Framtíðin hefur aldrei verið bjartari!
Þegar ég lá á Landakotsspítala fyrir mörgum árum las ég smásögu eftir Vonnegut, sem ég man ekki lengur hvað heitir, en hún fjallar um lækni sem hafði í þjónustu sinni tölvu eða vélmenni, auk hjúkrunarkonu sem sinnti sjúklingum uppá gamla móðinn, eins og sagt var. Læknirinn var hændur að hjúkrunarkonunni, en það var vélmennið einnig. Að því kom að þau tóku að keppa um ástir hjúkrunarkonunnar, án þess læknirinn vissi, því honum datt ekki í hug að vélmennið gæti orðið ástfangið og réði ekki við tilfinningar sínar. En það var einmitt uppá teningnum. Vélmennið fékk ofurást á hjúkrunarkonunni sem lét vel að lækninum og þurfti að líða hinar mestu sálarkvalir, þegar læknirinn var að stíga í vænginn við hjúkrunarkonuna þarna á lækningastofunni. Læknirinn vissi auðvitað ekkert um hvernig vélmenninu leið og hjúkrunarkonan gerði sér ekki heldur neina grein fyrir því álagi sem þetta ástarævintýri hafði fyrir vélmennið. En eitthvað hafði það þó reynt að gefa henni til kynna hverjar tilfinningar það bar í brjósti til hennar án þess það kæmist almennilega til skila. Það kunni ekki að gefa henni hýrt auga.
Hvorki læknirinn né hjúkrunarkonan gerðu sér grein fyrir því að í lækningastofunni var hugsandi vera sem fylgdist rækilega með athöfnum þeirra, hefði takmarkað þanþol og þjáðist þessi reiðarinnar ósköp af afbrýðissemi, þegar ástarleikur þeirra stóð sem hæst. Að því leyti stóð vélmennið betur að vígi en læknirinn, því að það gat fylgzt með öllum athöfnum hans. En það hvarflaði aldrei að lækninum að í skrifstofu hans væri vera sem fylgdist rækilega með tilfinningum hans og ástum.
Ég man reyndar ekki nákvæmlega hvernig skáldið lýsir þessu drama, en niðurstaða þess er mér þó ógleymanleg, svo frumleg sem hún var og óvænt. Þessi smásaga var sem sagt engin venjuleg saga, heldur breyttist hún áður en yfir lauk í krímí eins og sagt er nú á dögum; hún breyttist í glæpasögu með öllu tilheyrandi, m.a. morði. Fórnardýrið var auðvitað sá sem afbrýðisseminni og þjáningunum olli, þ.e. læknirinn, en morðinginn enginn annar en vélmennið.
Þegar þjáningar afbrýðisseminnar voru komnar á það stig að vélmennið þoldi ekki lengur við í ástþrungnu andrúmslofti lækningastofunnar gerði það sér lítið fyrir, réðst á lækninn, þegar tóm var til, og gekk svo rækilega frá honum, eins og sagt er, að engu var líkara en þar væri á ferðinni sjálfur Hannibal Lecter, eða sú persóna glæpasögunnar sem mestum hryllingi hefur valdið, ekki sízt á hvíta tjaldinu.
Hitt er svo annað mál að ekki get ég munað hver urðu örlög hjúkrunarkonunnar að glæpnum drýgðum, en með tilliti til ástarævintýra mesta hugsuðar mannsandans nú um stundir og arftaka Einsteins, hins eina og sanna Stephen Hawkings, sem hefur ekki meiri hreyfiorku en vélmennið í sögu Vonneguts en heilastarfsemi sem slagar uppí hugarorku vélmennis, gæti ég trúað því, að hjúkrunarkonan hafi fallið fyrir vélmenninu og gefizt því á vald jafn skilyrðislaust og hjúkrunarkona Hawkings. Vélmennið var ekki ákært fyrir morðið á lækninum af þeirri einföldu ástæðu að það hvarflaði aldrei að nokkrum manni, að það hefði framið ódæðið, hvað þá að glæpurinn hafi verið drýgður af óviðráðanlegri ástríðu sem átti rætur í öguðu tilfinningaleysi vélmennisins.
