« Ný ljóð | Main | Noregi blæðir »
miðvikudagur
ágú.172011

Á vegum seiðmanna

Hvem magter mig? Jeg dör först naar jeg vil
                                                          Thorkild Björnvig


Að sögn Snorra var Eiríkur kelda
bundinn við Skrattasker vegna fjölkynngi
seiðmanna sinna.

Og það flæddi að.

Um skeið hefur þetta verið hlutskipti
okkar og það flæðir að.

Enginn hefur bundið okkur
við þetta sker, nema sjálfskaparvíti
okkar sjálfra,
                          við erum
á flæðiskeri stödd, vorum 
í helgreipum seiðmanna
og fjölkynngi þeirra.

Eigum allt undir náttúrulögmálum.

Enn er þó sól með gíl
en úlfur ekki langt undan
og það tekur í fjötrana
þegar flóðið glefsar í þetta
framandi sker sem mátti
muna sinn fífil fegurri.

Lítum um öxl, horfum til þeirra
sem vissu að oft fellur sjór
yfir hlunna og lifðu af
í ljóðum eins og Geðfró, ort
úr arfleifðinni.

Þar munum við lifa af,
einungis þar.

Og í hreinsandi afli
náttúrunnar