Arið 1968
Nýársdagur 1968
Ágætt gamlárskvöld, vorum hjá pabba og mömmu fram yfir miðnætti, fórum til Bjarna og Sigríðar upp í Háuhlíð að venju um hálf eitt leytið.
Hringdi í dag til Harðar Bjarnasonar vegna heimsóknar til Thors Ó. Thors að Lágafelli.
Þeir eru mágar.
Við Hörður fengum okkur góðan göngutúr um sveitina, ásamt Þóri Jónssyni, en komum við að Lágafelli og drukkum koníakslögg með Thor.
Við Thor náðum vel saman og eigum sameiginlega fordóma úr æsku:
Litlar mætur á Hriflu-Jónasi!
Thor sagði okkur frá bréfum Ólafs Thors til Thors bróður síns og svarbréfum Thors.
Þetta eru löng bréf, sagði Thor Ólafs, og eins og hann hafi viljað láta ýmislegt geymast í þeim.
Ég sagði að það væri gott því ekki veitti af að eitthvert sannleikskorn kæmist til skila inní framtíðina.
Benti á það sem mér hefur verið sagt,að Jónas Jónsson hefði samið ævisögu sína, en ætlaði jafnvel að láta hana liggja fram á næstu öld.
Þannig gæti hann kannski sigrað sjálfan dauðann!
Nú, hvernig? sögðu þeir.
Sjáið þið það ekki, sagði ég, hann ætlar ekki að láta birta bókina fyrr en 2020-2030 og þá eru allir dauðir sem við sögu koma og einnig við sem eitthvað vitum!
Þeir sögðu þetta rétt vera og svona sameinuðumst við Thor í afstöðunni til Jónasar, þekkjum enda báðir nokkuð til þeirra spora sem hann skildi eftir.
Nú hrósa sjálfstæðismenn honum ekki sízt!
Komið hefur til tals að ég riti bók um Ólaf Thors fyrir Almenna bókafélagið og er farinn að huga að efninu.
Ég sagði Herði hve glaður ég hefði verið að heyra hljóðið í Thor, kurteisi hans og ágæti.
Það örvaði mig til dáða.
Menn hefðu ekki staðið vörð um minningu Ólafs eins og vera ætti og ég hefði heyrt Þorstein , tengdason hans, Gíslason niðra Bjarna Benediktssyni vestur í Bandaríkjunum.
Hann hefði ráðizt á mig fyrir aðdáun á Bjarna,titlað hann jafnvel doktor sem væri út í bláinn. Hann væri bara heiðursdoktor sem væri gervitiitill!
Ég spurði hvort Pétur Benediktsson væri höfuð Thors-ættarinnar nú.
Hörður sagði, Nei, það er Thor og frú Ingibjörg og skrifaðu bókina í samráði við þau.
Hef þó fyrirvara á þessu öllu vegna mágsefndar Harðar við Thor.
Kappkosta að hafa gott samstarf við alla fjölskylduna.
Þótti samt óþægilegt þegar Þorsteinn Gíslason kallaði Bjarna gervidoktor í boði hjá Sigurði Helgasyni í New York og hundskammaði mig fyrir að vera, Bjarna-maður einsog hann komst að orði, og leggja Morgunblaðið undir doktorinn!
Ég þurfti að hafa mig allan við að vera kurteis í ókunnugum húsum og láta þetta yfir mig ganga.
Hörður Bjarnason sagði að þetta væri ekki sízt úr Gísla Jónssyni, föður Þorsteins, en ég veit það ekki.
Mér hefur líkað vel við Gísla, ég hef talað við hann um stjórnmál og bókmenntir.
Hann hefur áhuga á skáldskap.
Hann er með hugann við Guðmund Kamban, bróður sinn, og nú skrifar hann skáldsögur úr æsku sinni.
Ef maður getur ekki verið vinur Ólafs Thors látins og Bjarna Benediktssonar lifandi, þá er margt öðruvísi á Íslandi en vera ætti.
Við Hanna höfum verið í boði með Pétri Benediktssyni og Mörtu Thors,dóttur Ólafs.
Hönnu hefur líkað vel við Mörtu.
Það hefur alltaf verið gott milli okkar Péturs frá því við kynntumst fyrst í Stúdentafélagi Reykjavíkur.
Pétur lét mig gefa Háskóla Íslands Sæmund á selnum fyrir hönd félagsins og sá sjálfur um víxlana sem við slógum í Landsbankanum til að fjármagna fyrirtækið.
