2000
þriðji hluti
27. nóvember, mánudagur
Sáum kvikmynd í gærkvöldi eftir sögu Graham Greens, The End of the Affaire, að mörgu leyti fín mynd enda er sagan í mjög grahamsköm stíl og lýkur á bollaleggingum um manninn andspænis guði. Við getum sagt að kjarninn eða plottið í verkinu sé bæði athyglisvert og eftirminnilegt og þá er tilganginum líklega náð. Þessi kjarni felst í því að aðalpersóna sögunnar, ástkona þess sem skrifar hana í dagbókarformi, lofar guði því án þess hún sé neitt sérsaklega trúuð að leiðir þeirra muni skilja, ef hann lifir af loftárás á London í síðasta stríði, þá muni hún fórna ást þeirra fyrir líf hans. Í bæninni heldur hún að vísu að ástmaðurinn sé dáinn, en þegar hann birtist sér hún að hún verður að halda loforð sitt gagnvart guði og um það snúast lokin í sögunni. Hugsun persónanna fjallar um guð sem þær trúa ekki á og kraftaverk sem þau trúa enn síður á; þ.e. valbrá sem hverfur eftir að konan hefur kysst ungan dreng á kinnina.
Allt er þetta hið ágætasta söguefni en það leiddi hugann að umfjöllun Borges í This Craft of Verse þar sem hann fjallar um ljóðið, en þó einkum söguljóðið og rætur þess í Hómer og hvernig það leystist upp. Ljóðið fór sína leið, frásögnin sína. Niðurstaðan varð sú að ljóðið glataði tengslum sínum við bókmenntalegan söng, ef svo mætti segja, en eins og kunnugt er voru Hómers kviður sungnar á sínum tíma og líklega einnig eddukvæði íslensk, svo að annað dæmi sé nefnt. En kjarni sögukvæðanna er frásögnin í þeim ljóðrænu umbúðum sem Hómers kviður og Enesar kviða Virgils bera vott um: Segðu mér sönggyðja af hugarangri Akkilesar, segir þar. En Borges segir einnig að við skyldum huga að Snorra Sturlusyni sem hann orti merkilegt kvæði um og hafði miklar mætur á. Hann minnir m.a. á að Snorri hafi sagt að Óðinn, guð saxanna, hafi verið sonur Priams en þannig bróðir hetjunnar Hektors. Menn hafi fremur leitað í hinar sigruðu hetjur Troju en grísku sigurvegarana. Ástæðan sé sú að það sé meiri tign yfir glæsilegum ósigri en sigurvímu þeirra sem vinna að öðru leyti.
En hvað sem því líður þá er Borges þeirrar skoðunar að frásögn hetjuskáldskaparins byggist á hetjunni sjálfri, allt sé undir því komið að hún sé á sínum stað. Þessa hetju vanti í nútímaskáldsöguna, þar séu miklu fremur alls kyns andhetjur; nútímaskáldsagan fjalli fremur um einhvers konar upplausn persónanna, þær séu séðar í ljósi niðurlægingar, a.m.k. ekki í neinum dýrðarljóma og þess vegna skorti þær kjarnann í söguljóðunum. Það sé nóg af brögðum í nútímaskáldsögum, en það vanti reisnina.
Ást Borges á Snorra Sturlusyni stafar ekki sízt af því hvernig hann skrifar um sínar hetjur þótt frásögnin sé ekki í ljóðrænum búningi, en samt eru verk Snorra einhvers konar epískar frásagnir, ekki síður en Hómers kviða eða Enesar kviða Virgils. Með sama rétti mætti segja að örfáar nútímaskáldsögur íslenzkar haldi trúnað við epísku hefðina að þessu leyti og dettur mér þá einna fyrst í hug Sjálfstætt fólk með hetju sinni, Bjarti í Sumarhúsum, og Ljósvíkingurinn með sinn skáldlega vesaling í gervi hetjunnar. Báðar eru þessar bækur skrifaðar í svo ljóðrænum stíl að það er næstum því hægt að fullyrða að þær séu einskonar epísk hetjukvæði vegna þess að efnið er sett fram í margvíslegum prósaljóðum sem með köflum eru fullgildur ljóðrænn kveðskapur. Aðrar skáldsögur íslenzkar sem mér dettur í hug að falli undir þessa skilgreiningu eru Kristrún í Hamravík og Márus á Valshamri eftir Guðmund G. Hagalín sem báðar fjalla um sínar hetjur í sérstökum ljóðrænum prósa, svo og Aðventa Gunnars Gunnarssonar með hálendishetjuna Fjalla-Bensa í aðalhlutverki og hið ljóðræna náttúruumhverfi sem leiksviðið.
Borges gefur aftur á móti ekki mikið fyrir hetjulausar skáldsögur, nefnir þó Jósep Conrad og Hermann Melville sem einhvers konar fulltrúa fyrir arfleifð sem enn lifir í nútímaskáldsögum, en þær séu einhvers konar úrkynjuð söguljóð. Hann nefnir jafnvel Ulysses eftir Joyce og segir að verkið fjalli um persónurnar tvær eða þrjár sem maður viti þó ekkert um, þegar yfir lýkur, þrátt fyrir hina orðmörgu frásögn og alls kyns lýsingar á athöfnum þeirra og umhverfi. Hann staðnæmist þá ekki heldur við Kastalann eftir Kafka, við vitum að sögupersónan kemst aldrei inní kastalann, segir hann! Hann segist ekki vita hver sé upphafsmaður nútímaskáldsögunnar, enda sé ekki hægt að tala um neinn bókmenntalegan Adam. Nefnir þó Edgar Allan Poe og Hawthorne.
Borges segir að nútímaskáldsagan sé að sumu leyti sniðugri en epísku ljóðsögurnar og hún nærist á því eins og kvikmyndin Psysho sem sé miklu sniðugri en skáldsaga Robert Louis Stevensons, Doktor Jekyll and Mr. Hyde, en það fari vart framhjá nokkrum manni að hin síðarnefnda sé efnismeira listaverk. Hann telur að Seven Pillars of Wisdom, 1926, eftir T.E. Lawrence (1888-1935) komist næst því að vera einhvers konar nútíma hetjuljóð eða söguljóð; þar sé að finna margvísleg söguleg gæði, ef svo mætti segja, en það standi sögunni fyrir þrifum að hetjan er sögumaður og þarf stundum að gera lítið úr sér; þarf stundum að gera sjálfan sig mannlegan; þarf að vera trúanlegur! Sem sagt, hann þarf að falla inní hið sniðuga andrúm nútíma tískusögunnar. Það sé einna helzt í gömlum Hollywood-myndum, t.a.m. vestrum, sem hægt sé að finna einhvers konar eftirstöðvar af hinu forna söguljóði.
Borges saknar þess sem sagt að söguljóðið skyldi hafa leystst upp með þeim hætti sem raun ber vitni. Hann vonast til þess að einhver taki upp þráðinn þar sem frá var horfið. Þrátt fyrir fyrrnefndar íslenzkar sögur má með nokkrum sanni segja að söguljóðið hafi sungið sitt síðasta í rímum á nítjándu öld; t.a.m. rímum Gríms Thomsens af Fríði Dofradóttur. Þannig hafi Sigurður Breiðfjörð verið einhvers konar nítjándu aldar Hómer í íslenzkum skáldskap og við þurfum ekki að leita lengi til að sjá að það var ekki allt glóandi gull sem úr penna hans flaut þó að hann hafi verið góðskáld, þegar bezt tókst til. Það er líka hægt að færa rök að því að Sigurður Breiðfjörð sé einskonar aðalpersóna í Sjálfstæðu fólki, jafnvel Ljósvíkingnum í aðra röndina, en í Sjálfstæðu fólki svífur hann a.m.k. yfir vötnunum með þeim hætti að segja má að til hans sé skírskotað þegar mikið liggur við og minna þarf á hvernig íslenzk alþýðumenning er sprottin úr hetjusagnahefðinni, hvort sem jarðvegurinn er hið ljóðræna hetjukvæði Njála sem að vísu er skrifuð í íslendingasagnaprósa eða Grettis saga, svo að dæmi séu tekin. Að baki þessarar hefðar rísa frændurnir Snorri Sturluson og Sturla Þórðarson, annar höfundur noregskonungasagna en hinn íslendingasagna Sturlungaaldar.
Því má þá einnig bæta við að nokkrar íslenzkar ævisögur eru í aðra röndina skrifaðar eins og fornar hetjusagnir og leyfi ég mér þá að nefna Eldeyjar-Hjalta og jafnvel Ólafs sögu Thors, en það er ekki vegna höfundarins heldur persónunnar - að ógleymdri Önnu á Stóru-Borg sem er kvennabókmenntir í hetjusagnastíl.
Það má margt segja um ljóðrænan stíl og ég hef haldið því fram að Jónas Hallgrímsson t.a.m. hafi verið brautryðjandi í íslenzkum talmálsstíl í kvæðum sínum og tel að slíkur stíll geti verið höfuðprýði á kveðskap (Sáuð þið hana systur mína....t.a.m..). Slíkur stíll var ekki notaður í fornum hetjuskáldskap eins og raunar má sjá af þýðingum Sveinbjarnar Egilssonar, þar er notaður upphafinn ljóðrænn og tignarlegur frásagnarstíll sem á meira skylt við dróttkvæði en nútímaskáldskap.
Bandaríska skáldið John Ashbery segir í nýlegri bók sinni other Traditiones: Ég nota talmál þegar ég yrki kvæði - og hann er svo sannarlega ekki einn um það. Þau nútímaskáld íslenzk sem koma úr sveit nota að vísu síður talmál í ljóðum sínum en við hin sem erum fædd og alinn upp í Reykjavík. Ég nefni Hannes Pétursson og Þorstein frá Hamri sem fulltrúa hinnar klassísku arfleifðar í kveðskap. Ljóðmálsstíll hennar tíðkaðist í íslenzkum skáldskap fram á miðja þessa öld. Þessi stíll er að venju agaðri en talmálstíll og hefur verið í meiri metum en reykjavíkurmálið, ef svo mætti segja, en með byggðaröskun og nýjum kynslóðum hefur þetta breytzt. Þessi þróun hefur haft áhrif á þau skáld sem helzt hafa beitt þeim klassíska arfleifðarstíl sem ég minntist á. En það er ekki þar með sagt að ljóðið hafi orðið auðveldara viðureignar, þvert á móti. Atómskáldskapurinn er fullur af gildrum og alls kyns leyndardómum, fólki finnst hann oft og tíðum vera eins og málverk eftir Dali; þ.e.a.s. ráðgátur, eða a.m.k. gátur.
Fyrrnefnt skáld Ashbury segir í bók sinni - en hann getur bæði ort tyrfið og ljóst - að það sé alltaf verið að biðja sig um að skíra kvæðin sín en honum sé það gjörsamlega fyrirmunað, Þeir vilja fá lykilinn að skáldskap þínum, hefur verið sagt við hann, en þú hefur einungis afhent þeim nýjar læsingar! Allur skilningur sé fólginn í kvæðinu sjálfu, þar sé lykilinn að finna og hvergi annars staðar. En það hljóta allir að afhjúpa þennan leyndardóm hver með sínum hætti og án fyrirmæla frá skáldinu sjálfu. Hann segist jafnvel hafa gert tilraun til þess að lýsa kvæðum eftir sig, en þá komizt að þeirri niðurstöðu að hann hafi verið efninu ótrúr og hafi notað uppáfyndingar sem ekki eigi við rök að styðjast: Auden sagði einhverju sinni um þetta efni, Ef ég gæti sagt þér það mundi ég láta þig vita! Ég reikna með því að mörg skáld gætu tekið undir þessi orð, a.m.k. oft og tíðum, þótt stundum geti skýringar átt vel við og komið að góðum notum.
Slíkra skýringa hefur ekki verið þörf í frásagnakvæðum. Hetjukvæðin segja sína sögu, fylgja hetjunni eftir og lýsa því sem fyrir augu ber án undanbragða. Allt kemur heim og saman, engar skírskotanir, engin brögð, ekki endilega nein dæmisaga, kannski einhverjar líkingar og hjá metafórum verður ekki komizt, ekki frekar en í nútímaskáldskap. Áður fyrr að vísu kenningahröngl sem enginn skilur nú á dögum, en lesendur Sigurðar Breiðfjörðs höfðu á hraðbergi.
Borges nefnir marga eftirminnilega metafóra eða myndhvörf í sínu riti sem ég minntist á: tunglið er spegill tímans, segir í persnesku kvæði, hafið er vegur hvalanna, segir í engilsaxneskri kenningu, auk allra þeirra margvíslegu myndhvarfa sem við þekkjum úr íslenzkum bókmenntum, (ath. Einar Ben og K.K.) K.G. Chesterton orti kvæði um stríð Alfreðs konungs við Dani, The Ballad of the White Horse þar sem koma fyrir metafórur eins og solid marble like solid moonlight og gold like frozen fire. Það þarf ekki að leita lengi í nútímaskáldskap, ekki síður íslenzkum skáldskap en öðrum, til að rekast á slík myndhvörf, frumlegar líkingar og þá ekki sízt myndir sem geta sagt meira en ótal orð.
Andrew Lang var skozkur fræðimaður. Um hann orti Stevenson athyglisvert ljóð. Kristján Karlsson skírskotar til hans í einu ljóða sinna. Sumar athuganir Langs eru svo frumlegar að til þeirra er enn vitnað, t.a.m. þegar hann segir í ævisögu Tennysons: Time flowing in the middle of the night. Og þar segir að þetta séu fín myndhvörf því að á nóttunni sé allt þögult, þá sofi menn og skepnur - en samt heldur tíminn áfram að líða, hávaðalaust. Og svo má minna á skáldsögu sem heitir Of Time and a River eftir Thomas Wolfe, útg. 1935. Borges bendir á að með því að setja þessi tvö orð saman, tími og fljót eða á eða vatn, sé með myndhvörfum minnt á að tíminn og fljótið renni eða líði áfram.
Það skyldi þó ekki vera að Steinn Steinarr hafi haft þetta bókarheiti í huga þegar hann gaf einhverjum frægasta ljóðaflokki samtímans nafnið Tíminn og vatnið!
Líf okkar er fljót
sem rennur til hafs
sem er dauðinn,
segir Jorge Maurique (1440-1479)
(Þess má þá geta til gamans að Borges heldur hvað mest uppá metafóru kínverska heimspekingsins Chuan Tzu. Hann dreymdi að hann væri fiðrildi og þegar hann vaknaði vissi hann ekki hvort hann var maður sem hefði dreymt að hann væri fiðrildi eða fiðrildi sem væri nú að dreyma að það væri maður. "Þessi metafóra er, að ég held, sú fínasta sem ég þekki" segir Borges. Í fyrsta lagi vegna þess að hún byrjar á draumi, síðar þegar maðurinn vaknar er einnig eitthvað draumkennt við vökuna. Og í öðru lagi vegna þess að af einhvers konar hundaheppni sem líkist helzt kraftaverki valdi hann rétta dýrið. Ef hann hefði sagt "Chuan Tzu dreymdi að hann væri tígrisdýr þá hefði þetta enga .þýðingu". Það er eitthvað draumkennt við fiðrildi og þess vegna getur það eitt lýst þessu ástandi. Það hefði engu máli skipt þótt Chuan Tzu hefði dreymt að hann væri ritvél eða hvalur, nei, fiðrildi það er eina orðið sem á hér við.
Þetta minnir að sjálfsögðu á það sem trúbadúraskáldið þýzka Walther von der Vogelweide (1170-1230) söng á sínum tíma:
Die elegie (eligían):
Over sint verswunden
ist mir min leben getroument
daz ich wánde ez wære,
Ég hef sérstakar mætur á Borges eins og kunnugt er. Hef hitt hann á pílagrímsgöngu hér á Íslandi og skrifað um hann við ýmis tækifæri en þó einkum átt við hann löng samtöl sem birzt hafa í samtalsbókum mínum. Hann er að mínum dómi einn merkasti frumkvöðull nútímabókmennta í heiminum - og þá ekki sízt ljóðlistar; módernismi með óvenjusterkar rætur í gamalli arfleifð. Hann unni íslenzkri bókmenningu og gerði sér far um, ásamt lestri engilsaxneskra kvæða, að kynna sér íslenzk fornrit, skrifaði um þau sérstaka bók og varð einskonar sérfræðingur í kenningum og dróttkvæðum skáldskap. Hann hafði sérstakt dálæti á Snorra Sturlusyni og skírskotar oft til hans. Völsunga saga stóð hjarta hans næst og á legsteini hans í svissneskum kirkjugarði þar sem hann lézt er tilvitnun í setningu í Völsunga sögu. Ég gæti trúað því að það sé einsdæmi: "Hann tekur sverthit Gram ok leggr í methal theira bert".
Borges hefur áreiðanlega haft meiri áhrif á íslenzka nútímaljóðlist en við gerum okkur grein fyrir, a.m.k. hefur andi hans svifið yfir vötnunum og hann hefur aukið íslenzkum skáldum áræði og þrek, á því er ekki nokkur vafi. Bókin sem ég hef vitnað hér til er samin uppúr fyrirlestrum hans við Harward-háskóla og það getur varla verið nein goðgá að minna á fleiri atriði úr þessum fyrirlestrum, en Borges sagði alltaf eitthvað eftirminnilegt, eitthvað sem maður hefur þurft að staldra við, íhuga, melta. Borges minnir okkur á - og það væri gott fyrir nemendur í bókmenntum að hafa þau orð í minni - að það sé jafn mikilvægt að uppgötva ný vandamál og að leysa önnur. Hann hefur þessi orð eftir þeim mikla enska rithöfundi og draumamanni Thomas De Quency. Eftir allt sitt bóknám segist hann ekki geta miðlað neinu nema efanum. Hann minnir á að það sé ósjaldan sem honum detti í hug, þegar hann les bækur fagurfræðinga, að hann hafi verið að lesa verk stjörnufræðinga sem hafi aldrei séð stjörnur. Bókmenntir séu ekki hlutverk, þær séu ástríða og gleði. Lífið sjálft sé orðið til úr ljóðlist og bókasöfn séu full af dauðu fólki sem hægt sé að endurlífga. Það lifnar um leið og maður opnar síðurnar. En orðin séu einungis tákn og það sé upprisa orðanna sem skipti máli. Eða eins og þegar John Keats las pælingar George Chapmans "On First Looking into Chapman's Homer", þá reis þessi gamli samtímamaður Shakspeares upp í öllu sínu veldi í ódauðlegri sonettu hins unga skálds.
Ný upplifun, ný reynsla. Allt nýtt eins og þegar arnaraugu Cortez sáu Kyrrahafið fyrsta sinn; þögn. En þannig er ljóðlistin sjálf, ný reynsla hvert sinn sem til hennar er leitað eða - svo maður vitni til Sigurðar Nordals: Mosavaxinn steinn sem maður veltir við og þá blasir við nýr heimur af fjölbreyttu lífi.
En hvað sem öðru líður er ljóðlist með því marki brennd, að það er ekki fremur hægt að lýsa henni en t.a.m. kaffibragði eða rauðum lit eða gulum eða reiði eða ást eða hatri eða sólaruppkomu eða sólsetri eða ást okkar á landinu.
En samt er þessu öllu lýst í ljóðunum sjálfum og þá með þeim hætti að engu er líkara en lesandann dreymi að hann sé fiðrildi eða fiðrildi dreymi að það sé manneskja. En slíkum draumum verður ekki áfrýjað til annarra tilfinninga og þó allra sízt til neinna röksemda, þær sannfæra engan. Það er árangursríkara að gefa eitthvað í skyn en fullyrða. Fullyrðingin kallar á andstöðu.
En maður gleymir sér í ljóðinu.
Síðdegis
Það eru ekki alltaf stórskáldin sem hafa mest áhrif, stundum láta menn sér nægja góðskáldin, stundum þaðan af minni skáld; lággróðurinn sem skýlir æðri jurtum. John Ashbury fjallar um þetta í bók sinni other Traditions. Hann er eitt helzta ljóðskáld Bandaríkjanna nú um stundir og einskonar gúru módernismans þar í landi. Hann var mikill vinur Lees og Louisu Matthíasdóttur og skrifaði flotta ritgerð um hana og málaralist hennar. Í other Traditions fjallar hann um áhrif góðskálda á list hans og listsköpun og sýnir framá að þau séu, a.m.k. með köflum, jafngild þeim skáldum sem meira hafa verið metin. Hann leggur líka fram þá spurningu hvernig eigi að skilgreina stórskáld. Hann svarar því til að það sé einatt gert með því að minna á að stórskáld yrki yfirleitt mjög mikið, það yrki um margvísleg efni, það verði að sýna framá óumdeilanlegan frumleika, andlega sýn og stíl og síðast en ekki sízt verður stórskáldið að sýna aukinn þroska með aldrinum.
Ég skal svo sem ekkert um þetta segja en það eru ekki stórskáldin sem Ashbury tekur fyrir í þessu hnýsilega riti sínu, heldur skáld sem nú eru að mestu gleymd, en áttu svo sannarlega sinn dag, svo að vitnað sé í Einar Benediktsson, ef höfð eru í huga þau ljóðabrot sem Ashbury vísar til.
Þá eru ekki allir á eitt sáttir um það hver sé mikið skáld eða meira skáld en annar. Það fer eftir persónulegu mati hvers og eins. Ég er því þeirrar skoðunar að menn eigi aldrei að gera slíkan samaburð. Það er gott að við skulum ekki eiga ritdómana frá þeim árum þegar Hallgrímur Pétursson var að gefa út Passíusálmana sína eða dreifa þeim til Ragnheiðar í Skálholti og annarra vina. Ég er hræddur um við rækjum upp stór augu ef við sæjum útreiðina sem hann hefði fengið miðað við ýmsa aðra, sem nú eru löngu gleymdir.
Ashbury vitnar t.a.m. til George Moore sem skrifaði innganginn að Anthology of Pure Poetry, 1973, en í þessu úrvali er Keats útlægur ger með þeim ummælum Moores að hann hugsi oft um hann "eins og kött á sólríku túni".
Borges talar bæði um Byron sem "nú-gleymdan" og Browning einnig með svipuðum hætti "ef til vill nú-gleymt skáld", en þá kemur Ashbury og grefur upp löngu gleymd skáld eins og John Clare, Thomas Lovell og Beddoes, Lauru Riding og ýmsa fleiri áhrifavalda í skáldskap hans, en þau voru uppi áður en nýskáldskapurinn kom til skjalanna. En Ashbury minnir einnig á að skáldin velji ekki áhrifavalda sína heldur velji þeir skáldin. Að vísu leitaði hann til manna eins og Pasternasks og Mandelstams til að koma sér í gang, eins og hann kemst að orði, en það er áreiðanlega reynsla flestra ljóðskálda að ekkert sé betra til að fylla rafgeyminn en leita til annarra skálda. Þau eru eins og kapall milli tveggja ökutækja.
Þegar síðasta ljóðabók Jóhanns Hjálmarssonar kom út fyrir jólin 2000 var sagt við mig: Jóhann forðast smekkleysur eins og heitan eldinn - og hann kann það. Ennfremur: Og hann kann ekki sízt að enda kvæði.
Ég hugsaði sérstaklega um þetta vegna þess að í bók Ashburys er lögð áherzla á að eitt þeirra skálda sem hann metur hvað mest af þessum óþekktu áhrifavöldum sínum, John Clare, hafi þótti svo góður á sínum tíma að útgefandi hans, John Taylor, hafi selt fjórar útgáfur af ljóðabók hans eða um þrjúþúsund og fimm hundruð eintök á sama tíma og hann átti fullt í fangi með að selja fimm hundruð eintök af ljóðum Keats sem einnig komu út þetta sama ár, 1820. En um Clare var sagt í formála fyrir ljóðum hans, 1908, að hann "byrji hvar sem er og endi hvar sem er". Áttatíu árum síðar þykir þetta áreiðanlega engin frágangssök, segir Ashbury - eða er ekki þetta einmitt það sem skáldin gera? En um Clare var einnig sagt og til þess tekið að tækni hans væri aðdáunarverð og þó einkum að hann kynni það sem öllum væri ekki lagið, hann vissi nákvæmlega hvernig og hvenær hann ætti að ljúka kvæðum sínum. En það vefst mjög fyrir ýmsum skáldum eins og dæmin sýna; ekki síður stórskáldum en öðrum.
Kvöldið
Í kvikmyndinni The End of the Affaire sem byggð er á sögu Grahams Greens segir eiginmaðurinn á einum stað við Söru konu sína: Ég get ekki lifað án þín! En Sara svarar: Enginn vandi, þú hefur áður skipt um dagblað!
Sara átti ástmann og er hann sögumaður í verkinu, en um ástarlíf Söru og Henrys, eiginmanns hennar, er sagt að þau hafi sofið saman eins og tvær styttur á gömlu leiði. (sbr. kvæði hér á eftir).
Borges segir á einum stað í umfjöllun sinni um ljóð, Hví skyldi ég ekki tala um skáldsögur þegar ég fjalla um ljóðlist. Ég ætla að taka hann á orðinu og nefna tvær skáldsögur sem falla undir epíska söguhefð, þótt þær séu ekki í bundnu máli, en þær minna ekki sízt á síðasta sagnaljóðaskáld íslenzkra bókmennta, Sigurð Breiðfjörð. Þessar sögur eru að sjálfsögðu um Ljósvíkinginn og Bjart í Sumarhúsum.,eins og ég hef víst nefnt áður á þessum blöðum. Sigurður Breiðfjörð sinnti ekki sízt þessari grein epískra frásagna í ljóðum sínum en rímur hans fóru hvað mest fyrir brjóstið á Jónasi Hallgrímssyni - og þá einkum ríman um Tristran og Ísönd.
Þegar við Borges vorum á leiðinni úr Mosfellsdal þar sem hann fagnaði því að vera blindur eins og Egill og geta þannig séð umhverfið sömu augum og hann, sagði Borges allt í einu við mig, Viltu eiga við mig viðskipti? Ég hváði og hann endutók, Já, sagði hann, eigum við ekki að hafa vöruskipti? Og í hverju eru þau fólgin, spurði ég. Ég ætla að selja þér minningu Sheakespears! Nú, sagði ég, minningu Shaekespears? Já, sagði hann, ég get selt þér minningu Shaekspears ef ég fæ í staðinn það sem þú hefur uppá að bjóða. Og hvað er það, spurði ég. Að þú borgir fyrir mig vikudvöl á Íslandi!
Þessi viðskipti voru svo handsöluð í bílnum þarna á Miklubrautinni, en Borges kom ekki til Íslands eftir það og viðskiptin runnu úr í sandinn.
Mér hefur samt dottið í hug að þessi uppástunga Borges hafi verið hið fyrsta sem ég heyrði í raun og veru af svokallaðri hugbúnaðarbyltingu. Hann ætlaði sem sagt að selja mér hugsanir sínar og ég átti að borga Íslandsdvöl í staðinn. Hann ætlaði að selja minningu. Hann ætlaði að selja mér væntingar sem ég átti svo að trúa á. En úr því varð aldrei.
Þannig hafa hugbúnaðarviðskiptin farið fram. Menn hafa selt væntingar, hugsanir og drauma. Menn hafa greitt Íslandsdvölina en mér er til efs að margir hafi fengið minningu Shaekspears í staðinn. En það er samt hægt að selja hana og þessar væntingar, ef vel er að verki staðið; ef viðkomandi sölumaður er snillingur eins og Borges. Í verkum sínum skilaði hann okkur minningum Sheakspears, en fékk ekkert í staðinn nema virðingu þeirra sem leita skilnings og gleði í skáldskap. En þessi skáldskapur er heldur óáþreifanlegur og helzt til lítils metinn nú um stundir. Við lifum á tímum hrakandi smekks og leirburðar í tötrum.
Borges segir að við séum dauðleg vegna þess að við lifum í fortíðinni og nútíðinni, vegna þess að við munum tíma þegar við vorum ekki til og getum hugsað okkur tíma þegar við verðum dauð. Öll eignumst við óskastund þegar við gerum okkur grein fyrir því hvað við viljum, eða öllu heldur hvað við erum. Einhverju sinni þegar Borges var lítill drengur fór hann í bókasafn föður síns sem benti honum á að lesa ljóð Keates, Óð til næturgalans. Á þeirri stundi vissi hann hvað hann vildi, vissi hver hann var. Hann hafði lesið mikið, en vissi ekki að hann var skáld. Nú gerði hann sér fyrst grein fyrir því að hann væri það sem kallað er "bókmenntamaður". Hann tekur dæmi af aðalsöguhetjunni í The Red Badge of Courage en hún fjallar um hermanninn sem vissi ekki, hvort hann væri hetja eða gunga. Svo kemur andartakið þegar hann gerir sér grein fyrir því hver hann er. Hann liggur alblóðugur á vígvellinum og fylgist með maur sem er eina lífið í kringum hann. Um þetta hef ég ort kvæði sem heitir Á vígvellinum. Hitt er í senn merkilegra og mikilvægra að Borges gerði sér grein fyrir því, þegar hann las um næturgala Keats, að orð höfðu merkingu, mikla merkingu, jafnvel einstæða, jafnvel heilaga merkingu. Og síðan hefur kjarni lífs hans verið þessi orð og möguleikinn á því að flétta þau inní ljóðlist. Það var þegar hann gerði sér grein fyrir því að ljóðlist er í senn tónlist og ástríða sem það rann upp fyrir honum hvað skáldskapur er og þá líklega einnig - og ekki síður - hvað hann væri sjálfur og hvað hann vildi vera. Hann telur sig hafa lesið miklu fleira merkilegt en það sem hann hefur sjálfur skrifað. Ástæðan sé sú að maður les það sem mann langar til en getur ekki alltaf skrifað það sem hugurinn þráir. Hugsanir eru erfiðar viðfangs og skáldið er eins og hundslaus fjárhirðir, hann er sífelldlega einn að reka safnið saman. Hann má helzt ekki missa nokkra kind, samt eru þær dreifðar um allt. Við munum hvernig skáldið mikla í Nýja testamentinu lagði höfuðáherzlu á hvern einstakan; hvern einasta sauð. Ljóðið er ekki fullgert fyrr en allir sauðirnir, allar hugsanir skáldsins eru komnar í hús.
29. nóvember, miðvikudagur
Ingimar Erlendur Sigurðsson , rithöfundur og gamall blaðamaður minn,kom til mín í gær með venjulegan skammt í jólablað Lesbókarinnar. Hann vill ekki tala við Gísla Sigurðsson, segir að hann sé á móti sér. Einhverju sinni hafi hann spurt Gísla eftir þrettán mánuði, Hvar er ljóðið mitt?!
Ingimar Erlendur er kominn með mikið skegg, grátt. Hann líkist Bólu-Hjálmari æ meir, einnig skáldskapur hans.
Ingimar sagði við mig að Sigurður hefði reynt aftöku á mér með atlögunni í síðustu minningarbók sinni og birtingu í DV, sem var Dagblaðsmönnum augljóslega harla þóknanleg. Ég sagði við Ingimar, Sigurður A. Magnússon getur ekki tekið mig af lífi, hann hefur reynt það áður. Ingimar Erlendur sagði að Sigurður væri illmenni. Hann hefði rægt sig við mig og ég hefði tekið mark á því á sínum tíma.
Ég tók ekkert mark á því, sagði ég.
Jú, víst þegar við slógumst á Lesbókinni, þá byrjaði hann, sagði Ingimar Erlendur. Hann sló mig fyrst, en þú hefur aldei trúað því. Þú trúðir honum.
