
Til fróðleiks þykir mér rétt að láta fylgja hér kafla úr bókinni Miðillinn, Hafsteinn Björnsson eftir Elínborgu Lárusdóttur: hann fjallar um einhvern eftirminnilegasta þáttinn í miðilsstarfi Hafsteins. Hann er á þessa leið:
“Veturinn 1937-1938 hefir Hafsteinn fasta fundi hjá Einari H. Kvaran, fyrst vikulega, en oftast tvisvar í viku, er á veturinn líður. Eftir hátíðirnar fer vera að gera vart við sig í sambandinu og er framkoma hennar allkynleg. Þegar spurt er, hver þarna sé er svarað:
Eg heiti Jón Jónssson eða Maður Mannsson, eða ykkur varðar andskotann ekkert um, hvað eg heiti.
Kvaran spyr, hvað hann vilji.
Hann svarar: Eg er að leita að leggnum mínum, og eg vil hafa legginn minn.
Kvaran spyr aftur, hvar leggurinn muni vera.
Hinn svarar: Hann er í sjónum.
Fleira kemur ekki fram á þessum fundi.
Þessi vera heldur svo áfram að koma á fundina og talar alltaf um hið sama, um legginn sinn, og heimtar hann. En hann er alveg ófáanlegur til að segja, hver hann er.
Þegar fundir byrja hjá frú Lilju Kristjánsdóttur haustið 1938, endurtekur þetta sit. Hann kemur á fundinn og staglast alltaf á hinu sama. Vill fá legg sinn. En þegar enginn kannast við hann og hann harðneitar að segja til sín, er engin leið að átta sig á þessu.
Fundina hjá frú Lilju sátu Níels Carlsson og kona hans, og frú Guðrún Stefánsdóttir, Hafnarfirði. Svo bættist Lúðvík Guðmundsson í hópinn og hans kona, Jórunn Guðmundsson. Lúðvík var útgerðarmaður í Sandgerði, en búsettur hér í bæ.
Þegar Lúðvík kemur á fundinn, kemur þessi kynlega vera, sem kallar sig Jón Jónsson eða Mann Mansson, og talar mikið um, hvað hann hafi verði lánsamur að hitta Lúðvík.
Nú hafði miðillinn aldrei séð Lúðvík og þekkti ekkert til hans fólks. En aftur á móti voru þeir kunnugir, Niels Carlsson og Lúðvík, enda náfrændur.
Lúðvík kannast ekkert við þennan náunga og skilur sízt í, hvað hann vilji sér sérstaklega. Hann óskar þess eindregið að vita, hver hann sé. En hinn situr við sinn keip og neitar sem áður að gefa nokkar upplýsingar. Aftur á móti fullyrðir hann, að Lúðvík viti um legginn sinn. Hann sé í húsi hans í Sandgerði.
Lúðvík krefst þess, að hann segi, hver hann var í jarðlífinu, svo að hægt sé að afla sér upplýsinga um málið. Hinn er ófáanlegur til þess. Fer þessu svo fram lengi vel, að þessi vera kemur í sambandið og heimtar legginn sinn.
Hann hegðar sér mjög kynlega í sambandinu, biður oft um í nefið, og sjá þá fundarmenn, að miðillinn ber handarbakið upp að nefinu og sýgur uppí nefið á sama hátt og tóbaksmenn gera. Hann talar líka oft um, að sig langi í kaffi, og biður að hella í bolla handa sér á eftir fundi eins og hinum.
Einu sinni kom hann á fund í Hafnarfirði hjá frú Soffíu. Hún spurði, hvort hann vildi í nefið. Nei, hann vildi ekki í nefið og ekki kaffi. En þú átt annað, sem ég vil  fá, sagði hann.
Hún spurði hvað það væri.
Það er dálítið í glasi frammi í skáp í eldhúsinu, sagði hann.
Þóttist hún þá vita, að hann ætti við lögg af rommi, sem hún átti í eldhússkápnum og notaði í búðinga.
Hún neitaði að láta hann hafa rommið. Hann var heillengi að þrefa um þetta og sagðist vilja fá þessa lögg.
Í sambandinu hefir hann verið spurður, hvers vegna hann væri ekki kominn lengra áleiðis.
Ég kæri mig ekkert um það. Það er ágætt að vera svona, svaraði hann.
Svo er það eitt sinn, að þeir gera honum tvo kosti, Lúðvík og Niels. Annað hvort segi hann hver hann sé og hvaðan, eða þeir sinni þessu ekki. Hann verður öskuvondur og kemur ekki aftur í langan tíma. Þegar hann kemur næst, brýzt hann í gegn um miðilinn og segir:
Jæja, það er bezt að ég segi þá, hver ég er. Ég heiti Runólfur Runólfsson og var ég 52 ára, er ég lézt. Ég bjóð með kellu minni í Kólgu eða Klapparkoti hjá Sandgerði. Var ég á ferð frá Keflavík seinni huta dags og var fullur. Ég kom við hjá Sveinbirni Þórðarsyni í Sandgerði. Þar þáði ég góðgerðir. Þegar ég ætlaði að fara, fannst þeim veðrið svo vont, að þeir vildu láta fylgja mér heim til mín. Þá varð ég vondur og sagðist ekkert fara, ef ég fengi ekki að fara einn. Heim til mín var ekki nema 15 mínútna gangur, eða tæplega það. Fór ég svo, en ég var blautur og illa á mig kominn. Gekk eg inn Kambinn, sem kallaður er. Þegar eg var kominn yfir kambinn, settist eg undir klett, sem kallaður er Flankastaðaklettur, en hann er nú næstum horfinn. Þar tek ég upp flöskuna og sýp drjúgum á. Svo sofna ég. Flóðið kemur, mig tekur út. Þetta er í október 1879. Finnst ég ekki fyrr en í janúar 1880. Rak mig þá upp, en þá komust hundar og hrafnar í mig og tættu mig sundur. Leifarnar af mér fundust og voru grafnar í Útskálakirkjugarði. En þá vantaði lærlegginn. Hann tók út aftur, en rak svo síðar upp í Sandgerði, og þar hefir hann verið að þvælast síðan, og nú er hann hjá Lúðvík.
Þeir spyrja nú Lúðvík og Niels, hvar þeir geti fundið sönnun þess, að hann sé sá, sem hann segist vera.
Hann svarar: í kirkjubókum Útskálakirkju.
Nú er farið að grennslast um þetta. Þeir finna nafn hans þar, sem hann hefir vísað á, og stendur heima hvað ártal áhrærir og aldur hans. En nú er eftir að finna legginn.
Þegar Lúðvík Guðmundsson keypti húsið í Sandgerði af Lofti Loftssyni útgerðarmanni, voru þar í húsinu tvær hauskúpur. Sú saga gekk, að einhverju sinni hefði unglingspiltur hent annarri hauskúpunni út í horn með þeim ummælum, að óþarfi væri að hafa þetta bölvað drasl þarna. Nóttina eftir þóttust menn verða varir við tvo menn, annan lítinn, hinn stóran. Gengu þeir að hvílu hvers og eins og athuguðu þá, sem þar hvíldu. Staðnæmdust þeir við beð unglingsins, sem hent hafði hauskúpunni. Heyrðu þá félagar hans hljóð mikil og komu honum til hjálpar. Var hann þá blár í framan, illa á sig kominn og mjög hræddur. Segir sögnin, að eftir þetta hafi honum ekki verið vært framar í Sandgerði og hafi hann hrökklast þaðan í burtu
Þegar þessi sögn berst Lúðvík til eyrna, tekur hann hauskúpurnar, lætur þær í glerkassa og setur svo kassann í glugga, sem veit til sjávar. Lúðvík hefir um leið orð á því við einhvern, hann man nú ekki hvern, að undarlegt sé, að þessar hauskúpur séu oghafi verið þarna svona lengi. En þá segir sá, sem hann ræðir við, að það sé nú ekki að vita, nema fleiri bein fyndust í húsinu, ef vel væri leitað.
Lúðvík fór ekkert frekar út í þetta þá. En er Runólfur fullyrti, að leggurinn sinn væri í húsi í Sandgerði, rifjaðist þetta upp fyrir honum. Nú fer hann til ýmissa eldri manna, sem höfðu lengi verið búsettir í Sandgerði, rekur suma minni til þess, að lærleggur hafi verið þarna á flækingi. En þeir vita ekki, hvað gert hefir verið við hann. Einhver heldur sig muna, að smiðurinn, sem þiljaði innan niðri í norðurendanum, hafi tekið legginn, látið hann milli þils og veggjar í húsinu og sagt, að þarna yrði hann þó ekki að þvælast fyrir neinum. Nú er húsið gríðarstórt og ekki gott að vita, hvar helzt átti að leita. Héldu sumir, að leggurinn væri geymdur í saltaranum milli glugganna. Var rifið þar upp, en hann fannst ekki þar.
Í herbergi í norðausturenda hússins bjó maður, sem hét Helgi. Hafði Helgi verið mótormaður við frystihús Lofts Loftssonar, er áður átti stöðina. Fer Lúðvík nú til þessa Helga og biður hann að hjálpa sér til að finna legginn. Kemur þá í ljós, að elgi hefir heyrt, að smiðurinn hafi látið hann milli þils og veggjar. Getur Helgi þess til að hann muni vera í herberginu, sem hann býr í. Er nú aftur farið að rífa og finnst leggurinn þá þar. Leggurinn var mjög langur, enda gat Runólfur þess, að hann hefði verið þrjár álnir og sex tommur á hæð.
Þegar leggurinn var fundinn tók Lúðvík hann   og fór með hann upp í búðina sína, til þess að hann týndist ekki aftur. Lét hann smíða utan um legginn vandaða kistu, og var leggurinn svo kistulagður. Stóð kistan svo í búðinni upp undir ár, og bar ekkert til tíðinda. Voru svo þessar síðustu leifar Runólfs Runólfssonar frá Kólgu eða Klapparholti í Sandgerði jarðsungnar að Útskálum. Fór allt fram eins og við venjulega jarðarför. Presturinn hélt ræðu í kirkju og söngflokkur kirkjunnar mætti. Þar var margt fólk viðstatt, bæði úr Sandgerði og svo komu frá Reykjavík, Niels Carlsson og hans kona, frú Lilja Kristjánsdóttir, Laugavegi 37, og frú Gíslína Kvaran. En um útförina sá Lúðvík og frú hans. En presturinn á Útskálum hélt erfið. Var á eftir athöfninni drukkið kaffi hjá presti, og fór þetta allt virðulega fram.
Þegar fundur var næst eftir útförina, kom Runólfur fram og þakkaði fyrir sig. Sagðist hann hafa verið þarna viðstaddur og lýsti útförinni svo nákvæmlega, að hann taldi upp kökusortirnar, sem voru fram bornar á Útskálum. Þakkaði hann Lúðvík og konu hans sérstaklega. Er honum mjög hlýtt til Lúðvíks, og eftir þetta kallar hann Lúðvík alltaf húsbónda sinn. Hann kemur enn á fundina, en ekki að staðaldri.
Ég fór að kynna mér kirkjubækur Útskálakirkju frá því tímabili, sem Runólfur Runólfsson vísar til. Ég fann nafn hans í bókunum. Árið 1849 er hann til heimilis í Klöpp í Hvalsnessókn. Árið 1859 er hann í Flankastaðakoti með konu, sem heitir Guðrún Bjarnadóttir. Þau eiga þá eina dóttur, sem heitir Guðrún María. Þetta ber heim við landsmannatalið 1860. Þar er Runólfur Runólfsson í Flankastaðakoti talinn ókvæntur og grashúsmaður. Þar stendur einnig, að hann sé fæddur í Melasókn. Kirkjubækur Melasóknar sýna, að Runólfur er fæddur 25. desember 1828 að Meilaleiti í Borgarfirði. Foreldrar: Runólfur Þorsteinsson, vinnumaður á Hafþórsstöðum í Norðurárdal og Guðrún Magnúsdóttir, vinnukona á Melaleiti.
Guðrún Bjarnadóttir er líka talin húskona í kirkjubókunum. Síðar er Runólfur í Klapparkoti (Kólgu), og eru þá börnin orðin þrjú, tveir drengir og ein stúlka. Árið 1879 er hann á sama stað. Þá er Guðrún Bjarnadóttir sennilega dáin.
Nafn hennar sést ekki í kirkjubókunum. Árið eftir er nafn hans líka horfið úr kirkjubókum Útskálakirkju, en í ministerialbók Útskálakirkju stendur eftirfarandi skýrsla:
“Þann 16. október 1879 varð Runólfur Runólfsson, húsmaður í Klapparkoti, úti voveiflega á heimleið úr Keflavík í stórviðri, rigningu og stormi, allskammt frá bæ sínum, um miðja nótt, meint að hann hrakizt hafi niður í fjöru fyrir sunnan Flankastaðatúngarð, hvar sjór hafi tekið hann, því bein hans fundust löngu seinna sundurlimuð og fatnaður.”
Þessi sama bók sýnir, að þessar leifar Runólfs Runólfssonar hafa verið jarðsungnar 8. janúar 1880, og er hann þá talinn vera 52 ára. Eru þá liðnir tæpir þrír mánuðir, frá því að hann hvarf og þar til hinar sundurlimuðu leifar hans fá legstað í vígrði mold, og þó ekki allar. Leggurinn finnst ekki fyrr en 1940, og eru þá liðin 60 ár frá þessum atburði.
*
Það, sem gerðist í sambandi við Runólf Runólfsson, varð okkur, sem við það vorum riðin, svo eftir minnilegt, að við teljum okkur muna það greinilega. Erum við því fús að votta, að rétt er farið með það, sem að framan er skráð.
Reykjavík, 23. apríl 1945,
Lúðvík Guðmundsson.
Jórunn Guðmundsson.
Lilja Kristjánsdóttir,
Kristjana Árnadóttir.
Niels Carlsson.

 

Hef einnig verið að kynna mér nýjustu skáldsöguna sem hlaut Booker-verðlaunin; hún heitir The God of Small Things og er eftir Arun Dathi Roy. Enn ein sagan úr indversku umhverfi. Svipað fólk og áður, elskast eins; hugsar eins. En nýtt umhverfi. Ég veit orðið heilmikið um þetta samfélag af lestri svona bóka. Og nú er ég að verða fullsaddur af þessum skáldskap. Ágætlega skrifað eins og aðrar svona bækur en það er eins og þær séu grundvallaðar á einhverjum formúlum sem ég kann ekki skil á. Held þeir ættu að veita Booker-verðlaunin fyrir eitthvert annað efni áður en maður hefur lesið yfir sig af þessari indversku reynsluveröld. Hún verkar reyndar á mig eins og indverskur matur. Manni getur orðið bumbult af honum.

Hef einkar gaman af þeirri fullyrðingu Jungs að hann hafi ekki talið sig þekkja neinn almennilega fyrr en hann hafði heyrt draumfarir hans. Af draumunum gat hann dregið ályktanir og gert sér grein fyrir persónuleikanum. Óvenjuleg leið til að kynnast fólki, svo ekki sé meira sagt(!)

28. febrúar, laugardagur

Snjóaði í Edinborg í gærkvöldi, en nú er fallegt veður. Höfum það fjarskagott hjá Ingó. Minnir á þegar ég kom hingað með Brúarfossi 1946. Leith og Edinborg voru fyrstu erlendu stórborgirnar sem ég sá. Það var eins og að sigla inn í arabískt ævintýri. Sextán ára gamall gekk ég frá höfninni í Leith og upp í Princes Street. Á leiðinni sá ég stóran trékafbát í búðarglugga og keypti hann handa Jóhannesi bróður mínum. Í þá daga var maður örlátur! Nú hef ég mesta ánægju af að rétta betlurum eitt og eitt pund. Jóhannes verður að kaupa sína kafbáta sjálfur!

