Samtal Sigmundar Ernis í DV
Líf mitt bátur
gisinn af sól og löngu sumri.
Og hafið bíður.
Án þess að eiga annars kost
sigli ég yfir hafið
í þínu nafni.
Þegar komið er inn á heimili Matthíasar Johannessen skálds í kyrrlátri götu
Vesturbæjar blasa við aðkomumanni svo margar myndir að hann setur hljóðan.
Við förum á sokkunum um hús skáldsins. Jú, hann kveðst eiga "svoldið af
myndum". Ég segi það naumt sagt og virði fyrir mér Nínur og Schevinga og
Louisur og Kjarvala og allt saman tvinnað saman við ævi skáldsins sjálfs.
"Þetta er allt saman persónulegt," segir Matthías mér og bendir á mynd sem
Louisa gerði fyrir eina ljóðabóka hans. "Og þetta er harpan úr fyrstu
bókinni minni," segir hann um litríkan Kjarval inni í stássstofunni.
Við höldum upp á loft. Þar er nóg af bókum, meðal annars drjúg hilla af
skrifum skáldsins og ritstjórans sem þiggur heiðursverðlaun
Menningarverðlauna DV í dag fyrir merkt framlag sitt til að halda á lofti
menningarumræðu í landinu.
Við gónum á kili nokkurra bóka og einhvernveginn vafrar tal okkar að
þjóðmálaumræðunni -- því ef það er ekki veðrið, þá tala Íslendingar um
þjóðmál.
"Ef við eigum að tala um ástandið í þjóðfélaginu," segir Matthías, "þá
hvarflar hugur manns að þessari bók hérna," og hann kroppar Brekkukotsannál
Laxness út úr einni hillunni og handleikur bókina eins og fágaðan gimstein.
"Hún fjallar um frægðina." Ég hvái. En skáldið er í flugtaki: "Mér er nær
að halda," segir það, "að þessi bók sé farsi um okkur Íslendinga en ekki
endilega um Garðar Hólm einan. Og sjáðu nú til, Sigmundur. Í fyrsta lagi
virðist mér vera ákaflega mikið frægðarstref hér á landi og raunar í
fjölmiðlaheiminum yfirleitt, þessu alheimsþorpi. Þessi samþépping hefur ýtt
undir þetta, því nú þurfa menn ekki lengur að vera frægir af list sinni
heldur er nægilegt að vera frægur í fjölmiðlum. Ég tala nú ekki um þegar
menn gera út á markaðslögmálin fyrir jólin. Þá ætlar allt um koll að
keyra."
Matthías segir á meðan hann veltir Brekkukotsannáli í höndum sér að líklega
sé mikið til í því að einkenni okkar tíma sé hjarðmenning. Blöðin séu hætt
að stjórna þessari svokölluðu menningu. það geri sjónvarpið. Og Matthías
talar með þunga: "Sjónvarpið kallar fram og leggur áherslu á meðalmennsku í
allri sinni dýrð. Það lyftir henni til áhrifa. Í sjónvarpi er ekki spurt um
hvað menn segja heldur hvernig þeir "koma fyrir", hvernig þeir líta út,
hvernig þeir göslast í gegnum þessa nærveru. Það skiptir engu þó
sjónvarpshetjan segi aldrei orð af viti, en ef hún kemur vel fyrir, er
hjörðin ánægð."
Við Matthías förum fram í eldhús og fáum okkur kaffi og skáldið spyr mig
hvort mér þyki hann vera orðhvass. Ég kveðst ekki halda það. "Þá er það í
lagi," segir hann yfir rjúkandi bollunum. "Láttu það standa."
Matthías hefur sýnst vera hlédrægur á löngum skáldferli sínum. Ég spyr hann
hvort það sé kostur og það er ekki laust við að skáldinu finnist þetta vera
skrýtin spurning. Svarar samt. "Ég held að það sé kostur að gera sér grein
fyrir því, Sigmundur, að verk manns verður ekkert betra þó að það sé meira
og minna unnið í fjölmiðlum. Ég gerði mér grein fyrir því, ungur
blaðamaður, að það var ekkert eftirsóknarvert að gera út á fjölmiðla, ég
tala nú ekki um sjónvarpið eftir að það kom til sögunnar. Það eina sem
skiptir máli er að reyna að vinna verk sitt vel. Í þessari bók sem ég
nefndi áðan, Brekkukotsannál, segir einhversstaðar að aðeins eitt sé
ógeðslegt, það er illa unnið verk."
Skáldið sækir bókina, þennan undursamlega annál og heldur áfram tali sínu.
"Í þessari bók stendur einnig, sjáðu", og skáldið bendir á orðin og les þau
með virðingu: "Það er aðeins einn tónn sem er til og hann er hreinn. Og þá
spyr ég: Höfum við fundið þennan tón? Auðvitað ekki! En hitt er
mikilvægara: Erum við að leita að honum?
Hér er haft eftir Garðari Hólm: "Hún móðir mín sendi mig einu sinni út að
kaupa pipar og ég er ekki kominn heim enn." Þetta er útgefið 1957 eða sama
árið og annað samtal mitt við Stein Steinar birtist í Helgafellinu en því
lýkur svo að Steinn segir að honum finnist hann vera í einhverskonar
kaupstaðarferð. Steinn segir: "Langri og yfirnáttúrulegri kaupstaðarferð en
ég hef gleymt því hver sendi mig og einnig því hvað ég átti að kaupa."
Þú sérð að ég er að svara spurningu þinni," segir Matthías og horfir á
spyril sinn með góðlátlegum augum.
"Sko, hver sendi þessa menn í kaupstað, Garðar og Stein? Það var
arfleifðin. Það var hún sem lagði undirstöðuna og gerði okkur að þjóð..."
Ég segi Matthíasi að mér finnist þetta vera nokkuð svona rómantískt hjá
honum, hann sé ef til vill meiri rómantíker en hann vilji vera láta. "Ja,
fyrst þú segir þetta þá viðurkenni ég fúslega að ég er rómantíker þegar
kemur að arfleifðinni, sjálfri sögu okkar, en sjáðu til, mikilvægasti
þáttur hennar er íslensk tunga. Hún man. Hún man. Og það er ekki síst í því
sem við munum sem við lifum með siðmenningarlegu stolti okkar."
Matthías rifjar upp að hann hafi minnst á Hallgrím Pétursson áðan: "Í
farsanum fyrrnefnda er því lýst þegar Garðar Hólm leiðir gamla fátæka móður
sína upp að altarinu í Dómkirkjunni. Og þar ætlar hann að sýna hvað hann
getur. Um gömlu konuna, sem við getum kallað arfleifð okkar, persónugerða í
fjallræðufólkinu, er sagt að hún sitji þarna í kórnum, ummynduð og
tignarstór. Hvað er höfundurinn að segja? Mér er nær að halda að hann sé að
minna okkur á hvert við eigum að sækja þennan hreina tón. Þetta orð --
tignarstór -- er engin tilviljun. Það er skírskotun í 27. passíusálm séra
Hallgríms þar sem fjallað er um Krist. Það er hann og arfleifðin hans sem
er tignarstór. Þessi arfleifð er inngróin gömlu konunni sem situr þarna við
altarið og hlustar á son sinn syngja. Sögumaður segir: Ég hef oft verið
spurður, söng hann vel? Og hann svarar: Ég veit það ekki. Og þannig svara
ég spurningum þínum, Sigmundur, um andann í þjóðfélaginu og ástandið sem
við blasir."
káldið snýr sér snöggvast við og horfir út um suðurgluggann eins og til að
hugsa sig um. Og segir svo: "Breska ljóðskáldið Auden sagði í frægu ljóði
eftir síðari Íslandsferð sína að Íslendingar væru ekki "vulgar" eða óhefluð
þjóð og bætti við; ekki enn."
Menningarumræða hefur verið eitt lykilorða í lífsstarfi Matthíasar
Johannessen. Á göngu okkar um hús hans þar sem listin lifir í hverjum kima
verður mér spurt hvort hann haldi að menningarlífið í allri sinni mynd sé
mikilvægt í huga almennings hér á landi. Það stendur ekki á svari.
"Ég held að þetta hafi ekkert endilega breyst mikið. Ég hef stundum sagt
við kollega mína, blaðamenn, að við skyldum fara varlega og hreykja okkur
ekki of hátt. Ég hef sagt að þó við hefðum lifað í Leipzig á dögum Bachs
hefðum við áreiðanlega verið búnir að taka viðtöl við alla bæjarbúa nema
Bach. Hann var kallaður "sá gamli" og þeir töldu að hann væri orðinn
úreltur. Jafnvel synir hans áttuðu sig ekki á því hver var faðir þeirra.
Hann átti enga peninga, stóð ekki í neinu braski. Hann átti ekkert nema
þennan eina tón. Og hann var hreinn."
-- Sem var kannski engin frétt?
"Nei, engin frétt. Hann gekk að vinnu sinni dag hvern og var bara þessi
hversdagslegi orgelleikari sem lífið snýst ekki um.
Þú spurðir mig áðan um rómantík. Ef það er rómantík að tala um menn eins og
Bach og Jónas og Hallgrím þá er ég rómantíker. Og ef það er úrelt þá vil ég
vera úreltur."
Matthías er kominn ofan í aðrar aldir og talar lengi: "Bach dó svo eins og
hver annar -- og ekkert um það að segja. Löngu löngu síðar fór Mendelsohn í
kjötbúð í Berlín að kaupa flesk. Því var pakkað inn í gamlar nótur. Hann
fór að skoða málið og spurði kaupmanninn hvar hann hefði fengið þennan
búðarpappír. Þetta er afgangur úr prentsmiðju, sagði hann. Þarna voru komin
verkin hans Bachs. Og nú má spyrja hvað hefði gerst ef Mendelsohn hefði
ekki keypt sér kjöt. Þó að Bach hefði lifað fjölmiðlalífi eins og margir
listamenn nú á dögum hefði það engu breytt. En kjötverslunin í Berlín
breytti miklu."
Matthías hallar sér fram í hægum sveig: "Þegar ég hef sagt kollegum mínum
svona sögu hafa þeir lagt kollhúfur og haldið sínu striki. Við verðum því
enn um sinn að gera út á kjötbúðina þegar hin eina sanna list er annars
vegar, eða hin eina sanna tólg eins og Gunnlaugur Scheving sagði gjarnan."
-- Er hún til, þessi eina sanna list?
"Ég reikna ekki með að nokkur hafi getað unnið fullklárað verk eins og
skaparinn, en miklir listamenn komast langt í verkum sínum. Og oftast þeir
lengst sem hógværastir eru, þó það sé ekki endilega nein regla."
-- Er erfitt að vera sannur í list sinni?
"Nei. Ekki ef maður hefur hana í fyrirrúmi. Það er ekkert erfitt að vera fugl í trjánum ef maður syngur eins og fugl."
-- Ertu erfiður þegar þú ert á flugi?
"Ég held að hverjum listamanni sé mikilvægt að búa yfir þekkingu og ögun,
að kunna að rækta garðinn sinn. En listin byrjar ekki með því, forsenda
hennar er, að ég held, neistinn, stundum kallaður innblástur. Þrá eftir því
að syngja úr blóði sínu. Þrá eftir því að rekast óvart á þennan eina sanna
tón."
-- Hefurðu aldrei orðið leiður á orðum?
"Mér finnst gott að vera einn með hugsunum mínum. En ég er ekki viss um að
það sé gagnkvæm ánægja."
---
Tilvitnunin í upphafi viðtalsins er úr ljóðaflokki Matthíasar, Sálmum á atómöld.
M-samtöl sem ekki hafa birzt í bókum
Guðrún frá Lundi
“Já, halló, halló. Það heyrist hálfilla.”
“Ég heyri ágætlega.”
“Já, það er skárra núna. Halló, - halló.”
“Hvað segið þér?”
“Ég sagði að sambandið væri að skána.”
“Já, ég heyri bara ágætlega í yður núna. Heyrið þér ekki til mín?”
“Jú, þetta er orðið ágætt. Halló.”
“Já.”
“Er .þetta Guðrún Árnadóttir sem ég tala við?”
“Já.”
“Guðrún frá Lundi?”
“Jú, það er hún.”
“Já, komið þér sælar, þetta er hjá Morgunblaðinu.”
“Ha, Morgunblaðinu??”
“Já. Mig langar að rabba svolitla stund við yður. Þér skuluð alveg vera rólegar, Mogginn borgar!”
“Jú - já. Ætlið þér að fara að setja eitthvað í blaðið eftir mér?”
“Já, við - -”
“Ja, ég er nú heldur á móti því.”
“En þetta verður ósköp stutt.”
“Nú - jæja.”
“Þér ætlið að fara að gefa út nýja bók í haust, Guðrún?”
“Jú, það stendur víst til, ég held nú það. Þetta verður framhald -”
“Halló, hvað segið þér?”
“Ég sagði að þetta yrði framhald af sögunni sem kom í fyrra, Þar sem brimaldan brotnar.”
“Og hvað á hún að heita, sú nýja?”
“Heita? Jú, hún á víst að heita Römm er sú taug.”
“Það er ágætt nafn. En Guðrún, segið mér eitt: hvernig finnst yður að vera mest lesni skáldsagnahöfundurinn okkar?”
“Já, það er nú það. Ég hef nú ekki alltaf verið mest lesin. En það var nú kannski í fyrra, annars veit ég það ekki.”
“Finnst yður það ekki ánægjulegt?”
“Mér þykir náttúrulega þó nokkur upphefð í því. Ég get ekki neitað því, nei, það er mér ómögulegt. Mér þætti leiðinlegt, ef fáir vildu lesa bækurnar mínar, jú-jú, það þætti mér.”
“Já, auðvitað.”
“En, halló -”
“Já, ég heyri.”
“Ég er þó ekki haldin neinu monti eða stærilæti. Ég segi bara eins og mér finnst. Mér þætti leiðinlegt að vera lesin af fáum. En þér skuluð nú helzt ekki setja þetta á prent.”
“Hví ekki? Það ætti ekki að saka. Svo verður þetta svo ósköp stutt.”
“Stutt. Jæja, það er ágætt, ég vil ekki að þetta verði mikið.”
“En Guðrún, segið mér eitt, hvenær byrjuðuð þér að skrifa?”
“Ja, ég byrjaði nú ekki að skrifa fyrir alvöru fyrr en ég fluttist í kaupstaðinn. Það eru nú nærri 17 ár, en ég átti talsvert í handritum áður. En það fór mest í ruslakörfuna, mikil ósköp. Annars byrjaði ég að skrifa, strax og ég gat valdið penna. Langt fyrir innan fermingu. Auðvitað var það tóm vitleysa allt saman. En samt voru þarna drögin að Dalalífi. - Já - já, ég var byrjuð á þeirri sögu um fermingu. Það var sami dalurinn og sama fólkið. Hún er komin til ára sinna sagan sú.”
“En hvernig er það, eru sögurnar byggðar á sannsögulegum atburðum?”
“Nei - nei, ekki nokkur þeirra, já-hérna. Þetta verður bara allt til í huga mínum. Að vísu er lífinu lýst eins og það var í sveitinni, þegar ég var ung stúlka, en persónurnar hafa aldrei verið til, o sei-sei, nei. En fer þetta ekki að verða nóg?”
“Jú-jú. En Guðrún, hvaða skáldsagnahöfundi hafið þér lært mest af?”
“Lært? Það veit ég ekki. Ég held maður sé að læra allt lífið út í gegn. Maður lærir auðvitað margt af lestri bóka; í þeim hef ég legið alla ævina. Ég var ósköp hrifin af því sem Kristín Sigfúsdóttir skrifaði. Og svo er það hann Jón minn Trausti. En hann var bara alltaf svo svartsýnn, blessaður. En Kristín var það nú líka. En þér eigið náttúrulega við þá yngri? Já, af þessum stóru höfundunum held ég mér líki bezt við hann Kristmann minn.”
“Hvernig líkaði yður það, sem hann sagði um yður í Mogganum um daginn.”
“O, svona. Það var ágætt, mér líkaði það bara vel. Hann sagði að ég væri ágætiskerling! Það var svo sem bærilegt. Hann var svo góður að heimsækja mig í vetur. Já-já, og svo er hann prýðilega skemmtilegur.”
“Já, hann kann að meta kvenfólkið, karlinn sá. En svo að við höldum áfram að tala um bækurnar yðar. Hvernig gekk yður að koma þeim út fyrst í stað?”
“Það gekk nú heldur illa. En nú hlýtur að vera komið nóg.”
“Já, við förum að slá botninn í þetta. En mig langar að heyra áður, hvernig þetta gekk til með fyrstu bókina.”
“Já, það var frændi minn í Reykjavík sem fékk handritið og fór með það suður og svo tók hann Gunnar minn það, blessaður drengurinn. Já, hann Gunnar sem var í Ísafold. En þá var það búið að hrekjast í 3-4 ár milli útgefenda án þess að nokkur hefði áhuga á að koma því á prent. Þeir vildu ekki gefa út eftir óþekktan höfund, og svo bætti það víst ekki úr, að í hlut átti ómenntuð sveitakona. Mér virðist þeir yfirleitt heldur lítið hrifnir af okkur konunum. En ég held nú, að það séu góðir kaflar í okkar bókum ekki síður en karlanna.”
“Bókum yðar hefur alltaf verið tekið vel?”
“Það eru afar fáir sem hafa hnýtt í þær, margir hafa skrifað vel um þær. En enginn eins vel og Kristmann.”
“Hafið þér góðan tíma til ritstarfa, Guðrún?”
“Já, það hef ég. Ég er ósköp mikið ein allan daginn, svo að það styttir stundirnar að skrifa. En auðvitað gæti ég líka stytt mér stundir með því að lesa allan daginn, en manni getur leiðzt það eins og annað. Það er ekki gott að sitja allan daginn yfir bókum, þó að góðar séu. Annars er sambandið farið að versna, svo að við ættum að fara að hætta þessu. Ég trúi því ekki að þér setjið þetta allt á prent, þetta er orðið svo langt.”
“Við sjáum til. En þér eruð sem sagt ánægðar með lífið.”
“Já, ég er ákaflega ánægð með lífið. Ég hef verið lánsmanneskja, þó að ég hafi verið heldur fátæk. En núna er ég farin að lifa eins og blóm í eggi. En heyrið þér annars nokkuð til mín?”
Já-já, sambandið er ágætt.”
“Nei, það er orðið afleitt. Þetta er líka orðið gott hjá okkur. En segið þér mér eitt: ætli bókin mín sé komin út?”
“Nei, Gunnar sagði mér, að hún kæmi um mánaðamótin.”
“Jæja - já, það er ágætt. Annars held ég að mér hafi tekizt verr með hana. Hún gerist í Reykjavík, og ég er ekki eins kunnug þar og í sveitinni.”
“Við sjáum, hvað setur. Verið þér sælar Guðrún og þakka yður kærlega fyrir. Ég vona að þetta verði í lagi, þegar það kemur í blaðinu.”
“Já-já, ég er viss um að þetta verður ágætt hjá yður. Verið þér nú sælir.”
(1956)
Samtal við Jóhann P. Jónsson, skipherra
“Ég óttaðist að Bretinn hefði fengið fyrirskipun um að skjóta á skyttuna okkar ”
Þegar ég hitti Jóhann P. Jónsson, skipherra, að máli og bað hann segja frá einhverju sem á dagana hefur drifið fannst mér eðlilegast að hefja viðtalið á því að spyrja hvers vegna hann hefði gert sjómennsku að ævistarfi sínu. Hann sagði að hann hefði snemma orðið að vinna fyrir sér og skömmu eftir fermingu réðst hann á skútuna Portland, sem Bryde-verzlun gerði út frá Reykjavík. Það lifði enginn á iðjuleysinu á þeim árum, og Jóhann sagði efnin hefðu verið heldur rýr á æskuheimili hans, þótt ekki hefði verið um skort að ræða. Faðir hans, Jón Guðmundsson, var austanpóstur sem kallað var; hann hafði ekki háar tekjur fyrir það starf sitt: “Ég held hann hafi fengið 60 krónur á hest austur að Odda,” segir Jóhann.
Ekki var Jóhann aflasæll á Portland. - “Ég var lítill aflamaður,” segir hann, “þó var faðir minn ánægður með kaupið sem ég fékk eftir vertíðina. Hann fékk það greitt í úttekt hjá Bryde og hefur sennilega eitthvað munað um það. Við fengum 8 aura premíu fyrir hvern fisk og þótti það ekki svo slæmt.”
Jóhann segist hafa verið þrjár vertíðir á skaki, síðan fór hann í Stýrimannaskólann og lauk prófi þaðan tæplega 19 ára gamall. Það var 1906. Síðan hélt hann til Englands og stundaði siglingar þaðan, kom svo heim og sigldi á togara um skeið, en 1908 fór hann til Danmerkur og hugðist afla sér meiri menntunar. Jóhann segir:
“Thore-félagið hugðist taka við strandferðunum af Sameinaða og bauð okkur Einari heitnum Stefánssyni stýrimannastöðu á strandferðaskipunum ef við næðum dönsku skipstjóraprófi. Það var aðallega Nielsen sem síðar varð forstjóri Eimskipafélagsins, sem reri í okkur að fara til Danmerkur. Við fórum utan, en aldrei varð úr því ég færi til Thorefélagsins, örlögin höguðu því á annan veg. Þegar ég hafði lokið prófi 1910 var búið að ráða stýrimenn á strandferðaskip Thore-félagsins, Austra og Vestra, svo að ég sneri mér að Sameinaða og sigldi hjá þeim sem stýrimaður í 1½ ár. Þá rekst ég á auglýsingu frá Reserve-kadettskólanum. Hann auglýsti eftir ungum efnilegum piltum, og þar sem ég vonaðist til þess að ég væri í þeirra hópi sendi ég inn umsókn. Var ég svo tekinn í skólann. Skóli þessi menntaði sjóliðsforingjaefni sem herinn gat kallað til þjónustu ef á þurfti að halda. Þegar ég var hálfnaður með skólann, skall á fyrri heimsstyrjöldin svo að ég var skipaður “leutinant” í danska flotanum þegar ég lauk prófi 1915. Ekki var nokkur leið að komast undan þeirri kvöð, enda miðaði starf skólans ekki sízt að því að undirbúa sjóliðsforingjaefni undir þjónustu í styrjöldum. Ég fór á tundurspillinn Sölöven og var á honum til 1916 þegar ég fór á Islands-Falk sem 3. kommandör, eins og það var kallað, þ.e. ég var þriðji maður frá skipstjóra sem alltaf var kallaður Chefen. Hann hét Friðrik Coll, ágætismaður, varð síðar aðmíráll í danska flotanum, kom upp 1921 með konung og drottningu. En hvað um það. - Á tundurspillinum var ég 1. stýrimaður og hafði það ágætt. Við héldum aðallega vörð á dönsku sundunum, einkum við Saltholmen. Þar var gríðarmikið tundurduflabelti, aðeins mjó renna sem hægt var að sigla í gegnum. Við áttum að hafa eftirlit með umferðinni um þetta belti. Eitt sinn ætlaði brezkur kafbátur, E-13 að nafni, að reyna að komast í gegnum tundurduflabeltið, en var svo óheppinn að stranda á grynningunum sem voru innan dönsku landhelginnar. Eins og þér vitið þá var Danmörk hlutlaust ríki og algert brot á alþjóðalögum ef Þjóðverjar réðust á bátinn þar sem hann lá. Það gerðu þeir þó. Við fengum fyrirskipun um að sigla að kafbátnum, en stór þýzkur tundurspillir var á undan okkur á vettvang og hóf skothríð á bátinn, skaut m.a. tundurskeyti á hann, en það tók botn og sprakk áður en það lenti á bátnum. Áhöfn kafbátsins, 30 menn, var komin upp á dekk þegar Þjóðverjarnir hófu skothríðina, en þá köstuðu þeir sér allir í sjóinn. Nokkru síðar renndum við upp að hlið kafbátsins og tókst okkur að bjarga um 20 mönnum, þ. á m. foringja bátsins, en hinir fórust, hafa annað hvort drukknað eða orðið vélbyssukúlum að bráð. Þegar við vorum komnir á milli brezka kafbátsins og Þjóðverjanna hættu hinir síðarnefndu skothríðinni, létu okkar algerlega í friði. Síðan sigldu þeir á brott. Yfir þessu athæfi Þjóðverjanna var kært og sendu þeir síðan formlega afsökun fyrir þetta hlutleysisbrot. Ekki man ég til þess að manntjón yrði hjá okkur og yfirleitt gekk þessi þjónusta slysalaust.”
“En hvað um Islands fálkann?”
“Það gerðist lítið sögulegt, meðan ég var á honum. Við höfðum það ágætt hér norður frá, lítið að gera og nóg að eta. Við áttum að hafa eftirlit á hafinu milli Færeyja og Íslands og sjá um að hvorki Bretar né Þjóðverjar væru lengur í landhelgi en 24 klst. í einu. Ef þeir voru lengur var litið svo á að þeir hefðu framið landhelgisbrot. Aldrei urðum við varir við að skip þessara þjóða væru lengur en 24 klst. í landhelgi, þó kom það fyrir að brezkir togarar kærðu yfir því að þýzkir kafbátar væru lengur í íslenzkri landhelgi en ekki tókum við alltaf mark á slíkum fullyrðingum. Við sáum oft brezk eftirlitsskip á þessum slóðum, einnig þýzka kafbáta, en þeir voru ósköp kurteisir við okkur, höfðu samband við okkur með ljósmerkjum og létu sér nægja skýringarnar á ferðalagi okkar. - Síðar var ég aftur sendur suður á Eystrasalt þar sem ég var á nokkrum tundurspillum í viðbót, en að styrjöldinni lokinni tók ég þátt í því að hreinsa tundurduflabeltið í Eystrasalti og opna siglingaleiðirnar þar. Það verk gekk ágætlega. Þó sigldi eitt af aðstoðarskipum okkar á tundurdufl og sprakk í loft upp og fórst helmingur áhafnarinnar.”