Það er ekki rétt, sagði ég, ég trúði hvorugum!
Það er ágætt að tala við Ingimar Erlend. Hann er kurteis, ljúfur og vinalegur. En þegar ég hugsa um þá SAM fara um mig einhvers konar ónot. Það er eins og að fá tvö tundurdufl í botnvörpuna. Hvað gerir maður þá? Maður hélt að stríðinu væri lokið en það er þá á næstu grösum. Maður reynir að koma tundurduflunum á dekk og landa þeim án þess þau springi og sökkvi skipinu. Maður afhendir þau síðan landhelgisgæzlunni og hún eyðir þeim. Sem sagt, landhelgisgæzlan er þannig í hlutverki tímans.
Enginn talar um atlögu Sigurðar að mér. Mér er til efs að nokkur maður hafi áhuga á henni. Ég held enginn hafi raunar áhuga á því sem Sigurður er að fjasa og gerðist fyrir þrjátíu, fjörutíu árum. Að vísu var bókarkafli Sigurðar birtur á einhverju neti sem Hrafn Jökulsson stjórnar. Ég hef ekki séð það, þekki það ekki. En það var líkt Hrafni að langa til að glefsa í mig. Eitthvað reyndu þeir að ná í mig til að fá viðbrögð! Ég gef ekki kost á neinum viðbrögðum. Trúi því ekki að nokkur maður taki mark á einu orði sem Sigurður A. Magnússon segir. Allir vita að hann er skemmdur. Þannig er a.m.k. talað við mig. Samt var þessi fyrirsögn víst á Strikinu.is eða hvað þessi netslóð heitir: Matthías hótaði andstæðingum sínum að eyðileggja þá með Morgunblaðinu! Morgunblaðið sjálft í fjörutíu ár er til vitnis um ósannindi þessara orða. Það vita held ég allir og enginn virðist taka mark á þeim. Kannski einhverjir gamlir hatursmenn Morgunblaðsins, en þeir hafa ekki orðið á mínum vegi og þeir trúa hvort eð er ekki öðru en ég sé illmenni. En þetta eru geirfuglar og tíminn eyðir þessu hatri eins og öðru sem engu skiptir. En þó hafa þessi skrif Sigurðar hryggt mig með einhverjum hætti. Ég átti ekki von á slíkri kveðju.
Enginn tíðindi af ráðningu nýs ritstjóra..
1. desember, föstudagur
Fjölmiðlakönnunin sem birt er í dag er hin bezta fyrir Morgunblaðið hingað til. Vænt þykir mér um traustið á blaðinu, en það er í hámarki um þessar mundir, einnig lestur þess. Þá er ekki sízt um það vert hvað blaðið þykir fróðlegt og upplýsandi. Fólk kann augsýnilega að meta hinn jákvæða tón sem einkennir blaðið nú orðið. Engum hefur verið hótað að eyðileggjua hann, hvorki beint né undir rós!! Þá er mbl.is einnig á góðu róli á netinu.
Jæja, að öllu gamni slepptu er þetta flott niðurstaða undir lokin. Ég tel mig geta yfirgefið skútuna þar sem hún siglir inn í framtíðina undir fullum seglum, sbr. hætta skal hverjum leik þá hæst stendur.
Í blaðinu á morgun verður grein eftir Magnús Jóhannsson próf. um sykópata, Hvað er sýkópati? Þar segir m.a.: "Persónuleikaröskunum er oft skipt í þrjá meginflokka sem eiga ýmislegt sameiginlegt en eru þó ólíkir. Í flokki A eru einstaklingar með ofsóknarhugmyndir og stundum klofinn persónuleika. Þeir eru oft skrýtnir og sérvitrir, gengur illa að mynda tilfinningatengsl og eru félagslega einangraðir. Í flokki B eru uppgerðarlegir eða andfélagslegir einstaklingar eða þeir sem haldnir eru sjálfsdýrkun. Hegðun þeirra er oft hvatvís eða fljóthuga, hlaðin tilfinningum og stefnulaus. Í flokki C eru einstaklingar sem eru oft feimnir, háðir öðrum eða haldnir áráttuþráhyggjusýki og eru oft kvíðnir og hræddir. Allar þessar persónuraskanir geta verið á mismunandi háu stigi og þær geta tengst og blandast. Á vægu stigi valda þær vissum erfiðleikum en á háu stigi verða þær að sjúkdómi sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinginn og félagslegt umhverfi hans.
Andfélagslegir einstaklingar hafa oft persónutöfra og eignast auðveldlega vini sem þeir síðan traðka á ef það hentar þeim. Þeir eru hvatvísir en hafa lélega dómgreind og eiga erfitt með að læra af mistökum sínum. Þeir hafa keppnisskap en eru tapsárir. Þeir koma alltaf sökinni á aðra, skortir samúð og eru samviskulausir. Þá skortir ábyrgð í fjármálum en geta samt náð árangri í viðskiptum. Sumir þessara einstaklinga komast langt á persónutöfrum, lygum og blekkingum, njóta aðdáunar þeirra sem ekki sjá í gegnum þá og komast til metorða í þjóðfélaginu. Ef þeir verða fyrir mótlæti geta þeir orðið árásargjarnir og sumir verða afbrotamenn.
Andfélagsleg hegðun mótast venjulega á unglingsárunum og ræðst af erfðum og umhverfi og margir þessara einstaklinga hafa átt erfiða æsku. Meðferð á þessum sjúkdómi er mjög erfið, m.a. vegna þess að andfélagslegir einstaklingar sjá ekkert athugavert við hegðun sína og telja sig alheilbrigða. Menn hafa reynt ýmiss konar lyfjameðferð eins og t.d. þunglyndislyf, lyf við geðveiki og jafnvel flogaveikilyf en venjulega er enginn árangur. Sumir telja sig hafa náð einhverjum árangri með samtalsmeðferð, hópmeðferð eða fjölskyldumeðferð en litlir möguleikar eru á að breyta þessum einstaklingum og gera þá að betri mönnum."
Hvað skyldi maður þekkja marga sykópata, klofna, andfélagslega sjálfsdýrkendur sem nota annað fólk eins og gólfklúta?! Fleiri en maður hélt!
Hef verið að lesa enskar smásögur, ágætar. Dæmigerða sögu, Dætur prestsins, eftir Lawrence (gamli kolanámubærinn minn, Workshop, gæti verið umhverfi sögunnar).,sögu frá Berlín eftir Isherwood, svo og morðsögu eftir Huxley. Hef einnig verið að lesa How to Reed and why eftir Harold Bloom. Þar er lítið af eftirminnilegum athugasemdum gagnstætt því sem er að finna í This Craft of Verse eftir Borges eða other Traditions eftir Ashbury. Bloom segir að við tölum við hinn manninn í okkur sjálfum og ljóð hjálpi okkur til að komast í samband við þennan hinn. Finnst það ágæt athugasemd. Hann segir einnig eins og Borges að ljóð veiti gleði og ánægju - en það er svo sem ekki alltaf! Hann drepur á minningu Shakespeares og segir að nú séu einungis tvenns konar sögur skrifaðar, í anda Tsjekovs og Borges. Bezta setningin í greininni um hann er eftir Borges sjálfan, að sjálfsögðu: Lífið er hreinn logi og við lifum við ósýnilega sól innra með okkur. Bloom minnist á ummæli Borges um alfræðibókina og hún að viðbættu bókasafninu og völundarhúsinuu sé veröld Borges.
Mér þykir það gott sem Ashbury segir um áhrifin; að þau leiti að okkur, en ekki við að þeim. Enn fremur að helztu þættir ljóðs séu merking, form og orðin.
Það er samt margt lærdómsríkt hjá Bloom, ekki sízt skýringar hans á ljóðum eftir Shelley og Keats.
Þá hef ég einnig verið að hlusta á tvær sögur eftir Kafka á ensku, Hamskipti og Dóminn, svo og smásöguna Glæpur Alfreðs lávarðar eftir Wilde. Einnig skáldsögu Margaret Atwoods, Blind Assassin sem er augsýnilega með ævisögulegu ívafi.
Kvöldið
Freysteinn Jóhannsson hraðlas bók SAM, og sagði við mig síðdegis í gær: Dr. Jykell og Mr. Hyde hafa skrifað þessa bók í sameiningu! Gæti trúað þetta sé góð lýsing!
Gylfi Gröndal kom til mín í vikunni og gaf mér áritað eintak af bókinni um Stein Steinar. Leit á hana og líkaði vel það ssem ég rakst á. Sagði honum frá því sem ég hef skrifað um Tímann og vatnið. Hann hafði ekki lesið það.
Gylfi sagðist hafa heimildir fyrir því að Louisa Matthíasdóttir, eða Úlla frænka, hefði ekki viljað giftast Steini, þessum auðnuleysislega útigangsketti. Þá var hann líklega heldur óreglusamur, en ég þekkti hann ekki fyrr en síðar. Það skiptir raunar ekki máli, hvernig Úlla leit á Stein þegar leiðir skildu, heldur hverjar tilfinningar hann bar til hennar. Tíminn og vatnið er sprottið úr þeim.
Gylfi sagði Ásthildur hefði svikið Stein og gifzt honum síðar, en ég hef aldrei heyrt það. Steinn hafi ekki gleymt þessum brigðum og látið þau bitna á henni síðar. Þá hafi Etilríður, móðir hans, haft lítið af honum að segja og eiginlega ekkert vitað um hann. Það er ekki alveg rétt. Hún hafi verið skrítin og það má vera. En mér fannst hún ágæt þegar við hittumst.
Gylfi sýndi mér gamlar prófarkir af Hugleiðingum og viðtölum sem hann fékk lánaðar hjá Elíasi Mar sem safnar slíku. Skrítið að sjá þetta eftir öll þessi ár. En það er löngu vitað að ég margskrifaði það sem ég lét frá mér fara, jafnvel prófarkir. En það var víst ekkert nýtt í því sem ég strikaði út úr dagbókartextanum um Stein, sem þar birtist.
Hef verið að yrkja ljóðaflokk um harmkvæli fólks sem þarf að horfast í augu við eiturlyfjafíkn barna sinna, niðurbrotið. Hann heitir ...þær inar glæddu götur, en það er úr heljarkafla Sólarljóða.
2. desember, laugardagur
Við Styrmir hittum Sturlu Böðvarsson, samgönguráðherra, fyrrum fréttaritara Morgunblaðsins í Stykkishólmi, í hádeginu. Hann er afar geðfelldur maður og við áttum gott samtal, aðallega um einkavæðingu Landssímans, uppboð á símarásum farsíma, söluhagnað og auðlindagjald og vorum að mestu sammála, þótt honum sé ráðlagt að efna ekki til uppboðs á símarásum. Hann er að hugsa um að setja gjald á rásirnar, en við hvöttum hann til uppboðs. Styrmir benti honum á að augljóst væri að ráðgjafar hans væru hagsmunaaðilar og hefðu hag af því að efna ekki til of mikillar samkeppni um rásir fyrir þriðju kynslóð farsíma. En Sturla þarf að tryggja áframhaldandi lágt símaverð á landsbyggðinni sem hann sækir í sitt pólitíska afl. Það er vel hægt að skilja þá afstöðu.
Sturlu finnst eins og okkur undarlegt, að hlutaðeigandi aðilar skuli ekki vilja leysa söluhagnaðarmálin með tíu prósent skatti í stað þess að fá þrjátíu til fjörutíu prósent skatt síðar.
Hann hefur áhuga á að grafa göng til Siglufjarðar og gera hann að helztu birgðahöfn við Eyjafjörð því að löng sigling sé inn til Akureyrar og hver klukkutími kosti mikla peninga. Með Héðinsfjarðargöngum til Ólafsfjarðar væri þetta hægt. Hann hefur þó mætt andstöðu í Skagafirði því þeir vilja fá göng um Lágheiði og áframhaldandi umferð um Fljótin! Það er sem sagt um margt að hugsa.
Sturla telur fráleitt að hafna stækkun Norðuráls í Hvalfirði, ef hún býðst. Hvað væri á móti því að gera Ísland að einu helzta álframleiðslulandi Evrópu fyrst eftirspurnin á áli á eftir að stóraukast vegna bílaiðnaðarins?
Sturla segir ágætt samstarf í ríkisstjórninni. Hann telur einsýnt að Geir H. Haarde taki við af Davíð Oddssyni, þegar þar að kemur. Segir það sé núningur milli Geirs og Sólveigar Pétursdóttur, dómsmálaráðherra, hann hafi ekki minnkað. Mér finnst hann kvíða því að kjördæmi hans verði stækkað því að yfirferðin sé svo mikil þegar Barðaströndin og Vestfirðirnir bætast við. Einnig sé fólkið þar harðara en á Snæfellsnesi eða í Dölum, sem sagt öðruvísi fólk.
Mest þótti mér samt um það þegar hann sagði að Davíð Oddsson hefði agað sig í umgengni við annað fólk. Það er líklega mikil framför frá því sem var, þegar hann fór eins og sviptivindur eins og ég upplifði á sínum tíma. Samskipti okkar hafa verið lítil sem engin undanfarið. Allt er þó gott okkar á milli. En mér þótti vænt um þessi ummæli Sturlu, svo mætur sem Davíð er - og þó einkum verðmætur. En þetta var stundum ljóður á ráði hans, hvernig hann gat rokið upp.
Líklega verður skorið úr um það á stjórnarfundi Árvakurs á mánudag hvort Davíð verður boðið mitt starf eða ekki. Þá fer fram skoðanakönnun um hann og einhverja aðra sem enginn veit hverjir verða. Og enginn veit það í raun hvort Davíð tæki starfinu, þótt boðið yrði, en hann hefur víst óskað eftir fundi um málið. Sá fundur hefur ekki orðið ennþá.
Það er alvarlegur ágreiningur í stjórn Árvakurs um afstöðuna til Davíðs, Haraldur Sveinsson beitir sér af sögulegum ástæðum hart gegn ráðningu hans, en Hulda Valtýsdóttir og Stefán Eggertsson vilja Davíð. Halldór Halldórsson og Friðþjófur Johnsen eru spurningamerki, að mér skilst. Hallgrímur Geirsson framkvæmdastjóri hefur ekki atkvæðisrétt þótt hann sitji stjórnarfundi en hann og hans fólk vill Davíð, ef ég skil hann rétt. Það eru þannig fimmtíu og fjögur prósent með Davíð, en tuttugu og fjögur prósent á móti honum sem stendur, tuttugu prósent óákveðin. En það þykir óráðlegt að bjóða honum starfið án könnunar og ráðning við slík átök þykir óvarleg.
Svo er guði fyrir að þakka að Árvakurs-stjórnin hefur ekki þurft að ráða ritstjóra oftar en raun ber vitni. Mér skilst þetta starf þyki jafngilda ráðherraembætti að völdum og virðingu. Ég hef samt aldrei haft það á tilfinningunni. Völdin hafa verið misskilin og virðingin brösuleg en ef Davíð yrði ráðinn mætti svo sem halda þessu fram!
En hví skyldi hann hætta í pólitík?Þar er hann nánast ómissandi að margra dómi
Ég held blaðið hafi aldrei staðið jafnvel og nú á þessum tímamótum. Það sýnir síðasta fjölmiðlakönnun. Hún var sú hagstæðasta sem við höfum séð, en vænzt þykir mér þó um það mikla traust sem lesendur hafa á blaðinu, en á það skorti áður fyrr.
Traustið er mér nóg umbun fyrir þetta hálfrar aldar basl.
Og nú blasa áramótin við - og þá er að snúa sér að öðrum efnum. Hvernig til tekst veit ég ekki. Mér finnst ég vera eins og skip, hlaðið hugmyndum. Steinn sagði á sínum tíma að við værum á leið í kaupstað, en vissum ekki hvað við ætluðum að kaupa! Ég er eins og skip en ég veit ekki hvar ég á að leggja upp þessar hugmyndir. Kannski er bezt að fara í land og afmunstra sig. Eða skreppa í kaupstað og fá sér munntóbak og snaps!
5. desember, þriðjudagur
Þetta fólk sem er sífelldlega í sjónvarpi er eins og húsdýr og heldur að það ráði öllu.
(Kristján Karlsson í símtali við mig í morgun.)
6. desember, miðvikudagur
Las í morgun ritdóm um bók Sigurðar A. Magnússonar eftir Sigurjón Björnsson prófessor. Þar fær Sigurður áminningar sem hann á skilið. En þó tekur Sigurjón ekki fast á Sigurði, heldur með því ljúflyndi sem honum er eiginlegt. Viðkvæmni Sigurðar fyrir sjálfum sér blasir þó við í þessum dómi. Sigurjón segir hún sé hrópandi í bókinni og raunar ótrúleg. Ég veit það ekki, hef ekki lesið bókina, geri það kannski einhverntíma. Þyrfti líklega að gera það vegna þess að Hanna segir að ég komi þar nokkuð víða við sögu. Enginn sem þekkir þig, segir Hanna, lætur sér detta í hug að Sigurður sé að lýsa þér. Það er ekkert sem minnir á þig, allra sízt þegar til þín er vitnað. Þessu gæti ég vel trúað. Hún tekur sem dæmi að Sigurður hafi eftir mér um stúlku sem var nauðgað: Stúlkukindin! Ég efast um ég hafi nokkurn tíma á ævinni notað þetta orð, en Sigurður hefur áreiðanlega enga tilfinningu fyrir því, hvað svona orð merkir. Þó getur verið að hann hafi lagt mér það í munn í því skyni einu að niðurlægja mig og setja mig í vont ljós, það væri honum líkt. Stúlkukind er neikvætt orð.
Annars er mér alveg sama. Ég get víst vel við unað miðað við ýmsa aðra, að mér skilst; t.a.m. Svanhildi eiginkonu hans sem Hanna segir að sé þannig lýst í bókinni að hún sé ekki með öllum mjalla og hálfgerður drykkjusjúklingur. Við urðum þó ekki vör við það, þótt hún fengi sér í staupinu. En hún var yfirþyrmandi og stjórnaði Sigurði eins og hundi - eða kannski öllu heldur kjölturakka. Sigurður orti ljóð um hana áður en yfir lauk og það lýsir lokum þessa ástarævintýris! Það heitir Spegill eða Brotinn spegill, ég man það ekki. Þar er Sigurður í hlutverki Orfeifs en Svanhildur er Everdíka. Ljóðið er nákvæm lýsing á reynslu Sigurðar eins og hann sagði mér hana á sínum tíma. Þetta er ekki merkilegt ljóð, en á bak við það er áraun sem Sigurður þoldi vegna þess að Svanhildur féll fyrir öðrum manni. Sigurður hafði aldrei fyrr upplifað að vera í sporum fórnardýrsins. Nú geldur Svanhildur þess.
Við vorum í boði hjá Davíð Oddssyni í gærkvöldi. Það var til heiðurs Erró vegna veggmyndar sem sett var upp í Kringlunni. Þetta var hlýlegt boð og gott. Alltaf jafn indælt að hitta Erró og Vilai, þau breytast ekki. Í þessu boði töluðum við Davíð nokkuð mikið saman. Hann sýndi mér mikla hlýju og vináttu og okkur Hönnu báðum. Ég hitti Lárus yngra, bónda á Klaustri, þau hjónin eiga átta börn. Ég hafði gaman af að tala við Lárus. Hann mundi eftir því þegar við vorum fyrir austan og Sigurgeir faðir hans spáði fyrir um páskabrasið mikla sem ég hef skrifað um annars staðar. Sagði veðrið gerði ekkert til, en við kæmumst ekki yfir Mýrdalssand. Fór síðan og sótti hitaveituna sem hann sagði að væri öllum hitaveitum betri. Kom að vörmu spori aftur með stóran brúsa af sjéníver! Við vorum svo þarna á Klaustri meðan sjéníverinn entist en héldum svo vestur yfir Mýrdalssand. Um það hef ég skrifað smásögu. En þetta er eftirminnilegasta veður sem ég hef upplifað og raunar mestu náttúruhamfarir. Það skipti um á andartaki. Við stóðum við Eldvatnið þegar færið fraus í lykkjunum. Við höfðum verið berir að ofan því það var tólf, þrettán stiga hiti. En þegar við komum upp að Klaustri var komið hvínandi óveður.
Lárus mundi eftir þessu öllu. Hann var þá um tvítugt.
Það var frábært fólk á Klaustri og Sigurgeir faðir hans einstakur maður. Bergur bróðir hans var einnig ágætur, við heimsóttum hann niðurá Dynskógafjörur þegar hann var að ná járni úr skipsflakinu. Hann var loftskeytamaður á Brúarfossi á sínum tíma.
Ástríður kona Davíðs hlustaði á frásögn mína af "hitaveitunni" og mér sýndist hún hafa af því þó nokkra skemmtan. Hún sagði það væri dýrmætt að eiga svona minningar um fólk og liðna atburði. Og það er rétt, það er dýrmætt.
Ég rifjaði upp við Lárus þegar ég hitti Helga föðurbróðir hans, einnig þarna í ráðherrabústaðnum fyrir margt löngu, þá var hann gestur Bjarna Benediktssonar. Það þótti Lárusi einkennilegt.
Já, sagði ég, þú átt við að hann hafi verið gamall framsóknarmaður.
Já, einmitt sagði Lárus og brosti.
Svo rifjaði hann það upp að Helgi var svo mikill jónasarmaður á sínum tíma að hann fór í framboð fyrir Jónas gegn Lárusi föður sínum sem var héraðshöfðingi og dó uppúr 1940, á bezta aldri. Lárus fór þá fyrir Bændaflokkinn. Þeir féllu báðir, feðgarnir, en Gísli Sveinsson komst víst á þing. Það var nokkuð stirt á heimilinu eftir þessar kosningar, sagði Lárus, og mér finnst það ekkert skrýtið. Annars leið Helgi af asma og þurfti að búa á Mallorka. Hann er ekki sá eini sem hefur haft ofnæmi fyrir Íslandi!
Davíð hélt góða ræðu undir borðum. Hann sýndi mér, ekki síður en Erro, mikla hlýju og vináttu í þessari ræðu og það yljaði mér, ég neita því ekki. Hann upplýsti leyndarmál sem gladdi alla viðstadda, þ.e. að Alþingi hefði ákveðið samhljóða að Erró færi í heiðurslaunaflokk. Það þótti mér frábært. Það er eins og Davíð muni allt og ekkert fari framhjá honum. Hann minnti á að ég hefði yfirleitt ekki viljað fá nein verðlaun, liti ekki stórum augum á slíkt því að listin stæði annað hvort fyrir sínu eða ekki. En ég hefði aftur á móti þegið heiðurslaunin og þótt vænt um þá virðingu vegna þess, eins og Davíð sagði, þau eru veitt þeim listamönnum einum sem allir þingmenn eru sammála um. Þetta var rétt hjá honum. Ég hef ævinlega sagt að heiðurslaunin séu mesta viðurkenning sem íslenzkum listamanni getur hlotnazt. Þau fær enginn án samþykkis alls þingheims. Þau segja því mikið um það álit sem alþingismenn hafa á viðkomandi listamanni. Það var ekki sízt eftir pólitísku baráttuna og kalda stríðið sem mér þótti vænt um þessa samhljóða viðurkenningu þingsins. Af þeim sökum var hún mér gleðiefni og hið sama má kannski einnig segja um Jónasar-verðlaunin. Þar átti vinstra fólk einnig hlut að máli.
Við Davíð töluðum saman eftir borðhaldið og það var eitthvað minnst á eftirmann minn í ritstjórastól. Ég sagði Davíð að við ritstjórarnir hefðum ekkert skipt okkur af því máli, enda hefðum við ekki verið spurðir. Ég sagði honum mér hefði að vísu þótt það einkennilegt að enginn skyldi spyrja mig hvort ég hefði einhverja skoðun á því, hver ætti að vera eftirmaður minn, þótt stjórn Árvakurs vildi hafa algjörlega frjálsar hendur í þeim efnum. Hann sagði ég skyldi bera fagna því. Ef þeir tækju ranga ákvörðun þá bæri ég enga ábyrgð á henni! Það er náttúrulega alveg rétt. En með þessari athugasemd gaf hann mér í skyn að hann fylgdist rækilega með því sem fram færi í stjórn Árvakurs. Og ég er sannfærður um að hann gruni að það séu ekki allir á eitt sáttir um að bjóða honum starfið.
En allt kemur þetta í ljós nú í vikunni eða uppúr helgi.
Við Davíð ætlum að hittast í næstu viku og rabba saman eins og í gamla daga. Þegar hann er beztur á hann engan sinn líka hvað snertir manngæði og hlýhug. Þetta upplifðum við Hanna í gærkvöldi og mér þótti vænt um það.
Davíð lá ekki á því að honum þykir bók Steingríms Hermannssonar ómerkileg. Hann segir hún sé full af ósannindum.. Ég sagði honum að Styrmir teldi að hún væri einhvers konar annáll. Davíð sagði það væri þá annáll með athugasemdum Steingríms og þær væru yfirleitt uppspuni. Hann hefur ekki mikið álit á höfundi bókarinnar sem ég þekki ekki.
Ég sagði Davíð eins og satt var að ég hefði ekki lesið bók Steingríms. Ég hefði alltaf verið þeirra skoðunar að menn ættu ekki að skrifa ævisögur stjórnmálamanna, meðan þeir eru sjálfir á lífi. Þeir horfa þá yfir öxlina á höfundi bókarinnar og ritstýra henni; kannski ómeðvitað. Stjórna því að fjallað sé um málefni eins og þeir vilja, en ekki eins og þau voru.
Hitti Halldór Guðmundsson forlagsstjóra Máls og menningar - Eddu síðastliðinn miðvikudag. Hann talaði um hann vildi helzt gefa út "stórt úrval" eins og hann komst að orði af ljóðum mínum með vorinu. Við ákváðum að tala saman eftir áramót. Ég þarf að hugleiða þetta vel og rækilega og þá hvernig að þessu yrði staðið. Það skiptir mig máli.
Bók Sigurðar A. Magnússonar kom til tals. Ég sagði honum álit mitt á því sem ég hefði séð og heyrt úr bókinni. Hann sagði, Er þetta þá allt ósatt? Ég sagði, Já.
Ég sá að Halldór sem er útgefandi bókarinnar varð hugsi, en hann sagði ekkert meira.
Davíð sagði við mig í gærkvöldi að hann hefði verið einn þeirra sem hefði varað mig við SAM.
Við vorum alltaf að vara þig við honum, sagði hann, En þú tókst aldrei neitt mark á því!
Ég sagði það rétt.
Davíð sagði að allskyns ummæli breyttust og gætu orðið afkáraleg, þegar þau væru prentuð.
Ég var sammála honum í því. Þau lýsa engum nema þeim sem skrifar. Þannig sagði Hanna við mig í gær að það sem hún hefði lesið í bók Sigurðar lýsti honum, en lýsingar hans á mér væru fáránlegar. Hún sagðist ekki heldur þekkja það sem Sigurður hefur eftir henni sjálfri.
Sem sagt, það er Sigurður sem er að tala en ekki þeir sem hann er að lýsa. Þessi meinloka Sigurðar stafar ekki einungis af því að hann sé óvandur að virðingu sinni, heldur hefur hann ekki tilfinningalega getu til að lýsa öðru fólki. Menn geta ekki hlaupið undan sjálfum sér í ljóðum og það er áreiðanlega þess vegna sem Sigurjón Björnsson segir í ritdómi sínum í Morgunblaðinu, þegar hann er búinn að skjalla Sigurð fyrir greinaskrif: "Ljóðin finnst mér minna til um".
Og hann er ekki einn um það.
Annars finnst mér, nú þegar lýsingin á Svanhildi hefur bætzt við, meðferð Sigurðar á barnsmæðrum sínum með ólíkindum. Það hlýtur að vanta eitthvað í sálarlíf þess manns sem afgreiðir mæður barna sinna með þeim hætti sem Sigurður hefur gert, bæði í sjálfsævisögunni og þá ekki síður lífinu sjálfu. Þessi meðferð gæti verið ærið verkefni fyrir feminista, ef í þeim væri einhver töggur. Hitt er svo annað mál að það kemst varla nokkur maður heilskinnaður út úr næsta banvænu návígi við Sigurð A. Magnússon. Egó hans baðar sig í miklu ljósi, en það er ekki ljós annarra, heldur hans eigið ljós; hans eigin sjálfsþótti.aHHHHmmmm HahHHH
8. desember, morguninn
Hönnu dreymdi Sigríði Björnsdóttur í nótt, það var í tengslum við Halla.
Góður draumur.
Enn tilnefningar til bókmenntaverðlaunanna. Ég veit ekki hverjir tilnefna, enda skiptir það engu því þær bækur einar eru tilnefndar sem þykja þóknanlegar. Ef bókmenntasagan gengi eftir því væru engar bókmenntir;bara þóknanlegar bókmenntir.
Sumir höfundar ganga fyrir verðlaunum og að lokum verða þeir ekkert nema verðlaunin ein! Það er betra að vera í heiðurslaunaflokki, það sýnir þó afstöðu alls þingheims. Nú hefur verið bætt við 10-12 listamönnum, einkum leikurum. Allir verðugir að mínum dómi. Svo og Erró og hinir.
Sem sagt, gott!
Í dag fer fram skoðanakönnun í stjórn Árvakurs um eftirmann minn, ég hef ekki haft nein áhrif á hana.
Borða með Kristjáni Karlssyni í dag á Hótel Holti. Hann hætti við að gefa út ljóðabók í haust, en situr við og lagar ónýt kvæði eins og hann segir. Það hefur enginn áhuga á fagurbókmenntum, segir hann.
Það snýst allt um markaðinn - og svo náttúrulega verðlaun!
Í grein í Morgunblaðinu í morgun stendur að framlag Megasar sé "stærsta gjöf sem listamaður hefur gefið þjóð sinni"! - eða eitthvað í þeim dúr.
Daríó Fo enn!
Og skoðun Kristjáns Karlssonar staðfest! Það stendur margt í Morgunblaðinu illa hugsað, því miður, og enginn Jónas til að gera upp við holtaþokuvæl samtímans. En Sigurður Breiðfjörð átti einnig fallega spretti. Hann var góðskáld, þegar honum tókst bezt upp. Þá glitti í gullið. En það var sjaldan í öllum sorphaugnum!
9. desember, laugardagur
Kristján Karlsson lagði blessun sína yfir ljóðaflokkinn ...þær inar glæddu götur... (ætla að breyta nafninu fyrir birtingu).. Sagði sem rétt er hann væri öðruvísi ortur en ég hefði áður gert, hann færðist í aukana og næði hámarki í 19.-22. erindi eins og rétt var, en honum lyki ekki þar, heldur síðar. Flokkurinn væri afslappaður og án alls óðagots. Hann hefði áhuga á því að sjá þetta á prenti.
Kristján sagði ég þyrfti engar áhyggjur að hafa af skrifum SAMs, þau gerðu mig bara próblematískari eins og hann sagði; og meira spennandi!!
Ég fékk hjá honum fjögur ný og nýbreytt kvæði, þ. á m. Bókasöfnin í Amsterdam sem ég á í frumgerð og kvæði um Pál postula, nýtt. Þau eru svona:
Bókasöfnin í Amsterdam
Afsakið vinsamlegast, dýru dömur,
hlið við hlið í gluggakistum en
mitt gamla þorpsbókasafn og
löngu fallið rís hvítt glugghátt
virkisbyggt con merlatura
andartak
milli ykkar og mín
hillu af hillu
Engéne Sue: Les Mystéres de Paris
íslensk þýðing tvö hundruð myndir
franskir listamenn norsk Sund-
hedspleje á dönsku, sundlíf kynlíf
fjöll og dalir. Sigurður Haralz:
Nú er tréfótur dauður (hóruhús í
Orienten?) Prófessor Richard von
Krafft-Ebing, Vín: Pzychopathia
Sexualis, dönsk þýðing, sumt
án efa
beztu dæmin úr lífinu klætt í sið-
ferðisbuxur úr ósigrandi latínu
...hver og hvaðan varstu sem stalst
að heiman falleg úfin freknótt að
lesa með mér þessi fræði hver ó hver?
