Árið 1981
18. febrúar 1981
Skrifaði allharða grein sem andsvar við skrifum Þórarins Þórarinssonar,Tímaritstjóra, um menningarbaráttu Morgunblaðsins og líkti þeim við “hernað” Don Kíkóta.
Grein mín birtist í Morgunblaðinu ,þar segir m.a.:
Harla undarleg – og raunar óskiljanleg skrif hafa birzt í Tímanum á þeirri ístíð, sem af er þessu ári. Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri blaðsins frá kreppuárunum, hefur verið að ymta að því, að Morgunblaðið hafi gert eitthvert bandalag við Þjóðviljamenn, ekki sízt í menningarmálum, og við ritstjórarnir þannig orðnir aðilar að marxistísku samsæri í landinu. Þetta hafa náttúrlega verið miklar fréttir fyrir okkur og við höfum reynt að benda á, að þeir, sem nú eiga samstarf við kommúnista bæði í ríkisstjórn og borgarstjórn Reykjavíkur, hljóti fremur að teljast til samsærismanna en við, a.m.k. ef horft er á málið með gleraugum raunsæis, en ekki brenglaðrar óskhyggju, svo að ekki sé nú talað um þau hornspangargleraugu, sem Þórarinn setti upp til að lagfæra pólitíska sjónskekkju fyrir hálfri öld og hann er enn með á nefinu, þótt hann hafi fyrir löngu misst þá litlu sjón, sem honum var gefin að þessu leyti.
Nú síðast, eða sl. laugardag, skrifar Þórarinn Þórarinsson forystugrein í blað sitt “Barðir til ásta” og er hún persónuleg árás á mig – bæði undir rós og fyrir neðan belti. Ég ætla ekki að eltast sérstaklega við það, sem þar stendur, svo fáránlegt sem það er. En það er óneitanlega athyglisvert að kynnast vinnubrögðum Þórarins frá gömlu, góðu ofsóknardögunum, þegar andstæðingarnir voru tættir sundur með aðferðum, sem ég hélt satt að segja væru liðin saga í íslenzkri blaðamennsku.
En svo lengi lærir, sem lifir.
Og hver veit nema Þórarinn sé genginn í pólitískan barndóm, það er engu líkara. Sízt af öllu átti ég von á, að hann færi að gera mér upp lítilmennsku og margvíslegar ávirðingar aðrar í forystugreinum sínum, enn síður að hann færi að telja lesendum sínum trú um slíkar ávirðingar, þegar hann trúir þeim ekki sjálfur, en þarf samt af einhverjum ástæðum á þeim að halda í pólitísku ströggli sínu – og þá svífst hann einskis.
Eða hver trúir því, að kommúnistar hafi barið mig til ásta vegna óláta út af einu leikriti eftir mig fyrir mörgum árum?
Ég hef skrifað önnur leikrit, sem lítil eða engin læti hafa orðið út af og tel rétt að láta öðrum eftir leikhúsin í bili.
Þar er löng biðröð.
Eða hver trúir því, að ég hafi orðið svo hræddur við marxistana, að ég hafi nánast hætt að skrifa?
Nei, ég skrifa það, sem mér sýnist og hef t.a.m. aldrei gengið frá hálfköruðu verki eins og þegar Þórarinn fór að skrifa sögu Framsóknarflokksins, en fórnaði höndum og forðaði sér í miðjum klíðum, þegar kom að klofningnum kringum Þjóðstjórnarárin.
Mér líkar saga Þórarins nokkuð vel, þó að hún hafi alla kosti hlutdrægrar sagnaritunar, og sakna þess, að hann skyldi ekki manna sig upp og ljúka verkinu. Þórarinn hefði þó getað gert efninu góð skil eftir klofninginn í Framsóknarflokknum, því að hann var í báðum herbúðum, eins og kunnugt er, og verður það að teljast þó nokkur kostur.
Snorri hefði ekki fúlsað við slíkri aðstöðu.
