1996 (fyrsti hluti)
4. janúar – fimmtudagur
Orðinn 66 ára. Strákarnir á Morgunblaðinu segja að þar með sé ár sexins hafið. Hvaða ár skyldu þeir hafa í Kína? Kannski ár hanans?
Sjónvarpsskaupið var betra en við eigum að venjast. Það var á góðu plani og týpurnar vel leiknar. Ánægjuleg framför.
Nú er deilt um keisarans skegg í Langholtssókn. Þetta er heldur ómerkileg deila; hún fjallar hvorki um Krist né boðskap hans; ekki heldur um guð.
Þetta er einungis íslenskt skammdegisrifrildi.
Það hófst með því að tveimur títuprjónum laust saman. Svo bættust fleiri við úr nálapúðanum.
Svo mun þessi deila renna út í sandinn eins og venjulega og þá tekur enginn eftir því að allir títuprjónarnir eru á sínum stað í nálapúðanum.
Íslenzkt þjóðfélag er merkilegt fyrirbrigði en ég hef í aðra röndina ofnæmi fyrir skammdegisþjóðfélaginu.
Það býr til fíla úr rykmýi.
Menn hljóta að geta talað saman um jafneinfalt efni og það hvort nefna megi söngvara í fréttatilkynningu frá kirkju; eða hvort allir eiga að súpa af sömu skálinni við altarissakramentið.
Mér líkar vel að hver maður hefur sinn bikar í Nessókn. Ég er einn þeirra sem heimta minn begar á hverju sem veltur!
Sr. Geir Waage, formaður Prestafélagsins, hefur einnig verið að abbast eitthvað upp á byskupinn. Móður minni líkaði vel við Geir á sínum tíma þegar hann leigði í kjallaranum í Garðastræti 43. Hann er sérfræðingur í hátíðlegum stellingum. Mér finnst þessar stellingar sérstakur húmor, annars væru þær óþolandi.
En ég er ekki viss um að sr. Geir hafi húmor fyrir þessari fyndni. Byskupinn hefur engan húmor fyrir henni.
Hann segir, Ég er orðinn þreyttur á formanni Prestafélagsins!
Þótti engum mikið!
Gamli byskupinn, sr. Sigurbjörn Einarsson ,sendi Agnesi Bragadóttur bókina Ljóð dagsins sem hann tók saman. Hún hringdi í hann og þakkaði honum. Hún gaukaði að mér minnisblaði um samtal þeirra. Þar er komið inn á þessa deilu hinnar andlegu stéttar.
Þar segir svo:
AB: Þakka þér fyrir bókina og þessa fallegu kveðju.
SE: Já, það var nú lítið. Ég var bara að kvitta fyrir fallegt viðmót og einstaklega elskulega kveðju þína til okkar hjóna á liðnu sumri. Ég notaði bara tilefnið, af því að eitthvað hefur verið sótt að þér. Ekki það að ég óttist um þig í þeim átökum, jafn sterk og þú ert og hjá jafngóðum húsbændum og þú starfar. Mig langaði bara til þess að votta þér vinsemd í þakklætisskyni fyrir vinsamlegt viðmót og ávarp við mig.
AB: Mér þótti mjög vænt um þessa kveðju þína og hún gladdi mig mikið.
SE: Þakka þér fyrir og þakka þér fyrir að láta mig vita.
AB: Ekki er ég síður ánægð með val þitt á ljóðunum.
SE: Ertu ánægð með það! Þú ert nú gagnrýnin og hefur vit á hlutunum. Það er gamall maður sem velur og því gleður það mig ekki síst að ung kona eins og þú sért ánægð með valið. Gamall maður er ekki endilega í takt við nútímann í vali sínu á ljóðum.
AB: Ég segi nú á margan hátt, sem betur fer.
SE: Ha! Ha! Já, það getur vel verið að einhverjir kunni svo að segja.
AB: Ég sat með bók þína í gærkveldi og gluggaði í hana, en ég á eftir að lesa hana vel frá síðu til síðu. Ég notfærði mér þetta ágæta index aftast í bókinni og fletti upp vali þínu á ljóðum Matthíasar Johannessens. Ég má til með að segja þér, hvað val þitt á ljóðum hans var mér að skapi.
SE: Það þykir mér vænt um að heyra. Það var mér ekki léttasta valið, það get ég sagt þér. Matthías hefur náttúrulega látið mikið eftir sig og mér var það ekki vandalaust að velja. Það gleddi mig ef þú segðir Matthíasi frá því að þú hafi verið sátt við val mitt á ljóðum hans.
AB: Það hef ég þegar gert.
SE: Þú mátt gjarnan einnig segja honum að það sem ég hafi að leiðarljósi við ljóðaval mitt, sé ákveðinn tónn hjá öllum skáldum sem ég leita eftir, eins og þú skilur. Ég leita eftir því jákvæða í lífinu, ákveðnu lífsviðhorfi, sem er mitt viðmið. Andríki og því sem lyft getur andanum. Við það hlýt ég ávallt að miða.
AB: Þeir deiluaðilar í Langholtssókn og biskup sjálfur þyrftu eiginlega að lesa ljóðaval þitt, til þess að komast í rétt hugarástand, áður en þeir setjast niður og reyna að lesa þessa fáránlegu og yfirborðskenndu deilu sína.
SE: Þeir hafa nógar bækur. Það er eitthvað annað sem vantar þar!
AB: Mig langaði bara að hringja í þig og þakka þér fyrir þessa vinsamlegu kveðju þína.
SE: Já, þakka þér fyrir það og farnist þér vel í öllu og Guð veri ávallt með þér.”
Ásgeir Jakobsson og Pétur Sigurðsson hafa báðir sent mér bók sína, Pétur sjómaður; viðfelldin bók og vel skrifuð. Afstaða Péturs er manneskjuleg eins og maður hefði getað átt von á, hann segir frá af sanngirni, en festu. Mér þykir vænt um að hann skyldi hafa munað eftir Solzhenitsyn-málinu.
Hann segir: „Í marz 1974, flutti Pétur, ásamt vini sínum, Sverri Hermannssyni, tillögu til þingsályktunar um að rússneska rithöfundinum og andófsmanninum, Alexander Solzhenitsyn, yrði boðin búseta á Íslandi í kjölfar þess að hann var útlægur ger frá móðurjörð sinni.
Þetta gerðu þeir félagar að frumkvæði Matthíasar Johannessens, skálds og ritstjóra Morgunblaðsins, sem um langt árabil var einarður málsvari rússneskra andófsmanna. Naut Matthías mikillar virðingar í röðum andófsmann og kynntist þeim mörgum, þegar þeir komu hingað til lands, m.a. fyrir tilstilli Ashkenazys. Solzhenitsyn var með fordæmi sínu tákn andófsins gegn sovét-kommúnismanum á sínum tíma þegar orrahríðin var sem mest. Um hann komst Matthías m.a. að orði í leiðara Morgunblaðsins, að ef hann settist að á Íslandi yrði bandaríski herinn á Miðnesheiði óþarfur, því Rússar myndu aldrei hernema Ísland, ef Alexander Solzhenitsyn fylgdi með í kaupunum!”
Þetta er rétt munað. En ég tók sterkar til orða. Ég sagði að Rússar myndu aldrei hernema land þar sem Solzhenitsyn byggi.
Það væri eins og að gleypa broddgölt!
5. janúar – föstudagur
Hef enn verið að skoða úrval sr. Sigurbjörns. Sé að hann hefur ekkert ljóð valið eftir vin sinn Sigurð A. Magnússon. Það er harla athyglisvert, finnst mér. Hann fer sem sagt ekki eftir kunningsskap í vali sínu eins og margir hefðu gert, heldur eigin smekk, þ.e. efni og ástæðum.
Það vantar mörg nútímaskáld í þessa bók og þar eru líka aðrir sem vart hafa verið taldir til skálda. Þarna er ekkert kvæði eftir Hannes Sigfússon, né Sigfús Daðason, né Steinunni Sigurðardóttur, né Sigurð Pálsson svo að nokkur skáld séu nefnd sem nú fer allmikið fyrir. Og ekkert heldur eftir Thor vin minn. Ég hélt hann ætti nóg af „andríki og því sem lyft getur andanum” en sr. Sigurbjörn er víst ekki á sama máli.
En val hans er merkilegt og öll afstaða hans. Hann fer eftir sínu menntaða hjarta, það er allt og sumt. Í raun og veru segir afstaða hans meira um hann sjálfan en skáldin. Og ég virði þessa afstöðu, hún er mjög íslenzk og á rætur í þúsund ára arfleifð okkar.
Og svo vantar þarna einnig Kristján vin minn Karlsson, hann hefur það sjálfur stundum í flimtingum að hann sé þekktur fyrir það að yrkja óskiljanleg ljóð.
Ljóð eftir hann hefðu verið góð viðbót við þær fyrningar sem. sr. Sigurbjörn hefur sankað að sér..
Annars er mat á ljóðskáldum misjafnt.
Robert Graves hafði samkvæmt ævisögu hans eftir Miröndu Seymour hina mestu fyrirlitningu á ljóðum Yeats – og kannski einna helzt vegna þess að faðir hans dáði þetta mikla írska ljóðskáld.
Yeats sagði ljóðlist er „rifrildi við okkur sjálf”.
Það er harla athyglisverð ábending.
Hef verið að hlusta á upplestur á ljóðum Yeats og lesa þau, sé að hann er miklu aðgengilegri en mig minnti. Mörg ljóðanna einföld og auðskilin.
Og flott
Fékk þetta kvæði um daginn frá Kristjáni Karlssyni.
Jólakvæði
Látum oss vera venjur, þá
og vita ekki annað en það sem má
og hins vegar ekki
en hvernig fer
ef himnarnir lokast fyrir mér
á forsendu þess að enginn á
innangengt þar nema dóni sá
sem gerði fáum gott
- né illt
ef hann gat sig með nokkru móti stillt
sem þekkti ekki siði né þekkti mann
sem þekkti annan
og hvergi fann
muninn á réttu og röngu fyrr
en rétt sem snöggvast við Guðs síns dyr?
24. des. '95
Þetta finnst mér skemmtilegt kvæði og lýsir alkunnum hugmyndum, að minnsta kosti hef ég einatt velt fyrir mér því sama sem kvæðið fjallar um; hvernig alls kyns dónar og skítapakk kemst áfram í lífinu, stundum fyrirhafnarlaust, en aðrir, sem eru miklu merkilegri, eru troðnir undir og ljúka ævi sinni eins og sóleyjar við skriðdrekabelti.
Ófyrirleitni, tillitsleysi og einkahagsmunir ráða ferðinni.
Engar hugsjónir, heldur olnbogun.
Og örlagalaus yfirgangur.
Var að lesa ritdóm í Literary Review um nýja ævisögu Rebeccu West, A Saga of the Sentury eftir Carl Rollyson. Þekki Rebeccu eiginlega einungis af afspurn en hún virðist hafa verið stórmerkilegur blaðamaður og rithöfundur.
Sá maður sem ég held einna mest upp á þeirra sem skrifa fasta dálka í heimspressuna, Bernard Levin, hinn eini sem sagði á prenti fyrir um fall Sovétríkjanna, hefur haldið því fram að Rebecca hafi verið einn mesti blaðamaður þessarar aldar, en hún skrifaði bækur og greinar af ýmsu tagi í meira en 70 ár. Skáldsaga hennar, The Return of the Soldier, var kvikmynduð fyrir sjónvarp 1980, en ég hef því miður ekki séð hana. Þar leika Glenda Jackson, Alan Bates og Julie Christie. Hún lifði sjálf þessi tímamót, eignaðist nýja lesendur og þá var farið að gefa hana út aftur.
Þannig gerast kaupin á Eyrinni, einnig í bókmenntum! Miskunnarlaus markaðurinn stjórnar ferðinni. Það er bæði gott – og illt; a.m.k. þegar listir eru annars vegar.
Hef lesið annan ritdóm í þessu sama blaði og nú um nýja ævisögu ritstjóra The Washington Post, Ben Bradlee. Höfundur ritdómsins er ekki ýkja hrifinn af The Washington Post. Telur að ritstjórinn hafi ekki skilað sér í blaðinu en það sé yfirgengilega leiðinlegt.
Ritstjórar skila sér ekki alltaf í dagblöðum enda er það mikilvægara að dagblaðið skili samtímanum svona nokkurn veginn óbrengluðum. Mér er nær að halda að The Washington Post hafi gert það og þannig gegnt þessari frumskyldu sinni.
Dagblöð eiga ekki að vera skemmtilegri en umhverfið og samtíminn, það er allt og sumt.
Þó að Bob Hope hefði verið ritstjóri The Washington Post, eða Laddi, þá hefði það að öllum líkindum ekki orðið skemmtilegra en raun ber vitni því að metnaður þess er mikill sem samtímaheimildar og þau mál eru yfirgnæfandi leiðinleg sem samtíminn veltir sér upp úr.
Watergate var svo sem ekkert skemmtiatriði! Langholtskirkjudeilan er að vísu farsi, en heldur óskemmtilegt grín.
Hef verið að hugsa um vináttu og hagsmunavinátt vegna fyrirlestra sem ég hef verið að hlusta á um mikil réttarhöld og merka lögfræðinga eftir bandaríska prófessorinn James J. Brosnahn sem segir að helzta einkenni einstaklingshyggju sé þetta: Þú ert það sem þú vilt vera; upplýsandi fyrirlestra.
Einn þeirra fjallar um Thomas Moore og Hinrik konung VIII en báðir voru fangar síns tíma og þurftu að glíma við örlög sín á forsendum sem við getum vart skilið.
Moore var ráðgjafi konungs og helzti áhrifamaður í Bretlandi um sína daga, eða þangað til hann féll í ónáð vegna þess að hann tók kaþólska trú sína fram yfir hollustu við konungdæmið.
Hann neitaði að segja skilið við páfadóm og kaþólska kirkju, missti embættið, var sendur í fangelsiskastalan Tower við Thames og tekinn af lífi.
Gömul vinátta þeirra konungs reyndist sem sagt hagsmunavinátta og hagsmunir konungs tóku ekkert tillit til hennar.
Minnir á vináttu Hinriks konungs og Becketts sem lauk með því að konungur lét drepa þennan æskuvin sinn og drykkjufélaga fyrir kór Kantaraborgarkirkju.
. Var þetta þá hagsmunavinátta eingöngu?
Það má velta því fyrir sér. En margs er að gæta. Þegar mönnum er trúað fyrir mikilli ábyrgð getur hún rekizt á gamalgróna vináttu með hörmulegum afleiðingum. Ég hef kynnzt þessu sjálfur. Ritstjórinn hefur stundum uppgötvað að vinátta sem hann taldi trausta og sanna var einungis hagsmunavinátta, þegar á reyndi.
Slík uppgötvun er mikil reynsla og sár.
En svona er lífið(!) Og því verður víst ekki breytt af þeirri einföldu ástæðu að manneðlinu verður ekki breytt. Það er líklega hægt að bæta það eitthvað, en því verður ekki breytt.
Manndýrið er samt við sig.
Olnboginn er að lagast. Nú er ég kominn í sjúkraþjálfun; góðar framfarir.
Orti þetta lítilræði á biðstofunni í Borgarspítalanum um daginn þegar ég var að bíða eftir Sigurði Kristinssyni lækni, sem kallaður er Siggi smuga.
Biðstofa
Hér sit ég einn
og ekkert nema þögn
og leita þess
sem liggur utan við
þetta ekkertog þessa þögn.
6. janúar – þrettándinn
Vorum í dag við brúðkaup Lilju Einarsdóttur og Þórðar Sveinssonar, sonar Sveins Björnssonar vinar okkar. Það fór fram í Háteigskirkju. Hún er eins og glansmynd. Altaristaflan er einhver skrýtinn, stór og litríkur hringur sem ég kann ekki að meta.
Séra Pálmi Matthíasson gaf brúðhjónin saman og Diddú söng einsöng, bæði á íslenzku og ensku, auk Ave Maria Bachs Gounod sem er eins konar hugleiðing þar sem undirleikurinn er fyrsta prelúdía Bachs úr Das wohltemperierte Klavier og verkið því eignað þeim báðum.
Þetta var mikil vígsla og allóvenjuleg; Sveinn, sonur brúðhjónanna, fimm eða sex ára sýndist mér, gekk að altarinu með hringana á einhvers konar púða, að ég held, og var sjálfur í kjólfötum og hinn virðulegasti!
Það vakti athygli mína að presturinn hafði ekkert fyrir ávarpsorðum sínum og kunni ritningagreinarnar utan bókar. Hann er líklega upplagður byskup, en ég er ekki eins viss um hann henti sem forseti. Hef þó kunnað ágætlega við hann þessi fáu skipti sem við höfum heilsazt.Og mér skilst hann sé í tízku.
Annars eru umræðurnar um forsetaembættið dæmigerður íslenzkur farsi. Hlustaði í leigubíl á þátt um forsetaframboð. Hélt fyrst þetta væri þjóðarsálin í allri sinni dýrð og hrökk við þegar einhver hringdi og var spurður hvort hann hygði á framboð og svaraði því játandi:
„Ég kemst líklega ekki hjá því, hún mamma er alltaf að tala um að ég eigi að bjóða mig fram...”
Hann vildi samt ekki segja til nafns síns.
Svo hringdi annar og sagðist vera í megrun og nú væri hann kominn niður í rétta vigt fyrir Bessastaði: ...! Sem sagt grínþáttur. Og ég skemmti mér konunglega, aldrei þessu vant. En ég sé ekki betur en grínið sé hin mesta alvara – og kosningarnar verði hin kvíðvænlegasta uppákoma. Fólk tilkynnir þátttöku sína í fjölmiðlunum eins og það sé að innrita sig á prjónanámskeið.
En Sveinn Einarsson hafnar þátttöku þrátt fyrir frumkvæði Helga Hálfdanarsonar skálds og sýnir með því dómgreindargott sjálfsmat.
Fór ekki í brúðkaupsveisluna vegna þess ég er með vinstri handlegginn í fatla og hef engan áhuga á að auglýsa það. Horfðum þess í stað á heimildaþátt um Hallbjörgu Bjarnardóttur, þegar heim kom. Hún sagði dálítið af ferli sínum og söng fyrir áheyrendur.
Það minnti á kvöldsól sem kastar skuggum sínum yfir lognkyrr austurfjöllin.
Hallbjörg sagðist hafa séð Jesúm Krist á himninum áður en hún fluttist til Íslands og mér skilst hún telji það hafi verið ábending um að flytjast heim.
Ég skrifaði á sínum tíma samtal við þau hjón. Mér líkaði vel við þau. Ég held það sé fjörlegt samtal, það lýsir Hallbjörgu að minnsta kosti eins og hún kom mér fyrir sjónir. Ég hef talað við hana síðan og líkar ágætlega við hana. Hún er sérstæð kona, frumleg og skemmtileg og hún er umfram allt hún sjálf. Ást þeirra hjóna virðist endast von úr viti og þau kysstust í heimildamyndinni á sama hátt og þegar Ólafur K. Magnússon var að taka mynd af þeim í samtalið mitt fyrir meira en þrjátíu árum.
Horfði svo einnig á tvær kvikmyndir eftir Derek Jarman, Wittgenstein og Caravaggio; eftirminnilegar og ólíkar öllu því sem ég hef áður séð; afar vel gerðar og ljóðrænar, þó einkum Caravaggio sem er eins konar ljóð í myndum. Ég þekkti lítið til Caravaggios áður en hef nú fengið þeim mun meiri áhuga á honum.
Í Íslenskri alfræðiorðabók segir m.a. að hann hafi verið uppi frá 1573 til 1610 „byltingarmaður í evr. myndlist og upphafsmaður dramatísks raunsæis á barokktímanum; þekktur fyrir næma túlkun stundaráhrifa, m.a. með markvissri notkun ljóss og skugga; starfaði lengst af í Róm og málaði einkum portrett- og helgimyndir þar sem trúarleg opinberun er sýnd í stundlegri jarðneskri birtu meðal auðmjúkra og fátækra...og þar sem dauðastundin er túlkuð sem miskunnarlaus endalok..... hafði mikil áhrif á evr. myndlist og má sjá áhrif hans í verkum Velázquez, P.P. Rubens og Rembrandts.”
7. janúar – sunnudagur
Þegar Bjarni Benediktsson dó fór Þjóðviljinn að tala um það hvað hann hefði skrifað merkileg Reykjavíkurbréf, það væri nú eitthvað annað en þeir vitleysingar sem við tóku!
Allan tímann sem Bjarni Benediktsson skrifaði Reykjavíkurbréf í Morgunblaðið hæddist Þjóðviljinn að honum og það gekk meira að segja svo langt að hann var kallaður Verðlauna-Bjarni eftir að hann hafði fengið móðurmálsverðlaun Björns Jónssonar!
Magnús Kjartansson hafði auðvitað forystu um þetta uppnefni en það átti að sýna hve fráleitt það hefði verið að Bjarni fengi móðurmálsverðlaunin.
Þannig var hann hundeltur alla tíð.
En svo þegar hann lézt þá notaði Þjóðviljinn hann eins og lurk á okkur Eykon og var ótrauður að minna á hvílíkur munur það hefði nú verið þegar Bjarni skrifaði Reykjavíkurbréfin!
Og nú er forysta Sjálfstæðisflokksins farin að tala á svipaðan hátt;virðist líta á Morgunblaðið eins og stjórnmálaflokk. Ég veit að vísu vel að Morgunblaðið hefur völd ef það beitir sér og það getur verið sérstakt stjórnmálaafl, á það hefur oft reynt, bæði fyrr og síðar. En við erum fyrst og síðast að gefa út blað sem fólk vill lesa, treystir og kaupir af fúsum og frjálsum vilja. Auk þess sé ég nú ekki öll þessi völd íslenzkra stjórnmálamanna nú um stundir. Það eru þá ósköp hversdagsleg völd og skipta engum sköpum, ekki frekar en völd formanns Prestafélagsins.
Og ég er að verða eins og blessaður byskupinn ósköp leiður á formanni Prestafélagsins!
Nei, það eru peningamennirnir og kvótaeigendurnir sem hafa völdin og siðblindan í tengslum við kvótrasöluna á eftir að koma okkur í koll. Hún á eftir að slæva siðferðisþrek okkar . Eftir höfðinu dansa limirnir.Það á eftir að hefna sín að menn fá með löglegum hætti að selja sameign þjóðarinnar; það er eins og klukkan á Þingvöllum gengi kaupum og sölum. Að vísu „hrökk hún um brestinn” að lokum eins og segir í Íslandsklukkunni.
Í fyrrakvöld sáum við Glerbrot eftir Arthur Miller. Þegar Kristín Jóhannesdóttir samdi sjónvarpsmynd upp úr Fjaðrafoki var myndin skírð Glerbrot.
Finnst þetta hálfóþægileg nástaða.
Björk lék í þessari mynd, ég held hún hafi ekki leikið í öðrum kvikmyndum. Hún skilaði sínu verki vel. Held það sé gaman að eiga hana í hlutverki þessarar óhamingjusömu stúlku en það er ekki sízt heldur vansælt fólk á hennar aldri sem hún er nú að gleðja með söng sínum, alls kyns ungt áttlaust fólk um allan heim.
Og nú ætla þeir að syna Leigjandann eftir einhvern útlending í Þjóðleikhúsinu, það vantar ekki hugmyndaflugið! En hvað ætli Svava Jakobsdóttir segi við því?
Við Hanna fórum með Ingó á Glerbrot Millers, það er alltaf jafn gaman að fara með honum í leikhús. Hann upplifir verkin, íhugar þau og talar um þau við mig af áhuga sem nærir sérstætt og persónulegt mat.Samt er hann ekki bókmenntafræðingur,heldur raunvísindamaður;doktor í læknisfræði.
Hann sagði réttilega, Það mætti setja fulltrúa allra þeirra sem eiga undir högg að sækja í staðinn fyrir gyðinginn í leikritinu.
Mér finnst athyglisvert að sjá þessa umfjöllun Millers um gyðinga, held hann hafi verið lítill gyðingur lengst af en sé það af ævisögu hans að hann er æ meir með hugann við uppruna sinn.
Þetta er eftirminnilegt leikrit og að mörgu leyti líkt gamla Miller. En hann tekur meiri áhættu á sviðinu nú en áður og sumt er að mínu viti á mörkunum. En hin vandmeðfarna sálfræðilega flækja er í anda Millers, Ibsens og Strindbergs, það fer ekkert á milli mála.
Laxness sagði mér á sínum tíma að hann þyldi ekki þennan ameríska natúralisma sem væri eins gamaldags og síðfrakki Ibsens.
En það er afgreitt í Skeggræðunum.
Hef verið að lesa samtal í sunnudagsblaði Morgunblaðsins við Bubba Morthens, eftir Ólaf Ormsson rithöfund. Það er ýmislegt athyglisvert í þessu samtali og ekki sízt sú staðfesting á skoðunum mínum að söngtextar Bubba eigi fremur heima á diskum en prenti. Um það segir hann sjálfur, réttilega að mínu viti:
„Mín óhamingja og ógæfa í æsku var skriftblinda. Ég fæddist skriftblindur. Það má segja að skólakerfið hafi tekið úr mér kjarkinn gagnvart þessum hlutum. Ég byrjaði ekkert að skrifa fyrr en uppúr 1985. Með hjálp Megasar og Silju Aðalsteinsdóttur fór ég að glíma við bragfræði og íslenskt mál og ég vil þakka þeim sérstaklega. Megas var sérdeilis góður og þolinmóður kennari. Ég valdi mér þá braut sem ég geng í dag alveg meðvitað og stefndi að henni. Áhrif hafa komið fram í því sem ég hef gert í tónlistarbransanum. Ég hef ort meira óbundið en bundið. Ég er farinn að vinna töluvert með það form, bæði með því að fara í stúdíó og lesa upp ljóð mín og spila sjálfur undir. Það getur vel verið að einhvern tíma í framtíðinni komi út ljóðadiskur sem ég tel vera mér hentugra form en ljóðabók...”
Hárrétt!
Og með samtalinu er birt þekkilegt kvæði eftir Bubba, Næturhrollur – og er svona:
Sementsgrá áin
mælir mig út
forvitnum augum
bláir skuggar
hafa áð neðst í dalnum
hérna í grjótinu
sitja þeir og
bíða mín
sem fór vitlaust vað.
Þetta kvæði sýnir mikla framför hjá Bubba. Ég gleðst yfir því. Ég heyrði eitt svona gott kvæði hjá Diddu þegar við lásum upp í vetur. Það gladdi mig einnig. Þá klappaði ég í miðjum lestri þarna niðri í Hlaðvarpanum. Og þá klöppuðu allir.
Og nú klappa ég fyrir Bubba og framförum hans.
Hitt er svo annað mál að Didda sem virðist yrkja úr sinni hörðu reynslu var í grófara lagi fyrir minn smekk.Minnti á Dag Sigurðarson þegar við lásum saman í Iðnó á einhverju ljóðlistarþingi fyrir mörgum árum,þá drukkinaði hann í neðanmittislýrík án þess það væri beinlínis nauðsynlegt!
En þar sem ég hef verið að vangaveltast yfir Sjálfstæðisflokknum sem fær æ betri niðurstöður í skoðanakönnunum er kannski ekki alveg út í hött að staldra við umsögn Bubba um flokkinn. Ég veit hann er gamall vinstri maður en samt væri ástæða fyrir sjálfstæðisforystuna að íhuga orð hans því hann er ekki einn á báti. Þeir eru margir á Íslandi sem hugsa eins og hann.
Í þessu sama sunnudagsblaði er úttekt eftir Sigrúnu Davíðsdóttur á fólksflóttanum til Hanstholm,Danmörku . Íslenzkir stjórnmálamenn ættu einnig að íhuga þennan landflótta; og þá ekki síður verkalýðsforingjarnir sem einnig bera ábyrgð á því að bilið hefur breikkað milli hárra og lágra tekna.
Það gæti endað með ósköpum.
Það kann vart góðri lukku að stýra þegar Heródes Sjálfstæðisflokksins er svo sammála Pílatusi Framsóknarflokksins að þar er enginn brekkumunur.
Aldrei hefði maður trúað því að svo gæti farið.
Á sínum tíma var ég á fundi Alþýðusambandsins á Selfossi. Einn ræðumanna, mig minnir það hafi verið Ásmundur Stefánsson þáverandi forseti ASÍ, sýndi fram á að bilið milli ríkra og snauðra myndi stækka þegar árin liðu; ástæðan væri ekki sízt sú að láglaunað fólk væri undir í verkalýðsfélögunum, hinir hærra launuðu hefðu undirtökin þar eins og annars staðar.
Þetta myndi enda með því að fátækt fólk á Íslandi yrði einungis 10-15% kjósenda, Aðrir myndu þá leggja kollhúfur og láta sér fátt um finnast. Þannig yrði þessi minnihlutahópur afskiptur. Og enginn hefði áhuga á honum,eða kjörum hans.Hann hefði æ minni áhrif,einnig í verkalýðsfélögunum.
Eða hver hugsar um tíu prósent atkvæða í pólitík?
En hvað segir Bubbi?
Hann segir:
„Mér hefur þótt ritdeila Jóns Baldvins og Svavars (Gestssonar) alveg fáránleg. Þarna er verið að ræða um sameiningu vinstri manna sem mér þykir persónulega vera málefni sem er mjög áhugavert, sérstaklega þegar við skoðum heimsmyndina í dag og hvernig hlutirnir standa. Þá eru þessir menn eins og litlir strákar sem eru að rífast um það hvor pabbinn sé sterkari og þú varst meiri kommúnisti en ég og góði besti mesi farðu nú og skammastu þín. Þetta kemur einfaldlega ekki við málefnum dagsins. Það hefur sem sagt einkennt okkur Íslendinga. „Að í hverju horni kóngur er, heiminn sinn í nafla ber.” Varðandi Sjálfstæðisflokkinn vil ég taka fram að Sjálfstæðisflokkurinn er mér ekki að skapi. Hann er orðinn trénaður með mosavöxnum steingervingsblæ, er að daga uppi sem nátttröll. Er hann annars ekki eini kommaflokkurinn á Íslandi? (sic !)
Mér finnst það einkenna hinn pólitíska vígvöll í dag að það er ráðaleysi á öllum vígstöðvum. Ég er ekki ánægður með þjóðfélag sem níðist á barnafólki, ég er ekki ánægður með þjóðfélag sem níðist á sjúklingum, þjóðfélag sem fer illa með gamalt fólk, þjóðfélag þar sem mismunur á ríkum og fátækum er orðinn hrikalega stór. Mér finnst vera vegið að velferðarþjóðfélaginu.”
Með margvíslegum fyrirvörum er ekki úr vegi að íhuga þessi orð.Ég er anzi hræddur um að þessi þjóðfélagsgagnrýni blundi í hugum og hjörtum ýmissa þeirra sem jafnvel fylgja ríkisstjórninni og láta ekkert í sér heyra.
En það gæti orðið mikill þjóðfélagsbrestur ef þessi þjórsá brytist fram og hristi af sér klakaböndin.
.Ég get tekið undir hvert orð sem Bubbi segir um útvarpsstöðvarnar:
„Ég er ekki hrifinn af þessum nýju útvarpsstöðvum. Þær fá falleinkunn hjá mér, að undanskilinni Aðalstöðinni sem mér þykir ágæt útvarpsstöð. Mín helsta gagnrýni á Bylgjuna er metnaðarleysi. Það einkennir dálítið þessa hluti hér heima, metnaðarleysið. Rás 1 og Rás 2 standa sig miklu betur. Ég hljóma kannski eins og gamall sérvitringur þegar ég segi að ég vil að ríkið hafi afskipti af þessum stöðvum sínum. Ég hlusta mikið á útvarp og hef góða viðmiðun og ég er með það á hreinu hvað dagskráin er miklu vandaðri og menningarlegri á Rás 1 og Rás 2.”
Það þarf engan speking til að sjá í hendi sér að Rás 1 ber af ljósvökunum öllum eins og gull af eiri.
Ég átti löngum undir högg að sækja sem skáld og þá ekki sízt af pólitískum ástæðum. Í kalda stríðinu var maður óvelkominn gestur inn á „kommúnistaheimilin” og það fór ekki fram hjá mér.
En sannfæring mín réð ferðinni hvað sem tautaði og raulaði.
Þetta hefur verið löng og að mörgu leyti þreytandi ferð og nú er kalda stríðinu lokið og öll afstaða, bæði til mín og annarra, gjörbreytt.
Það leynir sér ekki.
Bubbi fjallar um þetta kalda andrúmsloft og þann gust sem ég fann á þessum árum og mér finnst upplifun hans og afstaða hnýsilegt umhugsunarefni svo löngu síðar.
Lýsing Bubba er einungis staðfesting á því sem ég vissi um afstöðu vinstra fólks í landinu.
Hann segir:
„Já. Það var mikið lesið á mínu æskuheimili. Móðir mín var sílesandi og bræður mínir. Það var alltaf verið að tala um bækur heima, rithöfunda og ljóðskáld. Ég fór að spyrja hvað ég ætti að lesa. Ég las Jack London sem krakki og ævintýrabækurnar eftir Enid Blyton. Tímarnir eru sannarlega breyttir, því miður, og börn og unglingar í dag lesa minna en áður og ég er ekki sáttur við það. Móðir mín var hrifin af Matthíasi Johannessen sem skáldi. Það þótti ekki fínn pappír á kommúnistaheimili og oft rifist heiftarlega. Ég spurði hana löngu síðar þegar ég var fimmtán, sextán ára: Er eitthvað spunnið í Matthías sem skáld? Jú hann getur ort góð ljóð, fín ljóð, sagði hún. Ég fór svo að lesa Matthías og varð alveg sammála móður minni. Svona gátu fordómar lokað fyrir manni. Eins og ég hef lesið Matthías þykir mér hann gott skáld. Þegar Matthíasi tekst vel upp er hann eitt stærsta skáld þessa lands. Ég er samt þeirrar skoðunar að þeir séu sumir, vinir hans, of jákvæðir þegar hann sjálfur á í hlut. Segi að allt sé gott sem hann gerir og það þýðir það, að mínu áliti, að það hafa komið frá honum hlutir sem eru ekki eins góðir og þegar honum tekst best upp. Mig skiptir engu máli hvort maður sé til hægri eða vinstri eða hvar hann stendur ef list hans kemur frá hjartanu. Ég mótmæli því algjörlega að vegna þess að menn standi einhvers staðar í pólitík geti þeir ekki verið góðir listamenn. Þetta hefur einkennt umræðuna um Hrafn Gunnlaugsson. Hrafn hefur gert góða hluti og slæma hluti en menn hafa leyfi til að gera slæma hluti. Oftar en ekki hefur umræðan um hluti sem Hrafn Gunnlaugsson hefur gert í list sinni snúist um aukaatriði og skrifuð gagnrýni beinist að kunningsskap hans við forsætisráðherra.”
Ég hefði viljað kynnast móður Bubba Morthens, ætli hún sé á lífi? Fordómalaust fólk er salt jarðar.
11. janúar – fimmtudagur
Haraldur sonur okkar talaði við Davíð Oddsson um starf sitt í morgun og sagði hann mér að Davíð hefði verið mjög afslappaður og skemmtilegur, sjálfum sér líkur. Hann hefði tekið sér forkunnarvel, hlustað á mál sitt og gefið sér góðan tíma. Harald langar til að skipta um starf enda hefur hann sinnt þessu erfiða og erilsama embætti fangelsismálastjóra nógu lengi, bæði að hans viti og okkar.
En hann hefur staðið sig eins og hetja í þessu erfiða starfi og getur því borið höfuðið hátt.
Hann var ekki að heita á hurðir Davíðs, aldeilis ekki enda hefur hann ekkert með dómsmál að gera. En hann langaði til að heyra í honum hljóðið og kanna stöðu sína. Þorsteinn Pálsson fer með dómsmálin og þeir eru víst ekki alltaf sammála !
Þegar hjarta Davíðs Oddssonar slær eins og það á eðli og upplag til, bregzt það engum sem á hans fund kemur.
Þetta hefur glatt mig mjög og Hanna sagði við mig í hádeginu, Þannig mundu þið einnig tala saman ef þið hittuzt. Reynslan hefur sýnt það.
Ég er sammála því.
Ég met mikils hvernig Davíð tók Haraldi í morgun þrátt fyrir þær ýfingar sem ég hef þurft að minnast á hér á þessum blöðum. En hann lætur þær ekki koma niður á syni okkar og það sýnir bæði gáfur hans og gott hjartalag.
Synir mínir hafa oft orðið fyrir barðinu á öðru fólki vegna mín og stöðu minnar.
En Davíð er augsýnilega upp yfir slíkt hafinn.
Hæstiréttur kvað í gær upp dóm í máli Agnesar Bragadóttur, eða Morgunblaðsins eins og vel mætti orða það. Við segjum vel frá þessum úrslitum í blaðinu í dag og leiðarinn fjallar allur um málalok.
Niðurstaðan varð sú sem ég hélt ávallt hún yrði, án þess ég þykist vera neinn sérstakur besservisser, það er að úrskurður héraðsdóms er felldur úr gildi.
„Hæstiréttur felldi í gær úr gildi úrskurð Héraðsdóms frá 15. desember. Niðurstaða Hæstaréttar er sú að varnaraðila, Agnesi Bragadóttur, sé ekki skylt að svara spurningum um hvaða skriflegar heimildir hún hafi haft undir höndum við skrif um málefni Sambands ísl. samvinnufélaga og hver hafi látið þær í té.”, eins og segir í Morgunblaðinu þar sem dómsniðurstaðan er birt.
Í forystugrein blaðsins segir m.a.:
„Það er jafnframt ljóst, að í þessum forsendum Hæstaréttar felst, að það hafi ekki verið tilefni til þess af hálfu bankastjórnar Seðlabanka Íslands að taka ákvörðun um að senda mál þetta til ríkissaksóknara. Vonandi verður það til þess, að opinberir aðilar hugsi vel sinn gang áður en þeir ráðast í mál af þessu tagi. Það lá ljóst fyrir í upphafi, að forsvarsmenn þessara stofnana áttu að geta gert sér grein fyrir því, að sögulegar staðreyndir eru annað en mikilvægir viðskiptahagsmunir og trúnaðarbrestur.”
Sem sagt, það er nú ljóst orðið að á ritstjórn Morgunblaðsins var fjallað á ábyrgan hátt um birtingu þessara upplýsinga eins og segir einnig í leiðaranum Hæstiréttur hefur komizt að nákvæmlega sömu niðurstöðu um forsendur fyrir birtingu greinanna og forráðamenn Morgunblaðsins þegar þeir ákváðu að birta efnið. Það þarf auðvitað að meta í hvert skipti, eða í hverju einstöku tilfelli, hvort birta eigi slíkar upplýsingar eða ekki. Á það leggur Hæstiréttur áherzlu og ættu blaðamenn að íhuga það vandlega áður en þeir birta viðkvæmt efni sem skaðað gæti hagsmuni fyrirtækja eða einstaklinga.
Það gerðum við í upphafi og niðurstaðan er hin sama og við töldum þá.
Blaðamenn hafa jafnmikið aðhald eftir sem áður og geta ekki hagað sér eins og naut í flagi þegar viðkvæmar upplýsingar og miklir hagsmunir eru annars vegar. En hér var um það að ræða eins og segir í forystugrein Morgunblaðsins 16. desember síðastliðinn „að safna saman upplýsingum um sögulegar staðreyndir, sem engan gátu skaðað en ekki upplýsingum um viðskipti fyrirtækis í fullum rekstri við viðskiptabanka sinn”.
Eins og ég hef víst áður drepið á hefðum við aldrei birt slíkar upplýsingar.
Trúnaðarbrestur er ekki á stefnuskrá blaðsins.
Dr. Sigmundur Guðbjarnarson,háskólarektor, talaði við mig í dag eftir Rótarý-fund.
Hann er á móti því að Háskóli Íslands verði gerður að sjálfseignarstofnun og ég sagði honum að ég hefði enga trú á því að unnt væri að reka skólann með þeim hætti. Við hefðum séð hvernig Landakot hefði farið eftir að það var gert að sjálfseignarstofnun. Þessi perla Vesturbæjarins væri nú orðin sjúkrahús fyrir gamalmenni og sjálfseignarstofnunin úr sögunni!
Við Styrmir unnum að því öllum árum á sínum tíma að ríkið keypti Landakotsspítala af systrunum fyrir 1100 milljónir króna og Matthías Bjarnason,heilbrigðisráðherra, hafði forystu um það og breytti Landakoti í sjálfseignarstofnun.
En spítalinn var svo illa rekinn að stjórn hans lá undir sífelldri gagnrýni og að því kom að hann var í raun og veru lagður niður.
Þannig fór um sjóferð þá.
Háskóli Íslands var stofnaður í tengslum við fullveldi Íslands og engin ástæða til að örlög hans verði með svipuðum eða sama hætti. Ég má ekki til þess hugsa og hef varað við því á Morgunblaðinu að við förum að styðja að slíku.
Það á þvert á móti að efla Hollvinasamtök háskólans, stefna að sterkari bakhjarli hans meðal einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka og byggja upp merka og mikilvæga sjónvarpsstarfsemi á hans vegum og þá að sjálfsögðu til styrktar og eflingar íslenzkri tungu og menningu.
Ég held ekki að það sé hægt að reka sterkar sjálfseignarstofnanir nema þar sem mikill auður er að bakhjarli eins og í Bandaríkjunum. Þar eru milljarðamæringar eins og Rockefeller og Mayo eða hvað þeir nú hétu þessir stofnendur milljónasjóða til styrktar menntastofnunum þar vestra.
Slíku er ekki að heilsa hér heima og af þeim sökum verður ríkið að hafa forystu um rekstur jafn mikilvægra menningarstofnana og háskóla Íslands og ríkisútvarpsins.
Ég ætti kannski ekki að hafa þessa skoðun sem sveigjanlegur frjálshyggjumaður en get þó ekki annað því ég teldi hina mestu goðgá að stofna starfsemi háskólans eða ríkisútvarpsins í hættu á svo erfiðum tímamótum sem við nú lifum þegar að menningu okkar, arfleifð og tungu er sótt úr öllum áttum.
Ef ríkið hefur ekki bolmagn til að reka Háskóla Íslands með sóma verðum við að segja okkur til sveitar – og þá væri kannski einna heillavænlegast að hverfa undir væng Evrópusambandsins sem hefur það m.a. á stefnuskrá sinni að vernda og hlú að menningu sem á undir högg að sækja en nauðsynlegt er að varðveita eins og allt sem gerir heimsmenninguna fjölbreyttari en ella og frjóvgar og endurnærir það umhverfi sem við lifum í.
Hef verið að horfa á merkilegan myndaflokk eftir pólska kvikmyndastjórann Krysztof Kieslowskí, Boðorðin tíu.
Fyrsti þátturinn fjallar með áhrifamiklum hætti um dreng sem deyr þegar hann fellur í vök og lýkur með því að faðir hans ryður burt altarinu í kirkjunni þeirra og sýnir þannig uppgjör sitt við Guð.
Gengur þannig gegn fyrsta boðorðinu, Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
Næsta mynd fjallar um konu sem er komin þrjá mánuði á leið eftir ástmann sinn, en eiginmaður hennar liggur fyrir dauðanum á sjúkrahúsi.
Læknirinn segir henni að eiginmaðurinn muni deyja og því skuli hún ekki láta eyða fóstrinu. Hún fer að ráðum hans en eiginmaðurinn nær sér og lifir af. Þannig hefur læknirinn bjargað tveimur mannslífum en konan hafði áður spurt hvort hann teldi ekki það væri hægt að elska tvær manneskjur í senn.
Hann svarar því ekki en hún segir honum þá það sé auðvelt. Hún elski tvo menn, eiginmann sinn og ástmann.
Falleg mynd, sterk og áhrifamikil. Og það eru þær raunar allar.
Í níundu myndinni erum við minnt á að ástin býr í hjartanu, „en ekki milli fótanna”.
Skáld hafa áður komið auga á það,að vísu En styrkur þessara mynda er ekki sízt fín myndataka og ljóðrænt andrúm; eins lítið af samtölum og hægt er að komast af með og Kieslowski kann öðrum leikstjórum betur að búa til spennu úr hversdagslegu efni.
Bogi Agnarsson, flugstjóri,sonur Agnars Bogasonar á Mánudagsblaðinu gamla, sagði við mig í gufubaði á laugardag þegar við vorum að tala um örlög og tilviljanir, Mér er stundum hugsað til mannsins sem hætti að reykja til að öðlast langlífi en sárlangaði alla tíð í sígarettur og féll svo af hesti og lézt á miðjum aldri(!)
Hanna hafði dömuboð um daginn og fékk mikið af blómum.
En þú vilt ekki afskorin blóm, sagði ég.
Nei, sagði hún.
Veiztu af hverju það er? sagði ég. Það er vegna þess að þú hefur verið blóm í einhverju fyrra lífi.
Nei, sagði hún, ekki svona blóm. En kannski melgresi(!)
Orti þetta erindi:
Þessi dagur fer hjá
og við heyrum hann læðast
inní kvöldgula nótt.
16. janúar – þriðjudagur
Hittumst eftir langt hlé hjá Sverri Hermannssyni. Gylfi Þ. Gíslason og Jóhannes Nordal í góðu formi, Indriði G.Þorsteinsson hefur náð sér vel eftir nokkrar banalegur og leikur nú á als oddi. Lítur mjög vel út og er mun léttari í bragði en fyrir uppskurðina.
Töluðum dálítið um Eggert Stefánsson vegna smásögu Indriða um hann í Jólalesbók og þó mest um forsetaembættið, framboð og kosningar.
Við erum allir á því að embættið hafi sett niður og fjölmiðlasuð um hugsanlega frambjóðendur hafi breytt því í farsa.
Mér sýnist margir vera þeirrar skoðunar að breyta þurfi embættinu. Það hafi gengið sér til húðar.
Við vorum allir á því að það hafi verið vitlaust hannað í upphafi; það sé hvorki fugl né fiskur, bara einhver hégómi eins og Ólafur Thors taldi (sjá ævisögu hans). Dreymdi hann í alla nótt. Hann hafði allt á hornum sér.
Kannski birtist afstaða mín með þessum hætti, hver veit?
Við Sverrir sögðum Indriða G. frá því að við hefðum heimsótt hann morguninn sem hann fór heim af Landspítalanum. Þar hafði hann átt að vera fram yfir helgi, en hann var sendur heim óforvarandis þá um morguninn.
Þegar ég sá rúmið, hvíslaði ég að Sverri,
Hann er dauður(!) Hann hefur dáið í morgun (!)
Þá kom hjúkrunarfræðingur og sagði okkur hvers kyns var.
Indriði hafði gaman af þessari upprisu sinni.
Fengum þetta bréf í dag:
„Pabbi skildi við í morgun – í fanginu á mér. Heilsu hans hafði hrakað skyndilega síðla föstudags og má kalla hann hafi sofið djúpum svefni síðan. Þó vaknaði hann til ráðs og rænu bæði laugardags- og sunnudagskvöld. Hann fékk kyrrlátt andlát og bjó ekki við neinar kvalir þessa svefndaga, fékk morfín í æð. Hann fékk þann dauðdaga sem hann óskaði sér – þótt hann hefði vitaskuld kosið að lifa lengur, því margt átti hann ógert. En öðrum þræði var hann saddur lífdaga, hann hefur oft staðið nærri dauðanum undanfarið eitt og hálfa árið, og það hefur komið fyrir þegar hann hefur lagst til svefns að hann hafi óskað sér þess að fá að sofna útaf. Eitt sinn þegar hann vaknaði til ráðs um helgina sagðist hann vera „klár í dauðann”. Það er einkennilegt en þegar ég sat hjá honum á sunnudaginn, tók ég úr bókaskápnum Úrvalsljóð séra Matthíasar, opnaði bókina af rælni og þá blöstu við mér þessar línur:
Viku af viku, nótt og dapran dag
dauðans engill söng þitt vöggulag;
söng og skenkti sárra kvala vín,
söng og spann þitt hvíta dáins-lín.
Loks kom heilög hönd, sem um þig bjó, -
himnesk rödd, er sagði: Þ a ð e r n ó g!
Fyrir rúmri viku las ég fyrir pabba kvæðið þitt, Matthías, sem kom í áramótablaðinu um snjóinn hreina og hvíta „sem hverfur að moldinni sjálfri og rís með henni að vori”. Þetta kvæði þótti okkur feðgum afar vel gert. En það snart okkur jafnframt á persónulegum nótum. Okkur fannst kvæðið táknrænt fyrir okkar örlög eins og komið var. Það hefur alla tíð verið mjög náið með okkur, við vorum vinir og sögðum hvorir öðrum allt um hugsanir okkar og hagi. Ég hef alla tíð unnið mikið með föður mínum að bókum hans, verið hans „ritstjóri” ef svo má segja. Og okkur fannst að um leið og dagsverki pabba væri að ljúka væri komið að því að ég sjálfur færi að vinna mikil verk í bókargerð. Og það er nú svo um okkur öll systkinin að öll stækkum við, hvert á sína vísu, við brottför pabba, það var það vegarnesti sem hann bjó okkur.
Þið fyrirgefið mér þetta langa bréf, það var mér fróun að fá að skrifa það.
Með vinarkveðju og þakklæti,
Jakob F. Ásgeirsson
P.S. Það var föður mínum mikils virði það sem þið skrifuðuð í Reykjavíkurbréf bæði nú fyrir jólin og fyrir síðustu jól. Það má segja að þetta sé eina opinbera viðurkenningin sem pabbi hefur fengið fyrir bækur sínar. J.F.Á.”
21. janúar – sunnudagur
Las minningargrein um stýrimann sem varð bráðkvaddur um borð í skipi sínu, Ásmund Jónatansson.
Hann var rúmlega fertugur.
Hafði siglt um öll heimsins höf.
Í greininni sem er eftir Leif Sörensen segir m.a. svo:
„Það er sérstakt að nóttina áður en kallið kom dreymdi tengdamóður Ásmundar að hann kæmi til hennar og það var bjart í kringum hann. Hann sagði henni að nú ætlaði hann að fara að skipta um skip.”
Finnst þetta harla merkilegt. Maðurinn er lifandi en kemur samt í draumi til tengdamóður sinnar að segja henni frá þeim breytingum á högum sínum sem í vændum eru; sem sagt að segja henni frá dauða sínum.
Það er ekki eins og látinn maður vitji annars lifandi heldur hefur heili tengdamóðurinnar getað með einhverjum hætti sagt henni í draumi frá því sem í vændum er.
Heilinn er yfirgengilegt tæki.
Við þekkjum hann sáralítið, jafnvel okkar eigin heila . Stundum er eins og hann viti óorðna hluti og segi frá á myndhverfu líkingamáli. Hann getur jafnvel vitað hvernig á að koma því til skila að nú muni sjómaður á hafi úti sigla inn í bjartari veröld dauðans.
Heilinn hlýtur að verða vísindamönnum framtíðarinnar spennandi viðfangsefni.
Hef verið að kynna mér tvær brezkar metsölubækur, The Rector's Wife eftir Joanna Trollope sem er afkomandi hins mikla brezka skáldsagnahöfundar með sama nafni og High Fidelity. The Rector's Wife er skemmtilega skrifuð saga og vel gerð en ég á erfitt með að gangast upp í efni hennar.
High Fidelity er eftir Nick Hornby og fjallar um plötukaupmanninn Rob Flemming, 35 ára poppþræl og kvennafar hans.
Fyrsta bók Hornbys hét Fever Pitch og fjallar um knattspyrnu en ég hef ekki lesið hana. Hún var mikil sölubók á sínum tíma.
Ég tók eftir því að Rob segir vinkonu sinni frá fólki í músíkbransanum sem ætti að vera frægt, en er það ekki.
Þannig er það víst í öllum listgreinum en við vitum ekki alltaf hvað ræður frægð og sölu.
Kannski heppni, hver veit?
High Fidelity fjallar annars að mestu um kynlíf. Það er tekið skemmtilega á því, án banalla lýsinga, og ég get trúað að flestir hafi frá einhverju slíku að segja svo nálæg lífinu sjálfu sem þessi saga er.
Trollope fjallar með öðrum hætti um kynlíf og ástir. Í skáldsögu hennar fáum við blöndu af ást og rómantík og svo þessari frelsisbaráttu konunnar sem virðist alltaf vera að gera upp við umhverfi sitt en er í raun og veru í samfelldu uppgjöri við sjálfa sig.