ó lærðu dömur á bökkum síkis í
gamalli göfugri borg Amsterdam
ó gömlu bækur.
Atburðurinn
Sem illmenni í verki hataði hann
hreinleik og dáði hreinleik að
sama skapi
heyrði í svefnförum söngljóð um
kvenlega prýði sem honum þögnuðu
á daginn
sá, en í hillingum sumardaga svo
fagra að þeir stóðu kyrrir
Guðs
vegir sagði hann eru rannsakanlegir
einn heiðan sumardag sá hann
hvítklædda veru við veginn hún
benti honum til sín: myrkur dró
fyrir sólu ...hann kom að vísu
til baka en hvorki sem fálátur
maður með varnaðarorð um veginn
austur - né kennimaður um teikn
sem þér blindir smáið
nei sagði
hann hinsvegar óttast ég meira
og meira þá sem ég þekki.
Bókasöfnin í Amsterdam hefst á gleðikonum sem er stillt upp eins og bókum, en þær eru ekki í hillum, heldur úti í glugga. Þetta minnir Kristján á bókasafnið í Húsavík sem Benedikt á Auðnum stjórnaði. Þangað fór hann oft og sá alls kyns bækur, sumar voru klámbækur sem Benedikt þótti nauðsynlegt að hafa með sem framlag til þjóðfélagsmála í safninu. Þá fengust ekki lánaðar heim klámbækur, ekki frekar en vændiskonurnar í Amsterdam. Auk þess mundi það vekja óþægilega athygli að óska eftir slíkum heimlánum. En drengurinn er sólginn í þessar bækur allar og þarna er einnig stúlka að austan sem er gráðug í klámritin. Það vekur athygli hans, eykur skemmtunina og forvitnina. Þarna eru allskyns bækur, Leyndardómar Parísarborgar, Sykópatia Sexúalis eftir Ebing, sem rannsakaði afbrigðilegt kynlíf í Vín þar sem hann var prófessor, latínan ósigrandi, con meraltura , stallar kringum þak og milli þeirra op; e.k. vígskörð. Arkitónískt skraut.
Atburðurinn fjallar um Pál postula og menn sem minna skáldið á hann, Luðvík Guðmundsson t.a.m., rafvirkjameistara (og Bensa eða Benedikt á Vallá). Karlinn virðist vera verulega tortrygginn eftir að hann sér sýnina skv. síðustu línunni. Hann viðurkennir sýnina, en neitar að hafa batnað við hana, sem er algengt. Þolir samt ekki að viðurkenna það. Þessi sýn birtist á leiðinni austur, þ.e. á Mosfellsheiði - en ekki á leiðinni til Damaskus.
Kristján hefur Pál í huga vegna þess að hann er frægasta dæmi í heimi um sinnaskipti. Hann var enginn venjulegur kennimaður eða prédikari, þótt hann legði undirstöðurnar að kristinni kirkju.
Atburðurinn er ek. heilagt orð og notað í jólaguðspjallinu.
Eftir sýnina sér karlinn þá sem hann þekkir í skarpara ljósi en áður, og óttast þá meir. Hann er tvískiptur, brútal illmenni í aðra röndina (og þess vegna ekki sízt er atburðurinn mikilvægur), en dáir fegurð. Hann er sentimentalisti. Bensi á Vallá gat verið klámkjaftur, en þegar hann biður KK að finna orð yfir stóran bor og Kristján nefnir stingböllur, fór Bensi hjá sér, en ef það hefði verið um mann hefði allt verið í stakasta lagi! Lúðvík var athafnamaður út úr Balzac sem var höfundur slíkra karla í verkum sínum. Lúðvík var talinn einhverskonar illmenni og gekk svolítið upp í því að nota brútal orðalag um konur, en þá einnig bókamenntaleg orð eins og prýði - og þá gjarna sem gagnrýni eða háð um greinina.
Þýðingar
Menn hafa haft ýmsar skoðanir á þýðingum og aðferðum við þær. Ég hef fjallað nokkuð um þýðingar Jónasar Hallgrímssonar í skrifum mínum um hann, einkum í kafla sem heitir Útlönd í íslenzku umhverfi. Þar segi ég m.a.í tengslum við þýðingar hans á ljóðum þýzku skáldanna Schillers og Heines að Jónas hafi eiginlega hvorki þýtt kvæði né útlagt. Hann hafi umskapað hugmyndir og flutt hingað heim. Hafði sem sagt ekki áhuga á öðru en yrkja gott kvæði á íslenzku úr útlendum efnivið. "Með þessum kveðskap sló hann tvær flugur í einu höggi: endurnýjaði íslenzkar bókmenntir og kynnti mikilvægustu hugmyndir samtímans í erlendum skáldskap. Svo virðist sem þessi kveðskapur hafi stundum átt undir högg að sækja á fundum í Fjölni þegar ekki voru allir á eitt sáttir um aðferð Jónasar. Hann var andstæður bókstafsþýðingum og hélt fast við sína stefnu, hvað sem öðrum leið. Hann var enginn aukvisi þegar á reyndi og sannfæringin var annars vegar."
Og þar segir ennfremur að hugmyndaflutningur Jónasar hafi auðgað íslenzka ljóðlist og endurnýjað: "Og það eru ekki sízt gamlir bragarhættir og grónir eins og fornyrðislag og ljóðaháttur sem fá nýtt og fersk yfirbragð í þessari endursköpun. Þótt umbúðirnar séu mikilvægar er innihaldið sú upplyfting sem sköpun skiptir fyrir hugsun okkar og menningu."
Sem dæmi um þessa endursköpun Jónasar Hallgrímssonar nefni ég að þýðingarnar séu nánast eins og frumort kvæði á íslenzku og bendi á að Stóð ég úti í tunglsljósi hafi verið þýtt á dönsku!
Sem dæmi um þýðingaraðferð Jónasar eru nefnd tvö erindi eftir Heine sem hann endurskapar með þessum hætti:
Ómur alfagur,
ómur vonglaður,
vorómur vinhlýr
vekur mér sálu;
ljóðið mitt litla
léttur vorgróði!
lyftu þér, leiktu þér
langt út um sveit.
Hljóma þar að húsum,
er heiðfögur
blómin í breiðri
brekku gróa;
lítirðu ljósasta
laukinn þar,
berðu, kært kvæði!
kveðju mína.
Á frummálinu svohljóðandi:
Leise zieht durch mein Gemüt
Liebliches Geläute,
Klinge, kleines Frühlingslied,
Kling hinaus ins Weite.
Kling hinaus bis an das Haus
Wo die Blumen sprieben.
Wenn du eine Rose schaust,
Sag, ich lab sie grüben.
Jónas þýðir ekki, né útleggur. Hann endurnýjar. Í raun mætti segja að hann leggi út af orðum Heines. Þýðing hans er þannig tilbrigði við Leise zieht durch mein Gemüt, en Steingrímur Thorsteinsson þýðir svo síðar og notar þá aðra aðferð, hina bókstaflegu þýðingu: Mér um hug og hjarta nú... o.s.frv.
Borges talar um tvenns konar þýðingar, hinar bókstaflegu þýðingar og svo þær sem minna á aðferðir Jónasar Hallgrímssonar. Hann segir að þýðendum sé vandi á höndum, ekki sízt vegna þess að þeir þurfi að koma til skila því sem hann kallar orðtónlist og ljóðrænn hljómur í hinum þýddu ljóðum. Hann segist ekki vita hvenær sú stefna upphófst að þýða bókstaflega, en telur að það hafi verið með Biblíuþýðingum. Luther hafi t.a.m. ekki lagt áherzlu á estetískar umbúðir biblíuþýðinga sinna, heldur nákvæmni og trúnað við frumtextann. Fram að því hefðu menn þýtt eins og þeim sýndist og voru lausir við bókstafsþýðingar; fóru sem sagt sínar leiðir.
En Biblían var guðs orð, talið að heilagur andi hefði samið hana og maður hverfur ekki frá texta heilags anda, maður fylgir honum út í æsar. Það sem guð hugsar og lætur frá sér fara hlýtur að vera fullkomið, það verður hvorki endurbætt né betrumbætt, allra sízt endurskapað, en það má leggja út af því og ekkert eðlilegra en slíkur texti kalli á margskonar tilbrigði. Mér er nær að halda að biblíuþýðingar íslenzkar lúti lögmálum bókstafsþýðinganna, hinar fornu þýðingar eru að sjálfsögðu á rismiklu máli, en ég sé ekki betur en síðasta endurnýjun biblíuþýðinga hafi það að markmiði að færa textann nær uppruna sínum. Við því er að sjálfsögðu ekkert að segja. En tilbrigði skortir ekki eins og dæmin sýna.
Borges hefur mikinn fyrirvara á bókstafsþýðingum. Hann hefur samúð með þeirri fullyrðingu breska skáldsins Matthew Arnolds að bókstafsþýðingar kalli á falskar áherzlur. Arnold lenti á síðustu öld í ritdeilum við grískan lærdómsmann, Newman, sem reyndi að þýða Hómer á upprunalegu hexametri og hugsaði þá þýðingu til höfuðs Hómers-þýðingum Popes. Hann fór nákvæmlega eftir frumtextanum og talaði m.a. um "blautar öldur", "víndökkt haf". Þessa aðferð gagnrýndi Arnold í ritdómi en Newman svaraði fullum hálsi og af þessu spruttu hinar merkustu ritdeilur því að báðir höfðu þessir menn ýmislegt fram að færa viðvíkjandi þýðingum. Newman var sannfærður um að bókstafsþýðingar væru hin eina trúverðuga leið að frumtextanum. Arnold taldi aftur á móti að þýðandanum væri skylt að koma á framfæri kjarnanum í kviðum Hómers, skýrleika, göfgi og látleysi. Á þetta, ekki sízt, þyfti að leggja þá áherzlu sem bókstafsþýðingum væri um megn.
Borges tekur sem dæmi um bókstafsþýðngar að í rómönskum málum segi fólk ekki: Það er kalt, heldur: Það gerir kalt o.s.frv. Samt mundi enginn þýða úr rómverskum málum og segja Það gerir kalt. Á íslenzku er sagt Góðan dag, en á spænsku Góða daga (Buenos Dias). En enginn segði á íslenzku góða daga. Allt slíkt þarf að varast í þýðingum og verður ekki gert með bókstafnum einum, heldur umsköpun. Það er þessi umsköpun sem er ekki sízt mikilvæg í þýðingum, en hún er að sjálfsögðu ekki hin sama og endursköpun eða tilbrigði við hugmyndir.
Á þýzku er talað um Umdichtung, einnig Nachdichtung og loks Übersetzung. Borges gagnrýnir þá bábilju að þýðing þurfti alltaf að vera lakari en frumtextinn. Hann heldur mikið upp á Baudelaire en telur að þýðing þýzka skáldsins Stefan Georges, sem sé að vísu minna skáld en Baudelaire, eins og hann kemst að orði, á Fleurs du mal sé betri en frumtextinn! En það vita allir að slík fullyrðing um eitt af brautryðjendaverkum módernismans jaðrar við guðlast, þó að Stefan George hafi verið ágætt skáld.
Ég kann ekki þau skil á þessum tveimur tungumálum, frönsku og þýzku, að ég geti haft á þessu neina skoðun. En fullyrðing Borges er hvað sem öðru líður harla íhugunarverð. Ég geri ráð fyrir því að Stefan George, sem var mjög fínt persónulegt skáld, hafi farið sína leið og notað sína aðferð. Og ef kvæðin eru betri í þýðingu en á frummálinu hlýtur hann að hafa haft aðferð miðaldanna að leiðarljósi, þ.e. að endurskapa. Á þeim tímum voru lesendur ekki með hugann við höfunda, ekki endilega. Íslendinga sögurnar eru höfundalausar og raunar mest af bókmenntum okkar frá miðöldum. Það má einnig gera því skóna að lesendur Popes hafi hvorki verið að hugsa um Hómer né Pope, þegar þeir lásu þýðingar hins síðarnefnda, a.m.k. ekki beztu lesendurnir, því að þeir hafa verið með hugann við kvæðin sjálf, list þeirra og efni.
Sjálfur hef ég þó nokkra reynslu af þýðingum. Hef bæði þýtt bókstaflega, umorðað, notað hugmyndir; endurskapað. Mig langar því áður en lengra er haldið að taka dæmi um hið síðastnefnda.
Þegar ég var í Skotlandi haustið 2000 las ég mikið eftir Robert Louis Stevenson, einkum kvæði. Þau höfðu áhrif á mig, þetta létta form og þessi einlægi talmálsstíll. Ég ákveð að snara nokkrum kvæðum Stevensons á íslenzku og birti þau svo í minni gerð. Ég hugsaði mikið um hvernig það skyldi gert og komst að lokum á þá skoðun að bezt væri að nota aðferð sem mörgum kynni að þykja gjörsamlega út í hött, þ.e. að ganga feti lengra en Jónas í endursköpunum sínum. Ég tek einungis sem dæmi tvö þessara ljóða. Annað heitir A Portrait, hitt A visit from the Sea. Þau eru bæði í ljóðabókinni Underwoods, eða lágskógargróður. Í hvorri þýðingu um sig er einugis notað eitt orð úr frumtextanum sem meðvituð tenging við hann. En að öðru leyti eru hugmyndir beggja kvæða Stevensons umskapaðar í íslenzkum búningi.
Í kvæðinu a Vist from the Sea er notað orðið mávur en í A Portrait orðið api sem einu tengingarnar við frumtextann. Í fyrra kvæðinu er íslenzki búningurinn ekki ólíkur hinum skoska en í síðara kvæðinu er endursköpunin róttækari, bæði hvað snertir form og inntak. A Visit from the Sea er svohljóðandi á ensku:
Far from the loud sea beaches
Where he goes fishing and crying.
Here in the inland garden
Why is the sea-gull flying?
Here are no fish to dive for;
Here is the corn and lea;
Here are the green trees rustling.
Hie away home to sea!
Fresh is the river water
And quiet among the rushes;
This is no home for the sea-gull
But for the rooks and thrushes.
Pity the bird that has wandered!
Pity the sailor ashore!
Hurry him home to the ocean,
Let him come here no more.
High on the sea-cliff ledges
The white gulls are trooping and crying,
Here among rooks and roses,
Why is the sea-gull flying?
Heimsókn af sjónum
Langt frá strönd og stormum
stefnir hann hingað og svífur
hátt yfir grasi og görðum
gamall sem híeróglýfur
mávurinn okkar sem eltist
alltaf við trosið í sjónum,
af hverju leitar hann löngum
að lífsbjörg í fallega grónum
görðum með trjám og grasi
og glaðhlakkalegum rósum,
leitar þar einhvers sem aðeins
er ætlað vængjaljósum
litlum fuglum sem flögra
frjálsir við blóm og greinar
mávurinn gamli sem grefur
til gulls við bylgjurnar einar.
Segjum honum að hafið
sé hvítur vængur á mávi,
það fari honum illa að fljúga
sem fluga á gulnuðu strái.
(A visit from the Sea)
A Portrait er svohljóðandi:
I am a kind of farthing dip,
Unfriendly to the nose and eyes;
A blue-behinded ape, I skip
Upon the trees of Paradise.
At mankind's feast, I take my place
In solemn, sanctimonious state,
And have the air of saying grace
While I defile the dinner-plate.
I am "the smiler with the knife,"
The battener upon garbage, I -
Dear Heaven, with such a rancid life,
Were it not better far to die?
Yet still, about the human pale,
I love to scamper, love to race,
To swing by my irreverent tail
All over the most holy place;
And when at length, some golden day,
The unfailing sportsman, aiming at,
Shall bag, me - all the world shall say,
(Thank God,....t!
Andlitsmynd
Að lokum þegar úti er allt
og ekkert nema myrkrið svart
og sálin deyr og sólin frýs,
þá skal ég þakka þúsundfalt,
ég þakka, guð minn, nauman part
af verki þínu, fús ég fer
í ferðalag um paradís
og ekkert skal þá ama að mér,
ég hanga mun sem api efst
í ótal trjám ef færi gefst.
(A Portrait)
Að lokum langar mig til að nefna umfjöllun Borges um Omar Khayyám og ljóð hans í hinni frægu gerð Fitz-Geralds sem var óþekktur með öllu þar til skáldin Swinburn og Rosetti rákust á hina fögru ensku þýðingu hans á Rubáiyát sem Einar Benediktsson kallar Ferhendur tjaldarans.
Borges staldrar við tvö erindi Awake! For morning in the bowl of night og Dreaming when dawn's left hand was in the sky...
Erindin eru svohljóðandi á ensku:
Awake! For morning in the bowl of night
Has flung the stone that puts the stars to flight;
And, lo! the hunter of the East has cough
The Sultan's turret in a daze of light.
Dreaming when dawn's left hand was in the sky
I heard a voice within the tavern cry,
"Awake my little ones, and fill the cup
Before life's liquor in its cup be dry."
Þetta eru tvö upphafserindi kvæðisins, þau eru svohljóðandi í þýðingu Einars Benediktssonar:
Sjá næturröðla hrökkva einn og hvurn
við hnattkast dags í rökkurhvolfsins skurn.
Nú vak. Af Austurvegi máttug hönd
slær veiðimöskva ljóss um soldáns turn.
Nær dögun réttir hönd að loftsins hurð,
ég heyrði að skytings-borðum draums míns Urð:
"Nú vaknið sveinar, fyllið bikra' á barm
og bergið. - Lífsins vökvar ganga' í þurrð."
Og Magnús Ásgeirsson þýðir svo:
Upp! Vak! Í húmsins hvolfskál Morgunn nýr
þeim hnetti varp, er sérhver stjarna flýr.
Og sjá! Úr austri björt og hæfin hönd
um háturn soldáns vað úr geislum snýr.
Er Dögun vinstri hendi á himin brá,
ég heyrði í draumi æpt úr kránni: "Sjá,
á lífsins staupum lækkar, börnin góð!
Ó, lyftið þeim, á meðan færi er á!"
Það er fróðlegt að bera þessar þýðingar saman og þá ekki síður við það sem Borges segir. Hann heldur því fram að Fitz-Gerald hefði ekki komizt upp með að nota orðfæri sitt í frumkvæði, þótt það þyki nú glæsilegt i þýðingunni, og tekur dæmi þess. En hitt er mikilvægara að hann heldur því fram að aðalorðið í þessum hendingum sé: vinstri, eða left hand. Línurnar hefðu orðið merkingarlausar ef önnur orð hefðu verið notuð. Ástæðan sé sú að orðnotkunin "vinstri hönd" sé svo frumleg skírskotun að hún setji erindið í nýtt, óvænt ljós: draumurinn sem persinn vaknar af þegar dögun bregður vinstri hendi á himin sé svo óvenjulegur að af honum stafi ógn og hann hljóti að breytast í martröð fyrr eða síðar. "Vinstri" breyti andrúminu gjörsamlega, geri það í senn ógnlegt og dulúðlegt. Við látum okkur "vinstri hönd" vel líka vegna þess að við teljum eða gerum ráð fyrir því að það sé persneskur frumleiki að baki þessarar fullyrðingar.
En það er þá ekki sízt merkilegt að Magnús Ásgeirsson notar þessa "vinstri hönd" í sinni þýðingu, en Einar Benediktsson sleppir henni með öllu og lætur sér nægja að dögun rétti hönd á loftsins hurð, en þá er hann líka byrjaður á endursköpun í anda Jónasar. Magnús Ásgeirsson hefur meira þrek til þess að halda sig við bókstafinn og frumtextann.
Ég skal ekkert segja um ágæti þessara aðferða, galla eða mistök, en þykist þess þó fullviss að Jorge Louis Borges hefði tekið þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar fram yfir þýðingu Einars Benediktssonar hvað varðar vinstri höndina, en aftur á móti hefði hann þá einnig, og ekki síður, fallið fyrir endursköpun eða sköpun Einars Benediktssonar.
Það blasa að sjálfsögðu við margvísleg vandamál þegar fjallað er um skáldskap, ekki sízt nútímaskáldskap eða svokallaðan modernisma. Eitt er það að modernismi er í raun og veru óskilgreinanlegur því hann er, eins og annað sem mikilvægt er í lífi mannsins, margbreytilegur og auðvitað runninn frá ólíkum rótum eins og annað sem skiptir máli. Eitt hefur áhrif á annað og ekkert verður til af engu, ekki einu sinni módernisminn svokallaði, en þó virðist eins og sumir sem leita skýringa á honum fjalli um hann eins og eitthvað eitt fyrirbrigði í nútímaskáldskap en hann er að sjálfsögðu sprottinn úr ólíkum jarðvegi. Íslenzkur módernismi svokallaður er til að mynda harla ólíkur því sem enskumælandi þjóðir flokka undir þessa gerð ljóðlistar. Ástæðan er sú að arfleifðin, hin sterka ljóðlistarhefð okkar, eða bragfræði, hefur haft miklu meiri áhrif á nútímaskáldskap íslenzkan en til að mynda gömul formfesta enskrar tungu á nútímaskáldskap enskumælandi þjóða. Módernismi enskrar tungu er e.k. akademískur skáldskapur, eða gáfumannalist. Þó má fullyrða að módernismi svonefndur einkennir ekki endilega sum af helztu ljóðskáldum þessarar aldar, til að mynda mætti kalla Auden, Hughes, Philip Larkin og Fenton módernistísk skáld, jafnvel akademísk skáld en þeir eru þó allir með sterkar rætur í hefðinni. Þetta höfum við einnig upplifað hér heima því að mörg helstu nútímaskáld Íslendinga eiga sterkar rætur í hefðinni og hún hefur sett ákveðið mark á þann módernisma sem við erum sífelldlega að reyna að skýra. Að þessu leyti mætti taka undir það sem Ashbury segir á einum stað í bók sinni um aðrar hefðir að áhrifin leita uppi skáldin, en þau leita ekki uppi áhrifin.
Ekkert blóm er rótminna en arfinn. Hann fýkur í vindi og festir rætur þar sem öðrum blómum er ekki ætlað að blómstra. En rótmeiri jurtir og mikilvægari fjúka ógjarnan, en eru fastar fyrir á því næringarsvæði sem þær hafa kosið sér.
Þessi líking við blómin er ekki út í hött því bæði Borges og Harold Bloom eru þeirrar skoðunar að góður skáldskapur veiti ánægju, gleði, endalausa gleði eins og Bloom tekur til orða. Hann getur alið á einhvers konar kennd sem minnir á ástina. Ljóðin ættu að geta talað til okkar, ekki endilega beint, heldur eins og við hleruðum þau, ef svo mætti segja (overheard). Þau tala til hinnar persónunnar í okkur sjálfum og þess vegna lesum við ekki sízt til að leita að henni; okkar innra manni. Það var víst John Stuart Mill sem fyrstur setti fram þessa hugmynd um hvernig við hlerum góðan skáldskap, það var í What is Poetry 1833 þegar hann segir um Mozart að við ímyndum okkur að við hlerum tónlist hans. Ljóðlist sé einnig hleruð.
Allt á þetta að sjálfsögðu við um góða ljóðlist. En hvað er góð ljóðlist? Ég hef alltaf talið það góða ljóðlist sem ég hefði viljað yrkja sjálfur. Ég hef ekki annan betri mælikvarða og þess vegna þótti mér það fremur uppörvandi þegar ég rakst á þau ummæli Blooms að bandaríska skáldið Robert Penn Warren hefði sagt eftir að hann hafði farið með Örninn eftir Tennyson í hádegisverði með Bloom, Ég vildi óska að ég hefði ort þetta! Og Bloom bætir við, Sá sem lærir Örninn utan bókar gæti farið að ímynda sér að hann hefði sjálfur ort ljóðið. Hann heldur því fram að það sé harla mikilvægt að læra ljóð utan bókar, hlusta á þau í huganum, helzt í tíma og ótíma, því þannig seytli þau inní mann, tónlistin, hrynjandin, efnið. Þannig getum við hlerað mikilvæga reynslu og nýtt okkur hana. Ég á að sjálfsögðu ekki við að hlera eins og Þorkell hleraði kvennahjalið í Gísla sögu Súrssonar því það varð upphaf mannvíga, heldur í því skyni að njóta, upplifa; reyna eitthvað nýtt og óvænt, verða ástfanginn ef svo ber undir.
Borges leggur mikla áherzlu á metafórur í skáldskap en segir að þær séu ekki einungis tilraun til einhvers samanburðar eins og oft er, þegar skáld reyna að stytta sér leið, tunglið er eins og þetta og þetta. Nei, metafórurnar geta verið flóknari en svo. Hann bendir á ljóð eftir Robert Frost þar sem eru þessar línur:
For I have promises to keep
And miles to go before I sleep
And miles to go before I sleep
Þetta segir Borges að sé metafóra, að vísu ekki augljós, því að fyrsta línan ein sér sé einskonar yfirlýsing og ekki annað. En með næstu tveimur línum And miles to go befor I sleep breytist yfirlýsingin í upphafi í myndhvörf. "Miles" merki "dagar" eða "ár", þ.e. langan tíma en "sleep" merki að því er virðist "dauði". Samt sé ánægja okkar ekki einungis bundin við þessar yfirfærðu merkingar heldur öllu heldur við tilfinninguna sem fylgir endurtekningunni.
Borges segist hafa iðkað einskonar klassískan skáldskap þegar hann var yngri, en síðar hafi hann orðið sannfærður um að svokallaður frjáls skáldskapur eða óbundinn skáldskapur sé miklu erfiðari viðfangs en hin eldri formfesta. Skáldskapur hafi byrjað með henni og það sé nægileg sönnun fyrir fullyrðingu hans. En þá komum við að því vandamáli hvernig unnt sé að festa hinn óbundna skáldskap í minni eins og hefðbundinn skáldskap. Það er mikill munur á því að læra hefðbundið ljóð eða óhefðbundið. Ég hef að vísu reynslu fyrir því að margt fólk getur lært óhefðbundinn skáldskap. Þegar Jörð úr ægi kom út var mér sagt af nokkrum konum sem höfðu lært ljóðaflokkinn utan bókar. Ég efast ekki heldur um að margir hafi kunnað heilu kaflana í Söngnum af sjálfum mér eftir Walt Whitman, en samt er þessi nýi skáldskapur erfiður að þessu leyti og þar af leiðandi erfiðara að hlera hann með þeim hætti sem Bloom talar um. Það má þá einnig benda á að þessi nýi skáldskapur byggist ekki sízt á óvæntum hugmyndum, óvæntum líkingum og metafórum og þessi óvænta reynsla ætti þá að koma í staðin fyrir hið hefðbundna söngl sem Harold Bloom telur svo mikilvægt.
Goethe leggur einni persónu sinni þessi orð í munn, Jæja, þú getur sagt við mig hvað sem þú vilt en enginn neitar því að ég er samtímamaður. Borges segir að það sé enginn munur á þessari setningu og þeirri óskhyggju margra skálda að þau séu modern. Hann ber litla virðingu fyrir því að skáld séu modern. Við erum modern, segir hann, við þurfum ekki að streða eftir því.
Sem sagt, við lifum í nútímanum og sem slík hljótum við að iðkað nútímaskáldskap, ef við erum að yrkja á annað borð og þá skiptir ekki máli hvort við erum hefðbundin skáld eða fulltrúar hins óbundna frálsa ljóðs. Mörg skáld eru sem betur fer fulltrúar allrar gerðar ljóðlistar en það er sama hvaða gerð þau iðka, þau geta ekki verið annað en nútímaskáld. Jónas Hallgrímsson er ekki fornskáld þótt hann yrki með köflum í eddukvæða-stíl og hefðbundið skáld nútímans er ekki rómantískur nítjándualdar draugur því að umhverfi hans er nútíminn, tilfinningar hans og sýn á umhverfið er að sjálfsögðu samtíminn sem hann lifir í eins og við hin, en ekki umhvefi Keats, Schillers eða Benedikts Gröndals. En formið er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt. Hitt er þó mikilvægara að það hæfi efninu. Í ljóðlist er það einatt svo, að hægt er að segja efni langra ljóða í nokkrum línum, en lesendur sækjast ekki eftir því. Þeir sækjast eftir fyrrnefndri reynslu, fyrrnefndri gleði og ánægju; ekki endilega ánægju af því að kvæðið er einhvers konar skemmtiefni, revía, gamanleikur; þvert á móti. Ánægjan felst í því að upplifa fagleg og estetísk eða listræn tök á efni sem fjallar ekki sízt um ástir, sorg og dauða. Það eru tökin sem skipta öllu máli. Það geta allir sagt söguna af Bjarti í Sumarhúsum eða Ljósvíkingnum, en það er ekki á allra færi að segja hana af þeirri faglegu reisn og ljóðræna innsæi sem einkennir vinnubrögð nóbelsskáldsins. Þetta gildir raunar um allt, hvort sem um er að ræða handavinnu eða hugarvinnu. Jónas í Stardal sagði að Guðjón í Gljúfrasteini hefði verið svo flinkur að hlaða vegkanta að unun væri á að líta. Allt væri það gert af listrænni tilfinningu. Það var hún sem skáldið erfði öðru fremur eftir föður sinn og það var hún sem skilaði hugmyndum hans þangað sem raun ber vitni.
Sauðkindin og sveitamennska eru ekki endilega kræsilegt umhugsunarefni fyrir nútímafólk, en ef það er í búningi Sjálfstæðs fólks gegnir öðru máli. Það hefði verið hægt að segja þessa sögu á nokkrum blaðsíðum. En hver hefði haft áhuga af því. Hver hefði haft áhuga á því að lesa óbundna frásögn á nokkrum blaðsíðum um það efni sem Milton fjallar um í Paradísarmissi? Það sem skiptir öllu máli er hvernig hann segir frá þessum efnivið. Það eru listrænar umbúðir hans sem hafa skilað þessu margsagða efni Biblíunnar inn í nútímann. Og það eru þessar listrænu umbúðir sem hafa orðið til þess að þýðingar Jóns á Bægisá hafa lifað.
Mér er þó til efs að bókmenntagagnrýnendur leggi þá áherzlu á þessar umbúðir nú um stundir sem vert væri. Þeir hafa tilhneigingu til að ganga framhjá estetískum tökum og listrænum vinnubrögðum. Þeir hafa tilhneigingu til að leggja áherzlu á efnið sjálft, einkum félagslegan þátt þess, þó að það í sjálfu sér ætti í mörgum tilfellum að vera fremur viðfangsefni félags- og stjórnmálafræðinga en þeirra sem fjalla um bókmenntir og fagrar listir.
En þá mætti spyrja:
Hvað er að vera skáld?
Ég veit það svo sem ekki. Ég held það sé að fylgja tilfinningaástríðu sem skálið getur ekki sigrast á nema með því móti einu að iðka skáldskap. En til þess þarf tilfinningalegan þroska. Það er eins og sagt hefur verið um syndina. Eina leiðin til að losna við hana er að drýgja synd? Svo getur iðrunin komið á eftir.