Held áfram að lesa The God of Small Things. Þekki nú betur Kerala í Indlandi en margir sem þangað hafa komið. Það er rétt sem Doris Lessing segir í formála fyrir Litterature in English eftir Ian Ousby að hugmyndir okkar um veröldina væru með allt öðrum hætti en raun ber vitni ef engar skáldsögur hefðu verið skrifaðar. Þær lýsa dökku hlið tunglsins eða sjávarbotnum þar sem allt er öllum ókunnugt nema fiskunum sem þar lifa.
Í skáldsögum kynnumst við ólíkum heimum; öðru fólki. Lífi fólks sem við þekktum ekki. Án skáldsagna mundum við aldrei kynnast þessari veröld.
“Í skáldsögunum eignumst við einhvers konar innri veröld “ eins og Lessing kemst að orði - og hún væri okkur framandi ef við hefðum ekkert lesið. Nú þekki ég Kerala, hef pata af því hvers vegna kommúnismi var þar algengari en annars staðar á Indlandi. Kannski er ástæðan sú að 20% fólks í Kerala er kristið og gerir meiri kröfur til umhverfisins en aðrir. Jafnrétti er sama og það himnaríki sem kristnin boðar; auðvaldið djöfullinn.
Eða hvað?
Um þetta allt fjallar skáldið á mjög upplýsandi hátt og vefur þennan fróðleik inn í líf og umhverfi sögupersónanna. Það er ávinningur að kynnast slíku verki, að vísu. Og ég vil að mörgu leyti heldur fara í slíkt ferðalag í góðri skáldsögu en með ótryggum ferðaskrifstofum. Mig langar ekkert til að sjá hina óhreinu, útskúfuðu. En mér þykir fróðlegt að vita að þeir eru svo óhreinir að þeir verða að halda fyrir munninn þegar þeir tala, svo að þeir mengi ekki loftið sem hinir anda að sér. Að hugsa sér þessa veröld sem maður þekkir ekki - og guði sé lof að maður skuli ekki þekkja þessa veröld nema í bókum.
Óbærileg í raun, en hnýsileg í skáldskap.
Þannig vil ég einnig fremur þekkja þrettándu öldina á Íslandi af ritum Sturlu Þórðarsonar en eigin reynslu.
Og þó, og þó - ætli það sé ekki nóg ofbeldi í kringum okkur nú á dögum?.
Eða - hvers vegna var okkur Hönnu smalað niður í kjallarann í Cumberland-hóteli á föstudaginn var?
Ætli það hafi ekki verið vegna þess að þrettánda öldin fylgir okkur og það er ekkert lát á henni - og hún er blóðugri nú en nokkru sinni. Auk þess lifir hún með okkur í því sameiginlega minni sem Jung talar um og birtist okkur með ýmsum hætti, ekki sízt í draumum, og við getum aldrei losnað við hana vegna þess að hún er gróin í litningana. Þar geymist öll reynsla mannsins, líklega öll reynsla efnisins frá því geimrykið tók á sig mynd manns og trés.

Hanna sá gamalt Morgunblað í dag. Ég veit ekki hvernig þetta endar, sagði hún við mig.
Nú, sagði ég, er eitthvað að?
Hvernig er hægt að setja frétt um það á baksíðuna að ránfugl hafi drepið dúfu? spurði hún.
Er frétt um það á baksíðunni? spurði ég.
Já, í miðvikudagsblaðinu held ég.
Jæja, sagði ég.
Hefðir þú látið þessa frétta á baksíðu? spurði hún.
Ég hef ekki lesið hana, sagði ég.
En hún fjallar ekki um neitt annað en að ránfugl hafi drepið dúfu, sagði hún. Er það einhver frétt þó að ránfugl drepi dúfu?
Kannski ekki á baksíðu, sagði ég.
Jæja, sagði hún.
Svona frétt gæti verið á baksíðu ef henni væri breytt, sagði ég og bætti við,

Þú færð verðlaun ef þú getur sagt mér hvernig breytt!
Hún sagðist ekki sjá hvernig slík frétt gæti verið á baksíðunni
Jú, sagði ég.
Hvernig þá? spurði hún.
Ég sagði:
Ef fyrirsögnin væri Dúfa drepur ránfugl, þá væri þetta fín baksíðufrétt!
Um það urðum við sammála.
En fjölmiðlar keppast við að flaska á þessum áherzlum.

1. marz, sunnudagur

Hugsun mín flögrar
í þessu tré
sem er himinn

leitar þín
í nöktum greinum.

2. marz, mánudagur

Það er að sjálfsögðu hægt að kynnast útlöndum með öðrum hætti en fara þangað eða lesa bækur. Maður getur kynnzt þeim með því að tala við fólk. Einn helzti samstarfsmaður Ingólfs og vinur hér í Edinborg er frá Bangladesh, dr. Tanzína Haque, ung kona og geðfelld. Hún sinnir bæði rannsóknum og kennslu við háskólann. Hún hefur veitt Ingólfi margvíslega aðstoð og hann henni. Við vorum boðin í kvöldverð til hennar í gærkvöldi og fengum túnfisk, kjúklinga og lambakjöt a la bangladesh. Fínn matur. En það var sérstaklega skemmtilegt að skoða þá muni sem hún hefur komið með að heiman, bæði sari úr silki og ýmsum efnum öðrum og heimagerða gullgripi. Þeir vinna helzt úr 22 karakta gulli. Sari-kjólarnir eru handunnir, sumir skreyttir með silfri; rándýrir. Sérstakur sari er ætlaður við giftingu. Móðir hennar geymir hann. Hún hefur óskað eftir því að fá hann en við það er ekki komandi, ekki fyrr en hún giftir sig! Þessar dökku, svarthærðu og fíngerðu konur eru fæddar inn í svona slæðukjóla. Veðrið kallar á þennan búning. Mér finnst fáránlegt þegar vestrænar konur eru að skreyta sig í þessum múnderingum. Þær kunna ekki að hreyfa sig samkvæmt efninu. Minnir helzt á það þegar ungar íslenzkar konur sem aldrei ganga í peysufötum eru að skreyta sig í búningum formæðranna. En það er þó sök sér. Mér finnst það samt hálflummulegt. Skautbúningurinn getur þó gengið þótt hann sé ekki byggður á neinum erfðavenjum, svo tiltölulega nýr sem hann er. En sinn er siðurinn í hverju landi.
Einn af forfeðrum Tanzínu kom frá Arabíu. Hann var í leit að ævintýrum, frama og fjármunum. Hann kom með trú sína með sér. Fjölskylda Tanzínu eru múslimar eins og flestir íbúar Bangladesh. Ég spurði hvort Kóraninn væri ekki þýddur á bengölsku. Hún svaraði því játandi, en bætti við að hann væri miklu fallegri á arabísku. Líklega þurfa múslimar að geta lesið eitthvað í Kóraninum á arabísku, ég veit það þó ekki, en mér heyrðist það helzt. Þessi forfaðir komst í álnir og giftist þarlendri konu og hindúarnir turnuðust til Allah. Það var eins og segir frá í Guði lítilla hluta að heilagur Tómas fór til Indlands á sínum tíma og sneri 200 brömum til kristinnar trúar. Þannig festi kristin trú rætur í Indlandi og með einhverjum svipuðum hætti hefur múhameðstrú einnig fest rætur á þessum slóðum.

 

Bangladesh var áður partur af Indlandi Viktoríutímabilsins, rétt eins og þetta svæði allt. Það þarf ekki neinar skáldsögur til að minna á dramatíska atburði í austurlöndum. Tanzína sagði að margar fjölskyldur sem hún þekkti til hefðu kynnzt ýmiss konar hrollvekjum. Um 80% af fólkinu í Bangladesh er ólæst og óskrifandi; eða um 80 milljónir manna. Þeir sem eru vel menntaðir hafa oft leikið á hina ómenntuðu, náð af þeim jarðeignum, látið þá stimpla með fingurgómnum undir samninga o.s.frv. Ég held ætt hennar hafi áður fyrr, m.a. með þessum hætti, eignazt mikil lönd. Faðir hennar sem er kominn undir áttrætt, vel menntaður verkfræðingur, hefur engan áhuga á jörðum sem hann erfði eftir föður sinn. Hann vill að vísu láta jarða sig í landareigninni, en hún er heilsdagsferð frá Sittagon þar sem þau búa og af þeim sökum m.a. vill móðir hennar ekki halda fjölskyldugrafreitinum þar við.
Afi Tanzínu hlaut þau örlög að tengdasonur hans myrti hann til að komast yfir landareignina. Hann sat í ævilöngu fangelsi og lézt þar.

Föðursystirin, eiginkona morðingjans, fluttist til ættfólks síns í Sittagon og eyddi ellinni þar unz dauðinn þurrkaði voðaverkin út eins og krít af töflu. Tanzína á fjórar systur og einn bróður. Ein systirin giftist syni morðingjans og móðursysturinnar, það þótti ekki til fyrirmyndar en við því varð ekki gert. Þau eiga tvö börn. Syndir feðranna hafa ekki komið niður á þeim.

En dr. Tanzína fær ekki brúðkaupssaríinn sinn sendan hingað til Edinborgar. Hún verður að vinna fyrir honum með giftingu. En hann hefur verið keyptur fyrir mörgum árum. Ég veit ekki hvað verður gert við hann ef hún giftir sig ekki en ég heyri á henni að hún hefði hug á að eignast börn þótt það hafi ekki verið henni efst í huga áður fyrr, heldur læknanámið og vísindastarfið.
Fólk er alls staðar eins, ætli það ekki? Hvað sem öllum blæbrigðum líður. Og þó er það með ýmsum hætti.
Það er algengt í Bangladesh að hafa tvo til fjóra þjóna, en  þeir eru utangarðs, fá til að mynda ekki að borða með fjölskyldunni. Þjónarnir eru bílstjórar, kokkar, uppalendur. Þeir eru því stundum vel menntaðir en í múslimskum fjölskyldum verða þeir að trúa á Allah, það kemur varla til greina að hindúi taki við uppeldi barna í slíkri fjölskyldu. Hindúar eru miklir trúmenn, sumir ofsatrúarmenn. Þeir mundu ekki hika við að kenna börnunum sín ævafornu trúarbrögð og allar goðsagnirnar um þá fjöldamörgu guði sem þeir hafa saknað saman í farteski sitt.
Í fyrrnefndri skáldsögu er jörðin ein af gyðjunum og þar segir að við séum hvorki meira né minna en sem svari því, að hún depli auga einu sinni.

Það er sem sagt öll okkar dýrð(!) Allur okkar mikilleiki(!) Öll okkar guðdómlega arfleifð(!) En hver getur ekki sætt sig við örlög sín sem er fæddur án þess vera óhreinn; eða ósnertanlegur. Þeir óhreinu fæðast ævinlega inní sitt umhverfi og hafa enga leið til að sleppa þaðan. Þeir eru dæmdir inn í þetta limbó - hversu gáfaðir sem þeir eru; dæmdir inn í sitt jarðneska helvíti.

3. marz, þriðjudagur

Í gærkvöldi var sýnd heimildamynd um Mývatn á BBC-sjónvarpsstöðinni. Og í kvöld önnur á annarri stöð, einnig frá Mývatni. Bretar virðast vera dáleiddir af þessu vatni en þó einkum fuglalífinu, að sjálfsögðu. Þeir kalla Mývatn í kynningunni: Flugnavatnið; eða Vatn flugnanna.

5. marz, fimmtudagur

Nú fer að líða að heimferðinni því við förum heim á mánudag. Ég er að venju byrjaður að hugsa um flugvélar og þá ekki síður veðurfregnir heima. Fælni sem ég virðist ekki geta losnað við. Mér þykir fátt óþægilegra eða óttalegra en mikill hristingur í flugvélum. Það er erfitt að vera sínkt og heilagt með hugann við það sem aðrir bera ábyrgð á. Gamalgróið öryggisleysi. Vantraust á öðrum sem á rætur í ótryggri æsku. Þetta er erfið byrði og venst ekki. Veðurfréttirnar á netinu eru ekki sem skapfellilegastar. Suðaustan hvassviðri á mánudag. Hvassviðri merkir átta vindstig. Það er of mikið í viðbót við aðrar áhyggjur. Skoðaði netið í fyrradag. Þá var spáð heldur björtu hægviðri á mánudag. Nú hefur syrt í álinn, slydda og hvassviðri, það dýpkar lægðina í þanþoli mínu. Vonandi að veðurguðirnir sjái að sér. Annars höfum við einatt lent í hálfgerðu slagviðri, t.a.m. þegar við komum heim frá Orlanda 11. marz 1986. Lentum þá um hálf sjöleytið að morgni í austanstæðu hvassviðri og rigningu. Mér þótti lendingin dálítið einkennileg, því mér fannst við renna á hjólunum bakborðsmegin þó nokkra stund, áður en öll hjólin snertu jörðina. Kannski ímyndun mín, það vantar víst ekkert upp á hana. Vorum þá í DC-8. Nú verður það mun minni vél,  Boeing-737-300. En þetta er þrisvar sinnum styttri ferð og vel það. Finnst það bót í máli.

Förum í stutta ferð í hús sem Ingó hefur tekið á leigu af prófessornum sínum, það er í Argyl, en útlitið er ekki gott, hann spáir snjókomu. Hönnu er illa við að aka í hálku. Veit ekki hvað verður.

6. marz, föstudagur

Fór á netið í morgun. Betra veðurútlit heima á mánudag, nokkuð hvöss suðvestanátt. Þeir ráða illa við að spá fram í tímann. Þegar ég fór fyrst að fylgjast með veðurfréttum var spáð heldur góðu veðri, síðan var því breytt í hvassviðri og nú nokkuð hvasst veður af suðvestri. Langtímaspár eru þannig hinn mesti vonarpeningur og maður skyldi ekki reyna að fylgjast með þeim. Við eigum margt ólært í veðurvísindum og raunar öllu því sem viðkemur náttúrulögmálunum. Þau koma þvert á okkur hvenær sem þeim sýnist þrátt fyrir alla tækni, alla þekkingu; og öll nútímavísindi.

