Árið 1982


15. janúar 1982 - föstudagur

Helgarpósturinn hafði samband við mig. Þeir vildu fá að vita eitthvað um Steingrím Hermannsson því nú er nærmynd af honum í blaðinu; auðvitað; það hlaut að vera.

Hverjum öðrum?

Ég sagði þeim að við Steingrímur hefðum verið næstum því dauðir í vegavinnutjaldi á Stóra Vatnsskarði sællar minningar. En þá hafi það verið lítil frétt.

Það væri víst meiri frétt nú.

Mér væri nær að halda að Steingrímur gæti hugsað sér að endurtaka atburðinn, ef hann fengi nokkra umfjöllun út á það !

Og atkvæði!

Steingrímur hefur alltaf orðið að vera fyrstur og beztur og stærstur. En Clausen-bræður hlupu hraðar og stukku hærra þegar við vorum saman í Röskum drengjum sem við strákar stofnuðum í Vesturbænum.

Fundirnir fóru fram í Ráðherrabústaðnum þar sem Steingrímur bjó með foreldrum sínum, enda var Hermann Jónasson ,forsætisráðherra landsins, á þeim tíma.

Þar lékum við okkur og þau hjónin, frú Vigdís og Hermann, voru drengjunum góð.

Þetta var gott umhverfi að vaxa upp í.

Einhvern tíma datt okkur í hug að skipta um formann í Röskum drengjum.

Og sögðum Steingrími það.

Hann tók því vel.

Nokkru síðar spurði Denni hver ætti að vera eftirmaður hans?

Um það höfðum við ekki hugsað, enda var þetta svo sem engin stjórnarbylting.

Jæja, sagði Steingrímur, en þið gerið ykkur náttúrulega grein fyrir því að fundirnir verða ekki haldnir í Ráðherrabústaðnum, ef ég verð ekki áfram formaður.

Það runnu á okkur tvær grímur.

Á næsta fundi kusum við Denna formann áfram.

Einu sinni fórum við vegavinnukarlarnir á Stóra-Vatnsskarði í heimsókn í Drangey.

Þá þurfti endilega að finna það út hver þyrði að standa fremst á bjargbrúninni og horfa niður.

Þeirri keppni lauk með því að Denni stóð á hælunum, horfði niður og svimaði náttúrulega, fékk taugaáfall –og vann !

Og það ættu andstæðingar hans í stjórnmálum að vita að Denni er tilbúinn til að taka áhættu, tilbúinn til að standa á hælunum.

Ég er hræddur um að þeir vanmeti hann stundum.

Það skyldi enginn gera.

Steingrímur Hermannsson kemur ævinlega standandi niður. Og hann er alls óhræddur að fara á yztu nöf.

Steingrímur var heldur eldri en ég, hann var stúdent ‘48 en ég ‘50. Ég bjó á Hávallagötunni, en hann í Ráðherrabústaðnum.

Denni var mjög félagslyndur og gekkst upp í félagsskap sem við höfðum með okkur og hét Röskir drengir,eins og ég nefndi.

Enda hefur Denni alla tíð verið hinn röskasti maður.

Við strákarnir komum oft á æskuheimili hans. Ég held það hafi verið dæmigert fyrir andann á heimilinu að eitt sinn ætluðum við að stökkva fram af svölunum.

Frú Vigdís var ekki sátt við það en þá stökk Hermann fyrstur og sagði við konu sína, Það er alveg óhætt að drengirnir stökkvi!

Denni er líkur föður sínum hvað kapp snertir. En hann skortir ekki forsjá og hann er einum of mikill forsjárhyggjumaður í pólitík fyrir minn smekk.

En það er ekki tillærð afstaða, heldur liggur þessi samfélagslega umhyggjusemi í eðlinu.

Það er allt og sumt.

Ég held þetta sé nokkuð góð nærmynd af Steingrími Hermannssyni þarna í Helgarpóstinum. Hún er skrifuð af Gunnari Gunnarssyni.

Erfitt að vera rithöfundur og heita þessu nafni.


19. janúar 1982 

Í dag gáfu erfingjar Ólafs Thors mér sjálfblekung hans, í tilefni af níutíu ára afmæli Ólafs.

Þetta er Watermans-penni.

Þarf að búa vel um hann svo hann geymist framtíðinni.

Bréfið sem fylgdi er svohljóðandi:

Kæri Matthías.

Á þessum degi langar okkur til að biðja þig um að þiggja penna Ólafs Thors sem vinavott frá fjölskyldunni. Ingibjörg Thors, Thor Ó. Thors, Ingibjörg Thors, Margrét Thors, Marta Thors.

Þarf ekki aðra umbun fyrir Ólafs sögu.


 

Í byrjun febrúar 1982 

Fékk í dag bréf sem mér þótti afar vænt um. Það er frá Henrik Sv. Björnssyni.

Sveinn forseti, faðir hans, kemur rækilega við sögu í bókinni um Ólaf Thors. Og það er talað um hann af hispursleysi og án þess snobbs sem virðist fylgja þessari óíslenzku og sérkennilegu forsetatign.

En Henrik tekur þessu öllu vel enda óvenjulega vel gerður maður, raunsær og gáfaður.

Hann segir:

“Mér finnst aðdáunarvert, hvernig þér hefur tekizt að skila þessu verki, sem ekki getur hafa verið auðvelt. Eftir lestur gerir maður sér grein fyrir hve mikla vinnu þú hefur hlotið að leggja í samningu bókarinnar og útvegun heimilda.

Aftur til hamingju með þessa bók. Hún á áreiðanlega eftir að reynast merkt heimildarrit.”

Ólafs saga er búið verk og gert. Það verður ekki endurtekið. Og sjálfur er ég þakklátur fyrir hvernig til hefur tekizt.

En það fer enginn hégómlegur straumur um viðkvæma kviku míns vesalings þótt ég fái svona bréf.

