« Pressuspjallið með Árna Þórarinssyni við Matthías | Main | Ný ljóðabók eftir Matthías (Morgunblaðið) »
þriðjudagur
nóv.242009

Enn af Ólafi

Í afmælisrit Davíðs Oddssonar, 17. janúar ‘98

Þegar Ólafs saga Thors kom út sagði Björn Þorsteinsson prófessor við mig, Ég og mínir menn erum ánægðir með bókina(!) Þetta kom mér skemmtilega á óvart því að Björn og “mínir menn” voru vinstri menn; marxistar. Ég hafði átt á öllu von úr þeirri átt.

Það eina sem Björn Þorsteinsson sagðist hafa út á Ólafs sögu að setja var skortur á gamansögum og munnmælum um Ólaf. Það hefði mátt vera meira af því, sagði hann. Ég sagðist ekki hafa viljað hafa annað í bókinni en það sem ég hefði fengið staðfest. Sumar gamansögurnar um Ólaf væru tilbúningur, eða þjóðsögur, en ég  viðurkenndi að þær hefðu þá einnig gildi sem slíkar. En síðan hef ég safnað saman sögum um Ólaf og mætti setja þær einhvern tíma inní nýja, styttri útgáfu af verkinu sem sérstakan kafla; eða viðauka. Þá mætti ganga að þeim á vísum stað.

Hér á eftir fer það sem ég hef rekizt á af þessu tagi; eða safnað sjálfur.

Í samtali sem birtst í DV laugardaginn 9. maí 1987 segir Pétur alþingismaður Sigurðsson frá Ólafi með þessum hætti:

“Það vildi nú þannig til að fyrsti maðurinn sem ég hitti í þinghúsinu var Ólafur Thors. Það fyrsta sem hann sagði við mig var: “Ja, hvur djöfullinn, eruð þér nú komnir inn í íhaldsflokkinn líka, gamlir hásetar frá Kveldúlfi?”

Þetta var náttúrulega rétt hjá honum því ég var megnið af minni togaratíð hjá Kveldúlfi. En þetta sagði hann hlæjandi og bauð mig velkominn, enda var alltaf gott á milli okkar.”

Guðmundur Hermannsson átti á sínum tíma samtal við Friðrik Ólafsson skákmeistara og birtist það í Morgunblaðinu. Þar er talað um áskorendamótið 1959 og Friðrik segir: “Skáksambandið átti enga peninga til að standa straum af þátttöku minni í mótinu, og hvað þá að kosta aðstoðarmann,” sagði Friðrik. En þá tók einhver sig til og hringdi í Ólaf Thors og sagði að það væri engin hemja að íslenskur skákmaður  væri kominn í námunda við heimsmeistaratitilinn en engir peningar væru til að senda hann utan til keppni. Ólafur var sjálfur skákáhugamaður, var m.a. eitt sinn formaður  Taflfélags Reykjavíkur. Honum brá svolítið við þessar fréttir og hringdi í mig og spurði hvernig best væri að haga þessu. Ég sagðist vera orðinn þreyttur á snöpum hjá almenningi og því kæmi mér mun betur að fá fjárveitingu eða styrk frá ríkinu. Ólafur sló þessu upp í grín og mér er alltaf minnisstætt hvað hann sagði: Ef það er hægt að senda mann og kosta undir hann alla leið til Ástralíu til þess eins að hoppa þar eins og kengúra, þá hlýtur að vera hægt að bjarga þessu máli. Þarna var Ólafur vitanlega með sínum græskulausa hætti að vitna til Vilhjálms Einarssonar, sem vann sitt mesta afrek á

Ólympíuleikunum í Melbourne.”

Í sagnabanka Leifs Sveinssonar í Lesbók Morgunblaðsins segir svo: “Björn Pálsson á Löngumýri var kjörinn á þing 1959. Hann var ekkert að bíða eftir því að kynnast þingstörfum, heldur hélt jómfrúarræðu sína nokkrum dögum eftir þingsetningu. Þótti Birni ræða sín harla góð og gekk rakleiðis til Ólafs Thors og segir við hann: “Jæja, hverng fannst þér ræðan?” Ólafur svarar: “Björn minn, þú hefðir átt að vera kominn á þing fyrir löngu, því þá hefði ég ekki alltaf verið talinn vitlausasti maður á þingi.”

Við andlát Ólafs Thors varð Birni á Löngumýri á orði: “Nú er bara einn skemmtilegur maður eftir á Alþingi.”

Axel Sigurðsson skrifar undir dulnefninu Kormákr í Velvakanda laugardaginn 28. nóvember 1981 og segir: “Þegar ég las mér til ánægju stutta grein í Mbl. um skákáhuga Ólafs Thors, rifjuðust upp fyrir mér tvö atvik sem sýna glöggt áhuga hans og lifandi tengsl við íþróttirnar og þá menn, sem að þeim málum unnu.

Árið 1959 fór landslið okkar í handknattleik í keppnisför og hafði af litlum efnum verið unnið kappsamlega, eins og títt var á þeim bæ. Birgir Björnsson var þá fyrirliðið landsliðsins og mikil driffjörður, en skömmu fyrir ferðina varð hann fyrir því óhappi að fingurbrotna á æfingu og var því valinn annar maður í liðið í hans stað.

