1992
Sumar – ódagssett
Á leið úr laxveiði.
Í bíl
Sunnudagssteikin
liggur jórtrandi
við vegarkantinn
og tveir franskir
ferðamenn
með rauða bakpoka
hjóla framhjá
trippin við túnið
klóra hvert öðru
með beruðum tönnum
og hrossagaukurinn
hneggjar
við toppgræn þúfubörð
en spóarnir
reka upp hrossahlátur
í holtinu fyrir ofan veg
og engu líkara
en sumarið sé nú loksins komið.
En þá fara þeir að lesa
um grjóthríðina
í Kjalnesinga sögu
og við fylgjumst
með útvarpssögunni
langt aftur í aldir
og hugur okkar nemur staðar
við fótlausan mann
í Hundadal
en grjótkasið
á veginum
dregur athyglina frá útvarpinu.
Og við ökum
inní sturlungalausa
grjóthríð.
22.-23. ágúst
Mig dreymir um að vera alltaf meðal fólks og helzt að fara úr einu boði í annað og vera sem oftast í kjól og hvítt og láta viðstadda dást að fálkaorðunni á brjósti mínu sem ég fékk fyrir allt að því listræna kunnáttu í nefndarstörfum og rétt sambönd þótt mín sambönd einsog sagt er fari ekki hátt einsog þær konur vita bezt sem festast í nælonneti augna minna, þessu drauganeti í sægrænu hyldýpi samkvæmissíldanna,
mig dreymir um að tala við konur í flegnum kjólum úr satíni og segja þeim frá krýingardegi Elísabetar Bretadrottningar sem ég upplifði ungur í London, eða löngu áðuren þær fæddust, en um kvöldið fór ég einn á Strand í Aldwych og sá Nashyrningana og það var góður endir á minnisstæðum degi,
mig dreymir um að sitja í forsetaveizlu sem borðherra gamalreyndrar skólastýru í hálfflegnum kjól með fálkaorðu á vinstra brjósti og hlusta á hana tala viðstöðulaust um hlutverk konunnar á nýuppgötvuðum vinnumarkaði og horfa á fálkaorðuna hefjast og hníga á fyrirferðarmiklu og lífsreyndu brjóstinu,
mig dreymir um að skeggræða við berbrjósta og ónefnda forstjórafrú um nýlistarstefnu og nýaldarsiðfræði tómhyggjumanna
eða endurholdgunaráhuga ástkonu súkkulaðigúrósins Rúdólfs Sprunglis í Lindt, hennar æ... hvað heitir hún aftur... sem erfði 200 milljónir eftir fyrri mann sinn, hálfáttræðan iðnjöfur sem dó í fyrra... og heldur Rúdolf við efnið með kauphallarástríðu... jú, auðvitað, Alexandra Gantenbein, alveg rétt... mig langar að tala við forstjórafrúna um mynd sem ég sá af Rúdólf í dagblaði þar sem hann stendur við hnetupoka einsog hikandi héri og reynir að brosa úr lostafullu hjarta sínu hvaðsem heimavinnandi konan segir, enda hefur hann nú loksins ákveðið að skilja við Elísabetu eftir 45 ára hjúskap til að örva þá orku sem með honum býr, og ganga að eiga Alexöndru sem sögð er fyrrum gleðikona enda lífsreynd með afbrigðum og raunar gullhóra segir gulapressan, hvaðsem það merkir,
eða um Söru hertogaynju og karlrembuna sem veltir sér uppúr daðri hennar og Brians fjármálabraskara eða hvað Don Juan heitir nú á dögum, það hefur komið mér á óvart að hann skuli vera að sjúga tærnar á henni einsog kálfur sýgur mjólkandi spena, en þetta var sýnt á athyglisverðri mynd framaná Daily Mirror eða var það Sun eða Daily Mail, ég man það ekki, en kannski veit forstjórafrúin allt um það einsog þau hjónin fara oft til Englands í viðskiptaerindum, en hún er hress og kát að mér er sagt og hefur allaðþví sérfræðilega þekkingu á alþjóðamálum