Það á betur við mig að umbuna öðrum en festa hugann við lofsyrði um sjálfan mig, þótt lofið sé stundum gott, einkum þegar mikið er í húfi.

Og það var mikið í húfi þegar Ólafs saga kom út.

Þegar ég var drengur í Kirkjustræti gekk ég um miðbæinn með matrósahúfu í fylgd með Jósefínu. systur minni. Hún vildi helzt losna við að leiða mig um miðbæinn því hún sagði að ég heilsaði öllu fyrirfólki bæjarins að hermannasið og jafnvel einnig öðrum sem minna áttu undir sér!

Mér hefur ávallt liðið betur í því hlutverki að sýna öðrum virðingu en njóta hennar sjálfur.

Kannski er það skáldið og tilfinningalíf þess; kannski einhver dulinn komplex; einhver minnimáttarkennd, hver veit?


5. marz 1982 - föstudagur

Nærmynd af Ragnari S. Halldórssyni, skólabróður mínum og vini, í Helgarpóstinum.

Ragnar er persónugervingur þess bezta sem ég eignaðist í MR.

Ég er hlédrægur og hef aldrei verið í bekkjarklíkum þótt ég hafi verið umsjónarmaður B-bekkjarins.

En þegar skólasysturnar áttu í hlut fór ég með veggjum.

Einkennilegt, eins og ég get hrist þessa feimni af mér nú orðið.

Við Ragnar höfum alltaf átt samleið. Og við drekkum stundum kaffi með Bjarka Magnússyni lækni sem er einnig máladeildarmaður eins og ég.

En Ragnar er stærðfræðihestur.

Ég átti ýmsa góða vini í MR.

En ég er ekki mannblendinn þótt ég hafi orðið að ota mínum tota í blaðamennsku og lítill samkvæmismaður þótt ég leiki á als oddi þegar ég er kominn yfir í jarðsprengjubeltið og samkvæmið er hafið.

Svona er þetta nú allt einkennilegt.

Mér er afar hlýtt til þeirra sem ég kynntist í skóla og fylgist með þeim – úr fjarlægð.

Þegar einhver tekur upp á því að deyja fælist ég eins og hestur og reyni að koma mér í burtu. Fylgi þó gömlum vinum, ekki af skyldurækni, heldur þakklæti.

Skáld hafa ekki óendanlegt þanþol.

Mér finnst sumir upplifa alla atburði lífsins eins og þeir gangi að verki. Ég hefði vel getað hugsað mér að eiga þennan hæfileika.

Það hefði minnkað ofnæmið.

En það hefði að sjálfsögðu orðið á kostnað skáldskaparins.

Hefði það verið hagstætt?

Ég veit það ekki.

Skáld þarf að vera eins og endurvinnuslustöð.

Það tekur á móti öllu draslinu og breytir því í ný verðmæti.

Ég hef reynt að vinna þannig úr umhverfi mínu og reynslu. En svo er það annað mál hvort það hefur tekizt.

Ég segi um Ragnar í Helgarpóstinum að vinátta hans hafi verið okkur bekkjarsystkinunum öllum mikils virði.

Og það er rétt.

Hann kom með andblæ síns merka æskuheimilis og það fór ekki á milli mála að hann naut þess rammíslenzka arfs sem foreldrar hans miðluðu í ríkum mæli.

Ég kynntist þeim báðum.

Frú Halldóra Sigfúsdóttir er eftirminnileg. Hún var ættuð að austan eins og móðir mín,þær voru vinkonur, og Halldór Stefánsson sérstæður og umfram allt sjálfstæður félagsmálamaður og þingmaður Framsóknarflokksins.

Ég átti að mig minnir útvarpssamtal við hann þegar hann sat aldinn að árum á friðarstóli og varð hann mér harla minnisstæður.

Eftir það þóttist ég skilja Ragnar. son hans ,betur en áður.

Halldór sagði skilið við Framsókn og gekk til liðs við Bændaflokkinn enda hafði hann ekki annað leiðarljós en sannfæringu sína.

Ég fullyrði að sama máli gegnir um Ragnar, son hans.

Hann er engin undirtylla, hvorki útlendinga né annarra.

Í skóla var hann góður námsmaður, fastur fyrir og samkvæmur sjálfum sér.

Hann var fljótur að skilja kjarna frá hismi.

Þessa eðliskosti á hann alla í ríkum mæli, en hann getur verið þrjóztur enda dálítið sérvitur.”

Held þetta sé nokkuð góð lýsing á álskalla, og ekki síður það sem ég bæti við, að Ragnar hafi ávallt haft tilhneigingu til að vera í forystu og hann sé vinur vina sinna og mikill gleðimaður.

Ég er þeirrar skoðunar að hann sé gott þingmannsefni.

Og einmitt af þeim sökum reikna ég ekki með því að hann verði kallaður til þeirra starfa, að minnsta kosti ekki í prófkjöri.

Lýðræði kallar ekki á eldfjöll, það leitar að málamiðlun; kollóttum þúfum.

Samt gýs stundum og ný eldfjöll verða til.

Ragnar S. Halldórsson er engin málamiðlun.

Hann er hávær og fyrirferðarmikill og getur stundum minnt á náttúruhamfarir.

En án þeirra væri ekkert Ísland; engin arfleifð; engin þjóð. Einungis Austmenn á þeim stöðum þaðan sem við komum – í leit að nýrri sköpun.


Apríl 1982 - ódagssett

Nærmynd í Helgarpóstinum um Halldór Laxness. Held það sé Þorgrímur Gestsson sem ætlar að smella þessari mynd af.

Ég hef verið spurður um Halldór.

Hvað á ég að segja?

Það er eins og að lýsa heilu sólkerfi að fjalla um Halldór Laxness.

Ég hef látið mér nægja nokkra þætti í lífi hans og skáldskap. Mér var vandi á höndum þegar þeir hringdu í mig.

