Árið 1977

 

Sumar 1977 – ódagssett

.

Rue de Lausanne, Genf:

Spasský og Portisch

takast í hendur

í hótel Medetairrenée,

á veggnum fánar Sovétríkjanna

og Ungverjalands,

það vekur blendnar minningar.

Göturnar votar af regni,

yfir Rue de Lausanne

þunglyndisleg ský.

Ungur maður kallar

á vegfaranda

útum glugga á ljósleitum

sendiferðabíl,

í farangursgeymslunni blóm

við brúna eikarkistu.

Kona með barbíbrúðuandlit

og rottuhund

stendur af sér skúrina

undir verzlunarskyggni

og virðir fyrir sér skartgripi

en blómum skreytt svínslæri

hjá slátraranum í næsta húsi.

Taflinu lokið.

 

.

Evian:

Spilavítið dregur flugurnar að sér

eins og kúadella

kirkjan farvegur kvíðans

og ímynd heilags dýrlings,

peningalykt.

Krossum okkur úr vígðu vatni

og höldum uppí aðalverzlunargötuna

sem er skreytt litlum fánum,

þar liggur hundur á kodda

við dyr húsbóndans og sefur

en frá íbúð andspænis

berst barnsgrátur útum opinn glugga

á þriðju hæð, það er eins og einhver

sé að stilla orgel kirkjunnar,

slátrari með uppbrettar ermar

þvær blóðugar búðarhillur,

stórar ámur af rauðvíni

blasa við,

gefum smáfuglum brauðmola

á strandgötunni niður við

fjallkyrrt vatnið

án þess að verða nokkurn tíma

tekin í dýrlingatölu,

uppá hæðinni ofanvið bæinn

Hotel Royal,

minnismerki deyjandi

yfirstéttar,

þar sitja Kortsnoj og Pólúgajevskí

eins og taflóðir æsir

á Iðavelli,

Kortsnoj segir sig dreymi

um að sigra Karpóv,

Pólúgajevskí segir ekkert.

Rauði fáninn við taflborðið

segir allt.

- - -

Kveðjum íshúshvítan bæ

þar sem hundur sefur á kodda

og barn grætur

fyrir ferðamenn

og blökkukona í síðum

blómakjól

með barðastóran hatt

dregst að tuskubúð

eins og fluga að ljósi,

kveðjum dagslanga hugsun

í lífi okkar

sólgulan dag

sem er biðukolla.

.

 

Annecy:

1.

Eftir götunni straumur

fólks

fólk á leið

frá einum ósi

til annars.

Við horfum á vegvísana:

Jaloux

stendur á forsíðu

eins dagblaðanna,

1 Mort

á annarri.

2.

Á forsíðu France Dimanche

stendur stórum stöfum:

“Hræðilegur skilnaður Sheilu

og Ringo”.

Hvílík ógæfa og það í sumarleyfinu

(ég hélt það væri Ringo Starr).

Þau hafa bara gert þetta

til að komast á forsíðuna,

sagði Ingólfur sonur minn.

.

22. október 1977– föstudagur

Hef átt samtöl við Árna Þórarinsson á Vísi. Fyrra samtalið birtist í helgarblaðinu sl. sunnudag og einkum talað um menningarmál. Þar segir að ég reyni ávallt að nota óhátíðlegt orðalag í ljóðum, daglegt mál eins og það gerist í samtölum fólks. Ég sé að komast á þá skoðun að ljóð án samtals sé einhvers konar skýrsla og séum við Kristján Karlsson og Jorge Luis Borges sammála um það.

Sálmar á atómöld séu ortir í þessum hversdagslega búningi til að minna menn á að þeir þurfa ekki að fara í kirkju til að sýna lífinu lotningu, þó að það geti verið nærandi að fara í kirkju. Það sé í einfaldleikanum, hversdagsleikanum sjálfum, sem lífið sé fegurst.

Líklega vakti eitthvað svipað fyrir mér þegar ég orti Sálma á atómöld og þegar Halldór Laxness sagði á blaðamannafundi að sér þætti hlægilegt að hafa hástemmdan stíl um hversdagslega atburði.

Í samtalinu segir að ég vilji helzt yrkja á pappírsrifrildi og forðist ónotaðan pappír.

Það er að sjálfsögðu ekki rétt.

Þetta á bara eins og sumt annað að vera brandari.

Ég bætti því svo við að ef ég noti hreint blað þá finnist mér ég vera að yrkja fyrir einhverja hátíð.

Það er auðvitað della.

Ég yrki oftast á hrein blöð.

En þetta er ágætur útúrdúr þarna í samtalinu og vel til þess fallið að villa um fyrir spekingum.

Hitt er svo rétt að ég umgengst ljóðin mín eins og gesti sem koma í heimsókn og fara svo eiginlega án þess ég hafi frekari áhyggjur af því

Ég er hættur að yrkja af einhverri óskaplegri ástríðu og eins og upp á líf og dauða.

Ég er farinn að yrkja mér til gamans, ef ég hef tíma aflögu.

Yrki eins og Steinn, til að drepa tímann.

Og ég vil heldur drepa hann með ljóði en krossgátu.

Það er líka rétt sem stendur í samtalinu að oft eru menn kyrfilega blekktir eftir að þeir hafa ort ljóð og halda að það sé harla gott, þótt í raun og veru sé það ekki prenthæft.

Nú sé ég hættur að halda að allt sem maður setur niður á pappír sé innblásið af heilögum andan.

En fyrsta innspírasjónin er oft og einatt tengd einhvers konar ofnæmi fyrir umhverfinu, nauðsynlegum viðbrögðum fyrir utanaðkomandi áreiti– eins og margir hafa til dæmis ofnæmi fyrir ryki.

Eða gróðri.

Það hef ég líka.

Ég hef ofnæmi fyrir afskaplega mörgu í veröldinni. Tel að maður eigi að vinna ljóð sín eins og handverksmaður sem gengur að verki og hefur gaman af að gera smíðisgripina sína eins vel úr garði og hann getur, án þess ljóðin séu sprottin úr einhverri guðlegri andagift.

En ég held að ljóðskáld geri ekkert nema að parti til vísivitandi. Hitt kemur eins og grasið.

Grasið vex án þess að semja um það greinargerð.

Og svo á öll list, og ekki sízt ljóðlist, það sameiginlegt með grasinu að það vex því betur sem það hefur úr meiri skít að moða.

Tengsl mín sem blaðamanns við samtíðina hafa verið mér sem skáldi mikill áburður og næring.

Árni Þórarinsson er eitthvað að spyrja mig í Vísis-samtalinu um Fjaðrafok og leikritin mín.

Held ég minnist eitthvað á þau annars staðar í dagbókinni.

Fjaðrafok er þjóðfélagslegt leikrit, það er allt og sumt.

Það er þjóðfélagsádeila.

Það fjallar um litla stúlku sem á bágt og þarf hjálpar við.

Eins og við öll,einhvern tíma!

En um það fjallaði enginn sem skrifaði um sýninguna.. Um það var öllum sama.

Og litla manneskjan týndist í látunum.

Aðalatriðið var að nú fengu vinstrimenn tækifæri til að berja á ritstjóranum og leikritahöfundi íhaldsins í sjö mánuði !

Þetta er í eina skiptið sem ég hef verið í hlutverki vindmyllunnar.

Sigurður Bjarnason sagði á sínum tíma að betra væri að vera frægur að endemum en ekki.!

Kannski ég hafi náð því takmarki þarna í fjaðrafokinu!

Þá var ég víst orðinn frægur að endemum og nú á tímum er einungis hægt að vera frægur af frægð sinni, en ekki verkum. Þau skipta hvort eða er engu máli í þessum hasar.

Um helgina birtir Vísir síðari lotu samtalsins við Árna Þórarinsson.

Vona það takist vel.

Árni er Morgunblaðsegg og kann til verka. Ég hef gaman af að tala við hann og hann skilar sínu verki þannig að mér finnst ég geta vel við unað.

Þetta síðara samtal fjallar um blaðamennsku og stjórnmál; ekki sízt sjálfstæði Morgunblaðsins.

Það hefur verið á dagskrá frá því Hönnu dreymdu drauminn um að ég yrði ritstjóri blaðsins 1959.

Ég er orðinn leiður á því að vera sjálfrátt eða ósjálfrátt metinn af öðru fólki sem fulltrúi og persónugervingur valds og kerfis á Íslandi.

Ég hef aldrei sótzt eftir neinum völdum; né vegtyllum. Og veit ekki til þess ég hafi beitt þeim gegn öðru fólki.

Ég hef raunar stundum spurt sjálfan mig að því hvers vegna svo friðsamur maður að eðlisfari og hæglátur veki svo sterka andstöðu í hópum vinstri manna; svo sterkt ofnæmi.

Mig langar ekkert til að ögra þessu fólki og einn góðan veðurdag gæti ég trúað að það yrði heimilisfast í Morgunblaðinu.

Þórbergur var vinstrimaður, ég skrifaði bók um hann. Og ég kann vel að meta margt fólk sem telur sig marxista; eða krata; eða framsóknarmenn.

Ingólfur tngdafaðir minn Kristjánsson, bóndi á Víðirhóli ,Hólsfjöllum, var framsóknarmaður, samt komst hann næst því allra manna sem ég hef kynnzt að standa í sporum þeirra sem Halldór Laxness kallar fjallræðufólk.

En Katrín tengdsmóðir mín Magnúsdóttir er sjálfstæðismanneskja,þótt henni sé ætlað að kjósa Framsókn þarna í fámenninu.

Hún hefur varað mig við Framsókn!

Við Þórbergur erum sammála um að hatur sé það versta sem hægt er að burðast með yfir á astralplanið.