Ef rétt væri það, sem Þórarinn Þórarinsson segir um meintar ástir mínar og marxista, gæti ég ímyndað mér, að kærustuparinu liði eins og stúlkunum í Birtingi Voltaires, sem lögðu ást á apa. Svo að ekki sé nú talað um það, hvernig öpunum hefur liðið!
Ég hef aldrei kippt mér upp við það, sem Þjóðviljamenn eða aðrir marxistar hafa sagt um bækur mínar eða sjálfan mig, enda væri ég áreiðanlega við önnur störf ef svo væri; t.d. ritstjóri Tímans.
Hitt er annað mál, að ég er þakklátur Þórarni fyrir áhyggjur af leikritum mínum.
En ég hef engar slíkar áhyggjur.
Það eru gömul sannindi, að ekki koma allir dagar í böggli, og terrorinn í Klippt og skorið í Þjóðviljanum, og kjaftagangi marxistanna verður ekki síðasta orðið, meðan til eru menn á borð við Lech Walesa. Ég vil svo nota tækifærið hér til að lýsa yfir því, að ég á í engu samstarfi við marxista, hvorki í Rithöfundasambandi Íslands né annars staðar, og ef nafn mitt er notað af slíku fólki, er það á bak við mig og gegn betri vitund.
Ég hef einungis kappkostað að koma á friði í Rithöfundasambandi Íslands, en þó með því skilyrði að sjálfsögðu, að sú “friðsamlega sambúð”, sem þar ríkir, verði ekki misnotuð.
Aftur á móti veit ég, að Þórarinn Tímaritstjóri hirðir hvorki um frið né ófrið á þeim bæ og skrif hans um það eru eins og hver önnur látalæti í ætt við listpólitík Tímans frá Þorgeirsbolatímabilinu, en fyrirmyndin þá var sótt til Sovétríkjanna.
Ég hef ekki og mun aldrei taka þátt í slíkum draugagangi af mannavöldum.
Það geta aðrir dregið á eftir sér nautshúðina.
Ég mun ekki taka þátt í því að vernda lýðræðið með ólýðræðislegum aðferðum.
Okkur hefur verið kennt, að maður sé manns gaman og þannig hef ég litið á umhverfi mitt og blæs á pólitískar skoðanir manna, þegar verk þeirra og viðmót eru annars vegar. Þannig hef ég eignazt marga marxista að málskrafsmönnum og met verk þeirra að verðleikum og án hjálpar þeirrar pólitísku mælistiku, sem nú er í tízku, ekki sízt í skrifum þeirra sjálfra um andstæðingana.
Listrænt viðhorf er mér meira virði en pólitísk skammtímasjónarmið.
En hitt veit ég líka, að því miður er ekki hægt að ætlast til þess, að marxistar hafi önnur sjónarmið í listum en úreltar nytsemiskenningar og geta því varla séð andstæðinga sína nema sem hluta af þeirri fyrirlitlegu, rotnandi borgarastétt, sem þeir telja nánast réttdræpa hvar sem er – þó ekki hér á landi enn sem komið er, því að enginn nýtur þess betur en þeir nú um stundir að baða sig í pólitískri sól þessarar sömu borgarastéttar. Þeir hafa hlotið þau vafasömu forréttindi að verða yfirstétt í “stéttaþjóðfélagi”, sem þeir segjast vilja feigt.
Það mun vera einsdæmi í veraldarsögunni....
II
Í bók, sem fjallar öðrum þræði um Þórarin Þórarinsson, The Captive Mind eftir nóbelsskáldið pólska Milosz, segir skáldið, að unnt sé að fyrirgefa kommúnistum mælskukjaftæðið, ef það er nauðsynlegt í áróðrinum. En það sé ófyrirgefanlegt, þegar þeir trúi því, sem þeir segi í nafni “hins heilaga” málstaðar.
Þetta er auðvitað sagt um kommúnista og möppudýr þeirra, en Þórarinn hefur gert sig sekan um svipaða kórvillu.
