« Hanna Ingólfsdóttir Johannessen: Sonakveðja | Main | Hanna Johannessen og hjartablóm elskunnar - sigurdurarni.annall.is »
laugardagur
maí162009

Hanna Johannessen 1929-2009 - örnbárður.annáll.is

Við útför Hönnu flutti ég stutt minningarorð við upphaf athafnarinnar en meginræðuna flutti starfsbróðir minn dr. Sigurður Árni Þórðarson og birtir hana á sinni vefsíðu.

Textinn kemur hér á eftir og ennfremur upptaka sem hægt er að hlusta á.

Minning
Hanna Johannessen
1929-2009

Í nafni Guð, föður og sonar og heilags anda. Amen.

Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér,
vaka láttu mig eins í þér.
Sálin vaki þá sofnar líf,
sé hún ætíð í þinni hlíf.

Friður Guðs sé með okkur öllum sem hér komum saman til að kveðja Hönnu Johannessen, einstaka konu og frábæra, kveðja og ekki síður þakka fyrir allt það sem hún var okkur.

Neskirkja var hennar annað heimili. Hér fann hún lífi sínu farveg. Kirkjan er oss kristnum móðir, segir í góðum sálmi. Kirkjan nærir okkur, verndar og leiðir með starfi sínu og trú á hið stóra samhengi. Kirkjan er oss kristnum móðir. Þetta vitum við og þekkjum sem hér störfum en við vissum líka að hún Hanna var okkur ennfremur sem móðir. Hún kom hingað oft í viku hverri og lét sig sjaldan vanta í helgihald. Hún þjónaði með okkur prestunum um árabil, útdeildi sakramentinu hvern helgan dag í mörg ár. Hún var nánast eins og hluti af altarinu, þessi tindilfætta, netta kona, sem gat gengið upp og niður kórþrepin á ótrúlega háum hælum með kaleik í höndum án þess að fipast nokkru sinni.

Hanna, svo nett og létt sem hún var, var þó föst fyrir, orð hennar vógu þungt. Ég hef þekkt a.m.k. tvær litlar litlar konur um ævina, en báðar ótrúlega stórar. Hanna var önnur þeirra. Svo var hún eiginlega eterísk, yfir jarðnesk, eins og fram kemur í ljóðum Matthíasar. Hún birtist með einum og öðrum hætti á bak við allt hjá honum enda þau helftin af hvort öðru í einlægri, djúpri, gagnkvæmri ást. Hún var yfir jarðnesk, næstum óefnisleg en um leið svo ótrúlega jarðnesk, fjallkona, fædd og fóstruð á Fjöllum, tengd háleitum hugsjónum lands og lýðs og um leið svo næm á púls mannlífsins og neyð náungans. Hún lét um sig muna á mörgum sviðum: lagði föngum lið í Vernd, börnum í gegnum Barnaverndarnefnd; hún var einlægur Sjálfstæðismaður og svo var hún kirkjunnar barn. Hún spannaði allt sviðið frá háfjöllum niður í fjöruborðið í Vesturbænum, sveit og borg sameinuðust í henni. Svo var hún malbikskona með bíladellu sem fékk „kikk“ út úr því að finna aflið í góðum bíl og horfa á Fromúluna. Þegar hún trúði mér fyrir áhuga sínum á kappakstri spurði ég hana hvernig hún gæti horft á tímatökuna á nóttinni og mætt í messu um morguninn. Uss, það er ekkert mál, ég tek þetta bara upp og horfi á það þegar messan er búin. Messan og malbikið kölluðust á, bænirnar sem stíga upp til Guðs sem reykelsi og reykurinn úr dekkjum Schumachers og Raikkonens.

Hún var einstök manneskja og ég á henni mikið að þakka. Líklega væri ég ekki hér í embætti nema fyrir hennar atbeina og fv. formanns. Hún kunni þá mikilvægu list að aðgreina jafnan persónu og skoðanir fólks. Hún lét það ekki trufla sig þótt hún heyrði eitthvað héðan af prédikunarstóli sem gat hugsanlega stangast á við skoðanir hennar. Hún vissi að málfrelsi skiptir miklu og svo hitt að hver manneskja er dýrmæt í augum Guðs burtséð frá skoðunum og gengi dagsins.

Árum saman kom hún í kirkjuna á virkum dögum. Við heyrðum fótatakið berast um húsið, glaðlegar kveðjur ómuðu um kirkjutorg og ganga og svo birtist hún með brosið sitt, alltaf fín og vel til höfð, með varalitinn við höndina. Hún gaf sér tíma til að fá sér kaffitár, setjast inn hjá okkur prestunum, ræða málin, segja sögur, rifja upp gamla tíma. Svo var hún flogin heim til að hugsa um Matthías og fjölskylduna. Hún bar með sér birtu og vorblæ hvar sem hún fór, uppörvaði fólk og hvatti til góðra verka.

Hún átti einlæga trú en ræddi ekki mikið inntak hennar. Hún var ekkert að flækja málin með einhverjum guðfræðilegum pælingum. Hún kom vikulega í bænastundir í hádeginu á miðvikudögum og oft með bænarefni á miða eða munnlega. Hún trúði á mátt bænarinnar og bar hingað inn í helgidóminn í huga sér marga vini og líka vandalausa sem hún vissi að ættu um sárt að binda. Hún trúði. Hún bjó yfir innri skynjun sem hún flíkaði ekki en var hluti af trúartrausti hennar og lífsafstöðu.

Það er undarlegt til þess að hugsa að fótatakið hennar heyrist ekki oftar hér í kirkjunni, að hún sitji ekki aftur á þriðja bekk í fyrsta sæti til vinstri. Þar er nú blóm til að minna á hennar nærveru og tjá söknuð okkar. Missir okkar er mikill, missir þeirra sem hún starfaði með og fyrir, en stærstur er missir Matthíasar, sona hans og fjölskyldu allrar. Guð styrki ykkur og blessi í sorg og söknuði.

Hanna er bara horfin um stund úr þessum efnisheimi, þessari tilveru sem við nú gistum. En hún lifir í minningum okkar.

Hvernig eru englar? spurði barnið vitringinn. Honum vafðist tunga um tönn en sagði svo að þeir hefðu hugsanlega ekki líkama eða efnislegt form en kæmu fram í hlutverkum. Í þeim skilningi var Hanna engill, hún gegndi engilshlutverki. Og nú ég ætla að trúa þér fyrir hugsun sem læðist að mér. Ég er ekki frá því að hún hafi haft vængi.

Blessuð sé minning Hönnu.

Starfsfólk, sóknarnefnd og prestar Neskirkju þakka samfylgd. Sömuleiðis hefur sr. Jón Dalbú Hróbjartsson, prófastur, beðið fyrir þakkir fyrir 13 ára starf í héraðsnefnd prófastsdæmisins. 2. deild AA samtakanna, sem á heimastöð hér í Neskirkju þakkar Hönnu stuðning í áratugi. Sömuleiðis þakkar Hjálpræðisherinn samvinnu og stuðning Hönnu í áratugi.

Gestabók . . .

Erfidrykkja verður í safnaðarheimilinu . . .

Við erum hér til að þakka og gleðjast yfir góðu lífi Hönnu - þetta er útför og þakkarhátíð - og þá fer vel á því að syngja sálm Einars Benediktssonar sem lyftir okkur upp í himinhæðir.

Örn Bárður