Halldór gengur ávallt upp eins og veghleðslur föður hans sem þóttu listasmíð í gamla daga, samt er hann hlaðinn úr þessu ólíka grjóti sem er tilhoggið eins og hleðslurnar.

Ég var að reyna að segja eitthvað við þá í símann og þeir voru eitthvað að spyrja mig um þau þáttaskil sem urðu í samskiptum Halldórs og Morgunblaðsins, þegar ég skrifaði samtal við skáldið um Gerplu, sem þá var nýkomin út.

Ég sagði þeim að ég hefði verið stoltur yfir því að hafa átt þátt í að Halldór varð sjálfsagður gestur í sínu gamla blaði og Valtýr Stefánsson fagnaði því þegar þetta samtal birtist og múrinn milli Halldórs Laxness og blaðsins var brotinn niður.

Síðar átti ég mikil samskipti við Halldór, m.a. meðan Bjarni Benediktsson var ritstjóri Morgunblaðsins á árunum 1956-59.

Bjarni var mjög ánægður með að Halldór væri aftur kominn í Morgunblaðið.

En eitt sinn þegar ég ætlaði að hitta Halldór, sagði hann og brosti, Berðu þig vel, Matthías minn, og farðu ekki skríðandi!

Hef skrifað fjölmörg samtöl við Halldór og svo Skeggræðurnar.

Það var harður skóli fyrir ungan mann,en að mínu viti nauðsynlegur.

Ég hef aldrei haft annað en ánægju af samstarfinu við Halldór. Hann hefur alltaf tekið mér vingjarnlega og viljað úr öllu greiða. Og ekki hefur Auður,kona hans, spillt fyrir, eins og hún hefur alltaf tekið mér og okkur Hönnu báðum.

Halldór hefur að sjálfsögðu verið nokkuð harður leiðbeinandi enda sagðist hann ekki vilja að Skeggræðurnar yrðu þannig að framtíðin héldi að tveir vitleysingar hefðu verið að tala saman!

Ég sagði víst einnig við Helgarpóstinn það væri nauðsynlegt ungu fólki að gera sér einhverja grein fyrir því, hvernig menn eins og Halldór

vinna . Það fer ekki hjá því að slík vinnubrögð síist inn í þá sem kynnast þeim.

Ég hef auðvitað alltaf kviðið fyrir að skrifa samtöl við Halldór; kviðið fyrir því, hvernig ég gæti skilað þeim svo honum mislíkaði ekki.

Ég hef þurft að bíta á jaxlinn, hef þurft að herðast í eldi, en samstarf okkar hefur borið árangur og það eitt skiptir máli.

Hann hefur skrifað mér fallegar og uppörvandi umsagnir um það sem ég hef látið frá mér, ekki sízt kvæðin. Hann hefði getað látið vera að senda mér svona uppörvanir, en hann veit að ég hef átt undir högg að sækja,ekki sízt af pólitískum ástæðum.


15. júní 1982 

Höfum verið í Jóns Sigurðssonar húsinu í Kaupmannahöfn í góðu yfirlæti. Þar er mikið og gott bókasafn og sólskin úti næstum dag hvern.

Okkur líður vel.

Ingó vinnur hjá vini okkar, Jörgen Holm, umboðsmanni Eimskips. Hörður Sigurgestsson,forstjóri félagsins, átti þátt í að ráða hann þangað og var ég honum þakklátur.

Ingólfur hefur gott af þessari vinnu og honum líkar vel í Kaupmannahöfn, ekki síður en okkur Hönnu.

Það verður skemmtilegt þegar Haraldur og Brynhildur og litla fjölskyldan kemur í heimsókn.

Íbúðin er frábær.

Viðtökurnar í samræmi við hana.

Sr. Jóhann Hlíðar er á efstu hæðinni, hann er betri en enginn. Hef lesið upp á Íslendingaskemmtun í húsinu, Hörður Torfason söng.

Ágæt samkoma.

Það er einhver jónssigurðssonar-stemmning.

Kaupmannahöfn hefur ávallt sýnt okkur gott viðmót. Einnig þegar við bjuggum á Hostrupsvej í desember 1972 og janúar 1973. Þá bjuggum við á Friðriksbergi eins og veturinn 1955, en þá fluttum við síðar út á Bispebjerg og bjuggum á Friðriksborgarvegi 148.

Þar skrifaði ég leikritið Sólmyrkva,enn ósýnt.

Þar orti ég handritið að fyrstu ljóðabókinni minni en hún kom aldrei út.

Þá hafði maður snefil af dómgreind, sem betur fer , og beitti sjálfan sig hörðum aga

Borgin hló kom ekki út fyrr en 1958.

Hún þvældist hjá Almenna bókafélaginu um nokkurt skeið, eða þangað til ég hitti Ragnar í Smára og sagði honum frá því, hvað afgreiðslan gengi seint hjá AB.

Sæktu handritið, sagði hann, og komdu með það til mín.

Ég lét hann fá handritið og hann gaf það út á mettíma.

Ritlaunin voru viðgerðarkostnaður fyrir bildrusluna mína. Ég átti ekki fyrir henni,en Ragnar sagði, Ég borga viðgerðina, það verða ritlaunin.

Mig minnir viðgerðin hafi kostað eitthvað í kringum 20 þúsund krónur.

Ragnar borgaði alltaf eins og honum sýndist.

Stundum fékk ég litla mynd, stundum tróð hann seðlum inn um bréfalúguna; það fór allt eftir því hvernig lá á honum.

En Borgin hló kom út eins og til stóð og vakti í raun og veru mikla athygli, bæði þeirra sem sögðu að ég gæti ekki ort og einnig hinna sem tóku henni vel.

Ég þyrfti að tíunda það einhvers staðar því nú skiptir það engu máli.

Maður á að halda því til haga sem skiptir engu máli. Ef maður gerir það ekki fer það að skipta máli.

Það er ekki sízt af þeim sökum sem ég hef gaman af að hripa þessar línur niður og skrifa mig frá því sem annars mundi festast í huganum.

