Ritþing Matthíasar
Matthías Johannessen sat fyrir svörum á Ritþingi í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi 9.nóvember 2002. Stjórnandi var Silja Aðalsteinsdóttir og spyrlar voru Ástráður Eysteinsson og Bernard J. Scudder. Flytjendur á þinginu voru Sigrún Hjálmtýsdóttir söngkona og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari.
Silja: Verið velkomin á Ritþingið, þaðer gleðilegt að sjá hve mörg ykkar hafið séð ykkur fært að koma hingað á þessum yndislega degi. Við ætlum að byrja á því að hlusta á Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Diddú, og Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur flytja lög eftir Atla Heimir Sveinsson við Ljóð fyrir börn eftir Matthías úr bókinni Mörg eru dags augu sem kom út árið 1972.
Diddú: Ég er búin að flytja þetta nokkrum sinnum fyrir börn í skóla og í dag eru krakkar nokkuð óþreyjufyllri en tíðkaðist hér áður fyrr þegar maður þurfti langar drápur til að ókyrrast. Þessi ljóð eru öll frekar stutt en þegar ég byrjaði að kynna þau þannig að nú ætlaði ég að syngja tíu laga flokk fyrir þau þá fór kliður um salinn. En þegar ég útskýrði fyrir þeim hvað þau væru heppin að þetta væru í rauninni mjög stutt lög, bara 20 sekúndur sum, og væru búin áður en þau áttuðu sig á því þá lyftist á þeim brúnin.
Silja: Við erum hingað komin til að kynnast nánar manni sem hefur kannski meiri yfirsýn yfir íslenska sögu, bókmenntir og samfélag en nokkur annar núlifandi Íslendingur. Matthías Johannessen athafnaði sig í miðju dvergríkisins í 42 ár sem ritstjóri stærsta dagblaðs þess, Morgunblaðsins, og hafði mikil, að ég ekki segi gífurleg áhrif á landsmálin með stjórn sinni á þróuninni sem sá fjölmiðill tók. Skrif hans sjálfs í blaðið höfðu sömuleiðis mikil áhrif á þróun blaðamennsku á Íslandi. Eins og þetta sé ekki nóg hefur hann gefið út tugi bóka, greinasöfn, samtalsbækur ýmist við einn einstakling eða marga, fræðibækur um bókmenntir, smásögur, leikrit, skáldsögur og ljóðabækur. Á ritaskrá Matthíasar sem Sigurjón Björnsson tók saman eru 74 bækur á íslensku, 27 á erlendum málum, en þegar ég leitaði að bókinni sem Matthías gaf mér um daginn í tilefni af þessu Ritþingi þá var hún ekki á þeirri skrá! Þetta er bókin Veröld þín með ljóðum eftir Matthías og myndum eftir Svein Björnsson. Skylt er að geta þess Sigurjóns vegna að ljóðin höfðu flest birst áður á bók, ekki þó öll, og ekki kæmi mér á óvart þó felubækurnar reyndust vera ennþá fleiri ef maður leitaði vandlega. Frumsamdar ljóðabækur Matthíasar einar eru tæplega 20 talsins sem þættu prýðileg afköst hjá manni sem ekki hefði sent annað frá sér á prenti. En þrátt fyrir þetta opinbera líf, sem afkastamikill rithöfundur og áhrifamikill ritstjóri, þá hefur Matthías ekki verið áberandi í íslensku þjóðlífi. Hann segist sjálfur vera feiminn og svei mér ef ég er ekki farin að trúa því. Hann og Hanna kona hans hafa ekki veitt opinská viðtöl um hræringar í einkalífinu, þau eru fáséð á hringiðumyndum dagblaðanna og ég man ekki eftir þeim framan á Séð og heyrt. Þess vegna fannst forráðamönnum Gerðubergs svo freistandi að fá Matthías á Ritþing og gefa fólki tækifæri til að sjá þennan dularfulla mann og hlusta á hann tala um líf sitt og ævistörf eins og þau blasa við honum sjálfum.
Matthías er fæddur í Reykjavík árið 1930 og tók eiginlega við sæmdarheitinu borgarskáld af vini sínum og útgefanda Tómasi Guðmundssyni. Eins og hjá Tómasi verður þessi litla og – ef ég þori að segja það – ljóta, í þá daga, borg ótrúlega stór, lifandi og spennandi staður. Mig langar til að byrja á því, Matthías, að biðja þig að segja okkur örlítið frá uppruna þínum og bernskuumhverfi og því helsta sem þér finnst að hafi haft mótandi áhrif á þig á þessu fyrsta skeiði ævinnar.
Matthías: Til að byrja með þá þarf ég að biðja ykkur að afsaka röddina. Ég fékk í barkann og fór að velta því fyrir mér sem Þórbergur sagði einhvern tímann við mig þegar ég var með í barkanum: “Það er vegna þess að þú hefur talað fyrir svo vondum málstað í fyrra lífi.” Og við þetta situr. En nú verð ég að reyna á þennan barka sem ég ræð raunverulega ekkert við.
Þú veist það Silja að það er lang best að vera lítið út á við því þá talar maður ekki af sér á meðan. Þegar þú varst að tala um hina ljótu borg þá rifjast allt í einu upp fyrir mér þegar ég var við landbúnaðarstörf í Bretlandi átján ára. Ég hafði verið að vinna með kolanámumönnum og á ökrum og annað þvíumlíkt og flaug svo heim og beint í MR og skrifaði svo ritgerð fyrir kennara minn í íslensku þar sem ég dásamaði Reykjavíkurborg, hvað hún væri falleg skipulögð og yndisleg borg. Þetta var bernskuborg mín, umhverfi æsku minnar, hreiðrið mitt. Næsti tími í skólanum fór allur í að afsanna þetta. Ég sagði bara eitt við bekkinn mér til varnar, “þið verðið að sjá hana úr lofti”. Fæst þeirra höfðu gert það þannig að þetta var mín málsvörn. En svona var nú horft á Reykjavík í þá daga að hún gæti ekki verið fögur borg og ekki borið fegurðinni vitni, því að Tómas hafði búið til sína Reykjavíkurborg við sundin blá sem voru líklega sundin við Sogið. Það var hin rómantíska Reykjavík þar sem símastaurarnir urðu grænir aftur. En þessa borg þekki ég ekki. Ég þekki bara Reykjavík sem fiskistöð og við lékum okkur við höfnina sem er ekki í frásögu færandi. En það var eitthvað indælt við þessa borg, það var eitthvað gott mannlíf. Fólkið í Reykjavík var að berjast í kreppunni og það gerði það ekki verra. Það reyndi að mennta mann og koma manni til manns. Ég hef aldrei upplifað það að Reykjavík brygðist. En hér er malbik og ég hef ort um malbikið og um skógana í malbikinu og þvíumlíkt og það er bara allt annar handleggur. Það er bara partur af umhverfi okkar og mannlífinu.
Ég hef sagt í samtölum hvernig þetta var. Fyrstu bókmenntirnar sem ég las voru Family Journal og Gyldenspjæt. Ég beið einnig eftir Vísi alveg andaktugur. Ef menn halda að ég hafi verið að bíða eftir leiðaranum þá er það rangt því ég var að bíða eftir Tarsan. Þegar ég beið eftir Morgunblaðinu þá var ég ekki að bíða eftir leiðaranum heldur X9.
Ég var ekki mikið fyrir barnabækur, satt að segja, ég veit ekki af hverju. Faðir minn ól mig þannig upp að hann las fyrir mig Róbinson Krúsó og ég upplifði hann og hef verið að leika Róbinson síðan. Að minnsta kosti hefur mér alltaf fallið vel að vera á eyðieyju og þá verður að hafa sína Frjádaga með sér. Sú barnabókin sem ég man aðallega eftir að hafi snert mig var Kisubörnin kátu, dásamleg bók. Ég hafði svo mikla samúð með kettlingunum sem voru úti í snjónum og mér leiddist það svo mikið að þeir voru úti í kuldanum. Ég gaf þessa bók manni sem ekki þekkti hana, í fyrra, hann vildi endilega fá að lána hana barninu sínu og ég hef ekki fengið hana aftur. Það eru mikil meðmæli með einni bók.
Minnisstæðast af öllu er stríðið – þegar Reykjavík fór úr sauðskinnskónum en borgin var í þeim fram til 1940 og það voru indælis skór. Páll Ísólfsson sagði mér að það hefði allt í einu komist í tísku á Stokkseyri og Eyrarbakka að karlarnir gengu með skálmina á öðrum fæti fyrir innan sokkinn.
Það var tíska.
Silja: Segðu okkur frá því hvenær stríðið kom til Reykjavíkur, eins og þú manst það.
Matthías. Ég vaknaði um morguninn 10.maí 1940 og þá var flugbátur á hringsóli yfir Reykjavík, Walrus-flugbátur vissi ég síðar. Síðan fór ég í bæinn á hjólinu mínu og þá voru skothreiður við Herkastalann og alls staðar þar sem við komum.
Það var eitt gott við þetta hernám:
Seinna um daginn fórum við upp í þýska sendiráðið við Túngötu og þá voru Bretarnir í óða önn að hreinsa upp úr kjallaranum, njósnadrasl og þvíumlíkt, og komu með allar karamellurnar sem Þjóðverjarnir áttu og afhentu okkur þær.
Þar með unnu þeir stríðið.
Í mínum huga unnu Bretarnir stríðið 10. maí 1940 þegar við fengum karamellurnar. Það var alveg á hreinu. Hitt var bara viðbót.
Annars eltum við stríðið af því að það var partur af okkur eða við af því , við vorum í hermannabröggunum og seldum eplapæ.Vinir mínir voru synir konu sem var gift kanadískum herforingja og hún bakaði “pæ” fyrir fólkið í bröggunum.
