Árið 1973

 

 

Nýársdagur 1973

Við Hanna og Ingó höfum verið á löngu ferðalagi, búið í Oberammergau og förum til Bad Soden við Frankfurt; hef skrifað talsvert, einnig í Morgunblaðið eins og sjá má því ég var á Olympíuleikunum í München og hafði gaman af að skrifa um íþróttir enda liggja ræturnar úr ÍR-húsinu; einnig margar greinar um þýzku kosningarnar og samtal við Brandt kanzlara í Bonn um þorskastríðið ;stórar og miklar greinar frá toppfundinum í París um framtíð Evrópu og er mjög spenntur fyrir þeirri þróun, ef hún gæti orðið til þess að tryggja frið í gömlu Evrópu.

Þetta hefur verið skemmtilegur tími, nýjar hugmyndir; nýjar víðáttur.

Og hvíld frá kalda stríðinu heima.

Hef notið þess til hins ítrasta að vera fjarverandi að heiman. Söknum þó Halla en vona honum gangi vel í skólanum.

Hafði í fyrstu nokkrar áhyggjur af undirbúningi þjóðhátíðar ’74, en skildi við nefndina í góðum höndum.

Tek svo aftur til hendi þegar heim kemur.

Hitti Jón Helgason prófessor og skáld í nýársboði hjá Ólöfu Pálsdóttur og Sigurði Bjarnasyni sendiherra í Kaupmannahöfn.

Vorum þar fram á rauðanótt á gamlárskvöld.

Fyrsta skipti sem ég tala við Jón.

Þarf að skrifa Kristjáni Karlssyni bréf um hina nýju vináttu okkar Jóns Helgasonar.

Þar verður þessi lýsing:

Á gamlárskvöld vorum við hjá sendiherrahjónunum.

Það var stórgott selskab.

Við Jón Helgason urðum miklir mátar, held ég, og hann dáðist að heimspekilegri vizku minni, á þýzku (við svissnesku sendiherrahjónin). Ég er önnur manneskjan, sem, að hans sögn, hefur slegið hann út. Hann reyndi allt hvað af tók að segja alla þá vitleysu sem hægt var – “en ég verð að játa að þú hefur slegið mig út,” sagði hann kl. 12,07, eða þar um bil:

“Við ættum eiginlega að hittast aftur,” bætti hann við.

Hann talaði lengi um það við svissnesku sendiherrafrúna að hann væri dauður: að hann væri Gespenst og hefði aldrei sagt orð af viti frá því hann var um fertugt. Hann sagðist hafa hitt konu í Englandi, minnir mig, sem hafði kynnt sig hryssingslega með þessum orðum:

“ Ég er skáld” – en svoleiðis komast auðvitað engin alvöruskáld að orði.

“Það er ég líka,” sagði Jón og sagðist meira að segja vera dautt skáld.

En þá sagði sú enska:

“Uss, ég hef dáið þrisvar sinnum.”

Þá varð Jón Helgason orðlaus í fyrsta og síðasta skipti í lífi sínu og dauða.

Síðar um kvöldið sagðist hann bara reyna að vera skrýtinn, en ég væri það raunverulega.

Nokkuð gott hjá honum.

Þeim sem eru eitthvað skrýtnir dettur það nefnilega aldrei í hug að þeir séu það, segir sálfræðin.

En svona var talað fram og aftur inn í nýja árið og allar konur eru víst skotnar í Jóni Helgasyni og þar kom að svissneska sendiherrafrúin gaf þá yfirlýsingu, sem var nauðsynleg eins og á stóð, að hún væri líka dauð.

Þá hrökk Jón Helgason við, ég sá honum brá:

Þau voru sem sagt komin á sama plan á nýja árinu.

En þá sagði hann sér til varnar:

“Sie Sind Eine Weltdame” – og kom þá í ljós að það var hið eina sem þessi skemmtilega sendiherrafrú vildi ekki vera.

Jón þráir að hitta einhvern sem segir hönum.