Það gæti orðið til trafala.

Ég hef engan áhuga á því að ganga með steinbarn í maganum.

Hitt, sem er skemmtilegt eða ánægjulegt, gleymist hvort eð er ekki.

Hef talað við Einar Ágústsson, sendiherra. Hann hefur beðið mig

halda hátíðarræðuna á útisamkomu Íslendinga 17. júní.

Einar tekur mér alltaf vel svo ég get ekki færzt undan því.

Dóttir hans fórst í bílslysi.

Hann hefur sagt mér það líði aldrei sá dagur að hann hugsi ekki um hana.

Þegar við ræddum saman eftir ræðu Ólafs Jóhannessonar um Geirfinnsmálið niðri á Alþingi, horfði Einar fast á mig og sagði, Það hafa fleiri misst börn en Ólafur Jóhannesson(!)

Hvernig er hægt að gleyma svona örlagasetningu?

Hef lítið ort hér í Kaupmannahöfn en skrifað þó nokkrar smásögur.

Hef gaman af því.

Kannski á ég eftir að gefa þær ú.

 

Jónshúsi, Kaupmannahöfn 1982 - sumar

Hef verið að skrifa leikritið Guðs reiði enda eru góðar heimildir hér við höndina.

Og svo þessi gamankvæði því að vel liggur á okkur, eins og sjá má:

1.

Við vorum svo langt í burtu

frá mjóstör og engjarós

og hugsa sér hvað var langt

upp í Hreppa eða Kjós.

Og þar var enginn spói

né lóa eða hrafn

þegar við gengum saman

niður í Thorvaldsenssafn.

Við komum í Grænugötu

þar sem Bertil lék sér drengur

og það var eitthvað svo hversdagslegt

að hann skyldi ekki vera þar lengur.

En það var gaman að hitta

á safninu Lúðvík Bæjarakóng,

það er langt frá Oberammergau

að Reykholti eða Stöng.

Við skoðuðum safnið og heyrðum

stytturnar taka til máls

Lúkas var þögull að vanda

en mest fannst mér koma til Páls.

En það er svo óralangt þangað

sem gulstör og þursaskegg

unir við horblöðku eina

eins og hæra uni við legg.

Páll sagði við mig, Heyrðu,

hvaðan kemur þú?

Af Íslandi, sagði ég við hann,

eins og skáldið frá Efri-Brú.

Þá hristi hann höfuð og sagði:

Íslandi, hvað er nú það?

Ég sagði, Þar var Njála

sett niður á gulnað blað.

En postulinn þegjandalegur

hvarf inní sína skel:

Ég þekki það ekki, sagði hann

og braut þjóðarstoltið í mél.


2.

Í rasphúsinu sat Sigurður Gottvinsson og þagði,

hann hlustaði ekki á neitt sem sagt var að fyrra bragði.

Ég var höggvinn fjórða marz átjánþrjátíuogfjögur,

sagð'ann og glotti. Þann morgun reis blá og fögur,

vor ættjörð úr brimsöltum veruleik þjóðar í nauðum

og enginn söng yfir rasphúsfanganum dauðum.


3.

Ég stóð fyrir utan Rundetårn

og reykti ekki,

það var margt fólk á stjái

en enginn sem ég þekki.

Fáir gengu inní kirkjuna

en það var hlýtt og gott þar inni,

svo ég kom þar við og gáði um stund

að týndri fortíð minni.

Þar voru enskar mæðgur

og Þjóðverji á stjái

og einhver sem mér sýndist vera

Jóhannes Páll páfi.

Fyrir altari var Kristur

eins og hans er von og vísa

en þar var hvorki Marta

né margnefnd Skaga-Dísa.

Því miður hitti ég ekki

Kristján IV þessu sinni

og hætti við svo búið

að leita að fortíð minni.

 

4.

Við sáum hvar dr. Valtýr Guðmundsson

skaust fyrir horn,

hann var að reyna að fá samtal

við konung vorn.

Ég fylgdi honum ekki eftir í þetta sinn

því ég vissi vel

að innan tíðar yrði pólitísk framtíð hans

brotin í mél.

Hannes Hafstein nýkominn til Hafnar

að bjóða sig fram

og yrkir um gullið rauða

eins og skálaglamm.

Kógur bauð honum ráðherradóm

og hanastél,

en dr. Valtýr beið úti og undi sér

ekki vel.

Þeir hjuggu Noreg úr hendi mér,

eins og hann sagði,

það var glæsileiki Hannesar

og ég féll á því bragði.

Svo fékk hann sér einn gráan með Skúla Thór.

og öðrum þeim

sem vildu ekki hann yrði sendur ráðherra-

titilslaus heim,

enda hefur það gefizt misjafnlega

eins og hvert mannsbarn veit:

Eitt er blákaldur veruleiki, en annað

er fyrirheit.


5.

Ja, so, sagði Jón og varð léttur í spori.

Þeir jörmuðu saman eins og nýfædd lömb á vori.

Jón sprokaði mikið um sína erlegu ektakvinnu

velaktaða til lossamentis og kökkenvinnu.

Við hlustuðum ítem á Jón indíafara segja

frá því hvernig þeir fröktuðu til dularfullra eyja.

En soddan, ertu nú ekki með sjónarspil og hrekk,

sagði með forundran Árni frá Geitastekk

og vitnaði í vora majestett Kristján IV sjálfan

sem reisti til Þýzkalands meðan logaði gjörvöll álfan

og setti fyrir blinda augað sitt kikkertglas.

En Jón skrifaði reisubók fyrir gamlingjana á DAS.


6.

Við komum í Stokkhúsgötu,

þar var ekkert um að vera,

enginn þræll frá Íslandi,

sem þurfti kross að bera,

ekkert þar nema verkfræði-

háskólinn til húsa,

það var munur eða hreysið

þeirra Guðnýjar og Fúsa.