Við kynntumst ungum hermönnum og fórum í braggana og seldum þessi “pæ”.
Við eignuðumst marga vini og ég hef eiginlega aldrei verið hræddur við að erlend áhrif myndu ríða okkur að fullu. Miklu hræddari við að við gerum það sjálf. Við vorum svo vel bólusett í þessu stríði. Það voru tugir þúsunda hermanna hér sem töluðu ensku. Við lærðum meira og minna ensku af þeim, sáum flugvélar brenna á Reykjavíkurflugvelli, ég fór með föður mínum til Akureyrar og á þessari tveggja daga ferð upplifðum við það að hermenn voru að fara yfir Hrútafjörð og fórust þar margir. Þar var dauðinn kominn í heimsókn. Við gistum á Blönduósi og um kvöldið sáum við að það var vopnaður hermannavörður við ósana og við spurðum hversvegna og fengum þau svör að hermennirnir hefðu ætlað að fara á reipum yfir Blöndu, en lent í fljótinu , þeir fórust þar unnvörpum.
Við fórum um Langadal, þar var allt lokað, af hverju?
Jú þeir höfðu óvart skotið niður eina af sínum eigin flugvélum,norskan flugbát. Þetta hafði mikil áhrif á okkur.
Pabbi var hálfur Norðmaður og ég er alinn upp í því að halda með Norðmönnum í stríðinu, og ég var mjög ungur þegar ég las Meðan Dofrafjöll standa og fylgdist með hetjudáð Norðmanna. Ég var alinn upp við það að norski fáninn stóð við hliðina á íslenska fánanum á skrifborði föður míns. Svona var þetta. Við vorum öguð við dauðann.
Þegar Silja er alltaf að krefja mig um það af hverju það sé svo margt tragískt í ljóðum mínum og því sem ég skrifa , þá á það ekki síst rætur í því að í barnæsku minni eru umbrot í persónulegu lífi mínu, á heimili mínu og í þjóðfélaginu. Ég orti um þetta í Morgni í maí þar sem drengurinn er að leita föður síns, það var ástæða til þess.
Það er ekkert skrítið að þessi nálægð við stríð og dauða fylgi manni.Ljóðskáldið er að glíma við tortímingu, ljóðskáldið er Davíð andspænis Golíat. En Golíat vinnur í þessari baráttu að lokum , ekki Davíð.
Silja: Mér finnst stríðið eiginlega hafa haft persónulegri áhrif á skáldskap þinn en allra annarra íslenskra skálda. Heldur þú að það sé vegna þess að þú varst barn innan um hermennina, á meðan það var ekki reynsla neinna annarra sem hafa síðan ort hér á landi?
Matthías: Ég get vel trúað því. Þetta var náttúrulega hernámsumhverfi og það var stríð. Ég hef tam.ort um árásina á Fróða.
Ég get farið með eitt kvæði úr Morgni í maí:
Að venju
er alltaf logn
þegar ungur drengur
með rætur í Askevold
norðan
við Sogn
lítur til baka og sér
æskuna renna að ósi
í brjósti mér,
af einhverjum ókunnum
ástæðum sé ég
í allt öðru
ljósi
stríð sem er löngu
liðið
hvort sem var barizt
með bryndrekum útí heimi
eða sviðið
var sál míns sjálfs:
ég horfi á líf mitt
og læt mér nægja
að skilja það aðeins
til hálfs.
Og nú er Jósep vinur minn
Björnsson
látinn langt
um aldur fram;
hann var alinn upp við tros og skötu
í e.k. vaskahúsi við Sólvallagötu
og móðir hans barðist ein
eins og eik
við hríðar og bylji
verði þinn vilji.
Og dauðinn slökkti sinn unga
óútbrunna kveik.
Verði drottinn þinn vilji
Við þetta er ég alinn upp. Jósep Björnsson sem kemur við sögu í þessu ljóði var einn af vinum okkar. Hann var bláfátækur. Hann bjó með móður sinni einni og bróður og þau bjuggu í þvottahúsi niðri á Sólvallagötu. Hann er dáinn núna en mig hefur alltaf langað til þess að minning hans væri einhvers staðar því hann var einstaklega vel gerður maður. Hann bar fátæktina eins og hetja. Hann komst til mennta og Ástráður hefur spurt mig um sögu sem hann var kveikjan að. Það er saga sem heitir Hvar er nú fóturinn minn? þar sem aðalsöguhetjan heitir Absalon.
Absalon er skírskotun í son Davíðs, sem hengdi sig út af harmleik innan heimilisins. Það er bara vitundin um hann og hans líf sem er í sögunni, allt annað er náttúrulega bara skáldskapur, en ég vinn oft svona.
Hvar er nú fóturinn minn? er skírskotun í Sturlungu og fjallar um sársaukann, sársaukinn getur haldið áfram í fætinum þó að fóturinn sé horfinn.
Silja: En hvenær byrjaðirðu sjálfur að skrifa?
Matthías: Ég man sérstaklega eftir því þegar ég orti kvæðið Heklugosið 1946, þá var ég sextán ára. Föðursystir mín, Berta, bjó á heimilinu og ég hafði engan til að lesa það fyrir og taldi það vera snilldarverk og tel enn. Var ekki á nokkurn hátt opinn fyrir neinni gagnrýni og leyfði henni að heyra það því hún var sú eina sem ég vissi að myndi ekki gagnrýna það. Ég las það fyrir hana og hún bað mig endilega að halda áfram að yrkja.
Ég hafði ort ýmislegt áður, ég man ekki eftir því að hafa ekki ort. Tíu ára gamall strákur sat ég úti í glugga, horfði á Snæfellsjökul og orti um hann og annað þvíumlíkt.
Foreldrar mínir voru mjög ólíkrar gerðar, eiginlega eins og vatn og olía. Þau bættu hvort annað upp. Annað foreldrið var gott á vélina en hitt á vatnskassann. Þannig að bíllinn gekk. Hann var ágætur, hann bræddi ekkert úr sér. Það komu stundum feilpústrar , en það var lagað.
Móðir mín var mjög trúuð kona og innrætti mér mikið trúarlíf. Hún var af höfðingjaættum, sýslumannsdóttir, en pabbi missti aftur á móti föður sinn þegar hann var tveggja - þriggja ára, þennan Norðmann, sem ég heiti eftir.
Silja: Eigum við kannski að vinda okkur í menntaskólaárin. Eru þau þér minnisstæð?
Matthías: Já, nokkuð. En ég ætla að lýsa foreldrum mínum aðeins fyrst.
Móðir mín sagði við mig þegar ég var byrjaður að yrkja: “Heyrðu Matti minn, æ þessi órímuðu ljóð, mér líka betur rímuðu ljóðin þín !.”
Ég sagði:
“Jæja mamma mín, við verðum bara að sjá til.”
Ég vildi náttúrulega gleðja hana og orti ljóð um Jesúm Krist sem birtist í Æskunni. Þá var ég kominn yfir tvítugt og vildi gleðja hana og tókst það. Hún hefði glaðst yfir því, ef hún hefði séð að það er sálmur eftir mig í Sálmabókinni.
Faðir minn var veraldarmaður, hann hafði að ég held bóhemska tilhneigingu,þótt hann væri alger reglumaður og íþróttafrömuður.
Hann sagði einhvern tímann við mig þegar Sálmar á atómöld voru komnir út:
“Þetta kvæði líkar mér vel.”
“Jæja,” sagði ég, “líkar þér kvæði eftir mig?”
“Já,” sagði hann, “annars finnst mér það væri best fyrir þig að lesa mikið Pál Ólafsson og yrkja eins og hann, t.d. eins og Litli fossinn.”
Ég hef alltaf einhvern veginn hangið í þessu kvæði sem pabbi hrósaði mér fyrir og laðaðist að:
Tíminn er þerriblað,
sýgur í sig litlausa daga
og nætur svartar af þéttum skógi.
Ó þessar blekslettur
á lífi okkar,
við höldum þær verði
eftirminnilegar
þegar fram líða stundir,
en þær hverfa eins og dögg af grasi.
Þegar við vorum ung
var alltaf heiður himinn
jafnvel þegar úrillir kennarar
skömmuðu okkur fyrir svartar klessur
í stílabókunum.
En þú sagðir ekkert.
Himinninn er hættur að vera
gagnsæ heiðríkja
og bleksletturnar í stílabókunum
orðnar að svörtum
blettum á sál okkar.
Hart er í heimi
hórdómur mikill,
segir gamalt skáld.
En þú segir ekkert.
Hvílík náð
að tíminn skuli vera þerriblað.
Þetta líkaði pabba vel,en mamma sneri sér að Æskunni!
Silja: Þú hefur kannski togast mikið á milli þessara tveggja póla, bóhemsins og trúarmanneskjunnar?
Matthías: Ég hugsa að ég hafi alltaf togast á milli einhvers. Hvernig heldurðu að maður togist þegar maður er ritstjóri Morgunblaðsins og það á kaldastríðsárum? Maður verður alveg eins og Gosi. Eina sem vex almennilega á manni er nefið!
Silja: En það er alveg komið í samt lag núna sé ég.En menntaskólaárin?
Matthías: Já, þau voru ágæt. Ég kom inn í Menntaskólann úr Landakotsskóla, það var líka ágætur skóli. Þá vissi maður að veröldin var ekki bara Sigríður, Jóna, Helga, þá vissi maður allt í einu að veröldin var líka Lioba , Henrietta, Clemensína. Hún var íslensk og kenndi okkur smíði. Síðan hef ég aldrei smíðað neitt, nema reynt að smíða með orðum.