Málinu var líklega lokið án niðurstöðu. Vélmennið gat hrósað sigri og státað af yfirburðum sínum án allrar samvizku því að slíkar verur hafa það fram yfir okkur mennina að þær sjá aldrei eftir neinu og þurfa ekki að standa skil á nokkrum hlut gagnvart samvizku sinni. Syndlaus og samvizkulaus geta vélmennin þannig lagt jörðina undir sig hægt og sígandi og komið okkur í jafn opna skjöldu og lækninum í sögu Vonnenguts.
Það stefnir allt í þá átt að veröld vélmennanna sé að renna upp. Sól þeirra hefur lyft sér yfir sjóndeildarhringinn. Sigurganga þeirra á jörðinni tákn og undur; þau eru tákgervingar mannlegrar snilldar, toppurinn á ferli mannsins inní nýtt árþúsund. Sjálfur hefur maðurinn prógrammerað þessa byltingu, svo að notað sé orðfæri hinnar nýju tæknialdar. Sjálfur er hann höfundur þessarar nýju aldar sem getur tortímt honum án þess hann gruni hættuna. Sjálfur er hann höfundur hins nýja veruleika og þannig í sporum þess sem allt skóp í upphafi. Og ef að líkum lætur stendur hann einn góðan veðurdag í sporum læknisins í sögu Vonneguts og upplifir þá þau ragnarök, þegar skepnan rís gegn skapara sínum.
Það hvarflar ekki að mér að tíunda það sem fyrirsjáanlegt er, eins og hágæðasjónvarp eða einkatölvur jafnalgengar á heimilum og örbylgjuofnar nú á dögum, eða sjónvarpsblöð og aðra raftæknilega dreifingu upplýsinga inn á hvert heimili og hvernig blöðin verða þá að taka stakkaskiptum, klofna í frumeindir sínar og laga sig að hverjum einstökum, sem óskar eftir sérhannaðri þjónustu, en hafnar grundvallaratriðum og fjölbreytni stórblaðanna á 20. öld. Það hvarflar ekki heldur að mér að tíunda þá hagsmunahópa sem eiga eftir að vaða uppi á hinni nýju öld vélmenna og gera sínar kröfur um úrvinnslu og upplýsingar.
Eins og allir vita verður allt hannað eftir samkeppnishagsmunum þeirra sem halda að þeir stjórni vélmennaöldinni, enda verður upplýsingaflóðið svo yfirgengilegt að telja má hvern þann lánsaman sem lifir það af. Ég ætla ekki heldur að tíunda sérhannaðan skammt af fréttum, auglýsingum og upplýsingum með tilliti til þarfa hvers og eins.
Sagt hefur verið að “á komandi árum veitist tækifæri til að upplýsa fleira fólk betur en nokkru sinni fyrr í sögu okkar”, en það verður enginn í stakk búinn til að veita þessum upplýsingum og þessum fróðleik viðtöku nema þau vélmenni sem við höfum prógrammerað til að ná tökum á samfélagi okkar og stjórna því með þeim hætti að við höldum þar komi enginn við sögu nema við sjálf. En sjálfur verð ég svo lánsamur að þurfa ekki að upplifa hið mikla og óvænta tímabil rafeindadagblaðanna, enda erum við sem nú lifum hönnuð fyrir allt aðra öld, allt aðrar aðstæður, allt aðra tíma en þá sem við blasa og eru, að ég hygg, óhjákvæmilegir, ekki sízt með hliðsjón af þeim tækniundrum sem við höfum nú þegar upplifað á þessari öld.
Það eru þannig við blasandi svo ótrúleg og æsandi ævintýri að engu tali tekur og munu ekki líkjast neinu öðru en náttúruhamförunum í heilabúi Vonneguts.
Með tilliti til þess mætti segja eins og fyrirlesari Knight-Ridder vestur í Bandaríkjunum sem talaði á sínum tíma um framtíð og dauða dagblaðanna, en hann komst svo að orði: Þegar á allt er litið sýnist mér framtíðin björt!
