1990
19. janúar
Þorsteinn Pálsson segist í samtali við okkur Styrmi vera að velta fyrir sér stöðu sinni, m.a. í tengslum við aðra flokka og telur að þeir geti hugsað sér að vinna með Davíð Oddssyni, þótt þeir hafni honum. Nefndi þann möguleika að Davíð myndaði stjórn eftir kosningar og hann ætti þá sjálfur sæti í slíkri stjórn.
Við Styrmir töldum þetta fráleitan kost.
Það væri aðeins rúm fyrir einn kóng í hverjum flokki. Og bentum á aðild Framsóknar á sínum tíma að ríkisstjórn, án forystu Hermanns Jónassonar.
Það hefði ekki kunnað góðri lukku að stýra(!)
16. febrúar – föstudagur
Við útför Guðmundar vinar míns Daníelssonar skrifaði ég svofellda minningargrein í Morgunblaðið:
Gullin flotbrú inn í sólina.
I.
Þegar Óskin er hættuleg, heimildaskáldsaga um Guðmund Daníelsson, vini hans og fleira fólk, kom út á sl. vetri, sagði hann að hún yrði síðasta bók hans. Nú þegar ég er sestur við að skrifa mína síðustu bók, þá fer það ekki milli mála að frá bernskudögunum stendur mér skýrast fyrir sjónum eldfjörugt líf annars vegar, hins vegar einverustundir með nagandi beyg við dauðann...
Þegar Guðmundur sagði mér frá því að Óskin yrði síðasta skáldsaga hans, tók ég það ekki alltof alvarlega, því að hann hafði einnig sagt hið sama áður en næsta skáldsaga á undan, Vatnið, kom út 1987. Auk þess var hann í huga sínum farinn að hugsa um áttræðisafmæli sitt, að ég held. Þegar ég nú hugsa um það, rifjast upp fyrir mér orð Steins Steinars. Hann talaði við mig um fimmtugsafmæli sitt og hvernig því yrði háttað, Það verður ekkert áfengi, ekki dropi, sagði hann, einungis kaffi og pönnukökur; eða kleinur.
En fimmtugsafmæli Steins rann aldrei upp. Og ekki heldur áttræðisafmæli Guðmundar Daníelssonar. Kleinulausir kvöddu þeir þá síðustu höfn, þaðan sem við þurfum ekki framar að leggja út, eins og Melville segir. Þeir áttu þetta þá að minnsta kosti sameiginlegt, þessir horfnu vinir mínir. Og svo einnig þá löngun sem fram kemur í fyrsta kafla Óskarinnar: Jesús – Guð gerðu mig að skáldi(!) Hvorugur var þó trúaður í þeirri merkingu sem gamalt fólk lagði í það orð. En trú er afstæð. Á hana verður ekki lagður neinn kvarði: Hún er óstöðluð tilfinning og því raunar í andstöðu við þjóðfélagslegar kröfur samtímans um staðlaðar hugmyndir. Hún er einungis fullvissa um það sem menn vona, segir í Hebreabréfinu, sannfæring um það sem eigi er auðið að sjá.
Vert er að hafa það í huga þegar efinn og óvissan verða aðgangsharðari en efni standa til.
En þannig kemur dauðinn formálalaust, eins og Melville lýsir honum í eftirminnilegasta kafla Mobý Dicks ...Ó, dauði, hvers vegna kemur þú ekki ætíð á réttri stundu? Menn hverfa fyrirvaralaust undir löngu stráin á leiðinu; áætlunarlaust og án farmiða hefst þessi för inn í leyndardóminn, því að dauðinn er aðeins ferð til ókunna landsins, segir í þessari einstæðu skáldsögu, fyrsta kveðjan til vatnanna órafjarlægu, óþekktu og órannsökuðu.
II.
Ég hef áður skrifað greinar um Guðmund Daníelsson; einnig samtöl við hann. Mun ekki endurtaka það. Minni heldur á samtal sem Guðmundur átti við Súsönnu Svavarsdóttur í menningarblaði Morgunblaðsins fyrir síðustu jól. Hann hafði gaman af að tala um Óskina. Hélt reyndar heilan fyrirlestur um hana síðast þegar við Hann heimsóttum þau Sigríði á Selfoss fyrir áramót. Það var eftirminnilegur dagur. Og engu líkara en Guðmundur væri allur í þessu samtali, svo margt sem honum lá á hjarta. Talaði um guð og djöfulinn og allt þar á milli. Hafði þó engar áhyggjur af eilífðinni. Kveið ekki einu sinni dauðanum, síður en svo. Var þó kominn með krabbamein í lunga. Ekki laust við hann væri forvitinn um leyndardóma annars lífs sem við höfðum lítið talað um áður, þótt ótrúlegt sé. Og nú er hann sjálfur orðinn þátttakandi í þessum leyndardómi. Ég efast ekki um að hann nýtur sín vel í nýju hlutverki.
Í samtalinu við Súsönnu sagði hann að hættulegasta óskin væri sköpun heimsins. Hann segist nota aðferð Guðs við sköpun síns brothætta heims í skáldverkum sínum.
Guðmundur galt fyrir þá ósk sína að vilja verða skapandi rithöfundur og hlaða sinn eigin hugarheim, Ég hef látið sál mína fyrir. Það sama verð og Djöfullinn heimtaði af Kristi, þegar hann dró hann upp á fjall úti í eyðimörk og sýndi honum öll ríki veraldar og sagði: “Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig...” Kristur hafnaði tilboðinu, en ég hafnaði því ekki.
Ritverk Guðmundar Daníelssonar segja svo til um það, hvort ósk hans er öðrum til góðs eða ekki. Ég er í engum vafa um að ósk drengsins í Guttormshaga hefur orðið íslenzkum bókmenntum til framdráttar og álitsauka. En hitt skipti hann meira máli, að hann treysti sér ekki til að lifa án þess fá ósk sína uppfyllta að einhverju leyti. Slík var skáldskaparástríðan. Og enginn flýr hjarta sitt.
Óskin er alltaf hættuleg. Við sáum það ekki sízt í kjarnorkuskógi kalda stríðsins að sköpunin sjálf var hvorki grín né gamanmál. Og ósk Galdra-Lofts varð honum dýrkeypt. Óskin er ekki einungis hreyfiafl í flestum góðum listaverkum, heldur er hún einnig háskaleg. Ekki sízt í lífinu sjálfu. En sem betur fer hefur hún aldrei rætzt, ekki fullkomlega. Jafnvel ekki í skáldskap. Lífsháskalausar sögur eru lítils virði, þótti Guðmundi. Og Melville er þeirrar skoðunar, að höfundar þurfi að velja voldugt efni til að semja volduga bók; um flóna verði aldrei samið mikið rit og varanlegt. En hvalurinn sé þá annað mál og verðugra verkefni; einkum hvalurinn hvíti, dauðinn sjálfur. Andspænis honum sé okkur nauðsynlegt að varast okkur sjálf einkum og sér í lagi. Akab skal vara sig á Akab, varaðu þig á sjálfum þér, gamli maður(!) Í anda þessarar áminningar gat Guðmundur Daníelsson einnig skopazt að sjálfum sér, ekki síður en okkur hinum.
Melville hefði helzt viljað hafa gíg Heklu fyrir blekbyttu, eins og hann segir sjálfur. Það hefði Guðmundi einnig verið þóknanlegt, svo nátengdur sem hann var umhverfi þessa mikla fjalls sem gnæfir eins og Svings yfir söguslóðir Njálu.
IV.
Undir lokin töluðum við Guðmundur Daníelsson um kjarnann í ritverkum hans. Hann samsinnti þeirri fullyrðingu að rauði þráðurinn í verkum hans væri að ekki sé hægt að finna sér fegurra hlutskipti en vera þar sem fólk þarf mest á manni að halda. Þeim sem tekst það er sigurinn vís. Þetta á bæði við um þjóðir og einstaklinga, sagði Guðmundur um kenningu mína. Margar konurnar í sögum Guðmundar leita þangað sem þeirra er mest þörf. Og þær spyrja ekki um fórn.
Blindingsleikur sem Guðmundur Daníelsson taldi, að sumu leyti réttilega, bezt heppnuðu skáldsögu sína fjallar um Birnu Þorbrandsdóttur sem leitar æðra lífs og finnur það með því að taka að sér hlutverk, þar sem mest er þörf fyrir hana. Gamall skarfur sem á ekkert eftir annað en dauðastríðið þarfnast hennar mest. Þessi blindi maður er algjör andstæða æðra lífs. Hún hefur ímugust á honum. Samt leitar hún til hans að lokum af fyrrgreindum ástæðum, þótt hún hafi áður horfið honum. Ungi maðurinn sem hún elskar, Torfi Loftsson, þarfnast hennar síður. Já, Torfi, nú ferð þú heim og ég verð hér. En mundu að ég verð hjá þér samt og að aldrei framar verð ég annarsstaðar en hjá þér... Í huganum, já. Ég verð kannski að láta mér nægja það, Birna... Síðan hélt hvort sína leið, þangað sem þau vissu að þörfin fyrir þau var brýnust, hún inn til blindingjans ósjálfbjarga, hann heim til málþola fénaðarins, sem beið hans.