“Hvernig voru kjörin í danska flotanum?”
“Ja kjörin? Við höfðum 80 danskar krónur á mánuði auk fæðispeninga, en einkennisföt vorum við skyldugir að kaupa sjálfir. Þau kostuðu sem svaraði mánaðarkaupi. Þetta þóttu heldur léleg laun í þá daga, en ég fékk líka hálf laun hjá Sameinaða eftir að ég varð offiséri, með því skilyrði að ég kæmi til þeirra að stríðinu loknu. Voru það ríflegar aukatekjur og komu í góðar þarfir.”
“En hvernig var andrúmsloftið í flotanum?”
“Mér fannst miklu viðfelldnara andrúmsloft í danska sjóhernum en í verzlunarflotanum. Sjóliðsforingjarnir voru miklu alþýðlegri í framkomu en yfirmenn kaupskipanna sem alltaf voru á varðbergi að nálgast ekki um of þá sem höfðu einni snúru minna en þeir.”
“Svo fóruð þér til Sameinaða?”
“Þegar ég hætti í danska flotanum, fór ég til Sameinaða, en var þar aðeins í 10 mánuði því að ég var beðinn að taka við gamla Þór sem var keyptur til landsins 1920. Ég var með hann til 1926, þá tók ég við Óðni og var með hann þangað til hann var seldur úr landi 1937. Ári síðar varð ég skipherra á Ægi og sigldi með hann í 10 ár. 1947 fór ég í land.”
“Hvað vilduð þér segja um fyrstu ár landhelgisgæzlunnar hér?”
“Fyrstu árin var okkur aðallega ætlað að stugga við landhelgisbrjótunum, en ekki of harkalega samt. Menn voru hræddir um að það mundi rísa mótmælaalda gegn íslenzkri landhelgisgæzlu og allt færi í handaskolum ef við tækjum of mörg skip í landhelgi fyrsta kastið. Einnig voru dómararnir hikandi í byrjun. - Þór gamli var ekki heldur til stórræðanna fyrst í stað, byssulaus og hæggengur, en síðan fékk hann byssu og breytti það mjög öllum aðstæðum. Upp frá því fórum við að taka skip í landhelgi, einkum norska snurpubáta fyrir norðan. Þeir voru mjög ágengir á þessum árum. Þeir höfðu fengið að leika lausum hala innan landhelginnar, en um þetta leyti voru sett ný fiskveiðilög sem bönnuðu ekki aðeins veiðar í landhelgi, heldur einnig alla vinnu við afla og veiðarfæri. Síldarskipum var meira að segja fyrirlagt að hafa nótina á dekki og bátana uppi þegar þau voru innan landhelgi. Þessi nýju lög voru okkur mikill styrkur í starfi enda fundu Norðmenn fljótt að þeir gátu ekki hegðað sér eins og áður þegar þeir voru algerlega óáreittir innan landhelgislínunnar. Þjóðverjar urðu einnig mjög hart úti fyrst í stað því að þeir höfðu yfirleitt gömul og lítil skip sem áttu að því er virðist erfitt með að fiska nema á grunnsævi.”
Og Jóhann skipherra heldur áram:
“Annars má rekja upphaf landhelgisgæzlunnar á Íslandi til Björgunarfélags Vestmannaeyja sem keypti gamla Þór, fyrsta landhelgisskip okkar. Einn helzti forráðamaður þess félags var Sigurður skáld frá Arnarholti og vann þar ágætt starf. Félagið hugðist upphaflega láta Þór gamla vera fiskibátaflotanum til aðstoðar á miðunum, draga í höfn báta með bilaða vél o.s.frv. En ekkert verkefni var fyrir Þór milli vertíða, og var hann því tekinn í þjónustu íslenzku landhelgisgæzlunnar og leigður ríkinu. Þannig var það til 1926 þegar íslenzka ríkið keypti Óðin.”
Gætuð þér rifjað upp einhvern minnisverðan atburð frá skipherraárum yðar áður en við hættum þessu spjalli?”
“Já, það getum við reynt. Í síðari styrjöldinni hitti Sæbjörg brezka togarann War Gray í landhelgi fyrir vestan Reykjanes, stöðvaði hann og seti mann um borð. Skipstjóranum er gefin fyrirskipun um að fylgja Sæbjörgu til Reykjavíkur, en þegar þeir eru búnir að ná trollinu inn setur hann á fulla ferð og siglir suður fyrir Reykjanes. Skipstjórinn á Sæbjörgu lét útgerðina strax vita um hvernig komið væri. Við lágum suðaustan við Vestmannaeyjar þegar þetta gerðist. Allt í einu kemur vélbátur frá Vestmannaeyjum og rennir sér upp að hliðinni á okkur. Skipstjórinn tilkynnir okkur að hann hafi haft tal af enskum togara sem hafi beðið þá um að taka í land íslenzkan sjómann er væri um borð í togaranum. En í sama mund kom Íslendingurinn, Guðni Thorlacius, stýrimaður á Sæbjörgu, upp á dekk og kallaði á skipstjóra mótorbátsins og sagði að hann væri fangi Breta og bað um að Ægir yrði sóttur þegar í stað. Með þau skilaboð kemur báturinn til okkar. Við biðum ekki boðanna, en héldum í skyndingu þangað sem togarinn var þegar Vestmannaeyjabáturinn hafði hitt hann. Skömmu síðar sáum við reyki nálægt þeirri stefnu sem okkur hafði verið gefin upp og sigldum þangað. Þar voru á ferð 2 brezkir togarar eins og venja var á stríðsárunum því að Bretar héldu ávallt hópinn í öryggisskyni ef á þá yrði ráðist. Að nokkrum tíma liðnum náðum við svo sambandi við aftari togarann og sagði skipstjórinn okkur að War Gray væri á undan. Skutum við þá nokkrum stöðvunarskotum á togarann, en hann sinnti því engu. Nálguðumst við nú togarann fljótt, komumst í kallfæri við hann og renndum upp að hliðinni á honum, en enginn maður kom út á dekk og hvergi var mann að sjá nema í brúnni. Þeir létu ekki á sér kræla hvernig sem við reyndum að ná sambandi við þá. Loks kölluðum við yfir til þeirra að við mundum hefja skothríð á skipið, enda höfðum við fengið leyfi landhelgisgæzlunnar í Reykjavík til þess. Ekki sinntu þeir því heldur, en héldu flótta sínum áfram og nú var ekki um annað að gera en hefja skothríð á skipið. Við hittum í síðuna á því og var ég satt að segja hálfhræddur um að togarinn sykki, enda kom talsverður leki að honum. Vonaðist ég nú til að skipstjórinn skeytti viðvörunum okkar, en svo varð þó ekki, hann flýði allt hvað af tók, og sáum við okkur ekki annað fært en skjóta á yfirbygginguna og skorsteininn. Um svipað leyti sáum við að maður hafði tekið sér stöðu við vélbyssustæðið og óttaðist ég nú mjög að hann hefði fengið fyrirskipun um að skjóta á skyttuna okkar, Jón Jónsson skipstjóra sem stóð á bersvæði og var í mikilli hættu ef Bretarnir létu til skarar skríða. Ekki hófu þeir þó skothríð á okkur, enda hittum við litlu síðar damprörið, og gaus þá upp mikill gufumökkur. Skipstjórinn stöðvaði togarann þá þegar, því hann hélt að við hefðum skotið í ketilinn og mikil hætta væri á ferðum. Við sendum menn um borð í togarann að sækja karlinn, og þegar þeir komu með hann um borð í Ægi var hann hinn bljúgasti - og svo var alla leið til lands. Hann hét Agerskov, hálf-dani, maður rúmlega fimmtugur og hinn kempulegasti að sjá, enda dugnaðarforkur að því er ég frétti síðar. Við höfðum hann í haldi um borð í Ægi og sigldum síðan með togarann á undan okkur rakleiðis til Vestmannaeyja. En þegar þangað kom, fengum við fyrirskipun um að halda ferðinni áfram til Reykjavíkur þar sem málið var tekið fyrir.”
“Það má geta þess til gamans,” segir Jóhann skipherra að lokum, “að þremur mánuðum eftir þetta kom War Gray Súðinni til aðstoðar, þegar Þjóðverjar gerðu loftárás á hana á Skjálfandaflóa, og hjálpaði henni að komast til Húsavíkur. Agerskov var þá í fangelsi, en nokkru síðar kom hann svo aftur við sögu hér við land: hann var leiðsögumaður þriggja brezkra togara sem voru á leið á Íslandsmið, og gerði sér lítið fyrir og sigldi þeim öllum upp á Meðallandsfjöru. Það féll þá í okkar hlut, skipsmannanna á Ægi, að ná skipi hans út aftur og draga það til Reykjavíkur. Þannig endurnýjuðum við kynni okkar af War Gray. En um Agerskov skipstjóra má segja, að hann hafi verið allsöguleg persóna hér á stríðsárunum.”
(1957)
Talað við Bjarna Jónsson skipstjóra
Bjarni Jónsson skipstjóri er Reykvíkingur í húð og hár. Hann er meira að segja Vesturbæingur. Hann er sonur Jóns Þórðarsonar fiskmatsmanns frá Vigfúsarkoti og konu hans, Guðrúnar Bjarnadóttur. Bjarni sagði mér að Vigfúsarkot hefði brunnið um leið og Glasgow skömmu eftir aldamót: “Þá var afi orðinn farlama maður, blindur og kominn í kör,” sagði Bjarni, “og man ég vel þegar hann var borinn út úr brennandi húsinu.”
Bjarni fæddist í Fischerssundi 1. “Þá var allt opið til sjávar,” segir hann, “og fjaran við Vesturgötuna. Þar lékum við okkur. Unga fólkið í Reykjavík veit alltof lítið um bæinn eins og hann var í gamla daga. Það heldur til dæmis að Túngata hafi alltaf verið til. Það var stundum ljótt í Austurstrætinu þegar brim var og mikið flæði. Þá rann vatnið úr læknum niður götuna svo hún varð hálfófær á köflum.”
Bjarni sagðist alltaf hafa verið ákvðeinn í því að verða skipstjóri. Hann var öllum stundum niðri í fjöru og úti í skipunum þegar hann var drengur og lagði mikið á sig til að komast á sjóinn. Þegar hann var 8 ára kom strax í ljós að sjórinn var hans ástríða:
“Þá stalst ég til Hafnarfjarðar og gekk alla leiðina. Ég hafði reynt að stelast þangað tvisvar áður, en mistekizt því í annað skiptið hitti ég einhvern sem þekkti mig við Skólavörðuna, og í hitt skiptið á Öskjuhlíðinni og var rekinn heim aftur. Þegar ég kom til Hafnarfjarðar fór ég beint til ömmu minnar og var þar í þrjá daga. Hún sendi son sinn ríðandi til Reykjavíkur að láta vita um ferðir mínar svo ekki yrði leitað að mér. Svo kom Reykjavíkin sem var flóabátur hér á Faxaflóa og faðir minn lóssaði oft þegar með þurfti, og ég faldi mig um borð í skipinu þangað til það var farið á stað og hímdi aftur í káetu. Þegar Verdal skipstjóri fann mig þar, sagði hann undrandi: “Hvað? Ert þú hér?” Ég hélt nú það og þóttist maður með mönnum. Vordal fór með mig upp í stýrishús til pabba, og þar var ég svo allan túrinn, frá Hafnarfirði til Sandgerðis og Keflavíkur og Reykjavíkur aftur. Þetta var fyrsta sjóferðin mín og þótti nú heldur sigling í þá daga.
“Hvenær fórstu til Eimskips?”
“Það var 1915. Þá fór ég með Gullfossi að sækja Goðafoss fyrsta. Júlíus skipstjóri var úti og þar hitti ég hann.”
“Dró til tíðinda í förinni?”
“Nei, ég lærbrotnaði bara á Raufarhöfn í fyrstu ferðinni og átti í því í níu mánuði. Það er góð tala. Svo fór ég aftur á Goðann, en var ekki með þegar hann strandaði. Þá var ég kominn á Ceres gömlu og var háseti á henni þegar hún var skotin niður á Atlantshafinu í fyrra stríði, 1917 var það víst. Farþegar voru um borð í skipinu, þau Thor Jensen og Richard sonur hans, og fröken Thora Friðriksson. Þau björguðust öll eins og kunnugt er, en tveir af áhöfninni fórust í sprengingunni. Þeir voru báðir niðri í vél þegar tundurskeytið hitti skipið. Þetta er eina havaríið sem ég hef komizt í á sjó. Við vorum 52 klukkustundir í björgunarbátnum til Orkneyja og var það talsvert volk. Að öðru leyti bar ekkert til tíðinda, en við vorum lengi á leiðinni heim. Það tók okkur heilan mánuð að komast heim. Við fórum frá eyjunum til Glasgow, síðan með dönsku skipi í skipalest til Leirvíkur, þaðan til Björgvinjar í Noregi og Kaupmannahafnar og loks þaðan heim með Islands Falk.”
“Svo hefurðu komið aftur til Eimskips?”
“Já, ég var nokkur ár háseti hjá Eimskip. Þegar mér bauðst stýrimannastarf á Sterling fór ég þangað. Það var 1918. Það vantaði menn á skipin eftir Spönsku veikina, sumir höfðu ekki náð sér almennilega, aðrir lágu og enn aðrir höfðu dáið úr veikinni. Það var ekki eins auðvelt að verða stýrimaður þá og nú því skipin voru fá og sjaldgæft að pláss losnaði. Um það bil áratug síðar varð ég fyrsti stýrimaður á Gullfossi og leysti þá stundum Sigurð Pétursson af. Sigurður var ágætur maður, traustur og öruggur skipstjóri.”
“Þú kannt hvergi við þig nema á sjónum?”
“Nei. Ég man alltaf hvað mér þótti gaman að fara með Gullfossi í fyrsta skiptið. Skipið var fullt af farþegum, mig minnir þeir hafi verið 112, og allar lestir troðfullar. Það þótti mér skemmtilegt. Mér leiðist í landi. Dagarnir eru langir. Svo er ekkert að gera þegar maður er kominn í land því allir segja: “Þessi var hjá Eimskip. Hann fær eftirlaun.” Ég hætti 1952, en hef stundum leyst af síðan. Það hefur haldið í mér líftórunni. Ég hef farið með útlendinga kringum landið, svo hef ég farið út með Tröllið, Reykjafoss, Tungufoss, Kötlu, Litlafell og Kyndil.”
“Þú hefur siglt tvö stríð?”
“Já, ég hef siglt tvö stríð. Og mér datt aldrei í hug að neitt kæmi fyrir mig. Þeir eru margir skyggnir, sjá fyrir veðrabrigði og svoleiðis.”
“Ert þú skyggn, Bjarni?”
“Mér hefur lánast allt vel og það eru allir góðir í kringum mig. Ég fann aldrei til ótta, það má ekki koma fyrir á sjónum. Og það þýðir ekki að vera að hugsa um þó loftvogin falli á leiðinni til Ameríku. Eins og þú veizt sótti ég Tröllið 1948 og var á því þangað til ég hætti hjá Eimskip. Í einni ferðinni lentum við í þoku um 300 mílur suðurvestur af Íslandi og hún hélzt alla leiðina til New York. Það birti aldrei upp nokkra stund. Flautan var í gangi alla leiðina á tveggja mínútna fresti. Og svo var það ísinn við Nýfundnaland. Hann getur verið hættulegur. Hann getur höggvið gat á skipið þegar minnst varir. Stóru jakarnir eru ekki hættulegastir, heldur hrönglið sem fylgir þeim. Það kemur ekki alltaf fram á ratsjánni. Ef það skellur á botninum er voðinn vís. Stóru jakarnir taka stundum niðri á 60-70 föðmum. Þetta eru eins og eyjur sem gnæfa yfir hafflötinn, og það er oft mikil tign yfir þeim.”
“En stríðið, þú minntist á það áðan?”
“Já, stríðið. Við komum á Gullfossi til Danmerkur í þann mund sem Þjóðverjar voru að hertaka landið. Þar vorum við kyrrsettir, en komumst heim með Petsamóförunum sem frægt er orðið. Í næstu ferð á undan var ég með Gullfoss. Þá vorum við sjö daga á leiðinni úr Óslófirði til Kaupmannahafnar. Það var í febrúar 1940. Við festumst í ís innarlega á Kattegat og sátum þar fastir í tvo sólarhringa. En svo fórum við að mjakast áfram með aðstoð ísbrjóta. Það voru 27 gráður þegar hann hljóp í norðaustrið. Aldrei hefur mér orðið eins kalt á ævinni.
En þú varst að spyrja um stríðið. Ég var lengst af með Dettifoss og Lagarfoss í stríðinu. Oftast voru þau hæggengustu skipin í lestunum, en samt kom ekkert fyrir. Lengsti túrinn frá Reykjavík til New York tók 32 sólarhringa. Það var í júní 1944. Við vorum suður af Novo Scotia á þjóðhátíðardaginn. Og þá var flaggað. Þá vorum við orðnir matar- og vatnslausir, en áttum eftir tveggja sólarhringa stím til New York. Við höfðum ekki við að víkja fyrir kafbátum og öðrum skipalestum í þessari ferð.
Einu sinni fórum við af stað 68 skip saman, en 28 skip voru eftir þegar við komum norður undir England. Kafbátarnir gerðu árásir á okkur á hverri nóttu og skipin sukku logandi allt í kringum okkur. Þá var það ljótt. 26 þúsund tonna herflutningaskip var skotið niður rétt við okkur og við sáum fólkið, hjúkrunarkonur, hermenn og sjómenn fleygja sér með skerandi ópum í hafið. Þeir þóttust hafa bjargað einhverjum en ég veit það ekki. Síðasta skipið, sem var skotið niður í þessari ferð, var 14 þúsund tonna skotfæraskip. Það birti upp, þegar það sprakk og svo gífurleg spenging varð í skipinu, að mér hefur dottið í hug hvort kafbátarnir hafi ekki líka farizt a.m.k. var engin árás gerð á okkur eftir þetta.
Já, það var oft ljótt í stríðinu, en ég var miklu hræddari við árekstur í þokunni en þýzku djöflana. Það getur verið hættulegt að vera alltaf að breyta um stefnu í þoku og gera allra handa kúnstir. En segðu mér, hefurðu komið um borð í nýja Selfoss?”
“Nei.”
“Ja, þá áttu mikið eftir. Það er eins og íbúðirnar hafi verið byggðar fyrir maddömu Popmadúr, þessa frönsku.
Það er ekkert smáræðis fínirí. Það er eitthvað annað eða þegar maður var að byrja að sigla - jesús minn góður. Þá fóru margir farþegar austur á land því þar voru ágætar útgerðarstöðvar og uppgripsafli. Þá var oft þröngt á þingi um borð í strandferðaskipunum. Ekkert var nú gert fyrir fólkið, nema hvað salernisfatan, var tæmd sex sinnum á sólarhring. Þegar ég byrjaði fyrir hálfri öld var ekki annað í skipunum en venjulegur kompás og lóð, sem var fírað niður og þrælað inn með handafli. Nú styðja menn á takka. Ég held það sé betra að sigla nú í þoku en áður fyrr í björtu. Þá var fátækt svo mikil víðast hvar að við urðum að gefa flösku af olíu í land til að fá þá til að láta loga yfir nóttina í einhverjum glugga, svo hægt væri að sjá, hvort skipið færðist úr stað, ef vindaði.”
“En segðu mér eitt, varstu nokkurn tíma á skútu?”
“Nei, Guði sé lof. Einu sinni þegar ég var innan við fermingu, stalst ég um borð í skútu, en þá skall hann á með ofsaroki svo við komumst ekki í land. Karlarnir elduðu hafragraut og hrærðu í honum með priki, sem var svartara en potturinn. Ég gat ekkert látið ofan í mig af þessum ósköpum. Nokkru síðar klæddu þeir mig svo mikið, að ég hafði ekki viðþol!”
“Nú? Fyrir hita?”
“Nei, lús.”
“Þá hefurðu tekið ákvörðun um að fara aldrei á skútu?”
“Já.”
Nú fór Bjarni skipstjóri að segja mér frá því að hann hefði aldrei komið upp að Tröllafossi:
“Ég fór í fyrsta skipti upp fyrir Elliðaár á Alþingishátíðinni,” sagði hann. En svo bætti hann dálitlu við: “Ég hef komið 500 sinnum á allar hafnir í landinu, farið hátt á annað hundrað sinnum til Bandaríkjanna og milli 300-400 sinnum til Danmerkur. Samt hef ég held ég getað sinnt störfum heimilisföðurins. Ég á tíu börn og hef auk þess alið upp fósturbörn. En mér þykir alltaf leiðinlegt í landi og hef heldur kosið að fara með konuna út í sumarleyfi en fara í land.”
Svo bendir Bjarni á mynd af sér sem hangir í stofunni, og segir:
“Hvað heldurðu, að ég sé gamall á henni þessari?”
“Tuttugu og þriggja,” svara ég.
Hann brosir:
“Nei, þetta er fermingarmynd. Ég hef alltaf verið stór. Ég er með þyngstu mönnum sem fæðzt hafa á Íslandi.”
“Hvað varstu þungur?”
“Ég var 28 merkur er mér sagt, enda var ég örverpið því það var ekki hægt að leggja á neina konu að eignast fleiri börn eftir þessi ósköp.”
“En hvað ertu þungur núna?”
“Ég er 300 pund. Það er ekki mikið á 70 árum.”
Svo skálaði hann í skozku viskíi.
(1959)
Eiríkur Ásgrímsson,sjóari
Eiríkur Ásgrímsson sjómaður er Skaftfellingur að ætt og uppruna, fæddur að Rofabæ í Meðallandi, en ólst upp á Eyrarbakka. Þar bjó faðir hans, Ásgrímur Jónsson sem lengi var formaður. Ásgrímur var ættaður úr Skaftafellssýslu og var af Hlíðarætt svonefndri.
Í upphafi samtalsins töluðum við um bernskuár Eiríks og kvaðst hann ekki hafa liðið skort eins og margur í þá daga:
“Ég kynntist því aldrei, eins og sumir aðrir, að hafa ekkert nema dropann. Mjólk var sjaldséð á Eyrarbakka, enda ekki nema átta kýr í þorpinu. Ég var lítið fyrir mjólk, en pabbi keypti hana handa systur minni í vöggu.
Um fermingu fór ég til séra Ólafs Helgasonar málleysingjakennara, þó faðir minn vildi ekki láta mig, en Ólafur sótti málið svo fast, að pabbi lét undan að lokum. Mér leið vel hjá séra Ólafi, þó þar væri í mörgu að snúast, og var hann mér ákaflega góður. Tel ég mig heppinn að hafa komizt í vist hjá honum, því ég hefði farið að heiman hvort eð var fyrir tvítugsaldur.”
“Það hefur verið erfiðari vinna í þá daga en nú er?”
“Já, það þýddi ekkert að segja: - Ég fer heim klukkan 5. Úr æsku minni er mér einna minnisstæðust þessi setning: - “Vertu ekki lengi að gleypa þetta í þig og farðu svo.””
“Hvað hefði verið sagt, ef þú hefðir ætlað að fara heim kl 5?”
“Ja, það hefði verið eitthvað ljótt. Ég man eftir gömlum karli á Eyrarbakka sem átti þrjá sonu og lét engan þeirra beita, en þá tíðkaðist að við strákarnir beittum fyrir hálfan hlut eftir 10 ára aldur. Honum var stórláð að láta þá sleppa svo vel, en hann vissi betur, því tveir þeirra voru berklaveikir og dóu fyrir innan fermingu. Vinnuharkan var svo mikil á þessum árum, að karlarnir máttu ekki vera að því að taka í nefnið á sjónum, heldur festu þeir tóbaksbita bak við eyrun til að þurfa ekki að snússa sig í vinnunni.”
Eiríkur fór nú að rifja upp æsku sína austur í Skaftafellssýslu og Eyrarbakka. Hann kvaðst ekki muna eftir því, þegar hann fluttist að austan. Hann var þá tæpra 5 ára gamall og fór með lest út á Eyrarbakka:
“Ég man eftir lestunum síðar, þegar karlarnir komu göngumóðir út eftir til að afla sér nauðsynja. Ég man eftir móðurbróður mínum, honum Ingimundi í Rofabæ, hann kom tvisvar eða þrisvar sinnum eftir að ég fluttist út að Eyrarbakka og heimsótti föður minn, en síðar hætti hann alveg að koma, þetta var svoddan voða leið austan að og tók uppundir mánuð, þrjár vikur alltaf á leiðinni því þeir þurftu að hvíla hestana og svo voru þeir viku í kaupstað.”
“Þeir hafa verið fegnir að koma í kaupstaðinn. Fengu þeir sér ekki alltaf glaðning á Eyrarbakka?”
