Árið 1960

 

11. janúar 1960

Guðmundur Steinsson og Þorvarður Helgason komu heim til okkar Hönnu að ræða um stofnun tilraunaleikhúss og var mér falið að athuga um húsnæði.

Fór með Þórbergi til Eyjólfs Eyfells listmálara.

Púns á borðum.

Við Þórbergur rifumst meira að segja um pólitík!

Það var skemmtilegt.

Hitti Kjarval þrisvar í síðustu viku. Hefur verið í mikilli geðsveiflu en gneistar af snilld. Talaði endalaust um Höskuld Hvítanesgoða og þá smán sem liggur á bakvið fóstrun hans og síðan dráp af hendi Njálssona.

Á þessum punkti átti sagan að byrja, sagði Kjarval.

Sagði mér síðan að fólk fyrir austan hefði kallað ær sem sluppu úr kvíum og hefðu eyðilagt í sér nytina "bölvuð njálan" - og kæmi þar fram sama afstaðan og hann hefði ævinlega haft til Njálu vegna þeirrar forsmánar sem höfundur gerði Íslandi með lífi Höskulds og dauða.

Þið skiljið þetta ekki, sagði hann, því það er búið að eyðileggja í ykkur intellígensíufrymið - en þið skuluð gæta ykkar, já, þið skuluð gæta ykkar... og svo ranghvolfdi hann í sér augunum og benti á okkur, en fólkið skildi þetta á fráfærutímabilinu, bætti hann við.

Hann talaði meira um Höskuld og lét dæluna ganga, leit svo hvasst á mig og sagði, Það verður að segja þér þetta, manni með svona andlit, það má ekki spilla því!

Kjarval gaf mér málverk í jólagjöf, Hörpuslátt. Það er málað um fyrsta ljóðið í Borgin hló. Það er ómetanlegt, dýrgripur.

Ragnar kom með það,afhenti Hönnu með kveðju frá Kjarval.

Og var rokinn.

Hanna gaf mér dýrlega vatnslitamynd eftir Scheving á þrítugsafmælinu. Stofan hér heima á Vesturgötu 52 er orðin listasafnsígildi.

Mikið að gera en gott að koma heim. Þar er mitt akkeri.

 

21. janúar 1960

Guðmundur Daníelsson hefur sent ritdóm um 6 ljóðskáld niður á Mogga. Hann segir að venju það sem honum finnst og lætur ekki hræða sig frá því. En ég sé ekki betur en hann hafi einhverjar áhyggjur af greininni.

“Ætli miðrímsmenn og aldýrir sléttubandarar vaði ekki út á ritvöllinn til að skamma mig fyrir skemmdarverk á íslenzkri menningu fyrir að tala um “atómljóð” eins og þau væru skáldskapur? – Það gerir þá ekkert til, mér er sama, en varla held ég að ég færi að svara, – ég má ekki vera að því að standa í svoleiðis, ég er byrjaður að skrifa Sinfjötla.”

 

Febrúar 1960 – ódagssett

Hef fengið bréf frá franska skáldinu Pierre Emanuel þar sem hann býður mér á vegum Congress for cultural freedom til ráðstefnu í Kaupmannahöfn frá 8.-14. september í haust. Þar á að ræða um rithöfundinn í velferðarþjóðfélaginu. Þarna verða margir merkilegir rithöfundar, skáld, heimspekingar og sálfræðingar.

Það verður áhugavert.

Hann vill ég leggi eitthvað til málanna og hef ég áhuga á því. Þetta eru víst andkommúnistísk samtök, þess vegna er mér boðið.

Pierre Emanuel tók þátt í andspyrnuhreyfingunni í stríðinu og nýtur mikillar

virðingar í Frakklandi sem slíkur.

Og svo auðvitað sem ljóðskáld.

Hann er kaþólskur, víðsýnn Frakki sem er ekki lokaður inn í þessari frönsku þjóðernishyggju.

Og útlendingafælni.

Veit það er líka menning,jafnvel siðmenning , handan Ermarsunds!

Hann talar ensku ágætlega.

Það segir sitt.

 

7. febrúar 1960

Afmælisdagur Ragnars í Smára. Gaf út Hólmgönguljóð í tilefni dagsins.