Hef einnig verið að hlusta á segulband með upplestri Allen Ginsbergs á Howl. Þetta er yfirþyrmandi lestur og maður upplifir hann með áheyrendum sem eru síflissandi og hlæja stundum ofboðslega að bröndurum sem minna einna helzt á klámfengnar einræður Robin Williams, eða hvað hann heitir, ég man það ekki, þessi bandaríski grínisti sem nú er tízkuleikari.Að mörgu leyti ágætur,en ógurlegur klámkjaftur,t.a.m. á eins manns uppákomu í Carnegi Hall sem ég fylgdist með.
Ginsberg hefur ort ágæt kvæði og mér finnst yngstu kvæðin hans bezt.
Það er gaman að hlusta á hann lesa þau upp, það snertir mann mun meira en þessi langloka, Howl. Það eru góðir partar í henni að vísu en mikið af háværum orðaflaumi og dálítið skemmtilegum vaðli. Sumt minnir á Búkowski , bandaríska knæpuskáldið..
Ég hef miklu meiri ánægju af kvæðum Ginsberg sem eiga rætur í æskuumhverfi hans í New York og minningarkvæðinu um föður hans en þessari langloku, Howl.
Hef verið að velta fyrir mér orðtakinu að leggja ráð sitt í hendurnar á refshala; eins konar svikara eða ómenni. Finnst skrýtið að það skuli vera talað um hala en ekki skott því refurinn hefur skott.
Það eru sem sagt vitleysingarnir sem hafa einatt forystu um þróun tungunnar.
Við eigum margar útgáfur af því sem Danir kalla hale: hali, rófa, skott, tagl, dindill, stertur, stýri, sporður, stél, einnig á flugvél.
Þetta sýnir fjölbreytni íslenzkrar tungu og við eigum að reyna að halda í hana.
Þjóðverjar eru t.a.m. ekkert betur settir í þessum efnum en Danir og tail á ensku merkir einfaldlega aftasti hluti dýrs, þ.e. rófa, skott, hali, tagl, stertur, stél o.s.frv.
Orðsifjabókin segir að hali: rófa, skott, sé líklega skylt miðfranska orðinu cail sem merkir spjót, gríska orðinu kélon sem merkir stöng, skaft eða ör og forn-indverska orðinu sálá – sem merkir stafur, broddur.
Skott er aftur á móti komið úr eldri myndinni skopt, sbr. forn-íslenzka orðið skopt sem merkir höfuðhár, lokkur og nýnorska orðið skoft sem merkir fuglsstél en þetta orð er scuft á forn-háþýzku, merkir höfuðhár og skuft á gotnesku.
Merking orða og þróun er aldrei nein tilviljun. Þar fer allt að sínum lögmálum.
Sögur Antrobusar eftir Lawrence Durrell eru bráðskemmtilegar, ekki sízt frásögnin um útbreiðslu menningarinnar í sendiráðunum í Búlgaríu; eða Vúlgaríu.
Þar segir m.a. að öll menning spilli og frönsk menning gjörspilli!
Ég hef sérstaklega gaman af frásögninni um kellinguna sem Frakkar sendu að gegna sendiherrastöðu í Búlgaríu en fluttist síðar til Sovétríkjanna því hún var svo hrifin af þjóðfélaginu að hún vildi hvergi fremur búa.
Þegar til Moskvu kom lét hún þjóðnýta sig og giftist samyrkjubúi!
Davíð Oddsson hefur nú skýrt frá því að hann muni ekki láta það uppi fyrr en með vorinu, hvort hann hyggist fara í forsetaframboð eða ekki. Það kemur mér ekki á óvart.
Sem ég er að ljúka við þessar hugleiðingar kemur Anna, sonardóttir mín, fimm ára, inn í skrifstofuna mína og spyr þessarar spurningar eins og ekkert sé eðlilegra en hún fái svar við henni,
Afi, er Guð íslenzkur?
22. janúar – mánudagur
Nú er komið í ljós hvers vegna Anna litla hefur haft áhyggjur af því hvort Guð sé íslenzkur eða ekki.
Ástæðan er sú að hún er ekki viss um að hann skilji okkur, ef hann skyldi vera útlenzkur.
Það er ekki hentugt að biðja bænirnar til einhvers útlenzks guðs sem kynni þá kannski ekki íslenzku.
Ég hef aldrei leitt hugann að þessu en þetta er auðvitað alveg rétt hjá Önnu.
Við þyrftum helzt að hafa íslenzkan Guð svo að sambandið væri nokkurn veginn öruggt.
Það er ekki víst að útlenzkur Guð hafi haft rænu á því að fara í málaskóla til að læra íslenzku.
Anna er að vísu ekki steingeit en það er augljóst að hún vill hafa vaðið fyrir neðan sig eins og steingeitin.
Hún er fædd í júní eins og pabbi hennar.
Að vísu er til rammíslenzkur guð sem er sérfræðingur í íslenzkum fræðum.Og kann líklega ekki ensku.
Það er Óðinn,guð ásatrúarmanna.
En ég sagði Önnu ekki frá því til að rugla hana ekki!
Hitti Þorvald Garðar Kristjánsson, fyrrum alþingisforseta, hjá Haraldi, syni mínum, í hádeginu í dag. Hef gaman af að skrafa við Þorvald, hann hefur náð sér af sjúkleika sínum og er hress og unglegur og virðist jafnvel að sér í öllum málum og þegar hann var hvað fyrirferðarmestur á þingi.
Hann er mikill vinur og stuðningsmaður Davíðs Oddssonar og Björns Bjarnasonar og ber augsýnilega hlýhug til þeirra beggja – og þá ekki sízt til Davíðs.
Hann er aftur á móti lítt hrifinn af Þorsteini Pálssyni, segir að honum hafi ekki verið treystandi á sínum tíma og hann breyti staðreyndum.
Ég reyni alltaf að bera blak af Þorsteini,en kemst ekki upp með moðreyk!
Ég hef aldrei vitað hvers vegna þeir Haraldur og Þorvaldur Garðar hafa þekkzt jafnvel og raun ber vitni en það kom í ljós í hádeginu í dag.
Haraldur er einkavinur Gunnars Kvaran,doktors í listfræðum, sem er bróðursonur Elísabetar, eiginkonu Þorvalds, og þeir félagar komu stundum í heimsókn til þeirra , þegar þeir voru í menntaskóla og þá tókst með þeim vinátta sem haldizt hefur.
Haraldur heldur mikið upp á Þorvald eftir þessi góðu og löngu kynni.
Þeir tala stundum saman og Þorvaldur hefur áhuga á því að rétta honum hjálparhönd svo að hann geti eftir langt og gott starf fengið aðra atvinnu við sitt hæfi og þá, að mér skilst, í opinberu embætti sem hæfði honum og reynslu hans.
Ég rifjaði upp samskiptaerfiðleika okkar ritstjóra Morgunblaðsins við forystu Sjálfstæðisflokksins og ekkert af því kom Þorvaldi á óvart.
Sá að hann hefur fylgzt fvel með því. Hann taldi að ritstjórar Morgunblaðsins ættu að eiga góð persónuleg samskipti við forystu Sjálfstæðisflokksins og það hlyti að vera hægt, þannig að hver héldi sínu.
Hins vegar sagði hann í miðju samtali, Manneskjan hefur ekkert breytzt frá dögum Rómarveldis(!)
Og það er auðvitað alveg rétt hjá Þorvaldi enda þekkir hann freistingar stjórnmálamanna betur en margir aðrir eftir langa reynslu á Alþingi.
Þorvaldur metur Matthías Bjarnason jafn lítið og Þorstein Pálsson og telur að hann hafi sem stjórnmálamaður notað aðstöðu sína við opinbera sjóði eins og Byggðastofnun í pólitísku poti sínu og jafnvel til að klekkja á sér fyrir vestan.
Ég þekki ekki þessa pólitísku innviði þeirra Vestfirðinganna og hafði lítið til málanna að leggja en hlustaði þeim mun betur.
Mér er það raunar gjörsamlega óskiljanlegt hvernig þeir gátu verið saman á þingi fyrir sama flokk, Þorvaldur Garðar og Matthías Bjarnason – og það jafn lengi og raun ber vitni. Ég þekki það af eigin raun að Matthías getur verið erfiður viðureignar og pólitísku líkþornin á honum voru a.m.k. ekki minni en gerðist og gekk þegar ég fylgdist sem mest með Sjálfstæðisflokknum og hafði þau miklu tengsl við hann sem síðar rofnuðu að mestu vegna „sjálfstæðisbaráttu” Morgunblaðsins.
Talaði um það við Þorvald að mér hefði þótt vænt um hvernig Davíð Oddsson tók Haraldi syni mínum þegar hann hét á hurðir hans ekki alls fyrir löngu, það hefði verið til fyrirmyndar með tilliti til þess að tengsl okkar Davíðs hafa nánast verið engin vegna þeirra ýfinga sem ég hef stundum minnzt á í þessum pistlum , án þess mér hafi verið það ljúft.
Þorvaldur sagði að hann hefði haft fyrirvara á því þegar við á sínum tíma losuðum blaðið algerlega úr tengslum við Sjálfstæðisflokkinn en nú væri hann þeirrar skoðunar að það hefði verið rétt stefna og ekki hægt að komast hjá því eins og tímarnir hafa breytzt.
Nú sé kalda stríðinu lokið.
Engin hætta sé á ferðum eins og fyrrum var. Flest mál séu þverpólitísk og allir flokkar svipaðir, jafnvel væri nú svo komið að það væru í raun og veru engin ágreiningsmál milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.
Nú væri einungis mannamunur og menn gætu haft mismunandi afstöðu til foringja og forystu flokkanna en ágreiningi eins og í gamla daga væri ekki til að dreifa.
Ég sagðist vera sömu skoðunar.
Nú færi afstaðan einna helzt eftir því hvernig manni líkaði við forystumennina og í mínum huga væri Davíð Oddsson þeirra hæfastur.
Þorvaldur tók undir það og svo Haraldur að sjálfsögðu enda er hann mikill aðdáandi Davíðs eins og móðir hans sem var á sínum tíma varaformaður Hvatar og starfandi formaður í síðustu borgarstjórnarkosningum Davíðs Oddssonar , studdi hann af alefli og þótti einkar skemmtilegt að vinna fyrir þau hjón, Ástríði og Davíð.
Hún hefur ávallt haldið tryggð við þau og telur að það sé alltaf hægt að gera út á hjartalag Davíðs.
Það er þá einna helzt ég sem er með einhvern fyrirvara á afstöðu Davíðs vegna starfa minna við Morgunblaðið þótt mér sé afar hlýtt til hans og grunnt á því að ég geti fyrirgefið ýfingarnar við Morgunblaðið.
En Davíð hefur einnig viðurkennt ágæti blaðsins og sérstöðu þess og haft manndóm til.
En það er þá líka stutt í gagnrýni hans á okkur og jafnvel brigzlyrði, ef svo ber undir. Hann er ekki sáttur við,hvernig “sjálfstæðisbaráttunni” er háttað, en það er rétt hjá Þorvaldi Garðari að það ætti að vera hægt að efna til persónulegra sambands milli formanns Sjálfstæðisflokksins og ritstjóra Morgunblaðsins en verið hefur og má kannski sættast á að við eigum allir einhverja sök á því,hvernig komið er.
Hver vill halda sínu – og ekkert lúsavatnskjaftæði!
Ég sagði Þorvaldi að ég teldi að þessar ýfingar hefðu komið harðast niður á mér persónulega þar sem engu hefði verið líkara en ég hefði látið það viðgangast að kratar næðu tökum á Morgunblaðinu án þess ég hefði aðhafzt neitt en sæti einungis eins og hver önnur silkihúfa og léti mér fátt um finnast þótt blaðið lenti í tröllahöndum.
Ég hefði aftur á móti stjórnað þessari þróun sjálfur enda teldi ég hana rétta og þá ekki sízt vegna þess að kratar hefðu engin tök á Morgunblaðinu nema síður væri þótt hitt sé rétt að við hefðum oft haft samband við krataráðherra í því skyni að afla frétta og styrkja tengsl Morgunblaðsins við þá sem búa yfir fréttatengdri vitneskju.
Sagði síðan:
Ég hygg að Styrmir sé meiri sjálfstæðismaður en ég svo rammgert sjálfstæðisvígi sem hann er og hann hefur aldrei verið krati eins og þú varst á sínum tíma, Þorvaldur minn!
Þá hló Þorvaldur svo að undir tók í matsalnum og hafði gaman af.
Við komum okkur svo saman um að ég væri meiri bóhem en Styrmir og því til alls líklegur, ekki síður en Davíð Oddsson því að við Davíð værum á margan hátt líkir og líklega værum við helzt eins og hvítir hrafnar, hvor á sínum stað; báðir með tilfinningu skáldsins og ofurviðkvæmni þess(!)
Þetta var sem sagt hið fróðlegasta samtal og ég á von á því að Þorvaldur Garðar reyni að koma einhverju góðu til leiðar eftir jafn opinskátt samskraf og raun ber vitni.
En mér dettur ekki í hug að tíunda allt það sem hann sagði um brigð ýmissa Vestfirðinga við sig og atkvæðakaup Matthíasar Bjarnasonar.
Kunni vel við Matthías í gamla daga og hafði við hann góð samskipti.
Einar Oddur var vegna þjóðarsáttarinnar svo kallaðrar nefndur bjargvætturin.Hann stjórnaði afstöðu atvinnurekenda til launamála og tókst vel,en ég þekki ekki hug hans né afstöðu að öðru leyti.
Þegar við Hanna fórum um Vestfirði tók ég hús á honum á Flateyri og hann sýndi mér hina ljósu vík Ólafs Kárasonar við Önundarfjörð og kunni ég vel að meta það.
Og þá ekki síður fuglalífið þar um slóðir.
Skrifaði um ferðina tvö eða þrjú Reykjavíkurbréf og heyrði síðar að Einar hefði sagt við Jóhannes Nordal,Ekki ert þú þriggja Reykjavíkurbréfa maður!
Orti einnig í þessari ferð ljóðaflokkinn Vestur með vötnum í Land mitt og jörð,1994.
Það má augljóst vera að Þorvaldur Garðar deilir ekki með mér neinni ánægju með Einar Odd, þvert á móti er hann þeirrar skoðunar að hann hafi svikið sig undir lokin og gengið á mála hjá Matthíasi Bjarnasyni.
Það þarf betur upplýstan dómara en mig til að kveða upp úr með það, hvernig þessum málum hefur verið háttað.
Ég spurði hvernig Matthías Bjarnason hefði tekið þeirri hörðu gagnrýnisgrein sem Þorvaldur Garðar skrifaði í fyrra um ævisögu Matthíasar og þá svaraði hann því til að það væri engin furða þótt hann hefði ekki svarað neinu.
Hann veit sjálfur, sagði Þorvaldur, á hverju hann ætti þá von.
Þar með spurði ég einskis frekar.
Hef verið að hugsa um skáldsögurnar sem ég hef verið að lesa. Það er með ólíkindum hvað skáldsagnahöfundar þurfa að velta sér upp úr kynlífi.
Ætli þeir séu margir hverjir heldur illa haldnir af hinu margumtalaða getuleysi samtímans? Maður gæti haldið það eins og þetta er áleitið viðfangsefni. Ekki þurftu höfundar Íslendinga sagna að velta sér upp úr kynlífi með þessum hætti og samt eru þessar sögur miklu merkilegri lýsing á manninum og eðlisgerð hans en nokkrar þær sögur sem nú eru skrifaðar.
Þegar ég hugsa um allt þetta stóðlíf í nútímaskáldsögum hvarflar hugurinn að sauðkindinni.
Hví reynum við ekki að læra eitthvað af henni?
Hún þarf enga félagsfræðinga, enga sálgreina. Hún þarf ekkert þerapí. Hún þarf ekki að láta kenna sér neitt. Hún kann þetta allt. Eins og önnur dýr sem lifa í nálægð við náttúruna og í sátt við hana.
Af hverju getum við ekki lært þetta líka? Af hverju þurfum við á að halda öllum þessum upplýsingum? Allri þessari kennslu?
Af hverju iðkum við ekki kynlíf eins og blómin vaxa og lækirnir renna?
Engum datt í hug að veifa Playboy framan í þarfanautið þegar það var kallað til síns brúks á hlaðinu í Stardal forðum daga, ónei, það lá ærin spenna í loftinu án þess.
Og tuddi vann sitt verk óaðfinnanlega!
Og vandræðalaust!
Sá í síðustu viku minningargrein um Halldór Þorstein Briem. Hann kom stundum í skrifstofuna mína í Aðalstræti og við töluðum saman í gamla daga þegar við hittumst á förnum vegi. Ég fékk mikla samúð með honum þegar hann missti son sinn ungan úr heilakrabba. Hann talaði þá við mig um áhyggjur sínar og sorg. Hann var á margan hátt góður drengur. Hann var verkamaður og fylgdi Sjálfstæðisflokknum.
Í minningargreininni í Morgunblaðinu segir að hann hafi komizt yfir bréf og greinargerðir íslenzkra kommúnista sem voru við nám austan járntjalds og fylgdu Sovétríkjunum að málum.
Þessi skjöl hafi hann afhent Bjarna Benediktssyni fyrir 1960 og þeim hafi síðan verið komið í Morgunblaðið.
Ég held þetta geti ekki verið rétt,því Bjarni nefndi þetta aldrei,þegar við vorum saman ritstjórar blaðsins.
Við fengum skjölin í hendur í kringum 1962 en þá vissi ég ekki að þau væru frá Halldóri komin.Fékk að vita það síðar þegar við höfðum birt þetta efni í Morgunblaðinu sem SÍA-skýrslur.
Ég vissi semsagt ekki fyrr en löngu síðar hvernig stóð á þessum skjölum. Þau höfðu að ég held verið í kassa í skemmu Eimskipafélagsins en hann hafði víst brotnað við uppskipun og flutninga og innihaldið á glámbekk. Halldór vann þarna í skemmunni að ég held og komst yfir skjölin.
Það var mikilvægt að birta þetta efni eins og á stóð í kalda stríðinu ,en ég er feginn því að ég skyldi ekki hafa vitað um hvernig þau bárust Sjálfstæðisflokknum og svo til okkar.
Hugsaði raunar aldrei um það í hita baráttunnar og eins og ástandið var. Þá töldum við marxista eða kommúnista þjóðhættulega erindreka Sovétríkjanna og nauðsynlegt að upplýsa tengsl þeirra við almættið austan tjalds.
Hef verið að hugsa um kvæði eftir Kristján Karlsson sem heitir Látum oss gera för hennar veglega og er svohljóðandi:
Í skjóli vínviðarins grær eikin óhult;
hvern dag
strauk vindurinn höfuð Maríu, skýin
vísuðu henni veg um garðinntígrisdýr fóru framhjá kátur otur
velti sér í fjarlægum höfum
heimafyrir lá kötturinn afvelta í gluggakistunnilátum oss gera för hennar veglega
svo að tígurinn nemi staðar og oturinn
stingi sér með busli
heimafyrir stígur kötturinn út í garðinn
með varúð á haustvotan mosann
kistan er af eik; ekki að sjá í neitt.
Ég hef talað um þetta kvæði við Kristján og sagt honum mér finnist það flytja harla kaþólskt viðhorf enda er hann sjálfur kaþólskrar trúar. En hana tók hann þegar hann var bókavörður í Íþöku.
Útförin í kvæðinu er ekki eins og nein sorgarathöfn heldur væri óeðlilegt að eftir þetta áhyggjulausa líf í garðinum (þ.e. Eden) væri brottförin sorgarefni.
Það er ekkert uppgjör í kvæðinu
Allt sem minnzt er á eru gjafir. Það ber að taka þeim með gleði eins og lífinu sjálfu. Dauðinn er þá líka gjöf þótt eikin breytist í kistu og einhvern ugg setji að kettinum.
Hér er einungis um breytingu að ræða, en engin harmkvæli.
María er að sjálfsögðu „biblíunafn”, nátengt Paradís.
Og guðsmóður.
Kaþólsk trú er örlát á veraldleg gæði. Þau merkja kannski ekki eins mikið og fyrir mótmælendur, því þau eru sjálfsögð í kaþólskri trú. Tign mótmælendakirkjunnar er fólgin í einfaldleika og afneitun veraldlegra gæða.
Lútherskur dauði er ógnlegur og án þess fagnaðar sem við sjáum stundum í Sturlungu þegar því er lýst að hinir dauðadæmdu bjuggu sig undir vistaskiptin eins og til fagnaðar væri að fara, svo að notað sé tungutak sögunnar.
Í kaþólskri trú þarf maður ekki að óttast að gjalda fyrir að hafa lifað edenslífi, sakramentið er svo sterkur þáttur í aflausninni.
Þetta er meira að segja höggormslaust kvæði.
Höggormurinn er hið illa í mannlegu eðli en honum er ekki til að dreifa í þessu kvæði.
Dýrin eru frjáls eins og í Genesis.
En í sögunni um Paradís í fyrstu Mósesbók segir:
„Þá myndaði Drottinn Guð af jörðinni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og lét þau koma fyrir manninn til þess að sjá, hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldi vera nafn þeirra. Og maðurinn gaf nafn öllum fénaðinum og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar.”
Og lífið var áhyggjulaus leikur í aldingarðinum þar til höggormurinn kom til skjalanna.
Þegar skáldið talar um vínviðinn er það skírskotun í þau orð Krists að hann sé vínviðurinn hreini og í skjóli hans getur eikin vaxið og maðurinn dafnað í hennar skjóli. Í þessu umhverfi höfum við fengið fyrirheit Krists um sigur lífsins yfir dauðanum og kaþólska kirkjan leggur meiri áherzlu á þetta örlæti hans en hin lútherska.
Og það er sem sagt eins konar boðskapur skáldsins að ekkert sé við það að athuga að útför mannsins sé sem ríkulegust og í fullu samræmi við fyrirheitið: látum oss gera för hennar veglega og sjáum ekki í neitt sem gæti varpað skugga á það örlæti sem kirkja Krists er fyrst og síðast vitnisburður um.
Kvöldið
Styrmir sagði mér hann hefði talað við Inga R. Helgason, fjármálasérfræðing sósíalista, og gamalan kunningja minn, (var aðstoðarmaður Einars Magnússonar í undirbúningsdeildinni undir MR á sínum tíma ) , og á honum hefði mátt skilja að Vigdís forseti hefði fengið tilfinningu fyrir því í samtali við Davíð Oddsson, að hann hefði viljað að hún yrði fjögur ár í viðbót og eftir þann tíma hefði hann, að því er henni virtist, áhuga á forsetaembættinu.
Ingi R. sagði þetta ekki beinlínis en Styrmir las það út úr samtali þeirra.
Þetta kemur heim og saman við niðurstöður okkar beggja eftir samtalið við Davíð í Ráðherrabústaðnum í fyrra.
Við töluðum einnig um samtal útvarpsins við Davíð síðast liðinn laugardag, en þar kom fram að hann hygðist ekki taka ákvörðun um hvort hann byði sig fram til forseta fyrr en með vorinu, hann nefndi að mig minnir aprílmánuð og sagði að kosningabarátta um forsetaembættið ætti ekki að standa yfir lengur en fimm til sex vikur.
Þetta fannst okkur báðum benda til þess að hann hafi hug á embættinu en sé ekki enn búinn að gera það upp við sig, hvort hann býður sig fram eða ekki. Það muni sem sagt koma í ljós með vorinu – og þá væntanlega fara eftir því, hvernig hann metur stöðuna.
25. janúar – fimmtudagur
Við útför Ásgeirs Jakobssonar, vinar míns, var sungið lag Páls Ísólfssonar við sálm minn í Sálmabókinni (no. 165). Ég hef heyrt sálminn sunginn tvisvar eða þrisvar áður og nú söng Mótettukórinn hann í fyrsta sinn svo að ég viti og gerði það með afbrigðum vel.
Þessi sálmur er erfiður í flutningi en lag Páls, flókið og margþætt , að mínu viti undurfagurt og líkt því sem Páll gerði fallegast um sína daga.
Við Styrmir vorum báðir líkmenn, enda var Ásgeir mikill vinur Morgunblaðsins og þótti mér vænt um að bera hann út úr Hallgrímskirkju.
Hitti margt fólk, ágætt og vinalegt, eins og tíðkast við jarðarfarir.
Menn eru heldur vinalegri, já heldur betur gerðir í erfidrykkjum en ella.
Og þó er það ekki einhlítt!
Ég veit ekki hvernig heimurinn liti út ef dauðinn væri ekki annars vegar. Þá væri mannlífið líklega eins og hver önnur ormagryfja eða frumskógur; og þeir allsráðandi sem bezt hafa ræktað með sér hina genetísku grimmd eðlisins.
En Kristur hefur lækkað þennan rosta og andspænis honum breytist skógurinn í þann aldingarð sem Guð skapaði í upphafi.
Þegar Fjaðrafok var sýnt í Þjóðleikhúsinu á sínum tíma var að mér vegið með þeim hætti að engu var líkara en ýmsum andstæðingum mínum í pólitík hefði þótt það ein af frumskyldum sínum að drepa mig sem rithöfund og jarða mig fyrir fullt og allt.
En það tókst víst ekki þrátt fyrir góðan ásetning og rækilegar tilraunir.
Einn þeirra sem komu verkinu til varnar á þessum erfiðu vikum var Ásgeir Jakobsson.
Hann skrifaði uppörvandi grein í Morgunblaðið og rétti grasinu hjálparhönd eins og hans var von og vísa.
Hann var geníal í aðra röndina; engum líkur, stórbrotinn, hrjúfur og viðkvæmur persónuleiki sem átti einstakt hjartalag undir þeirri hörðu skel sem tíminn hafði hlaðið um sálarlíf hans.
Hann missti föður sinn fjögurra ára, sagði Ragnar Fjalar prófastur í ágætri líkræðu sinni, og móður sína innan við fermingu. Hann var ástvinalítill þegar hann fékk svo berkla ofan á allt saman, hristi þá af sér og hóf að stunda sjóinn.
Skrif hans um hafið, sjómenn og útgerðarmenn eru ómetanleg og bera minningu hans fagurt vitni.
Íslenzk selta í hverri setningu.
Stílgáfa Ásgeirs var einstök, hugarflæði hans og frumleiki. Það var gott að eiga slíkan vin að og ég fann það ekki sízt í Fjaðrafokinu mikla.
Við þá útför, sem mistókst að vísu, lyfti hann undir mína kistu og tók þátt í því að bera hana úr myrkri og sorta og því þótti mér mikið til þess koma þegar ég var beðinn um að lyfta undir kistu hans þarna í lok athafnar.
Nú erum við nokkurn veginn jafnir og við það er ég sáttur þótt ég sakni Ásgeirs að sjálfsögðu, svo einstæður sem hann var.
Þegar hann kom í heimsókn á Morgunblaðið flutti hann með sér þetta salta andrúmsloft úr íslenzkum sjávarþorpum og við höfðum svo sannarlega gott af að vera minntir á það.
Hann stækkaði blaðið og blés í seglin. Þökk sé honum fyrir það og allt annað sem ég á honum upp að unna..
Þegar Einars saga Guðfinnssonar kom út 1978 skrifaði Ásgeir á mitt eintak:
Glöðum huga gjört – en þó
greiðann dreg í efa.
Mér er alltaf um og ó
eigin verk að gefa.
Og enn fremur: „Matthías snillingur. Með þökk fyrir alla þá vinsemd sem þú hefur sýnt mér óverðugum um áraraðir.”
Þegar Tryggva saga Ófeigssonar kom út ári síðar skrifaði Ásgeir mér svo fellt bréf með því eintaki sem hann sendi mér:
„Góði vinur, ég er farinn að líta á þig sem vin, eftir öll þessi ár, sem þú ert búinn að þola mig sem sérvitring og ég mátt búa við þig, sem marga menn. Þegar ég heyri einhvern segja, að hann þekki Matthías Johannessen, þá spyr ég ævinlega: „Hvaða útgáfu?” Þú ert nefnilega heil herdeild, aldrei þekkt annan eins mann; ég er montinn af því að hafa kynnzt manni, sem er bókaður með stórum stöfum í Íslandssöguna, og ekki hægt að nota eintölu „afreksmaður.”
Vonandi fyrir þjóðina á það ekki fyrir mér að liggja að ég lifi þig til að skrifa um þig minningargrein, en mikið skyldi ég skrifa um þig flotta minningargrein – en það tæki mig minnst ár, og fengi heldur ekki inni með hana í Mogganum undir fyrirsögninni „Látnir afreksmenn”, þeir myndu strika í hana, eins og sá ágæti maður, sem kenndi okkur íslenzku í Stýrimannaskólanum. Hann hafði sett okkur fyrir að skrifa stíl um einhver fjöll austur í sýslum, maðurinn var illmenni, og ég skrifaði: „Ég þekki ekkert fjall fyrir austan Hellisheiði, nema Bjarna á Laugarvatni,” og lýsti svo Bjarna, en fékk rautt strik yfir allan stílinn.
Þegar þú lest Tryggvasögu Ófeigssonar, sem þú gerir eflaust ekki, aldrei les ég bækur orðið, aðeins blaða í þeim, þá hafðu í huga það afrek að skrifa sögu Tryggva Ófeigssonar og – engin málaferli.
Ásgeir Jakobsson”
Það hefði kannski borgað sig að deyja á undan Ásgeiri til að fá almennilega minningargrein um sig en það verður víst ekki úr þessu og líklega bezt að láta grafa sig í kyrrþey því helzt treysti ég nú engum fyrir þeirri grein!! Það átti sem sagt einnig fyrir manni að liggja að deyja á vitlausum tíma – hvenær svo sem það verður!
En sem sagt:
Ég varð af minningargreininni sem hefði áreiðanlega orðið sígilt listaverk – og get víst eins og endranær sagt með danska revíusöngvaranum Ibn Shønberg:
Paul Reumert høster Bifald når han er overstået,
men jeg har aldrig fået noget.
Þegar Lífið er lotterí kom svo út, saga af Aðalsteini Jónssyni
eða Alla ríka, 1984, skrifaði Ásgeir á mitt eintak þessi orð: Góði vin, Matthías, ég sendi þér eitt sinn vísu á bók; hún endaði svo:
...af Matthíösum er þetta nóg -
viltu breyta henni fyrir mig þannig:
af Matthíösum er aldrei nóg.
Þetta er sem sagt hin sætasta músík! En ástæða þessara orða er vísa sem Ásgeir skrifaði framan á eintak mitt af Sjóferðasögum Júlíusar Júlínussonar, Hart í stjór.
Reru tveir á sama sjó
sitt á hvorri öldu þó,
Matthías Joch. og Matthías Jóh.
- af Matthíösum þetta er nóg.
Og á eintak mitt af Óskars sögu Halldórssonar, Íslands-Bersa sem út kom 1994, skrifar Ásgeir þetta: Matthías, ekkert er þér óviðkomandi, fóstri sæll, ekki heldur síldin.
Megi þú lifa sem lengst í landinu. Því nú gerast þeir margir með eitt auga í miðju enni.
Jakob sagði mér að Ásgeiri, föður hans , hefði þótt leitt til þess að vita að hann hefði ekki munað eftir greinaflokki mínum um Guðsgjafaþulu og Íslands-Bersa í Bókmenntaþáttum og afsakaði það.
En það verður svo að vera þótt ég hefði haft ánægju af því að eignazt spöl í landi í svo ágætu verki.
Ásgeir talaði stundum mjög vinalega við mig um samtölin mín og gladdi mig með sinni hlýju afstöðu til þeirra. En hann sagðist ekki sjálfur hafa getað notað það form. Hann hefði aldrei haft náttúru til þess að breyta sjálfum sér í aðra persónu, eða setja sig í annarra manna stellingar eins og nauðsynlegt væri í slíkum samtölum. Hann hefði orðið að skrifa sínar bækur með öðrum hætti því að mín aðferð hentaði sér ekki og sér væri það raunar hulin ráðgáta hvernig hægt væri að skrifa samtöl eins og þau væru ósvikin úr annars manns barka og engu líkara en hann hefði tekið sér bólfestu í spyrlinum.
Þannig var Ásgeir ávallt jákvæður og örlátur; uppörvandi; og ég hlakkaði ævinlega til að hitta hann.
Það var eins og jólatrésskemmtun í miðjum hversdagsleikanum að skrafa saman og skiptast á þeim ólíku veröldum sem við lifðum og hrærðumst í.
Sjálfur skrifaði ég á sínum tíma langt samtal við Júlíus skipstjóra og hafði ánægju af því, enda var Júlíus eftirminnilegur sjóari og ég hef ævinlega haft sérstaka ánægju af að tala við slíka menn; engir hafa borið náttúrunni jafn fagurt vitni og þessir gömlu, íslenzku sjómenn sem hafa þurft að takast á við hana, lifa með henni – og lifa hana af.
Ég efast ekki um að bók Ásgeirs um Júlíus sé miklu merkari en þetta litla samtal mitt, en þó má vera að það sé eins og lítil smásaga miðað við stóra skáldsögu.
Og smásögur eiga einnig rétt á sér , hvað sem öðru líður.
Fékk svo fyrir jólin síðustu bók Ásgeirs um Pétur sjóara sem ég hef áður minnzt á í þessum dagbókarblöðum og þar segir Ásgeir þessi orð í kveðjuskyni:
„Mér gerast nú óhagar skriftirnar til vina minna, en ekki svo, að ég geti ekki párað nokkur orð til þín (og Styrmis) sem sýnt hafið mikla vináttu um langa tíð. Ásgeir Jakobsson.”
Ásgeir var einnig með hugann við ljóð mín og gat fundið að því að ég boðaði „einhverja lífsskoðun mitt í fallegu ljóði” og splundraði ljóðstílnum.
Hann skrifaði skömmu fyrir andlát sitt:
„Það var á þessu skeiði sem ég líkti honum við Matthías skáldið Jochumsson. Þarna voru gáfaðir menn að boða trú sína og lífsskoðanir”.
Og hann heldur áfram (talað inn á segulband, sagði Jakob mér):
„Matthías Jochumsson orti náttúrlega sín stórkostlegu kvæði, en þar vildu koma fyrir það sem maður gat kallað hálfgerða hortitti. Er þar frægast að nefna að hann yrkir í sálminum fallega „Guð minn, Guð, ég hrópa / gegnum myrkrið svarta,” en svo kemur: „líkt sem út úr ofni / æpi stiknað hjarta”. Þetta orð „ofn” þótti mér alltaf ósmekklegt og líkingin öll ekki sem best. Ofn var heldur billegt verkfæri og það var erfitt að koma þessari samlíkingu heim og saman við það sem var að gerast í sálarlífi skáldsins, því næst kemur „gefðu dag í dauða, Drottinn, mínu skari, / vonarsnauða viskan / veldur köldu svari.”
Mér fannst fullmikið bera á því hjá Matthíasi Johannessen lengi vel að hann kæmi með ósmekklegar hendingar inní annars ágæt kvæði og færi ég hér um það dæmi...
Þetta kom náttúrlega til af því sama og með Matthías Jochumsson að báðir voru þessir menn öðrum þræði heimspekingar – og mannlífspredikanir lágu þeim báðum ríkt á hjarta.
... Auðvitað hlaut það að verða jafn heimspekilega sinnuðum manni og Matthíasi Johannessen erfitt að koma heim og saman sinni lífsspeki við það form sem ljóðið heimtaði. En þetta hefur smám saman tekist fyrir honum.
... Og það verður náttúrlega að segjast eins og er að í öllum ljóðum Matthíasar er að finna setningar sem eru gullvægar, eins og í sálminum góða sem hann yrkir í sálmabókinni og er einn fallegasti sálmur bókarinnar og skynsamlega séð eitt vandaðasta kvæði þeirrar bókar, og allt er kvæðið ort af speki og reyndar innlifan líka.
En óneitanlega gætir ekki sama trúarhita í ljóði Matthíasar og í kvæði Davíðs Stefánssonar „Ég sé þig koma, Kristur, með krossins þunga tré...” Þótt mörgum þyki ódýr bragarhátturinn hjá Davíð í þessu kvæði, þá fer ekkert íslenskt skáld í spor hans í innlifuninni í þessu kvæði...
Síðan tók ég að venjast þessu dálítið hjá Matthíasi, en hrökk þó alltaf dálítið illilega við allt fram í bók sem ég hef hérna við rúmstokkinn hjá mér eins og annað kver eftir Stefán Hörð og það þriðja eftir Kristján Karlsson, en þessi þrjú eru mér skálda kærust...
Í seinni ljóðum Matthíasar er þetta að heita má horfið og ljóðið ræður ferðinni hjá Matthíasi, enda skrifar hann sig frá heimspekinni og öllum sínum vísdómi í Helgispjalli og þarf ekki lengur á ljóðinu að halda.
... Matthías er nú farinn á síðari árum að samræma meira lífsskoðanir sínar ljóðrænu formi heldur en áður var.
Mér þótti sérlega vænt um síðasta ljóð hans. („Hreinn og hvítur snjór.”) Þá kemur það upp að hann hefur hallað höfðinu til listaskáldsins góða, Jónasar Hallgrímssonar.
Nú er ekki að taka það fram að Matthías Johannessen er Matthías Johannessen, og verður, í íslenskum kveðskap og hvorki Matthías Jochumsson eða Jónas Hallgrímsson. Hann er Matthías Johannessen í íslenskum ljóðskáldskap.
... En þetta er svolítið skemmtilegt að fylgjast með þessu hvernig Matthías hefur skrifað sig frá predikuninni og fært sig yfir í ljóðrænuna, og yrkir nú hin ágætustu kvæði einmitt á því sviði. Það er greinilegt að ljóðið hefur fengið yfirhöndina og þar er ekki verið að troða inn setningum sem eiga heima í Helgispjalli.
Þessa þróun þykir mér mjög vænt um hjá vini mínum Matthíasi Johannessen og vona að svo megi fram horfa sem nú gerir, að hann þurfi ekki á ljóðinu að halda til að boða þjóð sinni eitt eða neitt annað en það sem hann felur í góðum og ljóðrænum texta, svo sem gerði vinur hans, Jónas Hallgrímsson.
... Það var svo langur vegur milli fjörunnar í Bolungavík og Jónasar að þar náðu ekki endarnir saman lengi vel...”
Ásgeir lifði það ekki að finna fyrrnefnd dæmi um mína „ofna” og gerir ekkert, enda hef ég nú ort ýmislegt upp, lagað og leiðrétt í seinni útgáfum (t.a.m. í Hólmgönguljóðum og Sálmum á atómöld), en ég hirði ekki um að breyta nokkru í Borgin hló því að hún er sprottin úr æskuhita sem ég á ekki lengur og mundi gjöreyðileggja andrúm kvæðanna ef ég hreyfði nú við þeim. Auk þess fór Steinn yfir handritið og ber nokkra ábyrgð á því.
En mér finnst lífsskoðun mega vel vera í góðu kvæði og er því ekki endilega sammála Ásgeiri í því, en lífsskoðun og áróður – er tvennt ólíkt. Og ég hef ekki gert mig sekan um áróður í mínum kvæðum (nema kannski langa kvæðinu um sovézku hershötðingjana sem birtist í Lesbók!)
.
Hitt er svo annað mál að þær expressjónistísku línur sem Ásgeir gagnrýnir hjá sr. Matthíasi eru einstæð og mikilsverð áhætta í íslenzkri ljóðlist og því áleitnari sem þær stinga meira í stúf við annað í skáldskap hans. Þær sýna dirfsku og óhefðbundna hugsun í annars hefðbundnum skáldskap. Ég hef áreiðanlega stundum gert mig sekan um slíka áhættu.
En þá er bara að taka þessari áskorun(!)
Hef nú afhent Braga Þórðarsyni í Hörpuútgáfunni handrit að ljóðabók. Er ekki alveg viss um valið, en vonandi tekst vel til í lokagerð.
En hvers vegna er ég alltaf að peðra út þessum bókum, það er löngu komið nóg!
En Bragi vill ljóðabók fyrir páska og ég þarf að létta á handritabunkanum í gamla ísskápnum!! Hann hefur sagzt ætla að gefa út heildarsafn ljóða minna síðar.
Ég hef áhuga á því
Þótt ég hafi verið margir menn eins og Ásgeir Jakobsson fullyrti í fyrr nefndri tileinkun hef ég að lokum áhuga á að verða einn maður í heildarsafni mínu svo að hægt sé að kynnazt öllum matthíösunum á einu bretti, ef einhver hefði áhuga á því.
En ef slíkur áhugi er ekki fyrir hendi myndi ég einfaldlega sætta mig vel við það og rækta minn garð áfram eins og ég hef gert, án neinnar kröfu til athygli, vinsælda eða verðlauna.
Það er hverjum manni hollt að kynna sér efnið í skáldsögu John Steinbecks, Perlunni, því hún segir öðrum sögum betur frá því hver geta orðið örlög þeirra sem sækjast fyrst og síðast eftir jarðneskum gæðum og þeim verðmætum sem geta verið fólgin í perlunni einu, stjórnast af græðgi og missa fótanna í þessu veraldlega streði.
Perlan er yndislega ljóðræn saga aukinheldur. Slíka sögu skrifar enginn nema stórskáld. Það er stíllinn og andrúmið sem skiptir sköpum en ekki efniviðurinn sem er ævinlega gömul tugga úr margendurtekinni reynslu allra manna.
Þessi ljóðræna og áhrifamikla dæmisaga Steinbecks sem út kom 1947 á svo sannarlega erindi við samtíð okkar og eftirsókn hennar eftir perlunni einu sem átti betur heima á hafsbotni en í lófa mexíkóska fiskimannsins sem hreppti hana, missti barn sitt hennar vegna, og fleygði henni að lokum út í hafsauga.
Það er ekki alltaf verðmætast sem mest glitrar.
Það fer eftir aðstæðum hvort perlunni einu fylgir gæfa eða ógæfa.
En hún segir ekkert um gjörvileika.
26. janúar – föstudagur
Skrifaði svofelldan bút um Ásgeir Jakobsson í Reykjavíkurbréf:
Guðbrandur Þorláksson biskup hrósaði vestfirðingum fyrir áhuga á andlegum verðmætum, þegar hann hafði gefið út biblíuna sem við hann er kennd. Agaðir af miklu umhverfi og háskasamlegu hafi leituðu þeir athvarfs í mikilvægum ritum um örlög mannsins andspænis forsjón og náttúruöflum. Þessi afstaða hefur fylgt vestfirzku mannlífi æ síðan og birtist hvað eftirminnilegast í sígildum verkum Guðmundar G. Hagalíns.
Það var úr þessu umhverfi sem Ásgeir Jakobsson var sprottinn og bar hann því fagurt vitni alla tíð, bæði í afstöðu sinni og ritverkum. Hann var sérstæður stílisti og hið salta viðhorf vestfirðingsins fylgdi honum inn í eftirminnilegt andrúm verka hans, hvort sem þau fjölluðu um einstaka athafnamenn eða skáldsagnapersónur sem áttu rætur í umhverfi hans og skáldlegri hneigð. Hann ræktaði öðrum betur þá arfleifð sem beið hans og hafði við andlát sitt skilað miklum andlegum verðmætum sem hvorki ryð né mölur fá grandað. Hið sjálfstæða viðhorf Ásgeirs birtist ævinlega í verkum hans og augljóst mátti vera að hann laðaðist að þeim atgervismönnum sem höfðu staðið í brúnni á þjóðarskútunni þegar sú mikla sigling hófst sem fleytti okkur úr fátækt og hokri inní glæsta veröld mikilla fyrirheita. Þeir sem þar höfðu forystu voru hans menn. Og til þeirra leitaði hann helzt þegar þörfin kom að finna kröftum sínum viðnám. Þeir voru hans líkar, sérstæðir og án þess falla inn í fjöldann; kraftmiklir hugsjónamenn og brauðryðjendur sem höfðu eins og hann sjálfur hafizt úr fátækt og brotizt áfram af þeim metnaði sem þjóðin þurfti hvað mest á að halda. Þeir vissu um margvíslegar hættur á þessari siglingu en létu aldrei bilbug á sér finna; höfðu marga fjöruna sopið þegar yfir lauk. Af slíkri reynslu gat Ásgeir sjálfur einnig státað og það fór enginn af hans fundi án þess að hafa aukið sjálfum sér styrk og bætt alin við andlegt þrek sitt og auðnugóð fyrirheit. Af því nutu lesendur Morgunblaðsins góðs og ber að þakka það ekki sízt við leiðarlok.
Sjórinn átti hug Ásgeirs Jakobssonar allan og honum tengdust helzt þau afrek sem hann vann með ritlist sinni. Hann fór sínar eigin leiðir þegar hafið var annars vegar, ekki síður en endranær, og skoðanir hans voru hertar í eigin reynslu og því umhverfi sem agaði hann ungan og kenndi honum að það kostar að vera karlmaður, svo að vitnað sé til einnar helztu söguhetju Hagalíns. Til gamans mætti því vel kveðja Ásgeir Jakobsson, þennan eftirminnilega fulltrúa íslenzkrar mannúðarstefnu og mikilvægrar arfleifðar, í þeim anda sem honum hefði sjálfum bezt líkað og vitna til orða í þessari sömu vestfirzku sögu, Sturlu í Vogum, en þar segir í upphafi 25. kafla: „Þorskurinn er mislynd skepna, og þó að lærðir menn séu nú að setja upp merkissvip, já, nærri því forsjónarsvip, og gera nákvæmar athuganir á hans eðli – og mjög svo sanngjarnar ákvarðanir um hans hátterni, helzt að segja hreint og beint leggi vegi fyrir hann um hafdjúpin, þá er nú síður en svo, að hann virði þetta við þá á nokkurn hátt. Hann fer sinna ferða sitt á hvað, rétt eins og engir gáfaðir vísindamenn eða góðviljaðir leiðtogar væru til í þessari veröld. Mislyndur og einþykkur hafði hann löngum reynzt þarna í fjörðunum. Það var nú fyrst og fremst það, að hann sýndist gefa mjög lítið um suma þeirra, en hafa aftur alveg sérstakt álit á öðrum. Einn sá allra helzti af þessum eftirlætisfjörðum þorskskepnunnar var Hamrafjörðurinn. En það voru engu að síður margir og margvíslegir dyntirnir í honum þar. Það var nú til að mynd ekki mikið á það að treysta, hvenær hann kæmi, hvað mikið yrði af honum og hvað lystugur hann yrði. Nei, þetta var allt saman upp og niður. Þá var kannski ekki alveg víst, hvað lengi hann stæði við. Stundum var hreint eins og hann væri bara á skemmtiferðalagi, svona rétt til þess að skoða sig um. Það var líka mjög misjafnt, hvort hann hélt sig bara á vissum stöðum eða dreifði skilmerkilega úr sér um allan fjörð, svo að sem flestum gætu orðið not að honum. Við og við hrúgaðist hann allur inn í fjarðarbotn, eins og hann væri að hugsa um að hlaupa á fjöll og gera þar með sannleika hina alkunnu öfugmælavísu...”
Þrátt fyrir allt þetta trúði Ásgeir Jakobsson og treysti á Hamrafjörð íslenzkrar framtíðar.”
Í eintaki mínu af Sturlu í Vogum, annarri útgáfu 1970, stendur með eigin hendi Guðmundar G. Hagalíns:
„Þegar Sturla í Vogum kom út, hófu kommúnistar harða hríð að höfundinum – hið mannlega – og mannúðlega viðhorf hans var móðgun við sósíalrealismann, hinn nýja bókmenntalega gleðiboðskap Rauðra penna. En sjálfstæðisforinginn Ólafur Thors citeraði í útvarpsræðu orðin: „Það kostar að vera karlmaður, Þórður Sturluson.”
Með þökk og einlægri vináttu til Hönnu og Matthíasar Johannessen frá Unni og Guðmundi Hagalín.”
Þessi orð eru skrifuð í kalda stríðinu og löngu áður en sú þíða hófst sem lauk með hruni Sovétríkjanna. Á þessum tíma var nauðsynlegt að vera á verði og þurfti ekki að hvetja mig til þess, en Hagalín hefur augsýnilega viljað koma því á framfæri hvernig honum hafði verið tekið sem rithöfundi, enda var hann alla tíð utangarðsmaður í samfélagi hinna „rauðu penna” og stóð sig eins og hetja í þeim barningi. Enda átti hann innra þrek sem öllum var ekki gefið og skáldgáfu sem er bæði sérstæð og einstæð í bókmenntasögu okkar.
Mér er sagt að í nýútkomnum Helgarpósti sé samtal við Sigurð A. Magnússon og þar vegi hann enn í knérunn, reyni að sverta mannorð mitt með því að tönnlast á því að ég hafi rekið hann frá Morgunblaðinu og þá með þeim hætti að banna honum að skrifa fyrir einhverjar kosningar á öndverðum sjöunda áratugnum.
Við stóðum þá í miklu stríði við heimskommúnismann eins og hann birtist í sinni verstu mynd hér úti á Íslandi og Sigurður var á leiðinni að verða eins konar trójuhestur á Morgunblaðinu í þeim átökum.
Þá var Bjarni Benediktsson öflugur forystumaður lýðræðisafla í landinu og við höfðum ekkert bolmagn til að ganga í berhögg við hann eða stefnu hans enda fáránlegt því að við morgunblaðsmenn vorum jafnharðir í afstöðunni gegn kommúnisma og Bjarni sjálfur og studdum þá Ólaf Thors af alefli, enda lífsháski á næsta leiti.
Þá ætlaði Sigurður að birtast eins og einhver frelsishetja á Morgunblaðinu og láta sverfa til stáls gegn forystumönnum Sjálfstæðisflokksins, eða öllu heldur að koma í bakið á þeim.
Mér datt aldrei í hug að taka þátt í slíkum leik, þvert á móti varð ég harðari í andstöðu við ofbeldi kommúnismans en nokkru sinni og fékk svo sannarlega að kenna á því.
En Sigurður var af einhverjum ástæðum byrjaður að dansa með þeim og eins og ástatt var þá hvarflaði ekki að neinum manni nema honum að þessi pólitíski dansleikur ætti að fara fram í Morgunblaðinu.
Það er því áreiðanlega rétt hjá honum að ég hafi óskað eftir því við hann að hann drægi sig í hlé í kosningabaráttunni, svo viðkvæm sem hún var á þeim árum, og nú segir hann að það hafi í sínum huga jafngilt uppsögn.
Auðvitað er þetta út í bláinn eins og sumt annað sem hann hefur fullyrt sjálfum sér til afsökunar og andlegrar upphafningar en mér og okkur morgunblaðsmönnum til hnjóðs og niðurlægingar.
Ég bað hann ekki um neitt annað en sitja á strák sínum um stundarsakir í Rabbinu í Lesbók,því að öll óþægindi lentu á mér,en ekki honum,ábyrgðarlausum.
En þetta skiptir mig svo sem engu máli, en ég segi eins og áður:
Ég er orðinn hundleiður á formanni prestafélagsins!
Sigurður hefur svo sannarlega ekki legið á því að hann hafi þá stutt Alþýðubandalagið og af þeim sökum er leyfilegt að tala um trójuhestinn á Morgunblaðinu.
Mér er samt alltaf heldur hlýtt til Sigurðar, vinátta okkar hefur staðizt margar raunir og hann veit að ég mun ekki taka því neitt illa, þótt hann vegi enn einu sinni í þennan knérunn, eða þetta knérör eins og einhver Vestmannaeyingur sagði á sínum tíma!
Það er engu líkara en Sigurður hafi aldrei lesið Njáls sögu þar sem sá kristni boðskapur er í fyrirrúmi að skamma stund verður hönd höggi fegin en þó einkum að sá stofni til ógæfu sem vegur í knérunn.
Hitt er svo annað mál, án þess ég muni það, að ég hef víst fjallað um það áður hvernig Sigurður fór frá Morgunblaðinu – og þá líklega einna helzt hér á þessum minnisblöðum.
Haraldur Sveinsson minnist þess einnig og rifjaði það einhvern tíma upp við mig þegar hann hafði lesið rangar fullyrðingar Sigurðar um þetta sama efni.
Hann sat inni í herberginu mínu í Aðalstræti og við vorum að rabba saman þegar Sigurður kom inn og spurði, hvort hann gæti talað við mig. Það var auðsótt mál og hann sagði okkur Haraldi að hann hefði fengið gott atvinnutilboð frá Erlendi Einarssyni í Sambandinu ; hann hefði beðið sig um að taka við ritstjórn Samvinnunnar. Sigurði þótti þetta hinn bezti kostur og að því er virtist hin mesta upphefð og höfðum við ekkert við það að athuga að hann segði upp störfum sínum á Morgunblaðinu vegna þeirrar björtu framtíðar sem við blasti.
Þetta er sannleikurinn í málinu hvernig sem Sigurður túlkar önnur samtöl okkar eða þá málaleitan mína að hann hefði hægt um sig í erfiðri og viðkvæmri kosningabaráttu. Slíkt hef ég ekki endilega lagt á minnið og kann ekki þessi samtöl okkar,enda taldi ég þau hvorki mikilvæg né afdrifarík á nokkurn hátt.
