Árið 1957
Lok júní 1957
Hef fengið bréf frá Huldu Stefánsdóttur.
Hún talar um samtal okkar um Ólöfu á Hlöðum og virðist hafa áhyggjur af því að eitthvað hafi skolazt til í samtölum okkar.
Hún segist hafa lesið “ritgerðina” mína aðeins lauslega yfir og sig minni að þar standi að hún hafi átt að veita Ólöfu nábjargir þegar hún hélt að hún væri að deyja, “en svo var ekki, það var önnur stúlka sem átti að gera það, þá var ég farin frá Akureyri.
Þegar ég fór að hugsa betur um, er sennilega of fast að orði kveðið, að Ólöf hafi ekki haft dálæti á skáldskap Matthíasar Joch., því á seinni árum eftir að hún öðlaðist trúna á annað líf, þótti henni mikið til sálma hans koma svo sem “Faðir andanna”, “Lýs milda ljós”, “Fyrst boðar guð”.
Þá mætti ef til vill minnast þess að Ólöf unni svo mjög gróðri jarðar, að hún tímdi naumast að skilja illgresi úr garði sínum. Gekk það svo langt að umfeðmingurinn lagði undir sig garðinn hennar, en henni þótti vænt um umfeðminginn, sem var veikur og þurfti stuðnings við. Hún minnti á þann hátt á ofurmennið Schweitzer, sem ekki getur hugsað sér að farga nokkru lífi. Vonandi tekst okkur í sameiningu að bregða upp sem sannastri mynd af þessari merkilegu konu, sem var svo full af andstæðum, en mér er nær að halda að hún hafi verið miklu skemmtilegri áður en andarnir trufluðu hana, en það er annað mál.”
5. ágúst 1957
Rigning.
Einn þessara daga sem gerir mann hryggan þótt maður sé glaður.
Minnir á nálægð dauðans.
Undarlegt hvað hann er ofarlega í huga mínum.
Dauðinn er hjarta eilífðarinnar.
Sá sem hugsar ekki um hann daglega heyrir ekki hjartslátt hennar.
Óttinn við dauðann er kóróna okkar. Af einhverri ástæðu rétti Guð okkur þessa kórónu en engu dýri öðru.
Napóleon tók keisarakórónuna úr höndum páfa og setti hana sjálfur á höfuð sitt.
Við fengum dauðann úr hendi Guðs.
Hann krýndi okkur sjálfur.
Er að hugsa um samtalið við Andrés Andrésson, klæðskera.
Hann er í beinu sambandi við eilífa lífið.
Hann hafði áhrif á mig.
Valtýr sagði við mig að slík samtöl væru sér að skapi.
Held að Í fáum orðum sagt líki vel eins og Bjarni Ben. sagði við mig um daginn “vegna nálægðar við persónuna sem talað er við”.
Er með hugann við Ungverjaland.
Guð hjálpi þeim þegar sagan verður skrifuð(!)
Hitti Kristmann Guðmundsson.
Hann segir að Laxness sé orðinn harla seinheppinn í pólitíkinni upp á síðkastið. Það hafi hann ekki verið áður.
Kristmann segist einungis hafa elskað eina konu um ævina. Hann hafi ekki gifzt þessari konu. En hann hafi verið tengdur henni.
Átti samtal við Hagalín um Kristrúnu í Hamravík. Honum lízt ekki á ástandið.
6. ágúst 1957
Talaði við Sigurð A. Magnússon um skáldskap.
Las fyrir hann nokkur kvæði sem ég er að vinna að.
Hann er með æðina og þetta rétta hugarfar. En mér finnst hann skorta nákvæmni í orðavali og svífa stundum í lausu lofti.
Við vorum sammála um að kvæði eigi að vera eins og blóm, opnast hægt.
Fór heim með Sigurði.
Hann lánaði mér bókina The Creative Process, safn ritgerða skálda og hugsuða.
Hafði gaman af að lesa hana.
Schiller þurfti að hafa skemmt epli undir skrifborðinu sínu til að geta ort, de Lamare þurfti að keðjureykja, Auden þarf að drekka te í sífellu, Stephen Spender segir að allt hafi þetta skerpt einbeitingu þeirra.
En fullkomin einbeiting sé eitt helzta skilyrði þess að unnt sé að yrkja vel.
Matthías Jochumsson orti innan um krakkaskarann í eldhúsinu. Held þó ekki það hafi verið neitt skilyrði.
Brezka skáldið Stephen Spender skiptir skáldunum í tvo flokka, þá sem líkjast Mozart og yrkja af innblæstri, oft eftir að hafa gengið lengi með kvæðin, og hina sem líkjast Beethoven, vinna lengi að kvæðunum, skrifa niður brot og brot og eru stundum mörg ár að fullgera eitt verk.
Blaðaði í Sígauna-ballöðum Lorca, honum vildi ég líkjast. +
Enginn fer betur með myndir og líkingar en Lorca.
Danska skáldið Paul La Cour segir að öll mikil list sé grímuleikur, tákn og myndir.
Óttastu það myndlausa... segir hann.
Steinn getur aldrei táknað líf, hann er hugmynd dauðans, en tré er tákn vaxtarins.
Það er erfitt hlutskipti að vera skáld, gæti ég trúað, svo margt þarf að hugsa um.
Steinn Steinar sagði einhvern tíma við mig:
Það er vandi að umgangast pappír og penna!
En leyndardómsfullt kvæði þarf ekki endilega að vera óskiljanlegt.
Myrkt orðalag sem hefur engan tilgang í sjálfu sér er ekki skáldskapur heldur einungis myrkt orðalag.
Tómas (Guðmundsson skáld) sá drög að ljóðahandriti eftir mig í fyrrahaust og sagði víst að það væri myrkt og óskýrt.
Ég sá það ekki þá, en ég sé það nú.
Nýja handritið er miklu betra, held ég, því að í síðustu kvæðunum er viðurkennd sú staðreynd að "Dunkelhed for dens egen Skyld er Slaphed", eins og Paul La Cour segir.
Kristín Jónsdóttir er hrifin af honum.
Ég tek undir það.
Hef staldrað við þessa setningu hans: Þegar þú kallaðir kvæðið myrkt, fórstu þá ekki einfaldlega á mis við myndina ?
Auðvitað í mörgum tilfellum.
Íslendingar eiga erfitt með að skilja myndir í kvæðum. Þeir eru vanir þessari epísku hefð, þeir eru vanir þessu flæði gamalla og nýrra sagna.
En þeir skilja þetta síðar — eftir 100 ár þegar áhrif rímnanna hafa fjarað út.
Hlutverk ungu skáldanna er því harla mikilvægt.
Valtýr sagði mér í dag að Jónas Árnason vildi komast að Lesbókinni. Ég sagðist vel getað unnið með honum.
Ég benti honum á að tala við Bjarna um málið.
Hann eyddi því.
Er að þýða samtal við Jón Helgason prófessor í Information.
Kemur í Morgunblaðinu á morgun.
Bjarni Ben. var ekkert hrifinn af því, sagði að Jón hefði gert okkur óleik í handritamálinu. Vill samt láta birta samtalið enda er hann yfirleitt mjög hlutlaus og sanngjarn í afstöðu sinni til þeirra frétta sem Morgunblaðið birtir.
Hann vill algjörlega aðskilja fréttir og stjórnmál.
Erum sasmmála um það.
8. ágúst 1957
Valtýr hefur ekkert nefnt Jónas Árnason aftur. Þeir Bjarni telja hann alltof vinstrisinnaðan enda tók Valtýr það fram í samtalinu við mig. Hann hefði jafnvel verið kommúnisti hvort sem honum hefði nú snúizt hugur eða ekki.
Ég velti fyrir mér hvers vegna Valtýr nefndi þetta við mig.
Kannski hann hafi viljað sjá viðbrögð mín.
Hann veit ég hef áhuga á Lesbókinni.
Kannski hugsar Valtýr sem svo að það efli áhugann ef maður hefur samkeppni.
Þeim Bjarna finnst Árni Óla gamaldags.
Mér líkar vel við hann.
Bjarni hefur verið í góðu skapi undanfarið og það fer prýðilega á með okkur.
Bjarni vill ég sjái einn um Lesbókina meðan Árni er í fríi.
Bezta aðferðin til að skrifa samtöl er sú að kynnast fólkinu svo náið að maður geti skrifað eftir því setningar sem það hefur aldrei sagt en hefði getað sagt. Ef setningin er góð gleður hún fólk og það fær sjálfstraust.
Þetta er erfitt og krefst mikillar vinnu því meðalhófið er vandratað.
Þá verða persónuleg samtöl að vera skrifuð inní andrúm sem hæfa þeim.
Þannig er andrúmið í samtalinu við Júlla skóara eins og ég man eftir því þegar ég var að alast upp í Reykjavík. Mætti hugsa um þetta síðar ef ég held áfram að skrifa samtöl.
En nú langar mig helzt að hætta blaðamennsku og skrifa leikrit.
Minnugur þess sem einhver sagði við mig, að Þorleifur á Háeyri, sem var eins konar einvaldur í sveit sinni sagði eitt sinn um Guðmund son sinn, eða tengdason ég man ekki hvort heldur: Eini munurinn á guði almáttugum og Guðmundi er sá að guð gerði allt af engu en Guðmundur gerir allt að engu.
Kannski hefur Þorleifur aldrei sagt þetta,en þjóðsagan vill hafa þetta svona.
Og hún blívur.
Hjörtur Halldórsson, menntaskólakennari, tók mig tali fyrir utan gömlu Líkn í Kirkjustræti um daginn og fór að tala um samtalið við Júlla skóara. Síðan fór hann að segja mér frá ættum sínum og Halldóri gamla Friðrikssyni sem bjó í gömlu Líkn og gat þess að hann hefði haft rollur og ávallt gætt þess að hafa þær jafnmargar þingmönnunum í næsta húsi.
Ég er þreyttur.
Hef Lesbókina á minni könnu í aukavinnu. Veit ekki hvort ég tek við henni.
Er hálfvolgur.
Orti fyrir fjórum dögum Opið bréf til rússneskra hermanna, eins konar ljóðabréf.
Sigurði A. líkar það vel.
Innrásin í Ungverjaland hefur valdið mér hugarangri. Vonandi fær landið frelsi sem fyrst.
Fór að Keldum í dag og ræddi við dr. Björn Sigurðsson og prófessor Júlíus Sigurjónsson um framleiðslu á bóluefni við Asíu-inflúesunni.
Stofnunin er góður vísir að stærri meið.
Sumir óttast að flensan verði að drepsótt eins og Spænskaveikin.
Vonandi verður það ekki.
Nóg í bili að hafa haft mænuveikifaraldurinn í hittiðfyrra.
Vísindamenn hafa tilhneigingu til að líta niður á blaðamenn sem eru að vasast í því sem þeim finnst hálfgerð einkamál sín.
Blaðamönnum er því nauðsynlegt að hafa góða menntun, annars fá þeir minnimáttarkennd sem getur orðið þeim fjötur um fót í starfi.
Ekkert dugar minna en háskólamenntun.
Talaði lengi við Bjarna Benediktsson í dag. Hann er mér ákaflega hlýr. Hann er einn þeirra manna sem mörgum hættir til að umgangast af þrælsótta, en það borgar sig ekki.
Hann er að vísu voldugur og áhrifamikill en ég hygg honum falli bezt frjálsmannleg og ákveðin framkoma og sjálfstæðar skoðanir.
Hundsleg framkoma fellur engum í geð. Hún dregur úr virðuleik manna og heyrir síðustu öld til en ekki þeirri sem við nú lifum .
Bjarna er aftur á móti gjarnt að líta svo á að hans skoðanir séu réttar en það má hafa áhrif á þær með lagni.
