Árið 1975
Byrjun janúar 1975
Hef fengið bréf frá Kristjáni Albertssyni.
Hann segir meðal annars:
“Við hefðum þurft að ræðast betur við um alla rangfærðu sagnfræðina áður en eg fór, en lítill tími var orðinn til stefnu eftir að eg hafði gluggað í það nýjasta. Þó held eg að eg hafi sagt þér að mér virtist ekki annað duga en að skrifa nokkuð langt, og koma víða við, – taka fyrir þessa spurningu hvers vegna menn halda áfram í lengstu lög að fara rangt með sögu þjóðar vorrar, hver af öðrum, segja hana eins og þeim sýnist, hvað sem líður sannanlegum staðreyndum. En nú verður þetta að bíða þangað til eg kem aftur heim og hef við hendina öll nauðsynleg gögn...”
Síðan spyr hann hvort ég geti ekki farið að ljúka við ævisögu Ólafs Thors, en bætir við að það muni taka mikinn tíma – “en vinnudagur þinn á ritstjórninni hins vegar oftast langur og erilsamur. En svo er hitt, að þú ert einn af duglegustu mönnum landsins, auk alls annars!”.
Þetta er nokkuð gott hjá Kristjáni en hann veit bara ekki að ég er með lötustu mönnum landsins. Páll Ísólfsson sem kom öllu í verk og vann óhemju mikið sagði mér einhverju sinni að hann væri svo latur að hann gerði helzt aldrei neitt sem hann þyrfti ekki að gera.
Held ég geti tekið undir þetta.
Það er undantekning að ég geri það sem ég þarf ekki að gera. Ég reyni að koma mér undan öllu sem krefst þess ekki beinlínis að ég verði að sinna því.
Af þeim sökum m.a. hefði ég orðið ómögulegur þingmaður; hvað þá ráðherra!
Það er ömurlegt að vera alltaf að vasast í einhverju sem manni kemur í rauninni fjarska lítið við.
Ég skil til að mynda ekki fyrirgreiðslupólitíkusa. Í slík störf hljóta að veljast menn sem geta helzt ekki sinnt neinu öðru en einhvers konar snatti.
Þeir minna á gyltuna sem er sífellt að eltast við akarnið á jörðu niðri , en horfir sjaldnast til himins.
Sumar 1975
Við Hanna höfum verið í Genf því ég hef verið að skrifa fjölda greina frá Hafréttarráðstefnunni.
Morgunblaðið hefur verið fullt af þessu efni og Styrmir segir mér að tengdafaðir hans, Finnbogi Rútur, hafi fylgzt með þessum greinum af áhuga og sagt að hann hafi fengið betra yfirlit yfir Hafréttarráðstefnuna nú en oftast áður.
Það þótti mér ánægjuleg tíðindi.
Finnbogi Rútur (bankastjóri,tengdafaðir Styrmis) veit hvað hann syngur.
Þessi dvöl mín hefur þá komið að einhverjum notum.
Það hefur verið gaman að kynnast Hans G. Andersen ,frænda mínum, náið. Ég hitti hann á hverjum morgni, enda er hann toppstjarna á fundunum og mikils metinn hafréttarfræðingur.
Hefur augsýnilega mikil áhrif.
Ég veit alltaf hvenær honum líkar vel það sem ég sendi heim til Morgunblaðsins.
Þá segir hann þegar við hittumst, Sæll, frændi minn!
En þegar hann hefur athugasemd segir hann einungis, Komdu sæll!
Það hefur að vísu verið sjaldan því ég hef haft mjög gott samband við hann og ber undir hann öll vafaatriði.
Hann er einstakur maður, stórgreindur.
Íslendingar geta verið stoltir af honum hérna í Genf.
Mér líkar einnig vel við Amara Singhe frá Sri Lanka, forseta ráðstefnunnar og stjórnanda.
Hann er mikill sjarmör.
Mér skilst hann sé alltaf með nýja rós í barminum á hverjum morgni og nýja konu í rúminu á hverju kvöldi.
En ég veit það auðvitað ekki, þetta með konurnar.
Rósirnar hef ég séð.
Hef gengizt upp í því að skrifa eins ítarlega frá ráðstefnunni og mér hefur verið unnt. Það hefur verið mikil, raunar endalaus vinna. En ánægjuleg því mér virðist bjart framundan í hafréttarmálum okkar Íslendinga.
