Árið 1987
11. janúar
Melbourne, Flórída, 11. jan. '87; sent í Morgunblaðið
Einn Ísraelsmaður hefur verið kallaður Móses nútímans. Það er David Ben-Gúrion, fyrsti forsætisráðherra Ísraelsríkis. Þess var minnzt 1986 að 100 ár voru þá liðin frá fæðingu hans. Hann er í hópi sérstæðustu og eftirminnilegustu stjórnmálamanna sem ég hef hitt í löngu starfi.
Jörðin er einkennilegur staður. Á henni býr margt einkennilegt fólk. En hún hefur einnig hýst margt eftirminnilegt fólk.
Ben- Gúrion er í þeim hópi.
Nú eru ýmsir sem hafa horn í síðu gyðinga, oftast vegna þess þeir kunna öðrum mönnum betur að koma ár sinni fyrir borð. Andófsmaður í Sovétríkjunum sem er gyðingur hefur t.a.m. meiri tækifæri til að láta rödd sína heyrast á alþjóðavettvangi en aðrir Sovétborgarar vegna þess hve sterk samtök hann hefur að baki sér.
Við kynntumst þeim vel meðan á stórveldafundinum stóð í Reykjavík.
Sá sem lendir upp á kant við gyðinga á ekki sjö dagana sæla. Þess vegna gátu deilurnar við alþjóðasamtök gyðinga fyrir toppfundinn orðið Íslendingum dýrkeyptar og stofnað viðskiptasamböndum okkar í voða, ekki sízt vestan hafs. En það fór betur en á horfðist, ekki sízt vegna þess gyðingar bera hlýhug til okkar frá því Ísraelsríki var stofnað og kom það vel fram á landhelgisráðstefnunni í Genf 1960.
Sveinn Benediktsson gat verið gamansamur og talað um Hofsósdropann þegar hann minntist á skagfirzka Hafsteinunga.
Eitt sinn þegar ég hafði hrósað Hannesi Hafstein sem hann kunni ekki að meta horfði hann stórum augum á mig og gekk síðan þegjandi í burtu.
Næsta dag kom hann auga á mig, þar sem ég sat við borð á Hótel Borg ásamt Tómasi og öðrum vinum, gekk til mín og sagði grafalvarlegur:
"Það er Hofsósdropinn!"
Gekk svo burt án frekari athugasemda.
Ættfræðin dugði mér þessu sinni og ég vissi hvers kyns var.
Hofsósdropinn átti að hafa komið til landsins með dönskum gyðingum á sínum tíma og var Maren móðuramma mín af þeirri ætt. Stundum þegar við Sveinn höfðum talað saman í síma drykklanga stund og ég ætlaði að andmæla einhverju sem hann hafði sagt var hann fyrri til og sagði:
"Við segjum ekki meira í dag, vertu sæll," og lagði símtólið á.
Sveini líkaði ekki við gyðinga. Og ekki heldur Churchill. Ég heyrði þá bræður, Bjarna og hann, deila eitt sinn um Churchill.
Það var eftirminnilegt.
En þannig fékk ég Hofsósdropann beint í æð.
Hvað sem því líður þótti mér Ben-Gúrion viðkunnanlegur maður með eindæmum.
Ísraelsríki varð til úr miklum átökum, hefndum og hryðjuverkum. Gyðingar eru í glerhúsi þegar þeir ásaka aðra um hryðjuverk og ofbeldi. ‘’
En saga þeirra á sér margar skýringar einsog lesa má í Exodus, því mikla verki.
Þeir náðu ekki markmiðum sínum með öðrum hætti en hefndarverkum.
Nú brennur sá eldur á þeim sjálfum.
Sú guðsútvalda þjóð er svo sannarlega engin heilög þjóð. Mér skilst sumir leiðtogar hennar hafi jafnvel verið hryðjuverkamenn og átt aðild að Irgund zwei leúmi.
Begin var víst leiðtogi hryðjuverkamanna á sínum tíma þegar Ísraelsríki var í burðarliðnum. Samt var það hann sem náði beztum tengslum við Sadat og Egypta, en lifir nú ekkjumaður í sínum lokaða þunglynda heimi.
Mér er ekki kunnugt um að Ben-Gúrion hafi átt aðild að hryðjuverkum, þótt hann hafi sennilega á sínum tíma neyðzt til að hafa einhver tengsl við slík samtök.
Renana, yngsta dóttir hans, segir það hafi aldrei verið orðinu hærra á heimili þeirra.
Samt var enginn fastari fyrir en Ben-Gúrion.
Það leyndi sér ekki þegar ég átti samtal við hann í ráðherrabústaðnum laugardaginn 15. september 1962.
Það var enginn aukvisi sem sat andspænis mér.
Síðar hitti ég Goldu Meir.
Mér þótti þau einkennilega áþekk.
Manneskjulega hlý í viðmóti, full af áhuga á daglegu lífi fólks, skólum og heimilum og öðru sem öllu skiptir um heill manna og hamingju, en svo á hinn bóginn hörkutól inni við beinið.
"Heima var hann enginn leiðtogi," segir Renana um föður sinn.
Þar réð móðir hennar ríkjum.
Við sáum Pálu Ben-Gúrion í öllu sínu veldi heima á Íslandi en þó er mér minnisstæðust heimsóknin í Þjóðminjasafnið þegar hún sagði upp yfir alla um leið og hún benti gróflega móðguð eða sár á krossfestingarmynd af Kristi:
"Er þessi lygi komin alla leið hingað, þessi lygasaga um að gyðingar hafi krossfest son guðs?!"
Alla rak í rogastans en frúin var fræg fyrir að vera ekki að skafa utanaf hlutunum.
Nokkru síðar þegar fjaðrafokinu linnti spurði ég hana um Krist.
"Hann var ekki guðs sonur," sagði hún, "en hann var mikilmenni, snillingur.
Og umfram allt, þá var hann gyðingur."
Og við það sat, hvað sem öllum opinberum kurteisisvenjum leið.
Við sem vitum lítið um guð og tölum sjaldan um hann og þá helzt einsog góðan föður - en höllum okkur því meir að Kristi og guðdómi hans - höfum ýmislegt um viðbrögð frú Ben-Gúrion að segja án þess það skipti máli í sjálfu sér.
Andmæli hefðu ekki heldur haft nein áhrif á hana.
Og hún hefði getað bent á Albert Schweitzer sem var stórmenntaður og taldi sig kristinn mann en margir nefna hann snilling og bezta organista sögunnar, en hann sagði að Kristur hefði aldrei fullyrt að hann væri guð, e.t.v. trúað því að hann væri Messías og yrði að láta spádóma Daníels og Jesaja fullkomnast í sér.
Schweitzer sagði að Jesús hefði ekki verið guðs sonur heldur manns sonur, af húsi Davíðs.
Hann sagði ennfremur að Kristur hefði ekki verið guðlegur, heldur fengið guðlegan innblástur og á því væri munur.
Schweitzer bætti því við, að fólk þyrfti ekki neinn guð, það breytti mönnum í guði einsog kommúnistar Rússlandi.
"Ég þarf engan guð," sagði hann, "ég þarf enga kirkju, ég þarf engan mann. En í mínum augum var Jesús sá sem mest hefur verið innblásinn guðlegum anda og ég trúi því sem hann segir."
Þetta sagði Albert Schweitzer og við höfum vafalaust einnig sitthvað við þessi orð að athuga. En ég sé ekki betur en þau frú Ben-Gúrion séu á sama báti í grundvallaratriðum.
Fáa mat Páll Ísólfsson meir en Schweitzer og ég man ekki betur en hann sýndi mér bréf frá honum, en þeir skrifuðust á um tíma.
Páll hefur efalaust séð í gegnum fingur við Schweitzer í trúmálum, en sjálfur hélt hann sig við barnatrúna.
Hún nægði honum einsog okkur fleirum.
Þegar Renana spurði föður sinn að því fimm ára gömul, hvort guð væri til, kvaðst hann ekki vita það.
Samt varð hann forsætisráðherra mestu guðstrúarþjóðar sem við þekkjum.
En hann hafði yndi af Biblíunni, las hana spjaldanna milli og kunni sögu gyðinga út í æsar.
Mér skilst hann hafi einkum haldið upp á Sál konung og tekið hann fram yfir Davíð.
"Hann var sá konungur sem sameinaði ættbálkana," sagði Ben-Gúrion við dóttur sína.
David Ben-Gúrion kom í heimsókn til Íslands í september 1962 og var hér nokkra daga í boði Ólafs Thors. Það er með eftirminnilegustu störfum mínum sem blaðamanns að fylgjast með ferðum þeirra, ekki sízt til Þingvalla, og hef ég lýst því bæði í Morgunblaðinu á sínum tíma og síðar í ævisögu Ólafs.
Á Þingvöllum minntist Ben-Gúrion þess m.a. hve vinátta Íslands og Ísraelsríkis hefði ávallt verið mikil frá því Ísraelsríki var endurreist 1948, einsog hann tók til orða. Það var þá sem hann talaði um þjóðirnar tvær og sagði að þær ættu flest sameiginlegt, og þá ekki sízt bókina.
Íslendingar væru þjóð bókanna en Ísraelsmenn þjóð Bókarinnar.
Ólafi Thors líkaði vel við Ben-Gúrion einsog lýst er í Ólafs sögu. Hann sagði m.a. við mig að hann væri "með eindæmum geðfelldur maður". Hann kvaðst hafa haft jafn gaman af að hlusta á hann og horfa á hann.
En bætti svo við einsog honum einum var lagið:
"Auðvitað trúir því enginn að ég hafi þagað allan tímann!"
Ben-Gúrion sagði við Ólaf Thors að þeir Ísraelsmenn væru haldnir "ómótstæðilegri hugsjón", einsog Ólafur þýddi það fyrir mig.
Það væri allt og sumt.
Ísraelsríki væri ekkert kraftaverk.
En það er verk margra manna. Og þar kom Thor Thors ekki sízt við sögu eins og Abba Eban, utanríkisráðherra, leggur áherzlu á í ævisögu sinni.
Með forystu Thors Thors á þingi Sameinuðu þjóðanna áttu Íslendingar stórmikinn þátt í stofnun Ísraelsríkis og bera því siðferðilega ábyrgð á ríkinu, hvort sem mönnum líkar betur eða verr!
Ég gat þess að jörðina gisti margt einkennilegt fólk.
Sumir eru haldnir slíkum fordómum gegn Palestínumönnum að engu lagi er líkt.
Aðrir hata Ísraelsmenn einsog pestina.
Ég þakka mínum sæla fyrir að hafa aldrei orðið svo öfgafullum fordómum að bráð.
Það er ekki hægt að dæma þjóðir, heldur einstaklinga.
Og þeir eru alls staðar misjafnir.
Ísraelar hafa ávallt átt sína öfgamenn, rétt einsog við. En þegar fjallað er um gyðinga er skammt í sleggjudómana.
En það er margt fleira sem kallar á öfgafull viðbrögð.
Þannig varð sá merki bandaríski rithöfundur William Styron, höfundur Sophie's Choice sem margir Íslendingar þekkja, fyrir stórfelldum ofsóknum svertingja og vinstri sinnaðra menntamanna hér í Bandaríkjunum vegna skáldsögunnar The Confessions of Nat Turner um miðjan sjöunda áratuginn og var því jafnvel haldið fram að hann hefði ekki leyfi til að fjalla um svarta þræla, þótt hann væri Suðurríkjamaður, þar eð hann væri ekki svartur sjálfur og gæti aldrei skilið blökkufólk.
Styron átti lengi í vök að verjast einsog margir góðir rithöfundar fyrr og síðar, en beit frá sér og hafnaði þeirri skoðun að hann mætti ekki skrifa um svertingja af því hann væri sjálfur hvítur.
Þegar svo Sophie's Choice kom út átti Styron allt eins von á því að nú rykju gyðingar upp til handa og fóta þar eð þýzkum fangabúðavörðum er lýst sem fólki í sögunni en ekki eins og skynlausum skepnum.
En gyðingar sáu gegnum fingur við Styron og varð það honum talsverður léttir.
Gyðingar og vandamál þeirra hreyfa samt ávallt við tilfinningum manna, hvort sem viðbrögðin eru jákvæð eða neikvæð.
Ben-Gúrion og Golda Meir vöktu einatt jákvæð viðbrögð þrátt fyrir hörku og þá ómótstæðilegu hugsjón sem þau börðust fyrir.
David Ben-Gúrion varð reyndar e.k. persónugervingur þessarar hugsjónar.
Hann var þessi hugsjón holdi klædd, það fann maður við fyrstu kynni.
Og þá ekki síður sannindi þeirrar óvæntu athugasemdar Ólafs Thors að endurheimt hins forna Gyðingalands hafi hlotið að vera "nokkurs konar ljóðrænn draumur".
Í Ólafs sögu segir m.a.:
"Forsætisráðherrarnir stóðu á Lögbergi um fjögurleytið. Þingvellir höfðu svipt af sér gráum drunganum einsog íslenzka þjóðin svörtu myrkri ófrelsisalda, og blöstu nú við með ljósum himni og löngum skuggum, þar sem íslenzk saga studdist við sinn eðlilega bakhjarl, fjöll, hraun og helgi þessa sögufagra staðar.
Svo tært og blátt var landið frá Lögbergi að sjá, að engu var líkara en æðri máttarvöld hefðu vísað Grími geitskör á þennan stað, einsog þegar Drottinn guð vísaði Ísraelsmönnum Biblíunnar veginn heim.
"Sjá ég fæ yður landið. Farið og takið til eignar landið, sem Drottinn sór feðrum yðar: Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim og niðjum þeirra eftir þá."
Sigurður Nordal minntist nú á þingmenn til forna og sagði:
"Hérna stóðu þeir og töluðu við fólkið."
Það var einsog galsi hlypi í Ben-Gúrion og með gyðinglegu stolti og sannfæringarkrafti benti hann til himins og sagði:
"En heyrðu þeir rödd Guðs frá þessum stað?"
Sigurður Nordal benti á tvo kletta á vesturbrún Almannagjár og lítinn stein á milli þeirra og sagði:
"Þessi steinn hefur verið þarna í þúsund ár, við getum spurt hann."
Ben-Gúrion virti klettana fyrir sér og sagði við Ólaf Thors:
"Þessi björg eru táknræn fyrir þjóð yðar.
Hún er klettur."
Það líkaði Ólafi Thors vel.
Renana Ben-Gúrion segir að faðir hennar hafi ekki haft sérstakan áhuga á listum og takmarkaðan á bókmenntum. Taldi tímasóun að lesa langar skáldsögur, svo misjafnar sem þær væru.
