Árið 1955

 

Á aðventu 1955

Skrifaði Valtý Stefánssyni, ritstjóra, bréf því mig langaði til að hann vissi milliliðalaust hvern hug ég ber til hans. Hann hefur verið mér eins og bezti faðir og eitt er víst: að við höfum erft vináttu og fóstbræðralag Jóhannesar, afa míns, og Stefáns, föður hans.

Valtýr réð mig líka á Morgunblaðið vegna þess ég var dóttursonur Jóhannesar; þar var ég heppinn.

Eða voru þetta örlög, að ég er dóttursonur Jóhannesar?

Hvað sem því líður hef ég notið góðs af því.

Mér hefur liðið vel á Morgunblaðinu. Þar hef ég fundið kröftum mínum viðnám, þar hef ég upplifað áskorun sem er mér að skapi. Þess vegna kannski hef ég hug á því að taka sem fyrst upp þráðinn frá því sem frá var horfið þegar ég fór hingað til Kaupmannahafnar til framhaldsnáms í haust.

Valtýr var í góðu formi þegar ég kynntist honum fyrst, en nú er hann orðinn nokkuð laslegur.

Hann hefur augsýnilega elzt fyrir tímann.

Ég hef spurt Lárus Einarsson, prófessor í Árósum, sem er vinur Valtýs og hefur fylgzt með honum og ég þekki að góðu einu, hvað það sé í raun og veru sem amar að Valtý.

Lárus Einarsson, sem er mikill fræðimaður og sumir telja að geti fengið nóbelsverðlaun fyrir heilarannsóknir sínar, horfði fast á mig og sagði,

Matthías minn, það er ekkert að Valtý annað en elli. Hann hefur misboðið sér með ósérplægni og löngum vinnudegi og elzt fyrir tímann.

Ég hugsa mitt.

Ætli þetta sé hlutskipti blaðamannsins?

Æskan spyr ekki um ellina.

Ég ætla ekki að haga lífi mínu eftir henni. Ég ætla að fylgja hugsjónum mínum og athafnaþrá; það er allt og sumt. Svo get ég elzt fyrir tímann; dáið fyrir tímann.

Það kemur í ljós.

Valtýr segir í bréfinu til mín:

“Matti minn –

Þetta er meira bréfið sem ég fékk frá þér í dag. Ætla að reyna að svara því að nokkru leyti, að minnsta kosti samstundis. Ég veit ekki hvað tíminn verður drjúgur hjá mér næstu daga. “Officielt” er ég nefnilega í rúminu, því læknirinn minn heimtar að ég haldi kyrru fyrir hvað sem það kostar, en satt að segja gengur það misjafnlega fyrir mér.

Vitaskuld er ég hæst ánægður með þessi lofsamlegu ummæli þín, því öllum þykir lofið gott eins og þú veizt. En eftir á að hyggja er ég ekki viss um að ég eigi þetta lof allt skilið þó ég viti að þetta sé allt eftir þínum smekk og tilfinningum.

En ég er ekki viss um að þegar ég fer að skoða sjálfan mig niður í kjölinn þá geti ég risið algjörlega undir þeim lofsamlegu ummælum sem þú eyzt yfir mig. Mér þykir gaman að heyra frásögn þína um neikvæð ummæli um ritstjóra Morgunblaðsins, sem þú heyrðir og numdir meðan þú varst í skóla. En þegar ég spyr sjálfan mig hvað því valdi að ég geti búizt við að rísa undir lofinu, t.d. þegar þú talar um samvinnu mína við “strákana” við Moggann, þá finnst mér að ríkasti þátturinn í því öllu saman muni vera að ég hef tamið mér fullkomna velvild í smáu og stóru til ykkar. Styrkur minn í þessu máli er vitanlega fyrst og fremst sá, að ég hafði tækifæri til að kynnast föður mínum fram til 27 ára aldurs og batt við hann vináttu, sem ég þori að segja að hafi verið alveg sjaldgæf milli sonar og föður. En ég ætla að geyma mér þangað til seinna að segja þér þá sögu greinilegri.

