2001

fyrsti hluti

 

Þriðjudagur, 2. janúar 2001

Hef helzt ekki komizt í göngutúr undanfarna daga vegna kulda. Samt þoli ég kulda ágætlega, en vindurinn er of napur fyrir minn smekk. En göngutúrar hafa verið mér lífselexír.

Dró að gamni mínu texta úr biblíulegu orðasafni. Upp kom: ”Síðasta daginn, hátíðardaginn mikla, stóð Jesús þar og kallaði: Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki”. Jóh. 7.37.

Veitti mér styrk í þessari nýbyrjuðu sjálfsleit minni eftir allt umstangið á Morgunblaðinu í hálfa öld.

Las í gærkvöldi það sem Kenneth Clark segir í Civilation um Wordsworth, að náttúrudýrkun hafi hafizt með skáldum eins og honum, fram að því hafi flest fjallað um hallir og inniveru. En Wordsworth gekk mikið þar sem hann bjó í Grasmere, Lake District, en þangað komum við Hanna á sínum tíma, ásamt drengjunum, og eitthvað orti ég á þeim ferðum án þess ég muni það nákvæmlega. Við fórum um allt svæðið, það var þegar við flugum til Glasgow og ég ók suður til Lundúna. Þá áðum við í Windermere og kynntumst sveitinni vel.

De Quincy þóttist finna út að Wordsworth hefði á miðjum aldri gengið sem svaraði 180 þús. mílum! Þetta var ekki síður andleg en líkamleg æfing, en dýrkun náttúrunnar var ekki sízt í tengslum við slíkar göngur. Þessir karla gengu 2o km til að koma einu einasta bréfi í póst! Það er engin furða þótt bréfin hafi verið merkileg!

Nú eru svona göngur óþarfar, en ekkert jafnast þó á við að ganga með Skerjafirði, Nauthólsvík, inn Fossvog og upp Elliðaárdal. Hvíslandi vatn á aðra hönd, syngjandi fuglar á hina..

Leit auga þitt nokkuð fegra?

Clark viðurkennir að víkingar hafi átt sína menningu, en spyr: Áttu þeir siðmenningu? Hann svarar því neitandi. Siðmenning sé fólgin í því að maður eigi heima einhvers staðar í tíma og rúmi; að maður geti horft fram á leið og einnig um öxl. Að maður kunni að lesa og skrifa.

Samkvæmt þessari skilgreiningu eru margir nú um stundir án siðmenningar. Þeir lifa eins og víkingar. Þeir lifa eins og flökkudýr sem eiga sér hvorki stund né stað.

Og þeir hyggja á strandhögg.

 

Kvöldið

Borges orti merkilegt ljóð um grískt völundarhús og ástir þeirra Maríu Kodama, en hún kom hingað með honum á sínum tíma og giftist honum síðar. Milli þeirra var næstum hálf öld. Hún dáði þetta einstæða skáld. Þegar þau bjuggu á Hótel Esju sagði hún Hönnu að hún hefði lítið sofið um nóttina, Borges hefði vakið hana og beðið hana skrifa eftir sér, enda átti hann við andvökur að stríða. Hanna vorkenndi Maríu, en ég sagði, Þetta er ást, Hanna mín - en hún tók því víðs fjarri og hafnaði öllum skýringum öðrum en þeim sem snertu ritarastörf Maríu!

Hún kvaðst vera löngu uppgefin á karlinum og tiktúrum hans, sagði Hanna.

En ég sat við minn keip.

Svo kom fréttin um giftinguna.

Praktískar ástæður, sagði Hanna af umhyggju fyrir Maríu og þeim kvenlegu lögmálum sem eiga að gilda, en gera það ekki alltaf.

Konur geta verið veikar fyrir gömlum skáldum, sagði ég og hélt mig við rómantíkina.

En Hanna brosti fallegu hólsfjallabrosi.

Í kvæðinu líkir Borges leyndardómi ævi þeirra Maríu og aldursmun við völundarhús sem enginn skilur, enginn kemst inní og því síður útúr. Hann er í raun að yrkja um ást í meinum.

En kvæðið er svona:

Völundarhúsið

Þetta er völundarhús Krítar.Völundarhúsið

á Krít og mínótár í miðju. Dante

ímyndaði sér naut með mannshöfuð. Í

steinvef þess jafn glataðar kynslóðir

og við María Kodama. Þetta er völundarhús

Krítar og í miðju þess mínótár. Dante

ímyndaði sér hann sem naut með mannshöfuð. Í

steinvefnum jafnmargar glataðar kynslóðir

og við María Kodama. Og ég var ráðvilltur

þennan morgun. Og ég veð enn í villu

í öðru völundarhúsi,

tímanum.

 

3. janúar 2001, miðvikudagur

Hélt ekki upp á afmæli mitt í dag, fékk mér ekki einu sinni göngutúr, of kalt.

Við Hanna og Ingó borðuðum ýsu og sveskjugraut á Múlakaffi. Það var alþýðleg máltíð og við hæfi. Sumir horfðu á þennan uppgjafaritstjóra og hugsuðu sitt. Einn eða tveir lásu Moggann og báru saman myndina af mér á forsíðunni og fyrirmyndina sjálfa þarna við ýsuborðið

Þarna voru að ég held einkum einstæðir leigubílstjórar. Þeir eiga ekki eftir að keyra ritstjórann oftar.

Og skáldið gengur, það fer því bezt!

Þannig hófst nú þetta ár án þess neitt bæri til tíðinda annað en lognkyrr frostdagur með rauðri sól sem fyllti suðrið eins og í málverki eftir van Gogh. Og sólin ástfangið auga sem fylgir stúlkunni sinni, opnað til hálfs.

 

4. janúar 2001, fimmtudagur

Hef verið að hugsa um rómantíkina. Hún loðir enn við okkur sem betur fer. Öll umræðan um náttúruna og umhverfismál á rætur að rekja til hennar. Þegar fyrst fór að örla á henni uppúr miðri 18. öld höfðu listir og menning á vesturlöndum fjallað nánast alfarið um kristni sem var í brennidepli allrar menningarumræðu í þúsund ár. Galíleó, þessi heilkristni vísindamaður, komst ekki upp með moðreyk, þegar hann reyndi að skýra hugmyndir sínar, eða eigum við frekar að segja sannanir sínar um grundvallaratriði náttúrulögmála, þ.e. að sólin sé miðjan og jörðin snúist um hana. Hafnaði þannig þeirri miðlægu rétttrúarkenningu sem var eitt af trúaratriðum kristindóms þangað til. Kópernikus sveiflaði jörðinni kringum sólu eins og Hannes segir í kvæði sínu ágætu, þ.e að jörðin sé óhagganleg miðja og um hana snúist kerfið.

Enginn tók mark á guðlasti Kópernikusar, en lét það bitna á ítalanum. Og ítalinn gafst upp fyrir páfa og kirkjuréttinum í Róm og taldi sig ekki hafa sagt það sem hann var ákærður fyrir. Galíleó bilaði andspænis réttinum, sagði Ég er hér til að hlýða. Og vísindalaus kristindómur hélt velli, en ekki sá kristindómur sem við tók löngu síðar. Þá var ítalinn dauður, en bók hans, Dialogue, enn víða í banni, m.a. í Róm.Hún fjallar um það sem hann vissi sannast, en ekki það sem hann sagðist ekki hafa sagt. Þá var hann kjarklaus og bilaður andspænis rannsóknarréttinum og taldi jarðmiðjukenninguna ekki ígildi þess lífs sem hann langaði enn til að lifa, þótt tekinn væri að reskjast.

Um þetta er fjallað af allt að vísindalegri nákvæmni í nýlegu sögulegu skáldverki, Dóttir Galíleós, eftir Dava Sobel.

Alþýða manna horfði agndofa á þennan blekkingaleik og almannarómur svo kallaður reyndi að hafa síðasta orðið eins og hann reynir ævinlega, þegar hann kemur ár sinni fyrir borð í þjóðsögunni, og fullyrti að Galíleó hefði tuldrað fyrir munni sér þegar dómur var upp kveðinn, Og samt snýst hún! En hann sagði aldrei þau orð sem honum voru eignuð í sjálfsvirðingar skyni eða nein þau orð önnur í svipuðum dúr, heldur voru þau tilbúin afsökun heilli öld síðar. Samt eru þau nú arfleifð okkar. Ástæðan er sú að hún byggist oft á því sem við vildum, en varð ekki.

