« Hanna Johannessen og hjartablóm elskunnar - sigurdurarni.annall.is | Main | Á vígvelli siðmenningar IX. »
laugardagur
maí162009

Minningarorð: Hanna Ingólfsdóttir Johannessen

Hanna (skírð Jóhanna Kristveig) Ingólfsdóttir Johannessen var fædd á Grímsstöðum á Fjöllum 28. nóv. 1929, dóttir Ingólfs Kristjánssonar bónda á Grímsstöðum og Víðirhóli á Hólsfjöllum, Fjallahr. N.-Þing., síðast á Kaupvangsbakka í Eyjafirði, f. 10.sept. 1889, d. 9. jan. 1954, og k.h., Katrínar Maríu Magnúsdóttur, húsfreyju, síðast saumakonu á Akureyri og í Reykjavík , f. 13.okt 1895, d.17.mars 1978. Þau hjón eignuðust 15 börn. Hanna giftist Matthíasi Haraldssyni Johannessen þ. 26. júní 1953. Matthías er cand.mag. í íslenzkum fræðum , rithöfundur og ritstjóri Morgunblaðsins 1954–2001, f. 3.jan. 1930, foreldrar hans: Haraldur Matthíasson Johannessen aðalféhirðir Landsbanka Íslands, f. 5.apríl 1897, d. 13.des. 1970, og Anna Jóhannesdóttir Johannessen, húsmóðir, f. 2.nóv. 1900, d.15. júní 1983. Þau áttu þrjú börn. Synir Hönnu og Matthíasar eru Haraldur, f. 25. júní 1954 , lögfræðingur og ríkislögreglustjóri, og dr. Ingólfur, f. 17. feb. 1964, læknir og lektor við Edinborgarháskóla. Haraldur er kvæntur Brynhildi Ingimundardóttur hjúkrunarfræðingi, f. 15. feb. 1956, og eiga þau fjögur börn: Matthías, f. 6. des.1973, Kristján, f. 11. jan. 1985, Anna, f.7. júní 1990, og Svava, f. 28. ágúst 1995.

Hanna kom ung til Reykjavíkur, gekk í Iðnskólann og varð hárgreiðslumeistari. Hún rak eigin hárgreiðslustofu í Skólastræti á annan áratug. Hún gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum, einkum í mannúðar- og líknarmálum, og gekk m.a. snemma í Félagasamtökin Vernd, fangahjálp sem stofnuð var 1960, en fyrsta verkefni samtakanna var að halda jólafagnað fyrir einstæðinga og heimilislausa. Hanna starfaði með nefndinni frá upphafi, tók við formennsku Jólanefndar Verndar 1967 og gegndi því starfi til hinsta dags. Hún var kjörin heiðursfélagi samtakanna 2001. Hanna var skipuð í Barnaverndarnefnd Reykjavíkur 1982 og starfaði þar um margra ára skeið. Þá átti hún einnig sæti í Trúnaðarráði Hvatar, Félagi Sjálfstæðiskvenna, og gengdi formennsku þar um tíma. Hanna var kjörin í sóknarnefnd Nessóknar 1988 og gegndi þar varaformennsku til hinsta dags auk þess sem hún var safnaðarfulltrúi. Hún átti sæti í stjórn Hjálparstarfs Kirkjunnar og sat í stjórn Héraðsnefndar Reykjavíkurprófastsdæmis Vestra. Hanna var sæmd Riddarakrossi hinnar Íslensku Fálkaorðu af Vígdísi Finnbogadóttur forseta 17. júní 1993 fyrir störf að líknar- og mannúðarmálum.

Hanna lést á kvennadeild Landspítalans að kvöldi 25. apríl s.l. og fer útför hennar fram frá Neskirkju klukkan 15:00 í dag. Jarðað verður í Gufuneskirkjugarði.