28. janúar – sunnudagur
Rakst á allmörg gömul kvæði í möppu í ísskápnum. Þar er allt á frysti og breytist ekki. Góð hirzla fyrir gömul handrit. Það er þá hægt að koma að þeim aftur hvenær sem maður vill og tilreiða þau með nýjum hætti svo að vitnað sé í Sveinbjörn Egilsson. Skoðaði þessi gömlu kvæði, gat fæstum bjargað. Sum fengu þó andlitslyftingu og eru að verða samkvæmishæf.
Í gamla handritinu voru þau svohljóðandi:
4.
Húsin
eins og fólkið
sem í þeim býrsum fátæklegar
umbúðir
um flöktandi birtuönnur líkkistu-
hvít grafhýsi
um glórulaust
myrkur.
Heitrof
Hver dagur svo brothættur draumur og fer
þessum drepandi gusti og sækir að mér.Ég sé hann sem draumsýn við deyjandi skar
og dreg nú í efa þann loga sem var.Samt glittir í brosin sem glói við tún
þau glitrandi smáblóm sem rétti mér hún.En sárfættur geng ég og glerbrotið er
þessi grályndi dagur sem brennur á mér.
Í fjörunni
Eins og fjörukrabbinn
flytur sig
úr einum kuðung
í annan
þannig flytjum við
hugsanir okkar
úr einu húsi
í annað.
Tilgáta
1.
Seglbúin
er hugsun vorsiglir
nóttlaus dagur
fyrir sólhvítum
voðum.
Við Elliðavatn
Borg
undir blikandi ljósum
speglast í augnbláu vatnitré
undir gráfölum himni
speglast í vatnsbláum augum.2.
Eins og sæfífill
festir sig
á kuðung,
þannig eru ástir
samlyndra hjóna.
Á ferð
Fuglinn minn,
þú sem skildir eftir
skugga
á framrúðunninú ert þú
samvizka mín,án himins
án vængja.
Ástsamlig ráð
kennik þér, minn einkason,
mun þú þau eptir öll:
(Hugsvinnsmál)
Vinur þú veizt þetta seinna
þegar verður þú fullorðinn maður.
Þessi orð voru engan veginn
neinn ákvörðunarstaður.En ævi hans sjálfs var ofraun
því allt er svo viðkvæmt og snúið.
Ef Hallgerður réttir fram hárlokk
verður helzt ekki undan því flúið.
Síðan breytti ég þeim með þessum hætti:
Jarðneskar leifar
Húsið
eins og fólkið,fátækleg umgjörð
um flöktandi birtu.
Gamlar glæður
Sárfættur geng ég við grasstrá sem er
grályndur dagur og sækir að mér,samt glittir í brosin sem glói við tún
glitrandi smáblóm og jörð sem er húnþví enn er hún draumsýn við deyjandi skar
og dagur sem slokknar við logann sem var.
Í skelinni
Hugsun þín
fjörukrabbi,flytur sig
úr einum kuðung
í annan.
Nýr dagur
Hugsun þín
seglbúinsiglir hvítum
voðum
inní nýjan dag.
Ljós
Borg
blikandi ljós
á augnbláu vatni.
Skelföst er ástin
Ástir samlyndra
hjónasæfífill
á lokuðum
kuðung.
Og lokagerð þeirra er svo í þessum búningi sem ég er að telja mér trú um að sé viðunandi,án þess ég ætli endilega að birta þau:
Jarðneskar leifar
Húsið
eins og fólkið,fátækleg umgjörð
um flöktandi birtu.
Loginn sem var
Sárfættur geng ég við grasstrá sem er
grályndur dagur og sækir að mér,samt glittir í brosin sem glói við tún
glitrandi smáblóm og jörð sem er húnþví enn er hún draumsýn við deyjandi skar
og dagur sem slokknar við logann sem var.
Í skelinni
Hugsun þín
fjörukrabbi,flytur sig
úr einum kuðung
í annan.
Nýr dagur
Seglbúin
hugmynd þín
um dauðannsiglir þöndum
voðum
að ókunnri
strönd.
Ljós
Borg
blikandi ljóshaf
á kyrru
augnbláu vatni.
Skelföst er ástin
Ástir samlyndra
hjónasæfífill
á lokuðum
kuðung.
Á ferð
Fuglinn minn,
þú sem skildir eftir
skugga
á framrúðunninú ert þú
samvizka mín,án himins
án vængja.
Ástsamlig ráð
kennik þér, minn einkason,
mun þú þau eptir öll:
(Hugsvinnsmál)
Son minn, þú veizt þetta seinna
sigggróinn fullorðinn maður
(þessi orð voru engan veginn
neinn ákvörðunarstaður
en ævin er mörgum ofraun
því allt er úr leppunum snúið),
Ef Hallgerður réttir þér hárlokk
verður helzt ekki undan því flúið.
29. janúar – mánudagur
Hef nú loks lesið samtalið við Sigurð A. Magnússon í Helgarpóstinum, eða Helgarpestinni, eins og þeir hjá Spaugstofunni kalla fyrirbærið. Sé ekki betur en þetta sé nokkuð skaplegt, en þó er reynt að sverta mannorð mitt, enda leikurinn til þess gerður.
Þessi klausa er svohljóðandi:
„En vinstri menn, létu þeir þig ekki heyra það fyrir að vinna á Morgunblaðinu?” (segir spyrillinn, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, en ég hef ekki heyrt hennar getið fyrr.) Sigurður svarar: „Jú, það fór fyrir brjóstið á mörgum þeirra að ég skyldi skrifa í Moggann.”
Og samtalið heldur áfram með þessum hætti:
„En fór það ekki fyrir brjóstið á kommanum í þér?”
„Ég hef alltaf mátt búa við það að vera kallaður laumukommi eða bara kommi, þegar sannleikurinn er sá að ég hef alltaf verið harður andkommúnisti og í raun krati. Mín róttækni var miklu frekar tilkomin fyrir áhrif Biblíunnar en Sovétríkjanna. Þessir hálfkommar hérna á Íslandi komust næst því að breyta eins og ég taldi kristilegt og þess vegna fylgdi ég þeim að málum. Enda var ég ekki vel séður sem blaðamaður á Mogganum, þar sem ég reyndar var í tíu ár allt þangað til mér var sparkað, að vísu á afar kurteislegan hátt.”
„Hvernig fór sú kurteislega brottvísun fram?”
„Hún fór þannig fram að skömmu fyrir þingkosningar árið 1967 kom Matthías Johannessen ritstjóri að máli við mig og bað mig að skrifa ekki neitt næstu þrjá mánuðina eða þangað til kosningarnar væru um garð gengnar, en að sjálfsögðu ætluðu þeir að borga mér laun á meðan. Ég sagði þá við hann að þetta væri í raun uppsögn, hann vissi sjálfur sem blaðamaður hvað það þýddi að biðja menn að skrifa ekki. Ég sagði honum að ég myndi líta á þetta sem uppsögn og fór. Mér fannst eftirsjá að Lesbókinni; þarna hafði ég byggt upp gott menningarblað þar sem margir góðir rithöfundar, líkt og Pétur Gunnarsson og fleiri, stigu sín fyrstu spor á ritvellinum. Fyrsta Lesbókin eftir mína ritstjóratíð var helguð bílum og hefur hún ekki borið sitt barr síðan.”
„En hvað fórstu að gera?”
„Ég var svo heppinn að fá að ritstýra tímaritinu Samvinnunni, sem Samband íslenzkra samvinnufélaga gaf út. Fyrir bragðið var ég náttúrulega grunaður um að vera framsóknarmaður. Blaðið var dauft og ég fékk það hlutverk að reisa það upp frá dauðum... En árið 1974 var ég látinn fara eftir nokkrar uppákomur. Ég hef alltaf verið látinn fara, enda á það sjálfsagt ekki vel við mig að vinna undir öðrum”.
Mér er til efs það hafi farið fyrir brjóstið á neinum nema Jóni úr Vör að Sigurður skrifaði í Morgunblaðið – og svo auðvitað þeim sem voru á móti nýja skáldskapnum sem við reyndum að bera fram til sigurs í þessu „íhaldssamasta málgagni þjóðarinnar”, eins og Steinn Steinar komst að orði.
Vintri menn voru auðvitað hæstánægðir með að við sætum uppi með þennan kláðamaur á Morgunblaðinu,en hægri menn ýmsir ætluðu mig lifandi að drepa fyrir að halda hlífiskildi yfir þessum “laumukomma” á Mogganum.
Sigurður segist ekki hafa verið laumukommi, né annars konar kommi og telur að hann hafi „alltaf verið harður andkommúnisti og í raun krati”.
Ég held að Sigurður hafi fyrirlitið krata á þessum árum, ég man ekki betur, og hallaði sér að Alþýðubandalaginu en því var stjórnað af hörðum marxistum – og raunar harðlínukommum eða stalínistum – eins og allir vissu.
Þessi skilgreining hans er augsýnilega síðari tíma réttlæting af einhverjum ástæðum.
Þá segir hann að sín róttækni hafi verið miklu frekar „tilkomin fyrir áhrif Biblíunnar en Sovétríkjanna”.
Róttækni biblíunnar er ekki þjóðfélagsleg nema að því leyti sem gyðingum þótti nauðsynlegt að réttlæta afstöðu sína til umhverfisins og róttækni nýja testamentisins er róttækni Krists, en hún var eins konar bylting í hjarta mannsins, en alls ekki nein þjóðfélagsbylting.
Hann boðaði t.a.m. líferni sem hvorugur okkar Sigurðar hefur getað staðið undir.
Sagði m.a. við ættum að elska óvini okkar. En stundum finnst mér Sigurður ekki elska neinn nema sjálfan sig.
Hann segir að „þessir hálfkommar hérna á Íslandi” hafi komizt næst því að breyta eins og hann taldi kristilegt og þess vegna hafi hann fylgt þeim að málum. En þeir voru bara stuðningsmenn heimsveldisstefnu kommúnismans sem bar ábyrgð á fjöldamorðum og gúlagi og lái mér og öðrum hver sem er, þótt við höfum eytt þessum dýrmætu árum okkar í baráttu gegn þeim ófögnuði.Öðrum helmingi janusarhöfuðsins,svo að vitnað sé í Skáldatíma.
Sigurður A. Magnússon var aldrei ritstjóri Lesbókar og bar ekki titil.Reikna ekki með að stjórn Árvakurs hefði samþykkt það úr því sem komið var. Hún var á ábyrgð ritstjóra Morgunblaðsins. Ef einhverjir ungir rithöfundar hafa stigið sín fyrstu spor í Lesbók Morgunblaðsins, þá hefur það ekki sízt verið á vegum ritstjóra hennar. Sigurður hafði umsjón með Lesbók, rétt eins og umsjónarmenn annarra sérblaða. En þeir bera enga ábyrgð, heldur ritstjórar blaðsins.
Og það er fyrir ábyrgðina fyrst og síðast sem okkur er borgað.
Sigurður getur einnig haft undravert lag á því að niðurlægja annað fólk. Ég reikna ekki með því að Gísli Sigurðsson,ritstjórnarfulltrúi Lesbókar, verði honum þakklátur fyrir þá ósanngjörnu athugasemd – eða alhæfingu – að fyrsta Lesbókin „eftir mína ritstjóratíð” hafi verið „helguð bílum og hefur hún ekki borið sitt barr síðan” eins og Sigurður kemst að orði í þessu veruleikafirrta samtali.
Það er ljóst að hann þarf ekki á neinum ljóskastara að halda,þar sem hann stendur á sviðinu. Hann er sjálfur sinn eigin ljóskastari þar sem hann tíundar ágæti sitt fram yfir okkur, þessa meðalskarfa sem kunnu ekki að meta samstarf hans við „hálfkommana” á sínum tíma.
Ég er að hugsa um að svara þessu en þá yrði ég að gera það í Helgarpóstinum – og ætli það svari kostnaði?
Sé til hvort ég nenni því. Hef ekki heldur áhuga á að skrifa í þetta blað. Það er engin ástæða að gæla við þá sem er illa við mann. Skiptir ekki máli þótt sú illska eigi sér engar forsendur, þetta tilbúna hatur sem menn eru að reyna að nærast á en er jafn næringarlítið – og jafn geðslegt – og hvert annað hrossatað.
Sigurður verður víst að fá að sveiflast í þeirri þráhyggju og föstu hugmyndum sem hann hefur fest sig í.
Hann skrifaði vel um skáldskap minn þegar við vorum samstarfsmenn en hefur svo haldið því fram að mér hafi hrakað eftir að leiðir okkar skildu!!
Sízt af öllu myndi ég tala um sjálfan mig í sömu andrá og Halldór Laxness en allt minnir þetta á hvernig Sigurður skrifaði um Halldór, fyrst eftir að hann hafði fengið Nóbelsverðlaun, og amaðist við því sem hann birti eftir þennan mikla heiður, en Halldór lét þess einhvers staðar getið – enda fór Sigurður mjög í taugarnar á honum og heyrði ég það milliliðalaust – að það væri undarlegt hvað honum hefði farið aftur eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin!
Nú talar Sigurður af innfjálgri aðdáun um Halldór Laxness í þessu Helgarpóstssamtali en Halldór hefði áreiðanlega séð í gegnum það, ef hann væri heill heilsu. Honum var ekkert um Sigurð á sínum tíma og nefndi það við mig.
En Sigurður blessaður er eins og andlegt jójó og vonandi að það flækist ekki í hendinni á honum!
Þegar við Sigurður hittumst fer vel á með okkur. Það var t.a.m. skemmtilegt að hitta hann og Guðmund Steinsson ekki alls fyrir löngu eins og ég hef minnzt á í dagbókinni.
Hann er líklega margir menn, ekkert síður en ég, og ég veit aldrei við hvaða Sigurð ég er að tala, þegar við hittumst. Þó finnst mér það oftast vera gamli Sigurður sem sýndi mér vináttu þar til leiðir skildu. Svo skjóta aðrir sigurðar upp kollinum hingað og þangað – og nú síðast í Helgarpóstinum.
Það er sá sem hefur búið um sig í pótemkíntjöldunum.
Þegar Ólafur G. Einarsson var menntamálaráðherra og Sigurður átti að ganga úr nefndinni sem tilnefnir bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, mælti ég að ósk hans með því við Ólaf ráðherra að hann yrði áfram.Fannst hann geta verið í þessari nefnd eins og hver annar.
Sigurður hringdi í mig og bað mig um þetta liðsinni,þótt vitað sé ég hafi engan áhuga á svona tildri.
Ég talaði máli hans við ráðherrann sem skipaði hann áfram. Held það fari bærilega á því enda skiptir það svo sem litlu , hvaða skruddur eru valdar í þetta bókmenntalega spretthlaup.
„Hann notar Matthías meðan hann þarf á því að halda”,var sagt við Hönnu á þessum árum. En það skipti engu máli,ég veit menn eru alltaf að rugla saman hagsmunum og hugsjónum.Þess vegna bjó ég til orðið hagsmunavinátta.
Ég veit að þessi orð Páls postula eiga oftar við um Sigurð en flesta þá sem ég hef kynnzt á lífsleiðinni, Það góða sem ég vil það gjöri ég ekki...Því miður hafa þessi orð átt við oftar en hann hefur gert sér grein fyrir sjálfur.
Ég spurði hann eitt sinn hvað hann héldi Magnús, faðir hans, hefði sagt eða gert ef hann hefði lifað og lesið æviminningar hans
Hann varð hugsi andspænis minningu föður síns.
Hafði líklega aldrei hugsað það til enda.
Magnús reyndi aldrei að villa á sér heimildir . Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur.Einnig í rökum bragganum í Síðumúla.Hann í lifði með breyskleika sinum og lagði hann á sína nánustu.
Magnúsi hefði verið auðvelt að afsaka sig með þeirri vísan í Biblíuna að „ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr”.
Nei,Sigurður er ekki tiltakanlega líkur föður sínum,en þeir eiga þó litningana sameiginlega.
Það var sérkennilegt samband milli Sigurðar og Magnúsar, það fann ég þegar ég hitti þá saman. Þeir voru nógu líkir til að þola illa hvor annan.
Þeir rifust um bókmenntir þegar við hittumst í bragganum forðum daga. Magnús hélt fram Þorskabít en Sigurður atómskáldskapnum.
Sigurði líkaði illa umhverfi Magnúsar í þessum röku húsakynnum frá stríðsárunum og þeim aðbúnaði sem Magnús bjó fólki sínu.
Ég hafði einnig orð á þessum bragga,
Hvernig getið þið, Magnús, verið í þessum raka? spurði ég þegar við kvöddumst.
Rakara verður það í gröfinni, sagði hann.
Og þrengra.
Og lokaði á eftir okkur.
Hef haft miklar mætur á Jeltsín. Hef treyst honum til þess að breyta Rússlandi í lýðræðisríki. Veit nú ekki hvernig til muni takast. Sé að öfgaflokkar hafa unnið mikinn sigur í síðustu þingkosningum. Hitt er þó öllu alvarlegra að Jeltsín er að sparka fulltrúum nýrra viðhorfa úr þeim embættum sem þeir hafa gegnt í stjórnkerfi hans. Hann virðist eiga mjög undir högg að sækja. Kannski er hann að reyna að bjarga því sem bjargað verður, ég veit það ekki. En það setur að manni ugg að fylgjast með neikvæðri þróun í þessu víðlenda ríki og það er svo sannarlega enn ástæða til að vera vel á verði.
Við þurfum að hafa varnir í landinu, tryggja öryggi þess og náið samstarf við vestrænar þjóðir.
Nýr efnahagsráðherra er tekinn við völdum í Rússlandi. Ég veit ekki betur en hann sé gamall kommúnisti; gamall iðnþróunarrefur og forstjóri Lada.
Sem sagt einn þeirra sem fjarstýrðu þrælunum í gúlaginu og létu þá framleiða bílhluti og annað á vestrænan markað(!)
Það er ekki ástæða til annars en að vera uggandi. Þróunin í Rússlandi er víðsjárverð. Maður bindur allar sínar vonir við Jeltsín sjálfan og Tsjernomyrdin, forsætisráðherra hans. En þessir nýju þátttakendur í stjórnkerfi Jeltsíns, gamlir og grónir kommúnistar, geta verið fyrirboðar illra tíðinda; ég veit það ekki. Vona að kalda stríðið hefjist ekki á ný. Rússar voru samþykktir inn í Evrópuráðið í síðustu viku, það var hyggilegt. Mér skilst það styrki stöðu Jeltsíns. Vonandi það sé rétt. En hitt er þá einnig rétt að nýr utanríkisráðherra, Primakov, sem tók við af Kozyrev, er gamall kommúnisti.
Kozyrev er viðkunnanlegur maður; og traustvekjandi. Staða hans var táknræn fyrir jákvæða þróun í Rússlandi.
En hvað táknar hin nýja staða Primakovs? Það setur að manni ugg. Ætli þessi embættisveiting sé ekki merki um aukin áhrif harðlínumanna og rússneska andúð á Vesturlöndum?
Primakov hefur verið kommúnisti frá 1959. Hann byrjaði að klifra upp valdakerfið á tímum Krjúsjeffs og blómstraði á tímum Brésnefs. Hann átti aðild að æðsta ráðinu á valdatíma Gorbasjovs og engin merki sýnileg þess efnis að hann hafi turnazt eftir fall Sovétríkjanna. Hann hefur verið yfirmaður KGB í njósnadeild utanríkisráðuneytisins og skilaði skýrslu 1994 þess efnis að vesturveldin væru að reyna að eyðileggja Rússland. Á fyrsta blaðamannafundi sínum sem utanríkisráðherra, 12. janúar sl., lagði hann áherzlu á að nauðsynlegt væri að stöðva útþenslu og áhrif vestrænna ríkja í Austur-Evrópu og utanríkisstefna Rússlands yrði að vera harðari en verið hefur til að leggja áherzlu á Rússland sem stórveldi.
Trubnikov, eftirmaður Primakovs í njósnadeild utanríkisráðuneytisins, hefur verið sömu skoðunar og hann. Í fyrra sagði hann fullum fetum að líta ætti á Atlantshafsbandalagið sem höfuðóvin Rússlands og ef það reyndi ekki að aðlaga sig breyttum aðstæðum í heiminum eftir kalda stríðið heldur það auðvitað áfram „að vera óvinveitt afl í okkar augum”.
Allt virðist þetta benda til þess að þróunin í Rússlandi stefni í átt að einhvers konar einræði, þó ekki endilega einræði kommúnismans heldur þjóðernissinna, og utanríkisstefnu sem er öndverð vesturveldunum og ógnar stöðu þeirra ,ekki sízt í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs.
Hið slæma ástand í suðurhéruðum Rússlands, í Kákasus, kallar á gott veður í íslömskum ríkjum við Miðjarðarhaf en þó ekki sízt viðunandi samskipti við trúarleiðtogana í Íran.
Mér skilst Primakov tali arabísku og sé sérfræðingur í málefnum múslímskra ríkja.
En hvað sem því líður, þá eru teikn á lofti og ég er nú harðari en áður á því að við höldum vöku okkar og slökum ekki á í öryggismálum, hvað sem kaninn segir um það.
Þetta er sú lexía sem við höfum lært á síðustu misserum. Útlitið er því miður verra en efni stóðu til eftir fall kommúnismans.
Um þetta þurfum við að skrifa leiðara.
Hef verið að skrifa um Tómas í Helgispjalli. Og nú sendi Bragi Kristjónsson mér gamlan bækling sem heitir Eldvörn, gaman og alvara en þar er fjallað um brunahættu og hvernig við henni á að bregðast.
Bragi segir að vísurnar séu eftir Tómas Guðmundsson. Ég hef ekki séð þennan bækling áður, en hef dálítið gaman af honum.
Tómas hefur komið víðar við en maður vissi:
Hann les og reykir rúminu í,
og rólegur sofnar hann út frá því.
Úr hendinni sígarettan rennur.
Sjá, rúmið, bókin, skyrtan brennur.
Já, gáleysi allt er vítavert,
og varast' það ef þú hygginn ert.
Þannig er ort um hætturnar sem stafa af eldi og undir lokin má lesa þessa yfirlýsingu:
Í svona bók allt saklaust er,
en seinna kynnu að mæta þér
þau glöp, sem enn þér gætu sparast,
og glópska, sem þú mættir varast,
ef virtir þú þau vinaráð,
sem voru hér á undan skráð.
Ekki vissi ég að Tómas Guðmundsson hefði haft sérstakan áhuga á brunavörnum en kannski hann hafi fengið borgað fyrir þetta brunarím og þá hefur hann líkastil getað slökkt þá elda sem brunnu innra með honum sjálfum – og haft efni á að fá sér ærlega í staupinu!
29. janúar – mánudagur
Rússneska skáldið Brodský lézt í gær.
Skrifaði grein um Íslandsferð hans og við hana verður stuðzt í Morgunblaðinu á morgun. Leiðarinn sem honum verður helgaður á einnig að vera e.k. aðvörunarorð vegna þróunarinnar í Rússlandi: Grein mín um Brodský birtist í Félaga orð, dags. 23. júní 1978.
30. janúar – þriðjudagur
Ung stúlka, Þóra Arnórsdóttir, upprennandi krati segir Hrafn Jökulsson mér, gagnrýnir 1. desember ræðu mína í Alþýðublaðinu í dag.
Misskilur hana auðvitað, heldur augsýnilega að ég sé að ráðast á Evrópusambandið.
Talar um þjóðrembu; talar um kynslóðabil.
Eitt er þjóðremba, en annað að slá skjaldborg um þjóðleg verðmæti, tungu og arfleifð.
Þóra Arnórsdóttir virðist ekki kunna að gera greinarmun á þessu tvennu.
Það er komið verr fyrir okkur en ég hélt ef hún talar eins og ungt fólk hugsar á Íslandi, en ég trúi því ekki.
Hún er bara í efnahagssambandsstellingum. +
Vonandi nær hún áttum.
Það er líka nauðsynlegt fyrir kratana að kunna skil á þjóðlegri arfleifð og halda ekki ævinlega að hún merki það sama og þjóðremba; öðru nafni nazismi.
Fólk sem þannig hugsar kemst vonandi aldrei í takt við íslenzku þjóðina. Ég trúi því að hún eigi þá strengi í þjóðarsál sinni sem ræðan fjallaði um.
Þegar ég hafði lokið við ræðuna segir stúlkan í grein sinni sem heitir, Þjóðremba og ritstjóri Morgunblaðsins, að „fólk sem komið er yfir miðjan aldur mændi í aðdáun á skáldið stíga af stokki, klappaði af öllum kröftum og eflaust hefur marga langað til að hrópa og stappa líka, en ekki fundist það eiga við stað og stund. Það mátti jafnvel sjá blika á tár á einstaka kinn.”
Aðrir hafi reynt að klappa kurteislega og skilja samhengi ræðunnar.
Ég hefði aftur á móti ekki snert strengi í ungu fólki. Síðan talar hún um „ægilegan nassjónalisma og uppskrúfaðan þjóðernishroka”.
Enginn annar hefur minnzt á þetta við mig, hvorki ungir né gamlir. Ég hef ekki hlotið annað en þakklæti fyrir þessa ræðu.
Steingrímur Hermannsson kom til mín og sagði, Ég er sammála hverju orði í ræðunni.
Ég hef ekki síður hlotið menntun mína erlendis en hér heima. Ég hef ekki verið boðberi þess að „loka landinu” og hafna útlendum áhrifum, þvert á móti höfum við ávallt boðað séríslenzka menningu sem vinnur það bezta úr aðfluttum efnivið. Það höfum við alltaf gert, það gerðum við ekki sízt á 13. öld þegar íslenzk ritlist stóð í hvað mestum blóma.
Ég varaði einungis við því að við gleyptum útlend áhrif umhugsunarlaust; að við yrðum ekki einhverjar nýjar Bahama-eyjar; að við ræktuðum arfleifð okkar, tungu og menningu og sæktum til útlanda holla og góða næringu. Létum ekki skammta okkur eins og gert er í sjónvörpum, alfarið.
Við höfum ekki staðið vörð um sjálfstæði Íslands og þessa arfleifð og barizt gegn heimskommúnisma og áhrifum hans til þess svo að glutra arfleifð okkar niður og sitja uppi með tengslalaust hrognamál. Við þurfum að fara varlega. Þessi ræða var varnaðarorð; hún var áminning. Og vonandi er það rétt sem einhver sagði við Þóru Arnórsdóttur eftir ræðuna og hún vitnar til:
„Þessi ræða var frábær... Hún er bókmenntir, ekkert minna!”
Talaði við Hrafn Jökulsson í dag og sagði að ég kynni því illa að sitja uppi með það að ræðan væri einungis túlkuð í Alþýðublaðinu , en ekki birt. Menn gætu farið að halda að ég væri það sem stúlkan lýsti. Helzt vildi ég ekki sitja uppi með það. Hvort hann vildi ekki birta ræðuna og leyfa lesendum Alþýðublaðsins að sjá hvað ég sagði.
Hann tók því vel. Sendi honum ræðuna í fyrramálið og hann hyggst birta hana næsta fimmtudag. Vonandi kemst þá til skila það sem ég var að reyna að segja. Og ég held það sé meira atriði fyrir Ísland og framtíð þess, stolt okkar og arfleifð að ungt fólk skilji þennan boðskap en misskilji.
Ef ungt fólk vill aftur á móti einungis misskilja hann – og ég veit auðvitað að ekki er hægt að tala um allt ungt fólk í sömu andránni – þá væri illa komið fyrir Íslandi og þeirri framtíð sem við óskum þjóðinni til handa. Þá skipti kannski engu máli hvaða tungu við töluðum. Þá hefði verið betra að fá Rússa hingað því menn rækta innra þrek sitt við andbyr fremur en í alsælu.
Við sjáum til hvernig sunnudagskratanum vegnar í Alþýðublaðinu. Þar hef ég aldrei birt neitt eftir mig áður. Trúi því ekki að kratar séu almennt svo uppteknir af Efnahagssambandinu að þeir megi ekki heyra orð um sérstæða íslenzka menningu og mikilvægi hennar í því umhverfi sem við höfum ræktað í kringum okkur.
4. febrúar – sunnudagur
Rakst á bréf frá Yehudi Menuhin sem hann skrifaði mér 3. júlí 1972, eða skömmu eftir að hann hafði verið hér á ferð ásamt konu sinni, Diana. Bréfið lá inni í eintaki mínu af Borgin hló sem ég hef ekki opnað frá því ég lagði það þarna til varðveizlu. Ég hef augsýnilega sent honum þýðingar Alan Bouchers, Poems of Today, sem kom út í október árið áður.
Menuhin segir m.a.:
„Kærar þakkir fyrir Poems of Today með hinni fallegu áritun um pílagrímsför okkar til Þingvalla. Við höfðum ánægju af að lesa ljóðin þín sem við litum fyrst á. Veltum því fyrir okkur hvort þú hefðir einhverja sérstaka borg í huga þegar þú ortir „Borgin hló” þar sem bæði er lýst furðum og grimmd borgarinnar. Tókum einnig eftir þessari einstöku íslenzku tilfinningu í Ég hef átt land að vini.
Síðan talar hann um greinina sem ég skrifaði um för þeirra út hingað og biður um að fá hana senda ef hún verði þýdd, „en ég treysti því fullkomlega sem þú skrifar”.
Kvæðið, Borgin hló, kom einnig í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar tíu árum síðar í bókinni The Postwar Poetry of Iceland sem ég held að forlag Iowa-háskóla hafi gefið út, en þar er þýðingin mjög breytt.
Kannski er hún betri, kannski verri, ég hef ekki hugmynd um það, en sé aftur á móti að þýðing Alan Bouchers er notuð þegar kvæðið er birt í enn einu safninu þar vestra, Modern Scandinavian Poetry, 1982. Mér sýnist sú bók hafa verið gefin út af Anglo-American Center, en veit það ekki gjörla. Ritstjóri safnsins er Martin Alwood, brezkt-bandarískt ljóðskáld sem hefur gefið út margar ljóðabækur; fæddur 1916. Ég þekki ekkert til hans að öðru leyti, en hann virðist einnig hafa ort eitthvað á sænsku, því hann á eitt ljóð í sænska kaflanum, auk þess sem hann þýðir sjálfur fjölda kvæða af þeirri tungu.
Þegar ég fór yfir efnisyfirlit Lesbókar nú um helgina sá ég að þar átti að birta á bezta stað grein eftir Guðmund frænda minn Guðmundarson (Blöndal), sem hefur elzt við ung skáld og nítt nýskáldskap þeirra eins og honum hefur verið lagið.
Að vísu tekur enginn mark á því sem Guðmundur segir en Gísli Sigurðsson virðist hafa talið að slík grein ætti heima í Lesbók!
Ég sagði honum að taka greinina og flytja hana aftast í blaðið. Slíkt níð, og þá einkum um Einar Má Guðmundsson, ætti ekki að skipa eins konar heiðurssæti í Lesbók Morgunblaðsins.
Helzt hefði ég viljað losna við greinina úr Lesbók og setja hana í Bréf til blaðsins, en þar sem Guðmundur er að svara annarri grein í Lesbók, þótti mér ekki ástæða til að ritstýra þessu með öðrum hætti.
En ósköp er þetta annars hvimleitt, að þurfa að fylgja eftir hverju smáatriði bæði í Lesbók og Morgunblaðinu til að þessu lífsstarfi manns sé ekki breytt í sorptunnu.
Að vísu er mikið af leir í Lesbók, það vita allir, en það er alþýðlegur leir og dálítið fróðlegt að sjá hve margir Íslendingar föndra við ljóðlist. Stundum birtast góð kvæði í Lesbók, að vísu, en það er því miður ekki oft. En góð ljóð eru svo sjaldgæf orðið að það horfir til vandræða! Ef við birtum ekki í Lesbók nema fín kvæði félli þessi þáttur niður. En hann er vinsæll, að minnsta kosti af þeim sem yrkja!! Og stundum slæðist með eitthvað bitastætt og það réttlætir pappírssukkið.
Framboð dr.Guðrúnar Pétursdóttur til forseta var tilkynnt í gær, laugardag. Við sögðum frá blaðamannafundinum á bls. 2. Guðrún sagði í sjónvarpssamtali fyrir skömmu að hún mundi hafa gaman af að vera á Bessastöðum!
Kannski tekur þjóðin þátt í þessu gamni með henni, hver veit?
En öllu gamni fylgir nokkur alvara, þótt því sé oft gleymt nú um stundir. Farsinn á að duga(!) Annars lízt mér misjafnlega á bakhjarlinn sem trónar á myndinni með þeim Guðrúnu og Ólafi Hannibalssyni. Þar eru að vísu engir sérstakir forsetafíklar, nema þá helzt Áslaug Ragnars sem elti uppi Vigdísi Finnbogadóttur á sínum tíma. Og nú er komið að Guðrúnu Pétursdóttur. Kannski verður sagan endurtekin, hver veit? En illa leizt mér á bakhjarlinn Þóru Arnórsdóttur, þá hina sömu sem vó að mér fyrir 1. desember-ræðuna, en gaf mér tækifæri til þess að óska eftir því við Alþýðublaðið að það birti ræðuna í heild. Það hefði ég helzt ekki getað í Morgunblaðinu, enda var henni útvarpað í gömlu gufunni.
Hvar annars staðar?
Eða eins og Jóhannes Nordal sagði við mig,
Ætli þeim sé ekki nákvæmlega sama þótt þú sért eitthvað að mala um þjóðernið yfir nokkrum hræðum uppí Háskóla!
Þegar ég hafði flutt desember-ræðuna var Guðrún Pétursdóttir ein þeirra sem komu blaðskellandi til mín og fagnaði því sem ég hafði sagt – og kyssti mig(!)
Hún hefur þá líklega verið ein þeirra sem fór hvað mest í taugarnar á Þóru Arnórsdóttur ef draga má einhverjar ályktanir af þessum orðum í grein hennar:
„Það fólk sem komið er yfir miðjan aldur mændi í aðdáun á skáldið stíga af stokki, klappaði af öllum kröftum og eflaust hefur margt langað til að hrópa og stappa líka, en ekki fundist það eiga við stað og stund. Það mátti jafnvel sjá blika á tár á einstaka kinn.” Þar sem ég tel að Guðrún Pétursdóttir sé einlæg kona, þegar henni er sjálfrátt, þá hefur hún ekki sízt hrifizt af þessum „ægilega nassjónalisma og uppskrúfaða þjóðernishroka”.
Nema þá henni sé skítsama um allt – nema Bessastaði!
Þeir sem þurfa að sækja atkvæði til dómgreindarlítils fjölda með alls kyns pólitíska fordóma, glata einatt persónuleika sínum og enda eins og hver annar samnefnari allra sem við er talað; sem e.k. Ragnar Reykás. Mér þykir ólíklegt að Guðrún Pétursdóttir fari að taka upp á því en hún má svo sannarlega vara sig á fordómum ungra krata eins og Þóru Arnórsdóttur. Það er margt fólk sem hvorki skilur, né vill skilja. Hún virðist vera í þeim flokki, því miður. En ég skil ekki hvaða ávinning Guðrún Pétursdóttir telur sig hafa af því að hlaða fordómum í kringum sig þegar hún stefnir á Bessastaði .
Það er einkennileg djúpsálarfræði og raunar óskiljanleg með öllu Mér skilst hún sé doktor í skammdegisþunglyndi, það gæti skýrt bakhjarlinn Þóru Arnórsdóttur!
5. febrúar – mánudagur
Hef verið að undirbúa fyrirlestur um Njálu – og þá einkum Njálu í íslenzkum skáldskap – sem ég hef verið beðinn um að flytja í Osló í maí næstkomandi. Þegar ég var að blaða í minni gömlu bók, Njálu í íslenzkum skáldskap, rakst ég á bréf sem Kristján Eldjárn hefur sent mér 10. júlí 1960. Þetta er fróðlegt bréf og því skemmtilegt, en þar segir dr. Kristján m.a.:
„Kæri Matthías,
Ég hef verið að lesa bók þína um Njáluskáldskap. Það er líkast til góð bók, að minnsta kosti er hún mjög skemmtileg að lesa.
Ef þú skyldir enn vera að safna efni í þessum dúr, datt mér í hug að segja þér frá skáldskap nokkrum um öxina Rimmugíu eða Remigíu, sem Brynjólfur biskup lét smíða og lengi síðan var til í Skálholti. Þegar Páll Vídalín var skólameistari í Skálholti (1691-95) en Steinn Jónsson (síðar Hólabiskup) dómkirkjuprestur, kváðu þeir um öxina þessar vísur:
Páll Vídalín:
Brand Skarphéðins hendur
hristu, furðu byrstan,
reynd fjandmanna randir
Remmeggja nam hremma;
reiðin gjarða gríður
grein þrátt að hausbeinum,
fjöri, frægð og æru
fargaði brynju vargur.
Steinn Jónsson:
Skarphéðinn eggjar yrpu
æsti með huga stærstum,
gráðugleg skafta gríður
gein yfir runnum fleina;
rendum rykkti í sundur,
rann blóðið, hetjur sannar
bryntröll blóðugt um granir
beljandi rak til heljar.
Um þetta má lesa í Vísnakveri Páls Vídalíns, Kbh. 1897, bls. 39 og 188-189. Einhvern veginn finnst mér að þessar vísur séu í ættartengslum við vísurnar sem þú segir vera eftir Ólaf í Svefneyjum, þótt þessar eigi að vera miklu eldri.
Úr því að þú minnist svo oft á Sigurð skólameistara hefði verið gaman að geta þess, hvernig hann sjálfur notar Njálumynd í ástarkvæði um konuna sína, sbr. niðurlag kvæðisins, Á sal, bls. 8.
Þorbjörg Jónsdóttir, fyrri kona Jónasar Þorbergssonar útvarpsstjóra, var prýðilega skáldmælt. Hún var og kvenna hárprúðust. Í banalegu sinni sendi hún Jónasi manni sínum þessa vísu:
Við stöndum ekki saman, þeir sækja að þér lengur,
því sendi ég þér lokk, er blakti mér um kinn,
ég veit að einhvern tíma varst þú eins og drengur,
og varastrengur er hann þá á bogann þinn.
Svona var mér kennd þessi vísa og sagt tilefni hennar og sel ég ekki dýrar en ég keypti. En vel gæti ég trúað að hún væri eitthvað lítillega úr lagi færð, það er eitthvað stirt í henni. Og þó.
Þú fyrirgefur þó ég sendi þér þessa punkta sem komu í hug minn við lestur bókar þinnar.
Vertu blessaður
Kristján Eldjárn.”
Það væri gaman að skoða Njálu-skáldskap eftir miðja þessa öld, en það er mikil vinna og ég hef hvorki tíma né tækifæri til þess. Það verður að falla í hlut einhvers annars, t.a.m. Jóns Karls sem stjórnaði nýlega ágætum þætti um Njálssögu-skáldskap á Rás 1.
Auðvitað.
Það er sjaldnast fjallað um menningarleg efni, listir eða bókmenntir, á öðrum ljósvökum.
Rakst á grein sem ég skrifaði í sjónvarpshasarnum 1965. Það var erfitt eins og ástatt var; þúsundir manna með Keflavíkursjónvarp og vitlausir ef því hefði verið lokað, án annars í staðinn.
Styrmir sem var einn 60-menninganna og þurfti enga ábyrgð að bera gagnvart lesendum Morgunblaðsins (og Bjarna Benediktssyni og stjórn hans!) segir að ég hafi verið gulur í málinu!!
Ég lít á þetta eins og hvert annað tíst!
Bjarni reifst allrækilega við mig út af greininni svo að öll spjót voru á manni, en Gylfi Þ. vildi loka Keflavíkurstöðinni eins og ég og vann að því án þess gera allt vitlaust.
Það tókst að lokum með íslenzkt sjónvarp að vopni(!)
Í minni „gulu” grein sem Magnús Kjartansson hafði að háði og spotti, sagði m.a.
„Ég held því að einasta lausnin á þessu harla vafasama máli sé sú, að stofnað verði til íslenzks sjónvarps, sem sé sterkara og girnilegra til stundargamans en það varnarliðssjónvarp, sem nú er á boðstólum, mikill hluti íslenzkra hlustenda skilur ekki og er síður en svo nein andleg kjarnafæða, þó maður hafi heyrt raddir í þá átt. Þó íslenzkt sjónvarp verði kannski ekki fyrst í stað neinn mímisbrunnur, hef ég trú á því að það eigi fremur auðvelt með að sigra í samkeppninni við Keflavíkursjónvarpið.”
Nei, mímisbrunnur íslenzkrar menningar hafa sjónvörpin ekki orðið, því miður. En það verður kannski einhvern tíma eftir vora hérvistardaga, hver veit?!
6. febrúar – þriðjudagur
Já, nú er Brodský allur.
Í TLS, frá 2. febrúar sl., eru tvö ljóð sem hann skildi eftir sig og blaðið birtir sem eins konar minningu um þennan sérkennilega andófsmann og afkastamikla og fjölbreytta skáld, The Tale, í þremur köflum, og Reveille; skemmtileg kvæði og einkar vel gerð. Ætli Brodský verði ekki jafn einstætt ljóðskáld á enska tungu og Conrad var á óbundið mál?
Fyrra kvæðið fjallar um keisarann sem hugsar ekki um hvort hann eyðir jörðinni ef það yrði gjaldið sem hann þyrfti að greiða fyrir völd sín og dýrð. Skáldið talar um hvíta hestinn og það er augsýnileg skírskotun í Napóleon.
En auðvitað fjallar kvæðið um nútímamenn af þeirri gerð sem hröktu hann frá Sovétríkjunum á sínum tíma.
Merkilegt að þetta skuli vera kveðja Brodskýs til lífsins. Hún virðist ekki vera tilviljun en hún er jafn ótrúleg og allt líf hans, bæði í Sovétríkjunum og Bandaríkjunum.
Nú skilst mér Jeltsín vilji að hann fái hinzta legstað í St. Pétursborg. Ég held hann hafi aldrei komið þangað, samt er hann fæddur í Leningrad(!)
Mér sýnist að The Tale sæki form og innblástur í Heine, en í Reveille eru augsýnileg áhrif frá Auden, en Brodský var skjólstæðingur hans.
Þessi áhrif eru bæði athyglisverð og skemmtileg. Þau auðvelda Brodský leiðina að honum sjálfum og þannig verða kvæðin sérstök og afar persónuleg, þrátt fyrir áhrifin.
Þó virðist mér þau ólík flestum öðrum kvæðum hans, en tungutakið er þessi þýfða enska sem getur einnig orðið að miklu torfi hjá Conrad. En hún er skemmtileg og öðruvísi og hefur áreiðanlega einhvern endurnýjandi kraft fyrir enska tungu.
Á sínum tíma las ég Svartfugl á dönsku. Það er einhver fínasta danska sem ég hafði lesið. Ég held Gunnar Gunnarsson hafi kennt Dönum að skrifa dönsku á nýjan leik.
En það kann enginn að meta.
Og það er ekki eitt orð um hann í danskri bókmenntasögu. Samt er danskan á Svartfugli eins og hunang og bráðnaði inn í merg og bein, þegar ég las hann í Kaupmannahöfn veturinn 1955-56.
Þessi saga hefur æ síðan fylgt mér eins og ójarðneskt ævintýri, samt fjallar hún um glæpamál. En hún er þá ekki síður um ástina og ástríðuna og það græna gras sem vex úr taðinu.
Ég hef aldrei þorað að lesa þessa bók á íslenzku.
Ég ætla að eiga áhrifin af þeirri dönsku sen Gunnar Gunnarsson kunni öðrum mönnum betur,. Mér er nær að halda að Heinesen hefði ekki getað skrifað jafnflotta dönsku og raun ber vitni án Svartfugls.
Hef verið að lesa geðþekka ljóðabók eftir ungan mann, sem hefur sótt um vinnu á Morgunblaðinu, Sigurð Ingólfsson. Bókin heitir heim til þín og kom út 1992. Skáldið er víst búsett í Frakklandi þar sem það hefur lagt stund á framhaldsnám í bókmenntafræðum. Þessi ungi maður er vel menntaður og kann sína bragfræði. Það háir mörgum ungum skáldum að þau kunna ekkert í bragfræði og vita því heldur lítið um ljóðlist. Það væri eins og listmálari sem kann enga teikningu eða nótnalaust tónskáld.
Þetta finnst mér t.a.m. heldur geðfellt kvæði:
Hugfiskar
Dögunin læðist
léttfætt til mín yfir fjöllinog loks get ég sofnað
því myrkrið er byrjað að flýja.En draugarnir koma,
hún elur þá nýja og nýja,nóttin sem bíður í sjónum
og kemur með tröllin.
Gluggaði í dagbókina mína frá 1955.
Mikið lifandis ósköp er þetta allt mikið liðið.
Hildigunnur Gunnarsdóttir, eða Stella eins og við kölluðum hana í gamla daga þegar við vorum ung, var jarðsett 1. febrúar. Hún var góð vinkona Hönnu þegar ég kynntist henni 1. október 1949.
Það var mikið vor þetta haust; mikið vor og gott.
Hanna kom með landið og jörðina og sólríka framtíð í fanginu.
Hún hafði ekki ætlað að fara í Oddfellow , eða Tjarnarkaffi, kvöldið sem við kynntumst, heldur í Breiðfirðingabúð en þar var allt fullt svo að þær Stella hrökkluðust burt og lentu í Oddfellow.
Þar var ég með Jónasi, bróður hennar, og ÍR-ingunum Yngva Guðmundssyni og Gunnari Sigurjónssyni knattspyrnumanni í Val, vinum mínum. Stella giftist honum síðar og ég held þau hafi eignazt fjögur börn.
En þessi æskutengsl trosnuðu eins og verða vill og hver fór sína leið.
En þannig varð Stella örlagavaldur í lífi okkar og andlát hennar kallar fram margvíslegar minningar um það sem kemur aldrei aftur.
Ég er farinn að læra að láta hverjum degi nægja sína þjáningu eins og Kristur sagði og horfa til fugla himinsins og lilja vallarins. Lífið kennir manni þetta. En -hversdagsþjáning og gleði hafna svo í kvæðunum og þau varðveita andrúm þess sem var; miðla reynslu sem flestir eða allir hafa einhvern tíma átt.
Ég held slík reynsla verði áberandi í næstu ljóðabók minni sem ég er að setja saman fyrir Hörpuútgáfuna. Þar eru kvæði um mikla reynslu og mikla leyndardóma. Sum dálítið erfið vegna skírskotana. En það er ekki sízt í hið dularfulla andrúm listarinnar sem við leitum manneskjunnar. Hin augljósa reynsla hversdagsleikans er einungis tilraun til að lifa af. Án þess umhverfið gleypi mann eins og slanga sem sporðrennir heilu dádýri, en ég hef séð mynd af slíkum hamförum í Focus.
Hún var ekki að leita að neinu – nema fæðu.
Hversdagsleikinn er hin blinda eðlishvöt slöngunnar.
Ég las minningargreinarnar um Stellu sem var ættuð úr Fljótshlíð eins og sést af föðurnafni hennar,Gunnar , og þær voru auðvitað eins og vænta mátti, en mér fannst furðu gegna að enginn skyldi nefna þau afrek sem Gunnar Sigurjónsson, maður hennar, vann þegar hann var að atast í fótboltanum. Hann var einn bezti knattspyrnumaður landsins á sínum tíma. Ég kynntist honum og Yngva Guðmundssyni í ÍR,en þar var faðir minn formaður árum saman. Þeir, ásamt Sigurði Fjeldsteð, urðu svo beztu vinir mínir á menntaskólaárunum.
Foreldrar Stellu og Jónasar voru harla athyglisvert fólk.Móðir hennar sagði við mig,Þegar ég dey skal ég birtast þér!.Og sanna þér líf eftir dauðann!
Hún er löngu dáin,en ég hef ekki enn séð hana framliðna.
Mig vantar sem sagt sönnunina!
Ég er víst ekki einn um það.
Hef víst sagt annars staðar frá því hvernig við Hanna kynntumst í Tjarnarkaffi og mig minnir hún tali um það einnig í greininni sem Sólveig Jónsdóttir skrifaði um hana í Betri helmingnum, 1994.
Mér þykir vænt um þá grein.
Hún segir ýmislegt um þessa hlédrægu og karaktersterku öræfastúlku sem hefur notað líf sitt til að hjálpa öðrum og láta gott af sér leiða.
Og nú er hún amma með ágætiseinkunn.
Hún kom með ferskan blæ inn í líf mitt, veröld sem ég hafði ekki þekkt, þótt ég hefði víða þvælzt.
Þau eru ófá kvæðin sem eru innblásin af henni og ég hef ort um hana – og öll sönn. En vonandi eiga þau líka almenna skírskotun; vonandi geta þau yljað einhverjum löngu eftir að við erum horfin.
Ég segi ekki, af ásettu ráði, af sjónarsviðinu því þar höfum við aldrei verið. Líf okkar hefur verið hlédrægt og án krafna um athygli. Samt hef ég víst ekki komizt hjá henni vegna starfs míns og bóka. En athygli freistar mín ekki, þvert á móti.
Sigurður Nordal hélt mikið upp á Hönnu og sagði mér tækist alltaf bezt upp,þegar hún væri í fylgd með mér.
Ég minnti hann á að ég hefði valið hana sjálfur.
Þá brosti hann.
Hef verið að reyna að ljúka við fyrirlesturinn sem ég ætla að halda í Osló um njáluskáldskap. Hyggzt bæði minna á Íslandskvæði William Morris, sem hefði orðið hundrað ára á þessu ári, en þó einkum Gunnars Howe sem ég ætla að lesa úr í lokin; svo og Gunnars kvæði Seamus Heaney, sem er þriðji kaflinn í Funeral Rites en á það minnti ég einnig í Morgunblaðsgrein þegar Heaney fékk nóbelsverðlaun, að ég held.
Ætli Auden eða MacNeice hafi ort eitthvað um Njálu, ég man það ekki.Kannski er það í ferðasögunni þeirra,Letter from Iceland.
Þarf að athuga það.
Annars er nýútkomin ævisaga MacNeice, mjög athyglisverð, og þá einnig bækurnar um William Morris, eftir Fiona MacCarthy sem hlotið hefur mjög góðar viðtökur, enda frábær bók og margt í henni um Ísland, og Stephen Coote sem einnig kom út í fyrra.
Bók MacCarthy hefur undirtitilinn Alive for Our Time en undirtitill bókar Cootes er His Life and Work og þar eru birtar dýrar perlur úr skáldskap hans og margar athyglisverðar myndir, ekki síður en í bók MacCarthys.
Þarf að láta skrifa grein um Morris í Lesbók.
Sendi Kristjáni Karlssyni athugasemdir mínar um kvæði hans Látum oss gera sem ég hef minnzt á áður á þessum blöðum og hef nú fengið bréf frá honum þar sem hann lætur í ljós velþóknun sína svo að ég er að hugsa um að skjóta þessari grein inn í Helgispjall.
Kristján segir:
„Kæri vinur.
Þakka þér fyrir þinn djúpa skilning og elegant skilgreiningu á „Látum oss gera...” Ég er varla hlutlaus, en skelfing er sjaldgæft að sjá svona tæra og erfiðislausa gagnrýni. Þakka þér aftur fyrir.” Sendi mér auk þess tvö ný kvæði; ágæt. Hafði skömmu áður fengið endanlega gerð af kvæði sem heitir „Af skáldi og lesanda Byrons” og með því fylgdi þessi nóta: „Kæri vinur. Afsakaðu lélegt uppkast að þessu kvæði sem ég sýndi þér áður en afhenti þér vonandi ekki! Ég las Don Juan fyrst strákur í þýðingu Drachmanns sem ég held að sé stórkostleg, eins og fleira sem maður les í æsku, og óprúttin sem kynni þá að ná „anda” kvæðisins. En upptökin að mínu kvæði eru þau, að ágætur maður og aðdáandi skáldkonu nokkurrar missti áhuga á henni þegar mér varð á að nefna að hún hefði átt gyðinglegan forföður einhv. staðar (auk skandinavísks!).
Ég get þessa nú bara til þess að friða bókmenntasöguna í framtíðinni svo hún gleypi mig ekki. Þinn KK.”
Ég á mikið af svona athugasemdum frá Kristjáni, ekki sízt um kvæðin hans sjálfs. Hef haldið því til haga, bókmenntasögunni til aðstoðar!
8. febrúar – fimmtudagur
Við Styrmir töluðum saman í dag um forsetakosningar. Erum sammála um að þær geti orðið fáránlegar, jafnvel hatursfullar og blóðugar. Teljum báðir að Davíð Oddsson muni fara fram. Erum þeirrar skoðunar að hann hafi burði til þess að gegna forsetaembætti.