Hið sama á sér einnig stað í Vatninu
Um þessa næstsíðustu skáldsögu Guðmundar Daníelssonar segir Hallberg Hallmundsson í World Literature Today, 1989, að hún sé miðlægt tákn um íslenzka þjóðarsál og höfundur fjalli um það, hvernig við verðum fyrir erlendum áhrifum, en höfum þó haft þá innri orku sem þarf til að laga þau að eigin ímynd. Þannig hverfur útlend persóna sögunnar til vatnsins sem í styrkleika sínum dregur allt til sín og breytir því í íslenzkan veruleika. Jafnvel ensk-indverskur furstinn verður að urriðanum mikla í vatninu. Og Bára Álfsdóttir hverfur einnig í þetta táknræna umhverfi; hún sem var frjáls, ótamin eins og trippi. Og byggði eignarrétt sinn hvorki á kristilegu siðgæði né stjórnarskránni, heldur á tilfinningunni. Hún er náttúrubarn sem sér í gegnum lífið eins og glerrúðu; veit að fjandinn er meinlaus, ef maður þiggur ekkert af honum; veit að himnaríki er hvorki fasteign né verðtryggður fjársjóður; heldur vorið að sunnan undir heiðum himni og fuglsvængjum. Þannig verður súrrealismi raunsæilegur að vissu marki. Fjarstæðukenndur draumur um veruleika.
Skáldsögunni lýkur með því að Bára verður þess vís að unnustinn hefur ekki þörf fyrir hana. Þá er leikurinn tapaður.
Í Vatninu er landinu helzt þörf á því að við höldum tryggð við það og seljum það ekki út úr höndunum á okkur, hvað sem í boði er, en helgum því ást okkar og krafta í lífi og dauða, eins og Guðmundur komst að orði, þegar við ræddum þetta fyrir áramótin. Vatnið er þjóðarsálin. Og Bára hverfur til þess þegar unnustinn hefur glatað henni; gengið heiminum á hönd, frægðinni og framtíðinni. Hann þarf ekki á henni að halda lengur. Úr djúpi þjóðarsálarinnar er hún komin og þangað hverfur hún með honum aftur, þegar aðrir hafa ekki þörf fyrir hana. Bláköld og ákveðin ferjar hún guðdóminn sjálfan í listamannslíki út í sælueyjuna; og enginn á afturkvæmt úr Vatninu, nema mýflugan ein sem kviknar þar til að deyja, eins og holdbleik minning um flöktandi skugga og viðsjál vötn dauðans sem er einungis norðurhliðin á lífinu, eins og komizt er að orði í skáldsögunni um Báru Álfsdóttur.
V.
Með táknrænan boðskap Vatnsins í huga kveðjum við Guðmund Daníelsson, list hans og lífsstarf. Minnug þess að sú ósk sem öðru er eftirsóknarverðari er bundin landinu og enn standa þónokkrar vonir til þess að hún rætist. En þá verðum við einnig að horfast í augu við þá staðreynd að óvinurinn býr í okkur sjálfum, eins og Katrín Finnsdóttir, móðir Báru, kemst að orði, í fullu samræmi við fyrrnefnda áminningu Melvilles. En hún bætir þá einnig við, Ég sjálf er Vatnið, það sem í Vatninu býr, það býr í mér. Og Vatnið er jörð líka.
“Morgunlognið var svalt og rakt og pollar af gegnsærri þoku lágu enn í slökkum, en á Vatninu lá gullin flotbrú inn í sólina, sem enn var lágt á lofti.”
Það er þangað sem ferðinni er heitið.
17. maí
Flutt í Fossvogskirkjugarði miðvikudaginn 17. maí ‘90
Ungur fylgist ég rækilega með örlögum Norðmanna í heimsstyrjöldinni, enda var faðir minn mjög með hugann við þetta land ættmenna sinna í föðurætt.
Ég var stoltur af hetjulund þessara frænda minna austan hafs og mér hlýnaði um hjartaræturnar þegar þeir urðu á vegi mínum hér heima eða afrekum þeirra skaut upp í huga mínum.
Norsku skáldin las ég ungur og Överland leiftraði upp mikilvægar minningar þegar hann kom út hingað til Íslands eftir stríð og las upp. Hann hafði tekið þátt í baráttunni við hin illu öfl í Noregi og var mér því sérstaklega hugstæður. Í návist hans upplifði ég aðdáun æskuáranna þegar ungar norskar stríðshetjur héldu áfram baráttu sinni við nazismann héðan frá Íslandi, en ást þeirra á ættlandi sínu og frelsi hefur ávallt fylgt undirvitund okkar sem vorum sálufélagar þeirra og baráttumenn í huga og hjarta.
Sérstaklega var mér þetta allt minnisstætt þegar við á sínum tíma ókum yfir Dofrafjöll og hugsunin hvarflaði að hetjunum ungu sem lýst er í skáldsögunni Á meðan Dofrafjöll standa, en mér er til efs að nokkurt rit hafi haft meiri áhrif á ungan ómótaðan huga minn en þessi óður til norskrar hetjulundar og karlmennsku.
Nú þegar hálf öld er liðin frá hernámi Noregs og með þessar minningar í huga er mér sérstaklega kært að sýna látnum hetjum úr æsku okkar þá virðingu sem minning þeirra á
Megi fordæmi þeirra og frelsisást ávallt vera okkur leiðarljós í viðsjárverðum heimi.
Megi Guð blessa minningu þeirra og hetjulega baráttu fyrir Noreg og okkur öll.
Lauffall
Haustrauð
hverfur minning
skógarins
undir laufsegli til hafs
--
Speglast fjarlægur
himinn
í nálægu vatni
og mynd þín
flýtur upp
í huga mínum
flýtur rautt
lauf
inní gráa haustlega
skugga.
13. júní, miðvikudagur
Flutti ljóð á Hressó á Listahátíð. Við vorum þarna saman þrjú ljóðskáld, Ingibjörg Haraldsdóttir, Sigurður Pálsson og ég, ásamt tónlistarmönnum.
Ég tók þátt í þessu fyrir orð Magneu Matthíasdóttur og samkoman átti víst einkum að vera fyrir utangarðsmenn, eins konar listakvöld fyrir óhreinu börnin hennar Evu, og það fannst mér skemmtilegast og gat því ekki hugsað mér að neita að taka þátt í uppákomunni.
Það var vel mætt í salnum, hlýlegt og skemmtilegt andrúmsloft og vel hlustað.
Ég leyfði mér að þakka áheyrendum fyrir þátttökuna.
Því var vel tekið.
Þegar ég las upp í Sigurjónssafni við undirleik Péturs vinar míns Jónassonar,gítarleikara , (til á diski) höfðu einhverjir blaðamenn Morgunblaðsins gert könnun hjá vegfarendum og spurt um áhuga þeirra á ljóðlist.
Tveir sögðust lesa ljóð.
Í Sigurjónssafni voru á milli 150 og 200 manns og ég spurði þá sem þar voru hvort þeir læsu ljóð.
Allir gáfu sig fram með handauppréttingu.
Nú spurði ég þessarar sömu spurningar í Hressingarskálanum.
Þar voru sömu viðbrögð, allir sögðust lesa ljóð.
Ég er sem sagt alltaf að rekast á þessa tvo, stundum eru þeir margfaldaðir með fimmtíu eða hundrað; jafnvel tvö hundruð.
Og nú myndu þessir tveir fylla Háskólabíó, að minnsta kosti tvisvar!
10. júlí
Þingvöllum
Þögull
fer tíminn
bjargfasta hugsun
dagsmjúkum
deyjandi mosa
og glitrandi
úði við greinar
en nýkviknað
mý
undir drúpandi
íslenzkum fána
og grasfögur
þögn
við nálæga
gjálfrandi steina
og golulaus vötn.
Sumar – ódagssett
Lignano
1.
Sit
undir trénu
Lauf fellur á öxl mér
Það er
þyngdarlögmálið
í verki
eins og ef fugl
flýgur
inní skuggann
af sjálfum sér
undir hádegis-
sól
2.
Sit
undir trénu
Það er ljósker
við ruslafötu
Flugurnar hverfa
til ljóssins
Það er einnig
lögmál
aðdráttaraflsins
3.
Sitjum
undir trénu
Það er myrkur
án laufs
án flugna
En það er stórt
vaxandi tungl
Kvöldgult
vaxandi tungl
Og hvítar stjörnur
vefja því
um fingur sér.
4.
