1999

þriðji hluti

 

13. september, mánudagur

Við Ingó og Kristján H. vorum í gærkvöldi að horfa á heimildaþátt um Madonnu í sjónvarpinu. Þetta var á söngvastöðinni brezku. Reynt var að gera mikið úr því að hún hefði á síðustu árum kynnt sér kabala, jóga og bókmenntir. Þetta hefði dýpkað hana og þroskað. Mér er það að vísu til efs. Undir lokin var hún einnig kölluð rithöfundur. Allir þurfa þessir skemmtikraftar að skreyta sig með margvíslegum fjöðrum og aðdáendurnir taka að sjálfsögðu þátt í sápunni. Þannig verða söngvarar, jafnvel sönglarar, að vera helztu tónskáldin nú um stundir, jafnvel helztu ljóðskáldin, þótt allt sé þetta meiri og minni leirburður. Við þekkjum þetta héðan að heiman. En skemmtikraftar og kvikmyndastjörnur eru, auk pólitíkusta, þeir sem nú blakta. Það gerir sjónvarpið. Samt eru þessir skemmtikraftar sínkt og heilagt að básúnast út í blaðamenn og ljósmyndara fyrir að hundelta þá! Það gerði einnig Díana prinsessa og fylgdarlið hennar! Allt er þetta með ólíkindum. Ástæðan er einfaldlega sú að fólk eins og Madonna væri bara þekkt eins og meðal gaularar ef fjölmiðlarnir kæmu ekki til, einkum sjónvarpið. Allt þetta fólk er búið til í sjónvarpi. Þar lifir það og svo að sjálfsögðu einnig í öðrum fjölmiðlum. Samt er það alltaf að amast við þeim, lífgjöfum sínum. Það gera víst einnig sumir þeir sem bjargað er frá drukknun.

Ég hef að mörgu leyti gaman af Madonnu og Michael Jackson, en einungis í sjónvarpi. Þau dansa bæði mjög vel. Af þeim sökum eru þau góðir skemmtikraftar. Það eru myndböndin sem halda í þeim lífinu.

Ég spurði strákana, hvað væri merkilegast við Madonnu. Dansarnir, sagði Kristján H. Skemmtikrafturinn, sagði Ingó. Ég var sammála þeim báðum og blés á allt kjaftæði um jóga, kabala og þann sýndarveruleika sem hlaðinn er upp í kringum þessar stjörnur. Það er sem sagt sjónvarpsmadonnan sem blífur – eða blífur ekki. Og af þeim sökum skiptir ekki máli, hvort hún lifir eða deyr; þ.e.a.s. ef smekkurinn og tízkan breytast ekki.

Í þættinum var sýnt hvernig ungar stúlkur vildu líkjast Madonnu, með sama hætti og hún hefur reynt að stæla Marilyn Monroe. Það hefur að vísu skaðað hana eitthvað og dregið úr ímynd hennar sjálfrar. Ég spurði Kristján H. hvers vegna þetta unga fólk vildi vera eins og einhver annar. Hann vissi það ekki, en hló. Ég spurði af hverju allir strákar vildu þá ekki vera eins og Beethoven? eða Bach? Hann hló enn meira.

Kannski kemur sá tími að allir strákar vilja vera Bach – eða Chapelin.

Já, hvers vegna ekki!

 

Matthías H. sagði mér í gærkvöldi að Hreinn Loftsson, formaður einkavæðingarnefndar, hefði á fundi í vikunni sagt að sparisjóðirnir hefðu ekki samkvæmt lögum leyfi til að braska með áhættufjármagn. Þannig hefur þá SPRON verið komið út á hálan ís með eignaraðild að Fjárfestingarbankanum. Þetta gæti komið heim og saman við þá fullyrðingu Finns Ingólfssonar í samtali þeirra Styrmis um daginn, að SPRON hefði orðið að selja hlut sinn í FBA vegna þess að þeim hafi verið gert ljóst að með fjárfestingu þeirra hefðu þeir brotið lög.

 

Kvöldið

Hef verið að kynna mér heimspekinga í nýrri heimspekisögu sem Háskólaútgáfan hefur gefið út, ágætri bók, og þá einkum með tilliti til væntanlegra fyrirlestra minna um Jónas Hallgrímsson í endurmenntun Háskólans í haust; einkum Kierkegaard og Feuerbach.

Ég sé það alltaf betur og betur að Kierkegaard er minn maður. Hann kemur alltaf á óvart. Hann er skáldið mikla í röðum heimspekinga; einnig Nietzsche og svo Pascal. En ég hef tekið eftir því, einkum vegna þess ég er að lesa Enten-eller og fleira eftir Kierkegaard, að hvert orð sem hann segir er nánast talað út úr mínu hjarta. Ég sé það ekki síður á þessari nýju heimspekisögu. Þar er engu líkara en verið sé að lýsa lífsviðhorfi mínu, þegar ég les eftirfarandi á bls. 535: “Þess ber að geta að danska einveldið á fyrri hluta 19. aldar einkenndist af upplýsingu og mildilegri stjórn. Í augum Kierkegaards var óskiljanlegt hvers vegna allir ættu að taka þátt í stjórninni, enda leysti valdhafinn verk sitt í meginatriðum vel af hendi. Kierkegaard átti bágt með að ímynda sér að allir sæktust eftir því að taka þátt í stjórnsýslunni. Að dómi Kierkegaards skipti þar að auki mestu að menn legðu rækt við innra líf sitt, hver um sig. Frá þeim sjónarhóli var hætt við því að erill stjórnmálamanna glepti menn frá því sem mest var um vert. Síðast en ekki síst óttaðist Kierkegaard að lýðræði yrði í reynd lýðskrum, að persónuleg heilindi einstaklingsins myndu sæta ásókn afla sem vildu stjórna skoðunum og viðhorfum manna og leituðust við að steypa alla í sama mót. Þetta myndi leiða til aukinnar firringar og tilvistarlegrar örvæntingar. Auk eirðarlausra broddborgara mundi pólitískum lýðskrumurum fjölga eins og mýi á mykjuskán og ryðja úr vegi sannri lífsafstöðu.”

Ennfremur:

“Eins og sjá má er andstaða Kierkegaards við lýðræðið liður í almennri gagnrýni hans á firringu og skerðingu tilvistrarlegra lífskjara. Honum sýndist maðurinn vera að týna sjálfum sér í hégóma og merkingarleysu, ekki aðeins á sviði viðskipta og framleiðslu, heldur einnig í pólitík og samfélagsmálum. Mikilsverðustu vídd um tilveruna var vikið til hliðar. Lífið sjálft var firrt merkingu sinni.”

Fyrr er bent á að Kierkegaard hafi verið andstæðingur lýðræðisins, hann hafi dáð hið upplýsta einveldi sem var við lýði í Danmörku, þar til ný stjórnarskrá var tekin í notkun 1849 og lýðræði komst á. Hann hafði sem sagt svipaða afstöðu til stjórnvalda og Bjarni Thorarensen – og líklega einnig menn eins og Eggert Ólafsson, Magnús Stephensen – og Jónas Hallgrímsson sem gerði ekki sérstakar athugasemdir við danska konungsveldið, þvert á móti. Bjarni og Jónas börðust fyrst og síðast fyrir þingræðislegri stjórn á Íslandi, þ.e. þingræði í einhverri mynd. Bjarni t.a.m. ráðgefandi þingi, en Jónas löggjafarþingi. Þessi afstaða er að vísu ekki þáttur í stjórnmálaskoðunum mínum því ég hef verið þeirrar skoðunar að þrátt fyrir allt og allt eigi að koma á fulltrúalýðræði á Íslandi eins og í Sviss. Með því móti væri hægt að koma í veg fyrir margvíslegar deilur, t.a.m. um virkjanir norðan Vatnajökuls nú um stundir. Um þetta höfum við skrifað í Morgunblaðið og held ég fast við það. Lýðurinn er að vísu misvitur, en það er ekki hægt að stjórna án hans. Baklandið verður að vera í lagi.

En allt annað sem telja má skoðanir Kierkegaards, ekki sízt um einstaklinginn, mikilvægi hans og tilvistarkröfu til hans, ekki sízt þess efnis að hann verði að velja í lífinu, það er allt af sama sauðahúsi og mínar skoðanir.

 

Ódagbundið

Ágúst Ingi Jónsson, fréttastjóri Morgunblaðsins, missti konu sína, Ingileif Ólafsdóttur, eftir langvarandi veikindi; ágæta konu, kraftmikla og skynsama. Ég var fyrir austan þegar hún var borin til grafar og gat því ekki verið viðstaddur, en las minningargrein Freysteins Jóhannessonar, fréttastjóra, um Ingileif og þótti athyglisvert, hve mikla áherzlu hann leggur á ljóðaáhuga hennar. Ég vissi ekkert um hann. Ef ég hefði haft minnstu hugmynd um það hvað hún hafði gaman af ljóðum, hefði ég sent henni einhverja bók, en það er um seinan. Freysteinn segir í grein sinni að hún hafi lesið ljóð af nautn, eins og hann kemst að orði, “fundvís á þá innri strengi, sem óma þann hljóm, sem fegurstur er. Einhverju sinni orðaði hún þá ósk að geta orkt, vera skáld, sem með ljóðum sínum hreyfði við fólki. Lognið hefði ekki verið hennar veður í ljóðinu fremur en lífinu. Nú verða þessi ljóð ekki orkt.”

Ég hef oft orðið var við slíkan áhuga hjá fólki sem enginn hefur vitað um að hefði áhuga á ljóðlist. Það er raunar miklu algengara en blasir við í fljótu bragði. Margt fólk flíkar ekki þessum tilfinningum sínum, þessum áhuga. Það ræktar hann með sjálfu sér og er ágætt. En þarna er akur sem vel mætti rækta af meiri ástríðu, meiri metnaði og meiri natni en gert er. En slík ræktun er ekki í tízku nú um stundir. Leirbullið er í tízku.

 

Kvöldið

Nú er Meri, forseti Eistlands, kominn í opinbera heimsókn til Íslands. Það er svo sem ágætt. Gestgjafi hans á Bessastöðum er fyrrum formaður Alþýðubandalagsins, sem hafði aldrei neinn sérstakan áhuga á því að Eystrasaltsríkin fengju sjálfstæði undan Sovétríkjunum sálugu. Þetta hljómar eins og öfugmælavísa. Einnig það, að Ólafur Ragnar var fyrsti forseti Íslands sem fór í opinbera heimsókn til Eistlands. Við minntum á þetta öfugmæli í forystugrein í Morgunblaðinu á sínum tíma. Við minnum á þetta enn undir rós í leiðara á morgun. Forstjóri verðbréfahallarinnar í New York er nýbúinn að vera í sérstakri heimsókn hjá Ólafi Ragnari, fulltrúi höfuðvígis kapítalismans í Bandaríkjunum! Þar var stór veizla og mikil og fullt af bísnessfólki viðstatt og þá auðvitað einnig Kári Stefánsson, milljarðamæringur.

Ég sé í hendi mér að Dario Fo er eins og hver annar gamliford sem farsahöfundur miðað við það fjarstæðuleikrit sem fer fram allt í kringum okkur. Hvorki Dario Fo né neinn annar gæti samið leikfarsa sem kæmist í hálfkvist við þennan “veruleika”.

Þetta er raunar allt með ólíkindum.

Bessastaðavaldið væri efniviður í nýja Hrafnhettu; og nýjan farsa.

 

17. september, föstudagur

Hef verið að fara yfir Sódómu og Gómorru eftir Proust. Þar er eftirminnileg og vel gerð skírskotun í samkynhneigð. Proust gat svo sem úr flokki talað og ekki vantar skilninginn. En allt skrifað af svo mjúku innsæi og listrænni fagþekkingu stíls og ritmáls að efnið er eins og obláta sem rennur ósjálfrátt undir tunguræturnar. Í öðrum kafla þessa verks er ógleymanlega fögur lýsing á ömmunni, áreiðanlega sprottin af eigin reynslu eins og annað í þessu sérstæða verki, sem fjallar einnig öðrum þræði um afbrýðisemina. Og hvernig hún holar okkur innan.

Umfjöllun Prousts um ástina er sérstæð, eftirminnileg með öðrum hætti en venjulega. Það eru einhverjir óskilgreindir fyrirvarar á ástinni sem eru ekki sízt minnisstæðir.

Proust sagði að bækur væru stór kirkjugarður, þar sem ekki væri hægt að lesa á fjölda legsteina. Og listin væri samþjöppuð minning, sérhver maður væri þannig skáldsagnahöfundur, án bókar.

Ég þekki engan höfund sem minnir á Proust, hvað stílfegurð viðkemur, nema Canetti. Hann skrifaði fallegustu þýzku sem ég þekki.

Hef einnig verið að lesa tvær bækur um Proust, eftir Edmund White og de Botton. Skemmtilegar og fróðlegar bækur, de Botton segir t.a.m. frá því þegar þeir Joyce og Proust hittust í París á þriðja áratugnum og fór fátt á milli þeirra. Joyce spurði Proust, hvort hann hefði lesið Ulysses sem kom út 1922. Non, sagði Proust. Semsagt, non-samtal, sagði Joyce.

Öll mín samtöl og raunar allt sem ég hef skrifað eru minningar um fólk. Þannig er Kompaníið minningar mínar um samtöl okkar Þórbergs.

 

Í DV er slúðursaga um það að ég hafi ekki viljað vera á frumsýningu á Ungfrúnni góðu og húsinu sem Guðný Halldórsdóttir gerði eftir samnefndri sögu Halldórs Laxness, föður hennar. Þurft hafi að setja upp sérstaka sýningu fyrir mig af þeim sökum, ástæðan: að ég þoli ekki fólk! Það er með ólíkindum hvílíkt bull kemst inní fjölmiðlana nú um stundir. Er nokkuð skrítið þó að fólk fyrirlíti þá sem þar vinna? Þeir eru ófáir sem lent hafa í klónum á svona fólki, sem aldrei getur sagt rétt orð og fyrirlítur í raun og veru fórnardýr sín.

Ég hringdi í Jónas Kristjánsson, en náði ekki í hann því hann var á fundi og Óli Björn Kárason var í fríi. Loks náði ég í Jónas Haraldsson og sagði honum að þetta væri bull og vitleysa. Hann tók mér ósköp ljúfmannlega og sagði að strákarnir á Sandkorni hefði verið að skrifa þetta, en það væri sjálfsagt að leiðrétta skrif þeirra. Ég sagði honum sem var að mér hafi verið boðið á frumsýningu, en ekki þegið boðið þar sem ég sæktist ekki eftir hátíðlegum stellingum. Ég hefði sagt við Guðnýju Halldórsdóttur, sem sýndi mér þá vináttu að hringja í mig og bjóða mér á generalprufu að ég hygðist sjá myndina eftir að hún hefði verið frumsýnd og þá að sjálfsögðu á venjulegri sýningu. Hún sagðist vita að ég færi orðið sjaldan í boð eða væri viðstaddur svonefnd hátíðleg tækifæri og þess vegna hefði hún haft samband við mig í þessu skyni. Ég sagði henni að það væri rétt að ég sæktist ekki eftir hátíðlegum stellingum, en það þyrfti enga sérstaka sýningu fyrir mig, ég yrði bara á venjulegri sýningu eins og annað fólk.

Úr þessu spinna strákarnir á “Sandkorninu” lygasögu um það að  ég þoli ekki fólk og þar af leiðandi verði ég að fara á sérsýningu! Sem sagt, ég sé fullur af mannfyrirlitningu!

Jónas lofaði að leiðrétta þetta í DV á morgun.

 

Síðdegis

Las frásögn Guðna Einarssonar um ferð hans á hreindýraslóðir á Grænlandi. Ég hafði gaman af karli sem þar kemur við sögu, Tarzan að nafni. Hann er eineygður og með glerauga í annarri tóftinni. “Okkur var sagt að einu sinni hafi Ísortoq-menn verið í kaupstaðarferð og farið á vertshús. Þar sem þeir sátu að sumbli stóð Tarzan upp, tók gleraugað úr, lagði það á borðið og sagðist ætla að kasta af sér vatni. Þegar hann sneri aftur, setti hann gleraugað í tóftina og fékk sér sæti. Einhver spurði hvers vegna hann hefði skilið eftir augað, meðan hann brá sér frá.” Mér þótti vissara að hafa auga með glasinu, svaraði þá Tarzan. Tarzan hefur unnið við smíðar fyrir Stefán hreindýrabónda og það sem til fellur. Hann er ekki stór vexti en því þrautseigari og sagður bera gælunafnið með rentu”.

 

19. september, sunnudagur

Hef enn verið að fara yfir Proust. Það er merkilegur kafli í Sódómu um Chopin og Debussy og hvernig tízkan í listum afvegaleiðir fólk. Debussy er í tízku og tengdadóttirin heldur því að hún eig að vera á móti Chopin, en þá er henni bent á að Debussy hafi metið Chopin öðrum fremur. Þá breytir hún um smekk!

 

Er að velja í nýja ljóðabók. Ættjarðarljóð á atómöld. Vel jafnframt í aðra bók, einkum ástarljóð. Nauðsynlegt að hafa skikk á þessu þegar bók er í fæðingu. Ég þarf líka að huga að nýju Helgispjalli. Ýmislegt sem sagt í bígerð.

 

Síðdegis

Horfði í nótt á boxeinvígi í veltivigt milli Oscars de la Hoya og Titos Trinidad frá Puerto Rico. Sá fyrri er af mexíkönsku ætterni en ég held hann sé Kani, hinn síðari er frá Purerto Rico og talar eingöngu spænsku. De la Hoya er kallaður “gulldrengurinn”. En nú fór illa fyrir honum, hann tapaði á stigum eftir tólf lotur. Ómar Ragnarsson og Bubbi Morthens héldu báðir eins og ég að de la Hoya hefði unnið. En annað varð uppi á teningnum. De la Hoya sýndi miklu meiri tilburði. Hann er léttur og lipur og eldsnöggur. Trinidad er aftur á móti miklu þungstígari. Hann er staður og bíður eftir að slá þung högg. Hann stóð sig ekki nógu vel fyrra helming einvígisins, en sótti í sig veðrið undir lokin. Ég held hann hafi unnið síðustu loturnar, því að de la Hoya var augsýnilega orðinn mjög þreyttur. Það hefur líklega ráðið úrslitum. Mér fannst gott það sem de la Hoya sagði eftir einvígið, að hann væri sár innra með sér, það væri rétt, en hann hefði langað til að sýna box, þess vegna hefði hann leikið sér með þeim hætti sem raun ber á vitni. Hann er geðþekkur piltur að því er virðist, en þó eitthvað dekraður. Hann á sér stóran aðdáendahóp, en eyjarskeggjarnir stóðu bakvið Trinidad. Hann er ekki ógeðfelldur piltur, fastur fyrir og einarður, en mér þykir hinn miklu skemmtilegri boxari.

Ég fór ekki að sofa fyrr en undir morgun. Beið eftir þessari atlögu og horfði á hana til enda. Hvers vegna eiginlega, ég skil það ekki sjálfur! Ég hef enga samúð með boxurunum því þeir fá milljónir fyrir hvern bardaga, kannski milljarða eins og Kári! Fyrst þeir vilja láta lemja sig fyrir þessa peninga er mér sama. Af hverju er mér sama? Ætli það sé ekki hið dýrslega eðli í sjálfum mér? Þetta eðli sem er vaxið úr jörðinni, vaxið úr blóðinu, en hefur ekki náð til himins? Maður virðir fyrir sér fólkið sem er viðstatt, þar eru margar fallegar konur og boxararnir taka sig vel út, ekki sízt fyrir þessar konur. Þeir eru sannarlega ekki að boxa fyrir mig sem sit heima í stofu og horfi á sjónvarpið; horfi á Ómar og Bubba flippa út! Nei, þeir eru að boxa fyrir peningana sína og ungpíurnar þarna allt í kringum þá. Þetta eðli er einfaldlega partur af náttúrunni. Grunneðlið er hið sama og tarfanna á Eyjabökkum. Þeir faðmast að vísu ekki eftir sinn bardaga og þeir fá að vísu ekki einhverja milljónatugi að honum loknum, en þeir fá kúna, kannski kýrnar! Það er allavega eftir miklu að slægjast.

Og tarfurinn í sjálfum mér vakir til morguns(!) Og ég horfi á hnefaleikana, en hata hnefaréttinn.

 

Kvöldið

Vorum í dag við vígslu nýs orgels í Neskirkju. Skrifaði leiðara um orgelmenningu okkar í blaðið á þriðjudag. Hlustaði í kvöld á magnaðan orgelleik Bondemans í Neskirkju. Ég held hann hafi náð öllum þeim krafti og allri þeirri blíðu og hlýleika sem þetta nýja orgel býr yfir. Það minnir á íslenzka náttúru, brimið og blómin sem vaxa inní vorið.

Að hugsa sér, ef Páll vinur minn Ísólfsson hefði haft annað eins orgel. Eða orgelið í Hallgrímskirkju. Hvernig hann hefði þanið það! Ólíkt öllum öðrum.

 

20. sepember, mánudagur

Samtal við Harald Sveinsson í sjónvarpinu, m.a. um Morgunblaðið. Ágætt svo langt sem það náði. En sjónvarpssamtöl eru aldrei annað en gárur á vatni. Einkennilegt að upplifa ýmislegt sem hann sagði, þegar maður hefur lifað það sjálfur og þekkir til hlítar. Það er eins og taka tappa úr sódavatnsflösku, fá sér einn sopa og láta hana svo standa. Freyðið verður flatt.

 

19. september, sunnudagur

Skrifaði þetta Reykjavíkurbréf og set það hér vegna þess margt í því á heima í þessum hugleiðingum – og þá í tengslum við annað:

Björn M. Olsen segir í æviágripi sínu um Konráð Gíslason, fjölnismann: "Í þessa sömu stefnu ­ að hreinsa og bæta málið ­ gengur ræða Konráðs um íslenzkuna, sem prentuð er í 4. árgangi Fjölnis. Hann ræðst þar með beizkri gremju á þá menn sem halda að einu gildi, hvernig þeir fara með íslenzkuna og bæta hana og staga með bjöguðum dönskuslettum í orði og talsháttum, greinum og greinarskipan ­ af einberri heimsku og fákunnáttu." Ræðst á "golþorskana með eintrjáningssálirnar", sem segja, að íslenzkan sé "ósveigjanleg og óhæfileg til að taka á móti skáldskap og vísindum", af því að þeir sjálfir "vaða á bægslunum gegnum vísindin og gleypa hugmyndirnar eins búnar og þær verða á vegi fyrir þeim, og þá vill stundum svo óheppilega til, að hugmyndin sjálf skreppur í burtu, svo ekki er eftir annað en danski búningurinn, og þá er ekki kyn, þó að það fari stundum óhönduglega að koma honum í íslenzkan búning."

Björn vitnar ennfremur í þessi orð Konráðs: "Við heimtum af íslenzkunni, að hún sé íslenzka, og annað hvort standi í stað eða taki framförum. Við kúgum engan, heldur biðjum við og setjum fyrir sjónir. Við finnum, að hin íslenzka tunga er sameign okkar allra saman, og við finnum, að hún er það bezta sem við eigum; þess vegna biðjum við meðeigendur okkar að skemma hana ekki fyrir okkur."

Nú er það víst ekki danski búningurinn sem við þurfum að óttast, heldur sá engilsaxneski. Sumir hafa jafnvel haldið því fram að hann mundi fara okkur betur eins og tímarnir eru; að tízkan krefjist þessa engilsaxneska búnings. Við þurfum sem sagt á alþjóðamáli að halda annars séum við vart í húsum hæfir, þeim húsum þar sem verðbréfamarkaðurinn ræðst og hugbúnaðarmarkaðurinn ræður ferðinni. En við getum tileinkað okkur þennan nútíma, þessa tízku, án þess að falla fyrir henni og láta hana endurmóta okkur í sinni mynd. Við getum ­ og eigum ­ að fara sömu leið og þeir sem á fyrstu öldum Íslandsbyggðar mótuðu íslenzka menningu og steyptu alþjóðamenninguna í eigin deiglu, bæði með frumsömdum verkum og þýddum. Þar er leiðsögustefið og þar er markmiðið. Svo einföld er nú sú krafa sem við verðum að gera til okkar sjálfra ef við ætlum að halda áfram að heita þjóð og vera stolt af því og arfi okkar. Ef við gerðum það ekki, stæðum við í þeim sporum sem Konráð Gíslason lýsir annars staðar: "Ef við legðum niður íslenzkuna og tækjum upp dönsku í staðinn, hvað yrðum við þá annað en brjóstumkennanleg aumingjaþjóð, sem hefði reynt að murka úr sér lífið, en ekki tekizt það nema til hálfs? Hvað yrði úr okkur, segi ég enn og aftur, utan fáráð afturganga (eða svo sem því sætir), en ekki lifandi þjóð?" Og Björn M. Olsen bætir við: "Ætli Íslendingar, sumir hverjir, hefðu ekki enn í dag (þ.e. uppúr aldamótum) gott af að hugleiða sumt af því sem hér segir? Enn má ítreka þessi orð Björns M. Olsens. Þau eiga ekki síður við nú en þegar hann ritaði þau inní ævisögu Konráðs Gíslasonar.

Hraksmánarleg íslenzka

Sumt bendir til þess að íslenzk tunga muni ekki lifa af þá alþjóðlegu rósturtíma sem við nú lifum, annað sýnir eindregið að hún muni hrista af sér þrýstinginn, hina alþjóðlegu kröfu um einsmenningu, og halda velli og miðla samfélagi þjóðanna af því sem við höfum bezt gert og eigum væntanlega eftir að gera bezt. Margvíslegir misbrestir á notkun íslenzkrar tungu benda til hins fyrra en annað er stórlega uppörvandi og sumt með þeim hætti að fagna ber af alhug. Svo er guði fyrir að þakka að enn eru til íslenzk skáld og rithöfundar sem láta sér annt um tunguna, rækta hana og leita þeirra fagurfræðilegu leiða í skáldskap sínum sem hæfa henni og eru í senn sómi þeirra og hennar; til eru einnig þeir kennarar ­ og það er grundvallaratriði ­ sem láta sér annt um íslenzkuna og leggja stolt sitt og metnað í að kenna ungu fólki að tala og skrifa móðurmálið, en á því er þó oft og einatt mikill misbrestur. Sumt af því sem dagblaði eins og Morgunblaðinu berst í hendur er á svo hráslagalegri íslenzku að undrun sætir og eiga þar bæði ungir og gamlir hlut að máli, en að sjálfsögðu er þetta ekki prentað óbreytt. En jafnframt er ekki óalgengt að heyra svo hraksmánarlega íslenzku í ljósvökunum að þeir virðast í einni hendingu breytast í hryllingsóperu, þegar mestur gállinn er á mannskapnum. En þegar þessi veizla stendur sem hæst verður það stundum til bjargar að allt, sem sagt er, er með öllu óskiljanlegt, svo að hrognamálið fer bæði fyrir ofan garð og neðan.

Á það ber að leggja þunga áherzlu að skólarnir kenni móðurmálið, ekki einungis í íslenzkutímum, heldur ­ og ekki síður ­ í kennslu á öðrum tungumálum eins og frumherjarnir gerðu í Bessastaðaskóla, svo að dæmi séu nefnd. Það er t.a.m. ekki aðaltilgangur enskukennslunnar að kenna Íslendingi ávæning af ensku til að hann geti fleytt sér áfram einhvers staðar, heldur til þess að tungan verði honum auðvelt tæki, sem hann getur notað í íslenzku umhverfi sínu.

Hagnýtt íslenzkunám

Eitt af því, sem nú er ekki sízt uppörvandi, er sú ákvörðun háskólans að taka höndum saman við fjölmiðlafyrirtæki og hefja námskeið í hagnýtri íslenzku og þá í nánum tengslum við það umhverfi, sem þessi hagnýting kemur að mestu gagni. Það er háskólanum til mikils sóma að hafa lagt út í þessa hagnýtu kennslu með því markmiði sem að er stefnt; að efla íslenzkukunnáttu þeirra sem vinna við fjölmiðlafyrirtæki og önnur slík og minna á, í hvaða umhverfi við búum, hver er arfleifð okkar og hvert við hyggjumst stefna sem sjálfstæð þjóð með mikilvæg framtíðarmarkmið. Þessi stefna háskólans er alvarleg áminning um hlutverk okkar og þá ekki sízt, hversu nauðsynlegt er að þessi æðsta menntastofnun landsins ræki lífrænt samband við atvinnufyrirtæki og þann íslenzka veruleika, sem er umhverfi okkar. Þessi mjói vísir er vonandi upphaf einhvers meira, en þó getur hann einkum orðið fyrirmynd öðrum þeim menntastofnunum sem ber skylda til þess að fara að orðum Konráðs Gíslasonar, rækta tilfinningu ungs fólks fyrir móðurmálinu og leggja sitt af mörkum til að efla það og styrkja í því alþjóðlega hafróti sjónvarps og myndbanda, sem nú virðast einna helztir uppalendur nýrrar kynslóðar. Af þeim sökum ekki sízt er mikil vá fyrir dyrum og nauðsynlegt að bregðast við eins og þeir eldheitu hugsjónamenn sem hösluðu sér völl í Fjölni forðum daga. En þá væru þessi skilaboð Konráðs Gíslasonar til Björns M. Olsens ágætt veganesti, en þau eru úr kafla sem Konráð skrifaði til hans 9. janúar 1885 ­ og mætti einnig ágætlega vera okkur sem nú lifum nokkurt íhugunarefni: "Ósköp þætti mér vænt um, ef þér vilduð taka að yður ( ­ "að taka yður að" mundi vera íslenzka núna!!!) kvenvæflu, sem hefur verið sæmilegur kvenmaður á unga aldri en nú er orðin púta, og hefur "f....ós" eða er að minnsta kosti danósa. Þessi aumingja kvenvæfla er íslenzkan. Mér er nærri því sama, hvernig hún er, ef hún er ekki danósa. Við Íslendingar, a.m.k. vel flestir, förum með hana eins og við værum djöflar, en ekki menn. Ég tek aðeins eitt eða tvö dæmi af mýmörgum. 1) Af því að Danir segja "velvilje" o.s.frv., segja Íslendingar nú "velvilji" og "velvild" (en "góðvilji" og "góðvild" dettur þeim ekki í hug). 2) Um það leyti, sem Danir fóru að sleppa "som" í upptalningu, fóru Íslendingar að segja og skrifa: "þessi bók, sem hér liggur, og sem ég er búinn að lesa." 3) Skástu mennirnir ­ hvað þá aðrir ­ segja nú "á Færeyjum" og "á Sámsey" ! 4) Og þar fram eftir götunum! Það er eins og hrækt sé framan í mig, þegar ég sé eða heyri annað eins. Þess vegna bið ég yður nú og særi yður fyrir drengskap yðar, að þér læknið þennan aumingja, doktor góður, og reisið hann á fætur og hjálpið honum sem bezt. Og þér munuð sanna, að þá mun flest ganga yður að sólu ..."

Þetta var orðsending eins háskólakennara til annars. Það þarf ekki að kynna Konráð Gíslason fyrir Íslendingum, svo nálægt þjóðarkvikunni sem hann og samstarfsmenn hans hafa verið um hálfrar annarrar aldar skeið. En Björn M. Olsen er einn hugkvæmasti fræðimaður í arfleifð okkar og á vart sinn líka í frumlegri hugsun og óvæntum textaskýringum. Eftirminnilegastar eru að öllum líkindum skýringar hans við Sólarljóð sem höfðu áreiðanlega drjúg áhrif á Sigurð Nordal, þegar hann vann að sínum skýringum á Völuspá. Björn M. Olsen var um skeið rektor háskóla Íslands og það er því við hæfi að þessi merka menntastofnun hafi tekið hann á orðinu og vísi nú veginn inní nýja öld með þeim markmiðum, sem m.a. eru fólgin í þeirri nýju hagnýtu námskeiðaröð, sem nú er að hefjast, og þá ekki sízt í þeirri grein sem er forsenda þess að við megum enn teljast sérstök þjóð, íslenzkunni.

Í Reykjavíkurbréfi sem birtist á þessum vettvangi 5. apríl á fyrra ári var m.a. tekið svo til orða að augljóst væri að útlendir menntamenn hafi mestan ­ og kannski einungis ­ áhuga á Íslandi vegna arfleifðar okkar og tungu, en ekki vegna neinna sérstakra pólitískra stefnumála eða einstaklinga sem borið hafa hróður þess um víða vegu, þótt það hafi kannski í einstaka tilfelli haft einhver áhrif; einnig á það bent að sérstæð náttúrufegurð landsins sjálfs hafi áreiðanlega mikið aðdráttarafl, þegar hugsað sé um þessar fjarlægu slóðir. Það hafi þannig ekki verið nein tilviljun að andleg stórmenni á borð við Borges og Auden, Maurer og Morris hafi dregizt að þessu framandlega landi og arfleifð þess. Einnig tekið svo til orða að engum detti í hug að almenningur í nágrannalöndum okkar sé að velta fyrir sér íslenzku þjóðfélagi, forsendum þess og arfleifð. Þessi sami almenningur heyri að vísu eitt og annað um fyrirbærið Ísland án þess það komi honum frekar við en aðrar þær dægurflugur, sem verða á vegi hans. Samt sé hægt að nota þessar dægurflugur í landkynningarstarfsemi og hefur það verið óspart gert. Um það er ekkert nema gott eitt að segja.

Og enn segir þar: "Á hinn bóginn gegnir Ísland allt öðru hlutverki í hugum þeirra tiltölulega fáu sem þekkja arfleifð okkar og menningu og hafa heillazt af þeirri staðreynd að þessi arfleifð er enn lifandi þáttur í þjóðlífi okkar og raunar jafn mikilvægur og landið sjálft. Geymd þessarar arfleifðar þykir í senn sérstæð og til fyrirmyndar og þá ekki sízt sú staðreynd að Íslendingum hefur tekizt að varðveita tungu sína án þess hún hafi breytzt svo að teljandi sé frá því hinar miklu íslenzku bókmenntir urðu til á sínum tíma. Þeir sem ræða við háskólafólk og þá sem búa yfir verulegri þekkingu verða fljótt varir við að það er þessi arfleifð og varðveizla tungunnar sem vekja aðdáun og eiga mestan þátt í því að hugurinn hvarflar til Íslands og allt fléttast þetta saman í eina órofa heild, land, þjóð og arfleifð, og þá með þeim hætti að margir útlendingar dragast að landinu heillaðir af goðsögninni um Thule, sem er þó engin goðsögn í raun og veru, heldur gallharður veruleiki, ólíkur öllu öðru sem fólk á að venjast (ýmsir, þ.á m. Arngrímur lærði, hafa efazt um að Thule sé Ísland, en um það skal ekki fjölyrt hér)."

Allt má þetta vafalaust til sanns vegar færa og einnig þá fullyrðingu að við eigum að rækta það, sem er mikilvægt, og við eigum að kunna skil á því, sem er mikilvægt. Það, sem gerir okkur að sérstæðri þjóð, hlýtur að vera mikilvægt í okkar augum, jafnvel í augum annarra. Íslenzki togkrafturinn er arfleifð okkar. Hann er enginn dægurfluga, engin alþjóðleg tízka. Hann er grundvöllur 1100 ára byggðar í landi okkar. Hann á ekkert skylt við blómin sem vaxa og deyja eftir duttlungum veðurguðanna. Og af hverju? Af þeirri einföldu ástæðu að rætur hans eru djúpt í íslenzkri mold. Þær draga athyglina að þeirri óvenjulegu flóru sem við höfum af að státa í sögu okkar og umhverfi; það eru rætur okkar, það eru rætur tungunnar sem við höfum borið gæfu til að varðveita í gegnum þykkt og þunnt eða ­ eins og brezkur háskólaprófessor sagði á kynningarfundi um íslenzkar bókmenntir: Íslenzk tunga ­ hún er einsdæmi, hún er kraftaverk.

Hlú þarf að rótunum

Enþá er spurningin, hvort við hugum nægilega að rótunum. Hvort þær hafa fengið þá aðhlynningu sem nauðsynleg er. Hvort við umgöngumst íslenzkuna með þeim grænu fingrum sem hún á skilið. "Erum við á varðbergi nú þegar upplausnaröfl fara um löndin eyðandi sjónvarpseldi í nafni einhverrar alþjóðahyggju sem er einna helzt fólgin í því að skilja þannig við ræturnar að þær veslist upp og deyi? Við erum áreiðanlega á krossgötum hvað þetta varðar."

Við höfum að vísu staðizt uppblásturinn en tungan á í vök að verjast, rétt eins og landið sjálft. Okkur ber skylda til að rækta hana, þetta mesta sameiningartákn lítillar þjóðar, sem þarf að átta sig á þeim vegamótum, þar sem við nú stöndum. Við þurfum að standast sírenurnar, ekki síður en sjóarar Ódysseifs á sínum tíma. Það er nauðsynlegt að kunna að varast þær. Nauðsynlegt að láta ekki blekkjast. En til þess verða skólarnir að verða í stakk búnir að kenna mælt mál, ekki síður en skrifað. Margir hafa miklar áhyggjur af þessum þætti íslenzkrar samtímasögu. En fjölmiðlamenn, sem um þetta skrafa og skrifa, gætu þá einnig sagt: Maður líttu þér nær! Það er víða pottur brotinn á þeim vígstöðvum. Fullkomin ástæða til að styrkja undirstöðurnar, herða aðhaldið. Líf okkar og framtíð gætu verið undir því komin. Allt þetta hefur verið margtíundað hér á þessum vettvangi og enn mætti betur, ef duga skal.

Ekki alls fyrir löngu spurði norska stórblaðið Aftenposten forystumenn stjórnmálaflokka þar í landi, hvað væri nauðsynlegast, þegar nýbúar ættu í hlut. Allir stjórnmálaforingjarnir lögðu höfuðáherzlu á að styrkja norskan grundvöll og móðurmálið. Að þessu gætum við einnig hugað. En sinnum við þessum skyldum með þeim hætti sem duga skal? Þeir sem ábyrgðina bera ættu að grandskoða hug sinn og svara þessari spurningu, eins og efni standa til. Allt hrynur ef undirstaðan er ekki réttlig fundin.

Morgunblaðið hefur ekki eitt fjölmiðla lagt áherzlu á tengslin við arfleifðina. Það hafa ýmsir aðrir einnig gert, bæði fyrr og síðar.

Í desember í fyrra var á þessum vettvangi fjallað, um orðið Norse en hörð gagnrýni hefur verið á notkun þessa. Þetta orðskrípi er fundið var upp í því skyni að komazt hjá því að tala um íslenzka arfleifð og ritmenningu, þegar um það væri fjallað á engilsaxnesku, heldur skyldi arfleifðin vera Norse, þ.e. norræn, skandinavísk eða norsk; allt nema íslenzk! Framhjá því verður samt ekki gengið, sem fullyrt er í Reykjavíkurbréfi fyrr á þessu ári, en þar segir: "Einatt er talað um íslenzkar bókmenntir til forna sem norskar bókmenntir, en það orð að vísu ekki notað, heldur annað sem einhvers konar afsökun fyrir því að ekki skuli sagt beinum orðum að þessi arfleifð sé íslenzk, enda varð hún til á Íslandi þótt ljóðahefðin hefði flutzt út hingað með víkingum, þróazt og varðveitzt. Nú er tízka að nota Norse í ensku um alla norræna arfleifð ­ og þá ekki sízt íslenzka ­ en oftast er í raun átt við íslenzkar bókmenntir, þegar gripið er til þessa orðs. Hér er því um ákveðna tilraun til blekkingar að ræða. Í orðabók Chambers fyrir 21. öldina segir m.a. að Norse merki einhver tengsl við Skandinavíu, það merki Norðmaður; það merki tunga sem töluð var í Skandinavíu eða Noregi og nýlendunum; Norse merki Skandinavar, en þó einkum Norðmenn. Í orðabókinni er ekki minnzt á að orðið Norse sé sérstök skírskotun til Íslands ..."

Ísland ekki á landakorti tízkunnar

Þá er bent á að í jafnvirtu vísindariti og Scientific American sé talað um Norse sagas, þegar rætt er um víkingaferðir og fund Ameríku, en þessar sögur, sem eru aðalheimild um þessar ferðir, að sjálfsögðu, voru skrifaðar á íslenzku um svipuð leyti og Norðmenn voru að glata tungu sinni. Þær mega bara ekki vera íslenzkar! Þannig er þessu einnig farið í nýlegu, álitlegu hátíðarblaði U.S. News & World Report , en þar er fjallað um líf mannsins á þessari öld. Í þessu tiltölulega nýútkomna blaði er talað um víkinga og víkingaskip með gamaldags formerkjum og vart hægt að segja að Ísland komi þar við sögu, þótt sagt sé í framhjáhlaupi að Ólafur Tryggvason hafi árið 1000 snúið Íslendingum til kristni, að vísu. Þar er aðaláherzlan á Norse -arfleifðina, þótt hún sé hvorki sjáanleg í tungu Skandinava né bóklegri arfleifð. Hún er sjáanleg á öðrum vettvangi, að vísu, en þó ekki sem þáttur í landnámssögu Vesturheims, svo að dæmi sé tekið. Þar eru íslenzkar heimildir alls ráðandi. Í úttekt blaðsins er að vísu ekki talað um "Norse sagas", heldur eru landafundirnir nú skráðir í "Viking sagas". Það má þó kannski til sanns vegar færa, en er samt villandi. Þar er t.a.m. talað um "Norse term ­ "hafvilla" ­ , en það er einfaldlega íslenzka. Fyrr á tímum norræn tunga, nú varðveitt á Íslandi. Síðan er sagt að Norsemen hafi bæði haft getu og hugrekki til að komast til Ameríku og loks, að sjálfsögðu, talað um "Norse settlers" í sömu andrá og vitnað er í íslenzka orðið skrælingjar! Að vísu vitnað annars staðar í Magnús Magnússon og rétt það, sem eftir honum er haft. En ­ Ísland er utan við þessa uppákomu alla!

Þetta leiðir hugann að öðru. Í Bretlandi er merkilegt útgáfufyrirtæki, sem heitir Folio, og gefur út ágætar bækur. Nú er hafin útgáfa Íslendingasagna á þess vegum. Í kynningarbæklingi er ekki farið í launkofa með uppruna þessara bókmennta, þær eru íslenzkar. Mesta og endingarbezta framlag Íslands á miðöldum, segir þar. Framúrskarandi afrek í miðaldabókmenntum evrópskum; ávöxtur langrar menningarlegrar þróunar, einstæð bókmenntareynsla.

Ritstjóri þessarar útgáfu er Magnús Magnússon. Í ágætri grein sem hann skrifar í kynningarritið talar hann um Ísland sem raunverulegt heimaland sitt, þótt hann hafi alizt upp í Edinborg frá 9 mánaða aldri. Magnús minnir á að allar þýðingar eru einskonar samkomulag ­ og það á auðvitað við um Íslendingasögur á öðrum tungum. Magnús segir að útgáfa þessara sagna hafi átt að heita The Norse Sagas, eins og venja hafi verið. Hann segir það hafi í raun ekki truflað hann, hvort þessar sögur hafi verið kallaðar Norse eða Icelandic, svo lengi sem þær voru gefnar út! En vinum hans á Íslandi þyki slík nafngift jafngilda því, að Skotar séu kallaðir Englendingar og hann gæti aldrei aftur stigið fæti á íslenzka jörð, ef flokkurinn héti The Norse Sagas; hann yrði eins og hver annar útlagi! Hann hafði samband við útgáfustjórann, Sue Bradbury, og hún samþykkti breytingu þegar í stað: The Icelandic Sagas skyldu bækurnar heita.

Undir þessu heiti koma Íslendingasögur nú út á vegum þessa virðulega forlags, og það, sem er ekki verra ­ Magnús Magnússon getur komið heim til Íslands óskaddaður, svo ágætur fulltrúi íslenzkrar menningar og arfleifðar, sem hann hefur ávallt verið. Allt er þetta fagnaðarefni.

"Leiv Eriksson"

Morgunblaðið er ekki eitt íslenzkra fjölmiðla um þennan áhuga, enda augljóst að senn fer að glaðna til. Þannig benda eldtinnurnar, sem fundizt hafa á Nýfundnalandi "eindregið til þess að íslenzkir menn hafi komið þar við sögu," eins og segir í frétt nýlega, "en þær staðfesta dvöl íslenzkra landkönnuða á Nýfundnalandi fyrir þúsund árum. Það voru ekki íslenzkir heldur erlendir vísindamenn sem röktu þessi "fingraför" til Íslands." Þessi niðurstaða kom að sögn Smiths (dr. Kevin H. Smith, stjórnanda rannsóknarinnar, en hann er aðstoðarforstöðumaður á mannfræðideild vísindasafnsins í Buffaló í Bandaríkjunum) verulega á óvart, en með henni er fundin fyrsta vísindalega tengingin milli Nýfundnalands og Íslands. Hann sagði að eld-tinna, sem fyndist víða, kvarnaðist fljótt og hefði verið nánast eins og eldspýtnastokkur fyrir landkönnuði á víkingaöld. "Þetta var því ekki hlutur sem líklegt er að hafi gengið milli manna í vöruskiptum heldur er sennilegra að sá sem bar íslenzka steininn hafi komið frá Íslandi," sagði Smith ­ og bætti því við að mikill fengur væri að slíkri vitneskju. Það má svo klykkja út með því að taka undir það, sem DV hefur haft um þetta mál að segja, en í forystugrein blaðsins 10. ágúst sl. var m.a. komizt svo að orði: "Samkvæmt heimild allra heimilda var Leifur heppni norskur, en ekki íslenzkur. Encyclopædia Britannica velkist ekki í vafa um ágreiningsefnið, sem Íslendingar hafa löngum haft mikið fyrir að fá túlkað sér í hag í Bandaríkjunum, heimalandi alfræðibókarinnar."