Styrmir sagði mér að Bryndís Schram hefði talað við sig lengi síðdegis í dag. Mér skilst verið sé að skora á hana að fara í forsetaframboð, en þó einkum leigubílstjórar og fólk á götunni. Engin háskólaelíta eða ættarveldi eins og virðist vera bakhjarl Guðrúnar Pétursdóttur . Hún virðist þó hafa komið heldur vel fyrir í fjölmiðlum, en hvað dugar það. Það veit enginn fyrr en að leikslokum.
Talað um að Guðrún Agnarsdóttir fari ekki í framboð.
Enginn veit um séra Pálma Matthíasson, Styrmir heldur að hann sé að bíða átekta og sjá hvað Davíð gerir. Og kannski blöskrar honum kostnaðurinn af slíkri baráttu, hver veit? Það er dapurlegt til þess að hugsa að forsetaframbjóðendur þurfi að hafa áhyggjur af fjármálum í þessum slag.
Guðrún Pétursdóttir segist þó engar slíkar áhyggjur þurfa að hafa. Stuðningsmenn hennar borgi. Mér er sagt að Einar Sveinsson, frændi hennar, forstjóri Sjóvá, og aðrir kapítalistar í ættinni hafi lýst sig reiðubúna til að taka á sig skuldirnar.
Sem sagt, ættir og peningar – það er Ísland í dag(!)
Við erum eins konar kettlingsmynd af bandaríska ljóninu ef nánar er að gætt. Það er ekki sízt dapurlegt til þess að vita. Bandaríkin eru í aðra röndina spillt þjóðfélag. Íslenzkt þjóðfélag er einnig orðið miklu spilltara en við höfum haldið.
Okkur vantar forystumenn sem hreinsa til. Ég vildi að blað eins og Morgunblaðið hefði bolmagn til þess, en það þarf meira til. Það þarf hugrakka menn inn í pólitíska kerfið sem hafa þrek og bolmagn ef hér á að vera hægt að uppræta innri spillingu. Kostnaðurinn við Bessastaði er t.a.m. kominn á annan milljarð!
Og margt eftir því.
Matthías Bjarnason segir í samtali við Tímann í dag að þingmenn þori ekki að segja neitt eða spyrja um framboðsmál Davíðs, leiðtoga síns, eins og hann kemst að orði:
„Við erum allir hættir og farnir, sem þorðum og létum ekki ganga yfir okkur”, hefur Tíminn eftir Matthíasi.
Þetta er að vísu bergmál úr glerhúsi því Matthías Bjarnason var allof mikill sjóðasukkari meðan hann var sjálfur í pólitík.
Það vita allir og bezt hann sjálfur og þess vegna vantar hljóðkút á þessi stóryrði.
Fyrirsögnin á samtalinu við Matthías í Tímanum er, Ég hef fyrirlitningu á pólitík.
Hann hafði það að vísu ekki meðan hann var að sukka með sjóðina og veita skattpeningum í alls kyns fyrirtæki, ekki sízt vestur á fjörðum.
Ég hnaut því um þessi orð.
En þegar ég fór að lesa samtalið gat ég ekki staðizt þá freistingu að vera nafna mínum sammála um margt.
Hann segir réttilega:
„Ég þoli ekki að sjá að eytt sé milljörðum í það sem má svo sannarlega bíða, eða jafnvel þarf ekki að framkvæma, Hvalfjarðargöng og Bessastaði sem eru víst að nálgast 1,4 milljarð og munu kosta meira. Mér sýnist að það sé ekki haldinn sá fundur í veröldinni að þar sé ekki mættur Íslendingur, án þess þeir viti nokkuð hvers vegna þeir eru að fara. Veisluhöldin og stórbokkabragurinn ofbjóða öllum. Það hefðu kannski færri mátt fara alla leiðina til Torgs hins himneska friðar til að flytja stórgjafir til þeirra. Mér er sagt að núna sé alltaf um það bil hálft þingið erlendis, Evrópumálin auka á þetta fundafargan. Ég sé ekki annað en að þetta land sé að fara sömu leið og höfðingjar sturlungualdar þegar þeir fóru á fund Noregskonunga. Þeir þurftu konungs leyfi til að snúa aftur til síns heima. Núna eru stjórnmálamenn okkar teknir á beinið og skammaðir.
Utanríkisráðherra landsins verður að standa frammi fyrir einhverri ítalskri kerlingu, sem skammar Íslendinga fyrir barnaþrælkun. Og á sama tíma kemur í ljós að í næsta nágrenni við höfuðstöðvar Evrópusambandsins viðgengst skipulagt barnavændi.”
Matthías segir í lokin:
„Á sama tíma og svona er farið með peningana les maður í blöðum að verið sé að spara sem þeir kalla tugþúsundir legudaga í sjúkrahúsakerfinu.
Hvað kostar það þetta fólk, t.d. á geðdeildunum, hvað verður um þessa sjúklinga sem fá ekki læknishjálp, þvert ofan í gildandi lög. Og almannatryggingarnar og ellilífeyrisþegana, það verður næst ráðist á þá sem minnst mega sín.
”
Þetta er auðvitað íhugunarefni , en Hvalfjarðargöngin eru “gott mál”.
Hitt er svo annað mál að þeir sem stjórna fjármálum ríkisins eiga ekki bara völina, þeir eiga einnig kvölina. Það er ekki heiglum hent að rata þetta erfiða einstigi. Kannski lærum við það einhvern tíma? En við erum með mannjafnaðarblóð í æðum og það er vondur arfur.
Sturlungaöldin blundar í okkur eins og herpesveira.
En kannski er ég of dómharður; of kröfuharður.
Styrmir segir ég hafi jafnmikið ofnæmi fyrir umhverfinu og Solzhenitsyn.
Það er þá ekki leiðum að líkjast!
Mér skilzt á Styrmi að Bryndís Schram eigi erfitt með að taka afstöðu til þess hvort hún bjóði sig fram til forseta eða ekki. Þá yrði Jón Baldvin að segja af sér formennsku Alþýðuflokksins. Gæti hann hugsað sér það?
Styrmir telur að þau nöfn sem koma til greina í þessum slag hafi nú þegar öll verið nefnd.
Ég efast þó um það.
Hann segir að menn vilji ekki skíta sig út í þessu ati. Það er áreiðanlega mikið til í því. Hann spurði mig hvort ég teldi ekki að Davíð Oddsson væri frambærilegt forsetaefni.
Jú, auðvitað(!)
Hann er sama sinnis
En hvað áttu við? sagði ég. Áttu við það að við myndum styðja framboð hans?
Nei, sagði hann. Auðvitað styðjum við engan. Við erum sammála um það.
En ritstjórum Morgunblaðsins er samt mikill vandi á höndum. Hvernig á að reyna að rétta þetta þjóðfélag við; finna jafnvægi, færa forsetaembættið upp á hærra plan svo að vitnað sé í orðfæri sem nóbelsskáldið notaði af öðru tilefni.
Heldurðu ekki að Guðrún Agnarsdóttir fari fram? spurði ég.
Nei, sagði hann.
Það hefur þá verið farið illa með hana undanfarið, sagði ég. Hún hefur verið eins konar forseti vikum saman. Já, og svo séra Pálmi Matthíasson.
Hann bíður átekta, sagði Styrmir.
En hvað um Guðrúnu Agnarsdóttur, ef hún fer ekki fram?
Það sýnir bara, sagði Styrmir, að hún er ekki nógu mikill stjórnmálamaður!
Og það má vel vera, ég veit það ekki.
Það er svo margt sem ég veit ekki og ennþá fleira sem ég skil ekki, einkum þegar ég lít í kringum mig og horfi á samtímaleiksviðið á Íslandi. Hávaðaseggir ráða ferðinni. Dómgreindarlaust fólk er á sviðinu og þjóðin segir fátt; hnipin þjóð í vanda(!). Ég hef verið að spyrjast fyrir um áhuga almennings, bæði þar sem ég er í sjúkraþjálfun og annars staðar. Alls staðar fæ ég þau svör að það sé lítill áhugi. Konur vilji ekki endilega konur. Það sé litið á framboðsstellingarnar sem hálfgerðan farsa. Sá sem kosinn verði sé ekki enn kominn fram á sjónarsviðið.
Sagði þetta við Styrmi, en hann situr við sinn keip.
Allt á þetta eftir að koma í ljós.
Við Hanna vorum í Neanderdal þegar við fengum fréttir af því að Vigdís Finnbogadóttir hefði verið kosin forseti á sínum tíma.
Þá voru þrumur og eldingar og hellirigning í þessum heimkynnum frummannsins. Mér fannst ég vera orðinn einhvers konar fornaldarfyrirbæri í þessu glæfralega umhverfi. Það var eftirminnilegt og ég orti síðar um það kvæði sem ég man ekki, hvort hefur verið birt.
Við vorum nýkomin til Þýzkalands og það hafði verið hellidemba þegar við lentum í Düsseldorf. Ég sat frammí í lendingunni, það var eftirminnilegt.
Skrifaði um það stutta grein í Lesbók.
Og nú vorum við í slagviðri í Neanderdal, en þangað höfðum við aldrei farið áður.
Í fréttunum var sagt að kona hefði verið kosinn forseti Íslands, fyrsta konan sem því embætti hefði náð í frjálsum kosningum.
Svo var það búið.
En þá vissum við úrslitin. Og það var einkennileg tilfinning að upplifa þau í þessu umhverfi.
Og nú segir Indriði G. Þorsteinsson í Degi að hann vilji fá hákarlaformann í forsetaembættið, mér skilst helzt úr röðum vinstri manna.
Honum verður áreiðanlega að ósk sinni.
Það skortir a.m.k. ekki hákarlana.
Mér skilst Ingibjörg Sólrún Gísladóttir styðji Guðrúnu Pétursdóttur.
Veit ekki hvers vegna.
Kannski eiga þær eitthvað sameiginlegt annað en kynferðið. Neikvæða afstöðu til Davíðs og gamalt bandalag gegn honum, það skyldi þó ekki vera.
Ég er alltaf tortrygginn í garð neikvæðra bandalaga, þau fjalla um persónulegan metnað, en ekki hugsjónir.
Það eru mörg neikvæð bandalög í Sturlungu.
Kannski verður Neikvæða bandalagið ofaná, hver veit?(!)
10. febrúar – laugardagur
Þegar ég skrapp upp á Morgunblað, upp úr hádegi í dag, hitti ég konu sem ég bar ekki kennsl á. Hún heilsaði mér glaðlega og sagði,
Ég er Ágústína !
Þá kveikti ég á því hver hún er. Hún er skáldkona, en ég þekki hana ekki. Hef þó einu sinni talað við hana áður. Hún talaði fallega við mig og spurði hvort bókin mín hefði ekki gengið vel.
Ég sagðist halda það.
Hún sagði mér að hún hefði kynnzt ljóðunum mínum þegar hún stundaði nám í Kennaraháskólanum og Eysteinn Þorvaldsson hefði kennt henni íslenzku.
Hún fór fallegum orðum um kvæðin og sagðist hafa valið þau til umfjöllunar.
Ég mundi þá eftir því að Ingi Bogi hafði skrifað fallegan ritdóm í Morgunblaðið um síðustu bók hennar og farið lofsamlegum orðum um hana.
Minnti hana á það.
Ég sá það hafði glatt hana.
Áður en við kvöddumst sagði ég, Þú hnippir í mig ef við hittumst aftur því ég er svo ómannglöggur.
Hún kvaðst mundu gera það.
„Annars þykir mér alltaf vænt um þig vegna kvæðanna þinna,” bætti hún við.
Það var hlýleg kveðja og ég átti hana ekki skilið. Ég hef nefnilega dálítið samviskubit út af þessari skáldkonu. Hélt hún væri ein af þessum konum sem ætla sér að vaða yfir allt því ég fékk til afgreiðslu grein eftir hana sem Gísli Sigurðsson hafði tekið við og mér þótti ástæðulaust á þeim tíma að kaupa utan úr bæ. Hafði allt á hornum mér og lét það berast. En það var ósanngjarnt að byggja henni út úr blaðinu, svo við birtum greinina að lokum.
Hún fylgdist með þessu öllu og hefði átt að bera til mín kaldan hug.
Hugsa mér þegjandi þörfina.
Svo ógestrisinn eða viðmótskaldur ritstjóri sem ég hafði verið.
Ég hafði að vísu fundið flöt á málinu og látið birta greinina, en með eftirgangsmunum og öðrum hætti en ráðgert var í upphafi.
Lét síðan þau boð út ganga að við keyptum sem minnst af greinum, og ætti það bæði við um skáldkonuna og aðra.
Svo liðu nokkrir dagar en þá hitti ég hana á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins.
Hún gekk til mín, jafn glaðleg og kurteis og hún var í dag, heilsaði mér fallega, sagði hver hún væri og þakkaði mér fyrir að hafa afgreitt greinina með þeim hætti að taka hana til birtingar.
Ég hálfskammaðist mín, konan var svo kurteis og glaðleg.
Við áttum þarna örstutt, vandræðalaust samtal og kvöddumst með virktum.
Mér leið betur.
En það munaði litlu að ég særði viðkvæmt skáld. Þannig fer ekki alltaf saman, skáldskapur og blaðamennska, og ritstjórinn hefur stundum átt í erjum við skáldið. En þá hefur skáldið einnig látið ritstjórann hafa hitann í haldinu og það hefur oft komið sér vel; t.a.m. í viðskiptum mínum við Ágústínu skáldkonu sem er ekkert nema kurteisin og það hlýja viðmót sem ég bráðna venjulega fyrir.
En stundum skellur hurð nærri hælum og það er eiginlega með ólíkindum að ég skuli ekki vera allra manna óvinsælastur af listamönnum, og þá ekki sízt skáldum, vegna þess aðhalds og aga sem ritstjórinn verður að beita.
Þröstur Helgason skrifar í dag grein í menningarblað Morgunblaðsins og fjallar um Eistlands-ferð sína.
Í greininni segir m.a.:
„Í sjálfstæðisbaráttunni vaknaði mikill áhugi á eistneskri sögu; var litið svo á að með henni mætti styrkja sjálfsvitund þjóðarinnar og um leið pólitískt sjálfstæði hennar. Í lok árs 1991 var Hið eistneska sögufélag stofnað sem hafði að markmiði að varðveita og endurreisa sögulega muni og efla vitund landsmanna um sögu sína og bakgrunn.
Í borginni Tartu í suðausturhluta Eistlands hitti ég Jaan Kaplinski, skáld og greinahöfund, og konu hans, Tiiu Toomet, sem hefur meðal annars fengist við að endurskrifa eistneskar sögubækur fyrir barnaskóla. „Við eigum mikið verk fyrir höndum við að skrá sögu landsins okkar upp á nýtt”, segir hún og dæsir eilítið, „allar eldri sögubækur voru eyðilagðar og í skólunum var notuð tilbúin sagnfræði frá Kreml. Í þeim bókum stóð meðal annars að Rússar hefðu fundið up rafmagnið.”
Ég sest með þeim hjónum inn á veitingastað rétt utan miðborgar Tartu. Eistneskum fylgdarmanni mínum hafði reynst erfitt að finna heppilegan stað fyrir fund okkar vegna þess að á flestum þeirra hljómar hávær rokktónlist. Er það aðeins eitt merki þess hve Eistar eru ákafir við að innleiða vestræna poppmenningu í land sitt; á sjö daga ferðalagi mínu um landið heyrði ég reyndar enga klassíska tónlist.
Jaan Kaplinski segir að Eistar hafi almennt misst áhugann á alvarlegri list. „Sjálfstæðið virðist hafa haft þau áhrif að til dæmis bókmenntirnar hafa misst skírskotun sína til almennings, þær virðast hreinlega hafa tapað mikilvægi sínu. Á meðan þjóðin var kúguð skiptu bókmenntirnar geysilega miklu máli, þær héldu voninni lifandi í fólki, þær hugguðu það og gáfu því kjark. Þetta sýndi sig glögglega í sölu bóka; ljóðabók gat til dæmis selst í allt að sextíu þúsund eintaka hér í Eistlandi. Biðraðir mynduðust fyrir utan verslanir þegar ný bók kom út en nú fær ný bók enga athygli. Ljóðabók selst í fáeinum eintökum. Ég fæ meira fyrir að skrifa eina grein í finnskt dagblað en að gefa út bók hér.
Að nokkru leyti má kenna hærra bókaverði um þessa söluminnkun en að mínu mati er fyrst og fremst minnkandi áhuga almennings um að kenna. Þetta mætti setja í stærra samhengi og tala um verðfall tungunnar. Við það að þjóðin öðlast frelsi hefur tungumálið glatað merkingu sinni að hluta; öll orðræða sem beindist gegn Sovét-kerfinu er nú merkingarlaus en það var fyrst og fremst hún sem dró fólk að bókmenntunum áður fyrr.”
Mati Sirkel tekur undir þetta og segir að gildi bókmenntanna sé augljóslega ekki jafn mikið nú og það var á hernámsárunum. „Menningarleg gildi eru greinilega í meiri hættu nú, á tímum hinnar alltumvefjandi efnishyggju en á tímum hástemmdra lyga kommúnismans. Eftir að við endurheimtum sjálfstæðið greip ákveðið máttleysi um sig á meðal eistneskra rithöfunda, þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir því hvað framtíðin myndi bera í skauti sér. Þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir því að breytingunum myndi fylgja svona miklir glæpir, svona mikil fátækt og efnishyggja. Enginn lesandi hefur lengur áhuga á að heyra hetjusögur af þeim sem komu þessum breytingum af stað; nú snýst allt um vinsældir, um að selja. Það mun kosta rithöfunda okkar mikið erfiði að læra að lýsa þessum nýja veruleika.
Við erum að vissu leyti í sömu stöðu og á Sovét-tímanum en þar sem höfundar eiga að kasta hinum eilífu bókmenntalegu gildum fyrir róða í þágu vinsældanna skilur oft á milli feigs og ófeigs. Þannig hafa margir okkar færustu rithöfunda kosið að fara til starfa á öðrum vettvangi, einkum á þeim pólitíska.””
Er þetta það sem Morgunblaðið hefur barizt fyrir alla mína hundstíð: lággróður hins frjálsa markaðar?
11. febrúar – sunnudagur
Styrmir skrifaði gott Reykjavíkurbréf í dag. Hann leggur út af ræðu séra Sigurðar Pálssonar sem hann flutti í Hallgrímskirkju 16. september.
Honum hafði verið send ræðan, en þar sem við birtum ekki prédikanir – að undanskilinni prédikun byskups um áramót – þá hefur ekki verið tækifæri til að láta hana á þrykk út ganga. En Styrmir skrifaði hana inn í Reykjavíkurbréf vegna þeirra umræðna um fíkniefni og upplausn á heimilum sem rætt hefur verið um undanfarið.
Í Reykjavíkurbréfinu segir að það sé ekki álitamál „að öryggisleysi og tilfinningakuldi eiga rætur að rekja til skorts á „tilfinningalegu atlæti og siðgæðislegu og trúarlegu uppeldi” sem séra Sigurður nefnir, þótt síðastnefndi þátturinn, þ.e. trúarlegt uppeldi, fari auðvitað eftir viðhorfi fólks til trúar.”
Á þessu er enginn vafi.
Ég sagði við Styrmi,
Það er svo sem eftir öðru að þú ert orðinn sérfræðingur Morgunblaðsins í tilfinningakulda!
Hann sagði að samkvæmt Helgispjallinu sem stendur við hlið Reykjavíkurbréfsins í dag fjalli Reykjavíkurbréfið um höfund þess og sálarlíf hans, því að í Helgispjallinu er verið að sýna fram á hvernig lesa megi höfundinn út úr skáldverkinu, með hliðsjón af verkum Sturlu Þórðarsonar og Halldórs Laxness.
Ég sagði að það væri áreiðanlega rétt.
En bætti því við að það væri líka rétt sem sagt væri í Reykjavíkurbréfinu að öryggisleysi ætti rætur að rekja til skorts á tilfinningalegu atlæti eða tilfinningakulda og ýmislegt væri hægt að gera til að draga úr þessum þáttum eða halda þeim í skefjum.
„Annars konar skilnaður setur einnig mark sitt á allt líf fólks, hversu mikil, sem hin ytri velgengni kann að vera. Það er sá skilnaður, sem verður, þegar foreldri yfirgefur barn sitt, stundum að fullu og öllu, skilur það eftir til að takast á við lífið og tilveruna, í umsjá annarra framan af. Um áhrif þess á börn og unglinga og allt lífshlaup einstaklings má lesa í einlægri og kjarkmikilli bók Maríu Guðmundsdóttur, sem út kom fyrir jólin.”
Allt er þetta talað út úr mínu hjarta og sjálfur tel ég að ég hafi setið uppi með slíkt öryggisleysi vegna skilnaðar foreldra minna á sínum tíma og erfiðs ástands á heimilinu fyrir skilnaðinn, enda var ég á versta aldri þegar þessar hamfarir áttu sér stað, innan við fermingu.
En svo féll allt í ljúfa löð þegar faðir minn kom heim aftur, en þá hafði öryggisleysið haldið innreið sína í líf okkar systkinanna og vonlaust að uppræta það.
Faðir minn bragðaði aldrei áfengi en hann var tilfinningamaður með ástríðufulla skapgerð sem hann stjórnaði ekki alltaf og sveiflaðist upp og niður. Ég held hann hafi sjálfur þurft að glíma við öryggisleysi því að hann missti föður sinn tveggja ára og mér er nær að halda hann hafi verið að leita föður síns alla tíð, án þess að vita það. Hann var áreiðanlega nokkuð mikill kvennamaður enda glæsilegur og eftirminnilegur, sumar konur sögðu fallegur,heyrði ég.Þeir þóttu það báðir bræðurnir,Jóhannes læknir og hann.
Ég held hann hafi elskað tvær konur um skeið, móður mína og svo þá konu sem varð til þess hann yfirgaf heimilið um það bil sem heimsstyrjöldin skall á.
Minnist ég þess nú sem Halldór Kiljan sagði eitt sinn við mig,að móðir mín hefði verið fallegasta stúlkan í Reykjavík,þegar hann var ungur. Það fannst föður mínum einnig !
En við upplifðum þannig tvær heimsstyrjaldir í einu og sú sem fór fram í viðkvæmu sálarlífi mínu var hálfu verri en hin sem við upplifðum með hernámi og mannsköðum.
Ég held faðir minn hafi sótt í alla þá hlýju sem gat nært viðkvæmni hans og kviku og það hafi verið afleiðing af öryggisleysi æskunnar og föðurmissi.
Jóhannes, bróðir hans, hvarf til Kaupmannahafnar en fór þaðan á vegum Rauða krossins til Júgóslavíu, gerðist herlæknir í tveimur heimsstyrjöldum við slíkan orðstír að það er kafli um hann í júgóslavneskri bók um fimmtíu herlækna í síðari styrjöld sem urðu hetjur í baráttunni við Þjóðverja. Hann var þríkvæntur þar syðra, kom aldrei heim og eignaðist eina dóttur barna sem býr í Recovac, að ég held, fimmtíu til hundrað kílómetra suðvestur af Belgrað. Hún er Serbi og heldur að fjölskyldan heima á Íslandi vilji nú ekkert við sig kannast, mann sinn eða börn, vegna þess að Serbar í Bosníu séu yfirlýstir stríðsglæpamenn.
Þannig hittir mannhatrið einnig þá fyrir sem eiga það sízt skilið. En það er af Jóhannesi, föður hennar ,að segja að hann sá móður sína aldrei eftir að hann fluttist að heiman fyrir fyrri styrjöld og lifði hún þó til 1932. Mér er nær að halda hann hafi ekki getað hugsað sér að búa heima á Íslandi eftir að hún giftist Kristjáni Þorgrímssyni,, konsúl, og fluttist í Kirkjustræti 10 með síðari manni sínum.
Þetta er stórgeðja fólk og miklar ástríður , tilfinningar og ofnæmi hefur ráðið afstöðu þess og örlögum.
En þannig held ég einnig að akkilesarhæll Jóhannesar, föðurbróður míns, hafi verið öryggisleysi með rætur í skorti á tilfinningalegu atlæti í æsku; eða eftir að faðir hans dó. Var hann þó orðinn unglingur.
Hann hefur verið á verði eins og faðir minn og þau systkin öll og gætt þess vandlega að brenna sig ekki á umhverfinu.
Ég þekki vel þessa afstöðu, hún er ekki aðeins meðfædd, heldur einnig áunnin.
Reykjavíkurbréfið lýsir höfundi sínum áreiðanlega vel þegar þær forsendur eru hafðar í huga sem ég nú hef nefnt. Og á þeim sömu forsendum hefði ég einnig getað skrifað þetta Reykjavíkurbréf. Mér er nær að halda að öryggisleysi úr æsku hafi háð bæði Styrmi og Davíð Oddssyni. Hjartalagið er gott en hann er tortrygginn gagnvart umhverfinu og sækir þangað sem viðmótið er hlýtt og gott.
Við höfum því miður ekki ávallt getað sýnt honum þetta viðmót og því hefur hann ekki getað unað.
Hann sækir í hlýju, hann hungrar í ástúð og vinsældir.
Öryggisleysið leitar í ýmsar áttir. Mitt öryggisleysi hefur leitt mig inn í hlédrægni og þjóðfélagslegt ofnæmi.
En það eru tvær hliðar á þessu öryggisleysi; önnur neikvæð en hin jákvæð. Þeir sem eru haldnir því geta stundum barið í borðið, boðið umhverfinu birginn og fullnægt metnaði sínum með ýmsum hætti; t.a.m. í stjórnmálum; eða listum. Sumir verða skáld og stjórnmálamenn en aðrir verða skáld og ritstjórar!
Sumir upplifa líf sitt eins og þorstann í helvíti svo ég vitni í Þórberg, aðrir njóta lífsins eins og jórtrandi kýr.
En hvers vegna að vera að tala um sjálfan sig á þessum minnisblöðum?
Von þetta hvarfli að manni.
En ég þekki einskis manns líf annað en sjálfs mín. Fyrir því hef ég þónokkra reynslu og um það má vel hugsa – og þá sem almenna skírskotun – ekki síður en einhverja þá reynslu aðra sem er ekki eins nærtækt viðfangsefni.
Auk þess er öll reynsla afstæð þótt hún sé raunveruleg. Og mín reynsla er raunveruleg sem afstætt mat á lífi skálds og ritstjóra sem hefur áhuga á því að missa ekki líf sitt úr greipum sér eins og vindinn.
Maður gerir sér í hugarlund það gæti verið mikilvægt að upplifa reynslu smæstu fugla heimsins sem hafa lært að standa af sér verstu storma án þess að haggast.
Slíkir fuglar skrifa ekki hjá sér á minnisblöð.
Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu að aðrir geri það, ef það mætti verða til nokkurrar umhugsunar.
Og svo er ekki út í hött að eyða nokkrum stundum með verðmætum hugsunum og fullnægja þörf sinni með þeim hætti, eins og lágar hugsanir og lítilsverð tíðindi sækja að úr öllum áttum.
Þegar ég fór á málverkasýningu um daginn að sjá harla yfirlætislausar myndir Ingólfs Arnarsonar, einkasonar Elísabetar mágkonu minnar, en hann er alltaf að reyna að kenna okkur að horfa á umhverfið með nýjum augum, hitti ég Vilhjálm Einarsson íþróttagarp og skólastjóra á Eiðum og sá að hann var eitthvað vansæll.
Hann var að koma af Kjarvalssýningu í austursalnum, þar sem skissur, frumdrög og teikningar segja meira um þennan huldumann íslenzkrar listsögu en ýmsar stærri myndir hans.
Vilhjálmur nefndi bók sem hann hefði gefið út fyrir jólin og heitir víst Silfurmaðurinn vegna þess að hann fékk silfur fyrir þrístökk á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu á sínum tíma.
Nei, ég sagðist ekki hafa heyrt um þá bók.
„Það var einkaútgáfa og hún hefur líklega farið fram hjá flestum, en það er verið að ráðast á mig fyrir sjálfsdýrkun í þessari bók.”
Gerir ekkert, sagði ég, Hvern ættirðu fremur að dýrka? Eða hvaða Íslendingur annar hefur fengið silfrið á Ólympíuleikum?
Hann hresstist allur við þetta.
Vilhjálmur keppti fyrir ÍR á sínum tíma og það yljaði föður mínum. Hann var stoltur af afreki Vilhjálms.
Ég sagði honum þetta og það hýrnaði enn yfir honum. Ég sagði honum að hreyfing íþróttamanns gæti verið trúarleg tjáning og grískir íþróttamenn héldu áfram að kasta kringlu hinum megin,að sögn Hambling miðils. Þar ætti hann einnig áreiðanlega eftir að stökkva þrístökk – og nú var Vilhjálmur farinn að brosa, steig léttar til jarðar og hvarf fagnandi af okkar fundi.
En ég hugsaði með mér,
Mikið hefði faðir minn glaðzt yfir því ef ég hefði orðið afreksmaður í íþróttum eins og Vilhjálmur Einarsson.
Ég reyndi, en það tókst ekki.
Faðir minn varð að gleðjast yfir einhverju öðru, en smám saman varð honum ljóst að mín hreyfing er í skáldskap. Hann er mitt athvarf og í honum mun ég iðka trú mína þar sem grísku kapparnir kasta kringlu og Vilhjálmur Einarsson stekkur þrístökk.
Og enda þótt ég lifi með hugsunum mínum og brjóti sjálfan mig og líf mitt til mergjar á svona minnisblöðum verð ég að sætta mig við að ég á aldrei eftir að verða silfurmaður.
Ég var fæddur undir annarri stjörnu og verð að una því.
Nú eru báðir drengirnir í útlöndum, Ingólfur í Lundúnum og fer til Feneyja í vikulokin en Haraldur á ráðstefnu fangelsismálastjóra í Finnlandi og er nú staddur í St. Pétursborg, en kemur heim á morgun.
Við höfum oft verið með Ingó í Feneyjum en verðum nú víðs fjarri. Ég hef aldrei komið til St. Pétursborgar því hún hét Leníngrað þegar ég fór með Brúanum þangað. Mér skilzt það hafi verið 30 stiga frost í Finnlandi þar sem Halli var á ráðstefnunni. Einnig í Leníngrað. Það er víða kaldara en á Íslandi.
Það sem gerir gæfumuninn er misbrestasamt sumar hér á landi. Það er yfirleitt betra sumar í útlöndum.
Hef verið að glugga í nýja bók, Why the Earth Quakes en hún fjallar um jörðina, eldgos, landskjálfta og flóðbylgjur. Eitthvað minnzt á Ísland, en þó ekki eins mikið og efni standa til. Á einum stað segir að einni öld áður en eldgosið mikla varð á Krakatau-eyju, 1783, hafi orðið minna eldgos á Íslandi sem hafði þó mjög slæm áhrif á veðurfar í París, að því er bandaríski sendiherrann þar segir í plöggum sínum, en hann var enginn annar en Benjamin Franklin.
Þetta eldgos í Lakagígum olli köldu veðurfari í Frakklandi, jafnvel fram á sumar. Því er svo bætt við að ýmsir hafi talið að þessar breytingar á veðurfari hafi ýtt undir fátækt og hungur og ókyrrð meðal franskrar alþýðu og jafnvel stuðlað að frönsku stjórnarbyltingunni!
Ef svo væri hafa Lakagígar haft meiri áhrif á heimssöguna en ég hef gert mér grein fyrir.
Fékk þessa athugasemd frá Kristjáni Karlssyni með rifrildum úr The New Yorker frá því í desember í fyrra, ljóð og grein um Allen Ginsberg og minningum um Stephen Spender, English Lessons from Stephen Spender.
Þetta er skemmtileg grein um Spender eftir Joseph Brodský og líklega eitt af því síðasta sem hann skrifaði.
Það fer vel á því.
Spender var gott skáld og viðkunnanlegur þegar ég átti samtalið við hann í Washington sumarið 1966, en hann leiddi mig í allan sannleika um Sylviu Plath sem þá var að komast í tízku sem ljóðskáld.
En í bréfi sínu frá 8. febrúar sl. segir Kristján:
„Kæri vinur. Sendi þér loks eitt og annað sem mér þótti sjálfum fróðlegt – og snertir eitthvað í okkar langa samtali, nema þetta um hinn vafasama Mitterand. Það staðfestir ágætlega mínar hugmyndir um hann – og hefir þann kost með sér fyrir þig að ég mun ekki minnast á hann sjálfur nema þú óskir sérstaklega eftir því.
Ginsberg yrkir ekki vel, held ég, en hann er sætur á nankins buxum. Sú mynd minnir mig nostalgískt á Jóh. úr Kötlum og Halldór Laxness hér áður fyrr í blöðunum með alpahúfur, í auglýsingum fyrir betri heim strax. Þinn KK.”
Ljóð Ginsbergs heitir Rock Song. Skáldið segist standa uppi á eldingarturni og horfir yfir sviðið. Eintómar glæringar allt um kring og umhverfið heldur ókræsilegt.
Upphafið að grein Brodskýs er eftirminnilegt. Hann lýsir því þegar hann kemur til Bretlands tuttugu og þremur árum eftir að hann kom þar við, útlagi, á leið sinni frá Vínarborg til vesturheims. Mér sýnist erindi hans hafa verið: útför Stephen Spenders:
23 árum síðar – stutt samtal við útlendingaeftirlitið á Heathrow:
„Viðskipta- eða skemmtiferð?
„Hvað kallið þið jarðarför?”
Hann bendir mér að halda áfram.”
Baldvin Tryggvason er sjötugur í dag. Móttaka í Borgarleikhúsinu. Uppákoma eða einhvers konar dagskrá í hálfan annan tíma, síðan móttaka aftur. Kvíði fyrir tilstandinu en ég þekki engan mann sem ég vildi fremur heiðra á sjötugsafmælinu en Baldvin Tryggvason. Hann hefur staðið með mér gegnum þykkt og þunnt, ekki sízt í öllum árásunum á skáldskap minn fyrr á árum. Og þá ekki sízt Fjaðrafok. Hann er merkur maður en þó einkum drengur góður.
Í mínum huga eru þeir Höskuldur Ólafsson í sérflokki. Höskuldur trúði mér fyrir því að taka við Vöku á erfiðum tímum. Hafði um það forystu. Að miklum fundarhöldum loknum varð um það sátt ég yrði formaður stúdentaráðs.
Hann gaf mér frumútgáfu sína af Tímanumog vatninu því hann heyrði mig einhvern tíma segja á fundi í bókmenntaráði Almenna bókafélagsins að ég hefði aldrei séð þá bók, enda einungis prentuð í 150 eintökum og algert féleysi á þeim árum.
Seldi sparifötin mín til að kaupa hring handa Hönnu – og mamma skildi aldrei hvernig þau gátu gufað upp í fataskápnum!
En – þetta var honum líkt, Höskuldi. Þeir Baldvin hefðu báðir orðið góðir leiðtogar í stjórnmálum en höfðu vit til þess að helga sig einkum öðrum störfum, þótt þeir hafi ávallt verið með hugann við Sjálfstæðisflokkinn og velgengni hans.
Kvöldið
Engin ástæða að kvíða fyrir afmæli Baldvins!! Dagskráin var tæplega hálfan annan tíma, viðfelldin og smekkleg.
Baldvin naut sín vel og það gladdi mig. Hitti margt fólk sem er ekki á vegi manns daglega.
Átti gott samtal við Þóru Kristjánsdóttur og Svein Einarsson og Helgu Bachmann og Helga Skúlason. Það er margt ágætt fólk á Íslandi. Þóra og Sveinn fóru að tala um það við mig að þeim hefði ekki litizt á blikuna ,þegar þau sáu að Þóra Arnórsdóttir er einn helzti stuðningsmaður Guðrúnar Pétursdóttur.
Ég sagði það skipti minnstu máli fyrir mig hvað unga fólk segir, ef það er sammála Þóru Arnórsdóttur.
Þá er hvort eð er úti um Ísland, bætti ég við. Við lifum ekki af ef arfleifðin og varðveizla hennar er ekki inngróin ástríða í ungu fólki.
Fannst þau taka þessu vel.
Helzt þyrfti ástríðan að vera eins og eldurinn í helvíti. Hann verður ekki slökktur með garðslöngum.
Brodský sagði á sínum tíma að tungan væri miklu eldri og óhjákvæmilegri en ríkið og bætti við „ég er ríkisborgari rússneskrar tungu.”
Hið sama má segja um íslenzka tungu, en þó er landið ekki minni þáttur í þessu ríkisfangi en tungan.
Og það er eldra en hún.
Landið er með einhverjum hætti goðsögulegt og tungan er sprottin af því. Tungan er ekki síður gróður jarðar en birkið og hún þolir ekki meira álag en það.
Ég gæti ímyndað mér að ég hafi svipaða afstöðu til íslenzkrar tungu og fósturjarðarinnar og Fjölnismenn.
Og svo bætist huldan við.
Einn dagskrárliðurinn í afmæli Baldvins voru sprenghlægilegir þættir úr Jónsmessunæturdraumi Shakespeares. Gísli Halldórsson var óborganlegur í gervi Þisbu í 5. þætti, 1. sviði, en þar koma fyrir karlinn í tunglinu, ljónið og múrveggurinn. Þetta eru fyndnustu atriðin í Shakespeare að mínu áliti og þessi táknlega meðferð persónanna á sviðinu sýnir betur en flest annað hvílíkt yfirburðaskáld Shakespeare er.
Hann breytir öllu í skáldskap með persónum sínum, hvort sem það eru hríslur, ljósker eða múrveggur.
Unesco og Arrabal eru sporgöngumenn hans.
Gísli Halldórsson er einstæður leikari, ég hef séð hann í Dario Fo og gleymi því ekki. Enginn hefur lesið betur upp í útvarp en hann. Góði dátinn Svejk er upplestur á heimsmælikvarða.
Gísli gerir sitt bezta að sjálfsögðu í Börnum náttúrunnar, ekki síður en Sigríður Hagalín, en myndin höfðar ekki til mín, því miður, og mér finnst það sýna veröldina í dag að hún skuli hafa komist í keppni um Óskarsverðlaun.
Það er eins og sæmilegur félagsfræðingur hafi skrifað handritið og það sem er skáldlegt verður einhvers konar útópískur hráslagi eins og þegar Gísli Halldórsson grefur kerlinguna fyrir vestan, en þaðan hafa allir flúið nema vindurinn.
Ef í myndinni hefði verið eitthvert fólk eins og Kristrún í Hamravík,með tungutaki hennar,hefði henni verið borgið.
13. febrúar – þriðjudagur
Ástin er skelföst
Ástir samlyndra
hjónaSæfífill
festir sig á
kuðungsæfífill
festir sig
á lokaðan kuðungÞannig eru
ástir
samlyndra hjóna.
Svona finnst KK þetta eiga að vera í stíl eddukvæða eða vikivaka, hitt finnst honum of snubbótt, það er áreiðanlega rétt hjá honum.
Nú orðið finnst mér skemmtilegast að velta upp nýjum möguleikum, breyta. Áður fyrr fannst mér skemmtilegast að birta!!
Nú er gamall upplýsingafulltrúi Jeltsíns og náinn samstarfsmaður að gefa út bók um hann og segir að hann elski valdið og sé enginn lýðræðissinni.
Hvað sem því líður er vonin bundin við hann, ef heimurinn á ekki að farast í kjarnorkueldi undir stjórn villtra þjóðernissinna í Rússlandi!
Halli kom frá St. Pétursborg í fyrradag. Skoðaði fangelsi. Tíu þúsund fangar í þúsund manna fangelsi, hörmulegt.
Þeir sáu Krossfangelsið (Kristí, þ.e. byggingin byggð í kross) við Nevu, gegnt aðalstöðvum KGB.
Halli segir ástandið í landinu skelfilegt, það verði að tengja það Evrópusambandinu, ef einhver von á að vera til þess að risinn vakni ekki með andfælum einn góðan veðurdaginn. Skortur á öllu – nema vodka.
Jafnvel vatni(!)
19. febrúar – mánudagur
Þetta verður erfið vika. Hver fundurinn á fætur öðrum. Sérfræðingur í skipulagi ritstjórna kemur frá Infra, þarf eitthvað að huga að því.
Annars er ég ekki alltof trúaður á þessa sérfræðiþjónustu.
Hef kynnzt henni í gegnum tíðina og sjaldnast er neitt á þessu að græða. Reynslan sjálf er bezta leiðsögnin. Þeir sem vinna að ákveðnum verkefnum læra smám saman að fikra sig áfram eins og bezt verður á kosið.
En það er gott að hlusta á reynslu annarra, kynnast nýjungum. Draga svo ályktanir af því sem við blasir.
Við höfum oft fengið erlenda sérfræðinga í heimsókn, bæði í hönnun og skipulagi. Eigin reynsla hefur nýtzt okkur bezt.
Dagblaðið – og síðar Stöð 2 – voru með fréttir um það að kona nokkur hefði kvartað við sr. Pálma Matthíasson og síðar sr. Viðar Árnason vegna áreitni Ólafs Skúlasonar, og viljað senda málið til siðanefndar prestafélagsins.
Mér skilzt atburðurinn hafi átt að gerast í Bústaðakirkju fyrir sautján árum.
Byskupinn segir þetta heilaspuna, eins og hann hefur komizt að orði.
Sem sagt, orð á móti orði. Erfitt mál fyrir heiðarlegan fjölmiðil. Hver sem er getur ákært aðra manneskju fyrir kynferðisáreitni.. Það merkir ekki sama og dómur hafi fallið.
Þetta mál hefur að mínu viti verið stórskaðlegt fyrir byskup og kirkjuna.
Sérhver heiðarlegur blaðamaður hlýtur að leggja slíkt fyrir siðanefnd eigin samvizku.
Hvað segir hún?
Er leyfilegt að eyðileggja mannorð byskups landsins með því að dreifa ákæru sem á rætur í sautján ára gömlum meintum atburði?
Þarf ekki meira til
En það væri þá líka stóralvarlegt mál ef prestur sem væri að sinna ungri konu vegna skilnaðar notaði tækifærið og áreitti hana – og það jafnvel í kirkjunni. Tala nú ekki um ef um nauðgunartilraun hefði verið að ræða eins og hún lætur liggja að, ef ég skil þetta rétt.
En hver veit hvað þarna gerðist – eða hvort nokkuð gerðist?
Það er ekki ástæða til að umgangast mannorð byskups af meiri léttúð en orðstír annars fólks.
Af þeim sökum höfum við enn sem komið er haldið að okkur höndum. Það hefur samt verið erfið ákvörðun eins og ástandið er í þjóðfélaginu. Öll slík mál virðast nú í einhverjum tengslum við kvennabaráttuna. Það er talað um karlaheim. Kannski lifa ritstjórar Morgunblaðsins í þessum heimi án þess vita það.
Ekkert virðist vera eins viðkvæmt og kynferðismál fólks en án áreitni eru þau mesta einkamál hvers og eins, að mínum dómi.
Þess vegna eiga þau ekki heima í fjölmiðlum, nema sem undantekningar.
Mál byskups hlýtur að heyra til slíkra undantekninga þar til annað verður upp á teningnum.
Það er ekki einungis kvenfólk sem verður fyrir kynferðislegri áreitni. Margir karlmenn þekkja til slíkrar áreitni, þótt ekki sé um líkamlegt ofbeldi að ræða.
Ég hef haft psersónulega reynslu af slíku í starfi mínu.
Einhverju sinni spurði eftir mér heldur ung kona og löguleg og kvaðst eiga við mig brýnt erindi.
Þetta er mjög mikilvægt erindi,sagði hún.
Jæja,sagði ég,ertu með grein í blaðið.
Ne-i,þetta er mikilvægara en grein.
Nú,sagði ég,en þá er ekki víst ég geti hjálpað þér.
Jú,sagði konan ákveðið,það getur enginn nema þú.En það verður að fá botn í þetta mál.
Hvaða mál?
Nú,þetta með röddina.Hún segir ég eigi að leita til þín.
Röddina?! sagði ég og mig var nú farið að gruna ýmislegt.
Hvaða rödd?
Ja,það er ómögulegt að lýsa þessu,þú verður að koma með mér heim til að hlusta á hana sjálfur.
Það get ég ekki,sagði ég,.
Hvers vegna ekki?sagði hún önug.
Ég er önnum kafinn eins og þú sérð.
Það gerir ekkert,þú verðu fljótur að afgreiða þetta,jú sjáðu,þetta er rödd guðs og hann talar við mig á hverjum degi.En þú getur ekki heyrt hana nema í svefnherberginu mínu Þú getur hlustað á hana þar.
Jæja,sagði ég og skildi nú hvers kyns var.
Konan var ekki með öllum mjalla og næstu mínútur fóru í það að losna við hana með aðstoð ritarans míns.
En hún var kurteis og sagðist mundu koma aftur.
Ég sá hana tilsýndar á götu nokkru síðar,þá var hún uppábúin og með stóran blómahatt.En ég forðaði mér,óséður.
Hún kom aftur og spurði eftir mér,en þá var henni sagt ég væri á fundi og hefði engan tíma.
Hún tók því vel,kvaddi kurteislega og hefur ekki sézt síðan á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins.
En þangað hafa ýmsir aðrir lagt leið sína í ótrúlegustu erindagerðum. En ég hef lært af langri reynslu að afgreiða hvert tilfelli,eins og efni standa til!
Sumt fólk lifir í ímynduðum heimi.Hann getur verið erfiður viðfangs því skilin milli hans og raunveruleikans eru oft og tíðum harla óljós. Hef sjálfur kynnzt slíkum ímynduðum heimi í störfum mínum og veit hann gæti verið harla skeinuhættur, án varkárni.
Það er vandlifað nú á dögum.
Annars vegar þarf að afhjúpa ofbeldi, hinsvegar þarf að vernda mannorð saklauss fólks.
Annars virðist hálfur heimurinn ganga fyrir kynórum og klámi. Auden afgreiðir þetta vel í ljóðinu Shorts II þar sem hann segir:
Af hverju er klám leiðinlegt? Af því það kemur okkur aldrei á óvart.
Öll þekkjum við þessa fáu hluti sem spendýrið maður kann tök á.
Guðjón Skarphéðinsson, sem játaði á sig morð í Geirfinnsmálinu og var helzta vitni þess á sínum tíma, hefur nú verið kosinn prestur vestur á Snæfellsnesi og tekið játningu sína aftur eftir langa fangelsisvist.
Ný kynslóð hefur vaxið úr grasi sem þekkir ekkert til þessa máls og því ástæða til að rifja það upp. Sigtryggur Sigtryggsson, fréttastjóri, sem vann mikið að Geirfinnsmálinu á sínum tíma skrifar greinina í Morgunblaðið í gær; langa grein og upplýsandi.
Efast um það verði hægt að komast nær sannleikanum en gert var í niðurstöðu dómsins. Sakborningarnir sjálfir hafa að mínu viti séð um það.
Hitt er mikilvægara fyrir okkur morgunblaðsmenn að við sigldum vel milli skers og báru í þessu máli,rétt eins og Hafskipsmálinu. Það var oft erfitt eins og ástandið var. Hávaðasamir stjórnmálamenn með ótrúlegustu ásakanir á pólitíska andstæðinga annars vegar, mannhvörf hins vegar. Vilmundur vinur minn Gylfason reyndi að hafa áhrif á skrif Morgunblaðsins , gagnrýndi okkur harðlega,stundum með brigzlum . Það var oft erfitt,en Morgunblaðið þarf ekki að taka eitt einasta orð aftur af því sem þar hefur verið skrifað í svona hasar. Við höfum alltaf reynt að hafa vaðið fyrir neðan okkur.Aldrei viljað breyta blaðinu í einskonar killing machine.
Ég er þeirrar skoðunar að atlagan að Ólafi Jóhannessyni hafi verið lögleg að vísu,með tilliti til meiðyrðalaga, en einatt siðlaus. Auðvitað reyndi hann ekki að hylma yfir með glæpamönnum eða drepa rannsókninni á dreif. Áður en upp var staðið þótti sannað að „glæpamennirnir” sem komu við sögu Klúbbsins – og þá jafnframt Framsóknarflokksins – höfðu saklausir orðið fyrir meinsæri.
Morgunblaðið fór með löndum í þessu máli eins og endranær. Það var mikil kúnst, og erfið með köflum. Vilmundur hringdi í mig fram á nætur og gerði m.a. kröfur til þess ég talaði rækilega við Hauk Guðmundsson rannsóknarlögreglumann,hann sæti uppi með alla vitneskjuna.
Það gerði ég,illu heilli.
Síðar var hann kærður og dæmdur fyrir meinsæri gegn Batta rauða, sem svo var kallaður, kom víst smygluðum bjór fyrir í bílnum hans, ef ég man rétt.
Held hann hafi setið inni fyrir bragðið.
Þetta voru ósköp sem yfir dundu. Geirfinnur, sem var frændi Hönnu, hvarf sporlaust og hefur aldrei fundizt. Ekki heldur pilturinn sem Guðmundar-málið er kennt við, en það tengdist Geirfinnsmálinu. Hann sást síðast í Hafnarfirði með einum sakborninga, Kristjáni Viðar að ég held. Það var sannað með framburði tveggja ungra stúlkna.
Guð einn veit hver urðu örlög þessara ungu manna sem hurfu í okkar litla þjóðfélagi eins og þeir hefðu aldrei verið til. Samt voru þeir veruleikinn sjálfur í þessu mesta glæpamáli íslenzkrar sögu, já ég held það sé ekki of sterkt að orði kveðið. Mál Agnesar og Natans Ketilssonar var að vísu ljótt en það upplýstist. Það átti sér endi.
Geirfinnsmálið er endalaust. Sakborningarnir voru margsaga og tóku allir játningar sínar aftur. En þeir höfðu þá sagt ýmislegt sem benti til aðildar og sektar. Erla Bolladóttir hafði t.a.m. sagt að hún hefði farið á puttanum frá Keflavík til Reykjavíkur daginn eftir að Geirfinnur hvarf. Tveir bílstjórar gáfu sig fram og vitnuðu að þetta væri rétt. Hvaða ferðalag var þetta? Framburður hennar hafði ekki verið sem traustastur, ekki frekar en annarra sakborninga. En þetta reyndist þó rétt og var staðreynt. Ég man reyndar ekki hvort hún tók játningar sínar aftur, skiptir enda engu máli.
Þýzki rannsóknarlögreglumaðurinn sem hingað var fenginn, Karl Schütz, lýsti því yfir í lokin að niðurstaða væri fengin í málið. Og hinir grunuðu voru allir ákærðir og dæmdir sekir.
Þetta var mikil rannsókn.
Við vorum í fríi í Þýzkalandi þegar Schütz var hér á landi og þá birtist skopamynd eftir Sigmund í Morgunblaðinu, þar sem Schütz var í nazistabúningi með SS-merkjum og kannski einnig hauskúpum, einkenni gestapo. Myndin var sem sagt auðkennd og allir vissu að Sigmund bar ábyrgð á henni. En við ritstjórarnir vorum dæmdir samkvæmt meiðyrðalöggjöfinni!!
Held þetta sé eini dómurinn sem ég hef fengið fyrir meiðyrði.
Ingólfur hefur verið í Feneyjum. Hélt þar upp á 32ja ára afmæli sitt. Töluðum við hann í gærkvöldi. Hann lætur vel af ferðinni. Hann hefur nú upplifað hið fræga karnival í Feneyjum og kvöldmessu í dómkirkjunni við Markúsartorgið. Sagði það hefði verið ógleymanlegt.
Við Hanna og Ingó höfum oft verið saman á þessum slóðum, bæði þegar við fórum þangað frá Stresa með Önnu Norland,frænku minni, og svo síðar þegar við vorum í Bíbioni þar sem ég skrifaði m.a. skáldsöguna um Rósina (þarf að breyta þessu nafni ef ég birti hana einhvern tíma) og Lignano þar sem ég orti mörg kvæði, sum óbirt. Þrjú þeirra verða prentuð í næstu ljóðabók fyrir páska, Vötn þín og vængur, mér finnst þau eiga þar heima. Annars hef ég verið að vinna að þessari bók undanfarnar vikur og um helgina fór ég yfir tvo ljóðaflokka sem ég ætlaði að geyma en sé nú að geta einnig átt heima í þessari bók, Páskar hét annar en ég breytti nafninu eins og mörgu öðru og nú heitir hann Í nærverutímans, og svo breytti ég einnig ljóðaflokki sem ég orti út frá Moby Dick fyrir mörgum árum og heitir Kumpánlegt olnbogaskot. Hélt þessi flokkur væri tilbúinn til prentunar – en það var nú eitthvað annað(!) Eftir þessa rækilegu yfirferð held ég báðir þessir ljóðaflokkar séu viðunandi, loksins – og hví þá ekki að birta þá í Vötn þín og vængur fyrst þeir falla inn í andrúmið.
