« Pressan.is: Þrír íslenskir rithöfundar hljóta heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands | Main | Öllum aðgengilegur »
þriðjudagur
sep.072010

Á berangri

Hann stóð upp og vitnaði 
í Vorhvöt Steingríms, sagðist 
mundu verja landið,ef að því 
væri sótt,
það ætti
að vera óháð öllu nema bláfjötri 
ægis við klettótta strönd 

eins og skáldið hefði sagt.

Við
fórum saman til Brussel og engu 
líkara en hann hefði Krýsuvíkurberg
í farteskinu,
það sem hann sagði á þunglamalegum fundum 
í þessu þunglyndislega 
umhverfi skáldpiltsins Rimbauds 
sem gætti ekki að sér í þangrauðu 
eldhafí Vítis
og höfuðborg friðsamlegrar 
sambúðar eins og það var orðað 
í kalda stríðinu, minnti helzt 
á brimsogið við fuglabjörg 
sextugs dýpis sem vakir milli 
okkar og svartfugla,fýla 
og súlunnar
og þess bláfjöturs 
sem brotnar við hvítfyssandi 

kletta okkar einmana lands.

Það var rigning í Brussel 
og berangur skáldanna 
minning.