Þótti mönnum að vonum súrt í broti að Birgir gæti ekki farið þessa för, því hann hafði svo sannarlega unnið til þess. Þess vegna tókum við okkur saman nokkrir áhugamenn og settum upp samskotabauk í Bókabúð Lárusar Blöndal í Vesturveri, en þar vann ég á þessum árum. Vel gekk að fá samskot í baukinn, og heldur betur bættist við þegar Ólafur Thors snaraði sér inn í bókabúðina einn morguninn, bauð hressilega góðan dag og sagði: “Er ekki einhver baukur hér fyrir hann Birgi minn?” Undrandi og utan við mig rétti ég fram baukinn og með höfðinglegri sveiflu stakk leiðtoginn splunkunýjum fimmhundruðkalli í baukinn. Tveim árum seinna gerði landslið Íslands garðinn frægan á heimsmeistarakeppninni í Þýzkalandi. Flestum á óvart sigraði Ísland Sviss í undankeppni, og komst þannig í sjálfa úrslitakeppnina. Morguninn eftir hinn sæta sigur gegn Sviss barst okkur svohljóðandi skeyti: “Eftir hatrammar deilur um landhelgismál á Alþingi Íslendinga sameinumst vér í gleði yfir sigri ykkar. Til hamingju, strákar, Ólafur Thors.”

Já, Ólafur Thors kunni góð skil á íþróttum og gildi þeirra og kunni að meta það sem vel var gert.”

Í Dagblaðinu-Vísi er minnzt á Ólafs sögu þriðjudaginn 26. janúar 1982 og segir þar m.a.: “Einhverju sinni varð Ólafur síðbúinn til fundar í Keflavík. Þegar hann birtist í fundarsal kallaði frambjóðandi Alþýðuflokksins, Guðmundur Í. Guðmundsson: “Ratarðu ekki í kjördæminu, Ólafur.

“Nei, blessaður vertu. Hjá þessu dugmikla fólki eru svo stórstígar framfarir að maður kannast ekki við sig frá degi til dags,” svaraði Ólfur. Hann átti þann fund áður en hann hófst.”

Júlíus á Akranesi, fréttaritari Morgunblaðsins þar, skrifar 17. desember 1981 bréf til Velvakanda sem birt er þriðjudaginn 22. desember. Júlíus rifjar upp dvöl Thors Jensens og fjölskyldu hans á Akranesi og þær góðu minningar sem þetta fólk skildi eftir á Skaganum. Hann segir: “Börn þeirra hjóna skildu einnig eftir sig góðar minningar, ekki sízt Ólafur Thors. Foreldrar mínir sögðu, að hann hefði ávallt verið mættur til góðra verka og hefði ekkert aumt mátt sjá, án þess að bæta þar um, og var góð vinátta þeirra á milli alla tíð.

Ólafur var “húmoristi” eins og allir vita, sem þekktu til hans. Á efri árum hitti móðir mín, Emilía Þorsteinsdóttir frá Grund, Ólaf fyrir utan Alþingishúsið, er hún var á ferð í Reykjavík. Ólfur ávarpaði hana þannig: “Nei, komdu blessuð, þetta er þó ekki dóttir hennar Millu á Grund.” Síðar þegar ég átti leið til Reykjavíkur, bað hún mig að skila kveðju til Ólafs með þakklæti fyrir “komplimentið”. Ég hitti hann einnig fyrir utan Alþingishúsið, skilaði kveðjum og þakkaði. Þá sagði Ólafur: “Ég bið kærlega að heilsa henni Millu, mömmu þinni, og segðu henni að þú gætir verið pabbi hennar.””

Fimmtudaginn 17. desember 1981 skrifar Guðjón Ólafsson frá Stóra-Hofi í Velvakanda Morgunblaðsins: “Í Morgunblaðinu sunnud. 13. desember skrifar Erlendur Jónsson greinina “Ævi og störf flokksleiðtoga” um bókina “Ólafur Thors” eftir Matthías Johannessen. Neðst í öðrum dálki til vinstri segir: “Allir voru menn þessir fastir fyrir. Þegar Jón Þorláksson hugðist hækka gengi krónunnar 1925 er sagt að útgerðarmenn hafi gengið á fund Ólafs og beðið hann að telja Jóni hughvarf svo hann hætti við gengishækkunina.” En hún var nú samt framkvæmt. Þetta svar Ólafs sem þarna er sagt frá, heyrði ég Ólaf segja, af allt öðru tilefni. Það var á stjórnmálafundi á Brúarlandi í Mosfellssveit. Þá var bara kominn kjallarinn að því húsi. Ólfur var frummælandi á þeim fundi. Einn fundarmanna var Sigurjón á Álafossi og var þá upp á sitt besta.

Sigurjón hélt skörulega ræðu og bar iðnaðinn fyrir brjósti. Fór hann þess á leit við Ólaf, að hann ynni að því, við Jón Þorláksson að komið yrði á fót iðnlánasjóði eða iðnaðarbanka. Sigurjóni fannst iðnaðurinn ekki fá góða fyrirgreiðslu hjá bönkunum, en Jón Þorláksson var þá að mig minnir fjármálaráðherra. Svar Ólafs varð mér ógleymanlegt: “Ég veit að Sigurjón á Álafossi er sterkur maður, en hann getur reynt að fara að Korpúlfsstöðum og snúa niður stóra nautið hans föður míns.”