Við þurfum að vernda miðin.
Ofveiðin er okkar lífsháski.
En það eru margir fílar hér á ráðstefnunni. Stórveldin reyna að ráðskast með heiminn.
En versti óvinur fílsins er músin. Við höfum sem betur fer langa og góða æfingu í því að leika músina.
9. október 1975
Jóhann Hafstein bað okkur Styrmi Gunnarsson að skreppa til sín síðdegis í dag.
Hann var glaður og reifur og kom strax að erindinu enda augljóst að það hefur legið þungt á honum.
Þið verðið að styðja Geir og flokkinn , sagði hann. Jörðin skelfur undir fótum okkar.
Síðan sagðist hann langa til að segja álit sitt á stjórnmálaástandinu í landinu.
Hann sagði að Geir Hallgrímsson hefði of lítið samband við ýmsa menn. Hann lokaði sig of mikið af, væri einangraður.
Hann sagði við þyrftum að slá skjaldborg um hann en þó ekki búa til neina gloríu í kringum hann eða slá honum gullhamra eða sýna af honum glansmyndir, eins og hann komst að orði, það væri ekki það sem þyrfti.
Hann þarf að vera harður landsfaðir, sagði hann, takast á við erfiðleikana.
Þetta dugar ekki eins og það er, sagði Jóhann.
Hann sagði að Ólafur Thors hefði haft góða ráðgjafa, ekki sízt Bjarna Benediktsson.
Og Bjarni hefði haft ráðgjafa sér við hlið, minntist á sjálfan sig, Magnús Jónsson og einhverja fleiri sem ég man ekki, hverjir voru.
Hann sagði einkennilegt hvernig komið væri fyrir Sjálfstæðisflokknum.
Ólafur og Bjarni hefðu báðir horfið “og við Magnús Jónsson erum einnig horfnir”, sagði Jóhann ”og heilsuleysi okkar hlýtur að skilja eftir eitthvert skarð”.
Jóhann virðist gera sér grein fyrir öllum hlutum.
Hann er mjög raunsær.
Talar um sjúkdóm sinn og segir að hann sé að fara til Kaupmannahafnar til að fá nálastunguaðferðina kínversku ef það mætti verða til þess að hann losnaði við kvalirnar í hægri handlegg, því að þær hefðu háð honum mest, t.a.m. á þingfundum.
Læknar hefðu ekki alltof mikla trú á þessu en Jóhann segir að slíkar aðgerðir geti hjálpað upp á heilsuna, að sér sé sagt.
Virðist vongóður um að vel takist til og bjartsýnn á einhvern bata.
En þó er eins og hann sé reiðubúinn til að taka því sem að höndum ber.
Hann segir Magnús Jónsson sé í slíkri meðferð í Frakklandi, hann sé svo máttlaus í öðrum fætinum og þyrfti stál við að styðjast á hinum, svo hann geti hreyft sig.
Talar um hvað Magnús sýni mikið hugrekki, kraft og kjark og á honum sjáist enginn bilbugur, þegar við hann sé talað.
Sneri sér svo aftur að stjórn landsins og sagði að Geir hefði ekki nógu mikið frumkvæði, það vanti stefnufestu hjá ríkisstjórninni og nú sé ekkert sem heiti, þegar Geir haldi næstu stefnuskrárræðu verði hún að vera hörð og ákveðin, alvöruþrungin aðvörun sem menn muna eftir.
Engin vettlingatök duga lengur, sagði Jóhann og vitnaði í Winston Churchill þegar hann talaði um blóð og tár og svita og svo síðar um járntjaldið.
Það er alveg sama og skiptir engu máli hvað menn halda langar ræður, sagði Jóhann enn, það eru bara einstöku orð sem menn muna eftir og Geir þarf að segja nokkrar meitlaðar stetningar sem menn gleyma ekki, nokkrar áhrifamiklar setningar sem komast á allra varir.
Segist ætla að tala við hann um þetta, stappa í hann stálinu, gagnrýna hann og hvetja.
Líf Sjálfstæðisflokksins liggi við.
Óánægja sé í flokknum, sambandsleysi við formann og forsætisráðherra.
Útlitið sé dökkt en ef rétt sé á haldið sé unnt að gerbreyta því.