Sá sem hatar fær aldrei frið í sálu sína.

Þegar sá grunur læðist að mér að einhver hati mig þá hefur mér reynzt bezt að biðja fyrir honum.

Þá hefur hann ævinlega jafnað sig og hætt að hata mig.

Sá sem vill losna við hatur á að hugsa til Krists. Hann boðaði haturslaust umhverfi mannsins,safnaði samt glóðum elds að höfði sér.

Kristslaus væri veröldin eins og hvert annað munaðarleysingjagæli.

Og kannski er hún það, þrátt fyrir Krist.

Ég hef hugsað mikið um framhaldslíf; hef verið á mörgum fundum hjá Hafsteini,miðli ,talað mikið við Guðmund Jörundsson,útgerðamann,sérfræðing minn í eilífðarmálum, og Eyjólf Eyfells,listmálara.

Allt góðir vinir mínir og mér hefur þótt gaman að skrifa um þá.

Þegar vantrúin hefur læðzt að mér og glott í myrkrinu,hafa þeir ævinlega sannfært mig um líf eftir dauðann.

En ég óska ekki eftir framhaldslífi.

Ég hafði mjög gaman af að drekka þetta bragðgóða vín sem Eyjólfur Eyfells bjó til úr íslenzkum jurtum, eftir uppskriftum huldufólks,og gaf okkur vinum sínum í vinnustofu sinni í Austurbæjaskóla.

Þar lærði ég að synda og kennarinn notaði bambusstöng til að herða okkur í lauginni.

En með jurtavíni Eyjólfs smeygði astralplanið sér inn í æðakerfið.

Eins og alsæla!

Og ég gæti ímyndað mér að áhrifin hafi verið einskonar uppstigning.

Þetta eru merkir menn og hafa haft mikil áhrif á líf mitt og hugsun.

Um Morgunblaðið og stjórnmál hefur Árni Þórarinsson m.a. þetta eftir mér:

“Margir halda að ekki komist hnífurinn á milli flokksins og blaðsins.

En það er rangt.

Sjálfstæðisflokkurinn er eitt, en Morgunblaðið annað, þótt þessir aðilar hafi átt samleið á margan hátt vegna uppruna, arfs og sömu skoðana í mikilvægum málum.

En ég veit ekki betur en blaðið sé málgagn margra annarra en Sjálfstæðisflokksins.

Það var aðalmálgagn Gylfa Þ. Gíslasonar og Vilhjálms Hjálmarssonar og ýmissa annarra forystumanna Alþýðuflokks og Framsóknarflokks, og Magnús Torfi hefur mátt vel við una.

Það hefur oft gagnrýnt sjálfstæðismenn og ég tel að blaðið eigi að vera eitt helzta aðhald þeirra, því sá er vinur sem til vamms segir.

Sá sjálfstæðismaður sem virðir það ekki verður að ganga í einhvern sértrúarflokk heittrúarmanna.

Ég kom sjálfur inn á Morgunblaðið sem blaðamaður en ekki sem pólitíkus og hef aldrei verið í framboði í stjórnmálum. Á bak við tjöldin hafa farið fram harðvítug átök milli þingmanna og ráðherra Sjálfstæðisflokksins annars vegar og ritstjórnar Morgunblaðsins hins vegar, – oft mun meiri átök en fólk veit.

Ég get nefnt dæmi.

Ég skrifaði á sínum tíma leiðara þar sem blaðið gagnrýndi harðlega stefnu ríkisstjórnarinnar í lánamálum námsfólks enda er fáránlegt að refsa stúdentum fyrir að gifta sig eða vinna eins og gert er í reglum lánasjóðsins.

Sýnt var fram á með rökum að þetta dygði ekki.

Hér skildu leiðir forystumanna flokksins og Morgunblaðsins.

Sama dag og leiðarinn birtist hitti ég tilfinningamesta og þess vegna einn hreinskiptasta ráðherra flokksins, Matthías Bjarnason.

Þá flugu hnútur um borð.

Hann sagði það stæðu núna tveir idíótar fyrir framan Alþingishúsið með mótmælaspjöld. Réttast væri að ég yrði þriðja fíflið sem stæði undir svona spjaldi... Sá sem er margar vikur í Mið-Evrópu og kemur svo heim úr fríi fer ekki að horfa á íslenzka sveitarstjórnar- eða þingmenn gegnum eitthvert stækkunargler.. Þegar ég mæti íslenzkum þingmanni á götu hugsa ég ekki hærra en til músarrindils og þykir það verst þegar músarrindlarnir reyna að telja sjálfum sér og öðrum trú um að þeir séu komnir úr arnarhreiðri”.

Ég sé það að vísu nú að það hefði verið betra að segja: úr arnareggi.”

Og enn hefur Árni þetta eftir mér:

“ Árið 1967 urðu miklar umræður í Morgunblaðinu um skólamál. Okkur líkaði ekki aðgerðarleysi viðreisnarstjórnarinnar í mennta- og fræðslumálum. Ég skrifaði mikið um málið og fór á marga fundi enda hélt maður þá að hægt væri að rækta hugsjónir sínar.

Þann 18. september 1967 hringir Bjarni Benediktsson til mín og segir að Gylfi Þ. Gíslason, menntamálaráðherra, sé miður sín út af þessum skrifum Morgunblaðsins.

Spyr hvort sé ástæða til þessarar gagnrýni allrar.

Ég sagði að svo væri enda vissi hann það sjálfur að skólakerfið væri úrelt og bitnaði á unglingum og foreldrum þeirra.

Bjarni sagði að stjórn sín gæti verið í hættu vegna þessara skrifa og ég fann að hann taldi þau ekki sanngjörn.

Ég sagði honum að ritstjórar Morgunblaðsins væru á annarri skoðun. Gylfi yrði að taka til hendi í menntamálum, en kannski væri ofætlun að sami maður gæti sinnt fræðslu- og viðskiptamálum.

Bjarni sagði:

“Þú hefur heyrt hvað ég segi.”

Ég sagði:

“Já, en ég treysti mér ekki til að breyta stefnu blaðsins í þessu máli, því við teljum hana rétta.”

Þá sagði Bjarni:

“En má ég biðja þig að vera aldrei persónulegur, heldur einungis málefnalegur í þessum skrifum.”

“Þarftu að biðja mig um það,” spurði ég.

“Nei,” sagði hann.

Samtalinu var lokið og við vorum jafngóðir vinir eftir sem áður.

En það er af Gylfa Þ. Gíslasyni að segja að hann einbeitti sér að menntmálum, vann af alefli að endurbótum á fræðslukerfinu með þeim árangri sem við nú sjáum.

Við Gylfi urðum miklir mátar og erum nú góðir vinir. Og pínulitli kratinn í vinstra framhólfi hjartans í brjóstinu á mér er stórhrifinn af því með hve mikilli reisn Gylfi ætlar út úr pólitík.

Ég vona aðeins að afleiðingin verði ekki sú að Alþýðuflokkurinn fari sömu leið.

Seinna skal ég segja þér meira af viðskiptum okkar og Alþýðuflokksins en það er trúa mín að Viðreisnarstjórnin sé það næsta sem stjórnvöldum hefur tekizt að koma til móts við óskir fólksins um frjálslegt og rúmgott þjóðfélag.

Kannski getum við náð þessu takmarki aftur ef okkur tekst að sigrast á verðbólgunni og fjárhagserfiðleikum á næsta kjörtímabili, – hver veit?

Hitt er svo annað mál að auðvitað hefur fjöldi fólks reynt að hafa áhrif á ritstjóra Morgunblaðsins fyrr og síðar, – ekki aðeins forystumenn Sjálfstæðisflokksins, heldur bókstaflega allir sem telja sig hafa einhvern málstað.

Öll þjóðin vill stjórna Morgunblaðinu...

Og vel mætti segja mér að ýmsum forystumönnum flokksins hafi þótt nóg um í þorskastríðinu þegar Morgunblaðið tók forystu um það að ganga gegn almenningsálitinu á Íslandi og krefjast þess að þorskastríðinu yrði ekki blandað saman við aðildina að Nató eða aðrar ráðstafanir sem við höfum gert í öryggisskyni.

Þórbergur sagði við mig á sínum tíma:

“Það biluðu margir í Ungó”, og ég segi við þig, án þess að bera saman svo gjörólíka hluti:

Það biluðu margir í þorskastríðinu, – ekki sízt sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, svo ekki sé talað um almenna fylgismenn hans.

Þá tók Morgunblaðið af skarið og ég er ekki frá því að það hafi haft forystu um að rétta þau hlutföll sem þá brengluðust í íslenzkum stjórnmálum.

Og kannski hefur þetta oft gerzt án þess Morgunblaðið hafi þurft að hreykja sér af því.

En ef maður hefur haft þetta í huga, þá er kannski ekki svo skrýtið þó að einhverjir pólitískir andstæðingar hafi nokkurn fyrirvara á ást sinni á okkur Styrmi Gunnarssyni.

Hitt er svo annað mál að það er ekki auðvelt að hafa afskipti af þjóðmálum í landi þar sem allt getur tekið kollsteypu í einu vetfangi.

Ég tala nú ekki um þegar svo drastísk endaskipti verða á hlutunum að Hannibal Valdimarsson harmar það með átakanlegum hætti í samtali við þig í Helgarblaðinu í fyrravetur, að það skorti íhald í Sjálfstæðisflokkinn!

Bjarni Benediktsson hafði litlar mætur á kerfum og kennistefningum. Hann var mjög pragmatískur stjórnmálamaður og sveigði til eftir því sem hann taldi þjóðinni fyrir beztu.

