Árið 1966

 

Apríl 1966 - ódagssett

Rökræði um ljóðlist við Gísla Sigurðsson í Vikunni. Hann er ekki laus við tortryggni þegar ljóðið er annars vegar. Hann vitnar í Þórberg og skoðun hans á atómskáldskap, en ég tel ekki að pottþétt mat á nútímaljóðlist sé sterkasta hlið Þórbergs.

Og ég spyr, Er nauðsynlegt “að ná til þjóðarinnar”?

Er það ekki eins og að sanka að sér atkvæðum?

Er það ekki hlutverk stjórnmálamanna?

Ljóðið minnir stundum allharkalega á fallvaltleikann; það fjallar um stöðu okkar í tilverunni.

Ekki sízt tortíminguna

En kannski nútímamaðurinn óttist ljóðið af þeim sökum að það er áminning.

Það er svo sem nóg af dauða og tortímingu allt í kringum okkur þótt við séum ekki á þönum eftir að fá staðfestingu á því, þegar við leitum afþreyingar.

En lífið er ekki afþreying.

Það var engin afþreying í lendingunni á Stokkseyri.

Það var lífsháski.

Þá var nauðsynlegt að þekkja sjólagið og brimgarðinn.

Pasternak orti um dauðann eins og önnur skáld. En hann var líka skáld upprisunnar.

Og það var návist dauðans en ekki hungrið á kreppuárunum sem gerði Stein að miklu skáldi.

Hallgrímur Pétursson var skáld dauða og upprisu. Hann náði til þjóðarinnar þegar Passíusálmarnir voru lausir við samtíð sr. Hallgríms.

Þannig getur ljóðið sjálft verið einskonar upprisa.

Ég veit ekkert hvort hann er í níunda hring Vítis vegna Tyrkja-Guddu eða einhvers staðar annars í miðaldakerfi Dantes, en ég veit það fyrir víst að hann reis upp í Passíusálmunum og þar lifir hann með sérhverri samtíð íslenzkri, hvað sem öðru líður. Ég gæti bezt trúað því að hann kynni bezt við sig í þeim félagsskap.

Jónas lifði ekki í samtíð sinni.

Ljóð hans lifðu af þrátt fyrir samtíð hans; þrátt fyrir tízkuflæði rímnanna; þrátt fyrir dálæti samtíðarinnar á ambögum. Hann lifði af í skáldskap sínum. Og þá ekki sízt vegna þess að vinir hans, þeir sem áttu sannfæringarkraft arfs og endurnýjunar, vissu að hann var óvenjulegt og mikið skáld og boðuðu skáldskap hans eins og þegar Páll postuli lagði grundvöllinn að kristninni; sem sagt af fullum þunga og ódrepandi sannfæringu. hvað sem samtíðinni leið.

Gísli minntist á Landsbókasafnið, að enginn bæði um ljóðbækur ungu skáldanna.

Mér líður hvergi eins vel og í Landsbókasafninu, en maður leitar ekki að samtíðinni þar, hún er alls staðar annars staðar.

Þar er fortíðin, arfurinn.

Hinn mikli skógur.

Nýræktin er utandyra.

Ég er harla ánægður með þennan parsus í samtalinu við Gísla.

Ljóð er: maðurinn sem yrkir það.

Og maðurinn sem yrkir það er: brot af sjálfum sér.

En mest hitt fólkið.

Umhverfið eins og það birtist t.a.m. í Hólmgönguljóðum.

Skáldið er svampur.Dregur í sig samtíðina, þykir gaman að henni eða hefur áhyggjur af henni.

Stundum þungar.

Ljóð eru auðvitað góð eða vond. Oscar Wilde sagði að yfirleitt væru þau skáld góð sem þyrðu ekki að lifa ljóð sín. En þeir sem lifa ljóð sín yrkja yfirleitt illa...

Ef skáldið er svampur,hlýtur einhver að koma og kreista svampinn,segir Gísli.

Hver gerir það?

Þegar Davíð frétti að Sál konungur væri dáinn, orti hann ljóð, afar fallegt ljóð.

Það byrjar svona:

Prýðin þín, Ísrael, liggur veginn á fjöllum þínum.

En að hetjurnar skuli vera fallnar!

Segið ekki frá því í Gat, kunngjörið það eigi á Askalon-strætum,

svo að dætur Filistea fagni eigi

og dætur óumskorinna hlakki eigi.

