1994
Ódagssett
Regn í ágúst
Frakkalaus gekk ég
inní laufgaðan
kirkjugarðinn
þá fór hann að rigna, Ég
hugsaði, Ekki þurfa þau
regnhlíf
og leitaði skjóls
undir þéttgreinóttri
regnhlíf stærsta barrtrésins
þar höfðum við áður staðið
tvö ein
og þú sagðir, Trén hafa
augu
Ósýnileg einsog þau
undir laufskuggum
tímans.
Það var sumar einsog nú
við reyndum að vefja
lífinu um fingur okkar
og droparnir hrundu
af barrnálunum,
einn og frakkalaus stóð ég
skúrina af mér
undir skjólgóðri
regnhlíf dauðans, hugsaði
í fyrsta sinn um ótvíræðan
ávinning dauðans.
Sumar
1.
Tónskáldið Saint-Saëns sagði um Berlioz að hann hefði einsog aðrir góðir listamenn haft ofnæmi fyrir því grófa og óheflaða í þjóðfélaginu og því ekki þolað það. Hann hafi hatað það sem hann kallar profanum vulgus. Berlioz var viðkvæmur og gat tárazt af minnsta tilefni.
En hann gat einnig verið harður í horn að taka einsog sjá má á ævisögu hans, Líf ástar og tónlistar, sem hann er næstum því eins frægur fyrir og tónverk sín, enda má skipa þessu merka riti við hliðina á helztu ævisögum heimsbókmenntanna einsog Játningum Ágústínusar og Rousseaus. Fáar skáldsögur jafnast á við slík rit að bókmenntalegu gildi, en auk þess fellir Berlioz gömul bréf inní frásögn sína og gefur henni þannig aukinn slagkraft. Hún verður sérstæðari fyrir bragðið vegna þess að bréfin segja mikla sögu um merkan mann og samtíð hans. Þau eru auk þess listilega skrifuð einsog annað sem tónskáldið festi á blað.
Lífið tekur skáldskapnum ávallt fram og þau rit sem eiga ekki forsendur í reynslu merkra höfunda eru sjaldnast mikill skáldskapur, hvað þá miklar bókmenntir.
Afstaða Berlioz til meðalmennskunnar í París um hans daga minnir á ballettmeistarann Dombasle sem einnig starfaði þar í borg en varð fyrir þeirri ógæfu undir lok listferils síns að missa trúna á ballettlistina(!) Karen Blixen segir frá því í ófullgerðri sögu sinni, Anna.
Berlioz notar engin vettlingatök þegar hann lýsir villimönnunum í París og vandar þeim ekki kveðjur. En eftirminnilegust er lýsing hans á því þegar Henriette, fyrri kona hans, er grafin upp úr kirkjugarði á Mont Martre og lögð til hvíldar í nýjum grafreit vegna þess að hinn fyrri var tekinn undir annað.
Tónskáldið segir það hafi haft mikil áhrif á sig að fylgjast með uppgreftrinum. Á heldur dapurlegum morgni fór hann í kirkjugarðinn að vera viðstaddur athöfnina. Gröfin hafði þá þegar verið opnuð og “þegar ég kom, stökk grafarinn niður í gröfina. Kistan var enn heil þó að hún hafi verið tíu ár í jörðinni. Einungis lokið hafði brotnað í rakanum. Í staðinn fyrir að lyfta allri kistunni upp kippti grafarinn fúnandi borðunum í burtu og þau losnuðu með herfilegum bresti og innihald kistunnar kom í ljós. Grafarinn beygði sig niður og tók upp höfuðið tveimur höndum, en það hafði losnað frá bolnum – þetta skrælnaða hárlausa höfuð “veslings Ófelíu” – og lét það í nýja kistu sem beið þess við grafarbakkann. Síðan beygði hann sig niður og tók með erfiðismunum höfuðlausan bolinn og limina í fangið, svartar hrúgur fastar við líkklæðið einsog rakur poki með tjöruklump. Það losnaði frá með daufu hljóði. Embættismaður borgarinnar stóð í nokkurra feta fjarlægð og fylgdist með. Þegar hann sá mig þar sem ég hallaðist að kýpurtré kallaði hann: “Standið ekki þarna, herra Berlioz, komið hingað, komið hingað!...” Nokkrum andartökum síðar fylgdum við líkvagninum eftir niður hæðina inní stærri kirkjugarðinn þar sem nýja grafhvelfingin stóð opin. Jarðneskum leifum Henriette var komið þar fyrir...”
Jafnvel þetta var á tónskáldið lagt. Hann missti allt, einnig einkason sinn ef ég man rétt.
Lífið sjálft skákar alltaf skáldskapnum þegar ganga á fram af fólki. Þarna stóð Berlioz í kirkjugarðinum í sporum Hamlets og upplifði skáldskapinn með þeim grimmilega hætti sem lífið eitt krefst.