Íhald og róttækni fylgja ekki endilega einstökum flokkum, heldur eru þetta eðlisþættir í hverjum manni.

Það er auðvitað helber tilbúningur þegar verið er að setja þetta í kerfi.

Það er ekki efi í mínum huga hvor er raunverulega róttækari stjórnmálamaður Kosygin eða Geir Hallgrímsson og í þau fáu skipti sem ég hef hitt þjóðlegan íhaldsmann þá skal hann ævinlega vera úr Alþýðubandalaginu.

Allt afturhald í heiminum er samankomið í kommúnistaflokkum hingað og þangað um allar jarðir.

Og um kynni mín af Bjarna Benediktssyni:

Kynni okkar byrjuðu ekki vel. Hann skildi mig ekki og ég ekki hann.

En eftir því sem þau urðu nánari urðum við meiri vinir og svo fór að við Hanna nutum alls þess bezta sem Sigríður og Bjarni áttu og það var meira en öðru fólki er venjulega gefið.

Það er of viðkvæmt mál til þess að unnt sé að tíunda það allt nú.

Við Hanna vorum oft á Þingvöllum meðan Bjarni var forsætisráðherra.

Það var yndislegur og ógleymanlegur tími og helzt vildi ég geta vakið hann upp. Ég skrifaði ýmislegt á Þingvöllum og sat þá venjulega í herbergi okkar uppi á lofti í Konungshúsinu.

Þar og við vatnið orti ég Vor úr vetri og skrifaði kaflann um Stein Steinar sem lýkur Hugleiðingum og viðtölum.

Sigríði var illa við að við og börnin og aðrir gestir svæfu uppi á lofti í þessu timburhúsi og hafði oft orð á því.

Hún sagði það gæti verið hættulegt að vera á efri hæð hússins ef kviknaði í, en það væri enginn vandi að bjarga sér á neðri hæðinni.

Eitt sinn þegar við komum var búið að setja brunastiga úr kaðli í herbergið okkar uppi.

En það þótti ekki nægilegt.

Þau voru ekki í rónni fyrr en nýtt gestahús hafði verið byggt við Konungshúsið. Þá þurfti enginn að sofa uppi á lofti, þá átti öllu að vera óhætt...

Bjarni var með eindæmum gáfaður maður. Menntun hans, þekking og yfirsýn meiri en gerist hér á landi og ómetanleg reynsla að kynnast ungur svo mikilhæfum leiðtoga.

Ég hef alltaf haft dálítinn komplex út af mannfæð íslenzku þjóðarinnar en Bjarni hafði aldrei áhyggjur af slíkum hlutum.

Ég gleymi því ekki þegar dómsmálaráðherrar Norðurlanda voru eitt sinn heima hjá honum og hver þóttist beztur fyrir hönd sinnar þjóðar.

Þá gekk Bjarni allt í einu inn í miðjan hópinn og sagði stundarhátt:

“Þið vitið það allir að íslenzka þjóðin er merkasta þjóð á Norðurlöndum.”

Þeir þögðu við og næsti hálftími fór í að viðurkenna þetta.

Ég dáðist að þeim krafti og þeim persónuleika sem gerði Bjarna fært að slá með þessum hætti á hégómaskap frænda okkar.

Ég sagði áðan að kynni okkar Bjarna hefðu ekki farið vel af stað.

Ástæðan var sú að mér var falin umsjón með Velvakanda í blaðinu og var jafnframt í Háskólanum.

Bjarni var dómsmálaráðherra þá og taldi að Velvakandi væri sínkt og heilagt að pota einhverjum títuprjónum í lögreglustjórnina í Reykjavík.

Hann var viðkvæmur á þessum árum enda nýkominn út úr hörðustu stjórnmálaátökum síðari tíma hérlendis, – aðild Íslands að Nató og þá voru landráð borin á hann viðstöðulaust, bæði af músarrindlum og öðrum foglum.

Auk þess stóð ég í baráttu fyrir því í Háskólanum að Keflavíkurútvarpinu yrði lokað og töldu ýmsir mig þá fremur eiga heima í herbúðum kommúnista en íhaldsins.

Sem ritstjóri mat Bjarni, fannst mér , sjálfstæð vinnubrögð og skorinorða afstöðu og spurði þá ekki um skoðanir, heldur einurð. Hann átti það sameiginlegt með Dean Acheson að hann þoldi ekki bjálfa en hann gat líka séð skoplegu hliðarnar á tilverunni, enda er ólíft á Íslandi án einhvers konar húmors.

Þeir voru ekki margir sem þekktu skopskyn Bjarna en það var í ætt við Bessastaðafyndni Jónasar Hallgrímssonar og gálgahúmor þeirra félaga. Í þeim húmor er íslenzkt þjóðfélag í réttu perspektívi.

Eftir því sem tíminn leið kynntumst við með þeim hætti að ég er forsjóninni þakklátur...

Eins og fram kom áðan vorum við Bjarni alls ekki alltaf sammála og ég var stundum ósammála því sem stóð í Morgunblaðinu. Ég þoldi til dæmis önn fyrir það hvernig Morgunblaðið skrifaði gegn Ásgeiri Ásgeirssyni þegar hann fór í forsetaframboð 1952 og hef reynt að koma í veg fyrir að blaðið lenti í öðrum eins hildarleik aftur.

Ég gagnrýndi Bjarna þegar Morgunblaðið kynti undir verkföllum gegn vinstristjórninni fyrri.

Við ræddum þetta og hann tók gagnrýni minni vel. En ég man að hann sagði um þessa fyrri vinstristjórn að hann teldi öryggi Íslands beinlínis stafa hætta af aðild kommúnista að stjórninni.

“Það er um líf og dauða að tefla fyrir Ísland að þessi stjórn fari frá völdum,” sagði hann.

Eftir að Bjarni Benediktsson dó var okkur mikill vandi á höndum.

Morgunblaðið tók þá forystu í stjórnmálabaráttunni hér og ég held mér sé óhætt að fullyrða að upp úr því urðu mun lausari tengsl milli Sjálfstæðisflokksins og blaðsins.

Síðan hefur gengið á ýmsu og við höfum farið okkar fram.

En þó ekki átakalaust.

Áður en Bjarni dó bað hann mig að vinna að því öllum árum að Geir Hallgrímsson yrði formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég þekkti dómgreind hans og vissi hún brást honum ekki... Það er kannski merkilegast að á sama tíma og Geir Hallgrímsson, stjórnarformaður útgáfufélags Morgunblaðsins, Árvakurs, verður formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra landsins, tekst blaðinu að verða sjálfstæðara en nokkru sinni.

Ein ástæðan að unnt var að ná þessum mikilvæga áfanga í sögu blaðsins er að mínu mati sú, að Geir Hallgrímsson virðir störf annars fólks og reynir ekki, svo mér sé kunnugt, að setja sjálfstæði þess skorður. Hann er lýðræðissinni sem ég treysti vel fyrir framtíð þjóðarinnar...”

Og enn segir síðar í þessu samtali:

“Á örlagastundu þegar Sjálfstæðisflokkurinn var tvílráður og reikull eftir slysið á Þingvöllum skrifaði ég samtali við Jóhann Hafstein sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins þar sem stutt var við bakið á honum. Við töldum það rétt og nauðsynlegt því ekki gat Morgunblaðið stutt stjórnlausan Sjálfstæðisflokk.

Þessu var misjafnlega tekið.

Við Eyjólfur Konráð Jónsson vorum yfirleitt sammála í okkar ritstjóratíð þó að við tækjumst stundum á og við vorum báðir sannfærðir um að hinn væri frekasti maður landsins.

Það mætti vafalaust til sanns vegar færa, enda stjórnar enginn Morgunblaðinu með elskumömmu að leiðarljósi.

Við Eykon urðum svo sammála um fyrrgreinda afgreiðslu á þessu máli.

En þú skalt spyrja hann hvaða ágreiningur var okkar á milli fyrst í stað.

Mér finnst hann muna allt betur en ég þegar við berum saman bækur okkar.

Það er vegna þess að hann er heldur betra skáld en ég.

Í umræðum um stóriðjuna var honum eitt sinn á fundi líkt við Einar Benediktsson.

Aldrei hef ég náð svo langt, mér hefur ekki einu sinni verið líkt við Úlfar Þormóðsson!

Það gefst kannski tækifæri til að fjalla betur um það á þessum dagbókarblöðum, um hvað við Eyjólfur vorum ekki sammála, þegar ég skrifaði samtalið við Jóhann Hafstein og við birtum það á forsíðunni.

Ég var sannfærður um að rétt væri að styðja Jóhann svo hann gæti komið Sjálfstæðisflokknum yfir erfiðasta hjallann.

Ég gekk inn í skrifstofu Eyjólfs samritstjóra míns og sagði honum að ég hefði skrifað samtal við Jóhann og það yrði á forsíðu blaðsins.

Hann dæsti og horfði á mig.

Við erum þá sammála um það, sagði ég.

Eykon brosti enn og sagði að svo væri ,en síðan bætti hann við: “En nú er síðasta vígið fallið.”

Og við það sat.

Ég hef verið sannfærður um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði klofnað ef Jóhann Hafstein hefði ekki orðið formaður hans á þessari örlagastund og harðari átök orðið um eftirmann Bjarna Benediktssonar.

Gunnar Thoroddsen var mjög umdeildur maður í flokknum eftir að hann studdi Ásgeir tengdaföður sinn í forsetakosningunum 1952 og óþarft að fara með það eins og viðkvæmt leyndarmál. Enda kom það berlega í ljós þegar hann bauð sig fram til forsetakjörs að margir sjálfstæðismenn treystu sér ekki til að styðja hann, til að mynda nánir samstarfsmenn Ólafs Thors eins og Pétur Benediktsson, tengdasonur hans.