Rómantíkin hafði ekki alfarið tekið við hlutverki kristninnar í siðmenningarsögu okkar, þótt hún hafi verið heldur guðlaus í ljóðum róamntísku skáldanna allt í kringum okkur. Og er það að nokkru leyti enn. Guðdómurinn skipar lítinn sess í bókmenntum þessarar aldar, þótt rómantíkin sé alls staðar á næstu grösum, hvernig sem skáldin reyna að forðast hana. Þar sem náttúran er, þar er hún á ferð. Þar sem talað er um náttúruvernd, þar rekumst við á þennan arftaka kristninnar í siðmenningarumhverfi okkar. Og þá mætti kannski einnig halda því fram að sköpunarverkið sé ekki langt undan.

Sem sagt, arfur kristninnar í listum liggur ekki, a.m.k.ekki endilega, í guðamyndum og renesansparadísum, heldur rómantísku umhverfi okkar. Undan því verður ekki komizt, hvað sem líður dantískum hugmyndum um hel og helvíti.

Ég þekki erlent ljóðskáld sem hefur komið út hingað til að finna guð í ógnlegri náttúru Íslands og hef um hann fjallað annars staðar,en jafnframt höfum við haft pata af öðru dönsku skáldi, ekki ómerkara, sem einnig kom hingað til lands að upplifa sögulegt landslag. En nú hafa þessi ólíku náttúruumhverfi runnið saman í eina heimsmyndarlega reynslu í leitandi huga okkar. Ég sagði af ásettu ráði leitandi. hvað merkir það? Mundi það ekki fjalla um leitina að okkur sjálfum í þessu umhverfi og þá einnig því forriti efnisins sem sendi okkur á þessar slóðir. Við getum kallað það guð, alvald eða föður og sólina guðs auga eins og Jónas - og þá meðan við þekkjum það ekki nema af afspurn. Það er sem sagt skapari þessa umhverfis.

Galíleó taldi þessa forsjón upphaf allra hluta, þennan ógnarkraft sem er stundum einhvers konar innri rödd þeirrar mennsku sem við þráum, en þekkjum ekki-nema af sköpunarverkinu sjálfu.

Hvar heyrum við þessa rödd betur en í náttúrumhverfi okkar?

Ástæðan til þess við heyrum hana er einfaldlega sú að við erum partur af þessu umhverfi, þótt við getum ekki einu sinni vísað útibarinni rjúpu í skjólgott athvarf, öruggt fyrir fálkum og frostkaldri ógn þessa sama umhverfis. Til þess yrðum við einnig að vera hvít með loðnar tær. Það erum við ekki og það eru takmörk okkar. Við yrðum að koma í rjúpu mynd til að frelsa rjúpuna; rétt eins og Kristur kom í okkar mynd.

En í stað hins vísindalausa kristindóms og þegar sólmiðjukenningin var orðin viðurkennd staðreynd í kristinni heimsmynd, tók þessi vísindahyggja ekki þann sess sem kristindómurinn hafði skipað um aldaraðír, heldur vísindalaus rómantík sem efldist að fegurðarhyggju og náttúrutöfrum og þeirri dulhyggju sem landslag og umhverfi vekja með okkur, þegar sögulegi þátturinn verður ekki allsráðandi. Hægt og bítandi rennur þessi landslagsdulúð í sama farveg og fornaldarhyggja og birtist okkur eins og leiftur í skuggsælu umhverfi upplýsingarinnar. Og nú blasir öll þessi reynsla sem verður til á mótum 18. og 19. aldar við okkur í þeim brennidepli sem er hvað eftirminnilegastur í allri siðmenningarsögunni, svo að ekki sé talað um bókmenntasöguna. Þessi nýja og sígilda upplifun heitir Gunnarshólmi. Þar kallast náttúran á við sögulega geymd eins og í Fjölnisformálanum, fornöldin rís úr öskustónni og land, náttúra og fegurð skipta máli eins og aldrei áður. Og umgjörðin, ljóðformið, á rætur í gamalli arfleifðarhefð, auðvitað!

En notað með nýjum, áhrifamiklum hætti eins og stórskálda er siður.

Ef einhver annar en Jónas hefði ort Gunnarshólma hefði guðskristni að sjálfsögðu gleymzt í þessari óvæntu leifturmynd listar og gleði, en það gerist ekki, þvert á móti: Hulinn verndarkraftur hvílir yfir hólmanum. Og þessi verndarkraftur var ekki minni í því hálfheiðna umhverfi sem dæmdi Gunnar til útlegðar en þeirri rómantísku farsældarframtíð sem Jónas og fjölmismenn boðuði, ekki sízt í öðru kvæði Jónasar sömu ættar, Íslandi.

 

Á þrettándanum

Fórum í gærkvöldi á rótarý-tónleika. Þar var Jónas Ingimundarson ásamt fjórum ungum og upprennandi óperusöngvurum. Ánægjulegt kvöld, fullt af ræktaðri siðmenningu. Ótrúlegt hvað Ísland á mikið af góðum söngvurum. Ísland er einhvers konar fiskiópera.

Nótt Árna Thorsteinssonar var meðal þess sem flutt var. Ég man Árna vel og þá feðga. Þeir unnu í víxladeild Landsbankans þegar ég var drengur. Pabbi var yfirmaður deildarinnar og þeir Árni voru miklir mátar. Einu sinni fórum við öll í síðdegisheimsókn til Árna og konu hans, mig minnir þau hafi búið við Mímisveg, eða þar í grennd, ásamt þessum syni sínum sem var lögfræðingur og afargeðfelldur maður.

Þetta var fallegt og hlýlegt boð. Árni var einstakur öðlingur þótt hann hafi verið harður gagnrýnandi við Morgunblaðið. Hann var lítill maður vexti, nettur og holdgrannur og svo kurteins að minnti einna helzt á enska sjentilmenn eins og þeim er lýst. Það var viktoríanskt andrúm í kringum hann. En hann lét ekki vaða oní sig, þegar listin var annars vegar. Þá breyttist þessi dagfarsprúði maður í krossfararriddara fyrir listina og hélt sínu fram, hvað sem raulaði og tautaði. En í daglegri umgengni var hann heldur óskáldlegur, fínlegur maður með hvítt yfirskegg. Það var allt og sumt. Svo kom hann heim úr vinnunni og samdi perlu eins og Nótt.

Hverjum gat dottið það í hug sem sá þennan yfirlætislausa, ókunna mann á göngu eftir Pósthússtræti þar sem Oddur á Skaganum réð ríkjum. Hann var einhvers konar ógn.

En ég vissi aldrei af hverju ég óttaðist Odd.

 

Miðnætti

Orti þetta eftir hljómleikana, líklega í hundraðasta skiptið - en þó dálítið öðruvísi:

Augu þín stjörnur

og leita í myrkrið.

Ýmsum þætti þetta smáræði að bera í bakkafullan læk, gæti ég trúað. En hvað um það, allt hefur sinn tíma

Knut Ödegaard segir að íslenzkan sé tilvalið skáldamál því að hún sé svo myndauðug. Í norsku sé sagt stakarl og óljóst um merkinguna, en á íslenzku sé þetta stafkarl og allir sjái á stundinni hvað það merki.

 

Af fréttavef Björns Bjarnasonar í byrjun árs:

"Um þessi áramót verður mikil breyting á Morgunblaðinu, þegar Matthías

Johannessen lætur þar af ritstjórn eftir að hafa setið við hana síðan 1959

en starfað á blaðinu síðan 1951, en þá réð Valtýr Stefánsson ritstjóri hann

þangað, að sögn Matthíasar vegna þess hve Valtý var hlýtt til Jóhannesar

bæjarfógeta, afa Matthíasar í móðurætt. Ég ólst upp við vináttu foreldra

minna og Valtýs og Kristínar Jónsdóttur, listmálara, eiginkonu hans og á

góðar bernskuminningar frá heimsóknum til þeirra á Laufásveginn með

foreldrum mínum, minnist ég þess sérstaklega, hve mér þótti forvitnilegt að

fá að sjá, þar sem Kristín málaði auk þess sem ég minnust þess að hafa

leikið mér í sólskinsböðuðum garði þeirra, á meðan þeir Valtýr og faðir minn

ræddu landsins gagn og nauðsynjar. Valtýr var stærsti eigandi Morgunblaðsins

og ritstjóri þess frá 1924 til 1963, en síðustu æviár sín naut hann sín ekki

í starfi vegna veikinda. Valtýr var einarður í stuðningi sínum við

Sjálfstæðisflokkinn og mikill baráttumaður fyrir málstað hans.