Það er engu líkara en hann trúi því stundum, sem hann er að þrasa um stjórnmál. Og það eru einhver ömurlegustu örlög framsóknarmanns úr kreppunni. ...
Í annarri bók, sem minnir óþyrmilega á Þórarin Tímaritstjóra, Don Kíkóti, segir að hvers manns hús sé kastali hans. En fyrst bókin fjallar um Þórarin hefði farið betur á því að segja, að hvers manns glerhús sé sandkastali hans.
Ég vona þessi litla athugasemd komist alla leið til Cervantes.
Höfuðpersóna þessarar bókar drekkur fulla könnu af vatni til að kæla hugaróra sína “og kemur þá til sjálfs sín”.
Ég er hræddur um að Þórarinn Þórarinsson hafi gleymt að drekka úr töfrakönnunni góðu upp á síðkastið. “Hann hefur komizt það langt að sinni eigin sögn að drepa ekki færri en fjóra risa á stærð við kirkjuturna.”
Betri lýsing á Þórarni er ekki til, því að þessir risar eru vindmyllur með langa arma “útrétta til að hindra för þeirra”.
Já, og nú er ég allt í einu orðinn að slíkri vindmyllu, blásaklaus og allsóverður, og það fer hrollur um Þórarin hvert sinn, sem hann hugsar um þennan voðalega risa,....
Og samt erum við Þórarinn mestu mátar og konur okkar ekki síður!
2. ágúst 1981
Fékk þetta bréf í dag:
Kæri Matthías,
ég bið þig innvirðulega fyrirgefa þennan klaufaskap í samsetningu Skálholtsgreinar minnar, sem ég uppgötvaði fyrir nokkrum dögum þegar ég var að tína saman nýa ritgerðabók.
Hjartans þakkir fyrir sálubótarljóð sem ná tilgángi sínum. Ljóð þín létu mig fara að leita viðmiðana í enskri hefð fremur en franskri og þýskri, en minna mig hvergi á Skandinavíu sem betur fer. Það er lífsspursmál að skrifa ekki né yrkja einsog skandinavar, sem ekki eignuðust bókmentir fyren á nítjándu öld.
Bestu kveðjur, þinn Halldór.
Þetta hlýja viðmót Halldórs Laxness hefur verið mér í senn uppörvun og hljóðlát gleði.
Ungur leit ég upp til stórskáldanna, fullorðinn sit ég þögull andspænis snillingum.
Mundi Halldór ekki skipa öndvegið í hópi endurreisnarsnillinganna íslenzku á 20. öld?
Fremstur meðal jafningja.
Líklega erum við öll tveir menn og Halldór er ævinlega reiðubúinn að ýta heldur undir betri helminginn.
Hér er hann að tala um Tveggja bakka veður.
Þetta hefur ávallt verið viðmót hans í minn garð. Vona ég hafi unnið til þess.
Nóvember 1981 - ódagssett
Fékk bréf frá Jóni vini mínum á Fjalli á Skeiðum. Þykir vænt um það enda er Jón fræðimaður góður.
Ég neita því ekki að hégómi minn stöðvaðist við þessar línur: “Það er fljótsagt að mér finnst bókin hin merkilegasta. Mig undrar á hvað þú hefur verið mikill eljumaður við öflun heimilda. Ég sé að þú grunnmúrar bókina í heimildum, og þeirra hefur þú leitað víða.
Held að bókin verði talin Ólafi veglegur minnisvarði og þér sem rithöfundi mjög til sóma.
Margar af minningabókum, sem komið hafa út á seinni árum hafa verið heldur óvandaðar. Þarf ekki að fara lengra en til ævisögu Steingríms Steinþórssonar. Hún hefði verið betur óútgefin því hún fer heldur leiðinlega með karlinn.
Þó er víst að úr henni var búið að taka það versta.
Hann gaf Búnaðarfélaginu handritið en þeim, sem um það mál fjölluðum, fannst að best væri að bókin kæmi aldrei út.