Bjarni ræddi einkum um hvað nauðsynlegt væri að bæta bókmenntagagnrýni Morgunblaðsins og fá fleiri bókfróða menn til aðstoðar blaðinu.
Ég benti honum t.a.m. á Eirík Hrein, hann er ágætur maður hvað sem Þjóðviljinn segir um þýðingu hans á Hægláta ameríkumanninum eftir Green.
Eiríkur er einfaldlega of bundinn við frumtextann. Það er vegna óöryggis. En hann er góður bókmenntamaður og vandvirkur.
Hann vill gefa út ljóðabókina mína en ég læt Ragnar í Smára fá hana, þegar ég hef lokið við hana í haust.
Bjarni er að hugsa málið.
Talaði aftur við Sigurð A. Magnússon um skáldskap í gær og hann sýndi mér ljóðasafn D. H. Lawrence. Sagði að mín kvæði minntu á ljóð hans. Við hefðum t.a.m. svipaða afstöðu til dauðans.
Ég er ekki frá því þetta sé rétt.
Lawrence er mikið skáld og ég ætla að kynna mér ljóð hans betur.
Bjarni er skæður pólitíkus. Hann sagði við gætum gert gagnrýni Bjarna Benediktssonar frá Hofteigi í Þjóðviljanum skaðlausa með því að benda á hverja útreið Baugabrot Nordals hefði fengið í ritdómi hans.
Það er hægt að gera þá alveg skaðlausa, endurtók Bjarni og brosti.
9. ágúst 1957
Við Sigurður A. Magnússon skruppum út á Almenna bókafélag, ræddum við Eyjólf Konráð og Eirík Hrein. Hann er heldur dapur yfir ritdómnum. Ber þó litla virðingu fyrir Bjarna frá Hofteigi.
Orti kvæði í kvöld:
Þú heyrðir ekki þegar nóttin kom hljóðum skrefum. . .
Ástríður; hverfulleiki, hann sækir á mig, ég veit ekki hvers vegna. Kvæðið er í myndum og þær eiga að sjá um efni þess.
Meðvituð áhrif frá Lorca.
Hef verið að skoða Sígauna-ballöðurnar í þýðingu danska skáldsins I. L. Johannsens. Tákn og myndir eftirminnileg og veita kvæðunum almennt gildi og persónulega nálægð.
Hef að vísu lítinn tíma til lestrar. En góðar bækur eru mér mikil næring eins og óvænt fegurð í náttúrunni.
Þessar stopulu stundir með kvæðum veita mér gleði og fyllingu.
Ég á þær einn.
Legg svo árangurinn undir dóm annarra.
Sýni þau oft Jóni Dan.
Hann er þægilegur en hreinskilinn og segir álit sitt alltaf skýrt og skorinort.
Held hann líkist Jóhanni Sigurjónssyni að skaplyndi og lýrisku upplagi.
Sýndi honum fyrir nokkrum vikum Ást, Sorg, kvæðið um Riddarann prúða og annað úr þeim innblæstri og gladdist yfir því, hvað hann fór jákvæðum orðum um kvæðin.
Kannski gæti ég eitthvað ort að gagni, ef ég hefði tíma.
Ætla að sýna Jóni kvæðið um Kalypsó, Þið komið aftur og sitthvað fleira.
Það er að vísu erfitt að bera tilfinningar sínar þannig á borð, en nauðsynlegt.
Ég er hamingjusamur í lífi mínu en sál mín er sambland af þjáningu og gleði. Ljóð mín sækja næringu í eðlislægan kvíða og þótt ég sé hamingjusamur í einkalífi mínu er hann alltaf á næstu grösum.
Skáld mega ekki vera fullkomlega hamingjusöm eða kvíðalaus, þá hætta þau að yrkja. Að þessu leyti eins og öðru sér náttúran um þá sem hún ætlar það hlutverk að yrkja.
13. ágúst 1957
Ræddi við Bjarna Ben. í gær. Hann vill að við Sigurður A. skrifum ritdóma um bækur Almenna bókafélagsins.
Hef lítinn áhuga á því.
Vil ekki vera gagnrýnandi, heldur höfundur.
Hef líka nóg með Njálu í íslenzkum skáldskap.
Einar Ólafur ( Sveinsson prófessor)er farinn að reka á eftir mér en ég veit svei mér ekki, hvort ég lýk henni fyrir haustið, eins og ráðgert er. Það er mikið verk.
Og nauðsynlegt að gefa sér góðan tíma.
Ég hef gaman af að skrifa um bókmenntir sem ritskýrandi, en ekki gagnrýnandi.
Skrifaði í Morgunblaðið um heimsókn Kekkonens. Allt á hlaupum. Blaðamennska er heillandi, en erfitt starf.
Er á vakt í dag.
Þetta er eintómt puð. En mér leizt vel á Kekkonen. Hann er allra karla kjálkamestur.
Gengur í augun á konum,kannski þess vegna!
15. ágúst 1957
Bjarni bað mig fara í Þjóðleikhúsið í gærkvöldi en þar var hátíðarsýningin í tilefni af heimsókn Kekkonens. Einar Ásmundsson (ritstjóri Morgunblaðsins) gæti ekki farið.
Ég tók því fjarri. Mér leiddist hátíðarsýningar og auk þess ætti ég hvorki kjólföt né smóking.
Bjarni féllst á rökin. Sagði nóg yrði á mig lagt þótt ég yrði ekki líka í einhverjum lörfum innan um allt fína fólkið.
Það varð svo úr að Sigurður A. var látinn dubba sig upp og fara. Hann er miklu meiri samkvæmismaður en ég og svo skilst mér hann eigi gríska orðu. Hann fékk hana víst fyrir Gríska reisudaga. Kannski fæ ég orðu þegar Njálan kemur út!!!
Barði Lesbókina saman í gærkvöldi.
Grein Valtýs Stefánssonar um Ólaf Davíðsson ,þjóðsagnafræðing,vin hans, er fín.
Honum tókst það vandasama: að sjá þessa löngu liðnu atburði með augum barnsins.
Ferðasaga Jóhannesar Helga er einnig skemmtileg. Gamalt og nýtt betur fléttað saman en í frásögn minni frá Kaupmannahöfn í jólablaði Morgunblaðsins í hittiðfyrra.
17. ágúst 1957
Mér líður vel.
Samt er svartsýnin að ná tökum á mér.
Og kvíðinn.
Það kemur án tilefnis og svo er það dauðinn. Hann er hin hliðin á stoltinu. Andspænis honum rennur allt um greipar manns eins og sandur.
Sagt að Asíu-inflúensan sé að verða skæðari en áður í Chile. Það er alltaf eitthvað sem ástæða er til að óttast.
Ég er sérstaklega fundvís á það.
Þyrfti að læra eitthvað af þeim sem hugsa aldrei um annað en fugla himinsins.
Ég er víst fæddur með þessum ósköpum.
Æ, þessi ósköp!
Og ég sem þykist vera trúaður get ekki lifað eftir orðum Krists um liljur vallarins og fugla himinsins og að láta hverjum degi nægja sína þjáningu.
Get ekki lifað fyrir ofnæmi(!)
Valtýr hefur haft mikla gleði af að birta greinina um Ólaf Davíðsson. Hann er farinn að missa heilsu og gengst upp við því þegar sagt er við hann að greinin sé góð. En hann samdi hana fyrir tveimur áratugum.
Valtýr er varla svipur hjá sjón. Hann er ekki nema 65 ára gamall. Það er sárt að horfa upp á hann og hvernig hann finnur það sjálfur að hann er farinn að heilsu. Samt á hann mikið eftir.
Og návistin við hann er mikilvæg og dýrmæt.
Bjarni Ben. bað mig skrifa Staksteina um dóm Bjarna frá Hofteigi í Þjóðviljann um Baugabrot Nordals. Ég samdi skammargrein en Bjarni vildi ekki nota hana. Bað mig að semja aðra og vitna meira í Bjarna frá Hofteigi.
Þessir karlar þyldu sízt af öllu tilvitnanir!
Ég sagði,Bjarni,ef þú vilt þetta sé algjörlega eftir þínu höfði,verðurðu að skrifa þetta sjálfur.
Hann brosti.
Hef ekki skrifað nein samtöl upp á síðkastið. Hef ekki haft hug á því. Hef haft í nógu að snúast. Og samtölin taka á taugarnar.
Kannski treysti ég mér í þau aftur með haustinu.
Þótti grein danska rithöfundarins Jens Kruuses um handritin góð. Þýddi hana í Mogga.
Skrýtlan um svertingjann og kjúklingana var ágæt og mér finnst hún lýsa dönskum íhaldsmönnum vel eins og stendur.
Svertinginn fékk mörg vitni til að sanna að hann væri saklaus að því að stela kjúklingunum. Þegar dómarinn sagði að hann mætti fara svaraði svertinginn, Er það svo að skilja að ég megi halda kjúklingunum!
Sverrir Hermannsson er með eitthvað í maganum,ekki bara þingmann! Hann á að fara í rannsókn. Kannski hann drekki of mikinn bjór?
Sverrir sagði mér sögu af Brynleifi Tóbíassyni. Hann er óforbetranlegur sagnamaður.
En ég hef gleymt sögunni.
18. ágúst 1957
Fórum í Heiðmörk.
Tíndum dálítið af berjum.
Allgott veður, þó er langt síðan sólin hefur sýnt sig að ráði eins og veðrið var dásamlegt síðast í júní og fyrra hluta júlí.
Hlustaði á útvarpsþátt Gunnars G. Schram um Þórberg og samtal við hann um drauga og eilífðarmál. Þórbergur fór með draugasögur eftir séra Árna (Þórarinsson). Bezt þótti mér samt þessi setning:
Við getum gert ráð fyrir að guð sé til!
Ennfremur:
Okkar tímar eru slæmir, einkum fyrir andlega lífið.
Það hlýtur að koma að því að framtíðin líti á okkar tíma eins og við á miðaldirnar. Þetta slæma ástand kemur fram í bókmenntunum því að þær eru spegilmynd samtímans í stað þess að samtíðin ætti að vera spegilmynd af þeim.
Við erum of gjörn á að laga okkur eftir kringumstæðunum í stað þess að láta kringumstæðurnar laga sig eftir okkur.
Alltaf kemur séra Árni þegar verst gegnir, sagði draugurinn.
Kannski það sé hægt að gera þessa setningu sr. Árna Þórarinssonar að orðtaki.
21. ágúst 1957
Valtýr hafði mikla dulræna hæfileika áður fyrr. Það mótaði lífsviðhorf hans. Mér er sagt hann hafi jafnvel ráðið blaðamenn eftir árunni sem geislaði af þeim þegar þeir komu í atvinnuleit.
Valtýr sagði mér að hann hefði séð Ólaf Davíðsson koma á móti honum við annan mann þegar hann var dauður.
Ólafur var niðurdreginn og dapur í bragði og af því dró Valtýr þá ályktun að hann hefði fyrirfarið sér. Þegar Valtýr hafði horft á þá félaga stundarkorn hurfu þeir til kirkjugarðsins.
Skærasta ára sem Valtýr hefur séð glitraði út frá séra Árna Sigurðssyni þegar hann stóð á brúnni á Fróða og blessaði yfir kisturnar fimm á þilfarinu.
Valtýr hefur sagt mér að skömmu eftir að Hallgrímur ,vinur hans í SÍS, dó kom hann til hans að kveðja hann, en Hallgrímur andaðist meðan Valtýr var hjá honum.
Hann sá áru Hallgríms út frá öllum líkamanum og hún var enn þegar hann fór frá honum dauðum.
Nokkrum dögum síðar kom hann aftur í þetta sama herbergi í Þingholtunum og sá þá áruna liggja eins og áður þar sem líkið hafði verið.