Las þó Dostójevski sér til ánægju.
Hann hafði andúð á þýddum skáldskap.
"Það er einsog að kyssa kvenmann gegnum vasaklút að lesa þýðingar," sagði hann.
Hann lærði grísku til að geta lesið Aristoteles og Sófókles á frummálinu og fékk sér einkaritara sem gat kennt honum að lesa Cervantes á spænsku.
Ben-Gúrion kunni ekki almennilega að meta tónlist og helzt ekki málverk, jafnvel ekki Chagal.
Hann hafði því meiri áhuga á eðlisfræði og kvaðst mundu hafa orðið eðlisfræðingur hefði hann átt þess kost að lifa aftur.
Hann gat rætt langtímum saman um það, hvort maðurinn væri vél.
Stjórnmál voru honum ekki meiri ástríða en svo að hann talaði helzt ekki um þau nema hann mætti til og aldrei við börn sín.
Honum þótti vænt um hvað Renana var ópólitísk.
Hún er þó nógu pólitísk til að fyrirlíta þá félaga föður hennar sem hún telur að hafi svikið hann og eru bæði Abba Eban og Golda Meir í þeim hópi.
Hann elskaði Moshe Dayan, hermálaráðherrann eineygða, segir dóttir hans í samtali sem ég hef stuðzt við og birtist í Jerúsalem Post fyrir skömmu.
Nú séu allir að viðra sig upp við minningu föður hennar, en þeir hafi ekki einu sinni virt síðustu ósk hans - að nefna ekki götur eða opinbera staði eftir honum.
Sagan er merkur spegill og mikilvæg viðmiðun. Það getur verið hollt að horfa í hann og spyrja um eitthvað annað en hver sé fegurst á landi hér einsog vonda drottningin í Mjallhvít.
Stutt er síðan stórveldafundur var haldinn í Reykjavík.
Það var mikil landkynning en mér er til efs að hún endist okkur einsog efni standa til.
Tíminn gleypir allt einsog öskuhaugur.
Og skilar fáu.
Nú þegar finnur maður að fundurinn er orðinn að óljósri minningu hér í Bandaríkjunum. Þó dúkka enn upp myndglefsur frá Höfða í fréttum CNN-sjónvarpsstöðvarinnar.
Senn mun fundurinn heyra sögunni til.
En hann var þó haldinn.
Annar fundur var aldrei haldinn, sá sem Ben-Gúrion óskaði eftir með Nasser Egyptalandsforseta. Tilboðið kom fram í samtali mínu við hann í Morgunblaðinu 16. september 1962 og varð heimsfrétt.
Í þessu sama samtali segist Ben-Gúrion alltaf hafa litið á Palestínu sem ættland sitt, en ekki Pólland þar sem hann var fæddur og uppalinn.
Honum líkaði ekki hvernig Rússar reyndu að breyta því eftir sínu höfði.
Hann kveðst hafa haft Biblíuna að leiðarljósi einsog allir gyðingar og einkum stöðvað við það sem guð segir við Abraham:
"Börnum þínum hef ég gefið þetta land. Vit það fyrir víst að niðjar þínir munu lifa sem útlendingar í landi sem þeir eiga ekki."
"Í þúsund ár hefur þetta loforð verið vegvísir okkar og nú hefur það verið uppfyllt.
Og ég hef alltaf verið þess fullviss, að svo mundi fara."
Síðan segir Ben-Gúrion vegna ummæla Pálu konu hans í Þjóðminjasafninu, að Jesús hafi ekki verið sonur guðs frekar en hver annar,
Páll hafi misskilið orð hans og lagt í þau bókstaflega merkingu.
Jesús hafi átt við að hann væri guðs sonur með sama hætti og gyðingar trúi því að guð hafi skapað alla hluti; að hann sé í öllu og alls staðar.
Ben-Gúrion er ekki einn um það að telja sig vita, hvað Kristur átti við, svo margræð og heillandi er dulúðin í orðum hans.
Og eitt er víst:
Kristur er engum líkur. Í honum rúmast allt, allt.
Samt skrifaði hann aldrei stafkrók.
Sjálfur kvaðst Ben-Gúrion trúa á sama guð og Kristur. Hann sé enginn efnislegur guð, enginn góðlegur faðir í venjulegri merkingu þess orðs, heldur guð sem sést ekki en sé þó alls staðar.
Móðirin stóð Ben-Gúrion nær en faðirinn.
Honum varð tíðhugsað til móður sinnar sem hann missti ungur.
"Þetta var einnig guð Jesú Krists," bætti Ben-Gúrion við í samtali okkar.
Síðan talaði hann um spámennina og sagði að þeim mætti treysta. En spádómar Biblíunnar væru fólgnir í því að skilja lögmál náttúrunnar, óskir og þarfir mannsins. En ekki að segja fyrir um óorðna hluti.
Sem sagt: e
ngar spákerlingar(!).
"Og þeir eru alls ekki nein kraftaverk," bætti hann við.
"Öll viljum við byggja nýtt land," sagði hann, "það er einhver þörf í okkur sem krefst þess."
Kveðjuorð David Ben-Gúrions til Íslendinga voru þessi: "Þið eigið hjarta með logandi eldi, en höfuð ykkar er fullt af ís."
30. janúar og 6. febrúar
Melbourne, Fla., 30. jan. og 6. febr. '87
Í sjónvarpssamtali sem Margrét Heinreksdóttir,blaðamaður, átti við mig í tilefni af leiðtogafundinum heima í haust spurði hún um blaðamannafundinn með Kissinger og áður Pompidou á Kjarvalsstöðum eftir fund þeirra Nixons þar í júní 1973 og þá einnig um blaðamannafundinn með Krúsjov í Palais de Chaillot eftir að fundur þeirra Eisenhowers í París hafði verið blásinn af vegna U-2 hneykslisins uppúr 1960.
Ég hef áður skrifað um Krúsjov-fundinn og vísa í Hugleiðingar og viðtöl, en þegar ég fór að hugsa um Pompidou-Nixon-fundinn stóð ég mig að því að hafa gert hann að afdráttarlausari reynslu en efni standa til. Að vísu var hann okkur íslenzkum blaðamönnum mikil áskorun í harðri samkeppni við heimspressuna en þó ekki meiri en margt annað sem á undan var gengið og minna hefur farið fyrir.
Þegar ég fór að skoða hug minn eftir samtalið við Margréti fannst mér ég þurfa að rifja í góðu tómi upp annað sem var mér mikilvæg reynsla og nauðsynlegur undirbúningur þess sem síðar varð.
Nú er loks tækifæri til þess.
Á sínum tíma tók það t.a.m. mjög á taugarnar að tala við McCarthy í Washington. Það var í mestu látunum sumarið 1954, þegar hann tók að höggva nærri skurðgoðunum, Eisenhower forseta og Marshall herráðsforingja, sem voru nánast heilagir menn í Bandaríkjunum eftir stríð.
Þetta var líka upphafið að endalokum McCarthys, slangan ætlaði sér of stóran bita.
McCarthy var ofstækismaður, það vissi ég vel, en það er ekki hlutverk blaðamanna að kveða upp persónulega dóma um menn og málefni, þegar þeir afla frétta, heldur koma staðreyndum til skila.
Og það hef ég reynt að gera.
McCarthy kom vel fyrir. Hann var þægilegur maður í viðmóti þrátt fyrir ofstækið. Einhverjir hafa haldið að viðmót hans hafi villt mér sýn því Þjóðviljinn kallaði mig margoft mccarthýista eftir að ég hafði skrafað við hann. Skrifaði ég þó mikið samtal við Arthur Miller í þessari ferð, þ.á m. um Deigluna og lýsti því hvernig hún fjallar öðrum þræði um mccarthýismann í Bandaríkjunum.
Ég rakst á McCarthy í neðanjarðarganginum við þinghúsið í Washington, rauk á hann, sagði hver ég væri og bað um samtal.
Þessi fjölmiðlafrægi eða kannski frekar fjölmiðlaóði öldungadeildarþingmaður horfði sem snöggvast á mig, brosti svo og beraði hvítar tennurnar þarna í kolsvartri skeggrótinni og baðst afsökunar á því hann væri að flýta sér til að greiða atkvæði í Öldungadeildinni, en hann skyldi koma til baka að stundarfjórðungi liðnum, ef ég nennti að bíða, og tala við okkur Íslendingana, því að ég var með nokkrum stúdentafélögum mínum á þessu ferðalagi.
Ég beið að sjálfsögðu, en átti nú satt að segja ekki von á að þingmaðurinn kæmi aftur.
En þá birtist hann þarna eftir nákvæmlega 15 mínútur og tók nú að spyrja okkur spjörunum úr um íslenzk málefni, svo að mínar spurningar urðu nánast aukaatriði.
Ég gleymi því aldrei, hvað ég varð undrandi, þegar McCarthy spurði okkur, hvort Hannibal Valdimarsson væri ekki kommúnisti.
Og svo nefndi hann einhverja fleiri, en við svöruðum neitandi og þá var einsog hann missti áhugann á samtalinu og kvaddi okkur, en þó eins vingjarnlega og hann hafði heilsað.
En þekking hans á Íslandi og íslenzkum málefnum var ótrúleg, svo ekki sé meira sagt.
Síðar hitti ég Fulbright á þessum sömu slóðum og við ræddum um Víetnamstríðið sem hann var algerlega á móti eins og fram kemur í Morgunblaðinu um miðjan sjöunda áratuginn.
Fulbright var stórmerkilegur stjórnmálamaður og minnisstæður.
Hann kom síðar til Íslands.
Grómýkov var erfiður á Keflavíkurflugvelli og bjó um sig í e.k. járntjaldi ásamt aðstoðarmönnum sínum en um það var ekki spurt, svo fréttnæmar sem ferðir hans þóttu.
Það var eldraun að komast að honum.
Fáir voru eins vel á verði gagnvart fréttamönnum og hann.
En þetta var góð æfing, og nú er hann orðinn forseti Sovétríkjanna.
Eitthvað er um þetta í Hugleiðingum og viðtölum, en ég man það ekki gjörla og engar heimildir tiltækar hér í Bandríkjunum.
Mig minnir þó að Magnúsi Kjartanssyni hafi í síðari heimsókn Grómýkovs til Íslands verið rétt skriflegt samtal á Keflavíkurflugvelli sem svar við einhverjum spurningum Þjóðviljans.
Tass hafði að ég held annast milligönguna.
Þetta plagg þótti rós í hnappagati þeirra félaga....
..........Meðan Gorbasjov svaraði spurningu minni í Háskólabíói eftir fund þeirra Reagans í Höfða fann ég til stolts yfir því, hvað íslenzk utanríkisstefna hefur verið markviss og farsæl, enda sniðin að hugmyndum Bjarna Benediktssonar og þarf þá ekki að sökum að spyrja.
Aðildin að NATO auðveldaði ekki sízt útfærslu fiskveiðilögsögunnar á sínum tíma.
Og nú koma Sovétleiðtogar til Íslands eins og að drekka vatn, eins og Gorbasjov sagði í Háskólabíói.
Sovétleiðtogi mundi aldrei lenda á Keflavíkurflugvelli ef Rússar héldu að hann væri bandarísk eldflaugna- og kjarnorkustöð til árása á þá.
Þeir vita betur.
Þar höfum við hitt Gagarin og Mikojan, skemmtilegan karl og áhrifamikinn sem ég skrifaði tvö samtöl við og minnir hann hafi boðið mér til Sovétríkjanna.
Eða var það Gromykov?
Ég man það ekki lengur, enda var þetta bara "amerísk" kurteisi!
Furtseva hafði vaðið fyrir neðan sig þegar ég talaði við hana í Ráðherrabústaðnum, henni datt ekki í hug að bjóða mér austur. Töluðum við þó lengi saman og féll mér vel við hana þótt við værum ekki sammála í trúmálum eins og fram kemur í Hugleiðingum og viðtölum!
Málverkið af Bjarna Benediktssyni yfir fundi þeirra Reagans og Gorbasjovs í Höfða var táknræn staðfesting á farsælli utanríkisstefnu okkar.
Sá fundur sem ég held þó að hafi verið lærdómsríkastur fyrir sjálfan mig var haldinn í húsakynnum vestur-þýzka þingsins í Bonn í nóvember 1972.
Ég hafði verið í Þýzkalandi og m.a. skrifað um kosningarnar og Ólympíuleikana sællar minningar, en þá var haldinn þessi þingmannafundur Atlantshafsbandalagsins í Bonn og fór ég þangað.
Þetta var í miðri landhelgisdeilu og mikið í húfi fyrir okkur.
Á þessum fundi voru margir merkir stjórnmálamenn en aðsópsmestur var sigurvegari kosninganna, Willy Brandt, kanslari.
Hann hafði komið til Íslands og var mörgum hnútum kunnugur hér á landi.
Og það hafði einmitt verið á NATO-fundi í Reykjavík 1968 sem hann hafði fyrst kynnt Ostpolitik sína með því sem kallað er Merkið frá Reykjavík (Das Signal von Reykjavík).
Þá komst Ísland rækilega inn í heimsfréttirnar og raunar sögubækur líka.
Langar greinar og miklar eru í Morgunblaðinu um kosningarnar í Vestur-Þýzkalandi 1972 og einnig talsvert um þingmannafundinn.
Í einni greininni er minnt á orð Bjarna Benediktssonar þess efnis, að sífellt tal um efnahagsmál þreyti kjósendur til lengdar, það þýði aldrei að segja fólki að það hafi það gott eða vont, það gái bara í budduna sína og dæmi sjálft.
Frá þingmannafundi NATO er mér tvennt minnisstæðast, samtal við Edward Kennedy,öldungadeildarþingmann, og Walter Scheel, utanríkisráðherra Brandts.
Báðir voru þeir hálfgerð ólíkindatól.
Ég vatt mér að Kennedy þarna í salarkynnum þingsins og talaði við hann drykklanga stund, m.a. um hernaðarlegt mikilvægi Íslands.
Hann var þá eitthvað á skakk og skjön við varnarstefnu stjórnar sinnar, ef ég man rétt, en sagði að Ísland væri NATO mikilvægara en nokkru sinni.
Ég bað hann um samtal um þetta efni, en þá kom á hann eitthvert hik, hann leit hálfflóttalega á mig fannst mér og sagði:
Ég verð með blaðamannafund hér á eftir, geturðu ekki komið á hann og spurt mig þessara spurninga?
Ég gat ekki annað en jánkað því.
Þá get ég notað tækifærið, bætti hann við. og talað inní heimspressuna.