Hver ætli hafi kreist þennan svamp?

Mundi það ekki hafa verið guð? Það var hann sem hafði það í hendi sér ,hvort Sál lifði eða dæi.

Og hann hafði Davíð í hendi sér.Hann hefur okkur öll í hendi sér.

Ljóð Davíðs um Sál er órímað í þýðingunni.

Og það er gott sem slíkt.

Að guð sé þá það afl sem kemur skáldinu til að yrkja?

Já,hann og allir hinir.

Drengur í matrósafötum , lítil stúlka með brún augu.

Engin ástæða til að láta Gísla komast upp með einhvern moðreyk.

Annars líkar mér vel við hann. Hann gengur upp í sínu starfi, eins og hann væri á Morgunblaðinu.


19. maí 1966

Skrifaði Jóni úr Vör í dag vegna bréfs sem hann hafði skrifað mér, dags. 15. maí sl., og kom mér á óvart, en mér þykir vænt um það. Ólafur Jónsson ritdómari Alþýðublaðsins var víst eitthvað að amast við Fagur er dalur.

Ég hef látið mér það í léttu rúmi liggja en samt þótti mér leiðinlegt, hvernig hann misskilur síðasta ljóðið í Sálmunum og leggur svo út frá misskilningi sínum.

En það eru víst forréttindi ritdómara!

Ef túlkun Ólafs væri rétt, mætti skilja erindið í Sálmunum sem guðlast!

Ég er að tala um dauðann, en hann heldur að ég sé að tala um Krist.

Líkingin er um rándýrskjaft dauðans — en ekki Krists!!

Hvernig gæti ég ort þannig um Krist sem er leiðtogi minn; endurlausnari.

Og var það ekki einmitt hann sem slævði brodd dauðans?

Dró úr honum vígtennurnar?

Og veitir líkn með þraut.

Án Krists væri ég líklega trúlaus!

Fyrst Ólafur misskilur þetta meginatriði, hvarflar ekki að mér að hann skilji — eða hafi áhuga á að skilja — annað í bókinni. Skyldi mér ekki vera nokkur vorkunn?!


22. september 1966

Kominn úr ferðinni miklu til Bandaríkjanna. Hún var ógleymanlegt ævintýri fyrir okkur öll. Gaman að hafa Hönnu og strákana með.

Skrifaði nokkrar greinar um ferðina í Morgunblaðið. Hafði látið mér detta í hug að hætta á blaðinu, sú hugsun ásótti mig að minnsta kosti, og fara að lifa mannsæmandi lífi einsog annað fólk, ekki þetta eilífa þras og kvöldvinna - og skrifa eins og mig lystir.

Þeir sem ég hef talað um þetta við,Eyjólfur Konráð Jónsson, samritstjóri minn, Bjarni Ben. og Haraldur Sveinsson,stjórnarformaður Árvakurs, aftaka það með öllu.

Læt því málið niður falla.

Veit innst inni sem er að blaðamennska er mín önnur hlið, skáldskapurinn hin.

Vonandi fer þetta eitthvað saman áfram.

Er samt kvíðinn yfir að geta kannski ekki skrifað meiri skáldskap.

En hver veit?

Hanna segist vilja búa í Bandaríkjunum einhvern tíma. Það gæti verið skemmtilegt ef ég fengi kennslu í norrænum fræðum við einhvern háskóla vestra.

En það verður að bíða.

Er alveg metnaðarlaus frá því ég kom heim, það er góð tilfinning. En hún lofar ekki góðu fyrir rithöfund. Það er eins og að vera náttúrulaus stóðhestur á uppboði.

En ég er víst ekki hestur.

Er að lesa Papa Hemingway. Hann var náttúrulaus þegar hann var kvæntur Pauline. Svo fór hann í kaþólska kirkju í París - og endurheimti náttúruna þar.

Þannig gerðist hann kaþólskur!

Mér hefur aðeins dottið í hug að verða kaþólskur. En ég hef runnið á því.

Eyjólfur Konráð skrifaði leiðara í Morgunblaðið í gær og sagði að Bjarni Benediktsson væri mesti hæfileikamaður í íslenzkri pólitík.

Við ræddum leiðarann áður en hann birtist.

Ég hafði einhvern fyrirvara á orðinu hæfileikamaður en þetta vandræðaorð varð samt niðurstaðan.

Allt varð líka vitlaust á hinum blöðunum!

