1995
fyrri hluti
Nýársnótt
Stöndum ein
við grafhýsi
vængdauðra minninga;
sólgulur uggi
á ljósfælnu stjörnuhafi;
perlandi myrkur
við titrandi glerhimin;
stöndum ein
við skugga af flöktandi
báli;
ein undir smáljósakransi
og fölnandi stjörnum.
Nýársdagur
Fórum í boð til Rutar og Björns Bjarnasonar í kvöld. Það hefur nánast verið venja eftir að Bjarni og Sigríður dóu; minnir á gömlu góðu dagana í Háuhlíð.
Ósköp indælt að venju.
Talaði við Davíð Oddsson og fór vel á með okkur. Töluðum út um ýmislegt enda vorum við báðir þokkalega kenndir; þó ekkert meira en það!
Sá að eitthvað sérstakt hvíldi á Davíð þegar hann fór allt í einu að segja mér frá því hversu mjög honum hefði sárnað leiðari Morgunblaðsins þegar Ráðhúsið var tekið í notkun.
Hann hafði ætlað að vitna í Tjarnar-ljóð eftir mig, og það vissi ég raunar, vegna þess að hann sendi okkur Styrmi bréf um vonbrigði sín og reiði á sínum tíma vegna gagnrýni Morgunblaðsins á það, hvernig vígslu ráðhússins var háttað.
En nú vissi ég það í fyrsta skipti að Davíð hafði látið skrifa ljóðið í rúðu sem átti að setja í Ráðhúsið eins og gert var við kvæði eftir Tómas.
Ég hafði ekki hugmynd um það og hefði raunar þótt það harla óþægilegt.
Hef sem skáld fengið nóg af óþægindum, rógi og árásum, einkum fyrr á tíð, þótt óbilgjarnir róttæklingar hafi ekki verið egndir með þessum hætti.
En söm var gerðin Davíðs.
Nú sagði hann mér að hann hefði látið skipta rúðunni út , þegar leiðarinn birtist og látið setja nýtt gler í gluggann, óskrifað gler.
Eins og óskrifað blað er þessi gluggi enn í dag!
Það var eins og Davíð hefði verið létt þegar hann hafði sagt mér frá þessu.
Cela vie!
Hverju ræð ég?
Og svo er alltaf verið að tönnlast á því hvað ritstjórar Morgunblaðsins hafi mikil völd!
Vera má að það sé stundum, en, guð minn góður, ekki alltaf!
Þessi forystugrein sem særði Davíð hvað mest gagnrýndi veizluhöld við vígslu Ráðhússins og Morgunblaðið sagði það hefði átt að opna strax upp á gátt fyrir almenning, en ekki neina útvalda.
Ég tel enn að svo hefði átt að vera, get ekki að því gert.
Hefði ekki breytt leiðaranum þótt ég hefði vitað um viðbrögð Davíðs fyrirfram, enda voru þessi skrif í samræmi við fyrri afstöðu Morgunblaðsins, til að mynda þegar ég skrifaði leiðara sem var hörkugagnrýni á vígslu Sigölduvirkjunar.
Þá borðaði fína fólkið úr Reykjavík innanhúss en mennirnir sem höfðu reist virkjunina stóðu í rigningu úti!
Kannski er ég of mikið tilfinningaskáld til að stjórna borgaralegu blaði fyrir þá sem halda alltaf að þeir eigi að sitja í stúkunni.
En það vantar í mig streng hinna útvöldu.
Held þó að ég eigi nóg af tilfinningaraunsæi til að meta almenningsálit og umhverfi.
Ég veit vel að Davíð Odsson hafði fullan rétt á því að gagnrýna afstöðu Morgunblaðsins, þá og endranær.
Ég virði skoðanir hans á því.
Það er stundum sagt að við ritstjórarnir séum kratar.
Ef sá er krati sem hefur litla sem enga tilfinningu fyrir veröld hinna útvöldu, þá er ég krati! Eins og Gylfi Þ. Gíslason, vinur minn, sem tekur ekki við orðum, ekki frekar en lóur og þrestir og aðrar melódíur náttúrunnar geti hugsað sér að borða úr lófa manns.
Það eru helzt dúfur sem hægt er að kenna slíka borðsiði.
Hönnu er illa við dúfur, segir að þær séu smitberar.
En Gylfi er sniðugur, að taka ekki við orðum. Hann veit nefnilega að það taka allir eftir þeim sem eru orðulausir í konungsveizlum. En hinir verða bara eins og skrautfuglarnir í dýragörðum, það sker sig enginn úr.
Held þetta sé kvæðisbrotið á rúðunni sem Davíð skipti út:
Vorið
Má ég eiga þig? spurði vindurinn
unga stúlku og tunglið speglaðist
í blárri lind og hár þitt vina mín
bærðist fyrir þessum sárfætta vindi
sem veifaði hendi og ýfði
kyrræða hreyfingu þessarar tjarnar
með hólma og strendur og börn að leik
gáraði vatnið þar sem endurnar minntu
á flöktandi augu þín
og syntu eins og þau
inní óvarið hjarta mitt.
(Tveggja bakka veður 1981)
Í fyrstu viku janúar
Við Hanna fórum með Ingó í Þjóðleikhúsið og sáum skemmtilega leikgerð um Fávita Dostojevskís.
Umhugsunarefni, hver er hvað í raun og veru? Erum við alltaf í því hlutverki sem aðrir halda?
Eða erum við í öðru hlutverki en við viljum?
Ég er hálfhræddur um að þetta sé nokkuð afstætt eins og allt annað í lífi okkar.
En hvað sem því líður, þá orti ég lítið kvæði um höfuðpersónur leikritsins, Nastasju Filippovnu, og samskipti hennar og Parfjons Rogozhín; eða ætti ég frekar að segja ástir þeirra?
Eða samhlaup þeirra?
Eða skammhlaup!
Það hefði Þórbergi líklega þótt bezt viðeigandi.
Ætla að birta kvæðið í Helgispjalli einhvern tíma við tækifæri:
Nastasja Filippovna
við Parfjon Rogozhín
(eða Myshkin fursti)
En ást þín var hnífur og helvíti mitt
var hjarta sem blæddi og drap yndi sitt
og dauðinn var lausn eins og dagur sem fer
með draumkenndan hroll inní myrkrið með sér.
Ég hugsa um furstann en horfi á þig
ég er hóran Nastasja og þú keyptir mig,
hann sagði ég væri göfug og góð
þú grézt þar sem dauðinn við rúmið mitt stóð.
Það var indælt að finna hann elskaði mig
hann elskaði báðar og fuglana og þig
og hönd hans var mjúk eins og kulið við kinn
en ég kaus þó að deyja sem fávitinn þinn.
En fuglarnir kviðra við kvöldlúna grein
og kvíðagult lauf þar sem dagsljósið skein
unz skógurinn þagnar og þögnin ber
minn þráláta harm inní dauðann með sér.
Á þorra – ódagssett
Senn eru 150 ár frá dauða Jónasar og því ekki úr vegi að líta enn einu sinni á Alsnjóa, þennan merkilega leyndardóm sem enn og ávallt leitar á hugann:
Eilífur snjór í augu mín
út og suður og vestur skín
samur og samur út (inn) og austur
einstaklingur! vertu nú hraustur.
Dauðinn er hreinn og hvítur (er) snjór
hjartavörðurinn gengur rór
og stendur sig á blæju breiðri,
ber þar nú undir jörð í heiðri.
Víst er þér móðir annt um oss,
aumingja jörð með þungan kross
ber sig þar allt í ljósi lita,
lífið og dauðann, kulda og hita.
Dauði jarðarinnar blasir við í öllum áttum.
En einstaklingur, haltu trú þinni og innra þreki.
Dauðinn minnir á hreinan, hvítan snjó og hjartavörðurinn (Kristur ?) stendur sig andspænis hinni breiðu líkblæju jarðarinnar.
Víst er þér, móðir, annt um okkur.
Aumingja jörð með þinn þunga kross, lífið og dauðann.
Og á hverju sem gengur í litbrigðum náttúrunnar fer líðan okkar eftir því hvernig viðrar í lífi okkar; allt í lífi og dauða fer eftir ljósbrigðum umhverfisins og andlegri líðan.
Eftir langa umhugsun þykist ég ekki komast nær merkingu þessa margræða kvæðis sem fjallar um líf okkar og líðan með skírskotun í árstíðaskipti jarðarinnar, dauða hennar og upprisu.
Og þar sem “lífið og dauðann” er í þolfalli finnst mér endilega að þau séu nánari skýring á hinum þunga krossi jarðarinnar en Jónasi var eiginlegt að kljúfa braglínur með innskotum einsog dróttkvæðaskáldin gerðu hiklaust hvenær sem þeim þóknaðist.
Alsnjóa er til í tveimur eiginhandarritum Jónasar og eru þau ef til vill bæði skrifuð sama dag, 25. febrúar 1844, eða rúmu ári áður en hann lézt, 27 maí 1845.
Hef lesið grein Svövu Jakobsdóttur, Ljós og litir í Alsnjóa. Á margan hátt athyglisverð grein og skilningur á kristnum viðhorfum Jónasar áreiðanlega mjög nærri lagi. Miklar umbúðir og skemmtilegt hugmyndaflug, en sumt áreiðanlega dálítið langsótt. Er þó sammála kjarnanum í grein Svövu;
að kristin viðhorf séu hið mystíska yrkisefni skáldsins; eða hvað annað?
Jónas og ómegaguð Tiplers
Þegar ég flutti fyrirlestra við Íslenskudeild Háskólans um Jónas Hallgrímsson á sínum tíma hafði ég ekki lesið rit Stephen W. Hawkings, Saga tímans, sem kom út í flokki Lærdómsrita Bókmenntafélagins 1990 en hafði þó kynnzt skammtafræðinni, með aðstoð Jóhanns Axelssonar prófessors, nægilega til að gera mér grein fyrir því hve nútímalegur náttúruvísindamaður Jónas var og á hve sterkum vísindalegum grunni hann byggði afstöðu sína. Hann breytti ríkjandi hugmynd um líf og tilveru; ekki sízt líf eftir dauðann, sem raunvísindi höfnuðu um hans daga. Hann hefði getað fært rök að guðstrú sinni eftir að sýnt hefur verið fram á með skammtafræðinni að ekki er hægt að segja fyrir um “atburði” í efninu.
Þannig geta nútímaleg efnisvísindi ágætlega rúmað jafnafdráttarlausa guðstrú og Jónasi Hallgrímssyni var í blóð borin. Í fyrrnefndu riti Hawkings segir m.a. að frá því skammtafræðin hafi komið til sögunnar “höfum við orðið að sætta okkur við að ekki er hægt að segja fyrir um atburði með fullkominni nákvæmni, ávallt er einhver óvissa með í för. Ef menn vilja, geta þeir talið þessa óvissu merki um íhlutun Guðs, en það væri kynleg íhlutun, ekki er sjáanlegt að hún þjóni neinum tilgangi.
Ef um tilgang er að ræða, er hann eðli málsins samkvæmt ekki tilviljanakenndur”.
Þessi málsgrein er nokkurn veginn í þeim anda sem bók mín Um Jónas sækir í kraft og sannfæringu:
“Og skáldið notar enn mælikvarða fegurðar á sannindi og skynsemi þegar hann segir að varla hafi skynsemin í annan tíma öðlazt fegurri vitnisburð, “hvað hennar dómar séu óbrigðulir” en þegar menn gerðu sér grein fyrir lögun jarðar, og minnir þannig á hugmyndir ýmissa helztu forystumanna nútímaeðlisfræði um fegurð sem forsendu sanninda.
“Því það var ekki fyrren seinna, að jörðin var mæld so nákvæmlega, að lögun hennar fanst með öllu, og þá reyndist það sem áður er sagt, að hún var öldúngis eins og menn áður af skynseminni höfðu til getið. Þannig varð mannsins getgáta að áþreifanlegum sannindum, staðfest af reynslunni með fegursta móti.”
Engu er líkara en hér tali einn af frumkvöðlum skammtaaflsfræðinnar.
Jónas Hallgrímsson gerir einnig ráð fyrir “viðburðum” innan fastra lögmála náttúrunnar.
Í efninu er sem sagt fólginn skáldskapur.
Það leyfir óvænt ævintýri.
Innan reglunnar er frelsi þar sem vænta má óvæntra atburða.
Í riti mínu segir enn:
Jónas var vel að sér í öllum greinum náttúruvísinda og hafði yfirsýn og umburðarlyndi þess ræktaða vísindamanns sem veit að hann hefur ekki höndlað allan sannleik. Samt fjallar hann um sannleika í leit sinni að þeim kjarna tilverunnar sem við köllum guð. Hvað sem náttúrulögmálum líður vitum við að stökkbreytingar verða fyrir tilviljun og ekkert verður sagt um orsakir þeirra. Og náttúran velur úr það sem gagnlegt er.
En þá er það fegurðin.
Hún er mikilvæg í sjálfu sér. Og hún er sönn.
Brezki eðlisfræðingurinn S.A.M. Dirac (1902-1984) hafði fyrir venju að velja þau líkön sem honum þótti fegurst þegar hann setti fram tilgátur um eðli efnisins. Í fyrirlestri spáði hann, á grundvelli fagurrar jöfnu, um nýja áður óþekkta eind. Og þegar annar eðlisfræðingur settist að honum við kaffibolla á eftir og spurði hvað hann ætti við með fagurri jöfnu, þá svaraði hann:
“Ég er ekki heimspekingur, en þú veizt nákvæmlega hvað ég á við.” Dirac sagði fyrir um andeindir og spuna rafeinda, en fyrrnefnd ummæli mætti e.t.v. kalla tilfinningareynslu, því rökin skorti í umræðuna.
Skáldskapur gerir ekki ráð fyrir rökum. Hann krefst ekki útskýringa,ekki frekar en trú.
Ef einhver hefði spurt Stein Steinar um ástæðuna fyrir því að hann orti Tímann og vatnið með þeim hætti sem raun ber vitni, hefði hann getað svarað eins og Dirac, Þú veizt það nákvæmlega(!)
Þegar ég hafði lesið bók Hawkings sá ég í hendi mér hversu rækilega hún styður við þær hugmyndir sem ég hafði, með rök skammtafræðinnar að bakhjarli, sett fram í riti mínu um Jónas. Og nú þykir mér ekki fara illa á því að ég finni þessum orðum stað með því að vitna í Hawking máli mínu til staðfestingar.
Hann segir í kaflanum um óvissulögmálið:
“Laplace taldi að til ætti að vera kerfi vísindalegra lögmála sem gerðu okkur kleift að segja fyrir um allt sem gerðist framvegis í heiminum, ef við þekktum ástand hans nógu nákvæmlega á einni stund. Þekki menn til að mynda hraða og stöðu sólar og reikistjarna, er hægt að beita lögmálum Newtons til að reikna þessar stærðir á hvaða öðrum tíma sem vera skal. Þetta virðist augljóst, en Laplace gekk lengra. Hann gerði ráð fyrir að hliðstæð lögmál stjórnuðu öllu öðru, þar á meðal hegðun manna.
Þessi kenning mætti öflugri andspyrnu margra, sem töldu hana brjóta í bág við frelsi Guðs til þess að skerast í leikinn, en hún var þó ríkjandi skoðun í vísindum fram á 20. öld.”
Sem sagt, samtími Jónasar var fastur í þessum viðjum þótt hann sjálfur hefði aldrei látið fjötra sig í spennitreyju slíkrar efnishyggu; eða löghyggju; Hawkings segir að óvissulögmálið hafi bundið enda á draum Laplace um löggengan heim, vísindakenningu er öllu lýsti.
“Augljóslega er ekki hægt að segja fyrir um framtíðina ef ekki er einu sinni hægt að mæla nákvæmlega hvernig nú er ástatt!”
Og ennfremur:
“Með það að leiðarljósi settu þeir Heisenberg, Erwin Schrödinger og Paul Dirac á þriðja tug aldarinnar fram nýja gerð aflfræði sem kölluð er skammtafræði og felur í sér óvissulögmálið. Í þessari nýju gerð aflfræðinnar er ekki lengur fullyrt að ögn sé á tilteknum stað og hafi tiltekinn hraða, sem ekki er hægt að mæla. Í staðinn er talað um skammtaástand, þar sem staður og hraði fléttast saman í eitt.
Skammtafræðin segir yfirleitt ekki fyrir um neina eina ákveðna niðurstöðu úr mælingu eða athugun, heldur segir hún til um margar hugsanlegar niðurstöður og hve líkleg hver þeirra sé.”
Síðan segir Hawking að Einstein hafi aldrei sætt sig við að hending stjórnaði heiminum og fræg séu þessi orð – og lýsi vel afstöðu hans til þessara mála: “Guð varpar ekki teningum.” En flestir vísindamenn aðrir tóku skammtafræðinni vel því hún féll alveg að því sem mælingar leiddu í ljós. Skammtafræðin hefur reynst framúrskarandi vel og er orðinn grundvöllur flestra greina nútíma vísinda og tækni.”
Ef við höldum svo áfram þessu ferðalagi um Sögu tímans eftir Hawking og notum þær vörður sem hann hleður í þessu riti sínu til þess að taka rétta stefnu til ákvörðunarstaðar og færum enn rök að vísindahyggju Jónasar og guðstrú hans, þá er ástæða til að staldra við þessi orð Hawkings um guð og sköpunarverk hans, þótt fullyrða megi að Jónas hafi ekki verið þeim sammála heldur trúði hann því að guð hefði ekki yfirgefið sköpunarverk sitt en hefði auga með því án þess okkur væri ávallt ljós tilgangur hans sem væri hulinn hinni “blindu veröld” svo vitnað sé í Hinn guðdómlega gleðileik eftir Dante:
“Guð kann að hafa sett þessi lögmál í upphafi,” segir Hawking, “en svo virðist sem hann hafi síðan látið heiminn þróast samkvæmt þeim og ekki skipt sér meira af gangi mála.
En hvernig valdi hann upphaflegt ástand og gerð heimsins?
Hver voru “jaðarskilyrðin” við upphaf tímans?
Hugsanlegt svar er að segja að Guð hafi valið upphafsástandið með rökum sem við skiljum ekki og getum ekki gert okkur von um að skilja. Það hefði vissulega verið á valdi almáttugrar veru, en hafi Guð sett heiminn af stað á óskiljanlegan hátt, hvers vegna lét hann heiminn þá þróast samkvæmt lögmálum sem við getum skilið?
Öll saga vísindanna hefur smám saman staðfest að atburðir hér í heimi gerast ekki á handahófskenndan hátt, að baki þeim liggur ákveðin regla. Sú regla kann að eiga sér guðlegt upphaf en svo þarf ekki að vera.”
En um það var Jónas Hallgrímsson í engum vafa.
En næsta varðan sem verður á vegi okkar í riti Hawkings er aftur á móti mikilvæg vísbending um hugarheim Jónasar, eða hugarveröld guðs eins og hann komst sjálfur að orði, en Hawking segir:
“Óvissulögmálið felur í sér að alheimurinn hefur aldrei getað verið fullkomlega einsleitur, þar hlýtur að hafa verið einhver óvissa eða flökt á stöðu og hraða agna... Vísindunum hefur tekist svo vel að lýsa rás atburða að flestir eru farnir að trúa því að Guð leyfi heiminum að þróast eftir föstum lögmálum og blandi sér ekki í framvinduna til að brjóta þau. En lögmálin segja okkur ekkert um hvernig allt fór af stað, Guði er enn ætlað að vinda upp gangverkið. Eigi heimurinn sér upphaf má gera ráð fyrir að hann eigi sér einnig skapara.”
Og loks er ástæða til að staðnæmast við þessar mikilvægu vörður undir lok ferðarinnar um Sögu tímas
“Síðan skammtafræðin kom til sögunnar,” segir Hawking, “höfum við orðið að sætta okkur við að ekki er hægt að segja fyrir um atburði með fullkominni nákvæmni, ávallt er einhver óvissa með í för. Ef menn vilja, geta þeir talið þessa óvissu merki um íhlutun Guðs, en það væri kynleg íhlutun, ekki er sjáanlegt að hún þjóni neinum tilgangi. Ef um tilgang er að ræða, er hann eðli málsins samkvæmt ekki tilviljanakenndur.”
Og ennfremur:
“Í tveimur atriðum var löghyggju Laplaces áfátt. Hún sagði hvorki til um hvernig ætti að velja lögmálin né um upphaflegt ástand alheims. Það var eftirlátið Guði. Guð stýrði því hvernig heimurinn hófst og hvaða lögmálum hann fylgdi, en hlutaðist annars ekki til um gang mála eftir að alheimurinn var á annað borð kominn af stað. Í raun var það svo að Guði voru falin þau svið sem vísindi 19. aldar réðu ekki við.
Nú vitum við að vonir Laplaces um löghyggju geta ekki ræst, að minnsta kosti ekki á þann hátt sem hann hugsaði sér. Óvissulögmál skammtafræðinnar sér til þess að sum pör stærða, svo sem stöðu og hraða agnar, er ekki unnt að ákvarða með fullkominni nákvæmni.”
Og loks:
“Guði væri því alveg frjálst að ákveða hvað gerðist og hvernig heimurinn hófst.
Þegar almenna afstæðiskenningin og skammtafræðin eru samþættar kemur fram möguleiki sem var ekki til áður: Rúm og tími kynnu að mynda endanlegt fjórvítt rúm án sérstæðna eða endimarka, svipað yfirborði jarðar nema hvað víddirnar eru fleiri.”
Jónas Hallgrímsson virðist hafa átt sannfæringu um forsjón Guðs sem þurfti í raun og veru ekki á neinum vísindum að halda.
Guð heyrir ekki til neinum vísindum.
Vegir hans eru órannsakanlegir eða órekjanlegir og hann er ofan og utan við mannlegan skilning.
En Jónasi Hallgrímssyni hefði áreiðanlega ekki verið á móti skapi að við reyndum að finna þá fullkomnu kenningu sem Stephen Hawking talar um í lok bókar sinnar því þá ætti hún, eða að minnsta kosti aðaldrættir hennar “smám saman að verða skiljanleg öllum, en ekki aðeins fáum vísindamönnum. Þá getum við öll, heimspekingar, vísindamenn og almenningur, tekið þátt í umræðunni um það hvers vegna við og alheimurinn erum til. Takist að finna svar við þeirri spurningu yrði það lokasigur mannlegrar skynsemi - þá þekktum við hugskot Guðs.”
En Jónas Hallgrímsson taldi sig að öllum líkindum þekkja hugskot guðs, að minnsta kosti lifir hann í hugarveröld skaparans, þ.e. sköpunarverkinu sjálfu, einsog fiskur í vatni. Guðstrú hans er honum þannig fullkomlega eiginleg. Hún er hluti af umhverfi hans; skynjun hans; tilfinningum hans; trú hans.
Og vísindahugsjón.
Bandaríski raunvísindamaðurinn Frank J. Tipler segir í bók sinni Eðlisfræði ódauðleikans sem hefur vakið mikla athygli vestur í Bandaríkjunum að margir vinir sínir úr röðum vísindamanna hafi ráðlagt sér að nota ekki orð eins og guð, himinn eða frjáls vilji í ritum sínum, það merki einungis sama og vitleysa eða della vegna þess hvernig heimspekingar og guðfræðingar hafa notað þessi orð, en hann hafi hafnað þessari afstöðu vina sinna.
Og í bók sinni bendir höfundur á að guðfræðingar hafi til að mynda ekki sömu skoðun á guði nú og áður, nefnir þýzk-bandaríska guðfræðinginn P.J. Tillisch (1886-1965) sem hafi gengið út frá guði sem veruleika en ekki endilega sem persónulegum guði. Hann sé hinn ítrasti veruleiki eins og Campbell komst að orði; sjálf tilveran.
Tillisch skrifaði um þýzka heimspekinginn Schelling sem ég nefni í bók minni um Jónas Hallgrímsson því hann hafði mikil áhrif á trúarafstöðu hins rómantíska skóla. Hann taldi að kalla mætti náttúruna til vitnis um sköpunarmátt guðs og fyrirætlanir hans, ef svo mætti segja.
En Tillisch hafnaði guði sem manngervingi eða þeim vinsæla persónulega guði kristinsdómsins sem við þekkjum öll.
En þótt hann hafnaði manngerðum guði afneitaði hann ekki veruleika guðs einsog hefðbundnir guðleysingjar hafa gert.
Tipler segir að tími hafi verið til kominn að endurmeta þessi guðfræðilegu orð og gera til að mynda orðið himnaríki eins raunverulegt og hvert annað raunvísindalegt orð einsog rafeind eða eitthvað þvíumlíkt.
Tipler segir sennilega sé til frjáls vilji, himnaríki, sennilega guð og sennilega einnig líf eftir dauðann. Það sé hlutverk eðlisfræðinnar að leita þetta uppi. En margir efnisvísindamenn séu guðleysingjar og ekki reiðubúnir til slíkra starfa þótt árekstrar séu engir milli vísinda og trúar nú um stundir. En Tipler telur sjálfur guð sé á baki við sköpunarverkið en hann fer eigin leiðir að þessari niðurstöðu, ærið flóknar og erfiðar, að minnsta kosti fyrir þá sem eru ekki þeim mun betur að sér í efnisvísindum. Þó má reyna að fylgja honum eftir og gera sér einhverja grein fyrir hugmyndum hans.......
Vísindaleg niðurstaða Tiplers um persónulegt hermilíf upprisunnar og samfélag við þann guðdóm sem hér hefur verið nefndur hefur vakið mikla athygli vestra enda styður hún hugmyndir kristins boðskapar um upprisu, framhaldslíf og kærleiksríkan guð og víkur til hliðar öllum fullyrðingum um að eitthvað óbrúanlegt bil sé á milli trúar og vísinda. Þannig sé það svo sannarlega engin goðgá að tala um Guð eða minnast á hann í verkum sínum.....
Carl Sagan segir í inngangi sínum að enskri útgáfu að bók Stephen W. Hawkings, Sögu tímans, að hún sé einnig um guð - eða kannski frekar um fjarveru guðs.
Orðið guð sé víða nefnt á síðum ritsins.
Höfundur þess kallist á við Einstein þegar hann varpaði fram þeirri frægu spurningu hvort guð hafi átt nokkurn kost annan við sköpunina en þann sem blasir við okkur. Hann reyni að skilja hugsun eða hugarveröld guðs sem birtist í óendanlegu rúmi, hafi ekkert tímanlegt upphaf né endi; þessi alheimur sjái, að því er virðist, um sig sjálfur og þurfti lítil eða engin afskipti af hendi skapara síns.
En sem sagt, þannig fjalla hugmyndir Frank J. Tiplers í Eðlisfræði ódauðleikans um eftirlíkingu, hermilíf eða endurtekningu þess jarðneska lífs sem við þekkjum af eigin raun af jarðvist okkar hérna megin grafar.
Og nú virðast hugmyndir Jónasar Hallgrímssonar lifa góðu lífi þótt hin guðlausa efnishyggja hafi sett ofan – að minnsta kosti í bili.
Guð er sem sagt á dagskrá þótt hann sé ekki endilega sá faðir sem Jónas leitaði til. En hann getur samkvæmt nútímakenningum efnisvísindanna verið höfundur sköpunarverksins og ýmislegt getur bent til þess að við eigum í vændum framhaldslíf eftir ómældan tíma og þá ekki sízt fyrir tilstuðlan þess efnis sem er hið sama og efnishyggjan og guðleysið byggir á.
Náttúran heldur öllu til haga.
Hún er mesta endurvinnslustöð almættisins og kannski endurtekur hún okkur eða líkir eftir okkur með sama hætti og við upplifum endurfæðinguna í náttúrunni og það sem meira er - það er víst ekkert í nútímavísindum sem mælir gegn því að við séum endurtekin í persónulegum andlegum líkama; okkar eigin hermisál.
Öll orka geymist, hún umbreytist einungis (sbr. Buckminster Fuller)– og hví þá ekki okkar eigin orka?
Frank J. Tipler segist vera guðleysingi þótt hann trúi á omegaguð; skapara; og eftirlíkingu af jarðlífinu.
Hann segist ekki vera kristinn og telur frásagnir af upprisu Krists sefjun eða ofskynjun lærisveinanna því að slík upprisa þurfi lengri aðdraganda en svo að Kristur hafi getað birzt svo skömmu eftir krossfestinguna.
Þótt Tipler segist ekki vera kristinn tekur hann undir ýmsar hugmyndir gyðinga og kristinna manna um líf mannsins eftir dauðann.
Hann segir að Daníel hafi fyrstur spámanna talað um að menn vakni af svefni og rísi upp til nýs lífs eftir dauðann. Hann trúir á skapara bak við sköpunarverkið og hugmyndir hans tengjast mjög kenningum deista sem töldu að höfundur tilverunnar hefði látið sköpunarverk sitt í friði eftir að fæðingu þess var lokið.
Tilveran sé, ef ég skil Tipler rétt, eins og forrit í tölvu og það gangi eftir sem segir í forritinu; þetta er sem sagt einskonar tölvukerfi og galdurinn sé fólginn í því að unnt sé að skipta úr einu tölvukerfi yfir í annað (emulation), þ.e. jarðnesku lífi yfir í endurtekningu eða hermilíf af jarðlífi (simulation).
Guðfræðingar 21. aldar verði að hafa doktorsgráðu í eðlisfræði til að geta útlistað fræðin um guð og sköpunarverkið.
Guðfræðin hætti að vera svonefnd hugvísindi; tilveran byggist á efninu og á næstu öld verði guðfræðin einskonar efnisvísindi enda muni hún leita skýringa í alheimslögmálum og raunvísindum.
Getgátur og vangaveltur heyri liðnum tíma til. Nú sé komið að því að við förum að skilja hugsun Guðs.
Hugarveröld hans verði umgjörð um það vísindalega trúfræðiumhverfi þar sem vörður raunvísinda skili okkur á áfangastað.
Omegaguð er að vísu ekki sá kærleiksríki vinur og faðir sem Jónas Hallgrímsson yrkir um. Hann líkist miklu fremur skapara eða hreyfanda Aristótelesar. Hreyfiguð Aristótelesar er að vísu ekki endilega jafnkærleiksríkur og omegaguðinn og líkist fremur krafti sem hreyfir stjörnurnar og raunar alheiminn allan.
En hann hreyfist ekki sjálfur.
Hann er sjálfur einskonar miðþyngdarstaður einsog omegaguð og stjórnar öllu sem hreyfist. Það er einskonar hugsun sem kemur hreyfingunni af stað og kannski eru stjörnurnar með einhverskonar sál?
Manni skilst að ef hinn óbifanlegi hreyfandi hugsar um hreyfingu alheimsins, þá hreyfist hann.
Það er hugarorka hins óhreyfanlega hreyfanda sem stjórnar öllu kerfinu. Og þessi hugarorka væri þá mesti hraði sem við þekktum,en ljóshraðinn eins og snigill væri á leið yfir tún ! Sá hraði nægir okkur ekki andspænis víddum sköpunarinnar eða fjarlægðum sólkerfanna.
Þórbergur sagði við mig í Kompaníinu að framtíðin mundi bjóða uppá að við hugsuðum okkur á einhvern stað og á sama andartaki værum við þar.
Rétt eins og framliðnum er lýst í dulrænum bókum,t.a.m.Eftir dauðann ( eða Bréf frá Júlíu sem Einar Kvaran þýddi,útg.1907)
Það skyldi þó ekki vera !
Að menn ferðuðust í hugsun sinni.Þeir þyrftu ekkert hylki eins og tunglfarar!
En hvað yrði þá um afstæðiskenningunna?
En það stendur ekki endilega einhver alheimskærleikur á bak við þessa hreyfingu einsog Kristur boðaði föðurinn og Jónas orti um föður sinn og vin. En grundvallaratriðin eru hin sömu, þ.e. hugarveröld guðs hver sem hann er.
Og nútímaefnisvísindi útiloka ekki svigrúm guðlegrar forsjónar í því kerfi sem skammtafræðin fjallar um. Þeir sem skrifuðu Biblíuna þekktu þau fræði ekki og ekki heldur Aristóteles. En samt gera þeir ráð fyrir þessu svigrúmi og Jónas Hallgrímsson er sannfærður um skaparann mikla á bak við efnið.
Það þóttu ekki sannfærandi vísindi á síðustu öld.
Að því leyti er Jónas nútímalegri vísindamaður en þeir sem keyrðu öll efnisvísindi í spennitreygju þröngra kenninga þar sem ekkert svigrúm var, hvorki fyrir guðdóminn né óvæntar breytingar eða uppákomur eða “atburði” að öðru leyti.
Og þegar nánar er að gætt gerir Aristóteles einnig ráð fyrir því að einhverskonar góðleiki standi að baki hreyfingu alheimsins; kærleikur hins óhreyfanlega hreyfanda eins og Aristóteles kallar þetta fullkomna, eilífa hreyfiafl; guð.
Með það í hug getum við haldið því óhikað fram að hugsun mannsins hefur tilhneigingu til að lýsa sköpunarverkinu með skilgreiningu á guðlegri forsjón hvort sem um er að ræða guðleysingja einsog Aristóteles eða einhvern annan; t.a.m. nútímavísindamann eins og F.J. Tipler.
Guð verður annaðhvort að hugsa um sjálfan sig, segir Aristóteles, eða eitthvað annað... Guð hugsar um það sem er guðlegast og heiðvirðast eða mikilvægast. Hann breytist ekki... Hinn guðlegi hugur hugsar um sjálfan sig... Og að hugsa um guðlegan hug er að hugsa um hugsun. Sem sagt, alheimurinn er hugsun og skapari hans er ekki sá umhyggjusami faðir sem kristin trú boðar.
Samt er veröldin hugarveröld guðs einsog Jónas Hallgrímsson taldi.
Það er ekki langur vegur milli þess og þeirrar sköpunar sem Aristóteles eða Frank. J. Tipler lýsa í sínum ókristilegu verkum. En það er auðvitað á þessum forsendum um hugarkraft, kraftinn á bak við sköpunarverkið sem Tómas frá Akvinó, eða heilagur Tómas, útlistaði guðfræði sína í höfuðriti skólaspekinnar frá 13. öld.
Meginviðfangsefni hans var að sameina guðfræði og heimspeki og kerfi hans er tilraun til að sætta kenningar kirkjunnar við heimspeki Aristótelesar; trú og þekking fullkomna hvor aðra.
Guð er opinberaður sannleiki en heimspekin byggir á reynslu og beitir skynsemi til að kynnast honum. Þannig kalla andstæðurnar á samræmi eða samhljóm; nákvæmlega á sama hátt og við þekkjum í efnisheiminum.
Dr. Helgi Pjeturss minnist á Jónas Hallgrímsson í ritgerð sinni Hið mikla samband í Nýal og segir að hin fræga sköpunarsaga í Timaios “sem íslenskum lesendum mun helst vera kunn í ritgerð Jónasar um eðli og uppruna jarðarinnar, mun verða miklu frægari þegar menn fara að skilja, hversu vel þar er stefnt í áttina til vísinda (XXII kafli)”.
Dr. Helgi segir að Platon bendi á að skaparinn hafi sáð sálunum og stjörnunum sem hann nefni annars staðar “verkfæri tímans”, “en það muni einmitt mega kalla hina rjettu kenningu um uppruna lífsins”.
Áður hafið Helgi Pjeturss bent á það í X kafla þessarar sömu ritgerðar að það hafi verið forn trú manna að sálin eða sumar sálir, eins og hann kemst að orði, “lifi eftir dauða líkamans á annari stjörnu eins og Platón getur um; segir hann að sál þess manns sem vel hefir lifað, fari aftur að byggja þá stjörnu sem henni er skyld”.
Og svo einkennilega vill til að dr. Helgi ýjar að svipuðum hugmyndum og Tipler en þó á öðrum forsendum þegar hann fjallar um sál manns “sem dáið hefði á jörðu hjer, gæti tekið á sig líkama á annarri stjörnu... þegar þessi magnan af veru annars er komin á nógu hátt stig getur hin magnandi vera, sambandsveran, framleitt eitthvert líki af sjer sjálfri eða ham, líkan ham sjer þarna sem miðillinn er”.
Þessi hæfileiki til að taka við veru annars manns, “láta hlaðast eða magnast af hverri hans lífshræringu, vitaðri og óvitaðri “sé hjá þroskaðri verum en mennirnir eru á jörðinni”, kominni á miklu hærra stig, og að fyrir þess konar magnan geti framliðnir líkamast á öðrum hnöttum á fullkomnari hátt en líkamningar hafa orðið á jörðu hjer”.
Það er að sjálfsögðu ekki ætlan mín að fjalla nánar um heimspeki dr. Helga Pjeturss hér þótt athugsemdir hans ýmsar gætu átt heima í umfjöllun um þá kosti lífs og dauða sem Jónas Hallgrímsson fjallaði um í ritum sínum, bæði sem skáld og fræðimaður.
En þar sem þeir eiga augsýnilega enga samleið í trúarefnum skortir forsendur slíkrar umfjöllunar. Ég er til að mynda ekki alveg viss um að Jónas hafi trúað því að helvíti væri til annars staðar en í eigin sál þótt hann hefði vafalaust getið tekið undir með Helga Pjeturss og sagt að helvíti sé þar sem er þjáðst og dáið.
En hugmyndir hans um föðurinn voru gjörólíkar.
Jónas hefði til að mynda aldrei getað tekið undir þau orð að faðirinn sé “mjög merkilegar verur, sem þeir (þ.e. trúarhöfundar) stundum nefna föður. Svo náið getur sambandið verið, að slíkur maður segir: jeg og faðirinn erum eitt”. Ég er ekki einu sinni viss um að Jónas hefði tekið undir þá fullyrðingu dr. Helga að samstilling mannlífsins við skylt en fegra og fullkomnara líf á öðrum hnöttum sé tilgangur heimsins því hann gerir ekki endilega ráð fyrir lífi á öðrum hnöttum.
En hann hefði aftur á móti tekið undir það með dr. Helga að samstilling allra krafta sé tilgangur heimsins.
En hann gerði ráð fyrir persónulegu framhaldslífi og hefði því varla hneigzt að tilsvaranafræði Swedenborgs um að hver hlutur á jörðinni hefði sína andlegu fyrirmynd og tilsvörun í ríki himnanna.
En það væri meiri óvissa um afstöðu Jónasar til upphafs guðsríkis eins og dr. Helgi fjallar um það.
“Vík jeg nú aftur máli mínu að undirstöðuatriði því, sem áður er um getið. Af því að hver minsta efnisögn leitast við að framleiða sjálfa sig í öllum heimi og hver einasta hreyfing, leiðir að því nær sem er fullkominni samstillingu, því fremur verður máttur alheimsins í hverri eind og hverjum einstaklingi, lífskraftur allra í einum og eins í öllum. Að vita þetta og læra að stefna í áttina að þessu takmarki, er upphaf guðsríkis.”
Jónas talar mikið um sólina, kallar hana m.a. guðs auga.
En Swedenborg sagði að sólin sem skini yfir himnaríki væri guð sjálfur.
Jónas Hallgrímsson hafði ekki þá skoðun að guð væri sólarorka eða kraftur eða ljós; hann hafði ekki þá skoðun að guð faðir væri stjarna. Og þó hann hafi haft mikið dálæti, jafnvel meira dálæti á Sólarljóðum en flest önnur skáld, taldi hann ekki að guð gæti verið sól sett dreyrstöfum eins og komizt er að orði í Sólarljóðum, heldur hefur hann örugglega verið viss um að þarna birtist sjáandanum sól annars heims, einskonar tákn fyrir guðdóminn; eins og guðs auga.
Dr. Hegi Pjeturss sem kallar Swedenborg annarsheimsfræðing bendir á að guð og sól þýði hvort tveggja það sama; skínandi.
En Swedenborg hafi skjátlazt í því að halda að sólin sem hann sá fyrir vitsamband á himni annars hnattar eins og dr. Helgi kemst að orði sé guðleg vera.
Helgi Pjeturss trúði þessu ekki þó að Swedenborg hafi fullyrt að englarnir hafi sagt sér að sólin á loftinu þar í himnaríki væri guð sjálfur.
Dr. Helgi ætlaði stjörnunum annað og ekki ómerkara hlutverk.
Í Sólarljóðum segir sjáandinn að hann hafi séð sólina geislandi með þeim hætti að honum hafi þótt eins og hann sæi göfgan guð. En þá verðum við líka að geta þess að Swedenborg sagði að guð væri í miðri sólu og ljóshnötturinn yrði fyrir skini frá guði.
Á það hefði Jónas Hallgrímsson líklega getað fallizt. Það hefði áreiðanlega ekki verið honum neitt öndvert að taka þátt í umræðum um slíka “fegurð hugarheimsins”. Hann gat eins og önnur skáld hugséð ýmislegt í þeim andlega heimi sem menn eins og Swedenborg og Helgi Pjeturss fjalla um í ritum sínum, þótt hann hafi tekið kóssinn og viti nákvæmlega hver stefnan er á þann kærleiksríka föður sem allt skapaði og öllu stýrir í kompaníi við allífið.
Eitt vissi hann öðrum betur; að guð er kærleikur; og ljós.
Dante lýkur sínum Guðdómlega gleðileik með því að minna á að ástin eða kærleikurinn, þ.e. kærleikur guðs og skapara allra hluta, hreyfi sól og allar stjörnur himinsins.
Jónas Hallgrímsson á heima í slíku samfélagi.
Og þetta samfélag er á næstu grösum við þá efnisveröld sem raunvísindamaður á borð við Frank J. Tipler lýsir í verkum sínum og byggir á nýjustu hugmyndum lífeðlisfræðinga um þá einu veröld sem hægt sé að hugsa sér sem hugarveröld skaparans.
Þegar Spinoza hugar að guði telur hann að tilvera hans sé nauðsyn.
Náttúrulögmálin sýna vald hans, hann er upphaf allra hluta; allt er í guði og allt er óskiljanlegt án hans.
Hann er einnig í öllu.
Veröld hans er takmarkalaus.
Guð og náttúran eru eitt og hið sama.
Guð hefur ekki líkamlega lögun, hann er ólíkamlegur; ópersóna.
Samt hugsar hann fyrir öllu.
Guð Spinoza er ekki áþreifanlegur, ekki frekar en orkan í náttúrunni; hann gengur ekki um Eden eins og guð sköpunarverksins í Genesis, eða 1. bók Móse, en þar segir:
“En er þau heyrðu til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum, þá reyndi maðurinn og kona hans að fela sig fyrir Drottni Guði millum trjánna í aldingarðinum.”
Þetta er ekki guð Spinoza.
Þessi höfundur sköpunarverksins er ólíkur þeim guði sem Spinoza telur að sé í öllu og alls staðar.
Sá guð er tímalaus óendanleiki eins og ómegaguð Tipplers.
Hann er einn og einstæður.
Hann er nauðsynleg forsenda allra hluta. Og allir hlutir eru í honum. Hann er allsvaldandi og þó ekki skapari neins sérstaks tilgangs, þótt hann sjái fyrir öllu.
Spinoza var ásakaður fyrir guðleysi á sínum tíma því hann boðaði ekki föðurinn, né frjálsan vilja né tilgang með alheiminum, heldur einhvers konar náttúruguð sem ræður yfir öllu efni og orku. En Spinoza var að sjálfsögðu ekki guðleysingi, þótt hann hafi boðað algyðistrú og guðdóm náttúrunnar. Það var einmitt þessi trú sem hafði hvað mest áhrif á rómantísku skáldin, til að mynda Goethe, sem var altekinn af hugmyndum Spinoza, ekki síður en Einstein á okkar tímum; eða Heine.
Þótt Jónas hefði mikið dálæti á Heine, hallaði hann sér ekki að þessum náttúruguði flestra annarra rómantískra skálda, heldur að föðurnum; vini alls sem er.
Spinoza boðaði trúfrelsi og hafði þannig m.a. áhrif á stjórnarskrá Bandaríkjanna og raunar afstöðu kristinna manna í öllum löndum þegar tímar liðu fram.
Og nú eru menn hættir að tala um hann sem guðleysingja.
Hann var einfaldlega heimspekingur þess guðs sem er allsstaðar og í öllu – og þá ekki sízt í náttúrunni. Hún endurspeglar guðdómlegan vilja hans; orka hennar, lögmál.
Og þau eru ekki einungis vitnisburður um hann, heldur er náttúran þáttur af guði.
Þannig kom danska skáldið Thorkild Bjørnvig til Íslands að dýrka þennan guðdóm í náttúrunni; hingað leitaði hann á vit náttúruguðsins. Þegar hann kom til Íslands gat hann upplifað fimmta dag sköpunarverksins.
En þessi guð var ekki sá skapari, sá faðir og vinur sem veitti Jónasi Hallgrímssyni hlutdeild í hugarveröld sinni.
8. apríl
Kosið í dag.
Um hvað er kosið?
Lífsháskann?
Það held ég ekki.
Menn
Frekar, því flest mikilvægustu málin eru þverpólitísk.
Fiskveiðistjórnunin, Evrópusambandið, landbúnaðurinn...?
Allt annað fjallar um einhvern félagsmálapakka og blæbrigðamun.
Ég skil ekki afstöðu Þorsteins Pálssonar í sjávarútvegsmálum og nú hefur það brunnið á frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins um allt land.
Við Styrmir höfum verið algjörlega samstíga í þessu máli.
Framganga hans hefur glatt mig mjög þótt forysta Sjálfstæðisflokksins segi að hann hafi farið með blaðið undir krata.
Það fer enginn neitt með Morgunblaðið nú um stundir án míns vilja og ég hafna því að fiskveiðistefna blaðsins sé á vegum Alþýðuflokksins, harma einungis að hún er ekki stefna Sjálfstæðisflokksins.
Útlendir alvöruhagfræðingar eru áreiðanlega á sömu skoðun og við, það mun koma í ljós.
Þótt gagnrýnin hafi að mestu lent á Styrmi á ég meiri sök en hann, ef sök skyldi kalla.
Ég er upphafsmaðurinn að andófinu gegn kvótastefnunni eins og henni hefur verið framfylgt, byrjaði að skrifa gegn henni í helgarpistlum fyrir margt löngu.
Hef sagt Davíð (Oddssyni) að hann hafi ekki séð fyrir Þorstein og beri því ekki sízt ábyrgð á, hvernig komið er.
Það má vera að unnt sé að lappa upp á kvótann, en hann dugar ekki eins og er.
Fylgikvillar lýðræðis eru því miður margir, ekki sízt ranglæti.
Og í fiskveiðistefnunni birtist ranglæti; siðferðilegt ranglæti – og það er um þetta ranglæti sem ég hef einkum fjallað.
Veiðileyfagjald fyrir afnot af auðlindinni yrði mikil sálubót, ef það rynni til fólksins sem á auðlindina.
Auðvitað eiga þeir að fiska sem kunna til verka.
Fullyrt er að fiskveiðistjórnunin sé réttlæti. En slíkt réttlæti er verra en ranglæti.
Því verður að kippa í lag.
Það eru fyrst og síðast hagsmunir útgerðarmanna því að um miðin verður að ríkja friður.
Þeir sem fá hlunnindi verða að borga; það á að selja aðgang að takmarkaðri auðlind svo að hún verði ekki dúsa stjórnmálamanna uppí sérhagsmunaaðila.
Þetta á einnig við um úthlutun sjónvarpsrása.
Það er ekki hægt að bjóða nokkrum manni upp á það til lengdar að menn geti keypt það sem aðrir eiga, selt það sem aðrir eiga, veðsett það sem aðrir eiga og erft það sem aðrir eiga!
Slíkur siðferðisbrestur gæti orðið upphaf að endalokum siðmenningar.
Marxistar lögðu undir sig það sem aðrir áttu. Við getum ekki veifað framan í fólk ranghverfunni á stefnu þeirra, það er allt og sumt!
En lausnin er ekki einföld, það veit ég vel – og um hana verður að ríkja sátt.
Við Styrmir erum ekki meiri kratar en svo að við höfum varað við því að Íslendingar færu að æða inn í Efnahagsbandalagið.
Við Íslendingar höfum gert EES-samninginn og það er rétt hjá Davíð Oddssyni að hann dugar okkur vel.
Það veit Jón Baldvin einnig þótt kratar vilji þreifa fyrir sér um stuðning við aðildarstefnu sína. Það er að sumu leyti skiljanlegt, með því móti geta þeir lagt áherzlu á einhverja sérstöðu og líklega náð til ungs menntafólks sem hugsar minna um fullveldi en við, sem erum fædd inn í konungsríki, og vill sem mesta nálægð við alþjóðlegan hugmyndamarkað.
Það get ég vel skilið, enda mundi það m.a. lækka skólagjöld í Evrópu; t.a.m. í Bretlandi.
Og kannski eigum við einhvern tíma eftir að vaxa inn í þetta samfélag.
En þá verðum við að vaxa þangað eins og gras, en ekki með blóðugum átökum sem mundu skipta þjóðinni í tvær fylkingar; við þurfum ekki á því að halda enn einu sinni.
Það er kominn tími til að Íslendingar séu ein þjóð í öllum málum sem snerta sjálfstæði okkar og öryggi.
Ég fagna því að stefna Davíðs hefur orðið ofan á í ríkisstjórninni. Það er guðsblessunarlegt að hann skuli hafi stjórnað ferðinni í þessu máli.
Einhvern tíma sagði hann þegar hann sóttist eftir varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum og átti þá í höggi við Gunnar Thoroddsen og Matthías Bjarnason, að Davíð væri um megn að eiga við tvo Golíata.
Það var gott hjá honum!
Hann er svo oft nýr og skáldlega ferskur að ómögulegt er annað en fyrirgefa honum upphlaupin!
Nei, Morgunblaðið hefur ekki gengið undir jarðarmen nokkurs flokks, enda eru flestar línur orðnar svo óskírar að maður veit vart stundinni lengur í hvaða flokki maður er. Sem andstæðingur núverandi kvótakerfis er ég víst í öllum flokkum; og engum. Sem andstæðingur þess að leita hófanna um aðild að Evrópusambandinu er ég víst í öllum flokkum nema Alþýðuflokknum og þó hvarflar ekki að mér að Alþýðuflokkurinn mælti með aðild að Evrópusambandinu, ef niðurstaða slíkra samninga yrði sjávarútvegsstefnan í Brussel.
Ég segi eins og Steinn, Ég vona að kosningarnar fari vel!
Og því betur sem Morgunblaðið hefur minna um það að segja.
Við höfum skrifað leiðara með viðreisn, enda í sögulegu samhengi.
Þó þyrfti að koma á ríkisstjórn sem væri yfirlýsing um einhvers konar sögulegar sættir Alþýðubandalags og Sjálfstæðisflokks.
Við þurfum á að halda pólitískum skáldatíma á Alþingi.
Kosningabaráttan hefur óneitanlega verið Morgunblaðinu í vil því að blaðið sogar að sér auglýsingar.
En við erum svo heppnir að sjónvörpin og ljósvakarnir soga að sér pólitískar umræður, enda lítur fólk á þær eins og hvert annað skemmtiefni!
Það léttir okkur róðurinn og nú er Morgunblaðið að verða eins og ég óskaði mér í upphafi; ekki hluthlaust viðrini eða neinn utangarðsgemsi í íslenzku þjóðlífi, síður en svo; heldur Morgunblaðið sjálft í allri sinni dýrð.
Blað allra landsmanna.
Lífsháskinn er að mestu horfinn og hin þverpólitíska manndýrkun tekin við og ekkert við því að segja.
Stjórnmál í lýðræðislandi eru eins og markaðurinn sem veitir frelsi til ákvörðunar um gæði og hagkvæmni.
Markaðsstefnan á þannig betur við í stjórnmálum en til að mynda listum.
Verðmæti í listum eiga ávallt undir högg að sækja á frjálsum markaði.
Þess vegna eru búin til verðlaunaupphlaup handa athyglisfíklum. Það er gott að hafa efni á því að þurfa ekki að taka þátt í slíku upphlaupi.
En sem sagt, stjórnmál eru orðin afþreying að dómi hinna voldugu ljósvaka og það er góð þróun, að minnsta kosti fyrir okkur sem höfum lengi reynt að létta af okkur pólitískum klyfjum.
Stefnan hefur því verið mörkuð, vona ég, Hemmi Gunn (sjónvarpsstjarna) og Imbakassinn milli kosninga; pólitísk afþreying í kosningabaráttunni. Og þá geta menn leitað að því sem þeir eru ekki sammála um og búið til málefnaágreining, ef ekki vill betur til.
Það er góð þróun.
Talað hefur verið um framsóknarmenn allra flokka, nú er hægt að tala um sjálfstæðismenn allra flokka því að markaðslýðræði er rauður þráður í stefnuskrá allra flokka; aðild að Atlantshafsbandalaginu er engum þyrnir í augum, maðurinn í öndvegi.
Sem sagt, við höfum ekki lifað til einskis(!)
Kvöldið – beðið úrslita
Það þarf bæði styrk og útstjórnarsemi til að halda saman jafn stórum flokki og Sjálfstæðisflokknum, enda er hann einhvers konar borgarlegt bandalag ólíkra afla fremur en einslit hjörð. Slíkur flokkur þarf helzt á hættulegum andstæðingi að halda til að líma hann saman gegn háskalegum óvini.
Mikill lífsháski var við hvert spor í gamla daga og ýtti undir einhug í flokknum.
Nú er þessum lífsháska ekki lengur til að dreifa.
Það þarf því jafnvel meiri hæfileika nú en áður til að halda þessu bandalagi saman og Davíð Oddssyni hefur tekizt það, enda er hann í senn útsjónarsamur stjórnmálaforingi og pragmatískur, ef því er að skipta.
Nú segist hann hafa fært flokkinn inn á miðjuna, í áttina að gamla Sjálfstæðisflokknum; það er hyggilegt. Það má því ætla að flokkurinn haldi betur í fylgi sitt en ella.
Hörð frjálshyggja er ekki það sem Íslendingar vilja, enda sýna skoðanakannir að yfir 50% kjósenda telja sig miðjufólk, en aðeins fjórðungur telur sig til hægri og álíka margir til vinstri.
Merkilegt annars að Framsóknarflokkurinn skuli ekki hafa haft meira fylgi með tilliti til þessara kannana.
Sjálfur er ég frjálshyggjumaður með tilhneigingu inná miðjuna. Hef skrifað um það í Frelsið; sýnt fram á að félagshyggja, þ.e. velferðarstefna, hefur alltaf verið mikilvægur þáttur í sjálfstæðisstefnunni.
Hygg það hafi verið líftaug Sjálfstæðisflokksins.
Hann hefur aldrei verið almennilegur hægri flokkur eins og slíkir flokkar eru á Norðurlöndum. Sá í hendi mér meðan við Hanna bjuggum í Danmörku að hvorugt okkar hefði kosið danska hægri flokkinn. Til þess hefði ég þurft að vera útgerðarmaður eða eigandi skipafélags eins og Garman og Worse!
Mér þótti að vísu ágætt þegar ungu frjálshyggjumennirnir komu fyrst fram á sviðið og tókust á við marxistana.
Það létti undir með okkur hinum sem höfðum eytt mestri orku okkar árum saman í þennan slag.
Það voru þá til harðari íhaldsmenn í landinu en við, þessir gömlu andstæðingar kommúnismans!
Og ég held að frjálshyggjumennirnir hafi átt einhvern þátt í þeirri viðurkenningu sem mér hlotnaðist sem skáldi á 8. áratugnum.
En þeir hafa orðið of miklir harðlínumenn að mínum dómi og má þegar sjá það af því sem ég skrifaði í Frelsið á sínum tíma, þótt margt í Hugleiðingum og viðtölum og Félaga orði beri vott um hugsjónahörku gegn marxisma.
Síðast þegar ég vissi telur Hannes Hólmsteinn (Gissurarson) mig fjölhyggjumann eins og Isiah Berlin og líkar mér það allvel þótt ég hafi í Frelsis-grein gagnrýnt hugmyndir hans um afskipti ríkisins af einstaklingnum í samfélaginu. Hannes Hólmsteinn hefur einnig talið mig sveigjanlegan frjálshyggjumann eins og Popper og líkar mér það bezt.
Met Popper einna mest þeirra hugmyndafræðinga sem ég hef kynnzt.
Hann var að vísu miðevrópukrati, en ég held hann hafi komizt einna næst því að vera sjálfstæðisstefnan holdi klædd á tímum lífsháskans.
Gæti trúað því að Davíð hafi hug á að færa Sjálfstæðisflokkinn í átt að mannúðarstefnu Poppers og væri það vel.
En hvað skyldi Hannes vinur minn Hólmsteinn segja um það?
Aldurinn fer nú að færast yfir hann hægt og bítandi svo að vel má vera að hann sigli inn á miðjuna með tíð og tíma. Það mundi kannski ekki fara honum eins vel, ég veit það ekki. En sem ráðgjafi í nýrri forystusveit Sjálfstæðisflokksins yrði það flokknum til góðs.
Popper hefur ekki einasta gagnrýnt hugmyndafræði Marx og marxista heldur hefur hann ekki hikað við að segja Platón til syndanna.
Þótt margt sé gott um Platón hefur hann meiri áhuga á fylgikvillum lýðræðis en lýðræðinu sjálfu. Þess vegna hafa alræðismenn notið leiðsagnar hans, ekki síður en við hinir sem erum hallir undir lýðræðislega velferðarstefnu.
Annars ætla ég ekki að þreyta Dagbókina á því að endurtaka hugleiðingar sem ég hef áður sett fram í Helgispjalli. Þær eiga heim þar, ekki hér.
Og nú fer að líða að því að við fáum fyrstu tölur.
Morgunblaðið hefur sagt að beztu niðurstöður séu þær að viðreisnarstjórnin nýja haldi velli.
Ef það verður ekki, þá verðum við að sætta okkur við að íslenzkt lýðræði skipti um föt.
Það eru engin tímamót í lífi neins þótt hann skipti um föt.
Og það væru í raun og veru lítil tíðindi í íslenzkri pólitík eins og nú háttar.
Ég er því sallarólegur.
Við ráðum hvort eð er engu um framtíðina, og fortíðin er liðin svo ekki getum við haft hana í hendi okkar.
Hverju ráðum við þá?
Ekki einu sinni tilfinningum okkar sjálfra, hvað þá annarra(!)
Samt teljum við okkur stundum trú um að við höfum allt í hendi okkar(!)
En það er eins og séra Pétur í Laufási segir, Það hefur enginn tærnar þar sem ég hef hælana.
Hann er einn af píslarvottum kristindómsins. Hann hefur misst báða fætur vegna sykursýki, er mér sagt.
Ég hefði gaman af að kynnast honum einhvern tíma seinna.
Sporlaus gengur hann inn í framtíðina. Ætli það verði ekki svona nokkurn veginn hlutskipti okkar allra; að lokum.
Annars er ástandið svosem ekkert himnaríki, ekki frekar en lífshugsjón þekkts drykkjumanns sem kom á gömlum, ónýtum skóm inní Naustið og sagði, Nú er áfengi orðið svo dýrt að maður hefur ekki efni á að kaupa sér nýja skó!
Apríl – ódagssett
Hef verið helvíti slæmur í ristlinum; ristilkrampinn dregur úr mér; það er bót í máli að Haukur Jónasson sagði á sínum tíma þegar hann uppgötvaði sjúkdóminn 1967, að heimskingjar fengju ekki spastískan colon! Forheilinn þyrfti að vera í lagi; dómgreindin; og ofnæmi skáldsins fyrir umhverfinu!
Þórbergur talaði um líffæraverkfall.
Ég lenti í svona verkfalli fyrir kosningarnar 1967. Þá vorum við alltaf í þessari einlægu “kosningabaráttu” og ég hafði miklar áhyggjur; barðist við kvíðann, því ábyrgðin var mikil, fannst mér.
Við þurftum helzt alltaf að vinna allar kosningar því Viðreisnin var í húfi; forysta Bjarna Benediktssonar var í húfi. Án hennar var eins víst að Ísland yrði eins og rekald í Atlantshafinu á þessum áhættusömu tímum kalda stríðsins; umkringt sovézkum kafbátum og herþotum.
Einn morguninn vaknaði ég eins og lamaður, gat ekki stigið í fæturna. Það tók tvo eða þrjá daga. Síðan hefur þetta komið og farið.
En kramparnir hafa aldrei lagt mig í rúmið aftur, þeir eru einungis til óþæginda.
Nína (Tryggvadóttir) málaði skrítna mynd á glerrúðuna á ganghurðinni hjá Margréti og Þórbergi á Hringbrautinni.
Þórbergur kallaði þetta málverk Líffæraverkfallið.
Nú er það ekki til lengur.
Það var brotið eins og öll verkföll eru brotin á bak aftur fyrr eða síðar.
Mynd Nínu brotin mélinu smærra.
Það á víst fyrir öllum hlutum að liggja.
Þórbergur óttaðist tortíminguna meira en allt annað.
Hann var logandi hræddur við dauðann.
Allt annað var leikaraskapur.
En hann huggaði sig þó eitthvað við Bláu eyjuna og astralplanið, taldi sér trú um að nýr Þórbergur risi upp af dufti dauðans og héldi áfram æðra og meira lífi.
Hef ég slíka trú?
Ég hef lengstum haft hana en er hættur að hugsa um líf eftir dauðann því eldri sem ég verð og því nær sem hann er.
Til hvers er það?
Erum við eitthvað bættari af slíkri hugsun?
Nú get ég betur en áður látið mér nægja orð Krists um liljur vallarins og fugla himinsins; og að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Það gat ég aldrei þegar ég var yngri.
Þroskamerki?
Ég vona það.
Þórbergur var jarðaður í kyrrþey. Við vorum örfá inni í kapellunni. Maóistarnir voru úti um allt með rauða fána.
Þetta var eins og útisamkoma.
Það var kannski við hæfi, ég veit það ekki.
Ég vil að minnsta kosti vera jarðaður í kyrrþey.
Hef aldrei haft áhuga,hvorki á “opinberu” lífi eða dauða.
Varð þó að taka þátt í því þegar ég var formaður þjóðhátíðarnefndar 1974.
Það var svo sem ágætt fyrst við fengum ítalskt veður á Þingvöllum og út um land allt.
Bjarni Ben. skipaði mig formann þjóðhátíðarnefndar. Hann sagði við mig,
Ég vil að þú verðir formaður þjóðhátíðarnefndar, af því að afi þinn, Jóhannes bæjarfógeti, var formaður alþingishátíðarnefndar 1930.
Það var ekkert rætt frekar.
Vona að hann hefði verið stoltur ef hann hefði lifað 1974; held það raunar.
Nei, “opinbert” líf er andstætt eðli mínu.
Ég hef nokkrum sinnum skrifað metsölubækur en auglýsingarnar fara alltaf í taugarnar á mér.
Nú vil ég ekki taka þátt í þessu markaðsbasli lengur. En hvernig get ég ráðið því ef ég gef út fleiri bækur?
Sjálfhelda; vítahringur.
Tvískinnungur, ég veit það ekki.
Það er of mikill markaðshasar á Íslandi ; of mikið snobb.
Of mikil fyrirferð á sama fólkinu.
Það er ekki gott í litlu samfélagi.
Við þurfum að fara miklu varlegar en við höfum gert.
Við erum lýðræðisríki en ekki konungdæmi.
Menn eru alltaf að hreykja sér eins og vindhanar í konungsveizlum.
Ég hef reynt að láta eins lítið á mér bera sem ritstjóri og unnt hefur verið.
En skáldið þarf að selja bækur, æ, já.
Í kyrrþey, sagði ég.
Ég skil ekki hvers vegna Ingibjörg Thors mátti ekki jarða Ólaf Thors í kyrrþey.
Bjarni Ben. sagði við hana að fólkið yrði að taka þátt í jarðarförinni svo vinsæll sem hann hefði verið; einskonar þjóðareign.
Það var áreiðanlega rétt hjá Bjarna. En fyrst Ólafur Thors vildi láta jarða sig í kyrrþey átti að jarða hann í kyrrþey.
Það er allt og sumt.
Opinbert líf er eins og útjaskaður söngtexti sem enginn hugsar um stundinni lengur.
Það er ágætt þegar viðeigandi lög eru samin við góðan texta en þau mega ekki verða of vinsæl, þá drepa þau textann.
Það gerir “opinbert” líf einnig.
Venjan er slítandi.
