Árið 1979

.

18. janúar 1979

Hafði um það forystu að við sendum Opið bréf til allra dagblaða með ósk um birtingu 20. janúar nk.

Í bréfi til ritstjóranna er þess getið að Opna bréfið sé skrifað af gefnu tilefni og undir það rita Davíð Oddsson fyrrv. form. framkvæmdastj. Listahátíðar, Guðmundur Daníelsson, form. Fél. ísl. rithöfunda, Indriði G. Þorsteinsson, fyrrv. form. Fél. ísl. rithöfunda og Rithöfundaráðs Íslands, Jónas Guðmundsson, fyrrv. form. Fél. ísl. rithöfunda og Matthías Johannessen fyrrv. form. Fél. ísl. rithöfunda, Rithöfundasambands Íslands og Rithöfundaráðs Íslands.

Í þessu opna bréfi segjum við:

“Við undirritaðir félagar í Rithöfundasambandi Íslands, höfum fengið bréf með svofelldri kveðju: “Vonumst til þess að heyra frá þér sem allra fyrst.

Með vinsemd og virðingu,

Samtök herstöðvaandstæðinga.”

Í bréfinu erum við ávarpaðir “Kæri félagi” og er bréfið undirritað af sjö starfsbræðrum okkar í Rithöfundasamtökunum.

Síðan lýsum við því yfir að við eigum samleið með þessum “félögum” okkar í faglegri baráttu íslenzkra rithöfunda í Rithöfundasambandi Íslands og styðjum af alhug það markmið samtakanna að efla rithöfunda til að bæta afstöðu þeirra í hvítvetna”, en mótmælum því jafnframt harðlega að við séum ávarpaðir, eins og við ættum aðild að Samtökum hernámsandstæðinga, og skiljum ekki, hvernig fyrr nefndum sjö starfsbræðrum okkar í Rithöfundasambandi Íslands, dettur í hug að gera okkur að einskonar taglhnýtingum þessara umdeildu samtaka.

Í bréfinu er þess farið á leit við okkur, að við leggjum fram skerf okkar til auglýsingamessu herstöðvaandstæðinga vegna 30 ára afmælis aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu, en eins og komizt er að orði í bréfinu:

“Nú viljum við, kæri félagi, fara þess á leit við þig, að þú leggir hönd á plóginn...

Síðan er sagt í lokin, að áríðandi sé, að “þátttakendur láti heyra frá sér sem fyrst”.

“Til að verða við þessari síðast nefndu áskorun höfum við ritað nöfn okkar undir yfirlýsingu þessa.

Að vísu teljum við að allir aðrir en herstöðvaandstæðingar ættu að halda upp á 30 ára afmæli aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu, enda hafa samtökin ávallt barizt hatrammlega gegn henni og núverandi skipan öryggismála landsins í samstarfi við vestrænar lýðræðisþjóðir, þ.ám. tvær Norðurlandaþjóðir.

Að sjálfsögðu erum við andstæðir heimsvaldastefnu og stríðsrekstri, en teljum að öryggissamstarf lýðræðisþjóðanna í Evrópu hafi orðið til þess að hefta útbreiðslu heimsvaldastefnu í álfunni, án þess að til átaka eða styrjalda hafi komið.

Sovétríkin hafa framkvæmt heimsvaldastefnu sína af meira kappi en nokkru sinni – og þá ekki sízt á norðanverðu Atlantshafi eins og alkunna er.

Við skorum á íslenzku þjóðina að vera vel á verði og gefa þessari útþenslustefnu gaum.

Atlantshafsbandalagið var stofnað eftir valdarán í Tékkóslóvakíu og víðar og varnarliðið kom hingað með samþykki mikils meirihluta Alþingis Íslendinga vegna ófriðarástands í heiminum. Hætta á styrjöld er því miður enn geigvænleg og því teljum við, að nauðsynlegt sé að vestrænar þjóðir slaki ekki á vörnum sínum, heldur efli öryggi sitt með nánu samstarfi eins og verið hefur.

En vonandi er núverandi hættuástand tímabundið.

Vonumst við til þess með “félögum” okkar í Rithöfundasambandi Íslands, að sá tími komi sem fyrst, að varnarliðið geti farið úr landi án þess, að öryggi Íslands væri þar með teflt í tvísýnu.

Sú stund er að okkar mati því miður ekki upp runnin.

Við lýsum yfir stuðningi við aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, og teljum að söguleg þróun hafi sýnt, að hún hafi verið rétt ákvörðun á sínum tíma. Auk þess sem við teljum, að dvöl varnarliðsins á Íslandi nú sé “söguleg” nauðsyn, meðan svo ófriðlega horfir sem raun ber vitni.

Við styðjum því stefnu núverandi ríkisstjórnar í öryggis- og utanríkismálum, en hún er einnig stefna stjórnarandstöðunnar, eins og kunnugt er.

Við skorum á listamenn í landinu að standa vörð um öryggi Íslands og sjálfstæði.

Með fullri virðingu fyrir pólitískum skoðunum “félaga” okkar í Rithöfundasambandi Íslands og sjálfsákvörðunarrétti þeirra, óskum við þess, að þeir unni okkur hins sama og hvetji einnig skoðanabræður sína til þess að leyfa okkur í friði og án þrýstings að ákveða, hvaða samtökum við fylgjum.

