Árið 2002
Afsökun:
Dagbókin mín yfir árin 1955 til 1970 sem nú hefur verið birt nær yfir það tímabil þegar ég varð ritstjóri Morgunblaðsins, 1959, og gaf út mínar fyrstu bækur.
Dagbókin er auðvitað gloppótt,enda í mörgu að snúast eftir að ég réðst að blaðinu á háskólaárum mínum,eða 1951. Vann þar með námi til 1956,en kom þá heim eftir framhaldsnám í Kaupmannahöfn.
Það sem hér fer á eftir er úr dagbókinni frá 2002,einkum samantekt um það,hvernig fór fyrir samstarfi og vináttu okkar Sigurðar A. Magnússonar eftir að hann skrifaði níðrit sín í ævisagnaformi ,þar sem ég kem við sögu eins og hver annar labbakútur.
Þessi samantekt er þvi einskonar svar við því,hvernig hann veittist að mér eftir samstarf okkar sem sagt er frá í fyrsta hefti dagbókarinnar,1955-1970. Þessu ferli er þannig lýst til enda, og þá auðvitað af mínum bæjarhóli.
Semsagt,dálítil saga úr lífinu.
Að sumu hef ég áður vikið í Málsvörn og minningum sem út komu 2005.
Milli þessara tveggja dagbóka eru mörg og viðburðarrík ár sem geymast í yfir tuttugu möppum og bíða þær síns tíma.
Þessi skammtur er nægur í bili.
Ég geri mér grein fyrir því að uppgjörið er enginn skemmtilestur og á ekki erindi nema við áhugafólk um fyrrnefnt tímabil. En ég vona að mönnum finnist sanngjarnt að ég sitji ekki undir einelti Sigurðar í bókum sem Edda reyndi að dreifa á metsölumarkaði jólanna,þótt tilraunin mistækist og upplagið lenti að mestu á bókamarkaði.En auðvelt er að nálgast þessi rit á bókasöfnum,að sjálfsögðu og þykir mér rétt að benda áhugafólki á það.
Borges sagði í Falklandsstríðinu að það minnti á tvo sköllótta karla sem væru að rífast um greiðu.Karp okkar Sigurðar er líklega í svipuðum dúr,eða þá eins og deilur karlanna tveggja í sögu Gogols,Sagan af því hvernig í brýnu sló milli Ívans Ívanovitsj og Ívans Nikiforovitsj , sem lentu í útistöðum vegna orðsins gæsasteggur. Þessari ágætu sögu snaraði Árni vinur vor Bergmann á prýðilega íslenzku.Hann hefur löngum verið á næstu grösum við baráttu okkar um greiðuna !).
Af dagbókarblöðum
17. nóvember 1983 – fimmtudagur
Í dag er nærmynd af Sigurði A. Magnússyni í Helgarpóstinum. Þeir spurðu mig eitthvað um Sigurð. Ég þekkti Sigurð lítið sem ekkert þegar hann kom að Morgunblaðinu. Þá birtist samtal við hann nýkominn frá Ameríku að mig minnir og mér skildist að hann væri með allar ferðatöskur fullar af handritum. Ég taldi að það væri að hefjast nýtt eldgos á Íslandi! Þegar hann kom á blaðið tókst strax með okkur góð vinátta, stendur í Helgarpóstinum, sem hefur haldizt þrátt fyrir marga brotsjói og mikið öldufall. Sigurður skrifaði einkum um menningarmál í Morgunblaðið, frísklega og öðruvísi en venja var hér á landi. Hann hélt uppi miklum og ómetanlegum vörnum fyrir nútímaljóðlist og hafði að mínu viti mjög næma tilfinningu fyrir því sem var verðmætt í íslenzkum nútímabókmenntum; ekki sízt atómskáldskap.
Já, þetta má til sanns vegar færa. Og einnig það sem kemur á eftir: Á þessum tíma áttu Sigurður og Morgunblaðið samleið, hvað sem síðar varð. Hann var eindreginn Nató-sinni og hélt uppi vörnum fyrir vestrænt samstarf. Um það leyti sem ég var að skrifa Kompaníið við Þórberg flutti Sigurður einmitt erindi í útvarp um þessi mál. Ég man ekki betur en Þórbergi félli allur ketill í eld við að hlusta á þá yfirgengilegu aðdáun á Nató sem hraut af munni þessa vinar míns.
Svo bætir greinarhöfundur, Egill Helgason, við þessari athugasemd: “Morgunblaðið þótti á þessum fyrstu árum Sigurðar heldur frísklegra en oft áður og síðar, enda ungir og frískir pennar þar í fararbroddi, Matthías og Sigurður líklega fremstir. Þegar á líður fer þó að þrengjast hagur Sigurðar á Mogganum – hvort sem þar var um að kenna minnkandi svigrúmi á blaðinu eða sinnaskiptum hans sjálfs. ”Ég hafði verið einn af stofnendum Samtaka um vestræna samvinnu. En þegar átökin um ameríska sjónvarpið hófust snerist ég alveg í Nató-málinu og hef síðan verið herstöðvaandstæðingur,” segir Sigurður. “Meðan Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarandstöðu mátti ég eiginlega fara mínu fram, en undir eins og hann var kominn í stjórn var farið að sussa á mig.””
Þá var þetta haft eftir mér um sinnaskiptin: “Ég hef aldrei áttað mig á þessum sinnaskiptum sem þarna urðu, eða hvort þau urðu yfirleitt. Sigurður er eins og margir góðir menn, í pólitík hugsar hann meira með tilfinningunum en öðrum taugaþráðum. Hann gengst mjög upp í því sem hann er að gera hverju sinni, og hefur því farið í marga hringi. Ég veit aldrei hvar hann er staddur á hringnum. Hann er svolítill krossfararriddari í sér og elur með sér einhvern draum um að frelsa heiminn, leggja undir sig Jerúsalem. Að mínu viti er það einn aðalókostur Sigurðar hversu áhrifagjarn hann er. Mig hefur stundum undrað það hvað síðasti ræðumaður getur haft mikil áhrif á hann. Á þessum árum var alltaf verið að halda því fram við okkur að Sigurður væri ekkert annað en kommúnisti. Þessi óskaplega gagnrýni á skrif Sigurðar olli okkur talsverðum vandræðum, því þá vorum við í óða önn að sannfæra menn um að frjálst blað væri heppilegasta leiðin. Þá var ekki alltaf auðvelt að skýra þennan hringakstur hans, en við urðum að axla þá ábyrgð og þola steinbörnin. En þráðurinn milli okkar Sigurðar hefur aldrei slitnað. Við ættum að geta krunkað margt ágætt saman í ellinni.”
Allt er þetta gott og blessað en það er ekki rétt sem ég hef heyrt haft eftir SAM að ég hafi sagt honum upp á Morgunblaðinu. Hann var að vísu mjög skeinuhættur opnunarstefnu okkar vegna þess að hann kallaði fram tortryggni meðal sjálfstæðismanna. En við létum það að mestu yfir okkur ganga. Samstarfið milli hans og Ingimars Erlends Sigurðssonar var óþolandi, þeir gátu ekki unnið saman. Mér skilst þeir hafi kastað símaskrá hvor í annað. Það er að vísu betra en að nota til að mynda eggjárn og það urðu sem betur fer engin slys. En svo tók Þjóðviljinn upp á því að segja frá innahúsmálum Morgunblaðsins. Ég varð undrandi af því sumt var satt, en annað auðvitað ósatt. Ég spurði Sigurð hvort þetta hefði komið frá honum. Hann kom af fjöllum. Nokkru síðar hittumst við Magnús Kjartansson og töluðum saman að venju. Ég sagði honum að mér hefði fundizt einkennilegar fréttir um Morgunblaðið í Þjóðviljanum. Hann sagði, Þær eru ekkert einkennilegar, þær eru allar réttar. Nú, sagði ég, af hverju heldurðu það? Ég hringdi í Sigurð A. Magnússon, sagði hann, og fékk þær frá honum, milliliðalaust. Ég sagði, Það getur ekki verið, Sigurður hefur sagt mér að hann hafi ekki haft neitt samband við ykkur á Þjóðviljanum. Það er nú eitthvað annað, sagði Magnús Kjartansson og hló, hann er heimildamaður fréttarinnar. Ég hugsaði mitt en reyndi svo að gleyma þessu. Ég hef alltaf reynt að gleyma því sem er óþægilegt. Ég hef beðið fyrir þeim sem hafa hatað mig og mér þykir leiðinlegt þegar ég er reittur til reiði. Ég get jafnvel orðið reiður út í þann sem reitir mig til reiði. Ég óska ekki eftir neinni lognmollu, en það er gott að halda friðinn. Ég hef ævinlega reynt að gera það á Morgunblaðinu. Nú ætla ég að biðja fyrir SAM og Magnúsi Kjartanssyni og fyrirgefa þeim sem sagði mér ósatt.
Ég sagði ekki Sigurði A. Magnússyni upp á Morgunblaðinu. Hann kom inn í skrifstofuna mína þegar ég var að tala við Harald Sveinsson og sagði að hann væri búinn að fá svo gott boð um ritstjórn á Samvinnunni að hann gæti ekki hafnað því. Hann myndi því hætta á Morgunblaðinu. Hann hafi átt mjög gott samtal við Erlend Einarsson og nú yrði hafizt handa um að gera Samvinnuna að fersku og sterku tímariti og hann langaði að hafa forystu um það. Ég skildi það vel. Ég held einnig að Haraldur hafi skilið það mæta vel. Ég saknaði Sigurðar. Við höfðum verið fóstbræður; jafnvel vopnabræður. Ég hafði oft legið undir ámæli vegna vináttu okkar. Mér líkaði það ágætlega og við áttum saman margar góðar stundir sem voru eins og þau andartök sem Steinn minntist á í samtali okkar – þegar skuggarnir koma neðan frá og umhverfið leysir úr læðingi þá dularfullu skynjun sem er forsenda alls skáldskapar.
11. október 1998 - sunnudagur
Þegar ég færði það í tal við Tómas Guðmundsson á sínum tíma að við skrifuðum bók um ljóðlist og hugmyndir hans um hana, hafði ég fyrst og síðast í huga að slíkt rit gæti orðið harla dýrmætt með tímanum því að engin heimild um Tómas Guðmundsson væri betri en hann sjálfur. Það ætti við hann hið sama og um Jónas. Og eins og ég get um í formála fyrir bókinni hafði ég það ekki sízt að leiðarljósi, hve mikilvægt það hefði verið ef einhver vina Jónasar hefði tekið sig til og skrifað með honum hugleiðingar hans um ljóðlist - og þá ekki sízt hans eigin kvæði. Ég hafði engan annan metnað en þann að til yrðu slíkar hugleiðingar Tómasar Guðmundssonar og saman gætum við komið því til leiðar. Slíkt hefði engum dottið í hug á tímum Jónasar.
Mér hefur alltaf fundizt einhver silfurþráður milli Jónasar og Tómasar og af þeim sökum nefndi ég þá í sömu andrá í fyrrnefndum formála. Það skiptir engu máli hvernig slíkt verk verður til, en öllu máli, hvað í því stendur. Ef Jónas Hallgrímsson hefði á sínum tíma aðstoðað einhvern lærisveina sinna, vina eða samstarfsmanna, til að mynda einhvern fjölnismanna, við samningu slíkra hugleiðinga um hans eigin verk, hefði það orðið ómetanlegur fjársjóður. Engum hefði dottið í hug að Jónas hefði ekki haft hönd í bagga með slíkum skrifum, svo nákvæmur og kröfuharður fagurfræðingur sem hann var. Hið sama gilti að sjálfsögðu um Tómas Guðmundsson. Það hefði enginn getað sett saman bók um ljóð hans og hugmyndir án þess hann ætti sjálfur hlut að máli. Það vissi ég í upphafi.
Það var mikilvæg ákvörðun, þegar Tómas féllst á að setja saman slíkt rit með mér og eftir engu að bíða að taka til hendi. Það var líka gert, án hiks og fyrirvara. Ég átti hugmyndina og nú þurfti ég að ýta henni úr vör. Tómas féllst á að við töluðum mikið saman, síðan skrifaði ég frumritið að samtölum okkar, hann fékk það í hendur og bætti um betur; að sjálfsögðu. Við töluðum saman bæði í skrifstofu minni á Morgunblaðinu, en þó einkum heima hjá þeim Bertu og vorum þá einir í stofunni, þar sem mynd Gunnlaugs Blöndals af Tómasi trónaði á einum veggnum. Ég sat og punktaði eitt og annað hjá mér, Tómas gekk um gólf og svaraði spurningum mínum. Þegar heim kom þjappaði ég samtalinu saman og gætti þess að hafa einungis eina spurningu í hverjum kafla, því að þetta átti ekki að vera persónulegt samtal, heldur hugleiðingar í einskonar ritgerðarformi um skáldskap - og þá einkum ljóð Tómasar og að sjálfsögðu viðhorf hans til ljóðlistar.
Ég held ekki að Tómas hafi haft verulega trú á því að þessi samtöl ættu eftir að verða barn í brók, en þegar að því kom jókst áhugi hans til muna og að því kom að mér þótti um tíma eins og hann hefði mestan áhuga á því að losna við allar spurningar og annað yrði ekki eftir en hugleiðingar hans sjálfs. Það var nokkuð langt síðan Tómas hafði sent frá sér skáldskap og ég held það hafi verið honum ævintýri líkast að vinna að þessari bók og ekki laust við að mér fyndist um skeið eins og hann hefði mestan áhuga á því að mín yrði helzt að engu getið. Ég hafði svo sem ekkert á móti því, en þá hefði yfirbragð bókarinnar orðið með allt öðrum hætti en raun varð á. Margt sem annars gæti orðið hálfhégómalegt verður eðlilegt og óhátíðlegt sem andsvar við spurningum. Að því kom að sjálfsögðu að Tómas gerði sér grein fyrir þessu og bókin varð með þeim hætti sem raun ber vitni. En því er ekki að neita að þessi reynsla tók talsvert á taugarnar um tíma, enda vorum við Tómas ekki orðnir þeir vinir um þetta leyti sem við síðar urðum. Hann hafði um nokkurt skeið talsverðan fyrirvara á mér vegna vináttu okkar Steins Steinars, en sá fyrirvari hvarf hægt og sígandi og eftir að Svo kvað Tómas kom út hvarf hann með öllu. Upp úr því las hann öll mín kvæði yfir og var mér elskulegur og tillitssamur leiðbeinandi.
Ég hef áður getið þess í Helgispjalli hvernig þessu starfi var háttað og leyfi mér að vitna í það en í Eintali á alneti, 65. bls. segir m.a. svo: “Í Svo kvað Tómas eru samtöl okkar þurrkuð út, en efninu þjappað saman í eitt svar við einni spurningu. Tómas allsráðandi og fer vel á því enda ekki fjallað um annað en skáldskap. Lítil sem engin persónuleg reynsla eða upplifun. Engin mannlýsing. Textinn einskonar smáritgerðir, enda til þess ætlazt. En upphafið, hreyfiaflið löng samtöl okkar og skoðanaskipti; mörg viðtöl í samþjöppuðu formi; einskonar súputeningur. Bókin er eiginlega tilraun í þessa átt, það var við hæfi, þegar Tómas átti í hlut; að leggja ekki áherzlu á neitt annað en hugarheim hans og skáldskap eins og vikið er að í formálanum. En það er auðvitað á kostnað fjörs og fjölbreytni. Sami háttur var hafður á þegar ég skrifaði bókina um Sverri Haraldsson listamálara sem var sérstæður og eftirminnilegur samskrafsmaður. (Innsk.-En hann breytti ekki stafkrók þegar hann fékk handritið í hendur!).
Þannig urðu þessar bækur ekki tilviljun einber, heldur úthugsuð vinna með form og texta; og svo andrúm sem skipt getur sköpum.
Þegar tveir ráðríkir og fyrirferðarmiklir menn eiga í hlut, geta orðið allmiklar sviptingar í samtölum og hvílir þá allur þunginn á þeim sem skrifar,að hann skili sannfærandi samtali sem viðmælandi tekur þátt í af lífi og sál. unz textinn er frambærileg niðurstaða af miklu starfi-og helzt einhverjum innblæstri..Í þessu nána samstarfi er hætta á mistökum sem leyna sér ekki í textanum, jafnvel einhverjum árekstri. Spyrillinn verður að vera kurteisislega ýtinn, en umfram allt nærgætinn. Hann verður jafnvel að tileinka sér auðmýkt og vera reiðubúinn til að fórna sér og leyfa spyrðlinum að blómstra, enda er til þess ætlazt... Þó er rangt það eigi alltaf við að spyrillinn skrifi sig út úr samtalinu, því hlutverk hans sem söguritara getur verið harla mikilvægt í verkinu sjálfu, ef hann skiptir þá einhverju máli á annað borð. Uppkastið á aldrei að vera lokaorðið, heldur upphaf langrar torsóttrar ferðar.”
Þetta er úr hugleiðingum mínum í Helgispjalli á árunum 1995-’96, en þar segir ennfremur vegna þessara ummæla Sigfúsar Daðasonar í minningagrein um Sverri Haraldsson: “Annars er textinn í listaverkabók Sverris ekki síður athyglisverður fyrir það hve fullkomlega bókmenntalegur og jafnvægisfullur stíllinn er á löngum köflum. Ég veit raunar ekki hvernig þeir Sverrir og Matthías Johannessen settu saman þennan texta, en ég hygg þó að mark Sverris sé þar auðgreint:”
"Allt er þetta heldur ánægjulegt en því má bæta við að ég þurrkaði samtöl okkar Sverris út úr þessu verki því ég taldi að það ætti að vera eins nálægt ljóðrænni frásögn og unnt var. Að því leyti sótti ég fyrirmyndina í samtalsbók okkar Tómasar Guðmundssonar, Svo kvað Tómas, sem hafði komið út í desember 1960. Þar eru öll samtöl einnig þurrkuð út en eftir stendur einungis sá kjarni sem úr þeim var unninn.”
Svo mörg eru þau orð og læt ég þau nægja til skýringa á því, hvernig þessi rit voru unnin og því takmarki sem að var stefnt. Bókin um Sverri Haraldsson var skrifuð að beiðni Páls Vígkonarsonar útgefanda og munaði litlu að hún yrði aldrei prentuð því að handritið fauk út um gluggann á bílnum mínum við Njarðargötu, þegar ég hafði sótt það til Sverris, og þurftum við feðgar, Haraldur og ég, að týna það upp í Hljómskálagarðinum í roki og rigningu og það tókst vegna þess að blöðin festust í trén og fóru ekki lengra. Annað eintak af samtölunum var ekki til. Ég hafði vélritað þau sjálfur á ritvélina mína og fór með þau til Sverris, svo hann gæti lesið handritið yfir, en gætti þess ekki að taka af þeim afrit. Ég tel það hafi verið gæfulegt að trén í Hljómskálagarðinum skyldu hafa bjargað þessu handriti, ekki vegna minnar vinnu eða þeirra ómældu stunda sem við Sverrir töluðum saman, heldur vegna þess að Sverrir Haraldsson var sérstæður og merkilegur listmálari."
(Innsk.maí ´02.-Sem sagt, ég hafði skýrt frá þessu ferli í Helgispjalli og máttu allir vita, en þegar Sigurður A. Magnússon fer ótilkvaddur að traðka þetta beð í ævum sínum, lætur hann sem allt hafi þetta verið ósagt. Ég hef spurt sjálfan mig
Af hverju?).
4. nóvember 2000 - laugardagur
DV birtir í dag kafla um undirritaðan í væntanlegri bók Sigurðar A. Magnússonar, það eiga víst að heita endurminningar. Kannski eru þessi skrif skaðleg, kannski ekki. En Sigurður svífst einskis. Ég er að velta því fyrir mér hvort hann telur að svona skrif séu söluvarningur, ég veit það ekki. Ég vona hann fái að minnsta kosti 30 silfurpeninga fyrir vikið. Ég er að velta því fyrir mér, hvort ég ætti að svara þessari hvítu lygi, en held þó ekki. Það mundi bara æsa upp geitungana. Það eina sem ég tek nærri mér í þessum skrifum eru fullyrðingar Sigurðar um að ég hafi hótað fólki með völdum mínum sem Morgunblaðsritstjóri. Það er ekki bara ósatt, heldur lygi. Annað er mér sama um. Ég ætti auðvelt með að svara tilvitnun Sigurðar í Þjóðviljann, þegar hann hringdi í Magnús Kjartansson og braut trúnað við okkur Eykon og kom sér á forsíðu Þjóðviljans. Ég hef fjallað um þetta einhvers staðar annars staðar í dagbókinni og hef þá eftir Magnúsi Kjartanssyni það sem satt er, en ekki afstæðan "sannleika" Sigurðar sem virðist lifa í einhverjum sýndarveruleika um eigið ágæti. Og náttúrulega píslarvætti! En hvað um það, ég læt þetta yfir mig ganga - a.m.k. í bili, enda er mér svo sem sama í aðra röndina. Ég varð að vísu fyrir vonbrigðum, enn einu sinni! Hann átti bágt í æsku, en réttlætir það slík skrif?
Ég varð óskaplega þreyttur, þegar ég leit yfir þessi brigzt, vegna þess að ég trúði ekki mínum eigin augum; trúði því ekki að hann hefði ,enn einu sinni,lagzt eins lágt og raun ber vitni; fullyrt t.a.m. að ég gæti ekki eignazt vini, hefði ekki hæfileika til þess - og það hafi bitnað á honum! Þess vegna hafi hann hrökklazt af Morgunblaðinu, a.m.k. er það látið í veðri vaka.