Og ekkert slítur mönnum eins fljótt og sjónvarp.
Fólk sem er kækur í sjónvarpi verður eins og snjáðar glansandi buxur.
Hvort sem þær eru pressaðar,eða ekki!
Mig hefur aldrei langað til að vera svoleiðis buxur utan um rassboruna á samtíðinni.
Og kannski er það einmitt hlutverk blaðamannsins; að vera einskonar umbúðir um það sem er helzt ekki neitt!
Apríl – ódagssett
Við höfum verið gagnrýndir fyrir þá afstöðu okkar að telja bezta kostinn eftir kosningar að halda áfram ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og minna þannig á söguleg tengsl við Viðreisnarstjórnina.
Ýmsir hafa haldið því fram að eins atkvæðis meirihluti á þingi sé of lítill og leiðari okkar eftir kosningar hafi verið óraunhæfur.
Það má svo sem vel vera.
En ég hef svarað því til að sterkur meirihluti sé ekki einhlít forsenda fyrir styrkri stjórn og veikur meirihluti geti verið góður bakhjarl samhentri ríkisstjórn.
Viðreisnarstjórnin hafði að vísu fjögurra atkvæða meirihluta þegar Eggert G. Þorsteinsson tók þátt í henni 1965 og ég hef verið að rifja það upp að eins atkvæðis meirihluti í efri deild þá hafi brugðizt vegna afstöðu Eggerts. En samt hafi ríkisstjórnin haldið velli og Eggert var sjávarútvegs- og félagsmálaráðherra frá 1965-70 og sjávarútvegs-, heilbrigðis- og tryggingaráðherra 1970-71.
Ástæða þess að mér er þetta minnisstætt er sú að Eggert kom til mín, enda vorum við vel málkunnugir á þeim árum, og vissi um áhuga minn á því að fulltrúi verkalýðs eða launþega ætti aðild að ríkisstjórninni. Hann sagði að Gylfi Þ. Gíslason vildi ekki styðja sig í ráðherrastól, en kysi fremur Benedikt Gröndal. Aðild Eggerts sjálfs að verkalýðssamtökunum myndi aftur á móti verða stjórninni til styrktar og hann spurði hvort ég gæti ekki haft samband við Bjarna Benediktsson og bent honum á að Gylfi væri á móti honum, en hann mundi áreiðanlega skipta um skoðun, ef Bjarni talaði máli hans og legði áherzlu á aðild fulltrúa launþegasamtakanna að ríkisstjórninni.
Við Bjarni töluðum nánast saman á hverjum degi og mér þótti ekkert erfitt að ámálga þetta við hann og skýra honum frá málaleitan Eggerts.
Og það gerði ég.
Bjarni tók þessu afarvel og sagði að það væri rétt hjá Eggert að það mundi styrkja stjórnina, ef hann fengi aðild að henni.
Og hann talaði við Gylfa Þ. Gíslason sem samþykkti þessa málaleitan og kvaðst, eins og ástatt væri, mundu sætta sig við ráðherradóm Eggerts, þótt hann hefði lofað Benedikt stuðningi áður.
Mér fannst ég vera eitthvað ábyrgur fyrir stjórnarsetu Eggerts og því var það að ég tók nokkuð nærri mér þegar hann gekk í Efri deild gegn ríkisstjórnarfrumvarpi um verðlagsmál sem var Sjálfstæðisflokknum mikilvægt og af þeim sökum ekki sízt nauðsynlegt að yrði samþykkt.
En Eggert var ófáanlegur til að breyta afstöðu sinni og sat við sinn keip.
Mér þótti þetta heldur óskemmtilegt en Bjarni tók þessu stórmannlega og án ásakana. Hann var nógu sterkur stjórnmálamaður og víðsýnn til að reyna ekki að sjá málin með augum Eggerts, en þó voru þetta að sjálfsögðu mikil vonbrigði.
Þrátt fyrir þetta klúður hélt ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar áfram eins og ekkert hefði í skorizt og hægt og sígandi fyrntist yfir þessa óþægilegu afstöðu Eggerts G. Þorsteinssonar í ríkisstjórn Bjarna.
Þeir voru saman þar til yfir lauk og veit ég ekki betur en samstarfið hafi verið snurðulaust eftir þetta.
Það fer eftir styrkleika foringjans hversu sterk ríkisstjórnin er, en ekki endilega eftir því hve fótgönguliðarnir eru margir.
Þetta sýndi sig í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og ég er sannfærður um að Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson hefðu haft þrek til þess að halda sjó við þær aðstæður sem urðu eftir kosningar.
En Davíð kaus annað skip og annað föruneyti – og vonandi verður það þjóðinni til heilla og blessunar.
Lízt samt ekki á blikuna með tilliti til sögunnar – og þá ekki sízt reynslunnar frá 1974-’78.
Og vinstri stjórnir hafa aldrei dugað andspænis verðbólgu.
Hanna minnir mig stundum – og þá auðvitað af einhverju tilefni – á það sem Bjarni sagði oftar en einu sinni, að það væri valdameira embætti að vera ritstjóri Morgunblaðsins en ráðherra.
Það geta allir orðið ráðherrar, sagði hann.
Bjarni Benediktsson leit stórum augum á ritstjórastarf sitt við Morgunblaðið og hafði enga löngun til að yfirgefa ritstjórastólinn.
Formennskan í Þjóðhátíðarnefnd 1974 er eina embættið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur trúað mér fyrir, nema hvað ég sat í menntamálaráði á sínum tíma án þess ég sæktist eftir því.
Hef aldrei óskað neins af flokknum, sem betur fer.
Jóhann Hafstein hringdi til mín norður á Akureyri á sínum tíma og bauð mér að verða fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hjá S.Þ. Þá var hann forsætisráðherra og vildi launa mér stuðninginn.
En ég hafnaði því ágæta boði.
En mat Jóhann meir eftir en áður.
Það var Jón Sigurðsson, þáverandi dómsmálaráðherra Alþýðuflokksins, sem skipaði Harald son minni í embætti fangelsismálastjóra og treysti honum fyrir því. Hann hefur líka staðið vel undir þeirri ábyrgð, það hefur glatt okkur Hönnu svo erfitt sem þetta starf hefur verið. Svavar Gestsson skipaði hann formann Barnaverndarráðs Íslands á sínum tíma en síðan var honum bolað þaðan af Jóhönnu Sigurðardóttur.
Gott hjá Svavari, hann gat látið það vera!
Sem sagt: kalda stríðinu er lokið!!
Nei, Bjarni Benediktsson hafði ekki ýkjamikinn áhuga á því að verða dóms- og kirkjumálaráðherra í viðreisnarstjórn Ólafs Thors 1959. Hann sagði mér að hann hefði helzt viljað vera áfram á Morgunblaðinu.
En Ólafur gat ekki hugsað sér annað en Bjarni tæki sæti í stjórninni og kom upp á Morgunblað til að tala um fyrir honum. Það er eina skiptið sem ég hef séð Ólaf Thors koma upp á Mogga frá því ég hóf þar störf 1951.
Það var sagt um Carlyle að hann hefði haft gaman af að hlusta á sjálfan sig tala.
Skyldu menn skrifa dagbækur af sömu ástæðu?
Ég veit það svosem ekki, en ég hef ekki þorað öðru en halda þessu til haga, ef nauðsyn krefði starfs míns vegna; kannski eru þessar dagbækur mínar einskonar öryggiskerfi til varnar óvæntri heimsókn inní það ólæsta hús sem er líf manns.
Betra að hafa vaðið fyrir neðan sig, segir steingeitin.
Og Securitas!
Á páskum
Fórum í messu til séra Guðmundar Óskars (Ólafssonar) í Neskirkju.
Hann vitnaði í Tomas Tranströmer vin minn og það gladdi mig.
Ég ætla að senda honum prédikunina ef séra Óskar leyfir.
Við Tomas lásum upp saman í klukkutíma dagskrá á bókmessunni í Gautaborg, það var ógleymanlegt; fínir áheyrendur og góð stemmning, fullur salur.
Tomas sagðist mundu koma ef ég væri með honum.
Það gladdi mig.
Hann er þekktasta ljóðskáld Norðurlanda nú um stundir.
Hefur tekið ástfóstri við Íslands og ort um landið merkileg kvæði.
Jóhann Hjálmarsson er góður vinur hans og hefur þýtt hann.
Það var eiginlega Jóhann sem kynnti mig fyrir Tomasi.
Ég á ljóðasafn hans, Dikter, 1954-1978, með handskrifuðu prósaljóði hans, Islandsk orkan, þá nýortu hér heima.
Tomas er á mínum aldri, samt fékk hann heilablóðfall skömmu eftir að við lásum saman í Gautaborg. En hann hefur náð sér verulega aftur og er farinn að yrkja.
Við hittumst í New York í hitteðfyrra þar sem við lásum báðir á Norrænu ljóðlistarhátíðinni.
Hann var með Monicu konu sinni; merkilegri konu.
Skáld þurfa helzt að eiga merkilegar konur til að lifa af.
Skáld eru berskjölduð.
Þau þurfa á að halda einhverjum hlífiskildi.
Monica er slíkur skjöldur.
Ég hef einnig alltaf verið þakklátur fyrir minn skjöld.
Séra Guðmundur Óskar talaði um upprisuna; mikilvægi hvers og eins í samfélaginu við guð.
Það líkar mér vel.
Þetta mikilvægi hvers og eins er ómetanlegur þáttur kristninnar.
Auðvitað má rekja hann til Krists sjálfs sem hugsaði um hvern og einn og kenndi okkur að gera það einnig.
Kristindómurinn boðar ekki eitthvert óminni heildarsálarinnar eftir dauðann.
Hann boðar upprisu hvers og eins.
Ég var að hugsa þarna í kirkjunni hvað lífið er einkennilegt.
Án Krists veit ég ekkert um guð. Mér er nær að halda að við guð vitum lítið hvor um annan.
Stundum er eins og tilviljanir ráði öllu í lífi okkar, stundum er engu líkara en við siglum eftir kompás örlaganna; hvað veit ég?
Eitt veit ég þó að allir eru að leita dauðaleit að lífinu eftir dauðann.
Og hver veit nema það komi einhvern tíma í leitirnar; hvað veit ég?
Einu sinni var ég fóstur sem móðir mín gekk með og hafði ekkert um það að segja.
Þá bjuggu foreldrar mínir í Kirkjustræti 10 þar sem Helga Magnea amma hafði búið með síðari manni sínum, Kristjáni Þorgrímssyni.
Svo fluttust þau upp á Ásvallagötu 10 þar sem ég fæddist og strax aftur niður í Kirkjustræti því að Helga Magnea missti heilsuna og var hjálparþurfi.
Matthías Einarsson læknir, sem var giftur Ellen, föðursystur minni, sagði við móður mína,
Þú verður að fara aftur niður í Kirkjustræti, þú kannt betur á tengdamóður okkar en börnin hennar.
Móðir mín var einstök kona, full af ástúð og kærleika og öllum leið vel í námunda við hana.
Ung tók hún munaðarlausan dreng að sér, Ólaf, hann dó um fermingu.
Hún tók hann að sér í spænsku veikinni 1918.
Þegar hún gekk með mig 1929 voru pólitískar árásir á föður hennar, Jóhannes bæjarfógeta hvað grimmastar og blaðsölufólkið í miðbænum kallaði hástöfum óhróður um Jóhannes með skírskotun í fyrirsagnirnar og þetta glumdi um allan miðbæinn, þegar Tíminn kom út.
Matthías Einarsson sagði við föður minn, Þú verður að koma henni úr bænum, hún getur misst fóstrið, ef þetta heldur áfram að glymja í eyrum hennar.
Það var farið með hana austur á Laugarbakka í Ölfusi og þar gekk hún með með um sumarið og fram á haust. Kannski bjargaði það lífi mínu; hvað veit ég?
Ég hafði ekkert um það að segja.
Ef móðir mín hefði misst fóstrið hefði ég látið mér það í léttu rúmi liggja. Þá hefði ég losnað við margvíslegan kvíða og áhyggjur um dagana.
En það var gaman að fæðast og það hefur oft verið gaman að vera til.
Ef ég hefði ekki fæðzt væri nú annar ritstjóri við Morgunblaðið.
En það væri enginn annar að yrkja kvæðið sem ég er nú að ljúka við.
Við Hanna fórum í bíltúr eftir messuna.
Hlustuðum á Upprisu Händels.
Hann er ekki einungis mikið tónskáld, heldur finnst mér hann svo skemmtilegur í öllum verkum sínum. Krafturinn og gleðin eru smitandi.
Samt var hann ekki alltaf glaður.
Lúsífer kemur við sögu í Upprisunni.
Ég hef verið að skrifa um Dante í Helgispjall og hann kemur einnig þar við sögu.
Það er merkilegt hvað Dante leggur mikið upp úr því að ofdramb og hroki séu örugg ávísun á neðstu hringi Helvítis.
Þar er Lúsífer frosinn við svellið, ef ég man rétt.
Drambið varð honum að falli; hrokinn; yfirlætið.
Mundi ekki vera ástæða til að leiða hugann að því?
Sr. Karl Sigurbjörnsson talaði í útvarp um helför Krists og minnti á að ekkert svið tilverunnar væri honum óviðkomandi.
Það fannst mér gott hjá sr. Karli.
Kristur batt djöfsa í Helvíti og þess vegna segjum við stundum, Nú er fjandinn laus.
En ég var víst að tala um nýja stjórnarmyndun; hvað veit ég?
Ég er að mestu hættur að hafa áhyggjur af slíku.
Fjandinn hefur verið bundinn og skuggi hins illa hvílir ekki yfir jörðinni, eins og áður var.
Hef því engar pólitískar áhyggjur eins og áður.
Kannski væri ágætt að efna til sögulegra sátta við Alþýðubandalagið, þótt viðreisn sé ákjósanlegust eins og við höfum sagt í Morgunblaðinu.
En sögulegar sættir geta einnig verið mikilvægar; einskonar nýsköpun.
Ég hef mikið og oft hugsað um að andstæðustu öfl landsins, Alþýðubandalagið og Sjálfstæðisflokkur, þyrftu að ná saman.
Nú væri lag.
En þá þyrfti Alþýðubandalagið að brjóta odd af oflæti sínu og mynda stjórn þvert á öll kosningaloforð.
Í gamla daga var talað um þversum-menn. Nú er hvort eð er allt þversum – í öllum flokkum.
Hví skyldi ég hafa áhyggjur af því?
Tími okkar er að líða.
Nýir menn taka við betri heimi en við fengum í arf. Vonandi tekst þeim betur til en okkur.
Og þó, við lifðum af föstudaginn langa í sögu þessarar aldar og steininum hefur verið lyft frá gröfinni.
Vonandi tekst þessum nýju mönnum að bera lífinu og sannleikanum vitni; sannleikanum um þjóðfélagið sem við þráum og sáluhjálp hvers og eins.
Guardami ben: ben son
ben son Beatrice
Purgatorio, xxx
Minn hugur fylgir hverju spori þínu
og hvílist þar sem dögg við grasið skein
og skuggi þinn er þögn í brjósti mínu
og þögult andvarp hausts við nakta grein.
Í fylgd með þér ég fór um glædda vegi
og fann þann styrk sem hönd þín veitti mér
og gleðin var sem tímabundinn tregi
með tölvubúið hjarta í fylgd með sér,
því tíminn er víst forrit fyrir okkur
sem fengum höggormsepli í náðargjöf
og enginn hefur heyrt að nú sé nokkur
sem neitar því að hann sé fjöldagröf.
Samt hitti eg þig á helveg þar í neðra
og hjartað vonast til þú frelsir mig
því ég varð úti í veðri allra veðra
og veröld mín var ekki fyrir þig.
Samt mun ég finna þig á þessum slóðum,
með þungan kross ég geng um neðsta hring
þess vítis þar sem Virgil og við stóðum
á vonarsnauðri jörð við brunnið lyng,
þá birtist þú sem hending guðs í hjarta
og heitur geisli vermir líf mitt allt
en fyrirheitið mildar myrkrið svarta
og mjúklynd ást þín geldur þúsundfalt.
Ég elska þig og bið þess Beatrísa
að blessun þín sé ljós á veg minn stráð
og þegar önnur ljós þau hætta að lýsa
þá lýsir þú sem ég hef ávallt þráð.
Ég geng með þig í heitu hjarta mínu
og hugga mig við það sem von mín á,
að ég sé enn sú ást í lífi þínu
sem endurskín við heiðavötnin blá,
því þar er vilji guðs og gengur ekki
sú gamalkunna ást og jarðarmein
og þar við getum brotið hugarhlekki
og hvílzt við dögg og söngva fugls við grein,
þá verður ekkert hel né himnaríki
sem hvísl af blæ og söng við eyru mér
og þó að engum öðrum stjörnum líki
þá ætla ég, ó jörð, að fylgja þér,
því jörðin mín er öllum hnöttum betri
og eilíft sumar grænkar líkt og nú
en þú ert sjálf sem vor að loknum vetri
og veröld mín er himnesk eins og þú.
Styrmir fylgist með stjórnarmyndun og lætur mig vita. Það sem hann hefur heyrt kemur heim og saman við útvarpsfréttir:
Að viðreisn sé lokið.
Stjórnarmyndun Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar í uppsiglingu.
Sagði við Styrmi að nú þyrftum við að fara gætilega því við hefðum boðað áframhaldandi viðreisnarstjórn og engin ástæða til að sitja upp með það að við söknuðum kratanna eitthvað sérstaklega, nóg væri nú samt!
Hann benti mér á að við hefðum í tveimur forystugreinum hvatt til áframhaldandi viðreisnar og gætum ekki hlaupið frá því.
Auk þess ert þú sjálfur aðal viðreisnarritstjóri landsins, bætti hann við, svo þú getur ekki haft neinar áhyggjur af því að við höldum við það sem við höfum sagt.
Auðvitað höfum við engar áhyggjur af því sem við höfum sannfæringu fyrir, sagði ég, en af reynslunni er nauðsynlegt að skrifa hyggilega, það má enginn halda að við séum alvörukratar, hvað sem forysta Sjálfstæðisflokksins segir um það!
Við Haraldur, sonur minn, vorum að rabba saman þegar síminn hringdi í kvöld.
Það var Davíð Oddsson.
Ég skulda ykkur matarboð, sagði hann, og ég heyrði strax að hann var í sínu bezta formi – hvort við gætum komið á morgun, myndum þá kannski taka Hallgrím Geirsson og Harald Sveinsson með.
Ég tók því vel.
Davíð sagði áður en hann kvaddi mig, Ég hef ekkert að gera núna!
Fór yfir kvæðið sem ég er að yrka um Dante og Beatrísu.
Ljóðlist er mér í senn hvíld og hugsvölun; áskorun.
Hef sagt Kristjáni Karlssyni frá því sem Jónas Haralz sagði við Styrmi um kvæði mitt um Rogozlín í Helgispjalli; ósköp venjulegt kvæði og ætti að vera öllum auðskiljanlegt, hvað hann gæti sagt um þetta kvæði kollega síns sem menn væru að tala um og enginn skildi eins og Jónas komst að orði – og að mér skildist á neikvæðu nótunum.
Samt hefur ávallt farið vel á með okkur Jónasi, svo ég skil ekki þessa neikvæðu afstöðu hans nú. Getur það verið fiskveiðistefna þeirra Hannesar Hólmsteins?!
Kristján Karlsson sagði það væri ekkert nauðsynlegt að Jónas skildi þetta kvæði!
Ég sagði að það væri auðskiljanlegt og það væri ekki endilega víst að ég væri orðinn eitthvað skrítinn, þótt Jónas skildi ekki kvæðið!
Hitt væri ágætt ef einhver hefði talað um kvæðið(!)
Kristján sagði, Kvæði sem allir skilja slitna illa. Þú manst eftir Davíð(!)
(Stefánssyni sem Nordal sagði mér einhvern tíma að hefði náð fullum þroska í sinni fyrstu bók,Svörtum fjöðrum, “og eins og hann hafi ekkert þroskazt síðan”.).
Hef verið að glugga í gömul plögg í fríinu.
Rakst á athyglisvert bréf sem Hannes Hólmsteinn skrifaði mér frá Oxford 5. maí 1984. Hann virðist hafa sent mér afrit af bréfi sínu til Jónasar Haralz “sem er svar við bréfi hans, en það hefur þú þegar séð”.
Ég man að vísu ekki eftir þessum bréfum, en nú þegar leiðir okkar Hannesar hafa um skeið ekki legið saman eins og áður, þegar hann var að gefa út Frelsið og ungir frjálshyggjumenn tóku á sig ýmiskonar skammir sem kommúnistar létu dynja á mér áðurfyr en ég var að sjálfsögðu harla glaður yfir þessu nýja skjóli, þykir mér athyglisvert að rifja upp það sem Hannes skrifaði mér frá Oxford um Jónas ,vin vorn.
Jónas hefur nokkrum sinnum gagnrýnt mig fyrir að hafa ekki tekið í Halldór Laxness fyrir að hafa aldrei gert almennilega upp við kommúnismann.
Ég hef sagt Jónasi að fáir hafi gert eins rækilega upp við sitt marxíska tímabil og Halldór Laxness í Skáldatíma.
Tel ekki að það sé hægt að ætlazt til þess að hann standi í neinu uppgjöri við fyrrum skoðanabræður sína, svo hastarlega sem hann tekur til orða í Skáldatíma og viðurkennir pólitíska villu sína og skammsýni.
Veit ekki betur en hann hafi líkt Marx við Hitler – og það ætti að duga í bili.
En Jónas er mér, held ég, ekki sammála um þetta
Hann telur, ef ég skil hann rétt, að enn standi á hinu raunverulega uppgjöri.
Halldór Laxness hlýtur að mega vera í friði fyrir okkur. Hann hefur að mínu viti gert hreint fyrir sínum dyrum. Það dugði a.m.k. Bjarna Benediktssyni þegar hann vildi að ég færi á fund Halldórs upp í Gljúfrastein og byði honum stuðning formanns Sjálfstæðisflokksins, ef hann vildi bjóða sig fram til forsetakjörs.
Bjarni hefði áreiðanlega ekki gert það, ef hann hefði verið sömu skoðunar og Jónas Haralz.
Samt hefur mér alltaf fundizt Jónas vera sanngjarn í málflutningi og ég hef haft ánægju af að eiga við hann skoðanaskipti því hann hefur enga tilhneigingu til að tala niður til manns – og það finnst mér kostur !
Mér þykir því fróðlegt að lesa það sem Hannes Hólmsteinn segir í Oxford-bréfinu, sem ég var satt að segja búinn að gleyma, því báðir eru þeir félagar með mjög ákveðnar skoðanir, og Hannes sést ekki endilega alltaf fyrir, þótt ég hafi staldrað við þessa greiningu hans:
Hann telur sig vera kominn að nokkurri niðurstöðu um heimspekilega skoðun Jónasar, og sé hún harla athyglisvert.
Heimspeki hans sé tilraun til að réttlæta, eða öllu heldur að skilja þá staðreynd “að hann var róttækur sósíalisti 1947, keyneískur hagfræðingur 1964 og íhaldssamur hagfræðingur 1984.”
Það sé sem sagt ekki til neinn einn sannleikur, heldur hafi hvert tímabil sinn sannleika – “við höfum hér með öðrum orðum sögulega afstæðiskenningu.”
Árið 1944 hafi róttækur sósíalismi ekki verið eins fráleitur og okkur virðist nú, 1964 hafi keynesísk hagstjórn sýnzt árangursrík, 1984 sé aðalverkefnið að virkja markaðsöflin.
“Í sannleik hvers tímabils séu fólgnar mótsagnir, sem séu þá ekki sýnilegar, en komi síðar upp á yfirborðið. Menn eigi ekki að gerast of ákafir uppreisnarmenn gegn sannleik hvers tíma, því að þeir hafi aldrei nægileg gögn í höndunum til að hrekja þennan sannleik, þennan “spirit of the age”. Þess vegna er Jónas hefðarsinni, vill ekki hvika of langt frá háttum, hefðum og venjum velferðarríkis okkar daga, hann vill byggja á grunni þess, þótt hann vilji síðan styrkja bestu stoðirnar.
Ég kem hins vegar vígreifur á völlinn, vopnaður sannleika, sem ég gef í skyn, að sé ótímabundinn. Með því er ég að ómerkja hans sögu, “sannleika” þeirra tveggja tímabila sem Jónas hefur lifað fyrir utan hið núverandi – róttækan sósíalisma og keynesiaisma.
Ég er óbeint að segja að Jónas hafi beinlínis haft rangt fyrir sér 1944 og 1964, en ekki aðeins, að aðstæður hafi þá verið aðrar.
Þú sérð, að kenning mín rekst á sögutúlkun og heimspeki Jónasar og hann hlýtur þá að snúast öndverður gegn henni, þótt hann viðurkenni að við eigum allir samleið árið 1984.
Hann hlýtur að segja, honum er sálfræðileg nauðsyn að segja: “Sannleikur áranna 1944 og 1964 var ekki lífslygi, eins og þú heldur fram, heldur sannleikur þessara tímabila, ófullkominn að vísu, mótsagnakenndur, en þó sá eini sannleikur, sem við höfðum þá við að styðjast.”
Og hvers vegna heldurðu að Jónasi sé svo í nöp við Halldór Laxness?
Auðvitað vegna þess að Halldór blekkti hann, laðaði hann til fylgis við sannleik, sem reyndist síðan vera svartasta lygi allrar mannkynssögunnar!”
Ég hef engu við þetta að bæta, þetta er skoðun Hannesar og hann þekkir Jónas betur en ég.
En ef greining hans er rétt þá er eitt víst; að við getum allir þakkað guði fyrir að vera einnar skoðunar nú um þau mikilvægu atriði sem Hannes nefnir. Og ég reikna með því að ég eigi fremur samleið með Jónasi Haralz en Hannesi Hólmsteini, ef það er rétt sem hann segir um velferðarríkið: að hann vilji byggja á grunni þess, þótt hann vilji síðan styrkja beztu stoðirnar.
Ég tel þetta einn helzta þáttinn í gamalli sjálfstæðisstefnu, ásamt einstaklingshyggju og frelsi hvers og eins.
Jónas getur því vel við unað pólitíska greiningu Hannesar og með tilliti til þess sem á undan er gengið getur hann fagnað því að hafa tekið réttan kóss áður en það var um seinan.
Ég átti samtal við hann að ósk Bjarna Benediktssonar þegar hann tók við bankastjórastarfi Landsbanka Íslands, einnig að ósk Bjarna, sem var gagnrýndur allharkalega fyrir að setja gamlan kommúnista í þessa mikilvægu stöðu og var það birt í Morgunblaðinu.
Þá kynntist ég Jónasi og mér líkaði ágætlega það sem hann sagði í samtali.
Mér hefur ávallt líkað vel við Jónas og mér hefur þótt mikill fengur að því að eiga jafnmerka hagfræðinga að skoðanabræðrum, samfylgdarmönnum og vinum og Gylfa Þ. Gíslason, Jónas og Jóhannes Nordal.
Ég hef margt af þeim lært og það hefur verið okkur styrkur, morgunblaðsmönnum, að hafa átt jafngott samstarf við þessa menn og raun ber vitni.
Samtöl okkar hafa að mér finnst ávallt verið mikilvæg og Morgunblaðinu nauðsynlegt veganesti, eða aðhald,þótt við ritstjórar blaðsins höfum síður en svo alltaf verið sammála þessum vinum okkar, enda eru stjórnsýsla og hagfræði ekki raunvísindi, heldur í ætt við ályktunarvísindi húmanistískra fræða.
Það veit í raun enginn neitt um þjóðfélagið eða þróun efnahagsmála.
Það er einungis hægt að styðjast við ályktanir og tilgátur, en þjóðfélagið fer sínu fram og gengi gjaldmiðla hækkar og lækkar án þess það lúti raunvísindalegum lögmálum eins og gangur himintungla eða lögmál alheimsins.
Og fyrr má nú vera!
Ég fann einnig í plöggum mínum samantekt um það sem Hannes Hólmsteinn sagði í ræðu á fundi Stefnis í Hafnarfirði 7. nóvember 1987 – og hann sendi mér.
Hef víst minnzt á það áður í þessum blöðum.
Með hliðsjón af því sem síðar hefur gerzt þykir mér þetta plagg harla athyglisvert.
Það er einskonar áætlun um yfirtöku frjálshyggjumanna á Sjálfstæðisflokknum, hvorki meira né minna, ef ég skil það rétt.
Það er samið og mér sent þremur árum áður en ég fékk fyrsta bréfið frá Davíð Oddssyni þess efnis að þorri manna telji að Morgunblaðinu sé fjarstýrt af ráðherrum Alþýðuflokksins!
Telur sem sagt að mikill fjöldi manna trúi því blátt áfram, að blaðinu sé með beinum eða óbeinum hætti fjarstýrt af ráðherrum Alþýðuflokksins!
Segist vera þeirrar skoðunar sjálfur!
Þetta hefur þannig verið rauði þráðurinn í blárri stefnuskrá sjálfstæðisforystunnar undanfarin ár – og er nú mál að linni! Það mun að sjálfsögðu gerast þegar alþýðuflokksmenn láta af ráðherradómi og embætti þeirra kalla ekki viðstöðulaust á fréttir eða frásagnir í dagblöðum og fjölmiðlum, til að mynda Morgunblaðinu.
Átti á sínum tíma samtal við Láru miðil Ágústsdóttur og birtist það í Morgunblaðinu 1961 og síðan M-samtölum (III), 1979. Ég átti þá uppkast að öðru samtali við Láru sem ég hef aldrei birt og rakst nú á það í minnismiðum mínum.
Það er einskonar málsvörn Láru og hef ég alltaf ætlað að koma henni á framfæri, en það hefur farizt fyrir.
Ég kynntist Sigurði Magnússyni,lögreglumanni,ágætlega og átti við hann gott samstarf þegar hann var blaðafulltrúi Loftleiða. Hann var greindur maður og gegn og ég efast ekki um að hann hefur verið í góðri trú, þegar hann taldi sig hafa afhjúpað svikamiðilinn Láru Ágústsdóttur.
En hvað sem því líður á hún einnig rétt á því að eiga sína málsvörn, enda sagði hún sjálf að málinu yrði ekki lokið fyrr en fyrir dómstóli drottins.
Nú hafa þau verið þar bæði,Lára og Sigurður, og vonandi hafa þau gert þetta upp sín á milli með aðstoð drottins alsherjar,en hann reyndist Þórbergi heldur vel,þegar hann talaði forsjónina á sitt band,eins og segir frá í Bréfi til Láru.
Nú hefur almættið áreiðanlega sagt sitt síðasta orð án þess við höfum haft spurnir af niðurstöðunni!
En þetta óbirta samtal við Láru miðil er svohljóðandi:
1961 - Samtal við Láru Ágústsdóttur, óbirt
Í Morgunblaðinu sunnudaginn 27. október 1940 er svohljóðandi fjögurra dálka fyrirsögn: "Rúmlega 20 ára svikamiðilsstarfsemi upplýst. Lára Ágústsdóttir í gæzluvarðhald." Næstu tvo daga birtir blaðið svo greinar um svikastarfsemi miðilsins og heitir hin fyrri: "Hvernig svikin komust upp um Láru miðil. Úr skýrslu Sigurðar Magnússonar löggæzlumanns." En hin síðari: "Á fundi hjá Láru og för hennar til London. Samtal við Sigurð Magnússon, löggæzlumann."
Mér er allt þetta mál ákaflega minnisstætt, þótt ég hafi aðeins verið tíu ára gamall. Og mér hefur ekki verið um þessa voðalegu konu, sem reyndi með prettum að svíkja framhaldslíf inn á blásaklausan, íslenzkan almúga – og það í sjálfri styrjöldinni! Fyrir einskæra tilviljun hitti ég Láru að máli og skrifaði við hana samtal sem birtist í Morgunblaðinu 1961 og síðar í Samtöl – M. Mér þótti margt harla merkilegt af því sem hún hafði að segja. Ég reyndi að koma henni að óvörum og fá hana til að játa svikastarfsemina, en það tókst ekki:
"Hvernig stóð á því að þér leiddust út á þessa braut, Lára?"
"Ja, hérna, hvernig þér getið spurt! Eins og þér eruð sakleysislegur í andlitinu."
"Nú, ætlið þér að neita því að það hafi verið svik í tafli."
"Já, sem ég er lifandi!"
"Og teljið þér rannsóknir Sigurðar Magnússonar og skýrslu hans ósanna með öllu?"
"Það geri ég, ég sver það við guðs nafn að ég hef aldrei haft í frammi svik á miðilsfundum."
"En mér sýnist af blöðunum að málstaður yðar hafi ekki verið sem beztur."
"Nei, þeir kunnu að koma ár sinni fyrir borð þessir menn sem þar voru að verki. Morguninn eftir að þeir þóttust hafa upplýst svikin komu þeir heim til mín í Bjarnaborg, tóku mig fasta og sendu mig í rannsókn. Rannsóknin stóð yfir fram til ellefu næsta kvöld. Í miðri rannsókninni féll ég í trans, eða það leið yfir mig, ég veit ekki hvort heldur var. Þeir segja að ég hafi játað, það er ekki rétt. Vitandi vits hef ég aldrei játað, hvorki fyrir réttinum né annars staðar. En þeir höfðu tögl og hagldir. Ég fékk hvorki vott né þurrt og að rannsókn lokinni var ég send á Landakotsspítalann, þar sem ég var næstu viku. Þangað fékk enginn að heimsækja mig, nema Sigurður Magnússon. Hann segist hafa fengið játningu, það er ekki satt. Ég hefði aldrei játað á mig svik við miðilsstörf, því þau hef ég ekki framið. Ekki fékk ég að sjá nein blöð þann tíma, sem ég var í gæzluvarðhaldi, og þegar málið var um garð gengið sá ég aðeins slitur úr dagblöðum, fæst af því sem þar kemur fram um gang málsins er á rökum reist. Ég bið ekki um hefnd, en einhvern tíma fæ ég skýringu á þessum óttalega misskilningi. Það verður líklega ekki fyrr en ég kem yfrum, en ég bíð róleg, bíð eftir uppreisn. Enginn getur komið í veg fyrir að ég fái hana, því ég er saklaus af öllum miðilssvikum. En hinu vil ég halda fram að þetta hafi verið samsæri gegn mér. Þeir komu mér í opna skjöldu."
"En þeir birta í blöðunum myndir af yður, þar sem þér eruð með slæður í dásvefni, hvaða slæður?"
"Ég hef heyrt þetta áður, en hvaða slæður? Á fundunum komu fram líkamningar svo skýrir að mér er sagt fólk hafi séð tennur þeirra og þeir hafi rennt augunum. Ég sé ekki sjálf þá líkamninga, sem ég framkalla. En það er engin smáræðis leikni að geta látið tuskur taka á sig mannsmynd."
"Sagt er að dóttir yðar sé á einni myndinni: "Lára sjálf er standandi hjá "líkamningnum" sem er dóttir hennar. Höfðu þau Lára og Þórbergur, maður hennar, málað telpuna í framan með vatnslitum".
"Þetta er allt ósatt. Dettur yður í hug að ég hafi notað dóttur mína til svikabragða? Dóttir mín er hér frammi í eldhúsi og þér getið spurt hana. Hún var fimmtán ára þegar þetta gerðist og var austur á Norðfirði hjá Rolf Johansen. Drengirinir okkar voru austur í Seljabrekku í Mosfellssveit. Ég hef aldrei getað skilið hvernig þeir hafa fengið þessar myndir, þær hljóta að vera falsaðar, nema þá þeir hafi lætt slæðum og einhverri mannveru inn á fundinn, meðan ég var í dásvefni. Og svo er eitt: hver mundi trúa börnum fyrir svo alvarlegum svikum?"
"Leyfðuð þér nokkurn tíma að teknar væru myndir á fundum hjá yður?"
"Já, oft. Vigfús Sigurgeirsson, sá góði maður, tók margar myndir á fundum hjá mér. Dettur yður nú í hug að ég hefði leyft myndatökur á fundum, hefði haft einhverju að leyna? Sannleikurinn er sá, að þessar myndir sem þér talið um og birtust í blöðunum á sínum tíma, eru falsaðar, því megið þér trúa."
"En svo er hérna einnig mynd af stólnum yðar, þeir segja að í honum hafi verið hólf sem hægt var að nota í svikastarfseminni."
"Ég vissi ekki um það hólf. Þórbergur, maður minn, var afskaplega mikið á móti framhaldslífi og krafðist þess af mér að ég hætti miðilsfundum, sagði: "Það er ekkert líf eftir dauðann." En ég lét hann ekki hafa áhrif á mig, því ég vissi að það var ekki satt. Ég hafði lifað í mörgum heimum og lét orð hans ekki á mig fá. Ég skil bara ekki, hvernig ég hef getað orðið hrifin af þeim manni. Hann reyndi að gera mér allt til bölvunar í miðilsstarfinu og mér er sagt hann hafi játað að hafa aðstoðað mig við svikin. Það hefur hann gert af illum hvötum, því ekki er það satt. Það er ljótt að segja þetta nú, en er ekki kominn tími til að mín rödd heyrist í þessu máli, þessu samsæri?"
"En hólfið í stólnum?"
"Þeir hafa smíðað hólfið í stólinn án minnar vitundar til þess að nota það gegn mér, þegar þar að kæmi."
"Það er sagt að unglingspiltur hafi búið hjá þér um það leyti sem svikin komust upp?"
"Já, en hann var drykkjumaður og ég hafði oft beðið hann um að fara. Sama daginn og "allt komst upp" rak ég hann fyrir fullt og allt. Hann setti einhverjar spjarir af sér í poka og lagði fram í gang, kvaðst mundu sækja pokann síðar. Ég bað konu í húsinu að setja pokann undir stigann og gerði hún það. Þar var hann þegar fundur hófst. Sá sem gekk harðast fram í því að vitna gegn mér fyrir réttinum, sagðist hafa séð pakka undir skáp, skammt frá stólnum mínum. Hann hafi ýtt honum undir skápinn, en þegar fundinum hafi verið lokið og hann ætlaði að leita pakkans hafi hann verið kominn lengra undir skápinn, það er að segja, ég hafi átt að troða honum undir skápinn. Þetta er ekki satt, en hitt er rétt að poki piltsins var horfinn úr ganginum, þegar ég hugði að honum eftir fundinn."
"Og þér viljið halda því fram, Lára Ágústsdóttir, að þér hafið ekki haft svik í frammi."
"Nei, í hæsta lagi að ég hafi eitthvað fátað til með hendinni, en ekki ætti það að vera saknæmt."
"Og þér teljið að mennirnir, sem báru vitni gegn yður og þeir sem játuðu að hafa unnið að svikum með yður, hafi allir tekið þátt í samsæri gegn yður."
"Já, það er skoðun mín, eða hvaða skýring er til önnur á þessu máli, spyr sá sem ekki veit. Sigurður Magnússon hafði horn í síðu minni, af vissum ástæðum, og Þórbergur maður minn sem ég var skilin við, þegar "allt komst upp" hafði horn í síðu minni af ýmsum ástæðum og gekk fram í því að gera miðilsfundina grunsamlega, unglingspilturinn var auðvitað ekkert hrifinn af því að vera rekinn úr herberginu þennan sama morgun, og svona gæti ég haldið áfram. Allt bar svo bráðan að og snerist svo illa í mínum höndum að ég kom engri vörn við. Ég tel að þetta hafi verið vandlega skipulagt."
"Þetta eru þungar ásakanir, frú Lára."
"En þær verða að koma fram og ég skal standa við þær, hvar og hvenær sem er, ekki sízt fyrir þeim æðsta dómara, sem einn hefur síðasta orðið, eða trúið þér mér ekki? Horas Lee kom á miðilsfund til mín á sínum tíma. Á eftir sagðist hann hafa sótt miðilsfundi í 27 löndum en enginn þeirra hafi komizt í hálfkvist við þann sem hann sat hjá mér."
"Þér voruð fátækar, var það ekki?"
"Jú, ég hef nú alltaf verið heldur fátæk."
"Getur ekki verið að þér hafið leiðzt út í svikastarfsemi vegna fátæktar?"
"Nei, svo fátæk var ég aldrei. Ef ég hef eignazt aur, hef ég annað hvort gefið hann eða keypt mér fyrir hann kjól."
"Eruð þér dálítið pjattaðar?"
"Já, ég elska allt sem er fallegt."
"Og kannski útsláttarsöm?"
"Ég hef heyrt það áður að ég hafi verið útsláttarsöm. Ég hef alltaf verið kát og stundum verið í söngkórum, meira að segja tekið undir hjá Páli Ísólfssyni, annars var ég oftast eftirsótt og fólk hefur oft boðið mér heim upp úr þurru, en einatt hef ég orðið fyrir vonbrigðum af slíkum heimboðum, því ég er ekki fyrr komin inn úr dyrunum en sagt er: "Jæja, hvað sérðu hjá mér?" Stundum var sagt að ég stæði fyrir drykkjuskap, en það var einungis vegna þess að fólkið söng á fundum hjá mér. "Guð almáttugur, hvað það er mikið fyllerí hjá henni Láru," sagði það."
"Líkar yður illa við fólk?"
"Ekkert sérlega vel. Það hefur kastað að mér grjóti, ég hef fjarlægzt fólk með aldrinum og mér líkar betur við þá hinu meginn. Stundum hef ég fengið sendingar og sumar valdið sjúkdómum. Þér trúið því kannski ekki en fólk getur sent á mann púka ósjálfrátt, það getur verið hættulegt."
"Eruð þér lasnar?"
"Lasin dálítið, já. Vinstra megin við heilann er æð sem er að verða óstarfhæf. Blóðþrýstingurinn hefur komizt yfir 300, það er talsvert. Ég held mér við á töflum."
"Og hvað tekur við af þessari æð?"
"Ætli það verði ekki það líf, sem ég er þekktust fyrir að hafa reynt að pranga inn á fólk."
"Þér haldið að Þorbergur hafi viljað yður illt?"
"Já, hann vildi eyðileggja miðilsfundina, en ég skil ekki í þessum játningum hans, eins og við skildum hávaðalaust. Ég kvaddi hann með handabandi og við skiptum draslinu jafnt á milli okkar og hann losnaði við sitt aðalstarf, að gæta mín fyrir öðrum karlmönnum."
"Og þegar rannsókninni var lokið og yður var sleppt, hvað þá?"
"Þá fór ég heim og hlakkaði þessi ósköp til að fá mér kaffi, en þá var mér tilkynnt að ég gæti ekki verið lengur í íbúðinni. Þá hafði ég verið sjö vikur á Kleppi. Meðan ég dvaldist þar, komu tveir ágætir vinir mínir á hverjum degi í heimsókn, Páll Einarsson, fyrrum borgarstjóri, og Kristján Linnet. Ég kom heim daginn fyrir Þorláksmessu 1940, tók dótturina með mér niður á Arnarhól og þar vorum við um nóttina. Síðan svaf ég hálfan mánuð á lögreglustöðinni fyrir góð orð frænda míns, Erlings yfirlögregluþjóns Pálssonar, þetta var nú hún Lára Ágústsdóttir með alla peninga!"
"En þér hafið ekki hreinsað yður af játningunni enn, frú Lára. Þér játuðuð svikin fyrir réttinum."
"Þeir segja það víst, en eins og ástatt var hefði ég líklega játað öllu, jafnvel þótt ég væri spurð, hvort ég hefði drepið mann."
"Munið þér nokkuð eftir fundinum fræga, þegar Sigurður sagðist hafa komið upp um yður?"
"Já, þegar Sigurður kom var stofan troðfull en hann bað mig um leyfi til að sitja fundinn og var það auðsótt mál. Mér gekk erfiðlega að sofna, en ekki veit ég af hverju. Samt sofnaði ég um síðir. Nokkru síðar vakna ég upp við háreisti og allt er á tjá og tundri í stofunni, fólkið gengur út en Sigurður Magnússon stendur á miðju gólfi og biður nokkra þeirra sem viðstaddir voru að bíða. Hann sýnir þeim gasslæðurnar og tilkynnir svikin. Ég skildi ekkert í neinu, man aðeins að Jakob Smári sagði við Sigurð: "Ég ætla að láta yður vita það að móðir mín sem ég hef séð líkamnazt hér er engin tuska!"
18. apríl
Við fjórmenningarnir fórum í Ráðherrabústaðinn og borðuðum hádegisverð með Davíð. Hann lék á als oddi enda Oddsson.
Sýndi okkur húsið nýuppgert og var stoltur af verkinu.
Það hefði kostað 80-90 milljónir, ef ég man rétt.
Hef ekki komið í Ráðherrabústaðinn frá því sautjánhundruðogsúrkál!
Vorum hér oft í tíð Bjarna og Sigríðar og einstaka sinnum þegar Denni var forsætisráðherra. Annars bjó hann hér þegar við vorum drengir.Þá var Hermann Jónasson,faðir hans,forsætisráðherra. Þá voru fundirnir í Röskvum drengjum haldnir hér og Steingrímur stjórnaði ferðinni enda átti hann mest undir sér á veldisdögum föður hans.
Við borðuðum í austurherberginu niðri þar sem faðir Steingríms hafði skrifstofu þegar hann var forsætisráðherra.
Einu sinni vorum við í Tarzanleik.
Skrifstofan var lokuð en ég hratt henni upp og hrópaði: Tarzan!
Hermann sat við skrifborðið sitt og hrökk við.
Þetta var heldur neyðarleg uppákoma ekki sízt vegna þess að Hriflu-Jónas kallaði Hermann glímukappann.
En hann sagði ekkert, stóð bara upp, gekk að dyrunum og lokaði aftur.
Hann var umburðarlyndur við okkur drengina
Það var gott að vera í þessu húsi þegar þau hjón leyfðu okkur drengjunum að valsa um það að vild.
Nei, við höfum ekki verið hér lengi.
Sakna þess ekki.
En húsið er smekklega gert upp undir stjórn Davíðs. Hann hefur einlægan áhuga á gömlum verðmætum eins og Viðey og þessu húsi.
Borðuðum skötusel og töluðum saman í léttum dúr; samtalið var gott og alls ekki í skötulíki þótt ærin tilefni hafi verið til!!
Davíð sagði nýjar og gamlar gamansögur og nokkur trúnaðarmál.
Nefni þau ekki því ég ætla ekki að láta freistast, þegar ég er genginn í barndóm.
Allir afslappaðir.
Töluðum saman á fjórða tíma.
Davíð sagði okkur að hann hefði sagt við ömmu sína þegar hann var fjögurra ára, Ég ætla aldrei að verða forseti. Amman hafði sagt, eins og ömmur segja við uppáhaldsbörnin sín,
Davíð minn, þú verður einhvern tíma forseti!
Þetta var þegar Sveinn Björnsson lézt og hann var brenndur.
Davíð vildi ekki láta brenna sig upp við staur eins og indíána.
Þess vegna vildi hann ekki verða forseti!
Sagðist halda að Vigdís forseti yrði áfram að loknu þessu kjörtímabili, sumarið 1996.
Hún hefði verið farsæll forseti.
Styrmir minnti á að Vigdís hefði lýst yfir því að þetta yrði síðasta kjörtímabilið hennar.
Mér virtist Davíð hafa gleymt því.
Velti fyrir mér samstarfi þeirra og komst að þeirri niðurstöðu að Davíð vildi hún yrði áfram.
Kannski býr eitthvað í undirvitund hans sem hann veit jafnvel ekki sjálfur.
Hann ætlar að vera forsætisráðherra næstu fjögur árin, í stjórn með framsóknarmönnum, og að þeim tíma liðnum mundi Vigdís líklega hætta.
Kannski kærir Davíð sig kollóttan um, hvort hann yrði brenndur eða ekki!
Styrmir fékk sömu hugmyndir og ég.
Davíð stefnir alltaf á tindinn.
Það var ekki fyrr en yfir kaffinu sem stjórnarmyndun kom til umræðu að nokkru marki.
Davíð sagði viðreisn hefði ekki nægan styrk. Hún væri of mikil áhætta. Hann ætlar augsýnilega ekki að sitja uppi með slíka áhættu, enda óvanur því.
Þegar hann hefði farið Fjallabaksleið í síðustu stjórn hefði hann komið til byggða með sprungið dekk og lítið loft í hinum.
Hann nefndi Jóhönnu Sigurðardóttur, Inga Björn Albertsson og Eggert Haukdal – það hefði ekki verið álitlegt í langferð!
Telur ekki ráðlegt að fara í aðra fjögurra ára Fjallabaksferð án þess hafa góð varadekk.
Annars talaði hann mjög svipað því og á blaðamannafundinum í dag.
Frá honum er sagt allítarlega í Morgunblaðinu og ástæðulaust að tíunda það hér í persónulegum bollaleggingum mínum.
Það er annars dálítið skrítið að vera að skrifa dagbók, en ég hef haft gaman af því annað slagið.
Vil ekki tala um annað en það sem mér þykir íhugunarefni, til góðs eða ills.
Mér er sama.
Hvað skyldi Davíð skrifa í dagbókina sína um þennan hádegisverðarfund?
Skyldi honum þykja hann nokkuð merkilegur?
Ætli hann sé nokkuð að eyða tíma í þessa morgunblaðskrata?
En hann var hlýr og vinsamlegur. Vill augsýnilega að við þekkjum málavexti og sjónarmið hans, milliliðalaust.
Bað aldrei um neinn stuðning, ýjaði ekki einu sinni að neinu slíku.
Við nefndum það einungis að við hefðum í tveimur leiðurum talið ríkisstjórnina hafa nægan styrk til að halda áfram.
Augljóst að hann vill heldur leiða styrkari stjórn.
Telur sig ekki hafa farið aftan að krötum. En nú ganga klögumálin á víxl; að þessi og hinn stjórnmálaforinginn hafi komið í bakið á þessum og hinum.
Ég er ekki viss um þeir muni öll sín samtöl, ekki frekar en við hinir.
En mér sýnist Jón Baldvin nokkuð sár.
Ólafur Ragnar er mjög reiður út í Halldór Ásgrímsson.
Mér sýnist Halldór blása á það.
Davíð er ekkert sár, hann leikur á als oddi og ég sé ekki betur en hann kunni vel við sig í þessu andpólitíska andrúmslofti.
Hann er ekkert að rífast við okkur morgunblaðsmenn, síður en svo.
Hann talar við okkur opið og afdráttarlaust.
Ég er eiginlega undrandi hvað hann segir okkur mikið úr huga sínum. Einhverjar hnippingar urðu á milli hans og Styrmis, það var allt og sumt.
Það var út af því á hvaða forsendum Davíð sleit viðreisnarstjórninn og hvernig hann hóf viðræður við Halldór.
Ekkert alvarlegt rifrildi, síður en svo.
Ég spurði um Alþýðubandalagið. Jú,
Davíð hafði hugsað um hvort slíkt sögulegt samstarf gæti hafizt milli Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags og fannst það að mörgu leyti aðlaðandi kostur.
En þrýstingurinn hefði orðið svo mikill á Alþýðubandalagið að þeir hefðu brostið í slíkum viðræðum.
Styrmir var sammála Davíð, en ég er ekki viss.
Og þar með urðu Heródes og Pílatus á einu máli og engar frekari ýfingar svo orð sé á hafandi.
Enginn okkar var neitt hrifinn af stjórn með Framsókn, enda hefur slík stjórn ekki beinlínis heillað okkur eða aðra sjálfstæðismenn – vegna gamallar reynslu.
Oftast held ég Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað eftir stjórnarsamstarf við Framsókn. Þó tóku þeir skellinn 1978, af fullum heilindum. Það lýsti Ólafi Jóhannessyni öðrum fremur.
En hvað gerðist þá?
Upp úr því myndaði Ólafur vinstri stjórn!
Sumir eru eins og blýklumpar í pólitík, sökkva alltaf.
Aðrir eins og korktappar, fljóta ofan á og komast það sem þeir ætla, hvað sem hver segir.
Davíð minnti á að við Styrmir hefðum myndað ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar á sínum tíma. Styrmir hefði talað við Jón Baldvin, ég hefði talað við Steingrím.
Það er alveg rétt.
Ég spurði Davíð hvort hann hefði kallað á okkur sem sérfræðinga í myndun slíkra framsóknarstjórna!
Hann sagðist geta myndað sína eigin stjórn sjálfur og þyrfti ekki okkar hjálp til þess!
Styrmir minnti hann á að enginn hefði gert meira til að splundra þeirri stjórn en Davíð sjálfur.
Hann svaraði því engu og það vakti athygli mína að hann neitaði því ekki einu sinni.
Það skyldi þó ekki vera
En það er augljóst að Davíð getur ekki hugsað sér að láta hvaða þingmann sem er setja sér stólinn fyrir dyrnar, til að mynda við afgreiðslu fjárlaga, annars gripi sá hinn sami til sinna ráða. Ég varpaði því fram að hann væri að breyta tuttugu og fjórum drottningum á skákborði Sjálfstæðisflokksins í tuttugu og fjögur peð, sjálfur yrði hann auðvitað áfram drottningin.
Hann tók undir það.
Ég kann vel að meta svona herstjórnarlist, svona innst inni. Þingmenn eru ekki allir mikilla sanda og mikilla sæva. Sumir eru flatlendingar en halda þeir standi á Mount Everest þótt þeir séu snarvilltir í þeim dimma dal sem Davíð skáldkonungur minnist á í sálmunum sínum.
Í forystugrein Morgunblaðsins verður haldið fast við það sem við höfum sagt áður, að það hefði verið hægt að stjórna með þeim meirihluta sem ríkisstjórnin hefur eftir kosningar.
Sagði við Davíð að ég teldi það rétt ummæli hjá honum eftir kosningar að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki einungis unnið varnarsigur, heldur hefði hann unnið mikinn sigur í kosningunum.
Það var afrek að halda stjórninni við völd.
En með því að snúa sér til Framsóknarflokksins finnst mér draga úr þessum sigri.
Enginn átti meiri þátt í honum en Davíð sjálfur.
Án hans legðist lítið fyrir kappann, Sjálfstæðisflokkinn.
Það er allra mál sem ég hef talað við.
Davíð kann ekki sízt að koma á óvart. Hann kemur miklum spekingum oft í opna skjöldu. Hann getur verið ófyrirleitinn í pólitík, ég veit það vel, en stjórnmál eru list þess mögulega. Stundum eru þau að vísu list hins ómögulega, það varð til dæmis þegar gamli skæruliðaforinginn Begin sættist við Sadat. Eða Nixon við Maó, án þess það væri nauðsynlegt eins og þegar Stalín gerði sáttmálann við Hitler.
Það var hagsmunavinátta dauðans enda eru þeir báðir í 9. hring Helvítis. Ekki vildi ég vera þar í samfélagi við Satan. Nei, það er nóg að hafa kynnt sér lýsingar Dantes á því umhverfi.
Já, hvað skyldi Davíð segja í dagbókinni sinni?
Ég skrifaði dagbók á sínum tíma þegar við Steinn vorum að krunka saman og birti hana í Hugleiðingum og viðtölum sem endaði 25. maí, 1958:
Steinn dó í kvöld.
Ég viðurkenni fúslega að Hugleiðingarnar eru ekkert sérstaklega góð bók, en Sigurður Nordal sagði að þetta væri skemmtileg bók og ef það er einhver skemmtun af henni, dugar það mér.
Í kompaníi við allífið og Í kompaníi við Þórberg eru einskonar dagbækur.
Þær eiga að vera upplifun, fróðleikur og skemmtun, þær eiga að vera skrifaðar með nýjum hætti.
Vona það hafi tekizt.
En sem sagt, það er sama hvað við segjum, Davíð hefur tekið ákvörðun.
Ég vona hún sé rétt, vona hún verði til farsældar.
Sé að hann getur ekki hugsað sér að halda gömlu stjórninni áfram, hann sagðist ekki hafa ætlað að láta skilja Sjálfstæðisflokkinn utan stjórnarráðsins.
Lítið sem ekkert verið talað um verkaskiptingu og ráðherra.
Þó sé ég að Davíð er dálítið hissa á því hvað Halldór Ásgrímsson hefur mikinn áhuga á að Framsókn fái viðskiptaráðuneytið. Samt hafa þeir engra hagsmuna að gæta eins og í gamla daga þegar Framsóknarflokkurinn stóð vörð um Sambandið.
Getur verið, spurði ég, að þú verðir skilinn eftir; að Halldór Ásgrímsson segi allt í einu að hann vilji eitthvað sem þið getið ekki fallizt á.
Já, sagði Davíð, og þá fengi hann sjálfur umboð til stjórnarmyndunar, það gæti gerzt.
Kannski fannst mér þetta merkilegasti þáttur samtalsins.
Það er sem sagt verið að taka áhættu.
Og í pólitík verða menn að taka áhættu alveg eins og í skáldskap.
Áhættulaus skáldskapur slitnar fljótt eins og flíkur, það er rétt.
Í þessu samtali við Davíð bar utanríkisráðuneytið á góma. Hann telur að Halldór muni áreiðanlega sækjast eftir því, til að mynda frekar en sjávarútvegsráðuneytinu.
Styrmir gat þess að ég hefði á sínum tíma sagt við Jón Baldvin að hann ætti að taka við utanríkisráðuneytinu, en þá hefði hann verið á báðum áttum.
Í utanríkisráðuneytinu væri styrkur foringjans.
Það væri orðið samskonar tákn og forsætisráðuneytið.
Það hefði reynzt rétt.
Eitthvað var talað um það meira og haft í flimtingum að ég hefði kannski verið að hugsa um sendiherraembætti!
Styrmir sagði að mér hefði verið boðið sendiherraembætti ef ég hefði viljað, enda kom það til tals á sínum tíma.
Mér skilst að ég hefði getað orðið sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum í New York; eða síðar í Lundúnum. Jón Baldvin vildi víst fá einhvers konar “menningarvita” í þessi embætti en ég hef ekki sótzt eftir neinum slíkum titlum.......
Allt þetta minnir mig á samtöl mín við Einar Ágústsson á sínum tíma.
Hann var utanríkisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins og hafði þá meira fylgi, að ég held, en Steingrímur Hermannsson til að taka við Framsóknarflokknum, ef Ólafur Jóhannesson hætti.
En hann kaus sendiherrastöðu.
Mér var sagt að hann hefði ekki haft áhuga á formennskunni. Sumir framsóknarmenn sögðu við mig að Einar hefði ekki nennt að standa í þessu lengur.
Mér líkaði alltaf ákaflega vel við Einar Ágústsson og held að metnaður hans hafi verið hóflegur miðað við aðstæður.
Hann hafði reynslu fyrir því að valdaembætti breyta engu um hamingju fólks í lífinu.
Við gerðum honum einu sinni rangt til út af ræðu á NATÓ-fundi. Það var vegna misskilnings blaðamanns okkar þar á fundinum, en hann fékk í hendur ranga ræðu og við gengum í vatnið.
Þá var hasar og kalt stríð.
En við höfðum manndóm til að viðurkenna mistök okkar, þegar við sáum hvers kyns var, og biðjast afsökunar, og ég veit ekki betur en Einar hafi að minnsta kosti verið saupsáttur við Morgunblaðið eftir það.
En það var stjórnarmyndun Þorsteins Pálssonar, hvað skyldi ég hafa sagt um hana á minnisblöðum mínum?
Við Steingrímur Hermannsson hittumst á Þingvöllum laugardaginn 2. maí 1987.
Þorsteinn hafði beðið mig um að tala við hann.
Hann kysi helzt nýsköpunarstjórn undir forsæti sínu en vissi vel að hún væri ekki í augsýn sem stæði.
Steingrímur kvaðst ekki mundu reyna á nokkurn hátt að eyðileggja slíka stjórn.
Margir í hans röðum hefðu ekkert á móti stjórnarandstöðu þetta kjörtímabil, en framsóknarmenn hefðu, aldrei þessu vant, talið stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn góðan kost, eins og málin stæðu.
Flestir teldu að hann ætti að hafa stjórnarforystu á hendi í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og framsóknarmanna, það og útvíkkun með þriðja flokki væri að hans mati niðurstaða kosninganna. Saknaði þess að geta ekki talað við Þorstein eins og hann kysi, hann gæti fengið sér í staupinu með Svavari Gestssyni og líkaði það vel, en ekki Þorsteini!
Hann hringdi varla nokkurn tíma af fyrra bragði. Það væri þá frekar að aðrir sjálfstæðismenn hringdu til að ræða málin.
Steingrímur er óspenntur fyrir stjórn með alþýðubandalagsmönnum eins og stendur. Hann gæti hugsað sér að hverfa frá stjórnmálabaráttu á toppnum eins og nú er en þætti það miður, ef hægt væri að ná samstarfi við Sjálfstæðisflokk og Alþýðuflokk eða einhvern annan, til að mynda Borgaraflokk. Finnst það ekki út í bláinn ,en skilur tregðu sjálfstæðismanna til að starfa með Borgaraflokki. Telur þó að það gæti verið varasamt að hafa þá borgaraflokksmenn utan ábyrgðar og leikandi lausum hala eins og Kvennalistann.
Steingrími sagði að Þorsteini hefði fundizt hann koma í bakið á honum, til að mynda í Albertsmálum. Hann var hugsi út af því og reyndi að rifja það upp og gera sér grein fyrir því. Kvaðst vilja ræða slík mál af fullkominni hreinskilni við Þorstein ef unnt væri, en sér þætti hann lokaður.
Jafnvel væri Geir opnari!
Hefur mikla löngun til að jafna ágreininginn við Þorstein og komast nær honum en honum hefði tekizt. Telur hann heilan og drenglundaðan en parísarafferan (sem ég man ekki lengur hver er!) hefði verið eitur í beinum framsóknarmanna. Fyrir hana hefðu þeir margir getað hugsað sér stjórnarþátttöku undir forystu Þorsteins, en nú væri það afar erfitt mál og hann vissi ekki hvort sér tækist að fá það í gegn, jafnvel þótt hann gæti hugsað sér það sjálfur.
Vill augsýnilega leiða nýja stjórn en útilokar ekki að endurskoða það, ef mál hníga á þann veg.
Ég sagði að við teldum ólíklegt að Jón Baldvin tæki í mál að ganga inn í stjórn Steingríms og slík ríkisstjórn yrði þá að öllum líkindum að vera undir forystu Þorsteins.
Steingrímur varð hugsi út af þesu og spurði hvort ég vissi hvers vegna Jóni Baldvin væri svona illa við sig.
Ég taldi það væri ekki af persónulegum ástæðum án þess ég vissi það, en líklega liti hann eins og sumir sjálfstæðismenn á Framsókn sem gamlan og staðnaðan flokk undir SÍS-veldi.
Spurði hvers vegna sjálfstæðismenn treystu sér ekki til að hlýta forystu hans ef til kæmi og sagðist ég telja að sumir hefðu greinilega framsóknarfóbíu, aðrir teldu það veikt fyrir formann Sjálfstæðisflokksins að játast undir jarðarmen Framsóknar enda litu þeir á sinn flokk sem langstærsta flokkinn, hvað sem liði persónulegum hag leiðtoga flokkanna og velgengni Steingríms nú um stundir.
Stærsti flokkurinn ætti að hafa stjórnarforystu, að minnsta kosti væri ekki sjálfsagt að hann hefði hana ekki.
Steingrímur staldraði mjög við þetta, fannst mér, og hugsaði það.
Fannst þó Þorsteinn ætti að hafa metnað til að binda enda á fjármálastefnu flokkanna og það væri ef til vill ekki eftirsóknarvert fyrir hann, ef Halldór Ásgímsson fengi það hlutverk.
Taldi stefna í 16% verðbólgu og ef til vill meira og viðurkenndi viðblasandi erfiðleika og margt mælti með þeirri freistingu að vera utan stjórnar, en það hefði ekki verið vísbending kosninganna og allir töluðu um áframhaldandi samstarf þessara flokka, að minnsta kosti öðrum þræði.
Steingrímur getur ekki hugsað sér að utanaðkomandi maður verði oddiviti stjórnar í nýrri ríkisstjórn sem þeir tækju þátt í. Betra að gefa það alveg frá sér.
Kvaðst ætla að ná sáttum við Stefán Valgeirsson (fyrrum þingmann framsóknar) með haustinu og tala Guðmund Bjarnason, sem því væri nú andvígur, inn á það.