Ég sé ekki betur en Ólafur Thors hafi notað samlíkinguna við stóra nautið hans föður síns oftar en einu sinni þegar til þess var ætlazt af honum að hann teldi Jóni Þorlákssyni hughvarf!

Magnús Helgason, forstjóri Hörpu hf., skrifar grein í Morgunblaðið laugardaginn 27. júní 1987, Náum sáttum, sjálfstæðismenn. Þar segir hann m.a.: “Hinn fundurinn sem er stór í minningunni er haldinn á Akureyri 1948. Þá hafði um skeið verið ólga í flokknum, eða frá því að Ólafur Thors myndaði nýsköpunarstjórnina 1944 með Alþýðuflokki og sósíalistum. Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins neituðu að styðja stjórnina; þeir Ingólfur Jónsson á Hellu, Gísli Sveinsson, Jón Sigurðsson á Reynisstað, Pétur Ottesen og Þorsteinn Þorsteinsson. Vísir, undir ritstjórn Kristjáns Guðlaugssonar, studdi fimmmenningana ötullega.

Enda þótt nærri tvö ár væru liðin frá því nýsköpunarstjórnin hvarf frá völdum hafði enn ekki gróið um heilt með flokksmönnum.

Á landsfundinum kvaddi Kristján Guðlaugsson sér hljóðs. Hann flutti áhrifamikla ræðu og mæltist til sátta.

Er Kristján hafði lokið máli sínu reis Ólafur Thors upp og mælti:

“Kristján Guðlaugsson hefur rétt fram sáttarhönd, ég segi: hér er önnur.”

Þeir tókust í hendur og voru ákaft hylltir af fundarmönnum.

Sættir höfðu tekizt.”

Davíð Gunnarsson hefur sagt mér frá því að Guðmundur Í. Guðmundsson frændi hans hafi tekið upp á því að koma með móður sína á framboðsfundi og mun hún hafa náð einhverjum atkvæðum handa Guðmundi enda ættuð af Suðurnesjum. Hún var há kona vexti og þegar þau komu á fyrsta fundinn, sagði Ólfur: ““Kemurðu nú með mömmu þína!” Síðar reyndi hann að fylgja gömlum konum inn í salinn áður en framboðsfundur hófst.”

Í samtali sem Kristín Marja Baldursdóttir átti við Hermann Pálsson prófessor og birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 10. september 1989 segist Hermann vera hættur að fylgjast með stjórnmálum hér heima. “Ég nenni ekki að standa í því lengur. Við vorum nokkrir að ræða um ráðherra hér um árið og þá sagði ég: Nú, er þá Ólafur Thors hættur?”

Í sagnabanka Leifs Sveinssonar segir enn: “Bárður Jakobsson lögfræðingur var meðritstjóri Íslendings árið 1945, en það er blað, sem Sjálfstæðisflokkurinn gefur út á Akureyri. Ólafur Thors kallaði Bárð fyrir sig er hann hafði lokið ársstarfi sem leiðarahöfundur: “Bárður minn, ég verð víst að segja þér upp ritstjórastarfinu. Ef þú hefðir bara farið 51 sinni út af sjálfstæðislínunni, hefði ég ráðið þig áfram, en þú fórst 52 sinnum út af línunni á einu ári í vikublaði. Það er of mikið.”

Í minningarblaði Morgunblaðsins um landgöngu Breta á Íslandi er eftirfarandi saga höfð eftir Ívari Guðmundssyni fréttastjóra: “Á fjórða tímanum nóttina 10. maí 1940 vöknuðu tveir blaðamenn á Morgunblaðinu við flugvéladyn af bresku flugvélinni, sem Bretar höfðu sent upp frá skipum sínum á leið inn Flóann. Þetta voru þeir Ívar Guðmundsson og Pétur Ólafsson. Þeir báru sig saman í síma. Á þessum tíma var mjög óvenjulegt að flugvél væri á ferð, sagði Ívar í samtali við Morgunblaðið fyrir skömmu. Klukkutíma síðar þegar þeir voru komnir niður að sjó, sáust herskipin koma siglandi. Þeir lögðu þá leið sína út á Grandagarð, en fyrst brá Ívar sér í síma og hringdi til Ólafs Thors, sem þá var atvinnumálaráðherra. Ívar segir:

“Það er eitthvað að gerast yfir bænum og herskipadeild er að sigla inn flóann.”

“Vita menn hverjir það eru?” spyr Ólafur.

“Nei, það er ekki ljóst ennþá.”

“Jæja, þá ætla ég að leggja mig á hina, því ef það eru Bretar þá liggur ekkert á. En ef það eru Þjóðverjar þá koma þeir hvort sem er að sækja mig.”

Ólafur Thors átti til að blístra lagstúf þegar hann var á gangi. Einu sinni kom hann blístrandi eftir göngum Alþingis og mætti þá Hannibal Valdimarssyni. Hannibal segir, Er strandkapteinninn að blístra. Já, sagði Ólfur, og skítkokkarnir mega taka undir!