“Jú, sumir, en það var ekki mikið um það, ég man eftir að þeir voru hálfir sumir. Á Eyrarbakka voru þrjár vínverzlanir fyrst þegar ég man eftir og sýndist það í fljótu bragði ofmikið fyrir svo lítið pláss, en það var alltaf nóg að gera, því það þurfti að senda þessi reiðinnar ósköp af víni út um allar sýslur, Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslu og þó var þetta líka sótt svona sitt af hverjum.”
“Já, það hefur verið glatt á hjalla fyrir austan í þá daga.”
“Ja, það var ekki svo mikið drukkið á Eyrarbakka, það sást ekki vín á mönnum nema rétt af hendingu, en sennilega hefur það verið nóg til þess, að þeim hefur þótt ástæða til að koma upp góðtemplarareglu, ég man vel eftir því.”
“Hvernig var það?”
“Ja, það var byrjað á því að leika Ævintýri á Gönguför, minnir mig, það var tilbreyting, það var það.”
“Þú ert ekki góðtemplari Eiríkur?”
“Nei, ég hef enga ánægju af að vera í félögum, ég hef haft svo mikið að gera við smíðar eftir að ég hætti á sjónum. Mér skilst ég hefði orðið að velja á milli góðtemplarareglunnar og smíðanna og það var auðvelt val. Annars eru búðirnar mér minnisstæðastar. Þær voru ævintýri líkastar fyrst í stað, en svo fór maður að vaða um allt og verða uppvöðslusamur, eins og gengur, og þá var ævintýrið auðvitað á enda.”
“Fannst þér fallegt á Eyrarbakka?”
“Já, stundum, en það fór af á veturna.”
“Voru stúlkurnar fallegar?”
“Jæja, eins og gengur og gerist, það eru alls staðar fallegar stúlkur, þegar maður hefur verið lengi á sjó.”
“Þú hefur þá ekki gift þig á Eyrarbakka?”
“Nei, ég var orðinn gamall þegar ég fór að hugsa um það.”
“Hvað gamall?”
“Ja, svona 30 ára, ég ætlaði eiginlega ekkert að eiga við það, en lét svo slag standa. Ég er dálítið kúnstugur, eins og þú getur séð. Ekki svo að skilja, að ég sé í neinum sértrúarflokki, onei, ég trúi því sem frelsarinn sagði, og það kemur enginn gervihrókur að breyta því í mín eyru. Ég man vel eftir, að ég var fermdur upp á þrenninguna og líklega hef ég verið skírður undir hana líka, þó það hafi verið í Meðallandi. Ég veit ekki, hvað blessaður byskupinn segir við því.”
“Finnst þér fallegt í Meðallandi?”
“Það er nógu fallegt fyrir þá sem þar hafa búið, ætli það ekki?”
“Þú minntist á séra Ólaf áðan, hvernig maður var það?”
“Ja, ég veit bara, að hann var ekki kommi,” sagði Eiríkur með þungri áherzlu, en sneri sér síðan að sjónum og rifjaði upp svaðilför í Eyrarbakkabugtinni, þegar hann var á Langanesinu 1907:
“Við fórum út einhvern tíma eftir miðan marz og héldum austur í Eyrarbakkabugt og vorum þar einn dag og fengum lítið, en þá hvessti hann og við lögðum skipinu til. Egill Egilsson skipstjóri var ágætur maður og mjög fær, en hann drukknaði í þessari ferð. Stýrimaðurinn hét Guðmundur Einarsson og var nýútskrifaður og ekki fær um að taka við skipinu í fárviðri, því hann hafði ekki haft skip áður, en þá var það í lögum, að stýrimenn áttu að vera tvö úthöld eða 12 mánuði á sjó, áður en þeir fengu skip. Svo erum við þarna og hann hvessir mikið, og þegar við erum komnir austur í bugtina, er komið rok og stendur yfir daginn og nóttina og fram á morgun daginn þar á eftir, og þá var orðið svo vont að það var ekki hægt að kveikja upp í maskínunni og ekki heldur að velgja neitt ofaní sig af neinu tagi. Svo á hádegisvaktinni skellur sjór yfir skipið, skömmu áður var bjartara niðri en hérna inni, en sjórinn byrgði fyrir alla birtu og lokaði kolsvart myrkrið niðri, þar sem þeir lágu í kojunum. Ég gat grillt í þá í myrkrinu, þar sem ég stóð nýkominn upp úr kojunni minni og hugsaði með sjálfum mér: - Ætli helvítis dallurinn ætli ekki að rífa sig lausan? Svo kom ég upp í gatið og kallaði í skipstjórann, en ekkert svar, enginn vissi neitt hvar hann var og stýrimaðurinn fór niður og sást ekki fyrr en skipið var komið á réttan kjöl aftur, þetta var óskaplegt ásand um borð, bæði seglið og messanmastrið löfðu aftan úr skipinu, svo það var öngvu líkara en hundi sem situr upp á endann, en það gerði enginn neitt, svo ég fór niður aftur og í stígvélin og upp aftur og hjó allt draslið af. Karlarnir voru grátandi hingað og þangað út um allt skip, sumir lágu á grúfu, og ég fór að spurja þá, hvort þeir ætluðu að láta skipið vera lengi svona eins og úfna kerlingu. Af 24 mönnum gat ég fengið 10 eða 12 til að sýna einhvern manndóm, og við fórum að streða við að ná seglinu inn og höfðum ekkert nema handaflið, sjórinn var ógnarlegur ásýndum og var nýbúinn að gleypa skipstjórann og beygja krufuspilið og ekki var annað eftir af jullunni en fangalínan og hálft stefnið klofið niður úr. Þegar við vorum búnir að ná seglinu var komið kvöld og þá fór ég að bisa við að koma rörunum fyrir, því það var heldur farið að lygna, en ekki neitt að ráði, og þá gátum við fyrst kveikt upp frammí. Við vissum hvar land var og vorum farnir að sigla upp að ströndinni, en þó vorum við ekki almennilega vissir um stefnuna, því sumir héldu að kompásinn hefði skekkzt eitthvað og skemmzt, en okkur miðaði áfram og sáum land við Krísuvíkurberg, það er vestarlega í bugtinni, og við héldum áfram og komið myrkur og enginn viti, og þegar við komum vestur úr, fór ég niður að fá mér eitthvað að drekka eða taka í nefið, ég man það ekki, en það var ekki löng stund, og þegar ég kom upp aftur stóð Guðmundur við stýrið, en maður sem Kristján hét var frammí, og ég kallaði til hans: “Af hverju læturðu ekki manninn vita? Ætlarðu að fara upp í bergið?
Þá áttum við ekki eftir nema sex eða átta skipslengdir upp í bergið sem er 50 eða 60 faðma djúpt og þarna sá dauðinn leik á borði. Ég hljóp aftur á og segi við stýrimann, hvort hann sjái ekki, að hann sé rétt kominn upp í bergið: “Ég veit hvað ég fer,” segir hann: - “Jæja, segi ég, en ég ætla nú samt að taka af þér stýrið, og svo ýtti ég honum frá og sigldi út með berginu, því það var einbógsvindur, ég var orðinn bjartsýnn og fannst okkur mundi takast þetta þrátt fyrir allt, en samt kveið ég dálítið fyrir Háleyjunum, en við sluppum við þær. Svo sáum við urðarljóra, sem sjómennirnir kölluðu svo, og héldum áfram vel í miðja röst, og svo vestur úr, og þegar við komum í Húllið þorði ég ekki að halda áfram og ligg yfir nóttina og legg honum til og það var komið blíðskaparveður en dimmt, svo ég þorði ekki að halda áfram, en sagði þeim að láta mig vita þegar klukkan væri 2, svo lagði ég mig, því ég var orðinn þreyttur. Karlarnir voru hættir að gráta og stýrimaðurinn var uppi. Já, svona var nú þetta karlinn minn, ekkert grín heldur fúlasta alvara, eins og þú getur séð á því að Georg fórst með manni og mús í bugtinni, og við rákumst á bómuna af honum og ég þekkti hana, því ég hafði verið á honum áður.”
“Það má segja þú hafir lagt Langanesið undir þig eins og Þuríður formaður forðum daga.”
“Já, auðvitað, hvað átti ég að gera? Ég ætlaði ekki að láta drepa mig, því ég var ungur og vildi lifa lengur. Svo héldum við til Hafnarfjarðar og ekkert bar til tíðinda.”
“Og þar hafið þið sungið Guði lof og dýrð?”
“Ó-nei, ég fór í land og tilkynnti ástvinum mínum þá sorgarfregn, að ég væri enn á lífi.”
(1959)
Sesselju spákonu
I.
“Ég er mesta spákona á Íslandi. Ég er Sesselja Jónasdóttir, Halldórssonar óðalsbónda á Borg á Eyrarbakka. Af Hreppaættum. Þegar ég var ung stúlka heima á Eyrarbakka, söng ég oft í kórnum, en hef ekki þurft að halda því á lofti eins og sumir aðrir.”
“Þú verður að sanna fyrir okkur, að þú sért mesta spákona á Íslandi.”
“Já, það skal ég gera,” sagði Sesselja spákona, “hvað viljið þið fá að vita?”
“Hvernig leikurinn fer milli Frakka og Íslendinga”.
“Hvað leikur?” spurði Sesselja spákona.
“Landsleikurinn í handbolta.”
“Hvað er nú það, handbolti?”
“Ja, það er nú svona” - og íþróttafréttaritaranum vafðist tunga um tönn, en hann hélt áfram: “Leikurinn á að hefjast eftir stuttan tíma. Þú verður að segja okkur fyrir um úrslit hans, ef þú vilt að við tökum mark á þér.”
Þetta var sniðugt hjá íþróttafréttaritaranum því þeir höfðu veðjað um úrslit leiksins og það voru komnar 200 eða 300 krónur í pottinn og auðvitað ætlaði hann að verja heiður sinn með því að vinna getraunina. Svo átti hann frí daginn eftir og ætlaði að bjóða konunni út að borða eins og hann gerir venjulega, þegar líkt stendur á.
“Komið þið með spel, strákar,” kallaði Sesselja spákona.
“Svo settist hún við skrifborð íþróttafréttaritarans og beið. Þeir hlupu niður í dauðans ofboði og sóttu spil handa spákonunni sinn og hún byrjaði óðar að segja fyrir um leikinn.
Spádómur hennar reyndist í öllum aðalatriðum réttur, en af einhverjum dularfullum ástæðum tapaði íþróttafréttaritarinn veðmálinu.
Sesselja spákona hafði sýnt að hún er ekki öll þar sem hún er séð. Hún kann sitt fag, konan sú. Við létum þess vegna taka af henni myndir og þegar hún sá þær, ljómaði andlit hennar og hún sagði:
“Mikið anskoti er ég góð þarna, þetta er bara ekkert af hrukkum. Við látum hana í blaðið þessa.”
Ekki leizt henni á aðrar myndir, en horfði samt lengi á þær og handfjallaði sitt alter ego af einstakri umhyggju.
“Hvernig heldurðu að standi á þessari spádómsgáfu þinni?” spurði ég.
“Það veit ég ekki,” svaraði hún með semingi.
“Heldurðu það geti verið vegna þess þú sért trúuð kona?”
“Ja, ég gæti vel hugsað mér það. Ég er voðalega trúarsterk, get ég sagt þér. Og ég hef oft fundið, að það er ástæða til að hafa sterka trú. Ég missti lítið barn fyrir mörgum árum, og einkadóttir mín dó úr berklum 17 ára. Það var nú meiri guðs blessunin að ég skyldi lifa þau ósköp af. Svo hef ég líka misst foreldra mína og sex systkin.
17 ára dó hún, blessað barnið, og liggur hér í garðinum.
Það er ekki langur spölur út í garðinn, en samt er hann styttri en maður heldur þegar allt gengur í haginn.
Hvað finnst þér, ertu kannski ekki trúaður?”
“Líklega ekki eins og þú, Sesselja.”
“Jæja, heldurðu ekki. En mér var kennt í æsku, að guð væri góður og hef haldið í það síðan. Fólki þykir það ofurlítið þægilegt þegar maður er guðhræddur.
Ég er sannkristin og hreinlynd kona.
Get sagt allt við alla.
Get sagt við þig: Mikið lízt mér nú vel á þig, venur.
Já, ósköp lítið.
En ég er að verða gömul og bráðum mæli ég mér mót við garðinn.
Nei, hann er ekki langur þessi spölur, og bráðum geng ég hann líka.
Þá verða margir sem hugsa til mín og segja sem svo:
“Nú er hún Sesselja farin.
Nú verður ekki spáð á Íslandi framar.””
II.
“Ég hef alls staðar komið mér vel.
Þegar ég heimsæki vini mína, taka þeir mér tveim höndum.
Þegar þeir sjá mig, segja þeir: Nú eru jólin að koma með klukknahringingum.
Mér finnst skemmtilegt að vera vinsæl. Það er ég ofboðlítið, og margir hafa sagt, að ég væri góð í ýmisleg sæti, mundi til dæmis sóma mér vel sem embættismannskona.
En mikið er ég nú hrukkótt á þesari mynd hérna finnst þér það ekki, elskan?
Þú mátt ekki setja hana í blaðið.
Ég vil ekki hafa af mér verri myndir í blöðunum en stjórnmálamennirnir.”
“En af hverju heldurðu þú sért svona vinsæl?” skaut ég inn í.
“Ég þyki frjálslynd. Og svo hef ég stutt alla stjórnmálaflokkana.
En ég er hreinlynd og segi aldrei neitt á bak.
Kannski ætti ég að segja á bak, ha?
Ég hef orðið vör við ríg undanfarið, einhvern ríg.
Mér þykir vænt um mann og manni þykir vænt um mig.
Hér í Reykjavík, þú skilur.
Reykjavík er annáluð fyrir hlýju og gæði. Hún hefur alltaf bætt hag minn, þegar ég hef verið lasin.
Svo er stundum hringt í mig, þú skilur.
En ósköp ertu nú annars ungur, elskan.
Einu sinni kynntist ég ungum manni á sveitaballi, ha?
Í þröngum dal, þú veizt.
Þar sem grasið er grænt.
Og sólin hvíslar í dögginni.
Döggin eins og hreistur á síld.
Hefurðu heyrt vísuna sem þeir ortu til mín á Bifröst?”
“Nei, þú hefur verið þar líka, hefurðu spáð víða Sesselja?”
“Mitt kjördæmi er stórt. Það nær frá Jökli suður á Reykjanestá, að Reykjavík meðtalinni. Þeir verða óánægðir í Ólafsvík og Sandgerði, ef ég spái ekki þar. Og nú hef ég bætt Reykholti við kjördæmið. Þar ætla ég að spá einhvern tíma í vetur. Jökulinn hef ég alveg, Hvanneyri og Bifröst. Og svo bæti ég við mig Árnessýslu einhvern tíma í framtíðinni.”
“Þykir þér ekki erfitt að spá fyrir fólki?” spurði ég.
“Jú, sumum. Ég varð alveg máttlaus, þegar ég átti að spá í Sandgerði í fyrra, áður en slysið varð. Það lokaðist allt fyrir mér:
Einhver óþægindi sé ég við sjó, það var allt og sumt, sem ég gat sagt þeim.
En hverjir tala á fundinum uppfrá á morgun?”
“Fundinum? Er fundur uppfrá á morgun?”
“Já, það er víst, og ég hef heyrt hann Ingi R. muni tala.
Lízt honum ekki vel á mig, ja er það ekki?
Okkur er ákaflega vel til vina.
Mér er sagt hann komi eitthvað við móðurættina mína, en það hafa svo margir komið við hana.
Móðir mín var góð kona:
Einn dag þegar ég var 12 ára - það hefur verið 1912, því ég fylgi öldinni, ekki má það nú minna vera - já, einn dag þegar ég var 12 ára kom ég inn til Jóhönnu móður minnar, þar sem hún sat í eldhúsinu og var að spá fyrir konu á Stokkseyri. Það var kalt, og ég hljóp inn til að ná mér í vettlinga. En þegar ég sá konuna, þar sem hún sat fyrir framan móður mína, gekk ég til hennar og sagði: “Það var sjóslys”.
Þá rak mamma mig út og sagði: “Þú ert alltof ung, telpa til að segja svonalagað.”
Ég setti á mig vettlingana og læddist út að leika mér.
Ég var hrygg í huga, því ég vissi það yrði sjóslys. Hafði séð það.
Og skömmu seinna fórst bátur með nokkrum mönnum, þar af tveimur frændum mínum.
Hef annars ekkert séð.
En pabbi sá hann Skerflóðs-Móra.
Einu sinni var hann að reyna að koma kindunum inn, en tókst ekki. Þær strækuðu á kofann. Pabba þótti illt í efni og fór sjálfur inn að athuga, hvað væri að. Þá sér hann Móra í einu horninu.
Pabbi var hraustmenni. Hann lét ekki smádraug slá sig út af laginu. Hann gekk inn með broddstaf og rak drauginn út. Eftir það var auðvelt að koma kindunum í hús.
Það var gaman á Eyrarbakka.
Þangað komu Gvendur dúllari, Símon Dalaskáld, Óli prammi og Eyjólfur ljóstollur. Einu sinni þegar ég var að koma heim úr skólanum, stóðu þeir við hlöðuna heima á Borg og sungu:
Dalaskáld og dúllarinn
drjúgum saman flakka
eru glaðir sérhvert sinn
á sælum Eyrarbakka.”
Leizt þér vel á þá?”
“Já, bara vel.”
“Kannski skotin í Símoni?”
“Nei, hrædd við hann.”
“Af hverju?”
“Mér fannst hann svo skrýtilegur.”
“En sumum finnst þú skrýtileg, Sesselja?”
“Ha, ég?”
Finnst sumum það?
Hvuddnig?
Segðu mér það, elskan?
Svolítið fasmikil eða hvað? Hvuddnig, segðu mér það, vinur.
Heldurðu það sé rígur?
Mér þykir vænt um mann og manni þykir vænt um mig.
En hvuddnig getur því fundizt ég skrýtin?
Ég skrökva aldrei.
Er það kannski þess vegna?
Það eru fleiri skrýtnir en ég.
Hvuddnig segja þeir að ég sé skrýtin?Já, hvuddnig, komdu með það.
Ertu að hrekkja, elskan?
Ha?”
“Þeir segja þú sért fyrirferðarmikil.”
“Já, vissi ég ekki. En það eru fleiri fyrirferðarmiklir en ég. Hvað segirðu um hreppstjórana? Samt er ekkert talað um, að þeir séu skrýtnir. Ekki geta þeir séð fyrir um giftingar, onei. Og ekki geta þeir heldur séð, hvort fólk er lasið eða ekki.
Allt þetta sé ég. Og samt segir fólk að ég sé skrýtin.
Finnst þér ég nokkuð skrýtin, elskan?”
“Geturðu sagt mér, hvort nokkuð er að mér?”
“Ja, þú ert nú heilbrigður maður - á sumum sviðum, en ég gæti trúað það hafi lamað þig eitthvað fyrr á árum.
Einhverjir erfiðleikar á heimilinu, getur það verið?
Eitthvað?
Svona ýmislegt, þú skilur?
Kannski verð ég ástfanginn af tveimur í einu?
Ja, ég sper nú bara.”
“Segðu mér Sesselja, hvað hefurðu afrekað fyrir utan spádómana?”
“Ég hef komið víða við og verið kaupakona á mörgum bæjum.
Ég gifti mig 1925.
Skildum svo eftir 5 ár.
Og svo gifti ég mig aftur, honum Sigurði bónda mínum.
Þá hafði ég verið ekkja í 5 ár.”
“Ekki misstirðu fyrra manninn?”
“Nei.”
“Nú, þá hefurðu ekki verið ekkja, heldur fráskilin.”
“Jú, sama sem, ég var karlmannslaus allan tímann, ja svona mestallan”.
“Varstu ekki oft ástfangin.”
“Ósköp er nú gaman að þér elskan, en þú ert bara svo ungur.
Segir fátt af tveimur:
Einn drengur milli manna, ekki mátti það nú minna vera.
Hefurðu kannski heyrt það væri einhver skotinn í mér hérna?
Ha?
Hefurðu heyrt það?
Jæja, guð hjálpi mér.
Því hefur verið fleygt, að ég yrði ræðismannsfrú.
En þetta hefur ekki gengið sem bezt.
Þurfti að gefa drenginn.
Fyrst grunur, ég finn margt á mér.
Lít þá oft í spelin.
Þér þykir gaman að mér núna.
En margt gott fólk er til. Þeir hjálpuðu mér með drenginn. Og Bjarni bíóstjóri og frú klæddu telpuna.
En það er ekki nóg að hafa fötin, ef heilsan bilar.
Það var meira élið.”
III.
“Ég hef verið hjá honum Sigurði mínum, en það er engin geta. Okkur kemur ekkert illa saman fyrir því. En ég þarf að ná mér í aura, þetta er engin geta.
Sigurður er friðsamur. Og nú fagnar hann mér, þegar ég kem heim. Mér hefur alls staðar orðið vel til vina.
En við erum ekki gift. Við erum sameinuð upp á tryggingarnar. En það gefst ekki verr en blessunarorðin prestanna, biddu fyrir þér.
Sumir segja ég sé kolvitlaus og ekkert mark takandi á spádómunum. En það er bara einn og einn maður. Þú ættir að spurja hann Sigurð minn. Hann er verkamaður í Borgarnesi.
Óskaðu honum til hamingju með 60 ára afmælið á páskunum.
Hann er greindur maður og bezta manneskja - og við bæði tvö.
En hann hefur svo stórt hjarta hann Sigurður, og þetta er of mikil vinsemd, en mér er sama nú orðið.”
“En hefurðu nokkuð verið að slá þér út hér í Reykjavík, Sesselja mín?”
“Ojæja.”
“Þú ert kannski orðin alltof gömul til að verða hrifin?”
“Nei - nei, sei - sei - nei. Maður getur verið hrifinn án þess hugsa um giftingar.
Mér finnst gaman að skemmta mér.
Ég þyki alls staðar lagleg og létt yfir mér.
Ég var vinsæl í Kolbeinsstaðahrepp þar sem við bjuggum. Þar reistum við félagsheimili, og ég var fyrsta konan, sem talaði þar.
Og lagði út af gleðinni og sveitinni.”
“Er það falleg sveit?”
“Já, og þar býr gott fólk.”
“Þér finnst allir svo góðir, þú skalt vara þig á því?”
“Ég kynntist ekki öðru fólki en góðu.”
“Á hvaða bæ bjugguð þið í Kolbeinsstaðahrepp?”
“Malbrekku. Sigurður er eitthvað önugur yfir því, að við skyldum þurfa að flytja þaðan. Hann vill vera í sveitinni.”
“En af hverju fluttust þið?”
“Af fátækt, víst.”
“Nú, þú hefur þá ekki auðgazt á spádómunum?”
“Nei, en ég hef getað fegrað mig fyrir þá. Og svo hef ég allsstaðar lánstraust. Og við bæði. Við erum mjög vel séð:
Þegar ég kom í Bifröst og spáði fyrir nokkrum ungum mönnum, skelltu þeir henni á mig þessari:
Ekki spör á spádóma
spel og bolla ræðir
ung er hún sem blómarós
lítið hana bræðir.
Já, svona líta þeir nú á þetta, þessir ungu menn. Því hefur meira að segja verið slegið fram, að ég yrði ræðumannsfrú fyrir kjördæmið.
En það hafa komizt tungur í það.
Það er víst betra að vera vel á verði, almáttugur guð er kærleikur.
En það er gott fólk í Borgarnesi, ákaflega gott fólk og staðurinn vinalegur. Og þeir eru heppnir meðan þeir hafa hann Halldór fyrir sveitastjóra og kaupfélagsstjórann fyrir oddvita.”
“En eru þeir heppnir með hreppstjórann?”
“Já, það getur nú ekki verið betra. Hann er sjálfstæðismaður.”
“Og ert þú þá sjálfstæðismaður, Sesselja?”
“Já, ég hef verið það. Og svo hef ég kosið þrjá aðra flokka. En lifandi ósköp er gott að koma til hans Sigurðar Ágústssonar, við erum skyld við Sigurður.
Þau hjón bæði eru stórar manneskjur. svo er Sigurður frændi hans Ásgeirs míns Péturssonar. Ósköp er hann nú traustur hann Ásgeir minn.
Annars kemst ég ekki alltaf til Stykkishólms, þegar ég spái í Ólafsvík.
Þá er ég stundum orðin of þreytt.
Maður þreytist með árunum.
Þessi él, þú skilur.”
IV.
“Ég vil gera fólk ánægt og plokka það ekki.
Borgnesingar eru mér þakklátir, því ég hef haft fyrir þá veikan mann, hann Jóa.
En nú er hann kominn á Klepp.
Ruglaður.”
“Jæja, er hann Jói á Kleppi?”
“Já, hann er kominn þangað greyið, en hann er eitthvað skárri.
Og nú er hann víst farinn að dedúa í Áburðarverksmiðjunni.
En - ekki þekkir þú hann... hann Jóa?”
“Nei”.
“Vissi ég ekki(!) Þú ert að hrekkja mig, elskan.”
“Ruglaður sagðirðu, hefur þú nokkurn tíma orðið rugluð, Sesselja mín?”
“Nei, ekki ennþá, en ég á það kannski eftir. Sumir segja ég sé kolvitlaus og ekkert mark takandi á spádómunum mínum. En það er bara einn og einn maður. Þú ættir að spyrja hann Sigurð minn.”
“Hefurðu nokkurn tíma heyrt talað um völvur, Sesselja?”
“Já.”
“Heldurðu ekki að þú sért völva?”
“Ekki vond, kannski góð völva.