Ég hef aðeins einu sinni skipt mér af ritdómi eftir Sigurð A. Magnússon. Það var þegar hann skrifaði um Mutter Courage. Helga Valtýsdóttir, sárlasin eftir krabbameinsskurð, fékk aðalhlutverkið í leikritinu og við vissum öll það yrði síðasta hlutverk hennar. Sigurði var ekki vel til hennar, ekki frekar en annarra Morgunblaðsmanna, eða eigenda og stjórnenda blaðsins. Hann skrifaði mjög illa um leik Helgu, en þorði samt ekki annað en sýna mér leikdóminn. Ég las hann yfir. Ég sagði við hann, Þú getur ekki skilið svona við Helgu Valtýdsdóttur, hún er deyjandi kona. Auk þess lék hún stórvel í þessu verki og það veiztu sjálfur. Þá svaraði Sigurður með þjósti, Hún Svanhildur er ekki sömu skoðunar, hún segir að Helga hafi verið ómöguleg! Ég horfði á hann og sagði, Svanhildur hefur ekki verið ráðin leikdómari Morgunblaðsins! Þá gugnaði hann og breytti dómnum, þannig að hann var boðlegur Síðar skildu þau Svanhildur og Sigurður með harmkvælum og eitthvað orti hann um þann skilnað síðar. Þá kom hann til mín og gerði mig að sálnahirði sínum, við drukkum saman úr hvítvínsflösku - og mér leið illa. En lét það þó yfir mig ganga.
Önnur afskipti af bókmenntaskrifum Sigurðar A. Magnússonar eða leikdómum hans hef ég ekki haft. Ég treysti honum fyrir slíkum skrifum í gamla daga og tel hann hafi oftast verið traustsins verður. En þegar hann heldur því fram að ég hafi sagt þegar hann skrifaði um Jón gamla og Eins og þér sáið, að nú sé hann að eyðileggja feril minn sem leikskálds, þá hefur mér aldrei dottið í hug hann hafi haft bolmagn til að eyðileggja einn né neinn - ekki einu sinni sjálfan sig! Ástæðan er einföld. Það tekur enginn mark á honum. Hann var að vísu í tízku á sínum tíma eins og gagnrýnendur geta orðið, en ég held hann hafi ekki gert neina tilraun til að ganga milli bols og höfuðs á neinum höfundi þá, nema kannski verðlaunahöfundi AB.,Lofti Guðmunssyni, sem skrifaði flestum öðrum betur um leikverk mín löngu síðar.Hann fékk skáldsagnaverðlaun forlagsins fyrir Gangrimlahjólið (1958) og þá lá mikið við að stúta því.Sigurður hafði enga ást á Almenna bókafélaginu.
Þess má einnig geta að Jökull Jakobsson kom eitt sinn til mín,en það hafði alltaf verið gott á milli okkar,og bað mig lengstra orða að beita áhrifum mínum til þess að SAM skrifaði aldrei um sig oftar, því að honum þótti Sigurður hafa vegið illa að sér og sýnt sér lítinn skilning. Ekki man ég lengur hvaða verk hér var um að ræða og skiptir ekki öllu máli.
Nei, SAM gat engan drepið,m.a. vegna þess að hann hefur haft heldur þurran og húmorlausan stíl sem bítur ekki. En honum þótti vænt um bókmenntir; sumar bókmenntir.
Sigurður er gamalt útigangshross og kleprarnir festust á sálina. En þó að hann hafi alla tíð þótt heldur klepróttur er mér nær að halda hann hafi notið sín allvel í góðum félagsskap í gamla daga. En einhver sár kvöl fór eldi um huga hans og hann kaus annan félagsskap en okkar. Hann hvarf inní frostkaldan næðing metnaðar sem bar hann ofurliði, ýtti undir öfund, jafnvel mannfyrirlitningu á stundum. Þetta er í raun sorgarsaga en það hvarflar ekki að mér að fara að rifja hana upp, þótt að mér sé vegið í DV. En það er svo sem annað mál, þegar slíkt er birt í bók og reynt að hafa af manni æruna á metsölumarkaði-og þá væntanlega til frambúðar! Þá verður maður að verja hendur sínar, jafn óskemmtilegt og það getur nú verið.
En við sjáum til. Það er engum til framdráttar að munnhöggvast við Sigurð, ég held ég láti það ekki eftir mér, eða honum. En hann ætti svo sem skilið einn á snúðinn.
En það er merkilegt hvernig svona fólk eins og Sigurður kann að gera út á markaðinn - sem það hatar! Og nú er hann víst líka í Séð og heyrt!
Kvöldið
Vorum á fundi með fréttariturum utan af landi. Hafði gaman af Ásmundi, fréttaritara okkar í Vestmannaeyjum. Hann er frændi Einars Gíslasonar í Betel. Hann sagði okkur þá sögu af Einari að hann hefði látið epli falla af kirkjuloftinu handa krökkunum, mig minnir fyrir jólin, og þegar nóg var komið af eplum, hrópaði hann, Svona guð það er komið nóg! En eplunum rigndi áfram og þá hrópaði hann aftur, Guð minn, það er komið nóg af eplum. En ekki hættu eplin að hrynja af loftinu svo hann tók það til bragðs að kalla hástöfum, Óskar bróðir, hættu, það er komið nóg af eplum!
Þá loksins hætti að rigna jólaeplum!
Hann sagði okkur einnig þá sögu af aflakónginum Binna í Gröf, að hann hefði einhverju sinni sem oftar gengið niður á höfn. Þar voru fjórar stúlkur og sátu á bryggjunni, berfættar. Hann spurði hvað þær væru að gera. Þær sögðu, Við erum að veiða karlmenn. Jæja, sagði Binni, þetta er einkennilegur veiðimáti - að sitja á beitunni!
Þannig leið nú þessi fallegi dagur, stilltur og bjartur og sólin fyllti upp í Hofsvallagötuna þegar við ókum niður á Reynimel um hálffimmleytið. Ég held ég hafi aldrei séð eins fallegt sólarlag á Hofsvallagötu og í dag.
5. nóvember, sunnudagur
Fallegur dagur. Haraldur og Brynhildur komu heim frá Rhódos í dag. Kristján og Svava litla fara heim til sín aftur, en þau hafa verið hjá okkur Hönnu undanfarna daga.
Eftir á að hyggja var ég svo þreyttur, þegar ég hafði lesið níðgrein Sigurðar A. Magnússonar í DV í gær að ég fór heim, fékk mér bjórglas og sofnaði snemma um kvöldið.
Þegar ég vaknaði í morgun fór ég að hugsa um þessa fáránlegu ritsmíð SAMs. Raunar trúi ég því ekki enn að Sigurður hafi skrifað þessa grein með þeim hætti sem raun ber vitni. Allt lagt út á hinn versta veg. Hann trónar eins og engill og heldur vörð um sannleikann og heilindin. Minnir einna helzt á kerúb með sveipanda sverði!
Ég hef aldrei gert neitt af því sem hann er að burðast við að lýsa; allra sízt hef ég hótað einum eða neinum með því að ég skyldi eyðileggja hann í Morgunblaðinu. Geri ráð fyrir því að blaðið beri þess vott undanfarin 42 ár, hvað sem Sigurði líður. Afstaða mín til Ólafs Jónssonar gagnrýnanda og Árna Bergmanns á Þjóðviljanum, sem hann nefnir, mótaðist eingöngu af framkomu þeirra sem pólitískra farandriddara vinstri manna í köldu stríði, ekki sízt í menningarmálum. Ólafur var svo sannarlega enginn Morgunblaðsvinur, nema síður væri. Sigurður setur ekkert inn í rétt samhengi. Þetta var einfalega barátta milli okkar og vinstri manna, ekki sízt harðsvíraðra marxista og kommúnista. Þeir sáu um einelti á því fólki sem barðist við þá, ekki sízt á menningarfrontinum. Kunnu að búa til "andrúm morðsins" í kringum okkur andstæðinga sína, hvað sem Árni Bergmann segir um það í grein í síðasta hefti Tímarits M & M. En sjálfur var Árni oftast sanngjarn andstæðingur, aldrei blindur af ofstæki eins og ýmsir aðrir. Ég hef alltaf talið gagnrýni hans á Hugleiðingar og viðtöl, 1963, bæði málefnalega og til fyrirmyndar. En hann gat auðvitað hlaupið útundan sér eins og við öll!
Það hvarflar ekki að mér að halda því fram að að ég hafi verið eitthvað slakur í þessum hanaslag, ég lagði mig áreiðanlega fram, en þó ekki með þeim hætti sem Sigurður lýsir.
Þegar ég kynntist Sigurði var hann harðari andkommúnisti en ég. Þegar ég var svo orðinn ritstjóri Morgunblaðsins kom í ljós að hann taldi sig eiga heima á vinstra væng stjórnmála og hafi ævinlega verið í þeim herbúðum, þótt hann hefði verið í felubúningi á Morgunblaðinu. Það var einkennilegt að upplifa þessi sinnaskipti Sigurðar sem voru líklega engin sinnaskipti, ef haft er í huga það sem hann hefur sagt sjálfur. Neikvæður ritdómur Sigurðar um Eins og þér sáið hefur kannski haft áhrif á mig í eina eða tvær mínútur, en ekki lengur. Sigurður hafði hvorki né hefur það bolmagn sem hann heldur, eða vonaðist til. Í Morgunblaðsherbúðunum var mér legið á hálsi fyrir að skjóta skjólshúsi yfir hann. Ég var margoft varaður við honum, en tók ekkert mark á því. Harðast gagnrýndu Bjarni Benediktsson og Tómas Guðmundsson mig fyrir að vera í kompaníi við Sigurð. Ég held Tómas hafi fyrirlitið hann og raunar allt sem hann skrifaði; taldi hann líka vont skáld - og hann var ekki einn um það. En það var rangt hjá Tómasi að Sigurður sé vont ljóðskáld. Hann skildi bara ekki þurran prósastílinn í ljóðum hans.
Það voru margir sama sinnis og Tómas og létu mig óspart heyra það; ekki sízt vinir mínir í Almenna bókafélaginu, t.a.m. Eykon. En ég hafði engan áhuga á að hrekja Sigurð burt af Morgunblaðinu, hef ekki lagt í vana minn að róa menn út af gærunni. En ég hafði ekki heldur áhuga á því að hann eyðilegði þann grundvöll að framtíð blaðsins sem ég var að reyna að leggja.
Einhverju sinni sátum við Sigurður og Eyjólfur Konráð í gömlu Valhöll við Suðurgötu og fengum okkur í staupinu. Allt í einu heyri ég mikinn hávaða frammi á gangi og gáði hvers kyns var. Þá voru þeir Eykon og SAM í hörkuslagsmálum í fatakompunni og þurfti að skilja þá. SAM var með haustak á Eykon sem hélt dauðahaldi í ofn sem þar var. 'Eg spurði hvern fjandann þetta ætti að þýða? Hann heimtar að ég kalli sig Napóleon, sagði SAM kófsveittur í andliti, en sleppti takinu. Ég botnaði ekkert í þessu því ég þóttist vita að SAM vildi heldur vera Lúðvík 16. sem var hálshöggvinn á Concorde en Napóleon. Sem sagt, píslarvotturinn! Hann hefði því átt að geta unað því að Eykon væri Napóleon.
Þeir slepptu svo taki á hvor öðrum og við héldum drykkjunni áfram eins og ekkert hefði í skorizt!
Hægt og sígandi fór Sigurður að klæða sig úr felubúningnum og að því kom að hann gerði okkur allt það til bölvunar sem hann frekast gat. Við sátum sem sagt einn góðan veðurdag uppi með moldvörpu í þessu umhverfi Morgunblaðsins - og það á harla viðkvæmum tímum. Einmitt þegar lokaorustan við alþjóðakommúnismann var að hefjast. Samt varði ég hann við lítinn fögnuð umhverfisins sem sá betur að hverju stefndi en gamalgróin samúð mín. Auk þess var mér afarhlýtt til hans vegna fyrra samstarfs og þeirrar skemmtunar og uppörvunar sem við höfðum haft hvor af öðrum fram yfir 1960.
Nú segir Sigurður að vísu - og það í fyrsta skipti - að hann hafi ekki verið rekinn af Morgunblaðinu; að ég hafi ekki rekið hann; hefur sem sagt talað tungum tveim, rétt einu sinni. En hann reynir að koma því inn hjá fólki að mér hafi sárnað svo leikdómurinn fyrr nefndi að ég hafi reynt að hrekja hann af blaðinu. Reynir síðan að koma höggi á mig með tilbúnum uppspuna um að ég hafi ætlað mér að eyðileggja andstæðinga mína í krafti Morgunblaðsins. Hann getur ekki nefnt eitt einasta dæmi þess, enda er ekki hægt að finna slíkt dæmi hvorki á síðum Morgunblaðsins né annars staðar. Hitt er annað mál að það var tekizt á, stundum óvægilega, og eftir á að hyggja held ég að ég hafi oftar "verið tekinn af lífi", ef svo mætti segja, af miskunnarlausum andstæðingum Morgunblaðsins en nokkur maður annar. Ástæðan var einföld. Hún var sú að mér hafði verið gefin með móðurmjólkinni ást á listum og bókmenntum og sjálfur hafði ég þörf fyrir að skrifa einhvers konar skáldskap, einnig að yrkja ljóð. Það reyndi að vísu oft á skáldskaparþörfina í samtölum sem ég skrifaði um þetta leyti, en ég var svo sem ekkert að trana mér fram á því sviði. Fyrsta ljóðabókin mín kom ekki út fyrr en 1958, þá hafði ég verið sjö ár á Morgunblaðinu. Enginn tók henni betur en Sigurður A. Magnússona, enginn hampaði henni meir; né næstu bókum, Hólmgönguljóðum og Jörð úr ægi. Það var líka áður en Sigurður sá að hann kæmist ekki upp með hvað sem væri á Morgunblaðinu. Eftir það skipti hann um skoðun. Og ef litið er á skrif hans síðan hef ég vart ort frambærilegt ljóð eftir að leiðir okkar skyldu! Hann á áreiðanlega eftir að sýna framá með sam-ískri röksemdafærslu að ég hafi ort öll þau ljóð mín sem skipta einhverju máli vegna vináttunnar við hann í kringum sjötta áratuginn! Þá treysti ég honum svo vel að ég lánaði honum handritið að Borgin hló. Það var með athugasemdum Steins Steinars. Það var þannig dýrmæt eign. Á þessi blöð hafði Steinn skrifað eigin hendi einkunnir sínar - og þær voru harla góðar. Mér var því mjög annt um þetta handrit, en lánaði Sigurði það samt vegna þess hve hann gekk fast eftir því að fá að skoða athugasemdir Steins í rólegheitum heima. Ég hef aldrei séð þetta handrit síðan. Hann segir að það hafi lent í öskutunnunni. Það er margt dýrmætt í lífi Sigurðar A. Magnússonar og vina hans sem hefur lent þar.
Sigurður lætur að því liggja að hann hafi aldrei komizt í neitt samband við Stein.Ég er ekkert hissa á því.Steinn sá í gegnum holt og hæðir,ef því var að skipta.
Einhverju sinni löngu eftir að SAM var hættur á Morgunblaðinu kom hann með ljóðahandrit á skrifstofuna mína og bað mig um að lesa það yfir. Það gerði ég að sjálfsögðu þótt ég hefði helzt viljað losna við það úr því sem komið var. Við fórum svo yfir athugasemdir mínar sem voru með köflum nokkuð drastískar, en þá sé ég að Sigurði er allnokkuð brugðið, svo ég sagði, Varstu ekki að biðja mig um að lesa þetta yfir! Jú-ú, sagði hann, en ég vildi bara að þú sæir þetta, það er búið að prenta bókina.
Þorsteinn frá Hamri las handritið yfir, áður en það var prentað, og er ánægður með þetta svona! Jæja, sagði ég, heldur afundinn. Af hverju varstu þá að láta mig fá þessa próförk, mér finnst óþægilegt að hafa verið með þessar aðfinnslur fyrst bókin er prentuð. Hann svaraði því engu en ég fann að hann hafði búizt við betri viðtökum.
Að svo búnu felldum við talið og snerum okkur að hvítvíninu!
Þetta var í síðasta sinn sem Sigurður talaði við mig um ljóðlist.
Það hefur stundum verið dýrt spaug fyrir mig að hafa stjórnað Morgunblaðinu svona lengi, en það hefur líka verið skemmtilegt spaug , eða öllu heldur mikið ævintýri. Saga Morgunblaðsins er mikil saga. Hún er öðrum þræði saga samtímans. Þetta starf mitt við Morgunblaðið hefur bæði kostað mig vini og vinsældir. Það hefur einatt verið fórnarkostnaðurinn. En það er kannski ekkert við því að segja, þótt um mann hafi gustað. Ég hef ekki fengið neitt á silfurbakka, hvorki veraldleg gæði né metorð; né orðstír. Það sem mér hefur fallið í skaut hefur verið dýru verði keypt. Ég hef tekið margt nærri mér, en ég hef ævinlega bitið á jaxlinn. Guð hefur ekki lagt á mig annað en það sem ég hef verið maður til að axla. Ég hef verið þakklátur fyrir það. Ég hefði ekki staðizt raunir Jobs.
Þótt Sigurður A. Magnússon hafi skrifað vel um Jón gamla á sínum tíma skilur hann ekki leikritið og ekki við því að búast; ekki endilega. Ég sé þetta á því sem hann fullyrðir í DV-greininni. Hann segir að fyrirmynd Jóns gamla sé alfarið Elías Hólm. Það er rangt. Ég hef sjálfur fjallað um þetta leikrit ásamt öðrum leikritum í bókinni Fjaðrafok og önnur leikrit og þar er hægt að kynna sér hvað rétt er í þessum efnum, en Sigurður hefur auðvitað ekki haft fyrir því. Það þjónar ekki tilgangi hans.
Í þessari umfjöllun segi ég m.a.: "Ég vil einungis geta þess um viðtökurnar á Jóni gamla, að Ólafur Jónsson, sem þá skrifaði gagnrýni í Alþýðublaðið og tók verkinu ágætlega, sagði að í því gætti áhrifa frá leikriti Samuels Becketts um segulband Krapps, sem einnig hafði verið sýnt í Lindarbæ árið áður. Þetta langar mig til að leiðrétta, fyrst ég er á annað borð að fjalla um þessi verk að viðskilnaði. Ég hef ekki hirt um það fyrr að benda á, að ég hafði hvorki séð né lesið þetta verk Becketts, þegar ég skrifaði Jón gamla - og hef raunar ekki enn. Aftur á móti þekkti ég Godot, sá leikritið í Iðnó á sínum tíma og ef um einhver áhrif frá Beckett er að ræða, hljóta þau að vera þaðan. Það tel ég þó harla ósennilegt. Karlarnir í Jóni gamla eru jafn íslenzkir og andrúmið í verkinu. Það þurfti ég ekki að sækja lengra en í kjallarakompu upp á Bergstaðastræti, þar sem Elías Hólm bjó síðustu árin, sem hann lifði.
Jón gamli varð til úr kynnum mínum af tveimur ógleymanlegum mönnum, sem drógu að sér athygli mína vegna fjölskrúðugs persónuleika, eftirminnilegrar lífsreynslu og sérstæðs tungutaks. Hef ég skrifað samtalsgreinar um þá í Morgunblaðið, en þeir eru nú báðir látnir. Þeir voru Jón Magnússon, seglasaumari, og Elías Hólm. Til þeirra kom ég stundum á meðan þeir voru og hétu, eins og sjá má af fjórum greinum í Morgunblaðinu (Í fáum orðum sagt). Ekki minnist ég þess að neinn hafi komið auga á þetta, enda þótt Þorsteinn Ö. Stephensen hafi lesið samtalið við Elías Hólm í bókmenntaþætti í útvarpinu fyrir mörgum árum".
Ég hef ort og skrifað út úr lífi mínu, ég fjalla um það sem ég þekki. Það mun ég gera áfram. En þegar maður notar lífið sjálft í skáldskap getur maður farið með það eins og verkast vill - án þess spyrja nokkurn mann. Allur skáldskapur verður til af nokkru efni, eins og Snorri sagði. En hitt er slæmt, þegar maður býr til annað fólk að eigin geðþótta og fullyrðir að þar sé verið að fjalla um blákaldar staðreyndir, spinnur síðan upp og skáldar það sem manni sýnist og heldur því fram að hin ósanna veröld sé sannleikurinn sjálfur í allri sinni dýrð. Það er ekki einungis ábyrgðarleysi, heldur oft og einatt níð af verstu tegund. Þetta er veröld Sigurðar A. Magnússonar, því miður. Mér er svo sem sama þótt hann hafi verið að reyna að skrifa mig inn í þessa fáránlegu martröð sína, en þá er nauðsynlegt að lesandinn velti fyrir sér því sem Sigurður nefnir sjálfur í DV-greininni - en það er eina setningin sem er marktæk í öllum skrifum hans; hún hljóðar svo: "Sannleikurinn er sjaldnast hreinn og aldrei einfaldur." Þessi orð eru að vísu ekki frá Sigurði sjálfum, auðvitað ekki, heldur Óskari Wilde. Þessi orð hljóta að vera eldur sem brennur á sjálfum Sigurði.
SAM segist hafa verið rekinn úr Blaðamannafélagi Íslands þegar hann hætti á Morgunblaðinu. Þetta er enn ein hysterían, á þeim árum áttu þeir sem unnu við tímarit ekki aðild að félaginu. En það breyttist síðar. Þetta smáatriði segir að vísu enga sögu. En það er þó til marks um nákvæmni Sigurðar og áreiðanleika! Ég gæti ímyndað mér, án þess ég viti það, að enginn hafi haft áhyggjur af þessu nema hann sjálfur. En sem gamall blaðamaður hefði hann átt að fá undanþágu undan reglunni. En ég efast um honum hefði þá liðið betur. Píslarvottur blaðamannafélagsins var sem sagt fundinn - og embættið fór engum betur en SAM: Hann þarf á slíkri næringu að halda til að njóta sín útí æsar!