Í samtali sem Ingólfur sonur minn átti við Auði Auðuns og birt var í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 7. ágúst 1983 er m.a. fjallað um Ólaf Thors. Þar segir: “Ólafur Thors og Bjarni (Benediktsson) voru ólíkir persónuleikar. Ólafur var léttur og e.t.v. aðgengilegri. En þrátt fyrir það ætti ég erfitt með að gera upp á milli þeirra. Ég held að þeir hafi líka af öllum verið viðurkenndir afburðamenn í þinginu. Ólafur Thors glansaði mikið á því, hve hnyttinn hann var í svörum og spaugsamur. Það var t.d. einhvern tíma, að Ólafur var að þæfa eitthvert málið og þá grípa menn oft til þess að lesa upp prentað mál. Ólfur hóf að lesa upp úr ræðum Magnúsar Jónssonar prófessors í Þingtíðindum. Magnús var lengi dósent við Háskólann. Ólafur les langar ræður úr ræðustólnum niðri í þingi, sem gátu með góðum vilja snert málið, sem þæfa átti. Svo þurfti Ólafur náttúrulega að bæta við einhverju frá eigin brjósti og missti þráðinn úr ræðu Magnúsar dósents og endar með því, að Ólafur spyr sjálfan sig upphátt: “Æ, hvar var ég nú staddur í dósa?””.

Í samtali Agnesar Bragadóttur við Viktor Aðalsteinsson sem birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 4. apríl 1985 er minnzt á Ólaf Thors með þessum hætti: “Nú, þá dettur mér í hug skemmtilegur atburður þegar Ólafur Thors var farþegi hjá okkur. Þetta var á þeim árum þegar DC4 var flogið til Lundúna. Þorsteinn E. Jónsson, flugstjóri hjá Cargolux nú, var flugstjóri í þessari ferð. Þorsteinn var þá tengdasonur Ólafs Thors sem var þá forsætisráðherra. Þorsteinn segir við mig: “Ég ætla að bjóða tengdapabba frammí og bjóða honum að setjast í hægra sætið og stýra.” Þorsteinn bætir svo við: “Þú tekur ekkert “autopilotinn” úr sambandi, svo að forsætisráðherra hvolfi nú ekki vélinni. Ólafur kemur svo frammí og ég býð honum að setjast í sæti mitt og taka við stjórninni. Ólafur sest, grípur með hægri hönd um stýrið og segir hátt og snjallt, með sinni hljómmiklu og skemmtilegu rödd: “Hver ekur eins og ljón með aðra hönd á stýri?”

Magnús Helgason forstjóri segist ekki gleyma innskoti Ólafs í Kveldúlfsræðuna, þegar hann sagði: “Ég skal með glöðu geði gefa Sigfúsi Sigurhjartarsyni hlutabréf mín í Kveldúlfi svo hann geti þurrkað sultardropann úr nefinu á sér.”

Þá var mikið hlegið. Slík innskot notaði Ólafur oft sem krydd og hafa sum geymzt, en önnur ekki.

Þessar frásagnir hef ég eftir Þorvaldi Garðari Kristjánssyni sem lengi var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, framkvæmdastjóri flokksins og forseti Alþingis:

Í aukakosningunum í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1952 bað oddvitinn í minni heimasveit, Flateyri, mig að útvega umtalsvert fjármagn til hafnarframkvæmda. Þetta var fyrsta fyrirgreiðsla sem ég var beðinn um á mínum stjórnmálaferli. Ég svaraði: Komdu suður eftir viku.

Það stóð heima. Oddvitinn var kominn suður, ég talaði við Bjarna (Benediktsson) sagði honum málavexti og bað hann útvega mér viðtal við Ólaf Thors sem þá var atvinnumálaráðherra og fór með hafnarmál. Það er útilokað, sagði Bjarni, því að Ólafur hafði ekki komið á sína skrifstofu í stjórnarráðinu og engin viðtöl átt frá forsetakosningum. Síðar sama dag hringir Bjarni í mig og segir að Ólfur komi á sína skrifstofu kl. 11 daginn eftir og þar eigi ég að mæta með oddvitanum. Það fer eftir. En þegar stundin kemur segir dyravörður að ég eigi einn að fara til ráðherrans en oddviti að bíða í biðstofunni.  Mér er vísað inn til ráðherra sem hafði sína skrifstofu í kvistherberginu sem veit að Lækjartorgi.

Ég þekkti ekki Ólaf og hafði aldrei hitt hann eða talað við hann fyrr. Hann tók mér vel, settist við skrifborð sitt og bauð mér sæti gegnt sér. Hann hallaði sér aftur í sæti sínu og setti fæturna upp á skrifborðið svo að sá í skósólana. Hann hóf þegar máls en minntist ekki á erindi mitt. Hann tók að tala um stjórnmál, menn og málefni, ekki dægurmál heldur hin stóru mál, skilnaðinn við Dani, lýðveldisstofnunina, forsetadæmið, forsetakosningarnar. Ég hlustaði með mikilli athygli og fullur aðdáunar og lagði ekki mikið til málanna. Þetta var fremur eintal en samtal. Er hann búinn að gleyma erindi mínu, hugsaði ég. En þegar klukkan er um eitt segir hann allt í einu: “Hvar hafið þér karlinn?” Hann er niðri, sagði ég. Náið þér í hann eru fyrirmæli ráðherrans. Ég sprett upp og þegar ég er með höndina á hurðarhúninum kallar Ólafur: Komið þér aftur og við stöndum báðir á miðju gólfi. Það gengur ekki að karlinn haldi að við þekkjumst ekki. Ég býð yður dús. Til áréttingar faðmaði hann mig að sér og sagði í eyra mér: Mundu það Þorvaldur að hér með ertu kominn í innsta hring Sjálfstæðisflokksins. Að vörmu spori var ég kominn með oddvitann. Ólafur ávarpaði hann og sagði að engir peningar væru ætlaðir á fjárlögum til hafnarmannvirkja á Flateyri. Hann væri hins vegar æðsti maður hafnarmála og tæki nú þá ákvörðun að veita þá peninga sem um væri beðið vegna þess að hann hefði engan frið fyrir þessum strák sem sæti yfir sér og heimtaði af sér peninga!