Það hefur sézt eitthvað í fylgd með mér. Hvítklædd vera.
Mér þykir vænt um mann og manni þykir vænt um mig.
En ég veit ekki hvort við verðum hjón, það eru tungur þú skilur.
En mikil lifandi ósköp er gaman að tala við mig. Þú ætlar bara aldrei að hætta. Viltu ekki heldur heimsækja okkur í Borgarnes? Við búum í litlum bæ niðri við sjó.
Segðu bara að lokum: að ég biðji að heilsa öllum Grindvíkingum, Reykvíkingum og Borgnesingum, sem heiðruðu mig á sextíu ára afmælinu mínu í fyrra með blómum, skeytum og gjöfum.
Segir fátt af einum.”
(1961)
Pourquoi Pas?
I.
Feigðarýlfrið
“Ég gleymi aldrei þessu voðalega slysi”, sagði Kristján Þórólfsson, þegar ég talaði við hann um Pourquoi Pas?-slysið í báti, sem flutti okkur upp á Mýrar í fyrradag. Kristján er uppeldissonur Guðjóns Siguðrssonar, bónda í Straumfirði, en það féll í þeirra hlut að bjarga eina manninum, sem af komst, þegar Pourquoi Pas? týndist, og safna saman líkunum sem rak eins og trjáboli á ströndina.
Þó liðin sé tæpur fjórðungur aldar frá því Pourquoi Pas? fórst, er slysið öllum í fersku minni og Albert Guðmundsson sagði mér fyrir skemmstu, að erfitt væri að rekast á franskt barn, sem ekki þekkti sögu dr. Charcots, enda var hann frægasti vísindamaður Frakka á þeim tíma og stappaði nærri að hann væri dýrkaður sem þjóðhetja, bæði vegna sérkennilegs persónuleika og vísindaafreka.
Nú vorum við á leiðinni á slysstaðinn, fimm sjógarpar, sem atvikin höfðu leitt, þangað sem þeir fóru einu sinni 40 saman franskir menn og fullhugar, ekki vegna þess að þeir ættu erindi upp á Mýrar, heldur var þeim fyrir lagt að koma þar við á leið út í óvissuna miklu og binda þar helskó undir hvítum boðum og himinháum brimsköflum.
Heima beið Frakkland eins og ljúfur draumur, án stoðar í veruleika.
Fyrir Frakkana fjörutíu var enginn veruleiki til nema sá sem beið þeirra undan Straumfirði á Mýrum morguninn 16. september 1936. Veruleiki brims og seltu og þess veðurofsa sem batt enda á líf þeirra á fjarlægri strönd. Í Vestmannaeyjum hét þessi veruleiki í gamla daga: að hátta í björtu.
Það er fróðlegt að fletta Morgunblaðinu frá þessum löngu liðna tíma. Árni Óla var sendur upp á Mýrar að viða að sér föngum í fréttagreinar, og þar kennir margra grasa, þó ýmsu smálegu sé ýtt til hliðar á stund stórra atburða. Og svo var nauðsynlegt að spara símtölin, hefur Árni sagt síðar, því þetta var á kreppuárunum.
Samtal við Kristján Þórólfsson var eitt af því sem varð kreppunni að bráð og nú þegar Pourquoi Pas? slysið er aftur á vörum manna, þykir Morgunblaðinu rétt að bæta örlítið úr því og bregða upp nokkrum svipmyndum, sem hafa varðveitzt í huga Kristjáns og eiga þaðan ekki afturkvæmt. Þess vegna læt ég dálítið samtal við hann fylgja hér á eftir, en fyrst skulum við grípa niður í Morgunblaðið til glöggvunar. Fimmtudaginn 17. september er frétt á 2. síðu blaðsins með fimm dálka fyrirsögn, svohljóðandi: “Charcot-slysið. Hafrannsóknarskipið Pourquoi Pas? strandar. 33 menn farast. Einn maður bjargast í land á fleka. 30 lík hafa þegar fundizt”. Og fréttin hefst með svofelldum orðum:
“33 menn fórust er franska hafrannsóknarskipið Pourquoi Pas? strandaði í gærmorgun á skerinu Hnokka út frá Straumfirði á Mýrum. Fórst öll áhöfn skipsins að undanteknum einum manni, þar á meðal hinn heimskunni vísindamaður dr. Jean Charcot, sem um mörg ár sigldi skipi þessu í rannsóknarleiðangra um Suður- og Norðurhöf.
Skipið fór héðan að aflíðandi degi á þriðjudag og var þá á leið til Kaupmannahafnar, eftir því, sem bezt verður komizt, m.a. af frásögn hins eina skipverja sem komst lífs af, hefir skipið verið komið vestur fyrir Garðskaga, þegar ofviðrið skall á. Þar mun það hafa snúið við, til þess að leita lægis undan veðrinu.
En klukkan 5½ á miðvikudagsmorgun rakst skipið á skerið. Kom strax leki að því, og vatn í vélarrúm, svo ketilsprenging varð, og skipið því alveg bjargarlaust”.
Síðan segir m.a. um þann skipverja sem af komst, Eugene Gonidec: “Það sem bagaði hann helzt var, að hann hafði fengið svo mikla sjávarseltu í augun að hann var nærri sjónlaus”. Og laugardaginn 19. september segir fréttamaður Morgunblaðsins frá því, þegar hann hitti Frakkann í Straumfirði: “Hann var í fötum, sem honum hafði verið lánað á bænum og voru honum allt of stór því hann var lágur maður, en hnellinn að sjá og herðabreiður. Berhöfðaður var hann og flaksaðist kolsvart hárið í storminum.
Þegar hann sá franska ræðismanninn fór hann að hágráta og nötraði af ekka og geðshræringu.
Köfnuðu fyrstu orðin í hálsi hans en hann jafnaði sig þó furðufljótt og fór að segja frá slysinu í stórum dráttum. En hvað eftir annað rann út í fyrir honum og varð lítið samhengi í frásögninni. Var það sízt að furða, þar sem hann var svo að segja nýsloppinn úr hinum ægilegasta lífsháska, og hafði misst alla skipsfélaga sína, 39 talsins í einu vetfangi. Var auðséð og auðheyrt, að hann var alls ekki með sjálfum sér.”
Fréttamaðurinn hefur fengið fyllri upplýsingar um slysið og nú veit hann að þeir voru ekki 33 sem farizt höfðu, heldur 39. Og enn segir svo í Morgunblaðinu:
“Þegar hann (þ.e. Frakkinn) hafði jafnað sig nokkuð, fylgdi hann oss þangað er fjelagar hans lágu. Var það í grænni grasbrekku í skjóli. Lágu þarna 22 lík hlið við hlið og breitt segl yfir. Franski ræðismaðurinn bauð, að seglinu skyldi lyft frá andlitum þeirra og Gonidec segja sjer nöfn mannanna. Sló þá út í fyrir honum aftur, er hann leit framan í röðina af náfölum andlitum fjelaga sinna og brostin augu þeirra, en þó gat hann skýrt skilmerkilega frá nöfnum þeirra allra.”
Allir muna enn eftir Pourquoi Pas? slysinu þó flest annað sem þá þótti tíðindum sæta sé nú horfið í gleymsku. Lítum á fyrirsagnir Morgunblaðsins. “Jónas Guðmundsson yfirgefur Norðfjörð. Flytur alfarinn til Reykjavíkur”. “Morð og grimmdaræði anarkista í Balbao”. “Franskir verkamenn hóta uppreisn”. “Hörð átök í Búnaðarþinginu um sjálfstæði Búnaðarfélagsins”. “Húsavík er tilvaldasti staðurinn fyrir nýja síldarverksmiðju”, er fyrirsögn á grein eftir Júlíus Havsteen. “Haraldur Guðmundsson heimtar orðið við setningu Háskólans. Óvenjuleg framhleypni kennslumálaráðherra. Frá setningu Háskólans í gær.” Af bókaauglýsingum má sjá að nýkomnar eru út ævisaga Edisons, 4. hefti af Gríms-ævintýrum og ný bók eftir “Guðmund Daníelsson frá Guttormshaga (höf. Bræðranna frá Grashaga) “Ilmur daganna.” “Er þetta stór og myndarleg bók, og kostar aðeins 4,60 heft og kr. 6,50 í góðu bandi.” Þá er ritdómur eftir Jón H. Guðmundsson um nýútkomna bók Hagalíns, Virka daga.
En hvaða myndir eru auglýstar í kvikmyndahúsunum þennan viðburðaríka dag, fimmtudaginn 17. september? Í Nýja bíó: “Feigðarýlfrið”, en Gamla bíó auglýsir “Stolin paradís.” Þar höfum við fengið grafletur þessa dags. Í dagbókinni er skýrt frá því, að annað hefti af tímariti Jóhannesar Birkilands, Lífinu, sé nýkomið út með grein eftir Óskar B. Vilhjálmsson um kartöflur. Þá er þess einnig getið, að dregið hafi verið í happdrætti hjúkrunarkvenna og einhverjir hreppt málverk, krosssaumssessu, kaffidúk og tehettu.
En happdrættið mikla undan Mýrum morguninn áður hafði verið örlagaríkara. Af 40 vöskum drengjum hafði aðeins einn dregið lífið.
II.
“Guð hjálpi okkur”
Með okkur Kristjáni og Ól. K. M. í förinni upp á Mýrar voru kafararnir Andri Heiðberg og Sigurður Magnússon auk Viggós Pálssonar, aðstoðarmanns þeirra. Það var fagur föstudagsmorgunn, en talsverð ylgja þegar út á flóann kom. Veðurstofan hafði spáð undiröldu á leiðinni, og hún mátti helzt ekki meiri vera.
Kristján sagði um leið og hann leit út yfir flóann og gáði til veðurs: “Mér er Pourquoi Pas? slysið ákaflega minnisstætt og gleymi því aldrei, svo lengi sem ég lifi. Þann tíma sem ég bjó í Straumsfirði urðu þar fjögur sjóslys, en ekkert eins og það.”
Ég spurði um veðrið.
Kristján svaraði:
“Um morguninn var fárviðri af suðri, en snerist síðdegis í suðvestur.”
“Hvernig leið þér þennan morgun?”
“Mér leið ágætlega, nóttin draumlaus og ekkert að óttast. Þó vaknaði ég af einhverjum ástæðum rúmri klukkustund fyrr en ég var vanur og var kominn út á hlað upp úr sjö. einhver uggur kannski. Þar stóð ég við hlið Guðjóns fósturföður míns, sem skyggndist til veðurs. en við höfðum ekki staðið lengi þarna á hlaðinu, þegar upp rann ljós fyrir okkur: stórslys hafði orðið á sundinu og við sáum þrímastrað skip reka stjórnlaust í átt til lands. Fósturfaðir minn benti út á sjóinn og sagði: “Þarna hefur strandað skip.” “Já,” samsinnti ég, “og orðið slys.” Síðan tókum við undir okkur stökk og hlupum við fót út að Höllubjargi, þaðan sem útsýni var betra, enda veitti ekki af eins og á stóð.”
“Hvað er langt frá bænum Straumfirði út að strandstaðnum?”
“Þú sérð það á eftir, en út á klettaglufuna eða víkina, þar sem ég bjargaði Gonidec er líklega um kílómetra leið.”
“Og er það langt frá strandstaðnum?”
“Skipið strandaði á svonefndum Hnokka, skeri sem liggur um það bil þrjár mílur frá bænum, gæti ég ímyndað mér. Þeir hafa líklega verið villtir og straumurinn út úr firðinum borið þá vestur á bóginn, en ég tel ekki að skipið hafi rekið fyrir vindi.”
“Það hefur ekki séð út úr augum, þegar þið komuð á Höllubjörg?”
“Jú, við sáum sæmilega fram í skipið, og þarna lá það eins og hvert annað rekald og mátti grilla í það í móðunni. Annars hvarf það fljótt, því ekki liðu nema tveir tímar frá því við sáum það fyrst og þangað til það var sokkið. En möstrin stóðu upp úr fram á næsta dag, afturmastrið lafði held ég þrjá daga, en brotnaði þá í vestan roki.
Ég hef haft guðsorð heldur lítið á vörum það sem af er ævinnar, en þegar ég sá skipið, gerði ég mér strax grein fyrir þeim voðahörmungum, sem þarna höfðu átt sér stað og sagði eins og í leiðslu, eða líklega fremur í ofsahræðslu: “Guð hjálpi okkur.”
Ég hef ekki þurft að taka þau orð aftur”.
Í þessu bili flaug fallegur mávur niður að bátnum okkar og stríddi öldunum með þöndum, öruggum vængjum. Það minnti mig á frásögn Árna Óla, sem ég hafði lesið kvöldið áður.
“En af dr. Charcot er það að segja, að er hann sá hvernig komið var, og skipstjóri hafði gefið hina síðustu fyrirskipun sína, gekk dr. Charcot af stjórnpalli og niður í káetu, til þess að leysa úr fangelsi vin sinn mávinn, er þeir skipverjar höfðu haft með sér frá Grænlandi, og getið var um hér í blaðinu í gær. Bjargaði hann mávinum upp á þyljur, svo hann gæti fleygur farið ferða sinna, þegar þeir skipverjar voru komnir í heljar greipar.”
“Sáuð þið mávinn?”
“O-nei”.
“En þið hafið séð skipið sökkva, Kristján?”
“Já, það má heita svo. Fyrst þegar við litum út um morguninn, held ég það hafi lamizt við skerið, en þegar við vorum komnir syðst í eyjuna, eða út á Höllubjarg, var það komið á þann stað fyrir innan Hnokka, þar sem það sökk síðar. Eftir öllum sólarmerkjum að dæma hafa þeir varpað akkerum strax og þeir sáu hver hætta var á ferðum, og það sagði okkur Gonidec að þeir hefðu haldið fyrst þegar þeir lentu á skerinu og sáu brotin allt í kringum skipið að ströndin væri skammt undan og óttuðust að þeir mundu lenda í hamrabeltum og brjóta skipið í spón. Af þeim sökum fundizt öruggara að halda aftur af því með akkerinu. Þegar við sáum skipið frá Höllubjargi, sneri stefni þess upp í vindinn, svo akkerið hefur staðið fast í botni, að öðrum kosti hefði það rekið flatt fyrir vindi upp á land og þá hefði kannski farið öðruvísi en raun varð á.
“Og þú hefur séð allt skipið, þaðan sem þú stóðst?”
“Jú, það var alveg upp úr sjó og fyrst í stað mjakaðist það í átt til lands eða meðan akkerisfestin hrökk til, en þá stöðvaðist það og tók að sökkva. Áttu þeir þá ekki eftir nema svo sem tvær mílur í land og ég tel, að skipið hefði komizt þennan spöl, ef akkerið hefði losnað.”
“Heldurðu ekki, að Frakkarnir hafi flestir farizt, þear skipið tók niðri á Hnokka?”
“Nei, eftir því sem Gonidec sagði okkur voru þá enn margir menn um borð og átta eða níu höfðu komizt á fleka en hann liðaðist sundur og þá tókst sex mönnum að skríða upp á landgöngubrúna og héldu sér þar. Hana rak til lands með þá félaga en þeir urðu aðframkomnir á leiðinni og týndust allir í hroðann nema einn. Sá síðasti hvarf þegar landgangurinn var skammt undan Höllubjargi. Þó er ég þess fullviss að Gonidec var einn eftir, þegar ég sá hann fyrst um 400 metrum suður af bjarginu. Þá hafði hann að mestu misst meðvitund, lá hálfur undir stiganum, hélt með hægri hendi í hann, en með þeirri vinstri undir hnakka sér. Hann mundi lítið eftir sér fyrr en hann vaknaði í rúminu heima. En þó var hann með einhverri rænu, þegar hann kom á móts við Höllubjargið. Hann sleppti landganginum, þegar hann sá mig á klettanefinu og lét sig reka á björgunarbeltinu og öldunum inn í þrönga klettavík eða glufu, sem kölluð er Hölluvör og er í klettaklungrinu norðvestan í bjarginu. Það var eins og undirmeðvitund hans segði honum, að þarna væri von um björgun. Ef hann hefði rekið að landi eins og 10 metrum austar, hefði hann rotazt í klettunum.
Við fósturfaðir minn sáum ekkert markvert, þegar við leituðum að skipbrotsmönnum í særokinu, enda var kíkirinn ekki upp á marga fiska. Við höfðum komið auga á landganginn og fylgzt með honum nokkra stund, en kom fyrir ekki. Þar var ekkert lífsmark að sjá. Héldum að þetta væri ekki annað en hvert annað rekald úr skipinu. !Það er ekkert að sjá hér,” sagði fósturfaðir minn, “bezt ég fari upp í varir og setji niður bát að hafa til taks.” Ég samsinnti því og hann gekk upp í varir að gera bátinn kláran, því þarna er útfiri mikið og afarillt að setja bát á sjó í fjöru.”
“Og hvað ætluðu þið með bátinn?”
“Við ætluðum að nota hann ef með þyrfti, t.d. ef við sæjum lík á reki eða menn sem hægt væri að bjarga.”
“Og svo stóðstu þarna einn á bjarginu?”
“Já, og eftir því sem tíminn leið þóttist ég þess fullviss, að skipverjar hefðu allir farizt, því það er ekki heiglum hent að komast í land í öðru eins aftakaveðri í jafnþröngum skerjagarði og þarna er. En hvað var þetta? Ég kipptist við. Víst var eitthvert lífsmark á landganginum. Ég athugaði hann betur með kíkinum og þá sá ég Gonidec veltast í sjónum. Ég missti áhuga á öllu öðru en þessum eina manni, ég varð að bjarga honum hvað sem það kostaði. Landganginn rak upp í Hölluvör og þangað hljóp ég í hendingskasti. Þá datt mér í hug að betra væri að fá hjálp að heiman, svo ég gekk upp á hólinn að athuga, hvort ég sæi ekki til mannaferða heima og var þá svo heppinn, að í sama mund gekk kvenmaður milli húsa og gat ég gert henni viðvart að koma og það stóð í mörkum að ég var að draga Frakkann í land, þegar hún kom til mín og spurði: “Hvað er að? Hvað á ég að gera?” “Náðu í fóstra,” kallaði ég á móti eins hátt og ég gat, “náðu strax í fóstra og biddu hann að hjálpa mér að koma manninum heim. Ég er orðinn svo dasaður.
En þarna sérðu Hnokka, það brýtur alls staðar í kring um hann og þarna er Grænhólmi, ekki væri gott að lenda þar í þessum súgi. En brimið er tignarlegt, finnst þér ekki.”
“Jæja, þá eigum við ekki eftir nema 20 mínútna ferð í land,” sagði Andri kafari og settist hjá okkur.
“Það er ágætt”, sagði ég og var að hugsa um ölduna.
“Einhvern tíma hefur hann nú verið ljótari hér,” sagði Kristján.
“Og svo kom fóstri þinn að hjálpa þér”, sagði ég.
“Já, konan hljóp heim og lét hann vita og hann kom að vörmu spori og hjálpaði mér með hann heim.”
“Þetta hefur verið erfið björgun?”
“Já, brimið óskaplegt og klettavíkin djúp og hættuleg og erfitt að ná Gonidec upp á þurrt. En aldan gerði mér í senn óleik og hjálpaði mér við björgunina. Þegar ég hafði náði í hönd hans skolaði hún mér í sjóinn, og svo kom önnur alda og skall aftan á mig og færði mig í kaf, enda var ég ekki að hugsa um hana heldur manninn sem þarna lá milli heims og helju og átti líf sitt undir snarræði mínu. Þegar ég var kominn í sjóinn héldumst við í hendur og bárumst með öldunni inn í víkurbotninn. Þar var mikið spýtnarusl fyrir og tel ég það hafi bjargað lífi okkar beggja, því brakið tók af okkur versta höggið, annars hefði vel getað farið svo, að við rotuðumst þarna báðir. Ég náði góðri handfestu á klettanibbu og áður en næsta alda kom á okkur eins og rándýr, hafði ég dregið hann upp á þurrt og þar lágum við. Þó gat ég aðeins borið hann á þurrt með mestu harmkvælum, því hann var þrekvaxinn og nokkuð þungur þó lítill væri, og auk þess sjóblautur.
Skömmu eftir að ég hafði náð Gonidec á land kom fósturfaðir minn og þá lá ég á hnjánum við hlið hans og reyndi að skilja það sem hann umlaði en auðvitað án árangurs því franska er mér ofviða, hvað þá franskt uml. Á heimleiðinni sagði hann nokkur orð og við skildum, að hann vildi ekki láta fósturföður minn bera sig á bakinu, við urðum að bera hann á milli okkar.
Þegar húsið kom í ljós og Gonidec sá það, rak hann upp gleðióp og þá fyrst reyndi hann að ganga sjálfur. Nokkru síðar vorum við komnir heim í eldhús. Þar beið okkar fósturmóðir mín, Þórdís Jónasdóttir, og hjúkraði Gonidec eftir beztu getu. Við færðum hann úr fötunum en hann streittist á móti þegar við ætluðum að klæða hann úr skyrtunni, ekki veit ég ástæðuna. En þá voru hituð ullarföt í bakarofni og lögð við vanga hans, og þegar hann fann hlýjuna hætti hann að stimpast við og fór sjálfur úr skyrtunni. Svo var hann háttaður ofan í dívan í eldhúsinu. Koníak var sjaldséð í Straumfirði á þeim árum, en þó áttum við dálitla lögg, sem hjálpaði upp á sakirnar. Við gáfum honum lútsterkt kaffi og koníak og þá raknaði hann úr rotinu, faðmaði okkur og kyssti og ætlaði aldrei að sleppa okkur. Síðan hef ég haft tröllatrú á koníaki.
En ég gat ekki sinnt honum frekar, því ég fór strax út með fóstra mínum að bjarga því, sem brimið skolaði á land. Fyrstu líkin fundum við skömmu síðar það voru lík skipslæknisins, listmálari sem var með skipinu, og hið þriðja var lík dr. Charcots. Hann kom upp í svonefndri Ólafsvík. Þegar hætt var að reka á okkar fjörur, fórum við á bátum suður fyrir fjörðinn og tíndum upp þau lík, sem við fundum á leiðinni. Mest höfðum við 8 lík í bátnum í einu og hafði þau öll rekið sunnan fjarðar”.
“Leið þér ekki illa, Kristján?”
“Mér leið ekki vel, mér þótti óhugnanlegt að horfa á þessi fölu sjóbörðu andlit og mér rann til rifja að sjá unglingspilta hljóta þessi örlög.”
“En hvað varstu sjálfur gamall?”
“Ég var 18 ára”.
“Varstu nokkuð myrkfælinn?”
“Nei, ég hef aldrei verið myrkfælinn. Við björguðum 22 líkum á land og lögðum þau í brekku eða flöt, sem heitir Borgarlækur og er skammt sunnan við bæinn, og þar lágu þau þangað til þau voru flutt til Reykjavíkur tveimur dögum síðar. Ég gat auðveldlega gengið innan um líkin, jafnvel aleinn í myrkri, án þess að verða hræddur, enda þurfti ég að gera það bæði kvöldin sem þau lágu þarna, því við áttum nátthaga í Höllubjargi, og þegar ég fór þangað á kvöldin að reka féð í hagann gekk ég fram hjá líkum frönsku vina minna. Það hafði engin áhrif á mig.
Það var ekki fyrr en búið var að flytja þau í burtu að ég fann einhvern beyg, þegar ég gekk þarna um, og vildi helzt ekki vera einn á ferð. Það greip mig einhver tómleiki, sami tómleikinn og þegar ég sá síðasta mastrið hverfa í sjóinn, tómleiki eða óhugnaður, sem við kunnum ekki skil á, ég held ekki það sé hægt að kalla það hræðslu, veit það þó ekki.
Mér hefur dottið í hug að skýringin á þessu sé sú, að hundurinn minn, sá góði og fylgispaki vinur, hræddi mig dálítið kvöldið eftir að þeir höfðu verið fluttir suður. Við áttum leið um Borgarlækinn og þá byrjaði hundurinn allt í einu að urra, en ég sá ekkert. Hann vissi hvað hann söng. En þú verður að spyrja annan en mig hvort hundurinn hafi séð eitthvað þarna á flötinni”.
“Heldurðu það hafi verið reimt þarna?”
“Nei, ekki mundi ég nefna það því nafni, þó ég hafi séð smáslæðing heima við húsið. Og það var kannski ekkert undarlegt, þó þar væri eitthvað á kreiki eins og ströndin dró að sér bein og líkamsparta, sem voru jarðaðir í einni kös”.
“Það hefur eitthvað fylgt þeim?”
“Ég tel það ekki fjarri lagi”.
“En hvað sástu?”
“Ósköp lítið. Framliðna menn, það var allt og sumt. En ég vil ekkert um það tala, því þá fara þeir að segja að þetta sé allt saman kjaftháttur úr mér”.
“Þú hefur meiri trú á framhaldslífinu en Fúrseva?”
“Já, það hef ég. Ég er sannfærður um að við eigum eftir að lifa mikið eftir þetta líf, þó ekki séu allir sammála um það. Þó vil ég taka fram, að ég sá engan af þeim sem fórust með Pourquoi Pas? og hef aldrei séð”.
“Finnst þér ekki að þessi atburður hafi þroskað þig?”
“Auðvitað hefur hann gert það. Fyrir slysið þorði ég ekki að sjá lík, en þegar örlögin höfðu svo umsvifalaust neytt mig til þess, var mér sama. Þessi ógleymanlega ró, þessi birta yfir svip þeirra, allra hafði góð áhrif á mig. Mér fannst eins og þeir hefðu tekið dauðastríði sínu með fögnuði”.