Kvöldið
Datt það í hug án þess það hvíldi neitt á mér að dagblaðsmenn réðust að okkur Styrmi fyrir ekki alllöngu vegna greina sem Jakob Frímann skrifaði í Morgunblaðið um vinnubrögð þeirra. Okkur Styrmi komu þessar greinar Jakobs í raun ekkert við, en við birtum þær af þeirri einföldu ástæðu að það voru engin meiðyrði í þessum greinum. Þegar Jakob sendi okkur fyrstu greinina var hún að vísu með þeim hætti að við töldum okkur ekki fært að birta hana; gerðum því athugasemdir við hana og Jakob tók þær allar til greina. Það var þá ekkert því til fyrirstöðu að birta gagnrýni á Dagblaðið. En þá ruku þeir upp til handa og fóta og réðust að okkur fyrir þessi greinaskrif Jakobs. Minnti á þegar að okkur var vegið fyrir greinaskrif Sverris Hermannssonar á sínum tíma, þótt við ættum engan hlut að þeim greinum. Töldum einungis enga ástæðu til að birta þær ekki. Sverrir bar sjálfur ábyrgð á eigin orðum. Jakob Frímann bar einnig ábyrgð á gagnrýni sinni. En ritstjórar Morgunblaðsins sátu svo uppi með skömmina og skepnuskapinn!
Að venju!
En nú gildir öðru máli. Þegar Sigurður A. Magnússon leggur rýtinginn í bakið á mér þykir Dagblaðinu ekkert sætara en birta þá ritsmíð. Það er ekki eins og Dagblaðið hafi reynt að fá einhvern annan kafla úr væntanlegri bók Sigurðar. Nei, þetta var það eina sem þeir höfðu áhuga á. Og ekki hvaflaði að þeim að fá viðbrögð mín, nei, þeir höfðu ekki fyrir því. Það mátti ekki skemma veizluna!
Hræsnin og tvískinningurinn eru með þeim hætti á þessum vettvangi að augljóst er, enda hefur upplag Dagblaðsins minnkað um tíu þúsund eintök frá því það var útbreiddast á sínum tíma. Ég hélt það yrði lexía fyrir þá dagblaðsmenn, en það virðist ekki hafa orðið.
Dagblaðið er einhvers konar geðklofi. Það er gult í aðra röndina, en í hina stendur það sig ágætlega. Það hefur tekið miklum stakkaskiptum og raunar framförum hvað snertir menningarskrif. Allt undir forystu Silju Aðalsteinsdóttur sem hefur ofið húmanistíska ást sína á listum og bókmenntum inn í þann vefnað sem gula teppi Dagblaðsins er spunnið úr. Áður hafði Súsanna Svavarsdóttir ornað lesendum DV við afgangshlýjuna frá Morgunblaðinu og fór vel á því undir forystu Óla Björns Kárasonar, sem er gott og alveg ófúlt Morgunblaðsegg! Ég kunni einnig ágætlega við skrif Aðalsteins Ingólfssonar, en Ólafur Jónsson gekk oft fram af mér vegna fordóma.
Undir miðnætti
Hef verið að hlust á samtal Michael Enrights við dr. Bruce Meyer, prófessor í Toranto og fjalla þeir um þær fimm bækur sem prófessorinn telur mikilvægastar til skilnings á sögu mannsins, bókmenntum, hugsunum og heimspeki; þær eru Biblían, að sjálfsögðu, Ódysseifskviða Hómers, Eneasar-kviða Virgils, Myndbreytingar Óvids (Metamorphoses, eða Ummyndanir) og Þebu-leikrit Sófóklesar. Þetta er gott val, sýnist mér, en ég hef lesið öll þessi verk, meira að segja Biblíuna að miklu leyti. Og þá einkum á ensku í Flórdía! Í síðari þáttum taka þeir fyrir Milton, Vasari og Joyce meðal annarra.
Mér finnst athyglisverð sú ábending dr. Bruce að hetjurnar þurfi að koma við í helvíti, áður en þær ná takmarki sínu; t.a.m. bæði Ódysseifur og Eneas. Það er því ekki sízt samkvæmt þessum fornu hugmyndum um hetjuna sem Kristur stígur niður til heljar.
Annað þótti mér athyglisvert, það er hvernig Penelopa vefur í Ódysseifskviðu til að tefja fyrir biðlum sínum, en dr. Bruce benti á að konur sætu stundum að vefnaði í fornum bókmenntum og gæti það verið táknræn athöfn, jafnvel heilög í aðra röndina. Konur sitja að vefnaði á tveimur eða þremur stöðum í Myndbreytingum Óvids. Það væri íhugunarefni út af fyrir sig að skoða slíkan vefnað fornkvenna íslenzkra með tilliti til þess, þegar tröllkonur ófu vef Darraðar í Njálu. Sú athöfn fjallar augsýnilega um örlögin, en kannski er merking hennar meiri og víðtækari en virðist í fljótu bragði. Ástæða til að skoða það nánar.
Þessi þáttur sem heitir The Great Books er að mörgu leyti athyglisverður, en ég hélt ég mundi græða á honum meir en raun ber vitni.
En hvað sem því líður er það athyglisverð ábending hjá dr. Bruce að Trója var byggð á sjö hæðum, einnig Róm, enda átti hún að vera Trója endursköpuð. Síðan fóru menn í Frakklandi að minnast þess, líklega á sextándu öld, að París væri byggð á sjö hæðum og lögðust þá í rómverska byggingalist og loks var Washington byggð á sjö hæðum og ekki endilega ástæða til að halda að það hafi verið tilviljun ein. Í Washington er margt sem minnir á Rómaborg, raunar fannst mér ég vera í Róm þau tvö eða þrjú skipti sem ég hef dvalizt í höfuðborg Bandaríkjanna.
Nú er bara að finna það út hvort Reykjavík sé ekki byggð á sjö hæðum, mér er raunar nær að halda að svo sé!
En hvað sem þessu líður þá er Eneas sérfræðingur í undirheimum samkvæmt kviðu Virgils og engin tilviljun, þegar Dante velur Virgil með sér á göngunni miklu um Infernó.
Enesar-kviða kennir manni að bíta á jaxlinn, grunntónn hennar er æðruleysi; það sé nauðsynlegt að láta ekki tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur, heldur beita íhygli og því andlega jafnvægi sem einkennir hetjuna Eneas. Það voru ekki sízt þessir eiginleikar sem miðaldamenn eins og heilagur Ágústínus mátu hvað mest og áttu hvað mestan þátt í að kviðan lifði af, þótt hún sé harla erfið aflestrar. Ég átti fullt í fangi með hana, enda skilst mér persónurnar séu um fimm hundruð talsins. Þetta er þannig svipað torf og þegar verst gegnir í rússneskum skáldsögum.
Hinn heiðni Eneas er kristinn að því leyti að hann trúir því að menn verði að standa skil á lífi sínu hinu megin grafar og á þeim forsendum leiðir hann fólk sitt til Rómar, hugsar ekki um neitt annað en það sem því er fyrir beztu. Ástarævintýri hans og Didóar er dálítið hliðarspor á þessu langa og örlagaríka ferðalagi Tróju-hetjunnar miklu.
6. nóvember, mánudagur
Andvaka var allt mitt líf, segir Sverrir konungur í ljóði Gríms Thomsens. Andvaka er einhvers konar helvíti, maður vaknar grútsyfjaður og getur ekki fest svefn aftur fyrr en eftir dúk og disk; liggur vakandi og getur ekki varizt þeirri skæðadrífu af hugsunum sem á hugann leita.
Ég vaknaði í nótt og lá lengi andvaka. Á mig leituðu alls kyns hugsanir frá helginni. Ég get eiginlega ekki enn trúað því að Sigurður A. Magnússon hafi skrifað bókarkaflann sem DV birti á laugardag, með velþóknun. Ég hef fengið margar rispur um ævina, en þessi grein er the most unkindest cut of all.
Hanna segir ég skíti mig bara út á að svara grein Sigurðar, hún sé ekki svara verð. Auk þess sé hún gömul lumma. Hún er ekki ein um þessa skoðun. Hreyfðu ekki skítinn svo hann skaði þig ekki, sagði Jóhannes afi minn. Hann sagði einnig þegar hann var spurður, löngu eftir að Jónas frá Hriflu hafði skaðað hann í pólitískri baráttu þeirra og hann hitti hann á Túngötunni, hvort hann hefði heilsað honum. Já, sagði hann, auðvitað, ég hef aldrei gert honum neitt!
Ég hef aldrei gert Sigurði A. Magnússyni neitt. Ekki heldur Ólafi Jónssyni, þótt hann hafi einu sinni í símtali hótað að eyðileggja mig sem skáld, ef ég réði hann ekki að Morgunblaðinu. Sigurður segir að ég sé með þá Árna Bergmann á heilanum. Ég hef haft allt annað að gera við heilann því ég hef þurft að standa í mörgum heilabrotum um ævina. Það hefur verið ágætt með okkur Árna, við lásum upp saman á bókamessunni í Gautaborg og hann hefur skrifað í Morgunblaðið og Lesbók. Ég hef aldrei úthýst honum af þeim vettvangi.
En þeir Þjóðviljamenn notuðu Sigurð á sínum tíma, það er nú augljóst af minningum hans. Fyrst hræddu þeir hann með vondri gagnrýni um bækur hans og leikrit, svo gafst hann upp. Það var hans uppgjöf, en ekki mín. Þó að Sigurður hafi tilhneigingu masókistans og leiti undir höggin, ef því er að skipta, þolir hann illa, ef tekið er á móti honum! Ég þykist muna það rétt að hann hafði eitthvað við kvæði eftir Hannes Pétursson að athuga, en Hannes skrifaði honum skammarbréf og þá tók Sigurður u-beygju. Hann gat að vísu rifizt út af málefnum, en þoldi illa árás á eigin persónu og verk sín! Ég veit hann mundi helzt ekki viðurkenna þetta, en það er nú samt svo. Hann tók því vel á yfirborðinu, þegar Guðmundur Steinsson vinur vor var að gagnrýna leikrit hans, Gestagang, en það særði hann meir en Guðmundur vissi. Honum sárnaði einnig mjög gagnrýnin á þýðingu hans á Túskildingsóperunni. En hann kveinkar sér ekki, stolt hans sér um það.
Sigurður A. Magnússon heldur því fram ég hafi sagt ég gæti ekki átt vini. Ég hef átt ágæta vini, þótt það hafi stundum verið erfitt fyrir ritstjóra Morgunblaðsins sem þarf að súpa marga fjöruna. Sigurður segir að vinátta okkar hafi verið bláþráðarvinátta. Ég held hann hafi slitið þennan þráð í DV um helgina. En ég geri mér ekki grein fyrir ástæðunni. Held hún sé djúpsálarleg og hana sé einungis að finna í píslarvættisflækjum Sigurðar sjálfs, en hún á rætur í erfiðri æsku og umhverfi sem hefur, að því er virðist, verið einhvers konar helvíti. Það er ekki álitlegt að fara með helvíti út í lífið.
Eftir þessar hugsanir sofnaði ég aftur; ágætlega. Og þegar ég vaknaði var ég laus við bláþráðinn í lífi mínu.
En vinátta,já?Vinir endast misjafnlega.Sumir duga illa.En ósköp er það nú sjaldgæft sem betur fer,að fólk noti gamla vináttu til að upphefja sjálft sig á kostnað gamalla vina.Og reyni svo að niðurlægja þá eins og verið sé að snýta sér á gardínum-með sigurbros á vör!!
Síðdegis
Björn Jóhannsson, fyrrum fréttastjóri Morgunblaðsins, minnti mig á það í morgun að á sínum tíma hefði Sigurður A. Magnússon skrifað Rabb í Lesbók þar sem hann kallaði okkur alla á ritstjórn blaðsins landsölumenn, hermangara og þar fram eftir götunum. Þá hafi Haukur heitinn Hauksson gengið fram fyrir skjöldu og safnað saman blaðamönnum til að mótmæla þessum skrifum og hafi þeir almennt tekið þátt í mótmælunum; m.a. krafizt þess að sett yrði ofaní við Sigurð fyrir þessa ósvífni, jafnvel að ég ræki hann.
En þú gerðir ekkert, bætti Björn Jóhannsson við.
Ég mundi ekki eftir þessu, ekki frekar en ýmsum öðrum óþægindum sem ég hafði af Sigurði á þessum árum, en Björn man þetta áreiðanlega rétt, þótt ég hafi þurrkað margt slíkt úr huga mínum.
12. nóvember - sunnudagur
Bæði Morgunblaðið og DV birta kafla úr 3ja bindi ævisögu Steingríms Hermannssonar um helgina. Í bókinni er vitnað í minnisblöð mín um myndun ríkissstjórnar Þorsteins Pálssonar. Steingrímur var spurður um ævisögu sína í sjónvarpi í gærkvöldi er mér sagt og staðfestir frásögn mína. Punktarnir eru allir teknir af þessum dagbókarblöðum, þegar ég var á sínum tíma beðinn um að segja höfundi ritsins, Degi Eggertssyni, frá þessari stjórnarmyndun. Ég hef fulla trú á því sjálfur að allt sé það satt og rétt sem á þessum blöðum stendur um afskipti mín af því sem um er fjallað, enda fáránlegt að skrifa dagbók gegn betri vitund! Þessi blöð voru upphaflega skrifuð sjálfum mér til skemmtunar, þá einnig til að varðveita fróðleik sem ég þyrfti síðar á að halda sem ritstjóri. En þegar fram liðu stundir hef ég haft gaman af að yrkja og skrifa ýmsar hugleiðingar handa dagbókinni einni, án þess ætlunin hafi verið að gefa það út, enda margt af þessu efni harla viðkvæmt. En þegar gamlir samstarfsmenn eins og Sveinn Þormóðsson sem heldur ég hafi verið fréttastjóri, þegar ég tók við ritstjórastarfinu, og Sigurður A. Magnússon eru farnir að setja sinn "sannleika" í bækur, má vel vera að mér sé nauðsynlegt að koma þessum blöðum á framfæri, þegar ég er hættur ritstjórn og afskiptum af þjóðmálum...
Dagbókin er að vísu gloppótt, enda hef ég ekki iðkað hana að staðaldri. Tók mig saman í andlitinu, þegar ég lá undir ámæli formanns Sjálfstæðisflokksins vegna fullyrðinga í Morgunblaðinu um að Styrmir væri krati og héldi hlífiskildi yfir Jóni Baldvin, vini sínum. Fannst ég þá niðurlægður af gömlum vinum og samfylgdarmönnum, því engu var líkara en ég hugsaði lítið sem ekkert um Morgunblaðið - og Styrmir kæmist upp með hvað sem væri! Sannleikurinn er sá að ég hafði síðasta orðið í öllum málum og sýndi Styrmir mér fullt traust og trúnað í þeim efnum. En þetta var erfitt. Gylfi Þ. kallaði mig sunnudagskrata og við göntuðumst með þetta, þangað til misskilningur sjálfstæðisforystunnar blasti við. Þá tók alvaran við eins og alltaf.
Sumt sem hér stendur er harla viðkvæmt og þarf að fara varlega með, en mest eru þetta þó hugleiðingar mínar og sýna hvernig viðhorf mín voru frá einum degi til annars; t.a.m. gat afstaða mín til einstaklinga breytzt við nánari kynni, en yfirleitt tíunda ég afstöðu mína án tillits til þess, hvernig því yrði tekið. Reyni þó í þessum efnum sem öðrum að vera eins heiðarlegur og mér er unnt, þótt sitt sýnist hverjum eins og alltaf er. Þá er einnig oft minnzt á hvernig afstaða Morgunblaðsins myndaðist - og ekki síður hvernig skáldskapur minn varð til.
29. nóvember, miðvikudagur
Ingimar Erlendur Sigurðsson kom til mín í gær með venjulegan skammt í jólablað Lesbókarinnar. Hann vill ekki tala við Gísla Sigurðsson, segir að hann sé á móti sér. Einhverju sinni hafi hann spurt Gísla eftir þrettán mánuði, Hvar er ljóðið mitt?!
Ingimar Erlendur er kominn með mikið skegg, grátt. Hann líkist Bólu-Hjálmari æ meir, einnig skáldskapur hans.
Ingimar sagði við mig að Sigurður hefði reynt aftöku á mér með atlögunni í síðustu minningarbók sinni og birtingu í DV. Ég sagði við Ingimar, Sigurður A. Magnússon getur ekki tekið mig af lífi, hann hefur reynt það áður. Ingimar Erlendur sagði að Sigurður væri illmenni. Hann hefði rægt sig við mig og ég hefði tekið mark á því á sínum tíma. Ég tók ekkert mark á því, sagði ég. Jú, víst þegar við slógumst á Lesbókinni, þá byrjaði hann, sagði Ingimar Erlendur. Hann sló mig fyrst, en þú hefur aldei trúað því. Þú trúðir honum. Það er ekki rétt, sagði ég, ég trúði hvorugum!
Það er ágætt að tala við Ingimar Erlend. Hann er kurteis, ljúfur og vinalegur. En þegar ég hugsa um þá SAM fara um mig einhvers konar ónot. Það er eins og að fá tvö tundurdufl í botnvörpuna. Hvað gerir maður þá? Maður hélt að stríðinu væri lokið en það er þá á næstu grösum. Maður reynir að koma tundurduflunum á dekk og landa þeim án þess þau springi og sökkvi skipinu. Maður afhendir þau síðan landhelgisgæzlunni og hún eyðir þeim. Sem sagt, landhelgisgæzlan er þannig í hlutverki tímans.
Enginn talar um atlögu Sigurðar að mér. Mér er til efs að nokkur maður hafi áhuga á henni. Ég held enginn hafi raunar áhuga á því sem Sigurður er að fjasa og gerðist fyrir þrjátíu, fjörutíu árum. Að vísu var bókarkafli Sigurðar birtur á einhverju neti sem Hrafn Jökulsson stjórnar. Ég hef ekki séð það, þekki það ekki. En það var líkt Hrafni að langa til að glefsa í mig. Eitthvað reyndu þeir að ná í mig til að fá viðbrögð! Ég gef ekki kost á neinum viðbrögðum. Trúi því ekki að nokkur maður taki mark á einu orði sem Sigurður A. Magnússon segir. Þannig er a.m.k. talað við mig. Samt var þessi fyrirsögn víst á Strikinu.is eða hvað þessi netslóð heitir: Matthías hótaði andstæðingum sínum að eyðileggja þá með Morgunblaðinu! Morgunblaðið sjálft í fjörutíu ár er til vitnis um ósannindi þessara orða. Það vita held ég allir og enginn virðist taka mark á þeim. Kannski einhverjir gamlir hatursmenn Morgunblaðsins, en þeir hafa ekki orðið á mínum vegi og þeir trúa hvort eð er ekki öðru en ég sé illmenni. En þetta eru geirfuglar og tíminn eyðir þessu hatri eins og öðru sem engu skiptir. En þó hafa þessi skrif Sigurðar hryggt mig með einhverjum hætti. Ég átti ekki von á slíkri kveðju.
Hrafn Jökulsson skiptir mig engu. Ekki fekar en Björn í Mörk.
Seinna
Það er mikið hagsmunamál fyrir útgerðarmenn og þá sem að fiskveiðistjórnun standa að samkomulag náist um kvótakerfið. Eigandinn, þ.e. þjóðin, fær þannig endanlega staðfestan rétt sinn til auðlindarinnar og þeir sem fá leyfi til að nýta hana gera það með fullu samþykki eigandans. Það er þannig ekki sízt mikilvægt fyrir sægreifa og kvótakarla að um þetta ríki sátt og samlyndi milli eigenda og hagsmunaaðila og ég er sannfærður um að Halldór Ásgrímsson, sem á víst álitlegan kvóta, ásamt fjölskyldu sinni, sér nauðsyn þessarar niðurstöðu. Þá getur hann átt sinn kvóta í friði en greiðir af honum eins og aðrir sem nýta auðlindina.
Í upphafi baráttu okkar á níunda áratugnum lögðum við áherzlu á réttlætið og siðferðið, en létum greiðslu fyrir nýtingu bíða betri tíma. Réttlætið og siðferðið voru í því fólgin að menn gætu ekki eignazt það sem aðrir eiga né veðsett það, selt eða grætt á því að vild. En veiðileyfagjald réttlætir nýtingu, rétt til framleigu eins og þeir mega veiða í ám sem hafa leigt þær. Svo geta þeir grætt á þeim að öðru leyti eins og þeir vilja. Aðalatriðið er að eignaréttur sé virtur og menn geti ekki ráðskazt með eignir annarra, jafnvel ekki sameiginlegar eignir íslenzku þjóðarinnar. Þannig er ekki heldur hægt að selja öræfin, en það væri ekki fráleitt að selja aðgang að þeim, ef átroðslan yrði umfram þanþol náttúrunnar. Allt virðist þetta nú vera í réttum farvegi og stefna Morgunblaðsins að verða ofan á þrátt fyrir mikinn barning, róg og illt umtal. Útgerðin ætti að geta unað við sitt því að enginn ætlast til þess að hún þurfi að borga neina blóðpeninga, þvert á móti er það allra ósk að hún geti nýtt auðlindina sem bezt fyrir sjálfa sig og þjóðarheildina; og þá að sjálfsögðu í friði og sátt við umhverfið.