Bauð okkur í mat á Hótel Borg , síðan heim til þeirra hjóna á Reynimel Sátum þar í góðu yfirlæti.

Þar var einnig Gunnlaugur Scheving og lék við hvurn sinn fingur eins og kýrnar í málverkunum hans.

Ragnar segir að túnin komi grænust undan skítnum.En það á ekki við um þessa vini mína.

 

29. mars 1960

Skrifaði SAM bréf í dag. Þar segir m.a.:

....Ég hef haft handritið þitt undir höndum og lesið það allsæmilega, en ekki gat ég stúderað það nákvæmlega, því Ragnar Jónsson kom og sótti það eitt kvöldið og varð ég auðvitað að láta það af hendi. Ég skal tala síðar við þig um þitt handrit. Það sem mér þykir bezt í því, eru gömlu ljóðin sem birtust í 6 ljóðskáldum, svo og Dauði Baldurs, enda kenni ég þar ýmsra skemmtilegra áhrifa frá Hólmgönguljóðum, eins og þú segir sjálfur.

Við getum svo haft samband hvor við annan, þegar málið er komið lengra og farið verður að setja handrit þitt. ... það kom mér dálítið á óvart, hve mikið í þessari bók er gamalt, og sumt mjög gamalt og ég er ekki viss um að það sé pósitívt fyrir þig að birta það allt.

Ég fæ ekki séð, að handritið sé þér allt til ávinnings.

Fyrirgefðu mér þessa hreinskilni mína, en ég segi þér eins og er, því vinur er sá er til vamms segir....

...Sigfús framkvæmdastjórinn gengur hér um gólf í þungum þönkum og vill víst hafa tal af mér, áðan stappaði hann í teppið og sagði:

Hvers konar andskotans flóki er þetta orðinn, það er ekki einu sinni til uppáferða!

...Lífið gengur sinn vanagang, þakið á Hamborg, sem ég hef beint fyrir neðan mig, er enn grænt og gluggarnir á því, þeir eru fjórir, eins og í fyrra.

Skrifaði einnig bréf til Þorsteins Thorarensens sem er á hafréttarráðstefnu í Genf. Ég hef fengið bréf frá honum þar sem hann talar m.a. um að tæknilegar aðstæður séu óviðunandi og nauðsynlegt sé “að við fáum á blaðið tæki og aðstöðu til að taka símasamtöl upp á segulband”.

Það sé miklu ódýrara að tala í síma en senda skeyti; líklega sex sinnum ódýrara. Við þurfum að athuga það og ýmislegt fleira því Morgunblaðið verður alltaf að fylgjast vel og rækilega með tímanum, ekki sízt í tæknilegum efnum.

En bréfið sem ég skrifaði Þorsteini er svohljóðandi:

Ég þakka þér innilega fyrir bréfið sem ég móttók í gær. Það hefur verið mjög gagnlegt fyrir okkur, í hve góðu sambandi þú hefur verið við blaðið, síðan þú fórst til Genfar og ég vona að þú hafir haft eitthvert gagn af okkar instruktsjónum. Það má vel vera að við getum bent þér á eitt eða annað, þó við séum í þessari fjarlægð, en auðvitað veizt þú miklu betur en við, hvernig bezt er að vinna þetta verandi á staðnum og hafandi þér við hlið Bjarna Benediktsson og aðra ráðsnjalla og tillögugóða menn...

Við erum prýðilega ánægðir með þína frammistöðu. Auðvitað hefur þetta ekki verið annað en undanrás hingað til og ég á von á því að Morgunblaðið eigi eftir að slá rækilegar í borðið, þegar á líður ráðstefnuna. Myndirnar hafa orðið okkur mjög kærkomnar, eins og þú hefur kannski séð af blaðinu.

Annars hefur Halli Hamar sagt þér okkar skoðanir í stærstu dráttum, að því að mér skilst. Ef eitthvað er sérstakt, þá sendum við þér auðvitað skeyti um það, eða látum þig vita á annan máta eins fljótt og við getum...