Tengsl föður míns við Morgunblaðið voru ávallt mikil og þegar vinstri

stjórn Hermanns Jónassonar komst til valda 1956 varð hann aðalritstjóri

blaðsins fram til þess að viðreisnarstjórnin var mynduð á árinu 1959, sama

árið og Matthías varð ritstjóri, en eftir kynnin á Morgunblaðinu varð mikil

vinátta milli foreldra minna og Matthíasar og Hönnu, konu hans. Hefur

Matthías oft sagt frá vináttu þeirra í viðtölum og greinum og fer enginn í

grafgötur um að hann metur foreldra mína mikils og var það gagnkvæmt af

þeirra hálfu í garð þeirra Hönnu, því að margar gleðistundirnar áttu þau

saman og var ómetanlegur skóli fyrir mig að fá að hlusta á það, sem þar var

skrafað.

Þykir mér furðulegt að lesa mat annarra á þessari góðu vináttu eins og til

dæmis í nýrri bók Sigurðar A. Magnússonar, sem einkennist af sérkennilegri

óvild í garð föður míns, án þess að hann hafi í raun haft af honum nokkur

kynni, sem máli skipti, og dragi ályktanir sínar oft í því skyni að gera

sjálfan sig að pólitískum píslarvotti, vegna þess að honum þykir, að hann

fái ekki nægan stuðning eða skjól frá þeim, sem hann veitti sjálfur aldrei

neinn stuðning, eins og bókin ber með sér.

Á einum stað er ég nafngreindur í þessari bók og segir Sigurður, að árið

1964 eða 1966, ef ég átta mig rétt á ártali, hafi hann ætlað að selja mér

hest og farið með mér í því skyni upp í Mosfellssveit, en þá hafi ég verið

blaðamaður á Morgunblaðinu og lítt vanur hestamaður, enda hafi fum mitt

komið fáti á hestinn og hann kastað mér af baki. Ég minnist ekki þessa

atburðar, en ég var ekki blaðamaður á Morgunblaðinu á þessum árum, þótt ég

kæmi oft á ritstjórnina og ynni á öðrum deildum blaðsins, auk þess sem ég

var alls ekki óvanur hestamennsku á þessum tíma, átti sjálfur hest hér í

bænum og hafði í mörg ár vanist alls konar hestum, þegar ég var níu sumur í

sveit á Reynistað í Skagafirði. Finnst mér með ólíkindum, að ég hafi verið

að hugsa um hrossakaup af Sigurði á þessum árum, því að ég átti í mestu

vandræðum með að sinna þeim eina hesti, sem ég átti í húsum Fáks og kom

honum um þessar mundir í geymslu utan borgarinnar.

Matthías Johannessen er eftirminnilegur öllum, sem hafa starfað með honum

á Morgunblaðinu, og þeir skipta hundruðum þá tæpu hálfu öld, sem hann hefur

verið þar í fremstu röð. Biturleiki og höfnunarkennd Sigurður endurspeglar

ekki minningar þeirra, sem bera hlýjan hug til Matthíasar og virðingu fyrir

honum eftir kynni við hann sem ritstjóra. Mörgum hefur hann veitt ómetanlega

leiðsögn og fundirnir, sem hann hélt daglega upp úr hádeginu með

blaðamönnunum í Aðalstræti eru öllum ógleymanlegir, því að þar var oft farið

á meira flug en unnt hefur verið að kynnast á nokkrum öðrum stað. Stundum

drógust fundirnir svo mjög á langinn, að menn veltu því fyrir sér, hvort

tími gæfist til að gefa út blaðið næsta dag!

Ég hóf að skrifa í Morgunblaðið upp úr miðjum sjöunda áratugnum og

veturinn 1966 til 1967 fól Matthías mér að taka þátt í Staksteinaskrifum, en

þá var sá dálkur með öðrum hætti en núna, og þótti mörgum, að þar væri oft

vegið að pólitískum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins með strákslegum hætti.

Ég man eftir því, að föður mínum fannst ekki sjálfsagt, að ég settist við

stjórnmálaskrif á Morgunblaðinu. Hann stóð þá í erfiðri kosningabaráttu sem

forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og stóðu öll spjót á

honum, taldi hann, að það yrði lagt út á neikvæðan veg fyrir of mikil

afskipti sín af öllum þáttum, ef sonur hans væri að skrifa nafnlausa

stjórnmáladálka í Morgunblaðið, skynsamlegra væri að dreifa ábyrgðinni.

Þessi varkárni föður míns kemur mér ekki síst í huga, þegar andstæðingar

föður míns og Matthíasar Johannessens láta eins og faðir minn hafi viljað

ráða öllu, sem sagt var í Morgunblaðinu og Matthías hafi verið einskonar

fjarstýrð málpípa hans. Þennan vetur hóf ég sem sagt að skrifa dálítið um

stjórnmál í Morgunblaðið og síðar einnig forystugreinar og er mér

sérstaklega minnisstætt sumarið 1968, þegar Sovétmenn réðust inn í Prag og

við Þór Whitehead unnum saman á blaðinu.

Matthías hefur meðal annars lýst samskiptum sínum við föður minn með

þessum hætti: í samtali við Árna Þórarinsson í Vísi 1978: "Þann 18.

september 1967 hringir Bjarni Benediktsson til mín og segir að Gylfi Þ.

Gíslason menntamálaráðherra sé miður sín út þessum skrifum Morgunblaðsins

[um aðgerðarleysi Viðreisnarstjórnarinnar í mennta- og fræðslumálum]. Spyr

hvort sé ástæða til þessarar gagnrýni allrar. Ég sagði að svo væri, enda

vissi hann það sjálfur að skólakerfið væri úrelt og bitnaði á unglingum og

foreldrum þeirra. Bjarni sagði að stjórn sín gæti verið í hættu vegna

þessara skrifa, og ég fann að hann taldi þau ekki sanngjörn. Ég sagði honum

að ritstjórar Morgunblaðsins væru á annarri skoðun. Það yrði að taka til

hendi í menntamálum, en kannski væri ofætlan að sami maður gæti sinnt

fræðslumálum og viðskiptamálum. Bjarni sagði: "Þú hefur heyrt hvað ég

segi.\" Ég sagði: "Já, en ég treysti mér ekki til að breyta stefnu blaðsins

í þessu máli því við teljum hana rétta.\" Þá sagði Bjarni: "En má ég biðja

þig að vera aldrei persónulegur, heldur einungis málefnalegur í þessum

skrifum.\" "Þarftu að biðja mig um það?\" spurði ég. "Nei,\" sagði hann.

Samtalinu lauk og við vorum jafn góðir vinir eftir sem áður.\"

Þessi lýsing kemur heim og saman við minningu mína um samskipti föður míns

og Matthíasar, en hún er einnig ágæt áminning til þeirra, sem nú skrifa um

menntamál eins og um þau hafi alls ekki verið rætt eða deilt á sjöunda

áratugnum eða allir verið á eitt sáttir um þau, prófessor í sagnfræði

skrifaði meðal annars í þeim dúr í DV á dögunum í því skyni að koma höggi á

mig í samanburði við Gylfa Þ. Gíslason, var sú grein til marks um, hvernig

fer fyrir þeim, sem gerast persónulegir á kostnað málefnisins.

