« Þar sem guð varð til | Main | Kreppan »
föstudagur
jan.162009

Farsælda- frón

Hvað er þá orðið okkar starf,

erum við búin að vera,

höfum við fengið í okkar arf

ilm þeirra tómu kera

sem skáldin ortu er að okkur svarf,

en ekkert við því að gera ?

 

Höfum við alltaf gengið til góðs

götuna fram á veginn,

hvort eru götur gamals ljóðs

gleðin sjálf eða treginn,

höfum við arkað okkur til blóðs

og útjaskað hérnamegin ?

 

Lifðum við ekki eins og strá

ýlustrá í vindi,

veröldin réttlega rauð eða blá

og ruglandi hennar yndi,

hrundi síðan guggin og grá

 

guggin og grá

meðan veröldin lék í lyndi.

 

Við erum orðin eins og tré

sem engu laufi fagna,

getum samt sagt að gleðin sé

gjörningur fornra sagna,

en askurinn sjálfur ekkert vé

og allir fuglar þagna.

 

Skulum því binda vonir við

vos sem var allra glíma,

þar hefur sálin flóafrið

sem feigðin er dauðans gríma,

en gangan er sett á hið gullna hlið

eins og göngur allra tíma.