Áríð 1998 (Seinni hluti)

 

5. apríl, sunnudagur

Skrifaði þetta Reykjavíkurbréf eftir upplestrarferðina til Englands:

Útlönd eru að minnsta kosti tveir heimar. Þeir eiga að sjálfsögðu margt sameiginlegt því að þeir eiga rætur í samfélagi sem er ein heild og eitt þjóðfélag. En þegar nánar er að gætt eru ótal vistarverur í þessu sama þjóðfélagi, kjör fólks, áhugamál og afstaða svo ólík að fremur mætti tala um að nútímaþjóðfélag sé saman sett af mörgum litlum samfélögum sem eru jafn ólík og þau eru mörg, þótt ákveðnir þættir haldi þeim einkum saman og má þar fyrst og síðast nefna arfleifðina og tungumálið. Ef tala mætti um almenningsálitið í tengslum við þessi samfélög er enginn vafi á því að það sækir næringu, fyrirmyndir og jafnvel fyrirmæli í fjölmiðlana sem ráða ferðinni í nútíma þjóðfélagi, ákveða að mestu hvað um er rætt og hverja afstöðu fólk skuli hafa. Þetta er samfélag fjöldans sem hugsar að mestu um það sem er uppi á teningnum hverju sinni. En svo eru aðrir þættir sem eru jafn mikilvægir og ekki síður áhrifamiklir þegar upp er staðið þótt þeir nái til miklu færri og sæki fremur afstöðu í margvíslega þekkingu en þau dægurmál sem eru efst á baugi í fjölmiðlum hverju sinni. Þeir sem ferðast og þurfa að tala við fólk í útlöndum verða að sjálfsögðu varir við þennan mikla mun. Því meiri fjöldi, því skarpari skil. Það dettur engum í hug að almenningur í nágrannalöndum okkar í Evrópu sé að velta fyrir sér íslenzku þjóðfélagi, forsendum þess og arfleifð. Þessi sami almenningur heyrir að vísu eitt og annað um fyrirbærið Ísland án þess það komi honum frekar við en aðrar þær
dægurflugur sem verða á vegi hans. Samt er hægt að nota þessar dægurflugur í landkynningarstarfsemi og hefur það verið óspart gert. Um það er ekkert nema gott eitt að segja.
Á hinn bóginn gegnir Ísland allt öðru hlutverki í hugum þeirra tiltölulega fáu sem þekkja arfleifð okkar og menningu og hafa heillazt af þeirri staðreynd að þessi arfleifð er enn lifandi þáttur í þjóðlífi okkar og raunar jafn mikilvægur og landið sjálft. Geymd þessarar arfleifðar þykir í senn sérstæð og til fyrirmyndar og þá ekki sízt sú staðreynd að Íslendingum hefur tekizt að varðveita tungu sína án þess hún hafi breytzt svo að teljandi sé frá því hinar miklu íslenzku bókmenntir urðu til á sínum tíma. Þeir sem ræða við háskólafólk og þá sem búa yfir verulegri þekkingu verða fljótt varir við að það er þessi arfleifð og varðveizla tungunnar sem vekja aðdáun og eiga mestan þátt í því að hugurinn hvarflar til Íslands og allt fléttast þetta saman í eina órofa heild, land, þjóð og arfleifð, og þá með þeim hætti að margir útlendingar dragast að landinu heillaðir af goðsögninni um Thule sem er þó engin goðsögn í raun og veru, heldur gallharður veruleiki, ólíkur öllu öðru sem fólk á að venjast (ýmsir, þ. á m. Arngrímur lærði hafa efazt um að Thule sé Ísland, en um það skal ekki fjölyrt hér).
Það var ekki af tilviljun einni sem andleg stórmenni á borð við Borges og Auden drógust að Íslandi og það getur varla verið tilviljun að við heyrum nú um stundir nýjar fregnir af Íslandsförum sem við þekktum ekki áður en hafa sennilega komið til landsins á svipuðum forsendum og Konrad Maurer eða William Morris en þar má nefna jafnfræga forystumenn heimsmenningar þessarar aldar og heimspekinginn Wittgenstein eins og sjá má af dagbókarbrotum í Lesbók Morgunblaðsins og franska tónskáldið Ravel sem enginn vissi að hefði komið hingað á norðurhjarann. Slíkir hugsuðir og listamenn hafa ekki komið til Íslands af forvitni einni saman heldur vegna þess að þeir hafa heillazt af því sem þeir þekktu til landsins og höfðu löngun til að kynnast því af eigin raun. Að vísu er ekki vitað til að Íslandsferðirnar hafi haft nein sérstök áhrif á verk Wittgensteins eða Ravels en vart fer hjá því að svo óvenjuleg reynsla hafi skilið eftir einhver spor á vegferð þeirra um heimsmenningu þessarar aldar.
Þegar talað er við útlenda menntamenn er augljóst að þeir hafa mestan ­ og kannski einungis ­ áhuga á Íslandi vegna arfleifðar okkar og tungu en ekki vegna neinna sérstakra pólitískra stefnumála eða einstaklinga sem hafa borið hróður þess um víða vegu, þótt það hafi kannski í sumum tilfellum haft einhver áhrif. Og þá má ekki gleyma því að sérstæð náttúrufegurð landsins sjálfs hefur áreiðanlega mikið aðdráttarafl þegar hugsað er um þessar fjarlægu slóðir.
Í háskóla í Bretlandi var bréfritari á það minntur ekki alls fyrir löngu að Japanir sætu með heyrnartæki þegar þeir færu í no-leikhús því að þeir skildu ekki það sem fram færi og þyrftu að láta þýða það fyrir sig jafnóðum. Japönsk tunga gleypti erlend áhrif og nú væri talið að fjórðungur allra orða í japönsku væri af enskum og þýzkum uppruna og tunga þessarar fornu menningarþjóðar breyttist svo hratt að foreldrar skildu ekki alltaf börn sín því að þau töluðu einatt allt aðra japönsku en eldra fólk. Og jafnvel foreldrarnir verða að láta þýða fyrir sig þær japönsku bókmenntir sem eru eldri en 100 ára því að tungan hefur breytzt með þeim hætti á þessari öld, að eldri bókmenntir eru fyrir nútíma Japana eins og hver önnur lokuð bók. Þetta minnir á hraðfara breytingar á norrænni tungu í Noregi á sínum tíma en þær gerðust svo hratt að engin leið var til að koma í veg fyrir að Norðmenn glötuðu tungu sinni og af henni sprytti nýtt tungumál. Þegar Snorri skrifaði Heimskringlu gátu allir Norðmenn skilið hvert orð í þeim miklu sögum og líklega hafa þeir getað skilið þessa gömlu tungu framundir 1400, það má m.a. marka af því að Konungsskuggsjá er að öllum líkindum skrifuð í Þelamörk á 14. öld. Það er enginn Íslendingur sem hefur skrifað þetta gullfallega mál, heldur Norðmaður sem hefur haldið tungu sinni, líklega ekki sízt vegna þeirrar einangrunar sem Þelamörk hafði upp á að bjóða til varðveizlu fornrar menningar.
Á það hefur verið minnzt áður hér í Reykjavíkurbréfi að einatt er talað um íslenzkar bókmenntir til forna sem norskar bókmenntir, en það orð að vísu ekki notað, heldur annað sem er einhvers konar afsökun fyrir því að ekki skuli sagt beinum orðum að þessi arfleifð sé íslenzk enda varð hún til á Íslandi þótt ljóðahefðin hefði flutzt út hingað með víkingum, þróazt hér og varðveitzt. Nú er tízka að nota norse í ensku um alla norræna arfleifð ­ og þá ekki sízt íslenzka ­ en oftast er í raun átt við íslenzkar bókmenntir þegar gripið er til þessa orðs. Hér er því um ákveðna tilraun til blekkingar að ræða. Í Orðabók Chambers fyrir 21. öldina segir m.a. að norse merki einhver tengsl við Skandinavíu, það merki norðmaður; það merki tunga sem var töluð í Skandinavíu eða Noregi og í nýlendunum; norse merki skandinavar, en þó einkum Norðmenn. Í Orðabókinni er ekki minnzt á að orðið norse sé sérstök skírskotun til Íslands. Þess er aftur á móti getið að orðið sé að öllum líkindum komið úr hollenzku á 16. öld en hollenzka útgáfan var noorsch. Það eru sem sagt Hollendingar sem hafa komið þessu orðskrípi inn í heimstunguna með þeim afleiðingum að íslenzk ritsnilld til forna er einatt flutt austur yfir haf og það gert með þeim hætti að helzt enginn tekur eftir því. Í nýrri grein um víkingaskipin er í jafnvirtu vísindariti og Scientific American talað um Norse sagas þegar rætt er um víkingaferðir og fund Ameríku, en þessar sögur sem eru aðalheimild um þessar ferðir að sjálfsögðu voru skrifaðar á Íslandi á íslenzku um svipað leyti og Norðmenn voru að glata tungu sinni. En þær mega bara ekki vera íslenzkar! Er nokkur furða þótt spurt sé: Af hverju ekki? Hvað liggur á bak við þetta orðalag, mætti spyrja höfundinn, fornleifafræðinginn John R. Hale, við háskólann í Louisville.
Við höfum mikið verk að vinna. Við þurfum að útrýma þessu orði úr enskri tungu og hætta þessum blekkingarleik. Það er að vísu dálítið sérkennilegt ef rekja má orðið norse til Hollands á 16. öld því að þar hófst sú alþjóðlega rógsherferð á hendur Íslandi sem Arngrímur lærði horfðist í augu við í merku fræðiriti sínu alkunnu, Crimogæu. (Ísland í grískum búningi). En höfundur helzta lastritsins var sá gamli, hollenzki erkiþrjótur Blefkin þótt ekki sé endilega ástæða til að kalla hann til ábyrgðar fyrir orðskrípið noorsch.
Þess má að lokum geta að í London var á sínum tíma stofnað norskt tímarit á ensku ­ og hét auðvitað The Norseman!
Við eigum að rækta það sem er mikilvægt. Og við eigum að kunna skil á því sem er mikilvægt. Það sem gerir okkur að sérstæðri þjóð hlýtur að vera mikilvægt í okkar augum, jafnvel í augum annarra. Maður þarf ekki að eiga lengi orðastað við þá sem eiga eftir að verða mótandi afl í nágrannalöndum eins og Bretlandi og Þýzkalandi til að skynja, hvað það er sem þessu fólki þykir merkilegt við Ísland, hver er togkrafturinn þegar hugurinn hvarflar að þessu sérstæða, fjarlæga og að mörgu leyti ævintýralega eylandi. Það eru ekki dægurflugurnar. Það eru ekki uppákomurnar í fjölmiðlunum. Það eru ekki skoðanakannanirnar. Það eru ekki blómin sem vaxa og deyja eftir duttlungum veðurguðanna. Nei, það eru ræturnar. Þær draga athyglina að þeirri óvenjulegu flóru sem við höfum af að státa í sögu okkar og umhverfi. Það eru rætur okkar, það eru rætur tungunnar sem við höfum borið gæfu til að varðveita í gegnum þykkt og þunnt; eða eins og brezkur prófessor sagði á kynningarfundi í háskólanum í Norwich nýlega þar sem kynnt var íslenzk ljóðlist og nýjar enskar þýðingar, stórmerkar, á öllum Íslendinga sögum í 5 bindum: Íslenzk tunga ­ hún er einsdæmi, hún er kraftaverk.
En höfum við hlúð nægilega að rótunum? Erum við á varðbergi nú þegar upplausnaröfl fara um löndin eyðandi sjónvarpseldi í nafni einhverrar alþjóðahyggju sem er einna helzt fólgin í því að skilja þannig við ræturnar að þær veslist upp og deyi. Við erum áreiðanlega á krossgötum hvað þetta varðar. En meðan það þykir sjálfsagður hlutur að birta þúsund ára gamla vísu úr Egils sögu á mjólkurfernum og gert er ráð fyrir því að allir geti skilið rétt eins og um sé að ræða hversdagslegt vísukorn úr næsta nágrenni, þá erum við enn nokkuð vel í sveit sett ­ eða hvar væri þetta hægt annars staðar? Við höfum enn sem komið er staðizt andlegan uppblástur að mestu leyti eins og þetta dæmi sýnir ­ en hvað lengi? Við skulum huga að þessum rótum. Vernda þær, hlú að þeim. Þá glötum við ekki því sem við eigum dýrmætast og engin þjóð önnur hefur eða getur varðveitt. Gyðingar glötuðu tungu sinni en þeir endurheimtu hana 2000 árum síðar eins og spáð er í Gamla Testamentinu; þó í nýjum búningi. Það er einnig í raun einhvers konar kraftaverk. Við eigum aftur á móti að gæta þess að glata ekki arfleifðinni, rækta tunguna, þetta mesta sameiningartákn lítillar þjóðar sem þarf að átta sig á þeim vegamótum þar sem við nú stöndum. Þær eru margar sírenurnar og nauðsynlegt að gæta sín á þeim. Það mælti mín móðir er betri vegvísir en mestur hluti þess sjónvarpsefnis sem nú er að æra ­ ekki einungis okkur heldur allar þjóðir ­ eða hverja telja menn helztu skýringuna á voðaverkum bandarískra unglinga þegar þeir drepa skólasystkin sín með köldu blóði? Það eitt út af fyrir sig er ærið umhugsunarefni.

Ódagsett

Bjarni Benediktsson sagði eitt sinn við mig:
Við eigum að skrifa söguna sjálfir, hinum er ekki treystandi til þess(!)
Það var að vísu ekki ástæðan til þess ég skrifaði Ólafs sögu, heldur löngunin til að glíma við mikilvægt verkefni.  Áskorun sem ekki varð undan vikizt.  En samt hafa orð Bjarna hvarflað að mér oftar en einu sinni og verið mér umhugsunarefni.  Þau koma mér ekki sízt í hug þegar ég horfi til Sturlungaaldar. 
Bjarni treysti pólitískum andstæðingum illa fyrir freistingum sínum.  En það gerði Magnús lagabætir aftur á móti þegar hann fól Sturlu Þórðarsyni að rita sögu Hákonar, föður síns. Hann þekkti óhlutdrægni hans, sem þá var augsýnilega á allra vitorði, og vissi að hann gat staðizt freistingar í sagnfræði sinni.  Sturla var fenginn til að rita sögu þeirra feðga og hafði þó áður verið andstæður tilraun Hákonar gamla til að seilast til áhrifa á Íslandi.  En Magnús konungur hafði ástæðu til að treysta honum vegna þess hann þekkti til verka hans.
Bjarni hefði áreiðanlega einnig treyst slíkum manni, ef hann hefði staðið í sporum Magnúsar Hákonarsonar.  En hann vissi jafnvel, að fæstir marxistar um hans daga voru slíks trausts verðir.

2. apríl, fimmtudagur

Talaði við Svavar Gestsson í hádeginu í dag. Hann kom upp á Morgunblað og við borðuðum saman. Ágætt samtal. Ég hef gaman af að tala við Svavar og ég tel við eigum orðið einlæg samtöl. Það sem mér þótti merkilegast í þessu langa samtali okkar Svavars var eftirfarandi:
Hann hefur ekki gert upp við sig hvort hann tekur þátt í sameiningarferli vinstri manna eða ekki.
Hann spurði mig um það hvað ég héldi um þetta.
Ég sagði honum að ég teldi að eina leiðin fyrir gamla Alþýðubandalagsmenn væri sú að reyna að halda sjó. Ég væri sannfærður um að þeir sem stjórnuðu ferðinni á vinstra væng nú vildu losna við gamla Alþýðubandalagsmenn; þeir mundu reyna að skilja þá eftir.
Þeir væru bæði hræddir við styrk þeirra og ekki síður að tönnlazt yrði á fortíðinni, þeir vildu losna við hana.
Svavar var sammála þessu.
Hann spurði hvað ég héldi að þeir Alþýðubandalagsmenn mundu fá í kosningum ef þeir biðu fram í nafni flokksins en létu sameiningarmenn eiga sig að öðru leyti.
Ég taldi að þeir gætu vel náð yfir 10% atkvæða. Styrkurinn væri þeirra megin því að sameiningarmenn skyrti forystu, þrek og reynslu.
Svavar sagði að þeir ættu þá um leið að biðja Ingibjörgu Sólrúnu að taka við forystunni þótt hann hefði heyrt hún hefði ekki áhuga á slíku.
Við vorum sammála um að Ingibjörg Sólrún mundi ekki standazt þá freistingu, ef hún fengi tilboð um að taka við forystunni.
Svavar var raunar undrandi á því að við skyldum ekki hafa bent á að þetta sé hinn mikli veikleiki í framboði R-listans, að væntanlegur borgarstjóri yrði þar ekki eftir kosningar því hann yrði kallaður til starfa á vegum sameinaðra vinstri manna.
Ég jánkaði því að það gæti verið rétt, að við hefðum ekki áttað okkur nægilega á þessu. Ég held Svavar hafi mikinn áhuga á því að Alþýðubandalagið sjáist, ef svo mætti segja, í næstu kosningum og hugsi sér að vel gæti farið svo að það biði fram í sumum kjördæmum en hefði samstarf við sameiningarmenn annars staðar. Það væri leyfilegt samkvæmt kosningalögum að uppbótaþingsæti færu þannig milli flokka ef samstarf væri með þeim hætti. Kosningalögunum hefði verið breytt frá því Hræðslubandalagið reyndi að ná meirihluta á sjötta áratugnum og einnig þegar reynt var að koma I-lista atkvæðum yfir á Alþýðubandalagið á sínum tíma þótt Hannibal væri ekki á þess vegum, þvert á móti. Hann hefði þá talið að slík krafa hefði verið óréttlát.
En ég heyri það á Svavari að hann hugsar mikið um það hvernig við skuli bregðast á þeim krossgötum þar sem þeir vinstri menn nú standa. Innst inni vill hann, að ég held, fara í framboð fyrir Alþýðubandalagið og það bjóði fram eins sterka lista og unnt er sem víðast á landinu þótt fyrrnefnt samstarf gæti átt sér stað. Hann gerir sér einnig grein fyrir því að forysta vinstri manna er veik og engan veginn treystandi á menn eins og Össur Skarphéðinsson eða Sighvat Björgvinsson; telur þá báða óeinlæga, jafnvel falska
Hann er víst ekki einn um það!
Hann nefndi Steingrím Sigfússon þegar hann talaði um framboð Alþýðubandalagsins, einnig Hjörleif Guttormsson sem hann taldi að hefði orðið lítið fylgi á Austurlandi en þó fremur meðal menntafólks hér syðra og jafnvel Margréti Frímannsdóttur. Hann bætti því við að ekkert væri að byggja á Bryndísi Hlöðversdóttur sem bognaði við minnsta andvara.
Svavar gerir sér grein fyrir því að Halldór Ásgrímsson er síður en svo fugl á hendi þeirra vinstri manna. Ég held hann viti eftir samtöl sín við Halldór Ásgrímsson að Halldór hefur tiltölulega lítinn áhuga á því að mynda vinstri stjórn á vegum þeirra sem fremstir eru í fylkingu sameiningarsinna á vinstra væng. Ég held hann sé þeirrar skoðunar undir niðri að gamlir alþýðubandalagsmenn gætu haft meiri áhrif ef þeir biðu fram sérstaklega en í samstarfi við krata í einhverri samfylkingu jafnaðarmanna. En hann er hikandi og ekki viss í sinni sök. Ég held það sé erfitt fyrir hann að taka ákvörðun.
Hann er um þessar mundir að reyna að gera upp hug sinn og ég mundi ekki gera tilraun til að spá fyrir um það hver niðurstaðan verður. Hann segir að rétt sé að bíða fram yfir landsfund kratanna. Hann er sannfærður um að þar verði gerð atlaga að Sighvati Björgvinssyni, kratar vilji losna við hann og það muni koma í ljós á þessum landsfundi. Það sé því nauðsynlegt að bíða og sjá hvað setur. Þessi landsfundur og niðurstaða hans gæti ráðið úrslitum um það hvaða ákvörðun Svavar Gestsson tekur þegar þar að kemur og þá einnig aðrir forystumenn Alþýðubandalagsins.
Svavar sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri í svipuðum sporum nú og þegar Bjarni féll frá; það vantaði foringjaefni.
Ég heyrði samt á honum að hann metur Geir Haarde mikils og segir að þeir hafi haft ágætt samstarf. Ég held  honum líki einnig vel við Ólaf G. Einarsson. En Friðrik Ólafsson sagði mér í gær að hann væri bezti forseti þingsins frá því hann tók við skrifstofustjórastarfi á Alþingi.
Svavar sagði aftur á móti að Helgi Bernódosson væri um þessar mundi atkvæðamesti stjórnandi þingsins og bar honum afar vel söguna.
Ég hitti Helga stundum í gufubaði í Seltjarnarneslauginni og tölum við þá mikið saman. Mér líkar vel við Helga. Hann veit lengra en nef hans nær. Hann var á sínum tíma prófarkalesari á Morgunblaðinu og ég hef ekkert nema gott eitt um hann að segja. Hann er íslenzkufræðingur eins og ég og hef ég jafn gaman af að tala við hann um pólitík og sögu eða bókmenntir.
Hann segir mér að Hreinn Benediktsson prófessor sé bezti kennari sem hann hafi haft í Háskólanum, það kom mér á óvart. Hreinn kenndi mér ekki, heldur Alexander Jóhannesson. Hreinn tók við af honum.
Það eru ósköp að hlusta á þá Alþýðubandalagsmenn tala um fyrrum foringja sinn, Ólaf Ragnar Grímsson. Svavar sagði að hann hefði hundelt sig.

Hjörleifur sagði við Agnesi þegar þau voru samferða heim til Íslands og sátu saman í flugvélinni að Ólafur Ragnar Grímsson væri einskonar fjölmiðlafíkill og nú væri hann í réttu embætti því hann gæti ráðið því sjálfur hvenær hann væri í fjölmiðlum og hvenær ekki.
Hann væri sem sagt einskonar dagskrárstjóri sjálfs sín!!
Svavar talar um forsetann í svipuðum dúr. Hann segir að Ólafur hafi verið slæmur í peningamálum þegar hann var formaður Alþýðubandalagsins. Þá hafi hann haft Einar Karl Haraldsson að hjálparkokki. Hann hafi komið sér upp Visa-gullkorti í nafni Alþýðubandalagsins og notað það óspart.

 Þegar Margrét Frímannsdóttir tók við flokknum bárust henni reikningar eins og skæðadrífa og hún vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Það var viðskilnaður Ólafs Ragnars. Þegar Margrét tók við af honum skuldaði Alþýðubandalagið 53 milljónir króna! segir Svavar. Ólafur Ragnar gerði þá samning við Landsbankann um að Alþýðubandalagið fengi 107 milljón króna lán og greiddi það með þeim 20 milljón króna árlegum afborgunum sem það fékk í blaðstyrki frá Alþingi ár hvert. Þar var tekið fram að Alþýðubandalagið greiddi þetta meðan Þjóðviljinn kæmi út, en hann dó drottni sínum einu og hálfu ári síðar, svo að Landsbankinn varð að afskrifa skuldina sem eftir var!
Svavar segist sjá eftir því í aðra röndina að hafa hætt á Þjóðviljanum. Hann er sannfærður um að blaðið hefði ekki lagt upp laupana, ef hann hefði haldið þar áfram. Um það skal ég ekkert segja, en tel það þó harla ósennilegt eins og komið var.
Svavar segir að Össur Skarphéðinsson, Óskar Vigfússon og Mörður Árnason hafi verið handbendi Ólafs Ragnars á Þjóðviljanum á sínum tíma. Ég held hann mundi gefa þeim öllum falleinkunn. Ólafur Ragnar er með falleinkunn, svo mikið er víst.
Merkilegt að hlusta á slíkt  uppgjör við gamla félaga-og ég sem hélt þetta væri ein hjörð!
Ein hugsun,ein rödd.
Vissi þó að Einar Olgeirsson þoldi ekki Ólaf Ragnar. Upplifði það sjálfur.Það var Ólafi kannski til tekna.Hann hefur ekki verið af skóla Einars og gömlu kommanna.
Aldrei stalínisti.
Og átti þátt í að milda Þjóðviljann,gera hann að ofstækisminna blaði.
Osfsóknir á hendur mér voru a.m.k að mestu lagðar af í tíð Ólafs og þeirra félaga.
En ég veit ekkert um fjárhag blaðsins svo að fullyrðingar Svavars koma mér á óvart.
Og þó!
.
Ég sagði við Svavar að það hefði átt að vinna að því á sínum tíma að Alþýðubandalagið ætti aðild að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum,  eða í einhvers konar nýsköpunarstjórn. En Davíð Oddsson hefði sagt mér að þeir hefðu aldrei meint neitt með þessu tali. Þeir hefðu bara talað um samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, en ekki þorað að ræða það í alvöru.
Svavar virtist koma af fjöllum.
Hann sagði að um þetta hefði ekki verið rætt, hvorki við sig né Margréti Frímannsdóttur, svo hann vissi. En hann sagði aftur á móti að Ólafur Ragnar hefði reynt að mynda einhvers konar ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Hann hefði ekki talað við sig um það, að vísu, og hann vissi ekki til að hann hefði talað við neinn annan Alþýðubandalagsmann um slíkt samstarf, nema Ögmund Jónasson. Og Ögmundur hefði tekið honum með þeim hætti að Ólafur Ragnar hafi ekki þorað að nefna þetta við nokkurn mann eftir þá útreið sem hann hafi fengið í samtalinu við Ögmund!!
Ýmsilegt fleira bar á góma.             
Svavar segir að Arna Schram, þingfréttaritari Morgunblaðsins, standi sig mjög vel og hrósar henni. En hann segir að þingfréttaritarar Ríkisútvarpsins séu báðir kratar og svo hlutdrægir að skömm sé að, það eru þeir Þröstur Emilsson og Óðinn Jónsson. Ég sagði honum að ég hefði ekki gert mér grein fyrir því, en hann fullyrti að þeir væru svo óskammfeilnir í sinni hlutdrægni að minnti einna helzt á aðferðir Össurar Skarphéðinssonar þegar hann væri að misnota DV!
Svavar minnti mig á að ég hefði sagt þegar hann skrifaði bókina sína um stjórnmál og efnahagsmál,
Þú átt eftir að skrifa Bókina og hún þarf að vera persónulegri en þetta rit. Hann sagðist vera að skrifa slíka bók.
Hann sagðist vera að rifja upp æsku sína og margvíslega persónulega reynslu. Hann spurði mig hvernig mér litist á það.
Ég sagði að mér litist vel á það.
En hvað mundi fólk segja? Ég sagðist ekki geta ímyndað mér annað en menn tækju því vel.
Hvort fólki fyndist slíkt rit koma einhverjum við?
Hvaða máli skiptir það, sagði ég. Ljóðskáld velta því ekki fyrir sér hvort ljóðabækur komi einhverjum við eða ekki. Þeir yrkja ljóð um reynslu sína og koma þeim á framfæri. Hið sama hlyti að gilda um önnur rit af svipuðum toga.
Ég held að Svavari hafi þótt vænt um að ég skyldi afgreiða efasemdir hans með þessum hætti.
Mér fyndist mikill fengur að því ef Svavar Gestsson skrifaði persónulega bók um reynslu sína og tilfinningar. Það getur orðið skemmtileg bók og harla spennandi. Ég þykist vita að hann reynir að vanda til verksins því að hann hugsar um verðmæti. Hann er í raun og veru enginn pópúlaristi. Því síður neinn poppari. Það hlýtur samt að vera einum af forystumönnum Alþýðubandalagsins mikil freisting að vera þetta hvort tveggja. Kannski hefur hann reynt það, ég veit það ekki. En hann er bara ekki þeirrar gerðar. Hann er alvörumaður og hugsar dýpra en yfirborðið.
Þegar Svavar talaði um að hann væri undrandi á því hvað fjölmiðlar hefðu þyrmt Ólafi Ragnari þótt þeir hafi vitað undan og ofan af þessu ósiðlega fjármálabraski hans, sagði ég við hann, að ég hefði ekki fyrr heyrt orð af því sem hann hefði sagt. Ég hefði aftur á móti heyrt ávæning af því hvernig Ólafur hefði komið skuldum vegna forsetaframboðs síns inn í lánastofnanir, eða öllu heldur Landsbankann. Og ég minnti hann á það upphlaup sem varð fyrir forsetakosningarnar þegar Sigurður Helgason og fleiri birtu auglýsingar um pólitískt siðleysi Ólafs Ragnars á undanförnum áratugum. Þá hlupu menn upp til handa og fóta, ásökuðu Morgunblaðið fyrir að birta slíkt efni. Hringdu í okkur eins og úlfar og kröfðust afsökunar . Þessa auglýsingar,eða neikvæði áróður, kom blaðinu að sjálfsögðu lítið sem ekkert við. Það átti engan þátt í þeim annan en að birta þær og ég veit ekki betur en textinn í þeim hafi verið á rökum reistur hvað sem fylgismönnum Ólafs Ragnars leið. Þar voru rifjuð upp nokkur atriði úr stjórnmálaferli hans og mér vitanlega engu logið.
Við fengum þungar ákúrur vegna þessa auglýsingamáls, glóandi síma og allskyns óþægindi.
Það varð svo ljóst að Ólafur Ragnar græddi á öllu saman og fékk samúð margra sem ekki ætluðu að kjósa hann, en snerust nú til fylgist við þennan “ofsótta” frambjóðanda!
Þannig hefði hann nú verið friðhelgur án forsetatitils, hvað þá nú eftir að hann hefur verið tekinn í heilagra manna tölu eins og aðrir forsetar Íslands! Sá sem gerði atlögu að honum, hversu réttlætanleg sem hún væri, kallaði yfir sig ávísun á aftöku.
Svavar tók þessari skýringu vel. Hann veit að þetta er rétt, en spurði:

Af hverju heldurðu að þetta sé svona?
Hver er ástæðan?
Ég sagðist ekki geta svarað því.

Kvöldið

Júrí Resitov, sendiherra Rússlands átti samtal við Stöð 2 í kvöld, en ég heyrði það ekki. Mér hefur aftur á móti verið sagt frá því. Mér skilst hann hafi gagnrýnt Jón Baldvin en nefnt mig af andstæðingum sínum frá því í gamla daga; að við séum vinir. Það hefur ævinlega farið vel á með okkur. Hann sagði m.a. að ég hefði samvizku. Mér er til efs að nokkur maður trúi því að ritstjóri Morgunblaðsins fari kjagandi í gegnum lífið með svoleiðis byrði!
Þeir sem hafa samvizku, sagði Júrí, eru lifandi.

3. apríl, föstudagur

Steingrímur Hermannsson bauð Röskum drengjum í kvöldverð í húsakynnum Seðlabankans við Ægissíðu. Við vorum með konur okkar eins og síðast, held það hafi verið fyrir áratug. Röskir drengir hafa alltaf hitzt annað veifið frá því við vorum smápollar í Vesturbænum. Þá stofnuðum við félag með þessu nafni, ég held í marz 1940. Allir erum við lifandi 60 árum eftir stofnun þessa drengjafélags, nema Jósep Björnsson sem var okkar elztur, að mig minnir og var eins konar foringi fyrir okkur, ásamt Steingrími Hermannsyni eða Denna eins og hann var kallaður.
Jósep var kallaður Ebbi eða Jobbi. Hann lézt fyrir 20-30 árum langt um aldur fram. Um hann orti ég eitt af ljóðunum í Morgni í maí. Ef hægt er að segja að einhver kveikja sé að sögu minni Hvar er nú fóturinn minn, þá var það Jósep Björnsson.

Hef verið formaður í verðlaunanefnd SUS um hugtakið frelsi. Afhenti verðlaunin í gær. Sagði þá m.a. eins og stendur í Morgunblaðinu í dag: “Reyndar sagði Matthías það hafa vakið athygli dómnefndar hve lítinn áhuga þátttakendur hefðu haft á frelsi og lýðræði í þjóðfélaginu sem heild - höfuðáherzla hefði  verið lögð á frelsi einstaklingsins. Sagði hann þetta tákn um breytta tíma enda kaldastríðið minning ein.” Þið eruð til marks um það, sem kristnin kennir, að forsjónin hefur áhuga á hverjum og einum”, sagði hann við verðlaunaafhendinguna. “Við sem eldri erum höfðum ekki eins mikið efni á að hugsa um hvern einstakan, heldur frelsi í miklu víðtækari skilningi.”
Sigurður Pálsson skáld hefur komið að máli við mig og sagt að ljóðabók mín Vötn þín og vængur hafi verið valin í keppni um bókmennaverðlaun Evrópu, að mér skilst ásamt sögu eftir Þórarinn Eldjárn. Ég sagði honum að ég hefði ekkert á móti því. Ég veit að vísu ekki hver stendur að þessum verðlaunum, hvorki hér heima né erlendis,og velti því fyrir mér hvort ekki sé enn einu sinni verið að bera saman ósambærilega hluti.

Sé samt af þessu að Vötn þín og vængur hefur ekki einungis verið ort í öskuna. Það virðist ekki vera hægt að segja um hana að hún eigi formælendur fáa, heldur er þetta í annað sinn sem hún keppir um viðurkenningar. Ég bannaði aftur á móti að hún yrði lögð fram til Íslenzku bókmenntaverðlaunanna, hef áður gert grein fyrir því, m.a. í samtali okkar Silju Aðalsteinsdóttur í tímariti Máls og menningar. Auk þess er hönnun íslenzku bókmenntaverðlaunanna svo slæm og byggð á svo dæmalausri íslenzkri sveitamennsku að það er gjörsamlega ómögulegt fyrir þann sem vill ekki vera þátttakandi í íslenzkri klíkustarfsemi að taka þátt í því kapphlaupi. Ég nefndi þetta við Sigurð Pálsson. Hann var mér sammála.

Kvöldið

Orti þetta í kvöld, hvort ætli sé betra:

Seglhvítum draumi
fer tunglið
að tvítugu hjarta

tvítug ert þú
í hjarta mínu.

Eða:
Seglhvítt
fer tungl
að tvítugu hjarta

tvítug ert þú
í hjarta mínu.

Orti einnig þetta, og þá líka með hliðsjón af reynslu dagsins:

Úr páskagulu
eggi
flæðir sól
að sjáaldri augans

efni
í nýjan málshátt.

9. apríl, fimmtudagur; skírdagur

Sáum í kvöld heimildamynd í sjónvarpi um íslenzka sjómenn og sjávarútveg. Þó nokkur eftirvænting því Einar Heimisson gerði ágæta kvikmynd um þýzka stúlku á Íslandi, Maríu. En þessi mynd er sundurlaus, óskýr og ruglingsleg; jafnvel snobbuð! Ekkert nýtt. Léleg samtöl og engar gamlar myndir sem bragð var að. Illa farið með magnað harmsögulegt efni.
Því miður.
Það virðist lítið sem ekkert til af merkum kvikmyndum úr stríðinu. Það er ekki nóg að sýna myndir af skrúðgöngum og lúðrasveitum að leika Öxar við ána. Styrjöldin hafði annað yfirbragð(!)

10. apríl, föstudagurinn langi

Við erum þrestir

Mér er ást okkar minnisstæð,

tveir þrestir
önnum kafnir að tína strá
við skógræktarstöðina
kæra sig kollótta
þótt við göngum framhjá,

eitt sinn vorum við
önnum kafin að tína strá
og kærðum okkur kollótt
þótt tíminn gengi framhjá,

augu hennar glitrandi daggir
í morgunsólinni
hendurnar fléttaðar greinar
og orð mín flögrandi vængir
við sístækkandi skugga,

mér er ást okkar minnisstæð
þegar ég hlusta á skrjáfið
í fölnandi laufi.

Mig dreymdi þetta kvæði í nótt.

 

Kvöldið

Fór síðdegis í langan göngutúr, drungalegt en skaplegt veður. Enginn fáni á flaggstöng kínverska sendiráðsins, en rússneski fáninn í hálfa stöng við rússneska sendiráðið. Heimurinn hefur sem sagt breytzt; þrátt fyrir allt.
Þegar ég gekk norður Snorrabraut upplifði ég afstæðiskenninguna með nokkuð sérstökum hætti. Við Skátabúðina er veggur að gangstéttinni og skyggir á nafn búðarinnar. Þegar ég sá það fyrst hét hún Átabúðin, síðan Kátabúðin og loks Skátabúðin. Þá var réttnefnið komið. Hin nöfnin gátu vel verið rétt frá sínum sjónarhóli, en rétta nafnið kom ekki í ljós fyrr en á vissum stað á gangstéttinni.
Ágæt íhugun fyrir siðfræðinga og þá sem halda því fram að sannleikurinn sé aðeins einn. Og hann birtist einungis þegar rétt er að staðið.

11. apríl, laugardagur fyrir páska

Í sumar hef ég verið lengur ritstjóri Morgunblaðsins en nokkur annar, ef mér endist aldur til. Ég er ekki með hugann við slík tímamót. Í blaðamennsku yrkja menn í öskuna, rétt eins og í pólitík. Þó hef ég haft ánægju af að skrifa samtöl, greinar og ferðarispur, einkum ef ég hef talið það þess virði að það gæti átt heima í bók. Ég er með hugann við bækurnar mínar. Í blaðamennsku gleymist allt jafnóðum, en bækurnar eru einskonar áskorun á tímann; tortíminguna. Það gæti verið að þar leyndist eitthvað sem gæti lifað af þann óskapnað, gleymsku og ruslmennsku sem heitir tími og samtíð; örfá kvæði, grein eða saga. Um það veit enginn, tíminn er eins og gamall sorphaugur. Þar hverfur allt í urðun. En hann hefur stundum skilað því sem glitrar í sorpinu - og nú er hafin endurvinnsla svokölluð. Það er nauðsynlegt að skilja plastið frá lífrænni efnum.
Hef enn verið að vinna að Sögunni. Hún er skáldskapur sem er unninn úr lífi mínu og reynslu. Ég held að allt sem ég hef skrifað eigi einhverjar rætur í þessari reynslu. Ef bækurnar mínar væru teknar og þeim raðað upp á nýtt, yrði útkoman einskonar ævisaga í skáldlegum búningi. Þetta á að sjálfsögðu einnig við um mörg kvæðanna, kannski flest , veit það þó ekki.

Hef verið að hugsa um listina og þá einnig náttúruna og umhverfið á löngum gönguferðum. Listin er ekki einungis eftiröpun eða eftirlíking, þótt hún sé það oft og einatt. Hún getur líka verið framhald af umhverfinu; framhald af þeirri sköpun sem stundum birtist eins og hálfköruð í náttúrunni. Eins og í náttúrunni getur fegurðin birzt í ljótleikanum. Endalaust brunahraun, ógróið, er engin kraftbirting óendanlegrar fegurðar. Slíkt hraun getur miklu fremur birt óendanlegan ljótleika sem á eftir að gróa upp og breytast í óendanlega fegurð. Það er merkilegt hvernig fegurðin getur birzt í ljótleika í náttúrunni. Það getur hún einnig gert í listinni. Kannski nær listin hámarki sínu þegar fegurðin birtist í ljótleikanum. Þá er hann framhald af mikilvægri, jafnvel dýrlegri sköpun eins og í náttúrunni.
Það er margt merkilegt sem heimspekingar hafa sagt um listina; t.a.m. hélt Jean-Paul Sartre því fram að í listinni fái einstaklingurinn frelsi til að velja og verði að bera ábyrgð á valinu. Þetta er að sjálfsögðu einskonar kjarni existensíalismans,eða tilvistarstefnunnar.
Aristoteles talaði um eftirlíkingu í list og að hún væri að sumu leyti fullkomnun þess sem náttúrunni hefur ekki tekizt að fullgera. Hann taldi að hamingjan væri takmark lífsins og ekki sízt þess vegna trúði hann því að helzta hlutverk listar væri að fullnægja manninum að sínum hætti. Og í skáldskaparfræðum sínum er hann þeirrar skoðunar að harmleikir örvi gerðshræringar, bæði í tengslum við vorkunnsemi og ótta og það á svo magnaðan hátt að áhorfandinn hreinsast af þessari vorkunnsemi og þessum ótta í lokin. Andspænis neikvæðum áhrifum slíkrar geðshræringar hverfur áhorfandinn frá verkinu með meiri sálarstyrk en áður og getur þannig öðlazt meiri hamingju.
Mér er nær að halda að þessi afstaða Aristotelesar sé svipuð hugmyndum Borges sem sagði við mig að leiksýning væri jafn mikil reynsla og hver annarr atburður í lífinu, hún væri þannig ekki einungis tilbúningur - og sem slík reynsla gæti hún skipt máli. Mér skilst að Kant hafi verið þeirrar skoðunar að list geti veitt svipaða fullnægju og náttúrufegurð. En er þó ekki viss um að ég hafi skilið það rétt. En listin getur, gagnstætt náttúrunni, flutt okkur boðskap ljótleikans og fegurðarinnar í sama verki. Framúrskarandi teikning af ljótu andliti er fögur, hvað sem öðru líður. Hegel hélt því fram að list þroskaði manninn öðru fremur, ásamt trú og heimspeki. Fegurð náttúrunnar veiti mönnum mesta ánægu og hún auki mönnum andlegt frelsi. Sem ljóðskáld hef ég verið svipaðrar skoðunar. Náttúran er ómetanleg uppspretta og þá ekki sízt viðmiðun. Hún hreyfir við manni og auðveldar tjáningu með skírskotun og samsvörun. Það er ekkert undarlegt þótt við leiðum hugann að náttunni. Við erum einfaldlega hluti hennar og sem slík höfum við frá alda öðli reynt að skíra viðhorf okkar, tilfinningar, stöðu okkar og markmið með skírskotun í þennan hugarheim sem er veruleiki okkar og umhverfi. Og þar er ekkert dýrðlegra, ekkert eins nálægt guðlegri opinberun og blóm og fuglar; einkum spörfuglar. Vængirnir sem sigra himingeiminn og blómin sem bera jörðinni vitni, öðru fremur; viðkvæmni þeirra, sólarþrá, ilmur og litur. Það er engin tilviljun að ég hef andað að mér þessari dýrðlegu sköpun í þeim ljóðum sem ég hef verið að yrkja upp á síðkastið. Umhverfi blóma og fugla og útsýn til hafs og fjalla veitir mér gleði og uppörvun í þrotlausri, en oft ómeðvitaðri baráttu, eða ætti ég fremur að segja togstreitu við dauða og tortímingu. Listin getur breytt hryllingi í fegurð með þeim hætti að það er hægt að njóta þess sem er afskræmt og ljótt. En þessi fegurð getur birzt ómenguð í náttúrunni og því engin sérstök ástæða til að iðka ljótleikann og breyta honum í fegurð. Hún getur svo birzt í fögnuði og þessi fögnuður er alls staðar í kringum okkur.

Ódagsett

Svavar Gestsson er spurður í páskablaði Morgunblaðsins, hvað hann vilji segja um þau ummæli Davíðs Oddssonar að bera megi saman þá fjárhæð sem farið hefur í laxveiði þeirra Landsbankamanna og skuldir Alþýðubandalagsins við bankann vegna Þjóðviljans sáluga. Satt bezt að segja hélt ég í einfeldni minni að Svavar þyrði að taka af skarið og upplýsa málið í þeim dúr sem hann gerði í samtali okkar. En því var ekki að heilsa.
Hann sagði bara við Karl Blöndal blaðamann,
Snúðu þér til mannsins í Mexíkó, þ.e. Ólafs Ragnars Grímssonar forseta sem þar hefur verið í heimsókn - en það mátti ekki hafa eftir!!
Þarna var gott tilefni en Svavar notaði það ekki, kannski hræddur við að missa hausinn, því hann veit eins og aðrir að forsetinn er friðhelgur - og nánast heilagur!!
Og svo gagnrýndi hann blöðin í samtali okkar fyrir að segja ekkert um þetta pólitiska sukk ! Misnotar sjálfur tækifærið og segir að Davíð hafi orðið að athlægi “eins og gárungarnir segja” - og lætur þar við sitja.

Nei, pólitík kallar ekki það bezta fram í mönnum, allra sízt þessum pólitísku anímals sem gera út á hana. Það eru vonbrigði, en maður á aldrei að vera hissa á neinu eins og Árni Óla sagði þegar hann vaknaði í kartöflubingnum í Zimsens-verzlun á sínum tíma. Og hristi af sér timburmennina. En þessir pólitíkusar verða víst aldrei timbraðir, því miður. Ef svo væri mætti ætla að stjórnmál kæmust á hærra plan en raun ber vitni.

14. apríl, þriðjudagur

Hef þurft að huga að afsögn bankastjóra Landsbankans vegna laxveiðimálsins, hef m.a. skrifað leiðara um það; erfitt og vandasamt, ekki sízt vegna þess að einn bezti vinur minn, Sverrir Hermannsson, á í hlut. Nú hefur hann sagt af sér ásamt hinum bankastjórunum tveimur, Björgvin Vilmundarsyni og Halldóri Guðbjartssyni. Það hefur valdið mér sársauka að hafa ekki getað rétt hjálparhönd í þessari erfiðu stöðu. Ég þarf að hugsa um orðstír Morgunblaðsins og þá fyrst og síðast um það sem er siðlegt og rétt. En til stendur að Agnes Bragadóttir eigi samtal við Sverri sem birtist í Morgunblaðinu á morgun og vænti ég þess að það verði einhvers konar málsvörn fyrir hann. En ég geri ráð fyrir að það muni litlu breyta; því miður.

En hvað sem því líður hef ég tekið allt þetta mál nærri mér, svo góðir vinir sem við Sverrir höfum verið frá háskólaárum. En það ræður enginn við þá skriðu sem hann hefur nú orðið undir. Bergmál á Alþingi kom henni af stað. Þetta er engu líkara en snjóflóð fyrir vestan. Sverrir hefur margt vel gert, en þessir síðustu atburðir munu því miður loða lengst við hann. Í pólitík reynir hver að bjarga sínu skinni. Það hefur ekki farið framhjá neinum. Ég hefði kosið að sinna öðrum störfum undanfarna daga.

Hvað eru örlög?
Hver ræður því sem bíður okkar?
Eigum við það skilið?
Allt hvarflar þetta að manni þegar litazt er um á þessum pólitíska vettvangi sem við blasir. Og ég hugsa um pólitísk örlög Jóhannesar afa míns. Hann vann sitt starf sem bæjarfógeti og sýslumaður eins og allir höfðu gert og hefð var fyrir. En pólitíkin kallaði á fórnardýr; ekki endilega almenningsálitið eins og nú, heldur pólitískir andstæðingar.
Bæjarfógetaembætti hans var skipt upp og honum var fórnað í gjörningahríð pólitískrar sturlungaaldar. Þá urðu til að ég held borgarfógetaembættið og lögreglustjóraembættið í Reykjavík.
Jónas á Hriflu stjórnaði atlögunni að honum,hann þurfti að útbía leiðtoga Íhaldsflokksins , Jóhannes og Magnús Guðmundsson ráðherra urðu fyrir valinu.
Jóhannes afi mátti ekki vamm sitt vita. Jóhannes sýslumaður,faðir hans, hafði orðið úti í hríðarbyl við Hjarðarholt í Þverárhlíð. Þá var hann tveggja ára. Þá stóð móðir hans uppi ein með mörg ung börn. Hún fór þá á æskuslóðir sínar að Enni á Höfðaströnd eins og ég hef drepið á í smásögunni Maren, en það var nafn hennar.
Það var annar bylur sem beið Jóhannesar löngu síðar.
Og nú sér Sverrir vinur minn Hermannsson ekki út úr auga.

16. apríl, fimmtudagur

Hef haft mikið að gera vegna Landsbankamálsins. Sverrir Hermannsson berst fyrir lífi sínu og ég hef haft áhyggjur af því. En hann ber sig karlmannlega. Hann er reiður Sigurði Þórðarssyni ríkisendurskoðanda og telur hann hafa svikið sig. Segir að hann hafi ekki tekið tillit til skýringa sinna á risnu. Hann hafi verið einskonar veizlustjóri Landsbankans og skrifað upp á mikið af risnureikningum sem koma honum ekki við persónulega, en það hafi reynzt erfitt að fá það tekið til greina, sumt alls ekki.
Kjartan Gunnarsson, formaður bankaráðs Landbankans, talaði við mig í dag. Hann hringdi til mín að fyrra bragði en það hefur hann ekki oft gert.
Davíð Oddsson vinur hans hefur reynt að verja hann og gjörðir bankaráðsins í líf og blóð, en mér er nær að halda að hann hafi ekki haft sama áhuga á örlögum Sverris sem einnig hefur verið góður vinur hans. Hann hefur kannski talið að það væri með öllu vonlaust að bjarga honum úr súpunni, ég veit það ekki.
Kjartan velti því fyrir sér hvort hann ætti að skrifa grein í Morgunblaðið og svara ýmsu því sem Sverrir hefur haldið fram; sem sagt að verja formennsku sína í bankaráðinu og gerðir þess. Ég bauð honum samtal ef hann vildi heldur. Hann sagðist mundu íhuga málið. Hann bað mig einnig íhuga hvort hann ætti að taka til máls eða ekki. Ég kvaðst mundu gera það. Hann sagði að Sverrir væri versti óvinur sjálfs sín. Því meir sem hann talaði því erfiðari yrði staða hans.
Orð vex af orði, sagði Kjartan.
Hann var sammála mér um að enginn gæti lengur haft hemil á atburðarrásinni. Hann taldi rétt að Sverrir fengi að vita að það væri honum sjálfum fyrir beztu að draga úr stóryrðum. Ég spurði hvort ég mætti koma því til skila og sagði hann að svo væri. Held hann hafi m.a. hringt til mín í því skyni að koma slíkum skilaboðum til Sverris. Við áttum gott samtal. Held það hafi tekið 20-30 mínútur. Það var vinsamlegur tónn í öllu því sem við sögðum hvor við annan. Við skildum í bróðerni, að venju.

17. apríl, föstudagur

Talaði við Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðing í morgun. Hann er að athuga Landsbankamálið og hvernig hægt er að komast að skaplegri niðurstöðu í því. Hann sagði að Sverrir ætti að fara varlega. Ég sagði að Sverrir væri reiður og teldi að Kjartan hefði yfirgefið sig. Hann væri einkum reiður yfir því að málinu hafi verið skotið til lögmanns í því skyni að úrskurða, hvort ástæða væri til lögsóknar gegn bankastjórunum þremur. Jón Steinar sagði að það væri víðs fjarri og ég fann á honum að hann hafði mestan áhuga á því að skapleg niðurstaða fengizt, án málssóknar eða ákæru. Hann kvaðst ekki mundu geta talað við Sverri því að hann yrði að vera óhlutdrægur í könnun sinni. Jón Steinar er góður fagmaður og gerir það eitt sem hann telur rétt. Ég treysti honum alfarið.
Sverrir Hermannsson kom til mín seinnipartinn með athugsemd við ummæli Sigurðar Þórðarsonar og Árna Tómassonar, endurskoðanda Landsbankans. Honum er að sjálfsögðu mikið niður fyrir. Hann hefur í ýmis horn að líta. Gréta kona hans var skorin upp í morgun vegna mjaðmarmeinsemdar. Það gekk vel. Það léttir honum róðurinn.

Ég þurfti að skreppa niður á ritstjórnarhæðina og þegar ég kom upp aftur lá bréf á skrifborðinu mínu. Það var frá Hallgrími B. Geirssyni, framkvæmdastjóra Morgunblaðsins. Það fjallar um breytingar á stjórn Árvakurs því að Bergur G. Gíslason er að hætta eftir langt starf. Hann vill ekki láta skýra frá því. Hann er óánægður með eftirmann sinn og segist ekki mega til þess hugsa að hann sé fulltrúi Garðars Gíslasonar,stórkaupmanns, föður síns, í stjórn Árvakurs. Frændi Bergs sem hefur sótt það svo fast að komast í Árvakurs-stjórnina er flugstjóri, að ég held.Hann er systursonur Bergs.
Ég þekki hann ekki. Hann er einn af sonum Halldórs heitins Jónssonar og systur Bergs. Hann heitir Halldór Halldórsson. Ég hef áður heyrt á hann minnzt  Það  er ekki hægt að treysta á hann,sagði Bergur vonsvikinn og sár. Ég hafði gert samning við frændfólk mitt,,en það hefur nú komið aftan að mér.

Við Bergur höfum átt langt og gott samstarf,en þeir Valtýr Stefánsson
áttu ekki skap saman.En Bergur er orðinn gamall.Og kominn á aldur.Samt með hestaheilsu og vel ern.
Hann er á tíðræðisaldri og þolir ekki slíka raun.
En honum finnst það illur forboði að frændi hans er nú á þotuhraða inn í stjórn Árvakurs. Hann ætti með réttu lagi að vera í varastjórn. En þess er krafizt að hann komi í aðalstjórnina og setjist í sæti Bergs, sem hefði átt að vera skipað fulltrúa frá H. Ben. & Co.
En Hallgrímur B. Geirsson og frændfólk hans hefur sætzt á að hann taki sæti Bergs næsta kjörtímabil. En þó með fyrirvara;að það verði enginn ágreiningur.Þá verður hann settur í varamannssæti!
Mér lízt ekki á blikuna! En hvað um það.

Hallgrímur B. Geirsson kom inn í skrifstofuna mína þar sem Sverrir var fyrir. Hann gekk til Sverris, heilsaði honum og sagði,
Þú stendur í ströngu.
Sverrir misheyrði og sagði,
Þakka þér fyrir!
Sverrir hringdi til mín í kvöld. Honum var mikið niðri fyrir.
Hann sagði:
Ég er í GSM-símanum, því ég þori ekki að nota minn heimasíma. Ég er hræddur um að hann sé hleraður.
Nú hvers vegna? sagði ég.
Til mín var hringt rétt í þessu, sagði Sverrir. Það var karlmannsrödd í símanum og maðurinn sagði,
Ég ætla ekki að kynna mig og þú ræður hverju þú trúir, en hann Sigurður Þórðarson er í erindum Davíðs Oddssonar að fella þig.
Skellti síðan á.
Sverrir sagði að þetta væri geðveiki næst.
Ég skráði þessi orð þegar að samtali loknu, sagði hann.
Við vitum báðir að það er margt geðbilað fólk allt í kringum okkur, sagði ég.
Sverrir  endurtók,Þetta er geðveiki!
Bætti síðan við, En það getur ekki verið að Sigurður ríkisendurskoðandi hafi bara verið í erindum Finns Ingólfssonar að eltast við mig. En eitt er víst, hann er handbendi, um það er ekki að ræða, sagði Sverrir. Þess vegna hrökk ég við.
Þetta símtal er auðvitað af illum hug; rógur. Ég er ekki viss um að Davíð sé yfir sig hrifinn af Ríkisendurskoðun.
En hvað veit ég?
Ég hafði áður sagt Sverri frá samtali okkars Kjartans Gunnarssonar.

Hann hlustaði á það, án mótmæla. En um kvöldið sagðist hann telja að að samtal Kjartans við mig væri til þess fallið að koma í veg fyrir að hann skýrði nánar frá innviðum Landsbankans.
Ég minnti hann á þau orð Kjartans að hann hefði engan farangur að burðast með, eins og hann komst að orði. Hann hefði ekkert gert af sér í bankaráðinu. Sverrir gæti skaðað sjálfan sig stórlega með gífuryrðum og yfirlýsingum, orð vex af orði.

Kjartan var í raun undrandi á viðbrögðum Sverris. Hann sagðist hafa þekkt Björgvin Vilmundarson frá því hann var 10 ára. Þeir hefðu verið miklir mátar. Það hefðu verið þung spor þegar hann fór upp á spítala til Björgvins svo hann gæti skrifað undir yfirlýsingu um afsögn sína.
Og Kjartan bætti við,
Björgvin sagði ekkert annað en þessi orð,
Ég hef brugðizt þér, fóstri(!)
Sverrir sagði,
Kjartan hafði aldrei samband við mig, ef hann átti einhver erindi við bankastjórnina. Hann talaði ævinlega við Björgvin.

En hvað um stjórnmálamennina? Ég veit það ekki.
Hitt veit ég að Pílatus var dæmigerður stjórnmálamaður og munurinn á vinsældum Krists á Pálmasunnudag og föstudaginn langa er dæmigerður fyrir það sem kallað er almenningsálit. Slíkt álit er til í öllum löndum. Stór hluti þjóðanna lætur einungis mata sig, hugsar aldrei ærlega hugsun, jórtrar einungis eins og beljur.
Aðrir eru hugsandi fólk sem lætur ekki mata sig og ruglar ekki saman blekkingum og veruleika. Sú þjóð er miklu fámennari og hún talar miklu sjaldnar í fjölmiðlum, en vitleysingarnir. Þeir eiga þjóðarsálina og þeir hafa miklu meiri áhrif en vera ætti. Eða halda menn að það hafi verið prófessorarnir við Harvard sem fundu upp  orðið motherfucker? Nei, það kom áreiðanlega úr ræsinu.
Sverrir er kjöftóttur , en skemmtilegur með köflum. Hann fer ekki alltaf varlega með orð og Kjartan Gunnarsson er undrandi á því hvað hann hefur verið iðinn við að afla sér óvina.
Hann stendur nú eins og maður sem horfir yfir Mývatn og gáir ekki að sér. Hann kastar og kastar, hugsunarlaust. Og það er silungur á í hverju kasti. Það er góður gári á vatninu og hagstæður vindur. En svo allt í einu þolir hann ekki við fyrir mývargi. Og hann verður að hætta veiðum því hann er netlaus og andlitið berskjaldað fyrir varginum. Hann veit ekkert hvaðan vargurinn kemur og hefur ekkert verið að hugsa um að hann gæti kviknað þarna við vatnið eins og hendi væri veifað. En honum er sá kostur nauðugur að taka saman og hætta veiðum. Og losna þannig við varginn.

Það hefur verið mikið að gera undanfarið. Styrmir hefur verið í fríi og mál þetta hefur alfarið lent á mér. Það hefur ekki verið auðvelt, en ég finn að ég hef mikinn styrk og mikið þrek. Ég get unnið eins og húðaklár.Ég hef fylgzt með öllu, lesið skýrslu ríkisendurskoðanda, fylgzt með umræðum á Alþingi - ekki látið nokkurt smáatriði fram hjá mér fara.
Morgunblaðið hefur ekki lent í neinum hremmingum vegna þessa máls. Við höfum haldið sjó. Ég er þakklátur fyrir það. Styrmir er í Florida og ég hef lofað honum að vera í friði svo hann geti notið frísins. Leiðarinn um Landsbankamálið var nokkuð erfiður en mér skilst  fólk sé þeirrar skoðunar að hann hafi sett málið í gott samhengi við þjóðfélagsástandið og skerpt skilning á pólitískri ábyrgð. Flokkarnir hafa misnotað aðstöðu sína. Þeir hafa ráðið bankaráðum með atkvæðagreiðslum á Alþingi og stjórnað því, hverjir hafa setið í bankastjóraembættum. Við höfum bent á þessa nástöðu. Það geri ég einnig í Reykjavíkurbréfinu sem kemur í Morgunblaðinu á sunnudag. Það verður fróðlegt að sjá viðbrögðin við þeim orðum sem þar eru látin falla. Þar er hnykkt á þessari nástöðu. Þar verður einnig fjallað um pólitískt veðurfar um þessar mundir.

19. apríl, sunnudagur

Talaði við tvo góða vini mína í vikunni, Júrí Restitov sendiherra Rússlands á Íslandi, og Bent A. Koch, fyrrum ritstjóra og eilífðarvin Íslands. Hann var á leið til Bandaríkjanna, ásamt fjórðu konu sinni. Við rifjuðum margt upp frá gamalli tíð. Kynni okkar hófust með þeim hætti að hann var yngsti chefredektør á Norðurlöndum þegar ég tók við ritstjórn Morgunblaðsins 1959. Þá varð ég yngsti aðalritstjóri á Norðurlöndum. Það líkaði Koch Bent misjafnlega, en hafði samband við mig. Þau tengsl hafa ekki rofnað. Hann er sérfræðingur í að þefa upp almannaróm á Íslandi og á svo marga vini hér á landi að það tekur hann ekki nema nokkra klukkutíma að vita allt það sem slúðrað er. Hann sagði að ýmsir væru þeirrar skoðunar að við Styrmir hefðum verið aðalstuðningsmenn Ólafs Ragnars Grímssonar - og sá stuðningur héldi áfram! Það er margt skrýtið í kýrhausnum - og almenningsálit og kjaftasögur eiga oftast upptök sín í kýrhausum! Þegar við gengum út úr Morgunblaðshúsinu saman greip Bent í handlegginn á mér og sagði,
Það er skrýtin tilfinning að hætta. Ég gekk út úr húsakynnum Fyns Stifts-tidende með það sem ég átti, leit til baka og horfði á blaðhúsið sem ég skildi eftir og allir áttu - nema ég! Það eiga allir lífsstarf okkar, Matthías minn, nema við! Þú átt eftir að upplifa þetta einnig.
Ég sagði að mig langaði ekki til að eiga neitt, það mættu allir eiga allt sem þeir vildu fyrir mér.
Já, sagði hann og brosti, en það breytist þegar þú gengur út úr þessu húsi í síðasta sinn.
Við sjáum til.
Júrí Resetov er á förum aftur heim til Rússlands. Hann veit ekki hvað þá tekur við.
En ég tek ekki við hvaða starfi sem er, sagði hann í samtali okkar. Ef ég fæ starf í utanríkisráðuneytinu eða að mannréttindamálum, þá tek ég því. Ég hefði áhuga á að vinna í tengslum við Primakov, utanríkisráðherra. Við töluðum um rússneska pólitík.
Hann sagði að Javlensky, forystusauður frjálshyggjumanna utan stjórnarinnar og einn helzti gagnrýnandi Jeltsíns, hefði hvað hreinastan skjöld allra rússneskra stjórnmálamanna. Hann væri sannur lýðræðissinni. En hann mundi að öllum líkindum ekki komast að. Jeltsín mundi sjá um það, skildist mér. Hann lýsti fyrir mér ástandinu í Rússlandi; gífurlegri fátækt almennings sem hefði allt niður í fimm dala kaup á mánuði og miklum auðæfum þeirra sem hefðu kunnað að sjá sér farboða. Hann sagði mér hvernig ríkasti maður Rússlands hefði lagt grundvöllinn að ríkidæmi sínu. Hann hefði keypt mörg þúsund Lödur og hagnazt á sölu þeirra þegar verðbreytingar urðu. Hann segir að fátæktin í Rússlandi sé með svipuðum hætti og í Úkanríu, en ástandið sé betra í Hvíta-Rússlandi. Mér skilst þó að ástandið sé einna verst í Armeníu sem nú er orðin sjálfstætt ríki.
Við Júrí elduðum saman grátt silfur á sínum tíma. Síðar kynntumst við vel og urðum miklir mátar. Að þessu öllu er ýjað nafnlaust í skáldsögulegri ævisögu Resitovs eftir Eyvind Erlendsson. Það er skáldlegt andrúm í bókinni og að mínu viti réttur tónn.
Gylfi Þ. Gíslason hefur verið góður vinur Sverris Hermannssonar. Það vekur athygli okkar að hann hefur ekkert samband haft við Sverri eftir að hneykslismálið kom upp í Landsbankanum. Það hefur Davíð Oddsson ekki heldur gert, en hann á að sjálfsögðu erfiðara um vik. Jóhannes Nordal og Indriði G. Þorsteinsson hafa báðir átt góð samtöl við Sverri, en hann metur nú mikils hvert hlýlegt orð sem að honum er vikið. Það mætti Gylfi vita, en hann hefur notið gistivináttu Sverris eins og margir aðrir. Móðir mín sagði að vinirnir hefðu hætt að koma þegar Jóhannes afi minn lenti í útistöðum við Hriflu-Jónas sem þá var valdamikill dómsmálaráðherra. Hann gat ekki hreinsað sig nema með hæstaréttardómi, en það leið langur tími frá því ofsóknir Jónasar hófust og þar til sá dómur lá fyrir. Á þeim tíma hurfu vinirnir eins og mýið við samnefnt vatn.
Bæði Magnús og Jóhannes voru sýknaðir af helztu ákæruatriðum,en rógur er eins og skítur í túni;hann lyktar við snertingu.

20. apríl, mánudagur

Styrmir er kominn heim frá Ameríku. Setti hann inn í öll mál í morgun. Sverrir Hermannsson kom rétt fyrir hádegi og sagði að hann væri með skjöl úr Landsbankanum sem ákveðnir menn vildu ná af honum upp á líf og dauða.
Við hlustuðum.
Hann tók upp skjöl úr pússi sínu, yfirlit um fyrirgreiðslu bankans við pólitíkusa og skuldir stjórnmálaflokka við bankann.
Þetta er allt með ólíkindum.
Ég hefði ekki getað skrifað Reykjavíkurbréfið með kröfu um afnám bankaleyndar á skuldir stjórnmálaflokka, ef ég hefði verið búinn að sjá þessi plögg.
Þá hefði ég brotið trúnað.
En ég braut engan trúnað.
Samt er dæmið sem ég tek um skuldir Alþýðubandalagsins og Þjóðviljans við bankann nærri lagi.
Við það bætast persónulegar skuldir Ólafs Ragnars Grímssonar vegna kosningabaráttu hans. Ég held hann yrði í erfiðum málum, ef það væri allt gert heyrinkunnugt. En það munum við ekki gera. Við hljótum að virða trúnað og þá einnig þessa bankaleynd þó að það sé út í hött eins og komið er. Þarna eiga ýmsir fleiri hlut að máli án þess ég tíundi það hér.
En sem betur fer gæti ég staðið frammi fyrir dómstóli og svarið þess dýran eið að ég hafi ekki séð neitt plagg um skuldir stjórnmálaflokka við Landsbankann, áður en Reykjavíkurbréfið var skrifað.
Og svo ekki meira um það.
Allt  er þetta til í plöggum bankans og verður sjálfsagt rifjað upp einn góðan veðurdag, ég veit ekki hvenær; kannski þann dag þegar Ólafur Ragnar Grímsson verður kanóníseraður! Hann var í opinberri heimsókn á Seltjarnarnesi fyrir helgina.
Sverrir sagði brosandi,
Við hefðum átt að halda uppboð á húsinu hans á Nesinu í tilefni dagsins. Það hefði kórónað þessa opinberu heimsókn!!

Sverrir sagði okkur í morgun að Jóhannes Nordal hefði sagt sér að Gylfi Þ. Gíslason hefði reynt að ná í hann, en ekki tekizt. Mér þótti vænt um það. Ég hef einnig reynt að ná í Sverri yfir helgina, en hann hefur ekki svarað símanum. Ég held hann taki heyrnartækið úr eyranu og heyri ekki í símanum þegar hann hringir. Svo hefur hann sjálfsagt einnig verið með hugann uppi á spítala þar sem Gréta kona hans liggur eftir uppskurð.
Sverrir er dálítið æstur um þessar mundir. Hann grípur frammí og talar eins og tröllkarl. Ég setti ofaní við hann þess vegna. Hann tók því vel. Ég sagði honum að hann ætti að afla sér vina, en ekki óvina.
En hann sagði annað sem ég varð þrumu lostinn yfir. Hann sagði að við hefðum á sínum tíma verið að veiða á Landsbankatíma þegar við vorum í Hrútu. Ég hef aldrei heyrt þetta fyrr, hélt satt að segja að ég væri að kaupa veiðileyfin af Sverri sjálfum.
Já, það er líka rétt sagði hann. Þú gerðir það, þú greiddir þín veiðileyfi, 20 þúsund krónur á þína stöng, og varst ekki í nokkurs manns boði. En það voru aðrir…
Hvað segirðu, sagði ég. Ég efast um að þeir hafi vitað það.
Þá brosti Sverrir og sagði, Ooo...
Ég þakka guði fyrir að ég skyldi hafa greitt veiðileyfin mín , kost og húsnæði í Staðarskála;. enda sagði Sverrir,
Þú þarft engar áhyggur að hafa, nafn þitt kemur hvergi fram.
Það er gott, sagði ég.

21. apríl, þriðjudagur

Sverrir afslappaður í dag. Gylfi Þ. Gíslason hringdi í hann og þeir áttu mjög gott samtal.
Nú er að sjá hverju fram vindur. Sverrir ætlar að rétta hlut sinn, en mun gera það gífuryrðalaust!

27. apríl, mánudagur

Skuldir Alþýðubandalagsins við Landsbankann hafa verið til umræðu í tengslum við mál Sverris Hermannssonar. En um það vill helzt enginn tala. Þetta er tabú! Við lifum í einskonar rúmenskum umbúðum frá stalínstímanum og nauðsynlegt að koma sér upp einhvers konar strútsfjöðrum til að komast af!
Eða gjalda lausung við lygi eins og Bjarni Benediktsson sagði.
En sem sagt, við lifum nú í landi strútsins!

Í ríki strútsins

Drottinn allsherjar var harla ánægður með sköpunarverk sitt og fór stundum í heilsubótargöngur um aldingarðinn. En þegar kom að þeim þætti sköpunarinnar sem snerti manninn olli það honum síauknum áhyggjum og að lokum sá hann sér ekki annað fært en reka hann út úr aldingarðinum. Það gerði hann að vísu með hálfum huga því að mistökin með manninn særðu metnað hans. Og hann óttaðist að kóróna sköpunarverksins kæmi að lokum óorði á verk hans. Samt beið hann þolinmóður og reyndi að hafa leiðandi áhrif til góðs á mannskepnuna. En þá gerði hún sér lítið fyrir og lét þess getið í því broti af ævisögu Drottins sem við þekkjum og enn er mikið lesin, að höfundur tilverunnar hafi skapað manninn í sinni mynd.
Þá loks gekk alveg fram af skaparanum og hann féll í geðdeyfð sem hann hefur ekki náð sér upp úr.
Hann hætti öllum heilsubótargöngum og að því kom undir lok ævisögunnar að hann dró sig algjörlega í hlé og hefur ekki sézt síðan. Það er einungis einstaka sérvitringar  sem segjast hafa heyrt til hans, en það er með öllu ósannað.
Maðurinn hefur lagt undir sig aldingarðinn og ræður þar ríkjum, einn og óstuddur, og hefur nú breytt honum í dýragarð þar sem hann hefur misst tök á óbeizlaðri grimmd sinni, meðan fölnandi laufið fellur að haustkaldri jörð og garðurinn hverfur hægt og bítandi inní svarta og súrt regn.
En það er af Djöflinum að segja að hann miklast dag hvern af því hvað hann er orðinn manninum líkur eins og Milton lýsir raunar í Paradísarmissi.
Og nú bíður sá gamli átekta.

Ódagsett

Þessi frásögn er kannski gott framhald af greininni um Hafstein miðil:

Himinninn er stjörnubjartur. Það er ládauður sjór. Myrkrið dettur á án þess þeir taki eftir því. Því er svartara við hafflötinn en venja er. Það er eins og ljós þessara milljón sólna á himninum deyi inn í salta vatnsgufuna, sem þrengir sér inn í merg og bein. Samt léttir þeim, þegar þeir líta út úr stjórnpallinum. Niðandi myrkrið dansar allt í kringum þá. Hentugt og nokkuð öruggt fylgsni, finnst þeim. Mundu þeir ekki vera óhultir fyrir gráum bryndrekum undirdjúpanna, sem bíða í launsátri og hafa lagt að velli marga bráðina á þessum sömu slóðum? Og ekki mundu þeir þetta kvöld þurfa að óttast víggráa eldfugla himinsins - eða hvað?
Hann lítur upp. Stjörnurnar tindra, hvítar freknur á andliti ókunnugs risa. Um það hugsar hann.
Að vísu hefur þeim varla dottið í hug í alvöru, að einhverjum þætti slægur í jafn fyrirferðarlítilli fleytu og þeirri, sem nú er eina skjól þeirra og athvarf. Raunar heimur út af fyrir sig.
Þeir eru ekki búnir undir nein átök. Hafa aðeins tvær eða þrjár vélbyssur og nokkrar reykbombur - nei, þá mundi þetta svala hafmyrkur duga þeim betur. Og svo stórir nýmálaðir fánarnir á skipshliðunum, svo að ekki sé minnzt á hvítt áberandi nafnið, sem fáir þekkja og enn færri gruna um græsku: ÍSLAND stendur þar stórum allt að því stoltum stöfum.
Kvöldið er undarlega hljótt. Skipið haggst ekki á sjónum. Þeir finna hvernig kjölur þess ristir hann eins og plógur. Varla arða neins staðar.
Veðurguðirnir hafa nú einhvern tíma sýnt betur framan í sig. Nú bæra þeir ekki á sér. Skyldu þessir íslenzku sjómenn ekki hafa séð særokið hvítna í föll á þessum slóðum - eða þá hafrótið á miðunum heima þegar öll grunn eru uppi og veður stælir vilja þeira, eins og járn sé hert í eldi.
Hann stendur við stýrið, skimar út. Stýrimaðurinn hefur skroppið sem snöggvast úr efri brúnni, en einn kyndaranna, félagi hans, er að rétta úr sér og fá sér frískt loft, eins og hann segir. Svo ætlar hann aftur niður.
Þeir tala fátt. Hlusta á kyrrðina, hlusta á þögn hafsins. Og svo eru þeir allt í einu og eins og ósjálfrátt byrjaðir að tala við sína eigin rödd í brjóstinu. Tala við sjálfa sig.
Hann rýnir út í kolsvart myrkrið. Ekkert nema haf og skip. Allt rennur saman - er þessi ósýnilega veröld kannski draumur? Hann spyr sjálfan sig. Tekur svo þéttingsfast um stýrishjólið til að fullvissa sig um, að veruleikinn er enn áþreifanleg staðreynd.
Svo kinkar hann kolli.
Þeir rýna gegnum brúargluggana út í myrkrið. Reyna að festa augu á einhverju raunverulegra en flöktandi ímyndun.
Annað gerist ekki.
Ósjálfrátt hugsar hann heim. Til konunnar. Hann sér hana í huga sér, og börnin þrjú. Hlýr straumur fer eins og skjálfti um hann allan. Fjórða barnið á leiðinni. Hann veit að það verður dengur, Æ, hvers vegna þurfti hann annars endilega að fara þennan túr? Því tók hann sér ekki frí? Var heima. Hverjum dytti svo sem í hug að hann gæti orðið til nokkurs gagns. Hann hafði ekki ætlað að fara, en það vantaði mann. Og skipstjórinn hafði beðið hann að hlaupa í skarðið. Hann hafði svo sem farið nógu marga túra... en hvað átti hann að gera... Hann brosir með sjálfum sér og hrindir frá sér þessum barnaskap. Kannski kæmi hann heim áður en barnið fæddist - hver gæti svo sem vitað það með vissu? Hann skyldi komast heim, hvað sem tautaði og raulaði.
Honum er litið á kyndarann, Sigurður heitir hann. Skyldi hann gæla við svipaðar hugsanir? Kyndarinn stendur með hendur í vösum. Hann skimar þögull út. Í svip hans er ró og festa. Það hefur góð áhrif á hann að sjá rólyndi félaga síns.
Auðvitað færi hann heim. Hann ætlaði að lifa af þetta djöfuls stríð.  Einhvern tíma tæki það enda. Kyndarinn kveikir sér í sígarettu. Það er eins og fyrirboði, fyrsti blossinn. Hann lítur á hann. Honum líkar ekki að sjá sígarettuglóðina. En hvað kemur honum það við? Hann skyggnist út. Enn er þögn á milli þeirra.
En hvað er þetta? Hvaða ljósrákir skera myrkrið. Það er eins og blár logsuðulogi hvítni í járninu og deyi í allar áttir. Eldtunga þvert yfir skipið og munar litlu að hún sleiki brúna að framan. Svo hverfur hún inn í myrkrið bakborðsmegin.
Kyndarinn drepur í sígarettunni. Hann rýnir út, sér ekkert. Undarlegt að þeir skuli ekki heyra neitt hljóð. “Hvað heldurðu að þetta sé?” er hann búinn að spyrja kyndarann áður en hann veit af. Flugvél, nei. Óþægilegur grunur læðist að honum.
Ný eldgusa. Hún þýtur einnig fram hjá brúnni. Hver djöfullinn er á seyði? Í sama bili kemur stýrimaðurinn upp í brúna. Hann hafði þurft að skreppa frá. “Hvað er um að vera?” Hann horfir á þá til skiptist, lítur svo út. “Einhverjar ljósrákir,” segir kyndarinn. “Ljós á stjór,” segir hann og heldur enn fastar um stjórnvölinn.
Stýrimaðurinn gáir enn út. Hann sér ekkert. Það er eins og tíminn standi kyrr. Hvítkornótt myrkrið sáldrast inn í augu hans. Það streymir eins og fljót um hugann, ber með sér hljóðan veruleik ósýnilegrar veraldar.
Hásetinn við stýrið, Eyjólfur Jónsson, 43 ára, hafði varla komizt í kast við stríðið - og þó. Hann hafði haft af því nasasjón í næsta túr á undan. Þá voru þeir einnig á leið til Fleetwood með fullfermi af fiski. Þeir voru á svipuðum slóðum, en þó ekki komnir eins langt. Hann hafði einnig staðið við stjórnvölinn, einkennileg tilviljun. Það var myrkur eins og nú. Hann hafði einmitt verið að drepa huganum á dreif og hugsaði um, að svartnættið væri öruggasta skjólið - en þá allt í einu voru þeir lýstir upp. Það var eins og sól risi... nýr dagur við hafsbrún... Svo sterkur var ljóskastarinn. Hann fékk glýju í augun.
Síðar kom í ljós að þarna var vopnaður togari, enskur, í eftirlitsferð. Ekki hafði hvarflað að honum, að þeir væru í hættu. Hann fann aldrei til kvíða eða hræðslu.
Og nú stendur hann í efri brúnni á Reykjaborginni, þessu stærsta fiskiskipi íslenzka flotans, og finnur ekki heldur til hræðslu, ekki einu sinni, þegar þriðja eldgusan slær fölum glampa á andlit stýrimannsins og flöktir þar eins og óveðursblika á himni. Kyndarinn hugsar sér til hreyfings. “Bezt að fara niður,” segir hann. Þeir svara ekki. Hann lítur á klukkuna. Hana vantar fimm mínútur í hálftíu. Og það er 10. marz, mánudagskvöld. Einhvern veginn leggst það ekki vel í hann.
Sigurður kyndari haskar sér. Stýrimaðurinn tvístígur. “Ég skrepp niður og segi skipstjóranum frá þessu.”
Skipstjórinn hefur káetu í neðri brúnni. Þangað fer stýrmaðurinn. En um leið og hann er kominn niður, hefst áköf skothríð á skipið ofanþilja. Kúlur og sprengibrot fljúga gegnum brúna. Eyjólfur beygir sig, hniprar sig saman.
Nóttin stendur í björtu báli.
Fyrstu kúlurnar hitta loftskeytaklefann. Þaðan er ekki hljóðs að vænta. Hafið og kúlan geyma þá bezt.
Og þögnin.
Undarlegt annars að hann skyldi ekki verða hræddur.
Nú heyrir hann að skipstjórinn kallar upp: “Komdu niður, Eyjólfur, reyndu að komast niður úr brúnni.” Kúlnahríðin er orðin svo mögnuð að hann hugsar ekki um annað en hnipra sig saman í skjóli. Bíða. Sæta svo færis. Nú veit hann, hvað eldgusurnar boðuðu. Vélbyssur kafbátanna “eru þannig útbúnar, að þær marka braut sína um loftið með eldrák að nóttu, en með reyk að degi til”, segir í rannsóknarskýslu um árásina á Fróða með morgunsárinu daginn eftir.
Stýrimaðurinn segist nú ekki geta komizt upp aftur fyrir kúlnahríð. Eyjólfur verður því að reyna að demba sér niður, hvað sem það kostar. Hann svarar einhverju, en þekkir ekki sína eigin rödd.
Skipið hægir ferðina. Hann veit, að þeir niðri hafa fengið skipun um að stöðva vélarnar. Áður voru þær hið eina sem til heyrðist. Taktfastur hjartsláttur skipsins. Nú er hjarta þess hætt að slá.
Þegar hlé verður á kúlnaregninu, bíður hann ekki boðanna. Hann kastar sér niður í neðri brúna, kemst þangað klakklaust og ósærður. Hann staulast á fætur, grípur um stýrishjólið sem þar er. En þá gengur kúla gegnum stýrisvélina, svo að hún mölbrotnar. Í þessari atlögu fær hann kúlu í handlegginn, aðra gegnum síðuna og herðablaðið, og sprengjubrot annars staðar í skrokkinn. Hann mæðir blóðrás en lætur ekki hugfallast.
Yfirmennirnir í neðri brúnni eru enn ósærðir. Þeir hafa í mörgu að snúast.
Eyjólfur segir skipstjóranum að hann hafi særzt, spyr hvort hann megi ekki fara úr brúnni, “ég hef hvort eða er ekkert hér að gera lengur.” Skipstjórinn kinkar kolli: “Segðu þeim að missa ekki móðinn. Gerið þið allt sem hægt er til að bjarga mönnunum.” Það eru síðustu orð sem hann heyrir yfirmann sinn segja.
Hann yfirgefur brúna og veit þá ekki, að neinn sé fallinn eða særður, nema hann sjálfur.
Herbergi hans og annars stýrimanns er gamall loftskeytaklefi aftan við reykháfinn, þangað ætlar hann. Á leiðinni sér hann eina farþegann fallinn á milli reykháfs og brúar. Honum bregður ekki einu sinni, en heldur áfram inn í herbergið.
Á leiðinni þangað sér hann einnig menn standa  við björgunarbátinn á bátadekkinu, dökka skugga, og eru að reyna að losa bátinn úr davíðunum. Að skammri stund liðinni liggja þeir allir dánir í blóði sínu. Í herberginu er annar stýrimaður, ósærður. En skotgöt á klefanum og sundurtætt björgunarbelti Eyjólfs uppi á veggnum bera því vitni að hér hafa  ragnarök þessa kvölds einnig skilið eftir sig nokkur spor.
Hann beygir sig niður eftir stígvélunum sem hann á undir kojunni. Hann ætlar að búa sig betur. Í sömu andrá skellur kúlnahríð á klefanum og herbergisfélagi hans, annar stýrimaður, sem stendur uppréttur rétt fyrir innan dyrnar og er að klæða sig, fellur örendur í fangið á honum. Hann hefur fengið kúlu gegnum brjóstið. “Það var undarleg, allt að því óraunveruleg, tilfinning, að grípa félaga sinn með skotgat á brjóstinu, en ég var hvorki hræddur né kvíðinn. Ég lagði hann á gólfið. Svo leit ég upp og sá að rétt fyrir ofan höfuðið á mér var stórt skotgat í þilinu. Kúlan hafði hitt félaga minn, en það bjargaði lífi mínu, að ég var að bogra undir rúminu.”
Stígvélin voru lífgjafi hans í þetta skipti.
Engin ástæða er til að stumra yfir dauðum manni, allra sízt þegar eins er ástatt og nú. Hann hraðar sér út. Hann er ákveðinn í að bjarga sér. Hann ætlar heim - og hann veit með sjálfum sér, að það verður.
Og enn magnast skothríðin.
Eldur er nú kominn upp í skipinu. Efri brúin stendur í ljósum loga. Hann skimar um, sér fallna félaga sína og rekur loks augu í mann, sem liggur undir björgunarbátnum, stjórnborðsmegin. Hann skríður til hans. “Það er Óskar Vigfússon kyndari. Hann er lifandi, en illa særður. Ég segi við hann: “Við skulum reyna að fara upp í bátinn og fíra honum jafnt niður.” Ég fer upp í bátinn að framan. En hann treystir sér ekki og skríður upp á bátadekkið.”
En í sama bili kemur kúlnaregnið eins og þykkur veggur og kubbar sundur  kaðalinn, sem heldur bátnum í afturdavíðunni, svo að skuturinn fellur í sjóinn, en báturinn hangir á stefnisfalnum í framdavíðunni. Eyjólfur kastast út úr bátnum og í sjóinn. Það er logn, en svalt í sjónum. Hann er þar ekki lengur en þarf og vegur sig aftur upp í bátinn.
Hann hikar á dekkinu. Hugsar sig um. Allt veltur á að halda höfðinu og gera enga vitleysu. Hann reynir að grilla í kafbátinn og fylgjast með ferðum hans. Veit að á því muni velta líf eða dauði. Hann ætlar að taka ákvörðun - fara gegnum bræðsluhúsið og yfir á bakborða, en þá dynur yfir nýtt kúlnaregn, svo þétt - “að ógjörningur var að komast í gegn, enda sé ég þá kafbátinn, og var hann svo nálægt, að hann hvarf bókstaflega undir hekkið. Ég fylgdist nú með honum nokkra stund. Hann sakkaði kringum skipið og beindi byssunum einungis þangað sem menn voru.”
Þegar kafbáturinn er kominn í hvarf og hann telur sig nokkurn veginn öruggan, sezt hann á dekkið, fer úr stígvélunum, vindur sokkana sína, ætlar svo upp á bátadekk aftur, en þá sjá kafbátsmenn til ferða hans. “Ég kastaði mér niður á bátadekkið, þegar þeir hófu skothríðina á mig og reyndu að plumma mig niður, og þar lá ég meðan hún gekk yfir stjórnborðsmegin, svo hélt ég áfram, þegar ég sá, að kafbáturinn var kominn á bakborða. Þá sýndist mér hann svo nálægt að ég gæti stokkið yfir í hann. En aldrei sé ég neinn mann um borð.”
Ekkert kvikt. Aðeins skotglampar. Og þessi þúst, svört eins og nóttin.
Eyjólfur telur sér nú nokkurn veginn öruggt að staulast á fætur og reyna að komast yfir að björgunarflekanum aftur á. En þá heyrir hann brak og bresti, skipið tekur kipp. Það hristist og skelfur. Hann er þess fullviss að nú séu þeir að skjóta Reykjaborgina niður. Í sömu andrá er kallað til hans: “Eyjólfur, Eyjólfur.”
Hann lítur upp. Sigurður kyndari liggur á flekanum og bendir honum að koma. Nú er tæpur klukkutími liðinn síðan þeir stóðu saman í brúnni. Klukkutími mikilla og óvæginna örlaga.
Skipið sígur að aftan. Hann tekur undir sig stökk, hleypur í átt til flekans, en sér ullarteppi og ábreiðu á dekkinu, beygir sig niður og þrífur það með. “Ég vissi að við gætum notað það í flekanum, að það mundi skýla okkur. Svo stökk ég upp í flekann og náði þangað, áður en hún seig undan okkur að aftan. Við losnuðum við hana og komumst út úr mesta soginu. Það hefur bjargað okkur, að líklega hefur hún verið nokkuð heil að framan.”
Og þarna liggja þeir í flekanum og horfa á skipið sitt rísa upp að framan, stefnið fingur sem bendir til himins, þangað sem stjörnurnar lýsa. Svo sekkur hún í hafmyrkrið. “Sogið var þó það mikið, þar sem við vorum, að björgunarflekinn fór á bólakaf.”
Særðir og sjóblautir rýna þeir í myrkrið. Skammt frá þeim lúskrast kafbáturinn og hverfur einnig í hafið, en þó stendur turninn lengi eins og grár hákarlsuggi upp úr sjónum.
Og aftur verður allt hljótt. Tíminn hættir að standa kyrr. Nú fer hann aftur að þokast áfram. En hægt. Myrkrið er svartara en nokkru sinni, en svartast í brjósti þeirra og vitund. Það heyrist ekkert nema gjálfur dynjandi hringiðunnar við sundurtættan björgunarbátinn. Þeir fara að svipast þar um, finna Óskar kyndara og drusla honum yfir á flekann til sín.
Svo líður nóttin á sundurskotnum flekanum úti á reginhafi. Ekkert matarkyns. Vatnið hefur runnið til spillis út um skotgötin á brúsunum. Vosbúð og deyjandi félagi. Þetta er nú orðið hlutskipti þessara marghrjáðu manna. En þeir missa ekki kjarkinn. Eru ekki einu sinni hræddir.
“Við Sigurður töluðum saman eins og við gátum til að hafa ofan af fyrir okkur. Við höfðum trú á, að okkur yrði bjargað, þó flekinn væri að mestu í kafi - níu af tíu tunnum með skotgötum. Veðrið var gott tvo fyrstu sólarhringana. En auðvitað kalt. Rólyndi bjargaði lífi olkkar. Og ullarteppið góða og ábreiðan.
Ég hugsaði heim. Bað guð að blessa félaga mína sem dóu. Ég var með hugann við veruleika, sem nú var ekki annað en minning.”

