Árið 1962
Júnílok 1962
Jóhann Hjálmarsson er í Stokkhólmi. Hann skrifar mér alltaf ágæt bréf þegar hann er á ferðalögum. Hann sendi mér þýðingu í Lesbókina á kvæði eftir Gunnar Ekelöf; sem af mörgum er álitinn mestur allra sænskra skálda.
“Ég vinn nú að þýðingum á ljóðum eftir hann, en áður hafa birst eftir mig sjö þýðingar á ljóðum Ekelöfs (Af greinum trjánna). Hugmynd mín er að koma saman ljóðasafni með ljóðum eftir sænsk skáld. Að tína eitt og eitt ljóð af ljóðaakri heimsins, held ég að sé vafasamt athæfi. Maður verður að vinna markvisst að ljóðaþýðingum.
Ég veit að ég hef gert mig sekan um að grípa ljóð úr lausu lofti og kalla þau íslenskuð eftir að ég hef farið um þau höndum, en í framtíðinni ætla ég að bæta úr þeim mistökum. Maður hefur nefnilega tekið á sig nokkra ábyrgð með því að gerast ljóðaþýðandi. Að því leyti sem öðru vil ég ekki hverfa frá hálfkláruðu verki.”
16. september 1962 – sunnudagur
Hef skrifað samtal við David Ben-Gurion í Morgunblaðið. Það fór um allan heim. Þurfti að einbeita mér eins og ég gat. Hafði ekki nema 30 mínútur til að ganga frá samtalinu því að prentvélin beið.
Það var mikið átak.
En hann er sérstæður maður, segir að Jesús hafi verið misskilinn.
Enginn gyðingur segist vera sonur guðs. Guð á himnum sé skapari alls, hann sé í öllu og alls staðar. Eins og guð hafi skapað alla hluti, hafi hann einnig skapað Jesúm Krist.
Það hafi verið þetta sem Jesús átti við, en orð hans margmistúlkuð.
Páll postuli tók orð hans of bókstaflega, sagði Ben-Gurion.
Ég get fullvissað yður, bætti hann við, að það er á misskilningi byggt þegar fólk heldur að Jesús Kristur hafi talað um föður sinn á himnum eins og þér talið um foreldra yðar.
En við gyðingar trúum á sama guð og Jesús Kristur.
Það var eftirminnilegt að tala við Ben-Gurion. Hann er áreiðanlega einhver merkilegasti maður sem ég hef hitt um dagana. En ég læt hann ekki hræra í mér.
Án Krists er guð mér jafn ósýnilegur og fjarlægur og þær stjörnur sem kvikna ekki á svörtum næturhimni. En vegna hans sé ég guð föður eins og endurskin sólar á tungli.
Um Biblíuna sagði hann m.a.:
“...Ég setti traust mitt á að uppfyllt yrði það loforð Biblíunnar, að við mundum aftur fara heim til Ísraels. Sem barn dreymdi mig um að komast heim og þegar ég var orðinn fullorðinn, ákvað ég að fara og gerði það”.
“Var það nokkuð sérstakt í Biblíunni sem hafði meiri þýðingu fyrir yður en annað?”
“Fyrst og fremst það sem Guð sagði við Abraham, Börnum þínum hef ég gefið þetta land. Vit það fyrir víst að niðjar þínir munu lifa sem útlendingar í landi sem þeir eiga ekki. En fólkið kom aftur. Í þúsund ár hefur þetta loforð verið vegvísir okkar og nú hefur það verið uppfyllt. Og ég hef alltaf verið þess fullviss, að svo mundi fara”....
. “...Hverjum augum lítið þér á spámennina og spádóma Biblíunnar? Trúið þér þeim?”
“Já, það geri ég. En það er misskilningur að halda að spádómar Biblíunnar séu í því fólgnir að segja fyrir um óorðna hluti. Það sem gerir Biblíuna svo stórkostlega er fremur hitt, að spámennirnir skildu óskir og þarfir okkar fólks. Þeir vissu t.a.m. að í styrjöld tapa allir, bæði þeir sem sigra og hinir sem bíða ósigur.
Þjóðirnar munu ekki lyfta sverði gegn náttúrunni, segja þeir, né heldur vilja þær heyja styrjaldir.
Spádómar Biblíunnar eru í því fólgnir að skilja lögmál náttúrunnar.
Spádómarnir anda djúpum skilningi á þörfum fólksins. Ef við lítum á ástandið í dag og virðum fyrir okkur þá stjórnmálaleiðtoga, sem einhvers eru megnugir, sjáum við, að allir tala þeir um frið og nauðsyn þess að halda frið hver við annan.
Og ég vona að við öðlumst þennan frið, meðan við erum enn ofan moldar.”
Um íslenzku þjóðina sagði hann í lok samtalsins:
“Þið eigið hjarta með logandi eldi, en höfuð ykkar er fullt af ís.”
September 1962
Svona hugdettur geta stytt mér stundir:
Í Róm
Þegar við göngum eftir Vía Appía
segir gamli Ítalinn sem fylgir okkur um Róm:
Í þessu húsi átti Hadríanus heima.
Og keisarinn kemur út með nýafskorin blóm.
Og það er skemmtilegt hvernig þú brosir
og minnir á Sabínu með bleika rós í kinn.
En þá fór keisarinn inn í húsið sitt aftur
og heldur áfram að vökva blómagarðinn sinn.
Kannski eru þetta sömu blómin
og uxu við keisarahöllina áður fyr.
Það er víst rétt að dauðinn sé tímaþjófur,
en hér stendur tíminn á höfði – og alveg kyr.
Og klukkurnar á Fórum Rómanum halda
áfram að ganga eins og dauðinn sé ekki til.
Í þessari tímaskekkju allri sjáum við aðeins
að ekkert er alveg, en flest svona hérumbil.