Næsta frásögn Þorvalds:

Það er erfiður dagur framundan. Ég þarf að leysa óvænt fjárhagsvanda vegna mikilvægra framkvæmda í kjördæmi. Það var ekki hægt nema með atbeina forsætisráðherra. En það þurfti á stundum að kveða af eða á um málið. Mikið var í húfi fyrir framkvæmdina sjálfa svo og fyrir orðstír sjálfs mín. Það var barizt um hverja sál í einmenningskjördæmi.

Strax um morguninn náði ég í síma til Ólafs inn á ríkisstjórnarfund. Hann sagðist engan tíma hafa til að tala við mig. Stórmál væru fyrir fundinum og allt á hvolfi. Hringdu í mig klukkan átta í kvöld, sagði hann, og við það sat. Um kvöldið hringdi ég. Hvað á þetta að þýða, hvers vegna getur þú ekki hringt þegar þú átt að gera það. Heldur þú að ég hafi ekkert annað að gera en að bíða við símann eftir að þér þóknast að hringja og var ekkert blíður á manninn. Klukkan var orðin tvær eða þrjá mínútur yfir átta.

En þetta var aðeins byrjunin. Ég sagði honum málavöxtu og ég hefði ekki haft önnur ráð en lofa þá um daginn stórri fjárveitingu í trausti þess að hann kæmi til hjálpar. Það hefði ekki verið um annað að ræða fyrir mig en að duga eða drepast. Ég vissi ekki hvert Ólafur ætlaði að komast, svo mikil var hneykslun hans. “Ég hefði ekki gert þetta í þínum sporum,” sagði hann, “þú mátt undir engum kringumstæðum lofa neinu sem þú ert ekki viss um að geta staðið við.” Þetta voru heilræði að þessu sinni. En í verki skar hann mig úr snörunni.

Héraðsmót Sjálfstæðisflokksins var haldið að Núpi sunnudaginn síðasta fyrir alþingiskosningarnar 1956. Ég bað Ólaf að koma vestur og halda þar aðalræðuna. Hann komst vegna veðurs við illan leik flugleiðis til Ísafjarðar og þaðan með bíl til Þingeyrar og var þaðan kominn á hádegi þann dag sem héraðsmótið átti að vera síðdegis. Hádegisverður var fram reiddur og var það í raun veizla eins og þær gerast beztar. Ólafur sagði ekki ósjaldan við mig á næstu árum: “Það er eitthvað annað veizlan á Þingeyri eða saltfiskurinn sem ég fæ hjá henni Ingibjörgu minni.”

Þegar veizlunni var lokið gengum við Ólafur ásamt konu minni út í bíl sem beið  okkar. Ferðinni var heitið að Núpi. “Kerlingin getur setið framí en við setjum afturí til að geta talað saman,” sagði Ólafur við mig, en um leið og bifreiðin rann af stað sagði hann: “Þú verður að þegja svo ég geti hugsað um á leiðinni hvað ég á að segja í ræðunni á héraðsmótinu.” Samt liðu ekki nema nokkrar mínútur. Ég fæ bylmingshögg í síðuna. Það var olnbogaskot frá Ólafi þegar hann sneri sér að mér og hvessti á mig augun og brýndi raustina: “Hvað á þetta að þýða? Þú leyfir þér að drekka brennivín og átt að fara að halda ræðu. Þetta hef ég aldrei leyft mér,” sagði hann og lagði áherzlu á orð sín. Ég hafði raunar veitt því athygli að hann snerti ekki kokkteilinn sem borinn var fram í veizlunni. En ég hafði borið glasið að vörum, rétt til að sýnast. Það var eins og hann vildi gefa mér tíma til að hugleiða heilræðið en síðan bætti hann við. “Það var sagt að ég hefði verið fullur á Hvammstangafundinum. Þeir héldu að ég væri fullur af því ég var á skyrtunni.”

Og enn:

Ólafur gerði mig að framkvæmdastjóra flokksins og hóf ég þau störf í ársbyrjun 1961. Það fylgdi starfinu að skrifa fundargerðir þingflokks og miðstjórnar flokksins. Ég spurði Ólaf, Hvernig viltu hafa fundargerðirnar, viltu hafa þær ítarlegar. Svar: Skrifaðu sem minnst, strákur, til þess að menn þurfi ekki að skammast sín fyrir það sem þeir hafa sagt.