Borges hefur þá skýringu á því hvað sé að vera skáld, að það sé einfaldlega að vera trúr ímyndunarafli sínu eða imagination. Hann segist skrifa sögu vegna þess að hann trúi á hana, þó ekki eins og einhverja sagnfræði heldur eins og maður trúir á draum eða hugmynd. Ég held þetta sé rétt. Maður trúir á Moby Dick en þó ekki eitthvert einæði sem er fólgið í því að eltast við hið illa unz það breytist í einhvers konar einelti. Hvalurinn á sitt líf og þótt Ahab sé einfættur af hans völdum þarf hann ekki að eltast við eðlishvöt sköpunarinnar.
Ívar hlújárn er á margan hátt góð saga. En við trúum því ekki að hún fjalli um þann saxneska tíma sem er umhverfi hennar. Hún er sprottin úr rómantísku ferli eins og Niflungaljóð. Hún er ekki sprottin úr þeim norræna jarðvegi Íslendinga sagna sem fjalla um ógnarvald örlaganna og afstöðu hetjunnar gagnvart þessu ógnarvaldi. Það var í Íslendinga sögum sem hetjan birtist okkur í öllu sínu veldi og þá einnig sem einhvers konar framhald af hómerskri hetjudýrkun, en ekki rómanskri viðkvæmni.
Borges segir það sé nauðsynlegt að gleyma því að flest orð hafi einhvern tíma verið metafórur. Hann segir t.a.m. að setningin Style should be plain yrði óskiljanleg ef við hefðum hugann við upphaflega merkingu orðanna: style, þ.e. stylus, eða penni og plain sem merkir flatur. Með þessa upphaflegu merkingu í huga gætum við aldrei skilið þessa setningu: Penninn ætti að vera flatur í stað þess að stíllinn eigi að vera einfaldur! Eða hvernig ætti að þýða þessar setningar - a.m.k. ekki eftir orðana hljóðan: Hún gekk loksins út; hann lenti í súpunni.
Borges segir að það sé engin fullnæging að segja sögu eins og hún gerðist raunverulega. Það verði að breyta, annars séum við einungis eins og blaðamenn eða sagnfræðingar, en slíkir geti þó haft nóg af ímyndunarafli. Og hann tekur Gibbon sem dæmi. Það sé ekki minni ánægja að lesa rit hans um fall Rómaveldis en skáldsögu eftir mikinn rithöfund. Gibbon varð að gera sér margt í hugarlund. Hann þekkti ekki persónur sínar. Hann varð að ímynda sér margt sem gerðist. Og hann hljóti að hafa haft tilhneigingu til að líta svo á að hann sé höfundurinn að falli hins rómverska keisaradæmis! Hann lýsti þessu svo fallega að það kemur ekki til greina að ég fallist á neina aðra skýringu, segir Borges. Hann segist hafa trúað á expression, þegar hann var ungur. Hann hafi viljað finna hárnákvæmt orð yfir sólsetur eða öllu heldur sem óvæntasta metafóru. Nú trúi hann einungis á að gefa í skyn. Vísbending nægi lesandanum.
Og af hverju hann hafi aldrei skrifað skáldsögu. Í fyrsta lagi, segir hann, vegna leti; auk þess hafi hann aldrei lesið skáldsögu án vissra leiðinda, en hann hafi marglesið ýmsar smásögur. Þær hafi uppá ánægjulegri flækju að bjóða en langar skáldsögur.
Borges segist vera ósýnilegi maðurinn í heimalandi sínu og vitnar þá í samnefnt rit eftir H.G. Wells. En í Bandaríkjunum þar sem hann flutti fyrirlestra við Harward-háskóla sé hann sýnilegur. Þar sé sífellt verið að biðja hann um sögur sem hann hafi gleymt. Hann bætir því við að meining skipti engu, það skipti engu hvað ljóðin merki. Það sem skipti öllu máli sé tónlistin. Hvernig komizt sé að orði. Það sé jafnvel hægt að skynja tónlistina ef hana vanti, t.a.m. í kvæði eftir hann, og ef hana vanti geti lesendur fundið hana upp fyrir skáldið.
Að þessu sögðu las hann sonnettu sína um Spinoza, ekki á ensku heldur spænsku. Í þessu kvæði kemur fyrir setningin: Hugmyndir um drauma í draumi annars spegils. Það segir mikið um þennan látna unnanda íslenzkrar arfleifðar. Það segir mikið um skáldskap og leitina að hinni persónunni í okkur öllum. Hann reyni að hlera þá vizku sem sé einhvers konar svar við þeirri örlagaspurn sem brennur á allra vörum: hver er ég? Á hvaða leið er ég? Hvort er lífið draumur eða veruleiki?
Og í öðru kvæði um Spinoza segir Borges að maðurinn sé byrjaður að hanna guð, en í lok kvæðisins er talað um ást sem hefur enga von um að vera elskuð.
31. desember, gamlársdagur
Reykjavíkurbréf
Það er tómahljóð í alþjóðahyggjunni, segir hinn merki þjóðfélagsheimspekingur, Isiah Berlin, í athyglisverðu samtali sem ég las á sínum tíma. Hann segir að fólk geti ekki þroskazt nema það sé þáttur af sérstæðri menningu; heyri einhverju samfélagi til. Menn heyra til einhverri arfleifð. Það er hægt að bæta við hana, þróa hana og rækta, en ekkert samfélag lifir af með því að ganga af henni dauðri.
Það er þannig hlutverk okkar að ávaxta arfleifðina, rækta hana; bæta við hana og gera hana fjölbreyttari með allskyns áhrifum og nýrri reynslu.
Á því andartaki sem alþjóðahyggjan legði undir sig öll samfélög og ekkert væri til annað en eitt tungumál, hvort sem væri í listum, viðskiptum eða stjórnmálum, einn strengur sem ætti að lýsa sálarlífi okkar, tilfinningum og arfleifð, þá yrði ekki til alþjóðleg menning, heldur dauð menning eins og Berlin kemst að orði; menning hins einsleitna víðáttubúa, gætum við sagt með Kundera. Ef allt lyti sömu lögmálum og afþreyingin og skemmtanaiðnaðurinn, þ.e. yrði einshyggju alþjóðatungumálsins að bráð, þá hyrfu öll sérkenni í samfélaginu inn í eftiröpun og stórþjóðastaðla sem kæmu í stað frjóvgandi og sérstæðrar menningar.
Enginn veit hvernig styrjöldinni um tungu okkar og menningararf lyktar. Hún stendur nú yfir, svo háskaleg sem hún er. Mótstöðukraftur okkar minnkar að ég held með hverju ári sem líður og senn verður tízkan þeim vilhöll sem þykjast vera að vernda íslenzka menningu, en vega nú að rótum hennar með þeirri erlendu áþján og síbylju sem er einatt einkenni hinna nýju ljósvaka. Jónas er höfundur þessa fallega orðs og notar það í þýðingu sinni á stjörnufræði Úrsins, en mér er til efs hann hefði eytt því á þá háværu fjölmiðla sem nú læsa klónum í hvers manns huga; oft og einatt án tengsla við íslenzkan veruleika og þá arfleifðarhefð að velja einungis það bezta sem erlendur markaður hefur uppá að bjóða.
Jón forseti Sigurðsson lagði áherzlu á rétt íslenzkrar tungu enda væri hún forsenda alls sjálfstæðis. Hún og landið eru hið eina sem heyrir okkur til og ekki öðrum. Hún er mikilvægasta forsenda arfleifðar okkar. Það stjórnar enginn íslenzku þjóðinni sem talar ekki tungu hennar. Við höfum sögulega reynslu fyrir því. Íslenzkar bókmenntir eru skrifaðar á þessa tungu og því eru þær okkur dýrmætari en ella. Þær eru ein af forsendum tilvistar okkar og sérstæðs þjóðernis. Því eru þær flestu öðru mikilvægari. Ef við glötum tungu okkar glötum við einnig þjóð-menningunni og sjálfstæðinu. Þá hrynur samfélagið. Þá getur ný þjóð heyrt Íslandi til; að vísu; útlend þjóð, arfleifðarsnauð og opin fyrir erlendri ásókn. Auðnulaus þjóð í leit að sjálfri sér; hamingju sinni; og glataðri sjálfsvirðingu.
En sjálfsvirðingin er ekki sízt forsenda hamingju eða höfum við nokkurn tíma heyrt talað um hamingju þeirra sem hafa glatað sjálfum sér? Þar sem hamingjan býr í hjarta mannsins verður hún einungis varðveitt þar, eins og tungan sem við tölum og tilfinningar sem hún lýsir.
Aristóteles segir í Stjórnmálum að dyggð sé forsenda hamingju. Það er dyggð að varðveita sérkenni sín, arfleifð og þá ekki sízt tunguna sem er meðal annars dýrmæt vegna þess að hún er tengiliður einnar kynslóðar við aðra. Hvísl milli kynslóða. Við Íslendingar sem nú lifum getum átt mikilvæg samtöl við þá sem sköpuðu gullaldarbókmenntir okkar – og það á þeirra eigin tungu. Slík samskipti eru lítilli þjóð ómetanleg; stækka hana og auka henni þrek. Án þessa arfs hefðum við ekki fengið sjálfstæði okkar, handritin né 200 mílna fiskveiðilögsögu og án hans væri sjálfsvirðing okkar líklega heldur bágborin.
Samhengi í íslenzkri menningu og bókmenntum er í senn merkilegt og mikilvægt. Mörg heimsskáld hafa sótt í þennan brunn, þau hafa sem sagt sótt í íslenzkan skáldskap, íslenzkar bókmenntir, íslenzka hugsun, en ekki þennan samnorræna arf sem alltaf er talað um undir heitinu norse. Líklega eru það frændur okkar á Norðurlöndum sem hafa ýtt undir þessa nafngift en við skulum ekki láta villa um fyrir okkur. Þetta er einfaldlega íslenzk geymd og það er okkar sérhlutverk að varðveita hana og endurnýja. Við höfum aldrei ætlað okkur að vera skandinavískt þjóðminjasafn; höfum aldrei ætlað okkur að vera til frambúðar einangraðir fátæklingar sem lifa helzt í fortíðarljóma og miklum bókmenntum; eða blekkingu og andörlögum; heldur íslenzkur veruleiki með fyrirheit fortíðarinnar í farteskinu.
En þótt margt sé harla fagurt og eftirminnilegt í þessum forna menningararfi verður það ekki endurvakið með okkur í upphaflegri mynd. Það getur einungis orðið aflgjafi nýrra hugmynda, nýs galdurs. Það verður aldrei endurtekning gamalla töfra. Andrúm verður ekki endurtekið. En töfraþula tungu og arfleifðar sækir hljómfall sitt í reglubundna hrynjandi hjartsláttarins. Hún á rætur í kvikunni sjálfri og hún hefur fylgt okkur frá ómunatíð.
Eins og allt sem ber mennskunni vitni og skiptir máli; það á rætur í sköpuninni sjálfri, hjartslætti jarðarinnar, hrynjandi hennar og taktbundinni þögn alheimsins, þessari hljómlist þagnarinnar sem bregður fyrir í miklum sinfóníum; í þessari hrynjandi sem er í okkur sjálfum eins og aldan sem hreyfist í kyrru, þögulu hafi. Og hafið þarf ekki augu eða eyru til að kynnast þessari hreyfingu. Það er sjálf hreyfingin, þögnin mikla sem fylgir háttbundinni hrynjandi tímans.
Við getum margt af arfi okkar lært. Forníslenzk ritverk eru ómetanleg og ástæða til að draga af þeim ályktanir um samtíma okkar. Þessi verk eru ekki dauður bókstafur né gamall texti handa stúdentum, heldur markverð tíðindi úr reynsluheimi þeirra sem þurft hafa að horfast í augu við harðneskjulegt alræði samtímans og það úthellta blóð sem pólitískar hugmyndir og hefndarverk hafa skilið eftir í okkar eigin slóð. Stundum eru þessi verk unnin í skjóli mikilla hugsjóna, já raunar oftast. En hugsjónir sem leiða til hefndarverka eru vondar hugsjónir.
Alheimsþorpið
Tæknin, þ.e. fjarskipti um gervihnetti, hefur breytt plánetunni í alheimsþorp og rutt úr vegi þeim hindrunum sem töfðu fyrir fréttaflutningi. “Fréttir um leið og þær gerast” er krafa sjónvarpsneytenda og netfíkla og hún hefur neytt dagblöðin til að taka að sér nýtt hlutverk, þ.e. að hjálpa lesendum til að skilja umheiminn og segja þeim hvað liggur að baki fréttunum og hvað líklegt sé að morgundagurinn beri í skauti sér.
Tölvufréttir, símafréttir og fax-dagblöð, eða bréfsímar eiga eftir að auka samkeppnina en þurfa ekki að ógna dagblöðunum í næstu framtíð vegna þess að tæknin sem til þarf er enn á þróunarstigi og útbreiðsla tilskilinna tækja ekki nægilega mikil til að þetta nýnæmi geti veitt blöðunum alvarlega samkeppni. Dagblöðin verði því að öllum líkindum áhrifamesti miðillinn á sviði frétta, upplýsinga og auglýsinga eitthvað fram á þessa öld. En sjónvarpið verður aðalkeppinauturinn. Tæknin muni gera sjónvarpið fjölbreytilegri miðil en nú er og fyrirsjáanleg stórsókn einkatölvunnar inn á heimilin. Þær eigi eftir að verða eins útbreiddar og örbylgjuofnar og vinsæl víxlverkandi afþreyingartæki. Heimilistölvan verður daglegt brauð. Síðan verður farið að tala um sjónvarpsblöð. Tölvur eiga eftir að vinna úr sjónvarpssendingum alls kyns kennsluefni - og afþreyingarefni. En upp úr 2010 blasir við nýr heimur. “Þá veður raftæknileg dreifing upplýsinga um sjónvarp orðin helzta boðleið fyrir margt það efni sem blöðin flytja í dag. Og að mörgu leyti mun þetta rafeindakerfi samsvara “raunverulegu” dagblaði, búið mörgum sömu kostum og dagblöðin nú varðandi myndgæði, færanleika og jafnvel kostnað.
Allur fjöldinn verður mjög fær í tölvunotkun, ekki sízt vegna þess hve þessi tækni verður auðlærð. Þeim erfiðleikum sem nú blas við og komið hafa í veg fyrir að tölvur veiti blöðum og öðrum fjölmiðlum samkeppni hefur að mestu verið rutt úr vegi. En hvernig fer þá fyrir blöðunum? Þau breytast. Og lesendur þeirra breytast ekki síður með aukinni rafeindalegri dreifingu. Þótt pappír og prentvélar verði áfram mikilvæg "verða dagblöð í núverandi mynd ekki nálægt því jafn ríkjandi á markaðnum eftir 20 ár og þau eru nú", segir forstjóri Knight-Ridder sem gefur m.a. út Miami Herald og bætir við: "Ein helzta hindrun sem dagblöð verða að komast yfir í framtíðinni er ólík áhugamál lesenda og hvernig þeir skiptast í ólíka hagsmunahópa. Það virðist óumflýjanlegt.”
Stafrænt eða gagnvirkt sjónvarp sem merkir að áhorfendur verða sínir eigin ritstjórar mun ýta undir þessa skiptingu vegna þess það hæfir samkeppnishagsmunum þeirra. "Þessir fjölmiðlar henta mjög vel breytilegum hagsmunahópum vegna þess að efni þeirra liggur fyrir í fjölbreyttum gagnasöfnum og dreifing þess fer fram með beinum sendingum milli sendanda og einstakra móttakenda.
Lesendur og auglýsendur munu einnig leggja fram sinn skerf til áframhaldandi skiptingar. Æ fleiri lesendur munu ætlazt til þess að fjölmiðlar veiti þeim aðeins þær upplýsingar sem þeir óska eftir af öllu því flóði sem fyrir liggur hverju sinni. Neytendur munu sjálfir skiptast í áhugahópa eftir því sem þeim verða ljósari séróskir sínar og þeir verða færari um að fullnægja þessum óskum vegna aukins framboðs.
Auglýsendur munu í auknum mæli krefjast þess að ná aðeins til líklegustu kaupenda á vörum þeirra og þjónustu. Þeir verða í auknum mæli tregir til að greiða fyrir það sem þeir telja óþarfa kynningu á almennum fjöldamarkaði. Þeir munu krefjast sérhæfðari miðla fyrir auglýsingar sínar.”
Og þá verður stutt í að ljósvakablöð líti dagsins ljós. Dagblöðin verða svo hönnuð handa hverjum og einum, sniðin að þörfum lesenda. “Þegar sú tækni hefur verið þróuð verður okkur fært að bera daglega til hvers lesenda blað sem sniðið er eftir sérstökum þörfum hans.” Lesendur fá þannig sérhannaða skammta af fréttum, auglýsingum og upplýsingum sem eru sérstaklega valin með tilliti til þarfa hvers og eins.
Þetta minnir á hvernig Íslendinga sögur, þ.e. elfan mikla, leystist upp í smærri kvíslar eins og fornaldarsögur Norðurlanda sem voru afþreying og annála sem voru til fróðleiks. Hlutverki sagnanna var sem sagt lokið. Það má vera að upplýsingar og fróðleikur dreifist til æ fleiri við þessa tækniþróun og nauðsynlegt að halda í þá von. En þetta er samt íhugunarverð framtíð og mér er til efs ég hefði haft áhuga á að gera blaðamennsku að lífsstarfi mínu ef aðstæður hefðu verið þær sem hér er lýst. Þetta er fyrsdt og síðast framtíðarsýn afþreyingar og skemmtiiðnaðar, sérhæfðrar þekkingar en ekki almennrar, það er eins konar 14. öld fornaldarsagna og annála — en ekki Íslendinga sagna!
Dagblöð og dómstólar
Þegar við vorum í Noregi vorið 1991 heimsóttum við Stavanger Aftenblad og áttum ágætt samtal við ritstjóra þess, Thor Bjarne Bore, alvarlegan mann og viðræðugóðan. Nokkru síðar rakst ég á athyglisverða grein eftir hann í málgagni norskra blaðamanna minnir mig og þar fjallar hann um siðleysi í blöðunum og ábyrgð fréttamanna. Hann segir í upphafi greinar sinnar að fyrrverandi upplýsingafulltrúi hjá Kreditkassen hafi sagt að fyrir venjulegt fólk sé aðeins eitt verra en að verða fyrir reiði Guðs, það sé að verða umfjöllunarefni á forsíðu Dagbladet eða Verdens Gang án þess vilja það. Þar sé nefnilega hvorki að finna náð né fyrirgefningu. Og Bore segir: “Það er ef til vill ekki þægileg tilhugsun að æ fleiri skuli spyrja hvort nýtt réttarkerfi sé að verða til í Noregi, kerfi þar sem menn eru dæmdir sekir um leið og grunsemdir vakna, þar sem menn verða að afplána refsinguna þegar í stað í gapastokki almenningsálitsins, ásamt öllum þeim ættingjum sem bera sama eftirnafn. Í gamla daga lauk refsingunni á einum sunnudegi við kirkjuna. Þá hlaut fólk refsingu eftir réttarhöld og dómsúrskurð, núna er gapastokkur fjölmiðlanna stundum miklu verri en dómarnir sem réttarkerfið kvað upp.”
Og Bore heldur áfram: “Ég hygg að við getum verið sammála um að ekki eigi að skerða tjáningarfrelsið þegar það er notað til að hindra óréttlæti og leiðrétta mistök... Rannsóknarblaðamennska fer vaxandi og það er gott fyrir samfélagið. En það er slæmt að í sumum tilfellum hafa menn sýnt óvarkárni og skaðað rannsókn lögreglu á málum með yfirgangi. Blöðin hafa oft varpað fram afdráttarlausum staðhæfingum allt of snemma og síðar hefur komið í ljós að þau voru á villigötum. Oft er skaðinn mikill, fjárhagslegur og félagslegur, fyrir einstaklinga sem verða fyrir barðinu á þessu þótt þeir reyni að rétta hlut sinn með málsókn...
Lögbrot er lögbrot en hvaða brot eru svo yfirþyrmandi að það sé eiginlega hægt að verja það að fjallað sé um það á mörgum blaðsíðum og birtar risastórar myndir. Fjölmennir flokkar ljósmyndara og fréttamanna eru á hælum hins ákærða, notaðar eru kvikmyndavélar og skær flassljós sem afhjúpa hverja einustu drætti og svipbrigði?...
Athafnir fjölmiðla í slíkum málum minna á alþýðudómstóla. Eintakafjöldinn, áherzlan á málið, orðaval þar sem skoðanir blaðamanns koma skýrt í ljós og ekki sízt að einstaklingar á vegum fjölmiðlanna bregða sér í mörg hlutverk í senn — þeir annast rannsókn, eru ákærendur og dómarar auk þess sem þeir miðla upplýsingum til almennings...
Það er gersamlega óverjandi aðferð að kreista staðreyndir út úr fórnarlambi með því að hóta að skýra frá upplýsingum sem hafa ekki fengizt staðfestar. Það er enn verra að birta óstaðfestar upplýsingar í trausti þess að fórnarlambið þori ekki að bregðast við þeim. Það er svívirðilegt að nýta sér vitnisburð barna eða annarra sem ekki eru færir um að skilja hvaða afleiðingar orð þeirra geta haft.
Enginn getur komizt undan ábyrgðinni með því að vísa til þess að viðkomandi maður hafi sjálfur kallað yfir sig umfjöllun. Í raun er það svo að sá sem birtir eitthvað hlýtur ekki eingöngu að ábyrgjast að það sé satt heldur einnig að virðingarverð ástæða sé fyrir birtingunni. Ég er sammála aðalritstjóra Washington Post sem segir að ekki sé nein ástæða til að segja frá einkalífi þekkts fólks nema framferði þess í einkalífinu geti haft áhrif á störf þess. Ef fólk í ábyrgðarstörfum tekur sér eitthvað fyrir hendur sem skerðir það traust sem almenningur verður að geta borið til viðkomandi einstaklings getur einkalífið orðið viðfangsefni á opinberum vettvangi...”
Bore fordæmir það sem hann kallar “snuðrara-blaðamennsku” og telur að hún geti kallað yfir fjölmiðlana lög sem skerði frelsi þeirra. Viðhalda verði gagnkvæmu trausti almennings og fjölmiðla ef hinir síðarnefndu vilja gegna hlutverki sem fjórði valdaþátturinn, “við verðum að halda okkur frá forheimskunar- og léttmetisblaðamennskunni”, segir hann og bendir á að blaðamenn verði sjálfir að halda uppi siðferðislegum aga eins og Ibsen bendir á í Rosmersholm og hann kallar jafnframt Sigrid Undset til vitnis um grundvallaratriði því að hún sagði á sínum tíma að menning væri “í innsta eðli sínu ábyrgðartilfinning einstaklingsins”. Hann varpar fram þeirri spurningu hvort ritstjórar ritstýri eða láti sér nægja að sjá um daglega stjórn. Spyr hvort ekki vanti hugmyndafræðilegan grundvöll á marga fjölmiðla. “Standa ritstjórnirnar í alltof litlum mæli á grunni hins trausta gildismats? Hlýtur ekki að vera fyrir hendi gildismat í hvert sinn sem tekin er ákvörðun í siðferðislegum efnum?”
Allt er þetta mikið íhugunarefni og ég tel að Bore fjalli skynsamlega um vandamálið. Ég er sammála öllum þeim skoðunum sem hann sjálfur hefur og hvernig hann setur þær fram. Og þá ekki síður því sem hér fer á eftir: “Ef almenningi finnst að við umgöngumst ekki tjáningarfrelsið með virðingu eigum við á hættu að frelsið sem við höfum ekki efni á að glata verði skert. Þess vegna verðum við að halda verkfærum okkar í siðferðismálum vel við og slæva ekki virðinguna fyrir þeim ef við ætlumst til þess að vera tekin alvarlega í hvert sinn sem við drögum að húni fána tjáningarfrelsisins. Fólk lætur sér fátt um finnast ef við vísum til hins heilaga frelsis í hvert sinn sem við gegnum störfum lögreglunnar eða dæmum fyrirfram þá sem grunaðir eru um afbrot, læðumst inn í svefnherbergi einhvers sem nýtur tímabundinnar frægðar eða látum móðan mása um hvaðeina sem engu máli skiptir.
Á ritstjórn er ekki hægt að setja reglur sem hægt er að notast við í öllum tilfellum, en hægt er að draga mörk sem hvetja menn til að vera meðvitaðir um hvenær hægt sé að birta upplýsingar án þess að einstaklingum sé jafnframt sýnt óréttlæti. Sérhver lesandi hefur sína skoðun á því hvað eigi að birta. Það má aldrei verða takmarkið að allir séu undantekningarlaust ánægðir. Ef blað ætlar að gegna skyldu sinni sem gagnrýnandi samfélagsins hljóta sumir lesendur þess að verða lítt hrifnir af ákveðnum greinum, fyrirsögnum, þar sem fjallað er um þá, hve mikið rými er notað fyrir umfjöllunina og hvar í blaðinu hún birtist. Og aldrei megum við gleyma því að þeir sem af eðlilegum ástæðum eru mikið í sviðsljósi fjölmiðla glata alltaf að nokkru leyti hæfileikanum til að skilja gildi tjáningarfrelsisins og opinberrar umræðu.
En þróun mála veldur því að afar eðlilegt er að staldra við og spyrja: Erum við vitni að því hvernig fjölmiðlunum hrakar, hvernig þeir menga almenningsálitið með ofuráherzlu á einstaklinga og hneyksli fremur en að vera því til upplýsingar?
Er tvenns konar fjölmiðlasiðferði að verða til, annars vegar þeirra sem leggja áherzlu á að stundum hljóti tillit til einstaklinga að vega þyngst, hins vegar þeirra sem segja að tjáningarfrelsið sé takmarkalaust og skýra megi frá öllu ef það einungis fa því það sé satt? Er raunveruleiki nútímafjölmiðlunar þegar öllu er á botninn hvolft fyrst og fremst spurning um peninga?”
Fréttamenn þurfa sjálfir sama aðhald og þeir telja sér skylt að veita öðrum einstaklingum og samfélaginu. En það er langt frá að á því sé almennur skilningur og um fjölda fréttamanna mætti hafa sömu orð og Bore notar um valdamenn: “Og aldrei megum við gleyma því að þeir sem af eðlilegum ástæðum eru mikið í sviðsljósi fjölmiðla glata alltaf að nokkru leyti hæfileikanum til að skilja gildi tjáningarfrelsisins og opinberrar umræðu.” Þetta á því miður við um allt of marga fjölmiðlamenn. Sumir þeirra vilja baða sig í sólskininu en þeim er nokkurn veginn sama þótt þetta sama sólskin valdi öðrum brunasárum. Ekki sízt af þeim sökum er mikilvægt hverjir stjórna fjölmiðlum, nú og í framtíðinni — og er það að sjálfsögðu algjörlega óháð tæknilegri þróun því að alþýðudómstóll notar þau meðul sem nærtæk eru hverju sinni.
Framtíð íslenzkrar fjölmiðlunar er óráðin. Margt bendir til að alþjóðleg fjölmiðlun taki við af henni áður en langt um líður. Hún er fyrirferðarmesti þátturinn í íslenzkum sjónvörpum. Erlendur skemmtiiðnaður er þar nánast allsráðandi og engu líkara en metnaður íslenzkra sjónvarpsstöðva standi helzt til þess að verða eins konar amerískt útihús hér norður í ballarhafi. Þetta er heldur dapurleg framtíðarsýn, því miður, og vonandi hef ég á röngu að standa; vonandi rís íslenzk fjölmiðlun úr öskustónni og markar sér íslenzka stefnu með þá arfleifð að bakhjarli sem er dýrmætasta eign okkar.
Blaðamennska er samtíðin í rituðu máli; eins og Sturlunga. Morgunblaðið er blað allra landsmanna, í reynd. Það nýtur lýðhylli sem aldrei fyrr. Og umfram allt nýtur það nú meira trausts samkvæmt skoðanakönnun en nokkurn tíma áður. Af því er ég hvað stoltastur, þegar horft er um öxl. Ritmálstraust hlýtur að vera markmið þeirra blaðamanna og rithöfunda sem vilja vanda til verka. Það var leiðarljós Sturlu Þórðarsonar, þessa snillings samtímasögunnar. Tölvulaus samdi hann forritið sem hefur dugað betur en nokkur önnur.
Á Morgunblaðinu er hæfileikaríkt starfsfólk; hógvært og hreykir sér lítt. En það hefur nægan metnað til að gefa út gott blað. Ég mun sakna þessara samstarfsmanna, þessa gamla og góða morgunblaðsanda. Lesendur njóta góðs af honum. Hann er dýrmætasta eign blaðsins. Og þá hefur hann ekki sízt verið notadrjúgur ýmsum þeim sem horfið hafa til annarra starfa.
Óvænt ráðning mín í ritstjórastarf á sínum tíma hefur að því er virðist rutt blaðamönnum leið til áhrifa og ábyrgðar; vonandi þá einnig lesendum til góðs og blaðinu til framdráttar. En forsenda þess er þó sú að unnið sé af hrokalausri auðmýkt og virðingu fyrir umhverfinu og þeim gildum sem nefnd hafa verið í þessu bréfi. Ungt fólk á að fá tækifæri en það á ekki að rétta því spegil sem það getur baðað sig í. Fjölmiðlar hafa því miður færzt mjög í þá átt, en þeir eru merkilegir þegar þeir fjalla um merkileg efni. Blaðamennska er ekki lítilsiglt starf eins og stundum heyrist. Ef þjóðfélagið er merkilegt þá eru fjölmiðlar merkilegur spegill. Þeir hafa að öðru jöfnu tilhneigingu til að vera jafn merkilegir eða ómerkilegir og þjóðfélagið sjálft.
Mannlífið einkennist að vísu ekki af jafnvægi, heldur slagsíðu. Ég hef einhvern tíman líkt Morgunblaðinu við torg þar sem fólk safnast saman og skeggræðir. Sé það rétt að íslenzkir fjölmiðlar séu slíkt torg þá heyrist því miður aldrei í neinum Sókratesi fyrir hrópum og háreisti. Og það er ekki eðli markaðarins að hyggja að verðmætum, ekki endilega.
Tómas skáld Guðmundsson sagði eitt sinn við mig: Annaðhvort verðum við að leggja niður fjölmiðlana eða tunguna, þetta tvennt fer ekki saman. Það er rétt, holtaþokuvælið sem Jónas talaði um er í æ meiri metum með hrakandi smekk. Og enginn Fjölnir í augsýn, því miður. Tilþrifalaus flatstíll í hávegum.
En þó von til að Eyjólfur hressist.
Tómas var tákngervingur hins listræna eða estetíska smekks og gamalgróinnar ritlistar, en fjölmiðlarnir fylltu hann bölsýni. Mér er þó nær að halda þetta hafi verið óþarfa svartsýni. Vonandi halda íslenzk tunga og dýrmætur ritlistararfur velli, hvað sem öðru líður. Ég á ekki betri ósk okkur til handa en svo megi verða. Og þrátt fyrir allt virðist margt benda til að það geti orðið.
Með þá ósk í huga kveð ég mitt gamla blað og lesendur þess og þakka langa og góða samfylgd.
16. desember, laugardagur
Svofelld bókun samþykkt á fundir Árvakurs í gær:
"Við starfslok Matthíasar Johannessens um nk. áramót þakkar stjórn Árvakurs hf. honum farsæl og ómetanleg störf hans í þágu Morgunblaðsins í þau tæp 42 ár, sem hann hefur starfað sem ritstjóri Morgunblaðsins en hann hóf störf sem blaðamaður árið 1951.