Stundum finnst mér
umhverfið
eins og Lísa
í Undralandi
ráði leiktjöldunum,
veruleikinn
er ekki utanvið okkur
heldur innra
með okkur, allt
annað er leikhúsveröld
sem gerir viðstöðulausar
kröfur um athygli
en það sem vex að innan
gerir engar kröfur,
ekki frekar
en Disney-land
sem minnir okkur á
að hugmyndirnar
gera meiri kröfur
en umhverfið.
Þess vegna er Lísa
í Undralandi
áþreifanlegri hugmynd
en fegurðardrottning
á sundbol.
Hún er einungis
umbúðir
um hversdagslega
endurtekningu.
5.
Varpar
nethimnu augans
á umhverfið
varpar möskvunum
eins og gladíator
yfir skugga sem hreyfast
býrð þig undir
að netið þrengist,
þannig upplifir þú
veruleikann
eins og Kólosseum
sé ávallt í augsýn.
6.
Við getum ekki
talað um sumt
nema við sjálf okkur;
t.a.m. þessi kona
þarna, er hún ekki
fegurðardrottning?
Þú getur ekki
fært það í tal
við nokkurn mann
því það gæti verið merki
um getuleysi
að tala um konu
á sundbol,
hví skyldir þú ýta undir
slíkan misskilning
kominn á þennan
aldur? Nei, við skulum
heldur tala
um Emmu Bovary
og ástríður hennar.
Varð hún ekki ást sinni
að bráð? Nei, hún
naut ástar sinnar,
Gustave Flaubert gaf henni
tækifæri til þess,
Lifði hún ást sína, þannig
getum við komið orðum
að því við aðra, Já, hún
lifði ást sína.
Og lygar.
Hunangsilm sinna leiðigjörnu
tilbreytingarlausu daga.
Ástríðulaust gengur enginn
um hennar leiksvið. Þar
sést hún án stækkunarglers.
Og þú getur talað um hana
við aðra.
7.
Hvað væri eiginlega
í heiminum,
mætti spyrja,
ef Kristur hefði ekki
endurskapað hann
af krossinum?
Einungis veglausar
hugmyndir
á stangli
eins og einmana
villuráfandi tré
í landslagi.
Lignano, eða: Gullni sandur
1.
Þjóðverjarnir komnir.
Einsog torfa
sé komin á miðin.
Allir í bátana!
2.
Hvað erum við annað
en flugur?
Förum á kreik
þegar sólin sýnir sig
og leitum í ljósið.
3.
Gunnlaugs-
schevingsgrátt
fellur hafið
með hvítum
földum,
fellur hafið
við sand.
Drengurinn
rennir segli
við sól.
Það er logn,
segir hún,
og himinn
fellur
að fótum hennar.
4.
Dagarnir
skrælnað lauf.
Og það skrjáfar
við sólana.
5.
Kötturinn er hvítur hundur,
hundurinn svartur köttur.
Manni getur þó missýnzt!
6.
Þessar flugur
stinga ekki,
segir sonur minn.
Þær eru bara
til að auka matarlystina!
7.
Hugur hans gekk
á vatni.
Hún reis úr vatninu
einsog mýbit.
8.
Karlinn situr með kamparí
en kerlingin við bjór,
karlinn eins og kramið mý
en kerlingin ofstór.
(Via Undine)
9.
Veglausar flugur
í gagnsæjum
vef
og vitund
þín.
10.
Bæði ganga þau
við kerruna
og sleikja ís.
Undrandi
horfir barnið á
og augu þess
sækja að þeim
eins og vespur.
11.
Tunglið
þar sem augu
okkar
mætast,
sporlaust.
12.
Flugan er ágeng
við borðið,
hlustar ekki
einu sinni
á tónlistina.
13.
Einhver siglir hjá,
glugginn er opinn
og ég sé siglutréð
í rúðunni,
sé hugsun einhvers
um hafið
sigla hjá
og andvarinn hreyfir
trén í rúðunni
þar sem ósýnilegur bátur
hverfur segllaus til himins.
14.
Einfættur gengur
maðurinn
við gervifót.
Þau haldast
í hendur.
15.
Veröldin er á hvolfi
þegar ég er á hvolfi.
O, sole mio!
16.
Að fimm
glösum liðnum
tökum við lagið
með öðrum
sígaunum.
17.
Í kerrunni
lítil stúlka
með stálspangar-
gleraugu
og langa skol-
hærða fléttu
unglegur spengi-
legur maður
á miðjum
aldri
ýtir vagninum
varlega
að búðarglugga,
gætinn maður
og gráhærður.
18.
Vatnablóm
og rauðir fiskar
elta
vatnablóm
og hvítir fiskar
elta
silfraðan geisla
inní augu
mín.
19.
Himinn
alsettur stjörnum
hálfmáni
veður skýin,
draumsýn
í þöndum
seglum.
20.
O, sole mio(!) O, sole mio(!)
mín sól,
það er hún
í rauðri blússu
með bláu fiðrildi,
mitt fiðrildi
það er hún
í síðum rauðum buxum.
Og senn verðum við
eins og auglýsingamiði
sem varð eftir
í tómlegum glugga
O, sole mio!
Við
liðinn dagur
í Lignano.
21.
Að sólbaði loknu
fleygjum við
trosnuðum mottunum
í ruslafötu,
þannig eru margnotaðir
dagar
einnig á sínum stað.
22.
Í Lignano þarf engan
kirkjugarð,
menn deyja annars staðar.
Terra Mare:
1.
Þau hittust
með hundana
á Via Latisana.
Minni hundurinn
sýndi yfirgang
og sá stærri varð hræddur
(sá minni var ekki
stærri en svo
að hann gat troðið
annari afturlöppinni
inní eyrað).
Hún klappaði
stærri hundinum
og hann róaðist
en sá minni
varð afundinn
og lagðist
en fylgdist þó
vel með átökunum.
Þau töluðu saman
og það fór vel á með þeim,
þau töluðu
augsýnilega um hunda,
svo kvöddust þau
og hundarnir þefuðu
hvor af öðrum,
en þau kvöddust
og þefuðu hvort
af öðru.
Þetta var undanfari
innri markaðar
Evrópubandalagsins '92.
Og það var gott veður
fyrir hunda.
2.
Mislitur
þvottur
á snúru
úti á svölum.
Það er ekki
einsog allir
séu farnir.
Ertu þarna,
Páll? Bjarni?
Er Sigríður heima?
Bona sera,
bona sera(!)
Ekkert svar enginn
skuggi, engin hreyfing
við skugga.
Og samt eru þau
ekki farin
úr huga mínum.
3.
Ekkert hanagal,
aðeins hund-
gá
og mávarnir
garga sig
frekjulega
inní fjarstæðu-
hvítan draum
sem er nýr
dagur
börn og hundar
spegla sig
í nýjum
léttklæddum geislum
á gárulausu
vatni
kvakandi börn
og hundarnir
gelta
á gargandi máva,
þannig líður
nýr dagur
og fikrar sig
að fíngerðu ljósi
þarsem sól
gengur
á vatni
og skilur eftir sig
vindkvik spor
einsog ljós spretti
úr spegilhvítri
iðulausri hugsun.
4.
Enginn kemur
í heimsókn.
Nema tréð.
Það speglast
í rúðunni
hreyfist
einsog andvarinn
sé áþreifanlegur.
Enginn kemur
í heimsókn.
Nema flugan.
Flögrar
innum opinn
gluggann
hnitar hring
um ljósið
og hverfur
inní spegilinn
á leiðinni út.
Enginn kemur
í heimsókn.
Nema spegillinn.
5.
Gluggarnir auðir
og tómir
skrautlausar gluggakistur,
en áður blóm og myndir
og andlit við nýþvegna
rúðu,
nú auðir og einmana
gluggar og bíða nýrra blóma
og brosandi augna
eitt sinn voru amma mín
og móðir
andlit í þessum gluggum,
nú speglast þær hvergi
nema í blómskrýddri minning
og hugsun
án glugga
með gærdagslegt bros.
Ódagssett
Vín:
1.
Steinvængjaðar
bíða ljónynjur
í hálfkvenna líki
við höllina,
bíða
eftir því
að hugur minn
hefji þær til flugs
2.
Ófríður
og lágvaxinn
vildi Eugene
prins af Savoi
verða eins fallegur
og kona: eða
hálf
ljónynja
og hálf kona,
ófagur
og lágvaxinn
barðist hann
gegn hundtyrkjanum.
Nú speglast
höllin
í vinalegri tilbúinni
tjörn
og tyrkneskar
myndastyttur
læðast hljóðlega eftir grænu
koparþaki.
En handan
götunnar
tyrkneska sendiráðið,
Það er þó ekki
einsog þeir séu farnir
segir austurríska
leiðsögukonan, hún
Guðrún,
og bendir
á hálfmánann
þarna á hurðinni
á þessu einhverfa
húsi.