Ég þóttist nú vera með hana í höndunum, en hann var víst ekki alveg sammála því.
Svona köllum er heimspressan margnefnd eins og hvert annað fíkniefni.
Ég býst þá við þér á blaðamannafundinn, sagði hann og hélt leiðar sinnar.
Ég hef aldrei verið hrifinn af öldungadeildarþingmanninum og ekki drógu þessi kynni úr fordómum mínum gagnvart honum.
Bjarni Benediktsson hafði sagt við mig eftir hneykslismál Edwards Kennedys - við vorum þá á gangi í brekkunni við Lögberg - að það væri svo mikið áfall fyrir bandarískt réttarfar, að mál hans,þegar stúlkan drukknaði í bílnum hjá honum, skyldi látið niður falla, að Bandaríkjamenn væru ekki búnir að bíta úr nálinni með það.
Slíkt réttarhneyksli mundi fylgja Bandaríkjunum um mörg ókomin ár.
Mér finnst eftir á að Bjarni hafi farið með spásögn á helgum stað og í raun hafi hann verið að tala um Watergate með einhverjum dularfullum hætti, en ég skynjaði það ekki eins og á stóð.
Ég kom svo á blaðamannafund Kennedys og voru þar saman komnir nokkrir fréttamenn, en þó einkum frá Grikklandi, Tyrklandi og Ítalíu og einhverjum löndum þar sem málefni Íslands eru ekki daglegt brauð og því síður áhugaefni blaðalesenda.
Morgunblaðið sæti þá eitt að fundinum.
Og þarna var Joan, þáverandi kona Kennedys, og engu líkara en hann talaði stundum til hennar, þegar hann svaraði spurningum blaðamanna, en fundurinn hófst með yfirlýsingu hans um alþjóðamál og var engu líkara en kona hans drykki í sig hvert orð sem hann sagði.
Ég bar svo fram spurningar eins og um var talað og svörum þingmannsins var slegið upp í Morgunblaðinu daginn eftir, svo hann varð að láta sér þá heimspressu nægja í það sinnið.
En þetta hafði verið talsverð eldraun og lærdómsrík, ekki síður en hitt atriðið sem festist í huga mínum.
Þegar ég kom auga á Scheel gekk ég til hans og spurði um landhelgisdeiluna.
Karlinn varð fúll við og engu líkara en ég hefði sett nýblóðgaðan rígaþorsk í andlitið á honum.
Hann hrökk við, leit á mig, fór undan í flæmingi og sagði:
"Ég vil ekki tala um fisk. Þér ættuð að tala við Ertl landbúnaðarráðherra. Ég vil ekkert segja um landhelgisdeiluna."
Þetta var kollrak.
Gat verið að fiskur væri einkamál landbúnaðarráðherra Vestur-Þýzkalands?
Eða hafði utanríkisráðherrann, svo fínn og pjattaður sem hann var, ímugust á fiski?
Ég stóð þarna ráðþrota og við horfðumst í augu grámyglur tvær.
Svo fauk í mig og ég kvaddi í styttingi.
Vinátta og samskipti þjóðanna, einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslands, í húfi - og allt útaf þessum yfirborðslega kalli sem hafði augsýnilega ógeð á duggarapeysum, en kunni þeim mun betur við sig innan um fínt fólk í veglegum veizlum.
Ég vissi ekki þá að hann stefndi á forsetaembættið og kom mér reyndar ekki á óvart, þegar ég frétti það síðar.
Í þessum svifum var ég svo heppinn að sjá Brandt þarna skammt undan og var asi á honum.
Ég gekk til hans, ávarpaði hann á þýzku og sagði:
"Herra kanslari, ég er blaðamaður við stærsta blað Íslands, Morgunblaðið, og ætlaði að tala við utanríkisráðherra yðar um deilumál þjóðanna en hann sagðist ekki hafa áhuga á fiski!"
Kanslarinn hrökk við:
"Ha, sagði hann dolfallinn, hefur hann ekki áhuga á fiski?"
"Nei," sagði ég, "hann vísaði bara á Ertl."
Jæja, sagði kanslarinn og var nú hættur að haska sér, spurðu bara um það sem þú vilt og ég skal reyna að svara spurningunum.
Við töluðum saman nokkra stund og síðan hefur mér ávallt verið hlýtt til Willy Brandts. Eftir honum hafði ég fimm dálka frétt á forsíðu Morgunblaðsins fimmtudaginn 23. nóvember þetta ár,
Leggjum okkur fram um að ná samkomulagi.
Þetta var bezta veganestið sem ég tók með mér frá Bonn.
Íslendingar áttu ekki að tala við neinn nema kanslarann sjálfan.
Ertl var eitthvað að staglast á Alþjóðadómstólnum í Haag sem yrði Vestur-Þjóðverjum vonandi hagstæður og Scheel talaði eitthvað við Einar Ágústsson, en ekki legg ég mikið upp úr því samskrafi eftir að hafa hitt Scheel sem mér finnst hafa verið uppskafningur og minnti mig einungis á norska stjórnmálamanninn Korvald sem ég þurfti að snúa mér til í Danmörku, árangurslaust.
Þá var eitthvað annað að tala við menn eins og Koivisto, Anker Jörgensen, K.B. Andersen, Jörgen Jörgensen og Sorsa.
Jörgen gamli Jörgensen var klettur.
Án hans hefðum við aldrei fengið handritin. Hann minnti mig talsvert á Danvid Ben-Gurion. Þeir áttu áreiðanlega margt sameiginlegt.
Það var einkum þingmannafundurinn í Bonn sem var gott veganesti á blaðamannafundinum með Kissinger sem Margrét Heinreksdóttir minntist á.
Hún mátti svo sem vita hvernig sá fundur var.
Hún var þar sjálf, þegar Kissinger fékk beint í æð, eins og krakkarnir segja, hvernig Bretar voru að skjóta Ísland úr NATO með ofbeldi á miðunum og lýsti því yfir að Bandaríkjastjórn mundi gera allt sem í hennar valdi stæði til að leysa landhelgisdeiluna.
Það er langt síðan ég gerði mér grein fyrir því, hvílík áhrif við getum haft á alþjóðavettvangi með aðildinni að NATO.
Áhrif okkar eru margfalt meiri en stærð okkar og bolmagn.
Við höfum í raun ráðið ferðinni í hafréttarmálum vegna varnar- og öryggisstefnu okkar sem er öðrum vestrænum þjóðum mikilvæg, en okkur lífsnauðsyn, þótt því sé stundum gleymt.
Vinátta NATO-ríkja er hagsmunavinátta.
Hún er ekki verri fyrir það.
Bretar voru keyrðir í kaf í aðalstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel og komust ekki upp með moðreyk í þorskastríðunum og Bandaríkjamenn hafa aldrei beitt sér gegn okkur, þótt hugur þeirra hafi staðið til þess einsog í hvalveiðideilunni.
Kissinger segir í ævisögu sinni að hann hafi talað tungum tveim vegna varnarstefnu okkar og er það harla athyglisvert.
Hann harmar raunar mikil áhrif smáríkja einsog Íslands og tekur landhelgisdeiluna sem dæmi um ógnaráhrif smáríkja.
En á blaðamannafundinum fór hann með löndum.
Við þekktum ekki hjarta hans, þótt ég hafi talið það slá með okkur.
Nú sé ég það er rangt mat.
Kissinger var einungis kaldrifjaður raunsæispólitíkus. Þess vegna var hann varkár og hafði áhuga á því að leysa mál okkar.
Öryggisstefna vestrænna ríkja var í húfi.
Allt er í deiglunni.
Og jörðin að fara úr púpunni.
Við höfum nýtt okkur þetta ástand vel.
Við höfum leikið á marga strengi.
Við þurfum ekki að fyrirverða okkur fyrir, hvernig við höfum haldið á okkar málum.
Þvert á móti.
Við höfum notað aðstöðu okkar einsog refurinn.
Við höfum jafnvel komizt upp með að þykjast vera ljón.
Allt vegna aðildar okkar að NATO(!)
Og þá - ekki síður vegna þess Taleyand,utanríkisráðherra Napoleons, er enn með puttana í heimsmálunum! Kissinger minnir um margt á Tallerand.
Hann er svalur og sjókaldur á hverju sem gengur.
Mér er nær að halda að Kafka hafi fengið þá flugu í höfuðið úr Nótum úr neðra eftir Dostojevski að breyta manni í skordýr.
Auðvitað eru slík hamskipti kunn úr miklu eldri verkum, en þau koma einhvern veginn kunnuglega fyrir sjónir í rússnesku umhverfi, bæði fyrr og síðar.
Krúsjov svaraði engum spurningum á blaðamannafundi sínum í Palais de Chaillot. Að lokinni hálfsannars tíma ræðu sinni strunsaði hann út úr þessari sögufrægu höll þarna í París og hafði þá aukið alin við sögufræð hennar.
Ég var í aðeins nokkurra metra fjarlægð frá honum.
Engin vopnaleit.
Líklega hefur heiminum heldur hrakað frá því í upphafi sjöunda áratugarins.
Pólitískir morðingjar og hryðjuverkamenn hafa komið óorði á mannskepnuna. Mátti hún þó ekki við frekari áföllum.
Við þurftum að gangast undir mjög nákvæma vopnaleit í anddyri Háskólabíós,á leið á Gorbasjefs-fundinn.
Ísland er komið í hringiðuna og betra að fara varlega!
Það var ógleymanlegt að standa þarna í Palais de Chaillot við hlið manna eins og Edwards Crankshaws, sem var mesti sovétsérfræðingur um sína daga og sagði fyrir um fall Beria, m.a. í Observer-grein í Morgunblaðinu sem mig minnir að Þorsteinn Thorarensen hafi þýtt í snarhasti og það var einnig hann sem skrifaði skúbbið um fall Beria í blaðið.
Í þá daga mátti búast við heimsdrama hvern dag, ef ekki heimsendi.
Það var eitt sem sótti á hug minn öðru fremur eftir blaðamannafund Gorbasjovs í Háskólabíói.
Það var hvernig Gorbasjov sneri máli sínu til landvarnaráðherra síns í miðju einu svarinu og spurði um einhver tæknileg atriði, mig minnir í sambandi við kjarnorkuvopn í kafbátum, en skiptir ekki máli.
Þannig hafði Krúsjov einnig talað í París eins og hann hefði allan tímann aðhald af Malinovski, hermálaráðherra sínum, og gleymdi ekki að skírskota til hans í ræðu sinni.
Hershöfðinginn sat þarna eins og bjarndýr og sagði ekkert.
Nærvera hans var nóg áminning um völd og áhrif Rauða hersins.
Hershöfðingi Gorbasjovs tók aftur á móti þátt í blaðamannafundinum, bæði með nærveru sinni og upplýsingum.
Leiðtogar Sovétríkjanna ganga ekki fram hjá hershöfðingjum sínum og gæta þess ávallt að minna á tilvist þeirra á stórum stundum.
Stalín varð hált á því að drepa Túkasjevski og aðra helztu foringja Rauða hersins sem hann óttaðist eins og pestina.
Þessar hreinsanir kostuðu hann næstum því styrjöldina.
Thomas Powers, höfundur merkrar greinar í Discover, minnir á, að Tocqueville sem skildi Bandaríkin öðrum útlendingum betur hafi sagt, að Bandaríkjamenn telji sig vera eina á báti og hafi tilhneigingu til að ímynda sér að örlög þeirra séu ávallt í þeirra eigin höndum.
Sem sagt:
Að þeir geti ekki treyst á neitt nema sjálfa sig.
Geimvarnaáætlunin verður víst ekki metin á öðrum forsendum.
Og afstaða Rússa þá ekki heldur nema haft sé í huga, að þeir hafa alltaf átt sér leyndan draum um heimsyfirráð.
En Powers minnir einnig á, að enginn geti unnið kapphlaupið út í geiminn, þar geti ekki verið um neinn endanlegan sigur að ræða.
Í Discover er bent á, að Teddy Roosevelt ,Bandaríkjaforseti, hafi talað um, að bezt sé að bera stóran písk,ef menn tali mjúklega.
Þessi orð séu ný útgáfa af því sem Rómverjinn Vegitius sagði:
Si vis pacem, para bellum, sem útleggst: Ef þú vilt frið, skaltu búa þig undir hernað.
Vegetius var uppi á fjórðu öld.
Bretar gleymdu þessum orðum, þegar þeir stóðuandspænis Hitler gráum fyrir járnum fyrir síðustu heimsstyrjöld.
Þetta er e.k. inngangur að meginefni þessa bréfs. Ég hef verið spurður, hvað mér hafi fundizt eftirminnilegast við stórveldafundinn og því þurft að gaumgæfa það með sjálfum mér.
Allt það sem ég nú hefi reifað er að sjálfsögðu minnisstætt, raunar sögulegt, og ómetanlegt að hafa upplifað þennan merka fund sem blaðamaður.
En eftir á að hyggja leitar annað öðru fremur á hug minn:
Örlög sovéska andófsmannsins og gyðingsins Mikhails Shirmans sem ég hitti í blaðamannamiðstöðinni í Hagaskóla og talaði við.
Hann hafði mikil áhrif á mig; þessi þögulu en mælsku augu, þessi nærvera dauðans í fölu andliti.
Og hér í fjarlægð frá stund og stað leita þessi augu og þetta andlit æ sterkar á huga minn.
Ég sé hann fyrir mér, þar sem hann situr og minnir á sjúkdóm sinn. Hann segir mér að vonir sínar séu bundnar við það að tvíburasystir hans, Ínessa, fái að koma til Ísraels þar sem hann býr og gefa honum beinberg til að berjast við hvítblæði sem hrjáir hann.
Ég hafði fylgzt með honum á tveimur blaðamannafundum.
Á þeim fyrri var einnig Alex Goldfarb, sonur Davids Goldfarbs sem fékk leyfi til að flytjast vestur um haf.
Hann þjáist af sykursýki.
Það var eftirminnilegt að hlusta á talsmenn sovétstjórnarinnar, og þá einkum Gerasimov, segja Alex að hafa samband við þá að loknum blaðamannafundinum á Sögu og það gerði hann.
Við vorum skammt undan og engu líkara en Gerasimov teldi sig geta svarað syni Davids Goldfarbs jákvæðar en venja er við slíkar aðstæður.
Við sáum eftir á, að Rússar höfðu þá þegar ákveðið að láta Goldfarb lausan.
En Shirman var úti í kuldanum.
Ég ætla að fara út á Hótel Sögu, sagði hann við mig heldur dapur í bragði, stóð upp í miðju samtali og gekk veiklulega út.
