Dagbók árið 1994
Ódagssett
Regn í ágúst
Frakkalaus gekk ég
inní laufgaðan
kirkjugarðinn
þá fór hann að rigna, Ég
hugsaði, Ekki þurfa þau
regnhlíf
og leitaði skjóls
undir þéttgreinóttri
regnhlíf stærsta barrtrésins
þar höfðum við áður staðið
tvö ein
og þú sagðir, Trén hafa
augu
Ósýnileg einsog þau
undir laufskuggum
tímans.
Það var sumar einsog nú
við reyndum að vefja
lífinu um fingur okkar
og droparnir hrundu
af barrnálunum,
einn og frakkalaus stóð ég
skúrina af mér
undir skjólgóðri
regnhlíf dauðans, hugsaði
í fyrsta sinn um ótvíræðan
ávinning dauðans.
Sumar
1.
Tónskáldið Saint-Saëns sagði um Berlioz að hann hefði einsog aðrir góðir listamenn haft ofnæmi fyrir því grófa og óheflaða í þjóðfélaginu og því ekki þolað það. Hann hafi hatað það sem hann kallar profanum vulgus. Berlioz var viðkvæmur og gat tárazt af minnsta tilefni.
En hann gat einnig verið harður í horn að taka einsog sjá má á ævisögu hans, Líf ástar og tónlistar, sem hann er næstum því eins frægur fyrir og tónverk sín, enda má skipa þessu merka riti við hliðina á helztu ævisögum heimsbókmenntanna einsog Játningum Ágústínusar og Rousseaus. Fáar skáldsögur jafnast á við slík rit að bókmenntalegu gildi, en auk þess fellir Berlioz gömul bréf inní frásögn sína og gefur henni þannig aukinn slagkraft. Hún verður sérstæðari fyrir bragðið vegna þess að bréfin segja mikla sögu um merkan mann og samtíð hans. Þau eru auk þess listilega skrifuð einsog annað sem tónskáldið festi á blað.
Lífið tekur skáldskapnum ávallt fram og þau rit sem eiga ekki forsendur í reynslu merkra höfunda eru sjaldnast mikill skáldskapur, hvað þá miklar bókmenntir.
Afstaða Berlioz til meðalmennskunnar í París um hans daga minnir á ballettmeistarann Dombasle sem einnig starfaði þar í borg en varð fyrir þeirri ógæfu undir lok listferils síns að missa trúna á ballettlistina(!) Karen Blixen segir frá því í ófullgerðri sögu sinni, Anna.
Berlioz notar engin vettlingatök þegar hann lýsir villimönnunum í París og vandar þeim ekki kveðjur. En eftirminnilegust er lýsing hans á því þegar Henriette, fyrri kona hans, er grafin upp úr kirkjugarði á Mont Martre og lögð til hvíldar í nýjum grafreit vegna þess að hinn fyrri var tekinn undir annað.