Menntaskólaárin liðu eins og draumur, svona draumur í hvítu húsi. Manni var kennt að skrifa z. Ég held í zetuna. Ég læt ekki bjóða mér það að einhver ráðherra gefi út reglugerð um að eyðileggja heils árs nám fyrir mér. Það kemur ekki til greina. Lokin verða líklega þau að ég verð eini maðurinn sem skrifar z á íslensku. Þá verð ég búinn að fá ákveðið einkenni og þá segja allir: “Nei, þetta er eftir Matthías!”
Loksins!
Við lásum enskar bókmenntir hjá Gunnari mági mínum sem var afar fínn kennari í ensku. Hann var reyndar ekki orðinn mágur minn fyrstu árin í M.R. og mér fannst afar einkennilegt, þegar ég var kominn í síðasta bekk í Menntaskólanum, að bíll enskukennara míns var alltaf heima annað slagið. Þegar ég fór að kanna þetta þá kom í ljós að hann var alltaf að bjóða systur minni út. Svo endaði það með því að hann varð mágur minn. Mér þótti hann hafa góðan smekk. Hann hafði einnig góðan smekk á bókmenntir. Við fórum yfir Keats. Og Shelley.Við fórum yfir Stefan George. Og þá fleiri ; einnig latnesku skáldin.
Þar áður hafði okkur verið sagt af íslenskukennaranum að besta ljóð sem hefði verið ort á íslensku á þeirri öld héti Í Árnasafni. Við urðum að lesa Í Árnasafni, réttir þríliðir í gegnum allt kvæðið og tvíliðir í lokin , fínt og elegant.
Ég kynntist svo Jóni Helgasyni löngu síðar, á gamlárskvöld 1972, hjá sendiherrahjónunum í Kaupmannahöfn,Ólöfu Pálsdóttur myndhöggvara og Sigurði Bjarnasyni. Það var stórgott. Þetta er úr bréfi sem ég skrifaði Kristjáni Karlssyni frá Kaupmannahöfn:
“Við Jón Helgason urðum miklir mátar, held ég, og hann dáðist að heimspekilegri vitleysu minni á þýsku við svissnesku sendiherrahjónin. Ég er önnur manneskjan að hans sögn sem hefur slegið hann út í vitleysu. Hann reyndi allt hvað af tók að segja alla þá vitleysu sem hægt var, “en ég verð að játa að þú hefur slegið mig út,” sagði hann kl. 1:27 eða þar um bil. Við ættum eiginlega að hittast aftur, bætti hann við. Hann talaði lengi um það við svissnesku sendiherrafrúna að hann væri dauður. Að hann væri Gespenst og hefði aldrei sagt orð af viti frá því um fertugt. Hann sagðist hafa hitt konu í Englandi, minnir mig, sem hefði kynnt sig hryssingslega: ég er skáld. En svoleiðis komast auðvitað engin alvöru skáld að orði. Það er ég líka, sagði Jón, og meira að segja dautt skáld. Þá sagði sú enska: Uss ég hef dáið þrisvar. Þá varð Jón Helgason orðlaus í fyrsta og síðasta skiptið í lífi sínu og dauða. Síðar um kvöldið sagðist hann bara reyna að vera skrítinn en ég væri það raunverulega. Nokkuð gott hjá honum. Þeim sem eru eitthvað skrítnir dettur það nefnilega aldrei í hug að þeir séu það, segir sálfræðin. En svona var talað fram og aftur inn í nýja árið og allar konur eru víst skotnar í Jóni Helgasyni og þar kom að svissneska sendiherrafrúin gaf þá yfirlýsingu, sem var nauðsynleg eins og á stóð, að hún væri líka dauð. Þá fyrst hrökk Jón Helgason við, ég sá að honum brá. Þau voru sem sagt komin á sama plan á nýja árinu. En þá sagði hann sér til varnar Sie sind eine Weltdame. Og kom þá í ljós að það var það eina sem þessi skemmtilega sendiherrafrú vildi ekki vera.”
Nú, svo urðum við Jón miklir og góðir mátar, þetta gekk ágætlega. Löngu síðar vorum við í boði hjá Guðrúnu Vilmundardóttur og Gylfa Þ. Gíslasyni,menntamálaráðherra, og þar las Jón upp og við nutum þess. Við fórum síðan að borða og ég sat við hliðina á honum og eftir matinn fór hann í vasa sinn og leitaði að pípunni sinni og fann hana ekki.
Ég spyr hann þá hvort hann sé að leita að einhverju.
“Já, ég finn ekki pípuna mína.”
“Heldurðu að hún sé ekki í frakkavasanum?”
Hann sagði það gæti verið og ætlaði að standa upp. Ég sagði honum ég skyldi finna pípuna fyrir hann, stóð upp, fann hana í frakkavasanum, rétti honum pípuna og sagði: Gjörðu svo vel !
Þá leit Jón á mig og sagði:
“Það var kominn tími til að Morgunblaðið þjónusti mig !.”
Svona er nú veröldin,Silja mín.
Silja: Fáum aðeins meira að vita um það hvort þú hafðir eitthvað gagn af þessum menntaskólaárum. Ég hef á tilfinningunni að þú talir af nokkru yfirlæti um Menntaskólann í Reykjavík. Getur verið að þú hafir lært meira utan veggja hans en innan?
Matthías: Því var nú ekki tekið vel ef maður var með yfirlæti í Menntaskólanum. Þetta voru vinir mínir, kennararnir, urðu það með tíð og tíma, og mér eru þeir minnisstæðir margir, Bogi og Pálmi rektor og þessir menn allir, allt skínandi góðir menn og eftirminnilegir.
Ég lærði sitt af hverju í Menntaskólanum. Það var alltaf þetta félagslíf og maður átti sífellt að vera að gera eitthvað. Helst eitthvað á vegum bekkjarsystranna. Það endaði svo með því að ég var látinn flytja ræðu fyrir minni kvenna á árshátið í sjötta bekk. Þá datt ég eiginlegha út úr rullunni.
Mér leið einna best í Háskólanum. Menntaskólinn var nauðsynlegur, hann var mikið kompaní, hann er einn þessara þátta sem gera þjóðir að siðmenningarlegri áskorun.
Eða eins og Einar Benediktsson segir, þjóðin mundi.
Þegar maður man þá er maður með siðmenningarlega brynju , því þá er maður með arfleifðina með sér. Maður er ekki berskjaldaður og þetta var og er eitt af einkennum Menntaskólans. Ég ber mikla virðingu fyrir honum, ekki spurning.
En í Háskólanum var ég einhvern veginn frjáls.Ég var formaður Stúdentaráðs og á kafi í félagsmálum og kosningum og hafði mjög gaman af..Þú sagðir um daginn ,Ástráður, að ég hefði sagt ég hafi ekki viljað lokast þar inni sem kennari.
Ástráður: Já, ég var að stríða þér því þú sagðir í viðtali við Silju frá þeim valkostum sem þú stóðst frammi fyrir. Þú varst kominn með meistaragráðu í íslenskum bókmenntum og varst að hugsa um að halda áfram og jafnvel að verða doktor í Grími Thomsen. Þú sást fyrir þér hugsanlegan akademískan feril en sagðir síðan að þú hefðir verið feginn að lokast ekki inni í þeim heimi. Ég var að hlæja að þessu vegna þess að samkvæmt því þá tala ég úr lokuðum heimi.
Matthías: Þessi athugasemd beindist gegn sjálfum mér vegna þess ég hefði mjög auðveldlega lokast inni.Ég hef bara þannig sálarlíf. Mér finnst gott að vera uppi í Þjóðarbókhlöðu.Þar er ég mest einn. Ég er bara ein af bókunum. Svo kemur einn og einn og byrjar að fletta upp í þessari bók. Þið eruð einnig með bók í höndunum og eruð að fletta upp í henni. Hún er að reyna að tala og segja ykkur eitthvað.
Þarna er mitt völundarhús þar sem mér líður vel. En ég sá það ekki fyrr en seinna. Ég hef kennt í Háskólanum og líka í Endurmenntun og finnst það bara stórglæsilegt. Skemmtilegt fólk. Ofboðslega gaman að kenna þessu fólki. Svo er einn mikill kostur við Háskólann núna, og því hefði maður ekkert verið að lokast þar inni, hann er að verða kvennaskóli!
Það er ekki hægt annað en láta sér líða vel í þessu eggjandi umhverfi!
Silja: Þú ert að vísa til þess að á þeim tíma, í kringum 1960, og þar rétt á undan, hafi Háskólinn verið fílabeinsturn og kennararnir virðulegir menn sem þéruðu nemendur sína. Ég held að alveg eins og þú breyttir Morgunblaðinu og opnaðir það fyrir öllum skoðunum þá hefðir þú náttúrulega breytt Háskólanum. Hann hefði bara breyst hraðar ef þú hefðir gengið þar inn um dyr.
Matthías: Já, heldurðu að ég hafi breytt Morgunblaðinu? Ég var nú aldrei að hugsa um það. Ég vildi bara fá blað sem væri í raun blað allra landsmanna. Ég vildi ekki vera undir vitlausu merki. En ég vona þetta sé rétt, það var náttúrulega pólitísk stýring á blaðinu, þegar ég kom þangað.
Í Háskólanum var þetta bara tíminn sjálfur. Þetta voru svo virðulegir menn, svona menn sem manni hefði ekki dottið í hug að fara að þúa alltuppúr þurru. Einar Ólafur Sveinsson, Alexander Jóhannesson, Jón Jóhannesson, Þorkel Jóhannesson og hvað þeir nú hétu allir þessir lærdómsmenn. Tímarnir voru þannig. Maður bar mikla virðingu fyrir þeim.
