Árið 1997 (fyrri hluti)
Á þrettándanum
Hef verið að kynna mér Tíbezku bókina um líf og dauða. Það er harla athyglisverð lesning. Það er margt fallegt í Búddatrú, hún er mér að mörgu leyti mjög að skapi. Hún er einhvers konar kristindómur án Krists, án fyrirheita hans um eilíft himneskt líf hvers og eins.
Siddharta hefur verið merkilegur maður. Mér skilst hann hafi verið
uppi í Asíu um svipað leyti og Sókrates var á dögum í Aþenu.
Það er mjög fallegt hvernig búddatrúarmenn eiga að hugsa um dauðann og
þá sem farnir eru. Þeir eiga að hjálpa þeim að deyja, hugsa vel og
hlýlega til þeirra og láta hlýjar og góðar hugsanir fylgja þeim inn í
eilífðina.
Búddafræði hika ekkert við að nefna helvíti sem hugarástand ef ég skil
boðskapinn rétt. Annars er hann víst helzt fólginn í því að losa menn
undan hatri og reiði og því sem þeir girnast en hafa enga þörf fyrir.
Þetta þykir mér góður boðskapur. Að líkamsdauða loknum hefst nýtt líf
og er engu líkara en búddatrúarmenn telji sig hafa rannsakað það mjög
nákvæmlega. Eftir dauðastundina upplifir hinn látni einhvers konar
framhaldslíf, hið góða sem hann geymir úr lífinu og hið illa eða
helvíti. Það rennur hægt upp fyrir honum að hann er dáinn, sporlaust
gengur hann um milli dauðra og lifenda en getur ekki gert vart við sig;
engin spor, enginn skuggi. Þá rennur upp fyrir honum ljós, jarðvistinni
er lokið og hin eilífa eða himneska för er hafin. Senn hefst darmata eða chong ji eins og Tíbetar kalla það víst. Hugarorkan tekur við af líkamsorkunni. Fram að því skilst mér að hinn framliðni telji að hann hafi jarðsneskan líkama þótt svo sé ekki.
Smám saman fæðist hann inn í þennan andlega líkama og eftir darmata hefst fæðing úr einu lífi í annað sem er einskonar hugarlíkami
og minnir á þann líkama sem hinn látni skilur eftir hérna meginn
grafar. Án þessarar upplifunar er hann í einhvers konar tómarúmi. Síðan
hefst dómurinn yfir honum og hann er sjálfur í senn hinn dæmdi og
dómarinn.
Það er góðs viti!
Það má segja að þessar hugleiðingar mínar hafi orðið neistinn að nokkuð löngu kvæði sem ég lauk við á afmælinu mínu 3. janúar og heitir Samtal við Siddharta.