Árið 1971
Lok maí 1971
Hef fengið bréf frá Heinz Barüske, prófessor í Berlín, hann á að gefa út íslenzkt smásagnasafn á vegum Horst Erdmann forlagsins í Tübingen.
Biður um tvær eða þrjár sögur eftir mig.
Barüske er ekki fisjað saman, að biðja um sögur eftir mig eins og vinstri menn sem flestu ráða í bókmenntum hér á landi hafa reynt að glefsa í mig sínkt og heilagt.
En ég mun senda honum sögur – til að gleðja Stasí!
3. júlí 1971
Við mamma gengum að leiði pabba og komum við hjá Bjarna og Sigríði í Fossvogi, svo og leiði Gunnars heitins Norlands,mágs míns.
Sveinn Benediktsson,forstjóri , sagði mér í dag skýringuna á því hvers vegna Bjarni, bróðir hans, fór ekki á þing fyrr en 1942.
Hún var svona:
Thorsarar, einkum Thor, höfðu haft mikið dálæti á Jóhanni G. Möller og komið honum á þing. En 1937 var komið til Bjarna Ben. sem ungs manns og hann beðinn um að gefa kost á sér til þingsetu.
Síðar sagði hann Sveini, bróður sínum, að hann hefði ekki viljað taka boðinu og ýta Jóhanni til hliðar því þeir hefðu átt gott samstarf.
22. júlí 1971
Styrmir (Gunnarsson,síðar ritstjóri) talaði við Hannibal Valdimarsson í dag.
Hann sagði m.a.:
Herinn fer ekki en viðræður við Bandaríkjastjórn um breytingar, t.a.m. að íslenzkir flugmenn annist könnunarflug.
Er það ekki framkvæmt hér? spurði Styrmir.
Nei, ekki frekar en við höfum vopnaða lögreglu, sagði Hannibal.
Auk þess tækju Íslendingar við fleiri störfum á Vellinum.
Magnús Kjartansson, ráðherra , sagði á ríkisstjórnarfundi í morgun að bezt væri að byggja raforkuverin fyrir Austurlandi, fá lán hjá Alþjóðabankanum og auglýsa svo rafmagnið á alþjóðavettvangi og selja orkuna hæstbjóðanda.
Hann var spurður hvort það væri hægt og sagðist hafa fengið það svar hjá Jóhannesi Nordal að svo ætti að vera.
Einu vandkvæðin eru þau, sagði Magnús, að við erum of ríkir til að fá lán hjá Alþjóðabankanum - og hafði þetta eftir Jóhannesi Nordal.
Hannibal var ánægður með skiptingu embætta í vinstristjórninni.Kommúnistarnir tveir gætu ekkert gert við sín embætti til tjóns,sagði hann. Þeir fengu ekki menntamálin, póst né síma - eina sem hafa bæri áhyggjur af væri það, að Magnús Kjartansson hefði fengið raforkumálin ,en ekkert hefði verið hægt að gera í því eins og skiptingin hefði verið.
Magnús Kjartansson ætti eftir að breytast í ráðherraembætti, sagði Hannibal.
Hann sagði að lítil virðing væri fyrir Ólafi Jóhannessyni,forsætisráðherra, Einar Ágústsson,utanríkisráðherra, væri ráðþægur, þ.e. áhrifagjarn, Magnús Torfi Ólafsson,menntamálaráðherra, mundi reynast góður ráðherra en stjórnin gæti sprungið hvenær sem væri, þ.e. hvenær sem einhverjir erfiðleikar kæmu upp.
Þá yrði hægt að fara í kosningar, t.a.m. í vor og mundu þá ungir framsóknarmenn sameinast jafnaðarmönnum - eða þá að mynduð yrði stjórn með Sjálfstæðisflokknum , þótt Bjarni Guðnason.alþingismaður, yrði ekki með.
Slík stjórn hefði 33 þingmenn á bakvið sig.
Ekkert væri þessu til fyrirstöðu í raun og veru en þeir Gylfi Þ. gætu sameinað jafnarðarmenn - gott væri á milli þeirra.
Hannibal sagðist hafa stungið upp á því að ef til þessa kæmi yrði leiðtogi þeirra jafnaðarmanna kosinn á sameiginlegum fundi.