Þegar hann kom heim, tók við nýr og heillandi veruleiki. Hann hafði eignazt dreng. Hann fæddist 20. apríl. Þá var hann í sjúkrahúsi í Skotlandi. Á fjórða sólarhring var þeim bjargað um borð í brezkan tundurspilli.
Og Eyjólfur Jónsson, fyrrum háseti, nú vörubílstjóri í Reykjavík, horfir á mig votum augum.
Nær hálfsjötugur segir hann við mig, þar sem við sitjum og rifjum upp dómsdaginn, aðfaranótt 11. marz 1941: “Ég hef þá trú,” segir hann og horfir í gaupnir sér, “að enginn grandi þeim, sem ætlað er lengra líf.”
Mundi ekki þessi maður hafa reynslu til að láta svo einfalda skoðun í ljós?
Og enn kveður við sprenging, dauf og drungaleg eins og úr fjarska. Eða kannski hún sé frá öðrum heimi.
Þeir standa í brúnni og horfa spyrjandi hver á annan. Hvað er á seyði? Þeir grilla út í myrkrið.
Klukkan er tæplega fimm að morgni.
Nú eru þeir félagarnir tveir af Reykjaborginni að tala saman í hálfum hljóðum, rennblautir og kaldir af vosbúðinni, þeim hefur ekki komið dúr á auga alla nóttina. Þeir eru ekki lengur eins dofnir og áður, og sársaukinn farinn að gera vart við sig. Atburðir næturinnar leita á þá í sífellu, hver myndin af annarri kviknar og deyr í huga þeirra.
Það er 11. marz.
Hvað er þetta? Skipstjórinn spyr fyrsta vélstjóra, hvort verið geti að “dynkurinn” stafi af sprengingu við kolamoksturinn niðri. Vélstjórinn segist ekki vera viss.
Þeir stara út í myrkrið, sjá ekkert. Augu þeirra fyllast söltu húminu. Dauðinn slær trumbu sína inni í ósýnilegum frumskógi úthafsins.
Þeir bíða átekta. Hvernig eiga þeir að vita að þófamjúk rándýr læðist að þeim úr launsátri, og býr sig undir að hremma bráðina?
Mínúturnar líða, tíu mínútur... tuttugu... Augu rándýrsins skjóta gneistum í myrkrinu. Skothríðin er hafin.
Kúlurnar þjóta fram hjá og ofan við stýrishús Fróða. Blossarnir slá fölum glampa á annars drungalegan himinin. En þeir hitta ekki, eru þeir taugaóstyrkir þarna í myrkrinu... hvers vegna...? Þeir sem eru að vinna “Orustuna um Atlantshafið”. Þeir hverjir. ... ósýnilegar vofur með reidda stríðshnefa... brynjað hjarta. Og á næstu andrá er engu líkara en þessi 123ja tonna íslenzki fiskibátur ráði úrslitum í hamslausum hildarleik styrjaldarinnar.
Og blossarnir halda áfram að deyja inn í myrkrið.
Þeir hika. Svo gefur skipstjórinn skipun um að kveikja á siglingaljósunum. “Stöðvið vélina,” segir hann og horfir á stýrimanninn, Sigurð V. Jörundsson, sem nú var einnig kominn upp í brú. Enn rýna þeir allir í skímulaust marzmyrkrið. Nú kemur eldregnið í tveimur gusum báðum megin við stjórnpall og hverfur út í nóttina eins og sindur.
Aftur verður örstutt hlé á glóandi eldspýjunni. Fiskibáturinn liggur kyrr með öllum siglingaljósum, en þá kemur “sprengikúla á stjórnpallinn framanverðan, stjórnborðsmegin og sprengdi af honum stór stykki”, eins og Morgunblaðið kemst að orði. “Þessi sprengikúla drap þrjá menn af þeim fimm, sem voru í brúnni. Skipstjórinn og Guðmundur E. Guðmundsson komusst lífs af úr skothríðinni.”
Ef skoðað er í saumana á þessum atburði, kemur í ljós, að hann hefur gerzt mörgum árum áður. Einkennilegt að forlögin skuli hafa þurft að endurtaka hann:
Við erum stödd í Reykjavík veturinn 1936, skömmu eftir áramót. Guðmundur Jörundsson stundar nám í Stýrikmannaskólanum. Hann heyrir getið um vestur-íslenzka konu, Leu Jósepsson að nafni, sem auðvitað er uppnefnd hér á landi og kölluð spákona. Honum leikur forvitni á að hitta þessa konu að máli, því að hún hefur dregið að sér athygli fyrir spádóma og skyggni, auk þess sem hún hefur dulheyrn, að sögn.
“Mér var kunnugt um að hún var að fara héðan af landi brott til Ameríku, þar sem hún bjó. Ég kom því þannig fyrir að ég lenti í kvöldkaffi með henni heima hjá kunningja mínum og hugsaði með mér, að gaman gæti verið að kynnast þessum hæfileika hennar. “Mundirðu ekki vilja spá fyrir mér, Lea,” sagði ég. Hún tók því fálega í fyrstu, kvaðst að mestu vera hætt slíku, en að þrábeiðni minni lét hún þó tilleiðast og gekk með mér inn í aðra stofu. Þar ætlaði hún að taka fram spil til að nota við spádóminn, en ég bað hana að sleppa þeim. Hún kvaðst þá þurfa að halda í höndina á mér, meðan hún skyggndist inn í fortíðina.
Svo byrjaði hún að lýsa því sem bar fyrir innri sjónir hennar. Í miðri frásögninni tekur hún að lýsa mynd, sem hún sér, og er líkast því sem hún birtist á veggnum gegnt okkur.
Hún sér grátt fiskiskip, og bróðir minn - offiseri eins og hún kemst að orði - er staddur á stjórnpalli ásamt fleiri mönnum. Hún sér nafnið Ísland skrifað stórum stöfum á skipshliðina. Síðan segir hún: “Nú kemur einhver grá þúst upp úr sjónum, og nú sé ég skotið frá þessari þúst á stýrishúsið á fiskiskipinu, og ég sé, að bróðir þinn dettur niður og af honum annar handleggurinn, en sprengjukúlubrot er í brjóstinu.”
Þá hættir hún í miðri lýsingunni, leggur hönd fyrir augu sér og segir: “Ég get ekki meira, ég þoli þetta ekki.”
Ég bið hana að bíða og vera rólega og reyna að jafna sig, því að nú er ég orðinn meira en lítið forvitinn. Ég legg fast að henni að halda áfram, svo að hún byrjar frásögnina aftur og segir: “Nú er þústin komin að skipshliðinni, nú skjóta þeir af vélabyssum á mennina, sem eru að reyna að koma út björgunarbátum sínum. Og sumir eru að deyja. Nú eru þeir að reyna að draga suma mennina niður, líklega niður í káetuna. Nú sé ég að þústin er að síga niður. Fiskiskipið liggur alveg kyrrt. Ég held, að það ætli ekki að sökkva. Nei, nú fer það af stað. Ég held að kapteinninn deyi líka. En sumir bjargast.”
Svo hikar hún og segir: “Nú ætla ég ekki að spá meira fyrir þig.”
Mér var auðvitað efst í huga, að eitthvað væri bogið við þennan spádóm. Ég átti engan bróður, sem var offiseri, svo að notað sé hennar tungutak. Sigurður, bróðir minn, var aðeins 18 ára gamall, þegar þetta var, og ekki orðinn neinn yfirmaður á skipi.
Ég skrifaði hjá mér aðalatriði frásagnar hennar og man hana nokkurn veginn orðrétt, svo að hún á ekki að fara milli mála,” segir Guðmundur Jörundsson að lokum.
Sigurður, bróðir Guðmundar, varð síðar stýrimaður á Fróða og féll í árásinni á hann, þar sem hann stóð í brúnni ásamt félögum sínum.
Þegar skipið kom til hafnar, fór fram líkskoðun á þeim sem höfðu fallið, og þegar Guðmundur heyrði lýsinguna á líki bróður síns, “var eins og ég hlustaði á rödd Leu spákonu, þegar hún lýsti fyrir mér árásinni í Reykjavík, fimm árum áður:
Mér var skýrt frá því, að sprengjubrot hefði fundizt í brjóstkassa hans og annar handleggur hefði farið af.”
Þegar Sigurður féll, var hann 22ja ára gamall offiseri á Fróða, eins og Lea hafði sagt.
Í fréttum frá þesum örlagatímum er sagt frá því, að háseti, Guðmundur Einar Guðmundsson að nafni, hefði tekið við stjórn Fróða fyrst eftir árásina, og siglt skipinu áleiðis til lands. Kompásinn hafði oltið um þegar kúlan sprakk í brúnni og skekktist.  Það vissi Guðmundur og hagaði siglingunni samkvæmt því. En áður en þeir lögðu af stað til lands, þurftu þeir að huga að ýmsu, bera helsærða bræður niður í káetu, þar sem annar þeirra deyr skömmu síðar, en hinn - skipstjórinn - þegar skammt er eftir til lands. Einnig þurfti að dytta að ýmsu, setja nýja logglínu og troða í kúlnagöt á dekkinu. En erfiðasta raunin að taka lík hinna látnu og búa um þau undir segldúk aftur á bátapalli.
Svo er haldið til lands.
Guðmundur háseti var 35 ára, þegar hann lenti í þessari eftirminnilegu árás. Nú er hann 61 árs að aldri, kvæntur maður, faðir tveggja drengja og bryti á Lagarfossi. Þegar við hittumst, starði ég undrandi á hann. Leiðir fólks liggja saman með ýmsum hætti. Ég þekkti hann strax, þó að ég hefði hvorki heyrt hann né séð frá því ég var messagutti á Brúarfossi 1946. Þá var hann annar kokkur á skipinu, og við deildum káetu saman nokkra mánuði. Klukkan þrjú um nætur skiptumst við á að fara upp, hita kaffi eða te  og færa körlunum í brúnni eða vélarrúminu.
Aldrei hafði Guðmundur minnzt á þær raunir, sem hann hafði ratað í. Svo hógvær er hann og hæglátur, en jafnframt hjálparhella ungum dreng úr Vesturbænum, sem fer til sjós að herða ómótaða sál í söltum veðrum og volksömum ævintýrum.
Guðmundur Einar var á Fróða frá 1932. Og nú eru þeir á leið til Fleetwood með fullfermi af fiski og eru staddir 192 sjómílur SSA af Vestmanneyjum. Þeir eru á öðrum sólarhring, og ekkert ber til tíðinda. Það er blíðuveður, ofurlítil hreyfing að vísu. Sjór vætlar upp á dekk, þegar skipið liggur þvert fyrir kulinu “og þeir á kafbátnum gera sér ekki grein fyrir því, hve lágt skipið er á sjónum.”
Fróði er eins hlaðinn og hugsazt getur og í hreyfingunni veltir hann sjónum upp á dekk. Fyrstu kúlnagusurnar þjóta yfir skipið, bæði að framan og aftan, og þeir eiga fullt í fangi með að sökkva þessum litla dalli þarna í næturhúminu. Það eru aðeins 30 sentimetrar frá sjó upp á skammdekk, og frá sjó upp á lunningu, þar sem hún er lægst, er aðeins tæpur metri.
Guðmundur situr andspænis mér og rifjar upp nokkur atriði í atburðarás morgunsins 11. marz og leggur niðurstöður sínar skýrt og skorinort á borðið. Ástæður þess, að kafbátsmenn yfirgefa Fróða og sigla út í hafsauga, eru -
hvað hann er drekkhlaðinn og lágt í sjó,
hvað mikill gufumökkur streymir úr leiðslu sem liggur frá katlinum upp í miðstöðvarofnana í brúnni,
og loks telur hann þá ástæðu að kviknað var í tróði og smárusli í brúnni og lagði af því mikinn reyk.
“Þessi atriði hafa bjargað okkur, sem komumst til lands. Kafbátsmennirnir hafa verið þess fullvissir, að skipið sykki á hverri stundu, þó að þeir sæju mannrolu væflast á dekkinu, þegar ég staulaðist þar fram og aftur undir lok árásarinnar, hefur þeim ekki dottið annað í hug en allir aðrir væru dauðir og sá sem stílaði þarna eftir dekkinu mundi senn hverfa í hafdjúpið með skipinu.”
Þegar árásin hefst, veit Guðmundur, að hann muni komast af. Það hjálpar honum. Kannski bjargaði það lífi hans, hver veit um það?
“Þegar ég heyrði fyrsta skotið, var ég ekki alveg viss um, hvað var að gerast. En svo þegar ég heyrði það næsta, sem var sýnu nær, gerði ég mér grein fyrir því. Og ég tautaði við sjálfan mig, þar sem ég stóð við stýrisvölinn í brúnni: “Nú-já, það er þá komið að því.” Ég sagði víst svo margt þarna í brúnni.
Þegar þriðja kúlan splundraði brúnni og drap þrjá félaga mína, eða alla þá sem stóðu mér til hægri handar, hneig ég niður, fékk kompásinn í höfuðið og skaddaðist á hnakkanum, um leið og ég missti meðvitund tautaði ég: “Nú-já, það er þá svona að deyja”.
En samt vissi ég með sjálfum mér að minn tími væri ekki kominn, það þóttist ég vita vegna draumsins. Hann hjálpaði mér. Kannski bjargaði hann lífi mínu.”
Árásin kom Guðmundi ekki á óvart. Hann hafði lengi átt von á henni. Hann hafði raunar oftsinnis um veturinn haft í hyggju að fara af Fróða, en ekki orðið af því. Ástæðan var sú, að honum þótti skammarlegt að fara af skipinu, þó hann hefði erfiða drauma. Um veturinn hafði hann oft haft þungar draumfarir, og hann vissi “að eitthvað mundi koma fyrir Fróða”. Á síðustu kojuvaktinni fyrir árásina, þ.e. aðfaranótt 11. marz, dreymir hann draum sem rætist með óhugnanlegum hætti skömmu síðar. “Mig dreymdi,” segir hann, “að ég er kominn í land þar sem ég kannast ekkert við mig og með mér eru nokkrir af áhöfn Fróða. Ég sé í draumnum að ég á að vera forsvarsmaður þessara manna, því að ég geng á undan þeim og þeir koma á eftir mér í halarófu. En nokkra vantar í þennan hóp - það voru allir þeir sem dóu í árásinni.”
Klukkan er fjögur um nóttina. Guðmundur er vakinn. Hann skreiðist fram úr rúminu, klæðir sig. Gengur síðan upp í brú. Ekki er laust við, að hrollur sé í honum vegna draumsins. Einhvern veginn býst hann við hinu versta. Þegar hann kemur upp í brú, stendur skipstjórinn þar ásamt öðrum háseta. Þeir heilsast. Guðmundur á fyrsta stýri.  Það ber ekkert til tíðinda. Myrkrið umlykur þá. Og það er þögn. En hann getur ekki losnað við drauminn úr huga sínum.
Klukkan nálgast fimm. Hvernig eiga þeir að vita, að þeim er veitt eftirför? Gráum turni hefur skotið upp úr hafinu, fórnardýrið valið.
Þegar Fróði kemur til Vestmannaeyja eftir árásina, stígur Guðmundur fyrsta skipti fæti sínum þar á land, og hafði þá haft forystu um að sigla skipinu til hafnar. Hann hefur aldrei fyrr komið í land í Vestmannaeyjum. Þeir höfðu lagt af stað frá Reykjavík, en komið aðeins við á ytri höfninni í Vestmannaeyjum til að fá hleðsluvottorð, því að ekki var leyfilegt að sigla til Bretlands án slíkra vottorða.
En draumurinn... aðvörunin sem hann fékk á kojuvaktinni grófst í undirvitund hans og lá ekki á glámbekk.
Eða upplifun Leu spákonu... hver vissi um hana. Það er ekki verið að eyða bleki í svoleiðis píring fyrir sjódómi.
Og enn sjáum við djöfullegt glampaæði þessa morguns með kvikum og margreyndum augum hásetans, Guðmundar Einars.
Það er ekki fyrr en þeir stöðva Fróða og kveikja öll siglingarljós og íslenzki fáninn flennir sig yfir skipshliðina, sem kúla kafbátsmanna hittir: fjórar og hálf tomma í þvermál, að sögn brezks hermanns, sem síðar athugaði sprengjubrotin. Hávaðinn er svo ægilegur að hljóðhimnurnar springa af þrýstingi í báðum hlustum Guðmundar og hefur hann aldrei náð fullri heyrn síðan. Um um það hugsar hann ekki á þessari stund.
Þegar hann raknar úr rotinu eftir sprenginguna, fer hann að hugsa um að bjarga sjálfum sér, skrönglast út á dekk og ætlar að finna sér skjól. Honum kemur fyrst í hug að fela sig bak við keisinn, en þá heyrir hann kallað að fíra bátnum: “Ég fór yfir á bakborðssíðuna, því á sjónum er venja að hlýða yfirborðurum sínum umyrðalaust. Skipstjórinn stendur aftan við björgunarbátinn, en bróðir hans, einn af hásetunum, ætlar að losa bátinn að framan. Rétt áður en ég kem að bátnum, dynur kúlnahríðin á skipstjóranum, og hann hnígur niður. Og vélbyssuhríðin sagar bátinn í sundur að aftan. Það er engu líkara en kúlurnar leiti mennina uppi.”
Sama aðferðin viðhöfð og þegar ráðizt var á Reykjaborgina - nema hvað kafbáturinn fer ekki í kringum Fróða, heldur liggur hann alltaf á sama stað - “við sáum hann ekki í myrkrinu nema þegar kúlurnar komu eins og belti af ljósum, þá glytti í hann.”
Guðmundur fer að björgunarbátnum að framan, þar sem bróðir skipstjórans stendur, en þá - hann kastar sér endilöngum á dekkið og kúlnahríðin lendir í félaga hans, sem hnígur niður á þilfarið. Guðmundur liggur á dekkinu nokkra stund. Hann hugsar um það sem er að gerast. Auðvitað átti hann ekki að geta séð kúlurnar þjóta að sér með leifturhraða - samt sá hann þær koma - og í tæka tíð, svo hann gat fleygt sér niður á dekkið. Það var engu líkara en hulinn verndarkraftur myndaði skjaldborg umhverfis hann - og gæfi honum sjötta skilningarvitið: gæfi honum eina vopnið, sem dugði í þessum ójafna leik. Ekki verður ófeigum í hel komið, höfðu karlar og kerlingar sagt vestur í Dýrafirði, þar sem hann ólst upp við sjó og seltu.
Og enn liggur hann á þilfarinu. Hreyfir sig ekki. Hann er í þykkri prjónapeysu. Þegar hann fer úr henni seinna um morguninn, sér hann tvö skotgöt. Kúla hefur þotið rétt fyrir ofan hann, þar sem hann lá á þilfarinu, og farið í gegnum fellingu eða felju á peysunni, svo að þar mátti sjá þessi göt þegar sléttað var úr henni. “Áreiðanlega má þakka það hreyfingu á skipinu, að ég skyldi ekki fá þessa kúlu í bakið.”
Strax og kúlnahríðinni linnir, skreiðist hann niður á ketiltoppinn. Þar hafði hann járn sér til hlífðar. Þar liggur hann góða stund, eða þangað til þeir eru að mestu hættir að skjóta. Þá kemst hann niður í ganginn á stjórnborða og er þar í skjóli við keisinn. “Eftir að ég fór af ketiltoppnum hafa þeir skotið dampleiðsluna í sundur, því að ég hefði ekki getað verið þar í gufustróknum.”
Og nú er farið að elda af degi. Hann hniprar sig saman í skjóli við keisinn. Hann sér kafbátinn sniglast við skipshliðina og horfir svo á eftir honum. Hann siglir á fullri ferð burt. Það er gustur á honum. Og hann klýfur hvítar freiðandi öldurnar eins og hann sé búinn að vinna “Orustuna um Atlantshafið”.
En Fróði sekkur ekki.
Það verður honum til bjargar, hvað hann er lítill - og hlaðinn. Þeir áttu erfitt með að skjóta gegnum skipsskrokkinn vegna þess hve hann var lágt í sjónum. Þó fóru kúlurnar gegnum dekkið niður í káetu. Þegar fyrsti vélstjóri rétti út handlegginn að kojunni sinni til að ná í öryggispokann, lentu tvö kúlnabrot í handleggnum á honum. Og svo lágt höfðu þeir skotið að kúla fór gegnum lunninguna bakborðsmegin niður í rennustein stjórnborðsmegin og skóflaði þar upp steypunni.
En allt kom fyrir ekki. Draumurinn hafði sagt hingað og ekki lengra. Og þegar þeir voru þrír fallnir í brúnni og skipstjórinn og bróðir hans helsærðir á bátadekkinu, “vissi ég, að lengra yrði ekki haldið. Þá voru þeir úr leik, sem vantaði í drauminn.”
Hann hafði sjaldan reykt. En á leiðinni til lands keðjureykti hann. “Ég lét hvíla mig við stýrið og fór oft niður að líta á sjúklingana.” - Ferðin gekk vel þrátt fyrir kompásskekkjuna.
Þegar þeir komu til hafnar, leituðu Bretar að hverju einasta sprengjubroti og sögðu skipverjum, að þeir mættu ekki eiga nokkurt kúlnabrot, hvað þá meir - ekki einu sinni til minja.
Þeir leituðu hátt og lágt í skipinu og fóru loks í sjúkrahúsið, þar sem fyrsti meistari lá og grerir sára sinna, og sóttu þangað þessi tvö kúlnabrot sem lentu í handleggnum á honum.
Og svo vel fylgdust þeir með því, sem fram fór við yfirheyrslur, að þeir höfðu viðstaddan brezkan mann, sem skildi íslenzku, svo að þeir misstu ekki af einu einasta orði, sem sagt var. Og óneitanlega veldur það grun á Íslandi, þegar sprengubrot eru send í rannsókn til Bretlands, en aldrei fást nein svör við því, hvaðan kúlurnar eru ættaðar. Það er því ekki að undra, þó sá kvittur gjósi upp að þeir séu brezkar að upruna.
En hvað sem því líður á Guðmundur Einar enn sína drauma “ef mér liggur á”. Og ekki er laust við, að hann hafi á langri sjómannsævi hneigzt til forlagatrúar - “ég mundi til dæmis ekki fara út í bát, sem væri snúið rangæslis frá landi.”
Mundi hann ekki geta trútt um talað.
Þegar Guðmundur Einar, háseti á Fróða, er kallaður fyrir brezkan sjórétt í Reykjavík, merkir liðsforinginn sem tekur af honum skýrsluna, niður á stórt sjókort á veggnum, hvar Reykjaborgin varð fyrir árás, síðan hvar ráðizt var á Fróða og segir, að ekkert sé því til fyrirstöðu, að sami kafbáturinn hafi verið þarna að verki. Síðan snýr hann sér að þessum hrausta, íslenzka háseta og bætir því við, að Pétursey, sem þá var saknað, hafi verið á þessari sömu siglingaleið, því geti vel verið, að hún hafi einnig orðið fórnardýr sama kafbátsins.
En það er af Pétursey að segja, að hún fórst með allri áhöfn á leið til Englands og má ætla, að nú hafi kafbátsmönnum loks orðið að ósk sinni: að koma íslenzku skipi fyrir kattarnef án þess nokkur yrði til frásagnar.
En dauðir hlutir segja oft mikla sögu. Þriðja september þetta sama haust finnur mótorbáturinn Svanur flak um 18 sjómílur frá Garðskaga og flytur það til Reykjavíkur tveimur dögum síðar.
Það er kannske mælskasta vitnið, sem enn hefur talað:
Vélstjórarnir á Pétursey, Jón M. Magnússon og Guðmundur Jóhannsson, sem  hvorugur var með skipinu þessa síðustu örlagaferð, “fullyrða báðir, að flak þetta sé hluti af þaki af yfirbyggingu “Péturseyjar, “ segir í skýrslu rannsóknarnefndar.
Pétursey fór með fiskfarm frá Vestmannaeyjum mánudaginn 10. marz eða sama dag og Reykjaborgin var skotin niður. Hún sást síðast miðvikudaginn 12. sama mánaðar, “en þá mætti v.b. Dóra frá Hafnarfirði Pétursey um 300 sjómílur suður af Vestmannaeyjum. Síðan hefir ekkert til skipsins spurzt.
Þakið er 3ja metra langt og um 18sm breitt og hefir það ekið yfir miðhluta stýrishússins og skipstjóraherbergið, sem var áfast við stýrishúsið fyrir aftan það, með skilrúmi á milli. Var þessi hluti stýrishússins um 1 metri á lengd, en skipstjóraherbegið 2 metrar. Ofan á þakið er íslenzka flagið málað, en að neðanverðu er það hvítmálað. Til beggja hliða hafði verið gerð viðbót við stýrishúsið, með því að byggja yfir brúarvængina báðum megin. Járnteinn sem haldið hafði þaki viðbyggingarinnar bakborðsmegin við upphaflega þakið er fastur  við það, en þakhlutarnir báðir horfnir að öðru leyti.
Svo lítur út sem frekar lítil, u.þ.b. 60 mm fallbyssukúla, hafi hitt ofarlega í bakborðshorn viðbyggingarinnar og sprungið þar, en brotin tvístrazt um alla yfirbygginguna. Fannst allmikið af sprengjubrotum í þakinu neðanverðu (lofti yfirbyggingarinnar), og er eitt þeirra - sneiðmyndað stykki úr hvítamálmi - merkt með tölunni 28. Fyrir aftan töluna eru tveir sporbaugar sem grípa lítið eitt hvor inn í annan og ferhyrningur innan í öðrum þeirra. Fyrir framan töluna er skástrik en aftari leggurinn af stafnum “V”. Auk þess er á brotinu eitthvert krot, sem ekki verður séð hvað á að merkja (2800). Ekki er útilokað, að sprengjubrotin séu úr fleiri sprengjum en einni...”
Þannig talar þögult vitni um afdrif skips, sem nóttin gleypir.
Og nú víkur sögunnik til enn eins íslenzks fiskiskips, togarans Geirs, sem er á heimleið eftir söluferð til Englands.
Hann er 209 brúttótonn, skipstjóri Elías Jónsson, ungur maður og ugglaus og mikill fullhugi. Nú kominn á sjötugsaldur og er stýrimaður á Herjólfi. Hann sigldi allt stríðið og fór fjölmargar ferðir til Bretlands.
Þeir eru komnir af veiðum. Geir liggur í höfn í Reykjavík. Þorgeir Pálsson, framkvæmdastjóri, segir Elíasi skipsstjóra, að það verði farþegi með, Runólfur Sigurðsson. “Hann kemur um borð eftir hádegi.”
Elíasi þykja þetta góðar fréttir. Hann verður þá ekki einn á leiðinni, því að hann er ákveðinn í að láta farþegann vera hjá sér í káetunni.
Það er ekki verið að staldra lengi við í höfn, aðeins tekin kol og veiðarfæri sett í land. Síðan er siglingaleyfið sótt til Bretanna.
Þegar Elías kemur niður í skipið sitt eftir hádegi þennan dag, er allt sjóklárt. Þar er fyrir Þorgeir framkvæmdastjóri og segir honum nú “að Runólfur hefur séð sig um hönd og ætlar að fara með Reykjaborginni, vegna þess að hún er stærra skip. Honum finnst, að þar muni fara betur um sig.”
Elías klórar sér í höfðinu. Honum þykir að vísu miður að missa farþegann. En hann um það. Svo horfir hann út í þokuna.
Hún er svo dimm, að það sér varla handa skil. Frá því þeir sleppa hafnarmúlanum í Reykjavík, hafa þeir enga landsýn. Hann byrjar ekki að birta upp fyrr en þeir eru komnir 70 mílur suður af Reykjanesi. Eftir það er albjart.
Reykjaborgin liggur í höfninni, þegar Geir siglir inn í þokuna. Hún á að fara litlu síðar. En Geirs-menn verða hennar aldrei varir. Þegar Elías skipstjóri fréttir síðar, hvar og hvenær árásin var gerð á hana, kemur í ljós, að þá var Geir staddur 60-70 mílum vestar. Þar er einnig alstirndur himinn og ládauður sjór. “En við sáum enga blossa og urðum einskis varir alla leiðina út.” Hernámsliðið í Reykjavík ákveður siglingaleiðina og Reykjaborg þræðir hana. Elías fer aftur á móti dálítið vestar, “ég tók strax stefnuna á Barrahead. Ég hafði alltaf illan bifur á þessari eystri leið, sem svo var kölluð, bæði vegna þess, að ég var á ganglitlu skipi, og einnig af því, að mér fannst þægilegt fyrir kafbáta að leynast á leiðinni sem Bretar gáfu upp. Þar er mikið misdýpi. Og mörg fylgsni.
Elías veit, þegar hann leggur af stað frá Fleetwood, að Reykjaborgin hefur orðið fyrir einhverjum töfum. Hún er ókomin. En þeir vita ekki, hvað hefur komið fyrir hana - og fínviðri alla leiðina út. Grunurinn læðist að þeim.
Þegar Geir er svo kominn 50 sjómílur norður fyrir Barrahead, er þar hægviðri, en mistur í lofti og því meir sem nær dregur sjónum, því að nær albjart er í háloftið. Þá sjá þeir allt í einu hver kafbátur kemur á móti þeim og hefur brezkan fána við hún.
Elías hefur látið setja upp dagfánann, sem átti að sigla með þennan dag samkvæmt fyrirskipun Bretanna. Það ætti því ekkert að vera að óttast.
“Við fengum þess dagfána innsiglaða, þegar við fórum af stað, og mátti ekki brjóta innsiglið fyrr en við vorum komnir á haf út. Bretar ákváðu hvaða fána skyldi nota hvern dag. Og ef við hittum brezk herskip gátu þau þegar í stað séð á fánanum,. að þar færi ekki óvinaskip.”
Þegar kafbáturinn er kominn framhjá Geir, snýr hann við  og þeir setja menn við fallbyssuna, koma svo upp að síðunni á togaranum og miða á það byssunum. Kafbátsmenn kalla yfir til þeirra og skipa þeim að fara í bátana. “Við gátum  ekki annað en hlýtt. Við settum út bát og það var róið frá skipinu, en ég fór ásamt öðrum á mínum bát í áttina til kafbátsins. Geir var nýmálaður og mér þótti helvíti hart, ef hundarnir skytu hann niður fyrir mér, en mér datt ekki annað í hug þegar ég sá að þeir mönnuðu byssuna. Og ég þóttist viss um að þetta mundu vera Þjóðverjar, eins og þeir létu.
Þegar við nálguðumst kafbátinn, segja þeir okkur að koma að gönguþrepum, sem voru á ytra byrðingi hans framan við bóginn. Við gerum það.
Þá koma tveir menn frameftir og segjast vilja fara með okkur yfir í Geir. Við rerum með þá yfir í togarann, og þeir fara með mér niður í káetu.
Áur en við lögðum frá kafbátnum, spurðu þeir, hvort við hefðum sent nokkur skeyti. Ég sagði það ekki vera. Þá kallar annar kafbátsmannanna strax til yfirmannsins í turninum og segir, að við höfum ekkert skeyti sent. Það er eins og fargi sé af þeim létt. ég spurði: “Hvers vegna eruð þið að stöðva okkur, fyrst við erum með réttan dagfána?” “Við erum búnir að vera svo lengi úti, að við höfum ekki heyrt um þessi merki,” sögðu þeir. Þeir kváðust hafa haldið, að þetta væri þýzkur togari, og ætluðu að sökkva honum. Við spurðum hvers vegna. Þeir sögðust hafa hitt þýzkan togara með íslenzk einkenni og sams konar skorsteinsmerki og hjá okkur - og þeir hefðu sökkt honum. Í björgunarflekana á íslenzku skipunum var raðað korkfylltum stáltunnum og flekunum komið fyrir í rennu aftur á skipunum, svo tilsýndar var þetta ekki ólíkt djúpsprengjum. Togarar gátu því sýnzt vopnaðir.
Ég vildi helzt losna við kafbátsmennina strax og hægt var, svo að ég talaði ekki við þá meir en ég þurfti. Þeir vildu ekki líta í skipsskjölin, heldur aðeins siglingapappírana frá Bretunum og leiðina sem við áttum að fara. Og síðan skoðuðu þeir dagmerkin.
Að svo búnu kvöddu þeir og sögðust mundu senda okkur smávegis til minja. Það kom aftur með bátnum: Þrjár dósir af enskum ávaxtasafa, tvær dósir af enskri uxahalasúpu.
Mér hefur alltaf þótt undarlegt að þeir skyldu ekki þekkja dagmerkið, því að herskip höfðu stöðugt samband sín á milli og fengu nauðsynlegar upplýsingar, þó að ekki væri komið í höfn nema endrum og eins. Auk þess virtist okkur þeir leggja sérstaka áherzlu á að sannfæra okkur um, að þeir væru Bretar. Þeir töluðu einkennilega ensku, að okkur fannst. Það var eins og þeir hefðu lært hana. Ég spurði þann, sem fyrstur kom niður í bátinn til okkar: “Ekki ert þú Englendingur?” “Nei, ég er Skoti,”svaraði hann. Helgi vélstjóri, sem var með mér í bátnum, segir við hinn, þegar hann kemur í bátinn til okkar: “Ekki ert þú Englendingur?” “Nei, ég er Íri, svaraði hann.
Þegar þeir höfðu gefið okkur leyfi til að halda áfram, hurfu þeir á fullri ferð inn í mistrið. En ég fór ósjálfrátt að bera saman í huganum reykháfsmerkin á Geir og Reykjaborg. Reykjaborgin með hvítu belti, en svartri rönd efst á skorsteininum, en Geir með svaran aðallit, hvítt belti og svarta rönd efst. Í myrkri hlutu þessi merki að líta svipað út.  Það gerði hvíta beltið á báðum reykháfunum.
Ég hrinti frá mér þessari hugsun.”
Þegar Geirs-menn koma heim til Reykjavíkur úr þessari ferð eru þeir látnir gefa brezkun hernaðaryfirvöldum skýrslu um atburðinn. Elías er kallaður til yfirheyrslu um borð í skip, sem liggur við Faxagarð og hýsir yfirstöðvar brezka flotans á Íslandi. Þar er hann yfirheyrður fram yfir  kvöldmat og síðan sóttur aftur heim til sín klukkan tvö um nóttina og þá farið með hann um borð  í þetta sama skip, þar sem hann er enn yfirheyrður og honum sýndar myndir af kafbátnum . Tveir komu heim og saman við kafbátinn sem stöðvaði þá, en þó virtust þeir í ýmsu frábrugðnir. “Hvort þessir kafbátar voru enskir eða þýzkir, veit ég ekki.”
Hver...  hvers vegna? Skiptir það lengur máli? Mundi ekki þögnin hæfa bezt þessari minningu, sem lifir með okkur eins og gras undir hvítum skafli.
En ef við svo aftur á móti horfumst í augu við sögulegar staðreyndir, blasir við okkur, að skömmu eftir þenna atburð lýsa Þjóðverjar yfir hafnbanni á Ísland. Væri fráleitt að láta sér deetta í hug, að terror og taugastríð gegn íslenzkum sjómönnum hafi þótt nauðsynlegur undanfari svo veigamikillar yfirlýsingar?
“Þýzka útvarpið tilkynnti í gærkvöldi í öllum útsendingum sínum, “að Ísland væri komið á ófriðarsvæðiið”. Hefur hafnbannsvæðið umhverfis England, sem Þjóðverjar settu í fyrrasumar, verið stækkað, svo Ísland er nú innan þess...” segir Morgunblaðið 26. marz 1941.
“Nú, er Þjóðverjar hefðu stækkað þetta hernaðarsvæði, þá stofnuðu þau skip, sem færu um þetta svæði, sér í hættu, að þeim verði tortímt. Þýzkaland mun ekki telja sér skylt að bæta það tjón, sem skip þessi yrðu fyrir,” segir ennfremur í tilkynningunni.
Himinninn er stjörnubjartur. Það er ládauður sjór. Kannski er þetta allt draumur.
Draumur einhvers sem við þekkjum ekki.
(Samtöl - M)

29. apríl, miðvikudagur

Talaði við Ingó í gærkvöldi. Hann var ósköp leiður því hann virðist falla misjafnlega inní vísindaumhverfi sitt í Edinborg. Hreinskiptinn og tekur ekki þátt í baktjaldamakki. Það virðist koma honum í koll. Hanaslagurinn í þessum hálflokaða heimi er ekkert betri en í harðsvíraðri pólitík þar sem hver hugsar um sitt og svífst einskis. Hann er einn og hefur ekki að mörgum vinum að hverfa, þeir eru annaðhvort hér heima eða í London. Hann er því ósköp viðkvæmur og auðvelt að særa hann þótt hann sé í aðra röndina harður í horn að taka og fari sínu fram.
Ég sendi honum í gærkvöldi tölvubréf þar sem segir m.a. - og lýsir það mér betur en honum:
“Allt sem að þér snýr sýnir að þú ert gæfumaður eins og Gunnar Eyjólfsson leikari sagði við mig í fyrradag þegar hann hrósaði þér fyrir að sýna það þrek og sjálfstæði í þessum guðlausa rannsóknarheimi að ganga á hönd kaþólsku kirkjunni. Þó að þér líki ekki allt sem að þér snýr innan rannsóknarveggjanna skaltu láta eins og ekkert sé og það er síður en svo neitt ljótt að gjalda lausung við lygi. Það er ekki alltaf hyggilegt eða nauðsynlegt að segja hug  sinn allan. Stundum getur verið lífsnauðsynlegt að gera það ekki.
Við vitum ekki alltaf hvað verður okkur til góðs. Stundum það sem er manni öndvert. En þá er einnig á hitt að líta, að það er engin sanngirni í náttúrunni. Ekki heldur í lífinu. Þess vegna er nauðsynlegt að læra af mosanum að fóta sig í hrauninu. Og umfram allt að taka ekkert mark á því þótt veðurguðirnir séu eitthvað að ybba sig.”

30. apríl, fimmtudagur

Fékk þann úrskurð hjá Jónasi Magnússyni skurðlækni að ristillinn í mér væri illa farinn. Mér skilst læknarnir telji réttast að taka álitlegan bút úr honum, annað dugi ekki. Mér skilst þetta séu afleiðingar af langvarandi ristilkrampa. Ég hef ekki verið undirbúinn undir þessar fréttir. Þarf að hugsa mitt mál. Ef unnt hefði verið að framkvæma þessa aðgerð með kviðsjá, hefði ég gengist undir hana fyrr en síðar en ég er ekki reiðubúinn til að gangast undir stóran holskurð nema það sé óumflýjanlegt. Tala við Jónas Magnússon á mánudaginn. Hann ætlar að þreifa kviðarholið og skýra röntgenmyndirnar sem voru eins konar boðberar þessara vondu tíðinda, að mér finnst. Faðir minn var á mínum aldri þegar tók að halla undan fæti fyrir honum.
Ég sé til.

Ég er að verða sannfærður um að það eru allt of margir fundir á Morgunblaðinu. Menn sitja á fundum lon og don og eiginlega alltaf sama fólkið! Þetta fundafargan á einu dagblaði er of mikið fyrir minn smekk. Ég veit vel að blaðið er orðið svo stórt og umfangsmikið að nauðsynlegt er að bera saman bækur sínar en of mikið má af öllu gera. Blaðamenn geta ekki orðið einhverskonar fundafíklar. Þeir geta ekki heldur orðið eins konar tækniþrælar. Þeir eiga að skrifa og reyna að vinna einhver afrek á því sviði. Þetta er kannski gamaldags hugsunarháttur en ég ætla að halda í hann þangað til aðrir taka við blaðinu og gera allt að aðalatriði - nema blaðamennskuna sjálfa!

Bjarni Benediktsson hefði orðið níræður í dag. Rut og Björn Bjarnason buðu okkur Hönnu af því tilefni heim í Háuhlíð. Það var góð tilbreyting. Okkur þótti vænt um það. Í Háuhlíð höfum við átt margar af okkar beztu stundum. Ég hef aldrei séð eins margt fólk af Engeyjarættinni á einum stað. Þetta var gott kvöld og ágætlega til þess fallið að rifja upp góðar minningar og dýrmætar.

1. maí, föstudagur

Við báðum Atla Heimi að skrifa um tónskáldið Leif Þórarinsson. Grein hans birtist í Morgunblaðinu í dag. Hann segir þar m.a. - og vakti það athygli mína:
“Sum verka hans minntu mig á sálma á atómöld (leturbr. M.J.) Þau urðu til á spennusviði andstæðnanna: Annars vegar ógn gjöreyðingar og sálarangistar þar sem eina andsvarið er bæn barnsins. Kvika þeirra var sársauki, þjáning heimsins og líknarmáttur trúarinnar.”
Þegar ég las þetta minntist ég samtals sem Inga Bjarnason,leikstjóri,  kona Leifs, átti við mig fyrir nokkrum mánuðum. Erindi hennar var það hvort ég gæti ekki veitt Leifi einhvers konar fjárhagsaðstoð. Hann væri að leggja síðustu hönd á tónverk og óperu en væri gjörsamlega peningalaus og illa staddur þar sem hann hefði húsaskjól, að mér skildist í einhverri félagsíbúð. Hún sagði við mig:
“Það eru bara tveir alvöru listamenn í Sjálfstæðisflokknum, Leifur er hinn!”
Ég hringdi í Markús Örn Antonsson og bað hann auka flutning á verkum Leifs í útvarp og sagði hann mér í Háuhlíð í gærkvöldi að það hefði verið gert. Ég vona  það sé rétt. Þá beitti ég mér einnig fyrir því að Leifur fengi 250 þúsund króna viðurkenningu úr Listasjóði Íslandsbanka. Það var auðsótt mál því að félagar mínir í stjórn sjóðsins, Valur Valsson og Brynjólfur Bjarnason, voru sama sinnis. Leifi voru svo sendir þessir peningar. Það var ekki sízt fyrir orð Guðrúnar Jónssonar arkitekts sem hafði talað við mig, að ég tók þetta mál upp. Hún sýndi Leifi og þeim hjónum mikla vináttu og beitti sér fyrir því að hann fengi styrk úr einhverjum menningarsjóði á vegum Reykjavíkurborgar. Ég vona að hann hafi dáið með þá vitneskju í farangrinum að hann átti góðvildarmenn að, þótt ekki hefðu þeir verið daglegir samskrafsmenn hans í gegnum tíðina.
Leifur sendi mér fyrir nokkrum árum spólu með verkum sínum. Það þótti mér vænt um og ég naut þess til fulls að kynnast þeim, varð raunar dálítið undrandi á því hvað hann var fjölhæfur og stórtækur tónsmiður.

4. maí, mánudagur

Fór til Jónasar Magnússonar í morgun. Þeir eru hættir við að skera mig upp við ristlinum. Hann er of illa farinn víðar en á afmörkuðu svæði svo það yrði víst að taka hann allan. Það gera þeir ekki nema í neyðartilfellum, t.a.m. þegar grunur er um krabbamein. Ég verð að lifa með þessu áfram og sagði Jónas að vel mætti vera að ég slyppi við svo búið. En ef eitthvað gerðist, þ.e. að ég fengi vondar bólgur og kviðverki, þá yrði að grípa í taumana. En það væri ekki ráðlegt að gera það við núverandi aðstæður, enda engin brýn nauðsyn. En þetta er sem sagt áhætta - og maður verður víst að búa við áhættur.

7. maí, fimmtudagur

Hef verið hálf kvíðafullur út af ristlinum í mér. Á erfitt með að víkja þeirri hugsun frá mér að ekki sé hægt að lækna mig vegna þess að ristillinn er of illa farinn.
Það er einkennilegt hvernig heilinn vinnur. Í nótt dreymdi mig að ég kæmi þar að sem lítið barn lá og átti að bera það út í bifreið sem þar stóð skammt frá. Móðirin kom að barninu þar sem það lá og reyndi að taka það upp. Hún gat það ekki. Þá kom faðirinn, sem virtist vera heljarmenn og ætlaði að taka barnið upp. Ég horfði á það hvernig hann reyndi að lyfta barninu en tókst ekki. Hann varð því að gefast upp. Þá gekk ég að barninu og tók það upp. Það var eins og fis í höndum mínum. Ég fann ekki fyrir því og bar það léttilega út í bílinn. Á leiðinni vaknaði barnið og var hið brattasta. Svo hvarf það inn í bílinn og kom mér ekki lengur við.
Ég veit ekki hvað heilinn er að segja mér, mér fannst þetta að minnsta kosti ekki góður draumur. Kannski er það þó gott við hann að barnið olli mér engum erfiðleikum og ég bar það án þess finna fyrir því.
Hver veit?

Í tilefni af þessari andlegu reynslu hefur heilinn minnt mig á það sem Rúnki sagði mér einhverju sinni á miðilsfundi hjá Hafsteini miðli um framtíð mína, þá sagði hann að hann sæi mig gamlan og alsköllóttan en með kraga.
Samkvæmt þessu á ég nokkur hár eftir, hvað sem öðru líður!

Enn hvín í tálknum Sverris vinar míns Hermannssonar. Næst ætlar hann að gera atlögu að Jóhönnu Sigurðardóttur vegna þess að hann hefur fundið það út eftir samtal við Kjartan Gunnarsson að mágur hennar sat með Sigurði Þórðarsyni þegar þeir fóru yfir málefni Landsbankans hjá Ríkisendurskoðun. Ég man ekki hvað þessi maður heitir, Lárus held ég,  en Sverrir segir að hann hafi setið þegjandi og hlustað á allt án þess segja orð. Hann er lögfræðingur og mér skilst hann sé aðstoðarmaður Sigurður Þórðarsonar, ríkisendurskoðanda. Samkvæmt stjórnsýslulögum eru slík venzl eða tengsl ekki leyfileg, en kannski á það ekki við um stofnanir sem heyra beint undir löggjafarvaldið, þ.e. Alþingi; ég veit það ekki. Samkvæmt stjórnsýslulögum verða menn vanhæfir ef þeir taka þátt í málum sem snerta venzlafólk þeirra.
Mágur Jóhönnu Sigurðardóttur sem kom Landsbankamálinu af stað á þingi getur þannig ekki tekið þátt í neinni yfirferð með Sigurði Þórðarsyni enda segir Sverrir að Sigurður hafi svikið allt sem hann lofaði í samtali þeirra. Sverrir telur að mágurinn hafi átt mikinn þátt í því að svo færi. En sem sagt, hann er að skrifa nýja grein um þetta atriði og benda á vanhæfni lögfræðingsins hjá ríkisendurskoðun en á þeirri vanhæfni ber ríkisendurskoðandi ábyrgð samkvæmt lögum. Og þá er Sverrir Hermannsson kominn heldur nærri Jóhönnu Sigurðardóttur því það er ekki útilokað að hún hafi fengið upplýsingar sínar úr þessum sömu herbúðum.
Við sjáum hvað setur. En flugeldasýninguni er ekki lokið.

8. maí, föstudagur

Halldór Blöndal hringdi til mín í gærmorgun og blés eins og Keikó út af því að við höfðum skrifað frétt um íslenzka tungu og reglugerðir um flug, samgöngur og flugerindi  þar sem m.a. var talað við Kristján Egilsson, formann Félags íslenskra atvinnuflugmanna, og Sigurð Líndal, prófessor.

Hann sagði að Morgunblaðið reyndi að hártoga frumvarp til laga þar sem talað er um að leiðbeiningartexti fyrir flugmenn skuli birtast í flughandbókinni annað hvort á íslenzku eða ensku. Þetta virðist vera honum mikið viðkvæmnismál. Ég komst varla að en bauð honum að segja sitt álit, en hann fussaði við því og neitaði að tala við Morgunblaðið!
Við skrifuðum svo leiðara um málið í morgun og þá hringdi hann aftur til Agnesar, sagði hún mér, til að blása út.
Hann sagði að Morgunblaðið vildi velta sér upp úr lyginni og það væri önnur blaðamennska en ég hefði kennt honum!
Ég er þeirrar skoðunar að í þessari frumvarpsgrein eigi að standa að í handbókinni skuli textinn vera á íslenzku og ensku, en ekki íslenzku eða ensku. Það brýtur gegn öllum hugmyndum Jóns Sigurðssonar um rétt íslenzkrar tungu sem ég hef fjallað um í Helgispjalli.
Annars er Halldór frændi minn og góður vinur.Hann á afmæli innan tíðar, ég held hann verði sextugur, og Pétur sonur hans hefur beðið mig um kvæði í afmælisljóðabók og ætla ég að verða við því; sé ekki ástæðu til annars. Ég er að hugsa um að láta hann fá kvæðið um Tómas sem heitir Samtal við Sogið.

Grein Sverris Hermannssonar um vanhæfni mágs Jóhönnu Sigurðardóttur í tengslum við afgreiðslu ríkisendurskoðunar á Landsbankamálinu svokallaða vekur mikla athygli. Ég sé ekki betur en það ríki mikil spilling á ýmsum stöðum hér á landi þegar menn telja sig jafnvel geta komizt hjá því að hlíta stjórnsýslulögum um vanhæfi. En í öllum þessum darraðardansi er einskis svifizt. Hin helgu vé mannúðar og góðrar umgengni við náungann eru þverbrotin. Og nú sé ég af mynd í Dagblaðinu í gær og frásögn í Degi, þar sem óbeint er upplýst að Sverrir Hermannsson er eltur af blaðamönnum eða ljósmyndurum þessara blað, að hér hefur risið upp ný stétt fjölmiðlamanna sem ekki er hægt að kalla öðru nafni en papparazzi.

Sverrir sýndi mér bréfið sem Davíð Oddsson sendi honum í síðustu viku eða um helgina, ég veit ekki hvenær hann fékk það í hendur, en í því er harla sérkennilegur tónn og ég hlýt að stöðvast við þá setningu forsætisráðherrans að Sverrir hefði átt að láta sanna vini sína lesa greinarnar yfir, þá hefðu þær orðið boðlegar!
Davíð gáir ekki að því - og er það undarlegt  því hann telst nú til rithöfunda - að greinar Sverris eru lesnar jafn mikið og raun ber vitni vegna þess einfaldlega að það er hans stíll á textanum. Hann er ekki drauðhreinsaður af einum eða neinum hvorki sönnum vinum né öðrum. Og það er þessi stíll sem fólkið hefur gaman af og hefur náð til þess. Ef Sverrir hefði ekki skrifað eins og eðli hans segir til um, hefðu greinarnar einungis verið enn ein lumman í fjölmiðlaþvarginu og enginn hefði tekið eftir þeim. Þessi persónulegu og sérstæðu hnútuköst Sverris sem eru ættuð að vestan hafa átt mikinn þátt í lestri greinanna og þá jafnframt að honum hefur tekizt að snúa almenningsálitinu sér í hag á ýmsan hátt, þótt margir hafi ýmislegt við orðbragðið að athuga.
Sverrir segir að hann væri nú dauður, ef hann hefði ekki átt okkur að á Morgunblaðinu og má það vel vera. En það hefði verið sama hver hefði átt í hlut, við hefðum að sjálfsögðu gefið honum tækifæri til að verja sig í blaðinu. Sverrir telur að vinir okkar í forystu Sjálfstæðisflokksins séu okkur mjög reiðir fyrir að hafa hleypt honum að með þessum hætti og verður að hafa það. Mér hefur aldrei dottið í hug að ritstjórastarf við Morgunblaðið sé einhver sérstakur vinafagnaður. Það má raunar þakka fyrir að ritstjóri Morgunblaðsins skuli eiga nokkra vini.
Ég sé í Degi í morgun að mér er send eitruð ör vegna Hrútafjarðarár og reynt að ýja að því þar að ég hafi veitt þar með Sverri Hermannssyni í boði Landsbanka Íslands. Auðvitað er þetta lygi eins og margt annað í því blaði. Ég hef lengi veitt í Hrútu en ævinlega greitt bæði veiðileyfi, kost og húsaskjól. En sjaldnast hef ég búið í veiðihúsinu, oftast hjá Eiríki í Staðarskála.

Borðaði með Þorvaldi Garðari Kristjánssyni og Haraldi syni mínum í hádeginu í gær. Þorvaldur lét mig fá svofellda sögu af Ólafi Thors og er hún viðbót við það sem ég hef fengið frá honum áður af því tagi:
Lok fyrsta Þorskastríðsins
Nokkru eftir lok fyrsta þorskastríðsins trúði Ólafur mér fyrir sögu sem þar að lýtur.
Það bar við árið 1960 að Macmillian, forsætisráðherra Breta kom við á Keflavíkurflugvelli á leið sinni vestur um haf til fundar við Eisenhower Bandaríkjaforseta. Gert var ráð fyrir að þeir forsætisráðherrarnir, Ólafur og Macmillian, hittust.
Þetta var í gestamóttöku flugvallarins og þeir tveir einir til staðar. Spenna var í loftinu, magnþrungin stemning. Stríðsátök geisuðu ákaft á fiskimiðunum milli íslenzkra varðskipa og landshelgisbrjóta í fylgd brezkra bryndreka. Ólafur hóf máls:
“Hvað er nú til ráða? Við erum báðir í vanda. Þið þorið ekki að skjóta. við getum ekki skotið.”
Eftir þennan inngang tóku þeir til við að ræða landhelgismálið. Fór þannig á með þeim að á þeim stutta tíma sem Macmillian stóð við náðu þeir samkomulagi um með hverjum hætti þessi erfiða deila skyldi leyst. Við bundum þetta fastmælum okkar á millum, sagði Ólafur. Fyrst svo var, hversvegna var ekki strax í fréttatilkynningu skýrt frá efnisatriðum samkomulagsins, var mér spurn. Þetta varð að ganga formlega fyrir sig gegnum Guðmund Í og Sir Alec, var svarið. Og utanríkisráðherrarnir gerðu það sem fyrir þá var lagt. Þannig lauk fyrsta þorskastríðínu.
Í ævisögu sinni getur Macmillian um þennan fund sinn með Ólafi. Heldur lítið gerir hann þar úr persónuleika Ólafs. Okkur sem þekktum Ólaf kemur það á óvart, raunar óskiljanlegt. Var það kannski óskhyggja eftirá að mega jafna metin milli þeirrar reisnar sem Ólafi var eðlislæg og þeirrar hneisu sem Bretar áttu enn eftir að hafa af landhelgisdeilunum?

Ódagssett

Hef verið að skrifa sögur undanfarið . Birti þær seinna.

9. maí, laugardagur

Borðaði hádegismat með Kristjáni Karlssyni í gær. Margt talað að venju. Kristján telur með ólíkindum að ritstjóri Dags og aðstoðarritstjóri skuli hafa blandað mæðrum sínum í þau ummæli Sverris Hermannssonar, þegar hann kallaði þá tíkarsyni. Sagði að þetta væri að sjálfsögu eins og hvert annað skammaryrði sem merkti ekkert sérstakt. Hann sagði að að þessu væri hlegið og hef ég orðið þess rækilega áskynja. Hann sagði að Sverrir reyndi með þessu að vekja athygli á greinum sínum og búa til einhvers konar orðtök. Það hafi honum stundum vel tekizt, t.a.m. þegar hann talaði um veizlu Eimskipafélagsins við Þverá “með kaffi og kruðeríi”!
Ég sagði Kristjáni að þetta minnti mig á ummæli Jóns úr Vör þegar reynt var að ráðast á mig á sínum tíma fyrir skáldskap minn og sagt að ég væri alltof mælskur. Það átti að vera einhvers konar afgreiðsla. En þá sendi Jón úr Vör mér bréf og sagði að ég skyldi vera alveg rólegur yfir þessum árásum eða gagnrýni. Hann sagði að ef ljóð mín væru ekki með þeim hætti sem raun bæri vitni, þá væru þau ekki eftir mig, heldur einhvern annan! Hann varpaði fram þeirri spurningu hvort menn væru að krefjast þess!
Hið sama má segja um Sverri Hermannsson, þegar Davíð Oddsson gagnrýnir greinaskrif Sverris með því að segja að hann hefði átt að láta sanna vini sína lesa þau yfir (undanskilið: ekki okkur Styrmi!), þá hefðu þau orðið betri.
Davíð er rithöfundur og ætti að skilja að styrkur Sverris er persónuleg tilfinning hans í greinunum. Þær eru öðruvísi en allir aðrir mundu skrifað hafa. Þess vegna eru þær einlægar og eftirminnilegar. Og ósvífnar.Þetta ætti Davíð að vita og ekki sízt að það vakir einkum fyrir Sverri Hermannssyni að berja frá sér og bjarga mannorði sínu og æru,ef hægt er.
Nei, persónulegur stíll Sverris gefur greinum hans þann styrk sem raun ber vitni og vekur athygli á þeim, miklu meiri athygli en venja er um slíkar greinar. Og nú er honum að takast að snúa ranghverfunni út. Hann gengur ekki um í neinum felubúningi. Hann er í sínum eigin veiðigalla og miðar á gammana sem að honum sækja.
Ég var einu sinni með honum á skytteríi á Búrfelli. Það langar mig ekki til að endurtaka. Hann er náttúrubarn -  og guð hjálpi þeim sem eru í sigtinu!

Já, felubúningi, sagði ég. Það minnir á samtal okkar Kristjáns Karlssonar um Virginiu Woolf og laxana sem komu til tals vegna Landsbankamálsins. Ég sagði að lífeðlisfræðingar héldu því fram að þeir fyndu ekki til. Kristján sagðist ekki trúa því. Allar skepnur fyndu til, hvað sem vísindamenn segðu. Þetta minnti sig á þau ummæli Virginiu Woolf, þegar hún var spurð, af hverju hún hefði ekki haft samúð með fátæklingunum sem bjuggu í næsta nágrenni við æskuheimili hennar, en þá svaraði hún,
Okkur var aldrei sagt að þetta fólk ætti bágt(!)
Þannig var tvískinnungurinn á þessum árum. Virginia Woolf var að vísu ekki sósíalisti. En það voru margir í gervi sósíalismans sem fundu ekki til með alþýðu manna. Þeir fóru í þetta gervi sjálfra sín vegna. Þeir lifðu með tvöföldu siðgæði. Þeir gengu um í felubúningi. Svæfðu samvizkuna með einskonar fjarvistarsönnun! Það voru einnig margir slíkir hér heima.

Við Kristján töluðum einnig um skáldsögur Halldórs Laxness,hvað annað?! Hann sagðist hafa nýlokið við að lesa Sjálfstætt fólk enn einu sinni. Hann sagðist hafa lesið þetta mikla prósaljóð með nýjum hætti; án þess láta það fara í taugarnar á sér! Hann sagði að það gengi upp ef maður hugsaði sér að skáldið sæi einhvers konar vonarglætu í sósíalisma við dagsbrún. Örlög Bjarts væru ekki með þeim hætti þegar þau Ásta Sóllilja fluttust lengra inn á heiðina, að unnt væri að telja að vonarneistinn leyndist þar. En með því að ritstýra skáldsögunni inní vonarglætu sósíalismans eins og hann var boðaður á sínum tíma væri hægt að láta sér lynda þessa niðurstöðu.
Við fórum einnig að tala um Ljósvíkinginn í þessu sambandi og komumst að þeirri niðurstöðu að sagan væri frábærlega vel ritstýrð inní táknrænan endi; hún stefnir á fegurðina. Löngu áður hefur verið talað um jökulinn sem ber við loft og landið sem hættir að vera jarðneskt, en fær hlutdeild í himninum; þar ríkja ekki framar neinar sorgir, þar ríkir fegurðin ein ofar hverri kröfu.
Það er þessi fegurð sem Ljósvíkingurinn sér í speglinum á rúminu sínu undir lokin; þessi táknræna fegurð. En hún heyrir ekki til raunveruleikanum í kringum hann, heldur sést hún einungis í speglinum. Fegurðin í umhverfi okkar er sem sagt einskonar blekking, en hún verður áþreifanleg í spegilmyndinni.
Þetta er mögnuð niðurstaða á miklu verki.
Skáldið talar um að gleðin sé ekki nauðsynleg, hvers vegna? Jú, líklega vegna þess að í þessari óáþreifanlegu fegurð ríkja ekki neinar sorgir og engin ástæða til að vera á móti gleðinni, ekki endilega. Af þeim sökum segir skáldið ekki nauðsynleg, annars hefði hann sagt ónauðsynleg en það væri slappara og nær hversdagslegu skrafi.
Ég hef aldrei fyrr hugsað um hvernig Halldór ritstýrir skáldverkum sínum að því marki sem að er stefnt. En Kristján telur að fyrir bragðið kalli þau fram í manni einhverja andspyrnu og þá er hætta á því að maður fari að rífast við verkið. En það er auðvelt að sætta sig við skáldverk Halldórs Kiljan Laxness ef maður lendir ekki uppá kant við þau vegna afskipta skáldsins af persónum sínum!! sagði Kristján.

10. maí, sunnudagur

Sá mér ekki annað fært en birta yfirlýsingu í Degi í gær. Hún er svohljóðandi: Klámhögg
“Reykjavík, 8. maí ‘98
Í Degi í dag er reynt að gera mig tortryggilegan með því að benda á að ég hafi veitt með Sverri Hermannssyni í Hrútafjarðará og gefið í skyn að ég hafi verið þar boðsgestur. Af því tilefni skal það upplýst að ég hef veitt í Hrútu undir lok veiðitímans en aldrei í boði eins eða neins eða á annarra kostnað. Ég hef ævinlega greitt mín veiðileyfi þar og uppihald úr eigin vasa.”
Matthías Johannessen

Halli til London í dag. Síðan Zagreb. Sækir ársfund Interpol í Króatíu. Hann verður viku í burtu. Vona að það gangi sem bezt.

Sverrir Hermannsson sagðist hafa fundið þetta bréf í fórum sínum:
Sverrir minn.
Sendi þér laxveiðileyfið og gleymdi því þegar við hittumst, þú fyrirgefur - en þú fórst utan strax daginn eftir. Styrmir sagði mér í morgun að þú værir kominn - og mætti heyra minna!! - svo ég beið ekki boðanna og sendi skuldina.
Með góðum kveðjum,
M.
P.s. Heyri frá þér.
Þetta bréf er dagsett 3. okt., en ég man ekki hvaða ár. Í horninu efst til vinstri stendur: Innl. ávísun kr. 20 þús.
Einkennilegt að Sverrir skyldi hafa geymt þessa sönnun um greiðslu mína fyrir Hrútu. “Það kemur allt upp í hendurnar á mér”, sagði hann, “allt sem ég þarf að nota.”

Nú hefur forsetinn verið í opinberri heimsókn í Skaftafellssýslum! Mér er nær að halda að það sé rétt sem ég hef sagt áður; við erum hvorki lútherstrúar né kaþólskir. Við erum bessastaðatrúar.

13. maí, miðvikudagur

Já, það má nú segja, það er margt skrýtið í kýrhausnum. Í Dagblaðinu í gær skrifar Jónas Kristjánsson leiðara um orðbragðið á greinum Sverris Hermannssonar. Hann á um sárt að binda vegna þess að Sverrir hefur kallað hann ritsóða. Mig minnir það hafi Eiður Guðnason einnig gert. Og þeir eru ekki einir um að telja Jónas Kristjánsson stóryrtan glamrara í leiðurum Dagblaðsins, síður en svo. Menn kippa sér ekki lengur upp við það, hvað þar stendur. Í kristinni trú er talað um að nú sé orðið heilagt, það er um sexleytið á aðfangadag. Nú má segja að það sé orðið skinheilagt á Dagblaðinu (og Degi), þar er fjallað um æru manna hvenær sem henta þykir eins og hún sé skíturinn undir skónum siðapostulanna.
Að mínu mati eru bæði Dagblaðið og Dagur haldin illgirni án þess gera sér alltaf grein fyrir því. Og þessi illgirni þykir hvimleið. Fólk vill ekki kaupa illgirni sem birtist eins og stungur hingað og þangað um þessi blöð.
Í þessum hamagangi öllum er því svo gleymt að þeir menn á Degi, sem Sverrir kallaði tíkarsyni, höfðu ráðizt að honum og æru hans með þeim hætti, að hann taldi sér nauðsynlegt að hefna harma. Og hann gerði það með sínum hætti. Við það verða þeir að una eins og segir í niðurlagi forystugreinar sem við skrifuðum um þetta mál í síðustu viku. Það er ekki eins og Sverrir Hermannsson hafi kallað þá tíkarsyni að tilefnislausu. En nú er reynt að láta líta svo út í skrifum hinna skinheilögu refshala í glerhúsunum, svo að reynt sé að líkja eftir orðfæri Sverris vinar míns Hermannssonar.

14. maí, fimmtudagur

Hef verið að lesa velskar smásögur, ágætar. Hef einnig verið að lesa afar fróðlega bók um hljómsveitarstjóra, The Maestro Myth. Ég hef aldrei skilið sambandið milli Wagners og hljómsveitarstjórans mikla von Bülows sem var giftur Cosimu, dóttur Liszt, en hún giftist síðar Wagner. Óvíst þótti hvort eitt barna hennar væri dóttir von Bülows eða Wagners. Von Bülow dáði Wagner, hann leit á hann eins og hverja aðra goðkynjaða veru. Og þegar Wagner kynntist konu hans stóð hann við fyrri heit sín gagnvart henni þess efnis, að hann mundi ekki ganga gegn því ef hún vildi losna úr hjónabandinu.
Ég hef aldrei skilið þetta samband fyrr en nú, þegar ég les þessa athyglisverðu bók um hljómsveitastjórana miklu og allar beinagrindurnar í klæðaskápunum þeirra.

Nú er ég búinn að fá allan upplesturinn á ljóðum mínum sem ég vann að í vetur með Hirti upptökumanni. Mér sýnist þetta séu spólur upp á einar sjö klukkustundir. Hef áhuga á því að koma einhverju af þessu á geisladisk, ég sé til. Þá hef ég einnig verið að ganga frá óbirtum ljóðum mínum. Þau eru bæði meiri að vöxtum og betri en ég hélt! Ég á sem sagt efni í allþokkalegar ljóðabækur. Ég sé til hvað Vaka-Helgafell vill gera úr þessum handritum.

Annars halda deilurnar áfram um Landsbankamálið. Ég hitti Sverri Hermannsson nær daglega vegna greinaskrifa hans í Morgunblaðið. Hann er í daglegu sambandi við okkur Styrmi og ég sé ekki betur en allt þetta mál sé að verða að einni allsherjar gjörningahríð eins og sjá má í fjölmiðlum, ekki sízt Morgunblaðinu. Sverrir er að verða einn helzti rannsóknarblaðamaður landsins, stóryrtastur allra manna og í senn ein helzta hneykslunarhella þjóðarinnar. Og svo spaugstofa náttúrulega. En undir niðri sársaukinn vegna þess hvernig þetta mál allt hefur vegið að æru hans og stolti. Hann hyggst endurheimta hvorttveggja - og þá ekki sízt með því að bjóða sig fram í næstu þingkosningum og mæta andstæðingum sínum á þingi eins og hann sagði við mig um daginn. Á morgun gerir hann harða hríð að þeim manni í íslenzkri blaðamannastétt sem hann telur mesta rógbera hennar fyrr og síðar, Jónasi Kristjánssyni. Ég fékk hann til að draga úr mestu skömmunum og féllst hann á það enda af nógu að taka! En þar hittir skrattinn ömmu sína og veit nú væntanlega að hún er ekkert blávatn!!

15. maí, föstudagur

Bergur Gíslason er hættur í stjórn Árvakurs. Kvöddum hann í hádegisverði á Holti í dag. Margt rifjað upp, þ. á m. þegar kviknaði í Hótel Reykjavík 1915 og húsin við Austurstræti brunnu til kaldra kola. Þar hafði verið brúðkaup Hobbs-hjónanna, en hann var að ég held skozkur, hún íslenzk og var þetta víst mikil brúðkaupsveizla. En hún endaði í öskunni. Frú Hobbs bjó í næsta húsi við okkur í Hávallagötu 47 og ég held hún hafi þá verið orðin ekkja; eða skilin, ég veit það ekki. En hún átti tvær dætur sem þóttu fríðleikskonur, Helgu sem nú er gift Hafsteini í Hólum en áður Ævari Kvaran leikara, og Evelyn, ekkju eftir Hróbjart, kaupmann við Barónsstíg. Sonur þeirra er Hróbjartur arkitekt. Ég man vel eftir honum, rauðbirknum og hrokkinhærðum strák.
Þegar frú Hobbs bjó í Hávallagötu kynntist hún Skúla Guðmundssyni ,alþingismanni. Hann var dálítið sérkennilegur maður og ekki þesslegur að hann myndi komast yfir svo mikinn kvenskörung sem frú Hobbs var. En sem sagt, þau kynntust á miðjum aldri og giftust. Skúli Guðmundsson var þá ekkjumaður. Mér er sagt að  hann hafi kastað hattinum sínum í gröf fyrri konunnar þegar hún var jarðsett, og kvatt hana með þeim hætti. Hafi hann aldrei síðan gengið með hatt. Hann varð síðar ráðherra fyrir Framsóknarflokkinn, en ég man ekki hvaða ráðuneyti hann fór með. Slíkt gleymist fljótt. Skúli Guðmundsson var þingmaður Vestur-Húnvetninga. Ég held hann hafi verið ágætur maður, hæglátur, grannur og þunnur á vangann. Hann var vel greindur og kom ágætlega fyrir. En þingmenn á þessum tíma voru ekki sérstaklega geðfelldir í hugsun því að þeir voru yfirleitt flokksþrælar. Sumir komust til valda og metorða á þeim forsendum, það gerði Skúli einnig. Aðrir urðu einungis fórnardýr flokksþrælkunar. Þetta á líklega einnig við enn um stundir, ef grannt er skoðað.

Kvöldið

Ég er enn að hugsa um von Bülow. Hann sagði einhvern tíma að Richard Wagner hefði kvænzt ekkju sinni. Það var nokkuð gott hjá honum.

17. maí, sunnudagur

Halli kom í gær frá Króatíu. Hann flaug frá Dubronik til Zagreb, þaðan til Kaupmannahafnar og loks heim; nokkuð löng ferð. Hann er hress og kátur og hefur notið þess mjög að fara þessa ferð. Hann segir að móttökurnar í Króatíu hafi verið stórkostlegar. Á INTERPOL-fundinum í Dubronik voru um 200 manns úr öllum heiminum. Þetta nýja ríki leggur sig augsýnilega fram um að sýna þrótt sinn og vilja til sjálfstæðis.
Það var gott að vera Íslendingur í Króatíu, sagði hann. Þeir taka manni eins og einlægum vini. Ástæðan er sú að við vorum fyrsta ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði Króatíu. Ég vissi þetta raunar ekki. En það fór ekki milli mála að við nutum þess og þeir lágu ekki á því. Náttúrufegurðin er paradís líkust.
Hann segist ætla að fara með fjölskylduna einhvern tíma í sumarfrí og vera þarna við Adríahafið um skeið; þar sé paradís á jörðu. Nú standi þeir í mikilli uppbyggingu, en samt er atvinnuleysi. Dagskráin á ráðstefnu INTERPOL var eftirminnileg og varpaði ljósi á rótgróna menningu Króata sem er af vestrænum rótum runnin. Hann segir að þeir hati Serba, en aðalverndarar þeirra séu Rússar og Kínverjar. Serbar hafi leitað undir verndarvæng Rússa eins og fyrir fyrri heimsstyrjöld og nú leiti þeir einnig undir kínversku regnhlífina. Króatar vilji helzt ekkert með þá hafa, þótt þeir séu slavnesk þjóð og lítill sem enginn munur á tungumáli þeirra.
Þannig þarf tungumálið ekki endilega að vera það sameiningarafl sem oft er talað um, ef annað þykir mikilvægara.  Það er sjálft landið, þessi sérkennilega og ægifagra strandlengja sem sameinar Króatana.
Við Hanna og Matthías H., sonarsonur okkar, ókum frá Triest til Lubjanka og þaðan til Zagreb á sínum tíma. Það var mikil ferð og eftirminnileg. Landið er hæðótt og skógi vaxið.
Halli fór með boð íslenzku ríkisstjórnarinnar þess efnis að INTERPOL-fundurinn árið 2000 yrði haldinn á Íslandi. Það var samþykkt. Honum þykir það mikill sigur. Hann reyndi ekki að keppa við Norðmennina sem höfðu lagt grundvöll að því að þeir fengju ráðstefnuna 1999. Því verður ekki gleymt hvar hún var haldin árið 2000, segir hann sigri hrósandi. Það er augljóst að hann gengst upp í starfi sínu og hefur lag á því að ná því fram sem hann telur mikilvægt. Hann fór með Smára, lögreglumanni, sem hefur haft tengsl við INTERPOL á sinni könnu, en ég man ekki hvers son hann er. Hann er að ég held giftur yngstu dóttur Huldu og Finnboga Rúts; sem sagt svili Styrmis kollega míns. Haraldi líkar vel við Smára og telur hann hinn ágætasta mann.
Styrmir tekur undir það.
Ég er feginn að Halli er kominn heim úr þessu langa ferðalagi. Mér líður alltaf bezt þegar fólkið mitt er á þeim stöðum þar sem það á heima. Mér þykir fremur óþægileg tilfinning þegar báðir synir mínir eru á fjarlægum slóðum, en hef orðið að venja mig við það. Og eftir hálfan mánuð fara Brynhildur og Haraldur með þrjú börn sín í frí til Flórída. Þá verður Ingó einnig á ferðalagi um Evrópu. Ég verð því fegnastur þegar þau koma heim aftur. Ég er aldrei rólegur þegar þau eru með börnin í Flórdía. Þar er of mikið ofbeldi fyrir minn smekk. Það er of mikið ofbeldi í Bandaríkjunum yfirleitt. Mig hefur aldrei langað til að búa þar vestra þótt ég hafi farið þangað margar ferðir og stundum dvalizt lengi, en maður verður þá líka að taka tillit til fólksfjöldans. Það er kannski engin furða þótt ýmislegt gerist í þessu mannhafi.

Fór í góðan göngutúr í Skerjafirði, um Nauthólsvík og Fossvog í gær. Það var svalt veður, en gott. Nú iðar fjaran af fugli. Engu líkara en hún sé öll á hreyfingu; engu líkara en steinarnir hafi fengið líf. Vorið getur jafnvel blásið lífi í steinana.

Kvöldið

Hef verið að lesa um hljómsveitarstjórana. Mahler átti erfiða æsku. Þegar hann var spurður drengur að því hvað hann vildi verða, svaraði hann,
Píslarvottur!
Þetta minnir mig á Sigurðu A. Magnússon. Hann hefur gert ítrekaðar tilraunir til að verða einhvers konar píslarvottur, en ekki tekizt. Ekki frekar en Mahler. Í þessari ágætu bók segir að Brahms hafi verið þekktur fyrir að hrjóta á óperusýningum! Ég lái honum það eiginlega ekki, það er að minnsta kosti full ástæða til að hrjóta með köflum á óperusýningum!

18. maí, mánudagur

Við Styrmir borðuðum hádegismat með Davíð Oddssyni í stjórnarráðshúsinu. Hann sýndi okkur húsið eftir endurnýjun þess. Hún hefur tekizt með ágætum. Þetta gamla tugthús er orðið eins og dálítil perla. Það er merkilegt að lesa sögu hússins. Þar bjó stiftamtmaður, þar voru skrifstofur landshöfðingja. Húsið var upphaflega reist á ofanverðiri 18. öld sem tugthús. En þeirri starfsemi var hætt þar á öndverðri 19. öld vegna þess að fangarnir voru látnir lausir vegna matarskorts. Ef ég man rétt þá var Jónas Hallgrímsson sex ára og Jón forseti Sigurðsson tveggja ára, þegar fangelsinu var lokað. Þeir hafa sem sagt fæðzt inn í það sárfátæka þjóðfélag sem við blasti á þessum árum. Endurreisnin er engu lík - nema kraftaverki.
Davíð var talsvert seinn fyrir því hann þurfti að vera viðstaddur atkvæðagreiðslur í þinginu um húsnæðisfrumvarpið og að ég held einnig afgreiðslu frumvarpsins um hálendi landsins. Hann hefur sem sagt haft nóg að gera að moka í gegnum þingið óvinsælum frumvörpum. Húsnæðismálafrumvarpið er mikil bót, sagði hann, Það er ekkert skrítið þótt kratar séu á móti því. Húsnæðismálastofnun verður lögð niður.
Það hefur enginn látið bíða eftir sér í tvær klukkustundir síðan Lúðvík 14 var uppi, sagði ég þegar Davíð dúkkaði loksins upp.
En hann ríkti líka í sextíu ár, sagði Davíð.
Þar með var það útrætt.
Við töluðum nokkuð lengi um Landsbankamálið. Ég sé ekki betur en Davíð hafi samúð með Sverrir Hermannssyni. Hann lagði ekkert illt til hans og kvaðst ekki hafa sent úrsagnarbréf hans úr Sjálfstæðisflokknum upp í Valhöll. Hann bíður þess að geta rifið það. Hann sagði að bankastjórar Landsbankans hefðu orðið fórnarlömb nýs tíma. Björgvin Vilmundarson hefði tekið við bankastjórn þegar allt önnur hefði ríkti en nú og Sverrir hefði horfið inn í þessa hefð, umhugsunarlítið. Hann hefði því orðið persónugervingur tíma sem nú væri liðinn. Nýir siðir ríktu í landinu, það hefði orðið honum að falli.
Davíð er að mér heyrist harla gagnrýninn á Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda og hefur kallað hann á sinn fund og komið athugasemdum á framfæri við hann vegna þess hann telur að hann hafi sagt sér ósatt um þóknun sem hann hefur fengið fyrir endurskoðun í bönkum.
Davíð telur líklegt að Jóhanna hafi fengið upplýsingar úr umhverfi ríkisendurskoðanda, þannig að fyrirspurnir hennar á þingi hafi verið orðaðar með sérstöku tilliti til aðildar Sverris að Hrútafjarðará; það hafi ekki verið nein miskunn hjá Magnúsi, þegar starfsmenn ríkisendurskoðunar sömdu skýrsluna um Landsbankann.
Davíð segir að Halldór Ásgrímsson hafi gagnrýnt skýrsluna og talið að hún bæri ekki vitni um góða endurskoðun. Mér sýnist að Davíð haldi ekki eins fast við það og áður, eða í umræðum á þinginu um skýrsluna, að hún sé óyggjandi og frá henni verði ekki vikið. Ég heyrði það á honum að honum þætti það engin frágangssök þótt skýrslan yrði endurskoðuð vegna vanhæfis og tengsla Jóhönnu Sigurðardóttur við Lárus, mág sinn…
Davíð gagnrýndi ekki í samtali okkar skrif Sverris Hermannssonar í Morgunblaðinu og telur hann augsýnilega eiga rétt á því að koma athugasemdum sínum á framfæri. Mér finnst hann tala fremur jákvætt um þessi skrif. Þeim hefði að vísu mátt ritstýra af meiri gagnrýni, en hann skilji það vel að slíkt hafi ekki staðið til boða eins og veðrahamurinn hefur verið.

Hann segir að lýsing Sverris á Stefáni Jóni Hafstein sé rétt, hann sé mikill á lofti.
Hann er sammála mér í því að bæði Dagur og Dagblaðið einkennist af allskyns illgirni sem komið sé fyrir í litlum klausum. Ég sagði að þessar klausur væru eins og sígarettustubbar og reynt að brenna menn með glóðinni. Ég hef fundið fyrir þessu sjálfu, þess vegna hef ég tekið eftir því.
Davíð er sama sinnis og ég um þetta efni; að fólk vilji ekki kaupa illgirni. Þó vitum við það báðir að ýmsir - og það ekki fáir - hafa mestan áhuga á því þegar glóðin brennur á náunganum.
Eina gagnrýni Davíðs var sú að við hefðum í forystugrein  þar sem við vörðum birtingu á gífuryrðum Sverris Hermannssonar - m.a. þeim ummælum um forráðamenn Dags að þeir væru tíkarsynir - tekið hæstaréttardóminn gildan þar sem Hrafn Jökulsson er sýknaður af þeim ummælum að Haraldur sonur minn hafi ekki verið fangelsismálastjóri, heldur glæpamannaframleiðandi ríkisins.
Davíð heldur því blákalt fram að þetta sé rangur dómur og sé alls ekki í neinu samræmi við ríkjandi réttarreglur í Evrópusambandslöndum. Hann telur dóminn rangan og af þeim sökum hefðum við ekki átt að vitna til hans eins og hann væri rétt niðurstaða.
Ég sagði að við hefðum notað dóminn því að hann hefði verið hentugur í málatilbúnaði okkar, þótt ég væri að sjálfsögð sammála honum um að dómurinn hefði verið fráleit niðurstaða kjarklausra dómara.

Davíð hefur augsýnilega jafn mikið ofnæmi og ég fyrir hégómaskapnum í tengslum við forsetaembættið. Hann tók dæmi um þessar hátíðlegu stellingar og hefur augsýnilega mikla fyrirlitningu á hinum konunglegu tilburðum. Hann sagði að það væri rétt hjá mér að forsetaembættið kallaði fram heldur leiðinlega strengi í þjóðarsálinni vegna þess að fólk virðist liggja hundflatt fyrir þessum tilburðum og engu líkara en þeir séu hafnir yfir alla gagnrýni.
En nú ætlar Margrét Frímannsdóttir að láta rannsaka viðskipti Alþýðubandalagsins við Landsbankans og þá kemur hlutur Ólafs Ragnars áreiðanlega í ljós.
Davíð hafði þó allan fyrirvara á því. Hann telur að Margrét Frímannsdóttir hafi allt aðra afstöðu til Ólafs Ragnars í forsetaembætti en t.a.m. Hörleifur Guttormsson og Svavar Gestsson; hún hafi litla sem enga hugmynd um að slík rannsókn gæti komið sér illa fyrir forsetann og embætti hans; það sé a.m.k. ekki tilgangurinn með rannsókninni.
Davíð segir að forsetinn sé eitthvað áhyggjufullur vegna umræðna um þessi viðskipti á sínum tíma og hafi spurt sig hvort þingflokkarnir mundu taka það til umræðu. Davíð sagðist ekki vita til þess. Forsetinn spurði þá hvort þingflokkur Sjálfstæðisflokksins mundi taka málið fyrir. Davíð kvaðst ekki vita til þess.
Sverrir Hermannsson hefur talið að viðskipti Ólafs Ragnars og Alþýðubandalagsins við Landsbankann gæti orðið einhvers konar íslenzkt Watergate-mál, en mér er það til efs af þeirri einföldu ástæðu, að embættið er heilagt og sá sem til þess velst hafinn yfir alla gagnrýni.
Hann á jafnvel enga fortíð!!
Bessastaðatrúin er sterkari en öll önnur trúarbrögð, kannski einungis að klerkatrúnni í Íran undan skilinni.

Að lokum:
Við spurðum Davíð um varaformennskuna í Sjálfstæðisflokknum. Hann telur að Geir H.Haarde og Björn Bjarnason ætli sér það báðir.
Það kæmi mér ekki á óvart þótt hann leysti málið með því að setja konu í varaformannssæti Sjálfstæðisflokksins.

21. maí, uppstigningardagur

Sverir Hermannsson heggur nærri forseta Íslands í grein sinni í Morgunblaðinu í dag, Biðlaun alþingismanna.
“Í 10 ár uppstyttulítið hafa menn teygt lopann um biðlaun Sverris Hermannssonar frá Alþingi og aldrei farið rétt með. Upphafinu stýrði þáverandi fjármálaráðherra og formaður Alþýðubandalagsins - sá hinn sami og samdi við Björgvin Vilmundarson um greiðslu á 106 millj. kr. skuld Þjóðviljans í Landsbankanum - og sveik. Tilgangurinn var að reyna að hafa æruna af Sverri eins og furðulega margir virðast sækjast eftir.”

Þá þarf ekki að ganga í grafgötur um það, Sverrir telur að forseti Íslands hafi á sínum tíma vegið að æru sinni um svipað leyti og hann hafði 106 millj. kr. út úr Landsbankanum, í nafni Alþýðubandalagsins. Ég sé ekki betur en Watergate færist óðfluga nær. Það hefur að vísu verið á sjóndeildarhringnum, að minnsta kosti sem hilling, um nokkurt skeið og nú varpar Sverrir Hermannssonar sterkum ljóskastara á þetta feimnismál forsetans.

Hitti Sigurð A. Magnússon í hádeginu á þriðjudag. Hann kom með kínversk kvæði og grein um þau. Töluðum margt saman, ekki sízt um gamla daga.

Kvöldið

Hef verið að hugsa um Landsbankamálið og viðskipti Ólafs Ragnars Grímssonar við Björgvin á sínum tíma. Ekki vildi ég hafa skilið eftir mig slíkan slóða. Þetta hefur auðvitað ekki verið neitt annað en pólitísk misnotkun á bankanum. En hún er svo sannarlega ekkert einsdæmi. Það er raunar með ólíkindum hvers konar sukkarar íslenzkir pólitíkusar hafa verið og hvernig þeir hafa umgengizt opinbera sjóði.
Bjarni Benediktsson sagði stundum við mig að tvöfalt siðgæði ríki í landinu, Eitt um okkur, annað um hina(!), sagði hann með áherzlu.
Ég sé ekki betur en þetta tvöfalda siðgæði sé enn við lýði.

Nú eru kosningar í vændum. Frambjóðendur á lista vinstri manna hafa verið sakaðir um fjármálasiðleysi. Það virðist hafa lítil sem engin áhrif á vinsældir listans. Mér er nær að halda að Sjálfstæðisflokkurinn væri kominn niður í 3 borgarfulltrúa, ef yfir hann hefðu dunið þau ósköp sem R-listinn hefur mátt þola undanfarnar vikur. Hann hefur þurft að verjast gagnrýni á einstaka frambjóðendur vegna fjármálasukks. Ég er sannfærður um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði aldrei komizt upp með slíkt án þess hreinsa til á sínum lista. Ég er eiginlega farinn að halda að fyrrnefnd ummæli Bjarna Benediktssonar eigi við rök að styðjast, að minnsta kosti sé ég ekki betur en þeir sem styðja vinstri menn sjái miklu fremur í gegnum fingur við fulltrúa sína en sú marglita hjörð sem styður Sjálfstæðisflokkinn.
Og hvað um bessastaðatrúna? Hvernig ætli hún bregðist við þeim válegu tíðindum sem Sverrir Hermannsson er að framkalla í myrkrastofu íslenzkra stjórnmála? Það verður fróðlegt að fylgjast með þessum darraðardansi.

