Árið 1969
1. febrúar 1969
Fór í dag með Ragnari í Smára og Alfreð Guðmundssyni, forstjóra, til Kjarvals í Landspítalann.
Hann fagnaði okkur vel.
Þegar sól hnígur til viðar kastar hún fegurstu geislunum eins og til að minna á að hún sé enn á lofti.
Kjarval talaði samfellt nær allan tímann sem við vorum hjá honum.
Engu líkara en hann færðist í aukana við svona heimsókn.
Hann er ekkert nema skinn og bein, þetta fjall sem nú er hrunið.
Kjarval á aldrei eftir að mála handa okkur mynd, hvernig getum við verið án hans?
En hann skildi fegurstu geislana eftir í lífi okkar.
Eins og sólin.
Engu líkara en hann gerði allt til að minna okkur á að hann væri ekki að hníga til viðar.
Stundum sló útí fyrir honum, stundum kom manneskjan fram í honum, hlýrri og stærri en nokkru sinni.
Hann hvorki vildi né gat skilið að hann ætti og þyrfti að vera á sjúkrahúsi.
Þegar við fórum, stóð hann á miðju gólfi, kreppti hnefann og krafðist þess við tækjum hann með - út, út í lífið. Neytti allra bragða, sagði jafnvel að við yrðum að færa sér brennivín!
Ragnar sagði, Við getum ekki tekið þig með, læknarnir verða að hafa þig, til þess þeir geti læknað þig .
Kjarval skreiddist upp í rúmið, kom svo aftur fram úr þegar við Ragnar fórum út, svo að Alfreð varð að vera eftir til að róa hann.
- -
Þegar við komum inn í sjúkrastofuna, sat Kjarval á rúminu og vafði blágrátt Álafossteppi um sængina. Svo vöðlaði hann hvorutveggja saman eða pakkaði sig inn í sængina.
Hann talaði viðstöðulaust,eins og ég sagði.
Fyrst um það hvað hann hefði átt erfitt með að finna sjálfan sig.
Var ég búinn að segja ykkur frá því þegar ég villtist í vinnustofunni minni?
Jú, sjáið þið til, þetta var innanhússvilla.
Ég gekk um á Hótel Borg og leitaði að sjálfum mér, en það var sama hvernig ég leitaði: Ég rakst hvergi á mig.
Það er merkilegt að upplifa þjóðsögurnar svona. Ein er um mann sem villtist í þokunni og kemur að læk og hann þekkir lækinn og man eftir sögu sem hann hefur heyrt um að dýfa hendinni í kalt vatn - og þá finni hann leiðina því að lækir geta ekki runnið bæði upp og niður í móti í senn... Og hann finnur sjálfan sig þarna í þokunni og önnur þjóðsaga er um þjónustustúlku sem týnir sjálfri sér inní vegg en svo rekst hún á beinagrindina sína og áttar sig á villunni. Náttúran uppnemur okkur, já, hafið þið tekið eftir því hvernig maðurinn er uppnuminn af náttúrunni, þetta er til Matthías - og ég er að upplifa þetta núna að vera uppnuminn af náttúrunni og ég rekst á sjálfan mig í þokunni og sé beinagrindina mína inní veggnum en þá dýfi ég hendinni í kalt vatn - og finn sjálfan mig því nú veit ég að aðalatriðið er að vita hvert lækurinn rennur, hvort hann rennur upp eða niður í móti í dag.
Halldór hefur skrifað um þetta, skaut Ragnar inn í.
Ha, hvað segir hann? spurði Kjarval og reis alveg upp í rúminu.
Og hann fór að mjaka sér fram úr og spyrja um koddann, laga teppið og sængina, sótti loks koddann og fór fram úr um leið og hann lagði hann varlega í höfðalagið.
Hann stóð nú á gólfinu og var önnum kafinn að búa um eins og hann ætlaði að kveðja rúmið eins vel og framast var unnt.