Raunar gengur heimild allra heimilda lengra því að í norska kaflanum segir, "að norskir sæfarar hafi verið heimskunnir, allt frá dögum Eiríks rauða og sonar hans,

Leifs heppna." Í kaflanum um Ísland "er hins vegar hvergi getið um landafundi, Vínland eða feðgana." Bent er á að alfræðiorðabókin birti nafn Leifs uppá norsku, "Leiv Eriksson den hepne". "Lesendum er óbeint gefið í skyn að þannig hafi nafn Leifs verið ritað fyrir þúsund árum af því fólki sem alfræðibókin kallar "Norse" og talaði tungu, sem hún kallar "Norse". Og niðurstaða blaðsins er þessi: "Engu máli skiptir, hvað Clinton Bandaríkjaforseti fæst til að trúa og tala á hátíðlegum stundum. Engu máli skiptir hvort hægt er að koma íslenzkri söguskoðun á framfæri við hátíðarhöld fína fólksins í Vesturheimi. Það eitt skiptir máli, hvað heimild allra heimilda segir." Bandaríkjaforsetar komi og fari, hátíðarhöld komi og fari, fína fólkið komi og fari, en orðabókin blífi. DV bætir því við að söguskoðunarvaldið sé ekki hjá fína fólkinu í veizlunum, heldur hjá þeim sem skrifa alfræðibók alheimsins, eins og komizt er að orði, og ef ritstjórar hennar ­ og þá væntanlega einnig annarra mikilvægra alfræðirita ­ viðurkenna að Leifur heppni hafi fæðst á Íslandi og landnám Grænlands og Vínlands hafi að mestu verið íslenzkt fremur en norskt, sé "nánast með einu pennastriki hægt að breyta vefútgáfu alfræðibókarinnar" og það yrði meiri ávinningur en unnt yrði að ná með öðrum hætti.

 

21. september, þriðjudagur

Leiðari:

Arfleifð og orgelmenning

Ekkert hljóðfæri er eins nálægt dramatískum krafti íslenzkrar náttúru og orgelið. Það á því einkar vel við íslenzkar aðstæður. Það hefur varla verið nein tilviljun að einn helzti organisti heims á þessari öld ólst upp við þær náttúruhamfarir sem birtast í brimrótinu við Stokkseyri, dr. Páll Ísólfsson. Hann var einn fjölmenntaðasti tónmenntamaður landsins og lyfti orgelmenningu okkar í miklar hæðir. Þegar tvö ný orgel eru vígð í íslenzkum kirkjum, Langholtskirkju og Neskirkju, hlýtur hugurinn að hvarfla að minningu þessa einstæða snillings sem átti meiri þátt í því en nokkur annar um sína daga að breyta daglegri umgjörð útvarps og kirkna í þau tónlistarmusteri sem raun ber vitni.

Þessi arfleifð hefur lifað og blómstrað. Við sjáum hana hvarvetna og þá ekki sízt í kirkjum landsins. Þar er hvert orgelið öðru dýrmætara og nú hafa tvær gersemar bætzt við. Fyrir það ber að þakka þeim forvígismönnum þessara kirkna sem höfðu stórhug og djörfung til þess að móta þá orgelstefnu sem nú markar tímamót í tónlistarsögu okkar. Vonandi verður þetta stóra spor sem nú hefur verið stigið trú og tónlist til upplyftingar, vonandi verður þessi stórhugur uppörvunarefni fyrir ungt tónlistarfólk, bæði þá sem túlka mikla tónlist og hina sem skapa hana. Við eigum mörg góð tónskáld, ekki síður en aðra tónlistarmenn. Nýtt verk eftir Jón Ásgeirsson var frumflutt við vígslu orgelsins í Neskirkju, ný útsetning eftir Þorkel Sigurbjörnsson á sálminum Heilagi Guð á himni og jörð og orgelverk eftir Hjálmar H. Ragnarsson voru frumflutt af þessu tilefni í Langholtskirkju. Þannig var nýr tónn sleginn og vonandi eiga þessi orgel og önnur eftir að birta okkur mikinn samhljóm íslenskrar kirkjutónlistar, þegar fram líða stundir.

Í ávarpi sínu við orgelvígsluna í Neskirkju sagði formaður sóknarnefndar, Guðmundur Magnússon próf., meðal annars: ""Ég teyga hljómdýrð þína þyrstum augum." Með þessu stílbragði í kvæðinu "Heima" tengir Snorri Hjartarson saman mörg skynsvið í skáldskap sínum svo orðin mynda eins konar samkynjun, samhljóm, einingu úr andstæðum.

Þessi orð eiga vel við hér í dag. Þau segja reyndar allt sem segja þarf.

Og ekki ómerkari maður en Grikkinn Diogenes mun hafa bent á, að það sé ekki tilviljun að við höfum tvö eyru en einn munn. Við skulum hlusta betur og tala minna. Okkur í söfnuðinum þykir vænt um kirkjuna okkar, fyrstu nútímakirkjuna á Íslandi, sem nú hefur verið friðuð að ytra borði. En kristnir menn trúa ekki á kirkjur eða kirkjubyggingar, heldur Guð, kraft trúarinnar, fegurð lífsins, hinn eina sanna tón.

Einn falskur tónn getur breytt lífi okkar, samhljómi og trúverðugleika kirkjulegs starfs.

Ein óþekk nóta í gamla orgelinu í vísitasíu byskups, hr. Ólafs Skúlasonar, kostaði nýtt orgel og talsvert rask eins og sjá má!"

Þannig geta óþekkir tónar einnig komið að gagni.

Síðar vitnaði sóknarnefndarformaðurinn í þessi orð Goethes, en við höldum nú upp á að 250 eru liðin frá fæðingu þessa þýzka skáldjöfurs: "Þetta lyftir okkur upp í æðra veldi, því þar sem orðinu sleppir taka tónarnir við," sagði skáldið.

Þessi orð reyndust sannmæli um síðustu helgi. Og þá hefur orgelsmiðurinn, Fritz Noack, ekki sízt reist sér glæsilegan minnisvarða á þessum norðlægu slóðum, þar sem náttúruorgelið mikla brimar í hafróti tímans og hetjur styrkar standa/við stýrisvöl, en nótt til beggja handa, eins og Davíð komst að orði. Dr. Páll hélt spunanum áfram, tók Goethe á orðinu og lyfti okkur upp í æðra veldi, þar sem tónarnir taka við og orðinu sleppir. Það er í þeim anda sem nýju orgelin prýða kirkjurnar og mætti vel taka svo til orða, að nú væri byggingum þeirra fulllokið.

 

 

 

22. september, miðvikudagur

Fékk þennan tölvupóst frá Súsönnu Svavarsdóttur í dag, fjallar um störf hennar á DV::

“Elsku Matthías,

Nokkur orð héðan úr Media Inferno.

Ég sló hnefa í borð framkvæmdastjóra og tók sá sig saman í andlitinu og snyrti mitt nánasta umhverfi, undirstrikaði það vald sem hann vill að ég hafi og hefur styrjaldarbálið því eitthvað lægt hér í holtinu. Engu að síður láta tveir höfuðandstæðingar mínir hér ekkert tækifæri framhjá sér fara til að gefa skít í mig. En nú er ég komin í hlutlausan gír og svara öllu með tveimur setningum; annað hvort "jæja, finnst þér það" eða "ég er ósammála." Svo ræði ég málin ekki frekar. Mér til skemmtunar var mér sagt að hér innanhúss séu þeir tveir kallaðir "gamla myrkrið og skugginn hans."

Óli Björn hefur fært sig mun nær mér eftir viðtal mitt við yfirvaldið hér og vinnum við meira saman og erum þá líklega "unga myrkrið og skugginn hans" í augum þeirra tveggja sem halda að þeir einir hafi séð ljósið, fundið upp hjólið og séð að keisarinn var berrassaður. Og það er búið að ráða blaðamanninn sem ég vildi fá. Hann byrjar 15. október.

Samt....  finnst mér eins og hið inngróna element hér fyrirlíti allt sem er mér kært og heilagt. Kannski get ég breytt því, kannski ekki. Ég er að minnsta kosti búin að sjá að það er mér ákaflega hollt að fá tækifæri til að horfa í allt þetta myrkur, vegna þess að eftir fjögur ár í lausu lofti og vissa uppreisn gegn "ramma," kristallast mjög hratt mín sátt við það sem er jarðbundið og skynsamlegt. Ekki seinna vænna að sjá ljósið.

Það er nú einu sinni svo að það er tilgangur með öllu. Ég ætla að líta á þetta starf sem tækifæri til að læra meira um það hver ég er. Ég er löngu búin að ná persónulegu heildarmyndinni, en greinilega ekki þeirri samfélagslegu. DV verður minn harði kennari í því námi, rétt eins og Arnór var minn harði kennari í hinni lexíunni. Þetta verður varla verra. Ég ætla að ná ætlunarverki mínu hérna og breyta þessu Helgarblaði - jafnvel þótt ég finni til þegar mér finnst fótum troðið það sem mér er kært. Ég vona að ég nái byltingaráformum mínum fyrir áramót. Ég trúi því líka að á réttum tíma komi rétta starfið upp í hendurnar á mér og ég geti gengið héðan út í sátt og með reisn, tilbúin til að takast á við meiri ögrun af heilindum.

Minn kæri vinur, mig langaði bara að þakka þér svo mikið fyrir að stappa í mig stálinu þegar ég var að bugast hér. Án þín hefði ég gengið héðan út og aldrei fengið tækifæri til að skoða mig inni í þessari mynd. Ég hefði haldið áfram að berast um þennan órólega huga og misst af því að laga til í þessu eina "agalausa horni" sem alltaf hefur truflað líf mitt meira en ég gerði mér grein fyrir.

Eigðu yndislegan dag,

þín Súsanna.”

 

Svaraði þessu svo:

Elsku Súsanna mín.

Kærar þakkir fyrir póstinn þinn sem var bæði góður og karlmannlegur þótt þú sért sjálf svona kvenleg inn við beinið eins og raun ber vitni. Ég vona að hið himneska brunalið geti nú slökkt eldana í Inferno, það mundi gleðja mig og gömlu fjallkonuna okkar, hana Ísafold. Það er líka nauðsynlegt að þú berir hinn efra skjöld og það gleður mig sérstaklega hvernig Óli Björn hefur nú sett kóssinn á hið rétta landnám og siglir framhjá Skrælingjalandi, enda eru vítin til að varast þau, eins og Leifur vissi áður en yfir lauk.

Það má enginn stjórnast af eigingirni þegar um svo mikilvægt efni er að tefla og framtíðin undir því komin að vel takist til. Hún má hvoki vera "danósa né fransósa", svo að ég vitni nú í fjallkónginn mikla, hann Konráð Gíslason.

Allt finnst mér þetta fagnaðarefni þó að púkarnir í Inferno séu nýbúnir að halda því fram að ég hatist við þjóðina, en margur heldur mig sig. Aðalatriðið er að við séum eins og góðir foreldrar sem rétta barninu sínu nestismal fyrir langa ferð og allir segi að henni lokinni, Nei, en skemmtilegt hvað barnið er líkt foreldrum sínum! Með því móti einu gætum við verið sátt við sjálf okkur og fjallkonan við okkur og Konráð gamli rólegur í gröf sinni.

Góðar kveðjur til ykkar, ekki sízt Silju, sem er nýkomin úr sinni andlegu víking.

Farewell my blessing season this in thee og ævinlega vinarkveðjur, Matthías.

 

25. september, laugardagur

Við höfum ekki verið með neinar fréttir um nýja vinkonu forsetans. Morgunblaðið veltir sér ekki upp úr einkamálum fólks, hvort sem um er að ræða forseta eða aðra. Kynlíf og ástamál eiga því aðeins erindi í dagblöð að þau séu fréttatengd, t.a.m. voru það miklar fréttir á sínum tíma, þegar Játvarður Bretakonungur varð að segja af sér konungdæmi vegna frú Simpson.

Um ástamál poppstjarna gegnir þó líklega öðru máli, því þau eru partur af geiminu!

Aðrir fjölmiðlar velta sér uppúr þessum ástamálum Ólafs Ragnars og hef ég haft dálitlar áhyggjur af því (Styrmir er í fríi) af þeirri einföldu ástæðu, að ég er ekki svo skyni skroppinn, að ég geri mér ekki grein fyrir því, að þetta er mikið og gott lesefni. Fólk sækir í slíkt efni eins og flugur í hrossatað. Ekkert er betri næring handa saumaklúbbum og slúðrið grasserar. Það kom mér því á óvart, þegar ég spurði konurnar sem nú standa í eldinum vegna nýrrar áskriftarherferðar Morgunblaðsins, hvort fólk geri ekki athugasemd við það, að Morgunblaðið skuli ekkert skrifa um ástir forsetans, en þær kváðu nei við; fullyrtu að þeir fáu sem á þetta minntust teldu það vera Morgunblaðinu til heiðurs að velta sér ekki upp úr slíku einkamáli. Ég varð undrandi og gekk á þær. Þær héldu fast við sitt og sögðu að þetta væri bezta áskriftarherferð í sögu Morgunblaðsins, við hefðum aldrei fengið annan eins árangur.

Fólkið í landinu er sem sagt ekki eins vitlaust og maður gæti haldið af lestri DV. Það veit sínu viti. Þó að því finnist ástin æðisleg, eins og sumir komast að orði í DV, er ekki þar með sagt að fólk telji að menn megi ekki hafa tilfinningalíf sitt í friði fyrir fjölmiðlum. Þvert á móti.

Mér er því létt. Við höfum ekki skaðað Morgunblaðið með þessari varfærni. Alls ekki, segja konurnar sem stjórna áskriftarherferðinni. Þessi afstaða blaðsins er miklu fremur metin, en ekki.

Hitt er svo annað mál að forsetinn á sinn þátt í þessu skvaldri öllu saman. Séð og heyrt hóf ástarsönginn, en forsetinn tók undir með því að svara Stöð 2 og óska eftir tilfinningalegum aðlögunartíma! Hann getur því sjálfum sér um kennt og þá ekki sízt um það sem birtist nú í erlendum blöðum, t.a.m. Times í London í dag. Það er að mínu viti afleit grein fyrir forsetann. Ég veit ekki hvort Dagblaðið tekur þetta upp á þriðjudaginn, ekki heldur hvort Stöð 2 fjallar um Times-greinina í kvöldfréttum, en það verður jafn erfitt fyrir þessa miðla að segja frá því sem þar stendur og þegja um það, fyrsta þeir hafa fylgzt jafn nákvæmlega með þessu og raun ber vitni. Við erum aftur á móti á grænni grein.

Times hefur eftir konunni, Dorrit Moussaieff, sem er víst einhvers konar dálkaritstjóri við tízkublað í London sem heitir Tatler, “Mér geðjast að honum og ég elska landið, það er allt og sumt”. Áður er haft eftir einum vina hennar að hún sé “daðursdrós” (“að bit of a flirt”, þ.e. dálítil daðurdrós). Síðan er fullyrt að ólíklegt sé að þessi kona og Ólafur Ragnar muni eigast. (“The two were already looking an unlikely match”). Þá er talað um sorg Ólafs Ragnars og hjónaband Moussaieff, en hún var gift Neil nokkrum Zaarach, sem var víst innanhússarkitekt. Þau voru gift í sjö ár, en hjónabandinu lauk 1970. Ekki hefur hún verið gömul þá! Samkvæmt þessu virðist hún vera komin undir fimmtugt. Þá er minnzt á ummæli Ólafs Ragnars á Stöð 2 um þróun þessa nýja sambands og fyrrnefndan aðlögunartíma, en síðan vitnað í yfirlýsingu hennar þar sem segir einungis, að hún sé vinur fjölskyldunnar og hreykin af því að forsetafjölskyldan sé í innsta vinahring hennar. Þá er vitnað í ummæli forsetaritara, Róberts Trausta Árnasonar, sem segir að ummæli forsetans hafi verið jafnvægisleg, úthugsuð og langt frá því að hann hafi talað af sér. Hann sé mjög hamingjusamur maður, eins og Róbert Trausti segir. Hann skírskotar í ástalíf og “hjónaband” svananna, og segir að Íslendingar kjósi maka eins og þeir og haldi tryggð við hann alla ævi. Ólafur Ragnar sé einhleypur maður og þurfi ekki að sópa neinu undir teppi.

Þá er fjallað dálítið meira um þau skötuhjúin, eins og fjölmiðlamenn komast svo gjarna að orði, en ég hegg sérstaklega eftir því sem blaðið segir um Guðrúnu Katrínu, þ.e. að hún hafi að flestra dómi verið helzta tromp Ólafs, þegar hann var kosinn á Bessastaði sumarið 1996. Loks er sagt að Moussaieff hafi ef til vill sama fyrirvara á því að taka að sér hlutverk forsetafrúar eins og margir íbúar Íslands hafa fyrirvara á “heilindum leiðtogans”, eins og komist er að orði (candour).

Allt er þetta með ólíkindum og þótt ég hafi lítinn sem engan áhuga á öllu þessu brambolti persónulega, hefur ritstjóri Morgunblaðsins ekki leyfi til að láta sig Bessastaði engu skipta. Hitt er annað mál að Kristján Jónsson, blaðamaður, sem skrifar Viðhorfs-dálk í blaðið í dag, lýsir að mörgu leyti afstöðu minni til forsetaembættisins þegar hann segir að við þurfum að greina eftir getu á milli þess sem skiptir almenning máli og hins sem varðar eingöngu viðkomandi einstakling.

Og ennfremur: “Oft getur frammámönnum verið vorkunn. Þeim getur fundist það skásta lausnin þegar búið er að skjóta fyrsta skotinu í fjölmiðlafárinu að reyna að draga úr hnýsninni með því að verða fyrri til. Á enskri tungu er þetta víst kallað “damage control” sem líklega mætti nefna skemmdarstýringu.

Undarlegt er það samt ef þjóðhöfðingi þarf að taka það fram við okkur að hann vilji fá að vera manneskja eins og við hin (og er það víst skírskotun í ummæli Ólafs Ragnars á Stöð 2). Mér finnst það eigi að vera íhugunarefni fyrir alla ef við gerum nú þá kröfur til embættismanna að þeir séu ekki manneskjur, heldur goð á stalli. Og það sem meira er, goð sem eiga að ala okkur helst daglega á einhverju sem hægt er að nota í krassandi afþreyingu. Við viljum áreiðanlega að þeir hagi sér vel og helst betur en við, en það var aldrei meiningin að þeir yrðu hafnir svo hátt eða yrðu svo lágt settir. Vonandi gerist það ekki.”

Og ennfremur: “Ýmiskonar sýndarmennska og tildur í tengslum við forsetaembættið hér á síðari áratugum hefur annars valdið því að mér dettur stundum í hug hirðlífið í konungsríkjum álfunnar. Sú skringilega veröld hefur víst aðeins eitt hlutverk. Við getum flúið inní hana þegar okkur leiðist veruleikinn, leiðist að hugsa, leiðist nútíminn. En forneskjan í titlatoginu, tilgerðin og hirðsiðirnir, allt snobbið, eru líka oft betri grundvöllur í sápu en það sem Hollywood notast við.”

Kristján bendir einnig á að margir ráðamenn hneigist til að ganga í fóstrbræðralag við slúðurfréttamennskuna og mörkin milli raunverulegra atburða, sem skipti alþjóð máli og tilbúinnar afþreyingar séu að mást út.” Það sé nóg að skrifa eitthvað rugl um þá sem lifa hvort sem er á slúðrinu, popparana sem hafa hálaunaða kynningarstjóra “sem búa til eitthvað í snarti, jákvætt eða neikvætt, ef goðið er að falla í gleymsku.”

Ráðamenn eigi í lengstu lög að neita að auka afþreyingargildi sitt með því að veita okkur upplýsingar sem koma engum við nema þeim. Annað sé neyðarúrræði. “Ef illa fer getum við nefnilega endað í blindgötu, allir verða að berstrípa sig í eiginlegum og óeiginlegum skilningi til að fullnægja því sem kallað er réttur almennings til upplýsinga og er afskræming á hugtakinu réttur.

Fyrirmannasnobb örsmárrar þjóðar á hjara veraldar, sem vill “vera með” í öllu, er grátbroslegt – og dýrt.

Ég veit ekki hvort fleiri eru haldnir sömu tilfinningu en mér finnst forsetaembættið orðið æ kyndugra fyrirbæri. Er nauðsynlegt að lýðveldið greiði hæfileikafólki há laun fyrir að ferðast um heiminn, heilsa háttsettum gestum og segja okkur með miklum alvöruþunga í ræðum að tvisvar tveir séu fjórir, vatn sé blautt og menning betri en ómenning?”

Í lokin bendir Kristján Jónsson á leið Svisslendinga út úr þessum ógöngum, en það gerði ég einnig á sínum tíma, eða þegar ég kom af hafréttarráðstefnunni í Genf og skrifaði Reykjavíkurbréf þess efnis, en mér skildist Kristján Eldjárn hefði verið lítið hrifinn af því bréfi. Sem sagt, við ættum að endurskoða forsetaembættið, segir Kristján Jónsson, það geti ýmsir embættismenn sinnt þessum störfum, t.a.m. gætu ráðherrar skipt embættinu á milli sín, eins og í Sviss, eða þá forseti Sameinaðs þings gegnt því, en ég hef lengi hallazt að því að forsetaembætti þingsins sé eitt virðulegasta embætti sem til sé, því það er framhald af lögsögumannsembættinu og því yfir þúsund ára gamalt. Nýr lögsögumaður yrði ágæt lausn.

En hvað skyldu margir vera sammála Kristjáni Jónssyn og okkur sem höfum þessa skoðun á öllum stellingunum og uppákomunum. Ég veit það ekki. En mér er til efs þeir séu margir. Fólk vill upplifa hasarinn í forsetakosningum, það vill ráða þennan eina dag á fjögurra ára fresti, hver stjórnar hirðsiðunum í þessum fyrrum húsakynnum landsstjóra Danakonungs og Gríms skálds Thomsens að Bessastöðum.

Að öðru leyti mætti þá einnig huga að Reykjavíkurbréfi sem ég skrifa í Morgunblaðið á morgun, það fjallar um tvo forseta aðra, með skírskotunum út og suður og einhverjum skoðunum undir rós. Ég viðurkenni að það þarf dálítið hugmyndaflug til að skilja þetta bréf! En það er svona:

 

"Vaclav Havel segir að vera kunni að fólk, sem hafi verið svo heppið að kynnast aldrei alræðisstjórn geri sér ef til vill ekki ljósar þær siðferðislegu undirstöður, sem þjóðfélagið hvíli á."

Hingað til lands hafa komið í sumar fulltrúar tveggja landa, sem börðust hetjulegri baráttu gegn heimskommúnismanum, Tékklands og Eistlands. Það voru forsetar ríkjanna, Havel, sem kom í einkaerindum, og Meri, sem kom í eina af þessum gamaldags og kostnaðarsömu opinberu þjóðhöfðingjaheimsóknum, en hann var sendur á sínum tíma til Síberíu og þurfti að upplifa Gúlagið meðan ýmsir stuðningsmenn NATÓ nú um stundir hömuðust gegn bandalaginu og töldu talsmenn þess jafnvel landráðamenn, eins og við kynntumst hér heima. Forsetarnir hafa báðir flekklausa fortíð hvað þessa baráttu varðar, Havel var í raun og veru einskonar tákn þessarar andstöðu gegn alræði kommúnista, meðan kalda stríðið var í hámarki, og var m.a. varpað í fangelsi fyrir bragðið. Það er uppörvandi að fylgjast með samhengi sögunnar og þeirri eðlilegu þróun sem hefur átt sér stað í þessum löndum. Hvorki Tékkum né Eistum hefur dottið í hug að kjósa fyrrverandi kommúnista í forsetaembætti, þó að það hafi hent Pólverja, sem einnig börðust hetjulegri baráttu við hin illu öfl kalda stríðsins. Frelsishetjunni, Walesa, var hafnað í síðustu forsetakosningum í Póllandi og lýðræðissinnað fólk þar í landi bar ekki gæfu til að koma sér saman um afstöðu til þjóðfélagsmála, svo að í embætti forseta var kosinn gamalgróinn fulltrúi kommúnistaíhaldsins í landinu, gegndi m.a. ráðherraembætti íþróttamála, meðan enn sat þar fulltrúastjórn Kremlar og kommúnista. Hann þvoði að vísu hendur sínar af þessu daðri við heimskommúnismann og hefur nú verið öruggur stuðningsmaður lýðræðis í landi sínu, auk þess sem hann hefur barizt fyrir aðild Póllands, bæði að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu. Það má því segja að batnandi manni sé bezt að lifa. En allt verkar þetta samt ankannanlega á þá sem þátt tóku í þessari baráttu, sem var einatt upp á líf og dauða, og kallar í raun fram þá hugmynd að ekkert leikhús fáránleikans geti keppt við þann afstæða veruleika sem við sjáum nú allt í kringum okkur. Fólk er líka fljótt að gleyma og það kemur tækifærissinnum í stjórnmálum betur en allt annað.

En snúum okkur aftur að sumargestinum, Havel, forseta Tékklands. Menn leggja við hlustirnar, þegar hann tekur til máls. Það er skáldið í honum sem nær til fólksins, fyrst og síðast. Sem rithöfundur byggir hann einnig á mikilli hefð, hann er runninn úr sama jarðvegi og sjálfur Kafka. Og það sem meira er, hann upplifði skáldskap Kafka í umhverfi sínu, upplifði jafnvel réttarhöldin og kynntist af eigin raun því þjóðfélagsandrúmi sem kommúnisminn skapar. Í fréttum segir að vinsældum Havels hafi að vísu hnignað upp á síðkastið, einkum að því er virðist vegna nýrrar konu (úr 80% í 50%), en hann er og verður tákn hins nýja Tékklands, hvað sem öðru líður, vegna baráttu sinnar gegn þeim sem breyttu föðurlandi hans í þann alræðisveruleika sem Kafka lýsir. Þótt vinsældum hans hraki í bili af persónulegum ástæðum mun þetta ekki breytast, þegar samtímasögu okkar verða gerð þau skil sem framtíðin ein mun ákveða.

En hvað hefur hann að segja okkur nú um stundir? Það er að sjálfsögðu margt og mikið, en í þetta sinn er ástæða til að staldra við athyglisverða ræðu sem hann flutti fyrr á þessu ári og fjallaði um viðbrögð Vesturlandabúa við hruni kommúnismans í Mið- og Austur-Evrópu og hvernig þessi fyrrum alræðisríki gætu launað þeim stuðninginn. Í þessu ávarpi, sem forsetinn flutti í Póllandi, kvaðst Havel telja, að þjóðirnar sem lentu undir járnhæl kommúnismans í Evrópu, gætu, sökum einstakrar reynslu sinnar, veitt ríkjum Vesturlanda aðstoð í ýmsum pólitískum og siðferðilegum efnum.

Nauðsyn siðferðislegrar hefðar

Ávarp sitt hóf forseti Tékklands með þessum orðum: "Þegar alræðiskerfið hrundi til grunna í ríkjum Mið- og Austur- Evrópu og fyrrum þátttakendur í andspyrnuhreyfingunni, sem flestir voru menntamenn - þ.e.a.s. andófsmennirnir svonefndu - tóku við mörgum mikilvægum pólitískum embættum taldi ég og sagði oft opinberlega að við byggjum yfir nokkru, sem við gætum notað til að endurgjalda Vesturlöndum þá miklu aðstoð er við myndum þurfa að þiggja af þeim."

Havel lýsir síðan þeirri skoðun sinni að vonir manna í kommúnistaríkjunum um stuðning og aðstoð af hálfu Vesturlanda hafi að stærstum hluta orðið að veruleika, þótt ef til vill hafi ekki ræst óskir þeirra "barnalegustu og áköfustu" í löndum þessum. "Síðasta mikilvæga vísbending þess, að Vesturlönd taka frelsi okkar alvarlega og þau eru hætt að viðurkenna hina löngu og tilbúnu skiptingu heimsins í áhrifasvæði, er án nokkurs vafa stækkun Atlantshafsbandalagsins, sem nú hefur tekið við þremur nýjum ríkjum, er öll tilheyrðu áður Varsjárbandalaginu."

Síðan sagði forsetinn: "Spurningin, sem leitar á huga minn, er sú, hvort við höfum líka gefið Vesturlöndum það, sem við gátum og vorum raunar skuldbundin að færa þeim til að endurgjalda þeim aðstoðina. Ég er ekki viss um að svo sé.

Hvað gátum við og hefðum við hugsanlega átt að gefa hinum ríku og þróuðu lýðræðisríkjum Vesturlanda? Ég var öldungis sannfærður um að við hefðum átt að láta þau njóta, bæði á raunsannan og vitrænan hátt, þeirrar reynslu, sem við öðluðumst undir alræðisstjórn með því að berjast gegn þeim skilyrðum, sem okkur voru þá búin. Reynsla okkar af alræðisstjórninni kenndi okkur að þjóðfélagið verður ávallt að greiða fyrir og vera tilbúið að greiða fyrir frelsið, sjálfstæðið, mannréttindin og hagsældina. Hún kenndi okkur að gjalds er ávallt krafizt, að miklar fórnir eru á stundum nauðsynlegar til að réttlátur málstaður nái fram að ganga og að hið raunverulega gildi fórnanna er falið í þeim sjálfum, en ekki í því hversu hratt þær kunna að skila ávinningi."

Havel lýsir síðan þeirri niðurstöðu sinni að reynslan af kommúnismanum hafi leitt í ljós að eina form stjórnmála, sem raunverulega sé vitrænt, sé það, sem mótist af mannlegri samvisku. Þetta segi hann ekki vegna þess hann telji sig færan um að prédika, heldur sé einlæg sannfæring hans sú að siðferðilega rétt breytni borgi sig að lokum. Slík breytni geti hins vegar oft kallað miklar þjáningar yfir menn og þjóðir, það þurfi hann tæpast að segja öðrum. "Siðferðilega rétt breytni gagnast ekki aðeins einstaklingnum, sem kann að þjást, þótt hann njóti innra frelsis og sé því gæfumaður, heldur skilar hún einnig sínu til þjóðfélagsins þar sem tugir eða hundruð æviskeiða, sem þannig er varið, geta skapað það, sem kalla mætti jákvætt, siðferðislegt umhverfi, þ.e. siðferðislega hefð eða arfleifð, sem sífellt endurnýjast og verður að lokum afl er verður til góðs."

Alræði peninganna

Vaclav Havel segir að vera kunni að fólk, sem hafi verið svo heppið að kynnast aldrei alræðisstjórn geri sér ef til vill ekki ljósar þær siðferðislegu undirstöður, sem þjóðfélagið hvíli á. "Þetta kemur þessu fólki illa. Því sökum þessa gerir það sér síður ljóst hversu alvarlegar hættur ­ sem sprottnar eru upp í siðmenningu okkar ­ ógna þessari plánetu og hversu mikilvægt það er í nafni þess að mannkynið fái lifað af að við getum fordæmt það, sem svo erfitt er að fordæma og fórnað miklu án þess að fórna okkar sé krafizt og getum breytt á þann veg, sem ekki skili okkur augljósum ávinningi um alla fyrirsjáanlega framtíð.

Alræði peninganna, hagnaðarins, hins stöðuga hagvaxtar og sú nauðsyn, sem af þessu skapast til að ræna jörðina án nokkurs tillits til þess, sem eftir kann að standa eftir nokkra áratugi, ásamt öllu því, sem tengist efnislegri þráhyggju þessa heims, allt frá hamslausri sjálfselsku til hneigðarinnar til að forðast persónulega ábyrgð með því að gerast hluti af hjörðinni og hið almenna getuleysi mannlegrar samvisku til að halda í við uppfinningar skynseminnar, allt til þeirrar firringar, sem stærð nútímalegra stofnana getur af sér ­ um öll þessi fyrirbrigði gildir að ógerlegt er að bregðast við þeim nema til komi ný siðferðisleg viðleitni, þ.e.a.s. með umbreytingu andans og sambands manna við líf og heim.

Mér virðist sem jafnvel hin ríku lýðræðisríki Vesturlanda, og ef til vill sérstaklega þau, þurfi að gangast undir ákveðna siðferðislega sjálfsskoðun, sem hafi þau áhrif að óhugsandi verði að fórna framtíðinni fyrir nútíðina. Og ég er þeirrar skoðunar að við getum endurgoldið Vesturlöndum þá miklu aðstoð, sem þau hafa veitt okkur frá því járntjaldið féll, einkum og sér í lagi með því að leyfa þeim að njóta ávinnings reynslu, sem þau hafa ekki þurft að ganga í gegnum sjálf á undanliðnum áratugum. Með þessu er ég að vísa til skilningsins á því að breytni, sem mótast af ábyrgð og hreinni samvisku borgar sig."

Havel lauk síðan ávarpi sínu með því að velta því fyrir sér hvort gömlu kommúnistaríkin í Mið- og Austur-Evrópu verði fær um að koma þessari reynslu til skila og hafa þannig áhrif á þróun siðmenningarinnar. Um það segist hann hafa efasemdir. Hann kveðst óttast að bilið milli alræðisríkjanna og Vesturlanda fari einkum minnkandi einmitt á þeim sviðum þar sem lýðræðisríkin hefðu þurft á viðvörun að halda. "Ég er ekki viss um að við höfum getað uppfyllt sögulegt hlutverk okkar. Og ef við erum ekki nægilega sannfærandi, er við freistum þess að leyfa öðrum þjóðum jarðar að njóta góðs af þeim ávinningi, sem einstök reynsla okkar færði okkur, er sú hætta fyrir hendi að við höfum gengið í gegnum þessa raun til einskis."

Tungan

Við töluðum um tunguna í síðasta Reykjavíkurbréfi, arfleifð okkar og menningu. Nauðsyn þess að rækta tunguna, styrkja hana í nútímarótinu, í stað þess að horfa uppá hana velkjast eins og rótlaust þang í samtímahafinu. En við erum ekki ein um það vandamál sem verður til, þegar vegið er að menningararfleifð fámenns samfélags. Það eiga mörg þjóðarbrot um sárt að binda í þeim efnum. En við stöndum betur að vígi en þau vegna þess að við búum í einslitu samfélagi og ættum að hafa bolmagn til þess með sameiginlegu átaki að standast þrýsting og ásókn alþjóðamarkaðarins. Við erum ekki heldur ein um það að hafa stigið á stokk og strengt þess heit að vernda arf okkar. Það hafa mörg þjóðarbrot einnig gert og þau berjast hetjulegri baráttu sem litlar eyjur í hafróti tímans.

Um það hefur verið fjallað í fréttum að Evrópusambandið leggur mikla áherzlu á að vernda sérkenni minnihlutahópa, og þá ekki sízt tungu þeirra og arfleifð. Þessi viðleitni Evrópusamfélagsins ber því fagurt vitni og sérstök ástæða til að fagna henni. En samt eiga þessi fámennu samfélög undir högg að sækja. Þannig hefur verið skrifað um tungumál minnihlutahópa í Frakklandi, hversu mjög sé að þeim sótt og hve erfið staða þeirra sé. Dæmi um það voru nýlega nefnd í fjöllesnu vikublaði, sem okkur berst með öðrum fjölskrúðugum pósti. Í þetta skipti er engilsaxneskan ekki sökudólgurinn, heldur franskan. Frakkar eiga að vísu heiður skilinn fyrir að standa vörð um þessa dýrmætu arfleifð sína, tunguna, sem hefur fóstrað mikla arfleifð, miklar bókmenntir. Þeir hafa jafnvel komið á fót einskonar tungumálalögreglu sem hlustar á minnstu frávik frá frönskunni, eins og Heimdallur á grasið vaxa. Og nú er spurningin hversu langt eigi að ganga í því að leyfa sem flestum jurtum að blómstra í tungumálaflóru franskrar menningar. Á að gefa tungumálum minnihlutanna meira svigrúm en verið hefur eða á að halda þeim niðri; þrengja að þeim, gæta þess að þau skyggi ekki á frönskuna? Hvernig á að umgangast þá í Frakklandi sem tala bretónsku, flæmsku,

basknesku, korsísku eða katalónsku, svo að dæmi séu nefnd. Á að lyfta undir þessi tungumál, eða á að halda þeim niðri?

Sumir telja að á frönsku yfirráðasvæði séu töluð 75 tungumál. Chirac forseti segist styðja þá stefnu að hlúa að þessum málsvæðum. En í sumar neitaði hann að fullgilda samninginn um réttindi þeirra tungna sem minnihlutar tala. Sumir halda að þessi réttindi geti grafið undan frönsku miðstjórnarvaldi. Fram að þessu hafa einungis átta ríki samþykkt Evrópusáttmálann um minnihlutatungur. Nokkur ríki, sem hafa sögulega reynslu af tungumálum minnihlutahópa, hafa ekki skrifað undir sáttmálann, þeirra á meðal bæði Spánn og Bretland.

Í suðvesturhluta Frakklands búa 3,5 milljónir Frakka sem tala útbreiddasta minnihlutatungumál landsins, occitan. Fyrir um 80 árum töluðu 10 milljónir manna þetta tungumál. Þeir sem nú tala bretónsku eru álíka margir og Íslendingar, en voru 1,2 milljónir í upphafi þessarar aldar. Í Baskahéruðum Suðvestur-Frakklands tala einungis 40 þúsund íbúar basknesku, en Baskarnir þar eru álíka margir og við Íslendingar. Tunga þeirra var víða notuð fyrir 100 árum. Nú er hún deyjandi tungumál. Mikil bókmenntahefð er bundin öllum þessum tungumálum.

Allt er þetta harla íhugunarvert, en gæti verið okkur leiðarljós í erfiðri baráttu við að halda tungunni og ávaxta þennan dýrmætasta fjársjóð sem okkur hefur hlotnast til varðveislu. Það er í raun og veru mikill heiður að heyra til litlu samfélagi sem hefur fengið svo stóran hlut til eignar og varðveislu. Við eigum ekki að glata þessu tækifæri. Ef við gerum það, glötum við fortíð okkar. Og sá sem glatar fortíð sinni, hann glatar einnig dýrmætustu fyrirheitum framtíðarinnar. Og sá sem glatar fyrirheitum sínum, hann glatar einnig sjálfum sér.

 

Ódagbundið

Hef verið að fara yfir Powerful Prayers eftir Larry King, heldur atyglisverð lesning um bænina og mátt hennar, en þó ekkert nýtt. Fyrir áeggjan dóttur sinnar fór King að spyrja ýmist þekkt fólk um bænalíf þess og endar með því að hann er farinn að tala við guð í lokin, því sjálfur hafði hann aldrei iðkað neinar bænir, hann vissi ekki, til hvers hann átti að beina þeim. Nú segir hann bara Thank you! þegar hann hefur fyrir eitthvað að þakka. Mér finnst þetta heldur geðfelld skrif og dýpka Larry King, þennan tákngerving sjónvarpssamtalsins. Helzt vill hann eiga samtöl við guð, en sá gamli er ekki á þeim buxunum, tekur ekki í mál að leika hlutverk poppstjörnunnar í sjónvarpsútsendingu! Thank you! verður því að nægja.

King er spyrill fína fólksins. Og það er ekki ýkjamerkilegt sem hann hefur eftir því. Hann hefði átt að tala við íslenzkt alþýðufólk, þá hefði hann getað skrifað eftirminnilegri bók um bænina.

Hef einnig verið að fara yfir sögu Anne Bronté, The Tenant of Wildfell Hall, ágæta sögu, en auðvitað afkvæmi síns tíma: Kona sem verður ástfangin af ómerkilegum gaur, kynnist öðrum í sveitinni, getur ekki átt hann fyrr en eiginmaðurinn er dauður, en það blessast að lokum. Mér finnst góð sálfræði í bókinni og alveg nógu nútímaleg fyrir hvern sem er. Þessar systur hafa allar átt dramatíska upplifunarhæfileika og umhverfið fylgir þeim inn í sögurnar. En efnið er auðvitað gamaldags, þótt ástin sé að sjálfsögðu ávallt ný eins og Passíusálmarnir. Ég er að velta því fyrir mér hvort fólk elskar nú á sama hátt og þegar Anne Bronté skrifaði þessa sögu eða systir hennar Jane Eyre. Það var Charlotte sem skrifaði þá sögu, hún var elzt; fædd 1816, dáin 1855. Anne fæddist 1820, dó 1849, en Emily, sem skrifaði Fýkur yfir hæðir er fædd 1818, dó 1848. Anne er víst þekktari fyrir aðra skáldsögu sem heitir Agnes Grey. Fýkur yfir hæðir fékk vonda dóma í byrjun, þótti of villimannleg, en er nú talin eitt af höfuðverkum enskra bókmennta. Þar er ekki óalgengt að listaverk breytist úr höfuðverk í höfuðverk! Jane Eyre finnst mér ekki síðri. Allar systurnar þrjár skrifuðu undir dulnefnum. Ritmennska var ekki kvennastarf eins og nú.

 

Þá hef ég einnig verið að fara yfir safn um sköpunargáfuna, What is Creativy. Þetta er erfitt viðfangsefni, en í einni ritgerðinni sýnir vísindamaður að nafni Weisberg frammá að sköpun sprettur alltaf úr þróun; hún verður ekki til við stökkbreytingu. Þannig fundu vísindamennirnir DNA-efnið eftir mikla leit sem átti rætur í þróuðum vísindum. Höfundur sýnir einnig frammá, hvernig hinar byltingasinnuðu myndir Picassos spruttu úr fyrri verkum hans og frumstæðri list; sem sagt þróuðust úr gömlum tíma; einnig verk bandaríska málarans Pollocks, sem var nýsköpuður í afstraktexpressionisma, byggði meðal annars á mexíkóskum freskumálurum og sandmálverkum indíána, segir í Alfræðibókinni og enginn ástæða til að draga það í efa. En Pollock þróaði þessi nýju verk sín ekki sízt úr fyrirmyndum sem stóðu honum nær og Weisberg tíundar án þess ég muni það nákvæmlega.

En sem sagt, listin sprettur ekki úr stökkbreytingum, heldur þróun.

Dálítið dæmi leitar á hug minn. Snorri segir í formála fyrir Gylfaginningu, Skáldskaparmálum og Háttatali að mannfólkið hafi skilið þegar í upphafi “að allir hlutir væru smíðaðir af nokkru efni”. Þetta er einhver frægasta setningin í ritum Snorra. En hvaðan skyldi hún vera runnin? Í fyrrnefndu riti um sköpunargáfuna er bent á að Lúkretius, fulltrúi efnishyggjunnar á sínum tíma og arftaki epíkúristanna, hafi lagt upp úr því að allir hlutir væru skapaðir eða smíðaðir af nokkru efni.

Snorri vissi lengra nefi sínu og nef hans náði til Miðjarðarhafs, ef því var að skipta; jafnvel til Azerabasjan, samanber æsi. En nú hefur verið bent á að þeir séu þaðan komnir – og þá auðvitað af mannlegum uppruna eins og allt sem á rætur í frjóum jarðvegi mannshugans.

 

27. september, mánudagur

….

 

…Hilmar Skagfield sendi mér tölvupóst um það hvernig er að eldast. Þar stóð m.a.: Ég hóf þessa ferð eignalaus. Ég kom skikk á villtu hafrana. Að lokum gat ég tekið mig saman í andlitinu, en þá bilar heilsan. Lífið er ósanngjarnt. Ef ég hef ekki misst allt, hvar er það þá? Það er auðveldara að verða gamall en vitur. Stundum ertu hundur, stundum brunahani. Börn í aftursætinu valda slysum. Slys í aftursætinu hafa börn í för með sér. Ef guð hefði viljað að ég næði í tærnar á mér, þá hefði hann sett þær á hnéin. Nú þegar ég hef loksins öll spil á hendi, hvers vegna eru þá allir komnir í skák. Það er ekki erfitt að rekast á útgjöld, þau eru allsstaðar. Eini munurinn á hjólfari og gröfinni er dýptin.

Það er nú það…

 

Sá kvikmynd Guðnýjar Halldórsdóttur uppúr sögu föður hennar, Ungfrúin góða og húsið. Hafði hlustað á hana á dönsku, það var þegar Helle Virkner las hana sem framhaldssögu í danska útvarpið. Þá bjuggum við Hanna í Höfn, það var veturinn 1955-56. Á íslenzku er sagan ósköp einföld í stíl, látlaus og aðlaðandi, en efnið eins og geggjaður, grískur harmleikur. Maður kyngir því samt eins og slíkum harmleik. Ég hafði sérstaklega gaman af því að sjá lýsingar Halldórs Kiljans á útsaumi og prjónaskap og þeirri listrænu vinnu sem Rannveig, aðalpersóna sögunnar, hefur á valdi sínu öðrum fremur. Einkennilegt hvað Halldór hefur lagt sig eftir þessu kvenmannsstarfi og lýsir því vel. Enginn kvenrithöfundur hefði gert það betur. Hann er í þessari sögu eins og karlkokkar sem slá allar húsmæður út í matargerð. Kvikmynd Guðnýjar er ágæt, hæg og sterk en látlaus eins og sagan. Hún fylgir ekki sögunni, að vísu, en allir þræðir myndarinnar eru samt sóttir í söguna. Myndin er vel samansett og miklu betri en fyrri kvikmynd Guðnýjar uppúr sögu eftir föður hennar, Kristnihaldinu.

Fórum eftir kvikmyndina til Brynhildar og Haralds, sonar okkar, sem leggja land undir fót á morgun og skreppa til Spánar, en þar hefur honum verið boðið að vera við hátíðarhöld í tilefni af 175 ára afmæli spænsku lögreglunnar. Þetta virðist vera mjög fínt boð og Spánverjar leggja augsýnilega mikið upp úr stofnun spænsku lögreglunnar.

Að því loknu fór ég upp á Morgunblað. Þar beið mín sú frétt að forseti Íslands hefði axlarbrotið sig í útreiðartúr í Landssveit. Þurfti síðan að fylgjast með því að fréttin væri Morgunblaðinu samboðin og vona að svo sé. Við erum með það nýjasta, að Ólafur Ragnar þurfi ekki að gangast undir aðgerð vegna slyssins. Sjónvörpin gáfu aftur á móti í skyn í kvöld að aðgerð væri yfirvofandi. Við erum sem sagt með nýja frétt.

En hvernig má þetta eiginlega vera? Nú þurfti hann endilega að detta af baki eftir allt það sem á undan er gengið! Ég er farinn að hafa samúð með honum, after all! Hann er að verða einhvers konar hrakallabálkur, það er einum of mikið. Vonandi nær hann sér hið fyrsta, en óvíst hvort hann verður viðstaddur þingsetningu síðar í vikunni. Það kemur þá í ljós eins og annað. En aldrei hefur maður stundlegan frið í þessari blaðamennsku. Það er nú meira starfið. Og alltaf þarf maður að gæta sín í hverju spori, annars er yfirvofandi að maður misstígi sig, - eða detti af baki!

