miðvikudagur
júl.062011
Að fjallabaki
Uppfært:
07.6.2011

Af hverju þurfum við að leita
að bezta heimi allra heima
fyrst Eldóradó er ekki til, af hverju
þurfum við að búa í landi þar sem grjót
er gull og gimsteinar fleiri
en stjörnur himins?
Við vitum hvort eð er ekki
hvað er handan fjallsins, ekki frekar
en íbúar fyrirheitnalandsins
sem er ekki til.
Fljótið rennur að vísu
undir fjall tímans, en hvert
sem straumkastið ber
þessa brothættu skektu sem við
deilum með ljónum gaupum
og tígrum eru áhöld um
hvort stýrið dugi í freyðandi
iðunni.
En hvort sem það dugar
eða ekki fljótum við
með straumnum og einhvers staðar
brotnar bátsskelin við kletta
og standberg.
Við spyrjum,
spyrjum
hvað er handan fjallsins
þegar okkur ber að landi
sem er ekki til,
því fjallið rís eins víst
og ókleif nálægð dauðans.