Það var algengt á dögum Bjarna Thorarensens og hann skrifaði það alltaf.

Þegar þú hittir einhvern sem segir hönum þá ertu dauður í alvöru, sagði ég. Sennilega hrekkur hann mikið við þegar hann heyrir þetta fyrsta sinn. Þá veit hann — loks, að hann er dauður. Ég vona bara það verði af vörum Bjarna Thorarensens til að gleðja hann þegar þar að kemur. ekki veitir af.

Hann bað mig að skrifa um sig vitlausustu minningargrein sem skrifuð hefur verið. Kvaðst treyst mér til þess.

Það væri augljóst ég hefði alla hæfileika til að skrifa vitlausar minningargreinar.

Ég tók það að mér.

Kvaðst mundu minnast á leit hans að hönum, hún lýsti honum betur en allt annað.

Það þótti honum gott en ég bætti við:

“Og auðvitað tek ég fram að enda þótt þú sért eftirlæti kvenna, þá sértu ekki með hættulegri hönum.”

Þá hrökk hann við.

Hann sagði að fyrst ég ynni á Morgunblaðinu ættum við eiginlega að vera óvinir.

En ég væri svo vitlaus að það væri ómögulegt annað en við gætum orðið fyrsta flokks vinir.

Jón talaði um mig sem skáld við diplómatafrú. Það þótti mér vænt um og ég sagði hann væri líka skáld.

Hann tók því nokkuð vel en fór út í aðra sálma.

Ég er að hugsa um að skrifa greinaflokk héðan frá Kaupmannahöfn og ég ætla að biðja vin minn Bent A. Koch,ritstjóra, að ganga með mér um borgina og leita með mér að gamla Íslandi.

Það er alltaf gott að vera í Höfn.

Við Hanna nutum þess þegar ég var hérna í námi við háskólann um miðjan sjötta áratuginn.

Þá talaði ég oft við Sverri Kristjánsson.

Þá var hann rómantískur húmanisti og við drukkum mikinn bjór saman.

Eftir að við komum heim varð hann aftur rómantískur kommúnisti.

Þá drukkum við aðeins einu sinni saman.

Hann er nítjándu aldar maður.

Ég er ekki viss um að 20. öldin eigi eftir að ganga í garð í lífi hans.

Kannski get ég líka skrifað eitt eða tvö Reykjavíkurbréf og sent heim. Þau eru góð fyrir hugleiðingar en leiðarar eru fyrir fullyrðingar. Þess vegna leiðist mér heldur að skrifa þá.

 

 

27. maí 1973

Talaði í síma við Geir Hallgrímsson.

Hafði nýverið heyrt í útvarpinu samtöl við fólk úr ýmsum áttum sem spurt var , hvort rétt hafi verið að málum staðið , þegar Ægir skaut á enska togarann Everton.

Yfirgnæfandi meirihluti lýsti ánægju sinni yfir því.

Ég sagði við Geir, Ég er hættur að skilja þetta, Íslendingar skjóta á óvopnað fiskiskip og sökkva því næstum og allir standa á öndinni af ánægju.

Þetta er einhver önnur þjóð en sú sem Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson stjórnuðu.

Geir svaraði, óvenju ákveðinn: "Þá vil ég ekki vera leiðtogi hennar".

Skil vel að það hafi þurft að veita Everton áminningu. En þessi skothríð var ekki ánægjuleg, síður en svo.

Hún var í raun og veru sorgleg og vonandi undantekning því að við erum ekki byssuþjóð. Eigum allt undir því að vopnleysi okkar sé virt.

En kannski verður landhelgi okkar ekki varin án vopna.

Þá er að horfast í augu við það, stofna sjóher og þjálfa - og þykjast ekki vera önnur þjóð en við erum.

Við höfum ekki viljað taka neinn þátt í vörnum Atlantshafsbandalagsins, en kannski við stefnum að því. Ég er ekki frá því að einhver þátttaka í vörnunum, önnur en varnarstöðin í Keflavík, geti hresst svolítið upp á þjóðarsálina ,enda í anda Jóns Sigurðssonar, ef ég man rétt.