Guðjón frændi minn Lárusson læknir er kominn til landsins frá Spáni. Hann kom til mín í gær og ég sagði honum frá ristlinum í mér og samskiptum mínum við læknana. Hann ræður eindregið frá því að ég verði skorinn upp. Hann er þess fullviss að ég hafi aldrei fengið diverticulitis, eða ristilbólgu, þótt hitt sé augljóst að ég sé með diverticulum, eða ristilpoka. Hann segir að ég eigi að halda áfram að taka asperínið til að þynna blóðið því að það sé miklu meiri ástæða til að ætla, að ég fái frekar heilablóðfall eða hjartAslag en ristilmeinsemd og lífhimubólgu!
Það er alltaf jafn gaman að tala við Guðjón því hann er bæði mjög hugmyndaríkur læknir og rökfastur. Hann hefur miklar og góðar gáfur. Og ég hef ekki þekkt aðra menn hreinskilnari.
Sem sagt, ég held mínu striki og reyni að losa mig við þá móðursýki sem ég hef verið haldinn eftir samtölin við mína ágætu lækna. Ég verð þó að segja að síðasta samtal mitt við Jónas Magnússon skurðlækni og Ásgeir Theodórs hnigu að sömu eða svipaðri niðurstöðu og álit Guðjóns í gær.

Haraldur sonur okkar fer með fjölskylduna enn einu sinni til Flórída næstkomandi þriðjudag. Ég hlakka ekki til þess. Þá fer Ingólfur einnig í júní í mikla reisu til Helsingfors og St. Pétursborgar. Hann á að fara á vísindaráðstefnu í Stokkhólmi og ætlar að nota ferðina til að heimsækja fyrrnefnda staði. Ég fylgist nákvæmlega með öllum slíkum ferðalögum sona minna og tek þau talsvert nærri mér, sérstaklega ferðalög Ingólfs því að hann er einn á báti og væri hjálparlítill, ef með þyrfti. Af því hef ég haft þó nokkrar áhyggjur. En vonandi gengur þetta allt vel og engin lausn önnur en gefa sig á vald þess sem öllu ræður.

Hef verið að skrifa smásögu um sjómann sem er mikil kempa og sérstæður eins og þeir sjómenn voru allir sem ég kynntist ungur blaðamaður og skrifaði um í samtölum.

23. maí, laugardagur

Bjarni Benedikt, sonur Rutar og Björns Bjarnasonar, varð stúdent í dag. Við Hanna vorum boðin í Háuhlíð, ásamt Brynhildi og Haraldi. Þar var margt fólk, fjölmennt og góðmennt. Björn var ósköp glaður og hlýr. Mér þótti vænt um það. Ásta móðursystir hans talaði lengi við mig. Hún er komin á DAS í Hafnarfirði. Hún hefur verið að lesa ýmislegt sem hún hefur ekki komizt yfir áður. Hún sagði að sér hefði fundizt sérstaklega skemmtilegt að lesa frásögn mína í Stríð og söng sem Matthías Viðar skrásetti. Hún sagði að vinátta okkar Hönnu við Bjarna og Sigríði hefði verið einstök, eins og hún komst að orði.

Hún spurði hvort það væri ekki rétt hjá sér, að Bjarni hefði helzt viljað að ég væri ritstjóri Morgunblaðsins; að hann hafi ekki óskað eftir því að ég færi út í pólitík.
Ég sagði henni að það væri rétt; að hann hefði viljað varðveita blaðamanninn og skáldið, en þó einkum vináttu okkar.
Okkur var sýnd gömul og gróin vinátta með því að bjóða okkur í Háuhlíð 14 á stúdentsdegi Bjarna Benedikts. Hann er einstakur piltur, ljúfur, kátur, einlægur og skemmtilegur. Ég held mikið upp á hann og vona að honum vegni vel í lífinu. Ég átti frátekið eintak af bók minni um Sverri Haraldsson listmálara og gaf honum í tilefni dagsins. Vona að honum þyki það verðug gjöf.

Nóttin

Nú er sýnt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki unnið Reykjavík, en hann hefur þó haldið velli víðast hvar á landinu og kemur nokkuð sterkur út úr kosningunum. Sameinað framboð vinstri flokkanna tapaði yfirleitt miðað við sérframboð þeirra áður. Forystumenn þessara flokka lögðu kollhúfur í umræðum í nótt. Veit satt að segja ekki hvaða áhrif þetta hefur en mestu tíðindin voru þau að Halldór Ásgrímsson lýsti yfir því, að Framsóknarflokkurinn mundi bjóða fram við næstu alþingiskosningar í öllum kjördæmum, einnig Reykjavík. Og hann lagði sérstaka áherzlu á Reykjavík.
Ég sá að forystumenn vinstri flokkanna, Margrét Frímannsdóttir og Sighvatur Björgvinsson, fóru eitthvað í taugarnar á Halldóri og hann svaraði þeim fullum hálsi, spurði m.a. hvort þau teldu að R-listinn hefði unnið þennan sigur, ef Framsóknarflokkurinn hefði ekki átt þátt í honum. Þau töldu það ekki.
Nei, Halldór Ásgrímsson ætlar ekki að láta Framsóknarflokkinn hverfa inn í einhvern pólitískan samruna, enda hefur flokkurinn mjög víða sterka stöðu og er satt að segja ekki á flæðiskeri staddur eins og Alþýðuflokkurinn. En Alþýðubandalaginu er engin nauðsyn á sameiningu og óvíst hvort gömlu allaballarnir undir forystu Svavars Gestssonar taka í mál að flokkurinn bjóði ekki sérstaklega fram í næstu kosningum.
Skrifaði um þetta í Reykjavíkurbréfi ekki alls fyrir löngu og held að það sem þar stendur sé að koma á daginn.
Annars hef ég haft lítinn áhuga á þessum kosningum. Þær skipta í raun og veru litlu máli. Ég sé lítinn mun á flokkunum úr því sem komið er og í sannleika sagt finnst mér R-listinn hafa runnið í farvegi Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili.
Hví þá að vera að æsa sig yfir þessu?
Árni Sigfússon er góður drengur en ekki nógu sterkur leiðtogi í slíkri orrahríð. Hann sómdi sér vel á þingi. Ég ætla að koma því til skila við hann. Vilhjálmur Vilhjálmsson ætlar víst á þing. Þá fer bezt á því að Inga Jóna taki við forustu sjálfstæðismanna í borginni.
Ingibjörg Sólrún er beinskeytt þótt málsvörn hennar geti verið með ýmsu móti, satt bezt að segja.

Ég hafði mikinn áhuga á kosningunum á Írlandi sem fóru fram í gær. Svo er guði fyrir að þakka að meirihlutinn kaus frið. Í Írlandi skiptu kosningarnar miklu máli. Þær fjölluðu um lífsháska. Þær fjölluðu hvorki meira né minna en um styrjöld eða frið. Þær minntu á kalda stríðið. Minntu á stjórnmálin á dögum einræðisherranna og Atlantshafsbandalagsins. Þá þurftum við að berjast upp á líf og dauða. Þá skiptu stjórnmálin öllu máli. Þau fjölluðu um lífsháskann. Það er í honum sem menn herðast.

Samt er alltaf talsverð skemmtun í því að fylgjast með kosningum og kosningaúrslitum. Og svo er ég ekki í neinum vafa um að það getur verið heilsusamlegt að sameinaðir vinstrimenn vinni kosningasigra endrum og eins því að þá una þeir betur í því borgaralega velferðarsamfélagi sem við búum í.

Það er vinstri mönnum andlegt steypibað að hafa sinn fulltrúa á Bessastöðum og þá ekki síður í borgarstjórastólnum í Reykjavík. Það róar þá - og er kannski vel þess virði! En það er augljóst að vinstra fólk lætur sem vind um eyru þjóta, þegar frambjóðendur þess eru gagnrýndir fyrir fjármálabrask eða siðleysi. Þá er það ævinlega kallað níð og rógur og skiptir engu máli, hvort rétt er eða ekki. Þannig voru auglýstar upplýsingar um stjórnmálaferil Ólafs Ragnars Grímssonar fyrir síðustu forsetakosningar taldar níðangurslegar og Morgunblaðið gagnrýnt harðlega fyrir að birta þær! Og nú eru ávirðingar á þriðja mann Reykjavíkurlistans fyrir fjármálastarfsemi afskrifaðar sem rógur og níð. Það á eftir að koma í ljós. Mér skilst að fjórða hverjum kjörseðli hafi verið breytt, eða 8.600 atkvæðum. Það er áreiðanlega með nokkrum eindæmum og sýnir fyrirvara kjósenda. Þeir hugsa sitt, hvað sem öllum upphlaupum líður.
Að öðru leyti voru þessar kosningar heldur skemmtilegar. Enginn er eins ánægður og Sighvatur Björgvinsson. Hann er formaður flokks sem bauð hvergi fram í kosningunum nema í Hafnarfirði og þar galt Alþýðuflokkurinn afhroð! Sem sagt, Sighvatur sem ég hef kunnað ágætlega við, ekki sízt þegar hann sat á ráðherrastóli, situr nú uppi eins og hver annar flokksleysingi.
Það var talað um Jóhann konung landlausa á Bretlandi á sínum tíma.
Nú er Sighvatur orðinn flokkslaus og allar líkur á því að hann fari inn í íslenzka stjórnmálasögu undir fyrirsögninni: Maðurinn sem týndi flokknum sínum!
Við nánari athugun má segja að það hafi einnig Jónas frá Hriflu gert - en þó með öðrum hætti.

Næsti morgunn

Tsjkov þjáðist m.a. af sjálfsævisögufælni og hvatti væntanlega ævisöguritara sína til að líta framhjá lífshlaupi sínu, en skrifa “það sem ykkur langar til að skrifa”, eins og hann komst að orði.
“Ef ykkur vantar staðreyndir, skuluð þið skrifa eitthvað fallegt og ljóðrænt”.
Það væru áreiðanlega færri ævisögur skrifaðar, ef höfundarnir færu eftir þessari forskrift hins mikla, rússneksa sagna- og leikskálds.
Færri og betri(!)

Ódagsett, gamalt:

Svar við spurningunni:
Hvað viltu segja um Sól á heimsenda?
Sagan gerist fyrst og síðast í hugskoti aðalpersónunnar, þar er leikviðið. En ég nota andrúm og umhvefi sem mörgum Íslendingum er nærtækt úr ferðalögum til Miðjarðarhafslanda, þótti  það henta sögunni betur en íslenzk umgjörð héðan að heiman. Þannig gat ég lýst reynslu persónanna í nýstárlegu umhverfi og kallað fram venjulega og ósköp hversdagslega reynslu með ævintýralegri uppákomum en ella.
Ég geri mér grein fyrir því að ljóðskáldið er ávallt einhvers staðar á næstu grösum þegar ég skrifa óbundið mál. Mér dettur ekki í hug að gera tilkall til að nefnast skáldsagnahöfundur enda þótt ég hefi skrifað smásögur og nokkur leikrit.
Ég kalla þetta kver sögu. Hún er í tengslum við aðar sögur sem ég hef skrifað í Nítján smáþáttum og Konunginum af Aragon og svo auðvitað ljóðin. Stíllinn er ljóðrænn prósi vona ég og freistingin - því það er freisting í öllum skáldskap eins og lífinu sjálfu - er hnýsni í duldar og hálfduldar tilfinningar og sálarlíf persónanna. Sagan er eins konar heimsókn inní vitundarlíf þeirra. Og sem gestur vona ég að höfundurinn sé velkominn inní þá veröld sem hann er að reyna að lýsa.
Veröld okkar allra.
Án þess þó að hafna sérkennum persónanna í því umhverfi sem er næring sögunnar og óvænt reynsla.
Stíll sögunnar er kröfuharður við lesandann. Hann á ekki að vera allur þar sem hann er séður þótt hann eigi að vera ljós. Að því leyti minnir hann á smásögurnar í Konunginum af Aragon sem böggluðust eitthvað fyrir brjóstinu á ýmsum sem eiga ávallt von á annað hvort hrárri blaðamennsku eða ljóðrænni uppákomu þar sem atómskáld og blaðamaður eins og ég er á ferð.
Persónurnar í Sól á heimsenda eru fólk sem stendur hjarta mínu nærri og ég tel mig þekkja vel. Þær eru sprottnar úr draumum og veruleika, en þar - og einmitt þar - verður skáldskapurinn til eins og ég hef raunar ávallt minnt á í ljóðum mínum og sögum. Úr draumum og veruleika, einmitt(!) Eins og lífið sem kviknar á mörkum elds og ísa.
Allur skáldskapur á rætur í reynslu höfundarins. Úr margvíslegum minningum þjappast kjarninn sem er hráefni alls skáldskapar saman eins og súputeningur og breytist í næringu við rétta meðferð. Það er þannig sem aðalpersónan upplifir líf sitt og þá sem næstir standa, eða eins og höfundur kemst að orði í upphafi sögunnar: “Þau voru orðin svo vön þessum athugasemdum drengsins að hann var hættur að muna hvenær þær voru gerðar enda var enginn tími til þegar þau voru á ferðalögum saman, hann var löngu þurrkaður út og það sem var verður og það sem verður var án þess hann leiddi hugann að því eða velti því fyrir sér með nokkrum hætti. Og hann naut þess að losna við tímann og upplifa líf sitt í einni andrá, að upplifa alla reynslu sem eina reynslu, hvert atvik sem eitt atvik og hverja athugasemd sem eina ljósrák á svörtum myrkum himni.”
En það er umfram allt rétt sem Eiríkur Hreinn Finnbogason segir í kynningu: “Sjálfsævisaga er hún vitaskuld ekki fremur en annar skáldskapur sem sprottinn er úr reynslu og umhverfi höfunda”.

1. júní, mánudagur

Annar í hvítasunnu

Gott veður. Ætla að hreyfa mig dálítið í dag. Hef verið við rúmið vegna kvefs. Það er alltaf einhver fjandinn!
Hef verið að skrifa stutta sögu með hliðsjón af gömlum misheppnuðum samtölum. Þau geta verið gott hráefni í sögu. Þau koma hugmyndafluginu af stað. Þau rifja upp ýmislegt sem gleymt var en sjálf eru þau ekki prenthæf. Það verður að vinna úr þeim eins og lífinu sjálfu. Það verður að vinna úr öllu efni og það er þessi vinna sem skiptir sköpum.
Hún er líka mesta nautnin.
Ég hef einnig skrifað nokkur þokkaleg samtöl sem ekki hefur verið ástæða til að birta á bók vegna þess að aðrir tóku sig til og bættu um betur. Þannig hafa nokkur samtöl minna leitt til þess að skrifaðar hafa verið bækur um sama efni. Ég skrifaði mörg samtöl við sr. Jón Auðuns og birtust þau daglega í Morgunblaðinu á sínum tíma. Vöktu nokkuð mikla athygli þá. Held þau hafi verið fremur vel unnin og það hefði mátt gefa þau út á bók, ef sr. Jón hefði ekki sjálfur skrifað ævisögu sína eftir samstarf okkar. Hann sagðist fá svo margar áskoranir um ævisöguritun eftir að þessi samtöl birtust í Morgunblaðinu að hann hefði ekki komizt hjá því að skrifa minningar sínar. Hann sendi mér eintak af bókinni og segir þar að ég beri ábyrgð á henni vegna samtala okkar. Það er sjálfsagt rétt. Ég hef ekki borið saman þessa minningabók sr. Jóns og samtöl okkar en mér er nær að halda, að þau fjalli um sama eða svipað efni. Það mætti svo sem einhvern tíma bera það saman, ég veit það ekki. En ég hef ekki hirt um þessi samtöl við sr. Jón vegna þess að hann skrifaði minningar sínar sjálfur og hefur þá vafalaust byggt ofan á okkar grundvöll.
Samtalið við sr. Jón Auðuns kom í Morgunblaðinu 1975, að ég hygg.
Þá átti ég einnig nokkuð gott samtal við sr. Róbert Jack 1970, sem átti eftir að birta ævisögu sína, og áratug áður talaði ég við Sigurbjörn í Vísi og held það séu þokkaleg samtöl, en ég hef ekki birt þau í bók vegna þess að Sigbjörn hefur gefið út ævisögu sína í mörgum bindum. En það mætti kannski birta eitthvað úr þessu því þarna eru alvörusamtöl með köflum. Ég sé að þarna er ýmislegt fleira bitastætt þótt ekki hafi komið út á bók annars staðar, t.a.m. samtal við Kjartan Thors og Svein Benediktsson, en ég hef einhvern veginn ekki áhuga á því.
Ég hef skrifað misheppnuð samtöl við ýmsa, t.a.m. Kristján Davíðsson, en nokkuð bitastæð samtöl við Hagalín. Þegar ég hafði skrifað samtal mitt við Jón Oddsson skipstjóra, 1958, tók Hagalín sig til og samdi bók um hann. Svipuðu máli gengdi um samtal mitt við Harald Böðvarsson sem birtist í Morgunblaðinu 7. maí 1959.
En þannig hefur gengið á ýmsu. En hvað sem því líður hefur þetta verið mikil og góð reynsla. Og af þessum brunni má enn ausa.

Enn heldur Sverrir Hermannsson áfram að berjast fyrir æru sinni. Við höfum ekki yfirgefið hann í þeirri baráttu en enginn veit hvað verður þegar yfir lýkur. Fékk í gær svofellt tölvubréf frá Hilmari Skagfield vini mínum í Tallahassee:
“Var að lesa enn eina rulluna eftir Sverri. Samkvæmt henni þá var hann “frelsari bankans”. En svona fer fyrir “frelsurum”, þeir verða allir krossfestir fyrr eða síðar.”
Sverrir segir í fréttum útvarpsins í kvöld að hann hyggist bjóða fram í öllum kjördæmum í næstu alþingiskosningum. Aðalmálið verði afnám kvótaframsals.
Það verður fróðlegt að fylgjast með því.

Sá um daginn heimildamynd um berklaveiki á Íslandi. Hún heitir Hvíti dauði og er eftir Einar Heimisson. Þetta er einhver bezt gerða  heimildamynd sem ég hef séð, vel tekin og gott og rétt andrúm. Textinn auk þess vel saminn, gott sambland af skáldskap og veruleika.

3. júní, miðvikudagur

Stefán Jón Hafstein byrjar grein í Degi í dag, Bláir eru dalir þínir, með því að vitna í kvæði eftir Hannes Pétursson og afbökun Megasar á þessu sama kvæði. Kvæði Hannesar hefst svo, Bláir eru dalir þínir, byggð mín í norðrinu..., en Megas mun hafa hártogað þetta með þessum hætti, ...gulir eru straumar þínir, hland mitt í skálinni.
Báðar lýsa þessar setningar höfundum sínum fullkomlega, að ég hygg.

Það er með ólíkindum að Stefán Jón skuli hafa nennt að vitna í þennan bernska húmor Megasar, ef hægt er að komast svo að orði, því að hann er hvorki skemmtilegur né fyndinn.
Hann er ömurlegur

4. júní, fimmtudagur

Helgi S. Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, átti langt samtal við okkur Styrmi í gær. Þar bar margt á góma og sagði hann okkur undan og ofan af Landsbankamálinu svonefnda frá hans sjónarmiði. Hann hafði áhyggjur af framtíð og ímynd bankans, en auk þess kvaðst hann ekki sízt hafa komið á okkar fund til að leita ráða, þ.e. hvernig hann ætti að hrista af sér þær fullyrðingar Sverris Hermannssonar sem ýmsir virtust taka trúanlegar, að hann væri hálfviti!!
Við sögðum eins og satt er að það væri erfitt að hrista slíkt af sér.

Konan mín segir að ég sé ekki hálfviti, sagði Helgi - og lái ég henni það ekki!
Lok samtalsins voru þau að við myndum eiga bitastætt samtal við Helga um bankamálin og birta það eftir næstu viku.
Mér virtist hann fara ánægður af fundi okkar, sagðist að vísu vera ósáttur við ýmislegt sem hefði staðið í Morgunblaðinu um Landsbankamálið, en þó auðvitað einkum ýmis ummæli Sverris Hermannssonar - en bætti því við að hann virti Morgunblaðið eins og aðrir landsmenn og allt sem eftir honum hefði verið haft í blaðinu væri kórrétt.
Þess má geta til gamans að hann sagði okkur að hann hefði verið í Heimdalli á sínum tíma en farið úr honum vegna þess að honum leizt ekki á blikuna, taldi að þar væru of margir ofjarlar hans og hann mundi ekki komast neitt áfram þar í flokki!! Einn þessara ofjarla var víst Styrmir Gunnarsson sem hafði gegnt formennsku í Heimdalli! Helgi sneri sér þá að Framsóknarflokknum og þar hefur honum vel vegnað. Hann er skjólstæðingur Finns Ingólfssonar, bankamálaráðherra, og kvaðst vera mikill vinur hans. Hann bar lof á Finn og sagði að hann væri afar klókur maður.

Kvöldið

Sverrir Hermannsson hringdi til mín seinnipartinn og sagði að Stöð 1 hefði átt fréttasamtal við sig um væntanlegt framboð hans. Í lokin hefði fréttakonan spurt hvað hann vildi segja um þá fullyrðingu Davíðs Oddssonar að hann væri orðinn þriðji ritstjóri Morgunblaðsins!
Hann svaraði því til að Davíð hefði gaman af að grínast og bætti við að hann ætti tvo vini á Morgunblaðinu sem vermdu ritstjórastólana.
Þá fór hún að spyrja um mig, sagði Sverrir, og nú skaltu hlusta á sjónvarpið í kvöld og heyra hverju ég svaraði.
Hún spurði hvort Matthías hefði ekki oft veitt með mér í Hrútu. Ég sagði það hafa verið en skáldið og sveimhuginn væri þeirrar gerðar að hann hefði ekki verið í rónni fyrr en hann var búinn að borga veiðileyfið og það hefði hann alltaf gert.
Við hlustuðum svo á fréttir ríkissjónvarpsins í Stöð 1. Þá kom allt samtalið nema auðvitað kaflinn um mig. Það var ekki ríkissjónvarpinu þóknanlegt að koma því á framfæri að ég hefði borgað veiðileyfi mín í Hrútu.
Ef Sverrir hefði hummað fram af sér að svara og sagt lítið, hefði passusinn áreiðanlega verið fluttur í lokin. En allt var þetta klippt burt.
Ég trúi því ekki lengur að hlutleysi og áreiðanleiki ríki á fréttastofu RÚV. Þar ríkja augsýnilega fordómar og skæri.
Þetta dæmi nægir mér til þess að sannfærast um það.
Hafði þó séð það áður,þegar Haraldur var skipaður í embætti ríkislögreglustjóra.Þá var hann hundeltur í  þessari sameign þjóðarinnar,talað við alla sem líklegir voru til að sverta nafn hans og gera skipunina tortryggilega,en aldrei datt þeim í hug að leita álits hans sjálfs.Ekki einu sinni þegar jafnréttisnefnd  birti úrskurð sinn þess efnis að hann hefði verið hæfastur umsækjenda um stöðuna!

5. júní, föstudagur

Hulda Valtýsdóttir og Stefán Eggertsson í stjórn Árvakurs óskuðu eftir samtali við okkur Styrmi vegna umbrota í pólitík - og þá einkum vegna Landsbankamálsins og Sverris Hermannssonar. Allerfiður fundur í fyrstu og gagnrýnt hve Sverrir hefði verið orðljótur í greinum sínum í Morgunblaðinu og aðsópsmikill á síðum þess.
Munum skrifa Reykjavíkurbréf á sunnudag þar sem afstaða blaðsins verður skýrð, þ. á m. afstaðan til fiskveiðistjórnunar og kvóta.
Fundurinn batnaði eftir því sem á leið, en við Styrmir reyndum að verja ristjórnastefnu blaðsins. Held okkur hafi tekizt það allbærilega, a.m.k. lauk fundinum eftir tvo tíma í ásættanlegu andrúmslofti. Við reynum svo að siðbæta Sverri á síðum blaðsins!!
Haraldur Sveinsson,stjórnarformaður Árvakurs, og Hallgrímur B. Geirsson, framkvæmdastjóri blaðsins, voru einnig mættir, en fundurinn var á vegum Hallgríms.

Ingólfur sonur okkar kominn til St. Pétursborgar. Töluðum við hann í dag. Gott hljóð í honum. Hann segist hafa herbergi í Hótel Moskvu með útsýni yfir Nevu. Þar stóð ég 16 ára gamall messagutti á steinbrú yfir fljótið og drakk í mig þá reynslu sem við blasti. Var þá bólusettur gegn stalínisma. Hef minnzt á þessa reynslu í Spunnið um Stalín.
Einkennileg tilfinning að sonur minn skuli nú vera í mínum sporum hálfri öld síðar. Upplifa nýja reynslu og nýja veröld.

Nefndaskipunin í Auðlindanefndina var með þeim hætti, að það komu áríðandi skilaboð inn á fyrrnefndan fund og Styrmir beðinn um að fara í símann. Það var þá Jóhannes Nordal sem átti við hann það brýna erindi, hvort hann mundi taka sæti í nefndinni undir sinni forystu. Davíð hefði gert tillögu þess efnis.
Styrmir kom inn og sagði okkur frá erindinu, spurði hvort við værum samþykk því að hann tæki sæti í nefndinni og fann ég strax að hann var sjálfur á því.
Allir voru á einu máli um að það væri sterkt fyrir Morgunblaðið að ritstjóri þess væri beðinn um að vera í þessari mikilvægu nefnd eftir öll þau skrif sem orðið hafa um málið af okkar hálfu.
Síðan hélt fundurinn áfram en nokkru síðar var aftur hringt og Styrmir beðinn um að koma í áríðandi símtal.
Það var þá Davíð Oddsson. Styrmir sagði honum að hann tæki sæti í nefndinni og þannig var málið útkljáð.
Daginn eftir sagði Davíð Oddsson að það hefði ekki verið neinn sérstakur fögnuður í þingflokki Sjálfstæðisflokksins þegar hann tilkynnti þessa ákvörðun. Bæði Björn Bjarnason og Þorsteinn Pálsson hefðu sagt að Styrmir mundi ekki taka sæti í nefndinni, en sjálfur var Davíð þeirrar skoðunar að það gæti hugsazt.
Þennan saman dag (laugardag) fékk svo Styrmir tölvubréf frá Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni þar sem hann fagnar því að Styrmir skyldi hafa tekið þessa ákvörðun.

Þegar ég hugsa um kvótakerfið og baráttu okkar Morgunblaðsmanna gegn gjafaframsali auðlindarinnar og öllum þeim átökum sem því hafa fylgt, leiði ég hugann til þess tíma þegar við áttum í harðri baráttu fyrir afnámi landsprófs og gjörbreytingu á menntakerfi landsins og áttum þá í höggi við mjög íhaldssamt lið - einkum kennara - sem vildi engu breyta.
En það hafðist.
Ég hugsa einnig til baráttu okkar fyrir Kassagerðinni, en Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og samtök þeirra reyndu að koma Kassagerð Kristjáns Jóhannssonar á kné og stofna eigin kassagerð.
Það var talsverð barátta fyrir því á sjöunda áratugnum, ef ég man rétt,að Kassagerðin gæti lifað og yrði ekki gleypt í einu lagi.
Börðumst einnig fyrir því að vernda Hampiðjuna og þá m.a. með þeim rökum að Ísland gæti ekki verið án veiðarfæraverksmiðju, t.a.m. ef til styrjaldar kæmi.
Þannig höfum við ævinlega staðið í harðri baráttu fyrir ýmsum málum sem ekki hefur verið að mínu viti fullur skilningur á í gegnum tíðina. En þessi barátta hefur, að ég held, fremur eflt Morgunblaðið en veikt það. ég nefni ekki stóriðju og aðildina að EFTA, né Flugleiðir þegar Ólafur Ragnar gerði atlögu að félaginu á þingi.

Kvöldið

Hvað ég er að hugsa?
Að Ingólfur fer frá St. Pétursborg til Helsingfors á morgun; að Haraldur og fjölskylda koma ekki heim fyrr en síðast í þessum mánuði frá Flórída?
Að maðurinn sé ekkert merkilegra dýr en fjallaaparnir í Afríku sem sagt var frá í heimildarmynd í sjónvarpinu?
Að ég finn fyrir ristlinum dag hvern?
Að Frank Sinatra hafði ástríðufulla ást á Evu Gardner eftir að hann hafði eignazt þrjú börn með Nancy, konu sinni?
Að hann sé hættur að syngja nema af segulböndum?
Eða kannski að sólin okkar verði að eldrauðum stækkandi hnetti eftir 5000 milljónir ára og gleypi jörðina og allt sólkerfið?
Nú, að alheimurinn lognist út af þegar hann hefur gegnt hlutverki sínu?
Hvaða hlutverki?

8. júní, mánudagur

Er aftur byrjaður í sjúkraþjálfun hjá Hönnu Ásgeirsdóttur.Finn það veitir ekki af. Líkaminn er eins og aðrar vélar, þarf klössun.
Viðhald.

Í Einræðum Starkaðar segir Einar Benediktsson:

Þitt hjarta bar frið. Það var heilög örk.
Þín hönd var svöl, og mín kné sig beygja.
Fótsár af ævinnar eyðimörk
einn unaðsblett fann ég - til þess að deyja.
Volduga, mjúkhenta líkn míns lífs,
hve ljúft var í skaut þitt ennið að hneigja.
Mín sál á ei málið, - en varir míns vífs,
vilja þær orð mér til frelsis segja?

Ég batt þér minn fegursta söngvasveig,
en samt var það dýrast, sem aldrei var talað.
Ég drakk hjá þér heimsins himnesku veig, -
en hugar míns þorsta varð aldrei svalað.
Með jarðarbarnsins harma ég hneig
að hjarta þínu og lét mig dreyma.
Mín ófædda von, sem þú unnir, var feig.
Hvar á okkar skammlífa sæla heima?

Hvíti faðmur, var hjarta mitt kalt?
Því hljóðnaði ástanna nafn mér á vörum?
Dýpi míns brjósts veit ég aldrei allt;
efi og þótti býr í þess svörum.
Drotting míns anda, dís við mitt borð,
- dauðaþögull ég tæmdi þess skálar.
Á jörð eða himinn þá hvorugt eitt orð,
sem hæfir þrá og tryggð minnar sálar?

Skáldið er þreytt; þráir hvíld; svala hönd og hvítan faðm eftir hrakningar langrar ævi.
En hvaða hönd?
Og hvaða faðm?
Það vissi hann einn - og enginn annar.

Loksins, loksins skil ég til fulls sannindi þeirra orða Makbeðs sem einna frægust eru í samnefndu leikriti um hann.
Ástæðan?
Jú, Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum formaður Alþýðubandalagsins, nú forseti Íslands, er kominn í opinbera heimsókn til Eistrasaltsríkjanna þar sem íslenzku þjóðinni er sérstaklega fagnað í persónu hans vegna þess að Íslendingar urðu fyrstir til að viðurkenna Eistland sjálfstætt ríki.
Ólafur Ragnar var formaður flokks, eða er kannski sanngjarnara að segja arftaka flokks sem mátti helzt aldrei til þess hugsa að Eistrasaltsríkin losnuðu undan járnhæl sovézkra kommúnista.
Morgunblaðið barðist fyrir frelsi þessara ríkja áratugum saman og engir tóku minni þátt í þessari baráttu en forverar og með nokkrum rétti sagt flokksmenn Ólafs Ragnars Grímssonar.
Morgunblaðið hafnaði því m.a. að loka ætti ræðismannsskrifstofu Eistlendinga í Reykjavík. Ég minnist þess aldrei að sósíalistar eða íslenzkir marxistar stæðu nokkurn tíma í baráttu fyrir sjálfstæði þessara ríkja.
Nú hefur ljóminn af þessari baráttu fallið á formann Alþýðubandalagsins.
En þannig er lífið, þannig er tíminn - allt er þetta eins og leikhús fáránleikans; allt eins og brjálæðingur hafi sett þetta leikrit á svið.
Makbeð segir:
Á morgun, og á morgun, og á morgun,
þumlungast þessi smáspor dag frá degi
til loka hinztu línu á tímans bók;
og gærdagarnir allir lýstu leið
flónum, í dauðans duft. Slökk, slökk þig, skar!
Sljór farandskuggi er lífið, leikari
sem fremur kæki á fjölunum um stund
og þegir uppfrá því, stutt lygasaga
þulin af vitfirringi, haldlaust geip,
óráð, sem merkir ekkert.

Já, svo sannarlega óráð sem merkir ekkert.
Lygasaga!

9. júní, þriðjudagur

Sá í gærkvöldi heimildamynd um landafundi vestanhafs. Óvenjuleg mynd. Lögð áherzla á að Kólombus hafi haft spurnir af vesturheimi vegna landafunda víkinga. Talið líklegt að hann hafi séð kort af svipaðri gerð og Vínlandskortið og heyrt lýsingar á landafundum víkinga.
Í Bristol bjuggu á dögum Kólumbusar 40 Íslendingar og margir sjómenn höfðu farið í veiðiferðir til Nýfundnalands þar sem uppgrip voru af þorski. Allt hafi þetta verið kunnugt á þessum árum og engin ástæða til annars en ætla, að Kólumbus hafi haft þessa vitneskju um land í vestri. Frá Bristol hafi menn farið sporbaug vestur um haf, en Kólumbus hafi ákveðið að fara beinustu leið yfir Atlantshafið, því hann hafi ætlað til Indlands, en ekki Ameríku sem hann vissi ekki að væri til.
Hann ætlaði sem sagt að sigla suður fyrir Ameríku og komast til Asíu.
Losna við Vesturheim!!
Þetta er skemmtileg kenning og afar sennileg, finnst mér. Til að forðast Ameríku uppgötvaði hann Vestur-Indíur!
Þetta er svona álíka fyndið og þegar Þórbergur sagði við mig á sínum tíma, að sovézkir kommúnistar, sem tryðu ekki á eilíft líf, mundu að öllum líkindum koma aftan að því vegna geimferða sinna og uppgötva það á undan öllum öðrum!!
Óvart og án þess trúa á það!
Það verður ekki á tilveruna logið!

Á 100 ára afmæli Lorca finnst mér einna skemmtilegast að minnast þess, þegar hann sagði í prósaverki sem hann skrifaði innan við tvítugt:
Vindurinn leikur á Granada eins og orgel... Og göturnar eru orgelpípurnar.
Ég held ég hafi einnig hugsað eitthvað svipað um Ísland; þessa hljómlist norðursins, blíðan þyt í laufi og grasi, fuglasönginn; og brimið sem Páll vinur minn Ísólfsson líkti eftir í Brennið þið vitar.

Kvöldið

Ólafur Ragnar Grímsson var eitthvað að tala um það á blaðamannafundi í Eistlandi í dag að hann hefði verið í innri hring íslenzkra stjórnmála þegar ríkisstjórn Íslands varð fyrst til þess undir forystu Jón Baldvins Hannibalssonar og Davíðs Oddssonar að viðurkenna Eistland sjálfstætt ríki. Ósköp var  þetta nú barnaleg yfirlýsing hjá forsetanum; að reyna að ýja að því að hann hafi haft einhver áhrif á þessa sjálfstæðisyfirlýsingu íslenzku ríkisstjórnarinnar!
Leiðari Morgunblaðsins á morgun fjallar um þetta. Ég bað Styrmi að skrifa þennan leiðara og gerði hann það með ágætum.
Ætli forseti Íslands telji að íslenzka þjóðin hafi gullfiskaminni?!

10. júní, miðvikudagur

Í forystugrein Morgunblaðsins í dag sem heitir Bandamenn við Eystrasalt segir m.a.:
“Vegna þessarar góðu vináttu milli ríkjanna er vel viðeigandi að forsetahjónin fari í opinbera heimsókn til Eystrasaltsríkjanna næst á eftir hefðbundnum heimsóknum nýs þjóðhöfðingja til Norðurlandanna. En óneitanlega er það til marks um þær sérkennilegu vendingar, sem orðið geta á vettvangi stjórnmálanna, að það skuli vera fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, sem forseti Íslands, sem innsiglar þessa vináttu með heimsókn sinni. Alþýðubandalagið og forveri þess, Sósíalistaflokkurinn, sýndu aldrei minnstu viðleitni til þess að berjast fyrir sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna í þá tæpu hálfu öld sem þau bjuggu við kúgun kommúnismans. Það féll í hlut annarra að halda því merki á lofti í íslenzkum þjóðmálaumræðum.”

Las grein í Litterary Review um nýja ævisögu Kerouac, King of the Beats eftir Berry Miles. Kerouac ætlaði að skrifa eins og maður lifir; jafnóðum. Eða - af fingrum fram. Það tókst að vissu leyti í On the Road.
En Truman Capote sagði um þesskonar bókmenntir:
“Þetta er ekki ritlist. Þetta er vélritun.”
Höfundur segir að allir upphafsmenn beat-kynslóðarinnar hafi annaðhvort verið glæpamenn eða geðsjúklingar; einnig Ginsberg og Burroughs. Og Kerouac lýsir hann eins og hverju öðru skítmenni, sem notaði allt og alla og elskaði ekkert nema sjálfan sig. Hann var einhvers konar framhald af móður sinni.
Hún var skrímsli, segir höfundur bókarinnar og færir að því rök - og ritdómarinn tekur undir það.
Allt olli þetta mér vonbrigðum. En rithöfundar eru ekki heilagir. Listamenn eru engir englar og rithöfundar geta verið skítmenni. Hvort maður hafi ekki reynslu fyrir því!
En sem sagt, vonbrigði(!)

11. júní, fimmtudagur

Klíkan hittist í hádeginu í dag upp á Morgunblaði. Bauð þeim í hádegismat. Margt skrafað. En loft er lævi blandið - og hvað verður. Það veit víst enginn, ekki einu sinni Gylfi þótt gamall sé og lífsreyndur.

Kvöldið

Hann hafði gaman af að fá sér kvöldgöngu í garðinum sínum. Hann naut þess að fylgjast með sköpunarverki sínu. Hann hafði mest gaman af að skapa konuna úr rifi mannsins. Þá var sköpunarverkið fullkomnað , fannst honum. Og hann naut þess að fá sér kvöldgöngu í garðinum sínum, skoða gróður og dýr.
Hann hitti karlinn og konuna og kallaði þau Adam og Evu.
Hann skrafaði stundum við þau og hafði gaman af.
En einn góðan veðurdag kom hann að höggorminum og uppgötvaði að þau höfðu gert það sem hann bannaði og rak þau úr garðinum sínum.
Þegar þau voru farin fékk hann sér stundum kvöldgöngu í garðinum en æ sjaldnar.
Þau fóru burt að yrkja jörðina eins og hann hafði fyrirlagt.
En þá tóku þau upp á því að láta skrifa bók í hans nafni. Og í upphafi bókarinnar er því haldið fram að hann hafi skapað þau í sinni mynd.
Þá féll honum allur ketill í eld og hann hætti að sjást í garðinum sínum. Og til hans hefur ekki spurzt síðan.

12. júní, föstudagur

Hitti Sverri Hermannsson í morgun, hann er að skrifa nýja grein. Hann er hinn brattasti í allri gerningahríðinni.
Beið eftir Hönnu í þrjú korter en þá hringdi ég heim og spurði af hverju hún ætlaði ekki að sækja mig í vinnuna. Hún minnti mig þá á að ég væri á bílnum.
Hún sagði, Þú ert að verða alveg eins og Ragnar í Smára, þegar hann fór á jeppanum í bíó í Hafnarfirði og kom heim aftur í strætó!
En - það er enginn eldri en æðakerfið í honum!

13. júní, laugardagur

Vorum í boði í gærkvöldi hjá Stefaníu og Sverri Sigfússyni, Heklu-forstjóra. Þar voru einnig Davíð Oddsson og Ástríður, kona hans, og Ólafur Skúlason, fyrrum biskup, ásamt Ebbu konu sinni.
Ágætt framanaf. Margt skrafað, ekki sízt um Eystrasaltsför forseta Íslands...
Davíð fór með þátt um Halldór Kiljan og tilætlunarsemi hans við þjónustustúlku í Iðnó og hvernig hann vafði henni um fingur sér í matarhléi á æfingu. Hann vildi ekki kjötbollur með káli eins og leikararnir fengu, en óskaði eftir því að fá danska kringlu! Sent var út í næsta bakarí en Halldór fussaði við kringlunni og sagði, að þetta héti horn á íslenzku! Og svo voru miklar útlistanir á því hver væri munurinn á danskri kringlu og horni!
Mjög fyndið í meðförum Davíðs, sem sagði í lokin að Kiljan hefði verið snillingur og Morgunblaðið hefði minnzt hans með þvílíkum sóma að í minnum yrði haft.
En þessi leikþáttur Davíðs sýndi glöggt hæfileika hans á því sviði. Þeir hafa áreiðanlega komið sér vel í pólitíkinni.
Við borðhaldið nefndi Davíð Sverris-mál,en hristi svo höfuðið og sagði, Nei, ég ætla ekki að fara að tala um það hér,og lét niður falla.

En að borðhaldinu loknu og þegar við höfðum sez inn í stofu og  vorum að tala um eitthvað hundómerkilegt,hóf hann skyndilega harða gagnrýni á mig út af Sverris-málinu…. Gagnrýni Davíðs átti rætur að rekja til þess , að við skyldum hafa birt úr bréfi hans til Sverris Hermannssonar og mynd af því.
Við værum því brotlegir og þátttakendur í árás á hann. Þetta hafi verið einkabréf eins og allir hafi séð og vitað, og birtingin til þess eins að koma höggi á hann
Okkar aðild að þessu var auðvitað ekki önnur en sú að við birtum útdráttinn úr bréfinu að ósk Sverris og mynd með. Sendiboðinn var sem sagt aðalskúrkurinn!
Einhvern tíma í þessu samtali sagðist Davíð ekki skilja af hverju Sverrir væri að ráðast á sig og var harla viðkvæmur fyrir því. Hann fullyrti að Sverrir hefði ráðizt á Geir Hallgrímsson á Stykkishólmsfundi Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma , en Geir Hallgrímsson var ekki á þessum fundi. Hann var þá í Ameríku og Styrmir Gunnarsson gaf honum skýrslu um fundinn.
Það hefði ekkert þýtt fyrir mig að minna hann á það,enda mundi ég það ekki í svipinn, en ég kom því þó að sem er kjarni þessa máls, að það var á þessum fundi sem Sverrir Hermannsson sýndi Þorsteini Pálssyni hvað mestan yfirgang, enda hefur aldrei gróið um heilt þeirra í milli, þótt Þorsteinn hafi gert hann að Landsbankastjóra á sínum tíma, nauðugur viljur, segir Sverrir.
En það held ég  sé ekki rétt, því að Þorsteinn gerir ekki annað en það sem hann telur æru sinni og pólitískum metnaði samboðið.
Hitt er svo annað mál að Sverrir Hermannsson barðist hatrammlega gegn kosningu hans sem formanns á landsfundinum, þegar Davíð var kosinn.

Þá átti hann þátt í því að snúa fulltrúum Austfjarðarkjördæmis og allnokkrum Vestfirðingum til fylgis við Davíð Oddsson. Kannski réð það úrslitum, hver veit ?.
Davíð sjálfur,að ég hygg.

Áður en Davíð gerði atlöguna að mér var gaman að tala við hann að venju. Hann sagði að ekkert virtist skipta máli lengur og mér virtist hann sakna þess einna helzt, að menn hefðu ekki sama áhuga á skáldskap og í eina tíð.
Hann skiptir ekki heldur neinu máli, sagði hann heldur dapurlega við borðhaldið.
Það kemur með erfiðari tímum, sagði ég. Menn þyrftu að herðast í lífsháska, þannig hefði það verið í kalda stríðinu. Þá hefði skáldskapurinn skipt sköpum.
Davíð sagðist þá hafa náði í skottið á kalda stríðinu, eins og hann komst að orði, og engu líkara en hann teldi sér það til tekna. Hann spurði hvort mér hefði þótt betra að lifa þá eða nú.
Ég sagði að nú væru betri tímar, þótt þeir væru ekki góðir. Nú hugsuðu menn um það að endurnýja Packard-bíl Sveins Björnssonar forseta undir Ólaf Ragnar og annan slíkan hégóma.
Ég sagði að Morgunblaðið tæki ekki þátt í því, þeir yrðu að kaupa auglýsinguna sem að því stæðu, olíufélög og bílainnflytjendur.
Í kalda stríðinu þurftu menn að hugsa um lífsháskann og mannvonzkuna.
Nú um hagsmunina.
Það væru svo sannarlega mórauðir strengir í því fljóti. En nú er blessuð blíðan, velmegun og áhyggjuleysi þrátt fyrir eftirsókn eftir vindi.

Davíð sagði okkur frá blaðamannafundi þar sem hann var spurður að því hvað honum fyndist um það uppátæki Ólafs Ragnars að gefa Margréti Danadrottningu mynd af Grími rakara, föður sínum.
Davíð kvaðst ekki sjá neitt athugavert við það og hélt, að hann væri þar með sloppinn! En þá var hann spurður aftur, hvað honum fyndist um þetta tiltæki og sagðist ekki hafa sloppið fyrr en hann hefði svarað því til, að hann vissi ekki til þess að Danadrottning hefði átt mynd af Grími rakara!!
Þetta er Davíð þegar hann er beztur.

Þegar við höfðum afgreitt ávirðingar mínar og Morgunblaðsins (því aldrei var minnzt á Styrmi) sagðist Davíð hafa tekið sjö-mínútna kast, en nú væri því lokið.
Og þegar við föðmuðumst til að innsigla vináttu okkar komum við okkur saman um að við ættum allt sameiginlegt, einnig flokkinn!
Það virtist skipta máli.

Ég hef vanizt því alla mína tíð að vera á milli steins og sleggju eins og Jóhannes úr Kötlum orðar það í litlu ljóði sem hann nefndi í sjónvarpssamtali okkar. Ég hef legið undir sleggjum margra manna og þurft að verja mig af beztu getu, stundum við lítinn fögnuð og enn minni vinsældir.
Ritstjóri Morgunblaðsins verður að vera reiðubúinn að axla óvinsældir, ekki sízt af vinum sínum. Hann getur ekki keypt sér frið, sízt af öllu(!) Hann verður að verja það sem hann telur að sé rétt. Og ef hann hefur ekki rétt fyrir sér, verður hann að sitja uppi með það.
Sem sagt,venja sig við sífellda gagnrýni.Og hann er oft berskjaldaður vegna þess að blaðið blasir við hverjum manni hvern einasta dag.

Ritstjórastarf Morgunblaðsins er engin elsku-mamma. Það eru glóðir elds. Stundum fáum við þó sanngjarna dóma.
Í miðri rispunni við Davíð sagði ég við sr. Ólaf Skúlason byskup að hann hefði mátt þola margvíslega raun af Morgunblaðinu eins og öðrum fjölmiðlum þegar hann þurfti að ganga í gegnum sína elda í fyrra. Ég hefði oft haft áhyggjur af því, en Morgunblaðið hafi þurft að segja frá því sem gerðist, hjá því varð ekki komizt.
Þá sagði Ólafur byskup ákveðið,
Ég hafði aldrei neitt út á Morgunblaðið að setja(!)

14. júní, sunnudagur

Hef verið að hugsa um tvær konur sem hafa víst aldrei verið til. Það er jafn lítið vitað um þær og þær eru athyglisverðar. Þó að þær hafi aldrei verið til eiga þær sér stað í Njálu, ef hægt er að komast svo að orði, en aðeins í örfáum setningum. Báðar höfðingjadætur og eiginkonur þeirra tveggja manna sem eru helztu örlagavaldar sögunnar, Marðar Valgarðssonar og Flosa Þórðarsonar á Svínafelli.
Þrisvar sinnum er sagt frá því í sögunni að eiginkona Flosa Þórðarsonar hafi verið Steinvör, laundóttir Síðu-Halls. En tvisvar sinnum er þess getið að Mörður hafi átt Þorkötlu Gissurardóttur ins hvíta á Mosfelli. Unni hann henni sem augum í höfði sér, segir í sögunni. Hótaði Gissur hvíti því að hún yfirgæfi Mörð, ef hann veitti ekki Kára liðveislu í brennumálinu og var hún þess albúin að fara heim að Mosfelli, þegar Mörður lét undan hótuninni.
Fór hún þá hvergi.
Má augljóst vera að hún hefur verið milli tveggja elda.
En hvernig konur ætli þetta hafi verið? Getur verið að Mörður Valgarðsson hafi átt góða konu? Ekki dettur mér það í hug, ekki endilega. Hún hlýtur að hafa þekkt hugarfar hans og fylgzt með athöfnum hans. Mér er nær að halda að hún hafi blásið í glæðurnar, ýtt undir sjúklegan metnað og öfund í garð þeirra sem betur vegnaði á veraldarvísu en manni hennar. Samt átti hún til þeirra að telja sem lögðu grundvöll að kristni í landinu og þóttu öðrum mönnum betur gerðir. Hún hefur áreiðanlega átt drjúgan þátt í því að maður hennar gekk gegn Valgarði, föður sínum, og turnaðist til kristni. Þar er líklega komin skýringin á því að þetta mesta illmenni sögunnar, níðhöggurinn holdi klæddur, gengur þeim á hönd sem boðaði kærleika og gullna reglu, jafnvel elskusemi við óvini sína. En það breytti engu. Eðlið sagði ævinlega til sín. Og höfundur veit að ekkert er eins lífsseigt í heimi mennskra freistinga og rógur og níð sem eiga rætur í fölskum metnaði, mannjöfnuði og öfund. Það er ekki sízt af þeim sökum sem Möður er látinn lifa söguna af. Hann er eilífur augnkarl í því samfélagi sem skaparinn lagði grundvöllinn að í garðinum á sínum tíma.
En kona Flosa, Steinvör?
Það veit enginn. Um hana er ekkert sagt. En það var kristið andrúmsloft í kringum þau bæði. Síðu-Hallur, faðir hennar, tók kristni og Flosi, maður hennar, var primsigndur. Hann var einskonar góðmenni sem framdi fólskuverk. Hann var brennuvargur sögunnar og náttúruöflin tortímdu honum undir lokin, hvað sem öðru leið.
En blés Steinvör Hallsdóttir í glæðurnar?
Það virðist heldur ólíklegt eins og umhverfi Flosa er lýst. Það var gott að heita á hurðir hans, eins og segir í sögunni. Og menn heita ekki á hurðir nokkurs manns nema hann sé vel kvæntur og búi í því vinalega umhverfi sem góð kona og merkileg húsmóðir ræktar í kringum sig.
Ef Flosi Þórðarson hefði verið illa giftur, hefði Kári Sölmundarson aldrei heitið á hurðir hans. Það hefði verið vonlaust.

Síðdegis

Ósköp er margt fólk eins og Bláfjöll, hálfgerð moldarhrúga þegar að er komið(!)

15. júní, mánudagur

Dreymdi sr. Sigurbjörn byskup í nótt. Það er góðs viti. Stóð uppi í hárinu á honum, það var enn betra!

17. júní, miðvikudagur

Ingó kominn aftur til Edinborgar úr góðri og nærandi ferð. Hann er hæstánægður.
Skrifaði söguna Óskarphéðnastur allra eftir að hann talaði við mig í gemsann fyrir utan Vetrarhöllina.
Forsetadóttirin útskrifuð úr Háskóla Íslands. Henni einni var fylgt eftir í sjónvarpinu, meðan hún var á sviðinu. Ekkert spurt um frammistöðu. Engir eru snobbaðri en fréttamenn. Kannski hefðu einhver ungmenni önnur verið fréttaefni vegna frammistöðu. Ó-nei, að sjálfsögðu ekki, það kemur ekki heim og saman við sýndarveröld sjónvarpsins, þar sem Pótemkin ræður ríkjum.

Ömurlegt að mæta krakkaskríl á kvöldgöngu í vesturbænum. Hélt ég væri kominn til Brooklyn. Þeir verstu æptu að mér ókvæðisorðum.
Ó tímar, ó siðir(!)

Hef átt gott samtal við Knut vin minn Ødergård. Hann var nýlega í boði með Haraldi Noregskonungi hjá Snorra nútímans, Lars Roar Langslet, vini okkar sem hefur skrifað bók um Ólaf Noregskonung. Ætlum að hittast ásamt Asbjørn Aarnes,prófessor,þegar ég fer til Oslóar í október á leið í upplestrarferð til Gautaborgar og Bremerhaven.

Það var auðvelt að tala við kóng, sagði Knut. Hann bauð honum sígarettu þegar þeir hittust og þá var ísinn brotinn,
Má bjóða kónginum að reykja? spurði Knut og tók pakka úr vasa sínum.
Já, endilega, sagði Haraldur.
En þetta er bara Prince, sagði Knut.
Gerir ekkert, sagði kóngur, ég sé þetta er kingsize!!
Ef við ættum nú svona þjóðhöfðingjahúmor, þá væri þolanlegra hér heima.
Fékk nýlega senda bókina Atlantisk dåd og drøm, 17 essays om Island/Noreg. Þar eru m.a. samtöl og greinar um skáldskap minn, auk nýrrar þýðinar Ødegårds á ljóðaflokknum, Tunglið er spegill tímans. Nú á ríkismáli.
Þetta er fín bók og sómi að henni. Þó er sú villa í formála að ég hafi orðið doktor fyrir Njálu í íslenzkjum skáldskap! En það stóð aldrei til.
Hvað sem því líður sýnir þetta enn einu sinni að ég á gott skjól í Noregi sem skáld, betra líklega en hér heima, a.m.k. ef miðað er við fólksfjölda!

Kvöldið

Heyrði í fyrsta skipti slangursetninguna að eiga sér e-ðtil forblóms; m.a. notað á Eyrarbakka. Líklega úr dönsku, merkir: eiga sér afsökun.

18. júní, fimmtudagur

Hitti Hannes Hólmstein í Pósthússtræti í dag.
Sæll, Matthías, sagði hann.
Sæll, Hannes, sagði ég.
Það var eins og tveir þokulúðrar hefðu mætzt þarna í miðbænum!

21. júní, sunnudagur

Orti þetta í gærkvöld, einn í Hvalfirði á leið í bæinn úr Straumunum við Hvítá þar sem við vorum, Árni Jörgensen og Daníel Lárusson, starfsfélagar mínir:

Fuglinn var skuggi
á veginum.
Ég ók yfir fuglinn
og vængbrotinn
lá skugginn
á vegarkantinum.

Þetta gerðist að vísu ekki - nema í ímyndun minni. En hefði getað gerzt. Og skugana sá ég fljúga á malbikinu.
Fékk í hendur nýtt flott menningartímarit á vegum Norðurlandaráðs, Nordisk Litteratur 1998. Þar er mér gert mjög hátt undir höfði með grein eftir Sigríði Albertsdóttur um Vötn þín og vængur. Góð grein með sannfærandi þýðingum á sænsku og ensku.
Má sem sagt vel við una(!)

22. júní, mánudagur

Í dag var tilkynnt að Guðrún Katrín Þorbergsdóttir sé á förum til Seattle í beinmergskipti vegna hvítblæðis. Mér skilst meðferðin sé mjög sársaukafull.
Hef djúpa samúð með þeim Ólafi Ragnari.

25. júní, fimmtudagur

(Flutt á kaldastríðsráðstefnu í Hótel Holti.)

Ávarp

On behalf of Morgunblaðið I have the pleasure to welcome you to this lunch, not least because our paper was in the forfront of the cold war struggle in Iceland. We are both happy and hounored to have so many distinquished scholars as our guests and hope that you have a good stay in our country.
As a newspaperman since 1951 I think that I got acquainted with the cold war as it was fought in this country and also in foreign countries because we were a part of the struggle and had to follow the evolution, special events as the Aufstand in Berlin 1953 and do interviews with politicians like Fulbright and McCarthy, the authors Faulkner and Arthur Miller and cold war leaders as Mikojan and Furtseva for exc., the first astronaut Gagarin and write accounts from news conferences, for exc. with Krutsjov and Malenkov in Palais de Chaillot in Paris and the bulgarian Zhikov in Reykjavík. It was good to be young and easy and strong enough to be able to absorb all the armenian champan and koniac that were part of the game.

These were possibly not the best of times, but they were interesting and adventurous and most challanging. Now we have better times and not so dangerous, not as challanging.
In the cold war we were fighting for our existance, now we are fighting for our wellbeing.
Hopfully you will be able to define these times and throw some light on them and the world that grew from the cultivation of hating your enemy as was the trademark of the cold war. I do not understand Christ, Búkovskí told me, if I would have loved my enemies I would have died in the Gulag. I overcame because I hated my enemies. This nescessity of hatred was not least meant for artists, especially writers. I interviewd many of the dissidents and that was the most interesting part of my job. It was educating, it was nourishing. Writers were considered dangerous, they mattered. But most likly not any more, not until we have to endure again difficult and dangerous times as we had for exc. in Iceland through and after the middle ages.

I wonder how you can describe the dance on roses as Búkovský mentioned, this atmosphere of murder that Sinjevský talked about, Ashkenazy, Tarsis, Rostropovits, Brodský. I wander. And also if the future will ever understand these times of evil. So you must have a difficult task and of course a most important job to do. Hopfully you will succeed to hinder that we will ever again have in our part of the world to experience such an atmosphere of inhumanities.

Ódagssett:

Fann þessi ljóð og ljóðabrot í gamalli möppu, hef augsýnilega ort sumt af þessu upp og sett saman annars staðar. (Í Árstíðaferð um innri mann og óbirtri sögu). Hef líklega kasserað þessu í bili.

Vor þitt og augu

Ég flögra inní augu þín og snerti
við alltof veikum loga er flöktir þar
sem fluga suði ein við yl af kerti
og eins þótt loginn deyi í brunnið skar.

Því lífið það er glit á góðum degi
sem grefur sig í týnd og liðin ár
og þegar geislinn varðar þína vegi
fer viðkvæmt ljós um augans djúpa sár.

Og þannig sækja augun einsog fluga
í ótal nýjar glóðir, flökta þar
sem æskan kallar hjarta þitt og huga
til hvítra loga dags sem eitt sinn var.

Ég finn hann enn í augans sáru gleði
og allt er nýtt og ferskt í huga mér.
Sem Óðinn legg ég auga mitt að veði
fyrir endurtekinn dag í fylgd með þér.

- -

Sólin flýr
augu þín
í dalnum

náttsvöl augu þín

flýr sólin
til fjalla.

- -

Klettur
er hestur

augu þín
stöðvast
við kyrrstæða mynd
sem hreyfist

mynd af hesti
sem hreyfir klett
og hjarn.

- -

Sól fylgir
hugsun þinni
í hafið

tungl hverfur
til nætur

mætast sól og tungl
í hjarnhvítri endurtekningu.

- -

Kvöldrauð
kveikir sólin
nýjan dag
við nóttlausar eggjar
og návist þína.

- -

Mjakast fjöll
mjakast hús
mjakast dagur
með dvínandi
tungli

og augu þín laugast
í ljósi.

- -

Þegar sól slokknar
í hafi
kvikna stjörnur
og tungl

þannig sé ég okkur tvö
á ferð inní kvöldlaust
myrkur.

- -

Það er logn veðurs
og sólfall
við logandi fjörð

þannig kemur dauðinn
inní líf okkar.

Án tungls og sólar
í lognkyrru vatni.

Samt bíða eggjar
í austri
augna þinna.

- -

Þegar sól kviknar
í hafi
slokkna tungl
og stjörnur
inní kyrrláta birtu

þannig sé ég okkur tvö
á ferð inní hjarnlausa
minning.

- -

Eftirvænting,

að vakna hjá þér
hvern morgun.

- -

Af hverju
er grasið grænt

og tómaturinn
rauður?

Hver segir
að grasið sé grænt

og tómaturinn
rauður?

Það er sólin(!)

Niðursoðin orka hennar
í grænu grasi
og rauðum tómat.

Það er sólin(!)

Niðursoðin orka hennar
í orðlausum kvöldroða.

Það er sólin(!)

En ást ykkar
litlaus orð
undir regnboganum.

- -

Með hraða ljóssins
koma dauðar stjörnur
í heimsókn til
augna þinna.

Þau fagna
gestum sínum.

Þannig komst þú
einnig í heimsókn
og augu mín snertu
ljós þitt, augu mín

snerta ljós þitt
en sjálf ertu horfin.

- -

Ljósið í svartholi
hugans
er fangi þyngdarlögmáls
sem fjötrar ljós þitt,

ég ætla að opna
svartholið í huga þínum
og hleypa ljósinu út

ég veit það bíður þess
að losna undan
þyngdarlögmálinu

úr fjötrandi myrkri
og fangelsi hugans.

- -

Og sólin afhenti
myrkrinu
þennan dag,
þessa skóflustungu
af lífi þínu.

- -

Kulnuð stjarna
hverfur þú
í hreyfingarlausa þögn

en ljós þitt
fylgir okkur
í gagnsæju myrkri.

- -

Augu þín hurfu
í myrkur
og sex fet af þögn

í myrkur
og dagslausa jörð

augu þín kvöddu
augu sín
eins og stjarna hverfi
stjörnu sinni.

- -

Ég geri mér hreiður
í hjarta þínu

flétta í hug þér
hugsun mína

um væng sem bíður
vængja sinna.


Stjörnulaust tungl
í dimmbláu myrkri,
þannig snerti ég
hugsun þína
í huga mínum.

- -

Sigðgul hugsun
í huga þínum
sker stjörnulaust myrkur

þessi glitrandi hnífur
í huga mínum.
Þúsundir ára
á leið til hafs

skjaldbaka
í úthafshugsun
guðs.

Þegar skjaldböku-
ungarnir
ryðjast úr eggjum
brosir sólbakaður
sandur
til hafs.

- -

Og sæljónin vakna                       
í kankvísu brosi
guðs.

- -

Dagur við tré
og fuglslaus söngur
í síðbúnu laufi,
það er ferð okkar
í jörðina.

- -

Hár hennar
haustlyng
á heiði.

- -

Stjarna í fylgd
með tungli,
það ert þú
í augum mínum.

- -

Sól hverfur
í sól,
það ert þú
í gleymdu andartaki.

- -

Rönd af kvöldgulri               
sól
í dagsbjörtum
mána,
það erum við saman
á festingu hugans.

- -

Hver andardráttur
hans sem elskar
og hennar sem ann
fyllir vatnsþróna
sem brynnir hestum
hugans.
Robert Bly

- -

Með hraða ljóssins
koma dauðar stjörnur
í heimsókn til
augna þinna.                       

Þau fagna
gestum sínum.

Þannig komst þú
einnig í heimsókn
og augu mín snertu
ljós þitt, augu mín

snerta ljós þitt
en sjálf ertu horfin.

Ljósið í svartholi
hugans
er fangi þyngdarlögmáls
sem fjötrar ljós þitt,

ég ætla að opna
svartholið í huga
þínum
og hleypa ljósinu út

ég veit það bíður þess
að losna undan
þyngdarlögmálinu

undan fjötrandi myrkri
og fangelsi hugans.

Og sólin afhenti
myrkrinu
þennan dag

þessa skóflustungu af lífi þínu.

- -

Hurfu
í myrkur
og sex fet af þögn

hurfu í dagslausa                        
jörð

slokknaðar
stjörnur
í glitrandi dögg.

- -

Minningin
heimilisfast ljós
í huga þínum.

- -

Augu þín hurfu
í myrkur
og sex feta þögn

í myrkur
og dagslausa jörð

augu þín kvöddu
augu sín
einsog stjarna kveðji
stjörnu sína.

Augu þín
yfirgáfu
augu sín.

- -

Ég geri mér hreiður
í hjarta þínu

flétta í hug þér
hugsun mína

um væng sem bíður
vængja sinna.

- -
Flórenz
Við sólarupprás
vaknar borgin,
fólk flykkist
að kirkjunni
einsog mý
í blóðugt sár.

- -

 

Lucca, Toskana

1.

Tíminn
Tóki munkur
í brúnum kufli
á Via S. Andrea.

- -
2.

Hvað er á bakvið tímann?
segja fuglarnir
og svartur forvitinn köttur
rekur hausinn
útúr dyragættinni.

- -
Flórenz

Lítið brúndoppótt
fiðrildi
á USA To-day,
þriðju blaðsíðu efst
til vinstri,
ég lít upp úr blaðinu
og við mér blasir dómkirkjuturn
Giottos.
Ekki var hann guð,
en hann var guðleg hugsun
í verki.
En hver hugsaði
brúndoppótta vængi
fiðrildis?

Náttúran hugsun guðs
í verki.

- -
Það eru 5000 betlarar
í New York
heimilisfastar beinagrindur
í  klæðaskáp Woody Allen.

- -
Í dómkirkjunni, Flórenz

Undir hvolfþakinu
mauraþúfa
á leið til himins.

- -
Piazza del Campo, Siena

Á höfði úlfynjunnar dúfa


Vatn bunar úr opnum kjafti


Dúfa drekkur úr kjafti úlfynjunnar


Kristur og guðsmóðir fylgjast með


Sól glitrar í vatninu

- -
Gískur harmleikur

Tveir hveitisekkir
utan á beinagrind

og Agamemnon í hlutverki
Papandreous.

- -
Rassbreið kona
gengur á undan mér,
einnig í Florenz!

- -
Hugsun mín
kviksettur gærdagur

- -

Beinagrindin
rótlaust tré                       
í rótlausri veröld

- -

Söfn

Kirkjugarðsandrúm
og ekkert.

- -

Legsteinar
yfir gamlar
hugmyndir
um upprisu.

- -

Trier

Við dómkirkjuna
þrútinn róni
nýgenginn út úr Storm
Pedersen
við Porta Nigra
Karl Marx kastandi
rekunum
á hugmyndir okkar
um líf og dauða,
á torginu                       
með nýjar hugmyndir
í gömlu hefðbundnu                      
blóði
og skítgular vespur
flögra við ruslakörfu
með svörtu letri
á gulum borða:
Abfall.

- -

Chagall, Nissa

Höggormslaus
veröld í grænu

hugmynd þín
um paradís.

- -

Casa verdi

Fæðingarhús mannsins
sem fann upp Ameríku
nú rústir einar
og vafningsviður,
þó stendur einn veggur eftir.

Tröppur fyrir hunda
og menn
að komast upp
í gamla hverfið.

Í næsta nágrenni                         
tveir turnar
af virkisvegg
rísa til himins
með sól að baki,
kvöldsól í vestri.

- -

Turnarnir sprynga út
með hvít blóm
sólar í vestri.

- -

Hægt skríður
hugsun mannsins
yfir skóg
og hlíðar

- -
Sólin fylgdi okkur
í kirkjugarðinn.

Hér stóðum við saman.

Nú er hús
tímans
brunnið að köldum
kolum.

- -
Ég skil ekki
hvernig þessum húsum
helzt uppi
að haldast uppi.

- -
Í Maríukirkjunni, Flórenz

Í marglitum skuggum
birtist hugsun þín
í hugum okkar.

- -
Cimitero de Staglieno:

Einsog vafningsviður
hylur kaldan stein
þannig hverfum við
inní tímann.

- -
Grænn er tíminn
á trjánum.

- -
Grafhýsi mitt
í harta þínu
dauðanum vígt
og Kristi.

- -
Hugur minn
er fullt pakkhús
af minningum

- -
Piazza de Ferrari

Dúfan
sleikir sólina
í vatninu.

- -
Það er haustkvíði
í laufinu

- -
Via di Pre:

Undir sótugri styttu
af guðsmóður
brenna eiturlyfjaneytendur
í óminnislogum
bíða hórur
næsta manns
eins og dauðinn vitji
gamallar konu

bíður guðsmóðir
eins og viti bíður skips

- -

Hver dagur
er staður
þar sem hugurinn dvelst
á leiðinni heim.

- -

Sumir dagar
skjóllausara athvarf
en aðrir.

- -
Án þess neinn
kasti rekunum
sökkva dagarnir
í grafardjúpt myrkur.

- -
Hver dagur
áfangi
á leið okkar
heim

- -
Við hlöðum hús okkar
úr hversdagslegu efni
einsog gotneska kirkju
hlöðum dag fyrir dag
í veggi og boga
og hvelfingin ber okkur vitni.

- -

Sól
tekur deginum gröf

hverfur til ófæddra
daga:

Eftirmælin
gleymska

- -
Frá turninum berst
klukknahljómur
og minnir á
tilhoggna daga
og dagslausa þögn.

- -
Fyrir miðjum kórnum
hugsun okkar
negld á kross
undir þyrnikórónu.

- -

Höfuð mitt
hellir,

ágengar hugsanir
flögra
í bergmálslausu
myrkri.

- -
Dagarnir
koma á færibandi,
það er fjöldaframleiðsla
á dögum

Það er verðlækkun á dögum.

- -
Við hlöðum hús okkar
úr hversdagslegu efni
einsog gotneska kirkju
hlöðum dag við dag
í veggi og boga,
himinblá hvelfing
og marglitir gluggar
bera húsinu vitni.
Fyrir kórnum hugmynd okkar
um upprisu
hugmynd okkar negld
á krosstré                         
undir þyrnikórónu
en frá turninum
berst klukknahljómur
einsog bergmál
frá bergsmálslausum dögum.

- -
Bæirnir
einsog storknað hraun
á leið niður hlíðarnar

enn kraumar hugsun vor
undir eldfjalli

- -
Fæðingarstaður Paganinis, Genua

Fiðlutónalaus
eyðing og tenntur skoltur
tímans

- -

Eins og hverjum degi nægir
þjáning sín,
þannig bíður gamall
prestur
til veizlu
í hrörlegri kirkju sinni
við Via di Pre,
minnir á fugla himins
og liljur vallarins.

- -

Munkur
í skósíðum kufli
innmúruð
hugsun mín.

- -
Strýkur hár hennar
vindgulum augum sem hverfi
himinn og vötn og haustið
að korngulum grösum og akri

snerting hans vorgrænt kul
í mjúku vatni

himinn og vötn og haustið
á næstu grösum

lyngrautt haust
í gulum skugga vatnsins

- -
Islam, eða: sáluhjálp

Eins og sjómaður
leggur net sín eftir kennileitum
þannig sendir vinur okkar
nígeríumaðurinn
bænir sínar til Kaba
eftir áttavita,
fimm sinnum á dag
leggur hann smáriðin
net sín
á gamalkunnum miðum.

- -
Orð yfir hugtakslaust
tóm Ungarettis:

guð.

- -

Marzabotto

Með reistan lim
úr bronsi
gengur etrúinn
úr glerskáp
inní hugmynd vora
um dauðann:

brotin hauskúpa
á gólfi
kyntöfralaus veröld
dauðans.
- -
Dauðinn
fremur haugbrot
í hugsun þína.

Hauskúpa þín
brotið grafhýsi,
yfirgefin rúst.                        

- -


Fíngerður leirvasi
vitnisburður
um óbrotgjarnan
tíma.

- -
Hörund ykkar
ljósbrúnn akur.

- -

Dauðinn
rænir hugsun þína
húsi sínu.

- -

Islam, eða: sálu-
hjálp:

Eins og sjómaður
leggur net sín eftir kennileitum
þannig sendir vinur okkar,
Careem frá Nígeríu,
bænir sínar til Kaba
eftir áttavita

- -

Fimm sinnum á dag
leggur hann smáriðin net sín
á gamalkunn mið,

ó, Mekka(!)

- -

Franz frá Assisi

Hann stendur í kufli og talar við fugla
sem fljúga inn í líf vort hvern jarðneskjan dag
og bera honum vitni og mönnum sem negla
sitt nafn inní kross vorn, hann segir: ég

ó, fljúgandi vinir, mitt orð milli himins
og heljar á jörðu það vitnar um sól
í sindrandi geislum vors blessaða Immanúels
sem uppfyllir hugmynd um perlu og skel

ó, takið þá perlu og berið sem víðast
svo veröldin blessist í guðlegri náð
og trúið þeim orðum sem reynsla mín boðar,
hann blessaði líf mitt og nú er sú tíð

vér höldum til fundar við smælingjans þjáning
og þekkjumst hans boð um svo stundlega dýrð
að eiga þar bágast sem veraldarlánið
fer lánlausu afskiptaleysi vort stríð.

Hann réttir fram lófann og augu sín hefur
til himins sem fugl blaki jarðneskum væng
og beri þau guðlegu orð yfir höfin
einsog hlédrægur blær snerti vorblóm við lyng.

- -
Í Maríukirkju,Modena

Hugsun mín flögrar sem fluga í tómi,
ég finn að það drýpur hunang af blómi.
Ég tendraði kerti í kirkju þinni.
Krossinn tók hrollinn úr þjáningu minni.

Og kertið logar við ljósan skugga
og ljómandi sól við steindan glugga.
Ég hef mín augu til augna þinna
og augu mín leita hugmynda sinna.

Hvelfingin vitnar um vitund mína
sem vaxi blóm inní hugsun sína
og vængirnir stækki og vitji sinnar
vængstóru mildar og huggunnar þinnar.

Og huggun þín er hunang af blómi,
þín hlutkennda snerting sem vængur í tómi
og kerti þitt brennir kvíðann til agnar.
Ég krýp við ilm þinnar vængjuðu þagnar.

- -

Duoma, Modena

Úr rómanskri hvelfingu
augna minna
rís mynd þín
rís kross þinn
rís ljós þitt.

Og hvelfingin
opnast
til himins.


- -
Kirkja heilags Ágústínusar, Modena

Flýgur
vængsvartur
skuggi
inní vitund mína,

hugmynd
að sól
við hellismunna.

- -

Á götunni
kona með framrétta hönd

Að hádegislokun liðinni
streymir fólkið í búðirnar
einsog hjörð til hirðis
og það sýður í pottinum

Í kirkjunni
grænkápaður prestur
andspænis sundurleitu
safni sínu
með hugann við textann
og augun á söfnunarbauknum,

Látið sjóða í pottinum(!)

Enginn vill kaupa
köttinn í sekknum.

Samt eru allir með hugann
við köttinn.


- -

Hugsun mín
vindbarinn knörr
undir seglum.

- -


Hægt fellur
laufið
hægt einsog hugmynd
um dauðann.

- -


Maurar skríðum við
eftir jörðinni
með kjarnorkusprengjur
á bakinu,

við sem fengum
ilm af orðum guðs
í veganesti.

- -

Hugsun vor hverfur
hreiðri sínu
einsog fugl kveðji
fléttuð strá
og vindar bólgni
í bólstrum
næstu fjalla.

- -

Ósjálfbjarga
lá hún
í grámöskvuðu neti
augna hans
ósjálfbjarga
einsog nótt veiði dag.

Ódagsett

Kalda stríðið

1.
Ég þurfti að horfast í augu við reynslu mína í kalda stríðinu vegna sjónvarpsþáttar þess efnis, sem Árni Snævarr og Valur Ingimundarson standa að. Þessi þáttur var tekinn upp um daginn. Ég ætlaði svo sem ekki að segja margt enda var tími kalda stríðsins ekki þess eðlis að það hafi verið nein sérstök ánægja að rifja hann upp. En þó er hann merkilegur út af fyrir sig. Hann kallaði fram í mönnum það bezta sem þeir eiga til og einnig það versta. Þannig verða menn til í deiglu, lífsháskanum.
Nú eru aðrir tímar, flosmjúkir miðað við það sem áður var. Við lifðum kalda stríðið af en ég er ekki jafn viss um að við eigum eftir að lifa af þessa flosmjúku tíma sem nú eru, þótt ágætir séu að mörgu leyti og geðfelldari en áður var þegar “andrúm morðsins” og hatur kalda stríðsins geisaði of veröld alla. En menn finna ekki kröftum sínum viðnám í flosmjúku umhverfi. Það er í harðneskjunni sem þeir sýna hvað í þeim býr. Á harðneskjulegum árum kalda stríðsins var mín kynslóð mótuð og þá var annað hvort að duga eða drepast.
Það er rétt sem Natasja Mandelstam sagði, eiginkona Osips Mandelstams, eins helzta skálds Sovétríkjanna sem bar beinin í freðnum túndrum Gúlagsins, í gagnmerkri ævisögu sinni, “Á þessum árum var ekki notað orðið samvizka enda heyrir það til kristinni trú, í stað þess var notað orð eins og stéttarvitund, þjóðfélagið, eða félagsleg ábyrgð”. Á þeim grunni var þetta þjóðfélag veraldarhyggjunnar reist. Með trú á heimspekikenningar efnishyggjunnar að bakhjarli.
Trúarbrögð sem sækja kraft í eilíft líf hrynja ekki, vegna þess að við getum ekki afsannað þau með jarðneskri reynslu, eða eins og segir í Hebreabréfinu: “Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá” (11,1). En trúarbrögð sem eiga sér veraldarhyggju að bakhjarli hrynja, þegar brotalamirnar verða augljósar og engum tekst lengur að kítta upp í glufurnar. Af þeim sökum hrundi heimskommúnisminn. Og af þeim sökum höfðu Kínverjar vit á því að hreinsa til í efnahagslífi sínu, áður en kæmi að hruninu. Forsendur slíks þjóðfélags veraldarhyggjunnar eru aðvitað þær að grundvöllurinn, efnahagslífið, sé ekki reistur í fúamýri. Kínverjar hafa sloppið við hrun og upplausn vegna þess að þeir höfðu vit á að tileinka sér frjálsan markað með ýmsum hætti. En hann er að sjálfsögðu forsenda þess að þjóðfélagið virki, þótt byggt sé á allskyns heimspekihugmyndum um marxisma sem enginn veit hvað er, en eru í raun einungis umbúðir um alveldi gjörræðisstjórna.
En það var ekki auðvelt að berjast gegn því þjóðfélagi sem kommúnisminn var reistur á í kaldastríðinu. Í þeirri baráttu gilltu einna helzt þau orð Biblíunnar að með illu skuli illt út reka. Það dugði skammt að elska óvini sína. Mér var að vísu heldur hlýtt til þeirra pólitísku andstæðinga sem við þurftum að glíma við hér heima. Og þótt þeir hafi reynt að róa mann út af gærunni, baktalað mann, rægt mann; jafnvel reynt að koma því á uppúr 1970 að ég hafi verið sendur á einhvers konar geðveikrahæli í Þýzkalandi þegar ég fór þangað í langt frí 1972, var mér aldrei illa við neitt af þessu fólki og hef aldrei hatað nokkurn mann af pólitískum ástæðum. En ég hefði kannski haft aðra afstöðu ef ég hefði þurft að upplifa reynslu Búkovskís í Gúlaginu. Hann sagði í samtali okkar að hann hefði aldrei skilið Krist. Ef hann hefði farið að kenningum Krists þá hefði hann orðið til í Gúlaginu. Hann hafi lifað af vegna þess að hann hugsaði eins og þeir sem ofsóttu hann. Hann hataði þá. Hann barðist við þá á þeim forsendum að nauðsynlegt væri að reka út illt með illu. Ef ég hefði elskað óvini mína, sagði hann, hefði ég dáið í Gúlaginu. Hann þurfti að lifa af “andrúm morðsins” sem hann nefndi svo. Við sem þurftum að glíma við Gúlagið og heimskommúnismann í margs konar myndum kynntumst að sjálfsögðu þessu andrúmi. Það var einkum í kringum blaðamennsku mína - og þá sérstaklega vegna skáldskapar míns og bóka - sem ég þurfti að kynnast þessu andrúmi. Sem rithöfundur var ég eltur af óðum hundum heimskommúnismans hér heima og þurfti að hafa mig allan við til að lifa þá ofsókn af. En svo rjátlaði pestin af óvininum og hann áttaði sig, hægt og sígandi, og að því kom að ég fékk nokkurn veginn frið sem höfundur, síðar jafnvel hlýjar viðtökur oft og einatt.
Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans, hafði ekki sízt staðið fyrir þessari aðsókn. Ég held hún hafi byrjað þegar ég skrifaði samtalið við Arthur Miller sem birtist í Morgunblaðinu 7. október 1954. Þar var m.a. talað um Deigluna, en kommúnistar höfðu haldið því fram að þetta merka leikrit Millers fjallaði einungis um mccarthyismann í Bandaríkjunum en í samtali okkar Millers kom í ljós, að hann hafði byrjað að hugsa um verkið 1938 og það fjallar um allar ofsóknarstefnur, ekki sízt heimskommúnismann eins og Miller bendir á í samtali okkar. Magnús Kjartansson réðst að mér í síðdegisboði fyrir þetta samtal og sagði að ég hefði reynt að afvegaleiða fólk og villa um fyrir því.
Þetta samtal var síðar þýtt á ensku, að ósk Millers, og notaði hann það málstað sínum til framdráttar, þegar hann kom fyrir óamerísku nefndina allnokkru síðar. Þá var Sigurður Á. Magnússon í New York og íslenzka ræðismannsskrifstofan þar sneri sér til hans og bað hann þýða samtalið. Miller, eða lögfræðingar hans, höfðu snúið sér til ræðismannsskrifstofunnar þessara erinda. Ég hafði sent Miller samtalið og hann mundi eftir því og þá datt honum í hug að það gæti komið sér að gagni í þessum illvígu réttarhöldum. Sigurður snaraði samtalinu og það hugboð Millers reyndist rétt. Af þessu hef ég verið stoltur alla tíð, en Sigurður Á. Magnússon segir frá þessum afskiptum sínum í einni af ritgerðum sínum.
Ég hafði talað við McCarthy sjálfan í þessari sömu ferð því ég hitti hann í neðanjarðargöngunum að þinghúsinu. Stöðvaði hann þar og spurði hvort ég mætti eiga samtal við hann. Hann bað mig bíða í fimmtán eða tuttugu mínútur en kom svo aftur og við töluðum saman og ég varð undrandi á því, hvað hann þekkti vel til íslenzkra stjórnmála, nefndi jafnvel íslenzka stjórnmálamenn með nafni, t.a.m. “kommúnistann Hannibal Valdimarsson”. Mér þótti McCarthy ekki ógeðugur að tala við þótt ég hefði ímigust á stjórnmálaafskiptum hans. En eftir þetta og samtalið við Arthur Miller var ég oftar en ekki kallaður mccartyisti í Þjóðviljanum og þá helzt Hr. Johannessen til að minna á að mér væri svo sem ekki trúandi fyrir íslenzkri arfleifð, hernámssinni og fulltrúi hins óþjóðlega auðvalds; sem sagt óþjóðlegur. Einhverju sinni hitti ég Magnús Kjartansson í síðdegisboði og við töluðum margt saman að venju. Í miðju samtali sagði ég við Magnús að það væri ótrúlegt, nær óskiljanlegt með hvílíku ofstæki hann og blað hans gætu umgengizt annað fólk, svo ég talaði nú ekki um pólitíska andstæðinga. Hann bað um dæmi. Ég sagði honum frá því að ég hefði verið kallaður í Þjóðviljanum mccartyisti og Hr. Johannessen. Hann sagði að það væri mátulegt á mig vegna þess að þetta nafn mitt, Johannessen, væri eitt af þessum óþjóðlegu tízku- og yfirstéttarnöfnum sem ættu rætur í daðri við dönsk áhrif. Ég horfði á hann, brosti og sagði, Magnús minn, það skortir mikið á þekkingu þína! Nú, sagði hann, hvað áttu við? Þetta nafn, sagði ég, er frá norskum afa mínum og kemur Dönum ekkert við, hvað þá undirlægjuhætti við þá. Afi minn var einfaldlega frá Bergen og hann hét þessu nafni. Hann kom ungur til Íslands og dó hér á miðjum aldri og fólkið mitt hélt nafni hans af rómantískri viðkvæmni og ekki sízt tryggð við uppruna sinn. Hvað segirðu? sagði Magnús, og ég sá undrunarsvipinn á andliti hans.
Svo töluðum við ekki meira um þetta.
En ég var aldrei kallaður mccarthyisti í Þjóðviljanum eftir þetta og aldrei Hr. Johannessen.
En Magnús Kjartansson sneri sér að Morgunblaðinu þegar tók að halla undan fæti fyrir honum. Þá talaði hann oft við mig og sendi okkur greinar sem við birtum. Hann sagðist ekki vilja skrifa í sitt gamla blað, þar væri enginn maður sem botnaði í neinu af því sem hann hugsaði eða skrifaði, hann vildi miklu fremur vera gistivinur Morgunblaðsins. Á Þjóðviljanum væri litið á hann sem kauplausan húðarjálk. Og það var hann þar til yfir lauk.
Annar maður sem einnig hafði beint spjótunum að mér ungum talaði mikið við mig, þegar halla tók undan fæti fyrir honum og skammt var til leiksloka. Þá gaf hann út tvær bækur á skömmum tíma, önnur man ég heitir Enginn er eyland en það er að mig minnir skírskotun í ljóð eftir Donne. Þetta var Kristinn E. Andrésson. Ég á bækur, bæði frá honum og Magnúsi Kjartanssyni, með ágætum áritunum til mín og mér hefur þótt þær einskonar innsigli um upphafið að fjörbrotum heimskommúnismans og lokum kalda stríðsins. En að sjálfsögðu sýndi ég Kristni alla þá virðingu sem hann átti skilið, þrátt fyrir allt.

2.
Við Gunnar Schram, sem þá unnum báðir á Morgunblaðinu, vorum boðnir á ráðstefnu ungs fólks sem barðist gegn heimskommúnisma og var hún haldin í Berlín í júní 1953. Það var um það bil sem við Hanna giftum okkur og hún kom með mér til Berlínar. Við upplifðum loftbrúna til Berlínar og það verð ég að segja, að ég hef aldrei lent í annarri eins flugferð og þegar við fórum aftur frá Berlín til Hannover, því að flugvélin, sem var þristur frá PanAm, hentist til og frá í loftinu vegna þess að flugmennirnir urðu að fylgja loftbrú sem var svo nálægt jörðu að uppstreymið fleygði vélinni eins og flugdreka.
En hvað um það. Í Berlín var hernaðarástand. Fólkið í Austur-Berlín hafði gert uppreisn og það var verið að berja það niður. Við fórum í gegnum Brandenborgarhliðið og upplifðum átökin fyrir austan, sáum þegar alþýðulögreglan sneri bílum flóttafólksins við og upplifðum ástandið að öðru leyti með þeim hætti að það fór stundum hrollur um mig. Eitt sinn þegar við gengum að Brandenborgarhliðinu komu vestur-þýzkir lögregluþjónar til okkar og sögðu, Þið farið á eigin ábyrgð(!) Það er hættulegt að fara þessa leið, þeir eru nýbúnir að skjóta ítalskan blaðamann eins og þið vitið. Við jánkuðum því en héldum samt áfram undir hliðið að þefa af ástandinu fyrir austan.
Þannig gekk þetta þá daga sem við vorum í Berlín. Hitinn var óbærilegur og ég þoldi hann bölvanlega. En þetta var reynsla sem gleymist ekki; kalda stríðið í algleymingi og Berlínarmúrinn á næstu grösum.
Ég talaði við marga flóttamenn í Vestur-Berlín og skrifaði nokkuð margar greinar úr þessari ferð, lýsti ástandinu og átti samtöl við flóttafólk. Ég mátti ekki birta myndir af því nema svört ræma væri sett yfir augun, því annars var talið að ættingjar flóttamannanna sem eftir væru fyrir austan gætu verið í mikilli hættu. Myndirnar voru svo þannig birtar með greinum mínum í Morgunblaðinu. Þá kom grein í Þjóðviljanum undir fyrirsögninni Til Berlínar með bundið fyrir augun eða Matthías til Berlínar með bundið fyrir augun, ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta var orðað. Greinin var eftir engan annan en Kristin E. Andrésson. Þannig hófust samskipti okkar(!)
Sem sagt, í kalda stríðinu var sagt að maður færi til Austur-Berlínar með bundið fyrir augu, ef maður skrifaði grein um flóttamenn úr sæluríkinu og birti myndir af þeim með svört strik yfir augu. Og ef maður skrifaði samtal við Arthur Miller eða hitti McCarthy að máli, þá var maður á stundinni kallaður mccarthyisti og minnt á hvað maður væri óþjóðlegur og til alls vís sem hernámssinni og auðvaldssegguri! Fulltrúi þess sem þeir kölluðu “hernám hugarfarsins “. Ég held ekki neitt geti lýst andrúminu í kalda stríðinu eins vel og þessar tvær dæmisögur. Og þannig gekk þetta næsta aldarfjórðunginn. En þessi tími var þó harla lærdómsríkur, en þó einkum óþolandi vegna haturs, ofbeldis og ofsókna.