Óbreyttur tónn hjá Hannibal í garð komma.
Einar Ágústsson talaði við Styrmi fyrir nokkrum dögum og sagði að þeir gætu haft samband, þótt þeir væru andstæðingar "í bili". Hann vill augsýnilega betra veður.
Er hann eitthvað hræddur?
Geir Hallgrímsson sagði á fundi okkar í gær að víetnamskt ástand gæti skapazt hér á landi ef vopnuð "þjóðfrelsissveit" réði niðurlögum lögreglunnar, varnarliðið skærist í leikinn, en kommúnistar kölluðu Rússa til hjálpar.
Why not?! 4)
10. október 1971
Halldór Laxness er samþykkur því ég skrifi "snotra bók" úr greinum mínum og samtölum við hann. Laxness býðst til að fara yfir handritið, "-því að menn gætu hugsað eftir 100 ár að maður hafi verið alveg óskaplega heimskur, ef höggstaður væri".
Hann virðist hugsa um það hvernig menn líti á hann eftir 100 ár .
Átti samtal við Ásgeir Ásgeirsson, fyrrum forseta Íslands, og spurði hvort hann vildi sýna okkur þann sóma að skrifa fyrstu greinina um sjálfstæði Íslands og öryggi þess sem við hefðum í hyggju að birta í Morgunblaðinu.
Ásgeir var fljótur til svara, sagði að hann yrði því miður að vera mjög varkár eins og á stæði.
Hann sagði að ástandið væri afar ískyggilegt á Íslandi nú um stundir.
“Við kynntumst ástandinu eins og það var fyrir fimmtíu árum, þegar baráttan við Jónas frá Hriflu hófst. Þá voru bara innanlandserjur, nú er um líf þjóðarinnar að tefla og sjálfstæði Íslands,” sagði Ásgeir.
Ég reyndi að þrýsta dálítið á hann, að hann skrifaði þessa grein, og þegar það tókst ekki sagði ég við hann, Það verður ekkert gaman að hafa verið forseti leppríkis.
Nei, góði, sagði hann, en það er þó betra að hafa verið forseti en forsetinn.
Töluðum svo allnokkuð saman um varnar- og öryggismál Íslands og þá fann ég inná það hjá Ásgeiri að honum fyndist rödd hans ætti að vera til taks einhvern tíma síðar, ef þjóðin þyrfti í raun og veru á henni að halda á örlagastund.
Ásgeir sagði mér í trúnaði að margir framsóknarmenn hefðu orðið þrumu lostnir yfir ræðu Einars Ágústssonar á Alþingi um utanríkismál.
Þó hann hefði slegið úr og í á ýmsum stöðum, hefði það vakið athygli þeirra hvað hún var ákveðið orðuð.
“Þetta hefur farið mjög fyrir brjóstið á mörgum framsóknarmönnum,” sagði Ásgeir, “og þeir fóru að velta fyrir sér hlutunum.”
Ásgeir kvaðst eiga innangengt í framsóknarflokkinn frá fornu fari og hann talaði oft við framsóknarmenn.
Sér væri sagt að þeir sem væru andvígir núverandi utanríkistefnu vinstristjórnarinnaer væru milli 50 og 60% framsóknarmanna.
Ég reyndi að mótmæla því að svo há hlutfallstala gæti verið raunsætt mat, en hann gaf ekkert eftir og sagðist vera fullviss um það.
Þessi tala kom upp þegar ég spurði Ásgeir um það, hvernig hann héldi að þjóðaratkvæðagreiðsla um varnarmálin færi ,ef af henni yrði.
1. nóvember 1971
Í dag hitti ég Einar Ágústsson, utanríkisráðherra, að máli í Alþingishúsinu.
Þangað kom ég um þrjúleytið samkvæmt umtali.
Ég talaði við Ashkenasy í gær, sunnudaginn 31. október, um væntanlega ferð föður hans hingað um jólin, en þar sem Rússar hefðu ekki enn svarað fyrri málaleitan minni fyrir hönd Ashkenasys, væri óvíst hver niðurstaðan yrði.
Ég stakk upp á því við Ashkenasy heima hjá honum í gær að ég fengi að tala við utanríkisráðherra Íslands og biðja hann liðsinnis.