Ég sá hann ekki aftur og nú er mér sagt að litlar vonir séu til þess að beinmergur Ínessu systur hans komi að gagni eins og það dróst á langinn að hleypa henni úr landi.
Shirman sagði að hann bindi miklar vonir við mergflutninginn og get ég ímyndað mér, hvernig honum líður.
Hann var fullur af beizkju, kannski hatri, og talaði um sovétleiðtogann í Höfða sem "manninn sem er að myrða mig".
En ég átti heldur erfitt með að skilja hann og því verður ekki sagt meira frá samtali okkar.
Og þarna sat Shirman í anddyri Hótels Sögu, einn með hugsunum sínum og minnti Rússa og allan heiminn á örlög sín og ofbeldi sem engu er líkt.
Við Björn Bjarnason buðumst til að koma bréfi frá honum til ráðherranna Davíðs Oddssonar og Matthíasar Á. Mathiesen með ósk um að þeir beittu áhrifum sínum til að Ínessa fengi að fara til Ísraels.
Ég held ekki þessi bréf hafi átt neinn þátt í því að hún komst vestur, því að Rússar veittu henni og manni hennar brottfararleyfi fljótlega eftir fundinn í Reykjavík og segir Shirman að nærvera hans þar hafi ráðið úrslitum um það.
En ég á í fórum mínum þakkarbréf til Morgunblaðsins frá Shirman og mun varðveita það öðru fremur til minningar um þann fund sem færði Ísland að miðju heimsins.
Við verðum að trúa því að forsendur friðar og jafnvægis séu frelsi þjóða og einstaklinga.
Þess vegna eru menn eins og Shirman e.k. safngler sem brennir samvizku okkar og minnir óþyrmilega á takmörk mannsins; harmleik sem á upptök sín í fjöldamisskilningi á verkum gamalla heimspekinga, einkum Karls Marx.
Það er satt að segja með ólíkindum, hvað margir hafa þó misskilið hann rétt!
Það er fórnardýr þessa löngu dauða, "borgaralega" þýzka heimspekings sem er mér efst í huga, þegar ég horfi um öxl og reyni að gera mér einhverja grein fyrir stórveldafundinum,; þetta fórnardýr gamalla athyglisverðra kenninga sem urðu úreltar á því andartaki sem þeim var hrint í framkvæmd; tákn gúlags sem átti að verða mannúðarríki kommúnismans samkvæmt boðskapnum sem svo miklar vonir voru bundnar við, misskilningurinn Mikhail Shirman; þessi harmleikur aldarinnar af holdi og blóði.
Samkeppni er ekki fyrir listamenn, heldur hesta, sagði Bela Bartok.
Hún er ekki heldur fyrir þjóðir.
Hún eyðileggur þjóðir.
En samkeppni lækkar vöruverð á markaðnum.
Þar skilur hún engan Mikhail Shirman eftir úti í kuldanum, kannski einungis þar.
M. Shirman lézt skömmu eftir að þetta er skrifað.
26. febrúar
Melbourne, Fla., 26. febr. 87
......Pólitískri heimspeki Sjálfstæðisflokksins og raunar siðferðilegri afstöðu hans til samskipta fólks og efnahagslegs frelsis, ef svo mætti segja, er einna bezt lýst finnst mér í samtali og viðskiptum Siddhartha og kaupmannsins í skáldsögu Hermanns Hesse.
Þegar kaupmaðurinn spyr þennan fátæka bramason, sem hefur yfirgefið hús foreldra sinna og leitar viðstöðulaust að óminu í brjósti sínu, eða friði og fullkomnun, og vill reyna allt til að svala þessari ástríðu sinni, hvort hann eigi eitthvað, svarar hann því neitandi og þá spyr kaupmaðurinn, hvort hann hafi lifað á eignum annarra?
Já, segir Siddhartha, en gera kaupmenn það ekki líka?
Kaupmaðurinn verður hrifinn af svari unga mannsins og að samtali þeirra loknu býðst hann til að hjálpa honum að komast í álnir.
Þá getur Siddhartha náð takmarki sínu persónugerðu í Kamölu hinni fögru.
Að vísu eiga allir eitthvert slíkt takmark og boðskapur Hesse er síður en svo fólginn í því að Siddhartha geti fundið hamingju sína og fullkomnun í veraldlegum munaði, þótt Kamala skipti hann ávallt miklu máli.
Ómið syngur í brjósti hans, þessi dýrmætasti fugl allra fugla, og enginn getur opnað búrið nema Kamala, hún ein.
Og svo leggur hann einu sinni af stað frá sjálfi sínu án þess þó að hafa glatað auðæfum sínum og eignum.
En þær hafa glatað honum.
Óhamingja fylgir ekki alltaf allsleysi, síður enn svo, ekki frekar en auðna allsnægtum. En hamingjan er fólgin í því að hlusta á ómið í brjósti sínu.
Ef okkur Íslendingum hefur af einhverjum ástæðum verið meinaður aðgangur að læknum höfum við óhikað farið yfir hann og sótt vatnið í annan læk.
Við höfum drukkið nóg úr þeim seyrum sem runnið hafa frá Norðurlöndum og víðar í þetta íslenzka Rauðavatn sem hverfur hvort eð er í langvarandi þurrkum.
Það hvarflar að sjálfsögðu ekki að mér að hólfa menn niður í góða og vonda Íslendinga, það er komið nóg af slíku hjá okkur.
Ég hef einungis reynt að vekja athygli á þeirri skoðun minni að sjálfstæðisstefnan sé eðlilegur farvegur þeirrar mannúðarstefnu sem Íslendingum er í blóð borin.
Það var inngróin þörf í anda hennar sem kallaði okkur til þessa lands í upphafi, sjálfsbjargarviðleitni og eftirvænting sem svalar eðlislægri sjálfstæðishvöt.
Land okkar er mikil áskorun.
Það er kröfuhart og gælir við engan.
Það ríkir ekkert jafnræði í íslenzkri náttúru.
Andspænis henni erum við misjafnlega vel úr garði gerð.
Hún er hörð og miskunnarlaus og hlífir engum.......
.....Frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum eiga auðveldara með að viðurkenna þá staðreynd að jafnræði ríkir ekki í náttúrunni en jafnaðarmenn og fylgjendur þeirra.
Í því liggur helzti munurinn á stefnu þessara flokka eins og nú háttar.
Sjálfstæðismenn reyna ekki að breiða yfir þessa alkunnu staðreynd með óskhyggju eða af pólitískri útsjónarsemi eða nauðsyn.
Hér er ekki úr vegi að vitna til Páls Ísólfssonar sem var eindreginn sjálfstæðismaður meðan hann lifði.
Í Hundaþúfunni og hafinu hef ég þessi orð eftir honum:
"Frumeðli náttúrunnar er einstaklingshyggja ... Það er enginn jöfnuður þar sem Beethoven kveður sér hljóðs."
Og dr. Páll gefur stjórnmálamönnum svofelld ráð: ".
.... Ég held að íslenzkir stjórnmálamenn ættu að gera tvennt áður en þeir fara að stjórna landinu: stunda sjóróðra frá hættulegri brimströnd og læra músík eins og ég ... Sá sem kann að umgangast landið og listina eins og karlarnir í gamla daga á að stjórna landi."
Menn eiga að taka mark á svona ábendingum.
Og þá kemur mér í hug Jóhann Hafstein sem hafði ást á ljóðlist og orti sjálfur.
Hann gaf mér minningarljóð sem hann orti um Benedikt litla, Sigríði og Bjarna Benediktsson.
Og mér er sérstaklega minnisstætt hvað Morgunblaðssamtal mitt við Stein Steinar gladdi
hann. Þetta var á sjötta áratugnum.
Slíkt samtal í Morgunblaðinu kom þá dálítið þvert á það andlega fóður sem lesendur voru vanir úr þeirri átt.
En Jóhann lét sér hvergi bregða.
Hann stöðvaði mig í Austurstræti, opnaði sinn hlýja faðm og ég hélt hann yrði uppnuminn þegar hann lýsti gleði sinni og fögnuði.
Hann var dýpri maður og meiri undir yfirborðinu en ég vissi þá, svo ungur sem ég var.
En ég átti eftir að kynnast því betur síðar.
Til að öllu réttlæti sé fullnægt verðum við að láta Peter Mohr Dam , lögmann Færeyja, njóta sannmælis og minna í þessari viðbót við Lesbókarbréf mitt til Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar (sem kannski verður aldrei skrifað) á enn eina tilvitnun í Pál Ísólfsson sem er mér flestum mönnum minnisstæðari:
"Góður vísindamaður er mikill hugsuður með þroskað ímyndunarafl.
Hann er skáld.
Þetta minnir mig líka á það sem Dam, sagði við þig í samtali:
"Enginn er góður stjórnmálamaður nema hann sé sæmilegt skáld, kunni að hugsa og hafi fantasí."
Það eru ekki öll skáld sem yrkja."
Þetta sagði dr. Páll. +
Og mér fannst þessi lýsing einna helzt eiga við Ólaf Thors sem markaði Sjálfstæðisflokkinn og stefnu hans meir og lengur en nokkur annar stjórnmálamaður.
Hann hafði tilfinningar, hugmyndaflug og viðbrögð skálds, þótt raunsætt viðhorf væri aðaleinkenni hans.
En hann varð að borga þessa eiginleika dýru verði eins og gengur.
Hann átti fullt í fangi með að verja hjarta sitt kaldri ágengni harðsvíraðs hversdagsleika, svo feiminn og hlédrægur sem hann var.
En fyrir bragðið skildi hann betur þá sem áttu undir högg að sækja.
Það var ekki einungis Sjálfstæðisflokknum mikil gæfa að eignast slíkan leiðtoga, heldur var það ómetanlegt fyrir þjóðina alla að forystumaður stærsta stjórnmálaflokks landsins skyldi vera jafnvel af guði gerður og raun bar vitni.
Þannig er arfur Sjálfstæðisflokksins mikill og vandmeðfarinn.
Ungum varð mér þetta ljóst.
Það var mér því mikil áskorun að skrifa Ólafs sögu, en engin tilviljun
........En við skulum ekki gleyma því sem Jakob Ásgeirsson hefur eftir Kristjáni Albertssyni í ágætri bók sinni, Margs er að minnast, og vel mætti benda á hér í lokin:
"Clemenceau sagði eitt sinn að stjórnmál væru svo alvarlegs eðlis að ekki væri hægt að trúa stjórnmálamönnum fyrir þeim. Mér hefur oft og mörgum sinnum dottið svipað í hug ..."(!)
Undir þessi orð hins margvísa og lífsreynda vinar míns, Kristjáns Albertssonar, vil ég taka.
Þau ættu að vera stjórnmálamönnum, og þó einkum forystumönnum áhrifamikilla stjórnmálaflokka, íhugunarefni.
Stjórnmál eru list hins mögulega.
Sá sem gerir sér það ljóst veit takmörk sín, þekkir freistingar sínar. Hann veit t.a.m. að það þarf ekkert hugmyndaflug til að segja fólki að buddan sé full, þegar hún er tóm. Fólk lætur ekki blekkja sig í þeim efnum,sagði Bjarni Ben.
Buddan er betri mælikvarði á kaupmátt almennings en allar hagtölur saman lagðar.
Ef stjórnmálaleiðtogi gerir sér grein fyrir þessu og hefur auk þess hlotið eitthvert innsæi í vöggugjöf, getur hann orðið góður leiðtogi.
6. marz
Melbourne, Fla., 6. marz.
.....Tennessee Williams átti svo erfitt uppdráttar í New York að hann þorði varla að efna til frumsýninga á verkum sínum þar, en lét þó tilleiðast og frumsýndi þar verk eftir sig á miðjum aldri, en lét jafnframt þau boð út ganga að hann væri svo veikur, að þetta yrði að öllum líkindum síðasta frumsýning á verki eftir hann.
Beið svo í ofvæni eftir dagblöðunum á hótelherbergi í New York og vonaði það bezta.
En þá, segir hann sjálfur, hlaut hann einhverja verstu dóma sem hann mundi eftir, og þar við sat.
Hann lifði lengi eftir þetta, en ekki veit ég hvort gagnrýnendur tóku hann í sátt.
Skiptir víst ekki máli lengur! ....
....Í einum kafla Skeggræðnanna kemur fram að Laxness hefur litlar mætur á bandarískri leiklist.
Þegar fylgzt er með henni, skilur maður betur hvað hann á við, að þessi evrópska arfleifð frá 19. öldinni getur varla orðið sú undirstaða undir leikritagerð í Bandaríkjunum sem raun ber vitni. Þeir ættu að kynna sér Nashyrningana betur og verk Ionescus.
Leita bandarísks raunsæis í fjarstæðukenndum hugmyndum sem úr slíkri könnun gætu sprottið.
Raunsæið hefur tekizt svo vel að mínum dómi í verkum beztu leikritaakálda Bandaríkjanna að nú verða þeir að hefja nýtt landnám.
Það er annað með okkur sem höfum aldrei eignazt neinn O'Neill, né Miller né Williams.
Við eigum enn langt í land að fullkomna raunsæisstefnu í íslenzkri leikritun, þar sem veruleiki og skáldskapur sameinast í einum farvegi og skáldleg einlægni er forsenda markverðrar reynslu eins og í því verki sem best hefur lánazt í þessum stíl, Oss morðingjum.
En Kamban var líka mikið skáld af skóla Werfels og þekkti mörkin milli væmni og viðkvæmni.
Milli fáránleika sem er útí hött og trúverðugrar reynslu í marktækum bókmenntum.
Vér morðingjar rambar á þessum barmi - og tekst(!) En það fer þó allt eftir því, hvernig að verki er staðið, það er svo mjótt á mununum.
Þegar sýning á Oss morðingjum heppnast getur íslenzk leiklist ekki boðið uppá betra verk. Andrúm Werfels og innblástur e.k. gatsby- æðis lyftir því úr kviku sem er forsenda mikils skáldskapar.
En við eigum einnig álitleg verk í fjarstæðukenndum stíl.
Og í Dúfnaveislunni tekst Laxness að leiða saman raunsæi og fjarstæðu á sannfærandi hátt.
Það er ekki á færi neinna aukvisa.
Einungis mikilla skálda.
Sem betur fer eigum við lítið af verkum þar sem andstæðurnar splundra hver annarri og brjóta niður trúnað milli efnis og áhorfanda.
Andstæður eru að sjálfsögðu nauðsynlegar í bókmenntum, ekki sízt í samtölum. En andstæður tveggja ólíkra stefna í sama verkinu auka ekki á spennu og áhrif, heldur draga úr þeim.