Eftir fyrri hluta próf í lögfræði fór ég á árinu 1969 út til Brussel og

var þar í nokkra mánuði hjá Rut, unnustu minni, sem þar stundaði fiðlunám,

og snerum við heim um sumarið og giftum okkur í september. Skrifaði ég

pistla frá Brussel og tók meðal annars viðtal við Paul-Henri Spaak, sem

hafði verið forsætis- og utanríkisráðherra Belga og framkvæmdastjóri NATO,

en var á leið til Íslands í heimsókn. Fór ég heim til hans og ræddi við

hann, var ég stoltur af því að hafa tekist þetta á hendur, en ég man, að

föður mínum þótti meira kjöt mega vera á beininu, en þeir voru saman í

Washington 1949 og rituðu undir Norður-Atlantshafssáttmálann, sem lagði

grunninn að NATO. Á þessum árum vaknaði áhugi minn á utanríkis-, öryggis- og

varnarmálum og þótt ég starfaði ekki á Morgunblaðinu skrifaði ég oft um

þessi mál í blaðið, þar til ég réðst þar til starfa á árinu 1979 og var þar

næstu 12 árin, til 1991, þegar ég var kjörinn þingmaður. Við vistaskiptin

tók ég ákvörðun um að draga skörp skil gagnvart Morgunblaðinu, en frá því á

áttunda áratugnum og fram á þann tíunda, unnu ritstjórar blaðsins markvisst

að því að skilgreina sjálfstæði sitt gagnvart Sjálfstæðisflokknum.

Ég rek þetta hér í tilefni af brottför Matthíasar Johannessens frá

Morgunblaðinu til að lýsa því, hve náin kynni okkar hafa verið í áranna rás,

og þess vegna veit ég, að það verður skarð fyrir skildi, þegar hann lætur af

störfum á Morgunblaðinu. Andi hans svífur þó áfram yfir vötnum en árvökult

auga hans og skapandi hvatningarorð verða ekki lengur til að fylgja honum

eftir. Sá tími kann einnig að renna, að arftakar Matthíasar telji sig þurfa

að sanna sjálfstæði sitt og eigið ágæti á kostnað þess, sem verið hefur.

Athyglisvert er, að ekki skuli ráðinn ritstjóri í stað Matthíasar og í

stað þess farin sú leið að fjölga enn millistjórnendum á blaðinu. Tveir

aðstoðarritstjórar og fréttaritstjóri hafa verið ráðnir til starfa en

Styrmir Gunnarsson verður einn ritstjóri. Matthías sagði frá því í viðtali á

áttræðisafmæli Morgunblaðsins, að Eyjólfur Konráð Jónsson hefði orðið

ritstjóri blaðsins fyrir sín orð, og þeir Eyjólfur Konráð hefðu beitt sér

fyrir því með Haraldi Sveinssyni. framkvæmdastjóra Morgunblaðsins, að

Styrmir var ráðinn við hlið þeirra Matthíasar og Eyjólfs Konráðs. Hvað sem

þessum áhrifum Matthíasar leið, er það stjórnar Árvakurs hf., eiganda

Morgunblaðsins, að ráða blaðinu ritstjóra.

Morgunblaðið hefur sterka stöðu, þegar Matthías lætur af störfum. Við

ritstjórn þess hafa grundvallargildi verið höfð í heiðri, ekki síst óskoruð

virðing fyrir íslenskri tungu. Menningarlegur hlutur blaðsins hefur vaxið og

dafnað og átt mikinn þátt í hinni miklu grósku á öllum sviðum íslenskrar

menningar. Eftir að blaðið dró skarpari skil á milli sín og

Sjálfstæðisflokksins hefur pólitískt hlutverk þess breyst, en þó er enn

litið á það sem málsvara flokksins í mörgum efnum, enda hefur það stutt

stefnu hans og forystmenn, þótt ágreiningur kunni að vera um einstök

málefni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki veikst við þessar breytingar, enda

verið undir öruggri forystu Davíðs Oddssonar. Helsta flokkspólitíska

breytingin felst í því, að Morgunblaðið veitir sjálfstæðismönnum í Reykjavík

ekki þann stuðning, sem það gerði áður. Er til dæmis mikill munur á því,

hvernig blaðið hefur brugðist við meirihluta R-listans undir forystu

Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur miðað við það, sem gerðist, þegar

sjálfstæðismenn misstu meirihlutann 1978. Reykjavík er helsta markaðssvæði

Morgunblaðsins og langvinnur meirihluti sjálfstæðismanna í borgarstjórn

veldur því, að blaðið er almennt hallt undir þá, sem borginni stjórna, og

hefur blaðið ekki lagt hart að sér við að vekja athygli á þeirri stöðnun,

sem orðið hefur í Reykjavík undir stjórn R-listans. Þá setur sú skoðun svip

sinn á Morgunblaðið í seinni tíð, að viðskiptalífið og sviptingar á þeim

vettvangi skipti lesendur þess meira máli en það sem gerist á sviði

stjórnmálanna, þótt hitt ætti að vera öllum ljóst, að frjálsræði og gróska í

viðskiptum byggist á því svigrúmi, sem stjórnmálamenn veita og þeirri

stefnu, sem ræður hjá þeim.

Þessum sundurlausu hugleiðingum í tilefni af brotthvarfi Matthíasar

Johannessens af ritstjórastóli get ég ekki lokið nema láta þess getið, að

Matthías hefur oft komið mér á óvart, þegar hann beitir sjötta

skilningarviti sínu. Öll getum við ræktað með okkur hæfileika, sem eru þess

eðlis, að þeir eru ekki öllum gefnir, og Matthías hefur þessa hæfileika í

ríkum og þeir gera honum kleift að sjá marga hluti á annan veg en öðrum er

fært. Hann hefur einnig kunnað að gjalda lausung við lygi. Hin mikla reynslu

hans og kynni af mönnum og málefnum hefur veitt Morgunblaðinu gífurlegan

styrk. Líklega getur fátt ef nokkuð komið í stað hennar..."

Þótti vænt um þessa vinalegu kveðju. Sé af henni að Björn hefði vel getað tekið við arfleifðinni. Og kannski á það fyrir honum að liggja, þegar hann setur pólitísku brynjuna uppá háaloft.

 

7. janúar 2001, sunnudagur

Hef verið að glugga í grein Sveins Skorra í afmælisriti kennara okkar, Steingríms J. Þorsteinssonar, Þegar Tíminn og vatnið varð til; fróðlega og ágæta grein. Ástæðan er sú að Matthías Viðar Sæmundsson bað mig tala um nútímaskáldskap í íslenzkudeild háskólans næsta vetur. Fyrir nokkrum misserum fjallaði ég um Jónas í sömu deild og nokkru síðar í endurmenntun skólans. Hafði ánægju af kennslunni og fékk fína einkunn nemenda, betri en þær einkunnir sem ég fékk sjálfur í MR og háskólanum! Það var uppörvun þótt það sé hvergi skjalfest.

En hvað um það, steingeitin vill fóta sig.

Þegar ég hugsa um þetta kemur mér í hug lokaprófið í norrænu deildinni á sínum tíma. Ég var alla fimm veturna í háskólanum í fullri vinnu á Morgunblaðinu og gat því ekki sótt alla tímana, en mér fannst það ekki koma að sök. Ég gat lesið heima og fylgdist þokkalega með, þegar ég mætti. En það var erfitt að fylgjast með í tímum hjá Alexander Jóhannessyni og enn verra að fara í próf hjá honum, maður gat komið upp í öllu pensúminu, ekki sízt því sem átti að sleppa. En hann var góður við okkur nemendurna eins og aðrir kennarar deildarinnar, að vísu. Á munnlega prófinu kom ég upp í torfinu í Harmsól og þurfti að krafsa mig í gegn, enda ólesið. Ég held dr. Alexander hafi liðið verr en mér, einnig prófdómaranum, Ingvari Brynjólfssyni sem hafði kennt mér þýzku í MR. En þetta hafðist hjá okkur dr. Alexander!

Hitt var verra að dr. Steingrímur tók það nærri sér hvað ég hafði mætt illa í tímum hjá honum. Ég hafði skrifað bókmenntaritgerð til fyrra hluta prófs undir hans handarjaðri svo að við þekktumst allvel. Hún fjallaði um Goðmund á Glæsivöllum eftir Grím Thomsen. Að loknu prófi fór ég til Kaupmannahafnar að skrifa bók um Grím, en hana dagaði uppi af ýmsum ástæðum og ég gaf Andrési Björnssyni efniviðinn. Hann skrifaði í gestabók okkar Hönnu 13. okt. 1960 “mér gefin stærsta gjöf sem ég veit mig hafa þegið að nokkrum manni”. Þvílík var ást hans á Grími.

