Árið 1963
10. mars 1963
SAM skrifar grein í Lesbók í dag. Fjallar um nokkur ung ljóðskáld sem “hafa gert merkilegar atrennur til allsherjaruppgjörs við sjálfa sig, öldina og söguna, hafa sagt skilið við hinar yndælu litlu stemmningar og fallegu náttúrulýrík til að ganga á hólm við samtíðina, hver með sínum mjög svo sérstæða hætti. Ég nefni aðeins þá fjóra sem ég tel hafa náð álitlegustum árangri: Hannes Pétursson í þremur ljóðabókum, Hannes Sigfússon í þremur ljóðabókum, Matthías Johannessen í þremur ljóðabókum og Sigfús Daðason í seinni ljóðbók sinni.
Það mundi einhvern tíma hafa þótt umtalsvert að eiga fjóra jafnólíka, jafndjarfa og jafnlistfenga menn í hópi yngri skálda, og mun væntanlega síðar koma á daginn að vanafesta og nesjamennska hafi glapið þeim Íslendingum sýn, sem ekki sjá annað í nýju ljóðlistinni en “rímleysu”, “atrómþrugl”, “þokukennda hugsun”, eða hvað þeir nú heita allir gáfulegu frasarnir sem menn hafa á takteinum þegar nútímaljóðlist ber á góma.”
Þetta er nokkuð athyglisvert og Sigurður meinar ævinlega allt sem hann segir í svona uppgjöri.
En það þarf ekki endilega þess vegna að vera heilagur sannleikur.
Það er að vísu alveg nauðsynlegt að ganga á hólm við samtíðina. En hún á sína málsvörn; hún á sína arfleifð og sín skáld. Hún þarf ekki endilega að vera í snertingu við það sem er ókomið.
Það er að vísu dálítið gaman að gera ábyrgðarlaust uppgjör við sjálfan sig, öldina og söguna.
En án sögunnar erum við ekkert; án arfleifðarinnar erum við minna en ekkert.
Það sem við þurfum að gera er að hlú að verðmætum; bæta nýrækt við gamla stofna; endurnýja “hinar yndælu litlu stemmningar og fallegu náttúrulýrík”; eignast nýja náttúrulýrík, nýjar stemmningar; og nýjar víddir.
Við eigum ekki að ganga á hólm til að drepa heldur brjóta niður það sem er hvimleið endurtekning, fúi og innanmein í menningu okkar. En við eigum að fara að dæmi spámannanna í Gamla testamenntinu; byggja upp um leið og við brjótum niður. Þá fyrst eigum við erindi við samtíðina.
Eða er þá eitthvað til sem heitir samtíð? Við getum ekki talað við neina samtíð, það gera stjórnmálamenn. En við getum talað við hvern einstakan.
Hver einstakur er samtíð skáldsins. Þess vegna, ekki sízt, hefur skáldskapurinn ævinlega síðasta orðið; ekki sízt í einræðislöndum. Ótti alræðisherranna við ljóðið er einhver mesta von sem við eigum.
Það eiga þeir erfitt með að skilja sem búa við allsnægtir í lýðræðislandi.
En kannski þarf íslenzka þjóðin einnig á ljóðinu að halda; eins og í sjálfstæðisbaráttunni; hver veit? Og þá einhvern tíma þegar nýræktin fer hlýjum andvara um gamlan skóg og hann lifir í fullkominni sátt við það sem við vorum að gróðursetja.
30. júlí 1963
Fékk í dag gott bréf frá Skúla Skúlasyni, blaðamanni. Hann er mikill vinur minn enda ávarpar hann mig ævinlega svo. Ég sé það líka á því hvernig hann talar um kvæðin mín; hann minnir á Gunnar G. Schram þegar hann var að hrósa kvæðunum mínum og bókum í gamla daga þegar við vorum að atast í Stefni og ýmsu öðru og hann sendi mér svo góð og bróðurleg bréf að ég fór hjá mér við lesturinn.
En söm er hans gjörðin og vinátta okkar var jafngóð og þau tengsl sem mynduðust milli okkar Sverris Hermannssonar í háskóla. En örlögin höguðu því svo að ég varð ritstjóri Morgunblaðsins, en Gunnar tók við Vísi.