 

 

29. september, miðvikudagur

Við Ingó sáum í gærkvöldi verðlaunamynd danska leikstjórans Sören-Kragh Jacobsens, Síðasti söngur Mifunu. Ömurlegt efni en vel leikið með köflum, einkum hlutverk þorskahefts bróður. Hitti leikstjórann um daginn og töluðum einkum um danska kvikmyndaleikstjórann Dreyer, sem gerði myndina af Heilagri Jóhönnu og síðar Orðið eftir leikriti Kaj Munks. Þannig eignuðust Danir arfleifð sem okkur skorti þegar kvikmyndaframleiðsla hófst hér á landi fyrir alvöru. Dreyer fjallaði um fæðingu, Jacobsen um getnað. Það segir mikið um þróun kvikmyndagerðar!

Jacobsen sagðist vera svo ánægður með mynd sína að hann gæti séð hana 150 sinnum. Ég ætla ekki aftur….

 

Styrmir sagði mér í gærkvöldi, nýkominn af fundi kvótanefndarinnar í Vestmannaeyjum, þar sem mér skilst að samkomulag hafi orðið um uppboðssölu á kvóta (mikill árangur), að Svanfríður Jónasdóttir hafi sagt um þau mistök sem Ólafur Ragnar hefur verið að gera undanfarið, að ástæðan væri sú, að hann væri einfaldlega ástfanginn. Þetta er ágæt skýring: ást er fædd og alin blind. En er konan Dorrit ástfangin? Ólafur sagði við pressuna að hann hefði boðið Dagblaðinu að vera viðstaddur útreiðatúrinn fyrir austan til þess að sýna fram á að ensk blöð, jafnvel hin virtustu eins og hann komst að orði, væru ekki alltaf áreiðanleg! Útreiðartúrinn var sem sagt farinn í því skyni að sannfæra brezku pressuna um ást þessarar brezku, eða egypzku, veizlukonu á forseta Íslands! Þau eru mörg embættisverkin á Bessastöðum um þessar mundir og ekki bætir forsetaritari, Róbert Trausti Árnason, úr skák, þegar hann segir við Times að Íslendingar elski eins og svanirnir! Og pressan veltir sér upp úr þessari sápu eins og hrínandi grísir í stíu, en fólkið horfir á, ýmist flissandi, eða agndofa.

Einu sinni hrataði hestur með Gunnar á Hlíðarenda. Hann ákvað þá að fara aftur heim til Hallgerðar.

Þá hófst svanasöngurinn.

 

30. september, fimmtudagur

Borðaði með Kristjáni Karlssyni í gær. Töluðum m.a. um tvö kvæði eftir hann sem ég stakk uppá að yrðu birt í Lesbók; annað fjallar um kristnitöku, hitt um Mörtu og orð Krists: En eitt er nauðsynlegt…

 

Kristján sagðist hafa ort tvö kvæði, ef kvæði skyldi kalla, meðan hann beið eftir mér. Þau eru afar gott dæmi um það sem kalla má ljóðleysu og ljóð; eða öllu heldur ljóð og prósa. Fyrri útgáfan er svohljóðandi:

 

Máninn er Persefóna

en Persefóna er ekki máninn.

 

Ég sé hana í vatninu.

 

Eitt kvöld mun hún stíga uppúr

vatninu þurrum fótum

og ganga framhjá mér

eins og hún sjái mig ekki.

 

Hún sér mig ekki.

 

Sömuleiðis góða.

 

Þetta er fyrri gerð og nánast ósköp venjulegur prósi. Hér er síðasta línan bara prósaískur hlutur, ekkert meir. Fyrir bragðið er það allt annar persónuleiki sem skrifar þessar línur en sá sem orti eftirfarandi, í beinu framhaldi, eða eins og Kristján segir í athugasemd: ort ca. kl. 11.45 til 12.10. Hann bætir við “fyrri gerðin sá ég að var ómöguleg og enginn skáldskapur vegna síðustu línunnar”.

En síðari gerðin er svohljóðandi:

 

Máninn er Próserpina

en Próserpina er ekki máninn.

 

Ég sé hana í vatninu.

 

Eitt kvöld mun hún stíga uppúr

vatninu þurrum fótum

og ganga framhjá mér

eins og hún sjái mig ekki.

 

Hún sér mig ekki.

 

Þú heldur það!

 

Þessi síðasta lína gjörbreytir öllu. Hún gerir kvæðið að skáldskap. Hennar vegna er þetta ljóð, en ekki prósi. Í þessari einu, síðustu línu verður einskonar flugeldasýning með skírskotandi vísbendingu um óvænta upplifun, sem getur komið úr öllum áttum. Þarna er líka óvæntur húmor; sem sagt allt óvænt; einnig óvænt ný persóna sem gefur það í skyn sem á að gefa í skyn í góðu kvæði. En menn verða að lesa út úr því sjálfir.

Sem sagt, gott kvæði.

Persefóna er gríska gerðin, en Próserpina latneska heitið á þessari undirheimagyðju.

En það er önnur saga.

 

1. október, föstudagur

Þessi grein eftir Ásgeir Sverrisson birtist í Morgunblaðinu í dag, ágæt grein. Davíð Oddsson talaði við Styrmi um hana í morgun, hrósaði henni mjög; sagði hún væri töluð út úr hjarta þjóðarinnar!

Svigrúm og einkalíf

“Ekkert hefur gerst í lífi Ólafs Ragnars Grímssonar sem kemur almenningi á Íslandi sérstaklega við.

Forseti Íslands hefur farið þess á leit við þjóðina að hún veiti honum "tilfinningalegt svigrúm" til að þróa fram samband sitt við tiltekna konu. Ekki er ástæða til að ætla annað en þjóðin hafi verið öldungis tilbúin til að veita Ólafi Ragnari Grímssyni allt það rými, sem hann telur sig þurfa í lífinu áður en þessi orð féllu og að ekkert hafi breyst í því efni eftir að hann kom þessari beiðni á framfæri. Á hinn bóginn sýnist forseti Íslands ekki tilbúinn til að veita þjóðinni svigrúm til að lifa lífi sínu í friði fyrir upplýsingum er varða einkahagi hans. Verra er að forseti Íslands hefur nú rofið þá hefð, sem ríkt hefur á Íslandi um að einkalíf fólks í opinberum embættum komi almenningi ekki við svo framarlega sem það sinni skyldustörfum sínum af trúmennsku og heiðarleika.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur upplýst Íslendinga um að hann standi í tilfinningalegu sambandi við konu að nafni Dorrit Moussaieff. Þessi skipan mála kemur augljóslega almenningi í þessu landi ekkert við. Dorrit Moussaieff er vinkona Ólafs Ragnars Grímssonar en stendur hvorki í vináttu- eða tilfinningasambandi við forsetaembættið á Íslandi.

Hver sá sem gegnir embætti forseta Íslands er ekki holdtekja lýðveldisins eða íslensku þjóðarinnar. Viðkomandi getur elskað ákveðið fólk í lífi sínu og þess vegna lagt fæð á tiltekna einstaklinga. Krafan sem gerð er á hendur þeim einstaklingi, sem sinnir þessu embætti, er á hinn bóginn einfaldlega sú að tilfinningar hans eða persónubundnar hneigðir hafi ekki áhrif á embættisfærslu hans.

Misskilningur Ólafs Ragnars Grímssonar sýnist liggja í því að hann geri ekki greinarmun á persónu sinni og embætti því, sem honum hefur verið falið. Því má ef til vill halda fram að embætti hans sé á einhvern hátt samofið lífi þjóðarinnar í landinu en það er einkalíf hans og persóna ekki.

Örla tók á þessum misskilningi dag þann sem Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti. Þeim atburði lýsti hann sem "sigri allrar þjóðarinnar" þótt tæp 60% þeirra, sem þátt tóku í kosningunum, hefðu ákveðið að styðja hann ekki til þessa embættis. Ólafur Ragnar Grímsson hefur notið umtalsverðrar virðingar og vinsælda í embætti. Sigur hans var hins vegar ekki "sigur allrar þjóðarinnar" og einkalíf hans er ekki milliliðalaust tengt daglegu streði þess hluta mannkyns, sem býr á Íslandi.

Með því að gangast fyrir skipulegum myndatökum til birtingar í einu af dagblöðum landsins hefur Ólafur Ragnar Grímsson rofið þá hefð að einkalíf manna í opinberum embættum sé ekki fréttaefni á Íslandi. Myndatökunni lyktaði sem kunnugt er með ósköpum en er gagnrýniverð fyrir þær sakir að efni hennar varðaði tilteknar breytingar í einkalífi forsetans. Þetta fráhvarf getur haft miður heppilegar afleiðingar í svo litlu samfélagi sem Ísland er og eykur verulega líkur á því að friðhelgi einkalífsins verði rofin með skipulegri og stórtækari hætti en Íslendingar hafa mátt venjast.

Ólafur Ragnar Grímsson getur einn svarað því hvernig beiðni hans um "tilfinningalegt svigrúm" getur farið saman við þá ákvörðun hans að kalla til ljósmyndara í því skyni að birta opinberlega efni er varðar breytta einkahagi hans, sem aftur voru tilefni þess að forsetinn fór fram á margnefnt "svigrúm" af hálfu þjóðarinnar.

Fyrst forseti Íslands hefur frumkvæði að því að fjallað sé ítarlega um einkalíf hans og að teknar séu myndir af honum til birtingar í dagblaði þar sem hann er í óopinberum erindagjörðum með vinafólki sínu, blasir við að einkalíf þess fólks, sem raunveruleg völd hefur í þjóðfélaginu, er þar með orðið fyrirbrigði, sem varðar almenning og um leið fréttaefni. Ef sú staðreynd að Ólafur Ragnar Grímsson hefur kynnst konu kemur alþýðu manna við, hljóta atburðir í lífi ráðherra, biskupa og annarra manna, sem trúað hefur verið fyrir raunverulegum völdum á Íslandi, að eiga erindi við þjóðina.

Um leið er hugsunin sú að ráðamenn á Íslandi eigi að hafa frumkvæði að því að skýra frá þeim breytingum, sem kunna að verða á högum þeirra. Með slíku frumkvæði geti háttsettir menn mótað fréttaflutning og þar með viðbrögð almennings við þeim upplýsingum, sem komið er á framfæri. Þessi skipan mála er alþekkt erlendis. Hættan er sú að ráðamenn neyðist í raun framvegis til að hafa frumkvæði að slíkum fréttaflutningi, sem aftur skapi efasemdir um að frásagnir þeirra standist skoðun og þar með vafa um heilindi þeirra. Mótun frétta og viðbragða í þessum anda kann því að verða til þess að ástæða þyki til að kanna ítarlega þætti í einkalífi viðkomandi, jafnvel umfram þá, sem hann hefur ákveðið að opinbera.

Ólafur Ragnar Grímsson á nákvæmlega sama rétt og aðrir þegnar þessa lands til að lifa lífi sínu í friði. Embætti forseta Íslands er engan veginn hafið yfir viðmiðunarreglur samfélagsins. Jafnframt er persóna þess einstaklings, sem sinnir því starfi ekki tengd þjóðinni með einhverjum þeim hætti að um hana gildi sérstök viðmið. Embætti forseta Íslands færir ekki heldur þeim einstaklingi, sem því gegnir, umboð til að breyta þeim viðmiðum, sem gilt hafa um rétt manna til að lifa einkalífi í þessu landi.

Forseti Íslands hefur skýrt þjóðinni frá því að hann standi í tilfinningalegu sambandi við konu, sem hann hefur kynnst. Breyting hefur orðið á högum hans en ekkert hefur gerst í lífi þessa tiltekna einstaklings sem kemur almenningi á Íslandi sérstaklega við. Vitanlega geta orðið svo djúpstæðar breytingar á einkahögum forseta Íslands sem annarra að þær snerti starf hans og embætti. Um slíkar breytingar er á hinn bóginn ekki að ræða nú hvað sem síðar kann að verða.´”

 

Í dag eru 50 ár frá því ég kynntist Hönnu í Tjarnarkaffi; sem sagt heilladagur. Fórum í Þjóðleikhúsið með Ingó og sáum Fedru eftir Racine. Fín sýning og ég er algerlega sammála umsögn Sveins Haraldssonar í Morgunblaðinu í morgun.

Hittum margt fólk, þ. á m. Kristján Hrafnsson Gunnlaugssonar, ungt skáld sem mér fellur afarvel í geð, og Melkorku Teklu Ólafsdóttur, leiklistarráðunaut, konu hans. Minntist á Sólmyrkva og áhuga Jóns Laxdals á því að setja stykkið upp. Hún þekkti það ekki. Þannig lifum við inní sorpeyðingarstöð tímans.

 

2. október, sunnudagur

Skrifaði þetta Reykjavíkurbréf í dag:

Í tengslum við arfleifð okkar, sem gerir miklar kröfur til smekks og listrænna vinnubragða, mætti varpa fram þeirri spurningu, hvort rétt sé sem virðist, að ritlistarsmekknum hafi hrakað frá því sem var fram undir miðja öldina. Nú eru gerðar minni fagurfræðilegar kröfur en áður til þeirra sem tjá sig í söngli og skáldskap. Það hefur að vísu ávallt verið tilhneiging til að lyfta undir lélegan smekk og óþarfi að benda á annað en rímnasönglið, sem gekk svo fram af Jónasi á sínum tíma, að hann stóðst ekki mátið, en vó harkalega að vondum rímum og þyrmdi þá ekki Sigurði Breiðfjörð, þótt hann væri góðskáld í aðra röndina og ætti það til að yrkja ágæt kvæði. En hann lét fjölina fljóta í mörgum rímum sínum og gaf höggstað á sér. Jónas stóðst ekki mátið og kallaði yfir sig bæði reiði og óvinsældir vegna þess að alþýða manna dýrkaði leirburðinn þá eins og nú. Jónas reiddi að vísu of hátt til höggs því að hann þyrmdi engu sem fyrir var, t.a.m. ekki því bezta í Breiðfjörð.

Hnignandi smekkur

En hver reiðir nú til höggs með sama hætti og Jónas áður? Það væru ærnar ástæður til þess við eignuðumst slíkan farandriddara sem hann nú um stundir. En áhuginn er lítill sem enginn. Nú er allt lagt að jöfnu og alþjóðasönglið og leirburðurinn hafa slævt þær eggjar til muna sem hægt væri að nota í viðnáminu gegn smekkleysi og leirburði. Eða ­ hví skyldu menn vera að kalla yfir sig óvinsældir af þessu tilefni, ritlist er hvort eð er ekki í tízku, og þá allra sízt ljóðlist. Vaðallinn er í tízku, ekki sízt í ljósvökunum. 70-98% dagskrárefnis sjónvarpsstöðvanna af útlendum toga, mikill hluti yfirgengilegt rusl. Til hvers var þá þessi þjóðernisvakning vegna kanasjónvarpsins, mætti spyrja. Væri ekki alveg eins ástæða til að hefja slíka vakningu nú? Eða höfum við orðið blekkingunni að bráð í þeirri fáránleikasápu sem er hvarvetna fylgikvilli poppmenningar og fjörefni gulu pressunnar?

Allt er þetta í stíl við þá áhættufíkn sem einkennir þjóðfélagið, ekki sízt verðbréfamarkaðinn.

En svo er þá einnig á hitt að líta að smekkurinn hefur ekki einungis versnað, heldur hefur hann einnig breytzt og engin ástæða til að amast við því. Hver samtími á sinn spegil, jafnt á dögum Jónasar og nú um stundir. En allir samtímaspeglar sundrast og tíminn raðar einstaka brotum í þá einu mynd sem eftir stendur, þegar fram líða stundir. Það sem stenzt miskunnarlausar kröfur hans og veldur því að bókmenntir og aðrar listir verða sígildar og lifa af, er hátt yfir samtímaskvaldrið hafið. Hitt er svo annað mál að við eigum að gera þær kröfur til skólanna að þeir rækti máltilfinningu nemenda, kenni góðan skáldskap, mikilvæga ritlist, en sleppi leirnum. Því miður er hann eldfastur og af þeim sökum erfiður viðureignar. En hvað sem því líður er unnt með ögun og atlæti að rækta það sem er verðmætt og mikils virði og ber í senn vitni um arfleifð okkar og vísbendingu um ræktaðan og þroskaðan smekk.

Alþjóðlegt vandamál

Það sem hér hefur verið til umræðu er ekki einungis vandamál á Íslandi, heldur einnig, og ekki síður í öðrum löndum. Ein af ástæðunum er sú tilhneiging til einsmenningar og alþjóðahyggju sem fjölmiðlar sáldra eins og illgresi yfir viðkvæman akur lítilla samfélaga og jafnvel stórra einnig. Þannig segir einn helzti rithöfundur Bandaríkjanna nú um stundir, James Salter, m.a. í athyglisverðri grein sem birtist nýlega í New York Times , "Einu sinni voru bókmenntir. Hvað nú?", að fyrsta stórverkefni okkar í lífinu, og einnig það mikilvægasta, og allt annað er undir komið, sé einfaldlega: að læra að tala. "Tungumálið ­ hvaða tungumál sem er, enska, swahili, japanska ­ er skilyrði mannlegrar tilveru. Án þess er ekkert. Til er fegurð í heiminum og fegurð tilverunnar ­ eða depurð ef því er að skipta ­ er ekki unnt að tjá án tungumáls.

Dýrin deila með okkur jörðinni en þau geta ekki talað, a.m.k. ekki með neinum

þeim hætti, sem borinn verður saman við mannamál. Þau eiga sér ekki ­ jafnvel þau stórkostlegustu og greindustu þeirra, hvalir, fílar, ljón ­ Guð. Allur skilningur okkar og lotning fyrir guðdóminum eru algjörlega háð tungumálinu: bænum, prédikunum, sálmum, Biblíunni eða öðru lesmáli. Án tungumálsins gæti Guð verið til ­ en þá væri ekki unnt að lýsa honum. Kraftur tungumálsins er fólginn í þroska þess, glæsileika, umfangi og aðlögun. Þegar talað er á skýran, skorinorðan og skemmtilegan hátt er líkast því að mælandinn haldi á blysi. Við drögumst að fólki, sem veit sitthvað um heiminn og getur komið vizku sinni á framfæri: Dr. Johnson, Shakespeare. Tungumál á borð við það, sem þeir nota, slær tóninn, tungumál skálda og hetja. Þeim tilheyrir ákveðið svið lífsins, svið sem er óhagganlegt.

Hins vegar er tungumálið ekki eitt og óskipt. Tungan er tvískipt, sú sem mælt er fram og sú skrifaða. Talmálið er líkast andardrætti, áreynslulaust og til reiðu. Ritmálið er allt annað fyrirbrigði. Því fylgir erfiði og fyrirhöfn að læra að lesa og skrifa, það er annað hliðið, sem fara þarf gegnum. Þegar þeirri ferð er lokið blasir víðernið við, ef svo má að orði komast, hið endalausa útsýni. "Bibliornar" eru þar til reiðu. Þetta orð bjó ég til. Það þýðir bókasafn, skjalasafn, stórt safn. Eitt og eitt tilbúið orð hér og þar telst ekki mikið. Shakespeare bjó til tæplega 12. hvert orð af þeim rúmlega 20.000, sem hann notaði; a.m.k. er ekki vitað til þess að þau hafi verið notuð áður. Til samanburðar má nefna að Biblía Jakobs konungs hefur að geyma aðeins um 8.000 mismunandi orð.

Allt horfið ­ en sagan ekki

Í "bibliorunum" er að finna bækur, handrit, dagblöð, gögn sem prentuð hafa verið út af Netinu, bréf, alls konar hluti. Bækurnar eru það mikilvægasta. Með því að lesa þær vaknar löngunin að gerast rithöfundur eða þannig var því alltjent farið forðum daga. Mig minnir að fyrsta bókin, sem ég las til enda, einn og óstuddur, hafi verið "Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum". Ég get ekki sagt að hjá mér hafi vaknað löngun til að gerast rithöfundur eftir að hafa lesið hana eða ég hafi gerzt mikill lestrarhestur, en sjálfstraustið og einfaldleikinn, sem einkenndi textann, höfðu mikil áhrif á mig. Enn man ég kafla úr bókinni. Sextíu ár eru liðin. Seinna var mér sagt að Erich Maria Remarque hefði verið ritstjóri þýzks tízkublaðs, en síðan ákveðið að segja upp starfi sínu og skrifa skáldsögu. Þú ert geggjaður, sögðu þeir við hann. En tölublöð Die Dame eða hvað tímaritið nú hét, hádegisverðirnir, kvöldverðirnir og sennilega tízkusýningardömurnar ­ allt er þetta horfið, en skáldsagan ekki.

Ég gerði mér auðvitað ljóst ­ það var trúarsetning ­ að réttnefnd menntun byggðist á því að vera vel lesinn og í tíu ár eða meira las ég eins mikið og ég frekast gat. Þetta voru dásamleg ár ferðalaga, uppgötvana og sjálfsvitundar. Ég náði aldrei þeim, sem lásu af ástríðu, en ég hafði komizt langt.

Nú les ég minna. Ef til vill hef ég minni lyst en áður. Ég les færri bækur ­ lestur er ánægja og ég á að vera að vinna ­ en áhugi minn á þeim hefur ekki minnkað. Bækur eru eftir sem áður miðja lífs míns. Um tíma hugsaði ég mikið um dauðann. Það var þegar ég var tæplega þrítugur og ég sagði við sjálfan mig, "Rúmur þriðjungur ævi þinnar er liðinn!" Nú er ég tekinn að hugsa um dauðann á ný, en af öðrum ástæðum. Mér hugnast mynd fornmanna af dauðanum, ferðin yfir fljótið. Stundum velti ég því fyrir mér, hvað ég vildi hafa meðferðis, þegar kallið kemur. Vandað úr þarf ég ekki, ekki heldur peninga eða föt og tannbursta. Ég þarf ekki að vera nýrakaður en get ég farið án þess hafa meðferðis ákveðnar bækur og fleira en bækur, t.d. handrit sem ég hef skrifað, en ekki endilega gefið út?

Dægurmenning hefur borið hámenningu ofurliði

Um daginn las ég ritgerð er nefnist "Resistance" eftir Deborah Eisenberg, rithöfund, sem ég hef aldrei hitt. Hún er mjög vel skrifuð, minnir á skýran og sjálfhverfan stíl Virginiu Woolf. Ritgerðin fjallaði um skriftir og þegar ég var á að gizka hálfnaður rakst ég á setningu, sem endaði svo: "hluti þeirrar sömu skelfingar og staðsett hefur sérhverja krefjandi eða flókna bókmenntalega reynslu handan endimarka menningar okkar".

Ég las ekki lengra. Ég gat ekki haldið áfram fyrr en ég hafði unnið úr nokkrum hugsunum, sem vaknað höfðu. "Sömu skelfingar ­" Upp í hugann kom ályktun Kazantzakis í þá veru að nútíminn hefði rofið hinn appólónska hjúp, sem forðum umlukti heiminn. Hinn díoníski kraftur hefði streymt fram einhvers staðar úr undirdjúpunum.

Síðan voru það lokaorð setningarinnar, "handan endimarka menningar okkar". Þá vaknaði spurningin sígilda: Hvað er menning og hvað hefur orðið um menningu okkar? Skilgreiningin í orðabókinni er óljós: "samsafn allra ávinninga og áunninna hegðunarmynstra tiltekins tímaskeiðs eða þjóðar". Leyfið mér frekar að setja hér á blað þá þætti, sem ég tel mynda menninguna. Ég tel að menning sé tungumál, list, saga og venjur.

Við gerum okkur ljóst að svokölluð dægurmenning hefur borið hámenningu ofurliði með afleiðingum, sem enn hafa ekki fyllilega komið í ljós. Helztu páfar popp-menningarinnar, ungviðið og umtalsverður hluti þeirra, sem einu sinni voru ungir, hafa fært henni stórkostlegan auð og mótað þróun hennar. Rusl á borð við stjörnustríðsmyndir George Lucas, hvort sem þær eru þrjár eða fimm, sogar til sín mesta athygli og vekur mestar umræður, stundum eru notuð hugtök, sem eiga við um réttnefnd stórvirki eða listræn afrek. Erum við að verða vitni að endalokum smekksins eða fæðingu nýrrar goðsagnar, sem er fær um að leysa hið úrelta Trójustríð af hólmi eða getur að minnsta kosti staðið við hlið þess? Aldagömlu gildismati er ýtt til hliðar með sama hætti og þegar verðsprengingarnar undursamlegu verða í kauphöllunum.

Þetta höfum við allt séð áður, a.m.k. þau okkar, sem eru nógu gömul. Þá kallaðist þetta "Flash Gordon" og sögusviðið var svipað, líkt og aðalpersónurnar. Sú saga fjallaði um vondan og almáttugan þorpara, fallega kærustu hetjunnar, gamlan vitran ráðgjafa, framtíðarvopn, geimskip, fjarlægar plánetur og flotadeildir, sem liðu um himinhvolfið. "Flash Gordon" var hins vegar teiknimyndasaga í þá daga. Skólastrákar fylgdust grannt með framvindu sögunnar. Í því nýja formi, sem hún hefur tekið á sig, er hún orðin að námu fyrir fræðimenn og þá sem sækja byrjendanámskeið er kallast "fræði". (Innsk. Nú þykir varla nokkur skáldsaga boðleg afþreying nema hún henti í endurvinnslu kvikmyndanna.) Þegar ég skrifaði kvikmyndahandrit ­ en það gerði ég í ein 15 ár ­ varð mér gjarnan hugsað til Graham Greenes og John Steinbecks, sem voru rithöfundar, auk þess sem þeir skrifuðu kvikmyndahandrit. Af þessum sökum var ég lengi að gera mér ljóst, hvernig þetta lítur allt saman út, þegar horft er ofan frá, að höfundurinn er einungis maður, sem ráða þarf til starfa áður en sjálf vinnan hefst.

Ekki verður sagt að gott jafnvægi hafi skapazt á milli þess, sem ég skrifaði og þess, sem framleitt var, yfirleitt voru á að gizka fjórar útgáfur skrifaðar af hverju atriði og oftar en ekki lenti það, sem bezt var úr garði gert, í ruslafötunni. Sóunin var ömurleg og það var líka eiturfnykurinn, sem er ilmvatn þessarar atvinnugreinar. Samt verður sókn kvikmyndanna ekki stöðvuð.

Skáldsagan, sem getur af sér líf, líkt og leikhúsið þrátt fyrir að stundum sjóði upp úr, tilheyrir fortíðinni. Fjöldi viðtakenda er takmarkaður. Céline sagði í viðtali við The Paris Review: "Skáldsögur eru eins og útsaumur ­ listgrein, sem hvarf um leið og klaustrin." Bókmenntirnar eru ekki dauðar ­ námsmenn lesa enn Dostojevskí og Whitman ­ en þær hafa glatað yfirburðum sínum. Tíminn vinnur gegn þeim.

Ég hef heyrt þekkt áhrifafólk lýsa yfir því að lög Bítlanna verði enn leikin eftir 300 ár og Richard Wagner hefði orðið kvikmyndaleikstjóri, ef hann væri uppi nú á dögum. Getur þetta verið rétt? Það getum við ekki vitað, né heldur getum við gert okkur grein fyrir, í hvaða átt skipið mikla stefnir. Um sumt verður þó sagt með vissu. Framtíðin heyrir múgnum til líkt og DeLillo sagði, "Risaborgir eru komnar fram á sjónarsviðið og dreifa úr sér eins og krabbamein. Í einangrun þeirra frá því, sem forðum nefndist hinn náttúrulegi heimur, heimur áa, skóga, þögulla dagrenninga og kyrrlátra nátta er að finna stórkostlegar öfgar auðlegðar og örbirgðar. Nýju íbúarnir munu lifa lífi sínu í steingerðum býflugnabúum og nærast á kvikmyndum, sjónvarpi og "interneti". Við erum það sem við étum. Við erum líka það sem við sjáum og heyrum. Og við erum í miðri hringiðu okkar eina jarðlífs."

Út í sólina

Og enn segir Salter: "­ Á sama tíma fyllist maður skelfingu vegna tilhugsunarinnar um sléttan, sálarlausan heim popp-menningarinnar. Vaxandi þörf er fyrir það, sem er ekki algjörlega tilgangslaust, það sem mun ekki hverfa án þess skilja eftir sig hina minnstu örðu. Náskyld þessu er löngunin að tengjast því sem liðið er, að sjá með eigin augum forna staði og fá notið sagnanna, sem ekkert fær grandað. Sagt hefur verið að listin sé hin raunverulega saga þjóðanna. Það sem við köllum bókmenntir og er í raun aðeins ritað mál, en þó ávallt lesið, er hluti þessa. Hvað kemur í stað þess, þegar það lætur undan?

Mig minnir það hafi verið Edwin Arlington Robinson, sem bað um að rúm hans yrði fært út undir stjörnubjartan himin, þegar hann lá banaleguna. Sú er alltjent hugmyndin, að deyja ekki fyrir framan sjónvarpið, heldur kveðja þetta líf innan um stórkostleg verðmæti ­ í raun mestu verðmæti sem hugsanleg eru ­ og eru innan seilingar fyrir alla."

Svo mörg eru þau orð.

Við getum svo klykkt út með því að minna á að síðasta athugasemdin leiðir hugann að landnámi Íslands og dýrmætri arfleifð okkar sem birtist m.a. í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar og ómetanlegum fjársjóði Landnámabókar, en þar segir frá öðrum manni sem lét bera sig út, svo að hann gæti dáið undir berum himni: "Ingólfur varð frægastur allra landnámsmanna því hann kom hér að óbyggðu landi og byggði fyrstur landið; gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum. Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lopts, hins gamla. Þeirra sonur var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi var sett. Son Þorsteins var Þorkell máni, lögsögumaður, er einn heiðinna manna hefur bezt verið siðaður, að því er menn vita dæmi til. Hann lét sig bera í sólargeisla í banasótt sinni og fal sig á hendi þeim guði, er sólina hafði skapað; hafði hann og lifað svo hreinlega sem þeir kristnu menn, er bezt eru siðaðir."

Arfleifð okkar hófst þannig undir berum himni.

Tíminn einn mun leiða í ljós, hvort hún heldur velli eða hnígur við banaþúfu rusls og dægurmenningar.

En hvað sem því líður er unnt með ögun og atlæti að rækta það sem er verðmætt og mikils virði og ber í senn vitni um arfleifð okkar og vísbendingu um ræktaðan og þroskaðan smekk.

 

4. október, mánudagur

Við Styrmir töluðum við Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, í hádeginu í dag. Það var langt samtal og heitt með köflum. Það var athyglisvert að upplifa þungann í málflutningi Halldórs og sannfæringarkraftinn, þegar við fórum yfir væntanlega Fljótsdalsvirkjun við Eyjabakka. Það fór mjög í taugarnar á honum, þegar Styrmi varð það á að líkja álverum við kolanámur. Hann sagði að Styrmir væri öfgamaður! Styrmir viðurkenndi að þessi samlíking hefði ekki verið nógu hnitmiðuð. Sjálfur hefði hann barizt ásamt okkur fyrir álveri í 30 ár. En þegar Halldór hafði lagt þunga áherzlu á byggðakjarna á Miðausturlandi í því skyni að halda við byggð þar eystra, sagði Styrmir  að unga menntafólkið sem hann hefði sagt að sneri ekki heim aftur eins og nú væri háttað, færi ekki heldur heim til að vinna í álveri. Það yrðu aðrir sem þar ynnu.

Mér fannst málflutningur Halldórs að mörgu leyti rökfastur og sterkur, t.a.m. þegar hann fullyrti að engar virkjanir yrðu þar eystra á næsta áratug, ef núverandi áætlunum yrði ekki framfylgt. Hann sagði að menn yrðu að taka á og láta á sér brjóta, rétt eins og þegar við gengum í Nató. Hann sagði að það mætti taka Norsk Hydro framyfir Norðurál vegna þess m.a., að hið síðarnefnda fyrirtækið væri í einkaeign, en margir eigendur að Norsk Hydro. Á þessi rök féllumst við, þótt við hefðum haft fyrirvara á samstarfi við fjármálaöflin í Noregi.

Við gerðum Halldóri að sjálfsögðu grein fyrir okkar afstöðu sem hann þekkti, og sagði að það væri fráleitt að drepa málinu á dreif með því að vísa því til skipulagsstjóra ríkisins, það væri nú meira traustið sem við hefðum á embættismönnum! Við sögðumst ekki hafa annað í huga en sátt næðist í málinu og unnt væri að fara eftir lögum og reglum. Halldór sagði það hefði verið gert, því að ákveðið hefði verið, þegar einhver snillingur fann upp formúluna lögformlegt umhverfismat og það hefði verið samþykkt á Alþingi, mig minnir 1992, þá hafi Fljótsdalsvirkjun verið undan skilin. Það hefði því algerlega verið farið að lögum.

Við sögðum að það hefði verið rétt af honum að senda málið aftur til Alþingis. Hann sagði að þar ætti að útkljá það og Alþingi væri engin vorkunn að leiða það til lykta. Við bentum á að afstaða okkar væri bæði umhverfisvæn og mótuð í því skyni að koma í veg fyrir Laxárdeilu á landsvísu, en hann sagði að þarna væri eðlismunur, því að Laxárdeilan fjallaði um virkjun nálægt byggð.

Halldór sagði að hann hefði mikinn fyrirvara á Kárahnjúkavirkjun og benti á nokkur náttúrufyrirbrigði á Íslandi sem væru einstæð og ekki mætti skemma, t.a.m. Dettifoss, gljúfrin við Kárahnjúka væru að sínu mati sama marki brennd. Þau væru einstæð í heiminum.

Við sögðum Halldóri að við hefðum þegar skýrt frá afstöðu okkar og engin ástæða til að óttast að við myndum hefja neina herferð gegn hugmyndum annarra. Hitt væri annað mál að blaðið yrði opið fyrir margvíslegum sjónarmiðum eins og verið hefði. Hann sagði það bæði skiljanlegt og eðlilegt.

Annars töluðum við framan af um sameiningu banka og þó einkum um sölu Fjárfestingabankans og þá kom í ljós að hann hafði mjög svipaðar hugmyndir um þau efni og við. Hann vildi reyna að tryggja dreifða eignaraðild svonefnda, en efast þó um, að það sé hægt með opinberum afskiptum. Samþjöppun væri alltaf yfirvofandi á eftirmarkaði.

Það er auðvitað rétt. En kannski mætti íhuga þann fyrirvara, sagði ég, að eigendur hefðu jafnan atkvæðisrétt, hvað sem eignaraðild liði. Þetta tíðkaðist stundum þótt ég væri ekki viss um að slíkt þætti nógu lýðræðislegt. Mér fannst á honum að slíkt gæti komið til greina, en hann legði höfuðáherzlu á valddreifingu á fjármagnsmarkaðnum og hvernig ætti að tryggja hana.

Ég sé ekki betur en við eigum samleið með formanni Framsóknarflokksins í þessum efnum – eins og raunar mörgum öðrum.

Styrmir spurði Halldór að lokum um næstu framtíð í pólitík; hvort þeir Davíð mundu hætta á kjörtímabilinu og hvort þeir hefðu gert með sér einhvern samning þar að lútandi. Hann kvað nei við. Hann sagði að þeir hefðu einungis talað um breytta verkaskiptingu á kjörtímabilinu, þ.e. að breyta einstökum ráðherraembættum og færa verkefni milli ráðuneyta. Hann sagði að Davíð hefði sagt við sig að engir aðrir en þeir tveir gætu nú séð um landsstjórnina og erum við Styrmir þeirrar skoðunar, að slík athugasemd af hálfu Davíðs sé eðlileg og að mörgu leyti réttlætanleg.

Halldór sagði að ef breyting yrði á og Davíð hætti yrði mikill þungi af hálfu framsóknarmanna þess efnis að hann tæki við stjórnarforystu og gæti orðið erfitt að finna annan flöt á því. En hann gerði sér grein fyrir að stjórnarforysta myndi kosta Framsóknarflokkinn ráðherraembætti. Hann talaði ekki um að Finnur Ingólfsson og Geir H. Haarde tækju við Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki á næstunni, þvert á móti sagðist hann ekkert vita um áætlanir Davíðs og taldi að hann vissi ekki einu sinni um þær sjálfur, og hvað fyrirætlunum hans sjálfs viðkæmi hefði hann engan hug á neinum sérstökum embættum, t.a.m. erlendis, og taldi nokkurn veginn víst að hann myndi leiða Framsóknarflokkinn í næstu kosningum. Ef Davíð hætti yrði enn meiri þrýstingur á hann innan Framsóknarflokksins að halda formennskunni og taka við stjórnartaumunum.

Það er augljóst að afskipti Steingríms Hermannssonar af umhverfismálum fara í taugarnar á Halldóri. Þeir eru að vísu góðir vinir, en hann kann ekki að meta þessi afskipti Steingríms, sagðist hafa spurt hann, hvar hann vildi virkja og Steingrímur hefði svarað, Á Þeystareykjum. Hann sagði það væri hægt að fá 30 megavatta orku úr jarðhita og taldi það svo sem enga lausn á einu eða neinu.

Halldór Ásgrímsson sagði það hreint út áður en samtalinu lauk að stjórnarflokkarnir mundu knýja Fljótsdalsvirkjun í gegn á Alþingi og láta á sér brjóta eins og nauðsyn krefði. Menn hefðu alltaf þurft að fara í gegnum slíka elda, en allir eldar slokknuðu að lokum.

Halldór fór ekki fyrr en fimmtán mínútur í þrjú, þá áttaði hann sig á því að hann var að verða of seinn við jarðarför.

Þrátt fyrir alla þessa pólitík þótti mér einna eftirminnilegust lýsing Halldórs á því, hvernig gæsin hefði flutt sig til á heimaslóðum hans og nú sést hún þar víst ekki lengur, en þegar hann var drengur var farið um gæsastöðvarnar með bareflum og fuglinn drepinn með þeim hætti. Fuglinn hefur nú flutt sig um set og var þetta ábending þess efnis, að ætla mætti, að slíkt hið sama gerðist, þegar fuglinn gæti ekki lengur fellt fjaðrirnar við Eyjabakka. Fugl í sárum væri auðveld bráð og honum var víst ekki þyrmt í æskuumhverfi Halldórs. Og þá ekki heldur mávsungunum sem voru drepnir með svipuðum hætti á söndunum suðaustanlands, þeir voru víst étnir með ýmsum hætti, m.a. saltaðir í tunnu. Ég var aldrei hrifinn af söltuðum ungum, sagði Halldór, en að öðru leyti voru þeir lostæti. Ég gæti aldrei étið máv, sagði ég, ekki heldur mávaegg. Þú ættir að prófa það, sagði Halldór og brosti.

Þaut síðan í Fossvogskapellu þar sem við erum minnt á, að við erum ekki stórum bættari en gæs í sárum eða mávsungi í hreiðri; minnt á grimmd náttúrunnar og tortímingu okkar allra, einnig ritstjóra og ráðherra!

 

5. október, þriðjudagur

Hóf fyrirlestrahald í gærkvöldi um Jónas Hallgrímsson í Endurmenntun Háskólans. Hafði kviðið mjög fyrir upphafinu, en gekk ágætlega; talaði í tvo tíma samfellt, því fólkið vildi heldur hlusta en fá kaffihlé. Mjög góður hópur, um 15 manns. Af þeim þekki ég Guðrúnu Nordal og Ögmund Skarphéðinsson,arkitekt, mann hennar, Jónínu Michaelsdóttur, Guðmund G. Þórarinsson og Vilborgu Kristjánsdóttur. Fjallaði í þessum fyrstu fyrirlestrum einkum um tengsl Jónasar við Eggert Ólafsson og arfleifð hans, hvernig hún birtist í formála Fjölnis og þá ekki síður í fyrstu stórkvæðum Jónasar sjálfs, Íslandi og Gunnarshólma. Fjallaði m.a. um hvernig orðalagið í þessum stefnuskrárkvæðum Jónasar er stundum sótt í verk Eggerts og hversu hnitmiðuð notkun einstakra orða er, t.a.m. orðsins farsæld, daufur, blómlegur og annað það sem minnir á rómantíska nytjastefnu skáldsins og hvernig hún fléttast inní hugmyndir hans um sögu og fegurð. Held þessu striki áfram en sný mér svo að Tistrans-rímum Breiðfjörðs, gagnrýni Jónasar og einstökum kvæðum.

Mér fannst þetta allt falla í góðan jarðveg og áhuginn leyndi sér ekki. Sé svo hverju fram vindur.

Það var erfiður dagur í gær, en kannski ekki dæmigerður. Hófst með útvarpssamtali við mig um bækur og Jónas og sitthvað fleira um morguninn, en Sigurlaug Jónasdóttir hafði óskað eftir þessu samtali. Hún er dóttir Jónasar Jónassonar og hann hringdi til mín síðar um daginn og óskaði eftir því, að ég yrðí gestur hans á jóladagskvöld. Ég var svo þreyttur að ég hafði ekki þrek til annars en samþykkja það! Að útvarpinu loknu kom Halldór Ásgrímsson í heimsókn og tók samtalið við hann talsvert á taugarnar eins og sjá má af því að hann kallaði Styrmi öfgamann! Þá hrökk Styrmir held ég við! Að því loknu þurfti ég að sinna ýmsum erindum, þ. á m. frá formanni Dags íslenskunnar, Þorgeiri Ólafssyni, og mun það koma í ljós síðar, hvert erindið var, en ég hef það til íhugunar. Þá þurfti ég að ljúka daglegum fundi mínum og að lokum undirbúa mig undir fyrirlesturinn, en heim kom ég ekki fyrr en um hálfellefu. Fylgdist því lítið sem ekkert með blaðinu um kvöldið, svo þreyttur sem ég var, en yfirleitt lít ég yfir efni þess, áður en það fer í prentun. Styrmir sá um útvarpsumræður frá þingi og aðra afgreiðslu um kvöldið.

 

 

Hóf fyrirlestrahaldið með þessum formála og las einnig síðari hlutann í útvarpssamtalinu:

 

Þegar ég fjallaði um Jónas í íslenzkudeild Háskólans gerði ég mér nokkur atriði ljósari en áður:

1)    Hve tengsl hans við Eggert Ólafsson voru sterk og byggðust á umfjöllun Eggerts um landið, ekki sízt í ljóðum hans, fjallkona Eggerts er Hulda Jónasar og það er um hana sem hann er sífelldlega að yrkja, bæði í ásta- og í ættjarðarljóðum sínum. Hann heillast eins og sannur fjölnismaður að nytsemisstefnu Eggerts sem var upplýsingamaður, og fléttar hana inní skáldskap sinn.

2)     Hve arfleifðin er Jónasi sterkur vegvísir eins og sést af fyrstu stórkvæðum hans báðum, Íslandi  og Gunnarshólma. (Eggert talar einnig um frón í  Brúðkaupskvæðinu.)

3)    Og þá ekki sízt hve trúarsannfæring Jónasar er sterk. Hann er að vísu ekki mesti kristsmaður meðal skálda, en því mun meiri guðsmaður, þ.e. trú hans á föður og vin alls sem er er rauður þráður gegnum skáldskap hans, og þá ekki síður trú hans á skaparann og hugarveröld hans, þ.e. sköpunarverkið sem er hin raunverulega opinberunarbók þessa skapandi föður. Trú Jónasar á samt ekkert skylt við algyðistrú eins og reynt hefur verið að innræta okkur, því þar er ekki um þann persónulega föður eða forsjón að ræða, sem Jónas trúði á.

Það vakti auðvitað athygli mína hvernig allt þetta fléttast inn í kveðskap Jónasar með þeim hætti sem er einstæðir í bókmenntum okkar og menningu.

Um allt þetta er fjallað í bók minni Um Jónas.

Halldór  Laxness sagði að Jónas væri Ísland. Ungur menntamaður spurði mig nýlega: Hvers vegna Jónas? Hverju átti ég að svara? Af því við þurfum á honum að halda? Hann er ekki síður en Jón Sigurðsson tákngervingur sögu okkar og arfleifðar, rætur hans eru djúpar í þeirri einu jörð sem getur nært þennan veruleika sem er einshvers virði, ef við ætlum að halda einkennum okkar sem þjóð en sigla ekki  hugsunarlaus inní þann sýndarveruleika sem nú reynir að seyða okkur til sín eins og sírenurnar í Odysseifskviðu.

Við þurfum sem sagt meira á Jónasi að halda, en hann á okkur. Hann naut aldrei sérstakra vinsælda með þjóðinni og átti í harðri samkeppni, ekki sízt við rímnaskáldin, og mér er vel kunnugt um það, að enn á hann erfitt uppdráttar, hvað sem hver segir. Fyrir átta árum var gerð smákönnun á afstöðu framhaldsskólanema til Jónasar og verka hans og einungis fjórðungur mundi eftir kvæði eftir hann. Margir rugluðu honum saman við Hallgrím Pétursson og héldu að hann hafði ort Passíusálmana, aðrir héldu að hann hefði verið byskup, sumir töldu að hann hefði dáið í bílslysi. Enn aðrir úr blýeitrun!

Það er semsagt þetta umhverfi sem að okkur snýr og við þurfum að etja við, en án þess við gerum það vinnst aldrei sá sigur sem arfleifð okkar og framtíð eiga skilið.

Með návistinni við Jónas hefur mér orðið þetta ljósara en ella.

Og þá er komið svarið við spurningunni:

Hvers vegna Jónas?

 

6. október, miðvikudagur

Talaði við Guðmund Hauksson í morgun. Hann sagði það væri ekki rétt að það hafi ráðið úrslitum um sölu SPRON á hlutabréfum sínum í FBA, að þeir hafi verið komnir út á hálan ís, að dómi bankaeftirlitsins. Óvissan hafi ráðið úrslitum um söluna, eins og hann hafi sagt okkur áður. Þetta hafi fjallað um eiginfjárstöðuna og bankaeftirlitið hafi bent þeim á að fara gætilega svo að hún væri innan þeirra marka sem lög gera ráð fyrir. En það sé á misskilningi byggt að þeir hafi verið komnir út á hálan ís því að þeir hafi verið innan þeirra marka sem fyrir er lagt. Hitt sé rétt að þessi ábending hafi haft truflandi áhrif, en ekki ráðið neinum úrslitum.