Ég get þannig hætt á Morgunblaðinu ósköp rólegur yfir því að þessi barátta skuli hafa borið árangur, ekki síður en margt annað sem við höfum látið til okkar taka á þeim tíma sem ég hef sinnt ritstjórn þess. En margt er eftir og margt má betur fara. Markaðurinn t.a.m. er ekki listvænn, hann spyr ekki um gæði heldur hvernig hjörðin leitar uppi vinsældalistann. En betra fyrirkomulag hefur ekki fundizt, því miður, og meðan svo er verðum við að gera út á samfélagið, fjárlögin. Við verðum að krefjast þess að ríkið reyni að standa vörð um þau listrænu verðmæti sem markaðurinn hunzar; ekki endilega fyrir þá sem nú lifa því þeim er skítsama, heldur framtíðina, þessa sömu framtíð og tók Bach að sér tvö hundruð árum eftir andlát hans!
En þá var hann gleymdur.
6. desember, miðvikudagur
Las í morgun ritdóm um bók Sigurðar A. Magnússonar eftir Sigurjón Björnsson prófessor. Þar fær Sigurður áminningar sem hann á skilið. En þó tekur Sigurjón ekki fast á Sigurði, heldur með því ljúflyndi sem honum er eiginlegt. Viðkvæmni Sigurðar fyrir sjálfum sér blasir þó við í þessum dómi. Sigurjón segir hún sé hrópandi í bókinni og raunar ótrúleg. Ég veit það ekki, hef ekki lesið bókina, geri það kannski einhverntíma. Þyrfti líklega að gera það vegna þess að Hanna segir að ég komi þar nokkuð víða við sögu. Enginn sem þekkir þig, segir Hanna, lætur sér detta í hug að Sigurður sé að lýsa þér. Það er ekkert sem minnir á þig, allra sízt þegar til þín er vitnað. Þessu gæti ég vel trúað. Hún tekur sem dæmi að Sigurður hafi eftir mér um stúlku sem var nauðgað: Stúlkukindin! Ég efast um ég hafi nokkurn tíma á ævinni notað þetta orð, en Sigurður hefur áreiðanlega enga tilfinningu fyrir því, hvað svona orð merkir. Þó getur verið að hann hafi lagt mér það í munn í því skyni einu að niðurlægja mig og setja mig í vont ljós, það væri honum líkast. Stúlkukind er neikvætt orð.
Vorum í boði hjá Davíð Oddssyni í gærkvöldi. Það var til heiðurs Erró vegna veggmyndar sem sett var upp í Kringlunni. Þetta var hlýlegt boð og gott. Alltaf jafn indælt að hitta Erró og Vilai, þau breytast ekki. Í þessu boði töluðum við Davíð nokkuð mikið saman. Hann sýndi mér mikla hlýju og vináttu og okkur Hönnu báðum. Ég hitti Lárus yngra, bónda á Klaustri, þau hjónin eiga átta börn. Ég hafði gaman af að tala við Lárus. Hann mundi eftir því þegar við vorum fyrir austan og Sigurgeir faðir hans spáði fyrir um páskabrasið mikla sem ég hef skrifað um annars staðar. Sagði veðrið gerði ekkert til, en við kæmumst ekki yfir Mýrdalssand. Fór síðan og sótti hitaveituna sem hann sagði að væri öllum hitaveitum betri. Það var stór brúsi af sjéníver! Við vorum svo þarna á Klaustri meðan sjéníverinn entist, en héldum svo vestur yfir Mýrdalssand. Um það hef ég skrifað smásögu. En þetta er eftirminnilegasta veður sem ég hef upplifað og raunar mestu náttúruhamfarir. Það skipti um á andartaki. Við stóðum við Eldvatnið þegar færið fraus í lykkjunum. Við höfðum verið berir að ofan því það var tólf, þrettán stiga hiti. En þegar við komum upp að Klaustri var komið hvínandi óveður. Og hörkufrost.
Lárus mundi eftir þessu öllu. Hann var þá um tvítugt.
Það var frábært fólk á Klaustri og Sigurgeir faðir hans einstakur maður. Bergur bróðir hans var einnig ágætur, við heimsóttum hann niðurá Dynskógafjörur þegar hann var að ná járni úr skipsflakinu. Hann var loftskeytamaður á Brúarfossi á sínum tíma.
Ástríður kona Davíðs hlustaði á frásögn mína af "hitaveitunni" og mér sýndist hún hafa af því þó nokkra skemmtan. Hún sagði það væri dýrmætt að eiga svona minningar um fólk og liðna atburði. Og það er rétt, það er dýrmætt.
Ég rifjaði upp við Lárus þegar ég hitti Helga föðurbróðir hans, einnig þarna í ráðherrabústaðnum fyrir margt löngu, þá var hann gestur Bjarna Benediktssonar. Það þótti Lárusi einkennilegt. Já, sagði ég, þú átt við að hann hafi verið gamall framsóknarmaður. Já, einmitt sagði Lárus og brosti. Svo rifjaði hann það upp að Helgi var svo mikill jónasarmaður á sínum tíma að hann fór í framboð fyrir Jónas gegn Lárusi föður sínum sem var héraðshöfðingi og dó uppúr 1940, á bezta aldri. Lárus fór þá fyrir Bændaflokkinn. Þeir féllu báðir, feðgarnir, en Gísli Sveinsson komst víst á þing. Það var nokkuð stirt á heimilinu eftir þessar kosningar, sagði Lárus, og mér finnst það ekkert skrýtið. Annars leið Helgi af asma og þurfti að búa á Mallorka. Hann er ekki sá eini sem hefur haft ofnæmi fyrir Íslandi!
Davíð hélt góða ræðu undir borðum. Hann sýndi mér, ekki síður en Erro, mikla hlýju og vináttu í þessari ræðu og það yljaði mér, ég neita því ekki. Hann upplýsti leyndarmál sem gladdi alla viðstadda, þ.e. að Alþingi hefði ákveðið samhljóða að Erró færi í heiðurslaunaflokk. Það þótti mér frábært. Það er eins og Davíð muni allt og ekkert fari framhjá honum. Hann minnti á að ég hefði yfirleitt ekki viljað fá nein verðlaun, liti ekki stórum augum á slíkt því að listin stæði annað hvort fyrir sínu eða ekki. En ég hefði aftur á móti þegið heiðurslaunin og þótt vænt um þá virðingu vegna þess, eins og Davíð sagði, þau eru veitt þeim listamönnum einum sem allir þingmenn eru sammála um. Þetta var rétt hjá honum. Ég hef ævinlega sagt að heiðurslaunin séu mesta viðurkenning sem íslenzkum listamanni getur hlotnazt. Þau fær enginn án samþykkis alls þingheims. Þau segja því mikið um það álit sem alþingismenn hafa á viðkomandi listamanni. Það var ekki sízt eftir pólitísku baráttuna og kalda stríðið sem mér þótti vænt um þessa samhljóða viðurkenningu þingsins. Af þeim sökum var hún mér gleðiefni og hið sama má kannski einnig segja um Jónasar-verðlaunin. Þar átti vinstra fólk einnig hlut að máli...
Hitti Halldór Guðmundsson forlagsstjóra Máls og menningar - Eddu síðastliðinn miðvikudag. Hann talaði um hann vildi helzt gefa út "stórt úrval" eins og hann komst að orði af ljóðum mínum með vorinu. Við ákváðum að tala saman eftir áramót. Ég þarf að hugleiða þetta vel og rækilega og þá hvernig að þessu yrði staðið. Það skiptir mig máli.
Bók Sigurðar A. Magnússonar kom til tals. Ég sagði honum álit mitt á því sem ég hefði séð og heyrt úr bókinni. Hann sagði, Er þetta þá allt ósatt? Ég sagði, Já.
Ég sá að Halldór sem er útgefandi bókarinnar varð hugsi, en hann sagði ekkert meira.
Davíð sagði við mig í gærkvöldi að hann hefði verið einn þeirra sem hefði varað mig við SAM. Við vorum alltaf að vara þig við honum, sagði hann, En þú tókst aldrei neitt mark á því! Ég sagði það rétt. Davíð sagði að allskyns ummæli breyttust og gætu orðið afkáraleg, þegar þau væru prentuð. Ég var sammála honum í því. Þau lýsa engum nema þeim sem skrifar.
Sem sagt, það er Sigurður sem er að tala en ekki þeir sem hann er að lýsa. Þessi meinloka Sigurðar stafar ekki einungis af því að hann sé óvandur að virðingu sinni, heldur hefur hann ekki tilfinningalega getu til að lýsa öðru fólki. Menn geta ekki hlaupið undan sjálfum sér í ljóðum og það er áreiðanlega þess vegna sem Sigurjón Björnsson segir í ritdómi sínum í Morgunblaðinu, þegar hann er búinn að skjalla Sigurð fyrir greinaskrif: "Ljóðin finnst mér minna til um".
Og hann er ekki einn um það.
Ódagsett, marz/apríl 2002
Sigurður A. Magnússon birtir í bókinni Á hnífsins egg (2001) bréf sem ég skrifaði honum af gefnu tilefni 1976 og lætur það fylgja bréfi sem hann skrifaði mér um svipað leyti. Bréf mitt til Sigurðar er dagsett 9.okt.´76 (ekki 29. okt.), það er svo hljóðandi samkv.dagbók minni:
Reykjavík 9. okt. ‘76
Diddi minn.
Í sama bréfi sem þú skrifaðir mér til að biðja leyfis að birta ljóð eftir mig í Bandaríkjunum reiðir þú hátt til höggs og vegur að orðstír mínum á þann hátt sem ég get ekki kallað annað en svívirðilegan. Ég mátti svo sem alltaf vita að þessi skítur allur hefði grafið um sig í brjósti þínu - og ég held þessi grunur minn hafi verið ástæðan fyrir því að við höfum ekki hitzt lengi, eða frá því þú komst dag eftir dag til hinnar spilltu skepnu, þegar þú áttir um sárt að binda af persónulegum ástæðum. Ég vona að ég hafi tekið þér sæmilega, þó að mér hafi stundum fundizt þú ekki eiga erindi við mig nema þegar ég var nógu góður til að nota mig. En ef einhver getur notað mig til góðs eins og í þessu tilfelli - þá er það guðvelkomið. Ég er ekki hefnigjarn maður - og það veizt þú orðið öðrum betur - og leita oftast sátta, ef þess er kostur. En svo lengi má brýna deigt járn að bíti. Og með þessu síðasta bréfi þínu hefurðu gengið feti of langt, að mínum dómi. Í gamla daga sögðu sameiginlegir vinir okkar að ég væri aumingi að láta þig nota vináttu okkar eins og þeir töldu, en það hafði engin áhrif á mig, því að ég taldi að þú ættir að vera á Morgunblaðinu meðan þér fyndist sjálfum sæmandi. Nú sé ég loks að allt hefur þetta farið snaröfugt í þig og brenglað þitt annars góða bókmenntaskyn - ég á við að þetta skyn hefur ekki ávallt notið sín í dómgreind þinni. Hún er því miður oft úr lagi færð. Mér finnst í raun og veru hræðilegt, hvernig lífið hefur leikið þig - og þó að ég sé síður en svo fullkominn, held ég sálarástand mitt sé eins og heiður himinn móts við þá hræðílegu þoku haturs, fyrirlitningar og biturleika sem stjórnar skrifum þínum í þessu yfirgengilega bréfi þínu. En - það er þó hreinskilið og þú reynir að gera upp við mig, horfir að sjálfsögðu á öll mál af þínum litla norðurhjarasjónarhóli (þótt þú reynir að fullyrða að það geri í raun og veru allir nema þú), ert blindur í sjálfs þín sök - og raunar persónugerð dæmisagan um flísina og bjálkann. En látum það gott heita, þú segir a.m.k. það sem þér finnst og heldur að sé sannleikur. Það virði ég og þess vegna svara ég þér, þótt bréf þitt sé í raun og veru ekki svaravert sökum formyrkvunar. Auk þess átt þú í þessu tilfelli ekkert til mín að sækja, svo að þú gazt látið vera að skrifa mér - nema þá þetta með ljóðin, en þar mætti víst telja að ég ætti þér upp að unna, enda þótt mér liggi í léttu rúmi hvort ljóð mín séu þýdd eða ekki. Þau eru ort fyrir okkar litla land - og verða aldrei þýdd svo að frumtextinn fyrnist ekki meira eða minna. Allt þetta veit ég - og þýðingar eru mér ekkert hégómamál, þótt einhverjir haldi víst annað. Þau standa eða falla sem íslenzk ljóð, það er allt og sumt.
En þú talar enga tæpitungu að þessu sinni, svo að ég get svarað þér í sömu mynt. Ef þú hefðir skrifað smjaðursbréf, hefði ég ekki virt þig viðlits. Svo spilltur er ég nú orðinn!
Þú talar eitthvað um siðferðilega yfirburði skálda í sambandi við okkur Indriða og vilt víst meina að kynni þín af okkur hafi sannfært þig um, að þar sem skáld fari, þurfi siðferðið ekki alltaf að vera hátt á hrygginn reist. Ég veit ekki til að við höfum haldið því fram. Samt gerðum við allt - og ég lagði jafnvel á mig persónulega erfiðleika - til að sameina rithöfundasambandið með þér, og ég veit ekki til að það hafi brugðizt - enda þótt ég efist um að þú hafir átt þetta samstarf skilið eins og þú hegðaðir þér stundum. Þegar þú tókst við Sambandinu af mér var eins og þú hefðir erft það frá hundi og ég man ekki til þú þakkaðir mér einu orði fyrir það heilsuspillandi starf sem ég hafði ynnt þar af hendi (alltof lengi), enda þótt þið gerðuð allt sem unnt var til að ég fengi aldrei frið og væruð með klofningstilburði út af smámálum. Samt vann ég að því öllum árum að unnt yrði að sameina félögin og búa upp í hendurnar á þér. Mér var þakkað af þér með því að skipa mig í sálmabókarnefnd Rithöfundasambandsins!! Ég fór að vísu aldrei á vegum Rithöfundasambandsins til útlanda, en nú minnist þú á fólskulegar og linnulausar árásir hlaupastráka Mbl. á þig meðan þú sazt á ársþingi Norræna rithöfundaráðsins í Noregi. Mátti sem sagt enginn hafa aðra skoðun á störfum þínum en þú? Gat það ekki verið málefnaleg afstaða af því að þú áttir í hlut? Nei, skoðaðu hug þinn betur. Kannski þú hafir einnig einhvern tíma sært annað fólk, ekki síður en það þig!
Þú getur bæði verið fljótfær og dómharður, einnig tillitslaus við þá sem aðra skoðun hafa en þú sjálfur, sbr. bréf þitt nú til mín. Mér líkar vel það sem þú segir um Njörð frænda þinn og rétt er það, að sem betur fer eruð þið ólíkir á margan hátt, en samt eigið þið sameiginlegt, m.a. ofsóknaræðið. En skíturinn kemur út úr þínu kýli og þar skilur milli feigs og ófeigs. Fyrir því er ég dálítið veikur eins og þú sérð, því að Nirði hefði ég ekki svarað - og líklega fáum svo ósvífnar og illskeyttar sem árásir þínar eru. Njörður tók að sér formennsku útvarpsráðs, viðkvæma opinbera stöðu á vinstristjórnarárunum. Morgunblaðið gagnrýndi ráðið oft og hafði bæði til þess rétt og skyldur, en þá fer þetta á sálina á Nirði með þeim hætti að hann hatar mig (maður sem á að kenna bókmenntir, og þá væntanlega einnig mínar, við Háskóla Íslands)! Ég hef látið mér það í léttu rúmi liggja, enda hef ég aldrei skrifað stafkrók sem kalla mætti persónulega árás á hann, né stjórnað neinni hatursherferð gegn honum né öðrum í Morgunblaðinu. En þegar menn taka að sér opinber embætti, eiga þeir bæði að búast við gagnrýni - ekki sízt hér á landi - og vera menn til að taka henni. Sagt er að þeim sem guð gefur embætti, gefi hann einnig vit til að fara með það. En ekki Nirði, ef dæma má af viðbrögðum hans, í senn barnalegum og heimskum! Ég hitti hann í lyftu í London í sumar, heilsaði honum og rétti honum höndina, að Hönnu ásjáandi og Ingólfi 12 ára. Hann heilsaði mér ekki. Það verður bið á því að þessi hönd verði rétt aftur - enda spilling mín yfirtak eins og þú þykist orðið vita. Og guðdómur ykkar frænda yfir alla kritik hafinn. Þá það.
Þú blandar viðstöðulaust Morgunblaðinu saman við mig sem slíkan og er það kannski rétt. Þó man ég að ég gagnrýndi þig á Hallærisplaninu eitt sinn fyrir að kalla okkur nazista. Þú hrökkst við og sagðir (af því þá hentaði það þér), “Nú, ekki ert þú Morgunblaðið.” Ég er það sem sagt bara þegar það hentar sársauka þínum og dómgreindaleysi.
Fáir hafa gert meira fyrir þig en Bjarni Benediktsson, þú hundeltir hann lifandi. Skrifaðir vel um hann dauðan. Sagðir mér að þú hefir jafnvel sagt að hann væri mesti stjórnmálamaður Íslands um sína daga! Ég reikna ekki með hann hafi lesið þetta! Bjarni gerði það eitt sem hann trúði á og samfæring hans sagði honum. Hann var fastur fyrir, ekki vingull eins og þú. Hann var svo greindur maður að hann trúði því jafnvel að sumir kommúnistar hefðu sannfæringu fyrir því sem þeir boðuðu. En hann barðist gegn þeim. En hann gat virt þá að öðru leyti. Það getur þú að vísu, ef marka má bréf þitt, þú ruglar t.a.m. ekki saman skoðunum mínum og ljóðum. Bjarni gat einnig virt skoðanir andstæðinga sinna. En mér sýnist á bréfinu þínu að það getir þú ekki. Þú sérð djöfla alls staðar þar sem skoðanir okkar fara ekki saman. Einu sinni fluttir þú fyrirlestur um NATO í ríkisútvarpið. Þórbergur sagði að mál þitt bæri vott um dómgreindarleysi og siðspillta pólitíska lágkúru. Það var meðan þú fluttir málstað vestræns lýðræðis. Ég hef alltaf gert það og m.a. barizt gegn kommúnisma harðar en flestir aðrir, hvorttveggja af djúpri sannfæringu. Ég geng sem sagt einn með svona siðspillta pólitíska lágkúru í brjóstinu. Því haggar enginn, og allra sízt kaupi ég ljóðum mínum og öðrum verkum frið með því að slá af þessari sannfæringu minni. Þú lætur að því liggja að ég og mínir líkar séu skriðdýr og lýsir okkur sem hórum, ef ég man rétt. Notaðu þín orð eftir því sem þér finnst viðeigandi, það hefur engin áhrif á mig. Meðan ég veit að brottför varnarliðsins frá Íslandi mundi stórauka hættuna á að okkar litla land yrði heimsveldi Rússa að bráð, eins og Kínverjar fullyrða í mörgum samtölum við mig, enda augljóst mál og vitneskja allra góðra Íslendinga, þá mun ég láta blað mitt standa vörð um utanríkisstefnu Bjarna Benediktssonar, því að hún er jafnnauðsynleg nú og áður. En að sjálfsögðu geta tímarnir breytzt. Ashkenazy, vinur minn, sem þekkir kommúnisma betur en þú, hefur sagt mér nákvæmlega hvernig Sovétar hugsa sér að gleypa landið. Hann varar okkur við að slaka á öryggi og bjóða hættunni heim. Það gera allir sem eitthvert vit hafa á og einhverja reynslu til að bera. Þú talar um einhverjir útlagar frá kommúnistaríkjum sem þú hafir hitt í Bandaríkjunum séu sammála þér í einu og öllu, að mér skilst. Það var þá til einhvers að þeir flýðu! Eða talaðirðu kannski líka við Solzhenisyn? Ég talaði aftur á móti við Sinjavskí í París eins og þú kannski veizt - og hann hefur nú sömu skoðun og mér skilst þú hafir haft fyrir 20 árum.
En hvernig á maður annars að vita hvaða skoðun þú hefur haft. Ég held nefnilega, Diddi minn, að þú hafir haft litlar skoðanir á þjóðmálum, bara tilfinningaleg viðbrögð. Og menn stjórna hvorki blaði né landi með slíkri dómgreind. Þegar ég fékk þá ábyrgð að stjórna Morgunblaðinu einsetti ég mér að það yrði gert án tilfinningavæmni eða vináttutengsla - heldur með raunsæi og sannfæringu og trú á það sem ég tók að mér. Eins og Becket! En menn greinir að sjálfsögðu á um hvernig þetta skuli gert. Og þeir sem hatast við þetta, vilja auðvitað koma því á að ég sé spilltur. Þú skrifaðir eitt sinn um Hannes Hafstein og Kristján Albertsson, þar sem þú m.a. tókst öllum á óvörum upp hanzkann fyrir Jóhannes afa minn, sem lifði fyrir frelsi og framtíð Íslands og lagði líf sitt raunar í sölurnar fyrir það. En hann var kallaður spiltur, jafnvel landráðamaður af ýmsum þeim sem þá voru í þínum sporum nú. Hann lét sér fátt um finnast. Hann var ekki spilltari en það að jafnvel þú sást í gegnum blekkingavef “föðurlandsvinanna” og gafst honum fyrstu einkunn - sem hann átti skilið. En ég skil ekki enn að þú skyldir ekki halda áfram að æpa með hinum. Það sýnir mér að drengskapur ónáðar stundum freistingar Sigurðar A. Magnússonar.