Þessi orð Andrésar voru mér nægileg umbun fyrir þetta óleysta verkefni. Mér þótti Grímur heldur fornlegur á þingi, en hann er ekki einn um það. Meðal efnis úr fórum hans voru óprentaðar heimspekiþýðingar á dönsku, en ég man ekki hvaða heimspekingur þetta var. Mig minnir þessi texti hafi verið þýddur og endursagður. Kannski er hann til í plöggum Andrésar, kannski hefur hann haft hann til hliðsjónar við önnur skrif um Grím, ég veit það ekki.

Þegar ég innritaði mig í lokaprófið þremur árum eftir fyrra hlutann kom það dr. Steingrími á óvart, honum leizt ekki á blikuna og skólasystkin mín sögðu hann mætti ekki ógrátandi til þess hugsa, að Matthías teldi sig þess umkominn að fara í lokaprófið, svo illa sem hann hefði sótt tíma síðasta misserið! En við mig sagði hann ekkert og sýndi mér aðeins sínar beztu hliðar.

Haraldur Bessason sagði mér síðar að skólafélagar mínir sem á eftir komu hefðu verið harla framlágir og hikandi og beðið átekta. Þeim hefði ekki litizt á blikuna, en þegar Matthías hefði flogið í gegnum prófið hefði farið úr þeim allur hrollur, bæði honum og Hannesi Péturssyni, sem þá þegar var orðinn einskonar þjóðskáld og þannig að öllum líkindum keppinautur Tómasar. Eða Davíðs, atómskáldunum til lítillar gleði!

Og líklega hafa einhverjir fleiri hugsað sér til hreyfings.

Þeir létu svo slag standa og innrituðu sig í lokapróf við fyrsta tækifæri, glaðir og vígreifir í andanum. Það hlyti að vera óhætt fyrst Matthías féll ekki eins og vænglaus fluga!! Hver sem væri hlyti að drattast í gegnum deildina úr því sem komið var.

Halldór Halldórsson lét mig til lokaprófs skrifa ritgerð um meistaraverk Hagalíns, Kristrúnu í Hamravík, það var undir handleiðslu orðabókarmanna, einkum Jakobs Benediktssonar sem tók mér af alkunnri alúð og lagði ásamt Ásgeiri Blöndal Magnússyni grundvöll að orðsifjalegri ástríðu minni, en hún var þó líklega einnig í einhverjum tengslum við kennslu dr. Alexanders og þá ekki síður frábæra kennslu dr. Halldórs í merkingarfræði sem er einhver skemmtilegasta vísindagrein sem ég þekki. Með henni er nánast hægt að sýna framá að hvert orð er sérstakt ljóð. Einar Ól. Sveinsson sýndi mér göfugt örlæti og lét mig skrifa um eftirlæti sitt, Njálu. Bókmenntafélagið gaf þá bók út síðar í Safni til sögu Íslands.

Ástríður mínar eru þannig áunnar og í litlum sem engum tengslum við tízkuefni samtímans, erfðafræðina.

En allt gekk þetta skaplega, og þá ekki sízt skriflega prófið hjá dr. Einari, sex tíma ritgerð um Heimskringlu, og loks munnlega prófið hjá dr. Steingrími. Það var eins og maður væri settur á glóðartein og verslings þorskurinn grillaður með roði og öllu saman. En að þeirri opinberu athöfn lokinni bauð dr. Steingrímur innvirðulega dús með köldu sherríi heima hjá sér.

Hann var líka sá eini sem sendi mér heillaóskaskeyti, þegar ég varð ritstjóri Morgunblaðsins. Það var honum líkt.

Þegar ég leiði hugann að þessum áskorunum endur fyrir löngu, finnst mér kirkjusaga Jóns Helgasonar byskups og hljóðfræði Björns Guðfinnssonar einhverjar beztu kennslubækur sem ég hef notað. Sagan var að öðru leyti í allt of mörgum bindum og raunar óendanlegt pensúm eins og bókmenntasagan. Í skriflegu prófi í sögu fengum við Sturlu Sighvatsson og þurftum þannig að skrifa sex tíma ritgerð um sturlungu fyrir Jón Jóhannesson en munnlega prófið hjá Þorkatli Jóhannessyni var eitthvert torf um landshagi á 17. eða 18. öld, ég man það ekki gjörla.

Það hefði náttúrulega farið mér betur að skrifa um Sturlu Þórðarson sem hefur verið mér ærið umhugsunarefni og ég hef fjallað um bæði í Bókmenntaþáttum og víðar, en þeir sem voru einungis í sögu fengu skáldskap hans á skriflegu lokaprófi. Það hefði verið eitthvað fyrir mig!

Dr. Alexander var aðsópsmikill rektor til margra ára og var talað um hann byggði hús áður en þau voru teiknuð. Þannig kenndi hann einnig. Háskólabíó og Neskirkja eru ekki sízt minnisvarðar um atorku hans og athafnasemi. Annar kennari okkar varð síðar rektor, það var dr. Þorkell sem kenndi okkur sögu Íslands, ásamt dr. Jóni, báðir einstök ljúfmenni, en þó harðir í horn að taka á prófum. Leiðir okkar dr. Þorkels lágu svo saman í Almenna bókafélaginu og Þjóðvinafélaginu. Það var þá sem tímaritinu Andvara var breytt í nútímahorf, því að dr. Þorkell fylgdist vel með tímanum, þótt manni fyndist hann heldur forn í kennslunni.

Hvað sem öðru leið, lærði ég margt af dr. Alexander, þótt prófin væru lítill mælikvarði á það, en þau voru vísbending og einhvers konar vitnisburður sem maður situr uppi með.

Harmsól helmingurinn af munnlega prófinu, ólesið og yfirgengilegt torf, eða eins og skáldið segir þegar hann er að biðja um andagift í upphafinu: Hár, stillir, lúk heilli,/ hreggtjalda, mér, aldir,/ upp, þú's allar skaptir,/ óðborgar, hlið góðu... ó, guð minn góður, hvernig fór maður eiginlega að því að brjótast gegnum þetta? ...og í skriflegri málfræði: Löng sérhljóð í aðalsamstöfum í gotnesku og íslenzku, smáatriði í pensúminu!

Í miðju skriflega prófinu í málfræði fékk ég mér snarl sem Hanna hafði útbúið og ég mátti borða einhvern tíma á þessari sex tíma píslargöngu, þá sagði dr. Steingrímur sem sat yfir, dálítið áhyggjufullur, Hvernig gengur, Matthías minn?

Bærilega, sagði ég. Nú er ég búinn að skrifa upp á fimm og ég hætti, þegar ég er kominn upp í átta. Ég skrifa bara það sem ég veit, tek enga áhættu! Mínusarnir geta verið drjúgir!

Það er hyggilegt, sagði dr. Steingrímur eins og honum létti. En ég átti líka eftir erfiða þraut hjá honum sjálfum, hálftíma grill í munnlegu prófi um Jón byskup Vídalín, verk hans og útgáfur. Það var erfið þraut að vísu, en ánægjuleg.

Ég tók mér svo góðan tíma í nestið!

En þetta varð niðurstaðan, átta eftir gamla skalanum!

Ég hefði viljað fá torf eins og Velleklu á munnlega prófinu í málfræði, því að við höfðum farið yfir margt af þessum gömlu dróttkvæðum, m.a. hafði ég flutt fyrirlestur í tíma hjá dr. Alexander um Velleklu, en svo fékk ég fjandans helgikvæðið og þurfti að nauðlenda eins og hver önnur kennsluvél.

Sem betur fer lenti ég á þjóðveginum, en ekki í hrauninu!

Það reið baggamuninn!!

Ég lærði samt margt af þessum dróttkvæða-pælingum, hef t.a.m. aldrei gleymt 13. erindinu í Velleklu þar sem Einar skálaglamm Helgason, sem kemur við sögu í Eglu, segir ...því bregðr öld við aðra ...og verður ekki betur að orði komizt. Þá hefur það alltaf fylgt mér sem Sighvatur segir í Austrfararvísum, 15. erindi: Oss hafa auga þessi/ íslenzk, kona vísat/ brattan stíg at baugi/ björtum langt en svörtu. Elsta dæmið um orðið íslenzkur í fornum ritum.