 

 

 

Ódagssett

Það er athyglisvert að lesa lýsingar de Bottons á aðdáun Prousts á brezka listfræðingnum Ruskin. Hann kunni lítið sem ekkert í ensku, samt snaraði hann listfræði Ruskins á frönsku, mér skilst ágætlega! Allt er hægt þegar viljinn er fyrir hendi. Einnig er harla merkilegt að sjá hvernig aðdáun Virginíu Woolf  á Proust hafði áhrif á stolt hennar og skrif. Henni fannst Proust svo góður að hún lamaðist andspænis snilld hans og gat ekkert skrifað fyrr en firnast tók yfir minninguna um Glataðan tíma! Hún sagði jafnvel að ástæða væri til sjálfsvígs, .þegar Proust væri lesinn og við blasti að hún gæti ekki náð snilld hans; merki um það sem síðar gerðist. Samt var hún sjálf snillingur, þegar bezt lét. Og einmitt þess vegna kunni hún að meta estetíska yfirburði Prousts. En það kunnu ekki allir, og alls ekki sá nærsýni samtími sem er venjulega jafn blindur og nýfæddur kettlingur og jafn gleyminn og gullfiskur. Þessi nærsýni samtími hefur enn einu sinni komið rækilega upp um sig hér heima því að við atkvæðagreiðslu á fréttavef Vísis hefur Jón Baldvin Hannibalsson verið kjörinn annar mesti stjórnmálamaður þjóðarinnar á þessu árþúsundi.

Hinn var Jón Sigurðsson!

 

9.okt.

Gamla klíkan hittist í gærkvöldi, eftir langt hlé. Allir mættir, Gylfi Þ. Gíslason, Jóhannes Nordal, Indriði G. Þorsteinsson og Sverrir Hermannsson. Gott andrúm. Sverrir er að jafna sig á aðstæðum eftir kosningarnar. Hann hefur litlar mætur á varaformanni Frjálslynda flokksins, Gunnari Inga, lækni, og enn minni á “oddvitanum” í Reykjaneskjördæmi, Valdimar Jóhannssyni, sem varð á sínum tíma þekktur fyrir málaferli sín útaf kvótanum. En hann hefur mætur á Guðjóni, þingmanni Frjálslynda flokksins fyrir Vestfirði.

Margt talað, ekki sízt um uppákomur Ólafs Ragnars, forseta Íslands. Allir dolfallnir yfir þeirri leiksýningu. En þó allir sammála um að það þýði ekkert að fara í framboð gegn sitjandi forseta í embætti. Minni kanarífuglsins sér um það. Ég held það sé heldur meira en gullfisksins, þó ekki ein mínúta!

Gylfi hafði áhuga á því hvort við hefðum séð Ungfrúna góðu og húsið. Ég var víst sá eini sem hafði séð myndina. Ég sagði honum skoðun mína, að mér fyndist hún gerð af alúð og andrúm hennar rétt. En það væri erfitt að láta slíka mynd ganga upp því að sagan sjálf væri svo fjarstæðukennd og Halldór reyndi að ljúka henni með skírskotun í einhvers konar táknræna tröllasögu. Ég hefði ekki trú á því að þessi saga, svo fjarstæðukennd sem hún er, væri byggð á sannsögulegum atburðum. Jú, Gylfi fullyrti það og hinir tóku undir. Gylfi sagði að Vilmundur landlæknir, tengdafaðir hans, hefði sagt Kiljan þessa sögu. Menn töluðu ekki um hana, ekki frekar en uppákomur forsetans nú um stundir. Þögnin geymdi þá atburði bezt. En þeir voru samt í minnum hafðir og Vilmundur gróf upp atburðarásina og sagði Kiljan. Þarna var um að ræða tvær dætur Arnljóts Ólafssonar, sem þá var prestur á Þórshöfn, en síðar á Bægisá. Hann var prestlærður en sumir telja hann fyrsta hagfræðing Íslendinga. Greindur maður og þingskörungur. Alfræðibókin segir að hann hafi verið fæddur 1823, en lézt 1904; einnig að hann hafi verið prestur og alþingismaður, en fyrstur Íslendinga stundað hagfræðinám við Hafnarháskóla, án prófs; lauk prestaskólaprófi 1863 og starfandi prestur til æviloka, á Bægisá og síðar á Sauðanesi; sat á Alþingi nær óslitið frá 1858-1900 “og lenti í hópi andstæðinga Jóns Sigurðssonar og Benedikts Sveinssonar; lagði áherslu á kröfu um fjárforræði til handa Íslendingum; samdi fyrsta ísl. hagfræðiritið Auðfræði (1880). A stóð m.a. að pereatinu í Lærða skólanum og barðist gegn valtískunni.” Þannig er hans minnzt í Íslensku alfræðiorðabókinni. Sem sagt, andstæðingur Jóns Sigurðssonar og Benedikts Sveinssonar og af mörgum talinn álitlegur eftirmaður Jóns sem stjórnmálaskörungur á þingi. Það hefur því verið mikið áfall fyrir þau hjón, þegar systurnar lentu í þessum ævintýrum sínum; báðar ástkonur sama danska leikarans í Kaupmannahöfn og hin síðari ófrísk af hans völdum, fæddi barnið á Þórshöfn, en systirin fór með það á munaðarleysingjahæli í Kaupmannahöfn, að því er virðist án þess því væri mótmælt.

Allt er þetta með eindæmum í sögunni og manni finnst það ekki geta gengið upp, en þeir fullyrtu allir - og Gylfi taldi sig vita - að allt hefði þetta gerzt með þeim hætti sem segir í sögunni, þó að myndin fari sínar leiðir í nokkrum atriðum. Gylfa líkaði ekki að henni skyldi ljúka með því að systurnar sættust og Þorsteinn sonur hans spurði Guðnýju Halldórsdóttur, leikstjóra, að því eftir sýningu, hvernig á því stæði að hún brygði frá sögunni og léti þær sættast í lokin. Gylfi sagði að Guðný hefði svarað því til að það væri ekki hægt að láta bíómynd enda illa!

Síðara barn yngri systurinnar deyr í lokin og það eitt út af fyrir sig er nógu dramatískt. Þær sættast svo yfir líki þess. Sú mun ekki hafa verið raunin.

Allt er þetta hið mesta drama og óskiljanlegt með öllu að slíkur skáldskapur skuli hafa verið enn skáldlegri í veruleikanum sjálfum. En prestshjónin horfðu víst framhjá öllum raunveruleika, þó að presturinn hafi prédikað pólitískan veruleika sjálfstæðisbaráttunnar með hvassari tungu en nokkur annar sem þá sat á Alþingi.

 

Hillary Clinton í heimsókn og ávarpar kvennaráðstefnu. Það er því mikið um að vera. Svalur og einkar bjartur og fagur dagur lék við hana, þegar hún kom til landsins í gær, og kvöldið eins og skrautlegt ævintýri á vesturhimni. Sólin brauzt framúr skýjunum um hádegisbilið í dag og fullur regnbogi yfir allri borginni. Það var dálítið sérstætt. Ég sá hann af tröppum Gerðasafns í Kópavogi, en þangað fór ég að sjá myndlistarsýningu Benedikts Gunnarssonar. Þótti það hnýsilegt.

Bandaríska forsetafrúin fer svo heim á morgun, sunnudag. Morgunblaðið hefur sagt ágætlega frá þessari heimsókn og sjálfri ráðstefnunni og það er eins og segir í kvæðinu Kóngurinn kemur í Dagur ei meir:

 

…og allir eru hégómlegir

og hamingjusamir

eftir innræti sínu

og allir hlusta á ræður

kóngsins og forsetans.

 

Ó, ástin mín!

 

Ódagbundið

Hef enn einu sinni verið að fara yfir Óskar Wilde eftir Pearson. Þessi setning gæti vel átt við Jónas Hallgrímsson: “Fegurðin var trúarbrögð hans…”

Wilde sagði m.a. það sem Tómas Guðmundsson tók síðar upp eftir honum: “Ég get staðist allt – nema freistingarnar”.

Og ennfremur: “Menn ættu að halda dagbók náungans…” “Skylda er það sem við ætlumst til af öðrum, en ekki það sem við gerum sjálf…” “Englendingum er það gefið að breyta vatni í vín…” “Ég treysti yður til að fara rangt með þetta…” “Þegar mér verður að nóttu til hugsað um alla ágalla mína, fell ég undir eins í fastasvefn…” “Snilldin er meðfædd, ekki keypt…” “Rökfestan er síðasta skálkaskjól hinna hugmyndasnauðu…” “Þegar menn gera mestu heimskuverkin, bera þeir fyrir sig göfugan tilgang…” “Ekkert er eins hættulegt og fylgjast of vel með tízkunni, menn geta allt í einu orðið gamaldags…” “Menn vanda aldrei um of val óvina sinna…”

 

12. október, þriðjudagur

Fórum við jarðarför Lárusar H. Blöndals bókavarðar, frænda míns. Sr. Þórir Stephensen jarðsöng. Hann vitnaði í ljóð eftir Lárus, eða sálm sem er í sálmabókinni; játningarsálm, ef svo mætti segja, með líkingu af fíkjutrénu í Nýja testamentinu. Lárus var greindur maður og játaðist Kristi eftir langa herleiðingu kommúnismans. Hann kom því ekki í verk sem efni stóðu til enda harla óreglusamur um langt árabil, ekki sízt meðan hann var kvæntur Kristjönu, fyrri konu sinni,  hún var systir Bjarna Benediktssonar, og ég held Engeyjarættin hafi haft litlar mætur á Lárusi; heyrðist það að minnsta kosti. En það var margt gott um Lárus og samskipti okkar voru frændsemi með vináttu. En ég var að hugsa um það undir ræðu sr. Þóris að það væri dapurlegt að hafa aldrei fengið að vera skáld – nema við eigin jarðarför. En Lárus gerði víst ekki tilkall til þess, þótt hann færði trúhneigð sína í stuðla og rím.

Mér fannst hálf ömurlegt að sjá forseta Íslands ganga út með höndina í fatla en hann leikur sitt hlutverk vel. Hann er enginn statisti, hann er alvöruleikari. En ég veit ekki hvort þetta er fremur gamanleikrit eða harmkvælaverk; kannski einna helzt tragikómiskt verk.

Var m.a. að hugsa um það sem Óskar Wilde sagði, þegar hann var spurður hver væri trú hans. Hann svaraði, Ég hef enga trú. Ég er bara mótmælandi!

 

Kvöldið

Blaðamenn spurðu mig á kvöldfundinum hvort ég vissi hvernig Ólafur Ragnar hefði kynnzt draumaprinsessunni í skartgripaverzluninni í Lundúnum.

Mér hefur verið sagt að indversk kona, einkavinur hans, hafi kynnt þau, sagði ég.

Nei, sögðu blaðamennirnir.

 Ég hef líka heyrt, sagði ég, að Jón Ólafsson stórlax hefði kynnt þau í Lundúnum.

Nei, sögðu blaðamennirnir.

 Nú, sagði ég, hvernig kynntust þau þá?

Jú, sögðu þeir, hann var í London og svipaðist um í skartgripaverslunum.

 Jæja, sagði ég, og hvernig stóð á því?

 Hann var að leita sér að kórónu, sögðu þeir!

 

 

 

 

14. október, fimmtudagur

Las lögregluhasar eftir David Baldacci, The simple Truth; skrifuð eftir formúlunni og samkvæmt henni gengur allt upp í lokin. Þessir karlar kunna svo sannarlega að skrifa metsölubækur.

Hef einnig farið yfir sögur Shirley Jackson, The Lottery and 7 other stories, ágætlega skrifaðar sögur, eðlileg samtöl; en óskaplega hversdagslegar. Persónur og efnið að sama skapi hversdagslegt. Minnir á Kjell Askildsen hinn norska. Höfuðprýði allra sagnanna er líklega sá galdur að geta sagt svona sögur án þess nokkuð gerist. Bezta sagan, Trial by Combat, fjallar um tvær konur sem búa í sama húsi, önnur stelur vasaklút frá hinni, annað gerist ekki. Frásögnin snilldarlega ofin utan um það sem gerist ekki í lokin. Og það sem gerist ekki er líklega harla eftirminnilegt; þ.e.a.s. sú sem stolið er frá biður hina að lokum afsökunar á að hún skyldi hafa rekist á þýfið í kommóðuskúffu hennar! Um þetta fjallar sagan, sem sagt það sem ekki gerist. Svona sögur lifa í samtölunum en þau geta verið svo hversdagslega einföld og eðlileg að maður getur fengið leið á þeim, þótt vel sé að verki staðið. En sem sagt, þarna var ein eftirminnileg saga, fannst mér. Svipuð uppskera og þegar ég fór yfir úrval smásagna Jeffrey Archers, en hann hefur skrifað eftirminnilega sögu um mann sem drepur ástkonu sína óvart og  kemst upp með það! Ef hann hefði ekki komizt upp með það, væri sagan líklega ónýt. Morðingjar eru ævinlega staðnir að verki í sögu, svo það er ekkert frumlegt. Hitt er aftur á móti nýstárlegt, svo maður gleymir því ekki, ekki í bráð.

 

Kvöldið

Í fyrirlestrum mínum í Endurmenntun hef ég verið að reyna að lesa útúr texta Jónasar Hallgrímssonar það sem hann er sjálfur að reyna að koma á framfæri, en ekki það sem ég tel eða vil að hann sé að segja. Í fjórum fyrstu fyrirlestrunum hef ég bent á orðnotkun hans í nokkrum kvæðum, einkum Íslandi¸ og  Gunnarshólma og reynt að sýna fram á að þessi ættjarðarkvæði eða þessi ljóðræna herhvöt sé einskonar stefnuskrá fjölnismanna; þau eru samin með hliðsjón af formála Fjölnis og þegar skoðað er í saumana er augljóst að orðnotkun er engin tilviljun, þvert á móti er hún meðvitað framhald af formálanum og þá ekki síður þeim jarðvegi sem hann er sprottinn úr, þ.e. verkum Eggerts Ólafssonar en um það mun ég fjalla nánar í næsta fyrirlestri. Þannig eru orð eins og farsæld og manndáð engin tilviljun, heldur eiga þau rætur í boðskap Eggerts og skírskota með heljarafli í þá upplýsinga- og framfarastefnu sem fjölnismenn tóku í arf frá þessari fyrirmynd sinni og eldhuga. Jónas var einungis 25 ára gamall, þegar Tómas Sæmundsson gaf út ljóð Eggerts, 1832, og hefur það áreiðanlega skipt sköpum í hugsanaferli hans og afstöðu. Hann hafði áður einkum hallað sér að arfleifð okkar og eddukvæðum, en nú snýr hann sér að viðameiri verkefnum og fjölnismenn hefja tímarit sitt með kvæði hans Ísland, farsælda-frón, minnugir þess að ljóðabók Eggerts hófst einnig með kvæðinu Ísland.  En Jónas yfirgefur að sjálfsögðu aldrei fyrrnefnda eddu-arfleifð og ræktar hana með sínum sérstæða hætti, enda hafði hann fyrirmyndir svo sterkar og mikilvægar að ekki varð framhjá þeim gengið, þýðingar sr. Jóns á Bægisá og frumsamin ljóð Bjarna Thorarensens, en þá einnig í aðra röndina kveðskap Benedikts eldra Gröndals og Sveinbjarnar Egilssonar.

 

Ég sé í Morgunblaðinu í dag að Svava Jakobsdóttir hyggst fjalla um edduáhrif í skáldskap Jónasar í fyrirlestri sem hún heldur á Hugvísindaþingi um helgina og er það allt gott og blessað. En í samtali Morgunblaðsins við hana sé ég ekki betur en hún haldi sig við það sem hún hefur áður skrifað um þessi efni og tel að umfjöllun hennar lýsi fremur skáldkonunni sjálfri en ljóðum Jónasar. Þegar ég las ritgerð Svövu þessa efnis komst ég að þessari raun og nú sé ég ekki betur en hún haldi áfram í sama farvegi án þess ég hafi sannfæringu fyrir því að túlkun hennar sé ritskýring á ljóðum Jónasar, tel miklu fremur að hún sé lýsandi dæmi um skáldskap konunnar sem skrifaði rómaninn um Gunnlöðu.

Borges sagði við mig á sínum tíma að ljóðskáld ættu að breyta öðru fólki í ljóðskáld og það hefur Jónas augsýnilega gert í samskiptum þeirra Svövu.

Það er því allt í bezta lagi þó að ég hafi átt erfitt með að fylgja Svövu Jakobsdóttur eftir á hugarflugi hennar um himnageima Jónasar Hallgrímssonar!

Ég er sammála Svövu í því að ævisögulegar bókmenntaskýringar á verkum Jónasar hafa stórum tafið rannsóknir á skáldskap hans yfirleitt, eins og hún kemst að orði.  “Tilhneiging þjóðarinnar til þjóðsagnamyndunar um persónur hefur aukið og bætt við þannig að í rauninni erum við í stórhættu  að gera úr Ferðalokum óvenju vel samið dægurlag sem endar á hinni margtuggðu yfirlýsingu að hann muni elska hana (Þóru?) að eilífu, í stað þess að skynja hið sígilda í kvæðinu.”

Ég get vel tekið undir þetta, en okkur Svövu greinir líklega á um það, hver er þarna á ferðinni með Jónasi. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé ævinlega fjallkonan sjálf; huldan; það er hún sem hann þráir og saknar. Um það fjalla ég einnig í fyrirlestrunum og þá ekki síður í bók minni Um Jónas.

 

 

 

16. október, laugardagur

Stjórnaði málstofu á Hugvísindaþingi í morgun. Þar var fullt af fólki, einkum ungu. Frummælendur voru Kristján Árnason, dósent, sem gagnrýndi módernismann með ýmsum hætti, Eysteinn Þorvaldsson, prófessor, sem talaði um árangur módernismans og Andri Snær Magnússon, ungt skáld, sem orti svonefnd Bónusljóð. Hann notaði skyggnur og talaði um að allt hefði breytzt. Áður fyrr hefðu þrjár kerlingar náð 900 ár aftur í tímann, þær hefðu kunnað alla Passíusálmana, nú hefðu stúdentar í íslenzku ekki einu sinni lesið þá alla. Hann saknaði að vísu fornrar arfleifðar og gagnrýndi nýjabrunið í íslenzku þjóðlífi, m.a. fyrirtækjabaslið og ýmislegt þess háttar. Hann fór með ljóð sem ort voru í tengslum við þetta nýja þjóðlíf frjáls markaðar og tók það fram að ljóðið væri nú þegar orðið úrelt. Hann sagði að eina örugga ráðið væri að yrkja um jöklana. Það fannst mér ágætt. Hann hafði áður sagt að hann kynni ekki á hefðina, en ég spurði þá hvort honum fyndist ekki að ung skáld ættu að læra skáldskaparmálið rétt eins og málarar þyrftu að kunna að teikna. Hann svaraði því til að honum fyndist rétt að unga skáldakynslóðin kynni eitthvað fyrir sér í skáldskaparhefð Íslendinga og sagðist mundu læra hana.

 Það þótti mér vænt um.

Að erindi Andra Snæs loknu benti ég á að það væru nokkur viðfangsefni sem væru síung og ævagömul, landið, tungan – og svo sekkjaverzlunin í Bónusi. Hún hefði einnig tíðkast í Lefolii-verzlun! Það féll í góðan jarðveg.

Þorsteinn frá Hamri las upp þrjú falleg kvæði áður en fyrirlestrar hófust. Ég sá að hann var dálítið nervös þegar við gengum upp stigann og það staðfestist, þegar hann leit á mig og gat þess að hann væri kvefaður. Það eru menn ævinlega undir slíkum kringumstæðum!

Ég benti í lokin á það að Íslendingar hefðu orðið að heyja baráttu á tvennum vígstöðvum; annars vegar vegna stuðlasetningar og gamallar arfleifðar sem hefði verið inngróin í þjóðina, þar hafi verið um formbyltingu að ræða; hinsvegar módernisma þar sem áferð ljóðanna hefði verið breytt, efni og tungutaki. Þetta væri ekki eitt og hið sama eins og allir teldu, heldur óskylt með öllu. Baudelaire hafði t.a.m. verið mjög hefðbundinn í formi, ef því var að skipta, orti m.a. sonettur.

Fullorðinn maður sem ég þekki ekki stóð upp og benti á, hvað gömlu ljóðin hefðu hljómað fallega, t.a.m. Skein yfir landi sól á sumarvegi, en ég sagði að arfleifð módernismans væri ekki síðri ef að væri gáð, t.a.m. þessi lína í fyrsta módernu ljóðinu á íslenzka tungu, Sorg, frá fyrsta eða öðrum áratug aldarinnar. …eins og tunglsgeislar sváfum við á bylgjum hafsins. Þessi áferð hefði smogið inní íslenzka ljóðlist og gjörbreytt henni. …frá stjörnunni í vatnið falla tár mín, segir í Dymbilvöku og skyldleikinn er augljós.

Það hljómar þannig margt fagurlega í nútíma skáldskap, ekki síður en hinum gamla. Menn hafa ekki velt því nógu rækilega fyrir sér vegna þess þeir hafa öllum stundum verið að hugsa um formbyltinguna. Jón úr Vör var formbyltingarskáld, fyrst og síðast, en ekki endilega módernisti. Steinn Steinarr var aftur á móti módernisti í Tímanum og vatninu. Hann orti að vísu ekki eins mikið útaf heimildum eins og t.a.m. Elliot og Pound, notaði ekki skírskotanir eða vísanir með sama hætti og þeir. En hann breytti tungutakinu, áferðinni, eins og við sjáum í Tímanum. Kvæðið er þó engin sérstök formbylting, síður en svo, það er einfaldlega byggt upp af terzínum, rétt eins og Gunnarshólmi Jónasar. En blærinn, áferðin, tungutakið – hugsunin er allt önnur en áður. En oft hefur þetta þó farið saman í nútímaskáldskap, önnur efnistök en áður, bylting formsins og fráhvarf frá hefðinni og hugsun í nýjum búningi. Tíminn og vatnið er einfaldlega ástarkvæði, fyrst og síðast, en ástin er tjáð með öðrum hætti og nýstárlegri en áður.

Það er allt og sumt. Ég varð undrandi að þetta skyldi koma Kristjáni Árnasyni á óvart. En hann tók því vel þrátt fyrir ótrúlega andúð á Tímanum.

Þetta var góður fundur og áhugasamir áheyrendur, flestir ungir en þó á öllum aldri. Ég hafði dálítið gaman af að stjórna þessari málstofu og held hún hafi tekizt vel.

 

21. október, fimmtudagur

Allt hefur gengið sinn vanagang, nema hvað nýtt upphlaup varð í gær útaf þeirri fullyrðingu þriggja bandarískra kjarneðlisfræðinga að kaninn hafi geymt hér kjarnorkuvopn á vinstri stjórnar árunum 1956-59, í trássi við yfirlýstan vilja íslenzkra stjórnvalda fyrr og síðar.  Allt eru þetta getgátur einar og augljóst af gömlum trúnaðarskjölum sem dr. Valur Ingimundarson vitnaði í af þessu tilefni,  að þessar fullyrðingar eru rangar. Það er strikað yfir flest nöfn landanna sem koma við sögu í þeirri skýrslu sem kjarneðlisfræðingarnir hafa dregið ályktanir sínar af, þar á meðal þess lands sem kemur næst á eftir Hawaí, en þeir fullyrða að það sé Ísland. Dr. Valur taldi í samtölum okkar Styrmis við hann í gærmorgun að allar líkur bentu til að þar væri um að ræða Ísrael, en ekki Ísland. Það er náttúrulega ákaflega viðkvæmt mál gagnvart arabalöndunum, ef Bandaríkjamenn hafa flutt kjarnorkuvopn til Ísrael fyrir Suez-stríðið 1956. En allt bendir þó til að svo hafi verið og ekkert til hins að kjarnorkuvopnum hafi verið komið fyrir á Íslandi. Þessar yfirstrikarnir eru líka í yfirliti um lönd utan Atlantshafsbandalagsins og Ísland er ekki talið upp meðal Nato-ríkja. Það hlýtur að vekja athygli. Ásgeir Sverrisson benti einum kjarneðlisfræðinganna á þessa staðreynd og spurði af hverju hann teldi að svo væri. Hann sagðist ekki vita það. Hann sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir þessu. Þegar Ásgeir spurði af hverju Íslands væri ekki getið í yfirlitinu um Nató-ríkin, varð löng þögn og augljóst að fræðimaðurinn hafði ekki leitt hugann að þessu. En þetta er gild ábending, sagði hann.

Þannig hafa þessi kjarnorku-upphlaup staðið yfir með vissu millibili. Síðast með vissum hætti á vegum Ólafs Ragnars Grímssonar, þegar hann stjórnaði pólitískum upphlaupum hér á landi, enda var höfuðpaurinn af þessum þremur kjarneðlisfræðingum hér á vegum Félagsvísindastofnunar Háskólans. Og nú er hann enn kallaður til, meira en áratug síðar, og var samtalið við hann á sjónvarpsstöðvunum lengra heldur en frásögnin af því þegar utanríkisráðherra landsins og forsætisráðherra fullyrtu með skírskotun í yfirlýsingar bandaríska landvarnarráðuneytisins að allar væru þessar ályktanir út í hött og enginn fótur fyrir þeim! En það skiptir engu máli, upphlaup skal það vera!

Við þurftum þannig enn einu sinni að fjalla um þennan tilbúning og eyða í hann mikilli vinnu og er ég raunar orðinn hundleiður á þessu þrasi öllu saman sem kemur eins og flensufaraldur með vissu millibili! Eilíf endurtekning. En það var þó bót í máli að herra forsetinn var að opna sendiráð Íslands í Berlín, þegar ósköpin dundu yfir! Hann var því fjarri góðu gamni nú, en maður fær í sig hroll, þegar maður hugsar um gömul fingraför hans, bæði í þessu máli og öðrum.

Hitt er svo annað mál að við ættum að slíta öllu samstarfi við Bandaríkjamenn, ef í ljós kæmi að þeir hefðu farið á bak við okkur í þessum efnum, svo alvarlegt sem slíkt samsæri væri í samskiptum ríkjanna. Þá hefðu þeir traðkað á sjálfsákvörðunarrétti Íslendinga og mættu hundar heita fyrir mér. En ég sé engin merki þess að svo hafi verið, þvert á móti. Í þessu efni eins og öðrum er haldbest að styðjast við það sem vitað er, en ekki það, sem verið gæti. Það hefði Ara fróða þótt farsæl afstaða, nú sem áður…..

 

 

 

Kvöldið

Hef verið að lesa síðustu prófarkir af nýrri ljóðabók minni, Ættjarðarljóð á atómöld. Ég hef farið mér hægt, legið á eins lengi og ég hef talið rétt, og vonast til að útungunin verði hænunni til sóma! Valgerður Benediktsdóttir, sem Pétur Már Ólafsson segir að sé mjög gott ljóðskáld án bókar, hefur farið yfir kvæðin og raðað þeim saman, gert það af kostgæfni og smekkvísi. Hún heldur víst að ég sé “skrambigott” skáld! Hún er dóttir Benedikts Gunnarssonar, listmálara. Þá hefur Eiríkur Hreinn farið yfir próförk og talað vel um bókina í mín eyru, en hann hefur ævinlega sagt mér meiningu sína umbúðalaust. Nú er Kristján Karlsson með síðustu próförk, en hann hefur áður séð mörg þessara kvæða og lagt blessun sína yfir þau.

Í gærkvöldi var umræðuþáttur í ríkissjónvarpinu um fjórar fyrstu bækur ungra höfunda, þar var m.a. talað um Svartar fjaðrir eftir Davíð Stefánsson og Borgin hló eftir undirritaðan, en auk þess frekar hlýlega um fyrstu bækur tveggja skáldkvenna, Sigurbjargar Þrastardóttur, blaðamanns á Morgunblaðinu og Kristínar Bjarnadóttur, fréttaritara Morgunblaðsins í Svíþjóð. Ég var heima að slappa af og lenti á þessum umræðum. Þær vöktu dálitla athygli mína, ekki sízt vegna þess að bókmenntafræðingarnir sem heita Ásdís og Stefán Baldur, ef ég man rétt, hrósuðu Borgin hló á hvert reipi og sögðu að hún hefði enzt mjög vel, en gerðu ýmsar athugasemdir við Svartar fjaðrir og töldu einungis sumt í þeim hafa staðizt tímans tönn. Allt þetta kom mér á óvart. Ég vona bara að menn fari ekki að snúa hlutunum við, þegar endurskoðunin hefst og fullyrða að Borgin hló sé mín bezta bók! En hvað veit ég? Auk þess er ég ekki sammála því sem bókmenntafræðingarnir sögðu um Svartar fjaðrir. Hún er sígild endurnýjun og fagnaðarefni, hvað sem breyttum tíma líður.

Í nótt dreymdi mig svo að tveir bókmenntafræðingar voru að tala saman um nýju bókina og annar kom hlaupandi til mín og sagði að hún væri hörmuleg! Við það hrökk ég upp! Ekki veit ég hvað þetta merkir, en ég geri mér grein fyrir að þessi bók gengur þvert á tízkuna eins og flestar, ef ekki allar, mínar ljóðabækur. Hún er því áhætta, áskorun en ég hef aldrei hlaupið frá áhættum. Samt var ég að gæla við það í morgun að um þennan draum mætti hafa hið fornkveðna að fall sé fararheill.

Veit það þó ekki.

 

Hef verið að hlusta á Derek Jacobi lesa Gates of Fire eftir Steven Pressfield. Hún fjallar um orrustuna við Þermopyle, Xerxes, konung Persa, og Spartverja. Sterklega skrifuð með köflum. Bardagalýsingar í homerskum stíl.

 

Kvöldið enn

Árni Jörgensen hefur nú lesið Ættjarðarljóð á atómöld, einnig Kristján Karlsson. Þeir voru báðir með smávægilegar breytingar, en notuðu báðir sama orðið, glæsileg bók. Ég veit þeir segja mér það sem þeim finnst, þess vegna treysti ég þeim fullkomlega. Ég er glaður og ánægður með þessa niðurstöðu. Stefnan er mörkuð og nú hirði ég ekki um aðfinnslur annarra. Við eigum að endurnýja hefðina, en ekki yfirgefa hana. Þeir sögðu báðir að það kæmi rækilega fram í bókinni. Þar eru Jónas og Steinn einskonar leiðsögustef. Kristján Karlsson sagði að vísu, Ég var að reyna að finna leiðsögustefið í bókinni. Fyrst datt mér í hug fugl, síðan vængur, en loks fjöður. Leiðsögustef bókarinnar er fjöður. Ég sagði við hann, Það er mikið rétt. Auk þess meðvitað. Jafnvel talað um fiðrað vatn. Fjöðrin er tákn þess eteríska umhverfis sem er í tengslum við paradís. Hún er lykillinn að því að við getum losnað við jarðneska fjötra og lyft okkur til himins. Um það fjallar bókin öðrum þræði; að við eigum að hverfa frá akarninu og horfa uppí krónuna, þangað sem himinninn breytir eikinni og laufinu í fjaðrir og fugla og minnir á fyrirheit sín. Látum svínið gramsa í akarninu, leitum sjálf að þeim vængjum sem hugur okkar og ímyndunarafl þurrfa á að halda til að ævintýrið geti orðið að veruleika; tunglið, tunglið taktu mig og berðu mig upp til skýja. Það er þessi þrá eftir nýju úthafi, nýjum óþekktum ströndum sem skilur á milli okkar og svínsins í akarninu. Það á enga vængi, ekki svo vitað sé. Sem sagt, ævintýralandið sem Jónas orti um, ættjörð huldunnar lifir enn með okkur sem betur fer. Jónas var sínkt og heilagt með þetta Ísland í huga og hann fléttaði það ævinlega inní ást og fegurð. Gunnlaugur Scheving var í engum vafa um hvað góðar vættir voru Jónasi mikilvægar, eða eins og hann segir í Gunnarshólma að Íslendingar verði hnípin þjóð í vanda, þegar dvergurinn er flúinn og tröllið í hamrinum dáið. Við eigum að varðveita landslagið í Hulduljóðum, þá er okkur borgið. Þá verðum við ævinlega samtíða því bezta í sjálfum okkur. Og þá getum við sigrað tunglið með þeim vængjum sem bezt hafa dugað. Og þá er ekki sízt gott að kallast á við Jónas og Stein.

 

23. október, laugardagur

Mörður Árnason segir í samtali við Dag í morgun að Davíð Oddsson sé pappírstígrisdýr!

Svona tala maoistar!

 

24. október, sunnudagur

 

….Áhyggjur Kierkegaards á sínum tíma út af lýðskrumi lýðræðisins hafa verið margsannaðar á þessari undarlegu öld sem nú er að líða, því að lýðræðisskipulagið hefur ekki einungis klappað hvern lýðskrumarann á fætur öðrum upp á sviðið, heldur var sjálfur Hitler, morðingi morðingjanna kosinn í æðsta embætti Þýzkalands í frjálsum kosningum!.

Nei, hjörðinni er ekki treystandi, henni er það eiginlegt að hlaupa fyrir björg eða – kannski eigum við öllu heldur meira sameiginlegt með grindhvalnum en öðrum skepnum, við eltum þá sem stefna hjörðinni hugsunarlaust uppá landgrunn!

Ó, ef maðurinn væri ekki þessi skynlausa skepna sem raun ber vitni.

En það er þó bót í máli að skoðanakannanir eru ekkert annað en skemmtilegar uppákomur, ef því er að skipta. Bretar segja að 39,57% af allri tölfræði sé merkingarlaus della. Ég veit ekki hvernig þeir fundu þetta út, en tel enga ástæðu til að véfengja það. En hitt er, hvað sem öðru líður, sorgleg staðreynd, að þjóðernissinnaðir hálfnazistar hafa unnið mestu kosningasigrana undanfarið og það í tveimur helztu menningarlöndum Evrópu, Austurríki og Sviss. Við ættum því að una sæmilega okkar hlutskipti, þó að sósíalistaflokkurinn íslenzki hafi á sínum tíma verið kostaður af KGB og sovézka kommúnistaflokknum. Enginn veit hvað varð af þessum milljónatugum sem rússneskir kommúnistar ákváðu að senda hingað, en það var auðvitað ólöglegt, líklega einnig landráð vegna aðildar sovézku leyniþjónustunnar. Við þessum flokki tók Ólafur Ragnar Grímsson á sínum tíma, hann var þannig áfangi á leiðinni að Bessastöðum.

En hvern varðar um það?; a.m.k. ekki það úrtak sem lendir í skoðanakönnunum á Íslandi.

Það væri skemmtilegt ef styrkleiki lýðræðis væri meiri en veikleiki þess. En fyrir því er engin trygging, því miður. Af þeim sökum verðum við að bíta á jaxlinn og trúa því að batnandi mönnum sé bezt að lifa.

En, æ, ég hef bara enga trú á því og ekki heldur því fólki sem lifir í þeirri blekkingu.

 

Kvöldið

Senn verða liðin 100 ár frá fæðingu Jóhannesar úr Kötlum. Af því tilefni ætlum við að birta í Morgunblaðinu sjónvarpssamtal mitt við hann á sínum tíma. Ég held að það sé dálítið fróðlegt. Hann lagði að minnsta kosti mikið upp úr því. Hann vildi ekki að neinn annar en ég ætti þetta samtal við hann, ég veit ekki hvers vegna. Hann taldi að við ættum eitthvað sameiginlegt, held ég. Mér þykir vænt um að hafa átt þetta samtal, en það er svohjóðandi:

 

MILLI STEINS

OG SLEGGJU

Hér birtist í fyrsta sinn á prenti samtal JÓHANNESAR ÚR KÖTLUM OG MATTHÍASAR JOHANNESSENS sem Sjónvarpið sýndi árið 1969. Víða er komið við í samtalinu. Rætt um skáldskap Jóhannesar, tíðarandann og framtíðina sem Jóhannes segist ekki bjartsýnn á. Þykir honum sem frumsmiðurinn standi við lúbarið grettistak og reiði til höggs og mennirnir sitji ósjálfbjarga í lausu lofti milli steins og sleggju: “Því miður er mér satt að segja heldur dimmt fyrir augum, hvort heldur sem ég lít til okkar eigin þjóðar ellegar umheimsins. Þegar þær fáu hræður sem búa í þessu landi verða orðnar, hvað eigum við að segja, einhvers konar hersetin stóriðjupeð, þá mega þær sannarlega gæta sín betur hér eftir en hingað til.”

Jóhannes úr Kötlum er Dalamaður í húð og hár. Fæddur rétt fyrir síðustu aldamót og hefur komið mikið við  sögu íslenskra bókmennta síðastliðna fjóra áratugi. M.a. hefur hann sent frá sér 15 frumsamdar ljóðabækur af ýmsu tagi. Hann hefur ekki alltaf verið jafn mildur í máli og í þeim ljóðum sem flutt verða hér í kvöld, því að lengi hefur verið litið á hann sem einhvern blóðrauðasta bolsann í bókmenntum þessa tímabils. Því hefur þótt við hæfi að yngri skáldbróðir hans, eins og Jóhannes hefur komizt að orði, og pólitískur andstæðingur eða öngþveitismaður, eins og Þórbergur mundi sagt hafa, heimsækti hann hér að heimili hans að Kleppsvegi 44 og yrti hann orðum.

Fyrsta spurningin sem ég vildi spyrja þig, Jóhannes, er þessi: Bar mikið á ljóðlistaráhuga í heimahögum þínum?

“Ég er alinn upp í afskekktu heiðarkoti þar sem bókakostur var nú af æði skornum skammti en hins vegar voru tvær mjög ljóðelskar konur á heimilinu, móðir mín og sambýliskona okkar, og það var fyrst og fremst af þeirra vörum sem ég drakk í mig þessa óviðráðanlegu skáldskaparástríðu sem hefur loðað við mig síðan.”

“Ég minnist hins skemmtileg kvæðis þíns, Karl faðir minn, raunsönn lýsing á æskuumhverfi þínu, kjörum fólksins þar og því sem þú sást í æsku. Hver urðu viðbrögð föður þíns við ljóðum þínum?”

“Það kvæði er nú að mestu leyti reist á staðreyndum enda þótt það um leið feli í sér almenn sannindi um lífskjör kotbóndans á þeirri tíð. En í rauninni er það öðrum þræði harkaleg uppreisn gegn þeirri sveitarómantík sem hafði einkennt tvær fyrstu bækur mínar. Í rauninni er þetta eitt raunsæjasta kvæði sem ég hef ort og vitanlega vakti bersögli þess töluverðan úlfaþyt. M.a. var haft á orði að þarna væri um föðurníð að ræða en þó að faðir minn blessaður væri nú ekki mikið upp á bókaramennt þá var það samt svo að hann tók kvæðinu af þessum eðlislæga skilningi sem óbrotnu alþýðufólki er oft svo eiginlegur.”

“Í fyrstu bókum þínum ber mikið á trúhneigð, Jóhannes, var það heimafenginn arfur?”

“Vissulega var móðir mín mikil trúkona en auk þess hélt ég áfram að samlagast vissum kristilegum þenkimáta í kynnum mínum af ungmennafélagshreyfingunni og svo síðar við veru mína í Kennaraskólanum undir handarjaðri sr. Magnúsar Helgasonar. Annars hefur mér alltaf fundizt vera mjótt á milli trúhneigðar og skáldhneigðar enda þótt trú eins geti komið fram í mismunandi myndum.”

“Já, víst hefur það sannazt á þér því seinna gerðist þú trúarskáld með annan boðskap. Hverjum

tókst að spilla þér þannig, þessum saklausa sveitapilti?”

“Ja, það raunverulega spillingarafl var náttúrulega sjálft auðvaldsskipulagið, heimskreppa þess og fasismi. En sá einstaklingur sem í þann tíð af allra mestum fídónskrafti prédikaði fyrir mér kommúnisma var enginn annar en sjálft átrúnaðargoð þitt, Steinn Steinar. Hann hafði verið nemandi minn fyrir vestan og orðið mér mjög kær og handgenginn. Svo þegar ég fluttist hingað til bæjarins var hann kominn þangað á undan mér og þá þegar orðinn eldheitur byltingarsinni. Og nú var það hann sem fór að kenna mér.”

“Já, nú minnist ég afmælisgreinar Jóhannes, sem Steinn Steinar skrifaði um þig fimmtugan. Hann sagðist hafa pínt inná þig kommúnisma og orðrétt segir hann að hann hafi verið þessum fyrsta og einasta læriföður sínum baldinn nokkuð. Er frásögn hans af viðskiptum ykkar sannleikanum samkvæmt?”

“Ja, sú grein er náttúrulega skrifuð af þeim skemmtilega tvískinnungi alvöru og skáldaleyfis sem var Steini alla jafnan svo tiltækur. En sannleikurinn er nú sá að þó að á milli okkar Steins lægi alla tíð römm taug, þá vorum við í raun og veru mjög ólíkir að eðlisfari. Það var aftur á móti margt líkara með Steini og Stefáni heitnum frá Hvítadal, sem var okkur samtíða þarna í suðurbænum. Og ég hygg að þaðan hafi hann einmitt haft fordæmið að þessari hárbeittu og sefjandi samtalslist sem hann iðkaði jafnan síðan allt fram í andlátið.”

“Já, ég kynntist henni og svo hélduð þið áfram að berja rauðu bumburnar?”

“Jú, jú víst var svo um skeið. Að vísu fór nú Steinn bráðlega að hneigjast svona til heimspekilegrar efahyggju og almennrar heimsádeilu. Trú hans á byltinguna endaði nú með því, eins og þú kannski manst, að hann jós bölmóði sínum yfir Kreml og allt það hafurtask en ég hélt áfram að þruma minn heittrúaða boðskap í anda verkalýðs<HH>baráttu og fólksins.”

“Og hefur þér aldrei fundizt þú hafa hlaupið á þig þegar þú á þessu tímabili ortir svo frumleg ljóð í andanum sem “Sovét-Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú” og lofkvæðið um Stalín.”

“Ja, vegna nafnsins á fyrra kvæðinu sem þú nefndir hafa nú kannski sumir haldið - og þá sérstaklega þeir sem aldrei lásu kvæðið - að ég væri þar að biðja blessaða Rússana að koma og taka okkur, en ég held nú endilega að mér sé óhætt að fullyrða það að rússnesk herseta hefði orðið engu sársaukaminni fleinn í mínu holdi en sú ameríska. Hins vegar var það sannfæring mín að sameignarskipulag væri framtíðarlausnin og mér fannst hreint engin goðgá að spurja eins og gert er í kvæðinu, hvenær kemur þú lífsviljans land með ljóma strætanna, hljómfall vélanna, blóm og söng, hvenær kemurðu með kraft lífsins, eld áhugans, innileik bróðurþelsins. Hvenær! Hvenær!

Og svo er það þá lofsöngurinn um Stalín. Í því kvæði er náttúrulega fyrst og fremst um að ræða einskonar persónugerving minnar eigin óskhyggju í ljósi þeirrar goðsagnar sem hafði myndazt í kringum þennan son skógarans. Svona fannst mér þá endilega að hinn mikli sigurvegari í stríðinu gegn nazismanum ætti að vera. Og síðari uppljóstranir í sambandi við framferði þessa stálmanns þarna frá Grúsíu segja svo sem hvorki til né frá um listgildi þessarar myndar, út af fyrir sig. Þetta veit ég að þú, sálmaskáld á atómöld, skilur allra manna bezt. Annars finnst mér nú að þið morgunblaðsmenn mættuð vera mér öllum öðrum þakklátari fyrir þessi tvö kvæði svo oft og lengi sem þið hafið notazt við þau eins og nokkurs konar kórónu á kommúnistagrýluna.”

“Ja, við höfum nú ekki búið til þá grýlu, Jóhannes, og þarf ég ekki annað en að vitna í orð Krúsjefs sjálfs til þess að minna þig á að hann staðfesti alla morgunblaðslygina. En gaman þykir mér að minna þig einnig á það að þú hefur nú sjálfur ort ljóð um þessa grýlu og lýst henni betur en allir aðrir: Grýla hét tröllkerling, leið og ljót, með ferlega hönd og haltan fót. En hvernig stendur svo á þeirri hógværð og hlédrægni sem einkenna flest kvæðin þín í Eilífðar smáblómum.”

“Áður en ég svara því þá langar mig til þess að lýsa því yfir hvað vænt mér þykir um það að þú skulir ennþá kunna grýlukvæði mitt sem ég veit að þú hefur lært þegar þú varst svo lítið og gott barn að grýla gamla lagðist í bólið og dó. En svo ég víki nú aftur að spurningu þinni um Eilífðar smáblóm, þá er það nú svo að samhliða baráttukvæðunum í öllum mínum bókum hafði verið að finna ljóð um landið og náttúru þess og fólk. En orsökin til þess að þarna kom heil bók um einföldustu lífsgildi okkar þúsund ára sveitamennsku var m.a. sú að ég hafði um þær mundir, á upphafsárum seinni heimsstyrjaldarinnar, dvalizt tvö sumur uppá öræfum og þá komizt eins og í nánari snertingu við sjálfan mig og uppruna minn en oftast endranær.”

“Á menntaskólaárum mínum tóku að birtast ljóð eftir Anonimus sem vöktu athygli. Þegar það kom í ljós að þú værir höfundur þeirra veltu menn því fyrir sér og ekki sízt við sem þá vorum ung að þessi mikli rímari fór að yrkja svo lausbeislað form. Tókstu þetta dulnefni til að móðga ekki neinn af þínum gömlu aðdáendum?”

“Í sem fæstum orðum get ég sagt að ég þóttist finna að mitt hefðbundna form væri að hafna í stöðnun og að ljóðagerð mín þarfnaðist aukins svigrúms og endurnýjunar. Dulnefnið tók ég ekki upp af varúðarástæðum heldur til þess að leita meira hlutleysis, hlutlausra viðbragða við þessum tilraunum mínum á meðan ég væri að átta mig á árangri þeirra og gildi.”

“Og 1962 komu svo Óljóð þar sem þú hættir þér enn lengra í upplausn formsins og raunar innihaldsins líka og sumir höfðu á orði að nú lægju loksins á borðinu sannanir fyrir því að þú værir orðinn geggjaður.”

“Já, vissulega gat virzt svo að gömlum kennara og háttalykilsmanni væri ekki aldæla að koma þarna með heila bók þar sem hvorki fyrirfannst upphafsstafur né lestrarmerki, að maður tali ekki um sjálft orðbragðið þar sem t.d. þessar ljóðlínur eru: {dbcomma}Hvað segir mogginn hvað segir pravda / mogginn það þýðir morgunblaðið / eigum vér þá að segja upp morgunblaðinu / pravda það þýðir sannleikurinn / eigum vér þá að hætta að leita sannleikans.”