En um það eigum við ekki við aðra en sannfæringu okkar og samvizku.

Við sendum kúguðum starfsbræðrum okkar, rithöfundum í fangelsum, geðveikrahælum og þrælabúðum, baráttukveðjur og heitum á alla góða Íslendinga að leiða hugann að örlögum þeirra og allra annarra sem hafa orðið ófrelsi og einræði að bráð.”

Ég er mjög ánægður með þetta bréf. Þar fer ekkert á milli mála. Framtíðin á eftir að staðfesta að innihald þess er rétt og við verðum að sýna árvekni og þrautseigju. Kannski eigum við eftir að lifa hrun heimskommúnismans, kannski ekki; hver veit?

Held það þó.

Ég tel þá afstöðu eina sem í bréfinu felst sæmandi fyrir íslenzkan rithöfund sem ann frelsi og vill berjast gegn kúgun og ofbeldi.

Heimskommúnisminn er andstæður íslenzku eðli, hvað sem hver segir og tíminn á eftir að leiða það í ljós.

Stalín vildi að Ísland yrði einhvers konar fanganýlenda.

Ég ætla að minnsta kosti ekki að hafa það á samvizkunni að draumar hans geti rætzt hér heima.

Ísland skal aldrei verða gúlag.

.

Maí 1979 – Fyrir landsfund

Albert Guðmundsson hefur skýrt Ingólfi Jónssyni frá því að hann ætli að bjóða sig fram í formannssæti gegn Geir Hallgrímssyni því hann hefði neitað öllum sáttum eins og Albert komst að orði.

Þetta segir Ingólfur Jónsson mér.

Albert segist reiður við Geir Hallgrímsson af ýmsum ástæðum, ekki sízt vegna þess hann hafi umsvifalaust hafnað því á sínum tíma að Albert yrði varaformaður, en Gunnar hyrfi úr því embætti.

Ég sagði Ingólfi að þetta væri rangt.

Þegar Geir spurði Gunnar Thoroddsen hvort hann gæfi kost á sér sem varaformaður, svaraði Gunnar engu og sagði Geir okkur það samstundis.

Albert kom ekki til tals á þeim fundi.

Ingólfur segist sjálfur ætla að ganga úr skugga um, hvort rétt sé eða ekki.

Hann hefur alltaf einhverja fyrirvara á Geir eftir að þingflokkurinn hafnaði honum á sínum tíma, en hann mátti sjálfum sér um kenna og það hef ég sagt honum.

Hann ætlaði inn í stjórnina á silfurbakka og án þess beita neinum þrýstingi.

Það væri fyrir neðan virðingu hans, eins og hann sagði þá við mig.

En slíkt dugar ekki í stjórnmálum.

Atkvæði eru mikilvægari en virðing á þeim vígstöðvum.

Þegar við töluðum um þetta á sínum tíma, spurði Ingólfur, Hefði þá verið betra að ég hefði fellt Gunnar Thoroddsen?! Hefði samkomulagið í flokknum orðið skaplegra?!

Ég er hræddur um ekki,bætti hann við

Og það er vissulega sjónarmið.

En ekki var það Geir að kenna að þú féllst, sagði ég. Og það er alrangt að Gunnar hafi boðizt til að standa upp fyrir Albert.

Ingólfur mun standa með Geir þegar hann fær að vita að hann hefur verið hafður að ginningarfífli.

Ég vil ekki láta draga mig inn í svona mál, segir hann, ég er kominn með annan fótinn út úr þessu þrasi.

En hann hefur áhyggjur af flokknum, það er annað mál.

Ég hef átt ágætt samtal við Gunnar Thoroddsen. Hann segir að við viljum vita allt um samstarf og samtöl þeirra Geirs Hallgrímssonar, en svo þegar það sé gert, standi menn á öndinni af hneysklun.

Hann hefur áður minnzt á þetta við mig.

Ég sagði honum að svona sé þetta einnig í blaðamennsku. Allir krefðust frjálsrar blaðamennsku sem væri tízkuorðið nú um stundir, en kveinkuðu sér svo, ef hún væri þeim ekki að skapi.

Allir vildu frjálsa blaðamennsku fyrir sig en ófrjálsa fyrir aðra.

Gunnar Thoroddsen samsinnti þessu.

Hann segist ætla að eyða ágreiningnum og efla einhug í flokknum.

Ég hef trú á því að Geir fari nú aftur að eflast. Hann hefur sterkt fylgi á bak við sig og á að geta stjórnað flokknum af festu og öryggi að landsfundi loknum.

En uppgjör er óhjákvæmilegt.

Það er einn helzti þátturinn í skemmtanalífinu á þeim glæddu glóðum.

.

Miður júlí 1979

Fékk bréf frá Heinz Barüske þar sem hann segir mér frá íslenzkri og færeyskri bókmenntaviku í Vestur-Berlín næsta sumar.

Íslenzkir þátttakendur eiga að vera Ólafur Jóhann Sigurðsson, Hannes Pétursson, Guðbergur Bergsson, Nína Björk og ég.

Hef hug á að taka þessu boði.

Þjóðverjar hafa meiri áhuga á Íslandi en aðrir. Það getur verið ævintýri að lesa upp í Berlín.

 

 

 

.