« Noregi blæðir | Main | Milli elda »
föstudagur
júl.222011

Eldar og arfleifð

Sögur Jóns Trausta af Skaftáreldum eru einhver eftirminnilegasti skáldskapur á íslenzku, þótt þær séu vitanlega sögulegur skáldskapur eins og til er ætlazt. Það er rétt sem segir í  ritdómi J.Þ. (Jóns Þorkelssonar?) í Sunnanfara (nóv. 1912) að höfundur gengur brjóstsviðalaust út í sjálfan Skaftáreldinn, með rit sr. Jóns Steingrímssonar sjálfs að undirstöðu.

Fyrri hlutinn um Holt og Skál er þó áhrifameiri og einhver magnaðasta skáldsaga sem ég hef lesið á hvaða máli sem er, ekki sízt náttúrulýsingarnar sem eiga sér enga hliðstæðu í heimsbókmenntunum, en lýsingarnar á kjörum fólks, sálarlífi þess, gleði og sorgum eru þó ekki síðri skáldskapur og eftirminnilegur.

Allt er þetta að mínum dómi einsdæmi í íslenzkum bókmenntum og lýsir því betur en flest annað hver við erum í raun og veru og í hvaða landi við höfum búið.

Síðari sagan fjallar um ævi sr. Jóns og afrek og ætti að vera hverjum manni lærdómur og uppörvun, svo eftirminnilegt sem þetta svið er. Þó verða lesendur að gera sér ljóst að höfundur er ekki að skrifa sögulega úttekt, heldur skáldskap, en í ritdómi sínum virðist J.Þ. gleyma því meginatriði, en leggur áherzlu á það sem hann hyggur sögulega rangt í frásögninni. Hann gerir sér þannig ekki fulla grein fyrir kjarna málsins og leggur út af aukaatriðum eins og ritdómurum hættir einatt til. Þó eru þarna merkar upplýsingar um persónur sögunnar sem flestar lifðu á þessum skelfilegu tímum, þó að ástarsagan innan sögunnar sé skáldskapur frá rótum; fallegur skáldskapur og eftirminnilegur.

Ég heyrði Bjarna Benediktsson eitt sinn í afmælisfagnaði Gunnars Gunnarssonar lýsa því, hvernig sögulegar skáldsögur geta dregið upp raunréttari mynd af umhverfinu en bláköld sagnfræðin ein og eigum við nokkur dæmi þess eins og kunnugt er, en þarna var dr. Bjarni að lýsa þeim áhrifum sem sagnaskáldskapur Gunnars Gunnarssonar hafði haft á hann sjálfan, en þó einkum saga hans um Jón Arason.

Sögur Jóns Trausta um Skaftárelda og samtíð þeirra eru meistaraverk á þessu sviði bókmennta. Slík rit ættu að vera skyldulesning í skólum og þá einnig á heimilum sem nú eru undirlögð af erlendri popptízku. Sögurnar segja okkur hver við erum í raun og veru og þá ekki síður hver sú arfleifð er sem hefur haldið í okkur lífinu.

Það er í slíkum skáldskap sem fólk lifir í andörlögum sínum. Þar rís það upp í listinni, gegn vanmætti og umkomuleysi eins og við lifðum af í blekkingum Íslendinga sagna þar sem við fundum stolti okkar og metnaði viðnám, sem sköpum skipti í allri niðurlægingunni, eða eins og þegar Egill vann bug á sorg sinni og vanmætti með því að yrkja ódauðlegt kvæði um látna syni sína.

Það er í þessari arfleifð, þessari einstæðu list sem þjóðin hefur lifað af.

 

(Sögur frá Skaftáreldi eftir Jón Trausta má m.a. nálgast á hljóðbókasíðunni Hlusta.is.)