Ég sagði Kristmanni skáldi þessa sögu og skýrði hann málið fyrir mér á guðspekilegan hátt.
Hér er um að ræða eterlíkamann, sagði hann. Hann gegnir mikilvægu hlutverki, t.a.m. hverfur sálin inní hann þegar við sofnum, en hann verður eftir þegar við deyjum og sálin skilur við líkamann.
Kristmann sagði það hefði gerzt við andlát Hallgríms. Valtýr hefði séð síðustu leifarnar af vini sínum þar sem þær lágu í svefnherbergisloftinu.
Ræddi stundarkorn við Valtý í gær. Hann sagði að margir hefðu látið í ljós ánægju yfir greininni um Ólaf Davíðsson.
Kunni ekki við að segja mönnum að ég hefði stolið henni frá sjálfum mér(!)
Sagði Valtýr.
Átti samtal við Kristínu Pétursdóttur frá Svefneyjum í gær.
Það birtist á laugardag.
Reyndi að upplifa orðfæri gömlu konunnar. Lífsbarátta hennar er einnig athyglisverð fyrir æskuna.
Hef sérstaklega gaman af að ræða við svona óbrotið alþýðufólk sem hefur á langri og erfiðri ævi barizt til sigurs. Þetta er fólkið sem skildi íslenzku fjöllin.
Hver skilur þau nú?
Og Íslendinga sögurnar.
Hver skilur þær ?
Jón úr Vör sagði mér að hann hefði verið hrifnn af Valtý að mörgu leyti. Hann hefði ort í Lesbókina í sínum stíl og skyldi ég kynna mér þessi kvæði. Þau væru nafnlaus. En Valtýr er ekkert sérstaklega frjór, bætti Jón úr Vör við.
Ræddi við Sigurð A. um Pirandello hinn ítalska. Hélt skoðunum hans ákaft fram, þ.e. að hlutlaus veruleiki væri ekki til, aðeins persónulegur veruleiki.
Sigurður segir að þessi skoðun sé hættuleg.
Hann spurði hvort atburðirnir í Ungverjalandi væru ekki veruleiki þótt þeir létu suma menn ósnortna.
Auðvitað, sagði ég, þeir væru ekki minni veruleiki fyrir það.
Þeir sem létu atburðina í Ungverjalandi fara framhjá sér eins og þeir hefðu aldrei gerzt lifðu ekki í okkar samtíð.
Innrás Rússa og byltingin í Ungverjalandi væri ekki sízt veruleiki vegna þess hún væri persónuleg reynsla, jafnvel okkar á hjara veraldar, atburðirnir væru einungis til í hugum þeirra sem lifðu þá og yrðu fyrir áhrifum af þeim.
Síðar mundu þeir gleymast,að mestu.
Síðar yrðu þessir atburðir eins og hvert annað ópersónulegt tilvik í augum þeirra sem hefðu ekki upplifað þá.
Aftur á móti viðurkenndi ég að allur þorri manna lifði ekki í samtíð sinni, þeir væru ósnortnir af henni.
Í verkum Pirandellos væru smæstu atriði veruleiki í lífi þeirra einstaklinga sem hefðu mótazt af þeim. Þetta kæmi vel fram í Sex persónur leita höfundar.
Er leikritið Veruleiki eða ekki?
Auðvitað er það persónulegur veruleiki. Það hefur áhrif á þá sem sjá það, ekki aðra. Því væri kannski ómögulegt að greina hvort það væri raunveruleiki eða aðeins leikrit.
En það væri meira en leikrit í hugum þeirra sem hefðu séð það.
Sigurður sagði að ómögulegt væri að greina blekkingu frá veruleika. Og þar með var samtalið komið í sjálfheldu!
Ég ætla einhvern tíma að yrkja ljóð um þessi ytri áhrif, hvernig maðurinn mótast af umhverfinu, reynslu sinni.
En ég hef ekkert ort undanfarið, það er í mér einhver kvíði.
24. ágúst 1957
Hitti Júlla skóara í morgun. Hann er ánægður með samtalið og segir það falli í góðan jarðveg. Sumir séu þó óánægðir með myndina af honum. Hann sé með lokuð augu.
En Júlíus hefur svör á reiðum höndum:
Spekingar sjá ekki með augunum, svarar hann.
Einar Ásmundsson ákvað í gær að viðtal mitt yrði á 11. síðu en ekki 6. eða 9. síðu eins og venjulega.
Ég mótmælti.
Sagðist ekki vilja endaþeytast um allt blað.
Einar varð hálfhikandi. Sagði að grein Garðars Gíslasonar ,stórkaupmanns, væri mikilvægari en mitt viðtal.
Ég mótmælti enn.
Benti á að hún hefði átt að birtast í Ísafold því hún hefði áður verið í útvarpinu.
Einar sagði að Garðar væri gamall maður. Honum myndi mislíka að vera settur á 11. síðu.
Ég dró mig þá í hlé. Kvaðst mundu beygja mig fyrir ellinni. Ég virti Garðar Gíslason mikils.
Ég held ég hafi verið í einhverjum hornkerlingarstellingum.
Einar var ánægður með samtal okkar að lokum. Hann sagði að Morgunblaðið ætti Garðari margt upp að unna og ef hans hefði ekki notið við "þá væri enginn okkar hér".
Valtýr er ekki allskostar ánægður með Garðar. Segir að hann sé þumbari og hafi ætlað að skipta sér af blaðinu. Það hafi gengið svo langt að hann hafi kallað Valtý óskrifandi.
Það hefur gamli maðurinn aldrei fyrirgefið.
Valtýr átti erfitt með að samþykkja að Einar kæmi að Morgunblaðinu. Telur að hann sé sérstakur fulltrúi Garðars, frænda síns.
Það er að mörgu að hyggja.
28. ágúst 1957
Er enn að lesa Lorca.
Talaði við Bjarna M. Gíslason ,rithöfund í Danmörku, í dag.
Hann segir að stjórnin hefði ekki átt að taka upp handritamálið nú því að unnið hefði verið að því að fá áskorun dönsku ungmennafélaganna og bændasamtakanna til Þjóðþingsins um að skila handritunum.
Nú er það dautt mál í bili, sagði Bjarni, blaðaskrif fæla menn frá undirskriftum. Ef við hefðum fengið frið til að vinna bak við tjöldin hefðum við fengið handritin á næsta ári.
En nú yrðum við að bíða þangað til aftur yrði hljótt um málið og handritanefndin lögð niður.
Sagði Bjarna Ben. frá þessu.
Hann hefur takmarkaðan áhuga á málinu, finnst það leiðinlegt, eins og hann komst að orði.
Jú að vísu væri gaman að geta sýnt handritin útlendingum hér heima — en í sannleika sagt, bætti hann við, er þetta ósköp leiðinlegt mál.
Svo bætti hann við:
Danir eru svo góðir drengir að þeir láta okkur hafa handritin einhvern tíma þegar vel stendur á hjá þeim".
Hitti Alexander Jóhannesson (háskólarektur og kennara minn í samanburðarmálfræði). Hann var jafn ágætur og ávallt.
Ég sagði honum að ég hefði haft í hyggju að sækja um lektorsstarfið í Bergen en hætt við vegna þess mér hefði skilizt að Finnbogi Guðmundsson ætti að fá embættið.
Hann kvað svo vera. En sagðist hafa lektorsstarf á hendinni næsta vor. Það yrði í Þýzkalandi.
Alexander er góður gömlum lærissveini. Hann er bjartsýnin holdi klædd. Hann er sjálf trúin á framtíðina. Maður þarf víst að vera 70 ára gamall til að trúa á framtíðina á þessum tímum!
Gekk í dag frá síðustu Lesbókinni sem ég sé um. Ekkert sérstakt í henni.
Hitti Árna Óla og benti honum á ágæta grein um Asíu-inflúensuna í Harpers. Hann sagðist hafa álit á því tímariti en bætti við, Þetta er aktuel grein, hún á ekki heima í Lesbók! Settu hana í Moggann.
Ég held þetta lýsi vel afstöðu Árna til Lesbókarinnar. Hún á að vera einhver fornaldargripur, eða öllu heldur kjörgripur.
1. september 1957
Einhverjar umræður um mótmælin fyrir framan rússneska sendiráðið 7.nóvember í fyrra. Þjóðviljinn vitlaus yfir því að ég hafi verið einn af forsprökkunum.
Það er rétt, ég stjórnaði mótmælunum um tíma, meðan allt fór fram með spekt!
Sumir segja að þetta hafi verið skipulagt.
Það er ekki rétt.
Við útbjuggum spjöldin skömmu áður en okkur datt í hug að fara uppá Túngötu og náðum svo í ungverskan fána.
Það þurfti ekki meira til.
10. september 1957
Bjarni Ben. hefur verið í útlöndum og Einar Ásmundsson einnig. Sigurður Bjarnason stjórnar blaðinu og gerir það af áhuga. Honum þykir líklega gott að vera einum um tíma eftir alla valdabaráttuna sem hefur verið á blaðinu undanfarna mánuði. Einar hefur notið Bjarna, enn sem komið er. Ekki veit ég hvað verður.
Átti samtal við Júlíönnu Sveinsdóttur listmálara í dag. Hún var erfið. Fannst ég ungur og óskáldlegur. En það var nú einmitt vopnið á hana. Annað hefði ekki dugað, held ég. Stutt samtal en dálítið hryssingslegt eins og Júlíana er. Það er samt eldur undir ísnum.
Talaði við Stein Steinar. Hann lítur illa út, segist vera með astma. Ég sagði honum hann fengi handritið mitt bráðlega. Hann sagði ég gæti komið hvenær sem væri.
Ragnar í Smára segir Helgafell sé reiðubúið að gefa út ljóðabók mína í haust, ásamt ljóðabók Jóns Óskars. Hef samt ekki enn ákveðið hvort bókin kemur út í haust, finnst vanta í hana kvæði sem ég er ekki búinn að yrkja enn!
Sé þó til.
14. september 1957
Fór með Gunnari Rúnar suður á Keflavíkurflugvöll. Von á Gromyko. Komum þegar þotan var að renna í hlað svo að ekki mátti tæpara standa. Hitti Magnús Kjartansson. Hann naut hylli Rússanna, augsýnilega. Ég stóð við hlið hans þegar hann var kynntur fyrir Gromyko en ekki datt þeim í hug að kynna mig. Ég stóð þarna eins og illa gerður hlutur, en svo fauk í mig vegna framkomu Rússanna og ég óð að Gromyko, kynnti mig — og fékk þetta stutta samtal sem Morgunblaðið birtir. Ég hef ekkert gaman af að leika frekju, hundleiðist blaðamennska í aðra röndina. Og stundum verður maður undir!
Kugjenkov, fréttamaður Tass, er mér innan handar. Við erum góðir kunningjar. Hann sagði mér að Gromyko væri með vélinni, en það má ekki vitnast.
Hitti Stein Steinar í fyrradag. Lét hann fá handritið. Hef ekkert heyrt frá honum enn. Steinn var heldur dapur í bragði, þegar ég kom um kaffileytið.
Hann var við rúmið.
Hann sagði við mig þegar ég gerði þá athugasemd að hann væri horaður og liti heldur illa út:
Já, ætli það sé ekki helvítis krabbinn. Ég er hálfhræddur um það.
Hitti Ásmund frá Skútsstöðum fyrir tveimur eða þremur dögum. Hann talaði mikið. Hann er orðheppinn og segir vel frá. Hefur fallegt tungutak. En stundum getur þetta orðið of mikið hjá karlinum, t.a.m. þegar hann talaði við mig um sykursýki í hálftíma á ganginum í Landsbókasafninu.
Það var ægilegur fyrirlestur. Ég var að hugsa um að láta mæla í mér sykurinn.
Ég spurði Ásmund hvort það væri ekki erfitt að hafa svona stóra ístru.