Við héldum að vísu áfram vináttu okkar en það var einhver strengur sem brast.
Þannig er lífið; miskunnarlaust. Enginn hefur tekið sterkar til orða um kvæðin mín en Gunnar, það yljaði mér á sínum tíma.
En leiðir hafa skilið.
Þó hefur vinátta okkar haldizt, svona nokkurn veginn.
Þegar ég hugsa um þetta tek ég ósjálfrátt bréf sem ég hef geymt og Gunnar skrifaði mér frá Cambridge í febrúar 1960. Lýsir honum betur en mér!
Þar segir hann m.a.:
“Kæri vin, hjartanlegustu þakkir mínar fyrir bók þína og vinsemd þá sem þú sýndir mér með að senda mér hana svo snarlega item ágæta tileinkun á forsíðu. Mun hún mjög prýða bókasafn mitt um ókomin ár.
Leyfðu mér að óska þér hjartanlega til hamingju með hana. Þú hefur færzt mikið í fáng, (eins og jafnhugumstórum manni og þér reyndar sæmir) rýnir rök tilverunnar og vors brogaða mannlífs, ekki af þurru mannviti með gáfnanna gleraugu á nösum, heldur í leiftrandi, ljóðrænum myndum, þar sem vort ástkæra, ylhýra mál tekur á sig nýjan, ferskan blæ, sem mann óraði ekki að enn finndist í vindhörpunni, eftir áratuga meðalmennskupóeta.
Þegar ég les sum kvæðanna þykir mér sem ég heyri gamalt lag súngið á nýja hörpu af mikilli listfengi, þín orðanna niðurröðun (þú afsakar orðatiltækið), slærð nýrri birtu yfir gamalkunna tilveru, svo að heil ævi og stór sorg rúmast í þremur ljóðlínum.
Ég vissi alltaf að þú varst mikill maður stemmningar og sýmbóls, en það er annað að vera stemmningsmaður og landsins mesti lýríker yfir góðu portvínsglasi á Naustinu á laugardögum, en sá hinn sami á miskunnarlausum, hvítum, köldum síðunum hans Ragnars í Smára á mánudagsmorgnum.
En þú hefir sigrað mánudaginn og sannarlega áttu þinn Brjánsbardaga að baki þér eftir útkvámu þessarar bókar.
Ég hafði gaman af því að sjá gríska goðafræði við hliðina á spútnikkum spretta upp úr íslenzkri mold og íslenzku alþýðulífi (hefurðu lesið Artúró Lundkvist nýlega?) en þú kannt betur að fara með symból en margir aðrir vina okkar sem hætt hafa sér út á hinn hála ís hins óbundna ljóðs!
Jæja, ef ég held áfram að lofa þinn fagra fugl, heimtarðu eflaust að vera settur í flokk með Davíð og Kiljan á næstu fjárlögum, svo ég sný mér að öllu prósaískari hlutum.
Héðan frá landi þokunnar og mórauðs tevatns er allt sæmilegt að frétta. Maður lifir hér í huggulegheitum og hefir afar hægt um sig. Dægrastytting ekki önnur en reykja pípu, spila bridge og lesa enskan litteratur nýjan sem er reyndar lakari en maður skyldi halda.
Annars á lögfræðin hug minn allan eins og þú veizt. Um þessar mundir að minnsta kosti, og sit ég dag hvern blýfastur á gömlu sæti Eiríks meistara Magnússonar og hugsa.
Auðvitað er það ákaflega gott fyrir manns andlegu heilsu, en heldur er ég samt að gerast þreyttur á vísindunum og gömlum rykföllnum skinnbókum, einangraður svo fjarri öllum mögnuðum íslenzkum lífshræringum, hákarli og gömlu brennivíni.
En allt tekur enda einhverntíma og loks sé ég fyrir lokin á minni Kambsbryggjudvöl sem í mörgu hefir verið minn merkilegasti lífstími.