Ashkenasy sagði að það gæti ekki skemmt fyrir ef ég mæti það svo og mér væri þá heimilt að gera það í sínu umboði.
Þetta sagði ég utanríkisráðherra og sá að honum þótti vænt um það.
Hann sagði að Ashkenasy væri eina heimsnafnið sem væri nú eitthvað á okkar vegum. Hann væri túlkandi listmaður og bæri list sína uppi með persónu sinni alls staðar þar sem hann færi, svo hann væri mun þekktari en til að mynda ýmsir rithöfundar sem væru einungis þekktir af verkum sínum, en ekki persónu.
Hann lagði áherzlu á að þetta væri íslenzkt mál, í raun innanríkismál okkar. Þórunn (Jóhannsdóttir,kona Ashkenasy) væri íslenzkur ríkisborgari og þau Ashkenasy ættu heima hér á landi. Það væri mikil virðing við Ísland og þau vildu hafa það svo.
Hann kvaðst fús til að tala við rússneska sendiherrann hið fyrsta og lagði á það áherzlu að hann vildi flytja honum þau tíðindi að það væri sitt mat að Sovétstjórnin ætti að leyfa föður Ashkenasy að koma hingað út til Íslands nú um jólin og hitta son sinn, tengdadóttur og barnabörn.
Ég sagði utanríkisráðherra nokkuð frá stöðu Ashkenasys, veikri móður hans og ýmsum öðrum örðugleikum og þá sagði hann orðrétt:
“Ef Rússar hlusta ekki á þessa ósk okkar lít ég svo á að það sé mikill dónaskapur af þeirra hálfu.”
Síðan sagðist hann tala við rússneska sendiherrann á morgun, þriðjudag, eða eins fljótt og auðið yrði.
Í framhaldi af þessu sagði Einar Ágústsson að hann vildi að vísu ekki þurfa að sækja neitt undir Rússa eins og stæði.
Það væri nóg samt, eins og hann komst að orði.
Aftur á móti væri hér um málefni Íslands að ræða og því sæi hann ekkert því til fyrirstöðu að hann hefði afskipti af málefnum píanóleikarans.
Þá ræddum við ýmsa hluti aðra en áður en við skildum við málefni Ashkenasy sagðist ráðherrann mundu hafa samband við mig um úrslit.
Hann sagði það gleddi sig að ég hefði meiri áhuga á því að faðir Ashkenasys kæmi til Íslands og flókin mannleg samskiptavandamál væru leyst á farsælan hátt heldur en reynt væri að sprengja pólitískar bombur um þessi mál, eins og hann komst að orði.
Magnús Kjartansson sat við næsta borð við okkur í kaffistofu Alþingis meðan við Einar röbbuðum saman svo að við urðum að hvíslast á.
Þar sátu einnig þingmennirnir Svava Jakobsdóttir og Gils Guðmundsson, auk einhverra minni spámanna sem ég er ekkert að nefna.
Ég held ekki neinn hafi heyrt það sem við Einar töluðum saman, en mér þótti vænt um þann trúnað sem utanríkisráðherra sýndi mér og hversu vel og hlýlega hann talaði við mig með fulltrúa sósíalismans og samstarfsmenn í ríkisstjórn þarna á næstu grösum, en samtal okkar fór áreiðanlega ekki fram hjá þeim.
Utanríkisráðherra var mjög viðræðugóður og allt sem ég sagði varð honum ýmist til umhugsunar eða tilefni til nýrra umræðna.
Ég sagði honum til að mynda að merkur stjórnmálamaður sem ég nafngreindi ekki en þekkti mjög vel til í Framsóknarflokknum hefði sagt mér að þar væru 50-60% nær línu Sjálfstæðisflokksins í varnarmálum en þeirra sem sætu þarna við næsta borð, eins og ég komst að orði.
Einar Ágústsson kinkaði kolli og brosti lítillega en bætti við,
“Þetta er alveg rétt, það eru 50-60% af okkar fylgismönnum sem eru nær þeirri línu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur. Þetta er gífurlegt vandamál fyrir mig en vonandi leysist eitthvað úr þessu síðar meir.”