En hvað sem skáldskapargildi þessarar bókar annars líður, þá er það eitt víst að í henni er að finna einhver óvægilegustu reikningsskil mín við samtíðina og vel að merkja ekki sízt við einmitt kommúnismann. Það hélt maður nú satt að segja að ráðsettir góðborgarar mundu síðast af öllu flokka undir geggjun.”

“Nei, en svo við höldum áfram Jóhannes, vil ég minna þig á að tveimur árum seinna birtist svo bókin Tregaslagur, sem lesið verður úr hér á eftir, þar sem þú velur þér aftur hógværari eða hóglátari tjáningu og ferð að föndra við ný afbrigði af rími. Hvað olli því afturhvarfi?”

“Það er nú kannski rétt að benda á það að á milli þeirra bóka sem hér eru kynntar í kvöld liggur hvorki meira né minna en aldarfjórðungsskeið. En eins og bækurnar Hart er í heimi og Eilífðar smáblóm urðu til svo að segja samtímis, svo ólíkar sem þær annars að ýmsu leyti eru, þá er þetta eins um Óljóð og Tregaslag. Í báðum tilfellunum eru þær síðarnefndu einskonar persónubundin frávik frá þessu sífellda samfélagslega umróti sem hafði sótt svo fast á mig. Sem sagt baráttuhlé. Hitt er svo aftur rétt að nýju rímafbrigðin í síðasta hluta Tregaslags, þetta sem ég kalla “Stef úr glataðri bók”, er að nokkru leyti afturhvarf en þó um leið tilraunir til sem allra mestrar einföldunar á strangri ljóðrænni háttbindingu.”

“Og hvað viltu svo helzt segja um íslenzka nútímaljóðlist og þá sérstaklega yngstu skáldin. Ég á ekki við að þú gefir hverjum einstökum einkunn, það er nóg af því, heldur þróunina?”

“Slíkri spurningu er nú ekki hægt að gera viðhlítandi skil í stuttu máli en það eitt er víst að hlutur ljóðsins hefur gerbreytzt við þá miklu þjóðlífsbyltingu sem hér hefur átt sér stað að undanförnu. Ljóðið er ekki lengur það meginafl sem það var í þjóðernisbaráttu og alþýðumenningu þeirrar snauðu en skáldlegu bændaþjóðar sem hér sótti fram fyrir og eftir aldamótin, heldur virðist nútímaljóðið, eins og raunar aðrar listgreinir og menningarlíf okkar yfirhöfuð, stefna til sífellt innhverfari sérhæfingar. Gamli opinskái hugsjónaboðskapurinn virðist ekki lengur gjaldgengur, heldur leitar þróunin æ meir yfir í einhvers konar margræðar sálarflækjur og myndgátur, náttúrulega í samræmi við upplausn og ringulreið samfélagsandans. Það er þess vegna ekkert undarlegt þó að einföld og alþýðleg lífstjáning, sem hér er verið að kynna, láti í eyrum róttækra framúrstefnumanna eins og hvert annað innantómt hjal sem á ekkert erindi til nútímans.”

“Og að lokum, Jóhannes. Nú höfum við báðir lifað vargöld. Hvernig segir þér hugur um framtíðina? Telurðu að nokkur von sé til þess að þessum illdeilum og hjaðningavígum milli einstaklinga og þjóða linni?”

“Því miður er mér satt að segja heldur dimmt fyrir augum, hvort heldur sem ég lít til okkar eigin þjóðar ellegar umheimsins. Þegar þær fáu hræður sem búa í þessu landi verða orðnar, hvað eigum við að segja, einhvers konar hersetin stóriðjupeð, þá mega þær sannarlega gæta sín betur hér eftir en hingað til, ef þær ætla ekki að glata sjálfsvirðingu sinni og frumburðarrétti. Sprengiöflin í heimsmálunum yfirleitt virðast mér slík að þar megi hvenær sem vera skal búast við hverju sem verða skal nema því að einu að maður reyni að fela sig á bak við einhverja óraunhæfa bjartsýni sem gæti þá og þegar snúizt upp í örlagaríkt andvaraleysi. Það er satt að segja ekkert björgulegt að öll þessi undursamlegu tæknivísindi nútímans skuli fyrst og fremst miða við síaukið vígbúnaðarkapphlaup og síaukið geimskotakapphlaup á sama tíma sem sá mikli meirihluti mannkynsins sem berst við hungurvofuna stækkar með hverjum deginum sem líður. Kannski lýsi ég núverandi hugarástandi mínu ekki betur en með óprentuðu smáljóði sem þannig hljóðar:

 

Frumsmiðurinn stendur

við lúbarið grettistak,

reiðir til höggs

 

í lausu lofti titrum við ósjálfbjarga

milli steins og sleggju.

 

Ýmsir halda að ég hafi skrifað Reykjavíkurbréfið í dag. Þeir draga þá ályktun líklega af því, að þar er vitnað í samtal Ingólfs, sonar míns, við Auði Auðuns, en bréfið var helgað minningu hennar. Samtal Ingólfs við Auði á sínum tíma var mjög gott, ég benti Styrmi á það og hann skrifaði Reykjavíkurbréfið. Þegar þar er talað um “höfund þessa bréfs”, þá er átt við hann, ekki mig.

 

Kristján H. sagði mér í kvöld að á leiðinni til jarðar væri loftsteinn sem væri eins stór og lítill hnöttur. Þó væru líkur á því að hann færi framhjá jörðinni, en það vissi enginn fyrir víst. NASA fylgdist með honum. Hann ætti að koma að gufuhvolfi jarðar árið 2027. Þá verð ég dauður enda 97 ára gamll, en Kristján H. verður þá lifandi, aðeins 42 ára gamall. Ég losna þannig við áhyggjurnar, en þær erfast eins og annað.

Kristján sagði að fjórar leiðir væru til þess að losna við loftsteininn, ein væri sú að beina honum á braut frá jörðu með eldflaugum.

Ég sagði að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af steininum. Þegar þar að kæmi væri ég dauður og færi um himinskautin eins og súpermann og þannig mundi ég beina þessum vágesti frá jörðinni, svo hann gæti sofið rólegur, ásamt öðrum niðjum okkar Hönnu! Ég held hann bindi einhverjar vonir við þessi fyrirheit. En þannig væri þá einnig hægt að koma að einhverju gagni, dauður….

 

26. október, þriðjudagur

Styrmir segir mér að Ólafur Ragnar sé hnugginn eftir ævintýri sín og hefur það eftir Davíð. Mér finnst það Ólafi til tekna, hvað sem öðru líður.

 

Skoðaði hugbúnaðarfyrirtækið Flögu í dag, ásamt Matthíasi H. Það er merkilegt að sjá þessa sprota skjóta rótum, þessi fyrirheit þekkingar og útsjónarsemi. Vonandi lofa slík fyrirtæki góðu um framtíðina. Flaga er metin á 2,1 milljarð og á Helgi Kristbjarnarson fjórðung. Hann er afargeðfelldur maður – og veit augsýnilega hvað hann vill. Hann er hámenntaður læknir og stjórnar eins og ég áður fyr: með því að ganga milli starfsmanna og tala við hvern og einn. Nú er ágætt að hafa einnig tölvu að styðjast við.

 

28. október, fimmtudagur

Ólafur Jóhann Ólafsson talaði við Styrmi, í framhaldi af fyrri samtölum þeirra um hálendið. En nú loksins kom hann að því sem honum lá á hjarta: að Einar Falur, vinur hans, skrifi um nýja skáldsögu hans í Morgunblaðið. Styrmir sá öll tormerki á því, enda uppástunga Þrastar Helgasonar og Jóhanns Hjálmarssonar um annan gangrýnanda, Hermann Stefánsson. Ég sagði Styrmi að við skyldum verða við þessu….

 Vonandi Ólafur fljóti eitthvað á góðmennsku okkar, sagði ég.

Nei, sagði Styrmir, góðmennsku þinni!

 

3. nóvember, miðvikudagur

Talaði við Súsönnu Svavarsdóttur í fyrradag. Hún er að hætta á DV. Henni hafði verið falið að annast sunnudagsblaðið en nú segir hún að mælirinn sé fullur. Það hafi verið yfir hana gengið æ ofan í æ og nú sé komið nóg. Ritstjórarnir hafi sýnt henni skilningsleysi og neikvæðir straumar leiki um stofnunina. Ég heyri að henni finnst Óli Björn Kárason hafi brugðizt henni. Eini maðurinn sem mér skilst að hún geti hallað sér að er Eyjólfur Sveinsson. Gunnar Smári, sem sér víst að mestu um Focus, og einnig innmat DV, er henni mjög öndverður. Hún segir að hann hafi ekki áhuga á neinu öðru en neikvæðri umfjöllun um annað fólk. Hann er framleiddur úr mykju! sagði hún. Ég hrökk við en gat ekki annað en brosað, þegar ég heyrði þessa eftirminnilegu mannlýsingu. Hún telur að hann sé að ná undirtökunum í vinnslu blaðsins. Það kastaði tólfunum þegar hún fór af landi brott, en ritstjórarnir tóku grein sem hún hafði verið látin skrifa um einhverja “skoðanakönnun” um kynþokka, en hún fyrirlítur slíkt efni og gerði grín að öllu saman! Gott hjá Súsönnu. Það gátu þeir ekki þolað og fleygðu greininni hennar. Létu annan skrifa nýja grein. Enginn talaði um þetta við hana. Þegar hún kom heim sá hún í hendi sér að hún gæti ekki unnið með þessum “mykjuhaugum” og nú er hún búin að segja upp. Ég sagði henni að hún yrði að segja upp á sínum forsendum, en ekki þeirra. Nú yrði hafin herferð gegn henni og hún yrði að vera við öllu búin. Hún sagðist mundu sjá um það. Kjarni málsins væri sá að ritstjórarnir hefðu umgengizt hana af lítilsvirðingu vegna þess að hún væri kona. Því hefði hún aldrei kynnzt fyrr. Og nú léti hún ekki bjóða sér þetta lengur. Hún hyggst hætta 1. febrúar og hefja mastersnám í bókmenntum. Mér finnst það ágætt hjá henni. Hún er verðmæt kona, sjálfstæð og sérstæð. Hún á ekki að vera lemstruð sóley í hófsspori. Hún hefur reynt að þreyja þorrann, en nú er víst nóg komið. Hún sagði mér að fyrrnefnd skoðanakönnun um kynþokkann hefði farið fram á meðan fréttirnar voru á Stöð 2 og ríkissjónvarpinu. Og viðbrögðin hefðu farið eftir því hver hafi verið í fréttum, en þó einkum hver var að baða sig í sjónvarpssólinni þarna á skjánum þegar spurningin var borin upp. Þá kom það fyrir að fólk segði, Heyrðu bíddu aðeins, já hún er þarna hún Ólöf Rún Skúladóttir, ætli hún sé ekki kynþokkafyllst! Svo á fólk að taka mark á þessu. Ég hef að vísu aldrei gert það en nú fékk ég sönnun fyrir því sem ég hef alltaf haldið; að við lifum í einhverjum ömurlegum sýndarveruleika sjónvarpsins, þangað sækjum við ímynd skoðanakannana, en veruleikinn sjálfur sniðgenginn. Enginn hefur neina sjálfstæða skoðun. Þó hvarflar stundum að mér að fólk sé að svara útúr, jafnvel gera grín að þeim sem spyrja - og svara þá einhverri fjarstæðu. Það má vel vera, ég veit það ekki, en þá stjórnar sjónvarpið einnig þessari sömu fjarstæðu.

Súsanna sagði mér að annar hver maður sem hefði verið spurður um Dorrit, vinkonu Ólafs Ragnars, hafi neitað að svara; sagt að sér kæmi ekkert við, hvort hún flyttist að Bessastöðum eða ekki. Það væri mál Ólafs Ragnars, en ekki annarra. Þannig hefði einungis helmingur svarað, en Dagblaðið sló því upp að 70 eða 80%, ef ég man rétt, hafi viljað Dorit á Bessastaði!

Í einni af sögum Dickens heitir aðalpersónan þessu nafni og nú er mér sagt að móðir konunnar hafi verið svo hrifin af þessari sögu að hún hafi skírt dóttur sína uppúr Dickens.

En ég segi eins og annar hver þeirra sem spurðir voru, mér kemur það ekki við, það er mál Ólafs Ragnars hvort hann velur hana þangað. Georgia, kona Sveins Björnssonar, var dönsk og talaði prentsmiðjudönsku. Hún sómdi sér ágætlega á Bessastöðum. Ég held hún hafi verið vinsælli en karlinn! Samt var Sveinn Björnsson ágætur, þótt Ólafur Thors væri lítt hrifinn af honum.

 

 

Kvöldið

Í dag birtist grein um Mikson í Morgunblaðinu þar sem fullyrt er að hann hafi verið stríðsglæpamaður og morðingi. Greinina skrifar forstjóri Wiesenthal-stofnunarinnar í Jerúsalem, Zuroff, en hann hefur áður eltzt við Mikson. Grein hans er svar við samtali sem Skapti átti fyrir nokkru við Atla Eðvaldsson. Ég skal ekkert um það segja hver hlutur Miksons var í stríðinu. Þykist þó hafa reynslu fyrir því að hann var mikill andkommúnisti og þá ekki minni eisti. Hann var ósköp ljúfur maður og ég hafði stundum gaman af að tala við hann, þótt hann væri svo illa mæltur á íslenzku, að ég átti erfitt með að skilja hann. Held hann hafi verið viðkvæmur maður og stundum táraðist hann, þegar hann sagði mér frá reynslu sinni. Eitt sinn grét hann þegar hann rifjaði upp árásir kommúnista á hann í Þjóðviljanum í upphafi sjöunda áratugarins. Þá komum við morgunblaðsmenn honum til hjálpar og slógum skaldborg um hann. Það gerðum við í góðri trú. Síðar var hann sakaður um morð, nauðganir og stríðsglæpi. Mér hefur aldrei þótt hann líklegur til neinna glæpaverka, en lengi skal manninn reyna, veit ég vel. Og eitthvað þykjast gyðingar hafa fyrir sér í ásökunum sínum. Vonandi hafa þeir stuðzt við lélegar heimildir, eða misskilning. Og eitt er víst - að við tökum ekki mark á þeim upplýsingum frá KGB sem stuðzt hefur verið við. Þessi leyniþjónusta Stalíns var samfélag morðingja, samsett af varúlfum gúlagsins. Þetta samfélag, ásamt morðvélum Hitlers, heldur áreiðanlega uppi dampinum í helvíti.

Mér þykir ólíklegt að Mikson hafi verið nauðgari. Það var svo sannarlega engin sexbomba sem maður var með þarna í gufunni hjá honum.

En ég staldra þó við eitt atriði. Síðustu árin sem ég kom í gufuna til hans talaði hann mikið við mig um gyðinga. Varaði mig við gyðingum. Sagði þeir stæðu fyrir alþjóðlegu samsæri. Það var augljóst að hann var mikill andstæðingur gyðinga og taldi þá af einhverjum ástæðum ógna okkur vesturlandabúum. Ég fann það var einhver sérstök reynsla á bak við þessar áhyggjur hans, eða ætti ég fremur að segja þessa andúð.

Þegar ég hugsa um samtöl okkar undir lokin renna á mig tvær grímur. Ég skildi þau svo að hann væri að tala um gyðinga í æðstu stjórnum kommúnistaflokka í Austur-Evrópu, og þá ekki sízt Sovétríkjunum sjálfum; menn eins og sjálfan Trotsky og Kaganovitz. En þegar ég skoða hug minn nánar finnst mér hann hafi verið að tala um gyðinga almennt. Það má því vel vera hann hafi sýnt þeim andúð í Eistlandi, ég veit það ekki. En hvort sem hann hefur framið glæpi á gyðingum þar í landi eða ekki er hitt deginum ljósara, að gyðingar hafa fundið lyktina af réttum andstæðingi. Hann hataði þá og fyrirleit. En ég veit ekki hvers vegna.

 

6. nóvember, laugardagur

Sjónvarpið getur verið til margra hluta nysamlegt, þrátt fyrir allt. Það er hægt að læra margt af því ef maður kann að velja. Ég hef séð múslima í Kairo syrgja ástvini sem fórust með egypzku farþegaþotunni út af ströndum Bandaríkjanna, það minnti mig á Tangir-ferð okkar á sínum tíma. Þá fórum við í moskuna þar í borg, það er að segja við Ingó gengum inn í anddyrið, en Hanna fékk ekki að koma nema að dyrunum. Mig minnir ég hafi á sínum tíma skrifað eitthvað um þessa heimsókn, man það þó ekki fyrir víst, en hvað sem því líður þótti mér þetta guðshús undurfallegt og það hafði áhrif á mig að líta inn. Múslimar telja Krist einn af spámönnum guðs, en hafna því eins og gyðingar, að hann hafi verið guðs sonur. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Það er margt fallegt í islamskri trú, þótt ofstækismenn hafi komið óorði á hana, rétt eins og jesúítar komu óorði á kristni á sínum tíma. Það er fallegt hvernig múslimar biðja til guðs. Þeir hafa enga vafninga á því og þeir hafa beint samband, að því er virðist. En Kristur er okkar milliliður. Án hans væri ég líklega heiðingi. Ídealistarnir íslenzku sem boðuðu guð milliliðalaust á fyrra hluta 19. aldar voru miklu líkari múslimum en því kristna fólki sem ég hef alizt upp með. Þeir þurftu ekki á Kristi að halda, þ.e.a.s. þurftu ekki á að halda neinum millilið. Það örlar á þessu í þeim kristindómi sem Jónas iðkar í ljóðum sínum og ritgerðum. Hann var svo trúaður á föðurinn, skaparann, vin alls sem er, og svo sannfærður um að þessi alvaldur hefði skapað himin og jörð, að það örlar aldrei á neinum efasemdum í þeim efnum. Hann talar um þennan skapara og hugarveröld hans yfir 100 sinnum í ljóðum sínum, en Krist einungis tvisvar eða þrisvar. Ég veit ekki hvort þessi afstaða Jónasar er arfur frá fyrirrennurum hans og kennurum eða eðlislæg og upprunaleg, þótt ég viti hitt að Jón bessastaðarektor lagði svo lítið upp úr kraftaverkasögunum að hann taldi þær til þjóðsagna. Slík afstaða er Jónasi auðvitað víðs fjarri, enda er hann rammkristinn, þótt hann sé í svo sterkum tengslum við guðdóminn að sambandið rofnar ekki, þótt farið sé framhjá milliliðnum. Þannig virðist mér einnig trú múslima, hún beinist öll að guði sjálfum og þá milliliðalaust. Þeir fylgja að vísu bókinni út í æsar, enda má segja að trú þeirra sé trú bókarinnar. Trú okkar er  trúin á Krist; trúin á kraftaverk, meyjarfæðingu, og syndaaflausn; trúin á upprisu.

Mér þykir fallegt hvernig múslimar umgangast sinn guð, enda er ég með sjálfum mér sannfærður um að hann er í engu frábrugðin okkar guði, ef hann er á annað borð sá sem við höldum; eða ætti ég fremur að segja vonum. Mér þótti eftirminnilegt að horfa á þetta fólk liggjandi á hnjánum, opna lófana til himins svo að kraftur, huggun og blessun guðs næði til hjartans; syrgjandi ólga þurfti á að halda friði og guðsblessun. Þetta snart mig, þetta mystíska andrúm sem spyr ekki, en vonar. Þetta fólk heyrir að vísu ekki guð tala eins og gyðingar forðum daga eða sértrúarmenn um allan heim sem eru sínkt og heilagt að segja mér og öðrum í sjónvarpsþáttum sínum, t.a.m. á Omega, að þeir hafi daglegt samband við guð, hann tali við þá, segi þeim fyrir verkum. Hvernig stendur eiginlega á því, hef ég spurt sjálfan mig, að guð er svona skrafhreifinn við þetta fólk, en ég hef aldrei heyrt hann segja aukatekið orð. Væri þetta sanngjarnt, hef ég spurt, að einhverjir fáir útvaldir gætu einir setið á samskrafi við alföður, á meðan við hin áköllum hann og leitum hans og höfum aldrei heyrt raust hans, en hengjum okkur á Krist, ef hann gæti komið einhverjum álitlegum skilaboðum til hans – og þá með þeim hætti sem guðssyni einum er gefið.

Trú mín hefur breytzt með árunum. Fyrst lét ég mér nægja barnatrú móður minnar og fermdist upp á hana. Síðan tók níðhöggur efans að naga rætur þessarar trúar svo að ég þurfti á spiritisma að halda um stund. Þá urðu Guðmundur Jörundsson og Hafsteinn Björnsson miklir og góðir vinir mínir og ég var á mörgum fundum með Hafsteini og það veitti mér frið og einhverja fullsælu sem ég kannaðist ekki við, en naut þarna í návist Hafsteins og lengi á eftir. Síðan kom að því að þeir hurfu báðir yfir landamærin en ég varð eftir, án allra tengsla við yfirnáttúruleg fyrirbæri, þótt draumarnir væru stundum sérstök vísbending og verðugt umhugsunarefni. Um þetta hef ég einnig eitthvað skrifað.

Mér er nær að halda Borges hafi eignazt eitthvað svipaða reynslu af draumum, en hann sagðist vera heiðingi, þótt hann talaði stundum um guð í sögum sínum og ljóðum. Það eru líklega allir fæddir með guð í blóði sínu, gæti ég ímyndað mér; í þessu dularfulla úthafi þar sem niður tímans minnir á upphaf okkar og endalok og þá ekki síður að við erum ekki einungis af þessum heimi, heldur þeirri dularfullu mystísku veröld sem er ævinlega í næsta nágrenni við hugsun okkar og athafnir. Við erum úr efni sköpunarinnar eins og tréð, geimrykinu. Ég gæti ímyndað mér öll tónlist og þá ekki síður öll ljóðlist eigi rætur að rekja til þessarar veraldar  þó að fjallað sé um þann áþreifanlega  reynsluheim sem við erum fædd inní og breytti geimduftinu í mold, tré og manneskju. Þannig erum við táknmynd allra tíma og einskis. Og það er í þessa dularfullu veröld geimryks og sköpunar sem við sækjum þessa knýjandi trúarþörf sem allir menn hafa hlotið í arf, hvort sem þeir eru trúaðir eða ekki; þessa ljóðrænu afstöðu til umhverfisins: Þetta segi ég af því að Kristur er, eins og honum er lýst í guðspjöllunum, mesta ljóðskáld allra tíma.

Af ýmsum ástæðum hef ég reynt að komast í samband við guð, hugsað til hans, reynt að tala við hann - en allt hefur komið fyrir ekki. Ég veit ekki einu sinni um nafnnúmerið hans, hvað þá annað. Samt hef ég einhverja óskilgreinanlega tilfinningu fyrir því hann sé að hlusta. En hann svarar ekki, a.m.k. ekki eins og raust af himni eða hvíslandi bæn. En kannski heyri ég hann í trjánum þegar ég er á göngu, kannski heyri ég rödd hans í syngjandi veizlugleði þrastanna, þegar þeir háma í sig haustrauð berin af trjánum. Mér hefur dottið það í hug. Og ég læt mér þetta svar nægja; læt mér það nægja, a.m.k. í bili.

En samt er ekki hægt að láta sér það nægja. Hvers vegna ganga 214 manneskjur inní ókunna þotu í New York, setjast þar eins og í hægindastól heima hjá sér, þurfa síðan hálftíma síðar að upplifa að þotan hrapar um mörg þúsund fet, er síðan rétt af í nokkrar sekúndur, splundrast síðan og hrapar í sjóinn? Ég get ekki hugsað mér annað en þessar 40, 50 eða 60 sekúndur séu svo ógnleg eilífð á dauðastund þessa fólks að það sé í raun og veru brot á öllum náttúrulögmálum að leggja slíka angist og ógnarreynslu á lítilmagnann í hverri lifandi manneskju, hjálparleysið, vanmáttinn. Ég get ekki hugsað mér neitt ógnvænlegra en slíka reynslu á dauðastundinni. Samt hefur þetta verið lagt á fjölda manna. Ekki trúi ég því að guð standi á bak við slík hryðjuverk. Allt hlýtur þetta að stafa af einhverri brotalöm í sköpunarverkinu. Allt hlýtur þetta að vera guði óviðkomandi. Hvað þá? Fólkið sem lá á hnjánum í Kairo átti jafn greinargóð svör við þessari spurningu og ég. Þó að um bilun hafi verið að ræða, breytir það engu. Fórnardýrin upplifa ógnina hver sem ástæðan er. Og hún er ekki á nokkra manneskju leggjandi, jafnvel hryllilegri reynsla en þegar naktar konur gengu með börnum sínum inní gasklefa nazista og komu ekki út lifandi. Þær vissu ekki alltaf hvert þær voru að fara. Það var þó einhver líkn. En í flugslysum eins og því, þegar egypzka farþegaþotan fórst, er ekki hægt að komast hjá því að upplifa hryllinginn, deyja svo frá honum, fullvitandi um örlög sín og ógn dauðans. Fólkið í Hirosima og Nakasaki vissi ekki um ógnina sem beið þess af himnum, upplifði hana ekki, hvarf inní bjarmann mikla óafvitandi um það sem gerðist. Það er þó einhver líkn.

Eða fólkið sem hefur dáið í landskjálftunum í Tyrklandi. Eða – hvirfilbyl í Indlandi…

Ég hef verið að leita að guði til að spyrja hann hvernig á því standi, að slíkt og annað eins sé lagt á venjulegt fólk sem á sér einskis ills von og hefur ekki unnið til neinna slíkra hryðjuverka, hvorki af manna né náttúrunnar völdum. Hef leitað að guði í huga mínum. Ég þykist vita af honum, þótt ég finni hann ekki. Hann er þarna einhvers staðar en hann svarar þeim bara í Omega. Ég verð að láta mér nægja þögnina – og guðspjöllin. Hvers ég á að gjalda? Af hverju á ég að láta mér nægja þytinn í trjánum og tístið í fuglunum, meðan omega-menn sitja á sífelldum gæðafundum með forsjóninni og taka með sér alls kyns fyrirmæli og upplýsingar inní þann hlutveruleika sem er með einhverjum hætti leiksvið okkar allra? Hinir kristslausu fyrirrennarar Jónasar hljóta einnig að hafa fengið slíka viðtalstíma því að þeir létu sér nægja þetta milliliðalausa samband. Þeir hafa líklega verið eins og múslimar nú á dögum sem láta sér nægja þetta milliliðalausa samband, þótt svörin komi ekki af himnum en eru grafin á víð og dreif í þeirri einu bók sem guð hefur skrifað sjálfur handa þeim af fingrum Múhameðs.

En - ég sé það nú þegar syrgjendur standa andspænis fyrrnefndu voðaslysi, að þessi svör duga þeim ekki. Og þeir gráta rétt eins og við hin. Og syrgja rétt eins og við hin inn í svarlausa þögn dauðans.

Þegar ég var ungur beindist hugurinn að Kristi, það gerir hann enn. Klæðafaldur hans er hvönn Þorgeirs í lífi mínu. En ég ætlast ekki til hann svari spurningum mínum, þótt ég trúi því að umhyggja hans og kærleikur nái til hvers og eins og það eitt gerist í dauðanum sem er óhjákvæmilegt. Sjálfur þurfti hann að upplifa angist dauðastundarinnar. En á hann var hægt að leggja það sem öðrum er um megn. Ætli það hafi verið í eina skiptið sem guð svaraði honum ekki, þegar hann hrópaði á krossinum: Hví hefur þú yfirgefið mig? Jafnvel hann þurfti að upplifa þessa gnýþungu þögn sem er háværari en nokkrar þórdrunur; jafnvel hann.

Ég flutti á sínum tíma þrjár ræður í kirkjum, hina fyrstu í Mosfellskirkju á páskum 1967 og hét hún Kristur og Gamlatestamentið, það var fyrir orð sr. Bjarna Sigurðssonar, samstarfsmanns míns á Morgunblaðinu, árið eftir, á föstudaginn langa í kirkju Óháða safnaðarins, fyrir orð sr. Emils Björnssonar, Kristur og kærleikurinn, og hina þriðju í Neskirkju, það var líklega 1970, þótt ég muni það ekki nákvæmlega, en hún hét Kristur og kraftaverkin.

Í hinni fyrstu talaði ég um hvað við nútímamenn ættum erfitt með að skilja þann hefnigjarna guð gyðinga sem væri svo órafjarri hugmyndum okkar um algóðan, miskunnsaman guð að engu tali tæki, guð kærleikans. “Við eigum að vera óhrædd að játa þetta, ekki síður í kirkjum en annarstaðar. Ef við gerum það ekki, en höldum dauðahaldi í frumstæðan ótta gyðingsins, eigum við á hættu að kristnin losni úr tengslum við æskuna, framtíðina. Án kristni, án trúar á guð og eilíft líf stöndum við í sömu sporum og steinaldarmaðurinn. Hvað hefur þá gerzt? Hvað hefur þá áunnizt? Hvað hefur okkur hlotnazt annað en eyðimörk ótta og örvæntingar?…

…Guð kemur til okkar eins og við erum, en ekki eins og við ættum að vera. Við erum ekki grænfingruð tré í garði hans. Líklega erum við miklu frekar ormarnir í laufinu, samt kemur hann til okkar, því hann hefur skapað okkur í sinni mynd.

En hvað er átt við með því. Auðvitað ekki að hann sé fyrirmynd að líkama okkar. Það er í senn barnaleg hugmynd og einföld lausn að láta sér koma til hugar að guð hljóti að vera gamall öldungur með grátt sítt skegg og kankvís augu. Það er hugmynd barnsins. Guð er enginn jólasveinn. En barnið verður að gera sér upp myndir úr daglegu lífi til að skilja. Við erum að vísu börn, en ekki óvitar.

Guð Jesú Krists er annar en Jehóva. Hann er guð kærleikans, einkum og sér í lagi kærleikans. Af þeim sökum er hann dýrmætasta gjöf sem mannkyninu hefur hlotnazt. Jesús sagði: “Þér hafið heyrt að sagt var: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. En ég segi yður: Þér skuluð ekki rísa gegn meingjörðarmanninum, en slái einhver þig á hægri kinn þá snú þú einnig hinni að honum. Og ennfremur: Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvini þína. En ég segi yður: Elskið óvini yðar. Lengra er ekki hægt að komast. Guð reiðinnar orðinn að guð kærleikans.”

Þannig gerði Kristur byltingu gegn guðshugmyndum gyðinga og fór eigin leiðir í þeim efnum. Og hann spyr ekki hvað við gerum, heldur hvað við erum. “Augað er lampi líkamans; því ef auga þitt er heilt mun allur líkami þinn vera í birtu, en sé auga þitt sjúkt, þá mun allur líkami þinn vera í myrkri; ef ljósið í þér er myrkur, hve mikið verður þá myrkrið?” Hann leggur alla áherzlu á innri gerð mannsins, hugarfarið.”

Ég nefni síðan söguna af Billy Graham og syni hans, þegar þeir gengu á mauraþúfuna og eyðilögðu hana. Þessi saga hefur verið ofarlega í huga mínum, af því að lítið atvik varpar ljósi á stóra spurningu. Drengurinn hafði áhyggjur af skemmdarverkinu sem þeir feðgar höfðu unnið á lítilli veröld mauranna, en þá sagði faðir hans: “Mundir þú ekki vilja að við réttum maurunum hjálparhönd, ef við gætum?” “Jú,” sagði sonurinn, “Að við gætum byggt upp mauraþúfuna aftur,” sagði faðir hans. Þá glaðnaði heldur en ekki yfir syninum og hann sagði að þeir skyldu byggja upp mauraþúfuna. En þá leit faðir hans á hann og sagði: “Sonur minn, til þess við gætum tekið þátt í  að byggja aftur upp heimkynni mauranna, yrðum við sjálfir að vera maurar.”

Þetta er sagan um guð og mann. Kristur tók á sig mynd mannsins til þess að geta tekið þátt í samfélagi hans, byggt það upp, bætt það og breytt.

Sem sagt, guð í sporum manns.

Heili okkar og hugsanir eru bundin við jörðina, efnið. Við höfum að vísu stigið fyrsta sporið út úr jarðbundnu umhverfi okkar, það sér út á hafið, en ekki hvað er handan þess. Leyndardómurinn bíður okkar. En það er engin ástæða til að ætla að vegir guðs og manns skilji á þessari leið, þvert á móti. “Werner von Braun, einn frægasti vísindamaður okkar tíma og sá sem lengst hefur séð út í víðerni geimsins, hefur sagt eitthvað á þá leið, að því betur sem hann kynntist vísindum því nær hafi hann komizt guði.

Kristur byggði ekki aðeins á gamalli hefð, hann var byltingarmaður. Umgekkst ekki aðeins gott fólk og góðborgara, heldur - og ekki síður - syndara. Hann tók við gömlum kenningum og bræddi þær upp í deiglu nýs tíma. Vissi að heilbrigður maður þarfnast ekki læknis, heldur þeir sem sjúkir eru.” Um það hugsaði ég þegar ég skrifaðiu páskaleiðarann sællar minningar og sumir guðsmenn urðu agndofa af hneykslun: Jónatan mávur mátti ekki svífa yfir sorphaugnum þar sem hinir mávarnir voru í slorinu, það var móðgun við “réttan” skilning. Jónatan átti einnig að vera á sorphaugnum, þ.e. Kristur átti að vera einn þeirra sem týndu úr öskutunnunum. En prestarnir skildu ekki boðskapinn: að Jónatan mávur minnti mávana á að þeir áttu sér vængi og gátu sigrað himininn. Þurftu ekki að vera rígbundnir við sorpið. Sjálfur þurfti hann ekki að vera sorpæta eins og þeir til að vísa þeim veginn. Þannig umgekkst Kristur líkþráa, sturlaða, blinda, án þess sjálfur vera holdsveikur, sturlaður eða blindur. Hann gekk um til að lækna, en ekki til að smitast. Hann leyfði jafnvel lærisveinum sínum að brjóta Móse-lögmál með því að halda ekki hvíldardaginn heilagan, sjálfur læknar hann á hvíldardaginn. Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna, en maðurinn ekki vegna hvíldardagsins. Þetta brot á lögmálinu var ein ástæðan fyrir því að gyðingar leituðust enn frekar en áður við að ráða hann af dögum, segir í Jóhannesarguðspjalli, 15. kap. 18 versi.

“Kristur segir að það sem fari inn í manninn sé ekki endilega óhreint, heldur hitt sem útaf honum komi. Gyðingar bönnuðu af heilbrigðisástæðum svínakjötsát. Þeir sögðu að það væri óhreint. Það var til þess að fólk smitaðist ekki af ormum. En Kristur brýtur þetta lögmál og þar með 1000 ára gamla erfðavenju. Ekkert sem fer inn í yður er óhreint, heldur það sem kemur út af yður; orðin sem við segjum, hugsunin að baki þeim. Hann einblínir ekki á það sem við gerum, heldur hitt: hvað við erum; hvað við hugsum. Það er hugarfarið sem máli skiptir…”

Ég einblíni á Krist, efi minn einblínir á Krist. Hann er mér leiðin til guðs. Og menn ættu ekki að gleyma því að kristindómur varð ekki til fyrr en guð hafði skírzt í kenningum, dæmisögum og fyrirheitum Krists. Leiðin til guðs liggur um hjarta hans, eins og Hallgrímur Pétursson orti um.

Árið eftir flutti ég prédikun í kirkju Óháða safnaðarins, föstudaginn langa 1968, Kristur og kærleikurinn.

Í upphafi minnist ég einnig á reiðan og hefnigjarnan guð Gamlatestamentisins og hversu erfitt sé að skilja hann, svo órafjarri sem hann er hugmyndum okkar um algóðan miskunnsaman guð, guð kærleikans. Þetta hefur augsýnilega verið mér ofarlega í huga á þessum árum því báðar þessar ræður hefjast á vangaveltum um þennan guð gyðinga og jafnvel vitnað til þessara orða sem aldrei hefðu getað hrokkið af munni Krists: Blessaður sé drottinn sem slær höfðum óvinanna við stein!

Þá er vikið að ástandinu í heiminum, stríðinu í Víetnam og hvernig samvizku okkar sé að blæða út; hvernig Golgata hefur fylgt okkur alla tíð, hvernig hún fylgir okkur enn; hvernig upprisa Krists er nærtækasta von okkar um sigur mannsins, ekki á blindum náttúruöflum, heldur sjálfum okkur.

Það er sem sagt von, þrátt fyrir þurrafúann í innviðum samtímans.

Og þá er komið að Kristi og kraftaverkunum, ræðu sem ég flutti á samkomu í Neskirkju 13. nóvember 1970 fyrir orð sr. Jóns Thorarensens. Sr. Frank M. Halldórssyni þótti hún slíkt guðlast að hann sagði við einhvern nærstaddan eftir samkomuna að nú væri nauðsynlegt að vígja kirkjuna aftur! Við vorum þrjú sem fluttum ræðu á þessari samkomu, frú Aðalbjörg Sigurðardóttir, Guðmundur Jörundsson útgerðarmaður og ég. Kirkjan var sneisafull, það var eins og á jólanótt. Og sr. Jón lék á als oddi. En aumingja sr. Frank taldi að nú hefði kirkjan verið saurguð. Spírítisarnir hefðu gert innrás og nú dygði ekkert annað en hörkuendurvígsla! En allt þetta hefur tíminn sléttað út. Og nú er Hanna varaformaður sóknarnefndar Neskirkju(!)

Í ræðunni sem ég flutti í Neskirkju þennan dag, Kristur og kraftaverkin, er komizt svo að orði að bylting Krists hafi miðað að því að breyta hugarfari fólks. “Hann hafði ekki áhuga á öðru en gera byltingu í hjarta mannsins. Þess vegna er hann eini byltingarmaðurinn sem hefur boðað kenningar um breytingar á högum mannsins sem enn eru jafn nútímalegar og á þeim tíma sem þær voru boðaðar…”

En var Kristur til, lifði hann einhvern tíma á jörðinni - eða var hann goðsögn?

“Auðvitað var Kristur til. Svo nútímalegur aþesti sem Bernard Shaw sagði eitthvað á þá leið að einkennilegt væri þegar fólk héldi því fram að Kristur hefði ekki verið til; hann vissi ekki af neinum öðrum á þeim tíma sem ætti sér fjóra ævisöguritara. Og einn helzti sagnfræðingur okkar tíma, Will Durant, segir að það sé miklu ótrúlegra kraftaverk en nokkurt þeirra sem frá er sagt í guðspjöllunum, að nokkrir alþýðumenn skuli hafa búið til svo sterkan og aðlaðandi persónuleika, svo háleita siðfræði og svo innblásnar hugmyndir um bræðralag manna… Kristur var, eins og við hin, barn síns tíma. Hann talaði ekki til atómaldar. Hann sagði ekki, Þið eigið að bæta kjör ykkar með því að virkja stórfljótin. Hann sagði, Þið eigið að rækta sálu ykkar, bæta hana til að eignast það sem mest er um vert, jafnvægi góðvildar og þroska, kærleika og sannleiks. Öll öðlumst við einhvern tíma reynslu fyrir því að þetta sé hverjum manni jafn nauðsynlegt til að standast ill eða neikvæð öfl og honum er hreysti nauðsynleg, heilbrigði og lífsþróttur í baráttunni við sýkla og sjúkdóma… Kristur sagði látnum að rísa upp, gaf blindum sýn, læknaði líkþráa. Hann fór að vísu sparlega með þennan hæfileika og svo virðist sem hann hafi ekki getað notað hann alls staðar, t.a.m. gerði hann fá kraftaverk í Nazaret: þar trúðu menn því ekki að sonur trésmiðsins gæti gert kraftaverk. “Og hann kom til ættborgar sinnar og kenndi þeim í samkunduhúsi þeirra, svo að þeir undruðust stórum og sögðu, Hvaðan kemur speki þessi og kraftaverkin? Er hann ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María?… og þeir hneyksluðust á honum. En Jesús sagði við þá, Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu og á heimili sínu.…

”Og enn: “Jafnvel maður á borð við Harald Níelsson hafði efasemdir meðan hann vann að biblíuþýðingum sínum… Þegar barnatrú sr. Haralds var að miklu leyti hrunin á efasemdarskeiðinu, stóð tvennt óhaggað: “Trúin á ódauðleikann og ást mín á Kristi eins og Nýjatestamentið lýsir honum. Nýguðfræðin gat, eins og að líkum lætur, ekki sannfært kjarkmenni eins og Harald Níelsson. Þó að hún hafi í fyrstu átt vaxtarsprota réttlætis og heiðarleika byggði hún á málamiðlun. Lét efnishyggjuna hrekja sig úr höfuðvíginu: afneitaði almættisverkunum. Hvernig var hægt að tefla í þá tvísýnu undrinu mikla, upprisunni, sjálfri undirstöðu kristinnar trúar og því sem hún hefur raunar fram yfir öll önnur trúarbrögð? Hvað mundi vera eftir af húsinu þegar undirstaðan væri hrunin? Nei, nýguðfræðin hentaði ekki trúarþörf Haralds Níelssonar. Skemmtilegt er að fylgjast með honum, sjá hvernig líf Krists og kraftaverk leiða hann inn á réttar brautir, forða honum eins og mörgum öðrum frá því að brjóta skip sitt á vantrúarskerinu. “Kristur reis auðvitað upp í andlegum líkama”, segir hann, “en fyrir því getur frásögnin um að gröfin hafi verið tóm verið sönn. Sálarrannsóknarmönnum hlýtur að finnast tilgáta sumra nýguðfræðinga… fáránleg, að andaður líkami Krists hafi verið fluttur úr gröfinni og falinn svo vel að það hafi aldrei komizt upp… Nýguðfræðingar misskilja upprisu hans margir af því að þeim er ókunnugt um fyrirbrigðin á vorum dögum… Vér rísum allir upp með sama hætti og Jesú þó að oss takist ekki að birtast hér á jörð með dásamlegum hætti eins og hann.”

Sr. Haraldur spurði ekki fyrst og síðast um kirkjuna, heldur Krist. Kristindómurinn stóð hjarta hans nær en kirkjan, ef þetta tvennt gat ekki farið sama.

Margir hafa að vísu viðurkennt að Kristur hafi verið til, en reynt að breyta honum í viðhafnarútgáfu af Sókratesi eða Plató. Þetta fólk segist ekki trúa á hann, né kenningar hans. Samt viðurkennir það siðfræði hans því að gott er að hafa vaðið fyrir neðan sig. Og þó að guð sé kannski úreltur er siðspekin enn í sæmilegri tízku. Kristur var siðfræðingur, segir það, hann var allt – nema sonur guðs. Þvert á þetta segir John Stuart Mill í Frelsinu, að Kristur hafi ekki sett fram neitt siðakerfi nema að litlu leyti. Kjarni kenninga hans var annar. Hann gat fyrirgefið allt – nema trúleysi. Hann hastar á trúleysingjana. Hann lifir og starfar í þeim tilgangi einum að bera guði vitni. Samt var hann líflátinn fyrir guðlast(!)

En hann notaði kraftaverkin, ef því var að skipta. Tómasar nútímans fara á mis við þau, því miður.” Þegar vantrúin var að ná tökum á lærisveinunum, læknaði hann þá með kraftaverkum. Kristur vissi að þau voru sterkasta aflið gegn vantrúnni. En hann vildi ekki auglýsa þau um of og “harmaði að jafnvel lærisveinar hans viðurkenndu hann einkum vegna kraftaverkanna”, segir Will Durant. Hvers vegna ekki að bera kraftaverkunum vitni hvort sem þau gerast í margra augsýn eða fárra? Kraftaverkin eru mörg. Það er t.a.m. kraftaverk að elska óvini sína, ég tala ekki um að biðja fyrir þeim. Og bænin er kraftaverk, góð hugsun.

Einu bréfa sinna lýkur sr. Haraldur Níelsson með þessum orðum: “Fyrirgefðu nú þetta langa bréf. Ég ætlaði að rita fáeinar línur, en það tognaði úr því. Svona er að vera nývaknaður eftir fastan svefn, þar sem glugginn hefur staðið opinn alla nóttina. En konan mín kvartar um að litli Björn okkar hafi orðið kvefaður fyrir bragðið. En rjóðari í kinnum er hann en vanalegast. Hættir oss ekki um of að forðast hreina, nýja loftið, af því að vér höldum, að smælingjarnir verði kvefaðir ef það blási á þá.”

Kristur breytti reiðum guði í föður; boðskapur hans var mesta fyrirheit sem mannkyninu hefur verið gefið:  “Því sjá, guðsríki er hið innra í yður.”

Kaj Munk segir að kristið fólk geri ráð fyrir því sem vitið fær engan botn í, eins og hann kemst að orði. Að vera kristinn sé að hafa lært af Jesú að trúa á guð; lært þetta undarlega að trúa á þetta undarlega sem heitir guð. Í samanburði við hann sé ekkert undarlegt.

 

Kvöldið

Við þekkjum litlar manneskjur sem hafa lifað sig inní sýndarveruleika með þeim árangri að þær hafa breytzt í einhvers konar sýndarverur. Þær glata allri dómgreind, lifa sig inní ofbeldi og glæpi, fremja svo voðaverk í lífinu sjálfu án þess gera sér grein fyrir því að veruleikinn í sjónvarpinu er annar en veruleikinn í kringum þau. Þannig hafa mörg voðaverk verið framin eftir fyrirmyndum sjónvarpsins. Litla manneskjan hverfur inní veruleika sem er eftirherma og sjálf verður hún ekki til fyrir utan þennan veruleika. Hún glatar öllum tengslum við lífið sjálft og fremur ofbeldi sitt sem eftirherma sjónvarpsveruleikans.

 

Það slær mann óhugnaði að fylgjast með lítilli manneskju breytast í byssu; eða hníf. Það minnir á sögu Borges um hnífana sem höfðu náttúru til að berjast hver við annan og notuðu til þess þá menn sem urðu á vegi þeirra.

 

Súsanna Svavarsdóttir kallaði fráskilda karlmenn óskilamuni í samtali við okkur Styrmi um daginn. Sjálf hefur hún skilað þremur!

