« Arfleifðin og mánudagspistill | Main
þriðjudagur
maí012007

1.maí 2007

Viðbrögðin við matthias.is :

 

Viðtökurnar við heimasíðu minni voru miklar og ágætar.Á Lesbókargreinina Á vígvelli siðmenningar er víða minnzt og yfirleitt að góðu einu það sem ég hef séð.Um hana voru skrifaðar forystugreinar bæði í Fréttablaðið og DV.

Í þessum fjölmiðlum var þó enginn áhugi á neinu nema því sem ég hafði sagt um þetta svokallaða Baugsmál.

Það sagði sína sögu,en ástæðulaust að elta ólar við neitt af því.

Ég fylgist ekki með nafnlausum bloggurum,enda ekki ástæða til,ekki frekar en það hvarflaði að sæmilega uppdregnu fólki að lesa níðleggina í beinakerlingavörðunum í gamla daga. Þá bloggara sem skrifa undir nafni las ég auðvitað og þar eru ýmsir sem standa sig vel.Eru

lausir við hnútana og níðstrenginn í sálarskjóðunni. Margt er hægt að græða á skrifum slíks fólks,enda er það einatt í góðu jarðsambandi við grasrótina.

Og þó,og þó !

Eltingarleikurinn við Jónínu Bjartmarz út af ríkisfangi tengdadóttur hennar er engum til sóma og sýnir freistingar bloggsins.Þar voru á ferðinni beinakerlingar sem eru ekkert betri en vondir fréttamenn og enn verri pólitíkusar sem ég hef ekki geð í mér að nefna.

En hvað um það.

Hitt var verra að þurfa að lesa tilbúninginn í DV,en ég ætla einungis að nefna eitt atriði sem segir alla söguna.

Í niðurlagi leiðarans ,sem heitir Morgunblaðið og Matthías ( þótt grein mín hafi ekki komið Morgunblaðinu neitt við,í raun ) segir svo ,en undir stendur nafnið Sigurjón M. Egilsson:

“Morgunblaðsgrein Matthíasar svarar ekki spurningum eins og til dæmis þeirri sem kom fram í DV í gær,hefur ríkislögreglustjóri sætt þrýstingi stjórnmálamanna i fleiri málum en olíusvikamálinu?”

Þarna er skírskotað í grein Lúðvíks Bergvinsssonar alþm. sem hann hafði birt í Fréttablaðinu og DV tók upp í samtali við hann.

Grein Lúðvíks fjallar um samtal sem ríkislögreglustjóri átti við Morgunblaðið nú fyrir skemmstu.

En þessi lokaspurning leiðarans var á sandi byggð af því að forsendur hennar voru ósannar eins og margt í því fullyrðingahröngli sem málaliðar Baugs hafa notað undan farna mánuði.

Þingmaðurinn hafði einfaldlega farið með rangt mál og á röngum fullyrðingum hans var

spurning Sigurjóns byggð!

Svona einfalt er nú þetta!

En slík dæmi vekja ekki bjartsýni þegar hugsað er um framtíð íslenzkrar blaðamennsku.

Yfirmaður stjórnsýslusviðs ríkislögreglustjóra, Páll Winkel, svarar þessum ósannindum í athugasemd og segir :

”Þá fær þingmaðurinn það út úr viðtalinu (við ríkislögleglustjóra í Mbl.) að rannsókn málsins hafi hafist vegna þrýstings frá alþingismönnum.Hvergi á það stoð og ekki var minnst á það í viðtalinu .Stjórnmálamenn höfðu engin áhrif á lögreglu eða ákæruvald í þessu máli frekar en öðrum

(leturbr.mín) “

Þannig eru nú þessi ósannindi hins orðvara þingmanns rekin ofan í hann og DV,en ekki veit ég hvort blaðið hefur birt athugasemd Páls og leiðrétt þetta,enda ekki einn af lesendum þess og fylgist illa með þeirri sýndarveröld sem er umhverfi blaðsins.

 

Hvaða sögu segir það?

 

En tveir dagblaðsleiðarar út af einni heimasíðu á Netinu , það er talsverður árangur og meira en ég þorði að vona!

En þó einungis áhugi á innskotskafla um Baug og engu öðru!!

Hvaða sögu segir þeð?!

Eitthvað um virkisveggina sem ég nefndi í Lesbókargreininni ?