Þá hefði Sjálfstæðisflokkur og framsókn 32 þingmenn og ekki væri hægt að fella stjórn þeirra tveggja, þeir gætu komið ýmsu til leiðar, til að mynda samþykkt fjárlög.
Þetta væru bollaleggingar en hann hvetti ekki beinlínis til slíks tveggja flokka samstarfs.
Betra væri að fá þriðja aðila með sem flokkarnir kæmu sér saman um.
Hann mundi ekki samþykkja Jón Baldvin sem forsætisráðherra, né mundi hann bjóða öðrum krata það embætti.
Minntist á utanríkisráðherraembættið eins og hann teldi það ekki alveg útilokað að hann hafnaði í því að lokum.
En slíkt getur ekki gerzt nema með einlægum samtölum þeirra Þorsteins í milli og fullum heilindum.
Ég spurði hvort Steingrímur gæti hugsað sér að íhuga það og hann kvaðst ekki útiloka neitt, það gerði maður ekki í pólitík.
Ég sagði honum að Þorsteinn væri efins um að hann gæti fengið þingflokk Sjálfstæðisflokksins til að styðja að hann gengi aftur inn undir forystu Framsóknar eins og ekkert væri og velti Steingrímur því þá enn fyrir sér, hvort það væri af persónulegum ástæðum og auðsjáanlegt að það var viðkvæmt mál fyrir hann, en ég sagði honum að svo væri ekki, heldur af pólitískum ástæðum einum saman.
Og það finnst mér hann skilja í raun og veru.
Skrifaði Þorsteini Pálssyni bréf 20. maí þetta sama ár, 1987. Minnti hann á að Ragnar í Smára hefði stundum skrifað mér til, þegar honum var mikið niðri fyrir.
Segi í bréfinu til Þorsteins að mér væri nær að halda að Ragnar hefði ætlazt til þess að bréf hans yrðu geymd og helzt að þeim yrði komið á framfæri við hentugleika.
Slík bréf lýsi ekki endilega þeim sem um sé talað, heldur fyrst og síðast bréfritara sjálfum.
Minni hann á að mínar hugmyndir séu ofurvenjulegar vangaveltur og ég hafi verið launamaður alla mína hundstíð þótt ég hafi oftast haft miklar tekjur, en ríkið hafi venjulega reynt að sjá um afganginn með sköttum:
Mér finnst það ekkert óeðlilegt því ég er ekkert á móti ríkinu en ég er meira með einstaklingnum og þá helzt þeim sem hefur þurft að vinna hörðum höndum fyrir kaupinu sínu.
Við erum enn margir í Sjálfstæðisflokknum sem höfum ekki fengið lífsviðurværið á silfurbakka.
Og þess vegna hefur okkur þótt stefna Sjálfstæðisflokksins eftirsóknarverðari en önnur þau plögg sem pólitíkusar hafa borið fram á undanförnum áratugum.
Og enn segi ég í bréfinu til Þorsteins:
“Ég sagði í dálítilli grein sem ég skrifaði frá Ameríku í vetur, Af rós og fálka, að kratar væru með því marki brenndir eins og aðrir vinstri menn að þeir litu á eignir einstaklinga eins og varasjóð fyrir ríkið, hvenær sem á þyrfti að halda. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þessi afstaða þeirra og freisting réði úrslitum um það, að ég gæti ekki fylgt þeim.
Ég hef einnig verið þeirrar skoðunar að þarna séu mjög ákveðin mörk milli stefnu jafnaðarmanna og sjálfstæðisstefnunnar.
Ég er því þeirrar skoðunar að þótt sjálfstæðismenn sýni ábyrgð í stjórnun eigi þeir síðastir allra manna að leita í þann varasjóð og undir engum kringumstæðum að hafa forystu um það.
Það eru sem betur fer mörg dæmi þess að þeir hafi andæft og það fer vel í fólk eins og mig.”
Það færi sem sagt vel í venjulegt fólk á Íslandi sem hefur aldrei greitt stóreignarskatt eða aðrar álögur vegna mikilla eigna umfram húskofa og nokkrar fyrningar til elliáranna.
Samúð mín væri ekki með þeim ríku, heldur þeim sem eiga undir högg að sækja, “og ég er sammála þér um hafnarverkamanninn, við eigum að hugsa til hans þegar við hyggjum að skattheimtu. .....”
Og ennfremur:
“Allt er þetta gott og blessað. En verkamaðurinn vill líka halda reisn sinni, hann hefur áhuga á því litla frelsi sem fastar atvinnutekjur veita honum og þær fyrningar sem hann á til elliáranna. Hann er vonandi einnig með sitt vísakort sér til hagræðingar hér heima og erlendis og finnur þá að hann er ekki hvítur hrafn sem er að þvælast gjaldeyrislaus um heiminn, heldur einn þeirra sem ferðast með reisn vegna þess að hann hefur leyfi til þess og ríkið sem hann heyrir til hefur ekki lagt á hann neina átthagafjötra, eins og áður var.
Við, sem erum aldir upp í kvótakerfi og gjaldeyrisforréttindum hinna útvöldu og ríku, kunnum ekki að meta atlögu að þessum sjálfsögðu mannréttindum, og sízt af öllu ætti Sjálfstæðisflokkurinn nú allt í einu að taka upp á að skattleggja mannréttindi.
Ég gerði mér aftur á móti grein fyrir því í gær að það sem ég hafði talið Hafnarfjarðarbrandara um morguninn var orðin bláköld alvara síðla dags.
Það er óþægileg tilfinning en ég losnaði við hana að mestu vegna þess við áttum gott samtal þótt ekki væri yfir því neinn sérstakur blær rósemdar og afslöppunar.
Slík samtöl eru víst einkennandi fyrir blaðamenn og stjórnmálaforingja en við höfum víst kosið okkur þennan ólgusjó og ekki meir um það.
Ég viðurkenni að ég hef ekki alltaf skilið vini mína í stjórnmálastússi þeirra.
Ég hef aldrei ætlazt til að þeir skildu mig, frekar en Eykon!
En ég hrökk stundum við og það gerði ég í gær þegar þú nefndir Sverri Hermannsson og mér fannst endilega að þú kallaðir mig til einhverrar ábyrgðar fyrir hans orð og gerðir.
Ég er enginn erindreki Sverris Hermannssonar.
Ég er einungis vinur hans frá gamalli tíð og mig hefur langað til að þið gætuð talað vel saman, það er raunar nauðsynlegt fyrir þjóðina.
Ég hef ekki verið erindreki hans í samtölum okkar vegna stjórnarmyndunar, heldur stuðningsmaður þinn og Sjálfstæðisflokksins. Það veit Steingrímur og hefur raunar minnzt á það við mig og skilur mætavel.
En þið stjórnmálamenn komið oft á mig flatan.
Þá verð ég raunar mállaus og þarf mikið til, eins og þú veizt!
Geir Hallgrímsson er til að mynda þeirrar skoðunar að við Styrmir, og þá einkum ég, höfum gert okkur seka um að halda alloft lengi hlífiskildi yfir Alberti Guðmundssyni, eins og hans kemst að orði.
Ég tel þetta rangt, það heldur enginn hlífiskildi yfir Albert Guðmundssyni.
Það er enginn Albert Guðmundsson í raun og veru.
Albert Guðmundsson er heill flokkur, það hefur komið í ljós.
Í samtölum okkar áður en ég veiktist og lenti á Landakotsspítala vegna veirusýkingar hafði ég orð á þessu.
Ég sagði að hann væri ríki í ríkinu.
Það hefur einnig komið í ljós.
En við erum í sama báti að því leyti að við töldum að lokum rétt og nauðsynlegt að gera með einhverjum hætti upp við þetta ríki eins og komið var.
Geir segir að það hafi verið alltof seint.
Ég hef sagt við Geir: Hefðir þú heldur viljað að Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði undir þinni forystu?
Hann svarar: Já!
Í svona samtölum dreg ég mig í hlé og þakka guði fyrir að vera ritstjóri en ekki pólitíkus.
Ég held það hafi ekkert verið á það bætandi að Geir stæði uppi með klofinn flokk.
Þær hrellingar hefur þú mátt axla.
Örlögin höguðu því þannig og enginn okkar gat við það ráðið.
Ég er svo barnalegur að halda enn að Sjálfstæðisflokkurinn geti risið úr öskustónni.
Ef hann gerir það ekki fer íslenzkt þjóðfélag þangað líka og ég held ekki neinn telji það æskilegt.
Við höfum því mikið verk að vinna en þó einkum þú og ef það tekst ekki verða nýir menn að taka til hendi.
En það verður þá ekki hlutskipti Morgunblaðsins eða í verkahring þess því það er ekki útibú frá Sjálfstæðisflokknum.
Það hefur einungis langað að rétta þeim hjálparhönd sem hafa haft góðan málstað að flytja og sem formaður Sjálfstæðisflokksins tel ég að þessi góði málstaður eigi að líkamnast í þér og þeim sem hafa axlað þá miklu ábyrgð að leiða Sjálfstæðisflokkinn fyrir einstaklinginn og hagsmuni hans.
En ég ætla að ákveða það sjálfur hversu lengi ég styð þennan flokk og ekki hvarflar að mér að gera það af vanafestu.
Þess vegna sagði ég m.a. við þig að ég teldi að forysta Sjálfstæðisflokksins um skattlagningu buddunnar yrði ekki til neins annars en efla Borgaraflokkinn og gera hann um stundarsakir, að minnsta kosti, að þeim eina sanna Sjálfstæðisflokki.
Ég tel enga ástæðu til þess að að því sé unnið.
Þú sagðir sjálfur að Borgaraflokkurinn hefði haslað sér völl vinstra megin við Sjálfstæðisflokkinn í kosningabaráttunni, en nú væri hann kominn hægra megin við hann.
Jafnframt að þessi þróun væri Sjálfstæðisflokknum hættuleg og það kannski svo að við gætum ekki farið í ríkisstjórn.
Það er áreiðanlega alveg rétt og þó að ég hafi haft mikinn áhuga á því, og við Styrmir báðir, að stuðla að stjórnarmyndun þinni, þá myndi ég sízt af öllu vilja horfa upp á þig setjast í stól forsætisráðherra sem forystumann einhvers annarslegs vinstri flokks sem af sögulegum ástæðum héti Sjálfstæðisflokkur.
Þá vildi ég heldur, Þorsteinn minn, að þú værir utan stjórnar og kysi mér hlutskipti Björns Bjarnasonar að sitja hjá afskiptalaus eins og hann sagði á fundi okkar í gær.
Og það hefur kannski verið hárrétt hjá honum, ég veit það ekki.
Kannski veit ég það aldrei.
Lífið er ekki einfaldur leikur heldur margslungin flétta sem enginn okkar botnar neitt í hvort eð er, allra sízt á líðandi stund.
Þú talaðir um að ekkert væri sjálfsagðara en skattleggja vexti af sparifé landsmanna.
Þú sagðist ekki sjá réttlætingu þess að hafnarverkamaðurinn þyrfti að greiða af sínum tekjum en þeir sem ættu eignir sem þeir hefðu tekjur af losnuðu við það.
Ég tel raunar að allir svona skattar jaðri við tvísköttun en við erum ósammála um það.
Enda sagði ég jaðri við, en það er ekki kjarni málsins heldur hitt, að Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að skattleggja ráðdeildarsemi venjulegs fólks sem hefur séð sér farborða án ævintýramennsku og spekulasjóna. Eða með því að spila á verðbólguna og græða á henni. Það fólk sem verið er að tala um að skattleggja nú með sérstökum og harla viðkvæmum aðgerðum eru þeir sem hafa trúað atvinnubönkum, og þar með atvinnurekstrinum í landinu, fyrir sparnaði sínum og hafa verið arðrændir áratugum saman vegna verðbólgu.
Nú loksins eru peningarnir orðnir verðmæti, það er ekki sízt þér og Sjálfstæðisflokknum að þakka.
Ef ríkið tekur upp mikla skattskyldu á vexti af sparnaði mun þetta fé einfaldlega hverfa ........
Það er ekki sízt gamalt fólk sem hefur ekki fengið lífið á silfurbakka og á einungis einhvern fasteignarræfil og dálitlar fyrningar til elliáranna sem yrði fyrir barðinu á slíkri skattheimtu, enda hefur ávallt þótt sjálfsagt að vega að þessu fólki, ekki sízt þegar ríkið og atvinnuvegir hafa þurft á ódýru lánsfé að halda.
Raunar gerðu þessir aðilar peninga þessa fólks einskisverða um árabila skeið.
Þess vegna tel ég ástæðulaust að það sé vegið í þennan knérunn undir forystu Sjálfstæðisflokksins og raunar afar viðkvæmt mál, eins og nú háttar. Auk þess er slík skammtheimta óhyggileg. Hún lenti ekki á þeim ríku, þeir eru allir með sitt á þurru í arðbærum eignum sem koma aldrei nálægt bönkum. Svona skattheimta lendir venjulega á almenningi, alþýðu manna sem hefur nurlað einhverju saman í ótta og öryggisleysi og löngun til að hafa vaðið fyrir neðan sig.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf á öðru meira að halda nú um stundir en að þetta fólk taki upp hanzkann sem til þess er fleygt.
Og það kemur úr hörðustu átt ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar nú allt í einu að gera sparifjáreign ókræsilegan kost, einmitt nú, einmitt nú þegar fólk getur andað fyrir verðbólgu og peningar eru einhvers virði. Auk þess sem ég fæ ekki séð hvernig Sjálfstæðisflokkurinn getur gengið fram fyrir skjöldu og sagt að það eigi að skattleggja vexti af sparifé en láta svo skuldabréf, og þar með spariskírteini ríkisins, vera áfram óskattlögð.
Í spariskírteinunum sem þú hefur verið að gefa út og aðrir fjármálaráðherrar hafa verið fyrirheit um að vextir af þeim séu skattfrjálsir eins og sparifé.
Þetta er raunar samningur milli ríkisins og þeirrar alþýðu manna sem hefur nurlað saman þessum skírteinum af veikum mætti og í öryggisskyni.
Ég tel að sá flokkur sem gengi fram fyrir skjöldu um að brjóta þennan samning, sliti jafnframt trúnað við almenning í landinu.
Við eigum ekki að vinna þau verk sem vinstri menn langar til að vinna en þora ekki. Við höfum gert of mikið af því.Látum aðra um að skattleggja vexti af sparnaði almennings eins og spariskírteinum ríkissjóðs. En það væri út í hött að skattleggja vexti af sparifé og láta ríkisskuldabréfin afskiptalaus. Nema ríkið ætli sér þá að sölsa undir sig verðbréfamarkaðinn með óheiðarlegum forréttindum í samkeppni um sparifé almennings.
Það kynni engri góðri lukku að stýra.
Mér skilst að ríkið þurfi nú meir á þessu sparifé að halda en nokkru sinni áður. Mér skilst jafnvel að þið séuð að hugsa um að hækka vexti af spariskírteinum. Á þá að hækka vextina til að geta náð meiri sköttum af þessum hækkuðu vöxtum.? Hvers konar pólitík væri það? Væri þá ekki heiðarlegra að halda vöxtunum niðri og skattleggja þá ekki, en segja við fólkið að tryggingin væri svo góð vegna ábyrgðar ríkissjóðs að það væri sanngjarnt að vextirnir væru lægri en á öðrum skuldabréfum?
En hver mundi þá kaupa þessi spariskírteini?
Enginn.
Eða hefur fólkið keypt þau þrátt fyrir þessa tryggingu og þrátt fyrir fyrirheitin um skattlausar tekjur af bréfunum. Nei, það er einmitt eitt af meinunum í þjóðfélaginu í dag. Ein af ástæðum þess að endar ná ekki saman og ríkishítin stækkar og stækkar og stækkar eins og andstæðingar okkar nú reyna að velta sér upp úr.
Ég veit þetta er ekki einfalt mál, ég veit það eru margar hliðar á því en sá sem er sífelldlega með puttana í varasjóði einstaklingsins og sér aldrei nein úrræði önnur en gamalkunnar skattheimtur í nýju og nýju formi verður einfaldlega ekki kosinn endalaust á þing, og allra sízt nú þegar einhvers konar upplausn á sér stað í þjóðfélaginu og flokksbönd eru að verða lítilsvirði.
Nú verða stjórnmálamenn fremur en nokkru sinni áður að vinna fyrir þeim trúnaði sem veitir þeim styrk og ábyrgð.
Ég er að tala um þá sem eiga ríkið og vilja ekki að það eigi sig.
En hvað er til ráða?
Við töluðum um að sá stjórnmálamaður yrði mikilsverður sem fyndi nýjar leiðir.
Frumleikinn væri forsenda snilldarinnar, allrar snilldar.
Þannig er þetta í bókmenntum og listum. Þannig er þetta í öllum greinum.
Styrmir benti á sölu ríkisfyrirtækja, það væri ný heillandi leið.
Þú bættir við bönkum.
Það fór að hýrna yfir mér.
Fólkið á að hafa áhuga á starfsemi banka með eignarhaldi.
Það á helzt að hafa áhuga á starfsemi allra fyrirtækja með eignarhaldi.
Það á að vera keppikefli venjulegs Íslendings að Landsvirkjun gangi vel vegna þess að þá fái hann skattlítinn eða skattlausan arð af eign sinni
. Sama ætti að gilda um öll fyrirtæki í landinu og þá ekki sízt banka eins og þú sagðir svo vel og réttilega.
En það eru enn fleiri leiðir í því skyni að minnka álagið á ríkissjóði og minnka hítina án þess gengið sé viðstöðulaust í buddu lítilmagnans.
Ég set hér að lokum aðeins eina litla ábendingu sem birtist í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 17. maí sl. þar sem fjallað er um hvernig við getum látið erlenda aðila vinna fyrir okkur og sópa erlendu fjármagni inn í landið, en til þess þarf frelsi.
Frelsi einstaklingsins til athafna, og ekki einungis hér á landi heldur alls staðar.
Íslendingar eru ekki einungis góðir sjómenn, heldur kunna þeir margir vel á þann áttavita sem kóssinum ræður í fjármálum.
Einn helzti verðbréfasali Bandaríkjanna er Íslendingur.
Hvernig væri að gefa þessu fólki tækifæri til að afla fjár fyrir okkur á erlendum markaði, stækka Ísland, auka frelsið, yfirgefa músarholuna.
Fara undir bert loft.
Læra á veröldina eins og Japanir.
Lifa eftir aðstæðum, ekki þeim aðstæðum sem eru á Sprengisandi, heldur í bönkum og verðbréfamörkuðum þeirra landa sem við skiptum við.
Í Reykjavíkurbréfinu segir:
“Við ættum því að vera í betri aðstöðu en áður til að skilja hvað fyrir þeim þjóðum vakir sem haga löggjöf sinni með þeim hætti að þær reyna að laða til sín erlent fjármagn. Eins og við þekkjum er aldrei unnt að ræða um þau mál hér heima nema þurfa jafnframt að glíma við þá sem ásaka viðmælendur sína strax um landsölu. Einyrkjabúskapur heilla þjóðríkja á ekki lengur við, að minnsta kosti ekki nema þjóðirnar stefni markvisst að því að dragast aftur úr og vera láglaunasvæði. Og hvers vegna mega Íslendingar ekki festa fé sitt í útlöndum. Hvers vegna er það enn landlægt að allar innlendar fjárhirzlur tæmdust ef lögum yrði breytt á þann veg að við gætum keypt hlutabréf erlendis. Er þetta vantrú á eigin getu? Hvað er athugavert við það að Íslendingar láti starfsmenn hinna öflugustu fyrirtækja heims vinna fyrir sig? Þetta gætum við gert ef við fengjum leyfi til að eignast hlut í þessum fyrirtækjum.”
Síðan er því bætt við að fátt bendir til þess að mál af þessu tagi verði viðfangsefni stjórnmálamanna í þeim viðræðum sem nú standa yfir.
Flokkakerfið komi í veg fyrir það.
En hvers vegna ekki að láta á það reyna?
Hvers vegna ekki að halda fram stefnu sinni, finna nýjar leiðir, jafnvel eitthvað sem enginn hefur komið auga á, efla hugsjónina um frelsi einstaklingsins með ráðum og dáð – hvers vegna ekki að reyna að sannfæra krata eða Kvennalista, jafnvel framsóknarmenn um að asklok er ekki himinn... sjálfstæðisstefnan er sá himinn sem undanfarna áratugi hefur þurft að keppa við íslenzka asklokið og reyndar er það ekki íslenzkt, heldur innflutt með sósíalismanum.
Forfeður okkar forðuðust svona hrellingar – og flúðu út hingað til að stofna Sjálfstæðisflokkinn.”
Þegar við Styrmir vorum komnir aftur niður á Morgunblað eftir samtalið við Davíð í Ráðherrabústaðnum, sagði Styrmir mér að forseti Íslands hefði fyrir viku fullyrt í Lundúnum að Halldór Ásgrímsson tæki við utanríkisráðuneytinu.
Einkennilegt; tilviljun?
Ég hef skrifað nokkur leikrit, hef haft gaman af því; að hugsa um einstaklinga, ógæfufólk; einkum utangarðsmenn.
Það tengist raunar gömlum áhuga á fólki, þegar ég skrifaði eitt til tvö samtöl, Í fáum orðum sagt, í viku hverri. Hef líka staðið að tjaldabaki og upplifað baksvið stjórnmálanna þar sem Shakespeare örlaganna hefur völdin. En mér hefur aldrei fundizt það geðfellt umhverfi, og líklega hef ég aldrei skilið það.
Þegar ég kom heim í kvöld horfði ég á sjónvarpsmynd um Erving-fjölskylduna sem á stórfyrirtæki í Kanada, olíuhreinsunarstöð, timburverksmiðjur, og ætlar að hefja samkeppni hér heima.
Við morgunblaðsmenn höfum talið ágætt að félagið haslaði sér völl á Íslandi og efldi samkeppni í bensín- og olíusölu.
Samkeppni er ávallt af því góða. En ég varð að viðurkenna að mér varð um og ó þegar ég sá þessa heimildamynd um kanadíska auðfélagið. Það er ótrúlega stórt. Kannski hefðum við átt að vera varkárari í afstöðu okkar, ég veit það ekki.
Hitti Knut Ødegård seinnipartinn. Fórum yfir þrjú kvæði eftir hann sem ég hef íslenzkað.
Knut er gott skáld, ég hef gaman af að þýða ljóðin hans.
Við hreyfum okkur ekki ósvipað í skáldskap. Hann þýddi síðustu bókina mína sem kom út í Noregi í fyrra Om Vindheim vide (Cappelen) og fékk framúrskarandi viðtökur, ekki sízt í Aftenposten og Dagbladet.
Það yljaði mér.
Við Knútur eigum allt sameiginlegt, jafnvel Ólaf helga.
Hef lesið upp með honum í Osló, það var eftirminnilegt. Hef einnig lesið á bókmenntahátíðinni sem hann stjórnar í Molde, það var einnig ógleymanleg reynsla.
Hef lesið upp víða á Norðurlöndum, í Bandaríkjunum, Frakklandi, Þýzkalandi og Bretlandi og ávallt haft ánægju af því.
Sendi utanríkisráðuneytinu í vetur skýrslu um þessi ferðalög, gerði það ekki sízt til að rétta Jakobi Magnússyni í London hjálparhönd, því að hann hefur verið betri en enginn. Það var ógleymanlegt að fara með honum til Cambridge og lesa þar fyrir engilsaxnesku, keltnesku og latnesku deildina.
Hef fengið miklar þakkir fyrir það; einnig skemmtilegt að lesa í Kent-háskóla í Kantaraborg, ráðhúsinu í Colchester, Durrham og síðast en ekki sízt í Poetry Center í London, og við norrænu deildina í Lundúnaháskóla.
Mér telst til að ég hafi lesið ljóð fyrir u.þ.b. 2.500 útlendinga í allt. Er ekki viss um að ég hafi lesið fyrir fleiri Íslendinga, nema útvarp og sjónvarp sé talið með.
Styrmir skrifaði uppkast að leiðara í kvöld. Við hittumst um tíuleytið til að fara saman yfir hann.
Styrmir spurði hvort ég hefði ekki of miklar áhyggjur af svona samtölum; tæki þau ekki of alvarlega?
Að vísu hefur ábyrgðartilfinning ávallt verið minn Akkillesarhæll og ég hefði ekki þótt spennandi persóna í Shakespeare-leikriti! En það skiptir miklu máli – og hefur alltaf gert – að heiður og heilindi Morgunblaðsins séu ekki vefengd, hvorki eftir svona samtöl né endranær.
Vorum sammála um það.
Í upphafi leiðarans, sem við köllum Viðreisn og varadekk vegna ummæla Davíðs, er minnt á fyrri afstöðu Morgunblaðsins þess efnis að viðreisnarstjórn sé æskileg niðurstaða kosninganna fyrst ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hélt meirihlutanum.
Skoðun Morgunblaðsins hefði ekki breytzt á nokkrum vikum.
Það ylli því vonbrigðum að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hefðu komizt að annarri niðurstöðu. Það er bjargföst sannfæring okkar að flokkarnir tveir eigi meiri samleið en aðrir tveir flokkar á Íslandi, og þá ekki sízt eftir að Alþýðuflokkurinn hneigðist æ meir að markaðsstefnu hin síðustu misseri; þrátt fyrir ágreining um kvótann og fiskveiðistjórnunina og afstöðuna til Evrópusambandsins.
Gerði talsverðar breytingar á uppkasti Styrmis; vildi minna á að innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks væri helzt að finna þá aðila sem hafa harðast barizt gegn breytingum til siðferðislegs réttlætis í kvótamálum og herti enn á afstöðu blaðsins í þessum efnum:
“Í ljósi þeirrar baráttu, sem Morgunblaðið hefur háð nokkur undanfarin ár fyrir þeirri grundvallarbreytingu á fiskveiðistefnunni, að útgerðin greiði fyrir afnot af auðlindinni, og menn hvorki selji, kaupi, veðsetji né erfi það sem aðrir eiga, þ.e. þjóðin, þá hlýtur blaðið að hafa nokkrar áhyggjur af því hvert stefnir í sjávarútvegsmálum í samstjórn þessara tveggja flokka.
Og það eru fleiri sem af því hafa áhyggur um allt land
Bættum við ýmsu fleira og endurskoðuðum annað.
Held leiðarinn sé virðingu Morgunblaðsins samboðinn, afstöðu þess og grundvallarstefnu.
Allt kom þetta fram í samtalinu við Davíð Oddsson í Ráðherrabústaðnum.
Man þó að hann sagði að það hefðu ekkert frekar orðið breytingar á fiskveiðistefnunni, þótt viðreisnarstjórn hans hefði haldið áfram störfum.
Reynslan sýnir að það er rétt; því miður.
Og blinda Þorsteins í þessum efnum hefur ekki orðið til vegsauka í sjávarþorpum landsins.
Þar mætir stefnan alls staðar mikilli andstöðu.
En Davíð hefur ekki viljað sjá fyrir þá Þorstein báða. Hann hefur látið Þorsteini eftir að sjá með blindum augum þeirra sem stofnuðu til þessa ranglætis og hafa haldið því æ síðan til streitu.
Kannski verður einhvern tíma uppreisn í landinu vegna þess að fjöregginu hefur verið steypt undan fólkinu í landinu; hver veit?
Ekki mun Halldór Ásgrímsson afneita þessu afkvæmi sínu.
Hvar eru þá spámennirnir?
Þeir sem brjóta niður til að byggja upp á því bjargi sem allt réttlæti hvílir á?
En við höfum hreinan skjöld.
Við sögðum það sama við Davíð og stendur í leiðaranum, hvernig sem túlkað verður.
Davíð minntist á geisladiskinn með HM-söngnum; hann væri nú kominn út og kvaðst mundu senda mér hann. Síðast þegar við hittumst uppi á Morgunblaði í vetur raulaði hann allt kvæðið fyrir okkur við lag Gunnars Þórðarsonar.
Á leiðinni út sagði ég við hann, Ég held að það sé einhver tenging við Hannes Hafstein í þessum texta þínum.
Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af honum, sagði Davíð.
Annars var þetta ágæt skemmtun. Ég fór þá að velta því fyrir mér, meðan hann raulaði fyrir okkur þennan texta sinn og lag Gunnars, að hann hlyti að vinna sigur í kosningunum því hann kynni betur en allir aðrir sem ég þekki á vinsældarlistann.
19. apríl – miðvikudagur
Fór ekki heim af blaðinu fyrr en um hálftvöleytið í nótt. Þannig hefur það einatt verið öll þessi ár. En það er heilsusamlegt að vinna, meðan maður hefur heilsuna.
Ég hef stundum hugleitt Garman og Worse þegar ég hef verið að hripa niður þessi dagbókarbrot eða minnisblöð. Sagan er svo vel gerð; hún er svo nálægt lífinu sjálfu; það er í henni mikil selta; jarðarilmur.
Í ritum Halldórs Laxness segir að vinnan sé guðs dýrð
Í Garman og Worse er undir lokin haft eftir Jakob Worse þegar hann er að gefa þeirri konu ráð sem síðar varð eiginkona hans og Rakel hlustaði vel –og íhugaði orð Jakobs: Ég hef eitt eldhúsráð, sem ég hef lært af mömmu. Faðir yðar notaði það einnig, – og það er að vinna. Að vinna af öllum kröftum frá morgni til kvölds. Byrja daginn með haug af útlendum bréfum, þarna á borðinu, og hætta að kvöldi þreyttur – og búinn, – búinn með þann dag.
Það er eldhúsráðið mitt og það heldur í mér lífinu. Og til þessa lífs duga ég en lengra ná hæfileikar mínir ekki.
Vinnan er einn þáttur lífsnautnarinnar. Miklir listamenn eru yfirleitt miklir vinnuhestar.
Sumir sögðu að Tómas Guðmundsson gerði aldrei neitt.
Það var rangt.
Rit hans sýna mikil afköst. Allir miklir listamenn eru afkastamikil vinnudýr; einnig Tómas, hvað sem sagt var.
Einu sinni kom ég upp í Unuhús, það var skömmu fyrir eitthvert merkisafmæli sem hann átt, og þar sat hann við borð og áritaði nýútkomna ljóðabók eftir sig.
Ég gekk inn og hikaði.
Þá leit hann upp og sagði, Komdu hingað, elsku vinur, og talaðu við mig en ég skil vel að þú hrekkur við því þú hefur aldrei áður séð mig vinna!
Jakkinn hans var á stólbakinu og hann hafði ekki undan að árita bækur fyrir væntanlega aðdáendur.
Ég er að hugsa um það sem Davíð Oddsson sagði okkur um sjálfan sig fjögurra ára og andlát Sveins Björnssonar.
Ég ætla að vísu ekki að verða forseti, en ætla þó að láta brenna mig eins og Sveinn Björnsson.
Og Gandhi!
Hef verið að fara yfir ljóð sem ég orti eftir samtal við Guðmund Jaka dagsbrúnarmann fyrr í vetur.Hann ólst upp í verkamannabústöðunum,ég á Hávallagötu,það var næsti bær við.
Höfum haft áhyggjur af atvinnuleysinu og láglaunafólkinu.
Buðum Guðmundi í hádegisverð og töluðum við hann. Það var í senn stórskemmtilegt og eftirminnilegt; auk þess var það lærdómsríkt. Ætlum að tala aftur saman í sumar.
Við Styrmir og Jakinn erum allir aldir upp á svipuðum slóðum í Vesturbænum; eða í næsta nágrenni við túnið hans Þórarins gamla á Melnum. Hef skrifað um hann annars staðar. Hann var einn af þessum draumspöku alþýðumönnum sem kenndi okkur að haga seglum eftir vindi; kenndi okkur að lifa lífinu; ókvartsár.
Faðir Guðmundar var einn af þessum arftökum Stjána bláa sem er landið okkar persónugert; hinn svali gustur og hið hlýja hjarta.
Hef kynnzt mörgum slíkum sem betur fer.
Já,hef verið að fara yfir þetta kvæði um Jakann.
Kristjáni Karlssyni líkaði það vel þegar ég sendi honum það og hafði orð á því. Kannski get ég lagað það og lokið við það og sent það með farfuglunum þangað sem sumarið andar sínum himneska blæ á klakann og fannirnar eftir langan og strangan vetur.
Kannski einhver eigi eftir að taka því eins og lóunni og spóanum; það væri gaman.
Fór að venju yfir Morgunblaðið í gærkvöldi. Kom í veg fyrir smáhneyksli, grein um sama efni á tveimur síðum.
Að maður skuli hafa lifað þetta af – öll þessi ár!
Ísland ögrum skorið
Undarlegt hvernig skólarnir eru orðnir
sagði Guðmundur og kvaðst sjálfur
hafa Kiljan í taugakerfinu, en það væri
undarlegt hvernig bókmenntakennarar
gætu farið á mis við skáldið. Þeir eru
sífellt í geitarhúsi að leita ullar, sagði hann
vonsvikinn, og finna aldrei skáldið sem við
kynntumst í kreppunni, þá fóru skáldin á hvítum
hestum inní langþráðan draum og ást
sem var eins og slóð í vordögginni, og hann
vitnaði í skáldið sem kennararnir höfðu aldrei
skilið, hugsaði um hestinn sem þeir höfðu
aldrei séð og skipið sem nú var eins og ópersónulegt
hugtak í gamalli bók, hugsaði um Arnald
sem Salka kvaddi á skipsfjöl úti á firði og fór
svo aftur í land, hugsaði um þetta skip sem hvarf
eins og fugl yfir úfin höf sinnar segulmögnuðu
eðlishvatar og hún kveður þennan mann, segir
Guðmundur, eins og fugl sem lyftir sér
til flugs og saknar ekki þess lands
þar sem eggin stropuðu eins og skurngóðar
kenningar og skipið týnist inní blámann
eins og seglhvítur hestur úr einum draumi í annan,
og ég skrifaði ritgerð um þennan hest og vissi
nákvæmlega hvers vegna Snæfríður reið í
svörtu, vissi nákvæmlega hvers vegna það glitti
á döggslungin svartfext hrossin í morgunsárinu,
sagði Guðmundur og fékk sér í nefið, og dóttir mín
afhenti kennaranum þessa greiningu mína
eins og nú er sagt og hún fékk fimm fyrir viðleitni
og aftur fimm fyrir næstu ritgerð um svörtu
hestana.
Fimm sagði kennarinn og skrifaði fremst
á efsta blaðið Góður frágangur
Næst ætla ég
að skrifa ritgerðina sjálf,sagði dóttir mín og þótti
engum mikið eins og bókmenntakennslan er orðin
og ég skal segja þér hvernig fer og kom heim
nokkru síðar sigri hrósandi og sagði, Ég fékk átta
sagði hún og nú skrifar hún allar sínar ritgerðir
sjálf, en þegar ég hitti kennarann nokkru síðar af tilviljun
sagði ég einungis, Við höfum víst ekki sama
bókmenntasmekk! og hann horfði á mig eins og naut
á rauða dulu en ég gekk burt og hugsaði, Ekki
get ég stigið við þig stuttfótur minn, já um hvað
getur maður eiginlega hugsaði eins og tímarnir eru
orðnir og ekki skil ég þessa háskólamenntuðu
bókmenntafræðinga sem þekktu ekki kreppuna
og hesthvítan drauminn í lífi þessa langþreytta
fólks sem á litla peninga en stóra óborganlega
drauma og siggrónar hendur.
Allt hefur breytzt nema hendurnar á þessu fólki
sagði Guðmundur hugsi og eins og við sjálfan sig,
og ég sem hef þessar sögur í blóðinu, en tímarnir
hafa breytzt og það eru tvær þjóðir í landinu
og enginn þjóðsöguhvítur hestur á leið úr einum
draumi í annan.
Hann rétti mér dósirnar og við tókum í nefið
og fórum að tala um atvinnuleysið og kennara-
verkfallið en höfðum minni áhyggjur af því.
28. apríl
Hef lesið mikið af erlendum bókmenntum. Garman og Worse kemur aftur og aftur upp í hugann og nú Worse skipstjóri.
Kielland er magnaður höfundur.
Hann skrifar um lífið sjálft eins og það kemur fyrir af skepnunni; þetta líf sem á rætur í jörðinni en leitar til himins; þetta líf mannsins, þetta kaldrifjaða líf mannsins sem lítur sjaldnast til himins en er með hugann við akarnið; eins og gyltan sem leitar undir laufið og þekkir ekki himininn....
29. apríl
Hitti minn gamla vin og fyrrum menntamálaráðherra Noregs, Lars Roar Langslet, sem er hér í stuttri heimsókn til að eiga samtal við Vigdísi forseta.
Við Björn Bjarnason kynntumst honum saman eftir að Bjarni dó sumarið 1970. Mig minnir að hann hafi komið hingað til lands í síðustu viku júlímánaðar það ár. Þá hafði verið ráðgert að hann hitti Bjarna en við tókum á móti honum, eins og á stóð.
Við Björn vorum mikið saman á þessum tíma, fórum til að mynda austur á Þingvöll og stóðum við brunarústirnar.
Leituðum að verðugum bautasteini, ásamt Kristjáni Eldjárn forseta o.fl., í klettabeltinu norður af Almanngjá og fundum þann stein sem stendur á lóðinni við Konungshúsið.
Það var reyndar dr. Kristján sem rakst á þennan fallega stein og hann varð þegar fyrir valinu.
Lars Roar hefur alltaf fylgzt vel með atburðum á Íslandi og vinnur nú á Aftenposten. Hann skrifaði formála fyrir ljóðabók minni á norsku, í þýðingu Knuts Ødegårds, Om Vindheim vide, 1994.
Lars Roar spurði hvort Björn yrði ráðherra, ég kvaðst halda það.
Hann verður þá líklega menntamálaráðherra eins og Lars Roar á sínum tíma; hver veit?
Bjarni var um skeið menntamálaráðherra, Birni þykir það ekki verra.
En Bjarni var orðinn leiður á að vera svona fagráðherra, þegar Ólafur Thors bað hann um að taka sæti í Viðreisnarstjórninni.
Það var eftir tvennar kosningar 1959.
Bjarni kvaðst heldur vilja vera áfram ritstjóri Morgunblaðsins en kirkjumálaráðherra eða dómsmálaráðherra.
Þá gerðu þeir samning um að Bjarni tæki við flokknum.
Það varð þó heldur síðar en um var samið.
En á þeim forsendum tók Bjarni sæti í ríkisstjórn Ólafs Thors 1959.
Hann saknaði Morgunblaðsins.
Þau Sigríður sögðu við okkur Hönnu að Bjarna hefði aldrei liðið eins vel og á Morgunblaðinu.
Ég sagði einhvern tíma á þessum árum að Bjarni hefði ætlað að breyta Morgunblaðinu, en hann hafi breytzt mest sjálfur.
Honum líkaði þessi skilgreining ágætlega.
Hann átti sinn þátt í því að ég varð ritstjóri Morgunblaðsins. Samstarf okkar á blaðinu varð upphaf vináttu okkar.
Það var ekki hagsmunavinátta, það var meira,það var vinátta sem hélt gegnum þykkt og þunnt.
Þau Sigríður voru hinir góðu verndandi andar í lífi okkar Hönnu.
Vonandi á Björn eftir að njóta þessa arfs úr foreldrahúsum.
Það er mikill arfur og góður.
Lars Roar sagði við mig, Þú skrifar alltaf z.
Ha, sagði ég, veiztu það.
Forsetinn sagði mér það.
Nú, hvernig stendur á því? spurði ég undrandi.
Hún sagði það mætti alltaf þekkja greinarnar þínar í Morgunblaðinu á z-unni!
Ég vona það megi þekkja þær af einhverju öðru, sagði ég, en þetta er bara ekki rétt.
Það eru fleiri á Morgunblaðinu en ég sem skrifa z. Menn hafa frjálsar hendur um það.
Ég hugsaði með mér, Skrýtnar hugmyndir hefur fólk um Morgunblaðið, guð minn góður! Og forsetinn er að velta fyrir sér svona krossgátum! Við erum fjórir eða fimm blaðamenn sem notum z og af þeim skrifa þrír eða fjórir ritstjórnargreinar.
Þetta er ekki eins og áður var þegar sami eða sömu tveir mennirnir rembdust við að skrifa ritstjórnargreinar, Reykjavíkurbréf og Staksteina daginn út og daginn inn.
Nú eru Staksteinar dottnir upp fyrir, guði sé lof og dýrð, og ekkert í þeim nema tilvitnanir í önnur blöð.
Mig minnir að Bjarni hafi helzt viljað hafa það svo.
Samt voru Staksteinar oft frumsamdir á þeim árum.
Stundum lét hann mig skrifa Staksteina,en þó reyndi ég ávallt að komast hjá því.Þótti það niðurlægjandi.
Einhverju sinni var hann óánægður með þá og sagði mér það.
Ég sagði við hann, Þú verður að skrifa Staksteinana sjálfur ef þú ætlar að verða fullkomlega ánægður með þá. Það getur enginn skrifað fyrir annan eins og eftir forskriftabók.
Hann tók því vel.
Hann tók mér alltaf vel.
Og mér leið ákaflega vel þessa mánuði sem við vorum tveir ritstjórar saman, en Sigurður Bjarnason var þá í kosningaferðalagi vestur á fjörðum og Eykon kom ekki að blaðinu fyrr en síðar.
Sigurður átti alltaf miklum störfum að gegna fyrir vestan , enda sinnti hann kjördæmi sínu af fádæma ást og umhyggju.
Nei, við erum hættir að skrifa þessa nafnlausu, ofstækisfullu pólítík í Staksteina, sem betur fer.
Ég hef aldrei haft gaman af að skrifa leiðara, en hef oft þurft að gera það, að sjálfsögðu, einkum í gamla daga.
En ég hef lengstum haft því meiri ánægju af að skrifa Reykjavíkurbréf. Leiðarar eru skrifaðir í þessum knappa fullyrðingastíl sem er í ætt við mónómaníu, en Reykjavíkurbréf eru í hugleiðingastíl eftir mínu höfði.
En nú fer þetta allt að verða hálfgerð endurtekning; nýtt blóð bíður tækifæranna og fer vel á því. S
tyrmir hefur alltaf jafngaman af að skrifa um pólitík og ætlar aldrei að vaxa upp úr því.
Jón Baldvin sagði við mig í fyrra að ég væri pólitískt anímal.
En hvað skyldi Styrmir þá vera?
Hann hefði orðið sterkur pólitíkus. Og svo er hann af leikaraættum, ekki hefði það spillt fyrir.
Það er margt í fari Davíðs Oddssonar sem minnir mig á Styrmi Gunnarsson, ekki sízt afstaðan til ýmissa mála í pólitík.
Ef Styrmir er krati, þá er Davíð toppkrati!
Hann er að vísu meiri leikari en Styrmir en bætir upp ósvífnina með þeim mun hlýrra hjartalagi.
Þess vegna held ég okkur þyki dálítið vænt hvorum um annan; þrátt fyrir allt og allt!
Sverrir Hermannsson og Jóhannes Nordal hafa einnig svona hjartalag. Það er þess vegna auðvelt að fyrirgefa þeim, ef þeir kjafta mann í kaf.
En það þarf þá líka talsvert til!
Lars Roar segir að ritstjóri Aftenposten skrifi ekkert, hann sé stjórnandi. Aðrir skrifa til að mynda pólitíkina.
Þannig er þetta að verða á flestum stórblöðum, bæði á Norðurlöndum og annars staðar. Ritstjórarnir eru ekki skrifandi blaðamenn, heldur stjórnendur. En þeir ákveða stefnuna og stjórna vinnunni; setja kóssinn.
Þannig er þetta einnig á Morgunblaðinu. En við Styrmir höfum þó aldrei hætt að vera skrifandi ritstjórar.
En nú er ég byrjaður að læra að vera samtíma sjálfum mér í þeim efnum! Ætli við verðum ekki síðustu skrifandi ritstjórar blaðsins, ég gæti ímyndað mér það. En ég hefði aldrei tekið að mér ritstjórn blaðsins á sínum tíma, ef ég hefði eingöngu átt að stjórna og stinga út stefnuna.
Ég hef stundum sagt við eigendur blaðsins, Þið borgið mér ekki grænan eyri fyrir að skrifa, það er yndi mitt og ánægja.
Það geri ég frítt.
Þið borgið mér fyrir ábyrgðina, kvíðann og stefnumörkun; þið borgið mér fyrir dómgreind, áskorun og hörku. Þið borgið mér fyrir að axla þau óþægindi sem fylgja ritstjórastarfinu; gagnrýnina á blaðið; fordómana og reiðina ef því er að skipta.
Þeir hafa tekið þessu vel og ég þykist vita að þeir hefðu ekki viljað standa í sporum okkar ritstjóranna þegar djöfulskapurinn hefur verið hvað mestur. Fyrir það vilja þeir borga; ekki sízt.
Haraldur Sveinsson fagnar frelsisbaráttu Morgunblaðsins í riti Jónínu Michaelsdóttur, Áhrifamenn, og hefur ávallt verið okkur sterkur bakhjarl.
Hann segir að sumir forystumenn Sjálfstæðisflokksins vilji helzt að dagblöðin séu skoðanalausar málpípur þeirra og þeir nenni ekki einu sinni að skrifa greinarnar sjálfir sem auðvitað yrðu birtar í blaðinu og jafnvel slegið sérstaklega upp, eins og hann kemst að orði.
Vilja helzt hafa menn til að skrifa fyrir sig, “nokkurs konar ritara”.
Bætir þó við að Morgunblaðið hafi vanið þá af þessu.
En ég er ekki viss um að hann hefði sjálfur nennt að venja þá af því. Hann hefði fremur kosið að stjórna fyrirtækinu en ritstjórninni.
Hann hefur gert sér grein fyrir því að ritstjórarnir stjórna blaðinu og taka ekki við fyrirmælum utan úr bæ; að það eigi ekki síður við forystumenn Sjálfstæðisflokksins en aðra; t.a.m. eigendur.
Við höfum aldrei átt í neinum útistöðum við eigendur blaðsins eins og Olof Lagerkranz, ritstjóri Dagens Nyheter, lýsir í sinni athyglisverðu bók um ritstjóratíð sína þar á bæ.
Það er hálfömurleg saga.
En við höfum þurft að verja frelsi blaðsins fyrir öðrum eigendum; þeim sem telja að eigendur Sjálfstæðisflokksins eigi í raun að stjórna útibúinu í Kringlunni 1.
En allt hefur breyzt, allt; nema þeir.
Nú verða þeir einnig að fara að breytast. Um það er fjallað í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins á morgun. Þá verður enn minnt á hver staða blaðsins er; að það er dagblað með eigin ábyrgð, eigin vilja; eigin markmið. En pólitísk arfleifð er sjálfstæðisstefnan og frá henni verður ekki hvikað þótt nýir tímar hafi gengið í garð.
Allra sízt nú þegar innviðir þessarar stefnu eru að verða burðarás annarra flokka í landinu; einstaklingurinn, markaðurinn, samkeppnin; minnkandi afskipti ríkisins af atvinnurekstri og einstaklingum.
Ef þetta er ekki arfleifðin, hvað þá?
Lars Roar var lengi í forystusveit Hægri flokksins norska en segir að flokkurinn liggi nú undir gagnrýni vegna forystukreppu.
Ætli sama þverpólitíska kreppan sé ekki í Noregi og hér heima?
Lars Roar segir að engin tengsl séu á milli Aftenposten og Hægri flokksins, einungis “gömul samúð”.
Ég tel að við morgunblaðsmenn eigum þessa samúð inni hjá Sjálfstæðisflokknum, hvað sem öðru líður.
En þannig er þróunin alls staðar.
Og hvað skyldi forysta Hægri flokksins segja um það?
Ekkert, það þykir sjálfsagt, segir Lars Roar.
En eigendur blaðsins?
Þeir vilja frjálst og óháð blað.
Sem sagt, við höfum stefnt í rétta átt á Morgunblaðinu og nú höfum við náð þessu langþráða marki, sem betur fer.
En það sætta sig ekki allir við það, því miður.
Og um það verður fjallaði í Reykjavíkurbréfinu á morgun. Það tekur tíma að sætta sig við þá þætti lýðræðisins sem hafa verið vanræktir.
Nú var engin “kosningabarátta” í Morgunblaðinu eins og áður og við höfum ekki orðið fyrir neinni gagnrýni af þeim sökum.
En við höfum fengið gagnrýni úr hinum harða kjarna Sjálfstæðisflokksins fyrir leiðarann eftir páska.
Kristján Ragnarsson,formaður LÍÚ, talaði líklega fyrir munn allmargra á síðasta Rótarýfundi þegar hann sagði stundarhátt við nærstadda, að því mér er sagt, að nú geti menn séð svart á hvítu að Morgunblaðið sé kratablað!!
Við höfum einungis verið samkvæmir sjálfum okkur.
Og ef samkvæmni er eitthvert sérstakt einkenni krata, þá erum við Styrmir kratar!
Stjórnarmyndunin gengur víst vel.
Engin sérstök ágreiningsmál, það segir sína sögu; hina þverpólitísku sögu samtímans.
Forsætisráðherra talar um að ýmislegt í stefnuskránni muni koma á óvart, við sjáum til.
Hann segir hún sé framsækin.
Ég hef aldrei heyrt forystumann Sjálfstæðisflokksins taka svona til orða.
Er þetta tungutak hins nýja tíma?
Veit það ekki.
Veit þó þetta er ekki tungutak gamla Sjálfstæðisflokksins.
Nýr tími krefst nýs tungumáls. En þó einkum nýrra hugmynda. Held þær verði ekki í neinum spámannlegum dúr eða geti lappað upp á fiskveiðistjórnunarkerfið; þó til bóta að sameignin verði stjórnarskrárbundin þótt það segi kannski ekki mikið.
Menn hafa verið að brjóta stjórnarskrána eins og að drekka vatn; til að mynda um forréttindi bundin lögtign eins og ég hef minnzt á í Helgispjalli.
Enn gengur kvótinn kaupum og sölum innan kerfisins, og samt er veiðileyfagjaldi, eða afnotagjaldi af auðlindinni, hafnað sem sósíalisma.
Kvótinn er með innbyggðu sölukerfi sem útgerðarmenn hafa víst ágætlega efni á, ef marka má, hvernig kaupin gerast á Eyrinni.
En það má bara ekki greiða réttum eigendum fyrir afnotin, þ.e. þjóðinni sjálfri.
Áfram skal víst kaupa það sem aðrir eiga, þ.e. þjóðin; selja það sem aðrir eiga; veðsetja það sem aðrir eiga og erfa það sem aðrir eiga.
Við þessum fjögurra blaða smára ranglætisins vöruðum við enn einu sinni í leiðaranum eftir páska sem átti að sýna og sanna að við Styrmir værum kratar.
Ranglætið er ekki flókið, það leynir ekki á sér. Það klæðist ekki neinum felubúningi. Það hefur einungs alltaf eitthvað siðlaust vald á bak við sig; það er allt og sumt.
Það er bent á að svona ranglæti sé í ýmsum öðrum greinum, ég man ekki hvað þetta er kallað, afnotaeignarréttur?
Hvernig væri þá að afnema þetta ranglæti og taka upp réttlæti í stað þess að auka ranglæti?
Ferðaþjónustan er orðin 15 milljarða atvinnugrein á Íslandi. Hvað yrði sagt ef Ferðaskrifstofa Úlfars og Guðmundar Jónassonar fengju öræfin á silfurbakka vegna afnotavenju og færu með þau eins og sína eign sem gæti gengið kaupum og sölum?
Og enginn annar kæmist á öræfin án þessara ferðaskrifstofa?
Öræfin eru síður en svo ótakmörkuð auðlind.
Þau eru takmörkuð auðlind vegna mögulegra náttúruspjalla.
Ég sé engan mun á þessu, að verzla með kvóta eða öræfin, eða hvaðeina, enda hef ég aldrei verið spámannlega vaxinn, svo ósköp venjuleg, tilfinningarík skáldspíra með Morgunblaðsvaldið eins og svipu í stígvélinu.
En ranglætið þolir allar svipur.
Það þolir allt – nema réttlæti.
Nú er sagt að dagar trillukarlsins séu taldir.
Ég nefni það enn einu sinni í Helgispjallinu á sunnudag.
Trillukarlinn hefur að mínu viti verið sjálfstæðisstefnan holdi klædd; einstaklingurinn, frjáls og óháður, með vængjaða förunauta í fylgd með sér og sjálfan himininn yfir höfðinu.
Nú eru menn í óða önn að búa um sig undir asklokinu.
Ó, þú skrínlagða heimska!
Steinn hafði tilfinningu fyrir svona plastveröld.
Ætli örlög trillukarlsins séu táknræn fyrir stjórnmál hins félagslega bögglauppboðs og þverpólitísku framsóknar?
Hvað veit ég um þessa hugrökku nýju veröld – sem ég skil ekki?
30. apríl
Hef átt nokkur bréfaskipti við Davíð Oddsson vegna ágreinings okkar um afstöðu Morgunblaðsins til hans og Sjálfstæðisflokksins annars vegar og Jóns Baldvins Hannibalssonar og Alþýðuflokksins hins vegar. Þessi bréf fara hér á eftir, en fyrst er hér eldra bréf um ágreining vegna vígslu Ráðhússins.
***
Ritstjórar Mbl., Aðalstræti 6, R.
13. apríl 1992
Ég vissi að Mbl. taldi á sínum tíma ekki ráðlegt að styðja svo umdeilt mál sem bygging Ráðhúss Reykjavíkur var. Hin blöðin og ríkismiðlarnir voru auðvitað á móti. Kjósendur í Reykjavík létu þetta ekkert á sig fá og þeirra álit skipti öllu.
Mér fannst Mbl. ótrúlega smátt í leiðurum sínum í gær og þótti það dapurleg undirstrikun á frammistöðu þess í “ráðhúsmálinu” yfirleitt.
Jú víst bjóða þeir borgarmenn til samkvæmis einsog vant er við slík tilefni. Kostnaður við það allt er svipaður og þegar borgin tekur á móti Norðurlandaráði 5. hvert ár án skætings frá Mbl.
Slíkt samkvæmi var haldið 1974 en þó aðeins þá fyrir alfínasta fólkið og þjóðinni ekki boðið inn þótt hún væri á næstu grösum. Sjálfsagt hefur Mbl. boðið öllum lesendum sínum til sinna hófa og mun gera þegar hús þess verður vígt. Ekki gagnrýndi Mbl. veizlur í kringum Skálholtshátíð 1963 þótt ekki væri öllum kristnum mönnum boðið, sem þá voru uppi í landinu, né heldur flugstöðvarvígslu, þótt rétt fyrir kosningar væri. Hins vegar var Gunnari Thoroddsen og Landsvirkjunarmönnum líkt við Bokassa keisara (sem drap og át börn) þegar gullsleginn borðbúnaður var fluttur á fjöll til að taka í notkun virkjun. Var þar bæði ofgert í veisluhöldum og samlíkingum.
Ég ætla ekki að láta þetta spilla meira fyrir mér þessari stóru stund en orðið er.
Tjörnin er mér heilagur staður en það eru fleiri sárfættir en vindurinn “sem veifaði hendi og ýfði kyrrstæða hreyfingu þessarar tjarnar með hólma og strendur og börn að leik, gáraði vatnið þar sem endurnar minntu á flöktandi augu þín og syntu eins og þau inní óvarið hjarta mitt.”
Þessi mildu stef áttu að vera inntak stuttrar ræðu minnar – ekki á sælli sigurstund – heldur á einni lítilli þakkarstund – lítilli en óendanlega mikilvægri þakkarstund í mínu lífi.
Davíð Oddsson .
***
Þarna er vitnað í tjarnarljóð eftir mig,ritstjórnarstarfið er að verða nokkuð dýrt spaug!
Það hefur kostað sitt!
***
29. maí ‘94
Davíð minn,
Um leið og ég þakka okkar langa samtal sem sýndi mér enn einu sinni hve tilveran er afstæð og nauðsynlegt að setja sig í annarra spor án þess afsala sér sannfæringu sinni, biðst ég fyrir hönd Morgunblaðsins afsökunar á því hve frágangur greinar þinnar og þá einkum meðferðin á nafni þínu var okkur til skammar, þótt staðsetningin sé aftur á móti álitamál eftir breytinguna á blaðinu.
Allar kosningagreinar þennan dag voru settar á sérstakan kálf, nema þín grein. Hún var tekin útúr og ákveðið að setja hana í aðalblaðið. Hún var eina greinin sem þar var – með stærra letri en aðrar greinar og í ramma.
Semsagt “fyrir framan miðju í aðalblaðinu”.
Ég hef aldrei litið á Morgunblaðið sem sorptunnu og allra sízt aðalblaðið “fyrir framan miðju”, en sem gamall blaðamaður veizt þú að slík ordra er jákvæð og sýnir vilja til vinsemdar og virðingar.
Þannig vil ég að við umgöngumst og ef þér finnst ég hafa sýnt þér óvirðingu eða “dónaskap” þykir mér það leitt og verð að sæta þeirri afstöðu þinni þótt hún geti ekki á nokkurn hátt tengzt samtali okkar eins og þú segir.
En hitt er rétt að greininni hefði átt að vera borgið í mínum höndum, en það var því miður ekki því ég treysti mínu fólki fyrir prófarkalestri (en það traust brást mér ekki síður en þér). Ég get því miður ekki bætt fyrir mistök okkar og við það verður að sitja.
Einlægt er misfarið með mitt útlenzkulega nafn og fer það óskaplega í taugarnar á mér – en ég er þó búinn að læra að kyngja því! Þó finnst mér þeir hálfgerðir vitleysingar sem geta ekki skrifað það rétt svo oft sem það er birt í Morgunblaðinu – og sýnir kannski betur en annað áhrif blaðsins!
En þau duga oft skammt, því miður – og þó getur það líka verið ágætt svo yfirþyrmandi sem blaðið er í umhverfi okkar. En það hefur aldrei “átt” umhverfið einsog KR t.a.m. hefur “átt” leikinn!
Og nú sýna skoðanakannanir að meirihlutinn í gamla vesturbænum okkar kýs R-listann.
Semsagt: Vesturbæjaríhaldið er liðin saga!
Ég hefði satt að segja ekki haldið að Morgunblaðið lifði slíkt af – slík ósköp! – en það lifir góðu lífi og hefur aldrei verið útbreiddara eða vinsælla, þótt þú teldir í samtali okkar að við hefðum misst fókus á því.
Ég hef satt að segja reynt að skilja þessa skoðun þína og veit hún er partur af afstæðri veröld sem ekkert okkar ræður við þótt stjórnmálamenn og skáld telji sig stundum geta höndlað hana.
Og sannleikann!
það er víst ekki hægt eins og við báðir vitum.
Þess vegna er bezt að fara að dæmi Jónasar og leita þess sem er fagurt og gott – en þá er sanngirnin og góðvildin á næstu grösum. Við getum ekki öll horft af sama hól og verðum að sætta okkur við ólíkt útsýni.
Við það átti ég í lok samtals okkar þegar ég sagði að það hefði líklega farið fram með sama hætti ef við stæðum í sporum hins. En það kemur vináttu ekkert við – aðeins hagsmunum. Og ég gef lítið fyrir hagsmunavináttu enda sjáum við til hvers hún leiðir í Íslendinga sögum.
Það sem ég kann bezt við í fari þínu er ekki valdamaðurinn eða formaðurinn né forsætisráðherrann, heldur trúmaðurinn með góða hjartalagið sem leynir sér ekki þegar það fær að njóta sín.
Og það er þetta hjartalag, þessi fína skáldlega tilfinning sem fólki þykir vænt um, en ekki valdamaðurinn, þótt það snobbi fyrir honum í tíma og ótíma.
Þegar fólk talar um vald Morgunblaðsins gef ég skít í það en gengst upp við því ef það finnur eitthvað hlýtt og manneskjulegt í blaðinu. Og ég vona það sé eitthvað af því innanum – að þínu áliti allan “krataáróðurinn”. En þú átt eftir að sannfærast um annað þegar kratarnir fara úr þessum aðalembættum landsins sem fréttamönnum er nauðsynlegt að leita til, utanríkis- viðskipta- heilbrigðis- og félagsmálaráðun. Úr þessum valdastofnunum renna fréttirnar auðvitað inní hvern þann fjölmiðil sem vill vita eitthvað um það sem er að gerast í landinu.
Og við Morgunblaðsmenn skipuðum þá ekki í þessi embætti!
En nú hljóp á snærið fyrir þér því ég á aðeins tvö blöð eftir. Ef þú ert enn að lesa þessa snepla máttu vel vita það að Árni Sigfússon hefur lagt lykkju á leið sína og þakkað Morgunblaðinu frábæran (hans orð) stuðning – og ósk um gott samstarf í framtíðinni.
Það var stórmannlegt af honum eins og málin standa nú.
Úti rignir eldi og brennisteini yfir hina bláu borg sem nú er grá og guggin – og ég er að reyna að setja mig í spor þeirra sem unnu mikinn kosningasigur og telja að borgin hafi aldrei verið jafn falleg og í dag! Og þetta fólk elskar ekki “blað allra landsmanna” nú um stundir, en það á líka eftir að átta sig á að lífið er útsýn til allra átta.
Vinakveðja, Matthías Joh.
PS.
Ég hef alltaf sagt þú gætir hringt til mín – eða okkar – hvenær sem er og það hefur ekki breytzt. Það gerði Bjarni! Við það átti ég.
M .
***
***
26. marz ‘95
Kæri Davíð.
Fyrir skömmu fékk ég úrklippu frá þér úr Alþýðublaðinu með samtali við Jón Baldvin þar sem hann fjallar m.a. um Morgunblaðið og hafnar því að sjálfsögðu að það sé eitthvert málgagn hans eða jafnaðarstefnu hans. En þú virðist lesa eitthvað annað útúr ummælum hans en þar stendur og skrifar á úrklippuna, væntanlega til að minna mig enn einu sinni á sviksemi við Sjálfstæðisflokkinn: Bragð er að þá barnið finnur!
Ég hef hugsað um ástæðu þessarar sendingar og þessara orða þinna án þess mér sé fullljóst hvað býr að baki þeim í raun og veru.
Þetta varð mér sérstök véfrétt eftir okkar ágæta og vinsamlega fund síðast en pólitísk tilhlaup eru að vísu ekki mitt sérfag.
Þetta hefur því vafizt fyrir mér.
Ég átti þó mínar góðu stundir í gamla daga þegar við Bjarni vorum að slást saman við heimskommúnismann og SÍS-veldið og mér var fullljós hættan sem steðjaði að landi okkar og þjóð.
Það var fyrir daga núverandi fiskveiðistjórnunar sem hefur vegið að rótum samfélags okkar og flokkurinn okkar ber ekki minnsta ábyrgð á og hefur raunar brugðizt bæði mér og öðrum, einkum að sjálfsögðu vegna blindu Þorsteins Pálssonar – og án þess þú hafir tekið að þér að sjá fyrir hann.
Það var þó skylda þín að mínu áliti, því það getur ekki verið á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins að afhenda auðlindina útvöldum, enda mun það hefna sín grimmilega.
Mér er að sjálfsögðu hlýtt til Þorsteins eins og ykkar allra sem hafið starfað á Morgunblaðinu; en því sárari eru vonbrigðin.
Ég þekki vel marga ágæta kosti Þorsteins og kann vel að meta hann burtséð frá þessum skavanka.
Við höfum öll okkar djöful að draga!
Og stundum gerum við það vonda sem við viljum ekki, það vitum við báðir! En það má bara ekki koma niður á varnarlausri þjóðinni. Nú væri ástæða til að óttast það gæti komið niður á flokknum í kosningunum, því miður. Sjálfur hefur þú þurft að svara óþægilegum kvótaspurningum á kosningafunum, t.a.m. á Húsavík í fyrradag sé ég af ítarlegri frásögn í Morgunblaðinu. Þar talaðir þú um kvótann sem afnotarétt og líktir honum við lóð sem “bæjarfélag á og lætur í té”.
En allir lenda í vandræðum sem verða að réttlæta kerfið eins og það er framkvæmt fyrir þessa fáu útvöldu, enda er ekki hægt að réttlæta það að menn geti keypt, selt, veðsett eða erft eignir annarra... Engum dytti í hug að selja húsið þitt, en öllum finnst sjálfsagt að við greiðum gjöld af fasteignum okkar.
Og ef kvótinn er afnotaréttur, ætti þá ekki á sama hátt að greiða fyrir afnotin?