Ég spurði Ólaf hvað hann vildi fylgjast nákvæmlega með því sem var að gerast á flokksskrifstofunni. Svar: Vertu ekki að ónáða mig við að stjórna landinu, þú stjórnar flokknum.

Í Ólafs sögu er minnzt á boð danskra íhaldsmanna til Sjálfstæðisflokksins, en Ólfur þvertók fyrir að mæta í veizlu hjá danska íhaldinu. Hann sagði við Þorvald Garðar: “Hambro (þ.e. forseti norska stórþingsins) er vinur minn og ég tala við hann sjóaranorsku.” En veizlan á Hotel D’Angleterre var fræg að endemum fyrir svo skæða matareitrun að fjöldi manna varð fárveikur og einn eða tveir létust. Veizlu þessa sátu allir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Norðurlandaþingi nema Ólafur, sjálfur forstætisráðherrann.

Þegar Ólafur kom heim frá Norðurlandaþingi sagði hann við Þorvald: “Sagði ég þér ekki hvers væri að vænta af dönskum íhaldsmönnum. Þeir voru  nærri búnir að drepa fyrir okkur Gísla (Jónsson) og Magnús (Jónsson). Ég slapp aðeins vegna þess að ég mældi göturnar í Kaupmannahöfn meðan á veizluhöldunum stóð.”

Eitt kvöldið sagði Ólafur Thors Þorvaldi Garðari frá því að hann hefði staðið í ströngu þann dag: “Í dag komu til mín heildsalar og aðrir slíkir og gerðu miklar kröfur til flokksins. Ég neitaði en þeir létu sér segjast og voru þaulsetnir. Að skilnaði sagði ég við þá: “Þið eruð ríkir og getið hugsað um ykkur sjálfir, Sjálfstæðisflokkurinn hugsar um þá fátæku.”

Og loks.

Upp kom vandamál haustið 1964. Deilur urðu, öldur risu hátt. Þetta var innanflokksmál í Sjálfstæðisflokknum. Ég kom þar við sögu sem framkvæmdastjóri flokksins. Mér fannst mér misboðið og sagði ráðherrum flokksins það. Þeir sögðu aftur Ólafi en hann hafði þá sagt af sér embætti forsætisráðherra. Ólafur sló á þráðinn til mín og vildi lægja öldur og láta gott af sér leiða. Hann bað mig að taka þessu rólega. Ég fékk á tilfinninguna að verið væri að klappa á kollinn á mér og biðja um að ég væri ekki með nein barnabrek. Það var þungt í mér og þetta var eins og skvetta olíu á eldinn og féllu mörg orð á báða bóga og svo fór að ég sagði: “Ólafur, hvers vegna þarftu alltaf að stinga rýtingnum í bakið á mér þegar verst gegnir?” Ég var ofsareiður en þetta voru í hæsta máta ómakleg orð.

Ólafur skellti á.

Næstu daga voru algjör friðslit milli okkar Ólafs. Bjarni Benediktsson sagði mér að Ólafur hefði talað við þá ráðherra flokksins og sagt að það væri ekki hægt að þola ófyrirleitna framkomu stráksins. Við Ólafur vorum báðir í þinginu daglega, heilsuðumst ekki, litum ekki hvor á annan, við sátum á þingflokksfundum nær samhliða og hvor lét sem hinn væri ekki til. Á þriðja þingflokksfundinum sem svo var ástatt kom skyndilega og óyfirvegað yfir mig sú hugsun að ég ætti að vera fyrri til að rjúfa múrinn á milli okkar, mér bæri skylda til þess, ég væri yngri maður. Ég ákvað að tala við Ólaf strax þegar fundinum lyki en þá bar það óvænt við að Ólafur var fyrri til og gaf mér bendingu að tala við sig. Áður en ég vissi af stóðum við Ólafur tveir úti á gólfi, hinir þingmennirnir höfðu rokið út í skyndi, sennilega vitað og séð að eitthvað var á seyði. Ólafur tók um herðar mér, faðmaði mig eins og í fyrsta viðtali okkar, hann sagði: “Látum þessum blóðnóttum vera lokið. Ég var ósvífinn en ekki varst þú betri.” Allt varð á svipstundu eins og áður. Þetta var síðasta samtalið sem ég átti við Ólaf. Ég sá hann aldrei aftur. Daginn eftir lagðist hann banaleguna. Ég fékk stundum skilaboð frá honum út af smáviðvikum en það síðasta sem ég heyrði frá honum var: “Þorvaldur hafði á réttu að standa, ég var blekktur.”

Í sjónvarpssamtali sem Árni Gunnarsson átti við Gylfa Þ. Gíslason í ágúst 1990 er minnzt á Ólaf Thors með þessum hætti:

“Eitt af stefnumálum Viðreisnarstjórnarinnar var að koma á fót Seðlabanka. Við Jóhannes Nordal og Jónas Haralz sömdum frumvarp að lögum um Seðlabanka. Í því var m.a. kveðið svo á, að hluti af hagnaði Seðlabankans skyldi renna í Vísindasjóð og skyldi hann stórefldur með því.