Við vorum að tala saman í gær um símtöl við þig og Haraldur sagðist hafa tilkynnt þér, að við gætum tekið á móti símtölum frá þér, mig minnir á milli kl. 3 og 4 að íslenzkum tíma. Þá getum við haft það þannig, að þú lesir upp þínar fréttir í símann og síðan endurtekur Haraldur eða einhver annar fréttamaður inn í hljóðnemann og festir þau á segulbandið. Það verður auðvelt að vinna úr því síðar.

Ég held þú megir gera ráð fyrir allharðri samkeppni frá Vísi, a.m.k. sýndist mér það í gær, því þar var samtal, eða “einkaviðtal” við einn kanadíska fulltrúann, ef ég man rétt. Ég held að það sé fréttaritari Associated Press sem skeytar fyrir Vísi en heyrt hef ég að Gunnar G. Schram muni koma síðar og vera í Genf fyrir blaðið um nokkurt skeið. Verður það skemmtilegt fyrir þig að vera með honum í Genf. Auðvitað veiztu um samkeppnina við útvarpið, en eitt vil ég benda þér á, að um helgina kom “einkaviðtal” við Guðmund Í. Guðmundsson, sem Alþýðublaðið átti við hann. Ekki veit ég hvort þeir hafa símað til Guðmundar eða hvernig þetta hefur gerzt. Kannski hefur hann bara sent þeim skeyti sjálfur, því það er augljóst mál, að framámenn Alþýðuflokksins leggja mikið kapp á að aðstoða Alþ.bl. eftir beztu getu við fréttaöflun og leggja sitt lóð á vogarskálina, svo blaðið megi vera fjölbreytt og skemmtilegt.

Ég verð að segja að mér virðist pólitíkusar Alþýðublaðsins skilningsbetri en margir þeir pólitíkusar, sem að Morgunblaðinu standa og hafa lítil sem engin viðskipti við það nema til auglýsinga fyrir sjálfa sig og sín mál.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri. Þú hefur víst nóg annað að gera en lesa löng bréf. Sem sagt, ef okkur dettur eitthvað í hug, þá sendum við þér okkar hugmyndir, svo og allar instrúksjónir. Enn vil ég að lokum segja að ég fæ ekki annað séð en þeir sem vilja fylgjast rækilega með Genfarráðstefnunni verði að kaupa Morgunblaðið.

 

Apríl 1960 – ódagssett

Sigurður A. Magnússon hefur verið í Aþenu undanfarnar vikur og ég hef fengið þó nokkur bréf frá honum.

Það er ýmislegt í þessum bréfum sem ég hef staldrað við og finnst ekki úr vegi að rifja hér upp.

Sigurður skrifar til að mynda 24. janúar sl. þegar hann sendi mér ferðapistla, að hann muni senda nokkra bókadóma innan tíðar, en hann eigi erfitt með að komast af stað, eins og hann kemst að orði. Herbergið hans sé ekki gott og honum sé kalt á nóttunni, hafi stokkkvefazt en hafi ekki getað náð kvefinu úr sér.

Hann sé við grískunám og heimsæki söfn og einstaklinga.

Hann segir að heimsóknafarganið sé eini þjóðarlöstur Grikkja og ótækt fyrir þá sem vilja vera einir og vinna. Samt segir hann að sér líði vel að þurfa ekki í bili að sinna skyldustörfum og ganga á vaktir en önnur vandamál blasi við, til að mynda grískunámið sem sé hreint enginn barnaleikur.

“En það gengur vel og ég er löngu orðinn mellufær, þó ég noti mér sennilega ekki af kunnáttunni á þeim vettvangi.”

Hann segir að ég ætti að skreppa til Aþenu og upplifa suðrænt kæruleysi einn eða tvo mánuði, það sé heilsusamlegt.

Hver veit?

Sigurður skrifaði mér annað bréf í byrjun febrúar. Með því fylgdi ritdómur og um hann segir hann:

“Einhvern veginn finnst mér að ég hefði átt að segja eitthvað fleira jákvætt um bók Sigfúsar (Daðasonar), en mér finnst ég vera búinn að þurrausa mig. Hann er svo andskotalega dúnkel á köflum, en mér geðjast mjög vel að bókinni í heild, nema hvað pólitísku ljóðin gerðu mér svo gramt í geði, að ég varð alvarlega að passa mig að rjúka ekki upp og gera mig að athlægi með skömmum um þau. Ég held að góðlátlegt grín sé bezta vopnið, og ekki má láta hvimleiðar pólitískar skoðanir hans skyggja á þá staðreynd, að hann er gott og þarflegt skáld.”