Við fundum engin merki þess

að gúlag var hér áður

þegar kóngurinn var púðraður

en þrællinn ósjálfráður.

Við ætluðum að heilsa uppá

þá sem eru dauðir,

en hér var enginn lengur,

allir bekkirnir voru auðir.

En hinum megin götunnar

er Jónshús virt og trónar

eins og legsteinn þar sem grafirnar

eru nafnlausar og grónar.

Samt hittum við Jón Sigurðsson

og hann sagði þá við okkur:

Er hann Kristján IX ekki

einskonar drullusokkur?


26. nóvember 1982 - föstudagur

Geir Hallgrímsson kom í kaffi til okkar Styrmis upp á Mogga.

Björn Bjarnason,aðstoðarmaður hans, viðstaddur.

Geir segir okkur af fyrra bragði að prófkjörið á sunnudag verði það síðasta sem hann taki þátt í.

Ég vil verða frjáls, sagði hann, ég vil njóta lífsins.

Sagðist annað hvort myndu hætta formennsku á næsta ári eða þarnæsta landsfundi, hvort sem hann yrði ráðherra eða ekki.

Segi ykkur þetta til að þið hafið forskot!

Hann var mjög léttur og lék raunar á als oddi.

Sagðist ekki vita hvernig prófkjörið færi en tæki því sem að höndum bæri.

Maður er eins og í flugvél, sagði hann, getur ekkert gert ef eitthvað er að, nema bíða og sjá hvað setur.

Geir sagði að ritstjórar Morgunblaðsins ættu að hafa mikil laun og fagnaði nýgerðum samningi okkar við Harald Sveinsson,framkvæmdastjóra.

Engin mótmæli!

Björn og Styrmir segja að Geir hyggist taka við Seðlabankastöðu af Davíð Ólafssyni eftir tvö til þrjú ár.


30. nóvember 1982 

Töluðum við Geir Hallgrímsson upp úr tvö í nótt þegar fyrir lágu 5000 af 8100 atkvæðum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og sýnt að hann yrði í 7. sæti.

Hann var rólegur, en sár.

Sagðist ekki skilja þetta, fyrr mætti nú vera.

Velti því fyrir sér hvort hann gæti verið í 7. sæti vegna niðurlægingar; eða hvort kæmi til greina að hann lýsti yfir á fulltrúaráðsfundinum um helgina að hann nyti ekki nauðsynlegs trausts í kjördæmi sínu og mundi því kalla saman landsfund í febrúar/mars, eða fyrir kosningar, og segja af sér.

Segist ekki ásaka neinn nema sjálfan sig en hann hafi fallizt á að láta ekki tölumerkja seðlana, heldur láta krossa nægja, m.a. vegna meðmæla eða fyrir áeggjan Ingólfs Jónssonar þar að lútandi.

En þá hefðu örlögin verið ráðin.

Andvaraleysi sitt og það að hann lét tilleiðast að hafa ekki númer á kjörseðlunum væru líklega aðalorsökin fyrir, hvernig nú sé komið.

Held samt hann kyngi þessu og taki 7. sætið.

Á svona stundum er flokkurinn í fyrirrúmi og jafnvel formaðurinn verður að sætta sig við það.


3. desember 1982 

Geir Hallgrímsson kom við á Morgunblaðinu og við töluðum saman í herbergi Styrmis. Nýbúinn að flytja ræðu sína í Súlnasal Hótels Sögu og lýsa því yfir að hann taki 7. sæti á lista flokksins.

Við birtum ræðuna á morgun.

Þegar Geir gekk út úr herberginu leit hann á okkur og sagði, Ef ég hefði ekki átt ykkur að, væri ég dauður.

Sátum eftir hugsi.


11. desember 1982 - laugardagur

Greinin Dagpistlar um dægurmál eftir mig birt í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir m.a.:

I

“Við Magnús Kjartansson eltum stundum grátt silfur, en vorum þó miklir mátar og ræddumst einatt vinsamlega við, þegar fundum okkar bar saman.

En við vorum ósammála í grundvallaratriðum stjórnmála, eins og kunnugt er.

Hann sagði, að ég væri pragmatisti og má það vel vera.

Ég tel að þetta hugtak eigi við þá sem taka afstöðu eftir aðstæðum hverju sinni, en merki ekki það sama og tækifærissinni.

Sjálfur varð Magnús Kjartansson því meiri pragmatisti, sem hann varð eldri og reyndari stjórnmálamaður.

Hann lét ekki kenningar marxismans móta afstöðu sína alfarið, heldur túlkaði hann þær eftir eigin höfði.

Það kom fram eftir að hann varð ráðherra og síðar þegar hann skrifaði helzt ekki í önnur blöð en “málgagn flokkseigenda, Morgunblaðið”.

Þegar bók hans Elds er þörf var gefin út, m.a. með pækilsöltuðum alþingisræðum, varð ég heldur undrandi að sjá, að hann hafði fjallað um mig í þingræðum án þess ég vissi og gat því ekki borið hönd fyrir höfuð mér — og alls ekki á Alþingi, þótt Guðmundur Sæmundsson hafi talið, að ég sæti á þingi og var kannski ekki einn um það!

Þegar ég las rit Magnúsar Kjartanssonar, rak ég upp stór augu. Kalda stríðið var enn einu sinni komið inn á gafl; skotgrafahernaður.

En nú hef ég sett saman rit um afstöðu mína til margvíslegra mála, þ.á m. stjórnmála, og þarf því enginn að fara í ritsafn Magnúsar eða annarra til að fá hugmyndir um skoðanir mínar. Þessi bók mín er að koma út hjá forlagi Hafsteins Guðmundssonar og heitir Félagi orð.

Ég skrifaði formála fyrir henni meðan Magnús Kjartansson lifði, en tók hann af tillitssemi við minningu hans út úr bókinni, þegar hann lézt í fyrra.