 

Viðbót

Kjartan Ólafsson, fyrrum ritstjóri Þjóðviljans, skrifar grein í Morgunblaðið um rússagull. Hann afneitar Kristni E. Andréssyni og að því er virðist einnig félögum hans og mér skilst hann hafi sagt í samtali við Styrmi að hann telji að Einar Olgeirsson hafi átt einhvern þátt í að koma þessu gulli út hingað til Íslands. En það átti sem sagt að hafa farið í Mál og menningu. Ég held aftur á móti að þeir kommarnir hafi komið upp sérstöku þvottahúsi sem hét Happdrætti Þjóðviljans og þannig hafi verið hægt að nýta gullið. Kjartan segir – og það er athygisverðasta setningin í grein hans, að mér finnst: “Hafi einhverjar rúblur komið inn um bakdyrnar þá hefur þeim verið laumað þar inn ófrjálsri hendi af íslenskum trúnaðarmönnum valdhafanna í Kreml.” Hann gefur sem sagt í skyn að einhverjir félagar hans hafi staðið að þessu peningaþvætti, en ég held enginn vafi sé á því að rússagullið hafi verið notað hér heima í pólitískum tilgangi. Allt á þetta væntanlega eftir að koma í ljós og er óskandi að svo verði eins og Kjartan bendir á í lok greinar sinnar.

 

Áfangastaður

1.

Trúum því við séum eilíf. En er nokkur eilífur nema dýrin og plönturnar sem þekkja ekki dauðann? Vita ekki þau eiga að deyja?

Sá sem veit ekki að hann á að deyja getur ekki dáið. En við sem vitum það deyjum jafnoft og hugurinn hvarflar að dauðanum. En þegar við hættum að hugsa um hann, verðum við eilíf.

Og deyjum.

Hef oft hugsað um dauðann, en er engu nær. Gerir svo sem ekkert til því ég lifi í bókum. Öll lifum við í bókum, Njálu, Nýjatestamentinu, Kóraninum. En óþægilegustu umbúðir hugans er Gamlatestamentið. Þar hef ég hitt fyrir guð sem hugsar eins og harðjaxl. Segir öll verk sín leiði til góðs, jafnvel illvirkin.

Óþægilegt umhverfi flöktandi hugsana sem gramsa í akarninu eins og gyltur. Hafa komizt í námunda við himin; eða strokið lauf asks eins og lófamúk gola.

2.

Hvert er þá ferðinni heitið? Úr einni bók í aðra. Tíma löngu liðinn og er hvergi til nema á gulnuðum blöðum? Veit það þó ekki. Veit þó ég eitt, við eigum í vændum mikil fyrirheit.

Haraldi harðráða Sigurðarsyni var lofað í ritum Snorra sjö fóta rúmi af enskri jörð. Hví skyldi öðrum vera heitið meira en slíkum garpi. Antoníus átti einnig eitthvað svipað í vændum, segir Plútark.

3.

Merkileg vitneskja að vísu. Einu fyrirheitin nokkurn veginn öryggi sjö fóta rúms. Þá hættum við að gramsa í akarninu. Hugsanir okkar fá vængi. Og flögra í laufi.

4.

Enginn vilji í draum og ég kemst ekkert fyrr en þú vaknar. Geng þá inn í minn eigin vilja, utan þeirrar vitundar sem þú hugðist stjórna.

En gast ekki.

5.

Að sjö fóta rúmi stefnir duftið, að krónunni myndbreyttir vængir hugans.

 

16. nóvember, þriðjudagur

Kom á bls. 6 í dag. Jónasar-verðlaunin, frásögn Morgunblaðsins:

Matthías Johannessen hlýtur verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu

“Orðið Íslendingur þýðir allt fyrir okkur”

DAGUR íslenskrar tungu var í gær haldinn hátíðlegur í fjórða sinn, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember.

DAGUR íslenskrar tungu var í gær haldinn hátíðlegur í fjórða sinn, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember. Framkvæmdastjórn dags íslenskrar tungu veitti Matthíasi Johannessen, skáldi og ritstjóra, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á hátíðarsamkomu í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn. Þá fengu Mjólkursamsalan og Félag aldraðra í Borgarfjarðardölum viðurkenningar fyrir framlag þeirra til viðgangs íslenskrar tungu.

Þorgeir Ólafsson, formaður framkvæmdastjórnar dags íslenskrar tungu, kynnti ákvarðanir um verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og rökstuðning. Í framkvæmdastjórninni sitja auk hans Kristján Árnason, prófessor, Vilborg Dagbjartsdóttir, skáld og kennari, Ólafur Oddsson, menntaskólakennari, og Sigmundur Ernir Rúnarsson, skáld og fréttamaður.

Í reglum um verðlaun og viðurkenningar sem veittar eru á degi íslenskrar tungu segir meðal annars að verðlaun Jónasar Hallgrímssonar skuli veita einstaklingum sem hafa “með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu og riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar”.

Í ræðu sinni í gær sagði Þorgeir Ólafsson meðal annars um rökstuðning nefndarinnar fyrir því að veita Matthíasi Johannessen verðlaun Jónasar Hallgrímssonar:

“Matthías hefur iðkað íslenskt mál á öllum sviðum og hann hefur auðgað það, ekki síst með ljóðum sínum. Þar birtist okkur í bestu mynd fegurð málsins, blæbrigði, sveigjanleiki og þanþol. Matthíasi lætur vel sá galdur ljóðsins að birta lesandanum nýja sýn, opna luktar dyr og auka tilfinninga- og þekkingarforða lesandans.”

Merki frjálsræðis

Þá sagði Þorgeir að tungumálið væri stundum sagt vera efniviður skáldsins og því líkt við leir en honum fyndist nær að líkja því við stein og tré sem meitla þurfi og skera til að laða fram mýkt og hörku. “Og ef við lítum á skáldskap í þessu ljósi er verðlaunahafinn smiður góður.”

Hann vitnaði til orða Kristjáns Karlssonar þess efnis að Matthías hefði haldið uppi merki frjálsræðis í stíl skáldskapar og sagði Þorgeir þetta frjálsræði ekki síður koma fram í samtalsbókum Matthíasar. “Framkvæmdastjórnin telur að með þeim hafi Matthías átt stóran hlut í að kynna nýtt bókmenntaform, sem að sínu leyti tengdist aðalstarfi hans sem blaðamanns og færði blaðamennskuna á hærra plan, ef svo má til orða taka. Í þriðja lagi er með verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar verið að heiðra Matthías Johannessen fyrir störf hans sem ritstjóra stærsta og áhrifamesta dagblaðs á Íslandi og væntanlega þess miðils sem mest áhrif hefur á daglegt mál okkar. Þar hefur Matthías verið vörður íslensks máls, sem blundar ekki og sefur ekki, og skriðnar ekki fótur í þeim ásetningi að færa lesendum daglega lesningu sína á góðu máli.”

Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, afhenti Matthíasi verðlaunin sem eru 500 þúsund krónur og heildarútgáfu Máls og menningar á ritverkum Jónasar en Íslandsbanki kostar verðlaunin.

Matthías Johannessen flutti síðan ræðu og sagði undir lok hennar:

“Á einum funda Fjölnismanna ræddu þeir um það sín á milli, að ekki kæmi nógu berlega í ljós í skilgreiningu þeirra, hvað væri að vera Íslendingur, eða hvað einkenndi Íslending. Í umræðunum miðjum virðist Jónasi nóg boðið og hann segir: “Við félagsmenn þekkjum sjálfir þetta orð, en öðrum kemur það ekki við hvað við viljum það merki; þess vegna þarf ekki að skýra frá því í lögunum. Það eitt nægir að þeir vita hvað þeir vilja vera.” Þegar sú niðurstaða liggur fyrir, segir Jónas: Orðið Íslendingur þýðir allt fyrir okkur.

Þetta á ekkert skylt við þjóðernisrembing, en fjallar áreynslulaust um það ómengaða umhverfi sem skiptir öllu máli í umróti samtímaalþjóðahyggju sem við þurfum að glíma við, nýta og nærast á, án þess glata sjálfum okkur. Undir því er gæfa okkar komin að arfleifðin fari ekki forgörðum, að tungan glatist ekki; að við getum áfram átt mikilvæg samtöl við gengnar kynslóðir. Mundi ekki þetta allt sem Jónas nefndi eiga einnig við þessar þjóðar þúsund ár sem þyt í laufi á sumarkvöldi hljóðu, eins og Jakob Smári kemst að orði í sinni fallegu þingvallasonnettu, þegar hugur hans nemur staðar við þann helga reit sem Fjölnismenn boðuðu öðru fremur. Þar blast við Jónasi sú hugarveröld himna drottins sem stóð hjarta hans næst.”

Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, sagði í ávarpi sínu að skólinn og tungan væru inntak dags íslenskrar tungu og væri hvatt til umræðu um efnið á öllum skólastigum. Hann sagði að Jónasar Hallgrímssonar væri minnst af því að rödd hans og boðskapur höfðaði til okkar enn í dag. Jónas væri eina íslenska skáldið sem ætti alþjóðlega vefsíðu sem vistuð væri í háskóla í Madison í Wiscounsin í Bandaríkjunum og þar væri fleirum en Íslendingum kleift að kynnast Jónasi.

 

Ræða mín í dag:

Þótt ég hafi ekki sótzt eftir verðlaunum og lifað í þeirri blekkingu að skáld sæktu kraft og orðstír í eigin verk en ekki auglýsingahrinur markaðsþjóðfélagsins er mér engin launung á því að mér finnst mikið til um þá viðurkenningu sem mér hefur nú hlotnazt og bundin er  nafni Jónasar, enda þykist ég vita að þó nokkra djörfung þarf til að veita gömlu atómskáldi slíkan reisupassa, svo umdeilt sem það getur verið og áreiðanlega engin rós í nokkurs manns hnappagati. En af þeirri ástæðu ekki sízt þykir mér vænt um þessa viðurkenningu, minnugur þess sem einn helzti greinahöfundur Morgunblaðsins sagði á  vettvangi þess 11. jan.1997, Öllum má ljóst vera að fjöregg íslenzkrar þjóðmenningar er íslenzk tunga. Og hann hvetur til þess að dagur  tungunnar sé áminning um það ”að sífellt verði vakað yfir viðgangi móðurmálsins og stöðu þess gagnvart umheimi og gagnvart sinni eigin sögu. Sú hugmynd var vel til fundin og vissulega tímabær.”

Helgi Hálfdanarson, höfundur þessara orða, hefur haft sama fyrirvara á verðlaunum og ég og augsýnilega staðizt freistingarnar betur, enda er ég öðrum þræði agaður undir háttvísa þversagnarkurteisi Tómasar sem sagði með tilvísun í Óskar Wilde að freistingar væru til þessa að standast þær ekki. Ég hef þá ekki síður verið hallur undir það álit Þórbergs að vel gæti farið á því að endurvinna erlend tökuorð og veita þeim þegnrétt  í málflóru okkar ef vel tekst til eins og þegar meistarinn breytti correct í kórrétt eins og sjá má í Kompaníinu, en Halldór Laxness tók það upp síðar. Ég tel þetta, hvað sem öðru líður, kórrétta og öfgalausa stefnu. Ég er sem sagt ekki svo forhertur að hafna brúklegum flökkuorðum í samtímaumhverfi okkar, en tel enga ástæðu til að munngleypa  óhæfa flökkubastarða eins og video og internet, þegar netið eitt dugar ágætlega og myndband er góður kostur.

Halldór  Laxness sagði að Jónas væri Ísland. Ungur menntamaður spurði mig nýlega: Hvers vegna Jónas? Hverju átti ég að svara? Af því við þurfum á honum að halda? Hann er ekki síður en Jón Sigurðsson tákngervingur sögu okkar og arfleifðar, rætur hans eru djúpar í þeirri einu jörð sem getur nært þennan veruleika sem er einhvers virði, ef við ætlum að halda einkennum okkar sem þjóð en sigla ekki  hugsunarlaus inní þann sýndarveruleika sem nú reynir að seyða okkur til sín eins og sírenurnar í Odysseifskviðu.

Við þurfum sem sagt meira á Jónasi að halda, en hann á okkur. Hann naut aldrei sérstakra vinsælda með þjóðinni og átti í harðri samkeppni, ekki sízt við rímnaskáldin, og mér er vel kunnugt um það, að enn á hann erfitt uppdráttar, hvað sem hver segir. Fyrir átta árum var gerð smákönnun á afstöðu framhaldsskólanema til Jónasar og verka hans og einungis fjórðungur mundi eftir kvæði eftir hann. Margir rugluðu honum saman við Hallgrím Pétursson og héldu að hann hefði ort Passíusálmana, aðrir héldu að hann hefði verið byskup, sumir töldu að hann hefði dáið í bílslysi. Enn aðrir úr blýeitrun!

Það er semsagt þetta umhverfi sem að okkur snýr og við eigum við að etja, en án þess við gerum það vinnst aldrei sá sigur sem arfleifð okkar og framtíð eiga skilið.Með návistinni við Jónas hefur mér orðið þetta ljósara en ella.

Og þá er komið svarið við spurningunni:

Hvers vegna Jónas?

Á einum funda fjölnismanna ræddu þeir um það sín á milli, að ekki kæmi nógu berlega í ljós í skilgreiningu þeirra, hvað væri að vera íslendingur, eða hvað einkenndi íslending. Í umræðunum miðjum virðist Jónasi nóg boðið og hann segir ,Við félagsmenn þekkjum sjálfir þetta orð, en öðrum kemur það ekki við hvað við viljum það merki; þess vegna þarf ekki að skýra frá því í lögunum. Það eitt nægir að þeir vita hvað þeir vilja vera. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir, segir Jónas: Orðið íslendingur þýðir ALLT FYRIR OKKUR.

Þetta á ekkert skylt við þjóðernisrembing, en fjallar áreynslulaust um það ómengaða umhverfi sem skiptir öllu máli í umróti samtímaalþjóðahyggju sem við þurfum að glíma við, nýta og nærast á, án þess glata sjálfum okkur. Undir því er gæfa okkar komin að arfleifðin fari ekki forgörðum, að tungan glatist ekki;að við getum áfram átt mikilvæg samtöl við gengnar kynslóðir. Mundi ekki þetta allt sem Jónas nefndi eiga einnig við þessi þjóðar þúsund ár sem þyt í laufi  á sumarkvöldi hljóðu, eins og Jakob Smári kemst að orði í sinni fallegu þingvallasonnettu, þegar hugur hans nemur staðar við þann helga reit sem  fjölnismenn boðuðu öðru fremur. Þar blasti við Jónasi sú hugarveröld himna drottins sem stóð hjarta hans næst.

 

21. nóvember, sunnudagur

Styrmir skrifaði ágætt Reykjavíkurbréf 21. nóvember, svohljóðandi:

Fyrir nokkrum dögum kom út annað bindi ævisögu Steingríms Hermannssonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, sem Dagur B. Eggertsson skrifar. Í þessu bindi ævisögu Steingríms er m.a. fjallað um stjórnarmyndun dr. Gunnars heitins Thoroddsens í byrjun febrúar árið 1980, sem olli miklum og djúpstæðum deilum á þeim tíma. Þótt fátt nýtt komi fram í ævisögu Steingríms um aðdraganda þeirrar stjórnarmyndunar er þar þó að finna forvitnileg atriði, sem ástæða er til að skoða nánar í ljósi þess sem sagt var á þeim tíma.

Í ævisögu sinni lýsir Steingrímur Hermannsson atburðum þriðjudagsins 29. janúar 1980 m.a. á þennan veg:"Þennan sama þriðjudag bar fundum okkar Gunnars Thoroddsens saman á bílastæði Alþingis. Fundur var í sameinuðu þingi. Á dagskrá voru fyrirspurnir, sem ég hafði lítinn áhuga á og að þeim loknum umræður um landbúnaðarmál, sem ég sá ekki ástæðu til að skipta mér af. Ég fór því snemma af þingi. Þegar ég var á leiðinni að bifreið minni kom Gunnar Thoroddsen aðvífandi af skrifstofu sinni í Þórshamri. Við skiptumst á kveðjum og tókum tal saman.

Gunnar sagðist telja, að ekki væri fullreynt með stjórnarmyndun og sagðist ætla að gott væri fyrir okkur að ræðast við. Ég játti því. Hann spurði hvort ég hefði tíma til að ganga með sér upp á skrifstofu sína. Ég kvaðst fús til þess. Gunnar kom beint að efninu, þegar dyrnar höfðu lokast að baki okkar og sagðist telja, að vel gæti gengið saman með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi og hluta Sjálfstæðisflokks. Ég kvaðst hafa verið honum sammála en greindi frá þeim svörum, sem Geir Hallgrímsson hafði gefið mér tveimur dögum áður. Gunnar hafði fá orð um þá afstöðu en sagðist sjálfur geta aflað stuðnings nægilega margra sjálfstæðisþingmanna við slíka stjórn. Ég varð undrandi á þessum orðum varaformanns Sjálfstæðisflokksins og spurði hvað hann ætti við. Gunnar sagði að enda þótt þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sem heild styddi ekki slíka stjórn gæti hann tryggt stuðning sex til sjö þingmanna. Algert skilyrði væri hins vegar að hann yrði forsætisráðherra. Ég sagði ekki mikið fyrst um sinn en var hugsi því eðlilegra hefði líklega verið talið að ég færi með forsætið, hvort sem litið væri til kosningaúrslitanna eða þingstyrks Framsóknarflokksins. Mér skildist hins vegar fljótt á Gunnari, að hann teldi forsætisráðherrastólinn vera forsendu þess, að hann gæti tryggt sér þann stuðning sem til þyrfti. Hann var aftur á móti ófáanlegur til að nefna nöfn væntanlegra stuðningsmanna sinna. Sagði Gunnar að ég yrði einfaldlega að treysta honum fyrir þessum þætti málsins."

Þetta er dálítið ólíkt frásögn þeirri, sem fram kemur hjá Gunnari sjálfum í viðtalsbók, sem Ólafur Ragnarsson, aðaleigandi Vöku-Helgafells, skrifaði við Gunnar og út kom 1981. Þar segir:"Hvenær var fyrst talað um að þú gengir til stjórnarmyndunar með framsóknarmönnum og alþýðubandalagsmönnum Gunnar?

Það var þriðjudaginn 29. janúar 1980. Þann dag fór ég að vanda niður í Alþingishús laust fyrir klukkan tvö til þingfundar. Rétt eftir að ég kom inn úr dyrunum kom Tómas Árnason til mín og bað mig ræða við sig einslega. Hann skýrði mér frá því, að framsóknarmenn hefðu verið að ræða hverjir möguleikar kynnu enn að vera til myndunar meirihlutastjórnar eftir að formenn flokkanna hefðu reynt í tvo mánuði án árangurs. Tómas kvað framsóknarmenn telja þörf á að kanna til hlítar, hvort hugsanlegt væri að Framsóknarflokkurinn, Alþýðubandalagið og Sjálfstæðisflokkurinn gætu náð saman til stjórnarmyndunar. Sá möguleiki hefði í rauninni ekki verið fullkannaður ennþá... Litlu síðar ræddi annar þingmaður Framsóknarflokksins, Guðmundur G. Þórarinsson, við mig í þinginu um sama mál og óskaði eftir að ég kannaði þennan möguleika gaumgæfilega... Höfðu fleiri orð á þessum nýja möguleika við þig en þeir Tómas og Guðmundur?

Að kvöldi þriðjudags hringdi Steingrímur Hermannsson, formaður Framsóknarflokksins, til mín í samráði við þingmennina tvo, sem rætt höfðu við mig í þinginu fyrr um daginn. Okkur Steingrími kom saman um að við skyldum hittast morguninn eftir."

Þegar frásagnir þeirra Steingríms og dr. Gunnars heitins Thoroddsens eru bornar saman um atburði þessa umrædda þriðjudags kemur í ljós að grundvallarmunur er á þeim. Gunnar getur í engu um það að hann hafi sjálfur haft frumkvæði að því að ræða við Steingrím, boðið fram stuðning nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins og sagt að forsenda þess væri sú, að hann sjálfur yrði forsætisráðherra.

Um annað atriði ber heldur ekki saman viðtalsbókinni við Gunnar og ævisögu Steingríms en það varðar þátt Tómasar Árnasonar, fyrrverandi fjármálaráðherra. Eins og fram kemur hér að ofan lýsir Gunnar því að Tómas hafi þennan þriðjudag komið að máli við sig um samstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðubandalags.

Í ævisögu Steingríms Hermannssonar segir:"Í viðtali við Tómas, sem tekið var vegna þessarar bókar komst hann þannig að orði:"Ég talaði nokkrum sinnum við Gunnar, þegar þetta var að gerast. Þá var talað um að Alþýðuflokkurinn yrði með ásamt Gunnarsmönnum og Framsóknarflokknum. Alþýðubandalagið kom inn í myndina síðar og án þess að ég vissi."

Hvernig kemur það heim og saman, að Tómas Árnason hafi fyrstur manna rætt þennan möguleika við Gunnar Thoroddsen, þriðjudaginn 29. janúar árið 1980, eins og Gunnar segir sjálfur í viðtalsbókinni við Ólaf Ragnarsson en Tómas segir nú, að Alþýðubandalagið hafi komið inn í myndina án þess að hann hafi um það vitað?

Það styður enn þá skoðun, að hér hafi ekki allt verið sagt, að Steingrímur Hermannsson lýsir afstöðu Tómasar í umræðum innan Framsóknarflokksins á þennan veg: "Tómas Árnason var meðal efasemdarmannanna. Þegar hann hafði skilið við Gunnar síðast höfðu þeir enn verið að ræða samstarf við Alþýðuflokkinn en ekki Alþýðubandalagið. Tómas galt iðulega varhug við stjórnarþátttöku þess. Hann lagði ríka áherzlu á, að formaður Sjálfstæðisflokksins yrði látinn vita af gangi mála."

Hvernig kemur þessi lýsing á viðhorfi Tómasar Árnasonar heim og saman við frásögn Gunnars sjálfs? Getur það verið að Tómas hafi rætt við Gunnar þriðjudaginn 29. janúar 1980 um nauðsyn þess að kanna betur möguleika á samstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðubandalags, þegar í ljós kemur skv. frásögn Steingríms, að hann var andvígur þátttöku Alþýðubandalagsins í ríkisstjórn og "þegar hann hafði skilið við Gunnar síðast höfðu þeir enn verið að ræða samstarf við Alþýðuflokkinn ekki Alþýðubandalagið" skv. því, sem Steingrímur segir?

En það eru fleiri spurningar sem vakna við lestur ævisögu Steingríms Hermannssonar um hlut höfuðpersóna í þessum leik, þegar frásögn Steingríms er borin saman við ummæli þeirra sjálfra þá daga, sem stjórnarmyndun dr. Gunnars Thoroddsens stóð yfir. Steimgrímur segir: "Á fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins sem haldinn var sunnudaginn 3. febrúar leitaði ég eftir stuðningi við stjórnarmyndun undir forsæti Gunnars. Ég kvaðst ekki geta kynnt málefnasamninginn þar sem hann lægi ekki fyrir og í raun væru aðeins þeir Gunnar og Eggert Haukdal fastir í hendi í stuðningsmannaliði hans. Um aðra væri lítið hægt að segja á þessu stigi... Stjórnarmyndunarviðræðurnar stóðu nánast yfir á sama tíma og miðstjórnarfundurinn var haldinn. Inn á hann barst meðal annars yfirlýsing Gunnars þess efnis, að hann mundi útvega það fylgi sem til þyrfti á þingi og kynntar voru málefnanefndir, sem settar höfðu verið á fót í fimm málaflokkum: iðnaðar- og orkumálum, landbúnaðarmálum, samgöngumálum, ríkisfjármálum og kjaramálum. Fært var til bókar hverjir áttu sæti í þessum nefndum. Þar vorum við fjórmenningarnir, sem valizt höfðu til viðræðnanna fyrir hönd Framsóknarflokksins og Svavar Gestsson, Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson fyrir Alþýðubandalagið. Fyrir Gunnar sat Pálmi Jónsson í nefnd um landbúnaðarmál, Friðjón Þórðarson í samgöngunefndinni..."

Mikilvægt er að menn átti sig á því að skv. frásögn Steingríms er fært til bókar á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sunnudaginn 3. febrúar, að tveir þingmanna Sjálfstæðisflokksins, Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson ættu sæti í tveimur málefnanefndum fyrir hönd Gunnars í stjórnarmyndunarviðræðunum. En hvað sögðu þeir sjálfir opinberlega á þessum tíma?

Í samtali við Morgunblaðið 5. febrúar árið 1980 sagði Pálmi Jónsson m.a.: "Ég lýsti því yfir á þingflokksfundinum, að ég gæti ekki tekið afstöðu til þessarar stjórnarmyndunar Gunnars Thoroddsens fyrr en ég hefði séð málefnagrundvöll stjórnarinnar. Ég býst nú við að ég fari og kynni mér þann málefnasamning, sem er í smíðum og er það gert með fullri vitund þingflokksins og auðvitað án allra skuldbindinga."

Hvernig er hægt að skilja þessi orð Pálma Jónssonar í ljósi frásagnar Steingríms Hermannssonar þess efnis, að tveimur dögum áður hefði verið fært til bókar á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins, að Pálmi ætti sæti í málefnanefnd fyrir hönd Gunnars og væri þar með einn af höfundum málefnasamningsins, sem hann tveimur dögum síðar segist ekki hafa séð eða kynnt sér?

Í viðtali við Morgunblaðið 5. febrúar 1980 segir Friðjón Þórðarson: "Ég hef hvorki séð neinn málefnagrundvöll né mér verið kynnt neitt úr þessum stjórnarmyndunarviðræðum." Hvernig getur Friðjón sagt þetta ef það er rétt sem Steingrímur segir að hafi verið fært til bókar hjá Framsóknarmönnum tveimur dögum áður, að Friðjón ætti sæti í málefnanefnd á vegum Gunnars Thoroddsens og þar með verið einn af höndum málefnasamnings ríkisstjórnar hans?

Ef frásögn Steingríms Hermannssonar er rétt, er alveg ljóst, að þátttaka þessara þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma í ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi hefur verið byggð á ósannindum, sem sett eru fram á opinberum vettvangi. Ef frásögn Steingríms Hermannssonar er röng er ævisaga hans ekki merkileg heimild, alla vega ekki um þessa tilteknu stjórnarmyndun. Það fer hins vegar ekki á milli mála, að það er nauðsynlegt eftir útkomu ævisögu Steingríms Hermannssonar, að þeir Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson, sem að lokum náðu sáttum við sinn gamla flokk, geri grein fyrir því sem gerðist þessa daga frá þeirra bæjardyrum séð. Þeir geta ekki látið frásögn Steingríms standa án þess annaðhvort að staðfesta hana eða hrekja.

Þótt ekkert annað kæmi til er ljóst, að þegar ritstjóri Morgunblaðsins í grein hér í blaðinu kallaði veturinn 1980 "Býsnavetur í íslenzkri pólitík" var það réttnefni.

"Með hugann við aðra stjórnarmyndunarmöguleika"

Á blaðamannafundi, sem Geir heitinn Hallgrímsson, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, efndi til mánudaginn 14. janúar 1980 til þess að gera grein fyrir niðurstöðum stjórnarmyndunarviðræðna, sem hann hafði þá staðið fyrir í rúman hálfan mánuð og höfðu ekki sízt beinzt að könnun á myndun þjóðstjórnar, sagði hann m.a.: "Ég held, að flokkarnir hafi gjarnan verið með hugann við aðra stjórnarmyndunarmöguleika áður en árangurs væri að vænta af þeirra hálfu varðandi þjóðstjórn." Þetta hafa verið orð að sönnu miðað við það, sem fram kemur í ævisögu Steingríms.

Daginn áður hafði birzt frétt á baksíðu Morgunblaðsins þar sem m.a. sagði: "Síðustu dagana, meðan Geir Hallgrímsson hefur kannað möguleika á þjóðstjórn, hafa aðrar óformlegar stjórnarmyndunarviðræður átt sér stað um minnihlutastjórn Alþýðuflokks og Framsóknarflokks. Forystumenn þar um eru Tómas Árnason og Sighvatur Björgvinsson."

Þriðjudaginn 15. janúar birtist svofelld frétt í Morgunblaðinu:"Tómas Árnason, fyrrverandi fjármálaráðherra, hafði samband við Morgunblaðið í gær og kvaðst vilja taka fram, að sú frétt, sem birtist í Morgunblaðinu sl. sunnudag um að meðan Geir Hallgrímsson hefði kannað möguleika á þjóðstjórn hafi aðrar óformlegar stjórnarmyndunarviðræður átt sér stað um myndun minnihlutastjórnar Alþýðuflokks og Framsóknarflokks og forystumenn þar um hafi verið Tómas Árnason og Sighvatur, væri röng."

Með þessari frétt birtist svohljóðandi athugasemd ritstjóra Morgunblaðsins:"Vegna athugasemdar Tómasar Árnasonar vill Morgunblaðið taka fram að það stendur við frétt sína og hefur fyrir henni traustar heimildir."

Um þetta segir Steingrímur Hermannsson í ævisögu sinni:"Tómas bar fréttina til baka, bæði í athugasemd í blaðinu og á fundi í þingflokknum. Í Tímanum var meira að segja eftir honum haft að hann "gæti ekki tekið vægar til orða en að þetta væri hrein "Moggalygi" af versta tagi." Sighvatur bar fréttina jafnframt til baka í fréttum Ríkisútvarpsins."

Síðan segir Steingrímur Hermannsson orðrétt: "Viðræður þeirra Tómasar og Sighvats áttu sér stað. Hvorgum þeirra var hins vegar fært að halda þeim áfram eða gangast við þeim eftir að út spurðist. Innan Framsóknarflokksins mátti vart á milli sjá, hvorum var verr við þessar hugmyndir, Ólafi Jóhannessyni eða landbúnaðarforystunni, sem hafði jafnmikla skömm á Alþýðuflokknum og Ólafur Jóhannesson... Það sem enn færri vissu var, að Gunnar Thoroddsen, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hitti Tómas nokkrum sinnum að máli meðan á þessum viðræðum stóð. Í þeim viðtölum ræddu þeir möguleikana á því, að Gunnar og nokkur hópur þingmanna úr Sjálfstæðisflokknum veitti minnihlutastjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks stuðning eða gengi jafnvel til liðs við hana. Tómas segir viðræðurnar hafa snúizt um stjórnarþátttöku Gunnarsmanna og að til viðræðnanna hafi verið stofnað til að kanna möguleika á meirihlutastjórn með því sniði. Segist hann jafnframt hafa fengið sterkt á tilfinninguna, að því hafi ekki farið fjarri, að Gunnar hafi hugsað sér forystu í slíkri stjórn, þótt slíkt hafi aldrei verið nefnt á nafn þeirra á milli. Gunnar Thoroddsen neitaði hvoru tveggju ítrekað á sínum tíma, þegar deilurnar í Sjálfstæðisflokknum stóðu sem hæst... Engar fréttir spurðust út um þann hluta viðræðnanna sem að Gunnari sneri."

Morgunblaðið upplýsti um viðræður þeirra Tómasar og Sighvats sunnudaginn 13. janúar. Þá hafa þær bersýnilega verið búnar að standa í einhverja daga. Nú er staðfest að á sama tíma áttu þeir í viðræðum, Tómas Árnason og Gunnar Thoroddsen, um myndun ríkisstjórnar með Framsóknarflokki og Alþýðuflokki, sem einhver hópur þingmanna úr Sjálfstæðisflokknum undir forystu Gunnars tæki þátt í. Geir Hallgrímsson fékk umboð til stjórnarmyndunar frá forseta Íslands 28. desember 1979. Þær viðræður voru því varla komnar af stað, þegar áhrifamönnum innan bæði Framsóknarflokks og Alþýðuflokks var orðið ljóst, að möguleiki væri á að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn með tilstyrk varaformanns hans.

Þegar þetta liggur nú fyrir staðfest af hálfu þáverandi formanns Framsóknarflokksins verður ljóst að helzta röksemd Gunnars Thoroddsens mánuði seinna, að hann yrði að bjarga heiðri Alþingis með því að mynda ríkisstjórn, fellur um sjálfa sig. Með viðtölum sínum við Tómas Árnason í byrjun janúar, mánuði áður en hann myndaði ríkisstjórn sína, gerði hann Sjálfstæðisflokknum gersamlega ókleift að mynda nokkra ríkisstjórn. Þeim mun merkilegra er að sá stjórnmálamaður, Steingrímur Hermannsson, sem upplýsir um þennan ótrúlega hráskinnaleik, skuli í sömu andrá halda uppi þeirri gagnrýni á tilraunir Geirs Hallgrímssonar til stjórnarmyndunar, sem fram kemur í bók hans.

Frásögn Steingríms sýnir, að forystumenn allra flokka tóku þátt í að sitja á svikráðum gagnvart forystu Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma og það breytir engu í þeim efnum, þótt Steingrímur Hermannsson að áeggjan Tómasar Árnasonar hafi sagt Geir Hallgrímssyni frá því.

Matthías Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, lýsti stöðu málsins í hnotskurn í samtali við Morgunblaðið 7. febrúar 1980. Hann sagði:"Hvaða þingmaður sem er í Sjálfstæðisflokknum hefði getað boðið hinum flokkunum liðveizlu. Þetta var ekkert afrek hjá Gunnari eins og sumir virðast halda. Þeir hefðu tekið hverjum sem var til að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn."

“Heift” Morgunblaðsins?

Í ævisögu sinni fjallar Steingrímur Hermannsson töluvert um skrif Morgunblaðsins á þessum tíma og telur að þau hafi einkennzt af "heift". Morgunblaðið gagnrýndi Gunnar Thoroddsen harðlega meðan á þessum atburðum stóð og jafnan síðan. En "heift" blaðsins var nú ekki meiri en svo, að á þessum vettvangi sunnudaginn 28. desember árið 1980, tæpu ári eftir að dr. Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn sína og í tilefni af sjötugsafmæli hans, sagði í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins: "...í stjórnmálum geyma menn ekki sverð sín í annarra slíðrum. Margir telja nú, að mál sé að linni. Þjóðin þarf á samhentri forystu í Sjálfstæðisflokknum að halda ef hún á að komast út úr að því er virðist óyfirstíganlegum ógöngum. Megi forysta Sjálfstæðisflokksins bera gæfu til að slást við þá, sem hún er kjörin til, en setja niður þær illvígu deilur, sem veikt hafa annars öflugan og rúmgóðan flokk.

Ritstjórar Morgunblaðsins teldu sér sóma að því að taka þátt í slíkri friðarsókn en leiftursókn á hendur þeim pólitísku andstæðingum, sem blaðið telur sér skylt að sækja að svo að Ísland megi blómgast og lýðræðið megi sækja kraft sinn í sjálfa undirstöðu þess, einstaklinginn, frjálsan og óháðan. Ef það gæti orðið færi aftur vorkliður um íslenzkt þjóðlíf.

Með þessum orðum sendum við dr. Gunnari Thoddsen hamingjuóskir á sjötugsafmælinu og óskum honum og fjölskyldu hans farsældar á ókomnum árum, um leið og við þökkum honum margvíslegt og oftast ágætt samstarf á liðnum árum. Á merkisdegi í lífi hans hugsum við ekki sízt til sæmdarhjónanna, foreldra hans, konu hans, frú Völu Thoroddsen, tengdaforeldra hans, forsetahjónanna, sem tengdust blaðinu því meir, sem á leið ævi þeirra. Samstarf Ásgeirs Ásgeirssonar og Ólafs Thors við myndun Viðreisnarstjórnarinnar leiddi til svo heillaríks blómaskeiðs í heilan áratug að við er brugðið, enda er oftast vísað til viðreisnaráranna, þegar reynt er að sannfæra menn um það, að Íslendingar hafi til að bera þó nokkurn pólitískan þroska, þrátt fyrir allt."

Varla lýsa þessi ummæli Morgunblaðsins mikilli "heift" í garð Gunnars Thoroddsens u.þ.b. tíu mánuðum eftir að hann myndaði ríkisstjórn sína. Þegar ritstjórar Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri blaðsins heimsóttu Gunnar Thoroddsen á afmælisdegi hans, þakkaði hann fyrir Reykjavíkurbréfið og bætti brosandi við, "ég á við fyrri hlutann" en seinni hluti þess var hörð gagnrýni á ríkisstjórn hans á málefnalegum forsendum.

Staðan í stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningarnar í byrjun desember 1979 var afar sérstök. Það var til meirihluti á Alþingi fyrir myndun svonefndrar Viðreisnarstjórnar. Slíkur meirihluti var líka til eftir kosningarnar 1978. Þá bauð Sjálfstæðisflokkurinn Alþýðuflokknum upp á slíkt samstarf undir forystu Benedikts Gröndals, formanns Alþýðuflokksins. Því var hafnað.

Steingrímur Hermannsson lýsir stöðunni varðandi viðreisnarsamstarf eftir kosningar 1979 á þennan veg: "Viðreisnarflokkarnir gátu því myndað starfhæfan meirihluta á þingi, bæði í efri og neðri deild... Til að afstýra þessu tóku framsóknarmenn upp náið samstarf við Alþýðubandalagið við kosningar til efri deildar. Þar með tryggðu flokkarnir sér helming efrideildarmanna, sem nægði til að fella mál á jöfnu fyrir hugsanlegri viðreisnarstjórn. Ég lagði á ráðin um blokkarmyndunina ásamt þeim Svavari Gestssyni, Ragnari Arnalds og Ólafi Ragnari Grímssyni... Meðan á þessu stóð þóttu viðreisnarflokkarnir leika af sér... Við undirbúning þessarar bókar hef ég sannfrétt að formaður Alþýðuflokksins, Benedikt Gröndal, hafi viljandi komið í veg fyrir, að samstarf yrði milli Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í deildakosningunum. Benedikt var mótfallinn viðreisnarstjórn en óttaðist jafnframt að stór hluti þingflokksins væri á öndverðum meiði. Þar fóru fremstir þeir, sem staðið höfðu að stjórnarslitunum í fjarveru Benedikts um haustið. Með aðgerðarleysi sínu í deildakosningunum sló Benedikt því tvær flugur í einu höggi. Hann kom í veg fyrir viðreisn og náði fram hefndum vegna stjórnarslitanna."

Á blaðamannafundi 14. janúar 1980 var Geir Hallgrímsson spurður um þetta mál. Hann svaraði: "Athygli Alþýðuflokksins var vakin á stöðu þessara mála, svo ekki sé meira sagt."

Af þessari frásögn er ljóst, að Steingrímur Hermannsson telur sig hafa öruggar heimildir fyrir því, að þáverandi formaður Alþýðuflokksins hafi beinlínis og af ráðnum hug komið í veg fyrir að mögulegt yrði að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks.

Sjálfur segir Steingrímur Hermannsson í ævisögu sinni um fyrstu viðræður hans og Geirs Hallgrímssonar eftir að Geir fékk umboð til stjórnarmyndunar 28. desemnber 1979: "Hann kallaði mig á stuttan fund á heimili sínu sama dag. Þar staðfesti ég við hann, það sem ég hafði áður lýst yfir í fjölmiðlum. Ég taldi enn að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn væri ólíklegt. Aðspurður sagði ég þjóðstjórn ekki útilokaða, ef aðrir kostir væru ekki fyrir hendi."

Hverju hafði Steingrímur lýst yfir í fjölmiðlum? Jú, í viðtali við Vísi snemma í desember 1979 sagði formaður Framsóknarflokksins: "Ég hef alla tíð verið efins um samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Það er ef til vill arfur frá föður mínum, en hann fór aldrei í stjórn undir forystu sjálfstæðismanna. Það er mjög ríkt í mörgum framsóknarmönnum, að Framsóknarflokkurinn eigi að vera andstæðingur Sjálfstæðisflokksins. Tryggvi heitinn Þórhallsson sagði: "Allt er betra en íhaldið" og ég tek undir það."

Í desember 1979 var Steingrímur Hermannsson á móti stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn vegna þess, að faðir hans, Hermann Jónasson, hafði verið það fyrir og um miðja öldina og Tryggvi Þórhallsson snemma á öldinni! Þessa afstöðu staðfesti hann svo að eigin sögn í samtali við Geir Hallgrímsson 28. desember 1979.

Staðan í stjórnarmyndunarviðræðunum fyrir 20 árum var því þessi, þegar smátt og smátt er að koma í ljós, hvað raunverulega gerðist: Benedikt Gröndal, þáverandi formaður Alþýðuflokksins vann markvisst að því að koma í veg fyrir myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokki til þess m.a. að ná fram hefndum gagnvart yngri forystumönnum Alþýðuflokksins, sem höfðu sprengt í loft upp ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar þá um haustið og þar með utanríkisráðherrastólinn undan Benedikt. Og hugsanlega hefur hann heldur ekki verið búinn að gleyma átökunum á milli hans og Eggerts G. Þorsteinssonar um ráðherrastól í hinni upphaflegu Viðreisnarstjórn á sínum tíma.

Steingrímur Hermannsson, formaður Framsóknarflokksins, var andvígur stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn á sögulegum forsendum Hermanns Jónassonar og Tryggva Þórhallssonar.

Forystumenn Alþýðubandalagsins, sem áttu kost á að taka upp stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, þótt ekki hafi verið fjallað um það að þessu sinni, höfðu ekki kjark til að stíga það sögulega skref.

Gunnar Thoroddsen, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, fór á bak við samstarfsmenn sína í forystusveit Sjálfstæðisflokksins og eyðilagði þar með fyrirfram alla möguleika flokksins á stjórnarmyndun.

Ævisaga Steingríms Hermannssonar varpar skugga á trúverðugleika opinberra yfirlýsinga tveggja annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma.

Menn dæmi svo hver fyrir sig.

 

 

Ódagsett

Hef verið að fara yfir Hlaðhamar, skáldsögu Björns Th. Björnssonar. Efnið er óhugnanlegt, ef ekki viðbjóðslegt. Ég skil ekki hvernig Björn nennir að skrifa svona ógeðslegar kynlífslýsingar, kominn á þennan aldur. Hann hlýtur að vera orðinn náttúrulaus, sagði Gísli Helgason, sem tók upp lestur Björns á bandbók og átti vart orð yfir óhugnaðinn.

Stúlkan Guðrún og faðir hennar, Árni Kársson, eru einhvers konar vasaútgáfur af Ástu Sóllilju og Bjarti í Sumarhúsum. Stúlkan er eina persónan í sögunni sem notar ekki orðbragð götustráka. Hún hefur, að því er virðist, einungis séð tilveruna út um einn ljóra á Hlaðhamri, hún veit ekkert, þekkir ekkert. Hún þekkir ekki einu sinni svani á heiðartjörn, þegar þau fara þar um. Og þegar hún er börnuð hefur hún ekki hugmynd um hvað fer fram. Þótt hún hafi róið með ömmu sinni til fiskjar hefur hún aldrei séð sveitina handan fjarðarins. Hún þekkir ekki einu sinni hagalagða eða upptíninga!

Það eru ýmsar senur í bókinni þar sem fólk er á nærbuxunum og amman er sísprænandi í nýgresið við bæjarhelluna. Árni þessi Kársson, sem barnaði dóttur hennar, kallar hana forað, en það er þá einhver döngun í kerlingunni og hitt er víst að Árni á þessa einkunn sjálfur bezt skilið. Kvenfólkið í bókinni er flest eins og beljur handa þarfanautum og allt er persónugalleríið eins og upp úr svínastíu. Jafnvel sýslumannsdótturin, Elín Magdalena, einkavinkona Guðrúnar, talar eins og götustrákur, ef svo vill verða. Árni þessi Kársson verður mannsbani í lok sögunnar og er þar farið eftir þjóðsögunni sem lýkur með þeim sama hætti, en Björn Th. heldur áfram og lætur Árna hverfa með hafís sem rekur út úr Hrútafirði inní kuldahroll dauðans þar sem ísþokan nístir merg og bein. Það er dóttir hans, Guðrún, sem skilur hann eftir á jakanum og hefnir þess þannig að hann drap Jón, mann hennar, með því að stinga hann 18 sinnum með hnífi.

Það eru margir morgunnaprir dagar í þessari skáldsögu. Engin virðing fyrir konum og klæmzt þar sem tækifæri gefst. Ég er eiginlega alveg sammála Gísla Helgasyni, þótt bókin sé ágætlega skrifuð og minni dálítið á auðugt tungutak Hagalíns, einkum í Márusi á Valshamri, stundum á Guðmund Daníelsson. Björn kann þetta 19. aldar tungumál að því er virðist út í æsar og mér er til efs nokkur kunni betur skil á því núlifandi manna. Þarna eru á ferðinni alls konar orð sem tekin eru uppúr súr, dauð að öðru leyti: að funsa sig til, tens(a) og þar fram eftir götunum. Höfundur hefur mikla þekkingu á svona málsskrafsorðum liðins tíma og kryddar frásögnina óspart með þeim, ekki sízt samtölin. Þau eru að vísu öll eins. Mér er aftur á móti til efs að þetta fólk hafi talað svona. Alþýða manna á Íslandi var ekki í klúru skötulíki. Ég er hálfhræddur um að sú æska sem kynnist svona bók og upplifir forfeður sína með þeim hætti geri allt sem hún getur til að gleyma fortíðinni, vaxa frá henni, segja skilið við hana. Það hefur enginn þrek til að vera afkomandi þessara vesælu skepna þarna norður í Strandasýslu. Og þær einu persónur sem eru einhverju mannlegu eðli merktar eru annaðhvort óvitandi um allt í kringum sig, eins og Guðrún, eða fórnardýr eins og Jón, maður hennar, sem lagðist út með konu sinni og var drepinn í einhvers konar uppgröfnum álfhól þar inni á heiðinni.

Þótt fyrirmynd sögunnar, þjóðsagan, sé allmergjuð, einkum í lokin, gefur hún ekkert tilefni til þeirrar persónusköpunar sem Björn ástundar, þvert á móti. Árni þjóðsögunnar var t.a.m. gildur bóndi í sveitinni, stórlyndur, en heiftrækinn. Jón af næsta bæ, Hlíð, var indælispiltur. Var um kyrrt á Hlaðhamri en enginn aðkomumaður eins og í sögunni. Að öðru leyti styðst höfundur við þjóðsöguna, einkum í lokin.

Mér var hálfillt meðan ég úðaði í mig efni sögunnar en fór þó yfir hana til enda, meira af forvitni en löngun. Þó geri ég mér grein fyrir því að hún er ágætlega skrifuð í þeim kansellístíl sem höfundur hefur tileinkað sér og á margan hátt vel saman sett. Lýsingar hans á kvenfatnaði eru dálítið óvenjulegar og stundum svo nákvæmar að með ólíkindum er; minnir á hannyrðarlýsingar Halldórs Laxness í Úngfrúnni góðu og húsinu.