Ég hef verið þeirrar skoðunar, sagði Jóhann, að Framsóknarflokkurinn hafi hugsað sér að laumast úr ríkisstjórninni en eftir ræðu Ólafs Jóhannessonar er ég sannfærður um að Ólafur gerir sér grein fyrir því að það eru aðeins tveir flokkar sem geta stjórnað landinu eins og nú er komið, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn.
Framsóknarmenn hlaupa því ekki úr stjórninni.
Við það verði Sjálfstæðismenn að miða enda geti þeir ekki farið í kosningar , eins og nú er.
Hvað haldið þið að við myndum fá marga þingmenn ? spurði Jóhann Hafstein.
Við spurðum hann, Hvað marga?
Hann vildi ekki svara því, svo svartsýnn var hann.
Jóhann segir að þingflokkurinn sé allur í molum, ekkert frumkvæði hjá formanni þingflokksins.
Ég er búinn að vera lengi í þingflokknum, sagði hann, en ég hef aldrei upplifað eins mikið af grautarhausum sem hver kjaftar framan í annan einhverja vitleysu, bætti hann við.
Segir að Ingólfur Jónsson sé óánægður með sitt hlutskipti eftir að hann var felldur í þingflokknum sem ráðherraefni.
Hann hafi aldrei komizt yfir það.
Geir hafi beðið sig um að eiga samtal við hann og reyna að fá hann að ganga ekki gegn væntanlegu samkomulagi við Breta í landhelgisdeilunni.
Jóhann segist hafa talað lengi við Ingólf og hann hafi gert það að tillögu sinni að Íslendingar framlengdu samkomulag vinstristjórnarinnar, eða Ólafs Jóhannssonar, við Breta, en þó þannig að þeir veiddu þriðjungi minna en þeir fengju samkvæmt samkomulaginu.
Er þeirrar skoðunar að unnt sé að ná slíku samkomulagi.
En kannski er utanríkisráðherra Breta búinn að eyðileggja þetta allt, sagði Jóhann, með ræðu sinni. Hann hefur hleypt hörku í marga Íslendinga og kannski er þetta of seint.
En Ingólfur hefur fallizt á þetta, bætti Jóhann við, og telur að Íslendingar ættu að reyna þessa leið.
Segir ómögulegt sé að standa í sífelldum erjum við Breta og Þjóðverja sem við þurfum að vinna með. Harmar hvernig komið er fyrir Bandaríkjamönnum, forysta þeirra sé öll í molum og enginn viti hver þar yrði staðinn að stórglæpum næsta dag.
Jóhann telur að Maó sé einn raunsæjasti stjórnmálamaður sem nú er uppi og hafi a.m.k. beztan skilning á útþenslu-og heimsvaldastefnu Sovétríkjanna, minntist einnig á Solzhenitsyn í því sambandi, hristi höfuðið, þegar við töluðum um að Solzhenitsyn hefði ekki einu sinni verið boðinn í Hvíta húsið af Ford forseta, að ráði Kissingers, eins og skýrt hefur verið frá.
Jóhann talaði mikið um hvernig komið væri fyrir togaraútgerðinni.
Sagði við ættum að hætta að kaupa alla þessa togara, það þýddi ekki að halda áfram að kaupa svona mikið af togurum, þeir bæru sig ekki. Auk þess væri svo mikið svindl í sambandi við umboðssölu þessara togara að það væri yfirgengilegt og enginn vissi eða myndi nokkurn tíma vita hvílík spilling þar væri á ferðinni. Sagði að umboðsmaður yrði forríkur á því að selja byggðarlagi togara en byggðarlagið hefði ekkert við togarann að gera úr því sem komið væri og gæti aldrei borgað.
Menn eignuðust án þess eiga eyri.
Margt fleira sagði Jóhann sem á frekar heima í stjórnmálasögunni en lítilli persónulegri dagbók.
En þetta var hressilegt samtal.
Við höfum að vísu gert okkur grein fyrir slæmri stöðu Sjálfstæðisflokksins og erfiðleikum Geirs en brýning Jóhanns er hressilegt steypibað.
Við erum með 25 þingmenn, sagði hann, við höfum aldrei haft jafnmarga þingmenn í allri sögu flokksins.
En hvernig notum við þetta lið?
Það er kominn tími til að menn geri sér grein fyrir því að ástandið innan þingflokksins gengur ekki öllu lengur.