Nú er virðingin ekki fólgin í því hvort maður þérar eða þúar. Ef maður vill ekki þekkja einhvern , þá þérar maður hann.
Ástráður: Má ég spyrja þig um þessi ár í Háskólanum. Þú varst þarna í íslenskum fræðum og íslenskum bókmenntum og ég veit að þú ert vel lesinn í íslenskum fornbókmenntum og hefur verið á kafi í þessu öllu saman. En þú hefur líka verið að lesa erlendar bókmenntir á sama tíma. Var það eitthvað sem þú gerðir á eigin vegum? Maður sér það á skáldskap þínum að þú hefur greinilega lesið erlend skáld.
Matthías: Já, ég hef alltaf lesið erlend skáld. Svona frá því ég fór að fylgjast með. Mér finnst gott að taka mið af þeim. Ég geri þetta af því að ég þarf að mennta mig. Maður getur ekki alltaf beðið eftir því að aðrir séu að mennta mann. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að vita hvað er að gerast í heiminum , þekkja erlend ljóðskáld. En það er dálítið erfitt finnst mér að lesa þau, sérstaklega ensk, af því að þau eru flest svo akademísk. Maður þarf að vera inni í þessum skáldskap.
Robert Frost er opið ljóðskáld, hann sagði:
Ég varð að ákveða hvert ég færi. Mig dreymdi tvo vegi í skóginum , annan troðinn og hinn ótroðinn – ég valdi þann ótroðna.
Frost er hefðbundið skáld, eins og þú veist. Samt segist hann hafa valið ótroðna veginn. Ég held það megi segja svipað um mig. Ég hef ekki viljað skrifa sögur eins og maður á að skrifa sögur eða yrkja ljóð eins og maður á að yrkja ljóð. Eins og tíðarandinn krefst.
Ég hef stundum grætt á því að lesa skandinavísk skáld. Ég hef þýtt mikinn ljóðabálk eftir Knud Ödegaard , vin minn, mjög flott kvæði sem ég hafði mikla ánægju af að þýða,Vindar í Raumsdal Ég reyndi að gera það eins vel og ég gat Það er nauðsynlegt að skilja ekki skáldskapinn eftir í þýðingum.
´Eg hef þýtt mikið af kvæðum,ekki síst úr þýsku, eins og sjá má í bókinni Gríma gamals húss.
Bernard: Þegar þú yrkir, ertu þá meðvitaður um að þú sért að kallast á við erlend skáld eða erlendar hefðir eða gerir þú þetta bara af eðlishvöt? Hefðin í erlendum bókmenntum er svo áberandi í þínum verkum og tilvitnunum.
Matthías: Ég held þetta sé hvort tveggja. Skáldskapurinn er á gráu svæði. Við erum með hauskúpu og leiksvið inni í henni. Þar fer allt mögulegt fram. En til að svara þér þá er þetta stundum meðvitað. Að kallast á við erlend skáld, við eitthvað sem mér finnst vera mikilvægt, kallast á við Canetti, Borges;eitthvað sem er gott að muna. Ég hef t.d. lært mikið af Borges um það, hvernig mér finnst skáld eigi að hugsa. Hann sagði við mig:
“Vertu ekkert hræddur við að skírskota í fornar íslenskar bókmenntir þó að fólkið skilji ekki það sem þú ert að skírskota í.”
Þetta er lifandi tungumál, hefðin lifandi skáldskapur. Við göngum undir himinhvolfi skáldskaparins. Þar er allt fullt af stjörnum. Ég get ekki hugsað mér að sumar séu dauðar. Ég veit vel að margar stjörnur á himinhvolfinu eru útkulnaðar , þó að við sjáum enn ljósið. En á meðan við sjáum ljósin á leiðinn til okkar frá dauðum stjörnum,þá er þetta skemmtilegt og gefur okkur ástæðu til að muna.
Hluti af arfleifðinni.
Við Íslendingar megum aldrei glata henni því þá hættum við að vera sú þjóð sem hefur byggt þetta land. Það er stórmál að við lifum með allri sögu okkar eins og hún sé samtíðin sjálf. Það er þetta samhengi sem gerir okkur merkileg; að við getum lifað með allri arfleifð okkar. Allri sögu okkar.
Og þá ekki síst í tungunni sjálfri.
Silja: Öll sagan er samtíð.
Matthías: Borges sagði “ég er samtíðarmaður” ; sem sagt módernisti. Hann vitnaði í Goethe og sagði Goethe hefði sagt “ég er samtíðarmaður”. Það er nóg fyrir skáld að vera samtíðarmaður,það þarf ekki að skreyta sig með módernisma,alls ekki!
Það þarf ekkert endilega allt að gerast fyrir utan hauskúpuna. Ég hef engan áhuga á því þegar eitthvert kvenfélag er með basar, ég yrki ekki um það. En ef það er basar inni í höfðinu á mér, þá yrki ég um hann.
Jafnvel hann!
Að lokum, til að svara því sem þú spurðir um, Bernard:
Sumt af þessu er grunur. Ég orti kvæði eftir að við höfðum verið í Prag. Ég orti kvæði inn í ljóðaflokk í Vötn þín og vængur ,það fjallar um Kafka og Prag.
Ég fór í gamla Gyðingakirkjugarðinn og það hafði gríðarleg áhrif á mig.
Í þessu kvæði kemur allt í einu fyrir “að komast burt, komast burt”, og ég yrki um það í kvæðinu.
Löngu seinna fæ ég ,Ástráður,í hendur þýðingar ykkar feðga á Kafka sem hafa hjálpað mér eins og margt annað. Þá sé ég að þið eruð að vitna í Kafka sem segir að það sé honum nauðsynlegt að komast burt, komast burt.
Hvað er þetta?
Ég hef spurt sjálfan mig um það.
Er Kafka inni í hausnum á mér? Ég veit ekki til þess!
En það er eitthvað þar, t.d. þegar ég orti í Hólmgönguljóðum um páfuglsvæng dauðans. Þetta hlýtur að vera rétt ,sagði ég við sjálfan mig,af því það er fagurt.
Direk sem fann upp skammtakenninguna,sagði : Það sem er fagurt í jöfnu , það er rétt.
Þetta ljóð er svo hljóðandi:
Akurinn bíður,
kyrralífsmynd
og minning.
Ég smíða bát
úr ljóðum mínum
og sigli brimölduna
inní hjarta þitt.
Ó, þú korngula
gyðja
á strönd
minnar brothættu
vitundar
til þín sigli ég
um víðáttu hafs
og drauma
hvítfyssandi
eru draumar mínir
fley mitt
hverfur
undir drambsömum seglum
til þín
líkt og sæði
í korngulan akur
og ég
undir páfuglsvæng dauðans.
Síðan sé ég í BBC-learning heimildamynd um evrópska málaralist á miðöldum og þá kemur í ljós að það eru páfuglar á mörgum þessum myndum.
Hvað merkir þessi páfugl?
Hann merkir eilíft líf.
Af hverju?
Af því fólk hélt páfuglinn rotnaði ekki eins og aðrir fuglar.
Hvernig skynjaði ég að páfuglinn merkti eilíft líf?
Ég veit það ekki,en ég er samt að yrkja um það og skírskota ósjálfrátt í miðaldahugmyndir um dauðann.
Og eilífðina
Bernard: Er þetta ekki innsæi, skáldlegt innsæi eða eitthvað slíkt?
Hlé
Silja: Ég var minnt á það í hléinu að ég hefði staðið mig illa í byrjun Ritþings því ég steingleymdi að kynna þá sem hér sitja. Mér fannst einhvern veginn svo sjálfsagt að allir þekktu okkur. Silja Aðalsteinsdóttir heiti ég, félagar okkar Matthíasar eru þeir Bernard Scudder, bókmenntafræðingur og þýðandi sem hefur þýtt talsvert af ljóðum eftir Matthías og mörg önnur íslensk skáld, og Ástráður Eysteinsson prófessor í bókmenntum við Háskóla Íslands. Í tilefni af því að hafa loksins kynnt þá er ég að hugsa um að gefa þeim orðið. Þeir hafa valið efni eftir Matthías, ljóð og sögur til að spyrja hann nánar út í.
Það er erfitt að velja úr verkum Matthíasar og ég veit að þeir lentu báðir í stórfelldum vandræðum. Við verðum að átta okkur á því að ritverk Matthíasar þekja þúsundir blaðsíðna og að velja tvö ljóð og eina smásögu er ofverk hverjum manni. En þeir hafa samt reynt og ég ætla að gefa Bernard orðið fyrst og hleypa þeim Matthíasi að með ljóðagerðina.
Bernard: Ég valdi nokkur ljóð, og það vildi svo einkennilega til að þegar Matthías var að tala um tilviljanir í skáldskap þá valdi hann einmitt annað ljóðið sem ég ætlaði að biðja hann um að lesa. Hitt ljóðið er brot úr ljóðabálki sem heitir Friðsamleg sambúð og ég valdi þrjú erindi þar sem hann kemur inn á borgina, áberandi goðsögn, tilvitnanir í Eddukvæðin, eitthvað um bernskuna, eitthvað í raun og veru um ástand mála í heiminum. Mér fannst þetta vera svona ævi og ferill Matthíasar í niðursuðudós. Ég ætla að biðja Matthías um að lesa þessi þrjú erindi og spyrja hann hvað vakti fyrir honum.
Matthías:
Borg,
þú ert sker tímans.
Miðgarðsormur hringar sig um þig,
kreistir jörð undir ólgandi hafi,
milli þín og okkar rautt haf af hatri.
Í gamalli þjóðsögn
beitti Þór uxahöfði,
veiddi orminn á öngul,
nú grandar honum enginn –
á erfiðum, beitulausum tímum
veiðir enginn orm á uxahöfuð:
eina beitan vígorð
sem fjúka um strætin
eins og fölnuð blöð.
