Árið 1970 

 

1. september

Fékk svohljóðandi bréf í dag, það er frá Jóhanni Hafstein, forsætisráðherra,augsýnilega minningLJÓÐ um Bjarna og Sigríði og brunann á Þingvöllum:

 

Huldumál

Ég stari inn í örlaganna bál,

mér ægja þessi duldu huldumál.

Bágt er að vita vini lífi farga

og vera einskis megnugur að bjarga.

Því heggur dauði höggum svona grimmum?

Ei haggast lauf í brunarústum dimmum.

Á ljúfu vori er lífið ei að saka,

en loksins kemur þessi angurvaka.

Á eftir brimsjó þungra bárufalla

er blækyrr ró, sem færist yfir alla.

En hvenær rís hún aftur báran bláa –

og blikar sínum faldi himinháa?

Ég skil ei, vinur, þennan skapadóm

er skuggi breytir sólarljósi í hjóm.

Í örlaganna ægi mikla veldi

er eilífðin frá morgni og að kveldi.

(Gert í Osló í ágúst 1970, J.H.)

 

 

3. september

Skrifaði samtal í Morgunblaðið 22. ágúst við Jóhann Hafstein. Það er ekki lengur hægt að bíða átekta. Við urðum að slá skjaldborg um Jóhann.

Sumir eru þó í vafa.

Vonandi stendur hann sig.

Geir er úti í Skotlandi. "Dempaðu meðritstjóra þinn", sagði hann við mig áður en hann fór. Nú getur enginn sagt að Morgunblaðs-klíkan hafi brugðizt Jóhanni þótt Eykon hafi verið harður í að stöðva hann í því að halda formennsku flokksins.

Auðvitað er sjálfsagt að dreifa valdinu, ég veit það.

Þegar ég sagði Eykon að ég væri að skrifa um Jóhann og við þyrftum að hafa það eins og myndarlega yfirlýsingu um styrk borgarastéttarinnar á forsíðu Morgunblaðsins, horfði Eykon upp úr blöðunum sem hann var að lesa við skrifborðið sitt, þagði um stund, en sagði svo: Jæja, Matti minn, en þá er síðasta vígið fallið(!)

Jóhann er ánægður og ég held þakklátur fyrir samtalið og afstöðu Morgunblaðsins.

Það er ekki stætt á annarri afstöðu eins og komið er. Andspyrna hefði skaðað Geir.

En - stendur Jóhann sig?

Verður hann of sigurviss, ofmetnast hann?

Hjarta Jóhanns er gott og hann hefur fullan hug á að ríkisstjórn sín verði ekki "efnahagsríkisstjórn", þrautleiðinleg.

Hann ætlar að koma góðum málum í gegn, t.a.m. virkjun fyrir austan.

Ingólfur Jónsson, ráðherra, aftekur að taka við formennsku í Sjálfstæðisflokknum.

En verður Geir látinn njóta vinsælda sinna og leyft að komast að?

Um þetta allt má hugsa.

Hitt er víst að Jóhann sagði við mig, Ég er enginn Ólafur Thors eða Bjarni Benediktsson.

Nei, hann sagði þetta við okkur Hönnu þegar þau Rangý (Ragnheiður Thors ,kona hans) buðu okkur upp í Háuhlíð á sunnudag.

Eggert Stefánsson sagði við Kristján Albertsson, Hugsaðu þér hvað Kjarval var snjall að fá þessa stórkostlegu ídeu að halda Reykjavík út með því að þykjast vera geðveikur - og leikur Hamlet innan um alla idjótana - en svo kemur hann til Parísar - og geturðu ímyndað þér hvernig mér leið, þegar hann hélt áfram að leika Hamlet í París?

Þá stóðst ég ekki mátið en fór á hóruhús til að fixera mig upp!


10. október

Hvílíkt ár.

Vinirnir hrynja eins og lauf af trjánum.

Það fer að hausta.

Fyrir dauða þeirra Sigríðar og Bjarna dreymdi fólk í öllum áttum vofeiflega hluti. Ég man þrjá drauma en hef skrifað aðra einhvers staðar hjá mér:

Konu á Akureyri dreymdi fyrir kosningar og kom til fólks síns og sagði, Ég hef miklar áhyggjur af því , hvernig fer. Mig var að dreyma í nótt að hann Bjarni hefði brunnið inni.

Þessum draumi var tekið sem fyrirboða um kosningaósigur Sjálfstæðisflokksins.