eða ástleysi Míu og Woody Allens sem hefur lengi verið mitt uppáhald þótt hann fyrirlíti Óskarshátíðina, en þar vildi ég helzt af öllu vera í hvítum smóking og hálfrakaður einsog alvöruleikari, en við Woody eigum þó margt sameiginlegt og hvorugur ætlar að vera viðstaddur þegar hann deyr (mig hefur alltaf hryllt við sögunni af Dorian Gray og kann jafnvel betur við Mr. Hide eftir Poe... eða var það... Stevenson, það má slá því upp), en þótt Woody Allen ætli ekki að vera viðstaddur dauða sinn hefur hann nú þurft að upplifa annan dauða í fjölmiðlunum og ekki einungis gulupressunni því þar rísa menn einatt upp daginn eftir Valhúsahæðina, nei mig dreymir um að tala við forstjórafrúna um grimmdarleg örlög Allens sem hefur nú verið viðstaddur eigin aftöku fyrir að kunna sér ekki hóf í draumi miðaldra mann um lostafullt helvíti holdsins,
mig dreymir um að fá mér koníak með kaffinu og konfektmola frá Lindt og hugsa um verjur með jarðarberjabragði og venjur sem helgast af endurtekningu og leiða af sér vonda siði eða góða – það fer eftir atvikum og afstöðu hvers og eins – og skála við stjórnmálamann sem á mikið undir sér og brosir einsog Chaplin þegar hann var uppá sitt bezta og felur sjálfsvitund sína bakvið embættisþreytt kauphallarbros hins sanna verðbréfamarkaðar stjórnmálanna og annars fjölmiðlafólks og kynnir mig kannski fyrir samhæfðum stjórnarerindreka úr brezka sendiráðinu,
mig dreymir um að vera eftirsóknarvert tilbrigði við enn eitt fellínskt samkvæmi þessa hversdagsgráa leikhúss samfélagsins og helzt þrái ég konungsboð í grímsævintýralegu umhverfi og í orðuregninu miðju legg ég áherzlu á að vera sólarmegin við regnbogann og vekja jafnmikla athygli þar einsog í Armaní-fötum frá Karli Sævari í ósköphversdagslegum kokkteil á fimmtugsafmæli Barða frænda,
já, mig dreymir um það sem fæstir geta látið sig dreyma um og er að mínu viti öllum verðmætum æðra, að hitta fólk, tala við fólk því eitt veit ég þó hvaðsem öðru líður, að maður er manns gaman. Aðrir geta svo látið sig dreyma um eina alveldissál og mold sem lyftist hæst í svanalíki hvaðsem það merkir því það hefur aldrei nægt mér einsog þursunum í Pétri Gaut að vera sjálfum mér nægur og dveljast með sál minni sjálfri einsog tilvitnanaskáldið segir, Eitt ósvikið bros, eitt blik af tári þekki ég ekki heldur og geri ekki ráð fyrir að kynnast því úr þessu, aðeins: Einn draum, eina von sem dregur á tálar,
en helzt af öllu dreymir mig um breiðan brjóstborða í fánalitunum án þess mig langi til að minna á dauðann og hvíta líkkistu umvafða íslenzkum fána, enda er líf mitt flótti frá einum dauða til annars, það veit ég innst inni, en þó get ég vel sungið við jarðarfarir kunningjanna, Kom þú sæll þá þú vilt. Sjálfur ber ég kuðunginn með mér hvertsem ég fer og skyggnist aldrei út, nei gluggalausan kuðunginn ber ég með mér hvertsem ég fer og þar hefur sál mín leitað sér skjóls, þar er mitt haf og mín heimsálfa og þar er ónumið land sálar minnar. Dorian Gray hefur ekki einusinni stigið fæti á þá jörð.
Já, mig dreymir úr kölkuðum kuðungi.