Ég er náttúrulega orðinn hinn mesti lögspekingur eins og þú veizt og veit meira um eitt lítið horn lögfræðinnar en nokkur annar í þessu landi, sem er ekki mikils virði á metaskál silfurs og gulls en gefur manni þó tangarhald á tilverunni á sína vísu, sem ekki er að öllu forkastanlegt.
Slíkt þarf ég ekki að skýra fyrir þér nánar.
Hér bar að garði góðan gest fyrir nokkru, sjálfan Sverri Hermannsson, strokinn og þveginn af kampavíni svía og dana, útbólginn af franskri gæsalifur og þýzkum blóðmörspylsum. Drukkum við hér kvöldstund mikið viskí (og lásum upphátt ljóðabók þína góðu, In toto) og var mikið skrallað og flest vandamál heimsins krufin, ef ekki leyst til hlítar.
Satt að segja eru slíkir Íslendingar eins og ferskir fjallastrókar í lognmollu hins siðprúða, formfasta enska samkvæmislífs sem maður ella tíðkar, þar sem öll orðaskipti eru sæt eins og sherrí og yfirborðskurteisi manna, sem aldrei mótmæla nokkurri fullyrðingu nema hún sé sögð í satíru eða hreinu glensi.
Var mér mikil gleði af hingaðkvámu hans og gekk með honum daglangt í súldinni hér og sýndi honum forn hús og enskt mannlíf.
Eitt sagði hann mér sem ég þarf sérdeilis að ræða við þig og harma að geta ekki gert persónulega.
Kvað þig hafa grun um að ef úr því verður á næsta sumri að ég taki að mér ritstjórn Vísis, muni ég ráða undan þér alla gullfuglana og snillingana á Mogganum, eða að minnsta kosti þá vænstu!
Líklega er þessi hæna þannig til komin að í sumar komu Sverrir (Þórðarson)og Steini (Þorsteinn Thorarensen) að máli við mig og spurðu mig í þaula um hver áform væru með Vísi undir minni yfirstjórn.
Ég sagði þeim allt af létta um þau mál, og jafnframt það, að eitt bráðasta viðfangsefnið væri að ráða nýja blaðamenn, sem þeir reyndar vissu og ég hafði glensast með við ykkur alla þegar ég kom í heimsókn á Moggann eitt sinn.
Til að fyrirbyggja allan misskilning, þar sem mér var ljóst að hugsanlegt væri að mál þetta gæti orðið nokkur púðurtunna, tók ég það mjög skýrt fram við þá báða að ég hefði ekki hugsað mér að ráða blaðamenn undan Mogganum.
Er skoðun mín á því óbreytt og ástæðurnar til þess auðskildar.
Heimskulegt væri að gera slíkt þar sem blöðin eru bæði tveir kvistar af sama meiði og mikið er komið undir að starfi saman af góðvild og einlægni, en reyni ekki að reita menn hvert frá öðru (þó ég myndi ekki neita ef mér væri boðin ritstjórastaða við Moggann!).
Í öðru lagi þá er afstaða mín til Mbl. slík, eftir margra ára starf þar, að sízt sæti á mér að fara með undirmál gagnvart jafngóðum vinum mínum eins og þér, Valtý eða Sigurði (Bjarnasyni), enda mun ég aldrei reka Vísi þannig að Mbl. beri þar hallan hlut frá borði né ástæðulaust hnjóð.
Ef einhvern tímann kemur að mannaskiptum milli blaðanna, meðan ég er þar, mun slíkt ekki gerast öðru vísi en með samþykki og samningum milli allra aðila.
Ég vona að þú takir þessi ummæli mín af þeirri einlægni sem þau eru sögð, en ég vil ekki láta það sambandsleysi sem stafar af því að við erum hvor í sínu landi valdi hér neinum misskilningi okkar í millum....
Og þá er það bréfið frá Skúla, blessuðum Skúlasyni í Noregi.
Hann segir m.a.:
“Þegar ég fékk síðustu Mbl. nr. sunnud. og þriðjud. einsetti ég mér að skrifa þér nokkrar línur í dag. Ekki þó viðvíkjandi skiftum mínum við Mbl. heldur persónulegt þakkarskrif fyrir “Í Skálholtskirkju”.