“En hvernig leið Gonidec þegar hann vaknaði?”
“Vel held ég fyrst í stað. En svo féll hann saman og grét eins og barn, þegar hann sá félaga sína borna í land. Þegar við vorum að bera einn þeirra upp í grasið, kom hann og bað okkur reyna lífgunartilraunir við hann. Það gerðum við, en án árangurs. Síðan sagði Ingólfur Gíslason læknir í Borgarfirði, sem túlkaði fyrir okkur, að sá maður hefði verið náskyldur honum”.
III
Frakkarnir ánægðir
Við vorum komnir í land og feðgarnir Magnús og Guðbjarni Helgason bóndi í Straumfirði, tóku móti okkur. Ég undraðist, hve fagurt og vinalegt er í Straumfirði, hafði hugsað mér þessa slysaströnd eins og helgrindahjarn. Kristján gekk með okkur um eyjuna og alla leið upp á Höllubjarg. Fuglalífið yndislegt þennan morgun. Þúfutittlingar og máríerlur í móanum, tveir ófleygir hrafnsungar í hreiðri í bjarginu. Blikinn hópaði sig í skerjum, eins og hvít strik í málverki til að sjá, kolla lá á fjórum eggjum í Gvendarbrekku og datt ekki í hug að flýja frá hreiðrinu sínu, þegar okkur bar að. “Eggin hljóta að vera mikið unguð” sagði Viggó “fyrst hún gætir þeirra svo vel”. “Já, bráðum skríður nýtt líf úr þeim og brýtur af sér skurmið”, sagði Kristján.
Dauður útselsbrimill í einni víkinni.
Kristján benti okkur á græna flöt í norðurslakka Borgarlækjar. “Hérna var þeim raðað”, sagði hann, “þar sem sóleyjarnar eru hvað fallegastar”. Svo stóð hann hugsi um stund og bætti við: “En hvað þetta er allt breytt”.
Höllubjarg dregur nafn af Straumfjarðar-Höllu, sem sögð er hafa átt fiskiskúr á bjarginu. Elín hét systir hennar og átti heima í Elínarhöfða skammt fyrir innan Akranes. Sagt er að þær systur hafi kallazt á yfir þveran Borgarfjörð. Hann kemur við sögu í fjölmörgum örnefnum á þessum slóðum eins og Hölluvík, Hölluvör, Hölluhóll, Höllugróf, Höllubrunnur.
Við vorum lagstir í grasið með nestið okkar og Andri Heiðberg sagði frá því, þegar þeir fundu flakið af Pourquoi Pas? “Við komum fyrst niður á ketilinn”, sagði hann. “Hann er nærri því eins stór og ketill í togara. Fyrst hélt ég þetta væri bara klettur, því hann var fjórir metrar á hæð og allur þangi vaxinn. En þá var þetta sá frægi ketill, sem slysinu olli eða var það ekki hann sem átti sök á því, að Pourquoi Pas? tafðist í Reykjavík vegna viðgerðar, og lenti í ofviðrinu undan Garðskaga?”
“Og hvað sástu meira úr skipinu?”
“Ketillinn, vélin og skrúfan liggja í réttri röð, en miðskips er um það bil 200 tonna ballest úr steypujárni. Við höfum farið með einn klumpinn heim og vigtað hann, hann vegur 45 kíló.
Akkeriskeðjan liggur strekkt út frá skipinu og ég þreifaði mig eftir henni en þó ekki alla leið, því hún getur verið 150-200 faðmar á lengd. Mér finnst augljóst að skipið hefur legið fyrir akkeri, þegar það sökk.
Það hafði djúp áhrif á mig að koma allt í einu niður á flakið. Við höfðum farið 6 ferðir hingað upp eftir og kafað í 20 eða 30 klukkustundir, áður en við fundum það. Við vorum búnir að missa alla von, þegar ég skauzt upp og rétti þeim vatnshæðarglasið af katlinum, sem er úr kopar. Þeir lustu upp fagnaðarópi. Kannski vorum við orðnir milljónamæringar!
Nú er komið í ljós, að svo er ekki. Það er lítill kopar í skipinu. En Frakkarnir eru ánægðir með okkur, það er fyrir öllu.”
“Frakkarnir ánægðir með ykkur?” endurtók Ólafur ljósmyndari.
“Já, móðir mín sagði mér frá því þegar ég var að fara út úr dyrunum í morgun að sig hefði dreymt franskan sjómann, sem hefði verið glaðlegur og ánægður með sarf okkar. Hún vissi ekki hver hann var.
Ég heiti Andri Örn. Ástæðan er sú að André og félagar hans fundust á Hvítey, þegar móðir mín gekk með mig. Loftbelgur þeirra hét Örn. Móður mína dreymdi André án þess þó hún vissi hver hann var. Stuttu síðar sá hún mynd af honum í blöðunum, og þá þekkti hún hann aftur. Þegar ég fæddist, lét hún mig heita eftir honum og þaðan er nafn mitt komið. Annars hefði ég bara heitið Sigurður”.
“En hvaða Frakki heldurðu þetta hafi verið?” spurði ég. “Charcot?”
“Það veit ég ekki, ég ætla að sýna henni mynd af honum og heyra hvað hún segir”.
“Já, það hefur verið stór stund, þegar þið funduð flakið”, andvarpaði ljósmyndarinn eins hungraður í ævintýri og frásagnir og hann nú er.
“Ég gat lítinn þátt tekið í þeim fögnuði”, svaraði Andri, “því ég þurfti að fara niður strax aftur. Mig langaði að finna skipsbjölluna. Skipsbjöllurnar eru það fyrsta sem kafarar leita að, því á þeim standa venjulega nöfn skipanna með upphleyptum söfum”.
“Og þú fannst hana”.
“Já, ég fann hana mjög fljótlega, en hún var brotin, eins og þið hafið séð. Brotin voru gróin föst við klöpp skammt fyrir utan síðu skipsins. Á einu brotinu stóð PAS?
Utan af sjónum kom einn sem ekki var fangi síns herra, hvítur mávur.
(Júní, 1961)
Á vertíð með Guðbrandi Guðbrandssyni
Á einum veggnum í stofunni hékk mynd af síðfextum, svipmiklum hesti. Fyrir ofan hana fallegt greni. Á öðrum vegg mynd af húsfreyjunni, Guðrúnu Auðunsdóttur. Ég hafði gaman af að horfa á myndina af hestinum. Yfir honum var kyrrlát reisn. Ég virti hann oft fyrir mér þann stutta tíma sem við Guðbrandur töluðum saman. Þegar ég fór var hesturinn eftir. Ég saknaði hans.
“Sá sem ekki hlítir ráðum hestsins, getur haft verra af”, sagði Guðbrandur í samtalinu. Hesturinn kallaði fram gamla endurminningu frá því ég kom drengur í Grænumýrartungu. Í stofunni voru tvær myndir, sem vöktu athygli okkar ferðalanganna; önnur fallegur ísaumur með orðunum “Drottinn blessi heimilið”, hin af Jónasi á Hriflu. Húsbóndinn virtist hafa sérstakar mætur á þessum upphengingum. Þá sagði faðir minn við hann: “En væri ekki nóg að hafa myndina af Jónasi? Mundi það ekki gera sama gagn?”
Magnús Torfason var viðstaddur og er mér minnisstætt, hve þeir Gunnar í Grænumýrartungu firrtust við þessi orð. Faðir minn var enginn aðdáandi Jónasar og hefði kunnað betur við hest Guðbrands í kompaníi við almættið.
“Hvar ertu fæddur?”
“Í Hraunbóli á Brunasandi á Síðu. Þar bjuggu foreldrar mínir”.
“Þú hefur verið fæddur í fátækt?”
“Heldur það. Þá voru vond veður í skammdeginu og erfitt að bjarga sér. Það eina sem fólkið hugsaði um voru hey á sumrin, skepnur á vetrum.”
“Þið hafið verið einangruð”.
“Við fengum stundum heimsóknir af hafi, þegar skip villtust upp á sandana. Sumir dauðir, aðrir lifandi. Við báðum ekki um þessar heimsóknir, en þær voru tilbreyting: að fá ofurlítið af útlöndum inn í stofu til sín. Og svo fóru nokkrir karlmenn á vertíð og stunduðu róðra frá Suðurnesjum. Við það var látið sitja. Þeir fóru gangandi alla leiðina. Aðeins hinir hraustustu menn lögðu út í þetta ævintýri. Öll vötn óbrúuð og þeir þurftu að vaða árnar, nema Þjórsá og Ölfusá. Við Hólsá og Markarfljót fóru þeir úr buxunum, buðu gaddinum birginn og óðu yfir berir að neðan, en í skinnskónum. Þá voru fötin þurr, þegar yfir var komið, og unnt að halda förinni áfram.
Ég gerði þetta einu sinni, þegar ég fór á vertíð. Þá var ég á sextánda ári og gekk alla leiðina, ég held við höfum verið 11 daga.”
“En sú ferð hefur borgað sig?”
“Ég hafði sextíu krónur upp úr mér yfir vertíðina, en hæsta kaup sem duglegir og vanir karlmenn fengu var 100 krónur. Það var mikið haft fyrir þeim aurum.”
“Var ekki hættulegt að vaða vötnin?”
“Nei. Ég var vanur vötnum, alinn upp við vatnaklasa eins og ég var”.
“Hvað bar helzt til tíðinda í ferðinni suður?”
“Ekkert”.
“Hvert fórstu á vertíð?”
“Að Meiðastöðum í Garði. Það var ævintýri líkast að koma í menninguna”.
“Hvað voruð þið margir saman á ferðalaginu?”
“Við lögðum átta af stað úr Skaftafellssýslu, austan Mýrdalssands, en á leiðinni bættust tíu við”.
“Höfðuð þið nóg að borða?”
“Við höfðum nesti með okkur. Þá voru engir penignar til að kaupa fyrir mat”.
“Hvað gerðirðu við þessar sextíu krónur, sem þú fékkst?”
“Helgi fékk þær, þegar ég kom heim”.
“Helgi?”
“Já, Helgi Bjarnason á Núpum í Fljótshverfi. Hann var húsbóndi minn. Ég fékk 75 krónur á ári hjá honum, en svo gat han sent mig hvert á land sem var eða því sem næst og tekið kaupið”.
“Þetta hefur verið hálfgert þrælahald?”
“Nei, ekki fannst mér það. Ég hef alltaf unnið hjá öðrum, nema sextán síðustu árin áður en ég fluttist hingað til Reykjavíkur. Þá hokraði ég á Prestbakka”.
“Var farið vel með vinnufólkið?”
“Misjafnlega. En ég þurfti ekki að kvarta. Það var ekki auðvelt að vera hjú, menn þurftu að læra það”.
“Þú varst alinn upp hjá foreldrum þínum?”
“Þangað til ég varð 11 ára. Þá brugðu þau búi og fóru í vinnumennsku. Tólf ára gamall fór ég að Prestbakka til sr. Magnúsar. Tvö næstu ár, eða meðan fært var frá, var ég smali á Prestbakka. Svo vann ég með piltunum”.
“Hvernig líkaði þér að sitja yfir?”
“Vel. Sauðfé er kannski ekki ýkja skemmtilegt, en það er ekki allt fólk heldur. Sauðfé er gott og þægilegt, meira en hægt er að segja um okkur öll”.
“Þér þykir gaman að dýrum?”
“Þau eru vinaleg og auðvelt að láta sér þykja vænt um þau”.
“Sástu nokkurn tíma huldufólk í hjásetunni?”
“Nei”.
“En hvað sástu þá?”
“Ég sá fjöll”.
“Sástu Lómagnúp?”
“Ekki af heiðinni, þar sem ég sat yfir. Þaðan sá ég Kaldbak. Hann var mín Esja”.
“En Lómagnúpur?”
“Hann sást frá Hraunhóli, fallegt fjall”.
“Sástu Járngrím?”
“Nei, ekki varð ég svo frægur. Ætli hann sé til nema í Njálu? Annars höfðum við lítinn tíma til að glápa. Vinnan sat fyrir öllu. Að hafa ofan í sig að éta var fyrsta boðorð hvers dags. Og það tókst, með þrældómi.
Stundum fórum við í silungsveiði suður í Landbrotsvötnin og drógum fyrir. Það var erfitt verk vegna sandbleytu. Gat verið hættulegt. Fyrir kom að menn færu í vötnin, en það var ekki að því spurt. Oft rak dauðan fisk á fjörurnar. Það hélt líftórunni í mörgum. Bezt þótti þegar fiskurinn kom spillifandi með briminu, það var kallað landhlaup. Þá var betra að vera einhvers staðar nálægt, því fuglinn var fljótur að gleypa hvern ætan bita. Það voru fleiri en við fyrir austan á þessum árum sem börðust við að lifa”.
“Hvað fiskur var þetta?”
“Þorskur mest. Þá var miklu meiri fiskur á miðunum en nú er. Hann var líka nær landi. Verið getur að forsjónin hafi séð fyrir því, að hann kæmist ekki út úr brimgarðinum, hún sér fyrir mörgu. Þegar lítið var að borða, heyrði ég að karlmennirnir sögðu: “Það er bezt að fara á fjöruna”. Og oftast höfðu þeir eitthvað upp úr krafsinu”.
“En stunduðu þeir ekki sjóróðra?”
“Lítið. Það þótti ekki árennilegt að storka briminu, eins og það var á söndunum. Hefurðu séð það?”
“Nei, en ég hef séð brim á Stokkseyri”.
“Brim er hvergi eins”.
“Var hugsað heimspekilega fyrir austan?”
“Það var hugsað um að hafa í sig og á. Engin flík keypt en allt unnið heima í höndunum úr ullinni. Þá var vakað fram til ellefu. Og lesið”.
“Það hefur verið leyft?”
“Hvað?”
“Að lesa”.
“Já, upphátt. En það var illa séð, ef þeir sem voru stautfærir tóku sér bók í hönd, fóru út í horn og lásu í hljóði”.
“Þú hefur auðvitað lært að lesa, Guðbrandur?”
“Ég get lesið fyrir sjálfan mig. Þarna í skápnum eru Íslendinga sögurnar eins og þú sérð. Ég hef lesið þær allar og sitthvað fleira”.
“Heldur þú að fólk hafi lært margt utan bókar?”
“Ekki meira en nú gerist, ætli það? En það var margt lært þá ekki síður en nú. En mundi ekki náttúran hafa verið bezti skólinn, vel gæti ég trúað því”.
“Þú varst viðloðandi á Prestbakka?”
“Já, ég fór þangað aftur, þegar ég var 17 ára. Það þótti mér skemmtilegt, því þar var menningarheimili. Ég var látinn fara margar kaupstaðarferðir til Víkur með lestirnar, stundum einn stundum í fylgd með öðrum. Fyrsta ferðin er mér einkar minnisstæð; ég var einn og það þótti hálfgerð forsending, eins og á stóð. En ferðin gekk vel. Ég var með fimm hesta og átti að sækja timbur. Þó ég hefði farið þarna um einu sinni áður á suðurleið, sá ég margt nýtt og hafði gaman af að koma í Vík. Hún var í mínum augum stórborg. Síðan hefur hún minnkað.
Á heimleiðinni fann ég flösku með spíritus, sem einhver hafði týnt í troðningunum. En ég var ekki orðinn nógu veraldarvanur til að sýna slíkum kostagrip þann sóma, sem við átti. Ég opnaði flöskuna, hellti lögg út í kaffið, en ekki nógu stórum skammti, því ekkert gerðist. Þá varð ég hræddur um að séra Magnús fyndi lykt af mér og henti flöskunni. Þannig er þetta stundum: Við finnum flösku af spíritus, tökum tappann úr henni, dreypum á, ójú gott er það og hressandi og -. En þá allt í einu kemur ábyrgðartilfinnignin upp í okkur og fylginautur hennar, óttinn við samvizkuna sem við getum kallað Magnús eða Jón, og við fleygjum flöskunni. Og ekkert hefur gerzt”.
“Þið hafið fengið rauðvínskúta, þegar skip strönduðu?”
“Við fengum kúta”.
“Þú hefur kannski aldrei fundið á þér vín?”
“Það hef ég gert, stundum um of”.
“En þegar þér kólnaði í póstferðum?”
“Nei, aldrei þá”.
“Bar ekki stundum eitthvað til tíðinda í póstferðunum?”
“Ekkert. Það gekk allt ágætlega, nema þegar ég hreppti vonda veðrið. Það var rétt fyrir jól 1938. Ófært til Víkur nema syðri leiðina, og hún var illfær. Þegar ég kom út á miðjan Mýrdalssand, gerði aftakaveður með stórhríð. Múlakvísl og Kerlingardalsá uppblásnar af krapa, og þó einkum hin síðar nefnda. Með Víkurhömrum er svo misvindasamt, að heita má óstætt í slíkum veðrum, og ætlaði ég því að brjótast niður að sjó, en sú leið er ekki nema 150 faðmar. Ég komst ekki niðureftir, en gekk í hringi og lenti aftur í mínum eigin sporum. Þegar ég hafði gengið þannig nokkra hringi, tók ég til bragðs að teyma hestana og fika mig áfram upp hlíðina og heim að Suðurvík til Jóns Halldórssonar. Það var erfitt ferðalag. Þegar við komum í Suðurvík, var okkur vel tekið öllum fjórum. Ég var með þrjá hesta, tvo undir burði og einn til reiðar, þann rauða þarna uppi á veggnum. En svo var snjóþungt, að ég varð að skilja hestana eftir í túnskafli eins og tíu faðma frá bænum.
Ég fór inn og heilsaði. Fólkið þóttist hafa heimt mig úr helju. Sumir hrósuðu mér fyrir, að mér skyldi hafa tekizt að komast í húsaskjól. En það var ekki lofsvert. Ég get ekki séð, að það sé lofsvert að langa til að hafa lífið. Verða ekki úti í hríðinni. Svo var mér hjálpað að troða snjóinn heim að bænum og þá gat ég teymt hestana í hús. Þá leið mér betur. En það sagði fólkið, að Mýrdælingar, sem höfðu lagt af stað heim á leið, hefðu snúið við þarna í brekkunni og haldið útundir aftur.
Ég hélt svo heim á Prestbakka nóttina fyrir aðfangadag og var á ferðinni allan daginn og kom ekki heim fyrr en á jóladagsmorgun, þegar verið var að mjólka kýrnar. Þá hafði ég verið 21 klukkustund á leiðinni.
Þegar ég kom upp í Landbrotið, villtist ég. Þá setti ég töskuna á þann rauða og sleppti honum en hann sneri við og skilaði okkur heilum á húfi að Klaustri, þar sem var póstafgreiðslan. En það er aukageta. Margir hafa treyst sjálfum sér betur en hestinum, og haft verra af”.
“Þetta hafa verið svaðilfarir?”
“Mér þótti gaman að þeim; en þegar ég var kominn heim og búinn að ylgra mér dálítið langaði mig alltaf út í vosbúðina aftur”.
“Þú hefur verið hraustmenni?”
“Nei”.
“En þér hefur þótt vænt um hestana, Guðbrandur”.
Hann horfði upp á vegginn á þann rauða.
Sagði ekkert.
Einar ríki
Í “Öldinni okkar 1931-1950” stendur á bls. 154: “Einar Sigurðsson, forstjóri Hraðfrystistöðvarinnar í Vestmannaeyjum, var í gær (þ.e. 30. júní 1940) staddur austur undir Eyjafjöllum og hafði beðið bát að sækja sig þangað úr Eyjum. En er báturinn kom var haugabrim svo að ókleift var að lenda.
En Einar lét það ekki aftra sér. Hann afklæddi sig í fjörunni, fleygði sér síðan til sunds og synti í gegnum brimgarðinn út að bátnum. Sundið var ekki langt, en brimið hins vegar mikið, og þykir þetta því mjög karlmannlega gert.”
Þegar ég hafði lesið þessa klausu langaði mig að eiga samtal við Einar. En nokkrir mánuðir liðu án þess hann gæfi færi á því. Svo var það 4. marz sl., að ég leit á forsíðu Tímans og sá svofellda fyrirsögn með heimsstyrjaldarletri: “Einar kaupir bátana.” Einar Siguðrsson útgerðarmaður hafði keypt fiskiskip! Ég hringdi í hann og sagði: “Má ég tala við þig um bátana?”
“Ég er að fara til Eyja.”
“Hvenær kemurðu aftur?”
“Á föstudaginn.”
“Má ég þá hringja?”
“Láttu þetta eiga sig.”
“Ég hringi á föstudaginn.”
Á föstudaginn lét ég verða af hótun minni.
“Ég þarf að skreppa niður í SH, ég skal koma við hjá þér, en...”
“Þakka þér fyrir” greip ég fram í.
Við hittumst nokkrum mínútum síðar.
“Þú ert í nýjum frakka með nýjan hatt og trefil, ég fer að halda að þú sért eins ríkur og af er látið.
Einar brosir. “Ég fékk frakkann í SÍS, þú getur eflaust fengið þér annan eins.”
“Ég þarf að tala við þig.”
“Ekkert samtal.”
“En það er tilefni.”
“Tilefni!” og Einar glottir. “En komdu samt með mér upp á skrifstofur. Ég ætla að gefa þér kaffi.
Ég hef ekki farið varhluta af árásum í blöðum, einhver verður að vera bitbein. Ég hef aldrei svarað blaðaskrifum um mig einu orði. Ég skal eiga viðtal við þig, þegar ég verð 85 ára. Þá verð ég kominn á raupsaldurinn og hef gaman af að gorta af því hvernig mér tóks að standast öll áhlaup ykkar blaðamannanna.”
Þegar við höfðum fengið okkur sæti í skrifstofu Árna Finnbjörnssonar ætlaði Einar að fá handa okkur kaffið. “Ég vil heldur kók”, skaut ég að honum. Hann bað þá stúlkuna að ná okkur í 10 flöskur af kók. Drukkum við svo úr einni flöskunni af annarri, meðan eftirfarandi orðahnippingar fóru fram.
“Þeim er tíðtalað um þig í blöðunum.”
“Þeir skrifa um mig eins og erlent kóngafólk, ég má ekki snúa mér við svo ég sé ekki óðara kominn í blöðin.”
“Það gerir pólitíkin. Þeir kalla þig Einar skuldakóng og Einar Eyjajarl og sæma þig öðrum titlum. Svo hafa þeir gefið þér viðurnefnið “ríki”. Langar þig til að verða kóngur eða jarl?”
“Ekki kannast ég nú við þá kennd.”
“En pólitíkus?”
“Ég var 8 ár í bæjarstjórn Vestmannaeyja og hafði gaman af að vinna að sveitarstjórnarmálum.”
“Og vildir ráða þar einn öllu?”
“Læt ég það nú vera. Ég held að ég hafi verið samvinnuþýður. Annars hef ég gaman af baráttu.”
“En hvernig hefur þér líkað á alþingi?”
“Ég hef lítið verið þar, annars fellur mér það vel.”
“Ef þú ættir að velja á milli stjórnmálanna og atvinnulífsins, hvort myndir þú þá kjósa?”
“Þetta tvennt er svo samtvinnað að ómögulegt er að aðskilja það. Stjórnmálin byggjast á atvinnulífinu. En ekki mundi ég óska strákunum mínum þess að verða útgerðarmenn.”
“Heldurðu, að stjórnmálin séu arðvænlegri en útgerð?”
“Arður eða peningar skipta mig engu.”
“Engu?”
“Ég hef aldrei gert neitt vegna peninganna, ég hef heldur aldrei átt neina peninga. Alltaf verið búinn að eyða þeim um leið og ég eignaðist vonina í þeim. Framkvæmdaþörf hefur verið mér allt: að byggja, kaupa nýja vél eða bát sem var nauðsynlegur. Á meðan ég á frystihús verð ég líka að eiga báta til að hafa hráefni.”
“Tíminn segir að þú sért nýbúin að kaupa tvo.”
“Ég hef keypt marga báta um dagana og selt marga. Það er ekkert athugaverðara þó bátar gangi kaupum og sölum en hús eða bíll. Að það sé tilefni til fimm dálka fyrirsagnar með fimm sentimetra háu letri að ég hafi keypt 59 tonna bát fæ ég ekki skilið. Þessi bátur, Hannes lóðs, var búinn að vera til sölu í tvö ár og margauglýstur í blöðunum. Það er ekki eins og þetta séu fyrstu samskipti okkar Jóhanns Pálssonar sem seldi mér bátinn. Hann hefur verið formaður fyrir mig á þremur bátum og aflakóngur hverju sinni.”
“Hvar á báturinn að leggja upp?”
“Hér í Reykjavík. Í Vestmannaeyjum er nóg hráefni, en vantar hins vegar fólk. Ég vona að verkafólkið sem á að verka aflann úr honum þegar til kemur, sjái a.m.k. í gengum fingur við mig fyrir þetta ódæði. Frystihúsin í Reykjavík eru illa sett með hráefni síðan togararnir hættu að leggj þar á land afla sinn. Það er ekki hægt að segja að þar hafi verið handtak að gera fyrstu tvo mánuði ársins.”
“En Kristbjörg, sem er nú aðallega lagt út af.”
“Ég hef ekki keypt Kristbjörgu.”
“Af hverju keyptirðu ekki nýjan bát?”