Borg,
þú ert víggirt sker
orms úr gráum steini,
gætir hann þín eins og gulls,
horfir á þig hvítum
ljóskastaraaugum
gaddavírsturnanna.
Ó borg,
rauður ormur á gulli.
Bernard: Mig langar að spyrja svolítið um samhengið þarna. T.d. er þarna goðsögn og þarna er nútíminn, stríðið, Hiroshima. Finnst þér engin þversögn í því að blanda saman goðsögnum og hryllingi nútímans.
Matthías: Það sem um er að ræða þarna er að ef maður ætlar að skrifa ritgerð, þá skrifar maður ritgerð. En ef maður ætlar að segja eins mikið og maður getur þá gerir maður það í ljóði með vísunum, með skírskotunum, og þá eins og ég nefndi áðan að Borges hefði talað um: “Þú skalt bara skírskota í arfleiðina eins og þér sýnist”.
Staðreyndin er sú að þetta er mín menntun, mitt háskólanám, ég er handgenginn þessari menningu.. Meðan Þór er í Útgörðum austur þá er ormurinn á sínum stað. Ég var meðal annars að hvetja til þess að menn litu á orminn í eigin brjósti á sama tíma og þeir væru með hugann við Þór og hamarinn hans,eins og talað er um í öðru ljóði í Hólmgönguljóðum. Þarna er útsýni yfir það sem maður sér og upplifir og líka það sem er hér inni fyrir í þessari hauskúpu sem ég hef talað um áður.
Rætur þess sem ég las eru í umhverfi sem ég kynntist ungur blaðamaður í Berlín í sambandi við uppreisnina þar. Ég upplifði hana og síðar Berlínarmúrinn mjög sterkt ,en það var á tímum sem nú eru horfnir og skipta ekki máli lengur. Maður á ekki að vera með neina fortíðarhyggju eða löngun til að skilja allt sem gerðist ,þótt hægt sé að nota arfleifðina sem skírskotun í okkar tíma. Við getum t.d. nú talað um Bosníu eða Ísrael, því miður , og önnur nærtæk dæmi um hörmungar..
Til þess að þurfa ekki að skrifa langa ritgerð þá get ég sagt það sem ég ætla að segja með skírskotun í Þór, í goðsögulega atburði sem eru inngrónir í blóð okkar og við ættum í raun og veru öll að skilja.
Bernard: Þú ert þá, það er svolítið einkennilegt að segja það við ritstjóra Morgunblaðsins fyrrverandi, pólitískt skáld – eða hvað? Þú yrkir svo mikið um atburði dagsins og líðandi stundar.
Silja: Kannski pólitískara skáld en þú varst ritstjóri?
Matthías: Ég er ekki meðvitaður áróðursmaður í skáldskap, það er af og frá, heldur yrki ég bara um það áreiti sem ég verð fyrir.
Þegar ég kom sem ungur ritstjóri að Morgunblaðinu var ég með skegg. Borgarastéttin sagði,ja a.m.k. sumir: “Er hann orðinn ritstjóri þessi gaur, 29 ára gamall, þetta er atómskáld með skegg? Hann er kommi! Já,þetta er bara kommi og ekkert annað.”
Á þessum tíma tóku ritstjórar Morgunblaðsins þátt í þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins ,en því hættum við fljótlega.
Til gamans má geta þess að á einum fundinum voru allir að yrkja um skeggið á mér viðstöðulaust og skeggið var aðalmálið. Ólafur Thors stjórnaði samkomunni og espaði upp þessa karla, Gunnar Thoroddsen,Jón á Akri og alla þessa karla sem vildu láta ljós sitt skína mér til háðungar og voru að yrkja ferskeytlur, sumar ágætar. Ég hnippti í Hönnu og sagði:
“Verð ég ekki að svara þessu?”
Hún jánkaði því.
Þetta var í byrjun viðreisnar og ég stóð upp og sagði:
Skeggið svart mun sýna þér
sótt er á öllum miðum,
viðreisnin í verki er
vöxtur á flestum sviðum.
Karlarnir urðu heimaskítsmát. Atómskáldið gat ort ferskeytlu! Þetta var mín höfuðlausn,eins og á stóð. Hún er nú ekki lengri en þetta!Eða merkilegri!
Tímarnir móta okkur, áreitið, aðstæður og annað. Nú eru nýjar aðstæður.
Ég spyr: er einhver pólitík á Íslandi í dag? Er einhver pólitík í heiminum í dag? Um hvað geta menn ort?
Ég sé það ekki. Þetta er allt þverpólitískt. Það var það ekki. Það voru átök og þau gerðu okkur kannski að meiri vígamönnum en við hefðum kannski viljað vera. En við börðumst fyrir hugsjónum og ég ber virðingu fyrir andstæðingum mínum í þeim leik. Og er eiginlega búinn að leggja kalda stríðið til hliðar!
Ástráður: Í þessu samhengi ætlaði ég að fá að lesa nokkrar línur úr ljóði sem ég hef rætt við þig áður.
Matthías: Ég sagði í útvarpi í gær – þú hlustaðir náttúrulega ekki á það – ég var spurður að því hvernig mér þætti að vera settur svona á skurðarborðið og krufinn eins og nú og þá sagði ég:
“Ég hef yfirleitt verið í hlutverki læknisins og vil síður vera í hlutverki líksins”!
En nú er ég að upplifa það líka. Það er góð æfing úr því sem komið er.
Ástráður: Ég var sjálfur svolítið hissa á að lesa þetta ljóð á sínum tíma og sumir nemendur mínir voru hissa því þeir vissu sumir hverjir að þú værir ritstjóri Morgunblaðsins og mikill andófsmaður kommúnismans, en svo yrkirðu þetta ljóð sem birtist í Dagur ei meir 1975 og við verðum að átta okkur á því hvaða tímar voru þá. Þar eru þessar línur:
Brauð, frið og frelsi
fyrir allt fólk á jarðkringlunni:
ég aðhyllist stefnu
alþjóðasambands frjálsrar verkalýðshreyfingar
gegn fjölþjóðafyrirtækjum,
hnattlægum verðbólguþrýstingi
auðfélaga sem lifa á orkuskorti,
gegn tillitslausum auðhringum
sem leggja þorp og bæi í rústir
ef þeim býður svo við að horfa
eða breyta þeim í iðngreni …
Silja: Ekki áróðursskáld Matthías?!
Matthías: Tilfinningaskáld, tilfinningaskáld …!
Ástráður: Það hefur þurft ákveðna dirfsku fyrir ritstjóra Morgunblaðsins að birta þetta um miðjan áttunda áratuginn.
Matthías: Ritstjóri Morgunblaðsins var ekki fugl á hendi, hann var hvítur hrafn og menn urðu að akseptera það hægt og sígandi. Sá hrafn sem situr hér núna. Ég sé ekki betur, Ástráður, en sá sem orti þetta 1975 sé spámaður ! Það var enginn sem talaði um hnattvæðingu og sumt annað sem talað er um í ljóðinu.
Ég sé að skáldið sem þú ert að tala um hefur verið um þrjátíu árum á undan sínum tíma!!
Ástráður: Ég tek undir það.
Matthías: Hvenær fæ ég það viðurkennt?
Silja: Í dag.
Ástráður: Eigum við ekki bara að færa það til bókar?
Matthías: Þú verður líka að athuga það að ég er alinn upp af umhverfinu. Ég tók fagnandi blómakynslóðinni. Haraldur sonur minn kom allt í einu með gítarinn heim í hlað og byrjaði að syngja, með hár niður á herðar. Ég fagnaði þessum nýja blæstri um heiminn. Ég var alinn upp af þeim líka,bítlunum!
Ástráður: Þú hefur ort um John Lennon.
Matthías: Já, þetta hafði allt mikil áhrif á mig. Ég tel við eigum ekki að festast í einu eða neinu. Þú veist að ég tel hreyfinguna í hvaða mynd sem er einna mikilvægasta af öllu. Hreyfingin hérna inni (í höfðinu), frá einni hugmynd til annarrar. Hreyfingin almennt.
Silja: Vötn mín og vængur ?
Matthías: Táknin eru vötn og vængur. Vængurinn er tákn frelsis, tákn boðleiðar milli guðs og okkar. Dúfan milli mín, okkar og himnanna,kannski.
Frosið vatn,ég er ekki eins hrifinn af því. En ég myndi kannski vera það ef ég væri formaður Skautafélags Reykjavíkur! Það er bara allt annað mál.
Þetta er allt afstætt.
Ástráður: Mig langar að tala um annað sem þú ræddir við mig um daginn. Þú sagðir að þér þætti lítið spunnið í ljóð nema þau væru annað hvort ferðalag eða samræða. Væntanlega getur þetta tvennt farið saman. Mig langar að biðja þig að segja nokkur orð um þessi hugtök, ferðalag og samræða. Þú hefur oft talað um að í módernismanum hafi myndmálið orðið meginmálið og jafnvel það að búa til sterkar myndir. Sérðu þig kannski í ákveðinni fjarlægð frá slíkri fagurfræði?
Matthías: Þú manst hvað ég sagði áðan og vitnaði í Borges um módernismann. Ég er beggja blands í þessum efnum. Ég viðurkenni það.
Hitt er annað mál að þegar ég er að tala um samtíð og hreyfingu,svo ég komi að því aftur, þá er hreyfing í þessu samtali okkar, díalógur og því kannski einhver niðurstaða.
Það er eins með ferðalagið;ferðalagið milli hugmynda.
Stysta leiðin er ekki alltaf beinasta leiðin. Stysta leiðin getur verið bogin, eins og Buckminster Fuller sagði. Bogin lína, geodesískur baugur, er stysta leiðin.