Ég gleymi því aldrei, að þegar ég var að kynna frumvarpið á ráðherrafundi og kom að þessu ákvæði, þá hrökk Ólafur Thors við, byrsti sig og sagði: “Nú ertu eitthvað að plata okkur, Gylfi. Er það menntamálaráðherrann eða viðskiptaráðherrann sem er að tala?”

Ég var alltaf vanur að ræða það sérstaklega við Ólaf Thors ef um eitthvað óvenjulegt eða sérstakt var að ræða í mínum málum. Þetta hafði ég nú af einhverjum ástæðum vanrækt. Ég bað um að þessi grein yrði rædd síðar.

Strax eftir hádegið talaði ég við Ólaf og bað hann afsökunar á því að hafa ekki fyrr rætt þetta ákvæði við hann en það var óneitanlega dálítið óvenjulegt. Ég sagði honum að það væri mikið áhugamál okkar allra, höfunda frumvarpsins. Hann tók mér vel eins og alltaf og kvaðst mundu styðja málið.

Þá var því borgið.”

Í samtali okkar Björns Finnbogasonar í Garðinum sem átti langt og gott samstarf við Ólaf Thors tók Björn dæmi um það hve Ólafur var skjótur að leysa vandamál og verða við óskum úr kjördæminu. Björn rak verzlun í Garðinum eftir að hann hætti í útgerð og varð oddviti 1938. Honum þótti illt hvernig staðið var að söluskatti á kexi og færði þetta í tal við Ólaf einhverju sinni, þegar þeir hittust í Reykjavík. Ólafur sagði við hann, Ég er að fara að hitta Jónas Haralz, ég skal færa þetta í tal við hann. Og það var eins og við manninn mælt að Ólafur leysti málið. Síðar hitti Björn Þorlák Benediktsson sem rak aðra verzlun í Garðinum og Þorlákur spurði Björn hvort hann hefði talað við Ólaf um þetta mál og Björn svaraði því játandi. Þá spurði Þorlákur hvort hann væri ekki í Kaupmannasamtökunum. Nei, sagði Björn, á það hrafnaþing hef ég aldrei komið. En þá sagði Þorlákur honum að Kaupmannasamtökin hefðu í mörg ár reynt að fá þessa breytingu fram, en ekki tekizt.

Einhverju sinni sem oftar fór Björn Finnbogason á fund Ólafs og óskaði eftir því að hann beitti sér fyrir að síminn væri opinn á sömu stöðum í öllum sjávarplássunum á Suðurnesjum. En þá var það svo að símarnir voru opnir á ólíkum tímum í Garðinum, Grindavík, Sandgerði o.s.frv. Ólafur tekur þessari ábendingu Björns vel og hringir í Guðmund Hlíðdal póst- og símamálastjóra, en Björn sat í skrifstofunni og hlustaði á samtalið. Ólafur segir honum frá erindi Björns og óskar eftir því að þessu verði kippt í lag. Guðmundur Hlíðdal fer að lýsa ágæti þessa fyrirkomulags og afsaka yfirvöld Pósts- og síma og segir m.a. að það muni hafa aukakostnað í för með sér ef símarnir séu opnir á öllum stöðunum í einu. En þá segir Ólafur, Ég þakka þér fyrir áhuga þinn á að halda dýrtíðinni niðri, en ég held nú samt að við ættum að hlusta á það sem Björn hefur að segja því annars kemur hann eftir nokkra daga með alla karlana í Garðinum sem ekkert skilja og þeir heimta það sama.

Næsta dag var ákveðið að síminn væri opinn á sama tíma í Garðinum og Grindavík og annars staðar á Suðurnesjum.

Þegar Björn ákvað að kaupa bíl af Sambandinu, sagði hann Ólafi frá því. Hann sagði við Ólaf, Ég vil heldur kaupa af þeim í Sambandinu því þeir eru kurteisari en hinir. Alveg rétt, sagði Ólafur.

Björn sagði einhverju sinni við Ólaf, Nú geturðu aukið fylgi þitt. Nú, hvernig? spurði Ólafur. Næst þegar verður uppgripaafli í plássunum hérna fyrir sunnan þá hringi ég til þín og þú kemur niður á bryggju og talar við karlana. Nei, sagði Ólafur, það geri ég ekki, ég hef aldrei lagt fyrir mig svoleiðis skrílshátt.”

Loks sagði Björn Finnbogason í samtali okkar: “Ég gekk alltaf hreint til verks og sagði Ólafi hug minn enda hafði ég reynslu fyrir því að hann tók því ævinlega vel og svaraði eins og spurt var. Einhvern tíma tönnluðust andstæðingarnir á því að Bjarni Benediktsson væri að reyna að ýta Ólafi úr sæti hans. Ég spurði Ólaf beint, Er nokkuð til í því að Bjarni sé að rægja þig úr embætti? Hann Bjarni, sagði Ólafur og brosti, nei, Björn minn, það er ekkert til í því. Það er það síðasta sem Bjarni Benediktsson myndi gera. Hann er hlédrægur maður í eðli sínu og ég hef þvert á móti alltaf þurft að ýta honum áfram frekar en hitt. Hlustaðu ekki á orð af því sem andstæðingarnir segja um þetta.

Ég þurfti ekki að spyrja frekar, vissi að samstarf þeirra Bjarna var byggt á heilindum sem enginn brestur var í.”