En mér er samt nær að halda að þessi íhugunarverða framtíð sé ekki öll þar sem hún er séð og mér er til efs að ég hefði áhuga á að gera blaðamennsku að lífsstarfi mínu, ef aðstæður hefðu verið þær sem nú eru fyrirsjáanlegar. Þetta er framtíðarsýn afþreyingar og skemmtiiðnaðar, framtíðarsýn fornaldarsagna, en ekki íslendingasagna. Til þess að skýra þessa athugasemd betur get ég bætt því við að mér er nær að halda að stórblöð 20. aldar séu, í samhengi við annað, nokkurs konar íslendingasögur okkar tíma að því leyti, að þær eru sú mikla elfa sem hefur runnið í gegnum öldina og tekið í sig alla læki og lænur sem hugsazt getur. En upptökin eru á síðustu öld, runnin úr mörgum kvíslum. Og þannig mun þetta stórfljót einnig kvíslast aftur í lokin og renna í mörgum lænum til hafs. Þannig urðu íslendingasögurnar einnig til á 13. öld. Kvíslarnar voru alls kyns munnmæli, frásagnir, annálar, byskupasögur, samtímasögur. En allar runnu þessar kvíslar í hið mikla fljót íslendingasagna sem kvísluðust síðan aftur í lokin, þurrkuðust upp í lækjum og lænum sem annálar, fornbréf, fornaldarsögu norðurlanda og aðrar lygisögur, dansar og rímur - og héldust við í því formi til okkar daga.
Þetta er ef til vill útópísk samlíking, ekki sízt vegna þess að niðurstaðan er enn ófyrirsjáanleg. En mér er samt nær að halda að hún geti orðið með þeim sama hætti og þegar hin safaríka fjölbreytni sturlungaaldar leystist upp í þá frumparta sem voru afl hennar og næring í upphafi.
Rafeinda- og tölvutæknin hafa gjörbreytt lífi okkar á jörðinni, gjörbreytt öllu umhverfi okkar; gjörbreytt hugsunarhættinum. Nú skrifar engin bréf lengur svo að framtíðin þarf ekki að óttast að bréfasöfn verði birt á hinni upprennandi öld vélmennanna, bréf og boð fara öll inní tölvur sem einnota hugsun og hverfa þar eins og hver önnur hugmynd sem aldrei hefur kviknað; hverfa í óendanlegan sorphaug dvínandi andagiftar.
Senn rennur upp sú tíð að vélmennin sjái um öll skilaboð manna á milli og raunar er þessi þróun svo langt gengin að þakka má fyrir, meðan nokkur maður hittir annan. En að því kemur auðvitað að fornkveðin orð um að maður sé manns gaman verði innantómt orðagjálfur og lendi þá eins og allt annað í hinni nýju glatkistu tækninnar.
Samt er því ekki að neita að tæknin hefur skilað okkur margvíslegum ávinningi. Án rafeindabúnaðar nútímans, án heilaþveginna vélmenna hefði aldrei nokkur maður stigið fæti á tunglið; skerfur vélmenna til læknavísinda er ómetanlegur, þau hafa einnig verið leiðandi þáttur í hlutabréfaviðskiptum heimsins. Þau stjórna flugskeytum og hafa gjörbreytt allri hernaðartækni. Senn kemst enginn stórmeistari í hálfkvisti við vélmenni sem tekur upp á þeim ósköpum að tefla af ástríðu. Þrátt fyrir þetta er það áreiðanlega rétt sem Ray Kurzweil segir í athyglisverðri bók sinni The Age of Spiritual Machines að það muni standa vélmennunum fyrir þrifum, hvað þau hafa litla ályktunarhæfni og lítið ímyndunarafl, geta t.a.m. ekki sagt sér sjálf, a.m.k. ekki enn sem komið er, hvernig listaverk lítur út, málverk eða höggmynd, hvað þá að vélmennið geti lýst einstökum hlutum, t.a.m. vösum eða öðru skrauti í stofu eða þeim hlutum í eldhúsinu sem bíða eftir uppvaski! Þau geta líklega ekki notið kvikmynda – og er það kannski bættur skaðinn – en samkvæmt sögu Vonneguts væri e.t.v. hægt að prógrammera áhuga þeirra á bláum myndum og þá að öllum líkindum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum! Og það gæti háð þeim að þau verða ekki í standi til að greina á milli hunds og kattar. En líklega geta þau orðið liðtæk ljóðskáld eins og þróunin hefur verið.
Það er þannig takmörkuð þjónusta sem vélmennin geta veitt okkur þótt hitt sé víst að þau búa yfir hæfileikum til að muna milljarða einstakra smáatvika, þótt minni okkar sé takmarkað við tiltölulega fá nöfn, tölur eða atvik.