Ég hef ekki áhyggjur af stefnu Morgunblaðsins, þegar upp verður staðið - ef Ísland verður ekki kommúnisma að bráð og fær að lifa áfram, frjálst og æ frjálsara. Hitt er annað mál að þetta blessaða land mætti vel losna við þá dómsjúku kynslóð sem er okkar - og það er rétt, að þegar við erum dauðir getur vel verið að segja megi með einhverjum rétti: Farið hefur fé betra! En þessir tímar eru háskalegir og það eru fáir sem þola þá, þ. á m. þú - með allt þetta inni í brjóstinu sem nú brauzt fram. Þú tínir allt mögulegt til, sumt man ég ekki eins og Biafra - hvað var það? - og í sambandi við Víetnam skrifaði ég sjálfur aðalgagnrýnina á stefnu Bandaríkjamanna, eftir að ég hitti Fulbright í Washington, þeirri voðalegu borg. En auðvitað manst þú það ekki, það hentar ekki. Það hentar ekki heldur að minnast á það sem við höfum gott gert - jafnvel ekki það sem við höfum gert gott saman, t.d. þegar við börðumst af hörku gegn fasistaklíkunni í Grikklandi - og ég var marggagnrýndur fyrir af þeim sem selja fisk til Grikklands. Þú minnist ekki heldur á trúnaðarmál sem ég sagði þér og birtist svo í Þjóðviljanum o.s.frv. Ég hef gert mér far um að gleyma ýmsu af þessu, ætla ekki að fylla brjóstið á mér af skít og hatri, ég trúi á það góða. Það er nóg samt. En þú virðist reyna undir drep að muna allt sem þér finnst ávirðingar okkur, en hitt sem gæti ónáðað þína eigin samvizku er að sjálfsögðu gleymt og grafið. Þú hefðir víst eitthvað sagt, ef þú hefðir lent í mestu galdraofsóknum sem ísl. rithöfundur hefur þurft að standa í, þ.e. 7-mánaða Fjaðrafoki, en varla nokkurn tíma talað um verkið, heldur vonzku mína og spillingu. Síðasta árásin birtist í Austra 7 mánuðum eftir að ofsóknirnar hófust. Svo reyni ég í bók í fyrra að bera hönd fyrir höfuð mér, en þá hefst nýr galdur! Hvar stóðst þú í þessari herferð allri? Og hvað hefðuð þið frændur sagt, - en þetta er aðeins lítið og meira og minna gleymt dæmi.
Þú biður um bækurnar mínar tvær. Þú færð þær að sjálfsögðu - og getur birt það sem þú vilt; ástæða: að þú komst út úr skelinni og gafst mér tækifæri til að segja við þig nokkur vel valin orð líka. Ég er gamall vinur þinn - og það kemur einnig fram í bréfi þínu, þó að Hanna segist vart sjá það - en jafnframt harðasti gagnrýnandi. Nú hef ég líka létt á mér, svo að ekki hallast á. Vonandi getum við svo talazt við án þess drepast úr skítalykt.
Halldór Sigurðsson þekki ég ekki - og hef aldrei gert. Hann skrifaði allt of langar greinar og enn leiðinlegri, sem ég hafði því miður lítinn áhuga á, en birti samt, því mér fannst málstaður hans heldur góður. Mér er sagt hann hati mig vegna þess ég hafi einhvern tíma í miklum önnum látið hann bíða eftir mér. Þú skalt ekki halda ég sé ofantekinn fyrir svoleiðis minnimáttarkennd. En ég vona hann komizt í sátt við sjálfan sig, þá sættist hann kannski við mig. Og það munt þú einnig gera, þegar þú hefur sætzt við Sigurð A. Magnússon.
Jæja, Diddi minn, þú hefur gefið mér tækifæri til að létta svolítið á mér líka. Fyrir það er ég í raun og veru þakklátur. Þess vegna skrifaði ég þér - og segi já við öllum óskum þínum. Svo sjáum við hvort Becket fellur í kórnum.
Beztu kveðjur og framtíðaróskir,
þinn gamli vinur Matti.
Ástæðan til þess ég nefni Njörð Njarðvík og Halldór Sigurðsson er sú, að SAM skírskotar til þeirra í sínu bréfi eins og lesa má í bók hans, en af báðum þessum mönnum hef ég síðan haft góð kynni, Njörður sneri sér m.a. til mín þegar hann skrifaði athyglisverða bók ásamt syni sínum og þá til skrafs og ráðagerða, en síðan gerði ég hann að föstum skríbent við Morgunblaðið og hafa kynni okkar verið hin ánægjulegustu það sem þau hafa verið eftir fullar sættir. Studdi ég Njörð m.a. sem formann Rithöfundasambandsins.
En Sigurður þurfti endilega að reyna að vekja tortryggni með birtingu bréfanna, þótt ekki hafi það tekizt.
Halldór Sigurðsson telur mig ekki siðspilltari en svo að hann hefur haft samband við mig, þegar hann hefur komið heim til Íslands og með okkur tekizt ánægjulegt samstarf, m.a. hef ég verið í miklum dagskrárþætti hans fyrir danska útvarpið og veit ég ekki betur en við séum fullkomlega sáttir. Sem ég er að setja þessar línur saman fyrra hluta apríl-mánaðar fæ ég elskulegt bréfkort frá Halldóri og er það dagsett í Portúgal, þar sem hann hefur dvalizt undan farið. Hann segist fara til síns gamla starfs við danska útvarpið innan skamms, en síðan til Spánar. Leiðist hvað margt er niður drabbað í Portúgal, það fór ekki heldur fram hjá okkur á sínum tíma. Bréfinu líkur með þessum orðum: Hjartanlegar kveðjur frá Halldóri.
Það er ósköp notalegt að fá þessa góðu kveðju, einmitt nú, enda hef ég glaðzt yfir frama Halldórs og þeim mörgu og mikilvægu viðurkenningum sem hann hefur hlotið fyrir ómetanleg störf sín við DR.
En þessi vinsemd milli okkar Njarðar og Halldórs á víst ekkert erindi í ævisögu Sigurðar. Hún mundi ekki þjóna tilgangi hans!
Það er raunar með ólíkindum hvernig SAM fléttar mig inn í þetta ævisagnablaður sitt og það með dæmum sem hann veit minna en ekkert um. Allt í einu er hann einhvers staðar farinn að tala um samskipti mín og Frank Ponzi, listfræðings; fullyrðir að ég hafi komið í veg fyrir birtingu greinaflokks hans um sjónvarpið, að mér skilst, en ég man ekki til þess að hafa nokkurn tíma lesið þessi skrif og ekki minnist ég þess að Ponzi hafi talað við mig, en það hefði hann auðvitað átt að gera, ef hann hefur verið óánægður með afgreiðslu mína. Ég á að hafa sagt að þessi skrif væru “óprenthæf” í þýðingu Halldórs Lagsness og hefði ég þó átt að þekkja stíl Kiljans, því að ég “átti eftir að birta samtalsbók við Halldór þremur árum síðar”!!
Og svo er vaðið með þessa þvælu í ævisöguna án þess ég hafi neitt um það að segja!! En þetta er aðferð bókanna og fram að þessu hefur mér ekki þótt ástæða til að elta ólar við svona skrif.
En nú er mælirinn fullur.
Rauði þráðurinn í árásum SAM á umhverfi sitt er hatur hans á Morgunblaðinu. Ég hef stundum reynt að lækna hann af þessari meinsemd, en ekki tekizt. Það er svo athyglisvert að engu er líkara en ég hafi stjórnað þessu blaði einn og öllum illverkum þess, jafnvel Lesbókinni einnig, en samt á ég að hafa verið einhvers konar peðgunga myrkrahöfðingjans sjálfs, Bjarna Benediktssonar, sem hætti á blaðinu 1959 og hafði lítil sem engin afskipti af því eftir það, þótt hann héldi enn um sinn áfram Reykjavíkurbréfaskrifum.
En það er eins og SAM nægi að höggva ímyndaða keppinauta í spað, þá sem hann ætlaði að stjórna, en gat ekki. Ég var oft varaður við að láta hann nota mig, en þurfti ekki, því ég þekkti ofsa hans sem minnir einna helzt á Catillínu! Trúði að vísu ekki þá, að SAM væri þeirrar gerðar sem síðar hefur komið í ljós. En það var glámskyggni mín.
Þegar SAM minnist á arftaka sína sem gagnrýnendur þarf hann endilega að afgreiða þá á niðurlægjandi hátt, en ummæli hans um Jóhann Hjálmarssonar eru úr glerhúsi, því að skrif hans hafa verið því hnýsilegri sem hann er næmara skáld en Sigurður. Og af þeim sökum Morgunblaðinu ekki síður fengur á sínum tíma en SAM sjálfur.
Sam fullyrðir að hann hafi bent mér á eftirmenn sína, gagnrýnendurna Erlend Jónsson og Jóhann Hjálmarsson. Ég þurfti ekki á neinum ábendingum að halda. Ég hafði áreiðanlega þekkt Jóhann lengur en hann. Þegar fyrsta ljóðabók Jóhanns, Aungull í tímann, kom út 1956 skrifaði ég sjálfur fréttasamtal við Jóhann og Jóhann rifjar það upp sem ég hafði gleymt, að Valtýr Stefánsson ritstjóri kom þar að sem við vorum að ganga frá fréttinni niðri á Morgunblaði og þar hittust þeir í fyrsta sinn.
Erlendur var ráðinn fastur gagnrýnandi við blaðið á undan Jóhanni sem tók við því starfi 1966, eða um sama leyti og Bragi Ásgeirsson var fastráðinn myndlistargagnrýnandi. Þá hafði Jóhann skrifað allmarga ritdóma ásamt Erlendi um nokkurt skeið. Jóhann var nokkrum árum síðar í nógu miklum metum til að við báðum hann að skrifa um tvær ljóðabækur SAMs, þ.á m. ljóðaúrval hans sem kom víst út eftir 1970 og var sú ákvörðun Sigurði harla þóknanleg, þótt hann þykist nú geta tekið hann á hné sér. Löngu áður hafði SAM skrifað góða gagnrýni um ljóð Jóhanns, að því er Jóhann segir mér, en sjálfur man ég það ekki gjörla. Hins vegar sneri SAM við blaðinu síðar. Þannig hafði SAM einnig tekið tvær eða þrjár ljóðabækur eftir mig fram yfir aðrar í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið eða Lesbók, ég man ekki hvort heldur, en það var eftir að Hólmgönguljóð komu út 196o og Jörð úr ægi 1961. En ég sé þess ekki stað í ævisögunni af augljósum ástæðum.
Ég átti mjög undir högg að sækja á þeim árum og ég væri hræsnari, ef ég héldi því fram, að mér hefði ekki þótt vænt um þetta mat Sigurðar þá. En ég hafði ekki óskað neinnar viðurkenningar, hann tók þetta upp hjá sjálfum sér. Í harðri kaldastríðsbaráttu þeirra tíma skipti þetta máli, en ekki lengur.
Ávirðingar Morgunblaðsins koma ekki sízt fram í því að við höfðum engan áhuga á að senda Sigurð, hvorki til Bíafra né Víetnams, meðan þar bálaði af átökum nýrra þjóða í fæðingu. Eg man þetta að vísu ekki, en hann fullyrðir að svo hafi verið.
Ef við tökum það trúarlegt, þá hefur þetta einungis verið vísbending um að við vorum búnir að átta okkur á Sigurði. Það var engin ástæða til að treysta honum fyrir viðkvæmum skrifum um pólitík í kalda stríðinu, hvorki því sem honum var sjálfrátt né því sem honum var ósjálfrátt. Geðþótti hans stjórnaði ævinlega ferðinni, rétt eins og í ævisögunni sjálfri.
Og enn nokkrar síðbúnar athugasemdir.
Ég gluggaði í ævisögu Sigurðar A. Magnússonar ,Undir dagstjörnu (2000) einhverju sinni í marz 2002, þegar ég hafði lítið að gera í Þjóðarbókhlöðunni, enda hafði ég rekizt á hana þar af tilviljun. Áður, eða skömmu eftir að bókin kom út, hafði ég séð útdrátt úr henni í Dagblaðinu, þar sem því var haldið fram að ég hefði í símtölum hótað mönnum lífláti í Morgunblaðinu! Og “hatur” mitt á Ólafi Jónssyni og Árna Bergmann tíundað með væminni umhyggju fyrir þeim!
Allt var þetta undir risafyrirsögn sem átti að selja bókina fyrir jólin.
Fleira var þar einnig sem ég nennti ekki að elta ólar við.
Þá rakst ég óvart á þátt Egils Helgasonar með Sigurði um bók hans á Skjá einum og heyrði ekki betur en ég væri eitt helzta umræðuefni þeirra og þá einna helzt vegna bréfs frá mér í einni bóka Sigurðar. Agli datt hins vegar ekki í hug að tala við mig um málið, eða gefa mér færi á að svara Sigurði.
Það hefði kannski skemmt hasarinn!!
(En þegar Málsvörn og minningar kom út fékk ég skilaboð frá Eddu um að Egill byði mér í þátt til sín,en ég hafnaði).
Ekki alls fyrir löngu hitt ég Árna Bergmann og sagði honum að lýsingar Sigurðar á afstöðu minni til hans væru út í hött og tók Árni því vel, en sagði mér að hann hefði ekki lesið bók Sigurðar almennilega (hver hefur gert það!). En hann minntist á fyrr nefnt bréf, en í því hafi ég á sínum tíma hundskammað Sigurð. Það var víst ekki vanþörf á!
Hitt er annað mál að ritstjóri Morgunblaðsins átti í pólitísku og menningarpólitísku ati eða útistöðum við ýmsa á þessum árum,enda átakatímar í kalda stríðinu. Karp mitt við menningarvita á öðrum fjölmiðlum, einkum á vinstra væng stjórnmála, var ekki annað en heldur góðlátlegt orðstríð, sem snerti aldrei neina kviku illsku eða haturs og allt tal um slíkt einber tilbúningur. Eða óskhyggja Sigurðar, ég veit það ekki. Hann segir ég hafi litið á andstæðinga Morgunblaðsins sem óþurftamenn og meindýr! Ég spyr bara, Hver er meindýrið?
Ég hirti ekki um að svara SAM á sínum tíma, enda minnist ég þess ekki að neinn hafi sagt annað við mig en Þú ferð þó ekki að svara Sigurði A. Magnússyni, það tekur enginn neitt mark á honum!
Eg yppti öxlum og gleymdi þessu
En svo þegar ég leit í bókina þarna á bókhlöðunni sá ég að í henni var markvisst vegið að heiðri mínum, jafnvel mannorði, og ég hugsaði með mér það gætu verið einhverjir í framtíðinni sem þekktu ekki Sigurð og færu að vitna í aðdróttanir hans, jafnvel í góðri trú.
Ég hefði ekki svarað og þar með hefði ég samþykkt “söguskýringar” hans.
Ég hafði að vísu gert upp við SAM í dagbókum mínum, en þær yrðu ekki birtar meðan við báðir lifðum og kannski aldrei, það væri því nauðsynlegt ég lægi ekki undir þessu og svaraði. En ég vissi ekki hvar slíkt svar gæti birzt, það yrði að vera í bók, en ekki dagblaði sem hyrfi í samtímasorpuna og allir gleymdu eins og hverju öðru flugnasuði. Auk þess yrði það ekki til neins nema efna til einhvers karps við SAM og þá einnig til að skemmta skrattanum, en hann stjórnar venjulega slíkum umræðum á Íslandi.
En nú hef ég barið þetta efni augum og um það sem ég þekki til má segja hið sama og haft er fyrir satt um Gunnar Lambason í Njálu, enda eru þeir SAM svipuð manngerð: "Og um allar sagnir hallaði hann mjög til en ló víða frá”.
Kveður svo ramt að þessu að ég hef ekki einu sinni upplifað sumt af því sem Sigurður segir frá. En sjálfur er hann auðvitað alltaf aðalmaðurinn, hetja bókarinnar, riddarinn hugumprúði, en ég skotspónn og skúrkur. Hann dregur sig jafnvel upp á hárinu eins og Munchhausen, ef því er að skipta.
Gengur úr vegi til að koma höggi á mig, enda augsýnilega einn helzti tilgangur hans. Getur samt notað minningargrein eftir mig til að mæra föður sinn!
Ótrúlegt!
Magnús sá ég aðeins tvisvar.Í fyrra skiptið tefldi hann Þorskabít gegn atómskáldum í samtali okkar í bragganum eins og mig minnir Sigurður nefni, en í síðara skiptið var hann eins og nýkominn úr kaupstaðaferð. Mér er nær að halda hann hafi kunnað að meta það pólitíska umhverfi sem þá einkenndi íhaldið á Morgunblaðinu. Þá var þetta umhverfi með þeim hætti, að Sigurjóni Björnssyni sálfræðingi, síðar prófessor, var vísað frá eftir góð fyrirheit um vinnu vegna þess hann hafði skrifað menningarpólitíska grein í Tímarit máls og menningar. Það gerðu einungis kommúnistar!
Kaldastríðið var miskunnarlaus húsbóndi og gerði engan að betra manni.
En í gegnum þetta nálarauga komst Sigurður A.Magnússon með glans, ekki síður en undirritaður! Mér er nær að halda föður hans hafi líkað það vel, þótt atómskáldskapurinn væri eitur í beinum hans. Hann var engum tiltækur í veizlusölum Bakkusar eins og hefðbundnar klissjur arfleifðarinnar.
En það hefur breytzt eins og annað!
Mér er til efs að lýsingar SAMs á föður sínum hefðu birzt að honum lifandi. Ég ymti að þessu einhvern tíma þegar hann, eftir útkomu fyrstu eða annarrar minningabókarinnar, kom sigurglaður í kaffiheimsókn á Mogga, en hann fór undan í flæmingi og eyddi þessu. Magnús var dauður og ástæðulaust að leyfa honum ekki að liggja kyrrum þar sem hann var. En ég held SAM hafi upplifað æsku sína með þeim hætti sem hann lýsir svo eftirminnilega, hvað sem Magnúsi leið. Sigurður brauzt til mennta og hóf sig úr umhverfi æsku sinnar, sem hefur þó reynzt honum hvað bezt í metnaðarstreðinu mikla. Þessi árangur hans var í anda þess nafns sem hann ber og sýndi hvað í honum bjó. Gríska ævintýrið hefur einnig verið honum notadrjúgt og augljóst að hann hefur verið að reyna að búa um sig í harmsögulegu drama hinnar þunghöggu grísku hefðar. Stundum dettur mér í hug að hann hafi fremur lifað í bókum en lífinu sjálfu. Í bókum geta menn leikið örlögin að vild. Það er ekki hægt í lífinu.
Einu sinni hélt ég við Sigurður værum vinir, en við höldum svo margt sem er ímyndun einber, þegar til kastanna kemur. Ég tala nú ekki um, þegar hégómlegt fólk þarf að upphefja sig yfir aðra. Það hefur tekið mig hálfa öld að gera mér grein fyrir því að SAM hefur aldrei verið vinur minn. Maður gerir ekki atlögu að orðstír vina sinna, allra sízt undir yfirskini heiðarleika; í bezta falli sprottið af minnisröskun; eða hálfsannleika; eða hvítri lygi.
Samt þarf hann ekki að óttast að ég fari ofan í bresti hans, hvorki nú né síðar. Hann verður að fá að lifa í sínum heimi án minna afskipta. En þegar hann ætlar einnig að lifa mínu lífi á gömlum forsendum vindmyllunnar, þá hlýt ég að staldra við. Án þess mér sé það ljúft.
Hitt er annað mál að það hlægir nú ýmsa að ég skuli ekki hafa séð í gegnum Sigurð A. Magnússon fyrr en nú. Og líklega er mér það mátulegt. Hingað til hef ég séð í gegnum fingur við hann, en ekki lengur.
Sigurður segir á einum stað í burtreiðarfrásögn sinni að ég hafi ekki haft þrek til að standa með Jóhannesi alþingisforseta Jóhannessyni, afa mínum, þegar Kristján Albertsson skrifaði ævisögu Hannesar Hafsteins og Sigurður ritdóm um bókina, en bæði í sögu Kristjáns og gagnrýni Sigurðar var Jóhannesi hrósað, enda var hann formaður Sambandslaganefndar 1918 og átti glæsilegan pólitískan feril, sem þó hefur lítt verið tíundaður og þá einna helzt í bók minni Klofningur Sjálfstæðisflokksins gamla. Hefur sú bók verið kennd við háskólann.
Sigurður segir að ég hafi verið svo hræddur við engeyinga að ég hafi verið haldinn valdótta við þá, ekki sízt Bjarna Benediktsson, svo að jaðraði við gunguhátt, þegar umdeild ævisaga Hannesar Hafsteins eftir Kristján Albertsson kom út og deilur upp hófust, bæði í Morgunblaðinu og annars staðar, um boðskap hennar.
Sannleikurinn er sá að minning Benedikts föður Bjarna var honum dýrmæt, en það kom engan veginn í veg fyrir það, að hann mæti Hannes Hafstein umfram aðra menn, rétt eins og Ólafur Thors. Gagnstætt andúð Sveins bróður hans á Hannesi.
SAM hefur aldrei botnað neitt í Bjarna, enda eðlismunur, en ekki stigsmunur á siðferðisþreki þeirra. Og vinátta okkar eftir gott samstarf á Morgunblaðinu, þegar við Bjarni vorum um skeið samritstjórar þar, hefur ávallt verið Sigurði þyrnir í augum án þess það skipti mig eða aðra neinu máli. Metnaðarkláði Sigurðar, þetta leiðarljós hans, þegar hann metur umhverfi sitt eftir á, er ekki vandamál annarra en hans sjálfs: a.m.k þangað til kemur að orðstír annars fólks og heiðri.
Hitt er rétt að mér þótti dómur Sigurðar um ævisögu Hannesar óþægilegur og taldi að andstæðingar Uppkastsins 1908, eða öllu heldur afkomendur þeirra, hefðu fengið ærna ástæðu til að ætla að ritstjóri Morgunblaðsins stýrði penna þessa dómsjúka blaðamanns síns
Það var allt og sumt.
En SAM mistúlkar það eins og annað. Og þar með er frásögn Sigurðar eins og hver önnur afturlappafæðing a la annað sem mér er kunnungt úr þessu sjálfhverfa ævisagnabasli hans.