Stjórn Árvakurs hf. hefur áður af þessu tilefni samþykkt fjárframlag til heimildarmyndar um Matthías sem nú standa yfir tökur á og jafnframt beitt sér fyrir gerð lágmyndar af Matthíasi, sem Erlingur Jónsson myndhöggvari leggur á lokahönd um þessar mundir.
Þá óskar stjórnin eftir í samráði við Matthías að efna til kveðjuhófs með honum, eiginkonu hans og fjölskyldu ásamt starfsfólki Morgunblaðsins og stjórn útgáfufélagsins laugardaginn 30. des. nk. kl. 17.
Um leið og stjórn Árvakurs hf. ítrekar þakkir sínar fh. útgefenda Morgunblaðsins til Matthíasar, Hönnu og fjölskyldu þeirra mælist hún til þess við hann að Morgunblaðið megi enn um hríð geta leitað í smiðju til hans við útgáfu þess eftir nánara samkomulagi við ritstjóra og í samráði við framkvæmdastjóra."
Samtal við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í gær, það fer í jólablað Dags. Þar afgreiði ég SAM með hógværri ákveðni; malice to none!
Enginn verður víst ráðinn í minn ritstjórastól, hann mun standa auður, en tveir aðstoðarritstjórar ráðnir, auk fréttaritstjóra sem var mín uppástunga,enda bar Ívar Guðmundsson þann titil og ástæða til að endurvekja hann.. Ágæt lausn í sjálfu sér, enda enginn sátt um Davíð og aðrir koma ekki til greina, skilst mér.
Kvöldið
Hef aldrei séð eins fagra sjón og snæviþakin trén í logkyrrum görðum vesturbæjarins. Jólatréð sem ég plantaði í garðinum okkar fyrir margt löngu stendur uppúr og teygir sig til himins, var grænt undir hvítum kristölum frosins nýsnævis.
Fagnaðarerindi sköpunarinnar í verki og fer vel við aðventuna.
Ódagsett
Örlög og englaryk
... þær inar glæddu götur
Sólarljóð
1.
Hálfvolgur hugur, hvítur
sem nýfallinn snjór,
hlustaði áfram á hvíldarlaust suðið
í huga sínum, Ég læt þetta duga,
sagð´ann uppúr eins manns hljóði
og hálfkveðinni vísu, en hún gat ekki
fundið sjálfa sig í þeim spegli
sem eitt sinn var bundinn
trúnaði þeirra og ást, Ég læt þau
um þetta, örlögin, allt er í þeirra
höndum, sagði'ann og andlit hans
eins og píslarsálmur eftir Ólaf
gamla á Söndum.
2.
Við erum byrjuð að sigla inní
myrkrið, sagði hann,en hún
anzaði því engu, hugsaði með sér
að hún þekkti ekki þennan
mann sem bar þess
merki að ár og dagar voru liðin
frá því þau hittust fyrst, Ég verð
ekki lengi, sagði hún um leið
og hún lokaði dyrunum, en hann
stóð eftir og beið þess hún færi, inní
myrkrið sagði hann við sjálfan sig
og hálfvolg hugsun elti hann
eins og deyjandi glóð sem einhver
skilur eftir í haustgulu rjóðri.
3.
Þau höfðu hitzt eitt
haustkvöld í gulu laufi
og fölnandi sólin var hulin
septemberskuggum þar sem trén
byrgðu útsýn við gamla
mosgróna glugga á litlu
timburhúsi í vesturbænum, hann
mundi það vel og hugur
hans fylltist af hvítum
fuglum sem flögruðu að
og settust eins og gamlar
minningar á naktar greinar
meðan síðustu geislar kvöldsins
dönsuðu tangó af fallandi blaði
á blað.
4.
En nú var hann einn og undi
við atburð sem kom eins og gestur
af úfnu hafi tímans, þegar hún
kom aftur sagðist hann hafa
hugsað um allt sem var
liðið, Og hvað er þá áleitnast, spurði
hún furðu lostin, Sú
ólifða minning, sagði hann
sem aldrei varð að þroskuðum
ávexti trésins og greinarnar
sakna.einar og yfirgefnar,
atburður liðinna daga
sem aldrei varð, hægt inní
myrkrið mjakast sú
áleitna hugsun sem heldur
til fundar við óbrotið
stundaglas tímans.
5.
Hálfur skríður máninn upp
steingráa veggi hússins, egghvass
eins og greinds manns tunga, leggur
af stað inní stjörnulaust
myrkur hugans, Komdu og sjáðu
norðurljósin, segir hún og bendir
út í myrkrið, þau lýsa upp
himininn og vísa myrkrinu
burt, hann stóð upp og starði
þögull og einn með hugsun sinni,
horfði inní uppljómað myrkrið
á óstyrkum grænbylgjandi himni.
6.
Horfði einn inní myrkrið
í huga hans sjálfs, gladdist
yfir því ljósi sem lýsti
upp langdimmar nætur og varpaði
fölri birtu á frostdauðar rósir
sem lifnuðu við eins og minning
um mildari daga,hugsaði
um stéttlausar verur á vergangi
í vitfirrtum borgum, hugsaði
um sorgir þeirra sem sjá ekki
útúr auga, stéttlaus og firrt
lífsneista guðanna miklu
og réttlæti þeirra sem hrópa
hæst og lengst á götum og torgum
sem eiga ekkert skylt
við Aþenu Platons og Seifs, Ég
heyrði af konu, sagði hún, sorgmæddri
röddu, stéttlausri konu sem varpaði
skugga á skjóllausan þingmann, þá
er skylda hans sú að þvo af sér
þennan svarta blett, Þvo af sér,sagði
hann, þennan stéttlausa sora
í sólhvítri blámóðu gjöfullar
borgar við Ganges. Þannig
fundu þau eigin ævi
einhvern þann tilgang sem
nánasta umhverfi svifti
með þjáningu sinni.
7.
Og þau héldu áfram að tala
um tvísýna framtíð og án þess
þau litu á suðandi sjónvarp
og söngl á verðlaunahátíð
þeirra sem útvaldir eru, slitu
svo talinu,horfðu til tungls
sem hvítnaði af sól á langri
leið inní svartnætti myrkurs
og nætur, hann beið þess hún
segði eitthvað um þjakandi þögn
og þrá sem fylgir væntingum
gamallar ástar, en hún þagði
með endurskin tungls í slokknandi
augum,hann sagði að lokum, Þannig
héldum við einnig inní það
myrkur sem slekkur blikandi
fyrirheit rísandi daga unz blekkingin
umvefur ískaldar þagnir
og hikandi dagar hverfa með tungli
í hafdjúpin miklu,
deyja sem glóðir að glóandi
gærdegi vanans.
8.
Það var fennt yfir margt í huga
þeirra og hjarta, jafnvel einnig
fennt yfir bjarta daga og vonir
sem margar rættust, en minningin
bundin þeim raunum og örvænting
misjafnrar ævi sem engum
er ætlað að launum, samt afhendir
lífið þann beizka bikar sem öllum
er ætlað að drekka í botn, hver
bognar ekki í Sandfellsbylnum
síðast, hver brýtur ekki odd
af oflæti sínu að lokum,um það
var hann að hugsa þegar hugur hans
stóð einn og ósjálfbjarga
andspænis þeim sem hverfur að lokum
eins og þröstur að nakinni grein
í nágrenni annars fugls, athvarfslaus
og gestur hjá guði einum.
9.
Hver horfir uppá barn sitt deyja
af hvítu dufti, grimmum vélum
dauðans,án þess fela forsjón sinni
fyrirheit sem brugðust eins og heiður
himinn lokist fyrir þrumuskýjum, líkast
því sem ragnarök við helför
hinzta dags,þannig birtist dauðinn
án þess knýja dyra eins og óvelkominn
gestur fagni gömlum vini,það
er sem vindur rífi upp með rótum
rótfastan hlyn og skilji eftir
gamlan garð sem flag af fyrirheitum,
hver leitar ekki örvæntingu
sinni einhvers þess sem leggur
smyrsl á sára und, Nú hefur guð
fundið höggstað á lífi okkar, sagð´ann
og gróf sitt andlit eins og Job í lúna
lófa, hví hefurðu, guð minn, yfirgefið
okkur?
Hún sagði ekkert, en þagði ein
með angist sinni
1o.
Hann sneri innra auga sínu að
þeim innra manni sem blasti þar
við sjónum, mundi hvernig
Dante skilgreinir synd og svik
og syndum sínum mætir hann
í eyðilandi ljóna og hlébarða,
samt glittir þar einnig
á úlfsins eyru, hann hræðist
þennan innra mann og auðn
í eigin sál, þá blasir við
það bál sem bregður flöktandi skuggum
á Júdas eins og jökulísinn bráðni
og jörðin skjálfi undir fótum hans
og grjótið hrynji undan arnaklóm,
hann fer með bæn og Beatrísa
birtist þar sem myrkur heljar
sækir fast að ímyndunum hans
Jesús um allt hús, það bregður ljósi
dögunar á djöfulseðli manns,og nóttin
víkur fyrir sól og birtu en sorgin
kveikir neista að nýju böli
þótt borgin vakni af löngum þungum
svefni og líknin fari eins og ylur um
það angur sem er rótfast mein
í hörðu brjósti hans.
11.
Hann gengur þar sem gulönd blasir við
gráum augum og skógurinn
speglast í vatni, skógur og himinn
halda saman til úthafs eins og nú
sé allt í sátt við jörð sem fylgir þér
ó sól og þú sért aftangolan góð
við gulnað lauf og skógarhörpu-
ljóð, hann stöðvast einn og hlustar
við þrastarvæng á eilíft andvarp
guðs og fuglinn veltir væng
að vinalegri grein, það er sem
meinið bráðni í brjósti hans
og blik af skógarþögn sé gleði dags
við grænar nálar gamals trés
og ána.
Ilkvistum leika greinar grenitrjáa
á gulandarvængi sólar eins og fari
hörpustrengi þögn af hverju strái
hverju strái þessa kalda lands
og kulið hreyfir vatn og vitjar þess
og vatnið rennur hægt um vitund
hans.
12.
Í hverjum einum birtist ein og öll
alveröld guðs og skuggi tímans fer
sem mjöll að vatni fljóts, það rennur hljótt
að hafi tímans, nótt með stjörnuaugu
enn í fylgd með sér, þúsund augu fylgja
einnig þér, fylgja þér að skuggum
þessa dags, hann lyftir jöklum hægt
til himins, hægt að brjósti sér,
sú minning er sem skuggi liðins sumars
og ljósið allt sú eina dýrð sem magnar
skuggann þannig þúsundfalt, Er líf mitt
dreymt,er líf mitt veruleiki? spurði
eins og skáldið forðum, horfði
einn til himins þar sem þúsund stjörnur
voru eins og þögul augu hennar
sem lýstu þar sem myrkrið magnar
ljós og skugga, þessi þögn var nótt
og þögult svar.
13.
Milli þeirra þögn. Og honum leið
sem vetrarfuglar fljúgi milli
greina og hugsun hans svo hljóð
sem þögn við steina og henni fylgdi
kona sem gekk í sinni fegurð
eins og nóttin
og nóttin var kona hulin svartri
slæðu
hún læðist hjá og vitjar vors
sem leynist enn í vetrarhugsun hans,
ó vor, sem eitt sinn áttir þennan dag
og söngst í brjósti hans þitt
blendna sólarlag, efst við uppsir
hússins útigönguhrafnar hrets
og snjóa, en haustið kom
og lóuvængur var sem veðurbarin
hugsun þess sem verður
ó vor
sem eitt sinn áttir bjartan dag
í huga þeirra þegar sólin lyfti
þangbrúnum fjöllum
hægt og þó án hiks
til himins þar sem vænting
vorsins býr,
nú syrtir að, nú sölnar
þessi minning, nýr óviss dagur
slokknar eins og sól
sól tér sortna
og myrkvi sólar syrtir huga hans.
14.
Úti við ósinn er brimið varðhundur
veglausra vatna,
úr hrímuðum gluggum horfa
marglúin augu og hófarnir stynja
við steinkast nálægra gatna, það
hvítnar til vesturs og fjöllin
grá fyrir hærum, hann hlustar
til himins og hugsun hans
blærinn í stráum
og mávurinn hverfur að gránandi
augum á himni, þar kviknar
tungl eins og tölva sem guðirnir
lesa, jafngamalt og tíminn
sem rennur með jökulmori
til hafs, Við glímum saman
við sólmyrkva deginum lengri
segir hún þögul með augum
sem lýsa nálægð dauðans
og mannýgt nautið
æðir á roðnandi sól sem var
blys í bjartsýnum höndum
þeirra.
Hann sagði ekkert,augu hans
fóru með löndum eins og hroðið
skip úr hræsvölum fangbrögðum
hafsins.
15.
Og svo kom þessi dagur
eins og glitrandi
fiskur á himni fagurblár
undir óséðum stjörnum
ósýnilegir steinar
í straumiðu fljótsins og fiskurinn
syndir til hafs, en fjöllin horfa
agndofa á, horfa af eldbrunnum
heiðum þar sem hraunið
er moshvítur feldur, það
rýkur af brimi, hvítur
faðmur dauðans handan við golur
í melgrasgulum sandi,
skuggi bílsins hemlar við bakka
fljótsins og hverfur með vestursól
eins og vorlaust haustið
handan við jökla, vindurinn
strýkur hrímið af álútum makka
hlustandi fjalls, en öldurnar
hlakka með tungunni, Nú er
lag segir tíminn og hugur hans
glímir við fjallstórar myndir
á himnum,
einmana mávur flýgur upp
eftir ánni, aðrir snerta vænglúnar
öldur við brimið
og mávurinn hverfur til himins
sem deyr inní vatnslygna
þögn.
16.
Þau lifa í minningu tánings
sem týndi lífi og minningarnar
sem gull og líkist helzt frosnum
eldi, hugur þeirra þá ormur sem liggur
lengstum á þessu gulli án þess
Fáfnir sé neins staðar nærri, þau
sækja það gull eins og Sigurður
fáfnisbani í manndóm og hetjulund
sína, það lýsir enn af þeim eldi
og þangað leitar hugur þeirra
sem hetja leiti í haugeld gamalla
ævintýra, þau dvelja þar enn
við glampa af gömlum myndum
og eldurinn yljar hugsun þeirra
sem hrekst úr köldum næðingi
nístandi reynslu og hugurinn
leitar í hlýju af gamalli minning
og þau hverfa til lífsins
og leita sjálfs sín að nýju.
17.
En ástin er ástríðulaus og kulnuð
að kærleikans mörkum, þau sofa
saman eins og tvær styttur á gamalli gröf
(svo vitnað sé í söguna The End
of the Affaire eftir gamla Graham
Green), tveir silfurbikarar tómir
og ekkert vín,
tveir útbrunnir eldar sem nærast
á glóðinni einni,
snarkandi hljóður tíminn
þáfjall er tíminn og bráðnar
sem mjöll á víkjandi jöklum
og fjöllum sem leita til himins,
sólarglotti og hugurinn nærist
við hitann.
18.
Engu líkara en augun hverfi
aftur að dögun sem rís
endurnýjuð af ótal blikandi
stjörnum
og augun fylgja morgunhimni
til hafs, fylgja rísandi sól
yfir svefnlausar engjar að vori
augun fylgja sóley og fíflum
og baldursbrám sem vakna
og vaxa í hverju spori og sólin
á leið inní hádegisbirtu
á heiði, dagurinn tekur í hönd
þeirra, leiðir þau hægt inní himin
bikarfullan af birtu og bláfjallahvítri
sól,
fjólublár dagur sem frosinn eldur
og gullið næring í neista
af nýju báli.
19.
Máninn gestur, kemur
í heimsókn eins og gamall
hestamaður, sést fyrst í fjarlægð
en nálgast eins og hugsun
hennar í niðandi myrkri, stundum
fullur eins og syngjandi
fjallkóngur í réttum, stundum hálfur
án þess að vita það
sjálfur, nálgast eins og hugsun
hennar að huga hans,
kulið hreyfir fjólubláan
himin á víkinni og gesturinn
tekur beizlið af hestinum, hann grípur
niður og máninn baðar sig
undir fjallbleikum geislum
vestursins.
Vestrið minning um liðinn
dag og tilhlökkun sem vex
að nýrri dögun, en Keilir
píramíði og geymir minningu
guðs eins og órotnaða
múmíu,
en sólin frosið gull á himni.
20.
Þegar austrið brosir og borgin
lyftist til himins að skýgulum
faðmi sólar sem sést ekki
fyrr en síðar, þá gengur hann út
og yfirgefur leiksvið hugans, heldur
á morgunhvítum vængjum
til vors sem lifir í desembergrænum
nálum næstu grenitrjáa, skimast
um og allt sem veitir
lúnum augum unað er ummerki
dauðans,
spegill vatnsins
jafngagnsær og stjörnulausir
himnar yfir höfði hans, skimast
um og allt ber dauðanum vitni,
fingurkrepptar greinar
birkitrjánna, frosin dögg við gulnaðan
punt og stráin stirðnuð
hugsun jarðar á leið til himins,
svo leggur vatnið einnig
eins og hrím við ógnarstund í djúpri
vitund hans og mosinn glitrar
grár við grænar vakir hrauns
og litar hugmynd hans
um helreið þessa dags, í fjarlægð
áin við bláar skarir íss og hröngls
og allt er hljótt og enginn fugl
í trjánum, vænglaus tré og hugur
hans er himinn,
enginn sté
fæti þar sem rætur trjánna
sögðu fréttir af jörð sem bíður
þögul vors, þá flýgur inní þennan
himin vænggulur fálki
og gárar gamla minning
eins og vindstrokið vatn
sé vitund hans og kvíði
og sölnað laufið fýkur inní
nótt
sölnað laufið strýkur
augu hans,
en gagnsær spegill rennur hægt
að hvítum ósi,
hraunið storknuð
húð, risaeðlan hreyfir höfuð
til vesturs
og brosið bliknað ljós
í huga hans.
21.
Eins og fuglar á gömlum fílum
ferðumst við inní nótt, létt
er fótatak tímans eins og andardráttur
ljóns í háu grasi, hljótt lyftist
vatn til himins, hægt
siglir hvít fyrir seglum
tunglsskinsskútan til vesturs
hverfur í bláa fjarlægð, hnígur
sem strá fyrir vindi, vatnið
glitrandi maurildi
og myrkrið
lýsir af stjörnum, blikar
við kjölfar og segl,
engu líkara en einhver segi, Taktu
negluna úr, það er glas
undir deyjandi tungli.
22.
Það kviknar í jörðinni, sól
kveikir elda á gömlu
vatni, það brakar í öldum
og þurru grasi, hann hugsar
um það sem hann sagði eitt
sinn ungur við stúlku
í litlu timburhúsi í vestur-
bænum, Þú ert blóm og enginn
vasi hæfir því blómi , Væmið,
sagði hún og tíminn leið
eins og tíminn í gömlu víni
og óbrjótanlegu glasi,
það hljómar eins og sinfónía
unz örlögin birtast, ógnleg
örlögin birtast óvænt og missa
vasann úr skjálfandi höndum
og jörðin logar sem glóandi
vín í glasi,
það kvikna eldar á gömlu
brakandi vatni
jörðin logar og sólin er blóm
í þjakandi huga hans sjálfs.
23.
Sólin skríður eftir haffletinum,
Hómer blindast í sólinni
augu hans þreifa eftir nýjum
haffleti,
hunangsflugubrún
þota hverfur
inní gagnsæjan himin
svört trén eru gul
á bakkanum,
það kvöldar
krunkandi hrafnar á kunnuglegum
stólpum við ána
sól breiðir gula sæng
á spegil árinnar,
trén
fylgjast með þegar sólin
líður hjá
og fikrar sig
inní brostin augu Hómers.
24.
Blómgul springur sólin
út í gluggum
nálægra húsa
blóm í augum þeirra
blómgul sól
í augum þeirra.
25. (minning)
Enginn fuglasöngur, ekkert
aðeins vindur hausts
í greinum,
húmar senn í huga mínum.
Hvar er vorið?
Hvar eru sporin frá í fyrra?
Fýkur laufið undan vindi
allt mitt yndi
ekkert nema þögn í greinum,
húmar senn í huga mínum
Hvar ert þú?
Kvöldið lokar lúnum augum.
Kemurðu aftur enn að vori,
á ég að þreyja haust í spori vinds
sem deyr við naktar greinar,
kemurðu aftur eins og minning
fugls sem hvarf
að huga þínum?
26. (Tilbrigði við gömul ljóð)
Geimryk í þróun
við
rótlaust geimryk
og göngum
á vatni
göngum hægt
inní skóg
endurkast sólar
á tunglgulu
vatni
minning um himin
sem hverfur
til jarðar
við
vænglausir gestir
í víðáttum
tungls og stjarna
minning um hvellinn
mikla
tungl og stjörnur
á sólgulu
vatni
og við.
27. (Eftirmæli)
Hægt hlaupið hægt,
hestar næturinnar
Ovid
Þau ganga út, það marrar
hljótt í nýföllnum snjó, leiðast
eins og börn á leið í skóla, ganga
hægt um hlið og stjörnur
blika á himni eins og auga
guðs horfi yfir sviðið, þögnin
marrar eins og kristalsnótt
við sporin, horfa til himins
þögul eins og fyr, andartaki
síðar ein við leiðið, strjúka
köldum fingrum snjó
af nafni hins látna, hann
horfir í andlit hennar, augu
horfir á hana grátna, strýkur
eimanna tár af fölri rós
á kinn, þau krossa yfir kristals-
hvíta gröf, hneigja höfuð,
kveðja
leggja sólsetursrauða rós
við frosinn svörð,
kveðja
himin og jörð og allt í hinzta
sinn.
28.
Garðurinn bíður, einn
undir lognbláu þaki, sólin
fikrar sig vestur á vængjuðum
snjóhvítum greinum, hvítur
kristall frostinn við vorgrænar
nálar, snjóhvít húð eins og jóla-
skraut þekur birki að nöktum
berki, í næstu görðum gestir
með vængjaða fingur sem fléttast
við sofandi lerki og fuglar
sem hugsanir fljúgi úr guðlegri
þögn að þögulum skuggum
við blæðandi sólarlag dagsins, það
kvöldar og nóttin leggur að lokum
sinn kvöldmjúka væng
að blængsvörtum hnígandi
geislum í vestri, lognhvít
er þögnin (en þyrlast til himins
ef hvessti og fjaðrirnar ýfðust
við loftskurð og langþreyttar
greinar), þau hlusta á himin, hann
andar sem bárur við þangbrúna
steina
og hafið við brimsorfna kletta
og stokkseyrarfjörur
við skelhvíta sanda, hlusta
á þegjandi mælsku og marmara-
þagnir af himni, hlusta
á andartak guðs, það brimar
við stjörnur og tungl og nótt
sem fer deyjandi glóðum
að skerjum við eyjar
og höf.
Jóladagur
Eilífðarblár dagur og minnir á jólaboðskapinn; kyrr og tær og trén hreyfa sig ekki í logninu. Engir fuglar, hugurinn flatur og hljóður eins og ögurstund. Engin grimmd, ekkert ofbeldi.
Að vísu engar stjörnur í þessum bláma, en herskarar himnanna gætu verið á næstu grösum. Ég spurði Hönnu hvort það væri frost. Það er þriggja eða fjögurra stiga frost, sagði hún.
Svo ókum við inní þetta ævintýralega landslag og Ingólfur stjórnaði ferðinni.
Hann kom til Íslands miðvikudaginn 20. desember sl. Við sóttum hann suður á Keflavíkurflugvöll. Nú eru þeir báðir hér heima frændurnir, Matthías yngri og Ingólfur, annar frá Skotlandi, en hinn Kaupmannahöfn. Þannig er Ísland í dag. Fjöldi ungs fólks stundar vinnu og nám erlendis og kemur heim eins og farfuglarnir sem brjótast úr eggjum undir íslenzkri sumarsól, hverfa utan og koma svo aftur heim að njóta skjóls og athvarfs.
Ég andaði að mér þessum bláa svala...
...Ég finn mikla hlýju í minn garð og margir spyrja hvað verði? Ég held það verði ekki neitt. Held blaðið renni áfram í þeim farvegi sem það er í. Ég get ekki ímyndað mér það verði snúið aftur í gamla farið. Teningunum var kastað 1959. Þá var ákveðið að blaðið yrði málgagn sín sjálfs, en ekki annarra. Það er málgagn þeirra hugsjóna sem það hefur barizt fyrir. Þessar hugsjónir eru einnig kjarni sjálfstæðisstefnunnar, þó ekki þeirrar nýju óheftu markaðshyggju sem ungir sjálfstæðismenn tönnlast á, heldur þeirrar gömlu sjálfstæðisstefnu sem vill að trillukarlinn sé einn og óháður öllu nema hafinu og mávurinn fylgi í kjölfarið, jafn öruggur um velferð sína og karlinn við stýrið.
Við höfum ekki efni á annarri stefnu. Höfum ekki efni á því að fólk fari í súginn í þessu litla landi. Höfum öll efni til þess að koma í veg fyrir það. Og Morgunblaðið hefur verið boðberi þeirrar stefnu, án fyrirvara. Ég á ekki von á það breytist, eða hví skyldi það gerast? Mennirnir sem taka við hafa verið aldir upp í sveigjanlegri frjálshyggju eins og Hannes Hólmsteinn einkenndi mig á sínum tíma, og ég get ekki ímyndað mér þeir fari að hlaupa frá henni. Morgunblaðseggin hafa yfirleitt staðið sig vel og þá ekki sízt þau sem tóku við Sjálfstæðisflokknum. Ég er þó dálítið uggandi yfir arfleifðinni og tungunni eins og sjá má í Reykjavíkurbréfi sem ég mun skrifa á gamlársdag undir nafni.
Oddur snaraði Nýja testamentinu úti í kaþólska fjósinu í Skálholti og vel gæti verið að einhver settist þar að í erindum Evrópusambandsins. Ég vona svo verði þó ekki, en hver veit? Krosstrén eru alltaf á næstu grösum.
Ég breytti Reykjavíkurbréfinu dálítið með tilliti til þess sem hér hefur verið sagt, bætti inn í það nokkrum málsgreinum; lagfærði.
Í jólablaði Dags er segulbandssamtal við mig eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur. Þar eru einnig nokkrar villur sem ég leiðrétti og birti það rétt hér á eftir. Ég las handritið hratt yfir, enda lítill tími og villurnar eru því mín sök, en ekki hennar.
Þá finnst mér einnig ástæða til að vista í þessari dagbók samtal Sæmundar Guðvinssonar við mig, en það birtist í jólablaði Víkings og fjallar um efni sem ég hef sjaldan talað um...
...Hef verið að taka til í skrifborðinu mínu og öðrum hirzlum. Hef rekizt á mörg athyglisverð bréf sem ég skil eftir, annað tók ég með heim, einhver uppköst að Reykjavíkurbréfum, leiðurum og þess háttar dót. Set það með öðrum handritum í vörzlu Þjóðskjalasafnsins.
Eitt þeirra bréfa sem ég fann er frá Guðbergi Bergssyni. Það er skrifað í Madrid 2. marz 1971 og þar biður hann mig um að taka á móti Borges þegar hann kæmi til Íslands. Ég læt bréf Guðbergs fylgja hér með sem eins konar viðhengi, enda fer vel á því.
Einnig bréfaskipti okkar Péturs Gunnarssonar frá því í október 1969 og janúar 1970. Þessi bréf sýna dálítið inn í það andrúm kalda stríðsins sem pólitískir galdramenn stjórnuðu og þá með þeim hætti að enginn var öruggur fyrir rógi eða illmælgi eða því sem Búkovský kallaði andrúm morðsins. Við Pétur höfum alla tíð verið ágætir kunningjar, að ég held, og ekkert illt farið okkar á milli, en bréfin segja sína sögu. Ég mundi ekki eftir þessum bréfum þegar Kolbrún Bergþórsdóttir átti samtalið við mig, en þar nefni ég einmitt bók Péturs, hún heitir Efstu dagar, ef ég man rétt, og þykir mér nú eftir á hálfu skemmtilegra að hafa nefnt hana sem góða fyrirmynd í skáldsagnagerð. "Einn góðan veðurdag verðurðu kannski stórmerkilegt skáld...", segi ég í bréfinu til Péturs og er ég stoltur af því.
Það er eins og ekkert af þessu sé tilviljun, heldur flétta í leikriti sem enginn veit hver hefur skrifað. Kannski það hafi verið mannapinn King Kong sem var e.k. örlög konunnar í kvikmyndinni og hélt henni í hendi sér!
Samtölin fyrrnefndu og bréfin eru svohljóðandi:
Madrid, 2. marz 1971.
Kæri Matthías,
það er upphaf þessa máls, að í október síðastliðnum skrifaði mér prófessor Juan Marichal, formaður Sögu- og Spænskudeildar Harvardháskóla, og stakk upp á því við mig, að í sameiningu reyndum við að láta draum Jorge Luis Borges rætast, en draumur Borges hefur verið sá að fara í pílagrímsför til Íslands. Þessa draums hefur Borges látið getið á ýmsum stöðum, meðal annars í einu hefti tímaritsins The New Yorker, og í formála bókar sinnar (ensku þýðingunni), The Alep. ef vel til tækist, átti ég að taka á móti skáldinu og gerast leiðsögumaður hans; var ég að sjálfsögðu fús til þess. En þar sem Borges dvaldi um þessar mundir í Argentínu og óvíst var, hvenær hann gæti haldið að heiman frá sér, þá hélt ég að heiman frá mér, án þess ég gerði nokkrar ráðstafanir, ef af heimsókn Borges yrði.
Nú vill svo til, að Borges hafa verið veitt þau bókmenntaverðlaun, sem Ísraelsstjórn veitir, og einnig hefur hann verið gerður að heiðursdoktor í Oxford. Hann mun því leggja af stað frá Buenos Aires í byrjun apríl og hafa stuta viðdvöl, frá 14. apríl til 17. sama mánaðar, á Íslandi. Frá Íslandi heldur hann til Kaupmannahafnar, en þaðan til Oxford og Ísraels, að ég held. Upphaflega var ekki ætlun Borges að koma við á Íslandi að þessu sinni, vegna þess hvað tími hans er naumur, en útgefandinn, Jaime Salinas, sem oft hefur komið til Íslands, tók málið að sér og varð það til þess, að Borges lagði þennan krók á leið sína (Marichal er mágur Salinas), og núna vantar aðeins einhvern til að taka á móti skáldinu á Íslandi. Mér hefur verið falið það hlutverk í hendur að leita að einhverjum, sem gæti orðið skáldinu til aðstoðar þessa fjóra daga, og datt mér helzt þú í hug, bæði vegna þess að þú ert ljóðskáld og formaður Bandalags íslenzkra listamanna, (á að vera Rithöfundasamband Íslands, skjátlist mér ekki. Ég er mjög ruglaður í öllum félagsmálum), auk þess að vera vel kunnugur íslenzkum fornbókmenntum. En eins og þú veizt, þá hefur Borges skrifað skemmtilegt ágrip af íslenzkri fornbókmenntasögu; ný útgáfa, endurbætt og leiðrétt, kom út fyrir nokkrum árum.