Fórum með Ingó á rannsóknarstofu hans í háskólanum í gærkvöldi. Hann sýndi mér umsóknir sínar um styrki, það var fróðlegt. Í fyrra fékk hann stóran styrk frá Welcome sem er einhver virtasti stuðningsaðili lækningavísinda hér í landi og í styrkveitingu frá þeim er fólgin mikill virðingarauki. Í gær fékk hann tilkynningu um að hann hefði fengið nýjan styrk til áframhaldandi rannsókna á viðfangsefni sínu frá sameiginlegri stofnun enskra háskóla, ef ég skil rétt. Nú getur hann haldið rannsóknum sínum áfram og jafnvel ráðið sér meinatækni til aðstoðar. Það léttir mjög undir með honum. Viðfangsefni hans í næstu lotu eru enn Epstein-Barr-veiran, en það er víst nauðameinlaus veira undir venjulegum kringumstæðum og mér skilst yfir 90% manna hafi smitazt af henni án þess veikjast. Hún er sem sagt algjörlega meinlaus - þangað til hún fer af einhverjum ástæðum úr böndunum og ræðst á líffæraþega eftir skurðaðgerð. Mér skilst að 10% þeirra fái þennan herpes-sjúkdóm eftir aðgerðina og af þeim deyi allt að 70%.
Það eru gerðar þúsundir líffæraígæðslna á ári hverju svo að hér er um mikið vandamál að ræða. Rannsóknir hans nú miða að því að finna leið til að koma í veg fyrir þennan sjúkdóm. Hann vinnur áfram undir handleiðslu prófessors síns, dr. Crawfords, en hún hefur leitt hann og þau Tanzínu frá fyrsta fari og sýnt þeim bæði langlundargeð og vináttu, stundum fá þau nóg af henni. En hvað um það. Hún hefur sýnt Ingó, ungum ókunnum lækni frá Íslandi, mikla tiltrú, mikið traust. Ég sá meðmæli hennar í gærkvöldi og raunar fleiri meðmæli vegna umsóknanna um styrkina og þau þættu áreiðanlega saga til næsta bæjar ef þau væru gefin út á opnari alþjóðlegri vettvangi en tiltölulega lokuðum heimi læknavísinda. Ég sé æ betur hversu starfsvettvangur Ingólfs er alþjóðlegur, enda er prófessor Crawford gúrú í sínum fræðum, starfaði með Epstein sjálfum en Ingó segir mér að hann sé enn lifandi. Það var hann sem uppgötvaði þessa veiru að mér skilst en prófessor Crawford vann aftur á móti það afrek að sýna fram á að hún væri orsök fyrrnefnds sjúkdóms í líffæraþegum. Mér skilst að veiran valdi einhvers konar krabbameini í sjúklingunum. Veit þó lítið um það, því Ingó vill helzt tala um allt annað en starf sitt. Hann hefur áhuga á öllu milli himins og jarðar, en lítinn áhuga á að tala um sjúkdóma og veirur þótt hann viti að ég hef ekki meiri áhuga á öðru en sjúkdómum, veirum og sýklum!
Hann hefur líklega orðið það sem ég hefði helzt viljað verða(!)
Ég spurði Ingó í gærkvöldi hvort prófessor Crawford gæti ekki fengið Nóbelsverðlaun fyrir uppgötvun sína. Hann sagði að rannsóknir hennar væru afar merkilegar en þó þyrfti líklega meira til. Hvað sem því líður er vonandi að þessar rannsóknir leiði til þess að líffæraþegar þurfi ekki að deyja úr þessum skeinuhætta herpes-sjúkdómi, nóg er á þá lagt samt.

Hef verið að hlusta á írska skáldið Paul Muldoon lesa ljóð sín. Hann flytur þau fallega, bæði af hlýju og ljóðrænni nærfærni; sem sagt vinalega. Ég er samt ekki þeirrar skoðunar að þetta sé jafn mikill skáldskapur og brezkir gagnrýnendur vilja vera láta. En þetta er góður skáldskapur og fer að mörgu leyti vel í mig.
Hef einnig verið að skoða The Bell Jar eftir Sylviu Plath. Þetta er að vísu ekkert tímamótaverk eins og sumir gagnrýnendur vilja vera láta, síður en svo, en þetta er hnýsileg skáldsöguævisaga ungrar bandarískrar stúlku sem verður þekktasta skáldkona síns samtíma. Hún hefur átt við ógnlegan sjúkdóm að stríða og um hann er fjallað í sögunni. Hann slökkti líf hennar í gasofni. En það hefur ekkert fallið á ljóðin frá því ég kynnti hana á sínum tíma í Lesbók Morgunblaðsins í samtali mínu við skáldið Steven Spender. Þá var ég á ferðalagi um Bandaríkin, ásamt Hönnu og drengjunum, og kom víða við.
Spender var sérkennilegur maður. Hann var ágætur að tala við en mér þótti hann þó eitthvað óöruggur;  tilgerðalegur,augun flöktandi. Það var eins og hann ætti von á einhverju sem aldrei varð. Halli fór með mér í samtalið og mér fannst hann hafa meiri áhuga á drengnum en viðfangsefninu. En mér líkaði ágætlega við hann, hann var síður en svo neitt uppstilltur og ákaflega frjáls af sér eins og góð skáld eru oftar en ekki.

Hef talað Reykjavíkurbréf inn á segulband, einnig Helgispjall. Ætla að leggja drög að öðru þar sem fjallað verður dálítið nánar um Edinborg en þó einkum St. Giles-dómkirkjuna hér í gamla bænum. Hún er meira en 1000 ára gömul, stór í sniðum, fallega byggð, skrautlítil eins og kalvínskar kirkjur eiga að vera en þó hlýleg. Hanna hafði orð á því hvað hlýtt væri að koma inn í þessa gömlu kirkju, minnug þess þegar hún beið eftir mér í dómkirkjunni í Köln meðan ég átti samtal við Heinrich Böll veturinn 1973.
Þá var svo kalt í Kölnar-dómkirkju að hún gat með engu móti haldið á sér hita.
En henni var nær, hún vildi heldur vera í kirkjunni en bíða eftir mér á hótelherberginu. Ingólfur var með okkur, 9 ára gamall, á þessu ferðalagi, og hafði hvorki áhyggjur af kulda né öðru. Hann talaði bara við kanínurnar hjá Rödl-hjónunum í Oberammergau meðan við dvöldumst þar í húsi Kreitmeier-hjónanna. Og nú er Ingó búinn að fá sér litla brúna dvergkanínu sem gæludýr og fer vel á með þeim. Kannski er þessi kanína einhvers konar djúpsálfræðileg minning um þá góðu daga sem við áttum saman í Bæern.

Förum í dag til vesturstrandarinnar, norðan við Glasgow. Munum dveljast í húsi prófessors Crawfords í nótt en komum aftur til Edinborgar á morgun, laugardag. Það hefur verið spáð snjókomu á þessum slóðum en ég vona að við losnum við kulda og hálku. Annars hefur verið heldur svalt frá því við komum hingað til Edinborgar, en hvað gerir það, víkingar hrista af sér allan kulda! og heimili Ingós er kanínuhlýtt athvarf og okkur gæti hvergi liðið betur en í návist hans.
Las í gær kvæði Neruda um ljóðið sem kom til hans. Ég hef ekki orðið fyrir slíkri heimsókn á þessu ferðalagi, einungis lesið gömul ljóð en kannski á þessi reynsla eftir að birtast í einhverju formi, hver veit?

7. marz, laugardagur

Fórum í gær upp í Argyl. Það var rigningarslydda. Ókum meðfram Loch Lommond en þá var skollið á myrkur. Þá tók við fjallvegur. Þar var slydduhríð. Þar vorum við föst í bílaþvögu á annan klukkutíma. Sex bílar, þar af tveir stórir flutningavagnar skullu saman í hálkunni. Gátum haldið áfram á tíunda tímanum, en höfnuðum að lokum á litlu hóteli í smábæ við Loch Fyne; hann heitir Inveraray. Þá var komin úrhellisrigning. Í morgun fórum við í sumarhús prófessors Crawfords í fallegu og stilltu veðri. Þaðan er frábært útsýni yfir þetta fallega land. Héldum svo að klettóttri hæð sem heitir Dunadd Fort, þar voru skotzir konungar krýndir um 500 e.Kr. Þar eru dálitlar fornminjar sem vísa til fólksins sem bjó á þessum slóðum um þetta leyti. Þar hafa einnig fundizt áritanir á tungu sem enginn þekkir. Þetta fólk hefur verið heldur frumstætt en það hefur líklega lifað nokkuð góðu lífi innan um villigelti og aðra bráð. Ég hugsaði um það þegar við komum til Glasgow seinnipartinn í dag og fórum í verzlanir, hvað þetta fólk átti gott að hafa ekki þurft að atast í Marks & Spencer eða C&A eða hvað þær heita þessar búðir sem eru einskonar lífselixír nútímafólks. Ég hafði sérstaka ástæðu til að fara í Marks & Spencer vegna þess að ég datt illa á leiðinni niður klettahamrana en var svo heppinn að lenda í blautu grasinu.
Þetta brölt okkar var eiginlega einskonar grasblautur lífsháski.
Ég tognaði í bakinu en var svo heppinn að lenda hvorki á hryggnum né slá höfðinu í grjótið sem þarna var.
En hvað um það, buxurnar voru eins og ég hefði verið í mógröf og peysan eftir því. Ég var drifinn í nýjar buxur í Glasgow og nýja peysu.
Ingó segir að ég sé mjög unglegur í þessum gallabuxum og þessari ljósbláu peysu.
Það líkar mér vel. Ég vil vera unglegur. Ég vil helzt ekki eldast. Ég hata ellina. Ég hef sömu afstöðu til hennar og Þórbergur lýsir í Kompaníinu. En hún er grasblautur veruleiki sem enginn kemst undan nema deyja ungur eins og Keats.
Einu sinni þótti mér það eftirsóknarvert og rómantískt. Það þykir mér ekki lengur. Ég vil verða gamall og unglegur og eldast afturábak, þegar þar að kemur. Það er svo margt skemmtilegt sem maður getur gert þegar ellin færist yfir; margt sem maður hefur tíma til, en hefur látið hjá líða.

Aldrei hefði mér dottið í hug að við ættum eftir að gista á litla Fernpoint-hótelinu í Innverary en það er Ingólfi að þakka, hann dreif okkur þangað. Hann hefur drifið okkur svo ótal margt sem við hefðum aldrei farið án hans.
Tanzína hefur sagt okkur mikið frá Bangladesh. Það merkir landið þar sem bangla er talað. Þessi tunga á rætur í sanskrít eins og tunga hindúa.
Ég hef rekizt á eitt orð í bangla sem minnir á íslenzku. Ég held það sé manus, er þó ekki viss hvernig það er skrifað, en það merkir víst maður. Ísland er á þessari tungu Borofdesh; borof merkir ís en desh land.
Sem sagt, land íssins.
Það er gaman að sjá hvernig hún skrifar þetta orð með sanskrítarletri, en kemur ekki á óvart. Heimurinn er fullur af uppákomum; nýjum ævintýrum.

Í kvöld ætlum við að fara út að borða á indverskum veitingastað hér í Edinborg. Hanna vill ég punti mig, ég er heldur á móti því. Samt er það stundum við hæfi að skáld séu vel puntuð! Hefði þó heldur kosið nýju peysuna og gallabuxurnar, sem ég keypti í Glasgow!

Undir miðnætti

Skotar hafa klætt heiðarnar milli vatnanna sígrænum barrskógum. Nú eru ýmsir farnir að velta því fyrir sér hvort það sé viðeigandi. En hvað sem því líður standa þessi tré í fullum blóma, öll nema lerkið.
Það bíður vors.

14. marz, laugardagur

Rok og rigning. Lenti í enskri byskupamessu í Kristskirkju kl. 18 í dag. Síðan góður göngutúr í rigningunni!
Hef tekið það rólega eftir heimkomuna á mánudag. Fín flugferð eftir frábæra Bretlandsdvöl.
Er að koma til eftir byltuna í Argyl.

15. marz, sunnudagur

Heimspekin hófst með spurningu. Það er spurningin sem greinir okkur frá dýrunum. Án spurningar ekkert svar, en vegna hennar erum við hið vitiborna dýr eins og Anristoteles sagði.
Hlutverk spyrilsins er því mikilvægt. Hann leitar að svari, en ekki endanlegum sannleika. Til þess þyrfti hann að eiga samtal við guð.
Spyrjum tréð um guð - og það laufgast.

Svar til Ingólfs á e-meili ( af gefnu tilefni ) eða hugleiðingar vegna þess við fórum ekki í sumarhúsið,sáum aðeins í myrkrinu að þar var ljós og vissum ekki,hver var þar á ferð.Þar átti enginn að vera,en þjófar og flækingar leggja stundum undir sig afskekkt hús á þessum slóðum og geta sýnt ofbeldi.
Sýndum varkárni og tókum enga áhættu,það er allt og sumt,en gistum í litlu hóteli í næsta bæ:
Ingó minn,
stutt svar: Þótt við vitum það eitt að við eigum að deyja, er engin ástæða til að taka þátt í því með óvarkárni eða virðingarleysi fyrir umhverfinu. Langt síðan ég hef haft Rúnka á heilanum, en hann sagði við mig :
Slysin verða vegna vanþekkingar mannanna.
Þeir hafa ekki þá stjórn sem þeir halda - alveg eins og þegar ég æddi niður brekkuna í Skotlandi, ég veit það vel. En þá var ég búinn að fá það á tilfinninguna að ég stjórnaði ekki lengur. Sú tilfinning kemur í óefnum. Og maður á að forðast óefni. Mörg slys verða vegna þess að menn kunna ekki fullkomlega á tækni sem þeir ráða ekki við í óefnum, sagði Rúnki.
Tökum Ísland sem dæmi. Margir umgangast það eins og þú dvergkanínuna þína. En það er engin kanína, það er tígur. Geysifallegur, en viðsjárverður.
Þeir sem umgangaast landið af þekkingu og virðingu, þurfa ekkert að óttast, hinir geta lent í bráðri og óþarfa lífshættu.
Þetta er bara svona einfalt.En svo er hitt sem enginn ræður við, það virðist vera óhjákvæmilegt. Það köllum við örlög - og þau ráðum við ekki við. Það er annað mál.Það geta t.a.m. varla verið örlög að koma ókunnugur að Markarfljóti og reyna að vaða yfir það vegna þess hvað saklaust það virðist vera. Það er ekki einu sinni fífldirfska, heldur vanþekking sem leiðir óhjákvæmilega til óskapa. Og það eru ósköpin sem við eigum að reyna að forðast.því það er bæði gaman og fróðlegt að lifa!! Og ósköpin koma venjulegast niður á þeim sem nánastir eru og gátu ekkert að gert.

Sem sagt, maður anar ekki út í Markarfljót. Maður kynnir sér allar aðstæður og fer eftir ábendingum þeirra sem gerst þekkja til. Og það er ekkert athugavert við það að óttast þau markarfljót sem á vegi manns verða.
Þess vegna gerðir þú rétt í því að taka enga áhættu og ana með okkur að sumarhúsi prófans án þess vita hvað þar var um að vera - og mér er skítsama hvað hún segir um það. Við komum ekki til Skotlands til að lenda í óvæntum útistöðum við ókunnuga, hvort sem það eru tartarar eða einhverjir aðrir. Við þekkjum ekki til þarna og ég hef varla séð ljós í jafnógnlegu myrkri. Hefðu getað verið innbrotsþjófar, illvígir í þessari einangrun. Eða hvað sagði Tanzína um það?!
Ef þetta hefði verið á Íslandi hefði gegnt öðru máli. Þar þekkjum við okkur að þessu leyti.
Eða - hvað um vesalings frönsku stúlkurnar sem settust upp í bílinn hjá vitaókunnugum manni austur í sveitum, blásaklausar og uggðu ekki að sér, við hefðum fundið þefinn af svíninu. En þær útlenzkar og saklausar, líklega hugsunarlítið, önuðu upp í bíl hjá illræðismanni fyrir austan og týndu lífinu, a.m.k.önnur ef ekki báðar - man það ekki. Við hefðum seint þegið far hjá þrjótinum. Þær höfðu sennilega talið sér trú um að á Íslandi væri ekki hægt að hitta fyrir kaldrifjaðan morðingja. Auk þess geta aðstæður kallað djöfulinn fram í illmennum, það vitum við báðir.
Ísland er ekki tígur í bókstaflegri merkingu, heldur dýrðlegt land sem getur breytzt í tígur. Afi þinn og amma vissu það manna bezt. Amma þín náði sér aldrei eftir að Magnús sonar hennar varð úti milli Fagradals og Víðirhóls og sagði mér að hún hefði helzt aldrei viljað búa á Fjöllum, heldur í Reykjavík þar sem hún var ung við nám í saumaskap. Og hún gat helzt aldrei litið Möðrudalsheimilið réttu auga eftir að Hörður sonur hennar kornungur féll í bólginn læk þegar hann var að sækja vatn fyrir heimilið og drukknaði. Slíkt var ekki unglings verk við þessar aðstæður, heldur fullorðins verk.
Slys?
Vanhugsun?
Það má vel velta því fyrir sér og hún gerði það áreiðanlega.