En nú hefur enn verið vegið í sama knérunn með “klassísku” persónuati, sem félagar Magnúsar hafa sótt í sópdyngju hans, Frá degi til dags; hvössum og stundum miskunnarlausum dagpistlum, sem voru harla skemmtilegir á sínum tíma, þótt þeim væri ætlað að vega okkur andstæðinga hans með orðum.

Persónuat er réttnefni og fengið að láni úr formála Vésteins Lúðvíkssonar (rithöfundar) fyrir riti Magnúsar, en hann er e.k. útlegging á guðspjalli.

Ég hef ekki lagt í vana minn að skrifast á við látna menn og vona að í þessu greinarkorni sé full virðing fyrir minningu Magnúsar Kjartanssonar.

Ef einhverjum þeirra, sem ábyrgð bera á útgáfu þessara tveggja bóka Magnúsar, finnst það gagnrýnis- eða ámælisvert að birta grein eins og þessa, verða þeir að sakast um það við sjálfa sig.

Þeir eru upphafsmenn þessarar greinar minnar og verða að rífast um hana hver við annan. Auk þess mætti þá hafa í huga það sem er endurprentað úr Austra-greinum um Björn Ólafsson og Vilhjálm Þór látna.

Einkennilegt er að skoða þessi skrif Magnúsar Kjartanssonar nú, svo löngu eftir að þau birtust í Þjóðviljanum í hita baráttunnar, og rifja upp kuldalegt viðmót hans í garð pólitískra andstæðinga, svo að ekki sé talað um virðingarleysið fyrir skoðunum þeirra.

Sumt í skrifum þeirra slítur Magnús Kjartansson úr samhengi og endursegir með sínu lagi eins og praktískra pólitíkusa er siður, til að mynda þegar hann ræðir um sárasaklausa grein, sem ég ritaði um sjónvarpsmálið á öndverðum sjöunda áratugnum. Þá ætlaði allt um koll að keyra vegna Keflavíkursjónvarpsins, en samt er þessi greinargarmur minn ekki óspámannlegri en svo, að þar standa m.a. þessi orð: “eina lausnin á þessu máli ... er sú, að íslenzka sjónvarpið taki við af því bandaríska — og það sem fyrst.”

Þegar ég nú les Austra-pistlana aftur spyr ég sjálfan mig: getur verið að maður hafi sóað hluta ævi sinnar í þetta einskisverða rutl?

Ó — já, ekki ber nú á öðru.

En kannski var þetta karp ekki alveg einskis virði, þegar öllu er á botninn hvolft.

Ég læt eldræðurnar um verk mín liggja milli hluta, til að mynda háreystina um Fjaðrafok, þegar ganga átti endanlega frá mér sem rithöfundi.

Það má vel vera að þetta brambolt hafi sprottið úr háleitum hugsjónum, en það skiptir nú engu máli. Það er hvort eð er löngu gleymt, hvað sem líður tilraunum til að endurvekja það. Ég mundi satt að segja ekki eftir, að ég hefði verið jafn aðsópsmikill andstæðingur marxista eins og fram kemur í bókum Magnúsar Kjartanssonar og ritsafni Sverris Kristjánssonar.

Af nafnaskrá Frá degi til dags má sjá, að Magnús hefur lengst af einkum haft þrjá menn að skotspæni, Bjarna Benediktsson, Gylfa Þ. Gíslason og mig.

Ég er upp með mér af þessum félagsskap.

Það er ekki amalegt að vera í hópi slíkra forystumanna lýðræðissinna á Íslandi. Og það er í slíkum eldi sem ungir menn herðast. En mér hafði gleymzt að mestu að ég hefði verið sá þyrnir í augum félaga Napóleons, sem nú er verið að rifja upp.

Ég hef aldrei gert persónuat að sérgrein minni og leiðist slík blaðamennska. Það er rétt hjá Vésteini Lúðvíkssyni, að engir stjórnmálamenn sjöunda áratugarins stóðust Magnúsi Kjartanssyni snúning í þessari grein stjórnmála. Hann var arftaki Hannesar Þorsteinssonar og Jónasar Jónssonar frá Hriflu.

En Magnús skaut oft yfir markið, t.a.m. þegar hann kallaði mig hr. Johannessen í Austra-pistlum.

Ég sagði eitt sinn við hann að mér fyndist þetta lágkúrulegt, að geta ekki nefnt mig réttu nafni.

Þið eigið þetta skilið, sagði hann þá, með þessi hégómlegu ættarnöfn sem hafa verið þýdd uppá dönsku.

Ég sagði hann ætti að kynna sér málin, áður en hann skrifaði.

Nú, sagði hann, er þetta ekki rétt?

Nei, sagði ég. Þetta er norskt ættarnafn, en ekki danskt-íslenzkt. Matthías afi minn kom frá Björgvin. Hann dó á bezta aldri. Og faðir minn vildi varðveita minningu hans, m.a. með því að halda ættarnafninu norska.

Magnús horfði þegjandi á mig.

Eftir þetta sást hr. Johannessen aldrei í Austra-pistlum, þótt oft kæmi hann þar við sögu!

 

II

Það er að vísu óhyggilegt að taka afstöðu nú á tímum. En ég hef ekki haft geð til að sitja hjá og kaupa mér falskan frið, enda þótt það sé orðin skásta leiðin til vinsælda hér á landi sem annars staðar að vera einhvers konar persónugerður frígír.

Elds er þörf kom út 1979.

Magnús Kjartansson gat tekið afstöðu án þess eldur brynni á honum sem rithöfundi, því að engin áhætta er að ryðjast fram á ritvöllinn og láta að sér kveða, þegar menn gefa ekki höggstað á sér í skáldskap.

En pólitíkusar nærast á karpi og rifrildi. Við hin köllum á ófrið í kringum verk okkar, sem þola sjaldnast mikið hnjask. Það er í senn hvimleitt og óskynsamlegt að kalla yfir sig slíkan ófrið.