Nei svaraði hann. Hún er nauðsynleg ballest. Og ég hef unnið mörg mál á henni, bætti hann við.
Síðan sagði hann mér í löngu máli að komin væri bólsturgerð á neðri hæð hússins sem hann býr í , ég held í Skuggahveerfinu,og “þeir hamra og naglfesta bæði daga og nætur svo ég er hættur að geta sofið. Samt er tugthúsdómur fyrir því að slíkt er ólöglegt. Já það er tugthúsdómur fyrir því að reyna að flæma menn út með næturhávaða. Jú sjáðu til. Það er sama og morðtilraun”.
Síðan kvaðst hann hafa lagt málið fyrir félagsmálaráðherra. Nú getur Hannibal (Valdimarsson) sýnt hvað í honum býr. Stattu þig nú og sperrtu halann!
Sagði Ásmundur.
Hann sagði mér frá því þegar Sigfús Elíasson sálmaskáld hitti þá Kiljan niðri í Pósthússtræti, vatt sér að nóbelsskáldinu, beygði sig í duftið svo fingurnir snertu malbikið og sagði:
Má ég heilsa heimsfrægðinni!
Kiljan varð vandræðalegur en heilsaði Sigfúsi samt án frekari vandræða.
Skrýtnir menn í Reykjavík, bætti Ásmundur við.
Mér hefur liðið vel andlega undanfarna daga. Hef ekki ástæðu til annars. Samt er það ekki einhlítt að ástæðurnar og líðanin fari saman.
17. september 1957
Merkisdagur í lífi mínu. Fékk dóm Steins Steinars um ljóðahandritið mitt.
Þú átt að gefa þessa bók út, sagði hann.
Síðan fór hann yfir handritið með mér og gaf kvæðunum einkunn hverju fyrir sig. Tvö eða þrjú sagði hann væru ágæt, sex eða sjö góð, önnur lagleg.
Og skrifaði þessar athugasemdir á handritsblöðin.
Ég varð himinlifandi.
Gagnrýnasta skáld landsins var orðinn helzti ábyrgðarmaður minnar fyrstu ljóðabókar(!)
Skáldið mikla(!)
Ég get í hvoruga löppina stigið. Átti ekki endilega von á því að honum tækist að finna sæmilegt kvæði í syrpunni.
Nú finnst mér engin hætta á að gefa bókina út enda geri ég það sennilega sem fyrst.
Steinn sagði að það leyndi sér ekki að gott talent kæmi í ljós í kvæðunum og eitt fannst mér merkilegt: að hann sagðist ekki finna áhrif annarra skálda í þeim, ég væri sjálfstæður, druslaðist ekki með neina erfðasynd á bakinu.
Steinn er ekki vanur að gæla við fólk.
Hann talar hvorki upp í eyrun á mér né öðrum.
Ég treysti niðurstöðu hans fullkomlega.
Steinn sagði mér hvaða kvæðum hann vill sleppa. Ég féllst á það en veit þó ekki um eitt eða tvö. Ég held ég taki með kvæðið um Jóhann Sigurjónsson.
Samtalið við Gromykov hefur vakið athygli. Kristján Albertsson sagði við mig í gær: Svona á að taka þessa karla, koma þeim í strand! Kristján sagðist hafa verið að Búðum í sumarleyfinu. Það væri fallegt á Snæfellsnesi.
Hann tryði því ekki það væri til fallegri staður á Íslandi.
Kristján sagði mér frá ræðu sem Ibsen hefði einhverju sinni flutt. Hún var minnisstæð, en stutt: Herrar mínir og frúr, sagði skáldið. Ég biðst afsökunar á því að ég get ekki haldið ræðu hér í kvöld. Ég er ekki herra yfir hugsunum mínum nema þegar ég er einn með sjálfum mér.
Talaði við Jón Dan í kvöld. Hann sagði að Hannes Sigfússon væri farinn til Spánar.
Hitti Kristján Karlsson í dag og þakkaði honum fyrir þýðingarnar á Faulkner.
Frábærar.
Hann sagðist mundu skila þakklætinu til Faulkners.
Jón Dan sagði mér að hann hefði skrifað um 30 blaðsíður af nýrri skáldsögu um Þorra en svo heitir aðalsögupersónan. Verður víst heldur stutt, líklega um 100 blaðsíður.
Ég bað Jón í guðs bænum að hafa söguna ekki lengri.
Hann lofaði því !
3. október 1957
Vorum í kvöldboði hjá Sigríði og Bjarna Benediktssyni um fyrri helgi. Auk okkar Hönnu Birgir Kjaran og frú, Kristján Albertsson og Sigurður A. Magnússon og frú.
Skemmtileg nótt.
Fórum heim um sjöleytið næsta morgun.
Kristján er mjög hneykslaður á Rauða rúbíninum eftir Mykle. Sagðist þó ekki hafa lesið bókina. Taldi sig vita innihaldið.
Bjarni lék á als oddi.
Bjarni sagði að pólitík Ragnars í Smára hefði verið hæpin á stundum. En hann væri ágætur maður.
Kristján andmælti og tók málstað Ragnars.
Bjarni sagði okkur margt úr stjórnmálunum, m.a. frá því þegar Jón Þorláksson sagði við hann kornungan, Bjarni, ég hef hugsað mér að þú verðir eftirmaður minn.
Daginn eftir var hringt til Bjarna.
Jón var dáinn.
Bjarni sagði okkur frá því hve mjög honum hefði orðið um þessi orð borgarstjórans, svo ungur sem hann var.
Þá fór hann að tala um að ég og fleiri Vökumenn hefðu verið á báðum áttum í hervarnarmálum.
Ég sagðist hafa staðið við Alþingishúsið 30. marz 1949 og varið það 19 ára gamall ásamt öðrum hatursmönnum stalínismans. En við hefðum viljað loka kanasjónvarpinu og girða völlinn af. Nú væri skemmtilegra fyrir Bjarna að við fylgdum honum af meiri sannfæringu en margir sem hefðu aðhyllzt stefnu hans af ótta við vald hans.
Hann neitaði því ekki.
Hann sagði að ég hefði þurft Ungverjaland til að átta mig til fulls.
Síðan fór hann að tala um að menn tönnuðust á valdabaráttu milli hans og Gunnars Thoroddsens. Helzt mátti á honum skilja að ákveðið væri milli þeirra tveggja að Bjarni tæki við af Ólafi.
Hann sagði að honum þætti gaman í blaðamennsku, en bætti við: Samt er maður svo veikur fyrir að ekki mundi maður standast það ef ráðherradómur biði manns.
Bætti þó við litlu síðar að hann vildi alls ekki verða ráðherra aftur. Hann væri hamingjusamur eins og væri.
Hví ætti ég að vera að eyðileggja hamingju mína fyrir aðra? sagði hann.
Mér þótti hann skemmtilega manneskjulegur og lítillátur þegar hann sagði þetta.
Því betur sem maður kynnist Bjarna því meir metur maður hann. Skammirnar og ónotin eru aðeins gárur á yfirborði, viðkvæmni og góðleikur búa undir niðri.
Bjarni hvatti okkur Sigurð A. til að vera áfram á Morgunblaðinu.
Ég veit ekki hvers vegna þú ert blaðamaður og átt að vera blaðamaður, sagði hann við mig.
Ég fullyrti að hann hefði talið þegar hann kom að Morgunblaðinu að þar væru fyrir hálfgerðir hálfvitar en nú "hefurðu séð að við erum ekki eins vitlausir og þú hélzt!".
Hann samþykkti þessi orð með þögninni.
Þetta kvöld leið eins og fljót sem gleymir bökkunum af gleði yfir að renna án þess vita það.
Fékk í dag bréf frá Kristmanni. Hann mótmælir því sem hann kallar þvaður í samtali mínu við Guðmund Frímann skáld.
Hann er viðkvæmari fyrir persónu sinni en ég hélt.
Ég leit á ummælin um hann eins og hvert annað gaman.
Þarf að athuga þetta betur og reyna að ná tali af Kristmanni. Ræði einnig um bréfið við Bjarna.
Sá Horft af brúnni um daginn og flutti þátt um það í útvarpið. Stóð vel að vígi vegna samtals míns við Arthur Miller.
Ragnar í Smára ætlar að gefa út ljóðabókina mína fyrir jól. Ég reikna með því þetta sé nógu nýstárleg ljóð til að kalla yfir mig einhver óþægindi en eitthvað verður þetta að kosta.
Október 1957 – ódagssett
Guðmundur Frímann skáld virðist vera ánægður með samtal okkar í Morgunblaðinu. Hann segist helzt vilja að ég skrifi ævisögu sína þegar hann verður sjötugur, “þú ert manna líklegastur til að geta pumpað upp úr mér allan skrattann, það fann ég um daginn!” Einhverjum kunningja hans sem hefur fremur þekkt hann sem ráðsettan borgara á Akureyri en bóhem, hefur víst fundizt hann heldur skjáhrafnslegur í þessu samtali. Hann segist kæra sig kollóttan um það, enda beri ég alla ábyrgð á því
“Hví skyldi maður ekki mega dvelja við gamlar minningar óáreittur ef einhver hefur gaman af að hlýða á?”
Hann er ósköp hrifinn af mynd Gunnars Rúnars sem birtist með samtalinu , það leyni sér ekki á myndinni að hann sé mikið skáld, menn hefðu haft orð á því!.
” Kvað svo rammt að þessu, að kona mín varð bálskotin í mér á ný!”
Hef fengið athugasemd frá Kristmanni vini mínum Guðmundssyni. Við erum miklir mátar en nú hefur honum sárnað. Mér þykir það leitt því það var sízt af öllu ætlunin. En við eigum eftir að ná saman aftur ef ég þekki Kristmann rétt.
Hann segir:
“Í viðtali þínu við Guðmund Frímann sunnudaginn 6. október, segir hann m.a. þvætting um mig:“ – og nú segir Kristmann að kommúnistar sitji um líf sitt ! “. Því er nú ver, að mér hefur aldrei auðnazt að gera kommum hérna þá bölvun, er réttlætir slíkt sjálfsálit.
Þetta er auðvitað lúalegasta kjaftæði og leiðinlegt að sjá það í Morgunblaðinu. Þú ættir að vera orðinn nógu reyndur sem blaðamaður til þess að vita, að ef þú átt tal við óvandaða og kjöftuga menn, máttu ekki láta allt flakka, sem þeir láta út úr sér... “
Geri mér nú betur grein fyrir viðkvæmni Kristmanns og þá ekki sízt þegar kommúnistar eru annars vegar. Hann hefur verið hundeltur, það er rétt. Hann hefur líka gefið höggstað á sér, en það er líklega erfitt að komast hjá því eins og tímarnir eru.
Ég hef mikla samúð með Kristmanni, hann hefur ávallt sýnt mér hlýhug og á ekki annað skilið af mér en góðvild. Það tekur mig sárt að hafa sært hann. Hann er stoltur og var um sig. Og svo á hann mikið ríki að verja. Það hafa ekki allir íslenzkir rithöfundar lagt Noreg að fótum sér.
Ég man einungis eftir Snorra.
9. október 1957
Hitti Kristmann í dag. Hann var óánægður. En þegar ég hafði skýrt honum frá málavöxtum og bent honum á að hér væri um gamansemi að ræða og bréf hans og viðbrögð barnaleg, þá tók hann bréfið reif það og henti.
Ég tíndi partana upp og límdi saman.
Held við Kristmann séum jafngóðir kunningjar eftir sem áður.
Ragnar í Smára hringdi í mig í dag og sagði að hann hefði marglesið bókina mína og væri þeirrar skoðunar að kvæðin væru góð. Vill gefa þau vel út en ekki með skreytingum. Það væri of kostnaðarsamt.