Geir Hallgrímsson hefur lítinn sem engan styrk af Gunnar Thoroddsen, þvert á móti. Slík stað sé formanninum mjög erfið.
Jóhann vill að Geir hætti formennsku í stjórn Árvakurs. Það sé ómögulegt að forsætisráðherra sé stjórnarformaður í Árvakri.
Ég ætla að segja honum þetta, sagði Jóhann.
Ég hef engra hagsmuna að gæta og Geir móðgast ekki við mig. En ég get ekki gefið ykkur nein ráð í sambandi við pólitíska stjórn Morgunblaðsins, bætti hann við.
Held ekki Jóhann hafi neinar áhyggjur af henni, gagnrýndi hana ekki í eitt skipti í öllu þessu langa samtali. Hvatti okkur einungis til að veita Geir Hallgrímssyni það aðhald sem nauðsynlegt væri.
Aðhald og uppörvun mundi ekki koma úr öðrum áttum.
Það var einkennilegt að upplifa þessa stund með Jóhanni Hafstein.
Þarna sat þessi gamli forystumaður Sjálfstæðisflokksins farinn að heilsu, en það var eldhugi sem var að tala við okkur; þrátt fyrir allt.
Við höfum leyfi til að segja Geir frá þessu samtali.
Það munum við gera.
Við þurfum að reyna að breyta þessum býsnavetri í íslenzkri pólitík í viðmótshlýrra umhverfi.
Það verður erfitt að sameina þetta tvennt, að efla frelsi blaðsins og standa vörð um Geir, eins og hann á í miklum erfiðleikum.
Sigling blaðsins í frelsisátt er hæg en bítandi.
En meðan við stöndum í þorskastríði við Breta og lífsháskinn blasir við í alþjóðakommúnismanum gráum fyrir járnum eigum við skyldum að gegna við þjóð okkar og samfélag sem ekki er hægt að hlaupast undan, hvað sem frelsi Morgunblaðsins líður.
Morgunblaðið hleypur ekki undan merkjum á örlagastund. Blað allra landsmanna getur ekki verið pólitískur heigull þegar á reynir.
En Geir er skilningsríkur.
Hann hefur ekki reynt að nota okkur eða blaðið og mér finnst hann mjög frjálslyndur í afstöðu sinni til þess.
Hann gagnrýnir okkur stundum en það er gagnkvæmt.
Það er auðvelt að styðja slíkan forystumann og ég vona við séum honum allgóður bakhjarl.
Þú ert stundum að segja að ég sé frjálslyndur og skilningsríkur gagnvart blaðinu, hefur Geir sagt við mig, en af hverju segirðu það aldrei á prenti?!
Ég svara því engu.
En ég mun einhvern tíma koma því til skila, þótt síðar verði.
26. nóvember 1975 - fimmtudagur
Hef skrifað minningargrein um Gunnar skáld Gunnarsson, Með veðurspána í blóðinu.
Við ætlum að gefa út sérstakan kálf á útfarardegi hans.
Við Gunnar vorum miklir mátar og ég gleymi því ekki hvað ég var honum þakklátur, þegar hann sagði álit sitt á Jörð úr Ægi.
Það var á einhverjum hátíðarfundi á vegum Almenna bókafélagsins í Þjóðleikhúskjallaranum.
Þetta er fallega ort bók, sagði hann. Gók bók , einstæð og óvenjuleg.
Mér þótt vænt um þessi orð.
Ragnar í Smára segir að Gunnar sé einlægur og skrökvi aldrei.
Hann sé alvörumaður í tvennum skilningi.
Gunnar hefur fínan smekk og hann er hundrað prósent heill maður, segir Ragnar.
En hann er dálítið fljótfær, eins og við allir, bætti hann við.
Ragnar hrósaði Bjarna Benediktssyni fyrir að taka þá ákvörðun á sínum tíma að láta segja frá ræðum pólitískra andstæðinga Morgunblaðsins í þingfréttum.
Menn verða að hafa bolmagn til að geta stjórnað Morgunblaðinu og Bjarni var góður bakhjarl.
Ég held vinátta okkar hafi innsiglað traust og trúnað. Það kom sér vel á viðreisnarárunum, ekki sízt þegar Bjarni sjálfur var forsætisráðherra.
Þá þurfti að sigla milli skers og báru.