Eins og þú munt sjá af hjálögðu ljósriti af bréfi einkaritara Borges, Norman Thomas di Giovanni, þá hefur hann áhuga á að hitta íslenzka rithöfunda og fræðimenn á Íslandi. Á gamals aldri hefur Borges lagt á sig það þrekvirki að læra íslenzku, svo að hann gæti endurbætt bók sína um íslenzkar fornbókmenntir (áður studdist hann við þýðingar), og nefni ég það þrekvirki, vegna þess að Boges er hálf blindur og kominn á áttræðis aldur. Hvað sem því líður, þá vakti kverið, og vekur enn, mikla athygli. Það hefur verið þýtt á ótal tungur (kannski hefur þú lesið það í norskri þýðingu), og líklega vegna þess segir Cortazar í sinni frægu bók, Rayuela, að Snorri Sturluson gangi ljósum logum í Buenos Aires (reyndar hafa norrænir guðir borizt til Suður-Ameríku eftir öðrum leiðum, til dæmis er póetísa í Perú, sem einungis yrkir um norræna guði og gyðjur, og fyrrverandi forseti Chile, Eduardo Frei, heitir í höfuðið á Frey).
Því miður hefur lítið sem ekkert verið þýtt eftir Borges á íslenzku, annað en það litla, sem ég birti í Lesbókinni fyrir mörgum árum. En ég veit, að þú þekkir verk hans, og ætla ég af þeim sökum ekki að rekja sögu hans, heldur biðja þig að taka á móti honum á flugvellinum í Keflavík, þann 14. apríl, kl. 8:00 að morgni.
Ég er sannfærður um, að þú munt hafa gaman af að kynnast skáldinu, og að Ísland mun taka vel á móti honum, og hafa gagn og heiður af. Án þess að fara nánar út í þá sálma, þá veit ég, að för hans til Íslands hefur þegar vakið mikla athygli.
Eitt vil ég biðja þig um, án þess að ég blandi mér meira í þetta mál, viljir þú taka það að þér, en það er að koma Borges í kynni við Sigurð Nordal. Mér hefur einnig dottið í hug að skrifa Gylfa Þ. Gíslasyni og biðja hann að halda Borges smá "party" í Ráðherrabústaðnum, en takir þú málið að þér, þá veit ég að þess þarf ekki, vegna þess að Borges verður í góðum höndum.
Eins og þú sérð af ljósritinu verður einkaritari hans og hans kona í för með honum. Öll eru þau enskumælandi.
Ég mun reyna að fá mágkonu mína, Svanlaugu Baldursdóttur hjá Vísi, til að panta herbergi fyrir þau.
Að lokum bið ég þig að svara mér um hæl, vegna þess að ég þarf að fara til Amsterdam og verða við opnun SÚM-sýningarinnar þar, og einnig, viljir þú sjá um allt þetta, þarf ég líka að skrifa til Buenos Aires og segja þeim þar, hver þú ert, og gefa þeim aðrar upplýsingar.
Kærar kveðjur.
Guðbergur Bergsson."
P.s. Ljósritin eru reyndar fleiri en eitt. Ég sendi þér þau bæði þér til glöggvunar.
Skýringar á nöfnum í bréfunum: Gilman, Steve, er prófessor við Harvardháskóla. Guillén er Jorge Guillén, mjög þekkt spænskt ljóðskáld. Alianza er útgáfufyrirtæki, það stærsta á Spáni; gefur aðallega út bækur í vasabroti. Fyrirtækinu stjórna Jaime Salinas, sonur ljóðskáldsins Pedro Salinas, og Ortega y Gasset, sonur heimspekingsins José Ortega y Gasset.
Heimilisfang mitt er: Guðbergur Bergsson, Don Pedro 6, Madrid 5, España.
Mínar beztu kveðjur.
Þínn Guðbergur Bergsson.
Síðara bréf Guðbergs er svo hljóðandi:
Madrid, 6. maí, 1971.
"Kæri Matthías.
Þakklætið kemur nokkuð seint, vegna þess að ég hef verið í Portúgal og fékk ekki bréfið frá þér, ávísunina, og annað fyrir en núna. En ég er þér afar þakklátur, þakklátari mætti þó Borges vera, enda sé ég á öllu, að hann hefur fengið konunglegar móttökur á Íslandi. Ég skal við tækifæri senda þér - eða Lesbókinni - sögur eftir hann, en ég get ekki lofað að gera það undir eins, vegna þess hvað ég er önnum kafinn þessa stundina.
Kærar kveðjur og mínar beztu þakkir.
Guðbergur."
Bréf Péturs Gunnarssonar er á þessa leið:
"26. október 1969.
66 place richelme
aix-en-provence
sæll matthías
haraldur blöndal hringdi í mig um daginn og las mér fyrir gegnum þráðinn orð sem ég viðhafði um morgunblaðið á litlum vökufundi fyrir löngu síðan, og sagði svo að lestrinum loknum að þú skoraðir á mig að koma niðrá morgunblað og endurtaka þessi orð í votta viðuvist; fyrst fannst mér þetta dáldið barnalegt en hugsaði svo að varla væri haraldur að hringja þetta ef ekkert væri með því meint og hvergi lægi fiskur undir steini. afréð því að ræða þetta við þig. afhverju talaðirðu ekki við mig sjálfur?
daginn eftir símtalið var ég að vasast í handritinu og gera ráðtafanir fyrir brottför. tvo þarnæstu daga reyndi ég að ná af þér tali en var í bæði skiptin tjáð af símasstúlkunni að þú hefðir ekki á skrifstofuna komið og kæmir sennilega ekki. ákvað að hafa tal af þér á mánudegi.
um helgina fóru mér að berast skrítnar raddir og orð og var það allt frá manneskjum sem höfðu heyrt um þetta mál frá þér beint (ásgeir ásgeirsson, sigurður pálsson) og fyrir forvitni seakir lagði ég að þeim hart að segja hvað ykkur hefði farið í milli. þótt þeir verðust allra frétta mátti ég skilja að þér lægi þungt til mín hugur, hefðir svipt mig fréttaritarastarfinu, vildir mig aldrei framar sjá, ég hefði svindlað mér inná þig undir fölsku flaggi og veitzt svo aftan að þér. ljóðabókin væri afleit.
að helginni liðinni var ég þess sumsé vís að illt væri heldur betur hlaupið í okkar samskipti. leiddist það og langaði að leiðrétta það en óaði við því á skrifstofu þinni þarsem hundrað manns hlaupa út og inn og aldrei friður. afréð því að skrifa þér. nú er ég seztur að í aix eftir langt ferðalag og strangt. tek í næði upp ritvélina mína og bið þig að athuga. leggja hvorki til betri né verri vegar.
nefni fyrst að í samtölum okkar fáum hefurðu alltaf lagt áherzlu á að þú hefðir í mörg horn að líta og þyrftir að margskipta sjálfum þér milli verkefna og kringumstæðna. eitt væri matthías ritstjóri annað matthías skáld ennannað maðurinn sjálfur og þar frameftir götum.
sný mér þá að vökufundi og orðunum sögðum. orð þau sem haraldur blöndal hafði eftir mér í símann og sagði þig skora á mig að hafa eftir, voru að meiningu réett höfðu eftir og sannleikanum samkvæm. að vísu raðað ögn upp, kippt úr samhengi og blandað í þau blaðamannahasar, en ég höfundur þeirra skil hvað hann átti við og hvar hnífurinn stendur í kúnni.
fundur þessi átti að fjalla um stúdentahreyfingar eðli þeirra og hlutverk og hvort þær væru tímabærar uppá íslandi. fyrir áhuga minn á fyrirbærinu var ég þarna viðstaddur og hlustaði á a.m.k. þrjár framsöguræður sem voru allar stuttar og kæruleysislegar. allir voru ræðumen sammála um að stúdentahreyfingar væru óhappafyrirtæki ef ekki háskalegar og alls enginn grundvöllur fyrir slíkt uppá íslandi, þarsem aðstæður væru ólíkar (hvernig?) og þaraðauki allt í stakasta lagi með mál stúdenta. að ræðunum loknum áttu að vera frjálsar umræður sem valla gátu talizt neinar og fámennur fundur varð sífellt dauflegri. einn fundargesta gerðist þó svo djarfur að benda á að sitthvað væri ekki í stakasta lagi á fróni. nefndi m.a. að morgunblaðið væri ekki óskeikult. ekki heldur biflían. sagði líka að stúdentahreyfingin þýzka hefði ekki verið málefnaleg heldur einungis deila um keisarans skegg og hvaða vopnum (vélbyssum vansslöngum spýtum) skyldu beitt í átökum við yfirvöld. bað ég þá um orðið og leiðrétti að stúdentahreyfingin þýzka hefði verið mjög málefnaleg og m.a. gagnrýnt og barizt gegn ofurveldi blaðakóngs þýzks er springer nefnist. spurði líka hvort væri alveg víst að stúdentar á íslandi hefðu engin mál að berjast fyrir. háskólanám væri orðið einkamál þeirra sem úr peningum hafa að moða. kemur íslenzkt þjóðfélag íslenzkum stúdentum ekkert við. hvernig eru fjölmiðlarnir. valdhafarnir. álíta íslenzkir stúdentar áhrif morgunblaðsins heppileg. þá svaraði að bragði haraldur blöndal og kvað við já. (einhver orð lét hann fylgja sem ég man ekki nákvæmlega og nenni ekki að rifja upp. þaraðauki gætiru borið þau undir hann sjálfan og hann ráðið svörunum). hinsvegar svaraði ég haraldi og nefndi dæmi í hverju mér fyndist morgunblaðinu áfátt. hefði getað nefnt fjölmörg en vildi nefna eitthvað nýtt af nálinni. tók nýbirta grein um ungt listþing. þar var ég ákaflega seinheppinn. fyrir það fyrsta er ásgeir vinur minn og í öðru lagi var það sem ég drap á allsekki sannað, heldur nokkuð sem við nokkrir strákar höfðum rætt okkar á milli. nefnilega að ásgeiri hefði verið gert að skrifa greinina eftir formúlunni að sleppa umsögnum um upplesstur og verk kommúnista.
já dæmið var slæmt og allsekki sláandi sem slíkt. við vitum jafnvel báðir að dagblöðin meðhöndla andstæðinga eða meðhöndla þá ekki og er misjafnt hvort ráðið gefst betur, - meðhöndlun eða þögn. dæmið hverfur kyrfilega í svínastíu íslenzkra dagblaða og máttlaust að ætla að nota það máli sínu til stuðnings.
hversu slæmt dæmið var skildi ég ekki fyrren ég hafði nefnt það og náði ekki að klóra í bakkann þar sem haraldur spurði hver hefði skrifað greinina og þvínæst hver hefði gert ásgeiri að skrifa hana. í þeim púnkti tók málið að koma við þig. slyngur maður haraldur frændi þinn. tók hann nú að leiða málið inná sjálfvaldar brautir. hversu frjálslynt morgunblaðið væri en hlyti samt að lúta þeirri reglu að birta ekkert sem bryti í bága við meginstefnu. (það vildi svo til að hann komsst efnislega svipað að orði og handbók sovétstjórnar um sovétríkin þarsem fjallar um málfrelsi ritfrelsi og sjálfstjáningu listamanna. handbók þessi er útgefin 1967 og fæst gefins uppí mír). síðan kom hann með stemdar umsagnir um drengskap þinn og frjálslyndi og hvað þú sjálfur hefðir mátt þola. var þá svo langt komið frá efni fundarins (stúdentahreyfingar) að okkur var gert að hætta. hélt fundurinn áfram og var orðinn feikn skemmtilegur.
að loknum fundi tók haraldur mig tali og var mjög vinsamlegur. samræmdust eitthvað skoðanir okkar og tók ég fram að frá minni hálfu hefðu hvorki verið til umræðu ásgeir ásgeirsson né matthías johannessen.
löngu seinna þegar þetta var mér horfið úr minni hringdi haraldur blöndal og mér varð ljóst hversu illa þetta hafði komið við þig. ég þekki ekki harald og veit ekki hvað hann sagði þér né af hvaða hvötum.
er þá greinagerð lokið. ég get að vísu endurtekið að mér leiðist að þetta skyldi verða. viðurkenni fljótfærni mína. eftir er aðeins að fjalla um viðbrögð þín sem mér af afspurn virðast þér á alla lund ósamboðin. og ef það er satt að þú sakir mig um tvískinnungshátt og svik, þá þætti mér betra að þú færðir að því rök eða skýringu, - við mig sjálfan.
í því sambandi væri fróðlegt að athuga hvar við tveir stöndum hvor gagnvart öðrum. ég bað þig að lesa yfir handrit og koma því áleiðis til almenna bókafélagsins. þar átti ég skipti við ljóðskáldið og bókmenntafulltrúann matthías. ég er þér þakklátur hversu vel þú tókst mér en ég sé ekki hvar ég hef brugðist þér. þú ert ritstjóri morgunblaðsins og sem slíkur bauðstu mér að skrifa greinar frá frakklandi. með því leystiru að verulegu leyti fjárhagsvandræði mín og fyrir það var ég þér þakklátur, - en ég sé ekki hvar ég hef brugðist þér. viltu meina að allt sem á síðum morgunblaðsins stendur sé talað útúr þínu höfði? ef svo er þá hef ég ekki brugðist þér, heldur höfum við andstæðar skoðanir, þarsem morgunblaðið er í mörgum atriðum ósamrýmanlegt mínum skoðunum sem og reyndar öll pólitízk málgögn íslenzk.
hér kýs ég að ljúka bréfi. ef ég hef ekki skýrt eitthvað sem þér þykir máli skipta, þá skrifaðu mér. bið þig að lokum að halda þessu bréfi milli okkar tveggja.
kveðjur
Pétur Gunnarsson."
Svarbréf mitt:
"Reykjavík, 2. janúar 1970.
Pétur minn.
Ég bið þig afsökunar á því að ég skuli ekki hafa skrifað þér fyrr, ég hef haft mikið að gera, en það er kannski engin afsökun. Samt vil ég ekki að nýja árið líði án þess ég hripi þér örfáar línur.
Ég þakka þér bréf þitt frá því seinast í október. Það var elskulegt bréf eins og þín var von og vísa. Ég tek allar þínar athugasemdir fullgildar og vil að þú vitir að ég hef aldrei haft neinar áhyggjur, hvorki af því sem þú hefur sagt upp í Háskóla né annars staðar. Ég sagði þér strax að mér þætti ljóðahandritið þitt athyglisvert með tilliti til þess að þú værir aðeins 22 ára. Þetta sagði ég einnig á fundi í bókmenntaráði Almenna bókafélagsins og ég hef aldrei kvikað frá því. Ég er síður en svo allsráðandi í bókmenntaráðinu, þar eru aðrir mér valdameiri, og án þess að bera blak af sjálfum mér get ég einungis sagt: Handritið féll ekki í þann jarðveg sem ég hélt, og þú veizt raunar sjálfur bezt af hverju það var. Ég kom ykkur Tómasi Guðmundssyni saman, þið fjölluðu um handritið, Tómas var ekki ánægður með það og þannig skilduð þið. Auk þess var engin hrifning yfir því hjá öðrum í bókmenntaráðinu. Þetta held ég að ég geti sagt þér, án þess að særa neinn, þetta eru aðeins gallharðar staðreyndir og koma ekkert við ummælum þínum, hvorki uppi í Háskóla né annars staðar.
Ég vona að við getum haldið áfram að skilja hvor annan þrátt fyrir þetta. Þegar ég sendi inn til Almenna bókafélagsins fyrsta ljóðahandrit mitt, lá það þar í nokkra mánuði, og ég sótti það aftur, og Helgafell gaf það út. Vona ég að þessi saga hjálpi þér dálítið til að skilja að fátt er í þessari veröld, sem er auðfengið, við verðum að berjast fyrir því, sem okkur er kært og verður okkur enn kærara einmitt vegna þess, að við þurfum að berjast.
Ég ætla svo ekki að þreyta þig með löngu bréfi. Að sumu leyti líkar mér ekki andinn í bréfi þínu í garð Morgunblaðsins, en þú ert ungur maður og ég skil að þú hafir ekki löngun til þess að gera uppreisn gegn því sem þið kallið valdið. Sonur minn er 15 ára og ég hef fullt í fangi með að leiða hans uppreisn í jákvæðan farveg, ekki fyrir mig, heldur, vona ég, fyrir hann. Ég mundi óska þess að ég fengi einhvern tíma tækifæri til að sýna þér hlýhug og vináttu. Ef þú hefur enn áhuga á því að skrifa eina, tvær eða þrjár greinar í Morgunblaðið um hugðarefni þín, list eða bókmenntir í Frakklandi, þá stendur þér það opið og muntu fá senda greiðslu fyrir þær greinar sem við tökum. En sama lögmál verður auðvitað að gilda fyrir þig og aðra, að við treystum okkur ekki til að birta hvaða vitleysu sem er!
Þú fórst aftur til Frakklands, Pétur, og sýndir af þér mikið hugrekki og dugnað - ég vona að þér gangi allt í haginn, þú átt það skilið. Einn góðan veðurdag verðurðu kannski stórmerkilegt skáld, og þá geturðu sagt frá samskiptum þínum við Almenna bókafélagið og sett okkur alla í dálítið kómískt ljós. Það getur orðið skemmtilegt, bæði fyrir þig og þá, sem hafa gaman af því að sjá okkur hina í skrítnu ljósi.
Ég bið svo guð að blessa þig og vernda á nýja árinu og gefa þér kjark til að lifa eins og þú vilt sjálfur, en ekki eins og þú heldur að geti verið heppilegt, gagnlegt eða tízkusamlegt. Ég að minnsta kosti treysti þér til þess. Og svo er eitt, Pétur, maður getur varla fjallað um konur og ástir kvenna eins og sápan hafi aldrei verið fundinh upp. Það held ég að hafi verið eitt af því, sem fór í taugarnar á Tómasi, því að hann er fagurkeri af gömlum og grónum skóla, eins og snilldarverk hans sjálfs sýna.
Kveð þig svo og árna þér allra heilla - og láttu hann Sigurð Pálsson skrifa um sína drauma.
Kveðja til ykkar,
Matthías Johannessen."
Að lokum síðasta bréfið sem mér barst, áður en ég hætti á Morgunblaðinu, það er frá austfirzka skáldinu Guðjóni Sveinssyni. Það er dæmigert fyrir ýmis þau ámæli sem ég hef hlotið, blásaklaus, frá því ég tók við Morgunblaðinu. Ég talaði við Guðjón í síma, skýrði málið fyrir honum og lýsti mistökunum. Birti svo gagnrýni Sigrúnar Klöru um jólin og Guðjón var hæstánægður. Sagðist jafnvel ætla að lesa kvæðin mín áfram!! En bréf hans er svohljóðandi:
"Mánabergi á aðfangadag jóla árið 2000.
Matthías Johannessen, ritstj. og skáld, heill og sæll.
Ég óverðugur ávarpa þig og óska þér til lukku með þann heiður sem Bandaríkjamenn eru að sýna þér þessa dagana.
Annars á efni þessa bréfs raunar að fjalla um þá lítilsvirðing sem blað þitt hefur sýnt afkvæmi mínu, barnasögunni Nílarprinsessunni, er út kom í nýafstöðnu bókaflóði. Aldrei fyrr hefur Morgunblaðið sýnt mér aðra eins óvirðingu og satt að segja á ég enga skýringu á slíku, nema um einhvers konar stefnubreytingu sé að ræða varðandi viðhorf blaðsins til menningar, hvort gamli Moskvukomminn sé kominn þar inn fyrir gáttir. Moskvukommarnir höfðu handritið að Nílarprinsessunni í nokkur ár og vildu stytta það um helming. Ég hafnaði því, enda hefði þá orðið um aðra sögu að ræða. Einhvern pata höfðu þeir af þessari útgáfu og komust að því að þetta var stórglæsileg bók og reyndu eins og þeir gátu að koma henni fyrir kattarnef. Þessa menn munar ekkert um að kála þeim sem standa í vegi þeirra - og verkin tala. Það sló mig satt að segja illa, þegar ég fregnaði að hinn ágætasti umsjónarmaður menningarinnar, Jóhann Hjálmarsson, var ekki lengur beint í eldlínunni. Sá grunur sýnist mér greinilega hafi haft við rök að styðjast.
Útgefandi minn, Benedikt Kristjánsson í Muninn bókaútgáfu, tjáði mér að hann hefði komið bókinni til Mbl. rétt fyrir mánaðamótin nóv.-des. sl. Ég hafði stungið að honum áður að hann kannaði, hvort Sigrún Klara Hannesdóttir mætti fjalla faglega um bókina. Þessi uppástunga var vegna þess að ég tel Sigrúnu Klöru bera nánast höfuð og herðar yfir aðra gagnrýnendur barnabóka. Hún segir bæði kost og löst á efni á mjög yfirvegaðan hátt. Slíkt er allt of sjaldgæft í íslenskri bókmenntagagnrýni, raunar flestri íslenskri gagnrýni, a.m.k. hin síðari ár, þar sem eins konar persónudýrkun ræður för.
Fólk les höfunda ekki efni sagði Guðbergur Bergsson nú á dögunum. Annað hvort eru bækur hafnar til skýja með hástemmdum lýsingarorðum, svo sem: "alger snilld", "besta bókin á markaðnum" og annað álíka gáfulegt. Kannski fá slíkir gagnrýnendur sporslur frá þeim forlögum er hörðust og ríkust eru á markaðnum!
Nú, nú. Þegar engin gagnrýni var komin fimmtudaginn 21. þ.m. náði ég í Sigrúnu Klöru. Hún kom af fjöllum. Hafði ekkert frétt af þessari bók, en sagðist skyldu reyna hvað hún gæti, fengi hún bókina þá strax, sem og varð. Til að reyna að tryggja þessa ráðstöfun betur, brá ég á það ráð að reyna að ná sambandi við þig. Taldi að þar myndi sameiginlegur félagsskapur rithöfunda veita mér brautargengi. Raunin varð önnur. Þú hundsaðir í tvígang þessa viðleitni mína. Þar með brugðust þau sannindi sem lesa má í ágætri bók: "Sannlega segi eg yður, svo framarlega sem þér hafið gjört einum þessara minna minnstu bræðra, þá hafið þér gjört mér það."
Nílarprinsessan er góð bók og falleg. Líklega með fallegri og eftirtektarverðari barnabókum á markaðnum í dag. "Sú besta og fegursta" sagði gamall barnakennari við mig er hann mætti mér á götunni. Hann hafði keypt eintak til að gefa konu sinni í jólagjöf. Hvað sem um það má segja, virðist ekki megi um hana fjalla. Skyggir kannski á alla blíðfinna og bláa hnetti. Slíkt og þvílíkt má ekki gerast í einkavinavæðingunni kringum gullkálfinn! Framkoma sem þessi gerir það að verkum að góðir höfundar gefast upp að skrifa góðar bækur, verða að leggja frá sér pennann vegna eldglæringa bókaforlaga er komið hafa ár sinni fyrir borð og ráða hvað Íslendingar lesa, sbr. áðurrituð ummæli Guðbergs Bergssonar.
Ágæta skáld. Vonbrigði mín eru stór. Ég hef staðið um nokkurra ára hríð í þeirri fullvissu að Morgunblaðið hefði metnað og víðsýni að fjalla myndarlega um jafn fagurt ævintýri og Nílarprinsessan er - en, nei. Þess í stað hefur þér tekist að gera mér jólin döpur. Fyrirfram hefði ég ekki látið mig óra fyrir slíku - en lengi skal manninn reyna. Verst er kannski að eftir þessa lítilsvirðingu sem þú sýndir mér er ég ekki viss um að ég lesi ljóðin þín með jafn mikilli ánægju og áður, ef ég þá geri það. Morgunblaðið, þetta stóra blað, hefur rýrnað stórlega í vitund minni.
Með gleðilegri jólarest.
Guðjón Sveinsson, rithöfundur Breiðdalsvík.
Alinn upp við það að bera virðingu
fyrir sjómönnum, samtal Sæmundar
Guðvinssonar í sjómannablaðinu.
"Ég er alinn upp við dálítið sérstakt umhverfi í vesturbænum. Þetta var hlýlegt umhverfi og alveg nýtt nema gömlu húsin. Í þessu umhverfi var mikið af mönnum sem störfuðu við sjómennsku. Maður var alinn upp við það að bera virðingu fyrir sjómönnum og það gerði ég alltaf. Mér fannst sjómennskan heillandi og þessi heimur blandaðist saman við þennan nýja borgaralega heim sem vex síðan upp í vesturbænum. Til dæmis við Hávallagötuna þar sem ég bjó var sambland af opinberum starfsmönnum og fólki sem sá sér farboða með öðrum hætti.
Í húsinu við hliðina á okkur bjó Jón Bogason sem mér þótti óskaplega skrautlegur þegar hann kom niður götuna í sínum einkennisbúningi sem bryti á Dettifossi. Þetta var í stríðinu og það gerist að Dettifoss er skotinn niður og Jón er meðal þeirra sem farast. Maður ólst upp við það að þekkja deili á sjómönnum sem fórust, ýmist af slysförum eða í stríðinu. Þetta var mér ungum dreng mjög mikið íhugunarefni, þessi barátt hvernig menn ættu að lifa af og ég dróst að því að sjómenn gegndu hættulegu starfi, gríðarlega merkilegu og maður ætti að bera virðingu fyrir þessu starfi.
Í ljóðabók minni, Morgunn í maí, er ljóð um Jón Bogason og þegar hann ferst. Maður elti stríðið og þá ekki síst stríðið á sjónum. Til er mynd af mér þar sem ég er að horfa á Fróða þar sem hann kemur til hafnar með líkkisturnar á dekki og séra Árni Sigurðsson stendur á stýrishúsinu og er að blessa mannskapinn. Þetta verður mér allt minnisstætt og í mínum huga voru þetta fallnar hetjur. Þetta ljóð um Jón er ort löngu eftir að hann fórst, en það má sjá í þessari bók hvers konar endurminningar fylgja þessum strák í vesturbænum inn í lífið.
Á þessum árum var maður við hugann við það og foreldrar manns einnig, hvernig maður gæti tengst merkilegri arfleifð, gæti vaxið inn í þessa arfleifð. Þegar ég var strákur var ég sendur í sveit upp í Stardal. Svo þegar ég er 15 til 16 ára á ég ekki annan draum en að komast á sjóinn. Þá hafði ég verið í vegavinnu á Vatnsskarði og það fer alltaf einhver sérstök tilfinning um mig þegar ég keyri veginn um Vatnsskarð, mér finnst ég eiga eitthvað í honum. Þarna bjó ég í tjaldi og talsverð harðneskja í vinnu. Þá höfðum við engin tengsl við Brussel og það var löglegt að herða sig á þessum árum og verða að manni, þó að það sé bannað núna.
Þegar ég var 16 ára bið ég föður minn að kanna hvort hann geti ekki komið mér á sjóinn. Það tekst. Ég er ráðinn messastrákur á Brúarfoss vorið 1946 og þá hefst þessi svokallaða sjómennska mín. Daginn áður en ég átti að mæta um borð fékk ég tannpínu og fór til tannlæknis. Tannlæknirinn sagði að ef ég ætlaði á sjóinn daginn eftir yrði að drepa taugina og ég gerði þá yfigengilegu bomertu að segja að það sé besta að drepa taugina, bara til að komast á sjóinn. En tönn sem taug er drepin í stendur sig ekki eins og aðrar tennur og ég hef alltaf séð eftir þessari tönn, en ég sé ekki eftir því að fara á Brúarfoss.
Það var varla nokkurt þorp svo lítið við ströndina að við færum ekki þangað að sækja frosinn fisk. Við sigldum til Danmerkur og við fórum til Leningrað með fyrsta farminn af frosnum fiski sem fór til Sovétríkjanna.
Ég var í klefa með 2. matsveini sem var kallaður Gumundur Dýrfirðingur. Hann var mér ákaflega góður en ég var alltaf sjóveikur þegar illt var í sjóinn. Ég skrifaði dagbók sem ég á enn og get því allataf séð hvenær ég var sjóveikur, sé það á rithöndinni. Þegar verst gegndi skrifaði Guðmundur og þá kom fyrir að hann ynni fyrir mig og mér var óskaplega hlýtt til þessa manns. Hann var mikill og góður vinur minn, þrælduglegur og sérstæður í alla staði. Ég var svo sjóveikur þegar við fórum yfir Norðursjó í brjáluðu veðri að ég var að velta því fyrir mér í Kaupmannahöfn að strjúka af skipinu. Fannst ég ekki geta lagt þetta á mig lengur. Ég sjóaðist ekki og verst gegndi þegar þeir voru að sjóða steinbít. Síðan hef ég aldrei getað borðað soðinn steinbít. Skipið var svo gott sjóskip að það töluðu allir um það að maður sjóaðist ekki almennilega vegna þess að maður steig ölduna einhvern veginn með þeim hætti að ég varð bara ringlaður í höfðinu. Ég sjóaðist ekki fyrr en ég fór með togaranum Geir til Bretlands í vondu veðri. Þá sjóaðsit ég á fyrstu tveim dögunum og fann ekki til eftir það.
Þetta var þrekraun um borð í Brúarfossi. Ég var í yfirmannamessa, lagði á borð, vaskaði upp og gerði annað sem þurfti. Ég var með tvær fötur hjá mér. Kastaði upp í aðra og þvoði hnífapörin og diskana í hinni. Auðvitað kastaði ég líka upp yfir lunninguna. Einu sinni voru þeir að smúla dekkið en ég var svo veikur í koju að ég ældi út um kýraugað á dekkið. Þá sprautuðu þeir inn í kojuna og fylltu hana af sjó. Það voru launin fyrir að kasta upp á dekkið. En ég lagði allt þetta á mig fyrir þetta ævintýri og allt gerði þetta mann að einhvers konar manni. Þarna var ég strákur í mótun og maður í bígerð og ég hef búið að þessu alla tíð.
Þessir menn sem voru þarna um borð urðu allir vinir mínir. Ég hafði óskaplega aðdáun á kyndurunum sem voru kolsvartir en alltaf jafn hjartagóðir. En þegar við komum til Kaupmannahafnar hafði ég ekki jafngóðan skilning á sambandi þeirra við dönsku stelpurnar sem störfuðu við höfnina. Aftur á móti náði ég mér í aukapening með því að sendast fyrir þá þegar þeir voru hvað mest uppteknir við þetta og komst í Tívolí fyrir vikið.
Þegar við fórum til Helsingfors fengum við brjálað veður í hálfan annan sólarhring og skipið hjó mikið á Eystrarsaltinu. Þá stóð Jón Eiríksson skipstjóri vaktina allan sólarhringinn uppi í brú og maður lærði af þessum mönnum að axla sína ábyrgð og gera það sem að manni sneri. Svo sigldum við upp Finnska flóa og þar var svo mikið af tundurfuflum að við gátum ekki siglt nema á daginn og þá með finnskum og rússneskum lóðsum. Þegar við komum til Leningrað gekk allt ágætlega. Verðirnir leituðu ekki að neinu nema mönnum, var alveg sama um allt annað. Sextán ára gamall fékk ég þarna mótefni gegn Stalínisma og það hefur dugað mér alla ævi. Þá sé ég þetta stalínska umhverfi, en fólkið þarna var skínandi gott. Það hélt hins vegar að við værum frá Eistlandi. Vopnaðir verðir voru við landganginn og við skut og stefni og maður fór varlega. Mig langaði að eiga landgöngupassann minn en þorði ekki annað en afhenda hann svo maður ætti ekki á hættu að verða settur inn.