Hann benti á gluggatjöldin með blómamynstri, talaði um grænt laufið:
"Þessi grænu blöð minna á laufið í Slúttnesi" - vitnaði svo í tvær ljóðlínur eftir Sigurð á Arnarvatni um laufið "maður finnur mýktina í kvarthluta af ljóði, það er nóg af gleði og enginn getur krafizt meira nema málníðingar..."
Stanzaði andartak.
Spurði sjálfan sig hvað hann hefði verið að tala um.
Nú hef ég gleymt því sagði hann. Það kemur kannski seinna.
Svo hélt hann áfram og sagði eitthvað á þessa leið, Það sýnilega er til en þessi ósýnilega veröld gefur sig ekki nema þá helzt þegar andskotinn þarf á einhverju að halda... Ég veit ekki hvað verður eftir þegar hann er kominn úr móð... bætti hann við og glotti framan í Ragnar.
Það er allt tekið frá manni, úrið, fötin... Héðan á maður víst ekki að komast... og nú gerði hann fellingar í teppið og sængina.
Sjáið þið jökulinn, sagði hann og benti á hvítt línið, hvernig hann breiðir úr sér.... og hamrabeltin... og benti á fellingarnar í teppinu.
Svo kastaði hann öðrum púðanum í Alfreð og bað hann setja hann á sinn stað,
Þarna normalíseraði ég Alfreð, sagði hann sigri hrósandi. Hann er ekki svo vitlaus, hann Blikastaða-Gráni, kölluðu strákarnir í gamla daga, húrra, húrra, húrra... það var vorgróður Íslands sem kallaði... og hann er ekki blankur.... og konurnar þvoðu saltfiskinn og þurrkuðu... ég var þrjátíu og fimm ár að mála myndina af þeim í Landsbankann... þetta átt þú að prenta.... og leit á mig... og lofsyngja bankastjórana í þá daga, þeir voru allir af sjómanna- og kaupmannaættum, höfðu tíma eins og strákarnir til að líta upp og segja:
Húrra fyrir þeim sem þurrkuðu saltfiskinn... sjáið þið hrukkurnar á jöklinum.... hvernig hann lítur á lífið í kringum sig og getur ekki hreyft sig... húrra fyrir honum.
Við eigum að setja staðreyndir lífsins undir smásjá... en hvar stendur maður þegar þeir eru búnir að taka úrið frá manni... og maður leitar að sjálfum sér í þokunni...hvar er þokan... jú, sjáið þið, hérna leggst hún yfir hamrana og jökulinnn... og það er enginn tími... og allt stendur kyrrt... og maður rekur höndina í kalt vatn og allt rennur uppí móti... og maður finnur beinagrindina milli þils og veggjar... finnur sjálfan sig... eitt sinn þegar ég var nýkominn frá París hitti ég Óla Maggadon á Austurvelli og hann sagði, Vera, vera, vera fínn... og vinna ekki... ég veit ekki hvar þeir eru núna allir þeir sem fólk sagði að væru öðruvísi... vera, vera, vera... þetta á maður ekki að fordæma, góði, en setja allar staðreyndir lífsins undir smásjá... því við erum alltaf að leita að sjálfum okkur... björgunin kemur, sagði ég við sjálfan mig þegar ég var úti í náttúrunni... einn... og var búinn að týna öllu sambandi við sjálfan mig og umheiminn... en þá var engin krítík til og þeir hrópuðu húrra fyrir Blikastaða-Grána.
Þetta var menningin í Reykjavík... illa búin. Ég var þá nýbúinn að taka undirbúningspróf í akademíunni, samt höfðu þeir tíma til að líta upp, jafnvel í Hafnarfirði. Börnin réttu upp hendurnar og hrópuðu:
Tólf börn í tunglinu og skrækir aftan við... þetta var menningin í Hafnarfirði...