Eins og t.a.m. húsaleigu fyrst þú tókst fasteignadæmið sem mér finnst þó enganveginn sambærilegt enda er fasteign engin takmörkuð auðlind, allir geta byggt sem vilja og eignazt sína íbúð.
En miðin eru sameiginleg takmörkuð auðlind og ekki einkaeign neins eins og húsin okkar, heldur fjöleign margra.
Og eitthvað yrði nú sagt ef ég seldi eða veðsetti fjölbýlishús eins og óveiddan fisk í sjó – og það jafnvel áður en búið væri að byggja það! Við viljum einungis frið um auðlindina og – að sjálfsögðu – að þeir fái að nýta hana sem bezt eru til þess fallnir. En það verður aldrei neinn friður fyrr en greitt verður fyrir afnotin. Þessi friður er mesta hagsmunamál útgerðarmanna sjálfra en þeir virðast ekki skilja það. Þeir eiga eins og aðrir að lifa í sátt við fólkið í landinu, þá farnast þeim vel þótt kvótinn fari minnkandi. En okkur ber að sjá til þess að þeir njóti hans sem eiga hann, þ.e. þjóðin sjálf. Annað hefur í för með sér trúnaðarbrest. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki efni á að standa í erjum við þessa sömu þjóð, það er ekki hans stíll, enda er kvótinn eitur í beinum sjálfstæðismanna eins og þú segir sjálfur, því hann skerðir frelsi og er afsprengi hafta. En við verðum að vernda auðlindina, það er rétt. Við gerum það bara ekki með því að hefta frelsi trillukarlsins, þessa tákngervings einstaklingshyggju Sjálfstæðisflokksins, og stefna helmingi stærri og mikilvirkari flota á miðin en nauðsynlegt er (til) að afla og vinna þau verðmæti sem auðlindin gefur af sér nú um stundir. Slík “hagræðing” er engin lausn – og allra sízt lausn sjálfstæðisstefnunnar. Svo geta þeir kallað okkur sósíalista sem vilja – en fólkið veit betur. Það er Jón Baldvin sem hefur yfirgefið gamla þjóðnýtingarandann í jafnaðarstefnunni og hlaupið inná einstaklingshyggju okkar, en ekki öfugt. Hann hefur semsagt stolið glæpnum! Það er ekki Morgunblaðinu að kenna. En Sjálfstæðisflokkurinn situr uppi með einhverskonar framsóknarstefnu hinna útvöldu á hafinu þótt honum sé það sízt af öllu eiginlegt. En sem betur fer náði Jón Baldvin ekki markaðsfrjálshyggjunni undir sig þótt hann kveikti snemma á henni og mikilvægi hennar. Nú vildu allir þá Lilju Sjálfstæðisflokksins kveðið hafa. Markaðshyggjan er þjóðfélaginu lífsnauðsyn þótt hún geti verið listum – og þarmeð skáldum – erfið því hún velur ekki endilega eftir andlegum gæðum og verðmætum sem mölur og ryð fá ekki grandað heldur öðrum jarðbundnari lögmálum. Og svo horfum við uppá það, hvað hún hefur mikla tilhneigingu í litlu samfélagi eins og okkar að safna völdum og áhrifum á hættulega fáar hendur. Það eru fylgikvillar sem við þurfum að vinna bug á, því það er sárara að vera fátækur í heldur velmegandi þjóðfélagi en almennt fátækur eins og í gamla daga þegar ég var að alast upp, hvað þá í þjóðfélagi nýríkra peningamanna sem geta ráðskazt með allt og alla – og er ég þó heldur hlynntur athafnaskáldunum eins og þú veizt.
Þú og raunar ýmsir aðrir forystumenn Sjálfstæðisflokksins – hafið tönnlazt á því að við morgunblaðsmenn höfum fært krötum Morgunblaðið á silfurbakka – og þá einkum Styrmir sem vilji þjóna undir Jón Baldvin vin sinn með því náttúrlega að svíkja arfleifð okkar – en ég hafi horft uppá þetta með lokuð augu og setið á friðarstóli eins og einhver Nagíb og látið allt þetta viðgangast; semsagt að ég hafi verið á blaðinu eins og hver önnur silkihúfa og safnað skrautfjöðrum krata í hatt minn; að ég sé geðlaust tæki þeirra félaga Styrmis og Jóns Baldvins. Ég hef helzt reynt að leiða þetta hjá mér og talið mér trú um að bæði þú og aðrir félagar mínir og vinir þekktu mig betur en svo. En eftir síðustu sendingu frá þér er ég farinn að efast, því miður. Og nú hugsa ég um það með sjálfum mér hvort nokkuð hefur skaðað mig eins sem ritstjóra Morgunblaðsins og þessar uppákomur ykkar. Ég er farinn að telja mér trú um það – án þess ég hafi nokkurn snert af paranoju – að þessi linnulausi áróður sé farinn að síast inní umhverfi okkar og traust mitt sem ritstjóri blaðsins sé ekki með sama hætti og áður, þ.e. að ég sé áhrifalaust tæki Styrmis og þeirra félaga. En á þeirri stundu sem ég tryði því sjálfur mundi ég hætta á blaðinu. Ég veit ég ræð því sem ég vil á ritstjórn Morgunblaðsins, ekki síður en áður, og get framfylgt þeirri ritstjórnarstefnu sem ég trúi á. Okkur Styrmi greinir varla nokkurn tíma á í þeim efnum enda valdi ég hann sjálfur á sínum tíma vegna þess ég treysti honum til að framfylgja þeirri þróun sem hefur verið hugsjónamál mitt frá því ég tók við blaðinu 1959, þ.e. að Morgunblaðið verði frjálst, réttlátt og heiðarlegt blað án undirgefni við nokkurn flokk eða stjórnmálaforingja eða aðra sem hagsmuna hafa að gæta; semsagt frjálst að öllum þeim þrýstihópum sem gætu komið í veg fyrir að blaðið sé blað allra landsmanna. Við höfum ekki alltaf rétt fyrir okkur, veit ég það vel, en reynum að gera okkar bezta í þeim efnum og án íhlutunar annarra þótt við séum alltaf reiðubúnir að hlusta bæði á þig og aðra eins og þú veizt bezt sjálfur. En handbendi verðum við ekki, enda aðrir tímar en áður þegar lífsháskinn krafðist þess beinlínis af okkur að standa vörð um hagsmuni Íslands, hvað sem það kostaði okkur og Morgunblaðið – en við kynntumst raunar, Davíð, í tengslum við þá hugsjón og hef ég ávallt síðan metið vináttu okkar mikils á hverju sem hefur gengið. En ég er enginn Nagíb og verð aldrei. Hef aftur á móti haft miklar mætur á Sadat sem gerði sér grein fyrir hættunni af heimskommúnismanum. Við höfum efni og aðstæður til að blaðið okkar verði eins og æskuhugsjón mín stóð til þegar mér var trúað fyrir því – og þannig mun ég skila því til framtíðarinnar, á hverju sem gengur, enda á þessi litla þjóð eitthvað gott skilið – með morgunkaffinu! (Sbr. ummæli Haralds Sveinssonar í bókinni Áhrifamenn).
Ég vona svo bara að við og Morgunblaðið hristum þetta upphlaup af okkur því það eitt skiptir máli en ekki persóna mín. Hún hefur hvort eð er marga fjöruna sopið og er ýmsu vön. Ég mun svo æðrulaus halda sjó, það höfum við morgunblaðsmenn ævinlega gert án þess að kvarta og kveina, en einna erfiðast var það í þorskastríðinu á stjórnarárum Geirs Hallgrímssonar. Þá urðum við fyrir miklu aðkasti eins og þú manst, sumir félagar okkar kröfðust þess jafnvel að við hlypum úr NATO. En okkur datt aldrei í hug að láta Breta skjóta okkur úr bandalaginu eins og ástandið var í kalda stríðinu. Þótt Geir gagnrýndi okkur stundum – og þá helzt fyrir jafnvægisleysi í málflutningi – kunni hann vel að meta stuðning okkar og vináttu og minntist oft á það við mig, bæði fyrr og síðar. Um samstarf okkar má lesa í grein sem ég skrifaði um hann látinn. Einn helzti eðliskostur hans var hreinskilni með mannúðlegri hlýju og tillitssemi. Þess vegna ekki sízt var hann dýrmætur vinur.
Í annars ágætri Andvara-grein um Geir hefur þú eftir honum áhyggjur af okkur Styrmi – og þá auðvitað vegna undirlægjuháttar við Jón Baldvin og kratana – hvað annað?! – en hann nefndi slíkt aldrei einu orði í fjölmörgum samtölum okkar – og raunar verkaði þessi passus í Andvara-greininni á mig eins og hver annar brandari – og mun gera þangað til ég sé fullgild gögn um málið. Á þetta minntist ég ekki í okkar góða samtali síðast – gleymdi því einfaldlega – en bæti hérmeð úr því svo allt sé á hreinu milli okkar.
Áður en ég kveð þig óska ég flokknum okkar velgengni í kosningunum því það er þjóðinni nauðsynlegt hvað sem fiskveiðistefnunni líður. Þú hefur staðið þig afar vel í embætti þínu og betur en aðrir forystusauðir landsins nú um stundir. Ég árna þér heilla í framtíðinni og þakka guði fyrir að þú varst forsætisráðherra þegar við þurftum að hrökkva eða stökkva í Evrópusambandsmálum en ekki einhver annar. Ef við lendum í ESB þá verður það að gerast með góðum aðdraganda, við eigum þá að vaxa inní það eins og grasið grær, en ekki með látum og hávaða sem klyfi þjóðina enn einu sinni í tvær öndverðar og illvígar fylkingar. Ég viðurkenni fúslega að ég vildi ekki vera ritstjóri Morgunblaðsins við þær aðstæður. Það er komið nóg af samfélagssárum og ekki á bætandi. Það eru sættir, samúð og skilningur sem þjóð okkar þarfnast, en ekki illvígar deilur og sturlungaandrúm. Ég vil svo bæta því við að fullveldi er lítilli þjóð eins og okkur Íslendingum óendanlegur fjársjóður hvað sem fullyrðingum um annað líður, svo að ég tali nú ekki um algjör yfirráð yfir auðlindinni og lífsbjörginni. Á þessu hefur þú góðan skilning, það hefur glatt mitt rómantíska þjóðernishjarta. Jóhannes afi minn átti drjúgan þátt í þessu fullveldi, hann ól mig upp í aðra röndina og ég hlaut því að fá svona “gamaldags” veganesti.
Ég fagna því svo að lokum hvað þú fékkst góða útkomu í skoðanakönnun um væntanlegan forsætisráðherra, þinn stóri hlutur kom mér sízt af öllu á óvart enda hefur þú með verkum þínum unnið fyrir þessari niðurstöðu þótt enn sé margt óleyst í umhverfi okkar eins og atvinnuleysið og alltof lág laun almennings. Ég þekki þig nógu vel til að vita að þér svíður hvorttveggja. En ekki yrði frekar úr því bætt með vinstristjórn, við höfum reynslu fyrir því. Það er svo einnig áhyggjuefni að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki þann styrk í síðustu skoðanakönnunum sem æskilegt væri til að halda við stöðugleikanum. (Sbr. Rvíkurbréf í dag). En fylgikvillar lýðræðis eru margir, það vitum við báðir, og vonandi lagast þetta.
Ég veit þú ert önnum kafinn í kosningabaráttu og ætlast ekki til þú hittir okkur í þessu ati öllu og því skrifa ég þér þessar línur með ósk um þú lítir á þær, í góðu tómi. Vona þær séu ekki of sterk viðbrögð við ofnæmi ykkar, en ef svo væri gerði það ekkert til. Við höfum vonandi nógu sterk bein til að umbera hvor annan!! Og þú þekkir að minnsta kosti tilfinningalíf skáldsins, hvað sem ritstjóranum líður!!
Við hittumst svo við tækifæri eins og um var talað. Af tillitssemi við þinn dýrmæta tíma hef ég tölvuskrifað þessar línur, lagði ekki á þig að handskrifa þær eins og síðast. Manni er ekki alls varnað!!
Með vinarkveðjum og beztu óskum, þinn einlægur
Matthías.
***
***
Reykjavík, 28. mars 1995
Kæri Matthías,
Bestu þakkir fyrir bréfið. Mér fannst til um að þú skyldir gefa þér svo góðan tíma til að setja þessar hugleiðingar þínar á blað og það af svo litlu tilefni, því að þessa úrklippu sendi ég þér meira af rælni en af ráðnum hug. Þú hefur aðeins misskilið tilganginn með sendingunni. Auðvitað var ég ekki að vekja athygli þína á svörum Jóns Baldvins við spurningu blaðamannsins. Þau svör voru sjálfgefin og vekja því hvorki athygli né áhuga. Ég býst við að þú sért búinn að henda blaðsnifsinu og hafir ekki tekið eftir því að ég undirstrikaði spurningu blaðamannsins. Hann var barnið sem bragðið fann. Því að Styrmir hefur iðulega sagt mér að meint Alþýðuflokksdekur Morgunblaðsins væru hugarórar mínir og í besta falli þriggja eða fjögur annarra þvílíkra og eins og aðrir hugarórar ættu þeir enga stoð. En þegar blaðamaður Alþýðublaðsins af öllum mönnum telur sig þurfa, fyrir sjálfan sig og lesendur þess blaðs að fá sérstakar skýringar formanns Alþýðuflokksins á þessum sérkennilegu atburðum þá voru það nokkur tíðindi. Að vísu segi ég eins og er, að ég legg nú meira upp úr þínum orðum hér á skrifstofu mini en orðum Styrmis sem stangast á við raunveruleikann, þegar þú sagðir við mig, og orðaðir svo vel, að ég yrði að gæta að því “að Styrmir væri með þennan mann (JBH) inni í sér”.
Það verður ekki við því gert, Matthías minn, þótt ég og fjöldi annarra manna og kvenna í þessu landi hafi þá skoðun að misnotkun Morgunblaðsins í þágu kratanna sé auðmýkingarefni fyrir blaðið og kannski ekki síst fyrst að blaðið hefur ekki einu sinni burði til þess að kannast við það sem allir sjá. Þú sagðir reyndar líka í samtalinu hér á skrifstofunni sem ég vík að aðeins síðar, að ég yrði að skilja þetta og umbera vegna þess að krataráðherrarnir sæju um það að leka upplýsingum til blaðsins, sem blaðið þyrfti á að halda og þetta sem ég kallaði dekur við þá, myndi hætta þegar þeir hyrfu úr ráðherrastólum. Bíddu bara við og sjáðu, sagðir þú. Auðvitað hef ég tekið eftir þessum lekum en oftar en ekki hefur mér þótt þeir vera fremur í þágu lekandans en blaðsins, en þegar öllu er á botninn hvolft, þá má auðvitað segja að mér komi svo sem þetta ekkert við, en hlýt þó að mega þykja þetta sárt, blaðsins vegna og trúverðugleika þess.
En þessi atriði eru hégómi hjá öðru máli sem mér hefur verið með öllu óskiljanlegt. Við áttum mjög gott samtal uppi í Háuhlíð í kringum um áramót ‘93-’94. Í framhaldi af því, að vísu nokkuð síðar, áttum við alvörusamtal hérna í Stjórnarráðinu og ég dreg ekki dul á það, að mér þótti það með betri samtölum sem við höfum átt. Hafa þau þó mörg verið góð. Ég var hreinlega djúpt snortinn þegar þú sagðir að þú hefðir ákveðið að veita mér sérstakan og persónulegan aðgang að blaðinu og þvílíkan aðgang hefðir þú engum manni boðið frá dögum Bjarna Benediktssonar. Satt best að segja þótti mér þetta meiriháttar persónuleg tíðindi fyrir mig og samband mitt við þig og blaðið. Þú getur því ímyndað þér vonbrigðin og áfallið sem ég varð fyrir þegar í fyrsta sinn skyldi á þetta reyna og nokkuð lá við, að þá skyldi ég fá verri þjónustu af blaðsins hendi, fyrir þína meðalgöngu, en ef ég hefði haft samband við símastúlkuna eða vakthafandi ungan blaðamann, sem ég hefði aldrei talað við fyrr. Einhvern tímann kannski skil ég þetta en hef á tilfinningunni að það sé langt í það enn.
Ég verð að segja það, kæri Matthías, að ég er mjög undrandi á þessum viðbrögðum sem úrklippan litla hefur valdið. Þú kallar þetta pólitískt tilhlaup af minni hálfu. Þú segir að ég tönnlist á því að Morgunblaðsmenn hafi fært krötum Morgunblaðið á silfurbakka. Ég kannast ekki við það orðalag og þú lítur á þessa úrklippu, sem bara fór á milli okkar tveggja, eftir því sem ég best veit, sem uppákomu af því tagi sem hafi skaðað þig mest af öllu sem ritstjóra Morgunblaðsins og hún sé hluti af linnulausum áróðri. Hvernig getur það verið áróður þegar eitthvert plagg gengur milli tveggja manna, sem eru í góðu sambandi? Þú segist vona að Morgunblaðið hristi þetta upphlaup af sér. Ég segi eins og mér býr í brjósti að séu vonbrigði þín nokkur vegna þess að hafa fengið þetta rifrildi úr Alþýðublaðinu sent á milli okkar, hvernig mega þá mínar tilfinningar vera miðað við það sem okkur hafði farið á milli og hvernig úr varð.
Í bréfinu þínu segir þú: “í annars ágætri Andvaragrein um Geir hefur þú eftir honum áhyggjur af okkur Styrmi og þá auðvitað vegna undirlægjuháttar við Jón Baldvin og kratanna hvað annað”. Nú skal betur að gáð hvað segir í þessari grein: “Geir var lengi í forystu Árvakurs útgáfufélags Morgunblaðsins og lét sér annt um velferð þess. Hann mat mikils samstarfsmenn sína þar þá Harald Sveinsson framkvæmdastjóra, en þeir höfðu þekkst náið frá unglingsárum og ritstjórana Matthías Johannessen og Styrmi Gunnarsson. Fór þó fjarri að honum félli að öllu leyti við þróun blaðsins síðustu árin og hafði hann eins og fleiri áhyggjur af sumu því sem hafði áhrif á fréttamat blaðsins. Geir var á hinn bóginn sáttur við að Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur hefði ekki nein áhrif á gang mála hjá blaðinu þótt hann teldi að þessir tveir aðilar ættu sjálfstæðisstefnuna sem sameiginlega viðmiðun.” Þú segir að þessi passus í Andvaragreininni verki á þig eins og hver annar brandari og það muni hann gera þangað til þú fáir fullgild gögn um málið. Ég á engin gögn til um málið annað en það sem ég hef sjálfur skrifað eftir Geir. Ég get staðfest að hann gaf mér enga yfirlýsingu þessa efnis á löggiltan skjalapappír vottað af sjálfráðum virðingarmönnum en ég vona að þú trúir því ekki, né sért að gefa í skyn að ég skrökvi þessu upp á Geir látinn!
Ég ætlaði í upphafi að hafa þennan texta skýrari en hann varð í greininni og nær því orðalagi sem Geir hafði sjálfur sagt, ekki einu sinni heldur oft við mig að vísu með mismunandi hætti. Ég veit reyndar með öruggri vissu að hið sama orðaði hann við fleiri. Eins og greinin stendur núna í Andvararitinu þá fellur hún afskaplega vel að því sem þú segir sjálfur í bréfinu til mín: “þótt Geir gagnrýndi okkur stundum og þá helst fyrir jafnræðisleysi (sic; á líklega að vera jafnvægisleysi) í málflutningi kunni hann vel að meta stuðning okkar og vináttu”. Ég hef aldrei um það beðið að Morgunblaðið væri í einu eða neinu handbendi Sjálfstæðisflokksins, mér þætti það beinlínis ógeðfellt ef Morgunblaðið væri handbendi Sjálfstæðisflokksins og kynni ekki við það blað með sama hætti og ég kann illa við að sjá að blaðið er, hvort sem að þér líkar betur eða ver, í sumum efnum handbendi annarra afla í þjóðfélaginu um þessar mundir. Mér þykir persónulega sem blaðið hafi borið illilega af leið að þessu leyti og mér þykir það miður. Þú hefur gefið mér þínar skýringar á því að hluta til, að svo miklu leyti sem þú viðurkennir mitt sjónarmið. Ég vona innilega að þetta eigi eftir að breytast þó að sjálfsagt gerist það ekki á næstunni og blaðið verði trúverðugra fyrir vikið eins og saga þess og fortíð á svo ríka kröfu til. Vont þykir mér að þú virðist halda að ég hafi ekki áttað mig á því afreki sem þú hefur unnið með uppbyggingu Morgunblaðsins. Það starf myndi halda nafni þínu á lofti lengi, ef þess þyrfti, en önnur verk þín munu reyndar sjá um það. Auðvitað er Morgunblaðið um flest frábær fjölmiðill og þú hefur enga minnstu ástæðu til að ætla að mér sé ekki fullljós sú staðreynd að án þín væri ekki slíkt blað borið í lúgur þjóðarinnar flesta morgna ársins.
Þú hefur sjálfur viðurkennt að ég hafi aldrei gert persónulegar kröfur til blaðsins og geri það ekki enn og sætti mig við að blaðið hafi veitt mínum störfum sem forsætisráðherra minni áhuga og minni atbeina en nokkrum manni úr nokkrum flokki, sem þessu embætti hefur gegnt í háa herrans tíð. Sem betur fer hefur það ekki komið að sök, eins og þú vekur athygli á, og virðist þjóðin og ég hafa náð talsambandi þótt Morgunblaðið hafi ekki kosið að hafa þar mikla milligöngu.
Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því, að ég þurfi að taka mér tak til að “umbera þig” – ég held að mér hafa um langan tíma þótt beinlínis vænt um þig og hef stundum haldið að það væri gagnkvæmt, eins og t.d. á vordögum fyrir 4 árum, þegar ég steig skref, sem voru hvorki mér né öðrum auðveld.
Með góðri vinarkveðju, Davíð.
***
***
29. mars 1995
Kæri Davíð,
Beztu þakkir fyrir bréfið þitt og snaggaraleg viðbrögð við tilskrifunum, en ég ætlaðist satt að segja ekki til þú eyddir þínum dýrmæta tíma í mig. Met það því meir. Kann einnig vel að meta fasthyggju þína enda alvanur henni því Styrmir hefur alltaf rétt fyrir sér einsog þú veizt!
Þegar ég hafði lesið þitt ágæta bréf fann ég að hégómi minn var harla ánægður með það. En þó spurði ég raunsæi mitt og það sagði mér að við töluðum ekki alveg sama tungumál; því væri alltaf hætta á misskilningi. En þá er nauðsynlegra en ella að reifa málin eins og við höfum gert. Markmið þín og okkar sé ég æ betur að eru hin sömu, en leiðirnar ekki einsog gengur. Við það verðum við þá að búa og það kallar á bæði umburðarlyndi og tillitssemi sem við hljótum að eiga nóg af. Ég þykist vera sæmilega kristinn eins og þú og skildi aldrei þegar ég á sínum tíma lenti í hörðum útistöðum við hálfa klerkastéttina vegna leiðara sem ég skrifaði einhverntíma um páskana. Það varð langt og mikið uppistand og náði inní Kirkjuritið. Verst þótti móður minni þegar ég var sagður bramatrúar og taldi það mikla árás á uppeldið! En allt lagaðist þetta með tímanum og nú lifi ég í sátt við kirkjuna sem stendur hjarta mínu nær – vegna Krists. Á sama hátt kveð ég þig nú í sátt og vináttu og óska þér og þjóðinni okkar alls hins bezta. Sjáumst við gott tækifæri,
PS.
Þú talaðir vel og skynsamlega einsog þín var von og vísa og af sanngirni um Morgunblaðið í sjónvarpinu í dag. Þökk fyrir það – og annað.
M.
Hanna sendir ykkur Ástríði sérstaka kveðju – að venju.
M.
***
Á platta föður míns í Frímúrarahúsinu stendur Spyrjum að leikslokum(!) Ég veit ekki hvort hann valdi þessa “grafskrift” eða hvort hann fékk hana úthlutaða, þekki ekki til á þeirra bæ. En þessi orð hafa stundum hvarflað að mér og í öllu bardúsinu með Morgunblaðið, sem hefur verið í senn mikil áskorun og vandasöm flétta, hef ég hugsað til þessara orða og gert mér vonir um að við höfum verið á réttu róli með þessa þjóðareign, Morgunblaðið.
Maí – ódagssett
Ég var að hlusta á ungt skáld í útvarpi. Þetta skáld er oft í fjölmiðlum. Það er einkennilegt hvað sumir listamenn eltast við fjölmiðla. Þeir sækja í þá eins og flugur í ljós.
En flugurnar vita ekki að það getur slokknað á perunni hvenær sem er og þá deyja þær inn í myrkrið.
Ætli þessir listamenn trúi því í raun og veru að það sé nóg nú á dögum að hreiðra um sig í fjölmiðlum?
Mér hefur dottið það í hug.
Eins og þeir kunna vel við sig í þessu hlýja sviðsljósi.
En það er blekking.
Það lifir enginn í fjölmiðlum.
Það lifir enginn listamaður annars staðar en í verkum sínum.
Ef menn eru að hugsa um bisness þá eiga þeir að fara í viðskipti.
Ég hitti unga listakonu um daginn.
Ég spurði, Hvers vegna eru verkin þín ekki lengur í Gallerí Borg.
Hún svaraði,Það er enginn bísness í því.!
Mér varð hugsað til Kjarvals,en það er bezt að hugsa sem minnst nú á tímum. Það heyrist hvort sem er ekki í nokkrum manni fyrir hávaða.
Heilalaus górillan tekur senn við fjölmiðlunum og markaðstorgunum.
Glæpamenn stjórna knattspyrnuvöllunum og hvarvetna er einhver alþjóðakeppni í meðalmennsku.
Hryðjuverkamenn og fótboltabullur leggja undir sig knattspyrnuvellina og mafíurnar gera út á markaðslögmálin.
Kommúnisminn kallaði glæpaforingja fram á sviðið og víða er lýðræðinu stjórnað af ósýnilegu valdi sem hefur breytt því í öfugmælavísu.
Nýnazistar vaða uppi.
Og atvinnuleysingjar leita huggunar í eiturefnum.
Og við sem trúðum á einstaklinginn, menninguna og mannúðina, hvar stöndum við nú andspænis þeim fjallháu vandamálum sem við blasa?
Ætli það sé rétt sem segir í kvikmyndinni um Hoffa að það sé erfiðara að stjórna einum einstaklingi, en mergðinni?
Þetta hefur orðið mér íhugunarefni enda er höfundur textans enginn annar en Mammet sem skrifaði leikritið Oleana sem við sáum í London í fyrra; merkilegt leikrit um heldur ómerkilegt efni.
En meðan kvikmyndalistin hefur upp á að bjóða leikara á borð við Jack Nicholson sem kom enn einu sinni á óvart í Hoffa fyrir afburðaleik, er ekki ástæða til að örvænta, þrátt fyrir alþjóðlegu keppnina í meðalmennsku; eða eins og Bjarni Jónsson Borgfirðingaskáld orðaði það í öfugmælavísunum góðu:
Rétt er öfugt, öfugt rétt,
eins er lyngin sanna;
sannleikurinn sýnir prett,
og svik til allra manna.
---
Tuttugu sama og tíu er,
telur árið vikur sex,
aldrei neinn af öðrum ber,
öll er speki heimskupex.
En kannski hefur þessi blessuð samtíð ávallt verið sama markinu brennd; glámskyggn og yfirborðsleg; grimm og hégómleg.
Þar sem maðurinn hefur verið á ferð geymir jörðin rottubein, arfafræ og svínabein.
Arfleifð mannsins er ekki einungis Sókrates, Beethoven og Shakespeare.
Hún birtist líka í þeirri bókstafstrú sem gerir kröfu til þess að maðurinn leiti guðs í gervi hryðjuverkamanna og annarra villidýra.
Kannski ekkert skrýtið að guð hafi ekki komið fram á leiksviðið og hneigt sig.
Hann kann augsýnilega bezt við sig að tjaldabaki.
2. maí – þriðjudagur
Af gefnu tilefni er forystugrein í Morgunblaðinu á morgun, miðvikudag, undir fyrirsögninni Davíð Oddsson, Jón Baldvin og Morgunblaðið.
3. maí – miðvikudagur
Davíð Oddsson, Jón Baldvin og Morgunblaðið
“Davíð Oddsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, fjallaði nokkuð um Morgunblaðið og pólitíska stefnu þess í útvarpsþætti á Rás 2 sl. sunnudag. Í útvarpsþættinum var forsætisráðherra spurður, hvort hann teldi Morgunblaðið hliðhollara Alþýðuflokknum en Sjálfstæðisflokknum og hann svaraði: “Það hef ég talið núna um langt skeið og er nú reyndar ekkert einn um það. Mér sýnist nú af skrifum manna almennt, að það sé viðhorfið.”
Í framhaldi af þessu er Davíð Oddsson spurður, hvort hann telji, að Morgunblaðið sé að verða málgagn Alþýðuflokksins og hann svarar: “Ekki kannski Alþýðuflokksins, en Morgunblaðið náttúrlega hefur lagt sig fram um það að styðja Jón Baldvin, það hefur gert það... En ég hef nú sagt, að Morgunblaðið hafi ekki stutt persónulega nokkurn mann jafnmikið og Jón Baldvin frá því, að Geir Hallgrímsson var “aktífur" í stjórnmálum.” Fyrr í útvarpsviðtalinu hafði forsætisráðherra verið spurður um afstöðu DV og Morgunblaðsins til Sjálfstæðisflokksins og sagði þá m.a.: “En gagnvart Alþýðuflokknum núna eru hins vegar náttúrlega ákveðin tengsl milli þessara blaða, persónuleg tengsl... Og menn vita jú um tengsl Morgunblaðsins við forystumenn Alþýðuflokksins.”
Þá var Davíð Oddsson spurður, hvort hann og hans flokkur vildu fá meiri stuðning frá Morgunblaðinu og svar hans var: “Ja, ég vildi, að Morgunblaðið lifði þá aðallega eftir þessu, sem þeir tala um, að þeir hafi jafnræði með mönnum og fylgi þá eftir því, sem þeir segjast trúa á, sjálfstæðisstefnunni. Ég hef verið dálítið undrandi á því, að blaðið skuli hafa svona hallað sér að tilteknum stjórnmálamanni án þess nokkurn tíma að segja það og mér finnst það ekki vera jákvætt.”
Í tilefni af þessum orðum formanns Sjálfstæðisflokksins er ástæða til að fara enn einu sinni nokkrum orðum um pólitíska stefnu Morgunblaðsins. Davíð Oddsson kveðst í öðru orðinu telja, að Morgunblaðið hafi um langt skeið verið hliðhollara Alþýðuflokknum en Sjálfstæðisflokknum en í hinu orðinu segist hann ekki telja Morgunblaðið málgagn Alþýðuflokksins heldur hafi blaðið lagt sig fram um að styðja formann Alþýðuflokksins. Það er í sjálfu sér gagnlegt, að þessi skoðun formanns Sjálfstæðisflokksins skuli vera komin upp á yfirborðið. Hún hefur ekki farið fram hjá forráðamönnum Morgunblaðsins en ekki fyrr verið hægt að fjalla um hana vegna þess, að hún hefur ekki verið sett fram opinberlega.
Það er fráleitt að telja Morgunblaðið málgagn Alþýðuflokksins eða að blaðið sé hliðhollara Alþýðuflokknum en Sjálfstæðisflokknum. Þeir sem halda þessu fram verða að styðja það með rökum og tilvísunum í málefnalega afstöðu Morgunblaðsins á undanförnum árum. Í forystugreinum Morgunblaðsins hefur stefna blaðsins jafnan verið skilgreind á þann veg, að hún byggist á sömu grundvallarhugsjónum og borgaralegu lífsviðhorfum og stefna Sjálfstæðisflokksins. Hins vegar fylgi blaðið eigin sannfæringu í því hvernig um þau grundvallarsjónarmið er fjallað og í afstöðu til einstakra mála.
Á undanförnum árum hefur afstaða Morgunblaðsins í einungis einu máli gefið gagnrýnendum blaðsins tilefni til að halda því fram, að blaðið túlkaði stefnu Alþýðuflokksins en það er í fiskveiðimálum. Þar hefur Morgunblaðið barizt fyrir því grundvallaratriði, að þeir sem nýta fiskimiðin í kringum landið greiði eiganda þessarar auðlindar, íslenzku þjóðinni, fyrir nýtingarréttinn. Alþýðuflokkurinn hefur sett sín sjónarmið fram með svolítið öðrum hætti, þ.e. að bjóða eigi upp veiðileyfi en efnislega er niðurstaðan að sjálfsögðu sú sama, að greiðsla komi fyrir.
Sú fullyrðing, að Morgunblaðið hafi með baráttu blaðsins í þessu máli rekið erindi Alþýðuflokksins, er hins vegar fráleit. Fjölmargir aðilar innan Sjálfstæðisflokksins hafa lýst sömu skoðun. Þar má m.a. nefna Friðrik Sophusson, varaformann Sjálfstæðisflokksins, og á síðasta landsfundi flokksins fór ekki á milli mála, að verulegur stuðningur var við þau sjónarmið, sem Morgunblaðið hefur gerzt talsmaður fyrir, þótt þar hafi ekki verið um meirihlutastuðning að ræða.
En annar forystumaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst skoðunum, sem eru a.m.k. í ætt við stefnu Morgunblaðsins í þessu mikilsverða máli, en það er Davíð Oddsson sjálfur. Í sjónvarpsþætti á Stöð 2 miðvikudagskvöldið 17. apríl 1991 sagði formaður Sjálfstæðisflokksins m.a., að fiskimiðin gætu verið sameign þjóðarinnar en hún gæti jafnframt falið ákveðnum aðilum eins og útgerðarmönnum og fiskimönnum að sjá um að nýta arðinn af þeim í þágu hennar. Síðan sagði Davíð Oddsson: “Það má hins vegar ekki gerast þannig, að ákvæði fyrstu greinar verði marklaust. Ég tel, að rétt væri að breyta stjórnarskránni þannig, að löng hefð gæti ekki breytt þessum þætti.” Í framhaldi af þessum ummælum sagði Davíð Oddsson, að hann væri andvígur sölu veiðileyfa en hann væri jafnframt andvígur því, að eignarrétturinn yrði færður útgerðarmönnum endurgjaldslaust og bætti við: “Það stangast ekkert á, að vera andvígur þessu hvoru tveggju, ég tel að sú leið að færa útgerðarmönnum eignarréttinn endurgjaldslaust gangi of langt og hún gangi á svig við það, sem ég er að tala um í fyrstu greininni.”
Miðað við þessi ummæli forsætisráðherra nokkrum dögum fyrir þingkosningar 1991 er ekki langt á milli grundvallarsjónarmiða Morgunblaðsins og formanns Sjálfstæðisflokksins í fiskveiðimálum og þegar þar að auki er horft til opinberrar afstöðu varaformanns Sjálfstæðisflokksins í málinu verður erfitt að færa rök fyrir því, að afstaða Morgunblaðsins í þessu máli réttlæti þá skoðun, sem Davíð Oddsson setti fram í fyrrnefndum útvarpsþætti, að blaðið væri “hliðhollara” Alþýðuflokknum en Sjálfstæðisflokknum. Hver eru þá hin efnislegu rök fyrir þeirri fullyrðingu?
Meginathugasemd Davíðs Oddssonar er hins vegar sú, að Morgunblaðið hafi lagt sig fram um að styðja Jón Baldvin Hannibalsson í stjórnmálabaráttu hans. Hver eru rökin fyrir því? Þau komu ekki fram í fyrrnefndum útvarpsþætti en stundum hefur því verið haldið fram, að formaður Alþýðuflokksins væri mikið í fréttum Morgunblaðsins. Jón Baldvin Hannibalsson hefur gegnt tveimur umfangsmiklum ráðherraembættum á sl. átta árum, embættum fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Sá maður sem gegnir slíkum ráðherraembættum í nær einn áratug er óhjákvæmilega mikið í fréttum Morgunblaðsins og skiptir þá engu hver hann er eða úr hvaða flokki. Hitt er svo annað mál, að ráðherrar eru misjafnlega aðgengilegir fyrir fjölmiðla. Jón Baldvin Hannibalsson hefur verið mjög aðgengilegur fyrir fjölmiðla á ráðherraárum sínum. Þeir ráðherrar, sem eru það ekki, verða óhjákvæmilega minna í fréttum fjölmiðla.
En hver hefur hin efnislega afstaða Morgunblaðsins verið til þeirra mála, sem formaður Alþýðuflokksins hafði á sinni könnu og þá er fyrst og fremst átt við utanríkismál enda var hann utanríkisráðherra í sex og hálft ár? Tvö málefni standa upp úr, EES-málið og ESB-aðild.
Í EES-málinu hafði Morgunblaðið framan af aðra skoðun en þingflokkur Sjálfstæðisflokksins. Á sínum tíma var deilt um það, hvort við Íslendingar ættum að efna til tvíhliða viðræðna við Evrópusambandið eða hafa samflot með öðrum EFTA-ríkjum. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók ákvörðun um samflot með EFTA-ríkjum en Jón Baldvin var utanríkisráðherra í henni. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, sem þá var í stjórnarandstöðu, mælti með tvíhliða viðræðum. Eftir að hafa kannað viðhorf ráðamanna ESB komst Morgunblaðið að þeirri niðurstöðu, að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefði rétt fyrir sér og studdi samflot með öðrum EFTA-ríkjum. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórnarforystu eftir þingkosningar 1991 komst flokkurinn að sömu niðurstöðu og Morgunblaðið hafði komizt að einu og hálfu ári áður. Varla geta forystumenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýnt Morgunblaðið fyrir afstöðu til þessa máls úr því, að þeir komust að lokum að sömu niðurstöðu sjálfir.
Á síðasta ári tók formaður Alþýðuflokksins upp baráttu fyrir því, að Íslendingar sæktu um aðild að Evrópusambandinu og gerði það að sínu höfuðmáli síðustu misserin, sem hann sat á stóli utanríkisráðherra. Morgunblaðið tók eindregna afstöðu gegn þeirri stefnu Alþýðuflokksins og formanns hans og lýsti þeirri afstöðu ítrekað frá því vorið 1994, þegar Jón Baldvin Hannibalsson hreyfði þessu máli fyrst að ráði. Hvernig kemur Davíð Oddsson þessu heim og saman við þá fullyrðingu, að Morgunblaðið hafi “lagt sig fram um að styðja Jón Baldvin”? Sannleikurinn er auðvitað sá, að Morgunblaðið hefur verið og er samkvæmt sjálfu sér. Blaðið studdi stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar á sl. kjörtímabili í öllum megindráttum að fiskveiðistefnunni undanskilinni og þ. á m. utanríkisstefnu hennar, sem forsætisráðherra er væntanlega jafn ábyrgur fyrir og utanríkisráðherrann. Stefna blaðsins hefur þróazt smátt og smátt m.a. á síðustu fjórum árum og fyrir skömmu lýsti blaðið því yfir, að það mundi taka afstöðu til einstakra mála núverandi ríkisstjórnar og þess vegna væri rangt að tala um, að Morgunblaðið væri annaðhvort í stjórn eða stjórnarandstöðu. Afstaða Morgunblaðsins snýst um málefni en ekki persónur. Ásakanir einstakra talsmanna Sjálfstæðisflokksins um sérstakan stuðning við Alþýðuflokkinn eða formann hans fá einfaldlega ekki staðizt.
Að öðru leyti hlýtur Morgunblaðið að fagna jákvæðum ummælum forsætisráðherra í þess garð en hann sagði m.a. í umræddum útvarpsþætti: “Mér finnst Morgunblaðið góður fjölmiðill. Að öðru jöfnu þá held ég, að Morgunblaðið, fyrir utan þetta, sem við erum að tala um, þá held ég nú, að Morgunblaðið svona á evrópskan mælikvarða sé ansi gott blað og sú þjónusta sem blaðið veitir lesendum sínum sé mjög góð. Það er alhliða og fjölbreytt þjónusta, þannig að ég hef mikið álit á Morgunblaðinu hvað þetta varðar.” Um þetta álit forsætisráðherra er Morgunblaðið honum hjartanlega sammála!
Þegar ég kom í Rótarí í dag voru félagar mínir að tala um það sem Davíð Oddsson hafði sagt um Morgunblaðið og viðbrögð okkar í forystugreininni.
Baldvin Tryggvason sagði að það væri betra að þetta kæmi upp á yfirborðið, svo að hægt væri að ræða ágreining blaðsins og forsætisráðherra fyrir opnum tjöldum og þvingunarlaust.
Ég tók undir það.
Þeir fóru þá að tala um hvort blaðið væri þá ekki orðið frjálst og sjálfstætt og ég sagðist telja að svo væri.
Það væri frjálst að öllu – nema ritstjórum sínum(!)
Þannig mun það víst ávallt verða.
Blöð verða víst aldrei frjáls að þeim sem stjórna þeim.
Með þá niðurstöðu í huga eftir allan þennan barning leyfi ég mér að fullyrða að það sé ekki sama hver stjórnar fjölmiðlum(!)
Og það skiptir þannig máli hver stjórnar Morgunblaðinu.
Vonandi verða það víðsýnir hugsjónamenn sem hafa þrek til að standa vörð um blaðið og lýðræðislegar hugmyndir um frelsi– og þá ekki sízt frelsi einstaklingsins – og hafa bolmagn til að sinna skyldum sínum við samfélagið og þá arfleifð sem hefur dugað okkur bezt; tunguna, menningu, kristni og lýðræði.
Sá sem fylgir þessum fjórum vegvísum er á réttri leið. Hann má ekki stjórnast af geðþótta né persónulegum tengslum; hann á einungis að stjórnast af þeirri sannfæringu sem er kraftbirting mikilla hugsjóna.
4. maí – fimmtudagur
Stoppard segir í Rosenberg og Gyldenstjerne að lífið sé vonlítil áhætta.
Ef það væri veðmál tæki enginn þessu veðmáli.
Mundi þetta ekki vera íhugunaefni?
Um þetta fjalla Hólmgönguljóð, ekki sízt.
Ljóð eru hólmganga við tímann.
Ljóðið er barátta við ágengni tímans, segir Kristján Karlsson.
Það er hárrétt.
Og líklega væru engin ljóð til, engin list án tortímingar; dauða.
Allt er þetta hólmganga; barátta við umhverfið og tímann; barátta við lífsháskann
Larkin orti lítið kvæði um tímann þar sem hann segir að tíminn sé sög og tréð í skóginum heyrir í þessari sög.
Ætli við séum ekki alltaf að yrkja um þessa sög? Ég hef sagt að ljóðskáldið sé tré og tréð er ekkert að velta því fyrir sér hvernig það laufgast.
En einn góðan veðurdag byrja fuglarnir að syngja í trénu.
Maður sezt ekki niður og fer að yrkja, heldur syngur maður með trénu.
Morgunn í maí fjallar á yfirborðinu um heimsstyrjöldina. En í raun og veru um styrjöld drengsins við umhverfi sitt og leit hans að föður sínum. Þegar pabbi fór að heiman um tíma sagði hann við mig tíu ára gamlan,
Þú skilur þetta þegar þú verður orðinn fullorðinn.
Við stjórnum engu.
Okkur er stjórnað, sagði Páll Ísólfsson. Og nú skil ég þessi orð föður míns.
Hann átti gott bókasafn.
Ég las leikrit Ibsens þegar ég var drengur á Hávallagötunni. Þá sat ég líka við gluggann og orti um jökulinn.
Pabbi vissi ég hefði áhuga á ljóðlist. Og hann sagði við mig, Heyrðu, Matti minn, lestu bara Litla fossinn eftir Pál Ólafsson. Þá geturðu séð hvernig á að yrkja.
Pabbi var mikill bókmenntamaður og hafði ákaflega fínan smekk og mikla tilfinningu fyrir bókmenntum. Hann las heimsbókmenntirnar spjaldanna milli.
Ég gaumgæfði þessi orð föður míns.
Mér finnst gott þegar kvæði eru nálægt talmáli; þegar þau eru einskonar samtal; einskonar ferðalag frá einni hugmynd til annarrar. Það er kannski þess vegna sem ég orti Borgin hló með þeim hætti sem raun ber vitni.
Mér fannst ljóðmálið of fjarlægt daglegu tungutaki og mig langaði til að opna ljóðið, en fékk bágt fyrir það vegna þess að maður á ævinlega að fylgja tízkunni. En þeir sem fylgja henni ekki eru dauðadæmdir.
En tíminn fylgir ekki tízkunni, hann gerir hana að engu; gerir hana afkáralega; jafnvel hlægilega. Og þess vegna á ekkert skáld að fylgja tízkunni; einungis þessum eina tón sem syngur í brjóstinu; syngur í laufinu og sér um það að tré er trés gaman.
Páll Ólafsson yrkir eins og Mozart og Björnstjerne Björnson:
Það var skrítilegt sem ég sá...
Þorsteinn Erlingsson getur einnig ort með þessu lagi:
Þér frjálst er að sjá hvar ég bólið mitt bjó
ef börnin mín smáu þú lætur í ró...
Samtal; hlýtt ávarp; ferðalag frá einum til annars. Hversdagsljóðin mín eru afkvæmi þessa stíls.
Mennskan kemur inn í líf mannsins með dauðanum. Hann er fyrsta spor dýrsins inn í guðlega vitund. En honum getur fylgt ótti, kvöl, þjáning.
Án vitundar um dauðann engin trú; né von; né kærleikur. Kannski ekki heldur nein ást. Hún er ekki endilega sama og kynferðisleg svölun.
Þegar fyrsti steinaldarmaðurinn fór fingrum um bakið á konunni sem hann elskaði, á því andartaki varð fyrsta ástarljóðið til – og það er nokkuð langt síðan.
Foreldrar mínir voru ósköp ólík. Móðir mín var ákaflega trúuð kona. Hún kenndi mér Hallgrím Pétursson og ég man ekki eftir mér svo ungum, að hann væri ekki einhvers staðar á næstu grösum. Móðir mín lifði trú sína í verki.
Hún var af sama efni og Fjallræðufólkið.
Hún sagði mér að séra Hallgrímur hefði verið járnsmiður og hann vissi til hvers eldurinn er.
Eldurinn hreinsar.
Lífið er ekki einungis afþreying og það er ekki hægt að lifa lífinu eins og maður eigi ekki að deyja. Það gera dýrin, þau eru á sínum stað, þessi viðbót við hugsun guðs um jörðina; en við á okkar. Og þau eru áreiðanlega ekkert að hugsa um það sem við erum að bardúsa. Þau eru ekki að yrkja eða semja 9. sinfóníu Beethovens.
En þau svala kynhvöt sinni, þau berjast um fæðu; þau berjast um völd eins og stjórnmálamennirnir.
Þau eru sem sagt í pólitík.
Þess vegna finnst mér ágætt að bæta svolitlu við af listum, menningu og guðlegum innblæstri og rækta með okkur einhverja mennska tilfinningu.
Það er svo annað mál að ég geri ráð fyrir því að dýrunum líði oft betur en manninum. Það getur svo sem vel verið að dýr leggist í þunglyndi, ég veit það ekki. En þunglyndi, kvíði og allskyns áhyggjur fylgja okkur mönnum.
Ég geri ekki ráð fyrir því að ljón eða tígrisdýr líði af ristilkrampa.
Maí – ódagssett
Var að lesa eintal Molly Bloom í Odysseifi Joyce: Og ég sagði já, ég vil.
Já.
Þannig endar ástin ævinlega á jái. En stundum er hún bara von; eða draumur.
Ég hef minnzt á drauma í Helgispjalli; ekki drauma í vöku, heldur svefni. Þeir eiga lítið skylt við ástina. Ég veit ekki hvort það er ástin sem Freud er að tala um; eða fýsn dýrsins. Kannski vissi Freud það ekki heldur.
Dungal sagði einfaldlega í samtalinu við mig að draumar og dulræn fyrirbrigði ættu allt rætur að rekja til heilans sem væri mikilvægasta líffæri mannsins, en minnst þekkt.
Það er líklega eitthvað til í þessu.
En samt dreymdi móður hans á sínum tíma að bróðir hans hefði slasazt í Þýzkalandi.
Og það kom á daginn.
Dungal leiddi hugann að þessum draumi og afgreiddi hann ekki eins auðveldlega og önnur dularfull fyrirbrigði, því nú átti móðir hans í hlut og að vefengja reynslu hennar; og drauma.
Það var snúið!
Helgi Pjeturs segir í Annarri uppgötvanasögu í Nýal að draumurinn sé líf en ekki endurminning um líf, eða hugsun um líf.
Ef við dreymum hest sjáum við hest. En það er ekki eins og við sjáum hest, segir dr. Helgi sem taldi að draumalífið væri í raun réttri vökulíf annars manns, eins og hann kemst að orði.
Ég skal ekkert segja um það.
En menn vakna að minnsta kosti ekki upp eftir dauðann á nærliggjandi hnöttum.
En kannski einhverjum fjarlægari hnöttum, hver veit.
En Swedenburg og aðrir annarsheims fræðingar hafa víst haft einhvern pata af þessu.
Dante gerir ráð fyrir framhaldslífi á sólfögrum stjörnum, að mér sýnist.
Það er einhvers konar paradís.
En dr. Helgi segir að helvíti sé þar sem þjáðst er og dáið.
Það er forn trú að sálin eða sumar sálir lifi eftir dauða líkamans á annarri stjörnu eins og Platón getur um.
Og dr. Helgi bendir á þau ummæli hans að sál þess manns sem hefur lifað vel fari aftur að byggja stjörnu sem sé lík þeirri sem viðkomandi maður hafði átt að heimkynni.
Ég er ekki nýalisti en hef þó gaman af dr. Helga.
Og eiginlega er hann alltaf að afvopna mann.
Fylgisleysi við þekkingarfrömuðina, segir hann, einmitt þetta hversu tómlega, fávíslega og jafnvel fjandsamlega þeim sannindum hefir verið tekið, sem voru þó eina leiðin til þess að bæta mannlífið, gerir oss skiljanlegt betur en allt annað, hversu örðugt það er fyrir hin góðu öfl að hjálpa. Því að öðruvísi verður ekki hjálpað á “guðlausri” jörð en þannig, að menn séu studdir til að hugsa einhverja þá hugsun sem til umbóta miðar.
Þeir menn eru erindrekar guðanna, sem hugsa hinar góðu hugsanir og þeir, sem framkvæma þeim samkvæmt.
Þetta eru garðyrkjumenn hugarfarsins. Líf þeirra fjallar um fegurð hugarheimsins eins og dr. Helgi segir, en ekki vítisslóðina.
Þeir sem brenndu Bruno, létu Keppler svelta og settu Galilei í varðhald og hjuggu höfuðið af Lavoisier, þóttust vera á guðs vegum.
En í raun hötuðu þeir guð; þessir fulltrúar helstefnunnar.
Eða Hitler og Stalin, illskan í allri sinni forsmán, guð minn góður(!)
Ég hef stöðvazt við ummæli dr. Helga í Hinu mikla sambandi, Hitt hafa menn ekki vitað, þó að undarlegt megi virðast, að trúarbrögð geta ekki fært mannkyninu friðinn. Einungis þekkingin getur það. Sú þekking, sem er ekki takmörkuð af neinum trúarbrögðum, sú þekking, sem gerir mönnum skiljanlegt, svo að þar þarf engrar trúar við, hvernig framtíð þeir skapa sjer, sem vilja verða frægir og miklir á því að baka öðrum böl, og hvernig einungis þar, sem lokið er öllum vilja á að gera öðrum ilt, verður stefnt til hins mikla sambands...
Maður getur ekki látið slík orð fram hjá sér fara, umhugsunarlaust. Þau kalla á íhugun; viðbrögð. Þau kalla á heila hugsun um stöðu mannsins í umhverfi sínu en ekki óheila hvatvíslega afgreiðslu eins og er alltof algeng í íslenzku samfélagi.
Það er gott að dreyma Sigurð og Sigríði; verst að dreyma Margréti. Þó er ég farinn að venjast Margréti í draumum. Það gerist ekkert illt þó mig dreymi Margréti. En þegar drengirnir voru í prófum í gamla daga í Háskólanum gat ég ævinlega treyst því að þeim gengi stórvel eða heldurvel ef mig dreymdi t.d. Sigurð A. Magnússon eða Sigurð Bjarnason; eða Sigríði Björnsdóttur.
Einu sinni dreymdi mig að Steingrímur Jónsson, rafmagnsstjóri, væri kennari Halla í lögfræðinni, en Steingrímur Gautur kenndi honum viðkomandi fag.
Hvað merkir þetta, hugsaði ég.
Jú, ég hafði heyrt að Steingrími rafmagnsstjóra hefði verið gefið Kjarvalsmálverk af sjálfum sér þegar hann átti stórafmæli.
Menn voru ekki á eitt sáttir um málverkið.
En þá sagði frú Lára, kona Steingríms, að þeir skyldu ekki hafa áhyggjur af málverkinu, Það venst, sagði hún, eins og Steingrímur!
Halli var sem sagt hólpinn í prófinu!
Já,heilinn var að störfum meðan ég svaf.
Annars þurfa draumar ekki að merkja neitt. Maður getur fengið martröð af engu; eins og Arthur Gordon Pynn í sögu Edgard Allan Poes, Ævintýri í suðurhöfum:
“Martraðarkenndir draumar ásóttu mig. Nær því allar hugsanlegar ógnir birtust mér. M.a. fannst mér hræðilegir og draugalegir djöflar vera kæfa mig í sængurvoðunum. Geysistór höggormur vafði sig utan um mig og hvessti á mig ískaldar glyrnurnar. Því næst fannst mér ég vera staddur á takmarkalausri og ógnandi auðn. Ógurlega stórir trjábolir, gráir og limalausir, risu í endalausum röðum eins langt og augað eygði. Rætur þeirra voru faldar í víðáttumiklum, kolsvörtum mýrafenjum. Trén virtust fá á sig mannslögun; þau veifuðu berum örmunum og hrópuðu í örvæntingu til vatnsins að miskunna sig yfir þau. Síðan breyttist sjónarsviðið. Ég stóð nakinn og aleinn mitt í hinni brennandi sandauðn Sahara. Við fætur mér lá hið villta ljón hitabeltisins. Allt í einu opnaði það augun og leit á mig. Með krampakenndum hreyfingum reis það á fætur og lét skína í vígtennurnar. Á næsta augnabliki rak það upp ógurlegt öskur og um leið féll ég til jarðar. Ég gat hvorki hreyft legg né lið, en þó fann ég, að ég var að hálfu leyti vakandi.
Draumurinn minn var ekki að öllu leyti draumur. Nei, að minnsta kosti fann ég, að ég var kominn til sjálfs mín.
Einhver stór skepna þrýsti loppunni ofan á brjóstið á mér, ég fann heitan andardrátt hennar rétt við eyrað á mér og í gegnum dimmuna sá ég skína í hvítar vígtennur hennar. Jafnvel þótt þúsundir mannslífa hefðu verið undir því komnar, hefði ég ekki getað hreyft mig eða gefið hljóð frá mér. En dýrið, hvað sem það nú var, var grafkyrrt og gerði mér ekkert meðan ég lá alveg hjálparlaus. Ég fann krafta mína fjara út og ég var sannfærður um að ég væri að deyja.
Að lokum tók ég á öllu, sem ég átti til, gaf frá mér bænarandvarp til guðs og bjó mig undir að deyja. Röddin virtist koma hreyfingu á dýrið. Það lagðist nú alveg ofan á mig og tók að sleikja í ákafa andlit mitt og hendur, um leið og það rak upp ámátlegt gleðivæl.
Hversu undrandi varð ég ekki er mér fannst ég þekkja þetta ýlfur. Þetta hlaut að vera gamli, tryggi New Foundlands hundurinn minn, Tryggur. Og það reyndist svo. Ég fann nú að blóðið var aftur farið að renna í æðum mínum. Með erfiðismunum gat ég risið upp og kastað mér grátandi um hálsinn á mínum gamla og trygga vini...”
Þetta var sem sagt hið villta ljón hitabeltisins!
Oft er ljótur draumur fyrir litlu efni. Og oftast, að ég held nú, fyrir engu efni.
Það vantar svo sem ekki óhugnaðinn í þessa sögu Poes; né lýsingarnar á hafinu og hamförum þess. Ég er ekki hissa á því að Baudelaire skyldi hafa mætur á Poe.
Annars er þessi saga einskonar dagbókarbrot öðrum þræði.
Og Pynn þjáist af sjóveiki í þungum sjó. En hann þurfti þó ekki að vaska upp úr annarri fötunni og kasta upp í hina, eins og messaguttinn á Brúarfossi sællar minningar.
Auden sagði að sagan um Pynn væri einhvert merkasta ævintýri sem skrifað hefði verið.
Sumir gagnrýnendur telja að það sé fyrirmyndin að Mobý Dick.
Borges hélt hvað mest upp á Edgar Allan Poe,eða ,nei það var víst R.L. Stevenson.
Og Melville.
Vegir listarinnar eru órannsakanlegir, ég tala nú ekki um ljóðlistina sem er sótt til guðanna.
Líklega hefur Óðin langað til að verða ljóðskáld.
Ég sé ekki betur en það búi ljóðskáld í öllum mönnum, ég er að minnsta kosti alltaf að hitta fólk sem er með einhverja tilburði í þá átt.
Sigurður Þórarinsson sendi mér einu sinni þakkarávarp fyrir afmælisskeyti og talaði um að slíkt yrði maður að taka alvarlega þegar ljóðskáld væri annars vegar; maður yrði að bera virðingu fyrir þeim dulmagnaða galdri. Hann var ekkert að hreykja sér af sínum fjólubláu draumum en bar fram þakklæti sitt af kurteisi og háttvísi sem ég varð að taka alvarlega.
Það minnti mig á þegar Kristján Eldjárn hringdi til mín á sínum tíma og sagði að ég ætti að fá viðurkenningu úr einhverjum rithöfundasjóði vegna ljóðlistar. Þá hafði ég víst ort Borgin hló, Hólmgönguljóð og Jörð úr ægi.
Ég sagðist ekki líta á mig sem skáld. Þá svaraði dr. Kristján, Við í nefndinni höfðum aðrar skoðanir á því(!) Um það erum við ekki sammála.
Hvað á maður að gera andspænis slíkri vinsemd og hlýju?
Og ég lét freistast.
Þá var ég ungt skáld og umdeildur og viðurkenningin var mikilvæg eins og á stóð.
Ég hafði að vísu fengið góðar viðtökur en einnig heldur kaldar kveðjur. Það var ekki fyrr en ég fór að fá fína dóma í dönskum blöðum fyrir þýðingar Poul P.M. Pedersens á ljóðum mínum um miðjan 7. áratuginn, sem atómskáldið fékk hlýtt viðmót hér heima og hefur það haldizt æ síðan, með fáum undantekningum.
Ég er auðvitað nógu hégómlegur til að kunna því vel.
Það kom mér þægilega á óvart þegar Alþingi samþykkti samhljóða að veita mér heiðurslaun og hef ég metið þá viðurkenningu meir en aðra vinsemd sem mér hefur verið sýnd sem rithöfundi.
Og nú þarf ég við tækifæri að gefa út ljóðaflokkinn sem ég orti með hliðsjón af Mobý Dick.
Þessi skáldsaga Melvilles er eins og Biblían sjálf; viðbót við þá bók sem guð skrifaði sjálfur þegar hann skapaði himin og jörð.
Eitt eru draumar, annað dagdraumar. Margir eiga sér dagdrauma, kannski flestir.
Grettir Ásmundarson var persónugert lundarfar íslenzku þjóðarinnar,þess vegna er saga hans jafnvinsæl og raun ber vitni.Hann var aldrei til friðs. Samt taldi hann sig áreiðanlega friðsemdarmann.
Hann hafði gaman af að drepa hænsni föður síns,þó ekki væri annað!.
Það eru margir sem drepa tímann með því að drepa hænsnin í næstu girðingu.
Gunnlaugur Scheving sagði mér að hann teldi sig hafa séð Snorra Sturluson í draumi.
Hann gekk inn í herbergið þar sem Snorri sat í stól í Reykholti og var fyrir borðsenda “og ég vissi strax að það var hann”, sagði Gunnlaugur.
Þeir heilsuðust.
Snorri stóð upp og gekk til Gunnlaugs og þá sá hann að Snorri var lítill maður vexti, grannvaxinn og með spóafætur. Hann var sköllóttur en þó mátti sjá að hann hafði verið rauðbirkinn. Hann var með óskaplega stórt brennivínsnef, eldrautt.
Heldurðu virkilega að þetta hafi verið sjálfur stórhöfðingi Sturlunga í Reykholti, spurði ég.
Já, já, sagði Gunnlaugur, ég er ekki í neinum vafa um það, þetta var Snorri.
Ég hugsaði með mér að líklega hefði engum dottið í hug að fá Snorra í sjónvarp, ef hann hefði lifað nú; það hefði enginn haft áhuga á þessum karli með stóra brennivínsnefið.
7. maí – sunnudagur
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag er athyglisvert samtal Elínar Pálmadóttur við Evelyn Stefánsson, ekkju Vilhjálms Stefánssonar.
Vilhjálmur var frændi Jóhannesar , afa míns, og með þeim var vinátta með frændsemi.
Jóhannes var stoltur af frænda sínum
. Faðir minn hafði engar sérstakar mætur á Vilhjálmi, en hann var því hrifnari af Nansen og Ámundsen.
Það stóð til að skíra hann Friðþjóf eftir Friðþjófi Nansen. En frá því var horfið og í staðinn var hann skírður eftir Haraldi hárfagra Noregskonungi.
Ég er ekki alinn upp í neinni aðdáun á Vilhjálmi Stefánssyni. En þegar við vorum á stúdentaferðalaginu um Bandaríkin 1954 stóð til að við strákarnir færum til Dartmouth og heimsæktum Vilhjálm.
En frá því var horfið því hann var ekki heima.
Því miður.
En við hittum Halldór Hermannsson prófessor í staðinn.Það var í Íþöku.
Vilhjálmur skrifaði mikið um norðurslóðir en ég hef aldrei haft mikinn áhuga á þeim. Hugur minn hefur staðið til suðlægari landa.
Mér finnst merkilegt það sem Evelyn Stefánsson segir um Vilhjálm. Hann hefur augsýnilega verið stórmerkur maður.
Hann var ættaður af Höfðaströnd eins og Jóhannes afi. Þetta fólk var vel á sig komið og Evelyn segir að Vilhjálmur hafi verið mikill og góður ástmaður og raunverulega kennt sér gott kynlíf.
Það hafi verið “extrabónus”!
Vilhjálmur var 30 árum eldri en hún. Mig minnir að hún hafi verið 27 ára þegar þau giftust.
Hann var 83 ára þegar hann dó. Þá var hún rúmlega fimmtug.
Ég hef verið hrifnari af Ámundsen. En eftir lýsingu Evelynar hefur vogarskálin þyngzt hjá Vilhjálmi, frænda mínum. Það er ekki á hverjum degi sem Íslendingar flytjast til Vesturheims og niðjarnir kenna bandarískum konum að njóta ástarinnar!
Vilhjálmur var ekki afbrýðisamur, segir Evelyn.
Það líkar mér vel.
Ég er að hugsa um að kynnast betur þessum frænda mínum. Hann hugnast mér betur því meir sem ég heyri af honum. Líklega var það rétt hjá Jóhannesi afa að vera stoltur af þessum frænda sínum.
Vilhjálmur hefði helzt viljað verða ljóðskáld. En hann eyðilagði öll ljóðin sín.
Það hefðu fleiri mátt gera!
Hann gekk 22 þúsund mílur inn í óþekkt heimskautalönd og lifði af eins og ekkert væri.
En frændi hans, Jóhannes sýslumaður í Hjarðarholti, faðir Jóhannesar afa míns, var á leiðinni af strandstað heim í Hjarðarholt þegar hann varð úti í vitlausu veðri í Glámunni, skammt fyrir norðan bæinn.