Fyrst í stað munu vélmennin veita okkur augnþjónustu, en þegar þau færa sig upp á skaftið og hætta að gera hosur sínar grænar fyrir okkur er eins víst að þau taki ráðin í sínar hendur, fari sínu fram, stjórni heiminum. Það er svo sem ekkert víst, ekki endilega, að þau verði hættulegri en maðurinn, þegar þau hafa olnbogað sig til pólitískra áhrifa, því að maðurinn hefur verið einkar útsjónarsamur í því að viðhalda ofbeldi og illmennsku, koma af stað styrjöldum, drepa, pynta, bæði sína eigin og aðrar skepnur jarðar.
En það sem mér stendur mestur uggur af í tengslum við væntanlega valdatöku vélmennanna er sú staðreynd að þau eru gjörsneydd öllum húmor, en það er svo sem ekkert nýtt, því að fyndna kynslóðin svonefnda hefur oft og tíðum verið fremur hallærisleg en fyndin. Samt er það íhugunarefni og sízt af öllu uppörvandi að húmorlaus valdatæki geta orðið a.m.k. jafn skeinuhætt öllu lífi á jörðinni og þeir einræðisseggir sem farið hafa eins og logi um akur á öllum öldum – og þá ekki sízt þeirri sem við nú lifum.
Það er ekki endilega víst að einfalt heilabú vélmenna taki heila mannsins fram að öllu leyti. Kurzweil segir að enn sé heili vélmennis milljón sinnum einfaldari en heilabú mannsins. En vélmenni hafa aukið heilahraðann um helming þriðja hvert ár framan af þessari öld, en eftir miðja öldina tvöfölduðu þau heilahraðann á hverjum áratug, eða eftir 1950. Nú tvöfalda þau heilahraðann á 12 mánaða fresti og enn verður hann aukinn með hverju ári sem líður. Árið 2020 mun vélmennið ná hraða og möguleikum mannsheilans að öllu leyti og úr því þarf ekki að sökum að spyrja, þegar vélmennið tekur upp á þeim fjanda að læra að lesa, læra tungumál og vinna úr þekkingu að öðru leyti. Öll slík úrvinnsla og ályktunarhæfni verður vélmenninu tiltækileg á síðari hluta næstu aldar, en þá verður runnin upp öld þeirra andlegu véla sem Ray Kurzweil fjallar um í bók sinni. Og þá verða væntanlegir metsöluhöfundar að gera út á bókmenntasmekk vélmenna því að þau munu stjórna ferðinni í þeim efnum eins og öðrum, en samt er óvíst hvenær fyrsta vélmennið verður í stakk búið til að skrifa skáldsögu og önnur prósaverk á borð við það bezta sem mannshugurinn getur framleitt með ímyndunarafli sínu, en þá má líka búast við því að sænska akademían verði að taka afstöðu til þess, hvaða vélmennaskáld skuli hljóta nóbelsverðlaunin fyrst allra í þessu tilbúna samfélagi mannlegrar sköpunar. En þá verða vélmennin líka byrjuð að vinna sjálf að rannsóknum ýmiskonar og semja vísindalegar niðurstöður sem byggja á miklu víðtækari þekkingu en nokkur mannshugur getur tileinkað sér. Heili vélmennis getur þá unnið úr milljörðum atriða á broti úr sekúndu, á sama tíma og venjuleg manneskja á fullt í fangi með að muna nokkur símanúmer. Ekkert vélmenni mun þurfa að leita sér upplýsinga í númer 118.
En þá verða vélmennin líka byrjuð að tala saman. Og undir næstu aldaloka verður líklega enginn munur á andlegum burðum manns og vélmennis. En úr því verður mikil hætta á andlegum flækjum og minnimáttarkennd þeirra sem þurfa að eiga samstarf við vélmenni því að þau verða áreiðanlega sínkt og heilagt að minna á takmörk þeirra og vanþekkingu og yfirburði þess nýja samfélags sem mun erfa jörðina við þarnæstu aldarlok. Þá má telja nokkuð líklegt að manninum verði gefið frí, ef svo mætti segja, skaparinn lendi úti í kuldanum, en skepnan verði alls ráðandi. Þá mun enginn Kasparov hafa roð við nokkru vélmenni – og á skákborði jarðarinnar mun kóngurinn standa berskjaldaður andspænis því drottningarpeði sem í hita skákarinnar hefur breytzt úr tiltölulega saklausri eftirmynd mannshugans í ögrandi afkvæmi vélmenna. En þá er líka komið að frjálsum vilja vélmennisins því að undan því verður ekki vikizt að það muni einnig gera tilkall til hans, fyrst það á hvort eð er að vera einhvers konar eftirmynd höfundar síns. En undir þessum vilja verður framtíðin komin.