Guðmundur Dýrfirðingur var alltaf með mér í káetu og ég bar mikla virðingu fyrir þessum velunnara mínum. Svo löngu síðar þegar ég er orðinn blaðamaður og raunar ritstjóri var ég að skrifa um þann atburð þegar Reykaborgin var skotin niður og um árásina á Fróða. Þegar ég var að skrifa um þetta þurfti ég að heyja að mér efni og ræða við heimildarmenn. Ég hafði heyrt að maðurin sem strýrði Fróða til Vestmannaeyja eftir að búið var að drepa vini hans allt í kringum hann og skipstjórann þar á meðal, væri á lífi og mig langaði til að hitta hann. Ég talaði við þá á skrifstofu Eimskips og bað þá að grafa upp þennan mann. Svo gerist ekkert þar til bankað er hjá mér á skrifstofu minni í Aðalstræti. Ég fer til dyra og þar stendur Guðmundur Dýrfirðingur, glerfínn. Þá var hann bryti að ég held á Reykjafossi. Ég heilsa honum og hann mér en var mikið til baka og hlédrægur eins og hann var alltaf. Ég segi:
- Jæja, Guðmundur minn. Hvað get ég gert fyrir þig?
- Ja, ég var nú beðinn að koma hingað og tala við þig, segir hann.
- Nú segi ég. Er það eitthvað sérstakt?
- Nei. Þeir báðu mig bara um það á skrifstofu Eimskips.
- Nú? Ég hef ekkert verið að reyna að ná í þig. Ég er bara að leita að manninum sem stóð við stýrið þegar Fróða var siglt til Vestmannaeyja eftir árásina því ég er að skrifa um þennan atburð.
Þá segir þessi hógværi maður sem stendur þarna fyrir framan mig:
- Ja, það var nú ég!
Ég hafði verið með honum mánuðum saman í herbergi á Brúarfossi. Hann var góður maður, en ég vissi aldrei að hann væri hetja. Þetta er einhver hógværasti og geðfeldasti maður sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Ég var búinn að vera með stríshetju í klefa sem allt vildi fyrir mig gera og var frábær maður.
Svo settumst við niður á skrifstofu minni og töluðum saman. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem Guðmundur Dýrfirðingur talaði um þennan hetjuskap sinn. Núna er það hins vegar þannig, að menn miklast af öllu og það er ekkert sem blaðið tekur ekki við og sjaldnast er neitt á því að græða. Þetta hefur verið mér mikið íhugunarefni og þetta hefur alið mig upp. Ég tel það einhverja dýrmætustu eign sem ég hef fengið í lífinu að kynnast sjónum og þeirri hetjulund sem umhverfið bauð upp á.
Ég hef laðast að sjómönnum og hef skrifað mörg samtöl við sjómenn. Af þessu fólki lærði ég meðal annars tungutak. Eitt sinn var ég að skemmta mér á barnum í Naustinu. Þar hitti ég kornungan mann sem fór að tala við mig. Hann hafði verið á báti sem kantraði og fór að segja mér frá þessu slysi. Ég var búinn að fá mér í staupinu en hlustaði á manninn. Svo allt í einu vakna ég upp og segi við sjálfan mig: - Hvað er þetta. Ég er að hlusta á mann sem talar einhverja þá fallegustu íslensku sem ég hef heyrt og þetta er ungur sjómaður. Nei, ekki háskólaborgari!
Ég hef oft hugsað um þetta atvik og vona að svona sé til enn og verði alltaf til. Ég vona að sjónvarpinu takist ekki að kála þessu líka, en maður veit það ekki. Af þessum mönnum hef ég bæði lært þetta og aðra arfleifð og ég hafði ekki eins mikla unun af neinu og glíma við tungutak þessara manna í samtölum við þá fyrir Morgunblaðið. Sum þessara samtala skrifaði ég eins og ég væri að skrifa smásögu og upplifði þetta eins og skáld upplifir efni sitt. Í síðasta smásagnasanfi mínu, Flugnasuð í farangrinum, eru sögur sem eiga rætur í þessari reynslu og tengslum mínum við sjóinn, tengslum blaðamannsins við þetta umhverfi sem hann sóttist eftir og óx aldrei frá.
Þú segist hafa sannfrétt að ekki hafi allir lesendur Morgunblaðsins verið sáttir við það þegar ég birti viðtalið við Jón sjómann og seglasaumara. Þegar ég heyrði af seglasaumaranum eygði ég nýtt ævintýri. Það var þannig að annar sjómaður, Jón Tómasson skipstjóri og frístundamálari, sem var merkilegur maður og hluti af umhverfi gamla miðbæjarins, segir við mig:
- Heyrðu, þú hefur aldrei hitt hann Jón seglasaumara.
- Nei, segi ég. - Hver er það?
- Nú, hann Jón Magnússon. Gamall skútukarl og skipstjóri, nú seglasaumari. Ég fer með þig þangað.
Hann fór síðan með mig til seglasaumarans sem var í bragga í Grófinni. Þar hitti ég Jón og skrifaði við hann að mig minnir tvö samtöl og lagði mig fram um að skila manninum eins vel og ég gat. Þegar hann var að segja frá ævintýrum sínum í Færeyjum talaði hann um að hann hefði verið eins og hvur annar fjallatussi. Ég skrifaði þetta náttúrlega í Morgunblaðið, en Jón hefur átt við fjallaþurs eða eitthvað slíkt. Bjarni Benediktsson var þá ritstjóri Morgunblaðsins. Hann bað mig um að tala við sig. Guðrún móðir hans var í stjórn Hvatar og Bjarni sagði við mig:
- Þær eru voðalega reiðar, konurnar í Hvöt!
- Jæja, segi ég. - Er eitthvað að?
- Já, það er samtalið þitt við hann Jón seglasaumara!
-Er það satt?, segi ég. - Það er ekkert að því samtali.
- Ja, þeim finnst þetta svo orðljótt samtal að það eigi ekki heima í Morgunblaðinu.
Svo hló Bjarni ógurlega. Þannig slitum við talinu því Bjarni hafði góðan húmor. Það hefði verið gaman að heyra þegar hann var að tala við mömmu sína, Guðrúnu gömlu fré Engey, um þetta sérstaka atriði. Sigríður kona Bjarna var af miklum sjómanaættum og Björn vinur minn menntamálaráðherra ber þetta sjómannsnafn afa síns með miklum ágætum. Það var mikið salt í kringum Sigríði. Næst þegar Bjarni átti stórafmæli vorum við Morgunblaðsmenn boðnir í veisluna. Þegar ég kem inn er allt fullt af fólki.
- Jæja, Matthías minn, segir Bjarni. - Komdu hérna með mér.
Svo fer hann með mig í gegnum þröngina í stofunni og segir:
- Hérna er hún mamma. Ég þarf að kynna þig fyrir henni.
- Nú, segi ég og hrekk rosalega við. Þarna situr sú gamla í stól og Bjarni segir:
- Mamma. Þetta er hann Matthías sem skrifaði samtalið við hann Jón seglasaumara!
Síðan hverfur hann um leið til að sinna öðrum gestum. Ég hélt að ég yrði ekki eldri og hún mundi fá slag. Ég hef aldrei gert mér grein fyrir því hvernig þessu lauk. En ég get ímyndað mér að Bjarni hafi skemmt sér.
"Sú mynd, sem mér er ógleymanlegust úr starfi mínu á Morgunblaðinu, er af togaranum Úranusi, þegar hann siglir út úr svörtum bakgrunni dauðans inn í lífið - heim. Myndin birtist í Morgunblaðinu 14.jan. 1960. Þá trúðu því fæstir að skipið væri ofan sjávar. Daginn áður var sagt frá því í 5.-dálka fyrirsögn á forsíðu blaðsins, að óttazt væri um skipið og ekkert hefði heyrzt til þess frá því á sunnudag. Á tuttugu ára ristjórnarferli mínum þykir mér vænst um þessa forsíðu Morgunblaðsins - og þessa mynd.”
(Matthías Johannessen: Félagi orð - 1979)
Ég fer ekkert ofan af því að þessi forsíðumynd og frétt tekur öllu fram þau 50 ár sem ég hef unnið hér, þar af 42 ár sem ristjóri. Þetta er einhver stórkostlegasta frétt sem hægt er að fá - að heimta 27 manns úr hrammi dauðans. Hér er mynd af forsíðunni innrömmuð, sjáðu. Ég hef hana hér uppi á hillu í skrifstofunni. Það er ekkert sem slær þetta út. Það varð stórslys á Nýfundnalandsmiðum og við biðum eftir því að Úranus kæmi fram. Þeir voru orðnir fáir sem trúðu því að hann væri ofan sjávar. Síðan fréttum við að flugvél frá varnarliðinu hefði náð mynd af einhverju skipi sem var illþekkjanlegt í sortanum; það gæti verið Úranus. Við Ólafur K. Magnússon ljósmyndari brunuðum suður á Keflavíkurflugvöll og vildum fá myndina. Þeir sögðu myndina einhvers konar tabú af öryggisástæðum, auk þess sæist ekkert á filmunni. En við gáfumst ekki upp og fengum loks filmuna. Óla K. tókst að framkalla Úranus. Ég hef aldrei gleymt þessu og þetta er merkilegasta mynd sem við höfum birt. Það er svo mikil gleði sem kemur út úr þessu svartnætti og það varð þjóðargleði þegar blaðið kom úr prentun. Ekkert hafði spurst til skipsins síðan þess var saknað. En maður sem hafði verið loftskeytamaður á skipinu, Ólafur heitir hann, var alltaf að koma til mín niður á Mogga og segja mér hvað hefði gerst. Hann trúði því aldrei að skipið hefði farist og ég trúði honum alveg. Siðar kom í ljós að hann sagði satt og rétt um hvað hefði gerst svo Úranus varð sambandslaus; feiknaleg ísing og óveður.
Þú segir að sumir kalli okkur Styrmi sósíalista vegna stefnu Morgunblaðsins í auðlindamálum. En þetta er ósköp einfalt. Maður virðir eignarrétt. Þú gefur ekki öðrum eignir fólks. Maður selur ekki það sem maður á ekki og veðsetur það ekki heldur. Þetgar ég byrjaði að skrifa um þetta snerist það ekki um peninga. Þetta var siðferðilegt mál þess efnis, að það væri ekki hægt að taka eign þjóðarinnar frá henni. Hún yrði að fá að eiga sína eign alveg eins og landið sjálft. Það er hægt að leigja og framselja það sem maður á ekki ef borgað er fyrir það. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi engir að nýta auðlindina aðrir en þeir sem kunna það best fyrir þjóðina. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þeir sem hafa nýtt hana hafi gert það illa. Þvert á móti hafa margir hverjir gert það ágætlega. En ef einhver togari eða bátur á eignina þá á sjómaðurinn hana ekki síður eða fólkið í landi sem vinnur við fiskinn. Við sáum hins vegar enga aðra leið til þess að koma þessum skilaboðum á framfæri nema tala fyrir því að menn tækju á leigu það sem þeir vildu nýta fyrir þjóðina og gera það á sem bestan hátt.
Þegar ég byrjaði að skrifa um þetta fyrst uppúr 1980 vakti það fyrir mér að það væri ekki siðferðilega rétt að leggja almannaeign undir eisntaklinga. Ekki frekar en taka eignir fólks og gefa þær öðrum mönnum. Það tel ég sósíalisma og það gerðu kommúnistar í Rússlandi. Þeir tóku eignir fólks og gáfu sjálfum sér, það er að segja ríkinu. Við höfum ekki staðið fyrir því að taka eitt eða neitt frá neinum. Þvert á móti höfum við slegið skjaldborg um það hálfgerða almenningshlutafélag sem auðlindin á að vera. Það er hægt að framselja réttinn með ákveðnum hætti og sátt ætti að geta orðið um það. Þetta höfum við sagt og þetta er nú allur sósíalisminn. Ef við hefðum ekki tekið þessa afstöðu hefði öllum fundist sjálfsagt að einhver eignaðist Þingvelli einn góðan veðurdag. Einhver eignaðist Heklu og léti hana gjósa fyrir fjölskylduna á sunnudögum. Þetta er einfaldlega rangt. Fiskimiðin eru okkar sameiginlega eign eins og stendur í lögunum. En ef einhverjir ættu að eiga hafið þá eru það menn Landhelgisgæslunnar sem börðust á hafinu fyrir þessari eign. Það var þeirra hlutur að verja og vernda þessa auðlind og þeir gerðu það með slíkum sóma að til þess er tekið enn í dag um allan heim. Þeir hættu lífi sínu til þess að við gætum eignast þessa auðlind. Ef einhver kemur með þá hugmynd að Landhelgisgæslumenn fái að eiga auðlindina skal ég ekki standa gegn henni.
Allir hafa ákveðið þanþol og allir verða að hlíta þessu þanþoli. Ég hef getað sameinað skáldskapinn og störf ritstjóra með þeim hætti sem ég hef gert. Ég held að ég hafi ekki slakað á verðinum á neinum vígstöðum. Látið skáldið fylla geyminn hjá ritstjóranum og ritstjórann fylla geyminn hjá skáldinu. Sem skáld hef ég aðallega haft áhuga á því að fjalla um það sem ég þekki og það sem hefur haft áhrif á mig. Snorri segir að allt verði til af ákveðnu efni og ég trúi því. Ég hef ekkert gaman af skáldskap sem fjallar bara um einhverjar geimverur og umhverfi sem er manninum algjörlega framandi. Ég laðast að lífi mannsins eins og það er í öllum sínum skáldskap. Ef þú segir sögu Guðmundar Dýrfirðings þá gæti enginn skáldskapur tekið því fram. Þetta hefur náttúrlega kostað mikla vinnu. Það tók mig 16 ár að skrifa sögu Ólafs Thors. Ég var með hugann við verkið en var ekki sískrifandi. Síðustu messerin vann ég að bókinni dag og nótt og skrifaði mikið af henni á nóttunni fram til klukkan fimm. Þá lagði ég mig um stund og fór svo að sinna mínum ritstjóraströfum. Ég held að þetta hafi verið gott fyrir mig á sama hátt og það var gott fyrir strákinn að vera á sjó. Og það var gott fyrir strákinn að vera í vegavinnu og kynnast landinu og fólkinu. Stundum hef ég verið þreyttur og ekki haft bolmagn til að gera allt sem ég vildi. En eiginlega hef ég ekki gert neitt nema af þörf og skemmtun.
Ég geri ekkert af því sem ég þarf ekki að gera, vil ekki gera eða nenni ekki að gera. Vinnan er Guðs dýrð og það skemmtilegasta sem ég geri er að vinna, hugsa og velta fyrir mér. Eins og þú veist er ekkert eins leiðinlegt og fólk sem á alltaf að vera skemmtilegt. Ég hef ekki verið að eltast við svokallaðar skemmtanir, frekar hef ég vaxið hægt og sígandi að sjálfum mér og frá uppákomunum! það finnst mér ágæt niðurstaða á þessu langa ferðalagi. Hin bjarta endalausa eilífð æskunnar er að baki, en það er mikið eftir að eilífðinni framundan sem ég þekki ekki. Ég hef ekki upplifað þá eilífð, heldur þá eilífð sem er að baki. Það er engin uppgjöf í þessu. Í dag finnst mér ég vera þrekmikill og sterkur eins og rígaþroskur. En þeir lenda líka í lestinni.
(Víkingur, des. '00)
Viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Degi er á þessa leið:
Skáldskapur er ástríða
Matthías Johannessen lætur af starfi ritstjóra Morgunblaðsins um áramótin. Í viðtali ræðir hann um lífsskoðanir sínar, skáldskapinn og hugmyndina um guð.
- Víkjum fyrst að skáldskap þínum, hafa einhver yrkisefnin verið þér kærari en önnur á ferlinum?
„Sérstök hugðarefni hafa leitað á mig gegnum tíðina, ekki þau sömu í dag og þegar ég var ungur. Áður fyrr stóð hugur minn nær dramatískri spennu og þá miklu fremur en síðar í tengslum við þjóðsögur. Þegar ég lít til baka sé ég að ég hef allt frá fyrstu tíð verið með hugann við arfleifðina. Og þegar maður er ungur hugsar maður mikið um ástina og hverfulleikann en þegar maður er eldri sættir maður sig við hverfulleikann og tekur honum jafnvel af gleði. Ég er orðinn sáttur við að árstíðirnar eru bara fjórar – þannig verður maður að lifa. Maðurinn á að lifa sem hluti af náttúrunni, sætta sig við það hlutskipti og taka því með fögnuði. Það er ærin ástæða til að fagna því að hafa verið til og engin ástæða til að sýta það með nokkrum hætti.
Ég hef sagt að ég setjist ekki niður til að yrkja. Ég hef líkt skáldinu við tré sem fyllist af fuglum og tréð fer að syngja án þess að stjórna söngnum. Það er með manninn eins og skóginn, hann á sitt blómaskeið en einnig sinn vetur. Bandaríska skáldkonan Emily Dickinson líkti vetrinum við ljóshærðan morðingja. Þetta er dramatísk og svartsýn líking og ég vil ekki tala á þann veg heldur lít ég á veturinn sem eðlilegt fyrirbrigði sem kemur inn í líf okkar og á sínar ævintýralegu hliðar.
Ég held mikið upp á heimspekinga sem ég skil. Ég skil Nietzsche, ég skil Kierkegaard og ég skil Pascal. Pascal sagði eitt sinn: „Ég hugsa, þess vegna er ég.“ Maðurinn hefur það fram yfir tréð að hann hugsar og þess vegna er hann. Þess vegna held ég að það sé miklu sárara að vera maður en tré, þótt maðurinn, tréð og fætur fílsins séu úr sama efni, geimryki sem er afleiðing af hvellinum mikla. Þegar ég lít í kringum mig og hugsa um okkur lífverurnar finnst mér ég stundum heyra þennan hvell í genum okkar. Það hefur hvarflað að mér að efnið sé lifandi, það hugsi og segi: „Ég þarf að þróast með þessum hætti af því ég ætla að verða fugl af þessari gerð“ eða: „Ég þarf að þróast með þessum hætti af því ég ætla að verða maður.“ Þessi heimspeki mín er kannski afskaplega vond heimspeki en hún er ekkert verri en sú heimspeki sem ég skil ekki. Ég er ekki að segja að það eitt sé merkilegt sem maður skilur en ég vil halda því fram að það komi ekki að sök.“
Ofnæmi fagurkerrans
- Þú talar eins og fagurkeri, ertu fagurkeri?
„Ég held það, Kolbrún. Skáld eiga aldrei að vera fulltrúar vonds smekks. Ég hef verulegar áhyggjur af því innra með mér að smekk fólks sé farið að hraka og að skáldskapurinn hafi verið notaður til að koma á framfæri alls kyns félagsfræði sem ég tel ekki koma honum neitt við. Til dæmis hafa verið gefnar út skólabækur þar sem aðaláherslan hefur ekki verið lögð á skáldskapinn heldur alls kyns félagsfræðilegar greiningar á því að þetta kvæði sé gott af því það fjallar um sjóinn, annað kvæði sé gott af því það fjallar um landbúnaðinn, og svo framvegis. Ég trúi ekki á svona greiningu á skáldskap. Kvæði er gott af því það er gott. Þetta er svona einfalt mál fyrir mér og við eigum ekki að hafa annan boðskap fram að færa en boðskap listarinnar. Stundum þegar ég sé sumt af því sem talið er til mikils skáldskapar þá dettur mér í hug að við séum aðallega sérfræðingar í því sem Eggert Ólafsson var að kenna okkur. Hann notaði skáldskapinn eins og menn nota auglýsingar og fræðsluefni í dag. Þetta var skiljanlegt á fjölmiðlalausum tímum en nú geta menn leitað sér þessara upplýsinga í gegnum fjölmiðla en þeim á ekki að miðla í gegnum ljóð.
Í skáldskapnum eiga menn að komast í snertingu við kviku mannsins, mystíska leit hans og þann grun sem ýtir undir hugmyndaflug og drauma. Skáldskapur er ástríða og ástríða er leiðin að gleði og fögnuði. Ég tel að kvæði sem fjallar um dauðann veiti alveg jafnmikla gleði og kvæði sem fjallar um ástina, ef það er glitrandi listaverk. Alveg eins og kvæði sem fjallar um ástina og er ákaflega vont kvæði er miklu dapurlegra kvæði en nokkurt kvæði um dauðann.
Í ljóðlist hef ég mesta unun af hinum frjálsa leik ímyndunaraflsins og samspili forms og hugsunar og ekki síst líkingum sem Aristóteles fullyrðir að séu langmikilvægastar í skáldskapnum. Ég er snnfærður um að þar hefur hann rétt að mæla. Ástæðan er sú að líkingar eru það eina sem ekki verður fengið frá öðrum, og eru oft og tíðum merki um mikla hæfileika. Ég hef einnig gaman af óvæntri notkun orða í skáldskap, myndhvörfum og skírskotunum og tel að margræðni sé eitt helsta aðalsmerki góðs skáldskapar. Tómas Guðmundsson sagði einhvern tíma við mig undir lokin að hann legði minna upp úr rími en hrynjandi eftir því sem árin færðust yfir, og ég get vel skilið það. Hrynjandi, ekki síður en líkingar, er hornsteinn alls góðs skáldskapar og líklega sá þáttur hans sem úrslitum ræður um það hvort skáldinu tekst að yrkja sig frá prósa og áhrifum annarra skálda og eignast sitt eigið persónulega göngulag. Því það er mikilvægast af öllu að maður sé nú ekki að ganga eins og allir aðrir.
Þessar hugmyndir um skáldskapinn sem ég hef verið að lýsa fyrir þér skipta mig öllu máli. Jónas í Stardal sagði mér frá því að enginn hefði hlaðið jafnfallega vegakanta og Guðjón í Laxnesi. Þessi hleðsla er glitrandi list Halldórs Laxness í Sjálfstæðu fólki og Ljósvíkingnum. Hún ummyndast úr vegalagningu glitrandi listar. Og það er ekki tilviljun. En það er áreiðanlega rétt að ég er fagurkeri og þjáist af því og ég reikna með því að það valdi alls kyns ofnæmi hjá mér í sambandi við það sem ég sé og les.“
- Reiðistu þá?
„Ég get orðið hryggur ef ég sé að því er hampað sem mér finnst ekki vera list heldur kraftlyftingar.“
- Þú vilt ekki nefna dæmi?
„Nei, ég vil helst ekki nefna dæmi en aftur á móti hef ég góða viðmiðun, þá bestu sem ég þekki til að meta skáldskap. Ef mig langar til að hafa ort kvæðið sjálfur þá er það gott. Ef ég hefði viljað skrifa skáldsöguna þá er hún góð. Ég get nefnt dæmi. Ég las skáldsögu eftir Pétur Gunnarsson sm var heldur hljótt um. Hún heitir Efstu dagar og það fór fögnuður um mig við lesturinn, ekki síst vegna andrúmsins, en það er hvað mikilvægast í skáldskap. Ég hefði mjög gjarnan viljað skrifa þá sögu sjálfur. En það er ekkert oft sem ég hefði viljað skrifa það sem ég les og æ sjaldnar eftir því sem ég eldist.“
Ólistrænn markaður
- Mig langar til að spyrja þig um margfræga andúð þína á verðlaunum. Stafar hún af því að þér finnst að listamenn eigi að vera hógværir og ekki halda sýningar á sjálfum sér?
„Það er mikið til í því og ég held að það hafi alltaf fylgt ljóðskáldinu viss virðing fyrir þeirri einveru sem býr í umhverfi ljóðlistar. Eins og þú getur ímyndað þér hef ég sem blaðamaður orðið vitni að yfirgengilegum hégómaskap listamanna og stjórnmálamanna og fengið mig fullsaddan. Þegar maður hefur lifað lungann úr ævi sinni í slíku umhverfi þá spyr maður sig hvort nokkuð skipti máli í sambandi við skáldskap annað en skáldskapurinn sjálfur. Það er annað fólk sem veitir verðlaun og af hverju skyldi það skipta mann máli? Verðlaun geta verið uppörvandi og selt bækur, en mig varðar bara ekkert um það. Ég hef efni á því að selja engar bækur. Það eru forréttindi að hafa efni á því að þurfa ekki að gera út á markaðinn því markaðurinn er ólistvænn. Hann er froðan sem fljótið safnar við víkur og hólma og hverfur meðan fljótið heldur áfram að renna.
Ég hef fengið verðlaun og viðurkenningar sem ég hef þegið og hef tekið þátt í Norðurlandasamkeppni af því að ég er með íslenska fánann á brjóstinu og það hefur mér alltaf fundist notalegt og mikilvægara en að vera þar með mynd af sjálfum mér. Ég tók því einnig fagnandi að vera settur í heiðurslaunaflokk Alþingis. Þegar ég sá að vinir mínir á vinstra væng treystu sér til að styðja mig þá þótti mér vænt um það og mat það. Verðlaun eru bara leikur. Mér finnst gott að hafa efni á að taka ekki þátt í því happdrætti. Hvað segir þú um þetta? Ertu á móti þessari skoðun minni?“
Ég er sammála því að verðlaun séu leikur en mér finnst þau vera skemmtilegur leikur.
„Gott og vel, ég get vel tekið undir það, en þá verða menn að gera sér grein fyrir því að þau eru leikur og ekkert annað. En það er tilhneiging til að leggja alltof mikið upp úr þeim.“
Leitin að guði
- Er guð til í þínum huga?
„Við höfum leitað að guði eins og okkur er fært. Faðirinn sem Kristur boðaði er mér nægileg niðurstaða við spurningu sem aldrei verður svarað, að minnsta kosti ekki í þessu lífi. Meðan svo er læt ég mér Krist nægja. Ég hef ekki komist lengra. Ég er þeirrar skoðunar að Kristur sé spennistöð milli þess sem við getum ekki skilið og þess sem við þráum, að guð sé til og sé algóður guð okkar allra.
Þegar menn eru að fárast yfir jólunum og kaupæðinu finnst mér að þeir ættu fremur að hugsa um það, að jólin eru viðbrögð við kærleika guðs og þess vegna mikilvæg. Þegar jólin nálgast finnst mér sem heimurinn sé altekinn af þessum kærleika. En ég veit líka að menn drepa náunga sinn á aðventu.
Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vera mjög gagnrýnin á eigin trúarbrögð og ég er líka þeirrar skoðunar að það sé kirkjunni til góðs að við séum óhrædd við að veita henni aðhald með þeim hætti að hún geti risið upp og sé því alltaf ný. Ég vil nefna dæmi. Bandaríska blökkuskáldið Langston Hughes skrifaði eitt sinn smásögu um utangarðsmanninn Sergant, stóran og mikinn blökkumann, sem átti sér hvergi skjól. Kvöld eitt leitaði Sergant að svefnplássi en fann ekki. Þá kom hann að kirkju og ætlaði að fara inn en hún var lokuð. Hann réðst á kirkjudyrnar og reif þær upp. Lögreglumenn komu á vettfang og toguðu Sergant frá kirkjudyrunum. Hann náði taki á einum steininum sem bar kirkjuna uppi og svo fór að kirkjan hrundi yfir mennina. Sergant, sem var heljarmenni, stóð upp úr rústunum, hristi af sér og gekk áfram. Þegar hann hafði gengið nokkurn spöl heyrði hann marr í snjónum við hliðina á sér. Hann leit við og sá þann sama Krist og hafði blasað við honum í kirkjunni. Kristur var kominn niður af krossinum og sagði við hann: „Já, Sergant, þetta þurfti til þess að ég kæmist af krossinum. Í tvö þúsund ár hef ég verið á krossinum en þú komst mér af honum svo ég gæti gengið hérna með þér.“ Svo skildu leiðir og þeir kvöddust.
Þessi saga minnir kirkjuna á að utangarðsmaður getur kallað Krist af krossinum og úr rústum kirkjunnar. Finnst þér ég vera mikill andkirkjumaður með því að minna á þessa sögu?“
- Nei, þú ert áminnandi og það er mikilvægt. En snúum okkur að veraldlegri málum. Hefurðu fundið það sem ritstjóri Morgunblaðsins að þú hafir mikil völd í samfélaginu? Þú verður að svara mér heiðarlega.
„Það er sagt í bók sem kom út fyrir jólin að ég hefði hótað mönnum að eyðileggja þá í gegnum Morgunblaðið. Ég reikna með að Morgunblaðið beri þess vitni að það hefur verið unnið að öðru en því undanfarin fjörutíu ár. Ég mundi aldrei taka þátt í að eyðileggja menn, slíkt hefur aldrei hvarflað að mér.
Við upplifum öll annað fólk með okkar hætti, og þú upplifir mig sjálfsagt öðruvísi en allir aðrir, en það er ekki þarmeð sagt að upplifun okkar á öðru fólki sé endilega rétt. Mér er kunnugt um að margir hafa upplifað mig sem mikinn valdamann og í sumum tilfellum hefur það bara verið mátulegt á þá. Ég tel mig miklu frekar hafa upplifað mig sem skotspón alls kyns óánægju og ímyndunar heldur en sem yfirmann og valdhrokamann í þjóðfélaginu. Að þessu leyti hefur það komið mér skemmtilega á óvart að ég hef haft meira þanþol en ég hefði getað ímyndað mér sjálfur að skáldið þyldi. Ég lít á mig sem skrifandi mann sem hefur löngun til að upplifa með sínum hætti annað fólk og er aðdáandi manneskjulegrar kviku og góðmennsku.“
- Þú myndir náttúrulega aldrei viðurkenna það fyrir mér ef þér hefði verið fjarstýrt af stjórnmálamönnum.
„Jú, það myndi ég gera.“
- Hefur það gerst?
„Það er ekki ástæða til að segja fjarstýrt en ég hef fengið rangar upplýsingar og það er sennilega í eina skiptið sem ég hef átt þátt í að valda annarri manneskju miklum sársauka. Við vorum með baksíðufrétt um að óregla væri á gjaldeyrismálum Guðmundar Jörundssonar útgerðarmanns. Við treystum heimildinni. Upp úr þessu talaði Guðmundur við mig og þarna á Golgata í lífi hans urðum við perluvinir og þar reis upp einhver mesta og besta vinátta sem ég hef öðlast í lífinu. Þennan misskilning Morgunblaðsins þurfti til þess, en hann var leiðréttur í blaðinu um leið og sannleikurinn kom í ljós. Ég hef aldrei gleymt þessu og reyndi að bæta úr því eins og ég hafði mátt til.“
- Nú ertu að láta af starfi ritstjóra Morgunblaðsins, hvað tekur þá við?
„Það tekur allt við nema helgur steinn. Helgur steinn er fyrir álfa og ósýnilegt fólk og ég ætla mér ekki að verða ósýnilegur. Hitt er annað að ég hef verið ósýnilegur sem ritstjóri og skáld að því leyti að ég hef ekki eltst við að komast í fjölmiðla. Reyndar hef ég frekar dýrkað ósýnilega manninn í þjóðfélaginu en þann sýnilega. Og er það ekki einmitt í anda ljóðsins?
En vegna spurningar þinnar langar mig að minna á það sem Hemingway sagði - hver ný bók er upphaf, en ekki endir.“
24. desember, aðfangadagur
Birtist í Morgunblaðinu í dag:
TÍMARITIÐ World Literature Today er eitt elsta og virtasta bókmenntatímarit í Bandaríkjunum, en það hefur komið út óslitið frá árinu 1927. Tilgangur tímaritsins, sem kemur út ársfjórðungslega, er að efna til umræðu um samtímabókmenntir hvaðanæva úr heiminum og vinna sameiginlegum skilningi á skáldskap gagn með bókmenntarannsóknum.