Svo lagðist hann aftur upp í rúmið, jökullinn breiddi úr sér ...og hamrarnir. Hann horfði á okkur um stund, svo reis hann upp í rúminu, horfði á græna laufið í gluggatjöldunum og söng:
Eilífðin breiður út faðminn sinn djúpa...
3.febrúar 1969
Laxness varð reiður vegna þess hvernig blaðamaður á Morgunblaðinu hafði spurt hann í sambandi við Sonning-verðlaunin á laugardag (um gjaldeyri o.fl.).
Hann náði í mig.
Við skrifum leiðara í blaðið um málið á þriðjudaginn, sagði ég, og fögnum þessu.
Hann gladdist - og náði sér alveg aftur.
Merkilegt annars hvað hann er viðkvæmur.
Sá sem skrifar samtal, ber ábyrgð á því, hvernig það verður. Hann spyr og með spurningum sínum slær hann tóninn.
Som man råber i skoven, får man Svar, sagði Laxness við mig í þessu símtali og bætti við, Það þýðir ekkert að senda svona blaðamenn á mig. Ég verð foxillur og svara út úr .
Og svo verður þetta til leiðinda fyrir alla
Og hneyksli.
Laxness hafði m.a. verið spurður að því, hvað hann ætlaði að gera við verðlaunapeningana.
Hann svaraði, Kaupa fyrir þá brennivín!
15. febrúar 1969
Við Hanna fórum í þingmannaveizlu til Bjarna Ben í Ráðherrabústaðnum.
Talaði við Mörtu Thors.
Hún sagði mér frá sorg Ólafs Thors þegar Thor litli dó.
Þá var hún fjögurra ára.
“Þá skreið ég upp í til hans og sagði, Pabbi, ég skal vera strákurinn þinn”.
Þá brosti hann.
Eftir það var hún alltaf “strákurinn hans”. Þegar hann talaði við hana síðast í síma, sagði hann: “Vertu sæll, vinur”.
Pétur Benediktsson sagði mér þá sögu af Páli Eggert Ólasyni,prófessor,að hann hefði eitt sinn setið að sumbli í Færeyingasalnum svo kallaða, ásamt Ingvari sóða svo nefndum..
Í næsta sal voru allir fínir og prúðbúnir en því var ekki að heilsa í Færeyingasalnum.
Dani nokkur kom inn og fékk ekki borð nema í þeim sal.
Hann sá að þessir tveir voru betur búnir en aðrir og spurði hverjir þeir væru.
Íslendingur sem með honum var sagði. að annar væri prófessor en hinn nánast róni.
Nokkru síðar slær Ingvar í borðið og segir,
Nú fer ég!
Daninn leit upp , hnippti í sessunaut sinn og sagði,
Nú går professoren!
22. febrúar 1969
Hitti Geir bónda Gunnlaugsson í Eskihlíð, nú Lundi, í dag, ásamt Baltazar,listmálara merkileg reynsla.
Geir hefur held ég aðeins farið þrisvar út fyrir “konungsríki sitt”.
Hann hefur fimmtíu til sextíu kýr, átján hundruð hænsni , fann nýja aðferð við að klæða hæsnahús með plasti - frostfrítt - hér hafa hæsnin fullt frelsi, sagði hann.
Frelsið er fyrir öllu. Ekkert má gera til að skerða mannréttindin, ekki heldur skepnuréttindin. Hér hafa hænurnar sína hentisemi og hanarnir geta kókiterað við þær án þess þeir hafi á tilfinningunni að þeir séu í girðingu.
Sagði Geir í Eskihlíð.
Hann hefur tíu til tólf vinnumenn, tvær vinnukonur, matur í ískápum, sokkaplögg uppá snúru í þvottahúsinu og sér konan að mestu um þá hlið, "duglegasta kona í heimi".
Minntumst á kúasmalann sem ég mundi eftir úr æsku minni og þótti einkennileg, Ingibjörgu að mig minnir.