SAM segir að það sé ef til vill glapræði af manni sem sé kominn á hans aldur að fást við málanám. En maður reyni að halda í blekkingar æskunnar meðan nokkur von sé til þess. Hann sé samt farinn að lesa einfalda hluti á grísku og auðvitað komi þetta smám saman með þrautseigju og þolinmæði, “en inniveran er búin að gera mig hálftaugaveiklaðan (var víst ekki á það bætandi) og svo er þessi herbergiskytra að drepa mig úr kulda. En ég flyt vonandi eftir eina eða tvær vikur”.

Hann segist hafa skrifað lítið og þá helst nokkur ljóð “sem höfðu legið á botni sálarinnar frá í vetur. Ég veit ekki hvenær ég byrja á þessari blessaðri skáldsögu. Hún er smátt og smátt að mótast í hausnum á mér, og í vor heimsæki ég Norður-Grikkland og þær slóðir sem hún gerðist eða á að gerast.”

Þá hafi hann ef til vill efni í aðra bók um Grikkland “hvort sem Ragnari lízt á það eða ekki”.

Hann spyr hvort bókin mín sé fullprentuð; segist ætla að skrifa um hana.

Þrátt fyrir herbergiskuldann og einmanaleika með köflum segist hann dansa á skýjum þegar sólin skíni í heiði og allt er fullt af yl og gleði, eins og hann kemst að orði. Loftslagið sé heilt apótek fyrir sálina og hann hafi ekki í mörg ár upplifað aðra eins upplyftingu og fyrstu dagana eftir að hann kom til Aþenu.

Hann er augsýnilega ánægður með að vera laus við áhyggjur af erli og amstri hér heima.

En eitthvað er hann að vorkenna mér:

“Ég þykist vita að þú sért að vanda á bólakafi í áhyggjum út af ritstjórninni. Hvernig gengur þetta allt saman? Er Ingimar (Erlendur Sigurðsson) kominn aftur? Hvernig fór með þessa “svargrein”? Blessaður, vertu svo vænn að senda mér helztu blöðin í janúar og svo áfram viku- eða hálfs mánaðarlega. Mig langar að fylgjast með því sem gerist heima, þó ég sé í sannleika orðinn mjög fjarlægur blaðamannsþrasinu, a.m.k. eins og sakir standa. Auðvitað breytist það aftur þegar ég kem heim í habítinn.

Ert þú ekki eitthvað að fást við yrkingar? Sendu mér sýnishorn að gamni og ég skal svara í sömu mynt. Það er endurnærandi að fá eitthvað ferskt að heiman. Hvað segja menn annars um “plötubókina” okkar frægu? Ég sagði víst þegar ég fór, að sennilega myndi ég yrkja hér í nýja bók. Það var nú kannski ofmælt, því ég hef ekki enn sem komið er fundið nein afþrengjandi yrkisefni, en það getur auðvitað komið.”

Þá fékk ég einnig bréf frá SAM sem var dagsett í Aþenu 20. febrúar sl.

Hann byrjar með því að þakka mér fyrir ítarlegt bréf sem hann segir að sé lengsta sendibréf sem hann hafi nokkurn tíma fengið. (Það eru skýringar á Hólmgönguljóðum).

Það var mátulegt á hann!

Hann er víst búinn að fá sér nýtt herbergi; segir það sé jafnerfitt að fá upphitað herbergi og finna afmeyjaða ungmeyju!

Ástandið er þá ekki betra í Grikklandi en hér heima!

Loks sendi Sigurður mér ljóðahandrit sitt, ásamt bréfi 12. marz.

Ég hef farið yfir það, mér til ánægju.