Úr kirkjugarðinum í Hjarðarholti má sjá banaþúfur tveggja langalangafa minna; Jóhannesar og Ásgeirs Finnbogasonar, bónda í Lundum, sem drukknaði í Lundahyl í Þverá þegar hann hafði fylgt gestum sínum yfir ána á ótryggum ís.Hann var faðir Kristínar,móðurömmu minnar,hún var kona Lárusar Blöndal, amtmanns.
Ásgeir var heljarmenni. En hann réð ekki við svo kalda vök.
Ég veiði helst aldrei í Lundahyl.
Í sunnudagsblaðinu í dag er einnig samtal við Björn Bjarnason, nýorðinn menntamálaráðherra. Ég held það sé ekki þakklátt starf. Vona bara það gangi betur en í Almenna bókafélaginu. Ég tapaði nær tveimur milljónum í krakkinu þar. Þá var Björn stjórnarformaður og réð ekki við erfiðar aðstæður. En það fannst engum mikið þótt ég tapaði afrakstri tveggja metsölubóka, enda hafði ég vel efni á því! Að auki fékk ég aldrei eldri ritlaun óinnheimt, þau týndust í tölvunni, sagði Óli Björn Kárason mér, en hann reyndi að bjarga því sem bjargað varð. Traustur maður og hreinskiptinn.
Ég hefði ekki viljað vera fátækt skáld við þær aðstæður, þá hefði ég lent í Félagsmálastofnun!
Fyrir margt löngu sögðu ýmsir við mig, Af hverju hættirðu ekki á Morgunblaðinu og ferð bara að skrifa og yrkja?
Ef ég hefði gert það væri ég hálfgerður ölmusumaður; bitur og óánægður með allt og alla.
Nú er ég frjáls eins og fuglinn og mér er heldur hlýtt til umhverfisins.
Það lifir enginn af að yrkja. Það er ekki alltaf vor í skóginum; vor og fuglasöngur. Það er vetur í lífinu líka og honum þarf að mæta af raunsæi.
Íslenzka birkið kann fullkomlega á umhverfi sitt. Við eigum að læra af því. Það laufgast ekki áður en veturinn er liðinn. Það er raunsætt, það ruglar ekki saman vori og vetri.
Ég hef margt af því lært.
Það er annars einkennilegt, þegar ég hugsa um það, að maður skrifar helzt ekki á svona minnismiða það sem er hjartanu næst, heldur hitt sem vekur manni umhugsun; áreitir. Maður skrifar um alla þessa óboðnu gesti daglegs lífs sem eru partur af þrasinu og daglegu amstri.
Það sem er mikilvægast er geymt í dagbók hjartans; ástin; kærleikurinn; hlýja þeirra sem maður elskar. Allt sem gefur lífinu lit og er í tengslum við trú og eilífð; í tengslum við mennskuna og fyrirheitin ofar jarðnesku basli.
Í gær, laugardag, var fréttaskýringarþáttur í Ríkisútvarpinu um Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkinn. Það var ágæt samantekt hjá fréttamanninum og það sem hann rifjaði upp var rétt og sannleikanum samkvæmt.
Sjálfstæðisflokkurinn þurfti að staðgreiða auglýsingar eins og aðrir flokkar fyrir kosningar.
Morgunblaðið er engin vetrarhjálp fyrir Sjálfstæðisflokkinn,ekki lengur; það var annað mál í kalda stríðinu. En þetta tengist á engan hátt pólitískri afstöðu blaðsins og þeirri þróun sem orðið hefur. Fréttamaðurinn talaði um hinn fullkomna aðskilnað Sjálfstæðisflokks og Morgunblaðs. Það má kannski til sanns vegar færa, nema hvað Morgunblaðið heldur fast við sjálfstæðisstefnuna, ekki síður en Sjálfstæðisflokkurinn. Svo er hitt annað mál sem Davíð Oddsson nefndi í útvarpssamtalinu um daginn að menn geta haft ýmsar skoðanir á því, hvað sé sjálfstæðisstefna.
Hann sagði margt rétt í þessu samtali, en þegar hann fór að tala um Jón Baldvin enn einu sinni, sló út í fyrir honum; að venju.
Svanur Kristjánsson prófessor var fenginn til að tala eitthvað um Morgunblaðið í þessum fréttaskýringarþætti. Hugmyndir hans og skýringar voru langsóttar, fannst mér, og þegar hann fór að tala um rúbluleiðarann, sem hann nefndi svo, hætti ég að fylgjast með.
Þessi rúbluleiðari var skrifaður um myndun ríkisstjórnar Gunnar Thoroddsens á sínum tíma og lýsir engu öðru en því að Morgunblaðið taldi að þarna væri um vinstri stjórn að ræða og blaðið hefur aldrei stutt vinstri stjórn. Það varaði við slíkri stjórn enda ekki vanþörf á því eins og á stóð.
Morgunblaðið taldi það ekki hlutverk eins af leiðtogum Sjálfstæðisflokksins að hverfa frá þingflokknum og mynda slíka stjórn þar sem alþýðubandalagsmenn og framsóknarmenn réðu ferðinni, þrátt fyrir þá ágætu sjálfstæðisþingmenn sem voru munstraðir á þessa skútu. Það kom líka í ljós að vinstristjórnar verðbólga grasseraði í landinu og var orðin háskalegt þjóðfélagsmein, þegar yfir lauk.
Annars er Svani Kristjánssyni vorkunn.
Hann þekkir ekki innviði Morgunblaðsins. Það sem fyrir augu ber fer eftir sjónarhólnum og hvernig horft er. Hið afstæða mat er oft og einatt forsenda stjórnmálaskýringa, ég tala nú ekki um þegar heimildir skortir.
Þær verða því einatt afstæður sannleikur.
Annars er ég orðinn djöfull þreyttur á þessu þrasi öllu saman. Það er orðið ósköp næringarlítil tugga. Vonandi fer þessu nú að linna fyrst hið “hlutlausa” Ríkisútvarp telur að nú sé orðinn fullkominn aðskilnaður milli Sjálfstæðisflokks og Morgunblaðsins.
Þetta minnir einhvern veginn á aðskilnaðinn á milli ríkis og kirkju. Það gerist ekki annað en hver heldur sínu; það er allt og sumt. En Guð er hinn sami!
11. maí
Hef verið að lesa próförk að sögunum mínum sem Bragi í Hörpuútgáfunni ætlar að gefa út í haust. Þetta er að venju samlestur okkar Hönnu því hún hefur ævinlega lesið með mér prófarkir.
Vona þessar sögur verði ekki afgreiddar eins og óhreinu börnin hennar Evu.
Veit það er tilhneiging til þess.
Ég á að vera við minn sala eins og aðrir; þ.e. ég á að yrkja ljóð.
Einu sinni átti ég einungis að geta skrifað góð samtöl, en helzt ekki ljóð. Síðan átti ég einnig að vera gott ljóðskáld, en heldur vondur leikritahöfundur, og þegar Konungur af Aragon kom út hjá Almenna bókafélaginu 1986 fékk hún heldur misjafna dóma.
Sól á heimsenda var þó betur tekið árið eftir.
Nú á ég að venju von á hverju sem er, einkum vegna þess að sögurnar eru ekki í anda Íslendinga sagna eins og tíðkazt hefur, heldur eru þær vaxnar úr minningum, ljóðrænu ívafi og draumum.
Sænska skáldið Tomas Tranströmer skrifaði á ljóðabók sína, Dikter, 1974-1978 þegar hann rétti mér hana í Reykjavík 29. febrúar 1980, að hún væri frá “einum draumspesíalista til annars...”. Og hafði þá skrifað á hana kvæði sitt um íslenzka veðrið og gefið mér.
Ég hef skrifað margar sögur sem eru vaxnar úr draumum eins og blóm úr mold. En moldin veit ekki af þessu afkvæmi sínu. Og það er aldrei að hugsa um moldina, því hún nærir það umhugsunarlaust, heldur er það með öll blöðin við sólina og teygir þau að henni eins og barn sem leitar vörum sínum svölunar við móðurbrjóstið.
Kannski eru þetta engar sögur, kannski eru þetta allt eintóm ljóð; ég veit það ekki.
En ég hef aldrei gleymt því sem Dungal sagði við mig, að heilinn væri merkilegasta líffæri mannsins og minnst þekktur. Og hann er miðstöð allra drauma. Og það er í honum sem mætast draumur og veruleiki. Og kannski einnig líf og eilífið. Enda er hann hin eina sanna uppspretta alls þess sem við skiljum ekki og er dularfullt og óvænt. Þess vegna hef ég líka skrifað um heilann og ég hef ekki sízt reynt að gera mér einhverja grein fyrir sambúð minni við minn eigin heila.
En það hefur þá gengið á ýmsu.
Fyrir nokkrum árum datt ég, án tilefnis. Guðjón læknir Lárusson frændi minn vildi ganga úr skugga um að allt væri með felldu þarna í toppstykkinu og sendi mig í myndatöku á Röntgendeild Landspítalans.
Þegar ég var lagstur út af og allt tilbúið fyrir myndatökuna, sagði röntgentæknirinn vandræðalega, Þú hefur orðið fyrir slysi(!)
Ha, hváði ég.
Já, það er málmplata í höfðinu á þér!
Málmplata, sagði ég, kemur það fram við myndatökuna?
Já, sagði hún. Þú hefur fengið höfuðhögg og það hefur þurft að setja málm við hauskúpuna.
Ég man nú bara ekki eftir því, sagði ég.
Það er undarlegt, sagði hún, að lenda í svona miklu slysi og vita ekki af því.
Ég var nú hættur að halda að þetta væri eins og hvert annað grín og fór að hugsa um, hvort þetta gæti verið; að ég hefði fengið málmplötu í höfuðið án þess muna.
Þú hefur skaddazt á höfðinu, bætti hún við um leið og hún var eitthvað að dunda við tækið og hlaupa fram og aftur til að stilla það og ná sem beztri mynd.
Ég var nú orðinn klár á því að allt væri þetta einhver misskilningur svo ég sagði við konuna,
Það eru að vísu margir hér á landi sem halda að ég hafi skaddazt illa á höfði, en það er samt misskilningur.
Hún horfði á mig vantrúuð, hristi höfuðið og sagði svo,
Ég ætla að fara og sækja rafmagnsmennina, það getur verið að tækið sé bilað!
Hún gekk fram og ég beið og hugsaði um málmplötuna og þennan sérkennilega heila í höfuðkúpu minni sem ég hafði eiginlega aldrei kynnzt að ráði.
Nokkru síðar kemur hún inn aftur og þá heldur framlág.
Ég verð að biðja þig afsökunar, sagði hún. Þetta er rétt hjá þér. Það er engin málmplata í höfðinu á þér, tækið er bilað.
Mér létti.
En ég fann að heilinn hló tröllahlátri og það fór í taugarnar á mér.
Þarna náði hann sér niðri,helvízkur!hugsaði ég.
Þetta er ófyrirgefanlegt, sagði konan.
Gerir ekkert til, sagði ég.
Þetta tekur dálitla stund, sagði hún.
Já, sagði ég, en hafðu engar áhyggjur af þessu. Einu sinni sagði Níels Dungal að það mætti sjá á Morgunblaðinu að ég borðaði mikið skyr í hádeginu því þá rynni allt blóðið niður í maga og varla nokkur dropi upp í heilann allan daginn.
Og þeir eru áreiðanlega margir sem trúa því statt og stöðugt að ég hafi fengið höfuðhögg, það megi oft sjá á Morgunblaðinu!
Þá létti konunni, hún brosti og fann að ég hafði ekki móðgazt en tekið þessu af karlmennsku og húmor – og hafði jafnvel haft einhverja skemmtan af.
Þetta kæmi sem sagt ekki í Víkverja!
En það eru áreiðanlega margar stálplötur þar sem þær eiga ekki að vera og við vitum ekki alltaf af þeim.
Já, nú hefur Bragi Þórðarson í Hörpuútgáfunni óskað eftir því að gefa út bækurnar mínar. Mér lízt nokkuð vel á það. Hef verið á hrakhólum eftir að Almenna bókafélagið breyttist í upphrópunarmerki á legsteini þeirra forystumanna borgaralegrar menningar sem hófu það til vegs og virðingar; og nokkuð mikilla áhrifa á sínum tíma.
Iðunn hefur gefið út eftir mig fjórar bækur; ágætlega. En mér finnst ég ekki eiga þar heima eftir að Sigurður Valgeirsson hætti þar störfum og fór á sjónvarpið.
Ég lifi eins og blómin, hugsa lítið sem ekkert um moldina en þarf á því meiri sól að halda. Báðir synir mínir eru sama marki brenndir. Þeir eru líkir mér að þessu leyti, en ekki móður sinni. Hennar sól kemur innan frá; þaðan er einnig sprottið þrek hennar og andlegt jafnvægi. Það er mikið veganesti að eiga slíkt innra afl og þurfa ekki á neinum umhverfissólum að halda.
Þær eru oftar en ekki týrur og villuljós.
Ég er að reyna að innræta sjálfum mér og sonum mínum að gera ekki of mikið úr öðru fólki því það er eins og sjávarafli; svipult.
Hef verið að lesa Bláust augu eftir Tony Morrison; einnig Jazz. Góðar sögur, að vísu en heldur lítilsiglt efni, einkum í Bláust augu; minnir á Mannspilinn og ásinn eftir Guðmund Daníelsson sem ég las í Höfn á sínum tíma og fannst heldur dapurleg og ólistræn saga. Sagði Guðmundi frá því þegar við kynntumst síðar.
Hann tók það dálítið óstinnt upp og sagði að þetta hefði verið tímamótasaga á rithöfundaferli sínum því hún bæri þess merki að hann hefði verið að breyta stíl og aðferð og laga það að bandarískum sögum sem hann hefði sökkt sér niður í.
Ég lét mér þó fátt um finnast og það hefur ekki breytzt. Guðmundur hefur skrifað miklu betri sögur. Auk þess hundleiðast mér sögur um sifjaspell og lýsing Tony Morrison þess efnis í Bláust augu er að mínum dómi viðurstyggð og ástæðulaust að eltast við slíkt inn í bókmenntir.
Lífið sjálft er nægilegur vitnisburður um grimmd mannsins og andstyggð, þótt maður sé ekki að hakka í sig sifjaspell í bókmenntum.
Ég hef andstyggð og ofnæmi fyrir öllu slíku, aðrir geta svo kynnt sér þetta í bókum fyrir mér.
En listin er víst lífið sjálft, og hví þá ekki sifjaspell?
Við Styrmir áttum langt og gott samtal við Huldu Valtýsdóttur, varaformann Árvakurs, um stöðu blaðsins og gagnrýni forystumanna Sjálfstæðisflokksins; það var 10. maí. Hún hefur víst haft af þessu einhverjar áhyggjur. Sagðist vita og geta treyst því að ritstjórar blaðsins brygðust rétt við þessari gagnrýni og vill helzt þessi áreitni verði úr sögunni en leggur jafnframt áherzlu á sjálfstæði blaðsins, og sagði, Þið látið ekki kúga ykkur.
Það varð niðurstaðan, að mínu mati.
En Hulda vill frið við flokkinn ef unnt er og vonast til við finnum flöt á betra samstarfi við forystumenn hans. Hún sagðist treysta Styrmi fullkomlega til að hrista af sér ásakanir um að hann hefði lagt blaðið undir Jón Baldvin, enda er það einber hugarburður.
En hugarburður er ekki saklaus, hann getur þvert á móti verið baneitraður; lífshættulegur; eins og við sjáum í leikritum Shakespeares.
Hulda spurði hvort við gætum ekki skrifað meira um lýðræði, upplýst fólk um mikilvægi þess og forsendur. Það þyrfti á þessum fróðleik að halda eins og ástandið væri í heiminum; hættur úr öllum áttum.
Við eigum ekki betri arf en lýðræði, sagði hún og þurfum að leggja höfuðáherzlu á það. En nú er hvarvetna að því vegið.
Hún nefndi nýfasista og bókstafstrúarmenn múslima.
Vorum sammála um að þeir gætu orðið afkomendum okkar erfitt vandamál eins og þróunin hefði verið.
Las þýðingu Hallbergs skólabróður míns Hallmundssonar á Þrettán háttum að horfa á svartþröst eftir Wallace Stevens, en ég held hann sé eitt þeirra skálda sem stendur hjarta Kristjáns Karlssonar næst. Þetta er fallegur ljóðaflokkur í þrettán stuttum köflum.
Á meðal tuttugu snæfjalla
var auga svartþrastarins
það eina sem bærðist
Þetta er flott(!)
Æ, já, ég er alltaf að lesa einhver ljóð. Það er eins og að fá sér göngutúr, anda að sér. Það er bæði gott og nauðsynlegt að anda að sér. Tomas Tranströmer skrifaði ljóð sitt Isländsk orkan fremst í fyrrnefnda ljóðabók sína og gaf mér. Jóhann Hjálmarsson snaraði þessu ljóði síðar á íslenzku og það birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 1990 ásamt grein um Tomas.
Jóhann segir:
Hann (T.T.) bjó í Norræna húsinu, skrapp í gönguferð í bæinn og átti í mestu erfiðleikum með að komast heim aftur. Frá því segir í ljóðinu Isländsk orkan sem ég hef leyft mér að kalla Íslenzkan vetur í þýðingu.
Þetta ljóð orti Tomas strax að fenginni reynslu af íslenzkum vetri. Það birtist síðan í ljóðabók hans Det vilda torget (Bonniers 1983).
Við Tomas létum ekki veður aftra okkur,segir Jóhann, ókum um bæinn í gamalli Escort sem ég átti þá og fengum okkur skyr, uppáhaldsmat hans, á Hótel Borg. Veglegri varð máltíð með Matthíasi Johannessen í Naustinu. Þar var setið lengi dags og margt rætt. Samveran með Tomasi, þessum hógværa og vitra manni, var minnisstæð.
Eftir Naustið fórum við Matthías með Tomas í Norræna húsið og spjölluðum við hann áfram. Það kom á daginn að þeir Matthías höfðu um margt að tala, minnst var á íslenskar fornbókmenntir sem Tomas hafði kynnst í skóla og drepið á skáldskaparform, kenningar og heiti ef ég man rétt. Tomas sagði Matthíasi frá ljóðinu nýorta og Matthías bað hann að lesa það sem Tomas gerði. Matthías varð svo hrifinn af ljóðinu að hann bað Tomas að skrifa það upp fyrir sig. Tomas skrifaði það fremst í fyrrnefnt ljóðasafn sitt sem hann gaf Matthíasi. Í eintaki Matthíasar er aðeins einu orði ofaukið frá lokagerðinni. Það er orðið kannski, stórt orð, einkum þegar skáld fágunar og hnitmiðunar á í hlut.
Matthías fékk bókina áritaða með sérstakri kveðju frá Tomasi og eftir daglöng kynni þessara tveggja norrænu skálda skrifaði Tomas: Frá einum draumfræðingi til annars.
Það eru orð að sönnu að draumurinn er ágengur í lífi og ljóði beggja þessara skálda og þeir eiga margt annað sameiginlegt, m.a. aðdáun á bandaríska rithöfundinum, náttúrufræðingnum og lífsspekingnum David Henry Thoreau (1817-1862) sem taldi sig mystíker, en var líka á sinn hátt anarkisti eins og heiti bókar hans Um skylduna til borgaralegrar óhlýðni (1849) vitnar um. Meðal þess sem Thoreau kenndi var virðing fyrir umhverfinu.
Tomas fékk norrænu bókmenntaverðlaunin 1990
12. maí
Fékk bréf frá Kristjáni Karlssyni. Segist vera enn að svamla í spánska sjónum hans Jónasar Hallgrímssonar. Sendi mér limrur, mjög skemmtilegar. Telur að ég líti í bezta lagi á þær eins og óhreina sokka úti í bæ! En ég hef gaman af góðum limrum; hef gaman af góðum vísum. Ætli það sé ekki rétt sem Kristján segir að limrurnar eru veruleiki sem læzt verða byggilegur ef þær lánast án þess að vera það eða tröppur með lausum þrepum. Það er trixið!
Þótti ekki sízt vænt um það sem hann segir um síðasta ljóðið mitt um Dante og Beatrísu. Hafði spurt hann hvort ég gæti notað orðin tölvubúið hjarta og forrit í svona kvæði.
Hann svarar:
“Þakka þér sömuleiðis fyrir ljómandi kvæði, – með fyrirsögninni úr Púrgatóríó.
Nei, mér finnst “tölvubúið” og “forrit” prýðilegt þarna og kvæðið fallegt.
Ég skil þessi orði m.a. sem þá “hugarhlekki” sem þú talar um í síðari hlutanum og eru þess vegna áhrifamiklir; “raunverulegir” (í andstöðu við bókmenntalegir – sem er að vísu sami veruleikinn, en þarf að minna sjálfan sig á það: andstæðan sem ég kalla svo er fölsk. Endir fyrirlestrar í bili!”
Þá hef ég það svart á hvítu og birti kvæðið við tækifæri. Það var ort á páskadag. Annaðhvort koma svona kvæði eins og gestir í heimsókn, óboðnir, eða ekki. Ég er feginn þetta kvæði skuli vera velkominn gestur.
Hafði sérstaklega gaman af þessari limru Kristjáns:
Menn klæjar af kulda stundum,
menn klæjar einnig í lundum
um austurlönd fjær.
Það orsaka flær
allmarga klæjar á fundum.
Kristján er góður í limrum, enda er hann eitt af örfáum alvöruskáldum á Íslandi í dag.
Hef fengið í hendur nýja bók eftir Svan Kristjánsson prófessor, Frá flokksræði til persónustjórnmála. Finnst ánægjulegt að lesa það sem hann segir um það sem ég þekki; til að mynda í kaflanum Vald.
Þar stendur m.a.:
Milli forystu Sjálfstæðisflokks og ýmissa fjölmiðla voru lengst af mjög náin tengsl. Eigendur og ritstjórar stærstu dagblaðanna, Morgunblaðsins og Vísis, voru jafnframt forystumenn í flokknum, reyndar átti Sjálfstæðisflokkur meirihluta í útgáfufyrirtæki Vísis í fimm ár (1960-’65). Báðir núverandi ritstjórar Morgunblaðsins – Matthías Johannessen og Styrmir Gunnarsson – eru flokksbundnir sjálfstæðismenn og hafa gegnt trúnarstörfum í flokknum. Ekki eru jafnnáin tengsl á milli þessara dagblaða og forystu Sjálfstæðisflokks og á árum áður; ber þar ýmislegt til; breytingar á fjölmiðlunum sjálfum, Sjálfstæðisflokknum og þjóðfélaginu:
– Fjölmiðlarnir eru reknir á faglegri grunni, hafa yfirleitt ekki uppi flokkspólitískan áróður. Morgunblaðið hefur jafnvel greint á við forystumenn í Sjálfstæðisflokknum í veigamiklum málum, einkum um stefnu í sjávarútvegsmálum og fiskveiðistjórnun. Vísir er ekki lengur til sem sérstakt dagblað, sameinaðist Dagblaðinu í eitt blað: (Dagblaðið – Vísir, árið 1981).
– Forystumenn Sjálfstæðisflokks eiga oft í innbyrðis átökum og í flokknum er tekist á um menn og málefni. Erfitt er því fyrir fjölmiðil að finna eina “flokkslínu”, sem hægt sé að fylgja jafnvel þótt sá vilji væri til staðar...
Þrátt fyrir allar þessar breytingar eru forystumenn Sjálfstæðisflokks enn í skárri aðstöðu gagnvart fjölmiðlum en forystumenn annarra flokka; í flestum tilfellum eru a.m.k. eigendur og/eða stjórnendur helstu fjölmiðla landsins samflokksmenn. Þegar kemur að kosningum veitir Morgunblaðið, svo skírasta dæmið sé tekið, Sjálfstæðisflokknum öflugan stuðning; nægir hér að benda á Morgunblaðið 26. maí 1990, þegar síðast var kosið til sveitarstjórnar.
Það er rétt sem Svanur Kristjánsson nefndi í útvarpssamtali nýlega að ekkert dæmi væri um það í síðustu kosningum að Morgunblaði hvikaði frá faglegri vinnu til að lýsa yfir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn. Þó lýstum við yfir stuðningi við sjálfstæðisstefnuna og tvisvar eða þrisvar við síðari viðreisnarstjórnina enda er slíkur stuðningur einskonar arfleifð Morgunblaðsins.
En ríkisstjórn Davíðs Oddssonar gerði margt vel og full ástæða til að hún héldi velli eftir kosningar.
Það vildu kratar og það vildum við.
En Davíð vildi það ekki.
Hann vildi fá sterkari stjórn og get ég vel skilið það.
Þó að 77% landsmanna styðji nú þessa stjórn hafa ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þótt stundum hafi verið nauðsynlegar í stöðunni, verið heldur ófrísklegar eins og allt íhaldið á bak við þær og ég hefði að sumu leyti heldur viljað mynda ríkisstjórn með Alþýðubandalaginu og efna þannig til sögulegra sátta því að á Íslandi geta ekki verið tvær þjóðir til lengdar og ástandið í heiminum kallar á slíkar sættir.
En það varð ekki og ástæðulaust að sýta það.
Morgunblaðið boðaði ekki heldur slíka stjórn. En við nefndum hana í síðasta samtali okkar við Davíð og hann tók því ekki fjarri, en taldi að Alþýðubandalagið hefði ekki innra þrek til að taka þátt í slíkri stjórn, þegar á hólminn væri komið.
Stjórn með Framsókn væri því sterkust og engin ástæða til annars en reyna að skilja þá afstöðu hans.
En það er rétt sem Svanur Kristjánsson segir í bók sinni að kóssinn hefur verið tekinn og ég sé enga ástæðu til að breyta honum eins og nú horfir. Sé ekki betur en Sjálfstæðisflokkurinn standi sig ágætlega og komist leiðar sinnar án þess hann sé á einhverjum vetrardekkjum frá Morgunblaðinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sínu hlutverki að gegna, en Morgunblaðið sínu.
Takmarkið er samt eitt og hið sama; gömul og góð sjálfstæðisstefna sem hefur orðið þjóð og landi til heilla.
13. maí
Aðalfundur Okkar manna; tíu ára afmæli. Það er uppörvandi að vera á meðal þessa fólks. Allt morgunblaðsfólk. Hef tröllatrú á framtíð blaðsins. Þetta fólk hefur Morgunblaðsæðina og eftirminnilegt að kynnast áhuga þess á Blaði allra landsmannsmanna.
Agnes Bragadóttir flutti ágætt erindi um tengsl blaðsins við fréttaritara sína. Hún áminnti þá eins og hennar er von og vísa og hún skóf ekki utan af því. Hafði áhyggjur á tímabili að hún gengi of nærri fréttariturunum sem þurfa um margt að hugsa heima í héraði.
En boðskapur hennar komst til skila og honum var vel tekið. Það var gaman að heyra hana karpa við Úlfar á Ísafirði.
Pétur Gunnarsson talaði um slys og samstarf blaðamanna við björgunarsveitir og yfirvöld á slysstað.
Á því eru auðvitað tvær hliðar; hlið blaðamannsins og heimamanna; þeirra sem ábyrgðina bera.
Stundum eru blaðamenn kallaðir hrægammar. Ég minnti á að það væri ekki alltaf út í hött. Sumir blaðamenn væru hrægammar. En þeir sem væru á vegum Morgunblaðsins héldu að okkar viti þannig á málum að sárindalaust væri.
Ég vona að svo sé.
Freysteinn Jóhannsson talaði í upphafi og flutti eftirminnilegt erindi um starf blaðamannsins. Honum fórst það vel úr hendi enda er Freysteinn fínn blaðamaður og sjóaður í þeim efnum sem hann fjallaði um.
Páll Þórhallsson talaði um blaðamennsku og siðfræði.
Ég lagði við hlustirnar.
Páll talaði skynsamlega um hlutverk blaðamannsins og erindi hans var í senn nærandi og íhugandi.
Hvert er hlutverk blaðamannsins?
Hef hugsað um það alla mína hundstíð og nú ætla ég að hugsa sérstaklega um erindi Páls og finn að það sækir á mig.
Þetta er merkilegt fólk og ég skynja það æ betur að það – og aðrir blaðamenn á Morgunblaðinu – hefur hugsað rækilega um starf sitt. Mér er nær að halda að við höfum á að skipa merkilegum blaðamönnum sem taka starf sitt alvarlega og eru okkur og blaðinu til sóma.
Hélt sjálfur dálitla ræðu um stefnu Morgunblaðsins, afstöðuna til stjórnmála og þær ávirðingar sem við höfum þurft að þola upp á síðkastið.
Minnti á samkvæmnina í stefnunni og hvernig við hefðum brugðizt við ólíkum tímum. Það væri til að mynda ekki okkar vandamál þótt Alþýðuflokkurinn hefði lagað sig að sjálfstæðisstefnunni. Á því bærum við ekki ábyrgð, en það væri fagnaðarefni. Ef sjálfstæðisstefna Alþýðuflokksins væri kratismi, þá væri ég krati og skammaðist mín ekkert fyrir. Og við Styrmir báðir. Ef það væri sósíalismi að vernda eign þjóðarinnar og taka frá útgerðarmönnum þann kaleik sem fiskveiðistjórnunina væri, þá væri ég sósíalisti. Og við Styrmir báðir.
En afstaða Árna Vilhjálmssonar prófessors sýndi í hnotskurn að þeir útgerðarmenn sem væru merkir af störfum sínum skildu vandamálið og vildu leysa það. Við vildum rétta þeim hjálparhönd í þeim efnum. Það væri engum til góðs að það ranglyndi lægi eins og mara á hinum merkustu útgerðarmönnum að þeim væri leyfilegt að kaupa það sem aðrir eiga, selja það sem aðrir eiga, veðsetja það sem aðrir eiga og erfa það sem aðrir eiga.
Og ef þessi afstaða væri kratismi, þá væri ég krati.
Margir fréttaritaranna töluðu við mig eftir fundinn og fögnuðu þessari afstöðu og lýstu stuðningi við hana. Ég minnti á að við Styrmir erum einhuga í öllu því sem Morgunblaðið hefði borið fram á undanförnum misserum og að eigendur og stjórn Árvakurs hefði staðið við bakið á okkur; ekki sízt stjórnarformaðurinn Hallgrímur Geirsson og Haraldur Sveinsson framkvæmdastjóri. Vildi ekki að þetta einvalalið færi aftur til síns heima án þess vita hug okkar allan; við hefðum engan svikið; við hefðum haldið okkar stefnu; það væri eðlilegt að Morgunblaðið hefði þróazt í þá átt sem raun bæri vitni, allt annað hefði verið óeðlilegt, annars hefði blaðið veslazt upp úr innanmeini.
Eini maðurinn sem hafði þessi orð mín í flimtingum var vinur minn Albert Kemp á Fáskrúðsfirði. Hann sagði við myndum ekkert ráða við Davíð Oddsson því hann væri svo hæðinn.
Ég sagði honum að við værum ekki að berjast við hæðni, heldur alvöru. Ég sagði honum jafnframt að við Davíð værum miklir mátar og ég hygðist ekki eltast við útvarpsummæli hans nema ástæða væri til. Ég hefði gaman af húmor, og ekki sízt húmor Davíðs Oddssonar. En þegar formaður Sjálfstæðisflokksins teldi að annar ritstjóri Morgunblaðsins hefði keyrt blaðið undir vin sinn Jón Baldvin og Morgunblaðið væri ávallt stuðningsblað hans, þá hætti ég að telja þetta grín og fjallaði um það eins og dauðans alvöru.
Flestir fréttaritararnir sem töluðu við mig voru sömu skoðunar.
Fór að lesa bréf frá Vilmundi Gylfasyni þegar ég kom heim úr hófinu með fréttariturunum.
Það er dagsett 21.12. 1978.
Merkilegt(!)
Þar segir:
“Góði vinur, Matthías.
Mér hefur borizt til eyrna að þér hafi þótt koma úr óvæntri átt fúkyrði sem ég lét falla um þig persónulega í blaðagrein nú nýverið. Þetta var ósanngjarnt, óverðskuldað og þar að auki eru persónuleg kynni mín af þér með þeim hætti, að slík orð á ég ekki að láta falla. Ég á að vita betur og vil fá að biðjast afsökunar.
Ég vil samt játa og segja hreinskilnislega að mér sortnaði fyrir augum vegna skrifa Mbl. í pólitískum hita leiksins, en skrif Mbl. hafa mér þótt hvort tveggja á stundum: Ódrengileg og ósæmileg.
Samt á ég að vita að það er persónu þinni óviðkomandi. Mitt fólk allt veit betur. Ég endurtek þess vegna afsökunarbeiðni mína.
Með góðri kveðju, Vilmundur.”
Ég man vel hvað mér þótti vænt um þetta bréf á sínum tíma og fyrirgaf allt sem ástæða var til að fyrirgefa. En kannski á ég engan rétt á afsökunarbeiðni, því við lifum á erfiðum tímum, eins og Steinn sagði, og í öllum hasarnum hugsaði ég með mér, Guð má ráða hvar við dönsum næstu jól(!)
Er að lesa annað bréf. Það er frá Jóni úr Vör. Það er dagsett 15. maí 1966 og er skrifað með grænu bleki. Ætli það sé hégómlegt að trúa dagbókinni sinni fyrir því sem þar stendur; mér er þá sama(!) Þessi orð glöddu mig á sínum tíma. Ég held ég hafi þurft á þeim að halda eins og að mér var vegið úr öllum áttum.
Jón úr Vör hefur ávallt reynt að vera samkvæmur sjálfum sér og segja það sem er í samræmi við samvizku hans. Stundum hefur hann að vísu talið sig meiri fulltrúa sannleikans en okkur morgunblaðsmenn, en það gerir ekkert til. Hann hefur farið sínar leiðir og það virði ég öðru fremur.
Hann segir, Ég kem að erindinu í lokin, en fyrst ætla ég að segja þér, að ég las nýju bókina þína fljótlega eftir að hún kom út. Óska þér til hamingju með hana. Ég held að þetta sé heilsteyptasta bókin þín, og rímuðu kvæðin eru svo vel gerð, að satt að segja held ég að síðustu árin hafi ekki öðrum tekist betur, þegar frá er skilinn Jóhannes úr Kötlum. Hans rímljóð eru ekta, og Tómas lætur ekkert til sín heyra. – Þetta þótti mér dálítið skemmtilegt vegna þess, að mér þótti fram að þessu lítið varið í þessar tilraunir þínar. Ekki skaltu samt halda, að ég ætli sérstaklega að hvetja þig til að taka rímið framyfir rímleysið, en það er gott að geta brugðið hinu fyrir sig. Ef ég ríma núorðið kannast ég þar hvorki við sjálfan mig né aðra. En í rímleysinu finnst mér ég alltaf eiga heima. En einu sinni fannst mér ekki vandasamt að koma saman rímbulli, sem betur fer hefur fæst af því sést á prenti. – Ég hef nú lesið þrjá dóma um bók þína. Hagalín fannst mér í þynnra lagi og hjá Indriða mínum var þetta meir af vilja en viti og getu. Hann botnar augsýnilega ekki neitt í nútímaljóðlist. Góð þótti mér síðasta bók hans, Smásögurnar. Skammarlega skrifuðu þeir um hana Ólafur og bókmenntafræðingurinn þinn – man ekki nafnið hans í svipinn. Nú skrifar Ólafur í dag. Og það er nú kannski þessvegna sem ég skrifa. Honum finnst þú vera of margorður. En ef þú værir það ekki, Matthías minn, værir þú ekki höfundur ljóðanna, heldur einhver annar. Þetta er nú einmitt þinn máti, það sem gerir ljóð þín ágætlega læsileg og gefur þeim sérstakan blæ. Ég hefi ekki trú á því að þú gerir betri bækur með t.d. stuttum ljóðum, en kannski á ég eftir að lifa það. Kvæði af þessari gerð er ósköp auðvelt að tæta í sundur, taka úr þeim eitt til tvö erindi og segja að hinu öllu sé ofaukið. Það væri vissulega auðvelt að fullvissa smekkmenn eins og okkur um að í einstökum tilfellum væri þetta rétt. En þú mundir bara ekki yrkja svona, – það er einmitt hraðinn í ljóðaveðri þínu – og sá blær í ljóðabókinni. sem við það skapast, sem gerir bókina að þinni bók.
Nú er ég orðinn of margorður. Og auðvitað veistu að ég gæti, eins og Ólafur Jónsson, tætt þetta alltsaman í sundur – hvenær er það ekki hægt – eins og það væri grein eftir alþingismann úr Vestmannaeyjum um sjónvarpsmál. Ég er ekki að skrifa þér bréf til þess að skjalla þig. – Til hamingju með bókina, það endurtek ég.
Ég hef loks nýlokið við Borgarlíf. Ekki finnst mér Ingimar fara neitt illa með þig. – En þetta þurfti að gera betur, úr því út í það var farið.
Nú kemur erindið. Hefur þú lesið bækurnar hans Steinars Sigurjónssonar? Ég hef alltaf haldið að þar sé mikið efni og hef verið að reyna að hafa á hann góð áhrif, en það tekst illa. En ég held að hann þurfi að fá meiri viðurkenningu en enn er orðið. Það má segja honum til syndanna, en hann þarf meiri uppörvun. Ég held þessum manni líði oft mjög illa. Og nú sé kominn tími til að snúið sé við blaði.
Viltu hugsa málið? Mér finnst margt í skáldsögunni stórkostlega gott. Vinsamlegast, Jón úr Vör.
Ég hugsaði oft um skáldskap Steinars Sigurjónssonar og fékk að lokum tækifæri til að rétta honum hjálparhönd. Það var þegar ég var formaður Menntamálaráðs og hvatti eindregið til þess að skáldsaga hans yrði gefin út á vegum Menningarsjóðs. Þetta er líka fín skáldsaga um tónlistarmann sem ég gleymi ekki.
Vona að Jón úr Vör hafi uppskorið það sem til var sáð í þessu manneskjulega og hlýja bréfi hans frá 15. maí ‘66.
Í dagbókarblöðunum liggur einnig uppkast að Býsnavetri í íslenzkri pólitík. En ég er ekkert að hugsa um það; heyrir liðnum tíma til. Aftur á móti er hérna bréf frá Yehudi Menuin, skrifað 14. júní 1972. Þar segir fiðlusnillingurinn að hann hafi ekki gleymt pílagrímsför okkar til Þingvalla og óvenjulegu andrúmi sem enn sé allsráðandi á þessari heilögu jörð. Og þau vilja að ég viti um þakklæti þeirra hjóna vegna dýrmætra minninga um óvenjulegt land. Gott bréf frá góðu fólki. Og hér er svarbréf til Jóns úr Vör, skrifað 19. maí 1966. “Þú segist skrifa vegna ummæla Ólafs Jónssonar. Hafðu engar áhyggjur af honum. Það hef ég ekki. Ólafur Jónsson lýsir ekki mínum verkum eða þínum í skrifum sínum, heldur eingöngu sjálfum sér. Hvort menn hafa gaman af að kynnast Ólafi Jónssyni verður hver og einn að gera upp við sjálfan sig. Ég hafði gaman af sumu en þó lærði ég meira af Indriða, þó þú haldir að hann botni “augsýnilega ekki neitt í nútímaljóðlist” – en ég held hann skilji margt betur en menn eins og Ólafur, sem ég hygg eru aldir upp í öðrum heimi en þeim sem ég þekki. Ég segi ekki að minn heimur sé betri, en hann er nær sjálfum mér og það hlýtur að skipta meginmáli. Ljóð mín geta ekki verið nær mér en ég sjálfur, eins og þú bendir réttilega á, en svo verður að ráðast hve mikið af þeim kemst til skila þegar aðrir lesa.
Það var í senn uppörvandi og ánægjulegt fyrir mig hvernig þú hefur lesið þessa nýju ljóðabók. Ég er búinn að liggja í henni í mörg ár og hef reynt að vinna hana eftir beztu getu. Fjölmörgu sleppti ég á síðasta snúningi og svona er hún og gat ekki verið öðruvísi. Ég held að Sálmarnir séu þungamiðjan í henni og vona að þeir hjálpi einhverjum til að skilja að órímuð ljóðlist þarf ekki nauðsynlega að vera ónauðsynlegt og fráhrindandi orðaskak í augum fólks. Þetta veizt þú og þess vegna trúðir þú rímleysinu fyrir Þorpinu. Það var mikill sigur fyrir íslenzka ljóðlist. Ég segi það við þig svona úti á spássíu, mig hefur stundum langað til þess áður, en ekki átt þess kost. Þú þarft ekki heldur á því að halda – og þó er ég ekki viss um að íslenzk ljóðlist sé í augum fólks svo hátt á hrygginn reist að veiti af að standa saman um það sem máli skiptir og við trúum á. Og svo er hægt að tala um að þú sért bölvaður bolsi og ég íhaldshundur, það verður bara að hafa það. Bjarni Thorarensen var ekki minna skáld fyrir það að hann var amtmaður og í þjónustu dönsku stjórnarinnar. Og Jónas Hallgrímsson var ekki minna skáld fyrir það að hann var fyllibytta og letingi, eða það héldu að minnsta kosti ýmsir, og – Bólu-Hjálmar var ekki skáld vegna þess að hann var fátækur eða kjaftfor (og kannski kvensamur (náttúrumikill og heilbrigður eins og ég – eða það sagðir þú að minnsta kosti einhvern tíma að væri einhver sterkasti þátturinn í minni ljóðagerð) – nei, Hjálmar karlinn var ekki skáld út af því heldur vegna þess – að hann var skáld. Og þannig var þessu einnig háttað með Bjarna og Jónas.
Fyrirgefðu nú þessa ræðu, Jón minn. Ég er að fara til útlanda innan tíðar og gá hvort þeir þekkja Ólaf Jónsson í öðrum löndum. Og ef ekki þá ætla ég að óska þeim til hamingju með það. Átæðan er ekki sú að mér líki ekki skrif hans, vafalaust hefur hann sitthvað gott gert – en ég er því miður þeirrar skoðunar að hann hafi fælt sumt fólk frá ljóðinu, að minnsta kosti hefur hann ekki ýtt undir ljóðalestur á Íslandi. Þannig held ég að hann hafi misskilið hlutverk sitt og orðið til óheilla þar sem mikils var þörf að hann stæði sig vel. En samt höfum við ekki áhyggjur, hvorki af því né öðru, því Ísland er sterkt og framtíðin björt, ef ekki henda stórslys sem við getum ekki afstýrt... Mikið helvíti held ég að þú sért orðinn þreyttur á þessu rausi mínu, sem styður allt sem Ólafur Jónsson hefur sagt um mig – svo þarna getur þú séð að við erum ekki endilega eins og við höldum sjálf, heldur kannski einnig dálítið brot af því sem aðrir halda.
Ég skal tala við Erlend Jónsson, sem er nýkominn heim, um að hann skrifi um Steinars Sigurjónssonar, hvernig sem það annars verður, því aldrei hef ég sagt ritdómara hér í blaðinu fyrir um stafkrók af því sem þeir hafa skrifað. Mér skilst að sumir trúi því ekki, en þannig er Ísland, því miður – þetta er víst arfur frá einokuninni, þegar Íslendingar óskuðu þess helzt að vera með ístru og tala dönsku á sunnudögum.
Og svo er hér eitt bréf enn sem ég hef geymt enda full ástæða til. Það er skrifað 1962. Það er, ef ég man rétt, um Jörð úr ægi. Það er frá Kristjáni Karlssyni. Það hljóðar svo – og hefur áreiðanlega yljað mér mjög á sínum tíma: “Ég er alveg viss um að þetta er í heild þín sterkasta bók, eins og hún þarf og á að vera vegna samhengis kvæðanna. Sömu leiðis finnst mér þetta tvímælalaust náttúrulegasti frumleiki sem ég hef séð í mörg ár hérlendis – og ótvíræðastur skáldskapur síðan Dymbilvöku og fyrri bók Hannesar P. Voila. K.K.”
Kristján hefur ávallt verið mér betri en enginn.
Og hérna er enn eitt bréf og það snertir íslenzka málsögu. Það er frá 16. maí 1972, undirritað af Þorleifi Bjarnasyni, Í samtalsbók ykkar Halldórs Laxness segir hann, að í æsku hafi hann numið orðið síli, sem hann hafi aldrei fundið í neinni orðabók í þeirri merkingu, sem orðið var notað og enginn málfræðingur hafi kunnað skil á því. Ef ég man rétt (hef ekki bókina hjá mér þessa stundina) segir Laxness að orðið hafi verið haft um seinlæti eða dund við verk. “Vertu ekki að þessu benvítis síli”.
Mér kemur í hug að á Hornströndum var hið alkunna orð, silakeppur, notað um seinláta menn, en einnig var sagt að silast áfram við verk. Svo man ég ekki betur en afi og amma segðu stundum við mig, þætti þeim ég seinlátur í aðgerðum. “Vertu ekki að þessu bölvuðu ekkisen sili.” Gæti verið, að þarna væri um sama orð að ræða með breikkun sérhljóða.
Hver veit?
14. maí – sunnudagur
Nú er Eggert G. Þorsteinsson látinn. Af því tilefni var rifjað upp í Reykjavíkurbréfi þegar stjórnarfrumvarp var fellt á Alþingi mánudaginn 23. marz 1970, en atkvæði Eggerts réð úrslitum í Efri deild og þótti það með ólíkindum eins og ég hef víst minnzt á áður á þessum blöðum.
Þetta var frumvarp um verðlagsmál.
Þó að sjálfstæðismenn og Morgunblaðið litu ekki svo á óx Eggert G. Þorsteinsson að virðingu innan launþegahreyfingarinnar enda einn af helztu verkalýðsleiðtogum Alþýðuflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn hafði barizt fyrir auknu frjálsræði í verðlagsmálum en verkalýðshreyfingin óttaðist að það frelsi yrði notað til að auka álagningu á nauðsynjavörur almennings.
Og Eggert treysti sér ekki til að ganga gegn launþegahreyfingunni.
Þá var Alþingi skipt í tvær deildir og í Efri deild munaði einu atkvæði á stjórn og stjórnarandstöðu, þótt stjórnarflokkarnir hefðu í Sameinuðu þingi 32 þingsæti en stjórnarandstaðan 28. Meiri hluti viðreisnarinnar var þannig á heldur mjóum þvengjum í Efri deild en hún sat þó tvö kjörtímabil eins og ekkert væri og var þetta eina uppákoman innan stjórnarinnar.
Maður skilur Eggert vel eftir á, en á þessum tíma hafði ég verulegar áhyggjur af málinu. Þá hafði Eggert komið til mín og spurt hvort ég gæti gert sér þann greiða að færa í tal við Bjarna Benediktsson að hann yrði ráðherra í viðreisnarstjórninni, þegar Emil Jónsson tók við störfum Guðmundar Í. Guðmundssonar sem lét af utanríkisráðherraembættinu og gerðist sendiherra.
Ég hafði ekki hugmynd um neina erfiðleika innan Alþýðuflokksins í þessuum efnum og sagði Eggert að ég teldi að hann mundi styrkja innviði stjórnarinnar og bauðst til að ámálga þetta við Bjarna.
Bjarni tók þessu afarvel. Hann var sammála því að Eggert ætti að taka sæti í stjórninni og bæta tengslin við verkalýðshreyfinguna í landinu. En Gylfi Þ. Gíslason hafði ekki getað stutt Eggert í þetta embætti vegna þess að hann hafði áður nánast lofað Benedikt Gröndal næsta ráðherraembætti.
En Gylfi fór að óskum Bjarna og við lítinn fögnuð Benedikts sem efldist í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn fyrir bragðið, að ég held.
En þegar Eggert felldi verðlagsfrumvarpið fannst mér ég hafa átt þátt í því að Bjarni fengi köttinn í sekknum, en hann tók þessu öllu vel þrátt fyrir mikla óánægju sjálfstæðismanna og stjórnaði landinu til æviloka eins og ekkert hefði í skorizt.
Hann var ekki venjulegur stjórnmálamaður.
Hann var í senn sterkur og miklu pragmatískari en margir héldu.
Þannig átti hann oft auðvelt með að sveigja sig að aðstæðum og furðaði ég mig stundum á því hve langt hann gat treygt sig í þeim efnum. Það var ekki sízt styrkur hans, enda sagði hann stundum þegar við höfðum fengið okkur í staupinu, Ég kann að stjórna landi(!)
Og það var rétt.
Gylfi skrifar ágæta minningargrein um Eggert G. Þorsteinsson í Morgunblaðið á þriðjudag og hann hefur sagt mér að það hafi ávallt verið hlýtt á milli þeirra Eggerts en hann hafi verið bundinn í báða skó vegna loforðs við Benedikt Gröndal sem hann vildi reyna að halda í lengstu lög, en í stjórnmálum verða menn oft að efna annað en lofað er, að ég held,
En þeir vita þetta þó betur sem í þessu standa!
16. maí– þriðjudagur
Í dag er Jósefína systir mín sjötug.
Tíminn líður; og einkennilegt hvernig hann líður.
Stundum finnst mér ég enn á Hávallagötunni eða Landakotstúninu; sem sagt, einkennilegt hvernig tíminn líður ekki!
Var að lesa prófarkir af Helgispjalli, kafla um Einar ríka Sigurðsson. Og fór að hugsa um Einar. Hann var sérkennilegur maður. Þegar ég átti samtalið við hann sem átti að vera einskonar andsvar við Þjóðviljanum, að mig minnir, vildi hann að ég skrifaði það eins og Hemingway mundi gert hafa; þ.e. í einskonar lýrískum stakkatóstíl. Ég reyndi og árangurinn liggur undir þýfðum kirkjugarði gamlamogga.
Það væri gaman að rifja upp samtalið við gott tækifæri.
Ég sagði við Einar að hann yrði að lesa samtalið yfir þegar ég hefði skrifað það. Hann sagðist ekki geta það.
Af hverju? spurði ég.
Vegna þess að ég er að fara til Vestmannaeyja, sagði hann.
Nú, sagði ég, en þú verður að skreppa í bæinn.
Það er ómögulegt, sagði hann.
Jú, sagði ég, ég birti ekki samtalið fyrr en þú hefur lesið það.
Við sjáum til, sagði hann.
Svo kom hann til Reykjavíkur og las samtalið. Hann var ánægður og fór aftur til Vestmannaeyja daginn eftir.
Löngu seinna sagði hann við mig, brosandi,
Þú hefur stjórnað meiru í lífi mínu en þú veizt.
Nú, hvað áttu við? sagði ég.
Það var samtalið, sagði hann.
Samtalið? Hvað með það?
Nú, þú heimtaðir að ég kæmi í bæinn og læsi það yfir.
Já, ég man það, sagði ég,hemingway-samtalið!
Nú, ég kom í bæinn og barnaði konuna! Og ef þetta verður strákur læt ég hann heita í höfuðið á þér.
Svo hló hann eins og tröllkarl og fór.
Stundum gaf hann mér þýzkan bjór, það var sælgæti á þessum bjórlausu tímum.
Þá drakk ég bjór en hann kók. Ég held hann hafi komizt upp í tólf kók í einu samtalinu heima hjá þeim hjónum. Eftir tíu flöskur held ég hann hafi verið farinn að finna á sér; að minnst kosti var hann kenndari heldur en ég!
Ég tók þátt í almenningshlutafélagi sem hann stofnaði um bátinn Örn.
Það var happafleyta.
Ég hafði gaman af að sýna áhuga ritstjóra Morgunblaðsins í verki með því að taka þátt í hlutafjársöfnun og eiga í bátnum. Síðan fylgdist ég með honum af miklum áhuga.
Það líkaði Einari vel.
Svo kom að því að við Hanna keyptum Hjarðarhaga 15. Við fengum stærri og fallegri íbúð heldur en á Vesturgötu þótt útsýnið þar hafi verið ógleymanlegt.
Yfir höfnina og til Esju.
Ég sagði við Einar,
Senn líður að því að ég þarf að fá greiddan hlut minn í Erninum.
Jæja, sagði hann, og lét sér fátt um finnast, ég hef enga peninga(!)
Jú, sagði ég, ég þarf að kaupa nýja íbúð.
Þú tekur þér lán, sagði hann,ég hef fleytt mér á lánum.
Eins lítið lán og ég get komizt af með, sagði ég.
Það er gott fyrir þig að eiga áfram í bátnum, sagði hann.
Já, sagði ég, ef ég hefði efni á því, en það hef ég ekki.
Tveimur dögum síðar hitti ég Einar í Aðalstræti. Hann tekur undir handlegginn á mér og segir, Komdu með mér.
Hvert, spyr ég og held hann ætli með mig heim.
Við skulum skreppa inn í Geysi, sagði hann.
Jæja, segi ég, hvað á að gera þangað?
Komdu, sagði hann og ég geng með honum inn í Geysi.
Hann spyr um fjögurra manna tjald. Honum er sýnt tjaldið. Þá segir hann við mig,
Er þetta ekki gott tjald.
Jú, segi ég, þetta er fínt tjald, hvað ætlarðu að gera við það?
Ég ætla að gefa þér þetta tjald, sagði hann, þú verður að hafa þak yfir höfuðið!
Gefa mér?! Til hvers?
Nú, sagði hann, þú segist vera húsnæðislaus, er það ekki?!
Ég sagðist ætla að kaupa nýja íbúð, sagði ég, en ekki tjald.
Tjaldið getur dugað í bili, sagði hann og brosti.
Síðan afhenti hann mér tjaldpokann og við gengum út.
Ég fór með tjaldið, en hann fór heim.
Ég var sannfærður um að ég fengi ekki í bráð greiddan hlut minn í Erninum. En nokkru síðar kemur hann með peningana með vöxtum og vaxtavöxtum og greiðir allt upp í topp.
Við keyptum íbúðina á Hjarðarhaga, m.a. fyrir hlutinn í Erninum.
Ég hef alltaf verið stoltur af samskiptum okkar Einars ríka. Hann er mesta ólíkindatól sem ég hef kynnzt. Hann var engum líkur, nema e.t.v. Ragnari í Smára.
Hann gat verið harður í viðskiptum en hann átti líka hjarta sem var gulli betra.
Ég var eitthvað að pæla í sjálfum mér um daginn, það á maður víst aldrei að gera; að minnsta kosti ekki opinberlega. En þar sem ég er nú einu sinni einhvers konar lærisveinn Þórbergs finnst mér ekkert eðlilegra en menn pæli dálítið í sjálfum sér; skreppi inn í þennan myrka frumskóg sem er maður sjálfur og kanni það fjölþætta dýralíf sem þar er að finna.
Annars er bezt að reyna að tosa sjálfum sér út á bersvæði þar sem birtan er; og sólin.
Mér er sagt Halldór Laxnes hafi einhvern tíma haft orð á því, þegar hann var að veikjast og missa sitt einstæða og skarpa samband við umhverfið, að honum liði eins og hann væri villtur í einhverjum frumskógi og rataði ekki út.
Það er ekkert skemmtilegt að festast í frumskógi eigin sálar og nauðsynlegt að þekkja leiðirnar út .
Þórbergi var það ekkert viðkvæmt mál að fjalla um sjálfan sig og líklega hefur hann haft á mig meiri áhrif að þessu leyti en ég geri mér grein fyrir.
Ég hef aldrei verið sáttur við sjálfan mig og sízt þau eðliseinkenni að vilja ævinlega lifa í jafnvægi og ná sáttum við umhverfi mitt.
Það hefur að ég held háð mér meir en flest annað.
Af hverju lætur maður ekki umhverfið eiga sig? Hví skyldi maður alltaf vera að hugsa um að særa ekki annað fólk þótt það sé gert óvart og alls ekki af illum hvötum, heldur vegna aðstæðna.
Og margir hafa sært mig án þess blikna, hvað þá það hafi hreyft við samvizkunni!
Bandaríski rithöfundurinn , William Faulkner, sagði í samtali okkar að íslenzka þjóðernistáin væri með stóru líkþorni.
Ég veit vel að bæði ég og umhverfi mitt eru með slík líkþorn og það er alltaf verið að stíga á þau.
Faulkner sagði,
Guð hjálpi þeim sem stígur á íslenzku þjóðernistána.
Ég hef alltaf hugsað með sama hætti um umhverfistána og það hefur einatt verið misskilið, talið til veikleika en ekki styrkleika. Og það má til sanns vegar færa að ég hafi veikan karakter að þessu leyti. Helzt hefði ég viljað að hann væri sterkari og mér meira sama en raun ber vitni um umhverfi mitt og annað fólk; afstöðu þess og viðhorf.
Lyndon B. Johnson, forseti Bandaríkjanna, vildi helzt að öllum væri hlýtt til hans. Skildi ekki þá Bandaríkjamenn sem greiddu honum ekki atkvæði í forsetakosningunum. Var undrandi á því hvað það væru margir vitleysingar í Bandaríkjunum.
Ég hugsa að vísu ekki svona en hef einhverja innri þörf fyrir að fólk hugsi hlýtt til mín.
Ég leita eftir kærleika og ást og það kemur sér ekki alltaf vel. En ég veit nú af hverju þetta stafar. Það er vegna þess hvernig ég er alinn upp í erfiðu hjónabandi. Faðir minn fór að heiman þegar ég var tíu eða ellefu ára.
Úr slíku umhverfi leitar maður öryggis og sátta við annað fólk.
Og umhverfi sitt.
Þeir sem hafa ekki kynnzt þeim átökum sem fjallað er um undir niðri í Morgni í maí þar sem styrjöldin er yfirboðið en stríð ungs drengs við umhverfi sitt er hreyfiafl ljóðaflokksins, eiga áreiðanlega erfitt með að skilja allegoríuna eða skírskotunina, en slíkar vísbendingar eru einnig í sögunni minni um Absalon sem kemur út í haust.
Af þessu öllu stafar það einnig að á skortir sjálfstraustið. Og af þessum ástæðum hef ég líklega stundum tekið gagnrýni á verk mín of nærri mér án þess gera mér grein fyrir því af hverju það hefur stafað.
Öryggisleysi æskunnar er ekki bezta veganestið út í lífið. Það getur valdið kvíða og ég finn alltaf fyrir honum þegar ég á að “troða upp” með einhverjum hætti.
Páll Ísólfsson kveið einnig alltaf fyrir því sem hann átti að gera, sagði hann mér.
En hann bætti því við að kvíðinn væri enginn óvinur heldur nauðsynlegur bandamaður; þeir sem aldrei kvíddu neinu gerðu aldrei neitt almennilega.
Við það sætti hann sig.
Annars getur mikill eldur í æsku verið þroskandi og hert járnið í karakternum ,ef viðkomandi brennur ekki upp til ösku í þessum sama eldi.
Ég átti góða foreldra en þau voru ekki sátt hvort við annað um tíma. Slíkt ósætti á heimili getur orðið barninu ofraun. Það getur líka lært að laga sig að aðstæðum og þannig orðið betur undirbúið fyrir eldraun síðar í lífinu.
Það hef ég oft fundið.
Þessi reynsla skerpti vilja minn til að lifa af og þá ekki sízt starfsviljann sem Lúther leggur meira upp úr en flestu öðru.
Vilji er allt sem þarf, segir Einar Benediktsson og sækir þessi orð í trúarheimspeki Lúthers.
Ef viljinn er ekki lamaður er hægt að bjóða umhverfinu birginn og sigrast á því. En það kostar blóð og tár og stundum meiri hörku en viðkvæmu skáldi er eiginleg. Samt hef ég orðið að nota hana í störfum mínum. Hún á að vera eins og þotuskrokkur sem brestur ekki fyrr en vængirnir ná saman. Sem sagt, mjúk og sterk eins og vængur fuglsins.
Þessi fælni minnir líklega á dálítið ljóð sem ég orti á sínum tíma og las upp á Snorrahátíð 29. september 1991 í Háskólabíói. Kveikjan er saga Þorgils skarða en efnið er sennilega ég sjálfur:
Mjög vilja stráin stanga mig, en þú
ferð stórri líkn um huga minn og ótta.
Vér köllumst á við kvíða þess sem er
sem kulsár grös og digna fyrir vindum.
Mjög þýtur nú um þvera egg, og samt
fer þíður blærinn vori sem er minning
um liðna stund og fléttu blaðs við blað
og bregður lit á föla jörð og gleymda.
Þannig má lifa þau strá af sem stanga mann í hversdagsamstrinu.
Helgin 20.-21.maí
Þyrftum að tukta Guðmund Magnússon, fréttastjóra á Dagblaðinu, dálítið til vegna laugardagspistils sem hann skrifar í DV. Mér hefur alltaf líkað heldur vel við Guðmund, hann vann hjá okkur um skeið, skrifaði ritstjórnargreinar og ýmislegt annað efni, en mér fannst hann alltaf með einhverjum hætti vera að sanna fyrir sér og öðrum að hann væri ekki lengur sá marxisti eða maóisti sem hann var víst ungur. Við þurftum því oft að veita honum aðhald í skrifum og raunar ekkert við því að segja í sjálfu sér, enda ungur maður sem hefur verið að þreifa fyrir sér á hægri kantinum svokallaða.
Mér hefur fundizt hann nokkuð þröngsýnn á þessum kanti en það er hans mál. Fannst hann aldrei eiga almennilega heima á Morgunblaðinu vegna þess arna, en það er mitt mál. Kunni samt alltaf ágætlega við Guðmund persónulega og studdi hann á sínum tíma í prófkjöri.
Nú eftir á sé ég að það var óþarfi að bæta við enn einum svo hægri sinnuðum manni í forystu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Það sem mætti helst setja út á hana er hvað hún virðist vera einslit og skoðanalík og finnst mér það ókostur. Guðmundur hefði ekki bætt við þá flóru.
Ég get ekki neitað því að ég átti ekki von á að Guðmundur Magnússon reyndi að koma óorði á Morgunblaðið með skírskotun til starfs síns þar á sínum tíma.
En nú hefur hann gert það ótilkvaddur, nema þá að einhverjir standi á bak við þessi skrif sem hafa reynt að koma höggi á blaðið; ég á við einhverjir í forystu flokksins.
Guðmundur hefur mænt upp í þessa forystu og heldur því áfram sem frá var horfið á Morgunblaðinu á sínum tíma. Það er munur að þurfa ekki alltaf að vera að sanna að maður sé sjálfstæðismaður! Ég hefði ekki viljað vera gamall sósíalisti eins og þeir Jónas Haralz og Guðmundur Magnússon og þurfa að stjórna Morgunblaðinu með fortíð sem minnir einna helzt á Halldór Kiljan þegar hann var að skrifa um Gerzka ævintýrið og Réttarhöldin miklu í “sveitaþorpinu” Moskvu!
Það er rétt sem Guðmundur Magnússon segir að Morgunblaðið var aldrei með formlegum hætti flokksblað þótt fréttir og skoðanir í blaðinu hafi um áratuga skeið tekið mið af hagsmunum Sjálfstæðisflokksins. Þannig var það að minnsta kosti þegar ég varð ritstjóri.
Síðan er mikið vatn runnið til sjávar.
Og síðastliðinn aldarfjórðung eða svo, segir Guðmundur Magnússon, hefur blaðið verið að taka lítil en mikilvæg skref til ritstjórnarlegs sjálfstæðis.
Síðan segir hann að tilkynnt hafi verið “að sú ganga sé nú á enda og önnur sjónarmið en ritstjórnarleg eigi framvegis engu að ráða um fréttaval og málflutning blaðsins.” ......
Nei, ég hefði ekki trúað því að Guðmundur Magnússon ætti eftir að afgreiða Morgunblaðið með þessum orðum:
“Höfundur þessa pistils hefur í tæpa tvo áratugi verið að meira eða minna leyti viðriðinn blaðamennsku og annaðist m.a. í nokkur misseri leiðaraskrif fyrir Morgunblaðið og þykist því geta dæmt um þessi mál af nokkurri þekkingu.”
Og hvaða mál eru það sem hann getur dæmt um?
Jú, það fer ekki milli mála:
“Morgunblaðið er að sönnu yfirburða fréttamiðill, en það eru sofandi menn sem ekki veita því athygli að á sama tíma og það sker á hin flokkspólitísku tengsl við Sjálfstæðisflokkinn, er það að verða sjálfstætt þjóðfélagsafl með afdráttarlausa stefnu í öllum höfuðmálum, stefnu sem með greinilegum hætti litar mjög oft fréttaumfjöllun þess. Þeir sem eru sammála ritstjórum Morgunblaðsins í helstu málum, njóta þess í fréttaflutningi blaðsins. Hinir sem eru svo “óheppnir” að vera á öndverðum meiði gjalda þess. Sérstaklega er þetta áberandi í sjávarútvegsmálum þar sem blaðið er í næsta sérkennilegri krossferð gegn svokölluðum “sægreifum”. En hlutdrægnin er engan veginn bundin við þann málaflokk. Það eru ekki annað en óheilindi ef menn viðurkenna þetta ekki og horfast í augu við þetta.”