Hörður fullyrðir að Pétur Ben. hafi lýst því yfir á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins að hann mundi frekar styðja sjálfan fjandann en Gunnar Thoroddsen í forsetakosningum.
Pétur kallaði mig í grein í Morgunblaðinu nú í vikunni kirkjuskáld.
Tek það sem hrósyrði, veit samt ekki hvað hann segir um það! En hann vitnaði í Einar Ben.í lokin, svo greininni hefur verið borgið!
Já forsetaembættið, nú rifjast það upp fyrir mér þegar Ólafur Thors sagði við okkur Sverri Hermannsson uppi í hornherberginu sínu heima í Garðarstræti sællar minningar, Litli bróðir (þ.e. Thor Thors) fer ekki á Bessastaði meðan ég er skipstjóri á skútunni.
Svo bætti hann við:
“Á Bessastaði... þetta hljómar eins og “á hreppinn”.”
Morgunblaðið mun styðja Gunnar Thoroddsen undir niðri í forsetakosningunum en taka létt á málinu og líklega ekki lýsa yfir stuðningi við hann nema í einum leiðara í síðustu viku kosningabaráttunnar.
Þetta yrði áreiðanlega sterkast fyrir Gunnar og ekki förum við út í neitt forsetakosningaævintýri í stíl við delluna þegar Morgunblaðið hamaðist gegn Ásgeiri.
En þetta kemur í ljós.
Hörður sagði mér að Bjarni hefði tilkynnt Gunnari að Sjálfstæðisflokkurinn mundi standa með honum í forsetaframboði óofficíelt, að mér skildist, enda óskar Gunnar ekki yfir beinum stuðningi, telur þetta sterkast. Hann þarf að sækja atkvæði inn í alla flokka.
En Bjarni sagði Gunnari, að sögn Harðar, að frekar yrði stutt við bakið á honum en hitt.
Líklega fer bezt á því að Hannibal sé á sínum stað og verði áfram forseti Alþýðusambandsins - en ekki forseti Íslands!
Fallega byrjar nú árið!!
En vel endaði það síðasta.
Mér fannst ég fá hugljómun eða vitrun heima hjá Thor Ó. Thors og nú svellur mér móður.
Ég er lagður af stað með Ólafi Thors inn í framtíðina.
Þegar langt ferðalag er fyrir höndum þá er um að gera - að leggja af stað(!)
10. janúar 1968
Hitti Guðbrand Magnússon í Áfenginu í 60 ára afmæli Björns Pálssonar,flugmanns.
Ók með hann heim.
Hann sagði að samgöngur á Íslandi væru orðnar góðar - og það get ég sagt, fæddur 1887 og eldri en allar brýr á Íslandi, nema kannski ein, að allar samgönguleiðir eru að verða greiðfærar - nema sú sem liggur milli kynslóða.
Svo kreppti hann hnefana að venju og hélt áfram:
Þegar ég var á lýðháskóla í Danmörku, sagði hann, kom skólastjórinn til mín einn dag, það var 1907, og bað mig skipta um föt.
Nú hvers vegna? spurði ég.
Af því að hingað kemur ráðuneytisstjóri.
En hvað kemur það mál við mig? spurði ég.
Jú, hann ætlar að tala við þig.
Svo kom sjeffinn sjálfur og lagði á borðið fyrir mig plagg sem ég leit á og sá það var Uppkastið á dönsku.
Það byrjaði svo: Island er uavhændeladelig Del av Danmark...
Mér hnykkti við, hélt samt áfram að lesa.
Þeir fylgdust með
Að lestri loknum spurðu þeir, Samþykkja Íslendingar þetta?
Það veit ég auðvitað ekki, svaraði ég.
En hvað haldið þér?
Ég held ekki að þeir samþykki þetta, sagði ég þá.
Ráðuneytisstjórinn hrökk við.
Þetta var könnun.
Guðbrandur hlustaði á Björn Jónsson, ritstjóra, flytja ræðuna frægu í Barnaskólaportinu fyrir kosningar 1908.
Allir stóðu á öndinni, enginn vissi hvaða afstöðu hann mundi taka.
Hann hóf ræðuna virðulega og fór góðum orðum um konung og konungsvald.
Enginn vissi enn hvað hann mundi svo segja, en þá venti hann sínu kvæði í kross og tók stefnuna af geysiþunga gegn Uppkastinu.