“Ég hef aðeins einu sinni látið byggja fyrir mig bát, annan bátinn sem ég eignaðist, Tý í Vestmannaeyjum, 37 tonn, happaskip. Fyrsti báturinn sem ég eignaðist var 12 lestir, vafalítið minnst eftirsótti báturinn í Eyjum þá. Ég hef alltaf orðið að kaupa báta sem aðrir hafa ekki viljað eiga. Ég gat aldrei fengið innflutningsleyfi fyrir bát á meðan leyfa þurfti við, ekki einu sinni fyrir bíl. Þeim á skrifstofunum fannst alltaf ég eiga svo mikið. Fyrir 5 árum samdi ég þó um að láta smíða fyrir mig innanlands tvo 100 lesta báta hjá Þorgeiri Jósefssyni á Akranesi, en þegar ég sótti um lán út á þá eins og ég hélt að lög stæðu til var mér neitað svo ekkert varð úr þessu.”
Einar stóð nú upp og drakk úr síðustu kókflöskunni. Hann vild að ég skryppi með sér heim. ég sat sem fastast.
“Frystihúsin þín og bátarnir hafa verið auglýst í Lögbirtingarblaðinu, já, meira að segja í Morgunblaðinu.”
“Það ber aðeins vott um að ég baða ekki alltaf í rósum. Ef mig vantar tilfinnanlega vél í bát eða frystihús kaupi ég hana. Ég treysti á að forsjónin hjálpi mér til að greiða næstu skuld, ef ekki á gjalddaga þá að minnsta kosti fyrir eindaga.”
“En ef forsjónin bregst?”
“Hún hefur aldrei brugðizt mér.”
“Þeir segja að þú farir óvarlega með peninga, sumir kalla þig braskara.”
“Ég reyni að vera heiðarlegur. Mér vitanlega hef ég hingað til borgað allar mínar skuldir.”
“Hvað um Sigurð? Þeir segja að ríkið borgi hann?”
“Sigurður er kapituli út af fyrir sig. Ég lenti í togaraútgerð vegna fyrirtækis sem ég keypti á Flateyri fyrir 9 árum. Það átti einn gamlan togara og svo keypti ég annan sem margir höfðu gefizt upp á að gera út. Þessi skip gerði ég út í ein 7 ár, og örvuðu þau atvinnu í byggðarlaginu og veittu gjaldeyri í þjóðarbúið. En þau voru gömul, ævagömul, og það varð ekki komizt hjá að endurnýja skipakostinn. Þá voru karfaveiðarnar við Nýfundnaland í algleymingi. Skipin komu þaðan drekkhlaðin mánuð eftir mánuð. Ég barst með straumnum og var einn af þeim fimm sem sömdu um smíði 1000 lesta togara. Þeir kostuðu þá 25 milljónir, svo kom gengisbreytingin. Ég var óheppinn til að byrja með og geta ekki of mikil til að mæta skakkaföllum. Þó ég hefði viljað veita fé í útgerðina voru bankarnir ófúsir að lána í botnlausan taprekstur, eins og togaraútgerðin hefur verið undanfarið, og lái ég þeim það ekki.”
“Hvað hefur þú tapað á Sigurði?”
“Ég lagði í hann rúmar 4 millj. kr., auk þess sem ég bjó skipið á veiðar og hef haft af því verulegan kostnað. Alls hef ég ekki lagt minna en 7 milljónir króna í skipið.”
“En þessar 4 milljónir kr. er ekki hægt að reikna sem tap.”
“Ég mundi glaður afhenda skipið í dag fyrir það sem hvílir á því og afskrifa þar með þessar 7 milljónir króna.”
“Sá sem þolir að tapa slíku fé á tveimur árum er ekki á flæðiskeri staddur?”
“Eysteini vini mínum tókst að setja mig efstan á blað af þeim burgeisum sem voru á sínum tíma skyldaðir til að greiða stóreignaskatt. Mér var gert að greiða rúmar fjórar milljónir króna. Þá fékk ég viðurnefnið “hinn ríki.” En nú er meira að segja Þjóðviljinn farinn að draga í efa réttmæti þess titils og hefur haft hann innan gæsalappa upp á síðkastið. Ég er samt ekki að berja mér.”
“Hefur þá forsjónin brugðizt hvað Sigurð snertir?”
“Ég trúi því að Sigurður eigi eftir að skila sínu og meira að segja að það hafi átt að fara eins og fór þegar vélsmiðirnir í Héðni gleymdu að “opna fyrir smurninginn”, svo vélin bræddi úr sér, og ekki varð úr að skipið færi til Færeyja.”
Einar fór nú í samvinnufrakkann, setti á sig hattinn og við gengum sem leið liggur heim til hans.
“Þú spurðir mig áðan hvort ég væri ríkur. Það má til sanns vegar færa, já, ég á fjársjóð. Við hjónin höfum eignazt níu börn.”
Ég staldraði við. “Og hvað er það yngsta gamalt?”
“2ja ára.”
“Og elzta?”
“13 ára”.
“9 börn á 11 árum.”
“Settu það samt ekki á prent, það gæti litið út sem gort!”
“Ertu hættur?”
“Því verður forsjónin að ráða eins og í gamla daga.”
Við vorum nú komnir heim til Einars Sigurðssonar, og frú Svava tók glaðlega á móti okkur. “Ég ætla að skrifa samtal við hann.”
“Og hvað eruð þið búnir að tala lengi saman?” spurði hún.
“Klukkutíma”, sagði Einar, “en þetta á ekki að vera neitt samtal til birtingar.”
“Klukkutíma?” sagði hún, “nei, það getur ekki orðið neitt samtal. “Svo bætti hún við: “Það er ekkert gaman að samtölum nema þau séu sönn og einlæg.”
Heimili þeirra hjóna er fallegt, íburðarlaust. Við fórum inn í skrifstofu Einars. Allir veggir eru þaktir bókum. Við vorum varla seztir þegar börnin komu niður til að fagna föður sínum.
“Ég er búin að sofa”, segir lítil ljóshærð hnáta.
“Hvað heitirðu?”
“Helga”.
“Og hvað ertu gömul?”
“Þriggja ára.”
Pabbi segir við hana: “Þú ert bellarass, farðu aftur í rúmið þitt.”
“Þú ert sjálfur bellarass á hausinum,” sagði sú litla.
Pabbi hennar hló og frú Svava fór með börnin í háttinn.
“Hefurðu ekki áhyggjur?” spurði ég Einar.
“Ég get ekki neitað því að ég hef átt marga andvökustund út af daglegum viðfangsefnum sem erfitt hefur verið að ráða fram úr En ég reyni af fremsta megni að láta áhyggjurnar aldrei ná tökum á mér. Ef ég gerði það væri lífið óbærilegt.”
“Þú lendir iðulega í árekstrum við menn og blöð?”
“Það fer ekki hjá því, þegar skipt er við fjölda manna að ágreiningsefni skjóti upp kollinum. En ég reyni eins og ég get þegar slíkir árekstrar eiga sér stað, að láta ekki óvildina festa rætur hjá mér enda þótt mér finnist að gert hafi verið á hluta minn. Stundum er þetta erfitt, en ég er mér þess ekki meðvitandi að ég beri kala til nokkurs manns. Ég geri þetta kannski ekki sérstaklega þeirra vegna sem ég á í höggi við þá og þá stundina, heldur fyrst og fremst sjálfs mín vegna.”
“Áttirðu erfiða æsku?”
“Nei, nei. Faðir minn dó að vísu þegar ég var 10 ára. Ég átti góða móður. Faðir minn hafði lagt 500 krónur inn á bók sem var á mínu nafni. Þær voru orðnar 700 þegar ég kom heim úr Verzlunarskólanum átján ára gamall. Þetta var árið 1924. Það var erfitt um atvinnu þá, og ég fékk hvergi neitt að gera. Mér fannst ég yrði að vinna að verzluanrstörfum fyrst ég var búinn að fara í Verzlunarskólann. Annars stefndi hugur minn alltaf til sjómennsku. Þá setti ég á stofn verzlun um haustið. Móðir mín varð að leysa borgarabréfið, ég var of ungur.”
“Hvað áttu mörg frystihús?”
“Skiptir það nokkru máli?”
“En báta?”
“Hver veit það?”
“Lifir þú hátt, jafnríkur og fólkið segir þig vera?”
“Áttu við að ég sé á fylliríi í Klúbbnum eða Glaumbæ? Eða að ég sé á hverju ári í baðstrandasiglingum? Nei, mér er raun að því að þurfa að sigla, og ef ég get með einhverju móti komizt undan að þiggja heimboð eða fara á veitingahús geri ég það Ég vil helzt borða heima hjá fjölskyldunni og hlusta á þá músik sem fjölmennt barnaheimili hefur upp á að bjóða. Ég er heimakær.”
“Og geturðu verið mikið heima?”
“Nei, því miður. Fimm daga vikunnar er ég oftast í Vestmannaeyjum. Hinum tveimur skipti ég milli fjölskyldunnar og fyrirtækja minna hér syðra.”
“Hvað gerirðu í Eyjum?”
“Ég held mig í frystihúsinu, verksmiðjunni, beituskúrnum eða á bryggjunum.”
“Hvernig eyðir þú deginum þegar þú ert heima?”
“Ég fer á fætur klukkan sjö á morgnana og raka mig annað hvort heima eða uppi í sundhöll. Þangað fer ég á hverjum morgni með strákana þegar ég er í bænum.”
“Og þú syndir þá eins og í gamla daga. Hvað syndirðu nú langt?”
“Hundrað metra. Og það er oftast kappsund við strákana. Ég vinn nú orðið aðeins eins og eina umferð með því að taka á öllu sem ég á til.
Þegar upp úr kemur tekur félagsskapurinn Coldwater að sér að herða okkur og stæla. Formaður er þar Jón Árnason í Fiskifélaginu og ritari Konráð Gíslason í Hellas, og hann ræður öllu eins og ritarinn hjá Smaienuðu þjóðunum. Þá eru sundhetturnar eða plastpokar fyllt af ísköldu vatni og látið dyngja á mönnum óviðbúið, og það er engin miskunn hjá Magnúsi, þó við séum nýbúnir að þurrka okkur og farnir að hafa það notalegt, kannski meira að segja nýkomnir úr sólbaði.
Ég geri alltaf Möllersæfingar, sem ég lærði 6 ára, þegar Guðmundur Sigurjónsson kenndi þær í þinghúsinu í Vestmannaeyjum.”
“Þarna ertu auðvitað frjáls eins og fuglinn fljúgandi og ekkert sem minnir þig á auð eða fátækt.”
“O - jæja. Í morgun spurði baðvörðurinn mig að því hvort hann ætti ekki að loka klefanum á meðan ég væri ofan í. Ég sagði, að þess gerðist ekki þörf: “Það er engu að stela, ekkert nema fátæktin.” “Og hana vill enginn,” svaraði baðvörðurinn hinn rólegasti.
“Hvað tekur svo við?”
“Ég má ekki eyða nema klukkutíma í þetta. Ég þarf að vera kominn heim klukkan átta, þá kemur liðið, sem heima er, streymandi niður í matinn, og verð ég þá að standa tilbúinn með lýsisflöskuna og útdeila hverjum sínum skammti, og mamma og pabbi eru þar ekki undan skilin. Morgunmaturinn er nokkrar skeiðar af hafragraut, allt og sumt. Krakkarnir fá auk þess egg og appelsínusafa. Síðan fer ég með þrjú yngstu börnin í leikskóla. Bryndís Zoëga og fóstrurnar í Drafnarborg hafa gætt barnanna frá 2 til 6 ára aldurs, konan hefði ekki komizt yfir það.”
“Og svo?”
“Fer ég vestur í Hraðfrystistöð og yfirheyri verkstjórana. Næsti áfangi er skrifstofan, bankarnir og Sölumiðstöðin. Á kvöldin hjálpa ég konunni að gefa börnunum að borða, koma þeim í rúmið og lesa með þeim bænirnar. Þá fyrst færist ró yfir heimilið og ég get sezt niður og hlaupið yfir fyrirsagnir í blöðunum.”
“En lestu engar bækur?”
“Nei, ég er löngu hættur því. Áður fyrr lét ég Gyldendal senda mér sígildar skáldsögur og ferðasögur jafnóðum og þær komu út hjá forlaginu og hafði mikð yndi af lestri þessara bóka. Nú hef ég aldrei tíma til að líta í bók sem nokkru nemur.”
“En ef þér tækist að létta eitthvað á þér.”
“Þá kysi ég fátt frekar mér til dægrastyttingar en sígildar skáldsögur. Ég hef gaman af Kiljan.”
“Hann skilur ykkur útgerðarmennina svo vel! En hvað gerið þið á sunnudögum?”
“Förum upp í sumarbústað. En ég ætla ekki að segja þér hvar hann er því ég veit ekki nema blaðamönnunum finnist þeir þá þurfa að taka mynd af honum til að punta upp á næstu grein. Það er verst ef ekkert púður væri nú í því.”
“Hvernig kemst allur hópurinn upp eftir?”
“Ætli ég verði ekki að fá mér aflóga strætisvagn áður en langt um líður.”
“Þú ert mikill sundmaður Einar. Þú hefur alltaf lagt mikla rækt við sundið.”
“Faðir minn hafði mikinn áhuga á þessari íþrótt og lærði að synda um aldamótin kominn yfir fimmtugt hjá Björgúlfi Ólafssyni lækni sem þá var sundkennari í Eyjum. Faðir minn barðist ötullega fyrir því að sundskyldu var fyrr komið á í Vestmannaeyjum en annars staðar hér á landi. Þá var engin sundlaug til í Eyjum. Okkur var kennt að synda í sjónum. Ég byrjaði að læra sund þegar ég var sex ára. Einn fyrsti kennari minn var Ásgeir Ásgeirsson, núverandi forseti, þá ungur stúdent.
Ég hef aldrei verið neinn sérstakur sundgarpur, langt frá því. En hingað til hefur mér með guðs og góðra manna hjálp tekizt furðulega að synda gegnum þann brimgarð sem við köllum líf.”
(1962)
II.
Um svipað leyti og samtal okkar Einars ríka átti sér stað, eða um miðjan sjöunda áratuginn, beitti Morgunblaðið sér mjög fyrir stofnun svonefndra almenningshlutafélaga. Vorum við Eyjólfur Jónsson sammála um kosti þeirra enda höfðu þau gefið góða raun erlendis. Þannig voru Volkswagen-verksmiðjurnar starfræktar í Þýzkalandi ef ég man rétt. Þetta var raunar eitt helzta hugsjónamál Eyjólfs Konráðs og hafði hann forystu um þessar umræður og gaf síðar út bók sem fjallaði m.a. um þetta efni, Alþýða og athafnalíf, 1968.
Einar Sigurðsson vildi sýna lit og hafði samband við mig og kvaðst hafa í hyggju að stofna almenningshlutafélag um nýjan bát sem átti að verða eins konar Gróttakvörn og ausa upp síldinni. Ég hreifst af þessari tilraun Einars og vildi endilega sýna honum fram á að við tækjum hugsjónaskrif okkar alvarlega. Sagði honum að ég mundi því leggja fé í þetta hlutafélag og taka sömu áhættu og aðrir sem þar ættu hlut að máli. Hann fagnaði þessari ákvörðun minni og báturinn var keyptur. Hann fékk nafnið Örn og ef ég man rétt var hann gerður út frá Reykjavík. Hann fór síðar á síldveiðar og ég man að ég hafði dálítið gaman af að fylgjast með velgengni hans, aflatölur voru birtar í Morgunblaðinu. En ég fór aldrei um borð í bátinn og ég held að ég hafi aldrei séð hann. Svo vel treysti ég Einari ríka fyrir gripnum. Hann hefði þess vegna getað notað fjármuni mína til annarra hluta, tekið áhættu af því að ég mundi fylgjast lítið sem ekkert með þessari starfsemi! Kom oft til mín til þess að segja mér tíðindi af bátnum. Yfirleitt gat hann hrósað happi yfir velgengni hans. En að því kom að við Hanna tókum þá ákvörðun að skipta um húsnæði.
Við bjuggum þá í íbúð okkar að Hjarðarhaga en þangað höfðum við flutzt af Vesturgötu 52 þegar við seldum 1962. Höfðum hug á húsi í Vesturbænum eða í næsta nágrenni við æskustöðvar mínar, en á því varð bið.
“Við skulum hætta að hugsa um þetta, látum forsjónina um þetta, ef hún vill, þá kemur einhver og selur okkur hús”, sagði ég við Hönnu.
Ýmsir vissu af þessum hugleiðingum okkar og að því kom að Björn Hallgrímsson hafði samband við mig og bauð okkur Reynimel 25A til sölu, það var 1967. Ég hafði samband við Einar ríka og sagði honum að ég væri í þeim hugleiðingum að kaupa nýtt húsnæði, hvort hann gæti ekki leyst út þá fjármuni sem ég ætti í Erninum svo ég hefði eitthvert handbært fé. Hann tók þessu fyrst í stað eins og hverjum öðrum brandara og ýjaði að því að það væri miklu meira ævintýri að eiga í Erninum heldur en standa í húsakaupum. Taldi öll tormerki á því að unnt væri að kaupa mig út úr hlutafélaginu. Ég hélt þessu samt til streitu og hann sá að mér var alvara. Þá kom hann einn góðan veðurdag niður á Morgunblað og sagði við mig, Komdu með mér út. Nú sagði ég, hvert erum við að fara - og gekk með honum.
Ég ætla að skreppa með þér út í Geysi, sagði hann.
Nú, sagði ég, hvað ætlarðu að gera þangað?
Það kemur í ljós, sagði hann.
Svo fórum við í verzlunina Geysi við Vesturgötu og hann gekk inní viðlegudeildina þar sem voru allar tegundir af tjöldum. Hann bað afgreiðslumanninn að sýna sér 4ra manna tjald
Þetta er fínt tjald, sagði hann. Það hlýtur að henta ykkur.
Okkur, sagði ég undrandi.
Já, vantar þig ekki húsnæði?
Ha, sagði ég.
Ég ætla að gefa þér þetta tjald, sagði Einar ríki.
Þá ertu búinn að koma þér upp þaki yfir höfuðið!!
Hvað ertu að segja, sagði ég. Mig vantar ekkert tjald.
Nú, sagði hann brosandi. Annað hef ég heyrt.
Svo keypti hann tjaldið og rétti mér.
Gekk síðan með mér niður á Morgunblað og ég komst ekki upp með moðreyk.
Ég sá mína sæng upp reidda og taldi að þetta fé í Erninum væri glatað. Hann hefði enga peninga til að borga mig út. Svona fór sem sagt um sjóferð þá! En þá allt í einu hringir hann og segir við mig, Komdu til mín í skrifstofuna, ég þarf að tala við þig.
Ég fór á fund hans og þá rétti hann mér allt hlutaféð sem ég átti í Erninum, auk arðs og verðbóta svo að ég hagnaðist heldur á þessari tilraun minni til útgerðar.
En af þessu öllu virtist mér Einar ríki hafa mikla ánægju. Hann hafði gaman af því að ég skyldi vilja taka þátt í útgerðinni með honum en ég held þó að honum hafi þótt vænzt um að geta rétt mér arðsama uppskeru af þessari sömu útgerð.
Einar Sigurðsson var einstæður persónuleiki. Hann var einlægur og opinskár. Hann kunni að meta verðmæti og ég held að hann hafi ekki gengizt upp í því að safna auðæfum. Hann var athafnaskáld af lífi og sál og þau voru ófá heimilin sem áttu hauk í horni þar sem hann var og útgerð hans.
Einar ríki var mikill trúmaður, forsjónin var honum daglegt íhugunarefni og hann ræktaði trú sína. Hann var eitthvert sérstæðasta sambland af framkvæmdamanni og hugsuði sem ég hef kynnzt og ég hafði alltaf ánægju af því að hitta hann að máli og skeggræða við hann. Hann skrifaði Úr verinu í Morgunblaðið og naut það mikilla vinsælda enda mikið lesið. Það er upphaf þess að fjölmiðlar fóru að fylgjast rækilega með afla og útvegsmálum. Enginn kunni jafnvel og Einar ríki að nota skuldir til framkvæmda enda var hann oft kallaður skuldakóngur landsins. Og mér er til efs að hann hafi verið jafn ríkur og talið var. Sjálfur taldi hann sig auðugan mann vegna barnaláns.
Þegar ég hafði skrifað gott uppkast að samtalinu við hann óskaði ég eftir því að hann læsi það. Þá var hann í Vestmannaeyjum. Ég hringdi til hans en hann sagðist ekki geta lesið samtalið því hann kæmi ekki í bæinn fyrir birtingu þess. Ég sagði að það kæmi ekki til greina, hann yrði að skreppa til Reykjavíkur og fara yfir samtalið. Við hefðum komið okkur saman um hvenær ætti að birta það og hann yrði að standa við það. Hann taldi öll tormerki á því, en samt skrapp hann til Reykjavíkur og við fórum yfir samtalið og lukum við það eins og það var birt í Morgunblaðinu.
Alllöngu síðar kom Einar blaðskellandi upp í skrifstofu mína í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti og sagði hálfhrópandi eins og hann talaði stundum, Ábyrgð þín er ekki lítil, þú hefur komið mikilli hreyfingu af stað.
Nú sagði ég hvað hefur gerzt.
Þú berð ábyrgð á því að ég kom til Reykjavíkur þótt ég hafi ætlað að vera í Vestmannaeyjum og sú ferð leiddi til þess að nú er konan ófrísk enn einu sinni!
Svo baðaði hann út öllum öngum og hló eins og honum var einum lagið og bætti við áður en hann kvaddi mig, Þú berð ábyrgð á barninu, það ætti að skíra það í höfuðið á þér!
En ég kallaði á eftir honum, Geturðu aldrei komið nálægt konunni án þess að hún verði ófrísk?
Þá hló hann enn meir svo ískraði í honum.
Stefán í Möðrudal
I.
Stefán Vilhjálmur Jónsson í fylgd með Andrési Valberg fasteignasala. Þeim var mikið niðri fyrir.
“Hvað leggst svona þungt á þig, Andrés minn?” spurði ég.
“Ja, það er hann Stefán hérna segir Andrés og bendir á förunaut sinn. Þekkirðu hann ekki?”
“Nei.”
“Hann er tónskáld og listmálari og sonur Jóns í Möðrudal.”
“Nú-já. En hvað getum við gert fyrir Stefán?”
“Ja, þeir tóku málverkin mín,” segir Stefán og lyfti hattinum. “Og þeir hafa ekki skilað þremur aftur, tvö seldu þeir á uppboði og eitt gerðu þeir upptækt.”
“Já, skaut Andrés inn í. “Stefán var að selja málverk á Lækjartorgi og þá kom lögreglan og rak hann burtu.”
“Og tók málverkin,” sagði Stefán. “Fyrst kom einn og spurði hvort ég hefði fengið leyfi til að selja á Lækjartorgi, svo kom annar og ítrekaði spurninguna og loks komu fjórir í viðbót og sögðu að ein myndanna væri hneykslanleg. Ég yrði að koma niður á lögreglustöð.”
“Og mótmæltir þú ekki.”
“Jú, auðvitað,” svaraði Stefán og kvaddi Andrés Valberg með þéttu handabandi.
“Þið réttið hlut hans,” kallaði Andrés og veifaði til okkar.
“Hvað heitir hneykslismyndin,”spurði ég.
“Hún heitir Blesi og Bleiksokka. Það má kannski líka kalla hana Vorleik.”
“Nú, og hvað er svona hneykslanlegt við myndina?”
“Jú, sjáið til, hún er af hestum sem eru að, ja eins og hestar á vorin, ja þeir eru að leika sér sko eins og hestar gera á vorin.”
“Nú, og hvað gera hestar á vorin?”
“Þeir leika sér.”
“En hvað fannst lögreglunni hneykslanlegt við þennan leik?”
“Ég veit það ekki, ég held þeir hafi nú misskilið þetta eitthvað, jú sjáiði til þetta var málað í sama lit og hófskeggið á hestinum, dálítið ljósara en liturinn á skrokknum. Glófextir hestar sem eru ljósari á hófskeggi en skrokknum , geta líka verið ljósari á kviðinn. En það skilja lögreglumenn ekki. Þeir héldu þetta væri sko, þeir héldu þetta væri eitthvað hneykslanlegt, en það er nú eitthvað annað. Ég hélt mennirnir væru vanir þessu úr sveitinni.”
“En þótti þeim ekkert hneykslanlegt við hryssuna?”
“Nei, það held ég ekki. En það er ómögulegt að vita, hvað lögregluþjónar hugsa undir húfunni!”
“Nei, það er ekki gott. En segðu okkur, Stefán, hvers vegna fórstu að mála þessa ástarsenu?”
“Þetta er engin ástarsena, þetta er bara mynd af vini mínum. Ég reyndi að breyta honum dálítið svo hann þekkist síður, og gerði bæði faxið og taglið svolítið dekkra en það er, en samt held ég nú hann þekkist á eyrunum. Sumir þekkjst á eyrunum, eins og þið vitið!”
Nú branaði kunningi minn fram á sviðið með forvitnisglampa í augunum og sagði:
“En þú ert ekki búinn að svara því, hvers vegna þú málaðir svona mynd.”