Ég hélt hún væri indjáni þegar ég var strákur og sá hana reka kýrnar um bæinn.
Stórvel gefin, sagði Geir, kunni Einar Ben. utan bókar. Hún var ekkert geðveik eins og sumir héldu.
Elskaði skepnur.
Fékk að reka kýrnar með kúasmala, en Geir var sektaður um 400 krónur fyrir það.
Þá sagði hann, Þið getið þá tekið við henni og borgað 500 krónur af ríkisfé með henni í Arnarholti.
Hann sýndi okkur svínin.
Þarna skín þakklætið út úr ungviðinu fyrir matinn, sagði hann, lét gyltu leggjast með því að strjúka á henni spenana.
Svo komu grislingarnir.
Hlaðan er tólf metra djúp. “Ég veit ekki hvað margir hestar eru hér, ég bind ekki heyið”.
Hér er gamla heyið ,sagði hann og benti yfir hlöðuna.
Hann sagðist ætla að hafa skepnurnar á gjöf í sumar.
Þeir tæta upp túnið, sagði hann.
Þú segir þetta sé konungsríki, allir bændur séu konungar í ríki sínu, en ég lít varla svo út um glugga að ég sjái ekki líkmennina og heyri ekki í gröfurunum.
Hann sagði frá því þegar hann fékk Eskihlíð með tvær hendur tómar - og hóf búskap með tvær kýr og hest.
Síðan talaði hann um borgarstjórana Jón Þorláksson og afskipti hans af Eskihlíð og Gunnar Thoroddsen sem sendi honum bréf þess efnis að hann yrði að vera byrjaður að rífa “eftir fjórar klukkustundir”.
Um morguninn voru þeir kommnir með kúbeinin , sagði Geir, og byrjuðu á bílskúrnum.
Mér sárnaði, auðvitað.
Fékk ekki einu sinni tækifæri til að gera þetta sjálfur.
Hann minntist á móður sína, Ég hef aldrei farið í mál. Þegar mér sinnaðist við einhvern, fór ég upp í kvist til móður minnar og sagði henni frá málavöxtum.
Hún tók alltaf málstað hins aðilans.
Ég fór niður aftur, sá málin frá hans hlið og lét kyrrt liggja.
Hún er bezti og ódýrasti lögfræðingur sem ég hef þekkt.
Hann sagði mér frá viðskiptum sínum við Jónas á Hriflu.
Sagði einhverju sinni við Jónas, Þér skjátlast í því, að þegar bæir vaxa upp vilja konurnar ekki hafa bú í þeim miðjum.
Talaði svo um skattalögregluna, Gestapó eins og hann nefndi hana.
Sagðist ekki hafa haldið bókhald, það hefði kostað þrjú hundruð þúsund krónur - og nú væri hann hundeltur.
Bæjarstjórinn í Kópavogi hefði sagt, Ég get látið rífa kofana hans Geirs þegar mér sýnist!
Geir samdi við Magnús Jónsson,,fjármálaráðherra, um að borga 250 þúsund krónur í stóreignaskatt, ef hann losnaði við vextina.
Það gekk.
En þá spyrja þeir nú, bætti hann við: Hvar fékkstu þessar 250 þús. krónur?
Ég vildi ljúka þessu . Hef enga ánægju af því að hafa krúnkandi hrafna yfir kistulokunum .
Nú telja þeir öskutunnurnar til að sjá hve margir leigja hjá mér í Lundi, en auðvitað eru þeir allir gefnir upp.
Nú á ég að geta gefið skýrslu um hverja svínastíu og hverja dráttarvél sex til átta ár aftur í tímann.
Hvernig er hægt að ætlast til þess af mér að gera slíka skýrslu?
Þegar ég kem heim, hneigi ég höfuð og sofna til þess eins að vakna stuttu síðar til að gera það sem gleymdist.