Mér er óskiljanlegt dálæti gagnrýnenda á slíkum verkum í Bandaríkjunum. Þeir hljóta að einblína á yfirborðið, þar sem allt fellur í ljúfa löð og okkur er talin trú um að olía og vatn fari vel saman.
Þegar höfundar eru flinkir getur þessa að vísu gengið sýninguna út, en ekki stundinni lengur.
Verkið lifir ekki með okkur eins og mikilvæg reynsla.......
....Ég er að velta því fyrir mér, hvort Bandaríkjamenn hafi misskilið verk evrópskra leikritaskálda.
Miller talar að vísu af kunnáttu um Ibsen, en Richard Eder, fyrrum gagnrýnandi New York Times og nú greinahöfundur Los Angeles Times, hefur sagt mér að hann hafi aldrei lesið þýðingu á leikriti eftir Ibsen á ensku sem sé sannfærandi skáldskapur í þessum nýja búningi og raunar hafi hann aldrei skilið snilld hans fyrr en hann horfði á leikrit eftir hann í Svíþjóð, mig minnir í uppfærslu Bergmans - og skildi ekki orð!
Svona er mjótt á munum að vel takizt til.
Ræktaðir bókmenntamenn eins og Eder láta ekki bjóða sér hvað sem er.
Hann hefur nýlega skrifað einhverja innlifuðustu grein um Ísland sem ég hef lesið eftir erlendan blaðamann.
Það eru fáir útlendir blaðamenn sem hafa þetta land í fingurgómunum. Ég nefni annan, Nils Gunnar Nilsson, menningarritstjóra Sydsvenska Dagbladet. Hann hefur ekki sízt hugsað um málsmenningarhefð okkar eins og Eder og fjallað um hana af óvenjulegum skilningi í blaði sínu nýlega. Sá útlendingur sem hefur ekki áhuga á þessum mikilvægasta þætti íslenzks veruleika eða bókmenntum okkar getur aldrei skilið íslenzkt þjóðfélag og hlutverk okkar í iðuköstum tortímandi samtíðar.......
.......Örfáum útvöldum hefur tekizt að breyta kvikmyndinni í skáldlega reynslu handa fólki sem kann að meta The Subject was Roses, Sophie's Choice eftir meistaraverki Styrons eða verk myndskálda eins og Tarkovskís, en Fórn hans stendur mér fyrir hugskotssjónum í sama ljósi og ljóðræn Jónsmessudulúðin í kvikmynd Kristínar Jóhannesdóttur, Á hjara veraldar.
Við eigum guði sé lof álitlegar kvikmyndir og það ræður kannski úrslitum um að við höldum tungunni, svo mikilvæg sem kvikmyndin er í augum ungs fólks sem á að erfa landið eins og sagt er á tyllidögum.
Það er ekki fráleitt sem Hrafn Gunnlaugsson, sá ódrepandi hugsjónamaður, skáld og kvikmyndaleikstjóri eftirminnilegra verka, hefur sagt:
Kvikmyndin er Hólaprent nútímans.
En það merkir ekki að skinnpjötlurnar haldi ekki gildi sínu(!)
Til þess kvikmynd heppnist að fullu þarf leikara eins og Meryl Streep og Jason Robards sem hefur lesið Ironwood Williams Kennedýs inná spólur af þvílíkri list að unun er á að hlýða.
Þessi skáldsaga Kennedýs, sprottin úr harkalegum veruleika göturæsisins, var líka Pulitzer-verðlauna virði, mikill skáldskapur og eftirminnilegur.
Raunsær og djúpur, án fjarstæðukenndrar uppákomu.
Bandaríkjamenn eiga merka skáldsagnahöfunda eins og John Updike og Anne Tyler sem ég hef lesið hér vestra. Sögur þeirra eru eftirminnilegur skáldskapur og þarf ekki annað en nefna frábær listaverk eins og The Accidental Tourist og smásögur Updikes.
Það er mikil "nærvera", mikið af núi í þessum óviðjafnanlegu sögum.
Og Bandaríkjamenn eiga upplesara sem við getum ekki keppt við.
Menn eins og Oliver Stone sem stjórnaði Platoon og skrifaði kvikmyndahandritið uppúr bréfum sem hann sendi ömmu sinni innanúr frumskógum Víetnams eru að sjálfsögðu rithöfundar öðrum þræði, og fengju umyrðalaust inngöngu í Rithöfundasamband Íslands, þótt texti myndarinnar þætti ekki miklar bókmenntir, ef hann stæði á bók einn sér.
Það er nokkuð markverðari texti bak við The Mission eftir Robert Bolt, enda er myndin samin uppúr skáldsögu hans með sama nafni og fylgir henni heldur vel. Niðurlag hennar gæti einnig átt við nútímann:
Hontar segir við kaþólska yfirvaldið, Altamíranó sem ofbauð innst inni grimmd þess boðskapar sem hann átti að framfylgja af hagsmunaástæðum:
Þér verðið að starfa í raunveruleikanum. Og þannig er hann.
Ó, nei, sagði Altamíranó, þannig höfum við gert hann.
Efni The Mission minnir talsvert á Nafn rósarinnar, það er sótt í blint ofstæki miðaldakaþólskunnar og er heldur sannfærandi sögulegur skáldskapur og að mörgu leyti harla vel gerður, þótt á skorti ísmeygilega dulúð stórskáldskapar eins og Lincoln eftir Gore Vidal sem Anthony Burgess segir að sé mestur sagnaskálda á enska tungu um þessar mundir.
Svo undarlegt sem það er gegnir hláturinn miklu og svipuðu hlutverki í báðum þessum skáldverkum, Nafni rósarinnar og The Mission, hann lengir ekki lífið, síður en svo, heldur styttir það.
Hann er undanfari dauðans í báðum verkum.
Bolt samdi einnig kvikmyndahandrit að Arabíu-Lawrence, Doktor Zhivagó, og A Man for All Seasons. Allar eru þessar myndir eftirminnilegar og verulegur skáldskapur úr lífinu sjálfu, tilgerðar- og fjarstæðulaus, þótt á vanti að mynd eins og Zhivagó flytji álíka skáldskap og ljóðrænn, rismikill texti Pasternaks, enda vantar ekki mikið á að Sovétstjórnin reisi honum styttu eins og ég spáði í Hugleiðingum og viðtölum á sínum tíma!!
Misson er ekki sízt sannfærandi vegna leiks Roberts De Niros og Jeremy Irons sem lék sögumann í Brideshead Revisited, einum örfárra framhaldsþátta sem hafa komið merkum skáldskap til skila, svo viðunandi sé.
Bezt að klykkja út með því að minnast á tvo höfunda sem hafa ekki við að fullnægja markaðnum, Judith Krantz sem hefur nýlega sent frá sér enn eina metsölubókina og Stephen King sem er eiginlega alltaf með einhverja skáldsögu á metsölulistum vestan hafs.
Íslendingar þekkja Krantz af framhaldsþættinum Dóttir Mistrals sem sýndur var í sjónvarpinu heima, heldur langdregnum og leiðinlegum þætti um listmálara.
Ég hef lesið tvær sögur eftir King, önnur fjallaði um mann sem varð e.k. farvegur fyrir illar geimverur og glæpi þeirra hér á jörðinni, heldur leiðinleg saga, hin heitir Jerusalem Lot, heldur snaggaralega skrifuð hryllingssaga og vel saman sett.
Samt er formið erfitt, því að sögumaður fléttar saman gamlan tíma og nýjan og tekst það vel.
King er athyglisverður rithöfundur af þessari sögu að dæma. Hann lifir og hrærist í ritstörfum sínum og segist lítinn tíma hafa til að lesa bækur.
Hefur því gert samning við börn sín, sagði mér bókmenntamaður sem fylgist vel með bandarísku fjölmiðlafári, um að þau lesi þær bækur sem hann tínir til inná spólur fyrir ákveðna þóknun og svo spilar hann þær, þegar hann hefur tíma aflögu, annaðhvort í bílnum sínum, flugvélum, hótelherbergjum eða heima hjá sér.
En svona er að lifa og hrærast í þessum hastarlega og miskunnarlausa heimi fjöldaframleiðslunnar í fjölmiðlun(!)
Judith Krantz rabbaði stuttlega við Joan Rivers í skemmtiþætti hennar sem er dæmigerður fyrir óseðjandi sjónvarpsmarkaðinn vestra.
Krantz er þekkt fyrir metsölubækur sínar, en þó einkum samtöl sem hún hefur átt við frægt fólk, erlendis er aldrei talað við venjulega manneskju, bara "frægt" fólk sem venjulegar manneskjur hafa áhuga á af einhverjum ástæðum.
Þessi stefna er því miður einnig að verða ofaná heima á Íslandi.
Krantz er augsýnilega athyglisverð kona og kemur vel fyrir.
Mér sýnist hún vita lengra en nef hennar nær.
Hún segist hafa verið gift í 43 ár og galdurinn sé sá að velja sér réttan mann í upphafi, en þó umfram allt að rifja ekki upp gamlar væringar eða óþægileg deilumál úr fortíðinni, þegar nýtt rifrildi byrjar.
Þá blessist þetta!
Eitt sinn kvaðst hún hafa fengið 500 bréf frá lesendum vegna þess að hún hafði sagt í skáldsögu að kvenpersóna væri með 11 karata eyrnalokka, en síðar í sögunni voru þeir orðnir 9 karöt.
"Hafa þeir skroppið saman?!" spurði einn bréfritara, hneykslaður.
Í annað sinn misprentaðist í skáldsögu eftir hana, hvenær heimsstyrjöldin síðari hófst.
Þá skrifaði enginn!
"Þetta sýnir, á hverju fólk hefur áhuga!" sagði hún og brosti.
En það var þó annað sem vakti athygli mína í þessu rabbi.
Krantz var spurð, við hvern hefði verið bezt að eiga samtal.
Goldu Meir, sagði hún hiklaust, og skil ég það vel.
En við hvern var erfiðast að skrifa samtal?
Peter Sellers, svaraði hún. Hann var ekki til(!)
Sellers var einhver almesti kvikmyndaleikari sögunnar og mætti vel jafna honum við Chaplin, svo sérstæður listamaður sem hann var fyrir framan myndavélina, nánast göldróttur.
Þarf ekki annað en nefna Being There til að rifja það upp.
Judith Krantz sagðist hafa talað við hann tvo daga, ef ég man rétt, og aldrei upplifað annað eins þau 27 ár sem hún fékkst við að skrifa samtöl.
Fyrri daginn var Sellers í hlutverki fransks manns sem þóttist vera klæðskeri, en var morðingi, keðjureykti og kyssti hana á höndina, hló og daðraði.
Og það kjaftaði á honum hver tuska.
Síðari daginn borðuðu þau saman og þá stökk honum ekki bros.
Hann reykti ekki heldur.
Hann var heldur þungur og talaði lítið.
Þá var hann í hlutverki prests!
Allt í einu hrökk hann uppúr hlutverkinu, eða öllu heldur transinum, og sagði vandræðalega við Krantz:
"Æ, hvað er ég að gera, við hefðum ekki átt að borða saman.
Þegar ég er ekki í einhverju gervinu, þá er ég ekki til.
Það er enginn Peter Sellers!"
Það varð lítið úr samtalinu, enda vart hægt að tala við fólk sem er ekki til.
Það gerði Peter Sellers samt.
Hann talaði oft við látna móður sína.
Hann trúði á drauga og dularfull fyrirbrigði og fór þrisvar í viku til miðils að spyrja, hvernig hann ætti að lifa lífinu, og fór eftir því.
Þessi listgrein getur þannig kostað menn lífið.
Peter Sellers varð að ganga af tilveru sinni dauðri til að ná þeim árangri í leiklist sem raun ber vitni, og hann sagði skilið við persónuleika sinn, fórnaði honum fyrir listina, og ekki hægt að eiga samtal við hann, ef hann var ekki í gervi fransks morðingja eða ensks prests!
Af fyrrgreindri ástæðu lék Peter Sellers aldrei sjálfan sig eins og flestir kvikmyndaleikarar viðstöðulaust, hvorki í Being there, Murder by Death né annars staðar.
Hann var snillingur.
Febrúar/mars
Mikið þykir mér vænt um það sem Baldvin Tryggvason segir í bréfi til mín hingað til Flórída þar sem við Hanna höfum dvalizt undanfarnar þrjár vikur ásamt Ingó sem les undir læknisfræði — og lifað eins og blómi í eggi.
Mér hefur ávallt verið mjög hlýtt til Baldvins enda er hann drengur góður. Hann hefur líka áhuga á listum og hefur haft fínan smekk á bókmenntir; hefur skrifað smásögur, óbirtar.
Samstarf okkar í Almenna bókafélaginu hefur ávallt verið til fyrirmyndar, enda hef ég alltaf fundið þessa listrænu taug sem hefur sett mark sitt á eðliskosti hans. Við kynntumst í háskóla, það voru góð kynni.
Ég eignaðist marga vini á sínum tíma þegar ég var fulltrúi Vöku í Stúdentaráði.
Höskuldur Ólafsson átti mestan þátt í því að mér var falin forysta fyrir Vökumönnum á erfiðum tímum.
Hann hefur einnig ávallt verið mér kær vinur og við höfum átt gott samstarf í bókmenntaráði AB.
Einu sinni heyrði hann á mér á fundi þar að ég ætti ekki frumútgáfuna af Tímanum og vatninu.
Tveimur dögum síðar sendi hann mér þessa dýrmætu bók og hafði tekið hana úr bókasafninu sínu.
Þetta er ein bezta gjöf sem ég hef fengið um ævina og hún lýsir Höskuldi betur en flest annað. Svohljóðandi bréf fylgdi þessari ómetanlegu gjöf:
“20. sept. ‘84.
Góði vinur!
Ég hjó eftir því í gær að þú hefðir lengi reynt að tryggja þér eintak af bók sem þessu bréfi fylgir. Ég er búinn að eiga hana frá því hún kom út. Var þá einn af fáum sem hana keypti, eftir því sem þú sagðir mér.
Þegar ég kom heim í gær varð mér hugsað til þín og þar sem þessi bók er betur komin hjá þér en mér bið ég þig að gera mér þann vinargreiða að þiggja hana.
Með einlægri þökk fyrir áratuga vináttu.
Þinn einl.
Höskuldur.”
Ég hafði sagt honum að Ragnar í Smára nefndi það einhvern tíma við mig að hann hefði verið í 15 ár að selja 150 eintök af Tímanum og vatninu, þ.e. að hann hafi selt að meðaltali tíu eintök á ári!!