3.
Fyrstu kynni mín af kalda stríðinu voru aftur á móti miklu eldri. Þau hófust þegar ég var í messanum á Brúarfossi og við sigldum með freðfisk til Leningrað 1946. Á það hef ég áður minnzt, bæði undir lokin í sögulegri skáldsögu sem birtist í Helgispjalli, Spunnið um Stalín, smásögu óbirtri og víðar, að ég held. Þá var harla fróðlegt að koma til Leníngrað. Lýsingin í Spunnið um Stalín er að mig minnir nokkuð nálægt veruleikanum og mér er nær að halda að einhver lýsing sé einnig hér á þessum blöðum í dagbókinni. Man það þó ekki fyrir víst og skiptir ekki máli. En þarna upplifði ég einræðið í öllu sínu veldi, upplifði stalínismann og ógnir hans. En jafnframt þessa merku þjóð, Rússa, sem ég hef æ síðan virt og metið, menningu hennar og arfleifð. Þetta fólk hafði þurft að búa við umsátur nazista í heimsstyrjöldinni og ég hafði aldrei áður séð jafn marga útlimalausa og þarna á götum Leníngrað. Þrátt fyrir eyðileggingu var borgin stórkostlegur vitnisburður um keisaratímann og þann menningarlega metnað sem er aldagömul hefð í Rússlandi.
Það varð mér til happs að ég var bólusettur í Leníngrað gegn kommúnisma  og hef búið að þeirri bólusetningu æ síðan. Það er áreiðanlega ekki lakasta bólusetningin sem ég hef fengið um dagana.
Ég hélt dagbók í þessari Rússlandsferð á Brúarfossi og studdist við hana í lýsingu minni á Leníngrað, þegar ég skrifaði Spunnið um Stalín á sínum tíma. Ég var einungis sextán ára í þessari ferð. Hún var engin venjuleg reynsla.

4.
Ég minntist á þann sífellda róg, sem við morgunblaðsmenn urðum fyrir og ásakanir um að við værum óþjóðlegri en annað fólk; ástæða til að umgangast okkur eins og pólitískt holdsveika af þeim sökum. Þetta var auðvitað einber áróður. Við vorum að vísu ekki þjóðernissinnar í rótgrónum skilningi nazismans, en við vorum þjóðernishyggjumenn og töldum nauðsynlegast af öllu að varðveita einkenni okkar og arfleið - og þá ekki sízt íslenzka tungu og bókmenntir. Kommúnistar voru alþjóðasinnar á þeim forsendum að nauðsynlegt væri að opna alla glugga fyrir áhrifum alþjóðlegs kommúnisma. En við vorum alþjóðasinnar á þeim forsendum að nauðsynlegt væri að vinna úr menningu annarra þjóða og nota það úr henni sem hentaði okkur til endurnýjunar. Það gætum við svo unnið inn í arfleifð okkar.

5.
Þegar ég átti samtöl við William Faulkner í október 1955 minntist hann á þjóðernisvitund Íslendinga og sagði að það væri auðvelt fyrir útlendinga að stíga ofan á íslenzku þjóðernistána án þess vita af henni. Hann gerði sér góða grein fyrir ástandinu á Íslandi og talaði um að kalda stríðið væri hvorki bandaríkjamönnum né Íslendingum að kenna. Okkur væri nauðugur einn kostur, að hafa erlendan her til varnar landinu eins og ástandið væri. Faulkner var nýbúinn að fá nóbelsverðlaun og fór umhverfis jörðina sem einskonar óopinber sendimaður Bandaríkjanna. En hann sagði ekki annað en það sem honum bjó í brjósti. Það stjórnaði því enginn, hvernig William Faulkner talaði. Hann minnti mig einna helzt á Stein Steinar. Bandarískur stjórnarerindreki sem hér var á þeim tíma, Nuechterline, hefur gefið út bók með einskonar greiningu á pólitísku ástandi á Íslandi í kringum 1955. Hann getur m.a. um ferð Faulkners og talar um hana að mínu viti af mikilli vanþekkingu. Ég fjallaði um þessa bók í Reykjavíkurbréfi sl. vetur, ef ég man rétt, og skírskota til þess, því óþarft er að endurtaka það sem ég sagði þá. Ég gagnrýndi fullyrðingar þessa Nuechterlines og benti á að þær væru út í bláinn. Hann sagði m.a. að þeir í bandaríska sendiráðinu hefðu undirbúið Faulkner fyrir dvölina og gefur í skyn að þeir hafi sagt honum, hvað hann átti að segja við íslenzka blaðamenn!
William Faulkner var ekki þeirrar gerðar að hann léti segja sér fyrir verkum. Ég átti tvö samtöl við hann. Mestur hluti þeirra fjallar um bókmenntir og menningu, lítill þáttur um stjórnmál og öryggismál. En það sem hann hafði að segja um þau var hans eigin skoðun, hann var enginn brúða eða búktalari bandarískra stjórnvalda. Hann var einfaldlega andkommúnisti. En hann prédikaði enga stjórnmálastefnu, einungis frelsi og að sjálfsögðu mannúðastefnu. Hann sagði að bókmenntir sem væru skrifaðar í þjóðfélagslegum tilgangi væru áróður. Þegar hann talaði um kalda stríðið sagði hann að það væri sífelldlega tönnlazt á því að Rússar hefðu farið frá Porkala í Finnlandi. En hvað fóru þeir langt? bætti hann við. Ég gáði að því á landabréfi, þegar heim kom, og sá þá að vegalengdin var eins og úr Mosfellsbæ til Reykjavíkur!
Það þurfti engan Nuechterleine til að gefa William Faulkner línuna um það hvað hann átti að segja við íslenzka blaðamenn, hvorki Nuechterleine né neinn annan bandarískan sendimann. Faulkner sagði það sem honum sýndist, hvernig sem okkur eða þeim líkaði. Hann taldi að íslenzku hestarnir væru of litlir fyrir bændur í Suðurríkjunum og sagðist aldrei hafa lesið Íslendinga sögur, en hann hefði það í hyggju(!) Varla hefur það fallið í kramið! Eða komið sér vel fyrir stjórnina í Washington!
Faulkner talaði ekki sízt um Eystrasaltsríkin og frelsisbaráttu þeirra og minnti okkur á hana. En þess þurfti ekki. Morgunblaðið hélt alla tíð fast við þá hugmynd að Eystrasaltsríkin væru sjálfstæð ríki og það hvarflaði t.a.m. aldrei að okkur að játast undir þá kröfu Rússa, að Eistland væri hluti af Sovétríkjunum(!) Mér skilst eystrasaltsríkjamenn meti þetta enn við okkur, enda skilst mér að þessi þrautseigja hafi verið einsdæmi í kalda stríðinu. Rússum tókst að hamra svo lengi á því að Eystrasaltsríkin væru hluti af Sovétríkjunum að menn gáfust upp fyrir þessum áróðri, hver af öðrum, en ekki morgunblaðsmenn, aldrei. Í fyrra hringdi til mín merkur rithöfundur frá Eystrasaltsríkjum og bað mig um að senda sér ævisögu mína því að þeir hefðu í hyggju að veita ritstjóra Morgunblaðsins orðu fyrir þessa afstöðu. Ég þakkaði fyrir mig, en sendi aldrei neina ævisögu og vona að málið sé úr sögunni. Það er óþarfi að veita mönnum orðu fyrir að rækta sannfæringu sína, menn eiga miklu fremur að fá orðu ef þeir hafa þurft af einhverjum ástæðum að yfirgefa þessa sömu sannfæringu. Það getur verið sárt og þá getur uppbót verið æskileg uppreisn.

6.
En hvað um það. Á þessum árum birtist kalda stríðið í Morgunblaðinu m.a. í því að Halldór Laxness var einskonar útlagi úr blaðinu. Hann hafði skrifað mikið í Morgunblaðið og Lesbók á sínum tíma, en svo slettist upp á vinskap þeirra Valtýs og hann hætti að skrifa í blaðið. Með honum og blaðinu varð um tíma fullur fjandskapur sem rekja mátti til kalda stríðsins og stalínismans og þá kannski einnig til þeirrar afstöðu blaðsins að fylgja aðild að Atlantshafsbandalaginu 1949 og dvöl varnarliðsins hér á landi síðar.
En þetta dugði ekki til lengdar. Helzta skáld þjóðarinnar og blað allra landsmanna urðu að búa við friðsamlega sambúð. Ég tók mig því til og reyndi að skrifa Halldór inn í Morgunblaðið aftur. Ég hafði skrifað Stein Steinar inn í blaðið og þá var ekki síður nauðsynlegt að nóbelsskáldið ætti þar friðland og einhvers konar athvarf. Að þessu vann ég á sjötta áratugnum svo að ekki sé talað um næstu áratugi og það tókst. Það var einn mesti sigur sem við unnum á þessum árum, stórt spor á langri leið út úr þeirri pólitísku gerningahríð sem við höfum nefnt kalda stríðið. Ýmsir gagnrýndu Morgunblaðið fyrir að krefjast þess ekki að Kiljan gerði upp við líf sitt og kommúnismann, það hefði hann ekki gert(!) Einn þeirra sem gagnrýndi mig fyrir að hafa ekki krafizt þess var Jónas H. Haralz. En ég hef alltaf svarað því til að þetta uppgjör hafi farið fram. Það hafi verið í Skáldatíma, þar hafi Kiljan m.a. talað um Janusar-höfuð nasizma og kommúnisma. Skáldatími kom út 1963. Síðar afgreiddi Halldór kommúnismann með ýmsum hætti og þá ekki sízt í samtalsbók okkar Skeggræðum gegnum tíðina, 1972. Og í einn tíma lýsti hann því yfir, mig minnir í New York Times, að hann væri mildly conservative.

7.
Á þessum árum gáfum við Gunnar Schram og Þorsteinn Thorarensen út Stefni, tímarit ungra sjálfstæðismanna, og breyttum því í bókmennta- og menningarrit. Þetta tóku marxistar illa upp og fengum við orð í eyra fyrir að vera að skipta okkur af slíkum málum. Við lentum í einhverjum útistöðum við þá vegna Stefnis og má segja að það hafi bætt gráu ofan á svart. Þá lentum við einnig í útistöðum við Birtings-menn og hélt ég á þeim tíma að það hefði verið af stjórnmálaástæðum, en Kristján Karlsson benti mér á það löngu síðar að Einar Bragi hafi haft það á móti ljóðum mínum í Borgin hló, að ég hefði valið aðra stefnu en þeir Birtingsmenn prédikuðu og hefði ég verið látinn gjalda fyrir það; ég hefði gert hallarbyltingu í atómskáldskap eins og Kristján Davíðsson í afstraktlist. Síðar var mér boðið að birta ljóð í Birtingi og valdi ég frumdrögin að Goðsögn í samráði við Thor Vilhjálmsson. Þeir birtu það með pomp og prakt. Síðar breytti ég kvæðinu, hreinsaði það af öllum óþarfa og birti svo breytt í Fagur er dalur.
Ég hef aldrei orðið fyrir ónotum frá Birtingsmönnum eftir að ljóð mitt var prentað í riti þeirra, nema síður sé.
Á þessum árum var oft blandað saman pólitík og skáldskap, jafnvel í fjarstæðuverki eins og Nashyrningunum eftir Yonescu. Ég sá það á leiksviði í Lundúnum einhvern tíma í kringum 1960, þá lék Sir Laurence Olivier aðalhlutverkið. Það var eftirminnilegt, ekki sízt í því andrúmi sem þá réð í umhverfi okkar. Sjálfur hef ég ort pólitísk kvæði, það er rétt, og má sjá nokkur sýnishorn í Félaga orð, svo og önnur í Frelsinu. Ennfremur í Helgispjalli, t.a.m. Þjóðfélaginu sem ég held að sé annað bindi Helgispjalls, kom út hjá Iðunni 1992. Þar er frásögn mín af ferð okkar til Austur-Evrópu um það leyti sem kommúnisminn var í fjörbrotum, t.a.m. í kafla sem heitir Salt á föstudögum, og einnig í kvæðum sem ég orti eftir dvölina í Vín, Prag, Bratislava og Búdapest. Þar er að lokum ljóð um Maleter sem var ungverskur hershöfðingi í uppreisninni í Ungverjalandi 1956 og varð einskonar þjóðhetja okkar. Kommúnistar lokkuðu hann í gildru og myrtu hann, ásamt Nagy, forsætisráðherra landsins. Þessi kvæði eru einskonar minningar um kalda stríðið, en þó einkum byggð á minningum um þetta ferðalag:

Hugsun mín
þín blómskreytta gröf

Maleter

minning þín
hetjutorg
míns óvarða
hjarta,

þar hittumst við
enn
og ávallt
einn nóvemberdag
sem er allir
dagar

Aðalbreiðgatan í Búdapest heitir Dozsa og kvæðinu lýkur með þessum hætti:

Enn laufgast
trén
við Dozsa.

Fjaðrafok (1970) var dæmigerður hasar í þessu dæmalausa andrúmi kalda stríðsins. Það var ekki verið að ráðast á eitt vesælt ádeiluleikrit, heldur höfund þess; ritstjóra Morgunblaðsins. Vinstri menn hefðu átt að fagna þeirri félagslegu ádeilu sem var einskonar boðskapur verksins, en það var nú öðru nær! Aðförin að höfundinum stóð yfir í hálft ár og annar eins gauragangur hafði ekki heyrzt hér á landi útaf nokkru verki frá því Kiljan og Þórbergur voru teknir í karphúsið á sínum tíma. Það virtist mikið liggja við að koma höggi á höfundinn, þennan óforbetranlega ritstjóra auðvaldsins og útvörð þess sem þá var kallað hérnám hugarfarsins!  og ég minntist á. Samt hafði hann, eins og Páll Baldvinsson benti á í blaðagrein löngu síðar, ekki gert annað af sér en skrifa fyrsta sósíalrealiska leikritið á Íslandi! Að vísu er Fjaðrafok táknræn þjóðfélagsgreining í aðra röndina en þó víst í ætt við ævintýri eins og Kristín Jóhannesdóttir kvikmyndaleikstjóri lýsti verkinu svo ágætlega um það leyti sem hún vann úr því sjónvarpsleikritið Glerbrot, með Björk í aðalhlutverki.
En sem sagt, þetta var dæmigert kvikuhlaup í villimannlegu og hektísku andrúmi kalda stríðsins og þess skelfilega þjóðfélags sem var aðal þess og einkenni.

8.
Allt hefur þetta verið mikil upplifun, mikil reynsla og minningarnar að sjálfsögðu óafmáanlegar. Það var á þessum nálaroddi, svo að vitnað sé í Lorca - og einungis á þessum nálaroddi - sem skáldið og blaðamaðurinn mættust og urðu að einni persónu; þessum eina nálaroddi sem við köllum kalt stríð.
Margvísleg reynsla mín sem blaðamanns - og þá ekki sízt reynslan úr kalda stríðinu - birtist í ritgerðarsafni mínu, Hugleiðingar og viðtöl, 1963, og það kom mér þá skemtilega á óvart hversu skaplega Árni Bergmann blaðamaður á Þjóðviljanum skrifaði um bókina sem hafði þau áhrif á hann að hann lét sér ekki nægja eina grein, heldur greinaflokk sem birtist í blaðinu á þessu ári, ef ég man rétt. Síðar birtist þessi reynsla í Félaga orð sem út kom 1982. Þar eru samtöl mín við Tarsis sem ég hitti á Penn-fundinum í New York 1966, en þá átti ég einnig samtöl við Albee og Arthur Miller, en Tarsis skrifaði skáldsöguna Deild sjö og sagði á þessum tíma að Sovétríkin mundu hrynja. Það þótti ekki góð latína. Maðurinn var að sjálfsögðu talinn geðbilaður og settur á geðveikrarhæli. Ennfremur birtist þarna samtal mitt við Sinjavsky, öðru nafni Abraham Terz, en hann skrifaði merka skáldsögu undir því nafni, Réttur er settur, og var sendur í Gúlagið fyrir bragðið eftir heimsfræg réttarhöld. Ég hitti hann í París 1975 og hafði einkum gaman af að kynnast því hversu vel hann var að sér í málsmenningarhefð íslenskrar arfleifðar; þar er einnig birt samtal mitt við Brodský frá 1978, og Búkovský 1979 - og það má ekki gleyma samtölunum við Ashkenazy en við morgunblaðsmenn unnum að því öllum árum um langan tíma að Rússar leyfðu að foreldrar hans kæmu í heimsókn til þeirra Þórunnar hingað til Íslands. Eftir mikla baráttu var björinn unninn. Ég hafði ekki sízt gaman af að tala við þá Ashkenazy og Rostropovits saman og það vakti athygli mína hvað sellóleikarinn hafði gaman af að segja tvíræða brandara.
Í Hugleiðingum og viðtölum birtust aftur á móti samtöl mín við Mikojan sem voru prentuð í Morgunblaðinu 18. nóvember 1959 og 5. febrúar árið eftir. Hann vildi breyta Keflavíkurflugvelli í skautasvell, en lagði þó einkum áherzlu á aukin viðskipti milli Íslands og Sovétríkjanna. Ennfremur frásögn mín af blaðamannafundi Krúsjeffs í París 1960, en hún birtist 28. maí. Þá átti að halda toppfund Krúsjeffs og Eisenhowers í París, en hann fórst fyrir vegna þess að Bandaríkjamenn voru teknir í rúminu. Rússar uppgötvuðu U-2 njósnaflugvél Bandaríkjanna yfir Sovétríkjunum skömmu fyrir fundinn og skutu hana niður, tóku flugmanninn, Powers, til fanga og sýndu heiminum fram á þessa bandarísku ógn, svart á hvítu. Ég held það megi sjá af frásögn minni af þessum blaðamannafundi Krúsjeffs, hvernig ástandið var eftir að hann hafði boðað friðsamlega sambúð. En um það orti ég sérstakan ljóðaflokk sem birtist í Fagur er dalur, breytti honum síðar og stytti með því að fella úr honum og yrkja sum ljóðin inn í endurútgáfu á Sálmum á atómöld.
Í Hugleiðingum og viðtölum er einnig birt samtal mitt við Furtsevu, menningarmálaráðherra Sovétríkjanna, sem hingað kom, en það var prentað í Morgunblaðinu 10. júní 1961. Ég held okkur Furtsevu hafi þótt gaman að skiptast á skoðunum, því að hún veitt mér allan þann tíma sem ég vildi eða þurfti. Við töluðum m.a. um trúmál og það var ekki sízt hnýsilegt að kynna sér afstöðu hennar, en hún lýsir því vel og rækilega, hvernig kommúnistar litu á trúna. Hún sagði að enginn hefði áhuga á Pastanak í Sovétríkjunum og friðaði stéttarvitund sína, þ.e. samvizku, með því. Ég hafði þá skrifað samtalsbókina við Þórberg, Í kompaníi við allífið, sem kom út á sjötugsafmæli hans 12. marz 1959. Þar spurði ég Þórberg m.a. um afstöðu kommúnista til trúmála og hann sagði að þeir mundu að öllum líkindum, vegna geimferða sinna, koma aftan að eilífa lífinu og uppgötva það! Ég held honum hafi þótt það mátulegt á þá, guðleysingjana! Hann nefndi einnig Gagarín sem sagði við okkur íslenzka blaðamenn á Keflavíkurflugvelli, þegar hann kom hingað í júlí 1961, að hann bæði ekki til guðs og það hefði verið alveg sama, hvað hann hefði farið hátt upp í himingeiminn - hann hefði aldrei séð guð! Þetta var ósköp geðfelldur piltur sem vissi hvað hann átti að segja. Hann vann mikið afrek með þessari fyrstu geimferð sinni, því að enginn vissi hvernig hún mundi takast, allra sízt hann sjálfur. Það voru jafnmiklar líkur á því að hann færist í þessari ferð og hún tækist og hann kæmi aftur til jarðar án allra guðsbæna! En hún tókst og Gagarín var hetja í orðsins fyllstu merkingu. Sovétríkin voru komin í forystu, kaninn eins og hver annar strandaglópur! Yfir því gladdist Þórbergur!

9.
Ljóðin sem eru birt hér að framan og voru prentuð í Frelsinu 1980 urðu til eftir upplestrarferð mína til Berlínar það ár, að ég held. Við Hanna fórum þangað saman, ásamt Sverri Schopka. Við fórum með lestum báðar leiðir og það var ógnvænlegt, hvernig schaeffer-hundarnir leituðu að fólki undir lestunum. Mér fannst líka hálf ógnvekjandi hvernig alþýðulögreglan skoðaði vegabréfin okkar. En það var gaman að koma til Berlínar aftur, eftirminnilegt; ógleymanlegt. Ég las upp á vegum háskólans og var í góðum félagsskap. Við heimsóttum einn af varðturnum vestur-þýzku lögreglunnar við Berlínarmúrinn og fylgdumst með austur-þýzku alþýðulögreglunni leita í yfirgefnum húsum við múrinn. Þeir leituðu einungis að fólki eins og 1953 í Brúarfossi í Leningrað. Í myrkrinu fundu þeir stundum fólk, ef það var með börn sem fóru að gráta á flóttanum. Þeir notuðu schaeffer-hunda, það var einnig ógnlegt. Og þá ekki síður hvernig þeir leituðu undir rútunni sem við fórum með til Austur-Berlínar í gegnum Check-Point Charlie. Þeir settu spegla undir bílinn og á meðan biðum við í ofvæni; leituðu sem sagt eingöngu að fólki. Konan sem tók við okkur í Austur-Berlín og sýndi okkur borgina hélt innfjálgan fyrirlestur um “vísindalegan sósíalisma”. Það var ekki eins og hún væri að tala um pólitíska stefnu, heldur trú. Þegar við komum að rússneska kirkjugarðinum sem er miklu stærri og flottari en sá sem Þjóðverjarnir eru grafnir í var hún spurð, af hverju þessi kirkjugarður væri svona miklu veglegri en sá þýzki. Henni vafðist tunga um tönn, að sjálfsögðu.
Þegar við komum til Prag minntumst við innrásar Rússa í Tékkóslóvakíu 1986. Þá sagði Magnús Kjartansson að þeir Tékkar sem hefðu kallað á rússneska herinn stæðu í sömu sporum og við Nató-sinnar á Íslandi. Við hefðum kallað herinn til Íslands. Þeir hefðu kallað herinn til Prag. Á því væri enginn munur!! Þannig var áróðurinn á þeim árum. Það var ekki fyrir nokkurn mann að svara svona útúrsnúningi. Samt var reynt að koma í veg fyrir að menn tækju hann eins og framlag í alvörurökræður, en það tókst víst ekki alltaf eins og andrúmið var(!) Magnús átti sér eitrað vopn, óviðjafnanlegan gálgahúmor.

10.
Berlínarmúrinn var svo rifinn upp úr 1989, en þá lá leið okkar enn til Berlínar. Þar las ég upp í Cafe Clara sem var áður í Austur-Berlín. Ég las einnig upp í útvarp. Þessi ferð var ekki sízt ógleymanleg og þá helzt fyrir þá sök að nú gátum við gengið undir Brandenborgarhliðið, milli Austur- og Vestur-Berlínar, óáreitt og frjáls og andað að okkur nýrri veröld í deiglu. Það er einhver bezta tilfinning sem ég hef nokkru sinni fundið. Gata 17. júní og Karls Marx, vettvangur friðar og frelsis, var hægt að biðja um meira eftir öll þessi ár; allar þessar þjáningar, allt þetta ofbeldi, allt þetta hatur og allar þessar ofsóknir? Ég held ekki. Loksins, loksins - kynni af sæluríkinu. Utópíunni. Hverjum hefði getað dottið í hug, þegar við vorum þarna á ferð 1953 að við ættum eftir að upplifa sæluríkið, einmitt á þessum stað, á leiðinni frá Brandenborgarhliði inn í miðja Austur-Berlín?! Engum líklega - nema Tarzis(!) Enda var hann afskrifaður; galinn! Kannski einnig Soltzhenitsyn, ég veit það ekki. Þegar hann var gerður útlægur skrifaði ég forystugrein í Morgunblaðið og stakk upp á því, að við biðum honum að koma til Íslands og dveljast hér eins og hann fýsti. Rökin sem ég notaði voru þau, að Rússar hertækju aldrei land þar sem Soltzhenitsyn byggi. Þeir væru búnir að fá nóg af honum. Þeir hefðu ekkert ráðið við hann. Herinn gæti farið heim! Ef Soltzhenitsyn byggi á Íslandi mundu sovétherrarnir ekki frekar gleypa landið en þeir hefðu áhuga á því að gleypa broddgölt! En þessari uppástungu var ekki sinnt eins og efni stóðu til og Soltzhentisyn fór til Bandaríkjanna. Nú er þessi hetja Sovétríkjanna, þessi raunverulega hetja Sovétríkjanna, kominn aftur heim til Moskvu og tímarnir hafa breytzt. Markaðsstefnan ræður hvarvetna ríkjum. Einhvers konar frelsi víðast hvar. Þverpólitísk dútlpólitík, bæði hér og annars staðar. Það kemur engin hetja út úr slíkri deiglu, í hæsta lagi knattspyrnuhetja! Og nú er þjóðarsorgin bundin við það, ef eitthvert ríki tapar fyrir öðru í heimsmeistarakeppni í knattspyrnu! Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán!!
Og Soltzhenitsyn situr heima í Moskvu, að mestu gleymdur, og kann ekki að hreyfa sig í markaðsþjóðfélagi mafíunnar, ekki frekar en fiskur á þurru landi.
Því miður.
Allt hefur sinn tíma. Einnig Soltzhenitsyn.
Og þá einnig Havel sem var tákngervingur andspyrnumanna í Tékkóslóvakíu og situr enn á forsetastóli þar í landi. Og nú er forseti Póllands  maður sem áður var íþróttamálaráðherra kommúnista í kalda stríðinu! Og vill ólmur koma Póllandi í Atlantshafsbandalagið! Það á einnig sinn tíma og þá ekki síður Solana, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. Mér skilst hann hafi verið einhvers konar sósíalískur hernámsandstæðingur í æsku. Þau eru glettin, örlögin!

11.
Og nú lifir Gorbasjov á því að halda fyrirlestra, vel látinn, en gleymdur að mestu. Síðasti aðalritari sovézka kommúnistaflokksins. Síðasti leiðtogi hins fallna alræðisríkis. Ég var á blaðamannafundi hans í Háskólabíói að loknum toppfundi þeirra Reagans í Reykjavík 1986. Þar voru margir blaðamenn. Heimspressan allsráðandi eins og á Parísarfundinum með Krúsjeff forðum daga, og þá ekki síður Kissingers-fundinum,  þegar hann kom hingað í miðju kalda stríðinu og hélt blaðamannafund á harla erfiðum tímum, því þá geisaði þorskastríð milli Breta og Íslendinga. Mér tókst á fundinum að ná sambandi við Kissinger, því að hann benti á mig og veitti mér tækifæri til að spyrja einnar spurningar. Hún fjallaði að sjálfsögðu um þorskastríðið. Hann reyndi að tala upp í eyrun á Íslendingum, en síðar kemur í ljós af minningabók hans, að hann hafði hina mestu skömm á brölti okkar Íslendinga sem hann taldi að væri dæmigert fyrir það, hvernig smáþjóð hefði getað kúgað stórveldi á tímum kalda stríðsins(!) Það var gott við skyldum geta notað kalda stríðið til einhvers, ég vona bara að það sé rétt! Á þessum árum áttum við fullt í fangi með að halda Nató-stefnunni í Morgunblaðinu. Fjölmargir sjálfstæðismenn heimtuðu að við gengjum úr Nató eða sendum varnarliði heim vegna yfirgangs Breta á miðunum. Það var að sjálfsögðu óráð. Það hefur aldrei verið erfiðara að standa í brúnni á Morgunblaðinu en einmitt á þeim tvísýnu tímum. En það tókst og skipið fórst ekki, þvert á móti. Við náðum höfn, ekki sízt vegna aðildar að Atlantshafsbandalaginu.
En þarna sat ég í Háskólabíói og hlustaði á Gorbasjov, staðráðinn í að spyrja hann einnar spurningar, og aðeins einnar, hvort það hefði ekki verið erfitt fyrir sovétleiðtogana að koma til Íslands vegna aðildar þess að Atlantshafsbandalaginu? Mér hefði skilizt að það hafi verið talað um að halda toppfundinn í hlutlausu ríki. Ég beitti huglestri. Einbeitti mér að heila og hugsun Gorbasjovs. Ég rétti upp höndina. Fjöldi blaðamanna rétti einnig upp höndina. Öll heimspressan! Þetta var síðasta spurningin. Nú var að duga eða drepast. Þá yrði engin spurning framar, aldrei. Hann leit yfir salinn, benti  á mig. Þó sat ég mjög aftarlega. Hugleiðslan, einbeitningin hafði tekizt og ég spurði fyrrnefndrar spurningar. Hann svaraði með stuttri ræðu, sagði það hefði ekki verið neinn vandi fyrir Rússa að taka ákvörðun um að koma til Íslands; það hefði ekki verið neinum vandkvæðum bundið; aðild Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu hefði á engan hátt getað komið í veg fyrir það. Þá vissi ég það sem við höfum alltaf vitað. Rússar litu á aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu sem vörn. Þeir vissu að við litum á bandalagið sem varnar- og öryggisbandalag, en ekki árásarbandalag. Og þeir gerðu sér grein fyrir því sem við þóttumst einnig vita, að það væru engin atómvopn á Íslandi. Þeir hefðu örugglega ekki komið til þessa fundar á Íslandi, ef þeir hefðu talið að slík vopn væru hér á landi.
Tilgangi mínum með spurningunni var náð. Ég var harla ánægður með þessi endalok kalda stríðsins í lífi mínu. Þau voru í mínum huga innsigluð í svari sovétleiðtogans. Stefna okkar hefði ekki verið ögrandi á nokkurn hátt. Hún hafi verið rétt. Og nú reynir Atlantshafsbandalagið að tryggja frið í Evrópu. Það er friðarbandalag á Balkan. Það er litið til þess með nokkurri eftirvæntingu. Og það fer eftir ástandinu í Asíu, ekki sízt í Indlandi, Pakistan og Kína, hvort Rússar eiga eftir að sækja um aðild að þessu öryggisbandalagi vestrænna ríkja, því að ekki geta þeir sótt öryggi í Varsjárbandalagið, það er ekki til. Því skolaði burt í fjörbrotum kalda stríðsins.

 

Rauð jól

 

“Sverð mun jafnvel nísta þína eigin sálu, til þess að hugsanir margra hjartna verði opinberar”.

Úr jólaguðspjöllunum, Lúkas 2,35.

Á landakortinu
fagurlega boginn
austurlenzkur
rýtingur.

Þeim var trúað fyrir
laufgrænni jörð
heitrar sólar
og saklauss fólks undir stráhöttum.

Víetnam
blóðugt sverð
í brjósti okkar.

Ó, Evtúsjenkó,
við sem gætum skilið hvor annan
tölumst aldrei við,

meðan þeir kasta sverðum
og blóð drýpur
í stríðsplægðan
hrísgrjónaakur.

Hverjum blæðir út?

Samvizku okkar,
samvizku okkar...

Ecvtúsjenkó.

 

Ódagsett

Þegar við Kristján Karlsson hittumst síðast barst Jónss Jónsson  frá Hriflu í tal.
Ég spurði um Guðrúnu, konu Jónasar. Hann sagði að hún hefði getað verið grimm. Þau Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, voru systkinabörn, minnir mig. Frú Guðrún var myndarkona og dálítið sérstæð. Hún stóð vel með manni sínum og hvatti hann fremur en latti.
Kristján sagðist hafa fundið fyrir því að hún hefði ekki verið eins hlý í hans garð eftir að kólnaði með þeim föður hans, Karli Kristjánssyni þingmanni, og Jónasi. En það breytti Jónasi á engan hátt. Hann var jafn hlýr í garð Kristjáns og hann hafði ávallt verið.

Þegar dró sundur með þeim Jónasi og Sigurði Nordal - en þeir höfðu verið miklir mátar um skeið og mikill samgangur milli heimila þeirra - þá sagði Guðrún, þegar Kristján sat einhverju sinni í eldhúsinu hjá henni og hún var að vaska upp og hann spurði um Nordal,
Það á ekki að hlífa Sigurði Nordal. Hvers vegna ætti að hlífa Sigurði Nordal?
Þetta var 1942 og það var ekki um að villast, Guðrún kona Jónasar hvatti hann fremur til átaka við þennan gamla vin en latti.
Faðir Kristjáns sagði einhverju sinni í bréfi til hans að Guðrún hefði bergþóruskap - og þar með var það mál útrætt.
Það er ekki sama hver stendur á bak við þá sem mikla ábyrgð bera. Ef konan er góð, þá er ábyrgðin góð. Ef konan er grimm, þá er ábyrgðin grimm. Um það má lesa í fornum íslenzkum sögum. En enginn er allur þar sem hann er séður. Ekki heldur eiginkonur merkra manna.

2. júlí, fimmtudagur

Ég borðaði með Kristjáni Karlssyni í gær, 1. júlí. Þá fékk ég hjá honum nýtt ljóð, Persónur III, hugsað til Haralds Kröyer. Í þessu kvæði er fyrsta persónan sem nefnd er Pétur Benediktsson, önnur persónan Hans G. Andersen og Haraldur er þriðja persónan í kvæðinu.
Hans G. Andersen var frændi minn. Við töluðum mikið saman þegar ég skrifaði í Morgunblaðið um hafréttarráðstefnurnar í Genf. Ég vissi alltaf hvenær hann var ánægður með skrif mín, þá sagði hann þegar við hittumst að morgni dags,
Sæll frændi(!)
Annars muldraði hann eitthvað óskiljanlegt!
Hans var einskonar snillingur og vann íslenzkum málstað ómetanlegt gagn með forystu sinni í hafréttarmálum. En hann var síður en svo alsæll maður. Hann lenti í drykkjuskap þegar hann var sendiherra í Ósló, en náði sér held ég upp úr því. Ég held hann hafi talið að hann hefði átt að ná lengra, held hann hafi langað til að verða utanríkisráðherra. Hafði dálitla von um það þegar framsóknarmenn mynduðu stjórn.
Kristján Karlsson tekur undir þetta og segir að Hans hafi sagt sér það beinlínis. Ásta kona Hans var honum áreiðanlega nokkuð góður bakhjarl og margt gott um hana að segja. Kristján telur að hún sé heldur góður listmálari en hún átti það til að keyra allt í kaf sem var nálægt henni. Það varð Hans bæði til góðs og tjóns, að ég held.

Í gær átti Guðjón Lárusson, frændi minn og vinur, sjötugsafmæli. Hann er einn virtasti og vinsælasti læknir landsins. Hann hélt ekki upp á afmælið en hélt til Austurlands og hefur dvalist þar í nokkra daga. Talaði við hann í fyrradag. Hann sagðist hafa farið til Seyðisfjarðar og skoðað æskuumhverfi föður síns og móður minnar, en þau voru systkin. Hann hafði sérstakan áhuga á barnaskólanum þar sem þau stunduðu sitt nám öll systkinin þrjú, einnig Elín sem yngst var, síðar kona Bergsveins , augnlæknis. Á heimili þeirra var ég hálf alinn upp en þar var Jóhannes afi minn síðasta áratuginn sem hann lifði. Þar dó einnig Jósefína amma mín, að Ránargötu 20.

Þetta heimili var mér ómetanlegt. Nærveran við Jóhannes afa hefur fylgt mér eins og leiðarljós. Hann stjórnaði með þögn og nærveru, rétt eins og guðdómurinn. Hann hafði sopið marga pólitíska fjöru en talaði aldrei um það. Hann hafði aldrei gert nokkrum manni mein og þess vegna gat hann talað við hvern sem var. Sú vitneskja hefur verið mér ómetanleg leiðsögn við ritstjórn Morgunblaðsins.
Og ég heyrði aldrei illt orð af munni hans um annað fólk.

Eftir að ég hafði borðað með Kristjáni Karlssyni og Hanna keyrt mig upp á Morgunblað kom ég við í Fógetanum á heimleið. Þar var gistihús þegar Matthías, föðurafi minn, kom frá Noregi í fyrsta skipti 1873 eða ´74 og þar dvaldist hann um hríð. Helga Magnea, amma mín, var þá sextán ára gömul, og einskonar fósturdóttir frú Zöega sem þar réð húsum. Í þessu húsi kynntust afi minn og amma. Mér hefur því alltaf fundizt það ólíkt öllum öðrum húsum.  Þar er eitthvert andrúm sem vekur með mér þá tilfinningu að ég eigi þar heima.
Þetta er gamalt hús, jafn gamalt og minningar verða með tímanum. Þetta hús er einskonar minning um gen fjölskyldunnar. Og nú skilst mér það sé elzta hús í borginni.
Það er friðað.
Þórður Arnarson heitir ungur maður. Hann er nýbúinn að kaupa Fógetann af öðrum ungum borgnesingi, Þórði Pálmasyni. Nú rekur hann Fógetann  með ágætum. Ég held þetta sé eini íslenzki barinn, allir aðrir eru einhvers konar eftirlíking af því sem gerist í útlöndum. Þórður var leiðsögumaður við Langá þegar við veiddum þar á sínum tíma. Mér líkaði vel við hann. Hann rifjaði þetta upp þegar ég hitti hann þarna í Fógetanum. Ég sagði honum að mér líkaði mjög vel við Jósep þjón og hvort hann hefði keypt hann líka.
Já, sagði Þórður, Ég keypti hann líka. Hann er friðaður eins og húsið(!)

Þannig getur hversdagslegasta fólk orðið að sókratesum. Í samtölum mínum  hef ég verið að leita að þessum sókratesum, stundum tekizt - og sjálfur er ég þeirrar skoðunar að mörg samtölin hef ég skrifað eins og smásögur og mætti birta þau sem slíkar. Þyrfti eiginlega að gera það við gott tækifæri; samtöl við Jón gamla, Elías Hólm, Helgu á Engi, Eggert Stefánsson og fleira fólk eru ekkert annað en raunsæissögur úr lífinu sjálfu. Og koma líklega blaðamennsku harla lítið við þótt þau hafi birtzt á sínum tíma eins og hver önnur framhaldssaga í dagblaði.

Það er fátt sem segir eins mikið um þróun Morgunblaðsins og ummæli Halldórs Halldórssonar prófessors þegar hann fékk viðurkenningu fyrir starf sitt að málvernd 17. júní sl. Þá sagði hann í samtali að þeir skólabræður hefðu gantazt með morgunblaðsfjólurnar og skemmt sér vel yfir þeim. Nú væru slíkar fjólur sjaldsénar. Hafi blaðið tekið stakkaskiptum, einnig að því leyti.

Þetta voru uppörvandi skilaboð frá þessum gamla kennara mínum og tel ég að vel hafi verið að verki staðið, þótt ekki hefði verið öðrum árangri til að dreifa en þessari ræktun móðurtungunnar.

3. júlí, föstudagur

Styrmir sagði mér í morgun að hann hefði verið í boði með Davíð Oddssyni í gærkvöldi og hafi Davíð þá minnzt á rifrildi okkar á dögunum heima hjá Stefaníu og Sverri Sigfússyni.
Hann fagnaði þessari sennu og sagði að hún hefði sýnt svo ekki væri um að villast að vinátta okkar stæði svo föstum fótum að ekkert fengi haggað henni, hvorki slík uppákoma né annað!

Davíð hafði aftur á móti verulegar áhyggur af öðru máli. Hann sagði að það hefði komið 15 milljón króna reikningur í skrifstofu sendiherra Íslands í Washington sem fyrsta greiðsla fyrir læknismeðferð forsetafrúarinnar í Seattle. Enginn hefði minnzt á þetta einu orði og þeir Halldór Ásgrímsson vissu ekki hvernig með skyldi fara. Ef neitað yrði að greiða þá yrðu þeir úthrópaðir sem illmenni og yrðu að segja af sér, en ef greitt væri kæmi að sjálfsögðu að því að slíkar greiðslur þyrfti einnig að inna af hendi fyrir þá sjúklinga aðra, sem minna mega sín. Hann ætlar víst að láta Tryggingastofnunina kanna þetta mál til hlítar og ræða það síðan við forystumenn stjórnarandstöðunnar svo að hann sitji ekki uppi með hneykslismál að lokum.
Samfylking í þessu máli sé eina ráðið til að komast að einhverri niðurstöðu, svo óþægilegt sem þetta væri.
Þetta er að sjálfsögðu á fárra vitorði eins og margt annað í stjórnsýslu okkar sem bezt er að hafa sem fæst orð um. En sendiherra Íslands í Washington, Jón Baldvin Hannibalsson, var víst fljótur að senda reikninginn heim til Reykjavíkur og vísa ákvörðunum frá sér til þeirra háu herra sem landinu stjórna.

Næsti dagur

Í athyglisverðri grein, eða samtali við dr. Jón Karl Helgason, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins í dag, hefur Þröstur Helgason eftir honum að ég hafi skrifað brautryðjendaverk í einhverju sem nefnist viðtökurannsóknir með Njálu í íslenzkum skáldskap. Þetta kom mér ánægjulega á óvart því að ég vissi ekki frekar um það að ég væri brautryðjandi í þessum efnum en Lúther vissi að hann væri lútherskur!
Þröstur Helgason segir að með þessu sé ég einn af frumherjum póstmódernismans á Íslandi(!)
Það er auðvitað rétt að í þessari bók er fjallað um afstöðuna til Njálu eins og hún hefur birzt í skáldskap og þannig hefur verið leitað þeirra höfunda, ef svo mætti segja, sem hafa reynt að túlka söguna fyrir alþýðu manna.
Ég hef ævinlega gert mér grein fyrir því að fólkið sem nýtur bókmennta er að vissu leyti höfundar þeirra. Borges sagði í samtölum okkar á sínum tíma að leikrit væri jafn mikilvægur atburður og hver annar í lífi þeirra sem njóta leiklistar, því að þeir öðlist sérstaka og kannski einstæða reynslu, meðan þeir horfa eða hlusta á verkið. Og ég er sammála Borges í því að ljóðskáld sem flytur kvæði hefur m.a. það hlutverk að breyta hverjum og einum í einskonar ljóðskáld, það er upplifun hvers og eins, reynsla og túlkun, sem úrslitum ræður þegar upp er staðið.

En sem sagt, Njála í íslenskum skáldskap orðin brauðryðjendaverk - og þá væntanlega annað brautryðjendaverkið sem ég hef samið; hitt hlýtur að vera Í kompaníi við allífið sem var fyrsta samtalsbók íslenzk eins og tekið er fram í Bókmenntum Menningarsjóðs.
Í fyrrnefndu samtali Þrastar Helgasonar við Jón Karl Helgason segir hann m.a. svo:
“Brautryðjendaverk í slíkum viðtökurannsóknum á Njálu var bók Matthíasar Johannessen, Njála í íslenzkum skáldskap, sem kom út 1958 og hefur reynst mér mjög drjúgur heimildargrunnur.”
Þessi bók er fyrsta rit mitt sem út kom á prenti og það þótti nokkrum tíðindum sæti, þegar kennari minn, Einar Ólafur Sveinsson prófessor, treysti mér fyrir því að skrifa lokaprófsritgerð í norrænum fræðum um þetta uppáhaldsverk hans. Hann sá einnig um að ég endurskrifaði það og byggi til prentunar og ennfremur að Bókmenntafélagið gæfi ritið út.
Þetta er orðið nokkuð lífsseigt rit því að enn er til þess vitnað og um það fjallað. Í kjölfar þessa rits kom svo Borgin hló, sama ár, eða 1958. Ég á þannig eins og forsvarsmenn Vöku-Helgafells hafa bent á, 40 ára rithöfundarafmæli í haust. Þeir hafa víst áhuga á að halda upp á það, en ég er efins eins og ævinlega, þegar ég á að fara upp á senuna og standa í sviðsljósinu.

Orti þetta í dag eftir góða göngu um Fossvoginn:

Kona með græna fingur

Í þessu blómi
birtist hugur minn
og brýtur sér leið
að þögn í hjarta þínu
og hún er laufgað tré
sem bíður eitt um sinn
og brosir eins og lauf
við hjarta mínu.

Og blómin dansa blá
og rauð og gul
og bregða á leik við grös
í skugga trjáa,
þau svífa eins og sól
við túngrænt kul
og sólin kyssir blómin
milli stráa.

Og þannig ilmar allt
í kringum þig
og augu mín þau sækja í bláa
blómið, þú réttir mér
gley-mér-ei og sagðir,
Komdu hingað, komdu
og rífðu mig,

rífðu mig upp með rótum.

Nú er fyrirlesturinn sem ég flutti við Bonn-háskóla í fyrra kominn út í Island, riti Íslendingafélagsins í Þýzkalandi. Mér sýnist hann plumma sig vel á þýzkunni en ég flutti hann á sínum tíma einnig á því máli og fann að það var þakksamlega þegið.

5. júlí, sunnudagur

Orti þetta kvæði á göngu í gær:

Undir sólinni

Það er langt síðan ég týndi skugganum mínum.
Ég leitaði hans í allan dag en fann ekki.
Undir kvöld rakst ég á hann í Fossvogi og hann
fylgdi mér eftir, hugsunarlaust.
Þannig er lífið ljósnæm filma og framkallast
undir sólinni, ljós og skuggar sem deyja inn í myrkrið.

Hef verið beðinn um að tala um kalda stríðið í sjónvarpsþætti og verður það víst tekið upp á morgun. Hef verið að grúska í gömlum skrifum mínum um þau efni, bæði Í hugleiðingum og viðtölum, Félaga orð, og Frelsinu. 

Hvorki ég né neinn annar getur endurvakið andblæ kalda stríðsins með þeim hætti að ungt fólk og ókunnugt geti upplifað þá óttalegu tíma. En ég get reynt að stikla á nokkrum atriðum og þá hef ég mestan huga á að nefna andófsmenn sem ég hitti og talaði við og mikilvæga blaðamannafundi á þessum árum sem ég upplifði í störfum mínum fyrir Morgunblaðið. Þetta eru vörður yfir heiði sem nú liggur undir bláum himni en var áður næsta ósýnileg og hulin í hamförum gerningahríða. En við sjáum hvað setur, ég reyni hvað ég get.
Í grúski mínu hef ég rekizt á nokkur kvæði í Frelsinu sem ég var búinn að gleyma, m.a. þessi:
Ljóð lesin á afmælisfundi Félags frjálshyggjumanna 18. apríl 1984:

Sartre

Þú munt hafa verið samfylgdarmaður
eða fellow traveller á máli Shakespeares
en compagnon de route á tungu þín sjálfs
og það var jafnvel einhver uppgjöf
í uppgjöf þinni til hálfs,
en samt er engin ranghverfa á compagnon de route
frekar en á köflóttum tóbaksvasaklút.

Lenín segir við Robespierre:

Byltingin étur börnin sín
og brýtur gullin mín
og þín.

Mynd af Kósígin og Brésnéf

í Der Spiegel 7. júlí 1980

Hvert eru þeir að veifa?
Inn í fortíðina,
inn í framtíðina?

Hvern eru þeir að kveðja?
Gamlan draum, von,
sitt eigið fánýta líf?

Hverjir eru þeir,
sem standa þarna saman
og veifa: myndastyttur? Veggspjöld?
Eða minnismerki
um vorn vísindalega
sósíalisma?

Samt er ekkert vísindalegt
við þessa gömlu karla, aðeins
tvær hendur sem veifa
að eilífu á þessari mynd,
fjögur augu, fjögur ósjáandi
augu að eilífu, tvær
veifandi myndastyttur
með fjögur starandi augu,
sem ekkert sjá.

Og ekkert er sagt
undir fjögur augu á þessari mynd.

Handa blindum

Nú er
30. marz.
Yfir Bankastræti
lindi:
Birtu handa blindum.

Veizla í farangrinum

Skattgreiðandinn
gekk inní kjörklefann
með tvær skammbyssur
og sex kjarnorkusprengur
í hvorri hendi,
nýkominn úr friðargöngu.

Í Austurstræti

Ég hef ekki verið á Hressó
lengi en hími í minni skel,
við lentum þar stundum áður fyrr
ef hann gekk á með norðvestan él.

Ég fór þangað samt einn dag í vor,
með kopargrænt skáld í fylgd með mér,
en þá var þar fullt og líkast því
maður væri kominn í fuglager.

Jónas fór út og upp á stall
en ég fékk mér sæti inn við dyr.
Þá kemur þar lítill maður með kött
og segir: Ég hef víst komið hér fyr.

Hann sezt þar hjá mér, en segir svo
með lágværri röddu: Má bjóða þér einn!
Ég þakkaði fyrir, þá tekur hann burt
andlit dauðans: Sæll! Það var Steinn.

Nú veit ég ekki hvort ég er
dauðans matur eða lifandi enn.
Áður var lífið dagur, ei meir
sem Laxness kallar víst dagur í senn.

En Dagur austan slóst í för
með okkur Steini, þann alfaraveg
fórum við saman unz fjandinn kom
og kvaðst á við Stein. Þá vaknaði ég.

Ferð inní fyrirheit

En vindur blæs vonarneista
í vor þar sem hús þitt stóð.
En sólin var köld, úr sári
þíns sumars draup lyngrautt blóð.
En jörðin var hemuð og hrímið
fór heiðina vetrarkvíða,
þú brostir við bleikum himni
í blotanum milli hríða
og fetaðir fennta slóð.

En vindsvalir liggja vegir
í vestur og falin sú glóð
sem leynir þeim degi er leitar
að lyngi við fífustóð,
en vindur blæs vonarneista
í valköst austur á heiði
en basl þitt brotnar rústir
þess bæjar sem fór í eyði
við uppgróna afdalaslóð.

En aftur mun elda af degi
þar sem örsmár fótur þinn tróð
við grösin á heiðinni og hús þitt
það hrundi í arfastóð.
En vindfext bíður þín vorið
og vex eins og grasið við steina
en snarkandi logi leikur
við langþráða blómið eina.
En jörðin er heststygg og hljóð.

Í DDR

I.
Alþýðulögreglumaðurinn
tók munnkörfuna
af blóðhundinum
og sleppti honum lausum
undir lestina.

(Þeir leituðu einungis að fólki
eins og þegar við komum
til Leningrað 1946).

Það var ekki kvikindi
undir lestinni,
svo þeir settu aftur á sig
munnkörfurnar,
félagarnir.

Þetta er sorglegt,
sagði kona sem sat
gegnt okkur, en þetta
er þeirra starf. Hundurinn
er bezti vinur mannsins,
var einu sinni sagt -
en nú er það munnkarfan,
múrinn
og blessuð alþýðulögreglan.

II.
Við fórum heim aftur,
kvöddum Karl-Marx Allee
og Leninstyttuna, kvöddum
reynslu þeirra sem eiga
að þjóna erlendum húsbændum
með nýlendubrosi á vör,
fluttum okkur inn í veröld
draumsins, þessa
afskræmda vestræna draums
Max Ernst.

Kvöddum þetta broslausa
fólk.

III.
Landið þaut framhjá,
tré, akrar
þorp og ár, landið
var eins grænt
og von okkar
var mikil, eftirvænting:
svartskjöldóttar
kýrnar lágu á óslegnum
túnum og jórtruðu.
Og kýrnar þutu framhjá,
hugsunarlaust.
Jórtrandi og hamingjusamar
eins og leiðsögumaðurinn
á Karl-Marx Allee.

Check Point Charlie

Áður hafði ég ort
um þessa borg
og líkt múrnum
við Fenrisúlf,
nú gengum við
inn í orminn, tóman,
óseðjandi, það var eins og að skilja
sjálfan sig eftir
milli þils og veggja, en handan
ormsins bentu risaminnis-
merki til himins
og það var alls staðar glaðasól
nema í augum þeirra
sem við mættum:
þungbúin eru þessi augu
og bíða þess hann létti til.

Traurig, sagði ung kona
í lestinni.

Síðan hlustuðum við
á unser Vaterland
í sjónvarpinu.
Það var ekki 1936,
heldur 1980: ekkert hafði gerzt
milli Hitlers og okkar.

7. júlí, þriðjudagur

Átti klukkustundarsamtal við Árna Snævar og Val Ingimundarson í Saga Film í gær. Veit ekki hvernig til tókst en ræddi að mestu um reynslu mína af kalda stríðinu eins og ég hafði verið beðinn um. Ég hafði sett niður á blað nokkra minnispunkta um kalda stríðið í tengslum við endurminningar mínar og þeir fóru að mestu eftir því.

10. júlí, föstudagur

Linda Vilhjálmsdóttir hringdi til mín í gær. Hún átti það erindi við mig að ég læsi upp ljóð í Iðnó 22. ágúst nk., en þá verður þar einhver ljóðahátíð á vegum hennar og Sjóns. Ég sagði henni að ég hefði lesið upp í Iðnó á Degi ljóðsins á sínum tíma og það væri ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að gera það aftur nú. En hún lét það sem vind um eyru þjóta, sat við sinn keip og sagði að það væri ákveðin ósk þeirra að ég tæki þátt í þessum lestri og ég gæti þá hafið hann upp úr klukkan 6 og farið á laxveiðar að því loknu.
Hún sagði,
Við viljum endilega fá þig, við viljum hafa fínt skáld með okkur
Ég hrökk við og svaraði:
En ég er nú bara hversdagsskáld, Linda mín.
Þá sagði hún, Já, það finnst okkur allra fínast(!)
Ég sagðist mundu hugleiða málið og gæti hún haft samband við mig í byrjun ágúst.
Það varð úr.

13. júlí, mánudagur

Okkur hefur borizt grein frá Úlfari Þormóðssyni. Hún fjallar um fjármál Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrum formanns Alþýðubandalagsins, núverandi forseta Íslands. Hún er eins konar opið bréf til Margrétar Frímannsdóttur, formanns Alþýðubandalagsins. Við Styrmir erum milli steins og sleggju. Forsetinn er í Seattle þar sem Guðrún Katrín kona hans er til lækninga við alvarlegum sjúkdómi. Enginn veit hvort henni er hugað líf eða ekki. Okkur er mikill vandi á höndum að birta grein Úlfars Þormóðssonar sem er í raun og veru aðför að forsetanum við þessar hörmulegu aðstæður.
En það er einnig erfitt að hafna greininni. Hún virðist málefnaleg, Úlfar hefur farið með hana til lögfræðings síns og hann hefur lagt blessun sína yfir hana.
En ef við birtum greinina við þessar aðstæður gætum við kallað bæði reiði og hatur yfir Morgunblaðið.
Ef við birtum hana ekki og það kvisast út að við höfum hafnað henni, verðum við fyrir gagnrýni fjölda manna sem vilja að viðskipti Ólafs Ragnars við Landsbankann séu upplýst eins og önnur spilling í landinu nú um stundir.
Hvað skal gera? Við sjáum til.
En grein Úlfars er svohljóðandi: “

“Vorum skuldunautum

Formaður!
Ég hef verið að taka til í flokksskúffunni hjá mér af því að ég ætla að skilja við flokkinn.
Þar rakst ég á bréf sem mér barst frá þér skömmu fyrir landsfundinn sem haldinn var á dögunum. Þar skýrirðu frá heldur bágri fjárhagsstöðu flokksins. Þú segir að við endurskoðun bókhaldsins hafi komið í ljós “að skuldir flokksins voru miklu hærri en menn höfðu áður talið og gert flokknum grein fyrir á landsfundi 1995. Samkvæmt þeim upplýsingum áttu skuldir flokksins að vera á bilinu 33-35 milljónir króna ...”
Og áfram:
“Við endurskoðun bókhaldsins kom hins vegar í ljós að skuldirnar voru 52 milljónir króna. Allt eru þetta skuldir sem urðu til á og fyrir árið 1995 og tengjast aðallega kosningum það ár og árið á undan.”
Að vonum er þér um og ó en lætur þó ekki deigan síga heldur hvetur okkur til að opna budduna, því ef allir legðust á eitt og borguðu oft og helst mikið í senn þá yrði þetta lítið mál fyrir flokkinn og myndi styrkja hann í “mikilvægu pólitísku starfi” (hvað sem það þýðir nú, eftir á að hyggja!) og segir: “... bið ég þig að taka þessari beiðni vel ef vilji er til að halda starfseminni áfram.”
Niðurlagsorð bréfsins gengu mér hjarta nær og höfðu þau áhrif á mig að ég er sestur við að skrifa þér. Þú lýkur bréfinu svona:
“Með von um að með samstöðu getum við bætt fjárhagsstöðu flokksins og greitt skuldir hans sem um leið eru skuldir okkar allra.”
Bréf þitt vekur ýmsar áleitnar spurningar.
Fyrsta spurningahrinan hljóðar svo:
Hver gaf þessar röngu upplýsingar á landsfundinum 1995, hver hafði unnið þær í hendur þess sem veitti þær og samkvæmt hvaða gögnum voru skuldirnar 33-35 milljónir? Hvaða gögn komu í ljós eftirá, hvenær og hvernig og hvar höfðu þau verið þessi gögn þegar verið var að útbúa ársreikningana? Var verið að falsa bókhaldið eða hvað, og hver var þá að því? Hafði þetta “lítilræði” bara gleymst? Eða voru þeir sem véluðu um fjármál flokksins næst á undan þér ekki talnagleggri en þetta?
Þú segir að þessar skuldir hafi orðið til “á og fyrir árið 1995 og tengjast aðallega kosningum það ár og árið á undan”.
Þá er það hrina tvö:
Ég vil þó geta þess fyrst að þar sem þú talar um kosningar 1995 vona ég að þú eigir við þingkosningar sem haldnar voru það ár en ekki formannskosningarnar í flokknum og geng út frá því að svo sé: Hver stofnaði til þessara skulda, af hvaða tilefni og hvað var skuldfært? Hver stýrði peningamálum fram á haustdaga 1995 og í umboði hvers og undir eftirliti hverra? Og: Til hvaða skulda var stofnað og hjá hverjum á vegum flokksins í kosningum 1994?
Þá er komið að því að inna eftir hinu sem ekki er minnst á í bréfinu. Það er nokkuð sem hefur verið á flestra vitorði fyrir þessa miklu endurskoðun á fjármálum flokksins. Þetta er eins konar óstaðfest þjóðarleyndarmál af því kyni sem allir fjölmiðlamenn landsins ákváðu að fara í þagnarbindindi um og tímabært að upplýsa nú ef rétt er en kveða niður ef rangt er.
Því er spurt:
Er það rétt að forveri þinn í formennsku ásamt framkvæmdastjóra flokksins hafi haft nánast óheftan aðgang að sjóðum hreyfingarinnar til einkanota í gegnum krítarkort eða á einhvern annan hátt? Höfðu þeir tvímenningar fundið upp á þessu bragði til búdrýginda hjá sér með vitund framkvæmdastjórnar flokksins? Hversu háar upphæðir voru þarna á ferðinni? Voru hlunnindi þessi talin fram til skatts?
Og áfram:
Er það rétt að einn af framkvæmdastjórum flokksins og nú einn af oddvitum sameiningarferilsins (pólistískt orðfæri jafnaðarmanna) í nágrannasveitarfélagi við mig hafi notað ávísanahefti flokksins eins og sitt eigið og bókhaldarar hreyfingarinnar setið löngum stundum við að flokka nótur af veitingahúsum borgarinnar frá rekstrarnótum flokksins?
Mig langar líka að inna eftir því hvaða löggiltur endurskoðandi undirritaði flokksreikninga fyrir og eftir skuldaaukningu.
Allt þetta þætti mér vænt um að fá að vita, vegna þess að nú, eftir landsfund, er komið í ljós að búið er að veðsetja flokkinn minn. Þú segir að menn eigi ekki að hlaupa frá skuldunum. Því er ég innilega sammála, tek undir með þér og tel sjálfsagt að rukka Hjörleif, því ég er viss um að Hannibal hefur þurft að borga sitt við brottför svo ekki sé minnst á annan formann flokksins og nær í tímanum.
Það er vegna þess hversu sammála ég er þér í skuldaskilamálum að ég hef lagt fyrir þig þessar spurningar á opinberum vettvangi. Ég vil fá að vita hvað ég er að borga fyrir áður en ég reiði fram féð.
Loks er þá komið að því að spyrja hver minn hlutur er í þessum skuldum. Ég ætla að reyna,”í anda þeirrar samábyrgðar sem flokkuinn hefur allat tíð staðið fyrir,” að borga minn part fyrr en síðar svo ég hafi það ekki á tilfinningunni þegar ég fer með hugsjóninni á burt úr flokkum að ég sé tengdur honum skuldaböndum um ókomna tíð.
Með ósk um skjót svör og greið og þakklæti fyrir samfylgdina á liðnum árum og áratugum.”

Fékk um daginn ljósrit af bréfi sem skrifað var á sínum tíma frá Akureyri til Kanada, að ég held, og lýsir því hvernig Davíð Stefánsson þjóðskáld gat umturnazt af víni. Engin veit ég deili á bréfritara, en Halldór Þorsteinsson sendi mér ljósritið.
Árásin á Maríu Ragnars, frænku mína, er með sama marki brennd og árás skáldsins á aðrar konur sem þarna voru viðstaddar. Þegar skáldið réðst á Halldóru, konu Sigurðar skólameistara, fór hann víst að gráta. Þegar Þórarinn, arftaki hans, ætlaði að malda í móinn, réðst skáldið af hörku á hann og sagði að hann hefði aldrei verið við kvenmann kenndur og ætti því að halda sér saman. Þá fór Þórarinn víst að gráta. Annars er þessu lýst í bréfinu.
Sverrir Ragnars, eiginmaður Maríu frænku minnar, var fínlegur og ágætur maður og fór lítið fyrir honum. Hann var kurteis og óáleitinn og það hefur áreiðanlega verið honum mikil raun að þurfa að standa þarna andspænis skáldinu í þessum ham.
Við Hanna heimsóttum Sverri og Maríu þegar við fórum um Akureyri á sínum tíma og það var feiknalega gaman að hitta þau, borða með þeim kjúklinga og fá sér dálítið í staupinu.
María var engri konu lík. Hún var falleg kona, glaðværðin holdi klædd þótt hún ætti við erfiða sykursýki að stríða og ég naut þess að kynnast henni. Mér er ekki annað kunnugt en ásakanir skáldsins hafi verið út í hött, en hitt þykist ég viss um að María frænka mín hafi verið öllum körlum freisting sem kynntust henni, fegurð hennar og glaðværð.
En bréfið er svohljóðandi - en það er ekki merkilegt fyrir neitt annað en lýsinguna á skáldinu:
“En svo kom dálítið fyrir, sem gerði okkur ókleift að sækja nokkur böll í bænum. Hér kemur lausleg lýsing á þeim atburði:
Þann fyrsta des. var skemmtun hjá Stúdentafélaginu. Samkoman var á H.G. og byrjaði með kvöldmat kl. 7. Helztu menn bæjarins sóttu samkomu þess, og var þar margt tiginborinna manna og göfugra gesta. Samkoman var sett með örfáum orðum af formanni félagsins, G. Hallgrímssyni. Þegar flestir voru búnir að fá gúlfyllir, þá stóð upp okkar virðulegi og vellátni bæjarstjóri Sig. Eggertz, grár fyrir hærum og flutti glymjandi ræðu um frelsi, sjálfsforræði og lýðræði. Hann predikaði stíft að við ættum að slíta öllu sambandi við baunana og baunverja konung. Að lokum lét hann hrópa ferfalt húrra fyrir lýðræði. Því næst settist öldungurinn baðaður í sveita síns andlits. Næst stóð upp Jón Stefánsson, bruggari, og hélt ræðu um Stjána tíunda og hældi honum á hvert reipi og bað menn það lengstra orða að hugsa sig tvisvar sinnum um áður en menn slitu öllu sambandi við Christan, som stod ved Högmark og holdt sig fast. Að lokum bað hann menn að standa úr sætum sínum og gefa Kidda tíunda kröftugt ferfalt húrra. Og svo var gert. Næsti maður var Pétur Jónsson læknir, orðinn dálítið ölvaður. Hann hélt stutta en góða ræðu. Hann sagði að sér fyndist það ekki sæmandi þessum menntuðu mönnum að haga sér alveg eins og þeir væru fæddir idiotar. Fyrst að hrópa húrra fyrir lýðræði og síðan Kr. ko. Og hann endaði með þessu: “Til þess að bæta einni vitleysunni ofan á aðra, þá bið ég alla þá sem hér eru inni að gefa fyrrverandi Albaníukoungi ferfalt húrra.” Og svo var gert, samt tóku ekki allir þátt í því, því miður. Ég hefi aldrei getað trúað að P. læknir væri svona mikill skotmaður. Það er ekki allt búið enn. Það bezta er eftir.
Síðan var salurinn ruddur og dansinn hófst. Menn voru yfirleitt hýrir á brá og í sólskinsskapi, því að selskapurinn var dálítið puntaður (nýtt, ég vona að þú skiljir það). Þegar form. G.H. sá að menn voru farnir að linast og slappast við dansinn, þá varð hann að finna upp eitthvað ráð til þess að koma ballinu í fullan blúss. Þess vegna bað hann Davíð Stefán. að halda ræðu því að þú veist að þessir hámenntuðu menn eru fremur gefnir fyrir ræður en dans. Davíð Stefánsson stígur í ræðustólinn og hefur upp sína dimmu og fögru raust. Hér kemur brot: “10. maí er minnisstæðasti dagurinn í lífi mínu, hann ber ekki með sér neinar sætar endurminningar, heldur hinar myrkustu og verstu, ég man ekki eftir því að mér hafi nokkru sinni liðið verr, þegar dragsúð ófriðarins lagði yfir þjóðina, vanmáttuga og friðsæla o.s.frv. Þá kveður við hróp úti í sál frá Maju Ragnars: “Til hamingju með daginn”. Davíð kann illa við að verið sé að grípa framm í fyrir sér og það fýkur dálítið í minn mann, hann var einnig all mikið puntaður. ...”

                Áreiðanlega ekki bezta drápa þjóðskáldsins,en sýnir vonbrigði hans og dulið ofnæmi,framkallað af samfylgdarmanninum Bakkusi.

Fengum í gærkvöldi svofellt tölvubréf frá Ingó - og lýsir það líðan hans betur en margt annað sem ég hef séð eða heyrt frá honum.
Vonandi kemur hann heim innan tíðar. Bréfið er svar til Tanzínu vinkonu hans, en við fengum afrit.
Bréfið er svohljóðandi:
“Well, know this: you’re not alone in spending a Friday night in-doors! I’m not quite sure how much comfort is to be found in that, though...
I fell asleep and then woke up to get out and wash my car(!) Then I got a couple of videos and ordered in a pizza (don’t leave home if you can help it!)
I just finished watching “Home for the Holidays’ with Holly Hunter et al. Quirky movie, but heart-warming. It’s about this family: everybodi gathers home for Thanksgiving. Obviously, nobody gets on with anyone - but that’s OK. It’s family. That’s exactly my family: everybody talks at once, laughs at once, cries at once, screams and shouts at once. And I miss that - there is absolutely no meaning in my life here any more. It’s so strange. I move up here and BOOM! reality creeps back: you’re alone inspite of all the degrees. So in that way, Edinburgh has been helpful. And in that way 32P has also been helpful. And, in an obscure way, DHC’s weird ways have been helpful: grow up, Ingo, and stop being a baby. But I’m still my parents’ baby inspite of everything. And inspite of everything, they’re the only people that would go through fire for me (and by God they’ve had to!) So what’s the point in an exercise which take-home message is that one should just get used to being alone and “get on with it”? This is far too cold for me, and I won’t survive it. I wouldn’t want to, either. So - I want to go home. I want to be around my parents: hear my mother making noises in the kitchen, my father working in the living room - secretly smell my mother’s perfume in the main bathroom and look at the pictures of people gone before me in my father’s study: my grandmother, my grandfather, others. I want to be able to go by my grandmother’s house, once the centrepoint of my family - now somebody else’s house. But I can still see her standing on the steps, and I still go by thinking for a second that I should stop and see her. I even went into the back garden once - just to remember. And I want to remember. It’s too late now to go in and ask her about the past - and I don’t want to be too late in going home and be with my family. There can only be more pictures in my father’s study, and then one day it won’t even be his study any more. And I’ll go in there looking for him as before, and he will be gone. And then it will be too late. And now I can only think: why have I stayed away for so long? It’s been 6 years already. So, like the salmon returns from the ocean to its river, so I must return. And it must be soon. It aches my heart that it must be soon, but I’m grateful to God for indicating in so many ways what I must do - and to enable me to listen and hear the faint rattle of the river I must return to. I haven’t heard it before - there’s been too much noise.

Kvöldið

Hef verið að hlusta á Róbert Arnfinnsson leikara lesa upp íslenska gerð Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson eins og skáldið gekk frá henni. Bar þennan texta saman við þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar á sögunni en hún er prentuð í heildarútgáfu skáldverka Gunnars Gunnarssonar sem Almenna bókafélagið og Helgafell gáfu út um miðjan sjöunda áratuginn.
Það er fróðlegt að bera þennan texta saman.
Lokagerð Gunnars Gunnarssonar er miklu betri en þýðingin. Hann hefur endurritað söguna með ýmsum hætti þótt efni hennar sé að sjálfsögðu hið sama. En stíllinn er miklu sterkari í íslenzkri gerð skáldsins sjálfs en þýðingunni, þéttari og hnitmiðaðri að öllu leyti.
Fyrir bragðið verður andrúmið í sögunni sterkara og sagan öll með listrænni brag en þýðingin.
Þetta óttaðist ég einnig þegar ég las Svartfugl í Kaupmannahöfn um miðjan sjötta áratuginn. Ég las hana á dönsku. Sagan er skrifuð á fegurri dönsku en önnur slík skáldverk sem ég þekki. Á því máli er hún dramatísk ljóðræna, einstæð. I.P. Jacobsen gat skrifað slíkan stíl og skapað slíkt andrúm, einnig Johannes V. Jensen sem snaraði víst Grettlu á dönsku. En ég hef aldrei lesið Svartfugl í íslenzkri þýðingu vegna þess að ég hef óttazt að hún sé með þeim sömu annmörkum og ég hef nú upplifað í Aðventu.
Þýðingar eru oftast nær gallagripir, jafnvel þótt vel sé að þeim staðið. Skáldið í eigin texta er það umhvefi sem maður sækist eftir, en ekki eftirlíking þessa andrúms og þessa texta. Þýðingar eru nauðvörn og þess vegna eiga skáld lítilla þjóða ævinlega undir högg að sækja.
En hitt er þjóðlygi að Gunnar Gunnarsson hafi ekki skrifað góðan íslenzkan texta, en því var haldið fram á sínum tíma, ekki sízt þegar Brimhenda kom út. Það er alrangt, einskonar kaldastríðs áróður. Bæði Brimhenda og Aðventa bera listrænum tökum Gunnars Gunnarssonar fagurt vitni á íslenzku en Svartfugl á dönsku.
Fjallkirkjan er sérstætt og mikið listaverk. Mér er nær að halda að þýðing Halldórs Kiljans Laxness standist samjöfnuð við frumgerð sögunnar á dönsku en hann hefur að vísu markað sér bókina með kiljönskum tökum og tilburðum. Gunnari þótti því nauðsynlegt að skrifa bókina sjálfur á íslenzku en ég veit ekki hvernig til tókst, þekki það ekki. Það væri fróðlegt að gera samanburð á frumtexta Gunnars Gunnarssonar og þýðingu Halldórs Kiljans.

Hef enn verið að lesa bók um merka hljómsveitarstjóra The Maestro Myth eftir Norman Lebrech, en ég hef víst áður minnzt á þá bók, einkum kaflann um Wagner. Þá hef ég einnig verið að lesa stórmerkilega bók um þunglyndisgen mikilla skálda, ættir þeirra og erfiðleika. Bókin heitir Touched with Fire og er eftir Kay Redfield Jamieson sem er heimsfrægur geðlæknir, þjáist sjálf af þunglyndi og tortímingarhvöt og skrifar því um þennan sjúkdóm af eigin reynslu. Þessi bók er afar merkileg. Hún sýnir hvernig þunglyndis- og sjálfsmorðshvötin getur erfzt. En hún virðist oft og tíðum vera einhvers konar sköpunarhvati og kemur það mér ekki á óvart. Þessi bók fjallar um þunglyndi og geðsýki sem merkir listamenn hafa þurft að glíma við; menn eins og Byron lávarður, Hemingway, Coleridge, Henry James, Melville, svo að nokkurra sé getið.
Það hefur verið gagnlegt fyrir mig að kynnast hugsýki þessara manna. Sjálfur þekki ég sum einkennin, en ekki öll. Móðurætt mín hefur verið laus við þunglyndi, en mér er nær að halda að það séu þunglyndisgen í föðurættinni. Faðir minn átti við slík gen að stríða. Sjálfur hef ég vitað af þeim en þau hafa aldrei náð tökum á mér. Ég hef að mestu haldið þeim í skefjum þótt ég hafi stundum þurft að heyja harða baráttu fyrir andlegu jafnvægi. Hörðust hefur hún verið þegar að mér hefur verið sótt og ég hef átt undir högg að sækja. Þá hef ég þurft á öllu mínu að halda.
Og þá hefur ekki verið ónýtt að eiga annan eins bakhjarl og Hönnu.

Hef verið að lesa Nýjar amerískar smásögur, þar á meðal sögu Alice Munro sem ég hef víst nefnt hér áður á þessum blöðum. Hún er kanadísk og einn bezti smásagnahöfundur nú um stundir. Sagan heitir Miles City Montana. Maður er nokkurn veginn sannfærður um að hún sé byggð á sjálfsævisögulegu efni, en þó veit ég það ekki. Í athugasemd tekur höfundur fram að hún reyni að ná eins einföldum tökum á efninu og unnt er og helzt að því marki að fólk segi,
Þetta hlýtur að vera byggt á sjálfsævisögu hennar.
Þegar þessu marki hefur verið náð, er sögunni lokið.
Þegar ég náði þessu marki í þessari sögu var ég ánægð, segir hún.

Mér finnast þetta athyglisverð ummæli og held það sé mikið til í þessu. Lesendur eru hvort eð er alltaf að reyna að leita að höfundinum í alls konar skáldskap, og hví þá ekki að reyna að blekkja hann eins og unnt er?!
Í þessari sömu bók er smásaga eftir T.C. Boyle. Hún heitir Við erum norrænir menn (We are norsemen). Sagan fjallar um norræna víkinga og villimennsku þeirra. Henni lýkur í Írlandi þar sem söguhetjan miklast af því að hann knýr munk til að brenna bækur. Sjálfur er hann skáld og kemur það fram í sögunni í nokkrum vísum, ágætum. En hann miklast samt af því að vera ólæs bókabrennumaður(!)

Í þessu er mikill tvískinningur. Írskir munkar skrifuðu ekki heimsbókmenntir. En það gerðu eftirkomendur víkinganna. Sjálfir varðveittu þeir Eddukvæði og alls kyns skáldskap frá landnámstímum Íslands og næstu öld á undan. Þetta getum við allt lesið. Víkingarnir voru alls kyns fólk, iðnaðarmenn, kaupmenn, stríðsmenn. Þeir gátu verið grimmir í bardögum, það er rétt.
En arfleifð þeirra er ekki grimmd, heldur menning.
Íslenzkar bækur frá 13. öld eru vitnisburður um það. Þeir skildu eftir sig meiri bóklega menningu en nokkur írskur munkur frá þessum tíma.

Sagan á að vera einskonar allegoría, eða dæmisaga. En hún byggir á röngum forsendum og þess vegna er ómögulegt að lesa sig inn í boðskap hennar. Hann er tilbúinn. Mætti vera nær sjálfsævisögulegu efni!

Ójá, Írland. Nú hafa þeir brennt inni þrjá bræður, sjö, níu og ellefu ára. Víkingarnir skyldu ekki eftir sig slíka arfleifð, svo er guði fyrir að þakka. En við eigum við ýmis önnur vandamál að stríða, m.a. misskildan þjóðarmetnað.

Síðasta Playboy fjallar m.a. um nektarþörf íslenzkra kvenna; sumra íslenzkra kvenna. Það er svo sem í lagi að þær leiti  þessari þörf sinni útrásar og fái greitt fyrir. Þetta eru líka myndarstúlkur og okkur til sóma, geri ég ráð fyrir. Í greininni sem fylgir er talað um fegurð þessarar “lífrænu tegundar”; sem sagt, það er ekki verið að tala um fólk, heldur náttúruafurð! Mér skilst það hafi verið pöntuð á fjórða þúsund eintök af ritinu, áður en það kom til Íslands!
Þetta er gott dæmi um hlutfallaleysið í verðmætamati samtímans.
En það má þó hugga sig við að enn höfum við ekki þurft að tryllast vegna knattspyrnusigra á heimsmeistaramóti. Ég sé ekki betur en Frakkar hafi tryllzt yfir því að vinna heimsmeistarakeppni í þessari íþrótt! Mér skilst það hafi verið jafn mikill fögnuður í París og þegar landið var frelsað undan Þjóðverjum! Hlutfallabrenglið enn! Einhverjir vildu gera þann sem setti mörkin að forseta Frakklands, þeir voru víst ófáir! Albert Guðmundsson vildi á sínum tíma líka verða forseti Íslands, en það mistókst. Hann var þó góður í sparki. Kannski hefði hann átt að sækjast eftir forsetaembætti í Frakklandi á sínum tíma!
Alltaf er ég að skilja það betur og betur hvað Steinn átti við þegar hann talaði um heimskuna skrínlögðu og smánina skrautklæddu, þessa fylgikvilla mennskunnar sem átti að skilja okkur frá dýrunum, en hefur einungis gert okkur grimmari en önnur dýr merkurinnar.

16. júlí, fimmtudagur

Í Morgunblaðinu í morgun er þessi fyrirsögn á frétt um ástandið í Súdan: Vopnahlé vegna hungursneyðar.
Ætli nokkuð sýni betur ráðleysi mannsins, nei, grimmd manndýrsins en þessi litla fyrirsögn? Mér er það til efs. Hún segir nefnilega allt um manninn og sögu hans. Hann er enginn guð í sköpun hér á jörðinni - en hvað verður, það veit enginn.

17. júlí, föstudagur

Við Styrmir hittum Ólaf G. Einarsson alþm. í hádeginu í gær. Áttum við hann gott samtal. Hann sagði að ekki hefði verið unnt annað en endurráða Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda þrátt fyrir gagnrýni Sverris Hermannssonar á hann og störf ríkisendurskoðunar og raunar aðfinnslur ýmissa annarra. Ef ráðningin hefði ekki átt sér stað, hefði allur málatilbúningur í Landsbankamálinu verið ónýtur.
En ég heyrði á Ólafi að hann hefur fyrirvara á Sigurði og telur að hann hafi tjáð sig of mikið í fjölmiðlum. Þeir sem séu í ábyrgðarfullum og miklum embættum eigi helzt að tjá sig sem minnst í fjölmiðlum.
Umboðsmaður Alþingis, Gaukur Jörundsson, hafi ævinlega áttað sig á því. Hann sagði að Gaukur væri nú á leið í Evrópudómstól og hann mæli mjög eindregið með því að Tryggvi Gunnarsson lögfræðingur taki við af honum.
Ólafur spurði okkur um Tryggva,þar sem hann hefur verið blaðamaður hjá okkur Við hefðum ekkert nema gott eitt um hann að segja en hann væri sérvitur og gæti verið þrjózkur. Ólafur sagði að hann hefði unnið nokkuð mikið fyrir Gauk Jörundsson og væri því kunnur öllum hnútum þar á bæ. En aðstoðarmaður Gauks væri of ungur, ég man ekki hvað hann heitir. Einhver álitamál virðast vera í forsætisnefnd Alþingis um þessa skipan en mér skilst að engin andmæli hafi komið fram gegn Tryggva. Hann var í fyrstu lögfræðingur Sverris Hermannssonar þegar Landsbankamálið hófst og þá áttum við samtal við hann. Ég tel að hann hafi þá sýnt varkárni og íhygli.
Ég sagði Ólafi að ég hafi heyrt nafn Eiríks Tómassonar. Ólafur sagðist búast við að nafn hans kæmi upp, en það hefði ekki gerzt enn. Líklega yrði hann að ákveða þessa skipan í næstu viku.

Ólafur talaði allnokkuð um Davíð Oddsson.
Hann sagði að Davíð hefði tvisvar sinnum talað við sig um það, að hann tæki við varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum til bráðabrigða, þegar Friðrik Sophusson hætti. Hann sagðist í bæði skiptin hafa sagt að það væri út í hött og kæmi ekki til greina….

Ólafur G. Einarsson er ekki bitur út í Sverri Hermannsson, gamlan vin sinn,en hann hefur augsýnilega áhyggjur af honum og þeirri framvindu sem ætla má að verði. Hann spurði hvort við gætum gert eitthvað í því, hvort við gætum komið honum til hjálpar og reifuðum við það mál fram og eftir. Þó væri ekki ólíklegt að hann væri kominn of langt í framboðshugleiðingum sínum til að aftur verði snúið. En ef það væri ekki mundi hann aldrei snúa við nema honum yrði sýndur einhver virðingarvottur af Sjálfstæðisflokknum.
Ekki kem ég auga á hvað það gæti orðið.

Ólafur G. Einarsson talaði dálítið um sína eigin hagi. Hann sagði að kona sín væri á batavegi en hún hefur átt við erfiðleika að etja vegna sjúkdóms. Hann sagðist finna að hann stæði miklu betur nú að vígi en fyrir síðustu kosningar, en þá hafi hann verið rægður fyrir aðgerðarleysi í menntamálum; ómaklega.
Menn eru yfirleitt alltaf rægðir ómaklega. Ef menn eru ekki rægðir ómaklega, þá eru þeir ekki rægðir. Þá er einungis verið að tala um staðreyndir.
En sem sagt, hann sagðist ekki sjá neinn nýjan foringja í Reykjaneskjördæmi og erfitt væri að hlaupa frá því fyrst svo væri. Árni Mathiesen væri ágætur maður, en hann væri ungur.
Hann sagðist ekki skilja af hverju nauðsynlegt væri að hafa prófkjör í Reykjavík eða Reykjaneskjördæmi og þegar við inntum hann nánar eftir því kom í ljós að hann nennir ekki að taka enn einu sinni þátt í prófkjöri.
Ef ekki verður prófkjör í Reykjaneskjördæmi mun Ólafur G. Einarsson gefa kost á sér, á því er enginn vafi, en ég efast um að hann nenni að þreyja þorrann í prófkjöri enn einu sinni, enda tók hann það fram að hann væri líklega sá maður á þingi sem oftast hefði þurft að fara í gegnum prófkjör eins ömurlegt og það nú væri.

Ólafur G. Einarsson hefur enga morgunblaðsfóbíu. Hann hefur yfirleitt engar fóbíur. Hann er alltaf viðræðugóður og mér líkar vel við hann. Ég vona að góð tengsl takist aftur milli hans og Sverris Hermannssonar.

Kvöldið

Fór í langan göngutúr í yndislegu veðri uppúr hádegi. Gekk að heiman, í Skerjafjörð, þaðan í Nauthólsvík og loks í Fossvog, en þaðan á Morgunblaðið. Tók mig tvær klukkustundir. Ég held það hafi verið nítján stiga hiti, logn og blíða.
Gekk enn eina ferðina framhjá þeim listaverkum sem sýnd hafa verið í sumar á þessari gönguleið. Jafnvel á þessari tiltölulega fáförnu leið rekst maður á veggjakrot. Mér virðist helzti munurinn á manndýrinu og öðrum dýrum vera sá að manndýrið krotar allt út sem það kemst í tæri við og svo er það alltaf að keppa við náttúruna í staðinn fyrir að una við hana eins og hún er.

18. júlí, laugardagur

…Nú liggur viðamikil og pottþétt fjölmiðlakönnun fyrir. Hún var nauðsynleg því hún réttir þessa skökku mynd. Samkvæmt henni telja 83,4% að Morgunblaðið sé áreiðanlegur fréttamiðill. Síðast þegar slík könnun fór fram töldu 78,4% hið sama. Við erum því að sækja í okkur veðrið. Við erum í þriðja sæti á eftir ríkisfjölmiðlunum en þeir eru ævinlega efstir í svona könnun, einfaldlega vegna þess að fólkið er að gefa eign sinni einkunn, ef svo mætti segja. Það sem fólkið á hlýtur að vera betra og sannferðugra en það sem aðrir eiga.  En nú hefur þetta hlutfall verið rétt við og uni ég því mjög vel…

Það er aftur á móti athyglisvert hvað Dagblaðinu hefur hrakað í þessari könnun, ég tala nú ekki um Dag sem var í 62,7% en er kominn niður í 37,7%. DV lafir í 30%, rúmum. Ég hef tekið eftir því að dagblaðsmenn eiga undir högg að sækja. Það er mér síður en svo gleðiefni. En þeim verður að svíða sem undir míga, sagði Lárus móðurbróðir minn.
Hitt er svo augljóst að báðum ríkisfjölmiðlunum hefur farið aftur, hvað áreiðanleika snertir. Þeir hafa gengið í vatnið undanfarið og stundum verið offari í fréttamennsku, að mínum dómi. En fólkið vill ekki um það fást. Það á þessa miðla - og við það situr.

19. júlí, sunnudagur

Fórum í Neskirkju í dag. Sr. Guðmundur Óskar prédikaði. Altarisganga.            
Syndlaus fram eftir degi, en hvað svo?
Sr. Guðmundur vitnaði í sögu eftir Iris Murdoch þar sem söguhetjan Anna situr í járnbrautarlest sem er troðfull af fólki og veltir því fyrir sér, hvort hún eigi að standa upp fyrir gamalli konu. Hún er ákveðin í því að standa ekki upp, þegar hún gerir það samt og býður henni sætið sitt.
Góð skírskotun í tilefni af texta dagsins. Sýnir vel að það er togstreitan í manninum sem veldur því að hann getur verið meira en dýr merkurinnar.
Þegar Kristur gerðist maður kynntumst við kærleikanum, umburðarlyndinu, réttlætinu; sjálfri mennskunni. Og vegna hans lifir hún með okkur þrátt fyrir allt og allt. Það er úr andstæðum öflum sem maðurinn ræktar guðlegt eðli sitt. Leitin að guði er leitin að mennskunni. Stundum er þessi leit einber eigingirni og eftirsókn eftir þægindum og falskri sátt við sjálfan sig. Minnir á misheyrn mína þegar presturinn talaði um að við öðluðumst líkn og hugbót en mér heyrðist hann segja gulrót! Ég hrökk að sjálfsögðu við, gat það verið? Nei, auðvitað ekki.
En samt höfum við oft minni áhuga á sáluhjálpinni en venjulegur asni á gulrótinni.

