« Dagbók árið 1990 | Main | Draugagangur í Fréttablaðinu »
miðvikudagur
okt.312007

Hugsað til Bernards, tilbrigði við gömul ljóð

 

Tilbrigði við tvö kvæði

 

Datt í hug að taka saman nokkrar athugassemdir vegna smákvæðis sem ég orti,þegar ég heyrði andlát Bernards Scudder,en það var birt með minningargreinum í Morgunblaðinu daginn sem hann var jarðsettur.. Kvæðið fjallar um þá ósk okkar að hann hefði fengið að lifa lengur,eða öllu heldur eins lengi og kostur væri,svo mikilvægt sem starf hans var fyrir íslenzkar bókmenntir,en það hafi ekki farið eftir; og þá tekin líkingin af tré sem stendur í skóginum og bíður þess það verði sagað og hverfi inní myrkviði næturinnar.

Ástæðan til þess ég hef áhuga á að skoða kvæðið er sú,að það er tilbrigði við tvö lítil kvæði sem fjalla um svipað efni; annað eftir Bjarna Hídælakappa,en hitt nýlegra eftir enska skáldið Philip Larkin.

Það er ekki tilvilju að ég skírskota í þessi kvæði.Annað er með fegurstu erindum í Íslendinga sögum,en þær kunni Bernard vel að meta,en hitt eftir samlanda hans og eitt merkasta skáld samtímans í Bretlandi.

Þetta litla minningaljóð sem ég kallaði Hugsað til Bernards,íslenzk kveðja, tók miklum breytingum og var í upphafi svona:

Við hefðum viljað að þessi dagur

væri lengur að líða

frá gulum viði í golgrænt (fyrst grænblátt ) haf,

en skáldið minnir á

að sagtarhljóðið þagnar

við sólarfall.

Þarna hef ég þegar í huga skírskotun í kvæði Larkins um sögina og gula viðinn í fögru kvæði Bjarna Hídælakappa í Eyrbyggju,en það hefst svona :Guls mundum vit vilja /viðar ok blás í miðli / grand

fæ´k af stoð stundum / strengs,þenna dag lengstan, o.sv.frv. (no 24 ) sem merkir : Við mundum vilja,að þessi dagur væri lengst að líða frá gulum viði í bláan útsæ......

En ég er ekki ánægður með þessa útgáfu mína og breyti erindinu,svo það verður :

Við hefðum komið

kvöld að lengri degi

frá gulum viði

í goluþreyttan ( verður svo grafardjúpan ) sjó,

en sagarhljóðið nálgast

við sólarfall

 

og nú er þögn

í þessum dimma skógi.

Ég er ekki heldur ánægður með þetta þó að vísanirnar skili sér og held áfram að yrkja kvæðið :

Við hefðum kosið

kvöld að lengsta degi

frá gulum viði

í grafardjúpan sjó

en sagarhljóðið fylgir

sólarlagi

 

og nú er þögn

við þennan myrka skóg.

Þetta er nærri lagi,en samt er ég ekki ánægður,ekki fyrr en smiðshöggið er komið og kvæðið verður eins og það var birt með minningargreinum í Morgunblaðinu,nafnlaust,daginn sem Bernard var jarðsettur frá dómkirkjunni :

Við hefðum kosið

kvöld að lengstum degi

frá gulum viði

í grafardjúpan sjó

en sagarhljóðið fylgir

sólarlagi

 

og nú er þögn

við þennan myrka skóg.

Þess má geta að lokum að axarkvæði Larkins birtist í The North Ship,1945,og er svohljóðandi:

This is the first thing

I have understood :

Time is the echo of an axe

Within a wood.

Larkin var fæddur í Kantaraborg eins og Bernard og alinn upp á erfiðu heimili,átti sinnulítinn föður og móður sem lifði í minningu hans“ eins og eitthvað sem ég átti undir öllum kringumstæðum að forðast að hitta aftur “. Hjónaband foreldra hans sannfærði hann um að fólk ætti ekki að rugla saman reytum sínum og það væri nauðsynlegt að taka börn af foreldrum sínum “ þegar þau eru á unga aldri”.

 

Jónas og flugstjórinn

-næturský

Ástarstjörnu

yfir Hraundranga

skýla næturský....

(1.erindi)

...ástarstjarna

yfir Hraundranga

skín á bak við ský

(10.eða næst-

síðasta erindi).

Ámundi H(uxleysson) Ólafsson flugstjóri hefur mikið hugsað um ljóð Jónasar. og oft talað við mig um þau.Nú siðast benti hann mér á hvernig náttúrufræðingurinn lætur skáldið leika sér með skýkjamyndanir í Ferðalokum og finnst mér athugasemd hans bæði fróðleg og nýstárleg.

Ámundi benti á að í upphafserindinu notar skáldið næturský og segir að þau skýli ástarstjörnunni. Þá glaðnar himinn og sjónstjörnur blika (Jónas breytti stjörnum í sjónstjörnur oig augljóst hvers vegna.En undir lokin skín ástarstjarnan á bak við ský; semsagt sést ekki,enda er ævintýrinu lokið.

En þó að næturský skýli stjörnunni í upphafi gerir það ekkert til,því að næturský eru öðruvísi en venjuleg ský, þau eru í um 100þús. feta hæð og sjást stjörnur í gegnum þau,því þau verka eins og grisjur,gagnsæjar og því getur skáldið séð stjörnuna gegnum þau,en ekki venjuleg ský síðar.

Á þessu er mikill munur,segir Ámundi..Næturský sjást aðeins á nóttunni,þegar sólin lýsir þau upp,enda eru þau líkastil ljósar ísagnir.; upplýstir krystalar.En venjuleg ský eru ekki gagnsæ undir lok kvæðisins,þá er öll birta horfin og stjörnurnar líka.Þá er ekkert nema sorti,eða dauði.

Rétt umhverfi saknaðar.,

Í frumngerð endurtók Jónas upphafið ( um ástarstjörnuna,Hraundrangann og næturskýið,en breytir því síðar í handriti sínu og setur skín á bak við ský í staðinn,auðvitað einnig af augljósum ástæðum ).

Jónas var vísindamaður , gerði sér grein fyrir muninum á þessum náttúrufyrirbrigðum og skáldið nýtir sér þessa þekkingu til hins ýtrasta í kvæðinu.

Og dýpkar það fyrir bragðið.