Ég er enginn Umbi, eða umboðsmaður byskups í Kristnihaldinu, en taldi mér þó trú um að þú ættir rétt á að fá einhvers konar skýrslu frá mér um málið. Ég veit vel að við getum ekki lifaði í uppmögnuðum ótta, en það er gott að hafa vaðið fyrir neðan sig eins og þú veizt. Auk þess er ég steingeit! Og þú skalt ekki halda annað en bróðir þinn fái svona varnaðarorð þegar hann fer með næstum alla fjölskylduna til Flórída þar sem bófar sitja um ferðamenn og rándýr í mannsmynd ræna börnum. Hann segist vera varkár og þekkja til aðstæðna. Ég trúi því, verð að trúa því og sætta mig við.
Hvað annað?
Þér finnst ég hafi verið yfirþyrmandi, það má vel vera. En átti ég að hugsa um allt, nema syni mína? Átti ég að vera með hugann við allra hagi, nema þeirra? Ég hef aldrei litið svo á. Þið hafið farið ykkar fram um alla hluti sem máli skipta - og er það vel. Þið hafið verið sjálfum ykkur og okkur til sóma - og til þess hefur verið tekið. Við höfum reynt að leiða ykkur eftir beztu getu, það er allt og sumt. Til þess var líka ætlazt þegar tvær ókunnugar manneskjur hittust í Tjarnarkaffi 1. okt. 1949; þegar tveir ólíkir heimar urðu að einum heimi. Þá var það ekki eins og í veiruheiminum, þegar fuglaveira H5 hittir fyrir mannsveiruna H1 í sama sjúklingnum og úr því verður lífshættulegt afbrigði inflúenzu.
Nei, þvert á móti var það eins og fluga hitti blóm í því skyni að fegra umhverfið, bæta nýju blómi í samfélag flórunnar. Og það gerðist, svo er guði fyrir að þakka. Hann blessi þig alltaf, vinur minn, og gæti ykkar allar, þinn pabbi - M.
Ps. Það er sunnudagur og mamma í kirkju. svo ég notaði tímann í þessa andakt!!! Það er útsynningshraglandi með hvössum éljum, áreiðanlega miklu betra veður hjá þér. Nú ætla ég að kanna dvöl Sveinbjörns Sveinbjörnssonar í Edinborg, hann átti þar heima þriðjung aldar, held ég - og þar samdi hann þjoðsönginn. Hann bjó sé ég nú í London Street 15, ég ætla að skoða það næst þegar við komum til Skotlands.
M.

16. marz, mánudagur

Eins og hjarta mitt
slær hjarta kólibríufuglsins
mörg hundruð slög
á mínútu

þegar hann frjóvgar
blómið.

Maður les ljóð með taugunum, segir Wallace Steven. Les þau eins og maður hlustar á tónlist. Ljóð eru ort til hjartans. En þó einnig stundum til heilans, Hávamál, Völuspá. Og Ísland Jónasar. Jafnvel hin ljóðræna tilfinning Christinu Rosetti (When I am Dead) sendir margvísleg skilaboð til heilans, þótt henni sé einkum ætlað að snerta hjartað; taugakerfið. En ljóð Stevens standa því nær, það er rétt.

Gröf þín
svarthol í huga mínum

dregur að sér
alla hugsun mína,

alla.

En þegar þú deyrð
verð ég farinn.

 

Kvöldið

Með tilvísun í Rosetti sem ég hef verið að lesa er betra að sofa en vaka; hverfa frá veruleikanum. En þá hlýtur dauðinn að vera beztur. Skáldkonan segir að afbrýðisemin sé grimm eins og gröfin og ástin sterk eins og dauðinn.
Ljóðið átti upp á pallborðið á tímum þessarar sterku rómantísku arfleifðar 19. aldar, eða áður en fjölmiðlarnir gerðu það að hornreku; nú er það utangarðs eins og skoðanakönnun DV í dag sýnir.
Hver les ljóð?
Hver sækir í lágmæltar skírskotanir sem enginn hefur lengur tíma til að hugsa um?
Nútíminn minnir á frændann í sjálfsævisögukvikmynd Bergmanns, Fanney og Alexander, þegar hann fretar í stiganum í fjölskylduboðinu. Og fretið eitt verður eftirminnilegt!
Fólk er fljótt að gleyma í fjölmiðlaþjóðfélaginu vegna þess að verðmæti skipta engu máli. Áróður og upphlaup skipta öllu máli.
Við Styrmir höfum stundum talað um að ég hafi ekki viljað taka þátt í kapphlaupinu á markaðnum.     
Það er rétt.
Fékk nóg af því á sínum tíma en maður gleymist fljótt í markaðsupphlaupum samtímans; ekki sízt ljóðskáld. Nú þarf ég líklega að athuga minn gang og fara að freta svolítið í fjölmiðlum. En kannski sér Vaka-Helgafell um það. Útgefendur þurfa að vera góðir í vindgangi!!
En það er ekki tilhlökkunarefni.

Ódagsett

Fékk þetta bréf frá Richard Eder, bandaríska pulitzerverðlauna-gagnrýnandanum eftir að hann fékk í hendur Voices from Across the Water:

Ég var mjög ánægður með, að Agnes skyldi senda mér “Voices from Across the Water” og ekki minnkaði ánægja mín við að lesa bókina, einkum ljóðin í “Journey of Seasons”. Sönn ljóðlist er ekki aðeins gleðigjafi, hún hreyfir líka við okkur. Hún er eins og fyrstu geislar vorsólarinnar eða síðsumarangan, vekur með okkur óþreyju og löngun til athafna, til að breyta einhverju og vera sjálf hluti af ummynduninni (George Steiner skrifaði, að sígildar bókmenntir “spyrðu okkur spurninga og krefðust þess, að við hefðumst eitthvað að”).
Þótt ég nefni ljóðin í “Journey” sérstaklega, þá er það ekki vegna þess, að mér hafi endilega fundist þau betri en ljóðin í “Over the Water”. Ástæðan er heldur sú, að listrænt gildi þeirra er mér aðgengilegra. Hér komum við að því vandamáli, sem þýðingar eru. Knöpp og hnitmiðuð ljóð eru þýðandanum erfiðust. Listin í þeim felst ekki í myndrænum breytileika, heldur í einhvers konar innri hræringu; orð fyrir orð, orð gegn orði, hvert og eitt eins og steinn, sem fellur í lygna tjörn og sendir frá sér ótal gárur, hring eftir hring. Þýðandinn, þótt góður sé, er ekki öfundsverður þegar hann reynir að miðla þessum hugmyndum, sem eru næstum óútskýranlegar og samgrónar sjálfu tungumálinu.
Það er af þessum sökum - og þá nefni ég skáld, sem ég þekki vel - sem krafturinn (svo ekki sé talað um yndisþokkann) í litríkum og áhrifamiklum myndum og samlíkingum Garcia Lorca komast svo vel til skila í enskri þýðingu. Ljóð miklu meira skálds, Antonios Machados, lifa hana varla af. Ljóðin hans virðast einföld; hann skrifar um það, sem bærist innra með okkur og hann notar orðin jafn sparlega og gert er í haiku. Samt er hvert orð eins og bjalla en galdurinn felst ekki aðeins í hljómnum, heldur miklu fremur í því, að hann breytir skyndilega morgni í miðjan dag, árdegi í aftanstund.
Ég nefni Machado sérstaklega vegna þess, að ljóðin þín í “Journey” minna mig á hann. Raunar er ég ekki alveg samkvæmur sjálfum mér í þessu. Þótt ljóðin í “Jurney”séu knöpp, þá eru þau nógu mynd·auðug og margbreytileg til að ég fái notið þeirra (Knappur stíllinn á mörgum ljóðanna í “Over the Water” sérstaklega “Friendly Nudge” virðist aftur á móti hafa gengið enskunni úr greipum). Ég hef þó engar áhyggjur af þessari ósamkvæmni.
Þið Machado notið báðir eyðilegt landslag - hann gömlu Kastilíu - til að gefa orðunum nýja og ósagða merkingu. Þið gefið landinu huglægt yfirbragð. Myndirnar, einfaldar en óræðar, fanga okkur ekki eins og ofgnóttin hjá Keats - eða Yeats. Þess í stað sleppa þær okkur lausum en ekki fyrr en þær hafa, án þess við tökum eftir því, beint okkur inn á nýjar brautir.
Ég er viss um, að þú veist, að ánægjan af því að skrifa um ljóðlist felst í því að geta skrifað niður ljóðin - eins og við stýrðum hendi skáldsins um stund. Ég ætla nú að láta það eftir mér:
“Blárra og blárra/ hverfur mitt/ hvíta land”
- Hvað er fábreyttara en snjórinn og hvaða ásýnd önnur breytist jafn skyndilega og hann, úr hvítu í blátt. Og “mitt” segir okkur, að það er hugarástandið, sem breytist.
“Álútur/ með hraunpoka/ á baki”
- Hraunpokinn segir, að hér sé aðeins átt við eitt land í öllum heimi: Skörðóttu, furðulegu fjöllin á Íslandi, þessa bráðabirgðasmíð náttúrunnar, sem mun leyfa þeim eftir aðeins milljón ár að leggja frá sér pokann og láta sér líða jafn vel og Ölpunum (og vera jafn sjálfumglöð).
(Mælikvarðinn á ljóðlist er myndin, sem dregin er upp. Þegar best tekst til þrútnar hún út og opnast eins og blóm. Eins og þegar hitt er á réttu talnaröðina á peningaskáp eftir ótal tilraunir; allt í einu standa dyrnar opnar).
Þú nefnir tvö fjöll og þá verður mér aftur hugsað til Machados, sem nefnir tvö fjöll í álíka knöppum og blindandi ljóðlínum:
“Ya habrá ciguenas al sol
mirando la tarde roja
entre Moncayo y Urbión.
Storkar í sólinni
munu virða fyrir sér kvöldroðann
milli Moncayo og Urbión.
Þetta er yndislegt: “Bláfextir dagar/ með hörpu/ í höndum.” Og í lokin: “Rauðari en rauða . . . úr skurni dauðans.”
Hér hefur ástríða þín og kynngi·kraftur sömu áhrif á orðin og fargið og hitinn á kolin; breytir þeim í gimsteina.
“Vængurinn bíður/ vængja sinna.” Af trúarlegum rótum runnið, upprisa við endalok tímans.
“... augu þín/ náttsvöl augu þín”. Af mörgum ástarstefjum er þetta uppáhaldið mitt og síðan þessi perla einstæðingsskaparins - Basho hefði verið hreykinn af henni: “Þrír tannburstar/ ... blár, grænn/ og dökkrauður/ nú tveir.”
Spánn aftur og nú Quevedo (eða gæti það verið Gongora) - þessi áhrifamikla, hversdagslega mynd, sem er hjartasorg. Söngur stúlku, sem hefur misst unnusta sinn á vígvellinum, (“Leyfið mér að gráta/ sjávarstrendur”), og segir frá nóttunum sínum “nú þegar ólán mitt/ er orðið hálfu verra”.
“Þú sérð hvað ég er að gera; velta mér upp úr ljóðunum þínum undir því yfirskíni, að ég sé að skrifa bréf. Í sannleika sagt: Gott ljóð er eins og steinninn (hleyp nú úr einni líkingunni í aðra, sem ekki má). Við dæmum kastið eftir því hvernig hann fleytir kerlingar á vatnsfletin·um. Þetta bréf er ein af þessum kerlingum.
Með bestu kveðjum, Richard Eder.

Það er ekki lítill fengur að þessu bréfi frá slíkum manni. Og ég má vitna í það ef ég vil.

17. marz, þriðjudagur

Þorsteinn Pálsson kom upp á Morgunblað og borðaði hádegismat með okkur Styrmi. Áttum við hann gott samtal og langt. Hann er í góðu formi og alltaf ánægjulegt að tala við hann. Hann á til að bera einhverja sérstaka mennsku sem mér finnst stundum á skorta hjá öðrum forystumönnum. Hann hefur verið hinn sami Þorsteinn á hverju sem hefur gengið. Við höfum tekizt á við hann út af kvótanum en það haggar honum hvorki til né frá. Nú vonum við að senn sjái fyrir endann á þessum átökum.
Hef mikla löngun til að deilur okkar við Þorstein hjaðni sem fyrst.
Þorsteinn telur óráð að fjölga ráðherrum í stjórninni. Hann er einnig þeirrar skoðunar að Davíð eigi að bjóða honum fjármálaráðherraembættið þegar Friðrik Sophusson hættir , og ef dómsmálaráðuneytið yrði t.a.m. gert að sérstöku ráðuneyti. Styrmir sagði að Davíð myndi ekki gera það. Hann yrði óöruggur með Þorstein í fjármálaráðuneytinu. En Þorsteinn var eindregið á því að hann ætti að hafa kost á þessu ráðuneyti og spurði Styrmi hvers vegna ekki.
Davíð yrði öruggari ef Björn Bjarnason eða Geir Haarde sætu í embætti fjármálaráðherra, svo náið samstarf sem hann þarf að hafa við það ráðuneyti. Enginn veit hvort eða hvenær Friðrik Sophusson hættir og tekur við Landsvirkjun eða sendiherrastöðu eins og Sigríður Dúna vill víst helzt.
Teljum að Davíð ætti að halda honum fram að kosningum og láta stjórnarbreytingar eiga sig. Þær mundu hafa slæm áhrif, valda tortryggni og spennu.
Þorsteinn sagði að það yrðu alltaf deilur um sjávarútvegsmál því að þar væru hagsmunir svo miklir. En kvótakerfið, eða það sem kennt er við aflamark, hefði nýtzt okkur vel og það hefði áreiðanlega aukið fiskvernd. Það væri út af fyrir sig góður árangur…
Þorsteinn spurði hvaðan það væri komið að við hefðum gert samning við hann um að hann tæki við ritstjórastarfi af mér. Við kváðumst ekki vita það, en þetta hefði dúkkað upp í Dagblaðinu og Degi annað veifið. Um þetta hefur aldrei verið talað, enda ráðum við Styrmir því ekki, hver tekur við af mér eða hvort það verður nokkur. Stjórn Árvakurs hefur það í hendi sér. Hallgrímur Geirsson mundi áreiðanlega taka Þorsteini þunglega vegna þess að fjölskylda Geirs Hallgrímssonar er, að ég held, þeirrar skoðunar að hann hafi brugðizt Geir á sínum tíma. Við sögðum Þorsteini frá því, hann hlustaði, en gerði enga athugasemd. Ég sagði að Þorsteinn væri eini maðurinn sem Styrmir gæti hugsað sér að vinna með, að minnsta kosti utan Morgunblaðsins. Við höfum marga góða starfsmenn á Morgunblaðinu og mörg góð efni í aðstoðarritstjóra. Held Styrmir sé sama sinnis.
Styrmir tók undir það að Þorsteinn væri sá maður utan blaðsins sem hann sætti sig helzt við sem samstarfsmann. Ég nefndi Björn Bjarnason, að ég hefði átt mikinn þátt í því að hann varð aðstoðarritstjóri,það gat ég.En lengra náði vald mitt ekki...
Þorsteinn sagðist lítið hyggja að framtíðinni, hann vissi ekki hvað hún bæri í skauti sér. Og þegar Styrmir spurði hvort hann mundi kannski setjast í banakstjórastól í Landsbankanum fannst mér hann taka lítið undir það. Hann sagði að núverandi stjórn yrði farin frá þegar slíkt mál gæti komið upp. Hann sagði að Davíð yrði áfram í forystu, en vildi lítið tala um væntanlegan varaformann. Ég spurði hvort hann teldi að hann mundi frekar bjóða Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðuneytið en horfa á eftir honum í vinstri stjórn. Nei, Þorsteinn taldi það ekki. Davíð mundi ekki bjóða það, Styrmir var sama sinnis.
Hann sagði að kommar gætu ekki farið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, það hefði komið til áður, en farið út um þúfur þó að bæði Svavar Gestsson og Margrét Frímannsdóttir hefðu talað fyrir slíku samstarfi. Þetta fólk ræður ekki ferðinni. Það er annað sem ræður. Og við vorum sammála um að sameiningartilhneigingin væri mjög sterk; hún yrði líklega ofaná. Kratarnir ættu engan almennilegan leiðtoga og flokkurinn væri raunar búinn að vera. Ég heyri á öllu að sameiningarflokkur á vinstri væng yrði helzti kostur Halldórs Ásgrímssonar þegar þar að kæmi. Samt sagði Þorsteinn að Halldór hefði ekki mikla löngun til að vera forsætisráðherra slíkrar vinstristjórnar. Einhverju sinni sátu þeir saman, þá gengu nokkrir fulltrúar vinstri flokkanna framhjá þeim, en Halldór hnippti í Þorstein og sagði,
Hvernig heldurðu að ástandið væri ef þessir ættu að ráða…?!