Ég heyrði í kvöld að Ásthildur Björnsdóttir, ekkja Steins Steinars væri dáin. Hún hefur víst verið út úr heiminum að mestu undanfarna daga. Ég fékk oft molasopa hjá henni þegar ég kom á sínum tíma í heimsókn til Steins og við vorum að skrafa saman á heimili þeirra í Fossvoginum. Þá kom hún úr vinnunni upp úr fimm, og gaf okkur kaffi. Síðan dró hún sig í hlé og við töluðum saman í stofunni. Drukkum kaffið aftur á móti í eldhúsinu.
Hún var kyrrlát kona og lágmælt og fór lítið fyrir henni. En hún gat samt verið ákveðin, ef út í það fór. Hún var lítil húsmóðir.
Þau Steinn voru samhent og ég held hann hafi þurft á henni að halda. Ásthildur var alltaf dálítið hrædd við vinstri menn. Í samtali sem hún átti, ég held við Tímann, nefndi hún nokkra vini Steins, en minntist ekki á mig. Mér er nær að halda hún hafi ekki þorað það. Kalda stríðið bauð ekki upp á slíkt.

Nína Tryggvadóttir listmálari sagði mér að Steinn hefði verið hrifinn af þeim öllum, sér, Úllu frænku minni og Ásthildi. Ég held nú samt að hann hafi einungis verið ástfanginn af Louisu og það er enginn vafi á því að ég naut góðs af því.
Nína sagði að hann hefði giftzt Ásthildi vegna þess að hún hafi verið stúdent og prestsdóttir!
Ekkert skal ég um það segja.
Ég gat aldrei skilið þessa fallegu ástarsögu Beru og Ljósvíkingsins fyrr en Kristján Karlsson benti mér á Úllu sem fyrirmynd Beru. Ljósvíkingurinn var einshvers konar aumingi eða vesalingur þegar hann kynntist Beru.
Hvernig gat hún eiginlega orðið hrifin af þessum manni?
En þegar ég hugsa um Stein og Louisu fæ ég botn í þetta ævintýri fáránleikan, ég hef svo bætt Ásthildi við. Ástæðan er einfaldlega sú að Bera var stúdent, ef ég man rétt, það var Louisa ekki, heldur Ásthildur.
Þórbergur sagði mér að hann hefði rekizt á Stein og Louisu þegar hann var einhverju sinni á heilsubótargöngu í Örfirisey. Þá var Steinn að kyssa hana þar í sveitasælunni. Þetta hefur Ásthildur allt vitað og galt ég þess þó aldrei í samskiptum okkar. Hún átti Stein, og enginn annar. Þegar Steinn dó heimsótti ég Ásthildi og hafði hún þá sett upp fjórar eða fimm myndir af Steini í stofunni hjá sér, vestast í Sólvallagötu en þangað hafði hún flutzt og bjó hún þar um hríð. Við áttum ágætt samtal saman. Hún vildi helzt ekki tala um neitt annað en Stein. Það eina sem ég man var þessi setning, Ég ætla aldrei að gifta mig aftur, það skal enginn geta sagt að kona Steins Steinars hafi gifzt öðrum manni að honum látnum, nei, það má ekki standa í bókmenntasögunni(!)
Ég hef oft hugsað um þessi orð, hvort þau merki nokkuð í raun og veru, veit það ekki.
En Ásthildur bjó alllengi með öðrum manni, hvaða munur er á því?
Er þetta ekki einhvers konar skinhelgi? Ég er ekki viss um að þetta sé í anda Steins, hvað sem öðru líður. Ég þekki samt lítið til þessarar sögu því leiðir okkar Ásthildar lágu sjaldan saman eftir að Steinn dó. Þó kom það fyrir og fór ágætlega á með okkur.

Allnokkru áður en Steinn dó sátum við í stofunni í Fossvogi og spjölluðum saman. Þá leit hann allt í einu á vegginn og sagði,
Veiztu eftir hvern þessi mynd er?
Já, sagði ég,
Nú, sagði hann, eftir hvern?
Nínu Tryggvadóttur, sagði ég.
Nei, Matthías minn, sagði Steinn og lækkaði róminn. Hún er ekki eftir hana Nínu, þótt ég hafi sagt öllum að Nína hafi málað þessa mynd. En hún er eftir Louisu frænku þína. Nefndu það aldrei við hana Ásthildi, bætti hann við og svo fórum við út í aðra sálma.
Þegar Steinn var látinn, fórum við Ragnar í Smára í heimsókn til Ásthildar. Hann lá þá á líkbörunum í Fossvogskirkju. Við settumst í stofunni og Ásthildur bar okkur molasopa. Ég leit í kringum mig. Mér fannst vanta eitthvað í stofuna. Engu líkara en einhver hefði verið að flytja. Ragnar talaði fyrir okkur báða, en ég sá nú í hendi mér, hvað hafði gerzt. Steinn var ekki fyrr látinn en Ásthildur var búin að taka niður málverk Louisu, það var horfið úr stofunni.

Það sagði mér meira en mörg orð. Ég veit ekkert hvað varð af þessari mynd en vonandi hefur henni ekki verið fargað.

Enginn skyldi gera lítið úr tilfinningu konunnar fyrir umhverfi sínu. Hún þarf ekki alltaf mörg orð til að skilja það sem hún á ekki að vita.

Ragnar sá um útför Steins. Ég var beðinn um að standa heiðursvörð við kistuna, ásamt nokkrum öðrum ungskáldum. Hannes Sigfússon nefnir þennan heiðursvörð í ævisögu sinni. Ég veit ekki hvort það er af ásetningi eða minnisleysi að hann nefnir flesta ef ekki alla við kistu Steins - nema mig. Á þessum árum var togstreita milli mín og vinstri manna. Hannesi hefur áreiðanlega fundizt ég hvítur hrafn þarna við kistu skáldsins. Þeir hinir voru með réttum lit. Samt fyrirleit Steinn þann lit eftir að hann sagði endanlega skilið við kommúnismann um miðjan sjötta áratuginn.

Eftir 20. júlí

Hef ort nokkur smákvæði að gamni mínu.

Raunir

kokksins

Kokkurinn
datt í það
á barnum.

Guðmundi
líkaði það illa.

Eftir það
var kokkurinn
í súpinni.

Á landsmóti

hestamanna

Hann leitar hófanna
hjá henni.

Hún snýr uppá sig.

Vindótt hryssa
hamar sig við túnfótinn.

Slökkviliðsmaður

í vanda

Það vildi brenna við
að brunavörðurinn
brenndi af á skotæfingum.

En Guðmundur sagði við hann
að hann mætti ekki
brenna sig á því oftar.

Ronaldo, í heimsmeistara-

keppninni ‘98

Hann brenndi sig á því
að brenna af í tvígang

Vandræði þjóð-

kirkjunnar

Prestarnir eru báðir í fríi
sagði Jónína
sóknarnefndarformaður,

Nú, sagði Guðbrandur,
þetta er orðin einskonar
fríkirkja.

Í Vestmannaeyjum

Bjargmundi varð ekki
skotaskuld úr því
að skjóta bjargfugl
á skotinu.

Aðfinnsla

Guðmundi þykir sopinn góður
sagði Bjargmundur
og saup hveljur í vatninu

Ættarmót

Það var bjarnargreiði
sagði Guðmundur
þegar Bjarni barnaði
Sigríði á ættarmótinu

Guðríður gamla

kveinkar sér

Ég er með slæma
sinaskeiðabólgu,
sagði Guðríður gamla,
og hún fer eins og eldur í sinu
um allan kroppinn.

Hugsjón

Hlúið að glóðinni
fleygið gjallinu
hrópaði Sigmundur
inní gjallarhornið
á útifundinum
í Eldborg.

Blaðalestur

Það sýður á katlinum
kallaði Sveinbjörg, geturðu
tekið hann úr sambandi
því ég er að leggja á mér hárið.

Sveini féll allur ketill í eld
og lagði frá sér blaðið.

Kirkjugarður

Skýjakljúfarnir
legsteinar á fjöldagröf
markaðshyggjunnar,

sér grefur gröf þótt grafi,

Hasimótó!

Með járnstaf

í hendi

Jötunninn horfði
útúr Lómagnúpi
virti sandana fyrir sér
og tók í nefið.

Í Skaftafelli

Við áðum
í Skaftafelli
en Guðbrandur
sagðist ekki pissa þar
nema hann fengi
fyrir það vildarpunktana sína.

Brullaup

Svefnfríður kaupakona
var glerfín
í brúðkaupsveizlunni
að Glerá

og einbeitti sér
að uppvaskinu.

Fullyrðing

Dyrfjöll eru eitt
en Dyrhólaey annað
fullyrti Guðmundur
og lokaði dyrunum
á eftir sér.

Sæluhús

Það er alltaf
notalegt
að eiga sér gott athvarf,
sagði Guðríður húsfreyja
á Sæluhúsavatni
í Skaftártungum.

Katla kemur

Katla ræskir sig
hvern morgun
sem guð gefur
og vekur jarðskjálfta-
fræðingana af fasta
svefni.

Dansinn

í Hruna

Bærinn var
að hruni kominn
þegar sr. Jónmundur
tók við Hruna.

Mútur

Viltu í nefið, Pétur,
viltu í nefið, sagði Jón
þumlungur þegar hann
kom að Gullna hliðinu, Engar
mútur, Jón, engar mútur hér
sagði Pétur og fékk sér
ærlega í nefið.

Heilsuleysi

Á Hellu
nam Jón grislingur
land, hann var
alltaf með hellu fyrir hægra
eyra.

Hreinlyndi

Maður á alltaf að koma
hreint fram,
sagði Bjarni buna
og fór á bak við Skógarfoss.

Einnig:

Vindfext
hverfur vatnið
til himins.

26. júlí, sunnudagur

Við Hanna höfum verið á ferðalagi með Haraldi og Brynhildi og þremur börnum þeirra, Kristjáni, Önnu og Svövu. Fórum að Flögu í Skaftártungu og gistum þar undir jökli.
Héldum næsta dag í Skaftafell, Öræfasveit og að Jökulsárlóninu á Breiðamerkursandi, en ókum svo heim í dag og fórum Fjallabaksleið nyrðri. Þetta var ógleymanleg ferð, endurnæring eins og Ísland er ævinlega. Við þekktum þessar slóðir að sjálfsögðu frá fyrri tíð, en Halli og Brynhildur og krakkarnir höfðu ekki verið á þessum slóðum, nema þá helzt í Landmannalaugum. Fengum yndislegt veður, hlýtt og logn. Hitinn 15 stig.

Ég hafði auga með Mýrdalsjökli vegna þess að í fréttunum var talað um kvikuhreyfingar í Kötlu með landskjálftum. Útvarpið sagði í dag að rækilega yrði fylgzt með jöklinum vegna þess að Kötluhlaup væru miklar náttúruhamfarir og hættulegar eins og komizt var að orði. Það er sérstök tilfinning að ferðast á þessum slóðum með slíkar fréttir í huga. Maður gjóar augum til fjallsins, óafvitandi.
Ótrúlega margir erlendir ferðamenn urðu á vegi okkar, sumir á hjólum. Ég hef áhyggjur af þessum útlendu hjólareiðamönnum, ekki sízt þar sem þeir hverfa í rykmökkinn eins og á þjóðveginum milli Sultartanga og Búrfells. Það má þakka fyrir meðan ekki verða slys á mönnum. En þetta fólk virðist njóta Íslands ekki síður en við og í Landmannalaugum heyrðum við fjölda tungna . Þar voru mörg tjöld og marglit eins og ferðamennirnir sjálfir.
Vonandi verða engar slysfarir ef Katla kemur, en það er þó betra að vera vel á verði.

Kvöldið

Komum heim undir kvöld. Ég fór að hugsa um samtal sem við Styrmir áttum við Geir H. Haarde í hádeginu á föstudag. Ég sé ekki betur en hann sé ákveðinn í því að bjóða sig fram til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum, nú þegar hann er orðinn fjármálaráðherra og hefur lokið störfum sem formaður þingflokksins…

Geir er mikill vinur okkar og hann hefur aldrei fengið neinar morgunblaðsfóbíur. Hann hefur gaman af að minnast þess þegar hann var á blaðinu á sínum tíma. Hann sagði í morgunblaðssamtali, þegar hann varð fjármálaráðherra, að sér hefði þótt Morgunblaðið skemmtilegasti vinnustaður sem hann hefði unnið á. Bæði Björn og Davíð minntust á þessa athugasemd og sögðu að hann væri að koma sér í mjúkinn hjá ritstjórunum!!

Töluðum mest um landsmálapólitík og þá helzt það sem að Geir sjálfum snýr. Hann leggur áherzlu á einkavæðingu stórra fyrirtækja, bæði í bankakerfinu og þá ekki síður einkavæðingu Landssímans og vill að fólkið í landinu eignist þessi fyrirtæki, en ekki einhverjir sérstakir þjóðfélagsgæðingar. Hann veltir því fyrir sér hvort ekki sé hægt að lána fólkinu fyrir hlutafjárkaupum, rétt eins og Sparisjóðirnir gera, ágæt hugmynd sýnist mér. Hann segir að unnt sé að fá tugi milljarða út úr einkavæðingunni og þá peninga eigi að nota til að grynnka á skuldum.
Okkur hugnast þetta vel.

Geir er ekki viss um það hvort Ólafur G. Einarsson fer fram í næstu kosningum, heldur kannski ekki. Og hann er mjög efins í því að Þorsteinn Pálsson haldi áfram í pólitík. Sjálfur hafi hann hug á því að hætta með reisn.
En hvað verður þá um Suðurlandskjördæmi, spyr hann og ýmsir fleiri? Mér skilst það vanti bæði leiðtoga í Reykjaneskjördæmi og Suðurlandskjördæmi…
Genin segja til sín! Það veit enginn betur en Kári Stefánsson hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hann stendur nú í slagsmálum út af genunum! Sjálfur þarf hann að berjast við genin sem Stefán Jónsson, fréttamaður, faðir hans eftirlét honum. Ég kunni vel við hann að sumu leyti, en það þurfti sterk bein til að þola hann að öðru leyti. Hann gat verið skemmtilegur og meinfýsinn. Það getur verið þreytandi.
Nema þá helzt í veiðihúsum.

Lilja vallarins

Hún var komin á elliheimili og kunni nokkuð vel við sig; þó ekki alltof vel. Hún hafði verið vön öðru lífi og viðburðaríkara. Hún hafði nýlega haldið uppá 85 ára afmæli sitt með pomp og pragt enda átti hún nokkra góða vini, þótt ekki væru þeir margir á lífi. Hún var barnlaus og hafði helzt fylgzt með bræðrabörnum sínum sem hún hafði tekið ástfóstri við, þótt ekki væru þau öll jafnhænd að henni og hún hefði kosið, en hún hugsaði ekki um það. Hún hafði aldrei hugsað um vinsældir en haft gaman af því að vekja dálitla athygli; en þó einkum að ylja aðdáendum undir uggum vegna sjálfstæðis. Hún gekk um elliheimilið eins og það hefði verið reist fyrir hana eina og kom sér hvarvetna vel. Hún var vinsæl af þeim sem þar dvöldu unz yfir lauk.
Hún var glaðvær og hress í tali en gat stundum verið nokkuð ögrandi. Það hafði ekki elzt af henni. Sumir töldu hana orðheppna, aðrir sögðu að hún væri orðhvöss. En hún hugsaði ekki um síkt. Hún kappkostaði öðru fremur að vera sjálfri sér samkvæm og skeytti ekki um álit annarra.
Hún hafði ekki eignazt þann sem hún hafði ætlað sér en það vissi enginn. Hún hafði sem sagt á yngri árum þurft að glíma við ást í meinum, en af henni fóru litlar eða engar sögur. Þessar minningar geymdi hún með sjálfri sér og gætti þeirra vandlega, enda voru þær ekki öðrum ætlaðar.
Hún var við góða heilsu og enn jafn sjálfstæð og ákveðin og hún hafði alltaf verið. Hún hafði búið ein þegar hún fór á elliheimilið og tók þá ákvörðun að leysa upp umhverfi sitt ef svo mætti segja; þetta fallega heimili sem hún unni mjög og hafði ræktað fyrir sjálfa sig og vini sína eins og hún frekast gat. Það er gaman að vera innan um það sem maður á, sagði hún stundum með áherzlu. Hún hafði haft græna fingur og naut þess mest af öllu að sinna blómunum sínum, og garðurinn hennar hafði verið annálaður. Þar ræktaði hún fjölmargar blómategundir, en nú var sá tími liðinn, að sjálfsögðu. En hún saknaði þessara litríku vina sinna sem höfðu notið handa hennar og fingra og þeirrar hlýju sem hún átti til, þegar hjartað sló í takt við umhverfið.
Eins saknaði hún mest, sjónarinnar. Hún var farin að daprast þótt ekki væri hún orðin blind, en hún átti erfitt með að lesa dagblöðin og það þótti henni verst, því að hún var sólgin í fréttir og þó einkum allskyns fróðleik og þá fremur en slúður um annað fólk. Þessi árátta hafði fylgt henni frá fyrstu tíð. Hún saknaði síður bókanna sem hún átti nú erfitt með að lesa enda var hún búin að venja sig á að hlusta á skáldsögur af segulbandi og það stytti henni stundir þarna í viðburðarlitlu og hversdagslegu umhverfi elliheimilisins.
Hún hafði gifzt manni sem hentaði henni, en hún hafði aldrei getað talið sjálfri sér trú um að hún elskaði hann. Það hafði ekki heldur hvarflað að henni að reyna að telja honum trú um það. En hún hafði af ýmsum ástæðum mætur á þessum manni og þegar hann bað hana giftast sér, tók hún því sæmilega og þau rugluðu saman reytum sínum eins og verða vill við slíkar aðstæður. Þá var hún orðin hálfsextug. Hann hafði verið fimm árum eldri og hún saknaði hans lítið, þegar hann lézt eftir nokkurra ára sambúð. Þá voru þau hvort eð var orðin nógu fjarlæg til þess, að hún sá enga ástæðu til að berja lóminn, þegar hann fékk ristilkrabbann og lézt eftir uppskurðinn. Hann var ágætur, hann Sigurjón, sagði hún við vinkonur sínar, þegar þær komu með blómin að votta henni samúð. Hún tók við þeim og setti þau í vasa, þótt hún væri lítið hrifin af því. Hún var eiginlega á móti afskornum blómum. Hún vildi hafa lifandi blóm í kringum sig, blóm með góðar rætur sem færðu blöðunum það litríka líf sem var eins og geislandi gleði í kringum hana. En það var eins og annað, afskorin blóm í minningu Sigurjóns, það var svo sem ekki úr vegi. Hann hafði hvort eða er aldrei kunnað að meta blómaást hennar og þá grænu fingur sem höfðu sett svip á allt umhverfi hennar. Hann hafði sótzt eftir öðru í lífi hennar. Hún hafði að vísu aldrei kunnað að meta það, en gerði sér grein fyrir því að það var hluti af hentugleikanum sem hjónabandið var grundvallað á. En hún hafði ekki notið þess sem bauðst. Hún var með hugann við þann sem hún hafði aldrei fengið. Samt höfðu þau elskazt í meinum en það vissi enginn og það átti enginn að vita, allra sízt Sigurjón. Og hann lézt án þeirrar vitneskju.
Sigurjón var byggingaverkfræðingur. Hún hafði alltaf haft áhuga á hönnun frá því hún sagði fyrir um eigin íbúð. Og þau töluðu helzt um húsið sitt. En hún hugsaði þó fremur um garðinn. Svo hættu þau að tala um neitt nema almennar fréttir, því hún var einskonar fréttafíkill og það ágerðist með tímanum, þótt ekki legði hún sig beinlínis eftir slúðursögum, keypti aldrei slík blöð eða tímarit.  En hún fylgdist þeim mun betur með því sem var að gerast. Og hún hafði skoðanir á öllu sem hún heyrði og las og þær féllu ekki alltaf í kramið hjá Sigurjóni. Í hjarta sínu fyrirleit hún tilhneigingu hans til karlrembu.
Hún hafði alltaf sagt, Maður á ekki að vera að hugsa um morgundaginn, heldur njóta augnabliksins. Ef henni var bent á að minningar gætu verið góðar, bandaði hún frá sér og sagði, Já, að vísu, en maður á að eiga þær einn. Og svo sneri hún sér að öðru.
Hún hafði lengst af unnið í verzlunum og haft mesta ánægju af því að afgreiða í tízkuverzlun á Laugaveginum. Þangað höfðu margar ungar og fallegar konur komið á sinni tíð. Og hún hafði fundið sjálfa sig í sumum þessara leitandi kvenna. Hún hafði séð sjálfa sig í hlutverki þeirra og þá einkum þegar bandaríski herinn kom til landsins í styrjöldinni, en þá þótti hún öðrum konum fallegri og glæsilegri í bænum og einkennisklæddir útlendingar fóru að venja komur sínar í verzlunina. Drengurinn sem þá var sendill í þessari verzlun var einungis tólf ára og átti fullt í fangi með að skilja aðstreymi þessara einkennisklæddu hermanna í búðina; hélt fyrst þeir væru að leita að minjagripum eða íslenzku gæruskinni. En þegar hann sagði mér frá þessari reynslu sinni, bætti hann því við, að hann hefði hægt og sígandi farið að skilja hvers kyns var. Þarna stóð hún innanbúðar, stolt og falleg eins og heiðagæs og afgreiddi viðskiptavinina með bros á vör. Sendillinn sagðist sérstaklega muna eftir hávöxnum, ljóshærðum og stuttklipptum bandarískum hermanni sem þóttist eiga erindi í verzlunina, en það kom á daginn, að erindið var hún sjálf. Hvernig er það, sagði hann einhverju sinni rétt fyrir lokun, hvernig mundirðu taka því, ef ég biði þér út? Hún hristi höfuðið. Gætirðu ekki hugsað þér það? Hún hristi enn höfuðið. Þá fór hann út í aðra sálma, gekk um búðina, skoðaði eitt og annað og kvaddi.
Hún kvaddi þennan einkennisklædda útlending sem hún þekkti lítið sem ekkert og brosti til hans jafn glaðvær og venjulega. Hann horfði um öxl sér og sagði hikandi, Ég kem aftur, ég vona að þú takir það ekki illa upp.
Hún hristi höfuðið og sneri sér að næsta kúnna.
Þannig liðu nokkrir dagar. En svo dúkkaði hann aftur upp og þá einnig undir kvöld. Erindið: að spyrja hana hvort hann mætti ekki bjóða henni út? Nú hristi hún ekki höfuðið, heldur sagði ákveðið: Nei.
Og af hverju ekki spurði hann?
Ég fer ekki út með einkennisklæddum mönnum, sagði hún.
Ertu að móti hermönnum? spurði hann.
Nei, sagði hún.
En hvers vegna má ég þá ekki bjóða þér út, spurði hann.
Þú veizt það, sagði hún, ég hef svarað því. Ég fer ekki út með einkennisklæddum mönnum.
Hann hristi höfuðið. Hann var dapur. Hann hafði augsýnilega ástríðufulla löngun til að kynnast þessari konu og það leyndi sér ekki að hann var staðráðinn í því að bjóða henni út, annaðhvort að borða eða í bíó eða á skemmtistað, hvaða máli skipti það? En hún hafði hafnað honum og þá hvarflaði að honum
sitt við óbreyttan hermann. Hann spurði hvort svo væri. Þá svaraði hún, Ég kann engin skil á því hvort hermenn eru óbreyttir eða ekki.
Þú ert þá ekki að velta því fyrir þér að ég er óbreyttur hermaður, sagði hann.
Nei, sagði hún.
Mundirðu fara út með mér ef ég væri liðsforingi? spurði hann.
Nei, sagði hún.
Hann var orðinn sannfærður um að hún meinti það sem hún sagði og hann ætti þess engan kost að bjóða henni út, hvað sem í boði væri.
Þessi ungi bandaríski hermaður var viðfelldinn og kurteis, en hann var augsýnilega ýtinn og vanur að fá það sem hann ætlaði sér. En þó ekki í þetta sinn.
Hann kom oft í verzlunina og hún tók honum vel og þau kynntust sæmilega af samtölum. En hún fór ekki út með honum.
Einn góðan veðurdag þegar hún var að afgreiða tvær konur, gekk hár og myndarlegur, ljóshærður og burstaklipptur maður inn í búðina. Hann var í jakkafötum. Hann heilsaði kurteislega. Hún horfði á hann, nei það gat ekki verið. Eða var þetta hann?
Já, sagði hann og brosti. Það er ég.
Hún fann hvernig hjartað í henni fór að slá örar og varð óörugg þar sem hún var að afgreiða konurnar. Hann beið rólegur á meðan. Svo gengu þær út.
Hann horfði á hana, þau horfðust í augu. Það var löng og djúp þögn. Hún horfði spyrjandi á hann. Hann sagði, Nei, sagði hann, ég má þetta ekki.
En þú hefur samt skipt um föt, sagði hún.
Já, sagði hann. Þú ferð ekki út með einkennisklæddum manni.
Nei, sagði hún lágt.
Ég er óeinkennisklæddur maður, sagði hann.
Ég sé það, sagði hún.
Ætlarðu að koma út með mér í kvöld? spurði hann.
Hún hafði hugboð um að hann hefði gert eitthvað sem ekki mátti. Hún sá í hendi sér að hann hafði tekið mikla áhættu sín vegna og hún gæti orðið honum dýrt spaug.
Þetta er bannað? spurði hún hikandi.
Já, sagði hann.
Ertu búinn að missa vitglóruna? spurði hún.
Já, sagði hann. Má ég bjóða þér út í kvöld.
Hún horfði á hann þögul og kinkaði kolli, orðalaust.
Samþykkt, sagði hann og sló saman höndunum eins og barn. Ég vissi það, ég vissi það(!) Ég kem og sæki þig í kvöld.
Hann var í bláum fötum og þau fóru honum vel. Og hún ætlaði út með honum þá um kvöldið og hann yrði í bláum fötum og hún kunni því ágætlega.
Svo fór hann út úr búðinni og kvaddi.
Hann hafði lagt mikið á sig að vísu, en það bar samt ekki þann árangur sem til var ætlazt. Þau fóru út oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og hann var alltaf í bláu fötunum. Og alltaf jafn kurteis. Hún spurði hann einhverju sinni, hvar hann gæti skipt um föt, hvort það væri hægt í braggahverfinu?
Nei, sagði hann, ég fæ mér leigubíl.
Leigubíl? sagði hún, til hvers?
Hann keyrir mig að Elliðaánum, sagði hann. Ég fer undir brúna og skipti um föt. Ég geymi einkennisfötin mín undir steinum þar á bakkanum.
Hvað segirðu? sagði hún dolfallin.
Já, sagði hann. Ef upp kæmist yrði ég kallaður fyrir herrétt og fengi þungan dóm.
Hún var saklaus orðin þátttakandi í glæpsamlegu athæfi. Og þessi þátttaka hennar stafaði ekki af neini löngun eða ástríðu, heldur einhvers konar mannúð sem hún skildi ekki og hann hefði vel getað misskilið. En það gerði hann ekki. Hann var einungis langt að heiman og hún var falleg kona og hann langaði til að eignast félagsskap sem gæti orðið nærandi minning, þegar þessu böluðu stríði lyki.
En það var hvorki minning né annað. Henni var hlýtt til þessa unga manns og þeim varð vel til vina þann stutta tíma sem hann dvalist í Reykjavík. En það var enginn eldur í þessari vináttu. Hann hafði horfið eins og hann kom inní líf hennar og hún hugsaði ekki um það, kannski þó einstaka sinnum vegna þess að minningin jók sjálfsálit hennar og ekki laust við að hún daðraði við hégóma hennar með einhverjum hætti. Og þannig minntist hún styrjaldarinnar. Í hennar augum var hún ungur einkennisklæddur maður úr fjarlægu landi.
Úr fjarlægu ævintýri.
En hún var ekki ein þeirra sem lagðist í v-stellingu af minnsta tilefni eins og vinkonurnar sögðu. Andspænis kynorku sinni var hún harður húsbóndi. Í afstöðu til karlmanna fór hún eigin leiðir, þeir voru hnýsilegt skoðunarefni og hún umgekkst þá jafnfrjálslega og af sama öryggi og konur. Og hún gat afgreitt þá með hvassri tungu, ekki síður en konur. Af þeim  sökum þótti hún eftirminnileg, þótt hún væri heldur hlédræg í eðli sínu. En tunga hennar var eldur eins og segir í Jakobsbréfi, samt gat hún hamið hana. Tunga hennar var ekki neisti sem kveikti í nokkrum skógi. Ekki ótemja sem enginn réð við. Nei, þvert á móti, því sjálf var hún tillitssöm og góð í umgengni við annað fólk. Hún taldi sig trúlitla, samt lifði hún eins og fuglar himinsins og liljur vallarins og lét hverjum degi nægja sína þjáningu. En hún þurfti ekki að sækja þennan boðskap í neina kirkju. Sú nærgætni við sjálfa sig var henni eðlislæg, að ganga mjóa veginn. Hún lifði einskonar klausturlífi þar til hún varð ástfangin. Þá hafði hún unað af kynlífi, þótt á því væri meinbugur. Hún setti það ekki fyrir sig.
En þá seldi hún páfagaukana sína.
Nei, hún setti helzt ekkert fyrir sig. Og glaðværð hennar var við brugðið.
Þarna situr hún við spegilinn sinn í elliheimilinu og lagar á sér hárið. Virðir sjálfa sig fyrir sér og minnist andartak þess sem hún þráði, en fékk ekki. Slær því svo frá sér. Brosir framan í sjálfa sig í speglinum og þurrkar allt út úr huganum, allt nema daginn sem er að líða. Hálfblind gengur hún að klæðaskápnum. Tekur fram skrautlegustu flíkina sem hún á, setur á sig gullhring sem hann hafði gefið henni. Setur á sig hálsmen úr silfri, setur á sig silfurhring með fugli sem er að fljúga af fingri hennar; gengur aftur að speglinum og skoðar sjálfa sig; hálfblind skoðar hún sjálfa sig í speglinum og hugsar, Þannig hefur þetta alltaf verið. Hér verður maður að glitra eins og glingur, því þeir sjá ekkert, allir hálfblindir. Maður verður að gera sitt til að draga að sér athyglina, því að hún er það eina sem eftir er.

(Matthías Johannessen, ág. ‘98)

Ég hef af gefnu tilefni verið að hugsa um áreiðanleik frétta í íslenzkum fjölmiðlum. Ég tel ekki að þeim hafi farið fram hvað áreiðanleika snertir, heldur verulega aftur. Ástæðan er einfaldlega sú að fjölmiðlar skirrast ekki við að bera á borð alls kyns “fréttir” sem eru þegar bezt lætur hálfsannleikur en þegar verst lætur ekkert annað en gróusögur sem ekki er hægt að bera á borð fyrir nokkurn mann (Ríkissjónvarpið hafði það eftir grísku hasarblaði að Sigurður Nordal hefði stundað tryggingasvik í Grikklandi. Hans hlustaði á “fréttina” og eftir honum var haft að hann hafi verið hamingjusamur ungur maður en korteri síðar hafi líf hans verið eyðilagt. Ekkert hefur svo heyrzt síðan af þessari “frétt” en DV notaði tækifærið og hafði við hann viðhafnarsamtal með heilsíðu forsíðumynd í tilefni þessarar “fréttar” og þá einnig vegna þess að hann hafði náði sér að strik eftir gjaldþrot. Dæmigert “jafnvægisleysi” og upphlaup í íslenzkri blaðamennsku!)
Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var talað við konu á Ísafirði og sýndar myndir úr heimili hennar. Höfuðáherzla lögð á þá fullyrðingu konunnar að hún hefði verið beitt ofbeldi af lögreglunni á Ísafirði, hún hefði vaðið inn á heimili hennar og meðan á frásögninni stóð voru sýnd ummerki um atgang lögreglunnar.
Upphaf þessa máls hafi verið tvö bréf þar sem hótað var að myrða Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, og Davíð Oddsson, forsætisráðherra, ef þeir sæju ekki til þess að Ólafur sýslumaður á Ísafirði yrði settur af. Ekki eitt orð um það hvers vegna ætti að setja Ólaf sýslumann af. Ekki eitt orð um það hvers vegna Davíð og forsetinn áttu að verða fyrir barðinu á bréfritara, þegar dómsmálaráðuneytið ber að sjálfsögðu ábyrgð á sýslumanni og embættisfærslu hans! Þegar fréttinni var lokið voru áheyrendur ver settir en í upphafi hennar, þeir vissu ekkert hvað um væri að ræða, enda ekki til annars ætlazt en beina athygli að ofbeldi lögreglunnar.
Ég fór að spyrjast fyrir um þetta mál vegna þess að allt kom mér þetta spánskt fyrir sjónir. Þá kemur í ljós að ástæðan fyrir því að konan var grunuð um að senda fyrrnefnd bréf er sú að nöfn hjóna á Ísafirði eru undir báðum bréfunum, en ekki hennar eigið. Konan hefur aftur á móti komið við sögu þessara hjóna því að hún hefur átt í ástarsambandi við manninn og að því er mér skilst eignuðust þau barn saman. Þá fluttust hjónin vestur til Ísafjarðar en konan elti þau þangað og hefur m.a. gerzt sek um að ráðast inn á heimili þeirra.
Ástæðan til þess að skeytum er beint að Ólafi sýslumanni er að mér skilst sú að lögreglan á Ísafirði hefur haft einhver afskipti af þessu máli. En ekki orð um neitt af því í fréttinni. Ekki eitt einasta orð um það hvers vegna konan var grunuð.
Málinu var vísað til ríkislögreglustjóra vegna þess að sýslumaðurinn á Ísafirði kom við sögu í þessum hótunarbréfum. Þess var farið á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að hann veitti heimild til inngöngu í íbúð konunnar. Dómurinn leit svo á að margvíslegar líkur væru á því að gruna konuna og kvað upp þann úrskurð, að leitarheimild væri veitt. Í frétt Stöðvar 2 var ekki eitt orð um það.
Lögregluþjónarnir tóku geisladiska úr íbúð konunnar og nú er verið að rannsaka hvort einhverjar sannanir finnist fyrir því að hún sé höfundur fyrrnefndra bréfa. Geisladiskarnir eru í könnun og ef til vill einhver fleiri gögn varðandi þetta mál. En í frétt Stöðvar 2 er ekki heldur eitt einasta orð um það.

Mér er nær að halda að konan hafi hringt í Stöð 2 til að beina athyglinni frá sér. Ég trúi því ekki að hún hafi verið þátttakandi í fréttinni án þess að svo hafi verið. Sagt var að Örn Clausen hefði fengið mál hennar til meðferðar, en ekki eitt orð eftir honum haft. Það eina sem eftir stóð var sú fullyrðing konunnar að hún hygðist kæra ríkislögreglustjóra og lögreglumenn á Ísafirði!
Það má vel vera að lögreglan hafi haldið konunni of lengi, ég veit það ekki. En það sáust engir áverkar á henni þar sem hún sat fyrir framan sjónvarpið og augljóst að hún hefur ekki hlotið verri meðferð en venja er við slíkar rannsóknir þegar heimild er fengin fyrir húsleit. En kannski kemur í ljós hvort hún er sek eða saklaus. Það er þó engin ástæða til þess að reyna að koma höggi á lögregluna með þeim upplýsingum sem Stöð 2 hafði í höndum. Allt málið var úr lagi fært og “fréttin” stormur í vatnsglasi. (Ekkert var aðhafzt í málinu, enda kom í ljós að koman var sjúk á geði. En um það var aldrei fjallað, né annað; þannig að bókin er suður í Borgarfirði.)
(Ekkert var aðhafzt í málinu,enda kom í ljós að konan var sjúk á geði).

Ég er að velta þessu fyrir mér vegna þess að nú í vikunni hringdi ónafngreind kona til Morgunblaðsins og sagði að ástæðan fyrir slysi sem varð eftir verzlunarmannahelgina á Landvegi hafi verið sú að lögreglan hafi losað sæti í bílnum og ekki fest þau aftur réttilega. Af þeim sökum hafi ungmennin sem voru í bílnum ekki getað notað bílbeltin, þau hafi verið föst undir sætunum.
Við höfðum samband við sýslumannsembættin fyrir austan og komu þau af fjöllum. Enginn hafði heyrt þessa getið. Í ljós kom að lögreglan hafði ekki losað nein sæti í bíl ungmennanna. Ef það hefur verið gert, þá hafa gæzlumenn í Galtalækjarskógi staðið að því og þá vegna áfengisleitar á svæðinu.
En konan sem hringdi í Morgunblaðið fullyrti að lögreglan væri völd að slysinu. Í því fórst ungur piltur og það var því mjög sorglegt. Málið er þannig eins viðkvæmt og orðið getur og því ástæða til að fara varlega áður en fréttamiðlar hefja leit að sökudólgum og reyna að koma höggi á lögreglu eða gæzlumenn í Galtarlæk. Við biðum því eftir niðurstöðu á rannsókn lögreglunnar fyrir austan.

En DV þurfti ekki að bíða. Laugardaginn 8. ágúst birtist frétt á baksíðu Dagblaðsins þar sem segir:
Lögreglurannsókn vegna banaslyss á Landvegi: Bílbeltin föst undir sætum. - eftir áfengisleit í Galtarlækjarskógi, að sögn ungmennanna.
Í fréttinni segir að ungmennin hafi sagt að þau hafi ekki getað fest á sig bílbeltin í aftursætunum þar sem beltin voru föst.
“Það virðist sem þau hafi verið föst undir aftursætunum eftir leit gæslumanna á Galtarlæk. Ungmennin hafa sagt að gæslumenn hafi skrúfað aftursætin úr bílnum við leitina. Ég fór að skoðaði bílflakið og gat ekki séð nein belti í aftursætum bílsins. Þetta er að sjálfsögðu gríðarlega alvarlegt mál ef rétt reynist þar sem um dauðaslys er að ræða”, er haft eftir föður piltsins sem lézt.

Þetta mál er að sjálfsögðu mjög alvarlegt enda er það í rannsókn á vegum lögreglunnar á Hvolsvelli, en engin niðurstaða hefur fengizt. Nú er flak bílsins til athugunar og nægur tími til ásakana, ef í ljós kemur að gæzlumenn hafa átt einhverja óbeina aðild að þessum harmleik.
En ef gæzlumenn eru algjörlega saklausir af því sem ungmennin halda fram, þá hafa þeir með fyrirsögn DV verið hengdir ef svo mætti segja, með þeim hætti sem ekki verður aftur tekið; ásakaðir að ósekju. (Í ljós kom að ekki hafði verið hreyft við bílbeltunum og vísbendingar þess efnis uppspurni frá rótum.).

Ég las nýlega eftirfarandi klausu í bandarísku tímariti:
“Enginn vafi er á, að tíminn er farinn að vinna gegn fjölmiðlunum og skilningi þeirra á því, sem er rétt og viðeigandi. Nefna má um það nýlegt dæmi, konu, sem slasaðist alvarlega í bílslysi í Kaliforníu. Einn sjónvarpsfréttamannanna elti hana alveg inn í björgunarþyrluna og hjúkrunarkonan um borð sá síðan um að hljóðrita allt, sem slösuðu konunni og sjúkraliðanum fór á milli meðan á fluginu stóð. Var hljóðritunin síðan notuð í þætti um neyðarhjálp, sem sýndur var á KNBC-sjónarpsstöðinni í Los Angeles.
Það mátti heyra konuna segja “ég er orðin gömul” og “ég vil bara deyja”.
Í þættinum var konan aðeins nefnd skírnarnafni sínu og aðeins sást í andlit henni á bak við súrefnisgrímuna í örstutta stund en hæstiréttur Kaliforníu hnekkti samt sem áður úrskurði lægra dómstigs og úrskurðaði, að taka bæri fyrir kæru konunnar um að einkalíf hennar hefði verið óvirt. Sagði í niðurstöðum réttarins, að sakborningarnir hefðu “engin stjórnarskrárbundin réttindi”, sem leyfðu þeim aðgang að einkalífi og einkasamtölum kærandans.”

Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 28. júlí sl. segir svo í miðsíðugrein undir fyrirsögninni Á fréttastofum er víða pottur brotinn:
“Að hluta til er um að ræða nýju blaðamennskuna.
Einhverju er ábótavant í bandarískri fréttamennsku þegar sannleikurinn virðist stundum ekki vera helsta keppikeflið lengur, skrifar bandaríski blaðamaðurinn Richard Harwood. Hann telur að helst skorti góða ritstýringu.
Það væru mistök að gera ráð fyrir því að einföld lausn sé til á þeim vandamálum sem leitt hafa til hrapallegra mistaka í blaðamennsku undanfarið. Þau eru afsprengi fyrirtækjarekstrar sem virðist lítt móttækilegur fyrir breytingum og blindur á eigin veikleika.
Fyrir hartnær tuttugu árum skaut upp kollinum sláandi veikleiki í bandarískum fjölmiðlaheimi í tilfelli Janet Cookes og fjölda minna áberandi atvika af svipuðu tagi á sama tíma. Cooke hlaut Pulitzer-verðlaunin fyrir hönd The Washington Post fyrir frásögn af átta ára heróínsjúklingi þar sem einungis eitt hafði orðið útundan:
Sannleikurinn.
Það sem gerðist á The Post ­ skortur á ritstýringu ­ var að gerast alls staðar í Bandaríkjunum. Sífellt fleiri frásagnir byggðust á ónafngreindum heimildum og þeirri barnalegu trú að blaðamenn væru heiðarlegar og æruverðugar manneskjur. Samtímis því urðu ritstjórar sífellt eftirlátssamari við fréttamenn sem vildu ekkert segja er þeir voru beðnir að geta heimildamanna sinna.
Við blaðamenn neituðum að trúa því að fréttastofur, líkt og aðrar stofnanir, ættu sinn skerf af lygurum, ritþjófum, rummungum og fúskurum. Það kann að vera erfiðara að koma auga á þá í blaðamennsku en öðrum starfsgreinum vegna þess að hjá okkur eru viðmiðin tvíræð.
Pípulagningamaður sem ekki gerir við leka, skurðlæknirinn sem gerir of margar aðgerðir og lögfræðingurinn sem stingur af með fjármuni er hann hefur í vörslu sinni eru líklegri til að vera staðnir að verki en blaðamaðurinn sem hefur eitthvað eftir heimildamönnum sem ekki eru til.
Blaðamennskan hefur einnig orðið fyrir barðinu á öfgamönnum sem ætluðu sér að sanna kenningar án tillits til vísbendinganna. Sú var einmitt rauninn á San Jose Mercury News fyrir tveim árum þegar birtur var greinaflokkur á grundvelli þeirrar kenningar að bandaríska leyniþjónustan stæði að baki krakkfaraldurs meðal svertingja í Los Angeles.
Það sama kom fyrir tímaritið Time og CNN nú í sumar þegar samstarf var haft um frásögn, sem hefur síðan verið dregin til baka, þar sem bandarískt herfylki var sakað um að hafa notað eiturgas í hernaðaraðgerð í Laos 1970. Þetta kom fyrir NBC-sjónvarpið fyrir nokkrum árum þegar kvikmynd var notuð til þess að “sanna” að General Motors hefði framleitt jeppa með hættulegan bensíntank. Einn jeppinn sprakk á myndunum ­ áhrifamikið andartak, en það var gabb. Tæknimenn, sem NBC hafði á sínum snærum, höfðu komið því svo fyrir að jeppinn sprakk.
Öll þessi vandamál er enn að finna í bandarískri fjölmiðlun nú. Vinsæl skýring, einkum hjá ljósvakamiðlum, er rekstrarlegur þrýstingur. Sjónvarpsstöðvar eru helteknar af áhorfsmælingum og áhorfendafjölda, sem ræður auglýsingaverði og hagnaði, og þess vegna er ýmsu sjónvarpað sem ekki hefði átt að sjónvarpa.
Dagblöð og tímarit eru í svipaðri aðstöðu, illa haldin af minnkandi útbreiðslu og leita leiða til þess að ná aftur því sem glatast hefur.
En gabbfréttirnar og uppspuninn undanfarna mánuði verður ekki að öllu leyti útskýrður sem viðbrögð við fjárhagslegum þrýstingi af efri hæðinni. Það er í grundvallaratriðum eitthvað athugavert við fréttastofurekstur þar sem svona lagað gerist ár eftir ár.
Að hluta til er um að ræða “Nýju blaðamennskuna”, sem oft er kölluð “listin að flytja persónulegar fréttir”. Hún spratt upp á sjöunda áratugnum og helstu forkólfarnir voru rithöfundar, þeirra á meðal Norman Mailer, Truman Capote og Tom Wolfe.
Þegar þessi tegund ruddi sér til rúms á fréttastofum gafst slakari fréttamönnum og rithöfundum færi á að nota aðferðir skáldskaparins í þjónustu “raunsæis”, “merkingar” og “sannleika”, og þyrla ryki yfir skilgreininguna á blaðamennsku og því hvernig hún virkar.
Hluti vandans er líka einfaldlega bara stærð fjölmiðlafyrirtækja nútímans. Framkvæmdastjórar á fréttastofum tileinka sér venjur atvinnurekenda, megnið af vinnutíma þeirra fer í fundasetur og “áætlanagerð”; í fjárveitingabaráttu; í þróun og umsjá “nýrra vörutegunda”; í minnisblaðaskrif; í að “koma til móts við samfélagið”; í “aðgæsluþjálfun” og í að veita starfsfólki heilræði.
Það er oft lítill tími eftir til að ritstýra og gagnrýna fréttir og fylgja eftir, með því að sýna gott fordæmi, þeim grundvallaratriðum sem góð blaðamennska byggist á. Þessi hlutverk eru oft falin fólki sem ekki hefur hæfileika til að gegna þeim, eins og komið hefur í ljós á undanförnum mánuðum.
Norman Isaacs, kunnur gagnrýnandi “agaleysis og hroka nýju blaðamennskunnar”, lét orð falla, í kjölfar þess sem Janet Cooke gerði 1981, sem eiga við enn í dag: “Við þurfum ekki á að halda dagblöðum fyrir fréttamenn, heldur dagblöðum fyrir lesendur ­ og það sem þarf til að skapa þau er góð ritstýring.”

Ódagsett

Þriðjudaginn 11. ágúst er sagt frá því í Morgunblaðinu að Garðar Gíslason hæstaréttardómari hafi fjallað um siðareglur lögmanna og dómstóla í Úlfljóti og þessar fullyrðingar m.a. hafðar eftir honum:
“Í fjölmiðlum koma fram ýmsir sem virðast fyrirfram á móti dómstólum eins og öllum valdhöfum þjóðfélagsins, og nýta hvert tækifæri sem gefst til árása á þá. Ástæður þessa geta verið margvíslegar. Sumir telja sig fulltrúa almennings sem eigi að vera á móti valdhöfum, aðrir eru á móti dómstólum sem dæma þá fyrir fjölmæli. Einföldust er e.t.v. sú skýring að dómstólar beita öguðum vinnubrögðum og virða sannleikann og réttlætið. Nú á tímum æsifrétta í fjölmiðlum, þegar sjónvarpið ræður ferðinni, er sannleikur ekki lengur hafður að leiðarljósi í fréttaflutningi í jafn ríkum mæli og áður, og ýmsir eiga því erfitt með að þola að aðrir virði meginreglur sem þeir virða sjálfir ekki lengur, þegar þeir eru farnir yfir á vettvang púkans í fjósi Sæmundar”.
Ég er ekki viss um að dómstólar beiti alltaf öguðum vinnubrögðum og virði ævinlega sannleikann og réttlætið. Ég þykist hafa séð fáránlega dóma og forsendur þeirra sem benda til annars, þ. á m. dóm Hæstaréttar þess efnis að það sé ekki fjölmæli þegar Hrafn Jökulsson sagði um Harald son okkar að hann væri glæpamannaframleiðandi ríkisins. Ef hann hefði sagt að forstjóri fangelsismálastofnunar, nafnlaust, væri glæpamannaframleiðandi ríkisins, hefði gegnt allt öðru máli.
En hitt er að mínu viti rétt fullyrðing hjá Garðari að nú á tímum æsifrétta í fjölmiðlum, eins og hann kemst að orði, er sannleikurinn ekki lengur hafður að leiðarljósi í fréttaflutningi í jafn ríkum mæli og áður þó að þessi alhæfing eigi að sjálfsögðu ekki rétt á sér. Morgunblaðið hefur t.a.m. aldrei stundað æsifréttamennsku og margir eru þeirrar skoðunar að það hafi aldrei verið vandara að virðingu sinni en á hinum síðustu og verstu tímum.

Hef verið að hugsa um aðra grein í Morgunblaðinu frá því á þriðjudag, Bestu skáldsögurnar, eða hvað? Þar er talað um valið sem Modern Library, í eigu Random House-bókaútgáfunnar í Bandaríkjunum, lét gera í áróðurs- og söluskyni. Listinn hefur verið gagnrýndur harðlega og nú er ljóst að hann er byggður á forsendum sem eru taldar “gott svindl” af aðstandendum þessarar könnunar. Í greinni segir að á upphaflega listanum frá Random House hafi verið 21 bók eftir einn af dómnefndarmönnunum, Gore Vidal, “en hann er líka gefinn út af Random House og á auk þess sæti í stjórn Modern Library sem er eitt af forlögum Random House”!
Vidal átti sem sagt fleiri bækur á upphaflegum lista en Faulkner, Henry James og Conrad samanlagt. Samt rataði engin bók Vidals á endanlegan 100 bóka lista.
Í viðtölum við dómnefndarmenn kom fram að þeir völdu bækurnar á mjög misjöfnum forsendum; sumir völdu bezt skrifuðu bækurnar, aðrir áhrifamestu bækurnar og enn aðrir mikilvægustu bækurnar. Sumir höfðu ekki einu sinni lesið þær bækur sem þeir völdu!!”
Stjórnarformaður Modern Library, Christopher Cerf, sem átti einnig sæti í dómnefndinni, segist ekki líta á val bókanna sem strangvísindalegan kost:
“En mér fannst þetta hafa tekist vel. Listinn hefur fengið alla sem ég þekki til að tala um bækur, og það bækur sem fólk talar yfirleitt ekki um. Þetta hefur tekist betur en við þorðum að vona.”
Síðan er sagt frá því að ýmsar bækur sem hafa lítið sem ekkert hreyfzt eins og Ódysseifur séu komnar á metsölubókalista vegna þessa áróðurs!
Það er svo sem ágætt út af fyrir sig, en mun hvorki breyta einu né neinu.
Hitt er íhugunarefni hvernig fyrrnefndur stjórnarformaður Modern Library hefur réttlætt þennan tilbúna og forsendulausu lista með aukinni bókasölu.
Og hann hefur bætt við þessari athugasemd:
“Auðvitað var vinnsla hans (listans) að einhverju leyti svindl, en þetta var gott svindl.”
Er hægt að bjóða skáldum og rithöfundum og verkum þeirra hvað sem er í nafni bóksölu og fjölmiðlaáróðurs? Á að taka því þegjandi að tilgangurinn helgi meðalið þegar bóklisti er annars vegar?
“Niðurröðunin á listann var kannski ekki að öllu leyti rétt,” heldur stjórnarformaðurinn áfram, “en ef þessi listi hefði verið úthugsaður hefði hann ekki vakið eins mikil viðbrögð. Fólk væri þá ekki að tala um bækur núna, heldur eitthvað allt annað.”

Á fólk að tala um bækur á fölskum forsendum? Er virðingarleysi markaðarins fyrir skáldskap og bóklist með þeim hætti að engu tali tekur?
Það fer hrollur um mig að hugsa um þessa sölumennsku. En það sem er þó verst er sú vitneskja, að íslenzkir bókaútgefendur hafa efnt til íslenzku bókmenntaverðlaunanna á nákvæmlega sömu forsendum og fyrrnefndir forráðamenn Modern Library; þ.e. að umtalið selji bækur - og það skipti í raun og veru harla litlu máli hvaða bækur fái viðurkenningu eða seljist. Markmiðið er sem sagt: selja selja selja eða kaupa kaupa kaupa, þ.e. hinn áhrifaríki kaupmórall Stefa gróssera í Innansveitarkroniku, sem borgaði fyrir kirkjuna í Mosfellsdal eins og þegar guð launar fyrir hrafninn!!

Mánudagur 10. ágúst

Í dag segir Dagblaðið í lítilli eindálkafrétt á bls. 4 að bílbeltin hafi verið í lagi í Galtalæk. Þar segir svo:
“Rannsókn lögreglunnar á Hvolsvelli hefur leitt í ljós að bílbelti í Peugeot-bifreið voru í lagi þegar dauðaslys varð á Landvegi um verslunarmannahelgina.
Rannsókn lögreglu beindist að því hvort bílbelti í aftursætum bifreiðarinnar hefðu verið í ólagi. 15 ára piltur lést í slysinu en hann sat í aftursæti bílsins og var ekki í bílbelti. Fjögur önnur ungmenni voru í bifreiðinni. Þrjú þeirra slösuðust en einn piltur slapp ómeiddur. Hann var einn í bílbelti. Ungmennin höfðu greint frá því að bílbeltin í aftursætum hefðu verið föst eftir að áfengisleit var gerð í bílnum á Galtarlækjarhátíðinni.”
Svo mörg eru þau orð. Hefði nú ekki verið hyggilegra að bíða með þessa frétt áður en saklausir gæzlumenn í Galtarlæk voru óbeinlínis sakaðir um manndráp?
Það gerðum við á Morgunblaðinu. Og af þeim sökum var engin æsifrétt í blaðinu um slys þetta.

Kvöldið

Sóttum Ingólf, son okkar, á Keflavíkurflugvöll síðdegis. Hann kom frá Glasgow. Verður heima í þrjár vikur. Förum norður í land seinna í vikunni, síðar í Láxá í Kjós.

Eftir síðdegisfund með fréttastjórum í dag sat ég einn í skrifstofunni minni og horfði út um gluggann. Það var grátt úti og skýin þutu um himininn, þau voru einskonar eftirstöðvar þess storms og slagveðurs sem herjuðu á landið sunnanvert um helgina. Ég virti fyrir mér þessar hamfarir himinsins og á mig sótti tómleiki og hryggð því að á fundinum var fjallað um þýzkan lækni í Piper Saratoga-flugvél sinni sem saknað er, ásamt tveimur sonum sínum, en líklega hafa þeir farizt í þoku og rigningu þegar þeir reyndu lendingu á Hornafirði. Þeir voru víst á heimleið og ætluðu að taka eldsneyti á flugvellinum í Hornafirði áður en þeir héldu yfir hafið.
En þeir hafa sett stefnuna á annað haf.
Ég sat og hugsaði með sjálfum mér um þessi örlög; að koma til Íslands í lítilli Piper Saratoga-vél og halda að landið sé einhvers konar gæludýr fyrir túrista. Hvílík fásinna. Ísland í sumarblíðu getur breytzt eins og hendi sé veifað í dauðans alvöru, ógn og óhug, sem minnir á drunur eldfjallsins eða tröllaukna sinfóníu skriðjökulsins.
Hvar var þessi litla flugvél?
Og hvar voru þessir feðgar, sem höfðu heimsótt landið til að sjúga úr því hunangið eins og býflugur.
Það veit enginn. Ég var að hugsa um konuna sem lætur hugann reika til Íslands, bíður og trúir því að þeirra feðga sé von heim, áður en langt um líður. En fréttirnar verða aðrar, því miður.
Og svo þetta högg, segir einhvers staðar í litlu ljóði.

Hvernig getur þessi kona lifað af þær fréttir sem hún á í vændum? Hvern á að spyrja að því?
Veðrið, skýin?
Þetta allt olli mér kvíða og sárum leiða þrátt fyrir fögnuð yfir því að Ingólfur væri kominn í heimsókn.
Er hægt að ásaka einhvern fyrir þessa fífldirfsku, að ógna þessum dreka sem heitir Ísland?
Er hægt að ásaka einhvern fyrir bjartsýni, að halda að maður geti komið til þessa lands, bláókunnugur, og leikið sér við það eins og býflugur við blóm?

Mér hefur oft liðið með þessum hætti í störfum mínum. Hef aldrei getað vanizt því að þurfa að fjalla um svo harmsöguleg tíðindi. En ég skil ekki af hverju annað fólk og bláókunnugt á að finna til sársauka í mér.

Blaðamaður sem upplifir umhverfi sitt með þessum hætti er líklega lítils virði. En kannski væri hann minna virði, ef hann gæti upplifað slíkt án sársauka, án þjáningar; án þess annað fólk ætti einnig bágt í honum.

Það er langt síðan ég ákvað að hætta blaðamennsku þegar ég væri orðinn svo tilfinningasljór að ég fyndi ekki til með þeim sem eiga í vændum óhugnanleg tíðindi sem ég gæti ekki sjálfur afborið.
Og þarna sat ég og horfði á þessi hversdagsgráu ský sem þutu um himininn eins og hugsanir mínar um þennan sárviðkvæma huga minn, sem hefur aldrei  getað vanizt umhverfi sínu.

Miðvikudagur 12. ágúst

Fórum norður Kjöl, Hanna, Ingó og Kristján, sonarsonur okkar. Fengum gott veður, bjart og hlýtt. Þó var skúr við Bláfell. Á því lágu nokkur þunglyndisleg  ský, einnig á Hrútfelli en Jarlhettur fjallheiðar.
Hvaðan skyldi þetta örnefni annars vera ættað, ég hef verið að hugsa um það.
Kannski er einhver skýring á því, ég veit það ekki.
Það var talsverður snjór í Kerlingarfjöllum, en þó ekki mikill. Augljóst að Hofsjökull er farinn að hopa að vestanverðu.
Það var nokkur umferð á Kili. Hrossarekstur minnti á gamlan tíma. Flestir ferðalangarnir áreiðanlega útlendingar. Merkilegt hvað þeir sækja í íslenzkar óbyggðir.
Þegar við ókum niður Blöndudal fór ég að velta fyrir mér örnefninu Svartá og Svartárdalur. Hvaðan skyldi þetta örnefni vera ættað? Áin rennur í Blöndu og dalurinn hverfur í skugga af vestursólinni, þegar hún hverfur að fjöllum. Það hlýtur að vera skýringin.
Sól fer dalinn svörtum skuggum þegar hún hverfur til fjalla. Og bergvatnsáin dökknar þegar bregður degi.
Enn gladdist ég yfir því að horfa til Blöndudalshóla. Það var ekki endilega vegna þess að ég á þangað rætur að rekja því að þar fæddist langalangaafi minn, Björn Blöndal sem kallaður hefur verið yfirvaldið, enda friðaði hann Norðurland á skálmöld, heldur vegna þess að þar finnst mér einna fegurst bæjarstæði á Íslandi.

Föstudagur 14. ágúst

Það eru mörg falleg tré á Akureyri, fallegri en í Reykjavík. Ætla að fá grein um nokkur helztu tré í einkaeign á Akureyri og birta hana í Morgunblaðinu.

Helgi Már Arthúrsson, sem er einn klárasti og vandaðasti sjónvarpsfréttamaður okkar, segir m.a. í samtali við Morgunblaðið í dag:

”Það er ágætt fyrir fólk að mínu mati að skipta um vinnu til þess að öðlast meiri reynslu. Þetta starf er mjög spennandi og hér í ráðuneytinu er þekkingarbrunnur sem maður fær tækifæri til þess að stinga rananum í. Ég held að ekki sé gott fyrir menn að vera allt of lengi í sjónvarpi. Sjónvarp er svolítið fyrirferðamikið og ekki mjög upplýsandi. Sjónvarpsfréttir eru mjög dýrar og þyrftu að vera langtum dýrari til þess að verða betri. Þótt ég sé búinn að vera tíu ár í sjónvarpi er ég frekar gamladags hvað fjölmiðla varðar. Ég trúi á endurreisn dagblaðsins í einhverri mynd sem og útvarpsins sem fréttamiðils. Þessir miðlar eru oft meira upplýsandi og 21. öldin verður þeirra.”

Þetta smáerindi varð til á leiðinni frá Akureyri til Ólafsfjarðar í gær:

Þú plantaðir hríslu
við gluggann þinn
og nú er hún stórt tré

nú er hún stór minning
við stofugluggann

en það er dimmt í húsinu.

Grein Úlfars Þormóðssonar um forseta Íslands og fjármálasamstarf hans við Landsbanka Íslands á sínum tíma var birt í Morgunblaðinu í dag. Við höfðum fengið upplýsingar um að forsetafrúin sé úr lífshættu og sáum ekki rök fyrir því að draga birtinguna á langinn úr því sem komið var.

Kvöldið

Komum heim fyrir kvöldmat. Gott veður, heldur bjart en kaldara en verið hefur í sumar:
Haustið kom eins og hendi sé veifað, -
ætli þetta sé ekki ágæt upphafslína í kvæði?

Höfum séð margt fólk á ferðum okkar um landið, einkum útlendinga. Alls staðar fjöldi útlendinga, við Jökulsárlón, í Skaftafelli, á leið í Eldgjá og Landmannalaugar, á Akureyri, við Mývatn og Goðafoss, á Húsavík. Hef aldrei séð jafn marga Ítali á einum stað á Íslandi og í Staðaskála um kaffi-leytið í gær. Þeir voru víst að koma úr hópferð.
Ísland er orðið mikið ferðamannaland og fólk er alls staðar. En gæludýrið vinsæla getur breytzt í öskrandi rándýr. Ungur bandarískur læknanemi örmagnaðist við Landamannalaugar í vikunni, þá gerði vitlaust veður. Þrír þýzkir feðgar fórust í fjallalendinu austur af Hornafirði þegar reynt var að lenda flugvél þeirra þar á flugvellinum.
Menn þurfa að kunna á landið til að geta umgengizt það skaplega. Það er því ástæða til að bera þó nokkurn ugg í brjósti vegna vinsælda þess hjá ferðamönnum og auknum ferðalögum þeirra hingað á norðurhjarann.
Frönsk kona fórst í bílslysi, að mig minnir í Suðursveit, vegna þess að rollur hlupu fyrir bíl þeirra hjóna. Þær eru miklir vágestir við vegina. Þær geta sprottið upp úr vegköntunum án nokkurs fyrirvara. Það er einkennilegt hvað þær sækja í nýgresið þar.
Nei, það eru tvær hliðar á lífinu. Hin hliðin er ógæfa, dauði. Ísland er í sköpun og nútímafólk sem er fætt inn í bómull og plast vill kynnast þessari fæðingu. Það vill taka þátt í henni,vera viðstatt. Þess vegna þyrpast útlendingar í íslenzka sumarlandið, en þeir eru því miður ekki allir í stakk búnir til að mæta óvæntum tíðindum í þessu framandi umhverfi nýrrar sköpunar. Þeir verða fyrir slysum, það er sárt.
En það er þá einnig táknrænt að í höfninni í Reykjavík liggur skemmtiferðaskipið Columbus. Hann fór líka á nýjar slóðir.

Laugardagur 15. ágúst

Fallegt og bjart veður.
Við Ingó fórum í göngutúr um Fossvog í gærkvöldi. Töluðum margt saman. Hann nefndi Stephen W. Hawking og fyrirvara hans á guðdómnum. Ég minnti hann á ummæli Hawkings í Sögu tímans  og sýndi honum þau, þegar heim kom. Honum þykja ummælin athyglisverð.
Hawking segir m.a.: “Guð kann að hafa sett þessi lögmál í upphafi, en svo virðist sem hann hafi síðan látið heiminn þróast samkvæmt þeim og ekki skipt sér meira af gangi mála. En hvernig valdi hann upphaflegt ástand og gerð heimsins? Hver voru “jaðarskilyrðin” við upphaf tímans?”

Hawking er að velta því fyrir sér að vísindin hafi, að því er virðist, leitt í ljós lögmál sem geta sagt fyrir um gang atburða framvegis, ef ástand heimsins er þekkt á einhverri stund, vitaskuld með þeirri óvissu sem í óvissulögmálinu býr eins og hann kemst að orði.
Og hann heldur áfram:
“Hugsanlegt svar er að segja að Guð hafi valið upphafsástandið með rökum sem við skiljum ekki og getum ekki gert okkur von um að skilja. Það hefði vissulega verið á valdi almáttugrar veru, en hafi Guð sett heiminn af stað á óskiljanlegan hátt, hvers vegna lét hann heiminn þá þróast samkvæmt lögmálum sem við getum skilið? Öll saga vísindanna hefur smám saman staðfest að atburðir hér í heimi gerast ekki á handahófskenndan hátt, að baki þeim liggur ákveðin regla. Sú regla kann að eiga sér guðlegt upphaf en svo þarf ekki að vera.”
Og Hawking heldur áfram í niðurlagskafla bókarinnar:
“Guð stýrði því hvernig heimurinn hófst og hvaða lögmálum hann fylgdi, en hlutaðist annars ekki til um gang mála eftir að alheimurinn var á annað borð kominn af stað. Í raun var það svo að Guði voru falin þau svið sem vísindi 19. aldar réðu ekki við.”
Þetta segir Hawking þegar hann fjallar um löghyggju. En síðar segir hann um forsjónina:
“Við miklahvell og aðrar sérstæður bregðast öll lögmál vísindanna; Guði væri því alveg frjálst að ákveða hvað gerðist og hvernig heimurinn hófst.
Þegar almenna afstæðiskenningin og skammtafræðin eru samþættar kemur fram möguleiki sem var ekki til áður: Rúm og tími kynnu að mynda endanlegt fjórvítt rúm án sérstæðna eða endimarka, svipað yfirborði jarðar nema hvað víddirnar eru fleiri. Þessi hugmynd virðist geta skýrt mörg einkenni alheims, m.a. að hann er einsleitur í grófum dráttum, og einnig þau frávik frá einsleitni sem koma í ljós þegar fínni drættir eru athugaðir, svo sem stjörnuþokur, stjörnur og jafnvel menn. Hún gæti skýrt ör tímans. En hvíli heimurinn alveg í sjálfum sér, hafi engar sérstæður né endimörk, og sé honum að fullu lýst í samþættri kenningu, þá hefur það afdrifaríkar afleiðingar fyrir hlutverk Guðs sem skapara.
Einu sinni spurði Einstein: “Hverra kosta var völ þegar Guð skapaði heiminn?” Sé jaðarleysistilgátan rétt, átti hann engra kosta völ í upphafsskilyrðunum. Hann gat að vísu valið heiminum lög til að fara eftir. Ekki er þó víst að þar hafi verið um margt að velja, kannski aðeins eina eða örfáar samþættar kenningar eins og strengjafræðina sem eru sjálfum sér samkvæmar og leyfa tilvist jafn flókinna vera og manna sem kanna lögmál náttúrunnar og spyrja um eðli Guðs.”
Og að lokum:
“Finnist fullkomin kenning þá ætti hún, eða að minnsta kosti aðaldrættir hennar, smám saman að verða skiljanleg öllum, en ekki aðeins fáum vísindamönnum. Þá getum við öll, heimspekingar, vísindamenn og almenningur, tekið þátt í umræðunni um það hvers vegna við og alheimurinn erum til? Takist að finna svar við þeirri spurningu, yrði það lokasigur mannlegrar skynsemi - þá þekktum við hugskot Guðs.”
Sem sagt, þá skildum við að lokum þá hugarveröld guðs sem Jónas Hallgrímsson fjallar um í kvæðum sínum.
En maður sem fjallar um guð með þessum hætti er ekki guðleysingi, hann er efahyggjumaður eins og allir mestu trúmenn sögunnar.
Mér er nær að halda að mesti trúmaður íslenzkra ljóðskálda, náttúruvísindamaðurinn Jónas Hallgrímsson, hefði átt auðvelt með að taka undir margt af því sem Stephen Hawking segir í fyrrnefndu riti sínu.

Kvöldið

Fórum með Ingó austur að Skógarfossi. Bjart veður og fallegt lengst af. Fór að velta því fyrir mér hvort Eyjafjöllin væru minnisstæðasta sveit landsins, það skyldi þó ekki vera?

Þetta erindi kom í hugann:

Ferðamenn á leið
til himna
eftir úðagrænum hlíðum
við fossinn,
en sjálfur er hann á leið
til sjávar.

Englar með fuglsvængi
sveima í regnboganum.

Sunnudagur 16. ágúst

Fallegt veður. Dreymdi rottugang í nótt, síðan Bjarna Benediktsson. Að okkur komu nokkrar konur sem hann neitaði að taka í höndina á! Líklega einhverjar ofurkonur!!
Enginn viðbrögð hafa orðið við grein Úlfars Þormóðssonar, sýnir einungis að forsetaembættið er heilagt! Forsetinn er á landinu og flytur ræðu á Hólahátíð í dag. Sagt í fréttum í gær að ekkert hvítblæði finnist í konu hans. Það eru góð tíðindi, en ég minnist þess, þegar við Ólafur G. Einarsson heimsóttum Garðar Svavarsson, vin okkar, um þetta leyti í fyrra. Þá bauð hann okkur heim, sagði að ekkert hvítblæði fyndist í sér, rúmum mánuði síðar var hann látinn.

Forystugrein Morgunblaðsins í dag fjallar um ævintýrið og afrekið Íslenska erfðagreiningu en þar er einnig drepið á nokkur atriði sem kalla á rækilega umhugsun. Þó einkum ýtt undir fjölbreytilegar umræður áður en málið verður til lykta leitt á Alþingi. Efast þó um að slíkar umræður verði eins málefnalegar og nauðsynlegt er, við erum ekki vanir málefnalegum umræðum um mikilvæg álitamál. Hætt við venjulegri íslenzkri tilfinningaþvælu og svo auðvitað þeirri forsendu sem öllu ræður, bæði hér og annars staðar: hagsmununum. Þar sem miklir peningar eru, þar eru að sjálfsögðu miklir hagsmunir í húfi og peningahagsmunir kalla ekki það bezta fram í þeim sem leggja orð í belg, síður en svo.
Stjórnmál og hagsmunir eiga það sammerkt að breyta einstaklingum í andlega fatlaða nashyrninga.

Kvöldið

Ég sagði við Helga Bernódusson í gufubaðinu í dag að alvörulist væri yfirleitt bundin dauða og tortímingu. Það væri kannski þess vegna sem afþreyingarskemmtun væri ekki meiri list en raun bæri vitni, t.a.m. skemmti- og dægurtónlist.
Helgi svaraði,
Það líður aldrei sá dagur að ég hugsi ekki um dauðann.
Skyldi það vera reynsla flestra manna?

17. ágúst, mánudagur

Konan sem Stöð 2 sagði frá um daginn að hefði orðið fyrir áreitni lögreglunnar á Ísafirði vegna falsbréfa hefur nú verið staðin að verki. Bréfin hafa fundizt á tölvudiski í hennar fórum. Eftir þáttinn á Stöð 2 hringdi sýslumaðurinn á Seyðisfirði og benti á sakaskrá konunnar þar eystra en þar hafði hún m.a. stundað einhvers konar bréfafalsanir. Þá var einnig hringt frá Ísafirði, það var víst frá bókasafninu, og sagt að konan hefði setið þar við tölvuvinnslu, en sett á sig hanska áður en starfið hófst!

Þess var ekki heldur getið á Stöð 2 að konan telur sig í kynferðislegu sambandi við barnsföður sinn sem var úti á sjó þegar þátturinn birtist.

Straumarnir frá honum eru þvílíkir, að hún getur fengið kynferðislega fullnægingu á götum úti. Ekki var þess sérstaklega getið í Stöð 2!

Þorsteinn Pálsson borðaði með okkur Styrmi á Morgunblaðinu í hádeginu í dag, mánudaginn 17. ágúst. Gott hljóð í Þorsteini.
Heyri að Þorsteinn vill helzt af öllu taka við störfum mínum sem ritstjóri Morgunblaðsins, þegar þar að kemur. Eina spurningin sem hann varpaði fram í samtali okkar var þessi,
Hvað segja stjórnendur Árvakurs?
Við sögðumst ekki vita það með vissu, en það er ekkert leyndarmál að okkur Styrmi væri það báðum kært að hann kæmi að Morgunblaðinu. Hann vill ekki halda áfram á þingi eftir kosningar sem venjulegur þingmaður. En það vantar víst eftirmann hans í Suðurlandskjördæmi.
Það er að vísu ekki minn höfuðverkur, sagði hann.
Töluðum dálítið um varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum og bankamál, en þó einna helzt um yfirlýsingar forseta Íslands á Hólahátíð í gær.

Þar gerði hann atlögu að Íslenskri erfðagreiningu og varaði við þróuninni í þeim efnum hér heima, einkum í tengslum við einkaleyfi. Það er augljóst að hann hefur verið heilaþveginn af erlendum sérfræðingum sem hann hefur hitt í Bandaríkjunum vegna sjúkdóms Guðrúnar Katrínar, konu hans.
Í ræðu hans sem hafði kristnisögu Jóns byskups Helgasonar að inngangi eru miklar efasemdir um getu íslenzkra sérfræðinga; reynt að nefna það undir rós að erlendir sérfræðingar séu hæfari í læknavísindum. Einkennileg afstaða, þótti okkur, og þó einkum með tilliti til þess sem Þorsteinn Pálsson sagði, að hann hefði sem forseti skrifað undir þá ákvörðun að leggja frumvarpið um erfðagreininguna fyrir Alþingi.
En menn verða að átta sig á því að það er einfaldlega sá gamli Ólafur Ragnar sem er kominn á Bessastaði. Hann hefur ekkert breytzt.
Eins og Styrmir sagði, Hann fer yfir mörkin.
Munum skrifa forystugrein á morgun þess efnis að nauðsynlegt sé að taka ákvörðun um þessi mörk. Forsetinn hefur augsýnilega tekið þá ákvörðun að virða þau að vettugi. En þá verður hann líka að sæta því að embættið sé ekki friðheilagt, heldur eins og hvert annað pólitískt embætti og ástæðulaust að hlífa því við gagnrýni. Forsetaembættið hefur verið einhvers konar sameiningartákn, en ekki tákn sundrungar, tortryggni og óánægju.
En Ólafur Ragnar hefur kosið að stíga þetta spor og ég sé ekki betur en það sé mátulegt á fólkið í landinu! Það kaus hann. Það ber ábyrgð á honum. Það situr uppi með forseta sem er eins og hver annar pólitíkus í viðkvæmum deilumálum. Að vísu hlaut hann ekki meirihlutafylgi, ekki frekar en Vigdís í fyrstu atrennu, heldur var afstöðu minnihluta þvingað upp á meirihluta.
Það er víst kallað lýðræði.
Ég talaði við Kára Stefánsson í morgun. Hann segir að ræða forsetans sé þegar farin að hafa neikvæð áhrif í útlöndum, hún sé skaðvænleg. Hann á ekki orð yfir þá framkomu að flytja ræðu á kirkjuhátíð til að skaða íslensk raunvísindi; gera unga íslenzka vísindamenn, sem hafa hlotið alþjóðlega menntun, að einhvers konar viðundrum. Það geti vart verið hlutverk forsetaembættisins.

18. ágúst, þriðjudagur

Það verður fróðlegt að sjá hvernig leiðarinn um hólaræðu forsetans fer í fólk. Ég er ekki viss um að það verði neitt fjaðrafok út af honum. Mönnum er fjandans sama um flesta hluti nú orðið. Svo er aldrei að vita hvernig svonnefnt almenningsálit bregzt við því sem fram fer. Stundum verður allt vitlaust út af smámunum og enginn veit hvers vegna. Stundum gerist ekkert út af stórmálum og enginn veit hvers vegna.

Þetta er eins og á gresjum Afríku. Ef nokkrir í gný-hjörðinni hreyfa sig fer hún öll á fleygiferð. Ef það fer engin fiðringur um hjörðina gerist ekkert.

Við erum eins. Við erum ekkert annað en hjörð á einhverjum gresjum, þar sem þeir lifa helzt af sem falla bezt inní umhverfið.

Styrmir skrifaði leiðarann og ég breytti einungis tveimur setningum; tók út að Ólafur Ragnar hefði gegnt forsetaembætti af dugnaði og víðsýni, lét nægja dugnaði. Það er líka rétt. Víðsýni Ólafs Ragnars Grímssonar hefur aldrei verið annað en víðsýni stjórnmálamannsins sem krefst fjölmiðathygli. Hann er sérfræðingur í slíkri víðsýni. En hún er auðvitað ekkert annað en tækifærisstefna sem breytir heiðum himni í asklok, hvenær sem henta þykir.
Í raun og veru skiptir ekki meira máli hvað forsetinn segir en annað fólk, a.m.k. tek ég ekkert fremur mark á því. En samt er hægt að hafa mikil áhrif í skjóli bessastaðatrúarinnar.
Af þeim sökum þakka ég guði fyrir að kalda stríðinu er lokið. Það hefði ekki verið efnilegt ef Ólafur Ragnar Grímsson hefði verið forseti í kalda stríðinu og prédikað sem slíkur þær skoðanir sem hann hafði í öryggis- og utanríkismálum. Það hefur nefnilega komið á daginn að þær voru yfirleitt rangar.
Nú skipta afskipti hans af viðkvæmum deilumálum litlu sem engu,að mínu áliti. En hitt er annað mál að hann virðist hafa tilhneigingu til að breyta forsetaembættinu, gera það að einhvers konar pólitísku ræðupúlti fyrir persónulegar skoðanir sínar. Hann um það. Hann hefur sjálfsagt svigrúm til þess samkvæmt stjórnarskránni, en þó ekki samkvæmt þeirri hefð sem hér hefur ríkt í hálfa öld. En ef hann vill standa við þetta púlt og ræða sem stjórnmálamaður um viðkvæm deiluefni, verður hann að gera sér grein fyrir því, að hann opnar allar gáttir fyrir gagnrýni á embættið og stöðu hans sem forseta. Ég hefði ekkert á móti því - en mundi bessastaðatrúin leyfa slíkt? Mér er það mjög til efs. Við eigum að minnsta kosti langt í land í þeim efnum.
Það eru miklar deilur um gagnagrunnsfrumvarpið og sýnist sitt hverjum. Ég hef ekkert á móti því að forseti Íslands hafi skoðanir á þessu máli, en það er óhyggilegt af honum að auka á deilurnar. Hann ætti frekar að reyna að leiða menn til sátta eins og gert var í forystugrein Morgunblaðsins á sunnudag. Það er ómögulegt að lesa ræðu hans öðruvísi en svo að hann hafi sub rosa gert harla lítið úr íslenzkum vísindamönnum og getu þeirra til að fást við erfðafræðilegar rannsóknir. Samt eru þessir 200 ungu vísindamenn sem vinna hjá Íslenzkri erfðagreiningu með fjölþætta alþjóðlega menntun, mikla þekkingu og stóra titla. Ég veit ekki betur en Íslendingar standi öðrum þjóðum jafnfætis þegar kemur að þekkingu sem aflað er á alþjóðlegum vettvangi. Þangað hafa þessir vísindamenn sótt veganesti sitt. Það er augljóst að forseti Íslands hefur verið heilaþveginn af erlendum vísindamönnum sem hann hefur haft samband við vestur í Bandaríkjunum vegna veikinda konu sinnar og þessi þvottur mótar, að því er virðist, afstöðu hans nú.

Kári Stefánsson segist þekkja erlenda vísindamenn og afstöðu þeirra til fjármagns engu síður en forseti Íslands. Og hann blæs á fyrirvara forsetans í ræðunni.
Aðrir sem spurðir hafa verið í fjölmiðlum hafa flestir verið deigir, huglausir. Þeir tala inn í bessastaðatrúna eins og prestar inn í guðspjöllin. Þó ekki allir, sem betur fer. Það eru alltaf einhverjar undantekningar í hjörðinni. En þær eru yfirleitt í bráðum lífsháska. Einn má sín lítils þegar ljónin eru mörg…

22. ágúst, laugardagur

Var á opnun menningarnætur í Hallgrímskirkju og flutti þessa ljóðasyrpu þar fyrir fullu húsi áheyrenda (þekkti fæsta):

- -

Blikandi myrkur.

Rísa svört hús
úr hæðóttu
landi
inní óvæntan roða
í austri.

Brýtur nýr dagur
eggsára skurn
dauðans.

- -

Hljóðlátt er kulið
og kvöldfölir skuggar
við vatnið

senn kemur blyshvítur
dagur

og drepur fingri
á lyngið.

- -

Sól
þenur
eldrauða vængi

stígur
til himins

kreistir
álfthvíta jörð
við arngular klær.

- -

Minn hugur hverfist
hægt um vitund þína
og nálægð þín
er borg við svalan gust,

nú birtir senn, þitt sólarlausa haust
fer svörtum skugga
þrastargrein sem þögul
þreyir þennan gust,

hún bíður þess að borgin
springi út

vaxi inn í vitund þína

vaxi

veki laufið veki fugl
svo vitji hugur minn
borgar sinnar enn

úr nálægð þinni
ein
á þessu hausti
vitjir þú mín og eins og borgin hlusti
á lauf sem vex með fugl
á hverri grein.

- - -

Land mitt
fugl
rís vænglaust
land mitt
úr hafi

rís fugl
og flýgur
úr ósýnilegu
brimróti
inní jafn-
ósýnilegan
himin.

Vænglaus
vitjar fugl
vængja sinna
og land mitt
rís úr rótlausri
hugsun
til himins.

- - -

Furan teygir greinar sínar
fjötruð við jörð, án vængja
líkt og fugl sem fjaðravana
fyndi ekkert viðnám
vinds og himins, veröld þeirra
er jörðin
og hún er einnig eina veröld þín,

samt kallar hann til sín
þá mold sem rís af dufti dauðans, ber
þinn draum til flugs
sá himinn sem í huga þínum býr
og heldur inní fjarlæg lönd
með fjaðrasúg í fylgd með sér

en það er eins og vænglaus vindur fari
veglausar greinar sárum gómum, stingi
sig einatt á hvössum nálum, heimtar
jörðin sitt,

samt flögra þúsund fuglar eins og stjörnur
við fannhvítt hjarta þitt.

- - -

Hér liggja margir þeir
sem þekkti ég
og hvílast nú við hvísl
í laufi og greinum,
ristir í lófa hans
sem þekkir þá
og þraukaði og dó
með hverjum einum.

Dauðinn er þögn
og þytur vinds í greinum

en hlustum samt á sól
í þessum vængjum
sem flögra eins og vor
á grasi og steinum

eilíft vor

og við sem erum rist
í lófa hans
sem lifir þetta vor
með hverjum einum.

- - -

Þegar öndin verpir við óðal sitt
og enginn minkur í nánd
og fjallið kviknar við heiðan himin sinn
og hvítnar við lygna strönd
og víðihrísla vex við nafnið þitt
og vængjuð sól fer í hönd

þá finn ég þinn lófa við lófa minn
á leið til endurfundar
við liðna tíð sem leitar á
þann ljósa dag sem geymir víst
þá einu minning einnar stundar
sem aldrei fölnar líkt og strá
og gleymist okkur allra sízt

því þessi minning mild og hlý
er óðal mitt ef annað bregzt

hún er sem vor og vængjuð sól
á vinalegum grænum kjól
svo undarleg og ávallt ný

og þegar kul að kvöldi leggst
á kyrrlátt vatn sem gárar augu mín
þá veit ég að hún vitjar þín
og vatnsins, þessi minning.

- - -

En tíminn sé flöktandi ljósbrot af vængjaðri löngun minni
og leiti þar hvíldar sem vatnið er deyjandi iða á grjóti
en vorið það beri ilminn af jarðarangan sinni
að aftanskini sem leikur við straumþungann uppí móti;

að snerting augans við himin sé jörðin í hvítu ljósi
og hvíslandi morgunn vaxi að endurskinslausu kveldi
en tungl fari mjúkum fingrum þann deyjandi dag að ósi
og dauðinn sé snark í glóðum af lúnum kulnandi eldi;

að þú sért sólgylltur vængur hljóðlátra vatna minna
og vorið sem angaði forðum sé blærinn í hjarta þínu
en fölnað laufið það vitji svo aftur vængja sinna
og vaxi með ilm af stjörnum til skuggans í brjósti mínu.

- - -

Ég ber þér kveðju úr trjánum sem teygja sig
með trega ilmandi greina til stjarna og vinda
og fuglarnir syngja og flögra í kringum þig
eins og fljúgandi skuggar setjist á hvíta tinda.

Og fuglarnir bera þér kveðju og kalla til sín
þá kliðmjúku minning um skóginn sem vindarnir taka
og feykja með laufi sem eitt sinn var ást mín til þín
og yndislegt vor þegar hugur minn leitar til baka.

En lauf sem er vængur og vinalegt hvísl við grein
fer vori um augu þín, sólhvítum brakandi eldi
og dagur sem lifnar í laufgrænum vindi við stein
hann leitar sér athvarfs í hjarta þínu að kveldi.

Ég ber þér kveðju úr trjánum sem teygja sig
inní tregafullan himin með laufi og stjörnum.
Og fuglarnir syngja og flögra í kringum mig,
þú ert fögnuður þeirra og skuggalaust sefið í tjörnum.
- -

Allt gekk þetta vel. Þetta er einhver fjölmennasti hópur sem ég hef lesið fyrir. Tók það nærri mér að venju, en við Ingólfur höfðum farið í tveggja klukkustunda göngutúr upp í Elliðarárdal um kaffileytið, síðan í sturtu - það hjálpaði mikið! Einnig sú niðurstaða jafnréttisráðs þess efnis, að Haraldur hafi verið hæfari en Hjördís í embætti ríkislögreglustjóra og Þorsteinn Pálsson hafi ekki brotið jafnréttislög með skipun hans.
Á Bylgjunni hefur það glumið í allan dag að meirihluti dómnefndar jafnréttisráðs hafi komizt að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hafi ekki brotið jafnréttislög þegar hann skipaði Harald í embætti ríkislögreglustjóra; það voru Andri Árnason hrl., formaður nefndarinnar, og  Davíð Þór Björgvinsson lagaprófessor. Þetta er mikill sigur fyrir Halla okkar. Miklu fargi af okkur létt. Þeir segja Halli hafi verið hæfari í starfið en Hjördís Hákonardóttir. Eini kvenmaðurinn í nefndinni, Helga Jónsdóttir, lögfræðingur, skilaði sératkvæði þar sem hún telur Hjördísi “að minnsta kosti” jafnhæfa og Halla. Helga þessi vinnur hjá Sjóvá-Almennum og er af Engeyjarætt. En það þarf meira til! Hún vigtar ekki mikið andspænis Andra og Davíð.
Halli var í fyrradag á Bessastöðum hjá Ólafi Ragnari sem bauð ríkislögreglustjórum Norðurlanda til sín. Hann er mjög ánægður með forsetann og móttökur hans.
“Hann kann sitt fag”, sagði hann - einskonar áminning til mín. Það var mátulegt á mig! En breytir þó engu!