Eða átti ég að misbeita Morgunblaðinu út af þessari umdeildu ævisögu sem fjallaði um löngu liðið pólitískt karp og kom ritstjórn minni í raun og veru ekkert við. Átti ég að misnota blaðið fyrir Jóhannes afa minn? Eða Benedikt Sveinsson sem einnig slapp heilskinnaður úr þessu ati? Það hefði Sigurður áreiðanlega gert, ef draga má ályktun af því sem hann segir um “ótta” minn.
SAM fullyrðir að ég hafi fengið frí frá störfum á Morgunblaðinu, meðan ég var að skrifa Kompaníið. Það er alrangt, ég fékk ekkert frí.
SAM segir að ég hafi óttazt að ég yrði rekinn frá Morgunblaðinu, þegar Kompaníð kæmi út. Ég hafði haft þetta í flimtingum, auðvitað óttaðist ég þetta aldrei í raun.En Sigurður misskildi það að sínum hætti.Bjarni Benediktsson, þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins, fylgdist eitthvað með þessum skrifum mínum og stríddi mér með Þórbergi. Eitt sinn kom hann að mér þar sem ég var að sýsla eitthvað við samtölin og sagði brosandi: Alveg heillaður af Þórbergi!
Annað var það nú ekki.
En mér er óskiljanlegt hvað þessi skrif mín koma ævisögu Sigurðar A.Magnússonar við. Það má vera hann hafi skrifað eitthvað um bókina, en það var þá áður en Mr.Hyde kom til sögunnar og fór að segja mér,hvernig ég ætti ekki að yrkja! En allt skiptir þetta engu máli úr því sem komið er
Þá skil ég ekki heldur hvað samtal mitt við Lois Armstrong kemur ævisögu SAMs við, en það var endurprentað í Samtöl-M sem var prentað í stóru upplagi og er víða til.SAM segir að þetta samtal hafi kallað fram kynþáttahatur sem að mér skilst á að hafa beinzt að mér. En þar var um að ræða bæði fáar raddir og hjáróma og skiptu engu. Ég fékk þvert á móti mikið hrós fyrir samtalið og þá ekki síður þakklæti, enda birtist með því einhver skemmtilegasta mynd sem ég hef séð af Lois.Hún er eftir Ólaf K.Magnússon, tekin meðan við töluðum saman og hann var að raka sig á hótel Sögu.
Samtalinu við Louis var ekki síður vel tekið en því sem ég átti við Ellu Fitzgerald, en það birtist einnig bæði í Morgunblaðinu og Samtölum-M. Hún var eitthvað örg, þegar við hittumst, en það bráði af henni og engin slagsíða, þegar við kvöddumst á hótel Sögu. Hún hafði að vísu einhverjar áhyggjur af dræmri aðsókn að hljómleikum hennar í Háskólabíói, en þó einkum af ástamálum sínum. Hún hafði verið leynilega trúlofuð norskum upptökustjóra,Thor Larsen, en þetta ævintýri gufaði upp nokkru áður en við hittumst vegna þess að Larsen var ákærður fyrir að stela peningum frá fyrrverandi unnustu sinni og var dæmdur í 5 mánaða fangelsi.
Allt olli þetta Ellu bæði sorg og áhyggjum sem ég upplifði í samtalinu. En því var mjög vel tekið og ég varð aldrei var við neina forsóma vegna þess.
Ég get svo nefnt í framhjáhlaupi að ég upplifði sameiningu Rithöfundasambandsins með öðrum hætti en Sigurður,t.a.m. treystu Indriði G,Þorsteinsson og Guðmundur G.Hagalín SAM og félögum hans ekki fyrir sameiningunni og þurfti ég að ganga á milli.Það voru erfið samtöl .Og þegar Rithöfundaráðið leystist upp var mér ekki sízt um kennt.Ég hafði verið varaður við,en ekki tekið mark á aðvörun vina minna.En Rithöfundaráðið fór í vaskinn vegna gagnkvæmrar tortryggni.Það leystist upp þrátt fyrir góðan tilgang Sigurðar,án þess ég nenni að tíunda það frekar.En Rithöfundasambandið hélt velli,þótt Indriði vildi að ég held aldrei ganga í það.Ég var stundum spurður um það,hvers vegna ég segði mig ekki úr því.Ég svaraði því til,að ég segði mig ekki úr samtökum sem ég hefði átt þátt í að sameina.
Það var ekki tekið gilt.
En á ýmsu gekk og þurftum við nokkrir rithöfundar t.a.m.að gefa út sérstaka yfirlýsingu í varnarmálum,af gefnu tilefni,en raunveruleg átök voru lítil sem engin.
En allt er þetta önnur Ella,ef svo mætti segja,og skiptir mig engu fyrst sambandið sjálft hékk saman á málningunni og var það ekki sízt eftirmönnum Sigurðar,Nirði P.Njarðvík og Sigurði Pálssyni að þakka,en síðan hefur sambandið verið á lygnum sjó,eða frá því kalda stríðinu lauk.Mér er nær að halda að þar ríki engin pólitísk tortryggni lengur og er ástæða til að fagna því.Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson ,núverandi formaður , hefur staðið sig með ágætum og séð til þess að það gæti starfað nokkurn veginn snurðulaust.
Sigurður hefur eftir mér einhverja setningu meðan á sameiningunni stóð og þá auðvitað til að sýna inn í tvískinnung minn eða linku og læt ég það sem vind um eyru þjóta.Það mundi æra óstöðugan að vitna til alls þess sem hrökk af vörum íslenzkra rithöfunda þá um stundir,enda er það allt gleymt og grafið.
Sem betur fer.
Nema auðvitað ummæli mín þess efnis að ekki sé unnt að sameina samtök rithöfunda.Hefði það ekki heldur tekizt án aðildar þeirra rithöfunda sem SAM hefur verið með á heilandum,svo að ég vitni til hans eigin orða af öðru tilefni!
SAM segir að Tómas Guðmundsson hafi endursamið samtöl við hann og ég hafi orðið illur út í hann fyrir bragðið. Það eitt gerðist sem ákveðið hafði verið fyrir fram, að við áttum mörg og löng samtöl, oftast heima hjá honum, ég ákvað formið, þ.e. dró saman eina spurningu í upphafi hvers kafla úr öllum þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann, en síðan kemur svar hans sem er einskonar samtalsritgerð eða niðurstaða um ákveðin, efni, en ekki mannlýsing. Ég valdi og hafnaði úr samtölunum, þjappaði þeim saman og afhenti Tómasi svo handrit sem hann ritstýrði fyrir prentun, enda fjallað um hans eigin hugmyndir, en ekki mínar. Þessi samtöl voru ekki skrifuð til að mæra mig, heldur hann, eins og segir í formála mínum fyrir þeim. Og hvað var þá eðlilegra en hann hefði síðasta orðið? SAM skilur það auðvitað ekki, því að hann hefur einkaleyfi á síðasta orðinu!
Samstarf skálda er ekki óalgengt, ég minni á ritskoðun Pounds á Eyðilandi Eliots, án þess hælbítar hefðu neitt við það að athuga. Þess má þá einnig geta að margar góðar ábendingar hef ég þegið af vinum mínum.
SAM fylgdist víst eitthvað með því þegar ég skrifaði Kompaníið, enda í næsta bás á ritstjórn Morgunblaðsins við Aðalstræti (eins og þjóðviljamenn og ýmsir vinstri menn aðrir höfðu að gamanmálum, þegar Sigurður var að hrósa verkum mínum á þeim árum, þótt hann hampi þessum greinum ekki lengur!), en samt getur hann ekki farið rétt með staðreyndir, ég veit raunar ekki af hverju hann vill endilega að ég hafi einungis verið í hálfu starfi um þetta leyti, það hefði svo sem ekki verið neitt niðurlægjandi!
En ég minnist þess ekki að ég hafi talað við SAM um samtöl okkar Tómasar, enda heldur kalt milli þeirra. Raunar þoldi Tómas hann ekki og varaði mig oft við honum. Aftur á móti leitaði Sigurður til mín löngu síðar, þegar hann var að skrifa ævisögubrot sr. Sigurbjörns byskups Einarssonar og lenti í einhverjum vandræðum án þess ég muni það nákvæmlega. Við borðuðum saman í Bernhöftstorfunni og ég veit ekki betur en hann hafi verið ánægður með samtal okkar. Ég gæti trúað því að vinátta þeirra sr. Sigurbjörns sé með eitthvað svipuðum hætti og samstarf okkar Tómasar gegnum tíðina. Sr. Sigurbjörn treysti SAM fyrir ævi sinni og Tómas mér fyrir að koma hugmyndum hans á framfæri. Hann gat helzt ekki hugsað sér að fjalla um eigin kvæði og estetíska afstöðu með öðrum hætti.
Það vita bæði guð og menn að á sama hátt og Tómas gat skrifað betur en ég um sjálfan sig, ef út í það hefði farið, þá hefði sr. Sigurbjörn einnig getað skrifað betri ævisögu en SAM. En það féll bara í okkar hlut að koma þessum minningum á framfæri, þó ætti ég hvað Tómas varðar frekar að segja hugmyndum eða viðhorfum, því að auðvitað er ekki fjallað um afstöðu mína í samtölum okkar Tómasar, heldur eingöngu smekk hans og viðhorf.
Af þeim sökum eru þau verðmæt.
Hvernig liti það nú út, ef ég færi af tilefnislausu að snúa út úr samstarfi þeirra Sams og sr. Sigurbjörns, en vinátta þeirra er áreiðanlega einhver dýrmætasta eign Sigurðar?
Ég hélt satt að segja að hann liti svipuðum augum á okkar ærslafullu vináttu í gamla daga, en á hana er minnzt í dagbókum mínum án þess ég fari að vitna til þess hér.
En það er nú eitthvað annað. Og við það verður að sitja, að hann metur þessa vináttu einskis.
Bernhöftstorfan verður til annars samskrafs en okkar tveggja.
Þegar við SAM vorum einhvern tíma að tala um æskuvináttu Becketts og Hinriks konungs og hvernig nýir hagsmunir og ábyrgð gengu af henni dauðri – og erkibyskupnum líka - þá greip Sigurður fram í, Ég er Beckett!! Hann var sem sagt píslarvotturinn! Það var í samræmi við ólæknandi sálardrep hans.
En hvor verður fyrir þungum höggum í ævisögum Sigurðar, er það hann?
Eða ég?
Ef SAM gæti einhvern tíma tekið réttan pól í hæðina, hefði hann átt að fagna því að Tómas féllst á að eiga samtöl við mig, svo varkár eins og hann gat verið, í stað þess að reyna af tilefnislausu að skúta mig og útbía vináttu okkar Tómasar, sem vart bar skugga á. Mundi ekki vera nóg að gert að koma gamalgróinni vináttu okkar Sigurðar fyrir kattarnef, þótt ekki sé einnig gerð atlaga, auðvitað að tilefnislausu og án þess það komi ævi Sigurðar A. Magnússonar á nokkurn hátt við, að vináttu okkar Tómasar og reynt að varpa skugga á hana?
Vinátta okkar Tómasar var traust og góð og því traustari sem við kynntumst betur. Eins og ég sagði, þá varaði hann mig við SAM eins og raunar margir fleiri, t.a.m. Bjarni Benediktsson, en ég gaf því ekki gaum á sínum tíma. Ekki hefði Tómas viljað fá SAM í bókmenntaráð AB og skrifaði þó enginn meir um bókmenntir en hann.
Ólafur Friðriksson sat eitt sinn sem oftar ásamt félögum sínum á kaffihúsi í Reykjavík. Þá gerði einn vina hans atlögu að skáldiskap manns sem var þeim öndverður í pólitík. Ólafur greip fram í fyrir þessum vini sínum og sagði það væri siðlaust að ræna mann ritheiðri hans. .
Ég þykist vita hvernig Ólafur hefði brugðzt við gaspri Sigurðar.
Ég á að hafa stöðvað einhverja erlenda bók á vegum SAMs, þegar hún kom til AB og Baldvin vinur minn Tryggvason borinn fyrir því. Ég þykist vita það hvarfli ekki að Baldvin að elta ólar við fullyrðingar Sigurðar, en verð þá að hafa fyrir því sjálfur, enda hafði ég ekkert með þessa bók að gera og minnist hennar með engum hætti. Baldvin segist aldrei hafa í samtölum við SAM talað um mig í sambandi við þessa bók né aðrar, fullyrðingar hans séu tilbúningur. Kannski ímyndun. Og því má þá bæta við að þær séu í bezta falli minnisröskun. En hvað sem því líður, þá sýna þær inn í hugskotið; þær bera hugarfarinu vitni. Lýsa ímyndunarveiki SAMs betur en afstöðu minni. Að því er ég kemst næst með því að berja þennan texta Sigurðar augum kemur hann mér í raun og veru ekkert við, en lýsir inn í hugarfar Sigurðar og ólæknandi fordóma hans. Í gegnum tíðina hefur hann einnig breytt litríkum útgáfum sínum á því hvernig hann hætti á Morgunblaðinu, fyrst í stað rak ég hann frá blaðinu, þótt hann hefði sjálfur sagt upp störfum sínum þar og tilkynnt mér það að framkvæmdastjóra blaðsins, Haraldi Sveinssyni, viðstöddum, síðar hrakti ég hann frá blaðinu og loks hætti hann sjálfur, þegar hann fékk starf við Samvinnuna, sem eftir það þurfti endilega að heita SAMvinnan!
En svona margsagnir sóma þeim einum sem véla um alfræðibækur einræðisherra.
Þá minnist ég þess ekki heldur, þegar hálfsystur Sigurðar var nauðgað á Keflavíkurflugvelli. Þá á ég að sögn Sigurðar að hafa hlegið! Slík skrif eru auðvitað ekki svaraverð.
Sigurður enn í glerhúsinu;auðvitað.
Á sama tíma skrifar rithöfundur og bókmenntakennari , Þórey Friðbjörnsdóttir,grein í
Lesbók (9.júní 2001) og sakar Sigurð um fordóma og karlrembu;vandlætingu,tvískinnung,hroka og blindni (svo að vitnað sé í innífyrirsagnir) og bendir í lok greinarinnar á hann sem arftaka karlrembunnar Peters Nansens,forstjóra Gyldendals, sem hafnaði Sigrid Undset á sínum tíma.
Hvorki meira né minna!
Það skyldi þó ekki vera að eitthvað af þessu mætti einnig lesa út úr ævisögunni og er mér sízt af öllu hlátur í brjósti,þegar ég hugsa til þess.
Sitthvað fleira mætti víst tína til, ef maður læsi þessi skrif ofan í kjölinn, en það hef ég ekki gert. Og ætla mér ekki að gera, ekki frekar en ég færi að eyða tíma og kröftum í eitthvert bæjarslúður. Ég fór með þetta rit þarna á Þjóðarbókhlöðunni eins og Steinn kenndi mér að lesa vondar bækur: ég fletti því.
Og þá man ég eitt af því sem særði mig ungan í samskiptum okkar SAMs, þótt hann hafi aldrei goldið þess, hvorki þá né síðar, það var þegar hann bað mig um hann fengi að skoða handritið að Borgin hló með athugasemdum Steins Steinars. Ég lánaði honum handritið sem mér var dýrmætt, en hef aldrei séð það síðan. Hann sagðist hafa sett það inn í Time-magazine og týnt því!
Úr því sem komið er trúi ég þessari afsökun ekki frekar en öðrum munchhausen-sögum Sigurðar.
Þessi herferð SAMs í fyrrnefndum ritum á lítið skylt við upphafleg áform hans um fagurfræðileg tök á efninu. Hún er grjótkast, stundum úr glerhúsi, það er allt og sumt. Eins konar hefndaraðgerð fyrir eigin sjálfsskaparvíti. Afsökun. En hún hefur aukið mér skilning á skísófrenískri afstöði SAMs til mín á liðnum árum; að vísu. Hún hefur ekki sízt birzt í athugasemdum eða yfirlitsgreinum um íslenzkan skáldskap erlendis. Sem sagt, útflutningsvara! Og það jaðrar við að SAM hafi komið sér upp einkaleyfum í þeim efnum án þess ég skilji þennan áhuga og þessi yfirgengilegu tengsl við útlendinga. Þau stafa a.m.k. ekki af hégóma, því að SAM er ekki snobb í venjulegri merkingu.
SAM lét meira að segja svo lítið að biðja mig um að tala við Ólaf G. Einarsson, þáverandi menntamálaráðherra, um það, hvort hann gæti ekki fengið að halda áfram í tveggja manna bókavalsnefnd fyrir norðurlandaráðsverðlaunin, eftir að tími hans var útrunninn. Það var sem sagt mitt spillta framlag til þess máls, enda fór þetta hljótt og á bak við tjöldin! Sigurður er ekki generös maður, þegar aðrir eiga í hlut, en hann er góður við sjálfan sig, það vissi ég þá, en talaði samt við Ólaf án þess ég telji það hafi ráðið neinum úrslitum um það, að Sigurður fékk eitthvað að halda áfram, enda ekki verri fulltrúi í þessari tveggja manna nefnd en hver annar. Þar voru þeir saman Jóhann Hjálmarsson og hann, samt þarf hann að niðurlægja Jóhann í skrifum sínum.
En það er ekki verið að tíunda spillingu eins og ég nú nefndi í þeim tveimur bókum sem ég hef verið að glugga í og fjallað hér um af lítilli ánægju. Og enn minni áhuga.
Þessi sjálfhverfa afstaða Sigurðar hefur verið ávísun á alls kyns buslugang og hvað hann getur vaðið grunnt, ef því er að skipta; engu líkara en hann festist í einhvers konar flatbotna hugmyndum um hafdjúpin, þegar hann lítur um öxl og mínusar umhverfi sitt.
Meðan við vorum samstarfsmenn skrifaði Sigurður vel um bækur mínar, en síðan með gallkenndri þykkju, eins og mér hafi hrakað stórlega eftir að leiðir okkar skildu upp úr miðjum sjöunda áratug. Auðvitað trúir hann því ekki sjálfur, þótt hann hafi áreiðabnlega getað talið sér trú um mikilvægi sitt í lífi mínu, svo sjálfhverfur sem hann er. En að óreyndu hefði ég sannast sagna haldið að hann hefði meira þrek en þetta lýsir, en annað kom í ljós, án þess það væri mér þó neitt umhugsunarefni.
Þegar ég lít yfir það, hvernig SAM vegur viðstöðulaust í knérunn, þótt höfundur Njálu vari við slíkum aðgerðum, dettur mér einna helzt í hug frumskógarkarlinn í sögu Evelyn Waughs, The Man who liked Dickens. Þeir Sigurður eiga það sameiginlegt að stjórna ferðinni með óvenjulegum brögðum: Söguhetjan, ungur Breti, fer á Amason-svæðið, villist í regnskóginum, hrekst og er nær dauða en lífi, þegar karlinn finnur hann og leiðir hann til kofa síns, sem er í næsta nágrenni við indíánabyggð.
Karlinn hafði áður haft í húsi sínu annan mann sem liggur nú dauður þar í nágrenninu og kross á gröf hans. Hann hafði víst á sínum tíma heitið á hurðir karlsins og fengið hæli hjá honum með því skilyrði að lesa viðstöðulaust fyrir hann úr ritverkum Dickens, en þau voru ástríða karlsins.
Sem sagt, Dickens skyldi í gestinn hvað sem hver segði. Og svo lá hann þarna dauður úti í garði, en nýr hrakningsmaður kominn til skjalanna. Hann fékk líka það hlutverk að lesa Dickens fyrir karlinn. Alltaf var hann að vonast til þess að komast til mannabyggða, en karlinn sá til þess svo yrði ekki. Engan bát að fá hjá indjánunum, enga aðstoð neins staðar. Svo að vesalings maðurinn varð einskonar frumskógarfangi.
Dag einn fór karlinn með Bretann í veizlu til frumbyggjanna. Þar drakk hann illskeyttan indjánamjöð og vaknaði ekki fyrr en daginn eftir. Saknaði þá úrsins síns.
Jú, karlinn sagði að þrír björgunarmenn hefðu komið að skyggnast eftir Bretanum, en hann hefði gefið þeim úrið hans til að færa konunni heima í Bretland. Hann væri dauður og lægi þarna í gröfunni þar sem krossinn stóð. Og þér var nær að kunna þér ekki hóf! Og nú hefurðu, sagði karlinn nægan tíma til að lesa fyrir mig úr Dickens.
Þannig blasti eilífðin við aðkomumanni!
Og enn skulu menn halda áfram að lesa minningar SAMs hvað sem tautar og raular og ekki nóg með það, heldur eiga þeir að trúa þeim!
Mætti ég þá heldur biðja um Dickens og eilífðina við Amason-fljót!
Mér er nær að halda að grjótkastið sé einna helzt dæmi um það vonda sem Sigurður vildi ekki, en gjörði samt, enda það veganesti sem hann hlaut í æsku, ef marka má það bitastæðasta úr dapurlegum endurminningum hans.
En því er ekki að neita, að ég sit uppi með kynni mín af Gunnari Lambasyni Morgunblaðsins. Hann gat allt, hann vissi allt betur en aðrir, hann breytti Lesbókinni, hann var rekinn af Morgunblaðinu, en samt stjórnaði hann ferðinni! Í hita baráttunnar gleymir hann því að sjálfsögðu að hann var aldrei ritstjóri Lesbókar, heldur fulltrúi okkar ritstjóranna. Það skyldi þó ekki vera að eitthvað sé til í því sem maður að nafni Ólafur H. Hannesson fullyrðir i bréfi til Morgunblaðsins 18. apríl s.l., en ég þekki ekki manninn, þótt vert væri að kynnast honum: ”Sigurður A. Magnússon, sem eitt sinn vann á Morgunblaðinu, en flæmdist þaðan, vegna þess að honum fannst Matthías Johannessen tekinn fram fyrir sig og undraði það engan, skrifar ruglingslegar greinar í Dagblaðið um eigið ágæti og óréttlæti þess að hann fær ekki heiðurslaun listamanna og fyrir hvað má ég spyrja?”