Ekkert fer
sem hefur komið,
hugsum við
og virðum fyrir okkur
ljónynjur
í hálfkvenna
líki.
3.
Neðar í Prins
Eugen-götu
franska sendiráðið
með fánalausa
flaggstöng,
Þeir
hafa ekki efni
á fána
eftir Alsírstríðið
segir Guðrún,
eða heitir hún
Angella,
hvernig eigum við að muna það(!)
4.
Það hefur margt
breytzt,
segir Manfreð
og tekur dæmi, Nú
láta nektardansmeyjar
ljós sitt skína,
áðurfyr urðu þær
að vera fjörutíu ár
í Flokknum
til að fá
leyfi.
Flokksskírteinis-
lausar
mega þær nú
hrista brjóstin
framundir morgun.
Tot dem Kommunismus(!)
Hótel Duna, Búdapest
Stöðvast við laufgrænar hlíðar
og himin sem fellur til vatns
hugsun úr tíma sem rennur
að tvísýnum ósi en samt
blasir hann við einsog vatnið
með vordag við gjálfrandi stein
heldur svo áfram til hafsins
með himin við sólhvítan væng
samt er hún hér einsog vatnið
þín hugsun og viðdvalarlaus
Ágúst
Flórenz:
Lítið brúndoppótt
fiðrildi
á USA To-day,
þriðju blaðsíðu efst
til vinstri,
ég lít uppúr blaðinu
og við mér blasir hugsun
Giottos
í Dómkirkjuturninum.
En hver hugsar
brúndoppótta vængi
fiðrildis?
Padúa
Þau sátu við Caffé
Gattamelata
og hann fékk sér
cappuccinó og virti
fyrir sér sjö fugla
á hestsstyttu
Donatellos
utanvið dómkirkjuna, tíminn
á hestbaki
hugsar hann tíminn
á leið í kaupstað
í köldum storknuðum kopar
og minnir á spansk-
grænulitað fljótið
sem er hætt að renna, fuglarnir
hugsar hann tylla sér
á hugmynd Donatellos
um hest og mann, þannig
tyllir tíminn sér einnig
á minningu okkar
og kirkjuklukkurnar hringja
og strætisvagn no. 16
stanzar og fólk kemur
og fer eins og fuglar
á hestsstyttu tímans, hann
fær sér annan cappuccino
og þau tala um torgið
á næstu grösum, Prato
della Valle ólíkt öllu öðru
sem augu þeirra hafa veitt
í smágerð net sín, Eins og
mynd á konfektkassa segir hann
og þeir draga sóltjaldið upp
og þau sitja undir því miðju
og kvöldsett kirkjutorgið
fellur að augum þeirra
eins og hlýr andvari sem strýkur nasir
hestsins og hann frýsar
og torgið og kirkjan koma
undan tjaldinu og þrír
býsanskir himnar og hundur
á kvöldgöngu gengur um
eins og poppstjarna meðal dúfnanna
og fylgir hesti og riddara
inní áleitna hugmynd
um leiksvið
tímans þar sem lifandi hendur
löngu molnaðar kjúkur hafa skilið
handbragð sitt eftir
eins og hugsun
sem dagar uppi á sporlangri leið
í kaupstað, Nú fljúga þeir
af styttunni, segir hún
og bendir en skítugur
fúlskeggjaður karl gengur
undir sólsnjáðum hatti
með gamlar flíkur og poka
inná leiksviðið, Eins og útúr
Dickens segir hún
og Odysseifur dulbúinn betlari
og gengur yfir torgið, Förum,
segir hann og stendur upp
og þau ganga
inní grasdautt hófatak
tímans.
11. ágúst
Bolonía
Innhverf kirkjan
við Via Giacomo
Matteotti
er að reynslu
gamals manns hjarta, að
utan látlaus
og ógestrisin
og lítt áleitin
forhlið
en stór
sál þegar inn er komið
opinn hugur og gestrisinn.
Það er laugardagur
11. ágúst ‘90 og við
eigum af tilviljun
leið framhjá kirkjunni, það
er sólheitur dagur
og tvö ungmenni
standa á gang-
stéttinni og stúlkan
fer að kjassa
piltinn eins og fugl.
við stönzum,
göngum svo inn
en ungmennin
núa saman
nefjum eins og dúfur
í garðinum
við næsta torg.
Meðhjálparinn að taka til
á altarinu
kveikir
á tveimur kertum
og gefur okkur auga,
gengur afsíðis
og kemur aftur
inní kórinn
að vörmu spor
og fylgir nú
lávöxnum hvíthærðum
presti
í róshvítum kufli
að altarinu,
presturinn
byrjar athöfnina
og talar lágri röddu
uppúr bænabókum
en Kristur rís
aftanvið háaltarið
og ljómar af honum
á þessum sólríka
tígulsteinsgula
degi.
Þegar við göngum út aftur
eru ungmennin
farin
en dúfurnar kurrandi
í torggarðinum
handan stórmarkaðarins,
þannig hafa þær
kurrað
frá upphafi
kirkjunnar við Via
Giocomo Matteotti
þar sem dagarnir renna
saman, dagar og ár
falla
að faxhvítu brimhljóði
tímans.
7. september
I
Það var engin tilviljun þegar þess var getið í Morgunblaðsfréttinni um andlát Geirs Hallgrímssonar að hann hafi verið stjórnendum blaðsins slíkur bakhjarl sem raun bar vitni. Í einu af fjölmörgum samtölum okkar Geirs bar þetta á góma og hann þreyttist aldrei á að þakka blaðinu þann styrk og stuðning sem hann hefði haft af því í erfiðri stöðu róstusamra stjórnmála en í þessu samtali gat ég þess við hann að það hefði ekki sízt verið okkur ritstjórum blaðsins ómetanlegur styrkur að vita af honum á bak við okkur þegar blaðið var losað við gömul, óformleg tengsl við Sjálfstæðisflokkinn sem flestir töldu að vart gætu rofnað, svo sterk sem þau voru orðin. Við fórum hægt í sakirnar en unnum markvisst að því án stórra yfirlýsinga að auka sjálfstæði og traust blaðsins og gera mönnum grein fyrir því að það væri blað allra landsmanna fyrst og síðast, en ekki einhver fugl á hendi ákveðinna hagsmunahópa eða pólitískra samtaka. Hann hefði skilið þetta öðrum mönnum betur og það væri honum til mikils hróss hvernig hann hefði ávallt virt þessa afstöðu, bæði í stjórn og í stjórnarandstöðu. Stundum þótti honum við ganga of langt, stundum of skammt, en aldrei gerði hann neinar kröfur til þess eða reyndi með neinum hætti að hafa áhrif á ritstjórn blaðsins, þótt hann teldi sig hafa fulla heimild til að gleðjast eða gagnrýna einsog hver annar lesandi. Stundum líkaði honum illa við blaðið, stundum vel, en sætti sig ávallt við þá þróun sem orðið hefur. Þú hefur átt mikinn þátt í þróun blaðsins, sagði ég, og þú hefur aldrei brugðizt okkur, ekki einu sinni eftir að þú varðst formaður flokksins! Þá horfði Geir á mig fast og ákveðið, brosti og sagði snöggt, En þú ert ekki að geta þess! Þið eruð ekki að nota prentsvertuna til að koma þessu á framfæri! Ég sá í hendi mér þetta var alvarleg stríðni og svaraði. Það mun skila sér þegar þar að kemur. Það var augljóst að Geir þótt vænt um að þessa ómetanlega stuðnings yrði einhvern tíma getið og þess vegna var það engin tilviljun að við orð mín var staðið. En ég hefði kosið að það hefði verið við annað tækifæri en andlát hans.
II
Geir Hallgrímsson var ekki einungis dýrmætur maður og einstæður að heilindum og heiðarleika heldur voru samskipti við hann bæði í leik og starfi ávallt fagnaðarefni. Þegar verst gegndi var hann svo raunsær og þverbrestalaus að maður fór ávallt með gott veganesti af fundi hans. Skilningur hans var djúpur og mannúðlegur, en hann var fastur fyrir og hélt sínu ef út í það fór. Hann var íhugull og laus við fljótfærni og þess vegna var stundum talað um að hann gæti verið hikandi, en ástæðan var sú að hann hrapaði aldrei að neinu og hafði ekki áhuga á öðru en rökum og staðreyndum, þegar afstaða var tekin. Mig stórundraði þrek hans oft og einatt, ekki sízt áður en hann lagði til orrustu á erfiðum landsfundum, en þá var hann ávallt í jafnvægi og hafði sigur, þangað til hann sjálfur ákvað að nú væri nóg komið. Hann naut sín bezt sem borgarstjóri því þar var hann konungur í ríki sínu og þar urðu allir beztu eðliskostir hans skarpari en annars vegna þess frelsis sem embættið veitir samhentum meirihluta.