Pétur var einn helzti andstæðingur Gunnars Thoroddsens og ákafasti stuðningsmaður Kristjáns Eldjárns, ásamt Ragnari Jónssyni.

Við morgunblaðsmenn studdum Gunnar vegna reynslu hans og hæfni, en af einhverri ástæðu virtist hann ekki kunna að meta þennan stuðning að kosningum loknum.

Við skrifuðum þó ekki nema einn leiðara til stuðnings Gunnari, og þá undir lokin. Það var gert í samráði við hann sjálfan enda hárrétt hjá honum að óska ekki eftir meiri stuðningi eins og þjóðin virðist hafa gaman af að kjósa annað forsetaefni en það sem Morgunblaðið styður !”

Undir lok þessa samtals okkar Árna Þórarinssonar er talað um að blaðamaður sem kynni sæmilega vel hégóma stjórnmálamanna og listamanna hljóti að fá ofnæmi fyrir allskyns tildri og blekkingum.

“Raunsær blaðamaður sækist ekki eftir hégóma og gerir sér grein fyrir því að bak við viðurkenningar og verðlaun standa yfirleitt hagsmunir þeirra sem úthluta þeim. Hann veit að þeir sem eru einhvers virði eins og Menuhin, Auden og Louis Armstrong, svo ég nefni nokkra sem ég hef kynnzt í minni blaðamennsku, eru eðlilegastir allra í fasi og framkomu. Þeir þurfa ekki á sífelldum fjölmiðlaauglýsingum að halda en þær gera hvern mann að viðundri þegar til lengdar lætur.”

.

26. október 1977

Átti gott samtal við Albert Guðmundsson í dag. Hann hefur ákveðið að draga sig í hlé úr borgarstjórn og af Alþingi. Segist hafa tekið þá ákvörðun fyrir löngu. Það sé kominn tími til að hann hætti, því geti enginn breytt.

Hann sé búinn að fá nóg.

Einhvern tíma yrðu menn að hætta í pólitík.

Hann hefði gengið ungur í Sjálfstæðisflokkinn, hefði ávallt verið sjálfstæðismaður og væri enn.

En að sínu mati hefði flokkurinn vikið allt of mikið af leið í samsteypustjórninni með Framsóknarflokknum og sjálfstæðismenn fengju litlu áorkað í framkvæmd sjálfstæðisstefnunnar.

Kvartar yfir því að hann hefði haft lítið samband við Geir Hallgrímsson, sem að vísu væri vinur sinn og drengskaparmaður hinn mesti,

En ég hef ekki komizt að honum, sagði Albert.

Hann hefði fengið lítinn tíma hjá Geir sem hefði veitt honum litla áheyrn og minni en hann hefði kosið.

Brynhildi , kona Alberts, hafi ekki dottið í hug að ég myndi taka þessa ákvörðun, segir Albert, og með henni væri ég að bregðast þeim skjólstæðingum mínum sem hafa treyst mér fyrir sér og málefnum sínum og henni líkar ekki þessi ákvörðun.

Þessi afstaða hennar hefur áhrif á mig, að vísu.

En umtalið í flokknum er mannskemmandi og mig langar ekkert til að göslast í einhverjum pólitískum drullupolli rógs og illmælgi. Slíkt hefur ekki tíðkast í Sjálfstæðisflokknum.

Ég er í raun undrandi yfir hvað Albert er viðkvæmur fyrir umtali; undrandi yfir því að hann skuli hrökkva svona við því að ég hef aldrei talið að pólitík sé eitthvert kærleiksheimili.

Þar otar hver sínum tota.

Rógburður og níð er eitt af höfuðeinkennum þeirrar merku listar sem nefnist stjórnmál.

Þegar ég var í fótbolta í gamla daga, sagði Albert, léku allir liðsmenn á sama markið og engum datt í hug að gera sjálfsmark.

En í þingliði Sjálfstæðisflokksins reyndu nú allir að gera mörk og væri í raun og veru sama í hvaða neti boltinn lenti.

Ég skil þetta ekki, sagði Albert, þetta veikir flokkinn.

En getur ekki verið að ástæðan fyrir óánægju þinni sé sú að þú ert ekki aðalstjarnan á vellinum?

Alli leit á okkur og sagði, Í þeim liðum sem ég hef keppt fyrir hefur fyrirliðinn ekki verið stjarnan.

Hann minntist ekki sérstaklega á nein málefni sem hann hefði ekki komið fram í flokknum, en lagði þó áherzlu á að hann hefði staðið sig í öryggismálum í þorskastríðinu, þegar ýmsir aðrir hefðu bilað.

Enginn vafi á því að hann er heill í þeim efnum , jafnvel ýmsum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fremur.

Þó að samstarfið við Geir hefði verið losaralegt hefði það í sjálfu sér ekki ráðið úrslitum um ákvörðun sína og jafnvel ekki heldur ágreiningurinn við forystuna um stjórn og stefnuna, heldur vildi hann af persónulegum ástæðum losna út úr pólitík því að nú vægi komið nóg.

Hann hefði vanizt því að leiknum væri lokið þegar flautað væri og engum lifandi manni hefði þá dottið í hug að halda áfram að sparka boltanum.

Í þeim sporum stæði hann nú, það væri búið að blása af og leiknum væri lokið. Það væri ekki hægt fyrir okkur að hafa áhrif á sig enda þótt við segðum að listar Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar og alþingis veiktust, ef hann væri ekki á þeim.

Við sögðum það myndi styrkja listana ef hann héldi sæti sínu.

Ég sagði að við hefðum heyrt að hann hefði verið að makka við Gunnar Thoroddsen og sagt væri að Gunnars- liðið og Alberts-liðið ætluðu að reyna að klekkja á forsætisráðherra.

Albert hristi höfuðið og neitaði.

Hann sagðist aldrei hafa haft neinn áhuga á því að verða efstur í prófkjöri og rangt að hann væri í einhverju Gunnars-liði ; talaði mjög fallega um Jóhann Hafstein, sagðist hafa keyrt hann heim nokkru áður og skýrt honum frá þeirri ákvörðun sinni að hætta.

Þakkaði okkur fyrir leiðarann um Jóhann sem birtist í blaðinu sl. laugardag þegar hann hætti og sagði að hann væri réttur og drengilegur og til fyrirmyndar hvernig við hefðum kvatt Jóhann þegar hann lét af störfum í stjórnmálum.

Ekki fann ég neina persónulega beizkju í garð Geirs Hallgrímssonar.

Albert er alltof raunsær maður til að vita það ekki að menn ná ekki öllum sínum málum fram. En hann er augsýnilega hvekktur og kannski er hann búinn að fá nóg, það veit ég ekki.

Gæti ímyndað mér að stjórnmálavafstrið hefði gengið nær heilsu hans en vitað er.

Þegar ég var búinn að taka ákvörðun um að hætta, sagði hann, gekk ég í kringum Tjörnina og þá var miklu fargi af mér létt.

Ég andaði að mér frelsinu, það var góð tilfinning.

Samtalið við Albert var hressilegt með köflum; og einlægt. Hann var ekki upp á það bezta þegar hann kom, en hresstist og enginn bilbugur á honum þegar hann fór.

Ég var því sannfærður um að hann myndi breyta ákvörðun sinni um að hætta.

Ég er orðinn mjög efnaður maður og hef frelsi til að gera það sem mér sýnist, sagði hann í lokin.

Ég held hann hafi sama áhuga og áður á velgengni Sjálfstæðisflokksins, en - hvort hann kemur með sérframboð á einhverju stigi málsins, þá svaraði hann, Nei, það hefur ekki hvarflað að mér.

Samt hef ég heyrt menn tala um það, en það kemur ekki til greina. Að vísu gæti það gerzt ef einhver af forystumönnum flokksins móðgaði mig eða særði illa, þá gæti verið að ég færi fram af hörku og ákveðni því ég er ágætur þegar ég stend í baráttu og hef mótbyr, en þegar ég finn að menn eru með mér þá er ég ekki eins harður og líklegur til að taka á honum stóra mínum.

Útilokaði sem sagt ekki sérframboð, en fjallaði um það með þessum hætti!

Hvort hann ætlaði að tala við Geir um þetta?

Nei, hann kvaðst ekki sjá neina ástæðu til þess.

Geir er enginn “godfather” minn!.

Hef samt á tilfinningunni að hann vilji að við segjum Geir frá pólitískri líðan hans.

.

28. október 1977

Fórum með Birgi Ísleifi Gunnarssyni, borgarstjóra, upp í forsætisráðuneyti til Geirs og sögðum honum frá samtalinu við Albert.

Birgir tók ákvörðun Alberts með fyrirvara.

Geir hlustaði vandlega og í miklu jafnvægi.

Þegar við fórum af fundi hans var ég sannfærðari um það en nokkru sinni að Sjálfstæðisflokkurinn ætti sterkan og sanngjarnan leiðtoga.

Lúðvík Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri,einkavinur Alberts, segir mér að Albert eigi til með að fá dálitlar manískar períóður sem standi yfir í þrjá til fimm daga og því væri ekki unnt að vita hvort hann myndi hætta eða hætta við að hætta fyrr en eftir tvo til þrjá daga, eða þegar períóðan er liðin hjá og hann kemst út úr sálarkreppu sinni.

Allt kemur þetta í ljós, sagði Polli.

Geir segir listinn fyrir alþingiskosningar mundi veikjast ef Albert verði ekki á honum.

En hann hristir höfuðið yfir þeirri fullyrðingu að menn skjóti hver í sitt markið og sagði að Albert færist nú ekki í þeim efnum.