Ég varð svo hrifinn af þessu ljóði að ég fór að lesa það upphátt fyrir konuna mína, en það geri ég sjaldan, nema helst ef ljóðið er eftir skáld frá 19.öld.
En þetta varð ég að lesa hátt. Ég efast um hvort þú veist sjálfur hvað það er kröftugt, alsidigt, djúpskreytt og fallegt. Ég þori að hengja mig uppá að þetta kvæði verður orðið þjóðareign innan ótrúlega skamms tíma, og strengi þessa heit með meiri fyrirhyggju en vinur okkar Þórbergur, þegar hann “hengdi sig uppá Stalín” hérna um árið.”
Það er naumast! En hitt er svo annað mál að ég er svolítið tortrygginn vegna þess að Skúli minn vitnar til 19. aldar.
Er ég þá fulltrúi hennar?
Mér þykir auðvitað lofið gott eins og öðrum en ég þarf að hugsa minn gang. Þarf að vinna meira í kvæðinu,laga það.
Ég hef verið þeirrar skoðunar að skáld eigi að nota allan skalann á hljóðfærinu, þess vegna hef ég ort eins og mér sýnist. Og líklega held ég því áfram því mér er það eiginlegt. En ég verð að fara gætilega svo ljóð mín séu ekki orðin úrelt þegar þau koma út!
Nóg er nú samt!
Skúli er einnig eitthvað að tala um 20. aldar Matthías. En ég gengst ekki upp við því, þótt móðir mín hafi kennt mér að meta sálmana hans og ég viti vel að hann er einn af örfáum risum íslenzkrar ljóðlistar.
Ég er atómskáld og við það situr.
Svo ókræsilegt sem það er!
Skúli heldur svo áfram og nú kemur ein af ástæðunum fyrir því jákvæða hugarfari sem hann ber til mín:
“Og svo fékk ég bréf þitt í gær og það var svo gott og elskulegt, að mér hlýnaði víðar en um hjartaræturnar. Sem sé, alveg niður í tær. Ég vil helst komast hjá því að vera kallaður “kværulant” því að sú manntegund er allra kvikinda leiðinlegust.
En þegar ég skrifaði bréf mitt þóttist ég til þess neyddur því ég sá ekki betur en búið væri að “skrúfa fyrir” þennan svokallaða fréttaritara ykkar í Noregi, og þá taldi ég réttast að stoppa aðrennslið í leiðsluna. Sannast að segja var ég farinn að halda, að ykkur ráðandi mönnum á Mbl. þætti þetta stoff mitt svo fánýtt og leiðinlegt að þið vilduð helzt koma ykkur hjá að birta það.
Þetta var mín skýring á málinu og mér gramdist þetta oft, því mér fannst, að margt af því sem þið verjið miklu rúmi undir (ég undantek eftirmælin, því að okkur Valtý kom einu sinni saman um, að þau yrðu að vera friðhelg í “landi kunningsskaparins”)... (og) skrifað af einhverjum nýliðum ykkar, sem eru bólusettir fyrir því að hafa húmoristískan sans, held ég sannast að segja að eigi engan tilverurétt í Mbl....
Árni (Óla) starfaði frá byrjun á ritstjórninni (þ.e. ritstjórn Mbl.) en þá var ég í Höfn og aðeins korrespondent þangað til ég kom heim og vann á vetri frá 1915 en ekki allt árið fyrr en árið 1918 um haustið. Síðasta árið mitt var Árni ekki þar, heldur Jón heitinn Björnsson. Árni gerðist skrifstofustjóri hjá togararafélaginu (Kára) í Viðey um stund, en hvarf svo aftur að blaðamennskunni.
– Ég skal reyna að senda þér handrit að þessu bráðlega en láttu Árna þá skrifa sitt, svo fljótt, að hægt sé að bera þau saman, og endursenda mér mitt, með athugasemdum um það, sem ég skuli strika út.”
Ég er sem sagt að vonast til að þeir geti skrifað sögu Morgunblaðsins af ólíkum sjónarhóli. Það gæti orðið fróðlegt og skemmtilegt.