Ég ætla að leyfa mér þessi óheilindi því ég veit að þetta er ekki einungis rangt, heldur alrangt.
Í Morgunblaðinu njóta menn sannmælis í fréttaflutningi hverjar sem skoðanir þeirra eru. Það vita þeir ekki sízt hjá LÍÚ. Og það vita lesendur blaðsins, að minnsta kosti allir þeir sem lesa blaðið vakandi. Hitt er svo annað mál að Guðmundur hafði á sínum tíma svona tilhneigingu sjálfur, þegar hann vann á Morgunblaðinu, og full ástæða til að fylgjast með skrifum hans að þessu leyti. Það er ný reynsla og gömul að þurfa að upplifa samstarfsmenn sína með þessum hætti.
Þetta minnir mig á ræðu sem Finnbogi Rútur Valdimarsson flutti á Alþingi á sínum tíma. Hann var að tala um Bjarna Benediktsson. Hann var að ráðast á þennan gamla vin sinn. Þeir höfðu verið saman í Berlín og tókst þá með þeim, að mér skilst, góð vinátta. En í þingræðunni réðst Finnbogi Rútur hastarlega að Bjarna og það sem hneykslaði mig voru þau orð hans að hann hefði þekkt Bjarna á sínum tíma og vissi svo sem hvað hann var að segja!
Ég reiddist Finnboga Rúti og fannst þetta ekki samboðið svo gáfuðum og snjöllum stjórnmálamanni. Líkaði líka alltaf vel við hann þegar ég hitti hann, en nú hneykslaðist ég.
En Bjarni þekkti Finnboga. Vissi vel að það átti ekki að taka þessi orð bókstaflega.
Ertu honum ekkert reiður? spurði ég Bjarna.
Nei, nei, sagði Bjarni og brosti.
En mér finnst hann hafa vegið að þér persónulega, sagði ég.
Það getur vel verið, sagði Bjarni, en það gerir ekkert til. Hann meinar ekkert með þessu.
Þannig ætla ég einnig að leyfa mér að afgreiða Guðmund Magnússon og aðra þá gamla samstarfsmenn mína á Morgunblaðinu sem reyna að koma höggi á blaðið með þeirri yfirlýsingu að þeir viti svo sem hvað þeir séu að segja, þeir hafi unnið þar!
Guðmundur var ekki sá eini sem þurfti sterkt aðhald á Morgunblaðinu.Allt sem þetta fólk hugsaði var afstætt. Það talaði ávallt af sjónarhóli síns viðkvæma sjálfs og átti einatt í hinu mesta basli við dómgreindina þegar egóið var annars vegar.
Læt mér því fátt um finnast athugasemdina úr glerhúsi Guðmundar Magnússonar.
En Bjarni sagði á sínum tíma þegar við vorum að slást saman við kommúnista,
Alltaf að svara þeim, alltaf að svara þeim(!) Láta þá aldrei komast upp með að svara þeim ekki.
Þetta var eitt af því sem hann innrætti mér ungum og einnig þau sannindi að við eigum að skrifa sjálfir söguna, annars skrifa hana aðrir, ekki eins og hún gerðist heldur eins og þeir vilja að hún hafi gerzt.
Sem norrænufræðingur – með kand.mag. próf í sagnfræði frá einhverjum merkustu sagnfræðingum þjóðarinnar, Jóni Jóhannessyni og Þorkeli Jóhannessyni sem ég starfaði mikið með í Þjóðvinafélaginu þegar við breyttum Andvara – hef ég ævinlega gert mér far um að skrifa um sagnfræðileg efni eins og Ari fróði kenndi okkur en ekki eins og hentar mér eða mínum málstað.
Þannig skrifaði ég sögu Ólafs Thors.
Ég kveið fyrir því fyrst framan af vegna þess ég vissi ekki hvílíkur yfirburðastjórnmálamaður hann var og hve mikla ánægju ég átti eftir að hafa af því að kynnast honum náið og vafningalaust gegnum áreiðanlegustu heimildir um hann sjálfan og stjórnmálaforystu hans.
Nú er Chirac orðinn forseti Frakklands. Hann segir að ráðherrar séu venjulegt fólk sem eigi að vera í nánum tengslum við hinn almenna borgara; þeir séu engin yfirstétt; engin yfirmenni. Þeir séu þjónar þeirra sem hafa kosið þá til starfa; það sé allt og sumt.
Þetta líkar mér vel.
Chirac er alvörugaullisti. Hann virðist laus við hégómann og pjattið sem er því miður fylgifiskur íslenzku yfirstéttarinnar í stjórnmálum og embættisstörfum. Þeir hefðu haft gott af því að eignast sinn Chirac. Það verður kannski einhvern tíma.
Útvarpsumræður frá Alþingi fyrir helgi heldur rislitlar. Davíð Oddsson flutti stefnuskrárræðu stjórnar sinnar. Kannski var þetta stefnuskrárræða, kannski skýrsla; ég veit það ekki.
En ég hafði mjög gaman af ræðu Össurar Skarphéðinssonar. Hún var sérlega vel saman sett og eftirminnilega flutt.
Ég vissi að Össur var enginn venjulegur þingskussi í þessum efnum. Hafði tekið eftir því þegar hann skrifaði prýðilega grein um Björn í Sauðlauksdal sem ég birti í Jólalesbók Morgunblaðsins.
Ég vissi þá að svona stórgóða ritgerð semur einungis sá sem hefur góða tilfinningu fyrir efni og efnismeðferð.
Össur var auðvitað dálítið persónulegur og óvæginn, það er í hans eðli.
Hann er stjórnarandstöðufrík. Hann er augsýnilega miklu betri í stjórnarandstöðu en við kjötkatlana. Hann tók Finn Ingólfsson og lagði hann á hælkrók. Hann talaði um vaxtamálaráðherrann sem hefði misst vaxtafótinn og svo vitnaði hann til Grettlu og minnti á Önund Ófeigsson burlufóts Ívarssonar beytils.
Sagði að Finnur minnti á hann, enda hefði Önundur fræknastur verið og fimastur einfættra manna á Íslandi.
Þá hló allur þingheimur.
Sumir þingmenn vöknuðu jafnvel til að hlæja.
Það þótti mér mikið afrek hjá Össuri.
Hann fær stóran plús fyrir þessa litlu perlu sem ræða hans var, ég tala nú ekki um ef miðað er við umræðurnar í heild.
Freysteinn Jóhannsson, fréttastjóri á Morgunblaðinu, birti ljóð eftir sig í næstsíðustu Lesbók. Hef alltaf vitað að Freysteinn hefur fallega ljóðræna tilfinningu. En ég vissi samt ekki að hann yrkti. Ég hrósaði honum fyrir kvæðið. Ég sagði Hönnu að lesa kvæði Freysteins og hún gerði það.
Að lestri loknum sagði hún það væri engin tilviljun að ég væri ánægður með kvæðið. Þar væri vitnað til Tveggja bakka veðurs og nú hefði ofvöxtur hlaupið í egóið.
Það er þá ekki í fyrsta skipti!
Einar Bragi sendi okkur Hönnu tveggja binda safn sitt með leikritum Henriks Ibsens sem hann hefur nú snarað á gullaldaríslenzku eins og hans er von og vísa.
Mikið afrek, að mér finnst.
Og þá ekki síður þegar þýðingar hans á Strindberg bætast við.
Mér þótti vænt um áritun Einars:
Til Hönnu og Matthíasar með sumarkveðju. Einar Bragi.
Við eigum merka þýðendur og nú hefur Sigurður Á. Magnússon bætzt í hópinn með Ljóðasafni Whitmans og verkum Joyce.
Slíkar þýðingar falla vel að hæfileikum Sigurðar. Það hentar honum að sækja hugmyndaauðgi til mikilla skálda, svo vel verki farinn sem hann er að öðru leyti.
25. maí
Það er mikið að gera á blaðinu í kvöld en ég get ekki tekið þátt í því. Ég á að lesa upp með félögum mínum í Djass og tónlist á vegum Vesturbæjarhátíðar í Haðvarpanum.
Margt bendir til að verkfall verði á flotanum á miðnætti. Það er óskemmtilegt ástand í litlu landi þegar 4-5000 sjómenn sigla í land og segja eins og Þórbergur á sínum tíma:
Abupp! Það er nóg komið!
Jörðin titrar eins og ávallt þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur stjórna landinu saman. Þannig var það einnig 1977 og 1978. Það er eitthvað í andrúminu sem framkallar slíkt ástand. Ég veit ekki hvað það er en fólkinu þykir aldrei neitt vænt um ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Ríkisstjórn sem fólkinu þykir ekki vænt um, hefur verið sagt, getur ekki stjórnað landi, hversu sterk sem hún er að öðru leyti.
Ég er ekki frá því að það hefði verið hyggilegt að Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn með Alþýðubandalaginu.
Það hefði verið nýnæmi, það hefði verið söguleg stjórn og sögulegar sættir.
Mér er nær að halda að fólkinu hefði þótt vænna um slíka stjórn heldur en þá sem nú er.
Það er ekki aðalatriðið að ríkisstjórnir séu óhemjusterkar. Aðalatriðið er að fólkinu sé hlýtt til þeirra.
Það rís enginn upp í styrkleika, heldur veikleika.
En stjórnmálamenn eiga erfitt með að skilja slíkt.
En við sjáum til.
Um nóttina:
Las upp ásamt félögum mínum í Hlaðvarpanum, það var ágætt. Margt fólk og góðir áheyrendur. Carl Muller hefur samið falleg lög við textana. Og það er unun að hlusta á þá spila djassinn.
Reyndi að lesa eins vel og ég gat og held að það hafi tekizt svona nokkurn veginn. Fipaðist þó í einu ljóði og varð að endurtaka það.
Nína Björk las á eftir mér. Það var við hæfi. Hún er að verða einskonar Dame Edith Sitwell. Við höfum alltaf verið miklir og góðir vinir og ég kyssti hana á sviðinu, það var við hæfi enda voru Hanna og Bragi (Kristjónsson,maður Nínu) meðal áheyrenda.
Didda pönkskáld sem ég hef aldrei hitt áður og hélt að væri tvítug er orðin þrítug. Það er einkennilegt hvað fólk getur elzt vel þótt það hafi lent í miklum eldum.
Af ljóðunum að dæma hefur hún mikla reynslu af þessu eina grammi sem hefur orðið mörgum banvæn reynsla.
Hún var nokkuð klúr á köflum og fyrir bragðið dálítið óþægilegt að lesa á eftir henni.
Minnti á Dag Sigurðarson sem las á undan mér á einhverri ljóðlistarhátíð í Iðnó.
Hann gat verið ofklúr fyrir minn smekk.
Landi átti vel við í vegavinnunni,en ekki annars staðar.
En Dagur vildi líka vera annars staðar.
Didda las stutt ljóð þar sem hún talar um þurrkaða rós og gallíonsfígúrur á gömlum skipum. Hún vill ekki vera þurrkuð rós heldur sterkbrjósta gallíonsfígúra sem býður öldunum birginn. Það var minnisstæður metafór. Ég klappaði þegar hún hafði lesið ljóðið og aðrir tóku undir. Kannski hefur henni þótt vænt um það, ég veit það ekki.
En hún er eins og lítil telpa. Samt sagði hún við mig, Ég er þrítug.
Kannski sigrar hún grammið, ég veit það ekki. Ég vona það. Hún vinnur á Tindum, þangað fór ég í fyrra með Jónasi Magnússyni ,prófessor,og Súsönnu Svavarsdóttur,blaðamanni.
Það var merkileg reynsla. Þar er reynt að bjarga ungu fólki. Þar er einskonar slysavarnarfélag. Mér er hlýtt til Tinda og vona að Didda pönkskáld og annað ungt fólk sem þar er læri að stíga ölduna.
Ég kveið fyrir kvöldinu að venju. En nú er ég ánægður með að hafa tekið þátt í þessari uppákomu. Ég er Vesturbæjarskáld, það fer ekki á milli mála; fæddur á Ásvallagötu 10 og mótaður á Hávallagötunni á þeim árum þegar jökullinn var fyrir enda götunnar og engin hús voru milli hans og okkar. Þá var eilífðin í næsta nágrenni við þá fjarlægð sem getur aldrei orðið nálægð og þá varð maður að sjálfsögðu ódauðlegur eins og kyrrstæður veruleikinn sem lét sér fátt um finnast hvernig tíminn leið.
Þá var enginn tími.
Þá var einungis einn samfelldur dagur eins og í himnaríki Dantes. En svo þegar við kynntumst hreinsunareldinum skiptist á dagur og nótt.
Og stundum var nóttin lengri en dagurinn, um það er fjallað í Morgni í maí.
Pétur Pétursson þulur rabbaði um Vesturbæinn að ljóðadagskránni lokinni. Það var listrænt rabb og skemmtilegt. Þarf endilega að varðveita það á segulbandi. Pétur er hafsjór af skemmtilegum sögum úr Reykjavík og fer með þær eins og Victor Borge. Djúp alvara á yfirborðinu en undirtónninn er léttur og leikandi og eftirminnilega skemmtilegur. Það er merkilegt hve listilega Pétur getur tvinnað þessar sögur saman í eina heild og eftirminnilega reynslu af þessari borg sem einu sinni var bær og þorp og athvarf eftirminnilegs fólks sem var hlýtt og skemmtilegt og góður félagsskapur í frásögn Péturs.
Kom heim eftir miðnætti. Fékk mér bjór. Hlustaði með Hönnu á dagskrá um ljóðasöngvarann Donovan frá Glasgow sem Hrafn Gunnlaugsson hefur gert af nærfærni og þeim hlýhug sem honum er eiginlegur, þegar honum tekst bezt upp. Ljóð hans, með skírskotun til Svavars Gestssonar, sem við birtum í Lesbók ekki alls fyrir löngu er aftur á móti hálfgerður reiðilestur eins og ég sagði við hann og fremur í ætt við pólitíska ritgerð en ljóðlist. Hann tók athugasemd minni vel en vildi endilega birta kvæðið í Lesbók og við það sat.
Mér er sagt að Svavari hafi sárnað en hann hafði sært Hrafn með þingræðu á sínum tíma og er því einskonar upphafsmaður þessa ljóðs. Hann verður að sætta sig við það.
Annars hefur Svavar breytzt mikið. Ég var eitthvað að rífast við hann þegar hann var ritstjóri Þjóðviljans á kalda stríðs árunum. Nú fer afar vel á með okkur. Við höfum átt góð samtöl. Við höfum ákveðið að taka höndum saman um að bæta heiminn. Vonandi tekst það. Svavar hefur gjörbreytzt. Nýr tími er að framkalla beztu eðliskosti hans. Ég segi þetta ekki vegna þess að hann hefur hrósað ljóðum mínum í sjónvarpi, svo hégómlegur er ég ekki hvað sem öðru líður, heldur vegna þess að mér þykir vænt um hvernig heimurinn hefur breytt okkur og hvernig við getum breytt heiminum.
Mér þykir vænt um samtöl okkar Svavars ef þau eru merki um betri heim en við tókum í arf á sínum tíma.
Donovan er mér mjög að skapi. Hann er alvörumaður. Ég hafði unun af að hlusta á hann syngja ljóðin sín. Ég kann vel að meta hreinskilni hans og hvernig hann elskar og hvernig hann yrkir og syngur eins og inn í dagbók.
Hann varðveitir líf sitt í verkum sínum.
Mér er nær að halda að það hafi ég einnig gert.
Allt sem ég hef ort og skrifað er líklega einhvers konar dagbók, tilraun til að berjast við ofurefli tímans; við ofurefli dauðans og óhjákvæmilega tortímingu.
Klukkan er 17 mínútur yfir þrjú. Ég lít út og það er björt og fögur nótt; heiðskírt.
Logn.
Og trén hreyfast ekki.
Þau eru að bíða eftir einhverju. Þau eru að bíða eftir laufinu sem fyllir garðinn okkar þessum grænu táknum vors og ástar.
Pétur sagði að Þórbergur hefði búið í gamla stýrimannaskólanum í ellefu ár og níu klukkustundir.
Það var Þórbergi líkt.
Pétur sagði margt skemmtilegt og eftirminnilegt. Í upphafi las ég ljóð nr. 55 og 56 í síðustu ljóðabók minni, Land mitt og jörð, sem kom út í fyrra og gat þess víst að enginn hefði lesið þessi ljóð nema gagnrýnendur.
Lauk svo lestrinum með því að lesa ( á íslenzku,auðvitað)októberljóðið í Om Vindheim vide sem kom út í Noregi í fyrra en hefur aldrei birtzt á íslenzku.
Sagðist myndu lesa það á íslenzku til heiðurs Vesturbænum.
Þá var klappað.
Ég þarf víst að fara að gefa þessi ljóð út en sé til.
Pétur minntist á það sem ég hafði sagt og gat þess það væri ekkert nýtt að ljóðabækur seldust ekki eins og heitar lummur.
Jónas Thoroddsen hefði gefið út ljóðabók á sínum tíma, hann var bróðir Gunnars Thoroddsens og tengdasonur Magnúsar Guðmundssonar ráðherra, ef ég man rétt, en með honum og Jóhannesi bæjarfógeta afa mínum var vinátta og pólitískt fóstbræðralag svo að mér hefur verið innrættur hlýhugur í garð þessa fólks.
Ég hafði aldrei heyrt það fyrr að Jónas hefði gefið út ljóðabók. En Pétur sagði að hún hefði ekkert selzt. Nokkru síðar kom einhver maður að máli við Jónas og þakkaði honum fyrir ljóðabókina.
En hefurðu séð hana? spurði Jónas.
Já, auðvitað, sagði maðurinn.
Nú, hvar hefurðu séð hana?
Ég keypti hana, sagði maðurinn.
Nú, já, svo þú ert þá hann!
Það hafði víst selzt eitt eintak af bókinni og nú hafði Jónas hitt þann sem keypti.
En svo slæmt er þetta ekki í mínu bókhaldi. Ég hef aldrei þurft að kvarta yfir sölu á ljóðabókum mínum. Almenna bókafélagið seldi þær að jafnaði í 1100-1900 eintökum. Svo fríkaði Almenna bókafélagið út og ég týndi lesendum mínum. Hef ekki fundið þá ennþá en ætla að gera tilraun til þess með aðstoð Braga Þórðarsonar í Hörpuútgáfunni sem ætlar að gefa út bækurnar mínar.
Við sjáum til.
Iðunn hefur gefið út eftir mig fjórar eða fimm bækur en ég hef einhvern veginn ekki orðið heimilisfastur þar, ég veit ekki hvers vegna.
Það eru sjálfsagt margar ástæður fyrir því. Kannski er það mér að kenna því að ég hef ekki viljað taka þátt í fjölmiðlagasprinu á jólamarkaðnum; hef harðbannað Jóni Karlssyni,forstjóra, að senda bækurnar mínar í keppni um Íslenzku bókmenntaverðlaunin.
Jón Karlsson sagði einhvern tíma þegar ég nefndi þetta að afstaða mín væri óskiljanleg.
Þetta er móðursýki, sagði hann.
Jæja,sagði ég.
Og málið var útkljáð.
Skáld eiga að sækja kraftinn í eigið þrek, skáld eiga ekki að safna að sér klappliði, það dugar engum til lengdar.
Steinn Steinar átti ekkert klapplið; einungis nokkra góða vini sem dáðust að yfirburðum hans.
En hann hefði ekki fengið nein bókmenntaverðlaun fyrir Tímann og vatnið eins og viðtökurnar voru þá.
Sá sem þarf á klappliði að halda á að taka sér annað fyrir hendur en skrifa sögur og yrkja ljóð.
Hann á að fara í prófkjör.
Hann á að fara í framboð.
En hann á ekki að sækjast eftir viðurkenningu þeirra sem þykjast vera handhafar hinnar einu sönnu tólgar, eins og Gunnlaugur Scheving hefði komizt að orði.
Mér er minnisstæð sagan um Magnús dósent og Ólaf Thors þegar þeir hittust eftir útvarpsumræður á Alþingi og Magnús hafði að dómi Ólafs flutt frábæra ræðu enda við því að búast svo gáfaður sem hann var.
Ég kynntist honum og átti við hann langt samtal skömmu áður en hann dó, það var góð og eftirminnileg reynsla.
En eftir útvarpsumræðurnar hitti Magnús Ólaf sem var á leiðinni niður í þing, ef ég man rétt.
Magnús var dapur.
Er eitthvað að? sagði Ólafur.
Ja, það er nú kannski ekki hægt að segja það, sagði Magnús.
En af hverju ertu þá svona dapur? spurði Ólafur.
Ja, ég er svo ónægður með ræðuna sem ég flutti á alþingi í gær.
Ræðuna, sagði Ólafur, þú þarft ekki að vera óánægður með hana, þetta var framúrskarandi ræða.
Nei, nei, sagði Magnús, þetta var algjörlega misheppnuð ræða.
Og af hverju segirðu það? segir þá Ólafur Thors.
Magnús segir honum þá að hann hafi hitt merka frú í bænum þá fyrir nokkru og hún hafi tekið hann tali og sagt honum hvað hann hafi flutt vonda ræðu í útvarpsumræðunum.
Og það sé áreiðanlega rétt hjá henni.
Nei, nei, sagði Ólafur, þetta er eintóm vitleysa(!) Ef hún hefði sagt þetta við mig, bætti hann við og stappaði niður fæti, þá hefði ég bara sagt við hana, Þú hefur ekkert vit á þessu, bölvuð truntan þín!
Ég segi það sama við trunturnar í verðlaunanefndum um listir og bókmenntir. Þær eru ekki að hugsa um listirnar og bókmenntirnar.
Þær eru að hugsa um aðstæður.
Þær eru ekki að hugsa um neitt nema klíkurnar í kringum þær. Þær eru að hugsa um eigið skinn, það er allt og sumt. Þess vegna verða listaverðlaun ævinlega hlægileg þegar fram líða stundir. Og sú eina nefnd sem máli skiptir kveður upp sinn dóm:
Tíminn sjálfur.
Það hefði verið óskemmtilegt að sitja uppi með verðlaun frá tímum Jónasar Hallgrímssonar þegar allir hefðu fengið eitthvað fyrir sinn snúð – nema hann!
Han átti bara nokkra vini sem kunnu að meta hann. En þeir voru áreiðanlega fáir sem töldu hann bókmenntaverðlauna virði.
Sigurður Breiðfjörð hefði líklega spjarað sig betur. Hann orti inn í klisjurnar og vinsældirnar.
Og Jónas fyrirleit hann.
Samt var hann betra skáld en Jónas vissi og fullgilt verðlaunaskáld ef horft er til þess bezta sem hann orti.
En leirburðurinn,guð minn góður!
En mér er sama. Mig langar mest til að fá að vera í friði. Það er kannski bezt að hafa einn lesanda að ljóðum sínum. En það hefur ekki dugað mér. Ég vil selja margar bækur og lesa fyrir margt fólk. Á því nærist ég og það er gleðiauki að gleðja aðra.
Ég hefði ekki viljað vera í sporum Jónasar Thoroddsens og ekki heldur þegar hann var í sundlauginni með Ásgeiri Ásgeirssyni forseta og hljóp nakinn að laugarbakkanum, kallaði til Ásgeirs þar sem hann var að synda sína tvö hundruð metra að venju og sagði,
Þú ert víst ekki í skýlunni minni?
Þetta hef ég að sjálfsögðu eftir Pétri þul. Og þannig sögur sagði hann af listilegri upplifun í fjörutíu mínútur og fyllti tvö eða þrjú hundruð eyru af gleði og nýrri vitneskju.
Klukkan er átta mínútur í fjögur. Nóttin er bjartur dagur. Á skrifborðinu mínu eru myndir af þeim sem ég elska og þau horfa á mig þögul eins og nóttin.
Einhvers staðar í Vesturbænum er sofandi kona sem bíður eftir laufinu eins og trén.
Ég hef hitt þessa konu í ljóði sem ég orti í fyrra . Og þegar hún vaknar verð ég farinn inn í nýjan dag . Og við hittumst undir eilífum himni þessa nýja dags sem er eilífur dagur.
Hitamælirinn sýnir 24 stig, barómetrið stendur á 782 millibörum, foranderligt.
Það lofar góðu.
Undir morgun:
Gekk út í garð.
Laufið á birkinu að springa út.
Trén komu brosandi á móti mér.
Hátíð garðsins er mikil veizla í hjarta mínu. Ég finn ilm af vori og tilhlökkun trjánna er smitandi og senn fyllist garðurinn af eftirvæntingu fuglanna.
Þá verður að venja heimiliskettina í næstu húsum af garðinum.
En kettirnir eru kannski ekki verstir.
Það var friðsælt í Eden unz maðurinn kom til sögunnar; og höggormurinn.
Ég vil helst hafa garðinn okkar Hönnu eins og Eden var áður en ávextirnir freistuðu Evu.
En það var hvergi talað um neitt epli.
Eden hefur sem sagt verið eitthvað líkur garðinum okkar.
Svo ég fór að leita að Guði, hvort hann væri kannski á gangi í morgunsvalanum .
Og það hvarfaði ekki að mér að fela mig ef ég sæi hann á milli trjánna.
En Guð kallaði ekki:
Hvar ertu?
Það var þögn í garðinum og líklega er hann að sinna einhverjum mikilvægari viðfangsefnum en þeim sem snúa að garðinum okkar á Reynimel 25a.
En ég fór að hugsa með sjálfum mér, Það hefur verið mikil veizla í Eden þegar Guð var á kvöldgöngu sinni um garðinn og leitaði að Adam og Evu sem voru hrædd við Guð vegna þess að þau vildu líkjast honum og vita skil góðs og ills.
Þetta voru fyrstu mistök mannsins, en ekki þau síðustu. Hann hefur ævinlega viljað leika annað hlutverk í sköpunarverkinu en Guð ætlaði honum í upphafi.
Þegar við höldum að heimurinn sé að skána versnar hann aftur.
Það er ekkert skrýtið þótt Guð sé ekki í garðinum okkar, hann hefur nóg að gera annars staðar eins og útlitið er.
Hugsun mín er um stund vistarvera kafkaískrar ógnar. Og við sem vorum farin að halda að við værum í sporum Guðs þar sem hann stóð við sköpunarverkið og sá að það var harla gott.
Þangað til maðurinn kom til sögunnar.
26. maí – föstudagur
Hef lokið við að lesa The Founders of the Western World eftir Michael Grant; bókin fjallar um upphaf grískrar menningar og hvernig hún vex inn í rómverska alþjóðahyggju á þeim öldum sem Rómverjar gegndu forystuhlutverki fyrir vestræna menningu.
Mjög fróðleg bók og sýnir hvernig klassísk menning er undirstaða þess heimsveldis sem kaþólska kirkjan er vaxin af. Hún er eina heimsveldið sem ég þekki sem hefur lifað af sögulegt umrót fram til okkar tíma. Það sá maður líka þegar við fylgdumst með göngunum í Róm og sáum þúsundir kaþólskra karla og kvenna fara um borgina í tilefni af kirkjuþingi Jóhannesar Páls páfa XXIII, sem við hittum í Vatíkaninu með Bjarna Ben. og Sigríði þetta ár, 1962.
Hef raunar lýst því annars staðar, líklega í Ferðarispum; eða Lesbók.
Þúsund ára ríki Hitlers stóð einungis nokkur ár og paradís sovétkommúnismans einungis nokkra áratugi.
Hún hrundi án styrjaldar á örfáum misserum.
Það er merkilegt að hafa lifað slíkt umrót, hverjum hefði dottið það í hug. Það eru hersveitir himnanna og menningarinnar sem hafa haldið velli. Páfinn sagði á sínum tíma að hann hefði ekki hermenn gráa fyrir járnum eins og Stalín en hinar himnesku hersveitir hans myndu duga honum.
Það hefur nú komið á daginn, hvílík undir!
Grant minnist á fjölda sögupersóna, til að mynda Markús Árelíus keisara, að hann hafi verið stóisti í aðra röndina og trúað á örlög en þó verið þeirrar skoðunar að maðurinn gæti með viljastyrk svipt af sér örlagadómi og náð markmiðum sínum með elju, þreki og þolgæði.
Þetta má vel vera.
Ég trúi þessu að minnsta kosti í dag, hvað sem verður!
Þó að Guð hafi skapað heiminn og maðurinn sé einungis hluti af þessu sköpunarverki er það áreiðanlega rétt það sem Grant hefur eftir Maxim Gorkí, að maðurinn er skapari siðmenningarinnar; hann er herra hennar og það er undir honum komið, hvernig henni reiðir af.
Ég er ekki viss um að forystumenn í stjórnmálum hafi alltaf gert sér grein fyrir þessum sannindum.
Þeir hafa kastað jörðinni á milli sín eins og tröllkonurnar fjöregginu í sögunni um Hlyna kóngsson.
Það hefur munað litlu að þeir hafi misst hana og brotið. En hún er enn á sínum stað í sköpunarverkinu, svífur í þessu kraftaverki á braut sinni um sólina. Og vonandi koma engir kraftaverkamenn í stjórnmálum úr þessu að kasta henni á milli sín í nýju köldu stríði.
Jörðin okkar hefur mátt þola margt en hún lifir og andar og hreyfir sig eins og lifandi vera; það sjáum við á jarðskjálftamælunum.
Ég las heimspekirit Markúsar Árelíusar,keisara, á sínum tíma.
Ef jörðin bæri gæfu til að eignast slíka þjóðarleiðtoga í framtíðinni mun hún halda áfram að anda og hreyfa sig. Og bera skapara sínum það fagra vitni sem Jónas er alltaf að upplifa og lýsa í skáldskap sínum og ritum.
Og nú eru 150 ár frá dauða hans.
Þeir voru fáir sem stóðu við gröf hans í Kaupmannahöfn.
Nú er hann ímynd alls þess bezta sem íslenzka þjóðin hefur eignazt. Það er vegna þess hann lýsti innanfrá.
Aðrir þurfa ljóskastara til að vera sýnilegir á sviðinu.Það eru athyglisfíklar samtímans.
Froðusnakkararnir.
Íslenzki draumurinn mun endast nákvæmlega jafn lengi og minningin um Jónas.
En ætli hún sé farin að fölna?
Við keyptum pakkasúpu um daginn. Hún var útlend, kannski frá Toro eða Knorr, ég man það ekki. Held kannski hún hafi verið norsk.
Ég keypti þrjá pakka, prófaði einn en fleygði tveimur. Á pökkunum stóð Íslensk kjötsúpa, það var ástæðan til þess að við keyptum pakkana.
Þegar ég smakkaði súpuna fann ég að hún var misheppnuð.
Þetta var ekki íslenzk kjötsúpa. Þetta var eftirlíking af íslenskri kjötsúpu. Íslensk kjötsúpa er engu lík. Hún er holl og lítið af hitaeiningum. Ég er í megrun og þess vegna þykir mér gott að fá íslenzka kjötsúpu. En pakkasúpumönnunum brást bogalistin.
Það er ekki hægt að búa til íslenzka kjötsúpu í útlöndum. Það er ekki hægt að búa til íslenzka kjötsúpu nema úr íslenzku lambakjöti sem er soðið í íslenzku vatni. Bezt að hafa íslenzkar gulrætur og rófur með.
Velheppnuð íslenzk kjötsúpa er jafnvel betri upphituð, þá kemur þetta óviðjafnanlega villibragð íslenzku heiðanna.
Ekkert er íslenzkara en íslenzkir haustdilkar. Landið fylgir þeim inn í kjötsúpuna.
Þannig er íslenzk menning; þannig er arfur okkar. Það er ekki hægt að matreiða hann í erlendum verksmiðjum. Hann er heimatilbúinn eins og kjötsúpan.
Það er allt og sumt.
Og ekkert jafnast á við íslenzka kjötsúpu. Hún er eins og birkiskógurinn. Hann verður ekki fluttur inn. Hann er öðruvísu en allir aðrir skógar. Það er jafnvel öðruvísi ilmur af íslenzkum birkiskógi en öllum skógum öðrum. Og beztur er hann í glampandi sól, eftir ærlegt úrfelli.
27. maí
Minnumst þess í Lesbók að 150 ár eru liðin frá því Jónas dó.
Gísli Sigurðsson vildi birta kafla úr bók minni um Jónas en ég neitaði því; tel ekki að lesendur séu undir það búnir að fá smáskammt af mínum hugmyndum um ljóðlist Jónasar, trú hans og viðhorf; og allra sízt um ást hans.
Hannes Pétursson skrifar stutta grein um stúlkuna í ljóðum Jónasar. Ég sé ekki betur en við séum sammála um að allt sé þetta ein og sama stúlkan, þ.e.a.s. hin óáþreifanlega Hulda sem er tákngervingur Jónasar í draumnum fagra um land okkar og þjóð. Það var þessi kona – og þessi eina kona – sem Jónas elskaði. Það var fjallkona Eggerts Ólafssonar sem lifir í og með landinu og er óáþreifanleg, draumfögur táknmynd í þeim skáldlega hugarheimi sem Jónas bjó sér til og var auðvitað í andstöðu við allan áþreifanlegan veruleika.
En vel má vera að þessi blossi hafi kviknað af funa gamalla æskuminninga því að Jónas var ekki síður hrifnæmur en önnur ljóðskáld. Og engill með rauðan skúf í peysu er dálítið skrýtin hugmynd, eins og Hannes bendir á, en fullkomlega eðlileg í veruleika þeirra draumkenndu hugmynda sem Jónas átti einn.
Og hann vaknaði aldrei af þessum draumi, sem betur fer.
Tómas vissi líka að það var nauðsynlegt að vakna ekki af slíkum draumi... og ég dey, ef hann vaknar, segir Tómas í Þjóðvísu.
Um kvöldið
Hlustaði á Jung Chang fjalla um bók sína Villta svani á fjölmennri samkomu í Háskólabíói sem haldin var á vegum Máls og menningar í tilefni af hingaðkomu hennar.
Las Villta svani á ensku á sínum tíma.
Áhrifamikil bók.
Það vakti athygli mína að Chang telur ekki að það sé kommúnismi lengur í Kína heldur markaðsþjóðfélag og þess vegna einskonar kapítalístískt þjóðfélag, gjörbreytt frá dögum Maós og miklu frjálsara en áður var. Lýsingar hennar voru svipaðar og þær sem maður les í Villtum svönum. Hún telur að Kínverjar óttist ennþá Maó og gæti þess vandlega að gagnrýna hann ekki sín á milli. Á hans dögum var engin smuga að komast undan stjórnvöldum. En ýmsir andófsmenn sluppu undan hrammi yfirvaldanna eftir blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar;sem sagt,það eru komin göt á kerfið.
Aðspurð sagði Chang að hún teldi að Kínverjar hefðu haft ákveðna samúð með jafnréttisstefnu sósíalismans og enn sé það svo að þeir hafni ekki sósíalismanum sem slíkum, Maó hafi ekki endilega verið sósíalisti heldur alræðisseggur sem hélt öllu í járngreip sinni.
En þegar hún lýsti þeim sósíalisma sem Kínverjar geta hugsað sér fór hún að tala um velferðarþjóðfélag.
Enginn Íslendingur mundi telja velferðarríki í neinum sérstökum tengslum við sósíalisma eða marxisma eins og við höfum þekkt hann þó að félagslegt réttlæti eigi vafalaust einhverjar rætur í hugsjónum sósíalismans á sínum tíma. En ég held ekki það hafi verið sósíalistar sem slíkir sem voru upphafsmenn velferðarríkis. Ég man ekki betur en Bismarck, járnkanslarinn sjálfur, hafi verið hallur undir þennan velferðarríkissósíalisma sem Chang talaði um og var hann þó enginn sósíalisti.
Hún rifjaði upp stálframleiðslustefnu Maós á sínum tíma og sagði að þá hefðu allir átt að framleiða stál. Öll hrundi nú þessi hugmyndafræði og stálframleiðslustefnan varð til þess að 40 milljónir Kínverja dóu hungurdauða vegna þess að engir fóru út á akrana. Það varð einfaldlega uppskerubrestur og hungsneyð í kjölfarið.
Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að Maó vildi ekki að fólk læsi bækur. Hann var á móti æðri menntun og raunar öllu því sem hann skildi ekki.
Hann skildi ekki kínverska húsagerðarlist, hann skildi ekki kínverska myndlist og hann skildi ekki kínverska læknislist. Hann var á móti læknum og læknisfræði og þess vegna fékk hún sjálf atvinnu af því um skeið, eða áður en hún lenti í fangabúðum og útlegð, að sinna heilsugæslu og læknishjálp þótt það væri ekki hennar fag.
Sjálfur var Maó hinn mesti lestrarhestur.
Hann vissi að bækurnar höfðu opnað honum útsýn til allra átta. Þær gátu því verið hættulegar, þær voru boðberar margra hugmynda.
En í Kína áttu menn ekki að hafa neinar aðrar hugmyndir en þær sem hann boðaði sjálfur og þess vegna vildi hann ekki að menn læsu bækur.
Hann ætlaði svo sannarlega ekki að gera einn milljarð Kínverja að einhverjum hugmyndasjúklingum.
Nei, það átti að vökva plönturnar að vísu, en þær áttu ekki að hugsa. Ekki frekar en í gúlagi Stalíns.
Chang sagði að oft hefði það gerzt á tímum Maós að tvær bækur hefðu verið prentaðar. Önnur fyrir ríkisbókasafnið en hin handa Maó.
Hún telur að Maó hafi tekizt að koma menningarbyltingunni af stað vegna innrætingar Kommúnistaflokksins á árum áður. Ungt fólk hafði allt eina hugsun, það var hugsun Rauða kversins; það var hugsuns Maós sjálfs.
En við getum ekki lokað augunum fyrir því að hugmyndir hans um þjóðfélagið og hlutverk einstaklingsins í því voru sóttar til marxismans og það var á forsendum hans sem ríkinu var stjórnað.
Það var svo sannarlega ekki á forsendum neinnar skandinavískrar velferðarhugsjónar!
Chang sagði að Maó hefði haft mestan áhuga á sögum og svo auðvitað ljóðlist, enda hefði hann verið gott skáld og ort falleg kvæði ungur, eins og hún komst að orði.
Ég þýddi sum þessara kvæða úr ensku á sínum tíma og hafði gaman af, því að ég fékk tilfinningu fyrir því að ljóðlist Maós væri sérstæð og raunar harla merkileg á sinn hátt.
Ég birti þessar þýðingar í Lesbók ef ég man rétt en hef ekki hirt um þær síðan, hef ekki haft áhuga á því.
En eftir að þessar þýðingar birtust var ég oft kallaður maóisti og sem slíkur var ég nokkrum sinnum heiðursgestur í kínverska sendiráðinu meðan það var og hét og þar stjórnuðu sérstæðir og eftirminnilegir sendiherrar sem ég hafði einstaklega gaman af að tala við, fræðast af og síðast en ekki sízt deila með áhyggjum af heimsveldisstefnu sovétkommúnista og glæpsamlegu gúlagþjóðfélagi þeirra.
Nú vitum við að Maó stjórnaði nákvæmlega samskonar þjóðfélagi og hann bar ábyrgð á dauða milljóna manna. Vinnubúðir hans voru ekki minni kirkjugarður en gúlagið rússneska.
Sú saga verður áreiðanlega einhvern tíma sögð, undanbragðalaust. En Kínverjar hafa því miður ekki eignazt sinn Solzhenytsyn, það segir meiri sögu en miklar vangaveltur.
En kannski ég fari að draga fram þýðingarnar á ljóðum Maós því hann er hvort eð er týndur og tröllum gefinn og horfinn sinni eigin heimsmynd og getur engum gert mein lengur eftir að maóisminn féll úr tízku hjá fína fólkinu á vinstra væng. En fyrst Chang segir að skáldskapur hans sé góður þrátt fyrir allt og allt þá hlýtur hann að lifa áfram eins og annar góður skáldskapur og eiga erindi við fólk sem þekkir ekki glæpsamlegar tilhneigingar höfundarins.
Magnús Kjartansson tók þessum þýðingum mínum á kvæðum Maós af barnslegum fögnuði og vitnaði í þær bak og fyrir þegar hann flutti fagnaðarerindið á fundum og í skólum og láðist víst aldrei að geta þess að íhaldsritstjórinn hefði þýtt þennan skáldskap og þótti víst talsverð tilbreyting á sínum tíma þegar kalda stríðið geisaði enn og íhaldið átti að vera illa innrætt og fjandsamlegt venjulegu fólki.
En það var þá þessi undantekning í svartnætti hægri manna og boðaði kannski dálitla von um batnandi andlega heilsu hatursmanna kommúnismans.
Sé ekki að skáldskap Maós hafi hrakað neitt verulega með árunum því að 26. desember 1962, eða á 69. afmælisdegi sínum, yrkir hann þetta áhrifamikla kvæði. Hann á þá í miklum deilum við Rússa en er staðráðinn í að reka af höndum sér tígra og hlébarða – og hann hefur engan beyg af bjarndýrum.
Vetrarský
Bylurinn fýkur úr vetrarskýjum.
Blómin eru fölnuð.
Kaldir vindar næða um himininn;
enn andar jörðin hlýju.
Helja rekur burt tígrisdýr og hlébarða, alein.
Hinir hugrökk óttast ekki bjarndýr.
Plómutréð býður snjóþrunginn himin velkominn
án þess hugsa um flugurnar sem frostið grandar.
Það eru merkilegar andstæður í manni sem getur ort svona kvæði og þeim sem lýst er með þessum orðum Jung Chang í 28. kafla bókar hennar: “Ég hafði um nóg að hugsa dagana eftir dauða Maós. Ég vissi að hann var álitinn heimspekingur, og ég reyndi að fá á hreint í hverju “heimspeki” hans væri fólgin. Mér virtist ásókn í sífelld átök vera þungamiðjan. Kjarninn í hugsun hans virtist vera sá að mannleg barátta væri hreyfiafl sögunnar, og til að virkja þetta afl yrði stöðugt að fjöldaframleiða “stéttaróvini”. Skyldu kenningar nokkurs annars heimspekings hafa leitt til þjáningar og dauða svo margra?
Mér varð hugsað til þeirrar ógnarstjórnar og eymdar sem hafði verið hlutskipti kínversku þjóðarinnar. Og hverju hafði það skilað?
En svo gat hitt líka verið að kenningar Maós væru afleiðing skapgerðar hans sjálfs. Mér virtist hann njóta sín best í andrúmslofti baráttunnar, einkum þegar hann var í stöðu til að herða á henni. Hann hafði djúpan skilning á illum hvötum á borð við gremju og öfund og kunni að færa sér það í nyt til að ná eigin markmiðum. Hann stjórnaði með því að etja fólki saman. Á þann hátt gat hann fengið venjulega Kínverja til að vinna verk sem kölluðu á atvinnumenn í öðrum einræðisríkjum.
Maó tókst að gera þjóðina sjálfa að því verkfæri sem dugði til að koma á einræði. Vegna þess varð aldrei til nein kínversk hliðstæða KGB meðan hann var og hét.
Það var óþarfi.
Með því að hlú að verstu hvötum fólks skapaði Maó eyðiland haturs og siðferðilegrar upplausnar. En hver er svo einstaklingsbundin ábyrgð venjulegs fólks á öllu saman?Það var spurning sem ég treysti mér ekki til að svara.
Sagði hún.
“ Drottnun fáfræðinnar virtist mér vera annað megineinkenni maóismans. Eins og Maó setti dæmið upp var menntað fólk rakinn skotspónn þjóðar sem að langmestu leyti var ólæs, en sjálfur fyrirleit hann formlega menntun og handhafa hennar af öllu hjarta. Mikilmennskubrjálæði hans varð til þess að hann leit afrek genginna afreksmanna á sviði kínverskrar menningar smáum augum. Hann fyrirleit þau svið kínveskrar siðmenningar sem hann bar ekki skynbragð á, svo sem arkitektúr, fagrar listir og tónlist. Allt var þetta til þess að hann vann gífurleg spjöll á menningararfleifð þjóðarinnar. Hann skildi ekki aðeins eftir sig afsiðaða þjóð heldur einnig ljótt land þar sem það litla sem enn minnti á forna frægð var einskis metið.”
Um kvöldið
Hef verið að hlusta á spólurnar með fimm dagskrám ungu skáldanna brezku sem ég átti samtal við þegar þeir komu hingað í fyrra, Simon Armitage og Glynn Maxwell, sem komu til Íslands í fótspor Audens og Luis Mac....
Bezt að athuga í Alfræðibókinni íslensku hvernig nafn hans er skrifað... Einkennilegt, það er ekki í þessu riti. Og samt er hann eitt frægasta skáld sem komið hefur til Íslands og ort um það: Louis MacNeice.
Þetta er skemmtileg dagskrá; öðruvísi.
Þessi ungu skáld verkuðu vel á mig og ég hlakka til að hitta þá aftur þótt síðar verði. Þeir eru líka svo fín skáld, þeir kunna til verka. Það verður ekki sagt um öll ung skáld. Ég nýt þess að hlusta á þá lesa ljóð Audens og MacNeice. Og svo að sjálfsögðu eigin ljóð. Þeir gáfu mér bækurnar sínar og sitthvort ljóðið sem þeir ortu hér heima, handskrifað.
Glynn Maxwell orti sitt ljóð “For Matthias Johannessen” á Skutustöðum 5/9 ‘94 en Simon Armitage ortu sitt ljóð 11. september í fyrra.
Hef gaman af að eiga þessi ljóð í eiginhandarriti. Held bæði Simon og Glynn séu í forystusveit ungra brezkra ljóðskálda. Það er heiður að fá þá í heimsókn. Funi kveikisk af funa. Mér fannst gott að geta hjálpað þeim að fóta sig hér heima. Þeir töluðu við mig af því að ég hafði hitt Auden og gaf þeim dálitlar minningar mínar um hann en seldi þeim ekki eins og þegar Borges ætlaði að selja mér minningar Shakespeares fyrir vikudvöl á Íslandi. En hugmyndaflug hans var engu líkt(!)
Sé þeir hafa einnig skrifað stórar greinar með flottum myndum í The Independent on Sunday, 19. febrúar 1995, Footstep in lava and ice, og Weekend Telegraph, 18. febrúar sl.: Between solitude and isolation. Og fyrri grein fylgir kvæði eftir Simon, Listen Here.
Þessar greinar og dagskráin eru mikil landkynning fyrir Ísland. Það leynir sér ekki af efnistökum þeirra félaga að þeir bera góðan hug til landsins og ég vona að þeir hafi það í farteski sínu það sem eftir er. Þá er Íslandi borgið í Bretlandi. Dagskráin var flutt í útvarpsdagskrá BBC3 fimm kvöld í viku í lok febrúar sl. Enginn hefur minnzt á þessa dagskrá hér heima.
Það er undarlegt hvernig við veltum okkur upp úr allskyns glingri, bæði hér heima og erlendis, en hirðum ekki um það sem flytur verðmæti milli okkar og heimsins.
Vonast til að hitta þessi ungu skáld þegar við Hanna komum til Lundúna næsta fimmtudag. Þeir eru gott kompaní, verðugir sporgöngumenn Audens og MacNeice. Þeir eru mjög flinkir að ríma og kunna tök á allskyns ljóðformi, ekki síður en Auden sem hafði allt ljóðformið á valdi sínu; eða ætti ég að segja... sem lék ekki einungis Gamla Nóa á píanóið heldur notaði hann allt hljómborðið. Það er harla fágætt í ljóðlist nú um stundir.
Sumt af því sem ungu skáldin brezku yrkja minnir mig á formtilraunirnar í Morgni í maí eða Dagur af degi, það er einkennilegt og það gladdi mig.
Kannski er maður ekki eins forpokaður og ætla mætti af samanburði við sumt í nýskáldskap!!
Það skyldi þó ekki vera.
Hér á ég til að mynda við kvæði eins og Listen Here eftir Simon Armitage og Trunt, trunt and the troll eftir Glynn Maxwell.
Þannig er ljóðlistin. Maður veit aldrei hvernig hún ferðast um heiminn. Hún er myndin ósýnilega; hálfmyndin ósýnilega; hugmyndin ósýnilega. Það sem er óáþreifanlegt; ósýnilegt; nema þegar hugmyndin fær form í ljóðinu. Og hún vex eins og lifandi vera sem leitar að formi sínu. En enginn veit hvers vegna, samt vex hún, samkvæmt óþekktum lögmálum. Samt getur enginn flutt svona ljóð af einni tungu á aðra; ekki frekar en það er hægt að flytja öldurnar við Örfirisey austur um haf.
Samt eru öldurnar við Örfirisey að brotna við Bretlandseyjar.
28. maí – sunnudagur
Reynitrén eru að laufgast og laufið kemur eins og vinalegir gestir og brosir til okkar.
Nú skreppum við senn til London.
Það verður gaman að koma aftur að garðinum í fullum skrúða um miðjan júní.
Við Kristján Karlsson borðuðum saman í Nausti á föstudag. Það var skemmtilegt og fróðlegt eins og venjulega.
Jónas komst á dagskrá en einungis sem einskonar neðanmálsgrein.
Kristján minnti mig á bréf sem Jónas skrifaði Páli Melsteð árið áður en hann orti Óhræsið. Hann biður Pál um að senda sér snaraðar rjúpur. Komum okkur saman um að það merkti: Rjúpur sem hafa hangið fremur en rjúpur sem hafa verið snaraðar.
Menn hljóta að hafa skotið rjúpur á þessum árum. Kannski hafa þeir einnig snarað þær, hver veit?
Sagt er að kvæðið eigi rætur í umhverfi Fljótsheiðar, ég veit það ekki.
Fljótsheiðin er einhver grónasta heiði landsins og ég gleymi því ekki hvað ég var undrandi þegar ég sá hana fyrst; græna og loðna af grasi og lyngi.
En Jónas flytur kvæðið niður í dalinn og breytir því þar með í þjóðfélagsádeildu.
Konan í dalnum sem tekur dýrið dauðamóða er þjóðfélagið sjálft.
Þetta er semsagt þjóðfélagsádeila.
En bréf Jónasar til Páls gæti verið vísbending um að rjúpurnar góðu sem hann sendi skáldinu til Kaupmannahafnar hafi verið kveikjan að kvæðinu.
Kvæðið sýnir markleysi skáldskapar, segir Kristján. En það er ekki þar fyrir að það gæti ekki verið satt þótt það sé markleysa. Sannleikur skáldskapar getur verið mikilvægari en markleysan. Mér fannst þessi ábending Kristjáns upplýsandi íhugunarefni.
Við töluðum um einlyndi og marglyndi í ritum Sigurðar Nordals. Hann er hallur undir marglyndi í aðra röndina en hallast þó ævinlega að einlyndi þegar hann skrifar um skáldskap. Ef maður gerir sér þetta ljóst er auðveldara að lesa umfjöllun hans um skáldskap og bókmenntir; þar þarf maður ekki að upplifa endalausan tvískinnung.
Einlyndið er sprottið úr pósitívisma sem gerir kröfur til réttlætis og rökhyggju.
Og Nordal dregur ævinlega ályktanir um manninn af skáldskap hans. Þess vegna hafði hann vissa andúð á ljóðum Tómasar. Tómas er ekki endilega að eltast við réttlæti í skáldskap heldur getur hann átt til að vera nokkuð léttúðugur.
Það var Davíð ekki.
Nordal leyfir honum að vera bóhem, að vísu, það er eðli skálda og ekkert við það að athuga.
En í kvæðum hans birtist oftast ástríðufullt einlyndi, þess vegna ekki sízt kann hann að meta Davíð öðrum fremur.
Hið sama á við um séra Matthías og náttúrulega Hallgrím Pétursson. Þeir eru einlyndir í trúarafstöðu sinni.
Og það er Sigurði Nordal að skapi.
Þeir eflast við hverja raun.
Einar Benediktsson er jafnvel nógu einlyndur í skáldskap sínum fyrir Sigurð Nordal. Afstaða hans er engin lausung, hann hefur allt á hreinu hvað sem lífi hans líður að öðru leyti. Hann segir líka, Vilji er allt sem þarf(!) Þessi viljafesta er eitt höfuðeinkenni einlyndis. Hún á rætur í fornum íslenzkum skáldskap og tvíeflist við viljastyrk lútherskunnar þegar hún kemur til sögunnar.
Kröfur viljans eru grundvallaratriði í boðskap Lúthers eins og ég hef bent í bókinni Um Jónas.
En það er ekki sízt Stephan G. Stephansson sem er hin fullkomna táknmynd einlyndisins í huga Sigurðar Nordals. Hann viðurkennir að vísu í ritgerð sinni um Stefán að honum hafi framan af þótt fráhrindandi hvað ljóð hans eru óhefluð og stirð. En þegar nánar sé að gætt þá sé hann mestur maðurinn á meðal skálda.
Af hverju?
Auðvitað vegna þess að viljafesta Stephans G. og einlyndi var rauði þráðurinn í skáldskap hans og jaðraði stundum við andlegt ofbeldi eins og hann barðist fyrir því í ljóðum sínum sem hann taldi rétt, undanbragðalaust.
Það fellur að boðskap Nordals um mikilvægi einlyndis þrátt fyrir margvíslegar tilhneigingar til fjöllyndis.
Hann reynir ekki sízt að gera upp við marglyndið í smásögum sínum og tilvistarkreppa Álfs frá Vindhæli á sér auðvitað rætur í þessu marglyndi sem er hálfviljalaust og stjórnast af tilfinningum frekar en rökhyggju.
Nordal gerir upp við þetta tilfinningalega viljaleysi og er þannig samkvæmur sjálfum sér, bæði í skáldskap sínum og fræðimennsku.
Samt lærði hann af táknskáldunum sem eru ekkert að hugsa um réttlæti eða viljafestu. Það sjáum við ekki sízt af verkum þess skálds sem hafði mest áhrif á ljóðsögur Nordals, Sigbjørns Obstfelders (1866-1900).
Alfræðiorðabókin íslenzka talar ekkert um viljafestu, einlyndi eða rökhyggju þegar skáldskap Obstfelders er lýst, heldur er sagt að hann hafi farið ótroðnar slóðir og hafi ljóð hans, sem voru hljómfögur og táknræn og nýstárleg að formi, haft mikil áhrif á ljóðagerð, bæði í heimalandi hans, Noregi, og Danmörku. Ennfremur að verk hans í óbundnu máli lýsi á táknrænan hátt uppgjöri höfundarins og eilífðarþrá; það er tilvistarvanda sem á ekkert skylt við rök eða réttlæti. Þessi verk fjalla einungis um manninn í samfélaginu, tilfinningar hans og andlega glímu, ekki sízt við sjálfan sig. Þar er engin afdráttarlaus afstaða til aðstæðna og umhverfis. Þar er fjallað um vandamál mannsins sjálfs, tilfinningar hans og tilvist.
Um þetta fjalla smásögur Nordals einnig og þótt þær virðist í fljótu bragði hallar undir marglyndi þá eru þær miklu fremur uppgjör skáldsins við þetta sama fjöllyndi og lævís áróður fyrir einlyndi. Það sé miklu frekar einhvers konar forsenda fyrir hamingju mannsins en röklausar fléttur marglyndis.
Það var gaman að tala við Kristján um þessi efni.
En einlyndi Stephans G. henta engan veginn hugmyndum mínum um manninn og þjóðfélag hans.
Við Tómas töluðum einhvern tíma saman um Stephan G. og vorum sammála um merkilegan skáldskap hans sem takmarkast þó af einskonar réttlætisæði og einföldun og stílhnökrum.
Hann minnir á Grím Thomsens að því leyti
Og einlyndi Gríms minnir á afstöðu Stephans G.
Ég ætlaði að skrifa doktorsritgerð um Grím Thomsen á sínum tíma en hætti við það þegar mér var boðið að verða ritstjóri Morgunblaðsins. Þá hafði ég lagt stund á Grím meðan ég var í Kaupmannahöfn við framhaldsnám og þótti mikið til hans koma sem sérstæðs skálds.
En þegar ég fór að fylgjast með þingræðum hans féll mér allur ketill í eld.
Mér hugnaðist ekki þessi einlyndi þingmaður sem hafði endanlegar skoðanir á viðfangsefnum sem kalla á afstætt mat og umburðarlyndi.
Kristján kom með grein eftir Ármann Jakobsson, ungan mann sem á sínum tíma var sumarmaður á Morgunblaðinu, og mér féll ágætlega við þótt hann sé kannski ekki fæddur blaðamaður. Hann stundar íslenzkunám við Háskóla Íslands.
Hann heldur það sé engin angist í nútímaskáldskap.
En allur góður skáldskapur er barátta við angistina sjálfa, kvíðann, óttann. Hann er barátta við tortímingu, dauðann. Þessi barátta birtist í ýmsum myndum. Hún þarf ekki endilega að vera augljós klisja eða viðtekið sorgarstef. Þvert á móti getur hún birtzt í andstæðu angistarinnar; fögnuði, tilhlökkun; gleði. En þó einkum þeim fyrirvara sem við verðum að gera ráð fyrir í öllu lífi okkar og þá ekki síður hugsun og skáldskap.
Kristjáni þykir Ármann Jakobsson nokkuð undirdánugur við skáldskap Snorra Hjartarsonar.
Hann birtir kvæði hans Var þá kallað en Kristján telur það kvæði misheppnað, tilfinning þess sé utan við kvæðið en ekki í því.
Það sé ekki góðs viti.
Það sé ekki merki um góðan skáldskap.
En það væri hægt að laga þessa utangarðstilfinningu með því að breyta um röð á erindum kvæðisins, auka þannig spennuna og flytja tilfinninguna inn í kvæðið sjálft.
Þetta þykir mér harla íhugunarverð athugasemd.
Snorri yrkir kvæðið með þessum hætti:
Dómhringinn sitja ármenn erlends valds,
enn ráðast mikil forlög smárrar þjóðar,
vorsól úr skýi vitjar kletts og tjalds
á völlinn þyrpast sveitir kvíðahljóðar.
Eitt nafn er kallað, flögrar fugl í leit
og felur ljósan væng í dökku bergi
og vekur dvergmál djúp og löng og heit:
hvað dvelur för hans? ennþá sést hann hvergi.
Aftur er kallað, aftur sami kliður
ögrandi spurnar: verður hann of seinn
hinn langa veg, senn lýkur hinzta fresti.
Við horfum austur hraun og bláar skriður,
horfum sem fyrr en sjáum ekki neinn
sólbitinn mann á sveittum mjóum hesti.
Kristján telur það megi bjarga sonnettunni með því að breyta erindum á þessa leið:
Eitt nafn er kallað, flögrar fugl í leit
og felur ljósan væng í dökku bergi
og vekur dvergmál djúp og löng og heit:
hvað dvelur för hans? ennþá sést hann hvergi.
Dómhringinn sitja ármenn erlends valds,
enn ráðast mikil forlög smárrar þjóðar,
vorsól úr skýi vitjar kletts og tjalds,
á völlinn þyrpast sveitir kvíðahljóðar.
Við horfum austur hraun og bláar skriður,
horfum sem fyrr en sjáum ekki neinn
sólbitinn mann á sveittum mjóum hesti.
Aftur er kallað, aftur sami kliður
ögrandi spurnar: verður hann of seinn
hinn langa veg, senn lýkur hinzta fresti.
Ég neita því ekki að agndofa af undrun beygi ég mig undir tillögu Kristjáns og er honum algjörlega sammála. Það er dauður maður og smekklaus sem sér ekki hve þetta kvæði er miklu sterkara með þeim hætti sem Kristján gerir tillögu um. En við getum víst ekki fjallað um það við Snorra, hann er horfinn.
Það fer líka bezt á því.
Hann hefði ekki orðið upprifinn ef við hefðum gert tillögu um slíka breytingu meðan hann var á dögum!
Kristján sagði mér að merkur bókmenntamaður hefði minnzt á þessa grein við sig og spurt hver höfundur væri.
Kristján sagðist ekki vita það.
Þá sagði maðurinn, Þetta er einhver óumdeilanlegur aðdáandi Snorra Hjartarsonar. Einkenni þeirra eru að þeir eru yfirleitt rómantískir vinstri menn á sjötugsaldri!
Ármann Jakobsson er að því er ég bezt veit 23ja ára gamall. Mín gamla íslenzkudeild mætti fara að fikra sig nær nútímanum, það dugar ekki að nemendurnir séu á sjötugsaldri hversu ungir sem þeir eru.
Og þó, get víst ekki tekið svona til orða.
Hef góða reynzlu af deildinni, ég kenndi þar Jónas og rómantísku 19. öldina fyrir tveimur árum og hafði bæði gagn af og gaman. Upp úr því varð bókin Um Jónas til.
Hún er samin upp úr fyrirlestrum mínum við íslenzku deildina. Nemendurnir voru á öllum aldri en það einkenndi þá fyrst og síðast að þeir voru engir blýhólkar, heldur lifandi fólk sem upplifði nýjar hugmyndir á ferskan hátt.
Og þegar ég kallaði eftir nýjum viðhorfum stóð ekki á þeim, hvorki í samtölum né fyrirlestrum eða ritgerðum sem þeir sömdu.
Það var mér því gleðileg reynsla að kynnast þessu fólk og ég vona að það fari með sinn Jónas úr háskólanum, öðruvísi Jónas en hefur verið að bögglast fyrir brjóstinu á samnefnara þjóðarinnar öll þessi ár; nýjan Jónas sem það á sjálft og enginn annar. Og þá getur það veitt öðrum hlutdeild í mikilvægri reynslu.
Það er rétt sem Kristján Karlsson segir að tilfinningin færist inn í kvæðið þegar farið er að hugmyndum hans um niðurröðun fyrrnefndra erinda. Og spennan eykst og kvæðið verður eftirminnilegri upplifun en þau pólitísku og tímabundnu skilaboð sem það fjallar um í búningi skáldsins.
Tímabundin angist er ekki endanleg angist. Hún þarf ekki að vera sannari en sá kvíði sem birtist í svokölluðum nútímaskáldskap.
En ung skáld mættu vel læra af handbragði Snorra Hjartarsonar. Hann kunni tökin á erfiðu formi.
En angist er ekki formúla.
Maður lærir ekki angist. Hún er í tengslum við lífsháskann og ég þekki engan sem hefur farið á mis við hann, hvorki ung skáld né aðra.
Lífsháskinn er tengdur dauðanum og hann bíður okkar allra.
Seinna um kvöldið:
Ég tel að vísu ekki að menn eigi að vera að breyta kvæðum annarra. En það er bæði hollt og gagnlegt að brjóta kvæði til mergjar, íhuga þau og sjá á þeim nýja fleti.
Björn gamli hreppstjóri í Grafarholti skrifaði grein um kvæði Jónasar og gerði breytingar á þeim til að sýna hvernig Jónas hefði átt að yrkja kvæðin sín.
Þessi uppákoma lýsti auðvitað einungis Birni í Grafarholti en ekki Jónasi.
Hann stóð fyrir sínu.
En á sama hátt og Tómas Guðmundsson benti mér á það sem hann taldi veilurnar í Sorg Jóhanns Sigurjónssonar þykir mér fróðlegt að skoða kvæði Snorra Hjartarsonar, Var þá kallað, með augum Kristjáns Karlssonar.
Ég þekki ekki gleggri bókmenntafræðing en hann.
Og hann er einn af þeim fáu nú um stundir sem yrkja alvörukvæði á íslenzku og notar til þess ljóðmálið sjálft sem hann þenur til hins ítrasta en engan strigaprósa eins og oft vill verða nú um stundir. Og hann er nógu frjáls af sjálfum sér til að túlka sannfæringu sína án fordóma.
Eftir að Tómas hætti að lesa ljóðin mín áður en þau birtust tók Kristján við og það hefur verið mér ómetanlegt. Hann hefur bent mér á margt sem betur hefur mátt fara. Athugasemdir hans hafa ávallt verið mér fagnandi íhugunarefni.
Hann er svo sannarlega enginn Björn í Grafarholti.