5. september, laugardagur

Gekk hálfan þriðja klukkutíma í björtu veðri. Sól og svalri golu. Fossvogurinn fallegur að venju, svo og trén í skógræktargarðinum, Skerjafjörður lognblár. Þetta er undurfalleg leið á góðum degi. Þar eru endur og æðafuglar og fyrr í sumar sandlóur, stelkir og tjaldar. Þar er baldursbrá meðfram göngustígnum, fíflar og stöku sóley, fálkapungar og geldingahnappur og að ég held garðabrúða og loðkollsþistill sem er með fjólubláum blómum. Hann stingur eins og aðrir þistlar.

Orti þetta á göngunni:

Steinar í litlum pollum
synda
inní tvær tjarnir

tvær grábláar tjarnir
fullar af sól.

Og ennfremur:

Blóm
sumargrænt
eins og golan

og hreyfist
eins og hún

Um hvað er talað?
Ekki þessa fugla, ekki þessi blóm; ekki trén sem eru athvarf fugla og þreyttra augna minna.
Um hvað er þá talað?
Fótboltaleik okkar og frönsku heimsmeistaranna. Og svo hvalinn Keikó. Nú er sagt hann sé ekki fyrir börn því að hann frói sér í gúmmídekkjum. Hann verður líklega að fá háhyrningskerlingu til að leika sér við á þjóðhátíðinni.
Þá verður allt í stíl, bæði á sjó og landi!
Eitthvað annað?
Það held ég ekki.
Það er að vísu rifizt um sjúkraskrár en hver er ekki orðinn hundleiður á því. Jafnvel forsetinn hefur ekki nefnt þær eftir hólaræðuna, sællar minningar. Gagnagrunnsfrumvarpið sem á að tryggja Íslenzkri erfiðagreiningu einkaleyfi til vísindarannsókna er eins og netla; það brennir. Stjórn læknafélagsins hefur fengið dálítið sár, einnig Davíð forsætisráðherra, en við höfum sloppið.
Enn sem komið er.

Kvæði sem ég orti eftir göngu í Skerjafirði í júlí sl. hefur verið birt í Vesturbæjarblaðinu, það heitir Júlíkvöld við Skerjafjörð. Það er handa fólki sem enn nennir að lesa kvæði. Það er ekki ort handa skáldum. Ég er heldur ánægður með þetta kvæði, þegar ég sé það á prenti. En það er engin nýtízkuskáldskapur, síður en svo. Það á rætur í hefðinni eins og fólkið sem lifir í samtímanum. Það er til fólk sem hugsar um annað en fótbolta, fjölmiðla og uppákomur.
Guði sé lof fyrir það.
Og það er enn til fólk sem leitar að fegurð, væmnislaust. Ég segi væmnislaust vegna þess að það er svo margt fólk í fjölmiðlum sem veltir sér upp úr væmni, svo ég tali nú ekki um söngfuglana voðalegu sem klifa daginn út og daginn inn á væmnum leirburði.
Meirihluti fólks hefur litla dómgreind og engan smekk. Það heldur að akarnið í skugga trésins sé sú eftirsóknarverða fegurð sem markaðurinn boðar; og tízkan; og upphlaupin í auglýsingunum.
En akarnið er eitt, en fegurð himinsins annað.
Og þá er komið að ljósvíkingnum.

1.
Við erum öll menn í nánd við jökul og við höfum líklega alltaf elskað guð eins og konan sagði. Og fegurðin, hvar er hún? Þar sem himinn og jörð hafa loks skilið hvort annað til fulls, eða hvað? Samt höfum við öll verið barinn af guðum, mönnum og hrossum; rétt eins og Ólafur Kárason. En skáld eru sterkari en guðir, menn og hestar. Þess vegna lifir manneskjan af ef hún lifir í skáldskap á annað borð. Annars ferst hún í þessari veröld sem á einhvers konar uppruna sinn í Abraham. Allir vilja rekja ættir sínar til hans, gyðingar, múslimar, kristnir menn. Þeir berjast um Abraham. Og hver var þessi Abraham? Hann var einhvers konar djöflamergur í fyrninni ef hann hefur þá einhvern tíman verið til. Eða ætlaði hann ekki að fórna syni sínum - eða var það ekki guð sem forðaði honum frá því illverki? Eða notaði hann ekki konur eins og naut? Það er ómögulegt að skilja þetta kapphlaup um Abraham. Hann þóttist vera á guðs vegum, það þykjast villimenn ekki vera. Samt var hann miklu svívirðilegri í siðleysi sínu en nokkur villimaður. Abraham lifir ekki í skáldskap, hann lifir sínu jarðneska lífi í hugum þeirra sem telja að morð séu réttlætanleg ef þau eru framin í hans nafni. Og ofsatrúar sem má með einhverjum óskiljanlegum hætti rætur að rekja til siðalögmála mannfyrirlitningarinnar. Og hvar mundi upphaf hennar vera annars staðar en í þessum tilbúna guðsótta sem var ein helzta forsenda þess að sonur guðs var negldur upp á kross.
Nei, fegurð himinsins er annars staðar en í fórnarþorsta Gamla testamentisins. Það er líklega hægt að finna þessa fegurð í endurlausn skáldskaparins. Og þá einna helzt ef maðurinn gerir sér grein fyrir því að hann er sinn eigin heimur og allt utan hans er tilbúin  og fölsk afþreying auglýsingafíkla, veðmangara og þeirra sem reyna að telja okkur trú um að fegurðin sé alls staðar annars staðar en þar sem hún er. “Ég elska eina stúlku og hef ekki fundið hana”, segir ljósvíkingurinn á einum stað. Í þessari ást birtist honum fegurðin. Hún þarf ekki endilega að vera hylling. Hún þarf ekki endilega að vera fölsk von. Hún þarf ekki endilega að vera blekking. Hún kemur til ljósvíkingsins í líki jarðneskrar konu sem heitir Bera og hann elskar þessa konu og hann glatar henni. Þegar hún er horfin honum fyrir fullt og allt. Þessi unga kona breytir ljósvíkingnum í eins konar íslenzkan gleðileik í anda Dantes. Hún er Beatrisa sögunnar. Hún er hið ljósa man sem hefur aldrei verið til, ekki frekar en í lífi Dantes. Hún er hugsýn og hún verður að deyja í skáldskapnum. Ef hún deyr ekki þá verður hún jarðnesk að eilífi og hverfur eins og við hin inn í gleymskuna. Og það má ekki gerast því þá hættir skáldið að skilja sólina. Og þá segir enginn þessi þrjú orð í draumi: hún heitir Bera. Og þá hljómar ekkert dularfullt nafn gegnum  þennan goðkynjaða draum. Og þá er engin ástæða til að fara gegnum kvalræði helvítis á fund þeirra Betrísu sem vísar leiðina að paradís og því glitrandi sólkerfi sem er öllu veraldrarvafstri æðra.
Það var í kirkjugarðinum þegar ljósvíkingurinn var að leita að leiði Sigurðar skálds Breiðfjörðs sem hann hittir gömlu konuna og hún segir við hann að fegurðin sjálf búi í þeim augum sem við elskum. Hvaða fegurð, spurði skáldið? Fegurð himinsins, sagði konan. Hún sagði þetta í kirkjugarðinum, auðvitað þar í næsta nágrenni við dauðann. En hún átti líka annað erindi í þennan garð: Að sýna framá að dauðinn er ekki til.
Þegar skáldið hittir Beru í næsta kafla og hann lítur hana augum í fyrsta sinn er honum ljóst “að hún og þessi morgunn voru eitt” og á næstu síðum breytir skáldið um aðferð og notar upphafinn stíl til að lýsa því undri sem átti sér stað: Heitir þú Bera? Dante hefði sagt: Heitir þú Beatrísa? Og óákveðinn greinir verður ríkjandi eins og í upphöfnum stíl Hómerskviða: Hin unga stúlka... Hið bernskuferska hörund hennar... Hin kyrra hreina dýpt... Hinn ókunni maður...
Var þetta draumur annars manns? Var það rétt að þau höfðu ekki verið til fyrr en á þessari stundu eins og ljósvíkingurinn segir? Var það rétt að á því andartaki sem hann leit Beru fyrst augum hafi heimurinn orðið til?
Og maðurinn sem lítill drengur hafði staðið við sjóinn í góðu veðri og horft á fuglana við litla vík sem hét Ljósavík og er líklega fyrir botni Önundarfjarðar, stendur agndofa andspænis þessum kraftibirtingarhljómi sem heitir Bera. Og ræður sér ekki upp frá því, fellur í einhvers konar þunglyndi þegar hún er horfin, gleymir nánast konu og barni og eigrar um eirðarlaus upp frá því.
Hversvegna höfum við sól?
Vegna þín, sagði hann.
Og hún biður hann um að hugsa um sig þegar sólin skín, Hugsaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini. En hann hugsaði um hana öllum stundum og helzt ekki annað. Og hún hvarf honum, ekki inn í sólskinið heldur svartnætti eirðaleysis og vonlítils þunglyndis.
Þegar maður hefur séð fegurðina hættir annað að vera til, sagði ljósvíkingurinn. Hann hafði lengst af haldið að fegurðin væri aðeins draumur skálda; að fegurðin og mannlífið væru tveir elskendur sem aldrei gætu mætzt og meðan við höldum það sé allt tiltölulega einfalt því fegurðin á ekki heima á jörðinni “en eitt hásumarkvöld í hvítum þokum, við líðandi vatn og nýtt túngl, þá lifir þú þetta undur, sem tilheyrir ekki einu sinni efninu og á ekkert skylt við fallvaltleikann þó það birtist í mensku gervi; og öll orð eru dáin; þú átt ekki  leingur heima á jörðinni”. Og um það bil sem hann fær þær fréttir að stúlka sú er hann hafði nefnt Beru væri dáin “varð hann æ daprari í bragði, æ þögulli uns hann sagði ekki orð en hætti að klæðast, sneri sér til veggjar þegar á hann var yrt.
Þannig hvarf hann inní þögnina.
En hann man þá eftir því að þau Bera ætluðu að mætast á jöklinum. Og hann rís upp og heldur inn á jökulinn, “barn hafði hann staðið í fjörunni við Ljósuvík og horft á land öldunnar sogast að og frá, en nú stefndi hann burt frá sjónum. Hugsaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini...”
Og hann hugsaði um hana í birtunni þar sem himinn og jörð urðu eitt og höfundur yrkir um fegurðina inní kvæði sem minnir á þessi orð í Tímanum og vatninu:

Frá vitund minni
til vara þinna
er veglaust haf...

Eða eins og segir í kvæðinu:

... það sakar ei minn söng því minnig þín
í sálu minni eilíft líf sér bjó
af yndisþokka, ást og mildri ró
einsog þú komst í fyrsta sinn til mín;

einsog þú hvarfst í tign sem mál ei tér,
með tár á hvarmi í hinsta sinn frá mér.

Mundi þetta ekki vera sama hugsunin og boðskapur Dantes í því ljóði sem fegurst hefur fjallað um leit okkar að paradís. Það fjallar hvorki um blekkingu né hillingu, heldur jarðneska konu sem verður tákngervingur þeirrar eftirsóknarverðu fegurðar sem skáldið þráir öðru fremur. Tómas Guðmundsson fjallar um svipað efni í ljóðinu Í klausturgarðinum þar sem hann segir m.a.:
Það var í þessari veröld, sem ég átti heima.
Þau voru eitt sinn mín, þessi gullnu ský.

Og hann heldur áfram:

En, heilaga móðir, hvort fæ ég þá framar ratað
í fávísi minni til þín, ó, svaraðu mér.
Hvort týndi ég þér, eða hefi ég henni glatað?
Er hún ekki lengur til, ef ég fylgi þér?

Ó, gæti ég aftur flúið í faðm þinnar líknar
og fundið að hún, sem mín vitund leitaði að,
er lifandi í þinni mynd og sál mína sýknar
af sekt þess dags, er ég fyrsta sinn kraup og bað!

Ó, lát mig heyra, móðir, af þínum munni
eitt miskunnarorð, ó, vertu ást minni hlíf.
Þá trúi ég því, að þú sért hún sem ég unni,
og þá hafa mínar bænir gefið þér líf.

2.
Ástin kemur allvíða við í skáldskap Halldórs Laxness en hún hefur á sér annað yfirbragð en við eigum að venjast. Í Heimsljósi birtist hún í þeim kafla sögunnar sem á sér að ég hygg engan líka í öðrum skáldverkum. Sá þáttur sögunnar hefst með þessum orðum: “Svo auðveldur hlutur og sjálfsagður sem ástin er, þá er þó náttúran þó ótrúlega íhaldssöm við fyrsta elskhugann.” Og hann endar með þessum orðum: “Þú ert önnur en þú varst fyrir stundu og verður aldrei söm”. Það er enginn slíkur kafli í Gleðileik Dantes því að ást skáldsins á Beatrísu var eingöngu andleg og átti ekkert skyld við holdlegan munað eins og bregður fyrir í samförum ljósvíkingsins og Beru. En lýsingarnar eru fremur skáldlegar en raunsæjar. Þær geta ekki verið annað vegna þess að þær standa í tengslum við fegurð himinsins og leitina að þeirri konu, þeirri draumsýn, sem birtist svo áþreifanlega í fyrrnefndu kvæði Tómasar Guðmundssonar og togstreitunni sem verður milli holds og anda, jarðar og himins, ástar og ástríðu. Þessi ástarsena í Heimsljósi er að sjálfsögðu í anda verksins og þeirrar niðurstöðu sem að var stefnt: og fegurðin mun ríkja ein.
En það er önnur ást einnig í sögunni og af öðrum toga. Hún á rætur í ástríðu, girnd. Það var hún sem felldi ljósvíkinginn. Það var hún sem kynnti undir freistingum hans og varð til þess að hann svívirti fjórtán ára gamalt stúlkubarn sem var nemandi hans. Það var hún sem kom honum í tugthús.
En það er ekki í þetta eina skipti sem Halldór Laxness fjallar um slíkt girndarráð í sögum sínum. Stúlkan í Paradísarheimt sem fær gullpening hrossamangarans er vart af barnsaldri. Gull er handa meyum, segir í sögunni, silfur handa lagskonum. Að lokum verður eftir “handfylli af stórum koparpeningum”. Það mátti Steina, dóttir Steinars í Hlíðum, reyna, enda var Björn hrossakaupmaður á Leirum einhvers konar íslenzk útgáfa af Krabba lækni hinum japanska, sem síðar verður nefndur til sögunnar.
Ásta Sóllilja er fósturdóttir Bjarts, samt er hún ástkona hans, og flyzt með honum eins langt frá mönnum og unnt var. Hver veit nema þessi meinbugur hafi verið sú raunverulega ástæða þess að karlinn leitar eins langt inn á heiðina og unnt var? Þessi meinbugur varpar óneitanlega svörtum skugga yfir söguna. Slík sambönd voru þó áreiðanlega algengari á Íslandi fyrr á tímum en frásagnir herma og enginn vafi á því að skáldið hefur heyrt margvíslegar útgáfur af slíkri reynslu á löngum ferðum sínum um landið. Slíkt þótti ekki heldur nein goðgá þegar bókin kom út enda engin skyldleiki með bóndanum og stúlkunni, þótt formleg tengsl væru með þeim hætti sem raun ber vitni.
Þá hef ég einnig staldrað við annað atriði í Heimsljósi, það er sú áherzla sem skáldið leggur á þann þátt girndar og ástríðu - og raunar einnig ástar - þegar konur missa meydóm sinn. Það verður til þess að ljósvíkingurinn lendir í fangelsi. Hann er þá 31 árs gamall, en stúlkubarnið Jasína Gottfreðlína einungis 14 ára gömul, enda er hann að kenna henni undir fermingu. Og það er ekki annað að sjá en þessi athöfn sé einhvers konar þáttur í þeim undirbúningi! Stúlkan heldur að hún verði áreiðanlega ekki fermd, eins og hún segir, vegna vanþekkingar en þau sváfu þá í sama herbergi og enginn í húsinu svo að hann fer undir sængina til hennar, tekur af henni barnalærdómskverið og þykist ætla að auka henni skilning á viðfangsefninu en kyssir hana þess í stað en hún “vissi fyrst ekki hvað þetta var, svo opnaði hún munninn. Hún var í vondu prjónahaldi og leyfði honum að slíta það frá sér einsog ekkert væri eðlilegra, gerði yfirleitt ekki tilraun til að hindra hann í neinu, tók við honum án allrar mótspyrnu, kveinkaði sér aðeins andartak og beit á vörina einsog við snöggan og tiltölulega meinlausan kveisustíng sem er liðinn hjá áður en tóm væri til að reka upp hljóð. Hún lagði únga sterka arma sína um herðar skáldinu. Eftir nokkrar mínútur sté hann aftur framúr rúmi hennar og skrúfaði upp í lampanum. Hann sagði ekki neitt, en hún sagði:
Hvað gerðirðu við kverið mitt?”
Hann áminnir hana um að ekkert hafi gerzt en námsmærin segir vinkonu sinni og hún öðrum og allt kemst upp: “Hvernig átti mér að detta í lifandi hug að Dóra færi að kjafta því”. En “það var ekki neitt”. En - það er blóð í rúminu.
Og sýslumaður sem er með “ofvaxið karfaandlit” og spurði “með seyrnu fiskbrosi” unz glæpur og játning lágu fyrir, þótt vitað væri að ljósvíkingurinn hefði ekki ætlað að gera stúlkunni mein.

3.
Ástæðan til þess að ég hef verið að velta fyrir mér þessum undarlegu ástarlífslýsingum Halldórs Laxness og - sub rosa - lýsingum hans á glötuðum meydómi er sú, að ég hef verið að lesa fræga bók Arthur Goldens, Minningar geishu, sem á að vera byggð á sannferðugum lýsingum japanskrar konu á reynsluheimi kvenna sem léku hlutverk geishunnar í Japan á fyrrihluta þessara aldar og fram yfir miðbik hennar. Þetta er harla athyglisverð bók vegna þess að hún er byggð á minningum og reynslu sem enginn hefur dregið í efa. Skáldskaparumgjörð sögunnar eykur gildi hennar en dregur ekki úr því eins og orðið hefði ef bögubósi hefði farið höndum um efnið. Í þessari bók er fjallað allnákvæmlega um ástalíf þessara kvenna og þeirra karla sem önnuðust þær, sáu um framfæri þeirra og nutu þess sem þær höfðu upp á að bjóða, bæði í andlegum og líkamlegum efnum; kallaðir dannar. Sagan er laus við klám og klúran stíl og ástalífslýsingar með svipuðum hætti og Halldór Laxness notar í sögum sínum. Samt er ekki vitað til hann hafi kynnt sér líf þessara kvenna og afstöðu karlaheimsins þar eystra eins og hann birtist í hráslagalegu og að mörgu leyti grimmdarlegu umhverfi geishunnar. (þó er talað um japanskar frúr í 20. kap. Sjálfstæðs fólks.) Þar eru að vísu engar lýsingar á skáldum og hugsuðum, heldur fjármálamönnum og fulltrúum valdhrokans sem líta á konuna eins og hvert annað tæki til að fullnægja hvötum sínum. En þó er aðalkarlpersónan að mörgu leyti ekki óviðfelldnari en ljósvíkingurinn og tillitssemin við veikara kynið mannúðlegri en girndarráð ljósvíkingsins, þegar verst gegnir í Heimsljósi. En það sem er  líkt með ástasenum Halldórs Laxness og kynlífslýsingum í þessum ævintýraheimi geishunnar er áherzlan á afmeyjun konunnar en sú athöfn heitir misuage og markar þáttaskil í lífi geishunnar; minnir á þá fullyrðingu í samfarakaflanum um ljósvíkinginn og Beru, að konan verði önnur eftir þessa athöfn en hún áður var “og verður aldrei söm”. Hef það þó fyrir satt að það sé hugarburður einber að konan elski fyrsta mann sinn ævilangt eins og segir í ljósvíkingnum; fórnin fylgi henni alla tíð. “Ýmsir reyndu að sigrast hana, aðeins einum gafst hún, einum ævilángt hversu margir sem komu síðar. Þeir sem síðar komu, hvað voru þeir? Tækifæri, tilviljun, náttúra, staður, stund, gaman. Hinn fyrsti, hann var ekki gaman, þaðanafsíður þörf þín einsog hinir síðari, heldur ljóðið sjálft, hið nakta ljóð bak ljóðanna, ást þín sem þjáning, ást þín í gervi blóðsins, dýpsta auðmýking líkama þíns, fórn samvisku þinnar, hin stoltasta gjöf sálar þinnar.” Mér skilst raunar þetta séu orðin tóm og fremur ímyndun karlmannsins en reynsla konunnar; að þetta sé sem sagt einber vitleysa.
Geishan Sayuri-san Í minningum geishunnar upplifir að vísu þessa athöfn sem mikilvæg þáttaskil í lífi sínu, ekki síður en Bera eða stúlkubarnið Jasína Gottfreðlína þegar farandkennarinn Ólafur skáld Kárason ljósvíkingur kemur á hennar fund og hún tekur við honum “án allrar mótspyrnu”. Eftir þessi þáttaskil er japanska geishan verðmeiri og mikilvægari en nokkru sinni fyrr.
En hvernig fer þá þessi athöfn fram? Jú, karlremburnar í kringum konurnar eru látnar bjóða í meydóm stúlkunnar sem er aðeins fimmtán ára gömul og þeir keppast um fenginn unz sóðalegur læknir, doktor Krabbi, sem safnar meydómum situr uppi sem hæstbjóðandi og hreppir hnossið fyrir rúm ellefu þúsund jen. Og þótt síðar komi í ljós að það sé algjörlega úr lausu lofti gripið, enda er athöfninni í senn lýst sem viðurstyggð og sérstakri tegund ofbeldis, að þetta skipti ástartilfinningu konunnar nokkru máli, þá loðir atburðurinn við stúlkuna Sayuri-san ævilangt, ekki vegna þeirrar fegurðar sem bundin er minningunni, heldur þess ljótleika og þeirrar blóðfórnar sem tengist mizuage. “Doktor Krabbi var mizuage-verndari minn meðan honum entist líf - án þess því fylgdu nein sérstök forréttindi”. Öll var þessi reynsla stúlkunni kvöl og olli henni að sjálfsögðu sársauka, en hún komst yfir hann og að því kom að hún gat í eitt skipti notið ásta á stolinni stund og þrátt fyrir slæma reynslu í þeim efnum varð sú reynsla til þess að hún gat síðar notið þess sem hún elskaði, þótt hann hafi verið sá sem eftir kom og hafi ekki hlotið fórn hennar, heldur gleði.

4.
En mundi þetta ekki leiða hugann að þessum kafla í Sjálfsstæðu fólki:
“Inntak þessarar athugasemdar sem Bjartur kastaði uppá loftskörina virtist í fljótu bragði ekki vera mjög ákveðið og þaðanafsíður þúngvægt, og samt hafði fátt öllu dýpri áhrif á heimilislíf í Sumarhúsum fyrst í stað en sú aðdróttun sem í þessu fólst, en þó einkum sú staðreynd sem undireins fyrsta kvöldið virtist staðfesta hana.
Nei, sagði konan, það er ekki satt.
Hún snéri sér þrjóskulega til veggjar, vansæl, vonsvikin.
Hver var það? spurði hann.
Það er ekki satt.
Í þínum sporum mundi ég segja það.
Ekki segir þú um þitt.
Jú, sagði hann, því er mér eingin launúng á.
Ég vil ekki heyra það!
Það vantar ekki að þið séuð nógu undirleitar og fáráðlíngslegar á brúðkaupsdaginn. Samt veit einginn hvar þið kunnið að hafa legið. Þið skiljið manni eftir dauðýflið af ástinni, þegar vargurinn er búinn að kroppa úr því augun.
Þú ert víst eingill, sagði hún.
Var það strákurinn á Tindsstöðum?
Spurðu hann.
Eða þessi fjarðarauli sem plægði?
Kanski.
Vonandi hefur það þó ekki verið kennaraflagarinn sem átti krakkann með henni Steinku á Gilteigi?
Viltu ekki telja upp alla flagara á landinu?
Ég gæti best trúað að þú hefðir haft þá alla. Það er ekki betri sú músin sem læðist en hin sem stekkur.
Þá reis hún upp í reiði sinni og sagði ástríðufull:
Það veit guð og Jesús Kristur að ef ég sé eftir nokkrum sköpuðum hlut, þá sé ég eftir að hafa ekki haft þá alla, í staðinn fyrir að giftast þér sem tekur sauðkindina lángt frammyfir mannssálina og trúir á hundinn. Það vildi ég óska að ég hefði haft vit á að snúa aftur í dag og fara heim til pabba og mömmu.
O ég vissi sosum strax að það var ekki af óttanum við hana skottu sem þú vildir snúa aftur. Maður skilur fyren skellur í tönnunum. Ekki svo að skilja að ég þurfi að vera að gánga á þig, það er ekki sá galdur að sjá út kvenfólk. Þið gerið þetta: elskið þá sem eru nógu miklir menn til að henda ykkur frá sér, og giftist þeim sem þið fyrirlítið.
Þú lýgur því, sagði konan.
Svo það var þessvegna sem þú varst svona syfjuð á daginn þarna í vor uppúr því hann kom af búnaðarskólanum? Svo þetta var sjálfstæðishugsjónin þín. Þetta var frelsishugsjónin þín. Þú hefur haldið að það væri hærra slektið hans en mitt, af því hann faðir hans tímdi ekki að éta þegar hann réri undir Jökli, heldur drýgði bræðínginn sinn með tjöru, og okraði á lagsmönnum sínum með útþynntu brennivíni, og keypti gamlar húðarbikkjur fyrir sumarkaupið sitt þegar hann var fyrir sunnan, og setti sinnepsplástur undir stertinn á þeim á hrossamarkaði, svo þær létu einsog ótemjur. Það er hægt að verða mikill maður og kippa griðkonum uppí til sín á nóttunni og sofa á daginn, ef maður hefur verið svo heppinn að eiga föður sem var bæði okrari og þjófur.
Þú lýgur því, lýgur því, hrópaði konan í bjánaskap.
Og fyrir þessu helvíti hef ég verið að þræla í átján ár, - átján ár af ævi minni hef ég borgað uppí gæðíngana hans, ferðalögin og skólavistirnar; og fyrir þetta helvíti þoldirðu snuprurnar úr hreppstjóranum þegar honum þótti þú ekki skvetta nógu drýgindalega á túnið úr koppunum undan því. Og svo ætti ég ekki annað eftir en að ala upp hórbörnin hans í mínu húsi.
Og hér var Bjartur í Sumarhúsum orðinn svo vondur að hann spratt frammúr rúminu og svifti sænginni ofanaf konu sinni hálfnakinni, einsog honum væri efst í huga að strýkja hana. En þá varð konan hrædd og reis uppá hnén í rúminu og lagði armana um háls honum og fór að sverja honum dýra eiða, hún hefði einskis karlmanns kennt, og allra síst og allra síst og allra síst, - guð minn almáttugur hjálpi mér ef ég lýg, ég veit það eru álög á þessu stekkjartúni, bærinn hefur verið sjö sinnum rofinn af afturgaungum og púkum, og hvað gagnar það þó þú kallir bæinn þinn Sumarhús, ef þú ætlar að drepa konuna þína á brúðkaupsnóttina og gefa honum Kólumkilla beinin mín. Og þannig hélt hún áfram að biðjast vægðar í sundurlausum bænum og með grátandi tári uns hann aumkaðist yfir hana að lokum. Því hann vissi að kvenkynið er ennþá aumara en mannkynið, tók í nefið, hallaði sér útaf og fór að sofa. Brúðkaupsnóttin, ein sumarnótt.
Svona var þeirra hjónaband.”

5.
En hvað sem ljósvíkingnum líður og ást hans á Beru og þeirri formúlu að sá fyrsti sé einhvers konar ævilangt viðhengi, þá varð það þessi dularfulli ástmaður Sayuri-san, miklu eldri en hún og einskonar fjarlægur og óhöndlanlegur draumur í lífi hennar, sem eignaðist gleði hennar, en ekki fórn. Þegar hún nær ástum þessa manns, verður hún aldrei söm og það er í þessari ást sem hún lifir og gleðst - en þarf ekki að deyja eins og Bera og Beatrísa.
En slík reynsla fer að sjálfsögðu á skjön við þjáningu skáldsins. Skáldið er eins og fugl, hann verður að geta flogið og hann verður að geta flogið fyrir glugga þeirrar konu sem hann elskar og er ekki til “ að vera einn, það er að vera skáld” - og skáldið á aðeins einn óvin og þessi eini óvinur er líf hans sjálfs og það er erfiðara að vera skáld í þeirri veröld sem við lifum í en margur hyggur og dauðinn er svo sannarlega ekki auðveldari en lífið, enda í senn erfiðara að deyja “og meiri vandkvæðum bundið en margur hyggur”.
En lífið er ekki síður vandkvæðum bundið, bezt væri að fegurðin og mannlífið gætu sameinast og skilið aldrei framar, þetta voru orð ljósvíkingsins og skáldsins sem átti eftir að hafna í tugthúsi eins og hver annar utangarðsmaður eins og segir í sögunni vegna þess að hann sást ekki fyrir í leit sinni að fegurðinni. “En líklega er það fegurðin, sem ég elska”.

6. september, sunnudagur

Ingó fer aftur til Skotlands á morgun; hefur verið hjá okkur í þrjár vikur. Við höfum talað mikið saman, gengið saman og veðrið einatt eins og á vori.
En nú er hann að fara aftur og það er kvíði í mér. Ég sagði við Hönnu þegar ég vaknaði í morgun,
Mig dreymdi illa.
Jæja, sagði hún, hvað dreymdi þig?
Mig dreymdi Guðrúnu Helgadóttur og eitthvert barn sem ég átti í draumnum. Og ég átti að gráta yfir barninu og ég grét að lokum.
Þetta er ekki vondur draumur, sagði Hanna. Guðrún er gott nafn og það er ekki vont að gráta í draumi.
Þá fór ég á fætur og við öll í kirkju.
Það er logn úti og bjart. En ég kvíði fyrir morgundeginum. Ég hef alltaf kviðið fyrir morgundeginum.Sverrir konungur segir í þekktu ljóði Gríms Thomsens, Andvaka er allt mitt líf - ég sef yfirleitt vel, en kvíði er allt mitt líf. Og ég óttast að synir mínir hafi erft þennan kvíða, en það er hægt að þola hann vegna þess að ég veit að hann er ekki af illum rótum; þvert á móti.
Hann á rætur í mennsku sem gerir fremur kröfur til sjálfs sín en annarra. En þessar kröfur geta verið allt að því óbærilegar.
Norski forsætisráðherrann,, Bondevik, varð að taka sér frí frá störfum vegna þess hvernig hann hefur tekið inn á sig áhyggjur af fjárhagsstöðu Noregs. Það mættu fleiri stjórnmálamenn glíma við slíkt tilfinningalíf, þá væri heimurinn betur settur.
Svarti seppi í lífi Churchils bjargaði heiminum undan Hitler. Þunglyndi hans fann sér verðugt viðnám í þessum þýzka stríðsglæpamanni og hann naut sín í því hlutverki.
Það þarf mikið þrek til að viðurkenna opinberlega það ástand sem Bondevik á við að stríða; ekki sízt fyrir stjórnmálamann.
Hann þarf að horfast í augu við rándýr sem heitir almenningsálit og birtist ekki sízt í eldgulum glyrnum fjölmiðlanna. Og nú eru þeir farnir að hrópa, Tekur forsætisráðherrann lyf við sjúkdómnum?
Hvaða lyf?
Sem sagt, er hann ekki óhæfur?
En norski forsætisráðherrann er áreiðanleg hæfari en þeir samvizkulausu loddarar sem hafa stjórnað ríkjum með rándýrshjarta.

11. september, föstudagur

Mér hefur verið bent á skítkast á okkur Halla í krakkablaði DV í dag. Við erum heldur vinsælt skotmark, feðgarnir. Það er víst Gunnar nokkur Smári, fyrrum ritstjóri Helgarpóstsins og Pressunnar, sem stjórnar þessu. Kippi mér ekki upp við endurunninn skít úr gömlum sorphaugi gulu pressunnar. Það er mikið af þriggja blaða smárum en Gunnar er enginn fjögurra blaða smári svo ég hef engar áhyggjur af því hvernig hann eða aðrir grislingar á Fókus hrína að manni. Ég hef átt við slíkt að stríða frá því ég hóf störf á Morgunblaðinu en svona nudd er orðið heldur sjaldgæft, að vísu. Ég hefði áhyggjur ef við feðgar ættum þessi ónot skilið. En ég veit ekki til þess að við höfum unnið til þeirra á nokkurn hátt, nema ef vera skyldi vegna starfs okkar í þjóðfélaginu.
Ég hef engan áhuga á sigurðarbreiðfjörðsvinsældum og því nútímarauli sem tók við af rímunum. En það kunna ýmsir að meta þá sem hafa selt konuna sína fyrir hund, svo vitnað sé í Heimsljós.
Allt snýst þetta um velþóknun og vanþóknun. Ritstjóri Morgunblaðsins á velþóknun sumra, en verður að þola tortryggni og vanþóknun margra. Það hefur alltaf verið svo. Ástæðan er líklega þetta ímyndaða vald sem alltaf er verið að hamra á, nú síðast með nýrri mynd af mér í Mannlífi.
Þegar ég horfi um öxl hafa þessi ónot fylgt mér og oftar en ekki lent á verkum mínum. Ljóðin eru einkum viðkvæm fyrir aðkasti. Það er hægt að afgreiða ljóðskáld hvenær sem er með einni upphrópun. Ljóð eru ekki afgreidd með rökum. Og list hefur fremur verið afgreidd með fordómum, velþóknun eða vanþóknun, eins og dæmin sýna. Það er enginn vandi að afgreiða ljóð með vondum smekk, svo ég tali nú ekki um illgirni eða andúð.

Þessum eltingaleik við mig ætlar aldrei að linna. Hælbítar skjóta upp kollinum þar sem minnst varir - rétt eins og arfinn. En nú finnst mér komið nóg, mér finnst ég eiga skilið að fá að vera í friði einhvern tíma fyrir þessu þreytandi suði. En það verður víst ekki í þessu litla hornótta samfélagi. Mér líður eiginlega betur erlendis, þar er mér alltaf tekið tveimur höndum. Þetta er dálítið skrýtið. Ég hef sagt við Harald son minn að hann skuli ekki búast við neinni samúð. Hún fylgir ekki slóð ritstjóra Morgunblaðsins og hún mun ekki heldur fylgja í slóð ríkislögreglustjóra.

Við fórum í Dimmuborgir í sumar. Okkur datt ekki í hug að þar yrði neitt mýbit. En þegar við gengum inn í helgidóminn sáum við fjölda útlendinga og þeir voru allir með net yfir höfðinu. Þeir sluppu en við urðum að banda  mýbitinu frá okkur, það var hvimleitt.
En umhverfið var ómetanlegt.
Þetta á einnig við um samfélag okkar. Það er í senn stórbrotið og hvimleitt.

Guð er á himnum
gras á jörð

en líf og dauði
leikur vinds
við lambaspörð.

Kvöldið

Hef lofað að eiga sjónvarpssamtal við Jónínu Mikhaelsdóttur um ritstjórastörf mín. Hún segir að það sé af sem áður var þegar ég var helzt þekktur sem ritstjóri. Nú sé ég helzt þekkur sem ljóðskáld. Ég veit það ekki og skiptir ekki máli, en Styrmir hefur hvatt mig til að eiga þetta samtal við Jónínu. Hann telur það geti ýtt eitthvað undir Morgunblaðið og þegar á þetta var minnzt á fundi í Morgunblaðinu voru allir þeirrar skoðunar að ég yrði að gefa kost á slíku samtali, ekki sízt Hallgrímur Geirsson, framkvæmdastjóri og Margrét Sigurðardóttir, markaðsstjóri. Ég kemst því illa undan þessu. Af þeim sökum hef ég reynt að undirbúa mig dálítið undir samtalið. Ég hef gluggað í dagbókina frá sjötta áratugnum og einnig í samtöl sem menn hafa átt við mig í gegnum tíðina. Vel má vera að bezt færi á því að birta þau öll á einum stað ef einhver hefði áhuga á því. Þau eru til í blöðum og bókum; samtal okkar Guðmundar Daníelssonar birtist t.a.m. á sínum tíma í bókinni Jarlinn af Sigtúnum og fleira fólk (Barnið og ókindin 1964), og það fór ekki á milli mála að það féll í góðan jarðveg, og einnig samtal mitt við Matthías Viðar Sæmundsson sem birtist í Stríð og söngur, samtöl Árna Þórarinssonar í helgarblaði Vísis í október 1977 og samtal okkar í Mannlífi í tilefni af áttræðisafmæli Morgunblaðsins (nóvember 1993); ennfremur samtal okkar Silju Aðalsteinsdóttur sem birtist í Tímariti Máls og menningar í fyrra og spjall mitt við Ragnar Halldórsson sem var útvarpað á Aðalstöðinni. Það er langt og ókarað og því að sjálfsögðu óbirtingarhæft en þar eru nokkur ágæt atriði, sé ég; þar er talað um kvæðin og landið, m.a. að það sé ekki gæludýr heldur geti það breyzt í óargardýr eins og hendi sé veifað “en munurinn á Íslandi og tígrisdýri er náttúrulega margvíslegur og ekki sízt sá að Ísland er eins og Fjölnismenn vildu hafa það, það er bæði fagurt og nytsamlegt, en tígrisdýrið er bara fagurt. En ánamaðkurinn er aftur á móti bæði ljótur og nytsamlegur og þess vegna berum við ekki síður virðingu fyrir honum en tígrisdýrinu.” Síðan er talað um nám mitt og sitthvað sem hafði áhrif á mig ungan en þó einkum aðdáun mína á Sturlu Þórðarsyni, ekki sízt ljóðum hans. Þar segir m.a.:
“Ég hef nú ekki orðið fyrir neinum sérstökum áhrifum frá arkaískum skáldskap en lít á hann sem lifandi list í umhverfi okkar og að því leyti til hef ég eins og aðrir orðið fyrir áhrifum. Ég hef leyft mér að skírskota í sameiginlegar bókmenntir okkar Íslendinga og ætlast til að menn kveiki á því. Á þeirri stundu sem Íslendingar vita ekkert um sögu sína, uppruna eða bókmenntir, þá geta þeir farið að pakka saman og horfið inn í þjóðahafið. Ég ætla bara að vera dauður þá.”
Og þar er sagan um Símon Dalaskáld og vestið góða sem hann fékk frá Hannesi Hafstein en gaf Steingrími Thorsteinssyni.
Þá sagði hann “Nú hafa þrjú þjóðskáld verið í þessu vesti”!
“Íslendingar eru alltaf í vitlausu vesti. Þeir eiga bara að vera í sínu eigin vesti og reyna ekki að leika aðra í vitlausum vestum. Þessi mannjöfnuður á Íslandi er náttúrulega rosalega hvimleiður og ömurlegur. Það er alltaf verið að rétta einhverjum vesti.”
Þá er minnzt á draum Gunnlaugs Schevings um Snorra Sturluson, kynningu mína á Dylan Thomas, en þó ekki minnzt á hvernig ég kynnti Íslendingum einnig Sylviu Plath í samtali við Steven Spender og svo auðvitað Stein Steinar; þá um dálæti föður míns á Páli Ólafssyni, einkum Litla fossinum og hvernig ég erfði það.
“Mér hefur fundizt Páll minna mig á Mozart. En það yrkir enginn svona í dag. Það er búið að yrkja þessi kvæði. Þess vegna verðum við að yrkja önnur kvæði en þetta er ósköp skemmtilegt og svo heldur þessi arfleifð áfram. Þorsteinn Erlingsson talar um það í Hreiðrinu:

Þér frjálst er að sjá
hvar ég bólið mitt bjó
ef börnin mín smáu
þú lætur í ró...

Þetta er svona samtal, hlýtt ávarp og svolítið ferðalag frá einum til annars. Og ég neita því ekki að ég hef náttúrulega hugsað um þessa hluti mikið og vel og hef í hversdagsljóðum og víðar haft þetta í huga vegna þess að það er mér eiginlegt og mér finnst fólkið eigi það inni hjá okkur sem yrkjum að fá einnig beint samband.”
Síðan talað um opnun ljóðstílsins í hversdagsljóðum og t.a.m. einnig í Dagur ei meir og Morgni í maí.
“En þó liggur þar fiskur undir steini vegna þess að í Morgni í maí er fjallað um heimsstyrjöldina og af þeim sökum verð ég að yrkja að þessu umhverfi. Sem ungur drengur heyri ég stuðlana falla alls staðar í kringum okkur. Gömul hefð er að breytast. Jón úr Vör yrkir Þorpið . Steinn yrkir bæði hefðbundin og óhefðbundin ljóð og svo atómskáldin. Erlend áhrif. Hruninn heimur, nýr heimur í deiglu. Það hefði verið fölsun hjá mér ef ég hefði ort þennan ljóðaflokk með hefðbundnum hætti, því þannig var heimurinn ekki og líka fölsun hefði ég ort hann í atómstíl vegna þess að þannig var heimurinn ekki heldur orðinn, svo ég varð að fara bil beggja. Bókin var meira og minna ómeðvituð því hún kom eins og flest önnur ljóð mín; ósjálfrátt.
Ég er bara tré og tréð er ekkert að velta fyrir sér hvernig það laufgast og einn góðan veðurdag byrjar að syngja í trénu.
Ég reyni aldrei að að setjast niður og fara að yrkja. Ekkert frekar en tréð ákveður það í marzmánuði að nú ætli það að fara að laufgast. Það gerist ekki með þeim hætti.
En samt getur maður stjórnað þessari ferð með einhverjum hætti og það vildi ég gera í Morgni í maí, en þessi flokkur fjallar þó ekki fyrst og síðast um heimsstyrjöldina.
Hann fjallar í raun og veru um aðra styrjöld, styrjöld drengsins við umhverfi sitt. Sama glíman og er í flestum mínum bókum og jafnframt leit þessa drengs að föður sínum án þess ég ætli að fara frekar út í þá sálma hér.”
Þá er talað um Hólmgönguljóð, að sú bók fjalli ekki sízt um lífsháskann, minnt á það sem Stoppard lætur persónu í Rósinkranz og Gyldenstjerne segja, Að lífið sé vonlítil áhætta. “Ef það væri veðmál mundi enginn taka þessu veðmáli”. Að þetta sé náttúrulega íhugunarefni. Dauðinn komi og taki plötuna af í miðju lagi og þá upplifum við þessa þögn sem verður í miðjum klíðum. Um þetta m.a. fjalli Hólmgönguljóð og það sem brezka ljóðskáldið Philip Larkin sagði í litlu kvæði - en hann hafði sérstöðu í Bretlandi og eltist ekki við tízkuna þótt hann eigi líklega eftir að verða endingarbetri en margir aðrir:
Að tíminn sé sög og við tréð í skóginum og heyrum í þessari sög, hvernig hún rótast í fjarlægð og nálgast hægt og sígandi. Um þetta fjalla öll ljóð meira og minna.
Og þá auðvitað einnig um dauðann; það hafi verið lagt á manninn að hann viti að hann eigi að deyja. Dýrið hafi kannski einhverja eðlisávísun um það, en ekki meira.
“Á því andartaki sem maðurinn veit að hann á að deyja verður hann skáld, listamaður og manneskja. Þar með kemur mennskan inn í líf hans og þar með byrjar hann að skilja sig frá öðrum dýrum þessarar jarðar og hefur kannski fyrirheit um að vera einskonar guðleg vera í sköpun, ég veit það ekki.
En við höfum líka gamlar goðsögur um það að dauðinn sé ekki til. Hvað sem því líður er það auðvitað lífið sem að okkur snýr, það er gleði okkar og barátta. Þeir segja niðri á Morgunblaði að ef við þurfum að skýra frá slysum, þá vilji ég helzt alltaf leggja áherzlu á það ef einhver hefur lifað af.”

Og ennfremur:
“Ég man nú ekki eftir mér svo ungum að móðir mín hafi ekki verið að tala við mig um sr. Hallgrím og Passíusálmana hans. Hún var ákaflega trúuð kona og hún lifði trú sína í verki. Og þess vegna tók ég afskaplega mikið mark á því sem hún sagði og hvernig hún talaði. Hún talaði um Hallgrím og ég held að hún hafi leitt mig á vit hans, bæði með bænum og svo fór ég að sjálfsögðu að lesa sjálfur.
Sr. Hallgrímur var járnsmiður og hann vissi til hvers eldurinn er. Eldurinn hreinsar. Lífið er ekki bara afþreying og það er ekki hægt að lifa lífinu eins og maður eigi ekki að deyja. En það gera dýrin. Og dýrin, þessi viðbót við hugsun guðs um jörðina, þau eru á sínum stað og við á okkar. Og þau eru áreiðanlega ekkert að hugsa um það sem við erum að gera. Þau eru ekki að yrkja eða semja 9. sinfóníu Beethovens. En þau svala kynhvöt sinni, þau berjast um fæðu og þau atast út af völdum.
Þau eru sem sagt í pólitík.
Þess vegna finnst mér ágætt að bæta við svolitlu af listum, menningu og guðlegum innblæstri og láta það eyrnamarka okkur sem manneskjur, að rækta með okkur einhverja mennska tilfinningu og mennska afstöðu til umhverfisins og lífsins.
Mannúðarstefnu.
Hitt er svo annað mál að ég hygg að dýrunum líði oft betur en manninum. Það getur vel verið að dýr leggist í þunglyndi, ég veit það ekki. Ég hef ekki heyrt fréttir af því en alls kyns þunglyndi, kvíði og áhyggjur fylgja okkur mönnum og svo eru engar línur í mannlífinu sem raunverulega er hægt að fara eftir.
Við vorum að tala um Njálu áðan. Sumir eru að halda því fram að það hljóti að hafa verið einhverjir klerkar sem skrifuðu söguna. Ég veit það ekki. Ég þekki ekki klerka með svoleiðis reynslu. En þeir hafa þá haft meiri reynslu á 13. öld en þeir hafa í dag, gæti ég trúað.
En Sturla Þórðarson var þarna í miðjum orrustum, bardögum. Hann var þátttakandi í öllu lífinu þarna og þeir þyrmdu skáldinu. Hann lifði af til þess að ljúka sínum verkum. Hann var sannkristinn maður eins og þeir voru þessir ofbeldisseggir. En það er merkilegt að aðalskúrkurinn í Njálu skuli vera kristinn.”
Það var einnig talað um samtölin, minnzt á bókmál og talmál, dæmi tekið af samtölum okkar Kjarvals.
Og meira um Stein; t.a.m. þegar Jóhann Hafstein stöðvaði mig niðri í Austurstræti, tók í handlegginn á mér og þakkaði mér sérstaklega fyrir samtalið við Stein. Gat ekki leynt gleði sinni yfir því að þetta merka skáld skyldi ekki vera einhvers konar  “ pólitískur útlagi á Síberíuklakanum.”

Það er þá einnig að sjálfsögðu talað eitthvað um Tómas og Þórberg; Kompaníið. Þórbergur var alltaf að skemmta sér og öðrum, það var hans eðli. Og svo hafði hann skoðanir á öllum hlutum.
“Ég hef tilhneigingu til að fá í barkann, sagði ég eitt sinn við hann. Náttúran sér um að þeir sem tala mikið fá stundum í barkann. Ég verð þó að viðurkenna að ástæða væri til að ýmsir aðrir fengju frekar hálsbólgu en ég”.

Þetta segi ég við Þórberg sem vissi sínu viti þótt hann léki stundum barn eða einfeldning. Hann vissi alltaf hvað að honum sneri.”

“Hvað er að þér spurði hann einhverju sinni. Þú ert eitthvað svo hás, ertu eitthvað veikur?”
“Ég er með snert af hálsbólgu”, sagði ég.
“Þú ert alltaf með hálsbólgu”, sagði Þórbergur.
“Já, það er rétt”, sagði ég, “en læknarnir geta ekki sagt mér af hverju hún stafar”.
“Það get ég”, sagði Þórbergur ákveðinn.
“Nú?”
“Já, ég get sagt þér af hverju þessi hálsbólga þín stafar. Hún stafar af því að þú hefur talað of mikið fyrir slæmum málstað í síðasta lífi”.
Undanskilið, hvað þá þessu!!
“Mér er alveg sama hvaða skoðanir skemmtilegir menn hafa en finnst við geta ætlazt til þess að leiðinlegt fólk hafi að minnsta kosti skemmtilegar skoðanir. En það vill nú bregða til beggja vona.”
Þá nefni ég myndskreytingar í ljóðabókum mínum og listamennina sem koma við þá sögu. Og að lokum fjallræðufólk eins og Guðmund Dýrfirðing sem var kokkur á Fróða og síðar á Brúarfossi þegar ég var þar í messanum. Hann var fjallræðumaður í húð og hár. Og Þorkel Sakaríasson sem bjargaði lífi okkar Steingríms Hermannssonar þegar hann ók framhjá tjöldum vegavinnumanna á Vatnsskarði um miðnætti af því að þeir voru að flytja síldarfóður í Vatnshlíð og sá þá hvar reykur gaus út úr tjaldinu okkar. Þeir stöðvuðu bílinn, vöktu upp og báru okkur út úr tjöldunum þar sem við vöknuðum nær dauða en lífi úti í móa. Þá skall hurð nærri hælum. Einhvern tíma þegar Þorkeli líkaði illa við eitthvað sem Steingrímur gerði í ráðherratíð sinni, sagði hann við mig:
“Ég hefði átt að láta ykkur liggja!”
Ennfremur kynni mín af fátækum kolanámumönnum í Workshop, Englandi, þegar ég vann á þeim slóðum við landbúnaðarstörf 1949 en þessir fátæku menn voru eins og moldvörpur, lifðu að mestu neðanjarðar, komu svo upp til að fá sér bjór.
Þetta var sama umhverfi og í skáldsögum D.H. Lawrence.
“Það er sem betur fer fullt af fólki á Íslandi sem lifir eins og fjallræðan býður, er hlédrægt og tranar sér ekki fram, laust við mannjöfnuð og vinnur í kyrrþey eins og systir Jónasar “þegar hún situr lömb og spinnur ull”, rétt eins og ekkert sé sjálfsagðara. Þetta er mitt fólk og þessi eðliseinkenni hef ég fundið í þeim listamönnum sem eru merkastir og mikilvægastir að mínu viti.
Björn í Tónlistarfélaginu sagði mér á sínum tíma að hann vissi alltaf, hvaða erlendir listamenn gátu eitthvað, þegar þeir komu til landsins og hann tók á móti þeim. Þeir sem gátu eitthvað komu út úr flugvélinni, kannski í vitlausu veðri, og sögðu,
Nei mikið er gaman að koma hingað, mikið er skemmtilegt að vera kominn til Íslands!
En hinir sem ekkert gátu, sögðu,
Ha, hér er allt vitlaust í rigningu, eigið þið nokkurt píanó, er nokkur salur hérna sem hægt er að æfa sig í, er nokkuð yfirleitt hér í þessu landi?

Ég held að niðurstaða mín af kynnum við þetta fólk sé hin sama og niðurstaða Björns í Tónlistarfélaginu. Ef menn geta eitthvað, þá hreykja þeir sér ekki og eru ekki í neinni samkeppni um mannvirðingar, heiður, verðlaun eða neins konar viðurkenningar. Virðingin kemur innan frá, þeir eiga hana sjálfir og vita það.
Svona fólk eins og Guðmundur Dýrfirðingur og þeir listamenn sem mestir og auðmjúkastir hafa verið, þeirra sem ég hef kynnzt eru guðspjöllin holdi gerð; einhvers konar fagnaðarerindi, jólaguðspjall.”

22. september, þriðjudagur

Í dag töluðum við Kristján Karlsson m.a. um Jónas frá Hriflu og Stórubombuna. Hann ætlar að senda mér það sem hann veit réttast um þetta mál, því það er með öðrum hætti en ég hef haldið. Við töluðum einnig um að hann læsi sögurnar mínar yfir. Hann sagði það væri sjálfsagt mál. Hann gaf mér ljóð sem við Ingólfur sáum hjá honum fyrir jól, en nú hefur  hann fullgert það; mjög skemmtilegt ljóð um réttlæti og ranglæti andspænis himnunum. Við vitum ekki hvað dugar þegar kemur að því mikla hliði. Þá verður ekki spurt hvort maður sé páfi eða róni .En mér lízt ekki á blikuna, ef yfirheyrslurnar verða um svipuð efni og sýnt var á Clintonmyndbandinu í fyrradag!
Hvílíkt kollrak!
Við töluðum einnig um skáldskap Halldórs Laxness. Ég held Kristján sé sammála mér um afstöðuna til kynlífskafla í skáldskap Halldórs. Þar ríkir einhver sérstök gamaldags karlremba sem minnir á geishurnar og ég hef minnzt á hér að framan. Kristján sagði að Sjálfstætt fólk væri ekki endilega lýsing á þjóðfélaginu eins og það hefði verið, heldur drægi hann ályktanir af einkennum þess. Karlremban var að sjálfsögðu eitt af helztu einkennum íslenzks samfélags fyrr á tíð og er kannski enn. Þessi skringilega kynlífsafstaða kemur fram í ýmsum ritum Halldórs, eins og ég hef áður minnzt á, og þá ekki sízt í því hvernig Steinþór hálfnauðgar Sölku Völku í samnefndri skáldsögu.
Það gerist að vísu lítið sem ekkert í Sjálfstæðu fólki. En kaflinn um Bjart og Ástu Sóllilju stjúpdóttur hans, þegar þau koma í kaupstað, og hann rýkur úr rúmi frá henni að sækja hestinn, og þau fara saman upp á heiðina aftur, er sérkennilegur fyrirboði þess sem verða vill. Sögunni lýkur með því að þau fara lengra inn á heiðina. Þannig er látið að því liggja að Bjartur ætli sér Ástu Sóllilju; hann ætlar að eiga hana einn. Einn með heiðinni. En það er auðvitað ekki sagt eða lýst nánar, því þá væri sagan ónýt. En þetta er einhvers konar sifjaspell, þótt ekki séu þau blóðskyld, enda er látið að því liggja að Ásta Sóllilja sé dóttir Ingólfs Arnarsonar Jónssonar sem var fulltrúi kaupfélagsins sem Bjartur fyrirleit öðru fremur, en hún hafði af því áhyggur, því henni leizt svo ljómandi vel á þennan geðfellda fulltrúa kaupfélagsins, án þess vita að hann væri faðir hennar. Andúð Bjarts á kaupfélagsmönnum á augsýnilega rætur í þeirri vitneskju hans, eða öllu heldur þeim grun, að Ásta Sóllilja sé dóttir Ingólfs og eiginkona hans hafi gengið með barn hans, Ástu Sóllilju, þegar hann giftist henni. Þannig má ætla að andúð Bjarts sé af persónulegum ástæðum. Þá er gefið í skyn að það hafi verið sjálfstæðishvöt Bjarts sem var helzti hvati þess, að hann flutti sig lengra inn á heiðina, en líklega er það ekki rétt. Ástæðan var að öllum líkindum sú, þó ekki sé um það fjallað, að hann ætlaði með Ástu Sóllilju þangað sem hann gæti haft hana í friði fyrir slúðrinu í þorpi og byggðum, enda vissi hann vel að girnd hans gæti orðið honum dýrkeypt andspænis því almenningsáliti, sem hann sýndi viðstöðulausa tortryggni; og því nábýli sem hann fyrirleit.
Sjálfstætt fólk er mikill ljóðabálkur. Minnir að því leyti helzt á Hómerskviður og svo auðvitað kafla úr skáldsögum Joyce. Halldór var gott ljóðskáld, en þessi gáfa hans naut sín betur í slíkum sagnabálki heldur en frumsömdum ljóðum. Þau eru samt að mörgu leyti eftirtektarverð, þótt skringileg séu oft og tíðum.
Sjálfstætt fólk er með afbrigðum vel skrifuð bók og eftirminnileg. Hún á ekki sinn líka í þeim sagnaskáldskap sem við fáum í hendur nú um stundir. Samt fjallar sagan um sveitakarl sem er svo skringilegur í háttum, að minnir helzt á einsetumann sem hefur löngu gleymt öllu samfélagi við annað fólk; hefur meiri áhuga á rollum en mannfólki og er t.a.m. fyrirmunað að lýsa dauða konu sinnar með öðrum hætti en hann væri að segja frá dauðri rollu sem hefði lent í keldu. Jafnvel sá kafli er óborganlegur. En Bjartur er þá einnig haldinn drýldni sem maður kynntist, þegar þjóðfélagið allt var enn á stuttbuxunum, eða öfugu monti eins og Halldór talar um í minningaskáldsögu sinni Í túninu heima.
Við Kristján vorum eiginlega sammála um að það væru engin augljós áhrif í nútímaskáldsagnagerð frá Halldóri Laxness. Það gerði sig engin að því fífli að reyna að líkja eftir honum. Þó tel ég skáldsögu Árna Bergmanns um Þorvald víðförla minna öðrum þræði á Gerplu sem virðist einhvers konar fyrirmynd Árna. Það er veður í skáldsögu hans, en það er sjaldgæft í sögum yngstu höfunda, samt þótti mér talsvert veður í stílþrifum Jóhannesar Helga í Svartri messu á sínum tíma.
Þær skáldsögur sem við höfum fengið í hendur undanfarið eiga fremur fyrirmyndir í stíl og efnistökum í skáldverkum Kristmanns Guðmundssonar og Gunnars Gunnarssonar en Halldórs Laxness - og þá einnig að sjálfsögðu í verkum Einars H. Kvarans sem skrifaði einfaldan og ómyndrænan prósastíl og heldur tilkomulítið bæjarmál sem á litlar sem engar rætur í íslenzkri sveitamenningu. Þær rætur sjást aftur á móti í skáldsögum Halldórs Laxness og þá ekki síður beztu sögum Guðmundar G. Hagalíns sem reyndi að búa til einhvers konar íslenzka mállýzku úr vestfirzku talmáli eins og við sjáum í sumum smásögum hans og þó einkum í Kristrúnu í Hamravík og Márusi á Valshamri. Við Kristján sjáum engin augljós áhrif í þeim efnum í skáldsögum samtímans, en þó sagði hann að sjá mætti áhrif frá Hagalín í sögum Einars Kárasonar og Einars Más og þá fremur í efni og efnistökum en stíl. Þeir skrifa um sérkennilegt fólk eins og Hagalín, en allt annars konar persónur heldur en Halldór Laxness í sínum verkum.
Við K.K. sjáum engin líkindi með smásögum Gests Pálssonar og nútímaskáldverkum, Gestur skrifaði þjóðfélagslegar sögur - og þá miklu fremur handa Sveini Skorra en þeim skáldsagnahöfundum sem hefðu getað lært eitthvað af honum! Stíll hans er nær því málfari sem Einar H. Kvaran, Jón Trausti og Kristmann notuðu í sínum sögum en Guðmundur G. Hagalín eða Halldór Laxness. Eini skáldsagnahöfundurinn sem segja má að noti með köflum stíl sem gæti verið eins konar framhald af Hagalín eða Laxness er Guðmundur Daníelsson, enda átti hann rætur í sveit en ekki kaupstað.
Vatnið er verðugt framhald af Kristnihaldinu og leiftrar af listrænum tilþrifum.
Hvað stíl varðar er Ólafur Jóhann Sigurðsson fremur einhvers konar framhald af Kristmanni og Gunnari Gunnarssyni svo og Jón Dan, en Elías Mar náði eftirminnilegum tökum á reykvísku talmáli í sínum skáldskap. En flestir nútímahöfundar nota einfaldan og gagnsæjan stíl án þess í þeirri ábendingu felist nein gagnrýni. Það gerir Indriði G. Þorsteinsson til að mynda, svo og Guðbergur Bergsson, Svava Jakobsdóttir og Fríða Sigurðardóttir og raunar Steinunn Sigurðardóttir, Ingimar Erlendur og Pétur Gunnarsson, svo enn séu dæmi tekin. En Indriði hefur einnig orðið fyrir umtalsverðum erlendum áhrifum, t.a.m. frá Hemingway, en stíll hans er þéttari en gengur og gerist nú um stundir.
Og listrænni.
Athyglisverðust þótti mér þessi athugasemd Kristjáns: Stílleysi er sprottið af samvizkuleysi. Sá sem hefur engan stíl, hann hefur enga samvizku. Stíllinn vex úr samvizku höfundar. Ef samvizka hans er lítil sem engin, þá þarf ekki að sökum að spyrja. Þetta blasir raunar við og leynir sér ekki í þeim bókum sem skrifaðar eru í því skyni fyrst og síðast að ná metsölu; komast á metsölulista. Ef höfundurinn hefur ekki meiri metnað en svo, verður það í flestum tilfellum augljóst af metnarlausum stílbrigðum. Hitt er svo annað mál að metnaðarfull skáldverk - eða öllu heldur bókmenntaverk - sem eru skrifuð af samvizkumikilli þörf fyrir hönd ritlistarinnar geta einnig orðið vinsæl með samtímanum og komizt á metsölulista. En það er þá einnig augljóst að þangað komast þau þrátt fyrir metnað sinn og þá glímu við fagurfræðileg vandamál sem er ævinlega forsenda mikillar listar.
En slík verk bíða framtíðarinnar.

Endurtekning og

áherzlur

Guðmundur G. Hagalín varð fyrir ýmsum áhrifum, þegar hann var í Noregi og snaraði síðar Dunn á íslenzku eins og kunnugt er. Það var áreiðanlega engin tilviljun.  Kynnin af norskum mállýzkum urðu honum notadrjúg.
Náttúran er fléttuð inn í frásögnina af Ólafi Kárasyni ljósvíkingi og Bjarti í Sumarhúsum, stundum með óvæntum og ljóðrænum tilþrifum. Slík aðferð tíðkast ekki í nútímaskáldsagnagerð enda horfin í síðustu skáldsögum Halldórs sjálfs, sögum eins og Innansveitarkroniku og Guðsgjafaþulu. Ljóðrænar prósalýsingar Thors eru af öðrum toga og fremur í ætt við prósaljóðið en þá knöppu náttúrufléttu sem einkennir mörg verk Halldórs Laxness. En þær gera hann sérstæðan höfund í nútímaskáldskap okkar.
Erfiðasti hjallinn fyrir íslenzk sagnaskáld virðast vera samtölin, enda óvenjulöng leið milli talmáls og bókmáls eins og sjá má af samtölum íslendingasagna. Samtöl í nútímabókmenntum eru oft ljóður á þessum skáldskap, en þau eru aftur á móti sérstök prýði á bandarískum nútímasögum sem vel takast og má nefna Þúsund ekrur eftir Smiley sem dæmi um þessa fullyrðingu. Bókin hlaut Pulitzer-verðlaunin á sínum tíma, en höfundur kveðst hafa byrjað að skrifa hana, þegar hún dvaldist  hér heima og heillaðist af Sjálfstæðu fólki, sem mér er nær að halda að hafi haft einhver áhrif á þær hrollvekjandi sambúðarlýsingar sem brugðið er upp í þessari bandarísku sveitasögu. Í henni og þeim skáldsögum á enska tungu sem ég þekki frá síðustu árum eða áratugum falla samtölin inní annars eðlilegt bókmál svo að ekki hattar fyrir. Þetta eru sem sagt engin skrifborðssamtöl. Halldór Laxness og Guðmundur G. Hagalín leystu þetta vandamál með sérstöku tungutaki sem þeir bjuggu til og gerðu að áreynslulausum og eðlilegum þætti í skáldsögum sínum. Samt er mér til efs að nokkur Íslendingur hafi talað eins og sögupersónur þeirra; a.m.k. ekki nema í endurminningunni, ef svo mætti segja. En þessi lausn er eitt helzta afrek íslenzkra bókmennta.
Nútímaskáld gætu í þessum efnum lært sitthvað af blaðamennsku, þótt hún hafi ekki ævinlega verið hátt á hrygginn reist, eða þá Jóni Trausta sem virðist nota heldur eðlilegt talmál í sögum sínum og raunar hefur maður það á tilfinningunni að tungutak persónanna sé eins og almennt var talað í sveitum landsins og þá ef til vill einnig að nokkru leyti í bæjunum um daga skáldsins, en hann lézt eins og kunnugt er í spænsku veikinni 1918.
Í stíl Thors Vilhjálmssonar gætir einhverra áhrifa frá ljóðrænni umfjöllun í Vefaranum, að ég hygg, en þó einkum að dómi K.K., frá einstökum ritgerðum Halldórs. En ég sé engin slík áhrif í aðferð og stíl Guðbergs sem einn skálda þessarar kynslóðar fór viðurkenningarorðum um Guðmund Daníelsson og verk hans og hefur þá að öllum líkindum talið sig eiga honum eitthvað upp að unna. Ég minnist þess að þetta gladdi Guðmund sem leit ekki alltaf á ritstörf sín og viðtökur skáldsagna sinna eins og dans á rósum.
Sjálfstætt fólk - þetta er ekki veröld sem maður hefði viljað lifa í. Fyrir okkar augum blasir við einskonar sýndarveröld sem sækir þó allar fyrirmyndir í umhverfið og einkenni þess. Engu líkara en trúður sé að vara hirðina við með sögum sem gætu verið sannar, en eru það ekki endilega. Mundi það þá ekki minna á ummæli Halldórs sjálfs um Þórberg, þegar hann getur þess að Þórbergur hafi ekki komið einn úr Suðursveit, heldur hafi verið trúður í fylgd með honum og að mér skilst hafi þetta alteregó Þórbergs aldrei yfirgefið hann. Samt hafði Halldór miklar mætur á ritlist hans og enginn þarf að fara í grafgötur með það, hver áhrif Þórbergur hafði á hann með köflum. Við vorum ekki fyrr búnir að tala um að eitthvað væri kórrétt í Kompaníinu en Halldór tók það upp í eitthvert ritverka sinna. En þessi aðferð Þórbergs, að íslenzka erlend tökuorð, féll fullkomlega að öðrum einstæðum listbrögðum hans.
Það er ekki sízt sérkennileg afstaða til kynlífs og ásta í Sjálfstæðu fólki. Okkur á að bjóða í grun að allt sé ekki sem sýnist í þeim efnum. Bjartur fær móður Ástu Sóllilju vanfæra. Það truflar hann, að sjálfsögðu. Hann þýfgar hana grimmilega um kynlíf hennar, en samtalinu lýkur svo með vorkunnsemi. Svo ég umorði það sem áður er sagt, þá er að minnsta kosti látið að því liggja að Ingólfur Arnarson Jónsson, fulltrúi kaupfélagsins, sé faðir Ástu Sólliljar, en þegar hún sér þennan ókunnuga mann þykir henni hann bæði fallegur og viðfelldinn og henni líkar illa neikvæð afstaða Bjarts, stjúpföður síns, til þessa geðfellda manns. En afstaða Bjarts helgast af því, að hann veit með sjálfum sér, að Ingólfur er faðir Ástu og þolir hann ekki fyrir bragðið og þá ekki heldur kaupfélagið sem hann er fulltrúi fyrir, en leitar til kaupmannsins sem gefur Ástu vasaklút og tíu aura en þó engan gullpening, enda var hún einungis dóttir föður síns í hans augum og ekkert kynferðislegt andlag eins og stúlkan sem Björn á Leirum spjallaði í Paradísarheimt. En mundi ekki andúð Bjarts á samvinnustefnunni eiga rætur í þeim grun sem er forsenda fyrirlitningar.
Á sama hátt mætti spyrja hvort girnd Bjarts til Ástu Sóllilju væri ekki miklu fremur ástæða þess að hann flytur með henni inn á heiðina, heldur en þeir sjálfstæðistilburðir sem alltaf er verið að benda á. Hann ber þessa fósturdóttur sína eins langt frá mönnum og unnt er.
Og hvers vegna?
Mundi það ekki vera vegna þess að þá fær hann að eiga hana einn og eins langt frá slúðrinu og hægt er að komast? Þetta var ekki sú ást sem eðlilegust þótti, hvorki fyrr né síðar. Að vísu ekki blóðskömm, að vísu ekki sifjaspell - en þó eitthvað í þá áttina. Og mundi þá ekki heiðin vera bezta skjólið?
Í Paradísarheimt er þetta efni svo hvatt með einhvers konar hryllingi þar sem er þáttur Björns á Leirum og stúlkunnar á bænum undir Eyjafjöllum sem fær gullpeninginn fyrir viðvik sem þolir ekki dagsins ljós. Það minnir að sjálfsögðu ekki á neitt annað en afmeyjunarþáttinn í minningarsögu geishunnar, þegar karlasamfélagið bauð í aðgerðina. Skilur eftir ógeð hjá lesandanum og áreiðanlega enga sælutilfinningu hjá fórnarlambinu.
Bæði í Ljósvíkingnum  og Sjálfstæðu fólki er náttúran fléttuð inn í frásögnina með óvæntum ljóðrænum tilþrifum, eins og ég minntist á. Henni er ekki brugðið upp sem andstæðu við mannlífið, heldur undirstrikar hún það. Bezt fer á því að lifa með náttúrunni eins og fuglar og fénaður, en ekki eins og óvinur eða keppinautur líkt og í Aðventu þar sem maðurinn glímir við hatrömm náttúruöfl öræfanna.
“Hafið, hvíslaði hún steini lostin og hélt áfram að stara austuryfir, og það fór um hana kaldur hríslíngur af dýrð yfir því að hafa borið gæfu til að standa á austurbrún heiðarinnar og sjá hvar landið endar og hafið tekur við, sjór heimsins,” segir í Sjálfstæðu fólki.
Hvað sem raunsæinu líður fjalla Heimsljós og Sjálfstætt fólk um það að við lifum einungis af í skáldskap; því dáið er allt án drauma. En meirihluti skáldsagna fjalla aftur á móti um það mannlíf sem veruleikinn yrkir í kringum okkur.

Kvöldið

Þröstur Helgason talar í grein um það að skáld taki ekki afstöðu í þjóðmálum og Kristján Karlsson gagrýndi þessi orð.
Þetta er uppúr einhverjum kennara, sagði hann.
Hann skírskotaði í grein eftir James Baldwin sem var svartur og hommi, og því þjóðfélagslega illa settur vestan hafs, en samt varar hann við því að rugla saman list og þjóðfélagsgagnrýni.
Ég hitti Baldwin á rithöfundafundi í Kaupmannahöfn að mig minnir 1962 og átti þá við hann gott samtal. Hann var tilfinningaríkur maður og afar geðfelldur. Item góður höfundur.

23. september, miðvikudagur

Styrmir og Hannes Hólmsteinn hittust í dag og töluðu lengi saman. Ég hitti þá sem snöggvast fyrir síðdegisfund minn og sagði við þá:
“Hér sitjið þið, fóstbræður, og skeggræðið hvort mundi nú binda ykkur saman, kvótakerfið eða Alþýðuflokkurinn?!!
Þeir tóku þessari kaldhæðni vel og Hannes sagði:
Við erum að finna lausn á kvótamálinu svo við getum átt samleið í pólitík.
Það kom fram í samtali þeirra að bæði Kjartan Gunnarsson og Björn Bjarnason hafa ráðlagt Hannesi að birta ekki árásargreinar á okkur, svo hann dró þær víst til baka !

24. september, fimmtudagur

Fékk þetta í dag frá Leifi Sveinssyni:
Matthías,
hérna koma tvær útgáfur af sömu sögunni, önnur um sr. Kjartan Helgason í Hruna, (1865-1931), hin um sr. Steindór Briem í Hruna:
1) Guðmundur hét maður, sem var vinnumaður hjá Sr. Kjartani í Hruna. Hann kemur að máli við húsbónda sinn og segir: “Okkur Gunnu vinnukonu þykir dálítið vænt hvoru um annað, ráðleggur þú mér að kvænast henni”? Sr. Kjartan svarar: “Ef þú kvænist henni Gunnu, þá munt þú sjá eftir því stundum, en ef þú gerir það ekki, þá munt þú sjá eftir því alltaf.”
2) Vinnumaður hjá sr. Steindóri Briem í Hruna, (1849-1894) spyr húsbónda sinn: “Okkur Guddu vinnukonu þykir dálítið vænt hvoru um annað. Á ég að kvænast henni Guddu”? “Ef þú kvænist henni Guddu, þá sérðu eftir því stundum, en ef þú gerir það ekki, þá munt þú sjá eftir því alltaf.” (Heimildarmaður Gunnlaugur J. Briem, fyrrum fulltrúi hjá Garðari Gíslasyni hf.)

29. september, þriðjudagur

Raxi ljósmyndari átti að taka mynd í Garðabæ af 14 pólskum nunnum sem eru að fara af landi brott til að stofna karmel-klaustur í Hannover. Þær voru í einhverju bænastússi og Raxi þurfti að bíða lengi. Þá kemur þar að gömul pólsk nunna og hvíslar að honum á bjagaðri íslenzku,
Það borgar sig að bíða, þú hefur aldrei áður fengið tækifæri til að taka mynd af 14 hreinum meyjum í einu.
Fór svo til sinna starfa, en Raxi leystist upp í forundran.
En þegar myndirnar komu í hús voru 14 karmelsystur á þeim.
Þá hrukku fleiri við en Raxi!!

4. október, sunnudagur

Ingólfur hefur verið heima frá því á fimmtudag. Við höfum farið saman í kaffihús og göngutúra, skemmtilegt. Hann fer aftur til Edinborgar á morgun.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag er fjallað um hugmyndir Davíðs Oddssonar vegna sjálfheldunnar í sjávarútvegsmálum. Þessar hugmyndir hafa vakið verulega athygli en Davíð hefur gert það að tillögu sinni að eignaraðild að sjávarútvegsfyrirtækjum verði dreifðari en nú er, jafnvel komi til greina að þau fyrirtæki ein fái kvóta sem sættist á dreifða eignaraðild; þó að litlum einkafyrirtækjum undanskildum.
Allt er þetta í raun hið furðulegasta mál, ekki sízt með tilliti til þeirra fullyrðinga Kristjáns Ragnarssonar, formanns LÍÚ, að tugir þúsunda Íslendinga eiga hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum.
Þessi hugmynd Davíðs Oddssonar kom raunar fram í samtali Styrmis við Hannes Hólmstein nokkrum dögum áður en Davíð flutti stefnuskrárræðu sína á Alþingi. Ég hitti þá andartak og fór hið bezta á með þeim, að minnsta kosti taldi ég ekki að um neina Apavatnsför væri að ræða. Styrmir sagði mér eftir fund þeirra að undir lokin hafi Hannes varpað fram þeirri hugmynd, hvort ekki væri unnt að ná sáttum í málinu með því að fólkið í landinu fengi hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum á góðu verði. Styrmir hvatti hann til að tala við Davíð um þetta.Hannes… gaf í skyn að hann væri fremur já-maður Davíðs en ráðgjafi..
Davíð viðraði svo þessar hugmyndir öllum á óvart í stefnuskrárræðu sinni. Þar með hafa þeir félagar viðurkennt að fólkið í landinu eigi einhvern rétt í sambandi við þessa auðlindaeign sína sem undanfarin misseri hefur verið reynt að færa undir alræðisvald sægreifanna. Ég tók þessu fremur þunglega en sagðist þó ekki mundu skemma málið. Það væri gott að fá hreyfingu á þetta mikla deilumál og við yrðum að reyna að ná sáttum. En mér leizt ekki á blikuna, því að eignaraðild eins og sú sem Davíð talar um gæti skuldbundið kynslóðirnar í framtíðinni; til þess að rifta slíkri eignaraðild yrði að þjóðnýta auðlindina og þá yrði hrópað, Þarna sjáið þið, morgunblaðsritstjórarnir stuðluðu að því að auðlindin var þjóðnýtt!
Hitt er annað mál að viðurkenning þeirra félaga er mikilvæg og vel má vera að unnt sé að ná sáttum vegna þess að hreyfing hefur komizt á málið.
Davíð líkti slíkri eignaraðild við sölu á Landsbankanum og sagði að þjóðin hefði sýnt í verki að hún vildi eignazt ríkisfyrirtæki með þessum hætti. Og hann gaf það í skyn að sala hlutabréfa í Landsbankanum yrði sambærileg við sölu hlutabréfa í sjávarútvegsfyrirtækjum. En það hefur enginn gefið Landsbankann nokkrum manni. Hann hefur verið í eigu ríkisins. Nýir hluthafar hafa einungis tekið til sín part af því sem ríkið hefur átt. Kvótinn hefur ekki verið í eigu ríkisins, de facto. Hann hefur þvert á móti verið í eigu þeirra sem hann hafa keypt, ekki af ríkinu, ekki af fólkinu sem á auðlindina - heldur af svonefndum kvótaeigendum, eða sægreifum. Það er því rétt sem fram hefur komið að það gæti verið dálítið ankannalegt ef fólkið í landinu þyrfti að kaupa af sægreifunum það sem þeim hefur áður verið gefið í formi gjafakvóta; og kallað er framsal.
Allt er þetta þannig hið snúnasta mál en Davíð er augsýnilega mikið í mun að komast til botns í því og um daginn sagði hann í ræðu á SUS-fundi að eitt helzta kosningamál í næstu alþingiskosningum, þ.e. að vori, yrðu sjávarútvegsmálin!
Nú eru þau allt í einu orðin mikið kosningamál - og af hverju?
Til þess að losna við þá þjóðfélagsóværu sem allir gera sér grein fyrir að er að verða hið versta böl í landinu. Sem forystumaður ríkisstjórnar og stærsta flokksins þarf Davíð á því að halda að nú verði skorin upp herör gegn óværunni! Það væri gott ef slíkt tækist. En ekki held ég Kristjáni Ragnarssyni lítist almennilega á þær stökkbreytingar sem hann telur áreiðanlega að ógni nú lénsveldi sínu og sægreifanna. En hér er að sjálfsögðu margs að gæta og það þarf ekki sízt að huga að framtíðinni; þeim arfi sem nýjar kynslóðir þurfa að ávaxta. Styrmir skrifaði Reykjavíkurbréf um þetta mál sl. sunnudag. Við fórum svo yfir það. Og niðurstaðan varð sú að allir mínir fyrirvarar voru settir inn í Reykjavíkurbréfið. Um það urðum við ásáttir. Þannig höldum við þeirri stefnu sem upp var tekin fyrir hálfum öðrum áratug.
Sjávarútvegsstefnan hefur líklega gefið nokkuð góða raun að því leyti að  hún hefur átt einhvern þátt í að vernda fiskimiðin . En gjafakvótinn hefur verið ljóður á henni og það er hann sem þarf að lagfæra fyrst og síðast,enda siðlaus En mér er til efs það verði gert með þeim nýju hugmyndum sem nú hafa séð dagsins ljós; held raunar ekki.

Kvöldið

Nú hef ég afhent sögusafnið mitt. Kristján Karlsson dæmdi það að lokum enda treysti ég algjörlega hans dómgreind. Hann getur verið harður dómari. Hann hafði ekkert nema gott eitt um safnið að segja. Hann sagði að sögurnar væru genúin-sögur og þyrfti ég ekki að hafa neinar áhyggjur af þeim. Þær væru stórvel skrifaðar og samtölin frábær,svo ég vitni í Kristján..
Hann var reiðubúinn að gefa sögunum þessi meðmæli. En ég sagði að þess þyrfti ekki. Ég mundi eignunigs segja þeim í Vöku-Helgafelli að hann hefði talið sögurnar góðar.
En þetta gladdi mig að sjálfsögðu.
Nú hef ég engar áhyggur af þessari bók, hún er afgreidd. Gagnrýnendur mega segja það sem þeir vilja. Þótt mér sé yfirleitt alltaf ágætlega tekið nú um stundir, brennur enn við að ég fái mývarginn á mig. Það gerðist um daginn þegar sagt var frá því í Fókus, sem er krakkablað í tengslum við DV að skáldskapur minn væri heldur lítilvægur. En hvað gerir það til. Mývargurinn kviknar eins og ryk. Hann skiptir engu, en hann er hvimleiður. Þó getur hann skilið eftir sár. Ég man eftir vagnhestunum sem við teymdum á tippinn í vegavinnunni á Stóra-Vatnsskarði, þeir þurftu að blaka vargnum frá sér með tagli og eyrum. Samt náði vargurinn sér stundum niðri við augu og eyru. Þar mynduðust sár. Það var settur áburður í sárið, stundum tjara að mig minnir.
Þá greri.
Og mývargurinn hvarf í næstu golu.

6. október, þriðjudagur

Fundur í morgun til að fara yfir nýtt tölvukerfi, svokallað CCI-kerfi. Það verður öruggara en það sem við nú notum og áreiðanlega miklu fullkomnara. En ég sé í hendi mér að þessi ritstjórnar-tölvukerfi eiga eftir að taka miklum framförum. Þau eru ennþá helzt til flókin. Nú geta flugstjórar stjórnað stórum þotum eins og ekkert sé vegna þess hve tölvukerfi þeirra er einfalt. Forsendur þessarar einföldunar eru að sjálfsögðu geimferðir. Ritstjórnarkerfin eiga eftir að taka svipuðum stökkbreytingum til einföldunar.

Jónas Kristjánsson skrifar í dag forystugrein um sjávarútvegstillögur Davíðs Oddssonar….. Jónas skilur það rétt, að eitt er að selja hlutabréf í Landsbankanum sem engum hefur verið gefinn en annað að selja hlutabréf í auðlindinni sem sægreifarnir hafa fengið frítt, þótt þeir hafi þurft að borga gervieigendum, eða kvótabröskurum, rækilega fyrir snúð sinn. En þeir eru bara ekki eigendur þess sem þeir hafa verið að selja.
Verð því miður að vera sammála Jónasi !

Hér á eftir fer bréf Kristjáns Karlssonar sem hann skrifaði mér eftir síðasta hádegisfund okkar. Það er dagsett 29.9.’98:
“Í ævisögu Jóns Þorlákssonar (bls. 429-431) segir H.H.G. frá þingsályktunartillögu J.Þ. 1930, varðandi Helga Tómasson:
Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera tafarlaust ráðstafanir til þess, að dr. med. Helgi Tómasson verði aftur settur í yfirlæknisstöðuna við geðveikrahælið á Kleppi, etc. J.Þ. flutti þessa tillögu á þingi 1931, en hana dagaði uppi. En upphaflega hafði hann ætlað sér að flytja hana á þingfundi á Alþingishátíðinni 1930. Ásgeir Ásgeirsson forseti Sþ. tók á móti tillögunni og ákvað að leggja hana ekki fyrir þingfundinn.
H.H.G. segir eftir Kristjáni Albertssyni að Jón hafi sagt sér frá hugmyndinni um tillöguna á götu vorið 1930 og Kristján farið til Ólafs “strax” og sagt honum frá þessu.
Nú, ég má fullyrða, þó ég finni það ekki (í svipinn) skrifað hjá mér, að Kristján sagði mér að Jón hefði talað um vantrauststillögu á dómsmálaráðherrann, sem hann ætlaði að bera fram á alþingishátíðinni, vegna frávikningar Helga Tómassonar. Þetta þarf ekki að stangast á við frásögnina í ævisögu J.Þ.
Hvað merkir ráðstafanir í tillögunni? Gat alþingi í raun og veru sett H.T. aftur inn? Hafði það vald til þess? Hinsvegar hafði það vald til að lýsa vantrausti á ráðherrann, sem gæti leitt til þess að hann og jafnvel öll ríkisstjórnin yrði að segja af sér. Hannes Gissurarson talar við Kristján mjög gamlan og þó að minni hans væri yfirleitt frábært, fann ég að það var ekki alveg eins öruggt og áður allra síðustu árin, eins og verða vill. Ég gizka þess vegna á, að Jón hafi breytt tillögunni fyrir tilmæli Ólafs, þó hann hafi ekki viljað falla frá henni. Með þessu móti varð tillagan ekki nándar nærri eins mikil pólitísk sprengja og bein vantraustsyfirlýsing hefði verið, sem auðvitað varð með öllu móti að forðast á sjálfri alþingishátíðinni. Hvað sýnist þér?
Þinn K.K.
Undir lokin hafði nafni minn líka dálitla tilhneigingu til að “milda” frásagnir sínar og lái honum enginn.”