Í þessu öllu var mikið og gott uppeldi.

En allt minnir þetta mig á að ég hef verið beðinn um að segja nokkur orð í afmælisbók Haralds Bessasonar prófessors og hyggst ég að sjálfsögðu verða við því, enda höfum við alla tíð verið miklir mátar. Auk þess er hann fagurkeri á bókmenntir og tekur umhverfið mátulega alvarlega. Hvorttveggja er mér að skapi. Ég á líka ættir að rekja til Ennis á Höfðaströnd svo við erum einskonar nágrannar. Það metur hann sjálfsagt mikils, því að hann er með vestur-íslenzka ættfræðivírusinn eins og óvirkan herpes í blóðinu.

En hvað á ég að skrifa um? Í þeim efnum er allt undir lær og maga eins og Guðmundur vinur minn Jörundsson sagði, þegar útlitið var hvað svartast.

Já , hvað á ég eiginlega að skrifa um? Og hvernig get ég glatt Harald? Hann ætti það svo sannarlega skilið ég gleddi hann eins oft og hann hefur boðið mér til Winnepeg, þótt ferðin hafi aldrei verið farin, ekki frekar en ferðin í frægri smásögu Nordals sem stjórnaði samdrykkjunni, þegar við vorum ungir stúdentar í háskóla. Á ég að skrifa um sálfan mig? Nei, það dugar víst ekki, þá verður þetta eins og hjá öllum öðrum!

En að þessu þarf ég að huga á næstu dögum. Nú ætti að vera nógur tími til þess, afdankaður eins og ég er. Auk þess afdankaður geirfugl eins og aðrir svo kallaðir norrænufræðingar. Þeir eru víst í útrýmingarhættu, svo að maður setji sig í nútímastellingar.

Það væri kannski ráð að friða okkur Harald Bessason. Og þá einnig hina, þeir eru ekki svo margir eftir!

En þá er það skilafresturinn. Hann ætti þó ekki að vefjast fyrir gömlum blaðamanni.

Ég sendi svo greinina, þegar hún er tilbúin.

 

Kvöldið

Gekk um Fossvog síðdegis, stillt og frostlaust. Sígræn grenitrén svört og hugsi eins og birkið. Þúsundir fugla bylgjast við skýgráan himin. Minning um vorið.

Og eftirvænting í lofti.

 

11. janúar 2001, fimmtudagur

Gekk um bæinn, margir spyrja hver verði eftirmaður minn á Morgunblaðinu. Ég svara Tíminn.

Kom við í fornbókaverzlun Braga Kristjónssonar. Spurði hvort ég mætti nefna viðkvæmt mál. Já, sagði Bragi, allt sem þú vilt. Þegar ég var að taka til í skúffunum mínum í skrifstofunni á Morgunblaðinu, sagði ég, rakst ég á fallegt bréf sem snertir þig. Jæja, sagði Bragi, hvernig þá? Það er frá Nínu Björk og hún biður mig birta eftir sig ljóð, svo að hún geti keypt jólagjöf "handa Braga".

Já, sagði Bragi, Nína var góð kona.

Ég hef kynnzt mörgu góðu fólki sem ritstjóri Morgunblaðsins.

 

16. janúar 2001, þriðjudagur

Kom við í áfengisverzluninni við Eiðistorg í gær og keypti mér nokkra bjóra. Þegar ég var að borga, gekk að mér ákaflega kurteis miðaldra kona, horfði á mig og sagði, hikandi: Það er mikil eftirsjá að þér!

Ég hrökk við. Ég þekkti ekki konuna og vissi ekki hvað ég ætti að segja, tókst þó að koma út úr mér einhverju þakklæti, Takk fyrir! sagði ég vandræðalega.Hún nikkaði og fór.

Svona hefur fólk verið að nálgast mig undan farið. Finnst það hálfóþægilegt í aðra röndina, en þó notalegt í hina að vita af þessari hlýju. Það er sem sagt hægt að hafa verið ritstjóri Morgunblaðsins og vera saknað!

Ég þarf þá ekki að upplifa það með dauðanum. En þá verður það kannski endurtekið, hver veit! Einhvers konar upprisa, ef það gerist í annað sinn!

Annars eru allir að óska mér til hamingju. Það er engu líkara en fólki finnist það sérstakt afrek að hafa lifað Morgunblaðið af!

Kannski er eitthvað til í því.

Aðrir segja eins og ég hafi aldrei gefið út neina bókarskruddu um ævina, Nú geturðu helgað þig skriftum! Eða: Nú geturðu loksins snúið þér að skáldskapnum! Eða: Nú geturðu einbeitt þér að skáldskapnum.

Það hef ég bara alltaf gert - á minn hátt. Og eins og mér er lagið.

 

(Birt að hluta í Bréf til Haralds,2001)

Kvöldið

Rölti um bæinn í dag. Orti þrjú smákvæði á göngunni - og af gefnu tilefni, svo hljóðandi:

Ég ætla að fá veiðigræjur

eins og skot,

sagði maðurinn

og keypti þrjár flugur.

--

Tesopa,sagði maðurinn

og hvíldi sig

á Kaffitárinu.

--

Vaxtalínan

er til skammar,

sagði fegrunargfræðingurinn

og tæmdi kjörbókina

Og loks:

Götur

eru ekki ruslafötur,

stendur á sorpbílnum.

Hann kann þetta utan bókar

enda smekkmaður

á ljóð.

Annað var það nú ekki þennan hversdagsgráa dag.

 

17. janúar 2001, miðvikudagur

Hef verið að hlusta á hljóðbækur með ljóðum og bréfum John Keats og píanóverkum eftir Mendelssohn, Realms of Gold (Naxos). Þetta er indælt efni, vellesið og eftirminnilegt. Hef einnig verið að lesa Coleridge, því að Atwood vitnar í hann í The Blind Assassin sem ég er rúmlega hálfnaður með.

Keats er skemmtilegur án þess vera fyndinn. Það líkar mér vel. Fyndið fólk getur verið leiðinlegt, jafnvel yfirþyrmandi, þótt stundum sé það skemmtilegt. En ekki alltaf.

Keats lýsir ferðalögum sínum um Lake District og ég þekki alla staðina sem hann nefnir, því að við höfum verið þar alls staðar áður fyrr. Hann er snortinn af náttúrunni, segir hún sé að kenna honum að yrkja og þannig megi vænta margra ljóða uppúr þessari reynslu ; svo lýsir hann vatni, skógi, fossum og steinum og öðru sem fyrir augu ber. Það er gaman að sjá þetta allt með hans augum og raunar afarlíkt minni upplifun á sínum tíma. Hann nefnir minnisstæða staði, Windermere þar

sem við Hanna gistum með strákana á þessum ferðalögum, Kendal, Grasmere, Rydal þar sem Wordsworth bjó, og sitthvað fleira sem mér er minnisstætt, já einnig Keswick, eða hvernig sem það er nú skrifað. Allt geymt í huga mínum eins og innsiglaður fjársjóður og það má mikið vera, ef ég hef ekki ort eitthvað af þessum slóðum eða skrifaði um þessar ferðir, man það þó ekki í svipinn.

Keats dáði skáldskap Wordsworth, sem var upphafsmaður ensku rómantíkurinnar, ásamt Coleridge, og hugðist taka hús á honum , en enginn var heima, þegar Keats bar að garði, svo hann skildi eftir bréf til skáldsins. Wordsworth var ekki heldur heima, þegar við komum á heimili hans, en ég gleymdi að skrifa honum bréf.

Keats er leiður yfir því að vatnaskáldið skuli ekki halda fast við æskuhugsjóir sínar um frönsku stjórnarbyltinguna og vera eitthvað farinn að daðra utan í íhaldinu, en mér stendur á sama um allt slíkt og segi eins og Bubbi Morteins í vinalegri grein um mig á reykjavik.com. í þessari viku:…mundu að það eru til góðir rithöfundar og það eru til slæmir rithöfundar og það skiptir engu máli hvar þeir standa í pólitík…

Þessi orð höfð eftir gáfaðri móður hans.