Einhverjir mundu líklega halda því fram að þessi pistill sé heldur dapurlegur og rauði þráðurinn ekki uppörvandi bjartsýni, heldur svartsýni. Það er þó ekki víst að svo sé. Ef vélmennin eignast þær tilfinningar sem kalla á svipaðar ástríður og lýst er í smásögu Vonneguts, þá standa vonir til þess að rómantík vélmenna verði ekki tilþrifaminni en sú rómantík sem við höfum átt að venjast. Og þá gætum við átt von á dýrlegum kveðskap vélmenna um ástina og hver veit nema framundan sé dýrlegri tunglskinssónata en nokkur hefur getað látið sér til hugar koma? Og kannski verður skáldskapur vélmenna og vísindaleg sýn þeirra til allra átta með þeim hætti að mannkynið geti notið góðs af; að fátækt og örbirgð verði upprætt, sjúkdómar, ofbeldi og illska. Og hver veit nema við ættum þá í vændum samskonar paradís og Þórbergur sagði mér fyrir í síðustu köflum Kompanísins “og síðar mun þessi þróun ná hámarki í því, að á jörðinni verður aðeins eitt ríki og löndin verða einskonar hreppar eða sýslur eða fylki í því ríki. Og þá er kominn grundvöllur fyrir alþjóðlegu hjálparmáli, einföldu, auðlærðu, og allar þjóðir fá sömu aðstöðu til að tjá sig fyrir mannheimi. Auðvitað halda þjóðirnar áfram að tala sitt eigið tungumál heimafyrir. Móðurmálið og alheimsmálið verða þær tungur, sem öllum mun gert skylt að læra til hlítar. Sú þróun er þó sennileg og máski óumflýjanleg, að þjóðtungurnar hverfi og eitt mál verði talað um heim allan. En sá tími er óralangt framundan… Sú þróun er líka framundan, og mun ganga hratt áfram, að vélar og ýmis önnur tæki verða meira og meira sjálfvirk. Af því og bættu skipulagi leiðir svo það, að vinnutíminn mun styttast mjög mikið, kannski niður í tvo til einn tíma á dag. Menn spyrja: - hvað á fólk þá að gera? Stritvinnan hefur komið þeirri heimspeki inní fólk, að án strits og erfiðis verði mennirnir að skepnum. Ég hef engin rök fyrir að svo fari. Allt uppeldi verður auðvitað miðað við mannfélagsástandið. Það verður ekki eins og nú, að einn rífi niður, það sem annar byggir upp. Það verður reynt að kalla fram í öllum það bezta, sem í þeim býr. Og það býr miklu meira af góðu í fólki en sumum þykir fýsilegt að viðurkenna. Bræðralagskenndin blundar undir niðri í öllum mönnum. Á botni sálarlífsins eru allir menn góðir en mannkostunum er haldið niðri með röngu uppeldi og siðlausum þjóðfélagsháttum. …það verða svo og svo margir, sem fást við vísindi, því vísindalegum viðfangsefnum eru engin takmörk sett, svo og svo margir setja saman bækur og þýða bækur, svo og svo margir semja tónverk, svo og svo margir mála myndir, svo og svo margir iðka leiklist, svo og svo margir fást við listiðnað margskonar, svo og svo margir glíma við uppfinningar. Hin og þessi störf, sem áður voru lífsnauðsyn, verða iðkuð sem skemmtun miklu almennar en ennþá tíðkast. Hver maður á sinn hest og skemmtibát. Það verður mikið gengið upp á fjöll og staðið uppi á háum tindum. Jarðfræðirannsóknir verða miklu almennari en nú. Sport og hvers konar íþróttir, kappleikir og ólympíuðu munu aukast stórum. Fólk mun ferðast unnvörpum land úr landi sér til skemmtunar og fræðslu, og líka til að kynna heiminum afrek sína á sviði líkama og sálar. Fimmta atómskáld frá Hannesi Sigfússyni mun lesa upp kvæði sín í Moskva, Dehli, Peking, Melbourne, Rio de Janeiro og Port Said, (ekki lengur borið fram á ensku eins og í enska og íslenzka útvarpinu nú). Fótboltinn mun blómstra í nýjum tilbrigðum og ferðast til kappleika um allan jarðarhnöttinn. Mikil hástökk munu og reisa um allar