“Ja, bara til að fá svolitla tign í hana,” svaraði Stefán án þess að láta sér bregða. “Það er eins og öll reisn Möðrudalsfjalla sé í augum skepnanna á þessari mynd minni. Undarlegt að lögregluþjónarnir skyldu hafa séð þetta. Þeir gerðu myndina upptæka bara til þess að fá hana fyrir lítið. En mér voru boðnar í hana 17 þúsund krónur á Lækjartorgi og þeir skulu ekki fá hana fyrir minna. En eitt var dálítið skrítið. Þegar þeir voru búnir að læsa myndirnar inni í skáp, voru þeir alltaf að laumast til að skoða Blesa og Bleiksokku og sýna hana hver öðrum, eins og þeir yrðu aldrei þreyttir á því. Dálítið skrítin náttúra það, finnst ykkur ekki?”
“Ojú,”
Stefán sagði okkur frá því að hann hefði ekkert borðað í sólarhring og því síður sofið, bæði af hugarvíli og vegna eltingarleiks við verði laga og siðferðis.
“En einhver tvískinningur var samt í þeim”, sagði hann, “því að þeir keyptu tvær myndir fyrir 100 krónur. Þeir buðu þær nefnilega upp í Kjallaranum held ég og þessar tvær myndir fóru á 50 krónur hvor. Það er ekki stór peningur, nei það er það ekki. Auðvitað varð ég reiður. Ég hef ákaflega næmar taugar síðan ég lá úti í Möðrudalsfjallgarði í 62 klukkustundir. Það var ákaflega fræg “útilega” á sínum tíma. Það var 15., 16. og 17. febrúar 1936. Þá tognaði ég á taugum í höfðinu á mér og hef aldrei beðið þess bætur. Þó er ég þolinn í lund svona yfirleitt. En sumum finnst ég víst vera smáskrítinn með köflum, en ég hef ekki fundið til þess sjálfur. Mér finnst ég eiginlega alltof lítið skrítinn því ef ég væri dálítið undarlegri en ég er þá mundi mér kannski ekki líða verr en hinum. En ég er annars alveg hissa á því,” sagði Stefán að lokum, “að lögregluþjónarnir skyldu ekki hafa rænu á því að næla í myndina sem ég hef kallað Skreið því hún er ákaflega merkileg og stórfalleg. Hún er af blómum sem vaxa upp úr saltfiski og hún hefur þá undraverðu náttúru, að karlmaður heldur á fiskinum á daginn, en kvenmaður á nóttunni.”
II.
Stefán Jónsson, sonur Jóns í Möðrudal á tvennt í pokahorninu, sem er ekki alltof algengt: lúmskan húmor og hæfileika til að hitta óvart á rétta liti.
Stefán var á allra vörum þegar hann stillti málverkum upp á Lækjartorgi, en löreglan lagði hald á myndina “Vorleikur” sem þótti of opinská í ástamálum. Vakti það þó nokkra athygli og skemmta margir sér ágætlega, ekki sízt Stefán.
Þegar ég nú spurði Stefán um myndina hans, “Kona með barn” svaraði hann: “Ég fór eitt kvöldið í Gúttó, ég veit eiginlega ekki af hverju, en það var eitthvað sem dró mig þangað, og þegar ég hafði verið þar nokrka stund kom heldur laglegur kvenmaður og bauð mér upp. Við fórum að dansa og leikurinn barst um allt gólfið, og við dönsuðum og dönsuðum og alltaf meira og meira og ég gleymdi mér og hún kom nær og það var meira og meira og ég var hættur að heyra í hljómsveitinni eða taka eftir reyknum í loftinu. En svo vorum við allt í einu hætt að dansa, ég veit ekki af hverju. Nokkrum dögum síðar kemur konan til mín og segir að hún eigi von á barni.
“Jæja,” sagði ég og yppti öxlum, “einmitt það.”
“Já, og þú ert faðirinn,” segir hún.
Þá brosti ég út í annað munnvikið því ég vissi að það gat ekki verið og ég held hún hljóti að vita það líka, og í staðinn fyrir að gangast við orðum þessarar ókunnugu konu fór ég heim og málaði mynd af henni og barninu sem aldrei getur kallað mig pabba ef réttlætið á einhver ítök í veröldinni.”
“Þetta var einkennileg saga,” sögðum við. “En heyrðu Stefán. Við höfum heyrt þess getið að Picasso hafi einhvern tíma málað ekki ósvipaða mynd.”
“Jæja,” svaraði Stefán og horfði á vegginn.
“Heldurðu að komi nú ekki til mála að þú hafir orðið fyrir áhrifum af Picasso?”
“Jú, það getur vel verið.”
“En hefurðu séð þessa mynd Picassos af Konu með barnið?”
“Já, ég hef séð hana. Það er víst alveg rétt. Og hún er nauðafalleg. Það getur meira en verið að Picasso hafi haft áhrif á mig, en ekki dansinn í Gúttó. En það mundi aðeins sýna að ég legg allt í sölurnar fyrir listina. En Picasso er ákaflega velvirkur maður þó hann hafi aldrei komið í Gúttó, eða hvað haldið þið um það?”
“Þú hefur gaman af börnum, Stefán, það má sjá á myndinni,” svörum við.
“Já, mjög gaman af börnum, óþvinguðum og óspilltum börnum. Og börn hafa yfirleitt mætur á mér. Við eigum að hugsa vel um börnin okkar og láta þau ekki skæla of mikið. Þá verða þau veikluð og komast kannski ekki í blöðin.”
“En hvað segirðu um Blesa í “Vorleik?”
“Allt ágætt.”
“Hefurðu málað nokkra mynd af honum nýlega?”
“Ekki honum, nei, en öðrum Blesum. Á Þingvöllum í sumar málaði ég margar hestamyndir og seldi allar jafnóðum. Ég málaði t.d. mynd af Kirkjubæjar-Blesa þegar hann hljóp á stökki í gegnum markið í úrslitakeppninni. Þá punktaði ég niður fæturna á honum, en þeir voru allir á lofti í einu, hann var ekki aðþrengdari en svo.”
Þegar samtalinu var hér komið báðum við Stefán um að fara heim og mála mynd af atburðinum í Gúttó. Hann hló hátt og sagðist skyldu gera það. Næsta dag kom hann svo með myndina undir hendinni.
“Hvað heitir hún?” spurðum við.
“Hún heitir: “Ævintýrið í Gúttó”,” svaraði Stefán. “En hafið þið ekki hátt um nafnið, það gæti nefnilega valdið misskilningi.”
“Það er ómögulegt,” sögðum við, “málverk mega heita næstum því hvað sem er. Sum málverk heita jafnvel Steinblómið eða -.”
“Annars þarf þetta ekki endilega að vera í Gúttó,” var hann fljótur að grípa fram í, “eða lítið þið á myndina: fólkið getur jafnvel verið að baða sig. Hún gæti alveg eins heitið “Allt í grænum sjó.””
“Þetta er ágæt mynd,” Stefán, sögðum við og hengdum hana upp á vegg. “En segðu okkur eitt: “Þú hefur áður sagt okkur að þú hafir einhvern tíma legið úti.”
“Já, það var 1936. Þá lá ég úti á Möðrudalsheiði í 62 klukkustundir. Þá var ég í póstferð. Eiginlega má segja að ég hafi dáið og verið kominn inn í annan heim. En samt lifnaði ég einhvern veginn við aftur og ég held að ástæðan hafi verið sú að ég hafði misst eldri drenginn minn þá ekki alls fyrir löngu, hann hellti ofan á sig sjóðandi kaffi. En yngri drengurinn var heima og beið mín og mér fannst ég þurfa að komast lifandi til hans. Annas hefði ég ekki lifað af þessar hrakningar.”
“En konan?”
“Hún er dáin.”
“Hvar er drengurinn litli, sem beið þín heima?”
“Hann er nú í Reykjavík, myndarpiltur get ég sagt ykkur.”
“Dauðinn hefur verið kröfuharður við þig.”
“Það hafa allir verið kröfuharðir við mig. Og ég er kröfuharður við sjálfan mig ekki sízt þegar listin er annars vegar. En dauðinn er ekki eins voðalegur og margir halda. Ef maður lifir sæmilega er engu að kvíða, og það hef ég gert og reynt að taka því sem á mig hefur verið lagt. Og ég held ég þurfi ekki að óttast að mér verði illa tekið þegar ég sigli í höfn.”
“Heldurðu þú fáir að mála hinu megin?”
“Það veit ég ekki. En þá verða þær myndir miklu fallegri í lit en þær sem ég hef verið að bisa við að mála hérna megin.”
“Þú hefur selt margar myndir, ertu þá ekki sæmilega stæður?”
“Ég á nóg af peningum.”
“Og hvar áttu heima?”
“Í Selbúðum 3, þar er dálítið órólegt og kemur stundum fram í myndunum mínum. En ég læt það annars ekki á mig fá, ég er vaxinn upp úr því að taka hlutina alvarlega. Svo er ekki hægt að krefjast alls. Ég á afskaplega margar myndir ósýndar og hefði óskað þess að ég gæti sýnt olíumyndirnar í Listamannaskálanum og vatnslitamyndirnar í Bogasalnum, auk þeirra mynda sem nú eru í Morgunblaðsglugganum - og allar í einu. Yfir því væri einhver ævintýrabragur og þá gæti verið að fólk sæi að þetta er ekkert grín, heldur alvörumál. Og eiginlega hef ég líka helzt viljað fá plássið sem er ónotað á veggjunum í Þjóðminjasafninu. Það er undur og ósköp hvað Íslendingar hafa efni á að fara illa með pláss.
(1959/1963)
Samtal við Þorvarð Jón Júlíusson
Þorvarður Jón Júlíusson, framkvæmdastjóri Verzlunarráðs Íslands, er hæglátur maður og lætur ekki mikið yfir sér. Jafnvel mætti orða það svo, að margir menn aðrir væru hermannalegri en hann. Samt á Þorvarður Jón Júlíusson að baki sér merka sögu. Hann tók virkan þátt í andspyrnuhreyfingunni dönsku á styrjaldarárunum og gat sér þá góðan orðstír.
Í upphafi samtals okkar komst Þorvarður Jón að orði eitthvað á þessa leið:
“9. apríl 1940 verður mér ávallt minnisstæður. Ég hafði komið til Danmerkur haustið 1937 að nema hagfræði við Árósaháskóla og hugðist ljúka námi í Danmörku. Innrásardaginn fór ég snemma á fætur, því ég þurfti að ljúka ákveðnu verkefni, en rétt um það bil sem ég snaraðist fram úr rúminu, heyrði ég gífurlegan flugvélagný, hljóp út að glugganum og horfði út og sá að þýzkar flugvélar flugu mjög lágt yfir Árósaborg og vissi þá auðvitað að eitthvað væri í aðsigi. Í morgunfréttunum heyrðum við tilkynningu frá þýzku herstjórninni þess efnis, að Danmörk hefði hætt allri mótspyrnu og landið væri hertekið.
Þegar málum var svo komið, datt mér auðvitað fyrst í hug, hvort ekki mundi vera möguleiki á að komast heim til Íslands, en það reyndist ekki vera, svo ekki var annað að gera en bíða og þrauka með dönskum.
Nokkrum klukkustundum eftir að flugvélarnar höfðu flogið yfir Árósaborg komu herfylki inn í borgina á bifhjólum og brynvögnum, lögðu undir sig herbúðirnar og tóku borgina. Síðar kom mest allur heraflinn með skipum, eins og kunnugt er. Ekki sá ég nein ofbeldisverk framin á þessum fyrstu innrásarstundum, en síðar var deginum ljósara að það voru engir herskarar himnanna, sem höfðu lagt undir sig Danmörk; smám saman varð mér ljóst, að samvizku minnar vegna gæti ég auðveldlega tekið þátt í andspyrnuhreyfingunni, þó útlendingur væri. Ofbeldið var hvarvetna áþreifanleg staðreynd. Ég sá fólk skotið niður skammt frá mér þar sem ég stóð á götunum, og hvað lítið sem út af bar var ofbeldishneigðin í fyrirrúmi. Það var því síður en svo með hálfum hug að ég svaraði játandi þegar í stað, er til mín var leitað og ég beðinn að starfa fyrir andspyrnuhreyfinguna að því að útbreiða blöðin Frit Danmark og Morgenbladet.”
Ég spurði Þorvarð Jón, hvað honum væri eftirminnilegast frá stríðsárunum, og svaraði hann því til að það mundi vera loftárás Breta á höfuðstöðvar Gestapos í Shellhúsinu í Kaupmannahöfn.
“Ég var áhorfandi að þesari árás,” sagði hann, “því þá vann ég hjá verðlagsstjórninni dönsku og hún hafði skrifstofur í húsi andspænis Shellhúsinu, og milli þessara tveggja bygginga voru aðeins gata og allstór skemmtigarður. Fyrst heyrði ég í flugvélunum, sem flugu mjög lágt yfir. Ég hraðaði mér að glugganum og horfði út, og áður en varði féllu sprnegjurnar á húsið og það blossaði upp með þungum þrumugný. Þá voru gefin loftvarnarmerki, og leið yfir konu sem starfaði í skrifstofu okkar og hafði horft á árásina, og við urðum að bera hana niður í kjallara. Látunum linnti ekki allan daginn, því eftir loftárásina upphófst mikill bardagi milli Þjóðverja og andspyrnuhreyfingarinnar, en þeir síðar nefndu reyndu að ná fögnum sem geymdir voru í Shellhúsinu og tókst að ná mörgum góðum mönnum. Ég vissi það svo ekki fyrr en seinna um kvöldið, að ein brezku flugvélanna hefði hrapað á franskan barnaskóla í námunda við Shellhúsið, og þar hefðu mörg börn látið lífið.
Annar dagur er mér ógleymanlegur frá Danmerkurdvölinni á þessum árum, það var þegar fréttin um uppgjöf Þjóðverja barst út. Þá þusti fólkið niður til Amalienborgar. Þá sá ég danska gleði í öllu sínu veldi - meiri gleði eða fögnuð hef ég aldrei séð hvorki fyrr né síðar. Þá var ekki aðeins glaðzt með brosi, hlátri og handapati, heldur einnig með tárum.”
“Í hverju var þitt hlutverk fólgið í andspyrnuhreyfingunni?”
“Fyrstu árin fór ég á tiltekinn stað og hitti þar kunningja minn, sem hafði meðferðis pakka með óheftum blöðum af Frit Danmark sem var eitt af málgögnum andspyrnuhreyfingarinnar. Ég fór svo með þennan pakka og átti að sjá um að láta hefta blöðin, og til þess fékk ég hóp af dönskum kunningjum. Að verkinu loknu var pakkanum skilað aftur vandlega merktum, venjulega í geymslu í einhverri járnbrautarstöð og þangað sótti hann einhver sem ég aldrei sá. Það var gert til að við þyrftum ekki að falla í freistni, ef hlekkurinn brysti síðar meir og við yrðum handteknir; þá gátum við sagt eins og var að við hefðum aldrei séð þennan eða hinn og þekktum hann ekki. En sá sem afhenti mér pakkann var allan tímann sami maðurinn. Hann hringdi í mig og sagði mér, hvenær ég ætti að hitta sig og hvar. Hann gekk undir dulnefni og kynnti sig með því: “Geturðu hitt mig í kvöld”, sagði hann og síðan spann hann kannski upp einhverja sögu eða fór að tala um viðskiptamál við mig í símann, en ég skildi við hvað hann átti. Venjulega hittumst við svo á einhverjum stað langt úti á Friðriksbergi. Þangað komum við á tilsettum tíma. Ég tók við pakkanum og setti hann á bögglaberann á hjólinu og fór með hann stundum heim til mín, stundum til einhvers annars í hópnum, og þar voru blöðin heft saman. Það tók venjulega þrjá eða fjóra tíma, enda var pakkinn þykkur og blöðin mörg.
Ég þekkti vel þann sem hringdi í mig, því hann var skólabróðir minn í Kaupmannahafnarháskóla og við vissum ágætlega hvor um annars skoðanir, gátum því auðveldlega treyst hvor öðrum. Hann var með skegg eins og margir aðrir á þessum tímum, til að villa á sér heimildir. Við hittumst úti á götu, þar sem enginn átti að þekkja okkur. Þessi maður heitir Johannes Dragsdahl, og er nú að ég held prestur í heimalandi sínu. Hann kallaði sig Jens Munk, það var dulnefni hans. Hann var rúmlega tvítugur maður eins og ég. Mitt dulnefni var Gelsted. Annars kölluðu félagar mínir í andspyrnuhreyfingunni mig oftast gælunafni mínu, Julle.”
“Og þetta hefur gengið?”
“Já, allt gekk þetta að óskum. Þessu fór fram á þennan hátt, meðan ég var í Kaupmannahöfn á árunum 1942 og 1943, en svo tók ég virkari þátt í andspyrnuhreyfingunni þegar ég kom aftur til Hafnar frá Árósum í janúar 1944. Þá vann ég við Morgenbladet og var sú starfsemi mun hættulegri.
Ég fór til Árósa 1943 og tók þar hagfræðipróf, en ástæðan til þess að ég var í Kaupmannahöfn var sú að ég vildi einnig sækja tíma við Kaupmannahafnarháskóla. Þá vann ég að prófritgerð og hafði betri aðstöðu til þess með því að vera í Höfn. Og í Kaupmannahöfn kynntist ég Jens Munk og öðrum félögum mínum í andspyrnuhreyfingunni.”
“Hvaða efni var í Frit Danmark?”
“Það voru fréttir um gang styrjaldarinnar og ýmsar leiðbeiningar og áskoranir til almennings. Þessi ólöglegu blöð voru mest lesnu blöðin í Danmörku um þessar mundir, því á öðrum var ekki mark takandi. Góð blöð eins og til dæmis Berlingske Tidende eða Politiken voru undir ströngu eftirliti og mjög óáreiðanleg er óhætt að segja. Útgáfunni á Frit Danmark var hætt eftir styrjöldina. Information er eina blað andspyrnuhreyfingarinnar, sem enn er gefið út.”
“En Morgenbladet?”
“Það var einnig ólöglegt blað, gefið út af Dansk samling, sem var andspyrnuflokkur undir forystu Arne Sörensen, en hann varð ráðherra í fyrstu stjórn Danmerkur eftir styrjöldina. Ég kynntist honum ekki persónulega, en að prófi loknu, vann ég á verðlagsskrifstofunni undir stjórn Niels Bankes, og kynntist honum vel. Hann var einn af forystumönnum Frelsisráðsins, sem stjórnaði andspyrnuhreyfingunni og fólk leit á sem stjórn landsins síðustu mánuðina. Ég hafði auðvitað ekki, fyrst framan af, hugmynd um að hann væri í ráðinu, en mig fór að gruna ýmislegt, þegar hann kallaði mig inn til sín einn góðan veðurdag og segir við mig: “Landi yðar, Jörgen Höberg-Petersen, hefur verið handtekinn af Þjóðverjum og settur í fangelsi.” Auðvitað fékk þetta mikið á mig, því Villi var vinsæll maður og ég kynntist honum dálítið, en þó miklu betur síðar, því konan mín og hann eru systkinabörn. Hann var sonur Bíó-Petersens eins og þú kannski veizt. Ástæða þess að hann var handtekinn var sú, að hann notaði kvikmyndahús sem hann átti úti á Amager, til að sýna ólöglegar myndir sem smyglað var frá Bretlandi.”
“Vissi Banke að þú varst í andspyrnuhreyfingunni?”
“Nei, ekki held ég að hann hafi vitað það, menn reyndu að vita sem minnst um náungann.”
“Varstu stundum hræddur eða kvíðinn vegna þessa starfs í andspyrnuhreyfingunni?”
“Nei, það var ég yfirleitt ekki. Kannski skimaði maður stundum ósjálfrátt í kringum sig þegar pakkinn var afhentur, en ég held ég hafi aldrei orðið hræddur þegar ég hjólaði með hann eftir götum Kaupmannahafnar, enda aldrei nein sérstök ástæða til. Ég þóttist ekki vera berskjaldaður, ef Þjóðverjar hefðu hendur í hári mínu. Ég hafði nefnilega sögu á takteinum: að ókunnugur maður hefði stöðvað mig og beðið mig um að fara með þennan pakka inn á járnbrautarstöð, ef ég ætti leið í bæinn. Maður huggaði sig við slíkar bollaleggingar, ef til tíðinda drægi.”
“Hvernig stóð á því að þú komst í kynni við andspyrnuhreyfinguna?”
“Það stóð þannig á því, að Jens Munk tók mig einhverju sinni tali niðri í Háskóla og sagði: “Andspyrnuhreyfingin hefur beðið mig að spyrja þig, hvort þú vildir ekki starfa fyrir hana. Mér hefur verið falið ákveðið verkefni, og þú gætir hjálpað mér við það.” Ég bað hann að skýra út fyrir mér í hverju verkefnið væri fólgið, og þótti mér það á engan hátt stórvægilegt, og tókst það á hendur þegar í stað. Við Munk þekktumst vel eins og ég sagði þér, og vissum báðir hvar hinn stóð. Þó ýmsir Íslendingar hefðu gert bródalíur í Danmörku á þesum árum, var síður en svo að andspyrnuhreyfingin vantreysti mér vegna þjóðernisins.”
“Varstu vopnaður við þetta starf þitt?”
“Nei, ég var ekki vopnaður fyrr en síðar, þegar ég fór að vinna fyrir Morgenbladet”. Sú vinna fór að mestu leyti fram í prentsmiðjunni sjálfri. Útgáfa blaðsins var allumfangsmikil er óhætt að segja. Þegar ég kom til Hafnar aftur 1944, var ég beðinn um að aðstoða við hana vegna fyrri afskipta minna af útbreiðslu Frit Danmark. Prentsmiðjan var staðsett í miðbæ Kaupmannahafnar eða nánar tiltekið í hverfunum milli Striksins og Amager. Prentsmiðjan var á neðstu hæð í allstóru húsi, en vel breitt fyrir alla glugga og ekki látið of mikið bera á því að þar væri unnið á kvöldin. Ég vann í prentsmiðjunni að loknu starfi mínu á verðlagsskrifstofunni. Á yfirborðinu var ekki annað að sjá en prentsmiðjan sinnti aðeins venjulegum störfum, en þegar nánar var að gætt, var sérstök deild hennar ætluð Morgenbladet og þar var unnið af mikilli leynd og varúð, en þó var djarft teflt eins og oft var undir lokin, þegar tók að hilla undir úrslitin.
Ég vann að ýmsum störfum þarna í prentsmiðjunni, en þó hafði ég einkum með höndum brot blaðsins eða heftingu, sem fór að mestu leyti fram í prentsmiðjuni sjálfri. Þarna unnu nokkrir menn, og voru flestir þeirra hinir sömu og höfðu annazt þetta starf með mér fyrr á árum. Nú var maður hættur að hugsa um sögu til að segja Þjóðverjunum ef þeir rækju inn nefið, enda var komin skammbyssa í vasann til trausts og halds. Ég þurfti þó, sem betur fer, aldrei á henni að halda. Þegar ég fór heim eftir stríð með fyrstu ferð Esju, sem var send til Danmerkur gagngert til aðsækja okkur, komu rannsóknarmenn frá brezku herstjórninni um borð til að athuga farþegana. Þá var ég auðvitað með skammbyssuna í farangrinum og ætlaði að fara með hana heim að geyma hana sem minjagrip, en til að losna við öll óþægindi, fleygði ég henni í sjóinn. Þannig varð hún viðskila við mig.
Kvíðinn og áhyggjurnar vöndust af mér, og mér þótti ekkert orðið sjálfsagðara en ganga niður í prentsmiðjuna og taka til hendi. Við unnum tvö, þrjú kvöld í viku og stundum nokkuð lengi frameftir. Aldrei varð ég var við að Þjóðverjar veittu mér eftirför, þegar ég fór úr eða í vinnu, og fátt í starfi okkar sem Ian Flemning hefði getað gert sér mat úr. Og þó:
Þegar við höfðum lokið störfum í prentsmiðjunni kvöld eitt, voru miklar viðsjár við brýrnar út á Amager, þar sem ég bjó og stórhættulegt að fara yfir þær. Floksforingi andspyrnuhreyfingarinnar í prentsmiðjunni fékk mér lykil að íbúð í Breiðgötu og sagði við mig: “Þú skalt gista í nótt í þessari íbúð, það er öruggara fyrir þig.”
Þegar ég kom að Breiðgötu 10, opnaði ég íbúðina og gekk inn án þess að kveikja ljós. Hún var mannlaus. Ég lagðist upp í dívan í stofunni, örþreyttur, og von bráðar var mér runnið í brjóst. Ég vaknaði aftur, áður en bjart var af degi, og fór þá að skimast um í íbúðinni. Það fyrsta sem ég rek þá augun í er málverk af íslenzkum hestum og íslenzkum fjöllum, sem héngu í stofunni. Mér varð hverft við og gat ekki áttað mig á ástandi mínu, hvort heldur ég var staddur í draumi eða vöku. Svo sofnaði ég aftur.
En þegar bjart var orðið af degi vaknaði ég loks af svefni hinna réttlátu, glennti upp augun og sjá! Á gólfinu var hrúga af hjálmum og rifflum og á öllum veggjum íslenzk málverk merkt: Jón Stefánsson. Þá var mér ljóst að þetta var íbúð Jóns, og fylltist þakklæti fyrir húsaskjólið. En ég fékk aldrei tækifæri til að þakka honum í lifanda lífi.”
(1965)
Sir John Betjeman á Íslandi
Við sátum inni í stofu brezku sendiherrahjónanna að Laufásvegi 33 og spjölluðum um Íslendinga sögur þegar sá dularfulli atburður gerðist að sódavatnsflaska sem stóð á borði í einu horninu ásamt öðrum flöskum sprakk með háum hvelli svo við hrukkum allir við, sendiherrann, Sir John og ég. Sendiherrann stökk upp úr stólnum, gekk út að barnum og tók upp flöskuna.