Í þessu bréfi segir Sigurður:

“Ég gerist svo djarfur að senda þér hjálagt handrit í þeirri von, að þú getir orðið einskonar umboðsmaður minn meðan ég er hér. Mér er vel ljóst að það er til mikils mælzt, jafn störfum hlaðinn og þú ert, en vonandi verður “umboðsmennskan” ekki mjög tímafrek. Ég vildi semsé biðja þig að koma handritinu til Ragnars, ef þér finnst það ekki fráleitt til útgáfu eftir yfirlestur, og reyna að telja hann á að gefa það út. Ég þigg af heilum hug ábendingar frá þér, og það er einmitt af þeirri ástæðu, sem ég sendi þér ljóðin, en læt þau ekki beint til Ragnars. Viltu svo gera mér einn stóran greiða áður en þú afhendir handritið: Leita uppi sögubrot eftir mig í fyrsta hefti “Frjálsrar verzlunar” eða fá handritið af því hjá Valdimar Kristinssyni og koma sögunni á sinn stað, næstaftast í bókinni, sagan heitir eins og þú sérð “Til vitans”. Ef Valdimar hefur ekki handritið, vildirðu þá vera svo góður að láta vélrita það uppúr blaðinu – með minni stafsetningu auðvitað! Ég fel þér semsagt alla umsjá málsins og vona að þú sért mér ekki mjög reiður. Viltu biðja Ragnar að senda mér prófarkir strax og hann er búinn að láta setja handritið – vonandi dregur hann það ekki framá sumar.”

 

Og SAM heldur áfram bréfi sínu til mín frá Aþenu og segir:

“Einsog þú sérð hef ég ekki setið auðum höndum þessar 6 vikur sem ég hef verið hér. Auk náms og lestrar hef ég við og við sezt að ljóðagerð og síðasta kvæðið er ekki nema vikugamalt, Dauði Baldurs. Ég vona það sé líka bezt svo ég geti huggað mig við, að mér fari dálítið fram. Annars kom það yfir mig einsog hland úr fötu einn daginn, og mér kæmi alls ekki á óvart þó neistinn hafi kviknað þegar ég las Hólmgönguljóð, þó þau væru mér raunar gamalkunn. Kannski er það bara skírlífið í Attíku sem hefur leyst eitthvað inní mér! Hvað veit ég?”

Og í bréfi dags. 19. apríl kemur Sigurður aftur að handriti sínu og segir að sér þyki vænt um gagnrýni mína en hann hafi viljað að ég hefði verið ítarlegri í umsögn, eins og hann kemst að orði.

“Þú kveðst hissa á því hve mikið í handritunum sé gamal, og sumt mjög gamalt. Ég veit að prósabrotin eru öll gömul, og kannski bezt að sleppa þeim. Af ljóðunum er aðeins eitt gamalt, Við Maríubrunn, sem má kannski missa sig. Af öðrum ljóðum eru þau elzt sem birtust í 6 ljóðskáld, og þér finnst þau bezt, svo ég er greinilega í afturför – eða þá að þú ert hættur að fylgja mér eftir (!!) og er hvorugur kosturinn góður.

Ég er búinn að skrifa Ragnari og biðja hann að salta handritið að ljóðabókinni og gefa út skáldsöguna “illræmdu” undir nafninu “Næturgestir”. Vona að hann verði við óskum mínum og láni þér þá ljóðabókarhandritið til nánari yfirlestrar, svo þú getir tekið mig í gegn lið fyrir lið.

Semsagt, ég vona að heyra frá þér bráðlega aftur, og þá ættir þú ekki að spara stóru skotin, ef þú átt þau til. Láttu þér aldrei til hugar koma að ég firtist við harða gagnrýni, og sparaðu þér allar afsakanir í því sambandi. Ég vil að þú segir hug þinn allan sem minn bezti og einlægasti vinur. Það met ég meira en allt annað – þó það sé kannski ómannlegt og óeðlilegt. Ég er svona innréttaður”.

 

Apríl 1960 – ódagssett

Fékk bréf frá Páli Ísólfssyni, dagsett í Kaupmannahöfn 16. apríl. Hann segir að lætin og djöflagangurinn hafi verið svo mikil áður en þau fóru á skipsfjöl “að ekki var viðlit að kveðja þig betur, kæri vinur. Þú fyrirgefur það.

Las handritið (að Hundaþúfunni) á leiðinni og líkar margt mjög vel, en verð að breyta ýmsu þó – að forminu til. En okkur kemur vel saman um það.”