Þessu vildi fjölskyldan ekki una og fékk handritið til baka.
En það verður að gera skarpan greinarmun á sjálfsævisögu, sem skrifuð er á gamalsaldri og ævisögu, sem skrifuð er um látinn mann þar sem stuðst er við bestu fáanlegar heimildir, og þær notaðar á heiðarlegan hátt.
Ég held að saga Ólafs (Thors) sé besta ævisaga sem hér hefur komið út, þetta er ekki nein hræsni við þig. Ég tel mig þaulkunnugan öllum íslenskum ævisögum sem út hafa komið.
Það er sýnilegt að þeir eru örfáir íslensku stjórnmálamennirnir sem standa undir því að hægt væri að fjalla um þá á sama hátt og þú hefur fjallað um Ólaf. Mér finnst að Ólafur rísi við meðferð þína.
Þú hefur getað blandað saman á listrænan hátt bæði gamni og alvöru. Mér finnst kaflinn í I. bindi á bls. 249 þar sem segir frá samskiptum þeirra Ólafs og Ásgeirs (Ásgeirssonar) með því besta í bókinni. Þar kemur fram hinn raunsæi og praktíski alvörumaður og að hinu leytinu maður, sem fyrst og fremst sækist eftir hinum ytri táknum.
Það var ekki allt vitleysa þegar Jónas ( á Hriflu) var að skamma hann (Á. Á.), enda er sagt að kjöftugum ratist oft satt á munn.
Ólafur hefur áreiðanlega reiknað dæmið rétt þegar hann stuðlar að því eða beinlínis gerir Ásgeir að forseta Alþingis 1930.
Held að ekki sé vafamál að vægt sé til orða tekið að Jónas hafi verið skapbrestamaður.
Hjá Héðni (Valdimarssyni)kemur fram sami skapofsinn.
Hann er búinn að ganga svo fram af flokksmönnum sínum að hann á ekki traust þeirra þegar Jón Baldvinsson fellur frá til þess að vera formaður.
Jafnvel töldu margir að átökin við Héðin í flokknum hefðu orðið Jóni um megn.
Mér finnst einhvern veginn að Kveldúlfsmálið hafi í raun orðið örlagavaldur í hinu pólitíska lífi Héðins. Í þeim átökum hefur hann reynt meira á samstarfið við flokksbræður sína en hæfilegt var.
Vel getur verið að Héðinn sjálfur hafi tæpast komið jafn góður út úr þeim gráa leik.
Samstarf hans við kommúnista er vart skýranlegt á annan veg. Þar var hann aðeins verkfæri. Þessa menn átti hann að þekkja. Ef við lítum á hina hatrömmu baráttu í pólitíkinni á þriðja og fjórða áratugnum þá er hægt að rekja upphafið til Jónasar.
Það er hann sem kemur með hina miklu hörku inn í málin og aðrir verða óbeinlínis að laga sínar bardagaaðferðir eftir því.
Það er dálítið einkennilegt að það er eins og þeir sem hættu sér í mest návígi við Ólaf virðast ekki hafa verið jafngóðir eftir, samanber Jónas og Héðin.
Ekki virðast málefni Vilmundar Gylfasonar) hafa verið af hinu góða sprottin.
Kristján Albertsson reið á vaðið með ævisöguriti í þessum anda og Jón Guðnason um Skúla Thoroddsen. Þeir steyta á því skeri, sem þú hefur siglt framhjá, að gefa of lítinn gaum að skoðunum andstæðinganna.
Er ekki Vilmundur núna að feta í slóð Héðins og Vilmundar afa síns (Jónssonar,landlæknis)?
Mér kæmi það ekki á óvart þó að mikil sala yrði í þessari bók, hún kemur svo víða við og það, sem mest er um vert að þú beitir alveg nýrri tækni við gerð bókarinnar. Að minnsta kostir virðast sagnfræðingar, sem um stjórnmál hafa skrifað, ekki hafa tileinkað sér þau vinnubrögð að leiða ólíkar skoðanir fram, ef þær passa ekki þeirra pólitíska hugarfari...”
