Milli elda
“...byggð þeirra var milli tveggja elda “
Jón Trausti, Skaftáreldar.
1.
Stundum er engu líkara en við þekkjum ekki landið
sem við búum í. Markaðssetningin gerir aðrar kröfur
en ógnleg reynsla.
Við erum önnum kafin að selja landið ferðamönnum
sem þyrstir í ný og óvænt ævintýri, selja
hvalkjöt í veitingahúsum við Laugaveg
og náttúruskoðurum ferðir á hvalaslóðir.
Enginn selur fyrirvara
og því getum við ekki selt Ísland eins og það er.
Ef flugmenn gera verkfall á miðri vertíð
ætlar allt um koll að keyra
og ef gömul fljót eins og Múlakvísl
taka hringveginn með sér og brýrnar spænast
í jökulleirinn, hlaupa sölumenn stytztu leiðina
upp á nef sér og hrópa, Nýja brú á morgun.
En hvað ef Katla kæmi ?
2.
Við seljum landið eins og væmna dægurflugu
en þó er engu líkara
en við þekkjum það ekki, seljum
köttinn í sekknum ef því er að skipta,
en Ísland er ekki gæludýr, enginn heimilisköttur,
það er tígur.
Við búum með kattdýri og það rymur
þegar fjöllin gjósa og nágrennið titrar
af ösku og árnar ryðjast fram
með ískletta í köldum faðmi og brjóta
vegi og brýr eins og allt sé það spýtnarusl.
Þessir fyrirvarar minna okkur á
að við þekkjum ekki lengur þetta land
sem við erum sífellt að selja eins og tízkuvöru,
þennan orustuhól
undir blæðandi tungli.
3.
Sá sem vill kynnast Íslandi eins og það birtist
í móðu langrar sögu ætti að lesa
skáldverk Jóns Trausta um Skaftárelda
og standa í sporum Vigfúsar þar sem hann
sér tuttugu og tvo eldgíga gjósa í einu
eins og blóðugan rándýrskjaft
undan Laka,
jafnvel tunglinu blæðir og hraunið hakkar
sveitina í sig eins og tígur
eða í sporum séra Jóns
Steingrímssonar, þegar hann í upphafi
eldmessunnar segir, Lokið kirkjunni.
Lokið kirkjunni,
og flóðið æðir eins og skelfileg hugsun
úr hamslausri kviku ið neðra,
hrauntungan sleikir útum
en storknar svo loks við kirkjudyrnar
eins og kertavax.
4.
En Ísland er líka guðlegt kraftaverk
eins og eldpresturinn boðaði
og það er heillandi áskorun
að búa við kraftaverk
hvað sem nútímakröfum líður.
En sölumenn hafa ekki enn markaðssett
kraftaverkin
því þau eru ekki föl fyrir annað
en ógnlega reynslu, eldmóð
og óbilandi blekkingu.