Geir Hallgrímsson var forsætisráðherra á erfiðum tímum og galt þess að sjálfsögðu en barðist þó einsog hetja við aðsteðjandi erfiðleika, hvort sem það voru innanlandsátök um kjaramál sem urðu ríkisstjórn hans þung í skauti og örlagarík undir lokin eða slagsmál við Breta vegna landhelgisdeilunnar sem komst á það stig að öryggismálum Íslands var hætta búin um skeið. En þau mál voru farsællega til lykta leidd og með fullum sóma Íslendinga. Mér er samt nær að halda að Geir hafi notið sín einna bezt í störfum utanríkisráðherra því þar hafði hann skelegga forystu og frelsi sem jók honum þrek og styrk. Hann gat markað eigin utanríkisstefnu innan þeirra takmarka sem alþingi hafði samþykkt. Og hann naut þess ríkulega. Í samsteypustjórnum geta menn ekki verið eigin herrar, heldur er nauðsynlegt að þjónusta undir allskyns kröfur og hentistefnu samstarfsmanna og ég hygg það hafi með einhverjum hætti dregið úr því hann nyti sín til fulls í þeim viðsárverðu stórsjóum sem þjóðarskútan veltist í. Þá þurfti að taka tillit til margra og ólíkra sjónarmiða. Það var Geir Hallgrímssyni auðvelt, að vísu, en ekki óskastaðan einsog atgervi hans og skapferli var háttað.
Geir Hallgrímsson var fyrst og síðast ábyrgðarfullur lýðræðissinni sem hlustaði á aðra og tók tillit til umhverfisins. Ólafi Jóhannessyni þótti gott að vinna með Geir enda var samstarf þeirra af fullum heilindum og sagði Ólafur mér að sér hefði liðið vel sem viðskipta- og dómsmálaráðherra í stjórn Geirs. Hann hefði þó haldið að Geir nyti sín bezt sem fjármálaráðherra, svo glöggur sem hann væri í þeim efnum og minnti einna helzt á Jón Þorláksson. Samstarf þeirra Geirs og Einars Ágústssonar utanríkisráðherra var einnig ágætt og þeirra Steingríms Hermannssonar síðar þegar Geir var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Steingríms, en sú ákvörðun hans að taka við því embætti var einskonar táknleg yfirlýsing þess efnis að hann hygðist draga sig út úr stjórnmálum og helzt með þeirri reisn sem væri honum samboðin. Hann hætti þannig afskiptum af stjórnmálum þegar hann naut sín hvað bezt og taldi að þeir yrðu að axla byrðarnar sem væru alltaf að sýna kraftana. Þannig hvarf hann úr stjórnmálabaráttunni og tók að sér virðulegt embætti seðlabankastjóra sem fór honum vel, enda líkaði honum umhverfið og samstarfsmennirnir.
III
Ég held það sé rétt munað hjá mér að Ólafur Jóhannesson taldi að það hefði ráðið úrslitum að Geir Hallgrímsson varð forsætisráðherra en ekki hann sjálfur, að Sjálfstæðisflokkurinn krafðist aldrei embættis forsætisráðherra og lengi framan af talað á þann veg að svo gæti farið að Ólafur sjálfur myndaði ríkisstjórnina 1974. Ef svo hefði ekki verið hefði Ólafur ekki getað hafið viðræður við Sjálfstæðisflokkinn hvað þá að hann hefði fengið þingflokk sinn til að fallast á þetta stjórnarsamstarf með glöðu geði. Í viðræðum Geirs og Ólafs kynntist Ólafur heiðarleika Geirs og fannst sjálfum ljúft að ganga til stjórnarsamstarfs undir forystu hans, sagði hann mér sjálfur síðar. En í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sýndi Geir bæði festu og lagni þegar hann hóf að ræða við þingmenn Sjálfstæðisflokksins hvern af öðrum. Hann gat verið harðari í horn að taka en almennt var kunnugt og svo vandur að virðingu sinni að það hvarflaði aldrei að honum að gera annað en það sem samvizkan bauð og hann taldi rétt og þjóðinni nauðsynlegt.
Enginn vafi er á því að Geir Hallgrímsson mat mikils þann hlýhug sem Ólafur Jóhannesson sýndi honum í stjórnarmyndunarviðræðunum. Ég sagði Geir að ég hefði spurt Ólaf hvort það væri ekki erfitt að vera forsætisráðherra og hvort hann væri ánægður með dómsmálaráðherraembættið. Hann hélt nú það. Hann kvaðst hæstánægður með að vera ekki forsætisráðherra. Það er léttir, sagði Ólafur. Það er skemmtilegt að bera kross stuttan tíma, en óskemmtilegt að lenda sjálfur á krossinum. Mér er nær að halda að Ólafur Jóhannesson hafi viljað að Geir Hallgrímsson yrði forsætisráðherra og honum hafi verið léttir að því að þurfa ekki að bera þann kross lengur en nauðsyn krafði.
Þegar ég hitti Geir Hallgrímsson daginn sem hann tók við forsætisráðherraembættinu 28. ágúst 1974 - það var í hádeginu og hann kom í skrifstofu mína á Morgunblaðinu - þá sá ég að hann var léttur í spori og afaránægður. Þegar hann var seztur sagði hann við mig, mikið á mér eftir að líða betur í stjórnarforystu en í stjórnarandstöðu. Jæja, sagði ég, ég hef heyrt þetta áður. Við höfum allir vitað þetta. Já, ég kann ekki að vera í stjórnarandstöðu, sagði Geir. Ég hef ekki notið mín í stjórnarandstöðu. Ég skal segja þér af hverju ég held það sé, það er vegna þess að ég kann ekki nógu vel heilræðin í Hávamálum sem Bjarni vinur okkar var stundum að reyna að kenna okkur. Ég er alltaf of ábyrgur og fer þess vegna ekki nógu vel út úr stjórnarandstöðu.
Geir Hallgrímsson var ekki alinn upp við neina andatrú og hélt sig við þau trúarbrögð sem séra Bjarni kenndi okkur ungum. Ég hafði því gaman af að segja honum allnokkru áður en stjórn hans var mynduð að það hefði komið fram á miðilsfundi hjá Hafsteini Björnssyni, vini mínum, að Sjálfstæðisflokkurinn myndi taka við stjórn landsins og hafa hana á hendi næstu 4-5 árin. Geir hnykkti við. Hann leit á mig og sagði, Ha, ekki lengur?! Þessa hlið á Geir Hallgrímssyni þekktu ekki allir. Hann gat komið manni gersamlega í opna skjöldu með samblandi af sérkennilegum húmor sem ég vissi aldrei hvort var meðvitaður eða rótgróin einlægni sem var einskonar afvopnandi alvara. Ég er ekki viss um að þetta sambland af óvenjulegri alvöru og sérstæðri einlægni í tengslum við inngróna ábyrgð og eðlislæga virðingu hafi alltaf komizt til skila í fjölmiðlum. Mér er nær að halda að svo hafi ekki verið en opinn lýðræðislegur hugur Geirs Hallgrímssonar hafði löngun til að ná blekkingarlausu sambandi við umhverfið, þannig að fylgismenn hans vissu hvað hann hugsaði og þeir gætu treyst dómgreind hans og góðum áformum. Mín ríkisstjórn, sagði hann við mig, verður opin ríkisstjórn. Ég ætla að hafa góð samskipti við blöð og fjölmiðla og segja opið frá því sem er að gerast. Þið eruð í nógum vanda þótt ég auki ekki á hann með því að reyna að loka fyrir fréttir. Og hann stóð við þessi orð eins og annað sem hann sagði. Einu gat maður ávallt treyst á Íslandi um daga Geirs Hallgrímssonar, einu umfram allt annað, að orð hans stæðu.
IV
Ein vandasamasta þraut Geirs Hallgrímssonar á valdaferli hans var landhelgisdeilan við Breta. Þegar verst gegndi 1976 voru ólíklegustu menn farnir að krefjast þess að við segðum skilið við Atlantshafsbandalagið í refsingarskyni við yfirgang Breta hér við land. Stjórnmálaslit voru yfirvofandi en Geir lýsti því yfir á blaðamannafundi að hann vildi ekki að Íslendingar færu úr Atlantshafsbandalaginu, enda gæti það ekki verið hlutverk ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins að slíta tengsl við varnarbandalag sem hafði reynzt jafn vel og raun bar vitni og margir töldu að hefði verndað friðinn í Evrópu. Það hefur nú komið á daginn að Atlantshafsbandalagið hefur haft mikil áhrif á þá jákvæðu þróun sem orðið hefur í heiminum undanfarin misseri þótt nú sé komið að því að endurmeta sitthvað sem áður þótti sjálfsagður hlutur. Nýkominn frá Prag og Búdapest geri ég mér betur grein fyrir því en áður.