Minnzt var á bramboltið í Valtý Sigurðssyni sem hafði hvað eftir annað ráðizt
bæði á ráðherrann og Harald í fjölmiðlum eftir að Þorsteinn skipaði Halla í ríkislögreglustjóraembættið. Hann stjórnaði víst fyrstu rannsókn Geirfinnsmálsins í Keflavík , þá var gerð leirmynd sem líktist Magnúsi Leópoldssyni eins og hann segir sjálfur í ævisögu sinni og hún síðan gefin út.
Allir sáu að þetta var Magnús, hann var handtekinn og hafður í einangrun í fjóra mánuði, vitasaklaus.
Þá var Batti rauði einnig “freimaður” því rannsóknarmenn settu ólöglegt áfengi í bílinn hans og handtóku hann á þeim forsendum. Haukur rannsóknarlögreglumaður (sem Vilmundur Gylfason var alltaf að biðja mig um að hafa samband við) lenti í fangelsi fyrir vikið.
En auðvitað bar hann ekki einn ábyrgð á þessu glæpsamlega athæfi.

 Ég hélt satt að segja að svona aðferðir gætu aldrei gerzt á Íslandi og nú dreg ég mjög í efa að fjallað hafi verið um Geirfinnsmálið og rannsókn þess með þeim hætti sem sæmandi er í réttarríki.
Ég held rannsóknin hafi verið ónýt , að minnsta kosti ómarktæk. Og þeir sem stóðu að henni og málsmeðferð allri ættu að hafa hægt um sig, að mínu viti.

Kvöldið

Er að hlusta á Wittgenstein, For Beginners. Mjög athyglisvert. Í Tractatus segir Wittgenstein í lokin:
Það sem við getum ekki talað um verðum við að hlaupa yfir, þegjandi. Það er margt sem ég get ekki talað um, margt sem ég hef kosið að hlaupa yfir, þegjandi. Sem rithöfundur hef ég t.a.m. upplifað útför mína, einnig verið afskrifaður sem blaðamaður. Það er einkennilegt að vera viðstaddur útför sína, en ég hef aldrei tekið þátt í erfidrykkjunni! Hún er fyrir aðra.

Ennfremur:

Hjarta mitt
er gestrisið hús.

Hjarta mitt
er gluggalaust hús.

Þú hefur komið í heimsókn
og setzt að í þessu húsi.

Þú hefur kveikt ljós
í dimmum herbergjum.

Eins og sólin
komst þú í heimsókn.

Og eins og hún
hverfur þú í myrkrið.

En minningin um þig
er sjálflýsandi birta í myrkrinu.

19. marz, fimmtudagur

Við Styrmir töluðum við Davíð Oddsson í hádeginu í dag. Það var mjög vinsamlegt og gott samtal. Davíð afslappaður og mér finnst að mörgu leyti betra að tala við hann nú en stundum áður. Hann er öruggari um sig en hann hefur verið. Það hefur áreiðanlega aukið bæði á sjálfstraust hans og andlega rósemi hvað honum hefur tekizt vel að stjórna landinu. Ríkisstjórnin nýtur virðingar, jafnvel vinsælda. Það hljóta að vera markverð tíðindi. Davíð finnur þetta og veit og það kallar fram í honum allt það bezta sem hann á til.
Ég held ekki að Davíð sé í miklum tengslum við borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hann bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi góðan meirihluta í Reykjavík en samt virðist hann ekki samkvæmt skoðanakönnun getað unnið borgina. Ég skil þetta ekki, segir hann. Hann gagnrýnir okkur fyrir að hafa dekrað við Ingibjörgu Sólrúnu á kjörtímabilinu og mér þótti gott að hann skyldi gera það. Ekki vegna þess að ég telji það sé rétt, heldur finnst mér það undirstrika að samtöl okkar nú eru heil og undanbragðalaus.
Við sögðum auðvitað að þetta væri ekki rétt, en hann telur að við höfum ekki látið meirihlutann hafa hitann í haldinu, sízt af öllu þegar við fjölluðum um fjárhagsáætlun borgarinnar og lögðumst að hans dómi hundflatir fyrir þeim tölum sem fyrir lágu, en hann telur þær hafi allar verið meira og minna tilbúnar án þess við hefðum bent á það.
Ég skal ekkert um þetta segja, hef ekki gert mér glögga grein fyrir því.
Davíð segist ekki vera saklaus að því að hafa ýtt undir Ingibjörgu Sólrúnu. Ástríður, kona hans, hafi minnt hann á að hann hafi oft hrósað henni þegar hún var með honum í borgarstjórn. Hann segist verða að viðurkenna það. En nú sé hún ofmetin.
Við erum allir sammála um að lítið sem ekkert hafi gerzt í borginni. Það hafi þá helzt verið í Grafarvogi en þangað sækir Ingibjörg Sólrún nú 9. manninn á sinn lista, þ.e. heilsugæslulækninn og slær margar flugur í einu höggi; læknirinn er kona í þessu fjölmenna hverfi og getur sótt heilmikið fylgi til fatlaðra því sjálf er hún í hjólastól eftir bílslys, að ég held. Ég þekki ekkert til hennar, en mér er sagt hún sé mjög frek. Ég lét þau orð falla að það yrði erfitt fyrir okkur að halda sjó í kosningabaráttunni því að sjálfstæðismenn mundu krefjast af okkur mikils stuðnings vegna þess að á Degi sé vinstri slagsíða og DV, undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar, styðji við bakið á R-listanum.
Össur er alltaf að spyrja þá sem hann hittir af hverju hann var ráðinn ritstjóri DV! Hann hefur m.a. spurt Styrmi! En hvað sem því líður er hann þarna í brúnni og styður Ingibjörgu Sólrún, að sjálfsögðu. Hann er mágur Hjörleifs, eiginmanns Ingibjargar.
Allt er þetta samfléttað, það vantar ekki, eins og margt annað í íslenzku hagsmunastreði.
Styrmir heldur því fram að álit manna á Ingibjörgu Sólrúnu hafi breytzt þegar hún talaði jákvætt um Evrópusambandið á Alþingi. Þeir sem voru því hlynntir, m.a. ýmsir sjálfstæðismenn, töldu að þessi gamli marxisti hefði tekið sinnaskiptum, og væri alls góðs maklegur. Hún væri góður bandamaður í baráttunni fyrir aðild okkar að Evrópusambandinu.
En Davíð sagði að Evrópska efnahagssambandið fullnægði þörfum okkar. Það hafi því verið afar mikilvægt og vorum við Styrmir sammála því.
Á það var minnt að Morgunblaðið hefði haft áhuga á því á sínum tíma að við tækjum þátt í Evrópu-samstarfnui og sagði Styrmir að við hefðum skrifað marga leiðara um það á sjöunda áratugnum. Davíð sagði að á þeim tíma hefði hugmyndin um aðild að Evrópusambandinu verið með allt öðrum hætti en nú væri. Þá hafi hún fremur verið í tengslum við útfærslu á Efta-samstarfinu og raunar með eitthvað svipuðum hætti og aðildin að Evrópska efnahagssambandinu síðar.
Mér fannst þetta merkileg athugasemd hjá Davíð og ég held hún sé hárrétt. Við Eykon báðir hurfum frá hugmyndum um aðild að Evrópusambandinu vegan sjávarútvegs,skriffinnsku og fullveldisafsals.
Styrmir er sömu skoðunar og við Eykon - og þá einnig Davíð, að sjálfsögðu.
En við sjáum hvað setur.
Davíð talar mjög vel um Halldór Ásgrímsson og samstarfið við hann og Framsóknarflokkinn. Hann telur að Halldór hafi lítinn áhuga á því að verða forsætisráðherra í vinstri stjórn, en þó er aldrei að vita. Hann segist hafa það á tilfinningunni að framsóknarmenn vilji áframhaldandi samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eftir næstu þingkosningar og af þeim sökum ekki sízt þurfi að hyggja vel að málatilbúnaði, svo að það samstarf geti haldizt. Hann telur að Halldór mundi sætta sig ágætlega við áframhaldandi samstarf eins og verið hefur.
Ég spurði hvort hann væri að segja að nú væri komið á samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eins og milli Sjálfstæðisflokkks og Alþýðuflokks á viðreisnartímanum. Hann kvað já við því. Það finnst mér afar merkileg niðurstaða þessa samtals okkar. Hélt satt að segja að Halldór Ásgrímsson stefndi á forsætisráðherrastólinn - og þá að sjálfsögðu í vinstri stjórn.
Ég spurði Davíð hvort hann mundi, ef til kæmi, fallast á að Halldór myndaði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, ef það mætti koma í veg fyrir vinstrasamstarf. Davíð sagðist efast um það. Það mundi einungis valda ruglingi og alls kyns misskilningi.
Ég sagðist hafa skilið hann svo í samtali okkar áður  að Halldór hefði átt kost á því að verða forsætisráðherra. Hann sagði að það væri rétt skilið, en það væri þó misskilningur hjá mér að það hefði komið til greina að hann yrði forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.
Þannig skildi Styrmir hann rétt, en ég ekki.
Það virðist vera gott samstarf milli Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar og augljóst að vinstri menn átta sig ekki enn á því að vinstra samstarf undir forystu Halldórs Ásgrímssonar er ekki fugl á hendi þeirra. Halldór hefur komið í veg fyrir að Framsóknarflokkurinn taki þátt í sameiningarstarfi á vinstra væng, á landsbyggðinni, en lét það vera í Reykjavík. Held Davíð telji að það breyti engu. Hann stefnir óhikað á kosningasigur ríkisstjórnarflokkanna og áframhaldandi ríkisstjórn undir sínu forsæti. Það verður gaman að heyra hljóðið í Halldóri Ásgrímssyni á morgun þegar við Styrmir hittum hann í hádeginu.
Það var drepið á margt í þessu samtali okkar sem stóð í fulla þrjá tíma. Davíð sagði þegar við kvöddumst,
Þetta var gott samtal - og ég fann að honum leið vel allan tímann…

Seinna

Þorsteinn Pálsson sagði í samtalinu okkar í fyrradag að hann vildi helzt leggja forsetaembættið niður. Hann hefði skrifað um það grein sem birtist í Morgunblaðinu á áttunda áratugnum en það yrði erfitt að leggja þetta vandræðaembætti niður. Þjóðin hefur ekki áttað sig á hvað snobbið í kringum það er niðurlægjandi og kannski vill hún aldrei átta sig á því. Stundum er bezt að búa um sig í blekkingunni. Það eru fáir sem hafa nógu sterk bein til þess að standast hégómann. Þorsteinn vill eins og ég að forseti þingsins sjái um þetta embætti.       (Sjá ummæli Ólafs Thors um forsetaembættið í Ólafs sögu ).
Nú eru Ólafur Ragnar Grímsson og frú í sumarbústað Mexíkó-forseta. Mér skilst þau verði þar til hvíldar og hressingar í nokkrar vikur. Við því er ekkert að segja. En mér skilst að forsetar Mexíkó séu yfirleitt einhvers konar glæpamenn eða á vegum mafíósa. Þótt þeir bjóði forseta Íslands í sumarbústað sinn er ekki endilega ástæða til að þiggja slík heimboð. Eða hefðu menn þegið boð til Bókassa eða Amíns? Ég veit að vísu lítið um þann forseta sem nú er í Mexíkó og Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson bera ábyrgð á þessari för því að Ólafur Ragnar spurði þá, hvort hann mætti dveljast þar vestra. Þeir höfðu ekkert við það að athuga. Ég sagði við Davíð, Hvað segirðu um þessa forseta í Mexíkó, eru þeir ekki flestir ef ekki allir einhvers konar glæpamenn?
Jú, sagði Davíð og brosti.

En við köllum ekki allt ömmu okkar - eða voru ekki Sjásjeskú Rúmeníuforseti og frú að þvælast á Bessastöðum á sínum tíma? Og voru menn ekki þá að skiptast á einhverjum heiðursmerkjum - ég man ekki betur!
Sjásjeskú-hjónin voru einræðisseggir og að minnsta kosti margfaldir morðingjar enda fengu þau makleg málagjöld og voru drepin að lokum eins og óðir hundar.

 

Þá sagði Davíð að hann hefði aðhyllzt lítið ráðhús á gömlu Bárulóðinni, en hann hafi verið borinn ofurliði eins og sjá má í fundargerðum (5:1 atkv., endurtekið - og þá 5:0 atkvæði. Davíð taldi að ekkert ráðhús yrði byggt ef það spyrðist að hann stæði gegn núverandi ráðhúsi og því óskaði hann eftir að atkvæðagreiðslan yrði endurtekin. “En hver hefur áhuga á því, eftirá?” spurði hann).
Davíð sagði að Vigdís hefði ekki ætlað að hætta, hún hefði ákveðið það, þegar hún var gagnrýnd í Kínaferðinni.
“Þeir sem hafa gengizt upp við klappi”, bætti hann við, “verða líka að taka mark á púinu!”

Kvöldið

Þegar ég var í Edinborg gluggaði ég mér til gamans í safnrit af ljóðum og rakst þá á dálítið erindi eftir Seamus Heany. Það er svona í lauslegri þýðingu:

Ég rakst á þig í draumi,
þú varst grafin í snjó uppí mitti,
þú réttir fram höndina,
ég stöðvaðist
eins og vatn í draumi þíðunnar.

Þetta er fallegt erindi, en svona skáldskap skilja Íslendingar ekki.