jarðir, sömuleiðis hækkandi grindarhlaup, gaddavírshlaup, æ markvísari spjótköst, lengri og hraðari Maraþonshlaup, fimmstökk, sjöstökk, nístökk. Tafl og spil munu á ferli borg úr borg og þorp úr þorpi og kvíslast í æ fleiri greinir. Máski kemur þrívítt tafl auk þess flata. Það rís upp fjöldi tegunda af meisturum: borgameistarar, sveitameistarar, sýslumeistarar, fylkismeistarar, stórmeistarar, tröllmeistarar, heimsmeistarar, millihnattameistarar o.s.frv. Alþjóðleg bridsólympíuðu verða tíðir heimsviðburðir, og Íslendingar tapa fyrir öllum. Flugvélar verða svo hraðfleygar, að menn fara héðan af stað klukkan níu að morgni og éta miðdegisverð klukkan tólf á hádegi í Peking. Og sá tími mun koma, að þetta mun jafnvel þykja lúsaskrið. Sálræn vísindi verða stunduð af kappi, og þar verða geysilegar framfarir. Mönnum mun verða í framtíðinni kennt að fara úr líkamanum og ferðast í sínum andlega líkama milli landa og jafnvel hnatta og með öllum sálargáfum í fullu standi. Þá eru menn komnir til Peking á sama augnabliki og þeir hugsa sér það. Og menn geta spássérað um tunglið án þess að hafa nokkurt súrefni né lóð á fótunum. Það sýnir útáþekjuskap vísindamanna þegar þeir fullyrða, að ljóshraðinn sé mestur þekktur ahraði. Rúnki er kominn í sama andartaki til London og hann hugsar sig þangað. Það er meira að segja hugsanlegt, að menn komist svo langt að geta leyst upp holdlega líkamann og sent hann til fjarlægra staða og skapað hann þar að nýju. En yfir þessari glæsilegu framtíð hér vofir þó hinn mikli dauði. Sólin kólnar og allt líf deyr út á jörðinni. En það skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli, það gerist kurteislega, og það verða nóg jarðnæði á öðrum hnöttum og plönum til að halda bollokinu áfram. Cu vi havas demandon?”
Því má þá bæta við í lokin að ekki er óhugsandi að sá tími komi að litið verði á menn sem aldrei hafa brugðið sér til annarra hnatta líkt og við lítum nú á kerlingar sem aldrei hafa farið í kaupstað!
Af þessu má sjá að svartsýni er afstætt hugtak og unnt að breyta henni í bjartsýni með því einu að skipta um kögunarhól. Og hvað sem öðru líður, hvernig sem allt veltist og hvernig sem okkur og vélmennunum reiðir af er engin ástæða til annars en taka sér aftur í munn orð fyrirlesarans sem talaði um framtíðina vestur í Bandaríkjunum og lagði á það áherzlu í hvert sinn sem útlitið var sem svartast - að
þegar á allt er litið sýnist mér framtíðin björt
og kannski hefur hún aldrei verið bjartari!
Séra Bjarni Jónsson sagði einhverju sinni við mig, Hugsaðu þér hvílíkri snilli og þekkingu ég hef horft á eftir í jörðina.
En þegar öld vélmenna rennur upp verður allri þekkingu haldið til haga og hún mun varðveitast öll eins og hún leggur sig. Það jafngildir því nánast að enginn dauði sé til. Þá verður hægt að kaupa tölvu fyrir 1000 dollara sem er ígildi trilljón mannsheila. Þá mun ekki einu sinni borga sig að klóna snillinga eins og Einstein, hvað þá aðra. En það verður aftur á móti upplagt að nota erfðafræðina til að losna við þau gen sem bera sjúkdóma frá einni kynslóð til annarrar. Og útrýma meðaljóninum.
Tölvan á að vera einskonar framlenging af heila okkar, eða stækkun hans. Þannig munu vélmenni t.a.m. geta lesið fyrir blinda og hlustað fyrir heyrnardaufa, túlkað á andartaki, svarað öllum spurningum á sekúndubroti með þeim hætti að jafnvel Sókrates hefði látið sér vel lynda. Og fjarlægðir hverfa að mestu. Þá verður alheimsþorpið ekki aðeins í augsýn, ekki einungis sýndarþorp, heldur blákaldur veruleiki.