Niðurstaðan sú að ákveðið er að Geir biðji Jóhann að tala við Albert með sér, vona það verði gott samtal.

.

1. nóvember 1977

Geir og Jóhann töluðu við Albert sl. sunnudag, 30. október.

Segja það hafi verið mjög gott samtal og þar hafi komið fram allt það sem Albert sagði í samtalinu við okkur Styrmi.

Albert hafi svo sannarlega ekki verið sá eini sem hefði orðið fyrir barðinu á einhverjum rógi eða illmælgi, það yrðu stjórnmálamenn að taka á sig.

Sjálfur kvaðst Geir hafa heyrt úr herbúðum Alberts- eða Gunnars-manna að ómögulegt væri að kjósa Geir vegna þess hann þjáðist af ólæknandi parkinsonsveiki.

Geir sagðist mundu tala við þá sjálfstæðismenn sem hann vissi að héldu slíku fram og mættum við einnig gera það.

Engin ástæða væri til að útskúfa þeim úr flokknum, heldur vinna þá inn á réttar brautir með samtölum.

Þeir þyrftu á því að halda að finna að þeir væru einnig til og eftir þeim væri tekið.

Þessi ummæli lýsa Geir ákaflega vel, drengskap hans og virðingu fyrir skoðunum annars fólks, jafnvel þegar þarf að ræða róg um hann sjálfan.

Geir sagði eftir fundinn við Jóhann Hafstein að það væri sín skoðun að brugðið gæti til beggja vona; vel mætti vera að Albert færi í framboð, honum hefði jafnvel heldur virtzt það, eða þá að hann muni halda sínu striki og hætta, það kæmi í ljós.

Hann yrði sjálfur að taka sínar ákvarðanir en hvorki Jóhann né Geir báðu Albert um eitt eða neitt.

Hann yrði að ákveða það sjálfur hvort hann færi í framboð eða ekki, lögðu samt báðir áherzlu á að þeir teldu það styrkja flokkinn, ef hann tæki þátt í leiknum.

Geir heldur stefnuskrárræðu á fimmtudag. Ég vakti yfir henni heila nótt, að beiðni hans.

Hann bað mig um að koma hagfræðingatalinu á mælt mál sem væri skiljanlegt venjulegu fólki, eins og hann sagði.

Mér þykir vænt um að hann metur þessa vökunótt!

Það er gott til þess að vita að vinir manns vaka með manni, sagði Geir.

Það er slagkraftur í ræðunni og ég er sannfærður um að hún verður sterk og fín. Í henni eru nýir hlutir sem geta styrkt stöðu flokksins, það veitir ekki af.

.

20. desember 1977 – þriðjudagur

Bókin um Sverri Haraldsson, listmálara, komin út hjá Páli Vígkonarsyni í Myndamótum.

Þegar ég var drengur kostaði einbýlishús í vesturbænum 24 þúsund krónur.

Nú hef ég skrifað bók sem kostar húsverð fyrir stríð og mér skilst hún seljist eins og heitar lummur.

Guðbrandsbiblía kostaði þrjú kýrverð.

En þessi bók um Sverri er langt undir kýrverði svo hún má teljast fremur ódýr miðað við aðstæður.

Guðbrandsbiblía seldist dræmt, það voru einkum auðugir útvegsbændur á Vestfjörðum sem keyptu hana.

Guðbrandur byskup hrósaði þeim fyrir guðrækni og þjóðlegan metnað.

Hinir fengu skömm í hattinn.

Ég hef skrifað um marga listmálara; þeir hafa einatt verið mér meira að skapi en til að mynda rithöfundar.

Þeir eru meiri sögumenn og segja betur frá.

Ég hef alltaf gaman af að vinna með myndlistarmönnum.

Louisa frænka mín Matthíasdóttir málaði myndirnar í Hólmgönguljóð, Gunnlaugur Scheving myndskreytti bæði Jörð úr ægi og Vor úr vetri og Erró síðustu ljóðabókina mína, Dagur ei meir. Og einnig þá næstu sem kemur út að vori undir nafninu Morgunn í maí.

Hef skrifað mikið um myndlistarmenn, bæði samtöl og bækur.

Hef upplifað þá eins og Kjarval Esjuna.

Ef hundrað listamenn máluðu Esjuna fengjum við að upplifa hundrað Esjur.

Þannig upplifir enginn annan mann með sama hætti og aðrir.

Afstæðiskenningin enn og aftur!

Ég reyndi að upplifa Sverri með sama hætti og hann upplifir landslagið.

Það ætti að geta orðið nokkuð minnisstætt því Sverrir Haraldsson er minnisstæður maður og óvenjulega hæfileikaríkur listamaður.

Það dytti engum í hug að eigna öðrum mynd eftir hann.

.

Minnispunktar, 23. desember 1977

Á Þorláksmessu, 23. desember 1977, var ég boðinn til Fanafarovs, sovézka sendiherrans hér á landi.

Mér var vel tekið og við vorum bara þrír, sendiherrann, túlkur hans Valentin, sem talar ensku og túlkaði á milli okkar, enda þótt sendiherrann skilji ensku mætavel.

Við töluðum dálítið saman áður en við borðuðum og var það almennt rabb, m.a um för Geirs Hallgrímssonar, forsætisráðherra, til Sovétríkjanna.

Sendiherrann rifjaði ferðina upp mjög nákvæmlega frá einni borg til annarrar og talaði mikið um hve hún hefði heppnazt vel og ræddi um einstök atriði hennar, sagði m.a. að þeir hefðu verið mjög ánægðir með yfirlýsinguna, sem gefin hefði verið út að loknum fundi þeirra Geirs og Kosygins.

Hann sagði að drögin að yfirlýsingunni hefðu verið unnin hér heima, m.a. af Birni Bjarnasyni og honum, en sagði að Íslendingarnir hefðu óskað eftir því, að þau yrðu styttri en Rússarnir vildu, en þó sagði hann, að Rússarnir hefðu verið mjög ánægðir með yfirlýsinguna, eins og hún varð að lokum.

Sagði hann að Kosygin hefði látið í ljós ánægju með heimsóknina.

Dálítið var minnzt á leiðaraskrif Mbl. í sambandi við þessa heimsókn og lagði Fanafarov ekki mikið upp úr þeirri gagnrýni, sem Mbl. beindi að Sovétríkjunum í sambandi við hana, en tók undir það, sem ég benti á, að Sovétríkjunum hefði verið þökkuð ýmis atriði, t.d. stuðningur við lýðveldissstofnunin, aðstoð í sambandi við þorskastríðið með því að rússneski flotinn hefði farið út úr 200 mílunum og mikilvægi viðskipta o.s.frv.

Undir borðum var mikið talað, þ.e.a.s. sendiherrann talaði mest sjálfur og túlkurinn Valentin túlkaði eftir beztu getu.

Sendiherrann talaði fyrst um , hvað það væri mikilvægt, að formaður stærsta stjórnmálaflokksins á Íslandi hefði komið í opinbera heimsókn til Sovétríkjann og tók ég undir, að það hefði verið hyggilegt að formaður Sjálfstæðisflokksins færi í opinbera heimsókn þangað.

Ég vissi að allir hefðu ekki verð ánægðir með það, en teldi þó að það gæti eflt samskipti þjóðanna og m.a. væri ekki úr vegi, að heimsóknin mundi, þegar til lengdar léti, draga úr gagnrýnisröddum borgaralega sinnaðra manna á Íslandi á Sovétríkin, án þess þó ég vildi taka ábyrgð á þeirri fullyrðingu.

Síðan minntist ég eitthvað á sjónvarpsmyndina um Stirlitzt sem sýnd hefur verið í sjónvarpinu hérna, rússnesku njósnamyndina, og urðu þeir þá dálítið hugsi báðir tveir.

Ég sagði, að mér fyndist myndin spennandi og afar vel leikin, persónurnar væru sannfærandi.

Þá var eins og kviknaði á perunni hjá sendiherranum og hann sagði að Rússarnir hefðu reynt að gera persónurnar eins sannfærandi og unnt væri, t.a.m. væri Müller mannlegur í aðra röndina,

Þjóðverjarnir hefðu ekki verið fífl og ídíótar, ekki alfarið, þvert á móti hefðu sumir þeirra verið stórgáfaðir og klárir og okkar menn stóðust þeim ekki alltaf snúning sagði sendiherrann .

Í raun og veru var ýmislegt sem hann sagði dálítið einkennilegt að því leyti að ég hef aldrei heyrt Rússa segja fullum fetum, að einhverjir væru betur að sér en þeir og þeir hefðu ekki alltaf á réttu að standa.

Í miðri frásögninni um Stirlitz, sagði sendiherrann, en þó hikandi fyrst í stað, að ég hefði kannski áhuga á því að vita, að það væri rétt sem ég hefði haldið fram, að myndin væri byggð á heimildum, maðurinn sem hún fjallaði um, hefði verið Abel, sá sem Bandaríkjamenn létu í skiptum fyrir Powers, flugmanninn sem skotinn var niður yfir Sovétríkjunum í U2 flugvélinni.

Ég var undrandi á því, vissi ekki að myndin væri svo söguleg sem raun ber vitni og lét orð að því liggja og jafnframt að mér hefði fundizt og fyndist Stirlitz að sumu leyti manneskjulegur njósnari. Þá sagði sendiherrann mér, að Abel hefði verið Volgu-Þjóðverji, en mjög góður Rússi, hann hefði farið til Þýzkalands 1924 og gengið í nazistaflokkinn og komizt til hárra metorða, eins og myndin sýndi. Hann var í brúnstakkasveitum Hitlers og ekki nóg með það, heldur heðfi verið séð um að hann færi ekki til Sovétríkjanna, þegar Rauði herinn kom til Berlínar, heldur hefði verið ákveðið að hann flýði á náðir Bandaríkjanna, þannig að hann kæmist þangað með þeim afleiðingum, sem raun bar vitni; að hann gæti stundaði þar njósnir í þágu Sovétríkjanna.