Þetta er rödd úr sveitinni; það er allt og sumt.
15. nóvember 1981
Fékk í dag bréf frá J.V. Hafstein,formanni sem var í MA-kvartettinum á sínum tíma.
Hann þakkar fyrir bækurnar um Ólaf Thors. “Ekkert er hægt að segja “nógu gott” um Ólaf Thors – að mínu mati. En þú hefur unnið stórvirki með bókunum þínum um þennan mikla og stóra “leiðtoga” okkar.
Að venju var ég árla dags á ferð þann “gráa” gamlársdag, er andlát Ólafs barst mér. Ég lagði leið mína “niður að höfn” til “að gráta þar um stund í hljóði – einsamall”. Mér fannst sorgin svo sár og þung – og finnst það raunar enn.
Eftir þá einverustund, sendi ég Ingibjörgu – elskulegri konu Ólafs – þessa kveðju:
“Gamlársdagur, með gust í æðum,
gráhvít Esja, með hélu á kinn,
landið grætur í hvíta klæðum
og kveður nú bezta drenginn sinn.
Ólafur Thors af hæstum hæðum
horfir nú skyggn yfir leikvanginn.”
Ingibjörg sendi mér gullsniðið þakkarkort, sem ég geymi sem dýrgrip vegna þeirra orða sem á því standa.
Þegar ég las á bók þinni um Ólaf I hefti aftarlega það, sem Kjarval sagði við Gylfa – hvort hann hefði tekið eftir því, að “náttúran viknaði í morgun” – ákvað ég að senda þér þessar línur.
Sjálfum finnst mér þetta afar merkileg vitneskja eftir öll þessi ár. Fyrirgefðu – en svona er ég, afar “sencetive og impulsive”.
Þeir pabbi og Jakob voru miklir mátar. Jakob var í ÍR-klíkunni og varð formaður ÍR, ekki sízt fyrir orð föður míns og að ég held Sigurpáls Jónssonar,föður Björns Vignis, blaðamanns.
Það er merkilegt í aðra röndina að hafa verið alinn upp af ÍR-klíkunni. Hún hefur líklega haft meiri áhrif á lífsviðhorf mitt en mig grunar sjálfan.
Hún ól mig upp í íþróttaanda. Að því leyti er ég ekki síður spartverji en alþeningur.
Pabbi hefði víst viljað að ég yrði afreksmaður í íþróttum. Það varð ég aldrei. Hljóp að vísu stundum fyrir ÍR, einkum boðhlaup, það var allt og sumt. Og stundaði svo auðvitað leikfimi hjá Baldri Kristjónssyni og Davíð Sigurðssyni,síðar bílasala.
Það var gott umhverfi.
Og þar ríkti andrúm sem hefur ávallt loðað við mig þótt ég hafi ekki orðið afreksmaður í íþróttum.
Ég held aftur á móti að pabbi hafi ekki haft neinn áhuga á því að ég yrði skáld; þau eru óhamingjusöm , skáldin; hamingjan fylgir ekki skáldum; þau eru laus í rásinni og þau stjórna engu, ekki einu sinni sjálfum sér !
Kannski þótti honum þetta þó viðunandi þegar árin liðu og ég var farinn að fá einhverja viðurkenningu.
Hann hrósaði mér einu sinni fyrir ljóð. Það var svo óvænt að ég gleymi því ekki.
Matti minn, sagði hann allt í einu þegar ég heimsótti foreldra mína að venju í Garðastræti 43, þetta er gott ljóð hjá þér hér í Hólmgönguljóðum.
Ha, sagði ég undrandi, hvaða ljóð?
Hann tók bókina , opnaði hana og rétt mér.
Þetta hér, sagði hann og benti á blaðsíðuna.
Svo nefndi hann ekki minn skáldskap eftir það.
Ljóðið sem hann nefndi er númer 43 í síðustu útgáfu Sálma á atómöld, 1991: Tíminn er þerriblað...