Það er mjótt á mununum í þessu pólitíska þjarki hér.

Er furða þó maður vilji setjast í helgan stein!

Eykon var með alibí og setti upp sakleysissvip. Hann sýndi Bjarna leiðarann áður en hann birtist!

En slíkt gerist ekki lengur á Morgunblaðinu.

Ber þá Bjarni ábyrgð á leiðaranum.Nei,auðvitað ekki.Það gerum við!


23. september 1966

Förum til Þingvalla um helgina og heimsækjum Sigríði (Björnsdóttur) og Bjarna Ben. Verður áreiðanlega skemmtilegt. Hjá þeim er alltaf gott og hlýtt að vera.

Gunnar Hansson ,arkitekt,tengdasonur Valtýs kom og talaði við mig um Morgunblaðið og framtíð þess. Segist vilja ég verði einn ábyrgðarmaður blaðsins. Það sé í anda Valtýs heitins.

Lýst ekki á það.

Bezt að hafa þetta eins og verið hefur.

Ágætt að dreifa ábyrgðinni á ritstjórana.

Fengum viðvörun. Hönnu dreymdi um daginn mikið af rottum í Morgunblaðshúsinu sem Gunnar teiknaði á sínum tíma.

Það merkir víst slúður,eða rógburð samkvæmt kokkabókunum.

Það er talað við okkur í draumum, sitt á hvað. Hún hefur hæfileikana, en mig dreymir stundum líka.

Ótrúlegt hvað manni er sagt í draumum.

Stundum erfitt að lesa úr þessu myndmáli.

Gunnari gengur einungis gott eitt til. Fékk Morgunblaðið inn í blóðið á heimili tengdaforeldra sinna á Laufásvegi.

Það eigum við sameiginlegt, ásamt mörgu öðru.

Hef ekkert heyrt um einþáttungana mína sem þeir ætla að sýna í Lindarbæ einhvern tíma í vetur.

Sé til.

Tómas talaði við mig um nýútkomna bók Davíðs Stefánssonar. Sagði að þar væri fátt um fína drætti, líklega væri efnið tekið úr syrpum sem Davíð hefði lagt til hliðar.

Það er lygi að Davíð hafi verið búinn að ganga frá þessu til prentunar, fullyrti Tómas.

Við Tómas höfum verið góðir vinir eftir að Steinn dó.

Tala aftur við hann í næstu viku.

Ólafur Jónsson, gagnrýnandi , hringdi til mín í dag og bað um ljóð í Ord og Bild, sænskt menningartímarit.

Merkilegt, eftir ritdómana um ljóð mín.

Hann var mjög elskulegur og ég læt hann fá kvæði. Kannski bezt hann fái ljóð úr Fagur er dalur!

Þórbergur kom til mín í gær. Hann er að fara til útlanda. Sagði söguna af Baulárvallaskrímslinu.

Las fyrir hann ferðakvæðin frá Bandaríkjunu ( með fyrirsögninni um þetta bloody war...).

Honum lízt vel á þau.

Svona rímað gamanháð með alvarlegum undirtóni,unnið uppúr Jónasar-háttum,er Þórbergi að skapi; rímuð kvæði og exact.

Gísli Sigurðsson hlustaði á kvæðin og vill fá þau í Vikuna.

Kannski birti ég þau, ef Tómas telur það rétt.


1. október 1966

Dagurinn sem ég kynntist Hönnu 1949. Dýrmætasti dagur í lífi okkar.

Yrki talsvert um þessar mundir.

Borðaði hádegisverð með Penfield, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, hann segir að íslenzka ríkisstjórnin verði nú að ákveða daginn sem Keflavíkursjónvarpinu verður lokað.

Fannst á honum að íslenzkir stjórnmálamenn væru ekki alltaf nógu hugaðir.

Ég benti honum á að erfitt væri fyrir Bjarna Benediktsson að beita sér fyrir lokun Keflavíkursjónvarpsins þar sem hann hefur ekki trú á skaðsemi þess fyrir íslenzka tungu og menningu eins og margir aðrir. Vonandi lýkur þessu máli innan skamms. Mörgum þykir íslenzka sjónvarpið fara vel af stað.

Hafði alltaf trú á að vinna ætti að stofnun íslenzks sjónvarps sem fyrst. Ég er því harla ánægður með þessa þróun og læt ekki væntanlega samkeppni skyggja á þá ánægju.