Hitti Kristján Davíðsson og Jón Óskar. Jón sagði að það væri mátulegt á Krúsjeff að Björn Franzson væri sammála honum í listmálum. Annars eru allir að tala um gervitungl Rússanna, eða spútnik. Ég vona bara hann falli í hausinn á Krúsa. Þeir segja að fyrsta tunglferðin verði farin 1962. Gervihnettir auka okkur útsýni, en þeir stækka ekki manninn.
Erum að undirbúa Stefni. Vonandi verður hann betri næst.
10. október 1957
Ragnar í Smára og Kristján Albertsson komu upp á Mogga í dag. Kristján var hneykslaður á samtalinu við Guðmund Frímann vegna þess að þar er talað um að innblástur komi yfir skáldið eins og steypt sé hlandi úr fötu. Kristján er síð-rómantíker og á erfitt með að aðlagast slíku orðfæri. Hann sagði að þetta væri jafn hneykslanlegt og þegar Þórbergur fullyrti í Bréfi til Láru að Íslendingar væru í rassinum á Goethe!
Gunnar G. Schram er á förum til Þýzkalands. Hann er feginn að hætta á Mogganum sagði hann mér í kvöld. Eftir á að hyggja geti hann ekki skilið hvernig hann afbar árásir Bjarna Benediktssonar á hann í vor.
Gunnar heldur því fram að Bjarni Ben. hafi reynt að hrekja sig af blaðinu. Víst er að þeir Bjarni fara í taugarnar hvor á öðrum.
Ég kvíði dálítið fyrir morgundeginum. Þá birtast þrjár myndir af Bjarna í Morgunblaðinu.
Þjóðviljinn fær nóg að gera.
12. október 1957
Hitti Sigurð Nordal í dag. Ætla að skrifa samtal við hann í jólablað Morgunblaðsins. Drukkum saman koníakslögg.
Nordal hefur ákveðnar hugmyndir um menn og málefni. Fyrst minntist hann á ritstjórn Bjarna Bendiktssonar og sagði að sér fyndist að Morgunblaðið hafi ekkert breytzt við tilkomu hans. Honum finnst Bjarni gáfaður um margt en ákaflega "komplexaður", þótt það hafi lagazt síðustu árin eins og hann komst að orði.
Hann sagði að sér hefði þótt skemmtilegt þegar Bjarni minntist á það við hann að hann yrði sendiherra í Höfn.
Síðan minntist hann á Lesbókina og sagði að hún gæti leikið miklu merkilegra hlutverk í menningu þjóðarinnar en verið hefði .
Drap á Japanskt ljóð eftir Tómas og sagði að sennilega hefði hann ort meira á þeim árum sem hann langaði mest til að yrkja , ef Árni Óla hefði ekki stungið því undir stól. Þá fylgdu þær athugasemdir að Árna væri of vel við Tómas til að birta kvæðið!
Allt er þetta gjörsamlega óskiljanlegt. Japanskt ljóð er eitt af fáum kvæðum sagði Nordal sem menn hafa verið nokkurn veginn sammála um að væri perla ,þegar það birtist á prenti.
Um Davíð Stefánsson sagði hann að síðasta bók hans væri betri en sú næstsíðasta en aldrei hefði hann ort betur en í Svörtum fjöðrum. Hann hefði raunar lítið þroskazt sem skáld. Afturámóti væri eins og öll kvæði hans yrðu að dýrri póesíu þegar hann læsi þau upp sjálfur, það væri svo mikið af röddinni í kvæðunum, á sama hátt og enginn gæti lesið verk Laxness eins og hann sjálfur. Nordal sagði að hann hefði heyrt Davíð lesa Hallfreð vandræðaskáld í hátíðarsal Háskólans og þá hefði kvæðið breytzt í mikinn skáldskap.
Nordal gagnrýndi mjög síðustu bók Brynjólfs Bjarnasonar, fyrrum ráðherra sósíalista,og sagði að hann tryði á framhaldslíf af persónulegri nauðsyn. Væri þó athyglisvert að sjá játningar hans í þeim efnum.
Um Laxness sagðist hann vona-og trúa - að hann hyrfi í náðarfaðm kaþólsku kirkjunnar áður en hann dæi og þó væri bezt að það yrði sem fyrst, eða áður en hann væri dauður úr öllum æðum.
Salka Valka væri mesta ræða sem flutt hefði verið um skipbrot kommúnismans.
Nordal sagði mér þessa sögu:
Einu sinni var séra Leó Júlíusson á Borg að taka inn hey. Það mátti litlu muna að það flæddi ekki og þar sem útlit var fyrir rigningu bað hann Egil duga sér nú vel. Svarta skúr hafði dregið upp undir Hafnarfjall og von bráðar rigndi á Mýrunum nema á Borg — og séra Leó gat náð öllu sínu heyi inn. En nágrannarnir voru víst ekki með hýrri há þegar þeim var litið til Borgar.
Einhverju sinni fór Nordal með Júlíus Bomholt, menntamálaráðherra Dana, upp í Borgarfjörð. Rigning var en hann hét á Egil að duga sér og stytti þá upp þann tíma sem þeir stóðu við á Borg.
Þessar hugleiðingar spruttu af því að Nordal spurði mig upp úr eins manns hljóði, Treystir þú þér til að eiga viðtal við Egil?
Mér varð svarafátt en hann bætti við, Jú, það er víst rétt að lífsviðhorfið er annað. Annars hefur mér alltaf fundizt ég geta fljótlega komizt upp á lagið að tala við Egil, ef ég hitti hann .
Ég spurði Nordal um framtíð íslenzkrar ljóðlistar. Hann sagði að rímið ætti enn eftir að gegna miklu hlutverki. Órímuð ljóð gætu samt hjálpað til að leysa rímljóðin úr böndunum.
Þegar maður sér ævaforn listaverk, sagði Nordal , eins og litlu Venusstyttuna sem fannst eftir 20 þúsund ár, og gerir sér grein fyrir hve lengi hefðbundið form hefur fylgt listtúlkun mannsins, þá er erfitt að hugsa sér að það hætti allt í einu að gegna hlutverki sínu.
Við ræddum um Reykjavík og þótti Nordal hún merkur bær.
En borgin má ekki vera minni, sagði hann , ef hún á að gegna hlutverki sínu .
Og hér er menning. Málið jú, fátæklegra en í sveitunum . En ég veit ekki hvort við höfum eitthvað að gera með öll þessi orð . Og svo geta myndazt ný orð og orðasambönd,borgarmál.
Það er góðra gjalda vert, bætti hann við, hve miklum fjölda af allskonar orðum Kiljan og Þórbergi hefur tekizt að hrúga upp í verkum sínum, en það er líka hægt að skrifa skemmtilegan stíl með einföldum óbreyttum orðum.
Mér datt í hug hans eiginn stíll.
Loks ákváðum við að ég kæmi með Hannes Pétursson í heimsókn til hans. Síðar skyldum við hittast tvisvar eða þrisvar og vinna samtalið og mundi ég svo bræða það saman.
Hitti Sverri Hermannsson, Sverri Þórðarson og Gunnar G. Schram í gærkvöldi. Gunnar sagði að Sigurður A. Magnússon væri snobb. Ég finn mér til leiðinda að gömul traust vinátta er að gliðna sundur eins og skip í stórsjó. Kannski á Morgunblaðið eftir að eyðileggja okkur alla án þess við gerum okkur grein fyrir því .
Það er mikil spenna í kringum okkur.
Úlfaldar gerðir úr mýflugum.
Bjarni Benediktsson er að taka ástfóstri við mig. Það veldur einhverri öfund, ég finn það. Machiavelli á ekki við mig.
Kann betur við Lorca!
14. október 1957
Vorum heima hjá Sigurði A. Magnússyni í gærkvöldi. Þar voru Jón Dan, Guðmundur Gíslason , sem skrifaði Síldarsöguna, og Kristján Albertsson.
Guðmundur telur íslenzka leiklist í litlum blóma. Hrósar þó Browning-þýðingunni.
Fórum ekki heim fyrr en undir morgun.
Kristján var skemmtilegur að venju. Sagðist hafa heimsótt Einar Benediktsson suður í Herdísarvík ásamt fleiri mönnum. Einar hafði gaman af heimsókninni og skálaði vel og lyfti glasi sínu hátt á loft að vanda.
Áður en gleðskapurinn var úti tók hann Árna Pálsson afsíðis og sagði við hann þegar hann hafði gengið úr skugga um að enginn heyrði til, Heyrðu, prófessor, heldurðu að mér hafi verið sómi að þessu sem ég hef verið að ríma um dagana?
Einar var víst oft í vafa um kvæði sín.
Einar sagðist í sama samkvæmi hafa verið að reyna að benda þjóðinni á nýja og gagnlega hluti en hún hefði aldrei gert annað en forsmá það.
Menn hafa gert hróp að mér, sagði hann , fyrir þetta , ráðizt á mig með óbótaskömmum og snýtt sér síðan á fingrunum!
Kristján sagði margar fleiri sögur. Svo fór hann enn að tala um Roðastein Mykles .
En hældi Henry Miller og kynlífssögum hans.
20. október 1957
Bergur Pálsson hringdi til mín í gær . Sagði að Steinn hefði verið skorinn upp.
Án árangurs.
Krabbamein,sagði Bergur.
Ég heimsæki Stein í vikunni.
Við Gunnar G.Schram töluðum lengi við Jón á Akri í gær. Hann var kominn talsvert í kippinn. Skemmtilegur karl, Jón. Hann las fyrir okkur þingsályktunartillögu sem hann ætlar að flytja um fjármálastjórnina.
Það tók víst korter.
Síðan fór hann að lesa ferskeytlur eftir sig og aðra og hló eins og fermingarbarn.
Þegar ég sagði okkur vantaði svona sveitarhöfðingja eins og hann suður til Reykjavíkur svaraði hann :
Vonbrigði þá væru heit
veraldar í hjalla,
ef þú kysir í okkar sveit
og ég skyldi falla.
Flensan er að leggja alla bæjarbúa í rúmið.
Hitti Tómas Guðmundsson í fyrradag út af Frjálsri menningu. Tómas var vel kenndur.
Talaði við Sigurð Grímsson. Hann er ákaflega stoltur af ritdómi sínum í Morgunblaðinu um Kirsuberjagarð Tjekovs.
Ég get allt sem ég vil, sagði Sigurður og tók í nefið. Það gerir hann alltaf þegar hann er kenndur.
Hitti Eggert Stefánsson heima hjá honum í gær. Ætla að skrifa samtal við hann . Reyna að gera úr því læsilega grein. Urðum að hætta í gær því allt drukknaði í sherrýi.
Eggert þolir lítið.
Ætla að leggja mig fram um að lýsa honum vel í samtalinu.
8. nóvember 1957
Fékk í dag bréf frá Aðalgeir vini mínum Kristjánssyni en við vorum saman í Kaupmannahöfn veturinn 1955-56 og hann var oft heima hjá okkur Hönnu, gætti Halla stundum á kvöldin þegar við þurftum að fara út.
Góður drengur og gegn.
Hann segir í bréfinu að hann hafi lesið í viðtali við Ragnari í Smára að ég væri í þann veginn að sýna ljóðum mínum dagsins ljós, eins og hann kemst að orði.
“Þetta finnast mér vissulega góðar fréttir. Ragnar sagði einnig, að það væri enginn viðvaningsbragur á þeim, enda segir mér trúa mín, að þú sért búinn að liggja í þeim síðan forðum daga í kóngsins Kaupmannahöfn, og þó lengur, svo nú sé búið að sverfa inn að stálinu.