Björn hafði farið varlega í blaði sínu, Ísafold, en áður en uppkastsnefndin fór utan skrifaði hann þó,
Nú er eftir að vita, hverjir taka að sér að vera taglhnýtingar í þeirri skreiðarferð", þ.e. Danmerkurferðinni.
Guðbrandur var uppveðrarður af þessu. Hann breyttist í lýsandi eldstólpa þegar hann var kominn í miðja ræðu Björns, en ég hef aldrei skilið þennan hita vegna þess ég veit að samkvæmt Uppkastinu þurftu Íslendingar ekki að bera mál sín upp í danska ríkisráðinu og var það gífurleg framför frá því sem áður hafði verið og auðvitað hefðu þeir fengið fullveldi sitt eftir heimstyrjöldina, rétt eins og varð.
Ég held áróðurinn sem þyrlað var upp gegn Uppkastinu hafi blindað marga sem fengu það á heilann og fóru sumir með þá hugmynd í gröfina, að íslenzk málefni yrðu áfram borin upp í danska ríkisráðinu, ef Uppkastið væri samþykkt.
Guðbrandur stóð við handsetningarkassann á Ísafold.
Þá kemur Jónas frá Hriflu þangað og spyr, Viltu taka að þér Tímann?
Jónas hafði ætlað að láta Héðin Valdimarsson verða ritstjóra Tímans og marka þar sósíalístíska stefnu, - en við getum ekki beðið, sagði hann.
Héðinn var þá erlendis, líklega við nám.
Við erum búnir að fá þingmenn og ráðherra svo að nú er eftir engu að bíða, sagði Jónas.
Guðbrandur sagði, Ég hef þó einn kost - að það verður hægt að losna við mig!
Guðbrandur ætlaði að verða bóndi.
En það varð úr, að hann tók við Tímanum.
Framsóknarmenn komu fyrst saman á fund 1917 en fyrsta flokksþingið var haldið á Þingvöllum 1919.
Guðbrandur sagðist hafa tekið ungmennafélagsbakteríuna á Akureyri þegar hann kom þangað frá Seyðisfirði. Þar hafði hann stundað prentnám hjá Skapta Jósepssyni.
Þar hafði hann m.a. hitt Þorstein Erlingsson “hann var glæsilega fallegur maður”, sagði Guðbrandur.
“Hann varð Valtýingur, hefur líklega hrifizt af Eimreiðinni og menningaráhuga dr.Valtýs”.
Og Guðbrandur hélt áfram:
Tryggvi Þórhallsson varð ritstjóri Tímans 1917. Þá var Jónas að kenna úti á landi. Þá voru erfiðir tímar, slæmar samgöngur, kolaskortur og frostavetur.
Tryggvi var kominn til Reykjavíkur frá Hesti þar sem hann var prestur og hafði kennt við Prestaskólann.
Þegar Jón Helgason varð byskup, losnaði kennaraembættið þar. Tryggvi hafði kennt við skólann en nú vildu margir ekki missa Magnús Jónsson dósent frá skólanum, þ.á.m. var Jón Helgason.
Ákveðið var að efna til samkeppnisprófs milli þeirra, “til að losna við Tryggva. Þeir áttu að skrifa ritgerð um siðaskiptin og var farið þessa leið að fyrirlagi Magnúsar.
Hann vann.
Það var auðvitað mikið áfall fyrir Tryggva, ekki sízt fjárhagslegt.
Sama kvöldið og tilkynnt var um sigur Magnúsar, sátum við saman Tryggvi og frú Anna,kona hans, Ásgeir Ásgeirsson og frú Dóra og ég.
Þá sagði ég við Tryggva, Viltu verða ritstjóri Tímans, það er líka að vera kennari(!)
Þetta kom Tryggva á óvart, hann bað um frest til morguns.
Næsta dag, sem var sunnudagur, hittumst við á sama stað.
Tryggvi spurði, Er þér alvara?
Ég sagði það vera.
Þá sagðist hann taka boðinu.
Þannig er sá kafli Íslandssögunnar.
Courmont var vinur Jónasar og ég vissi að ég gerði rétt í því að biðja hann að hringja í Jónas.
Jónas samþykkti þetta. Hann var ekki farinn að bragða á völdum og valdagræðgi hans varð ekki alvarlegur kvilli fyrr en hann var orðinn ráðherra.
Það var hans óhamingja - og Framsóknarflokksins”.
Um nafn Morgunblaðsins sagði Guðbrandur að hann hefði unnið í Prentsmiðju Ísafoldar og daginn áður en blaðið átti að hefja göngu sína kom út lítið blað með því nafni sem hafði verið fyrirhugað, Dagblaðið.