Ekki veit ég þetta, því ég hef yfirleitt ekki lesið DV-greinar SAMs. En Ólafur hefur augsýnilega lesið ýmislegt út úr þessum “ ruglingi”! Og mér er nær að halda það hafi einnig ýmsir aðrir gert.
Það er kannski sérkennilegast við skrif SAMs,hvað hann er sæll í píslarvætti minninganna. Og hvað hann nýtur þess. En ég velti því fyrir mér, hvort ráðgjafi hans og mentor, hver sem það er, nýtur þess jafnvel að fylgjast með níðinu um gamlan “vin” Sigurðar.
Eða þá forlagið, mitt eigið forlag!
Skyldi risið á því hafa hækkað við útgáfuna? Ekki skilst mér það.
Það hlýtur að hafa getað fjárfest í arðbærara upphlaupi!
Freysteinn Jóhannsson fréttastjóri hraðlas bók SAMs fyrir jólin 2000 og sagði við mig föstudaginn 1. des: Dr Jykell og Mr. Hyde hafa skrifað þessa bók í sameiningu!
Bezt gæti ég trúað það sé rétt!
En hvað sem því líður, þá er hér um heiður minn og orðstír að tefla.
Undan því verður ekki vikizt öllu lengur.
En Sigurður mun koma af fjöllum. Hann mun ekki skilja, hví í ósköpunum mér er svo þungt fyrir brjósti. Og samvizkan mun hvísla að honum: Þú hefur ekki gert neitt af þér. Þú hefur ekki gert neitt á hlut hans. Þú ert bara “tyftari” hans eins og þú hefur sagt í bréfi til hans. Þú hefur aldrei sagt að Matthías væri skítseiði! Þú hefur aldrei vegið að mannorði hans. Þú, krossfarariddari sannleikans.
Sjálft sannleiksvitnið!
Menn hljóta líka að hafa eitthvert olnbogarúm, eitthvert skáldaleyfi, þegar þeir skrifa meistaraverk!.
Þú ert saklaus; auðvitað ert þú saklaus.
En Matíhías er móðursjúkur.Tekur sjálfan sig alltof hátíðlega.Hann er ekkert orðinn betri en Jón þumlungur. Sér skrattann í öllum skotum. Og nú er hann búinn að fá mig á heilann!
Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán!
Það er með ólíkindum hvernig SAM hefur sankað að sér blaðaúrklippum um sjálfan sig.Tilvitnanir um þær yfirfylla þessar bækur sem ég hef litið í,svo að út af flóir. Engu líkara en Narkissos sé að skrifa sjálfsævisögu sína. Það var kannski engin tilviljun þegar SAM orti kvæðið um Narkissos á sínum tíma-og raunar við hæfi; eitt af þessum ágætu kvæðum sem Tómas kunni ekki að meta.
Þegar nota á samtal mitt við Arthur Miller honum til aðstoðar í átökum við óamerísku nefndina, þá er samtalið einhvers konar aukaatriði, en afskipti SAMs af málinu það sem öllu skiptir, því að hann var beðinn um að snara því á ensku. Ástæðan var sú að hann var staddur í New York!
Magnús Kjartansson réðst á mig fyrir þetta samtal, taldi ég hefði snúið því gegn sósíalistum, en þýðandinn lenti í náðarfaðmi hans áður en áratugur var liðinn. En aðalatriðið var að það kom Miller að gagni í baráttu hans við mccarthýistana bandarísku,þegar hann átti undir högg að sækja. Það var endurbirt í Hugleiðingum og viðtölum,1963, en Ragnar í Smára bjó til þá bók úr greinum mínum og samtölum. Það hefði því verið hægur vandi fyrir SAM að rekja efni þess, en það fellur ekki í kramið í svona sannfræði, sem hefur það markmið að endurskrifa söguna og búa til skúrka samkvæmt uppskriftum kalda stríðsins.
Auk þessa sjálfsdekurs eru forsendur allra þessara skrifa Sigurðar hárfínt innra ritskoðunarkerfi sem virðist allt að því eins skothelt og Masínólínan! Það er ekkert að marka, þótt SAM hafi birt skammarbréfið frá mér, það gerir hann til að geta birt sitt eigið svívirðingabréf og villa um fyrir lesendum, svo að þeir haldi að hann sé sanngjarn.
Sem sagt, partur af þessu útsmogna kerfi.
Enn í lokin lítið dæmi um þetta kerfi:
Í einni bókanna er sérstakur kafli um Grikklandshreyfinguna.Þar er fjallað um grísku herforingjastjórnina sem var sniðin að lögmálum gamalla fasista. Sigurður tíundar helzt alla andstæðinga þeirra hér á landi og baráttu þeirra gegn ógninni. En hann gætir þess vandlega að geta ekki um afstöðu okkar morgunblaðsmanna gegn þessari stjórn og þá er þess ekki sízt vandlega gætt að minnast ekki á ræðu mína á fundi sem við vorum báðir á í Sjálfstæðishúsinu gamla, þar sem ég gerði harða hríð að þessum grísku fasistum og benti á það óorð sem þeir kæmu á Atlantshafsbandalagið.Höfðu þó hagsmunaaðilar í fiskiðnaði varað eindregið við slíkum málflutningi, ekki sízt af hálfu Morgunblaðsins og ritstjóra þess.En - ekki ein setning um þetta eða tilvitnun í Morgunblaðið. Og þess að sjálfsögðu gætt að vitna ekki í ræðu mína, en það hefði verið ágætlega til fallið, því að ég held ég sé búinn að týna henni! Hún hefði þá kannski varðveitzt!
En það hefði ekki passað inn í óhróðursherferðina gegn mér og blaðinu.
Auk fordóma einkennast skrif Sigurðar af ótrúlegu ofstæki og hefði ég á sínum tíma ekki látið mér detta í hug, hvílíka hæfileika hann hefur í þeim efnum. Allt verður þetta svo dálítið væmið, þegar sjálfsvorkunnin bætist við.Þessi tilreiddi kryddlögur er, og það er kannski verst, bragðbættur með algjöru húmorsleysi . En það á þátt í því að gefa þessari skýrslugerð sannferðugri svip en ella.Og þá líklega einnig kalla fram einhverja vandlætingu hjá þeim sem þekkja ekki til. En glöggur lesandi ætti að sjá að það er fölsk vandlæting;jafnfölsk og undirtónnin í þessum skrifum. Það er ekki einu sinni hægt að hafa gaman af hugmyndafluginu eða frumleikanum,því að hvorttveggja skortir. Þannig dettur SAM ekkert annað í hug, þegar hann er að lýsa “vináttu”þeirra Þórbergs, en Chaplin! Það verkar á mann eins og hver önnur klissja, en ekkert var Þórbergi fjarri en klissjukerfi af þessu tagi.
Þegar ég var píndur undir svipmynd af SAM í Heima er bezt, það var víst í tilefni af útkomu bókarinnar Nýju fötin keisarans (enn ein klissjan!), datt mér ekki í hug að skrifa einhverja raunsanna lýsingu á fyrirmyndinni, því það hefði orðið kollrak, heldur reyndi ég að stilla honum upp andspænis vindmyllum sínum, ekki af illmennsku, heldur góðlátri gamansemi.
Nú sé ég eftir öll þessi ár að Sam móðgaðist af þessu alvöruleysi (sem fjallaði bæði um NATO og Diógenes í tunnunni) og hugsaði mér þegjandi þörfina (eins og alltaf) fyrir alvöruleysið, en í þessum heldur ómerku orðum gerist ég óvart einhvers konar spámaður,því að ég segi “þó er aldrei að vita upp á hverju menn geta fundið þegar samkeppnin er hörð og tvísýn”
Þessi orð eru fyrirboði þess sem varð.
Sigurður segir: ”En þegar ég las ritsmíðina þóttist ég skynja einhvern hálfkæring sem kom ónotalega við mig”!
Ég tók hann sem sagt ekki nógu alvarlega!
Og hverjar voru afleiðingarnar? Þær voru með ólíkindum og sýna að Sigurður hefur með skrifum sínum ætlað að hefna þess í ævisögunni sem hallaði í lífinu. Og til þess þarf hann að grípa til örþrifaráða:
“Við lestur greinarinnar þóttist ég renna grun í hversvegna Matthíasi hefði ekki þótt sér henta að hafa afskipti af Samtökum um vestræna samvinnu.Vissulega var hann bæði harður andkommúnisti og NATO-sinni, en vildi halda listamannsárunni hreinni með því að hafa ekki bein afskipti af mjög umdeildu máli”.
Þetta umdeilda mál var sem sagt baráttan við heimskommúnismann og fyrir traustum vörnum í kalda stríðinu; þ.e.a.s. aðild að Atlantshafsbandalaginu sem var grundvöllur utanríkisstefnu Morgunblaðsins.
Oft gengur SAM svo fram af manni í fullyrðingum sínum ,að orðs er vant,en þvílíkt og annað eins gefur helzt í skyn að hann sé sjálfur fastur í sinni eigin tunnu! Og þar húkir hann sármóðgður með Díógenesi!
Og nýtur útsýnisins!
Og það er ekki einasta að hann snúi út úr og heimfæri allt upp á sinn skilning, heldur dettur manni á stundum í hug að hann hafi ekki lifað og hrærzt í eigin umhverfi og okkar, heldur einhverjum fjarstæðuveruleika sem hann reynir að spinna inn í atburðarás sem enginn hefur upplifað nema hann einn. Samt er niðurstaðan eins og félagsfræðileg skýrslugerð!
Stundum vitnar hann í gagnrýni annarra á verk sín, en það gerir hann til að sýnast og minna á axarsköft þeirra sem kunnu ekki að meta skáldskap hans, en sízt af öllu af neinni sjálfskoðun eða auðmýkt. Árásir hans sjálfs, t.a.m. á mig og verk mín, eru af sama toga; hann skal sko ekki sleppa fyrr en lágkúra hans er stimpluð inn í eilífðina!!
En hefur Sigurður A.Magnússon slíkt vald, að hann geti gengið frá orðstír og mannorði þeirra sem hafa verið fyrir honum í lífinu?
Allir segja mér að hann hafi ekki slíkt vald, hvað sem hann heldur sjálfur. Ég er í vafa; hef eiginlega ekki verið þeirrar skoðunar - og þó!.
Það er hægt að vega fólk með orðum, einkanlega ef það lætur gott heita, ypptir kæruleysislega öxlum og gefur ofstækinu frjálsar hendur, ef svo mætti segja.
Alltaf að svara þeim, sagði Bjarni Benediktsson, alltaf að svara þeim!
Og átti þá ekki sízt við bullið í Sigurði A. Magnússyni eftir að það hentaði honum betur að viðra listamannsáruna hreinu í aftanskini vina sinn á vinstra væng en í fjaðrafokinu okkar morgunblaðsmanna.
En varð hann eitthvað betra skáld fyrir bragðið?!
Hann varð a.m.k ekki betri annálsritari!
Sigurði A.Magnússyni tekst vel upp, þegar hann skrifar um sjálfan sig, eins og hann hefur gert í ófáum bókum, segir Hannes Hólmstein Gissurarson á netslóð sinni, endurprentað úr DV 2001, og er þá að verja Davíð Oddsson fyrir vindhöggum Sigurðar, eins og segir í fyrirsögn.
Ég skal ekkert segja um þetta sjálfan sig, en ég hef ekki þessa reynslu af því sem Sigurður skrifar um aðra,enda hef ég einungis gluggað í það – og þá í því skyni að verja hendur mínar. Annað erindi hef ég ekki átt við þennan narkissusar-spegil míns gamla félaga.Hann minnir mig stundum á Babbitt, þegar honum tekst bezt upp í forstofuspeglinum sínum!
Kannski skilur Hannes Hólmsteinn Sigurð betur en ég og þykir mér það ekki ólíklegt.; hann segist vera kominn af alkunnu kjaftakyni,eins og nefnt er á vefslóðanum, en mig skortir þessa genetísku arfleifð til að kunna að meta reynsluboðskap Sigurðar.
Þegar ég hafði flett mig út úr klissjuhröngli SAMs leið mér eins og ég væri eitt af illmennunum í skáldsögu Anne Rice um Armand og úrhrök heimsins. Þar leika vampírurnar hlautverk hins góða fulltrúa guðdómsins með því að leggjast á illmennin og útrýma þeim fyrir guðlegan málstað. Og hin goðumlíka vampíra Armand gengur upp í hlutverki sínu sem er harla gott. En engum sögum fer af illmennunum. Þau eru blóðlaus fórnardýr í þessum guðdómlega gleðileik. Geta ekki lengur hótað neinum að drepa hann í Morgunblaðinu, fá ekki lengur tækifæri til að vinna illvirki fyrir myrkrahöfðingjann Bjarna Benediktsson og þeim er jafnvel fyrirmunað að hlæja að nauðguðum konum!
Guði sé lof fyrir allar blóðsugur samtímasögunnar, svo ég tali nú ekki um hinn eina sanna Gunnar Lambason.
4. maí, laugardagur
Í FORYSTUGREIN Morgunblaðsins hinn 3. janúar 2001, sem nefndist Matthías og Morgunblaðið, þar sem fjallað var um starf Matthíasar Johannessen á Morgunblaðinu í hálfa öld í tilefni af því að hann lét af störfum sem ritstjóri blaðsins um þau áramót, sagði m.a.: "Matthías Johannessen er höfundur að stefnu Morgunblaðsins í fiskveiðistjórnarmálum. Fljótlega eftir að kvótakerfið kom til sögunnar fór hann að tala við samstarfsmenn sína um þá vankanta á kerfinu, sem síðar urðu almennt viðurkenndir. Hann mætti litlum skilningi innan ritstjórnarinnar í fyrstu en síðar komu aðrir til sögunnar og tóku þátt í þeirri baráttu, sem hann hafði hafið." Í gær samþykkti Alþingi lög, sem fela m.a. í sér að tekið verður upp auðlindagjald í sjávarútvegi. Þar með hefur það grundvallaratriði, sem Morgunblaðið hefur barizt fyrir á annan áratug, orðið að lögum. Á þeim tímamótum hefur Morgunblaðið óskað eftir umsögn Matthíasar Johannessen fyrrverandi ritstjóra blaðsins um þá niðurstöðu og fer hún hér á eftir:
Þegar Morgunblaðið var að berjast fyrir réttlátri fiskveiðistjórnun sögðu sannleiksvitni í Sjálfstæðisflokknum, að ritstjórar blaðsins væru sósíalistar. Blaðið hélt því fram að það væri ósiðlegt að braska með kvóta eins og gert hafði verið og veita útvöldum rétt til að selja og veðsetja sameignina eins og þeir ættu hana. Ritstjórar blaðsins töldu sem sagt ekki, að það væri í anda kapítalismans að menn gætu lagt undir sig eigur annarra vegna þess að þeir höfðu komizt yfir gamla ryðkláfa sem voru einhvers konar ávísun á brask og óréttlæti, þegar kerfið var tekið upp.
Í þessu þjarki hefur staðið allar götur frá upphafi níunda áratugarins og margar hnútur flogið um borð af þeim sökum. Að því kom að blaðið taldi að unnt væri að fullnægja réttlætinu með því að eigandinn, þjóðin sjálf, fengi greitt fyrir afnot af sameigninni og á það hefur nú verið fallizt, góðu heilli. Framsal kvóta á þeim forsendum ætti ekki að særa réttlætiskennd nokkurs manns. Það er ekki sama og brask með eigur annarra.
Með þessu ætti að nást sátt um auðlindina og mun það ekki sízt koma þeim að gagni sem kunna að gera út á hana, samfélaginu öllu til heilla.
Það eru ekki sízt sósíalistarnir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem hafa beitt sér fyrir þessari siðlegu afstöðu á lokasprettinum. Það mun styrkja flokkinn og hefði mátt gera löngu fyrr.
Þessi afstaða Morgunblaðsins var liður í því að það gæti haft það hlutverk með höndum að vera blað allra landsmanna. Blaðið hélt þessari stefnu á hverju sem gekk og tókst að andæfa, jafnvel í gjörningaveðrinu mikla, þegar hæst var hrópað á sósíalistana í brúnni og þeir sakaðir um þjónkun við þá stefnu sem blaðið hefur ævinlega talið verri pólitík en það sem eitt sinn var kallað auðjöfnun upp á við, en forsenda þeirra vígorða var einkarekstur án þjóðnýtingar. En það merkti ekki að þjóðin mætti ekki eiga sameiginlega auðlind sína í friði fyrir yfirgangi alls kyns sérfræðinga og skammsýnna stjórnmálamanna sem sumir hverjir áttu jafnvel hagsmuna að gæta og töldu að þeir væru ríkið og gætu ráðskazt með það að eigin geðþótta.
Morgunblaðið hefur aldrei amazt við þeim dugnaðarforkum sem kunna öðrum fremur að gera út á gullnámuna umhverfis landið, jafnvel þótt þeir hafi fengið kvóta á silfurbakka í upphafi og hann sé grundvöllur þess gróða sem menn hampa í ársskýrslum nú um stundir. En þessum mönnum hlýtur að líða betur á sálinni, þegar þeir greiða hóflegt verð fyrir afnot af því sem fólkið í landinu á sameiginlega, hvert sem gjaldið er hverju sinni.
Sjálfur hafði ég sem ungur blaðamaður meiri ánægju af því að eiga samtöl við eftirminnilega sjósóknara en flest annað fólk í landinu. En þeir eru ekki í tízku lengur, ekki endilega.
Það ræður engum úrslitum, hvert þetta auðlindagjald er, heldur viðurkenningin á þeim grundvallaratriðum, að ekki er hægt að sölsa undir sig sameiginlega eign þjóðarinnar, þótt með lögformlegum hætti sé, heldur sé greitt fyrir afnot sem eru öllum til hagsbóta, athafnamönnum og almenningi í landinu. Slík bolabrögð hafa áreiðanlega ekki ýtt undir einkavæðingu, þar sem hún er réttlætanleg.
Menn mættu vel muna það sem eitt sinn var sagt, að þau lög sem almenningur virðir einskis og telur ólög geta aldrei fest rætur í nokkru samfélagi, hvað sem löggjafarvaldinu líður. Forréttindi eiga ekki að vera á dagskrá í nútíma samfélagi, heldur jafn réttur þegnanna; þ.e. réttlæti. Allt annað er tímaskekkja og afturhvarf til lénsskipulags. Efni í átök og sundrung.
Grikkland er hrunið, Hómer lifir, var eitt sinn sagt. Hið sama mætti segja um Morgunblaðið, þegar talað er um stórmálin tvö um okkar daga, hrun kommúnismans og fiskveiðistjórnunina. Lýðræðið og réttlætið.
Evrópusambandið er svo verkefni framtíðar. Það mun einnig snerta auðlindina og hagnýtingu hennar. Þá er nauðsynlegt að hafa það á hreinu, hver er eigandi hennar.
Ef Alþingi hefði ekki borið gæfu til að taka af skarið á elleftu stundu og marka rétta fiskveiðistefnu til frambúðar, hefðum við getað lent í þeim ógöngum sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, lýsti nýlega í útvarpssamtali, þegar rætt var um vatnsréttindi á Suðurlandi, en hann sagði eitthvað á þá leið, að málið væri harla flókið, því að menn hefðu á sínum tíma verið að selja það sem þeir áttu ekki!
Með samþykkt Alþingis hefur verið komið í veg fyrir að slík mál eigi eftir að rísa og rugla allt samfélagið einhvern tíma í náinni framtíð.
Auðlindanefnd Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, undir formennsku Jóhannesar Nordals, vann þarft starf og farsælt, en í henni var Styrmir Gunnarsson, núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, og hélt merkinu á loft.
Ég fagna því að þing og stjórn skyldu hafa siðferðilegt þrek til að stíga þetta spor og enginn vafi á því að það á eftir að verða til heilla; efla trú manna á réttlátt samfélag og siðlega afstöðu þeirra sem nú stjórna þjóðarskútunni, vonandi á sléttari sjó.
Án Morgunblaðsins hefði þetta mál að öllum líkindum ekki verið til lykta leitt, eins og við lá. Ég óska blaðinu til hamingju með sigurinn. Hann verður lengi í minnum hafður. Hann er vísbending um það hlutverk sem til er ætlazt af blaði allra landsmanna, ef það á að rísa undir nafni.
10. maí, föstudagur
Eftirfarandi birtist í Bréfum til blaðsins í dag:
Nokkur orð um hugarfar
Í Brekkukotsannál segir: Það sem aðrir halda að maður sé, það er maður. Ef einhver heldur þetta sé rétt, þyrfti ég að biðja blaðið fyrir smáathugasemd.
Þegar ég svaraði spurningu Morgunblaðsins um samþykkt kvótafrumvarps Alþingis nú á dögunum, lagði ég alla áherzlu á að tekin hefðu verið af öll tvímæli um eignarrétt á auðlindinni. Það var kjarni málsins í mínum huga. Annað aukaatriði. Kvótaeigendum var breytt í handhafa kvóta; þá sem greiða fyrir afnotarétt.
Í því felst réttlæti, hvað sem segja má um kvótakerfið að öðru leyti.
Þegar svo fulltrúi Samherja svarar mér hér í blaðinu með gífuryrðum nefnir hann það ekki einu orði, ekki frekar en beinagrindina í peningaskápnum sínum og þá á ég að sjálfsögðu við kvótabraskið.