Elínu Jóhannesdóttur,móðursystur mína, dreymdi að svartar flyksur eða ræmur féllu yfir Stjórnarráðstúnið.

Bílstjóra Emils Jónssonar,ráðherra,dreymdi að löng jarðarför færi niður Bankastræti og Bjarni og Sigríður væru í fremsta bíl.

Alþýðuflokksmenn túlkuðu þennan draum sem ósigur Sjálfstæðisflokksins í væntanlegum borgarstjórnarkosningum í vor.

Björn Bjarnason segir mér að helzta martröð Bjarna, föður hans, hafi verið, að honum þótti sem hann væri að kafna í svefni.

Gunnar Thoroddsen sagði við Harald Sveinsson,framkvæmdastjóra Morgunblaðsins, í fyrradag að hann vísaði því algjörlega á bug að hann hefði sagt að Morgunblaðið hefði brugðizt sér í forsetakosningunum.

Að vísu sagði hann þetta ekki svona, heldur að "mínir menn" segja mér að Morgunblaðið og Bjarni Benediktsson... hafi brugðizt mér...

Sjálfur hefur hann talað í þessum dúr við Jón Kjartansson, forstjóra ÁTVR,einn helzta stuðningsmann sinn, og einnig látið að þessu liggja við mig sem eina helztu skýringuna á ósigri hans í kosningunum.

Samtal okkar fór fram í skrifstofu sendiráðsins við Dante Pl.

Samtalið var mjög opinskátt .

Þegar við kvöddumst sagði Gunnar að við gætum a.m.k. talazt við aftur , en ég er þeirrar skoðunar að hann trúi því sjálfur að við séum "gulir".

Erfitt að koma vörnum við, svo saklausir sem við erum!

Við ritstjórar Morgunblaðsins hittum Gunnar tvisvar eða þrisvar í viku fyrir forsetakosningarnar, heimsóttum hann upp á Hótel Holt þar sem þau Vala bjuggu.

Hann bað okkur um þetta og var ekkert sjálfsagðara en verða við þeirri beiðni.

En satt að segja er erfitt að sigla blaði sem er að berjast fyrir frelsi sínu og sjálfstæði undan áhrifum Sjálfstæðisflokksins milli skers og báru.

Það verður að gera kænlega.Og með langtímamarkmið að leiðarljósi.Pólitískt uppnám flýtir ekki fyrir.Það gæti kaffært okkur.

Við vorum svartsýnir á að Gunnar ynni kosningarnar, en hann tók því aldrei illa.

Mér fannst hann standa sig karlmannlega, þótt á móti blési.

Á einum þessara funda var ákveðið að við skrifuðum einn leiðara til stuðnings Gunnari, alls ekki fleiri, og þá ekki fyrr en í lok kosningabaráttunnar.

Það var samkvæmt ósk Gunnars sjálfs.

Bjarni var einnig heill í stuðningi sínum við Gunnar.

Hann átti að vísu í miklum pólitískum erfiðleikum, og raunar persónulegum einnig, vegna kosninganna en lét engan bilbug á sér finna.

Ég skrifaði samtal við hann til stuðnings Gunnari rétt fyrir kosningar.

Það var samið úr samtali okkar á löngum göngutúr um bæinn til að meta ástandið.

Við gengum marga hringi kringum Tjörnina.svo skrifaði ég samtalið,en Bjarni lagfærði.

Hann rifjað m.a. upp hvers vegna málskotsréttur forseta og þjóðaratkvæðisákvæðið var sett inn í stjórnarskrána við lýðveldistöku,en það var vegna tortryggni í garð Sveins Björnssonar,forseta, sem myndaði utanþingsstjórn dr. Björns Þórðarsonar í trássi við þingið.

Reykjavíkurbréf mitt síðasta sunnudag vakti úlfaþyt af því þar var ekki minnzt á Gunnar Thoroddsen!

Kristján Albertsson sagði, Þarf það óhjákvæmilega að vera móðgun við Gunnar ef minnzt er á Jóhann (Hafstein) eða Geir (Hallgrímsson)?

Móðursýki ríkir víða.

Bezt að fara varlega og gjalda lausung við lygi! Þórbergur segir það sé nazismi! En það er ekki meiri nazismi en svo að þetta er boðorð Hávamála!

Bjarni heldur fast við að stundum sé nauðsynlegt að gjalda lausung við lygi.