Heimsbókmenntirnar liggja ekki um metsölubókalistann(!)
En það var bréfið góða frá Baldvin vini mínum Tryggvasyni sem ýtti við mér. Þar stendur undir lokin:
“Í dag er mér ógerningur að átta mig á hvernig líf mitt hefði verið án AB og ykkar allra góðu manna sem ég kynntist þar. E.t.v. hefði ég lent í pólitík í borgarstjórn eða jafnvel reynt að rembast við að komast á þing.
Mikil er sú mildi að svo skyldi ekki fara.
Raunar bjargaðir þú mér einu sinni frá því að fara í prófkjör, það var 1974. Ýmsir, þ.á m. Geir vinur minn Hallgrímsson lögðu þá að mér að fara í þann slag. Ég sá fram á að ef ég yrði kosinn yrði ég að hætta í AB.
Þá spurði ég þig ráða og þú sagðir við mig þá gullvægu setningu sem ég hef oft vitnað til síðan:
“Seldu aldrei hjarta þitt.”
Ég fór að þínum ráðum, guði sé lof. Og á þér því meira að þakka en þú veist um.”
Nei, ég vissi þetta ekki en mikið er ég stoltur af því.
Baldvin hefur notið sín á réttum vettvangi og hann hefur látið margt gott af sér leiða.
Það gleður mig að orð mín hafi að hans mati reynzt heillaráð.
Sjálfur er ég ekki í vafa um að svo hafi verið.
Ég þekki engan mann sem hefur orðið betri af þátttöku í stjórnmálum.
Kannski hafa þeir orðið þekktari en ella, en ekki betri menn.
Sumir hafa komizt út úr pólitík nokkurn veginn klakklaust, en þeir eru ekki margir.
Stjórnmál hafa í raun og veru ekkert breytzt frá því í Róm á sínum tíma, eða á sturlungaöld. Þá voru menn vegnir með vopnum, nú með orðum.
Og baktjaldamakki.
Það er óskaplegt að horfa upp á suma stjórnmálamenn þegar þeir eru í essinu sínu.
Nei, Baldvin hefur ekki farið á mis við eitt eða neitt. Hann hefur aldrei selt eða svikið hjarta sitt. Og ég á honum margfalda þökk að gjalda fyrir langvarandi vináttu og heilindi. Hann jók mér kjark þegar ég stóð í eldinum miðjum út af Fjaðrafoki. Þá kom hann til að segja mér góðar fréttir af góðu fólki.
Því gleymi ég aldrei, ég þurfti einhvern veginn á þessari uppörvun að halda.
Nei, Baldvin hefur verið betri en enginn.
Ekki svo að skilja að Baldvin hafi ekki verið í pólitískum eldi alla tíð, því það hefur hann svo sannarlega verið; arftaki Birgis Kjarans og sérfræðingur í allskyns kosningavafstri, eins og hann segir sjálfur.
Aldrei gerði hann ósanngjarnar kröfur á hendur okkur Morgunblaðsmönnum.
Það er ekki hægt að segja um alla forystumenn Sjálfstæðisflokksins.
Baldvin hefur viðkvæma kviku sem nýtur sín í listrænni analýsu.
Hann segir í bréfinu góða að kvikmyndalist sé ekki aðeins tækni og fagmennska.
“Þú getur án efa ort fagmannlegustu ferskeytlur og ljóð á Íslandi. En ekki yrði ég nú ýkja hrifinn af ljóðagerð þinni ef hún væri einvörðungu rétt stuðluð, með innrími, hljóðstöfum og þessháttar, kórréttum bragfræðilegum tilburðum. Og jafnvel þótt þú gættir þess að blóð, ofbeldi og samfarir blönduðust saman í stórum skömmum, markmið listar hlýtur að vera að efla mönnum skilning á fegurð og manngildi, lyfta manni á hærra plan.
Prédikarinn segir að menn eigi að gleðjast í Guði.
Allt annað sé hégómi og eftirsókn eftir vindi.
Ég trúi að þetta sé tilgangur listar.”
Það er gott að hafa átt slíkan mann að.
Ódagssett - Í Nassau
Spyrjum litla svarta konu
með kræklótta útlimi
og gula hvítu
í augum, Hvar
er hús landstjórans?
Þarna, segir hún
og bendir, horfir
hvítgulum sjónum
framhjá leitandi
augum okkar, hverfur
með laufgrænan seðil
í krepptum lófa, teinréttir
varðmenn í hermannaleik
við hús landstjórans,
hendur og andlit
svartir iðandi skuggar
í sólhvítum
einkenisbúningum,
Æ, hvernig á ég að segja það,
hafði hún hvíslað
hikandi, sönglausri rödd,
ég er svo svöng, ég á ekki
fyrir samloku, gengur
niðurlút burt, hverfur
inní svarta töflu
í huga hans, hverfur
eins og krítarduft
í svampgula daga,
það skrjáfar í laufi
fuglar syngja, rifflar
og byssustingir
að baki Kólumbusi,
hann horfir steindauðum
augum yfir hryggjað
kunnuglegt haf, sallafínn
hávaxinn maður
slagar í átt til Parlament Street
með barðastóran
stráhatt undir beinvöxnum
kókóshnetupálmum
sem slúta yfir gangstéttina
eins og regnhlífar
úr hafgrænu laufi, í sverðhvössum
skuggum af pálmatrésgreinum
knattgular hnetur
eins og skraut á jólatrjám,
neðar í hæðinni byskupakirkjan
þungbúin kveðja úr steingrárri
fornöld ónáðar blóð þeirra,
þeir sitja vænglausar
flugur í gluggakistum
með hendur eins svartar
og samvizka þeirra er hvít,
strjúka rykuga daga
af gömlu lúnu gleri
horfum yfir til Paradísareyjar,
horfum fastar, sendum augu okkar
þessa syngjandi garðlausu
fugla í kræklóttar
lauflausar greinar,
spilavítið
uppfyllir fyrirheit helvítis
í minningu sem er eins gömul
og þessi dagur er ávallt
grænn og ungur í skuggalausri
veröld gamals manns.
Um borð í Galileo á Karíbahafi, febrúar
1.
Skip
kvikna
í myrkrinu
fylgja hugsun okkar
eins og stjörnur.
2.
Ísinn
er logandi
góður
segir konan
og þjónninn
brennir sig
á stjörnuljósi.
3.
Við drekkum
pina kolada,
skálum fyrir afkomendum
katta Hemingways,
skálum inní pálmagræna
minningu
um ósýnilega
fugla við kókós-
hnetupálma
og gamalt skógivaxið
hús.
Skál fyrir köttum
Hemingways
og þessari lífseigu dauðu minningu
um þrítuga hjúkrunarkonu
sem kvaddi hann
flautandi skugga
á gamalli mynd,
Skál fyrir köttum
Hemingways
í kókóshnetugulri
minningu,
Skál fyrir
þessu kínverska tré
þessum mjálmandi fuglum
þessum syngjandi köttum
og þessu paradísarbláa
hafi sem er grár
liðinn dagur.
4.
Við höfum
drukkið hvítt
vín
á Select,
nú Budweiser
á Sloppy Joe's,
samt hefur ekkert
gerzt.
Það vantar
haglabyssuna
og ljónsöskrið
í líf okkar.
5.
Minningin
tómt
hrörlegt hús,
mjálmandi
kettir
í grænu laufi.
Og hugsanir okkar
hræddir fuglar
á grein.
Key West
1
Svört yfirgefin
ritvél
á yfirgefnu
borði
án stóls
yfirgefnar bækur
í lokuðum
yfirgefnum
bókaskápum
yfirgefið hús
ekkert hljóð
ekkert
yfirgefin
þögn
þögn
þögn
mjálmandi
kettir
í yfirgefinni þögn
yfirgefinn
kókoshnetupálmi
kínverskt
tré
með yfirgefnar
greinar
og rætur í lausu
lofti
lauf
sem augu þín
hafa yfirgefið
Hemingway.
- - -
Gamlar bækur
í glerskápum,
gamlar opnar
bækur,
hver blaðsíða
liðinn dagur,
rykfallinn dagur.
Þetta ógróna
sár
eftir brunnið púður.
- - -
Hús þitt
áleitin þögn
sem er minning
við göngum inní
minningu
skiljum hugsanir okkar eftir,
gömul húsgögn.
- - -
Fæðingarheimili
orða, hugmynda.
Hlustum(!)
Heyrum grátur
nýfæddra hugmynda (!)
Þögn.
Enginn grátur,
engin fæðing.
Einungis þögn
jafnhávær
og ljónsöskur.
Everglades:
Ef sefgresið
blómstrar
í fenjunum
og krókódíll
vaknar í huga þínum
fer hvirfilbylur
vatnsköldum
eldi
um langminnungt blóð
gamals indíána.
- - -
Fuglar
framlenging
vængjaðra
greina
vatnatrjánna.
- - -
Ýfir skammlífa
minningu
krókódílsins
fiskur
með langt fuglsnef
og gult.
- - -
Grænum vatnablómum
syndir minning
skjaldbökunnar
undir grákræklóttu
snákatré.
- - -
Krókódílar
í sólbaði, Þeir
eru hættulausir
ef þeir hafa ekki
verið fóðraðir,
segir sjálfboðaliði
á eftirlaunum, með
fuglabók í hendi
og rauða díla á hálsi.
Talar um þá
eins og börn á dagheimili.
- - -
Sá stóri
í sólbaði.
Hún er fjögur,
segir hann,
og lítur á úrið
með ól úr krókódílaskinni,
hann hreyfir sig ekki
í skugganum.
Hvar er sá stóri?
spyr fuglaskoðari
með fiðring í röddinni.
Þarna, segir hann, og bendir.
Dökk ólin verður gul
í geislunum
sem hverfa í mjúka skugga
við kræklóttar greinar
vatnatrjánna.
- - -
Snákfuglinn
hreiðrar um sig,
breiðir vængina út
til þerris,
speglar stél
og gogggulan haus
í smágáróttu vatni
við vængjaðar
vatnaliljur.
- - -
Fuglar
við fúna
kvisti
synda blakandi
uggum
inní þéttriðna
nethimnu augans,
minna á syndandi
mörgæsir
við hryggjaða strönd
háhyrninganna.
26. apríl – sunnudagur
Erindi mitt í Þjóðleikhúsinu á 85 ára afmæli Laxness, 23. apríl:
Halldór Laxness segir í Skeggræðunum, að skáldsagan sé eftirlíkt sagnfræði. Maður þykist vera að tala um veruleik, en það er sá veruleiki, þar sem höfundurinn skipar hlutunum sjálfur í röð, rétta röð, a.m.k. eftir sinni beztu samvizku. Það er tilraun til að fá lesandann til að trúa sagnfræði, sem maður hefur ritstýrt sjálfur eða búið til. En skáldsaga er samt að því leyti raunveruleg, að höfundurinn getur aðeins sagt frá atburðum, mönnum, hugmyndum, flækjum og árekstrum, sem hann hefur sjálfur lifað. Hann hefur fólkið í handraða, a.m.k. í bútum, setur síðan bútana saman. Höfundurinn getur ekki farið út fyrir sína eigin reynslu; en hann ritstýrir henni. Hann býr sér til grind sem er, þegar bezt lætur, eins rökrétt og grind í húsi, síðan fyllir hann upp í grindina með reynslu sjálfs sín. Annað hefur hann ekki fram að færa en reynslu sjálfs sín. Maður er andsvar við þeim áhrifum, sem hann verður fyrir í lífinu.
Og skáldið bætir við, að íslenzkur sagnaskáldskapur forn hafi hjálpað sér í leit að viðhlítandi formi þegar hann skrifaði Innansveitarkroniku.
Aldrei fyrr hefur okkur verið jafn nauðsynlegt að kunna að lifa með fornum arfi, svo mikilvægur vegvísir sem hann er á krossgötum fjölmiðlabyltingar. En til þess að kunna með þennan dýrmæta fjársjóð að fara er þá einnig nauðsynlegt að gera sér einhverja grein fyrir því, hvernig forn skáldskapur okkar í lausu máli var saman settur, úr hvaða efnivið hann var og hvað hann getur kennt okkur.
Hann er unninn úr umhverfi forfeðra okkar, skrifaður á tungu þeirra og okkar og hann hefur hvorki meira né minna en kennt okkur að lifa.
Allt er annað auðkeyptara en lífið, segir í Þorgils sögu skarða.
Enginn hefur sýnt okkur betur en Halldór Laxness með verkum sínum og lífsstarfi mikilvægi þessa ævintýris, sem er sprottið úr draumi og veruleika og boðar leiðsögustefið í öllum verkum skáldsins frá fyrstu setningu til hinnar síðustu:
Dáið er allt án drauma
og dapur heimurinn
Eitt ljóðskáld þessarar aldar hefur Halldór Laxness kunnað að meta öðrum fremur, það er Pablo Neruda. Í ævisögu sinni segir Neruda og minnir óvart á þetta leiðsögustef: Það skáld deyr sem er ekki raunsæismaður. Það skáld deyr einnig sem er einungis raunsæismaður.
Við getum heimfært þessi orð upp á litla þjóð sem hefur hefnt þess í bókum sem hallaðist á í lífinu.
Án þessara bóka, án drauma sinna og ævintýra hefði hún vart lifað af, en hún hefur þá ekki gleymt veruleikanum, ekki heldur þeim ritum, þar sem mest er um drauma hennar.
Neruda minnir á að í skáldskapnum takist miskunnarlaust á guð og djöfull, stundum vinnur guð, segir hann, stundum hinn, en listina sjálfa sigrar enginn.
Við höfum séð þetta allt gerast í skáldverkum Halldórs Laxness, og stundum höfum við tekið þessi átök of alvarlega eins og hann hefur sjálfur minnt okkur svo eftirminnilega á: Það verður að skilgreina hugmyndirnar frá degi til dags, annars tapa þær allri merkingu. Heimurinn bíður ekki kyrr frá degi til dags... Það sem var heilagur sannleikur í gær eru svik og lygi og hræsni í dag... Við lifum á tíma þegar þarf að skilgreina sérhvert hugtak á nýjaleik, ef mennirnir eiga að halda velli sem skyni gæddar verur.
Halldór Laxness nefndi þetta einnig í stuttri ræðu á sjötugsafmæli sínu þegar forseti Íslands, dr. Kristján Eldjárn, hélt honum dálítið hóf á Bessastöðum, ávarpaði hann og hyllti, en bætti svo við að hann hefði ekki alltaf verið sammála öllu því, sem skáldið hefði skrifað.