Ef ég ætti að nefna þá lýsingu sem mér þykir einna áleitnust í bókmenntum vegna óhugnaðar og áminningar um tortímingu, hikaði ég ekki við að vitna í þessa endurminningu Berlioz þar sem hann skrifar sig inní harmleik Hamlets.
Þarna eru Ófelía og grafarinn mætt til leiks andspænis áhorfanda sem getur ekki staðið upp að sýningu lokinni og gleymt því sem fyrir augu ber. Þarna lék dauðinn sjálfur af þeirri list sem honum einum er lagið. Hann lék sig inn í merg og bein á þeim manni sem ásamt Verdi hefur sterkast upplifað Shakespeare í tónlist.
2.
Lífið er áskorun. Við erum dæmd til að taka henni. Það er grimmt og margir hafa ekki það þanþol sem krafizt er. Jafnvel hetjurnar gráta. Þannig grætur helzta hetjan í Trjójustríðinu, Akkilles, sem var goðkynjaður í móðurætt. Og hann leitar skjóls hjá móður sinni sem huggar hann einsog stórt barn.
Jafnvel Akkilles getur grátið. Gott er fyrir okkur sem erum ekki hetjur og höfum minna þanþol að hafa það í huga þegar við stöndum andspænis sjálfum okkur og umhverfinu – og sjáum ekki útúr auga.
3.
Þó að miklar bókmenntir komi ekki í stað lífsins sjálfs, getum við margt af þeim lært. Og mönnum einsog Berlioz.
(Geðhjálp)
22. ágúst
Skrifaði nokkur orð í Reykjavíkurbréf í tilefni af 100 ára afmæli þeirrar konu sem ég tel einna merkasta þeirra kvenna sem ég hef kynnzt í lífinu, Ingibjargar Thors.
Fékk svo þakkarbréf frá Mörtu Thors í dag; það yljaði mér:
“Erindið er auðvitað að þakka þér hjartanlega fyrir þessa fallegu, sönnu og snilldarlega skrifuðu grein um frú Ingibjörgu í gær. Ég fékk mikinn hjartslátt og tár í augun og las hana aftur og aftur. Mér mun hlýna um hjartaræturnar hvert skipti sem ég les hana, ástarþökk nú og alltaf.
Mamma var mikilhæf kona, það er alveg rétt. Fáir þekktu hana vel. En þið Hanna áttuð vináttu hennar og velvild.
Sjálf var ég alltaf að sjá nýjar og nýjar hliðar á henni. Hún talaði aldrei um sjálfa sig, allra sízt við börnin sín nema þá æskuminningar frá Tjarnargötu 3. Þar var þetta káta heimili, þar sem börnin sungu margraddað í rökkrinu og mamman lék fyrir þau á gítar, allt milli himins og jarðar. Þau voru vel að sér í músík, þótt enginn væri grammófónninn. “Nei, sko, drullukökulagið okkar,” hvíslaði hún um eina aríanna, þegar “Sköpunin” var flutt hér í bragga á sinni tíð.
Hún hefði vel getað hugsað sér annan lífsstíl. Að minnsta kosti sagði hún að enginn þyrfti að eiga meira en kæmist fyrir á sleða. Þá fyrst yrðu menn frjálsir ferða sinna. Ég sá hana fyrir mér fara hraðbyri í átt til Norðurpólisins og enga íslenzka konu veit ég sem fór “looping, The loop” í lítilli opinni flugvél fyrir sjötíu og fimm árum. Lengi var til mynd af henni sitjandi þarna í aftursætinu á þessu litla apparati. Svipurinn lýsti mikilli sælu og hún bað um að fá tvöfaldan skammt af snúningnum. Pabbi varð víst svolítið undrandi þegar hún kom heim, ljómandi af hamingju. Sjálfur fór hann næsta dag. Það er náttúrulega ekki hægt að eiga unga konu sem fer bara looping the loop án þess að blikna – og hafa svo ekki reynt það sjálfur...”
6. september
Hef verið á ferðalagi fyrir vestan. Skrifaði tvö Reykjavíkurbréf um Vestfirði,Kiljan og Ljósvíkinginn.
Orti ljóðaflokk um þessar eftirminnilegu byggðir,hvenær sem hann verður birtur!
23. nóvember
Á leið til Parísar
Fagurgrænt er grasið ennþá hér
grær það eins og þú að hjarta mér
samt er haustið svart af fugllausum greinum
og sárast er að elska það í meinum
sem vorið átti eitt í fylgd með sér.
Í París
Hundur í regnkápu
stytta af Lizt
í búðarglugga
minna hvor með sínum hætti
á kvennabaráttuna.