föstudagur
ágú.152008
Árið 1997 (seinni hluti)
Uppfært: 08.15.2008
28. maí, miðvikudagur
Í dag birtist grein í Morgunblaðinu um atburðina 30. marz 1949 eftir Leif Sveinsson. Hann gerir lítið úr bók Vals Ingimundarsonar sagnfræðings, Í eldlínu kalda stríðsins, og afgreiðir hana með billegum hætti. Skil ekki hvað honum gengur til. Meginviðfangsefni greinarinnar er þó að koma höggi á Sigurjón lögreglustjóra Sigurðsson sem situr nú á friðarstóli, 81 árs gamall.
Leifur segir:
“Sem dæmi um fálmkennda stjórn Sigurjóns má nefna, að hann gaf út þá
skipun, að varaliðsmenn skyldu fara út án hjálma og kylfa, en bera
aðeins borða á handlegg. Þegar boðum var komið til Bjarna
Benediktssonar um þessa vanhugsuðu skipun Sigurjóns ómerkti hann þegar
skipunina með þessum orðum: “Allir út með hjálma og kylfur.” Mátti því
segja að Bjarni hefði tekið stjórn lögreglumálanna í sínar hendur.”