"Einar Gunnarsson, ritstjóri Vísis, lék þetta vonda bragð.
Ég var við suðurgluggann sem sneri út að Austurvelli, en stofnendur blaðsins,þeir Ólafur Björnsson og Vilhjálmur Finsen,fyrsti ritstjóri þess,í herberginu í norðri.
Þeir komu inn og sögðu, að nú væri búið að taka nafnið frá þeim.
Hvað blaðið ætti að heita?
Þá hrópaði ég yfir prentsalinn, Hvers vegna ekki Morgunblaðið?"
Þannig gaf sá maður sem átti eftir að verða fyrsti ritstjóri Tímans Morgunblaðinu nafn.
Fór vel á því.
12. janúar 1968
Lauk frumdrögum að leikriti um vanmátt einstaklingsins gagnvart “hinu opinbera”, eða kerfinu. Það fjallar um hvernig manneskjurnar eyðileggja hver aðra, jafnvel einnig þegar þær telja sig vera að hjálpa hver annarri, og hvernig fórnardýrin flækjast í netið.
Hef kynnt mér rækilega mál M. Grays, sem er kveikjan, þótt engin persóna þess sé notuð enda þekki ég þær ekki. En andrúmsloftið er öðrum þræði þaðan, sem sagt: leikritið hefur við rök að styðjast, hvort sem það hefur heppnazt eða ekki.
Þórbergur sagði við Einar ríka Sigurðsson um daginn að hann vissi að hann væri ekki bænheitur.
Samt hefði hann reynt.
Hann hefði lesið bænirnar í 10 mínútur undanfarið ,en án árangurs. Svo trúði hann Einari fyrir því hvað það er sem hann hefur verið að biðja um: að Margrét sofi betur á nóttinni!
26. febrúar 1968
Sigurður Benediktsson, uppboðshaldari, sagði mér í dag að Kjarval hafi sagt að hann hefði farið á doktorsvörn Gunnars Thoroddsens í gær, ef hún hefði fjallað um fámæli í stað fjölmælis.
Annars vildi Kjarval, segir Sigurður, hitta mig með samtal fyrir augum. Hann segir að Kjarval spyrji oft, stundum daglega: "Hefur þú hitt Matthías nýlega?"
Fór til Bjarna Ben í gær.
Hann var veikur, gubbupest.
Gott í honum hljóðið.
Hann heldur að verkfall verði enda kannski ekki það versta að láta sverfa til stáls eins og andrúmsloftið er orðið.
Það gæti kannski hreinsað til.
Getur verið nauðsynlegt að láta þjóðfélagið laxera.
Töluðum um allt.
Hann sagðist hafa ýjað að því í sambandi við Norðurlandaráðsfundi, hvort - ef Svíar tækju að sér að ábyrgjast Noreg og Danmörku - þeir gætu ábyrgzt Ísland.
Þeir sögðu ákveðið nei.
Ísland væri fyrir utan þeirra svæði.
Auðvitað verðum við að halda okkur við NATO og vonandi að Norðmenn og Danir geri það einnig.
Um efnahagsmálin er margt undarlegt að segja, t.a.m. held ég að fólk sé orðið langþreytt á óbreyttu ástandi, þ.e. fólk vill láta dýrtíð hjálpa sér til að byggja, greiða lán og græða.
Mátuleg verðbólga er fólki ekki á móti skapi.
Þetta sagði Bjarni í samtali okkar og bætti við að verst væri að þeir fátækustu færu alltaf verst út úr verðbólgu, t.a.m. fá verkamenn nú, ef verðtrygging verður,hlutfallslega miklu minni uppbót en við hin.
Það er afleitt.
Auðvitað ætti að semja um það að verðbætur færu stiglækkandi eftir því sem laun væru hærri, eða eitthvað því um líkt.
Við getum ekki haldið þeim verst settu niðri viðstöðulaust, það er kommúnismi.
Að láta fólkinu blæða svo "hinir útvöldu" geti lifað kóngalífi, það dugar ekki til lengdar.
“Fólk á ekki að vera tæki í pólitískri baráttu eins og kommúnistar vilja. Fólk - og einkum þeir sem verst eru settir - er til að stæla baráttuhuginn, það er hvatning til að gera betur. Við eigum ekki að berjast með fólki “, sagði Bjarni, “eins og það sé barefli, við eigum að berjast fyrir fólk.
