« Viðtökur | Main | Árið 1998 (seinni hluti) »
miðvikudagur
ágú.202008

Viðbrögð og andsvar

Svofelld umsögn birtist í Morgunblaðinu í dag, 20.ágúst og finnst mér rétt að setja hana á heimasíðuna mína. Viðbrögð margra sem ég met mikils hafa verið með ágætum, annarra síðri. Sumir hafa gert sér far um að misskilja eitthvað sem þeir hafa tekið út úr textanum, en mér dettur ekki í hug að fara að þrasa um slíkt,t.a.m.áhyggjur ráðamanna á sínum, tíma af því,ef allir Íslendingar sætu ekki við sama borð, þegar heilsan bilar. Sagt er í dagbókinni að ráðherrar ætli að kanna það við Tryggingastofnun, eins og eðlilegt var án þess neitt annað lægi að baki, en æsingamenn sleppa öllu slíku,það hentar ekki í slagnum!

Annað hef ég ekki um þetta að segja í bili, enda veit ég af gamalli reynslu að illt er að egna óbilgjarnan..

En Morgunblaðsklausan er svohljóðandi :

„ENGUM hefur dottið í hug að ég væri að skrifa dagbækur sem bókmenntir. Það er eitt helsta markmið mitt," sagði Matthías Johannessen, skáld, rithöfundur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Dagbókarfærslur sem hann hefur birt á vef sínum, matthias.is , hafa hafa vakið mikla athygli. Þúsundir manna hafa heimsótt vefinn undanfarna daga.

„Sumir hafa afgreitt þessi dagbókarskrif mín flausturslega. Kafað grunnt. Enda kannski skiljanlegt því þetta eru nokkur þúsund blaðsíður í bókarformi sem hafa verið birtar nú þegar," sagði Matthías. „Það sem fjölmiðlarnir hafa tekið út úr textanum er ekki nein aðalatriði í dagbókum mínum. Jafnvel að mínu mati heldur smávægilegt í þessum skrifum. Út úr sumu hefur verið snúið eins og allir sjá sem lesa dagbækurnar vel. Ég er ekki að reyna að ná mér niður á einum eða neinum heldur að upplifa samtímaviðburði með þessum samtölum við sjálfan mig."

Matthías sagði að af þeirri mynd sem dregin hefur verið upp í fjölmiðlum af dagbókunum megi ætla að þær fjalli ekki um neitt annað en pólitískt dægurþras. Það er fjarri sanni.

„Dagbækurnar fjalla ekki síst um menningu, bókmenntir og alls kyns hugleiðingar. Þá eru einnig birt ljóð sem ekki hafa verið birt annars staðar. Ef einhver telur að það sé fengur að ljóðum mínum þá hlýtur að vera meiri fengur að þessum atriðum heldur en því sem fjölmiðlarnir hafa verið að slá upp," sagði Matthías.

Nýbirtar dagbækur Matthíasar eru frá árunum 1996 til 1998 og fáeinar færslur komnar frá 2001. Hann kvaðst eiga eftir að birta fleiri dagbókarfærslur frá árunum 1999 til 2001. Matthías sagði að dagbækurnar endurspegli hugmyndir hans og afstöðu. Lýsi honum sjálfsagt betur en öðrum.

„Þar er auðvitað ekki neinn endanlegur sannleikur né ljósmynd af þeim sem ég nefni. En sýnir þó hvernig ég upplifi viðmælendur mína. Þetta eru mín viðbrögð við umhverfinu. Mín sagnfræði. Hugverk mín sem ritstjóra og þó einkum rithöfundar og þá væntanlega eitthvað fróðlegar sem slíkar. Hver og einn sér umhverfið sínum augum án þess að lýsingar hans þurfi að vera ósannar, eins og sumir eru að reyna að koma inn hjá fólki."

Matthías telur fjarri því að hann sé að brjóta trúnað við viðmælendur sína með því að vitna í gömul samtöl.

„Það sem var trúnaður fyrir áratug eða meira er enginn trúnaður í dag. Ef svo væri þá hefðum við aldrei eignast neina sagnfræði," sagði Matthías. „Sumir telja að ég hafi brotið trúnað með því að birta þetta núna en gagnrýna svo okkur Morgunblaðsmenn fyrir að hafa ekki birt þetta á sínum tíma. Það gerðum við auðvitað af því að það var trúnaðarmál á þeim tíma. Nú hefur þetta allt fyrnst. Í staðinn fyrir að leggja þetta til hliðar og birta þegar við erum öll dauð þá fannst mér ég ætti að setja þetta á Netið núna svo að menn sæju hvernig ég upplifði mitt umhverfi sem ritstjóri og rithöfundur. Og gætu þá veitt sín andsvör eins og einhverjir hafa gert." gudni@mbl.is


Matthías