Sama gildir í ljóði.Ég hrífst yfirleitt ekki af ljóðum þar sem hugmyndin er þrællokuð inni í mynd,e.k. kyrralífsmynd. Ég vil að myndin geti brotist út og farið af stað. Myndin í sjálfri sér, þar sem hún er lokuð inni, dugar mér sjaldnast.
Hitt er annað mál að ég hef ort svona kvæði líka, eða mjög nálægt því. Hér eru dæmi um það:
Fjölmiðlar
Mývargurvið netlaust andlit
í sterkri sól.
Þegar ég hugsa aftur í tímann þá finnst mér mjög margt einkennilegt og ekki eftir formúlum. Við lifum ekki eftir formúlum. Það hefur engin formúla verið búin til um það hvernig við eigum að lifa. Það næsta sem formúla kemst um það að lifa er tilfinningin.
Sem er sjaldnast eins í dag og á morgun. Það er margt utan við okkur sem ræður þar úrslitum.
Annað dæmi , það er úr ljóðaflokknum Á spítala:
38.
Sólin,
blóðdropi deyjandi dags.
Þetta er úr kvæði um dvöl á Landakotsspítala , það hefur aldrei verið sett á markað,en birtist í einni af þessum 200 eintaka bókum sem Árvakur hefur gefið út eftir mig,Við Kárahnjúka og önnur kennileiti:
Innhverfur munkur
nótt.
Silja: Þetta sem þú segir um ferðalagið og hugmyndirnar sem kvikna ein af annarri minnir mig á það sérkenni þitt, ólíkt öðrum skáldum á Íslandi, að yrkja í ljóðaflokkum. Jafnvel heilu bækurnar eru samfelldir flokkar. Það er vegna þess að hið venjulega ljóð nægir þér ekki, eftir því sem þú segir;a.m.k. ekki alltaf.
Matthías: Það fer eftir aðstæðum. Í nýju bókinni minni, Vatnaskilum – dagbókarsögu, er rithöfundur sem er hættur sem blaðamaður. Segjum bara það sé ég. Hann fer að velta því fyrir sér að lifa nú ekki sjálfan sig, heldur upplifa sjálfan sig .Og þá verður þetta díalógur eða samtal við lífið , eiginlega bara skáldskapur.
Það er lífið á elliheimili sem þessi rithöfundur óttast mest af öllu .Hvenær verður hann sendur þangað?
Þegar hann getur ekki hreyft hendurnar?
Já,hvenær?
Þetta er díalógur um það.
En í þessari bók sýni ég fram á það hvernig ég orti þrjá ljóðaflokka, og birti þá.
Ég heyrði það í fyrra að einhver sagði að það mætti ekki vera ljóð í svona prósa! Ef það má ekki þá er það harla einkennilegt, því besti prósinn er ævinlega sá sem er ljóðrænn.
Í þessari bók eru þrír ljóðaflokkar:
Um Pourquoi pas? og hvernig ég upplifði slysið drengur , þ.e. manninn andspænis tilverunni, andspænis örlögum sínum.
Ljóðaflokkur með skírskotun í Canetti sem hefur haft mikil áhrif á mig síðustu árin. Ég hef lesið ævisögu hans á þýsku. Ég þekki enga þýsku eins fallega og auðvelda og hans,samt var hann Rúmeni eða Ungverji.
Loks er flokkur sem heitir Örlög og englaryk og er módernískur ljóðaflokkur,að ég held. Ég vaknaði eina nóttina við það að ég var að hugsa um fólkið sem missir börnin sín í fíkniefni og ólýsanlegar sálarkvalir þess.
Þetta hvíldi á mér.
Í skáldinu á fólk að eiga bágt. Ég tek allt svona inn á mig og hef alltaf gert ,t.a.m.sem blaðamaður.
Ég er þeirrar skoðunar að ef blaðamaður finnur ekki til með þeim sem hann skrifar um, þá á hann að hætta. Hann verður að taka út sársauka , hann verður að þjást með fólkinu. Hann verður aldrei almennilegur blaðamaður að öðrum kosti .
Örlög og englaryk fjallar um þetta fólk sem endar með því að standa við gröf barnsins síns,fórnarlambs eiturlyfjasala.
Ég er að vona að einhver taki eftir þessum ljóðaflokki þó að ljóðið eigi nú undir högg að sækja og flokkurinn sé í eigin umbúðum , en ekki endilega eins og á að yrkja .
Í Vatnaskilum er höfundurinn að skrifa dagbók, raða saman hugmyndum sem kallast á við skáldskap eða ekki skáldskap;skáldskap eða veruleika,það skiptir ekki máli.
Hann er kvæntur sjúkraliða og vondur misskilningur, ef lesandinn heldur ég sé giftur sjúkraliða! Þá fara allir að tala við Hönnu um það hvernig sé á elliheimilum og hvenær ég verði sendur þangað og hvernig sé að vera sjúkraliði.
Ég hugsa henni verði ekki sama um það ,ef til þess kæmi!
Fólk vill vera á skráargatinu, eins og Ionesco sagði, það vill fá skírskotun í sálarlíf höfundarins, alltaf, og ef það fær ekki að vera á skráargatinu, þá seljast verkin ekki. Það eru að vísu nokkur skráargöt í þessari bók, ef menn hafa lyklana.
Bandaríska ljóðskáldið Ashbury, segir sjálfur að hann hafi afhent lesendum sínum lykilinn að ljóðum sínum sem oft ,.þó ekki alltaf,eru harla hörð undir tönn,en þá var sagt : “Við báðum um lykla en fengum ný skráargöt!!”
En í sambandi við það sem Ástráður sagði áðan langar mig að víkja að því aftur og fara með smákvæði í viðbót,til skýringar:
Rönd af kvöldgulri
sól
í dagsbjörtum mána.,
það erum við
á festingu tímans.
(Haustið er hugmynd um dauðann,11,4
í Árstíðaferð um innri mann )
Hér fer myndin af stað,en hún er aftur á móti heldur kyrstæð í Minningargrein,eins og vera ber:
Himbrimalaust
er vatnið
óskrifað blað
þrátt fyrir gulan sól-
staf úr vestri.
Þetta er eins og það hafi verið ort fyrir þig,Ástráður! Ég er ánægður með að hafa ort það til að geta bjargað mér út úr spurningu þinni.
En er ég búinn að skýra þetta nægilega?
Ástráður: Já, mikil ósköp. Enda var ég ekki að benda á neina takmörkun.
Matthías: Nei, nei, ég veit það. Ég hef bara gaman af að taka þetta með. Mér datt í hug ég þyrfti á því að halda!
Silja: Eigum við að snúa okkur að sögum?
Ástráður: Ég held að mér hafi farið eins og mörgum öðrum að manni fannst alveg nóg um hvað Matthías hafði ort mikið af ljóðum og þurfti að hafa sig allan við að lesa þau. Ég er eins og Matthías bæði að lesa íslenskar bókmenntir og erlendar þannig að maður hefur hálfpartinn verið að bæla það að Matthías er líka afkastamikill prósahöfundur.
Nú varð ekki lengur hjá því komist að lesa prósa hans og það var mér skemmtileg reynsla að fara í gegnum þetta efni síðustu daga og vikur. Ég er ekki einu sinni með allar sögurnar hér á borðinu en fólk sér að þetta eru umtalsverð afköst, bæði smásögur og í fyrra kom út bókin Hann nærist á góðum minningum sem við myndum kalla skáldævisögu núna. Guðbergur Bergsson kom því hugtaki í umferð. Verk sem er svona einhvers staðar á milli ævisögu og skáldsögu, blandar þessum formum saman. Síðan kom þessi nýja bók hér sem ég hlakka til að lesa og heitir Vatnaskil – dagbókarsaga.
Í mörgum þessum sögum eru ákveðin stef og mér finnst margar smásögurnar líka vera af þessu skáldævisagnakyni og sumar jafnvel enduróma hluti sem maður hefur séð í ljóðunum. Oft er þetta element mjög sterkt sem ég hef kallað í gamni við þig “prústíska elementið” og vísa þá í Marcel Proust, það er tengsl bernsku og fullorðinsára. Þá koma ítrekað ákveðin stef sem tengjast syninum og foreldrunum, syninum og föðurnum, tengsl þeirra. Ákveðin augnablik sem eru jafnvel endurtekin og skipta þig greinilega miklu máli. Ég ætla nú ekkert endilega að draga fram eitthvað sjálfsævisögulegt, þar sem ég er þekktur fyrir annað en að vera í ævisögulegum pælingum hvað varðar höfunda, en samt hefur maður á tilfinningunni að þú sért að feta einhverjar tilfinninga- og minningaslóðir í þessum sögum. Er það rétt að þessar sögur séu að þessu leyti ekki síður persónulegur skáldskapur heldur en ljóðlistin?
Matthías: Þú nefndir Proust, ég kynntist honum ekki almennilega fyrr en eftir þessar sögur. Eins og aðrir er ég náttúrulega heillaður af Proust. Við skulum ekki gleyma því að þegar menn skrifa sögur þá er alltaf visst jarðsamband, að sjálfsögðu. Snorri sagði að allt verði til af einhverju efni. Það hlýtur einnig að eiga við aðrar sögur en konungasögur. Proust skrifaði sínar sögur þannig að mjög mikið af þeim er útúr hans eigin lífi, það vitum við.
En þegar tíminn líður þá hverfur þetta allt saman,gleymist. Konan í sögu Proust.... hver var hún? Hún var bílstjórinn hans og ástmaður! Hann breytir honum og gerir hann að ástkonu þeirra sumra í sögunni..