Blöðin eru eins og Ragnar lýsti leikhúsunum fyrir mér.
Þau eru einskonar vígvöllur, sagði hann. Þar heyr hinn siðmenntaði maður sín heimsstríð. Ef svikizt er um að berjast á leiksviðinu, verður barizt á götunum.
Ef við hefðum ekki barizt í Morgunblaðinu hefði leikurinn borizt út á götuna.
Það sáum við í uppreisninni í Ungverjalandi. Þá var samt barizt svo harkalega gegn kommúnistum í Morgunblaðinu að Steini þótti nóg um,Þið eruð of sterkir,þið sameinið kommana!
Sagði Steinn við mig.
Gunnar Gunnarsson hefur ekki sízt orðið fyrir barðinu á kommúnistum, en hann hristi af sér.
Hann var sterkur.
Æskuhugsjón hans var norræni kynstofninn.
Hann talaði stundum um það við mig. Held helzt hann hafi viljað sameina Norðurlönd.
Brimhenda er miklu betri bók en menn hafa viljað vera láta. Og hún er einnig stórfín á íslenzku.
Vil þó heldur lesa Svartfugl á dönsku en íslenzku. Efast um það hafi verið skrifuð fallegri danska!
Já, mér þótti hólið gott þegar Jörð úr Ægi kom út 7.febr. 1961. Sigurður A. Magnússon og Gunnar Gunnarsson tóku henni bezt, held ég.
Á þeim árum lék um mig kaldur gustur og ég veit raunar ekki hvernig ég fór að því að halda áfram að vaxa; deyja ekki eins og kalin hrísla.
Að óreyndu hefði ég ekki trúað því að ég ætti til slíkt þrek, en nú er ég farinn að trúa því. Ég þarf bara ekki á því að halda lengur. Andrúm morðsins er ekki lengur í kringum okkur.
Mér líður vel .
Finn heldur hlýjan andvara í miðju köldu stríði . Og það er gaman að vinna, gaman að reyna að skapa og breyta þessum veðruðu greinum í laufgræn fyrirheit.
Þannig er skáldskapurinn nú um stundir.
En það er veðrasamara í pólitíkinni.
29. desember 1975 - mánudagur
Hitti Guðmund vin minn Jörundsson,útgerðarmann,í dag.
Hann sagði mér frá draumi sem hann hafði dreymt undir morgun sunnudaginn 28. des.
Sagðist hafa legið í rúminu og verið að lesa meðan hann beið eftir útvarpsmessu sem hann ætlaði að hlusta á.
Skyndilega sótti eitthvað að honum og hann féll í djúpan svefn.
“Mig dreymdi að ég færi hratt út úr húsinu og stefndi á Vesturbæinn. Ég kom þar að stóru húsi, gekk upp stigann og drap á dyr á 2. hæð , hélt svo áfram og inn í herbergi þar sem var nær engum þægindum til að dreifa að undan skildum tveimur hrörlegum stólum og einu borði.
Í öðrum stólum sazt þú og ég fór að hugsa með sjálfum mér að eitthvað væri bogið við það að ég sæi hvorki blað né bók neins staðar nærri þér.
Ég leit þá framan í þig og mér fannst þú dapur og niðurlútur.
Þú bentir mér á að setjast á lausan stól og ég þáði það.
Samtal okkar var stutt og án nokkurra heyranlegra orða.
En hugsunin ein gekk á milli okkar.
Það eina sem ég skynjaði af því sem þú sagðir var þessi setning, Vestrænt lýðræði er í hættu, ef við gætum ekki að okkur .
Þá stóð ég upp, stakk annari hendinni í barm mér og dró fram bókina Gúlageyjaklasinn eftir Solzhenitsyn, horfði fast í augu þín og rétti þér bókina sem þú virtist taka við með þökkum .
Og segi við þig, Sjáðu hana þessa!
Í þeirri andrá voru barin þrjú þung högg á hurðina og við hrukkum báðir við.
Þar með var þessum draumi lokið.
Ég vaknaði og fór að hlusta á útvarpsmessuna.
Í hádegisfréttum í gær var lesin Reutersfrétt þess efnis að rússneski rithöfundurinn Solzhenitsyn hefði sagt í blaðaviðtali þennan sama dag,að hinn vestræni heimur stæði á krossgötum og væri í mikilli hættu á næstu árum.