 

Síðdegis

Þröstur Helgason hringdi til mín og vildi ræða við mig hugmynd um samtalsbók, með nýju sniði eins og hann sagði. Bað hann tala við mig eftir viku. Ég gæti ekki hugsað um neitt slíkt sem stæði. Ég væri eins og draugur sem vissi ekki að hann væri dauður. Ætti engan stað hvorki í tíma né rúmi. Þyrfti að átta sig á nýjum aðstæður, þyrfti ekki sízt að finna sjálfan mig. Þá fyrst væri hægt að átta sig og þá mætti taka ákvarðanir. Og þá yrði draugaganginum lokið, væntanlega. Annars væri upplagt að skrifa samtalsbók sem héti Samtöl við draug. Nasdaq bókamarkaðarins mundi þá rjúka upp og allar metsölur verða smámunir einir miðað við þá uppákomu! Hann tók þessu vel og við sjáum til. Annars er alltaf verið að hringja í mig og ég beðinn að koma í þennan fjölmiðlaþáttinn og hinn. Neita öllu. Hef engan áhuga á að láta bera á mér. Komið nóg af slíku. Hef ekki heldur neina löngun til að tala af mér!

Merkilegt hvað afturgöngur eru vinsælar á Íslandi, enda hafa þær verið þjóðargersemar gegnum aldirnar. Og kannski eina raunverulega framlag okkar til heimsmenningarinnar. Ég má því allvel una mínu hlutskipti!

Fékk bréf frá Kristjáni Karlssyni. Hann vill við hittumst sem fyrst, kveðst vona ég sé farinn að kunna við mig í “ánægjulega iðjuleysi”! Sendir mér lokagerð kvæðisins Bókasöfnin í Amsterdam og biður mig fleygja fyrri uppköstum. Geri það að sjálfsögðu, en það munar ekki öllu, þetta er fínt kvæði í báðum gerðum.

Er með hugann við ljóðaflokka sem mörkuðu tímamót í ljóðlistarsögu okkar um miðja öldina, Þorpið, Tímann og vatnið og Dymbilvöku. Skoða það nánar, áður en ég tala um ljóðlistina í háskólanum næsta vetur.

 

Kvöldið

Senn hef ég lokið Blinda tilræðismanninum eftir Atwood, það er vel skrifuð saga að vísu, en alltof mikið af hversdagslegum smáatriðum, eins og raunar er vikið að undir lokin, t.a.m.í brúðkaupsferðinni. Einnig leiðist mér sagan inni í sögunni, um geimverurnar, blinda manninn og mállausu stúlkuna. Hálfleiðinleg innskot, en undir lokin fléttast þessar tvær sögur saman, að því er virðist með þeim hætti að yngri systir aðalsöguhetjunnar á að hafa eignazt barn með blindu karlpersónunni í innskotssögunni! Óvenjulegur hugarburður, en frumlegt, að vísu.

Innskotin eru náttúrlega einskonar táknræn saga, eða hliðræna við söguna sem aðalpersónan er að skrifa handa dótturdóttur sinni sem er fjarverandi, en von er á henni heim innan tíðar. Þá á hún að geta lesið þessa átakanlegu harmsögu um fólkið sitt. Handritið bíður fullgert, en amman, sú sem segir söguna og er aðalpersónan, er látin, 83ja ára.

Sagan fjallar um ósköp hversdagsleg efni sem eru alltaf að gerast. Hún er ekki hnýsileg af þeim sökum, heldur vegna stílsins;hún er sem sagt mjög vel skrifuð og það skiptir sköpum.

Sagan fjallar um tvær systur sem alast upp saman, missa móður sína ungar og lenda í hremmingum sem algengar eru við slíkar aðstæður. Eldri systirin giftist fésýslumanni sem vill verða stjórnmálaleiðtogi, sýnir ofbeldi og fruntaskap og er lýst sem algeru karlrembusvíni;barnar m.a. einnig yngri systurina og eyðileggur hana. Hún fremur sjálfsmorð í bíl eldri systurinnar eftir hælisvist þar sem eiginmaðurinn þvingar hana í fóstureyðingu, en fullyrðir þó áður að það sé hugarburður hennar, að hún sé ófrísk. Hún telji sig ófríska eftir sögupersónu, en hún sé ekki ófrísk! Eftir hvern ætti hún svo sem að vera ófrísk? Hún þjáist af ranghugmyndum, hún sé veik á geði.

Eldri systirin trúir þessu leng vel, en fær svo að vita sannleikann.

Eiginmaðurinn missir fótanna þegar innskotssagan er birt og sögð eftir yngri systurina sem er rangt. Hann deyr svo við harla ömurlegar aðstæður. Þá hefur eldri systirin flúið að heiman og yfirgefið hann með dóttur þeirra sem svo er tekin af henni og fer í hundana . Þá er öll vonin bundin við dóttur hennar. Síðasti kaflinn um það er dálítið væminn fyrir minn smekk.

En hvar hefur maður ekki heyrt um svona örlög? Þau birtast í öllum áttum og þykja orið heldur hversdagslegt söguefni. Og vondir karlar eru á hverju strái, misnota jafnvel börnin sín af báðum kynjum, en það er versti glæpur sem hægt er að fremja, að mínu áliti. Börn eru saklaus og varnarlaus.

Glæpur eiginmannsins í sögunni er barnaleikur miðað við þau ósköp. En hann er viss tegund af sykópat og eitt einkennið er :kynferðisleg misnotkun og fullvissa þess að viðkomandi hafi aldrei gert neitt af sér. Pólitískur metnaður getur þá einnig verið afvegaleiðandi skálkaskjól og eftirsókn eftir aðdáun annarra. Sem sagt, ekkert annað en hversdagsleg efni úr lífinu sjálfu, þótt slíkt sé að sjálfsögðu efniviður í harmleik, hvort sem er í lífi eða skáldskap.

En má ég þá heldur biðja um Hyperion Keats, um stjörnur og guði og stórfenglega fegurð sköpunarverksins. Allt sem hann skrifaði með sama marki brennt, samt var hann vart hálfþrítugur.

Ótrúlegt.

En þetta er ósanngjarn samanburður.

Og nú er Ásgeir Ingólfsson látinn, segir Moggi. Hann var skaplegur samstarfsmaður á blaðinu á sínum tíma, en gerðist svo morðingi. En frá því er ekki sagt í fréttinni. Það sem ekki er sagt er einatt mikilvægast.

Keats líkir sálum okkar við börn í skóla, lífið og tilveran sé þessi skóli. Ásgeir átti marga bekki eftir, þótt hann hafi snarað 55 bókatuðrum á víkingamálið.

 

Undir miðnætti

Vorum með Þórunni og Vladimír eða Vova Ashkenazy í kvöldverðaboði hjá Rut og Birni Bjarnasyni, svo að við gætum spjallað um “ the nostalgic past”, eins og Ashkenazy sagði svo ágætlega við mig í símann. Mjög skemmtilegt kvöld og Ashkenazy fagnaði mér eins og gömlum vopnabróður og bandamanni. Þeir sigruðu heimsveldið, sagði einhver viðstaddra. Við drógum úr því, en minntumst þess þegar okkur tókst að fá foreldra hans hingað í heimsókn. Það var eftirminnilegt og átti sér langan aðdraganda.

Ashkenazy minntist á það vegna reynslu minnar að hann hefði í stríðinu fengið skarlatssótt, en vegna þess að faðir hans sem var píanóleikari spilaði í sendiráðum í Moskvu gat hann útvegað sér pensilín og það hefur kannski bjargað lífi drengsins.

Það hefur verið verðmætur skammtur af pensilíni!

.

Eitt sinn, rifjuðum við enn upp, fórum við í sovézka sendiráðið hér heima og Astavin sendiherra lét okkur bíða góða stund í biðstofunni við Garðastræti, áður en hann birtist. Svo kom hann og bauð ekki Ashkenazy inn í skrifstofu sína, heldur talaði við hann þarna í biðstofunni.

Þannig gekk þessi langa barátta fyrir sig, en margt tókst að lokum. Og nú er Fáfnir dauður, a.m.k. í andarslitrunum! Og Þórunn og Vovo komin heim enn einu sinni, svo að hann geti stjórnað sinfóníuhljómsveitinni, þ.e. 9. sinfóníu Shostakóvits og Jarðljóði Mahlers.