Og var handtekinn fyrir það.

Það var merkilegt að sjá sendiherrann og Valentin túlk brosa, þegar þeir sögðu mér þessa sögu um það, hvernig Abel hefði komizt til Bandaríkjanna. Mér fannst þeir í aðra röndina hikandi þegar þeir skýrðu frá þessu, en í hina röndina stoltir af þessum afreksmanni sínum;gátu þess svo að menn yrðu að sýna mikið þolgæði og hafa hestaheilsu ,ef þeir ætluðu sér að verða góðir njósnarar !

Ég sagði við Íslendingar skildum ekki svona starfsemi eins og njósnir og kynnum ekki að meta afreksmenn á því sviði!.

Nokkru síðar sagði Fanafarov mér, að hann væri sjálfur verkfræðingur og hefði unnið í iðnaði í stríðinu. Þó hefði verið sagt um sig að hann hefði verið slíkur njósnari og það væri fullyrt í bókum, sem gefnar væru út í heiminum, en kvaðst þó aldrei hafa stundað slík störf.

Þó að þetta kæmi fram virtist hann ekkert vera sár yfir þeim ásökunum í hans, garð, sem fram hafa komið um njósnastarsemi hans og talaði um þetta eins og hvað annað og varð ég dálítið hissa á því.

Hann sagði, að enda þótt þeir Rússar hugsuðu í öldum frekar en dögum, mánuðum eða árum, þá væru þeir klárir á því, að það væri nauðsynlegt að gleyma liðini tíð og ómögulegt að lifa við það að geta engu gleymt .

Hann sagði það hefði verið merkileg reynsla, þegar hann fór í Þverá, mig minnir í sumar, og þeir voru í veiðihúsinu en hann var í boði einhvers fyrirtækis íslenzks, sem annast innflutning frá Sovétríkjunum, en þá fyrsta kvöldið, tóku þeir upp vodkaflösku og hann bauð öllum viðstöddum að skála fyrir góðum degi.

Þegar þeir höfðu skálað gekk maður til hans, Þjóðverji um hálfsextugt eða á svipuðum aldri og sendiherrann sjálfur, og sagði að sér væri sönn ánægja að hitta hann á Íslandi. Hann hefði sjálfur verið í nazistaflokknum á sínum tíma og barizt á austurvígstöðvunum, ...”en við gátum aldrei barizt hvor gegn öðrum”, bætti sendiherrann við, “vegna þess, að ég var ekki í víglínunni heldur við verksmiðjustörf”.

Þjóðverjinn sagði honum þá, að það væri merkilegt að þeir hittust hér uppi á Íslandi, en hann var tekinn höndum og fluttur til Síberíu, þar sem hann var settur í vinnubúðir með öðrum föngum, sem reistu verksmiðjur.

Þar tók hann út refsingu sína en var sleppt, þegar Adenaurer gerði samninginn fræga við Krutsjoff eftir heimsóknina til Moskvu, en þá var mörgum þýzkum stríðsföngum sleppt úr haldi í Sovétríkjunum.

Sendiherrann minntist m.a. á það, að Hergt, sendiherra V-Þjóðverja hér á landi hefði starfað að þessari heimsendingu þýzkra stríðsfanga í Sovétríkjunum.

En þannig var þetta, sagði sendiherrann, þarna stóðum við andspænis hvor öðrum, ég og fyrrverandi nazisti og vígamaður í hersveitum Hitlers á austurvígstöðvunum og gleymdum því sem áður var.

Maðurinn hafði tekið út sína refsingu, hann hafði breytzt, hann var orðinn bísnessmaður í Þýskalandi, reynsla hans var hin merkilegasta, hann lærði rússnesku í Síberíu og starfar nú í einhverju sovét-þýzku vináttufélagi í þeirri vestur-þýzku borg, þar sem hann býr, en ég man ekki hver hún er.

Þannig lagði sendiherrann mikið upp úr því að láta það sem liðið væri gleymt og grafið.

Satt að segja finnst mér sendiherrann hafa tilhneigingu til þess, eins og margir diplómatar, að rækta sitt eigið ego, það kemur m.a. fram í því hvað hann talar mikið sjálfur og hvað hann vill í raun og veru, að því er mér virðist, vera mikill miðpunktur allra hluta . Ég er ekki frá því, að ego sovézkra kommúnista sé jafnstórt og okkar kapitalistanna!

Eftir matinn fengum við okkur kaffi og koníak og sátum þrír í stofunni.

Það var mjög gott andrúmsloft.

Ég reyndi að vera eins kurteis og diplómatískur og ég gat, því að ég er kominn á þann aldur, að ég nenni ekki lengur að vera að rífast við Rússa um pólitík og vildi heldur hlusta á það, sem sendiherrann hafði fram að færa.

Hann talaði fyrst um Kínverja og sagði mér frá því, að þeir praktíseruðu ekki marx-leninisma heldur þjóðernisstefnu, sem héti maoismi, þar sem allir ættu að vera jafn réttháir og allir ættu að hafa sömu laun, en slíku væri ekki hægt að framfylgja, enda hefði allt farið í hnút hjá þeim vegna þessa kerfis þeirra.

Hann sagði þetta væri mesta vandamál í Sovétríkjunum, hvað laun væru mishá, en þeir hefðu ekki fundið neina lausn á þessu vegna þess að fólk vildi fá laun fyrir vinnu sína og það yrði að borga fólki mismunandi há laun efitr því hve mikilvæg störf það ynni, annars missti það áhugann og þá gæti svo farið, að þeir sem nenntu ekki að vinna fengju laun fyrir það að nenna ekki að vinna!

Hann velti þessu máli fyrir sér og taldi nauðsynlegt, að ég gerði mér grein fyrir því, að þeim væri nausynlegt að framfylgja þessari borgaralegu stefnu; að greiða mishá laun, enda þótt það væri gagnrýnt í Sovétríkjunum, að Ivan ráðherra fengi miklu hærri laun en Ivan verkamaður og þar fram eftir götunum.

Hann talaði um, að helztu mistök Kínverjanna hefðu verið fólgin í því að líta á alla menn eins og þeir væru sömu gerðar, en svo væri ekki.

Það þyrfti að finna rétta vinnu fyrir hvern og einn, því að menn væru svo misjafnir, rétt eins og annað í náttúrunni.

Þannig þýddi ekkert að taka þorskinn úr Atlantshafi og flytja hann í Svartahaf, hann mundi bara drepast þar.

Þetta vissu Rússar og þess vegna hefðu þeir þurft að fara ýmsar leiðir til þess að jafnvægi héldist og lögmál væru ekki þverbrotin með sömu afleiðingum, og ef þorskurinn væri settur í Svartahaf.

En það var eins og hann hefði einhverja von um, að þeir gætu jafnað þetta bil og fundið einhverja leið.

Hann sagði í öllum kerfum heimssögunnar hefðu verið holur eða göt, eins og hann kallaði það.

Það hefðu verið holur í þrælakerfinu, það hefðu verið holur í lénsskipulaginu, það hefðu verið holur í kapítalismanum og nú væru vankantar og hættuleg göt á marx-leninismanum.

Og þannig hefði það í raun og veru alltaf verið.

Hann sagði að þeir vildu keppa við borgaralegu þjóðfélögin, en vissu ekki, hver mundi vinna, þeir tryðu því og vonuðust til þess að þeir mundu vinna þessa keppni.

Þeirra kerfi stæði lögmáli náttúrunnar nær, enda lagði hann mikla áherzlu á, að náttúran kenndi mönnum marga hluti og sagði sögur af því, hvernig Rússar hefðu gert ýmsar tilraunir í sambandi við viðbrögð í dýra- og plöturíkinu, m.a. að mér skildist til þess að kynnast manninum betur ; t.a.m. tók hann dæmi um það, að rannsóknir hefðu sýnt, að ef grein er söguð af einu tré þá má sjá viðbrögð hjá næsta tré við hliðina á því; mig minnir með útgeislun eða einhverju slíku.

Það sama gilti um mannlífið.

Hann talaði einnig mikið um hvernig ætti að viðhalda jafnvæginu á N-Atlantshafi og sagði að Rússar vildu ekki að það breyttist á nokkurn hátt.

Hann sagðist vita við værum í erfiðri aðstöðu, Sjálfstæðisflokkurinn, og þá ekki síður Mbl.- menn, því að við vildum ekki gera Ísland að fylki í Bandaríkjunum eða verða of háðir þeim og taldi að okkar stefna væri mjög sannfærandi og sú eina rétta.

Hann sagðist þó ekki telja að Bandaríkin seildust til slíkra áhrifa hér á landi og reyndi í raun og veru að verja stefnu Bandaríkjanna.

Ég sagðist telja að við hefðum einatt haft vitlausa sendiherra hér sem hefðu mistúlkað bæði samtöl við ráðamenn og pólitíska stöðu í landinu.

Slíkt gæti verið skaðlegt.

En ég teldi þá einnig næsta víst að Bandaríkin reyndu að framfylgja friðsamlegri sambúð hér á landi sem annars staðar.

Hann gerði ekki athiugasemd við það.

Rússar hefðu einnig lagt áherzlu á slíkt jafnvægi,sagði sendiherrann, og engin ástæða til að breyta status quo.

Þegar kom að öryggis-og varnarmálum Íslands sagðist hann skilja stefnu okkar til að tryggja varnir landsins og hefðu Rússar ekkert við það að athuga.