Í samtali okkar Karvels Ögmundssonar sagði hann m.a. þegar ég spurði um Ólaf Thors að hann hefði haft mikinn áhuga á hafnargerð í Ytri-Njarðvík, en það hafi mætt mikilli andstöðu formanna í Keflavík og víðar. Það urðu Ólafi vonbrigði en hann taldi að höfn ætti að byggja þar sem skilyrði væru bezt af náttúrunnar hendi. Hann barðist þó fyrir hafnarmannvirkjum annars staðar, rafmagni og öðrum framfaramálum í kjördæmi sínu, en lagði áherzlu á  að þeir sem sinntu fiskverkun í Garðinum ættu frekar að bæta vegina en byggja hafnarmannvirki við erfðar aðstæður þar á staðnum. Þetta var og gert, góðir vegir eru þannig fremur undirstaða atvinnuvega í Garðinum en hafnarmannvirki.

Karvel Ögmundssyni er Ólafur minnisstæður á fyrsta kosningafundinum sem hann fylgdist með frambjóðendum í Gullbringusýslu, það var í ungmennafélagshúsi Keflavíkur 1933. Á fundinum kallaði einhver frammí fyrir Ólafi og lét falla hnjóðsyrði í garð Eysteins Jónssonar. En um leið og hann hafði sleppt orðinu svaraði Ólafur með því að verja Eystein. “Þið eruð að hnýta í hann Eystein Jónsson,” sagði hann, “en ég get sagt ykkur það, drengir mínir, að Eysteinn er hinn prýðilegasti maður.” Og svo tók hann upp hanskann fyrir Eystein í alllöngu máli. Allir urðu undrandi og það varð dauðaþögn í salnum svo að heyra mátti saumnál detta. “Ég hef aldrei heyrt Ólaf fá annað eins klapp eins og eftir þennan fund,” sagði Karvel. Hann hafði augsýnilega unnið hug allra þeirra sem fundinn sátu.

Þegar Ólafur hafði setið þrjátíu ár á Alþingi vildu Suðurnesjamenn gefa honum málverk eftir Kjarval og var Karvel falið að velja þessa gjöf. Kjarval var heldur úrillur þegar hann kom á fund hans og spyr hvaða mynd þeir vilji. Karvel segir að hann vilji fá málverk af Dyrfjöllum. “Já, Dyrfjöllum,” segir Kjarval, “þetta grunaði mig. Nei, það skal hann aldrei fá. Ég hef margreynt að gefa honum þetta málverk en hann hefur aldrei viljað þiggja við það” – og það var engu tauti komið við Kjarval. Karvel fór þá á fund Jóns Þorsteinssonar og bað hann um að ganga í lið með sér og svo fór að hann fékk málverkið hjá Kjarval. Fór síðan með það heim til Ólafs. Ingibjörg tekur á móti honum og vísar honum inn. Hann segist vera með gjöf handa Ólafi í tilefni af 30 ára þingafmæli hans. Ingibjörg hugsar sig um og segir, “Já, en hann Ólafur minn hefur bannað okkur að halda upp á þetta afmæli með nokkrum hætti.” “Það getur verið,” segir Karvel, “en ég er nú samt kominn með málverkið.” Þá kemur Ólafur niður stigann eins og fellibylur og segir: “Út, út, út með þetta(!) Ég vil ekki sjá nokkurn skapaðan hlut frá nokkrum manni í tilefni þessa afmælis. Ég hef harðbannað konu minni og börnum að halda upp á þetta afmæli og þau hafa látið að minni stjórn. Sama gildir um ykkur.”

En Karvel hugsaði með sér að hann skyldi ekki gefast upp. “Ég er sannfærður um það að þú kannt að meta þessa gjöf frá okkur Suðurnesjamönnum þegar fram líða stundir” sagði hann og ýtir málverkinu að honum. Ólafur stendur þögull og horfir á myndina, en segir svo, “Nei, er þetta af Dyrfjöllunum?” “Já,” segir Karvel. “Þetta málverk hefur Kjarval oft reynt að gefa mér, en ég hef aldrei getað fengið mig til að þiggja slíka stórgjöf. Heyrðu, elsku vinur, komdu inn fyrir og fáðu þér hressingu. Hún Ingibjörg mín kemur þessu fyrir og mikið þakka ég ykkur hjartanlega fyrir, þetta var ykkur líkt.” Síðan sátum við og röbbuðum góða stund og mér leið jafn vel og ávallt áður á þessu góða heimili. En það verð ég að segja að mér leizt ekki á blikuna þegar Ólafur kom svona úfinn niður stigann. Ég hef oft verið á sjó og komizt í hann krappan og stundum séð algjöra tvísýnu fyrir höndum. En sjaldan hefur mér brugðið meir en þegar Ólafur kom eins og fellibylur, bandaði frá sér og sagði út, út, út með þetta(!) En ég get verið fastur fyrir enda hefur sjórinn verið mitt viðfangsefni.

Í æviminningum Karvels Ögmundssonar, Sjómannsævi, er sérstakur kafli um Ólaf Thors. Þar er m.a. sagt ítarlegar frá ummælum hans um Eystein Jónsson, einnig er þar að finna söguna um Dyrfjallamálverk Kjarvals og þrjátíu ára þingafmæli Ólafs.