Páll ætlar að skrifa greinar úr ferðinni. Hann segist vera búinn að skrifa uppkast að fyrstu greininni og sendi hana innan tíðar. En hann er lasinn, hann er með bronkítis og verður að halda sig við rúmið.

“Í dag má ég t.d. ekkert fara út. Þetta heldur mér niðri frá allri vinnu, og ég er rasandi! En ég vona að það lagist von bráðar.”

Páll segir ennfremur:

“Hér er rigning og kuldi og leiðindaveður – og skapið eftir því. Af hverju er maður að fara til útlanda? Þetta er brjálæði. Heima er best. Hvergi er eins gott og á Íslandi þrátt fyrir helvítis idíótana sem þar vaða uppi. Þó er eitt gott við flakkið: maður finnur muninn á menningunni hér og heima. Íslendingar eru að miklu leyti villimenn. Jú, víst er það satt. Atlantshafið þyrfti að kaffæra landið einu sinni til að losa það við óværðina sem á því skríður!! En þá færum við máski líka, Matthías minn, og landið má ekki missa okkur ! ”

Ósköp er þetta pálslegt.

 

Maí 1960 – ódagssett

Er í París - á stórveldafundinum sem aldrei var haldinn! Krúsjeff vill ekki tala við Eisenhower út af U2-njósnamálinu.

Hef sent heim grein um þennan ekki-fund; þá sögulegu stund þegar Krúsjeff, forsætisráðherra Sovétríkjanna, þrumaði yfir blaðamönnum í Palais de Chaillot og kallaði forseta Bandaríkjanna hóruunga,eða eitthvað þvíumlíkt!

Það var ógnlegt .

Held ég eigi ekki eftir að upplifa annað eins sem blaðamaður. Malinovskí ,marskálkur, sat þarna eins og rússneskur björn rétt fyrir framan okkur við hliðina á Krúsjeff . Og björninn reis upp á afturlappirnar og öskraði.

Og heimurinn stóð á öndinni.

Mér er vandi á höndum að lýsa þessu, vona samt það hafi tekizt.

 

Júní 1960 – ódagssett

Fékk bréf frá Eggerti Stefánssyni. Hann er nýbúinn að lesa Hólmgönguljóð og Jörð úr Ægi:

“Kæri Bravo Vinur, Matthías!

“Hólmganga” þín í þessu húsi hefur sigrað. Hún fylti húsið æskufjöri – sól og byrtu – – í þessu landi – fegursta og listrænasta kannski í allri europu... var gott að njóta lestursins. Hér lyftist allt, sökum skilnings fólks – og unaðar af fegurð eða snilld hjartans. Ég sagði bravo, við lesturinn – “þettað er mentaður maður er syngur”!– – – Ég strikaði við ýmislegt – “Áður en þrá okkar verður að steini,” meðan við erum önnum kafnir að færa konur vina okkar úr buxunum – “Eins og niður hafsins við þangklett” – og svo allt versið síðu 39 uppi – og svo þettað – “hár þitt gáraðist eins og rekstur á fjalli” – og svo margt fleira, brafo, gott – bezt... En kæri Matthías. Þú átt að skilja gamalt fólk.– Það hefur engan uppg. (líklega uppgerðar) þjáningarsvip – það þjáist, það veit að föstudagurinn langi endar alldei nema við dauðann. Þú varst í París á fundi Krúsjeffs: Heldur þú ekki að friðardúfan fyrri föstudaginn nokkuð langan, eftir 2 þús. ár?, – það er engin upprisa eftir 2 þús. ár. Fynnst þér við elskum náungan eins og sjálfa okkur? Öll list verður fiskennd ef við uppgötvum ekki föstud. langa. Basta!”

Hérna er Eggert líklega að tala um kvæðið í Hólmgönguljóðum sem byrjar einhvern veginn svona:

Þú ert

föstudagurinn langi...

Sumt annað sem hann vitnar til er úr Jörð úr Ægi.