Ísland hefði ekki her og Íslendingar yrðu að ákveða það sjálfir,hvernig þeir

tryggðu öryggi sitt..

En herlaust land eins og Ísland væri í raun og veru heilagt land, að sínum dómi.

Hann tók undir það, að Íslendingar hefðu ekki leyft neinum að geyma kjarnorkuvopn í sérstökum kjarnorkugeymslum eins og Bandaríkjamenn gerðu, t.d. í Vestur-Þýskalandi, og var augsýnilegt að hann bæði trúði því og fagnaði.

Þrátt fyrir þetta væri sambandið gott milli Vestur-Þýzkalands og Sovétríkjanna og það færi vel á með Helmut Schmidt og Brezhnev.

En hann gengi ekki gruflandi að því, að Íslendingar vildu ekki hafa kjarnorkuvopn staðsett í landi sínu.

Hann sagðist hafa fylgzt með umræðum um öryggismál Íslendinga, landsleigu og annað því um líkt og fullyrti að Mbl. hefði sýnt hugrekki í þessum umræðum og virtist leggja sérstaka áherzlu á það, en reyndi jafnframt, eins einkennilega og það kom mér fyrir sjónir, að verja Bandaríkin og varnarstefnu þeirra á Atlantshafinu.

Ég benti honum á, að við hefðum áður verið nýlenda erlends ríkis og við ætluðum ekki að verða það aftur, hvort sem það væri bandarískur örn eða sovézkur björn, sem þar ætti hlut að máli.

Hann fullyrti að Rússar mundu aldrei ráðast á Ísland.

Það væri fráleitt að halda, að þeir mundu setja landgöngulið hér á landi, því að slíku liði yrði gjöreytt á augabragði af Bandaríkjamönnum og mundu þeir nota til þess kjarnorkuvopn, ef ekki vildi betur til.

Virtist gera sér grein fyrir því, hvað slíkt mundi geta haft í för með sér.

Það kom mér á óvart, að hann skyldi aldrei tala um, að við ættum að fara úr NATO og ekki heldur að varnarliðið ætti að fara héðan, en talaði aftur á móti um það, hve margir vildu græða á dvöl Bandaríkjamanna hér á landi .

Slíkt gæti verið hættulegt.

Var þetta í raun og veru mjög hlæileg umræða, því um tíma var engu líkara en ég væri að tala við sendiherra Bandaríkjanna!

Ég hef aldei talað svona lengi við sovézkan sendifulltrúa, þar sem hann minntist aldrei einu orði á, að við ættum að fara úr NATO eða varnarliðið ætti að hverfa af landi brott, heldur lagði alla áherzlu á hve nauðsynlegt væri, að jafnvægi héldist á N-Atlantshafinu.

Hann sagði að Rússar hefðu sýnt hug sinn til Íslendinga þegar þeir virtu 200 mílna útfærsluna, enda þótt þeir hefðu ekki þá getað viðurkennt hana.

Aftur á móti minntist hann á Noreg í sambandi við áreiti.

Ég spurði hvort hann ætti við Svalbarða, en hann hristi höfuðið og sagði, að Rússar hefðu engar áhyggjur af Svalbarða, þeir hefðu aftur á móti haft áhyggjur af því, þegar vestur-þýzkir hermenn tók þátt í æfingum Atlantshafsbandalagsins í Noregi ekki alls fyrir löngu.

Það virðist hafa farið fyrir brjóstið á Rússum , sú staðreynd, að Þjóðverjar höfðu komið til Noregs til að taka þátt í þessum æfingum hefði að dómi Rússa sett jafnvægið úr skorðum og þeir hefðu átt mjög erfitt með að þola það.

Ég benti þá á,að Norðmenn hefðu sjálfir haft þýzka ofbeldismenn í styrjöldinni og m.a. bundið fjölmennt herfylki í Noregi, sem annars hefði verið sent til Sovétríkjanna og getað ráðið úrslitum þar, svo að þeir hefðu sjálfir áreiðanlega lítinn áhuga á því að hafa þýzka hermenn í landinu.En enginn þyrfti að hafa áhyggjur af þessu, því að þetta væri einungis liður í vörnum Atlantshafsbandalagsins og það mundi ekki ráða neinum úrslitum til eða frá, hvort einhverjir þýzkir hermenn tækju þátt í slíkum æfingum!!

Ég sæi sem sagt ekki að rússneska heimsveldið þyrfti að hafa allar þessar áhyggjur af því.

Mér skilst þetta sé prinsipmál hjá Rússum og lagði sendiherrann, að því er mér sýndist, verulega áherzlu á það, þó að hann mótmælti ekki fullyrðingum mínum.

En þarna lá sem sagt hundurinn grafinn.

Ég sagði að Íslendingar og Norðmenn væru mjög nánir vinir, Íslendingar væru komnir frá Noregi og skyldleiki þeirra mikill og kvaðst hann vita það og skilja.

Ég sagði Rússar ættu að fara varlega í afstöðu sinni til Norðmanna vegna þess að það gæti valdið óróa hér á landi, ef þeir ögruðu Norðmönnum.

Íslendingar væru afar vinveittir Norðmönnum og fylgdust vel og rækilega með samskiptum Rússa og Norðmanna .Þeir þyrfti ekki að ganga í grafgötur um það með hvorum samúðin væri, heimsveldinu mikla eða þessari litlu þjóð, sem ætti sama uppruna og við, sameiginlega sögu og menningu, a.m.k. framan af öldum .

Hann gerði sér að sjálfsögðu grein fyrir öllu þessu og tók skýringum mínum vel .en þær voru að sjálfsögðu flóknari en hér er rakið.

Við vorum búnir að sitja mjög lengi hjá sendiherranum og ég var alltaf að fara, en þeir vildu að ég heldi áfram samtalinu.

Ég spurði túlkinn, hvort ég væri ekki orðinn ókurteis með þaulsetunni, en hann sagði protokollinn leyfði að ég sæti lengur.

Sendiherrann óskaði þess sérstaklega, því hann langaði til að tala við mig lengur.

Niðurstaðan varð sú, að ég sat hjá þeim til klukkan hálf fimm og þakkaði guði fyrir, þegar yfir lauk.

En allt fór þetta vel og vinsamlega fram og ég verð að segja, að Farafanov sendiherra tali við mann af mikilli skynsemi og yfirvegun og ögrunarlaust.

Satt að segja talar hann stundum þannig, að maður heldur hann hafi verulega samúð með þessari litlu þjóð, Íslendingum, og stöðu hennar í heiminum.

Hann prísaði það oft, hvað við gerðum til að vernda menningu okkar og arfleifð og virtist hafa fylgzt með hvoru tveggja, enda er skeggið skylt hökunni, því að hann talar sænsku reiprennandi og hefur skrifað bók um Svíþjóð, að því er mér skilst.

Ég er ekki frá því, að eitthvað slíkt hafi hvarflað að Farafanov, þegar að því kæmi, að hann tæki sér frí frá störfum, að skrifa kannski einhverja bók eða frásögn um Ísland og dvöl sína hér.

Hann virðist setja sig inn í mjög marga hluti, menningu, bókmenntir o.s.frv., o.s.frv. og talar allt öðru vísi en rússneskir sendiherrar hafa yfirleitt gert, a.m.k. við mig.

Ég held hann hafi í senn áhuga á því að hafa jákvæð áhrif á mann og einnig kynnast annarri hlið á Íslandi en dimpómatar fá að öðru jöfnu.

Hann leggur mikla áherzlu á hvað Ísland er mikilvægt, þó að lítið sé og hvað það sé á mikilvægum stað á landakortinu.

Einhvern tíma í samtali okkar sagði hann, að það væri 24. stærsta ríki veraldar eftir útfærslu í 200 mílur og hefði þannig yfir geysimiklu svæði jarðarinnar að ráða.

Ég sagði honum, að við Íslendingar vildum fyrst og síðast fá að lifa í friði á N-Atlantshafinu og okkur líkaði það bezt við Kínverja, hvað þeir væru langt í burtu!

Hann sagðist hafa heyrt slíkt hið sama í Helsingfors, þar sem einhver hefði sagt, að það væri gott að hafa Kínverja svo langt í burtu og ekki sízt að hafa þá hindrun á milli Finnlands og Kína, sem raun bæri vitni, það væri Sovétríkin - og brosti við þegar hann sagði þetta.

Við töluðum svo fram og aftur um ýmis mál önnur, t.a.m. Stalín, og Farafonov sagði mér merka hluti af honum.

Hann talaði um Stalín hvorki sem ófögnuð né fagnaðarerindi, heldur sem sögulega staðreynd sem liðin væri og enginn þyrfti að hafa áhyggjur af lengur.

Stalín hefði ekki alltaf sézt fyrir, en hann hefði verið leiðtogi Sovétríkjanna í föðurlandsstríðinu svo nefnda, þegar Rússar börðust upp á líf og dauða fyrir frelsi sínu, og ástæðulaust að gleyma því sem hann hefði gert í styrjöldinni.

Stalín hefði verið geysilega vel að sér í rússneskri tungu og nefndi dæmi þess; einhver sérfræðingur hefði verið fenginn til að gera úttekt á stöðunni á vígstöðvunum, hann gekk á fund Stalíns og sýndi honum niðurstöðurnar.

Stalín spurði hvaðan hann hefði fengið þessar upplýsingar.

Hann sagðist hafa fengið þær úr skeytum frá Stalín sjálfum og öðrum upplýsingum frá vígstöðvunum, svo og ýmsum öðrum heimildum.

Stalín sagði það væri gott og gilt og lýsti því yfir að hann teldi að greining hans væri í höfuðatriðum rétt, en bætti við, að hitt væri heldur dapurlegt, hvað margar stílvillur væru í henni og a.m.k. 30 málfræðivillur !