Að við skulum ekki geta gert það með betri árangri en raun ber vitni(!)
Sagði Bjarni hálfdæstur.
22. marz 1968
Margt hefur drifið á dagana.
Ég hef lokið við leikritið um Sólborgu sem mig hefur lengi langað til að skrifa.
Fékk yfirheyrslurnar og las ágæta grein Tómasar Guðmundssonar um hana en flest er víst skáldskapur hjá mér.
Undirstaðan þó söguleg, þótti rétt að setja gömlu konuna inní verkið - hún reynir að bjarga börnum sínum, en bregzt aldrei guði.
Móðurástin breytist aldrei.
Ég stillti gömlu konunni upp sem nýjum Job og þess vegna lýkur verkinu eins og raun ber vitni.
Jæja, Benedikt Árnason, leikstjóri, fer góðum orðum við mig um hitt leikritið sem enn hefur ekki hlotið nafn, þ.e. leikritið um Maríu litlu og stúlknaheimilið.
. Segist vilja setja það á svið.
Ennfremur að Guðlaugur Þjóðleikhússtjóri sé sama sinnis og verkið verði flutt í Þjóðleikhúsinu helzt í haust, sagði Benni.
Hann hrósaði því á hvert reipi, en sagði að smávægilegar breytingar þyrfti að gera og ég hafi ástæðu til að treysta honum.
Sjáum hvað setur.
Hef lítið sem ekkert getað ort og er það ágætt. “Línunum” slær þá ekki saman á meðan.
Nú er verkfallinu lokið.
Fylgdist vel með því gegnum Sverri Hermannsson. Mér sýnist Hannibal hafa verið eins og rekald - og gott meðan hann flaut ekki upp í móti.
Reyndi þó ekki að spilla fyrir.
Björn Jónsson hafði mikið og gott samband við Sverri.
Sverrir fékk leyfi Bjarna Ben. til að styðja Björn til forsetaembættis í ASÍ nú, eftir Hannibal.
Það braut ísinn.
Fullkomið leyndarmál(!)
Björn hvíslaði að Sverri það þyrfti að hamra á óförum Lúðvíks Jósepssonar og Eysteins Jónssonar.
Pólitík er skrítin skepna!
Björn er manneskja, segir Sverrir. Það er Eðvarð Sigurðsson,formaður Dagsbrúnar,einnig, segir hann, “þótt erfitt sé stundum hjá honum. Ebbi er meiri verkalýðssinni en kommúnisti”, segir Sverrir.
Vafalaust rétt.
Sverrir segir að fulltrúi Framsóknar í 18-manna nefndinni hafi lagt lítið til mála, en verið þungbúinn og áhyggjufullur, ef rofaði til!!
Ekkert er eins afstætt og pólitík!
Talaði við Kristján Eldjárn daginn sem hann ákvað að gefa kost á sér til forsetakjörs. Samtalsfréttin er í Morgunblaðinu.
Ég sagði við Kristján, Vonandi fer þetta ekki eins og síðast.
Nei, hvað áttu við? spurði Kristján.
Þú manst nú hvernig það var 1952 þegar allt varð vitlaust, sérstaklega í blöðunum.
Var það svo slæmt? sagði Kristján undrandi.
Ég varð auðvitað einnig undrandi yfir pólitísku sakleysi hans,ef svo mætt segja.
Ég sagði við hann það hefði allt logað í illdeilum, ekki sízt í blöðunum.
Hann sagðist hafa lagt á það áherzlu við "sína menn" að þeir berðust drengilega.
En við höfum slæma reynslu, sagði ég.
Ja-há, sagði hann.
Vonandi fer ekki nú eins og þá, að bræður muni berjast, sagði ég.
Hann sagði það yrði ekki sízt undir blöðunum komið.
Ég sagðist vonast til að blöðin yrðu opin og sætu á strák sínum.
Síðan talaði ég einnig við Gunnar Thoroddsen,sendiherra, í síma og sagði það sama við hann og var hann á sama máli.
Þú minntist á að vonandi mundu bræður ekki berjast, sagði Gunnar, en andstaða manna eins og Péturs Benediktssonar gæti nú einmitt leitt til þess?
Ég svaraði því engu.
Hann bað mig segja sér frá samtali okkar Kristjáns.
Hann var augsýnilega sleginn yfir framboði Kristjáns og mér virtist hann hálfruglaður í ríminu. Hann er í Danmörku þar sem hann er sendiherra og það virtist hafa komið í minn hlut að segja honum tíðindin um framboð Kristjáns.