Móðir mín talaði sjaldan um minn skáldskap.
Og ef hún gerði það, sagði hún, Æ, Matti minn, geturðu ekki ort meira af rímuðum ljóðum, þau eru miklu fallegri!
Þetta er sem sagt arfur minn úr heimahúsum.
Og samt varð ég atómskáld á tímum þegar það þótti hálfgert guðlast.
Þá var tekizt á um skáldskap eins og hann skipti máli.
Ekki lengur.
Nú er ekki tekizt á um neitt,nema sjónvarp.
Og einhverjag félagsmálapakka
Ætli þessi þjóð sigli eftir einhverjum tortímingarkompás; ætli hún hafi innbyggða löngun til að ganga á land eins og grindhvalir?
Ætli hún sæki helzt þangað sem hún þarf ekki að hugsa um neitt nema hversdagslegt þjóðsálarhjal um hundinn í næstu íbúð?
Eða er þetta venjulegt svartagallsraus sem sækir á gamlan blaðamann sem er orðinn leiður á öllu “nema Íslendinga sögum”?
Ég veit það svo sem ekki.
Vonandi snýr hún sér af alvöru að arfi sínum og framtíð; einhverju sem ræður úrslitum um það að hún verði áfram sérstæð þjóð . Og eigi annað erindi við umheiminn en einsmenningarstaglið í alþjóðlegum ljósvökum.
Æ, hvers vegna er þetta fallega nýyrði Jónasar notað um svo svartan galdur.....?
Shakespeare talar um við séum efniviður draumsins. Og eitt frægasta skáld miðalda, Walter van der Vogelweide, spurði, Er líf mitt dreymt eða er það satt?
Merkir menn spyrja mikilvægra spurninga.
Við erum geimryk, höfum orðið til í miklum hvelli.
Eldi.
Þyrluðumst út í geiminn og höfum safnazt aftur saman.
Í okkur er sama efni og trénu.
En við stigum upp af draumi eldsins um efni.
Það var kraftaverkið.
Merkur lærisveinn Schopenhauers sem hafði mikið dálæti á búddhisma segir þá sögu að hann hafi mætt blindum beiningjamanni á Indlandi og orðið vinur hans.
Betlarinn sagði honum að hann hefði fæðzt blindur vegna synda sem hann hefði framið í fyrra lífi.
Það er réttlátt að ég er blindur, sagði hann.
Þannig sættir fólk sig við þjáningu.
Gandhi beitti sér ekki fyrir byggingu sjúkrahúsa.
Sagði sjúkrahús og líknarstörf seinkuðu einungis greiðslu skuldar.
Einn geti ekki hjálpað öðrum.
Menn þjáist vegna þess þeir séu að greiða skuldir sínar.
Sá sem hjálpar tekur þátt í að draga greiðsluna á langinn.
Þessi kenning, eða karma, er grimmilegt lögmál að mínum dómi. Ég trúi því í anda Krists að við eigum að elska náungann og hjálpa honum. En sumum er nauðsynlegt að hafa þessa skoðun til að geta horfzt í augu við þjáningu.
Ég kann vel við trúarbrögð sem segja að einhver hafi spurt kennara,
Hvað er Búddha?
Og kennarinn svaraði,
Kýpurtréð er ávaxtatré.
Búddhatrú gerir eiginlega ráð fyrir því að veröldin sé draumur og gæti ég vel sætt mig við það.
Schopenhauer hefur einnig svona hugmyndir.
Ég-ið er ekki vinsælasta fyrirbrigðið í búddhatrú. En það er ekki einfalt mál að afneita því eða þurrka það út.
Við erum fædd til sjálfsvitundar.
Og persónulegt samband við guðdóminn er mikilvægt.
Kristnir menn rækta slíkt samband við leiðtoga sinn.
Þannig verður hver maður mikilvægur; þannig breytumst við úr maurum í menn.
Allt líf okkar er ákall.
Grátur barns og andvarp deyjandi manns er ákall, bæn.