Við Snorri Hjartarson vorum miklir mátar. Hann sýndi mér hlýhug og hafði úrslit um að Þórbergur sættist við Kompaníið og leyfði útgáfu þess eins og ég hef sagt annars staðar. Það var mikilvæg leiðsögn Snorra Hjartarsonar á sínum tíma. Það er ekki rétt hjá Mömmu Göggu þegar hún segir í bók Gylfa Gröndals að mig minnir, að Kristinn E. Andrésson hafi lagt blessun yfir Kompaníið. Ég held hann hafi verið á móti því öllum stundum. Hann var með böggum hildar yfir því að morgunblaðsmaðurinn skyldi vera að skrifa bók um Þórberg og sagði það við hann. Mig minnir hann hafi varað Þórberg við þessu gáleysi.
En við Kristinn vorum samt alltaf miklir mátar og hann sneri sér til mín með bækur sínar tvær áður en hann lézt og ég sá um að kynna þær. Það fór ávallt vel á með okkur enda var Kristinn óforbetranlegur hugsjónamaður en ekki illmenni að upplagi.
Hann átti sinn dag en nú er hann kominn að kveldi.
Mér þótti afar vænt um þegar Snorri Hjartarson hrósaði kvæði mínu Víðirhóll á Hólsfjöllum við Hönnu. Ég held það hafi jafnvel glatt mig meira en hana því hún hefur meiri innri sannfæringu og þarf ekki að láta segja sér hlutina.
Ég hef losaralegri sannfæringu, ekki sízt fyrir sjálfum mér.
Í mínu eintaki af Mörg eru dags augu þar sem Víðirhóll á Hólsfjöllum er birt er þurrkuð jurt af hlaðinu á Víðirhóli. Hún tók hana við hestasteininn og rétti mér:
hjarta úr grænu blaði.
Ég átti samtal við Snorra Hjartarson á sínum tíma.
Það mistókst.
Mistökin birtust samt í Morgunblaðinu en þau urðu til þess að við kynntumst.
Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott!
29. maí – mánudagur
Var að fletta Játningum Ágústínusar að gamni mínu. Rakst á athugasemd mína frá því ég las hana skömmu eftir útkomu, 1962. Hélt fyrst að ég hefði lesið hana áður en ég skrifaði leikritið Sólmyrkva í Kaupmannahöfn veturinn 1955-56 því að athugasemdin sem er á bls. 107, í Fimmtu bók, fjallar um sólmyrkva og ég hef skrifað Sólmyrkvi efst á síðuna.
Velti því fyrir mér hvort þetta hafi kannski verið kveikjan að leikriti mínu samnefndu. En það getur auðvitað ekki verið vegna þess að bókin kom ekki út fyrr en sjö árum eftir að ég skrifaði verkið.
Svona getur maður gleymt sjálfum sér og lífi sínu. Og þegar maður rekst á minningar úr eigin ævi er engu líkara en þær geti verið minningar annarra því þær geta gleymzt svo gjörsamlega að engu tali tekur.
En ég hef sett ath. við þessa setningu Ágústínusar:
“Menn sjá löngu fyrir myrkva á sólu, en myrkvann á sjálfum sér, sem þegar stendur yfir, sjá þeir ekki.”
Um þetta ekki sízt fjallar leikritið. Ég held það kæmi í ljós ef það væri einhvern tíma sýnt. En ég á ekki von á því, svo hratt sem heimurinn hleypur frá þessum gömlu og einskis metnu verkum mínum!
Ég sé ekki aðrar athugasemdir í bókinni, jú, hérna er merkt við ummæli móður Ágústínusar sem var engri konu lík. Það er í Níundu bók, 230.-232. bls. Þetta er líklega tilvitnun sem ég notaði á sínum tíma í óbirta skáldsögu sem liggur með öðrum handritum mínum í gömlum ísskáp niðri í kompu.
En á saurblað bókarinnar hef ég skrifað:
“Þessa einhverja mestu bók allra alda á Matthías Johannessen.” Það lítur ekki út fyrir annað en maður hafi verið óvitlausari en efni stóðu til á þeim tíma!
Í Fjórðu bók segir Ágústínus að hann hafi ungur miðað að fánýtri hylli múgsins eins og hann kemst að orði, lófataki í leikhúsi, verðlaunum fyrir skáldskap, sigursveigum úr heyi, heimskulegum sýningum og óhóflegum nautnum.
Mikið skil ég hann vel!
Og mikið hefði ég viljað kynnast þessum manni sem er svo ólíkur öllu þessu fólki sem hleypur eftir hismi samtímans eins og íkorni að opnum lófa.
En hann segist líka hafa þráð, að hinu leytinu, að hreinsast af þessum saurindum eins og hann kemst að orði.
Og í I kafla þessarar bókar segist hann minnast þess “er ég hugðist eitt sinn keppa til verðlauna um leikrit, að einhver spásagnamaður spurði mig, hvað ég vildi borga honum fyrir að sjá um að ég sigraði. En ég hafði skömm og andstyggð á slík dulkukli og svaraði, að þótt þessi sveigur væri gullin kóróna ódauðleikans, vildi ég ekki láta drepa flugu til þess ég mætti vinna”.
Já, mikið hefði ég viljað kynnast þessum merkilega manni sem hefur haft þá einu réttu afstöðu að mínu mati til umhverfisins sem boðleg er þeim sem ræktar sitt innra þrek og er ekki sínkt og heilagt til sölu fyrir upphafningu og stundlegt fjölmiðlaklapp.
En leiðir okkar geta víst ekki lengið saman, nema í ritum hans.
Og við nánari kynni af Ágústínusi kirkjuföður er auðvelt að skilja dálæti Dantes á þessum viljasterka guðsmanni sem hefur gert upp við sjálfan sig og líf sitt af meira miskunnarleysi en nokkur annar og gefizt Guði á vald af meiri ást, ástríðu og auðmýkt en nokkur annar.
Það er gott að vita af slíkum manni þegar maður þarf að gera upp við sjálfan sig og freistingar sínar; þegar örvæntingin er á næstu grösum og sálin engist eins og ormur á öngli og maður þarf að ná áttum, en þó einkum að sætta sig við sjálfan sig og smæð sína.
Ég hef annars verið að kynna mér Ágústínus, og aðra helzu heimspekinga sögunnar. Það er góður skóli ef maður gætir þess að hafa tengil sem leiðir út.
Sem sagt jarðsamband.
Annars gæti maður orðið úti í orðahröngli sem er engu betra en öræfabylur og vegvillur.
Þá er að fikra sig eftir vörðum og vegvísum og Ágústínus er góður leiðsögumaður á torfarinni leið.
Ágústínus líkir á einum stað guðlegri vizku við ást á konu.
Og löngun til að faðma hana nakta.
En hann varpar fram þeirri spurningu hvort hún myndi þýðast þessi atlot ef þau bæru ekki vitni um höfuðástríðu elskandans.
Þannig á að elska vizku Drottins.
Ég sé ekki betur en þessi sérkennilega samlíking hins heilaga kirkjuföður minni á afstöðu Jónasar Hallgrímssonar og hvernig hann yrkir um ást sína á konum og landinu.
Það er ekki konan sjálf sem verið er að yrkja um, það er ekki landið eingöngu sem verið er að tjá ást, heldur sköpun guðs; sköpunarverkið persónugert í huldunni; sköpunarverkið tákngert í landinu.
Skáldið elskar guð af sömu ástríðu og Ágústínus segir að við eigum að elska vizku guðs.
Mér er til efs að Jónas hafi lesið rit Ágústínusar en hitt er augljóst að hugmyndir hans og Jónasar eru einnar ættar og með skírskotun í rit Ágústínusar er auðveldara að skilja afstöðu annars eins trúmanns og Jónas Hallgrímsson var.
Um kvöldið:
Hef verið að hugsa um verkföllin sem nú eru skollin á, jafnvel allsherjarverkfall sjómanna.
Hvílík sóun!
Það hlýtur að vera hægt að bæta hag fólksins án slíkra aðgerða. Erum við enn eins og Evrópa eða Bandaríkin fyrir 50 árum? Við þurfum á öllu okkar að halda. Held að fólkið í landinu hafi viljað svona sterka ríkisstjórn til að hún kæmi skikk á þjóðfélagið. En þá gerist það að öllum virðist sama. Mönnum er skítsama um svona sterka ríkisstjórn! Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar kallar ekki á samúð eða hlýhug heldur kröfur og gagnrýni. Hún á eftir að magnast með hverjum deginum.
Við upplifðum þetta 1976-78, það var öllum sama um ríkisstjórnina og hún stóð loks uppi eins og einhver höfuðandstæðingur þjóðarinnar! Það hefði verið betra andrúm kringum ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og krata eða alþýðubandalagsmanna; sem sagt, veikari ríkisstjórn á þingi en sterkari út í þjóðfélaginu.
Einkennilegar andstæður.
Pældi á sínum tíma í gegnum Anda laganna eftir Montesquieu þar sem hann setur fram kenninguna um að veðurfar og loftslag mótuðu hugsunarhátt manna og samfélagshætti og nefnir Ísland í því sambandi.
Það þótti mér skemmtilegt.
Þar var einnig fjallað um þrískiptingu valds sem hafði mikil áhrif á stjórnmálaþróun næstu ára, eða eftir 1748 þegar bókin kom út.
En það sem mér er sérstaklega minnisstætt af því sem Montesquieu segir, er sú fullyrðing hans að ríkisstjórn sem fólkinu þyki ekki vænt um geti ekki stjórnað landi.
Stjórnmálamenn mættu íhuga þessi orð Montesquieus.
Hef snúið mér enn einu sinni að David Hume. Hann var svona nokkurn veginn samtímamaður Montesquieus. Ég held hann sé skemmtilegasti persónuleikinn í hópi heimspekinga; opinn og einlægur og skrifaði um sjálfan sig eins og hvern annan, andstætt því sem Rousseau gerði í játningum sínum þegar hann skrifaði um þann Rousseau sem hann vildi vera, en sleppti hinum.
Þeir Hume voru miklir mátar lengi vel og kunnu vel að meta hvor annan þangað til Rousseau varð afbrýðisamur eða tortrygginn og sleit vináttunni.
Voltaire skrifaði einna fyrstur manna um ágæti Humes en Bretar kunnu ekki að meta hann fyrr en löngu síðar. Hann fékk enga rós í hnappagatið í Bretlandi fyrr en hann skrifaði sögu Englands. Sjálfur segir hann í ævisögu sinni að menn séu ekki búnir að skrifa lengi um sjálfan sig þegar umfjöllunin fer að bera vott um hégóma.
Ágæt áminning, hún fór ekki framhjá mér!
Í dagbók er óhjákvæmilegt að tala um sjálfan sig. Það er öðruvísi en skrifa sjálfsævisögu sem á að koma fyrir allra sjónir. Dagbók er einhvers konar leit að sjálfum sér. Hún gegnir sama hlutverki og skáldskapur; eða trúarbrögð; eða ferð inn á örævi.
Ef þetta miðar ekki að sjálfskönnun er það lítils virði.
Dagbókarskrif eru slíkt ferðalag; slík leit.
Og minnisblöð,ef á þarf að halda (gott fyrir ritstjóra!).
Í því felst þónokkur afsökun ef ummæli Humes um hégómann eru tekin alvarlega.
Hume er miklu merkilegri fræðimaður um efnahagsmál en ég hef gert mér grein fyrir. Hafði áhrif á vin sinn Adam Smith sem skrifaði Auðlegð þjóðanna og boðaði frjálsa verzlun þjóða í milli eins og Hume en með því móti yrði bezt tryggð hagkvæm verkaskipting þeirra í milli.
Þetta voru menn frjálsrar samkeppni og hugmyndir Humes sem eru minna þekktar en kenningar Smiths, bæði um alþjóðaviðskipti og markaðinn að öðru leyti, eru miklu nútímalegri en ég hafði gert mér grein fyrir.
Þarf að kanna það mál nánar.
Hume lagði áherzlu á skynreynslu manna. Hæfileikar okkar á því sviði væru harla takmarkaðir enda augljóst og í siðfræði lagði hann áherzlu á að gildi breytninnar réðist af gagnsemi hennar.
En það er maðurinn á bak við þessar hugmyndir sem mér finnst hnýsilegastur.
Hann er svo eftirminnilegur persónuleiki; litríkur og sérstæður.
Þegar Boswell, sem einnig var skotzkur, spurði , hvað hann segði um líf eftir dauðann, svaraði Hume að hann hugsaði ekki meira um líf eftir dauðann en um líf fyrir fæðinguna.
Gott hjá honum!
Þegar hann hafði fengið krabbamein í maga á þeim aldri sem ég er nú vissi hann að hann átti stutt eftir ólifað. Og það var ekki gott eins og hann var farinn að njóta frægðar sinnar.
Þá loksins(!)
En þá sagði hann að það gerði ekkert til því að hann gæti hvort eð er notið lífsins svo stuttan tíma; hann ætti svo lítið eftir.
Þetta var einnig þörf áminning.
Og nú er ég að hugsa um þessi orð. Það er ágætt að þekkja takmörk sín(!) Enginn er víst eilífur í holdinu(!)
Orti á sínum tíma ljóð þar sem Hume kemur við sögu. Þá vorum við Hanna víst á ferðalagi um Skotland. Man ekki hvort það hefur birzt. Man ekki hvar það er. Nema það sé glatað, það væri bættur skaðinn!
Af hverju skyldi maður vera að halda lífi sínu til haga?
Til hvers?
Handa öðru fólki til að hneykslast á?
Eða hnýsazt í?
Kannski er hægt að stinga út líf sitt og rétta kóssinn með viðmiðun og skírskotun í líf annars, ég veit það ekki.
Og þó er mér nær að halda að svo geti verið.
30. maí
Maður eldist frá sjálfum sér. Hanna segir ég hrjóti svo mikið þegar ég drekki bjór að ég vakni upp við það og sofni svo aftur. Sem betur fer upplifi ég ekki sjálfur þessi herlegheit! En ég finn fyrir ristlinum, hann ónáðar mig oft.
Það er ósjálfráða taugakerfið, segir Haukur Jónasson,læknir. Það eru einungis gáfumenn sem fá ristilkrampa! Hinir hafa aldrei áhyggjur, kvíða aldrei neinu,segir Haukur.
Ætli ég kvíði ekki öllu?
Annars þyrfti ég að láta skera mig upp við naflakviðsliti. Jónas Magnússon prófessor segir það sé lítið mál. Ég hélt satt að segja að naflinn væri til einskis eftir að maður væri kominn í þennan heim. En það er nú öðru nær.
Þegar Halldór Hansen skar mig upp við botnlangabólgu á sínum tíma tók hann klemmurnar úr skurðinum, sönglaði eitthvað og sagði, Hann hefur séð fyrir öllu.
Hver? spurði ég.
Nú, guð almáttugur, sagði læknirinn.
Hvað áttu við? spurði ég.
Nú, veiztu ekki til hvers naflinn er? spurði dr, Halldór.
Nei, sagði ég.
Hann er til þess að við skurðlæknar getum raðað klemmunum í kringum hann.
Og þar með var það afgreitt mál.
Halldór Hansen var skemmtilegur maður. Ég átti samtal við hann á sínum tíma í útvarp ef ég man rétt. Skrifaði einnig um hann í Reykjavíkurbréf.
Þegar ég var formaður Stúdentafélags Reykjavíkur óskaði ég eftir því að hann yrði aðalræðumaður kvöldins 1. desember.
Hann tók því.
Þau hjón voru höfuðprýði kvöldsins og dr. Halldór flutti fína ræðu.
Mér skilst Halldór Hansen hafi verið æringi þegar hann var ungur.
Hann var í klíku Páls Ísólfssonar og Ólafs Thors og þeirra félaga. Það hefur verið litrík klíka á sínum tíma og hún setti svo sannarlega svip á þjóðlífið.
Þegar Halldór skar mig upp sagði hann við mig, Þú átt að telja upp að tuttugu og þremur.
Ég gerði það.
En mér fannst ég telja upp að hundrað og þrjátíu eða fjörutíu áður en ég sofnaði.
Þegar dr. Halldór var að taka klemmurnar úr mér spurði ég hann að því hvernig stæði á því að ég hefði verið svona lengi að sofna.
Þetta er algengt með gamla drykkjumenn, sagði hann, það er ákaflega erfitt að svæfa þá – og brosti.
Auðvitað hafði ég ekki talið upp að hundrað og eitthvað. Ég hafði hlaupið yfir heilu tugina í svefnrofunum, það var allt og sumt.
En Halldór breytti því í sinn sérstæða húmor..
Borðaði svartfuglsegg í kvöld. Þau eru úthugsuð listaverk náttúrunnar en ég veit ekki hver hugsar þau.
Kannski guð, eða hugsandi efnið í náttúrunni?
Hver veit?
Enginn listamaður getur keppt við náttúruna. Þess vegna ætti enginn að reyna að endurskapa það sem hann sér heldur að sinna þeirri nýsköpun sem hann sér einn.
30 maí – þriðjudagur
Við Styrmir Gunnarsson fórum ásamt Haraldi Sveinssyni og Sigtryggi Sigtryggssyni, fréttastjóra, upp á Akranes í dag, boðnir af Haraldi Sturlaugssyni og fjölskyldu hans að skoða hið mikla minnismerki afa hans, fiskvinnsluhús og togara Haralds Böðvarssonar og co. Það var ánægjuleg ferð og einkar eftirminnileg. Nýja tæknin í flökunarhúsinu er íslenzkt ævintýri vegna þess að á bak við hana er íslenzkt hugvit. Og það var ekki sízt eftirminnilegt að fara um borð í Höfrung II, skoða skipið og tala við Kristján Pétursson, skipstjóra. Hann er nýkominn í höfn með tæp 300 tonn af úthafskarfa.
Þessar veiðar eru blessunarlega lausar við aflamark og kvóta. Kannski getum við losnað við þessa hvimleiðu fiskveiðistjórnunaraðferð þegar miðin eru aftur orðin full af fiski og við þurfum ekki að miða allt við takmarkaða auðlind.
En líklega verður einhver stjórnun þó áfram stofnunum til verndar.
Heimsóknin upp á Skipaskaga kallaði fram góðar endurminningar um samtal sem ég átti fyrir Morgunblaðið við Harald Böðvarsson,utgerðarmann, og birtist á sjötugsafmæli hans 6. maí 1959, eða áður en ég varð ritstjóri Morgunblaðsins.
Það var gaman að kynnast Haraldi Böðvarssyni og því fólki, þá ekki síður en nú. Ég er að líta á þetta gamla samtal aftur og mér hugnast það ágætlega. Þyrfti kannski að koma því á framfæri í bók svo það væri aðgengilegt. En þó er það kannski ekki nauðsynlegt vegna þess að Hagalín skrifaði ágæta ævisögu Haralds.
Hugmyndin vaknaði þegar þetta samtal birtist í Morgunblaðinu.
Það sama gerðist þegar ég skrifaði samtalsflokkinn um ævi sr. Jóns Auðuns, þá var hann beðinn um að skrifa ævisögu sína.
Þú berð ábyrgð á þessu öllu, sagði hann við mig.
Ég er stoltur að bera ábyrgð á slíkum verkum.
Við Haraldur Sturlaugsson og systkin hans eigum sameiginlegan ættföður í Þorvaldi Böðvarssyni sálmaskáldi, að ég held.
Hann er einnig ættfaðir Vigdísar forseta.
Svo Haraldur er ekki einungis sægreifi heldur er hann einnig af landaðli því að ætt Þorvalds hlýtur að vera orðin einskonar aðall eftir að Vigdís varð forseti! Fjölnismenn nefna Þorvald sem merkilegt sálmaskáld; hann einan,auk Hallgrím Péturssonar.
Styrmir er víst kominn af honum, hann er stundum að minna á það með sínum ljóðrænu passjónum í Staksteinum..
31. maí
Talaði í morgun við Eystein Þorvaldsson. Þekki hann lítið,en hann hefur alltaf sýnt mér hlýhug og haldið ljóðum mínum fram.
Mér hefur þótt vænt um það.
Hann er gamall marxisti en lætur stjórnmál ekki trufla sig þegar bókmenntir eru annars vegar.
Það kann ég vel að meta.
Þeir feðgar,Ástráður prófessor og hann, eru að gefa út endurskoðaða þýðingu sína á Réttarhöldum Kafkas. Við ætlum að birta samtal við þá af því tilefni í Morgunblaðinu. Spjölluðum því um Kafka í morgun á skrifstofu minni í Kringlunni.
Það var fróðlegt spjall.
Eysteinn sagði mér það mætti sjá af dagbókum Kafkas hve sjálfsmynd hans hefði verið veik. Hann var alltaf að afsaka verk sín. Kannski er þetta úr föðurhúsum, ég veit það ekki.
Fyrirferðarmikill faðir getur dregið úr sjálfsmynd sonar en hann getur líka verið uppörvun.
Held Kafka hafi skrifað Réttarhöldin um það sem var í aðsigi í Evrópu, án þess vita það sjálfur.
Andi sögunnar, eða tímans, getur holdgerzt í slíkum snillingum, að ég held.
Shelley vissi ekkert um dauða sinn, samt orti hann um hann.
Og Kafka vissi ekkert um nazismann, samt skrifaði hann um hann. Var jafnframt upphafsmaður nýrra bókmennta í heiminum. Samt var hann enginn byltingamaður.
Hann var harla borgaralegur lögfræðingur og vann að hversdagslegum störfum hjá tryggingafélagi.
Minnir á Eliot að þessu leyti.
Fíngerður maður og hafði ofnæmi fyrir umhverfinu. Skrifaði af ástríðu um ástina en óttaðist hana. Skrifaði ástarbréf og tjáði hug sinn úr fjarlægð. Tákngervingur andlegrar byltingar og þó eins borgaralegur og hugsazt getur.
Einkennilegt þetta mannlíf.
Mér finnst ekkert kalt að vera í návist Kafka, þvert á móti. Mér finnst hann hlýlegt kompaní. Það er svo margt í honum sem ég skil harla vel, sumt er eins og lifað út úr tilfinningalífi og ofnæmi sjálfs mín.
Ég sagði Eysteini að ég hefði ort kvæði um Kafka eftir að ég heimsótti kirkjugarð gyðinga í Prag á sínum tíma.
Það hafði mikil áhrif á mig.
Þetta ljóð hefur ekki birzt á íslenzku enn, einungis á ensku í Bretlandi og svo norsku í þýðingu Knuts Ødegårds. Norðmenn tóku því vel og ég veit ekki betur en það hafi fallið í góðan jarðveg í Bretlandi.
Það var í senn ógnlegt og yfirþyrmandi að koma í þennan kirkjugarð; að upplifa æskuumhverfi Kafka.
Svo orti ég ljóðið.
Í því stendur: að komast burt...
Einkennilegt.
Þá hafði ég ekki lesið smásögur Kafka sem Eysteinn og Ástráður þýddu og voru gefnar út í fyrra. En þar segir Kafka:
Stöðugt burt héðan,
einungis þannig get ég
náð takmarki mínu
(Takmarkið)
Ég trúði ekki mínum eigin augum.
Ég hafði án þess vita ort ljóð um Kafka og kjarninn voru hans eigin orð.
Held okkur Eysteini finnist báðum þetta vera harla dularfull tengsl.
Kannski voru þessi orð letruð í umhverfi Kafka; kannski höggvin í andrúm kirkjugarðs gyðinga, hver veit. Þau voru að minnsta kosti rist inn í vitund mína. Og nú standa þau í þessu kvæði eins og Kafka hafi ort það sjálfur!
Ég staldra við sjálfsvitund Kafka.
Hugsa mikið um hana. Enda er hún harla nærtækt íhugunarefni.
Margt ungt fólk sem ég tala við nú á dögum hefur of sterka sjálfsmynd.
Það getur verið óþægilegt.
Mín kynslóð þjáðist af sjálfsvitundarleysi, ég veit ekki af hverju.
Kannski var það kreppan.
Kannski einangrunin.
Kannski eitthvað annað, ég veit það ekki.
En lýðveldiskynslóðin hefur að öðru jöfnu ekki sterka sjálfsmynd; að minnsta kosti ekki eins og margt ungt fólk í dag, til að mynda stjórnmálamenn og listamenn. Mér finnst sjálfsvitund þeirra stundum minna á sögu Kafka um manninn sem breyttist í pöddu og stækkaði og stækkaði unz hún fyllti út í allt herbergið.
Slík sjálfsvitund er að minnsta kosti ekkert sérstaklega geðug en kannski á hún rætur í minnimáttarkennd og einhvers konar löngun til að minna á sig; og þá með öllum ráðum.
Hvatti Eystein sem kennir upprennandi grunnskólakennurum að láta ekki deigan síga en halda íslenzkunni fram á hverju sem gengur. Hann segir að sálfræðingar, samfélagsfræðingar og félagsfræðingar, uppeldisfræðingar og hvað þær nú heita allar þessar nýtízkulegu fjölmennu stéttir, séu frekir til fjörsins og geri miklar kröfur um eftirtekt í kennaraháskólanum.
Íslenzkukennslan eigi undir högg að sækja. Samt er hún grundvöllurinn. Án hennar engin íslenzk þjóð, það er allt og sumt. Bað hann um að kenna fólki að hugsa á íslenzku, tala, skrifa og flytja góðan texta, jafnvel þótt enginn skilji. Slíkur texti síast inn í blóðið; inn í vitundina. Óskiljanleg dróttkvæði eru gott veganesti fyrir íslenzka ímynd, jafnvel – og kannski ekki sízt – á tímum tækni og tölvunnar eins og við lifum nú. Að hugsa sér – Frakkar geta ekki lesið Rabelais á því tungumáli sem hann skrifaði, það er verið að þýða ritin hans á nútímafrönsku, samt eru þau einungis 400 ára gömul!
Og svo er talað um Frakka sem einstaka menningarþjóð.
Auðvitað eru þeir, það en það er ekki til fyrirmyndar að glata tungu sinni með þessum hætti.
Það mega Íslendingar aldrei gera, þá verður samvizka þeirra bækluð og sjálfsvitundarlaus og þeir munu aldrei geta litið hvorki framan í sjálfan sig né umheiminn. Fyrir 400 árum hugsuðu menn ekki svo mjög um tunguna og hvílík gersemi hún er; að minnsta kosti ekki eins og nú.
Nú væri ófyrirgefanlegt að glata henni; glata ímynd okkar; glata einkennum okkar.
Ófyrirgefanlegt(!)
Þarf að fara að birta kvæðið um Kafka og þau ljóð önnur sem ég orti um svipað leyti og Knut gaf út í Noregi í fyrra.
Hlustaði á ungan fræðimann, Einar Guðmundsson, dósent í stjarneðlisfræði held ég, það var mjög hnýsilegt.
Nú hef ég minni áhyggjur af heiminum en áður.
Miklihvellur varð fyrir 15 milljörðum ára og enginn veit hvað gerðist þar á undan; hví skyldi maður hafa áhyggjur af slíkri sköpunarólgu?
Og allt stefnir í eitthvert miklahrun. En það verður víst ekki fyrr en eftir 10-20 milljarða ára – eða guð veit hvenær!
Ástæðulaust að hafa áhyggjur af því.
En hvar ætli maður verði þegar þessar náttúruhamfarir, sem eru undanfari miklahruns, setja svip á sköpunarverkið?
Það er víst erfitt að svara því.
Minnir mig á að Gunnar Huseby ,kúluvarpari, reyndi að ná í mig fyrir hálfri annari viku.
Hann skildi eftir símanúmer.
Ég reyndi að hringja í hann en það svaraði aldrei.
Í gær frétti ég að Gunnar væri látinn.
Og nú er hann víst hættur að svara því tækniundri sem við köllum síma vegna tengsla okkar við forna tungu og menningu.
Ég sagði við símastúlkuna á Morgunblaðinu, Viltu gjöra svo vel að ná í Gunnar Huseby fyrir mig.
Hún horfði á mig stórum augum og sagði,
Hefurðu ekki heyrt fréttirnar.
Hvaða fréttir ? spurði ég.
Gunnar Huseby er látinn, sagði hún.
Ég veit það, sagði ég.
Nú, sagði hún.
En ert þú ekki símadama hér á blaðinu ? spurði ég.
Ég sá að hún fékk miklar áhyggjur af ritstjóranum og sagði hikandi, Júú-ú, en hvað áttu við?
Ekkert, sagði ég. Þegar maður er símadama á maður að ná í þá sem beðið er um. Hefurðu kannski ekkert samband yfirum?
Þá brosti hún.
Þá sá hún að ég var að leika mér.
Kannski var það rétt, kannski ekki. Ég veit það eiginlega ekki sjálfur. Hvers vegna gat ég náð í Gunnar Huseby í fyrradag án þess ná í hann.
Og hvers vegna get ég með engu móti náð í hann í dag? Jafnvel þótt hann hafi ekkert annað að gera en tala við mig?
Ég hef dálitlar áhyggjur af þessu. Og ég hugsa um líf og dauða og þessi landamæri sem eru svo óljós að maður veit ekki af þeim.
Og samt eru þau áþreifanlegasta staðreynd lífsins. Hvar ætli Gunnar Huseby verði þegar miklahrun skellur á?
Hann, sem hlýtur nú að geta kastað stjörnum milli vetrarbrauta eins og kúlunni forðum daga.
Alltaf þegar talað er um himingeiminn, veröldina, sköpunina, upphaf hennar og endalok finnst mér ég vera að upplifa nýtt ljóð; skáldskap.
Og Einar Guðmundsson lýsti nútímakenningum um upphaf og endi veraldar eins og skáld; eða góður bókmenntafræðingur.
Hann talaði um að sólin yrði fyrst risastór og eldrauður hnöttur þegar hún hæfi svanasönginn , en skryppi síðan saman og yrði lítil hvít dvergsól, áður en hún hyrfi.
Það væri gaman að geta upplifað slíkt náttúruundur.
Hann talaði líka um daufa birtu af deyjandi stjörnum, hann talaði um kaldar stjörnur og hann talaði um stjörnulausan himin áður en miklahrun yrði.
Ég sá þetta allt fyrir mér eins og flugeldasýningu í ógleymanlegu ljóði sem enginn hefur ort ennþá en ég ætla að yrkja sjálfur einhvern tíma þegar ég hitti á óskastundina og hún veitir mér hlutdeild í upplifun guðlegra kraftaverka.
En það verður ekki í þessu lífi.
Og kannski ekki heldur í því næsta. Ég ætla þangað til að hafa heldur hægt um mig og skipta litum eins og rjúpan.
Og refurinn.
1. júní
Skreppum til Lundúna síðdegis.
Þurfti að flytja nýliðum á ritstjórn Morgunblaðsins, þ.e. sumarfólki, erkibyskupsboðskap.
Mér sýnist þetta vera góður hópur og vona þeir hafi hlustað á eitthvað af því sem ég sagði. Ég fjallaði að lokum um ýmis atriði blaðamennsku og hef sagt sumt af því annars staðar. En framan af talaði ég um arfleifð Morgunblaðsins og sögu þess. Og þegar ég var byrjaður að flytja mál mitt tók ég eftir því að bezt væri að stikla á ritstjórum blaðsins því að þeir segðu meir um sögu þess og þróun heldur en flest annað.
Í upphafi stofnuðu Vilhjálmur Finsen og Ólafur Björnsson blaðið og byggðu það að sjálfsögðu á arfleifð Ísafoldar, en þó var höfuðmarkmið þessa nýja blaðs að flytja fróðleik og fréttir úr samtímanum. Þetta hefur auðvitað ávallt verið meginverkefni blaðsins en fyrst framan af voru stjórnmál látin lönd og leið að mestu.
Blaðið hafði sínar skoðanir á ýmsum efnum og minnir þannig helzt á það sem nú er. Það mætti því með nokkrum rétti segja að hringnum sé lokað, eða eins og Einar Benediktsson kvað:
En innsta hræring hugar míns
hún hverfa skal til upphafs síns
sem báran endurheimt í hafið.
Á úthafi Morgunblaðsins hefur einatt verið stormasamt og er raunar enn. Þó hefur stundum verið nokkuð lygn sjór. Byrinn hefur verið beztur í hæfilegum vindi.
Það var auðvitað engin tilviljun að Vilhjálmur Finsen var fyrsti ritstjóri Morgunblaðsins því að hann lagði áherzlu á blaðamennsku, án flokkspólitíkur.
En það má sjá af ráðningu Einars Arnórssonar í ritstjórasæti um miðjan annan áratug aldarinnar að áherzla hefur verið lögð á arfleifð Ísafoldar því að hann var sjálfstæðismaður af gamla skólanum og sem slíkur lenti hann í ráðherradómi.
Blaðið stefndi alla tíð á fullveldi Íslands og sjálfstæði og studdi því sambandslagasáttmálann 1918 og þá menn sem að honum stóðu.
Það var því engin tilviljun þegar Þorsteinn Gíslason varð ritstjóri blaðsins um þær mundir því að hann var gamall stuðningsmaður Hannesar Hafsteins og Íhaldsflokksins og skrifaði beztu ritgerð sem ég þekki um stjórnmál á fyrra hluta aldarinnar.
Óhlutdræga og sanngjarna, upplýsandi og skemmtilega aflestrar.
Einar Arnórsson prófessor og kennari Bjarna Benediktssonar – einn þriggja manna sem hann taldi merkasta þeirra sem hann hafði kynnzt um ævina – varð sem sagt stjórnmálaritstjóri Morgunblaðsins 1919-20, eða upp úr sambandslagasáttmálanum, en 1921 tók Þorsteinn skáld Gíslason við því starf og varð síðan einn ritstjóri eftir Vilhjálm til 1924.
Hann var jafnframt ritstjóri Lögréttu sem var vikulegt fylgiblað Morgunblaðsins þegar Ísafold hætti að koma út. En um miðjan þriðja áratuginn var mjög tekið að bera á svonefndum félagshyggjuöflum í þjóðfélaginu og töldu eigendur Morgunblaðsins þá nauðsynlegt að spornað yrði við útþenslu samvinnuhreyfingarinnar enda voru þeir allir hugsjónamenn um frjálsa verzlun og markaðsþjóðfélag í anda Adams Smiths og Humes og þá leituðu þeir hófanna til yngri manna sem vel voru í stakk búnir til að veita nýju stjórnmálaafli það aðhald sem þeir töldu nauðsynlegt.
Þá sneru þeir sér til Jóns Kjartanssonar, sem var ungur lögfræðingur, en hann tók ekki að sér ritstjórn Morgunblaðsins nema að því tilskyldu að Valtýr Stefánsson yrði einnig ráðinn og var það gert. Jón, sem síðar varð alþingismaður, hneigðist einkum til stjórnmálaskrifa en Valtýr var búfræðingur frá Höfn – og sá um blaðamennskuna að öðru leyti.
Samstarf þeirra var með eindæmum gott og gleymi ég því aldrei þegar við hittum þá saman í kringum 1960. Vinátta þeirra var dúpstæð og einlæg og skemmtileg er myndin af þeim tveimur, ásamt Sigfúsi Jónssyni framkvæmdastjóra blaðsins um langt skeið, en þar haldast þeir Jón og Valtýr í hendur.
Á þessum árum var mikil fyrirferð á sósíalistum og marxistum og engin tilviljun að þessir fulltrúar borgaralegrar arfleifðar, Jón og Valtýr, voru kallaðir til starfans.
Það var í raun tíminn sjálfur sem réð ritstjóra Morgunblaðsins og þá ekki sízt á tímum kalda stríðsins enda var Bjarni Benediktsson þá ritstjóri og unnum við mikið saman og urðum einlægir vinir. Ég hafði hálfpartinn kviðið fyrir því að Bjarni kæmi að blaðinu, svo fyrirferðarmikill sem hann var, en sá ótti hvarf fljótlega eftir að við kynntumst á ritstjórninni.
Þá var kalda stríðið í algleymingi og ritstjórar Morgunblaðsins harðir andstæðingar heimskommúnismans og ekki sízt kallaðir til starfa sem slíkir; þeir Sigurður Bjarnason, Einar Ásmundsson og síðar Eyjólfur Konráð Jónsson sem ég kallaði að blaðinu 1960 og var samritstjóri minn til 1974, þegar Styrmir tók við af honum.
Samstarf okkar Eyjólfs var einlægt allan tímann og milli okkar djúpstæð vinátta sem aldrei bar skugga á.
Þannig hefur þetta samstarf í raun verið alla tíð og er ég þakklátur fyrir það.
Ég held ekki það hafi verið nein tilviljun þegar ég var kvaddur til ritstjórastarfa á Morgunblaðið sumarið 1959. Það var að mínu viti merki um að mér væri treyst til þess að hefja blaðið úr þeim pólitísku fjötrum sem þá voru í tízku og gera það að fjölmiðli í anda nútímablaðamennsku.
Sú þróun hefur tekið langan tíma og höfum við ritstjórarnir ávallt verið sammála um hana og aldrei nein átök okkar í milli.
Ég hafði mestan áhuga á því að berjast gegn heimskommúnisma og áhrifum marxista á íslenzkt þjóðfélag.
Það var einnig arfleifð sem ég tók við.
Morgunblaðið hafði barizt hart fyrir fullveldi landsins og síðar gegn lögskilnaðarmönnum og krafizt fulls sjálfstæðis 1944 og aldrei látið neinn bilbug á sér finna í þeim efnum.
Það var því eðlilegt að blaðið styddi aðild að Atlantshafsbandalaginu sem átti að treysta þetta sjálfstæði og vera bakhjarl þess lýðveldis og þingræðis sem Morgunblaðinu ber að standa vörð um.
Ég sagði nýliðunum ungu að ég teldi, enda nokkuð augljóst, að Morgunblaðið hefði á þriðja áratugnum beitt sér fyrir því að borgaraleg öfl sameinuðust í einum flokki, en þá voru þau sundruð í marga flokka; stærstur var Íhaldsflokkurinn, þá Frjálslyndi flokkurinn, Sparnaðarbandalagið, Borgaraflokkurinn o.s.frv. Undir lok þessa áratugar krafðist Morgunblaðið þess beinlínis að borgaraleg öfl í landinu stæðu saman í baráttunni við marxista, samvinnumenn og heimskommúnista og átti að mínu viti verulegan þátt í því að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður og þessi borgaralegu öfl gátu sameinazt í einni fylkingu.
Ég vitnaði til Snorra Stulusonar eftir Örlygsstaðafund þegar hann yrkir dróttkvæðavísu til Þórðar kakala, bróðursonar síns, og líkir þeim Sturlungum sem eftir voru að blóðbaðinu loknu við svín sem úlfarnir hafi þjappað saman.
Áður hafði verið þónokkur metingu milli Sturlunga en nú var ekki um annað að ræða en svínin þjöppuðu sér saman til að verjast úlfum Gissurar jarls og annarra þeirra sem að þeim veittust.
Þannig var efnt til Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðið var einskonar málgagn hans enda eðlilegt þar sem segja má að flokkurinn hafi verið ættleitt afkvæmi blaðsins.
Vinstir menn höfðu nú hitann í haldinu af sameiginlegum styrk borgaralegra afla, með Morgunblaðið að bakhjarli. Þetta samstarf var að sjálfsögðu eðlilegt í kalda stríðinu þegar háskalegt ástand í heimsmálum gat orðið okkur skeinuhætt ekki síður en öðrum. Svínin vörðust úlfunum af oddi og egg en þegar kalda stríðinu lauk var ekkert eðlilegra en blaðið hugsaði sér til hreyfings.
Ég minnti á gyltuna og akarnið sem Eggert Ólafsson talar um í Búnaðarbálki og sagði að það væri ekki hlutverk góðs blaðs að gramsa í akarninu eins og hún.
Það verður einhvern tíma að líta til himins, skoða laufið á trjánum og leita heiðríkjunnar. Það væri hlutverk blaðs sem hefði mikinn metnað og góða arfleifð. Nú væri runninn upp tími þverpólitískra stjórnmála, flokkarnir hefðu nálgazt, Alþýðubandalagið gæti jafnvel hugsað sér aðild að varnarbandalagi og allir styddu markaðsþjóðfélag. Það væri því ekki að ástæðulausu að Morgunblaðið færi eigin leiðir eins og í upphafi, markaði sér eigin stefnu og leitaði nýrra hugmynda; helzt nýrra hugsjóna. Þetta væri eðlileg þróun og vangaveltur um annað væru í raun og veru út í hött.
Morgunblaðið þyrfti sjálft að lifa af á því markaðstorgi sem það hefði stutt alla tíð. Blaðið ætti að vera Blað allra landsmanna; það ætti að vera hið mikla samfélagstorg þar sem þjóðin gæti hitzt og rætt málin eins og í Aþenu forðum daga þegar Sókrates gekk þar um götur og ræddi um manninn, umhverfi hans og hvernig við ættum að lifa.
Morgunblaðið væri slíkt torg, það leitaði ekki endilega að sannleikanum því hann væri afstæðari en svo að unnt væri að fullyrða endanlega hver hann væri, en blaðið leitaði að réttlæti og reyndi að berjast gegn því ranglæti sem augljóst væri.
Það væri stefna þess; það væri arfleifð þess. Blaðið hefði sem sagt ærnu hlutverki að gegna þótt stjórnmál væru orðin þverpólitísk.
Ef ég mætti ráða hvernig stjórnmálaflokki ég vildi fylgja nú um stundir veldi ég það bezta úr öllum flokkum í stað þess að sitja uppi með það versta í Sjálfstæðisflokknum sem að mínu mati væri með ranga stefnu í veigamiklum málum – en fyrir kurteisissakir nefndi ég þó ekki sjávarútvegsstefnuna né annað sem ég tel miður fara í stjórnmálabaráttu vina minna og félaga á hægri vængnum, svo maður tali nú einu sinni eins og tízkan býður!
12. júní
Komum heim frá London síðdegis í dag.
Góð ferð og eftirminnileg.
Yndislegt að hitta Ingólf, hann er í betra formi og ánægðari en ég hef séð hann áður, enda fer hann nú senn að sjá fyrir endann á þessu langa námi sínu. Hann segir þó að enn geti brugðið til beggja vona því að þeir séu engar elsku mömmur, prófessorarnir í þessum miklu vísindum og þeir hafa jafnvel fellt doktorskandídata á prófinu sjálfu.
En hann vonar það bezta og allt hefur gengið að óskum fram að þessu.
Hann hefur þroskazt mikið og ég hef lært margt af honum um líf ungs fólks í heiminum nú um stundir. Ég hef líka þurft á því að halda, ég var að verða hálflummulegur og viðhorfið harla gamaldags.
Hann hefur gagnrýnt mig fyrir það og ég veit að það er sanngjarnt.
Ég geri mér grein fyrir því að hann hefur ofnæmi fyrir mínu ofnæmi.
Finn að ég þarf að taka sjálfan mig taki, veit að ég tek umhverfið alltof mikið inná mig eins og sagt er og þarf að venja mig á meira andlegt jafnvægi.
En hvernig getur viðkvæmt skáld verið í andlegu jafnvægi?
Það er vandlifað því að ritstjórinn þarf að vera í jafnvægi og nota allt það raunsæi sem hann á til.
Skáldið og ritstjórinn hafa oft tekizt á og gengið á ýmsu.
Þó hafa þeir verið sáttir að kalla.
En þessi átök eru kröfuhörð reynsla og ég hef oft þurft að taka sjálfan mig taki og reyna að sættast við sjálfan mig í umhverfi sem er afstætt og einatt framandi. En stundum hefur mér tekizt að gleyma því að ritstjóri Morgunblaðsins er hvítur hrafn í svörtu samfélagi.
Einkennilegt þetta mannlíf – og afstætt.
Þegar maður situr hjá fallegri stúlku í klukkutíma, sagði Einstein, líður hún eins og hún sé ein mínúta. En þegar sami maður situr á heitum ofni í mínútu og hún virðist vera lengri en klukkustund, þá er það hið afstæða lögmál.
Og ég hugsa einnig um það sem Yeats sagði enda mikið og fínt skáld, Hið saklausa og hið fagra eiga sér engan óvin nema tímann.
Ég man þegar ég var lasinn í gamla daga og pabbi kom með ævisögur Fords og Edisons, hvað mér þótti það mikil veizla að lesa um slíka snillinga og ég er sannfærður um að það er rétt sem Edison sagði að snilld er eitt prósent innblástur og 99 prósent sviti.
Bezta leiðin til að lifa er að sökkva sér niður í vinnu og breyta henni í skemmtun. Það hefur mér alltaf tekizt. Hins vegar hefur mér aldrei fundizt neitt eins skemmtilegt og vinnan. Og þá auðvitað einkum það sem mér finnst skemmtilegt að hugsa um og skrifa. En þegar ég hugsa um svarta samfélagið koma mér í hug orð Bernards Shaws þegar hann sagði, Hann veit ekkert og heldur að hann viti allt.
Það bendir augljóslega á pólitískan feril
Slíkur ferill hefur aldrei freistað mín. Ég hef haft gaman af að taka þátt í stjórnmálavafstri sem blaðamaður og ritstjóri en ekki sem skáld.
Og ég hef þurft að hafa mikil afskipti af pólitík vegna starfa minna á Morgunblaðinu.
En það hefur aldrei freistað mín að drepa tímann með því að gera pólitískan hasar að einhvers konar köllun. Ég trúi ekki á slíka köllun, veit að hún er einungis sprottin af löngun til að fylla tómið sem Þórbergur talaði um í Kompaníinu og líkist engu öðru en þorstanum í helvíti.
Kannski er ég bara inn við beinið öfundsjúkur út í þá sem eru nógu dómgreindarlausir til að falbjóða sig á pólitíska markaðstorginu og telja fólki trú um að þeir séu bezti varningur sem þar sé í boði; það skyldi þó aldrei vera?
Við Hanna gengum mikið um London, það var lærdómsríkt og hressandi þótt veðrið væri ekkert sérstaklega gott; þungbúið og íslenzkt. Hef einkum gaman af að borða á kínverskum, tælenzkum og indverskum veitingastöðum, drekk samt lítinn bjór því ég er í megrun! Komum ýmsu í verk meðan við dvöldumst í Lundúnum; fórum á upplestrarkvöld hjá Thor Vilhjálmssyni í tilefni af útkomu Grámosans á ensku. Tveir brezkir leikarar lásu valda kafla úr bókinni og gerðu það mjög vel. Annars hef ég fyrirvara á lýsingum um sifjaspell, hef eiginlega ofnæmi fyrir slíkum lýsingum.
Skáldið í Thor nýtur sín einna bezt í prósaljóðum. Hefði áhuga á að velja úrval úr verkum Thors í dálitla bók en líklega verð ég aldrei beðinn um það. Held það gæti gagnazt Thor betur en flest annað.
Við Thor höfum ávallt verið miklir mátar og ég ber til hans hlýjan hug; það hef ég alltaf gert. Hann hefur einnig ávallt sýnt mér hlýju og skilning. Ég gleymi því ekki þegar hann fékk hjá mér ljóð í Birting, það var Goðsögn. Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar það var birt í þessu tímariti sem hafði nú ekkert sérstakt uppáhald á Morgunblaðinu í hita kalda stríðsins, né okkur Stefnismönnum.
Ég fór með nokkur ljóð heim til Thors og við völdum Goðsögn saman.
Hún er þannig birt í frumgerð sinni en síðan breytti ég henni verulega í samráði við Tómas og endurbirti í nýjum búningi í Fagur er dalur. Hún er hnitmiðaðri þannig en lausari í sér í frumgerðinni.
Það væri annars gaman að bera þessar tvær gerðir saman en ég hef ekki nennt því.
Hef aldrei eignazt Birting, ég veit ekki af hverju.
Ted Hughes, brezka lárviðarskáldið, er vinur Thors og ber augsýnilega til hans hlýjan hug. Thor hefur sýnt honum gestrisni hér heima og Ted Hughes kann augsýnilega að meta það.
Thor hefur svo sannarlega ræktað garðinn sinn að þessu leyti.
Og nú stendur ekki á uppskerunni.
Mér þótti eftirminnilegt að heyra hvernig Ted Hughes kynnti Thor og hve hann sýndi íslenzkum bókmenntum mikla virðingu í ávarpi sem hann hélt eftir upplesturinn og áður en Thor svaraði spurningum.
Það sem hann sagði minnti mig á Auden.
Merkir rithöfundar erlendir skulu ævinlega reiðubúnir til að ágæta íslenzkar fornbókmenntir.
Arfleifð okkar er það veganesti sem eitt dugar til að vekja samúð með þessu fámenna samfélagi norðurhjarans og virðingu fyrir sögu okkar og menningu.
Ted Hughes sagði að fæstir gerðu sér nógu glögga grein fyrir hinni löngu og merku bókmenntahefð Íslendinga og eigi því eftir að lesa Grámosa Thors eins og hverja aðra evrópska nútímaskáldsögu.
En mín trú er sú að hér sé um allt annars konar bókmenntir að ræða, bætti hann við.
Síðan sagði hann:
Áhugi minn á Íslandi vaknaði fyrst þegar ég var kornungur og tók að lesa Íslendinga sögurnar og íslenzkar þjóðsögur, en hvorutveggja hef ég lesið aftur og aftur síðar í lífinu.
Íslendinga sögurnar eru í raun einhverjar merkustu bókmenntir sem til eru, einhverjar raunsönnustu, kaldranalegustu og ógnlegustu harmleikir sem nokkurn tíma hafa verið skráðir.
Í Íslendinga sögunum eru æðstu gildi fléttuð saman við erfiðustu lífsskilyrði á nyrzta hjara hins byggilega heims og þar myndast einhvers konar sagnadeigla, þegar helztu vígamönnum Norður-Evrópu lýstur saman.
Í þessari deiglu urðu til á fremur stuttum tíma þessar ótrúlegu sögur um hversdagslega viðburði í lífi venjulegra fjölskyldna.
Þessar sögur eru ekki aðeins merkilegar sökum hins ótrúlega raunveruleika og efnalegu aðstæðna sem fólkið bjó við, heldur vegna þess ekki síður að þær eiga rætur í þessu einkennilega landi, þessu óraunverulega tungllandslagi, en það er í rauninni nakið eldfjall, skreytt þeim gróðri sem tókst að festa rætur á eldfjallinu.
Á þessum gíg bjuggu svo örfáar fjölskyldur, dreifðar um landið og áttu allar í einhverjum útistöðum hver við aðra, einkum vegna deilna um jarðir.
Íslendingar eru mestu lögvísindamenn í heimi.
Það er sagt að þriðji hver Íslendingur sé lögmaður og þessir frumbyggjar deildu og börðust svo heiftarlega að stofnun Alþingis varð brýn nauðsyn, ef unnt átti að vera að útkljá þessi eilífu deilumál.
Sögurnar eru ekki einungis naktar og nöturlegar frásagnir af raunveruleika þessa tíma, þær heyra einnig til þeirri munnmælasagnahefð sem var vel þekkt fyrr á öldum í Evrópu.
Íslenzku þjóðsögurnar, svo ólíkar sem þær eru Íslendinga sögum, eiga einnig rætur í munnmælasagnahefðinni og þær eru einhverjar mögnuðustu, draugalegustu og skrýtnustu þjóðsögur sem ég þekki.”
(En um allt þetta ætla ég að fjalla í Helgispjalli.)
Allar íslenzkar þjóðsögur hljóma eins og sannar sögur. Og þó að guðunum séu gerð skil í fornkveðskap Íslendinga, þá eru hinar dæmigerðu þjóðsögur Íslendinga fyrst og síðar gamansamar smásögur um venjulegt fólk hér og þar og ýmislegt sérkennilegt sem henti það, hin undarlegu fyrirbrigði sem á vegi þess verða og nálægðina við hið óútskýranlega sem mótar líf þess.
Þannig virðist sem allir á Íslandi búi í heimi þar sem engin mörk eru á milli þess raunverulega og þess yfirskilvitlega þar sem hið yfirskilvitlega eru skrýtnar verur sem búa í klettum, ám, bæjum og móum.
Þetta skapar afar einkennilegt og hjátrúarfullt andrúmsloft og það andrúmsloft er oft einnig að finna í Íslendinga sögunum þar sem hinir undarlegustu hlutir gerast á stundum, furðulegir draugar birtast í þessum hráslagalegu sögum.
Sögurnar og þjóðsögurnar voru einu íslenzku bókmenntirnar sem ég hafði kynnt mér áður en ég fór til Íslands og þangað fór ég í rauninni af því ég hafði hrifizt af landinu og langaði einnig að renna þar fyrir fisk.
Ég ferðaðist hringinn í kringum landið því þjóðbraut hefur verið lögð í kringum það og liggur hún víða mjög nærri ströndinni. Ég hafði kynnzt Thor Vilhjálmssyni á bókmenntahátíðinni í Spoleto og hann var eini maðurinn sem ég þekkti á Íslandi og ég hringdi í hann þegar ég kom til landsins.
Thor reyndist afar gestrisinn og góður heim að sækja.
Hann tók mig nánast að sér og son minn sömu leiðis sem var í för með mér. Við ókum saman frá Norðurlandi til Reykjavíkur, síðan aftur til Húsavíkur og enduðum aftur hjá Thor í Reykjavík þannig að ég fór í rauninni tvo hringi í kringum landið og kynntist því þessu hrjóstruga og glæsilega landi afar vel, jöklunum, þessari nekt sem minnir á tunglið og hinni óvenjulegu strandlínu því maður fylgir henni mestan hluta ferðarinnar kringum landið.
Vegirnir minna á enska sveitavegi og troðninga mestan hluta leiðarinnar og hlaut ég afar góða yfirsýn yfir hina eyðilegu byggð. Hvar sem numið er staðar á Íslandi, á um það bil 2500 mílna vegaleið umhverfis landið, getur að líta litla á eða læk, auðn allt um kring og maður freistast út í landið í von um að krækja í fisk. En þá verður manni litið upp og sér einhvern mann standa og fylgjast með úr nálægu holti og annan sem fylgist með af öðru fjalli og ef þú gerir þig líklegan til að renna fyrir fisk þá koma þeir hlaupandi niður hlíðarnar hrópandi, “no fiskur”!
Landsins er hvarvetna stranglega gætt á þennan hátt, sérhver maður fylgist með nágranna sínum og maður fær á tilfinninguna að þetta fólk lifi óskaplega einangruðu og einmanalegu lífi þar sem ástríðurnar ólga undir niðri.
Og Íslendingarnir sjálfir, að undanskildum Thor Vilhjálmssyni, sem ég tel raunar engan veginn dæmigerðan Íslending –konan hans Margrét er ef til vill dæmigerðari Íslendingur –, maður fær á tilfinninguna að hinn dæmigerði Íslendingur sé sprottinn beint úr landinu sjálfu.
Thor skynja ég sem einhvern alþjóðlegan borgara meðan Íslendingar almennt virðast nánast samgrónir sjálfu landinu sínu og það er afar erfitt að slíta þá frá því. Íslendingar eru einkar alvörugefnir og innhverfir og það er mjög erfitt að koma þeim til að hlæja. Og þegar þeir hlæja þá stara þeir stjörfum augum, samkvæmt lýsingum Audens. Á meðan aðrir hlutar andlitsins skellihlæja standa sjálf augun á stilkum og manni finnst eins og Íslendinga sögurnar séu greyptar í þetta fólk, spenna þeirra og ólga falin í sálum þess.
Síðan talaði Ted Hughes um það hvað Íslendingar væru mikil bókmenntaþjóð og minntist á glæsileg bókasöfn á heimilum manna, ekki sízt í sveitum. Sagði að sér þætti til þess koma hvað Íslendinga sögurnar eru fólki hugleiknar og minntist á tvítuga stúlku sem hann hitti og læsi Íslendinga sögur á veturna sér til afþreyingar.
Þegar Ted Hughes hafði lýst sögum sem Íslendingar höfðu sagt honum – og þá ekki sízt sérkennilegum draumsögum – sagði hann í lokin:
Hin langa hefð munnmælasögunnar sem hefur kristallazt í sönnum gamansögum er líka enn fyrir hendi, ekki aðeins sem botnfall þjóðmenningar heldur lifandi fyrirbrigði í nútímanum. Íslendingar lifa enn í veröld hins ólgandi og yfirnáttúrulega en það er jafnframt heimur hinna harðneskjulegu Íslendinga sagna.
Og úr þeirri sameiningu eru verk Thors sprottin.
Ég skynja verk hans sem einhvers konar blómgun þesssara þátta og þegar maður les bækur hans í ljósi þeirrar innsýnar og finnur þannig fullkomlega enduróm þeirra þá skynjar maður verk hans verði ekki einvörðungu skilgreind sem nútímabókmenntir heldur ef til vill miklu fremur sem eðlileg framvinda langrar sögu einhverra merkustu bókmennta sem skrifaðar hafa verið.
Þetta var eftirminnilegt ávarp og Ted Hughes flutti það óþvingað og eðlilega.
Ég hef stuðzt við þýðingu Jakobs Frímanns Magnússonar en hann sinnir störfum sínum sem menningarfulltrúi íslenzka sendiráðsins með þeim ágætum að ég sé ekki betur en nauðsynlegt sé að koma á slíkri starfsemi við öll íslenzk sendiráð. Við eigum ekki betri útflutningsvöru en arfleifð okkar því að hún er einhver merkilegasta arfleifð heimsmenningar sem hefur breytt dvergþjóð í andlegan risa.
Ég spurði Jakob Magnússon, sem er flestum hnútum kunnugur í Bretlandi, hvort Bretar ættu eftir að taka Grámosanum vel, hafði sem sagt nokkurn fyrirvara á því sjálfur vegna þess hvað efnið er bundið íslenzku umhverfi og þjóðsögum um Einar Benediktsson sem eru einskonar sagnaflétta Thors í þessu verki.
Jakob svaraði,
Ég held að Bretar eigi eftir að taka Grámosanum vel, þeir eru svo pervers!
Þegar ég kom til Bretlands las ég forsíðufrásögn í Independent um minningarathöfn um John Osborne í Giles in the Field í miðborg Lundúna.
Við innganginn var handskrifuð með stórum stöfum tilkynning um athöfnina en bætt við fjórum nöfnum sem ekki væri óskað eftir við útförina, meðal þeirra var leikgagnrýnandi Evening Standard sem gaf í skyn eftir dauða Osborne að hann hefði ávallt verið skápbundinn hommi; auk þriggja annarra Breta sem skáldið þoldi ekki.
Gagnrýnandinn telur að Helena, síðari kona Osbornes, hafi haft miðilssamband við mann sinn, annað geti ekki verið því listinn hafi “ekki verið birtur fyrr en að honum látnum”!
Osborne var reiður ungur maður; hann var reiður miðaldra maður en slapp við að verða reiður gamall maður því hann var “aðeins” 65 ára þegar hann lézt úr hjartaslagi um síðustu jól.
En nú er hann dauður reiður maður og lætur sig ekki muna um að hefna sín yfir landamæri lífs og dauða.
Hef verið að hlusta á segulband með ljóðum brezku rómantísku skáldanna. Ósköp heldur Auden hefðinni vel við eins og í því fræga kvæði Tell me the Truth about Love sem minnir mjög á kvæði Byrons When we two parted; yndislegt kvæði og fallegt.
Sáum Under Milkwood eftir Dylan Thomas í Royal National Theatre, athyglisverða sýningu á þessu innblásna prósaljóði skáldsins. Hef hlustað á verkið tvisvar sinnum áður en skildi það nú betur. Hef ávallt haft sérstakan áhuga á Thomas frá því ég kynnti hann fyrir Íslendingum á sínum tíma. Ég held hann og Walt Whitman séu einu skáldin sem ég vildi á sínum tíma að hefðu áhrif á mig.
Í fyrra sáum við Medeu eftir Evrípídes, ógleymanlega sýningu. Nú sáum við Konurnar í Troyju sem einnig er ógleymanleg sýning þótt um hana megi deila vegna þess hvernig hún klofnar í leikstjórninni, ef svo mætti segja; konurnar eru eins og þær væru enn í Troyju en Menelaus er í búningi bandarísks flotaforingja og kona hans, Helena fagra, eins og bandarísk fegurðardrottining.
Evrípídes lætur Grikki vera hryðjuverkamennina í þessu verki og var hann þó Grikki sjálfur en ekki Troyjumaður.
Þetta hlutleysi minnir á fornar íslenzkar sagnar.
Hryðjuverkamennirnir í uppfærslunni í National Theatre eru sem sagt Bandaríkjamenn og má deila um þá túlkun. Hitt er rétt að þetta leikrit á brýnt erindi við stríðshrjáðan nútímann.
Hef nú séð allmörg grísk leikrit, lesið og hlustað á önnur; ótrúleg geymd mikillar leikmenningar.
Grísku leikskáldin kunnu svo sannarlega að færa sér í nyt gömlu goðsagnirnar og breyta þeim í harmleiki. Þau tóku upp þráðinn úr Hómerskviðum og blönduðu saman lífi guða og manna með skírskotandi túlkun eins og Evrípídes gerir í þessu verki um Troyju-konurnar.
Evrípídes er mikið ljóðskáld, kannski mesta ljóðskáldið í hópi forn-grískra leikskálda.
En Aristóteles kunni ekki að meta hann.
Heimspekingurinn taldi það ætti að skrifa alla harmleiki eins og Sófókles gerði. Þannig fór Evrípídes á mis við tízkuna.
En svo fóru verk hans að sækja á fyrir 30 árum; það tók hann sem sagt 2.300 ár að komast á vinsældalistann!
Merkilegt hvernig tíminn vinnur og einkennilegur er húmor örlaganna.
Það skyldi enginn ætla að hann hafi ráð tímans og örlaganna í hendi sér.
Höfundur Völsunga sögu vann úr efni íslenzku hetjukvæðanna eins og grísku leikskáldin unnu úr gömlum goðsögnum. Harmsaga Völsunga er þannig merkilegt framlag íslenzkrar sagnahefðar til heimsmenningar enda er hún víða erlendis í meiri metum en sumar Íslendinga sögur.
Völsunga saga er íslenzk fornaldasaga, rituð á 13 öld, og segja má að í henni sé efni hetjukvæða steypt saman í eina frásögn sem á rætur að rekja til Óðins, forföður Sigurðar fáfnisbana, og minnir þannig á Illiónskviðu og leikskáldskaparhefð Grikkja. Sigurður biður fyrst Brynhildar Buðladóttur en giftist Guðrúnu Gjúgadóttur og fær Brynhildar með svikum handa Gunnari mági sínum. Brynhildur kemst að hinu sanna, lætur Gunnar og bræður hans vega Sigurð og gengur sjálf í dauðann með honum.
Seinni hluti sögunnar er nokkuð samhljóða frásögn hetjukvæðanna, einkum Atlakviðu, Hamdismálum og Guðrúnarhvöt.
Í Íslenzku alfræðiorðabókinni segir að Völsunga saga sé þekktust íslenzkra fornaldasagna og í handritum eins konar forsaga Ragnars sögu loðbrókar.
Var 98 kíló á okkar vigt þegar við fórum að heima en fékk hagstæða vigt í Clifton Ford-hótelinu. Hún sýndi einungis 92,5 kg þegar ég vigtaði mig þar fyrsta kvöldið í London og var ég þó alklæddur.
Þetta jók mér bjartsýni og gerði ferðina ánægjulegri en ella.
Engin vigt er annarri lík og þegar maður er í megrun er nauðsynlegt að velja sér góða vigt. Þeir á Clifton Ford hafa líklega þekkt aðaláhyggjuefni gestsins á herbergi 626 og laumað einskonar sæluvigt inn á baðið.
Hvað sem því líður ætti ég að standast sykurþolsprófið ef þyngdin er jafnhagstæð og í London. En ég hafði vaðið fyrir neðan mig og við Hanna gengum einn daginn milli 25 og 30 kílómetra um borgina. Það var ánægjuleg ganga. Þegar við sáum Nál Kleópötru niður við Thames 8. júní orti ég þetta kvæði:
Er þetta fugl
eða flugvél,
spurði hún og benti
yfir ána.
Við gengum
meðfram Thames
og fuglar
og flugvélar
fylgdu okkur eftir
eins og síli
fylgi skýjunum eftir
á steinlausum
himni
sem var eins gruggugur
og áin.
Það er þota,
sagði ég,
og fylgdi henni eftir
með þungbúnum
augum
af gömlum vana,
og þarna framundan
er Waterloo-brúin
og benti
og þarna er Nál Kleópötru,
en þá brosti hún
og sagði eins og léttur
geisli brytist
undan dökkum
skýjum, Ætli hún
hafi verið mikið
fyrir saumaskap?