Fór að spyrja mig um allt mögulegt, t.a.m. um Ragnar í Smára og þótti skrýtið og illt, ef hann hefði lagzt gegn sér.
Átti augsýnilega ekki von á því - en Ragnar er Ragnar(!)
Síðan var ákveðið að ég hringdi til hans þegar samtalið við Kristján lægi fyrir.
Það gerði ég svo en náði ekki í Kristján fyrr en klukkan fjögur, hann hafði farið við jarðarför.
Skrifaði niður stutta yfirlýsingu frá Gunnari og fór yfir hana með honum..
Sagði við Gunnar ég vonaðist til að ekki færi fyrir mér eins og sendiboðum í gamla daga sem sögðu konungum ill tíðindi - að þeir féllu annaðhvort í ónáð eða voru drepnir.
Það bjargar þér að þú ert í öðru landi, sagði Gunnar.
Ég sagði, Ég mundi sleppa, ég mundi yrkja nýja Höfuðlausn.
Þá hló Gunnar.
Hann var miklu léttari í síðara samtalinu, en hann er í stórhættu. Sá er eldurinn heitastur sem á sjálfum brennur. Fólkið velur forseta, var vígorð sem stuðningsmenn Ásgeirs Ásgeirssonar tönnluðust á 1952.
Nú bitnar það á “erfðaprinsinum”.
Ég sagði við Gunnar að sumir sjálfstæðismenn hefðu beðið eftir því frá 1952 að fá tækifæri til að hefna ófaranna þá og kjósa hann ekki.
Heldurðu að ég viti þetta ekki? sagði hann.
Heldurðu að ég sé fæddur í gær!
Í lok fyrra samtals okkar Kristjáns Eldjárns sagði hann, Ég á góða heimvon, hvernig sem allt snýst. Hvað áttu við? spurði ég.
Ég á þó alltaf stólinn minn í Þjóðminjasafninu.
Ég spurði Kristján um NATO en hann vildi ekki um það ræða, sagðist mundu svara því síðar þegar ég ætti samtöl við frambjóðendurna.
4. maí 1968
Afmælisgrein mín í Lesbók sl. sunnudag um Bjarna Benediktsson sextugan gerir vonandi eitthvert gagn.
Mér heyrðist Bjarni vera ánægður með hana þegar ég hitti hann daginn eftir afmælið.
Á afmælisdaginn hafði hann engan tíma til að tala um hana.
Tómas Guðmundsson flutti honum þá heima í Háuhlíð blaðalaust ávarp frá AB, stórkostlega gott.
Þar sagði hann að gjöfin - Árbækur Espholins - væri engin tilviljun, heldur táknrænn vitnisburður um þá þjóðlegu menningu sem ætti sér dýpstar rætur í ætt Bjarna og eðlisfari.
Tómas sagði við mig áður en við fórum til Bjarna,
"Ég er sammála hverju orði sem þú segir í afmælisgreininni".
Bjarni var í Ameríku meðan ég samdi greinina og vissi ekkert hvað í henni stóð fyrr en hann kom heim og las hana í Lesbók.
En hann þakkaði mér vel fyrir hana.
Stjórn SUS hugleiðir nú að sérprenta hana, það ætti ekki að skaða, því auðvitað skrifaði ég greinina fyrst og síðast fyrir æskuna sem man ekki söguna.
Bjarni sagði mér að hann hefði heyrt Dean Acheson segja frá því á fundinum í Kanada að hann, þ.e. Acheson, hafi setið við hlið Johnsons, Bandaríkjaforseta,í boði og þá hafi forsetinn spurt upp úr eins manns hljóði,
I do not understand why people do not like me!
Þá sagði Acheson, Maybe you are not a likeable person!
Þá féll forsetinn saman.
Honum fannst hann ekki fá nógu mörg atkvæði í forsetakosningunum, vildi helzt fá öll atkvæðin.
Ég skil ekki hvað það eru margir asnar í Bandaríkjunum, sagðu hann hálfdapur.
Margt fleira bar á góma, m.a. sagði Bjarni mér frá Frjálslyndaflokknum. Hann var eins konar eftirstöðvar af Sjálfstæðisfloknum gamla og í hann fóru menn eins og Sigurður Eggerz og Jakob Möller.