20. marz, föstudagur

Eftir samtal okkar Styrmis við Halldór Ásgrímsson í hádeginu í dag erum við sannfærðir um að meiri líkur eru á því að stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks haldi áfram eftir kosningar en við höfum talið hingað til. Halldór talaði eiginlega um það efni í svipuðum dúr og Davíð gerði í gær. Hann sagði að hvorki Framsóknarflokkur né Sjálfstæðisflokkur mundu binda sig fyrir kosningar eins og hann komst að orði og ganga frjálsir til þeirra. En það var ekki á honum að heyra að hann hefði sérstakan áhuga á því að verða forsætisráðherra í stjórn sameiningarafla á vinstra væng. Hann sagði að vísu að erfitt væri að segja til um allt slíkt svo löngu fyrirfram, en gaf fyllilega í skyn að það væri ólíklegt.
Það er augljóst að Halldór Ásgrímsson stendur föstum fótum á jörðinni. Hann er mjög raunsær og hefur heilbrigðan metnað, en ekki afskræmdan. Hann hefur held ég ekki nógu mikinn metnað til að sækjast eftir því að verða forsætisráðherra. Hann sagði við okkur að hann mundi fylgja því sem væri bezt fyrir þjóðfélagið til langs tíma. Og ég heyrði ekki betur en það væri áframhaldandi samstarf núverandi stjórnarflokka, nema eitthvað sérstakt gerðist sem kæmi í veg fyrir það. Hann hefur augsýnilega enga löngun til að taka þátt í þessu sameiningarferli og gat þess sérstaklega að fyrirrennari hans, Steingrímur Hermannsson, hefði haft meiri áhuga á slíku. Sjálfur væri hann fyrst og síðast formaður Framsóknarflokksins, honum hefði verið trúað fyrir því og hann mundi vinna að því að Framsóknarflokkurinn sæist vel í íslenzku þjóðfélagi, eins og hann komst að orði. Hann sagðist stundum verða fyrir ágangi vegna þessarar afstöðu, en hann segði þá við menn að þeir yrðu að fá sér nýjan formann, ef hann ætti að vinna að vinstri sameiningu.
Ég tek engan þátt í henni, sagði Halldór, og mun engan þátt taka í henni. En ef þeir vilja slíka þróun, verða þeir að fá sér annan formann.
Hann bætti því þó við að gott útlit væri fyrir R-listann í Reykjavík þar sem þetta sameiningarferli væri komið á það stig að lítið færi fyrir flokkunum. Hann gat þess að Ingibjörg Sólrún liti á R-listann eins og einhvers konar stjórnmálaflokk og talaði vel um R-listann, taldi sigurlíkur hans miklar og fagnaði því, en hann bætti því við að alls staðar þar sem Framsókn hefði tekið þátt í sameiningu hefði flokkurinn nánast horfið og nefndi bæði Ólafsvík, ef ég man rétt, en þó einkum Stykkishólm í því sambandi. Hann sagði að Hjörleifur Guttormsson vissi t.a.m. ekki við hvern hann ætti að tala þegar hann kæmi til Hornafjarðar því að Alþýðubandalagið hefði horfið inn í sameiningarferli þar í bæ. Annars gerði hann mikið grín að Hjörleifi og þeim félögum, Svavari Gestssyni og Steingrími Sigfússyni, fyrir afstöðu þeirra til útvíkkunar á Nató, en um það var rætt á Alþingi í gær. Hann gerði þó sérstaklega grín að þeim ummælum Hjörleifs að efnahagsmál kæmu sjálfstæði og frelsi ekkert við, en sagði að frjáls markaðsbúskapur væri forsenda frelsis. Eina vonin til þess að þróunin í Kína og Indónesíu yrðu með þeim hætti væri sú að markaðurinn efldist í þessum löndum.
Þetta er að sjálfsögðu alveg rétt og furðulegt hvernig jafn reyndur þingmaður og Hjörleifur Guttormsson getur blekkt sjálfan sig endalaust í þessum efnum.
En sem sagt, Framsóknarflokkurinn sem Halldór hefur algjöra stjórn á er annar flokkur en undir formennsku Steingríms Hermannssonar.
Halldór sagði okkur frá því að Sighvatur Björgvinsson hefði snúið sér til hans í þingveizlu og spurt hvort hann ætlaði ekki að vera með í sameiningunni. Nú mundi vinstra bandalagið vinna mikinn sigur í sveitastjórnarkosningunum og síðar mundi það mynda ríkisstjórn; hvort Framsóknarflokkurinn yrði ekki með.
Halldór svaraði því til að  það yrði aldrei og Sighvatur skyldi hugsa sig um tvisvar, áður en hann kæmi að þessu aftur. Hann yrði enginn háseti hjá þeim og slíkt samstarf yrði aldrei nema undir forsæti Framsóknarflokksins. Halldór sagðist að vísu ekki líta svo stórum augum á sjálfan sig að hann þyrfti að vera í forystu, en það var augljóst að honum þótti fáránlegt tilboð Sighvats þess efnis að framsóknarmenn tækju þátt í slíku samstarfi og þá e.t.v einnig í stjórnarsamvinnu eftir næstu kosningar án þess að þeir hefðu þar á hendi neina forystu.
Við Styrmir vorum í raun gáttaðir á þessum tilburðum Sighvats sem hefur ekki upp á neitt að bjóða því að Alþýðuflokkurinn er að hverfa inn í sameiningarferli og mun að öllum líkindum lognast út af eins og kvennalistinn. Eina von sameiningarmanna til að komast til áhrifa eftir kosningar er að sjálfsögðu samstarf við Framsóknarflokkinn og þá undir forystu Halldórs Ásgrímssonar sjálfs. Og það er með eindæmum að þeir skuli ekki gera sér grein fyrir þessu. Það má vera að Sighvatur hafi í þessu samtali skotið Noreg úr höndum þeirra vinstrimanna, en þó getur margt breytzt fram að kosningum og eftir þær.
En það horfir að minnsta kosti ekki vænlega um myndun nýrrar vinstri stjórnar, ef litið er yfir sviðið og ályktanir dregnar af þeim samtölum sem við höfum átt við stjórnmálaforingja undanfarið. Afar margt virðist benda til þess að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur séu að efla svipað samstarf með sér og var milli Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks í viðreisninni og neitaði Halldór því ekki.
Með allt þetta í huga skrifaði Styrmir Reykjavíkurbréf og notaði ummæli Svavars Gestssonar í Degi til að handlása sig að þessum kjarna málsins sem nú er augljós eftir samtal okkar við stjórnmálaforingjana.
Halldór játaði að hann hefði orðið Davíð mjög reiður fyrir jólin í vetur vegna ummæla um endurnýjun stjórnarinnar, en það hafi verið jafnað.
Tók það langan tíma? spurði ég.
Nei, svaraði Halldór.
Var það erfitt? spurði ég.
Nei, svaraði hann, ég svaf þetta úr mér.
Hann sagðist geta snöggreiðzt en þá hafi honum oftast reynzt bezt að taka málið upp aftur eftir góðan svefn. En það dygði þó ekki alltaf.
Það er augljóst að Davíð Oddssyni líkar mjög vel við Halldór vegna þess að hann lítur ekki á hann sem keppinaut eins og Jón Baldvin sem gekk fyrir alls kyns metnaði sem Halldór Ásgrímsson skortir. Halldór fer því ekki í taugarnar á Davíð eins og Jón gerði. En hann er áreiðanlega mjög fastur fyrir og lætur ekki bjóða sér annað en það sem honum þykir við eiga. Ég tel ekki að hann líti á Framsóknarflokkinn sem vinstri flokk, þvert á móti talar hann um einkavæðingu, markaðsöfl og hlutafélög með svipuðum hætti og við hinir. Hann telur að styrkja þurfi bankana með einhverri sameiningu, en útilokar ekki að rétt væri að geyma hana fram yfir kosningar úr því sem komið er. Landsbankinn yrði ekki jafn sterkur banki og t.a.m. nýr banki við sameiningu Íslandsbanka og Búnaðarbanka. En það þurfi að styrkja bankana svo þeir séu samkeppnisfærir við verðbréfamarkaði og þó einkum og sér í lagi erlenda keppinauta sem draga að sér íslenzkt fjármagn.
Við töluðum um sjávarútvegsmál, kvótaþing og ýmislegt sem við kemur þeim frumvörpum til lausnar sjómannadeilunni sem Halldór telur nauðsynlegt að leggja fyrir Alþingi í því skyni að liðka fyrir samningum. Við töluðum einnig um ýmis mál önnur og hann sagði okkur frá heimsókn sinni í fiskvinnslufyrirtæki, lét sérstaklega vel af heimsókn í fiskvinnslufyrirtæki á Sauðárkróki sem hefði skilað 60 milljón króna hagnaði - eða 10 milljóna króna meiri hagnaði en frystitogarinn þar í bæ, en fór þó einkum lofsamlegum orðum um árangurinn af endurnýjun í Útgerðarfélagi Akureyrar. Það er augljóst að hann fylgist vel með, talar við margt fólk, gerir sér grein fyrir kjörum þess víða um land - og hugsar sitt.
Margt annað en ég hef nefnt bar á góma án þess ég tíundi það hér. Það var allt í þá veru að ýta undir sannfæringu okkar þess efnis að Halldór Ásgrímsson stefnir að áframhaldandi stjórnarsamstarfi og unir því prýðilega að sinna utanríkismálum og forystu Framsóknarflokksins við slíkar aðstæður.
En ef hann sæi sér færi á því að mynda stjórn sem hann treysti fullkomlega til að bæta hag lands og þjóðar, mundi hann að sjálfsögðu ekki hafna því tækifæri. En hann tæki ekki við stjórnarforystu í ríkisstjórn sem hann hefði litla trú á.
Eins og nú horfir held ég að hann trúi því að einungis slík stjórn væri í boði undir forystu hans. Hann hefur litla trú á þeim sem standa fyrir sameiningarferli vinstri manna og lítur áreiðanlega á samtal sitt við Sighvat Björgvinsson sem einskonar prófraun í þeim efnum. Eins og nú horfir vill hann örugglega helzt að núverandi stjórn haldi velli. Hann lítur ekki á skoðanakannanir sem einhvers konar kosningar og segir að það fari ekkert í taugarnar á sér þótt Sjálfstæðisflokkur vinni á en Framsóknarflokkur tapi í skoðanakönnunum, allt slíkt sé fallvalt. En hann gat þess líka sem Halldór afi hans sagði einhverju sinni við hann, að hann hafi á sínum tíma - mig minnir það hafi verið í kreppunni - frekar orðið að horfast í augu við staðreyndir en fylgja fram þeirri hugsjón sem hann hafi haft að leiðarljósi.
Það er ánægulegt að tala við Halldór Ásgrímsson. Hann er raunsær stjórnmálamaður og íhugull. Metnaður hans er heilbrigðari en maður á að venjast hjá stjórnmálamönnum og listafólki og hann lætur áreiðanlega málefni ráða fremur en persónulega hagi, skoðanir eða tilfinningar. Það er örugglega hárrétt afstaða hjá Davíð Oddssyni að treysta honum með þeim hætti sem hann augljóslega gerir. Það er enginn vafi á því að milli þeirra Halldórs og Davíðs ríkir gagnkvæmt traust sem er heldur sjaldgæft í íslenzkri pólitík. En það er á þessu trausti sem ég tel að við eigum eftir að sigla inn í 21. öldina.
Ég nenni helzt ekki að tala um Ólaf Ragnar en hann kom einnig til tals, að sjálfsögðu. Halldór hefur augsýnilega fyrirvara á brambolti forsetans og gat þess að hann hefði á leiðinni til Mexíkó hitt aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjastjórnar en sá hefði verið númer 23 í röðinni, ef ég man rétt. Slík samtöl væru ekki í verkahring forseta og þetta samtal hafi ekki verið ákveðið eftir réttum boðleiðum, þ.e. fyrir atbeina utanríkisráðuneytisins. Ef eitthvað kæmi uppá væri það ekki forseti sem þyrfti að fjalla um málið á þingi, heldur utanríkisráðherra.
Við búum við þingræðisstjórn, sagði Halldór, og ef vandamál koma upp verða þau ekki rædd við forseta landsins heldur á Alþingi Íslendinga.
Ég hef fundið það áður að Ólafur Ragnar getur farið fyrir brjóstið á Halldóri Ásgrímssyni og fann það ekki síður í samtalinu í dag. Hann hefur augsýnilega einnig einhvern fyrirvara á bandaríska sendiherranum sem hann telur að geti verið klaufskur í störfum sínum.
Að lokum má geta þess að Halldór telur rétt að reyna að halda í bandarísku orrustuþoturnar á Keflavíkurflugvelli vegna þess að þeim fylgir björgunarþyrla og við þurfum á henni að halda, auk þess sem fantar og hryðjuverkamenn fari með ólátum víða um heim og sé þá nauðsynlegt að þeir viti að eitthver fyrirstaða er fyrir hendi, ef þeir freistuðust til óhæfuverka hér á landi. Hann nefndi Zhirinosky, þann rússneska djöflamerg, sem vill víst helzt gera Ísland að einhvers konar fanganýlendu fyrir Rússland, Gaddafi og Saddam Hussein!
Allt er þetta raunsætt. Og þó að stefnan sé sú að Ísland sé herlaust land er engin ástæða til að ana að neinu. Í válegri veröld er viðbúnaður nauðsynlegur. Og hvers vegna í ósköpunum skyldum við ekki reyna að halda í björgunarþyrlu bandaríkjamanna eins lengi og unnt er?
Loks er ástæða til að minnast á það að Halldór kveðst ekki hafa getað myndað vinstri stjórn á sínum tíma því að Davíð hafi verið búinn að tala við kratana og þeirra samtöl voru byrjuð. Hann telur sig hafa verið bundinn af því.

Sumir svífast einskis í pólitík, aðrir - en fáir - hugsa eins og Halldór Ásgrímsson. En þetta sýnir að Davíð hefur ástæðu til að líta ekki á hann sem keppinaut eins og Jón Baldvin. Þeir voru líkari í metnaðinum og kappseminni en Davíð og Halldór.
Nú er Davíð orðinn mun öruggari og rólegri en áður og við Styrmir erum farnir að njóta góðs af því!

