1993

 

 

26. janúar

 

Minningargrein mín um hundrað ára afmæli Valtýs Stefánssonar birtist í Morgunblaðinu,löng grein.

 

11. febrúar

 

Tveir af eigendum Árvakurs, þeir Hallgrímur Geirsson og Kristinn Björnsson komu að máli við okkur Styrmi, sögðu okkur frá ummælum Davíðs Oddssonar um Morgunblaðið; að við ritstjórar blaðsins værum orðnir vinalausir; skrifuðum okkur frá vinum okkar án þess vita af því.

Morgunblaðið væri á niðurleið eins og allar kannanir sýndu og hefði ekki traust á við ljósvakana.

Nýjar kannanir um Morgunblaðið sem sýndu annað væru hannaðar eftir pöntun!

Morgunblaðið væri kratablað, málgagn Alþýðuflokksins, og Jón Baldvin væri stjórnarformaður Árvakurs!

Davíð hefur áreiðanlega verið illa fyrirkallaður, trúi ekki öðru.

Hann er tveir menn eins og Einar Benediktsson.

Og ég get svo sem vel viðurkennt að sjálfur hef ég tilhneigingu til að vera tveir menn, jafnvel þrír og raunar merkilegt hvernig þeir rúmast í einum og sama manninum!

Vona samt að við Davíð séum ekki eins og ort var í Vestmannaeyjum forðum daga: Eru á ferli úlfur og refur/í einum og sama manninum!

 

Júlí

 

Á göngu í London, júlí ‘93

1.

Hægt kviknar tunglið

hægt eins og götuljós kvikni

í kvöldgulum tjörnum við garðinn

hægt kviknar tunglið

í tjarngulu vatni

við veginn.

2.

Kona langt gengin til sjötugs

horfir spyrjandi augum

á rósagarðinn horfir spyrjandi

augum inní ilmlausa daga

sinnar þyrnlausu æsku.

3.

Gluggarnir brosa við sól-

inni og kirkjan springur

út ein sog rósirnar

í Regent Park.

Á gangstéttinni við Bloom-

berry House sofandi kona

með þanda regnhlíf

fyrir himin.

Tvær austurlenzkar stúlkur

sitja flötum beinum

á rúmdýnu í skjólgóðu

húsasundi handan götunnar

við British Museum.

4.

Gömul kona talar við ókunnugt

andlit í búðarglugga talar

með brostnum augum og mælskum

fingrum við ókunnugt andlit

í glampandi rúðu talar við gamla

ókunnuga konu

 

Nóvember – ódagssett

 

Hef átt langt samtals við Árna Þórarinsson sem á að birtast í Mannlífi. Held ekki að ég hafi átt svona langt samtal við nokkurn mann frá því ég svaraði spurningum Guðmundar Daníelssonar í samtölum sem birtust í Suðurlandi á sínum tíma, mig minnir 1964.

Það var birt undir fyrirsögninni Barnið og ókindin.

Held sjálfur það sé dálítið skemmtilegt samtal og Andrés Kristjánsson, sem fjallaði einhvern tíma um það, sagðist hafa hlegið allan tímann meðan hann las samtalið.

Það líkaði mér vel.

En það þyrfti að vinna þetta samtal upp að nýju því að það eru einhverjar villur í því og sumt mætti fara betur. Ég segi til að mynda ranglega frá því þegar við Steingrímur Hermannsson vorum nærri dauðir í vegavinnutjaldinu á Vatnsskarði.

Mig minnti að félagar okkar hefðu farið á ball í Varmahlíð og bjargað lífi okkar þegar þeir komu heim um nóttina.

En það er rangt.

Það var Þorkell Zakaríasson vörubílstjóri sem bjargaði lífi okkar Steingríms. Hann kom með félaga sínum upp á Vatnsskarð þessa nótt og sá að það rauk út úr einu tjaldinu þegar hann ók framhjá. Þeir sóttu okkur inn í tjaldið eins og ég hef víst minnzt á áður. Þeir voru að flytja síld frá Sauðárkróki í Vatnshlíð svo það var síldin sem bjargaði okkur Steingrími en ekki skemmtanalífið í Skagafirði!