Hannes Hafstein hafði gefið Símoni Dalaskáldi vesti. Símon ætlaði að gefa það Steingrími Thorsteinssyni "svo þrjú þjóðskáld hafi átt það!"

Eitt sinn töluðu þeir saman, Kristján Albertsson og séra Matthías Jochumsson.

Þá flautaði koladallur í höfninni.

Sr. Matthías sagði, Þetta er rödd menningarinnar. Það er eitthvað annað en vellið í mér eða aumingja spóanum.

Tómas Guðmundsson kom til mín og sagðist hafa séð tvær blómarósir í Austurstræti sem hefðu minnt sig á að sér hefði verið ráðlagt þegar hann hafði ort kvæði sitt svo: þið ungu lauslátu konur... að breyta því, svo hann yrði ekki gagnrýndur fyrir að yrkja ástaróð til lauslætisins.

"Það var erfitt að vera skáld fyrir 40 árum, Matthías minn, andvarpaði Tómas.

Um verk Ibsens sagði hann:

Upphaflega var áhuginn ekki bókmenntalegur, heldur þjóðfélagslegur. Verkin urðu fræg af umræðum. Það var boðskapur þeirra sem vakti athygli.

Það var rifizt um hvert verk og hverja sýningu.

Þegar við sátum á Borginni og vorum eitthvað að tala um Ibsen sagði Lárus Sigurbjörnsson allt í einu:

Hvert fór Nóra?

Inn í önnur verk, svaraði ég.

Danski leikarinn Poul Reumert sagði við Kristján Albertsson að þau Anna Borg,kona hans,mundu aldrei leika aftur á Íslandi eftir síðasta leikdóm Sigurðar Grímssonar um Önnu.

Það er engu líkara en dagfarsprúðustu menn geti breytzt í niðursallandi ofstopamenn þegar þeir setjast í dómarasætið.

Ég þekki Sigurð vel, finnst hann oftast ljúfur og hlýr en hann getur verið hábölvaður, ég veit það vel. Ég hef talað við hann kenndan, þá getur hann verið hinn versti.

Allt minnir þetta mig á það sem Joh. V. Jensen sagði einhvern tíma um gagnrýni: Þegar við förum til rakara verðum við að þola svitalyktina undan handarkrikanum á ókunnugum manni. Það sama verðum við að leggja á verk okkar þegar við gefum þau út.


Desember – ódagsett

Guðmundur Daníelsson hefur skrifað bók um uppár Árnessýslu, Vötn og veiðimenn.

Þar er kafli um “blettað sakavottorð mitt” eins og hann heitir og fjallað um það, þegar við Þórir Jónsson,forstjóri í Ford, vorum kærðir fyrir að nota tvær stengur í Hvítá, en ákæran var ekki á rökum reist því allt var þetta vegna misskilnings.

Við vorum í góðri trú vegna þeirra upplýsinga sem við fengum.Og þegar við sáum eftirlitsmenninga á klettunum handan árinnar,veifuðum við þeim.

Þeir veifuðu ekki á móti.

Jafnsaklausir og við vorum létum við það gott heita !

En það er þetta anskotans sakleysi sem getur verið baneitrað og átti nú eftir að koma okkur í koll,því að okkur hafði verið sagt við mættum nota tvær stangir.En það var víst aðeins ein stöng leyfileg á svæðinu.

Þessu þrasi lauk með ákæru og svo dómsátt eins og Guðmundur nefnir, en Gunnlaugur Briem, borgardómar, hvatti eindregið til þess.

Veit ekki ástæðuna fyrir þeirri hörku sem ég var beittur, kannski þeir hjá veiðimálastofnun eigi einhverra harma að hefna og finnist ástæða til að eltast við mig á Jökulsárbökkum; sem sagt veit það ekki.

Hitt veit ég að við töldum okkur ekki vera að brjóta nein lög; vorum í góðri trú og gerðum ekkert án samráðs við veiðisala.

Þórir var í mínu boði svo þetta var ennþá leiðinlegra fyrir mig fyrir bragðið.

Ég hef oftar verið nefndur til sögunnar í veiðibókum Guðmundar, vinar míns, og hugnast það vel, þótt lýsingarnar séu heldur stórkallalegar eins og hans er von og vísa.

En allt er þetta skemmtilega skrifað.

Kaflinn um ævintýrið við Hvítá er skrifaður með mínu samþykki, enda tel ég þetta einskonar gamansögu, þótt reynt hafi verið að slátra mannorði mínu; að ósekju.