Verða ekki skáldsögur til með þessum hætti?
Í sögum mínum er ýmislegt með rætur í minni reynslu og mínu sálarlífi .Aftur á móti er svo frjálslega með það farið að það er meiri og minni skáldskapur.
Það er ekki hægt að teikna upp fólk. Það er ekki hægt að teikna upp fólk þannig að það sé eins og fyrirmyndin.Þeir geta ekki einu sinni gert það, stjórnmálaforingjarnir, þegar þeir eru að skrifa sjálfsævisögur sínar. Þeir eru alltaf að skrifa um þann sem þeir vildu vera!
Sjálfsævisögur stjórnmálaforingja eru einhver mesti skáldskapur sem til er. Þeir eru alltaf að skrifa um stjórnmálaforingjann sem langaði að hafa gert hitt og þetta !
Þess vegna finnst mér menn eigi að skrifa sjálfsævisögur sínar, þegar þeir eru dauðir! Ekki síst stjórnmálamenn.
Það er grátt svæði á milli blaðamennsku og skáldskapar. Ég hef t.d. skrifað samtalsgrein um mann sem hét Henrik Ívarsson.Og tók hana með í smásagnasafnið Flugnasuð í farangrinum,ekki síst vegna þess Gunnar Gunnarsson sagði þetta væri skáldskapur.
Ástráður: Já, það er stutt á milli smásagnanna margra og samtalanna.
Matthías: Já, það er alveg rétt hjá þér. Og ég gekkst náttúrulega upp í ummælum Gunnars skálds sem ungur maður og þótti vænt um þau.Hann hringdi til mín sama dag og greinin birtist í Morgunblaðinu.
Ég skrifaði oftast tvö,þrjú uppköst að samtölunum og reyndi að vera í smásagnalegum stellingum og líka dálítið lýrískum, stundum
Ástráður: Víkjum aftur að því sem þú sagðir, að þú í raun og veru skáldar minningar um leið og þú lifir þær, að einhverju leyti. Það er frábær kafli í Hann nærist á góðum minningum sem lýsir samspili gleymskunnar og minninganna. Ef ég má lesa nokkrar línur.
Hann hefur reynslu fyrir því að gleymskan sé hvítgul, en þó einkum gul eins og sólarlagið þegar dagurinn hverfur í hvíta móðu og umbreytist í pensilbrúna rönd sem hverfur hægt og sígandi undir myrkur sem verður að hvítri slikju þar sem það er svartast. Og þá fara stjörnur að kvikna á svarbláum himni. Fyrst lengst í austri síðan í hásuðri og norðri og loks blika hvítar stjörnur í kjölfari sólarinnar. Hægt koma slíkar nætur í heimsókn og oft hafa þær fyllt augu hans kyrrlátri gleði.
Þannig hefur hann stundum upplifað gamlar minningar sem koma í heimsókn án þess gera boð á undan sér en hverfa svo eins og stjörnur inní bjartan morgun með rifuðum seglum.
Þetta er í raun stórkostleg mynd þar sem flöturinn er gleymskan sem þú síðan ferð að mála á.
Matthías: Má ég spyrja þig um eitt.Hvort myndir þú telja að þetta væri nær skáldskap eða veruleika?
Ástráður: Ég ætti mjög erfitt með að negla það niður.
Matthías: Líklega ætti ég það líka.
Ástráður: En hvað með samtölin? Ekki hefurðu verið að skálda þau algjörlega. Þú varst í raun og veru fyrst þekktur fyrir samtölin sem rithöfundur. Jafnvel þekktari sem höfundur samtala heldur en ljóðskáld upphaflega.
Silja: Þú varst náttúrulega búinn að skrifa talsvert mikið af samtölum áður en þín fyrsta bók, Borgin hló, kom út 1958.
Matthías: Já, fullt af samtölum. Mér finnst ágætt að það skuli vera gleymt.
Silja: Er það gleymt?
Matthías: Ja, það er ekki að þvælast fyrir. Ég varð að gera eitthvað á Morgunblaðinu! Ég fann mér leið til að gera eitthvað sem mér fannst skemmtilegt og langaði til að gera. Ég held það hafi glatt Valtý. Þarna var strákur sem hafði gaman af að gera það sem hann var að gera. Einu sinni kom Valtýr til mín og sagði: “Matthías minn, þú hefur ekkert lært af mér.”
Það var hans uppörvun.
Hann var generus maður. Ég hafði ánægju af þessu því þetta var náttúrulega partur af skáldinu í mér. Aðalatriðið að skrifa samtöl, án heimilda,frjáls .Og koma svo með þau og láta fólkið lesa og fólkið sagði: “Já, þetta er gott, sagði ég þetta virkilega svona? Þetta er alveg prýðilegt!”
Og flestir voru glaðir og þakklátir.
Einu sinni skrifaði ég samtal við Jón gamla seglasaumara og þá kom Bjarni Benediktsson til mín og sagði við mig:
“Þær eru voðalega reiðar í Hvöt.”
“Hvað segirðu,” sagði ég, “eru þær reiðar?”
“Já, það er svo dónalegt hjá ykkur tungutakið!.”
“Já, en ég er að reyna að skrifa mig inn í þennan seglasaumara,” sagði ég.”Hann er grófur eins og hráslagi”.
Bjarni brosti.
Mig minnir þær hafi gert ályktun um það að svona dónaskapur ætti ekki heima í Morgunblaðinu.
Þetta var partur af mínu uppeldi.
Síðan kemur Jón gamli inn í verk sem ég skrifaði, t.d. fyrsta leikritið sem ég skrifaði, þar eru þeir fyrirmyndir,Jón gamli og Elli Hólm. En auðvitað varð ég að semja þá inní þessi verk.
Þetta er eiginlega dálítið snúið.
Getur einhver maður verið það sem hann er án þess vera það ekki ? !
Ég gat ekki hætt að vera skáld þó að ég færi á Moggann. Ég varð að fá einhverja útrás fyrir það líka. Það kom fyrir að ég þurfti kannski að skrifa þrjú samtöl í viku.
Núna skrifa menn kannski eitt samtal á þriggja vikna fresti og þykir ærin vinna.En þetta var að hluta til minn innblástur.
Skáldið spinnur út í tómið, eins og segir í ljóði. Atómskáldið spinnur út í tómið og ég held að meira og minna hafi það alltaf verið svo.En sem könguló dugði það mér ekki , ég vildi komast lengra. Komast í snertingu við mannlífið í landinu.
Milli mín og þín eru þúsund ár, sagði gamall maður við mig 1952: “Þú getur ekkert talað við mig. Ég er samtímamaður Egils Skallagrímssonar.”
Síðan hef ég öðrum þræði einnig verið samtímamaður Egils af því að þetta varð maður að tileinka sér. Maður gat ekki bara verið eitthvað eitt.
Þegar þú spyrð um samtöl þá tók ég hér með tilvitnun í Hume “Kastaðu saman í formlausa hrúgu nokkrum stálbútum. Þeir munu aldrei raða sér þannig saman að þeir myndi úr. Grjót, steinlím og tré verða aldrei að húsi nema húsasmiður komi til.”
Þetta er passusinn hans um samtöl,ef svo mætti segja! Ungir blaðamenn ættu að gera sér grein fyrir því. Þeir geta ekki komið til mín og sagt: “Ég er búinn að skrifa svo gott samtal.” Og ég hugsa með mér: af hverju er hann svona ánægður með samtalið? Bara af því að viðfangsefnið, andlagið, var í lagi.
Nei, hann verður að yrkja sína Esju. Mála sína Esju. Ef það kostar að breyta út af venjunni,þá er það ómaksins vert. Síðan flýtur þetta inn á gráa svæðið, að sjálfsögðu, og endar með því að það eru engin skil milli skáldskapar og veruleika.. Þarna þurfa ekki heldur að vera nein skil vegna þess að sögur fjalla um fólk. Fjalla um veröldina, um manninn. Og af hverju eiga þá að vera einhver skil? Ég skil ekki að það sé nauðsynlegt.
Bernard: Samtölin eru þá andrúmsloft öðrum þræði?
Matthías: Já, andrúmsloft ekki síst.Áferð eins og í nýskáldskapnum; ný áferð.
Þegar ég var að kenna nútímabókmenntir í Háskólanum hélt einn nemandi minn því fram í fyrirlestri að Einar Benediktsson væri fyrsta atómskáldið á Íslandi. Ég hafði mjög gaman af þessu. Þau komu fleiri og fluttu sína fyrirlestra og bentu á að fyrstu atómskáldin á Íslandi væru þau skáld sem við köllum síðsymbolista. Nemendurnir héldu því fram að það hefði verið formbylting með atómskáldunum en það er bara allt annað en hugarfarsbylting.
Bylting hugmyndanna.
Þetta má til sanns vegar færa; metafórur Einars Benediktssonar eru t.d. svo sterkar og merkilega nútímalegar að það er hægt að sýna fram á að hann er brautryðjandi í þessum efnum.. Jónas Svavár hefur lýst því yfir að hann hafi orðið fyrir áhrifum af Einari Benediktssyni. Þetta er ekki brandari. Dymbilvaka – Hannes Sigfússon hefur orðið fyrir augljósum áhrifum af Einari Benediktssyni. Þetta er þróun, þetta er samfellt ferli.Menn skyldu ekki halda að eitthvað gerist í einu vetfangi;að eitthvað gerist þannig að hér hætti vatnið að renna og byrji svo einhvers staðar annars staðar aftur. Sem betur fer er þetta ferli, ákveðin þróun.
Þórbergur sagði einu sinni við mig: “Matthías minn, það er alveg sama hvað þú rímar mikið, þú verður alltaf atómskáld.”