 

Um daginn hlustaði ég á erindi í Rótarý um heróla, sbr. earl, jarl. Þeir komu að austan og bjuggu í Rómaríki þar sem þeir voru vígamenn og í Evrópu miðri og meðfram Don, skilst mér. Hringasverð þeirra og grafir minna á sumt af því sem hér hefur fundizt, einnig ýmislegt með ströndum Noregs, í Svíþjóð, Finnlandi og víðar, jafnvel í Bretlandi, en í Danmörku voru þeir óvelkomnir, en hafa augsýnilega farið með Dönum til Bretlandseyja þar sem minjar eftir þá hafa fundizt í víkingabyggðum Jórvíkur. Þeir voru yfirstétt í Noregi og skáldmannaþjóð. Þeir voru um skeið eitthvað á vegum Attila húnakonungs, eða þangað til hann var sigraður í Frakklandi, minnir mig, og eru sum hetjukvæði Eddu líklega minningabrot frá þessum tíma.

Herólar komust til valda í ríki Karlamagnúsar og voru að því er virðist eins konar grundvöllur þess. Það er kannski ástæðan til þess hvað mér hefur fundizt margt í menningu frankaríkis minna á umhverfi Íslendinga á öldum áður. Frankar fengu að nota sína eigin tungu eins og við og skrifuðu margvíslegar heimildir án þess nota latínu.

 

Ingimar Erlendur Sigurðsson dúkkaði upp á skrifstofu minni í fyrradag. Hann hefur gamlazt. Hann er með mikið grátt skegg. Hann var ljúfur og blíður eins og venjulega. Hann er að fara til Finnlands með Margréti konu sinni, þar eiga þau dóttur. Hann kom með grein um Hallgrím Pétursson og bað mig birta hana í jólablaði. Hann sagði að það væru fimm kvæði eftir sig í greininni, hvað hann mundi fá fyrir hana? Ég hugsaði mig um. Ég vildi að hann nyti þess að hafa starfað á Morgunblaðinu á sínum tíma. Fjörutíu þúsund, sagði ég. Andlit hans ljómaði. Hann var eins og lítið barn sem fær kerti og spil. Hann stóð upp og lokaði töskunni sinni, gekk síðan til mín, faðmaði mig og kyssti. Hann sagðist ekki hafa viljað leita til Gísla Sigurðssonar á Lesbók.

 Nú, jæja, hvers vegna ekki?

 Hann hefur alltaf niðurlægt mig, sagði hann.

 Nú, sagði ég,  hvers vegna?

Ja, það veit ég ekki, ég hef aldrei gert honum neitt. Eina greinina geymdi hann í 14 mánuði!

Einkennilegt, sagði ég.

Þú sérð um þetta sjálfur, sagði hann.

Já, auðvitað, sagði ég, hafðu engar áhyggjur.

Ég talaði síðar við Gísla og sagði honum að birta grein Ingimars Erlends. Gísli tók því vel.

Ingimar Erlendur sagði um leið og hann gekk út, Ég geri upp við Gísla í dagbókinni minni. Honum yrði ekki sama, ef hann vissi hvað þar stendur.

Jæja, sagði ég.

Ingimar gagnrýndi mig fyrir þau ummæli að ég væri fyrirmynd að Stefni, eða hvað hann nú heitir í Borgarlífi, og sagðist hafa mótmælt því í samtali í útvarpinu. Honum er það mikið í mun að ég haldi ekki að ég sé einhver algild fyrirmynd þessarar persónu.

Það gerir ekkert, sagði ég, skiptir engu. Ég er bara ekki eins og þessi persóna í Borgarlífi þó að vel geti verið að eitthvað í henni minni á mig.

Já, sagði Ingimar Erlendur, en þú ert ekki fyrirmyndin. Það má vera að þú sért þessi persóna eins og hún varð til í hugarórum mínum, það er allt og sumt.

Hafðu engar áhyggjur af því, sagði ég, það væri ágætt ef ég hef haft einhver áhrif á sköpunargáfu þína.

Á þessa skilgreiningu sættumst við Ingimar.

Þegar Ingimar Erlendur var farinn tók ég að hugsa um þessa dagbók hans. Ég lít ekki svo á að menn eigi að nota dagbækur sínar til að gera upp við fólk sem getur ekki svarað fyrir sig. Ég tel dagbækur eigi að sýna inn í hugarheim þess sem skrifar, lýsa honum, afstöðu hans og upplifun. Reynsla okkar er með svo margvíslegum hætti. Ég geri mér grein fyrir því að ég upplifi ekki umhverfi mitt með sama hætti og aðrir, og enginn upplifir sjálfan sig með sama hætti og aðrir. Dagbók er einkum og sér í lagi þarfaþing til að geyma það og varðveita sem maður vill eða þarf að muna. Af þeim sökum fór ég að skrifa dagbók. Ég vildi varðveita eitthvað af því sem ég hefði annars gleymt. Og svo hefur verið nauðsynlegt að punkta niður ýmislegt úr samtölum við stjórnmálamenn, svo að unnt væri að leita til þess, ef reynt væri að bera brigður á staðhæfingar manns. Ég hef stundum þurft á því að halda í starfi mínu og þá hefur dagbókin komið sér vel.

En maður á ekki að skrifa dagbók í hefndarskyni; ekki til að ná sér niðri á þeim sem gerir á hlut manns, heldur til að reyna að skilja - en þó einkum til að reyna að gera sér grein fyrir sjálfum sér, erfiðleikum sínum og afstöðu. Þó að ég hafi t.a.m. ýmislegt við Ólaf Ragnar Grímsson að athuga, þá er það ekki neinn lokadómur yfir honum, en lýsir einungis afstöðu minni á skrifandi stund. Það léttir á mér, það gerir mér kleift að lifa af þann sýndarveruleika og þær sjónhverfingar sem ritstjóri Morgunblaðsins þarf að glíma við í starfi sínu.

Það er allt og sumt.

Við erum svo oft í glerhúsi, þegar við gagnrýnum aðra. ....

 

Nú er ég búinn að fá einkunnirnar fyrir fyrirlestrana um Jónas í endurmenntun. Niðurstaðan er: “Einstaklega skemmtilegt og áhugavekjandi.  Meiri háttar. Hittir alveg í mark. Opnar menningarheim 19. aldar fyrir okkur. Megingallar – engir!

Nefna skyld viðfangsefni sem þú hefur áhuga á að fjallað yrði um síðar: Meira  í þessum dúr og auðvitað með Matthíasi – Jónas no. 2 eða enn fleira úr þessum menningarheimi / skáld / krufning: ísl. ljóðlist / ritlist.” Þetta er niðurstaða endurmenntunar með hliðsjón af einstökum einkunnum nemenda, en þar er niðurstaðan eins og segir á einu blaðinu: “Hverjir voru meginkostir námskeiðsins: Sýn Matthíasar sjálfs”.

Ég get sem sagt verið ánægður með þessa niðurstöðu, þótt ástæðulaust sé að grobba af henni.

 

Ódagsett

Hef verið að lesa úr nýju ljóðabókinni minni, bæði fyrir útvarp og sjónvarp. Fellur það ágætlega, það er gott að lesa úr henni. Hef heyrt ýmislegt um bókina, ekkert nema gott. Það hefur enginn ritdómur birtzt ennþá. Las upp í Stöð 2 um daginn og tók það langan tíma því að þeir þurftu að búa til umgjörð sem sótt var í skóglendi Elliðaárdals og þurfti ég að vera þar á vappi í snjó og kulda. Þetta var svo notað í smárömmum með upplestrinum. Las einnig fyrir Eirík Guðmundsson í þátt hans í Ríkisútvarpinu og átti dálítið samtal við hann um það markmið bókarinnar að minna á, að háttleysan væri um þessar mundir að ganga sér til húðar því að hún hefði ekkert verið endurnýjuð og mest af skáldskap ungskáldanna svo einsleitt að engu er líkara en það komi allt úr sama blýmótinu. Menn halda líklega að þeir eigi að yrkja svona. En það á enginn að yrkja öðruvísi en hjarta hans segir til um, engin tízka, engar samtímakröfur um kæki og klisjur. Þótt ég sé kominn eitthvað til ára minna taldi ég mér skylt að benda á nýjar leiðir. Atómskáldskapurinn eða háttleysan hefur hreinsað hið hefðbundna form og leyst það úr gömlum viðjum svo að það er ágætlega nothæft í hefðbundnara formi en verið hefur. Áferðin er líka orðin allt önnur, fersk ný og dularfull. Þetta getur þannig verið atómskáldskapur í nýrri mynd. Ég hef gaman af að taka þátt í enn einni hallarbyltingunni. Það gerði ég einnig þegar Borgin hló kom út. Þetta er líklega einhvers konar maóismi í bókmenntum, bylting sem felur í sér sjálfsgagnrýni. Menningarbylting(!) Með þessu móti getur skáldskapurinn verið lífvænlegur og spennandi. Annars trénast hann upp í kækjum og klisjum. Ég vona að þessi bók, Ættjarðarljóð á atómöld, komi þessu með einhverjum hætti til skila. Það er eitt hlutverk hennar. Að öðru leyti á hún að minna á verðmæti, mikilvægt hlutverki skáldskaparins, og þá ekki sízt arfleifðina. Það er með hana að bakhjarli sem við getum sótt til framtíðar. Annars fer allt undir lær og maga og við hverfum ósjálfbjarga inní einkennalaust samfélag alþjóðasjónvarpsins.

Við eigum ekkert dýrmætara en landið, tunguna og arfleiðina. Um það fjallar þessi bók....

 

 

5. desember, sunnudagur

Hitti Guðna Ágústsson, landbúnaðarráðherra, í sundlaug Vesturbæjar í dag. Hann heilsaði innvirðulega og við tókum tal saman. Honum líkaði ekki leiðari Morgunblaðsins í dag og sagði að Styrmir hlyti að hafa skrifað hann!

 Af hverju heldurðu það? sagði ég. Það getur ekki verið að maðurinn sem flutti ræðuna á Búnaðarþingi hafi skrifaði þennan leiðara, sagði Guðni.

 Það eru fimm eða sex sem skrifa leiðarana í Morgunblaðið, sagði ég.

 Jæja, sagði Guðni, svo margir. Kannski Styrmir hafi ekki skrifað leiðarann. En sá sem skrifaði hann veit lítið um osta!

Hann sá að ég kom af fjöllum, enda hafði ég ekki lesið leiðarann. Ég sagði honum að ég hefði verið við útför Sigríðar Arinbjarnardóttur, ekkju Guðmundar Daníelssonar, í gær, sem sagt á Selfossi, eða á hans heimaslóðum.

 Jæja, sagði hann, já, einmitt, hún er látin. En það eru þetta margir sem skrifa leiðarana, bætti hann við hugsi.

 En sneri sér síðan að öðru, og sagði, Nú er alltaf verið að eltast við fyrirrennara minn í landbúnaðarráðuneytinu, ég kalla hann Guðmund góða. Hann er alltaf á Golgata út af hinu og þessu, en ég hef sagt við þá, Ég læt engan krossfesta mig fyrir einn bónda á Hofi, nei ekki nema fyrir mannkynið í heild!

Að svo búnu kvöddumst við innvirðulega.

 

Við Kristján M. og Ingólfur sáum Myrkrahöfðingjann eftir Hrafn Gunnlaugsson í kvöld. Efnið álíka ömurlegt og það sem boðið er upp á í Hlaðhamri. Aldrei hefur verið saman kominn í einni sókn annar eins aumingjalýður og þarna á vegum sr. Jóns þumlungs. Strákunum fannst myndin leiðinleg, sögðu að hún væri bæði illa leikin og hljóðið væri slæmt. Það má vera, en hún er ágætlega tekin. Margar senurnar eru frammúrskarandi kvikmyndun, en ég er sammála því að myndin sé ekki nógu vel leikin. Efnið er svo óhrjálegt og ömurlegt að unga fólkið í salnum reyndi alltaf að hlæja dálítið sér til uppörvunar, þegar verst gegndi. Það er merki um einhvers konar leiða eða taugatitring. Ef þessi óþjóðalýður fylgir íslenzkum listaverkum meir en orðið er, verður þess ekki langt að bíða, að ungt fólk hlaupi eins hratt frá fortíð okkar og unnt er. Það vill ekki muna þennan hrylling. Það vill muna Ísland og íslenzkt þjóðlíf eins og þegar það var upp á sitt bezta. Og þá er heillavænlegast að snúa sér að 13. öldinni, sækja veganestið og arfleiðina þangað, en ekki í þann óþjóðalýð sem lifði eins og skepnur í steinhleðslum, holum og holtum; og var þó sr. Jón sýnu verstur í sinni myrku geðveiki. Við eigum að sækja veganestið í það sem bezt hefur verið gert á Íslandi og borið hefur hróður okkar hvað víðast. Það kunni Halldór Laxness, ekki síst í Íslandsklukkunni, það kunni Gunnar Gunnarsson í Jóni Arasyni og það kunni Guðmundur G. Hagalín í Márusi á Valshamri svo ekki sé talað um hátimbrað menningarumhverfi Ragnheiðar og Daða í Skálholti Kambans.

Og svo Gerpla, auðvitað.

Þó að sr. Jón þumlungur sé heldur vel leikinn býður hlutverkið ekki upp á mikil tilþrif. Og ef ég ætti að bera saman leikinn í þessari mynd og t.a.m. Úngfrúnni góðu og húsinu hefur Úngfrúin vinningin, enda brá þar fyrir eftirminnilegum tilþrifum í leik. Versti agnúi Myrkrahöfðingjans eru þó sífelldar senur þar sem verið er að blaða í galdraklámbók og hestaferðir sem verða heldur hvimleiðar endurtekningar, þótt landslagið sé eftirminnilegt og kvikmyndun þess kannski áhrifamesti þáttur myndarinnar. En hvað sem því líður mætti vel komast svo að orði, að þessi uppvakningur frá 17. öld gerist að mestu leyti í klofinu á sr. Jóni sjálfum, rétt eins og Hlaðhamar gerist að mestu í klofinu á Árna Kárssyni, sem var náttúrulega ekki til nema í höfundi sínum.

Enn er Hrafninn flýgur, að ég held, bezta kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar, þegar öllu er á botninn hvolft, ef svo mætti segja. Hún gerist líka á sama tíma og Íslendingasögur, það var mikill tími þótt grimmur væri.

Bjarni Benediktsson þoldi ekki harmkvælasögur Jóns Helgasonar, ritstjóra Tímans, um vesalinga fyrri tíðar, þótt vel væru skrifaðar. Hann hryllti við efninu.

Hvað skyldi hann hafa sagt um Hlaðhamar og Myrkrahöfðingjann?

 

8. desember, miðvikudagur

Fyrri hluti lífsins fer í að safna fordómum, en síðari hlutinn að losna við þá(!)

 

Nokkru síðar

Styrmir átti athyglisvert samtal við Hannes Hólmstein. Það hefur eitthvað kastazt í kekki milli hans og Kristjáns Ragnarssonar hjá LÍÚ, ekki sízt vegna þess að Kristján vill ekki kaupa eitthvert rit á ensku eftir Hannes Hólmstein og dreifa því, skildist mér. Mátulegt á báða! Hannes sagði að Hávar Sigurjónsson yrði ekki ráðinn leiklistarstjóri útvarpsins af því hann hefði í ritdómi sínum um Myrkrahöfðingjann gagnrýnt Kjartan Gunnarsson í hlutverki Brynjólfs byskups!!!!

Ég tók þetta sem gálgahúmor,en lét Styrmi segja mér þrim sinnum – eða mundi nokkur trúa þessu? Hvað hefði gerzt ef ég hefði brugðizt svona við ofsóknum kommúnista í gamla daga?

Þá væri Morgunblaðið ekki til, sagði Styrmir.

 

Í stað þess skrifaði ég bækur bæði um Þórberg og Laxnes. það bætti samfélagið. Nú ligg ég undir ámæli Arnórs Hannibalssonar,prófessors, og nokkurra öfgamanna í andstæðingahópi Kiljans fyrir bragðið; einkum í riti Arnórs nýútkomnu, Moskvulínan.

 

Ódagsett

Helgi S. Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbanka Íslands, sagði Styrmi í samtali að Finnur Ingólfsson, viðskiptaráðherra, mundi tilkynna 27. des. nk. að hann muni hætta í stjórnmálum og verða seðlabankastjóri. Hann er orðinn þreyttur á neikvæðri afstöðu fjölmiðla og sífelldu nöldri í hans garð, aldrei neitt jákvætt. Örfáir vita af þessu, en Helgi segir að Davíð hafi hrokkið hastarlega við þegar Finnur sagði honum þetta. Halldór Ásgrímsson fer ekki heldur í framboð í næstu kosningum, segir Helgi, hann stefnir á alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

En hver á þá að taka við Framsókn ? Það veit enginn. Siv Friðleifsdóttir stendur illa og Valgerður Sverrisdóttir er  misjafnlega  þokkuð í þingflokki Framsóknar, segir Helgi.

 

Hef verið að lesa Bridge of San Luis Rey, fína skáldsögu eftir Thornton Wilder og Guns, Germs, and Steel, fróðlega menningasögu og ágæta eftir Jared Diamound.

Hef ánægju af slíkum lestri eins og margt í nýjum bókmenntum angrar mig.

 

19. desember, sunnudagur

Samtal okkar Súsönnu í DV sunnudaginn 19. desember, saman sett með hliðsjón af hugleiðingum mínum, gömlum og nýjum, um ljóðlist.

 

Samtal við Súsönnu í DV

Það er stundum sagt að það sé búið að yrkja um allt - og stundum er auðvelt að trúa því. Þangað til einn daginn að birtist ljóðabók sem sannar svo að um munar að svo er ekki.

Þegar birtist bók með nafninu "Ættjarðarljóð á atómöld" hlýtur lesandinn að velta því fyrir sér hvort ekki sé búið að yrkja öll ættjarðarljóðin, um öll þessi fjöll og sanda og ár og heiðar og dali og það í risastórum stíl; hvort eitthvað meira sé um þetta að segja? Og atómaldarljóð. Eru þau ekki bara óskiljanlegt svartagallsraus; formleysa sem hefur eyðilagt ljóðið?

En svo er ekki.

Í ljóðabókinni "Ættjarðarljóð á atómöld," eftir Matthías Johannessen er það öldin sem er að líða sem er "atóm." Form ljóðanna eru allt frá rómantík Jónasar Hallgrímssonar til dagsins í dag og hvað ættjörðina varðar, þá eru hér ekki á ferð landslagslýsingar í þeim hetjustíl sem við höfum átt að venjast og eru ein af auðlegðum þjóðarinnar ef vel er ort, heldur ást manns á ættjörðinni og þeirri ævi sem hann hefur verið samvistum við hana, svo milda og harða, gjöfula og eyðandi. Ættjörðin verður eins og kona sem er margþætt og flókin, aðlaðandi en hættuleg, spennandi, forvitnileg og ef hún opnar faðm sinn fyrir þér, ber þér að vera þakklátur, sýna henni lotningu og yrkja til hennar þín fegurstu ljóð.

Og sá sem elskar, yrkir ekki um ásýnd og yfirborð hlutanna, heldur tjáir tilfinningar sínar með því að horfa á það smæsta sem oftar en ekki er hulið sjónum, einfaldlega vegna þess að mannskepnunni er tamara að dást að því sem er stórt í sniðum. Sá sem elskar horfir á mosann og lyngið, birtuna, heiðríkjuna, trjágrein, lauf og fuglsvæng og náttúran tekur á sig nýja mynd; fær nýja merkingu; til verða ljóð sem hafa aldrei áður verið ort. Eitt fegursta ljóð bókarinnar, Gamall eldur, felur í sér þessa ást og lotningu. Þar er ættjörðin með öllum sínum eldum ekki hið eyðandi afl, heldur persóna sem eldar lífsins hafa brennt. Hún er gróin sára sinna og hinn smæsti gróður, ungur sem gamall,  vermir sér við hennar gjöfula hjarta.

 

Grámosinn góður

gleður hjarta þitt

hjúfrar sig hljóður

við himneskt lyngið sitt,

það er eins og ástin

sem umvefur þig

mjúk eins og morgunn

og minnir á sig.

 

Himneskt er hraunið

við hlýja mosató

þar sem lyngið leikur

við lítinn hvannamó,

gamlir stofnar gleyma sér

við gróið hjarta þitt

en grámosinn gælir

við gamla hraunið sitt.

 

Grámosinn góður

grær við hraunið þitt

útbrunna elda

og ævintýri sitt,

það er eins og ástin

sé eldur við hraun

bálið sem blossaði

og brenndi þig á laun.

 

Formið er bundið með stuðlum, höfuðstöfum og rími sem hefur ekki þótt prýði á atómöldinni þar sem bundnu ljóðin og atómljóðin voru nokkuð ósættanlegar andstæður, bæði hvað varðar form og efni.  Bundnu ljóðin fjölluðu fremur um það sem maðurinn sá og þau óbundnu um það sem maðurinn skynjaði í því sem hann sá. Í þessu ljóði, eins og í mörgum öðrum ljóðum bókarinnar,  mætast hins vegar þessar meintu andstæður.

Voru þetta kannski aldrei andstæður, eða þarf hver ný stefna í ljóðagerð að fara í gegnum ákveðið skeið áður en hægt er að sætta hana og samræma við það sem á undan er gengið?

Svar M:

Það skiptir engu máli hvort ljóð eru bundin eða ekki. Um það leyti sem fyrsta ljóðabók mín,  Borgin hló, kom út voru atómskáldin í óða önn að gera uppreisn gegn hefðinni. Það þurfti að endurnýja ljóðstílinn, dusta af honum rykið. En flest þessara skálda höfðu einnig lagt rækt við hefðbundin skáldskap, sum með ágætum. Ég var auðvitað ungt atómskáld en arfleifðin var í blóðinu enda alls ráðandi þegar ég ólst upp. Hún átti sinn rétt, ekki síður en nýskáldskapurinn. Helztu forvígismenn háttleysunnar, Steinn, Jón úr Vör, Jóhannes úr Kötlum - og þaðan af yngri skáld - voru góðskáld í gömlum stíl. Og þau nutu þess að sjálfsögðu í órímuðum ljóðum, eins og aðrir.

Ég sótti menntun mína í íslenzk fræði, arfleifðina. Þessi menntun var gott veganesti og ég held hún hafi dugað mér vel. Hún skilaði sér, vona ég, í Borgin hló, bæði í bundnu og óbundnu ljóðunum. Ég vona raunar að hún hafi alltaf skilað sér með einhverjuum hætti, einnig nú í Ættjarðarljóðum á atómöld þar sem ég yrki bæði í bundnum og óbundnum stíl og reyni m.a. – og ekki sízt – að glíma við nýja hætti í anda hefðar og arfleifðar. En áferðin er ögun módernismans, enda er það rétt sem Þórbergur sagði á sínum tíma – að það skipti engu hvorki ég yrkti í bundnu eða óbundnu máli, ég væri alltaf og ævinlega óforbetranlegt atómskáld. Hugsun mín væri þeirrar gerðar enda má sjá það af dæmunum sem þú nefnir og áreiðanlega einnig annars staðar, vona ég. Stúlkan og landið eru eitt, það er rétt hjá þér. Slík flétta getur verið harla erfið þótt það sé ekki augljóst í svona rótgrónu formi.

Við höfum ein germanskra þjóða varðveitt gamla bragfræði – og hvers vegna þá að kasta henni alfarið fyrir róða, í stað þess að nýta hana? Jafnvel í uppreisn gegn henni sjálfri. Slíkur andlegur maoismi, eða menningarbylting, er mér meir að skapi en eintómar gælur við útlend áhrif, þótt holl séu í hófi og nauðsynleg.

Lítill vafi er á því að við Íslendingar höfum öllum stundum litið á ljóðrænan texta Biblíunnar sem fullgildan skáldskap hvað formið snertir, þótt ekki hafi það verið í hefðbundnum stíl íslenzkrar bragfræði.  Það er ekki endilega innihaldið sem úrslitum réð heldur efnistökin; og línan. Mér er til efs að Davíðssálmar hefðu haft þau áhrif sem raun ber vitni ef þeim hefði ekki verið skipað eins og ljóðum og línan slegið tóninn; hið sama gildir um kvæði Páls um kærleikann. Ef þessi erindi hefðu verið sett upp eins og prósi þá hefðu þau verið lesin eins og óbundið mál í stað þess að fólk hefur ávallt sett sig í ljóðrænar stellingar, þegar þessar hugleiðingar hafa verið lesnar. Nú fylgir þessi texti ákveðinni línulengd og er lesinn samkvæmt því; hann er orðinn að fullgildu ljóði í vitund lesandans þótt hann sé upphaflega eins og hverjar aðrar prósahugleiðingar Páls enda var hann ekki skáld heldur mikill og andríkur predikari og þá að sjálfsögðu einstæður rithöfundur og hugmyndasmiður kristinnar kenningar.

En fólk leitar í þennan texta sér til sáluhjálpar. Það er harla eðlilegt því að ljóðlist er öðrum þræði eins og trú. Hún er ekki sízt athvarf í  þrengingum.

Áður fyrr var minni munur á bundnu máli og óbundnu en samt gerðu lesendur glöggan greinarmun á hljómfalli og áhrifum ljóðræns texta og óbundnu máli.  Við þurfum ekki annað en líta í biblíuþýðingarnar til að sjá hvað mjótt er einatt á munum, en þá skiptir það sköpum hvernig upp var sett, þ.e. línurnar skiptu sköpum.

Línan er eitt helzta einkenni ljóðlistar. Það er ekki sízt hún sem ákveður að lesandinn setji sig í sérstakar stellingar við lesturinn. Hann les þá ekki eftir orðanna hljóðan, heldur eins og línan býður. Slíkt gerist ekki í prósa enda er hann sjaldnast lesinn upphátt eins og ljóð. Menn setja sig ekki í neinar ljóðrænar stellingar þegar hann er lesinn; ekki endilega. En kröfuharka ljóðsins er því meiri sem einkenni ljóðræns texta eru áleitnari. Því er það nauðsynlegt sem sagt hefur verið að setja bezta orðið á sem réttastan stað í ljóðinu. Óbundinn texti gerir ekki jafn miklar kröfur til slíkrar orðskipunar, þótt rithöfundar eins og Jonathan Swift hafi einnig gert slíkar kröfur til óbundins texta.

Rússneska skáldið Josep Brodský, sem hingað kom á sínum tíma – ég skrifaði samtal við hann –segir að menn setjist niður og skrifi af ýmsum ástæðum; til að vinna ástir sinnar heittelskuðu; til að lýsa afstöðu sinni til umhverfisins, hvort sem þessi umhverfisveruleiki er landslag eða ríki; til að höndla hugmyndir sínar á ákveðinni stundu; til að skilja eftir sig spor á jörðunni, þ.e. að varðveita hugsun eða hugmynd sem slær niður á ákveðnu andartaki.

En nú er karpið um atómskáldskapinn að mestu liðin saga, sem betur fer. Ljóðin og skáldin hafa verið tekin í sátt.

Ljóðlistin hefur reynzt Íslendingum endingargott veganesti. Af reynslu minni er ég þeirrar skoðunar, að þessi listgrein sé nánast hverjum Íslendingi í blóð borin, þótt mönnum sé það ekki alltaf ljóst. Það er því til mikils að vinna að rækta hana með ungu fólki, svo mikilvægur hlekkur sem hún er milli kynslóða og þá ekki síður vegna þess, hve mjög hún getur skerpt sýn manna á umhverfið, aukið okkur ímyndunarafl og undirstrikað sérkenni mannsins í hættulegu umhverfi.

Ljóðlist segir einatt mikilsverð tíðindi, þótt hún sé ekki sá fjölmiðill sem áður var, heldur farvegur fyrir þrá okkar og tilfinningar. Af þeim sökum ekki sízt er hún mikilvæg listgrein, auk þess sem hún skerpir myndvísi okkar, skírskotunarhæfileika og viðbrögð við því, sem er mikilsvert, ný og fersk reynsla. Gott ljóð getur verið eftirminnileg tíðindi í sjálfu sér. En fyrst og síðast er það andsvar viðkvæmra strengja, sem væru þögulir og einmana án þess.

 

Það er oft sagt að íslenskan sé svo fátæk að orðum og því erfitt tungumál til skáldskapar en í tilvitnun í upphafi bókarinnar segir þú: "En nýtt myndlíkingarmál með hliðrænum hugmyndum og óvæntum getur veitt gæzkunni og æskunni, faxinu og bagsinu fullgildan þegnrétt í nýjum skáldskap, nýju tungutaki, ef vel tekst til." Hefur íslensk tunga meira þanþol en við höfum leitast við að viðurkenna og er ljóðlistin rétti vettvangurinn til að láta reyna á það?

Svar M:

Já, mér er nær að halda að svo sé. Annars mætti fremur spyrja: Af hverju yrkja skáldin?

Skáld yrkja af ástríðu. Við elskum af ástríðu. Allt sem skiptir máli sprettur af ástríðu. Blaðamaður sem er til að mynda ekki blaðamaður af ástríðu er einskis virði. Fólk gat jafnvel að dómi forngrikkja, til að mynda Platóns, læknað sorgina með ástríðufullum flutningi kvæða. Taktfastur sláttur atkvæðanna víkur sorginni til hliðar, a.m.k. um stund. Þessi ástríða birtist ekki sízt í kórnum. Hún var í Hómer og hafnaði í mystiskri reynslu grísku orþódox-kirkjunnar.

Ljóð er seiður, músík: hrynjandi. Ekkert markvert skáld hreyfir sig eins og önnur skáld; hugsun þess og hugmyndir eru með öðrum hætti en tíðkast; efnistök og aðferð persónuleg og sérstæð. Skáld verður eins og aðrir listamenn að vera skapandi brautryðjendur þótt þau skili gömlum arfi áleiðis. Að öðrum kosti verður skáldskapurinn stæling og eftirhermur. Og svo sannarleg er mikið til af slíkum skáldskap. Hann getur samt einnig gegnt hlutverki sem skiptir máli; hann er lággróður sem leiðir hugann að hærri plöntum. Hann undirbýr jarðveginn og er því engan veginn óæskilegur. Tíminn eyðir honum svo eins og lúpínunni. Af henni rís grænni jörð og betri. Illgresi getur verið aðsópsmikið í skáldskap, ekki síður en í gróðursælli jörð. En tíminn og ræktandi hugarfar eyðir honum einnig.

 

Sum ljóðanna eru full af gáska, til dæmis ljóðin "Í bíl" og "Á Njáluslóðum," en í því síðarnefnda eru  myndir úr nútímanum felldar inn í myndir úr Brennu-Njálssögu á kómískan hátt, en þó er ekki laust við að í þeim gæti trega. Hvað er það sem nútíminn hefur ekki en þú vildir sjá?

Svar M:

Nánari snertingu við arfleifðina og betra veganesti inn í framtíðina en glymjandi innantóm síbyljan og augnþjónusta hennar  við áróðursmeistara veraldarhyggjunnar og andlegrar gengisfellingar sem nú vaða uppi í öllum fjölmiðlum, svo að vart heyrist til nokkurs annars. Ljóðið er þessi lágværi tónn sem minnir á forgengileikann, eða það sem Prédikarinn kallaði eftirsókn eftir vindi. Það er kannski ekki undarlegt þótt það sé ekki á vinsældarlistanum um þessar mundir. Ljóðið er óþægileg áminning á þessum tímum mikilla kapphlaupa. Um allt á að keppa, jafnvel ljóðið.

Ég vek athygli á því sem Hume leggur Fílon í munn í Samræðum um trúarbrögðin en hið sama á að sjálfsögðu við um öll andleg verðmæti, t.a.m. listir. Á þær verður ekki lagður neinn algildur mælikvarði eins og um væri að ræða keppni í skák eða íþróttum. Við höfum afstætt mat á fegurð; einnig listum.

“En til er sú tegund umræðu,“ segir Fílón, “sem vegna sjálfs eðlis  málsins og mannshugans má einlægt skilja og túlka á fleiri en einn veg og getur aldrei orðið hæfilega traust eða nákvæm, hversu mikillar varúðar sem gætt er og hvernig sem orðin eru skilgreind. Hér er um að ræða þær deilur, er varða stigmælingu eiginleika yfirleitt. Menn geta deilt um það til eilífðarnóns, hvort Hannibal sé mikill, mjög mikill eða framúrskarandi mikill maður, hversu mikil fegurð Kleópötru hafi verið, hvaða lofsyrði Lívíusi eða Þúkídídesi beri, án þess að deilan verði nokkru sinni til lykta leidd. Vera má, að deiluaðiljar eigi hér við hið sama og noti ólík orð, eða öfugt. Samt kann svo að fara, að þeir geti aldrei skilgreint orð sín þannig, að þeir verði einshugar um merkinguna. Ástæðan er sú, að stig þessara eiginleika verða ekki, svo sem magn eða fjöldi, ákveðin með neinni nákvæmri mælingu, er nota mætti sem mælikvarða í deilunni.”

Fólk mætti vel íhuga þessi orð, þau eiga enn við, jafnvel fremur nú en áður.

Þó að fjölmiðlarnir hafi gert æ kröfuharðari tilraunir til að kalla bókmenntir og listir niður á sitt plan, getum við enn sagt með þó nokkru stolti að svo sé guði fyrir að þakka að enn er margt fólk á Íslandi sem lætur ekki blekkjast, en gerir kröfur til smekkvísi og hefur gagn, ánægju og nautn af því sem vel er gert. Þetta fólk hlýtur að vera hverju skáldi sú áskorun sem úrslitum ræður.

Skáld getur ekki orðið þræll vonds smekks, þótt stundum virðist sem markaðurinn krefjist þess, mér finnst a.m.k. gerðar tilraunir til þess í því kerfi sem við höfum ánetjazt.

Það er ekki efni ljóðlistar sem úrslitum ræður, heldur ferskleiki hennar og handbragð skáldsins; hvernig er að verki staðið, en ekki um hvað fjallað er því í þeim efnum er víst ekkert nýtt undir sólinni. Sé handbragðið persónulegt og sérstætt er markinu náð. Þegar ég var strákur söfnuðum við dátum sem allir komu úr sama blýmótinu, en við máluðum þá misjafnlega. Það er þreytt ljóðlist sem kemur sífelldlega úr sama blýmótinu. Hvert ljóð á að vera atvik út af fyrir sig eins og sköpun í sólkerfum.

Bandaríska ljóðskáldið Robert Frost lagði áherzlu á að í skáldskap væri talað við fólkið eins og til að minna það á eitthvað sem það vissi undir niðri, en hefði ekki sagt sjálft. Það yrði að þekkja til þess sem um væri fjallað. Það má vel vera að eitthvað sé til í þessu. En þó er jafnvíst að þanþol skáldskapar sé miklu meira en Frost taldi.

Alvörulesendur gera kröfur til skálda sinna af því þeir gera einnig kröfur til sjálfra sín. Þeir vilja fá að glíma við það sem liggur ekki í augum uppi. Þess vegna er enn verið að leika Shakespeare. Hamlet er jafnmikil ráðgáta nú og þegar hann var skrifaður. Og af þessari sömu ástæðu er ljóðlist hvarvetna á næsta leiti við trúarbrögð. Sagt hefur verið að þau eigi eitt sameiginlegt, hvað sem öðru líður, þ.e. að þau sæki öll næringu í ljóðlist af einhverju tagi. En ljóðlist er enginn töfralykill. Hún lýkur ekki upp neinum lokuðum dyrum, eða eins og franska skáldið Paul Valéry sagði, Allir sem eiga klukku geta sagt þér hvað tímanum líður, en hver getur sagt þér hvað tíminn er? En þó er unnt að stöðva tímann í klassísku kvæði og gera aldagamla reynslu að síendurteknu ævintýri. En það á ekki síður við um mikla list að öðru leyti, mikla hugsun.

Tungan er hljóðfæri. Eins og gítar. Hún er framhald af tilfinningum okkar. Og ljóðið er saman sett úr margvíslegum tónum þessa hljóðfæris. En það skýrir enginn þá tóna sem koma úr hljóðfærum. Þeir eru lýsing á sálarlífi svokölluðu, tilfinningum. Og hugsun. Þeir eru sérstök en óáþreifanleg snerting; eða tjáning. Við getum snert umhverfi okkar án þess koma við það. Ef gítarinn er ekki framhald af tilfinningum tónskálds og gítarleikara er engin ástæða til að hlusta á það sem hann er að hamra á strengina. Þá er hljóðfærið einungis eins og hvert annað tæki, hamar og sög. Við getum sagað niður trjábúta með sög. En það er einnig hægt að leika á hana fegurstu tónlist og breyta þessu tæki í framhald af tilfinningalífi okkar.

Oft hef ég lesið ljóð sem eru að mörgu leyti ágæt en það vantar í þau alla músík. Og þá missi ég áhugann. Staglið særir. Það er eins og að klifra yfir gaddavírsgirðingu og blóðga sig.

 

29. desember, miðvikudagur

Borðaði með Kristjáni Karlssyni í dag. Ágætt og afslappað samtal. Við komum okkur saman um að Íslendingar væru ekki sérstaklega bókmenntasinnuð þjóð, þeir hefðu ávallt haft meiri áhuga á ævisögum og sagnfræði en fagurbókmenntum svokölluðum. Ein helzta ástæða þess að Íslendingasögurnar varðveittust væri líklega sú, að þeir héldu að þær væru ævisögur hetjanna. Grettis saga væri t.a.m. ævisaga Grettis Ásmundssonar, Njála einskonar ævisaga Gunnars og Njáls. Ef þeir hefðu haldið að þessar bækur væru skáldskapur, væru þeir líklega búnir að éta handritin. Það hefur líklega bjargað sögunum að fólk hafði áhuga á ævi kappanna og örlögum. Snilld sagnanna hefur líklega ekki ráðið úrslitum...

 

 

...Ég hef undanfarið verið að vinna að þúsaldarblaði Morgunblaðsins eins og Þórhallur Vilmundarson mundi sagt hafa, einkum ásamt Árna Jörgensen, sem hannar blaðið af venjulegri smekkvísi. Ég sagði Davíð að í þessu blaði yrði jólakvæði hans og sá ég að honum hugnaðist það vel. Hann er stoltur af þessu kvæði og vill vera í skáldakompaníi, það er augljóst. Annars hefur þetta blað tekið mikinn tíma, þótt ófullkomið sé, en það er eins og segir í formála mínum: það er vísbending um efni Morgunblaðsins á þessari öld. Formálinn heitir:

 

Fylgt úr hlaði

Á tímamótum eins og þeim sem nú eru að ganga í garð horfa menn bæði fram og aftur. Ártalið 2000 gefur ímyndunaraflinu lausan taum og eðlilegt að slíkt ártal kalli á margt það sem gæti verið hnýsilegt til skoðunar. Samtímaheimildum var ekki til að dreifa um þá atburði sem urðu á Íslandi þegar árið 1000 rann upp, um þau efni var skrifað síðar. Þá var Ólafur konungur Tryggvason í óða önn að kristna Íslendinga, eins og kunnugt er, nú er engu slíku til að dreifa og stóratburðir á við kristnitökuna ekki í augsýn. En leyndardómsfullur blær er yfir þessum ártölum báðum, bundinn við trú og fyrirheit.

Margs er að minnast þegar ártalið 2000 blasir við. Morgunblaðið  var stofnað 2. nóvember 1913 og er það gríðarleg heimild um þá öld sem við erum nú að kveðja. Slíkri samtímaheimild var ekki til að dreifa  fyrir þúsund árum. Það væri að æra óstöðugan að fjalla um alla þá atburði sem blaðið hefur sagt  frá á þessari öld og greina frá hverju því sem athyglisvert er á þessum tímamótum. Það verður látið framtíðinni eftir.

Hér eru aftur á móti rifjaðar upp nokkrar þær greinar sem birzt hafa í blaðinu á þessu tímabili, þær eru valdar af handahófi og sem dálítil vísbending um efni blaðsins á þessum liðnu áratugum. Þessu er  safnað saman í þeirri trú að lesendur hafi áhuga á ýmsu því sem blaðið hefur birt og því ekki frágangssök að rifja það upp.

En á það skal lögð áherzla að hér er ekki um úrval að ræða, langt því frá, einungis stiklað á stóru og sýnd dæmi sem enn mætti hafa af nokkra ánægju og fróðleik. Þessi sýnishorn af efni blaðsins eru eins og dropi í hafi, svo fjölbreytilegt og mikið að vöxtum sem blaðið er. Tæmandi sýnishorn yrði  efni margra  blaða, svo að ekki sé talað um upprifjun allra þeirra atburða sem  fjallað  hefur verið ítarlega um í Morgunblaðinu. Hin síðari ár hefur blaðið auk þess verið einskonar samkomutorg þar sem þúsundir manna hafa látið til sín heyra með ýmsum hætti, ekki sízt í bréfum til blaðsins og aðsendum greinum og verða dæmin í þessu blaði því færri sem nær dregur samtímanum.

 

Þetta blað sem lesendur fá nú í hendur fjallar hvorki um markmið né meginstefnur, eins og baráttuna fyrir skógrækt og umhverfisvernd, endurbætur á menntakerfinu á viðreisnarárunum, sjálfstæði, landvörn og gegn gjafakvóta, slíkt bíður betri tíma. Það er ekki heldur annáll né fréttayfirlit, þótt stiklað sé á nokkrum minnisstæðum atburðum og þeir rifjaðir upp, einkum í myndum. Hér er einungis sýnishorn af efni Morgunblaðsins/Lesbókar á þessari öld, þótt unnt væri að fylla mörg blöð eins og þetta með forvitnilegu og heldur bitastæðu efni. En margt vantar – og þó einkum það sem varpað gæti ljósi á félagsleg áhugamál höfunda og þá ekki síður stjórnmál. En stjórnmálaskrif, t.a.m. prófkjörsgreinar, eiga erfitt uppdráttar gagnvart veðrun og vatnsgangi tímans.

Þegar nær dregur er efni Morgunblaðsins og Lesbókar orðið svo yfirgripsmikið að ógjörningur er að henda reiður á því af einhverju viti. Slíkt krefðist mikillar  yfirlegu og óþrjótandi vinnu sem bíður seinni tíma. Margir munu því sakna minnisstæðra skrifa úr sópdyngju blaðsins, sem ekki eru tök á að birta nú. Auk þess kemur gamalt efni, að mestu gleymt, meir  á óvart en það sem nýrra er og í fersku minni; t.a.m. vekur það athygli að farið er að skrifa um tónlistarhús uppúr 1940 og flutning Reykjavíkurflugvallar eftir 1950. Þá mega menn vel ígrunda þau orð að sýna eigi Þingvöllum þá auðmýkt sem staðnum sæmir, hann kallar á hljóðláta helgi og hátíðlega. Þá má einnig sjá að löngum hefur verið skrifað um varnarmál og sitt sýnist hverjum um listgagnrýni. Síðast en ekki sízt þá hafa skáld og rithöfundar látið mikið að sér kveða hér í blaðinu. Þeir eru því harla fyrirferðarmiklir í þessari útgáfu. Margar ágætar ljóðaþýðingar hafa birzt í Lesbók, en við þeim er ekki snert í þessu blaði.

Til fróðleiks má geta þess að í skýringum við Jöklajörð Einars Benediktssonar segir í Ljóðmælum 1945 að kvæðið hafi ekki komið áður út á bók, en þess getið að það hafi verið prentað í Lesbók Morgunblaðsins 9. ág. 1931, 6. árg. 31. tbl. bls 243. „Þá stóð sem hæst Grænlandsdeilan milli Norðmanna og Dana, þetta er síðasta kvæði skáldsins, svo kunnugt sé.“

Þá er ekki úr vegi að benda á, að Guðmundur Kamban gjörbreytti Vikivaka frá því sem hann birtist í Lesbók, t.a.m. lýkur honum svo í síðustu gerðinni:

 

Rík var gjöf sú er gaf mér Drottinn:

að gleðjast vorlangan dag

við litla týsfjólu, túnin sprottin

og tístað sólskríkjulag,

en vetrarmorgun með marr á grundum

sem magnar sérhverja taug,

með hélu á rúðum og svell á sundum

og sól í steingeitarbaug.

 

– – –

 

Hvað er ártalið? Eitthvað lætur

í eyrum mér, færist nær …

hjartað syngur, og hjartað grætur,

og hjartað tryllist og slær.

Heyrist jódynur heim að bænum,

þau hóftök ein þekki ég –

ég fer mér stillt eftir grundum grænum

og gesti mínum í veg:

 

Vantraust Guðrúnar, vonsvik Kjartans,

með vopnum enda sinn fund.

En þetta er vísan um vizku hjartans

og vonglaða íslenzka lund …

Stína rakar, og Bjössi bindur,

og bóndinn hirðir sinn arð.

Nú er sólskin og sunnanvindur,

og Sörli ríður í garð.

 

Athygliverð eru ummæli Haralds Böðvarssonar, útgerðarmanns á Akranesi, þess efnis að hann biðji verkafólk sitt auðmjúklega afsökunar á mistökum í launagreiðslum eða eins og hann kemst að orði:

„Eins og öllum er ljóst, þá fer ekki hjá því að fyrirtæki sem gefur út ógildar ávísanir, hlýtur að tapa verulega áliti, en ég vona að það vari ekki lengi í þessu tilfelli, vegna þess að þetta var óviljandi gert og leiðrétt strax með innlausn ávísananna og vil ég nota tækifærið til að biðja þá sem hafa orðið fyrir óþægindum af þessum sökum, auðmjúklega afsökunar. Hér eftir munum við ekki gefa út ávísanir nema innistæða sé örugglega fyrir hendi og síðan hlaupareikningi Útvegsbankans var lokað, höfum við opnað ávísanareikning í Sparisjóði Akraness.“

Það er annar siðferðisgrundvöllur sem þessi ummæli eru reist á en það olnbogaæði sem nú tíðkast á markaðnum þar sem margir sjást engan veginn fyrir og skara eld að sinni köku án nokkurs tillits til umhverfisins. Þess má þá einnig geta að samtal við Harald hér í blaðinu var kveikjan að ævisögu Guðmundar G. Hagalín um hann síðar. Samtöl við sr. Jón Auðuns urðu einnig til þess að hann skrifaði ævisögu sína allnokkru síðar.

Þannig hefur Morgunblaðið komið víða við á langri vegferð um þessa hnígandi öld.