Ég sagði við hann:
“Nú, þetta getur þá krakkað einn góðan veðurdag.”
“Já,” svaraði Einar, “ástandið er mjög hættulegt en ég ætla hvorki í eitt eða neitt krakk, ekki á næstunni. Það þarf að fara vel og varlega að öllum hlutum.”
“Ég get sagt þér í trúnaði” sagði ég, “að Ashkenasy hefur í raun verið að velta því fyrir sér hvort honum sé óhætt að eiga heima hér á Íslandi vegna þess ástands sem skapazt hefur og óvissunnar í varnar- og öryggismálum landsins.
Hann hefur ótta af því.
Hann þekktir sovézkt stjórnskipulag og mundi ekki vilja búa í Sovét-Íslandi.”
Þá hvíslaði Einar Ágústsson að mér, án þess hika:
“Ég skil það vel, hann þekkir þetta ástand, en ég get sagt þér að það mun ekki verða hér, ekki meðan ég sit í þessu embætti, ég ætla að ráða þessu sjálfur.”
Ég sagði að vonandi yrði aldrei um það að ræða að Magnús Kjartansson réði ferðinni í varnarmálum.
Þá sagði Einar Ágústsson:
“Hann ræður engu um það og það mun ekki heldur verða, ég mun sjá til þess.”
Lagði síðan áherzlu á að ástandið gæti breytzt síðar meir og þá gætum við tekið saman höndum og starfað meir saman að þessum málum en verið hefði.
Hann sagðist sjá að ég hefði ekki skrifað verstu árásirnar á sig.
Orðrétt sagði hann:
“Ég held að þessi skrif, þar sem eru svona beinar og harðar árásir á mig, geri mér ekki mikinn skaða. Slíkar árásir eru óskemmtilegar en ég get alveg þolað þær eins og stendur. Ég veit aftur á móti að þú hefur skrifað stundum meira undir rós og manúerað meira í þínum skrifum.
Og ég veit að það er mér hættulegra.”
Það var sársauki í þessum orðum en ég sagði við Einar að vonandi ættum við síðar meir eftir að mætast á miðri leið og tók hann mjög undir það.
En skrifin um hann og vinstristjórnina í Morgunblaðinu hafa komið við kaunin á honum, það er augljóst af þessu samtali, þó að vel megi vera að þau hafi einnig hert hann, um það skal ég ekki dæma. Þó hallast ég að því að þessi skrif okkar morgunblaðsmanna hafi hert járnið í Einari Ágústssyni án þess það hafi beinlínis verið ætlunin!
Einar Ágústsson á erfitt um vik.
Ég held ekki hann sýni sósíalistum fullan trúnað og það geti orðið ríkisstjórninni dýrt spaug einn góðan veðurdag.
En mér fannst hann tala við mig af einlægni og ég met það.
Þetta er kannski rangt mat hjá mér, ég veit það ekki, en við áttum að minnsta kosti auðvelt með að ræða saman og hann sagði það væri auðvelt að hafa samband við sig hvenær sem væri.
Hann sagðist ekki geta fallizt á þingsályktunartillögu þess efnis að skipuð yrði nefnd þar sem utanríkisráðherra hefði samráð við lýðræðisflokkana.
“Það er hvergi til í þingsögunni að ráðherra fái slíka nefnd við hliðina á sér,” sagði hann.
“Ég mundi telja samþykki þessarar tillögu vantraust á mig.”
“Þetta er mjög vont mál fyrir þig,” sagði ég, “vegna þess að það er vont fyrir þig að menn segi að þú viljir heldur eiga samstarf við vini þína við næsta borð en okkur hina.”
“Ég veit það,” sagði hann, “þetta er erfitt mál fyrir mig og kannski meira en lítið erfitt, en ég treysti mér ekki til að fjalla um það á annan veg en þennan.”
Ég sagði við hann,
“En hví gerir þú þá ekki annað, geturðu ekki haft frumkvæði að því að semja einhverja breytingatillögu við þingsályktunartillöguna þannig að þú tækir frumkvæði að samstarfi við borgaralegu lýðræðisöflin”.
Hann velti þessu eitthvað fyrir sér en sagði svo,
“Mér hefur nú aðeins dottið þetta í hug en ég hef ekki komið auga á leið til að gera þetta, en kannski væri það hægt.”