Við ritstjórar Morgunblaðsins vorum harðir á því að Íslendingar hefðu sem nánast samstarf við Atlantshafsbandalagið og tókum það óstinnt upp þegar Geir sagði okkur að svo gæti farið að sæti íslenzka fastafulltrúans hjá bandalaginu yrði ekki skipað. Það gæti verið sterkasta vopnið í slagnum eins og á stóð, sagði hann við okkur, og ég mun ekki gera það að fráfararatriði ef það reynist nauðsynlegt. Sú varð raunin eins og alþjóð er kunnugt að hann fór til fundar við Wilson í Lundúnum og hófst hann uppúr hádegi laugardaginn 27. janúar 1976. Fundurinn fór fram á sveitasetri brezka forsætisráðherrans og þangað kom Wilson með þyrlu frá Cardif. James Callaghan utanríkisráðherra þekkti nokkuð til Íslands því hann hafði verið háseti á brezkum torgara í stríðinu og unnið að því að slæða tundurdufl við landið og kom því oft inn til Hvalfjarðar og til Akureyrar. Kvaðst hann eiga margar góðar endurminningar frá Íslandsdvöl sinni.
Fundur stóð allan laugardaginn en var síðan fram haldið í Downing Street 10 næsta mánudagsmorgun en sérfræðingar ræddust við yfir helgina. Að loknum fundarhöldum á laugardag ræddust þeir einslega við, Geir Hallgrímsson og Harold Wilson, og fóru viðræðurnar fram í mestu vinsemd. Þeir töluðu svo enn saman fram á þriðjudag.
Íslendingarnir sem þarna voru staddir fengu að heyra það óspart hve brezku ráðherrarnir hefðu verið hrifnir af málflutningi Geirs Hallgrímsson sem hefði lagt vandamál okkar Íslendinga fyrir með þeim hætti að þeir skildu afstöðu okkar, og þá ekki sízt verndunarsjónarmið, betur en áður. Skilningurinn hafði ekki verið upp á marga fiska eins og marka má af því að einhverju sinni þegar talað var um karfa spurði Wilson, Hvað er það? Reynt var að skýra fyrir honum hvað karfi væri og þá sagði hann, Já, ég gaf kettinum mínum einu sinni þennan fisk og hann dó(!) Síðan var ekki minnzt frekar á karfa.
Allt sýndi þetta mál forystuhæfni Geirs Hallgrímssonar, stjórnvisku hans, varkárni og festu og verður þess lengi minnzt í íslenzkri sögu.
Þetta voru erfiðir tímar. Einu sinni sagðist Geir hafa átt samtal við Ólaf Jóhannesson og sagt við hann, Ef við tveir getum ekki talað saman í fullum trúnaði, þá er stjórnarsamstarfið í hættu. Ólafur tók þessu vel og það var fullur trúnaður þeirra í milli. Framsóknarmenn voru nú einnig farnir að hallast að samningum ef það yrði til þess að landhelgisdeilan væri úr sögunni og málinu lokið, en þungur róður var eftir og margvíslegir erfiðleikar innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins og utan. Geir glímdi við þá af lipurð og ákveðni og stjórn hans hélt velli við erfiðar aðstæður. Honum var það mikið metnaðarmál og hann hafði meira þrek en margir vissu. Það hefur ekki sízt komið fram í erfiðri sjúkdómslegu. Hann barðist unz yfir lauk. Sá eðlisþáttur sem þetta þrek var spunnið úr kom honum oft vel í harðvítugri stjórnmálabaráttu, ekki sízt á þeim árum þegar hann hafði á hendi erfiða stjónarforystu og þurfti að horfa til margra átta. Hann taldi okkur, ritstjóra Morgunblaðsins, hauka í landhelgisbaráttunni og sagði það oft stríðnislega. Ástæðan var sú að við vildum hvorki fórna Atlantshafsbandalaginu né ríkisstjórninni og þá jafnvel frekar stjórninni ef út í það færi. Og við vildum að sjálfsögðu sigra Breta. Aðstæður Geirs voru aðrar en okkar og erfiðari. Við reyndum að halda sjó í blaðinu, ég held þessi misseri hafi verið erfiðasta tímabil ritstjórnarára minna og er þá mikið sagt(!) En leiðir lágu saman, sigur vannst og það var fyrir öllu.
Ég minnist þess að Geir sagðist ekki hafa mikið svigrúm að fara til Lundúna þegar við ræddum málið að kvöldi sama dags og Callaghan lýsti því yfir að brezk herskip myndu fara út fyrir 200 mílurnar og Geir væri boðið til viðræðna við Wilson í Lundúnum, þ.e. 19. janúar 1976. Hann ætti óhægt um vik að semja við Wilson því hann hefði raunverulega engan þorsk að bjóða og var talsvert áhyggjufullur út af því hvort hann ætti að þiggja boðið eða ekki, en sagðist þó mundu fara. Og ég ætla að taka Ólaf Jóhannesson með mér, sagði hann. Daginn eftir er haft eftir honum í Morgunblaðinu að ekki sé ástæða til að slíta stjórnmálasambandi við Bretland eftir fyrrnefnda yfirlýsingu enda verði íslenzkum lögum áfram framfylgt í íslenzkri fiskveiðilögsögu. Geir þakkaði dr. Joseph Luns, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, fyrir að hafa látið til sín taka. Þetta voru ekki mörg orð en svo viðkvæmt sem ástandið var í landinu tók langan tíma að semja yfirlýsinguna. Geir velti því fyrir sér hvort hann ætti að þakka Luns sérstaklega, hann gæti gert það betur seinna; sagði að ef hann þakkaði Luns það einvörðungu að brezk herskip hefðu farið út fyrir 200 mílurnar, þá mundi allur heiðurinn falla í hans skaut. Að sjálfsögðu vildi hann að afskipti ríkisstjórnarinnar hefðu haft eitthvað að segja, t.a.m. hótunin um stjórnmálaslit. Ég benti honum á að það hefði verið íslenzka ríkisstjórnin, þ.e. hans eigin stjórn, sem hefði fengið Luns til landsins og hún ætti því heiður af þessari þróun mála, og kvað hann já við því. En það virtist fara fyrir brjóstið á Geir að Luns hafði sagt að íslenzka ríkisstjórnin hefði aukið á erfiðleikana á lausn málsins með því að hóta stjórnmálaslitum sama dag og hann talaði við Callaghan í Brussel. Gagnrýndi hann íslenzku ríkisstjórnina fyrir það. Þegar ég talaði aftur við Geir síðar þetta sama kvöld ræddum við þessi mál dálítið frekar og þá sagði hann, Þú mátt ekki halda að ég sé að hugsa um sjálfan mig í þessu máli, ég er einungis að hugsa um hagsmuni íslenzku þjóðarinnar og hvernig þeim verður bezt borgið í framtíðinni. Þessi ummæli viðhafði Geir af alvöru og þunga og ég fann að hann meinti það sem hann sagði og ekkert komst að í huga hans annað en hagsmunir Íslendinga í bráð og lengd.
Luns komst áreiðanlega í mikinn vanda þegar hann fékk upplýsingarnar um yfirvofandi stjórnmálaslit, enda var hann á fundi með Callaghan þegar honum bárust tíðindin og hringdi þá strax til Geirs Hallgrímssonar og gagnrýndi þessa ákvörðun meðan hann ynni að lausn málsins. Þrýstingur Luns og Atlantshafsbandalagsins mun hafa komið fremur óþægilega við Callaghan en Luns var eldhugi eins og allir vita, harður og opinskár og reyndi að koma sínum málum fram eins og honum þótti bezt henta. Callaghan mun hafa talið eftir samtal við Luns að ástæða væri til að ætla að íslenzk varðskip ónáðuðu ekki brezka togara og sagði Geir mér í fyrrnefndu samtali að líklega hefði Luns lofað upp í ermina á sér til þess að hafa sitt mál fram. Munaði litlu að illa færi vegna þessa loforðs, en það er önnur saga.
V
Geir Hallgrímsson var góður vinur. Hann var vinur vina sinna, hann stóð með þeim en ætlaðist jafnframt til þess að þeir stæðu að baki honum. Vinátta við Geir byggðist á gagnkvæmri virðingu fyrir afstöðu og skoðunum. Geir Hallgrímsson gerði aldrei kröfu til þess að vinir hans væru sömu skoðunar og hann þótt hann fagnaði því mjög þegar leiðir lágu saman. Hann var opinn fyrir gagnrýni en lá ekki heldur á þeirri gagnrýni sem hann þurfti að koma á framfæri sjálfur. En gagnrýni hans markaðist af hógværð og umburðarlyndi. Stefnufesta hans var mannúðleg. Sumir misskildu þessa afstöðu hans og töldu hana veikleikamerki, gengu því á lagið. Því miður bar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ekki alltaf gæfu til að fylgja foringja sínum. Stundum kom fyrir að eiginhagsmunir réðu ferðinni. Geir reyndi að sjá í gegnum fingur við vini sína. Hann gerði aldrei kröfu til þess að menn fyrirgerðu sínum mannlega breyzkleika í stjórnmálum. En hann gagnrýndi þá sem skorti þrek og stóðust ekki pólitískar freistingar sínar. En hann gagnrýndi mildilega. Mannúð hans var ekki á yfirborðinu. Hún átti rætur í viðkvæmri kviku sem kom sjaldnast upp á yfirborðið, svo vel sem Geir Hallgrímsson gat verndað sinn innra mann, en þegar það gerðist leyndu sér ekki litríkar tilfinningar og viðkvæmara taugakerfi en ætla mátti að óreyndu. Einhverju sinni vann ég fyrir hann fram á nótt, þá sagði hann daginn eftir, Það er gott að vita að vinir manns vaka með manni.