Vona þetta verði sterk bók. Veit hún er erfið í aðra röndina en hún er í mínum stíl. Það er mikið ferðalag um hugsun mannsins og reynslu í þessum ljóðum. Það er kannski lítil ástæða að vera að gefa út ljóðabók eins og tímarnir eru – en hafa þeir ekki alltaf verið eins og þeir eru?
Séra Halldór Reynisson sagði frá því í messu í Neskirkju í gær að af tuttugu fermingarbörnum hans hafi eitt vitað hver var höfundur Passíusálmanna. Svo halda menn að skólakerfið sé í lagi!! Í spurningakeppni Sjónvarpsins milli framhaldsskólanna vita krakkarnir margt um kvikmyndaleikara og íþróttamenn en þegar kemur að listum standa þau ótrúlega oft á gati. Og því merkari listir því oftar standa þau á gati. Þetta ber umhverfinu ekki fagurt vitni, eða samtíðinni og allra sízt skólakerfinu. Hvað þá baðstofunni nýju, sjónvarpinu!
Eða heimilunum!
Anna, sonardóttir mín, kom til mín um helgina þar sem ég sat í herberginu mínu og var að lagfæra ljóðin. Hún var alláhyggjufull og sagði,
Afi, er guð þjóðsaga?
Af hverju spyrðu? sagði ég, Hver segir það?
Einhver stelpa í sjónvarpinu, sagði hún.
Nei, Anna mín, sagði ég, Hann er ekki þjóðsaga eins og álfarnir eða tröllskessurnar, hann er... hann er... Við trúum bara á hann. Þau vita ekkert um guð í sjónvarpinu,
Já, sagði hún og henni var augsýnilega létt. Ég trúi líka á hann.
Hanna segir mér að Anna hafi fyrst komið til hennar og spurt hana um guð af þessu tilefni, en hún vísaði málinu til mín.
Hún spurði ömmu sína hvað væri þjóðsaga og fékk það svar að þjóðsaga væri gömul saga sem væri búið að segja svo oft og svo lengi að allir væru búnir að heyra hana.
En hún lét ekki þar við sitja, gekk á minn fund og reyndi að halda í sinn guð í lengstu lög. Held henni hafi tekizt það. En áður en hún gekk á minn fund hafði hún spurt ömmu sína,
Veit afi allt um guð?
Amma hennar sagði henni að hún skyldi fara og spyrja mig um það, en enginn vissi allt um guð. Ég held Hanna viti þó meira um hann en ég(!)
Í fyrrnefndu kvæði segir Auden einnig:
Í dag báðu tvö kvæði um að þau yrðu ort: ég varð að neita þeim um
það.
Því miður, ekki lengur, elskurnar mínar! Því miður, elskurnar mínar,
ekki enn!
Og enn fremur:
Sálfræðigagnrýnendur, verið nákvæmari í orðavali:
táknum má ekki rugla saman við tilvísanir dæmisögunnar.
Og enn fremur:
Ævisöguhöfundar, vinsamlega segið mér ekki söguna um kynlíf ykkar:
þótt það skipti ykkur miklu er það mér sízt af öllu neitt undrunarefni.
20. febrúar – þriðjudagur
Byskupinn er illa skaddaður eftir ásökunina um áreitni. Töluðum um málið á leiðarafundi í hádeginu í gær. Vitum vel að í nútímaþjóðfélagi femínismans er erfitt að segja ekki frá slíkum kvörtunum. En það er líka erfitt að taka þátt í aftökum, sérstaklega þegar engin leið er til þess að vita hvort viðkomandi er sekur eða saklaus.
Ábyrgð blaðamannsins er mikil.
Afstaða ritstjórans getur skipt sköpum. Stundum verður hann að hlíta kviðdómi eigin samvizku.
Sautján ára gamalt mál er fyrnt, ef það fjallar um áreitni. En sögusagnir geta verið þungur dómur og almannarómur harðari refsing en dómsniðurstaða. Byskupinn þarf nú að horfast í augu við slíkan dóm. En það eru aðrir þolendur en byskup, fjölskylda hans og þá sérstaklega eiginkona, ágæt. Hún hefur að ósekju þurft að herðast í miklum eldum.
Menn mættu kannski einnig hugsa um það.
Hef ekki fengið sannfæringu fyrir því að niðurstöður Geirfinnsmálsins séu rangar. Veit það samt ekki, auðvitað ekki.
Hver veit það?
Held þó að ekki séu öll kurl komin til grafar. Einkennileg tilviljun að þeir sem hurfu eru báðir Einarssynir.
Ætli einhver hafi tekið feil á mönnum? Gæti verið að ruglað fíkniefnalið hafi flaskað á fórnardýrum vegna föðurnafnsins?
Og drepið þá báða, Geirfinn og Guðmund, af þeim sökum?
Það eru mörg íhugunarefnin í þessu máli; þessari ógnarlegu harmsögu.
Kvöldið
Ef byskup Íslands hefur ekki gáð að sér við prestsstörf fyrir sautján árum og hann er sekur um það sem hann er sakaður um má vitna til þessa erindis í Sálmum á atómöld, 27:
Við höfum heyrt
að togarar fái enn tundurdufl
í vörpuna –
Þannig kemur liðinn tími sífelldlega
inn í líf okkar.
Birt hefur verið skoðanakönnun Hagvangs þess efnis hvaða fjölmiðli fólkið treysti bezt. Niðurstaðan er að sjálfsögðu vonbrigði fyrir okkur þótt við fögnum því að miklu fleiri á aldrinum 17-29 ára treysta Morgunblaðinu en þeir sem eru rosknir og hafa alizt upp við þá hugmynd að Sjálfstæðisflokkur og Morgunblaðið séu eitt og hið sama.
Þessi þróun er uppörvandi og einhvern tíma í náinni framtíð verða þær kynslóðir alls ráðandi sem eru ekki aldar upp við tengsl Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins og þá ætti hagur Strympu að vænkast.
Það er alkunna að skoðanakannanir sýna að almenningur hefur fyrirvara á blaðamönnum og matreiðslu þeirra. Það er einnig alkunna að Íslendingar eru hallir undir ríkisumsvif eins og Þjóðleikhús og Ríkisútvarp og kemur ekki á óvart. Þeir vantreysta einkastofnunum, þeir eiga ríkisstofnanirnar.
Og eigendurnir treysta eign sinni.
Það er ein af þversögnunum því að í síðustu viku sýndi skoðanakönnun að Íslendingar telja að einkafyrirtæki séu betur rekin en ríkisfyrirtæki!
Það er einnig vitað að almenningur víða um heim treystir betur ljósvökum, og þá ekki sízt sjónvarpi, en t.a.m. dagblöðum sem eiga einatt undir högg að sækja í slíkum könnunum.
Fólkið treystir þeim sem segja fréttir inni í stofunni hjá þeim, slíkt fólk hlýtur að vinna með sannleikann, en þeir sem þekkjast ekki úr dagblöðum geta þá ekki verið jafn áreiðanlegir!
Ég hélt fund með silkihúfum á Morgunblaðinu þegar þessi niðurstaða barst okkur og fullyrt hafði verið við mig að spurningar Hagvangs hefðu verið sanngjarnar og ekki leiðandi.
Þegar ég fór yfir spurningarnar sá ég í hendi mér að það er rangt.
Í könnuninni er spurt hvaða fjölmiðli eða fréttastofu menn treysta bezt og þegar þannig er spurt telja menn að sjálfsögðu að um sé að ræða fréttastofu, en ekki dagblað. Ef spurt hefði verið hvaða fjölmiðli eða dagblaði menn treystu bezt hefðu svörin verið önnur.
Þá er það einnig fáránlegt að leggja saman svör tveggja eða þriggja fréttastofa eins og Ríkisútvarps, Rásar 1 og Rásar 2, eða Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Þarna er um sömu fréttastofur að ræða og þá er það einnig merkilegt að rúmlega 10% svarenda treysta Stöð 2 bezt, en 0,5% Bylgjunni!
Og svo er þetta lagt saman! Það er svo annað mál að ástæða er fyrir okkur að horfast í augu við þessa slöku útkomu og glíma áfram við almenningsálitið eins og við höfum gert.
Það er einnig annað mál að fjölmiðill með skoðun eins og Morgunblaðið stendur ævinlega verr að vígi í slíkri könnun en t.a.m. hlutlaus aðili eins og Ríkisútvarp eða Sjónvarp. Jafnvel harðsvíruðustu sjálfstæðismenn í röðum útgerðarmanna hafa t.a.m. oft tönnlazt á því að fréttir Morgunblaðsins séu litaðar af þeirri stefnu blaðsins að kvótinn eigi ekki að vera seljanleg eign og menn eigi að borga fyrir hann afnotaleigu; eða svonefndan auðlindaskatt.
Hvað þá um aðra!
Nú vil ég að Félagsvísindastofnun Háskólans geri nýja könnun fyrir Morgunblaðið, spyrji um einstaka fjölmiðla og áreiðanleik þeirra og reyni að fá botn í það hvernig fólk lítur í raun og veru á fjölmiðlana; ljósvakana með sundurliðaðri greiningu og einnig dagblöðin. Ég sé að Dagblaðið fær hraksmánarlega útreið í þessari könnun, en ekki er marktækur munur á Morgunblaðinu og Stöð 2 og Bylgjunni.
Þótt ýmislegt megi segja um Dagblaðið þykist ég vita að þeir eru margir sem telja að það sé traustari heimild en Morgunblaðið vegna þess að það hafi ekki verið í neinum tengslum við stjórnmálaflokk, hvorki Sjálfstæðisflokk né aðra flokka. Auk þess er fólk á Norðausturlandi og Austurlandi miklu hallara undir Dagblaðið en Morgunblaðið. Ekkert slíkt kemur þó fram í þessari könnun.
En hitt er þó alvarlegra að fyrsta spurning könnunarinnar er leiðandi og fréttastofu Ríkisútvarpsins – og þá einnig öðrum fréttastofum – í hag. Enginn lítur á Morgunblaðið sem fréttastofu. Það er aldrei talað um Morgunblaðið sem fréttastofu. En það er t.a.m. tönnlazt á fréttastofu Ríkisútvarpsins og þess vegna er þetta orð sett inn í spurninguna sem einhvers konar hækja fyrir Ríkisútvarpið.
Við þurfum að fá gallharða og heiðarlega könnun sem sleppir slíkum hækjum og segir okkur allan sannleika. Ef hann er slæmur fyrir okkur þá horfumst við í augu við það eins og við höfum gert, ef ekki þá væri það uppörvandi – enda að mínum dómi sanngjarnt.
En samtíðin spyr ekki um sanngirni. Það spyr varla nokkur maður lengur um sanngirni.
Þjóðfélag þar sem allt snýst um það í hálfan mánuð hvort einn eða fleiri menn hafa notað sama smokkinn við samfarir á konu sem álpast með enskum sjómanni í togara og heldur því svo fram að hann hafi nauðgað henni þar, er ekki venjulegt þjóðfélag.
Það er bæði hallærislegt þjóðfélag og á eitthvað bágt á sálinni.
Þjóðfélag Smokksins er varla það samfélag sem við teljum okkur einna helzt sæmandi. En því miður þá hefur maður lifað í þessu samfélagi hins víðförla Smokks eins og leigubílstjóri sagði í samtali okkar, um alllanga hríð án þess það hafi á nokkurn hátt eflt með manni þjóðarstoltið, nema síður væri!!
En það er svo annað mál að fjalla um smokk í tengslum við kynsjúkdóma og jafnhryllilegan vágest og alnæmi eða eyðni, enda myndi enginn hafa slíkt í flimtingum.
Í Alþýðublaðinu í dag er fimm dálka forsíðufyrirsögn og haft eftir Sigurði Sigurðarsyni (ranglega skrifað í Alþbl.) vígslubyskupi:
Siðferðilegar spurningar fyrnast ekki.
Fyrir ofan þessa fyrirsögn er stuðull þar sem segir að kirkjan sé í hers höndum vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyn,byskupi, um kynferðislega áreitni á hendur tveimur konum.
Sem sagt, þeim hefur fjölgað um helming frá því ég hafði síðast spurnir af þessu nýja upphlaupi í þjóðfélagi Smokksins.
Það er augljóst að Alþýðublaðið hyggst taka þátt í að ganga milli bols og höfuðs á byskupnum.
Í forsíðufréttinni segist blaðið hafa heimildir fyrir því „að fleiri konur komi fram á sjónarsviðið með ásakanir á hendur biskupi um kynferðislega áreitni”.
Svo er sagt að það hafi vakið mikla reiði „meðal kvenna” hvernig byskup hafi brugðizt við þessum ásökunum.
Hvað átti hann að gera?
Átti hann að þakka guði almáttugum fyrir þær?
Sannleikurinn er sá að ef byskup er saklaus af þessum ásökunum er verið að hundelta mann sem á sér enga málsvörn vegna þess að hann skortir sannanir fyrir sakleysi sínu!!
Það er augsýnilega einnig verið að ganga milli bols og höfuðs á séra Pálma Matthíassyni sem enn hefur verið vinsælasta nafnið í forsetaslagnum.
„Önnur konan, Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, hafði fyrir tveimur árum talað við séra Pálma Matthíasson og í fyrra við séra Vigfús Þór Árnason og beðið þá um að taka málið upp innan kirkjunnar. Hvorugur hafðist að í málinu... Önnur kona hefur jafnframt sakað biskup um kynferðislega áreitni, og prestur sem blaðið talaði við í gær sagði að altalað væri innan kirkjunnar að fleiri vitnisburðir væru á leiðinni”.
Þetta gæti endað eins og með Clausen gamla í Stykkishólmi.
Hann var talinn mikill kvennamaður.
Einhverju sinni var hann í fjölmennu samkvæmi þar sem voru flestar konur bæjarins. Hann var harla dapur í bragði og því spurði sessunautur hans, hvernig stæði á því að hann væri svona óglaður.
Clausen sagði að það væri ekkert skrítið, hann hefði komið auga á konu sem hann hefði ekki sofið hjá!
Það er mikill hanaslagur í þjóðfélaginu og það fá margar kjaftasögur vængi í hænsnabúinu.
Hvað er satt og hverju er logið, hver veit það?
Í morgun var fullyrt við mig að ég væri annar helzti stuðningsmaður Njarðar P. Njarðvíks til forsetaembættis.
Ég kom af fjöllum.
Það er fullyrt að þú hafir skrifað meðmælendalistann og sért í öðru sæti.
Ég kom enn af fjöllum.
Hef ekki skrifað undir eitt né neitt,enda verður ritstjóri Morgunblaðsins að gæta fyllsta hlutleysis,svo að blaðið geti gegnt hlutverki sínu.
Og ég ætla ekki að skrifa undir eitt né neitt. Ætla ekki að ánetjast einum eða neinum í þessum slag. Ætla að halda sjálfstæði mínu eins og ég hef gert. Það er enginn fótur fyrir þessari fullyrðingu sem sögð var í stóru samkvæmi, að mér skilst. Þetta er allt lygi frá rótum. Það var fullyrt að ástæðan til þess að ég væri svona hallur undir Njörð P. Njarðvík væri sú að hann hefði í skrifum sínum ekki vitnað oftar í aðra en mig og Jesú Krist!
Það er að vísu gott selskap en mér er til efs að Njörður P. Njarðvík hafi nokkurn tíma vitnað í mig, man það að minnsta kosti ekki. Samt er þetta allt haft fyrir satt !
En það er margt gott um Njörð.
Þjóðfélag Smokksins er iðandi maðkaveita; full af ómerkilegu fólki sem sést ekki fyrir.
Hvernig á að stjórna heiðarlegu dagblaði við slíkar aðstæður?
Spyr sá sem telur sig ekki lengur vita á hverju gæti verið von í þessu hænsnabúi sem heitir íslenzkt samfélag.
Hér geta allir eyðilagt alla.
Allir logið upp á hvern sem er og enginn vitað hvað er sannleikur eða lygi.
Aldrei.
Ég hef ekki samúð með ofbeldi, allra sízt kynferðislegu ofbeldi. En ég hef ekki heldur samúð með því að eltast við menn og eyðileggja ef þeir eru saklausir; ef ekki er vitað hvort þeir eru saklausir; ef talið er að þeir séu sekir.
Ætli „siðferðileg spurning” sé ekki afstætt hugtak. Sagði ekki einhver á sínum tíma, Syndir yðar eru fyrirgefnar... Stóðu ekki harmsagan – og fagnaðarboðskapurinn á Golgata – eitthvað í sambandi við þessi orð?
Ég sé ekki betur en það skorti á að prestafélagið taki þau orð alvarlega, að sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum. Talað var um „kynferðislega áreitni” þegar ég heyrði fyrst af þessu máli byskupsins. Nú talar Alþýðublaðið um „kynferðislegt ofbeldi”, einnig í leiðara!
Það er munur á þessu tvennu.
Fjöðrunum er að fjölga. Grófleg nauðgun er á næsta leiti! Fjöðrin á eftir að breytast í hænu, eða hvað? Það er ekkert varið í áreitni.
Daður er list út af fyrir sig og þeir sem bezt kunna að daðra eru gjarna kallaðir kvennamenn.
Það er hrósyrði.
Í þessum hasar verður ofbeldi að koma í stað áreitni, annað eyðileggur fjölmiðlahasarinn.
Clausen gamli var sérfræðingur í daðri en hann gerði að vísu aldrei kröfu til þess að verða byskup.
Rakst á gamalt samtal við Davíð Oddsson sem hafði birtzt í Alþýðublaðinu föstudaginn 2. febrúar sl.; ágætt samtal fyrir Davíð. Hann segir meðal annars – og er ég alveg á sama máli:
„Ég hef sagt að mér finnst að kosningaslagurinn ætti ekki að standa nema einn mánuð, annað væri óþarfi. Þegar því er haldið fram að vissir frambjóðendur þurfi hálft ár til að kynna sig fyrir þjóðinni þá finnst mér það út í hött. Ef fólk hefur svo lítið til unnið að það þurfi hálft ár til að kynna sig, þá ætti það ekki að vera að velta því fyrir sér að verða forseti. Væntanlegur þjóðhöfðingi hlýtur að hafa eitthvað fram að færa.”
Og ennfremur:
„Ég verð að segja alveg eins og er, að menn hljóta að velta fyrir sér á hvaða leið forsetaembættið er, (leturbr.mín) miðað við þau nöfn sem hafa verið nefnd til sögunnar.”
Hárrétt.
Og Davíð segir að endingu – og er þá að tala með hjartanu:
„Ég hef stundum velt því fyrir mér af hverju ég fór út í pólitíkina. Ég er ekki ósáttur við það, en það var ekki metnaðarmál. Það var aldrei draumur sem varð að veruleika. Ég leiddist út í þetta skref fyrir skref. Ég gæti verið mjög sáttur við að fara út á aðra braut síðar meir. Pólitíkin er ekki mitt líf. Ég get lifað í pólitíkinni, en ég lifi ekki fyrir pólitíkina. Ég sé aðra menn, sem sjá engan annan veruleika en pólitíkina. Ég geri ekki lítið úr þeim, margir þeirra eru stórkostlegir menn. En pólitíkin er alltof þröngur veruleiki, finnst mér. Pólitíkin er ekki haldreipi mitt.”
Það er áreiðanlega mikið til í þessu. En pólitíkin hefur verið Davíð freisting; þörf hans fyrir hlýju og vinsældir hefur dregið hann að stjórnmálum og svo auðvitað löngunin í völd. En hann er að mettast, sjálfur segist hann vera að stillast. Hann var svo sem ekkert óstilltur þegar ég sá hann síðast fyrir hálfu ári.
Alþýðublaðið sem er eins og laungraður hestur og minnir einna mest á menntaskólablað í mínu ungdæmi er eitthvað að þenja út brjóstið vegna skoðanakönnunarinnar um traust fjölmiðla. Hrafn Jökulsson,ritstjóri blaðsins, ræðst á okkur eins og hann sé í rammgerðu kjarnorkuvígi, en ekki glerhúsi.
Það trúi enginn Morgunblaðinu. Það sé stofnun, rétt eins og Ríkisútvarpið sé ekki stofnun! Við höfum ekki gagnrýnt Vigdísi forseta fyrir daður við valdaböðla í Kína og nú séum við að reyna að hylma yfir eitthvað með byskupnum!!
Auðvitað!
Okkur kemur forsetinn ekkert við, ekki heldur byskupinn, en sjálfsvirðingin skiptir okkur máli, það skilur ekki Hrafn Jökulsson og þeir sem stjórna uppákomum Alþýðublaðsins.
Morgunblaðið selur staðreyndir og skoðanir en það selur ekki upphlaup. Það selur ekki Gróu á Leiti. Það selur ekki mannorð.
Það reynir að umgangast þjóðfélagið og einstaklinga af sanngirni, en ekki léttúð. Og ef Hrafn Jökulsson á við það er þessi setning í grein hans um „sýndarveruleika Morgunblaðsins” rétt, öllum að óvörum: „Morgunblaðinu er ekki neinskonar léttúð að skapi...”
Oft ratast kjöftugum satt á munn!
22. febrúar – fimmtudagur
Áttum ágætan fund með þingflokki Þjóðvaka í gær. Athyglisvert að hlusta á Svanfríði Jónatansdóttur lýsa því hvernig ungir Íslendingar hafa yfirgefið ættjarðarhyggjuna í kvæðum eins og Fífilbrekka gróin grund... Líkaði ágætlega að tala við Jóhönnu Sigurðardóttur þótt ég viti að hún er fyrst og síðast gallharður pólitíkus. Við töluðum m.a. um samband fólks á tölvum og vorum sammála um að persónuleg samskipti væru áhrifameiri. Hélt kannski hún hefði aðrar skoðanir á því! En tölvur inspirera ekki(!)
Sagði þeim að hætta þessu sameiningartali á vinstri væng og snúa sér heldur að krötunum í Sjálfstæðisflokknum. Hann væri fullur af sunnudagskrötum! Þau höfðu held ég gaman af þessari ábendingu.
Rifjaði upp með Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur þegar við vorum saman á hákarlaveiðunum við Algarve! Rifjaði einnig upp við Ágúst Einarsson vináttu okkar föður hans, Einars ríka Sigurðssonar.
Slík samtöl auka skilning og samúð.
Áttum ágætan fund í dag með stjórn Árvakurs. Einkum rætt um að stytta aðsent lesefni vegna pappírshækkunar.
Nú hefur byskupinn óskað eftir opinberri rannsókn ríkissaksóknara vegna ásakana um meinta kynferðislega áreitni.
Verðum með frétt um málið og fréttaskýringu um helgina. Það eru eðlileg afskipti okkar af þessu leiðindamáli. En þetta finnst mér rétt ákvörðun hjá Ólafi Skúlasyni, þótt sannleikurinn eigi aldrei eftir að koma í ljós; auðvitað ekki.
24. febrúar – laugardagur
Sverrir Hermannsson kom upp á Morgunblað í morgun með yfirlýsingu vegna samtals í Alþýðublaðinu í vikunni sem hann segir rangt og brot á trúnaði.
Slæm uppákoma hjá Hrafni Jökulssyni. Samtalið varð til þess að Davíð Oddsson dembdi sér yfir Sverri, bæði í bréfi og í Stjórnarráðinu.
Segir Sverrir.
Sáum Bréfberann í kvöld, yndislega kvikmynd um Neruda og vináttu hans við ítalskan bréfbera – og ástir hans. Ógleymanleg mynd eftir skáldsögu Antonios Skarmeta, en Massino Troisi leikur póstinn, veill fyrir hjarta og lézt daginn eftir tökur.
Hvílíkur minnisvarði(!)
Að hugsa sér að enn skuli vera fólk sem framleiðir slíkan dýrgrip. Samtal þeirra Neruda um myndhvörf og ljóðlist er óborganlegt.
Þegar mest reið á sagðist fiskimaðurinn vera bátur sem vaggaði á orðum skáldsins; sem sagt myndhvörf.
Og hann spyr:
Er alheimurinn þá myndhvörf um eitthvað annað?
Hver veit?
Mikið hefði ég viljað kynnast Pablo Neruda. Og nú ætla ég að gera það rækilega – af ljóðum hans.
Höfum séð margar vel gerðar spennumyndir, fátt er betri afþreying. Ég tala nú ekki um ef þær eru með Al Pacino og de Niro eins og Heat. En IlPostino leiðir hugann að ljóðlist – og þá ekki sízt hvernig hún speglar mikilvægasta þátt mannlífsins, ástina.
Sjálfur hef ég reynslu fyrir því eins og sjá má í næstu ljóðabók minni, Vötn þín og vængur.
1. marz – föstudagur
I
Almenningur lítur embætti stórum augum, ekki sízt við Íslendingar. Stundum finnst mér jaðra við að lotningin fyrir embættum og þeim sem í þeim sitja sé engu minni en sú lotning sem menn bera fyrir guðdómnum. En embætti eru ekkert merkileg. Þau eru aldrei merkilegri en sá sem í þeim situr. Það er þjóðlygi, að mínu viti, að guð gefi þeim vizku sem hann gefur embætti. En merkur maður sem gegnir mikilvægu embætti getur veitt því slagkraft sem ætlazt er til. Og þá – og einungis þá – er ástæða til að bera virðingu fyrir embættinu og manninum. En það er fátítt nú á dögum að einstaklingar stækki embætti sín. Ástæðan fyrir þessari aðdáun á náttúrulega rætur í valdi sem fylgir ýmsum embættum. Fólk er veikt fyrir valdi hvað sem hver segir og því miður lifum við á valdhrokatímum þrátt fyrir allt lýðræðishjalið. Það er talað um valdalítil, táknleg embætti eins og forsetadæmið. Ég hygg það sé rétt að því fylgi ekki þau völd sem ýmsir þeir hafa sem eru á vegum framkvæmdavaldsins, t.a.m. ráðherrar. En þeir fara misjafnlega með sín völd, það vita allir. Samt er gapað upp í þá af ýmsum ástæðum. Og þá ekki síður forsetaembættið. Ég hef aldrei borið neina lotningu fyrir embættum, ekki heldur þeim embættum sem ég hef nú nefnt. En ég hef stundum borið virðingu fyrir þeim sem hafa setið í þessum embættum og gert það með reisn og sóma. Embættum fylgir alltof mikið snobb. Ég hef stundum undrazt hvað margir eru haldnir þessum kvilla andspænis embættum eða valdi. Mig hefur alltaf skort þessa lotningu. Mín lotning er aðdáun sem snertir vel unnið starf, merkilega manneskju sem ég fylgist með eða hef kynnzt og er þá mikilvæg vegna eigin ágætis en ekki vegna stöðu sinnar. Ég hef einnig haft tilhneigingu til að fyllast aðdáun andspænis verðmætum og þá ekki sízt mikilvægri list. Ég ber ekki lotningu fyrir kóngum og prinsessum, körlum eða díönum, titlum eða heiðursmerkjum. Jóhannes afi minn Jóhannesson alþingisforseti og bæjarfógeti var einn helzti áhrifamaður í stjórnmálum um sína daga og sat m.a. í Uppkastsnefndinni sem kölluð var, og Sambandslaganefndinni 1918 sem færði okkur fullveldið margnefnda. Hann var einnig formaður Alþingishátíðarnefndar og forseti sameinaðs þings og leit stórum augum á það starf enda tel ég að lögsögumaðurinn sé svo gamalgróinn embættismaður í sögu okkar að það sé einstakt og raunar ástæða til að rækta þetta embætti meir og betur en gert hefur verið. Jóhannes hafði einnig verið beðinn um að verða ráðherra, a.m.k. í tvígang sagði Bjarni Benediktsson mér, en því hafnaði hann. Hafði ekki löngun til þess. En vegna annarra starfa sinna, og þá ekki sízt sem embættismaður konungs var hann hlaðinn heiðursmerkjum, bæði innlendum og erlendum. Mér þótti dálítið til þessa koma þegar ég var drengur. Heiðursmerkin voru sett á bláan púða, minnir mig, ofan á kistuna hans þegar hann var borinn til grafar í gamla kirkjugarðinum, en þá komu einhverjir karlar og tóku orðurnar af kistunni og fóru með þær svo þær færu ekki með honum í gröfina. Þessu gleymdi ég ekki. Þetta var áminning til mín um það að hið forgengilega verður eftir á landamærum lífs og dauða. Jarðneskt tildur hefur víst lítil áhrif á Lykla-Pétur þegar þar að kemur. Við verðum að berjast við dauða og tortímingu með öðrum vopnum en þeim sem heyra til tímabundnum jarðneskum völdum. Mér er nær að halda að mín kynslóð sé alin þannig upp. Hún er yfirleitt hlédræg og lætur lítið yfir sér. Hún ber lotningarfulla auðmýkt fyrir arfinum og veit að það eru hvorki embætti né titlar sem gera okkur að einni þjóð, heldur tungan og landið, þau ein. Og svo náttúrulega sagan og bókmenntirnar sem eiga rætur í umhverfinu og blómstra í tungunni. Tungan flytur okkur hin stóru blæbrigði í hugsun og viðhorfum. Það er hægt að fara illa með hana eins og allt sem okkur er trúað fyrir en þegar vel tekst til er hún tæki mennskunnar og hinna hárfínu blæbrigða sem hafa breytt dýri í mann þótt ég geri mér fullkomna grein fyrir því að mörkin milli manns og dýrs eru oft óljós. Og trúarbrögð og siðfræði reyna oft á tíðum að koma böndum á dýrið í manninum og hefta það með þeim hætti að vandræði geta hlotizt af. En þessi bönd eru þó nauðsynleg ef við eigum að geta lifað í sátt við sjálf okkur og samfélagið.
Tökum dæmi af blæbrigðum tungunnar. Við getum sagt, Hann er rándýr. Hvað merkir það? Samhengi og blæbrigði áherzlunnar segja okkur merkinguna. Við getum líka sagt, Hann er rándýr sérfræðingur. Hvað merkir það? Allt annað, þótt rándýr sé jafn mikilvægt í báðum setningum. Maðurinn einn býr yfir slíkri tjáningu; slíkum blæbrigðum. En hann hefur farið illa með þetta tjáningartæki sitt og það hefur oft borið þess vitni að hann stendur nær höggorminum en þeim guðlega krafti sem hann stóð andspænis við syndafallið. Samt heldur hann einatt að hann sé almáttugur. Ég horfði ekki alls fyrir löngu á verðlaunaúthlutun fyrir poppmúsík í Sjónvarpinu, það var fróðleg uppákoma. Ég hef gaman af Madonnu og Michael Jackson og lít á þau sem mikla skemmtikrafta. En lengra nær aðdáun mín ekki. Af þeim ástæðum vakti það athygli mína þegar verðlaunum var úthlutað til Michael Jackson á þessari uppákomu að þá greindi þulurinn ekki einungis frá yfirburðum hans, heldur bætti hann því við þegar hann lýsti því hvernig hann dansaði – að þar væri guð að dansa! Sem sagt þarna blasti guðdómur núTímans við í allri sinni dýrð. Allir hlógu og klöppuðu nema einn vesalingur sem þarna var viðstaddur og mótmælti af einhverjum ástæðum og guðdómurinn dansaði út af sviðinu með þau orð á vörum að hann elskaði aðdáendur sína.
Allt þetta skal ég gefa þér ef þú tilbiður mig, var einhvern tíma sagt. Það er enn sagt með ýmsum hætti. Manndýrkun hefur einkennt allar aldir. Að vísu sögðu þeir ekki að guð dansaði á miðöldum en þá dönsuðu þeir þúsundum saman á milli borga í einhverju dýrslegu æðiskasti sem enginn hefur skilið. En auðvitað er þetta allt barátta við tortímingu.
Nú hefur hagur strympu hækkað því að menn geta lifað áfram og sigrað tortíminguna í sjónvarpi eða myndböndum, bæði skemmtikraftar, leikarar, söngvarar og stjórnmálamenn. En vesalings rithöfundarnir sem gátu átt uppreisnar von í verkum sínum verða víst áfram að styðjast við þessar deyjandi skruddur sem þeir eru að setja saman við litlar vinsældir, æ minni völd og helzt engar tekjur.
En sem sagt, allt er þetta barátta við dauðann og dýrið fær útrás í jarðneskum móðursýkisköstum af ýmsu tagi. Mannjöfnuður og samanburður sem leiðir til nýrrar og nýrrar sturlungaaldar; tómleika og ófullnægju. Um það má lesa í Kompaníinu. En þú mátt samt ekki halda að ég sé einn af þessum öngþveitismönnum sem Þórbergur talar um; einn þeirra sem er búinn að missa trú á allt, trú á mennina, trú á þróunina vegna þess að margt hefur gengið öðruvísi í heiminum en æskilegt hefði verið. Ég tel mig á engan hátt hafa glatað þrautseigju andans þótt ég missi trúna á manninn og menninguna annað veifið eins og Paul Brunton sem við Þórbergur töluðum um föstudaginn 9. janúar 1959.
Brunton var á leið til að hitta vitrasta mann Indlands því hann hafði eftir fyrri heimsstyrjöld tilhneigingu til að verða öngþveitismaður og vildi tala við vitringinn um þjáningar sínar og heiminn sem hann taldi á yztu nöf og á leið til glötunar. Þá svaraði vitringurinn, Blessaður hafðu ekki neinar áhyggjur af heiminum. Hann spjarar sig. En á meðan einstaklingurinn er eins og þú ert, þá verður heimurinn eins og hann er.
Meðan maðurinn er eins og hann er verður heiminum ekki bjargað. Honum verður einungis bjargað ef manninum verður breytt. En mannjöfnuðurinn, það er rétt, um hann er einnig fjallað í Kompaníinu og þá einnig í Ólafs sögu. Hann er eitrið í blóði okkar og það er inngróið í litningana. Þann lærdóm getum við m.a. dregið af íslenzkum fornsögum. Þessi mannjöfnuður, þessi forsnobbaða virðing fyrir embættum og valdi gengur jafnvel svo langt á þessum makalausu tímum markaðshyggju og lýðræðis að það þarf að taka fram í boðskortum hvort þessi eða hin háæruverðugheitin komi á opnun sýninga eða verði viðstödd samkomur, rétt eins og það skipti einhverju máli og breyti vondri sýningu eða hundleiðinlegri samkomu í einhvers konar hversdagslegt fagnaðarerindi eða guðlega blessan.
Gunnlaugur Scheving talaði stundum við mig um hina sönnu tólg. Ég held maður finni hana einna helzt í návist við það fólk sem gengur titla- og embættislaust á meðal okkar sem eins konar persónugervingar fjallræðunnar. En um þetta fólk hef ég skrifað í mörgum bókum og það hefur einkum verið viðfangsefni samtala minna. Ef þau eru einhvers virði þá er það vegna þessa fólks og þeirrar reynslu sem það hefur eignazt í umhverfi sínu.
Hitt er svo annað mál að manndýrkun er víða meiri en hér á landi. En hún er jafn ógeðfelld fyrir það. Og svo má ekki gleyma því að fátt er jafn grimmt og almenningsálitið þegar á móti blæs breytist malandi heimiliskötturinn í urrandi tígrisdýr.
II.
Ég tel að EES-samningurinn dugi okkur vel eins og nú horfir. Við höfum fengið niðurfellingu á tolli og vörur okkar eru þannig eins verðmætar á Evrópusambandsmarkaðnum og þær geta orðið. Samningurinn hefur þannig aukið hagsæld okkar og verður áreiðanlega góð hvatning í nýju markaðsátaki. Gengi íslenzku krónunnar hefur verið hagstætt iðnaði svo að nú ríkir bjartsýni um að íslenzkar iðnaðarvörur og framleiðendur þeirra geti sótt í sig veðrið, enda eru framtíðarhorfur iðnaðar mjög góðar ef hann losnar við þær efnahagssveiflur sem einkennt hafa íslenzkt þjóðlíf á undanförnum áratugum. Ég skil vel að fulltrúar iðnaðarins vilji hafa vaðið fyrir neðan sig og koma í veg fyrir þenslu af völdum uppsveiflu í sjávarútvegi en veiðileyfagjald – eða afnotagjald af auðlindinni – yrði áreiðanlega þáttur í því að hér færi ekki allt úr skorðum við slíkar aðstæður. En fulltrúar iðnaðarins hafa einnig lýst yfir því að þeir vilji setja á veiðileyfagjald af réttlætisástæðum og það hefur glatt mig öðru fremur. Þegar við morgunblaðsmenn hófum baráttu fyrir því að menn greiddu fyrir afnot af auðlindinni töldum við það sanngirnismál gagnvart eigendunum, þ.e. þjóðinni sjálfri, þannig að hún bæri eitthvað úr býtum en ég er sammála Árna Vilhjálmssyni í því að slíkt gjald ætti að renna til eigendanna sjálfra en ekki í neina sérstaka sjóði sem t.a.m. fulltrúar sjávarsútvegs- eða stjórnmálamenn gætu ráðstafað að eigin geðþótta. Barátta okkar fyrir veiðileyfagjaldi var ekki sízt hugsuð til þess að létta á samvizku þeirra heiðarlegu útgerðarmanna sem fengju auðlindina á silfurbakka og væntu þess þá að þeir gætu notað hana eins og eigendur væru. Réttlætið segir að þeir eigi að greiða fyrir afnot og upphaflega hugsuðum við ekki um peninga í þessum efnum, heldur hvernig réttlætinu væri bezt borgið. Við lögðum því áherzlu á hina gullnu þríreglu, sem ég hef nefnt svo, en höfuðatriði hennar eru, það getur enginn selt það sem aðrir eiga, það getur enginn veðsett eignir annarra og það er ekki hægt að erfa það sem aðrir eiga. Svona einfalt er nú þetta og kemur ríkisafskiptum og sósíalisma ekkert við, hvað sem sjálfstæðishetjurnar góðu segja um það. En ef veiðileyfagjald yrði sett á væru þeir sem fengju afnot af eigninni í fullum rétti að nota hana þann tíma sem leigður væri og með þeim hætti sem bezt hentaði. Hitt er svo annað mál að við höfum ekki amazt við kvótanum svo að nokkru nemur, þótt við gerum okkur grein fyrir því að hann er undirrót þess að menn umgangast auðlindina verr en skyldi, fleygja t.a.m. smáfiski svo að þeir geti aflað verðmætari fisks án tillits til þess hvílík aðför það er að hafinu og auðævum þess. Færeyingar hafa gert sér grein fyrir þessu og nú hafa þeir, að mér skilzt, varpað aflamarkinu fyrir róða og tekið upp einhvers konar sóknarmark og ættum við að fylgjast rækilega með því hvort það dæmi gengur upp.
III
Við höfum verið varkárir í afstöðunni til Evrópusambandsins og Morgunblaðið hefur ævinlega boðað þá stefnu að aðild að því komi ekki til greina ef hætta er á að útlendingar gætu farið að ráðskast með auðlindina – og þá sem sameiginlega gullkistu Evrópusambandsþjóðanna allra. Mér skilst raunar að ekki væri ýkja mikil hætta á slíku en allur er varinn góður. Við þurfum ekki að æða inn í Evrópusambandið. Ef við ættum þangað erindi væri hyggilegt að láta Tímann ráða og sækja ekki um fyrr en um það ríkti einskonar þjóðarsátt því að ástæðulaust er að hefja nú enn einu sinni sársaukafull átök og setja allt þjóðfélagið á annan endann án þess brýna nauðsyn beri til. Ég ætla mér ekki þá dul að fara að spá neinu um framtíðina en ef mönnum virðist mikill ávinningur að aðild að Evrópusambandinu án þess við þyrftum að afsala meira af fullveldinu en nauðsyn krefur, þá teldi ég æskilegast að við yxum inn í þessi samtök vestrænna lýðræðisríkja eins og tíminn vex inn í framtíðina eða grasið inn í nýtt vor. Við ættum þá að ganga fagnandi til þess fundar en ekki eins og lúbarðir hundar og flaðrandi upp um miskunnarlítinn húsbónda. Við höfum efni á því að sæta lagi ef það yrði niðurstaða fólksins í landinu að Evrópusambandið væri góður kostur. En við eignumzt aldrei aðild að því án þjóðaratkvæðagreiðslu, það er ljóst. Ég gef lítið fyrir þann áróður að við verðum að sækja um aðild að Evrópusambandinu hið fyrsta vegna þess að þá gætum við haft áhrif á pólitíska stefnu þess. Við munum hvort eð er hafa lítil sem engin áhrif á þessa stefnu. Við verðum aldrei annað en peð á þessu skákborði og ég hef ekki sannfæringu fyrir því að þetta peð eigi eftir að verða að drottningu í taflinu um Evrópusambandið. Það gegndi allt öðru máli um Atlantshafsbandalagið. Þá vorum við lítið stórveldi vegna þess að vestrænar þjóðir þurftu á okkur að halda jafn mikið og við á þeim. Það var kalt stríð og án Íslands í köldu stríði hefðu Vesturlönd ekki verið nema svipur hjá sjón. Það var ekki sízt af þeim sökum sem staða okkar var feikna sterk. Við gátum sett Atlantshafsbandalaginu stólinn fyrir dyrnar. Við gátum hótað úrsögn. Við gátum hótað brottflutningi varnarliðsins og veikt vestrænar varnir og stórveldin urðu að taka tillit til óska okkar og krafna. Við gátum notað Atlantshafsbandalagið í þorskastríðum við Breta og engum datt í hug að setja okkur stólinn fyrir dyrnar. Við spiluðum á stórveldi Atlantshafsbandalagsins eins og púkablístru. Kissinger, sem hingað kom á sínum tíma, segir í ævisögu sinni, sem skrifuð var löngu síðar, að Ísland hafi verið dæmi um smáríki sem gat mútað stórveldum vegna stöðu sinnar. Mig minnir endilega að hann hafi notað orðið múta, ég skal þó ekki fullyrða það. Það var annað hljóð í honum þegar hann var hér í miðju þorskastríði og átti fund með heimspressunni og ég knúði hann á þessum fundi til að svara spurningu um afstöðu Bandaríkjamanna til þorskastríðsins. Þá þurfti ég að einbeita mér og taka á öllu sem ég átti vegna þess að þorskastríðið var ekki beinlínis efst á baugi og það hvarflaði að mér að heimspressan myndi reka upp skellihlátur ef einn aumur íslenzkur blaðamaður færi nú að heimta greinagerð af talsmanni Bandaríkjastjórnar í þessum efnum. En spurningin komst ágætlega til skila, enginn hló og Kissinger svaraði af mikilli alvöru. Það var auðvitað diplómat í vanda sem svaraði en hann gerði það með þeim hætti að við gátum vel við unað – og ég held Bretar einnig! Þannig urðum við ígildi brezka ljónsins. Við höfðum allt í einu eignazt okkar vígtennur, við áttum þófa ljónsins og allir vissu að krílið gat öskrað með þeim hætti að það heyrðist um heim allan og það gæti orðið Atlantshafsbandalaginu dýrt spaug! Nú er sagt að fullveldi sé takmarkað – og raunar takmarkaðra en áður var þegar við fengum það 1918. Ég get vel fallizt á það. Aðstæður í heiminum eru allt aðrar en þá voru, þjóðríki verða að taka meira tillit hvert til annars en áður og enginn getur leikið það hlutverk að hann sé einn í heiminum. Ekki einu sinni Kastró. Ekki einu sinni Kínverjar og eru þeir þó einn milljarður og rúmlega það. En fullveldi sem táknleg yfirlýsing er enn jafn mikilvæg forsenda sjálfstæðis og áður var; ekki sízt fullveldi lítillar þjóðar. En það er svo rétt að á sínum tíma gátum við með aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu takmarkað fullveldi stórvelda eins og Bretlands og Bandaríkjanna og höfðum í öllum höndum við stórveldapólitík þessara lýðræðisríkja. Við notuðum okkur það óspart. Við höfum ekki lengur tök á þessum ríkjum, ég tel líklegast að þeim sé gjörsamlega sama um það nú um stundir hvoru megin hryggjar við liggjum. Það er að vísu rétt að þau mundu ekki sætta sig við rússneskar herstöðvar á Íslandi en slíkt stendur ekki til. Varnarsamstarf okkar í Atlantshafsbandalaginu er þannig mikilvægara fyrir okkur en aðra þótt allir viti að skjótt skipist veður í lofti og allt gæti þetta breytzt á svipstundu. Við erum því réttu megin hryggjarins og ég vona að við berum gæfu til þess að vera það áfram þótt slagkraftur okkar sé minni en áður og stórveldin séu löngu vöknuð af þeirri martröð sem Ísland var á viðsjárverðum tímum kaldra stríða og fiskveiðiátaka.
IV
Ég hafði gaman af að vera á blaðamannafundinum með Kissinger hér heima á Íslandi og þá ekki síður fundinum með Pompidou þegar hann hitti Nixon, sællar minningar, og sagði að fundi loknum, að getnaði fylgdi meiri sæla en sársaukafullri fæðingu. Þessi fundur var á Kjarvalsstöðum og lenti í ljóðabók minni, Dagur ei meir, ljóð 74, en hún var einhverskonar tízkufyrirbrigði á sínum tíma og seldist upp á svipstundu. Ég á því miður ekki slíku ævintýri að fagna nú um stundir, en það getur lagazt. Í þessu getnaðar- og metnaðarfulla ljóði segir m.a. svo, ef þú manst það ekki:
Á þjóðhátíð ríma skáldin
rúnir sínar
og einnig ég mínar,
með því sýni ég dáldinn
þjóðarmetnað
og leysi eitthvað úr læðing.
Eða eins og Pompidou sagði:
Að sælan er minni við fæðing
en getnað.
Svo mörg voru þau orð.
Blaðamannafundurinn með Krúsjeff í París á sínum tíma er þó sá eftirminnilegasti sem ég hef tekið þátt í. Hann var haldinn eftir að toppfundur þeirra Eisenhowers hafði farið út um þúfur vegna U2-málsins og raunar má segja að þá hafi heimurinn leikið á reiðiskjálfi. Og ég hélt satt að segja að gólfið myndi hrynja í Palais de Chaillot meðan á fundinum stóð. Malinovskí hershöfðingi sat eins og íbygginn skógarbjörn við ræðupúltið þar sem Krúsjeff stóð og þrumaði yfir heimspressunni svo að ógleymanlegt er. Ég sendi þessa frásögn heim og Bjarni Benediktsson fagnaði henni mjög þegar við hittumst svo aftur nokkrum vikum síðar og sagðist ekki hafa fengið betri lýsingu af þessum fundi í heimspressunni en í hans eigin blaði, Morgunblaðinu. Hann sparaði ekki hrósyrðin og ég verð að segja að þá var gaman að lifa þrátt fyrir ástandið í heiminum. Ég hef skrifað um þennan fund í ritgerðasafni mínu Hugleiðingum og viðtölum og þar má rifja þetta upp ef menn vilja.
Fundurinn með Gorbasjov hér heima, eftir toppfund hans og Reagans, var einnig áhrifamikill og eftirminnilegur, en þar var heimspressan einnig saman komin í Háskólabíói. Ég sat aftarlega í salnum og hafði mikinn áhuga á því að koma þeirri spurningu að hvort það hefði ekki verið erfið ákvörðun fyrir sovétstjórnina að koma til fundar við Bandaríkjaforseta í NATO-landi, hvort það hefði ekki verið auðveldara fyrir Rússa að halda fundinn í hlutlausu ríki þar sem Bandaríkjamenn hefðu t.a.m. engar herstöðvar. En ég vissi ekki hvernig ég átti að komast að fyrir heimspressunni svo aðgangshörð sem hún er venjulega á slíkum fundum. Ég einbeitti mér þess vegna að því að komast í hugsunarsamband við Gorbasjov. Ég kúplaði mér um stund úr sambandi við fundinn og einbeitti mér að hugsanatengslum við þennan flugmælska aðalriddara rússneska Kommúnistaflokksins. Trúði því reyndar í barnaskap mínum að slík einbeiting gæti haft áhrif. Og viti menn! Þegar ég rétti upp höndina undir lokin, ásamt nokkrum öðrum blaðamönnum sem allir sátu miklu nær sviðinu en ég, hikaði hann allt í einu, leit eitt andartak yfir salinn og benti á mig. Þannig dugði þessi galdur þarna í Háskólabíói og síðan er ég með þá flugu í höfðinu að eitthver sérstök tengsl séu á milli okkar Gorbasjovs þótt við höfum aldrei hitzt annars staðar en á þessari stundu þarna í bíóinu. Ég gat komið spurningunni að, hún varð alllöng og lopakennd en Gorbasjov skildi hvers kyns var og svaraði í alllöngu máli. Niðurstaðan var sú að það var engum vandkvæðum bundið að koma til fundar við Bandaríkjaforseta á Íslandi þótt við ættum aðild að Atlantshafsbandalaginu og Keflavíkurstöðin væri á vegum bandaríkjahers. Þannig fengum við yfirlýsingu um það að Rússar litu ekki á aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu sem einshvers konar aðild að árásaráformum vesturveldanna, þvert á móti, þeir virtu þessa aðild og þá stöðu sem þetta fyrrverandi hlutlausa smáríki hafði kosið sér á þessum viðsjárverðu tímum. Það voru mikilvægar upplýsingar þótti mér og staðfesting á því að stefna okkar væri rétt og án ögrunar.
Ég hef ævinlega verið Gorbasjov þakklátur fyrir að benda á mig þarna í salnum og leyfa íslenzkum blaðamanni að komast að fyrir heimspressunni. En auðvitað vissi hann ekki hver þarna sat og – og allra sízt að þar væri íslenzkur blaðamaður í hugleiðsluástandi!
V
Í miðju þorskastríði hitti ég Scheel, utanríkisráðherra Vestur-Þýzkalands, að máli á Nató-fundi í Bonn, það hefur líklega verið haustið 1972. Við höfðum þá um skeið dvalizt í Þýzkalandi og ég gat nokkurn veginn komið fyrir mig orði á þýzkri tungu svo að hann þurfti ekki að setja það fyrir sig. Ég spurði hann um þorskastríðið við Íslendinga. Hann var eins og snúið roð í hund, enda heldur fáfengilegur og fínn með sig, að ég held, svaraði út í hött og sagðist ekki hafa neinn áhuga á fiski því hann borðaði aldrei fisk! Það gætu aðrir gert fyrir sér! Ég spurði hvort þetta væri afstaða þýzku ríkisstjórnarinnar. Þér getið talað við fulltrúa minn í ráðuneytinu sagði hann – og gekk í burtu. Sem hann hvarf inn í fundarsalinn, kom ég auga á Brandt kanslara. Ég hugsaði með mér að nú væru góð ráð dýr. Ég gæti ekki sent það eitt heim að utanríkisráðherra Þýzkalands borðaði aldrei fisk. Í þá daga var maður galvaskur og aðgangsharður blaðamaður, það er af sem áður var! Ég gekk til Brandts og kynnti mig. Hann staldraði við, horfði á mig og spurði hvað ég vildi. Ég sagði honum að ég hefði rétt í þessu hitt utanríkisráðherra hans og spurt hann um þorskastríðið en hann hefði sagt hann hefði engan áhuga á því enda borðaði hann ekki fisk! Ég sá að Brandt var brugðið. Hann tók mig afsíðis og talaði við mig í ró og næði. Sagði að þetta væri ekki afstaða þýzku stjórnarinnar, þvert á móti og hann mundi kappkosta og leggja sig allan fram um að setja niður fiskveiðideiluna við Íslendinga. Hann sýndi mér hlýhug og kurteisi og hefur ávallt síðan átt spöl í hjarta mínu. Ég gat sent heim fimm dálka stórfrétt um þann áhuga sem kanslari Vestur-Þýzkalands hafði á að leysa fiskveiðideiluna við Íslendinga. Það var mikil frétt og góð. Ég hitti svo Brandt löngu síðar á Bessastöðum. Mér þótti vænt um að Vigdís forseti bauð okkur Hönnu þangað og gaf mér tækifæri til að tala við Brandt. Hann minntist þá líka í borðræðu sinni á samtal okkar í Þýzkalandi og enn hlýnaði mér um hjartarætur. Það sem mér hafði verið í mun skipti hann einnig máli. Það er ekki oft sem maður upplifir slíkt í blaðamennsku, nú þegar allt gleymist jafnóðum og tíminn fer eins og hvirfilbylur um líf okkar og umhverfi.