2)

Og Valtýr Stefánsson heldur áfram í bréfi sínu til mín:

“Þú talar um á einum stað í bréfi þínu að mér hafi auðnazt að tengja öld við aðra og er það að mínu áliti rétt vegna þess að ég lifði við það happ í uppeldinu að kynnast náið afa mínum og ömmum tveim er voru fædd kringum 1830. Þetta fólk varð mér handgengið og gerði ég mér far um að þekkja allan þess hugsunarhátt. Þetta víkkaði á sjaldgæfan hátt, að mér finnst, sjóndeildarhring minn hvað tímaskeið snertir.

Úr því ég er farin að tala um samvinnu okkar innan ritstjórnarinnar, þá langar mig til að útskýra hana frá mínu sjónarmiði með nokkrum orðum. Þú talar um “traust og virðingu” og segir “ef við gáum betur að þá er líka hægt að treysta og bera virðingu fyrir ungum mönnum, a.m.k. fyrir hugsjónum þeirra, þrám og verkum”.

Ég hef verið svo lánsamur að koma auga á þetta og tel mig vel sæmdan af. Því í raun og veru er aðstaða mín þannig í ritstjórninni að þessi afstaða dikterast af fullkominni nauðsyn.

Hvernig ætti ég með “hrottaskap” að krefjast algjörrar undirgefni? Samstarf og samvinna er ekki síður nauðsyn fyrir mig en ykkur hina. Og því hef ég fylgt í öllum greinum eftir því sem aðstæður hafa kennt mér að séu skynsamlegar. Og útkoman er sú, eins og þú segir sjálfur, “að þegar maður sigrar með sannfæringu sína eina að vopni er maður öfundsverður” og vel er það.

“Persónudýrkun” a la Jónas frá Hriflu er sem betur fer yfirstigið stadíum í íslenzkum stjórnmálum, þ.e.a.s. ég sé ekki betur en kommúnistar taki þannig upp þráðinn, trúlega, þ.e.a.s. með dýrkun á Rússum í staðinn fyrir landsmönnum sínum sjálfum.

Þú spyrð m.a. hvað Morgunblaðið væri án “strákanna”. Vegna samstarfs okkar, mín og þeirra, yrði það ekki nema svipur hjá sjón, einmitt vegna þess, að ég hef markvisst eflt samstarfið og tekizt það að minni hyggju furðanlega, ekki sízt vegna þess að töggur er í strákunum okkar, þeir eru allir af vilja gerðir og gera sitt bezta og þá er mikið sagt. En hvað framtíðin ber í skauti sínu er okkur öllum hulið þótt ég viti og vinni að á næstunni að undirbúa stórvirki í íslenzkum stjórnmálum að því að ég bezt veit....

Eins og þú kannski veizt þá beið ég ósigur fyrir 30 árum. Þá hafði ég að vopni blað sem enginn flokkur þorði að leggja nafn sitt við, Morgunblaðið. Ég geystist fram með hugsjónaglundur af því ég vissi að landbúnaðurinn er hið tryggasta sem hægt er að bjóða upp á fyrir landsfólkið. Þá var Jónas frá Hriflu upp á sitt bezta, var viðurkenndur sem skarpasti penni landsins. Þá fór ég óviturlega að ráði mínu og varð að draga mig í hlé og hef aldrei haft tækifæri til að berjast eins og mig lysti, fyrr en nú að eitthvað er að rætast úr með útgáfu Morgunblaðsins og Ísafoldar....

Einmitt núna kom læknir minn hingað til að skoða mig og sagði ég hefði tekið góðum bata þennan tiltölulega stutta tíma sem ég hef verið undir hans hendi og vel má vera að þessi spádómur eða uppástunga Gunnars G. Schram um utanlandsferð komi til framkvæmda áður en allt of langt um líður. Svo slæ ég botn í þessa romsu og óska ykkur öllum gleðilegra jóla og góðs komandi árs, þinn vinur og samverkamaður, Valtýr.”

Ég hugsa áfram mitt mál. Útlönd bíða, en Ísland kallar. Nú sit ég á krossgötum hér úti í Kaupmannahöfn.

Það er stundum gott að hugsa sitt ráð!