“Ég held það væri heppilegt fyrir þig,” sagði ég, “að hugleiða þetta, að öðrum kosti verður þú að sitja uppi með erfiðleikana á að hafna slíku samstarfi.”
Og hann játti því.
Ég varð aldrei var við neinn bilbug á Einari Ágústssyni í þessu samtali okkar. Hann hafði ekki þær áhyggjur af stöðu sinni sem ég hefði haldið að óreyndu.
7. nóvember 1971
Leikrit mitt Sókrates var flutt í útvarpi 4. nóvember.
Gott!
Mátulegt á þá!
Helgi Skúlason leikari á heiðurinn. Hann bað mig skrifa eða fullgera leikrit fyrir sig því nú ætti hann að sjá um útvarpsleikritin um nokkurt skeið.
Ég gladdist yfir þessu.
Útlaginn skrapp heim!
Talaði aftur við Einar Ágústsson um Ashkenazy.
Átti langt samtal niðri á Morgunblaði við Geir Hallgrímsson og Jóhann Hafstein.
Þeir vilja ekki segja upp landhelgissamningnum.
Jóhann sagði að enginn alþjóðadómstóll mundi dæma gegn hafréttarráðstefnu þar sem fjörutíu til fimmtíu ríki eru örugglega með allt að 200 mílna fiskveiðilögsögu.
Aðalatriðið hjá Bandaríkjunum sé það að ekkert ríki sé með meira en 12 mílna landhelgi, hvað sem fiskveiðilögsögunni líður.
Rætt um starfsemi Sjálfstæðisflokksins, t.a.m. málefnanefndirnar.
Jóhann skýrði frá stofnun þeirra og starfsemi.
Ég átti að verða formaður menningamálanefndar.
Hef meiri áhuga á að vera í fræðslu- og menntamálanefnd enda stjórnaði ég umræðunum um þau efni á síðasta landsfundi og átti ekki minnstan þátt í tillögunni um skólamálin sem ég hafði framsögu fyrir.
Auk þess gæti verið áhugavert að vera í utanríkismálanefnd eins og ástandið er, eða sérstakri nefnd um kommúnisma sem Jóhann sagði að stofna þyrfti.
Talaði við Baldvin Tryggvason,forstjóra AB, um Björn Bjarnason og ráðningu hans að forlaginu, hringdi til hans til New York.
Gott samtal við Baldvin.
Allt ákveðið og staðið við fyrri fyrirheit.
Nú eygjum við tímaritið langþráða undir ritstjórn Björns. Það verða merk tímamót og tilhlökkunarefni.
Þurfum rit um hugmyndafræði og bókmenntir, þ.e. stjórnmál og menningu.
Björn hefur í huga nafnið Frelsið.
Lýst vel á það.
Samvinnan nýkomin út. Sér í þverbrestina í SAM. Brigzl um óþjóðlegheit okkar.
Hvernig getur maður eins og Sigurður skrifað svona?
Hann veit betur.
Ósköp ömurlegt.
Höfum áhyggjur af öryggismálum Íslands. Hef talað um þau efni við Ásgeir Ásgeirsson sem er einn þeirra fáu sem ég treysti.
Hann ætlar að hafa samband við mig.
Sveinn Einarsson,leikhússtjóri, var meðal þeirra sem hrósaði Sókratesi.
Hann hringdi og sagði að þetta væri gott leikrit, "póetískt, upplifað og ... ágætt", eins og hann komst að orði.
Hann gat látið það vera(!)
Desember 1971 – ódagsett
Fékk bréf frá Margréti Bjarnason, blaðamanni, ágætt bréf. Hún er vestur í Bandaríkjunum og leitar m.a. efnis í Morgunblaðið.
Skemmtilegast þótti mér það sem hún segir um New York og jólastemmninguna: “Úr hverri plötubúð glumdi hundgá – aðaljólaplatan í ár er hundur, sem geltir: “jingle bells”.
Þessi lýsing segir mikla sögu.
Ætli veröldin sé ekki hálf hundsleg í aðra röndina?
Hún er að minnsta kosti á hraðri leið i hundana.
Inn í geltið!