Áður hafði Geir sagt hann hefði alltaf unnið með sínu fólki.
Hver dagur sem maður vinnur ekki sjálfur með fólkinu, sagði hann, er glataður til hálfs.
Þá gat hann þess hann hefði keypt Lund rándýran af Hermanni Jónassyni, ráðherra, fyrir einar 190 þúsund krónur “sem þá var stórpeningur”.
Nú væri ætlunin að ná af sér jörðinni fyrir slikk.
Þið munið söguna um góða hirðinn, bætti hann við.
Getur hann, þegar fjárhópurinn tvístrast, tekið einn sauðinn og látið hann bera syndir allrar hjarðarinnar?
Það er ekki hægt samkvæmt kenningu Krists þótt Gestapó stundi það.
Ég bauðst til að skrifa sögu Geirs í Lesbók og Baltazar gæti teiknað með henni.
Hann er ragur við það en ætlar að hugsa málið.
Segist ætla að senda mér eina og eina vísu.
6. marz 1969
Tómas Guðmundsson sagði mér í gær að honum sé minnisstætt þegar hann kom ungur til Tryggva Gunnarssonar,bankastjóra.
Hann var þá gamlaður, en tók honum ljúfmannlega og sýndi honum páfagaukana sína.
Tryggvi var óvenjulegur dýravinur og átti þátt í að setja upp Vatnsþróna, sagði Tómas.
Tryggvi segir við hann um leið og hann bendir á fuglana, Þetta er nú eina fólkið sem mér þykir gaman að tala við.
Fín myndhvörf.
Tómas sagði, Þetta er voðalegt ástand hér og ekkert útlit fyrir að það fari batnandi.
Nú,sagði ég,af hverju?
Jú, ríkisstjórnin er að koma heim af Norðurlandaráðsfundi!
Ennfremur sagði Tómas: "Annaðhvort verður að leggja niður dagblöðin - eða íslenzkuna.
Það fer ekki saman!
Kannski endar það með því!
Tómas var í stuði.
Það lá einnig vel á Kristjáni Albertssyni.
Hann sagði mér tvær sögur af Kjarval, einnig eitthvað um Eggert Stefánsson.
Legg það á minnið.
En hvernig eru Íslendingar í raun og veru:
Allan fjandann vígja þeir, sagði almúgakerling þegar Hallgrímur Pétursson var vígður prestur.
Honum er ekki allsvarnað, sagði karl vestur á Önundarfirði, þegar hann sá Hannes Hafstein á hestbaki.
Kannast við þessa athugasemd Sigurðar Guðmundssonar skólameistara:
Ábyrgðin slítur, og ef hún ekki slítur þá er hún engin ábyrgð.
Bjarni Ben sagði mér að sér hefði þótt merkilegt hvað Eisenhover var opinnskár við hann , þegar þeir hittust hér heima.
Þá var Bjarni utanríkisráðherra.
Ike talaði þannig að Bjarni sagðist hafa séð í hendi sér að hann ætlaði að fara fram til forsetakjörs.
Ike talaði mikið um Taft, öldungardeildarþingmann, og sagði m.a. að utanríkisstefna hans væri beinlínis hættuleg.
Mér skilst Truman hafi boðið Ike eða beðið hann um að fara fram fyrir demókrata en Ike neitað, taldi sig víst alltaf repúblikana.
Lárus Jóhannesson,, móðurbróðir minn, segir að við séum líkir, stríðnir og dálítill, en þó heldur meinlaus, skepnuskapur í okkur!!
Móðurbræðrum er menn líkastir en föðursystrum fljóð, sagði Lárus.
Hann minnti mig á að Jóhannes Guðmundsson, afi hans, sýslumaður Mýramanna í Hjarðarholti, hefði ort kersknivísur og þótt stríðinn, en ljúfur og litríkur persónuleiki.
Mamma virðist líkjast honum mest.