Þegar Íhaldsflokkurinn var stofnaður var ekkert samband haft við gömlu sjálfstæðishetjurnar, Sigurð Eggerz, Benedikt Sveinsson, Bjarna frá Vogi - og þeim sárnaði það mjög, að Jón Þorláksson skyldi ekki snúa sér til þeirra enda var lipurð ekki helzta einkenni Jóns, "en auðvitað hefði samningsliprari maður eins og Jón Magnússon snúið sér til þeirra og sameinað þá Íhaldsflokknum", bætti Bjarni við.
En þessi afstaða Jóns Þorlákssonar átti eftir að verða honum dýrkeypt því vegna hennar "gerðu gömlu sjálfstæðishetjurnar allt sem í þeirra valdi stóð til að hindra að hann gæti myndað stjórn. Eftir talsvert þóf fékk Jón Þorláksson ekki byr, svo snúa varð sér til Jóns Magnússonar - og tókst honum fljótt að fá meirihluta þingsins til stuðnings við sig og stjórn sína".
Eitt sagði Bjarni mér enn:
Þegar hann fór til Ameríku 1949 að skrifa undir Atlantshafssáttmálann, kvaddi Benedikt, faðir hans, hann með þessum orðum, Nú ferð þú til að gera það sem ég vildi helzt af öllu gert hafa.
Ekki amarlegt veganesti þau orð af vörum Benedikts Sveinssonar.
Loftur Bjarnason,útgerðarmaður, segir mér að Bjarni hafi síður en svo viljað að af sameiningu yrði og Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður 1929 ,þótt hann hafi verið fundarstjóri á sameiningarfundi Íhaldsflokks og Frjálslynda flokksins sem hann var þá í.
Talaði við Ragnar í Smára í gær. Hann sagði að gigtin hefði farið úr sér við að vinna fyrir Kristján Eldjárn!
Hann sagði mér þessa sögu:
Eitt sinn hringdi Helgi Guðmundsson, bankastjóri, til Erlends í Unuhúsi og spyr hann,
Hvað er með hann Ragnar sem við erum alltaf að lána, mér er stanzlaust sagt að hann sé að fara á hausinn.
Þá svaraði Erlendur að Helgi skyldi ekki hafa áhyggjur af Ragnari, Hann er ekki eins vitlaus og hann lítur út fyrir !
Í dag borðaði ég hádegisverð í boði Guðlaugs Rósinkranz, Þjóðleikhússtjóra. Hann sagði að Þjóðleikhúsið vildi sýna leikritið mitt
um Maríu litlu seinnipart næsta vetrar undir leikstjórn Benedikts Árnasonar sem væri mjög spenntur fyrir því.
Guðlaugur sagði að í því væri góð spenna og eðlileg samtöl og maður sæi það ljóslifandi fyrir sér. Í því væru miklir möguleikar eins og hann komst að orði.
Hann sagði að Benedikt hefði sömu skoðun enda hefur hann haft um það mjög góð orð við mig.
Eitthvað mætti lagfæra og Guðlaugur vill breyta því að til gamla mannsins sjáist á kamrinum!! Ég var raunar búinn að ákveða það, "- ég hef sjálfur ekkert gaman af dónaskap", sagði ég við Guðlaug.
Guðlaugur sagði mér frá nýju leikriti eftir Kristján Albertsson, það er margt gott í því, sagði hann, en það er heldur gamaldags.
Sáum Sumarið '37 eftir Jökul Jakobsson í Iðnó í gærkvöldi.
Það er mun betra en ég hélt og dómur SAM mjög ósanngjarn, hvað sem veldur.
Góðir bjórar í verkinu og vel leikið, en veikleiki þess eru nokkrar brotalamir sem maður sér betur hjá öðrum en sjálfum sér.Ég hef fært það í tal við Jökul sem tekur því vel sem ég segi, þótt hann megi ekki heyra SAM nefndan:
Þriðja þætti ætti að sleppa, hann er bara endurtekning. Stelpan með brúðuna er óekta, henni er ofaukið.
Persónur eru stundum of tilbúnar.
Leikurinn gerist eftir jarðarför og rápið um hánótt er tilbúið.
Þorsteinn Ö. er látinn endurtaka "lífsspeki" sína of oft, annars er persónan vel gerð - maður þekkir þennan karl. Það verður ekki sagt um allar hinar persónurnar.
Held Jökull hafi hug á að lagfæra eitthvað í verkinu, þótt síðar verði.
Sáum Vér morðingja, það var fín sýning kannski bezta íslenzka sýningin í heild sem ég hef séð.