Veiztu hvað ég er hræddastur við fyrir þína hönd? Það er að þú fáir of góða krítík, svo að komandi pródukt verði ekki unnið af jafnmikilli gagnrýni, ekki ort eingöngu til að gefa ákveðnum tilfinningum útrás, ekki orðið til á jafn eðlilegan hátt og hagablómin, sem vaxa af því að sólin skín og vorregnið fellur á þau, heldur eins og nytjajurt, sem þýtur upp vegna ofurgnægðar áburðarins.
Taktu eftir því, hve mörgum þeim, sem við skáldskap fást fer lítið fram og það á alveg sérstaklega við um Íslendinga, hvað þeir fara snemma að skrifa og yrkja sig niður.
Þetta á við um flesta eða alla okkar rithöfunda og höfuðskáldin líka.
Taktu þetta ekki of alvarlega. Það er gott að byrja vel, en miklu betra að bæta við eftir því sem tímar líða, og nóg um það.”
Þessi orð Aðalgeirs eru athyglisverð og ég á ekki eftir að gleyma þeim í bráð.
Ég held það hjálpi mér hvað ég hef verið seinþroska. Ég hef því tímann fyrir mér og get vonandi bætt miklu við það sem nú er.
En ég held það sé mikið til í því sem Aðalgeir segir.
Vonandi fæ ég ekki of góða dóma sem slæva dómgreindina og sannfæra mig um að mér séu allir vegir færir.
Ég á ekki heldur von á því.
Ég á svo mikið af óbirtum kvæðum sem ég hef ort fyrir pappírskörfuna að það er víst engin hætta á því að ég slaki á klónni í þeim efnum.
Ég hef verið harður við sjálfan mig og ætla að vera enn harðari. Ég hef ort mikið, en birt lítið.
Vona samt ég fái ekki svo vondar viðtökur að það dragi úr mér allan kjark. Ég hef held ég enga tilhneigingu til mikilmennskubrjálæðis,en minnimáttarkenndin er á næstu grösum.
Hæfileg uppörvun væri því ákjósanlegust.
10. nóvember 1957
Lagðist í rúmið. Fékk líklega væga flensu. Hún hefur herjað á bæinn og varla unnt að koma Morgunblaðinu út um skeið . Sagt er að önnur bylgja sé að fara af stað austur í Japan, með fylgikvillum. Þetta er að verða heldur ískyggilegt. Margir með yfir 40 stiga hita og kastast niður aftur og aftur.
Nú hef ég skrifað samtalið við Eggert. Margir segja það sé bezta samtalið mitt.
Eggert sagði mér í gærkvöldi að hann hefði hitt Gunnlaug vin sinn Blöndal listmálara.
Hann er geníös, segir Eggert. Hann er frændi þinn.
Hann sagði við mig, Er nýtt eldfjall á Íslandi?
Eggert sagðist vera búinn að lesa samtalið við sig fimm sinnum. Í kvöld var samtal við hann í útvarpsþættinum Um helgina, þar minntist hann á samtalið okkar.
Ég hef líka haft ánægju af að skrifa samtalið við Jón Arason sjómann sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Þessi dulrænu efni heilla mig æ meir. Bjarni Ben. segist ekki trúa frásögn Jóns. Þetta er bara ímyndun, sagði hann , en ég kvaðst ekki vera sammála honum um það.
Hann lét það gott heita.
Í dag les Lárus Pálsson upp úr væntanlegri bók minni, ég held þrjú kvæði, Við linditréð og Jóhann Sigurjónsson sem Steinn vildi helzt ekki hafa í bókinni og Vindur um nótt. Ég er ekki fullkomlega ánægður með valið. Finnst það ekki gefa nógu góða mynd af innihaldi bókarinnar en hvað um það. Nú er bókin að koma út.
Hún á að heita Á hausti.
Ragnar Jónsson skýrði hana, Hörður Ágústsson teiknar kápu og segir að bókin verði góð. Jón Dan stakk upp á því að hún yrði látin heita Grös í snjó eða Grös á hausti. En við nánari athugun fóru grösin eitthvað í taugarnar á mér. Það er meira malbik í bókinni en gróður, held ég . Svo verður titillinn að vera yfirlætislaus eins og efnið og höfundurinn!
Ódagsett
Erum að vinna að síðasta hefti sem við gefum út af Stefni. Vonandi verður það gott.
Og á morgun kemur samtal við T.J. Júliníusson skipstjóra hjá Eimskip. Held nokkuð athyglisvert.
Valtýr Stefánsson kom til mín í gær. Hann var ákaflega glaður og sagðist ætla að segja mér fréttir. Hann hefði hitt Sigurð Nordal í veizlu hjá Knut greifa,sendiherra Dana, og hefði hann óskað sér til hamingju með þessar samtalsgreinar mínar.
Valtýr var í sjöunda himni.
Valtýr sagði mér að hann hefði lítið álit á Houmark hinum danska, hins vegar hefði Anker Kirkeberg verið bezti blaðamaður Dana. Hann skyldi ég lesa ef hann hefði verið gefinn út.
Bjarni Ben. fór að tala við mig af fyrra bragði um Almenna bókafélagið. Var argur yfir því að það skyldi ekki gefa út ljóðabókina mína.
Þeir eru steinsofandi þessir menn, sagði hann og vitnaði í Hagalín. Bætti síðan við með áherzlu, Við verðum að breyta til, ef þeir gera það ekki .
Gekk síðan út.
Helgafell hélt bókmenntakynningu á afmæli Jónasar síðastliðinn laugardag,16.nóv.Hún tókst vel, fannst mér.
Var þó leiður yfir því að Lárus Pálsson las eftir mig sömu kvæðin og hann hafði lesið í útvarp fyrir skömmu.
Lárus las vel og ég var ánægður með það.
Færði það í tal við Ragnar í Smára að Steinn hefði sízt viljað hafa þessi tvö kvæði í bókinni, en Ragnar sagði einungis: Steinn er harður dómari, harðari en hann meinar. Hann sagði við mig að það væri í lagi að hafa þessi kvæði með í bókinni, þetta væru allt góð kvæði.”
Mér létti, ég veit ekki af hverju.
23. nóvember 1957 – laugardagur
Fór um daginn til Bjarna Ben. og mótmælti nafnleysisgrein í Velvakanda um kvæði Jóns úr Vör, Lítil frétt í Blaðinu.
Bjarni hafði beðið mig að spyrja Jón hvort við mættum birta kvæðið. Ég benti á hvað þetta væri leiðinlegt. Við hefðum sýnt Jóni ókurteisi. Fyrst hefðum við beðið um kvæðið, síðan birt nafnlausa grein um það hvað það væri lélegt.
Bjarni féllst á að þetta væri rétt athugað hjá mér og bað mig að svara. Ég sagðist ekki hafa tíma til þess en ég mundi biðja Sigurð A. um að gera það.
Síðan birtist hans grein í blaðinu í gær eða fyrradag. Sumir urðu reiðir út af henni, aðrir ánægðir eins og gengur.
Ég hitti Jón sama dag og virtist hann ánægður.
Ég hafði gaman af þessu í Velvakanda,sagði hann.Að nokkrum lifandi manni skyldi hafa dottið í hug að búa til kvæði úr grein eftir Kristján Albertsson!
Sigurður er fljótur að skrifa og getur auðveldlega dregið fram aðalatriði. Mér líkaði vel þegar hann ræðir um muninn á frásögn annars vegar og upplifun í ljóðum (með táknum og myndum) hins vegar. Þetta er kjarni málsins, held ég.
Ég hef verið að tala við Magnús Jónsson ráðherra undanfarið;oftast nefndan dósent. Langaði til að eiga við hann “digurt” samtal eins og Lambertsen á Ísafirði hefði komizt að orði en hann notaði digurt um allt milli himins og jarðar, sagði einhvern tíma að það væri digurt loft í herberginu.
Líkar vel við Magnús.
Vona mér takist að pína hann til sagna! Skrifaði uppkast að fyrra helmingnum í gærkvöldi og hugsa hann sé betri en síðari hlutinn sem er þó líklega athyglisverðari efnisins vegna.
Bjarni bað mig lesa það sem hann segir um Magnús í Reykjavíkurbréfi. Ég vil helzt ekki að neitt stangist á, sagði hann.
Upp úr þessu fórum við Bjarni að tala um stjórnmál á þeim árum þegar Magnús lét mest til sín taka, eða til 1942. Bjarni kann stjórnmálasöguna utanbókar. Hann sagði að enginn vafi léki á því að Magnús prófessor hefði borið af á Aliance-fundinum þótt hann reyndi sjálfur að draga fram hlut Ólafs Thors. Magnús hafi verið glæsilegur ræðumaður.
Jón Þorláksson hefði verið merkur forystumaður en hann hefði getað verið ákaflega fráhrindandi.
Eitt sinn bar ég fram mál í bæjarstjórninni, sagði Bjarni, og á því voru tvær hliðar. Jón tók mig í gegn fyrir það og var ákaflega dónalegur. Mér sárnaði svo við hann að ég gat ómögulega farið að hlusta á hann á Varðarfundi sama kvöld en fór þess í stað í bíó.
En þegar ég kom út stóð karlinn endilega á tröppunum og sá hvar ég hafði verið. Honum hefur sennilega ekki þótt mikið til um áhugann það kvöldið!
Þá sagði Bjarni mér að sjálfstæðismenn hefðu verið orðnir svo leiðir á Magnúsi dósent 1942 að uppstillingarnefnd hafi fellt hann, sjálfan ráðherrann, af listanum, en Bjarni segist hafa kippt því í liðinn án þess Magnús hefði fengið pata af því.
Bjarni ætlar að lesa yfir samtalið á mánudag.
Sá Kirsuberjagarðinn í fyrradag. Leikritið vinnur á og er mjög sterkt sem heild en sumt þótti mér þunnt, t.a.m. annar þáttur og allar grátsenurnar og viðkvæmnin.
Sterkasta hlið verksins er hin tæknilega fullkomnun, engar “dauðar” senur og alltaf eitthvað að gerast. Persónurnar svo vel þræddar ínní heildina að undrum sætir, t.a.m. í þriðja þætti. Þar tekur hver við af öðrum svo að allt fellur í samfellda heild.
Indriði Waage lék bróðurinn svo snilldarlega að ég hef varla séð annað eins. Hann er mikill listamaður. Lárus lék þjóninn vel. Annars fannst mér sýningin of hástemmd og jafnvel væmin á köflum. Og látbragð persóna og fas allt of ýkt.
27. nóvember 1957 – miðvikudagur
Á ritstjórnarfundi í dag ákvað Bjarni Benediktsson að Sigurður A. Magnússon skyldi hætta á vöktum um sinn og skrifa bókagagnrýni á móti Kristmanni og þá ítarlegar en oftast er í þessari verksmiðjuframleiðslu Kristmanns, eins,og hann komst að orði.
Bjarni sagði að Sigurður væri hæfastur okkar á Morgunblaðinu að skrifa þessa gagnrýni og var ég honum sammála.
Einar Ásmundsson ritstjóri hefur ekki sézt síðan á laugardag. Þá kom hann brosandi til mín og fór að tala um það hvað þungt væri í Bjarna . Þetta kæmi með vissu millibili, menn ættu alltaf von á því — og spurði síðan hvort við værum ekki hræddir við þessar sveiflur.
Ég hló bara og sagði að mér væri alveg sama.
Einar fullyrti þá að við blaðamenn hefðum óttazt Bjarna fyrst þegar hann kom á blaðið.
Þetta einkennilega samtal kom mér í opna skjöldu.
Bjarna og Einari lenti saman um daginn. Húsið lék á reiðiskjálfi. Bjarni sagði að Einar skyldi muna að það væri hann sem væri ritstjóri blaðsins og skipaði fyrir verkum, en ekki aðstoðarritstjórarnir ! Það skyldi hann vita í eitt skipti fyrir öll.