Frábært.

Auk okkar Hönnu og menntamálaráðherrahjónanna voru þarna Ólafur B. Thors sem á að byggja tónlistarhús(og við töluðum um að það þyrfta að vera tilbúið fyrir 2005, því þá hefur Aski tíma til að stjórna við opnunina-og hann tók því vel), Þröstur Ólafsson , frkvstj.hljómsveitarinnar og formaður Máls og menningar, sem þakkaði mér sérstaklega fyrir, hvernig ég hefði lagt liðinn tíma til hliðar í lok kalda stríðsins, beiskju- og hefndarlaust, og Jón Þórarinsson tónskáld og kona hans, en ég þekkti föður hennar (eða afa ? ), Þorstein M. Jónsson sem réð úrslitum um það að Jóhannes afi minn varð formaður Sambandslaganefndarinnar 1918. Ég skrifaði á sínum tíma langt samtal við Þorstein og held það sé sögulega merkilegt.

Við töluðum mikið undir borðum og rifjuðum ýmislegt upp úr hinni nostalgísku fortíð; t.a.m. þegar við borðuðum með Rostrópóvitz í Holti og hann sagði marga dirty jokes, heimsókn Menhuins, samskiptin við sovéta, samtöl okkar þá og samskiptin við Victor Zorza, einn helzta kremlínólóg sögunnar sem var fastur dálkahöfundur við Morgunblaðið og önnur stórblöð, hörmulegan krabbameinsdauða dóttur hans og baráttu hans gegn þeim sjúkdómi eftir það og andláti hans sjálfs. Hann hugðist koma hingað með konu sinni og ferðast um hálendið, en úr því varð ekki vegna veikinda dótturinnar og persónulegs harmleiks þessa merka pólska útlaga.

Því miður.

Ashkenazy sagði margt skemmtilegt að venju, þau Þórunn hafa raunar ekkert breytzt. Þau eru alltaf jafnyndæl og eðlileg. Mér þykir vænt um þá vináttu sem þau sýndu okkur. En nú eru báðir foreldrar Ashkenazys dánir, það gengur svo. Allt er að hverfa Þó sagði hann að gamall vinur sinn, Rafael Kúliv eða Kúlikof, ég man það ekki, já, hann hefði sagt , þegar hann hafði þrjá um áttrætt:Ég er orðinn alltof gamall til að deyja!

Ashkenazy sagði að Þórunn væri að lesa bókina sem systkin du Prés skrifuðu um hana og svo segir hún honum efnið, því hann hefur engan tíma aflögu til slíks lestrar. Hann er á því að fólk eigi ekki að skrifa slíkar bækur, heldur lofa óþægilegum minningum að deyja með umhverfinu. Það sem máli skiptir skilar sér. Du Pré gerði mág sinn að elskhuga sínum, það var innifalið í bræðralagi systranna að hennar mati. Eigingirni hennar var þannig óendanleg. Og hún fékki sínu framgengt eins og sýnt er í kvikmynd sem gerð hefur verið uppúr bókinni. Annars er sumt fallegt í þessum lýsingum og foreldrarnir hafa verið metnaðarfullt millistéttarfólk með heldur fínar tilfinningar. En endalok du Prés voru hörmuleg. Og að henni mikill skaði, svo ung sem hún var og áreiðanlega mörg afrek óunnin. Minnir á Keats sem ég er nú með hugann við. Undir lokin telur hann sig ekki hafa unnið nein þau afrek sem lifað gætu. En þeir sem hann skrifaði voru á annarri skoðun eins og sést á því að þeir geymdu öll bréfin frá honum eins og gersemar, hvort sem það voru systkin hans eða aðrir. Það var líka ástæða til, því að þau eru gersamar, ekki síður en ljóðin sem hann orti svo ungur að undrun sætir.

Ég hefði viljað kynnast þessum einarða fegurðardýrkanda sem minnir að sumu leyti á Jónas. En hann er ekki eins fyndinn, því að hann er svo ungur þegar hann deyr. Fólk er alvarlegt ungt, ræktuð fyndni kemur með aldri og reynslu. Og hún verður því eftirminnilegri sem Jónas eldist. Svo hefur Keats líklega ekki verið húmorist að upplagi. En hann var því meira skáld og ekki sízt hugsuður, eða heimspekingur. Bréfin hans eru augsýnilega spunnin af fingrum fram, en þó eru þau eins og margskrifuð listaverk. Það var upplag hans sem skrifaði bréfin ; tilfinningarnar sem í lífi mannsins gegna hlutverki fegurðarinnar í náttúrunni. Kannski af guðdómlegum toga, ég veit það ekki, en þó líklega án afskipta elementanna eins og Ashkenazy mundi segja.

Og líklega einnig Keats.

Sum bréfin undir lokin eru svo sorgleg að útgefendur treystu sér ekki til að birta þau framan af. En nú eru þau öll komin út og maður kemst við af lestrinum, þegar skáldið er að lýsa ástum þeirra Fanny Brawne, en hún var unnusta hans í meinum og ekkert fram undan nema dauðinn.

Það eru margar eftirminnilegar setningar í þessum bréfum:ímyndunarafl mitt er klaustur og ég er munkurinn! Og: Fanny er…vofan í hugrenningum mínum. Hann þolir varla að hugsa um hana þar sem hann er að reyna að sigrast á berklunum á Ítalíu, það veldur honum kvöl og hugarangri og óbærilegum sársauka. Og þá yrkir hann Ógn dauðans, eða : When I have fears that I may cease to be…

Það var ástæða til að óttast þessa ógn.

 

19. janúar 2001, föstudagur

Jóhann Hjálmarsson hefur haft samband við mig, nýkominn heim af spítalanum, eftir “mikið skot fremst í heila”. Hann á að fara í talæfingar á Reykjalundi. Hann segir læknana fullyrða, að fram hafi komið við rannsókn að hann hafði áður fengið smærri blóðtappa í heila.

Ég heyri breytingar á mæli hans og kannski einnig dálitlar á persónuleikanum. Hann segist helzt ekkert mega hugsa, a.m.k. ekkert sem skiptir mál. Segist eiga sjö kvæði uppi í skáp, óbirt, en læknarnir banni honum að snerta þau!

Sjö er heilög tala, svo það gæti raknað úr þessu.

Þau Ragnheiður og Jóhann sendu okkur heildarsafn af verkum Hölderlins, fínlega bók með letri í samræmi við kvæðin. Það kunna Þjóðverjar öðrum betur.

 

20. janúar 2001, laugardagur

Lúðrablástur

úr draumlausum svefni

inn í rísandi vöku,

nýr dagur

á álfthvítum vængjum

dauðans.

Fórum við jarðarför Sigríðar á Fjalli, Skeiðum, systur þeirra bræðra Lýðs og Jóns Guðmundssonar, vinar mín. Merkileg skystkin og hörkugreind. Giftust aldrei og eiga ekki afkomendur. Systkinabörn þeirra sáu um útförina.

Presturinn, sr. Axel Árnason, sagði að Sigríður hefði verið í Baltika-ferðinni sællar minningar sem ég lýsti á sínum tíma í samtölum við Þórberg og Mömmugöggu, en hún minntist aldrei á þessa ferð við mig.

Á leiðinni suður lentum við í svartaþoku á heiðinni, þá komu þessi erindi fljúgandi inn í huga minn, heldur döpur vegna dimmunnar:

Ilmlaust er haustið

og auður bekkur,

annað en fyr:

sátum tvö saman

og sumarilmur í lofti.

Og:

Tveir hrafnar

á turninum

krunkandi,

af hverju fá þeir ekki

að krunka

við altarið?

Var að hugsa um það undir athöfninni að altarismyndin væri ekki af Kristi, heldur Drottni sjálfum. Nína hefur haft Erlend í Unuhúsi sem fyrirmynd, en ekki að Kristi, heldur skaparanum í einhvers konar mannsmynd.

Á myndinni er gamall maður, en ekki þrítugur eins og Kristur, þegar hann var krossfestur, eða eigum við heldur að segja: þegar hann reis upp? Kristur varð aldrei gamall maður, heldur ungur eins og eilífðin.

Og upprisan.

(2001)