Kvöldið

Sigurður A. Magnússon er sjötugur um þessar mundir. Af því tilefni átti Jónas Jónasson samtal við hann í útvarpsþætti sínum og hlustaði ég á það af athygli. Ég held ég hafi eiginlega aldrei gert mér grein fyrir því hvað SAM er alinn upp í miklum vesældómi í Laugarnesinu, eða Upplöndum eins og hann kallaði þessi hrófatildur sem þarna blöstu við. Hann hefur svo sannarlega átt erfiða æsku eftir að móðir hans lézt. Hann hefur haft sterkar tilfinningar til Magnúsar föður síns án þess vita og virðist ekki hafa gert sér grein fyrir því fyrr en að honum dauðum. Hann sagði söguna af því þegar við vorum að vinna niðri á gamla Mogga í Aðalstræti einn sólheitan sumardag en Magnús faðir hans lá á Hvíta bandinu. Sigurður var á erlendri vakt, það var mikil vinna að lesa úr löngum strimlum sem við fengum frá NTB-Reuter, en upp úr þeim voru erlendu fréttirnar samdar,að mestu. Ég sagði við SAM að hann skyldi fara og hitta föður sinn.
Hann sagði,
Nei, ertu vitlaus, ég get það ekki, ég hef svo mikið að gera á vaktinni, eins og þú sérð.
Ég sagði við hann, Þú ferð, ég skal taka vaktina með þér.
Sigurður tók þessu og hitti föður sinn og átti langt og gott samtal við hann.
Magnús hefur augsýnilega verið í einhvers konar helfró, en hann lézt daginn eftir.
Þetta var einhver bezta stund sem Sigurður átti með föður sínum og hann segir í samtalinu að þessi afskipti mín séu skuld sem ekki sé unnt að fullgreiða. Hann lýsir þessu nokkru nánar og hvernig hann telur að tilfinning mín eða skynjun sé einskonar áhrif frá Hönnu og má það vel vera.
Hvað sem því líður hvatti ég hann eindregið til að fara upp á spítala þar sem hann átti þessa góðu stund með föður sínum sem hann gleymir aldrei. Sjálfur lýsir hann þessu í samtalinu með dramatískari hætti eins og honum er lagið og hef ég ekkert við þá lýsingu að athuga. Kannski er það einnig rétt hjá honum að ég hafi ekki verið ýkja trúaður þegar ég hitti Hönnu, að minnsta kosti var ég ekki með hugann við trúmál, en ég hafði að sjálfsögðu verið alinn upp í góðri og gegnri kristinni trú af móður minni og hefur þessi barnatrú með einhverjum hætti búið með mér æ síðan.
Sigurður talaði einnig mjög fallega um Louisu Matthíasdóttur, frænku mína, og þau Leland Bell, mann hennar. Það þótti mér gott. Hann er að skrifa um ævi hennar í bók sem á að koma út í haust, að ég held, og átti ég þátt í því að hann var fenginn til þess.
Annars þótti mér merkilegt hvernig hann talaði um trú sína. Jónas minntist á að Sigurður hefði verið kallaður laumukommi. Sigurður sagði að hann hefði aldrei ánetjazt marxisma og það hafi ekki verið fyrir áhrif Karls Marx að hann hefði haft þá róttæku afstöðu til þjóðfélagsmála sem raun ber vitni, heldur megi rekja þessi áhrif til Krists sjálfs eins og honum er lýst í Nýja testamentinu. Allt sem hann hafi hugsað og gert eigi sér rætur í Kristi sem fyrirmynd,sem sagt breytni eftir  Kristi !
Hann sagðist hafa meiri mætur á Orþódoxu-kirkjunni en mótmælendakirkju okkar sem væri lögfræðilegri, eins og hann komst að orði, en sú austræna. Hann sagði að orþódoxar hugsuðu fyrst og síðast um tvennt, líf og dauða; sköpunina sjálfa. Og það sem eyðilegði hana væri synd. Það er sú synd sem hann hefur hugsað um fremur en sú lögfræðilega eða persónulega synd sem mótmælendakirkjan er sífelldlega að tönnlast á.
Í lok samtalsins fór Sigurður með  kvæði sem ég hef ekki heyrt áður. Það er byggt á náttúrustemningu og er að ég held bezta kvæði sem ég hef séð eftir Sigurð. Það má þó vera að það sé í ljóðaúrvali hans, ég veit það ekki. Kvæðið lýsir umhverfinu í sveit, en lýkur svo með þessum ljóðlínum:

Hel fer með hlíðum
heitir mér stundargriðum.

Þetta eru eftirminnilegar línur og það gladdi mig hvað þetta er vel heppnað og gott kvæði. Ætla að birta það í Lesbók í tilefni af sjötugsafmæli SAMs. Í heild er kvæðið svohljóðandi:

Sumarnótt

Mjólkurhvít nótt
kerlingarvella í lægðum

Jarmur úr fjallshlíð
hrafnar voka yfir bænum

Hundgá í fjarska
spói vellir í mónum

Áin við túnfótinn
kliðmjúk líður að ósnum

Grængresið döggvott
falla mun fyrir ljánum

Hel fer með hlíðum
heitir mér stundargriðum

Hálfrímið er ekki sízt athyglisvert, en kannski er það ómeðvitað, ég veit það ekki. Það eykur ljóðræna áferð,en hún er ekki sterkasta hlið Sigurðar.Ljóðmyndin er sannfærandi og heldur sér.

22. marz, sunnudagur

Samtalsgrein Jakobs Ásgeirssonar við Jóhannes Helga í Morgunblaðinu í dag er harla athyglisverð. Mér þykir vænt um það sem hann segir þar, mundi ekki eftir því að ég hefði verið  svona “generus” við hann - en athugasemd mín er rétt.

“Sögur þessar, undir bókarheitinu Allra veðra von, komu út hjá Setbergi 1957, forlagi Arnbjörns Kristinssonar, sem gaf þær út með glæsibrag, myndskreyttar af Jóni Engilberts. Og þá gerðist það einkennilega, kollegar mínir, sem ég þekkti raunar fæsta nema rétt í sjón, viku sér að mér einsog brjálaðir menn og spurðu mig hvort ég hefði ekki lesið Kafka. Jú, jú, ég hafði gluggað í Kafka, hann var þá í tísku, en ég fékk með engu móti séð hvað sögur um skrifræði og firringu í landluktu Austurrísk-ungverska keisaradæminu kæmu við sögum mínum um íslenska sjómenn norður í Ballarhafi. En ég átti víst að læra af Kafka, og einn gagnrýnandi furðaði sig á því að áhrifa þaðan gætti ekki í sögum mínum. Það er eins og Goethe sagði:
Grá er öll kenning.
Það var þó ein undantekning. Matthías Johannessen, þá nýorðinn blaðamaður við Morgunblaðið og fyrsta bók hans, Borgin hló, rétt handan við hornið, gerði óvænt boð fyrir mig, og þótti nýnæmi að efniviðnum. Hann tók við mig ítarlegt viðtal fyrir Morgunblaðið og greiddi þar með mjög fyrir sölunni á bókinni. Jú, Ragnar fjármagnaði líka samantekt Húss málarans. Hann borgaði vel ­ og gaf mér svo handritið! Ég seldi það Arnbirni í Setbergi. Ragnar átti ekki sinn líka í rausnarskap... En það var samtalsbók Matthíasar Johannessens við Þórberg, Í kompaníi við allífið, brautryðjendaverk þeirrar bókmenntagreinar, sem vakti hjá mér hugmyndina að bókinni um Jón Engilberts.

Matthías hefur sjálfur sagt frá því að þeir Jóhannes hafi hist í Aðalstræti skömmu eftir útkomu Kompanísins og hafi þá Jóhannes sagt: Ég ætla að skrifa svona bók um Jón Engilberts! “Það gerði hann líka af einlægni og ástríðuþunga,” skrifar Matthías, “enda er Hús málarans ­ og raunar sumar aðrar bækur Jóhannesar Helga í þessari grein ­ meiri bókmenntir en mestur hluti skáldsagna frá þessum árum. ... Þar ræður auðvitað úrslitum, að hann er skáld og nálgast verkefni sitt með tilfinningu og nærfærni skáldsins.”

24. marz, þriðjudagur

Þröstur Helgason ritar þessa athyglisverðu grein í Morgunblaðið í dag: “Hvern telur þú fremstan núlifandi rithöfunda okkar? var spurt í síðustu skoðanakönnun DV (birt 16.3.98) og svarið var skýrt og greinargott: Sagnaskáldin eru fremst ­ eða er kannski réttara að segja vinsælust eða mest áberandi í fjölmiðlum. Af tíu efstu höfundunum í niðurstöðu könnunarinnar er aðeins eitt ljóðskáld, Gyrðir Elíasson, en hann hefur reyndar fengist jöfnum höndum við sagna- og ljóðagerð (síðasta bók hans var smásagnasafn). Á meðal þeirra höfunda sem komu næstir eru aðeins tvö ljóðskáld, Hannes Pétursson og Jón úr Vör.
Þótt ýmislegt sé athugavert við aðferðafræði könnunarinnar (svo sem það að 44,5% úrtaksins taka ekki afstöðu til spurningarinnar og að úrtakið er valið úr símaskránni og samsetning þess því óljós) þá gefur niðurstaða hennar vísbendingu um að sagnaskáldin hafi nánast alla athygli fólks. Vafalaust er spurningin sem lögð var fyrir fólk eilítið leiðandi ­ það er spurt um "rithöfunda" en ekki skáld ­ en meginástæðurnar fyrir þessu veldi sagnaskáldanna eru sennilega tvær; mun fleiri skáldsögur en ljóðabækur koma út hér á landi og því ber líka mun meira á þeim í íslenskum fjölmiðlum; þegar fjölmiðlar endurspegla útgáfumarkaðinn eru þeir því um leið að leggja meiri áherslu á skáldsögur og höfunda þeirra en ljóðin og ljóðskáldin.

Kannski Matthías Viðar Sæmundsson, dósent við Háskóla Íslands, hafi rétt fyrir sér í viðtali í Lesbókinni fyrir skömmu þar sem hann segir að sömu lögmál virðist almennt gilda um orð og peninga, að “meira sé betra”. Þetta segir Matthías Viðar að sjá megi á dýrkun skáldsöguformsins umfram aðrar bókmenntagreinar.
“Nú á dögum þarf jólagjöf,” segir Matthías, “að ná ákveðnum blaðsíðufjölda til að teljast einhvers virði, enda þykir sá sem setur saman loginn og málhaltann langhund í lausu máli fréttaverðari en þeir sem skrifa sig inn að merg og beini í ljóðum og smásagnalist, alla vega ef miðað er við umfjöllun fjölmiðla; byrjendur í sagnagerð fá meira rými en okkar bestu ljóðskáld.” Matthías Viðar telur þetta nokkuð skrítið og til dæmis um tómleika, einkum sé til þess tekið,” heldur hann áfram, “að sáralítið kemur út af skáldsögum sem dýpka lífsskilning, vinna gegn útkjálkahugarfari og skipta raunverulegu máli, alla vega frá mínum sjónarhóli.”
Hvort sem það er rétt að byrjendur í sagnagerð fái meira rými í fjölmiðlum en okkar bestu ljóðskáld, eins og Matthías Viðar segir, þá má ljóst vera að skáldsögur eru mun meira áberandi þar en ljóð eða smásögur. Hvort það megi svo rekja til einhvers konar magndýrkunar eða uppgangs í skáldsagnagerð undanfarna áratugi er erfiðara að segja til um. Sömuleiðis er erfitt að greina orsakasamband útgáfu og umfjöllunar fjölmiðla; sjálfsagt er þar um víxláhrif að ræða. Það er svo aftur annað mál hvort það sé ekki skylda fjölmiðla að vinna að einhverju leyti gegn markaðnum frekar en að ýta undir einræði hans, eins og oft vill brenna við. Væru það til dæmis ekki æskileg viðbrögð fjölmiðla við niðurstöðu könnunar DV á vinsældum rithöfunda að vekja atygli á ljóðskáldunum sem greinilega verða undir í henni?
Útgáfa ljóðabóka hefur verið um það bil helmingi minni en skáldsagna síðustu ár. Samkvæmt Bókatíðindum frá síðasta ári, sem Félag íslenskra bókaútgefenda gefur út, komu fimmtán frumsamdar íslenskar ljóðabækur út árið 1997 en þrjátíu skáldsögur eða tvöfalt fleiri. Hlutföllin voru um það bil þau sömu árið áður samkvæmt sömu heimild eða sextán ljóðabækur á móti 28 skáldsögum. Ekki veit ég hvort þetta misræmi kemur til af því að útgefendur telji ekki nógu ábatasamt að gefa út ljóðabækur eða vegna þess að þeir fái einfaldlega ekki fleiri ljóðahandrit sem verð eru útgáfu en þetta. Báðar skýringarnar eiga ef til vill við.
Nú segja ugglaust margir og hafa nokkuð til síns máls að það sé ekki í eðli ljóðsins að krefjast vinsælda eða athygli; ljóðið rati til sinna, eins og skáldið segi. Hinum sömu þykir það að öllum líkindum heldur mikill óþarfi að hafa áhyggjur af vinsældum yfirleitt og er sennilega nokkuð til í því; vinsældir, tízka og svoleiðis hlutir eru jafnóútreiknanlegir og koma íslenska vorsins.
Könnun DV verður þá orðið marklaust plagg innan fárra vikna eða mánaða.

En hvað sem því líður er annað í þessari könnun DV sem ástæða er til að staldra örlítið við. Eins og áður sagði tóku 44,5% úrtaksins ekki afstöðu til spurningarinnar en “þar af,” segir í frétt blaðsins, “voru 44 prósent óákveðin”. Þetta hlutfall óákveðinna er ansi hátt og nú má spyrja: Stafar það fyrst og fremst af því að fólk hefur ekki getað gert upp á milli þeirra rithöfunda sem það þekkir eða því að það þekkir ekki til neinna rithöfunda. Gott hefði verið að fá upplýsingar um það í könnuninni hvort hinir óákveðnu væru þeir sem læsu mikið eða lítið. Kannski er meginniðurstaðan af þessari könnun sú að það væri hnýsilegt að gera viðamikla og almenna lestrarkönnun, að kanna hverjir lesa, hvað þeir lesa og hvað mikið.”

Ódagsett

Sá í kvöld gamla kvikmynd um Stuðmenn. Það er ágæt mynd, létt og skemmtileg, vel gerð. Ég fór að hugsa um það eftir að ég hafði séð myndina að það hefði verið gaman að fylgjast með Stuðmönnum á sínum tíma. En þeir fóru þá framhjá mér. Ég hafði miklu meira gaman af þessari mynd en flestu því sem ég hef séð á þessu sviði síðar. Verð að segja eins og er að kvikmyndin kom mér skemmtilega á óvart.
Það er margt sem fer framhjá manni í samtímanum. Maður þykist vita allt, fylgjast með öllu og reynir að hafa skoðanir á sem flestu, en það er ekki hægt í nútímaþjóðfélagi, svo margt sem gerist í einu. Ég þekki suma Stuðmenn nokkuð vel, t.a.m. Jakob Frímann og Valgeir Guðjónsson og svo að sjálfsögðu Ragnhildi Gísladóttur. Þau eru öll í þessari mynd og það er gaman að sjá þau svona ung. Ég hefði áreiðanlega haft gaman af að fylgjast með þessari grúppu á sínum tíma.

                Seinna                                                                                                                                               
Það er erfitt að taka ekki Gamla testamentið alvarlega og líklega ómögulegt að afgreiða það sem þjóðsögur. Ástæðan er sú að í því eru svo margir spádómar sem síðar hafa komið fram. Þeir eru einhver helzta sönnunin um tilvist guðs. Það er kannski ekkert skrítið því að þetta er hans bók. Í henni er því spáð að gyðingar muni glata landi sínu og endurheimta það eins og þeir hafa gert. Ennfremur að þeir muni glata tungunni og endurheimta hana og það hafa þeir gert 2000 árum síðar. Þá eru augljósir spádómar um Krist, líf hans og dauða, sem ekki er unnt að líta framhjá.
Þannig sannar skaparinn tilveru sína. Gamla testamentið er eins og hvert annað sköpunarverk, það er hugarveröld guðs eins og Jónas komst að orði. Ég held það sé varla hægt að ganga framhjá því og við nánari athugun mætti segja að í þessari bók sé sagt fyrir um kjarnorkuöldina og þá ekki síður þekkingaröld tölvanna, en í Biblíunni er því einnig spáð að menn geti vitað á sekúndu það sem þeir þurftu til aldir áður fyrr.
Hvernig er þá hægt að hafna þessu riti sem hugmyndum skaparans um tilveru sína, framtíðina og tilgang. Þó ég hafi ríka tilhneigingu til að jafna Gamla testmentinu við Njálu og telja það álíka merkilegt rit fyrir gyðinga og Njála er fyrir okkur Íslendinga, þá er það víst ekki hægt. Öll rök benda til annars ef að er gáð. Eins og Allah er sagður hafa komið hugmyndum sínum á framfæri gegnum Múhameð, þannig hefur Skaparinn þá einnig notað höfunda Biblíunnar til að koma sköpunarverki sínu til skila á þennan dramatíska hátt.