Við Valtýr höfum talað um að ég skrifaði ævisögu hans. Bjarna lízt vel á það. Ásmundur er að gera brjóstmynd af Valtý. Honum lízt vel á það sem búið er, Þetta er bara andskoti sympatískur maður, sagði Valtýr þegar hann sá myndina nær fullgerða.
Fór út að skemmta mér með Sigurði A. og Sveini Skorra í fyrrakvöld. Það hófst með rauðvínsdrykkju hjá Eggerti Stefánssyni. Síðan fórum við í Naustið og lögðum það undir okkur, auðvitað.
Skorri sagði það hefði verið sannað fyrir sér stærðfræðilega að maður með ættarnafn sem endaði á sen gæti ekki orðið skáld, en nú sæi hann ekki betur en þetta hefði verið afsannað!
Það var gert með Bjarna Thorarensen og Grími gamla Thomsen,sagði ég.
Talaði við Guðmund Daníelsson í síma í dag og fékk hjá honum brot úr skáldsögu í jólablað Morgunblaðsins. Talaði einnig við Kristmann í síma og held hann sé búinn að fyrirgefa mér samtalið við Guðmund Frímann. Eitthvað var hann þó að muldra um það að við Sigurður A. værum kafbátar og hálfkommar af því að okkur líkaði ekki eitthvert kvæði sem hann nefndi,minnir það sé í Regn í maí eftir Einar Braga.
Talaði loks við Gunnar Gunnarsson og innti hann eftir gömlu loforði, kvæði í Stefni. Hann ætlar að athuga málið. Ég lagði að honum, það væri gaman að geta haft það með svanasöng okkar í Stefni.
Fór enn til Sigurðar Nordals í dag að undirbúa samtalið við hann. Við fengum okkur glas af dönskum bjór og hann talaði einkum um Árna Pálsson.
Þeir hefðu einhverju sinni sem oftar verið á “rannsóknaræfingu” á Þorláksmessu og gert sér dagamun. Sænskur sendikennari hefði stungið upp á því að þeir drykkju glögg og féllust hinir á það.
En eitthvað var drykkurinn göróttur og gerðust menn súrari og þyngri eftir því sem á leið kvöldið. Svo leystist samkvæmið upp og fór hver til síns heima.
Árni var ákaflega leiður yfir þessu slysi, að Þorláksmessa skyldi fara í súginn og fannst það bókstaflega sorglegt.
Þeir Nordal voru samferða heim og gengu í þungum þönkum án þess yrða hvor á annan. Árni stanzar þá allt í einu á Tjarnarbrúnni og segir, Að hugsa sér, ég held ég hafi aldrei verið eins ófullur á ævi minni!
Eitt sinn hitti Nordal Árna í lestrarstofu Háskólans sem þá var í Alþingi. Hann var á kafi í bókum að búa sig undir tíma.
“Ég hafði verið að lesa Manchester Guardian og lagði blaðið á borðið fyrir framan Árna, hélt sem var hann hefði áhuga á grein í því eftir franskan mann. Hún fjallaði um áhrif áfengis á kyngetu karlmanna en út af því hafði Árni allmiklar áhyggjur.
Þegar Árni hafði lesið upphafið sem fjallaði um hve skaðlegt áfengið væri kyngetunni sagði hann, Andskotans vitleysa er þetta!
En svo kom þar í greininni að höfundur hélt því fram að tedrykkja væri kyngetunni gagnleg og hýrnar þá yfir prófessor Árna, hann stendur upp og gengur hálfhring kringum borðið, lítur svo á mig og segir, Það er ekki þar fyrir, að ég er hinn mesti tesvelgur!”
Næst þegar þeir Árni fóru saman á öldurhús og þjónninn spurði hvað þeir ætluðu að drekka, leit Árni undirfurðulega á Nordal og sagði, Ætli það verði ekki te!
Árni Pálsson fór oft með slitur úr eftirmælum eftir séra Matthías og hafði sérstakar mætur á einu vísubrotinu. Eitt sinn spurði hann séra Matthías, eða lárviðarskáldið einsog Nordal komst að orði, um hvern hann hefði ort þessi erfiljóð.
Það man ég ekki, sagði séra Matthías, ætli það hafi ekki verið um einhvern karlskratta í Hafnarfirði!
Síðar kom í ljós að karlinn hafði átt heima í Reykjavík.
Nordal er ákaflega hrifinn af Fragmenter av in Dagbog eftir Paul la Cour en sagði að bókin væri þó ekki uppörvandi. Hann var líka hrifinn af Tove Dittlevsen og fannst kvæði hennar De tre stórkostlegt.
Sigurður Nordal fór svo að tala um Ásgrím og sagði að hann hefði uppgötvað landið eins og Jónas í kvæðum sínum. Ragnar í Smára sagði líka einhverju sinni þegar hann sá mynd eftir Ásgrím, Þetta er eins og kvæði eftir Jónas!
Það fannst Nordal gott.
Hann sagði að Þórarinn B. Þorláksson hefði lært af Ásgrími.
Æ já, nú man ég enn eina sögu sem Nordal sagði mér af Árna Pálssyni, ágæta.
Hann fótbrotnaði á Hótel Borg og var fluttur á Landakot þar sem búið var um sárið. Í sjúkrahúsinu gaf Matthías Einarsson læknir honum vískísjúss.Hann sagði við hjúkrunarkonuna,Viljið þér ekki gefa þessum sjúklingi viskí,það væri bezta meðalið!
Bezti sjúss sem ég hef fengið, sagði Árni og ljómaði af ánægju þegar hann lýsti þessu síðar, og sýndi hver afbragðslæknir doktorinn væri.
Hann þekkti hvorttveggja jafnvel, sjúklinginn og sjúkdóminn.
1. desember 1957
Erindi Sigurðar Nordals um fullveldið, aðdraganda þess og áhrif, var prýðilegt og einkar fróðlegt. Athyglisvert það sem hann sagði um Jón Magnússon, að hann hefði ekki verið metinn sem skyldi. Hann hefði hvorki verið fundarmaður né ræðuskörungur en þeim mun meiri ágætis maður í raun og afar lipur samningamaður. Einn af göllum lýðræðisskipulagsins er sá að froðusnakkarnir njóta sín bezt. Líklega hefur Jóni Magnússyni þótt hið fornkveðna sannmæli, Laun heimsins eru vanþakklæti - þegar hann féll í þingkosningum tveimur árum eftir fullveldið sem hann hafði forgöngu um að stofna.
Um kvöldið flutti séra Bjarni Jónsson ræðu um æsku sína, frábærlega fyndna og skemmtilega. Hann er óborganlegur. Ef hann flytti jafn skemmtilegar ræður í Dómkirkjunni, mundi rýmið í Péturskirkjunni ekki nægja.
2. desember 1957
Guðmundur Daníelsson sendi mér kafla úr nýrri skáldsögu sem hann er að skrifa, Hrafnhettu. Hann segir þetta sé ástar- og harmsaga þeirra Appoloníu Schwarzkopf og Níelsar Fuhrmanns amtmanns á Bessastöðum frá 1718-1733 en þá dó hann innan við fimmtugt. Hún var ástkona amtmannsins en hann vildi ekki kvænast henni. Hún kærir hann fyrir dómstólum og þeir dæmdu amtmann til að giftast henni. Hún kom til Bessastaða 1722 til að fylgja fram rétti sínum ; að verða amtmannsfrú.
En tveimur árum síðar dó hún og þá lagðist á sá orðrómur að henni hefði verið byrlað inn eitur.
Þorleifur Arason var skipaður rannsóknardómari í málinu og sýknaði þá sem ákærðir voru.
Fyrri hluti sögunnar gerist í Kaupmannahöfn en sá síðari á Bessastöðum.
Guðmundur segist vera búinn að vélrita um 220 síður af sögunni en reiknar með að bókin verði öll eitthvað yfir 300 bls. Hann kveðst hafa byrjað á sögunni í september 1956 en snerti ekki á verkinu nokkrar vikur í sumar, eins og hann kemst að orði.
Guðmundur hefur sem sagt mikið að gera. Samt ætlar hann að skrifa ritdóma í Morgunblaðið. “Hrafnhetta á mig og flesta daga helga ég mig henni einhverja stund”.
Það er skáldum nauðsynlegt að vera ástfangin af því sem þau eru að gera. Guðmundur á svona ást til verka sinna. Þau eru skrifuð af ástríðu en ástin getur einnig blindað.
Það er hverjum rithöfundi nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því.
5. desember 1957
Hitti Ásmund frá Skútsstöðum í fyrradag. Hann var glaður og reifur að venju, sagði að Snjáka eftir Einar Benediktsson væri ástarkvæði um Kirsten, dóttur Lárusar háyfirdómara, sem síðar giftist Magnúsi sýslumanni í Hafnarfirði, drykkfelldum.
Þegar Einar dvaldist í Reykjavík á millibilsárunum, sagði Ásmundur, var hann veikur og kom oft á heimili Kirstenar og borðaði þar.
Þá felldu þau hugi saman, sagði Ásmundur.
Ásmundur spurði Einar að þessu þegar þeir sátu einhverju sinni sem oftar yfir púrtara í skrifstofu hans í Veltusundi. Einar sagði að Snjáka væri um unga stúlku sem síðar hefði gifzt sýslumanni sem gekk algerlega fram af henni.
Jón úr Vör kom að okkur þar sem við stóðum á horninu á Austurstræti og Lækjargötu og sagði við okkur nokkur orð, þ.e. hann var neyddur til að hlusta á Ásmund um stund, en svo þegar við Jón urðum samferða upp Laugaveg sagði hann mér að Ásmundur vissi ýmislegt sem gaman væri að skrifa bakvið eyrað, einsog Jón komst að orði.
Hann sagðist vera sammála Ásmundi um það að Ferðalok Jónasar hefðu ekki endilega átt að vera um ákveðna stúlku eða atburð, heldur hefði þetta kvæði Jónasar orðið smám saman til. Jónas hefði verið lengi að yrkja það. Þarna væri vafalaust um langa reynslu að ræða og margt kæmi til greina. Hann kvaðst t.d. ekki vita um eitt einasta nútímaástarkvæði sem hefði orðið til út af einum atburði og á stuttum tíma.
Ég var sammála Jóni að mörgu leyti um Ferðalok, en veit um nokkur kvæði sem hafa einmitt orðið til á annan veg en Jón heldur fram, t.a.m. kvæðið mitt Svört mold sem birtist í félagsbréfi AB.
Sumum þykir það víst ágætt, en öðrum ekki eins og gengur.
Hvað sem segja má um Svarta mold, þá var það satt og upplifað. Sigurður A. er ánægður með kvæðið. Nú er hann sem sagt orðinn “löggiltur” bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins og átti ég víst talsverðan þátt í því.
Kristmann er dapur yfir þessu, kannski reiður undir niðri, ég veit það ekki. Hann er viðkvæmur fyrir sjálfum sér eins og margir aðrir og getur verið umtalsillur um þá sem honum líkar ekki.
Það sæmir ekki miklu skáldi að mínu viti.
Mér finnst bókadómar Kristmanns hafa batnað en þegar hann lýsti því yfir að Gunnar Dal yrði heimsfrægur fyrir Sókrates runnu á mig tvær grímur. Annars kann ég vel við Gunnar. Við Þorsteinn Thorarensen sáum eiginlega um útgáfu ljóðabókar hans, Sfinxinn og hamingjan.
Mér finnst Gunnar hafa verið dálítið upptekinn af sjálfum sér en það eru fleiri. Valtýr hefur tröllatrú á honum og ég held Gunnar hafi átt einhvern þátt í því að Valtýr bauð mér Lesbókina.
Valtýr er veikur fyrir dulspeki.
