Árið 1965

 

Janúarbyrjun 1965

Sendi The Observer frásögn mína af Surtseyjargosinu. Þeir birtu hana á hálfri síðu og með flottum myndum frá AP og er ég mjög ánægður með það, þótt þeir hafi stytt frásögn mína verulega.

En þeir segjast vera ánægðir með hana.

Nú hef ég heyrt að hún komi í greinaúrvali Observer sem gefið verður út á bók og Cyrill Dunn hefur valið.

Er mjög stoltur af því.

Þar verða einungis blaðamenn á heimsmarkaði.

Slíkt úrval úr Observer kom einnig í fyrra. En auðvitað hefði ég helzt viljað að greinin um Surtseyjargosið væri prentuð óstytt í bókinni, en um það fæ ég því miður engu ráðið.

Í þessu riti eru greinar,já og ljóð eftir marga þekkta höfunda.

 

2. mars 1965

Jón bóndi á Fjalli (Guðmundsson) hefur sagt mér frá sr. Skúla í Odda.

Eitt sinn þegar sýslufundur stóð yfir á Efra-Hvoli var Björgvin sýslumaður kallaður í síma og þegar hann kom aftur inn í fundarherbergið sáu menn að honum var brugðið.

Hann tilkynnti fundarmönnum mjög hrærður að Friðrik konungur væri dauður.

Hann lagði til að fundurinn sendi drottningunni samúðarskeyti.

Menn sátu hljóðir nokkra stund en svo rauf sr. Skúli þögnina og sagði,

Ég held það sé bezt að hver skæli í sínu horni – og með því var málið afgreitt.

Þetta er góð saga um það gamalkunna íslenzka snobb fyrir ráðamönnum og allskyns fyrirfólki.

Hvernig væri að menn skældu hver í sínu horni í staðinn fyrir þennan opinbera glennugang, þegar ráðamenn eiga í hlut?

Flatur fyrir mínum herra, er gamalt íslenzkt orðtæki.

Því miður.

Stundum finnst mér Íslendingar líta á forsetaembættið eins og konungdóm. Forsetinn er einskonar heilög kýr.

Lítil þjóð á ekki að vera að pumpa sig upp eins og hún væri gamalt heimsveldi og rótgróið konungsdæmi.

Ég er hálfhræddur um að þróunin verði í þá átt,.Að hér búi tvær þjóðir í landinu: yfirstétt og svo fólkið í landinu.

Þjóðhöfðingi er þjónn, kosinn eins og hver annar til að sinna skyldustörfum sínum ,en á engan hátt guðleg vera, eins og sumir virðast halda.