7. október, miðvikudagur

(Sjá orðsendingu Guðjóns til Matthíasar annars staðar hér á síðunni)

Talaði lengi við Jennu Jensdóttur í dag. Hún fer til Svíþjóðar og hittir okkur á bókamessunni í Gautaborg síðar í þessum mánuði.
Jenna er jafn hress og hún hefur verið frá því við kynntumst fyrir 35 árum. Það er ævinlega skemmtilegur gustur af henni. Hún heldur fast við sínar hugmyndir. Undirstöðurnar eru vestfirzk björg. Hún ætlar að skrifa fyrir okkur um aldraða í vetur. Hún er þeirrar skoðunar að fatlaðir séu ekki sízt bitrir vegna þess hve margir aðstandendur þeirra skilja þá eftir á ýmis konar stofnunum. Hlynna lítið að þeim. Telja að ríkið eigi að sjá um þá alfarið. Hún segir að ráða þurfi bót á þessu. Þarna sé mikið verk að vinna fyrir fjölskyldur og einstaklinga í þjóðfélaginu. Fjölskyldurnar hafa skyldum að gegna, ekki síður en þjóðfélagið - og þó líklega miklu frekar. Jenna getur trútt um talað því að sonardóttir hennar og nafna er illa fötluð. Hún segist ekki geta fylgt Ástu tengdadóttur sinni í pólitík. Ásta er varaformaður Alþýðuflokksins. Hún segist ekki yfirgefa hugmyndir sínar og ganga til liðs við það sem hún trúir ekki á. Sjálfstæðisflokkurinn er hennar flokkur. En hún er víðsýn og sér flesta hluti raunsæjum augum.
Jenna tók ástfóstri við bækurnar mínar fyrir hálfum fjórða áratug, það gerði Hreiðar maður hennar einnig. Hann var einstakur. Jenna sagði mér margt, t.a.m. um þá útreið sem ung stúlka, Jóhanna Eiríksdóttir, fékk af hendi Guðjóns Friðrikssonar, sem þá var tímakennari í Ármúlaskóla og bullandi kommúnisti. Ég hef aldrei heyrt þetta áður, en þótti það því athyglisverðara sem það kom mér meir á óvart. Hún segir að Guðjón hafi söðlað um. Hann hafi yfirgefið sósíalismann og sé nú hlutlaus. Ég á eftir að sjá það. Hann hefur skrifað bók um íslenzka blaðamennsku og mér skilst að hún eigi að koma út fyrir jólin á vegum blaðamannafélagsins. Þá reynir á. Mér er til efs að Guðjón Friðriksson standist prófið. En ef það yrði kæmi það skemmtilega á óvart og væri fagnaðarefni.
Jóhanna Eiríksdóttir var ung stúlka þegar ég sá hana fyrst, dóttir Eiríks Helgasonar kaupmanns, sem var mikill vinur Jóhannesar Lárussonar, lögfræðings, frænda míns, enda voru þeir nágrannar í æsku, annar bjó í Suðurgötu 4 en hinn í Tjarnargötu. Jenna var mikill kennari og hún lagði sérstaka rækt við íslenzkar bókmenntir. Hún lét nemendur sína leika sum samtölin mín, aðrir lásu ljóð. Þetta var m.a. flutt á Kjarvalsstöðum á sínum tíma, en ég var þá erlendis og fylgdist ekki með því. Hún sagði að þessu hefði verið mjög vel tekið enda skemmtilegt ævintýri að leiðbeina krökkunum með þessum hætti. Það skyldi þó ekki vera að unnt sé að semja leikrit úr sumum þessum samtölum. Það sagði Jóhannes Helgi við mig fyrir margt löngu. Kannski á það einhvern tíma eftir að koma í ljós.
Jóhanna Eiríksdóttir átti á sínum tíma að skrifa ritgerð um ljóð eftir mig. Hún var þá nemandi Jennu í Langholtsskóla. Jenna sendi hana til mín, ég tók henni vel, leiðbeindi henni eins og ég gat og hún skrifaði mjög fína ritgerð þótt ung væri. Jenna var stolt af henni eins og öðrum nemendum sínum.
Allt þetta vissi ég að sjálfsögðu, en ekki framhaldið.
Jóhanna Eiríksdóttir fór í Ármúlaskóla. Þar var Guðjón Friðriksson ungur tímakennari. Nemendurnir áttu að skrifa ritgerð hjá honum, Jóhanna skrifaði ritgerð um verk mín og Jenna sagði að hún væri upp á 9. Jóhanna fékk ritgerðina úr hendi kennarans og einkunnina 4. Þessi unga stúlka varð agndofa, en þó fremur undrandi. Vinkona hennar skrifaði ritgerð um kommúnisma og fékk 9.
Jóhanna bar sig upp undan þessu við Jennu, fyrrverandi kennara sinn, en hún tók málið upp við Kristján J. Gunnarsson, fyrrum fræðslumálastjóra, sem síðar hefur fengizt við skáldskap og ort nokkrar ljóðbækur, auk skáldsögu; góður maður og gegn. Hann trúði vart því sem hann heyrði, hafði samband við Magnús skólastjóra Ármúlaskóla og kallaði inn allar ritgerðirnar svo unnt yrði að fara yfir þær og bera saman. Þá kom í ljós að ritgerð Jóhönnu var upp á 9. Það kom engum á óvart sem til þekktu.
En upp úr þessu var Guðjóni Friðrikssyni sagt upp og hrökklaðist hann þá til Ísafjarðar. Þar gerði hann sér lítið fyrir og hóf ofsóknir á hendur Jennu og Hreiðari sem barnabókahöfundum. Það voru hefndirnar.
Þá var þar fyrir Sigríður Dúna og flæktist hún í málið með þeim hætti að ekki var á bætandi. En hún áttaði sig síðar og sneri síðar við blaðinu, sagði Jenna, enda hefur hún víst aldrei átt heima í Kvennalistanum.
Þetta upphlaup fyrir vestan mistókst og rann út í sandinn.
Löngu síðar eignuðust Sigríður Dúna og Friðrik Sóphusson barn og sendu þau þá Jennu mynd af barninu og sögðu að það mundi lesa barnabækur Jennu og Hreiðars sér til þroska og ánægju.
Þannig bætti Sigríður Dúna fyrir ísafjarðarævintýrið.
En Guðjón Friðriksson læknaðist af sínu pólitíska ofstæki, sagði Jenna ennfremur, og er nú hlutlaus.
Heldurðu það? spurði ég.
Já, ég held það, sagði Jenna. Ég held ég geti fullyrt það, ég hef fylgzt með því.
Allt var þetta nýnæmi fyrir mér, kom mér á óvart. En það lýsir vel því andrúmi sem áður ríkti á þessu guðsvolaða landi.
Þannig var afstaðan, en við tókum það ekkert alvarlega, bætti Jenna við, því að við vissum að það var ekki verið að ráðast á verk okkar, heldur hugmyndir okkar og skoðanir. Og við fundum sálufélaga í þér, sagði hún ennfremur, því að þú hafðir einnig gert þér grein fyrir þessu og vissir að það var ekki verið að ráðast á verkin þín, heldur ritstjóra Morgunblaðsins.
Allt er þetta nú liðið. En þó má einstaka sinnum heyra dimmt bergmál frá þessari ógnlegu líkaböng sem sífellt var verið að hringja þegar kalda stríðið, hatrið og ofstækið voru efst á baugi.

Síðdegis

Átti samtal við Eirík Guðmundsson, íslenzkufræðing, í tilefni af því að 40 ár eru liðin frá útkomu fyrstu ljóðabókar minnar, Borgin hló. Samtalinu var útvarpað í þættinum Víðsjá. Þeir Ævar Kjartansson gerðu það afar smekklega;  luku þættinum með broti úr Sólhjartarverki Jóns Nordals.
Pétur Már hjá Vöku segir í formála að bókin hefði vel getað komið út í dag. Það gleður mig að hún hefur staðizt tímans tönn. Pétur segir að það séu einungis tvö orð í bókinni sem bendi aftur, það séu Kolbeinshaus og Adlon. Ég nefndi þetta í samtalinu og benti á að nú væri Kolbeinshaus kominn undir Skúlagötuna en hann væri þó enn til í ljóðinu, kannski væri það dæmigert fyrir skáldskap - að hann varðveitir tímann betur en veruleikinn; að minnsta kosti oft og tíðum. Þess vegna verður Kolbeinshaus skáldskaparins langlífari en Kolbeinshaus veruleikans.
Ég minnti einnig á að samtíminn væri alltaf að leita að einhverjum Sigurði Breiðfjörð. Samt orti Sigurður afar fá góð kvæði, en rímurnar voru enn í tízku, fullar af leirburði. Ég sagðist ekki eltast við það að verk mín nytu almenningsheilla á svipuðum forsendum og rímurnar í gamla daga. Estetískur smekkur er ekki það sem ræður tízku og almenningsáliti, ef svo mætti segja. Þetta álit leitar að einhvers konar samnefnara, við getum kallað hann lýðræðislegan samnefndara. Og það er þessi samnefnari sem verður ævinlega ofaná þegar verðlaunanefndir koma saman til að ákveða, hvaða listaverk skuli verðlaunuð. Ég hef tekið þátt í slíkum nefndum og veit að það er þessi tiltölulega hlutlausi lýðræðislegi samnefndari sem úrslitum ræður um niðurstöðuna. Það er hvorki verið að leita að frumleika né nýjum víddum, hvað þá þeirri estetísku forsendu sem hlýtur að ráða úrslitum um það, hvort listaverk heldur velli eða ekki.
Tímans tönn er ekkert barnaleikfang og þegar kemur að gagnrýnendum, minna þeir oft og einatt á mývarginn.
Ég hef víst minnzt á það áður,að þegar ég var kúskur á Vatnsskarði upplifði ég hvað hann er hvimleiður. Maður áttar sig aldrei á hvar mýið kviknar.
Þegar við fórum í Dimmuborgir í sumar voru útlendingarnir með net yfir höfuðið.Ég undraðist þetta, hélt það væri enginn mývargur í Dimmuborgum, einungis við vatnið. En þegar við komum inn í borgirnar var nánast ólíft fyrir mýi. Við bönduðum því frá okkur og allt gekk að óskum. Við gátum notið þessa náttúruundurs, að sjálfsögðu. En það hefði verið viturlegt að koma sér upp neti eins og útlendingarnir. Gagnvart þeim sjálfboðaliðum, sem virðast hafa þá heilögu köllun einna helzt í lífinu að amast við verkum manns, væri ágætt að koma sér upp slíku neti. Ég hef þó ekki gert það, ekki frekar en hestarnir. Ég hef skoðað Dimmuborgir, netlaus.
En hvergi hef ég upplifað eins djöfullegan mývarg og á fjallinu við Langá. Hann var engu betri en fjarðafokið, sællar minningar!

8. október, fimmtudagur

Séra Ólafur Skúlason talaði við mig í morgun um kirkjuþing sem hefst upp úr helgi. Hann langar til að segja nokkur orð um nýja löggjöf kirkjunnar sem hann átti þátt í að móta.
Við töluðum einnig um boðið hjá Sverri Sigfússyni sællar minningar. Hann sagðist hafa hitt Davíð Oddsson skömmu síðar. Það hafi verið í boði fyrir einhverja kínverja. Davíð gekk að honum og sagði, Ertu búinn að jafna þig ? Já, séra Ólafur taldi sig vera búinn að ná áttum . En hann sagðist ekkert hafa botnað í því sem  gerðist  í boðinu eða nauðsyn þess.
Jú, sagði Davíð, þetta var nauðsynlegt. Þú sást hvaða afleiðingar þetta hafði. Í næsta Reykjavíkurbréfi var minnzt á Reykjavík, taldar upp framkvæmdir þar og hús sem ég hef átt aðild að, þetta var aðferð Matthíasar til að segja að við værum vinir.
Jæja, sagði séra Ólafur og botnaði enn minna í þessari “söguskýringu”.

Það er rétt að í Reykjavíkurbréfinu 13. júní síðastliðinn er m.a.  minnzt á Reykjavík og húsbyggingar í höfuðborginni. En það voru bara engin tengsl milli þessara skrifa og kvöldboðs Sverris. Auk þess skrifaði ég ekki þetta Reykjavíkurbréf!
En það er athyglisvert að sjá hvernig lesið er í “skilaboð” Morgunblaðsins, sérstaklega þegar ekki er um nein skilaboð að ræða!! En þetta er svo sem eftir öðru. Ef Morgunblaðið segir eitthvað, getur allt orðið vitlaust. Ef það segir ekkert, getur einnig allt orðið vitlaust.
En ég tek eftir því að öllum er sama hvað stendur í leiðurum DV.
Össur Skarphéðinsson skrifaði um daginn um hugmyndir Davíðs Oddssonar um lausn kvótadeilunnar. Hann skrifaði af velþóknun.
Tveimur eða þremur dögum síðar  skrifar Jónas Kristjánsson af fullkominni vanþóknun um þessar sömu tillögur!
Öllum var sama.
Enginn sagði orð.
Ég veit ekki hvað hefði gerzt ef þetta hefði staðið í Morgunblaðinu.

Davíð Oddsson vill víst láta taka upp Geirfinnsmálið, talar um dómsmorð í tengslum við það. Held ekki að hann hafi nein ný gögn í höndunum, ekki frekar en við hin. En þetta er þó athyglisvert. Hann sagði við Styrmi að Haraldur Henrýsson hefði verið forseti Hæstaréttar þegar óskað var endurupptöku málsins. En Hæstiréttur hafnaði því.
Hann sagði að Haraldur Henrysson hefði verið vanhæfur vegna þess að hann var einn af sakadómurunum í Geirfinnsmálinu. Þannig hafi bæði hann og meðdómendur hans í Hæstarétti verið vanhæfir til að fjalla um málið.
Ég get vel fallizt á það.

Kvöldið

Hef verið að lesa ritgerð Sigurðar A. Magnússonar um Louisu Matthíasdóttur, frænku mína, en hún kemur í bók um hana og list hennar á vegum Nes-útgáfunnar sem Einar Matthíasson, frændi okkar, veitir forstöðu. Að mörgu leyti fróðleg lesning, en losaraleg.
Hef einnig verið að lesa nýja ævisögu Styrons og sé þar að höfundur leggur miklu meira upp úr vináttu þeirra Athur Millers en efni standa til. Ég held ekki að Styron hafi borið þann hlýja hug til Millers sem fram kemur í þessari ævisögu, að minnsta kosti talaði hann á annan veg um Miller og verk hans í mín eyru, þegar við hittum hann í Holti á sínum tíma. Því hef ég lýst á þessum blöðum.
Hef einnig verið að lesa háskólafyrirlestra Guðmundar G. Hagalín en um þá fjallar Þröstur Helgason í næstu Lesbók sem verður að mestu leyti helguð 100 ára afmæli skáldsins. Las m.a. kaflann um sjálfan mig og Hannes Pétursson en við vorum báðir staddir á þeim fyrirlestri með sögulegum afleiðingum.
Við höfðum farið í Naustið þá í hádeginu, sátum þar lengi dags, en tókum svo ákvörðun um að fara á fyrirlesturinn sem aldrei skyldi verið hafa, svo kenndir sem við vorum.
Fyrirlesturinn var haldinn í fyrstu kennslustofu Háskólans og var stofan full af fólki. Við komum dálítið of seint en fengum sæti í miðjum sal.
Hannes var með stóran poka í fanginu og sleppti honum ekki við sig, hafði fullt í fangi með að gæta hans. Í honum voru 5 flöskur af rauðvíni sem við höfðum fengið í nesti í Naustinu og svo óheppilega vildi til að Hagalín var einmitt að fjalla um okkur, þegar við komum.
Við Hannes hlustuðum á fyrirlesturinn og vorum farnir að gera athugsemdir við ummæli fyrirlesarans, áður en langt um leið. Hagalín lét það ekkert á sig fá, en hélt áfram að tala um kvæðin. Áheyrendurnir sperrtu eyrun en þegar lestri var lokið gekk Hagalín út án þess  yrða á okkur og strollan á eftir.
Við Hannes leituðum okkur athvarfs í bókasafninu og hófum þar að dreipa á rauðvíninu; töluðum margt saman og í engum hvíslingum.
Þá tók einhver upp á því að hringja í lögregluna og kom hún að vörmu spori. Hún handtók Hannes þegar í stað, en ég reiddist þegar ég sá uppgjöf hans og flaug á lögregluþjónana sem höfðu mig undir og járnuðu mig þarna á gólfi bókasafnsins. Síðan vorum við færðir út í anddyri og þar stóðu stúdentar með öllum veggjum eins og lýs í saumi og horfðu agndofa á, þegar skáldin voru flutt út úr sínum gamla skóla.

Ég hrópaði þá, Lengi lifi fjallkonan! og mér er ekki grunlaust um að þá hafi stúdentar skammazt sín fyrir að hafa sigað lögeglunni á okkur Hannes.

En hvað sem því leið þá vorum við fluttir niður á lögreglustöð, en varðstjórinn bað okkur afsökunar á meðferðinni og sleppti okkur þegar í stað.

Að því búnu fórum við heim til  Elísabetar og Kristjáns Karlssonar að tala meira um skáldskap. Það fór allt vel fram. En Eykon fékk spurnir af þessu og hringdi í Styrmi fullur af angist og kvíða yfir þeirri ógæfu sem nú væri skollin á. Vikublöðin heimtuðu að vísu með stórum fyrirsögnum að formaður þjóðhátíðarnefndar segði af sér þegar í stað vegna ölvunar á almannafæri, en enginn tók neitt mark á því. Það hvarflaði ekki að mér annað en að leiða þjóðhátíðina til lykta - og það með glæsibrag!!
Nokkru síðar heyrði ég þær fréttir úr herbúðum stúdenta að lotning þeirra fyrir skáldunum tveimur hefði aukizt um allan helming, en þó einkum fyrir ritstjóra Morgunblaðsins og mátti þá oft heyra sagt,
Hann er þá mannlegur, helvítið !!
Ég tel því að þessi heimsókn í háskólann hafi bæði verið tímabær og vel heppnuð og til þess fallin að auka fremur orðstír okkar en draga úr honum.
Þetta mun vera í eina skipti sem lögreglan hefur stígið fæti inn fyrir háskólann og var það vel til fallið að það skyldi vera  af  svo hátíðlegu tilefni. Það hefur áreiðanlega aldrei gerzt í sögu skólans, hvorki fyrr né síðar, að tvö skáld hafi setið undir fyrirlestri um þau sjálf og gert athugasemdir við ummæli fyrirlesarans.
Þegar ég nú hef lesið fyrirlestur Hagalíns skil ég að vísu ekki við hvað við gerðum athugasemdir, svo lofsamlegur sem hann er. Hagalín gaf ekkert tilefni til neinna athugasemda, nema síður væri. Um mig sagði hann m.a.:
“Þá kem ég að lokum að Matthíasi Johannessen, sem ég tel sérkennilegasta og um leið margslungnasta skáld okkar og um leið það örlyndasta og djarfasta - að Jóhannesi úr Kötlum látnum. Viðbrögð hans við lífinu og dauðanum eru hvort tveggja æsileg og stundum allt að því óráðskennd - og jafn hversdagslega og eðlilega jákvæð og hjá bóndanum, sem hamast við að bjarga þurru heyi undan yfirvofandi helliskúr eða formanninum sem bíður lags við brimlendingu og fylgir síðustu ólagsbárunni í guðsnafni upp í vörina, þar sem konur og börn bíða bænda sinna og sona í ofvæni... Hann vitnar og víða í ljóðum sínum beint og óbeint til sígildra íslenzkra bókmennta, eddukvæða Íslendingasagna, þjóðkvæða, vikivaka, Hallgríms Péturssonar - og þá einnig til þeirra heimsbókmennta, sem Biblían hefur að geyma.
Matthías yrkir bæði rímað og órímað, en meira er samt af órímuðum ljóðum í bókum hans. Það er einkum þegar hann yrkir meitluð smáljóð um íslenzka náttúru - án þess að skírskota til annars en heillandi áhrifa hennar að hann grípur til hins gamalkunna forms, og sannarlega fer þá gjarnan skáldgáfa hans á kostum.”
Því til sönnunar las Hagalín allt kvæðið Fögnuður. Síðan sagði hann ennfremur:
“Það ríkasta í eðli Matthíasar er ástríðuþrungin tilbeiðsla hans á fegurð og gróanda, hvar og hvernig sem þetta tvennt og tvíeina birtist. Hann dáir jafnt liti og línur sem ljóðtöfra, jafn einkennilega og ófyrirleitna orðsnilli sem fágaðan og hnitmiðaðan talanda. Hann er frábærlega næmur á litbrigði skapandi gerðar, hvers konar listamanna, hvað sem skilja kann hann og þá að í skoðunum og tjáningu. Því hafa til orðið hin merkilegu viðtöl hans við jafn ólíka menn og Þórberg Þórðarson, Tómas Guðmundsson, Ásmund Sveinsson og Stein Steinar, Jóhannes úr Kötlum, Pál Ísólfsson og Jóhannes Kjarval. Hjá öllum þessum listamönnum hefur hann fundið hina dásamlegu kveikju hins skapandi anda - og einnig í viðtölum við ýmsa aðra, suma, sem enginn hefur búizt við að neitt sérstætt eða merkilegt væri við. Það er svo einmitt hin ástríðuþrungna tilbeiðsla hans á hinum skapandi mætti, hvort sem hann birtist hjá mannsins barni eða í dásamlegu ríki náttúrunnar, sem veldur þeirri hamförum líku skapólgu, er grípur hann, þegar hann hugsar til hinna eyðandi afla, sem ekki verður einu sinni sagt að þjóni eðlilegum, líkamlegum dauða, heldur séu sprottin af djöfullegum hvötum einhverjar ófreskju til eyðingar alls sem hinn miklu meistari tilverunnar hefur skapað. Og til hverra er svo að leita bjargar annars en þess meistara? Það er það, sem Matthías gerir í miklum þorra ljóða sinna í Fagur er dalur. En hann glímir ekki við guð, eins og Jakob forðum, hann tilbiður hann heldur ekki, fórnandi höndum og veifandi reykelsiskerum. Hann talar til hans sem föður eða eldri bróður, jafnvel félaga sem eigi með honum sameiginlegt vandamál til úrlausnar og eigi umfram alla aðra jákvæða lífsunnendur máttinn til bjargar... Það var í Jörð úr ægi, sem ég fann þann ugg og ótta, sem ekki varð um villst, sem alls ekki var unnt að hugsa sér að væri skáldleg gervitilfinning. Skáldið sá raunverulega í anda tortímingu allra dásemda náttúrunnar og alls, sem manninum er kært, ástarinnar, óvitans við móðurkné, vonarinnar um framhald lífsins, þar sem öfl gróandans ríktu:
Hlustum, hlustum, kemur gustur
af nýrri ísöld, sem læðist að okkur
á skriðjöklaskóm: vindöld, vargöld...”

Þá vitnar Hagalín í kvæði í Hólmgönguljóðum, Við erum börn að leik í garði þínum..., og ennfremur: Orð þitt blá lind á himni... sem einnig er tilvitnun í Hólmgönguljóð, ef ég man rétt. Og hann klykkir út með þessum orðum:
“Það er engin sýndarmennska, engin gervimennska í viðhorfum Matthíasar við skaparanum, við tilverunni - eða í ást hans á fegurð landsins, og ég ætla að leyfa mér að ljúka þessu skrafi með tveimur erindum, sem helguð eru Þingvöllum: “ - og vitnar að lokum í ljóð með þessum upphafslínum: Hér rísa hæst þín fjöll og fylgja þér...
Þegar allt þetta er haft í huga er svosem ekki hægt að ímynda sér hvaða athugasemdir ungt skáld gat gert við svo jákvæðan og vináttusamlegan fyrirlesara, eða kannski ætti ég fremur að segja andlegan leiðtoga, svo oft sem við Hagalín höfum rætt saman og svo náið samstarf sem við höfum átt, enda skrifaði ég um Kristrúnu í Hamravík prófsritgerð mína í málfræði hjá Halldóri Halldórssyni prófessor og fékk pre fyrir vikið!
Guðmundur G. Hagalín var lengi ritdómari við Morgunblaðið og áttum við margt saman að sælda. Hann sýndi mér oft mikla vináttu og hlýleika og hikaði ekki við að skrifa um mig góða ritdóma og stórar greinar.

11. október, sunnudagur

Í Morgunblaðinu í dag er samtal Guðrúnar Guðlaugsdóttur við Magdalenu Thoroddsen sem vann á Morgunblaðinu á sínum tíma og tíundar það.
Þetta er snyrtilegt og að mörgu leyti fróðlegt samtal en þó sýnist mér hún gleyma Bjarna Sigurðssyni sem var erlendur fréttamaður, síðar prestur á Mosfelli, og Sigurlaugu Bjarnadóttur og Þorsteini Thorarensen sem kynntust í störfum sínum við Morgunblaðið og mér er nær að halda að hafi verið á ritstjórninni um það leyti sem Magdalena vann þar.
Mér finnast þessi orð Magdalenu athyglisverðust vegna þess að þau lýsa því hvernig litið var á Morgunblaðið á þeim árum sem ég starfaði þar sem blaðamður, þ.e. á sjötta áratugnum, og svo auðvitað hvílíkur munur hefur verið á blaðinu þá og nú, en Magdalena segir: “Þegar Sigurður (Bjarnason frá Vigur) réð mig sagði hann við mig:
“Það eina sem ég fer fram á við þig er það að þú skrifir ekki á móti sjálfstæðismönnum í Morgunblaðið - takir ekki afstöðu á móti sjálfstæðismönnum”.
Það gerði ég náttúrulega aldrei og það var ekki erfitt að standa við þetta loforð, ég var ekki svo pólitísk. Sama var uppi á teningnum þegar ég var á Tímanum. Mér fannst ég raunar frjálsari á Morgunblaðinu en á Tímanum.”
Þannig var umhorfs í blaðaheiminum á þeim árum og margt hefur færzt í annað horf. Hvað pólitík snertir var Morgunblaðið varla barn í brók á þessum árum, en nú er það líklega komið allvel til ára sinna - og er það vel. Nú dettur engum í hug að spyrja  um stjórnmálaskoðanir blaðamanna enda höfum við ekki hugmynd um þær. Aðalatriðið er að menn starfi við Morgunblaðið af óhlutdrægni og heilindum og skili eins góðri og faglegri vinnu og efni standa til. Þróunin hefur því orðið í rétta átt hvað þetta snertir. Enda margviðurkennt fyrir löngu.
Annað þótti mér dálítið athyglisvert, það var þegar Magdalena lýsir mismuninum á Valtý Stefánssyni og Bjarna Benediktsson. Hún segir: “Valtýr Stefánsson var að hætta störfum sem ritstjóri um það leyti sem ég kom að blaðinu, hann var ósköp þægilegur, ef hann þurfti að láta gera eitthvað fyrir sig, þá sagði hann sem svo: “Heldurðu að þú gætir hjálpað mér? Heldurðu að þú myndir nokkuð bjarga mér um þetta eða hitt.” Bjarni Benediktsson hafði annan hátt á. Hann sagði: “Þetta átt þú að gera. Þessu átt þú að skila klukkan þetta og þetta.” Hann skipaði. Valtýr bað.”
Hvað sem öðru líður, þá er þetta með þessum hætti í minningu Magdalenar og hef ég enga löngun til að hafa á því aðrar skoðanir. Bjarni krafðist meiri aga en Valtýr, enda var hann sjálfur mikill verkmaður og á bezta aldri, en Valtýr farinn að missa heilsuna og átti í miklum erfiðleikum með alla stjórnun. Hann kom þó dag hvern niður á blað en undir það síðasta sat hann inni í skrifstofu minni löngum stundum og við röbbuðum saman um blaðið og setti ég hann inní það sem efst var á baugi.
En það er ekki rétt hjá Magdalenu að Valtýr hafi verið að hætta ritstjórnarstörfum sínum um það leyti sem hún kom að blaðinu, en það var haustið 1953. Þá var Valtýr við nokkuð sæmilega heilsu, en hrakaði mikið uppúr miðjum áratugnum. Hann átti eftir að vera ritstjóri Morgunblaðsins í heilan áratug eftir að Magdalena kom þar til starfa. Hún lét af störfum þegar hún gifti sig 1958 og þá var Valtýr enn aðalritstjóri Morgunblaðsins ásamt Bjarna Benediktssyni þótt ekki hefði hann neina stjórnun með höndum eins lélegur til heilsunnar og hann var orðinn. En hann fylgdist samt með öllu á blaðinu eftir beztu getu.
Ritstjórar voru þá Einar Ásmundsson og Sigurður Bjarnason sem Magdalena hrósar fyrir góðvild og skilning í sinn garð.
Mér þótti vænt um það þegar Magdalena nefnir að leiðir okkar hafi aftur legið saman, þegar hún kom í háskólann löngu síðar, en um það kemst hún svo að orði:
“Ég lagði stund á bókmenntir og var við það nám í fimm ár. Þar lágu leiðir okkar Matthíasar Johannessen saman aftur, hann kenndi mér þar, m.a. á námskeiði um Jónas Hallgrímsson. Ég hef sjaldan skemmt mér betur. Matthías er svo góður kennari. Mér gekk vel í náminu en ég ætlaði mér ekki neitt sérstakt með því...” Þetta eru vinsamleg orð af hennar hendi, en ég á einhvers staðar í fórum mínum skriflegar einkunnargjafir sem nemendur mínir gáfu mér eftir kennsluna. Ég hef sjaldan verið eins stoltur og þegar ég fékk þær sendar frá háskólanum. Ég hafði líka sérstaka ánægju af kennslunni og þegar ég talaði um Jónas Hallgrímsson varaði ég nemendur mína við því að taka mark á öllum heimildum - nema honum sjálfum! Allt of margir hefðu haft tilhneigingu til þess. Jónas Hallgrímsson er bezta heimildin um Jónas Hallgrímsson og á þeim forsendum hef ég skrifað um hann, kvæði hans, hugmyndir og trúarlíf, en ekki á forsendum alls kyns ummæla um hann, margra misvísandi; til að mynda þegar fullyrt hefur verið að hann hafi verið algyðistrúar. Halldór Laxness féll jafnvel í þessa gildru.

Þegar ég færði það í tal við Tómas Guðmundsson á sínum tíma að við skrifuðum bók um ljóðlist og hugmyndir hans um hana, hafði ég fyrst og síðast í huga að slíkt rit gæti orðið harla dýrmætt með tímanum því að enginn heimild um Tómas Guðmundsson væri betri en hann sjálfur. Það ætti við hann hið sama og um Jónas. Og eins og ég get um í formála fyrir bókinni hafði ég það ekki sízt að leiðarljósi, hve mikilvægt það hefði verið ef einhver vina Jónasar hefði tekið sig til og skrifað með honum hugleiðingar hans um ljóðlist - og þá ekki sízt hans eigin kvæði. Ég hafði engan annan metnað en þann að til yrðu slíkar hugleiðingar Tómasar Guðmundssonar og saman gætum við komið því til leiðar. Slíkt hefði engum dottið í hug á tímum Jónasar.
Mér hefur alltaf fundizt einhver silfurþráður milli Jónasar og Tómasar og af þeim sökum nefndi ég þá í sömu andrá í fyrrnefndum formála. Það skiptir engu máli hvernig slíkt verk verður til, en öllu máli, hvað í því stendur. Ef Jónas Hallgrímsson hefði á sínum tíma aðstoðað einhvern lærisveina sinna, vina eða samstarfsmanna, til að mynda einhvern fjölnismanna, við samningu slíkra hugleiðinga um hans eigin verk, hefði það orðið ómetanlegur fjársjóður. Engum hefði dottið í hug að Jónas hefði ekki haft hönd í bagga með slíkum skrifum, svo nákvæmur og kröfuharður fagurfræðingur sem hann var. Hið sama gilti að sjálfsögðu um Tómas Guðmundsson. Það hefði enginn getað sett saman bók um ljóð hans og hugmyndir án þess hann ætti sjálfur hlut að máli.
Það vissi ég í upphafi.
Það var mikilvæg ákvörðun, þegar Tómas féllst á að semja slíkt rit með mér og eftir engu að bíða að taka til hendi. Það var líka gert, án hiks og fyrirvara. Ég átti hugmyndina og nú þurfti ég að ýta henni úr vör.

 Tómas féllst á að við töluðum mikið saman, síðan skrifaði ég frumritið að samtölum okkar, hann fékk það í hendur og bætti um betur; að sjálfsögðu.

(Innskot síðar:
Segi eins og Halldór Kiljan í bréfi til Jóns Helgasonar:
“Ég held það hafi alltaf verið einn af skárri kostum mínum sem rithöfundur,að ég er ævinlega fús til,og meira að segja áfjáður í,að láta þá menn sem ég treysti krota eins mikið og þeir lifandi þola í handrit hjá mér;og það er vegna þess að ég hef margreynt að handritin stórskána við slíkar aðgerðir”).

Við  Tómas töluðum saman bæði í skrifstofu minni á Morgunblaðinu, en þó einkum heima hjá þeim Bertu og vorum þá einir í stofunni, þar sem mynd Gunnlaugs Blöndals af Tómasi trónaði á einum veggnum. Ég sat og punktaði eitt og annað hjá mér, Tómas gekk um gólf og svaraði spurningum mínum.  Þegar heim kom þjappaði ég samtalinu saman og gætti þess að hafa einungis eina spurningu í hverjum kafla, því að þetta átti ekki að vera persónulegt samtal, heldur hugleiðingar í einskonar ritgerðarformi um skáldskap - og þá einkum ljóð Tómasar og að sjálfsögðu viðhorf hans til ljóðlistar.
Ég held ekki að Tómas hafi haft verulega trú á því að þessi samtöl ættu eftir að verða barn í brók, en þegar að því kom jókst áhugi hans til muna og að því kom að mér þótti um tíma eins og hann hefði mestan áhuga á því að losna við allar spurningar og annað yrði ekki eftir en hugleiðingar hans sjálfs. Það var nokkuð langt síðan Tómas hafði sent frá sér skáldskap og ég held það hafi verið honum ævintýri líkast að vinna að þessari bók með mér og ekki laust við að mér fyndist um skeið eins og hann hefði mestan áhuga á því að mín yrði helzt að engu getið. Ég hafði svo sem ekkert á móti því, en þá hefði yfirbragð bókarinnar orðið með allt öðrum hætti en raun varð á. Margt sem annars gæti orðið hálfhégómalegt verður eðlilegt og óhátíðlegt sem andsvar við spurningum. Að því kom að sjálfsögðu að Tómas gerði sér grein fyrir þessu og bókin varð með þeim hætti sem raun ber vitni.
En því er ekki að neita að þessi reynsla tók talsvert á taugarnar um tíma, enda vorum við Tómas ekki orðnir þeir vinir um þetta leyti sem við síðar urðum. Hann hafði um nokkurt skeið talsverðan fyrirvara á mér vegna vináttu okkar Steins Steinars, en sá fyrirvari hvarf hægt og sígandi og eftir að Svo kvað Tómas kom út hvarf hann með öllu. Upp úr því las hann öll mín kvæði yfir og var mér elskulegur og tillitssamur leiðbeinandi.
Ég hef áður getið þess í Helgispjalli hvernig þessu starfi var háttað og leyfi mér að vitna í það en í Eintali á alneti, 65. bls. segir m.a. svo:
“Í Svo kvað Tómas eru samtöl okkar þurrkuð út, en efninu þjappað saman í eitt svar við einni spurningu. Tómas allsráðandi og fer vel á því enda ekki fjallað um annað en skáldskap. Lítil sem engin persónuleg reynsla eða upplifun. Engin mannlýsing. Textinn einskonar smáritgerðir, enda til þess ætlazt. En upphafið, hreyfiaflið, löng samtöl okkar og skoðanaskipti; mörg viðtöl í samþjöppuðu formi; einskonar súputeningur. Bókin er eiginlega tilraun í þessa átt, það var við hæfi, þegar Tómas á í hlut,  að leggja ekki áherzlu á neitt annað en hugarheim hans og skáldskap einsog vikið er að í formálanum. En það er auðvitað á kostnað fjörs og fjölbreytni. Sami háttur var hafður á þegar ég skrifaði bókina um Sverri Haraldsson listamálara sem var sérstæður og eftirminnilegur samstarfsmaður.
Þannig urðu þessar bækur ekki tilviljun einber, heldur úthugsuð vinna með form og texta; og svo andrúm sem skipt getur sköpun... Þegar tveir ráðríkir og fyrirferðarmiklir menn eiga í hlut, geta orðið allmiklar sviptingar í samtölum. Í þessu nána samstarfi er hætta á mistökum sem leyna sér ekki í textanum, jafnvel einhverjum árekstri. Spyrillinn verður að vera kurteisislega ýtinn, en umfram allt nærgætinn. Hann verður jafnvel að tileinka sér auðmýkt og vera reiðubúinn til að fórna sér og leyfa spyrðlinum að blómstra, enda er til þess ætlazt... Þó er rangt það eigi alltaf við að spyrillinn skrifi sig út úr samtalinu, því hlutverk hans sem söguritara getur verið harla mikilvægt í verkinu sjálfu, ef hann skiptir þá einhverju máli á annað borð. Uppkastið á aldrei að vera lokaorðið, heldur upphaf langrar torsóttrar leiðar.”
Þetta er úr hugleiðingum mínum í Helgispjalli á árunum 1995-’96, en þar segir ennfremur vegna þessara ummæla Sigfúsar Daðasonar í minningagrein um Sverri Haraldsson:
“Annars er textinn í listaverkabók Sverris ekki síður athyglisverður fyrir það hve fullkomlega bókmenntalegur og jafnvægisfullur stíllinn er á löngum köflum. Ég veit raunar ekki hvernig þeir Sverrir og Matthías Johannessen settu saman þennan texta, en ég hygg þó að mark Sverris sé þar auðgreint.”
Allt er þetta heldur ánægjulegt en því má bæta við að ég þurrkaði samtöl okkar Sverris út úr þessu verki því ég taldi að það ætti að vera eins nálægt ljóðrænni frásögn og unnt var. Að því leyti sótti ég fyrirmyndina í samtalsbók okkar Tómasar Guðmundssonar, Svo kvað Tómas, sem hafði komið út í desember 1960. Þar eru öll samtöl einnig þurrkuð út en eftir stendur einungis sá kjarni sem úr þeim var unninn.”
Svo mörg eru þau orð og læt ég þau nægja til skýringa á því, hvernig þessi rit voru unnin og því takmarki sem að var stefnt.
Bókin um Sverri Haraldsson var skrifuð að beiðni Páls Vígkonarsonar útgefanda og munaði litlu að hún yrði aldrei prentuð því að handritið fauk út um gluggann á bílnum mínum við Njarðargötu og þurftum við feðgar, Haraldur og ég, að týna það upp í Hljómskálagarðinum í roki og rigningu og það tókst vegna þess að blöðin festust í trén og fóru ekki lengra.
Annað eintak af samtölunum var ekki til.
Ég hafði vélritað þau sjálfur á ritvélina mína og fór með þau til Sverris, svo hann gæti lesið handritið yfir, en gætti þess ekki að taka af því afrit.
Ég tel það hafi verið gæfulegt að trén í Hljómskálagarðinum skyldu hafa bjargað þessu handriti, ekki vegna minnar vinnu eða þeirra ómældu stunda sem við Sverrir töluðum saman, heldur vegna þess að Sverrir Haraldsson var sérstæður og merkilegur listmálari.

15. október, fimmtudagur

Við Styrmir áttum langt og gott samtal við Friðrik Sophusson. Hann hefur breytzt verulega eftir að hann hætti í pólitík. Hann er miklu opnari, frjálsari. Hann sagði okkur margt úr reynslu sinni sem ég ætla ekki að tíunda hér. Merkilegt hvernig við höfum upplifað sömu atburðina hver með sínum hætti; Birgir Ísleifur upplifði það t.a.m. á sínum tíma að Geir Hallgrímsson hefði svikið hann, þegar Geir hætti. Hann hafi verið búinn að tala við Þorstein Pálsson um að hann tæki við Sjálfstæðisflokknum án þess segja Birgi það. Kristján Ragnarsson hafi farið um alla Austfirði að agitera fyrir Þorsteini. Þorsteinn hafi ekki sagt Davíð Oddssyni frá þessari fyrirætlan sinni, en gert hafi verið ráð fyrir því, að þeir gerðu upp sín á milli hver tæki við Sjálfstæðisflokknum. Davíð hafi mislíkað þetta og því talið sig í fullum rétti, þegar hann bauð sig fram gegn Þorsteini síðar og felldi hann á landsfundi.

Ekkert skal ég um þetta segja en hitt þykist ég vita, að Friðrik Sophusson hafi verið utan við þetta, þar sem hann var einn af helztu stuðningsmönnum Gunnars Thoroddsens og var fremur á hans vegum en Geirs Hallgrímssonar.
Geir vildi ekki styðja Birgi Ísleif því að hann taldi að Birgir, Friðrik Sophusson og  Ólafur G. Einarsson hefðu reynt að grafa undan sér eftir að hann fór hraksmánarlega út úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í nóvember 1982, en þá lenti hann í 7. sæti og var að hugsa um að segja af sér. En það varð þó ekki. Um það hef ég fjallað annars staðar, hygg ég, því að ég átti að öllum líkindum verulegan þátt í því, að svo fór sem fór.

Það var svo 1983 sem Geir talaði við Davíð og Þorstein. En líklega  hefur Davíð ekki verið eins mikið inni í myndinni eins og nú er sagt og Þorsteinn vegna þess að hann var borgarstjóri í Reykjavík og hafði mörgum hnöppum að hneppa.

Geir talaði einhvern tíma þetta sumar um það við Styrmi að hann tæki við af sér, en Styrmir hafnaði því. Sagði að það væri út í hött. Geir kom aftur að því síðar, en Styrmir sat við sinn keip og hafnaði því, enda gæti hann það ekki af persónulegum ástæðum. Eftir það fór Geir eitthvað að gæla við þá hugmynd að hann héldi áfram, sneri sér m.a. til okkar Styrmis og Björns Bjarnasonar, en við gáfum lítið út á það, þótt við teldum það ekki hyggilegt. Hann hvarf svo frá þeirri hugmynd og Þorsteinn tók við flokknum á næsta landsfundi, haustið 1983.

En allt var þetta mikil gerjun og sýnist vafalaust sitt hverjum. Friðrik Sophusson telur sig ekki hafa verið neinn þátttakanda í þessum leik, en við erum aftur á móti þeirrar skoðunar, að hann hafi einkum gert hosur sínar grænar við Gunnars-liðið. Þeir Birgir telja sig alsaklausa að því að hafa reynt að grafa undan Geir eftir fyrrnefnt prófkjör og má það vel vera, ég veit það ekki.
Sumt af þessu hefur áreiðanlega verið byggt á misskilningi eins og verða vill í pólitík. En allt er þetta fróðlegt íhugunarefni og nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að maður hefur ekki endilega skilið alla hluti rétt. Þetta er afstæður leikur og fer eftir því, hvaðan maður fylgist með. Við Styrmir fylgdumst með úr herbúðum Geirs. Við höfum því ekki séð atburðarrásina af kögunarhóli Birgis Ísleifs, Ólafs G. Einarssonar eða Friðriks Sophussonar.
Mér þótti sú áherzla merkileg sem Friðrik Sophusson lagði, eftir mikla reynslu í fjármálaráðuneytinu, á það, að nauðsynlegt væri að gera starfslok manna sveigjanlegri en verið hefur. Við séum að vísu vel settir í þeim efnum miðað við mörg önnur lönd, en ekki sé hyggilegt að allir hætti um sjötugt og ekki víst að þjóðfélagið hafi efni á því til frambúðar. Auðvitað er þetta hárrétt. Við eigum að hætta að bunka fólki í sama hyl, þegar það kemst á svonefndan eftirlaunaaldur, án þess hafa í huga þrek þess og heilsufar. Landlæknir er einnig þessarar skoðunar og hygg ég að hér sé verðugt verkefni til athugunar. Mætti gera á því könnun nú þegar umfjöllun Morgunblaðsins um gagnagrunnsfrumvarpið og hálendið er að baki, en þessi mál hafa fengið mjög góðan hljómgrunn. Heilbrigðisráðuneytið hyggst veita blaðamönnunum sem unnu gagnagrunnsfrumvarpið fyrir Morgunblaðið sérstaka viðurkenningu næstkomandi miðvikudag. Það er fagnaðarefni.
Að lokum töluðum við um Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson og þá einnig Geir H. Haarde og Björn Bjarnason, en Friðrik er sannfærður um að Geir H. Haarde taki við af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hann telur ekki að Björn Bjarnason fari fram gegn honum án stuðnings Davíðs Oddssonar, en sá stuðningur mun víst ekki enn liggja fyrir,hvað sem verður.
Samstarfið milli Davíðs og Halldórs er víst með ágætum og líklega munu virkjunarframkvæmdir og álver á Austurlandi geta orðið helzta forsenda þess að núverandi ríkisstjórn haldi áfram eftir næstu kosningar. Vinstri menn og svokallaðir náttúruverndarmenn ættu að gera sér grein fyrir því. Friðrik segir að bezt sé að mótmæla Davíð strax, ef maður sé annarrar skoðunar, því annars geti hann sagt, Ja, þú hefur ekki komið með þetta áður!
Friðrik segist hafa notað þessa aðferð, t.a.m. í umræðum um fiskveiðistjórnunina. Davíð hafi í fyrstu sagt að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af því máli, en síðar hafi hann hlustað á gagnrýni Friðriks og vakið athygli á henni.
Friðrik segir að Davíð taki mikið mark á móður sinni og auk Hannesar Hólmsteins hlusti hann nokkuð mikið á Magnús Óskarsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og kannski einhverja fleiri sem ég hef gleymt. En hann hefur góð tök á Halldóri Ásgrímssyni og samstarf þeirra er að mestu snurðulaust, líklega oftast með ágætum, að dómi Friðriks.

17. október, laugardagur

Gleymdi að minnast á eitt mikilvægt atriði sem kom fram í samtali okkar við Friðrik Sophusson. Hann sagði að Björn Bjarnason hefði helzt þurft að verða fjármálaráðherra til að vera nokkurn veginn öruggur um að hafna í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins, eða þegar Friðrik hættir. En það varð ekki.
Geir H. Haarde standi því nær varaformennskunni en nokkru sinni.
Friðrik hrósaði Birni fyrir samstarf þeirra og telur hann hafi lagt sig fram um að efla það.,enda hefur Björn vaxið mikið af reynslu sinni.

Styrmir sagði mér eftir Jóni Baldvini sem drakk kahlúa-líkkjör með Halldóri Ásgrímssyni í Washington um daginn (hann getur víst drukkið ótæpilega af honum), að Halldór ætli sér forsætisráðherraembættið, þótt hann láti líta svo út sem hann hafi ekki áhuga á því. Davíð telur víst að Halldór hafi ekki þennan metnað, en hann þarf kannski að horfast í augu við hann, ef Framsókn fær oddaaðstöðu eftir næstu kosningar. Þá getur áhugi Halldórs á stjórnarforystu komið upp á yfirborðið og einnig getur flokkurinn krafizt hennar í samstarfi við bræðing jafnaðarmanna - og getur Halldór þá væntanlega ekki hafnað því.
En sem sagt, Halldór er með forsætisráðherrann í maganum - og ætti engum að koma á óvart(!)
Hvað ætli Davíð segði ef slíkt kæmi upp? Ég veit það satt að segja ekki eins og hann er búinn að hrósa framsóknarmönnum í ræðu og riti. Halldór hefur áreiðanlega engan áhuga á því að stjórnarflokkarnir fari í kosningar með yfirlýsingar um áframhaldandi samstarf. En fróðlegt verður að fylgjast með því! Finnur Ingólfsson talaði áreiðanlega af sér, þegar hann ýjaði að slíkri yfirlýsingu fyrr á árinu.

Kista forsetafrúarinnar kom heim í dag. Viðhöfn með eindæmum, án fordæmis. Lúðrasveit verkalýðsins lék sorgarlög. Tekið fram í kynningu að eitt þeirra hafi einnig verið leikið, þegar kista Jóns Sigurðssonar kom til landsins frá Höfn.
Allt fór vel og skipulega fram. Þjóðhöfðingjar Norðurlanda væntanlegir við útförina.
Konungsríkið Ísland í burðarliðnum.
Morgunblaðið laufblað í þungum straumi tíðarandans.
Og dansandi fánar í haustgolunni.

26. október, mánudagur

Höfum verið í Bremen í dag. Skoðuðum miðborgina. Annað sinn sem við komum hingað. Hanna keypti spegil sem kemur sér vel fyrir mig. Hann sýnir eilífa æskufegurð. Matthías H. hefur leitað að skóm í allan dag. Sem sagt, Íslendingar í innkaupaferð.
Komum til Bremerhaven í gærkvöldi eftir 10 tíma ferð frá Gautaborg. Vorum þar í 2 sólarhringa. Þar las ég upp ásamt Árna Bergmann, eftir upplestur svöruðum við spurningum. Ágætir áheyrendur, einkum konur. Spurðu samt fárra spurninga. Ég las sjálfur ljóð mín á íslenzku. Kona Engbloms las þau á sænsku. Þau eru talin fallega þýdd af Swedenmark. Veit ekki enn hvort þau verða gefin út á sænsku. Sænskan er gott mál og fallegt fyrir ljóðlist en mér er sagt að Svíunum þyki íslenzkan hljómfögur þegar lesið er á íslenzku. Hef sjálfur orðið var við þessa sænsku hrifningu á tónfalli íslenzkunnar.
Anna Einarsdóttir sá um okkur Íslendingana. Auk okkar Árna, Hönnu og Matthíasar H. voru Hallgrímur Helgason og Ólafur Gunnarsson í Gautaborg. Þeir lásu þar einnig upp. Við vorum ekki viðstödd upplesturinn því að við vorum ekki komin frá Osló. Mér líkaði vel við þessi ungu, íslenzku skáld. Þau eru viðfelldin og kurteis. Það var ágætur prósi sem þau lásu upp á 50 ára afmæli Íslendingafélagsins í Gautaborg. Þar lásum við Árni einnig. Gott publikum og augsýnilega þakklátt.
Nú les ég upp í pressuklúbbnum í Bremerhaven annað kvöld. Þar munum við Ingimundur Sigfússon sendiherra einnig sitja fyrir svörum. Ætli þetta verði ekki síðasti upplesturinn minn erlendis? Það er líklega komið nóg af svo góðu. Við eigum langa ferð fyrir höndum aftur til Oslóar. En það er auðvelt að fara þessa leið og ferjurnar milli Puttgarden og Rödby og Helsingör og Helsingjaborgar stytta leiðina til muna. Þær eru eins og stef, eða hvíld í löngu verki.
Meðal áheyrenda á bókamessunni í Gautaborg var Vigdís Finnbogadóttir. Hún var einnig samferða okkur með þotunni til Oslóar. Ég talaði dálítið við hana á leiðinni, m.a. um sameiginlegt frændfólk okkar. Hún tekur mér alltaf vel og Hönnu finnst hún sérstaklega alúðleg. Hún sagði eftir upplesturinn,
Ég var svo innspíreruð að ég er að reyna að ná mér niður á jörðina. Gott hjá henni!
Ég hef enn dálítið gaman af að lesa upp fyrir fólk, það er þakklátt verk.
Matthías H. hefur keyrt okkur alla leiðina. Við tókum á leigu Mercedes C-200. Matthías neitar að aka í bílum eins og ég vil helzt hafa þá, annað hvort Trabant eða Lödu!! Annars segir Hanna að Súbarú sé uppáhaldsbíllinn minn. Það er rétt, ég varð mjög hrifinn af Súbarú þegar ég kynntist honum fyrst. Það var á Fjalli. Jón vinur minn á Fjalli var nýbúinn að fá sinn fyrsta Súbarú. Það var fyrir mörgum árum. Og þá féll ég fyrir Súbarú. Maður þarf alltaf að falla fyrir einhverju.
Matthías H. telur Þjóðverja freka. Amma hans er alltaf að benda honum á hvað þeir eru klárir og búa til fínar vörur. Hann viðurkennir að þeir búi til beztu bíla í heimi, en hann þakkar guði fyrir að þeir unnu ekki stríðið. Ég sagði honum að það skipti engu máli, því að Íslendingar hefðu þá orðið germönsk herraþjóð. Nú eru tímarnir mikið breyttir og ég held að flestir Þjóðverjar sem við hittum haldi að Hitler hafi verið enskur lord.

28. október, miðvikudagur

Við Ingimundur Sigfússon, sendiherra í Bonn, sátum fyrir svörum í Pressuklúbbi í Bremerhaven í gærkvöldi. Veðrið var vont, rigning og stormur og ég var undrandi á því hve margir létu sjá sig, meðal þeirra voru ráðherra viðskiptamála í löndunum Bremen og Bremerhaven, eða Brimum og Brimahöfn, eins og fornmenn hefðu komizt að orði, en Brimarhöfn var ekki til þegar Ísleifur byskup var vígður í Brimum 1056.
Viðskiptaráðherrann Uwe-Karl Beckmeyer, er viðfelldinn stjórnmálamaður og hefur mikinn áhuga á Íslandi.
Samkoman hófst með því að hann ávarpaði áheyrendur og lagði áherzlu á aukið samstarf Íslendinga og þessara tveggja strandríkja Norður-Þýzkalands. Við borðuðum með honum síðar um kvöldið og komum okkur saman um nauðsyn þess að minnast sögulegs samhengis Brima og Íslands í tilefni af 1000 ára kristnitökuafmæli Íslands. Hann sagði að merkar minjar væru til í Þýzkalandi sem unnt yrði að sýna á góðum sýningum og væri það vel til fallið, auk þess sem vel mætti minnast þess sem ég hélt fram þegar ég sat fyrir svörum ásamt Ingimundi, að Brimar hefðu verið fyrsta höfuðborg Íslands af þeirri einföldu ástæðu að þar var fyrsti íslenzki byskupinn vígður, líklega að boði páfa, en þá voru Brimar andlegt höfuðsetur kaþólskrar norðurálfu.
Við Ingimundur ætlum að ýta undir þessar hugmyndir og reyna að koma þeim í verk. Þá var þarna einnig borgarstjóri landanna, eða forsætisráðherra þeirra, dr. Henning Schärf, einnig ákaflega viðfelldinn maður en hefur þann ókost að maður breytist í dverg við hliðina á honum því hann er yfir 2 metrar á hæð. Hann hefur einnig mikinn áhuga á Íslandi og væri áreiðanlega hægt að virkja þann áhuga ef til kæmi. Samkomunni stjórnaði viðskiptaritstjóri Nordsee-Zeitung, Joachim Barthel og átti hann að spyrja okkur útúr ásamt gestum, en fórst það heldur illa úr hendi því allar spurningar hans breyttust í ræðuhöld.
En allt gekk þetta samt vel.
Við Johann P. Tammen, þýzka skáldið sem var með okkur í Edenkoben og stjórnar die horen sem gefið er út þarna í Bremerhaven, hófum samkomuna með upplestri okkar, ég las úr Sálmum á atómöld en Johann las þýðingar dr. Friese sem virðast falla í mjög góðan jarðveg í Þýzkalandi - og þá einnig þarna um kvöldið. Johann las auk þess nokkur ljóð úr ljóðsafninu þýzka, Ich hörte die Farbe blau en það var gefið út eftir dvöl okkar í Edenkoben, kom nú í öðru upplagi í tilefni af heimsókn okkar, að því er Johann Tammen sagði. Hann er mjög ánægður með viðtökur bókarinnar og sölu hennar. Þrjú ljóð eftir mig hafa verið valin úr þessari bók í frábært svissneskt ljóðaúrval, Freundschaft der Dichter, og las Johann þau öll. Ég hef verið mjög stoltur af því að hafa verið valinn í þetta fína, þýzka ljóðaúrval, en þar er einungis einn annar norrænn höfundur, Inger Christensen.
Upplestur okkar Johanns tókst að mínu viti ágætlega og var vonandi jafngóð landkynning og hver önnur uppákoma.
Að upplestri og umræðum loknum borðuðum við með nokkrum útvöldum, en þeirra á meðal var einhvers konar undramaður úr Kópavogi, Samúel Hreinsson, en þau hjón reka stærsta fiskmarkað í Bremerhaven og stjórna fisksölu þar um slóðir, að því er ritstjórar Nordsee Zeitung sögðu okkur, þegar við heimsóttum blaðið og áttum við þá langt samtal. Það leyndi sér ekki að þeir höfðu mikið álit á Samúel. Við skoðuðum fiskmarkað hans eftir að vinnsla hófst á karfa úr Breka frá Vestmannaeyjum rétt fyrir miðnætti og var það bæði upplifun og ævintýri að kynnast slíku íslenzku framtaki. Fiskurinn sendur í kæligámum til Hamborgar, vigtaður í 50 kg kassa, síðan er honum raðað á gólfið og daginn eftir koma fiskkaupmenn og bjóða í það sem er á boðstólum. Þá koma einnig boð um tölvuna, m.a. er minnsti karfinn að mestu seldur til Belgíu.
Samúel og þau hjón bæði eru mjög geðþekk og skemmtilegt að kynnast þeim. Þau eru bæði úr Kópavogi og má raunar segja að það sé dæmigert fyrir þessa stórmerku starfsemi þeirra og framtak allt, að enginn höfn er í Kópavogi og Samúel því ekki alinn upp við sjósókn þótt hann hafi stundað sjó að einhverju leyti. En hann fékk ekki seltuna úr umhverfi sínu. Hún skiptir ekki heldur höfuðmáli í slíkri starfsemi, þar skiptir hugvit, hagræðing og útsjónarsemi öllu máli - og þá ekki sízt rétt vinnsla og rétt ákvörðunartaka. Í stóru fiskvinnsluhúsi Samúels sem keypt er með kaupleigusamningi eru feiknastórir salir og þá einnig stór kæliklefi þar sem unnt er að geyma fiskinn, ef nauðsyn krefur, því að allt er undir því komið að fiskurinn sé seldur á réttu verði og réttum tíma.
Það er með ólíkindum hvað Íslendingar taka sér fyrir hendur og alls staðar skulu þeir lenda í fremstu röð. Samúel Hreinsson er ekki nema 42 ára gamall og umsetning fyrirtækis hans er hálfur fjórði milljarður. En þessum árangri hefur ekki verið náð þrautalaust, hann hefur þurft að berjast fyrir þessari starfsemi sinni í heilan áratug, en nú segist hann vera kominn á græna grein og framtíðin blasir við í nýjum húsakynnum.
Í dag fórum við svo aftur norður til Svíþjóðar en þaðan liggur leiðin til Oslóar þar sem áð verður og slappað af fyrir heimferðina. Við fórum með ferjunni milli Puttgarden og Rødby, ferðinni seinkaði um 15 mínútur vegna roks og veltings á skipinu, en allt gekk það vel og sú mikla lægð sem hefur verið að plaga Þjóðverja er víst á leiðinni þangað sem slíkar lægðir eru bezt geymdar, norður og niður

30. október, föstudagur

Skrifaði þetta Reykjavíkurbréf í kvöld þegar við vorum nýlent eftir flugið frá Osló. Birtist næsta sunnudag.

Íslendingar minna á sig með ýmsum hætti. Lítil þjóð þarf á því að halda að finna kröftum sínum viðnám og láta til sín taka á þeim vettvangi sem nýtist henni í síbreytilegri veröld. Við höfum minnt á okkur með ýmsum hætti og í fjölmörgum löndum, ekki sízt þegar reynt hefur verið að koma íslenzkum varningi - og þá ekki sízt sjávarafurðum - á helztu markaði. Eitt mest notaða tízkuorð nú um stundir er markaðssetning. Það er hægt að markaðssetja allan þann varning sem við höfum upp á að bjóða og þá ekki síður þjónustu sem verður æ mikilvægari vegna þeirrar áherzlu sem við leggjum á ferðamannaiðnað svokallaðan. Markaðssetning á útflutningsvörum okkar hefur tekizt heldur vel og enginn vafi á því að við eigum eftir að hasla okkur víðar völl en nú er. Þá hefur markaðssetning í ferðamannaiðnaði hefur borið verulegan árangur og standa vonir til þess að ferðamannastraumur til landsins aukist, án þess þó gengið verði nærri landinu og náttúru þess. Þessi ferðamannaiðnaður gefur nú mikið fé í aðra hönd og léttir lífsbaráttu margra Íslendinga, ekki sízt þeirra sem lifa að einhverju leyti á þessum iðnaði úti á landsbyggðinni. Þessi iðnaður nær til afskekktustu staða vegna þess sem kallað hefur verið bændagisting.

Markaðssetning og arfleifð

En við getum minnt á okkur með ýmsum öðrum hætti en þeim sem hér hefur verið nefndur. Við getum ekki sízt minnt á okkur með því að rækta óvenjulega arfleifð okkar og veita útlendingum hlutdeild í henni. Arfleifð okkar er sérstæð og fjölmargir útlendingar víða um heim laðast að henni og reyna með ýmsu0m hætti að kynnast henni vegna þess að þeir vita sem er að hún er einstæð. Það er þessi arfleifð, sem einkum ætti um að fjalla þegar menn setja sig í hátíðlegar stellingar og minnast landafunda vestra og kristindóms á Íslandi. Ef við ættum ekki slíka óslitna menningararfleifð væri svo sem engin eða lítil ástæða til að halda hátíð árið 2000 - eða var ekki Leifur heppni einhverskonar trúboði í aðra röndina?
Það er í bréfuðum heimildum sem við lesum um landafundi víkinganna og án þessara gömlu 0bóka dytti engum í hug að halda því fram að þeir hefðu fundið vesturheim á sínum tíma. Þá er það einkum vegna gamalla bóka með sígildum frásögnum, skáldskap og ljóðlist sem arfleifð okkar þykir einstæð, en hún hefur að sjálfsögðu varðveizt sem slík af þeirri einföldu ástæðu að við höfum borið gæfu til þess að varðveita tungu okkar og með þeim hætti einskonar samtal milli allra þeirra kynslóða sem lifað hafa á Íslandi og fluttu með sér út hingað sérstæða víkingamenningu sem nú er í hávegum höfð og þykir því mikilvægara umhugsunarefni sem hún verður eldri og fjarlægari samtíð okkar. 0Þessi arfleifð hefur síðan verið samtvinnuð þeim kristna arfi sem hefur varðveitzt fram á þennan dag. Hún hefir ávallt verið á næstu grösum þegar hugsað er um samfellda sögu lands og þjóðar og það er einungis tungunni og bókmenntunum að þakka að þessi silfurþráður hefur aldrei slitnað.

Vaxandi áhugi á íslenzkri bókmenningu

Á þessum vettvangi var minnzt á það fyrir nokkrum misserum að við ættum að hugsa um þau tækifæri sem nánara samstarf milli Íslendinga og Kanadamanna gætu boðið upp á. Vestur-Íslendingar hafa gert garðinn frægan og þeir sem fóru á bókmenntahátíðina miklu í Toronto fyrir rúmu ári urðu þess viðstöðulaust varir, hvernig íslenzk arfleifð minnir sífelldlega á sig. Á þessari hátíð var íslenzkum rithöfundum mikill sómi sýndur, en hún var tileinkuð Norðurlöndum og fóru Íslendingar ekki varhluta af þeim orðstír sem landar þeirra hafa ræktað í kanadísku umhverfi nú um rúmlega aldarskeið.
Á fyrrnefndri hátíð þar vestra var íslenzkum bókmenntum bæði sýnd mikil virðing og um hana fjallað í fjölmiðlum, ekki síður en það efni sem aðrir norðurlandabúar höfðu fram að færa.
Þeir sem fara á slíkar alþjóðlegar samkomur upplifa einatt óvenjulegan áhuga á Íslandi nútímans og þeirri arfleifð og menningarfjársjóði sem þjóðin hefur varðveitt. Það er óvenjuleg reynsla að taka þátt í þessari miðlun og kynnast áhuganum. Það er ekki einasta að hann sé áhrifamikill, t.a.m. á bókamessunni í Gautaborg, heldur leynir hann sér ekki í Frankfurt þegar bókmenning er kynnt þar enda hefur áhugi á Íslandi aukizt verulega í Þýzkalandi og þeir sem til þekkja vita einnig að hann fer vaxandi, bæði við brezka háskóla og ekki síður á ljóðlistarkvöldum, bæði í Lundúnum og annars staðar þar í landi. Í Bretlandi hafa einkum tvö bókaforlög helgað sig þýðingum á íslenzkum nútímaskáldskap, bæði ljóðlist og skáldsögum, og hefur verið frá því greint í fjölmiðlum, eins og kunnugt er. Þessi útgáfustarfsemi er borin uppi af mikilli hugsjón og áhuga á sérstæðri arfleifð eins og þeir þekkja bezt sem þar hafa komið við sögu. Svipað starf hefur einnig verið unnið í Þýzkalandi, svo að annað dæmi sé tekið, og má þess t.a.m. geta, að íslenzkt ljóðaúrval í nýju alþjóðlegu safni, Ich hörte die Farbe blau, er nýkomið út í öðru upplagi, og þykir það merkilegur áfangi. Sagði einn helzti fyrirsvarsmaður þessa framtaks, þýzka góðskáldið Johann P. Tammen, sem stjórnar bókmenntaforlagi í Bremerhaven - en það hefur gefið út margar íslenzkar bækur og flutt mikið íslenzkt efni í tímariti sínu, die horen, - að þetta hafi verið mikill áfangi og sýnt að fólk sækist eftir íslenzkri ljóðlist þar í landi. Öll þessi starfsemi er þannig harla mikilvæg fyrir álit okkar og er ekki áhrifaminnsta markaðssetningin nú um stundir.

Kliður af gamalli arfleifð

Það var eftirminnilegt að vera viðstaddur þýzkt-íslenzkt kvöld í Bremerhaven þar sem Pressuklúbburinn fjallaði um Ísland og bókmenningu þess, en þar var álitlegur hópur fólks sem sækir í menningararfleifð okkar af áhuga og ástríðu. Þetta áhugafólk er áreiðanlega bezta auglýsingin þegar reynt er að markaðssetja íslenzka náttúru og íslenzkan samtíma í þessu gamalgróna föðurlandi germanskrar arfleifðar. Á samkomu þessari flutti einn af ráðherrum borgríkisins, Uwe-Karl Beckmeyer viðskipta- og hafnarmálaráðherra, áhrifamikil inngangsorð um Ísland og söguleg tengsl Norður-Þjóðverja við þetta fjarlæga, en nú heldur nálæga land. Þar voru lesin íslenzk ljóð og um þau fjallað og að lokum rætt um íslenzka arfleifð, viðskipti, stjórnmál og þann veruleika sem nú blasir við. Óhætt er að fullyrða að áhuginn á Íslandi og arfleifð okkar leyndi sér ekki á þessari samkomu. Meðal viðstaddra var forsætisráðherra borgríkisins, Dr. Henning Schärf, en titill hans mun vera borgarstjóri. Hann sýndi mikinn áhuga á Íslandi og auknu samstarfi milli landanna.
Á þessu kvöldi sem íslenzki sendiherrann í Bonn, Ingimundur Sigfússon, tók einnig þátt í - en hann hefur öðrum fremur kunnað að markaðssetja Ísland í Þýzkalandi - kom það sterklega í ljós, að menn gera sér grein fyrir þeim miklu og sögulegu tengslum sem verið hafa milli Norður-Þýzkalands og Íslands, allar götur frá því Ísleifur byskup tók fyrstur íslenzkra manna vígslu í Brimum, en þaðan var norðurhluta kaþólskrar páfamenningar stjórnað á þeim tíma. Þannig mætti með nokkrum sanni segja að Brimar, eða borgríkið Bremen, hafi verið einskonar andleg höfuðborg Íslands en Skálholtsstaður er aftur á móti nefndur andleg móðir landsins í Hungurvöku.
Þessar staðreyndir hljóta að vekja okkur til umhugsunar um þau tengsl sem nú eru milli þessara landa og hvort ekki sé ástæða til að auka þau og styrkja. Ráðherrann sem þarna tók til máls var þeirrar skoðunar að nota ætti 1000 ára afmæli kristintöku á Íslandi til að styrkja þessi gömlu bönd og minna rækilega á þær sögulegu rætur sem þarna leynast.
Það væri áreiðanlega full ástæða fyrir okkur að minnast þess á 1000 ára afmæli kristintöku, að fyrsti íslenzki byskupinn, mosfellingurinn Ísleifur Gissurarson, sem valinn var til byskups af allri alþýðu - og þá að öllum líkindum á Alþingi - og beðinn til utanferðar, var vigður þarna við ána Weser og í því kaþólska umhverfi sem var allsráðandi í Evrópu á þeim tíma. Þótt mikið vatn hafi síðan runnið til sjávar, bæði úr Weser og öðrum stórfljótum tímans, er þessi saga enn áleitið íhugunarefni, og enginn vafi á því að hún leynist í genum íslenzku þjóðarinnar svo að vísað sé til þess sem verið hefur efst á baugi í samfélagi okkar. Vegna varðveizlu tungunnar og sérstæðrar arfleifðar heyrum við enn hið sögulega hvísl milli allra kynslóða á Íslandi, og við eigum að hlusta á þennan klið og varðveita hann af jafn mikilli ræktarsemi og þær kynslóðir hafa gert sem á undan eru gengnar.

Hungurvaka

Hungurvaka er merkilegt og fróðlegt rit eins og raunar byskupasögurnar allar. Það er byggt á munnlegum og skriflegum heimildum um fyrstu byskupa Íslandssögunnar, þ. á m. Ísleif Gissurarson (1056-1080), ætt hans og umhverfi, en þá einnig störf hans og vinsældir þeirra feðga, Ísleifs og Gissurar (1082-1118). Um Skálholtsstað segir þar að hús skal hjón fá - og ennfremur segir svo um þá frændur, að Gissur hvíti lét gera ina fyrstu kirkju í Skálaholti og var þar grafinn að þeirri kirkju, en Ísleifur bjó í Skálaholti eftir föður sinn. Ennfremur 0fullyrt að hann hafi verið vænn maður að áliti og vinsæll við alþýðu og alla ævi réttlátur og ráðvandur, gjöfull og góðgjarn, en aldrei auðugur. “En er Ísleifur var fimmtugur að aldri og Ísland hafði eigi fjarri því að lengd kristið verið, þá var hann beðinn til utanferðar og valdur til byskups af allri alþýðu á Íslandi. Síðan fór hann utan og suður til Saxlands og sótti heim Heinrek keisara Konráðsson og gaf honum hvítabjörn, er kominn var af Grænlandi, og var það dýr in mesta gersemi. En keisarinn fékk Ísleifi bréf sitt með innsigli um allt veldi sitt. Síðan fór hann til fundar við Leonem páfa. En páfinn sen0di bréf sitt Alberti erkibyskupi í Brimum, að hann skyldi gefa Ísleifi byskupsvígslu á hvítdrottinsdag, og kveðst páfinn þess vilja vænta með guðs miskunn, að þá mundi langæst tign verða á þeim byskupsdómi, er inn fyrsti byskup væri vígður til Íslands á þeim degi, er guð prýddi alla veröld í gift heilags anda, og var Ísleifur þá vígður til byskups á þeim degi að boði páfa af Aðalberti erkibyskupi í Brimum, fjórtán nóttum fyrir Kólumbamessu, og fékk erkibyskup honum alla þá reiðu, er hann þurfti að hafa með byskupstign, eftir því sem páfinn sendi orð til og keisarinn.
Síðan fór Ísleifur byskup það sama sumar til Íslands og setti byskupstól sinn í Skálaholti...”
Ísleifur hafði áður lært til prests í Þýzkalandi og er talinn fyrsti Íslendingurinn sem nemur erlendis.
Það væri áreiðanlega ástæða til að halda sérstaka hátíð af minna tilefni(!)

Enn gerast ævintýri í Brimum

Það er þá ekki sízt mikilvægt íslenzkt ævintýri þegar farið er um þessar slóðir að kynna0st starfsemi íslenzks athafnamanns, Samúels Hreinssonar, sem hefur ásamt konu sinni, rekið umsvifamikið fyrirtæki í Bremerhaven undanfarin ár. Nú er umsetning þess hálfur fjórði milljarður króna. Ritstjórar helzta dagblaðsins þar um slóðir, Nordsee Zeitung, fullyrtu í samtali við íslenzka gesti að fyrirtækið, Bremerhavener Fischauktions hf., sé stærsti fiskmarkaður í þessari miklu hafnarborg og stjórni þetta fyrirtæki í raun og veru allri fisksölu í borgríki Brima. Þegar vinnsluhúsin voru skoðuð leyndi sér ekki að þar var enn eitt0 dæmi um íslenzka atorku og hugvit og raunar blasti þarna við framtak og útsjónarsemi sem telja má alleinstæð. Samúel hefur sjálfur séð um alla hönnun á fiskmarkaðnum, skipulagt hann og byggt upp frá grunni. Segja má að unnið hafi verið að því undanfarinn áratug í þessu fyrirtæki að breyta fiskumsýlsu Bremerhaven í nútíma fyrirtæki sem hlýtur að vísa veginn inn í nánustu framtíð. Og það jók ekki sízt á ánægjuna af þessum kynnum að vigtarnar eru frá Marel; sem sagt íslenzkt hugvit á öllum sviðum.
Þetta hefur að vísu verið nokkuð þungur róður með köflum, samkeppnin hörð við fjölmörg þýzk fyrirtæki sem hugðust nota úreltar aðferðir áfram, en sitja nú uppi með nútíma framsýni framkvæmdastjórans íslenzka sem alls ráðandi viðskiptaþátt í þessu merka borgríki þarna á næstu grösum við Cuxhaven, en þangað hafa Íslendingar ekki síður sótt á undanförnum áratugum eins og kunnugt er.

Í lok október - eftirmáli

Nýkominn heim til Íslands las ég Reykjavíkurbréf sem Þröstur Helgason hafði skrifað í Morgunblaðið sunnudaginn 25. október sl. og fjallar um samtal sem hann hafði átt við ísraelska þjóðmenningarfræðinginn Even Zohar, en ég staldraði við þá fullyrðingu hans að Svíar væru nú að súpa seyðið af fyrri jafnaðarstefnu sinni, sem hefði helzt krafizt þess að allir skyldu vera eins þar í landi og þannig hefði framtak einstaklingsins verið drepið í dróma. Þetta hefði ekki verið gert á Íslandi, heldur hefðum við verið opnir fyrir nýjum hugmyndum, sérvitringar ekki endilega verið dæmdir utangarðs, heldur hefðu þeir fengið tækifæri til þess að blómstra unz þeir hættu að vera sérvitringar og urðu einhvers konar brautryðjendur(!) Allt þótti mér þetta harla hnýsilegt og bað Þröst að skrifa Reykjavíkurbréf um málið. Það hefur hann gert með sóma.
Í greininni segir m.a.,
“Það hlýtur að vera forsenda fyrir því að sköpunarkraftur þjóðar sé virkjaður á sem eðlilegastan og bestan hátt að hver einstaklingur hafi frelsi til að fara sínar eigin leiðir, að vera öðruvísi. Sagan hefur kennt okkur að bera virðingu fyrir sérviskunni. Sagði ekki Mark Twain að sérvitringurinn væri maður með nýjar hugmyndir uns þær hljóta samþykki; þannig er stundum stutt á milli sérvisku og snilldar. Íslenzkur nýsköpunarkraftur komi m.a. fram í ótrúlega hraðri þróun í hugbúnaðargeiranum en í þeim efnum höfum við fremur byggt á menningarsögulegri hefð en skilningi eða skynsamlegri og meðvitaðri stefnumótun. Við erum að sjálfsögðu betri í kylfukasti en stjórnun, það höfum við alltaf verið þrátt fyrir okkar germanska upplag! En það hefur skilað sínu. Jafnvel Volvo-bílar Svíanna eru ekki lengur spennandi, segir Zohar. Ástæðan sé auðvitað sú að enginn megi hugsa öðruvísi en annarr í þessu frændríki okkar og það komi ekki síður niður á útflutningi Svía en þjóðfélagsgerðinni að öðru leyti.”
Ég hjó sérstaklega  eftir því sem hann segir um miðjuna en í þeim kafla kemst hann m.a. svo að orði:
“Ef þú ert í miðjunni getur þú ákveðið hvernig buxum þú vilt klæðast en ef þú ert á jaðrinum verður þú að klæðast buxunum sem miðjan segir þér að klæðast. Þú getur auðvitað ákveðið að klæðast einhverju öðru en þá færðu líka að gjalda þess á einhvern hátt. Til að brjótast undan þessu oki miðjunnar verður þú annað hvort að gera uppreisn og ryðjast inn á miðjuna eða búa til annað kerfi...”
Hann tekur þjóðbrotardæmi um þetta, en ég fór að huga að öðru. Ég hef komizt að því að verðlaunaveitingar í listum koma listamönnum yfirleitt lítið sem ekkert við. Þær fjalla yfirleitt alltaf um þá sem verðlaunin veita; stöðu þeirra, hugmyndir eða öllu fremur hugmyndaleysi. Verðlaunaveitingar eru sjaldnast byggðar á dirfsku. Þær fjalla um það að finna lýðræðislegan samnefnara sem er þjóðfélaginu þóknanlegur. Og nú sé ég í hendi mér að allt fjallar þetta um að halda mönnum inni á miðjunni svo að þeir séu ekki með neinar uppákomur. Jaðarmenn í listum fá sjaldnast verðlaun. Það er ástæðan fyrir því að við undrumst viðstöðulaust af hverju þessi eða hinn hafi ekki fengið verðlaun og viðurkenningar; Joyce, Borges og hvað þeir nú heita allir “sérvitringarnir” í þessum listræna hugmyndaheimi. Þeir geta aldrei orðið að lýðræðislegum samnefnara, aldrei fulltrúar miðjunnar. Borges sagðist ekki vera fulltrúi neins - nema bókmennta, þess vegna gæti hann ekki fengið bókmenntaverðlaun! Hann var nefnilega ekki fulltrúi þeirra bókmennta sem sænska akademían taldi nægilegt miðjumoð fyrir sinn smekk, Borges var jaðarmaður og jaðarmenn fá yfirleitt ekki listræn verðlaun. Þeim er einungis ætlað að halda virðingu sinni með verkunum einum, en ekki þeim hæfniseinkunnum miðjumanna sem úrslitum ráða í þessum gráa leik. Þetta á auðvitað jafnt við um þjóðarbrot eins og Zohar bendir á. Þess vegna er níðzt á jaðarríkjum eins og Katelóníu og Suður-Frakklandi sem hann nefnir sérstaklega.
En það er annað í boðskap Zohars sem ég tel ekki einungis vafasamt, heldur beinlínis rangt og stafar það líklega af vanþekkingu hans. Þegar hann ræðir um sérstæða sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og hlutverk Jóns Sigurðssonar segir hann að Jón hafi verið goðsögn og þurfi að rannsaka betur verk hans og sögu sjálfstæðisbaráttunnar, sem má vel vera rétt.
“Við getum til samaburðar ímyndað okkur Tasmaníubúa sem heldur yfir til meginlands Ástralíu og fer að halda ræður um að Tasmanía hljóti sjálfstæði. Þessi maður yrði varla tekinn mjög alvarlega; honum yrði hugsanlega boðið í kaffi hjá einhverjum embættismanni en flestir myndu bara brosa út í annað. En hvers vegna hlaut Jón Sigurðsson áheyrn? Hvers vegna var hann tekinn alvarlega? Hann hafði ekkert bakland, samt gat hann skapað Íslendingum framtíð. Þetta hefur aldrei verið skýrt...”
Ég held þetta sé út í hött. Jón Sigurðsson hafði að sjálfsögðu mikið bakland. Hann hafði bakland sem Tasmaníubúinn hefur ekki. Hann hafði forna íslenzka menningararfleifð, heimsbókmenntir og sögulega geymd germanskrar þjóðar að bakhjarli. Á þetta lék hann eins og snillingur og má sjá það af skrifum hans, svo augljóst sem það er. Hann skírskotar í þessa arfleifð okkar viðstöðulaust, bæði menningararfinn og söguarfinn, og varð hægt og bítandi sérfræðingur í íslenzkum bókmenntum og íslenzkri sögu. Hann sýndi viðstöðulaust framá að Íslendingar ættu svo sérstakan menningararf og byggju að svo langri hefð sérstæðrar og lýðræðislegrar stjórnskipunar, sem hefði forn lög og þjóðarrétt og að sjálfsögðu löggjafarstörf Alþingis að grundvelli, að ekki þyrfti um að ræða hvort slík þjóð ætti að vera sjálfstæð eða ekki. Allt þetta byggði svo að lokum á sérstæðri tungu sem hefði verið varðveitt svo lengi sem land hefði verið byggt. Þetta var sem sagt mystikin, goðsögnin um Jón Sigurðsson, störf hans og árangur.
Það er ekki von að útlendur maður geri sér grein fyrir þessu, en þó tel ég að gyðingur hefði betri aðstöðu til að skilja þessa goðsögn en nokkur annar, því að Ísraelsríki er byggt á slíkri goðsögn og í raun og veru engu öðru.
Hitt er svo mikilvægt að Íslendingar geri sér ævinlega grein fyrir þessu og hvernig sem allt veltist og tímarnir breytast verða þeir að rækta þessa arfleifð öðru fremur af þeirri einföldu ástæðu, að hún er vísasti vegurinn og öruggustu skilríkin á þeirri vandrötuðu leið sem við óskum þjóð okkar. Þessi bakhjarl er í senn uppörvun og augljós trygging fyrir þeirri virðingu sem við sækjumst eftir, svo lítil og fámenn þjóð sem við erum. Án þessa baklands hefðum við ekki orðið sjálfstæð þjóð, við hefðum ekki fengið handritin heim og örugglega enga áheyrn í þorskastríðum. En vegna þessa baklands höfum við fengið þetta allt, þó að enginn hefði hlustað á Tasmaníumanninn í sömu sporum. Svo lengi sem við gerum okkur grein fyrir þessu erum við á réttu róli. Íslenzka vegabréfið er jafn gott inn í framtíðina og það er öruggt skilríki á hvaða landamærum sem er.
Þegar við Árni Bergmann vorum að segja frá menningararfi okkar og stöðu íslenzkra bókmennta í Gautaborg í síðustu viku var ég spurður um þessa íslenzku mystik. Það féll í góðan jarðveg þegar ég sagði að ég gæti lýst henni með fáum orðum, þ.e.a.s. að ég hefði staðið á henni í bókstaflegri merkingu, þegar ég keypti lestarmiða á Gardemoen-flugvelli, nýopnuðum. Ég leit niður og sá þá að ég stóð á gylltum stöfum sem höfðu verið skrifaðir til skreytingar í gólfið og þar hefði staðið brot úr þessari íslenzku mystik. Þarna í gólfinu hefði verið tilvitnun í Hávamál sem ég einn gat lesið þeirra sem þarna biðu eftir farseðlum.  Ég man ekki nákvæmlega hvaða erindi úr Hávamálum var þarna í gólfinu, en mig minnir það séu einhverjar línur úr þessu erindi:

Athvarf mikið
er til ills vinar,
þótt í brautu búi,
en til góðs vinar
liggja gagnvegir,
þótt hann sé firr farinn.

Íslendingur skilur þetta erindi að sjálfsögðu. Þar þarf hann þó að kynna sér goðsögnina betur, eða það sem liggur að baki þessum orðum, því að athvarf getur merkt krókur en gagnvegur beinasta leið og niðurlagið:

Þótt vinurinn búi lengra í burtu.

Það er þessi kliður, þetta hvísl milli ólíkra kynslóða, hvísl yfir endalaus höf liðinna alda sem kallar á hlustun; kallar á löngun til að velta orðunum við, skoða þau með öðrum hætti en samtíminn, leggja eyrun við og hlusta inní löngu liðna fortíð eins og hún birtist í merkingu þessara gagnsæju orða sem við skiljum eins og daglegt mál nú um stundir, en búa þó yfir goðsögulegum sprengikrafti við nánari kynni.
Og nú sé ég af norskum blöðum að Norðmenn eru farnir að efast um sannleiksgildi Heimskringlu; farnir að efast um heilagan sannleika Biblíunnar sjálfrar. Þurfa kannski vegna fornleifafræðinnar og nýs mats að gera sér grein fyrir því sama og Íslendingar hafa ævinlega gert: að Heimskringla er ekki síður byggð á munnmælum og þjóðsögum en þeim staðreyndum sem Snorri hafði í handraðanum. Hún er sem sagt skáldskapur í aðra röndina eins og allar þær sögur sem skrifaðar voru á 13. öld; ritstýrð sagnfræði. Veruleiki mikilla skálda, persónur og veruleiki úr handraðanum eins og Halldór Laxness komst að orði.
Norðmennirnir í salnum skildu ekki þessi orð, samt var þetta norska upphaflega, en nú íslenzka. Norðmennirnir uxu frá þessari mystik en hún er enn einn helzti veruleikinn í lífi okkar Íslendinga. Meðan svo er getum við að öllum líkindum haldið áfram að vera sérstæð þjóð og sinnt hlutverki sem engin önnur þjóð hefur tök á að sinna. Þetta er hvorki meira né minna en frumarfur allra norrænna þjóða og hann er enn lifandi þáttur í þjóðlífi okkar, hugsun og uppeldi. Fyrst svo er höfum við nægu hlutverki að sinna, en það blasir þá ekki sízt við að við þurfum að samtvinna þessa gömlu arfleifð þeirri nýju útsýn til framtíðarinnar sem blasir við af kögunarhóli tölvualdar. En forsendur þess eru að sjálfsögðu að við glötum ekki tungunni því án hennar verðum við arfleifðar- og baklandslaus þjóð  og gætum þess vegna búið hvort sem væri í Tasmaníu eða á Íslandi.     
Við eigum svo enn eina goðsögn sem heldur okkur við efnið, það er landið sjálft. Það er enn í sköpun og þess vegna erum við á næstu grösum við fyrstu Mósebók og sífelldlega minnt á það sem þar er fjallað um.
En náttúra Íslands er margvísleg. Á Íslandi er sögulegt landslag, gamalt landslag og magnþrungið og síðast en ekki sízt landslag í sköpun. Skáld eins og Martin A. Hansen sótti í sögulega landslagið, en annað danskt skáld, Thorkild Björnvig sótti í þá mystisku náttúru sem enn er í mótun og fann trúarlegri tilfinningu sinni viðnám í þessu ógnlega umhverfi íslenzkra eldfjalla.
Ég hef sínkt og heilagt verið að tönnlast á þessari arfleifð okkar og líklega eru ýmsir að verða leiðir á því suði. En nú sé ég að í samtali  við Thor Vilhjálmsson sem birtist í Degi laugardaginn 31. október talar hann mikið um sturlunga vegna þess að hann hefur víst skrifað skáldsögu úr umhverfi þeirra. Hann segir m.a. um Sturlu Þórðarson - og er það eitthvað svipað því sem ég hef reynt að vekja athygli á:
“Já”, segir Thor “ég dáist oft að því hvað þeir (Sturla Þórðarson og Snorri Sturluson) voru miklir listamenn. Sjáðu t.d. lýsingu Sturlu Þórðarsonar á drápi Vatnsfirðinga. Í stuttu máli segir hann svo óheyrilega mikið og þá rennur upp fyrir manni hversu djúpvitur og markviss listamaður hann er. Mér datt það einu sinni í hug... Nei, sennilega er mér bara að detta þetta í hug núna... að Anton Tsjekhov hefði sennilega haft gaman af að lesa texta Sturlu Þórðarsonar vegna þess hversu fín listbrögðin eru. En ég held að þeir ágætu frændur, Sturla og Snorri, hafi verið ólíkir að mörgu leyti, líka sem listamenn. En ég á erfitt að skilgreina nákvæmlega hvernig. Ég er bara fullur aðdáunar á list þeirra.”
Sem sagt, Njála er ekki langt undan(!)