Talaði í dag við Stefán póst á Kálfafelli. Hann verður níræður á morgun. Ég sé mér til sárra leyðinda að flest er þetta í Sögum landpóstanna en mér finnst ómaksins vert að skrifa þetta samtal vegna málsins. Ég hef verið að reyna að lifa mig inn í tungutak karlsins sem mér finnst sérkennilegt og skemmtilegt.
Ræddi við Nordal í gær .Og svo aftur á morgun. Samtöl okkar eru farin að ganga betur en það er langt frá því mér hafi tekizt að pinna hann niður eða "púlvísera" hann eins og Eggert Stefánsson hefði komizt að orði.
Einar Ásmundsson er eins og ljósberi síðan Bjarni Ben. tók hann á beinið. Ég á erfitt með að setja mig inn í sálarlíf hans. Ég skil heldur illa þennan ritstjóra minn, en mér er vel til hans.
Einmunatíð.
Einhver sagði við mig um daginn, Arfinn er farinn að grænka(!)
Ég held það megi til sanns vegar færa en arfinn hefur ávallt þrifizt vel á Íslandi.
Ég ætlaðist ekki beinlínis til að Þórbergur skrifaði það sem ég hvíslaði.
Þetta sagði séra Árni.
Dagbók er líklega einnig svona hvísl.
15. desember 1957
Fékk í dag bréf frá Hirti Clausen sem ég hef átt samtal við; daglaunamanni. Þessi kafli í bréfinu hefur orðið mér umhugsunarefni en þar segist hann hafa átt fimm börn en ekki fjögur eins og hann sagði mér.
“Elsta barnið varð ekki nema rúml. 2½ árs. Og um það leyti sem hún var nýdáin hefði ég ekki trúað því að ég myndi geta gleymt henni eina mínútu af ævinni. Það er stundum ekki gott að elska heiftarlega, eins og mér fannst að þú myndir elska litla soninn þinn. En tíminn er furðuseigur við að jafna yfir misfellurnar...”
Á Þorláksmessu 1957
Fékk í dag bréf frá Eggerti Stefánssyni. Hann er himinlifandi með samtalið við sig. Kallaði mig bæði vin og skáld! Segir að nú séu liðnar nokkrar vikur frá því “þú tókst innanúr mér” – og gerðir skáldskap af því – með snilli.”
“Hverjum þykir ekki lofið gott?”
Agnúaðist samt út í Morgunblaðið fyrir að birta ekki grein eftir hann um handritamálið. En skoðanir hans fari um alla Ítalíu, eins og hann kemst að orði, því nú sé verið að “interwúera” hann. Og það ætti að vera lexía fyrir Morgunblaðið! Það sé ekki hægt að kæfa réttlætið(!)
“Það situr ekki á blaði sem þykist standa fyrir sjálfstæði Íslands – ekki að “bakka” mann, sem hefur mína afstöðu til að virkilega efla það – eins og ég hér... Eins á ekki – þessi frelsaði fylliraftur, – sem skrifar svokallaða krítík útvarpsins, að senda mér tóninn. Það bætir ekki blaðsins aðstöðu.
Basta!”
Hér á Eggert við Þóri Bergsson,smásagnahöfund ágætan, sem skrifar útvarpspisla í Morgunblaðið.
Það sé kalt á kvöldin en ávallt sól á daginn – og yfir listum Ítalíu.
“Ég er ennþá þreyttur eftir Ísland... Sjáðu um að mín lína sigri – í drengskap, heiðri og stolti yfir lýðræði okkar!!
Þú ert ungur, taktu við...”
29. desember 1957
Við Nordal sátum yfir vískíglasi til að ganga tvö um nóttina þegar ég kom til hans með handritið að samtalinu við hann. Hann var ákaflega skrafhreifinn og skemmtilegur og opnaði sig nú meir en oft áður, var t.a.m. persónulegri í dómum um skáld og rithöfunda en áður.
Hann sagði að fjögurra ára gamalt barn hafi leikið sér á kirkjugólfinu einhvern tíma þegar sr. Bjarni Jónsson ,dómkirkjuprestur, var að prédika og að messu lokinni spurði barnið móður sína, Borðar hann líka góðu börnin?
Röbbuðum síðan alllengi um annað líf.
Ég sagði Nordal frá því sem Jón Arason , skyggn sjómaður,hefði sagt mér um unga stúlku sem fylgdi mér og alskeggjaðan mann sem hann lýsti einnig.
Matthías hinn norski,afi minn,var með svart alskegg.
Nordal sagði að svona reynsla kæmi trúarbrögðum ekkert við, þótt merkileg væri.
Þegar Julian Huxley kom hingað til lands færði Nordal það í tal við hann, hvort ekki væri rétt að setja á fót alþjóðlega vísindastofnun sem rannsakaði dulræn efni og dauðann á vísindalegan hátt og yrðu niðurstöður hennar byggðar á svo víðtækum rannsóknum að allir tækju mark á þeim.
Hann sagði að Huxley hefði svarað því til að hann hefði einmitt hugsað eitthvað svipað,en engu komið í verk
En Nordal vill koma slíkri stofnun á í tengslum við Háskóla Íslands.
Þá benti hann mér á greinar sínar um Hriflu-Jónas í Morgunblaðinu í apríl - maí 1942 og bað mig lesa þær.
Nordal talaði talsvert um Bjarna Ben. og fleiri stjórnmálamenn. Bjarni fékk heldur góða meðferð hjá honum en ekki sagði hann að Bjarni hefði breytt Morgunblaðinu til batnaðar.
Ég skal ekkert um það segja.
Samtalið við Nordal hefur líkað ágætlega. Það var geysileg vinna fyrir okkur báða, ekki sízt Nordal sem lagði sig fram um að gera það gott af sinni hálfu og þá er ekki að sökum að spyrja. Hann hefur áður gagnrýnt mig fyrir að leyfa Hannesi Péturssyni skáldi að skrifa með mér verulegan hluta af samtali sem ég átti við hann um skáldskap á sínum tíma, slík aðferð væri á kostnað alls fjörs og allrar spennu og gerði samtalið saltlaust eins og Dauðahafið, en nú tók hann sig til og skrifaði sjálfur með mér trúarkaflann inn í samtal okkar.
Treysti sjálfum sér augsýnilega betur en mér í þeirri glímu!
En ég hef ekki hugmynd um , hvernig hann fann það út að hlutur Hannesar í samtali okkar var með þeim hætti sem hann sagði. Samtalið var tilraun til að skýra afstöðu Hannesar til skáldskapar í þessu umróti öllu,en átti ekki að vera nein persónuleg lýsing á honum.
Við Sigfús Jónsson, framkvæmdastjóri Morgunblaðsins, erum miklir mátar. En þegar samtalið við Sigurð Nordal hafði birzt í blaðinu kallaði hann á mig,það var á Þorláksmessu, og sagðist hafa lesið hluta af því eins og hann komst að orði.
Hann kvaðst ekki skilja það og er hann þó ágætur bókmenntamaður,en þó einkum aðdáandi Hamsuns.
Ég spurði hvort hann hefði verið kenndur, þegar hann las samtalið. Hann neitaði því.
Hrökk samt eitthvað við því hann er ekki vanur slíkri ósvífni af blaðamönnum og sagði þá að samtalið væri of hástemmt, Þetta er ekki fyrir almenning, þetta er bara fyrir menningarvita!
Ég sagði að almenningur hefði gott af að lesa þetta yfir jólin og var að því kominn að spyrja hvort hann héldi að engir læsu Morgunblaðið nema einhver andlegur lágskríll.
Hélt þó aftur af mér.
Annars þótti mér það dálítið gott hjá Sigfúsi þegar hann líkti mér við sjálfan sig ungan.
Ég bar ótakmarkaða virðingu fyrir Símoni Dalaskáldi, sagði hann. Hann kom einu sinni í heimsókn til okkar þar sem við bjuggum á Snæfellsnesi og ég varð utan við mig af hrifningu . Hún náði hámarki þegar Símon sneri sér að mér og bað um meira kaffi.
Já, takk svaraði ég og var fljótur að hella upp á könnuna!
Meiri upphefð hafði Sigfúsi víst ekki hlotnazt í lífinu.
Líklega hafi mér verið eins farið þegar ég ræddi við Nordal!!
Ég held þetta sé þó ekki rétt hjá Sigfúsi. Ég hef talað við marga heimsfrægðina án þess týna sjálfum mér í þrælsótta og tízkuglamri. En mér er það nautn að kynnast svona fólki, hvort sem það heitir Símon Dalaskáld eða Sigurður Nordal og tel mig geta lært heilmikið í þeim háskóla.
Einar Ásmundsson kallaði mig niður í lögfræðiskrifstofu sína í Hafnarstræti í fyrrakvöld og las fyrir mig margar kompur af gömlum kvæðum eftir sig. Hann ætlar víst að gefa þau út. Sumt þótti mér nokkuð gott, t.a.m. nokkrar myndir sem fyrir bar .
Ég sé þessi kvæði eru ofarlega í huga Einars. Hann hefur ort þau ungur , en ekki viljað gefa þau út. Þau hafa verið nokkuð nýstárleg á sínum tíma, en nú er tími þeirra liðinn. Einar hefur misst af strætisvagninum fyrst hann gaf þessi kvæði ekki út ungur. Nú eru þau þreytt og gamaldags, svo mikið sem ort hefur verið í þessum dúr.
Skáld eiga að taka áhættu. Þau eiga að plægja akurinn. Sá sem plægir getur átt von á uppskeru.
Öll list er lífsháski, ef hún er áhætta. Annars einungis afgangur af erfiði annarra. Eins og vínabrauðsendarnir í bakaríi Jaffa gamla á Bræðraborgarstíg. Þeir voru svo sem nógu góðir handa okkur krökkunum á Hávallagötu. Kostuðu bara fimmaura.
En þeir voru aldrei nýir.
Ég sé nú betur en nokkru sinni að maður á að þora að sleppa hendinni af ljóðunum sínum , losna við þau. Annars verða þau eins og bögglað roð fyrir brjósti manns. Ég finn að kvæði Einars eru slíkt roð og líklega endar það með því að hann verður að sleppa hendinni af þeim.
Það þarf hugrekki til að gefa út bók,að vísu, ekki sízt ljóðabók. Maður verður að horfast í augu við sjálfan sig með heilli tilfinningu, en ekki hálfri.
Og svo bíður jarðsprengjubelti gagnrýnendanna.
Þegar ég kvaddi þennan ljóðelska ritstjóra minn sem hefur löngum verið mér ráðgáta,hugsaði ég með sjálfum mér, Það sem maður gerir ekki ungur, verður ekki þegar maður er gamall. Áhættan ein er sá eldur sem herðir.
Það er ekki hægt að lifa með öðru en einlægni sinni.
Fór til Steins. Nálægð dauðans hefur mildað ásjónu hans. Ég fór að hugsa um orð Kjarvals um óttann. Hann talaði um grænan, rauðan og gulan ótta.
Þegar Kjarval kom niður á Morgunblað á laugardag var hann alvarlegur, en málhress. Hann útskýrði fyrir okkur málverkið Veðurhljóð.
Það er mikil lógik í þessari mynd, sagði hann eins og hann væri að réttlæta verkið, ég held hann sé ekki eins öruggur með sig og margir halda. A llt í einu var eins og hann áttaði sig og hann bætti við, Ég er víst búinn að segja alltof mikið. Blessaðir — og var rokinn á dyr.
Ég sat eftir og hugsaði um það sem hann hafði sagt um kaþólska trú: Salt er sett á tungu barnsins og eyru þegar það er skírt, og vitið þið til hvers? Jú ,til að reka púka út úr barninu. Þetta er dásamlegt. Þetta er tilraun til að búa til manneskju. En þetta hlýtur að vera mikil vinna. Já, þetta hlýtur að skapa mikla atvinnu innan kirkjunnar.
Þannig lauk þessu ári.