Kristindómur krefst þess ekki að við þurrkum út sjálfsvitundina. Hún er þvert á móti mikilvæg í dýrðlegum boðskap Krists.
En það er ekki auðhlaupið að því að þekkja sjálfan sig, hvað þá aðra.
Til er skemmtileg saga um kjarna zen-búddhismans þess efnis að allt sé óraunverulegt. Ég-ið sé helzt ekki til og menn eiga að reyna að hverfa frá sjálfum sér, í stað þess að láta þetta sjálf vera sífellt að þvælast fyrir.
Sagan er svona.
Lærisveinn sagði við meistara sinn, Ég hef lengi verið að leita að hugsun minni, en ekki fundið hana.
Meistarinn svaraði,
Þú hefur ekki fundið hana af því hún er ekki til.
Þetta lærði ég af Borges.
En mér dettur samt ekki í hug að festast í austurlandaspeki, þótt þar sé mörg matarholan og andleg næring, ef að er gáð.
En þessa speki skortir það sem úrslitum ræður um andlega velferð; um getu okkar til að bæta upp vöntun og fylla þetta andlega tóm sem fylgir manninum; Krist.
Menningarfræðingurinn Joseph Campbell segir á einum stað:
guð er ítrasta hugmynd mannsins um sjálfan sig.......
.....Hume og ýmsir aðrir heimspekingar spyrja ekki um guð, heldur eðli hans.
Og hver er þá orsök guðs?
Því getur enginn svarað.
En afleiðing hans?
Því mætti kannski svara með sköpunarverkinu þótt ekki sé leyfilegt að líkja því við hús sem smiður reisir né úr sem úrsmiður setur saman; hvort tveggja er of lítilmótlegt sem samanburður við sköpunarverkið og minnir á kónguló Bramínanna sem fullyrtu að veröldin væri sprottin af slíku dýri, óendanlegu.
Ef svo væri fengju gömul íslenzk vísuorð nýtt stórmerkilegt guðfræðilegt inntak, Kónguló, kónguló/vísaðu mér á berjamó.
Þá yrði þetta vísubrot fullkomin bæn án tengsla við lyng og krækiber.
Viðmiðunin við heimsmyndarfræði Bramína, eða heimsmyndunarkerfi þeirra, gæfi okkur nýjan og heldur sérstæðan guðdóm sem við dýrkuðum eins og kóngulóarforsjón ætti kröfu til.
Við þekkjum að vísu ekkert sem verður til án hugsunar og framkvæmdar sem afleiðingar einhverrar orsakar.
Það gæti bent til þess að hugsun sé að baki sköpunarverkinu.
Orsök eða ástæða guðs er ekkert “nema” sköpunarverkið sjálft.
Guð verður ekki sannaður með afleiðslurökum né öðrum hætti.
Hann er trú.
Snorri talaði um að allt yrði til af einhverju efni. Það á einnig við um tilveruna sjálfa, sköpunarverkið, og til skilnings á þessu kraftaverki hefur hugur okkar leitað athvarfs hjá veru,eða andlegum krafti, sem við þekkjum ekki, nema af ályktun; eða rökum sem eru ígildi orsaka og afleiðingar.
Með öðrum orðum, við getum ekki hugsað okkur tilveruna án guðs.
Og líklega erum við eina dýr jarðar sem haldið er þessari áráttu.
4. desember 1981
Varð að skrifa dálitla athugasemd í Morgunblaðið í dag vegna þess að Gunnar Thoroddsen sagði í samtali við Tímann í fyrradag að ég hefði ekki leitað upplýsinga hjá honum, þegar ég skrifaði Ólafs sögu.
Þótti nauðsynlegt að benda á að ég hefði átt langt samtal við dr. Gunnar í Morgunblaðið fyrir forsetakosningarnar 1968 þar sem ég fjallaði um líf hans og störf og m.a. forsetakosningarnar 1952 og studdist ég þar við samtöl okkar, eins og fram kemur í Ólafs sögu.