18. mars 1969
Fékk í dag svo hljóðandi bréf frá Gylfa Þ. Gíslasyni:
Kæri Matthías.
Ég var að fá og lesa ljósrit af bréfi ykkar í þjóðhátíðarnefnd um byggingu Þjóðarbókhlöðu, sem yrði “helzta gjöfin, sem þjóðin færði sjálfri sér á 1100 ára afmæli byggðarinnar”.
Ég fagna innilega ítrekun ykkar á þessari tillögu og þakka þér forystu í málinu.
Með beztu kveðju, Gylfi.
28. september 1969
Hef verið að skrifa leikrit um Stalín,
Harðstjórann.
Útlínur punktaðar niður , en lokið 6. júní, þ.e. fyrstu gerð.
Fjaðrafok hefur orðið út af leikritinu mínu um Maríu litlu,Fjaðrafoki.
Pólitískir andstæðingar okkar reyna að knésetja mig, en skiptir ekki máli.
Eins og styrkleikinn kemur innan frá, þannig kemur veikleikinn einnig þaðan.
Ég er samt sæmilega hress!
Sagði í Vísi að gagnrýni væri eins manns skoðun, það er allt og sumt(!)
Mér þykir verst ef gagnrýnendur reyna að binda fyrir augu fólks áður en það sér verkið, eða þá að þeir reyni að koma í veg fyrir að fólk vilji sjá það.
En margir hafa séð Fjaðrafok og haft samband við mig, segjast vera ánægðir.
Ragnar í Smára sagði, Þetta er gott verk, vantar aðeins herzlumuninn að það sé frábært. Þú átt eftir að skrifa stórt leikrit!
Veit ekki hvort ég nenni því. Veit ekki nema áhugann skorti(!) Og svo er þetta jarðsprengjubelti uppá sviðið.
Er þó að velta fyrir mér einþáttungi. Það sem er lítið getur verið stórt. Litla bílastöðin er nokkuð stór(!) var auglýst á sínum tíma!
Október 1969 - ódagssett
Fékk bréf frá Ívari Guðmundssyni sem er líklega einskonar áminning til mín, þótt hann viti það ekki.
Hann segir:
“Mér var hugsað til blaðsins eftir lestur tveggja nýrra bóka. Dagbókar þeirra Achesons og Gailbraiths.
Bók Aschesons er hreinasti sjór af fróðleik um helstu alþjóðamál og afdrifaríkustu í tíð Trumans forseta.
Gailbraith er líka góður en meira takmarkaður við Indland.
Það er sagt að konur séu fáfengilegar, en hvað er það á móti hégómagirni utanríkisráðherrans og ambassadorsins (sólin sest og hættir að snúast um naflann á Akurnesingum einsog Einar Ben. sagði á sínum tíma), þegar borið er saman við þau ljós, sem þessir “Akurnesingar” Bandaríkjanna láta skína um sig.”
Kannski eiga menn ekki að skrifa dagbækur, það getur misskilizt!
Miður nóvember 1969
Hef fengið bréf frá Peter Ustinov, skáldi og leikara, eða Pétri Eysteinssyni eins og hann kallar sjálfan sig; stutt en laggott.
Það var gaman að kynnast Pétri og eiga við hann samtal. það féll líka í góðan jarðveg, að ég held.
Hann þakkar fyrir eintakið af Morgunblaðinu með þessari “yfirþyrmandi grein” og spyr, Sagði ég allt þetta? Þú hlýtur að hafa verið að drepast úr leiðindum!
Hann segist hafa notið þess mjög að koma til Íslands og getur þess hvílíkan aðdáanda og áróðursmeistara Ísland eigi í sér eftir heimsóknina.
Hér sé raunveruleg siðmenning – og þekki hann ekki mörg slík lönd. Það hafi verið einstök ánægja að hitta allt þetta fólk.
Sem sagt, við höfum eignazt nýjan sendiherra – en enginn veit hvað hann verður lengi í þessu starfi!