En raunveruleg herþjóð getum við aldrei orðið og eigum ekki að vera.

Hermennska er ekki í blóði okkar og það er engin hefð fyrir henni. Auk þess eru Íslendingar alltof fámennir til að geta varið land sitt sjálfir, en þeir geta tekið táknlegan þátt í vörnum landsins. Sízt af öllu eigum við að skjóta á vopnlaus fiskiskip – með englabros á vör

 

 

22. ágúst 1973

Tómas Guðmundsson sagði við mig í dag, Ég óttast stundum dauðann eins og kemur víst yfir alla menn.

En nú hef ég fundið lausn á þessum ótta.

Eina lækningin við ótta við dauðann er dauðinn sjálfur.

Svo einfalt er þetta.

En óttinn við dauðann er eðlilegur, því að dauðinn er í andstöðu við allt sem lifir.

Og okkur er eiginlegt að lifa.

 

 

Ódagssett - 1973

Þegar Jörgen Schleiman, fréttastjóri danska útvarpsins,hringdi til mín á Hostrupsveg klukkan sex eða sjö að morgni einn góðan veðurdag , vakti Hanna mig hikandi og sagði það væri síminn til mín.

Ég spurði hver það væri.

Hún sagði það væri Schleiman,eða Slæi eins og við kölluðum þennan vin okkar á Morgunblaðinu.

Ég glennti upp augun, Núna, svona snemma?

Já, sagði hún.

Og hvað vill hann, sagði ég.

Hann segir það sé gos í Vestmannaeyjum.

Gos? sagði ég. Hann er áreiðanlega fullur, segðu honum að ég sé ekki heima !

Nei, sagði hún, hann er ekki fullur.

Ég drattaðist í símann.

Jörgen sagði það væri ómögulegt að ná í mig.

Ertu fullur, sagði ég.

Nei, auðvitað ekki, sagði hann.

Ég er fréttastjóri útvarpsins eins og þú veizt og það er gos í Heimaey.

Gos í Heimaey? endurtók ég og geispaði.

Já, og þú verður að koma niður í útvarp.

Niður í útvarp, endurtók ég. Til hvers?

Þú þarft að vera í beinni útsendingu og lýsa gosinu.

Ég er ekki nógu góður í dönsku, sagði ég.

Þú verður að koma, sagði hann.

Þannig varð það hlutskipti mitt í þessu fríi að lýsa Vestmannaeyjagosinu fyrir Dönum jafnóðum og ég fékk fréttir að heiman um símann.

Útsendingin stóð fram yfir hádegi, eða þangað til fullvíst þótti að enginn hefði farizt.

Þá fengum við okkur kaffi og ég fór heim.

Það var skrítin tilfinning.

Gos í Heimaey eftir 5000 ár!

Skaparinn lætur ekki að sér hæða. Hann heldur sköpunarverkinu áfram og spyr einskis. Hann talar í náttúruöflunum, en er þó fjarri góðu gamni.

En – allir heilir á húfi, það eitt skiptir máli. Allt annað er hægt að bæta. Fyrir bragðið er varla hægt að kalla þetta slys, þetta er einungis samtal náttúrunnar við okkur sem nú lifum. Það hafa því orðið meiri atburðir á Íslandi en þessar náttúruhamfarir.

Landið okkar er eins og tamið tígrisdýr.

En það er betra að forða sér ef það finnur blóðlykt.

Hef fylgzt með umræðum á danska þinginu um aðstoð við Eyjamenn.

Danir eru miklir öðlingar, þegar á reynir.

Vinátta þeirra við okkur Íslendinga er gróin og góð, það fann ég í þinginu. Hef átt samtal við Anker Jörgensen, forsætisráðherra, m.a. um landhelgismálið.

Sagði honum að Danir hefðu ekki stutt okkur sem skyldi í landhelgismálinu. Hann mótmælti því.