VI
Ég hitti Edward Kennedy einnig í Bonn. Átti við hann stutt samtal og spurði um Keflavíkurstöðina og þá einnig um utanríkisstefnu Bandaríkjanna eins og þá var umhorfs í heiminum. Hann talaði ágætlega við mig en undir lokin sagði hann, Ég er að fara á blaðamannafund og ég vil fá pressu út á ummæli mín um þessi mál. Þú mátt ekkert segja nema þú komir á fundinn og spyrjir mig þessara sömu spurninga. Það var auðsótt mál því ég ætlaði hvort eð var á blaðamannafund Kennedys en þegar þangað kom voru þar heldur fáir blaðamenn en þó einkum frá Grikklandi og Ítalíu, ef ég man rétt, og spurðu þeir engra spurninga sem ég hafði áhuga á. Ég held Kennedy hafi ekki heldur haft neinn áhuga á spurningum þessara blaðamanna. Ég endurtók svo spurningar mínar og hann svaraði þeim ítarlega svo að mér er nær að halda að þær hafi bjargað blaðamannafundinum. En ég efast um að þessir Suður-Evrópublaðamenn hafi notað það sem hann sagði svo ég sat líklega einn að því og Morgunblaðið fékk góða frétt úr innsta hring Washington. Joan kona Edwards Kennedys sat allan fundinn án þess segja orð. Ég held að nærvera hennar hafi átt að vera táknrænt merki þess að allt væri með kyrrum kjörum í hjónabandi þeirra, en þau slitu samvistir eftir stormasamt hjónaband og sorglegar uppákomur.
VII
Ég hef talað við marga stjórnmálamenn og sumt af því eftirminnilegt. Ég er þó ekki þeirrar skoðunar að þeir séu neitt merkilegri en annað fólk – og þá auðvitað ekki heldur neitt ómerkilegri – en um það hef ég fjallað í ýmsum greinum gegnum tíðina, bæði samtöl mín við Míkojan Fúrtsevu, Ben-Gurion og hvað þær nú heita allar þessar stórstjörnur skákborðsins á liðnum árum, og þá hef ég ekki síður hitt marga merkilega listamenn, ekki sízt rithöfunda og skrifað um ýmsa þeirra bæði í Hugleiðingum og viðtölum og öðru ritgerðarsafni sem heitir Félagi orð. Allt hefur þetta að sjálfsögðu verið áhrifamikil reynsla en hún hefur líka skilið eftir misjafnar minningar eins og þegar ég las frásögn MacMillans af fundi þeirra Ólafs Thors á Keflavíkurflugvelli og tilraun þeirra þá til að leysa deilu Breta og Íslendinga í þorskastríðinu en MacMillan talaði við okkur, nokkra íslenzka blaðamenn, í Flugstöðinni í Keflavík eftir fund þeirra og fór viðurkenningarorðum um Ólaf Thors og ekki annað að sjá en hann hefði verið harla ánægður með fund þeirra og kynni að meta Ólaf. En þegar hann svo lýsir fundinum í æviminningum sínum löngu síðar er hann farinn að ryðga í fræðunum og það eitt virðist standa upp úr að Ólafur Thors hafi verið óhemju hræddur við kommúnista á Íslandi!! MacMillan hafði engan skilning á aðstæðum á Íslandi, það er augljóst. Hann hafði aldrei þurft að glíma við þau vandamál sem blöstu við íslenzkum ráðamönnum vegna þeirra átaka sem hér voru um varnar- og öryggismál – og þá ekki síður útfærslu fiskveiðilögsögunnar. MacMillan hrapaði í áliti hjá mér eftir að ég hafði lesið minningar hans og ég veit af gamalli reynslu og þeim dæmum sem ég hef nefnt um Kissinger og MacMillan að svonefndir merkir stjórnmálamenn geta verið harla ómerkilegir og engin ástæða til að taka þá alvarlega frekar en aðra sem taka sig til og lýsa afrekum sínum og eigin ágæti. Samt má víst færa rök að því að bæði MacMillan og Kissinger hafi verið harla merkilegir stjórnmálamenn á sínum tíma. En auðvitað voru þeir fyrst og síðast tækifærissinnar en það er annað orð yfir einkunnina merkilegir.
Kvöldið -
Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Alþýðublaðinu, hefur óskað eftir samtali við mig og nefndi nokkur atriði sem hún vildi tala um. Ég hef rætt nokkur þeirra hér að framan. Ég er að reyna að búa mig undir þetta samtal við Kolbrúnu því ég er steingeit og vil hafa vaðið fyrir neðan mig.
En við sjáum til.
Talaði við Árna vin minn Þórarinsson á Café Reykjavík í dag. Við erum sammála um þær kvikmyndir sem við höfum séð; hinar fullkomnu tæknibrellur í Casino og Heat og atburðarás sem er svo nálægt lífinu að lífið verður eins konar dauf eftirmynd af þessum hasar. Árni er ekki hrifinn af þessum myndum. Ofbeldið er farið að ganga fram af honum. Við erum sammála um þessi atriði. Það gleður mig. Við erum einnig sammála um Il Postino, eða Bréfberann. Bezta myndin. Og ég er einnig sammála hrifningu Ingós á Farinelli; frábærlega vel gerð mynd.
Við Árni töluðum nokkuð mikið um það hvort hann ætti að skrifa ævisögu mína. Ég dró úr því. Langar ekki í ævisögu. Sagði honum frá þessum minnisblöðum. Finnst koma til greina, fyrst þau eru til, að nota dagbókina eins og exit þegar ég hætti störfum. Þá gæti Árni skrifað skýringar við hana og ef til vill mætti horfa um öxl og rifja upp eitthvað af því sem ég hef sett á minnisblöð; hver veit?
Sjáum hvað setur.
Ingó sendi Halla fax 26. febrúar sl. Ég fékk afrit af því. Hef áhyggjur eins og ástandið er í London. Þar vaða hryðjuverkamenn uppi með sprengjutilræði. Megi forsjónin vernda hann þar sem annars staðar.
Hann segir m.a.:
„Héðan er allt bærilegt að frétta. Auðvitað finnur maður fyrir sprengjuhótunum IRA, sérstaklega þar sem ég bæði bý – yfir neðanjarðarstöð, svo skemmtilegt sem það nú er – (innsk. hann býr á 6. hæð í sama húsi og Tottenham Court station er) og vinn í West End, sem er aðalskotmark þeirra, auk City. Ég ferðast t.a.m. ekki með strætó og myndi hugsa mig um tvisvar áður en ég færi í bíó í nágrenninu. Hvorugt er hreinlega öruggt. Það er svona á mörkunum að ég fari inn í stærri verslanir í miðborginni. Það er á mörkunum að það sé öruggt. Og sjái maður ekki hönd á tösku eða pinkli, þá veður maður að næsta eldboða. Meginástæðan er auðvitað sú að IRA hefur nú fengið 17 mánuði til að endurskipuleggja sig, morðingjum þeirra mörgum hefur verið sleppt úr haldi og í US. hafa safnast 800 þúsund $ til styrktar Sinn Fein (sem er auðvitað ekkert annað en framhliðin á IRA) sem dugar langt til að kaupa semtex. Bandaríkjamenn eiga því enn minna upp á pallborðið hér en áður.
Auðvitað tekur maður svosem ekkert eftir því hvernig maður ósjálfrátt hagar sér. Ég vandist þessu fyrstu 2 árin sem ég bjó hér. En það er ferlegt að þurfa að taka upp fyrri siði. Og það er tilfinning okkar allra hér, þótt Bretar láti ekki svona lagað beygja sig hvort sem málstaðurinn er góður eða vondur (mér finnst hann raunar vart standast).
Vinkona mín vann í skrifstofubyggingunni sem sprengd var í loft upp í South Quays. Hún fór út úr byggingunni kl. 18.50 þennan föstudag og skrifstofan hennar eyðilagðist kl. 19.05. That's pretty scary! Skólinn ætti þó að vera tiltölulega öruggur þar sem aðgangskort þarf að byggingunni. En hann hefur verið tæmdur vegna sprengjuhótana. Ég get þó vart séð að það sé tilgangur í því að sprengja hann í loft upp.
Svona er þetta nú. Andrúmsloftið hér er því allt annað og alvarlegra en hefur verið. Það skilar sér illa í fréttaflutningi. London er núna best lýst sem umsetinni, enda eru komnir vopnaðir herflokkar á götur borgarinnar. Þeir halda sig þó mest um stjórnaraðsetur og byggingar krúnunnar. Við er að eiga morðóða hundingja sem þurft hafa að halda sér í spreng í 17 mánuði. Þú getur rétt ímyndað þér hversu blóðþyrst þetta skítapakk er orðið!
Að öðru leyti er þetta business as usual. Og ég er sennilega orðinn nógu breskur til að taka þessu með stóískri ró (þótt ég hafi staðið upp á kaffihúsi um daginn þegar ég kom auga á viðskila tösku og spurði þrumandi röddu yfir liðið hverjum fyrirbærið tilheyrði!)
Ég var t.a.m. að sækja um pláss á ráðstefnu í Jerúsalem í ágúst og nefndi það við proffann minn að það væri nú kannski ekki gustukaverk að fara þangað í ljósi nýliðinna atburða. Hún spurði mig hvort ég vildi ekki íhuga hvar ég byggi áður en ég velti slíku fyrir mér(!) So, there you are...”
Las grein um nýútkomna ævisögu Danielle, ekkju Francois Mitterands, fyrrum Frakklandsforseta. Það hlýtur að vera merkileg bók því þetta er stórmerkileg kona. Afstaða hennar hefur áreiðanlega bjargað lífi hans sem manns og stjórnmálaforingja. Í samtali sem birtist í L'Express vænir ekkjan þá um hræsni sem létu hneykslast á því að hún bauð ástkonu manns síns að vera viðstödd jarðarför hans, ásamt Mazarine, dóttur þeirra. Danielle Mitterand segir: „Fólk verður að skilja að maður getur elskað, og elskað af mikilli ástríðu. Síðan þegar árin líða elskar þessi maður á annan veg, ef til vill verður ástin dýpri en hann getur jafnframt orðið ástfanginn af einhverri annarri.”
Hún bætir því við í samtalinu að henni hafi aldrei fundizt Francois Mitterrand standa sér jafn nærri og eftir andlát hans. „Sá dagur, nei sú mínúta, líður ekki að ég ráðgist ekki við hann.”
3. marz – sunndagur
Ósköp er nú ömurlegt ástand á Íslandi. Það fer ekki mikið fyrir stóru hugsununum. Allt snýst um byskups-málið. Konurnar lýsa framferði byskups í DV í gær og byskup hefur fengið sér tvo lögfræðinga til að finna út hvernig hann megi verjast aðsókninni. Ragnar Aðalsteinsson hefur sem sagt á sinni könnu bæði athugasemdir þeirra sem voru dæmdir í Geirfinnsmálinu en hafa tekið játningar sínar aftur og einnig byskupsmál. Þetta eru sem sagt hin miklu umræðuefni þessa í aðra röndina óskiljanlega samfélags en enginn talar um forsetakosningar. Ég á ekki von á því að það kapphlaup verði á hærra plani en það sem við höfum nú verið að upplifa. Konurnar virðast særðar og byskupinn berst fyrir lífi sínu. Í þessu máli mun enginn sigra – nema óvissan.
Og tíminn einn verður þess umkominn að leggja líknandi hönd á allar þessar hörmungar.
Séra Þórir Stephensen sýndi mér kafla úr væntanlegri bók sinni um Dómkirkjuna og sögu hennar. Ég var eiginlega búinn að gleyma þessari uppákomu en séra Þórir lýsir henni svo:
„Sá, er þetta ritar, prédikaði við hátíðarmessu, þegar Dómkirkjan var opnuð á ný eftir viðgerðina 1977. Í prédikuninni, sem var útvarpað, sagði hann m.a. að ekki væri sama, hvernig staðið væri að andlegri uppbyggingu einstaklinganna. Nefndi hann tvær kvikmyndir um miklar andstæður í slíkri uppbyggingu eða boðun. Annars vegar var myndaflokkur í Sjónvarpinu um Maju á Stormey. Þar var sýnt, hvernig kirkjan á hennar heimaslóð túlkaði Guð svo þröngsýnan, að hann léti mennina gjalda þeirra hluta, sem aðstæðurnar hindruðu þá í að gera eins og forskrift kirkjukenningarinnar bauð. Þetta svipti Maju gleðinni og frelsinu úr trú sinni. Hins vegar var myndin um Jónatan Livingstone máv, sem þráði að hefja sig upp yfir hópinn, en eyddi ævi sinni í að berjast um beztu bitana í sorpinu. Hann fann, að hann var fæddur til að fljúga, leita á æðri svið, leita þess þroska og frelsis, sem ekki vinnst með hinu jarðbundna lífi einu, heldur þegar leitað er að æðri lífsviðhorfum. Jónatan braut af sér fjötra hópsins, af því að hann var viss um að það hlaut að vera eitthvað æðra og meira til en að berjast um ætið. Myndin um Jónatan var í prédikun þessari talin lýsa vel þeirri fegurð og lífsfyllingu, sem hið andlega líf veitir, það sem sækir eftir að komast æ hærra, þ.e. nær Guði.
Þessi ummæli vöktu athygli. Myndin fékk aukna aðsókn og kom til umræðu í blöðum. Þetta var skömmu fyrir páska og Matthías Johannessen skrifaði þá einn af sínum ágætu leiðurum í Morgunblaðið, þar sem hann tók fagrar líkingar af skáldlegri andagift og djúpu innsæi. Dæmisagan og kvikmyndin um Jónatan Livingstone máv komu og við sögu: „Páskarnir minna okkur... á það, að í hverri mannssál er sindur af því guðlega afli, sem í upphafi skóp himin og jörð. Þannig fögnum við því, að Kristur hefur minnt okkur á, að sál mannsins er þeirrar gerðar að sjálfur er hann guð í sköpun og þroski hans hér á jörð á sér í raun og veru lítil takmörk, ef hann ræktar sál sína og dregur réttar ályktanir af boðskap páskanna... Fæstum er gefið tækifæri til að fljúga eins hátt og hugurinn stefnir. Við erum bundnir Flokknum eins og mávarnir í dæmisögunni um Jónatan Livingstone máv, venjum Flokksins og veraldarvafstri, ætinu og öskuhaugunum – lífsbjörginni. En sagan um Jónatan Livingstone máv minnir okkur ekki síður á þá staðreynd, að í hverjum einstaklingi býr ónotaður kraftur, sem er af guðlegum toga, og ef hann leitar kröftum sínum viðnáms, rífur sig út úr flokknum, tekur brim hafsins, ölduna og bláan himinn framyfir öskuhaugana, beitir vængjunum eins og til var stofnað, þá hefur hann jafnvel möguleika á því að breyta lífi sínu úr hversdagslegu amstri í kraftaverk; gera hagsmunina líkamanum yfirsterkari og sál sína að þeirri guðlegu veröld, sem Kristur boðaði.”
Undir lok leiðarans eru þessi orð: „Þjóðkirkja Íslands stendur í skjóli Krists. Af henni er því mikils vænzt. Hún verður að þola, að innan hennar sé hátt til lofts og vítt til veggja. Að öðrum kosti munu heyrast raddir um, að hún hætti að vera þjóðkirkja. Þröngsýni eða veraldleg sjónarmið mega ekki sitja þar í fyrirrúmi, heldur verður kirkjan að byggja á guðlegri andagift Krists, boðskap hans um fyrirgefningu og umburðarlyndi, annars koðnar hún niður. Hún hefur löngum verið undirstaða íslenzkrar menningar – og er enn. Hún hvílir á traustasta bjargi, sem til er, boðskap Krists sjálfs. Henni er því mikill vandi á höndum. Við eigum að slá skjaldborg um hana, hvert með sínum hætti. En hún verður að leyfa það, að við rennum sjálf eins og lækir til hafs, finnum okkur farveg og leitum óss að eigin geðþótta – án þess að lúta lögum og boðum sem eru andstæð eðli okkar og hugsun. Það fer ekki hjá því að lækirnir finni hafið, þannig finnum við einnig Krist. En okkur er öllum vandi á höndum, leiðtogum kirkjunnar að starfa í anda Krists, og okkur hinum að fylgja honum.” (Morgunblaðið, 7.4. 1977, 21 bls.)
En þetta reyndist sumum of mikið frjálslyndi. Dr. Einar Sigurbjörnsson prófessor í trúfræði við Háskólann svaraði að bragði í grein, sem hann nefndi Að trúa eða fljúga. Þar vill Einar binda páskaboðskapinn við þetta líf, þennan heim. Hann segir breytt bil milli hugleiðingar Matthíasar og kristinnar páskatrúar. Hann finnur að líkingunni um hafið. Guð sé uppsprettan, úthafið verði aldrei annað en ópersónuleg ólga, enda eigi tal Matthíasar um læk og ós, sindur og blossa meira skylt við heim indverskra trúarbragða en kristinnar trúar. Í heimi indverskra trúarbragða lifi enginn persónulegur Guð, heldur ópersónuleg lögmál, sem einstaklingarnir leysast að lokum upp í eftir svo og svo margar tilgangslausar farir um heim og geim. Þar með verði sagan um Jónatan Livingstone máv aldrei heimfærð upp á kristna trú. Það sé lengri vegur milli Jerúsalem og Indlands en Washington og Moskvu. Dr. Einar blandar svo pólitík óvænt inn í málið og segir: „Páskaboðskapur þinn er snilldarleg aðferð til að réttlæta rangláta þjóðfélagsskipun svo sem þá, sem verðbólgan hefur komið á hér á landi. Páskaboðskapur þinn er leið til að fá menn til að sætta sig við ómanneskjulegar aðstæður, af því að þær eru einfaldlega hinar bláköldu staðreyndir lífsins í hinum ófullkomna efnisheimi. Páskaboðskapur kristinnar trúar er allt annar. Hann kennir okkur, að hinar svokölluðu staðreyndir í heimi hér séu ekki ásköpuð örlög, heldur aðstæður, sem hægt sé að breyta. Ófullkomleiki heimsins er ekki honum áskapaður, heldur er hann afleiðing þess, að mannlífslækurinn missti af uppruna sínum og gróf sér farveg að eigin geðþótta. Við það grófst hann inni í helli sérhagsmuna og eigingirni og fúlnaði.” Dr. Einar taldi að lokum að í orðum Matthíasar um kirkjuna í niðurlagi leiðarans væri falin nokkur hótun. (Morgunblaðið 16.4. 1977, 16 bls.).
Matthías ritstjóri svaraði í leiðara næsta dags. Hann undraðist að forystugrein, sem lagði áherzlu á leiðsögn Krists, skyldi ekki talin skrifuð í nægilega kristilegum anda. Morgunblaðið teldi það eitt af hlutverkum sínum að standa vörð um kristnina í landinu og um þjóðkirkjuna. Kirkjan ætti það hins vegar á hættu, væri hún ekki nægilega víðsýn, að menn teldu hana ekki lengur þá þjóðkirkju, sem hún ætti að vera. Þetta hefði verið viðvörun, ekki hótun. Síðan segir orðrétt: „Morgunblaðinu dettur ekki í hug að halda því fram, að það geti kveðið uppúr með það, hvað er kristindómur og hvað ekki. Sumir eru þeir, sem virðast þó vita þetta öðrum fremur og hafa tilhneigingu til að fullyrða, að þeir, sem fylgja ekki skoðunum þeirra, séu annað hvort illa kristnir, eða nánast heiðnir. Séra Einar Sigurbjörnsson gagnrýndi fyrrnefnda forystugrein í hugleiðingu sinni, sem birtist hér í blaðinu í gær. Að áliti blaðsins byggist grein hans á misskilningi. En undir þeirri gagnrýni, sem þar er að finna, vill Morgunblaðið ekki liggja án þess að mótmæla henni á sinn hátt, þó að ekki hvarfli að blaðinu að hefja trúmáladeilur, hvorki við leika né lærða. En þegar að því er fundið, hvernig Morgunblaðið hefur fjallað um málefni andófsmanna og fullyrt, að ósamræmi sé í skrifum þess og ennfremur, að stefna blaðsins undanfarnar vikur sé í andstöðu við réttláta leiðréttingu á kjörum láglaunafólks í landinu, verður því ekki látið ómótmælt, enda engin ástæða til að sitja undir slíkum áburði, svo ósannur og út í hött sem hann er. Morgunblaðið hefur hvað eftir annað lagt á það höfuðáherzlu, að það sem nú er til skiptanna í þjóðfélaginu renni mest til láglaunafólks.”
Að lokum segir í leiðaranum: „Það [Mbl.] býður sr. Einari Sigurbjörnssyni og öðrum samstarf um eflingu víðsýnnar kirkju og óskar honum og starfsbræðrum hans heilla í vandasömu starfi. Það mundi telja það eitt hið mesta slys í nútímasögu Íslendinga, ef kirkjan ætti ekki annað erindi við samtíð sína en það sem Nobelskáldið í gáskafullu kvæði – þar sem hann hefur komið við sögu þessara umræðna hér í blaðinu er ástæða til að vitna í ljóð hans hér að lokum: Kristilega kærleiksblómin spretta kríngum hitt og þetta. (Morgunblaðið 17.4. 1977, 24 bls.)
Í forystugrein nokkru síðar studdi Matthías Ritningarstöðum líkingar sínar í páskaleiðaranum. Þá var og komin óskyld grein inn í umræðuna, hörð ádrepa frá sr. Guðmundi Óla Ólafssyni Skálholtspresti og ritstjóra Kirkjuritsins. Þar sem hann kvartaði undan stuðningi Morgunblaðsins við uppvakningarsveitina, sem hann svo nefndi, en það voru þeir, sem andmæltu sr. Heimi árið 1975. Einkum var það þó sr. Jón Auðuns, sem fékk kaldar kveðjur. (Kirkjuritið 4, 1976, 289-292 bls.). Morgunblaðið svaraði þá eftirminnilega fyrir sig, sr. Jón einnig. Sigurbjörn biskup svaraði Jóni Auðuns, en séra Ólafur Skúlason formaður Prestafélags Íslands taldi mönnum nær að snúa bökum saman gegn þeim óvinum, sem vilja kirkjuna feiga, heldur en að ástunda linnulaus bræðravíg (Morgunblaðið 12.5. 1977, 18; 13.5. 17; 14.5. 1977, 17 bls.).
Þetta eru síðustu opinberu trúmáladeilur, sem hafa tengzt Dómkirkjunni beint.”
Þannig afgreiðir séra Þórir þessi orð í væntanlegri bók sinni, en kaflinn heitir Átök um trúmálastefnur. Ég hafði reyndar gleymt þessu að mestu en þegar ég rifja þetta upp með séra Þóri finnst mér ég endurlifa þessa atburði sem ég skildi raunar aldrei á sínum tíma því ég skrifaði páskaleiðarann í fullvissu þess að hann væri í góðum og gildum kristnum anda, en engin annarleg sjónarmið væru þar í augsýn. Ég gæti enn skrifað undir hvert orð sem séra Þórir vitnar til án þess mér dytti í hug að vega í þennan knérunn, svo viðkvæmt sem málið virðist hafa verið á sínum tíma og er líklega enn. Það er nóg um deilur í kirkjunni nú um stundir þótt ég sé ekki að bæta þar við, og ekki hefur hagur hennar vænkazt við aðförina að séra Ólafi byskupi Skúlasyni sem nú á mjög undir högg að sækja og ég efast um að geti haldið embætti sínu eftir að konurnar hafa nú gert atlögu að honum í DV undir fullu nafni og jafnvel með myndum. Það er ekki á hverjum degi sem byskup landsins er ásakaður fyrir nauðgunartilraun. En á þessum árum hefur hann komið fram sem eins konar sáttasemjari í viðkvæmum deilum og hver veit nema staða hans þá hafi ýtt undir byskupskjör hans síðar því hann virðist leika hlutverk sáttasemjarans sem hugsar fyrst og síðast um velgengni kirkjunnar og biður menn að slíðra sverðin. Engum hefði þá dottið í hug hvílíka elda hann ætti eftir að vaða í embætti sínu en ég tel að nú standi hann í miðju helvíti án þess ég eygi þá upprisu sem kaþólska kirkjan boðar í Krists nafni.
En hvað sem því líður tók ég þessar deilur nær mér en menn vissu og það var áberandi að prestar sniðgengu mig þegar þeir áttu erindi á Morgunblaðið en höfðu samband við Styrmi kollega minn .
En ég beit á jaxlinn að venju enda átti ég marga elda að baki og lét ekki deigan síga þótt hitnaði undir iljunum. En móðir mín tók þessar ásakanir á mig illa upp og taldi þær árás á uppeldi sitt og innrætingu. Hún var trúuð kona og kirkjurækin og tók sinn kristindóm alvarlegar en allir þeir klerkar sem ég hef kynnzt fram að þessu. Undir verndarvæng hennar var ég alinn upp og hlaut Kriststrú mína með móðurmjólkinni – og þá ekki sízt ást mína á Jesú Kristi eins og ég hef ort um einhvers staðar í ljóði sem fjallar um móður mína og hún gladdist mjög yfir því það er stuðlað og rímað(!) Ég held það hafi einhvern tíma birzt í Æskunni, líklega á þeim tíma þegar Grímur Engilberts stjórnaði henni og var alltaf að falast eftir efni frá mér. Ágætur maður, skemmtilegur í samtölum; óvenjulegur. Við urðum miklir mátar og hann trúði mér jafnvel fyrir ástarlífi sínu og reyndi að kenna mér þá lexíu að ástin væri eins og dagarnir; hún kæmi ekki öll í böggli.
Á næsta kirkjuþingi minntist séra Sigurbjörn Einarsson á þessar deilur og ég hlustaði á ræðu hans í bílnum því henni var útvarpað en þar áminnti hann klerka um að fara gætilega í rökræðum við skáldin, það væri ekki víst að þeir gætu fylgt þeim á fluginu. Mér þótti þetta afar merkileg áminning og þá ekki sízt vegna þess að mér fannst byskup, svo gáfaður hugsuður sem hann er, taka í lurginn á þeim prestum sem ég taldi að hefðu misskilið orð mín og þá ekki sízt séra Einari, syni sínum, en aldrei síðar hafa verið nein eftirköst eða togstreita milli séra Einars og mín og báðir reynt að lifa í þeim kristilega anda sáttar og fyrirgefningar sem meistarinn boðaði.
Þetta hefur einnig átt við um séra Guðmund Óla. Við ólumst upp saman við Skólavörðuholtið þegar foreldrar mínir bjuggu um skeið á Leifsgötu 16 og vorum æskuvinir. En hann hefur tekið sinn kristindóm alvarlega og ræktar hann með sínu lagi og hefur hirt þá rækilega sem hann telur að hafi vegið að „réttri” kristni. Allnokkru síðar en þetta gerðist var ég boðinn á ráðstefnu í Skálholti um kristni og skáldskap. Ég tók boðinu. Það var ágæt ráðstefna og fór vel fram. Þar kynntist ég góðum anda og ágætum fulltrúum kristninnar, ekki sízt séra Bernharði, tengdasyni byskups, og séra Heimi skólastjóra í Skálholti og konu hans ágætri. Mér þótti það áhrifamikil stund þegar við áttum helgistund í Skálholtskirkju og farið var með einn sálmanna úr Sálmum á atómöld.
Þá var mér hugsað til móður minnar og hvernig hún kenndi mér að meta Hallgrím Pétursson.
Daginn eftir að ráðstefnan hófst sagði ég við séra Sigurbjörn byskup að mig langaði til að sættast við séra Guðmund Óla.
Það er ágætt, sagði hann.
Ég ætla að tala við hann þegar hann kemur hingað á ráðstefnuna, sagði ég.
Það verður erfitt fyrir þig, sagði séra Sigurbjörn, Mér er sagt að hann komi ekki hingað.
Nú, hvers vegna ekki? spurði ég.
Ástæðan er víst sú að hann er eitthvað móðgaður út í mig.
Þig? sagði ég.
Já, það er víst, sagði séra Sigurbjörn. En þú skalt samt reyna að sættast við hann.
Ég sagði, Ég ætla að taka hús á honum.
Gerðu það, sagði séra Sigurbjörn.
Síðan fór ég undir kvöld og barði að dyrum hjá séra Guðmundi Óla. Hann kom til dyra. Ég sagðist eiga við hann erindi. Hann tók því vel.
Við skulum koma út, sagði hann, og ganga undir kirkjuvegginn. Það er ágætt að tala saman með Skálholtskirkju að bakhjarli.
Síðan gengum við að kirkjunni og ég sagði honum erindi mitt; að ég hefði hug á því að við sættumst og strikuðum yfir þær deilur sem hefðu orðið okkar í millum.
Séra Guðmundur Óli gekk að mér, faðmaði mér og sagði,
Það líkar mér vel að við sættumst. Það er óþarfi að við séum ósáttir.
Og síðan hvíslaði hann að mér þessari viðbót:
„Við eigum allt sameiginlegt, Flokkinn og kirkjuna”!
Að svo mæltu fylgdi ég honum að prestssetrinu og kvaddi hann þar.
Sagði séra Sigurbirni hvernig til hefði tekizt og fagnaði hann því.
Þannig varð þessi ráðstefna til góðs fyrir mig og ég er þakklátur fyrir að hafa notað hana í svo gagnlegum tilgangi.
En það er svo önnur saga að kona séra Guðmundar Óla hafði ekki sætzt við mig því að alllöngu síðar átti ég að flytja kvæði mitt endurort í Skálholtskirkju – eða flytja þar erindi, ég man ekki hvort heldur var – en þá gekk hún við hlið mér ásamt mannfjöldanum upp kirkjutröppurnar, leit á mig og sagði eitthvað á þá leið að ég ætti í raun og veru ekki skilið að stíga fæti inn í þessa kirkju.
Það var heldur þungt veganesti fyrir mig eins og á stóð en ég hristi það af mér og þakkaði guði fyrir að hún skyldi ekki hafa verið viðstödd sáttargjörð okkar Guðmundar Óla.
En nú er hún látin og ég efast ekki um að hugur hennar til mín hefur mildast í því umhverfi þar sem hún nú dvelur, ef það er annað og meira en gleymska og tortíming.
Mér skilst á séra Þóri Stephensen að hún hafi vart getað fyrirgefið mér það að líkja manni sínum við Khomeini og klerkaveldi hans!
Séra Þórir minnti mig á að ég hefði ort ljóð um Jónatan Livingstone máv og þá rifjaðist það upp fyrir mér að það var birt í Sjómannadagsblaðinu sem Jakob F. Ásgeirsson sá um. Í inngangi fyrir ljóðinu er sagt ég hafi alla tíð hallað mér að sjómönnum og mörg eftirminnilegustu samtöl mín hafi verið við þá. Ég hygg þetta sé rétt. Án sjómanna ekkert Ísland. Þá má þetta einnig til sanns vegar færa:
„Sjálfur var hann einu sinni messagutti á Brúarfossi og sigldi á Rússland, en mestu mun ráða um hug hans til sjómanna að hann er Vesturbæingur – og Vesturbærinn í æsku hans var sjómannsbyggð; úti á Nesinu hinir stóru fiskreitir Kveldúlfs og Alliance, í vesturhöfninni voru bátarnir og Slippurinn þar á kambinum.”
Svo er vitnað í ljóð mitt í Sálmunum sem hefst á þessum orðum, Líf mitt bátur... Ég vann þá einnig heilt sumar í Slippnum og það var mér mikil áraun því að við þurftum að þvo botninn á togurunum og hreinsa hann af skeljum og þangi en til þess þurftum við að vera uppi á háum búkkum og standa þar á mjóum plönkum og þurfti ég ævinlega að bíta á jaxlinn áður en ég fór þarna upp, svo lofthræddur sem ég er. Það kom fyrir að mig svimaði en ég lét það ekki á mig fá en kláraði mína vinnu.
Þannig var maður alinn upp.
Maður gekk ekki frá því sem ætlazt var til af manni. Þessi afstaða var eins konar eftirstöðvar af vinnusiðferði kreppunnar.
Ljóðið um Jónatan Livingstone máv er svo hljóðandi:
Hér stend ég við flóann og horfi á eyjar og ótal sker
og erlendur skógur fer niði um brjóst sem var helgað þér.
Nú kalla mig ekki lengur lönd sem hurfu í sæ,
ég leita þín enn fyrir norðan þar sem öræfin blána af maí.
Ég vissi ekki drengur að þú varst þrá mín fegurst og ein,
að þú yrðir seinna fuglinn sem bundinn er minni grein;
samt hittumst við þar sem tindur, blárri en loftin blá,
fann bringuhvítasta fuglinn, Jónatan Livingstón máv.
Og þegar við minnumst sólskins og gleðinnar frá í gær
og glampar á hvíta vænginn sem brimið og ölduna slær,
þá vitjar mín enn sú hugsun að hinzta kveðjan mín
verði hvítur leitandi mávur sem flaug inn í augu þín.
Það þarf engan bókmenntafræðing til að sjá að þetta kvæði fjallar um Hönnu. Þótt það sé tileinkað Sjómannadeginum á 40 ára afmæli hans og birtist fyrst í Sjómannadagsblaðinu 1977. En mér hefur ekki fundizt ástæða til að birta það í neinni ljóðabók. Það á heima á sínum stað og ekki annars staðar.
Rakst á ljósrit af bréfi sem ég skrifaði Freysteini Jóhannssyni fráKaupmannahöfn 7. des. 1972 en það er víst svar við bréfi frá honum þar sem hann segir mér að hann hafi sagt upp starfi sínu sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Bréf hans er dagsett 30. nóv. 1972 og þar segir hann m.a.:
„Fyrir skömmu hefði mér farið sem Njáli, að ég hefði látið segja mér þrisvar þessi tíðindi, áður en ég hefði svo mikið sem leyft mér að hrista hausinn við þeim. Engu að síður eru þau nú sönn orðin. Og þó skjótt hafi farið yfir, tek ég þessa ákvörðun að vandlega íhuguðu máli. Það, sem ég fell flatur fyrir, er ritstjórastaða á Alþýðublaðinu.
Þau eru nú orðin fimm árin og sjö mánuðum betur, síðan ég byrjaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Allan þann tíma hef ég búið við það bezta, sem hægt er að fá í blaðamennsku á Íslandi. Hins vegar er öryggi mitt í skjóli Mbl. ef til vill orðinn mér nokkur fjötur um fót og þau tækifæri, sem framgjarn hugur minn girnist ekki þar á næsta leiti.
Í Alþýðublaðinu sá ég möguleika á því að fá það tækifæri, sem hver vel uppalinn blaðamaður hlýtur alltaf að sækjast eftir; tækifæri til að sanna sjálfum mér, að það, sem ég hef lært, hafi mannað mig að einhverju marki. Til að komast að þessu svo óyggjandi sé, hlýt ég, þó engan veginn sé það auðvelt, að láta nú skiljast í milli mín og Morgunblaðsins. Sú ögrun, sem þetta tilboð felur í sér, er meiri en svo, að ég telji mig geta hundzað hana og því kýs ég að stökkva.
Mín þakkarskuld við Morgunblaðið verður engan veginn metin til neins að festa á pappír. Gagnvart stórum hlutum sóma litlu orðin sér bezt. En nokkur huggun yrði það mér, þegar leitið er komið á milli, ef þú einhvern tíma hefðir ástæðu til að brosa í kampinn yfir mínum verkum og segja við sjálfan þig, Sko! Þetta gat hann. Enda uppalinn á Morgunblaðinu.
Enginn sér langt fram í tímann, en taktu þetta bréf sem minn þakklætisvott til þín nú þegar ég flýg úr hreiðrinu.
Með beztu kveðjum, Freysteinn Jóhannsson.
Þetta var gott bréf og ég skildi það vel. Mér fannst rétt að fuglinn flygi en mér bauð samt í grun að hann myndi síðar leita til átthaganna. Og það gerði hann. Freysteinn hefur verið Morgunblaðinu ómetanlegur blaðamaður og fréttastjóri, ekki síður en þeir hinir sem því starfi hafa gegnt. Allt einkavinir mínir og framúrskarandi menn sem lesendur Morgunblaðsins og eigendur standa í mikilli þakkarskuld við. Mér hefur alltaf liðið vel í þessum góða hópi, hann hefur verið tryggðin og trúmennskan holdi gerð og aldrei brugðizt í neinu sem máli skiptir.
Fréttastjórar Morgunblaðsins hafa verið stétt sinni til meiri sóma en flestir blaðamenn aðrir og það væri maklegt að þeirra væri sérstaklega getið þegar spurt er að leikslokum.
Með allt þetta í huga hef ég hripað svarbréf mitt til Freysteins en í því segir m.a., Ég hef ekkert annað um það að segja en ég óska þér til hamingju með nýtt starf og veit þú stendur þig. Kveðjurnar til mín yljuðu mér, kannski höfum við eitthvað hjálpað þér til að finna sjálfan þig. En of oft hætta ritstjórar að vera blaðamenn og skaltu gæta þess. Ég veit að við getum átt gott samstarf, heilbrigða samkeppni milli stóra bróður og litla, en góðhug ef á reynir. Ég sakna þín af Morgunblaðinu, en sérhver verður að eiga um það við sjálfan sig og guð sinn, hver spor hann kýs á lífsleiðinni. Kannski eiga leiðir okkar eftir að liggja aftur saman, hver veit. A.m.k. í andstæðar áttir. Að vísu hef ég misjafna reynslu af þeim sem hafa verið á Morgunblaðinu, en farið annað. Slíkt snertir mig ekki. Fæstir held ég þykist hafi lært eitthvað á Mogga, hvað þá fengið þar einhverja reynslu sem máli skiptir. Þá óska ég þess eins að dvöl þín á Morgunblaðinu verði þér styrkur og ánægjuleg minning. Um þig á ég aðeins góðar minningar og störf þín á Morgunblaðinu. En gættu þín á gildrunum, þær eru margar. Láttu engan spilla þínu stolta, en hreina hjarta, sem á taugar til fagurra bókmennta og lista og er það meiri gjöf en allir titlar heimsins samanlagðir. Haltu þeirri gleði hjarta þíns, glataðu ekki þeirri uppsprettu í þessum mengaða heimi, þess óska ég þér helzt til handa, Freysteinn minn. Og svo að Alþýðublaðið og lesendur þess njóti góðs af þessu, frekar en áhuga misheppnaðra ljósmyndara á stúlkum með kýrjúgur. Ég sá á auglýsingaspjaldi í Frankfurt um daginn að ein var með þrjú brjóst og minnti einna helzt á úlfynju þá sem er formóðir Rómverja eins og þú veizt. En ekki held ég þessi blessaður geldingur verði formóðir eins né neins.
Svona er nú þetta, Freysteinn minn – eða hvað skal segja? Morgunblaðið er engin eilífð eða lokatakmark. Þegar ég var ungur maður ætlaði ég að skrifa doktorsritgerð um Grím Thomsen og verða háskólakennari. En ég kaus lífið.
Innilegar kveðjur til ykkar allra blaðamannanna. Ég hugsa oft til ykkar með hlýhug og veit að þeir fagna hverjum degi sem ég er í burtu. Það geri ég raunar líka. Margra ára háskólanám hefði ekki veitt mér þá reynslu og þá menntun – þá nýju útsýn til allra átta, sem ég hef fengið. Ég ætla mér ekki – og hef aldrei ætlað mér – að frjósa við íslenzka svellið.
Þinn einl. vinur M.
Freysteinn var ritstjóri Alþýðublaðsins á þjóðhátíðinni 1974 og þá skrifaði hann samtal við mig um hátíðina og þótti mér vænt um það og uppörvandi áhuga hans enda hefur hann ávallt haft meiri áhuga á verðmætum en þeirri geldu úlfynju sem hugmyndalitlir fjölmiðlarar eltast við og veitir jafnmikla fullnægingu og sólskinið sem Bakkabræður voru að reyna að bera inn í þeim trogum sem sögðu allt um vitsmunalega hæfileika þeirra og andagift.
5. marz – þriðjudagur
Fór á fornbóksölu. Hitti þar Ara Gísla Bragason,ungskáld,son Nínu Bjarkar og Braga Kristjónssonar. Hann hafði farið með móður sína, Nínu Björk, í kaffi í JL-húsinu. Hann sagði að Nína væri langt niðri, hún fengi grátköst. Hvort ég gæti ekki heilsað upp á hana. Ég sagðist mundu gera það um leið og ég gengi úr húsinu. Fór síðan yfir safnið í fornbóksölunni og keypti annað bindið af Að norðan eftir Davíð en ég átti einungis fyrra bindið. Keypti einnig litla kvæðabók eftir Huldu, Sögur, leikrit og ljóð eftir Beckett sem ég hef ekki séð áður, og Bláljós, ljóðabók Sigurjóns Sigurðssonar kaupmanns en hann er skemmtilegasta leirskáld sem uppi hefur verið á Íslandi fyrr og síðar. Hef aldrei séð þessa bók fyrr, en hún var oft til umræðu þegar ég var að vinna með Jakobi Benediktssyni og Ásgeiri Blöndal Magnússyni á Orðabók Háskólans veturinn 1954-55 en þá var ég að skrifa lokaprófsritgerð mína um Kristrúnu í Hamravík fyrir Halldór Halldórsson prófessor.
Bláljós kom út 1948. Þeir Jakob og Ásgeir kunnu ýmislegt úr þessari bók og við skemmtum okkur konunglega yfir kveðskapnum. Þeir sögðu mér að Sigurjón kaupmaður ræki matvöruverzlun á Grettisgötu eða Njálsgötu, ég man ekki hvort heldur, og hann segði oft við viðskiptavini sína,
Viltu ekki bíða, góða, andartak, ég þarf að skreppa bakvið því mér datt í hug svo ágæt ljóðlína sem ég þarf að skrifa niður,
eða,
Afsakaðu andartak, góði minn, ég fékk allt í einu hugmynd um hvernig ég ætti að ljúka kvæðinu um kapítalismann og kommúnismans, ég þarf að skreppa inn og skrifa það niður.
Og svo biðu viðskiptavinirnir andaktugir þar til skáldinu þóknaðist að koma aftur fram og ljúka afgreiðslu. Ég man sérstaklega eftir kvæðinu um Heklu. Það var í miklu uppáhaldi hjá okkur:
Í skjálfandi morgunsins máli
steig mógulur mökkur.
Með glóandi, bjargrauðu báli
bullaði reykur dökkur.
Af dynjandi hríð og steinastáli
stafaði ryðbrúnt rökkur.
Og svo heldur skáldið áfram í níu erindum að auki og fer að sjálfsögðu með himinskautum!
Ég sannfærðist um það þarna á Orðabókinni að leirbull gæti verið miklu skemmtilegra en fínn skáldskapur og nú þegar ég er farinn að lesa Bláljós hef ég fengið rækilega staðfestingu á þessari skoðun. Sigurjón afgreiðir tilveruna til að mynda á eftirminnilegan hátt:
Tilveran
Eitt tré, er greinist allar áttir í,
og Guð bað
einn dag að fá að ferðast frjálst
úr stað.
Sjá, þinni sjón er engin takmörk sett,
gáðu að.
Í aðeins eina átt fjöldinn fær að sjá,
skildu það.
Það er ekki ónýtt að rekast á slíka gersemi á fornbóksölu!
Ég náði mér einnig í Andstæður Sveins frá Elívogum og sé að hann yrkir um Pétur Jakobsson, æskuvin sinn, og byrjar kvæðið með þessu erindi:
Þegar fetin verða vönd,
vin er gott að reyna,
þá er Péturs hjálparhönd,
hlý og fús til beina.
Sveinn er að sjálfsögðu góður hagyrðingur og merkilegur fulltrúi gamallar íslenzkrar alþýðumenningar. Ég hitti hann aldrei. En við Pétur Jakobsson urðum miklir mátar þegar ég skrifaði samtalið við hann sem birtist í Morgunblaðinu á sínum tíma. Það hefur ekki komið út á bók. En nú er ég að hugsa um að nefna Pétur í Helgispjalli og þá get ég minnzt á alþýðuskáldskapinn og vitnað til samtalsins.
Ég rakst einnig á ljóðabók eftir Guðmund vin minn Sigurðsson revíuhöfund sem er náttúrulega á hærra plani en venjulegt alþýðuskáld og mér finnst við hæfi að vitna einnig til hans í næsta pistli. Hann orti á sínum tíma mjög flott erindi um Langholtssöfnuð og nú er upplagt að vitna í það. Engu líkara en deilurnar í Langholtssöfnuði nú geri Guðmund Sigurðsson að sígildu skáldi. Hann orti margt sem á ekki síður erindi við dellumakið í nútímanum en það samfélag sem hann var að ávarpa upp úr kreppunni. Ég átti einnig samtal við Guðmund og ekki fráleitt að ég vitni til þessara kynna okkar. Hann var mér hlýr og skilningsgóður á sínum tíma og ég kunni vel að meta það, ekki síður en það hlýja viðmót sem vinur hans og Steins Steinars, Bergur Pálsson, sýndi mér ávallt. Það var mér þóknanleg spjallklíka. Bergur var húmanisti eins og slíkir bóhemar eru að öðru jöfnu.
Bækurnar sem ég keypti eftir Pétur Jakobsson heita Stökur og stefjamál og Ljósheimar. Þær hafa báðar verið áritaðar til Kjartans Ólafssonar „kvæðamanns” frá kollega hans og skáldbróður. Pabbi keypti einnig bækur Kjartans brunavarðar, vinar síns, á sínum tíma og ég leit þá gjarna í ljóðin.
Allt er þetta dæmigerður alþýðukveðskapur sem ég hef gaman af því þessir menn kunnu sína bragfræði og voru ekki að klæmast á henni eins og oft er nú á dögum.
Sigurjón kaupmaður reynir einnig að fylgja íslenzkri bragfræði en hún er eins og allt í hans skáldskap; hans veikasta hlið!
Pétur vinur minn Jakobsson var ekki haldinn neinni minnimáttarkennd og segir jafnvel Tómasi til syndanna í kvæðinu Ritdómar; segir að borgarskáldið bjóði mönnum „mögur ljóð” og séu þau runnin úr tæmdum sjóði andans eins og hann kemst að orði! Eitthvað hefur sletzt upp á vinskapinn milli Tómasar og Péturs en í samtali okkar nefnir hann að þeir Tómas, Sigurður Grímsson og Kiljan hafi ung og upprennandi skáld séð um útgáfu á blaði fyrir hann og þá virðist allt hafa leikið í lyndi.
En svo breyttist tónninn, því Pétur segir:
Torveldast ýmsum hin eilífu rök,
almætti vizkunnar stundum sig felur;
lífið er hverfult og listin er slök,
leirburði Tómasar Sigurður stelur.
- – -
Eins og blávatn öll þín frjálsu ljóð
andans frá þau koma rýrum sjóð.
Heldur slakur hörpustrengur þinn
hrifning vakið fær ei, drengur minn.
Þetta var sem sagt ritdómur lærimeistarans um skáldin ungu. Hagalín fær einnig sinn skerf og ekki skefur Pétur utan af því! En aðrir eru þóknanlegri, t.a.m. Árni Óla, Gústaf A. Jónasson skrifstofustjóri og Helgi Pjeturs sem er engum líkur nema guðunum einum og væri höfuðprýði með hvaða þjóð sem væri.
Pétur hefur sem sagt ekki verið að víla það fyrir sér þótt Helgi gengi ekki heill til skógar, hann hefur heillazt af „hámennt orðanna” og þeirri brú sem Helgi Pjeturs hefur byggt milli hnattanna og Pétur kallar Bifröst hina nýju.
Allt er þetta hin bezta lesning og skemmtilegt að kynnast þessum furðufuglum á heimavelli og undrast þann slagkraft sem hefur búið í íslenzkri alþýðumenningu frá örófi alda.
En það er af Nínu Björk að segja að hún fagnaði mér innilega og við kysstumst að venju. Ari Gísli bauð upp á kaffi og Nína fékk sér sígarettu og við töluðum saman um grátköst hennar, kvíða og áhyggjur.
Ég sagði henni að ég þekkti bæði kvíða og áhyggjur en hefði ekki látið eftir mér að hrista það ekki af mér. Hún gæti það einnig ef hún reyndi.
Nei, hún var ekki viss um það.
Ég vildi ég væri ekki skáld, sagði hún, Þetta er allt þess vegna.
Ég játti því og bætti við að slíkt sálarlíf væri það verð sem menn yrðu að greiða fyrir skáldskapinn en það væri hægt að búa við það.
En ég get fengið grátköst hvar sem er og nú erum við líklega að fara til Kanaríeyja og þá get ég fengið grátköst á flugvöllum, sagði Nína.
Þú færð engin grátköst, sagði ég. Þú ferð í sólina og hún birtir upp augu þín og það er bezta lækning sem til er. Þú kemur alheil úr þessari Kanaríferð með Braga.
Heldurðu það, sagði hún og starði á mig.
Já, auðvitað, sagði ég.
Það er engin tilviljun að við skyldum hittast hérna í dag, sagði Nína, Það eru örlög(!)
Við röbbuðum svo saman nokkrar mínútur í viðbót áður en ég kvaddi þau mæðginin.
Það er gott að þú ert skáld, sagði ég að lokum og við kysstumst upp á það(!)
Nú hefur Þorsteinn Pálsson lýst yfir fylgi við Guðrúnu Pétursdóttur; segist munu styðja hana þótt Davíð fari í framboð.
Merkilegt!
6. febrúar – miðvikudagur
Ari Gísli sagði mér í gær að Hrafn Jökulsson væri á geðdeild.
Hann gengur upp og niður, sagði Ari Gísli. Svo drekkur hann og ....
Það er ekki gott, sagði ég.
Nei, sagði Ari Gísli, og það er ekki heldur gott að kalla yfir sig allt það hatur sem Hrafn safnar að sér.
Ég var sammála því.
Alþýðublaðið ber sjúkleika Hrafns merki, það er augljóst. Það er ekki gott fyrir Alþýðuflokkinn því blaðið á að vera málgagn hans. Það er ófyrirleitið mannhatur í Alþýðublaðinu með köflum og hefur bitnað á ýmsum.
Þeir sem eru ekki ánægðir með sjálfa sig eru aldrei ánægðir með aðra, það eru gömul sannindi og ný. Nú eru þessi sannindi sá eldur sem heitast brennur á Hrafni .
Hann hefur áður skrifað illa um Harald, son okkar. Nú vegur hann í knérunn í Alþýðublaðinu í morgun. Skrifar skítlega grein um Harald og starf hans. Hefur náttúrulega engan áhuga á því þótt reynt sé að vinna mannbætandi störf í nýju fangelsi. Dæmi um hina firrtu dómgreind Hrafns:
„Á Litla-Hrauni fer fram stórfelld framleiðsla á harðsoðnum glæpamönnum. Óharðnaðir unglingar ganga í akademíu síbrotamannanna og vona að einhvern tímann öðlist þeir sjálfir doktorsnafnbót í glæpamennsku...”
Og enn:
„Haraldur Johannessen er ekki fangelsismálastjóri. Hann er glæpamannaframleiðandi ríkisins.”!
Hver skyldi taka mark á svona fíflaskap sem gerir kröfu til þess að vera boðleg samfélagsumræða?
Ætli Alþýðuflokkurinn sé sokkinn svo djúpt í samfélagsskítinn að svona meiðyrði séu honum þóknanleg?
Alþýðublaðið fer oft offari. Þar hafa riðið húsum þóknanlegar klíkur.. Þegar ég gaf út síðustu bókina mína mátti helzt ekki á hana minnast. En þá tók Sæmundur Guðvinsson sig til og skrifaði fallega um hana í Alþýðublaðið, veitti samskrafsklíkunni um leið eftirtektarverða áminningu.
Hann nefndi ofsóknir kommúnista á hendur mér í gamla daga og minnti á þá elda sem ég hef þurft að ganga í gegnum. Það var augljóst af hverju hann taldi nauðsynlegt að minna á þessa sögu.
Ég sagði við Harald í morgun að hann hefði orðið fyrir árás vegna starfs síns sem fangelsismálastjóri. Það væri að vísu óskemmtilegt að fá slíkar kræsingar, ég þekkti það sjálfur á löngum starfsferli, en hefði sjaldnast tekið það nærri mér þegar á mig hefði verið ráðizt sem ritstjóra Morgunblaðsins. Hitt hefði verið verra þegar ég hef þurft að taka skítlegum árásum á bækur mínar – og þá ekki sízt ljóð – það hefði ég mátt þola sem skáld vegna starfa minna sem ritstjóri Morgunblaðsins.
Haraldur sagðist ekki taka þessar árásir nærri sér en slíkt skítkast útbíaði þó þegar á því væri tönnlazt.
Það er alveg rétt, ég þekki það sjálfur.En við verðum að kaupa lýðræðið því verði að þar geti vaðið uppi andlegir hryðjuverkamenn, bæði á prenti og í ljósvökum, án þess unnt sé að stemma stigu við því. Hitt er að sjálfsögðu mikilvægast að maður sé sjálfur í góðri trú og starfi í þeirri fullvissu að maður hafi unnið að mannbætandi umhverfi. Ég á þessa fullvissu og Haraldur sonur minn á hana einnig.
