« Saknaðarljóð Dalís | Main | Á vígvelli siðmenningar VII. »
fimmtudagur
des.182008

Farsælt ár

 

..þú heilagi andi,

huggari minn...


Ég lít til þín,þú hjálpar mér og heyrir
mitt hjarta slá við landsins djúpa nið,
lít til þín og örlög mín sem áður
eitt andartak og þessi langa bið
það morgni enn af mildum, nýjum degi
og myrkrið þagni að haustsins fuglaklið,

lít til þin og finn mitt eina athvarf
við opinn faðm sem er þitt gullna hlið.

 

Um leið og ég sendi þeim fjölmörgu sem heimsótt hafa heimasíðu mína óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár,þakka ég þessar heimsóknir og vona þið hafið haft einhverja ánægju af þeim.
Ég læt svo fylgja nýja áður óbirta ljóðasmámuni sem orðið hafa til undanfarnar vikur,enda ærin ástæða til að harma margt af því sem afvega hefur farið í umhverfi okkar,en þá er að horfast í augu við það eins og hverja aðra plágu og gleðjast með arfleifð sem enginn getur tekið frá okkur.
Hún hefur aldrei orðið neinni útrás að bráð,en ætíð staðið fyrir sínu.Hún hefur verið sá arinn sem þjóðin hefur yljað sér við á hverju sem hefur gengið.
Og þótt tízka undangenginna missera hafi sagt annað,er hún enn í fullu gildi,t.a.m. hefur engin þjóð skrifað sig út úr fátækt og blekkingu með annarri eins reisn og það fólk sem trúað var fyrir þessari arfleifð.

Loks vil ég þakka Skólavefnum fyrir samstarfið sem hefur verið mér í senn örvun, upplyfting og hvatning til að leita á nýjar slóðir.Þar hef ég hitt fjölda fólks sem ég hafði engin samskipti við áður en til heimaslóðarinnar var stofnað,en jafnframt vil ég benda á skolavefurinn.is þar sem er mikið efni eftir mig,bæði skrifað og flutt (Skáld mánaðarins).

Vona ég það sé þeim þóknanlegt sem hafa lagt sig eftir ritverkum mínum.

Hlusta.is

Ég vil þá ekki sízt benda á  nýjan vef sem hægt er að hlusta á eða hlaða niður á spiladós (ipod) og tileinka sér hvar sem maður er staddur.
Sjálfur hef ég þannig hlustað á mörg erlend ljóð og allskyns skáldverk sem ég hefði farið á mis við að öðrum kosti..Að mínu mati er ástæða til að fagna þessari nýju tækni og færa sér hana í nyt.Þar hefur verið hlaðið niður eftir mig bæði bundnu og óbundnu máli,skáldsögunum Sól á heimsenda og Vatnaskilum og ljóðabókunum Borgin hló og Jörð úr ægi sem voru einskonar upphaf þessarar löngu ferðar um víðáttur íslenzkra bókmennta.

Ég les heimsendasólina sem áður hefur verið flutt í útvarp og báðar ljóðabækurnar,en Ingólfur Kristjánsson, annar forstöðumanna Skólavefjarins les Vatnaskil,en hún hefur ekki verið flutt áður.

Semsagt , ég fagna þessari nýjung sem hlotið hefur vefslóðina hlusta.is.

Jólagjöf Skólavefjarins í ár verður Hrunadansinn sem birtist á vegum Háskólaútgáfunnar fyrir um þremur árum og fjallar sem einhvers konar forboði um það sem átti eftir að gerast í íslenzku samfélagi næstu misseri.

Ég hef lesið hann í útvarp og Gunnar Eyjólfsson leikari lærði hanna utan bókar og hefur oft farið með hann og víða og var ég viðstaddur slíkan flutning í Rótarýklúbb Reykjavíkur mér til mikillar ánægju,,enda var Gunnari fagnað mikið og lengi fyrir flutninginn.
Ég kann honum beztu þakkir fyrir þessi listrænu tök og hvernig hann hefur komið þessu verki til skila inní samfélagið.
En á Skólavefnum les Ingólfur Kristjánsson  þennan langa brag með jólakveðjum inní kreppuandrúmið sem Mammon skildi eftir í umhverfi okkar.
En vonin er á næstu grösum,auðvitað.Það segir einnig í Hrunadansinum.

P.s.

Ég mun svo bæta við nýju efni á nýju ári,t.a.m. úr dagbókum mínum og einhverju ljóðakyns…

Með kveðjum, Matthías