Menn vilja oft gleyma Íslandi þegar stundarhrifningin er gengin yfir og því ekki ástæða til annars en taka þessar heimsóknir útlendinga með nokkrum fyrirvara.
En Ustinov var stórskemmtilegur og ég gleymi því aldrei þegar við stóðum á brúnni yfir Öxará og ég sagði honum að þeim konum hefði verið drekkt í Drekkingarhyl sem hefðu drýgt hór á Íslandi
En þá leit hann hugsi niður í hylinn, benti og sagði,
Svo það er þá hér sem allar fegurstu konur landsins hafa látið lífið!
17. nóvember 1969
Sumir vina minna virðast hafa áhyggjur af því hvernig skrifað er um Fjaðrafok.
Ég er að reyna að setja mig í spor fuglsins Fönix.
Skáld verður að eiga marga vængi.
Það skáld sem er ekki brennt sjö sinnum á báli er víst lítils virði.
Jón bóndi á Fjalli Guðmundsson er að reyna að herða mig upp með þessari sögu, enda er hann góður vinur minn:
Eitt sinn sátu nokkrir Alþýðuflokksmenn yfir kaffi á Hressingarskálanum og þá barst í tal bók eftir mann sem var þeim ekki pólitískt þóknanlegur.
Þá segir ungur maður sem þarna sat, hvort þessi bók sé ekki eintómur þvættingur fyrst hún sé eftir þennan höfund.
Ólafur Friðriksson,alþýðuforingi, var einn viðstaddra og segir þá með þunga, Það á aldrei að stela ritheiðri af nokkrum manni.
Ungi maðurinn sem fékk þessa þörfu ádrepu sagði frá henni löngu síðar í blaðagrein og gat þess jafnframt að þetta hefði orðið sér þörf lexía.
Kannski á ég eftir að endurheimta ritheiður minn, hver veit?
Jón á Fjalli hefur einnig sagt mér þessa sögu um Jóhannes, afa minn, hún er eftir sögn Gunnars Sigurðssonar frá Selalæk, en Jón heldur að hún sé ekki í Íslenzkri fyndni:
Þorvaldur Björnsson, bóndi á Þorvaldseyri, var alþingismaður Rangæinga 1886-1889.
Þing voru þá haldin að sumrinu.
Þegar hann fór til þings í fyrsta sinn vildi hann láta það sjást að þar færi enginn kotungur. Var hann þá með níu eða tíu reiðhesta, alla góða, en hann var mikill reiðmaður og sat hesta vel.
Þá voru þingskrifarar Jóhannes, síðar alþingisforseti og bæjarfógeti, og Þorsteinn Gíslason, síðar ritstjóri. Voru þeir fjörmiklir og skemmtilegir strákar og þegar þeir voru ekki að vinna hafði Þorvaldur þá með sér og hélt þá konunglega á sinn kostnað.
Höfðu þeir mikla ánægju af sem von var því að á þeim árum þurftu fátækir skólapiltar að fara sparlega með peningana sína.
Á þessum árum voru fjárhagserfiðleikar hjá Landsjóði, ekki síður en í dag, og þurfti margra úrræða að leita til þess að koma saman fjárlögum.
Datt mönnum þá helzt í hug að hækka brennivínstollinn.
Þetta féll Þorvaldi illa því hann var vínmaður mikill.
Þeir Jóhanes og Þorsteinn sögðu nú Þorvaldi að hann yrði að tala í málinu og mótmæla þessum skatti kröftuglega.
Lét hann til leiðast og hóf ræðu sína á því að tala um hvað öllu færi aftur á landi hér frá því sem verið hefði og virtist sem Alþingi styddi að þeirri þróun, nú legði það til að hækka tolla á brennivíni og ef það yrði samþykkt þá væri ekki annað sýnna en drykkjuskapur í landinu legðist niður með öllu!