VI
Stundum var sagt að Geir Hallgrímsson væri of afskiptalítill, jafnvel of feiminn til að njóta sín í stjórnmálum. Á þessu umtali fór að bera þegar líða tók á stjórnarsamstarfið 1974-78 en þó öllu fremur eftir kosningaósigurinn í lok þess kjörtímabils. Þá áttum við, ritstjórar Morgunblaðsins, afar opið og eftirminnilegt samtal við Geir sem fór fram að morgni 14. júlí 1978. Þá hafði hann heyrt verulega gagnrýni á Morgunblaðið enda voru sjálfstæðismenn óánægðir með skrif þess. Við hefðum ekki, sögðu sjálfstæðismenn, slegið skjaldborg um flokkinn eins og nauðsynlegt hefði verið í kosningunum. En aðrir hefðu aftur á móti talað um að við hefðum "farið með blaðið á yztu nöf" eins og ástatt væri í þeirri frjálsu blaðamennsku sem menn ætluðust til, en Morgunblaðið hefur aldrei verið hrætt við að bera skjöld fyrir borgaralega mannúðarstefnu, öðru nafni sjálfstæðisstefnuna. Það er gamalgróinn arfur.
Geir spurði okkur Styrmi hvort verið gæti að við næðum ekki lengur til fólks, hvort við værum í fílabeinsturni eða værum á "hærra plani" en almenningur og hann skildi okkur ekki og teldi okkur hrokafulla. Hann væri farinn að efast um sjálfan sig í þessum efnum og vel gæti verið að við ritstjórar Morgunblaðsins þyrftum einnig að íhuga þessi atriði. Hann sagðist ekki vera sannfærður um þetta en vildi ræða það við okkur. Ég sagði, Við förum ekki með blaðið á lægra plan vegna síóánægðra sjálfstæðismanna, og skildi hann það vel. Morgunblaðið ætti ekki að láta draga sig niður á eitthvert plan sem öðrum væri þóknanlegt því blaðið yrði að kunna við sig þar sem það haslaði sér völl. Hann velti því fyrir sér hvort við gætum skrifað blaðið með þeim hætti að fleiri skildu, t.a.m. gæti verið að upplýsingar okkar um efnahags- og kjaramál hefðu ekki komizt til skila. Við svöruðum því til að upplýsingarnar hefðu komizt til skila en fólkið vildi ekki hlusta; það hefði ekki endilega áhuga á því að rýra kaupmátt tekna sinna. Það vildi hafa frið fyrir efnahagssérfræðingum sem væru alltaf með nefið niðri í buddunni þess. Auk þess væri fólk dauðleitt á þessum sífellda efnahagsbarningi og það bitnaði ekki síður á okkur en sérfræðingunum. Við hefðum ekki einungis tapað kosningunum heldur lægji forysta Sjálfstæðisflokksins undir gagnrýni fyrir það að reyna að koma aulaorði á almenning í landinu sem ekkert skildi. Hann hlustaði af venjulegri sanngirni og sagði að það væri víst ekki endilega okkur eða sér að kenna að erkibyskups boðskapur kæmist ekki til skila, heldur væri andrúmið í þjóðfélaginu með þeim hætti að boðskapurinn næði ekki eyrum fólks. Þá spurði hann hvort við værum kannski orðnir of gamlir(!) Við sögðum það gæti verið en Morgunblaðið væri engin öldungadeild, í það skrifaði margt ungt fólk. Og raunar væru þeir á öllum aldri sem miðluðu upplýsingum í blaðinu. Sjálfstæðisflokkurinn ætti einfaldlega undir högg að sækja. Fólk hefði treyst því að undir forystu flokksins næðist sá árangur í efnahagsmálum sem að væri stefnt, en það hefði ekki orðið. Það væri eldurinn sem á okkur brynni. Geir sagðist vera í öldudal en stjórnmál væru með þeim hætti að hann gæti þess vegna orðið þjóðhetja eftir eitt eða tvö ár, maður veit það aldrei, bætti hann við og brosti. Ég ætla mér ekki að gefast upp, sagði hann. Ég hef verið kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins og mun ekki láta það af hendi með þeim hætti sem sumir virðast ætlast til, þ.e.a.s. með því að gefast upp, heldur mun ég þá falla á réttum vettvangi eftir að hafa barizt fyrir þeirri ábyrgðarstöðu sem mér hefur verið falin en þó mun ég ekki biðja einn eða neinn um að kjósa mig, heldur ætlast ég til þess að menn meti það sem ég geri á þann hátt að starf mitt fyrir flokkinn afli mér þess stuðnings sem ég þarf á að halda. Styrmir sagði að tímarnir hefðu breytzt. Í stjórnmálabaráttunni yrðu menn að sækjast eftir stuðningi og vinna að því að afla sér vinsælda. Geir sagðist vel vita að menn yrðu að vera vel í stakk búnir að standast þá atlögu sem alltaf mætti búast við í stjórnmálabaráttu og rifjaði upp þau ummæli Bjarna Benediktssonar að formennska í Sjálfstæðisflokknum væri miskunnarlaust starf. Hann kvaðst ekki hafa sótzt eftir neinum vegtyllum innan flokksins og starfið væri yfirþyrmandi, hann hefði ekki haft tíma aflögu til að tala við allt það fólk sem hann vildi, en samt væri hann sífelldlega að tala við þá sem ættu erindi við hann. Samt væri sagt að hann væri of afskiptalítill, eða jafnvel feiminn. Það væri rangt. Hann hefði í raun og veru aldrei frið og nú gæti hann ekki farið í frí fyrr en að stjórnarmyndun lokinni. Fjölskyldu hans fyndist hann að minnsta kosti hafa í nógu að snúast. Ég sagðist telja að hann væri feiminn að eðlisfari og það gæti stundum háð honum í samskiptum við fólk, ég hefði a.m.k. heyrt honum lýst öðruvísi en ég þekkti hann. Nú hefði hann varpað fram þeirri spurningu hvort fólki fyndist við vera í fílabeinsturni eða hvort við værum hrokafullir og þá spyrði ég á móti hvort honum fyndist hann vera hrokafullur. Nei, svaraði hann, það tel ég ekki. Ég hlusta á rök og menn hafa tækifæri til að sannfæra mig um það sem þeir telja rétt. Ég hef aldrei talið mig yfir aðra hafinn, hvað þá að ég hlustaði ekki á annað fólk. Ég vissi að þetta var rétt, það vissum við Styrmir báðir af langri reynslu. En til þess að fullkomna þetta samtal spurði ég Geir hvort hann teldi okkur Styrmi hrokafulla. Þá brosti hann og sagði, Nei, en það eru sveiflur í ykkur! Hann sagðist telja að við værum í góðum tengslum við þjóðlífið og það væri rangt að við værum í fílabeinsturni. Svo bætti hann við og hafði augsýnilega ánægju af að endurtaka þessa setningu, Nei, nei, þið eruð ekkert hrokafullir! Og ekki svo gamlir að orð sé á hafandi! Ég sagði nú við Geir að hann hefði búið við einstaka farsæld í lífinu og sumum hefði fundizt að honum hefði hlotnazt mikil gæfa. Slíkir menn væru stundum öfundaðir. Þá ítrekaði hann enn að hann hefði ekki sótzt eftir neinum vegtyllum, en það hefði verið fyrir áeggjan Bjarna Benediktssonar sem hann hefði farið að berjast fyrir varaformennskunni því hann hefði ekki viljað bregðast Bjarna og því trausti sem hann hefði sýnt honum á sínum tíma. Það vissi ég einnig að var rétt, því að Bjarni hafði ymt að því við mig að hann vildi að Geir yrði framtíðarforingi Sjálfstæðisflokksins. Nú væri svo komið, sagði Geir, að hann hefði barizt fyrir forystu í flokknum og hann mundi standa, meðan stætt væri. Við vorum sammála um að menn lentu einatt í öldudal í pólitík og þótt hann ætti undir högg að sækja þá stundina hefði hann alla burði til að ná sér upp. Til hans væru gerðar miklar kröfur, ábyrgðin hvíldi á honum og engin ástæða til að treysta öðrum fyrir flokknum hvað sem yrði. Það fór ekki á milli mála að Geir Hallgrímsson setti hagsmuni Sjálfstæðisflokksins ofar öðru og þá ekki sízt ofar eigin persónu og hann sagðist mundu endurskoða stöðu sína í flokknum ef hann teldi að hann yrði dragbítur á flokkinn. Ég vil vera honum til framdráttar, sagði hann, það er mitt hlutverk. Ég hef ekki hvikað við erfiðar aðstæður og mun ekki gera. Bjarni Benediktsson þurfti að berjast við erfiðan andbyr, ekki sízt hefði hann legið undir alvarlegri gagnrýni sjálfstæðismanna 1967, en þó væru kosningaúrslitin nú Geir mun skeinuhættari en gagnrýnin sem Bjarni hefði orðið að hrista af sér á sínum tíma.