Þá þegar hafði ég unnið að ritverkinu um Ólaf Thors um nokkurt skeið.
Þótti einnig rétt að benda á að hæpið væri að leita um of til núlifandi stjórnmálamanna,, þegar skrifað er ritverk eins og Ólafs saga, og minni á svofelld ummæli í bókinni sjálfri um það efni:
“Ég hef helzt leitað heimilda í samtíðinni, meðan sagan var að gerast og allt var á hreyfingu í kringum höfuðpersónu þessa rits, en þó einnig í síðari tíma heimildir.
Þær eru samt einatt harla varasamar, svo að ekki sé meira sagt.
Þegar stjórnmálamenn horfa um öxl, hættir þeim til að segja söguna eins og þeir vilja, að hún hafi verið, en ekki eins og hún var.”
Held þetta sé grundvallaratriði.
Samtímaheimildir eru öruggastar. en stjórnmálamenn eru varhugaverðir þegar þeir líta um öxl.
Þá sjá þeir sjálfa sig yfirleitt í hlutverki Prins Valiant og mig langar ekkert til að skrifa slíka bók.
Ég skil vel sneiðina til mín í samtalinu við Gunnar Thoroddsen en finnst hún óþarfi því að í raun og veru hefur aldrei neitt illt farið okkar í milli.
Verð þó líklega að viðurkenna sanngirninnar vegna að dr. Gunnar á einhverra harma að hefna vegna Býsnavetrarins.
Nauðsynlegt að setja sig í spor annarra.
Öll erum við tilfinningaverur og tilfinningalegt þanþol okkar er misjafnt.
Hélt nú satt að segja að jafnsjóaður stjórnmálamaður og raunsær og dr. Gunnar er þyldi ýmislegt sem burðarminna fólki væri um megn.
En ég gat ekki annað en skrifað Býsnaveturinn.
Það var áskorun og kannski einnig þó nokkur áhætta.
En það sem er engin ávísun á áhættu er lítils virði, a.m.k. í pólitík og skáldskap.
Og kannski einnig blaðamennsku.
Fékk bréf frá Valdimar Björnssyni,fjármálaráðherra Minnesota, í dag.
Þótti vænt um það.
Hann hælir Ólaf sögu á hvert reipi.
Kannski er hann þekktasti stjórnmálamaður af íslenzku bergi brotinn og veit vel ,hvað hann syngur.
Læt mér nægja þetta veganesti Valdimars í bili,
“Þetta er mikið verk hjá þér, vandlega og vel gert... En það er það mannlega, hlýja “intima” sem yfirgnæfir og vekur djúpa hrifningu hjá þeim sem þekktu vel Ólaf Thors.
Þú mátt sannarlega vera ánægður með þetta mikla verk þitt.”
Ég hef oft talað við Valdimar og þekki hann vel. Við strákarnir sem vorum í boðsferð í Bandaríkjunum á vegum Stúdentaráðs á sínum tíma fórum með honum í kosningaferðalag um sveitir Minnisota.
Það var eftirminnilegt.
Hann flutti ræður á norsku og ensku og fór eftir íbúunum. Þegar hann kom á fundina sagði hann, Hvað á ég að halda langa ræðu.
Svo hélt hann ræðu jafnlengi og óskað var.
Valdimar er ótrúlegur maður.
Hann er hlýr og jákvæður, en ákveðinn.Nýtur óvenjumikilla vinsælda, stálminnugur og man öll nöfn og ættir og var einungis hænufet frá þingmennsku á Bandaríkjaþingi.
En hún var víst ekki rist í lófa hans.
Þegar við vorum þarna á ferð var einhver karl af sænskum ættum sem hét Val Björnson og bauð sig fram einungis út á nafnið; svo vinsæll var Valdimar Björnsson; alias Val Björnson.
Mesti kostur Valdimars er þó sá að hann segir aldrei neitt við mann sem hann meinar ekki.
Þess vegna met ég bréf hans meir en ella.