Í minnisstæðri þakkarræðu sagði Halldór, að hann þekkti engan, sem hefði verið sammála Halldóri Laxness, nema Halldór Laxness sjálfan – og hann hefði aðeins verið sammála sjálfum sér í stuttan tíma í einu!
Hann sagði, að þegar hann hefði verið að skrifa litla bók sem héti Heimsljós hefði hann nokkrum sinnum farið til Ólafsvíkur og séð þetta íslenzka sveitaþorp eða sjávarpláss í allri sinni fátækt og niðurlægingu, forugar götur, kumbalda með vondum gluggum og hálfhrundum tröppum, fjóshauga.
Nú væri velmegun í Ólafsvík, villur við malbikaðar götur og þar byggi vel stætt fólk. Upp úr dvöl sinni í Ólafsvík hefði Hús skáldsins í Heimsljósi orðið til.
Þar væri fyrirmyndin.
En ef einhver færi að halda þær ræður nú í Ólafsvík sem haldnar eru í Húsi skáldsins yrði áreiðanlega litið á ræðumann eins og hvert annað viðundur. En þessar ræður, bætti skáldið við, eins og annað í sögunni hefðu átt heima þar á sínum tíma.
En tímarnir hafa breytzt, sagði Halldór, og lagði áherzlu á að sannleikurinn væri ekki sá sami og hann hefði verið þegar hann kom ungur maður í efnisleit til Ólafsvíkur.
Þannig ætti margt, sem hann hefði áður skrifað, ekki heima nú, þótt það hefði verið sannleikur á sínum tíma.
Dáið er allt án drauma...
Þessi lína leiðir hugann að fjallræðufólki Halldórs Laxness, silfurþræðinum í samanlögðum skáldskap hans. Þegar hann skrifaði þessi orð fyrst í Barni náttúrunnar var hann að leggja upp í langa ferð að upptökum Nílar. Sú Níl sem hefur heillað könnuðinn Halldór Laxness á sér margar kvíslar – og kannski er hún ekki til nema í skáldskap og upptök hennar ekki heldur nema í skáldinu sjálfu.
Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, að það er ekki einasta mikið afrek út af fyrir sig að skapa ógleymanlegan heim úr margvíslegum brotum reynslu sinnar, heldur er það á fárra færi að gefa þjóð sinni nýtt tungutak sem aldrei verður unnt að ganga framhjá.
Mannúðarstefna fjallræðufólksins er holdtekin staðfesting á því hvar raunveruleg verðmæti leynast í umhverfi okkar, en hvorki boðskapur né kennisetningar sem slitna eins og gamlar flíkur. Okkur er ekki sízt nú á dögum hollt að sækja veganesti í viðhorf þessa fólks.
Það gerði Halldór Laxness ungur.
Og það er í fjallræðufólkinu sem skáldskapur hans hefur risið hæst.
Það er í því sem veruleikinn hefur vitjað okkar með þeim hætti að okkur hefur stundum dottið í hug, að við stæðum á mörkum tveggja heima, þess sem við byggjum og svo þessara dularfullu hulduheima, sem okkur finnast hvísla til okkar í eftirminnilegustu athugasemdum skáldsins.
Íslenzkur veruleiki er að vísu kastalinn í draumi þessa fólks. En það hefur ávallt fundið sér verðugt skjól í höll sumarlandsins.
Það er í skáldskap sem veruleikinn birtist.
Þeim skáldum sem mark hafa tekið á þessum draumi hefur auðnazt að renna stoðum undir fyrirheit mikilla hugsjóna. Íslenzkur veruleiki er sprottinn úr kunnuglegri undirstöðu þessa garralega umhverfis okkar. En vegna draumsýnar og skáldlegrar reynslu gerði það umhverfi sem er vettvangur skáldskapar Halldórs Laxness sér lítið fyrir og togaði himneska Jórsali niður á þetta plan, sem er daglegt viðfangsefni okkar; hversdagsleg þjáning og þrá eins og Steinn sagði.
Ég hef áður getið þess, að stundum er minnzt á taoisma sem lykil að skáldskap Halldórs Laxness og sumum persóna hans, t.a.m. pressaranum í Dúfnaveislunni. Um tao er fjallað í Bókinni um veginn eftir kínverska spekinginn Lao Tze.
Halldór hefur að vísu sagt, að sú bók sé bezta bókin í heiminum. En við þurfum ekki að fara austur til Kína og rifja upp austurlenzka skáldspeki til að fá skýringar á persónum hans í íslenzku umhverfi. Nærtækara er að gefa gaum mörgu því fólki sem skáldið hefur kynnzt á Íslandi og þá einkum í æsku; fólki sem ræktaði garðinn sinn eða eins og segir í Innansveitarkroniku:
Viskum vera að tátla hrosshárið okkar.
Það er í guðspjöllunum sem þetta fólk á rætur og í Fjallræðunni er svona fólki heitin eilíf sæla: sælir eru fátækir, sælir eru hjartahreinir o.s.frv.
Í Heimsljósi segir Ólafur Kárason þessi orð:
Skáldið er tilfinning heimsins, og það er í skáldinu, sem allir menn eiga bágt.
Ljósvíkingurinn viðhefur þessi orð í ræðu, sem er einna frægust á Íslandi, og hollt er að hafa þau í minni þegar menn leiða hugann að skáldverkum Halldórs Laxness.
Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni, segir Jón prímus í Kristnihaldinu, það er allt og sumt(!).
Þessi einfalda eilífð, svo enn sé vikið að Neruda, blasir við í verkum Halldórs Laxness.
List hans er vatn sem hefur fundið sér kyrrláta lygnu í straumi samtíðar, hrein list og tær eins og regndropi að vori.
Þessi dropi er vetrarbrautarvirði, ef út í það er farið og sé það haft í huga að sérhvert sandkorn á ströndinni er jafn mikilvægt hvaða hnetti himindjúpanna sem er.
Annars hefði Neruda ekki nefnt hann í sömu andrá og ljóðlist Paul Eluards og ekki ég heldur í leit að viðhlítandi samsvörun við ljóðrænan stíl Halldórs Laxness.
En það er einkum í hann, þennan einstæða persónulega stíl sem er raunar sjálft kraftaverkið Halldór Laxness, og svo persónusköpun sem er innviðir allra skáldsagna, sem rök verða sótt til staðfestingar á því að við hyllum stórskáld á þessum degi.
Halldór Laxness hefur aldrei skrifað brúkunarlist.
Það er inngróið, upprunalegt veganesti úr Laxnesi, en engin tillærð tízka, sem við köllum til vitnis um snilld og yfirburði skáldverka hans, sem einatt eru svo fínlega fléttuð að þeim verður ekki við annað líkt en tónlist gömlu meistaranna, og þá helzt verk eins og fimmtu Serenöðu Haydns, þar sem mikil list á stefnumót við óskilgreinda og lítt höndlanlega fegurð.
Þannig list er eins og fuglarnir blístri hver á annan, svo skírskotað sé til Kristnihaldsins.
Það er í skáldverkum eins og Innansveitarkroniku sem er að mínu mati eitthvert dýrlegasta snilldarverk alls sagnaskáldskapar sem Halldór Laxness færir okkur heim sanninn um, hvernig Íslendinga sögur voru skrifaðar úr minnum og arfsögnum, sprottnum úr umhverfi höfundanna, flöktandi og næsta óáþreifanleg staðfesting á einhverju viðburðaríkasta mannlífi sem saman hefur verið sett á bækur.
Og það sem meira er, þrátt fyrir eðlisgróna auðmýkt Halldórs Laxness gagnvart þessum mikla arfi verður ekki framhjá því litið á stund sem þessari, að sjálfur hefur Halldór ritað bækur sem ber jafn hátt og þær sem nefndar hafa verið.
Það er ekki sízt virðingin fyrir skáldum þessara gömlu rita, virðingin fyrir verki þeirra og vinnulagi, sem skipar honum nú á bekk með þeim.
Þjóðfélag sagnanna er löngu horfið, samt lesum við fornar sögur af meiri nautn en nokkru sinni. Ekki vegna umgerðarinnar, þessa miskunnarlausa þjóðfélags vopna og valdbeitingar, heldur vegna þeirrar óviðjafnanlegu listar sem er boðskapur í sjálfu sér.
Þjóðfélag Ólafs Kárasonar og Bjarts í Sumarhúsum er einnig að troðast í tún og tíma, en vegna einstæðrar listar Halldórs Laxness geymist það eins og samfélag þeirra, sem brugðu ljósi á umhverfi sinnar 13. aldar. Og mér er nær að halda að við eigum aldrei eftir að vaxa frá þeirri opinberun, sem er burðarásinn í Húsi skáldsins, að það sé ekkert einstakt happ, hvorki hækkað kaup né betri veiði, sem getur læknað skáldið af sársaukanum, ekkert nema betri heimur... Að vera skáld, það er að vera gestur á fjarlægri strönd, þangað til maður deyr.
Slíkar setningar eru jafn góðar og gildar í hvaða Sviðinsvík sem er nú um stundir og þær voru þegar Ólafur Kárason var og hét.
Það er í þessum skáldskap, þessum draumkennda veruleika sem við höfum lifað af.
Án hans værum við vænglausir fuglar í haustskógi.
Og það er engin von til þess að heimurinn eigi eftir að breytast svo til batnaðar að skáld verði óþörf og engin hætta á því að veröldin verði svo átakalaus og miskunnarsöm paradís að verk Halldórs Laxness úreldist af þeim sökum.
Líf okkar verður ævinlega sú tvísýna glíma sem sækir aflið í kraftbirtingu mikillar listar – og þá ekki sízt í ritsnilld Halldórs Laxness, sem héðan í frá verður í för með þessari litlu þjóð inn í eftirvæntingarfulla framtíð, ef við á annað borð höfum metnað til að lifa af þá hversdagslegu, metnaðarlitlu meðalmennsku, sem er þrátt fyrir allt hvimleiður fylgikvilli fjölmiðlaaldar.
Svo mikilvægur hefur skáldskapur Halldórs Laxness verið, svo krefjandi áskorun er lífsstarf hans.
Það er í þessari áskorun, sem við munum lifa af þá ásókn, sem við þurfum nú öðru fremur að verjast og þá munu engin vopn betur duga en þau sem Agli og Ólafi Kárasyni voru inngróin og eiginleg.
80)
Júní
Nína Björk er í klaustri Heilagrar Líóbu, það er víst á Friðriksbergi. Milli okkar hefur alltaf verið góður skilningur og silfurstrengur gagnkvæmrar vináttu. Hún hefur skrifað mér um líðan sína þegar hún fékk fréttirnar um dauða Flóka. Hún segir að hann hafi verið bezti vinur sinn.
Sorg hennar er mikil.
“Hér sit ég og er að skrifa mína fyrstu skáldsögu. Ég hafði lesið fyrir hann það sem ég var búin með áður en ég fór hingað og hann taldi í mig kjark og hvatti mig eins og alltaf. Í sjálfselsku minni mun ég sakna hans alla mína æfi. – Hann var mér svo mikið. – Hann gaf mér svo mikið. Ég hlakkaði til að koma heim og lesa fyrir hann áfram. Bragi hringdi til mín að morgni og þá hafði Flóki dáið kvöldið áður og það kvöld fannst mér alltaf að eitthvað voðalegt væri að gerast og gat ekki á heilli mér tekið.”
Sendi mér fallegt ljóð um Flóka til birtingar í Lesbók því það má víst ekki birta frumsamið ljóð með minningargreinum.
Við þurfum líklega að fara að breyta því, ég veit það ekki.
Þá fyllist allt af leirburði.
En kannski verðum við að taka þá áhættu.
Minningarljóð Nínu um Flóka er einfalt og fallegt; það er afar líkt henni sjálfri og spunnið úr þeim eteríska hulduheimi sem hún lifir í öðrum þræði.
Allt hennar líf er skáldskapur og það er í honum sem hún nýtur sín bezt.
Hún minnir að þessu leyti á Kjarval, skrítið.
Samt eru þau ekkert lík.
Sumt fólk er fætt inn í ævintýri, annað inn í veruleika. Ég hef þurft að lifa í báðum þessum heimum, það hefur ekki alltaf verið auðvelt.
Hef sem sagt safnað nokkuð mikilli reynslu úr ólíkum veröldum.
Ljóð Nínu Bjarkar um Flóka er svohljóðandi:
Til Flóka
Við ferðuðumst um hann
rökkurheiminn
þú gast alltaf opnað hann
ævintýri – sögur
dularfullir hlátrar –
ofsakátir.
Alltaf sat engill innst.
Núna get ég ekkert
nema grátið eins og barn
í sjálfselsku minni
og kveinað þessi orð
annars skálds:
deyðu ekki
mér þykir svo vænt um þig.
Mér þykir ekki sízt vænt um það að Nína Björk er jafngóður vinur Hönnu og minn.
Við vorum saman í Berlín á sínum tíma þegar okkur var boðið að lesa upp þar í borg.
Þar voru líka Sigurður A. Magnússon, Steinunn Sigurðardóttir, Hrafn Gunnlaugsson og Guðbergur Bergsson en ég tók Sverri Schopka með okkur því hann var mér betri en enginn þegar við dvöldumst í Oberammengau og Bad Soden á sínum tíma (1972/1973).
Gaman í Berlín og eftirminnilegt að lesa upp í háskólanum. Æ, já, Jón Laxdal var þar einnig, þar kynntust við.
Síðan þýddi hann ljóðin mín í Thule sem kom út í Freiburg á sínum tíma, með myndum Helfrids Weier.
Ljóðin eru bæði á íslenzku og þýzku og bókin hefur orðið vinsæl í Þýzkalandi, að minnsta kosti hefur Eulen-forlagið gefið út þrjár eða fjórar útgáfur af henni.
En myndirnar hafa áreiðanlega ráðið úrslitum um vinsældirnar. Íslands bregzt aldrei!
81)
Júní ‘87
....Hagyrðingarnir í Langadal og Skagafirði höfðu enga minnimáttarkennd.
Þeir vissu samt að þeir voru eins og varðan sem við strákarnir reistum á Valadalshnjúk og sást ekki með berum augum en svo komu einhverjir aðrir og hlóðu nýjar vörður sem greina mátti í góðu veðri.
Það eru margar vörður á þessu fjalli tímans. Hannes Pé(tursson) á líklega einnig sína vörðu á Valadalshnúk enda ættaður undan rótum hans. En við höfðum meiri samskipti við fólkið í Valagerði en Valadal. Bóndinn var tágrannur eins og hrífuskaft en konan, svo ágæt sem hún var, svo feit að mér var sagt það hefði þurft að rífa bæinn, þegar hún fór suður.