Hef hitt Þorkel Zakaríasson og við höfum rifjað þetta upp. Hann er vinur bræðranna á Stað í Hrútafirði. Þeir buðu mér norður og héldu vegavinnuköllunum gömlu á Vatnsskarði hóf í Staðarskála og þar hitti ég þessa gömlu félaga mína og las fyrir þá ljóð og sögur.

Það var skemmtilegt.

Og þannig reyndi ég að launa Þorkeli lífgjöfina. Hann var ánægður með það.

En síðar hitti ég hann og þá var hann eitthvað óánægður með pólitíkina og sagði, Ég hefði kannski ekkert átt að bjarga ykkur Steingrími á sínum tíma!

Það var nokkuð gott hjá honum!

(Sjá ævisögu Steingríms Hermannssonar, 1.bindi, Nær dauða en lífi, 89.-90.bls)

Þá hef ég einnig átt langt samtal við Matthías Viðar Sæmundsson í bókinni Stríð og söngur sem út kom 1985. Það var tekið upp á segulband og ég var vantrúaður á það í fyrstu því ég tel það krefjist mikillar vinnu og sérstakra hæfileika að skila slíku samtali á bók, svo vel fari.

Plastlyktin vill alltaf loða við textann.

En Matthíasi Viðari tókst þetta ágætlega og ég er sáttur við hans hlut.

En það er eins og fyrri daginn, ég fer rangt með söguna af Stóra Vatnsskarði og gleymi aftur hinu mikla hlutverki fóðurmjölsins í lífi okkar Steingríms Hermannssonar!

Það er líka rangt hjá mér að fyrsta kvæðið mitt hafi verið prentað í Helgafelli 1951; það var lesið upp í útvarpi 1. desember það ár og birt í Stúdentablaðinu.

Hitt var rétt að Tómas hringdi í föður minn og hrósaði kvæðinu og kvaðst reiðubúinn að birta það í Helgafelli. En það hafnaði fyrst í Stúdentablaðinu. Tómas sagði síðar við mig, Þegar ég las kvæðið þá vissi ég að við ættum eftir að verða vinir.

Í þessari samtalsgrein okkar Matthíasar Viðars er talað um Litla lækinn eftir Pál Ólafsson en á auðvitað að vera Litli fossinn.

Annað get ég staðið við.

Samtalið við Árna Þórarinsson í Mannlífi var birt í nóvember 1993 í tilefni af áttræðisafmæli Morgunblaðsins. Þetta er langt samtal og mikið.

Davíð Oddsson vitnaði til þess í samtali við mig síðar, það var í Háuhlíð á nýársdag, og talaði um samtalið sem hann átti ekki að hafa lesið!

En auðvitað hafði hann lesið það.

Ég heyrði ekki betur en hann kynni það utanbókar.

Hann var sáttur við sumt en annað ekki eins og gengur.

Árni Þórarinsson skilaði þessu verki vel og sjálfur er ég ánægður með þetta samtal.

Það segir mikið um afstöðu mína til stjórnmála og ég stend við hvert orð sem þar er sagt um Morgunblaðið og hlutverk þess.

Til að mynda þetta:

“Morgunblaðið hvatti til þess að Sjálfstæðisflokkurinn yrði stofnaður, að borgaraleg öfl sem verið höfðu mjög tvístruð sameinuðust.

Því höfum við nú stundum gælt við það í gamni að stefna Morgunblaðsins væri jafngild hvaða sjálfstæðisstefnu sem væri.

Lengi vel var þetta ein og sama stefnan en þegar þjóðfélagslegar aðstæður breyttust, höfuðóvinirnir að velli lagðir, tók Morgunblaðið áskorun nýs tíma og hefur oftar farið aðrar leiðir en áður.