Í sumarhefti tímaritsins í ár birtist athyglisverð grein eftir Kristjönu Gunnars um síðustu ljóðabók Matthíasar Johannessen skálds, "Ættjarðarljóð á atómöld". Í greiningu sinni á ljóðum Matthíasar fer Kristjana lofsamlegum orðum um skáldskap hans og segir meðal annars að í ljóðmáli bókarinnar renni tær og nútímaleg myndbygging í ætt við ímagisma saman við rótgróin tengsl rómantíkurinnar við land og þjóð.
Kristjana Gunnars fæddist í Reykjavík árið 1948 en hefur lengst af búið í Kanada þar sem hún kennir bókmenntir við Albertaháskólann. Auk fræðimennsku hefur Kristjana getið sér gott orð sem rithöfundur en eftir hana liggja átta ljóðabækur og tvær skáldsögur, auk þýðinga og ritsmíða á sviði bókmenntarfræði. Grein Kristjönu um Matthías er svohljóðandi:
Nýjasta ljóðasafn eins nafntogaðasta rithöfundar á Íslandi ber með sér hljóm skálds sem komið er heilan hring, hvorttveggja sem rithöfundur og einstaklingur. "Ættjarðarljóð á atómöld" er smátt en gjöfult kver og sá sem gaumgæfir bókina mun sjá margar myndlíkingar birtast aftur og aftur, ýmsum hugsunum skjóta upp í mismunandi myndum, líkt og í ævarandi hringhreyfingu spíralsins. Nokkur minni ráða þó ríkjum. Æðst þeirra er fuglinn í ýmsum myndum, þar á meðal í mynd svansins, arnarins og hins ófleyga geirfugls (sem nú er útdauður), ásamt vængjum og vængleysi af ýmsu tagi sem mótað er í myndmál. Einnig má nefna fjallið, jökulinn og ána sem eru eftir sem áður helstu líkingar í íslenskri ljóðagerð til þessa dags. Eins og í svo stórum hluta rómantískra bókmennta á Íslandi er aðalminni þessa kvers sjálft vorið, græn lögun þess ásamt laxinum í ánum. Matthías Johannessen virðist hugfanginn af dýralífi eins og það birtist í öllum sínum myndum, því fiskar, hreindýr, hestar og jafnvel kýr koma hér við sögu, rétt eins og í öðrum skáldskap hans.
Einn tónn er til staðar allt til enda, en það er tónn dauðans. Mörg ljóðanna í þessu safni eru sorgarljóð. Skáldið gerir sér í hugarlund að það sé á gangi í kirkjugörðum og íhugi tímann og flæði hans. Matthías endurómar skáldskap fyrirrennara sinna og binst þeim þáttum íslenskrar ljóðagerðar sem gerir dapurleikann og harminn að yrkisefni sínu. Helstu áhrif sem greina má í þessu safni má rekja til Steins Steinars, skálds sem aðhylltist hugmyndir ímagismans á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, og var iðulega álitinn tilheyra táknsæisstefnu. Matthías sver sig sjálfur í ætt við ímagisma með því að setja saman ljóð sem svífa eins og tærar myndbyggingar, óháðar tilfinningum eða afstöðu. Finna má mörg falleg augnablik í táknsæi af þeim toga.
Ljóð ímagistanna eru tær og nútímaleg, en Matthíasi tekst samt sem áður að tefla fram þess konar ljóðmáli gegn annars konar og ólíku ljóðmáli, sem er þó jafnvígt hvað varðar fagurfræðilegan styrkleika. Hér er um að ræða hina rómantísku tilhneigingu, en hann hreyfir við óræðum þáttum þjóðtrúarinnar til að koma þeim skilningi heim og saman. Því þó ímagisminn sé bæði háfleygur og tímalaus, hefur rómantíkin rótgróin tengsl við landið og þjóðina, við hefðir tengdar því hugarástandi og þeim trega er kallar harminn fram. Sögumaðurinn eða skáldið, er undir áhrifum hins harmræna bókina á enda. Einhver hefur fallið frá og hann minnist hins látna á göngu sinni og hlustar á vindinn í trjánum er minningarnar sækja að. En sjálft landið hverfur inn í veturinn, þegar stilla og stöðnun kallast á við grænt vorið. Í allri þeirri sorg sem gefin er til kynna felst því endurnýjun og einskonar fögnuður yfir því sem vaknar á nýjan leik.
Matthías hefur sett saman dásamlegt safn ljóða sem spretta fram og speglast hvert í öðru, jafnvel þegar hugsanir og myndmál breyta um stefnu og kastast til baka í nýjum myndum eftir því sem á líður. Hann skiptir bókinni upp í kafla, sem heita "Land," "Vökunótt," "Ferð," og að lokum "Mánans frostkalda sigð..." þar sem margt af því sem áður hefur verið sagt er dregið saman í hnotskurn. Kaflaheitin eru til vitnis um helstu umfjöllunarefni kversins; sambandið á milli skáldsins og landsins, harminn sem ætíð vakir, og lífsleiðina sem birtist í líki sjálfs Ódysseifs, en hann er kallaður fram ásamt Gunnari úr Íslendingasögunum. "Ættjarðarljóð" er bók af því tagi sem lesandinn getur haldið áfram að lesa um langa hríð, því skáldskapur af þessu tagi bliknar ekki.
Annar í jólum
Hef verið að hugsa um síðasta samtal mitt við Davíð Oddsson og staðnæmzt við þá upprifjun hans að Styrmir sagði einhverju sinni, þegar við þrír sátum að hádegisverði niðri í Stjórnarráði að hann væri aþeisti. Davíð sagði að slíkir hefðu tilhneigingu til að trúa á einhvers konar guðdóm í mannverunni sem kæmi þá í staðinn fyrir guðdóminn sjálfan. Mér varð þetta afar minnisstætt, en ég veit ekki af hverju.
Kvöldið
Lét Árna Jörgensen fá fyrstu símamyndirnar sem bárust hingað til lands, en þær fann ég í gömlu dóti í skrifborðsskúffu minni. Hann fékk ennfremur einhver gömul handrit, svo og skeytið sem ég sendi til Morgunblaðsins, þegar við skúbbuðum á samtali mínu við John Hare, sjávarútvegsráðherra, í þorskastríðinu. Það sýnir vel frumstæðar aðstæður á þeim tímum. Árni Jörgensen hefur áhuga á öllu slíku. Hann hefur lengi verið einn mikilvægasti samstarfsmaður minn. Hann er afar vel ræktaður maður og einhver mesti smekkmaður á bókmenntir sem ég hef kynnzt. Hann stendur þeim fyllilega á sporði sem nú veljast til forystu á menningardeildinni en þar er hvert rúm vel skipað. Sjálfur vildi hann ekki flytjast þangað, heldur vera áfram við sinn sala.
31. desember, gamlársdagur
Endanleg gerð Reykjavíkurbréfs sem birtist í Morgunblaðinu í dag, 31. desember:
Það er tómahljóð í alþjóðahyggjunni, segir hinn merki þjóðfélagsheimspekingur, Isiah Berlin, í athyglisverðu samtali sem ég las á sínum tíma. Hann segir að fólk geti ekki þroskazt nema það sé þáttur af sérstæðri menningu; heyri einhverju samfélagi til. Menn heyra til einhverri arfleifð. Það er hægt að bæta við hana, þróa hana og rækta, en ekkert samfélag lifir af með því að ganga af henni dauðri.
Það er þannig hlutverk okkar að ávaxta arfleifðina, rækta hana; bæta við hana og gera hana fjölbreyttari með allskyns áhrifum og nýrri reynslu.
Á því andartaki sem alþjóðahyggjan legði undir sig öll samfélög og ekkert væri til annað en eitt tungumál, hvort sem væri í listum, viðskiptum eða stjórnmálum, einn strengur sem ætti að lýsa sálarlífi okkar, tilfinningum og arfleifð, þá yrði ekki til alþjóðleg menning, heldur dauð menning eins og Berlin kemst að orði; menning hins einsleita víðáttubúa, gætum við sagt með Kundera. Ef allt lyti sömu lögmálum og afþreyingin og skemmtanaiðnaðurinn, þ.e. yrði einshyggju alþjóðatungumálsins að bráð, þá hyrfu öll sérkenni í samfélaginu inn í eftiröpun og stórþjóðastaðla sem kæmu í stað frjóvgandi og sérstæðrar menningar.
Enginn veit hvernig styrjöldinni um tungu okkar og menningararf lyktar. Hún stendur nú yfir, svo háskaleg sem hún er. Mótstöðukraftur okkar minnkar að ég held með hverju ári sem líður og senn verður tízkan þeim vilhöll sem þykjast vera að vernda íslenzka menningu, en vega nú að rótum hennar með þeirri erlendu síbylju sem er einatt einkenni hinna nýju ljósvaka. Jónas er höfundur þessa fallega orðs og notar það í þýðingu sinni á stjörnufræði Úrsins, en mér er til efs hann hefði eytt því á þá háværu fjölmiðla sem nú læsa klónum í hvers manns huga; oft og einatt án tengsla við íslenzkan veruleika og þá arfleifðarhefð að velja einungis það bezta sem erlendur markaður hefur uppá að bjóða. En íslenzkar sjónvarpsmyndir vekja þó bjartsýni eins og önnur íslenzk kvikmyndagerð. Hún gæti haft svipuð áhrif og biflíuþýðingar Odds og Guðbrands. Ég er þá ekki að tala um listræn gæði, heldur vinsældir kvikmynda og varðveizlu tungunnar.
Jón forseti Sigurðsson lagði áherzlu á rétt íslenzkrar tungu enda væri hún forsenda alls sjálfstæðis. Hún og landið eru hið eina sem heyrir okkur til og ekki öðrum. Hún er mikilvægasta forsenda arfleifðar okkar. Það stjórnar enginn íslenzku þjóðinni sem talar ekki tungu hennar. Við höfum sögulega reynslu fyrir því. Íslenzkar bókmenntir eru skrifaðar á þessa tungu og því eru þær okkur dýrmætari en ella. Þær eru hornsteinn tilvistar okkar og sérstæðs þjóðernis. Því eru þær flestu öðru mikilvægari. Ef við glötum tungu okkar glötum við einnig þjóðmenningunni og sjálfstæðinu. Þá hrynur samfélagið. Þá getur ný þjóð heyrt Íslandi til, að vísu; útlend þjóð, arfleifðarsnauð og opin fyrir erlendri ásókn. Auðnulaus þjóð í leit að sjálfri sér, hamingju sinni; og glataðri sjálfsvirðingu.
Sjálfsvirðingin er ekki sízt forsenda hamingju eða höfum við nokkurn tíma heyrt talað um hamingju þeirra sem hafa glatað sjálfum sér? Þar sem hamingjan býr í hjarta mannsins verður hún einungis varðveitt þar, eins og tungan sem við tölum og tilfinningar sem hún lýsir.
Aristóteles segir í Stjórnmálum að dyggð sé forsenda hamingju. Það er dyggð að varðveita sérkenni sín, arfleifð og þá ekki sízt tunguna sem er meðal annars dýrmæt vegna þess að hún er tengiliður einnar kynslóðar við aðra. Hvísl milli kynslóða. Við Íslendingar sem nú lifum getum átt mikilvæg samtöl við þá sem varðveittu gullaldarbókmenntir okkar - og það á þeirra eigin tungu. Slík samskipti eru lítilli þjóð hollt veganesti; stækka hana og auka henni þrek. Án þessa arfs hefðum við ekki fengið sjálfstæði okkar, handritin né 200 mílna fiskveiðilögsögu og án hans væri sjálfsvirðing okkar líklega heldur bágborin.
En þótt margt sé harla fagurt og eftirminnilegt í þessum forna menningararfi verður það ekki endurvakið með okkur í upphaflegri mynd. Það getur einungis orðið aflgjafi nýrra hugmynda. Það verður aldrei endurtekning gamalla töfra. Andrúm verður ekki endurtekið. En töfraþula tungu og arfleifðar sækir hljómfall sitt í reglubundna hrynjandi lífs og reynslu. Hún á rætur í kvikunni sjálfri. Og hún hefur fylgt okkur frá ómunatíð.
Heimsþorpið
Tæknin, þ.e. fjarskipti um gervihnetti, hefur breytt plánetunni í heimsþorp og rutt úr vegi þeim hindrunum sem töfðu fyrir fréttaflutningi. Fréttir um leið og þær gerast er krafa sjónvarpsneytenda og netfíkla. Og hún hefur neytt dagblöðin til að taka að sér nýtt hlutverk, þ.e. að hjálpa lesendum til að skilja umheiminn og nánasta umhverfi sitt.
Tölvu- og símafréttir eiga eftir að auka samkeppnina en þurfa ekki endilega að ógna dagblöðunum í næstu framtíð vegna þess að tæknin sem til þarf er enn á þróunarstigi og útbreiðsla tilskilinna tækja ekki nægilega mikil til að þetta nýnæmi geti veitt blöðunum alvarlega samkeppni. Dagblöðin verða því að öllum líkindum áhrifamesti frétta-, upplýsinga- og auglýsingamiðillinn eitthvað fram á þessa öld. En sjónvarpið verður aðalkeppinauturinn. Tæknin mun gera sjónvarpið fjölbreytilegri miðil en nú er og einkatölvan er orðin eins útbreidd og örbylgjuofnar, vinsælt víxlverkandi afþreyingartæki. Heimilistölvan verður daglegt brauð.
Tölvur eiga eftir að vinna úr sjónvarpssendingum alls kyns kennslu- og afþreyingarefni. En síðar blasir við nýr heimur. Þá verður raftæknileg dreifing upplýsinga um sjónvarp orðin helzta boðleið fyrir margt það efni sem blöðin flytja í dag. Og að mörgu leyti mun þetta rafeindakerfi samsvara raunverulegu dagblaði, búið mörgum sömu kostum og dagblöðin nú varðandi myndgæði, færanleika og jafnvel kostnað.
Allur fjöldinn verður mjög fær í tölvunotkun, ekki sízt vegna þess hve þessi tækni verður auðlærð. Þeim erfiðleikum sem komið hafa í veg fyrir að tölvur veiti blöðum og öðrum fjölmiðlum samkeppni hefur að mestu verið rutt úr vegi. En hvernig fer þá fyrir blöðunum? Þau breytast. Og lesendur þeirra breytast ekki síður með aukinni rafeindalegri dreifingu.
Forstjóri Knight-Ridder, sem gefur m.a. út stórblaðið Miami Herald hefur sagt: "Ein helzta hindrun sem dagblöð verða að sigrazt á er ólík áhugamál lesenda og skipting þeirra í ótal hagsmunahópa."
Stafrænt eða gagnvirkt sjónvarp sem merkir að áhorfendur verða sínir eigin dagskrárstjórar mun ýta undir þessa skiptingu vegna þess það hentar hagsmunum þeirra.
Æ fleiri lesendur munu ætlast til þess að fjölmiðlar veiti þeim aðeins þær upplýsingar sem þeir óska eftir af öllu því flóði sem fyrir liggur hverju sinni. Neytendur munu sjálfir skiptast í áhugahópa eftir því sem þeim verða ljósari séróskir sínar og þeir verða færari um að fullnægja þessum óskum vegna aukins framboðs.
Auglýsendur munu í auknum mæli kappkosta að ná aðeins til líklegustu viðskiptavina. Þeir verða tregir til að greiða fyrir það sem þeir telja óþarfa kynningu á almennum fjöldamarkaði. Þeir munu krefjast sérhæfðari miðla fyrir auglýsingar sínar.
Dagblöð verða svo hönnuð handa hverjum og einum, sniðin að sérstökum þörfum lesenda. Þeir fá þannig sérhannaða skammta af fréttum, auglýsingum og upplýsingum sem eru sérstaklega valin með tilliti til þarfa hvers og eins.
Þetta minnir á hvernig Íslendinga sögur, þ.e. elfan mikla, kvíslaðist á 14. öld í smærri lænur eins og Fornaldarsögur Norðurlanda sem voru afþreyingarævintýri og annála sem voru til fróðleiks. Hlutverki sagnanna var sem sagt lokið.
Það má vera að upplýsingar og fróðleikur dreifist til æ fleiri við þessa tækniþróun og nauðsynlegt að halda í þá von. En þetta er samt íhugunarverð framtíð og mér er til efs ég hefði haft áhuga á að gera blaðamennsku að lífsstarfi mínu ef framtíðarsýn hefði verið sú sem hér er lýst. Þetta er fyrst og síðast framtíðarsýn afþreyingar og skemmtiiðnaðar, sérhæfðrar þekkingar en ekki almennrar. En ef vel tekst til getur þessi framtíð verið heillandi viðfangsefni, í ætt við vísindaskáldsögu.
Dagblöð og dómstólar
Þegar við vorum í Noregi vorið 1991 heimsóttum við Stavanger Aftenblad og áttum ágætt samtal við þáverandi ritstjóra þess, Thor Bjarne Bore, alvarlegan mann og viðræðugóðan. Nokkru síðar rakst ég á athyglisverða grein eftir hann í málgagni norskra blaðamanna og þar fjallar hann um siðleysi í fjölmiðlum og ábyrgð fréttamanna. Hann segir í upphafi greinar sinnar að fyrrverandi upplýsingafulltrúi hjá Kreditkassen hafi sagt að fyrir venjulegt fólk sé aðeins eitt verra en að verða fyrir reiði Guðs, það sé að verða umfjöllunarefni á forsíðu Dagbladet eða Verdens Gang án þess vilja það. Þar sé nefnilega hvorki að finna náð né fyrirgefningu. Og Bore segir: "Það er ef til vill ekki þægileg tilhugsun að æ fleiri skuli spyrja hvort nýtt réttarkerfi sé að verða til í Noregi, kerfi þar sem menn eru dæmdir sekir um leið og grunsemdir vakna, þar sem menn verða að afplána refsingu þegar í stað í gapastokki almenningsálitsins, ásamt öllum þeim ættingjum sem bera sama eftirnafn. Í gamla daga lauk refsingunni á einum sunnudegi við kirkjuna. Þá hlaut fólk refsingu eftir réttarhöld og dómsúrskurð, núna er gapastokkur fjölmiðlanna stundum miklu verri en dómarnir sem réttarkerfið kvað upp."
Og Bore heldur áfram: "Ég hygg við getum verið sammála um að ekki eigi að skerða tjáningarfrelsið þegar það er notað til að hindra óréttlæti og leiðrétta mistök... Rannsóknarblaðamennska sækir í sig veðrið og það er gott fyrir samfélagið. En það er slæmt að stundum hafa fréttamenn sýnt óvarkárni og skaðað rannsókn lögreglu á málum með yfirgangi. Blöðin hafa oft varpað fram afdráttarlausum staðhæfingum allt of snemma og síðar hefur komið í ljós að þau voru á villigötum. Oft er skaðinn mikill, fjárhagslegur og félagslegur, fyrir einstaklinga sem verða fyrir barðinu á þessu þótt þeir reyni að rétta hlut sinn með málsókn...
Lögbrot er lögbrot. En hvaða brot eru svo yfirþyrmandi að ástæða sé til að fjalla um þau á mörgum blaðsíðum og birta risastórar myndir. Fjölmennir flokkar ljósmyndara og fréttamanna eru á hælum hins ákærða, notaðar eru kvikmyndavélar og skær flassljós sem afhjúpa hverja einustu drætti og svipbrigði...
Athafnir fjölmiðla í slíkum málum minna á alþýðudómstóla; eintakafjöldinn, áherzlan, orðaval þar sem skoðanir fréttamanns koma skýrt í ljós og þeir bregða sér í mörg hlutverk í senn - þeir annast rannsókn, eru ákærendur og dómarar auk þess sem þeir miðla upplýsingum til almennings...
Það er gersamlega óverjandi að þvinga játningar út úr fórnarlambi með því að hóta að skýra frá upplýsingum sem hafa ekki fengizt staðfestar. Það er enn verra að birta óstaðfestar upplýsingar í trausti þess að fórnarlambið þori ekki að bregðast við þeim. Það er svívirðilegt að nýta sér vitnisburð barna eða annarra sem ekki eru færir um að skilja hvaða afleiðingar orð þeirra geta haft.
Enginn getur komizt undan ábyrgð með því að vísa til þess að fórnarlambið hafi sjálft kallað yfir sig umfjöllun. Sá sem birtir fréttaumsögn hlýtur ekki eingöngu að ábyrgjast að hún sé sönn heldur einnig að virðingarverð ástæða sé fyrir birtingunni. Ég er sammála aðalritstjóra Washington Post sem segir að ekki sé nein ástæða til að segja frá einkalífi þekkts fólks nema framferði þess í einkalífinu geti haft áhrif á störf þess. Ef fólk í ábyrgðarstöðum tekur sér eitthvað fyrir hendur sem skerðir það traust sem almenningur verður að geta borið til viðkomandi einstaklings, getur einkalífið orðið viðfangsefni á opinberum vettvangi..."
Bore fordæmir þá sem hann kallar hnýsla í fréttamennsku og telur að þeir geti kallað yfir fjölmiðlana lög sem skerði frelsi þeirra. Viðhalda verði gagnkvæmu trausti almennings og fjölmiðla ef hinir síðarnefndu vilja gegna hlutverki fjórða valdsins, "við verðum að halda okkur frá forheimskunar- og léttmetisblaðamennskunni," segir hann og bendir á að blaðamenn verði sjálfir að halda uppi siðferðislegum aga eins og Ibsen fjallar um í Rosmersholm. Og hann kallar Sigrid Undset til vitnis um grundvallaratriði því að hún sagði á sínum tíma að menning væri "í innsta eðli sínu ábyrgðartilfinning einstaklingsins". Hann varpar fram þeirri spurningu hvort ritstjórar ritstýri eða láti sér nægja að sjá um daglega stjórn. Spyr hvort ekki vanti hugmyndafræðilegan grundvöll á marga fjölmiðla. "Standa ritstjórnirnar í alltof litlum mæli á grunni hins trausta gildismats? Hlýtur ekki að vera fyrir hendi gildismat í hvert sinn sem tekin er ákvörðun í siðferðislegum efnum?"
Allt er þetta mikið íhugunarefni og ég tel að Bore fjalli skynsamlega um vandamálið. Ég er sammála öllum skoðunum hans og hvernig hann setur þær fram. Og þá ekki síður því sem hér fer á eftir: "Ef almenningi finnst að við umgöngumst ekki tjáningarfrelsið með virðingu eigum við á hættu að frelsið sem við höfum ekki efni á að glata verði skert. Þess vegna verðum við að halda verkfærum okkar í siðferðismálum vel við og slæva ekki virðinguna fyrir þeim ef við ætlumst til þess að vera tekin alvarlega í hvert sinn sem við drögum að húni fána tjáningarfrelsisins. Fólk lætur sér fátt um finnast ef við vísum til hins heilaga frelsis í hvert sinn sem við gegnum störfum lögreglunnar eða dæmum fyrirfram þá sem grunaðir eru um afbrot, læðumst inn í svefnherbergi þeirra sem njóta tímabundinnar frægðar eða látum móðan mása um hvaðeina sem engu máli skiptir...
Eðlilegt er að staldrað sé við og spurt: Erum við vitni að því hvernig fjölmiðlunum hrakar, hvernig þeir menga almenningsálitið með ofuráherzlu á einstaklinga og hneyksli fremur en að vera til upplýsingar?"
Er tvenns konar fjölmiðlasiðferði að verða til, annars vegar þeirra sem leggja áherzlu á að stundum hljóti tillit til einstaklinga að vega þyngst, hins vegar þeirra sem segja að tjáningarfrelsið sé takmarkalaust og skýra megi frá öllu, ef það sé satt? Er raunveruleiki nútímafjölmiðlunar þegar öllu er á botninn hvolft fyrst og síðast spurning um peninga?
Fréttamenn þurfa sjálfir sama aðhald og þeir telja sér skylt að veita öðrum. En það er langt frá að á því sé almennur skilningur og um fjölda fréttamanna mætti hafa sömu orð og Bore notar um valdamenn: "Og aldrei megum við gleyma því að þeir sem af eðlilegum ástæðum eru mikið í sviðsljósinu glata alltaf að nokkru leyti hæfileikanum til að skilja gildi tjáningarfrelsisins og opinberrar umræðu." Þetta á því miður við um allt of marga fjölmiðlamenn. Sumir þeirra vilja baða sig í sólskininu en þeim er nokkurn veginn sama þótt þetta sama sólskin valdi öðrum brunasárum. Ekki sízt af þeim sökum er mikilvægt hverjir stjórna fjölmiðlum, nú og í framtíðinni - og er það að sjálfsögðu algjörlega óháð tæknilegri þróun því að alþýðudómstóll notar þau meðul sem nærtæk eru hverju sinni.
Amerískt útihús?
Framtíð íslenzkrar fjölmiðlunar er óráðin. Margt bendir til að alþjóðleg fjölmiðlun taki við af henni áður en langt um líður. Hún er fyrirferðarmesti þátturinn í íslenzkum sjónvörpum. Erlendur skemmtiiðnaður er þar nánast allsráðandi og engu líkara en metnaður íslenzkra sjónvarpsstöðva standi helzt til þess að verða eins konar amerískt útihús hér norður í ballarhafi. Þetta er heldur dapurleg framtíðarsýn. En vonandi marka þessir fjölmiðlar sér íslenzka stefnu með þá arfleifð að bakhjarli sem er dýrmætasta eign okkar. Og þá helzt í anda gömlu Gufunnar. Hún hefur ekki gengið fyrir klámhöggum.
Blaðamennska er samtíðin í rituðu máli; eins og Sturlunga. Morgunblaðið er blað allra landsmanna, í reynd. Það nýtur lýðhylli sem aldrei fyrr. Og umfram allt nýtur það nú meira trausts samkvæmt skoðanakönnun en nokkurn tíma áður. Af því er ég hvað stoltastur, þegar horft er um öxl. Ritmálstraust hlýtur að vera markmið þeirra blaðamanna og rithöfunda sem vilja vanda til verka. Það var leiðarljós Sturlu Þórðarsonar, þessa snillings samtímasögunnar. Tölvulaus samdi hann forritið sem hefur dugað betur en nokkur önnur.
Kalda stríðinu er lokið. Það var ægileg eldraun, einnig fyrir Morgunblaðið. Nú lifum við á svo kölluðum þverpólitískum tímum. Þeir eru eins og kyrrlátt sumarkvöld miðað við óveðrið áður. Notaleg umskipti, en ekki átakamikil. Markaðshyggja í algleymingi. Oftrú á einfaldar lausnir. Hið eilífa samtal anda og efnis og engin niðurstaða!
Afstaða Morgunblaðsins hefur verið öllum ljós, ekki sízt í umhverfis- og auðlindamálum og þá einnig til Evrópusambandsins. En Schengen er erfið áskorun og ekki hættulaus. Erlend fjárfesting í sjávarútvegi íhugunarefni.
Á Morgunblaðinu er hæfileikaríkt starfsfólk; hógvært og hreykir sér lítt. En það hefur nægan metnað til að gefa út gott blað. Ég mun sakna þessara samstarfsmanna, þessa gamla og góða Morgunblaðsanda. Lesendur njóta góðs af honum. Hann er dýrmætasta eign blaðsins. Og þá hefur hann ekki sízt verið notadrjúgur ýmsum þeim sem horfið hafa til annarra starfa.
Óvænt ráðning mín í ritstjórastarf á sínum tíma hefur að því er virðist rutt blaðamönnum leið til áhrifa og ábyrgðar; vonandi þá einnig lesendum til góðs og blaðinu til framdráttar. En forsenda þess er þó sú að unnið sé af hrokalausri auðmýkt og virðingu fyrir umhverfinu og þeim gildum sem nefnd hafa verið í þessu bréfi. Ungt fólk á að fá tækifæri en það á ekki að rétta því spegil til að baða sig í. Fjölmiðlar hafa því miður færzt mjög í þá átt. En þeir geta verið gagnlegir, þegar þeir fjalla um merkileg efni.
Blaðamennska er ekki lítilsiglt starf eins og stundum heyrist, en hefur að öðru jöfnu tilhneigingu til að vera jafn merkileg eða ómerkileg og þjóðfélagið sjálft. Mannlífið einkennist að vísu ekki af jafnvægi, heldur slagsíðu. Ég hef einhvern tíma líkt Morgunblaðinu við torg þar sem fólk safnast saman og skeggræðir. Ef það er rétt að íslenzkir fjölmiðlar séu slíkt torg þá heyrist því miður aldrei í neinum Sókratesi fyrir hrópum og háreysti. Og þá er það ekki heldur eðli markaðarins að hyggja að verðmætum, ekki endilega. Hann er ólistvænn. En tíminn vinsar úr.
Tómas skáld Guðmundsson sagði eitt sinn við mig: Annaðhvort verðum við að leggja niður fjölmiðlana eða tunguna, þetta tvennt fer ekki saman. Holtaþokuvælið sem Jónas talaði um er að vísu í æ meiri metum með hrakandi smekk. Og enginn Fjölnir í augsýn, því miður. Tilþrifalaus flatstíll í hávegum.
En þó von.
Tómas var tákngervingur hins listræna eða estetíska smekks og gamalgróinnar ritlistar, en fjölmiðlarnir fylltu hann bölsýni. Mér er þó nær að halda þetta hafi verið óþarfa svartsýni. Vonandi halda íslenzk tunga og dýrmætur ritlistararfur velli, hvað sem öðru líður. Ég á ekki betri ósk okkur til handa en svo megi verða.
Með þá ósk í huga kveð ég mitt gamla blað og lesendur þess og þakka langa og góða samfylgd.
Matthías Johannessen.
Gamlársdagur
Er að huga að skáldsögu Max Frisch, Homo Faber, í ágætri þýðingu feðganna Ástráðar Eysteinssonar og Eysteins Þorvaldssonar. Sá einnig prýðilega kvikmynd eftir bókinni með leikskáldinu Sam Shepard í aðalhlutverki. Þetta er ógnleg bók, fjallar um nútímaödipús sem elskar dóttur sína án þess vita, hver hún er. Schlöndorff leikstýrði þessari átakanlegu kvikmynd sem heitir Ferðin.
Hef lokið við bók Robert Graves um Arabíu-Lawrence. Hún heitir Lawrence and the Arabs og byggir m.a. á æviyfirliti Lawrence sjálfs, Seven Pillars of Wisdom, eða Sjö stoðir vizkunnar. Titillinn á rætur í Gamla testamentinu.
Æðsta ósk Lawrence var sú að vinir hans gleymdu honum. Hann hafði engan áhuga á því að vera þekktur eða umtalaður og kaus undir lokin að vera óbreyttur hermaður í brezka flughernum.
Borges segir að Sjö stoðir vizkunnar sé eina hetjasaga þessarar aldar, en sá galli sé á gjöf Njarðar, að höfundur biðji stundum afsökunar á sjálfum sér, en það geri hetjan aldrei í fornum skáldskap.
Þjóðsagan lifir góðu lífi, hvað sem líður liðþjálfanum í brezka flughernum. Þar var hann einungis þekktur fyrir áhuga á mótorhjólum, enda mega þjóðsagnapersónur ekki skyggja á þjóðsöguna sjálfa.
Kvöldið
En hvernig eru þá svona tímamót, að hætta störfum eftir öll þessi ár? Að hætta í fullu fjöri?
Ég held þau verki á mig eins og úlfaldalest sem er bundin saman á hölunum. Úlfaldarnir vita ekki hver stjórnar ferðinni; kannski veit fremsti úlfaldinn það, hann einn. En hann veit ekki að þeir eru bundnir saman á hölunum.
En hver er þá fremstur, hver stjórnar ferðinni? Það er múlasni. En hann hefur ekki hugmynd um, að hann er forystusauður á þessu ferðalagi yfir endalausa eyðimörk heimskunnar!