Á þeim forsendum er hægt að ýta frá sér slíkum atlögum.
Kolbrún Bergþórsdóttir talaði við mig um daginn og vill endilega eiga við mig samtal í Alþýðublaðið. Ég ætla að seinka því. Get ekki hugsað mér að taka þátt í þessum veizluhöldum kratanna nú um stundir. Hún getur átt samtal við mig seinna, ef hún vill. Ég vil heldur fá mér í nefið með Gvendi Jaka en þeim sem stjórna Alþýðublaðinu nú um stundir(!)
Á fornbóksölunni í gær rakst ég á Minningar Sigurðar Briems sem var tengdafaðir Jóns Kjartanssonar, ritstjóra Morgunblaðsins. Hef minnzt á þessar endurminningar áður á þessum dagbókarblöðum og held ég hafi ætlað að kanna hvernig hann skrifar um það hörmulega slys þegar dóttir hans, eiginmaður hennar og börn fórust með Goðafossi. Ég skoðaði Minningar Sigurðar þarna á fornbóksölunni og þá kemur í ljós að þær komu út í janúar 1941, eða áður en Þjóðverjar skutu Goðafoss niður.
Dóttir Sigurðar var sem sagt lifandi og fjölskylda hennar öll fyrir vestan haf þegar bókin kemur út.
Hin hörmulega reynsla var því enn óreynd en hún beið eins og rándýr á þeirri vegferð sem Sigurður Briem átti eftir í þessu lífi.
7. marz – fimmtudagur
Las í gærkvöldi grein um Joseph Brodský (1940-1996). Hún birtist í The New Yorker Review of Books og er eftir Tatyana Tolstaya. Þar er því velt fyrir sér hvort Brodský hafi viljað fara heim til Rússlands aftur. Fyrst í stað hafi hann viljað það en hann hafi síðar orðið hræddur við liðinn tíma; minningar; það sem minnti hann á grafirnar; hann hafi verið hræddur við veikleika sinn, hræddur við hið liðna í hans eigin skáldskap, hræddur við að líta um öxl, eins og Orfeus horfði um öxl á Evrídís – hræddur við að glata að eilífu því sem hann átti „að heiman”. Hann vissi að hann var rússneskt skáld fyrst og síðast og í Rússlandi voru hinir raunverulegu lesendur hans. En taldi sér samt trú um að hann væri skáld á enska tungu. Hann var eins og haukurinn sem hann orti um (A Hawk's Cry in Autumn) – sem hverfur æ lengra til himins og loks er hann horfinn bæði jörð og fuglum – og getur ekki andað.
Hefði slíkur haukur getað lækkað flugið?
Hann var verr farinn af hjartveiki en ég vissi, samt reykti hann eins og strompur. En hann var samur við sig. Kaldhæðni hans brást ekki; það í fari hans sem minnti mig á Stein Steinar. Þegar einhver gerði athugasemd við það að hann reykti sagði hann þessa sögu af eiginmanninum sem segir við konuna sína, Læknirinn sagði mér að nú sé komið að endalokunum. Ég lifi ekki til morguns. Fáum okkur kampavín og elskumst í síðasta sinn. Konan hans svaraði, Það væri svo sem ágætt fyrir þig – þú þarft ekki að fara á fætur í fyrramálið!
8. marz – föstudagur
Horfðum í dag á sjónvarpsþátt um fíkniefni og unglinga.
Ósköp(!)
Samtal við móður drengs sem fargaði sér 16 ára vegna fíkniefnaneyzlu.
Það virðist sem ákveðið hlutfall ungs fólks fari í súginn, eða á kistubotninn eins og þau segja sjálf, rétt eins og folöld sebrahestanna, en ljón og hýenur taka sinn toll af þeim. Og krókódílar.
Náttúran er grimmust alls.
Hefurðu fundið stað á jörðinni þar sem guð hefði kunnað vel við sig? spyr munkurinn í Nafni rósarinnar.
Hef verið að horfa á dýralífsmyndir National Georgraphic, frábærar og fræðandi. Dýrin hafa ekki áhyggjur mannsins af samfélagi og kynlífi. Það væri gott að vera sebrahestur, ljón eða fíll, það vefst ekki fyrir þeim hvernig á að lifa(!) Þurfa aldrei að leita til sálfræðings, siðfræðings eða félagsfræðings(!) Þau kunna á þetta allt, ekki sízt kynlífið. Það væri auðvelt að vera byskup ljónanna; eða sebranna; eða fílanna. Engin vandræði út af snertingu. Einstaka sinnum barizt um kerlingarnar, það er allt og sumt! Bændurnir höfðu snuðrara í gamla daga, þeir leituðu uppi elskurnar og svo tóku stóru hrútarnir við!
Krafan um hið guðlega dýr, manninn, er heldur óraunsæ eins og í pottinn er búið; við erum dýr, en kannski er hægt að kenna þessu dýri að lifa eins og maður.
En það er langt í land.
Þess vegna má læra ýmislegt af dýrum merkurinnar.
Þú ert fílamaður
og hún dansar
í huga þínum
eins og fílsrani
við laufgað tré.
Grikkir kunnu að skapa guði með skavönkum mannsins. Það kunnu gyðingar ekki. Þeir sköpuðu að vísu guð í eigin mynd, en hann varð of guðlegur.
Og refsingasamur.
Ásatrúarmenn kunnu einnig að búa til mannlega guði sem hægt var að skopast að. Það var kostur á þeim tímum.
Hanna var að lesa fyrir Önnu, sonardóttur okkar. Jólin komu við sögu. Þá segir Anna, En heyrðu amma mín, ég sá aldrei Guð á jólunum?
9. marz – laugardagur
Við Sverrir Hermannsson heimsóttum Pétur Sigurðsson sjómann. Það var skemmtilegt. Pétur er á batavegi eftir mikil veikindi. Lízt ekki vel á pólitíkina, ekki frekar en okkur hinum. Gerð aðför að öryrkjum og öldruðum eins og ríkishítina muni um 100 millj. króna!
Pétur segir Davíð megi ekki fara á Bessastaði, þá verði Sjálfstæðisflokkurinn í hers höndum.
Gamall á ég
engan óvin
- nema spegilinn.
Sjónvarpsstjarnan Joan Rivers sagði á Sky í gærkvöldi; að beztu vinirnir væru í kirkjugarðinum!
12. marz – þriðjudagur
Áttum góðan fund í dag með Sverri Hermannssyni og Ólafi G. Einarssyni, m.a. um afstöðu þeirra til Geirs Hallgrímssonar undir lokin. Það er viðkvæmt mál fyrir Sverri. Styrmir mun skrifa greinargerð um málið og afhenda m.a. Hallgrími B. Geirssyni.
Styrmir kom til mín síðdegis og kvaðst hafa átt langt samtal við Svein Eyjólfsson á Dagblaðinu. Hann telur – eins og raunar Ólafur G. Einarsson einnig – að Davíð Oddsson muni ekki fara í forsetaframboð.
Sveinn spurði Styrmi hvort ég mundi ekki geta gefið kost á mér til framboðs.
Styrmir sagði að hann teldi ég mundi ekki ljá máls á neinu slíku.
Mér skilst Sveinn væri tilbúinn til að láta Dagblaðið styðja mig! En ég er ekki í slíkum stellingum og það er rétt, ég mundi telja allt slíkt þrengja að sjálfstæði mínu.
Ég held þú mundir springa í loft upp, sagði Styrmir.
Það er rétt!!
20. marz – miðvikudagur
Í gær barst mér ein vitlausasta grein sem ég hef lesið misserum saman. Hún er eftir Jóhann J. Ólafsson,lögfræðing, og er um kvótann. Niðurstaða:
Útgerðarmenn eiga sama eignarrétt á auðlindinni og Jón Ásgeirsson á tónverkum sínum! Þeir eru athafnaskáld og höfundarrétt ber að virða! Kvíði fyrir að birta þessa vitleysu, en hvað skal gera?
Ég vildi heldur rökræða við stóra hundinn hans Jóhanns en þennan forystumann Stöðvar 2. Hann er líka að vernda sína ókeypis takmörkuðu auðlind í loftinu. Allt fjallar þetta um eiginhagsmuni og peninga.
Átti í gær gott samtal við Hallgrím B. Geirsson,framkvæmdastjóra Morgunblaðsins, eftir hádegisverð með bankastjórum Landsbankans.
Framleiðsla okkar of dýr. Þurfum að hagræða með nýjum tækjum.
Styrmir bað mig tala við Hallgrím vegna samtals sem hann átti við framleiðslumenn blaðsins (Örn Jóhannsson og Guðbrand Magnússon) á laugardag og fór illa í hann. Taldi það ætti að þrengja að ritstjórn blaðsins með því að setja allt í einhver hólf þegar nýr tölvubúnaður yrði keyptur.
Slíkt kemur auðvitað ekki til greina því blað er lifandi fyrirbrigði en ekki eins og dauður líkamshluti í formaldihíðkrús.
Við getum að sjálfsögðu unnið minningargreinar, bréf til blaðsins og fleira þess háttar beint inn á tölvur eins og margt annað en fréttir og fréttatengt efni verður að hafa svigrúm, án spennitreyju.
Mér skilst á Hallgrími að það hafi ekki heldur verið ætlun þeirra og Styrmir hafi e.t.v. misskilið það sem þeir sögðu, eða þá að þeir hafi ekki verið með það á hreinu hvað þeir ætluðu að segja.
En við Hallgrímur eyddum öllum vafa um þetta á fundi okkar.
Tel málið útkljáð.
Hitt er svo annað mál að ávallt er einhver togstreita milli ritstjórnar og framkvæmdastjórnar, bæði um fjármál og framleiðslu. En allt slíkt hefur gengið snurðulaust á Morgunblaðinu hingað til þótt stundum hafi hvinið í tálknunum , og ég vona að það verði áfram.
Líf blaðsins og farsæld er undir því komin.
Einhver sagði að Styrmir væri orðinn kaþólskari en páfinn í þessum efnum. Það líkar mér vel. Við höfum ekki verið að berjast við Sjálfstæðisflokkinn og hagsmunasamtök um frelsi ritstjórnar Morgunblaðsins til að missa það úr höndunum á okkur í heimaríka framleiðslumenn.
Það er nauðsynlegt að líkaminn eigi sterka beinagrind og vöðvakerfi sem þolir mikil átök. En það er jafn mikilvægt að heilinn sé í góðu lagi og hjartað fái sína næringu.
Blöð geta dáið bæði úr heilablóðfalli og kransæðastíflu rétt eins og hver annar.
Styrmir fór í frí um helgina; til hressingar í Lúxemborg. Nóg að gera, en ég er afslappaður. Ritstjórnin er vel skipulögð og hún gengur eins og vel smurð vél. Bílstjórinn þarf bara að aka skikkanlega og fylgjast vel með. Þetta var erfiðara í gamla daga. Þá þurfti maður að vera með nefið niðrí hverju máli; stjórna hverju atriði. Þá var fámennt á blaðinu og fólkið hafði lítinn tíma til að fullklára erfið verkefni. Nú hefur allt þetta horfið til hins betra vegar. Ég tel það þónokkuð afrek að við skulum búa við slíkt skipulag í öllum kaosnum. Það er árangur út af fyrir sig.
Með þennan árangur að baki er miklu auðveldara að hætta einn góðan veðurdag. Í góðum höndum mun þetta ganga vel og betur en á horfðist stundum áður fyrr.
Styrmir kemur heim um páskana. Þá fer ég í smáaðgerð til Jónasar Magnússonar, prófessors, vegna naflakviðslits.
Svona er að hafa stundað naflaskoðun allan þennan tíma!
22. marz – föstudagur
Heyrði úrdrátt úr einhverju samtali við Hrafn Gunnlaugsson þar sem hann segir að engu skipti þótt tungumálið glatist því íslenzk menning muni halda velli.
Hvaða menning?
Íslenzkar kvikmyndir á ensku?
Slíkar myndir eru miklu betur gerðar erlendis. Þetta er nú annars meira kompaníið sem maður hefur verið í!
Rótarlaus blóm fjúka um allt eins og arfinn.
1. apríl – mánudagur
Styrmir hefur verið í fríi en allt gengið að óskum. Ég finn ég hef heilmikið þrek til að takast einn á við þau vandamál sem að höndum ber. Finnst það uppörvandi.
En nú er komið að kviðslitinu og ég finn að ég er ekki alveg laus við dálítið þunglyndi. Sjúkrahús eru mér einhvers konar ógnun. Skil vel að Ingólfur vilji heldur starfa að rannsóknum en klínískri læknisfræði.
Nú er hann ásamt starfsfélögum sínum í London í heimsókn hjá prófessor Crawford sem á sumarhús í Skotlandi. Höfum ekki haft samband við hann eftir að hann kom þangað fyrir helgi. Held að GSM-síminn sé ekki virkur í skozka hálendinu. Vona að allt gangi vel hjá honum. Haraldur er ásamt Brynhildi og þremur börnum þeirra í Tallahassee, Flórída. Það er því hálfeinmanalegt hér. Kannski eykur það eitthvað á þunglyndið.
Nýjasta skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskólans sýnir að Morgunblaðið heldur vel velli í lestrarkönnun; það hefur raunar hækkað um 3%, eða úr 59% í 62%. DV hefur lækkað um 5%, eða úr 33% í 28%. Áhorf Stöðvar 1 hefur minnkað um 2% og Stöðvar 2 um 4%.
Þetta eru ágætar tölur fyrir okkur. Vonandi haldast þær.
Nú hefur Ólafur Ragnar Grímsson boðið sig fram til forsetaembættis. Ný skoðanakönnun Gallups sýnir að rúmlega helmingur Íslendinga hefur ekki tekið afstöðu í væntanlegum forsetakosningum og samt eru fjórir frambjóðendur komnir í útstillingargluggann. Ólafur Ragnar Grímsson er með 19% þeirra sem afstöðu hafa tekið og kemur ekki á óvart. Guðrún Pétursdóttir hefur 11% en Guðrún Agnarsdóttir 6%. Það kemur á óvart. Davíð Oddsson og Pálmi Matthíasson hafa víst eitthvað um 2%, en ég man það ekki gjörla.
Ólafur Ragnar Grímsson nýtur þess að Davíð Oddsson hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort hann fer í framboð eða ekki. Fyrir bragðið hafa borgaraleg öfl í landinu ekki hugsað um að finna sér frambjóðanda sem líklegur væri til að afla einhvers fylgis. Það má því segja að forysta Sjálfstæðisflokksins eigi ekki sízt sök á því með hiki sínu að fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins virðist sigla hraðbyri upp í forsetaembættið.
Ég hef ekkert á móti Ólafi Ragnari Grímssyni en skil þó ekki hvernig þessi fyrrverandi forystumaður róttækustu aflanna í landinu getur sameinað þjóðina! Auk þess man ég ekki betur en hann hafi verið óvinsælasti stjórnmálamaður landsins fyrir ekki alllöngu. Margt er skrýtið í kýrhausnum og mér er nær að halda að samfélagið sé einhvers konar kýrhaus, óútreiknanlegur.
Það er ekki skrýtið þótt menn vilji ekki kalla þetta samfélag yfir sig í uppákomum eins og forsetakosningum.
En Davíð verður, hvað sem öðru líður, að taka ákvörðun fyrr eða síðar. Án hennar verður stuðningur Þorsteins Pálssonar við Guðrúnu Pétursdóttur einu afskipti íhaldsins af þessum darraðardansi!!
Var í fimmtugsafmæli Stefáns Eggertssonar varaformanns stjórnar Árvakurs, sl. föstudagskvöld, 29. marz. Við Hanna hittum þar margt fólk og líkaði vel. Það var mikil kvöldveizla og fjölmenn.
Veizlustjórinn, Eyjólfur Sveinsson , geðfelldur maður, gekk til mín og heilsaði mér en ég hef aldrei talað við hann áður. Hann er sonur Sveins Eyjólfssonar framkvæmdastjóra DV.
Sagði blátt áfram að faðir hans vildi að ég yrði forseti Íslands.
Ég svaraði því til að ég væri ekkert hissa á því, hefði ávallt talið Svein með gáfuðustu mönnum landsins!!
Síðar um kvöldið fór Svavar Gestsson einnig að minnast á forsetaframboð og sagði að illt væri að ég vildi ekki gefa kost á mér.
Sem sagt, þarna fór að hækka hagur Strympu!
Ef ég hefði drukkið þremur bjórum meira hefði ég líklega farið upp á senu og lýst því yfir undir dunandi dansi að nú væri teningunum kastað; ég hefði ákveðið að bjóða mig fram!
En sem betur fer lét ég þessa tvo eða þrjá bjóra eiga sig og við Hanna fórum heim um hálfellefuleytið, heilskinnuð.
Svavar talaði einnig við mig um mannanafnafrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi og ég er honum sammála um að á því eru miklir agnúar. Ég sagði honum að Helgi Hálfdanarson hefði talað við mig um frumvarpið og hefði ég talað við Ólaf G. Einarsson, forseta Sameinaðs þings , og spurt hann hvort ekki væri unnt að fresta afgreiðslu þess svo menn gætu betur áttað sig á því. Ólafur taldi engin tormerki á því og sagðist mundu fresta afgreiðslu frumvarpsins, ef nauðsyn krefði.
Og það stóð ekki á nauðsyninni. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um vinnulöggjöfina tók allan fundartímann fram að páskaleyfi enda mikið hitamál og ágætt að geyma það fram yfir páska. Við höfum tekið undir ýmislegt í frumvarpinu – og þá ekki sízt fyrirætlanir þess efnis að láta grasrótina í verkalýðsfélögunum ákveða verkföll og vinnustöðvanir en Morgunblaðið hefur einkum og sér í lagi ýtt undir vinnustaðasamninga og vinnufélög sem að þeim gætu unnið. Höfum gert rækilega úttekt á þessu í Morgunblaðinu og í ljós hefur komið að alls staðar þar sem slíkir vinnustaðasamningar hafa verið gerðir hefur fólkinu vegnað betur en ella og ánægja ríkir með fyrirkomulagið. Slíkir samningar hafa verið gerðir allvíða um land og nú síðast í Slippstöðinni á Akureyri. Verkalýðsforingjar fagna þessari þróun og við eigum áreiðanlega eftir að leggja enn meiri áherzlu á hana.
Þegar Svavar fór að tala um forsetaframboð eyddi ég því eins og ég gat, en mér heyrðist á honum að hann mundi ekki styðja þá frambjóðendur sem nú væru á boðstólum, finna þyrfti nýjan mann. En það sýnir aftur á móti breytta og bætta tíma að Ólafur Ragnar Grímsson skuli hafa boðið sig fram til forsetaembættis. Það hefði þótt fáránlegt á baslárum kalda stríðsins og við hefðum barizt gegn slíku framboði af hörku.
En nú er öldin önnur og við munum ekki hreyfa hár á höfði hans.Geri ekki ráð fyrir því að við styðjum einstakan frambjóðanda,en við sjáum til.
.
Kolbrún Bergþórsdóttir hefur átt samtal við mig sem ég las í dag og líkar bara vel.Hún spurði hvort við myndum styðja Davíð ef hann færi fram. Ég svaraði því til að ég gerði ekki ráð fyrir því að Morgunblaðið sem slíkt styddi neinn einstakan frambjóðanda, það hefðum við eiginlega ekki gert frá því við studdum Gunnar Thoroddsen á sínum tíma, þótt við að vísu hefðum hallað okkur að Vigdísi Finnbogadóttur þegar forsetakosningar fóru síðast fram. En allir vita hvernig fór fyrir Gunnari Thoroddsen og ég reikna ekki með því að Davíð Oddsson hafi neinn sérstakan áhuga á að endurtaka það sjónarspil.
Morgunblaðið hefur raunar aldrei stutt forseta sem hefur verið kosinn. Ég held ekki Morgunblaðið hafi endilega stutt Svein Björnsson þegar Alþingi kaus hann 1944 en látið kjurt liggja þar sem hann var gamall Morgunblaðsmaður.
Morgunblaðið var á öndverðum meiði við hann í afstöðunni til sambandsslita þegar hann var ríkisstjóri.
Morgunblaðið studdi séra Bjarna á sínum tíma og allir vita hvernig það fór.
Fólkið hefur sérstaka ánægju af að gera uppreisn gegn valdinu í forsetakosningum og mér er til efs að það hafi breytzt. Af þeim sökum myndi ég ekki telja að Davíð færi fram á stuðning blaðsins, þótt hann byði sig fram.
Hef verið að lesa A History of Christianity eftir Paul Johnson en ég hef haft sérstaka ánægju af verkum hans sem eru mjög fróðleg og vel skrifuð. Ég er að hugsa um undirstöðu kristinnar trúar og hef látið hugann reika að Páli postula.
Hann var heiðingi.
Samt lagði hann grundvöllinn að kristinni kirkju þegar hann hafði turnazt.
Öll afstaða Páls byggði á sýn. Hún var vegabréf hans inn í kristið samfélag. Þessi sýn sannfærði hann um að Kristur er guð og það var guð sem birtist Páli á leiðinni til Damaskus eins og sagt er frá í Biblíunni; upprisinn af krossi dauðans. Sem sagt, fyrirheit kristninnar. Slík upplifun er að sjálfsögðu eins konar kraftaverk. Og það var á þessu kraftaverki sem fyrrverandi heiðingi Páll frá Tarsus grundvallaði kirkju Krists. Leiðin lá auðvitað til Róms því þangað lágu allar leiðir á þeim tíma. Og þar var Páll að lokum hálshöggvinn. Þar var Pétur einnig tekinn af lífi; líklega krossfestur.
Þannig kemur Róm við sögu upphafs kristinnar trúar. Báðir þessir menn höfðu séð Krist; Pétur var lærisveinn hans og nánasti samstarfsmaður á jörðinni en Páll var samfylgdarmaður hans eftir upprisuna. Ég get vart hugsað mér sterkari stoðir undir fagnaðarerindið en reynslu þessara tveggja manna sem lögðu hornsteininn að hinni rómversku kirkju Krists.
Birti tvö ljóð úr Vötn þín og vængur í Páskalesbókinni. Hef heyrt fallega um þau talað. Bókin kemur út á morgun, þriðjudag. Annars hef ég verið í þónokkurri nálægð við ljóð mín upp á síðkastið; hlustaði fyrra sunnudag á stórbrotið tónverk Jóns Nordals, Sól ég sá, í Hallgrímskirkju en þar söng Mótettukórinn undir stjórn Harðar Áskelssonar. Ég reyndi að láta lítið fyrir mér fara í Hallgrímskirkju en þar voru saman komnir um þúsund áheyrendur, hvorki meira né minna(!) Á leiðinni út var mér þakkað bak og fyrir vegna þess að sólhjartaljóð mitt sem Jón samdi tónlistina við var prentað í prógramminu og féll augsýnilega í góðan jarðveg.
Þannig koma ekki allir dagar í böggli.
Sumir voru að springa af þakklæti og ánægju en ég þykist samt hafa ort betri ljóð þó að sólhjartaljóðið sé ágætt til síns brúks!
En ég er Jóni Nordal ævinlega þakklátur fyrir þetta einstæða verk hans við ljóðið mitt, hef sagt honum það í góðu samtali sem við áttum um daginn bæði um Jón Helgason prófessor, tengdaföður hans, og annað.
Við Jón urðum miklir mátar þegar við kynntumst hjá Sigurði Bjarnasyni og Ólöfu Pálsdóttur í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn gamlárskvöld 1972 en því hef ég lýst áður í bréfi til Kristjáns Karlssonar sem hann birti svo í Skírni á sínum tíma
Hef lesið bandarísku verðlaunabókina Þúsund ekrur eftir Smiley, ágæta bók en þó dálítið einhæfa. Hún fjallar að vísu um sifjaspell eins og Mannspilið og ásinn en slíkt efni vekur mér ógeð, jafnvel óhugnað svo að ég gat í raun og veru ekki notið þessarar annars ágætlega skrifuðu skáldsögu eins og vera ætti.
Sáum kvikmyndina um Nixon og Braveheart um helgina; stórmyndir. Sé enga ástæðu fyrir aðstandendur Nixons að setja sig upp á móti mynd Stones því hún er ágætlega gerð og margt mjög eftirminnilegt. Bakgrunnur Nixons varpar ljósi á alla framtíð hans og undir lokin verður hann eftirminnilegur í niðurlægingu sinni. Mér finnst það merkileg skýring á afstöðu hans að hann skuli hafa talið að Watergate-málið hafi sprottið af hatri á honum sjálfum: þeir hata Nixon, það er allt og sumt! Kannski er þetta partur af skýringunni.
Ég sé ekki að hann hafi framið neina sérstaka glæpi öðrum forsetum fremur og hann gat komið eftirminnilega á óvart, t.a.m. þegar hann opnaði Kína eins og segir í myndinni.
Nixon kom til Íslands og ræddi við Pompidou. Fundur þeirra á Kjarvalsstöðum var okkur blaðamönnum ilmandi efni.
Eiginlega eru Kjarvalsstaðir ekki sízt merkilegir vegna þessa sérstæða fundar.
Hlutverk Kissingers í kvikmyndinni er afar athyglisvert. Ég er viss um að þetta er sönn lýsing á honum. Enginn stjórnmálamaður á þessari öld hefur verið eins líkur Tallerand og Kissinger. Hann lifði líka af alla þá pólitísku elda sem Nixon og samstarfsmenn hans þurftu að ganga í gegnum. Tallerand var einnig ódrepandi í slíkum eldum. Báðir voru þeir eins og refurinn, áttu sér alltaf útgönguleiðir.
Það er eftirminnileg sena þegar Nixon kveður Haig og Kissinger undir lokin. Gengur einn að málverki af Kennedy hugsi og segir við málverkið,
Fólkið lítur til þín til að sjá hvernig það vill vera, en það lítur til mín til að sjá hvernig það er.
Braveheart er stórmynd. Hún er mjög vel gerð, raunar ótrúlega vel gerð. Það undrar mig ekki að hún skuli hafa fengið Óskarsverðlaun fyrir leikstjórn og sem bezta mynd ársins. Ég get vel tekið undir það. Það eru sterkar senur í henni og eftirminnilegar. Bardagarnir minna helzt á Kurosawa, þeir eru nánast óskiljanlega raunsæir.
Ef slíkar myndir yrðu gerðar með hliðsjón af Íslendinga sögum eins og þær koma fyrir af skepnunni þá yrðu þær heimsfrægar á lifandi augabragði og nytu loks þeirrar athygli um víða veröld sem þær eiga skilið sem mikil listaverk og óviðjafnanleg arfleifð.
2. apríl – þriðjudagur
Fór upp á Landspítala eldsnemma í morgun. Talaði við Jónas Magnússon prófessor um aðgerðina á morgun. Var í rannsóknum fram að kaffi. Fer upp á spítala um sjöleytið í fyrramálið og þá verður slitið tekið fyrir. Hlakka ekkert til en illu er bezt aflokið. Nú þegar ég hef verið rakaður kringum naflann sé ég að slitið er mun meira heldur en ég hafði tekið eftir. Enginn vafi á því að nauðsynlegt er að loka þessu gati. Hlakka til þegar það er afstaðið og maginn er aftur orðinn loðinn eins og hann á að vera. Kann ekki við svona hárlausan maga. Fyrsta skipti sem ég gleðst yfir því að vera loðinn á bringunni.
Óloðinn magi er eins og rasskinnar. Líkar það ekki.
Á spítala er maður valdalaus. Þar bera aðrir ábyrgðina. Svipuð tilfinning og í flugvél. Allt er undir því komið að hæfir menn séu við stjórnvölinn. Ég treysti Jónasi .Við erum miklir mátar. Þekkti Jónas, afa hans vin Jóhanns Sigurjónssonar, og átti samtal við hann.Átti einnig langt samtal við Magnús Má , föður hans;guðfræðiprófessor og rektor.Þetta er ágætur ættleggur. Fann líka í morgun hvað aðstoðarlæknar og hjúkrunarfólk talar vel um Jónas og færni hans. Svæfingalæknirinn, Sigurður Þór Sigurðsson, er víst ekki fullnuma í faginu en mér skilst hann hafi bakhjarl við aðgerðina.
Vona bara mér verði ekki jafn flökurt þegar ég vakna á morgun eins og eftir botnlangaskurðinn 1958. Þá sat mamma hjá mér og hélt í höndina á mér meðan ég kúgaðist. Það tók í skurðinn. Það var sárt, svo leið það hjá.
Allt tekur enda, allt líður hjá. En það er ekki sama með hvaða hætti það gerist; og ekki heldur hvenær það gerist.
Alþýðublaðið í morgun segir á forsíðu að Davíð Oddsson sé orðinn afhuga forsetaframboði eins og komizt er að orði í stórri fyrirsögn á forsíðu.
Ekki veit ég það.
Blaðið segir:
„Til marks um það hafa þeir (Framsóknarmenn) að Davíð hafi þegið boð til að fara til Tyrklands í maí og hyggist dvelja þar nokkra hríð. Mun Finnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafa gert þetta að umtalsefni á fundi með framsóknarmönnum í síðustu viku. Þótti honum einsýnt að Davíð myndi ekki ætla í framboð, enda ráðgerði hann að vera utanlands á tíma þegar kosningabaráttan er að komast í hámark.
Innan Sjálfstæðisflokksins hefur gætt mikillar gremju með hversu Davíð hefur dregið flokksmenn og þjóðina á skýrum svörum hvort hann hyggi á forsetaframboð. Telja margir forystumenn flokksins að á meðan afstaða Davíðs hafi verið svo óljós hafi enginn frambjóðandi sem Sjálfstæðisflokknum hugnaðist getað ráðið ráðum sínum um framboð að neinu marki. Þannig hafi Davíð í raun útilokað að aðrir slíkir frambjóðendur gætu komið fram og haft einhvern skynsamlegan aðdraganda að framboði sínu.”
Held þetta sé nokkuð nærri lagi, að minnsta kosti hefur Ólafur Ragnar fengið það forskot sem ef til vill getur ráðið úrslitum; hver veit.
Á forsíðu Alþýðublaðsins er einnig mynd af Hjalta Hugasyni prófessor við guðfræðideildina og haft eftir honum að kirkjan þurfi að gera iðrun; hann telji einfaldast að byskup segi af sér. Ástandið sé orðið óþolandi fyrir þjóðina og óbærilegt fyrir alla sem hafa einhver afskipti af kirkjulegum málefnum og einfaldasta og skjótasta lausnin sé fólgin í því að byskup segi af sér. Það hafi hann áður sagt og „sú afstaða mín hefur síður en svo breyst síðustu daga.” Kirkjan geti ekki endurvakið trúnaðartraust eða tilfinningalegt samband eftir réttarfarsleiðum „ég upplifi meiðyrðalöggjöfina fyrst og fremst sem vörn um heiður embættismannsins og út frá sjónarmiði guðfræðinnar og mannréttinda myndi ég kjósa að þeirri leið væri ekki beitt í þessu efni.” Enginn vafi sé á því að kirkjan hafi glatað trausti og engin önnur leið fær fyrir kirkjuna en sú „að gera iðrun en það er þáttur í kristilegu trúarlífi sem alltaf hefur verið til staðar og er boðaður af kirkjunni sjálfri”. Kirkjan verði að fara í gegnum sjálfsskoðun eins og Hjalti Hugason kemst að orði, meta hvað gerzt hefur og af hverju traust almennings hefur brostið. Hún verði að gera sér grein fyrir því að sökin liggi ekki hjá fjölmiðlum eða almenningi „heldur að verulegu leyti hjá kirkjunni sjálfri, viðbrögðum hennar við ásökunum og gagnrýni”.
Eins og nú háttar málum er ekki ástæða til annars en taka undir þessi ummæli þótt sárt yrði fyrir byskup ef farið yrði eftir þeim. En sársaukinn minnkar ekki úr því sem komið er við það að byskup haldi í embætti sitt. Hvað sem honum líður virðist ekki önnur leið fær til að endurreisa traust og trúnað kirkjunnar en afsögn byskups.
Guðmundur rukkari hjá Ísafold kom oft upp á Morgunblað í gamla daga. Hann hafði verið kaupmaður en datt í það og rann ekki af honum í nokkra áratugi. Hann sagði við mig,
Ég fór einu sinni á fyllerí, það stóð yfir í nokkra áratugi og ég missti verzlunina. Svo var ég einu sinni timbraður en það er langt síðan og nú er ég búinn að jafna mig.
Ég hélt mikið upp á Guðmund. Hann var greindur maður og hugsandi og talaði oft eins og heimspekingur. Einhverju sinni sem oftar hitti ég hann í Hafnarstræti. Við tókum tal saman en þá kemur Magnús Kjaran,stórkaupmaður, þar aðvífandi og er vel kenndur.
Hann býður okkur upp í skrifstofuna sína í Mjólkurfélagshúsinu sem þar stóð hinum megin við götuna og við þáðum boðið.
Við sátum í skrifstofunni hjá Magnúsi nokkra stund. Hann bauð okkur koníak sem við vildum ekki og MacIntos-konfekt sem við þáðum. Síðan sagði Magnús,
Fyrirtækið stendur með miklum blóma. Ef þið viljið þá get ég sýnt ykkur bókhaldið. Hér er allt undir kontról.
Þá sagði Guðmundur um leið og hann stóð upp og kvaddi,
Það hélt ég líka!
Daginn sem fréttir bárust af Súez-stríðinu kom Guðmundur upp á Morgunblað og sagði við mig,
Nú er hann byrjaður í Súez, helvítið atarna.
Ha, sagði ég, Eden?
Nei, nei, hvorki Eden né Nasser.
Nú, sagði ég undrandi. Hver er þá byrjaður við Súez?
Nú, helvítið hann Penis, sagði Guðmundur, Hann er alls staðar til vandræða.
Svo kvaddi hann og gekk út.
Eftir það kallaði ég Guðmund rukkara aldrei annað en Guðmund sókrates.
Á páskum
Kominn heim af spítalanum. Allt hefur gengið að óskum. Starfsfólk Landspítalans fær ágætiseinkunn. Mikið er eiginlega leiðinlegt hvað oft er amast við starfsfólki sjúkrahúsanna með sífelldum athugasemdum um kostnað við störf þess. Samt er þetta fólk á skítalaunum, nema þá helzt læknarnir. Við eigum ekki sízt afburða lækna. Mér varð ekki einu sinni flökurt þegar ég vaknaði eftir uppskurðinn. Samt er hann stærri en ég hélt hann yrði. Jónas Magnússon prófessor er augsýnilega snillingur á sínu sviði. Sigurður Þór Sigurðsson svæfingalæknir við þessa aðgerð vildi reyna að sjá til þess að ég kúgaðist ekki eins og raunin varð á þegar ég var skorinn upp á Landakoti við botnlangabólgu fyrir margt löngu. Því fylgdi mikill sársauki. Þess vegna kveið ég dálítið fyrir. En nú fann ég ekki fyrir neinu. Fólkið kann sitt fag og tækninni hefur fleygt fram. Ég gekk um ganginn á handlæknisdeildinni G12 nokkrum tímum eftir að ég vaknaði. Það tók lítið í sauminn. Næsta dag, eða að morgni skírdags, fór ég heim. Ég sagði við hjúkrunarkonuna sem leit á saumana áður en ég fór heim,
Það er ljótt að vera svona rakaður á maganum, ég hef aldrei séð ljótari maga. Vonandi vex hann upp sem fyrst. Þetta er eins og uppblástur á landinu!
Hún svaraði,
En það hefur ekkert fokið, sagði hún, Þetta verður fljótt að gróa.
En hvað sem því líður, þá er naflinn fínn. Ég er líklega kominn með normal nafla!
Og nú get ég hafið naflaskoðun á ný!
Jónas prófessor sagði fyrir aðgerðina að sumir skurðlæknar skæru naflann í burtu við svona aðgerð.
En ég, bætti hann við, ætla ekki að gera það. Ég veit þú yrðir miður þín.
Já, sagði ég, það er rétt hjá þér. Ég vil hafa minn nafla.
Hann gegnir mikilvægu hlutverki eins og hjá börnunum. Það sem guð hefur skapað má helzt ekki skemma! Og nú er ég kominn með þann fínasta nafla sem ég hef séð á sjálfum mér áratugum saman. Engin hætta á því að garnirnar festist í útlöndum og maður hendist niður í sárum kvölum og lífhimnubólgu.
Það er gott að koma heim. Gott að finna þessa hlýju sem fylgir Hönnu. En ég hef staðið mig vel. Drengirnir hefðu verið ánægðir ef þeir hefðu verið heima. Og nú er að ná sér til fulls og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.
Morgunblaðið er 144 blaðsíður í dag. Þetta er stórt blað handa lítilli þjóð. Það er vonandi sitthvað bitastætt í því. Auglýsingarnar eru fleiri en í fyrra og tekjuvonin ágæt eftir atvikum. Það veitir ekki af eins og pappírsverð hefur hækkað og þá ekki síður til að mæta síauknum framleiðslukostnaði. En nú höfum við hækkað áskriftarverðið um 200 krónur á mánuði svo að endar ættu að ná vel saman. Það skiptir miklu máli fyrir okkur á ritstjórn því annars lendum við í spennitreyju og það er óskemmtilegt að brjótast um við slíkar aðstæður. Auk þess vekur minningin um spennutreyjuna í Föðurnum eftir Strindberg óljúfar minningar. Morgunblaðið þarf að vera frjálst; þarf að geta hreyft sig eins og því er eðlilegt.
Hef verið að lesa Ævi listamanna eftir Vasari. Fékk hana hjá Folio-Society, í þremur bindum. Það er falleg útgáfa og nú er ég að lesa um Giotto sem er einn af stórmeisturum listsögunnar. Fyrirrafaelítarnir brezku höfðu hann m.a. sem fyrirmynd þegar þeir stofnuðu bræðralag sitt undir forystu skáldsins og listmálarans Gabriel Dante Rosettis. Mér eru ekki sízt minnisstæðar freskurnar sem við Hanna sáum í Assisi þegar við fórum þangað sællar minningar með Bjarna og Sigríði 1962. Það var mikil ferð og merkileg. Bjarni var þá kirkju- og dómsmálaráðherra og gerði mig að ritara sínum svo ég gæti tekið þátt í öllum herlegheitunum.
Þá hittum við Jóhannes páfa XXIII og ef ég man rétt hef ég minnzt þess í Ferðarispum, eða í Lesbók á sínum tíma.
Hlustaði á ævisögu Ben Bradlees, aðalritstjóra Washington Post meðan ég lá á spítalanum. Hann hefur sjálfur talað hana inn á segulband. Hún heitir A Good Life enda segist hann ekki hafa ástæðu til annars en fagna lífi sínu og gleðjast yfir því, það hafi verið gott líf.
Blaðamannsástríða Bradlees leynir sér ekki í frásögninni. Hann hefur gengið upp í ritstjórastarfi sínu af lífs og sálar kröftum. Ég bæði skynja og skil hvað honum er mikið niðri fyrir þegar hann reynir að koma reynslu sinni á framfæri.
Heiðarlegur ritstjóri á ekki alltaf auðvelt með að rækta vináttu við annað fólk. Þeir Bradlee og Kennedy urðu miklir vinir en hann virðist aldrei hafa komist í samband við Jackie Kennedy. Hún tortryggði hann af því hann var blaðamaður. Hann skrifaði ævinlega niður minnispunkta eftir samtöl sín við forsetann. Gaf þá svo út að forsetanum látnum. Mér skilst þetta séu merkilegar heimildir en engan veginn ævisögudrög forsetans. Bradlee segir að hann hefði átt að láta bókina heita Athugasemdir handa ævisagnariturum John Kennedys. En Jackie tók þetta óstinnt upp. Þegar hann hitti hana eftir útgáfu samtalanna heilsaði hún ekki. Eftir það sá hann hana aðeins einu sinni og hún horfði á hann stingandi augnaráði án þess heilsa og gekk í burtu. Hún hafði augsýnilega ofnæmi fyrir öllu því sem minnti á einkalíf forsetans og vildi sem minnst láta hreyfa við því. Þó að John F. Kennedy hafi verið hin eftirsóknarverða ímynd bandarísku þjóðarinnar var hann ekki allur þar sem hann var séður. Hann hefur verið mikill kvennamaður og hélt t.a.m. lengi við mágkonu Bradlees sem skildi eftir sig dagbókarblöð með lýsingum á ástarævintýri þeirra. Hún var myrt eftir dauða forsetans. Enginn vissi um þetta ástarævintýri, ekki einu sinni Tony systir hennar sem var eiginkona Bradlees. Það stóð til að eyðileggja þessar dagbækur en þær lentu í höndunum á CIA og komust í hámæli. Þetta ástarævintýri er líklega eitthvert hið sérstæðasta samband sem um getur í pólitískri sögu Bandaríkjanna. Og Bradlee var að sjálfsögðu flæktur í þetta ævintýri, blásaklaus og óafvitandi, vegna þess að mágkona hans var ástkona forsetans. Og Tony átti erfitt með að fyrirgefa systur sinni að hafa aldrei sagt henni frá þessu mikla stuði á forsetanum. Síðar kom í ljós að John F. Kennedy hafði stundum spurt þau Bradlee-hjónin að því hvernig systurinni liði og var hann þá nýkominn af fundi hennar!
John F. Kennedy var sem sagt alvörukvennamaður. Hann kunni að elska eins og séntilmaður. Flestir elska eins og dýr merkurinnar. Í æsku minni lærði ég þá frumreglu að menn ættu ekki að særa þá sem þeir elska og þess vegna mynda eins konar þagnarhjúp um viðkvæm ástarmál sín. Faðir minn kunni þetta ekki. Þegar hann hljóp út undan sér lenti það á móður minni og okkur börnunum því þá var engu líkara en hann þyrfti að auglýsa tilfinningar sínar og uppákomur, hann bauð sem sagt umhverfinu birginn. En það lenti auðvitað mest á móður minni, þeirri konu sem ég held hafi átti sízt allra skilið að vera niðurlægð með þeim hætti. Og svo auðvitað okkur Jósefínu systur minni sem vorum á versta aldri þegar þessar náttúruhamfarir föður míns gengu yfir svo að hrikti í öllum undirstöðum að lífi okkar. Það voru erfiðir tímar og ástæðulaust að rifja upp sársaukann. En það var því mikilvægara og yndislegra fagnaðarefni þegar hann kom aftur heim og veitti okkur enn á ný hlutdeild í öllu því bezta sem hann átti til – og það var mikið. Og það er fallegt aftanskin yfir lífi foreldra minna þegar ég lít um öxl og hugsa um þann aldarfjórðung sem þau áttu saman unz yfir lauk. Jóhannes ,bróðir minn, sem er fæddur 1937 fylgdist ekkert með þessum hamförum og skilur ekki ef á þær er minnzt. En það hefur varla komið fyrir því þetta er víst ekki minning, heldur martröð. Og maður ræktar ekki með sér martraðir. Það er reynt að gleyma þeim en undirvitundin er eins og fíllinn, hún gleymir engu.
En þannig ber ég meiri virðingu fyrir karlmennsku John F. Kennedys en föður míns. Hreinskilni hans og afdráttarleysi er að vísu eins og eðli hans stóð til, það var ekki til fölsk nóta í eðli hans. En ég kann betur við þá eigingirni sem hlífir þeim sem maður elskar og leyfir tímanum að fara sínum mildu höndum um samvizku okkar og sársauka.
Það eru margir sem hafa ofnæmi fyrir blaðamönnum, það hef ég séð af ritum þeirra ritstjóra sem ég hef kynnzt í gegnum skrif þeirra, t.a.m. Bradlees og Olof Lagerkranz. Þessir menn hafa átt í sífelldum útistöðum við umhverfi sitt, ósanngjarnt og kröfuhart um tillitssemi vegna vináttu eða sérstöðu.
Góður ritstjóri hristir allt slíkt af sér. Það gerði Bradlee og það gerði Lagerkranz. Hann átti í miklum útistöðum við eigendur Dagens Nyheter og átti hann þó allt undir þeim.
En hann lét eigendurna ekki buga sig. Þeir höfðu hitann í haldinu. Hann stóð með pálmann í höndunum þar til yfir lauk.
En það er fróðlegt að kynnast þessari baráttu af riti hans um dvölina á Dagens Nyheter.
Við höfum þurft að heyja svona baráttu við ýmis öfl í þjóðfélaginu – og þá ekki sízt forystu Sjálfstæðisflokksins. En eigendur Morgunblaðsins hafa oftast staðið með okkur eins og sterkur bakhjarl. Þó hefur komið fyrir upp á síðkastið að við höfum fundið nokkurn bilbug gagnvart áhrifaöflum í þjóðfélaginu, t.a.m. kolkrabbanum sem hefur verið kallaður svo – og þá einkum eftir gagnrýni okkar á sínum tíma á þá sem hafa hreiðrað um sig í almenningshlutafélagi eins og Eimskip sem í mínu ungdæmi var kallað óskabarn þjóðarinnar en hefur að ég held glatað þeim heiðurstitli. Hulda Valtýsdóttir og Stefán Eggertsson,tengdasonur hennar, sem nú er varaformaður Árvakurs,gagnrýndu okkur Styrmi nokkuð hastarlega fyrir þessi skrif, óskuðu eftir fundi og báðu um skýringar. Þau fengu þessar skýringar og ég veit ekki betur en þau hafi sætt sig við þær.
Eigendur Morgunblaðsins geta gagnrýnt ritstjóra sína eins og aðrir en þeir geta ekki stjórnað þeim.
En þeir geta rekið þá.
Bradlee hélt að Cathleen Graham og sonur hennar sem hafa átt Washington Post mundu óska eftir því að hann segði af sér eftir að blaðakona á Washington Post hafði fengið Pulizer-verðlaun fyrir upplogna sögu um heróínnotkun átta ára svertingjadrengs.
En þegar blaðið hafði skilað verðlaununum og gert hreint fyrir sínum dyrum stóðu þau með ritstjóra sínum og tóku áfallinu af manndómi.
Ég hygg að allir eigendur Morgunblaðsins hefðu gert slíkt hið sama undir svipuðum kringumstæðum. Þeir hafa aldrei brugðizt, en stundum held ég að þá hafi skort þann styrk sem er forsenda sannfæringar. Og þá hafa þeir látið okkur um styrkinn – og sannfæringuna!
En mér er nær að halda að Morgunblaðið eigi eftir að breytast á næstu áratugum og þeir ritstjórar sem þangað verða kallaðir geti átt yfir höfði sér svipaða afskiptasemi og Olof Lagerkranz kynntist á Dagens Nyheter á sínum tíma.
Miklir listamenn eru oftast miklar manneskjur; það er a.m.k. mín reynsla. Og miklir blaðamenn eru þá einnig oftast merkilegir persónuleikar. Einn þeirra er Russell Baker sem skrifaði stórmerkar æviminningar sínar; The Good Times, ekki hið góða líf, heldur hinir góðu tímar. Það virðist alltaf vera eitthvað gott þegar merkir blaðamenn minnast reynslu sinnar og samtíðar.
Þegar ég lít um öxl á ég einnig að fagna þessum góðu minningum. Blaðamennskan hefur verið dýrmæt, en stundum dýrkeypt reynsla; þroskandi og mikilvæg. Efniviður þess sem ástæða er að muna. Sumt að vísu harðvítugt, krefjandi; jafnvel miskunnarlaust.
En ævinlega þroskandi og mikilvægt.
Russell Baker var fréttamaður og greinahöfundur í New York Times. Hann kynntist mörgu merkilegu fólki og komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hlutverk blaðamannsins að breyta stjórnmálapeði í drottningu. Hann ætti aftur á móti að lýsa skákinni. Vinátta gat einnig orðið honum þrándur í götu en hann fór þó ávallt eigin leiðir. Hann er ekki einungis mikill blaðamaður, heldur listrænn höfundur og sem slíkur mun hann lifa af þá atburði sem hafa verið viðfangsefni hans.
Samtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við mig birtist í Alþýðublaðinu miðvikudaginn 3. ágúst sl. Ég hafði farið yfir það og samþykkt þá esju sem þar blasir við.
Á skírdagskvöld var sýnd sjónvarpsmynd um Móses í ríkissjónvarpinu, fyrri hluti. Síðari hlutinn að kvöldi föstudagsins langa. Ágæt mynd að mörgu leyti og heldur vel gerð en það er þó merkilegast við þessa mynd hvað hún fylgir rækilega Exodus, eða Annari bók Móses. Fór því að lesa þessa þætti Gamla testamentisins og rifja upp biblíusögurnar. Það hafði ég ekki gert frá því við vorum í Melbourne, Flórída, 1986-87. Fór síðan að hugsa um það sem mér hafði aldrei dottið í hug áður; að það mætti rekja áhrif frá Móses-bók II á lýsingu í Landnámu um gæði landsins.
Drottinn sagði við Móses:
„Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egiptalandi og heyri hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á. Ég er ofan farinn til að frelsa hana af hendi Egipta og til að leiða hana úr þessu landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi...”
Mundi þetta ekki vera fyrirmyndin að því þegar Þórólfur skipverji Hrafna-Flóka lýsir Íslandi svo þegar þeir félagar koma aftur heim til Noregs, „...en Þórólfur hvað drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið; því var hann kallaður Þórólfur smjör”, eins og segir í Landnámu.
Sem sagt, Ísland er fyrirheitna landið og þangað leiða guðirnir skattpínda þegna Noregskonungs. Eða eigum við heldur að segja, guð Ísraela sem var einnig guð Krists eftir að Jahve breyttist í mildan Föður vorn, en þann guð þekktu höfundar Landnámu að sjálfsögðu enda kristnir menn þótt þeir hafi einatt fjallað um sögu og atburði heiðinna forfeðra sinna.
Í fornum sagnabókmenntum okkar glitrar víða á gömul minni ef að er gáð og augljóst að þeir gömlu sagnaritarar og skáld sem lögðu á sínum tíma grunninn að þessari heimssögulegu bókmenntaarfleifð okkar voru fjölvísir menn og vel heima bæði í heiðnum og sannkristnum arfi okkar. Mér er nær að halda að þeir hafi haft veður af miklu eldri arfi en nokkurn grunar og að því leyti hafa bæði Hermann Pálsson og Einar Pálsson áreiðanlega mikið til síns máls þótt hitt sé einnig augljóst að enginn skrifar skáldsögur uppúr stærðfræðiformúlum og stærðfræði Pýþagórusar getur ekki verið forsenda þess að alþýða manna lifir með stórvirki eins og Njálu öldum saman.
En hitt er jafnvíst að það glittir víða á þessi gömlu minni í fornbókmenntum okkar og höfundar þeirra hafa haft pata af ýmsu því sem nú er löngu gleymt; t.a.m. kunnu þeir ágæt skil á bragfræði og kenningakerfi heiðinna forfeðra sinna þótt líklegt megi teljast að allt slíkt hafi verið eins og hver önnur latína fyrir þeim almenningi sem sótti í þennan sagnamarkað, ef svo mætti að orði komast.
Ég tek t.a m. eftir því sem ég hef aldrei vitað áður að í lýsingu sinni á Guðbrandi úr Dölum og skurðgoði hans hefur Snorri sótt dæmið um mýsnar sem hlupu út úr skurðgoðinu í þúsund ára gamlar frásagnir af skurðgoði í Alexandríu sem reist var guðinum Serapusi til dýrðar og var svo heilagt að ef einhver kom við það gat það leitt til náttúruhamfara.
En byskupinn í Alexandríu hafði sömu afstöðu til þessa skurðgoðs og kóngurinn í Heimskringlu og fyrirskipaði axarmanni að höggva í skurðgoðið og kom gat á það og hlupu út úr því mýs eins og raunar einnig úr skurðgoði Dala-Brands þegar það var hoggið sundur.
Þannig varð ekkert eftir af þessum heiðnu trúarbrögðum annað en nagdýrin ein og minningin um skurðgoð sem minnti ekki á neitt annað en skrýmsli.
Dala-Brandur tók kristna trú eins og Snorri tíundar allrækilega í frásögn sinni. En kristnir menn höfðu slík skurðgoð að háði og spotti hvort sem þeir reyndu að vinna trú sinni spöl í landi heiðinna manna í Alexandríu á 4. öld eftir Kristburð eða þegar þeir fóru með kristniboð sitt um Noreg undir lok 10. aldar.
Það getur varla verið tilviljun að mýsnar hlaupa út úr báðum þessum heiðnu skurðgoðum og heiðnir menn sitja uppi með svikaglennuna eina en kristin trú festir rætur þar sem mýsnar höfðu áður búið um sig í heilögum véum heiðingjanna.