Ágúst 1963 - ódagsett
Áður en Þórbergur og Margrét fóru í utanlandsferð sína gagnrýndi ég hann fyrir að senda mér aldrei eitt af þessum frægu bréfum sem hann er að skrifa út og suður og – eins og ég sagði – “til allra annarra en þess manns sem hefur skrifað ódauðlega samtalsbók við þig, hann fær ekkert bréf!”
Þórbergur setti upp sakleysissvip og lagði kollhúfur.
En þetta hreif.
Nú hef ég fengið bréf frá honum sem mun áreiðanlega talin hin mesta gersemi og góð viðbót við þann listræna spuna sem mönnum þykir ekki sízt mikið til koma, bréfskriftir hans.
Bréfið er dagsett 13.ágúst og þar segir m.a. :
“....Í Beograð og Soffíu sáum við margt af stórmyndarlegu og rismiklu fólki, sýnu myndarlegra og fyrirmannlegra en í Vestur-Evrópu. Einn dag stóð ég nokkra stund á einu götuhorni á meðan Margrét spíkaði flott tveggja orða mál inni í búð á horninu. Rétt hjá mér stóð maður og kona, sem höfðu mætst á horninu. Þau voru um fertugt, að mér virtist. Þau héldust fast í hendur, þannig, að þumalfingur á hægri hendi beggja vísuðu til himins, auðsæilega ekki hjón. Konan var vel meðalkvenmaður á hæð, nokkuð þrekvaxin og sterkleg, fremur breiðleit, dökk á hár, fallega eygð og úr augum hennar og andlitinu öllu, jafnvel úr þumalfingrinum, sindraði, blossaði, leiftraði þvílíkur kyneldur framan í manninn, að ég, gamall maður, tók að loga og stikna miðsvæðis. Þvílík risakynbomba! Hvílík krás af guðdómi í einum kvenlíkama! Þær eru tutlulegar kynbomburnar okkar á borð við þetta eldfjall. Nokkra kynbombutilburði sá ég á strætum í Kaupmannahöfn. Ó bevari mig Guð! Þær voru eins og týrur í lýsislampa í líkingu við Etnuna í Beógrað. Það hafa gerzt mikil tíðindi í einhverju aflæstu herbergi í Beógrað þetta kvöld.....”
Ódagsett 1963 - september
Fékk bréf frá Ívari Guðmundssyni. Hann er að skrifa grein um Valtý Stefánsson og er mikið niðri fyrir af þeim sökum.
Vill láta fara vandlega yfir greinina, “skerðu úr hvað sem þú vilt, hentu henni allri og það skal vera reiðilaust af minni hálfu og við jafnmiklir vinir eftir sem áður.
En ef þú tekur hana sjáðu um fyrir mig – fyrir alla muni, – að það verði ekkert ósmekklegt í henni... Ég tala kanski of mikið um sjálfan mig? (Ekki einn um það!!) Dreptu það, ef þú vilt.”
Þetta er ágæt grein og við birtum hana að sjálfsögðu.Ívar var fréttaritstjóri Morgunblaðsins og samverkamaður Valtýs og þekkti hann því vel. Skrifaði Víkverja sem var mikið lesinn.
Hann var einstakt glæsimenni og góður í selskab.Hvarf til S.Þ. og bjó lengi vestra.
Ívar var að hætta á Morgunblaðinu,þegar ég réðst þangað . Mér hefur alltaf líkað vel við hann og við urðum miklir mátar, en hann veit bezt sjálfur hvað háði honum mest:
“Viltu lesa prófarkir sjálfur og bæta fyrir mig stíl og stafsetningu”.
Mér finnst skemmtilegt það sem hann segir um ritvél Skúla Skúlasonar. Sjálfur segist hann ekki hafa betri ritvél þarna í New York.
“Þetta er mesti rokkur, sem ég hefi hér með ísl. letri. Kanski eins slæm og ritvélin, sem Skúli minn Skúlason átti forðum daga í Kirkjustrætinu. Það vantaði bandrúlluna öðru megin og í hennar stað hafði Sk. Sk. gamla reyktóbaksdós. Þegar bandið var alt komið í dósina vatt hann uppá rúlluna og hélt áfram að putta!”