Ljóð á netöld
Í samtali sem Þröstur Helgason hefur átt við mig um nýtt efni hér á vefnum og birtist í Lesbók kemur þetta fram:
Þegar ég hætti á Morgunblaðinu missti ég að mestu áhugann á íslenzka dægurkarpinu,þó gríp ég stundum niður í slíku efni,lít jafnvel á bloggið.Sjálfur hef ég ekki bloggað,en gefið út rit mín eins og hver annar höfundur.
Þegar ég komst í kynni við Skólavefinn vegna þáttarins Skáld mánaðarins í Þjóðminjahúsinu eignaðist ég góða samleið með honum.
Bókaútgáfu á Íslandi hefur verið heldur óviss og raunar hef ég oftar þurft að skipta um útgefendur en höfundi er hollt.Við það missir hann tengsl við lesendur og tel ég mig ekki hafa farið varhluta af því.
Bókaforlögin hafa verið á brauðfótum síðustu árin,eða frá því AB lagði upp laupana. Þá varð ég fyrir töluverðu fjárhagstjóni sem ekki er í frásögur færandi,en hitt var verra að með gjaldþroti þess varð borgaralegi menningardraumurinn að martröð. Síðan hef ég gefið út rit mín á ýmsum forlögum og ekki verður annað sagt en þau hafi gert vel við þau,þótt óstýrilæti mitt og sérvizka hafi ekki auðveldað þeim söluna,því ég hef beðizt undan miklum auglýsingum og neitað að rit mín væru send í samkeppni forlaganna á vettvangi þess afleita kerfis sem heitir Íslenzku bókmenntaverðlaunin,í bessastaðastellingum ( fékk þau þó fyrir slysni!!”).
Ég hef kunnað vel við mig á vefnum.Þar er mikið frelsi,en þó ekki ótakmarkað sem betur fer ( eins og í blogginu ).Í fyrra skrifaði ég langt mál í Lesbók undir heitinu Á vígvelli siðmenningar og stofnaði jafnframt nýja heimaslóð með þessu efni og öðru,þ.á m dagbókum, kvæðasyrpum, samtölum sem hafa ekki verið birt í bókum og greinum,auk 2ja bóka, ( matthias.is ),en mikið efni er einnig eftir mig á Skólavefnum (skolavefur.is ),m.a. ljóðaupplestur.
Þar er gott umhverfi.
Auk þeirra sem fara á vef Borgarbókasafnsins og skolavefurinn.is (Skáld mánaðarins) eru 30,000 – 40,000 heimsóknir á ljóða-og dagbókarsíðu mína á netinu og Jökull Sigurðsson,netumsjónarmaður minn, segir að um 7000 einstaklingar hafi sótt síðuna heim frá því hún var opnuð í marz.
Netið er semsagt í tízku,það er allt og sumt !
Það hefur gengið vonum framar og nú bæti ég við nýju efni á slóðina, Ljóð á netöld, dagbókum 1980 -´90 og einskonar framhaldi af Á vígvelli siðmenningar 11 sem kalla mætti dagbók frá sumrinu. Þar er m.a. fjallað um kaupvæðingu mannshugans sem Jóhann Hannesson , prófessor , nefndi svo og gulu pressuna,einkum DV sem hefur ekkert breytzt .
Ljóð á netöld eru með heldur léttu yfirbragði,en undirtónninn er grárri en virðist í fljótu bragði. Þessi ljóðabók er semsagt ókeypis og hef ég efni á því,þótt setztur sé í helgan stein lífeyrisþeganna!
En með þessu móti þarf ég ekki að argast í útgefendum og er það mikill léttir,ekki sízt fyrir þá! Samt vona ég að þetta efni sé bókartækt,ef því væri að skipta.
Sem stendur hef ég meiri áhuga á Netinu en bókaútgáfu og öllu því tildri og tálbeitum sem henni fylgja vegna auglýsingastríðsins mikla um hjarðsálina mikilvægu,en við hana á að tala, eins og allir vita, eins og hún sé baunir í belgjum.
En kannski á ég eftir að verða leiður á Netinu eins og flestu öðru ( nema Íslendinga sögum,auðvitað !)