26. nóvember – föstudagur
Í dag er samtal Þorgríms Gestssonar í Helgarpóstinum við Margréti Heinreksdóttur sem rifjar upp veru sína á Morgunblaðinu og ég verð að segja að það er notalegri tónn í þessu samtali heldur en maður á að venjast oft og einatt. Mér þykir því vænna um ummæli Margrétar sem ég veit að hún hemur hjarta sitt og gerir út á heilann og hefur ávallt reynt að laga tilfinningar sínar að raunsæju mati; tilfinningaraunsæi er ekki leiðarljós hennar, ekki endilega(!)
Mér þykir lofið gott, það er allt og sumt, ekki sízt vegna þess að ég átti ekki von á því.
Margrét er ekki klappandi hverjum sem er og hún lifir, að ég held, fyrst og síðast í eigin hugarheimi. Ég hef í sannleika sagt gleymt sumu af því sem hún nefnir en það gerir þá ekkert til þótt maður eignist það aftur.
Margrét sagði einu sinni við mig, Ég ætla að skrifa minningargrein um þig! Mér fannst þetta einkennilegt – og kannski hálfnapurt.
En hún gerir sem sagt út á aldursmun okkar!
En hver veit nema hún eigi eftir að lifa mig?
Deyja menn eftir aldri?
Eða stafrófsröð?
Ef menn deyja eftir stafrófsröð þá á ég að lifa hana.
Ég held að Margrét sem er ákaflega raunsæ kona sé í undirvitundinni ekkert viss um að hún lifi mig, ekki endilega; hún hefur að minnsta kosti enga tryggingu fyrir því og er þess vegna líklega búin að skrifa minningargreinina.
Það gerði hún í þessu samtali.
Og þetta er fyrsta minningargreinin sem ég les um sjálfan mig – og líklega einnig sú síðasta.
En hún er svona:
“Ég held að ég hafi verið fyrsti blaðamaðurinn, sem Matthías Johannessen réð að Morgunblaðinu eftir að hann varð þar ritstjóri. Og ég er enn þeirrar trúar, að ég hafi verið svo lánsöm að upplifa blómaskeið í íslenskri blaðamennsku.
Morgunblaðið gerbreyttist undir ritstjórn Matthíasar frá því að vera blýfast í viðjum pólitískrar efnismeðferðar og skoðana.
Hann innleiddi blaðamennsku í átt til þess, sem tíðkast á góðum dagblöðum í nágrannalöndunum, lagði sig allan fram um að skilja milli pólitískra skrifa og almenns fréttaflutnings, hleypa fjölbreyttari sjónarmiðum og skoðunum að blaðinu og lagði mikla áherslu á vandaða og nákvæma upplýsingaöflun og meðferð, svo að ekki sé talað um þá rækt, sem hann lagði við mannúðleg sjónarmið og gott málfar.
Og þessi hópur sem vann undir handarjaðri hans á þessum árum var afskaplega samheldinn.
Við unnum mikið, vafalaust of mikið – en sjálfur lagði hann líka óskaplega mikið af mörkum; hann vann baki brotnu, var í þessu vakinn og sofinn, kom oft niður á blað um miðjar nætur, jafnvel hálfklæddur og berfættur í inniskónum, þegar eitthvað stórmálið kom skyndilega upp eða einhverju þurfti að bjarga.
Hann var líka geysilega kröfuharður.
Þá voru í reynd allir á vakt eða bakvakt og unnu hvenær sem þess var þörf og hvernig sem á stóð fyrir hverjum og einum.
Allt varð að víkja.
Þetta var því afskaplega harður skóli, mun harðari en sá háskóli, sem ég hef verið í undanfarin ár, þótt hann sé líka erfiður og útheimti mikla vinnu.”
Ég hef ekkert við þetta að athuga, auðvitað ekki!
Mér þykir vænt um að Margrét skuli hafa upplifað Morgunblaðið með þessum hætti – og vona að hún sé ekki ein um það.