Og svo var auðvitað ekki nefnt aðalatriði Baugsþáttarins í grein minni , þ.e. að ég var að benda á þau ósannindi að ég hafi tengzt þessu máli á einhvern hátt í upphafi, en það er tilbúningur eins og margt annað.

Hitt er svo annað mál að Fréttablaðið gerði ekki annað en birta ósannindavaðal Lúðvíks og síðan einnig athugasemdina frá ríkislögreglustjóraembættinu,og það með sóma.

Það sýnir að einnig var rétt það sem ég segi um ritstjórn Þorsteins Pálssonar í grein minni. Og endurhæfingarstarf hans sem ritstjóra , enda ekki vanþörf á eftir markvissa misnotkun.

Og enn eitt :

Ég hef ekkert við forystugrein hans að athuga.

Kannski er hún og ritstjórn blaðsins nú gott dæmi um muninn á því veganesti sem menn hafa fengið í upphafi ferils síns á svellköldum vígvelli blaðamennskunnar!

Sænski fjölmiðladómurinn:

 

Þá langar mig að benda á dóm í Svíþjóð yfir þeim sem stálu tölvupósti þar í landi fyrir síðustu kosningar og fengu hinir seku álitlegar sektir fyrir vikið,en urðu þó einkum fyrir álitshnekki,eins og segir í fréttinni um þetta

Sænskir dómstólar eru semsagt sammála mér um þessa óhæfu,þótt Hæstiréttur Íslands telji það löglegt að brjótast þannig inn í helgan einkareit hverrar manneskju ,þ.e. huga hennar og hjarta, og kalsa með það í fjölmiðlahríðinni.

 

1970-1980

 

Nú birti ég einnig á næstunni dagbækur mínar áratuginn 1970-1980.,minnugur þess að Silja Aðalsteinsdóttir fékk ósk um það,þegar hún birti í Tímariti máls og menningar áður óbirt bréf til mín frá Þórbergi,að ég skrifaði skýringar með bréfinu.En ég leit svo á að bréfið skýrði sig sjálft og hver og einn ætti að lesa í bréfið það sem upplifun hans segði.

Ég lít svipuðum augum á dagbækurnar mínar og tel enga nauðsyn á því að reyna að skýra þær.Menn geta lesið dagsetningar og kynnt sér sjálfir það sem þeir vilja án minnar aðstoðar.

Dagbækurnar eru bara eins manns upplifun og þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þær þurfa að tileinka sér andrúmið og upplifa það eins og hvern annan texta.

Það er textinn,stíllinn, sem öllu máli skiptir að minni hyggju. Fróðleikinn getur svo hver og einn skilið sínum hætti.Og leitað sér frekari upplýsinga um hann,eins og verða vill. En svona sá ritstjóri Morgunblaðsins umhverfi sitt á skrifandi stund og alveg eins líklegt að hann mundi stundum breyta um skoðun,ef hann ætti að upplifa sömu atburði nú löngu síðar .Ég tel því enga þörf á neinum skýringum,en hver sem er getur skoðað umhverfið betur og þá frá annarri hlið,ef svo ber undir. Ráðuneyti Þó þykir mér rétt að geta þess til hægðarauka,að

ríkisstjórn Jóhanns Hafsteins tók við , þegar Bjarni Benediktsson lézt og sat til 14.júlí 1971,eða í rúmt ár. Fyrra ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar sat frá 14.júlí 1971 til 28.ágúst 1974,en þá tók ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar við og sat til 1.sept. 1978, þegar síðara ráðuneyti Ólafs Jóhannesseon tók við og sat til 15.okt. 1979,eða þar til minnihlutastjórn Benedikts Gröndals settist að völdum ,en hún stat aðeins í 3-4 mánuði,eða þar til Gunnar Thoroddson myndaði sína stjórn 8.febr. 1980. Hún sat til 26.maí 1983,þegar fyrsta ráðuneyti Steingríms Hermannssonar tók við, 26.maí 1983, og sat til 8.júlí 1987,en þá tók ráðuneyti Þorsteins Pálssonar við,en það var skammlíft,sat einungis til 28.sept.1988 og segir Steingrímur frá því í ævisögu sinni hvernig ritstjórar Morgunblaðsins komu að stjórnarmyndun Þorsteins,en þeir voru víðs fjarri slíka hluti eftir það .Steingrímur fékk minnisblöð mín og eru þau notuð við ævisagnagerð hans,en mér er nær að halda þessir punktar leynist

einhvers staðar í dagbókum mínum og á það þá væntanlega eftir að koma í ljós . Önnur ráðuneyti voru þessi : annað ráðuneyti Steingríms 28.sept. 1988 –10 sept. 1989 (vinstri stjórn),