En einn galli er þó á gjöf Njarðar, þótt ekki hafi maður verið að tönnlast á honum í ánægjuvímunni:
Það er að mínu mati dálítil brotalöm á verkinu að "eiginkonan" skuli vera myrt í lokin (og ósköp var hún klaufalega myrt!).
Verkið væri sterkara ef það byggðist á því - og því einu - að við erum sífellt að myrða hvert annað í hversdagslegu lífi okkar.
Við erum sífellt að fremja sálarmorð hvert á öðru, drepum yndi okkar - og jafnvel okkur sjálf.
En hver gerir svo öllum líki?
Að undanförnu hefur verið mikið að gera í skólamálum. Rökræddi við dr. Matthías Jónasson í útvarpinu og Þórarin fyrrverandi skólastjóra á Eiðum í sjónvarpi, hef auk þess flutt erindi um málið í Hafnarfirði og háskólanum og svarað spurningum.
Fer til Keflavíkur 18. maí næstkomandi og birti kannski það erindi ef ég get gert það úr garði svo mér líki.
En skriðan er farin af stað, úrbætur hljóta að verða.
Auk þess flutti ég ræðu úr prédikunarstól í Óháðu kirkjunni á föstudaginn langa og ljóð í Lágafellskirkju kvöldið áður.
Skrifaði langt mál í páskablað Morgunblaðsins og stórt samtal við Loft Bjarnason. Auk þess margvíslegt þras eins og alltaf, hef lesið enn eitt handrit af Sólborgu og læt það bráðum aftur í vélritun.
Fer nú að lesa próförk af gömlu samtali við séra Friðrik sem á að birtast í bók um hann og Oliver Steinn gefur út.
Hef ekki tíma til að breyta því neitt, svo ég læt það flakka eins og það er.
Poul P.M. Pedersen segir að um 200 blaðsíðna bók komi út seinast í ágúst í Danmörku með þýðingum á ljóðum mínum sem hann hefur gert. Mér líkar kápan sem hann hefur sent mér, svo og stafagerðin.
Annars sjáum við hvað setur, en í nógu er að snúast sem stendur.
Á stóra ljóðabók í handriti, læt hana liggja. Það vín er bezt sem vel gerjast(!)
26. maí 1968
Hef unnið að samtölum við forsetaframbjóðendur. Gunnar Thor ítrekaði við mig það sem hann hafði áður sagt um samtöl þeirra séra Bjarna.
Kvikmynd Hinriks Bjarnasonar á sjónvarpinu um Andrés trillukarl er afar eftirtektarverð.
Fallegt tungutak:
Þetta hefur verið nokkuð gott rek..., sleikjulogn..., Andrés ætlar að kippa hérna suður með..., hver veit nema hann geti dregið þorskinn undir í þessu falli..., kúptar fiskinn og gerir að..., það var klakahríð um nóttina..., honum er það barnsvani að fara vel með fisk.
Slíkt tungutak er uppörvandi nú á dögum.
Ágústbyrjun 1968
Hef fengið bréf frá Braga Jósepssyni sem hefur verið við nám vestur í Bandaríkjunum. Hann ræðst að Gylfa Þ. Gíslasyni, menntamálaráðherra, af óbilgirni.
En Morgunblaðið fær þá rós sem það á skilið fyrir baráttu þess í skólamálum.
Bragi segir,
“Framundan má greina stórkostlegar sveiflur í íslenzkum þjóðfélagsmálum. Þáttur Mbl. er einstakur og gefur tilefni til athyglisverðs samanburðar á hugtökunum íhaldsmaður og afturhaldsmaður. Í þessu sambandi má benda á að Sjálffl., sem telja má framsýnan umbótaflokk, á rætur sínar að rekja til íhaldsstefnunnar, en Alþ.fl., sem telja verður þröngsýnan afturhaldsflokk, rekur upphaf sitt til róttækrar umbótastefnu.”
Hvað sem öðru líður held ég menn verði að viðurkenna að skrif Morgunblaðsins um skólamál hafa ýtt við mörgum, og þá ekki sízt stjórnvöldum, og veitti ekki af.
Vona að Gylfi Þ. Gíslason taki við sér og hafi þá forystu í baráttu fyrir breyttu skólakerfi sem af honum má vænta.”
Fæ mikið af svona bréfum,en læt þetta dæmi nægja,hvernig sem framhaldið verður.
Fæ einnig skammarbréf.
Tek þau líka með fyrirvara.
Það er eina leiðin til að halda höfði í svona þröngu umhverfi.