Morgunblaðið átti þátt í að breyta umhverfinu og öfugt.

Þessi þróun hefur farið vel fram, þótt hæg hafi verið.

Morgunblaðið hefur reynt að skapa sér eins sterka stöðu við breyttar aðstæður og unnt er án meiðsla eða vinslita.

Við urðum stundum fyrir vonbrigðum með afstöðu hvors annars, Morgunblaðið og forystumenn Sjálfstæðisflokksins, en ég veit ekki betur en góður hugur ríki á milli.

Stundum halda sumir sjálfstæðismenn því þó fram að Styrmir kollegi minn sé meiri krati en góðu hófi gegnir.

En það er bara vitleysa; hann er einhver sannkristnasti sjálfstæðismaður sem ég hef kynnzt og harður íhaldsmaður þegar það á við.

Engum hefur víst dottið í hug að ég sé krati þótt Gylfi Þ. Gíslason haldi því fram að ég sé sunnudagskrati; það fer vel á því þegar stefna flokkanna skarast...

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið óánægður með okkur hafa eigendur Morgunblaðsins aldrei látið bilbug á sér finnast...

Við ritstjórar Morgunblaðsins erum valdir af eigendum og þeir hafa síðasta orðið; þeir gætu gert ágreining við okkur, gert okkur lífið leitt, rekið okkur. Þeir hafa þannig sterkari stöðu því ekki getum við rekið þá frá eign sinni. En á meðan þeir treysta okkur og við þeim eflist Morgunblaðið...

Ég held að Morgunblaðið sé eins nálægt hugmyndum mínum um dagblað í litlu samfélagi og unnt er. Það gæti auðvitað verið betra, betur skrifað og betur hugsað. En það getur ekki verið gallalaust, það getur ekki verið öðruvísi en fólkið sem vinnur við það.

Morgunblaðið er að sjálfsögðu aldrei eins og ég vildi hafa það.

Ég er rithöfundur og kröfuharður þegar frágangur og ritmál er annars vegar. Að minnsta kosti vona ég að það sé ekki ofmælt, svo mikla vinnu sem ég legg í eigin ritverk. En ég get ekki ætlazt til að hundrað blaðamenn vinni eins og ég krefst.

Oft er margvíslegt efni í blaðinu sem ég er andvígur.

Ég hef stundum sagt að ég sé ekki ánægður með neitt í blaðinu nema forystugreinina, jafnvel ekki Víkverja, enda skrifa hann margir þótt ég beri ábyrgð á honum eins og öðrum nafnlausum greinum.

Velþóknun nær til þess sem er þóknanlegt.

Ef við teljum til dæmis að Alþýðuflokkurinn hafi betri stefnu en sjálfstæðismenn hafa sæzt á þá hlýtur það að koma fram í Morgunblaðinu án þess að réttmætt sé að úthrópa okkur eins og hverja aðra krata.

Þverpólitískrar tilhneigingar sér víða stað á þeim stefnulitlu upplausnartímum sem við nú lifum. Sú var tíðin að breitt var yfir öll blæbrigði í afstöðu borgaralegra afla því það var svo mikilvægt að allir væru sammála og sameinaðir – ekki sízt í Sjálfstæðisflokknum.

Nú, þegar gömlu óvinirnir, kommúnisminn og einokun samvinnuhreyfingar, eru horfnar af vígvellinum, eiga menn að vera óhræddir við að takast á í öllum málum...”

Það er annars einkennilegt hvað Árni Þórarinsson hefur mikinn áhuga á þessu stjórnmálaþrefi öllu. Og samt held ég hann hafi engan áhuga á pólitík! En ég hef hann grunaðan um að vera öllum stundum að leita að einhverjum Ríkharði III á sviði íslenzkra stjórnmála.

En hann er ekki kominn í leitirnar ennþá.

En kannski Árni Þórarinsson finni hann ,áður en yfir lýkur.