28. marz, laugardagur

Fór á umræðufund í Háskólanum um póstmódernisma. Þorsteinn Gylfason sagði að módernismi væri ekkert eitt, hið sama gilti um póstmódernisma; og t.a.m. einnig um frjálshyggju. Gylfi faðir hans væri sósíalisti og það hefði Stalín einnig verið. En ef þeir hefðu átt eitthvað fleira sameiginlegt, hafði það farið framhjá honum (þá var hlegið)! Ennfremur: framfaratrú hefði ekki verið til með Grikkjum, ekki heldur Gyðingum. En þessi trú einkenndi okkar tíma. Um fátt væri meira fjallað. Gagnrýni Foucaults á þessa trú hefði einna helzt orðið til þess að hann hafi verið talinn póstmódernisti.
Kristján heimspekingur Kristjánsson svaraði Þorsteini í stuttu máli, en hann hóf umræðurnar um póstmódernismann með tíu greinum í Lesbók á sínum tíma. Hann kallaði póstmódernistana kjaftastéttirnar.
Hlustaði fram að hlé, en þá hófust almennar umræður. Þær eru ekki sterkasta hlið Íslendinga.
Ó, Jesús minn, sagði Þórbergur(!)

29. marz, sunnudagur

Hlustaði á Vilhjálm Árnason prófessor  í Neskirkju. Hann hélt erindi um safnaðarstarf eftir messu. Hann sagði að fólk vildi koma trúnni í hús; eins og listinni, sbr. listasöfn. Mér þótti gott þegar hann spurði,
Gætum við hugsað okkur Krist í prédikunarstól?
Taldi að nærvera prests og safnaðar mætti vera meiri. Sr. Halldór minntist á markaðstorg hugmyndanna, þ.e. við veljum úr ýmsum hugmyndum eins og í kjörbúð; t.a.m. eitthvað úr kristni, eða búddatrú; eða spítitisma. Sem sagt, lýðræðislegt val!
Vilhjálmur spurði hvernig mér hefði líkað fundurinn um póstmódernismann í Háskólanum í gær.
Ágætlega, sagði ég. Í kalda stríðinu hafði maður áhyggjur, ekki lengur. Nú skemmti ég mér, því mér er alveg sama hver er póstmódernisti og hver ekki! Popp og póstmódernisminn valda mér engum áhyggjum - það er vel hægt að skemmta sér við þetta áhyggjuleysi. Það drepur engan(!)
Annars held ég þessar umræður séu deilur um keisarans skegg. Það er a.m.k. athyglisvert að þær hófust í tómarúminu sem myndaðist eftir fall heimskommúnismans.

Hef verið að bæta smásögum inní skáldsöguna mína. Hún er saman sett úr ljóðum og smásögum eins og Íslendinga sögur.

Skrifaði þetta Reykjavíkurbréf eftir Skotlandsferðina:

Skotar eru næstu nágrannar okkar, ásamt Færeyingum. Við erum á margan hátt harla líkir þeim. Þeir eru ólíkir Englendingum að ýmsu leyti. Það erum við einnig. Veðurfar í Skotlandi á útmánuðum getur líkzt því sem við eigum að venjast. Það er ekki síður vetur í Skotlandi en heima á Íslandi í byrjun marz. En það kvartar enginn og Skotar eyða litlum sem engum tíma í að útmála vonzku veðurguðanna Edinborg er Aþena norðursins í öllum veðrum. Hún er ekki stórborg en leynir á sér. Það er gaman að kynna sér nýjungar í tölvutækni, ekki síður en glugga í bækur í bókabúðum. Það eru mjög góðar bókaverzlanir, bæði í Englandi og Skotlandi. Þær eru að sumu leyti fínni í Edinborg en t.a.m. Lundúnum. Kaffistofurnar í þessum verslunum eru ekki sízt ánægjuleg viðbót við bæeru mjög
Nú eru komnir út margir nýir geisladiskar fyrir tölvur og þeir álitlegustu til fróðleiksauka. Fátt er eins skemmtilegt og bæta alin við ófullkomna þekkingu. Nú er hægt að fá geisladiska um sögu mannkyns frá aldaöðli, dýralíf, jörðina og raunar allt milli himins og jarðar. Það eykur áhugann á tölvum ekki síður en alnetið eða fréttavefur Morgunblaðsins sem er nánast ómissandi ef dvalizt er í útlöndum. Encarta er stórmerkileg alfræði fyrir tölvur. Hún veitir manni bæði tækifæri til að lesa og hlusta. Í þessari alfræði er hægt að hlusta á skáld lesa ljóð sín. Þá er stóra brezka alfræðiorðabókin einnig komin út á geisladiskum og fæst á góðu verði. Þetta rit sem kallar á álitlegan bókaskáp tekur nú minna pláss en lítil ljóðabók. Annars er hún í yfir 30 stórum bindum.
Tæknin er að verða einhvers konar óskiljanlegt ævintýri. Hún er eins konar framhald af veruleikanum eins og gamalt ævintýri. Minnir öðru fremur á furðuveröld fornaldarsagna Norðurlanda Ætli okkur geti ekki dottið neitt í hug sem er svo furðulegt að það verði ekki að raunveruleika einn góðan veðurdag. Það má ætla það andspænis þessari tækni sem við erum að upplifa nú um stundir. Það er engin ástæða til annars en fagna því.
Það er ánægjulegt að glugga í bækur í bókaverzlunum í Bretlandi og þá ekki sízt í Skotlandi. Þar er lögð sérstök áherzla á skozkar bókmenntir. Þeir leggja ekki síður mikla áherzlu á skozka sögu. Þar rekst maður á bækur eins og Early Medieval Ireland 400-1200 en þar koma frumbyggjar Íslands við sögu því þar er fjallað um írzka munka sem komu til landsins á 9. öld. Það er að vísu alkunna. Ari fróði nefnir þá í sínum ritum. Það er algengt í þessum sögubókum að vitnað sé í Landnámu þegar rætt er um Orkneyjar, Hjaltlandseyjar eða Suðureyjar og sögu þeirra. Norræn áhrif hafa verið endingargóð þar um slóðir, allt fram á 18. öld. Í fyrrnefndu riti segir að írskur munkur, líklega í klaustrinu Jona, Dicuil að nafni, hafi haft þær upplýsingar frá írskum presti að Thule eða Ísland, hafi verið vel kunnugt írskum munkum sem þangað fóru á öndverðri 9. öld og dvöldust þar frá febrúar og fram í ágúst, eða um hálfs árs skeið. Presturinn hafði hitt þessa munka þremur áratugum áður en hann sagði Dicuil frá þessari reynslu sinni. Sjálfur hafði hann verið um skeið á eyjunum norður af Bretlandi en þangað var tveggja sólarhringa sigling að hans sögn. Sem sagt, þarna er komin í leitirnar prestur sem hitti írska munka sem höfðu haft margra mánaða dvöl á Íslandi löngu áður en víkingar hófu ferðir sínar þangað.
Norrænir víkingar töldu sér það ekki sízt til tekna ef þeir gátu rakið ættir sínar til fornra konunga. Þeir lágu svo sannarlega ekki á slíkum ættfærslum. Þess konar snobb hefur loðað við okkur fram á þennan dag og í fyrrnefndu riti er þess m.a. getið að fyrir því séu heimildir að landnámsmenn hafi rakið ættir sínar til Kjarvals Írlandskonungs sem heitir svo sérkennilegu nafni á írskri tungu að það hvarflar ekki að nokkrum manni að leggja það á tölvuna að skila því óbjöguðu og bezt að láta það liggja milli hluta. Tölvan er harla viðkvæm þótt hún kalli ekki allt ömmu sína og hún getur farið í kerfi ef á hana er lagt meira en þanþolið leyfir. Menn skyldu ekki leggja of mikið á tilfinningalíf tölvunnar, minnugir þess hvernig fór fyrir lækninum í sögu Vonneguts sem varð ástfanginn af samstarfskonu sinni en var svo óheppinn að tölvan hafði einnig orðið ástfangin af þessari sömu konu og gerði sér lítið fyrir og kálaði lækninum án þess depla auga(!)
Þó að sumt í Edinborg minni sérstaklega á Ísland eins og þjóðsöngur okkar sem Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi í þessari fallegu borg á sínum tíma, þá má ætla að eitt dragi athygli Íslendingsins að sér öðru fremur en það er aðalglugginn í St. Giles-dómkirkjunni við þingtorgið í gamla bænum; sólin efst, græn jörðin neðst eins og til að minna á umhyggju okkar fyrir umhverfinu sem Jónas kallaði hugarveröld guðs, en það eru engin meðvituð áhrif frá honum í þessum gluggum heldur Robert Burns, þjóðskáldi Skota sem er dýrkaður á þessum slóðum meir og sterkar en nokkur annar; að kóngafólki ekki undanskildu. Þessi tilkomumikli gluggi er eftir íslenzkan listamann, Leif Breiðfjörð, sem stundaði nám í Edinborg og hefur nú endurgoldið það með frábæru listaverki sem er augnayndi gestsins og aðdráttarafl. Á leiðinni út úr kirkjunni heyrðist leiðsögukona segja frá þessum glugga og nefndi bæði Reykjavík og Ísland. Þá er staldrað við; leitað að þessari fallegu kveðju frá Íslandi.
St. Giles-kirkjan er meira en 1000 ára gömul. Hún var að sjálfsögðu kaþólsk í upphafi en varð síðan höfuðstöðvar kalvinsku eða skotzu kirkjunnar sem á rætur í kenningum John Knox, siðskiptafrömuðarins mikla sem átti athvarf á þessum slóðum á erfiðum tímum. Og nú er þessi gamla kirkja einskonar höfuðstöðvar mótmælenda á þessum slóðum. Í kynningabæklingi er sagt að Leifur Breiðfjörð sé þekktur á alþjóðavettvangi fyrir list sína. Þar er einnig sagt að efni gluggans sé sótt í mikilvægan grundvöll kristinnar trúar. Þar er vitnað í ljóðlínur eftir Burns um bræðralag og dýrð náttúrunnar. En þar eru einnig ástin og kærleikurinn í nánum tengslum við sólina og þessar frægu ljóðlínur þjóðskáldsins: My love is like a red, red rose. Það er óvænt og skemmtileg upplifun fyrir íslenzkan ferðalang að standa andspænis slíku listaverki í jafn gamalli og sögufrægri kirkju; það lyftir andanum og eykur manni trú á raunveruleg verðmæti. Og það er framhald af þeirri frægu og mikilvægu bók sem nefnd hefur verið Landnáma þótt hér sé um annars konar landnám að ræða en þegar síyrkjandi víkingar komu askvaðandi austan yfir hafið einsog minkar og gerðu usla þar sem írskir munkar höfðu hreiðrað um sig til að losna við gargið í því alþjóðlega fuglabjargi sem ýmist er kallað samtími, eða tízkuheimur.
Í bók Jóns Þórarinssonar um Sveinbjörn tónskáld Sveinbjörnsson sem er í fremstu röð íslenzkra ævisagna er fjallað um þjóðsönginn og dvöl Sveinbjörns í Edinborg. Þar er sagt að sr. Matthías hafi ort fyrsta erindi lofsöngsins Ó, guð vors lands í Edinborg og leggur þá þegar hart að Sveinbirni að semja lag við sálminn, en Sveinbjörn er í fyrstu tregur til, athugar þó vandlega textann, að sögn Matthíasar, en kveðst að svo stöddu ekki treysta sér við hann. Eftir að séra Matthías var farinn frá Edinborg hélt hann áfram að hvetja Sveinbjörn að reyna við sálminn eins og hann kemst að orði og segir í minningum sínum að hann hafi ort tvö síðari erindi lofsöngsins í London.
Jón Þórarinsson segir m.a. svo í umfjöllun sinni: "Fyrstu árin eftir að Sveinbjörn koma aftur til Edinborgar frá Leipzig (fram til 1880) bjó hann í húsinu nr. 15. við London Street og þar var Matthías gestur hans. London Street er litlu norðar og snýr eins og Princes Street, en þá götu þekkja allir, sem komið hafa til Edinborgar. Ef lagt er upp frá Princes Street austanverðu, er ekki nema 5-6 mínútna gangur þangað. Hverfið er gamalt og heldur drungalegt ásýndum, sambyggðar raðir dökkgrárra steinhúsa, en þar eru sumsstaðar falleg torg. Það er yfir því nokkur virðuleikablær þótt vafalaust megi það muna fífil sinn fegri.
Húsið nr. 15 við Lundúnastræti má teljast íslenzkur sögustaður, því að hér birtist Matthíasi Jochumssyni sú skáldlega sýn, sem fyrsta erindi þjóðsöngsins geymir, og bak við þessa sótugu múra hljómuðu líka í fyrsta skipti þeir tónar, sem órjúfanlega eru tengdir ljóðinu. Íslenzki þjóðsöngurinn varð til í þessu húsi.
Brýning sr. Matthíasar hreif á Sveinbjörn að lokum; hann samdi lagið um veturinn eða vorið, hið fyrsta er hann gerði við íslenzkan texta að eigin sögn. Í marz frétti hann lát móður sinnar, hún hafði andazt 8. janúar. Þetta voru honum þungbærar fréttir, en hann tók þeim með stillingu. Um það leyti hefur hann, ef að líkum lætur, verið að semja Ó, guð vors lands. Ef til vill hefur hann í því verki fundið styrk í sorg sinni, ef til vill hefur harmurinn gætt hörpu hans nýrri dýpt og lyft anda hans í nýjar hæðir. Lagið, sem nú var samið, tekur langt fram öllum öðrum tónsmíðum Sveinbjörns fram að þessum tíma, og raunar heldur það alltaf sérstöðu sinni meðal verka hans."
Þjóðsöngurinn var saminn við kvæði séra Matthíasar svo unnt yrði að syngja það á 1000 ára þjóðhátíðinni. En þá lá engan veginn fyrir að Ó, guð vors lands yrði þjóðsöngur Íslands. Sveinbjörn kallaði verkið þjóðsöng. Jón Þórarinsson sýnir fram á að það hafi verið fræðimaðurinn og eldhuginn Eiríkur Magnússon sem hafi verið upphafsmaður þeirrar hugmyndar að gera Ó, guðs vors lands að þjóðsöng Íslendinga. En það átti enn langt í land að sá draumur rættist. Þar komu ýmis önnur verk til greina, Eldgamla Ísafold, Ísland ögrum skorið - og kannski hefði verið einfaldast að gera Þið þekkið fold að þjóðsöng en það er einsog andblær á íslenzku vori. En Ó, guð vors lands er þroskandi áminning um það sem okkur skortir helzt í daglegri íhugun og hversdagslegum upphlaupum en það eru þau sannindi sem speglast í þessum orðum Björnstjerne Björnson að það sé þó alltént gott að eitthvað liggi svo hátt að hver maður nái því eigi. Slík áminning á ekki sízt við nú á dögum þegar enginn man neitt stundinni lengur og fjölmiðlagjálfrið er vísbending um þann glámskyggna samtíma sem enginn hefur lýst betur en Prédikarinn.