Þannig lauk þessu samtali okkar. Það varð mér minnisstætt og ég held okkur Styrmi báðum.
En ég hef rakið það hér og nú vegna þess að það gefur nokkra hugmynd um hversu einlæg og opinská samtöl okkar voru. Það voru jafningjar sem töluðust við, menn sem sóttu afl og styrk hver í annan og orkan var sótt í jákvæða strauma, drengskap og heilindi sem þoldu gagnrýni og efasemdir og umfram allt miskunnarlausan og nakinn sannleika ef því var að skipta. Slík samtöl heyra nú sögunni til. Tengslin við forystu Sjálfstæðisflokksins eru önnur og minni en áður. Tímarnir breytast og er það vel. En sjálfstæðismenn eiga sér griðland í Morgunblaðinu þegar vel er að verki staðið. Við eigum sameiginlega hugsjón sem Geir lýsti m.a. í samtali okkar fyrir borgarstjórnarkosningar 1966, en þar segir að hann hafi að íhuguðu máli sannfærzt ungur um gildi sjálfstæðisstefnunnar, "en ég verð að viðurkenna að á tímabili var ég mjög beggja átta". Og hann bætti við, "Ef ég ætti að nefna eitthvað sem liggur þessari sannfæringu til grundvallar öðru fremur, þá er það virðingin fyrir manninum, einstaklingnum, sem ég tel að sé kjarni sjálfstæðistefnunnar." Að vísu vantar einstaklinginn í samtalið eins og það er prentað í Morgunblaðinu, en það eru mín pennaglöp því ég man hann tók svo til orða og bæti nú úr þessum mistökum mínum, en blaðamennska er jafnan harðvítug barátta við miskunnarlausan tíma. Hún er sem sagt harður húsbóndi. Og í nábýli við hana getur sumt farið úrskeiðis. Það skildi Geir Hallgrímsson manna bezt, enda hafði hann sjálfur um eitt skeið skrifað þingfréttir í Morgunblaðið. Auk þess var hann alinn upp á heimili sem var í sterkum tengslum við blaðið því að Hallgrímur faðir hans var í stjórn þess. Þar fékk hann einnig að sjálfsögðu góðan skammt af sjálfstæðisstefnunni, þótt það réði engum úrslitum um pólitíska afstöðu hans sjálfs. Vinátta okkar átti sér djúpar rætur því að faðir minn starfaði ungur á skrifstofu Hallgríms Benediktssonar og tókst með þeim góð vinátta sem við erfðum, en þá ekki síður með Snorru föðursystur Geirs og foreldrum mínum.
Í fyrrnefndu samtali sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 21. maí 1966, eða daginn fyrir kosningar, segir Geir ennfremur "að eitt af því sem mér þykir skemmtilegast við að vera borgarstjóri eru þau tækifæri sem ég hef til að hitta fólk og tala við það" - og má hafa þau orð í huga og til samanburðar við fyrrnefnt samtal okkar eftir þingkosningarnar 1978.
Í samtalinu frá 1966 segir ennfremur - og tel ég nú ástæðu til að minna á það því við vorum sakaðir um persónudýrkun fyrir þessar kosningar! "Þegar talað er um persónulegan áróður fyrir mig í þessari kosningabaráttu langar mig að segja þetta: Fyrst var minnzt á persónudýrkun af hálfu andstæðinganna í sambandi við fundina sem ég efndi til um borgina, en ég hef ekki skilið, að um persónudýrkun geti verið að ræða, þó borgarstjóri haldi fundi með borgarbúum, til þess að heyra álit þeirra og svara margvíslegum fyrirspurnum. Geri ég ekki heldur ráð fyrir, að neinn þeirra sem fundi þessa sóttu, hafi litið svo á að hann væri að koma á fundina til að iðka persónudýrkun, heldur í því skyni að miðla öðrum af skoðunum sínum og hlusta á skoðanir annarra.
Annars verð ég að segja að ég hef ekki orðið var við þessa persónudýrkun hjá fylgismönnum mínum, en hitt er augljóst að andstæðingarnir hafa óneitanlega haft mig á oddinum, birt af mér myndir á forsíðum og baksíðum dag eftir dag, og gert allt til að auglýsa mig, eins og sagt er - og hef ég auðvitað enga ástæðu til að fetta fingur út í það. En ef um persónudýrkun er að ræða, þá er hún fyrst og fremst komin frá andstæðingablöðunum."
Og loks segir þar:
"En kynntist þú eldri borgarstjórum eins og Pétri Halldórssyni?"
"Nei. Ég var níu ára, þegar Jón Þorláksson dó og man, hve mikið áfall það þótti á mínu heimili. Ég þekkti Jón Þorláksson og Pétur Halldórsson í sjón, en ég hitti Knud Zimsen, því hann kom stundum á heimili foreldra minna."
Andstæðingar Geirs Hallgrímssonar klifa oftlega á því, segir enn í samtalinu, að hann sé of efnum búinn. Ég ympraði á þessu við hann í, og minnti hann á orð Ólafs Thors, sem hann viðhafði í Mbl. fyrir kosningarnar á undan, en var deilt á Geir fyrir, að hann væri of efnaður. Hann hafði þá lagt fram stórhuga áætlanir um gatnagerð sem andstæðingarnir gagnrýndu - og af því tilefni sagði Ólafur Thors orðrétt:
"Geir borgarstjóri hafði getið sér góðan orðstír, einnig á athafnasviðinu. En stjórnmálin kölluðu, og því kalli hlýddi hann. Hann kaus fremur að leggja götur fyrir þúsund milljónir en safna sjálfur milljón, fremur að fást við hin miklu mál allra höfuðstaðarbúa en eigin mál." Og aftur um efnahaginn sagði Ólafur Thors: "En ég segi bara - gott ef satt er. Það er ágætt að borgarstjórinn þurfi ekki að segja sig til sveitar."
Af sömu ástæðu og ég hef rifjað upp fyrrnefnd samtöl finn ég hvöt hjá mér til að minnast hér í lokin á annað samtal, óbirt, sem festist rækilega í minni mínu, svo eftirminnilegt sem það var, um leið og ég þakka vináttu Geirs Hallgrímssonar og langt samstarf sem aldrei bar neinn skugga á. Í mínum huga var hann einstæður, einn þeirra fáu sem hafði atgervi og heiðarleika til að vera ávallt hann sjálfur en til þess þarf meira þrek en þeir hafa sem helzt hafa ekki áhuga á öðrum vini en viðhlæjandi almenningsáliti. Ekkert er þó hverfulla en þessi goluþytur í þjóðlífinu.
Það er 27. maí 1973. Við Geir Hallgrímsson tölum saman, að venju. Ég hafði nýverið heyrt í útvarpinu samtal við fólk á förnum vegi sem spurt var, hvort rétt hefði verið af Ægi að skjóta á Everton. Yfirgnæfandi meirihluti lýsir ánægju sinni yfir því. Ég segi við Geir, Ég er hættur að skilja þetta, Íslendingar skjóta á óvopnað fiskiskip og sökkva því næstum og allir standa á öndinni af ánægju. Þetta er einhver önnur þjóð en sú sem Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson stjórnuðu. Geir svaraði, óvenjuákveðinn: "Þá vil ég ekki vera leiðtogi hennar."
Geir átti samt eftir að verða leiðtogi þessarar þjóðar og hann stjórnaði siglingu hennar án þess hún ærðist af skotgleði. Þannig hverfur þessi óvenjuvandaði og drenglyndi stjórnmálamaður inní söguna; hávaðalaust með þeirri virðingu og reisn sem var rótgróinni kurteisi hans og eðlislægri ábyrgðartilfinningu samboðin. Nú sjáum við hann allan, fríðan foringja, tákngerving borgaralegrar mannúðar; lýðræðissinnan farsæla – og hann hverfur okkur sjónum, ekki í öldudal, heldur á öldufaldi sem snertir himininn sjálfan.