Við Gylfi Þ. Gíslason erum sammála um þessa þróun.

Ekki er enn ákveðið hvort Eykon (Eyj.Konráð) fer í framboð eða ekki en að því unnið. Hann á að komast á þing nú, annars er ég hræddur um að hann yrði fyrir einhverju áfalli.

Magnús Jónsson, ráðherra, kveðst styðja hann, en vill ekki tala við bróður sinn, Halldór Þ. Jónsson sem er formaður kjördæmisráðs Skagfirðinga og Húnvetninga ,að ég held. Og líklega andsnúinn Eykon.

Annars hefur Eykon fengið góðar viðtökur í uppstillingarnefnd þótt allir séu ekki á eitt sáttir. Nú gæti Jón á Reynisstað e.t.v. tekið af skarið.

Gekk um Álftanesfjöru með Þóri Jónssyni bílainnflytjanda,forstjóra Sveins Egilssonar.Ingó var með.

Önduðum að okkur þangi og söltu hafi.


21. október 1966

Vorum boðin til Sigrúnar og Páls Ísólfssonar.

Talaði lengi við Einar, son hans. Hann heldur því fram að Njála hafi verið til á bronsöld og hann hafi fundið lyklana að henni, allt merki eitthvað ákveðið og hafi höfundur skrifað söguna til að varðveita þessi gömlu tákn úr heiðindómi og gert það með þeim hætti, að hann yrði ekki bannfærður.

Hef áhuga á allri nýrri hugsun en Njála skírskotar ekki til mín sem táknfræði, heldur persónusaga og þjóðlífskronika.

Skáldskapur.

Gylfi Þ. Gíslason, menntamálaráðherra, talaði lengi við mig. Var m.a. glaður yfir því að sjónvarpsmálið væri í raun og veru úr sögunni.

Ragnar í Smára hefði komið til sín harla glaður þegar ákveðið var að loka ameríska sjónvarpinu.

Þungu fargi af honum létt.

Gylfi sagði við þyrftum að hafa með okkur nánara samstarf án þess nokkkur þyrfti að vita. Hann sagði að loka þyrfti Keflavíkursjónvarpinu með sem minnstu tilstandi. Það væri ekki auðveld ákvörðun.

Engin ástæða að kommúnistar væru að slá sér upp á þessu máli.

Gylfi sagði mér þrjár sögur:

Samstarfsmenn Steingríms Jónssonar, rafmagnsstjóra, vildu heiðra hann á merkisafmæli með því að láta Kjarval mála mynd af honum.

Þegar myndin var búin kom í ljós að hún var ekki af virðulegum embættismanni heldur einhverjum gæja með eldrautt bindi.

Menn hertu samt upp hugann og gáfu gjöfina, "hún er þó eftir sjálfan Kjarval", sagði einhver.

Frú Lára,kona Steingríms, lét hengja myndina upp, í borðstofunni held ég

Oft var býsnast yfir myndinni og voru sumir jafnvel hneykslaðir á henni.

Einhverju sinni þegar einn gagnrýnandinn hafði lokið sér af, svaraði frú Lára ósköp rólega, Myndin, ja-há, hún er ágæt. Hún er eins og Steingrímur,hún venst!

 

Kjarvalssaga Gylfa Þ. Gíslasonar:

Kjarval kom eitt sinn til Gylfa og bauð sjálfum sér í kampavínsveizlu.

Gylfi dró fram það bezta sem hann átti, rautt armenskt kampavín og skenkti í glösin.

Sagði skál(!)

En Kjarval sat þögull og án þess hreyfa við sínu glasi. Það varð dálítið óþægileg þögn, svo Gylfi spurði , hvort eitthvað væri að.

Þá svaraði Kjarval, Hefur þú aldrei séð lambi slátrað?

Þá skildi Gylfi, en Kjarval dreypti ekki á víninu.

Aftur á móti var hann hrókur alls fagnaðar meðan þau hin luku við kampavínið.

Þá sagði Gylfi mér sögu af íslenzkum flugstjóra sem var nýkominn á loft þegar farþegarnir heyra í hljóðnemann að hann segir, Nú vantar mig ekkert nema bjór og góðan kvenmann.

Hann hafði gleymt að taka talstöðina af.

Ein flugfreyjanna ætlar þá að stökkva fram og aðvara hann.