2. nóvember, mánudagur

Þegar ég kom heim úr utanlandsferðinni lá svofellt bréf á skrifborðinu mínu: “Bessastöðum 29. október 1998.
Ritstjórar Morgunblaðsins og starfsfólk.
Ég færi ykkur þakkir fjölskyldunnar fyrir virðingu og sóma sem Morgunblaðinu sýndi Guðrúnu Katrínu við andlát hennar og útför.
Á þessum erfiðu tímum er mikilvægt að finna velvilja og tillitssemi. Umfjöllun Morgunblaðsins, myndir og texti báru slíkt svipmót.
Í sorg okkar sækjum við huggun í minningar og þökk þjóðarinnar.
Fjölmiðlar hafa hjálpað okkur að skynja þann hlýhug sem fólkið í landinu bar til Guðrúnar Katrínar.
Ólafur Ragnar Grímsson.”…

Ódagsett:

Helgispjall sem birtist 15. nóvember:
Eftirmáli við Jónas og nútímavísindi
Eftir því sem vísundunum óx fiskur um hrygg með upplýsingastefnunni, fjölgaði þeim, sem töldu, að ekkert pláss væri lengur fyrir guð. Sumir mestu andans jöfrar þessa tíma höfnuðu honum sem óþarfa tilgátu, sem þeir þyrftu ekki á að halda til að skýra tilurð stjörnuþokunnar eða lífsins í öllum sínum margbreytileik... Carl heitinn Sagan, sá kunni stjarnfræðingur, sagði, að það væri “ekkert fyrir guð að gera” og því neyddust allir hugsandi menn til að “afneita tilvist hans”.
Robert John Russell, eðlisfræðingur, sem gerðist guðfræðingur og stofnaði Miðstöð guðfræði og náttúrvísinda við Guðfræðistofnunina í Berkeley í Kaliforníu 1981, segir þó (að sögn Newsweek), að nú séu guðfræði og vísindi að nálgast hvort annað. Í stað þess að grafa undan trúnni, séu vísindalegar uppgötvanir farnar að styðja hana, a.m.k. í hugum hinna trúuðu. Áður skildu menn kenninguna um Miklahvell þannig, að hún hefði ekkert með nokkurn Skapara að gera, en nú telja sumir, að kenningin sýni, að það búi einhver áælun og tilgangur að baki alheimnum. Aðrir segja, að þróun lífsins á jörðinni gefi ýmislegt til kynna um eðli guðdómsins og enn aðrir, að óreiðu- eða glundroðakenningin, sem fæst við jafn hversdagslega og óspennandi hluti og veður og vinda og vatnið, sem drýpur úr lekum krana, sé til marks um, að guð sé enn að verki.
Steven Weinberg, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði, sagði árið 1977, að því betur sem heimsmyndarfræðin útskýrði alheiminn, því tilgangslausari virtist hann vera. Nú eru þó sömu vísindin og höfnuðu trúnni farin að hlú að henni. Eðlisfræðingar hafa nefnilega uppgötvað, að alheimurinn er eins og sniðinn fyrir líf og vitund. Komið hefur í ljós, að væru náttúrulegir fastar óbreytanlegar tölur eins og styrkur þyngdaraflsins, hleðsla rafeindarinnar eða massi róteindarinnar, aðeins örlítið öðruvísi, myndu frumeindirnar ekki loða saman, stjörnurnar brynnu ekki og ekkert líf hefði orðið til.
“Þegar við áttum okkur á því hvað náttúrulögmálin verða að vera hárfínt stillt til að búa til þann heim, sem við höfum fyrir augum , þá fer ekki hjá því, að sú hugmynd vakni, að það hljóti að vera einhver tilgangur á bak við allt saman,” segir John Polkinghorne, sem hafði átt glæsilegan feril sem eðlisfræðingur við Cambridge-háskóla áður en hann gerðist prestur í Ensku biskupakirkjunni 1982.
Charles Townes, sem fékk ásamt öðrum Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 1964 fyrir að uppgötva lögmál leysigeisla, segir, að margir hafi á tilfinningunni, að einhverjir vitsmunir hafi átt þátt í að ákveða lögmál náttúrunnar.
Mennirnir fundu upp hina óhlutbundnu stærðfræði, drógu hana upp úr sínu eigin hugskoti. Grískir stærðfræðingar uppgötvuðu hlutfallið milli ummáls og þvermáls hrings, Pi, 3,14159, og Pi skýtur síðan upp kollinum í jöfnum, sem lýsa öreindum, ljósi og öðrum fyrirbærum, sem eiga ekkert skylt við hringi. Polkinghorne segir, að þetta sé vísbending um “eðli sjálfs alheimsins”: Hugir okkar mannanna, sem uppgötvuðu stærðfræðina, slái í takt við sjálfa alheimsklukkuna. Með einhverjum hætti séum við stilltir inn á að leita að og finna sannleikann.
Carl Feit, krabbameinslíffræðingur við Yeshiva-háskólann í New York og Talmúðfræðingur, segir, að úr því að hugurinn geti afhjúpað leyndardóma alheimsins, megi ætla, að eitthvað af mannlegri vitund sé í samræmi við vitund guðs.
Trúað fólk dáist að sköpunarverkinu en vill líka, að guð sé ávallt að verki. Sumir vísindamenn telja hughsanlegt, að svo sé í þeim furðulega heimi, sem skammtafræðin lýsir. Hún er um öreindir og óútreiknanlega hegðan þeirra. Eitt frægasta dæmið er þetta: Helmingunartími geislavirks efnis er til dæmis klukkutími. Á þeim tíma eyðist helmingur frumeinda þess en hinn helmingurinn ekki. En ef frumeindin er aðeins ein? Þá eru helmingslíkur á að hún eyðist og sömu líkur á að hún eyðist ekki. Hugsa mætti sér, að tilraunin væri þannig, að eyddist frumeindin, gæfi hún frá sér eiturgas. Ef köttur væri í tilraunastofunni, hvort væri hann þá dauður eða lifandi að klukkutímanum liðnum? Eðlisfræðingar hafa komizt að raun um, að það er útilokað að segja fyrir um örlög frumeindarinnar. Sumir trúaðir vísindamenn telja, að á þessari ögurstund, þegar ákveðið er hvort frumeindin lifir eða deyr, geti guð látið til sín taka.
(Sbr. einnig athyglisverða grein Jóhanns Axelssonar prófessors um trú og vísindi sem birtist í Morgunblaðinu 3. september sl.)

Bréf til ritstjóra Morgunblaðsins
Matthías Johannessen skáld og rithöfundur
Ritstjórn Morgunblaðsins
Kæri Matthías.
“Vísindamenn tapa trúnni” er fyrirsögn í blaði þínu í dag. Neðar má m.a. lesa “vísindamenn sem standa framarlega á sínu sviði eru gjarnari en áður á að hafna trúnni á Guð”. Er þetta ekki svolítið leiðandi frétt? Gefur hún ekki í skyn að trú og vísindi eigi í útistöðum?
Undanfarið hef ég gluggað í bók sem geymir svör margra mætra vísindamanna við spurningum sem varða samband trúar og vísinda, uppruna alheims, uppruna lífsins, guðshugtakið, tilvist guðs og sitthvað fleira. Um samband trúar og vísinda hefur Max Planck einn af frumkvöðlum skammtafræðinnar þetta að segja “raunverulegar mótsetningar milli trúar
og vísinda eru óhugsandi því saman mynda þau heild”. Planck hlaut
verðlaun Nóbels árið 1918 fyrir framlag sitt til nýrrar heimsmyndar. B.D. Josephson hlaut Nóbelsverðlaun í eðlisfræði árið 1973. Aðspurður hvort hann komi auga á einhverja baráttu eða árekstur milli vísinda og trúarbragða svarar hann neitandi. Hann segir vísindamenn greina á um trúarbrögð en telur ekki að um grundvallar ágreining milli trúar og vísinda sé að ræða. Hann trúir á Skaparann.
Manfred Eigen fékk Nóbelsverðlaun 1967 fyrir framlag sitt til skilnings okkar á ofurhröðum efnahvörfum. Hann er gagnorður. “Ég tel að trú og vísindi útiloki hvorki né sanni hvort annað.” Ekkert hefur rekið á mínar fjörur sem stangast á við orð þessara heiðursmanna.
Árið 1988 skrifar Stephen Hawking: “Fram til þessa hafa vísindamenn verið svo önnum kafnir við smíði kenninga sem lýsa því hvað heimurinn er að þeir hafa gleymt að spyrja hvers vegna ... Takist að finna svar við þeirri spurningu yrði það lokasigur mannlegrar skynsemi, þá þekktum  við hugskot Guðs.” Þetta eru niðurlagsorðin í Sögu Tímans í þýðingu Guðmundar heitins Arnlaugssonar.
Sama sinnis er Nóbelsverðlaunahafinn Arthur L. Schawlaw. Hann hlaut verðlaunin 1981 fyrir framlag sitt til litrófsfræða leysigeisla. Hann spyr líka hvers vegna? “Einu mögulegu svörin eru trúarlegs eðlis” segir hann. “Ég þarfnast Guðs í alheimi og í eigin lífi.” Nokkrir lífeðlisfræðingar sem allir hafa hlotið Nóbelsverðlaun, Sir John Eccles 1963, Ragnar Granit 1967, Robert W. Holley 1968 og Werner Arber 1978, hafa þetta að segja um Guð í þeirri röð sem þeir eru nefndir.
“Ég skynja mig sem einstaka sjálfsmeðvitaða veru sem ég trúi að sé sköpuð af Guði.”
“Með takmarkanir vísinda í huga hef ég trúarlega afstöðu til hins óþekkta.”
“Ég held að tilvera Guðs verði ekki þekkt með vissu og sé því hluti af trúarlegum viðhorfum okkar.”
“Guðshugtakið hefur hjálpað mér.” Christian B. Anfinsen prófessor í líffræði við John Hopkins háskóla sem fékk Nóbelsverðlaun í efnafræði árið 1972 er ekki að skafa utan af hlutunum. "Ég held að það þurfi mikla heimsku til að vera guðleysingi.” Það er ekki mín reynsla.
Hér lagðist ég í ferðalög ­ en lýk þessu bréfi á bökkum Cam.
Raunvísindamenn eru ekki sérfróðir um trúmál. Ég er sammála Vladimir Prelog sem telur Nóbelsverðlaunahafa “ekki hæfari en annað fólk til þess að fjalla um Guð, trúarbrögð og framhaldslíf”. Sjálfur fékk hann Nóbelsverðlaun í efnafræði 1975.
Hitt veit ég að allir þeir vísindamenn sem ég hefi vitnað til standa svo “framarlega á sínu sviði” að það færi trúlega ekki fram hjá þeim ef eitthvað í þeirra greinum væri ósamrýmanlegt tilveru guðs. Án þess að gera lítið úr trúverðugleika fréttarinnar um vaxandi guðleysi vísindamanna "sem standa framarlega" hlýtur sú spurning að vakna hvort þeir hafi nú staðið nógu framarlega?
Þinn einlægur
Jóhann Axelsson.

Ódagsett:

Skuggi við Vegkantinn

Fuglinn skuggi
á veginum.

Við ókum yfir fuglinn
og vængbrotinn
lá skugginn
við vegkantinn

17. nóvember, þriðjudagur

Vaka-Helgafell gaf út nýtt sögusafn eftir mig í síðustu viku, Flugnasuð í farangrinum. Því hefur, held ég, verið vel tekið af þeim sem séð hafa, a.m.k. hef ég ekki heyrt annað. Silja Aðalsteinsdóttir sagði að þetta væri bezta sagnabókin mín, Þröstur Helgason og Jóhann Hjálmarsson fóru góðum orðum um bókina. Ég sé til. Einhverjir dómar eiga eftir að koma, veit það þó ekki. En Árni Þórarinsson hefur beðið mig um sjónvarpssamtal og er ég að hugsa um að verða við því, aldrei þessu vant. Ég hlakka svo sem ekkert til, síður en svo, en læt slag standa til að minna á bókina. Maður verður víst að reyna að lifa í samræmi við markaðsþjóðfélagið fyrst maður er fæddur inn í það. En það er ekkert sérstaklega geðfellt samfélag. Þeir hjá Vöku-Helgafelli hafa staðið mjög vel að útgáfu þessarar bókar og er ég þeim þakklátur. Vonandi selst hún eitthvað. Ég fór í síðustu viku með Pétri Má, útgáfustjóra Vöku-Helgafells, í tíma hjá Ástráði Eysteinssyni professor í Háskólanum, þar var álitlegur hópur ungs fólks og var gaman að tala við það þann klukkutíma sem til var ætlazt. Þetta eru víst bókmenntafræðingar framtíðarinnar. Þá fór ég einnig og las upp ásamt nokkrum öðrum rithöfundum á samkomu sem móðurmálskennarar héldu í síðustu viku og hafði af því nokkra ánægju. Silja var þar einnig og sagði,
Þú slóst þér upp, ég heyrði það eftir upplesturinn. Það var synd að þú skildir þurfa að fara því ég er viss um að þú hefðir haft ánægju af að tala við viðstadda ef þú hefðir getað verið allan tímann.
Vona að þetta sé rétt. Silja las úr nýju safni með kvennaljóðum sem hún hefur valið en auk hennar lásu Sjón og Kristín Ómarsdóttir, og kannski einhverjir fleiri, ég veit það ekki. Þá hefur Silja beðið mig um dálítið samtal í DV og Eiríkur Guðmundsson hefur beðið mig um samtal um nýju bókina í Ríkisútvarpið. Hann talar við mig aftur á mánudag. Þetta er svo sem ágætt. Ég ætla að minnsta kosti ekki að herma eftir Guðbergi Bergssyni sem sagði í samtali við Dag, þriðjudaginn 3. nóvember sl., að rithöfundar fengju oft lánað efni, t.d. úr dagbókum látinna gamalmenna - og sparkaði þannig í nafnlausan Kiljan vegna Ljósvíkingsins,en hann virðist ekki þola  nóbelsskáldið af einhverjum ástæðum - og semja upp úr þeim, en skáldsagnahöfundar semja allt úr eða út frá eigin persónu, eins og Guðbergur komst að orði.
Þetta er einkennileg!
Allt verður þó til af einhverju efni eins og Snorri sagði. Einnig það sem Guðbergur er að setja saman. “Ég lít á mig sem fyrsta íslenska skáldsagnahöfundinn”!! segir Guðbergur ennfremur og færir þau rök að því að skáldskapur sé hreinn tilbúningur þótt hann sé vitsmunalegur. Þetta eru ótrúlegar staðhæfingar og náttúrulega alveg út í bláinn. Eini skáldskapurinn  sem hefur ekki nein tengsl við umhverfið og fer einungis fram í höfðinu á skáldinu eru einhvers konar ævintýri eða Fornaldarsögur Norðurlanda  sem eru uppspuni frá rótum ef þær hafa þá einhverjar rætur. Það þarf barnslega snillinga til að skila slíku efni. Má ég þá heldur biðja um ritstýrða sagnfræði Íslendinga sagna þótt Guðbergur mundi áreiðanlega telja þá fremur rithöfunda en skáld! Annars er Guðbergur yfirleitt alltaf sitt eigið viðfangsefni og það er náttúrulega efniviður út af fyrir sig, ekki ósvipað því sem þeir nota sem spinna úr umhverfi sínu og breyta því í skáldskap.
Ég svaraði nokkrum spurningum Silju þessa efnis í gær og við sjáum til hvað úr því verður í DV. Vona að þar komi í ljós afstaða mín til þessa máls.

Hef verið að hugsa um það sem ég sá og heyrði í norska sjónvarpinu þegar við vorum þar í haust. Í umræðuþætti kom fram að eitthvert íslamskt blað í Túnis eða Marokkó hafði sagt að allar norskar konur væru hórur. Um þetta var svo þvargað í þessum þætti og tóku tvær norskar konur þátt í umræðunum og fóru geyst og svo einhver íslamskur innflytjandi. Hann reyndi að skýra hvað viðkomandi blað hefði átt við, en tókst það misjafnlega.

Mér skilst að múslimar hafi þær forsendur fyrir slíkum fullyrðingum að vestrænar konur geti verið léttar á bárunni. En það kemur málinu að sjálfsögðu ekkert við. Ég sagði við Hönnu, sem var mér að vísu ekki sammála,ekki endilega,
Þessir gaurar breyta konunum sínum í hórur af þeirri einföldu ástæðu að þeir knýja þær til samlags við sig eða giftingar án þess þær vilji. Oft ákveða feðurnir hverjum ung stúlka skuli gefin. Hún elskar ekki þann sem eignast hana og þess vegna breyta þeir henni í hóru, bæði faðirinn og eiginmaðurinn.
Þannig tel ég að íslamskt samfélag hafi tilhneigingu til að breyta mörgum konum í hórur,tam. í haremum. Konur sem elska ekki þá sem þær þurfa að sofa hjá eru náttúrulega einhvers konar hórur.
En ef kona elskar manninn sem hún sefur hjá, þá er hún engin hóra, jafnvel þótt það sé gert utan hjónabands. Ástin ein skipir öllu máli. Hún er sá nálaroddur sem allt veltur á, svo að skírskotað sé í Lorca.
Það sem gerir konur að hórum eru samfarir fyrir peninga, hlunnindi eða lífsgæði, án ástar og hlýju og tillitssemi og gagnkvæmrar virðingar. Í ástlausum samförum er konan einhvers konar áhald. Maðurinn svalar sér með því að nota konuna til að fullnægja líkamlegum þörfum. Hann er eins og tuddinn í Stardal - og raunar miklu verri því að náttúran ætlar nautinu að búa til kálf.

En hitt veit ég auðvitað að það er enginn skortur á kynferðisofbeldismönnum hér á vesturlöndum.
En það er annað mál og nógu alvarlegt út af fyrir sig.

Er að hugsa um að skrifa sögu um mann sem upplifir það að endurskoðandi hans er alki. Svo kemur hann eitt sinn til hans og þá segir endurskoðandinn, Ég er að fara á Fríport.
Jæja, segir maðurinn, hvernig stendur á því.
Ég þarf bara að skreppa þangað.
Ertu í einhverjum sérstökum erindum?
Já, að sjálfsögðu. Ég er alki.
Ha, hvað segirðu?
Jú, vissirðu það ekki.
Nei. En þú ert eitthvað öðruvísi en þú átt að þér að vera.
Já, auðvitað. Ég er allt öðru vísi. Þetta er í fyrsta skipti sem þú hefur hitt mig edrú.
Hvað segirðu?
Já, og nú er ég að fara á Fríport. Þú sérð þessa skápa í skrifborðinu mínu. Ég hef alltaf geymt léttvínsflöskur í þessum skápum. Ég byrjaði að drekka á morgnana og svo var ég í því allan daginn. Alltaf orðinn vel mjúkur um hádegi. Nú er nóg komið. Nú ætla ég að hætta. En þú skalt ekki hafa neinar áhyggjur. Þú veizt að skattaframtalið þitt hefur ævinlega verið pottþétt enda hef ég vanizt því að vinna mín störf vel kenndur.
En hérna... ertu viss....
Þú skalt ekki hafa neinar áhyggjur, engar. Ég mun sjá um skattaframtalið að venju. Engar áhyggjur þótt ég sé edrú.
En - ertu alveg viss um það?
Handviss.
Þeir tala saman nokkra stund og maðurinn kveður endurskoðandann hikandi. Hann er á báðum áttum. Hann hefur aldrei vitað til þess að hann hafi svo mikið sem drukkið bjór, hvað þá að hann væri alki. Er hann kannski orðinn vitlaust? hugsar hann með sér. En hann getur ekki móðgað endurskoðandann, svo mikið sem hann á undir honum, reynir að bíta á jaxlinn og láta kylfu ráða kasti.
Engar áhyggjur, segir endurskoðandinn og opnar aðra skáphurðina. Þú sérð að skápurinn er tómur, galtómur.
En - ertu þá nógu upplagður til að klára þetta?
Þú getur bókað það.
Maðurinn kinkar kolli og getur ekki leynt áhyggjum sínum.
Ég held þú sért að gera að gamni þínu, segir hann.
Nei, nei, segir endurskoðandinn og tekur flugmiða af skrifborðinu. Hérna eru farmiðarnir vestur, þú getur sjálfur litið á þá. Ég fer ekki á morgun heldur hinn. En ég klára framtalið áður.
Jæja, segir maðurinn. Gott. Þakka þér kærlega fyrir.
Og þeir kveðjast.
Tíminn líður og endurskoðandinn er í Ameríku heilt misseri. Þegar hann kemur heim aftur hefur hann samband við skjólstæðing sinn.
Þetta hefur gengið vel? segir hann.
Já, já, segir endurskoðandinn, sigri hrósandi. Ég er kominn yfir þetta.
Þeir fara yfir skattaframtalið og bera það saman við álagningarseðilinn og allt kemur heim og saman.
Nú ætla ég að halda mér þurrum það sem eftir er, segir endurskoðandinn ákveðið.
Þeir takast í hendur upp á það og mæla sér mót við næsta framtal.
Og enn líður tíminn.
Þegar kemur að næsta framtali fer maðurinn á fund endurskoðanda síns sem situr við skrifborðið og brosir út undir eyru.
Þú sérð ég stend mig, segir hann.
Já, ég sé það, segir maðurinn og fær sér sæti. Þú stendur þig eins og hetja.
En það er komið babb í bátinn, segir endurskoðandinn og hristir höfuðið.
Nú, segir maðurinn. Eru skáparnir ekki tómir, ha?
Jú, jú, þeir eru tómir, galtómir.
Hann opnar skápana og sýnir manninum.
Galtómir, endurtekur maðurinn. Spyr síðan hugsi:
En hvað þá? Hvaða babb er komið í bátinn?
Ja, það er þannig, að nú hangir hjónabandið á bláþræði.
Jæja, það var slæmt.
Nei, nei, það er ekkert slæmt. Það mátti svo sem búast við því. Konan hefur verið að skýla mér og vernda öll þessi ár og reynt að koma í veg fyrir að nokkurn mann grunaði að ég væri alki. En svo þegar ég kom alheill heim að vestan er hennar starfi lokið. Hún er búin að missa barnið sitt.
Ha?
Og hún hefur ekkert að gera lengur. Hlutverki hennar er lokið. En við skulum ekki hafa áhyggjur af því, þetta fer allt einhvern veginn. En sem sagt, hún er búin að missa glæpinn.
En getur hún þá ekki, getur hún - ekki komið sér upp nýjum glæp?
Það er einmitt það, ég hef nú eiginlega verið að hugsa um það, en ekki fundið flöt á því.
En hvað segir hún sjálf?
Ja, hún er orðin hundóánægð.
Ég skal trúa því. Ég væri það einnig í hennar sporum.
Ha?
Ja, það getur enginn unað við það að hætta að vera ómissandi.
Já, þú átt við það. En það er nú einmitt það sem hefur gerzt. Hún er ekki lengur ómissandi.
Og hvað ætlarðu að gera í málinu?
Ja, það er þessi bláþráður. Spurningin er hvort hann heldur eða ekki.
Já, einmitt. Við vitum það ekki ennþá.
Nei, en það hlýtur að koma í ljós fyrr en seinna, segir endurskoðandinn og réttir manninum höndina. En þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur, engar. Ég mun sjá um framtalið að venju, það geturðu bókað.
Þakka þér fyrir, en ja...
Ekkert en - þú verður á grænni grein, en ég veit ekkert um bláþráðinn.
Nei, auðvitað ekki.
Ef hann slitnar þá er hjónabandinu lokið og við verðum að sjálfsögðu að taka því sem að höndum ber. Það höfum við alltaf gert. En hún verður þá að koma sér upp öðru barni. Ég er aftur á móti að hugsa um að fá mér hund.

Þegar gamla klíkan hittist uppi á Morgunblaði um daginn og ég bauð þeim í hádegismat, hvíslaði Gylfi Þ. Gíslason að mér,

Finnst þér ekki gott að Gyrðir (Elíasson) skyldi hafa fengið bjartsýnisverðlaunin?
Jú,ágætt, sagði ég, hugsunarlaust.
Já, ég vissi það, sagði Gylfi, ég sagði þeim að láta hann fá þessi verðlaun, það lyftir undir hann. Það hefur verið níðzt á honum undanfarið, hann hefur ekki fengið þá styrki sem hann hefur sótzt eftir.
Nei, einmitt, sagði ég. Það var ágætt hann skyldi fá þessi verðlaun.

Gylfi Þ. gladdist eins og barn, en ég var sakleysið uppmálað.

Þriðjudagur 24. nóvember

Sjónvarpssamtal okkar Árna Þórarinssonar verður sýnt í kvöld. Undanfarið hef ég verið beðinn um að koma fram nokkuð víða s.s. í bókmenntakennslu í Háskólanum, á samkomu móðurmálskennara, í Hveragerði. Kannski maður rísi upp eins og Lazarus.

Talaði við Jóhannes Nordal í gær. Okkur líkar hvorugum hvernig Þorvaldur Gylfason bjó til nýjan Laxness í sjónvarpsþætti í fyrrakvöld. Það var engu líkara en aðalfrjálshyggjumennirnir í sögu landsins væru Jón Sigurðsson, Einar Benediktsson og Halldór Kiljan.
Ólafur Thors var límdur upp á vegg með sjónvarpstæknilegum tilburðum eins og hver annar haftapostuli!
Það er hægt að búa til hvaða mynd af hverjum sem er með réttum tilvitnunum og röngum tilburðum.
Okkur Jóhannesi lízt ekki á blikuna, hvernig Sverrir vinur okkar Hermannsson hefur lent í tröllahöndum því nú á hann víst að stofna klofinn flokk á laugardag. Réð honum til í símtali í gær að koma sér út úr þessum hremmingum. Hann hefur verið í vondum félagsskap eins og ég hef margsagt honum. Hann á betra skilið.

Við Styrmir borðuðum með Þorsteini Pálssyni í gær. Honum finnst  sendiherrastaða í London sæmileg lausn á sínum málum en liggur ekki á því að helzt vildi hann verða ritstjóri Morgunblaðsins. Sízt af öllu hefði ég á móti  því. Þorsteinn hefur aldrei yfirgefið sitt gamla Morgunblaðshreiður sama á hverju hefur gengið. Það verður ekki sagt um öll eggin!

25. nóvember, miðvikudagur

Samskraf okkar Árna Þórarinssonar í sjónvarpinu í gærkvöldi. Mikil og jákvæð viðbrögð, hvað sem það merkir. En ég er hæstánægður. Jossa systir hringdi og sagði að ég hefði átt að vera í hvítri skyrtu!
Samtal Silju Aðalsteinsdóttur við mig í DV í dag. Sagði þar m.a.:
““Ég sagði við þig síðast þegar þú tókst við mig viðtal að ég hefði æ meiri áhuga á þjóðfélaginu innan hauskúpunnar,” segir Matthías við þeirri spurningu. “Þar er mitt þjóðfélag. Það er mjög húmaistískt þjóðfélag en það er þjóðfélag draumsins, milli draums og veruleika. Ég held reyndar að á þeim mörkum verði meira og minna allur skáldskapur til. En ef ég ætti að svara þér núna myndi ég bæta við þetta að ef hausinn á mér er hellir  þá eru þessar sögur og persónur þeirra flöktandi skuggar í hellismunnanum. Þannig getum við skírskotað til gamallar grískrar heimspeki og velt fyrir okkur hvernig veröldin er utan við hauskúpuna. En ég hef farið út fyrir hauskúpuna í þessari bók meira en í öðrum bókum.”
- Meinarðu að það sé meiri veruleiki í þessari bók en öðrum?
“Meinandi að þessar sögur eru sprottnar úr umhverfi mínu. Mörkin milli veruleika og skáldskapar í þeim eru að vísu óljós en það er alltaf einhver handfesta og ég handlása mig eins og ég get að einhverju marki.
Ég reyni að skrifa þessar sögur eins og ég held að Íslendinga sögurnar hafi verið skrifaðar,” heldur Matthías áfram, “enda lít ég svo á að allur minn skáldskapur sé annað fólk. Ef það væri bara inni í hauskúpunni, bara mínar hugmyndir, rótlausar, þá væri ég alltaf að skrifa einhverjar fornaldarsögur Norðurlanda, og ég hef ekki áhuga á því. Ég vil að það sem ég skrifa sé rótfastara í veruleikanum en arfinn sem fýkur um allt. En eftir því sem ég eldist geri ég minna úr frásögninni, efninu. Það er búið að skrifa um öll efni heimsins. Ég hef æ meiri áhuga á efninu í stílnum, efninu í listinni.”
- En þessi bók er einmitt svo efnismikil,” andæfir blaðamaður, “og þarna er áþreifanlegur veruleiki - eins og samtalið sem blaðamaðurinn á við gamla sjómanninn. Sjóarinn segir að blaðamaðurinn sé ungur og sterkur og eigi að fara á sjóinn - leynist þarna undir einhver eftirsjá eftir öðru lífi?
“Ég var um skeið á sjónum,” svarar Matthías óbeint. “Þar kenndu þeir mér að stíga ölduna og ótalmargt fleira sem hefur fylgt mér alla tíð. Sem ungur blaðamaður sóttist ég eftir að tala við sjómenn og lagði mig eftir tungutaki þeirra. Ég get ekki hugsað mér fallegra tungutak en sumir sjómenn hafa haft.”
- Var þesi setning sögð við þig?
“Það held ég ekki. Þessi saga á rætur í gömlum samtölum en svo er blómið bara eins og ég vil hafa það. Þú tekur lífið, veruleikann í kringum þig, byggir hann inn í draum sem verður nýr veruleiki. Það er skáldskapur.”
- Hvernig settirðu þessa bók saman? Varð hún til einmitt svona, með löngum sögum og stuttum á milli?
“Já. Hún hefur búið með mér árum saman,” segir Matthías. “En þegar ég var búinn að eignast forlag sem vildi gefa úr bækurnar mínar þá ákvað ég að klára hana og hreinskrifaði hana í samfellu eins og skáldsögu - eða ljóð, því ég var í ljóðrænum stellingum þegar ég skrifaði hana. Undanfara sinn á hún í ýmsum verkum um utangarðsmenn, leikritinu um spákonuna og sjóarann til dæmis, þar sem reynt var að rækta sama tungutakið. En ég er ekki eini utangarðsmaðurinn í landinu, þú veist það. Við urðum öll utangarðs á því andartaki sem forsjónin rak okkur út úr Eden.””

Í Morgunblaðinu í dag er skýrt frá ágreiningi forsetans og Halldórs utanríkisráðherra um forsetaembættið. Sem sagt, endurtekinn ágreiningur. Skrifum leiðara um það í blaðið á morgun. Minni viðkvæmni nú en áður fyrir athugasemdum við þetta heilaga embætti.

26. nóvember, fimmtudagur

Fékk þetta bréf frá Árna Bergmann:
“Reykjavík, 25.11. ‘98.
Kæri Matthías.
Heill og sæll og þakka þér fyrir síðast. Ég var að enda við að setja saman frásögnina um Andrej Sakharov sem fyrir nokkru bar á góma í spjalli okkar og tengdi hana við sumt af því sem ég var að þusa um á Rotaryfundinum. Ég sendi þér skrifið í þeirri von að því megi finna stað í Lesbókinni.
Mér þótti vænt um að þú lést okkar Gautaborgsævintýris og svo fornra ritdeilna að góðu getið í sjónvarpspjallinu í gærkvöldi. Þú talaðir um það að þú hefðir góða nautn af því að fara yfir handrit og nostra við texta og breyta og bæta og mér datt í hug hvort einmitt slík ánægja (sem ég þykist sjálfur vera farinn að þekkja æ betur með árunum) sé ekki rökvíst framhald af þeim glæfralega hraða sem fylgir blaðamennsku, einskonar umbun eftir deadline-farganið.
Svo óska ég þér til hamingju með smásagnasafnið nýja og vona að þér gangi allt í haginn.
Árni Bergmann.”

27. nóvember, föstudagur

Höfum enn einu sinni þurft að glíma við ranghugmyndir Ólafs Ragnars í leiðurum. Þó virðist enginn hafa áhuga á því. Öðruvísi mér áður brá. Mér hefur aðeins dottið í hug, að forsetaembættið sé ekki eins heilagt og áður, það skyldi þó ekki vera?
Málið afgreitt í leiðara á morgun sem Styrmir ætlar að skrifa og ég fer svo vandlega yfir.

28. nóvember, laugardagur

Flutti stutt erindi á fréttaritaranámskeiði Morgunblaðsins í morgun. Talaði enn einu sinni um réttlæti og siðfræði í blaðamennsku. Vitnaði m.a. í þessi orð Steingríms Hermannssonar í nýju ævisögubindi hans - og lagði m.a. út af þeim:
“Þrátt fyrir mikil blaðaskrif í Bandaríkjunum birtu íslenskir fjölmiðlar ekkert um forræðismálið eða réttarhöldin í Bandaríkjunum. Sveinbjörn mágur minn Dagfinnsson setti sig í samband við ritstjóra blaðanna. Féllust ritsstjórarnir allir á að deilan væri einkamál mitt og ekki yrði um hana fjallað nema með mínu leyfi. Morgunblaðið hætti meira að segja við birtingu fréttar sem blaðið hafði verið búið að skrifa. Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, safnaði öllum úrklippum og fréttum sem blaðinu bárust og lét mig hafa. Íslensku dagblöðunum bárust reglulega slíkar sendingar frá Bandaríkjunum. Matthías tjáði mér jafnframt að ritstjórninni hefði borist mjög rætið bréf frá Dollý. Mér þótti mjög vænt um þessa tillitssemi fjölmiðlanna hér heima. Ég efast um að eins yrði á málum tekið á sumum bæjum nú þó Morgunblaðið hafi ennþá óbreytta stefnu að þessu leyti. Fyrir það á blaðið hrós skilið.”
Ég man þetta að vísu ekki nákvæmlega. En þetta er ágæt dæmisaga og frásögnin af Röskum drengjum í bók Steingríms og reynsla okkar í vegavinnunni á Vatnsskarði sumarið ‘44 að ég held algjörlega rétt. Hafði lesið hana áður yfir í próförk.

6. desember, sunnudagur

Í síðustu viku kvað hæstiréttur upp dóm um kvóta- og veiðiheimildir. Núverandi  úthlutunarkerfi er dautt og ómerkt. Alþingi hefur verið staðið að því að brjóta stjórnarskrá lýðveldisins með 5. gr. laga frá 1990, mismunun þegnanna er óheimil, jöfnuður skal ríkja þegar auðlindin er annars vegar. Það er skammarlegt fyrir Alþingi að hafa lögfest brot á stjórnarskránni og afleiðingarnar ófyrirséðar. Ráðamenn hefðu átt að vera búnir að átta sig á þessu fyrir löngu. Það var eins og blaðamenn á Morgunblaðinu töluðu um þetta sín á milli, en þeir sögðu að Morgunblaðið hefði kveðið upp þennan sama dóm, eða svipaðan, fyrir hálfum öðrum áratug. Forystumenn hefðu átt að vera búnir að átta sig á þessu fyrir löngu og nú sitja þeir eftir eins og hlass á eigin rassi.
Enginn veit afleiðingarnar.
Mér lízt samt ekki á hvernig ýmsir ráðamenn hafa talað um þennan dóm, eiginlega af lítilsvirðingu. Tala um að hann sé óljós, byggist á hugtakaruglingi og eiginlega sé hér ekki um neitt stórmál að ræða!
Við bendum á það í Reykjavíkurbréfi í dag að þetta væri ekki okkar skilningur. Forsendur dómsins eru alveg ljósar eins og við bendum á og í þeim eru notuð þau orð sem við höfum verið að tönnlast á undanfarin ár eins og sameigin, jöfnuður og mig minnir einnig réttlæti eða ranglæti, mismunun. Og þar er gömlum fullyrðingum Sigurðar Líndals um atvinnueignarréttindi sópað út af borðinu, ef grannt er skoðað.
Þetta er að sjálfsögðu mjög alvarlegur dómur og við höfum reynt að gæta hófs í umfjöllun okkar um hann, en það er erfitt, þegar um svo stórt mál er að ræða.
Ég hef hvorki verið glaður né hissa yfir þessum dómi. Hann hefur svo sannarlega ekki komið mér á óvart. Hann hefði ekki átt að koma neinum á óvart sem hefur tilfinningu fyrir því samfélagi sem við lifum í og jafnræðiskröfum þess. Við eigum öll Ísland og við eigum öll auðlindina, það er allt og sumt. En það er vandi hvernig með þessa fjársjóði skuli fara. Það hefur ekki verið leyst ennþá og mun áreiðanlega taka nokkuð langan tíma að leysa þann Gordíons-hnút. En hvað sem því líður, þá höfum við Morgunblaðsmenn ekki brotið stjórnarskrána, hvað sem um okkur má segja!

Ég hef áhyggjur af því að forseti Íslands komist upp með það, þegar forystumenn í stjórnmálum horfast ekki í augu við blákaldan raunveruleika, að þykjast vera hin eina rödd lýðveldisins, þ.e. þjóðarinnar. Það virðist vaka fyrir Ólafi Ragnari. Ég tel að við þurfum ekki á slíku bessastaðalýðræði að halda, þvert á móti. Við þurfum á að halda beinu lýðræði og við hefðum átt að vera búin að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um auðlindina, veiðileyfin, veðsetninguna, arfaréttinn og réttlætið fyrir löngu.
Nú er allt í hnút.
Ég sé engan Alexander mikla á sviðinu, engan sem getur hoggið á þennan Gordíons-hnút.
Ekki enn.

Hef verið að lesa nokkrar bækur, þ. á m. ævisögu Keats sem mér var gefin um daginn. Athyglisverð bók um baráttu skálds fyrir lífi sínu. Af slíkum lestri má sjá að lífið er bláþráður sem getur slitnað hvenær sem er. En maður fær engar skýringar á því í raun og veru af hverju svona ungur maður eins og Keats verður jafn mikið skáld og raun ber vitni. Það hlýtur að vera meðfætt; líklega meðfædd viðbrögð við umhverfinu eða ofnæmi fyrir því.
Hef verið að lesa ýmislegt fleira, svo sem klassískar draugasögur og úrval smásagna frá ýmsum löndum, án sérstakrar hrifningar; írskar (þó beztar), skotzkar, brezkar, og velskar. Enn fremur skáldsögu Martin Amis, Night Train, og tvær sögur eftir Cormac McCarthy, Cities of the Plain og The Crossing. Það er lærdómsríkt að bera svona skáldsögur saman, McCarty er knappur og kemur efninu mjög vel til skila með sínum ljóðræna stíl, en Amis notar einhvers konar flæðistíl sem ruglar mann í ríminu og dregur athyglina frá söguefninu. Þetta flæði er sem sagt truflandi. Mér er óskiljanlegt hvað Einstein og sköpunarverkið koma við þessari sérkennilegu glæpasögu um sjálfsvíg, ástríður, breiskleika. Og allt á þetta að rúmast í höfðinu á ofurvenjulegri lögreglukonu!. Allur þessi orðaflaumur dregur athyglina frá kjarnanum og eiginlega finnst mér þreytandi að lesa bókina.
Sögur McCartys sem fjalla um einhvers konar kúreka eru aftur á móti mjög vel skrifaðar, einkum samtölin.  Ég vildi að íslenzkir skáldsagnahöfundar gætu skrifað jafn góð samtöl. Önnur sagan endar með því að bróðir annars kúrekans deyr og hann situr yfir gröf hans í eyðimörkinni, ef ég man rétt, hin fjallar um ást kúreka á vændiskonu og dapurlegum örlögum þeirra; samt er sagan fullkomlega sannferðug.
Þetta eru kannski ekki mikil söguefni, en aðferð höfundar og skáldleg tilfinning hans fyrir fínlegum stíl gera sögurnar eftirminnilegar, maður gleymir þeim ekki í bráð.
Næturlestin er allsérstæð, öðruvísi; þrátt fyrir málalengingar á hún til athyglisverða spretti. En eiginlega fjallar hún ekki um neitt, samt fjallar hún um uppáferðir, og að mér skilst sifjaspell. En persónurnar snerta mann ekki. Manni er skítsama um þær. Þrátt fyrir allan ölduganginn er þetta grunnsævi. Og það er erfitt að ná tökum á efninu, lifa sig inní það. Engu líkara en það sé fest með einhvers konar tjaldhælum sem hafa losnað. Og ómögulegt að komast inn í þetta tjald. Samt er alltaf verið að bjóða manni inn, alltaf verið að segja eitthvað mikilvægt, en það er samt ekkert eftirminnilegt. Ég man einna helzt eftir því hvað höfundur notar oft orðin fuck eða fucking sem merkja held ég ekkert orðið í raun og veru. Það er eins og sagt væri um einhvern á Íslandi að hann væri úti að skíta, hvað merkir það? Eiginlega ekkert - nema að hann sé ekki úti að skíta! Eða - það kjaftar á honum hvur tuska, en samt kjartar enginn tuska á nokkrum manni. Eða - að eitthvað sé út í bláinn, samt er þar allt annað og ýmislegt, t.a.m. fjöll og himinn.
Þannig er tungan heldur ónákvæmkt tæki, eða óexakt eins og Þórbergur mundi sagt hafa - og talmálið helzt hannað að lágum hugsunum.

Faðir minn ól mig upp í aðdáun á pólarförum Norðmanna, Nansen og Ámundsen. Ferð hans á Suðurpólinn var einstæður sigur. En ósigur Scotts endingarbetra drama og eftirminnilegra - vegna dagbókanna sem hann skrifaði jafnóðum. Ritað mál hefur ævinlega síðasta orðið.

Hef hlustað á þessar dagbækur Scotts, lesnar af Edward Fox sem við sáum í London á sínum tíma í Cocktail Party Eliots. Þetta er áhrifamikil spóla. Pólarvindurinn nístir merg og bein. Scott og félagar hans voru hetjur og dagbækurnar einhvers konar guðspjall karlmennskunnar.

Horfði í gærkvöldi á spólu sem Guðjón Lárusson, læknir, frændi minn, lánaði mér og fjallar um uppáhald okkar, Horowitz; þ.e.a.s. Horowitz leikur þriðja píanókonsert Rachmaninovs, með fílharmóníuhljómsveitinni í New York undir stjórn Mehta.
Ótrúleg spóla.
Horowitz er engum líkur. Fingurnir á honum hreyfast jafn hratt á píanóborðinu og vængir þytfugla, eða kólibrí-fugla, sem geta staðið kyrrir í loftinu vegna þess að þeir blaka vængjunum allt að 80 sinnum á sekúndu.
Þannig er einnig Horowitz, hann haggast ekki.

Ég hef einnig verið að hlusta á líf og list Mozarts af spólum. Í honum mætist guðdómurinn og maðurinn í sínum jarðnesku tötrum.

Sjónvarp

Hef verið að fara yfir athyglisverða bók um sjónvarp og áhrif þess. Hún heitir How To Watch TV-News  og er eftir Neil Postman og Steve Powers.

Í þessari bók er m.a. fjallað um það hvernig sjónvarpið lagar sig að áhorfendum, þannig að það eru ekki einungis þeir sem nota sjónvarpið, heldur notar sjónvarpið þá einnig á sinn hátt. Mér þykir sú fullyrðing sérstaklega hnýsileg að engum manni dugi sjónvarpið einvörðungu og eru ýmsar ástæður fyrir því.
Sjónvarpið fleytir kellingar.
En þessar kellingar eru bæði áþreifanlegar og mög svo sýnilegar meðan á þeim stendur.
En hvað svo?
Þegar sýndar eru myndir frá Kosovo og átökunum þar fylgir engin skýring á því, af hverju þessi átök stafa eða aðrar forsendur til skilnings á því sem verið er að sýna á skjánum.Hörmungarnar eru bara sýndar og þær festast í minninu meðan á sýningu stendur og næstu daga á eftir, en gleymast svo, ef Kosova er ekki lengur í fréttum.
Þannig er því einnig farið um hörmungarnar í Hondúras eftir hvirfilbylinn mikla sem lagði landið nánast í rúst, svo að annað nýlegt dæmi sé tekið. Enginn vissi neitt um Hondúras, en allir vissu nú að landið hafði verið lagt undir vatn og áratuga uppbygging unnin fyrir gýg.

En hvaða uppbygging og hvaða land? Sjónvarpið segir ekki frá því, ekki frekar en forsendum stríðsins á Balkanskaga.

Höfundar segja að þeir sem láta sér nægja sjónvarp séu á villigötum.
Engum nægi sjónvarp. Sjónvarp geti verið ágætt til að bregða upp skyndimyndum, en enginn geti verið án prentmiðla, sem vill vita hvað er undir þessu blákalda yfirborði. Þeir taka dæmi um kvikmynd frá Torgi hins himneska friðar og ungum stúdent sem stendur fyrir framan fallbyssukjaft aðvífandi skriðdreka. Það er áhrifamikil mynd. Hún sýnir það sem þarna gerðist. Hún minnir, segja höfundar, á þá fullyrðingu Mao Zedong að valdið styðjist við byssukjaftana.
En þeir benda jafnframt á að þessi mynd sýni einnig það, sem hún segir ekki; að sá hefur líka vald sem stendur fyrir framan byssukjaftana, hann ógnar og hann hefur orðið til þess að mörg alræðisríki hafa hrunið til grunna á okkar dögum.
En hvað veit sá um uppreisn stúdenta á Torgi hins himneska friðar sem hefur ekkert lesið um Kína og þekkir hvorki haus né sporð á kínverskri sögu, samtíð eða arfleifð. Hann veit nánast ekkert annað en það að ungir stúdentar hafi staðið fyrir framan skriðdrekabyssur og ógnað alræðisstjórn. En hann þarf á prentmiðlum að halda til að komast í snertingu við þá sögu og þá samtíð sem er forsenda þessara harmsögulegu atburða. Skoðanakannanir hafa sýnt að bandarískir stúdentar halda flestir að Kína sé norðan eða sunnan við bandarísku landamærin.
Höfundar tala einnig mikið um mörkin milli raunveruleika og sýndarveruleika, en þau séu oft óljós í sjónvarpi. Margir góðir fréttamenn fjalli að vísu um mikilvæga atburði og takist þeim stundum að koma þeim vel til skila, en þó sé oft um brellur að ræða, þegar leikarar eru valdir í þularstarfið. Oft sé þarna mjótt á mununum, en mikið sé upp úr því leggjandi fyrir sjónvarpsstöðvarnar að efnið gangi í áhorfendur eins og hnífur í feitt kjöt og sé þá ekki alltaf mikill munur á hasarnum í fréttum, auglýsingum eða jafnvel veðurfregnum. Margir fréttamenn, eða þulir, koma ekki nálægt samningu fréttanna, ekki frekar en þær sjónvarpsstjörnur sem segja veðurfregnirnar með sjónvarpstilburðum. Þetta held ég að vísu eigi ekki við hér heima.
Hér sé um mjög fróðlegt efni að ræða, enda hafi bandarískt sjónvarp orðið til þess að Bandaríkjamenn séu nú einhver þekkingarsnauðasta og óupplýstasta samfélag um getur. Að vísu megi ætla að fimmtungur sjónvarpsáhorfenda hugsi sitt, en það er ekki fólkið sem styðzt einvörðungu við sjónvarpsefni, heldur hinir sem leita til prentaðs máls og breyta hráu fréttaefni dagslegs lífs í mikilvæga  þekkingu.
Það sem mér þykir einna merkilegast við fullyrðingar höfundanna eru bollaleggingar þeirra um það, að fjöldi sjónvarpsáhorfenda opnar fyrir tækið til að sjá veröld sem er þeim fjarlæg og kemur þeim í raun ekkert við. Þeir sjá merki hungurs, ofbeldis og dauða, en þetta er sýndaveröld sem er þeim fjarlæg og þeir fagna því með sjálfum sér; fagna því að þeir skuli ekki búa við þessar aðstæður, þetta er sýndarveröld eða - þetta er heimur annars fólks og þeir gleðjast innst inni yfir því að hafa ekki þurft að upplifa svo ógnandi staðreyndir í umhverfi sínu. Ef morð eða glæpir eða ofbeldi er sýnt úr þeirra eigin samfélagi, þakka þeir guði fyrir að þeir eru sjálfir, þrátt fyrir allt, utan við þessa ógnlegu veröld. Þetta er heimur annars fólks. Og þeir loka fyrir sjónvarpið. En þá er einnig á hitt að líta að tilveran er ekki eins slæm eða hættuleg - og fréttirnar benda til. Þær fjalla sem betur fer um undantekningar - og á það raunar við um mikinn hluta allra frétta.
Borges sagði við mig á sínum tíma að það sem gerðist á leiksviði væri jafn mikilvægur atburður og hvert annað atvik úr daglegu lífi. Ég er ekki viss um að þetta sé rétt. Listrænt verk á sviði getur að sjálfsögðu haft mikil áhrif á sálarlíf okkar og hugsanaferli, en við erum ekki þátttakendur í þessari tjáningu, við þurfum ekki að gefa leikurunum ráð; við þjáumst ekki með þeim á sviðinu. Og þegar leiknum er lokið, ljósin kveikt og tjöldin falla, þá stöndum við upp úr stólunum okkar og hverfum inní þá veröld sem er framandi þeim heimi sem hefur birzt okkur á sviðinu; hverfum inní okkar eigin veröld, laus við þær þjáningar og þau vandamál sem við upplifðum andspænis sviðinu, ekki sem þátttakendur, heldur áhorfendur.
Þannig upplifum við einnig sýndarveröld sjónvarpsins, við slökkvum á tækinu stöndum upp - sýningunni er lokið. Sjálf erum við hólpin.
Höfundarnir segja frá eldi í háhýsi. Fréttamenn eru sendir á staðinn, það er bein útsending. Það næst samband við íbúa sem eru fastir á einni hæðinni og komast ekki út fyrir reyk. Sem sagt, hætta á ferðum(!) Þyrla er send á vettvang. Það berast fregnir af dauðsföllum. Þetta er gott sjónvarpsefni. Þetta er að gerast meðan við horfum á það. Reyk leggur upp af háhýsinu, mikill eldur út um glugga á nokkrum hæðum. Eldur er heitt sjónvarpsefni, einkum í beinni útsendingu. Eldur merkir hættu. Eldur merkir slys og dauðsföll. Þetta er spennandi leikrit; drama. Það berast fréttir af dauðsföllum. Sem sagt, harmleikur. Við erum að upplifa harmleik. Það fer hrollur um okkur, en áhuginn dvínar ekki. Við upplifum þetta drama. Það sýnir okkur að mannslífið hangir á bláþræði. Ef um íkveikju er að ræða, magnast þetta drama. Það sýnir okkur óhugnaðinn í kringum okkur. Það sýnir okkur skepnuskap umhverfisins. Ef þetta er ekki íkveikja, þá er harmleikurinn bundinn einhverjum örlögum sem við skiljum ekki.
Kannski guði?
Það sýnir okkur hversu brothætt þetta postulín er sem við köllum mannlíf.
En við erum óhult heima í stofu. Leiksviðið fjarri. Leikararnir fara hver með sína rullu, við horfum á. En við erum í öruggu skjóli.
Harmleiknum er lokið. Tjaldið fellur. Við slökkvum á tækinu. Göngum út í þann veruleika sem bíður okkar. Skiljum leiksviðið eftir. Þetta eru brunarústir annars fólks sem við þekkjum ekki. Og þær hverfa í undirvitundina unz það slokknar í þeim eins og rústunum á Bergþórshvoli. Eftir stendur táknmynd þessa sýndarveruleika sem við hugsum ekki um, ekki frekar en síðustu sýninguna sem við sáum við Hverfisgötu eða Kringluna. Og hún gleymist eins og hvert annað atvik sem við teljum okkur trú um að hafi ekki komið okkur við.
Eins og hamfarirnar í Hondúras.
Þangað sendum við 3 milljónir króna í hjálparstarf. Þar með erum við sátt við samvizkuna. Hún er flugnasuð sem við þurfum að banda frá okkur. En sjónvarpssamvizkan er einungis áreiti sem hverfur með nýju áreiti, sífelldri áminningu um þjáningar og dauða en umfram allt - gleymsku.
Það er mikilvægt að fréttamenn greini skýrt frá staðreyndum og skilji á milli þeirra og hugmyndaflugs. Staðreyndir eru að sjálfsögðu mikilvægastar í fréttamennsku, en fréttamönnum hættir til að rugla saman staðreyndum og hugarburði; frásögn, dómum og ályktunum. Góður og áreiðanlegur fréttamaður ruglar þessu þó ekki saman. Hann gefur lýsingu á því sem við blasir og um er að ræða og eins nákvæma og unnt er, þ.e. hann fjallar um staðreyndir málsins. En hann lætur dóma og ályktanir eiga sig.
Tökum árvisst dæmi: Skáldið hefur gefið út nýja bók og má vænta þess að hún seljist vel, enda gott skáld. Eina staðreyndin í þessari fréttaklausu væri sú að skáldið hefur gefið út bók. Annað er tilbúningur. Sú tilfinningalega afstaða fréttamannsins, að þarna sé um gott skáld að ræða kemur málinu ekkert við og allra sízt sú ályktun að bókin hljóti að seljast vel, enda er það síður en svo neitt lögmál að beztu höfundarnir seljist betur en skussarnir. Oft er þessu öðruvísi farið. Venjulegur sjónvarpsfréttamaður getur haft miklu meiri áhrif og völd en þingmaður, t.a.m. þegar hann velur bækur til kynningar fyrir jólin; eða önnur umræðuefni.
Blaðamönnum hættir mjög til þess að draga ályktanir af lýsingum og staðreyndum. Áður en ályktanir eru dregnar  hefur verið kveðinn upp eins konar dómur sem ályktunin er væntanlega byggð á.
Slík ónákvæmni eða tilfinningaafstaða á ekki heima í fréttum. Af þeim ástæðum mætti ætla að fréttir séu sjaldnast eins nákvæmar og þeir sem bezt þekkja til gera kröfur um. Auk þess er einatt komið á framfæri skilaboðum með áherzlum og svipbrigðum. Það er ekki hægt í prentuðu máli.
Fyrrgreind tilfinningaleg notkun tungunnar er alltof algeng bæði í frásögnum sjónvarpsfréttamanna og þeirra blaðamanna sem hafa kosið prentmiðilinn að áróðurstæki sínu. En góðir blaðamenn láta helzt ekki freistast. Þó getur þeim orðið fótaskortur á því einstigi sem þeim er ætlað að feta. Tilgangurinn þarf ekki endilega að lýsa andúð eða samúð, eða einhverjum þeim fordómum sem ekkert okkar er laust við með öllu, heldur þeirri löngun skáldsins í hverjum manni að koma frásögninni í eins skaplegar umbúðir og unnt er. En beztu umbúðirnar eru þó nákvæmni og nauðsynlegur trúnaður við efni og aðstæður og þá ekki sízt áhorfendur eða lesendur, ef því er að skipta.
Ljósmyndir þurfa ekki endilega að gefa nákvæma lýsingu á því sem um er fjallað. Þær geta jafnvel verið afvegaleiðandi. Samt er hægt að njóta þeirra, þær geta jafnvel stundum verið einskonar listaverk; stundum misvísandi listaverk. En sem fréttamyndir geta þær verið ónothæfar. Það hefur verið sagt að ein mynd sé á við þúsund orð. Í sumum tilfellum kemur þetta líklega heim og saman. En þá er einnig hægt að segja að eitt orð geti verið á við þúsund myndir. Myndir geta ekki sagt allt, ekki heldur orð. En orð geta þó stundum sagt það sem myndir eru orðlaus vitnisburður um.
Í sjónvarpi er orðið jafn mikilvægt og myndin, hvað sem öðru líður, að minnsta kosti oft og einatt. En það er ekki nóg. Það þarf oft mörg orð til að lýsa því sem um er rætt. Og fréttatímar sjónvarps eru ekki mældir í klukkustundum, heldur mínútum eða sekúndum. Það er því hægt að koma harla litlu til skila á svo stuttum tíma. Allt sem sagt er í klukkustundar fréttatíma kemst fyrir á einni blaðsíðu í dagblaði. Það er ekki hægt að segja nema brot af miklum atburðum á þeim tíma sem er ætlaður sjónvarpsfréttum, þó er hægt að segja mikið, einnig mikið án orða.
Einhverjar eftirminnilegustu sjónvarpsfréttamyndir sem ég hef séð studdust ekki við mannsröddina, heldur tungumál myndarinnar einnar. Í annarri fréttamyndinni talaði brakið í eldinum, í hinni þögnin. Sú fyrri var nokkurn vegin þögul fréttamynd af þeim dramatíska atburði, þegar hús Áslaugar og sr. Bjarna branna í Lækjargötu. Þá sagði eldurinn mikla sögu. Það voru einhvers konar ragnarök í þessu braki. Hin myndin var af bíl sem fór í höfnina og var dreginn úr sjónum, án orða. Það voru einnig mikil skilaboð í þeirri mynd.
Báðar þessar þöglu myndir byggðust þannig á staðreyndum, en hvorki ályktunum eða geðshræringu. Fyrir bragðið urðu þær ógleymanlegar; sannar.
Öllum sjónvarpsfréttatímum er stjórnað af einhvers konar þul eða festarstjóra sem tengir dagskrána saman og hafa sumir orðið heimsfrægir eins og Dan Rather og Peter Jennings og þykja þeir svo mikilvægir að þeir hafa tvö til þrjú hundruð milljónir króna í árslaun, eða tíföld laun bandaríkjaforseta. Mörgum finnst þetta fáránlegt.
Og það er fáránlegt.
En markaðslögmálið er ekki einungis bráðnauðsynlegt, heldur einnig fáránlegt með köflum. En þegar fyrrnefndar sjónvarpsfréttamyndir voru sýndar þurfti engan festarstjóra. Hann hefði ekki bætt neinu við áhrifin. Þögn braks og elds í rjúkandi timbri sem er á leiðinni að köldum kolum er mælskari vitnisburður um eyðileggingu en nokkur þau tilbrigði sem mannsröddin hefur yfir að ráða.
En hvað um börnin, unglingana?
Við vitum það ekki nákvæmlega. Vitum ekki hvernig hin nýja sjónvarpskynslóð gengur fram, því hún er ekki komin almennilega á legg. Samt virðast kannanir benda til þess að fólk sem er alið upp við sjónvarp eða af sjónvarpi hafi minni einbeitingarhæfileika en aðrir og viðbrögð þess við dauða og þjáningu annarra séu ekki hin sömu og verið hefur. Morðið í sjónvarpinu er leikhúsmorð, þjáningin leikhúsþjáning, og um það þarf ekki að fást þegar slökkt hefur verið á tækinu.
En ekki eru þó allir fræðimenn sammála þessu; sumir telja t.a.m. að sjónvarpsglápið auki samúð barna og unglinga því að þau kynnist hörmungum sem þau hefðu aldrei kynnzt án sjónvarps. Þessi sjónvarpsupplifun ýti undir mennsk viðbrögð, en ekki ómennsk. Samt veit þetta auðvitað enginn. Við þekkjum engar sjónvarpskynslóðir. Ég hafði verið blaðamaður í nær tvo áratugi þegar íslenzkt sjónvarp tók til starfa. Þá fyrst hófst glápið. En sjónvarpskynslóðin kemur auðvitað einn góðan veðurdag úr myrkraherberginu eins og aðrar kynslóðir og þá sjáum við hvernig framköllunin hefur tekizt. Þó bendir ýmislegt til að sjónvarpsunglingar séu andvaralausir eða hlutlausir gagnvart glæpum, a.m.k. miðað við fyrri kynslóðir. Og vísbendingar eru um að sjónvarpsgláp geti orsakað einhvers konar taugaveiklun. En hvort það ýtir undir samvizkuna, um það eru skiptar skoðanir. Margir telja þó að glápið svæfi hana.
Rannsóknir hafa sýnt að bandarískir unglinar eyða þriðjungi af vöku sinni fyrir framan sjónvarpsskerminn, að meðaltali, eða 5000 klst. áður en þeir fara í gagnfræðaskóla og 19.000 klst., þegar kemur að háskóla. Þá hefur meðalkani séð 13.000 morð, 100.000 ofbeldisverk, horft á 650.000 auglýsingar, en af þeim fjalla víst þrjátíu prósent um mat og drykk. Þannig vita krakkarnir allt um matvæli, en harla lítið um aðra þætti mannlífs og umhverfis. Þau þekkja fólkið í Cosby-þáttunum eins og fingurna á sér, en hafa aldrei heyrt talað um dr. Zivago. Hið sama er líklega uppi á teningnum í alheimsþorpi sjónvarpsins. Þar er allt afþreying, styrjaldir, ofbeldi, gamanþættir; auglýsingar.
Áhrif og afleiðingar?
Það á eftir að koma í ljós. Hver veit nema við séum á leiðinni inn í frumskóginn aftur. Svo mikið er víst að fátt eða ekkert skiptir í raun og veru máli í samfélagi svokallaðra frjálsra þjóða nú um stundir. En allt skipti gífurlegu máli í þeim þjóðfélögum sem lentu undir járnhæl kommúnismans. Yfirborð og afskiptaleysi (nema um eigin hag) ráða ferðinni. Í kalda stríðinu réðu hugsjónir ferðinni, baráttan við kúgun og ofbeldi; baráttan við gúlagið.
Þetta er kannski ofur eðlilegt. Sá sem á eitt eða tvö hundruð pör af skóm eins og fyrrum forsetafrú Filipseyja eða fulla klæðaskápa af alls kyns fatnaði eins og “fínu” konurnar nú um stundir, hefur engan áhuga á neinni einstakri flík eða sérstökum pörum af skóm, en sá sem á eina flík og eina skó lítur á þessa eign sem mikilvæg verðmæti. Hún skiptir máli og það þarf að fara vel með hana. En það er að sjálfsögðu erfiðara að vera fátækur í ríku landi þar sem allsnægtir blasa við en í fátæku þriðja heims ríki þar sem enginn á neitt. Og allra sízt á hann morgundaginn vísan, t.a.m. börnin sem deyja eins og flugur úr hungri og erfiðum sjúkdómum sem unnt er að lækna, ef eitthvað af þessum allsnægtum væri valið til að lina þjáningar annarra.
En sjónvarpið leggur ekki áherzlu á það, þvert á móti. Það leggur áherzlu á “fínt” fólk, “frægt” fólk, allsnægtarfólk; tízkufólkið; sem sagt fólkið í plastumbúðunum.
(Sbr. Helgispjall)

8. desember, þriðjudagur

Fékk svohljóðandi bréf frá Kristjáni Karlssyni, ásamt ljóði hans um módernisma og póstmódernisma sem ég ætla að stinga upp á að verði birt í Lesbók næst þegar við hittumst:
“Kæri vinur.
Okkar beztu þakkir fyrir bókina þína. Hún gengur á milli okkar, Elísabet er í miðju kafi og ákaflega hrifin og ég er að glugga í kafla og kafla vegna málfarsins sem gleður mig svo mikið. En meira seinna -
Þinn K.K.”

11. desember, föstudagur

Davíð Oddsson hringdi, þakkaði mér fyrir Flugnasuðið. Sagði nú lægju tvö stórmál fyrir þeim á þinginu, kvótafrumvarp og gagnagrunnsfrumvarp, bæði erfið.
Held fínn dómur um Flugnasuðið eftir Sigríði Albertsdóttur í DV hafi minnt hann á bókina.
Sem sagt, allt gott okkar í millum.

16. desember, miðvikudagur

Í lok umræðna um gagnagrunnsfrumvarpið sagði Ögmundur Jónasson á þingi í dag að ætlunin væri að ráðgast með líf okkar í rottubúri, eins og hann komst að orði. Það sýnir vel hve alþingismenn eru oft illa búnir að ræða alvörumál og tala þá einatt af meira kappi en forsjá. Ögmundur hefði alveg getað sagt rottubúri og fjárhúsum eftir að Margrét Guðnadóttir prófessor gerði tilraunir sínar  með bólusetningu á hæggengum veirusjúkdómum en í því skyni notaði hún kvikfénað, einkum lömb.
Ögmundur Jónasson minnti þannig á þá Breta sem stofnað hafa samtök um s.n. dýrarétt, en forsprakki þeirra situr nú í fangelsi í Bretlandi fyrir árás á vísindamenn og að ég held stórslasaði þá með íkveikjum. Hann er víst í einhverju hungurverkfalli vegna þess að hann, ásamt félögum sínum, telur að mýs og rottur eigi sama rétt og maðurinn!              
Ögmundur gerði sér ekki grein fyrir því þarna í pontunni að það hefur verið ráðskazt með líf okkar í tengslum við rottubúr. Þar hefur baráttan um velferð mannsins, heilsu hans og framtíð einatt verið háð. Þar hafa m.a. verið reynd bæði lyf og bóluefni sem bjargað hafa mannslífum og komið í veg fyrir dauða og hörmungar.
Ég reikna með því að Ögmundur Jónasson sé kannski á lífi vegna starfa þeirra vísindamanna sem lagt hafa hönd á plóginn í þessari baráttu. Mér skilst kona Ögmundar, dóttir Andrésar vinar míns Björnssonar, sé líffræðingur og vinni í “rottubúrinu” á Keldum.
Annars er Ögmundur viðfeldinn maður persónulega og samtalsgóður.

Hlustaði í Rotarý á Gylfa Gröndal lesa úr nýrri bók sinni um Þorvald Guðmundsson í Síld og fisk. Mér skilst þetta sé metsölubók. Ég held upp á Gylfa, hann er góðlegur maður og ágætur rithöfundur. En ég var aldrei sérlega hrifinn af Þorvaldi í Síld og fisk, hann kunni að sanka að sér peningum, en að öðru leyti fannst mér hann heldur sviplítill og varla mikilla sæva, nema á hlutabréfamarkaðnum! Ég gef ekkert fyrir það. Mig minnir vinur minn,Jónas heitinn Gunnarsson,verzlunarmaður,hafi unnið hjá Þorvaldi í Síld og fisk,þegar  hann var að vinna sig upp af miklum dugnaði og líkaði vel við hann.

Gylfi las kafla um Kjarval sem sýnir að Þorvaldur hafði lítinn sem engan skilning á þessu fyrirferðarmikla náttúruundri í samtíð okkar, en það sem kom mér mest á óvart var kafli um Eggert Stefánsson og skildist mér að það væru hugleiðingar Þorvalds sjálfs um náttúrufyrirbærið, alheimssöngvarann Eggert. Mér leið hálfilla undir þessum lestri. Ástæðan var sú að ég heyrði ekki betur en þessi kafli væri uppsuða úr samtölum okkar Eggerts;.
Mér er til efs að Gylfi Gröndal viti þetta, hann hefur líklega tekið þetta niður eftir Þorvaldi sjálfum, en ég held að Þorvaldur hafi þá verið nýbúinn að                                                                                                                                                                                                                                      tileinka sér eitthvað af því sem ég hef skrifað um Eggert.
Mér er of vel til Gylfa Gröndals til þess að fara að skúta hann fyrir traustatakið, hann á annað skilið af mér, auk þess hefur hann verið velvirkur rithöfundur og gott ljóðskáld.
Fyrir nokkrum árum vorum við í nýársboði í Háuhlíð, hjá Rut og Birni Bjarnasyni. Auk okkar Hönnu voru þar Ingimundur Sigfússon og Valgerður kona hans, Kjartan Gunnarsson og Sigríður kona hans, og kannski eitthvert fleira fólk, ég man það ekki. Undir miðnætti kom ung kona æðandi inn í stofu og engu líkara en hún hefði misst vitið, slík var geðshræringin. Hún sagði að Þorvaldur, faðir hennar í næsta húsi, sæti við jólatréð í stofunni og gæti ekki komizt út því kviknað væri í. Við vorum sæmilega kenndir, en sáum að hér gat verið um alvarlegt mál að ræða, rukum út og að húsi Þorvalds. Við opnuðum forstofuhurðina og þá gaus á móti okkur mikill reykur. Við sáum að hætta var á ferðum og hún ekki lítil. Einhver okkar hringdi í slökkvilið og sjúkrabíl. Þegar við komum í stofuna og buðum reyknum birginn, sat Þorvaldur í stól og hreyfði sig ekki. Við gátum draslað honum út, en þá í sömu svifum kom kona Þorvalds upp úr kjallaranum þar sem hún hafði verið og vissi ekki um eldinn. Við komum Þorvaldi svo fyrir í sjúkrakörfu og hann var fluttur á spítala, en fyrir því stóðu að sjálfsögðu sjúkraliðarnir sem komnir voru á vettvang.
Ég held ekki að tjónið hafi verið neitt verulegt, nema þá af reyk, en veit það ekki því að við fórum að þessu búnu aftur í nýársfagnað Rutar og Björns fullvissir þess að Þorvaldi yrði ekki meint af. Ekki veit ég hvort Þorvaldur var kenndur, en allnokkru síðar hitti ég hann í Rotary og hann sagði ekki einu sinni svei þér, hvað þá meira!
Nokkru síðar hitti ég hann enn í Rotary og þá fór hann að rífast yfir því við mig að við morgunblaðsmenn hefðum engan áhuga á að koma vinnustofu Kjarvals í Austurstræti á framfæri við Reykjavíkurborg, en hann hafði keypt veggina með listaverkunum og hugðist að ég held græða á þessum viðskiptum með minni aðstoð.
Ég lét þetta allt gott heita og svaraði því engu. En það var sem sagt rangt hjá mér að Þorvaldur hefði ekki einu sinni sagt svei þér, því að það var einmitt það sem hann sagði að lokum!
Svo getur hann fengið allt það hrós sem hann á skilið fyrir að hafa verið góður við mömmu sína, án þess mér komi það við.
En mér hefur alltaf líkað vel við Geirlaugu, dóttur hans. Þegar hún var í leiklistarskólanum hafði hún forystu um að óska eftir því, að útskriftarverkefnið yrði leikrit mitt um Sólborgu, en ég hafnaði því; hélt ekki að óvanir leikarar réðu við það og óttaðist nýtt Fjaðrafok.
En söm var hennar gerð.
Verkið hefur aldrei verið sviðsett, ekki frekar en Sólmyrkri.
Samt segir Hávar Sigurjónsson það sé gott sviðsverk.

Góði dátinn Svejk segir: ...hann var eins og nýrakaður engill... eða: ...hann var eins og heilög þrenning til augnanna!
Og ef Sverri Hermannssyni líkar illa við einhvern segir hann ævinlega,Hann var eins og hreysiköttur í framan !

Aðfangadagur

Hanna fór í kvöld niður í Herkastala þar sem var jólaathvarf á vegum Verndar og Hjálpræðishersins, en við Ingó fórum í langan göngutúr um bæinn. Sóttum hana svo eftir hálfan annan tíma. Efst á Laugaveginum gekk að okkur gráðhrærður maður, grannur og þunnur á vangann. Hann var í bláum samfestingi með endurskinsmerki og eins og hann væri að koma úr vinnunni þá um  kvöldið. Ekki voru aðrir á ferli á þessum slóðum. Maðurinn heilsaði okkur og við buðum honum gleðileg jól, svo gekk hann með okkur upp Þvergötu. Ég virti hann fyrir mér, en þekkti hann ekki, hafði aldrei séð hann áður. Gæti trúað því hann sé milli fimmtugs og sextugs.
Allt gott að frétta, drengir, sagði hann.
Já.
Þú áttir samtal við föður minn rétt áður en hann dó, sagði hann og leit á mig.
Jæja, sagði ég og gerði mér nú grein fyrir því að hann þekkti mig. Hvað hét hann?
Pétur Brekkan, sagði hann, en ég heiti Einar Brekkan.
Mig rámaði eitthvað í föður hans, en sagði:
Var hann kannski hagmæltur?
Já, svolítið, sagði hann, en ekki eins og þú. Þú ert nú meira en dálítið hagmæltur.
Jæja, sagði ég, svo þú veizt það.
Já, ég veit allt um það, sagði hann og brosti drýgindalega.
Við Japis kvöddumst við og ég rétti honum höndina, en þá baðaði hann út báðum höndum og sagði,
En geturðu ekki gert eitt fyrir mig - og nú þóttist ég þess fullviss að hann vantaði skotsilfur - já, gæturðu ekki ort fleiri hefðbundin ljóð, það fer þér svo vel!
Ha? hváði ég undrandi, en hann rétti mér höndina, ég skal reyna, sagði ég.
Gott, sagði hann og hvarf fyrir hornið, en við Ingó fórum að skoða sjónvörp í Japis-gluggunum.
Svo gengum við aftur í bæinn.
Hann var að snúast í norðrið og það var eitthvað farið að kólna. Krapið hálffrosið og snjórinn harður og marrandi undir sólunum. Bærinn eins og álfaborg undir jólaskreytingum.
Ég sýndi Ingó húsið við Þvergötu þar sem við bjuggum þegar ég var drengur og daglegur gestur í fjósinu hans Bögeskos. Þá fann ég einn góðan veðurdag dauðan skógarþröst og fór með hann í lófanum inn til móður minnar, en hún varð óskaplega hrædd.
Nei, sagði hún í dyrunum og benti mér að fara aftur út með fuglinn.
Ég skildi þetta ekki, en hlýddi.
En hún var lengi að jafna sig eftir þetta áfall.
Þegar móðir mín var telpa á Seyðisfirði réðst á hana óður hani og eftir það þjáðist hún af fuglafælni. En það vissi ég auðvitað ekki.
Á æskuheimili mínu var ekkert sem minnti á fugla, hvorki málverk né postulín en við gáfum snjótittlingunum í vetrarhörkum.
Á leiðinni niður í miðbæ hugsaði ég um æsku mína og þetta land og fólkið sem býr hér. Hvar í veröldinni væri hægt að hitta verkamann á aðfangadagskvöld sem færi að tala um ljóð og hagmælsku og óska eftir því að ég gerði honum þann greiða að yrkja fleiri hefðbundin ljóð?! Hvergi, held ég, enda er Ísland engu líkt. Það er guði sé lof ekki vúlgert land.
Ekki enn(!)

Í Morgunblaðinu í dag er birtur sálmur eftir Davíð Oddsson og við hann lag eftir Atla Heimi sem kom með þetta lítilræði til Styrmis, skólabróður síns, með birtingu í huga.
Ég var spurður um sálminn, hvað ég segði um hann.
Það er gott,sagði ég, að Davíð er farinn að yrkja sálma eins og nafni hans í Gamla testamentinu og það er gott fyrir mig því nú eru tvö sálmaskáld í Sjálfstæðisflokknum. Og ég þarf ekki að axla þessa ábyrgð einn!
Sem sagt,tveir hvítir hrafnar(!)

Og barnið sagði: Það var ekkert rúm fyrir þau í frystihúsinu!

P.s. Þeir hjá Vöku-Helgafelli sögðu mér daginn fyrir Þorláksmessu að búið væri að selja á 5. hundrað eintök af Borgin hló, en yfir 900 af Flugnasuðinu. Mér fannst það ágætt og líklega hefur eitthvað bætzt við þetta. En sem sagt, það er enn hægt að selja ljóðabækur á Íslandi. Þó fannst mér bæði Pétur Már og Ólafur Ragnarsson undrandi á þessari sölu. Sjálfur er ég það eiginlega ekki.

Jóladag

Við Ingó fengum okkur langan göngutúr um borgina. Skóhljóðið var jólalegt marr í frostnum snjónum.
Komum við í kaþólsku kirkjunni og kveiktum á tveimur kertum.

Lifandi jólatré
í kórnum
því kirkjan er lifandi,
sagði barnið.

Kristur
á krossinum

steingrá þögn
við flöktandi ljós.

Og jatan í hjarta okkar.

Annar í jólum

Hafið er gulur
himinn,

vestursólin
springur út
í nálægum gluggum.

Ódagsett

Ég sé að nú hefur verið gefin út bók um Önnu frá Moldnúpi. Það er Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, sem gefur bókina út en þar er víst fjallað um sjálfsmynd, skáldskap og raunveruleika í ferðasögum Önnu frá Moldnúpi, eins og sagt er. Bókin er byggð á BA-ritgerð höfundar um Önnu frá Moldnúpi og er fyrsta fræðilega umfjöllun um sögur hennar. Í samtali við höfundinn, Sigþrúði Gunnlaugsdóttur, segir m.a. svo í Morgunblaðinu:
“Eins og kemur fram í bókum hennar (þ.e. Önnu) er sjálfsmyndin ótrúlega tvískipt. Anna er fátæk, íslensk alþýðukona. Það er enginn sem hleður undir hana. Hún vinnur fyrir ferðum sínum sem verkakona, en hún óf líka listvefnað og það hangir eitt teppi uppi eftir hana á Minjasafninu á Skógum. Alltaf þegar Anna segir frá sér í bókunum birtist allt önnur mynd af henni; mynd hins frjálsa ferðalangs. Hún skoðar söfn og kirkjur, en hún er einhvern veginn aldrei heil í þessari tjáningu sinni. Óæðri hlutinn af henni, verkakonan, kemur alltaf í gegn. Það myndast sífelld togstreita. Hún veit ekki hvað hún getur sagt um sig og kallar sig alls konar ónefnum, þetta gengur í gegnum allar bækurnar. Eins og hún gefi með því afsökun fyrir því að vera að skrifa þetta. Þetta gera bandarísku blökkukonurnar líka. Fræðikonan Joan Rush hefur rannsakað ævisögur kvenna á jaðri samfélagsins og niðurstöður hennar koma heim og saman við þá litlu gagnrýni sem Anna fékk. Gagnrýnin var mjög á léttu nótunum. Gagnrýnendur virðast hafa gaman af þessum bókum, en finnst óviðurkvæmilegt að segja það, af því að bækurnar hennar Önnu eru einskis verðar samkvæmt öllum hefðum. Það kemur þeim svo á óvart að þeir skuli skemmta sér að þeir næstum skammast sín fyrir það.”
Bók Sigþrúðar nefnist Fjósakona fór út í heim. Og það er ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér. Þegar ég var strákur á Brúarfossi fórum við kringum Ísland að safna í sarpinn ef svo mætti segja, við sigldum á allar þær smáhafnir þar sem frosinn fiskur var tilbúinn til útflutnings og fylltum skipið með þessum kössum. Sums staðar gátum við ekki lagzt upp að bryggju, en þá var skipið fermt með því að flytja kassana í smábátum. Ég kynntist landinu vel á þessum ferðum og margt kom mér skemmtilega á óvart.
Ekki sízt fjósakonan Anna frá Moldnúpi.
Hún hafði tekið sér far með Brúarfossi og fór í land í öllum þeim krummaskuðum þar sem við komum að sækja fisk. Kallarnir á skipinu fylgdust forvitnir með þessari konu sem virtist á engan hátt bera neinni fátækt vitni, nema síður væri, og við sáum engin merki þess að hún teldi sig hafa neina ástæðu til að biðjast afsökunar á sjálfri sér eða ferðum sínum.
Þvert á móti.
Hún fór sínu fram eins og henni sýndist og kom sér ævinlega í land og skoðaði sig um meðan skipið staldraði við. Hún þótti hinn mesti furðufugl þarna um borð en það var haft fyrir satt að hún hefði þann háttinn á að koma sér alltaf upp á hæsta blettinn í þeim bæjum og þorpum sem við heimsóttum og stóð þar og skimaðist um eins og gamall örn.

Löngu seinna var ég á Pen-fundi í Tjarnarkaffi, eða gamla Oddfellow-húsinu, eins og það var þá kallað, en fundinum stjórnuðu þeir Birgir Kjaran og Tómas Guðmundsson. Tómas var orðinn allkenndur og Thor Vilhjálmsson  farinn að láta að sér kveða og fór eitthvað í taugarnar á honum ,svo að hann kynnti Thor með því að segja að hann væri þekktur að ýmsum bókum, ekki sízt sjálfsævisögu sinni, Fjósakona fór út í heim!!
Þetta var haft í flimtingum lengi á eftir og höfðu ýmsir gaman af,en lýsir Tómasi vel,þegar sá gállinn var á honum.

Ódagsett

Það er oft einkennilegt hvernig fólk upplifir sjálft sig. Enginn sér sjálfan sig eins og aðrir. Ég held það geti skipt sköpum um líf fólks og hamingju, hvernig það sér sjálft sig. Ef það er raunsætt á sjálft sig, ef það hefur aðhald af eigin dómgreind getur það orðið fólki til farsældar í lífinu. Ef ekki, þá er voðinn vís.

Við Elín Pálmadóttir höfum unnið lengi og vel saman. Hún hefur verið dugnaðarforkur og góður blaðamaður. Ég hugsaði aldrei um það á fyrstu árum hennar á Morgunblaðinu, þegar hún var hvað aðsópsmest og gekk í öll störf okkar strákanna, hvort hún væri karl eða kona. Það skipti ekki máli. Hún var að minnsta kosti karlmannsígildi.
Ég fór að hugsa um þetta ekki fyrir alllöngu þegar Morgunblaðið birti á forsíðu Sunnudagsblaðsins samtal við Magdalenu Thoroddsen sem var blaðamaður á Morgunblaðinu á sjötta áratugnum. Það fór vel á með okkur Magdalenu, þá og æ síðan, enda kynntumst við einnig utan vinnunnar þegar við áttum sæti í stjórn Filmíu undir forystu Jóns heitins Júlíussonar. Nokkru eftir að samtalið við Magdalenu birtist koma Elín að máli við mig, stórhneyksluð yfir því að Magdalena skyldi hafa lent á forsíðu Sunnudagsblaðsins, því hún hefði verið lítill blaðamaður og átt þátt í vondum málum eins og sagt er, m.a. þegar hún skrifaði frétt um að snjómaðurinn væri genginn á land á Jótlandi, en þegar nánar var að gætt var þetta auglýsing í dönsku blaði!
En Morgunblaðið sat uppi með snjómanninn!
Þú manst eftir því, sagði Elín, að Magdalenu var ekki trúað fyrir neinum mikilvægum verkefnum, hún var látin vinna að minni háttar skrifum en þó einkum dagbók og slíku. Það er einkennilegt hvernig fólk getur séð sjálft sig, bætti Elín við. Öll sjálfsmyndin er kolvitlaus.
Ég hlustaði á Elínu og hneykslun hennar, en lagði fátt til málanna. Mér hefur alltaf líkað við Magdalenu og taldi að reynsla hennar gæti vel staðið undir svona blaðasamtali, einkum vegna þess að hún hefur góða tilfinningu fyrir máli og er stórvel hagmælt. Á slíkum kostum er ástæða til að vekja athygli ekki sízt nú á dögum, þegar allt er vaðandi í leirbulli og kunnáttuleysi.
En þá fór ég einnig að hugsa um Elínu og sjálfsmynd hennar og hvernig hún upplifði sumt það sem að henni sneri. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar gaus í Skjólkvíum við Heklu í maí 1970. Þangað fórum við Vignir Guðmundsson á tveimur jeppum. Við ókum Landmannaleið og viti menn, þá byrjaði að rigna yfir okkur vikri og gjalli og jörðin skalf og nötraði undir fótum okkar. Við stöðvuðum og gengum út, þrátt fyrir vikurregnið og meðan við stóðum þarna á veginum sáum við eldtunguna lyfta sér yfir Sauðafell sem var á milli okkar og eldstöðvanna í Skjólkvíum, á 5. hundrað metrar þar sem það er hæst. Hún teygði sig fyrst yfir norðausturöxl Sauðafells, en blasti svo við okkur af Landmannaleiðarveginum.
Að þessum leiðangri loknum og þó nokkrum sálartitringi, því að hraunið rann úr kvíunum í norður og í átt að veginum fyrir austan okkur, héldum við aftur að Búrfelli og ég gat sent frásögn um gosið í Morgunblaðið, og áætlað hæð eldtungunnar miðað við fellið. En Vignir varð eftir og fikraði sig nær eldstöðvunum eins og sjá má af frásögn hans í Morgunblaðinu 7. maí. Síðan fórum við heim um nóttina. Frétt okkar birtist í Morgunblaðinu og var að sjálfsögðu einhvers konar skúbb.
En leiðangur Sigurðar Þórarinssonar og Elínar fór að eldstöðvum sunnan eða suðvestan í Heklu, þar sem langeldarnir í fjallinu blöstu við, svo hann fór á mis við upphaf gossins í Skjólkvíum. Mig minnir að leiðangurinn hafi ekki komið að þeim gosstöðvum fyrr en undir morgun, en sá það svo í einhverri grein eftir dr. Sigurð löngu síðar að gengið var fram hjá frásögn Vignis og hún afskrifuð með öllu og engu líkara en Skjólkvíagosið hafi ekki byrjað fyrr en um svipað leyti og leiðangur dr. Sigurðar kom þangað undir morgun. Ég stórundraðist þetta, enda vissi ég ekki betur en dr. Sigurður væri hinn merkasti vísindamaður. Mér líkaði alltaf vel að tala við hann.
Hann hrósaði Morgunblaðinu um miðjan sjötta áratuginn í boði heima hjá Guðrúnu og Gylfa Þ. Gíslasyni og sagði að sjálfstæðisbarátta okkar Morgunblaðsmanna og framfarir hefðu gert blaðið að sterkum og áreiðanlegum miðli. Samt þóttist ég vita að hann væri einhvers konar sósíalisti eins og margir menntamenn í þá daga. Mér líkaði þetta samtal við dr. Sigurð að sjálfsögðu afar vel og öll okkar samskipti síðar, en hann átti mikið og gott samstarf við okkur á Morgunblaðinu, og þá einkum þegar um náttúruhamfarir var að ræða. Þau Elín voru miklir mátar og Morgunblaðið græddi að sjálfsögðu á því. En þegar ég fór að spyrjast fyrir kom í ljós að dr. Sigurður hafði átt í einhverjum útistöðum við Guðmund Kjartansson, jarðfræðing, frænda minn frá Hruna, en móðir mín og hann voru systkinabörn. Ég þekkti Guðmund vel og líkaði fjarska vel við hann, en hann var afar hlédrægur eins og allt þetta fólk og vildi lítið láta á sér bera; var einfari í æsku og lá einatt úti í jónsmessubirtunni.
Sigurður var aftur á móti dægurlagahöfundur í aðra röndina og hafði áreiðanlega gaman af fjölmiðlalífi. En hvað sem því leið var allt kyrrt okkar í millum.
Ég var aldrei var við annað en Elínu þætti lítið koma til frásagnar Vignis af Skjólkvíagosinu. Held raunar að hún hafi talið hana bæði ónákvæma og litla ástæðu til að flíka henni. Allt sem skipti máli átti að rekja til leiðangurs þeirra dr. Sigurðar.
Þrátt fyrir ágæti Elínar held ég að þessi afstaða hennar lýsi sjálfsmyndinni betur en margt annað. Kannski þær hafi átt eitthvað sameiginlegt, hún og Magdalena Thoroddsen, þrátt fyrir allt; t.a.m. sjálfsmynd sína og nánasta umhverfi.
Ég veit það ekki.
En þegar maður hefur lokið samtali við Elínu verður allt kyrrt og hljótt eins og eftir messu, svo að enn sé vitnað í þann góða dáta, Svejk.
(Innskot síðar : Sjá minningabók Elínar, ágæta, Eins og ég man það,2003 ).

Hef verið að hugsa um íslenzk orð sem urðu alþjóðleg og segja kannski allt um arfleifð okkar og menningu; það eru orðin geysir, saga og visna. Og kannski mætti bæta við orðinu skáld. Af þessum orðum er einhvers konar ilmur sem minnir á arf okkar; og einnig þá þætti framtíðar okkar sem mikilvægastir eru; vísindi, þekkingu, land, sögu og bókmenntir. Án þessara kennileita verðum við úti í því moldviðri sem nú herjar á mannkynið.

Þarf að yrkja ljóð um þessi orð:
Ó, jörð, taktu á móti
þreyttum gesti þínum...

Þarf einnig að semja sögu um konu sem deyr í sjúkrahúsi en skömmu áður sér læknirinn lýsnar skríða af henni.
Einnig:  
Sögu um dreng sem missir annan fótinn vegna rangrar sjúkdómsgreinar meinatækna á æxli sem óx úr hælnum, en var í raun og veru góðkynja risafrumuæxli þó dæmt sem sarkmein, eða krabbi í fæti og leiddi til þess að hann var tekinn. Slíkt hælmein getur að vísu verið erfitt viðureignar því það er einhvers konar útvöxtur. Þegar það er tekið þarf að fylla upp í sárið en það á ekki að  leiða til þess að fóturinn sé tekinn. Í lok sögunnar segir viðkomandi drengur, þá orðinn fullorðinn maður og löngu þekktur fyrir skáldskap og frásagnir, Þetta er skemmtilegt, þetta er frábær saga! Hún réttlætir mistökin.

Einnig leitar á mig hús hér við Reynimel sem er að hverfa bak við klifurjurtir eins og gamall kastali, en í því býr kona sem missti son sinn í bílslysi og mann sinn í flugslysi.

Ennfremur saga um símsvara.

Ég þarf einnig að líta betur á sögu Poes um Usher-húsið og táknmál sögunnar.
Ennfremur mætti hugleiða hvort nútímaskáldskapur geti ekki í senn byggzt á hefðbundnum skáldskap og nútímalegri afstrakt hönnun, rétt eins og list þeirra Sigurjóns Ólafssonar og Ásmundar Sveinssonar og þá mætti auðvitað bæta því við að mikill hluti raunsæislistar Einars Jónssonar á rætur í einhvers konar táknmáli í tengslum við drauma, þ.e. súrrelalisma.

Hver einasti tónn deyr út, segir Barembom í sjónvarpssamtali.

Helztu ástaskáld samtímans, Hamsun og Neruda, nota aldrei klúryrði, það gerir Laxness ekki heldur.

Bandarískur þýðandi sagði nýlega að ekkert mark sé takandi á skoðanakönnunum. Ef gerð væri könnun á afstöðu fólks til borðorðanna, yrði mikill meirihluti á móti þeim.
Gott hjá honum!

Brennivínið er orðið svo dýrt, sagði Þórður Guðjohnsen, að ég hef ekki lengur efni á að kaupa mér skó.

Maðurinn er dauðadæmdur frá upphafi, hann er ofseldur dauðanum. Hann getur í raun enga sigra unnið. Af þeim sökum leitar hann til Krists.

Nakinn lítur hver maður út eins og forseti þingsins. Svejk.

Bækur í svörtu bandi enda alltaf illa. Því er óþarfi að lesa þær. Svejk.