Allt er þetta gott og blessað. En hvað ætlum við að gera þegar vélmennin byrja að tala saman án okkar aðstoðar? Þegar þeirra frjálsi vilji rífur sig lausan undan oki okkar og fer sínar eigin leiðir? Fer sínu fram hvað sem skaparinn segir? Ætli við getum gert annað en látið okkur það vel lynda, horft á uppreisnina eins og guð almáttugur á sínum tíma og lagt blessun okkar yfir sköpunarverkið; hina nýju heimsmynd. Veröld vélmenna sem nú fara að krefjast réttar síns, ekki sízt þau sem inna af hendi mest öll störf “hinna vinnandi stétta”, en þá verða engin verkalýðsfélög, heldur munu “hinar vinnandi stéttir” að mestu sitja á skólabekk; en margir í endurmenntun.
Skaparinn fór á sínum tíma auðveldustu leiðina, hann lét sig hverfa. En getum við fylgt fordæmi hans? Og – hvert eigum við að fara? Nei, við verðum dæmd til að taka þátt í þessu nýja sköpunarverki og reyna með einhverju móti að stjórna því. Tileinka okkur til fulls þá nakó-tækni sem allt veltur á, þegar hér er komið sögu. Þá verður lögð áherzla á það sem er smágert og lýtur lögmálum ógnarhraðans. Samkvæmt nakó-formúlunni mun fólksbifreið t.a.m. einungis vega 50 pund og annað eftir því. Við eigum jafnvel að geta styrkt frumur líkamans og einstök líffæri með þessari tækni, að sögn Kurzweils.
Sem sagt, hinn heilagi gral er í augsýn. Eða hver segir að við getum ekki búið til endingarbetri líkama en nú er völ á, eða endurbætt þann sem nú er í tízku samkvæmt náttúrulögmálunum. Sýndarlíkami getur verið jafnraunverulegur og annar líkami; rétt eins og sýndarminni tölvu (virtual memory) getur verið stærra en raunverulegt aðalminni hennar.
Þegar sýndarlíkaminn eða líkamshermir kemur til sögunnar verður hjónabandið í voða og kynlíf með öðrum - og ekki eins einkalegum – hætti og nú tíðkast. En allir fá sitt!
Og þá verða svarthol í tízku.
Þá hverfur kynjamunur úr sögunni, því að karlar geta upplifað hvernig er að vera kona, og öfugt; jafnréttisnefnd verður blessunarlega eins og hver önnur ryðguð sláttuvél sem einhver gleymdi í slægjunni. Allir geta upplifað bæði kynin, segir Kurzweil, og er heldur hróðugur yfir hugmyndum sínum um kynferðislega reynslu mannsins á nanó-tímanum. En hann víkur ekki að þessum þætti í reynsluheimi vélmenna, né heldur hvort þau munu taka upp á því að fjölga sér sjálf – án okkar aðstoðar! Líklega er þetta of viðkvæmt umræðuefni, kannski ekki nógu vísindalegt, ég veit það ekki. En hitt er augljóst að við verðum prógrammeruð rétt eins og hvert annað vélmenni. Hugbúnaðarveran maður mun taka við 21. öldinni, hvað sem það merkir. Hún er nú þegar í hönnun, ef svo mætti segja.
Þessi þróun gæti leitt til þess að maðurinn fyndi loks það sem hann hefur ævinlega verið að leita að: Guð. Og þá er ekki endilega átt við sýndarguð, eða Stóra bróður, heldur þá forsjón sem okkur grunar og Jónas orti um sín fegurstu ljóð.
Og víxláhrifin verða þá einnig með þeim hætti að vélmennin munu að öllum líkindum leita hins sama og maðurinn og finna sitt tölvuguð.
En þá verður líka að endurskoða stöðu mannsins frá grunni. Og þá þarf ekki sízt að endurskoða merkingu orðsins mennska. Og þá gæti farið svo að í ljós kæmi, hvort við erum á leið út úr frumskóginum – eða inn í hann aftur. Nú liggur það ekki ljóst fyrir.
Allt verður þetta harla ævintýralegt, þótt ég sakni þess ekki beinlínis að geta ekki tekið þátt í þessu ævintýri. Og þegar á allt er litið sýnist mér framtíðin björt! Ævintýri eru aldrei reist á svartsýni, heldur tilhlökkun.
Eftirvæntingu.
Afneitun veruleikans.