Ýmsir eiga eftir að sakna efnis sem ástæða væri til að rifja upp, en það verður að bíða betri tíma. Sem dæmi má nefna að þótt minningargreinarnar í Morgunblaðinu séu harla misjafnar að gæðum leynast þó góðar og merkar greinar innan um allt það efni, án þess hreyft sé við því í þessu blaði. Þá er ekki tekin nein gagnrýni, þótt nafnbundin sé, ekki heldur nafnlausar greinar eða ritstjórnargreinar, erindi eða ræður (að einni undantekinni þ.e. ræða Bjarna Benediktssonar, síðar forsætisráðherra, á Þingvöllum sem hann flutti blaðalaust, en þeir Valtýr Stefánsson, þá ritstjóri Morgunblaðsins, gengu svo frá til birtingar í blaðinu), heldur einungis greinar, ljóð og sögur, sem birzt hafa í Morgunblaðinu, eða Lesbók, undir nafni höfunda sinna.Stafsetningu er haldið, svo og fyrirsögnum.

Það styngi í stúf nú á dögum að segja í fyrirsögn að talað hafi verið við Elenu, dóttur Krúsjeffs, eða Nasser hefði verið hæfastur arabaleiðtoga eins og samtalið við Ben Gurion, forsætisráðherra Ísraels, er kynnt, samt lýsti hann því yfir að hann væri reiðubúinn að hitta Egyptalandsforseta og þannig var þetta fréttasamtal í Morgunblaðinu að heimsfrétt. Þá birtist einnig í Morgunblaðinu frásögn af Þingvallaför Ben Gurions og stefnumóti þeirra Ólafs Thors þar, en hún er ekki endurprentuð hér, þótt sá atburður hafi eins og ýmislegt annað sem hér vantar, verið harla minnisstæður og á margan hátt sögulegur. En það vörðubrot er á sínum stað á þessari löngu vegferð Morgunblaðsins um þessa svipmiklu öld. En á þessum erfiðu dögum kalda stríðsins þótti það nógu fréttnæmt að hitta dóttur Krúsjeffs, sovéska einvaldsins, og það notað í fyrirsögn, þótt Elena skýrði frá þeim merku tíðindum, að foreldrar hennar hefðu áhuga á að heimsækja Ísland, ef þau kæmu því við. Samtalið við Elenu fékkst vegna persónulegra tengsla fréttamanns við sovéska túlkinn, Vladimir Jakob, sem var með í förinni.

Þá þóttu ummæli Ben Gurions um Nasser óvænt og raunar einstæð og nægilegt tilefni til fyrirsagnar.

Margir slíkir stórviðburðir sóttu Ísland heim á kaldastríðstímunum og fylgdist Morgunblaðið rækilega  með þeim öllum, hér í blaðinu voru t.a.m. samtöl við Furtsevu, menntamálaráðherra Sovétríkjanna, Mikojan aðstoðarforsætisráðherra, Gromykó utanríkisráðherra, fyrsta geimfarann, Gagarin, og höfundur samtalsins við Elenu sótti heimssögulegan fréttamannafund með Krúsjeff í París á sínum tíma (1960), skýrði frá honum í  blaðinu og var lýsing á því sem gerðist í einu af páskablöðum Morgunblaðsins.

Þá hafa birzt stór samtöl hér í blaðinu við ýmsa erlenda listamenn sem helzt hafa komið við sögu á öldinni eins og Arthur Miller, William Faulkner, Ellu Fitzgerald, Louis Armstrong, Menuhin, W.H. Auden, Steven Spender og mörg samtöl við andófsmanninn og listamanninn Ashkenazy, auk margra annarra samtala við lista- og andófsmenn á borð við Brodský, Sinjavský, Rostropovits, Tarsis og Búkovský.


Þá skal þess einnig getið að í þessa syrpu vantar að mestu ýmsar ágætar greinar eftir blaðamenn Morgunblaðsins gegnum tíðina og væri ekki úr vegi að taka saman úrval úr þeim, svo margir framúrskarandi blaðamenn sem hafa unnið við blaðið, sumir látnir eða hættir störfum, aðrir í fullu fjöri.

Framan af skrifuðu konur lítið í Morgunblaðið og er hlutur þeirra því rýrari en æskilegt hefði verið.

Hvað sem öðru líður, heyrir allt þetta efni til öldinni sem nú er óðum að líða, það er staksteinar sem stiklað er á og ættu að gefa einhverja hugmynd um íslenzkt samfélag 20. aldar. Fyllri mynd og betri verður að bíða þeirra sem lifðu ekki þessi aldahvörf, en eiga einhvern tíma í framtíðinni eftir að horfa um öxl og sjá þessa fortíð svipuðum augum og þeir sem skrifuðu atburði 9. og 10. aldar inn í sagnfræði, sögur og skáldskap.

Þetta blað kemur út á fyrsta rúmhelgum degi ársins 2000, mánudeginum 3. janúar. Í því felst engin vísbending um mánudagsútgáfur Morgunblaðsins, þótt að þeim sé unnið.

Ritstjórn Morgunblaðsins hefur valið þrjá helztu innlendu atburði aldarinnar og einnig þrjá helztu erlendu atburðina og er um þá sérstaklega skrifað. Allir marka þessir atburðir þáttaskil og söguleg tímamót; þeir eru heimastjórn 1904, fullveldið 1918 og lýðveldisstofnun 1944, heimsstyrjöldin fyrri, 1914–1918, heimsstyrjöldin síðari, 1939–1945, og loks lending mannsins á tunglinu 1969 (sbr. forsíðu), en ekkert sýnir betur en hún þekkingarleit okkar og þau ótrúlegu vísindalegu afrek sem unnin hafa  verið á öldinni. Landlæknir mun skrifa um helztu afrek læknisfræðinnar á öldinni og birtist grein hans hér í blaðinu á morgun.

Ritstj.

 

Þetta var innskot í samtal okkar Styrmis við Davíð Oddsson. En niðurstaða þess var sú að þeir Halldór Ásgrímsson verða báðir áfram í íslenzkri pólitík, það eru náttúrulega pólitísk stórtíðindi. Hann talaði einnig um veika forystu vinstri manna og það er augljóst að Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrum ráðherra í ríkisstjórn hans sjálfs, fer mest í taugarnar á honum allra stjórnarandstæðinga. Ég held það sé vegna þess honum finnst hún  merkilegri með sig en efni standa til.

 

Annars hef ég haft í mörgu að snúast undanfarið. Ég hef verið óvenjumikið í fjölmiðlum vegna útkomu ljóðabókarinnar Ættjarðarljóð á atómöld sem hefur fengið bæði góða dóma og hlýjar viðtökur og segja mér allir að það sé mjög bjart í kringum þessa bók. Ég las úr henni á Stöð 2 og umsjónarmaður þáttarins, Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, sambýliskona Kjartans Ragnarssonar, er mér sagt, kynnti mig sem ástsælt skáld. Það fór eitthvað í taugarnar á mér,  þótt ég segði ekkert. Samt hefur enginn gert neinar athugasemdir við þessa fullyrðingu, þótt sjálfur telji ég að hún sé ekki rétt. Ég er ekki ástsælt skáld. Ritstjóri Morgunblaðsins á að vísu einmhverja  virðingu, en hann er ekki ástsæll! Það verður að bíða betri tíma!

Ég átti einnig harla gott samtal um bókina við Eirík Guðmundsson hjá Ríkisútvarpinu, einnig mikið samtal við Súsönnu á DV og Vilborgu Halldórsdóttur sem stjórnar bókaþætti Skjás 1, ásamt Sjón sem hafði talað fagurlega um bókina í þætti Sigmars Haukssonar á Stöð 1. Ég sá ekki þann þátt, en mér er sagt þeir hafi hrósað mér og ljóðunum á hvert reipi og Sjón hafi sagt ég væri aldurslaus. Það líkar mér vel. Af þeirri ástæðu m.a. ætla ég ekki að halda upp á sjötugsafmælið mitt 3. janúar nk. Ég hef bæði talað um það við DV, Dag og fleiri að nefna ekki þetta afmæli á nafn, það er komið nóg af svo góðu. Ég hef aldrei verið í eins mörgum fjölmiðlum og undanfarið, auk þess hef ég lesið alla ljóðabókina síðustu inná disk fyrir Vöku-Helgafell og á jóladag var útvarpað löngu samtali mínu við Jónas Jónasson, ég held það hafi staðið yfir í hálfan annan tíma, eða frá hálf ellefu fram yfir miðnætti. Agnes Bragadóttir sagði að samtalið hefði bjargað jólunum fyrir sér! Ég hef ekkert heyrt um það annað en allt ágætt.

Sigríður Albertsdóttir skrifaði hörkufínan ritdóm um ljóðabókina í DV og Þröstur Helgason framúrskarandi góða greiningu á bókinni, tengslum hennar við annan skáldskap minn og þá ekki sízt því markmiði að gera tilraun til að rífa módernistiska klisjutækni í ljóðlist eins og roð frá svelli. Það var ekki sízt markmiðið með þessari bók og af þeim sökum var hún áhættusamt ævintýri, en mér er nær að halda það hafi tekizt. Það gæti þannig orðið einhver ávinningur af útkomu bókarinnar, ef hún vísaði veginn frá stöðnun og kyrrstöðu inní nýja ljóðræna hreyfingu.

Anton Helgi Jónsson, sem lét að sér kveða á sínum tíma sem ungt upprennandi skáld, var með mér í Skjár-þættinum, ég þekki hann lítið, en finn að hann hefur næma tilfinningu og viðkvæman ljóðrænan smekk. Mér líkaðí ákaflega vel að hafa hann við hliðina á mér í þessum þætti. Vona að honum gangi vel á ljóðlistarbrautinni, en ég held hann vinni nú einkum við auglýsingastarfsemi. En svona næmur maður á eftir að láta meira til sín taka á sviði íslenzkrar ljóðlistar, vona ég.

 

Mér líkaði sérstaklega vel þegar Þröstur Helgason lét að því liggja að ég liti á ljóðlist nútímans eins og ganglausa truntu, það mætti vel kalla fyndna alvöru(!)

 

Niðurstaðan?

Mundi hún ekki vera sú að við gerðum okkur grein fyrir því, að við erum hluti af náttúrunni, en ekki fuglahræður; að við gerðum okkur grein fyrir því að fuglarnir eru framhald af jörðinni. Að hugsun okkar er hreyfing sem minnir á vængi þeirra. Það er á þeim sem þeir komast til himins.

 

Ég sagði í samtali við Hallgrím Geirsson og Erling Jónsson, myndlistarkennara í Noregi, sem ætlar að gera af mér lágmynd eða brjóstmynd fyrir Morgunblaðið og við hittum í fyrradag, að það hefði líklega verið mér lífsnauðsynlegt að vinna við blaðamennsku vegna þess, að annars hefði ég horfið inn fyrir einhverja klausturmúra og losnað úr tengslum við lífið sjálft, svo hlédrægur sem ég hef alltaf verið, hvað sem öðru líður. Það væri nauðsynlegt að hafa jarðsamband. Þá minnti hann okkur á að þetta væri eins og halda í snúruna á flugdreka; það væri eina leiðin til að halda drekanum á lofti. En ef maður skæri á snúruna til að drekinn færi hærra til himins, þá yrði hann stjórnlaus og hrapaði til jarðar.

Mér fannst þetta ágæt líking hjá Erlingi og ætla að hafa hana í huga.

 

Sáum frumsýningu á nýrri gerð Gullna hliðsins í Þjóðleikhúsinu annan í jólum. Það var mikil sýning, en sitt sýnist hverjum, heyrist mér. Það var margt gott í þessari sýningu en það bezt að hún er tilraun til að brjótast út úr sjálfheldu torfkofans, hún er hreyfing. Það sem er frosið er líflaust og kalt, það er allt og sumt. Eftirvæntingin er einhvers konar vorleysing, en ef hún fer úr böndunum breytist Valagilsá í skaðræðisfljót.

 

Já, ég hef haft mikið að gera undanfarið, m.a. skrifað bæði jóla- og nýársleiðarana. Hef viljað gera það sjálfur á þessum tímamótum. Vil nú af einhverjum ástæðum að allt sé eftir mínu höfði. Kannski er þessi hugsun einhvers konar upphaf að viðskilnaði.

 

Tvær gamansögur

Mér var sagt um daginn og sel það ekki dýrara en ég keypti, að Jóhannes í Bónus hafi verið á leið til Ameríku í Flugleiðaþotu og barinn hafi verið lokaður á hann. Þá hafi hann tekið upp ávísanaheftið, heimtað að barinn yrði opnaður aftur og sagt við flugstjórann sem nú hafði skorizt í leikinn, að hann keypti þotuna hér með! Nú væri hún orðin hans eign, hann væri búinn að greiða hana - og rétti fram ávísunina, kr. 1.300.000.000. Þá leit flugstjórinn á hann, rétti honum aftur ávísunina og sagði, Þú verður að setjast aftur, góði, þetta dugar ekki. Þetta er einungis hálfvirði, þetta er bónusverð!

Hin sagan er svohljóðandi: Ég kom inní myndbandaverzlun í Kringlunni. Verzlunarstjórinn er gamall vesturbæingur og þekkti mig augsýnilega, þótt ég vissi ekki deili á honum. Hann var bæði alþýðlegur og samskrafsgóður. Í miðju samtali um myndbandið spurði hann mig, hvort ég hefði heyrt söguna af Árna Johnsen, þegar hann fann flöskuskeytið í Vestmannaeyjum. Ég svaraði því neitandi. Hann sagði að Árni hefði fundið flöskuskeyti, séð að tappinn var laus, tekið hann úr og þá hefði komið töfrapúki í ljós, horft á Árna og sagt: Jæja góði, nú máttu óska þér hvers sem er, þú munt fá allar óskir uppfylltar. Árni lét ekki á sér standa og svaraði, Þá vil ég fá jarðgöng frá Vestmannaeyjum og í land. Ne-i, svaraði púkinn. Þetta er of mikil ósk, viltu ekki óska þér einhvers annars? Fyrst svo er, sagði Árni, þá óska ég mér þess að ég verði stórsöngvari eins og Domingó!

Þá horfði púkinn vandræðalega á Árna og sagði: Heyrðu, hvað viltu mörg göng?!

Ég sagði Árna þessa sögu, þegar við hittumst í hléinu á Gullna hliðinu, og ég sá ekki betur en hann tæki þessu vel. Hann sagðist vera byrjaður á nýrri svítu og hótaði mér því að fella inn í hana eitthvert ljóð eftir mig. Jónas Jónasson valdi inn í fyrrnefnt samtal okkar söng Árna og lag við kvæðið Hanna en eina athugasemd Agnesar Bragadóttur við þáttinn var þessi, Mér er sagt þú hafir ekki valið tónlistina!

Annars er þetta ágætt lag hjá Árna og önnur tónlist í þættinum féll mér vel.

 

Fyrrnefndir leiðarar eru svohljóðandi:

Kristinn arfur

Á jólum er ágætt að staldra við, líta um öxl og minnast þeirra sem hafa skilað okkur áleiðis. Margar kynslóðir hafa lagt mikið á sig til að varðveita mikilvægan arf og þá ekki sízt aldamótakynslóðin sem svo hefur verið nefnd, en hún kenndi okkur öðrum fremur að fara varlega með fjöreggið og glopra því ekki niður. Nú þegar hún er að hverfa eins og hnígandi sól þessarar aldar horfir við okkur sú staðreynd, að það er okkar hlutskipti að vernda og ávaxta það sem hefur fallið okkur í skaut. Ef við getum sagt með helgri bók, að okkur hafi fallið í arfahlut yndælir staðir og arfleifðin líkar mér vel, þá erum við vel í stakk búin til að mæta óvissri framtíð; vel á vegi stödd og þurfum ekki að kvíða þeim jólum sem ný öld ber í skauti sínu. En ef verðmæti brynnu upp fyrir augum okkar í því æðislega markaðskapphlaupi sem engu þyrmir og leggur allt að jöfnu væri ástæða til að líta með þó nokkrum kvíða fram á veginn og þeim fyrirvara sem efni standa til um hlutverk okkar sem þjóðar, áform og ætlunarverk. Við höfum haldið kristnum arfi í nokkuð góðu jafnvægi við áleitnar freistingar neyzlusamfélagsins, en þó er ástæða til að staldra við og íhuga stöðuna í allri þeirri velsæld sem nú er efst á baugi, minnug þess að hagsæld hefur gert margan manninn ráðvilltan eins og fram hefur komið í nýlegri könnun í Bretlandi, en hún leiddi í ljós að þessi nágrannaþjóð okkar eyðir milljörðum punda í munaðarvörur og gjafir fyrir jólin sem enginn þarf á að halda og flestir vildu án vera. Markaðskannanir eru að vísu engin guðspjöll en það má vel draga ályktanir af slíkum upplýsingum. Enginn vafi er á því að margir hlaupa eftir áróðri fagurgalans og sækja í hunangið - og umhverfið stendur á öndinni yfir því að missa nú ekki af neinu.

Það er að vísu ekkert fallegt að vera fátækur, eins og einu sinni var sagt, en því miður hafa ekki allir jafn mikið handa á milli á þessum jólum, ekki frekar en áður, suma skortir jafnvel það sem neyzlusamfélagið telur til sjálfsagðra nauðsynja. Gleymum því ekki að það er erfiðara að vera fátækur í ríku samfélagi en fátæku. Hér er ekki verið að gagnrýna þá fallegu venju kristins fólks að gleðjast á jólum og gefa vinum og ættingjum gjafir, en ástæðulaust að verja miklum upphæðum í það sem mölur og ryð fær grandað jafnóðum og höndlað er. Margt er það tízkufyrirbrigði á markaðstorgi samtímans sem er jafnóþarft og það er vinsælt, jafn forgengilegt og hver annar ónauðsynlegur munaður. En þessi tilhneiging til óþarfa hefur fylgt mannkyninu a.m.k. síðustu tvö árþúsund, en sú ofgnótt sem nú er allsráðandi í markaðsþjóðfélaginu hefur keyrt um þverbak undanfarið.

Margt er það í samfélagi okkar sem gæti einna helzt minnt á farsa eftir Dario Fo, sumar uppákomurnar jafnvel svo fjarstæðukenndar að þessi ítalski grínisti og þjóðfélagsgagnrýnandi fengi minnimáttarkennd ef hann kynntist því. Við þetta verðum við víst að búa enn um stund og höfum góða æfingu í að þreyja þorrann, svo að okkur ætti ekki að vera vandara en öðrum. Sumum fátækum þjóðum þættu vandkvæði okkar eins og hver annar lúxus miðað við hlutskipti þeirra og hörmungar sem þær þurfa við að etja.

En hvað sem því líður og hvað sem líður þeim könnunum sem sýna að við erum þjóða ánægðust með kjör okkar eigum við langt í land að því marki að nota kristindóminn til að ýta undir þjóðfélagslega reisn, þannig að auðsýnt væri á hverju sem gengi að kjarninn er þó heill, ef að er gáð, eins og Einar skáld Benediktsson segir um andstæðukennt eðli Njáls á Bergþórshvoli. Við ættum að leggja höfuðáherzlu á að varðveita slíkan kjarna í þjóðarsálinni, en hann skiptir öllu, umbúðirnar engu, hvað sem öllum pótemkin-tjöldum líður, en þau skortir svo sannarlega ekki í því hagsældarsamfélagi sem dýrkar fremur veraldleg gæði en andlegt þrek. Og það skulum við muna, ekki sízt á fæðingarhátíð frelsarans, eða sonarins góða, eins og Jónas kemst að orði, að það er bæði unnt og eftirsóknarvert að iðka kristindóm án óhófs og hégóma. Hvíti-Kristur kallar ekki á heiðin jól og glasaglaum, heldur hátíð ljóss og mannlegrar reisnar - hljóðláta hátíð án veizluglaums og vímuefna, hvort sem er á helgum stöðum í náttúrunni eða heima á bæjarhellunni.

Með ósk um slíka, sanna jólahátíð, hverjum einum til handa, er hollt að minnast kristins arfs og þeirra sem á undan eru gengnir og þekktu mun á kjarna og umbúðum og glöddust yfir kerti og spilum, ef því var að skipta.

Morgunblaðið óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

 

2000

Sagt hefur verið að við séum afurð fortíðarinnar. Það má til sanns vegar færa og þarf ekki annað en líta á tvö eða þrjú ártöl og atburði þeim tengda til að færa rök að því. Það voru ekki einungis öndvegissúlur sem komu út hingað við landnám víkinga 874, heldur fluttu þeir með sér annan mikilvægari þátt íslenskrar sögu, það var tungan sem við tölum enn í dag og ber rótum okkar vitni öðru fremur, en guðamyndirnar á súlunum hurfu úr hýbýlunum með nýjum tíma og öðrum sið. Hann tók við 126 árum eftir landnám og verður þess minnzt á þessu ári þegar haldið verður upp á þúsund ára kristni í landinu. Sá atburður lifir enn með þjóðinni og þó öllu heldur þau siðaskipti sem urðu 1550, þegar blæbrigðamunur varð á guðskristni og lútherska hélt innreið sína og varð allsráðandi arfleifð eins og tungan.

Segja mætti með nokkrum sanni að við lifum nú poppsósa hávaðatíma og langur vegur frá samtímanum aftur í klausturþögn kaþólskrar menningar. Margt hefur gerzt á þessari löngu vegferð og margt hefur verið lagt í klyfjar tímans, sumt gleymt í þeirri grafarþögn sem öllu tortímir, annað lifir góðu lífi á þeirri svipulu öld sem nú fagnar nýjum tímamótum. En við því má búast að hávaðinn verði ekki minni, né umsvifin né uppákomurnar á því árþúsundi sem rís senn með sól nýrra og óvissra aldahvarfa.

Þá má fyrst og síðast gera því skóna að hinu nýja árþúsundi fylgi ekki minni tækniundur en sett hafa mark sitt á þessa síðustu öld sem á nú einungis teyming eftir og hverfur eins og fljót að fljóti, án sjáanlegra vatnaskila.

Enginn vafi leikur á því að tölvur og vélmenni verða enn atkvæðameiri á nýrri öld en verið hefur og raunar fyrirsjáanlegt að við þurfum á allri okkar andlegu orku að halda til að mennskan haldi í við þá yfirmáta tækniþekkingu sem vísindahyggjan á eftir að leiða fram á sjónarsviðið, vonandi einkum til góðs, þótt full ástæða sé til að vera vel á verði og láta ekki tæknina ná yfirhöndinni yfir þeirri mannlegu viðleitni sem ráða mun úrslitum um stöðu mannsins í framtíðinni. Ástæða er þó til að vara við þeirri manndýrkun sem einkennt hefur 20. öldina. Jafnvægi í lífi mannsins er ekki síður mikilvægt en jafnvægi í náttúrunni.

Tækni og vísindi eiga að auðvelda manninum störf hans, en ekki breyta honum í eftirmynd tölvu og véla. Þessar afurðir þekkingarleitar mannsins eiga sem sagt að vera hvítur galdur til framfara og bættrar stöðu mannsins í sköpunarverkinu, en ekki sá svarti galdur sem einatt hefur verið mannkyninu skeinuhætt freisting, gæti jafnvel leitt til glötunar, tortímingar eins og kjarnorkuváin.

Ef þessi galdur verður til góðs, ef hann verður ekki leikur að eldi, er ástæða til að horfa björtum augum til framtíðar, að öðrum kosti þarf ekki að spyrja að leikslokum.

En hvað okkur varðar, Íslendinga, er augljóst að fortíðin er ákjósanlegasti efniviður framtíðar og við eigum að rækta með okkur það sem hefur bezt dugað og rækta það sem hefur einkennt okkur sem þjóð. Það hefur farið okkur bezt og orðið notadrýgst veganesti í eilífri baráttu fyrir sjálfstæði okkar, sérstöðu og farsæld. Sem slík getum við hnarreist tekið þátt í alþjóðasamfélaginu, eins og verið hefur.

Á þessum merku tímamótum sem nú eru skulum við vona að maðurinn kunni fótum sínum forráð og noti síaukna tækniþekkingu sjálfum sér til góðs og því umhverfi sem honum hefur verið trúað fyrir af þeirri forsjón sem himininn skóp og jörðina og treysti okkur fyrir hvorutveggja. Ef þessi þekking verður til þess að maðurinn geti uppfyllt jörðina eins og efni standa til, þurfum við engu að kvíða. Þá er ástæða til að horfa björtum augum inní þá nýju öld sem nú djarfar fyrir. Vonandi að svo megi verða.

Í trausti þess þakkar Morgunblaðið lesendum sínum og landsmönnum öllum samfylgdina á þeirri öld sem nú er að víkja og óskar þeim góðs gengis og gleðilegra tíðinda á þeirri öld sem rís við hafsbrún leyndardómsfullrar eftirvæntingar.


Knut Ödegaard sendi mér á geisladiski þætti um okkur í norska útvarpinu í vetur. Þar voru lesin eftir mig mörg ljóð í norskri þýðingu Knuts og ég las einnig tvö eða þrjú kvæði á íslenzku, auk samtals á brokkgengri skandinavísku.

 

Dauðinn er ekki atburður í lífinu, sagði Wittgenstein. Ég er ekki viss um þetta sé rétt. Held fólk geti upplifað dauða sinn eins og líf sitt.

 

Wittgenstein og undirvitundin

Það var tekið að bregða birtu, húmið á leiðinni inní kvöldsett augu mín. Föl á götunum og það breytti þessum dimmumótum í ævintýralegan leik ljóss og skugga. Ég var annars hugar. Vissi ekki af fyrr en ég stóð við tvo sýningarglugga í þekktustu líkkistuverzlun bæjarins og gægðist inn. Augu mín festust við ómálaða kistu, festust eins og fiðrildi í þéttriðnu neti. Og þarna stóð ég án þess vita hvers vegna. Það var undirvitundin sem gægðist þarna við gluggann og horfði á kistuna. Ég tók ekki við mér fyrr en ég stóð sjálfan mig að því að vera að mótmæla því í huganum sem ég hafði lesið eftir Wittgenstein, að dauðinn sé ekki atburður í lífinu. Víst er hann atburður, sagði undirvitundin og kom upp á yfirborðið, náði tökum á allri hugsun minni. Víst er hann atburður. Og nú ertu sjálfur að upplifa þennan atburð. Við upplifum dauða okkar í hvert skipti sem hann hvarflar að okkur. Í hvert skipti  sem við hugsum t.a.m um dauða vina okkar.

Ég jánkaði þessari fullyrðingu undirvitundarinnar og lét hana gott heita. Losaði augun af kistunni í brúnum jarðarlit og flutti þau hægt yfir á hvíta kistu í hinum glugganum. Af tvennu illu þótti mér sú brúna bærilegri áfangastaður, þegar þar að kæmi. Og ég sá hana fyrir mér í eldinum; upplifði hvernig eldurinn lék um hana og reif hana í sig eins og rándýr og breytti þessum áfangastað í hvíta ösku dauðans.

Ég þaggaði niður í undirvitundinni,  fyrirskipaði augunum að láta að stjórn. Þau horfðu nú niður götuna og staðnæmdust við fölið, þar sem það var að breytast í dálítið fjúk á horninu. Gekk þangað hugsi, síðan meðfram tjörninni og austur í bæinn.

Undirvitundin bærði ekki á sér, engu líkara en hún væri eins og þögult vitni sturlunnar í spennitreyju, auðmýkt og lét ekkert á sér kræla.

Gekk austur Hringbraut og að stóru skilti í strætisvagnaskýli móts við Laufásveginn, þá var komin rigning og færðin hafði breytzt í slabb, svo ég þurfti að vara mig á bílunum. Stanzaði og las á skiltið: Jesús elskar þig, stóð stórum stöfum og ég fór að  hugsa um þessi orð, en fékk ekki tóm til þess vegna þess þá kom stór flutningabíll og spýtti slabbinu yfir mig allan.

Það var aðfangadagsmorgunn og ég yrði að fara í bað, þegar heim kæmi, hugsaði ég með sjálfum mér og horfði á eftir flutningabílnum, leit síðan aftur á skiltið, las Jesús elskar þig og hugsaði, getur það verið eins og slabbið er?

Gekk svo áfram upp á Klambratún, settist þar á bekk við frosna skafla og þá var engu líkara en undirvitundin losnaði úr læðingi og hún fór að tengja saman líkkisturnar og jesús-skiltið í strætisvagnaskýlinu og ég fór ósjálfrátt þarna í krapinu að upplifa dauða minn í annað skiptið þennan minnisstæða morgun.

Og ég vissi að Wittgenstein hafði á röngu að standa.

 

30. desember, fimmtudagur

Höfum skrifað Reykjavíkurbréf gegn vínveitingum á Þingvöllum á Kristnihátíð. Halli hafði sem ríkislögreglustjóri gert athugasemd við þessa fyrirætlan í bréfi til nefndarinnar. Nú hefur Kristnihátíðarnfnd fallið frá því. Skrifuðum í dag, 30. desember, forystugrein um málið og hrósuðum byskupi og nefndinni fyrir að taka nýja ákvörðun, hætta við vínveitingaáætlun framkvæmdanefndarinnar og breyta þessari samkomu aftur í fjölskylduhátíð eins og 1974. Það er nóg af verzlunarmannahelgum á Íslandi, þótt kristnihátíðin bætist ekki við.

Samt verður þetta víst einhvers konar popphátíð öðrum þræði, þannig er tíðarandinn.

 

Fórum að venju þennan dag til Margrétar Margeirsdóttur og Sigurjóns Björnssonar, vina okkar. Þar voru Birgitta, samfylgdarkona Sveins heitins Björnssonar, listmálara, vinar okkar, og Jóhannes Geir listmálari. Ingó kom síðar, en með okkur var Örlygur, sonur Sigurjóns og Margrétar. Hann vinnur á Morgunblaðinu, ágætur maður og góður píanóleikari. Skemmtilegt kvöld að venju. Það hafði verið spáð hinu versta veðri og þegar við fórum heim á þriðja tímanum í nótt var komið slagviðri á austan, líklega ein tíu vindstig.

Fengum góðan mat hjá Margréti að venju og margt spjallað. Jóhannes Geir og Sigurjón, sem báðir eru ættaðir af Króknum, sögðu mér margt þaðan sem ég ekki þekkti. Þeir sögðu mér að Helgi Hálfdanarson hefði verið argasti kommúnisti í æsku, óalandi og óferjandi. Hann hefði m.a. tekið þátt í svívirðilegri rógsherferð á hendur oddvitanum, föður Jóhannesar Geirs. Allt kom þetta mér á óvart því að Helgi er einhver ljúfasti og kurteisasti maður sem ég hef nokkru sinni kynnzt. En hann var víst andskotanum róttækari á þessum árum. Það loddi síðan við hann fram eftir öllum aldri, en nú er hann orðinn gamalt íhald eins og við verðum öll með tímanum. Ég hitti hann um daginn og spurði, hvernig hann hefði það. Hann horfði á mig og ég sá hann var farinn að eldast. Hann sagði, Það dugar(!)

Þeir félagar Sigurjón og Jóhannes Geir sögðu mér frá ástarævintýri Friðriks Hansens á Króknum og frænku Jóhannesar, mig minnir hún hafi heitið Þorgerður eða Þorbjörg. Þau náðu ekki saman og Friðrik kvæntist annarri konu, en Þorgerður átti þá ósk heitasta að hann gerði henni barn - og svo varð. Til hennar orti hann Hörpukvæðið sem frægt er, heldur vel ort ástarkvæði, en lagið er víst  eftir Pétur Laxdal, sem einnig var á Króknum, þekki það þó ekki, en Pétur þessi var í slagtogi með Helga Hálfdanarsyni í hreyfingu kommúnista á Króknum. Þar var einnig Hólmar, faðir Sverris Hólmarssonar. Hann er barnabarn sérkennilegrar konu sem vann í sláturhúsinu. Það voru þrjú sláturhús á Króknum, sagði Jóhannes Geir, þau voru hræðileg. Á einu þeirra stóð Helvíti. - og var réttnefni. Jóhannes Geir sagði að amma Sverris Hólmarssonar hefði hrætt krakkana með því að hóta þeim sömu meðferð og sláturfénu “ – og þá hlupum við undan henni í dauðans ofboði”, sagði Jóhannes Geir.

Jóhannes hefur verið í þunglyndiskasti undanfarna mánuði og ekkert getað málað. Hann sagðist líka vera í stríði við son sinn út af peningamálum. Þetta er eina barnið sem vitað er fyrir víst að ég eigi, sagði Jóhannes, ég átti þennan dreng með Ástu Sigurðardóttur. Hann sagðist yfirleitt hafa verið hræddur við Ástu en hún hafi samt haft margt til síns ágætis. Hún var stóreyg og brúneygð, sagði hann, og hún hafði dökkt hár og hún var greind og það var skemmtilegt að tala við hana, en ég var hræddur við hana. Þá var ég tuttugu og tveggja ára.

Fórum heim þegar lægðin var í algleymingi. Ingólfur, sonur okkar, skutlaði Jóhannesi Geir og Birgittu heim til þeirra, en þegar við kvöddumst var rifjað upp að ekki hefði allt verið með feldu þarna um kvöldið. Það hrundi niður jólaskreyting, bolli og glas duttu í gólfið, hvorugt brotnaði, kristalsglas datt á disk á matarborðinu, en brotnaði þó ekki. Birgitta sagði, Þetta er hann Sveinn að gera vart við sig!

Kannski Sveinn vinur minn Björnsson hafi verið staddur þarna eins og stundum í gamla daga, þá fékk hann sér ærlega í staupinu, en þoldi það illa. Nú hefur hann kannski verið að drekka í gegnum mig eða einhvern annan, ég veit það ekki. Fann að minnsta kosti ekki á mér!

 

31. desember, gamlársdagur

Boris Jeltsin sagði af sér í dag. Hann bjargaði mannkyninu með því að berja niður kommúnismann í Rússlandi. Hvað sem um hann má segja að öðru leyti var þetta mikið afrek á sínum tíma. Vonandi verður uppskeran í samræmi við afrekið.

 

Davíð Oddsson skrifar athyglisverða áramótagrein í Morgunblaðið í dag. Hann segist hafa þá trú “að kennsla og þekking yngri kynslóðarinnar á síðari tíma sögu þjóðarinnar sé í molum”. Ég held það sé enginn vafi á því. En ég er ekki sammála því sem hann segir um Fljótsdalsvirkjun, að það séu “sjónhverfingar einar að halda því fram að deilan snúist um kröfuna um það sem kallað er lögformlegt umhverfismat. Allir sem þekkja til vita að deilan getur nú ekki staðið um annað en þekkt áhrif mannvirkisins á náttúruna annars vegar og hins vegar efnahagslegan ávinning af gerð þess. Þeir sem hengja sig í talið um lögformlegt umhverfismat eru að skjóta sér undan ábyrgð á að taka ákvörðun. Aldrei hafa fyllri upplýsingar legið fyrir við ákvarðanatöku af þessu tagi en nú.” Það er sjálfsagt rétt að miklar upplýsingar liggja fyrir, en með lögformlegu mati væri ef til vill hægt að finna leið sem fleiri gætu sætt sig við, það má að minnsta kosti reyna og ekkert liggur á. En hitt er auðvitað aðalatriðið að með lögformlegu umhverfismati væri unnið samkvæmt lögum og reglum og þegar niðurstöður lægju fyrir yrðu menn að sættast á þær hvaða skoðun sem þeir hefðu annars á slíkum virkjunum. Það var að minnsta kosti ákvörðun okkar ritstjóra Morgunblaðsins að við myndum fara eftir þeim niðurstöðum sem lægju fyrir, þegar farið hefði verið að þeim leikreglum sem alþingi sjálft setti á sínum tíma. Með lögformlegu umhverfismati hefði ef til vill verið hægt að ná einhvers konar þjóðarsátt um málið, það virðist mér einna mikilvægast úr því sem komið er. Nú ríkir ósátt og tvær þjóðir í landinu, en það er niðurdrepandi ástand eins og þeir vita bezt sem hafa einhverja nasasjón af íslenzkri samtímasögu. Það hefði verið betra fyrir andlega heilsu þjóðarinnar að reyna fremur að ná einhverjum slíkum sáttum en breyta landinu enn einu sinni í einhvers konar vígvöll. Auk þess verð ég að segja eins og er að ég tel samstarf við Norðmenn síður en svo ákjósanlegt, þeir eru harðjaxlar í viðskiptum og hugsa aldrei um neitt annað en sjálfa sig. Sem sagt, líkastir okkur allra þjóða.

En þó hef ég mest íhugað þessi orð í áramótagrein Davíðs sem mér finnst bæði raunsæ og áleitin og engan vegin unnt, eins og komið er, að halda í arfleifð okkar og tungu án þess gera sér einhverja grein fyrir þeirri þróun sem hann nefnir: “Sumum er þetta land lífsakkerið sjálft. Saga þjóðarinnar og sameiginleg reynsla hennar er mörgum enn megingrundvöllurinn og tungan, íslenskan, haldreipið sem aldrei má bregðast. Síðan er annar hópur sem fer stækkandi og ótækt að halda því fram að þar fari lakari Íslendingar en í hinum fyrri. Honum er þessi afstaða framandi. Í hans augum er sagan ekki fyrirferðarmikill hluti af nauðsynlegasta veganesti til veglegra lífskjara. Landið er flestum fagurt og kært, en þó eru ýmsir sem telja sig ekki hafa neinar skuldbindingar gagnvart því og þykir sumt af því sem áður hefur verið talið séríslensk fyrirbæri og menn verið stoltir af, lítið annað en óhagnýtt hjal. Tungan sé vissulega ágæt svo langt sem hún nái, en þó aðeins svo langt sem hún nái. Að svo miklu leyti sem hún þvælist fyrir mikilvægum markmiðum í lífinu, verði hún að víkja og muni hvort sem er gera það, hvað sem allri viðspyrnu líður. Því sé rétt að stuðla að því að sú breyting verði með snyrtilegum hætti og með sem minnstum skaða. Hér er mikið álitaefni á ferðinni sem óhjákvæmilegt er að taka til skoðunar. Er hugsanlegt að hreintungustefnan, orðasmíði í útlensku stað, sé í besta tilviki þrái og þvermóðska og heimóttarháttur sem dæmdur sé til að mistakast og sé jafnvel til þess fallinn að þrengja að tungunni svo að hún týnist að lokum? "If you can´t beat them, join them," er sagt á heimsmálinu. Er það þá eina hjálpræðið að hætta að smíða nýyrði en koma sér upp forriti sem setur útlend nýyrði frá 1950 eða svo og síðar inn í íslenska beygingafræði og hnýtir á þau íslenskum endingum? Hafa tölvan, Netið og þær tækninýjungar allar, með þeim óendanlegu möguleikum og mikla hjálpræði sem í því undri öllu felst, í raun tekið völdin hvað þetta varðar? Lýtur þetta sömu lögmálum og aldamótaákvörðunin sem áðan var nefnd? Þegar er til orðin einhvers konar hraðritunarenska sem fólk verður að tileinka sér og kunna ef það á að geta tekið þátt í þeim ljóshraða samskiptum sem fara fram á Netinu. Ég fyrir mitt leyti vil ekki gefast upp baráttulaust að óathuguðu máli þegar jafnmikið er í húfi og hér.”

Ef við töpum þessu stríði eða gefumst upp  skiptir engu máli hverjir búa í þessu landi; arfleifðarlaus þjóð getur búið hvar sem er og ætti miklu fremur heima í Wall Street en hér á hjara veraldar. Þá gæti hún stundað sinn bísness í New York á sinni Bahama-íslenzku, keypt landið og haft það fyrir sig eins og hvert annað sumarbústaðahverfi. Þá gætu sægreifarnir í Wall Street selt aðgang að fiskimiðunum og eytt kvótagróðanum í spilavítinu í Nassau og heimsótt árnar sínar eins og hverjir aðrir útlendir ríkisbubbar meðan dagur er lengst á lofti og júnísólin baðar landið eilífri birtu fram eftir öllum júlí. Þá hefði sjálfstæðisbaráttan væntanlega tekist til fulls í augum þeirra sem allt eiga – og einnig og ekki síður þeirra sem hafa aldrei komizt í raunveruleg tengsl við land sitt, þjóð sína og arfleifð.

 

6. janúar, á þrettándanum

Nýr dómur um að kvótakefið sé brot á stjórnarskránni, þ.e. jafnræðisreglu hennar. Ef hæstiréttur staðfesti hann, hryndi kvótakerfið - og jafnvel efnahagskerfið. Skrifum leiðara um að nú liggi mikið við að ríkisstjórnin nái áttum, áður en hæstaréttardómur fellur og þjóðarsátt verði um kerfið.

 

Leiðarinn er svohljóðandi:

DÓMUR Héraðsdóms Vestfjarða í hinu svonefnda Vatneyrarmáli hefur að vonum vakið mikla athygli. Sumir hafa haft uppi stóryrði af þessu tilefni og jafnvel talað um að efnahagslegt hrun væri framundan. Af þeim sökum er mikilvægt að undirstrika, að hér er um undirréttardóm að ræða. Hæstiréttur hefur síðasta orðið en gera má ráð fyrir, að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Engu að síður er dómur Héraðsdóms Vestfjarða mikilvægur vegna þess, að röksemdafærsla hans byggist algerlega á hinum sögulega dómi Hæstaréttar, sem féll síðla árs 1998.

Hæstiréttur fjallaði um 5. grein laganna frá 1990 um stjórn fiskveiða en Héraðsdómur Vestfjarða kemst að þeirri niðurstöðu, að rök Hæstaréttar eigi líka við um 7. greinina.

Í dómi Héraðsdóms Vestfjarða segir m.a.: "Eins og áður greinir var sú regla sett í 2. mgr. 7. gr. að veiðiheimildum á þeim tegundum, sem heildarafli væri takmarkaður af, yrði varanlega úthlutað til einstakra skipa. Veiðiheimildir skv. 7. gr. laganna voru með þessum hætti varanlega bundnar við skip, jafnt og veiðiheimildir skv. upphaflegri 5. gr. þeirra. Í úthlutun varanlegra aflahlutdeilda við gildistöku laga nr. 38/1990 fólst því sama mismunun tengd fyrra eignarhaldi á skipum og rakin er í forsendum Hæstaréttar hér að ofan. Ekki verður séð að rökbundin nauðsyn hnígi til þess að lögbinda um ókomna tíð þá mismunun við úthlutun aflamarks, sem hér af leiðir, enda verður að telja, að löggjafanum eigi að vera fært að móta reglur, sem til lengri tíma litið afnemi hana, jafnframt því að ná ofangreindu markmiði að vernda fiskistofna. Þessa hefur löggjafinn hins vegar ekki gætt. Eftir þessu verður ekki hjá því komizt að líta svo á, að regla 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1990 sé í andstöðu við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og þau sjónarmið um jafnræði, sem gæta þarf við takmörkun á atvinnufrelsi samkvæmt 1. mgr. 75. grein hennar, séu þessi stjórnarskrárákvæði túlkuð með sama hætti og gert er í ofangreindum Hæstaréttardómi. Af því leiðir, að ákærðu voru í umræddri veiðiferð ekki bundnir af aflatakmörkunum samkvæmt nefndri 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1990 og verður þeim því ekki refsað samkvæmt ákvæðum þeirra laga og ekki heldur fyrir brot gegn 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996. Verður því að sýkna ákærðu af kröfum ákæruvaldsins..."

Þessi dómur er mjög skýr. Hann byggist algerlega á forsendum Hæstaréttar varðandi 5. greinina. Þegar sá dómur féll töldu sumir lögmenn hugsanlegt að lesa út úr honum vísbendingar um afstöðu Hæstaréttar til 7. greinarinnar. Um það sagði Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. m.a. í samtali við Morgunblaðið hinn 11. desember árið 1998: "... það kunni að vera í forsendum dómsins einhver ráðagerð um það, að ef einhver slík álitaefni yrðu borin undir dóminn og um þau dæmt, kynni dómur að ganga á hliðstæðan hátt um það eins og um 5. greinar veiðileyfið."

Það er ljóst, að ef Hæstiréttur staðfestir dóm Héraðsdóms Vestfjarða er fiskveiðistjórnarkerfið í uppnámi á þeirri stundu. Er ástæða til að bíða eftir því? Er ekki skynsamlegra fyrir Alþingi og ríkisstjórn að horfast í augu við það, sem líklegt má telja að verði niðurstaða Hæstaréttar og breyta fiskveiðistjórnarkerfinu á þann veg að það samrýmist stjórnarskrá landsins? Rökin fyrir því að bíða niðurstöðu Hæstaréttar blasa ekki við. Skynsamlegra er að grípa til aðgerða á næstu vikum.

Í forystugrein Morgunblaðsins 11. desember 1998 sagði m.a.: "Frumvarp ríkisstjórnarinnar leysir ekki þann vanda, sem upp er kominn eftir dóm Hæstaréttar, af þeirri einföldu ástæðu, að það munu falla fleiri dómar og þá beint um aflaheimildirnar og Hæstirétttur hefur gefið löggjafanum skýra vísbendingu um í hvaða átt þeir dómar muni falla. Þótt frumvarp ríkisstjórnarinnar dragi úr óvissu til skemmri tíma er alveg ljóst, að það dregur ekki úr óvissu í málefnum sjávarútvegsins, þegar til lengri tíma er litið, vegna þess, að nýir dómar Hæstaréttar vofa yfir."

Þessar röksemdir eiga enn frekar við eftir dóm Héraðsdóms Vestfjarða. Það er tímabært fyrir ríkisstjórnina og meirihluta Alþingis að horfast í augu við þessar staðreyndir og mæta þeim með nauðsynlegum, sanngjörnum og eðlilegum breytingum á fiskveiðikerfinu.

Sjávarútvegurinn þarf á því að halda að festa og öryggi ríki í málefnum hans. Það er líka ákaflega mikilvægt fyrir fjármálamarkaðinn og eigendur hlutabréfa í sjávarútvegsfyrirtækjum að allri óvissu sé eytt. Hvernig bregst markaðurinn við vaxandi líkum á því, að staða sjávarútvegsfyrirtækjanna gjörbreytist í kjölfarið á hugsanlegum Hæstaréttardómi í Vatneyrarmálinu? Hvaða áhrif hefur það á fjármálakerfi þjóðarinnar?

Óbreytt fiskveiðistjórnarkerfi hefur runnið sitt skeið á enda. Það er að verða yfirgnæfandi hagsmunamál fyrir sjávarútveginn sjálfan að leysa þær hörðu deilur, sem staðið hafa um fiskveiðistjórnarkerfið í meira en áratug.