Eggert lýkur bréfinu með þessum orðum:

“Ég þakka þér aftur og aftur, þú vekur upp – og æskan – og vorið fylgir þér. Nú höldum við hátíð 17. júní. Við hyllum alla þá sem ekki vildu – og nú læsir gerlar svikseminnar um allan líkama þjóðarinnar, Listanna fyrst.. Talentleysis! menningarleysið! – og þettað að vera ekki neitt, ríður “berbagt” um alla þjóðina!

Líka þar – er engin upprisa, bara föstu(da)gar langir....

En réttlætið, lætur ekki að sér hæða – og þú kæri Matthías – munt geta orðið snt. george þess...”

Það munar ekki um það!!

Og loks:

“P.S. það er líka hneyksli að okkar Evrópu-frægi málari – Gunnl. P. Blöndal er ekki með þar.... Einnig það er föstudagur – l.l.l.”

Hér á Eggert við að það sé hneyksli ef íslenzk málverkasýning verður á Bienalen í Feneyjum án mynda eftir Gunnlaug Blöndal.

Ég er sammála honum um það.

En svona er Eggert Stefánsson, einhvers konar blanda af fínasta rauðvíni sem minnir á flauelsmjúkt toscanakvöld og hins vegar einhvers

konar landi úr Grófargili í Skagafirði.

En ég sé ekki betur en hann skilji kvæðið um Föstudaginn langa í lífi okkar, það er meira en sumir aðrir virðast gera!

 

12. júlí 1960

Skrifaði Sigurði A. Magnússyni svohljóðandi bréf í dag:

“Ég veit ekki hvernig í andskotanum ég á að byrja þetta bréf til þín. Sannleikurinn er sá að ég hef byrjað það svo oft, en aldrei fengið næði til að ljúka því, þó ótrúlegt sé. Þú heldur auðvitað að allir lifi eins og blómi í eggi og sleiki sólskinið í Aþenu og tali við Promepheus undir hvítu skuggunum, en það er ekki rétt hjá þér.

Við hérna heima á Íslandi erum önnum kafnir við að drekkja okkur í þeim djöfuls pytti, sem heitir ábyrgðartilfinning.

En það þýðir ekkert að tala við þig um svoleiðis hluti.

Þú skilur þá ekki, hlaupandi um á sundskýlu eftir hvítum perlusöndum Rhodosar, þar sem ég held bláar gráðugar öldurnar leggist yfir ströndina og geri það sem karlmenn gera venjulega undir heystökkum í sumarnóttinni.

Allt þetta er þinn heimur, minn heimur er amstrið og aggið og þrasið og allt þetta sem gerir jörðina svo skemmtilega leiðinlega.

Ég var að segja við Ragnar í Smára í gær, að mig langaði ekkert til að skrifa neitt framar, mig langaði aðeins til að lifa og lifa ...

Og ég er ákveðinn í því að standa uppi í hárinu á honum, þegar hann kemur með járnstaf í hendi og ber honum í bergið og þá ætla ég að hrópa framan í hann: – Til helvítis með þig – til helvítis.

Ég ætla að vera hér kyrr “.

Og svo verður þetta allt að skáldskap einn góðan veðurdag.

Því að skáld vinna undir sigð Dauðans.

Og jötunninn gengur aftur inn í Lómagnúp.

Og Bergþórshvoll brennur.

“Hvernig á ég að byrja þetta bréf öðruvísi en svona?

Hvernig á ég að geta gengið beint til verks og sagt þér það sem ég þarf að segja þér....að Morgunblaðið hafi ekki efni á því að lána þér 400 dollara?

Hvernig get ég sagt þér að hér eru allir að reyna að fá kauphækkun en enginn fær eyrisviðbót og svo kemur Sigfús framkvæmdastjóri og segir að Morgunblaðið sé á hausnum .

Þegar ég fór til Parísar og gerði stóra hluti fyrir blaðið fékk ég einar skitnar 5.000 kr. upp í 50 þús. kr. ferðalag....ég get ekki sagt þér þetta öðruvísi.