“Var þetta skothvellur?” spurði Sir John. “Nei,” svaraði sendiherrann og sýndi okkur flöskuna sem var enn með tappanum í þótt sprungin væri.
Sir John var auðvitað þakklátur forsjóninni fyrir að hávaðinn skyldi ekki hafa stafað af skotárás á brezka sendiráðið, en ég var ekki jafn þakklátur, vissi að það hefði auðvitað verið út í hött að ráðast á sendiráð svo friðsamrar og vinsamlegrar þjóðar: Þorskastríðnu var ekki einasta lokið, það var einnig löngu gleymt.
“Ég hef aldrei upplifað þetta áður,” sagði sendiherrann. Það höfðum við Sir John ekki heldur gert. Og auðvitað sáum við allir eftir sódavatninu. Ekki yrði það notað út í skozka wiskíið sem beið þess í stórum flöskum á borðinu. Það var leiðinlegt.
Sendiherrann var ekki lengi að finna skýringu á þessum atburði, og þar sem hún var af dularfullum toga spunnin sættum við Sir John okkur vel við hana. Kem ég að skýringu sendiherrans síðar.
Ég þarf ekki að taka fram að auðvitað var þetta brezka skáldið Sir John Betjeman (síðar poet laureata) sem sat þarna andspænis mér og reyndi að leysa eins greiðlega úr spurningum mínum og hann frekast gat á þeim stutta tíma sem við höfðum til umráða. Hann var nýkominn úr heimsókn til Bessastaða þar sem hann skoðaði kirkjuna - og hvernig var hægt að ætlast til að hann yrði minna en klukkustund lengur en gert hafði verið ráð fyrir. Á Bessastöðum er ekki komið að tómum kofunum þegar fornminjar eru annars vegar. Og gömul hús og fornminjar eru ekki sérfag eða fræðigrein Sir Johns, þótt hann hafi margt um þau efni skrifað, heldur ástríða. En hrifning hans kemur oft á óvart. Hann sér hús eins og persónur. Þegar hann gekk inn í háskólann sagði hann: “Þetta er stórkostlegt, en fremur ógnvekjandi.” Hann hreifst af gömlu húsunum við Tjörnina, horfði lengi á Glaumbæ. Reykjavíkurapótek hafði mikil áhrif á hann, en þegar hann horfði upp eftir turni Hallgrímskirkju sagði hann eftir nokkra þögn: “En hvað vinnupallarnir eru fallegir!”
Og þarna sátum við nú og spjölluðum um Íslendinga sögur þegar sendiherrann kom inn. Skáldið var eitthvað að minnast á það að Íslendinga sögurnar hefðu ekki sent hann hingað norður né neinn annnar. “Það neyddi mig enginn til að koma,” sagði hann. “Ég kom af fúsum og frjálsum vilja. Það er langt síðan mig langaði að koma. Og ég vildi að ég fengi tækifæri til að koma aftur.”
Hann sagðist hafa verið í skóla þar sem William Morris stundaði nám, “og við urðum að lesa þýðingar hans á Íslendinga sögunum, ásamt Homer. En mér líkuðu ekki þýðingar Morris af því mér fannst þær meira í ætt við erfiðisvinnu en list. Ég hef alltaf haft miklu meiri mætur á sögum H.C. Andersens, þessum einföldu ljóðrænu frásögnum hans. Auk þess var sá sem kenndi okkur Íslendinga sögurnar óskaplega leiðinlegur og það hafði sín áhrif. Ég nefni ekki nafn hans því að ég gæti vel trúað honum til að vera enn á lífi. En ég hef alltaf haft mætur á Morris af sömu ástæðum og ég hef verið veikur fyrir Viktoríu-tímabilinu. Mér hefur alltaf þótt hann gera skemmtilegt veggfóður, teppi, útsaum og glerglugga og haft áhuga á skreytingum hans. En þýðingarnar verkuðu á mig eins og hann segði við sjálfan sig: Nú er bezt að hvíla sig frá skeytingum og útsaumi - og þýða Íslendinga sögur í 20 mínútur!
Mér geðjast nú betur að þessum þýðingum hans en þegar ég var ungur. Ástæðan er sú að þær eru ekki á ensku. Og samt eru þær enska.”
Ég man ekki nákvæmlega hvenær í þessari frásögn sódavatnsflaskan sprakk, en mér er þó nær að halda að það hafi verið um það bil sem Sir John tók H.C. Andersen framyfir Íslendingasagnaþýðingar Williams Morris.
Og sendiherrann var ekki lengi að átta sig á þessu dularfulla fyrirbrigði. Hann sagði: “Þetta sódavatn er frá Agli Skallgrímssyni. Hann er ein helzta persóna íslenzkra sagna og það var hann sem bjargaði höfði sínu með því að yrkja Eiríki konungi lof og dýrð í Jórvík. Gosdrykkjaverksmiðjan heitir eftir honum.”
“Guð sé oss næstur,” sagði Sir John. “Hef ég sagt eitthvað sem ekki á við?”
“Egill hefur látið til sín heyra,” sagði sendiherrann.
“Ég hef ekki móðgað Íslendinga sögurnar, hvað þá persónur þeirra,” sagði Sir John brosandi, enda var hann augsýnilega farinn að hafa mikla ánægju af atburði þessum - og á áreiðanlega eftir að segja mörgum frá reynslu sinni af dularfullum fyrirbrigðum á Íslandi.
En ég fór að velta því fyrir mér hvað mundi gerast ef William Morris léti til sín heyra. Ég varð þess þó ekki var að Sir John hefði neinar áhyggjur af því. Þvert á móti fór hann að segja okkur að hann hefði þekkt dóttur hans. Hún hefði víst dáið úr flugvélahávaða. “Banamein hennar voru framfarirnar,” sagði Sir John Betjeman eins og til frekari skýringar á fyrirbrigðinu nútími.
Þegar sendiherrann lagði sódavatnsflöskuna aftur á borðið sá ég að skáldið skotraði augunum að þessu dularfulla horni stofunnar og bætti við: “William Morris er mjög lifandi í huga mínum. Og hann var stórkostlegt ljóðrænt skáld.”
Þar með var sá varnagli sleginn.
Mér varð minnisstætt það sem Sir John hafði sagt um flugvélahávaðann. Hann er kannski vikoríanskur í viðhorfi til margra hluta, en hann er ekki síður nútímamaður en önnur merk ljóðskáld þessarar aldar, þótt einhverjir hafi víst reynt að koma því orði á að hann sé gamaldags og ljóð hans jafnvel yfirborðsleg - og þá helzt vegna þess að þau eru skemmtileg eins og maðurinn sjálfur. Allt sem er skemmtilegt er eitur í beinum fólks af vissri tegund.
En á bak við einstæða kímni er djúp alvara, jafnvel þunglyndi, og a.m.k. þrá eftir glataðri æsku. Þeir sem heyrðu hann lesa upp í Árnagarði minnast þess kannski að hann gat þess gaumgæfilega, áður en hann las ljóð sitt um Miss Joan Hunter Dunn sem var að sögn hans “eins og túlípani” og vann með honum á stríðsárunum í upplýsingamálaráðuneytinu af öllum stöðum - að hann hefði eitt sinn verið ungur og grannur. Og jafnvel haft hár á höfðinu! Þegar hann sagði þetta breyttist fyndnin einhvern veginn í trega yfir horfinni æsku. Þessi tregi kom einnig vel fram í öðru ljóði, sem hann las í Árnagarði, Beside the Seaside - um Jennifer - sem var falleg í fyrra. Ekki lengur. Samt er hún Jennifer. Brosleg Jennifer.
Kímnin er ekki annað en gárurnar á yfirborði ljóðsins. Þær koma í veg fyrir að það sjái alltaf til botns:
For I am bald and old and green, segir hann í einu af fyndnustu ljóðum sínum, The Olympic Girl. Þar horfir þessi valkyrja niður á skáldið, og hann óttast ekkert fremur en hún hrifsi hann í faðm sér, þessi ímynd kvenlegs styrkleika. Fair tigress of the tennis courts, segir hann í The Olympic Girl, en Miss Joan Huter Dunn hafði einmitt verið með “tennis-girls hand!” Sagt hefur verið að Sir John hafi af einhverjum dularfullum sálfræðilegum ástæðum þörf fyrir að lýsa sjálfum sér “sem sigruðum aðdáanda stórra tennisleikandi kvenna og þrái að kremjast í vöðvamiklum örmum þeirra.” Í einu ljóðinu er slíkum kvenmanni jafnvel líkt við fjall.
Ég veit ekki hvort nokkurt samband er á milli þessarar aðdáunar á vöðvamiklu kvenfólki sem minnir á fjöll og þess hvernig hann hóf lestur sinn í Árnagarði: Hann gat þess að sér þætti leiðinlegt að halda áheyrendum sínum inni í svo fögru veðri og sagði um leið og hann benti á Esjuna sem blasti við í allri sinni látlausu tign að nær væri að allir horfðu út um gluggann og dáðust að útsýninu.
En hann komst ekki upp með það sem betur fer að beina athyglinni út um gluggann og enginn vildi þá stundina skipta á Esjunni og upplestri Sir Johns.
Í samtali okkar í sendiherrabústaðnum barst talið auðvitað að Auden. Þá heyrði ég ekki betur en hann segðist alltaf hafa öfundað Auden fyrir að hafa látið skáldskapinn sitja í fyrirrúmi, laus við að sjá fjölskyldu farboða. Hann hefði öfundað Auden af einbeitni hans “en ég hef alltaf verið upp á “lystisemdirnar”.” Sir John hefur lengst af orðið að skrifa greinar í blöð til að geta dregið fram lífið. “Ég hef aldrei viljað gera neitt annað en yrkja, en til þess hef ég orðið að vinna fyrir mér með öðru móti.”
Í samtali við Halldór Laxness minntist Sir John á þetta; að hann orti sér til gleði og hugarhægðar sem er víst ekki í tízku lengur. En ynni fyrir sér með því að skrifa greinar, halda fyrirlestra og koma fram í sjónvarpi. Halldór minnti hann á orð Dr. Johnsons: að það væru bara asnar sem skrifuðu fyrir annað en peninga! Sir John yrkir ekki fyrir peninga, heldur er það honum ásköpuð þörf. Sú eina innri gleði sem hefur fylgt honum frá blautu barnsbeini. Að þessu leyti eru þeir víst ekki mjög líkir Sir John Betjeman og Dr. Samuel Johnson. En á það hefur verið bent að þeir séu líkir að öðru leyti: í afstöðu sinni til dauðans. Hann sé þeim báðum svipaður ógnvaldur. Það gæti skýrt margt í kímni Sir Johns. Hún er huliðshjálmur þessarar ógnar. Hún gerir því síður en svo ljóð hans yfirborðsleg eins og sumir vilja vera láta. Þvert á móti dýpkar hún þau. Hún er járntjald tilfinninganna. Ætli við þekkjum þetta ekki úr íslenzkum skáldskap, Tómas, Steinn. Eða úr lífinu sjálfu. “Guð leggur aldrei meira á mennina en þeir þola,” hefur verið sagt. Því eru takmörk sett hvað hollt er að leggja á tilfinningar skáldsins. Ekki aðeins Sir Johns Betjemans, heldur allra skálda. Þannig verður kímnin, kaldhæðni eða hvað menn vilja kalla það ytra borðið á trega og söknuði og viðkvæmum tilfinningum, ef að er gáð.
Þegar Sir John sem hefur unun af að dveljast í gömlum húsum lætur konu eina ávarpa Drottin allsherjar í Westminster Abby í síðasta stríði og biðja hann að vernda brezka heimsveldið stenzt hann ekki þá freistingu að leggja henni þessi orð í munn í lokin:
And now, dear Lord, I cannot wait.
Because I have a luncheon date.
Samt hefur jafnvel einhverjum dottið í hug að fullyrða að Sir John sé finningasamur, jafnvel væminn. En honum hefur einmitt verið gefin sú náðargáfa í ríkari mæli en flestum öðrum að geta geymt tilfinningar sínar óspilltar í skel hversdagslegs volks svo að þær verði ekki að bráð hvaða steinbít sem er.
Dauðinn verður því ekki í ljóðum Sir Johns eins og opin gröf sem hvarvetna gapir við lesandanum. Kannski hann birtist fremur í þessu vöðvamikla kventígrisdýri sem hvarvetna virðist þess albúið að kremja þessa sköllóttu bráð, Sir John Betjeman. Ég veit það ekki.
En hitt veit ég að hann á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að ljóð hans seljist ekki: nú þarf hann ekki lengur að vera sá asni að yrkja fyrir gleði sína eina og ástríðu. Nú getur hann einnig ort fyrir peninga. Ljóðabækur hans koma út í 100 þúsund eintökum. Hann gæti vafalaust hætt blaðamennsku. En hann er fyrir lystisemdirnar!
Sagt hefur verið að Sir John sé einmani í hóp enskumælandi nútímaskálda dauðra sem lifandi. Ekki er þetta trúverðug fullyrðing þegar haft er í huga hve svokallaður modernismi er margbreytilegur. Sem betur fer á hann mörg andlit.
II.
Ég tek þá aftur upp þráðinn frá samtali okkar í sendiráðinu og spyr hann um T.S. Eliot og Ezra Pound.
“Það hefur verið fullyrt að þér yrkið eins og þessi skáld hafi aldrei verið til,” sagði ég.
“Það er alveg rétt,” svaraði Sir John, “en Eliot, eða Tom frændi, hafði geysileg áhrif á mig að því er varðaði rím og hrynjandi. Hann var betur að sér í hvorutveggja en nokkur annar. Mér geðjast að ljóðum Pounds sem sprottin eru úr austurlenzkum jarðvegi, en hann er of lært skáld fyrir mig. En Tom frændi var óvenjunæmur, skildi mjög vel tilfinningar annarra og hafði samúð með þeim. Hann var tryggur stuðningsmaður ensku biskupakirkjunnar eins og ég, auk þess með fyndnustu mönnum sem ég hef kynnzt. Ég var stundum að springa af hlátri þegar ég talaði við hann. Hann sagði brandara um sjálfan sig og fólk sem við báðir þekktum eða könuðumst við. En honum stökk aldrei bros. Og hann vildi láta menn halda að hann væri grafalvarlegur bankastarfsmaður.
Við vorum báðir miklir aðdáendur gamanþátta og grínsöngva á kvöldskemmtunum leikhúsanna, en slíkar sýningar voru vinsælar í Bretlandi eins og þér vitið. Ég hitti Tom frænda heima hjá honum nokkru áður en hann dó og við hlustuðum á plötur með grínleikurum, einkum Max Miller og George Robey. Robey brosti aldrei frekar en Eliot - en var jafn stórkostlega fyndinn. Nei, Pound og Eliot voru mjög ólíkir.”
Síðan fóru þeir sendiherrann að tala saman um Robey og Sir John fékk að heyra nýja tengdamóðursögu sem Robey hafði miklar mætur á. Þetta vakti auðvitað kátínu og varð til þess að Sir John lét til leiðast að reyna að segja mér skrítlu sem Eliot sagði honum og hafði gaman af að segja vinum sínum. En hún er kannski of brezk fyrir okkur, ég læt hana samt flakka því að hún sýnir okkur aðra hlið á Eliot en við erum vön að sjá:
Þegar Eliot kom til Englands frá Bandaríkjunum einhverju sinni sem oftar ákvað hann að vera við sýningu á leikriti sínu “Coctail Party” sem þá var verið að endursýna í London. Hann settist framarlega í salnum, og þegar hann var seztur leit hann í kringum sig. Enginn sat við hliðina á honum né í næstu sætum, en í nokkurri fjarlægð var fín frú og skoðaði sýningarskrána. Hún leit upp úr prógramminu og á Eliot og virti hann fyrir sér - “og þá þóttist ég þess viss að hún mundi tala við mig í hléinu.”
Það gerði hún líka. Hún vatt sér að honum og sagði: “Eruð þér ekki Richard Church, ljóðskáldið?” Eliot, sem var enginn vinur Church eða ljóða hans, svaraði: “Nei, en var ekki síðasta bókin hans nokkuð góð?” Svona brandara sagði hann aðeins vinum sínum sem skildu þá og gátu hlegið með honum.”
Ég spurði hvort Eliot hefði verið kennari hans í barnaskóla eins og ég hafði heyrt.
“Nei, en þegar ég var í einkaskóla frá 8-12 ára aldurs, var þar við kennslu geðugur, þögull, fölur, grannur maður, kallaður “the american master”, af því hann hafði komið vestan um haf. Þetta var T.S. Eliot. Um þetta leyti skrifaði ég hræðileg ljóð og vinur minn einn sagði mér að Mr. Eliot orti einnig ljóð. Ég tók því eitt ljóða minna, pakkaði því inn og sendi það til “the american master” með utanáksirftinni: The best of Betjeman! En Eliot var þá þegar orðinn mikill smekkmaður á ljóðlist og gætt þess vandlega að minnst ekki á þetta “bezta ljóð” Johns Betjemans. Ég hef alltaf haldið mínu striki. Erfiðleikar og aðfinnslur hafa ekki dregið úr mér kjark. Skáld ætlaði ég alltaf að verða. Ég lít ekki svo á að ég sé stórskáld, en ég hef verið heppið skáld.”
John Betjeman hefur minnzt þess, þegar hann sendi T.S. Eliot ljóðið. Hann segir:
“I wonder what he thought
he never says.
When now we meet across
the port and cheese.”
Hlutverk hans hefur ekki verið að bylta eða umturna. Þvert á móti hefur Sir John barizt fyrir því að halda í það, sem honum þykir einhvers virði. Hann er of viktoríanskur í hugsun og viðhorfum til að kasta öllu fyrir borð, sem á ekki upp á pallborðið nú á tímum. Þannig hefur hann varðveitt marga brezka dýrgripi í húsagerðarlist sem ella hefðu verið rifnir eða kastað á öskuhauga tízkunnar.
Skáldið Evelyn Waugh hefur sagt um áhuga hans á því að varðveita “gamla England”: “John Betjeman virðist hafa öðlazt þá einstæðu reynslu að hafa alizt upp í öllum bæjum Englands.”
Þegar ég minnti Sir John á þessi ummæli ætlaði hann ekki að trúa sínum eigin eyrum: “Nei, hefur hann virkilega sagt þetta?”
Á sama hátt hefur Sir John lengst af varðveitt rímið í ljóðum sínum, en sleppir því þó í síðustu bók sinni Summoned by Bells (1960), sem er eins konar sjálfsævisaga um bernsku og unglingsár hans “í órímuðu, bundnu máli” eins og dr. Alan Boucher senidkennari, kemst að orði í Lesbók. Ég hef því miður ekki séð þessa ljóðabók og gat því ekki fært hana í tal við sir John. En í Árnagarði hóf hann lesturinn með nokkrum eldri ljóðum sem fjalla um sjóinn. Þau lýsa lífinu við strendur Cornwalls þar sem hann dvaldist oft á sumrin og gerir víst enn. “Cornwall og Ísland eiga eitt sameiginlegt,” sagði hann, “sjóinn. Hann er valtastur vina.” Og þegar ég spurði hann um sjóinn í samtali okkar sagði hann: “Ég er ekki sjómaður. Og ég hef ekkert sérstakt dálæti á sjónum. Öldugangurinn kallar á sjóveiki. Og margir drukkna í sjónum. Ég held ég hafi aldrei hitt sjómann sem elskar sjóinn. En hann umgengst hann með virðingu - eins og hestinn sinn.
En ég var mikið fyrir klettana í Cornwall. Og klettarnir hér draga mig að sér. Ég verð að koma aftur einhvern tíma. Ekki endilega vegna Íslendinga sagnanna, heldur gömlu kirknanna ykkar. Ég verð að sjá þær. Það er stórkostlegt að sjá kirkjurnar í Færeyjum byggðar af lútherskum mönnum um 1830, en hefðu eins getað verið gerðar í Englandi á dögum Elísabetar drottningar. Það var þetta sem dró mig að Íslandi. Það er ógleymanlegt að sjá hvernig miðaldirnar hafa varðveiatzt í þessum húsum, ógleymanlegt að sjá hvernig gamall tími lifir í þessum húsum langt fram á síðustu öld. Í huga mínum er að mótast kenning um þessa þróun, sem ég þarf að koma frá mér.”
Hann leitar þess liðna. Hann hefur leitað þess víða, í Cornwall, á Orkneyjum, Hjaltlandseyjum og Færeyjum. Nú á Íslandi. Blóð hans hefur leitað norður. Hann hefur fundið miðaldirnar, en farizt á mis við æsku sína. Þar sem kýrnar voru áður á beit í Cornwall eru nú ferðamannasalerni. Þar sem bein spænskra sjómanna grófust í sandinum eða molnuðu við klettana deyja fuglar í olíubrák. Hann leitar stöðugt að því óforgengilega, leitar þess í ljóðum sínum. Leitar þess í gömlum húsum.
Það er því ekki undarlegt þótt hann leiti miðaldanna, flýi ferðamenn og dauða fugla í fjöruborðinu. Menn verða frægir, þeim er boðið í kvöldverð. Kaffi og koníak. Og þeir leita miðaldanna. Sandurinn er hinn sami, klettarnir hinir sömu. En saltur vindurinn leikur um grátt hárið á Jennifer.
En það er ekkert sem mælir á móti koníaki ef það er nógu gamalt.
Þessi eilífa leit. Öll skáld leita einhvers sem þau geta ekki fundið. Yrkja til að varðveita tíma, sem ella mundi glatast. Það voru hvorki kirkjur né önnur hús sem varðveittu íslenzkar miðaldir, heldur þau rit sem þá voru skrifuð. Og Sir John gerir sér góða grein fyrir þeim úrslitaáhrifum sem íslenzk fornrit höfðu á mótun þjóðarinnar. Hann kemur aftur að þessu atriði. Sódavatnsflaskan er gleymd. Egill Skallagrímsson er farinn að sætta sig við samtalið. Sir John segir mér frá færeyskri konu sem hann þekkir og kveðst hafa lært helztu atburði sögunnar af sagnakvæðum og dönsum löngu áður en hún varð læs eða skrifandi: “Þið hafið þetta í blóðinu,” fullyrti hann. “Hér norður frá hafið þið fengið ljóðið frá sögunum. Ljóðið er í hverjum manni, en það vita ekki allir af því. Það fær ekki útrás hjá almenningi í öðrum löndum nema þá helzt í barnavísum. Í Færeyjum sá ég fólkið dansa á götunum og syngja mörg hundruð ára gömul ljóð.
Ég hef alltaf horft norður, ég veit ekki af hverju. Á skólaárum mínum fór ég til eyjarinnar Mön af því ég þekkti engan sem hafði verið þar áður. Þá þekkti ég aðeins Cornwall og Írland. En á Mön var ekki keltnesk menning, heldur norræn. Síðan hef ég farið um flestallar eyjar hins forna norræna konungsdæmis. Og drukkið í mig andblæ þessarar norrænu menningar.
Það eigum við Auden sameiginlegt. Við vorum skólabræður í Oxford. Og við erum góðir vinir síðan. Hittumst sjaldan, en þegar við hittumst má ekki á milli sjá hvor okkar er glaðari yfir að vera til. Auden er mjög fyndinn, en samt ólíkur Tom frænda.
Louis MacNeice sem kom með honum hingað var með mér í skóla. Ævintýraleg persóna. Hann las þýðingar Williams Morris og ég held það hafi verið Louis MacNeice sem blés Auden í brjóst þrá eftir Íslandi. Annar maður hafði einnig mikil áhrif á hann í þá átt, Coghill kennari hans í Oxford sem hefur fært Kantaraborgarsögur Chaucers í nútímahorf. Nú hefur þetta verk verið fært upp sem söngleikur í London; og allt ætlar um koll að keyra af fögnuði.”
Ég sagði: “Mig langar að lokum að spyrja einnar spurningar. Þér dáið gamlan tíma, ekki sízt Viktoríutímabilið og viljið varðveita einkenni þess. Nú kemur æskan og vill að því er virðist umturna öllu. Hvað gerðist?”
“Það sem þér sögðuð.”
“Það sem ég sagði! Og hvað sagði ég?”
“Að æskan vilji varðveita sérkenni gamals tíma. Þá var fólk hvorki númer né vélmenni, heldur sjálfstæðar persónur. Hver með sínum blæ, sínum sérkennum. Og hver með sitt nafn. Æskan vill ekki umturna, hún vill finna það sem er einkennandi fyrir manninn.
Ég hef yndi af byggingum sem lyfta sál okkar til himins, en leggjast ekki á hana eins og farg. Unga fólkið vill varðveita nöfn og sérkenni. Það finnur að það eru margar hindranir á veginum. En hindranir geta einnig orðið til hjálpar. Kannski eru þær nauðsynlegar.
Gagnrýnendurnir heimtuðu af mér að ég hætti að yrkja, ég ætti að snúa mér að fyrirtæki föður míns. Ég neitaði og aflaði mér tekna með blaðamennsku. Þessi hindrun varð mér til góðs. Æskan hefur snúizt gegn vélmenninu; þessu nafnlausa ómanneskjulega fyrirbæri nútímaþjóðfélags.
Hún er staðráðin í að varðveita manneskjuna. En hún veit ekki hvað það er sem hún ætlar að varðveita.”
(1970)