En þá stöðvar farþegi hana og segir ofur rólega, Gleymið ekki bjórnum, stúlka góð.

Sagan er auðvitað gömul og erlend!!

Boðið hjá Páli og Sigrúnu var haldið til heiðurs dr. Friðriki Einarssyni,lækni, sem hefur skorið Pál upp.

Páll er mjög ánægður með þennan líflækni sinn eins og hann segir.

Páll átti stóra koníaksflösku og þegar hún var vígð hélt hann á henni og sagði, Ég fékk þessa góðu flösku á sjötugs afmæli mínu og hafði ekki gert ráð fyrir að opna hana fyrr en á 75 ára afmælinu. Ég hef haft flöskuna við rúmið mitt í svefnherberginu og hef oft heyrt hana tala frönsku.

Hún hefur sagt að sig langi til að halda út í heim, að sig langi til að skoða innyflin í mannfólkinu.

Nú hef ég ákveðið að verða við óskum hennar og bið dr. Friðrik að vígja hana og opna, því hann er lífgjafi minn (og nú klökknaði Páll).

Án hans væri ég ekki hér.

Og nú, dr. Friðrik, bið ég þig að skera flöskuna upp!

Síðan var flaskan vígð og er þetta eitthvert eftirminnilegasta atvik sem ég hef verið viðstaddur.

Sigríður og Bjarni Benediktsson komu til okkar Hönnu í gær. Ég sýndi þeim kvikmyndina sem ég tók af þeim á Þingvöllum - og sitthvað fleira.

Á laugardag fara þau í opinbera heimsókn til Svíþjóðar.

Bjarni minntist á hasarinn út af framboði Eykons í Norðurlandskjördæmi vestra, sagðist hafa talað við Þorvald Garðar Kristjánsson,en hann hefði aldrei verið eins gallharður og nú að reyna þar einnig.

Það líkar Bjarna ekki.

Dómgreindarleysi, segir hann og styður Eykon.

Stundum er hann samt of ákafur, en nú hófsamari en Þorvaldur Garðar, sagði hann!!

Þetta var gott kvöld og skemmtilegt, við förum svo til Þingvalla þegar þau koma aftur.

Annars er baráttan fyrir Eykon mjög hörð, ég held ég hafi aldrei beitt mér eins mikið í pólitík.

En guð má vita hvernig fer?

Andstaðan er hörð, harðari en mig grunaði.

 

22. október 1966 - kl. 14.20

Fékk svohljóðandi skeyti í dag, Vel flutt kæri genius. Astudar kvedjur. Kem a uppbodid, Johannes.

Í kjölfarið fékk ég svofellda kveðju,einnig frá meistaranum.: Herra Mattias Jóhannessen, Til hamingju með yðar nýju bók!... Jóh. S. Kjarval.


30. október 1966

Vorum hjá Bjarna og Sigríði um helgina.

Skemmtilegt að venju.

Rauðir litir haustsins verkuðu afar sterkt á okkur. Ég gerði náttúrufræðilega uppgötvun þegar við Bjarni gengum frá Ármannsfelli um Skógarkot, Hraunkot, Vellankötlu og svo aftur heim í bæ. Orti í þögninni um áratog tímans og fuglana sem flýja haustskóginn. Þeir halda á hin grænu tún, það er uppgötvunin.

Bjarni talaði um margt á göngunni. Við komum okkur saman um að ótti Íslendinga við útlendinga væri úr hófi, "að hugsa sér að maður skuli þurfa að berjast gegn þessu ennþá", sagði Bjarni og átti við Áburðarverksmiðjuna. Þá töluðum við um að varnarliðið gæti ekki farið eins og ástandið væri og NATO - en þó einkum Bandaríkin - væru eina vörn okkar.

Bjarni minntist á regluna í náttúrunni og sagði að bakvið hana hlyti að vera eitthvert alheimsafl sem við hvorki þekktum né skildum.

Hann stendur með Eykon í framboði til Norðurlandskjördæmis vestra og ég hvatti til þess eins og ég hef sagt við Eykon.

Og ef Birgir Kjaran vill fara á þing fyrir Reykjavík, sagði Bjarni, finnst mér að það eigi að stuðla að því.

Gunnar Hansson hringdi til mín og bað mig taka við ábyrgð Morgunblaðsins, ef stjórn Árvakurs óskaði eftir. Sigurður Bjarnason væri á Alþingi og Eykon á leiðinni þangað - og því yrði einn ritstjóri að taka blaðið í sínar hendur.