Grein hans ber vott um einhvers konar ólæsi og kemur mínu svari ekkert við. Hann segir ég þjófkenni handhafana. Hvernig er það hægt fyrst þeir eiga ekki kvótann?! Þeim hefur verið trúað fyrir honum, það er allt og sumt, enda tala ég um lögformlega aðild þeirra að auðlindinni. Ég þjófkenndi engan, enda væri það stóralvarlegt mál.
Fullyrðing skrifarans er ósönn.
Hann segir ég telji engan eftirminnilegan sjósóknara í útgerð nú um stundir. Það er einnig ósatt.
Skrifarinn verður því annaðhvort að læra að lesa venjulegan texta, eða rækta með sér nýtt hugarfar. Það er hugarfarið sem kemur upp um skrifara allra tíma.
Loks talar skrifari Samherja um afstætt réttlæti. Maður veit svo sem hvað það merkir; auðvitað ranglæti. Afstætt lýðræði var í kalda stríðinu nefnt alþýðulýðveldi. Þar ríkti hvorki réttlæti né lýðræði.
Matthías Johannessen.
16. maí, fimmtudagur
Eftirfarandi birtist í Morgunblaðinu í dag:
Að kaldastríðinu loknu
ÞAÐ var einkennileg tilviljun að sjónvarpið skyldi hefja þáttaröð um Tyrkjaránið nokkrum dögum áður en NATÓ-fundurinn hófst í Reykjavík. Eða - kannski var það ekki tilviljun, heldur áminning.
Hryðjuverkamennirnir sem réðust á Ísland 1627, drápu fólk og pyntuðu, rændu og fluttu úr landi (alls sem svarar á þriðja þúsund manns í dag) eru af sama sauðahúsi og þeir sem nú hafa stefnt öryggi hins vestræna heims í hættu.
Þeir hafa tekið við af þeirri kerfishugsjón sem alþjóðakommúnisminn nærðist á.
Það var þá einnig tímanna tákn að fundurinn þar sem því var lýst yfir að kalda stríðinu væri lokið, skyldi vera haldinn í höfuðborg þess smáríkis sem hóf fyrsta þjóðþing sögunnar til vegs og virðingar á Þingvöllum eins og Robertson, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, minnti á í setningarræðu sinni í Háskólabíói.
Þessi langþráða athöfn fór fram í sömu höfuðborg og hýsti Reagan og Gorbasjef, þegar lokaskref var stigið úr illmennsku hálfrar aldar átaka inn í manneskjulegra andrúm í þeim löndum þar sem þetta stríð var háð; að minnsta kosti í orði og á prenti.
Það var sem sagt í köldustu höfuðborg heims sem hin kalda áferð Fenrisúlfs var strokuð út af heimskortinu.
Af því getum við verið stolt.
Og þá ekki síður því, að sagan ber þess óræk vitni að þetta hernaðarbandalag hefur fremur tryggt frið á okkar slóðum en nokkuð annað. Þeir voru því framsýnir þeir vísu landsfeður sem leiddu okkur á þessa braut, þó ekki átakalaust eins og verða vill.
Sem kaldastríðs ritstjóri fagna ég öllu öðru fremur þessum bláköldu sögulegu staðreyndum og tel NATÓ-fundinn nú, framkvæmd hans og undirbúning allan til fyrirmyndar og þá ekki síður lítilli þjóð á mörkum hins byggilega heims bæði til sóma og uppörvunar, hvað sem öllum mótmælum líður. Við lifum í lýðræðisríki og mótmælin undirstrika það fremur en flest annað.
Annar fundur hefur verið haldinn í Háskólabíói sem markaði tímamót. Það var fundur Gorbasjefs með heimspressunni að fundi þeirra Reagans loknum. Þá var ég svo heppinn að ná eyrum sovézka leiðtogans og gat spurt hann þeirrar mikilvægu spurningar, að mér fannst, hvort það hefði verið erfið ákvörðun að koma til Íslands og reyna að ljúka heimsátökunum þar, enda væri landið eitt af aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins, en ekki hlutlaust.
Gorbasjef sagði það hefði á engan hátt verið erfið ákvörðun og skipti aðild Íslands að NATÓ engu máli í því efni. Sovétar litu ekki á Ísland sem árásarríki og héðan stafaði þeim engin ógn, það vissu þeir hvað sem áróðri leið.
Fyrir okkur sem höfðum lagt áherzlu á vestrænt samstarf, jafnvel hernaðarsamstarf til að styrkja undirstöður sjálfstæðis og lýðræðis, en jafnframt mikilvægi friðsamlegrar sambúðar var þetta svar sovétleiðtogans harla mikilvægt og skipti raunar sköpum. Aðild okkar að bandalaginu hafði á engan hátt skert orðstír okkar út á við, eða gert okkur tortryggileg í þeim heimsbresti sem kaldastríðið var. Staðfesting þess lá nú fyrir og við gátum ótrauð styrkt ímynd okkar sem NATÓ-ríki án þess reynt væri að draga friðarvilja okkar í efa.
Og nú er Rússland í svipuðum sporum og við um miðja síðustu öld og lítill vafi á því að þeir eru komnir hálfa leið inn í NATÓ og hafna þar áður en varir, ef þeim verður tekið sem jafningjum, eins og Putin sagði í marz s.l. Engum dettur annað í hug en svo verði. Það er sauðahús Tyrkjaránsins sem er að þrýsta þeim inn í Atlantshafsbandalagið. Þeir vita, ekki síður en aðrir, að þar er bezt skjól fyrir hryðjuverkamönnum nýrrar aldar og því nauðsynlegt að vera við öllu búinn.
Og nú hefur taflið raunar snúizt við. Það eru ekki Bandaríkjamenn sem sækja á og heimta hervarnir á Miðnesheiði, heldur ríkisstjórn Íslands. Skil vel mikilvægi varnarliðsins fyrir Íslendinga, sagði Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, eftir samtal við íslenzka utanríkisráðherrann í Ráðherrabústaðnum. Íslenzk stjórnvöld leggja alla áherzlu á að styrkja varnir landsins, en ekki veikja og á því virðist vera fullur skilningur í Washington.
En nú eru það við sem sækjum á.
Veröldin hefur sem sagt breytzt - og þó! Það fór ekki framhjá neinum skynibornum manni að án NATÓs hefðum við tæplega fengið 200 mílna fiskveiðilögsögu á sínum tíma, rétt eins og arfleifðin var helzta vopnið í sjálfstæðisbaráttu okkar. Veit ég vel að margir hafa aðra skoðun á því. En hvað sem því líður er ég í engum vafa um - og það kenndi reynslan mér á sínum tíma - að Atlantshafsbandalagið hafði síðasta orðið, þegar Bretar voru neyddir til að viðurkenna fiskveiðilögsögu okkar, en þar með var lífsbjörg okkar tryggð, ef vel væri á málum haldið.
En það er undir okkur sjálfum komið eins og flest annað íslenzku sjálfstæði og lýðræði til heilla og eflingar. Náttúruöflin lúta æðri stjórn.
Matthías Johannessen.
Maí, ódagsett
Orti þetta í tilefni af umræðum um inngöngu Íslands í ESB:
Kaupstaðarferð Ég hef gleymt því hver sendi mig og ...hvað ég átti að kaupa St.St.
Hún kom þar að
sem við bjuggum okkur til ferðar,
það var tveggja bakka tungl
á víðáttumiklum himni
milli jökla,
og við heyrðum bergmál
af þjóðsögulegri ógn
og endurtekningu tíma
í taktlausu lífi
þjóðar,
Ólafur muður
ætlarðu suður
og dagur reis við klódökkan
bakka í útsynningssuðri,
útlitið uggsamleg spurn
þegar óvæntur dagur
brýtur af sér eggsára
fjötra og vængjaður morgunn
vaknar eins og ráðvilltur fugl
við brotið skurn.
Fylgjum deginum eftir
að öræfahvössum víðernum
milli vænghvítra jökla,
sporrækt í marrandi
harðfenni tímans,samt
enginn áfangastaður,
ekkert nema blánandi víðerni
þar sem tröllbúin fjöll ganga
til móts við okkur,vaða
ár og tíma í ökla.
Þögul stöndum við andspænis
auðn sem breiðir hvíta
vængi að jökulsporði,
mælsk þessi eilífð sem talar
þögul og hljóð , án tákna
og orða
höldum áfram að ógnandi
glætu við bjúgsverð
hálfmánans
unz kvöldið leggst að
horfum af tjaldskör
tímans
á afstæðar stjarnþokur
guðanna,
sjáum tungl
og stjörnur lifna og deyja
sjáum stjörnur eins og kvista
í nýhefluðum birkifjölum
trójuhestsins.
Og það er nótt eins og allt
standi á öndinn, blóm
og tré og við sem hlustum
eftir fugli í fjarlægð
tímans
og morgunninn vaknar enn
úr öðru eggi
og við höldum áfram suður
eins og þeir sem áður
ösluðu vötn og heiðar
með hugann fullan
af innanbúðarbakkelsi,
þeir sem héldu í kaupstað
og lögðu líf sitt undir
að sigra skolgrá jökulvötn,náðu
áttum, komu hróðugir
á iðandi kaupvang,en höfðu
gleymt hvað þeir ætluðu
að kaupa,
saupsáttir koma þeir enn
í kaupstað,
hrakningsmenn þjóðar
í nauðum.
Við fylgjum þeim eftir og einn
góðan veðurdag heyrum við kirkju-
klukkurnar slá
og komum að veglausum
mönnum
hröktum og dauðanum
vígðum.
Og enn eru víðernin
vonarskarðsmegin
hljóðlát og fjarlægðar-
blá.
Ó þú sem brýtur skurn
þessa nýja dags,tak
þá í fang þér,lyft þeim
á vagnlúinn
kerruhest sögunnar
svo við getum flutt þá
undan hvassbrýndu tungli
tímans,
sorgir tímans eru þungar
sem blý,
svo við getum flutt þá
úr skerandi skímu
þjóðsögunnar
undir sólfölan himin
og heim.
Það er teymingur eftir
og senn rís dagur
á ný.
Lok maí ´02.
12. júní, miðvikudagur
Eftirfarandi birtist í Morgunblaðinu í dag:
Óður til appelsínutrésins
Qu Yuan
Appelsínutré fóstrað af náttúrunni aðlagað jörð og vatni hér um slóðir, þér var ekki ætlað að fara burt, þú munt æ og ávallt dafna hér í suðrinu. Rótdjúpt festirðu ekki yndi annars staðar, bundið þessari jörð alltaf einarðlegt í ákvörðunum, blómhreint og laufgrænt, ánægjuleg ótæmandi gnægðin jafnvel þótt þyrnar séu meðal laufblaðanna, ávextirnir fagrir og ávalir, fullkomin andstæða græns og guls, minna á rósaský minna til fulls á andstæður himins og jarðar. Yfirborðið sérstætt, stofninn hvítur og hreinn, eins og sá sem er traustsins verður, frjálst og óþvingað, fáguð er fegurð þín. Ég dáist að þér, glóaldintré fyrir sunnan, ungt og einstakt tókstu ákvörðun, neitar að flytja þig um set, sjálfstætt slík einbeitni er geðfelld og gleðileg. Það mjakar þér ekkert á þessum djúpu rótum, úthverft og hófsamt, yfirvegað og öllum óhreinleika fjarri, aldrei gróft, en frjálst að öllu. Hyggið, með hreinan skjöld, mistakalaust, án yfirsjóna, ókvartsárir verðleikar þínir mæla sig við himin og jörð. Þegar köld álögin ógna og blómin visna verður þú vonandi styrkur félagi alla tíð, hjartaprútt, æðahreint, sterkt og beinvaxið. Svo ungt sem þú ert geturðu verið mér fyrirmynd, jafneinörð og Bo Yi, enn mun ég lengi fylgja fordæmi því. (Matthías Johannessen þýddi)
Appelsínutré fóstrað af náttúrunni aðlagað jörð og vatni hér um slóðir, þér var ekki ætlað að fara burt, þú munt æ og ávallt dafna hér í suðrinu. Rótdjúpt festirðu ekki yndi annars staðar, bundið þessari jörð alltaf einarðlegt í ákvörðunum, blómhreint og laufgrænt, ánægjuleg ótæmandi gnægðin jafnvel þótt þyrnar séu meðal laufblaðanna, ávextirnir fagrir og ávalir, fullkomin andstæða græns og guls, minna á rósaský minna til fulls á andstæður himins og jarðar. Yfirborðið sérstætt, stofninn hvítur og hreinn, eins og sá sem er traustsins verður, frjálst og óþvingað, fáguð er fegurð þín. Ég dáist að þér, glóaldintré fyrir sunnan, ungt og einstakt tókstu ákvörðun, neitar að flytja þig um set, sjálfstætt slík einbeitni er geðfelld og gleðileg. Það mjakar þér ekkert á þessum djúpu rótum, úthverft og hófsamt, yfirvegað og öllum óhreinleika fjarri, aldrei gróft, en frjálst að öllu. Hyggið, með hreinan skjöld, mistakalaust, án yfirsjóna, ókvartsárir verðleikar þínir mæla sig við himin og jörð. Þegar köld álögin ógna og blómin visna verður þú vonandi styrkur félagi alla tíð, hjartaprútt, æðahreint, sterkt og beinvaxið. Svo ungt sem þú ert geturðu verið mér fyrirmynd, jafneinörð og Bo Yi, enn mun ég lengi fylgja fordæmi því. (Matthías Johannessen þýddi)
- Qu Yuan er talinn fyrsta stórskáld Kínverja. Kvæði hans hafa lifað með þjóðinni á þriðja þús. ár. Hann var fæddur 340 f.Kr., en lézt 278 f.Kr., 62 ára að aldri. Hann átti sæti í ráðuneyti Huai keisara í Chu-héraði. Hann var hægri hönd hans og helzti trúnaðarvinur, meðan allt lék í lyndi, einstæður mannkostamaður og slyngur pólitíkus. Samt var honum vikið úr embætti vegna rógburðar og andstöðu aðalsins og lézt í útlegð, bugaður af illum örlögum ættlandsins og vina sinna sem misstu fótanna í átökum við nærliggjandi héruð og innbyrðis deilum.
Í þessu kvæði, Óði til appelsínutrésins, líkir skáldið staðfestu þess við eigin afstöðu og föðurlandsást. Sjálft var skáldið, róið út af gærunni, hrakið í útlegð. En það var honum um megn að festa rætur annars staðar en í Chu-héraði. Fyrirmyndin var tréð góða sem hann yrkir um. Og svo þjóðsagnahetjan Bo Yi.
Qu Yuan samdi frægt leikrit um mannlegan breyskleika, byggt á reynslu hans sjálfs við hirðina, en þaðan er hann hrakinn vegna samsæris gegn honum. Sjálfur er hann ein helzta persóna verksins, ásamt því fólki sem hann umgekkst í daglegu lífi, t.a.m. Huai keisara af Chu og skylduliði hans. Leikritið er afar nútímalegt eins og önnur verk Yuans og sýnir að manneskjan hefur ekkert breytzt.
Í upphafi kemur ljóðið góða um appelsínutréð við sögu, því að höfundur fer með það eins og hann sé að reisa vegvísi að ferðalokum.
Það væri ástæða til að flytja leikritið hér heima við gott tækifæri. Það á ekki minna erindi en margt af því sem menn eru að daðra við með hástemmdu lofi nú um stundir.
Ég snaraði kvæðinu á íslenzku með aðstoð skáldsins sem nú skipar sendiherrastöðu Kínverja hér á landi, Wang Ronghua, sem hefur ort ágætlega um Ísland og verið hér aufúsugestur. Hann las mér kvæðið á kínversku, lýsti textanum á ensku og lét mér svo eftir afganginn.
Þess má geta að smárími bregður fyrir í þýðingunni og minnir á, að frumkvæðið er undir rímuðum kínverskum hætti.
Þýðingin er birt í virðingarskyni við einstæða arfleifð kínverskrar menningar, en af henni gætum við margt lært, ekki sízt umgengni við tunguna og varðveizlu hennar.
Matthías Johannessen.
16. júní, sunnudagur
Heimsóknin staðfesting á vilja til að efla samskiptin
HÉR fer á eftir ávarp Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, er hann hélt í hátíðarkvöldverði til heiðurs forseta Kína, Jiang Zemin, og frú Wang Yeping í Perlunni á föstudagskvöld: "Virðulegi forseti Kína Jiang Zemin og frú Wang Yeping.
Hallandi að Fagnaðar furunni horfi ég á Himnaborgar tindinn í fjarlægð, horfi einnig á Lótusblómið og tinda Byrjandi trausts sem virðast hafa flogið hingað frá stjörnum. Leyfið mér að taka draumpensilinn í hönd, að ég geti dregið upp mikilleik víðáttunnar meðal sólin brýzt gegnum skýjaöldur og sólrisið roðar ljómandi víðáttur fimm þúsund kílómetra.
HÉR fer á eftir ávarp Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, er hann hélt í hátíðarkvöldverði til heiðurs forseta Kína, Jiang Zemin, og frú Wang Yeping í Perlunni á föstudagskvöld:
"Virðulegi forseti Kína Jiang Zemin og frú Wang Yeping.
Við upphaf nýrrar aldar er heimsókn yðar til Íslands vitnisburður um áherslur í sambúð þjóða, hvernig fjölmenn ríki og fámenn eiga þrátt fyrir fjarlægð og ólíkar aðstæður samleið í þeirri viðleitni að tryggja frið og öryggi, hagsæld og velferð allra jarðarbúa.
Við Íslendingar metum mikils þá virðingu og vináttu sem þér sýnið þjóð okkar og vonum að heimsóknin færi yður nokkra vitneskju um hvernig fámennri þjóð bænda og fiskimanna, sem um aldir bjó við erlenda áþján, tókst að öðlast frelsi og sjálfstæði og komast hvað velmegun, menntun, heilbrigðisþjónustu og tæknistig snertir í fremstu röð meðal þjóða heims.
Samskipti Íslands og Kína hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum áratugum og heimsókn yðar nú, fyrsta opinbera heimsókn forseta Kína til Íslands, er áhrifarík staðfesting á þeim vilja að efla þau og styrkja enn frekar í framtíðinni. Við okkur blasa heillandi verkefni á fjölmörgum sviðum.
Samvinna í sjávarútvegi, vinnsla afurða og viðskipti, skipasmíðar og framleiðsla tæknivara og hugbúnaðar; rannsóknir á jarðhita og nýting orkunnar til húshitunar; landgræðsla og umhverfisvernd; framfarir í heilbrigðismálum og læknavísindum; aukinn straumur ferðamanna eru aðeins nokkur dæmi um samvinnusvið sem vænleg eru til árangurs.
Heimsóknir listamanna, tónleikar, kvikmyndir, sýningar málara, dansara og leikara, útgáfa ljóða og annarra bókmennta, fornra og nýrra, þurfa einnig að verða ríkur þáttur í samvinnu okkar á komandi árum svo að þjóðir okkar kynnist betur menningu og sköpunarkrafti hvor annarrar, skynji fegurðina sem listin færir okkur. Sú samkennd birtist skýrt í nýlegri þýðingu eftir eitt af fremstu skáldum okkar Matthías Johannessen á ljóði sem þér, herra forseti, ortuð fyrir rösku ári eftir göngu yðar á Huangshan-fjöllin.
Hallandi að Fagnaðar furunni
horfi ég á Himnaborgar tindinn í fjarlægð,
horfi einnig á Lótusblómið og tinda Byrjandi trausts
sem virðast hafa flogið hingað frá stjörnum.
Leyfið mér að taka draumpensilinn í hönd,
að ég geti dregið upp mikilleik víðáttunnar
meðan sólin brýzt gegnum skýjaöldur og
sólrisið roðar ljómandi víðáttur fimm þúsund kílómetra.
Ég vona að íslensk náttúra, Þingvellir, Gullfoss og Geysir, sem þér heimsækið á morgun, muni hrífa yður á svipaðan hátt. Íslensk skáld hafa lofsungið þessa staði í ljóðum sem okkur eru kær og kannski vitjar skáldagyðjan yðar einnig á þessum íslensku töfrastöðum.
Þingvellir eru vagga lýðræðis í landi okkar, heimkynni þings sem þar kom saman fyrir rúmum þúsund árum, miðstöð stjórnskipunar sem setti lög og rétt í öndvegi.
Það er táknrænt að á þeim stað komi meginlönd Ameríku og Evró-asíu saman og Ísland sé þannig brú bæði landfræðilega og hugmyndalega, varðveiti í sögu sinni þau manngildi og lýðréttindi sem vonandi verða leiðarljós öllum þjóðum.
Við þökkum yður, virðulegi forseti, fyrir vináttu og hlýhug sem þér sýnið íslenskri þjóð, bæði með heimsókninni nú og í margvíslegum verkum yðar og ummælum á undanförnum árum. Við gleymum því ekki hvernig þér persónulega hjálpuðuð langveikri íslenskri stúlku að njóta kunnáttu kínversks læknis því í slíkri aðstoð felst oft sterkari boðskapur en í háfleygum ræðum.
Ég vona að heimsókn yðar muni veita yður ánægju og fróðleik og leggja grundvöll að enn nánari samvinnu þjóða okkar á nýrri öld. Kínverjar og Íslendingar, fjölmennasta þjóð heims og ein sú fámennasta, geta þannig sýnt í verki hvernig allir jarðarbúar eiga samleið, hvernig farsæl framtíð mannkyns er háð því að allar þjóðir virði hver aðra. Árangur okkar getur orðið öðrum hvatning og vísbending um hvernig hægt er að skapa öllum betri heim.
Ég bið góða gesti að rísa á fætur og lyfta glösum til heiðurs Jiang Zemin forseta Kína og frú Wang Yeping og til heilla vináttu Kínverja og Íslendinga."
Sjá Ritþing Matthíasar..