En það er að mínu viti mannborulegra að taka afstöðu en eyða ævinni í að príla upp í einhvern fílabeinsturn, þar sem bíða stórkrossar og stjörnudýrkun.

Í bókum Magnúsar Kjartanssonar er talað um mig sem einhvern holdtekinn fulltrúa “hernáms hugarfarsins” — og jafnvel í grein, sem sótt er í þingræðu!

Eitt er að rífast í dagblöðum, en annað að gefa pólitískum andstæðingi, sem þekkir ekki Alþingi nema af afspurn, einkunnir í þingsölum og binda svo inn í bækur, sem tróna í gullslegnum útgáfum í bókaskápum sanntrúaðra, rétt eins og manni hafi verið reist níðstöng með hrosshaus.

Félagi orð er andóf gegn þessu.

Þar er fjallað um menntir og mannlíf og stjórnmál ekki undan skilin. Þar geta þeir, sem vilja, kynnzt skoðunum mínum og samherja minna, án þess þær séu slitnar úr samhengi og rangtúlkaðar. Slík bók á nú meiri rétt á sér en áður.

Í Félagi orð má finna skýringar á pólitískum skoðunum mínum og m.a. forsendur fyrir því, af hverju ég hef talið mér skylt að fylgja markaðri varnar- og öryggisstefnu Íslands.

Magnús Kjartansson og fleiri alþýðubandalagsmenn hafa orðið ráðherrar án þess gera það að skilyrði, að henni væri breytt.

Slíkur gerviráðherra hefði ég ekki viljað vera: að standa ekki einu sinni við grundvallaratriði lífsskoðunar sinnar — í verki.

En látum það vera.

Það hvarflar ekki að mér að endurvekja gamlar væringar eða pexið um það, að ég hefði orðið föðurlandssvikari, ef ég hefði verið ritstjóri í Ríga eða heimtað, að Rússar réðust inn í Tékkóslóvakíu ef ég hefði verið ritstjóri í Prag, en Magnús leggur að jöfnu að stuðla að vörnum og öryggi Íslands í samfélagi vestrænna lýðræðisþjóða og vera sovézkur leigupenni landráðamanna í Prag.

Ég hef ekki andlegt þrek til að ræða um þennan fíflaskap. Auk þess skiptir mín auma persóna engu máli í þeim kyngimagnaða hildarleik, sem fer fram allt í kringum okkur.

Það er langt frá því að ég telji mig hafa “réttar” skoðanir, þótt það sé gefið í skyn í Elds er þörf.

En ég hef skoðanir, ekki síður en Magnús Kjartansson og félagar hans.

Þess vegna þykir mér ástæða til að sýna svart á hvítu, úr hvaða jarðvegi stjórnmálaskoðanir mínar hafa vaxið.

Ég er ekki fulltrúi neins og ekki heldur “hernáms hugarfarsins”, heldur hef ég einungis skipað mér þar í sveit, sem unnið er að því að hefta heimsvaldastefnu sovézku kommúnistanna og koma í veg fyrir, að Ísland verði innlimað í Sovétríkin eins og t.a.m. Afganistan.

Ef Afganir hefðu haft okkar stefnu í öryggismálum hefði ráðstjórn Sovétríkjanna ekki tekið þá áhættu að gleypa landið.

Allir þeir andófsmenn sovézkir, sem ég hef talað við, hafa haft svipaðar skoðanir — og þó ákveðnari en ég, ef eitthvað er. Ég er í góðum félagsskap og hefði talið mig í sporum skoðanafanga, ef ég hefði ekki látið til mín heyra — kannski af ótta við viðbrögðin.

Fangi óttans vildi ég sízt af öllu vera.

Það jafngildir uppgjöf.

“Þú verður drepinn,” sagði afkastamikill marxisti við mig býsnaveturinn mikla.

Ég vissi hvað hann var að fara.

En ég vildi heldur vera “drepinn” vegna skoðana minna en lifa við vinsældir og virðingu vegna skoðanaleysis.

Svo mega allir hafa þær skoðanir fyrir mér, sem þeim hentar.

Ég vona, að það blað, sem ég hef ritstýrt um nær aldarfjórðungs skeið, beri þess einhver merki, að ég hef fremur ýtt undir, að mér öndverðar skoðanir séu birtar þar, en reynt að leggjast á þær. Stundum hef ég ekki verið sammála neinni skoðun, sem birzt hefur í Morgunblaðinu — nema í forystugreininni(!)

En ég ber litla virðingu fyrir sleggjudómum og meinyrðum, þótt ég virði pólitíska andstæðinga að öðru leyti.

Margt af því, sem Magnús Kjartansson hefur skrifað hef ég talið útópískan leikaraskap og gálgahúmor.

En vafalaust hef ég sjálfur gert mig sekan um slík tilhlaup oftar en sumum þykir góðu hófi gegna.

En ég hef haft lítinn áhuga á pólitískri þráhyggju.

Merkasti blaðamaður nú um stundir, Bernard Levin, segir á einum stað: frelsi er aðeins til fyrir og í einstaklingnum, en ekki ríki eða þjóðfélagi — og hann minnir á þau ummæli, sem eiga rætur að rekja til Evelyn Waugh: maðurinn á götunni er ekki til, einungis karlar og konur, sem hver um sig á eigin ódauðlega sál — og slíkt fólk þarf stundum á götum að halda.

Það er þetta fólk, sem á hug minn og hjarta, en ekki það fyrirbrigði, sem Magnús Kjartansson tönnlaðist á: alþingi götunnar.

Þó að menn gætu stokkið eins og kengúra, gætu þeir ekki hlaupið frá hjarta sínu, hefur G.B. Shaw sagt.

III

Mér hefur stundum fundizt við landvarnarmenn vera eins og síldin og ávextirnir sem Kirkegaard talar um og eru yzt í tunnum eða kössum og verða því fyrir hnjaskinu. En þeir sem eru í miðjum umbúðunum njóta góðs af og losna við hnjaskið.