þriðja ráðuneyti Steingríms 10.sept.1989 –30.apríl 1991 ( e.k.vinstri stjórn, með Borgaraflokknum) og síðan koma fjögur ráðuneyti Davíðs Oddssonar,fyrst með Alþýðuflokknum,eða til 23. apríl 1995,en svo með Framnsóknarflokknum,eins og kunnugt er,eða þangað til

Halldór Ásgrímsson tók við 15.sept. 2004.Áður hafði Davíð verið borgarstjóri um langt skeið,en þess má einnig geta vegna þeirra sem nefndir eru í dagbókunum,að Gunnar Thoroddsen var borgarstjóri 1947 – 1960,en Geir Hallgrímsson síðar og til 1972,þó fyrsta árið ,1959-1960, ásamt Auði Auðuns.

Þegar ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar settist á valdastóla var ég löngu hættur að sinna dagbókarskrifum,enda óþarfi eftir að ég lét af ritstjórn.

Dagbækurnar og minnisblöðin áttu að vera mér til stuðnings , ef brigður yrðu bornar á ritstjórn Morgunblaðsins , svo að ég gerði mér far um að hafa þessi skrif sem réttust að mínum skilningi ,einkum um samtöl við stjórnmálaforingja.

Þá vil ég geta þess að ég birti hér einnig nokkur bréf til vina minna,því að ég lít svo á að þau séu einskonar dagbókarskrif,enda færð til bókar á þeim vettvangi,eins og sjá má.

 

Kveðja til Bubba

 

Og svo er hér að lokum kveðja til Bubba Morthens,með þakklæti fyrir vináttusamlegar undirtektir:

 

Gula höndin

 

1.

Það kyngdi niður snjó í nótt og hvít blæja liggur yfir stirðnaðri jörð..

Því nú er alsnjóa.

Ég hugsa til Jónasar,hann orti um þetta mjallhvíta lín dauðans í alkunnu kvæði sem margir hafa fjallað um,en enginn skilið.

Grenitréð utan við gluggann minn dúar greinum eins og fugl með hvíta vængi og grænar nálfjaðrir og engu líkara en hann sé að lyfta sér til flugs.

2.

Talað um bláu höndina,en það var heldur ófrumlegt því þetta vígorð hafði verið notað um gamla íhaldið,en nú er þessi hönd gleymd og grafin eins og stríðsöxi.

Gul er sú hönd sem nú ber við loft,

en ritstjórar sannleikans eins og Bubbi Morthens nefnir þá lögðust sjálfviljugir á höggstokk nýkapítalismans,óvart auðvitað og án þess vita,og höfuð fuku.

Enginn söknuður,engin sorg..

Og við syngjum með Bubba:

Ekki benda á mig

Segir ritstjórinn

Ég skrifa bara sannleikann

Það er það eina sem ég kann

Ekki benda á mig

Hvíslar sá nafnlausi

Á lyklaborðið slær svo létt

Þetta var jú sölufrétt

Ekki benda á mig

Hrópar eigandinn...

Og gula höndin sem blóðug og rauð í gær sínu vopni lyfti eins og Tómas kvað í kalda stríðinu var orðin að einhentum manni á forsíðu sannleikans sem kostar aðeins 22o í lausasölu en minna í áskrift,en látinn gekk hann út úr fjölmiðlahríðinni og á hólm við gulu höndina og hafði sigur.

Dauður sigraði hann nýjan sið íslenzkrar blaðamennsku,en lifandi hefði hann tapað.

Þannig er dauðinn eini sannleikur lífsins.

Og hann er ókeypis.

3.

Einhentur er dauðinn,en lífið sveiflar sinni gulu hönd.Og þennan sama dag opnar hún sýningu á gömlum verkum því hún hefur aðeins eitt takmark.

Markaðinn.

13.1.06

Dagbækurnar frá áttunda áratugnum hefjast hér á vefnum á næstu dögum. Á skolavefurinn.is eru einnig ýmis verk eftir mig og leyfi ég mér í lokin að benda á þau.

Matthías Johannessen