En ég veit ekki afhverju hún fór suður.
Kannski vissi hún það ekki sjálf.
Þegar íslenzk ljóðlist fór með atómskáldunum suður þurfti einnig að rífa bæinn.
Og það tekur langan tíma að reisa nýjan.
Og enn lengri tíma að venjast honum, hvað þá taka ástfóstri við hann.
Hagyrðingarnir í þessum nýja bæ leggja ekki eins mikla rækt við orðin og þeir gömlu sem hugsuðu um þau eins og snitturnar sem þeir hlóðu úr vegarkantana og gömlu bæina.
Þess vegna vantar þarna einhvern trúnað sem ég er að velta fyrir mér í Ferð inní haustið.
Samt er þessi tortryggni ekki sanngjörn því atómskáldin í nýja bænum hafa lagt mikið uppúr orðum - kannski stundum ofmikið með tilliti til þess hvað þau eru vanmáttug hvert um sig.
Það vissu háværu þjóðskáldin!
Það þurfti margar snittur í gömlu torfbæina.
Þú fyrirgefur þessar vangaveltur, Kristján minn , kannski spretta þær af því ég get helzt ekkert ort eftir að ég veiktist.
En ég hef verið þeim mun harðari við sjálfan mig í endurvinnslu á gömlum hlutum einsog þú hefur séð.
Og það er einnig nauðsynlegt.
Og heilnæmt.
Og hvað á maður að gera þegar vorið hefur fellt tjöldin og tekið stefnuna inní haustið?
Raða saman steinum í nýjar vörður sem hverfa inní fjallið?
( Úr bréfi til Kristjáns Karlssonar)
12. október ‘87
Kristján minn.
Veit þú ert ekki eins mikið fyrir upplestur á ljóðum og ég og telur þau fari að mestu fyrir ofan garð og neðan í þessum búningi (hvað fer ekki fyrir ofan garð og neðan nú á dögum?!), en sendi þér samt þessar spólur með upplestri af þekktum enskum texta.
Vona þú hafir aðgang að tæki fyrir þær.
Ég hlusta mikið bæði á upplestur og tónlist þegar ég á stund fyrir mig. Það kallar hugann burt frá umhverfinu og fjölmiðlunum sem ég hef orðið ofnæmi fyrir (eins og sjá mætti af tveimur síðustu Reykjavíkurbréfum!!).
Ég á orðið nokkuð gott safn af svona upplestri og geisladiskum með klassískri tónlist sem fyllir mig gleði og rífur mig uppúr hversdagslegu amstri og leiðindum.
Það er einsog að ganga út í náttúruna og endurnýjar ; að hlaða geyminn með þessum skáldskap.
Bretar eiga afarfína upplesara, einkum á prósa, við erum þar aftarlega á merinni, því miður.
Arfleifðin segir til sín í upplestri, ekki síður en bókmenntum. Að því búum við í bókmenntum.
Ég hef alltaf í mörgu að snúast og kem ekki öllu í verk sem þarf. En reyni.
Hef samt minna þrek en áður, en það gerir ekkert til.
Nóg samt.
Talaði við Jakob Ásgeirsson um daginn og ætlar hann að skrifa þegar bókin þín kemur einsog við töluðum um.
Svo sendirðu mér kvæðið í menningarblaðið.
Hef sjálfur verið að hugsa um að brjóta bindindið og birta eitt eða tvö kvæði í menningarblaðinu, til tilbreytingar, en veit samt ekki hvort ég nenni því!
Læt orðið eins lítið að mér kveða opinberleg og ég framast get.
Það er víst nóg af fólki til að sjá um opinbera skvaldrið!
Ég er á annarri leið.
Hverf hægt og sígandi inní mig og geri ekkert orðið sem ég get losnað við.
Ég er samt á leiðinni út í merkingu Snorra og þeirra hinna sem voru orðnir þreyttir á hirðlátunum.
Þórður kakali komst ekki út þegar hugur hans stóð til þess. Hann dó utan við allt og alla.
Þó einkum sjálfan sig.
Kannski er það hlutskipti okkar allra, hver veit.
Ekki kembdi Snorri hærurnar þótt hann kæmist út, enda var hann sízt af öllu á leið inní sjálfan sig!
Hann var að þvælast fyrir öðrum.
Það er alltaf óskynsamlegt, stundum lífshættulegt.
En verst er að þvælast fyrir sjálfum sér, það hefur stundum hent mig.
Þegar ég er að dunda hér heima þar sem mér líður bezt, hugsa ég stundum um hvernig Steinn sagðist yrkja; einkum á göngu, oft í Vesturbænum.
Enginlega sér til afþreyingar.
Eða hugarhægðar, nei, það er of venjulegt.
En afþreyingar, já.
Þessa tilfinningu þekki ég vel.
Það er eitthvað sem kemur.
Og það er spennandi að fylgja því eftir alla leiðina á hvítan pappír.
Eða bláan eða gulan eða rauðan.
En helzt alla leið, ef hægt er.
En það er svo oft sem mann dagar uppi á miðri leið, þess vegna getur verið skemmtilegt að telja sér trú um að maður hafi komizt alla leið.
Það getur vakið með manni oflæti einsog þú þekkir.
En svona er ég farin að eldast, Kristján minn. En það gerir margt af því mikilvægt sem áður var ekki einu sinni til umhugsunar, ekki frekar en Dagur líður af degi - en það nafn er ég að hugsa um að setja á næstu ljóðabókina mína, hvernig sem hún verður.
Það á vel við mann einsog mig sem hefur leyft alltof mörgum af þessum dögum að líða án þess hugsa um þá sérstaklega.
En það er hlutskipti blaðamanna sem upplifa marga ómerkilega atburði einsog þeir skipti einhverju máli.
Ég sé þetta allt í betra ljósi nú þegar á líður og degi er tekið að halla.
Í skuggum verður umhverfið skýrara, áþreifanlegra.
Einsog þú veizt öðrum fremur er ég alltaf eilítið að dunda á þessari skrítnu vegferð inní föla birtu haustsins.
Ég hef með leyfi þínu sent þér það jafnóðum, svo þú gætir stöðvað mig, ef ég væri á villigötum.
Ég hef notið þíns næma skilnings og metið mikils.
Nú sendi ég þér svolitla viðbót! Það vantar svo sem enga viðbót, en hún kemur samt. Ekki síður nú en áður, ég veit eiginlega ekki hvers vegna þetta er svo. Líklega er mér það nauðsynleg afþreying þarna í ljósaskiptunum að setja saman einhvern texta í þessum dúr, þótt blaðamaðurinn sé að draga saman seglin.
Eitt er víst, það er komið nóg af honum. Aðrir geta nú séð um skvaldrið! En ég ætla áfram að taka þátt í hinu.
Vinarkveðjur Matthías.
(Bréf til Kristjáns Karlssonar)
82)
28. okt. ‘87
Kristján minn.
Mikið þótti mér vænt um að við skyldum taka okkur svona góðan tíma þegar við hittumst í fyrradaga.
Það var mér mikil næring og nauðsynleg.
Allt er afstætt!
Þetta hafði ég þó uppúr því að snúa mig á fæti!
En samsagt: Þakka þér innilega fyrir síðast. Og þá ekki síður fyrir bréfið og kvæðin þín sem ég fékk í gær. Brýn og merkileg, ekki sízt einsog ástandið er. Ég brenn í skinninu að koma þeim með einhverju hætti á framfæri. Ég hafði mjög gaman af að fá þessi kvæði. Bókaútgáfa á hausti er svo nýstárleg og óvænt skemmtun í þessu formi og eins og þér einum er lagið og Eyvindur undir messu svo flott ádrepa í þínum búningi.
Nú ætla ég, Kristján minn, ekki alltaf að vera að abbast upp á þig og vil að þú fáir alltaf nokkurra vikna frið fyrir mér (enda er ég alltaf móður og másandi í þessari endurtekningu sem kölluð er vinna og er fólgin í órofinni nálægð annars fólks við einn eða annan ritstjóra) en mig langar þó til við gætum hitzt aftur í hádeginu einhvern tíma í næstu viku og talað um hvernig hægt væri að koma kvæðunum á prent.
Sem sagt:
Það er ritstjórinn sem er að kvabba í þessu bréfi, því nú er tíminn, “the season”.
Stundum hafa ritstjórar smáhugsjón um mikilvæga atlögu að endurtekningunni.
Ef þú hefðir einhvern tíma stund í næstu viku, læturðu mig vita eftir helgi. Þetta mót okkar hefði þá forgang!
Klukkan er nú 8 að morgni þegar ég hripa þessar línur áður en ég fer niður á Mogga.
Ég hef þó nokkrar aukaáhyggjur eins og ég sagði þér vegna andláts Hrólfs Halldórssonar, (forstjóra Menningarsjóðs) ætlaði að vera hættur í Menntamálaráði og átti raunar ekki annað eftir en kveðja, en brann nú inni með ábyrgðina, næstu vikur: Það íþyngir mér.
En þó að maður sé ýmsu vanur, þá er eitt víst: Við sigrum ekki dauðann.
Það er annars merkilegt hvað hann getur verið tillitslaus við þá sem halda að hann sé ekki innan lögsögunnar.
Og þeim fækkar óðum sem virðast ódauðlegir.
Við sættum okkur við það með köflum, en þó ekki alltaf.
En þó einkum þegar við getum tekið undir með aðalpersónu Ford Maddox Fords í Góða hermanninum, Ég er þreyttur! eins og við minntumst á í fyrradag.
Haustinu fylgir þreyta, það er satt.
En hvað gerir það?
Ég var stundum þreyttari þegar ég var yngri, t.a.m. 1970 þegar mér fannst allir vera að deyja.
Og svo í þeim fjaðrafokum sem ég hef þurft að ganga í gegnum.
En nú er allt svo rólegt í kringum mann og ég nýt þess að lifa.
Nýt þessa bláa hausts, þessara kyrru daga; að heyra fólkið í kringum mig,vini mína, þennan kliðandi skóg.
Það er jónsmessa í mér núna einsog þú heyrir, engin uppgjöf.
Ekkert þunglyndi, í hæsta lagi dálítill kvíði, en enginn ótti - einsog stundum.
En hann kemur líka einsog liljur vallarins.
En nú er ég farinn að læra betur að láta hverjum degi nægja sína þjáningu.
En það er erfiður biti að kyngja.
Ég finn hann alltaf í hálsinum. Það verður víst ekki komizt hjá því.......
P.s. Árni fékk tvö kvæði í Mogga á sunnudaginn; ég vona það verði í lagi. Annars er ég hikandi að birta ljóð mín, ég veit ekki afhverju. En endurtek þetta kannski síðar!
P.s. Mér þótti athyglisvert það sem þú sagðir um ljóðabirtingu mína í Tímariti Máls og menningar.
En hvernig ætti hún Silja að hafa þrek til að birta kvæði mitt fremst!
Þú segir hún hafa stungið mig í bakið með því að birta ómerkilegt kvæði eftir húsvin þeirra á undan mínu kvæði.
En við verðum víst að undirgangast jafnrétti í þessari mynd.
Og ég hef ekki vanizt forgangi eða gælum á þessum vettvangi!
(Úr bréf til Kristjáns Karlssonar)
Ódagssett –
Ég er mjög ánægður með að hafa átt frumkvæði að því að Menningarsjóður gaf út bók Steinars Sigurjónssonar, Singan Ri.
Bókin er fín, ég held hans bezta bók, og ég er stoltur af því að Menningarsjóður skuli hafa gefið hana út.
Hef líka fengið bréf frá Steinari þar sem hann hefur látið ánægju sína í ljós, það hefur glatt mig; nú síðast bréf, dags. 12.8. þar sem hann segir:
“Ég fékk þá þrumandi hugmynd um daginn, staddur á Austurstræti, að nú skyldi ég heilsa upp á þig. Hún var góð fyrir það einmitt að ég átti ekkert erindi!
Ég spurðist fyrir um þig, en þú varst ekki viðstaddur.
Ég mundi vel hafa getað tekið undir það að veðrið væri gott, því svo vildi til þann dag. Og ég mundi hafa sagt að ég gerði mig góðan með það hvernig Singan Ri var gefin út því allt var það með sóma, og þó fyrst og fremst skiptin öll við þig.
En ég mun ekki nefna útgáfu við nokkurn mann framar, enda nenni ég ekki að vera með þá hefðbundnu opinberu stæla, sem mér virðist að flata málinu fylgi.
Ég fæst við miskunnarlausa texta fyrir leikhús.”
Áður hefur hann sagt mér að hann væri orðinn drepleiður á Singan Ri, eins og hann kemst að orði, en samvizkan sé þó í sæmilegu lagi vegna þess að fjórir kunningjar hans hafi lagt á sig að lesa bókina – og haft það af!
Nú segir hann að ekkert annað sé á sinni dagskrá en að sigra meginlöndin eins og hann kemst að orði.
“Ég er ekki of góður til þess.”
Segist hafa fundið á sér, eftir að hann hafi lesið bækur Nadesju Mandelstam, að það sé skylda hans að reyna að hefna ófara þeirra sem hún fjallar um í ritum sínum. Hann hafi látið Stefán Baldursson (þjóðleikhússtjóra) hafa handritið til lestrar “en þetta leikrit er fyrsta tilraun mín til slíkrar hefndar þótt það fjalli ekki um þau Mandelstam. Stebbi mun vonandi fá tíma til að lesa það innan skamms og ég hlakka til að heyra til hans. Ég hef lagt nokkuð á mig til að koma þessu leikriti saman, í heilt ár legið í svo stífum lestri að mér er farið að leiðast það... Eftir nokkurn sprett kemst maður að raun um að hann er líkur svipurinn á öllum þessum tortúr, frá bók til bókar, en samt, þetta er nokkuð sem er að gerast í dag!”
Ég veit ekkert um þetta leikrit að öðru leyti enda segir Steinar að hann hafi ekki gengið endanlega frá því.
Hann hafi allt árið til að ganga þrepin uppá svið, segist vera vopnaður engu nema þeirri vissu að það sé ekki nema einn af þúsundi sem sé fær um að ganga sæmilega frá leikhústexta, “– að eftir því sem Peter Brook segir þá þarf sérlegan brjálæðing til að standa í þessu. Ég vildi bara óska að ég væri snargeggjaður”.
Það verður fróðlegt að sjá þetta verk á sviði.
4. nóvember
Ingi Bogi Bogason hefur spurt mig um Stein Steinar. Ég hef svarað honum með óbirtu bréfi.