Fátt skil ég betur en andstöðu við herstöðvar í landi fámennrar og vopnlausrar þjóðar. Og helzt vildi ég geta trúað því, að við lifðum í höggormslausum heimi.

En því miður stöndum við enn í sporum Adams og Evu.

Á voveiflegum tímum er það öðru fremur nauðsynlegt að láta raunhyggju ráða ferðinni. Óskhyggjan er góð, ef hún kostar okkur ekki lífið.

Það er ekki einasta raunhæft mat, að nauðsynlegt sé að tryggja öryggi Íslands í samstarfi við vestrænar lýðræðisþjóðir og þá með aðild að NATO og nú sem stendur — og af illri nauðsyn — með dvöl varnarliðs í landinu, heldur er það að mínu viti í senn áminning og aðvörn til þeirra sem bættu Afganistan í eggjakörfuna sína.

Stefna íslenzkra forystumanna 1949 og 1951 hefur reynzt kórrétt, margsönnuð af atburðarás heimsmála á undanförnum þremur áratugum.

Ísland er frjálst land og í góðum félagsskap.

Hitt er svo annað mál, að við höfum ekki leyft kjarnorkuvopn í landinu eða önnur þau vopn, sem nota má til árása eða útrýmingar og skulum við fylgja þeirri stefnu.

Gagnkvæm afvopnun er takmarkið.

En ég treysti ekki Andrópof einum fyrir kjarnorkusprengjum. Og ekki hernámsandstæðingum fyrir fjöreggi íslenzku þjóðarinnar. Þeir sigla undir fána óskhyggjunnar. Og barátta þeirra er sovésku hernaðarmaskínunni þóknanleg.

Það eru ekki meðmæli.

 

IV

Ég fór ungur til Sovétríkjanna, þá var ég sjóari.

Það var 1946.

Bjarni frá Hofteigi (Benediktsson blaðamaður og gagnrýnandi á Þjóðviljanum) hafði eftir það séð mig á Landsbókasafninu og þá oftast lesandi marxísk rit.

Þá hafði ég vonir um Matthías, sagði hann síðar.

En reynslan er bezti kennarinn. Ég tók hana fram yfir það, sem ég las í Landsbókasafninu.

Ekki sízt 19. aldar rit skeggjaða karlsins.

Ég var eindreginn stuðningsmaður þess á sínum tíma, að við Íslendingar byðum Solzhenitsyn að dveljast hér á landi eftir að hann var sendur í útlegð.

Ashkenazy sem kemur við sögu í Félagi orð sagði, að það sýndi betur en allt annað ást Íslendinga á frelsi og mannréttindum.

Málið kom fyrir Alþingi, en var drepið.

Af hverju?

Vegna þess þar sátu of margir með hugarfar sovézkra “friðarsinna”.

Þessi ræfildómur og undirlægjuháttur er einn ljótasti bletturinn á löggjafarsamkomunni.

Á hún þó um sárt að binda, þar sem orðstír er annars vegar.

Eitt er víst: ég treysti þeim ekki fyrir Íslandi sem stóðu gegn málstað Solzhenitsyns á Alþingi Íslendinga.

Og ég hef því miður ekki þá trú að róttæklingar láti í bráð af skotgrafarhernaði og fari að skiptast á skoðunum við okkur landvarnarmenn um öryggismál Íslands án brigzlyrða, svo að vitnað sé til tímabærrar ræðu Magnúsar Torfa Ólafssonar nýlega.

En vonandi kemur þó að því fyrr en síðar.

Þá munu áhrif þeirra aukast.

Það er kominn tími til að menn hætti að svara í austur.

Ég á ekki heitari ósk en þá, að þróun heimsmála verði með þeim hætti, að við þurfum ekki að hafa varnarlið í landinu.

En hver á ekki þá ósk?

Það er undir Sovétríkjunum komið hvenær hún rætist, en hvorki okkur né Bandaríkjamönnum eða öðrum NATO-þjóðum.

Starf mitt og reynsla hafa eflt með mér nægilegt raunsæi til að horfast í augu við hætturnar, enda þótt skáldi sé eiginlegt að hugsa með hjartanu.

Drengur upplifði ég hernumið Ísland í landi sem hafði lýst yfir “ævarandi hlutleysi”.

Það er ekki uppörvandi.

Nú gæti slíkt hlutleysi leitt til ævarandi ófrelsis.

Ég greini að sjálfsögðu á milli þjóðar og stjórnarfars.

Rússar eru stórmerkileg þjóð með stjórnarfar, sem þeir eiga ekki skilið og er þeim raunar ósamboðið.

Ég vona mér verði ekki legið á hálsi fyrir að rugla þessu tvennu saman.

Ég hef jafn mikinn áhuga á nánum tengslum okkar við rússnesku þjóðina og aðrar þjóðir austan tjalds eins og ég óska þess heitt, að við hljótum ekki stjórnskipulag þeirra og pólitísk örlög.

Af þeirri ástæðu einnig er Félagi orð saman sett.

Hún er e.k. stefnuskrá ritstjóra, sem hefur marga fjöruna sopið. Og hún varar við sömu meinsemd og fyrirferðarlítil bók sem er eitt merkasta ritið á bókamarkaði fyrir þessi jól, Árin dásamlegu eftir landflóttaskáldið austur-þýzka Reiner Kunze. Það er eftirminnilegt kver sem allir ættu að lesa; byggt á mikilvægri og dýrkeyptri reynslu. Þar standa þessi orð:

“Maður gerir ekki byltingu með því að atyrðast; maður gerir byltingu með því að bjóða fram lausn”.

Sem sagt: persónuat leysir engan vanda. Það er einungis hjakk í “hugmyndafræðilegum skotgröfum”.

Við þurfum að geta talazt við.

Án brigzlyrða.

Eins og við Magnús Kjartansson gerðum á góðum stundum.