Sérfræðingurinn varð auðvitað mjög leiður yfir þessu en sagði Stalín, að hann hefði látið akademínuna í sovézkri tungu fara yfir skjalið, áður en hann fékk það í hendur !

Farafonov sagði að Stalín hefði haft yfir geysilegum orðaforða að ráða og hefði farið mjög vel með rússneska tungu, það væri staðreynd.

Hann sagði, að gerð hefði verið úttekt á stíl margra merkra Rússa og hefði úrvinnslan verið skráð í tölvum.

Þá hefði komið í ljós, að Lenín hefði haft gífurlegt vald á tungunni og það væri engin tilviljun, hvað hann hefði haft mikil áhrif með öllum sínum skrifum.

Tölvuúrvinnsla hefði sýnt, að hann hefði haft yfir að ráða 25.000 orðum.

Næstur kom Tsjekoff með eitthvað innan við 20.000 orð og síðan önnur séní eins og Tolstoj, Putskin og fleiri slíkir.

Í þessu rabbi okkar talaði sendiherrann um hið mikla bókmenntastarf Íslendinga og fjallaði um mikilvægi íslenzkrar menningar og þá ekki sízt með tilliti til þeirrar ritlistar, sem ávallt hefði verið eitt af höfuðeinkennum okkar.

Hann sagði, að vel menntaður Rússi hefði einungis yfir að ráða, ef ég man rétt, 3.-4000 rússneskum orðum og aðrir færri.

Dæmin sem nefnd eru að framan sýni, að það voru engir meðaljónar sem hugsuðu á rússneska tungu.

Í þessu rabbi okkar töluðum við einnig meira um náttúruna en við höfðum gert áður og ég sagði honum frá Þórbergi Þórðarsyni, sem ég hefði átt samtöl við og skrifaði um bók, hann hefði talið sig eina almennilega kommúnistann í heiminum, því að hann hefði spurt með díalektískum hætti:

Er til framhaldslíf?

Og svarað sjálfum sér:

Ég veit það ekki.

En þeir í Moskvu hefðu aftur á móti sagt:

Er til framhaldslíf?

Nei, það er ekki til !

Og Þórbergur hefði lýst því yfir, að það væri andstætt kommúnístiskri dílalektík að svara því neitandi, sem maður vissi ekki.

Sendiherranum þótti þetta merkilegt, en það var augsýnilegt, að hann þekkti ekki Þórberg.

Og þegar ég sagði honum, að Þórbergur hefði haft áhrif á Halldór Laxness, varð hann hissa, en fór góðum orðum um Halldór og sagði, að sér þætti gaman að tala við hann.

Þegar hér var komið sögu og augljóst að heimsóknin var að renna skeið sitt á enda, sagði sendiherrann allt í einu:

Getið þér sagt mér, hvernig þér álítið að unnt sé að bæta ástandið í Norður-Atlantshafinu og þá ekki síður sambúð Íslands og Sovétríkjanna þó að hún sé góð?

Ég svaraði:

Aðalatriðið er að skapa trúnaðartraust.

Hann sagði:

Hvernig á að auka þetta trúnaðartraust?

Ég sagði þeir hefðu alltaf verið að færa sig upp á skaftið, flytja sovézka flotann nær Íslandi, senda flugvélar yfir Ísland, umkringja landið með kafbátum og feta sig sunnar á hafið. Íslendingum fyndist þetta áreiti, því að þeir vildu fá að vera í friði á sínu hafi.

Fyrsta skrefið væri að sannfæra Íslendinga um, að þeir mundu fjarlægja vígvélar sínar og þá skapaðist betra ástand.

Kannski væri hægt að koma því til leiðar að Atlantshafið yrði friðað með einhverjum sérstökum hætti í framtíðinni, en það mundi þá vera á valdi Rússa að sannfæra menn um að þeir vildu að svo yrði.

Hann hlustaði vel á þessa framtíðarsýn og gerði ekki við hana neina athugasemd.

Ég sagði enginn mundi gera árás á Sovétríkin frá Íslandi, engin þjóð hefði leyfi til þess að nota Ísland sem árásarstöð, hér væri einungis varnar- og eftirlitsstöð.

Ég skyldi lofa honum einu, þótt ég hefði lítil völd, að Íslendingar ættu aldrei eftir að gera innrás í Sovétríkin!

Að sjálfsögðu brosti hann við þessari síðustu athugasemd, en það kom mér á óvart þegar hann sagði, að hann hefði tækifæri til þess að koma skoðunum mínum á framfæri við ráðamenn í Moskvu, hvernig unnt væri að skapa það trúnaðartraust milli okkar og þeirra sem ég minntist á.

Í þessum kafla samtals okkar lagði sendiherrann höfuðáherzlu á, að ekki mætti raska jafnvæginu á N-Atlatnshafi með nokkru móti, en neitaði því ekki, að slíkt jafnvægi gæti haldizt, þó að Sovétflotinn færði sig norður í höf.

Ég sagði sumt í samskiptum þjóðanna væri merki um vináttu og lagði áherzlu á, að sovézka þjóðin sem slík nyti bæði vináttu Íslendinga og virðingar.

Ég minnti á, að lokaafstaða Sovétstjórnarinnar í sambandi við Ashkenazy málið hefði farið vel í Íslendinga og ætti áreiðanlega þátt í því að auka á hlýhug í garð Sovétríkjanan og margvísleg önnur samskipti væru þar einnig áreiðanlega þung á metum, t.a.m. viðskiptasambönd landanna, enda þótt við stæðum þar dálítið höllum fæti, eins og nú væri háttað málum.

Sagan hefði sýnt, að marxísk bylting yrði ekki í löndum, þar sem áður hefði verið gerð bylting eða byltingar gegn lénsskiptulagi í kjölfar stjórnarbyltingarinnar frönsku 1789.

Þetta hefði sýnt sig í V-Evrópu og t.a.m. í velferðarríkjum Skandinavíu, þar sem jarðvegur fyrir kommúnisma hefði ekki verið sá sami og þar sem lénsskipulag hefði ríkt, t.a.m. í Sovétríkjunum, þar sem rússneska byltingin hefði í raun og veru komið í staðin fyrir byltingu borgaranna, en þangað náðu áhrif frönsku stjórnarbyltingarinnar helzt ekki, né til margra annarra landa, t.a.m. Kína, enda segði Mao á einum stað í ritum sínum, að sá maður væri fífl, sem teldi að það hefði ekki verið lénsskipulag í Kína, þegar maoistarnir tóku þar völd.

Sendiherran sagði þetta mætti svo sem til sanns vegar færa, en aftur á móti hefði rússneksa byltingin og marxistískar byltingar gengið mun lengra en byltingar borgaranna 1789. Hann sagði, að kommúnistar teldu að Hegel væri afi marxismans eins og hann kallaði það, upphafsmenn marxismans hefðu sótt margar og mikilvægar hugmyndir til hans og minntist í því sambandi á kenningar hans um ríkið eins og þá einu sönnu veru eða anda, Der Geist.

En það var jafnframt merkilegt að heyra hann vitna í Hegel til að skýra Kínverja og afstöðu þeirra til annarra landa.

Hann sagði Kínverjar væru haldnir þjóðernishyggju og útlendingahatri vegna þess hversu lengi þeir hefðu verið undir erlendum járnhæl, ekki síður en Íslendingar.

Menning þeirra og saga væri mjög merk, þeir hefðu fundið margt upp, áður en siðmenning hefði hafizt í öðrum löndum og þeir byggju að þessu enn.

Aftur á móti væri að finna rétta lýsingu á Kínverjum í ritum Hegels, en ég man ekki í svipinn, hver þessi lýsing var, það má sjálfsagt finna hana í verkum hans.

Ég held þessi lýsing Hegels standi eitthvað í sambandi við það stolt, sem maður verður var við hjá Kínverjum og hve stórum augum þeir líta á sjálfa sig, en á aðrar þjóðir af mikilli varúð.

Það er ekki undarlegt, þótt þeim þjóðum hafi ekki farnazt vel, sem hafa átt annan eins bullukoll fyrir afa og þennan óskiljanlega fulltrúa prússnesks almættis.

Hitt er aftur á móti rétt og raunar athyglisvert, að eitt af því fáa, sem Hegel sá fyrir var uppgangur Bandaríkjanna og lýsir hann því rækilega, að þau verði eitt af stórveldum framtíðarinnar.

Ég hef aldrei borið virðingu fyrir Helgel nema fyrir þessa skörpu sýn inn í hið ókunna.

Kannski hafði hann ýmislegt á tilfinningunni, sem samtíðarmenn hans skorti án þess hann gæti komið orðum að því í allri sinni háspekilegu hugsanavímu og óskiljanlega tali um andann í ríkinu.

Það er svo annað mál, að hann sagði sumt rétt um firringuna og díalektíkin er ekki svo vitlaus, ef hún er notuð með öðrum hætti en Hegel sjálfur, svo ekki sé nú talað um arftaka hans, sem gefa sér svörin áður en þeir spyrja.

En þó verð ég að viðurkenna, að ég stóð Farafonov ,sendiherra, ekki að því að beita díalektík með þeim hætti í okkar langa samtali.

Hann er í raun og veru fyrsti fulltrúi Sovétríkjanna hér á landi sem ég hef talað við, sem hefur ekki beitt fullyrðingasömum hegelskum hroka eða marxistískri fyrirlitningu á því, sem er honum öndvert, andstætt eða beinlínis pólitískt óvinveitt .

Eins og ritstjóri Morgunblaðsins hlýtur að vera í augum hans.