Annað kvæði orti ég á kvöldgöngu niðri í City, það er svona:
Eftir hverju er allt þetta fólk
að bíða
sem húkir í reiðileysi
við hráslagalega veggi
hótelanna á Strand
er það að bíða eftir því
að leiksýningunni miklu
ljúki
sem er leikin
í Savoy
og lífinu sjálfu
í bland?
Sáum einnig tvo skemmtilega söngleiki, She loves me og Crazy for you sem er byggt á söngleik Gershwins. Frábærlega vel gerðar og skemmtilegar sýningar. Höfðum séð Phanton of the Opera, Vesalingana, Cats og fleiri söngleiki í New York í hitteðfyrra og þá sáum við einnig Night Mother en í haust er leið sáum við leikrit Mamets í London; sérkennilega og athyglisverða uppstillingu um kvenfrelsisbaráttuna og hvernig hún getur leitt til öfga og andlegs ofbeldis. Hnýsilegt leikrit sem er vaxið úr nýjum þjóðfélagsátökum og ber tímanum vitni hvað sem öðru líður. Djarft leikrit, þótti mér. En Gershwin minnti mig á skemmtilega upplifun okkar skólafélaganna í MR.
Guðmundur Vignir kenndi okkur latínu þegar við vorum í 4. bekk B. Það fór ekki mikið fyrir þessum kennara okkar sem við kölluðum Agricola, hann var heldur þurr á manninn eins og bæjerskur bóndi, talaði lágt og reyndi ekki á nokkurn hátt að troða í okkur dauðu tungumáli, sem mér þótti skemmtilegt í aðra röndina.
Einhverju sinni þegar við félagarnir vorum að skemmta okkur í Breiðfirðingabúð og stóðum frammi á gangi því að salurinn var troðfullur af dansandi fólki, heyrðum við kallað hástöfum,
Ég heimta Gershwin! Við viljum gershwin!
Það var í fyrsta skipti sem ég gerði mér grein fyrir því að höfundur Rhapsody in Blue og Ameríkumaður í París var merkilegt tónskáld.
En hitt var öllu merkilegra að við okkur blasti Agricola þegar við fórum að gá að því hver hafði kallað, Ég heimta Gershwin, og stóð nú uppi á einu borðanna, vel þéttur, frjáls og ábúðarmikill og lét engum manni líðast að taka ekki eftir óskum sínum.
Ég held ég hafi aldrei orðið eins klumsa á ævi minni og þegar ég horfði þarna á latínukennarann minn heimta Gershwin í allri þessari reykjarsvælu og á samri stundu fékk ég það álit á Agricola, latínu og Gershwin sem hefur dugað mér æ síðan.
Guðmundur Vignir hefði áreiðanlega tekið undir ef einhver hefði sagt við Gershwin: Crazy for you!
En þannig tengist gömul minning nýrri reynslu og furðulegustu fyrirbæri lífsins koma undan fönnum tímans og minna okkur á það sem eitt sinn var og er ekki lengur.
Samt var Agricola ekki langt undan á Gershwin-kvöldinu þarna í London!
Þegar ég nú er að hugsa um Evrípídes hvarflar hugurinn að fyrirbærinu sem við köllum tíma og er þó ekkert fyrirbæri því hann er víst ekki til eins og maður sér af fyrrnefndri tilvitnun í Einstein.
Ég hef víst fjallað um þetta fyrirbæri í leikritinu um Sókrates þar sem allir tímar fléttast saman í einn tíma sem er enginn tími.
Í nýju leikriti eftir Tom Stoppard sem við sáum í Theatre Royal Haymarket fléttar skáldið saman tíma Byrons og nútímanum. Leikritið fjallar í raun og veru um Byron án þess hann komi við sögu á sviðinu. Það er margt vel gert í þessu verki Stoppards þó að ég hafi fyrirvara á því hvernig fléttunni reiðir af. Mér finnst einhvern veginn dálítið vandræðalegt að láta þessa tvo tíma, sem er enginn tími, hverfa inn í eilífðina með þeim hætti að ólíkar kynslóðir dansa á sviðinu í lokin eins og tíminn sé eilífur dans. Það má þó kannski til sanns vegar færa, ég veit það ekki.
Þetta er örugglega gott leikrit og betra en það sem við höfum áður séð í Lundúnum eftir Stoppard og fjallar um einræðisherra í frumskógum Afríku.
Það var ósköp losaralegt og minnti á mislukkað hermannsleikrit Ustinovs sem ég sá einnig í Lundúnum fyrir mörgum árum.
Mér þótti gaman að tala við Ustinov þegar hann var í heimsókn hér heima.
Ég held samt mér finnst leikrit Stoppards um Rosencrantz og Guildenstern bezta verk hans sem ég hef séð hingað til. Og Ingó sagði mér í Lundúnum að kvikmynd sem hefði verið gerð upp úr þessu verki væri frábær en því miður hef ég ekki séð hana.
Sá aftur á móti kvikmyndina um brjálæði Georgs Bretakonungs með Nigel Hawthorne í aðalhlutverki og skil ekki hvernig hægt er að ganga framhjá slíkum stórleik við úthlutun Óskarsverðlauna þótt mér sé fulljóst að leikurinn í Gump sé afrek út af fyrir sig.
En Hawthorne þarf að leika allan skalann frá heilbrigði til brjálæðis og frá brjálæði til heilbrigðis aftur, en það er með ólíkindum að nokkrum leikara skuli fært að skila því verki með jafneftirminnilegri leikrænni reisn og raun ber vitni.
Þessar kvikmyndir eru svo ólíkar að það er í raun ekki hægt að bera þær saman á nokkurn hátt eða velja á milli þeirra.
Sáum einnig nýjustu mynd Woody Allens um glæpamafíuna í New York, ekta Allen með stórfínum húmor.
Og hvernig er þá hægt að greiða atkvæði um hana eða hinar tvær, svo ólíkar sem þessar kvikmyndir allar eru og eiga raunverulega ekkert sameiginlegt nema beðmið eða trénið í filmunni.
En með þessu efni hefur einnig verið unnt að stöðva tímann því að það geymir liðna atburði eins og frásagnir einar gátu gert fyrr á tíð.
Af þessu efni er þá einnig að myndast einhver mesti sorphaugur sögunnar og það væri gaman að lifa eftir þúsund ár og fylgjast með því þá hvað kemur upp úr þessum sorphaug tímans af klassísku efni í ætt við það sem geymist í verkum annarra eins manna og Evrípídesar.
Bjarni Benediktsson sagði við okkur Hönnu og Sigríði, konu sína, þegar við stóðum á Forum Romanum á sínum tíma að merkustu staðir sögunnar væru að hans dómi Akropolis, Forum Romanum og Þingvellir, í þessari röð.
Af því sem ég hef þurft að inna af hendi um ævina þykir mér mest til um það þegar ég flutti setningarræðuna á þjóðhátíðinni á Þingvöllum í júlí 1974 og þá fann ég betur en nokkru sinni að tíminn er einungis viðmiðun eða einskonar hugmynd um það sem er óáþreifanlegt.
Með þeirri tilfinningu orti ég Þjóðhátíðarkvæðið inn í ljóðabókina Dagur ei meir sem fjallar um þjóðhátíðarárið.
Fjórum árum áður höfðum við Björn Bjarnason staðið við brunarústirnar á Þingvöllum og síðan leitað að viðeigandi bautasteini sem yrði reistur á grasi grónum rústunum.
En dauðinn hafði síðasta orðið.
Mold á mold, segir undir lokin í Konunum í Troyju, það er boðskapur allra tíma; sagan um okkur mennina er sagan um duftið.
14. júní
Kolbrún Bergþórsdóttir bað mig í dag um að nefna athyglisverðasta mann, mér óviðkomandi, sem ég hef hitt um ævina.
Ég svaraði svo:
Guðmundur Dýrfirðingur.
......Hann krafðist aldrei neinnar athygli og var kannski einna helzt minnisstæður fyrir það hvað hann var lítið minnisstæður......
Hetja í stríðinu.
.....En þarna stóð Guðmundur Dýrfirðingur við stjórnvölinn á Fróða, sem var eins og blóðugt sár á stríðsóðu hafinu og tókst að komast undan þessum gráa þýska kafbáti sem sigldi hringi í kringum þetta litla íslenska fiskiskip og glefsaði til þess eins og rándýr.
....Og sigldi Fróða í höfn,en félagar hans eins og hráviði um skipið,dauðir....
Ég hef minnzt á hann annars staðar á þessum blöðum.
17. júní
Það er grár þjóðhátíðarmorgunn og við erum að tygja okkur til að fara vestur á land. Ætlum að halda þjóðhátíðina með landinu sjálfu, nýkomin frá London. Mér finnst gaman að fara með Akraborginni, það minnir á saltið og sjóveikina á Brúarfossi en þá lagði maður allt á sig fyrir ævintýrin.
Hef líklega fengið eitthvert eirðarleysi með norska blóðinu. Matthías afi kvaddi foreldra sína í Bergen og systur og hélt til Íslands. Jóhannes föðurbróðir minn kvaddi Ísland ungur læknir, hélt til Danmerkur en þaðan með Rauða krossinum til Júgóslavíu og tók þátt í tveimur heimsstyrjöldum; giftist þremur júgóslavneskum konum, eignaðist son sem hann missti og dóttur sem býr í Recovak sunnan við Belgrað. Hef aldrei séð hana en veit af henni. Nú heldur hún víst að hún sé stríðsglæpamaður því hún er Serbi.
En hver er stríðsglæpamaður og hver ekki þar sem eru háðar styrjaldir?
Er einhver annars bróðir í svo gráum leik?
Hef verið að þjónusta allt landið síðustu þrjátíu eða fjörutíu ár og stundum þótt nóg um. Nú hef ég verið að þjónusta sjálfan mig dálítið eftir að við komum frá London; hef verið að skoða gömul plögg og rekizt á ýmislegt; þar á meðal heila ljóðabók frá árunum uppúr 1950 sem ég gaf aldrei út, guði sé lof! Og bunka af öðrum ljóðum yngri sem hafa ekki heldur verið gefin út, guði sé lof!
En ég hef samt gaman af að grúska í þessu og bora mig inní hugsanir sjálfs mín á þessum árum. Ég er að reyna að þjónusta sjálfan mig með því að horfast í augu við sjálfan mig; reyna að skilja hver ég var og hver ég er.
Þó að þessi kvæðabunki sé ekki birtingarhæfur segir hann mér ýmislegt um tilfinningar ungs manns sem er að reyna að finna hugmyndum sínum stað. Þó sýna þessi gömlu ljóð mér einkum að dómgreindin brást mér ekki þegar ég lagði þau til hliðar og ákvað að taka út meiri þroska áður en ég haslaði mér völl sem skáld.
Ég var seinþroska en það háði mér ekkert þótt þroskinn kæmi seint
Vona einungis að hann hafi enzt mér því betur.
Rakst á ræðuna sem ég flutti á fullveldishátíð Íslendinga í London 1. desember í fyrra. Hafði gaman af að flytja hana þar, man ég. Það er dálítið öðruvísi tilfinning að vera með Íslendingum erlendis en hér heima. Landið fylgir okkur hvert sem við förum, tungan og arfleifðin; einkum landið. Og það vex innra með okkur í útlöndum. Það sjáum við ekki sízt af fjölnismönnum. Það var gott að tala á Íslendingasamkomu í London, fannst mér.
Ræðan sem ég flutti þá var eitthvað í þessum dúr:
Þegar ég var að skrifa Kompaníið, samtalsbókina við Þórberg Þórðarson, sagði hann mér frá því að hann hefði gerzt sá ræfill að hann hefði lofað því að lesa upp í útvarpið þá um kvöldið. “Ég á erfitt með að neita, þegar ég er beðinn um eitthvað,” sagði Þórbergur. “Það er kannski ræfildómurinn. Maður getur aldrei sagt nei. Nú er hugsun mín dálítið á hvörfum, hvað ég á að lesa. Mér hefur dottið í hug dálítill kafli og ætla að biðja þig að hlusta á mig meðan ég les hann, og segja mér, hvort hann muni gera ólukku. Það tekur 20 mínútur.” Síðan las Þórbergur kaflann.
Mér kemur þetta atvik í hug þegar ég er beðinn að flytja mál mitt á þessari virðulegu fullveldissamkomu Íslendinga hér í heimsborginni. Það olli mér þónokkru hugarangri þegar ég þurfti að ákveða hvað segja skyldi á þessum merku tímamótum í sögu íslenzka lýðveldisins. Ég þóttist vita að bezt væri að reyna að vera dálítið fyndinn því að svona samkomur eru fyrir skemmtilegt fólk sem vill gleðjast á góðri stund en ekki endilega einhverjar sjálfstæðishetjur sem eru að frelsa heiminn í hvert skipti sem þær opna munninn. Mér var því mikill vandi á höndum og er það raunar enn en ég læt skeika að sköpuðu og hef ákveðið að sýna sama ræfildóminn og Þórbergur og ávarpa ykkur hér nokkrum orðum. Ég vona samt sem áður að ég ræni ekki frá ykkur neinni gleði eða tækifæri til að lyfta glösum, enda væri það ófyrirgefanlegt og dettur mér þá í hug þegar við Tómas skáld Guðmundsson hittumst einhvern tíma á góðri stund og fengum okkur í glas. Tómas talaði um alla heima og geima en þó einkum æskuumhverfi sitt, blómin og fuglana en svo kom að því að flaskan af létta víninu stóð tóm á borðinu. Ég spurði hvort hann vildi meira. Hann horfði á mig, hristi höfuðið og sagði: “Nei, ég drekk aldrei úr tómri flösku. Maður verður að hafa framtíðina fyrir sér.”
Ég vona að ég ræni ykkur ekki þessari framtíð í kvöld, en minni á það sem Tómas sagði eitt sinn þegar hann var spurður hvers vegna hann væri að yrkja, en þá sagði hann, Það er til þess að ég hafi eitthvað gott að lesa þegar ég er orðinn gamall. Tómas kunni á umhverfi sitt. Eitt sinn sagði hann við mig þegar flestir íslenzkir ráðherrar voru komnir heim af Norðurlandaráðsfundi, “Þetta er voðalegt ástand hér og ekkert útlit fyrir að það fari batnandi. Nú er ríkisstjórnin að koma heim. “ Og Tómas kunni á lífið, bæði þessa heims og annars, og einhverju sinni sagði hann okkur yfir kaffibolla á Borginni hvernig dauðinn hefði leikinn á Morten Ottesen, vin hans, sem trúði ekki á annað líf. “Þegar hann var látinn,” sagði Tómas, “kom hann í draumi til mín, glotti og sagði: “Það er eins og ég hef alltaf sagt þér, Tommi minni, það er ekkert annað líf.”
Í kvöld og hér úti í London þykir mér gaman að minnast þessara hornsteina íslenzkrar menningar sem ég var svo lánsamur að kynnast ungur blaðamaður, og þá mætti gjarnan bæta við séra Bjarna Jónssyni sem var fastur punktur í tilverunni á þeim árum og einskonar fulltrúi guðs í því litla samfélagi sem var umhverfi æsku minnar. Eftirminnilegasta samkoma sem ég hef farið á var afmæli Páls Ísólfssonar, en þar töluðu meðal annarra Bjarni Benediktsson, Tómas Guðmundsson og séra Bjarni og mátti ekki á milli sjá hver hafði betur í þessari samkeppni um skemmtilegheitin. Þegar ég sagði séra Bjarna eitt sinn að ég hefði farið á miðilsfund hjá Hafsteini miðli, en séra Bjarni var mjög mótfallinn öllu kukli, þá horfði hann á mig og sagði einungis, “Ég hef ekki þurft á því að halda”. Hann fann þá að þetta blessað fermingarbarn hans hefði mátt fá betra veganesti frá presti sínum, enda sagði hann mér síðar þá sögu að kennarinn sinn í kirkjusögu, Ammundsen prófessor, síðar byskup, hefði tekið til máls á umræðufundi um sálarrannsóknir og spurt Rasmussen fulltrúa guðleysingja á fundinum sem vefengdi framhaldslíf vegna þess að hann sæi þess engin merki, “Segið mér, herra Rasmussen, hafið þér séð yðar eigin skynsemi?” Hinn svaraði því neitandi. En þá sagði Ammundsen: “Við höfum ekki séð hana heldur, hvar er hún þá?”
Þannig voru þessir menningarvitar sem voru að reyna að ala mann upp á sínum tíma og vonandi hefur verið eitthvert gagn í því veganesti. Þetta voru menn sem lögðu áherzlu á menntun og heimsborgaralega háttvísi en voru þó innst inni jafníslenzkir og landið sjálft og tungan sem við tölum. En þeir reyndu ekki sízt að þreyja þorrann og segja alvarlega fyndni og fyndna alvöru. Páll Ísólfsson var ekki sízt slíkur maður, en hann var mestur heimsborgari allra manna sem ég hef kynnzt og flutti til Íslands meiri tónlistarmenningu en nokkur annar. Þannig átti hann ekki sízt þátt í því að það bezta í okkar eigin menningu hertist í eldum heimsmenningar. En hann var svo sannarlega enginn harðlífismaður í andlegum efnum, ef svo mætti segja, heldur einhver mesti húmoristi sem ég hef kynnzt og vona ég að bækur mínar um hann beri þess nokkur vitni. Einu sinni, sagði hann, var ég á gangi eftir Austurstræti. Vissi ég þá ekki fyrr til en hönd var smeygt undir handlegg mér og vinur minn Árni prófessor Pálssonar stundi þungan við hliðina á mér, “Heyrðu, Páll minn,” sagði hann, “hvar endar þetta?” “Það veit ég ekki,” sagði Páll. “Það veit ég ekki heldur,” sagði Árni Pálsson og gekk þegjandi yfir götuna.
Daginn áður hafði brennivín hækkað í verði.
Árni prófessor var viðkvæmur í lund, sagði Páll, og fjarska barngóður. Þegar hann varð afi spásséraði hann um göturnar með barnabarn sitt og ljómaði af gleði. Þegar Jón kaldi skrifstofustjóri Alþingis og vinur þeirra Páls eignaðist fyrsta barn sitt varð hann sem vonlegt var mjög stoltur. Nú hitti Jón vin sinn, Árna, á götu og segir honum frá litlu dótturinni sem honum þótti auðvitað “alveg makalaust barn”. Jón bauð Árna heim að skoða undrið. Hann þá heimboðið og glaðnaði yfir honum.
Skömmu síðar heimsótti hann Jón. Jón fór að kjá framan í barnið og skæla sig allan í þeirri von að það brosti til Árna. Þá hneykslaðist Árni prófessor og sagði: “Ég kom hingað til að líta á barnið en ekki að sjá þig láta eins og fífl.”
Tómas Guðmundsson leit upp til Árna Pálssonar, eins og flestir ungir menn í þá daga og langaði að kynnast honum persónulega. Hann notaði því tækifærið eitt sinn, þegar hann sá Árna sitja við annan mann í veitingahúsi, ég held Hótel Íslandi hjá Rósenberg. Hann herti upp hugann og gekk rakleitt að borðinu, þar sem ljónið sat, og kynnti sig. Árni var þurr á manninn en tók þó hinu unga skáldi allvel og bað hann að setjast. Kom þá höfðinginn upp í Tómasi, hann ákvað að bjóða Árna glas af öli, kallaði á þjóninn, sem var danskur, og sagði: “Tjener, kan vi få øl.”
Rís þá Árni úr sæti sínu með miklum svip og spyr, hvort hann dirfist að ávarpa þjón á dönsku í íslenzku veitingahúsi. En Tómasi varð ekki orðfall fremur en endranær og svarar með myndugleik: “Haldið þér, prófessor Árni Pálsson, að ég spanderi okkar dýrmæta móðurmáli á danska þræla?” Þá glaðnaði heldur en ekki yfir Árna og hann sagði blíðlega: “Þér hafði rétt að mæla, megum við ekki verða dús.”
Síðan hélzt með þeim góð vinátta og Árni var ekki lengur þurr á manninn og mér skilst það hafi ekki gætt mikils þurrks í viðskiptum þeirra upp frá því.
Áður en ég sný mér í lokin að alvarlegri hlutum langar mig að minna á svofellda frásögn í Hundaþúfunni og hafinu, sem er fyrra bindi samtalsbóka minna um Pál Ísólfsson. Þar segir: Það var á þeim árum þegar Háskólinn var í Alþingishúsinu. Fundur var boðaður í heimspekideildinni seinni part laugardags. Áður en hann hófst, skrapp Nordal í rakarastofu Sigurðar Ólafssonar og lét klippa sig. Á meðan hann beið, rakst hann á Manchester Guardian og fór að blaða í því, fann þar m.a. grein eftir brezkan vísindamann, sem fjallaði um áhrif áfengis á erotik manna.
Nordal fer að lesa greinina. Fyrri hluti hennar er þá um skaðleg áhrif áfengis á kynlífið, en síðari hlutinn um tedrykkju og hversu örvandi áhrif teið hefði á kynorkuna. Sigurður tekur blaðið með sér á fundinn. Þegar hann kemur í Alþingishúsið hittir hann Árna, réttir honum blaðið og segir: “Lestu þessa grein.” “Til hvers er að lesa hana, um hvað er hún?” spurði Árni. Tók samt blaðið, byrjaði að lesa og eftir því sem hann las lengur seig brúnin meir, þangað til hann henti blaðinu frá sér og sagði: “Hvílík helvítis vitleysa er þetta. Hvað menn leyfa sér nú á dögum að bera á borð, það er alveg makalaust, iss,”. Þá segir Sigurður: “Lestu áfram.” “Nú - jæja, kannski,” segir Árni og tekur blaðið aftur, en með óvilja. Svo les hann um teið. Þá fer að hýrna yfir honum og þegar hann er búinn að lesa alla greinina, stendur hann upp, gengur brosandi um gólf og segir: “Ja, það er ekki þar fyrir, ég hef alla tíð verið mesti tesvelgur.”
Þegar við Hanna bjuggum í Kaupmannahöfn um miðjan sjötta áratuginn leigðum við hjá dönskum hjónum sem hurfu til Svíþjóðar í atvinnuleit. Eitt sinn um miðjan veturinn 1955-1956 komu þau hjón snögga ferð til Kaupmannahafnar og vitjuðu íbúðar sinnar. Þetta var einhvern mesta frostavetur sem ég hef upplifað, 20-30 stiga gaddur upp á hvern einasta dag eftir áramót og veit ég raunar ekki hvernig þau hjón komust frá Svíþjóð því að sundin voru frosin og mátti ganga á milli landanna. En þarna skaut þeim upp einn góðan veðurdag og sögðu okkur m.a. þau merku tíðindi að húsbóndinn hefði fengið sölumannsstarf við sænska bókaútgáfu og seldi nú m.a. Íslendinga sögur. Hafið þið lesið þær? spurði hann. Jú, við þóttumst hafa gert það að mestu. Á sænsku? spurði hann. Nei íslenzku sögðum við. Jæja, sagði hann forviða, svo þær hafa þá verið þýddar á íslenzku!
Við gáfum ekkert út á það enda vildum við fyrir alla muni halda íbúðinni og þá var auðvitað mikilvægt að móðga ekki vesalings manninn.
Jón forseti Sigurðsson lagði áherzlu á rétt íslenzkrar tungu, enda væri hún forsenda alls sjálfstæðis. Hún og landið eru hið eina sem heyrir okkur til og ekki öðrum. Hún er mikilvægasta forsenda arfleifðar okkar. Það stjórnar enginn íslenzku þjóðinni sem talar ekki tungu hennar. Við höfum sögulega reynslu fyrir því. Íslenzkar bókmenntir eru skrifaðar á þessa tungu og því eru þær okkur dýrmætari en ella. Þær eru ein af forsendum tilvistar okkar og sérstæðs þjóðernis. Því eru þær flestu öðru mikilvægari.
Ef við glötum tungu okkar, glötum við einnig þjóðmenningunni og sjálfstæðinu. Þá hrynur samfélagið. Þá getur ný þjóð heyrt Íslandi til; útlend þjóð, arfleifðarsnauð og opin fyrir erlendri ásókn. Auðnulaus þjóð í leit að sjálfri sér; hamingju sinni; og glataðri sjálfsvirðingu.
En sjálfsvirðingin er ekki sízt forsenda hamingju. Eða höfum við nokkurn tíma heyrt talað um hamingju þeirra sem hafa glatað sjálfum sér? Þar sem hamingjan býr í hjarta mannsins verður hún einungis varðveitt þar. Einsog tungan sem við tölum. Og tilfinningar sem hún lýsir.
Aristóteles segir í Stjórnmálum að dyggð sé forsenda hamingju. Það er dyggð að varðveita sérkenni sín, arfleifð og þá ekki sízt tunguna sem er m.a. dýrmæt vegna þess að hún er tengiliður einnar kynslóðar við aðra. Hvísl milli kynslóða. Við Íslendingar sem nú lifum getum átt mikilvæg samtöl við þá sem sköpuðu gullaldarbókmenntir okkar _ og það á þeirra eigin tungu. Slík samskipti eru lítilli þjóð ómetanleg; stækka hana og efla henni þrek. Án þessa arfs hefðum við ekki fengið sjálfstæði okkar, handritin né 200 mílna fiskveiðilögsögu. Og án hans væri sjálfsvirðing okkar líklega heldur bágborin.
Við getum margt af arfi okkar lært. Forn íslenzk ritverk eru ómetanleg og ástæða til að draga af þeim ályktanir um samtíma okkar. Þessi verk eru ekki dauður bókstafur né gamall texti handa stúdentum, heldur markverð tíðindi úr reynsluheimi þeirra sem þurft hafa að horfast í augu við harðneskjulegt alræði samtímans og það úthellta blóð sem pólitískar hugmyndir og hefndarverk hafa skilið eftir í okkar eigin slóð. Stundum eru þessi verk unnin í skjóli mikilla hugsjóna, já raunar oftast. En hugsjónir sem leiða til hefndarverka eru vondar hugsjónir. Slíkum hugsjónum þarf að breyta. Og kannski þarf helzt að breyta þeim sem boða þessar hugsjónir einsog kristnir menn gerðu uppúr miðöldum þegar glæpamenn frömdu hryðjuverk sín í skjóli þess kærleiksboðskapar sem engu er líkur.
En mér er til efs að Íslendingar, jafnvel þeir, geri sér nægilega grein fyrir mikilvægi þessa forna arfs okkar, hvað þá aðrar þær þjóðir sem horfast í augu við háskalegan heim. En það getur varla verið tilviljun hvað suður-amerískir höfundar hafa hneigzt að þessum skáldverkum, með Borges í fararbroddi. Og ekki getur það heldur verið tilviljun þegar ljóðskáld einsog Írinn Seamus Heaney dregur mikilvæga ályktun af þessum verkum í brýnum og hastarlegum skírskotunum og minnir t.a.m. á örlög njálssöguhetjunnar Gunnars á Hlíðarenda einsog hann hefur gert í eftirminnilegu ljóði. Gunnar leiðist út í átök sem eru honum ekki að skapi og ferst í grimmilegum hryðjuverkum og blóðhefndum sem voru snar þáttur af hugsun og hugmyndum samtíma hans, rétt einsog hryðjuverk á Írlandi eiga rætur í sjúku hugarfari ofstækisfulls umhverfis. Í Njálu sjáum við það betur en annars til hverra hörmunga slík ógn og óbilgirni og slíkt hatur leiðir. Blint tillitsleysi er arfasátan og upphaf bálsins. Það er augljóst að Heaney sér örlög þjóðar sinnar í blóðugum átökum Njáls sögu, svo brýnt erindi sem hún á við umhverfi okkar og samtíð.
Hef einnig verið að grúska í ljóðum sem ég fann óvart ásamt uppköstum að Fagur er dalur.
Merkilegt hvað þessi ljóð hafa verið tekin í gegn áður en þau birtust; heilu ljóðaflokkarnir eins og Goðsögn sem hafði birzt í Birtingi, Friðsamleg sambúð, Stuðlar á vatni sem er ort í tengslum við Jörð úr ægi og hefði kannski átt að vera í þeirri bók en voru því miður óortir þegar hún kom út svo þetta er einskonar framhald hennar; mjög breytt.
Og þá ekki sízt Sálmar á atómöld sem ég hef verið að breyta framá síðustu stund, og þá líklega með aðstoð Tómasar. Sé þó af handritunum að ég hef gert flestar breytingarnar sjálfur en hann ýmsar athugasemdir til umhugsunar; hann hefur einnig sett spurningarmerki við sum kvæðin sem ég hef sleppt og skrifað fyrir ofan önnur: sleppa.
Ég hef dálítið gaman af að skoða þetta nú, svona löngu seinna, en er auðvitað mjög sáttur við að hafa sleppt þessum ljóðum. Get vel trúað dagbókinni fyrir sumu af því sem þarna er; t.a.m. kvæði sem ég mundi ekki eftir að ég hefði ort og heitir víst Borg.
Það er svona:
Vorið gengur á vit þín, borg,
og vegmóð rennur sól af jökulhjarni,
horfir í bláa nálægð nýútsprungins
nafnlauss mynsturs, hve rökkrið lýsist
af hljóðum degi með síblá syngjandi augu,
svalan jökulgust – að nálgast draum
hægt eins og fingur hiki,
snerti vanga
og nýr fögnuður fæðist í brjósti
þar sem feigðin gerði sér bæli
og vetrarkvíðinn kalsaði löngum
við þrá sem var aðeins vök í hemuðu auga
vors og hvíslandi spurnar.
Sól, hlátur – nú hljómar hann aftur
og himinn fyllist sunnanblæ og yndi
bringuhvítra fugla;
sem dögg í djúpu grasi
er dagur í gagnsæjum blöðum sólmistraðs himins,
svo hverfur hann aftur í elda fjarlægra skýja,
ylur af reynslu og kvöldsólin teygir
langa skugga á heiðar, holt eða bæi.
Hljóð er nóttin, björt sem augu vatnsins.
Í brjósti konunnar ungu andar landið
ótt og djúpt
og barmur hennar bifast
í bláfölum skuggum lengstu daga vorsins,
þey, borg, nú drepur sólin sínum fingrum
á svöl holt, engi – og vorið rennur
líkt og streymi eilífð undan fönnum
uggs og kvíða, djúpt um þínar rætur.
Ó borg, nú kemur sól af svölu hafi,
sigggrónar hendur fagna morgungeislum
og við sem héldum að hélunapurt myrkur
hvíldi á gleði dags og blindrar nætur
sem hylji moldin för og fúna kvisti,
husluð bein –
yfir hjarn og heiðar lyngs og mosa
þitt heita vor, hver fagnaði því betur
en þeir sem áttu vetur einn að vini?
Að vakna bláan dag og gá til himins
finna vor og ilm, það er sem hríslist
ævintýr um greinar, fúnar rætur,
hverja taug; við teygum yl úr bikar
tímalausrar stundar, fögnum gesti
sem kemur óvænt út úr hversdagsleikans
ísavetri, svipast um
og heilsar öllum líkt og barn sem brosir,
bendir fálmandi höndum móti vori –
og brúnir fuglar fljúga inní ljóð
feigðarlausra drauma, byggja hreiður
í brjósti þér, og blærinn strýkur hendi
um brá og hvarm og vekur þig af svefni.
Og vekur þig, ó borg, af djúpum dvala.
Draumur, hugboð, nei – við fögnum þér,
sól við tind í hrjúfum heimi, finnum
að hvert eitt strá er orð í ljóði vorsins,
það vex í þínu brjósti, borg, og kallar
bláa kyrrð í grasið, þar sem við
lágum undursamlega nálægt
ilmi af jörðu – snerting
næturlogns við ljós á hvítum sundum
losaði þrá úr brjósti mínu, flaug hún
sem fugl úr hreiðri inní augu þín.
Við yztu kletta vakir þú, mín borg.
Ég hef áhuga á að vinna við þetta kvæði ef ég nenni, held ég gæti lagað það í hendi mér. Það er eitthvað í þessu kvæði sem skírskotar enn til mín, ég veit ekki hvað það er, kannski einhver æska, einhver funi sem ég á ekki lengur. Kannski get ég notað hann í nýja elda?
Eða þetta:
Niður af jökli, nótt. Og þessi tregi.
Nýtt vor í moldu, graslön
brjóst mitt fyllir. Frjóangi
frjáls úr klakahlekkjum
vetrar og komið vor með fugl á staur.
Vatnsblá er heiðin, djúp spor í aur.
Þó svanatjarnir sólargeislar eygi
og sumarfingur vefji þetta ljóð,
spáir hún við villumst senn af vegi,
völvan. Og brátt mun ég
týna þinni slóð.
Eða kvæðið Móðir mín sem ég gæti kannski lagað en það eru svona erindi:
Við krossinn þú beygðir höfuð að hauðri
og hvíslaðir bæn að grýttri storð,
móðurbæn að moldinni auðri.
Ég minnist þess þrátt fyrir liðnu árin.
Heitt og máttugt hvert einasta orð
sem ilmandi græðijurt á sárin.
Ég man þín bæn, hún brjóst mitt fyllti
er brást mér annað í gráum leik,
með boga hennar ég strengi stillti
gegn stormum langra vökunótta,
og þó að gusti um gamlan kveik
ég geymi vers þín án hiks og ótta ...
Þar sem leikur lyng að þeynum,
laufgast grein í holti og mó,
sú er hvíslar að mér einum
orðaslitrum hlyns og þalla.
Veröld þín sem við mér hló
vakir milli blárra fjalla.
Eða þessi brot:
En desembermyrkrið blandar sitt beizka vín
með brigðulli nálægð orðs sem var göróttar veigar.
Þú veizt ekki alltaf og allra sízt þetta kvöld
hverju eilífðin hellir í drykkinn sem reynsla þín teygar.
Og nú þegar minningin brosir í blysi því
sem bregður dálitlu skini á margt sem er horfið,
þá finnur þú betur en ella að allt þetta líf
er annarleg strönd sem tímans brim hefur sorfið.
(Áramót)
Eða þessi Kveðja:
Þessi ljóð sem ég yrki eru undarleg kertatýra
og einhvern veginn svo langt frá vorsins nið.
Þau minna ekki á tún heldur gamla gaddavíra
sem grotna niður af snertingunni við ryð.
Enda þótt margt sé merkilegt hér á jörðu
máist það allt og hverfur í daganna þys
og það sem draumar æskunnar eitt sinn vörðu
er örskotsrák og deyr eins og tívolíblys ...
Ósköp eru þessi ljóð nú annars dapurleg og svartsýn. Það er engu líkara en auminginn í Ljósvíkingnum hafi ort þau flest en mig hefur skort þessa rómantísku viðkvæmni sem bregður svo fallegum svip á aumingjaskapinn.
En kannski það hafi skánað eitthvað með árunum!
Og svo eru þarna misheppnuð kvæði um Dylan Thomas, síra Hacking í Landakoti sem dó ungur úr krabbameini en átti að taka við byskupsembættinu ef hann hefði lifað; góðan vin minn eins og sjá má í Sálmum á atómöld; Ragnar í Smára og minnt á að hann fljúgi á milli blómanna og skemmti sér meðan við hinir púlum í flaginu mikla og senn verði reist af honum stytta undir nýju ráðhúsi:
því hver mundi frekar una sér undir veggjum
svo yfirþyrmandi tákns um hreint ekki neitt
en því bætt við að afhjúpun styttunnar yrði honum auðvitað til ama og leiðinda; fjögurra erinda ljóð um Lúðvík Hjálmtýsson, eða Polla fimmtugan og minnt á að það jafngildi heilum fundi að hitta hann á förnum vegi; bréf til Steins Steinars, gjörsamlega bjóralaust og án tilþrifa en lýkur svona:
Og ennþá held ég að Alþýðublaðið sé skrifað
af undarlegustu mönnum sunnan úr Flóa
og hvernig eiga þeir annars að geta lifað
með engar tekjur nema úr ríkissjóði.
Og enn yrkja sumir um beztu blómin sem gróa
í brjóstum sem halda að þau geti fundið til.
Þú sérð að töggur er enn í okkar blóði
og Pétur Hoffmann á gullin sem fegurst glóa
í glámskyggnri veröld þjóða sem sjá ekki handaskil.
Þessi tvö kvæði finnst mér benda fram á leið:
Heimkoma
Snekkja komin af hafi.
Ég man hvernig hún dúaði á olíubrákinni
sem átti ekkert skylt við sólkvikan dag
sumars og kvakandi fugla,
hvernig hún vaggaði sér í lendunum, skimaði
líkt og kynbomba í kringum sig
með hendur bundnar við bryggju
horfði á gamla kláfa með ryðtauma
úr munnvikunum eftir óhóflega tóbaksnotkun
í síðasta túr, gaf þeim hýrt auga
þessum herrum saltrar lífsreynslu,
nýkomnum heim á hvítasunnu með nið
fjarlægra miða brimandi í eyrum, haf
í stað augna:
gamalkunn voru andlitin á bryggjunni,
slitnar konur með digra handleggi,
hvíta skafla í hári, samt ný gleði
eins og fræ frjóvgist í mold,
ilmgrænt vor – og þrá holds og heitra orða
nýlaufgað tré
undir heiðum brimsöltum himni:
Velkomnir af hafi.
Gömul hreistruð orð fóru um hugann
með sporðaköstum, fjöllin horfðu
til himins, þytur lands sinfónía
hvítra fugla í draumi þeirra
og skýin blökuðu höndum
yfir þöndum vængjum máva
eins og hljómsveitarstjórar, ó þetta vor
með niði hafs og öldu
og fugladriti á nýmáluðum húsum
eins og ljót orð á lífi þeirra.
Eða:
Stríð
Himininn glennti upp auga í austri.
Nýr dagur vaknaði af værum svefni.
Vatnið lá í þröngri kvos milli fjalla,
svart af skuggum og logni langrar nætur.
Við leituðum spöldrjúga hryggi næstu sveita
í hvítu föli, héldum þétt um vopnin
hlustuðum eftir þagnardjúpu korri
karra og rjúpu með himinhvítar bringur.
Í fylgd með okkur sólir svalra mjalla,
seiður fjalls – við heyrðum niðinn þar
sem einveran í fjallalækjum lifir
og gráðug tófan eigrar eftir fugli,
spor hennar í snjónum sáum líkt og
snjómannsspor í jökli Himalaya,
en rjúpnatraðk við lyng sem löngum var
litríkt af sól, nú dökkt og snautt af ilmi.
Er drep í holdi heiðar? spurðum við
og svarið kom frá kyrrð sem lagðist yfir
kalin fjöll og vatn – og landið var
öræfahvítt af austanstæðum blæ,
sól með langar móskuhlýjar hendur
heitur logi í augum, við sisuðumst áfram
um fjallaskörðin, skimuðum og störðum
í hvítar fannir: fugl – og spenntum gikki,
svo lá hún þar við lyngið blóðugt hræ
á köldum beði ein og yfirgefin
og dauðinn fraus í hennar heitu augum –
nú horfðu þau í tóm sem áður var
lyng og kliður lóu á þessum slóðum,
en aðrar rjúpur flugu upp með flögri
forðuðu sér með slítingi og hurfu
í hvíta auðn, hún opnaðist sem faðmur,
öruggt skjól við landsins stóra hjarta
en neðan undir heiðarvatn, það horfði
harmþrungnum augum þangað sem við stóðum
í hvítri fönn með frost í rauðum makka.
Í hvítri fönn er banablóðið rauðast,
svo bregður degi, nóttin leggur svarta
hönd á mela, hjarn og efstu slakka.
Þetta kvæði minnir dálítið á ljóð sem ég orti löngu síðar í Tveggja bakka veður, um Tolstoj og Sonju konu hans. Ef ég man rétt er þetta ljóð ort eftir eina rjúpnaskytteríið sem ég hef tekið þátt í, þ.e. þegar ég fór með Sverri Hermannssyni á Búrfell á sínum tíma en auðvitað skaut ég enga rjúpu því mig skortir slíka veiðináttúru en hann skaut bæði rjúpur og einhverja spörfugla handa Náttúrugripasafninu.
Eftir þetta blóðbað hef ég aldrei aftur farið á skytterí.
En það var ógleymanlegt að vera þarna á ferð og horfa yfir landið, fylgjast með eldrauðri sólinni sigla eftir sunnanverðu Þingvallavatni vestur í myrkrið; ég hef aldrei séð jafn stóra og rauða sól á ævi minni og hún varpaði fölum roða á blóðugt landið.
Svo lagði myrkrið sína mjúku hönd yfir haustkalda jörð og engu líkara en dauðinn sjálfur væri kominn í heimsókn og hefði sezt að eins og gestur sem hefði ekki í hyggju að yfirgefa þetta land; og þetta líf.
En kannski get ég einhvern tíma lagað þessi kvæði eða yddað eins og Tómas skrifar við annað kvæði sem einnig var sleppt:
Ydda niðurlagið(!)
Og kannski væri einnig ástæða til að reyna við tvö kvæði önnur, sem ég hef sleppt úr Friðsamlegri sambúð, en þau fjalla augsýnilega um skipstrand sem ég upplifði þegar ég skrifaði fyrir Morgunblaðið um björgun sjómanna úr pólskum togara sem strandaði við suðurströndina. Einn þeirra fórst, ungur sjómaður; Bernard að nafni. Lík hans var flutt í fjárhús á næsta bæ en ég fékk mynd af honum hjá sýslumanni og gat birt hana í Morgunblaðinu. Þá var sagt að ég hefði stolið myndinni af líkinu en var auðvitað ósatt með öllu enda hef ég ekki lagt fyrir mig líkrán þótt ég hafi stundum þótt aðgangsharður blaðamaður fyrr á tíð!
En kvæðin sem ég hef sleppt úr Friðsamlegri sambúð eru svohljóðandi:
Í fjörunni sjúkt skip
eins og vængbrotinn fugl,
barði stálvængjum kinnungs
í hvítfreyðandi brimlöður,
línutunna,
björgunarbátur og annað lauslegt
barst með ólgandi vesturfalli
uppá svartan sand,
þið í höm
á hvalbak ásamt niðurlútum skipstjóra
níu skipreika menn, hinir komnir á land
um dimmumót eða skömmu áður en sól strauk
myrkur af jörð, hafi: einnig fjárhúsi
á næsta bæ, andlit hans kalt og stirðnað
eins og hvítur vangi jökuls,
augun lokuð með gegnsæjum hlerum dauðans,
Bernard, ungur maður.
Þeir sögðu hann hefði háttað í björtu
og borizt upp á kvikukalda ströndina,
áður en dagur kveikti sól á fjöllum
og gráðið leitaði að nýjum farvegi
þegar ís fæddi nýtt vor í hlíðum,
en þið: brimúfnir,
brjóst ykkar lamað af myrkri, ótta –
vænglausir fuglar í olíubrák.
Seltubitur var nótt langra hnífa, hvassbrýndar
teygðu öldurnar sig inní brjóst ykkar
og brostin augu bólgin af að skima
rýna inní myrkurdjúpa eilífð
biðu ljóss á bæjum eða himni.
Í annarri línu hef ég strikað út eins og en Tómas hefur breytt kinnungs í kinnunga, og fært: ásamt niðurlútum skipstjóra í næstu línu, á eftir níu skipreika menn og einnig sett spurningamerki við orðið dimmumót; þá hefur hann breytt línunni: augun lokuð með gagnsæjum hlerum dauðans í: augnalokin gagnsæir hlerar dauðans og loks hefur hann skrifað svohljóðandi athugasemd við orðið seltubitur sem ég hef notað í frumdrögunum: slæmt orð, sem kemur víðar fyrir(?) og breytir því í saltbitur. Þrátt fyrir þessar breytingar gerir hann tillögu um að ljóðinu sé sleppt og það hef ég gert.
Næsta kvæði sem einnig er um sama atburð er svohljóðandi:
Ætlar karlinn ekki að koma?
spurðum við hver annan, tókum þéttfast
í reipið, milli hans og okkar
ókunn lönd og ólgugrænir boðar
þangnótt undir baujunni –
þá stóð hann aftur í stafni, kvaddi skipið
sem beið sinnar grafar, sjávar eða sands,
settist í björgunarstólinn – togið
var kallað.
Við sáum hann hverfa
í hvít föll, koma upp aftur –
og landið beið hans, ljós á hverjum bæ.
Skipið eitt og yfirgefið í fjörunni
eins og sakborningur fyrir rétti
og beið þess að kviðdómur segði
síðasta orðið – að haf og háar öldur kvæðu upp dóm,
en skipstjóri á þurru eftir volkið, þreyttur maður,
hristi af sér sjó og salta gusu,
þið genguð til hans, sögðuð römmum rómi:
Bernard.
Hann svaraði engu, bar aðeins hönd að kinn
eins og barn.
Athugasemdir Tómasar eru þessar: Sleppa orðunum sjávar eða sands og: beið þess að kviðdómur segði/síðasta orðið – að haf og háar öldur kvæðu upp dóm; ennfremur: og salta gusu.
En ég sem sagt, sleppti þessum kvæðum báðum og sé ekki eftir því enda eru þau of nálægt prósa og ekki alveg í takt við ljóðaflokkinn að öðru leyti. Sem sagt enn má glíma við þessar minningar – og hver veit?
Svo er hér að lokum eitt kvæði enn sem ég hef sleppt úr Friðsamlegri sambúð en minnir á ýmislegt annað sem ég hef ort, það er svona:
Vituð þér enn að vetrarnóttin
veiðir sól, kom ný af heiðum
blikköld sól af svölum unnum,
svaf hún undir trafi jarðar,
kom með fjöll í fangi blíðu,
fletti bláma í engi og kletta.
Borgin út við eirgul sundin
eins og blóm á júnídegi –
ýfist nótt og netið fyllist
niðamyrkri vopnaðs friðar.
Vituð þér að svarrar særinn,
sýður brim í dimmum hríðum,
lokast augu ljóss og sólar,
læðist roðamyrkur, blæðir
nótt og kemur nið af dauða.
Netið fyllist myrkri vetrar ...
Eins og ljós á vetri væri
veitt í net með rauðum möskvum,
þannig komið þið af hafi,
þreytubarðir, sólar leitið
þeirrar sem í sæinn sígur,
sökkvist eins og dagur rökkvi.
Ég hef svo reynt að bjarga þessu áður en ég sleppti því með öllu:
Vituð ér að vetrarmyrkur
veiðir sól, kom ný af heiðum
blikköld nótt úr svölum sænum
sólin leggst að mararstóli,
kom með fjöll í fangi blíðu
fletti bláma í engi og kletta –
ýfðist nótt og netið fylltist
niðamyrkri vopnaðs friðar.
Vituð ér að sortnar særinn,
sýður brim í dimmum hríðum,
lokast augu ljóss og himins,
læðist gríma, degi blæðir –
Og þar með hef ég gefist upp!!! Og ekki hef ég áhuga á að reyna við þetta kvæði frekar.
Ekki held ég!
Að kvöldi.
Ég hef sem sagt farið tvær ferðir í dag; einskonar könnunarferðir. Fyrst um gömul ljóð mín en síðan vestur á Snæfellsnes, um Breiðafjörð, Hrútafjörð og fyrir Hvalfjörð.
Á leiðinni uppá Akranes skrifaði ég að gamni mínu svofelldar athugasemdir um frelsið:
Sumir prédika frelsi en eru hræddir við það þegar það snýr að þeim sjálfum; ég minnist bréfsins góða frá Magnúsi Erlendssyni sem ég hef víst minnzt á áður í dagbókum mínum.
Sumir nota frelsið einungis til að skara eld að sinni köku; gína yfir öllu. Ætli sé svo ýkja mikill munur á Sambandinu gamla og þeim einkafyrirtækjum sem nú eru allsráðandi á markaðnum.
Þegar frelsið er annars vegar eiga menn að kunna sér hóf. Það er því einungis dýrmætt að það sé notað í öðrum tilgangi en alræðisseggir nota ófrelsið.
Öfgar leiða ávallt til misnotkunar og þá ekkert síður öfgafull sjálfshyggja í skjóli frelsisins en ofbeldi í skjóli einræðis. Á því er að vísu blæbrigðamunur; einhvers konar stigsmunur en varla eðlismunur þegar miðað er við samfélagshugsjón lýðræðisins.
Það er hægt að misbjóða því á svo margan hátt.
Og þegar við komum heim sá ég úrklippu úr Morgunblaðinu sem ég hafði tekið frá, grein eftir Svanfríði Jónatansdóttur, þingmann Þjóðvaka, en hún er augsýnilega af sjómannaættum fyrir norðan og öguð í andrúmi seltu og sjávar.
Á sama tíma og þessi þingkona vinstri flokks spyr hvenær forysta útgerðarmanna muni leggja eyrun við þeim röddum “sem vilja frelsi í viðskiptum í sjávarútvegi í stað ríkisforsjár og einokunar” og gagnrýnir útgerðarmenn fyrir að þora ekki að verða við kröfum sjómanna um að fiskur “fari um markað og hitt hversu fúsir þeir eru að fara undir frekari ríkisforsjá með sín mál”, þá er ekki að undra þótt maður lendi í pólitískri villu og spyrji sjálfan sig í hvaða flokki maður eiginlega er!
Ég hafði aldrei áhyggjur af því fyrr á tíð að ég væri ekki í réttum flokki, en nú spyr ég sjálfan mig. Auk þess talar þessi Salka Valka úr norðlenzku seltunni um það að “sú réttlætiskrafa fólksins í landinu (verði) sífellt háværari að útgerðin greiði fyrir aðgang að auðlindinni” og það skilji “nú þegar ýmsir þeir útgerðaraðilar sem gera sér ljóst að ná þarf sátt við þjóðina um kerfið”.
Er von þótt maður sé farinn að finna fyrir pólitískum hlaupasting þegar vinstra fólk boðar réttlæti og það sem maður telur sjálfstæðisstefnuna, en forystumenn Sjálfstæðisflokksins hlaupa sífelldlega í skjól af ríkisvaldinu og verja kerfið undir drep í slíku grundvallaratriði?
Á leiðinni um Kerlingarskarð hlustuðum við Hanna á fyrirlestur Jónasar Kristjánssonar um fornsögur og þar minntist hann meðal annars á frelsið; vitnaði í Vatnsdælu þar sem m.a. er talað um frelsi fyrir ágangi konunga og illræðismanna.
Ég held við mættum huga betur að þessum orðum.
Annars eru fyrirlestrar dr. Jónasar í senn skemmtilegir og fróðlegir og mér þótti ekki sízt athyglisvert það sem hann sagði um forlög, örlög eða sköp en þau eru heiðin hugtök sem ásatrúarmenn trúðu á en rithöfundar Sturlungaaldar, svo rammkaþólskir sem þeir voru, notuðu í sögum sínum sem listræn brögð til að auka spennu og áhrifamátt sagnanna.
Sjálfir hafi þeir að sögn dr. Jónasar ekki trúað á þessi örlög enda voru þau í andstöðu við kristna trú sem boðaði frjálsan vilja mannsins og tækifæri hans til að hafa áhrif á líf sitt, en enga örlagatrú úr heiðindómi.
En þessir kristnu listamenn sýndu viðhorfum víkinga fyllstu virðingu og notuðu trú þeirra til listrænnar sköpunar. Allt þótti mér þetta athyglisvert hjá dr. Jónasi og gæti trúað því að það ætti við einhver rök að styðjast.
Björn M. Ólsen hefur verið þessarar sömu skoðunar eins og dr. Jónas drap á en hann var að öllum líkindum frumlegastur norrænufræðinga um sína daga.
Það var hvasst og rigning um skeið en svo lagaðist veðrið og birti til.
Við sáum tvo geithafra við veginn, ekki langt frá Hítará, það hef ég aldrei séð fyrr á Íslandi.
Þeir voru með stór og mikil horn.
Ég stöðvaði bílinn og yrti nokkrum orðum á þá en þeir létu sér fátt um finnast, stóðu upp og færðu sig fjær veginum.
Hanna hefur mikið dálæti á geitum því faðir hennar átti margar geitur og börnin léku sér við kiðlingana á Víðirhóli.
Kjötið af kiðlingunum þótti lostæti en börnin vildu ekki fyrir neinn mun láta drepa þá og við það sat.
Ég talaði einnig við tjald sem stóð á vegarkantinum án þess hreyfa sig og lét sér fátt um finnast þótt ég stöðvaði bílinn; það hef ég aldrei séð áður.
En þetta var heldur snubbótt samtal svo ég hélt áfram inní grasloðna hugmynd um þetta stórbrotna umhverfi sem á sér engan líka.
Bæirnir á norðanverðu Snæfellsnesi eins og perlur á festi, hver öðrum fallegri. Það er ánægjulegt að sjá hvað íslenzkir bæir eru orðnir snyrtilegir. En það var öðru nær þegar ég var ungur og kom t.a.m. í fyrsta skipti til Blönduóss eða Sauðárkróks.
Mér fannst þar allt í niðurníðslu vegna fátæktar.
Þetta voru hrörlegir bæir og ekki eftirminnilegir. Ég var feginn að koma upp á Vatnsskarð aftur þegar við vorum þar í vegavinnu, einkum þótti mér Sauðárkrókur með óyndislegri bæjum sem ég hafði komið til. Nú er bæði hann og Blönduós og aðrir íslenzkir bæir snyrtilegir og aðlaðandi; einskonar minnisvarðar um velmegun og framfarir en báru áður fyrr fátæktinni einna helzt vitni.
Það var norðanbál í Stykkishólmi þegar við komum þangað og fáir úti við. Íslenzki fáninn blakti hvarvetna við hún, ekki síður en í Búðardal og við ýmsa sveitabæi – og þó helzt í Borgarnesi þar sem fólk var á stjái.
En við sáum engan mann í Búðardal.
Þetta minnti mig á þau orð rússneska skáldsins ,Brodskys, á sínum tíma að Ísland væri svo einmanalegt að hér virtust helzt hafa orðið eftir nokkrir draugar úr fortíðinni. Brodsky hafði skoðanir á öllu og var heldur kaldhæðinn á köflum, minnti dálítið á Stein Steinar.
Í Hólminum sáum við nýtt minnismerki niður við höfnina, ég man að minnsta kosti ekki eftir því að við sæjum það þegar við fórum ferðina góðu með Eyjaferðum en uppúr henni orti ég Breiðafjarðarkvæðið í síðustu ljóðabók minni, Land mitt og jörð.
Þetta nýja minnismerki er fremur álitlegt, það er eftir Grím Marinó Steindórsson að ég held en ég þekki hann ekki, né list hans. Mér sýnist minnismerkið vera úr áli og líklega er það til heiðurs sjómönnum. Við það var kranz, líklega frá sjómannadeginum á sunnudaginn var. Skammt frá minnismerkinu, eða skútunni, er stöpull með ljóðabroti eftir Jón úr Vör, það þótti mér við hæfi:
Kirkja er okkur ströndin
og hafið og fjallið,
guðspjall dagsins
vanmáttur mannsins
í lífi og dauða.
Allt var þetta í stíl við úfinn sjó og norðanbálið sem bældi fuglana í fjörunni.
Á leiðinni frá Stykkishólmi í Búðardal var ég að hugsa um þegar ég gekk á Helgafell í fyrra eða hitteðfyrra, ég man það ekki, en þá þótti mér mikið til um þetta sögufræga fell; nú sá ég að þetta er hálfgerð hundaþúfa eins og sú sem blasti við úr stofuglugganum í Ísólfsskála þegar við Páll vorum að spjalla þar saman og ég að heyja mér efni í samtalsbækur okkar.
Þá hneyksluðust margir á heiti fyrra bindisins, Hundaþúfan og hafið.
En hundaþúfan var merkilegt fyrirbrigði því hún var hæsti punkturinn úr stofuglugga Páls og Sigrúnar suður til heimsskautalandsins!
Og þegar við sáum Helgafell úr vestri hafði það breytzt í talsvert fell sem var að minnsta kosti álitlegra en Himmelbjerget þegar við vorum að leita að því á sínum tíma en þá lagði ég bílnum á bílstæði á hæð nokkurri skammt frá Silkeborg, gekk út og spurði vörðinn hvar Himmelbjerget væri?
Þú stendur á því, sagði vörðurinn.
Í samanburði við hið danska himnafjall er Helgafell af guðlegum toga.
Á leiðinni frá Stykkishólmi í Búðardal sáum við húfótt lamb og benti Hanna mér á það enda þekkir hún kindurnar eins og fingurna á sér.
Það hrökk frá veginum og hljóp í burtu með móður sinni svo við gátum ekki spjallað neitt við það. En kannski leiðir okkar eigi eftir að liggja saman síðar – og þá í gegnum Sláturfélag Suðurlands, hver veit?
Í Búðardal var betra veður en í Hólminum og ég minntist þess þegar ég flutti þar erindið um Stulu Þórðarson í tilefni af því að minnismerkið um hann eftir Hallstein Sigurðsson var vígt. En þeir vildu auðvitað fá mig til að ágæta Sturlu því að enginn er víst jafn handviss um það og ég að hann sé höfundur Njálu. En hvað sem því líður þá er Breiðafjörðurinn vagga íslenzkrar menningar og arfleifðin er ekki sízt komin úr Dölum vestur. Það er ekki sízt af ættarrótum Snorrunga og Sturlunga sem íslenzk arfleifð hefur sprottið og þar eiga mestan hlut Snorri og Sturla frændi hans Þórðarson, höfuðljóðskáld 13. aldar og líklegasti höfundur Njálsögu. Jónas Kristjánsson sagði að orðin forlög, örlög eða sköp kæmu varla fyrir í samtímasögum sturlungaaldar og það m.a. sýndi að forlagatrúin var ekki inngróin afstaða hinna kaþólsku sagnaritara sem færðu sér einungis í nyt þessa dramatísku arfleifð úr heiðni. En Sturla Þórðarson leggur samt mikið uppúr draumum og telur þá forboða; mér er nær að halda hann að minnsta kosti hafi lagt meira uppúr örlögunum en dr. Jónas vill vera að láta þótt hann sé sannkaþólskur og tali af sársauka um það hvernig samtímamenn hans hafa leikið móðurina sjálfa, kristna kirkju.
Það er komið fram yfir miðnætti.
Það er bjart úti.
Hún er yndisleg þessi íslenzka sumarbirta.
Því miður fær hún sjaldnast að njóta sín fyrir lægðum sem sækja að landinu eins og óvígur her.
Barómetrið er fallið; útsynningur á næstu grösum eða suðaustan strekkingur og rigning en birtan vegur uppá móti þessari aðsókn.
Hún er uppörvandi, hún dregur mann að landinu og fuglarnir sækja í hana úr öllum áttum.
Hið sólbjarta Ísland er þeim eins og hunangið flugunum.
Ég finn oft þessa þrá fuglsins í brjósti mínu og dregst að landinu.
Við sáum engan hóp af álftum í dag samt sáum við margar álftir en þær voru tvær og tvær saman.
Landið titrar af tilhugalífi.
Þannig hefur höfundur sköpunarinnar hagað því og það sem náttúran sameinar fær enginn sundrað.
Það væri betur að kirkjan hefði sömu áhrif en hún ræður ekki við náttúruna, því miður.
Hvort ég trúi á örlög, ég veit það ekki, en forlögin eru mér hugstætt umhugsunarefni og líklega trúi ég á þau í aðra röndina; að þau séu ramminn utanum líf okkar og tilveru og marki okkur bás en ákvörðun okkar sjálfra tilviljanir allskonar og frjáls vilji mannsins séu málverkið sjálft; teikningin og litirnir.
Sturla Þórðarson trúði því að draumar væru fyrirboði mikilla tíðinda.
Þannig dreymdi Hönnu einnig fyrstu árin eftir að við kynntumst en úr því hefur dregið. Það var engu líkara en hún vissi bókstaflega allt sem við áttum eftir að upplifa. Stundum fannst mér það óþægilegt en þessi reynsla hefur verið mér áleitið umhugsunarefni.
Margt er svo ótrúlegt í lífinu að það getur bókstaflega ekki verið tilviljun. Það var ekki beinlínis á dagskránni að verða ástfanginn þegar ég kynntist Hönnu en undan því varð ekki vikizt, að ég held, að leiðir okkar lægju saman.
Þannig er ástin.
Við ráðum engu um hana.
Hún er örlög sem við getum ekki komizt hjá.
Það er einnig reynsla svananna:
Svani bárur bera
bára ef værir þú
á blárri báru nú
svanur vild’eg vera,
yrkir Páll Ólafsson til elskunnar sinnar.
En myndin er að sjálfsögðu engin tilviljun.
Hún fjallar um náttúruna og fuglinn sem elskar eins og við.
Nei, hann elskar eftir fyrirmælum kirkjunnar, þessi kirkjulausi fugl sem er kristnari en nokkur manneskja sem hefur lifað á jörðinni og hlítir fyrirmælum sem hann þekkir ekki. Hann fer einfaldlega eftir eðli sínu, það gerum við einnig en ég sé ekki betur en ástríður mannsins séu aðrar en eðli ástarinnar.
Hann lætur freistast,það gerir álftin ekki.
Hún elskar að eilífu.
Og þó veit ég að það er til fólk sem er meira í ætt við álftina en manninn, þegar ástin er annars vegar.
Þetta leiðir hugann að konunum tveimur sem voru nágrannar Dungals og hann sagði mér frá þegar ég skrifaði samtalið við hann sællar minningar.
Önnur var siðprýðin uppmáluð, hin var fjöllynd og kunni sér ekki hóf í ástamálum.
Dungal krufði báðar þessar konur.
Eðli þeirra og afstaða var í samræmi við líffræðina.
Sú skírlífa var með eggjastokka sem voru eins og rúsínur, sagði Dungal, en hin hafði eggjastokka sem voru eins og plómur.
Þetta er góð dæmisaga um það, hefur mér alltaf fundizt, að við eigum ekki að dæma annað fólk því við þekkjum ekki til þess í raun og veru.
Það eru margvíslegar ástæður fyrir hegðun fólks og breytni sem við þekkjum ekki.
Við eigum að láta annað fólk í friði því að við höfum nóg með sjálf okkur og samkvæmt afstæðiskenningunni erum við, hvert og eitt, meira en lítið skrítin í augum annarra.
En við vitum það ekki og þess vegna þurfum við ekki að hugsa um það, sem betur fer.
Áður en ég sofna inní þessa yndislegu íslenzku þjóðhátíðarbirtu ætla ég að hlusta á spólu með dagbókarhugleiðingum Walt Whitmans.
Þær eru auðvitað einskonar ljóð í óbundnu máli; ekki endilega prósaljóð heldur hugleiðingar í ljóðrænum búningi; fjalla um allt og ekkert eins og slíkar hugleiðingar eiga að gera; umhverfi hans, trén, fuglana og hvernig náttúran streymir í gegnum hann; og hvernig hann er sjálfur miðþyngdarstaður alls lífs á jörðinni; allrar sköpunar.
Í honum safnast saman allir menn, allt líf.
Ég þekki ekkert skáld sem er eins sjálfhverft og Whitman; nema þá Dylan Thomas, ég veit það ekki. Það er kannski ástæðan til þess hvað ég hef dregizt að þessum skáldum!
Walt Whitman vill sjálfur vera allir menn, öll sköpun, samt er hann persónugerður vitnisburður kristninnar um mikilvægi hvers og eins og þannig syngur hann um sjálfan sig og þannig skrifar hann Specimen Days Journal sem ég er að hlusta á þessa stundina.
Þetta er einskonar ævisaga Whitmans í dagbókarformi en hann lifði frá 1819 til 1892; frásögn af lífi hans sem skálds, hjúkrunarmanns í stríði og vitrings.
Hugleiðingar hans ná yfir tuttugu ár og voru gefnar út 1882 og náðu þegar miklum vinsældum. Ljóð hans áttu erfitt uppdráttar en nú eru þau talin upphaf nýaldar í ljóðlist.
Whitman sagði um hugleiðingar sínar, Hugsanir mínar flutu á miklum og dularfullum straumi.
Ungur varð ég fyrir meðvituðum áhrifum frá Whitman. Hafði löngun til að taka hann mér til fyrirmyndar.
Það sést á Borgin hló.
Steinn valdi Hörpuslátt fyrsta kvæði bókarinnar. Það fjallar um Reykjavík og andinn í kvæðinu er frá Whitman.
Steinn skrifaði Ágætt fyrir ofan kvæðið.
Það á að vera fremst, sagði hann.