Þetta var gagnrýni á mig en ég leit á það sem alveg sérdeilis jákvætt. Nákvæmlega. Ef við tökum ljóðið Alsnjóa eftir Jónas, ja,ég nefni það sérstaklega í skrifum mínum, þá þóttist ég finna það út að rætur kvæðisins væru í lokaorðunum , “heitt og kalt”, Þau eru í Opinberunarbókinni þar sem verið er að brýna fólk til að vera ekki með hálfvelgju;það á annaðhvort að vera heitt eða kalt í trúarafstöðu sinni.Vísunin er harla módernistísk Í Sorg eru einnig nýstárlegar skírskotanir í Opinberunarbókina.
Fyrsta atómkvæðið sem ég hef séð í formi og hugmyndalegum búningi er ekki Davíðsálmar, heldur kvæði sem Gunnar Gunnarsson þýddi eftir danska skáldið Viggo Stuckenberg, einhvern tímann upp úr 1910, en við þekkjum það ekki neitt. Það er atómkvæði í formi, það er eldra en Sorg og nokkurn veginn einnig atómkvæði í hugsun.
Svo koma atómskáldin og um það getum við lesið í fínni bók eftir prófessor Eystein Þorvaldsson þar sem gerð er grein fyrir því hver eru einkenni þeirra og annað þvíumlíkt. En það er annar handleggur.
Fljótið heldur áfram að renna,en bakkarnir verða eftir.
Ástráður: Nú ertu farinn að gera það sem þú sagðir einu sinni og minntir á að Borges hefði sagt – hann sagðist ekki hreykja sér af sínum eigin bókum heldur af þeim sem hann hefði lesið.
Matthías: Þetta var gott hjá honum og mættu fleiri rithöfundar og skáld hugsa svona. Það hefur verið ómetanlegt að kynnast honum, sérstaklega vegna þess að ég kynntist honum persónulega líka. Þegar þessir menn eru stórir þá eru þeir stórir. Þegar þeir eru litlir er alltaf eitthvað að, t.d. sagði Björn í Tónlistarfélaginu mér frá því , að þegar. smærri spámennirnir kæmu hingað gengju þeir út úr vélinni og segðu :
“Hvað, er alltaf rigning hér, er eintómur vetur hér? Eigið þið nokkurn almennilegan flygil, er nokkuð píanó til?”
En þeir sem voru stórir komu út og sögðu:
“Æ, mikið er gaman að koma hingað , óskaplega er Esjan fallegt fjall!”
Og önduðu að sér.
Silja: Klukkan tifar.
Matthías: Já, ég hef skrifað sögu um það.
Silja: Hér á eftir verður opnuð sýning á verkum í eigu Matthíasar og Hönnu inni í setustofunni og okkur er boðið að skoða þessi dásamlegu verk. Við ætlum líka að heyra úr Vatnaskilum. Matthías ætlar að lesa fyrir okkur úr bókinni sem kom glóðvolg úr prentsmiðju áðan. Fyrstu tvö eintökin eru komin á staðinn. Áður en ég hleypi Matthíasi að til að lesa þá langar mig til að biðja hann um að vinda kannski upp á hnykilinn til enda. Við höfum farið mjög hratt um ferilinn og dýft okkur ofan í djúpu laugina við og við en annars sleppt allt of mörgu sem við ætluðum að tala um. Ef ég spyr þig nú bara að lokum, Matthías:
Nú ert þú orðinn 72 ára gamall, þú varst í 50 ár opinber persóna á Íslandi í gegnum verk þín og í gegnum ritstjórnina á Mogganum. Iðrastu einhvers? Er eitthvað sem þú vildir hafa gert öðruvísi sem þú getur sagt okkur í trúnaði frá hér í dag?
Matthías: Þú spurðir mig að þessu um daginn líka. Ég sagði þá og segi það sama núna að ég myndi þá helzt iðrast þess að hafa ekki getað orðið dýrlingur! Ástráður spurði mig þegar við hittumst um daginn um sögu sem heitir Hvíldarlaus ferð inn í drauminn …
Ástráður:....Já, það er eitt sem ég komst ekki að með og það voru draumarnir. Maður fer að taka eftir því hvað eftir annað að draumar eru áberandi í sögum þínum og skipta miklu máli. Í sögunni Hvíldarlaus ferð inn í drauminn er aðalpersónan í svefnrofunum og veit ekki hvort hún er vakandi eða sofandi. Það er einhver hávaði og það er öskubíllinn fyrir utan sem er að tæma tunnurnar. Það sem gerist í sögunni er að persónan rennur saman við þessar öskutunnur og verður eiginlega öskutunna. Mér fannst þetta alveg ótrúlega djörf myndlíking sem þú vinnur með þarna og tengslin á milli þess allra persónulegasta, hins innra lífs og hinsvegar öskutunnunnar sem gáttar út í samfélagið ef svo má segja.
Matthías: Þetta er alveg rétt. Mig dreymdi þessa sögu. Mig var að dreyma að ég væri öskutunna. Mér líkaði ekki þegar karlar og kerlingar voru að koma og fleygja fullum plastpokum í öskutunnuna og ég reyndi í draumnum að ýta þeim frá mér en þeir komu alltaf aftur, einn kom með gamalt útvarpstæki. Svo kom öskubíllinn allt í einu og tók tunnuna og tæmdi hana og þá létti mér og hugsaði sem svo að nú fengi ég að vera í friði. Þá kemur einhver kerling og byrjar að fleygja plastpoka í tunnuna.
Þetta er alveg rétt hjá þér, auðvitað skrifaði ég þessa sögu að gamni mínu sem móttó um líf mitt. Um það sem ég iðrast – að hafa verið öskutunna !
Getur það ekki verið?
Vitið þið eitthvað um það fólk sem ég hef þurft að þjónusta á Morgunblaðinu?
Allt þetta fólk sem hefur komið með greinarnar sínar sýnkt og heilagt, dellu og húmbúkk, og fleygt því viðstöðulaust í þessa tunnu?
Hvernig átti maður að lifa þetta af?
Einn þeirra sem ég átti athyglisvert samtal við var prófessor Dungal þegar hann var að reyna að finna út fyrir hverju ég hefði ofnæmi. Þá segir hann allt í einu þegar hann horfir á bakið á mér:
“Þér hafið ofnæmi fyrir skyri.”
“Skyri?”
“Já,þér borðið mikið skyr,er það ekki?”
“Ja,jú,stundum,sést það á prufunum á bakinu á mér?”
“Nei, nei, ég sé það ekki á bakinu á yður, ég sé það í Morgunblaðinu!”
“Nú hvernig þá?” spyr ég.
“Það er þannig, að þegar maður borðar skyr á morgnana þá rennur blóðið niður í maga og er að renna þangað allan daginn og langt fram á kvöld og það fer ekki blóðdropi upp í heila !”
Ætti ég kannski ekki að iðrast einhvers?
Silja: Nú fáum við að heyra kafla úr Vatnaskilum.
Matthías: Höfundurinn sem er gamall blaðamaður, auðvitað,skrifaði dagbækur annað slagið og svo þegar hann hættir störfum þá er hann að velta því fyrir sér , að í staðinn fyrir að leggjast í kör þá fer hann í dagbækurnar sínar og kannar málið. Og með þær að vopni skrifar hann sig inní söguna.
Hann er að leita að manninum sem hann var og er ekki lengur.
Hann þekkir ekki þennan mann lengur , því hann var allt annar en sá sem hann nú er.Hann vill frekar kynnast honum en lenda í því að lifa sjálfan sig , eins og Hannes Hafstein yrkir um. Inn í þetta koma þessi aðföng úr veröldinni sjálfri,elliheimilið
og umhverfi þess. Og hann óttast mest af öllu að lenda þar.
Þetta ferðalag er betra en leggjast í kör.
Karlinn í Innansveitarkroniku fór norður í land til systur sinnar minnir mig og lagðist þar í kör. En allt í einu rís hann upp úr körinni og segir:
Nú ætla ég að fara að hitta hestana mína!Höfundur Vatnaskila leitar annarra lausna en karlinn í Innansveitarkroniku,perlu nóbelsskáldsins.
Líklega var ekki hægt að þýða þetta orð, “kör” , og þess vegna er Innansveitarkronika óþýdd á sænsku, að ég held!
En þetta er mín kör,ætli það ekki?! Elín gamla ,á níræðisaldri, algjör skáldskapur. Og eiginkonan, sjúkraliði á elliheimili.,meiri skáldskapur!
Stjörnurnar eru demantar hinna fátæku, segir kona í kvikmynd Jarmans um ítalska endurreisnarmálarann Caravaggio.
Einmitt (!)
En við lifum í þjóðfélagi þeirra sem geyma stjörnurnar sínar í bankahólfum. Þjóðfélag bankahólfanna, það er okkar samfélag.
Einmitt (!)
Hann hugsaði oft til þeirra sem biðu þess á öldrunarheimilinu að horfast í augu við sitt mikla uppgjör. Það kæmi einnig að honum, en vonandi annars staðar. Þau höfðu talað fátt um starf hennar þarna á stofnuninni, en hann hugsaði sitt.
Dagarnir liðu án tilbreytingar. Líf þeirra eins og fljót án fossa og flúða, lygnt fljót sem hvítnar þrengslalaust undir sólsetur. Og það glitrar við geislandi báru.
Hún á sínum stað, hann við minningu vatnsins sem liðast um langa ævi og unnir sér engrar hvíldar.
Og dagbókin á leiðinni í skilvísa upplifun þess sem er löngu gleymt.
Já, einmitt, gleymt!
…
Silja: Ég þakka innilega fyrir þátttökuna og viðveruna og við hittumst öll inni í setustofu og skoðum málverk og gleðjumst.