Ingó hringdi til mín undir kvöld á miðvikudag, en þá hafði ég gengið spölkorn um gangana á handlæknisdeild Landspítalans og við Hanna gátum talað við hann í síma. Þetta er ekki sami heimur og sú veröld sem blasti við þegar ég var skorinn upp á Landakotsspítala fyrir nær fjórum áratugum. Það sem þá var þónokkur eldraun er nú leikur einn. Ég talaði einnig við Ingó á skírdagskvöld. Við höfðum áður talað saman um Braveheart og höfðum svipaða afstöðu til þessa stórvirkis í kvikmyndasögunni. En hann var hrifnari en við Hanna af göngu dauðamannsins eða, Dauðamaður nálgast. Susan Sarandon hlaut óskarsverðlaun fyrir leik sinn en ég hef verið að ruglast á henni og Sharon Stone, eða hvað hún heitir, sem lék aðalkvenhlutverkið í Casino. Leikur hennar þótti mér frábær og þess vegna hélt ég að þetta væri sama leikkonan. Sarandon er ágæt í Dauðamanninum en hin var betri í Casino.
Þannig er ekki alltaf víst að það bezta í samtímanum njóti sannmælis. Það eru svo margar vindhviður sem leika á þessa samtímastrengi markaðar og vinsælda að maður skyldi ekki taka verðlaun, hvorki of alvarlega eða of nærri sér.
Ég taldi að nunnan í Dauðamanninum hafi tekið hlutverk sitt of alvarlega. Þarna hafi verið um forhertan glæpamann að ræða og engin ástæða til þess fyrir foreldra hinna myrtu ungmenna að fyrirgefa honum. En Ingó tók upp hanzkann fyrir nunnuna og minnti mig á að Kristur hefði ekki endilega komið í heiminn okkar vegna, sem hefðum allt til alls, heldur vegna þeirra sem þjáðust, smáglæpamanna eins og ræningjanna sem héngu með honum á krossi á Golgata, vændiskvennanna, úrhrakanna, fátæklinganna og þeirra sem eiga undir högg að sækja hvernig sem þessum höggum er háttað.
Ég var að vísu sama sinnis, en minnti hann á orð Krists um að gjalda keisaranum það sem keisarans er og guði það sem guðs er. Andspænis guði eru allir jafnir, það er rétt. Kristur skoðar hjartalagið, það er einnig rétt. En mér hefur alltaf skilizt að hann hafi verið á guðs vegum meðal okkar í því skyni að taka á sig syndir okkar – og þá án þess að spyrja um veraldleg gæði eða þjóðfélagslega aðstöðu.
Öll þjáumst við af synd. Öll sjáum við blika á nýbrýnda egg dauðans. Undan honum kemst enginn.
En Kristur hefur heitið okkur, hverju og einu, upprisu, fyrirgefningu með iðrun og fögnuði í sæluríki himnanna,þar sem hverjum er búinn staður sem hentar honum.
En ég trúi því ekki að morðingi tveggja ungmenna komist þangað jafnauðveldlega og sá sem hefur varið lífi sínu í ræktun og göfgi og óeigingjarnt, mannbætandi starf. Án þess metnaðar og mannjafnaðar sem virðist nú um stundir eitt helzta leiðarljós þeirra sem alltaf er verið að tala við í fjölmiðlum án þess þeir hafi annað fram að færa en eigin metnað og takmarkalausa eigingirni.
Ef það er erfitt fyrir ríkan mann að komast gegnum nálaraugað með auðæfum sínum þá er það áreiðanlega erfiðara að komast þar í gegn með alblóðugar hendur og gamalt hatur á sjálfum sér og öðrum.
Það er ekki í forherðingunni sem menn rísa upp og losna við naglaför dauðans heldur í iðrun, kærleika og boðskap hans sem einum hefur tekizt að breyta kvíða mínum, sársauka og þjáningu í þolanlegt hlutskipti.
Ég hef að minnsta kosti ekki reynslu fyrir öðrum krafti og æðri. Ef þessi reynsla er ekki meiri eða merkilegri en nagdýrin í skurðgoðum heiðingjanna, þá þarf ekki að spyrja að leikslokum.
En svo sannfærður var Páll eftir að hann hafði séð Krist upprisinn að hann segir hiklaust og án þess blikna og eins sannfærður um fyrirheit Krists og unnt er að vera í þeirri miskunnarlausu og gallhörðu staðreynd sem við köllum líf,
„Ef ekki er til upprisa dauðra”, segir Páll í fyrra Kórintubréfi, „þá er Kristur ekki heldur upprisinn. En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar. Vér reynumst þá vera ljúgvottar um Guð, það ef vér höfum vitnað um guð, að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp. Því ef dauðir rísa ekki upp, er Kristur ekki heldur upprisinn. En ef Kristur er ekki upprisinn er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar, og þá eru einnig þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist, glataðir. Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna”.
Þetta fyrra Kórintubréf Páls er ægifagurt í hugsun og framsetningu og án efa innblásnasti texti sem um getur í heimsbókmenntunum. Það er í þessu bréfi sem Páll yrkir um kærleikann, eða í 131 – 14 en fyrr nefnd tilvitnun sem er grundvöllur allrar trúar á Jesúm Krist stendur í 131 3-20. Áður hafði Páll talað um að við séum musteri Guðs og að andi hans búi í okkur. Það er þessi Guð frumkristninnar en ekki Guð Ísraelsmanna sem sagði Ég er sá, sem ég er eins og stendur í 2. Mósebók, sem gott er að lúta og tilbiðja í því kærleiksríka andrúmslofti sem ber frelsaranum og umhyggju hans fegurst vitni.
Og Páll boðar þennan guð af fögnuði og sannfærandi ástríðu vegna þess að hann sá Krist upprisinn. Talaði við hann og vissi vegna þessarar sýnar, þessarar áþreifanlegu staðreyndar, að Kristur var upprisinn og orð hans og nærvera voru ekki töfrabrögð sjónhverfingamannsins, heldur fyrirheit þess æðra máttar sem öllu ræður.
Með allt þetta í huga má segja með nokkrum sanni að Postulasagan sé lykillinn að kristinni kirkju og þessi frásögn í 9. kafla Postulasögunnar sé hornsteinn kristinnar trúar:
„En Sál blés enn ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins. Gekk hann til æðsta prestsins og beiddist bréfa af honum til samkundanna í Damaskus, að hann mætti flytja í böndum til Jerúsalem þá, er hann kynni að finna og væru þessa vegar, hvort heldur karla eða konur. En þegar hann var á ferð sinni kominn í nánd við Damaskus, leiftraði skyndilega um hann ljós af himni. Hann féll til jarðar og heyrði rödd segja við sig: „Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?”
En hann sagði: „Hver ert þú, herra?”
Þá var svarað: „Ég er Jesús, sem þú ofsækir. En statt upp og gakk inn í borgina, og þér mun verða sagt, hvað þú átt að gjöra”.
Förunautar hans stóðu orðlausir. Þeir heyrðu að vísu raustina en sáu engan. Sál reis á fætur, en þegar hann lauk upp augunum sá hann ekkert. Þeir leiddu hann við hönd sér inn í Damaskus. Þrjá daga var hann sjónlaus og át hvorki né drakk.
Í Damaskus var lærisveinn nokkur, sem hét Ananías. Við hann sagði Drottinn í sýn: „Ananías.”
Hann svaraði: „Hér er ég, Drottinn.”
Drottinn sagði við hann: „Far þegar í stræti það, sem kallað er Hið beina, og í húsi Júdasar skaltu spyrja eftir manni frá Tarsus, er heitir Sál. Hann er að biðja. Og hann hefur í sýn séð mann, Ananías að nafni koma inn og leggja hendur yfir sig til þess að hann fái aftur sjón.”
Ananías svaraði: „Drottinn, heyrt hef ég marga segja frá manni þessum, hve mikið illt hann hefur gjört þínum heilögu í Jerúsalem. Og hér fer hann með vald frá æðstu prestunum að færa í bönd alla þá, sem ákalla nafn þitt.”
Drottinn sagði við hann:
„Far þú, því að þennan man hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels. Og ég mun sýna honum, hversu mikið hann verður að þola vegna nafns míns.”
Þá fór Ananías af stað, gekk inn í húsið og lagði hendur yfir hann og mælti: „Sál, bróðir, Drottinn hefur sent mig, Jesús, sá er birtist þér á leið þinni hingað. Þú átt að fá aftur sjón þína og fyllast heilögum anda.”
Jafnskjótt var sem hreistur félli af augum hans, hann fékk aftur sjónina og lét þegar skírast. Síðan neytti hann matar og styrktist”.
Án þessarar frásagnar væri kristin trú goðsögn um mann frá Nasaret. En vegna þessarar frásagnar er hún veraldarsagan sjálf í allri sinni dýrð. Bókfest staðfesting, einföld og einstæð, á þátttöku guðs í annars blóðugri sögu mannsins. Þessi þáttur mannkynssögunnar er skáldskap líkastur. En hann er meira en skáldskapur og þess vegna á kristin trú enn jafnmikil ítök í þeim sem hafa gengið Kristi á hönd og hún átti í Páli eftir að Drottinn sjálfur breytti honum upprisinn í einn af postulum sínum.
Hitt er svo annað mál að það er leitt til þess að vita hvað forsjónin hefur látið lítið að sér kveða á opinberum vettvangi frá því þessir atburðir áttu sér stað. Þannig hafa prestar og prelátar leikið lausum hala og túlkað Nýja Testamentið hver að sinni vild og kóngar og keisarar, en þó einkum misvitrir stjórnmálamenn ráðskazt með veröldina og þá jafnoft í anda þess sem freistaði Krists á sínum tíma.
Og nú hafa bókstafstrúarmenn múslíma sem ógna með hryðjuverkum og alræði sömu afstöðu til kristinna manna og trúboðarnir höfðu til nagdýranna á sínum tíma; þeir eru sem sagt réttdræpir án afskipta eða íhlutunar guðdómsins. En þeir hafa þó kannski kallað þetta yfir sig; ég veit það ekki.
Hef verið að hugsa um hörmungar Ólafs Skúlasonar, byskups, og minnist þess þá þegar Leó páfi III var settur af vegna meinsæris og hórdóms en þá kom Karla-Magnús frankakeisari honum til hjálpar svo hann náði aftur embætti sínu. Leó var páfi frá 27. desember 795 til 12. júní 816 en Karla-Magnús ríkti frá 768-814. Keisarinn sagði að enginn gæti dæmt hans heilagleika páfann, fór til Róms seint í nóvember 800, tók þátt í einhvers konar ráðstefnu um sekt páfa sem lýsti sig reiðubúinn að hreinsa sjálfan sig af „fölskum ákærum”. Og sór hreinsunareið á Þorláksmessu þetta sama ár.
Páfi launaði keisaranum liðveizluna með því að setja keisaralega kórónu á höfuð honum að jólamessu lokinni og krjúpa við fætur hans, en það hefur enginn páfi gert til að þóknast veraldlegum höfðingja, hvorki fyrr né síðar.
Þá töldu menn að þetta hafi verið óundirbúin uppákoma en svo mun ekki hafa verið, heldur var uppákoman rækilega undirbúin. Leó heimsótti svo keisarann í Achen á jólum 804.
Leó páfi gat verið miskunnarlaus og kvað sjálfur dauðadóm yfir uppreisnarmönnum í Róm að Karla-Magnúsi látnum. En hann þótti að mörgu leyti góður embættismaður og hafði forystu um velferðarstefnu kaþólsku kirkjunnar. Leó var tekinn í dýrlingatölu 1673.
Með hliðsjón af þessum sögulegu atburðum mætti e.t.v. varpa fram þeirri spurningu hvort herra Ólafur eigi sér einhvern Karla-Magnús sem gæti komið honum til hjálpar nú þegar hriktir í undirstöðum byskupsembættisins og enginn getur séð fyrir um örlög þessa eina íslenzka byskups sem hefur orðið fyrir kvörtunum vegna áreitni og kynferðilegs ofbeldis. Ég reikna þó ekki með að hann verði tekinn í dýrlingatölu þegar fram líða stundir!
Ég gluggaði að gamni mínu í Íslensku alfræðiorðabókina og gáði að því hvað þar væri sagt um Serapis, þennan grísk-egypzka guð sem skurðgoðadýrkendur lutu í Alexandríu á dögum Ágústínusar kirkjuföður, 354-430. Þar segir að Serapis hafi verið samruni úr Plútóni, Ósírisi og Apisi. Ptólemeos I egyptalandskonungur hafi gert hann að borgarguði í Alexandríu um 300 f.Kr. Dýrkun Serapis breiddist út um allt Rómaveldi. En um Ágústínus segir að hann hafi verið sonur heiðins manns og kristinnar konu. Hann hafi aðhyllzt ungur manikeisma en snúizt til kristni 386 og stofnað eins konar klaustur í Afríku. Játningar hans sem voru skrifaðar undir lok 4. aldar höfðu mikil áhrif á mig á sínum tíma. „Í riti sínu De civitate Dei (413-426; Um borgríki Guðs) svarar hann ásökunum heiðingja um að Róm hafi eyðst vegna þess að menn hafi látið af heiðnum siðum. Þar heldur hann því fram að ríkið verði að skipa sig undir vilja Guðs, en á miðöldum var það lagt út þannig að ríkið skyldi lúta kirkjunni. Á mótaði kenninguna um erfða- eða upprunasynd og ítrekaði að maðurinn gæti ekki frelsast nema fyrir náð guðs. Sú kenning Á að áhrif sakramentanna séu ekki komin undir heilagleika prestsins og þess sem þiggur hafði einnig mikil áhrif”.
Það er merkilegt að þessi mikli leiðtogi kristinnar trúar skuli ungur hafa aðhyllzt mankeisma því hann var öndverður kristinni trú, stundum kallaður manistrú og var grundvöllurinn ströng tvíhyggja. Frelsun nær maðurinn með því að komast til skilnings á eðli sínu og forðast snertingu við myrkheima, eða syndina.
Þessi trúarbrögð eru kennd við stofnanda sinn, Mani, sem var uppi 216-276, parþnenskrar ættar. Manistrú er skyld mandeatrú sem á rætur í írönskum trúarbrögðum en einnig kristni, gyðingdómi o.s.frv. Grundvöllurinn er barátta milli góðs og ills, ljóss og myrkurs, en það sem er einna sérkennilegast við þessi trúarbrögð er það að Jóhannes skírari er einn helzti spámaður þeirra en Jesús boðberi falskenninga og helzti andstæðingur þessa trúfélags. Mikil áherzla er lögð á skírnina í þessum trúarbröðgum, einkum er skírn deyjandi fólks mikilvæg. Mandear búa enn í suðaustur-Írak og suðvestur-Íran og tala arameiska mállýzku, en hún er líklega svipuð því tungumáli sem Kristur talaði sjálfur. Mandear munu vera nokkur þúsund. Þannig lifir lengi í gömlum glæðum og hitt má einnig til sanns vegar færa þegar æskutrú Ágústínusar kirkjuföður er höfð í huga að enginn veit sína ævina fyrr en öll er(!)
Í Gamla testamentinu er fullyrt að gyðingar séu guðs útvalin þjóð. Þeir skrifuðu það sjálfir en eignuðu guði. Það hefur komið þeim í koll. Guð vísaði þeim til fyrirheitna landsins og stjórnaði ferðinni sjálfur en þar voru aðrar þjóðir fyrir. Móses mátti líta fyrirheitna landið augum en var fyrirmunað að komast þangað sjálfur. Þá lagði guð leiðsögnina í hendur Jesúa og hann leiddi þjóð sína yfir Jórdan.
Þessi saga hefur endurtekið sig á þessari öld, eða nær þrjú þúsund árum eftir daga Móse. Móse þessarar aldar var Ben-Gurion. Við hann átti ég samtal eins og fram kemur í Morgunblaðinu á sínum tíma, einnig á þessum blöðum. Það var einkennilegt að hitta Ben-Gurion. Í sannleika sagt fannst mér ég vera að tala við Móse þeirra gyðinganna. Sannfæringarkraftur hans var hinn sami og slagkrafturinn í Móse. Ben-Gurion kunni sína biblíu. Hann vitnaði til hennar og trúði því að þar heyrðist guðs raust. Undirstaða hins nýja Ísraels. Vísbending um réttmæti þess og fyrirheit.
Múslímar hafa ekki heldur þolað þessa sjálfsdýrkun um guðs útvalda þjóð. Og þeir hafa ekki verið einir um það. Líklega hefur ekkert verið gyðingum eins öndvert og þessi fullyrðing í Gamla testamentinu, þrátt fyrir margvíslega gagnrýni og raunsæja afstöðu til mannlegs breyskleika sem er á hverju strái um allt Gamla testamentið. Það fjallar eiginlega um glímu guðs við þessi útvöldu börn sín og hún var mikið puð svo að vitnað sé í dálítið fyndið og þekkt ljóð eftir Jónas Svafár! En krafan um að vera guðs útvalin þjóð hefur fylgt gyðingum fram á þennan dag og kallað yfir þá ofsóknir og tortryggni – og raunar útskúfun – þótt þeir hafi ekkert til saka unnið annað en fullyrðingar Móse-bóka! Ég reikna með því að þeir viti sjálfir mæta vel að þeir eru ekki frekar útvaldir af guði en við hin en þeir hafa eignazt svo marga yfirburðamenn á öllum sviðum lista og vísinda að heimurinn hefur ekki getað án þeirra verið. Og þeir lögðu grundvöllinn að sterkustu trúarbrögðum heims, kristindómi og íslam, án þess til þess hafi verið ætlazt af leiðtogum þeirra og að því leyti hafa þeir átt stóran þátt í að leiða saman vegu guðs og manns svo vitnað sé í Sálmabókina.
Ef við höfum allt þetta í huga má óhikað fullyrða að heimurinn hafi ekki getað án gyðinga verið þótt maður sé ekki endilega þeirrar skoðunar að guð hafi útvalið eina þjóð en ekki aðrar. Gyðingar hafa líka þurft að berjast fyrir tilveru sinni rétt eins og aðrir.
Giotto málaði margar myndir fyrir Robert, konung af Napolí. Einhverju sinni bað konungurinn listmálarann að mála konungsríki sitt. Giotto málaði tvo asna og hnakka, en á þeim kórónu ríkisins og veldissprota. Hann hefur líklega haft svipaðar hugmyndir um „þjóðina” og Caligula, sem að sögn sæmdi hestinn sinn ræðismannstitli! Eða var það kannski einhver annar rómverskur keisari, það má vel vera. Það má til sanns vegar færa að samtíminn sé oft í asna líki. Hann hefur að minnsta kosti einstaka hæfileika til að fara á mis við hina sönnu tólg; þ.e. raunveruleg verðmæti.
Ódagsett
Skoðanakannanir benda nú til þess að Ólafur Ragnar Grímsson verði næsti forseti Íslands ef ekki verður breyting á. Hægri vængurinn er óvaldaður enn og ekki að sjá annað en ýmsir sjálfstæðismenn muni kjósa Ólaf Ragnar fremur en þær konur sem í boði eru en það gæti auðvitað breytzt með nýju framboði.
Allt er þetta heldur athyglisvert og minnir á mynd Giottos af konungsríki Róberts af Napolí. Samfélagið er óútreiknanlegt, almenningsálitið svokallað eins og íslenzkt veður. Sá sem hefur hingað til verið hæstur í skoðanakönnunum, séra Pálmi Matthíasson – að vísu ekki í framboði enn – er víst kominn undir fimm prósent, Guðrún Agnarsdóttir rétt yfir sex prósent þótt hún hafi oft haft forustuna í skoðanakönnunum áður en hún bauð sig fram!!
Ég býst við að Davíð Oddssyni þyki þessar kannanir ekki fýsilegar eða uppörvandi fyrir sig því hann hefur einnig undir fimm prósentum, svo að vel má vera að Alþýðublaðið eigi kollgátuna.
Fyrir nokkrum misserum var Ólafur Ragnar Grímsson einn óvinsælasti stjórnmálamaður landsins samkvæmt skoðanakönnunum; fór í taugarnar á fólki, margir töldu hann rogginn og yfirgangssaman og ekki alltaf nota vönduð meðul í stjórnmálapoti sínu. Ég held þó að hann hafi verið skikkanlegur fjármálaráðherra og alls ekkert verri en gengur og gerist, hvað sem pólitískir andstæðingar hans segja um það. En hann sýndi þá að hann getur verið harla ófyrirleitinn og þeir sem hafa haldið því fram hafa nokkuð til síns máls. Mér er t.a.m. nær að halda að það hljóti að teljast til spillingar hvernig hann lét ríkið hlaupa undir bagga með Svörtu á hvítu þegar forlagið rúllaði, en veit það þó ekki gjörla. Um þetta hefur margt verið rætt og ritað þótt ég sé hins vegar þeirrar skoðunar að Svart á hvítu hafi verið ágætt forlag og gefið út merkar og mikilvægar bækur Íslendinga sagna. Útgáfa þeirra er til fyrirmyndar og sem ritstjóri reyndi ég á sínum tíma að lyfta undir með útgáfunni og veita henni þann stuðning sem hægt var. Hún hafði með höndum menningarlega forystu um varðveitzlu arfleifðar okkar.
En sem fjármálaráðherra hafði Ólafur Ragnar auðvitað enga heimild til að hygla þessum samflokksmönnum sínum þegar í nauðir rak. En íslenzkir stjórnmálamenn hafa ekki gert sér enn grein fyrir því að þeir eiga ekki skattpeninga fólksins; þeim er þvert á móti trúað fyrir því að verja þeim til almannaheilla og fara að öllu með gát í þeim efnum. En pólitískir potarar svífast einskis og milljarðir íslenzkra króna hafa lent í hítinni vegna pólitískra einkahagsmuna þeirra.
Þrátt fyrir misjafnt álit á Ólafi Ragnari Grímssyni hefur ávallt farið vel á með okkur og ég tel að hann hafi – ásamt Össuri Skarphéðinssyni og Óskari Guðmundssyni – átt sinn þátt í því að húmanísera Þjóðviljann á sínum tíma.
Þá var allt í einu farið að tala um mann eins og manneskju en ekki hundingja; jafnvel talað um skáldið án mannorðsskemmda!
En mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því Þjóðviljinn var eins og hvert annað málgagn andlegra hryðjuverkamanna. Við Svavar Gestsson, fyrrum ritstjóri Þjóðviljans, höfum náð vel saman og strikað yfir fornar væringar. Hann hefur sýnt ljóðum mínum hlýju og vinsemd og ég er ánægður með þá manneskju sem hefur komið út úr deiglu kalda stríðsins, hef jafnvel hvatt hann til að skrifa ævisögu sína því að nú hefur hann reynslu og tilfinningalega yfirsýn til þess að gera það með sóma.
Mér þótti vænt um þegar hann talaði um ljóðin í Árstíðaferð um innri mann í bókmenntaþætti í Sjónvarpinu um það leyti sem ljóðin komu út; hann talaði fallega og hlýlega og af skilningi um þessi kvæði mín, það kom mér að vísu á óvart en ég kunni því betur að meta það.
Ég tel að hlýhugur okkar í milli marki endalok kalda stríðsins!
Við erum líklega báðir farnir að gamlast og líkjast Sjáandanum í Ægisgötu Steinbecks; hann fylgdist ævinlega með sólarlaginu og var ekki viss um hvort sólin gæti setzt ef hann gerði það ekki.
Ungur varð Svavar Gestsson ástfanginn af froski kommúnismans. Nú held ég hann geri sér grein fyrir því að þessi froskur gat aldrei orðið að prinsi; hann var einfaldlega mennskan og mannúðin í álögum.
Paul Johnson fjallar þónokkuð um írska munka í sögu sinni um kristindóminn. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því áður hvað þeir voru víðreistir. Þeir stofnuðu fjölda klaustra bæði í Skotlandi, Englandi og á meginlandi Evrópu og voru miklir sæfarar. Eftir þessa frásögn Paul Johnsons tel ég miklar líkur á því að þeir hafi komið til Íslands og ætlað að stofna klaustur hér á landi þótt það hafi farið í vaskinn. Þeir unnu einnig mikið að handritum, þóttu afburða afritarar, sem sagt forystumenn um útbreiðslu menningar. En þeir voru ekki skapendur. Við verðum því að leita annað til að fá skýringar á bókmenntalegri nýsköpun Íslendinga á 12. og 13. öld. Ég tel líklegast að Norðmenn hafi verið búnir að flytja fjölda þræla frá Írlandi, Skotlandi og eyjunum heim til Vestur-Noregs áður en þeir hófu landafundina í vestri og námu Ísland.
Þessi blanda á vesturströnd Noregs er annað fólk en þeir Norðmenn sem austar búa. Það er úr þessari blöndu sem nýsköpun íslenzkrar bókmenningar hefur sótt slagkraftinn. Það er þessi nýja vestur-norska þjóð með írsku ívafi sem er forsenda þessarar merku menningararfleifðar og mikilvægu nýsköpunar.
Ætli það sé einhver táknleg merking í því þegar Kristur ríður á asna inn í Jerúsalem og fólkið tekur honum fagnandi eins og þjóðhetju? Nokkrum dögum síðar hafnar það honum og heimtar að hann verði krossfestur. Það skyldi þó ekki vera að asninn í guðspjallinu sé táknmynd þess sem við köllum samfélagið og almenningsálit.
Ef svo er, þá hefur Giotto vitað lengra nefi sínu og af þessu gætum við dregið mikinn lærdóm enn í dag.
Við erum á leið í kaupstað eins og Steinn sagði en höfum gleymt því hvað við ætlum að kaupa.
Í Alþýðublaðssamtalinu minni ég á að í kvæðum mínum hef ég reynt að benda á þessi verðmæti. En þetta er erfið ferð því að farartækið er asni.
Þessi litlu kvæði í nýrri ljóðabók Tomasar Tranströmers eru viðfelldin og harla eftirminnileg; svona kvæði yrkja einungis góðskáld:
Ég hvíli í skugga mínum
eins og fiðla
í sínum svarta kassa.
Tveimur eða þremur vikum eftir að við Tómas lásum upp saman í Gautaborg á bókahátíðinni þar á sínum tíma fékk hann slag. Og undanfarin fimm ár hefur hann þjáðst af mállömun.
Hitt kvæðið er um riddarann og konu hans, eða Tómas sjálfan og Monicu konu hans, ef það er rétt sem Niels Gunnar Nilsson vinur minn segir í grein um þessa síðustu bók skáldsins:
Riddarinn og hans frú
steinrunnin en sæl
á fljúgandi kistuloki
utan við tímann.
Niels Gunnar segir
„Ég get ekki gert að því, segi ég við Tómas og Monicu Tranströmer, en mér finnst að erindið snúist um ykkur tvö; steinrunnin vegna þess sem komið hefur fyrir ykkur en sæl – og ekki steinrunnari en svo að þið fljúgið, ekki á teppi en á kistuloki – utan við tímann”.
„Bæði hlæja – og samþykkja. Já, það er rétt, þannig er það!”
Fallegt og áhrifamikið(!)
Hlustaði á Pavarotti í Sjónvarpinu um páskana. Pabbi hans var viðstaddur, það var áhrifamikið. Tónleikarnir voru teknir upp sl. sumar. Nú er hann ástfanginn af ritaranum sínum. Það er einkennilegt finnst mér, maður á ekki að trufla ritarann sinn! Ef maður verður ástfanginn af honum nær hann á manni steinbítstaki. Það kann ekki góðri lukku að stýra! En Pavarotti er einstakur. Ég held að allur heimurinn sé ástfanginn af honum svo að einkaritarinn er líklega engin undantekning.
Hlustaði einnig á samtal Larry Kings við Charlton Heston . Hann hefur verið giftur sömu konunni, Lydiu, í 52 ár. Það þótti Larry King undarlegt, ég held hann sé fjórgiftur. En Heston er ánægður með konuna þótt augljóst hafi verið að hjónabandið hefur ekki ávallt verið vandræðalaust.
Á fimmtíu ára brúðkaupsafmæli okkar, sagði Heston, var konan mín spurð um það hvort skilnaður hefði aldrei hvarflað að henni.
Nei, sagði hún. Skilnaður, aldrei. En morð, það er annað mál!
Svona talar lífsreynd kona og raunsæ. Það þurfa öll skip að sigla á milli skerja án þess asteyta á þeim, en það eru alls staðar sker. Auk þess er hægt að læra ýmislegt af refnum; hann bítur aldrei nálægt greninu.
9. apríl – þriðjudagur
Hanna spurði mig hvort ég hefði heyrt um það áður að Jón Leifs hefði boðið þýzkum prinsi, samstarfsmanni Göbbels, konungdóm á Íslandi. Ég sagðist hafa heyrt þennan brandara einhvern tíma en það hvarflaði ekki að mér að taka hann alvarlega. Samt hefur þetta víst komizt á bækur sem dæmi um nazista-þjónkun Jóns. Reynt er að tönnlast á því að hann hafi viljað starfa með nazistum meðan hann bjó í Þýzkalandi. Þýzkar heimildir þess efnis séu til. Ég gef lítið fyrir þetta. Slíkar heimildir eru lítils virði. Jón var kvæntur þýzkri konu af gyðingaættum. Hver myndi ekki reyna að sjá sér farborða við þær aðstæður sem þá voru í Þýzkalandi? Hitler var að vísu einvaldur en ekki vitað um útrýmingarbúðirnar. Hann hafði ekki hafið styrjöld. Íslenzkir listamenn voru vinsælir í Þýzkalandi um þessar mundir og þeir höfðu auðvitað ekkert á móti því. Reynt var að klína nazista-orði bæði á Guðmund Kamban og Gunnar Gunnarsson. Morðið á Guðmundi Kamban hefur jafnvel verið réttlætt með þessum stimpli. En það var eins og hvert annað morð og sú afstaða danskra stjórnvalda að koma í veg fyrir að morðinginn fyndist fyrirlitleg að mínu viti.
Ég talaði oft við Gunnar Gunnarsson. Hann vildi að norrænar þjóðir tækja upp ríkjasamband, það var hugsjón hans. Það má vel vera að hann hafi talið nazismann eins konar byr á þeirri siglingu.
En Gunnar Gunnarsson gekkst ekki upp í ofbeldi; hvað þá útrýmingarbúðum. Hann var hugsjónamaður um samnorræna framtíð; það var allt og sumt. Hvað sem þýzkar heimildir segja um það. Hann reyndi að lifa með ástandinu, það gerðu allir. Einnig Jón Leifs. Og þá ekki síður Guðmundur Kamban í Kaupmannahöfn. Allir sem til þekktu vissu að hann var ekki nazisti. Það vissi Kristján vinur hans Albertsson; það vissi Jón vinur hans Björnsson,rithöfundur,náinn vinur hans, það vissu allir. En hann var Íslendingur og fékk aðra meðferð en venjulegur Dani; fékk t.a.m. að lesa ljóð í danska útvarpið á hernámsárum nazista. Það með öðru átti að réttlæta morðið. Íslenzk ljóð koma nazisma ekkert við. Kamban þýddi þau einungis frábærlega vel á dönsku, það var allt og sumt. Ég á þessar þýðingar hans í Hvíta fálkanum, með áritun frá Kristjáni Albertssyni og þykir vænt um.
Allir þessir menn voru Íslendingar, án fjandskapar við þýzku þjóðina. Verk þeirra voru vinsæl með henni. Nazistar reyndu auðvitað að færa sér allt slíkt í nyt, það er eðli einræðisseggja. Ég hef skrifað annars staðar um fund Gunnars Gunnarssonar og Hitlers. Hvorugur var hrifinn af hinum! Eða hvað hefur Gunnar Gunnarsson sagt um Hitler? Gunnar hefur einfaldlega vísað alræði á bug í verkum sínum. Fyrir það létu kommúnistar hann gjalda illilega á sínum tíma. Úthrópuðu hann semn nazista af því þeir höfðu fengið mynd af honum í þýzkum ræðustól með nazistamerki, ef ég man rétt. Þá var hann annað hvort að lesa úr verkum sínum eða fjalla um norræna sameiningarhugsjón. Það var kannski heldur barnalegt eins og á stóð. Rithöfundar eiga ekki að hafa neitt samneyti við einræðisstjórnir. Samt var fjöldinn allur af íslenzkum rithöfundum á vegum heimskommúnismans! Jafnvel eftir innrásina í Ungverjaland og vitneskjuna um gúlagið(!)
Sagnfræðingar eiga ekki að taka of mikið mark á útlendum skjölum. Þau eru einatt skrifuð af mönnum sem bera lítið skynbragð á það sem þeir fjalla um. Skilja ekki aðstæður. Ef við hefðum ekki annað í höndum en lýsingu MacMillans á fundi þeirra Ólafs Thors hefðum við ekkert til að styðjast við annað en fáránleikann. Eða þær staðreyndir sem MacMillan hélt að væru sannar, en eru bláköld lygi. Ég upplifði þennan fund mjög sterklega sem blaðamaður á Keflavíkurflugvelli á sínum tíma, talaði bæði við Ólaf og MacMillan og veit að allt hefur þetta skolazt til í æviminningum hins síðar nefnda.
Hann sagði þá allt annað en fram kemur í ævisögunni.
Þannig eru greinagerðir útlendinga um íslenzk málefni og íslenzkt fólk. Menn skyldu fara varlega í notkun þessa efnis. Það fjallar ósjaldan um misskilning eða vanþekkingu þess sem skrifar. Vitlaus útlendingur getur slátrað hvaða Íslendingi sem er hvenær sem er, ef erlendar skýrslur eru birtar mörgum árum eftir atburðina. Við verðum að reyna að fara eftir því sem viðkomandi segir sjálfur; meta hugmyndir hans og afstöðu af skrifum hans sjálfs.
Þannig reyndi ég að skrifa Ólafs sögu. Reyndi að setja mig inn í hugarfar hans og afstöðu. Upplifa hann á þeim tíma sem atburðirnir urðu. Þá fengi hann að tala sjálfur, segja hug sinn. Það er auðvitað í lagi að vitna í það sem aðrir sögðu um Ólafs Thors á þessum tíma en það er enginn endanlegur sannleikur sem ástæða er til að marka öðru fremur.
Síður en svo.
Við verðum að meta Guðmund Kamban, Jón Leifs og Gunnar Gunnarsson af því sem þeir hafa sjálfir gert og sagt. Þannig metum við Knut Hamsun. Og af skrifum hans sjáum við að hann hafði mikið dálæti á þýzku þjóðinni, umbar nazista en var þó sífelldlega að rífast við yfirherstjórnina í Noregi og svo Hitler í Berlín, en skrifaði um hann lofgjörð sem lýsir afstöðu hans, svo að ekki verður um villzt.
Því miður.
Þannig getum við af orðum hans sjálfs fullyrt að hann var hlynntur nazistum og hrifinn af Hitler. Við eigum slíkar lofgjörðir einnig í íslenzkum blöðum. Þjóðviljinn lofsöng Stalín, höfund gúlagsins, á sínum tíma og margir þeir sem fylgdu blaðinu þá , Kristinn E.Andrésson , Þórbergur og Halldór Kiljan meðal annarra höfðu sömu afstöðu. Af því vitum við að þeir voru stalínistar. Við vitum það ekki af því að Morgunblaðið fullyrti það heldur af orðum þeirra sjálfra. Þau eru heimildir sem engan blekkja.
Ég hef talað við marga sendiherra. Við ritstjórar Morgunblaðsins töluðum oft við bandaríska sendiherrann Irwing í þorskastríði. Irwing sendiherra er ágætur maður og ég treysti því að dómgreind hans hafi verið nógu góð til þess að það sé okkur ritstjórum Morgunblaðsins skaðlaust að skýrslur hans verði einhvern tíma birtar. Við sögðum margvísleg lofsyrði um Bandaríkin og treystum þeim í þessu stríði. Við vildum jafnvel að Bandaríkjamenn létu okkur fá fallbyssubáta svo að landhelgisgæzlan ætti auðveldara með að hemja Bretann. Allt þetta hefði verið hægt að misskilja, dómgreindarlítill sendiherra hefði jafnvel getað sent skýrslur til Washington um þessar „bandaríkjasleikjur” á Morgunblaðinu, slíkar skýrslur gætu jafnvel jaðrað við landráð.
En það hvarflar ekki að mér að Irwing sendiherra hafi sent slíkar skýrslur til Washington. Hann vissi að við vorum þjóðernissinnar í góðri merkingu. Hann vissi að Morgunblaðið barðist fyrir útfærzlu fiskveiðilögsögunnar, það var allt og sumt. Við urðum að knýja Breta til samkomulags, annars gæti NATÓ stafað mikil hætta af þessari deilu og NATÓ var lífakkeri okkar eins og á stóð í grimmilegu, köldu stríði; uppgjöri lýðræðis og heimskommúnisma.
Við slíkar aðstæður var ýmislegt sagt og ég efast ekki um að margt skrýtið sé í bandarískum skýrslum frá þessum tíma; einnig rússneskum.
En á þeim er ekkert að byggja. Það eitt skiptir máli sem við höfum sagt sjálfir, enginn annar getur túlkað afstöðu okkar.
Það væri eins og að leita til dr. Valtýs Guðmundssonar til að fá skýringar á skáldskap Einars Benediktssonar. Enginn misskildi Einar jafn meðvitað og dr. Valtýr. En engum dytti í hug að lesa gagnrýni hans á ljóð Einars Benediktssonar til að fá skilning á þeim og vita hvað fyrir skáldinu vakti.
Það er engin örugg heimild í þeim efnum nema skáldskapur Einars sjálfs og það sem hann hefur sagt um verk sín.
Mér finnst það jafn fáránlegt að Jón Leifs hafi boðið einhverjum aðstoðarmanni Göbbels konungdæmi á Íslandi og þegar ég var að gantast með það við Bjarna Benediktsson að við hefðum átt að gera Knút danaprins að konungi á Íslandi svo að við losnuðum við þetta afkáralega forsetadæmi.
Ef Bjarni hefði tekið mig alvarlega, eða misskilið mig og þessa kaldhæðnislegu fyndni mína, þá hefði hann getað gert mig að hreinræktuðu fífli ef hann hefði skrifað skýrslur og minnisblöð um slíkt samtal.
Ég er að vísu fæddur inn í konungdæmi og alinn upp í konungdæmi. En ég er líka alinn upp í þeim anda að ekkert hæfi Íslandi annað en fullt frelsi; þingræðisleg hefð og lýðveldi; helzt með svipuðu sniði og í Sviss. Þá mundum við losna við snobbið og gervikóngastellingarnar. Og öll útgjöldin(!)
Knútur danaprins var eldóður! Mér hefur verið sagt að þessi veila í honum hafi verið svo ástríðuþrungin að slökkviliðið í Kaupmannahöfn hafi sett brunabjöllu heima hjá honum svo hann gæti alltaf orðið fyrstur á vettvang – rétt eins og Sveinn vinur minn Þormóðsson blaðaljósmyndari!
Samkvæmt því sem ég hef sagt eru öll þessi minnisblöð mín afstæður sannleikur. Á þeim birtast einungis mínar eigin hugmyndir en ekki þeirra sem ég minnist á. Ég mundi aldrei gera tilkall til þess að þær væru hinn endanlegi sannleikur. En minn sannleikur á skrifandi stund, það er annað mál.
Nú þegar ég minnist á bruna dettur mér í hug að eina nóttina um páskana dreymdi mig að kveiknað væri í Morgunblaðshúsinu. Ég sagði Hönnu frá þessu.
Það er fyrir rifrildi, sagði hún
. Jæja, sagði ég, það er þá bezt að fara varlega.
Svo dreymdi mig í nótt að það hafi verið komið fyrir sprengju í skrifstofunni minni. Ég veit ekki fyrir hverju það er; eða hvort það er yfirleitt fyrir einhverju. Hann er alveg makalaus pilsaþyturinn í heilanum á okkur meðan við sofum.
Hvernig ætli standi á þessu?
Ég trúi því ekki að neinn viti það; ekki Freud frekar en neinn annar.
Las bókina When Elephants Weep fram á nótt. Athyglisverð bók að mörgu leyti. Hún fjallar um tilfinningalíf dýranna en ég held að höfundur geri einum of mikið úr því. En hann er með athyglisverð dæmi sem styðja þá hugmynd að tilfinningalíf dýranna sé flóknara og margþættara en maður skyldi ætla.
Descartes sem sumir telja hafi lagt grundvöllinn að heimspeki nútímans,trúði því að dýr væru hugsunarlausar skepnur; automata, vélar.
Descartes lagði eins og Wittgenstein mikið upp úr tungunni. Dýr skorti ekki líffæri til að geta talað, þau skorti forsendur tungunnar; hugsunina.
Voltaire mótmælti þessu. Dýr hugsa augsýnilega um fæðu og kynlíf. Og þau hugsa um afkvæmi sín. Til eru páfagaukar sem geta hugsað og talað. Apar geta víst lært táknmál. Dýr geta víst grátið, sungið og blygðazt sín. Górilluapi í táknmálstímum Michael, er afar músíkalskur og hefur yndi af söng Luciano Pavarottis og hefur jafnvel neitað sér um að fá sér frískt loft þegar Pavarotti hefur verið að syngja í sjónvarpi! Apar og fílar geta teiknað. Indverskur fíll, Siri, krassaði með blýant og var myndin send til Elaine og Wilhelm de Kooning, hins þekkta bandaríska listmálara, og sögðu þau áður en þau vissu að teikningin var eftir fíl, að þau dáðust að frumleika skissunnar og Wilhelm de Kooning sagði þegar honum var sagt að hún væri eftir fíl,
„Þetta er fjandi gáfaður fíll”.
f mynd að dæma er þetta bara krass, án hugsunar að mér sýnist. Og apar eru ekkert sérlega gefnir fyrir myndlist. Þeir vilja víst heldur horfa á blóm en mynd eftir Mondrian og alls ekki myndir af bönunum.
Sem sagt, þeir vilja ekki kaupa köttinn í sekknum!
Hvalir eru músíkalskir. Þeir tala saman í sinfóníum. Það er gaman að hlusta á þá á segulbandi Heathcote Williams, Whale Nation.
Þýzka skáldið Hanz Magnus Enzensberger sem hingað kom fyrir nokkrum misserum á bókahátíð, hóf nýlegt rit sitt um borgarastríð í Evrópu með því að segja, Dýr berjast, en þau heyja ekki stríð.
Þetta er ekki rétt. Sum dýr heyja stryrjaldir, t.a.m. maurar.
Apar geta víst einnig háð stríð.
Dýr geta verið mannúðleg og þau geta verið dýrsleg. Þau geta víst grátið heitum tárum. Enginn veit af hverju við grátum. Tár eru ekki sorg en þau eru merki um sorg og dýr geta verið sorgmædd. Þau geta syrgt maka sinn, t.a.m. gæsir, svanir, jafnvel endur sem lifa rómantísku ástarlífi í eins konar hjónabandi.
Wittgenstein taldi að dýr gætu upplifað ótta, en ekki von. Hann skrifaði 1940 að við gætum ímyndað okkur að dýr gætu orðið reið, óttaslegin, óhamingjusöm, hamingjusöm, undrandi .
En að þau eigi sér von...?
Það má kannski snúa spurningunni við og segja, Geta dýr líkzt manninum? Við verðum að jánka því. Maurar taka þræla. Órangútanar hafa verið staðnir að nauðgunum. Einnig háhyrningar. Mörg dýr leika sér að minnimáttar, sum drepa sér til skemmtunar. En jafnvel rándýr geta eignazt vini af öðrum dýrategundum. Fræg er frásögnin um þrælinn sem strauk frá húsbónda sínum í Róm og var kastað fyrir ljónið í Kolosseum.. Maðurinn sem hafði verið þræll fyrrum ræðismanns og hét Androcles var viti sínu fjær af ótta og nær dauða en lífi af lömun en ljónið gekk að honum, sleikti hann og lét vel að honum, án þess meiða hann.
Þeim var báðum sleppt.
En Caligula keisari vildi fá að vita hvers vegna ljónið hefði þyrmt manninum. Androcles sagði þá frá því hvernig hann slapp úr þrælavistinni og komst út á eyðimörk og gat skýlt sér í helli. Þá kom sært ljón í hellinn, gekk hægt að Androclesi, lyfti að honum særðri loppunni eins og það væri að biðja um hjálp. Og Androcles losaði það við stóra flís.
Þá lagðist ljónið og sofnaði með loppuna í höndum mínum, sagði Androcles.
Þau voru þarna saman þrjú ár í hellinum og ljónið veiddi í matinn. Androcles náðist, var sendur til Róms og dæmdur til dauða. En lánið lék við hann. Ljónið hafði einnig verið fangað og nú mætti það hollvini sínum þarna á blóðvelli Róms og þyrmdi lífi hans.
Keisarinn sleppti bæði þræl og ljóni og þau gengu saman um götur Rómaborgar „og allir sem hittu þau sögðu:
„Þetta er ljónið og það var mannsvinur, þetta er maðurinn sem læknaði ljónið”.”
Kannski er þessi saga sönn, ég veit það ekki. Hitt er víst að maðurinn á sinn guð, en ljónið ekki. Xenophanes segir að guðir Eþíópíumanna séu svartir, Þrakíumenn eigi sér rauðhærða og bláeyga guði. En ef uxar og hestar gætu teiknað yrðu guðsímyndanir þeirra uxar og hestar.
Ætli guð sé þá hugmynd mannsins um sjálfan sig?
Mér skilst heimspekingurinn Ludwig Feuerbach,þýzka skáldið sem hafði áhrif á Jónas, hafi litið svo á.
Vísindamenn gefa tilraunadýrum sínum ekki nöfn. Þeir fara að dæmi bænda sem rækta dýr til slátrunar. Nöfn kalla fram mannúðlega tilfinningu og það er erfiðara að drepa vin sinn með nafni en nafnleysingja. Höfundar bókarinnar Þegar fílar gráta hafa víst orðið grasætur af þessum dýrarannsóknum sínum. Ég gef lítið fyrir það. Maðurinn er hér á jörðinni eins og hann er og eins og hún er. Kristur var góði hirðirinn. Það er táknræn merking um þann sem verndar fénaðinn fyrir úlfum; það er satan og djöflum hans. En hirðirinn leiðir einnig hjörð sína til slátrunar. Það er hin hliðin á starfinu. Og ég veit ekki til að Kristur hafi haft neitt á móti því að við reyndum að afla okkur lífsviðurværis. Auk þess má vel vera að plöntur og blóm finni til. Þau sýna að minnsta kosti viðbrögð. Látið blómin tala, er sagt. Það er ekkert betra að borða talandi blóm, en ótalandi, nafnlausa hjörð.
Höfundar bókarinnar gagnrýna líka vísindamenn sem nota rottur og mýs í rannsóknum sínum.
Hvað eiga þessir menn að gera sem helga líf sitt baráttunni við sjúkdóma og dauða?
Þessar mýs og rottur væru ekki til án rannsókna þeirra. Þau fæðast í því skyni að koma í veg fyrir þjáningar mannsins. Það þarf auðvitað að sýna þeim fulla tillitssemi, umgangast þau af nærfærni og mannúð. En þau eru fórnardýr síns hlutskiptis eins og við öll. Hvað með bakteríurnar? Þær virðast stundum hugsa, og raunar virðist allt efni tilverunnar síhugsandi. Þessi hugsun er galdur tilverunnar. Hún er partur af alheimsorkunni. Og ef guð skapaði veröldina hlýtur hann að hafa notað þessa orku við sköpunarverk sitt. Maðurinn er að mörgu leyti berskjaldaður í tilverunni og ekki undarlegt þótt hann reyni að nota þau tæki sem hann hefur yfir að ráða til að verða betur í stakk búinn í þessum átökum.
Ég virði enga meira en þá vísindamenn sem hafa bætt líf mannsins á jörðinni, ekki sízt þá sem hafa gefið manninum vopn í baráttunni við sjúkdóma; og dauða. Þeir eru mínir menn og það hefur enginn leyfi til að svipta þá mannúðinni. Þeir starfa að mannúð, það er allt og sumt.
Ingólfur Kristjánsson, tengdafaðir minn, var bóndi. Hann var hinn góði hirðir. Hann mátti ekkert aumt sjá. Hann átti 2-300 fjár á Hólsfjöllum. Hann fór vel með sitt fé; umgekkst það eins og Kristur sína hjörð. Hann gaf öllum kindunum sínum nöfn. Gat jafnvel stundum kallað á þær, að mér skilst.
Þannig hef ég líka séð Harald Sveinsson kalla á hestana sína uppi á Mýrum. Þá stendur hann með brauð í hendi og þeir vita að það er veizla í aðsigi þar sem hann er.
Féð í Víðirhóli þekkti einnig sinn góða hirði. Halldór Laxness hefði talið Ingólf til fjallræðufólks, samt ræktaði hann féð sitt í þeim tilgangi að þau hjón gætu séð fyrir fimmtán börnum sínum.
Leiðin lá sem sagt í sláturhúsið.
En hann var aldrei viðstaddur þegar vinum hans var slátrað. Þá fóru þeir nafnlausir þangað sem til var ætlazt.
10. apríl – miðvikudagur
Davíð Oddsson lýsti því yfir á þingflokksfundi í gærkvöldi að hann gæfi ekki kost á sér í framboð til forsetaembættis.
Það var áreiðanlega rétt ákvörðun hjá honum.
Síðustu skoðanakannanir sýna að svo virðist sem 75% kjósenda hafi tekið afstöðu og af þeim segja tæplega 39% að þeir geti kosið Ólaf Ragnar Grímsson. Þegar litið er á tölurnar þarf meira en 25% kjósenda til að hafa í öllum höndum við Ólaf Ragnar eins og nú horfir. Framboð virðist því ófýsilegt þótt ég hafi trú á því að Davíð hefði getað náð talsverðu af atkvæðum af Guðrúnunum báðum og Ólafi Ragnari auk þess sem ég held að mikill hluti þeirra sem ekki hafa enn tekið afstöðu hafi beðið eftir framboði Davíðs.
Áhættan of mikil.
Tel að Davíð hafi séð það í hendi sér. Þetta mál hefur verið of lengi að vefjast fyrir honum. Það hvarflar ekki að mér að hann hafi ekki viljað komast á Bessastaði. Held margir verði fyrir vonbrigðum, aðrir ekki. En nú mega þeir sem hafa verið vonbiðlar formannsembættis Sjálfstæðisflokksins bíða lengur en þeir héldu fyrir nokkrum dögum, eða vikum. Þessi bið getur orðið löng og það er ekki víst að vináttan haldist jafnlengi og biðin.
Vonandi þó!
Þegar ég hugsa um þetta hvarflar hugurinn að umræðum sem urðu á Alþingi 13. febrúar 1992 um auglýsingakostnað Fjármálaráðuneytisins en þá var þjarmað mjög að Alþýðubandalaginu og þá einkum að Ólafi Ragnari Grímssyni og gagnrýnt hvernig hann hafði notað ráðuneytið til að hygla stuðningsmönnum sínum með opinberu auglýsingafé, ef ég skil þetta rétt.
Davíð Oddsson tók ekki mikinn þátt í þessum umræðum, sagði eiginlega ekki annað en þetta:
„Upp úr þessum upplýsingum stendur og er meginmál að mínu viti hversu ógætilegt það var af formanni Alþýðubandalagsins að láta sömu auglýsingaskrifstofu vera í stórkostlegum viðskiptum við Fjármálaráðuneytið og sjá um kosningabaráttu Alþýðubandalagsins.”
Síðan tók Svavar Gestsson til máls og þá Friðrik Sophusson og loks Ólafur Ragnar Grímsson sem sagði m.a.:
„Og lengi skal manninn reyna. Að hæstvirtur forsætisráðherra skuli taka þátt í þessu leikriti með svo ómerkilegum hætti sem hann gerði hér. Ég hélt satt að segja ekki, og vona að mér fyrirgefist að ég segi það, að svona skítlegt eðli væri inni í hæstvirtum forsætisráðherra en það kom greinilega hér fram. (Gripið fram í: Hvað sagði ræðumaður?) Ég sagði: svona skítlegt eðli.” (forseti: Ég bið háttvirtan þingmann að gæta orða sinna) Síðan hélt Ólafur Ragnar áfram en Davíð Oddsson svaraði honum með þessum hætti:
„Ég ætla ekki að gera sérstakar athugasemdir við munnsöfnuð þess þingmanns sem áðan talaði. Það er uppeldislegt vandamál hans.”
Og ég man ekki betur en hann segði einhvern tíma í þessum umræðum að hann mundi aldrei starfa í skjóli Ólafs Ragnars Grímssonar. Og átti þá við að hann mundi ekki mynda ríkisstjórn með stuðningi hans. En nú horfir helzt til þess að hann þurfi á þessu skjóli að halda, ef Ólafur Ragnar Grímsson kemst á Bessastaði þrátt fyrir hin „uppeldislegu vandamál”!