Ég sýndi honum fram á það.

Hann stóð upp frá skrifborðinu og lét kalla á K.B. Andersen, utanríkisráðherra, sem ég þekkti vel frá því hann fór með handritamálið.

Þá mátti ég alltaf hringja heim til hans og spyrja frétta.

Mér þótt leiðinlegt að KB skyldi verða fyrir barðinu á mér þarna í skrifstofu forsætisráðherrans.

En það var ekki um annað að ræða.

KB kom inn og Anker Jörgensen fór að yfirheyra hann um afstöðu Dana í landhelgismálum Íslendinga.

KB átti í vök að verjast.

Anker Jörgensen sagði það yrði að kippa þessu í lag. Danir yrðu að sýna Íslendingum meiri vináttu en verið hefði.

Ég varð undrandi.

Aldrei hefur mér dottið í hug að ég ætti eftir að stofna til svona uppákomu á skrifstofu forsætisráðherra Dana!

Vona að KB fyrirgefi mér. Hann er fínn maður. Hann hefur alltaf reynzt Íslendingum vel, en nú hefur eitthvað farið úrskeiðis.

Beina útsendingin í danska útvarpinu varð mér ný reynsla. Fann að ég réð við það sem mér hefði aldrei dottið í huga að óreyndu.

Við Jörgen Schleiman erum gamlir og grónir vinir. Við höfum stundum fengið okkur í staupinu saman og það hefur alltaf farið vel á með okkur. Ég held hann hafi fyrst komið upp á Morgunblað af því hann var vinur Eykons. Síðan lenti ég í kompaníinu. Þá var hann krati og líklega er hann það enn, ég veit það ekki, hann er til alls líklegur.

Þegar hann kom fyrst til Íslands var hann með annan fótinn á Morgunblaðinu. Þjóðviljinn kallaði hann “gistivin Morgunblaðsins”. Hann hefur verið það síðan.

 

 

Ódagssett – 1973

Viðræður Ólafs Jóhannessonar, forsætisráðherra Íslands, og Edwards Heaths, forsætisráðherra Bretlands, að frumkvæði hins síðar nefnda hafa glætt vonir um að unnt verði að lægja öldurnar á Íslandsmiðum.

Þessar viðræður minna á samtöl Ólafs Thors og Macmillans á Keflavíkurflugvelli í september 1960 þegar forsætisráðherrarnir ræddu landhelgisdeiluna og leiðir til lausnar henni.

Ég fylgdist með þessum viðræðum og ætla að fjalla um þær í bókinni um Ólaf.

En hver er Edward Heath, maðurinn sem Ólafur Jóhannesson á að blanda við pólitísku geði og mun áreiðanlega reyna að hafa þau áhrif á sem hann getur?

Hann er einfaldlega, eins og ýmsir mikilhæfir stjórnmálamenn, ekki allur þar sem hann er séður. Margslugninn en ekki marglyndur, a.m.k. ekki í einkalífi sínu. Hann er geðfelldur í einkaviðtölum, fremur lokaður fyrst í stað, feiminn og hlédrægur, en opnar sig þeim mun meir sem honum er sýnd meiri einlægni. Þetta þykist ég allt vita því að ég átti þess kost að hlusta á hann heilt kvöld heima í Háuhlíð hjá Sigríði og Bjarna Benediktssyni þegar hann kom hingað til lands á vegum Blaðamannafélags Íslands og voru þau kynni harla eftirminnileg.

Þetta var kvöldið 18. marz 1967.

Heath er eins og tveir menn: drengurinn, þegar brosið færist yfir allt andlitið og skín í hvítar tennurnar, og öldurinn þegar hann verður hugsi og fær þetta þunglyndislega, annarlega yfirbragð sem getur verkað fráhrindandi og allt að því veraldarfjandsamlegt.

Augun eru þó alltaf hlý, stundum glettin.

Ætla að lýsa þessu betur í Morgunblaðinu á morgun.