Ég bað hann tala ekkert um þetta frekar. Ég hefði engan áhuga á þessu og tíminn yrði að leiða í ljós hvað gerðist.

En líklega er eitthvað að gerjast bakvið tjöldin, ég þykist vita það.

Eykon hefur beðið mig um að færa það í tal við eigendur Morgunblaðsins að hann hætti sem ritstjóri, ef hann færi á þing, en tæki við framkvæmdastjórastöðu blaðsins.

"Ég skal skila blaðinu meiri hagnaði þó ég sé á þingi en nokkkur annar", sagði hann.

Bjarni Ben. er hrifinn af þessari hugmynd, en Gunnar Hansson ekki.

Annars er einhver órói á blaðinu sem stendur og illa unnið.

Danska skáldið og þýðandinn,Poul P. M. Pedersen, skrifar mér oft. Hann hefur þýtt síðasta kvæðið í Fagur er dalur og birtir það í Norden.

Sýndi Tómasi Ferðasögubrot úr Vesturheimi og spurði hvort ég ætti að birta þessi kvæði. Hann las dálkinn og varð hinn glaðasti.

"Það er margt vel sagt", sagði hann ánægður, "margar góðar setningar. Maður sér að þetta er ekki barið saman, heldur eitthvað sem kemur eðlilega".

Gísli fær flokkinn í Vikuna.

Merkilegt að upplifa sömu atburði tvisvar, fyrst í draumi, en síðan í veruleika.


15. desember 1966

Jólin nálgast.

Gott að bera ekki ábyrgð á neinni bók á markaðnum.

Mest langar mig upp í sveit, hnipra mig saman í einhverju horninu eins og köttur.

Týnast í einhverju afdalakoti.

Og þó!

Líklega þarf ég næringu af öðru fólki.

Annars trénast ég upp.

Veit þó ekki.

Járn brýnir járn og maður brýnir mann, segir Salómon.

Annars fer allur tíminn í útréttingar og snatt, það heitir víst ritstjórn.

Að vera ritstjóri án þess ætla sér einungis að vera "fínn maður" - það kostar vinnu.

Mikla vinnu.

Hagalín kom niður á blað í morgun og talaði við okkur Sigfús framkvæmdastjóra.

Eykon svaf heima, datt í það í gær.

Hagalín sagði m.a., Jón Thor sagði eitt sinn við mig: "Stefán frá Hvítadal hefur verið hér á ferð, en hann hefur ekki heimsótt mig, svo ekki þarf að opna glugga þess vegna.

Nú er frí frá æfingum á einþáttungunum, en leikarar eru bjartsýnir held ég, einnig Benedikt Árnason,leikstjóri. Guðlaugur Rósinkranz,þjóðleikhússstjóri, kom á æfingu um daginn og sagðist vera ánægðari en hann hefði haldið.

Áður hafði hann víst sagt að hann hefði viljað spara með því að stytta kistuna í Eins og þér sáið!

Sáum Uppstigningu Nordals.

Það eru margvísleg áhrif í þessu verki, Pirandello, Ibsen. Mér hefði þótt betra ef verkið hefði verið "brotið" minna með orðum og frásögnum og maður hefði fengið eitthvert svar við spurningunni: Gerði klerkur uppreisn, eða ekki

Þá hefði ég notið þess betur og hugsað meira um það.

En ég hætti strax að hugsa um efnið að sýningu lokinni.

Ég held að ástæðan sé sú að það er of tilbúið, ég þoli ekki tilbúnar bókmenntir.

Vil helzt að allt sé skrifað út úr lífinu sjálfu.

Annars á mörkum draums og veruleika.

Maður hefur það svo sterklega á tilfinningunni að persónurnar komi inn á réttu andartaki, það heftir ímyndunaraflið.

Kannski á leikstjórinn sökina,ég veit það ekki.

Annar þáttur er beztur.

Eykon sagði mér í gær að Bjarni Ben hefði hótað að segja af sér og rjúfa þing, ef ekki næðist fram að veita togurum aukna veiðiheimild. Hann tæki ekki ábyrgð á því, hvernig annars færi.

Ég talaði við Bjarna í gær, hann var rólegur og nefndi þetta ekki. Hitti hann aftur í næstu viku út af Þjóðhátíðarnefndinni 1974.