Ég geri einungis eina athugasemd; ég man ekki til þess ég hafi átt inniskó!
Og eitt er víst: ég á þá að minnsta kosti ekki lengur!
Ég mun því ekki ganga á þeim inn í fyrirheit Bláu eyjunnar.
Ég ætla þangað á klofháum vaðstígvélum.
Ef það verður eitthvað eftir þetta líf og ég fæ umbun fyrir eitthvað sem ég hef gert, þá ætla ég að óska eftir því að fá að standa með flugustöngina mína á grösugum bakka þess laxárbláa fljóts sem mig dreymir um og vel gæti lokkað mig inn á astralplanið.
Ég hef einu sinni séð framliðinn mann.
Það var þegar ég stóð einn inni á heiði og kastaði í Ormarsá.
Ég fékk allt í einu hroll í mig.
Ég leit niður eftir ánni.
Þar stóð þá maður með hött.
Hver getur þetta verið, hugsaði ég, það er enginn hérna nema ég, þau eru öll tvo kílómetra í burtu.
Þar er Hanna og Halli og félagar mínir.
Ég hugsaði málið.
Maðurinn stóð kyrr; grafkyrr.
Ég fann ég var byrjaður að skjálfa dálítið.
Svo dró ég inn.
Ég gekk í áttina til mannsins.
Hann gekk ekki, hann þokaðist niður með ánni.
Ég sá hann vel, þótt ég hafi ekki séð andlit hans, nei, ég hefði ekki þekkt hann á götu, það er rétt.
En þarna sveif hann niður eftir árbakkkanum og það var alltaf sama farlægð á milli okkar.
Ég tók til fótanna, ég hljóp yfir ásinn.
Hann fór í hvarf.
Þegar ég var kominn fyrir ásinn leit ég til baka.
Hann var horfinn, guði sé lof!
Hvert var hann horfinn?
Inn í eilífðina?
Hvað var hann að gera þarna á árbakkanum?
Og stangarlaus!
Ekki mundi ég vilja standa stangarlaus við mína laxveiðiá ef ég ætti eftir að upplifa astralplanið.
Það væri hegning fyrir gamlar syndir.
Nei, eða hvernig getur staðið á því að þessi framliðna vera birtist mér þarna á árbakkanum?
Hvað er svona fyrirbrigði?
Hugsandi eilífðarvera?
Nei, það getur varla verið.
Hvað er hún þá?
Og hvernig í ósköpunum stendur á því að hún birtist mér allt í einu ljóslifandi svo að ekkert fer á milli mála og hverfur svo eins og ekkert hafi í skorizt.
Samt sá ég hana í margar mínútur.
Og ég sá hana þokast niður með ánni.
Ætli hún hafi vitað af mér?
Eða voru þetta kannski einungis eftirstöðvar af löngu liðinni tíð?
Eftirstöðvar manns sem skildi eitthvað af efni sínu eftir þarna á árbakkanum?
Hugsandi efni
Getur það verið?
Ég veit það ekki.
En kannski veit ég það einhvern tíma.
Þóbergur hefði borið mikla virðingu fyrir mér ef ég hefði getað sagt honum frá svona sýn. En annaðhvort er hann nú svona þúst sem hefur ekki birzt neinum, svo ég viti; annaðhvort hugsandi þúst eða dautt efni og eftirstöðvar af dauðum líkama, eða þá hann er kominn til Bláu eyjunnar með fullri vitund – meira að starf guðs um geim?
Og kannski er hann á Bláu eyjunni án þess að vita það sjálfur.
Miklir eru þessir leyndardómar allt í kringum okkur.
Og við ráðum engu, ráðum ekki einu sinni hvenær við deyjum og hvort við tortímumst eða lifum áfram í einhverri mynd.
En eitt veit ég, að betra væri að hverfa alveg en eyða eilífðinni við Ormarsá; stangarlaus.