En sendu mér þær greinar, sem þú vilt, og við borgum fyrir þær... “

44)

SAM er á leiðinni til Indlands svo ég bætti við nokkrum athugasemdum um það í bréfinu sem ég var að skrifa honum,m.a. þessum:

“......Ef þú gætir sótt til Indlands löngun til að aníhílíserast,eyðast, þurrkast út, verða ekkert nema tala, þá gæti ferðin orðið þér gagnleg, en ef hún yrði til að auka í þér individúalismann og skerpa enn andstæðurnar á milli lífs og dauða í brjósti þínu, þá er ég ekki viss um hvernig fer. Og gleymdu því ekki þó þú hrífist af öllu þessu stóra og austræna og mikla og merkilega og brúna og skítuga og lævísa og ómerkilega og stórkostlega, að eitt er þó sameiginlegt með Indverjum og okkur, þessum aumingjum hér í norðrinu, sem ekkert eigum nema kvíðann í brjóstinu og smæð okkar, að við mígum þó eins.

Ég segi þetta um Gunnar Dal vegna þess að ég er á móti því að rugla saman reitum ljóðs og heimspeki; það er að minnsta kosti mikill vandi að gera það svo dugi.

Gunnar hefur gert margt gott í skáldskap. En það er ekki heiglum hent að fara með dæmisögur í ljóðlist.

Allegórían verður að vera hnitmiðuð, annars getur hún orðið toguð og teygð eins og prósi.

Og þá er allt ónýtt.

En vonandi tekst Gunnari að rata meðalhófið í þessum efnum.

Mér hefur alltaf fallið vel við hann og við Steini (Þorsteinn) Thor.(arensen) gáfum út Sfinxinn og hamingjuna á sínum tíma.

Þá átti Gunnar undir högg að sækja.

Skáldskapur á víst alltaf undir högg að sækja. Það verður að rétta honum hjálparhönd – eins og grasinu.

Vona að Sigurður komi heim að hjálpa okkur í streðinu um nýtt blað – og frjálst. Vinátta okkar hefur verið með þeim hætti að ég treysti honum.

Ég tók því vel þegar Bjarni gerði hann að ritdómara við Morgunblaðið, ungan blaðamann. Og ég veit ekki betur en hann hafi tekið því vel þegar ég varð ritstjóri Morgunblaðsins

Það er að mörgu leyti einmanaleg staða eins og ástatt er í heiminum; allt logandi í hatri og tortryggni.

Vonandi á ég eftir að upplifa betri heim og geðslegri að þessu leyti “

Leikrit Sigurðar kemur einnig til tals í þessu bréfi.

Ég segist hafa haft samband við Gunnar Eyjólfsson,leikara, um það.

Gunnar sagði sér litist vel á margt í leikritinu og kvaðst mundu skrifa honum álit sitt.

Það þyrfti að breyta ýmsu, t.a.m. noti hann tvítal alltof mikið, og stundum komi það fyrir, þegar þrjár persónur væru á sviðinu, að ein þeirra týndist.En það sé ekki furða, þótt Sigurður flaski á þessu, sagði Gunnar,

“ því þetta er eitt helzta vandamál allra leikritahöfunda.

Mér þyki vænt um að Gunnar skuli taka svona vel í leikritið .

Honum finnst sem sé margt gott um það, og vonandi eigum við eftir

að sjá það á sviði þá um veturinn, þá væri gaman.

“Ragnar í Smára segir mér að hann sé búinn að skrifa þér bréf, svo ég þarf ekki að ræða um samband mitt við hann. Ég hef heldur ekki hitt hann mjög oft vegna anna og ég er feginn að hann skrifar þér sjálfur um ykkar mál.

Aftur á móti þykir mér vænt um síðustu greinarnar sem þú sendir og munum við birta þær innan tíðar.”

 

Lok október 1960

Hef fengið bréf frá Hannesi Péturssyni. Hann er í Róm....Ég gratúlera þér úr miklum fjarska,segir hann. Þú átt Nóbelsverðlaun hin minni skilið fyrir löngu. En láttu nú verða af því að hafa viðtal við ærlegan heiðingja. Þetta anda- og draumastagl er alveg að gera útaf við mig.

Það er fullt af mönnum á Íslandi sem reist hafa himnakóngi níðstöng. Enn aðrir eru í stöðugu sambandi við djöfulinn. Hafa þeir efalítið frá mörgu að segja.

Bezt ég taki Hannes á orðinu. Kannski væri þá við hæfi ég endurbætti samtalið við hann sjálfan!